FERLIR hefur nú farið 2000 vettvangsferðir um Reykjanesskagann (fyrrum landnám Ingólfs). Það eitt verður a.m.k. að teljast til virðingarverðrar þrautseigju – ef ekki umtalsverðs árangurs.

Táknrænasta FERLIRsmyndin - frá árinu 2000Ef sérhver ferð hefur krafist að meðaltali 5 km þá er vegarlengdin, sem lögð hefur verið að baki um 20.000 km, eða sem nemur rúmlega 9 hringferðum um landið. Margfalda má þá tölu með fjölda þátttakenda. Fyrir liggur þó að margar ferðir eru enn ófarnar (mikið magn uppsafnaðra upplýsinga bíða úrvinnslu). Allar fyrri ferðalýsingar hafa þó verið skráðar og má lesa fjölmargar þeirra á vefsíðunni – og færðar til varanlegrar varðveislu. Í upphafi voru ljósmyndir t.a.m. framkallaðar á pappír. Þær fylltu tugi albúma. Nú er búið að skanna myndirnar og er upprifjunin einstaklega ánægjuleg og skemmtileg. Eftir að stafræn tækni ruddi þeirri staðbundu úr vegi hefur um 50.000 ljósmyndum af svæðinu, náttúru, minjum og óvæntum afbrigðum, verið komið fyrir á minnislyklum. Þær áhugaverðustu fá væntanlega að birtast í prenttækri Reykjanesskinnu.
FERLIRshúfa - viðurkenning fyrir þátttöku Í heild munu nú vera um 6.000 síður um ýmsan áhugaverðan fróðleik um Reykjanesskagann á vefsíðunni. Fá, ef nokkur, landssvæði getað státað af slíkum margþættum tölvutækum fróðleik á einum stað. FERLIhefur jafnan haft það að leiðarsljósi að birta það sem hefur boðist og upplýst hefur verið um. Tæknin hefur þó sín takmörk. Ekki hefur t.a.m. enn fundist leið til að gera aðgengilega á vefsíðunni 220 síðna ritgerð um „Sel vestan Esju“ – með ljósmyndum, uppdráttum, staðsetningum, exeltöflum og tilheyrandi, en unnið er að úrlausn þess. Ef  áætlunin gengur eftir mun verða hægt að upplýsa bæði um öll þekkt „Sel í landnámi Ingólfs“ sem og um allar aðrar minjar, hvort sem þær lúta að búsetu- eða atvinnusögu svæðisins frá upphafi.
Minjar um búsetu- og atvinnusögu ReykjanesskagansFERLIR  hefur ekki tíundað sérstaklega þátttöku á kynningarfundum og ráðstefnum um málefni Reykjanesskagans, sem tekið hafa drjúgan tíma. Ákveðið hefur verið að hætta öllu slíku – vegna tímaleysis. FERLIR hefur ekki krafist greiðslu vegna þátttöku sinnar í einstökum viðburðum. Vefsíðan hefur verið fjármögnuð af þeim aðilum er auglýst hafa af velvilja á forsíðunni. Hverjum og einum eru færðar sérstakar þakkir.
Á síðasta ári (2009) voru um 2 milljónir heimsókna á vefsíðuna. Segir það nokkuð til um áhugann á viðfangsefninu. Ótal margir lesendur hafa haft samband, bæði í gegnum tölvupóstfangið ferlir@ferlir.is og hringt. Reynt hefur verið að upplýsa og greiða úr fyrirspurnum og umleitunum svo sem nokkur kostur hefur verið.

Ferlir

Ýmislegt óvænt hefur komið upp á í FERLIRsferðum.

 

Jólatré

„Bandaríski jólasveinninn, sem gengur undir nafninu Santa Claus (heilagur Kláus) eða bara Santa þar í landi, dregur nafn sitt af heilögum Nikulási sem var biskup í Mýru í Litlu-Asíu (Tyrklandi) á 4. öld.
Um líf og störf Nikulásar er fátt Jolasvein-232vitað en hann er þó einn af vinsælustu dýrlingum bæði rómversk-kaþólsku kirkjunnar og þeirrar grísk-kaþólsku. Ýmsar óstaðfestar sagnir eru til um hann þar sem honum eru eignuð hin ýmsu kraftaverk. Samkvæmt þessum sögnum var hann örlátur mjög sem er væntanlega rótin að hugmyndinni um Nikulás sem jólasvein sem gefur börnum gjafir. Þjóðsagnapersónan Santa Claus barst frá Evrópu til Bandaríkjanna og er eins konar samsuða úr heilögum Nikulási og Jesúbarninu. Á 19. öld trúðu börn í Þýskalandi og víðar því að Jesúbarnið, eða Christkindlein, kæmi og færði þeim gjafir. Annað nafn bandaríska jólasveinsins, Kris Kringle, mun vera afbökun á Christkindlein. Jesúbarnið var þá stundum sagt eiga sér fylgdarmann sem var einhvers konar Nikulásarfígúra, til dæmis Père Noël í Frakklandi og Pelznickel í Þýskalandi. Í Hollandi fengu börnin gjafir frá Sinterklaas á Nikulásarmessu, 6. desember. Þegar Evrópubúar tóku að nema land vestanhafs fluttu þeir þessar sagnir með sér.

Árið 1804 var sögufélag New York stofnað og Nikulás valinn verndardýrlingur þess. Árið 1809 kom út grínsagan „A History of New York“ eftir Washington Irving sem skrifaði undir dulnefninu Diedrich Knickerbocker. Sagan gekk út á að hnýta í hollenska fortíð New York-borgar og þar með hinn hollenska Sinterklaas. Þar var meðal annars talað um heilagan Nikulás svífandi yfir borginni á vagni. Kvæðið „An Account of a Visit from St. Nicholas“ kom út 1823 og naut fljótt mikilla vinsælda. Þetta kvæði er betur þekkt undir upphafsorðum sínum, „’Twas the night before Christmas,“ og í dag er lestur þess hluti af jólahaldi margra Bandaríkjamanna. Þar er talað um heilagan Nikulás á fljúgandi sleða dregnum af hreindýrum.
jolasveinn-233Eftir því sem leið á 19. öldina fór heilagur Nikulás að gegna æ stærra hlutverki í jólahaldi Bandaríkjamanna og gekk nú undir nafninu Santa Claus eða Kris Kringle. Oft var hann að sögn klæddur loðfeldi, líkt og hinn þýskættaði Pelznickel, en stundum átti hann að klæðast litríkum fötum. Í fyrstu var hann ýmist sagður líkjast litlum álfi eða vera maður í fullri stærð og varð seinni ímyndin ofan á.
Árið 1897 birtist frægt svar Francis P. Church í dagblaðinu New York Sun við fyrirspurn 8 ára stúlku, Virginiu O’Hanlon, um tilvist jólasveinsins. Svarið bar yfirskriftina „Yes, Virginia, there is a Santa Claus“. Hugmyndin um Santa Claus sem feitlaginn karl í rauðum fötum var orðin útbreidd um aldamótin 1900 og um 1920 var jólasveinninn í huga flestra bandarískra barna kátur karl, hvítskeggjaður og rauðklæddur.
Á 4. áratug 20. aldar fór Coca-Cola svo af stað með hina frægu auglýsingaherferð þar sem jólasveinninn, teiknaður af Haddon Sundblom, var í aðalhlutverki. Ef til vill hefur sú herferð orðið til þess að festa ákveðna ímynd jólasveinsins í sessi en víst er að þessi ímynd hafði verið til um skeið og var ekki uppfinning Coca-Cola eða Sundbloms þótt hann hafi vissulega túlkað fyrri hugmyndir eftir eigin höfði.
Vissulega hafa auglýsingar átt sinn þátt í að móta jólasiði Bandaríkjamanna. Til að mynda er hreindýrið Rúdolf með jolatre-231rauða trýnið, sem sungið er um í vinsælu jólalagi, afsprengi auglýsinga frá stórversluninni Montgomery Ward frá 1939. Það ár fékk verslunin Robert L. May til að semja barnasögu sem dreift var til viðskiptavina fyrir jólin. Sagan naut fljótt mikilla vinsælda og 1949 kom út lagið „Rudolph the Red-Nosed Reindeer“, sungið af Gene Autry. Árið 1964 var svo gerð sjónvarpsmynd um Rúdolf og félaga með brúðum í hlutverkum þeirra. Líkt og kvæði Moores um aðfangadagskvöld jóla er þessi sjónvarpsmynd jafnstór þáttur í jólahaldi Bandaríkjamanna og hangikjötið er á Íslandi. – EMB“
„Hið sígræna tré hefur um árþúsundir vakið furðu manna og aðdáun og þótt búa yfir leyndardómum. „Jólatréð“, sem nú er eitt helsta tákn jólanna víðast hvar, tiltölulega nýkomið til sögunnar í þeim búningi. Þessi dýrlegi árstími væri æði snautlegur á að horfa, ef ekki væru marglit ljósin til að gefa honum það yfirbragð sem nú má hvarvetna líta. Og eins, ef engin væru jólatrén úti fyrir. Hvað þá inni. Um uppruna jólatrésins er þó flest á huldu, en talið er að rætur þess liggi í einhverskonar trjádýrkun djúpt í mannkynssögunni. Í Róm og víðar skreyttu menn t.d. í fornöld hús sín um nýárið með grænum trjágreinum eða gáfu þær hver öðrum, og átti það að boða gæfu. Mistilteinninn í Englandi var afsprengi sömu hugsunar. Til er einnig fjöldinn allur af goðsögum og sögnum, þar sem alheimstré er látið tákna heiminn. Það ber ýmis nöfn, eftir því hvaðan vitneskjan er runnin, en alltaf er það sama uppi á teningnum: kenningin um „miðjuna“. Eitt þessara trjáa er Askur Yggdrasils, úr trúarbrögðum norrænna manna, og annað er Lífsins tré í Eden.
Árni Björnsson þjóðháttafræðingur ritar í bókinni Sögu daganna (1977): Frá því um 1100 var tekið að sýna helgileiki innan kirkju og utan, þar á meðal söguna um sköpun mannsins, syndafallið og jolatre-232burtreksturinn úr aldingarðinum Eden. Stóð skilningstréð þá tíðast á miðju sviðinu. Það var grænt tré og héngu á því epli og borðar. Líktist það talsvert jólatré, nema kertin vantaði, en svo var einnig um þau jólatré, sem fyrst eru spurnir um. En hversu sem orðið hefur siður að reisa sígrænt tré í húsum á jólum, er næsta eðlilegt, að það bætti á sig ljósum með tímanum. Kerti voru ævinlega mikið um hönd höfð á jólunum og engin undur, þótt mönnum dytti í hug að reyna einnig að festa þau á tréð.
Fyrstu þekktu heimildir um einskonar jólatré eru frá Strassburg og þar um kring á 16. öld. En hinn fyrsti sem getur um ljósum prýtt jólatré er Goethe, í sögu frá 1774. Fyrsta mynd af jólatré með ljósum er hins vegar frá Zürich árið 1799. Nokkrum árum síðar, 1807, eru til sölu á markaði í Dresden í Þýskalandi fullbúin jólatré, m.a. skreytt gylltum ávöxtum og kertum. Greinilegt er, að siðurinn er þá búinn að ná öruggri fótfestu þar um slóðir. Hann fór svo að berast til Norðurlanda eftir 1800. Til Íslands munu fyrstu jólatrén hafa komið um 1850, í kaupstaði, aðallega hjá dönskum fjölskyldum. En fæstir landsmenn áttu þess kost að eignast grenijólatré á þeim tíma. Málið var leyst með því að smíða gervijólatré og klæða það með sortulyngi, beitilyngi eða eini. Elstu heimildir um slíkt eru frá 1880–1890. En áhrifin voru þau sömu, hinn duldi kraftur engu minni. Um þess konar tré yrkir Hannes Pétursson: Jólatréð okkar, stirðlegur stautur af dökkum viði sem bíður síns tíma í tómlátu myrkri háaloftsins…
Nú höldum við af stað upp í hlíðina gömlu að reyta handa því lyng. Það er logn og hvít jörð. Til að reyta berjalyng handa blásnauðu trénu. Jólin að koma – og lyngið er loðið af mjöll. Vongleði vængjar skóhælinn okkar!
Eins og gefur að skilja eru til margar helgisagnir um uppruna jólatrésins, þessa mikla tákns ljóssins hátíðar. Þekktust jolatre-233allra er líklega sagan um englana þrjá, sem Guð bað um að fara til jarðarinnar, þegar halda átti jól í fyrsta sinn, og velja þar tré, sem best hentaði tilefninu. Og allir völdu þeir grenitréð.
Önnur saga, ekki eins kunn, en ættuð frá Sikiley, er á þessa leið: Á fyrsta ævikvöldi Jesúbarnsins komu lífverur hvaðanæva af jörðinni í fjárhúsið í Betlehem til að heiðra konunginn nýfædda og færa honum gjafir. Meira að segja trén voru í þeim hópi. Ólífutréð gaf honum ávexti sína. Pálmatréð færði honum döðlur. Og öll hin áttu líka eitthvað til að færa honum að gjöf. Nema þinurinn litli. Hann var kominn um langan veg og gat með naumindum staðið uppréttur, þegar áfangastað var náð. Hin stærri trén áttu því auðvelt með að stjaka við þessum norðlæga gesti og fyrr en varði stóð hann einn afsíðis, fjarri ljómanum sem frá jötunni stafaði.
Engill, sem var þar hjá og sá það sem gerðist, kenndi í brjósti um tréð lágvaxna, fór upp til stjarnanna og bað nokkrar þeirra um að koma og setjast á greinar þess. Sem þær og gerðu, lýsandi eins og björtust kerti. Þegar Jesúbarnið sá þetta, fylltist hjarta þess af gleði og bros færðist yfir varir. Það blessaði tréð og mælti svo um, að þinurinn og ættingjar hans skyldu þaðan í frá verða prýdd á aðventu og jólum, til að verma hjörtu barnanna. Hvert og eitt einasta er Lífsins tré, miðja alheimsins, og tengir saman alla þætti hans. Þar sameinast fortíð, nútíð og framtíð. – SÆ“

-Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins 14. des. 2002, Eyja Margrét Brynjarsdóttir, bls 11.
-Morgunblaðið 15. desember 2002, Sigurður Ægisson, bls. 47.

Hólmur

Í BS ritgerð Gunnars Óla Guðjónssonar í maí 2011 um „Verbúðarsafn við Voga á Vatnsleysuströnd„, sem skrifuð var í Landbúnaðarháskóla Íslands, má m.a. lesa eftirfarandi fróðleik um verstöðvar og aðbúnað í verum með áherslu á svæðið í kringum Stapann við Voga.

Verstöðvar

Verstöðvar á Suðvesturlandi.

Öll hin gömlu ver eru nú horfin. Gunnar leggur t.d. til endurgerð vers á svæðinu í ljósi sögunnar. Sambærilega tillögu má finna annars staðar á vefsíðunni þar sem lagt er til að slíkt mannvirki verði endurgert í umdæmi Grindavíkur.

Verbúð

Verðbúð síðari tíma.

„Verstöðvum á Íslandi má skipa í fjóra flokka. Frá heimvörum réru menn frá vör er var í nánd við bæinn. Í margbýli var venja að bændur sameinuðust um heimvör og gerðu þá út saman. Eins og nafnið gefur til kynna, voru útverin andstæða við heimverin. Benda heimildir til þess að útverin hafi snemma komið til sögunnar en m.a. er talað um veiðistöðvar í þjóðveldisaldarritum. Það tíðkaðist í útverum að menn dveldust þar á meðan vertíð stóð. Í upphafi voru verbúðirnar ekki rismiklar, aðeins tóftir sem tjaldað var yfir. Tímar liðu og verbúðirnar fóru smám saman að minna meira á hýbýli manna þar sem fólk gat hafist við allan ársins hring (Lúðvík Kristjánsson, 1982).

Aðbúnaður í verum

Stapabúð

Stapabúð undir Stapa.

Í blönduðum verum og heimverum tíðkaðist að vermenn gistu á bæjunum í kring eða bændur sáu um að útvega gististað. Í útverum voru hinsvegar sérstakar verbúðir. Stærð búðarinnar fór eftir gerð skipsins sem gert var út í verstöðinni. Tíðkaðist að ein skipshöfn hefði eina verbúð útaf fyrir sig. Veggir verbúðarinnar voru hlaðnir úr torfi og grjóti. Þakið var úr sperrum og yfir þær lagt torf. Dyr voru ýmist á gafli eða hlið. Eini gluggi verbúðarinnar var skjár á þaki eða þá yfir dyrum.

Þorlákshöfn

Verbúð í Þorlákshöfn.

Byggingarlag verðbúðar líktist útihúsum á sveitabæjum. Í flestum tilvikum voru stutt göng inn af dyrum. Inn af þeim tók við aðalvistarveran sem var sjálf búðin, þar sem verbúðarmenn höfðust við. Ekki var verbúðin hólfuð niður, heldur opin og rúmstæðin gerð úr torfi og grjóti meðfram veggjum.
Í stærri verbúðum var oft autt rúm innaf búðinni og kallaðist kór.

Verbúðarmenn deildu rúmum eða bálki eins og það var kallað. Var það í höndum formanns að velja hvaða tveir og tveir menn lágu saman. Þeir skiptu svo með sér verkum, hvort sem það var að sækja vatn, eldivið eða sjá um lampann í verbúðinni. Önnur tilfallandi verk voru t.d. að elda mat og hita kaffi í morgunsárið. Kjásarhaldari var sá sem tæmdi hlandkoppa verbúðarmanna.

Selatangar

Selatangar – verbúð.

Til þess að komast að í verbúð, varð að fylgja mönnum ákveðinn skammtur af fæði. Reglur voru þær að hverjum manni yrði að fylgja kjöt, rúgur, feitmeti, harðfiskur og sýra. Þessi kostur var kallaður mata. Yfir daginn fengu verbúðarmenn eina heita máltíð, soðninguna. Áður en farið var á sjó fengu verbúðarmenn sér að éta en ekki tíðkaðist að taka með fóður í róðra, nema þá einn blöndukút með sýru. Eftir túr, þegar búið var að draga bát í land beið þeirra saðning, var það í hlutverki fanggæslunnar að matreiða hana. Er menn höfðu étið nægju sína var gengið frá skipinu og aflanum. Fanggæslan var kona sem þjónustaði vermenn. Hún þvoði þvott, bjó um rúm, sá um matseld og þreif. Á Suðurnesjum voru þessar konur nefndar hlutakonur (Lúðvík Kristjánsson, 1983).

Vermaður

Vermaður í sjóklæðum.

Vermenn klæddust skinnklæðum sem hlífðarfatnaði. Í Íslenskum sjávarháttum III, segir Lúðvík Kristjánsson svo frá að tíðkast hafi að kenna piltum að sauma sér klæði úr skinni strax að lokinni fermingu. Þó svo að konur hafi fengist við skinn má víst telja að það hafi verið karlmannsverk. Í fötin var brúkað sauðskinn en nautshúð í skógerð, þó kom fyrir að skór væru gerðir úr hákarlaskráp, þá ef hann fékkst. Um sjóklæðin má segja að þau hafi verið stakkur sem náði niður á mið læri og brækurnar best heppnaðar ef náðu þær upp undir hendur. Þó voru til margvíslegar gerðir af sjóbuxum sem kallaður voru nöfnum eins og skóbrók, ilbrók og sólabrók. Saumaðir voru leðurskór við skóbrókina en ilbrókin saumuð saman að neðan á meðan sólabrókinni var hafður sóli í stað skós. Sjóskór voru svo notaðir við sólabrækur sem og ilbrækur. Skinnklæðum varð að halda mjúkum og voðfelldum, til þess voru þau reglulega mökuð feiti. Í verkið notuðu menn lifur og til að ná sem bestum árangri varð hún að vera ný og mátti helst ekki vera mjög feit.

Vermaður

Skinnbrækur vermanns.

Bestu útkomuna fengu menn ef þeir komust yfir skötulifur, en hrálýsi var notað í hallæri og þótti ekki eins gott. Svo má geta þess að selspik þótti skila góðum árangri. Eftir að klæðin höfðu verið mökuð voru þau samanbrotin og sett undir farg í rúman sólarhring. Eftir það voru þau þurrkuð í tvo þrjá daga. Uppúr 1870 fóru menn að leggja skinnklæðum sínum og með tímanum hurfu þau úr sögunni. Í staðinn komust í tísku olíustakkar og klæði úr öðrum efnum. Í köldum veðrum og vistarverum voru vettlingar ómissandi og tíðkaðist að vermenn kæmu með nokkur pör með sér. Við róður þófnuðu vettlingar eins og svo var kallað og urðu vel rónir vettlingar næsta vatnsheldir. Á höfði í róðri, báru menn hettu en síðar kom hattur til sögunnar. Algengt var að sjóhattar væru innfluttir og framleiddir úr lérefti (Lúðvík Kristjánsson, 1983).

Saga og búseta

Stapi

Stapinn – Brekka t.v. og Hólmabúð fjær.

Þegar gengið er niður bratta, hlykkjótta götuna niður Brekkuskarðið birtist fyrir augum manns Hólmabúðir. Greinilegt er að hér hefur verið mikið líf og hér hefur eflaust verið veiðistöð um margar aldir, en saga þeirra er nú glötuð. Þó nokkuð er þó vitað um sögu Hólmans síðan 1830-1940, þegar hið svonefnda anlegg rís. Anlegg var það sem menn nefndu salthúsið og fiskitökuhúsið sem P. Chr. Kundtzon lét reisa. (Árni Óla, 1961) Á loftum þessara húsa munu hafa verið bækistöðvar aðkomusjómanna, en sjálfir gerðu þeir sér grjótbyrgi þar sem fiskurinn var saltaður. Saltið fengu þeir aðflutt á skútum á sumrin, á sama tíma og fiskurinn var sóttur.

Stapi

Stapi – strandaður innrásarprammi.

Á svæðinu er skrokkur af innrásarpramma sem bandamenn smíðuðu til þess að flytja herlið sitt til Frakklands. Þegar komið er út í Hólmann er hann nokkuð stór og hringlaga og þar má finna margar leifar af mannvirkjum fyrri tíma. Fyrst er þar grunnur undan stóru húsi, sem líklega hefur verið fiskitökuhús og íbúðarhús umsjónarmannsins sem þar var. Þetta hús hefur verið um 15 metrar á lengd og breidd. Þar hjá er grunnur undan öðru húsi og þar mun hafa verið salthúsið, sem tók 2000 tunnur af salti. Steinstéttir eru umhverfis þessi hús sem gætu hafa verið nýttar til þess að breiða út fisk.

Stapi

Brekkuvör – Hólmurinn fjær t.h.

Fremst á Hólminum eru rústir af grjótbyrgjum, þar sem vertíðarmenn hafa saltað fisk sinn. Hefur sjórinn brotið nokkuð af þessum byrgjum niður í gegn um tíðina og ekki er hægt að sjá hve mörg þau hafa verið, en þó standa heillegar tóftir af sumum. Þarna er að finna leifar af miklum grjótgörðum. Tvö svæði á stærð við meðal kálgarð eru þar afgirt með grjótgörðum, sem gætu hafa verið nýtt sem bátaskýli, en þangað höfðu bátar verið dregnir inn í skjól þegar illa viðraði. Þessi rétt eða skýli hafa verið rétt við lendinguna innan á Hólmanum, en síðan var önnur lending utan á honum.

Hólmur

Hólmurinn.

Seinustu útgerðarmenn á svæðinu á meðan anleggið var og hét, voru bændur úr Kjós, af Kjalarnesi, Seltjarnarnesi og úr Reykjavík (Árni Óla, 1961). Það er talið að þeir hafi gert út á 18 bátum á þeim tíma og ef áætlað er að jafnaði séu um sjö menn á hverju skipi verða það 126 manns. Síðan má telja landverkafólk og má ætla að þegar mest var hafi verið þarna á bilinu 140-150 manns (Guðmundur Björgvin Jónsson, 1987)

Hólmur

Hólmurinn.

Þurrabúð rís fyrst í Hólmi árið 1830. Bjarni Hannesson hét sá er þar bjó fyrstur, en hann lést árið 1844. Kona hans, Valgerður Þórðardóttir, giftist síðan Guðmundi Eysteinssyni sem var vinnumaður hjá þeim og bjuggu þau í Hólmabúðum fram til ársins 1848. Það er á þessum tíma sem Knudtzon byrjar að byggja anleggið og leggur hann undir sig Hólmabúðir eftir að Guðmundur fer þaðan. Á þessum tíma tóku kaupmenn að hugsa um að tryggja sér þann mikla fisk sem barst að landi á Suðurnesjunum og greiddu þeir mönnum utan af landi sem vildu gera út á vertíð, en mynd 20 sýnir verstöðvar á suð-vesturlandi.

Hólmur

Hólmurinn.

Vorið 1876 fluttist Stefán Valdimarsson Ottesen í Hólmabúðir og bjó þar til 1882. Þá var mjög farið að draga úr útgerð á svæðinu og árið 1898 tók við Björn Guðnason og var væntanlega seinasti stöðvarstjóri í Hólmi. Seinasti maður sem þar bjó, var Elís Pétursson og var hann þar í aðeins eitt ár, en eftir þann tíma fara engar sögur af stöðinni og munu húsin hafa verið rifin um aldamót, efnið flutt í burtu og eftir stóðu grunnar og hálfhrunin fiskbyrgi. (Guðmundur Björgvin Jónsson, 1987)

Stapi

Stapinn – Brekkutóftir og Hólmurinn.

Seinasti aðkomumaðurinn, eða útlendingurinn eins og þeir voru kallaðir í Vogum, sem gerði út frá Hólminum var Haraldur Böðvarsson, kaupmaður á Akranesi. Hann eignaðist fyrsta vélbát sinn Höfrung árið 1908 og gerði hann út frá Vestmannaeyjum. Þetta var 8 tonna bátur og Haraldi leist ekki á að gera út þaðan, en taldi hann Hólmabúðir henta vel sem útgerðarstað fyrir sig. Þar var gott lægi fyrir litla vélbáta innan við Hólminn og ef illa viðraði var hægt að draga bátinn á land. Þegar Haraldur flutti var gamla verstöðin komin í eyði fyrir löngu, en þar reisti hann og stundaði útgerð í þrjú ár, en flutti síðan til Sandgerðis.

Stapi

Brekka undir Stapa; minjar.

Á undirlendinu meðfram Stapanum eru rústir af tveimur býlum sem upphaflega voru þurrabúðir, en urðu að grasbýlum. Annað þeirra hét Brekka sem var reist af Guðmundi Eysteinssyni þegar hann fór frá Hólmabúðum árið 1848 og bjó hann þar fram til 1861. Eftir það voru þó nokkrir ábúendur sem stöldruðu við í stuttan tíma, áður en Guðmundur Jónsson fluttist þangað árið 1869 og bjó þar í 30 ár.

Brekka

Brekka udir Vogastapa.

Árið 1899 komu þangað hjónin Pétur Jónsson og Guðlaug Andrésdóttir ásamt sex börnum sínum. Pétur bjó í Brekku til dauðadags árið 1916 og ekkja hans bjó þar eitt ár eftir dauða hans, en þá tók tengdasonur hennar Magnús Eyjólfsson við búinu og bjó þar til ársins 1930. Greinilega má sjá vel hlaðinn stofuvegg bæjarins uppistandandi. (Árni Óla, 1961)“
(Brekka fór í eyði 1928 og íbúðarhúsið flutt í Voga.)

Heimild:
-Gunnar Óli Guðjónsson, BS – ritgerð; Maí 2011. Verbúðarsafn við Voga á Vatnsleysuströnd, Umhverfisskipulag – Landbúnaðarháskóli Íslands.

Stapi

Stapabúð undir Vogastapa.

Brennisteinsfjöll

Einn sunnudag í nóvember ákváðu félagar í Climbing.is að skreppa í hellaferð í Brennisteinsfjöll.
Fjallgarðurinn liggur suður-norður á Reykjanesskaga og er stysta leið að honum frá Kleifarvatni. ferlirGengum við uppúr Gullbringu og haldið inn hraunið í átt að fjöllunum. Til að byrja með var gönguleiðin nokkuð slæm, þykkur mosi og miklar mishæðir en skánaði stórum þegar komið var upp á heiðina. Við gengum í talsverðum vindi en hita yfir frostmarki inn að fjöllunum og skoðuðum þónokkra smáhella á leiðinni en talsvert hellakerfi virðist liggja í austur-vestur en er þó mikið hrunið og grunnt.
Þegar komið er í Brennisteinsfjöll er nokkuð áberandi gígaröð til suðurs og gengum við upp á einn gíginn sem heitir Eldborg og er útsýni af honum mikið og fagurt eftir gígaröðinni og niður í Selvog. Um 1 kílómeter sunnan við gíginn er opið niður í hellinn Ferli sem var áætlunarstaður okkar. Í munnanum eru 2 op, annað beint áfram niður og annað til hægri og talsvert þrengra. Fyrst var valið að fara beint niður og mætti okkur þar smá gangakerfi með hraunflór í miðju sem er mjög rauðleitur og fallegur.
FerlirEftir smá ljósmyndun þar var snúið við og farið í göngin sem liggja niður til hægri. Þau skiptast strax í tvennt, önnur liggja til hægri og enda mjög fljótt en fallegar myndanir eru í gólfi þar. Göngin til vinstri eru mun lengri en þrengri. Þar hefur þunnur hraunstraumur runnið og eru veggirnir ótrúlega fagrir með beinum rennslismyndunum og öðru megin er bakki sem er eins og bekkur. Þau göng eru cirka 40 metrar og enda svo snarlega.
Þegar við kláruðum að skoða það sem við fundum af hellinum var ljóst að stutt væri í myrkur og því haldið af stað til baka um 7 km leið að bílnum. Var myrkur skollið á á miðri leið en þar sem allir voru vel ljósum búnir reyndist það ekki vandamál, leiðsögutæki sett í hönd og haldið áfram að labba. Nokkuð lengri leið var valin til baka þar sem enginn nennti aftur að klöngrast um hraunið aftur og lá sú leið niður í lítinn dal rétt norðan Gullbringu en þar hefur stór og úfin hrauntunga runnið um. Við tókum stefnuna fyrir hana á þægilegum göngustíg sem liggur niður á veginn fyrir suðurenda Kleifarvatns.
Gangan reyndist vera 15 km samkvæmt GPS og er þetta frábært svæði að ganga um.

Ferlir

Í FERLIR í Brennisteinsfjöllum.

 

Hvaleyrarsel

Hús Skógræktarfélags Hafnarjarðar er í Húsmúla, en í Selhöfða er skáli Gildisskátanna; Skátalundur. Sumarhús er og undir Vatnshlíðinni, en vestan hans er Bleikingsháls.

Hvaleyrarvatn

Tóft í Húshöfða við Hvaleyrarvatn.

Í Húshöfða má t.d. sjá tótt af hlöðnum stekk efst á hæð, Beitarhúsahálsi, norðan húss Skógræktarfélagsins. Sunnan hússins er nokkuð stór tótt í hlíðinni. Það er rúst beitarhúss, Veturhúss, frá Jófríðastöðum, en var síðast nótað árið 1922 frá Ási. Þar skammt sunnar í hlíðinni við göngustíg er minnisvarði í svonefndum Systkinalundi. Hann er um Kristmundarbörn, en þau létu eftir sig minningarsjóð til styrktar skógræktarstarfi í Hafnarfirði.
Sunnan við Hvaleyrarvatn, undir Selhöfða eru tóttir tveggja selja.

Hvaleyrarsel

Hvaleyrarsel fyrrum – tilgáta ÓSÁ.

Austar eru tóttir, líklega sels frá Ási, niður undan skátaskálanum, en vestar, á grónum tanga, eru tóttir Hvaleyrarselsins. Þar lagðist selsbúskapur af eftir að smali frá Hvaleyri fann selsstúlku látna og illa leikna niður við vatnið. Talið var að nykur, sem átti að hafa haldið til í vatninu annað hvert ár, hafi ráðist á og banað stúlkunni. Nykurinn átti, skv. sögnum, að búa hitt árið í Urriðakotsvatni, en hann mun hafa drepist þar frostaveturinn mikla árið 1918. A.m.k. sást aldrei til hans eftir það.

Hvaleyrarsel

Hvaleyrarsel – uppdráttur ÓSÁ.

Vestan við veginn, sem liggur vestan við vatnið, eru hleðslur í klapparkvos. Þar gæti hafa verið stekkurinn frá Hvaleyrarseli. Sunnan við Selhöfða er Seldalur, þangað sem vegurinn liggur. Sunnan hans er Stórhöfði. Uppi á hálsinum, vinstra megin við veginn þegar komið er að Seldal, er tótt. Norðan hennar er ágæt gönguleið til norðurs upp á Selhöfða. Þegar þangað er komið er beygt til hægri, upp á klapparhæðina, sem þar er. Á henni eru leifar gamallar fjárborgar, auk annarrar minni skammt austar. Auðvelt er fyrir vant fók að koma auga á þær, en erfiðara fyrir aðra. Þær eru augljósastar þegar staðið er norðan við hleðslurnar og horft í átt að Stórhöfða. Þá sjást þær vel.

Hvaleyrarvatn

Hvaleyrarvatn og nágrenni; minjar – uppdráttur ÓSÁ.

Minna-Knarrarnes

„Í túni eystri hálflendunnar í Suðurkoti í Brunnastaðahverfi er stór hóll, sem kallaður er Þerrir. Honum fylgdi sú sögn, að þar ættu álfar heima, og þess vegna mætti aldrei slá hólkollinn. Ef það var gert, átti bóndinn að verða fyrir einhverju óhappi. Munu flestir bændur hafa virt þessi álög, því engin dæmi vissu menn þess að hólkollurinn hefði verið sleginn.

Suðurkot

Um 1890 flytur á þennan part maður, sem Hannes Hannesson hét, og tók hann þar við einu kúgildi. Fyrsta sumarið, sem hann var þarna, mun grasspretta hafa verið lítil. Þóttist hann þá nauðbeygður til þess að slá hólinn og gerði það.
Á þessum árum var venja að kýrnar af mörgum bæjum voru reknar í einum hóp á haga langt uppi í heiði, og skiptust bændur á um að reka kýrnar, en sá, sem rak þær, tekur þá eftir því, að kýr Hannesar í Suðurkoti er eitthvað undarleg. Og allt í einu tekur hún sig bölvandi út úr hópnum og ræðst á þúfu nokkra, eins og hún væri blótneyti. Reif hún og tætti alla þúfuna sundur með hornunum, en féll því næst niður steindauð.
BrandsleiðiÝmsir settu þetta í samband við það, að álögin á Þerri höfðu verið lítilsvirt, og aldrei sló Hannes hólinn upp frá því. – (B.H.)
Í örnefnalýsingu fyrir Brunnastaði segir m.a.: „Upp af Töðugerði, upp við veg, er stór hóll með pöllum að sunnan. Þessi hóll heitir Grænhóll. Austan við hann, neðan Gamlavegar og Lambskinnshóls er síðar getur, heitir Tvívörðulágar. Upp af Halakoti er hóll í túni sem heitir Boghóll og nyrsti bletturinn þar í túninu heitir Fimmálnatún. Þá er næst skólajörðin og þar er gamalt eyðibýli sem heitir Kothús, þetta er suður af skólahúsinu. Þá er hér norðar og niður við sjó svonefnt Naustakot. Upp frá því er Suðurkot og þar fyrir neðan garðinn er hóll sem heitir Þerrir. Langur og stór hóll hér austur af bæ heitir Langhóll.“
NónhóllLárus Kristmundsson á Brunnastöðum kannaðist aðspurður strax við álagahólinn. Í stað þess að ganga að hólnum, hélt hann sig innan dyra, gekk út að glugga á herbergi á vesturhlið Brunnastaða og benti: „Þarna er Þerrir. Hann mátti aldrei slá. Handan hólsins eru tóftir Suðurkots“. Þegar að var komið var engar mannvistarleifar að sjá á hólnum, en suðvestan við hann mótar enn fyrir tóftum Suðurkots. Kotið hefur haft tvö þil mót vestri og umhverfis hefur verið túngarður. Hluti hans sést enn. Merkileg fornleif í ljósi sögunnar – en vanvirt.
GrásteinnSú er sögn að bærinn Hlöðunes hafi upphaflega heitið Hlöðvisnes og kenndur við þann, er þar byggði fyrstur manna. Þar í túninu á þessi Hlöðvir að vera heygður og heitir þar enn Hlöðvishaugur. 

Brandsleiði er í túninu á Litla-Knarrarnesi, en engar sagnir eru til um það, og vita menn því ekki, af hverju það hefir fengið nafn sitt. En fornt mun það vera.“
Í örnefnalýsingu fyrir Knarrarnes segir m.a.: „Vík var þurrabúð, syðst í túni Minna-Knararness. Hún fór í eyði laust eftir síðustu aldamót. Nónhóll er fyrir sunnan Vík. Í honum er klettur, sem heitir Grásteinn. Nónhóll er eyktarmark frá Minna-Knarrarnesi.

Brandsleiði

Brandsleiði. Lambúshóll fjær.

Lambhúshóll er austan við Vík og austur af honum er Brandsleiði, aflöng þúfa eins og leiði. Sögn er engin til um það. Í kringum Brandsleiði heitir Brandsgerði. Helgavöllur er á milli Brandsgerðis og sjávar.“
Birgir Þórarinsson, staðarhaldari að Minna-Knarrarnesi, kannaðist aðspurður strax við Brandsleiði. Hann sagði Benjamín Eiríksson, sem var í sveit á Knarrarnesi árið 1917, segja frá leiðinu. Að því sögðu gekk hann suður fyrir Minna-Knarrarnes, upp á svonefnt Brandsgerði. Þar í miðju gerðinu var óslegið þýfi; Brandsleiði. Leiðið var óslegið á annars vel slengnu gerðinu. Suðvestar er Lambúshól og sunnan hans má sjá Digravörðu (líklegt hádegismark) og innsiglingarvörðu vestar. Hvorutveggja væru ágæt myndefni í dagsbirtu, en þegar hér var komið var henni verulega farið að halla. Lesendur eru því beðnir velvirðingar á myndgæðunum.

Kirkjugatan

Þá gekk Birgir óhikað að Nónhól suðvestan við núverandi bæjarhús. Birgir sagði gamla bæjarhólin hafa verið norðan við núverandi íbúðarhús. Bæjarhóllin var augljós. Útnorðan hans mótaði fyrir heimatúngarði og að sunnan er hlaðinn garður umhverfis gamlan matjurtargarð. Hvarvetna eru minjar og örnefni um fornbýlisháttu.
Aftan við bæjarhólin, fast við matjurtargarðinn norðvestanverðan, má enn sjá móta fyrir gömlu kirkjugötunni, sem lá með ströndinni og þræddi svo til alla bæina áleiðis að Kálfatjarnarkirkju. Það væri gustukaverk að rekja götuna frá Vogum að bæjarstæðunum að kirkjustaðnum í einhverri FERLIRsferðinni. Af fyrri ferðum um svæðið má telja ljóst að gatan er víða greinileg á köflum þótt henni hafi verið raskað þess á millum.
Frabært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Heimild:
Árni Óla – Strönd og vogar, 1961.

Þerrir

Reykjanes

Magnús Á. Sigurgeirsson ritaði athyglisverða grein er hann nefnir „Þáttur úr gossögu Reykjaness – Gosskeið fyrir um tvö þúsund árum“ í Náttúrufræðinginn (72) árið 2004. Þar fjallar hann aðallega um eldgos á undan síðasta gosskeiði á Reykjanesskaganum fyrir um 2000 árum.

Gossaga

„Gosmenjar sem varðveittar eru frá þessum tíma, veita mikilvægar upplýsingar um goshætti og umfang eldvirkninnar. Þótt enn sé margt á huldu um þetta gosskeið liggur fyrir ýmis vitneskja um það sem vert er að taka saman. Kveikjan að greininni eru athuganir höfundar á gosmenjum á Reykjanesi, suðvestasta hluta Reykjanesskaga, en þar kveður mikið að myndunum frá þessu tímabili.“
Í inngangi segir Magnús að „náttúrufar Reykjanesskaga hefur dregið að sér athygli náttúrufræðinga allt frá 18. öld er Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson stunduðu sínar rannsóknir þar. Hefur athyglin einkum beinst að hraunum og gígum, jarðhita og misgengjum, en allt setur þetta sterkan svip á ásýnd Reykjanesskaga. Allskýr mynd hefur fengist af eldvirkni á skaganum á nútíma, einkum síðustu tvö árþúsundin. Á því tímabili var eldvirknin bundin við tvö gosskeið sem stóðu yfir allt að fjórar aldir hvort. Á báðum gosskeiðunum, sem aðgreinast af um þúsund ára löngu hléi, urðu öll eldstöðvakerfin fjögur á Reykjanesskaga virk. Í ljósi þessarar vitneskju og þess sem vitað er um eldri gos má telja sennilegt að eldvirkni á fyrri hluta nútíma hafi verið með líkum hætti.“
Þá segir: „Síðasta gosskeið á Reykjanesskaga var á tímabilinu 900-1200 og einkenndist af þrennum eldum sem stóðu yfir í nokkra áratugi hver. Á 10. öld runnu hraun á Hellisheiði og að öllum líkindum í Heiðmörk. Einnig var þá gos í sjó undan Reykjanesi. Á 12. öld geisuðu Krýsuvíkureldar og runnu þá Ögmundarhraun og Kapelluhraun (Nýjahraun). Líklegt er að hraun hafi einnig komið upp í Brennisteinsfjöllum um sama leyti. Tvívegis gaus í sjó undan Reykjanesi. Á 13. öld brunnu Reykjaneseldar og runnu þá fjögur hraun á vestanverðum Reyjanesskaga. Á Reykjaneshrygg hafa margsinnis orðið til „gígeyjar“ sem fjöldi skerja og boða er til vitnis um. Slíkar eyjar eru berskjaldaðar fyrir rofmætti sjávar og eyðast jafnan hratt. Vel þekkt eru afdrif Nýeyjar sem myndaðist í neðansjávargosi árið 1783 um 55 km undan Reykjanesi. Sú eyja hvarf í hafdjúpið innan árs frá því hún skaut upp kollinum. Langlífari gígeyjar hafa þó einnig orðið, s.s. Eldey og Geirfuglasker.
Kerlingarbás
Ummmerki um allmörg neðansjávargos á Reykjaneshrygg hafa varðveist á landi. Við strönd Kerlingarbáss, þar sem gígaraðir á Reykjanesi liggja að sjó, hafa hvað eftir annað hlaðist upp öskugígar. Þar má nú skoða leifar þriggja slíkra gíga. Neðansjávargos fjær landi hafa skilið eftir sig öskulög á jarðvegi, fundist hafa a.m.k. ellefu slík lög á Reykjanesskaga. Öskulögin veita mikilvægar upplýsingar um gossögu eldstöðvakerfisins síðustu sex þúsund árin.“
Í greininni er rakin aldur nokkurra hrauna og gjóskulaga á Reykjanesskaga fyrir um tvö þúsund árum, s.s.:

Hraun: Eldstöðvakerfi: 14C-aldur: Gjóskul.tímat.: ~Áætl. aldur:

Gosslög

Gosslög í jarðvegi.

Eldra Stampahraun Reykjanesi 2155/35 >1400ár >2000 ár ~1900 ára

Tjaldstaðahraun Reykjanesi >1400 ár <2000 ár ~1900 ára

Eldvarpahraun eldra Reykjanesi 2150/65 >1100 ár ~2100 ára

Sundhnúkahraun Reykjanesi 2350/90 >1100 ár <2000 ár ~1900 ára

Óbrinnishólar Trölladyngja 2142/62 >1100 ár <2000 ár ~2000 ára

Eldra Afstapahraun Trölladyngja >1100 ár ~2000 ára?

Hólmshraun Brennisteinsfjöllum >1100 ár ~2000 ára?

Stórabollahraun Brennisteinsfjöllum >1100 ár ~2000 ára

Vörðufellsgígar Brennisteinsfjöllum >1100 ár ~2000 ára

Reykjafellshraun Hengill 1857/87 >1100 ~1900 ára

Eldborg undir Meitlum Hengill 2025/65 >1100 ár ~1900 ára

Nesjahraun Hengill 1880/65 > 1100 ár ~1900 ára

Öskulög
Við aldursákvörðun hrauna hefur verið stuðst við gjóskulgatímatal og 14C-aldursgreiningu á koluðum gróðurleifum sem finnast undir þeim. Þær, sem og aðrar sýnatökur, geta gefið mikilsverðar vísbendingar um aldur hrauna. Taka ber niðurstöðum þó með hæfilegum fyrirvara.

Jarðfræði Gosvirkni á Reykjanesi hefur síðustu 2000 árin einskorðast við vestari gosreinina, en á þeirri eystri hefur ekki gosið síðustu 3000 árin. Komið hefur í ljós skjálftavirkni á Reykjanesi sem einkum er bundin við vestari reinina.

„Vitað hefur verið um nokkurt skeið að hraun runnu víða á Reykjanesskaga fyrir um 2000 árum. Hraun runnu á landi allt frá Reykjanesi í vestri að Nesjavöllum í austri og gjóskugos urðu í sjó undan Reykjanesi og í Þingvallavatni. Vísbendingar hafa komið fram um nokkur gos til viðbótar, einkum í Brennisteinsfjöllum, sem gætu verið frá þessu tímabili.“
Í lokaorðum segir Magnús að „telja verði líklegt að gosskeiðið fyrir 2000 árum hafi einkennst af nokkrum aðgreindum eldum líkt og síðasta gosskeið á Reykjanesskaga. Þá urðu öll eldstöðvakerfin fjögur virk, hraun runnu á að minnsta kosti ellefu stöðum og þeytigos urðu í Þingvallvatni og í sjó undan Reykjanesi. Til að fá úr þessu skorið þyrfti hins vegar mun nákvæmari aldursgreiningar en nú eru fyrir hendi. Tiltæk gögn benda til að gosskeiðið fyrir 2000 árum hafi varað í að minnsta kosti tvær aldir og það síðasta í u.þ.b. þrjár aldir. Mikill fjöldi hrauna hefur runnið á Reykjanesskaga á nútíma.“

Heimild:
-Magnús Á Sigurgeirsson, „Þáttur úr gossögu Reykjaness“, Tímarit Hins íslenska náttúrufræðifélags, Náttúrufræðingurinn 72 (1-2), bls. 21.-28, 2004.

Jarðfræði

Jarðfræðikort ÍSOR af Reykjanesskaga.

Ófeigskirkja

Ófeigskirkja var örnefni í Garðahrauni – allt til þangað til Álftanesvegurinn var lagður árið 1910. Þá var „kirkjan“ brotin undir vegstæðið, enda lá hún vel við höggi; brunahóll tilvalinn til undirlags.

Sumir

Hóllinn sá var reyndar dæmigerður fyrir ástleitni vegagerðarmanna þess tíma í nálæga hraunhóla – allt til þessa dags. Varla var til sá gígur, eldvarp eða auðunninn hóll að hann þyrfti ekki að nýta til vegagerðar. Í þá daga – og reyndar allt til þessa dags – hafa „vegagerðarmenn“ virst blindir fyrir öðru en verkefnum sínum hverju sinni. Til að bæta fyrir fyrrnefnt „slys“ var örnefnið „Ófeigskirkja“ fært yfir á næsta nálæga hól, svona til að sýna fram á að honum hafi bara alls ekki verið spillt. Aðrir benda nú á klettastand í hrauninu, öllu álfakirkjulegri.
Annars er Garðahraun, þrátt fyrir nálægðina við Listaverkþéttbýlið, hið fallegasta hraun. Litbrigðin eru óvíða meiri, svo mikil að það hefur orðið uppspretta listaverka hinna mestu listamanna þjóðarinnar, t.d. Kjarvals.
Kristján Eiríksson skráði örnefni í Garðahverfi veturinn 1976-77. Studdist hann m.a. við lýsingu Gísla Sigurðssonar á Garðahverfi, og var hún borin undir kunnuga í hverfinu og síðan samin ný lýsing að fyrirsögn þeirra.
Guðmann Magnússon, fv. hreppstjóri, á Dysjum (Austur-Dysjum) gaf einnig upplýsingar um Garðahraun og lét í té skriflega lýsingu af því austan Álftanesvegar. Þar getur hann m.a. um Ófeigskirkju.
„Gamli vegurinn (götuslóði) úr Reykjavík út á ListaverkÁlftanes lá yfir Hraunsholtslæk og út með ströndinni. Hann greindist í tvo slóða í Hraunviki. Hefur annar suðvestlæga stefnu nokkurn veginn á Holtsendann (þar sem sandnámið var). Hann var við líði fram um 1920, en er nú að mestu uppgróinn. Er þetta hinn fyrrnefndi Móslóði. Eftir honum var farið með klyfjahesta og reiddur mór úr Hraunsholtsmýri, áður en akvegur kom til sögunnar. (Ath.: G.S. nefnir hann Gálgahraunsstíg syðra, en ekki kannast Guðmann við það nafn, og mun það rangt. …).
Hinn götuslóðinn úr Hraunviki hefur vestlæga stefnu, og hefur hann verið alfaraleið á liðnum öldum. Víða sjást djúpir troðningar og hófaför í klöppunum. Hann greinist um mitt hraunið. Liggur annar í Garðahverfið, en hinn út á Álftanes. Rétt Fyrirmyndinsunnan við, þar sem vegirnir skiptast, er Skyggnir, stór, einstæður klettur. Skammt frá Skyggni var síðasta birkihríslan í Garðahrauni. Stóð hún af sér ágang manna og dýra fram undir 1940.“
Troðningar sjást meðfram fjörunni í Hraunviki og upp með hraunbrúninni vestan við vikið, en um 50 m frá flæðarmáli, þar sem lítið vörðutyppi er á brúninni liggur gatan upp á hraunið og er þar geil í brúnina. Hraunið er allslétt um 400 m bein vestur frá Hraunviki og liggur leiðin um það slétta svæði og skiptist gatan sumstaðar í fleiri en eina rás en er allsstaðar mjög skýr. Hún liggur síðan í hlykk fram hjá hraunklettum þar sem hraunið er einna hæst og beygir til norðvesturs vestan við klettana. Þar sem gatan beygir er hraunið allslétt og gætu troðningar legið þaðan til suðurs og suðvesturs en ekki eru þeir skýrir.

Grenhólsskjól

Frá beygjunni liggur gatan beint í um 300 m – og er þar samsíða fyrirhuguðu vegarstæði, sumstaðar innan við 20 m frá því. Þar beygir gatan til vesturs og liggur síðan niður úr hrauninu á móts við hleðslu. Í flagmóunum vestan við hraunið má rekja götuna áfram til vesturs og hefur hún nokkuð beina stefnu á Selskarð. Þar sem gatan nálgast fjörumál í Lambhústjörn eru götupaldrar á stuttum kafla en síðan hverfur hún alveg í mýri og flög. Vestan við Selskarð sést framhald götunnar en þar hefur verið gerður malarvegur, nú aflagður. Líklegt er að gatan hafi klofnað við Selskarð og austari
grein legið út á Bessastaði en hin á vesturhluta Álftaness. Á móts við núverandi Garðaholtsveg liggur annar slóði upp í hraunið, um 100 m norðan við Garðastekk og liggur til norðausturs og sameinast aðalgötunni eftir um 250 m. Þetta mu vera gatan sem lá í Garðahverfi. Sú gata er mun ógreinilegri en aðalgatan út á Álftanes.

Gata

Í hrauninu er gatan víðast alldjúp geil, allt að 1 m djúp og 1-2 m breið. algróin. Brotnað hefur af götunni á einum stað við Lambhústjörn. Þessi leið hefur verið notuð fram á síðustu ár 19. aldar en sumarið 1873 var lagður vegur yfir Flatahraun frá Sjónarhóli í Engidal, og framhald á honum áleiðis á Hraunsholtið 1879. Endanleg vegtenging við Reykjavík kom þó ekki fyrr en 1897-99. Eftir það mun aðalleiðin á Álftanes hafa fylgt hinum uppbyggða vegi milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur og beygt útaf honum í Engidal.
Þar sem gamla þjóðleiðin kemur niður úr Gálgahrauni að vestan er lítil hleðsla úr hraungrýti utan í hraunkantinum norðan við götuna. Utan í hraunbrún, vallgróinn hvammur næst, fjær eru flagmóar.
Hleðslan er 3 m löng, einföld hraungrýtishleðsla, hvergi meir en tvö umför. Austan við hana er vallgróin hvilft upp í hraunbrúnina og er sokkin grjóthrúga um 16 m austar sem gæti hafa verið á móti hleðslunni. Á milli er óreglulegur þúfnarimi sem gæti verið yfirgróin vegghleðsla. Hefur verið einhverkonar rétt eða aðhald, mögulega stekkur.
Um 70 m suður af botni Lambhústjarnar, um 200 m vestur af vesturbrún Gálgahrauns er ferhyrnd tóft, fast austan við hestagirðingu sem nú er. Í blásnum móa, stórgrýttum Ferhyrnd regluleg tóft, grjóthlaðin með tvöfaldri, 0,7 m breiðri hleðslu. Hvergi er dyr að sjá.
Tóft þessi er skammt norðan við þjóðleiðina út á Álftanes, í jaðri fyrirhugaðs Myndrænnvegarstæðis. Sennilega kálgarður. 40 m í norðvestur frá þessum stað er 8 m löng steinaröð milli tveggja jarðfastra steina og gæti sá nyrðri hafa verið undirstaða undir stóra vörðu en hrúga af sokknu grjóti er í kringum hann.
Skammt norðan Álftanesvegar, þar sem Flatahraunið endar, er Grenishóll, hæðarhryggur til norðurs. Þar var síðast unninn refur um 1870 af Magnúsi Brynjólfssyni, hreppstjóra á Dysjum.
Ófeigskirkja nefndist klettur, sem brotinn var, þegar Álftanesvegurinn var lagður 1910. Hefur nafnið færzt á gervigíg aðeins norðan við Álftanesveginn. Íbúðarhúsið Hraun er skammt vestan við hann. Er það eina húsið, sem byggt er á þessu svæði, og sennilega verða ekki byggð fleiri, því allt hraunið á að verða útivistarsvæði.“
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Heimild:
-Örnefnalýsing fyrir Garðahverfi – Kristján Eiríksson
-Jónatan Garðason.
-Adolf J.E. Petersen: ‘Samgönguleiðir til Reykjavíkur að fornu og nýju.’ Reykjavík miðstöð þjóðlífs, Rv. 1977, s. 79-97.

Ófeigskirkja

Ártún

Þegar ekið er um Vesturlandsveginn má sjá á Kjalarnesi tóftir bæjar austan við veginn stuttu áður en komið er að Hvalfjarðargöngunum. Þetta eru leifar bæjarins Ártúns.
Artun-22„Ártún á Kjalarnesi var talin lítil og kostarýr jörð. Hún var lengst af kirkjujörð frá Saurbæ, afbýli úr þeirri jörð og jafnframt ysti bær í Saurbæjarsókn. Jörðin fór í eyði á fardögum árið 1956 þegar síðustu ábúendur fluttu þaðan burt. Ártúns er getið í Gíslamáldögum frá 1570 og síðar, en þá átti Saurbæjarkirkja þrjátíu hundruð í heimalandinu ásamt tveimur kotum „…enn thad eru ij kot. Artun og Hiardarnes. X. Aura Landskylld af huorre.“13 Árið 1695 er Ártún kirkjujörð í bændaeign með fjögur og hálft kúgildi, 90 álnir í landleigu og skattálagningu 15 hundruð. Samkvæmt Jarðabók Árna og Páls frá 1705 þá er Ártún kirkjujörð sem liggur til Saurbæjarkirkju, og þar til proprietarius, eða eiganda sem var hr. lögmaður Sigurður Björnsson og bjó í Saurbæ. Einn ábúandi, Þórarinn Hallsson, er þá í Ártúni og galt hann í landskuld níutíu álnir með landaurum í fríðu eða dauðu, fóðri eða öðru. Áður galst hún í fiski að hluta þegar fiskgengd var góð í Hvalfirði og galst heim til eiganda. Leigukúgildi jarðarinnar eru þrjú og hálft og átti kirkjan í Saurbæ þau, en kúgildin höfðu áður verið fimm. Kvikfénaður var fimm kýr, tvær kvígur veturgamlar, tveir kálfar, tólf ær með lömbum, ein geld, tíu sauðir veturgamlir og tveir hestar.

Artun-23

Jörðin hafði selstöðu og beit fría í Blikdal um sumar og vetur í landi Saurbæjar. Torfrista og stunga var talin bjargleg en reiðingsrista lítt nýtandi. Móskurð hafði jörðin eftir nauðsyn í Saurbæjarlandi. Hvorki var hvannatekja eða rótargröftur teljandi. Sölvafjöru og fjörugrös nýtti jörðin fyrir Saurbæjarlandi og þang til eldiviðar var talið nægilegt auk þess sem talin var nokkur rekavon fyrir landi jarðarinnar. Skipsuppsátur var ekkert og engin lending, vatnsból erfitt um vetur og búpeningi var flæðihætt. Í Jarðamati J. Johnsens frá 1847 var Ártún enn kirkjujörð og metin til fimmtán hundruða. Árið 1861 er Ártún metið á 15 forn hundruð og 8,7 ný hundruð. Í landamerkjabréfi frá 1890 fyrir Saurbæ, með Hjarðarneskoti og Ártúni, kemur fram að á Bleikdal eigi Ártún óskipta beit en slægjur fyrir neðan götu frá Selgilslæk að Heygilslæk. Árið 1896 búa í Ártúni Guðmundur Guðmundsson og Margrét Ólafsdóttir og búa þar til ársins 1898, en eftir það og til ársins 1913 búa þar Þorkell Ásmundsson og Guðrún Jónsdóttir.

Artun 24

Frá 1914 til 1955 búa þar Gunnlaugur Sigurðsson og Guðrún Bjarnadóttir. Árið 1921 er heildarmat á Ártúni 31 hundrað. Árið 1932 er heildarverðmat 38 hundruð, bæjarhús úr torfi og grjóti og miðstöð sögð komin í bæinn. Túnið er 2,2 hektarar og girt í kring og bústofninn er þrjár kýr, fimmtíu kindur og þrjú hross. Árið 1942 er fasteignamat Ártúns 42 hundruð, bústofn er þrjár kýr, þrjátíu kindur og fjórir hestar, og jörðin í einkaeign en leigð til ábúðar.
Síðustu ábúendur í Ártúni voru þau Böðvar Eyjólfsson og Anna Margrét Sigurðardóttir sem bjuggu þar í eitt ár, frá 1955 til 1956, en fóstri Önnu, Ólafur Eyjólfsson í Saurbæ, var eigandi Ártúns. Vorið 1956 var Ártún selt Lárusi Lúðvíkssyni í Reykjavík sem fékkst við fiskeldi í ánni. Sjá má minjar um framkvæmdir hans á bökkum Ártúnsár, austur af Kringlumýri. Nú er mestur hluti jarðarinnar eign bændanna á Bakka. Í Fasteignabók frá 1956-70 er jörðin Ártún sögð auð en heildarmat er 15.500 krónur.

Artun-26

Tóftir síðasta bæjarins í Ártúni eru vel greinanlegar á bæjarhólnum þar sem röð bæjarhúsa snýr fram á hlað í suðvestur með tveimur húsum að baki. Framan við bæinn sér enn í kálgarð með greinilegri garðhleðslu austanmegin. Heimatúnið er líka vel greinanlegt í muni á gróðurfari og hafa útlínur lítið breyst frá því sem sjá má á túnakorti frá 1916. Þó hefur Vesturlandsvegurinn verið lagður í gegnum túnið í tvígang og á spildu á milli gamla og nýja vegarins hefur nú verið plantað trjám. Töluvert er einnig af stríðsminjum á melunum fyrir norðan bæjarhólinn en á stríðsárunum var setuliðið með aðstöðu víðsvegar á Kjalarnesinu og var með aðstöðu öll stríðsárin í Dalsmynni sem er næsti bær við Ártún. Þar voru byggð braggahverfi sem og í landi Stekkjarkots og í Tíðarskarði.
Kristrún Ósk Kalmansdóttir er fædd 23. mars í Ártúni. Þar ólst hún upp hjá hjónunum Gunnlaugi Sigurðssyni og Guðrúnu Bjarnadóttur en móðir hennar var uppeldisdóttir þeirra hjóna. Gunnlaugur, Guðrún og Kristrún voru síðustu íbúar torfbæjarins sem nú er orðinn að tóftum á bæjarhólnum í Ártúni. Leitað var til Kristrúnar um upplýsingar varðandi Ártún og greindi hún frá ýmsu sem varðaði búskap í Ártúni í hennar tíð og til hvers húsakynni voru síðast notuð.
Artun-27Bærinn samanstóð af nokkrum samhliða húsum á bæjarhólnum. Að sögn Kristrúnar var skemma vestast í bæjarröðinni, þá baðstofa, bæjargöng og búr. Austast voru fjós og hænsnahús. Í bæinn var aldrei leitt vatn, rafmagn eða sími en sími var á næsta bæ, Dalsmynni, ef á þurfti að halda. Í skemmunni voru geymd matvæli og reiðtygi. Baðstofan var tveggja stafgólfa og voru tvö rúm hvorumegin, en þriðja stafgólfið í húsinu var inngangur og eldhús. Á þaki baðstofunnar var að sögn Kristrúnar bárujárn sem tyrft var yfir. Í eldhúsinu var kolaeldavél sem hitaði húsið og eldað var á. Í Fasteignabók frá 1932 kemur fram að miðstöð sé komin í bæinn og er þá trúlega átt við kolaeldavélina. Kristrún sagði að áður en kolaeldavélin kom til hefði verið notað hlóðaeldhús sem var bakatil inn af bæjargöngum, eins og sjá má á túnakorti frá 1916, en lítil ummerki eru eftir hlóðaeldhúsið nema inngangurinn. Um 1940 var hlóðaeldhúsið fyllt upp og jafnað út til að bæta aðgengi heyvagna að hlöðunni.

Artun-30

Kristrún minnist þess ekki að eldaður hafi verið matur í hlóðaeldhúsinu en man að þar var stöku sinnum soðinn þvottur í stórum potti sem einnig var notaður til að þvo í ull niður við á. Næst komu bæjargöng en úr þeim var einnig gengið inní búrið sem var til vinstri handar. Þar var geymdur matur í trétunnum, korn og fleira. Þar var einnig geymdur vatnsforði en allt vatn þurfti að sækja niður í á. Næsta hús var sex bása fjós og austast var svo hænsnahús sem hafði áður verið notað sem lambhús. Á milli fjóssins og hænsnahússins var settur niður kamar í tíð Kristrúnar. Bakatil austan megin á bæjarhólnum var niðurgrafin hlaða og vestan megin að baki skemmunni var hesthús. Tóftir þessara húsa eru nú grasigrónar og vel greinanlegar. Efst og norðaustan í heimatúninu er fjárhústóft með hlöðnum grjótgarði eftir miðju og sagði Kristrún að húsið hefði tekið fimmtíu kindur. Á túnakort frá 1916 er teiknað hús við traðirnar nyrst í heimatúninu sem ekki sér til í dag og hefur tóft þess sennilega farið undir núverandi Vesturlandsveg.

Artun-29

Að sögn Kristrúnar var það lítið hesthús sem tók fjóra hesta og var það helst notað til að hýsa hesta ferðalanga. Traðirnar austur af bænum sem liggja niður að Ártúnsá sagði Kristrún að hefðu í hennar tíð eingöngu verið notaðar til að sækja vatn í ána. Aðkoma að bænum hefði verið norðvestan megin, hlaðvarpi við skemmuna og traðir sem lágu í norður framhjá litla hesthúsinu. Við traðirnar sagði hún að hefði verið lítill hóll sem kallaður var Traðarhóll og sumir notuðu til að komast á bak. Þessi slóði lagðist af þegar Vesturlandsvegurinn kom og myndaðist þá nýr slóði.
Í árdaga íslenskrar kvikmyndagerðar var Ártún mikið notað sem kvikmyndaver eða eins og segir í grein í Morgunblaðsins frá 1970: „Þetta var einskonar Hollywood Íslands um tíma og má muna fífil sinn fegri.“ Kvikmyndin Milli fjalls og fjöru er fyrsta íslenska kvikmyndin sem gerð var í fullri lengd og jafnframt fyrsta íslenska talmyndin.

Artun-31

Loftur Guðmundsson gerði myndina árið 1949 og frumsýndi það sama ár. Myndin er trúlega elsta myndin sem er kvikmynduð í Ártúni en bærinn í myndinni er Ártún. Bærinn kom einnig við sögu í tökum á kvikmyndinni Síðasti bærinn í dalnum eftir Loft Guðmundsson sem frumsýnd var árið 1950. Þá bjuggu Bakkabræður í Ártúni í kvikmyndinni Reykjavíkurævintýri Bakkabræðra en það var gamanmynd eftir Loft Guðmundsson sem frumsýnd var árið 1951. Ártún kom einnig lítillega við sögu í kvikmyndinni Sölku Völku sem Edda-film gerði og frumsýnd var árið 1954. Kvikmyndin Gilitrutt var frumsýnd árið 1957 en í myndinni eldar tröllskessan Gilitrutt matinn í Ártúni.
Skýringu á því hvers vegna Ártún kom svo mikið við sögu við upptöku á kvikmyndum um miðja síðustu öld má kannski finna í því að Loftur Guðmundsson ljósmyndari og kvikmyndagerðarmaður byggði sér sumarbústað í Ártúni árið 1945 eða 1946.

Artun-32

Loftur var fæddur í Hvammsvík í Kjós árið 1892 og þekkti vel til á Kjalarnesinu. Sumarbústaðinn reisti Loftur rétt fyrir ofan heimatúnið og klettinn Hæring þar sem bústaðurinn stóð til ársins 1955 en Loftur lést árið 1952. Þegar hjónin Anna Margrét Sigurðardóttir og Böðvar Eyjólfsson fengu jörðina til ábúðar árið 1955, fluttu þau bústaðinn niður fyrir bæinn og bjuggu þar í honum í eitt ár. Bústaðinn seldu þau seinna í Bergvík á Kjalarnesi.
Blikdalurinn er nú allur í eigu Reykjavíkurborgar en skiptist áður á milli kirkjujarðanna í Saurbæ og Brautarholts. Blikdalur skiptist eftir ánni sem rennur eftir honum miðjum og átti Saurbær dalinn að norðanverðu en
Brautarholt að sunnanverðu. Dalurinn hefur löngum verið nýttur til uppreksturs búfjár frá bæjum á Kjalarnesi og áður fyrr voru þar einnig nokkrar selstöður sem enn má sjá minjar um.“

Heimild:
-Margrét Björk Magnúsdóttir, Fornleifaskráning jarðarinnar Ártúns á Kjalarnesi, Reykjavík 2010 – Minjasafn Reykjavíkur.

Ártún

Ártún – túnakort frá 1916.

Grindavík

Jökull Jakobsson gengur með Tómasi Þorvaldssyni forstjóra um Járngerðarstaðahverfi í Grindavík. Frá 11.mars 1973:

Tómas og hulda„Skammt þar frá sem vatnspósturinn stóð er annað apparat sem raunar er tengt líka en það er úrkomumælir Veðurstofunnar. Hvort sem þetta eru góð eða vond skipti stendur þessi mælir hjá glæsilegu húsi, fallega máluðu, og nýlegu og kannski mannst þú, Tómas, eftir fornfálegra húsi hér í þann tíð er vatnspósturinn var hér?“
„Ég man nú eftir þokkalegu byggðu húsi í gamla stílnum. Hér bjuggu Árni Björnsson og Guðbjörg. Árni var þekktur formaður, að vísu fyrir mína tíð, aflamaður mikill. Þau áttu eina dóttur, Jóhönnu, sem giftist Guðmundi Erlendssyni. Hann var, þegar ég var drengur, orðinn þekktur formaður og mikill aflamaður. Þau hjónin eignuðust tvo drengi. Guðmundur ferst 1932 á skipi er Óskar Björn hét. Aðeins einn maður bjargaðist. Þetta var á rúmsjó. Hann bjargaðist á þann hátt að öll skip voru kominn að landi og búið að setja þau í naust en seinni hluta dags var einum formanni, eftir að hafa hvílt sig eftir róðurinn um morguninn, var honum hugsað til veiðifæra sem hann átti í sjó og og fannst veður hafa skánað, setti skip sitt til sjávar og fer út á miðinn og þar sem hann varð var á sjónum var það eitt, ekki veiðifærin, heldur skip Guðmundar heitins, marrandi á kafi, og hann verður þess var að það er einn maður lifandi um borð og honum tókst að ná honum og líki Guðmundar heitins og í dag á þessari stundu er verið að jarðsetja gömlu vinkonu mína, Jóhönnu, hér á Stað í Grindavík.
VorhusÝmsar minningar eru tengdar þessu húsi, Neðri-Grund, það heitir húsið. Þetta fólk var skylt mér og var okkar vinafólk.
Hér rétt fyrir framan okkur er hús sem heitir Efri-Grund. Það var eins og Neðri-Grund, byggt í öðrum stíl þá. Líka byggt í gamla stílnum. Þar bjuggu gömul hjón, Kristján og Kartín. Þau áttu tvö börn. Annað var ég búinn að geta um, Guðmundur Kristjánsson, sá er bjargaðist af skipi Magnúsar heitins Guðjónssonar er hann fórst hér á sundinu, söngmaður mikill og hafði mikla rödd. Þetta hús stóð við barnaskólann, sem við komum að rétt bráðum. Við áttum það til að hlaupa yfir kálgarðinn hjá þeim og þá heyrðist stundum í gamla manninum. Mig undrar að samskiptin hafi ekki orðið verri en þau voru.
Hér er Vorhús og tengt brunninum sem við neGamli barnaskólinnfndum áðan. Brunnurinn hét Vorhúsabrunnur. Í glugganum er Ráðhildur Guðjónsdóttir, dóttir Guðjóns frá Hliði. Þegar ég var drengur bjuggu hér gömul hjón, Guðmundur og Sigurveig. Þá var Vorhúsabrunnurinn notaður fyrir templara.
Kippkorn í burtu er grá steinkumbaldi. Þetta hafði ekki ákveðið nafn, heldur fleiri en eitt. Fyrst var þetta byggt sem rafstöð og kallað Rafstöðin. Eiríkur Ormsson setti upp fyrir okkur Grindvíkinga rafal og það voru leiddar leiðslur um þetta pláss og það var veitt ljósi einmitt frá þessum steinkubalda. Lengi kölluðum við þetta Rafstöðina. Síðan eru komin ein 45 ár.

Karlsskáli

Þegar það leggst niður og verður ekki rekstrahæft á erfiðleikaárunum. Auka þurfti vélarkostinn, hann hafði gengið úr sér, og það hefur þurft að kaupa sennilega aðra ljósasamstæðu þarna inn og ekki var haft efni á því um 1930 og þetta lagðist alveg niður og við voru bara hér í myrkri og lifðum bara með olíulampa og engin útiljós allt þangað til rafmagnið kom 1946 og ‘7 kom. En í millitíðinni fær þetta hús annað nafn og kallað Smiðjan en þá var hér ungur maður frá Vík, Gunnar Gíslason. Hann lærði járnsmíði og setti hér upp smiðju. Þá var það kappsmál hjá okkur strákunum að fá að komast hingað inn og stíga smiðjubelginn og við voru fúsir að gera það fyrir ekki neitt því okkur fannst þetta nokkur virðing og virðin að fá að gera þetta. Hann var skemmtilegur og mjög spaugsamur við okkur krakkana og sagði okkur sögur á meðan.
Staldrað er við á dálitlu plani. Hér stóð hús og það var barnaskólinn þar sem við fengum alla okkar uppfræðslu utan okkar heimilis. Skólinn var byggður nokkuð fyrir 1930, man ekki áratalið, og var alveg fram í Seinni heimsstyrjöld, eini skólinn hér í byggðalaginu. Ég gekk ekki í annan skóla.

Kvenfélagshúsið

Margar minningar eru tengdar þessum skóla hjá aldursflokkum á mínu reki og eldri. En hann var orðinn allt of lítill og margsetinn, svo margsetinn þegar ég kom í hann að við gátum ekki verið í skólanum nema annan hvern dag. Okkur fannst það ágætt að leika okkur hinn daginn og sniglast þá í kringum sjóinn. En manni finnst það núna, kominn á þennan aldur, að hafa átt þess kost að vera á hverjum degi og læra heldur meira. Í grenndinni stóðu þessi hús hér í kring. Við áttum það til að angra þetta fólk, en mig furðar hversu lítið við urðum varir við það af þeirra hálfu. Fjær, austar, stendur Byggðarendi, en það var það langt frá að við máttum aldrei fara þangað. Þarna stóð annað hús þegar ég var ungur, öllu lágreistara og byggt með gömlu lagi, nokkurs konar baðstofustíl, en snéri eins og þetta er núna. Þá bhuggu þar Eiríkur Guðmundsson og Rósa Samúelsdóttir. Þau áttu mörg börn, allt dugnaðarfólk. Einn sonurinn hefur unnið með mér, bæði á sjó og á landi. Sumt flutti til Reykjavíkur og býr þar.
Ég minntist á Krosshúsanautið og maður tók það fegins hendi þegar maður fékk kjöt að borða. Krosshúsanautið var hluti af tilverunni eins og ég hef minnst á áður.
Grænmálað lítið hús stendur hér fyrir framan. Þetta er heitir Garðshorn, Tröð, Sjávarhóll og AkrahóllKarlsskáli. Karl Ágúst Guðmundsson og Guðrún Steinsdóttir kona hans byggðu húsið. Guðrún býr þartna ein núna, löngu orðin ekkja. Þau áttu mörg börn, drengirnir 5 og þrjár dætur. Drengirnir voru með okkur í skóla, ekki nema nokkrir metrar héðan í skólann. Ingibergur, einn drengjanna, drukknaði hér í innsiglingunni fyrir nokkrum árum. Ingólfur er hafnarstjóri núna og Karl stundar sjó og gerir út sinn bát.
Einar Kr. Einarsson, skólastjóri, kenndi hér í þessum skóla. Hann var kennari og skólastjóri í 43 ár. Hann byrjaði á mínum aldursflokk og ég held að það hafi verið á fyrstu kennsludögum hans þegar ég kom fyrst í skólann. Hann kenndi síðan í nýja barnaskólanum, sem stendur hér ofar í byggðalaginu. Okkur þótti ákaflega vænt um hann.
Hér er Hæðarendi skammt frá barnaskólanum. Það hefur tekið ýmsum breytingum en þegar ég man fyrst eftir mér bjuggu hér Ólafur og Kristín Snorradóttir ættuð neðan af Strönd en Ólafur var ættur af Akurhúsum. Stundum var eins og hugur var á undan framkvæmdum og skeði sumt spaugilegt í kringum það.

Þorvaldsstaðir

Gunnar Ólafsson var næsti liður og hann var sami hugmaðurinn, bæði til sjós og lands. Stundum kom fyrir að hann kom ekki heim heilu vikurnar. Nú er þriðji ættliðurinn þarna, Björgvin Gunnarsson, sem frægur er núna með Grindvíking, var lengi með Hrafn Sveinbjarnarson, mikill aflamaður. Ég man t.d. eftir því að Ólafur var spurður hver hefði verið fyrsta bylta sem hann hafði fengið, hann var dettinn ekki síst í myrkrinu hér í kring. Hann sagði að versta byltan sem hann hafði fengið á æfinni þegar yrðlingurinn hefði bitið hann. Svona voru nú tilsvörin. Það var smáloft uppi í húsinu. Gunnar hafði klöngrast þangað upp. Faðir hans kom þá inn og í flýtinum dettur hann niður og ofan á föður sinn. Þá sagði Ólafur: „Ætlarðu að drepa hann föður þinn?“ „Og nei, ekki var það nú meininginn“, svaraði hann.
Seinasta húsið sem við höfum hérna almennilega í augsýn frá gömlu skólalóðinni er Ás. Í því bjó Guðrún Þorvarðadóttir, fyrsti hvatamaður að stofnun Kvenfélagsins. Hún var kona mjög lág vexti og því mun fylgnari sér. Á veggjum Kvenfélagshússins hangir stór og mikil mynd af henni sem viðurkenning og þakklætisvottur frá kvenfélagskonum henni til handa. Klemens Jónason, afi minn, og Halldóra, amma mín, bjuggu þarna lengi svo margar minningar eru tengdar þessu húsi.

Ásgarður

Nú förum við í vestur, inn á Hellubraut. Til vinstri handar, þar sem nú er grænn blettur, stóð lengi vel hús, sem hét Holt. Það var síðan rifið og flutt til Njarðvíkur þegar við Grindvíkingar áttum svolítið erfitt uppdráttar í kringum frá 1930-1950 og íbúatalan fór niður á við, úr 502 árið 1930 í 498 árið 1950. Í þessu húsi bjuggu þegar ég man eftir mér Valgerður Jónsdóttir frá Akurhúsi og Sveinn ættaður úr Staðarhverfi. Sveinn var sjómaður og var einn af þeim er fórst með Guðjóni heitnum Magnússyni. Guðjón bjó í húsinu hér næst, Baldurshagi. Það var strax stórt og myndarlegt hús eins og það er í dag. Með Guðjóni fórust 9 vaskir menn. Í Baldurshaga hefur búið Jón Gíslason, einn af Víkurbræðrum, var lengi dugandi formaður, og Valgerður Jónsdóttir frá Akrahól, þau búa hér enn.
Þegar gerast sjóslys í Reykjavík og stærri bæjum er ekki að sjá en daglegt líf haldi áfram. En hér marka slík slys djúp spor í svona lítið byggðalag því þetta kemur inn á hvert einasta heimili. Lífið sjálft og starfð hélt áfram. Aðstoð og hjálpsemi milli manna var enn meiri og fólkið varð nátengdara eftri svona slys. Fólkið sótti styrk sinn í trúna og ég held að það lengi enginn vafi á að svo er enn þann dag í dag. Þegar allt leikur í lyndi köstum við fram af okkur beislinu, eins og aðrir þjóðfélagsþegnar.

Miðdagur

Nú er gengið eftir krákustíg og fornir mosagrónir grjótgarðar sem skipta landamerkjum milli þeirra húsa sem hér standa. Hér eru engin götunúmer. Túnblettirnir eru þau sömu en húsunum hefur verið gerð góð skil og byggð upp. Hér er Bjarg. Í minni tíð var hér torfbær. Hér bjuggu hér Einar og Guðrún. Frá þeim er komið margt fólk og gott. Einar var vel gefinn maður og átti gott með að kveða og yrkja; Vellir, Vík og Vallarhús, Vorhús, Gjáhús, Akurhús,  Byggðarendi, Bjarg og Hlið, best er að Krosshús fylgi með. Stundum fór þetta út í gáska. Bilað hafði í honum annað augað og hann átti erfitt með fótavist því hann var mjög þungur maður. Einhverju sinni var Eiríkur Tómasson frá Járngerðarstöðum að leika sér að kveðast á. Sá ungi maður sást eitt sinn á gangi með dömu hér út með sjó. Þá varð þetta til hjá Einari; í Gerðavalla grænum krók, garpur sást með Mundu. Unga manninum fannst hann þurft að borga fyrir sig; Einar ríkur rangindum, ratar líka miðin, Óðni líkur ásýndum, á sér strýkur kviðinn.
Síðan þegar Einar og Guðrún dóu bjuggu hér börn þeirra, Guðríður sem giftist Jóni Sigurðssyni. Guðríður var hér ljósmóðir og Jón sjómaður. Laufey var dóttir þeirra. Nú seinni árin hafa orðið hér mörg umskipti.“

Heimild:
-Jökull Jakobsson gengur með Tómasi Þorvaldssyni forstjóra um Járngerðarstaðahverfi í Grindavík. Frá 11.mars 1973.

Grindavík

Grindavík.