Í BS ritgerð Gunnars Óla Guðjónssonar í maí 2011 um „Verbúðarsafn við Voga á Vatnsleysuströnd„, sem skrifuð var í Landbúnaðarháskóla Íslands, má m.a. lesa eftirfarandi fróðleik um verstöðvar og aðbúnað í verum með áherslu á svæðið í kringum Stapann við Voga.
Verstöðvar á Suðvesturlandi.
Öll hin gömlu ver eru nú horfin. Gunnar leggur t.d. til endurgerð vers á svæðinu í ljósi sögunnar. Sambærilega tillögu má finna annars staðar á vefsíðunni þar sem lagt er til að slíkt mannvirki verði endurgert í umdæmi Grindavíkur.
Verðbúð síðari tíma.
„Verstöðvum á Íslandi má skipa í fjóra flokka. Frá heimvörum réru menn frá vör er var í nánd við bæinn. Í margbýli var venja að bændur sameinuðust um heimvör og gerðu þá út saman. Eins og nafnið gefur til kynna, voru útverin andstæða við heimverin. Benda heimildir til þess að útverin hafi snemma komið til sögunnar en m.a. er talað um veiðistöðvar í þjóðveldisaldarritum. Það tíðkaðist í útverum að menn dveldust þar á meðan vertíð stóð. Í upphafi voru verbúðirnar ekki rismiklar, aðeins tóftir sem tjaldað var yfir. Tímar liðu og verbúðirnar fóru smám saman að minna meira á hýbýli manna þar sem fólk gat hafist við allan ársins hring (Lúðvík Kristjánsson, 1982).
Aðbúnaður í verum
Stapabúð undir Stapa.
Í blönduðum verum og heimverum tíðkaðist að vermenn gistu á bæjunum í kring eða bændur sáu um að útvega gististað. Í útverum voru hinsvegar sérstakar verbúðir. Stærð búðarinnar fór eftir gerð skipsins sem gert var út í verstöðinni. Tíðkaðist að ein skipshöfn hefði eina verbúð útaf fyrir sig. Veggir verbúðarinnar voru hlaðnir úr torfi og grjóti. Þakið var úr sperrum og yfir þær lagt torf. Dyr voru ýmist á gafli eða hlið. Eini gluggi verbúðarinnar var skjár á þaki eða þá yfir dyrum.
Verbúð í Þorlákshöfn.
Byggingarlag verðbúðar líktist útihúsum á sveitabæjum. Í flestum tilvikum voru stutt göng inn af dyrum. Inn af þeim tók við aðalvistarveran sem var sjálf búðin, þar sem verbúðarmenn höfðust við. Ekki var verbúðin hólfuð niður, heldur opin og rúmstæðin gerð úr torfi og grjóti meðfram veggjum.
Í stærri verbúðum var oft autt rúm innaf búðinni og kallaðist kór.
Verbúðarmenn deildu rúmum eða bálki eins og það var kallað. Var það í höndum formanns að velja hvaða tveir og tveir menn lágu saman. Þeir skiptu svo með sér verkum, hvort sem það var að sækja vatn, eldivið eða sjá um lampann í verbúðinni. Önnur tilfallandi verk voru t.d. að elda mat og hita kaffi í morgunsárið. Kjásarhaldari var sá sem tæmdi hlandkoppa verbúðarmanna.
Selatangar – verbúð.
Til þess að komast að í verbúð, varð að fylgja mönnum ákveðinn skammtur af fæði. Reglur voru þær að hverjum manni yrði að fylgja kjöt, rúgur, feitmeti, harðfiskur og sýra. Þessi kostur var kallaður mata. Yfir daginn fengu verbúðarmenn eina heita máltíð, soðninguna. Áður en farið var á sjó fengu verbúðarmenn sér að éta en ekki tíðkaðist að taka með fóður í róðra, nema þá einn blöndukút með sýru. Eftir túr, þegar búið var að draga bát í land beið þeirra saðning, var það í hlutverki fanggæslunnar að matreiða hana. Er menn höfðu étið nægju sína var gengið frá skipinu og aflanum. Fanggæslan var kona sem þjónustaði vermenn. Hún þvoði þvott, bjó um rúm, sá um matseld og þreif. Á Suðurnesjum voru þessar konur nefndar hlutakonur (Lúðvík Kristjánsson, 1983).
Vermaður í sjóklæðum.
Vermenn klæddust skinnklæðum sem hlífðarfatnaði. Í Íslenskum sjávarháttum III, segir Lúðvík Kristjánsson svo frá að tíðkast hafi að kenna piltum að sauma sér klæði úr skinni strax að lokinni fermingu. Þó svo að konur hafi fengist við skinn má víst telja að það hafi verið karlmannsverk. Í fötin var brúkað sauðskinn en nautshúð í skógerð, þó kom fyrir að skór væru gerðir úr hákarlaskráp, þá ef hann fékkst. Um sjóklæðin má segja að þau hafi verið stakkur sem náði niður á mið læri og brækurnar best heppnaðar ef náðu þær upp undir hendur. Þó voru til margvíslegar gerðir af sjóbuxum sem kallaður voru nöfnum eins og skóbrók, ilbrók og sólabrók. Saumaðir voru leðurskór við skóbrókina en ilbrókin saumuð saman að neðan á meðan sólabrókinni var hafður sóli í stað skós. Sjóskór voru svo notaðir við sólabrækur sem og ilbrækur. Skinnklæðum varð að halda mjúkum og voðfelldum, til þess voru þau reglulega mökuð feiti. Í verkið notuðu menn lifur og til að ná sem bestum árangri varð hún að vera ný og mátti helst ekki vera mjög feit.
Skinnbrækur vermanns.
Bestu útkomuna fengu menn ef þeir komust yfir skötulifur, en hrálýsi var notað í hallæri og þótti ekki eins gott. Svo má geta þess að selspik þótti skila góðum árangri. Eftir að klæðin höfðu verið mökuð voru þau samanbrotin og sett undir farg í rúman sólarhring. Eftir það voru þau þurrkuð í tvo þrjá daga. Uppúr 1870 fóru menn að leggja skinnklæðum sínum og með tímanum hurfu þau úr sögunni. Í staðinn komust í tísku olíustakkar og klæði úr öðrum efnum. Í köldum veðrum og vistarverum voru vettlingar ómissandi og tíðkaðist að vermenn kæmu með nokkur pör með sér. Við róður þófnuðu vettlingar eins og svo var kallað og urðu vel rónir vettlingar næsta vatnsheldir. Á höfði í róðri, báru menn hettu en síðar kom hattur til sögunnar. Algengt var að sjóhattar væru innfluttir og framleiddir úr lérefti (Lúðvík Kristjánsson, 1983).
Saga og búseta
Stapinn – Brekka t.v. og Hólmabúð fjær.
Þegar gengið er niður bratta, hlykkjótta götuna niður Brekkuskarðið birtist fyrir augum manns Hólmabúðir. Greinilegt er að hér hefur verið mikið líf og hér hefur eflaust verið veiðistöð um margar aldir, en saga þeirra er nú glötuð. Þó nokkuð er þó vitað um sögu Hólmans síðan 1830-1940, þegar hið svonefnda anlegg rís. Anlegg var það sem menn nefndu salthúsið og fiskitökuhúsið sem P. Chr. Kundtzon lét reisa. (Árni Óla, 1961) Á loftum þessara húsa munu hafa verið bækistöðvar aðkomusjómanna, en sjálfir gerðu þeir sér grjótbyrgi þar sem fiskurinn var saltaður. Saltið fengu þeir aðflutt á skútum á sumrin, á sama tíma og fiskurinn var sóttur.
Stapi – strandaður innrásarprammi.
Á svæðinu er skrokkur af innrásarpramma sem bandamenn smíðuðu til þess að flytja herlið sitt til Frakklands. Þegar komið er út í Hólmann er hann nokkuð stór og hringlaga og þar má finna margar leifar af mannvirkjum fyrri tíma. Fyrst er þar grunnur undan stóru húsi, sem líklega hefur verið fiskitökuhús og íbúðarhús umsjónarmannsins sem þar var. Þetta hús hefur verið um 15 metrar á lengd og breidd. Þar hjá er grunnur undan öðru húsi og þar mun hafa verið salthúsið, sem tók 2000 tunnur af salti. Steinstéttir eru umhverfis þessi hús sem gætu hafa verið nýttar til þess að breiða út fisk.
Brekkuvör – Hólmurinn fjær t.h.
Fremst á Hólminum eru rústir af grjótbyrgjum, þar sem vertíðarmenn hafa saltað fisk sinn. Hefur sjórinn brotið nokkuð af þessum byrgjum niður í gegn um tíðina og ekki er hægt að sjá hve mörg þau hafa verið, en þó standa heillegar tóftir af sumum. Þarna er að finna leifar af miklum grjótgörðum. Tvö svæði á stærð við meðal kálgarð eru þar afgirt með grjótgörðum, sem gætu hafa verið nýtt sem bátaskýli, en þangað höfðu bátar verið dregnir inn í skjól þegar illa viðraði. Þessi rétt eða skýli hafa verið rétt við lendinguna innan á Hólmanum, en síðan var önnur lending utan á honum.
Hólmurinn.
Seinustu útgerðarmenn á svæðinu á meðan anleggið var og hét, voru bændur úr Kjós, af Kjalarnesi, Seltjarnarnesi og úr Reykjavík (Árni Óla, 1961). Það er talið að þeir hafi gert út á 18 bátum á þeim tíma og ef áætlað er að jafnaði séu um sjö menn á hverju skipi verða það 126 manns. Síðan má telja landverkafólk og má ætla að þegar mest var hafi verið þarna á bilinu 140-150 manns (Guðmundur Björgvin Jónsson, 1987)
Hólmurinn.
Þurrabúð rís fyrst í Hólmi árið 1830. Bjarni Hannesson hét sá er þar bjó fyrstur, en hann lést árið 1844. Kona hans, Valgerður Þórðardóttir, giftist síðan Guðmundi Eysteinssyni sem var vinnumaður hjá þeim og bjuggu þau í Hólmabúðum fram til ársins 1848. Það er á þessum tíma sem Knudtzon byrjar að byggja anleggið og leggur hann undir sig Hólmabúðir eftir að Guðmundur fer þaðan. Á þessum tíma tóku kaupmenn að hugsa um að tryggja sér þann mikla fisk sem barst að landi á Suðurnesjunum og greiddu þeir mönnum utan af landi sem vildu gera út á vertíð, en mynd 20 sýnir verstöðvar á suð-vesturlandi.
Hólmurinn.
Vorið 1876 fluttist Stefán Valdimarsson Ottesen í Hólmabúðir og bjó þar til 1882. Þá var mjög farið að draga úr útgerð á svæðinu og árið 1898 tók við Björn Guðnason og var væntanlega seinasti stöðvarstjóri í Hólmi. Seinasti maður sem þar bjó, var Elís Pétursson og var hann þar í aðeins eitt ár, en eftir þann tíma fara engar sögur af stöðinni og munu húsin hafa verið rifin um aldamót, efnið flutt í burtu og eftir stóðu grunnar og hálfhrunin fiskbyrgi. (Guðmundur Björgvin Jónsson, 1987)
Stapinn – Brekkutóftir og Hólmurinn.
Seinasti aðkomumaðurinn, eða útlendingurinn eins og þeir voru kallaðir í Vogum, sem gerði út frá Hólminum var Haraldur Böðvarsson, kaupmaður á Akranesi. Hann eignaðist fyrsta vélbát sinn Höfrung árið 1908 og gerði hann út frá Vestmannaeyjum. Þetta var 8 tonna bátur og Haraldi leist ekki á að gera út þaðan, en taldi hann Hólmabúðir henta vel sem útgerðarstað fyrir sig. Þar var gott lægi fyrir litla vélbáta innan við Hólminn og ef illa viðraði var hægt að draga bátinn á land. Þegar Haraldur flutti var gamla verstöðin komin í eyði fyrir löngu, en þar reisti hann og stundaði útgerð í þrjú ár, en flutti síðan til Sandgerðis.
Brekka undir Stapa; minjar.
Á undirlendinu meðfram Stapanum eru rústir af tveimur býlum sem upphaflega voru þurrabúðir, en urðu að grasbýlum. Annað þeirra hét Brekka sem var reist af Guðmundi Eysteinssyni þegar hann fór frá Hólmabúðum árið 1848 og bjó hann þar fram til 1861. Eftir það voru þó nokkrir ábúendur sem stöldruðu við í stuttan tíma, áður en Guðmundur Jónsson fluttist þangað árið 1869 og bjó þar í 30 ár.
Brekka udir Vogastapa.
Árið 1899 komu þangað hjónin Pétur Jónsson og Guðlaug Andrésdóttir ásamt sex börnum sínum. Pétur bjó í Brekku til dauðadags árið 1916 og ekkja hans bjó þar eitt ár eftir dauða hans, en þá tók tengdasonur hennar Magnús Eyjólfsson við búinu og bjó þar til ársins 1930. Greinilega má sjá vel hlaðinn stofuvegg bæjarins uppistandandi. (Árni Óla, 1961)“
(Brekka fór í eyði 1928 og íbúðarhúsið flutt í Voga.)
Heimild:
-Gunnar Óli Guðjónsson, BS – ritgerð; Maí 2011. Verbúðarsafn við Voga á Vatnsleysuströnd, Umhverfisskipulag – Landbúnaðarháskóli Íslands.
Stapabúð undir Vogastapa.