Krýsuvíkurbjarg

Gengið var niður í Seljabót frá Sýslusteini. Girðing er þar á mörkum Herdísarvíkur og Krýsuvíkur, en þau eru jafnframt sýslumörk Árnessýslu og Gullbringusýslu.

Herdísarvíkursel

Herdísarvíkursel – uppdráttur ÓSÁ.

Við girðinguna eru einnig endamörk Grindavíkurumdæmis að austanverðu. Reyndar mætti deila um staðsetningu markanna, en venjulegast er miðað við línu milli Seljabótanefs og Sýslusteins og þaðan í Kóngsfell (Konungsfell), öðru nafni Stóra Bolla. Eldri girðing liggur á ská til norðausturs í gegnum Herdísarvíkurhraun og í Fálkagilsskarð (Fálkageirsskarð) í Herdísarvíkurfjalli. Austan við girðinguna nefnist hraunið (sem reyndar eru nokkur) Herdísarvíkurhraun, en vestan við hana Krýsuvíkurhraun. Sum vestari hraunanna eru komin úr Edborgum (Litlu og Stóru) undir Geitahlíð, en einnig úr fallegum gígum ofan Geitahlíðar, sbr. hraunið er rann niður Slátturdal, oft nefnt Fjárskjólshraun.
Skömmu áður en komið er niður í Seljabót, suður undir syðstu hraunbrúninni, er Herdísarvíkursel, nokkrar tóftir og stekkur. Nokkur austar með ströndinni má enn sjá móta fyrir a.m.k. einni hlaðinni refagildru, sem minnst hefur verið á í gömlum lýsingum af þessu svæði. Sjórinn er búinn að brjóta aðrar undir sig.

Seljabót

Gerði í Seljabót.

Í Seljabót er hlaðið gerði. Ofan þess er gróinn hóll uppi í brunahrauninu, að hluta til manngerður. Girðingin svo að segja frá honum í beina línu til norðurs, að Sýslusteini. Seljabótanefið er fremst en frá því er fallegt útsýni austur eftir Háabergi, stundum nefnt Herdísarvíkurberg.
Haldið var til vesturs með ströndinni. vel má sjá lagskiptinguna á hinum ýmsu hraunum sem og tegundum hrauna, er runnið hafa þarna í sjó fram. Neðst og næst sjónum eru fallegar hraunæðar og rásir, sem sjórinn hefur hreinsað allt laust ofan af. Ofar er gjallmulningur og ofan á því grágrýti og hraungrýti. Allt myndar þetta hina fallegustu hraun- og litasamsetningu þarna á mörkum lands og sjávar.

Herdísarvíkurbjarg

Á Herdísarvíkurbjargi.

Á einum stað, á örlitlu svæði, eru hraunlistaverk, sem myndu sóma sér vel í hvaða stofu sem væri. Fallegust er þau þarna ofan strandarinnar – þar sem þau urðu til er herra Ægir og frú Hraun runnu saman í eitt.
Víða eru mjóar víkur eða básar inn í ströndina og oftlega opnast fallegt útsýni yfir hluta strandarinnar. Vel grói er ofan strandarinnar. Svo til miðja vegu milli Herdísarvíkur og Krýsuvíkur er hóll er ber hæst í landslagið, sama úr hvorri áttinni er komið. Á hólnum er hlaðin beinakerlning eða skilaboðavarða.
Stórir sjávarhellar eru sums staðar inn undir bergið og gatklettar eru nokkrir. Þrír eru þó tilkomumestir. Skammt vestan og neðanundir beinakerlingunni er feiknafallegur og mikill svelgur, opinn með stórri steinbrú til hafs, ótrúleg náttúrusmíð. Ekki er gott fyrir lofthrædda að standa of nærri brúninni. Skammt vestar er fallegt útsýni vestur með berginu, m.a. gatkletti skammt austan Kefavíkur.

Keflavík

Keflavík.

Vestar er Keflavík. Víkin ber nafn með réttu; stórum keflum hefur skolað þar á land. Stígur liggurniður í víkina, sem er gróinn næst berginu, en utar eru stórt ávalt fjörugrjótið. Vestan við Keflavík má slá leifar af gamla berginu. Ofan á því standa nokkrir gulskófnir steinar (fuglaglæða/húsglæða). Nefnast þeir Geldingar. Af grashól vestan við keflavík, austan Geldinga, er fallegt útsýni austur eftir berginu, m.a. að gatklettinum fyrrnefnda.
Haldið var áfram yfir apalhraunið neðan Klofninga. Ofar í þeim er Arngrímshellir, stundum nefndur Gvendarhellir.

Keflavík

Keflavík – gatklettur.

Gengið var niður undir gamla bergið neðan Krýsuvíkurhellis. Þar sést vel hvernig hraunið hefur runnið niður af berginu og fram af því, en skilið hluta þess eftir sem fagurt sýnishorn af því sem var.
Skammt vestar eru Bergsendar, grasi grónir. Af þeim er einn fallegasti útsýnisstaðurinn vestur eftir Krýsuvíkurbjargi, háu og tilkomumiklu. Gengið var upp eftir fjárhólfsgirðingunni ofan Bergsenda og að réttinni undir Stóru Eldborg.
Frábært veður – sól og hiti. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Krýsuvíkurbjarg

Á Krýsuvíkurbjargi.

Reykjanes

Sagt er að ysti hluti Suðvesturkjálkans nefnist Reykjanes, þ.e. svæðið vestan línu er dregin er á milli Stóru-Sandvíkur í norðri og Sandvíkur í suðri.

Reykjanesviti

Reykjanesviti.

Allt er svæðið mjög eldbrunnið og sundurskorið af gjám, enda snautt að gróðri. Eldfjöll eru þar mörg en öll fremur lág. Þau eru einkum tvenns konar, hraundyngjur, s.s. Skálafell og Háleyjarbunga og gossprungur eða gígaraðir s.s. Stampar og Eldvörp. Gígaraðir tvær eru miklum mun yngri en dyngjurnar og sennilega orðnar til á sögulegum tíma. Nokkuð er og um móbergsfjöll þarna og ber einna mest á Sýrfelli. Utan í því er fallegur gígur, Hreiðrið (Stampur)
Mikill jarðhiti er víða á Reykjanesskaganum. Reykjanestáin er þar ekki undanskilin. Á Reykjanestánni er mikið hverasvæði, leirhverir og vatnshverir. Allt er land þar sundurtætt af jarðeldum, gígum, leirpittum, gufuhverum o.fl. Stærsti leirhverinn heitir Gunna. Um þann hver er til sú þjóðsaga að kona ein, sem Guðrún hét hafi gengið aftur. Lék hún menn grátt, reið húsum og fældi fénað. Lokst var galdraprestur nokkur fenginn til koma draugnum fyrir og gerði hann það í Gunnu.

Reykjanesviti

Reykjanesvitinn á Valahnúk.

Viti er á Reykjanesi, sá fyrsti sem byggður var á Íslandi árið 1879, Hann var reistur upp á Valahnúk, en 8 eða 9 árum seinna gerði mikla jarðskjálfta og komur þá þrjár stórar sprungur skammt frá honum, bær vitavarðarins skemmdist og enn meira rask varð á jörðu og mannvirkjum. Var vitinn endurbyggður þar sem hann er nú á árunum 1907-1908. Hann stendur í 78 m.y.s.
Reykjanesinu er gjarnan skipt í 4 eða 5 eldstöðvakerfi, Reykjanes-Grindavík-Vogar (oft talið sem tvö kerfi), Krýsuvík-Trölladyngja, Brennisteinsfjöll-Bláfjöll og Hengill-Selvogur. Hliðrunarbelti með austur-vestur stefnu í gegnum þessi kerfi veldur tíðum jarðskjálftum á Reykjanesi og á því hafa myndazt háhitasvæði á yfirborði, s.s. á Reykjanesi, í Eldvörpum, í Svartsengi, í Krýsuvík og í Brennisteinsfjöllum. Eldstöðvakerfin hafa öll skilað blágrýti (þóleiískt berg) til yfirborðsins á nútíma nema Hengilssvæðið. Píkrít er að finna í gömlu og minni dyngjunum á svæðinu en ólivínþóleit í hinum yngri og stærri. Fjöldi dyngnanna frá nútíma er u.þ.b. 30 og gossprungur eru í tugatali. U.þ.b. 52% Reykjanesskagans (mælt úr botni Kollafjarðar til Þorlákshafnar) er þakinn hraunum, sem runnu eftir síðasta skeið ísaldar (43 km²). Flest fjöll, t.d. Keilir, eru úr móbergi frá síðasta kuldaskeiði.

Háleyjarbunga

Háleyjarbunga.

Reykjanes er yzti hluti Suðurnesja. Þar eru mikil ummerki eldvirkni og vart sést þar stingandi strá. Mest ber á dyngjum, s.s. Háleyjarbungu og Skálafelli, og gossprungum eða gígaröðum, sem eru mun yngri en dyngjurnar og hafa að öllum líkindum myndast á sögulegum tímum. Jarðhiti er mikill á skaganum, ekki færri en fimm háhitasvæði. Eitt þeirra er á Reykjanesi, þar sem sjá má leir- og vatnshveri. Stærsti leirhverinn heitir Gunna. Guðrún var ódæll draugur, sem olli usla. Galdraprestur var fenginn til að koma henni fyrir í hvernum. Rétt þar hjá er saltvinnsla og fiskþurrkun og þar mun líklega rísa magnesíumverksmiðja í framtíðinni. Árið 2003 var hafin bygging stórs varmaorkuvers á Reykjanesi í tengslum við stækkun Norðuráls á Grundartanga við Hvalfjörð.

Reykjanesviti

Reykjanesvitinn fyrri.

Fyrsti viti landsins var reistur uppi á Valahnjúki árið 1878. Árið 1887 ollu jarðskjálftar miklu hruni úr hnjúknum, þannig að nýr viti var reistur á árunum 1907-08, þar sem hann stendur enn þá 73 m yfir sjó. Skammt undan Reykjanestá er 52 m hár drangur í sjónum. Hann heitir Karl. Utar sést til Eldeyjar í góðu skyggni. Hún er 77 m há og á henni er mesta súlubyggð í heimi, u.þ.b. 70 þúsund fuglar. Eldey hefur oft verið klifin, en til þess þarf sérstakt leyfi, þar sem hún er á náttúruverndarskrá. Á Eldeyjarsvæðinu hefur líklega gosið a.m.k. 10 sinnum og þrisvar hafa orðið til eyjar, sem hurfu nokkurn veginn jafnskjótt og þær urðu til.
Gengið var frá Gunnuhver, suðurmeð austanverðu Skálafelli og niður á Krossavíkurbjarg, öðru nafni Hrafnkelsstaðaberg. Bergið er 10 – 40 metra hátt. Undir því fórst bátur í marsmánuði 1916 með 10 eða 11 manna áhöfn. Skipshöfnin komst í land, að sagan segir fyrir dugnað Kristjáns Jónssonar frá Efri-grund, sem hélt skipinu föstu í klettunum meðan skipshöfnin var að komast úr því. Skipið dróst síðan út og brotnaði. Undir berginu eru Skemmur – básar inn undir bergið á kafla. Eitt mesta björgunarafrek, sem unnið hefur verið undan ströndum landsins, var unnið þarna fyrir utan er kútter Ester frá Reykjavík bjargaði áhöfnum fjögurra báta, eða 40 manns. Undir berginu þarna stendur bergstandur úti í sjó, líklega leifar af steinboga. Heill og stór steinbogi er í borginni skammt vestar og sést hann vel þegar staðið er inni á bjargbrúninni.

Reykjanes

Litliviti.

Nýjasti Reykjanesvitinn, stundum nefndur Litli viti, er á Tánni. Hann er staðsettur þarna vegna þess að stóri vitinn á reykjanesi er í hvarfi við Skálafellið á kafla nokkuð austur í grindavíkursjó. Vestan við hann er Blásíðubás. Í óverðinu í mars 1916, mestu hrakningum í sjóferðasögu grindavíkur, bjargaðist einn bátanna upp í básinn og áhöfnin bjargaðist. Blásíðubás er stærstur básanna við Grindavíkurstrendur og einn sá fallegasti. Vitað er að þrisvar hafi skipshafnir lent og bjargast þar á síðustu stundu frá því að lenda í Reykjanesröstinni og sogast þannig til hafs.

Valbjargargjá

Valbjargargjá.

Áður en komið er út að Valbjargargjá mótar fyrir bás. Ofan við hann er varða. Þarna varð eitt af stærstu sjóslysum, sem orðið hafa á þessum slóðum, þegar olíuskipið Clam strandaði og 27 menn drukknuðu. Eitthvert ofboð hljóp í skipshöfnina eftir að skipið strandaði. Björgunarbátar voru settir út í brimið, en það velti þeim á svipstundu. Ekki voru nema 20-30 metrar í land. Þremur mönnum skolaði lifandi á land. Þegar björgunarsveitin úr Grindavík kom á vettvang voru enn 24 menn um borð í skipinu. var þeim öllum bjargar á línu milli skips og lands.

Valahnúkur

Valahnúkar og Valahnúkamöl.

Valahnúkamölin er fyrsta örnefnið í Grindavíkurlandi vestan megin. Þar eru landamegi Hafna, eða Kalmanstjarnar í Höfnum og Staðar í Grindavík. Mörkin hafa ekki verið krýsulaus. Hafnamenn nefndu t.d. básinn ausanvið Valbjargargjá Kirkjuvogsbás, svona til að koma Hafnalandinu örlítið austar, en Grindvíkingar hafa ekki sætt sig við það.
Fallegt útsýni er af berginu yfir að Valahnúk. Draugshellirinn í miðjum hnúknum sést vel, efst í grasbrekku. Við hann eru tengdar rammar draugasögur (sjá Rauðskinnu).

Reykjanes - sundlaug

Sundlaugin á Reykjanesi.

Gengið var vestur eftir Valahnúksmölum og niður að Keldutjörn. Reykjanesvitinn speglaðist fagurlega í vatninu. Vestan við tjörnina eru hleðslur eftir hina gömlu sundlaug Grindvíkinga, en í gjánni innan þeirra lærðu margir Grindjánar að synda á fyrri hluta 20. aldar. Líklega hefur verið hitavermsl í gjánni þótt hún sé nú kulnuð.
Gengið var vestur að flóruðum stíg er lá á milli Valahnúks, þar sem fyrsti vitinn hér á landi var reistur, og vitavarðarhússins. Vestan við Valahnúk er lægð í hellulandið. Í henni er flóraður vegur niður undir helluna. Þangað var efnið í gamla vitann og vitavarðahúsið m.a. sótt. Leifar gamla vitans liggja undir Valahnúk og bíða endurnýjun lífdaga. Það voru danskir er höfðu hönd í bagga við byggingna á sínum tíma sem og gerð brunnsins í túninu neðan við Bæjarfell.

Karl

Karlinn.

Karlinn stendur teinréttur utan við ströndina, 52 m hár móbergsdrangu. Eldey ber í sjónarrönd.
Reykjanesið, svonefnda, býður upp á ótrúlega mikla útivistarmöguleika. Minjasvæðið tengt vitagerð nær frá Kistu að Hrafnkelsstaðarbergi. Þar má sjá grunn gamla sjóhússins, lendinguna neðan þess, gerði, stíg, flóraðagötu niður að sjó vestan Valahnúks, flóraðan stíg milli hans og vitavarðahússins gamla, brunninn undir Bæjarfelli, leifar gamla vitans undir Valahnúk, vitann á Vatnsfelli og Litla vita á Reykjanestá svo eitthvað sé nefnt.

Reeykjanes

Dásemdir Reykjanesskagans má í dag finna víða, þökk sé jarðvánni….

Berg- og jarðmyndarfræðin (sköpunarsagan) eru þarna allt um kring, fugla- og gróðurlíf er með fjölbreyttara móti, auk þess sem landslagið er bæði hrikalagt og fagurt í senn. Og ekki skemmir fyrir að svæðið er einungis spölkorn frá Stór-Hafnarfjarðarsvæðinu (Grindvíkingar gætu hæglega gengið þangað líkt og í sundlaugina fyrrum).
Frábært veður – sól og afar hlýtt – Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Heimildir:
-natmus.is
o-Frá Suðurnesjum – frásagnir frá liðinni tíð – Frá Valahnúk til Seljabótar eftir Guðstein Einarsson – 1960.

Reykjanes

Við Reykjanesvita – uppdráttur ÓSÁ.

Grindavík

FERLIR  hefur nú (2023) endurnýjað þrjú af átta sögu- og minjaskiltum Grindavíkur með stuðningi bæjaryfirvalda.

Grindavík

Grindavík – gamla skiltið við Járngerðarastaði.

Skiltin eru við Járngerðarstaði (sögusvið Tyrkjaránsins), Hóp og í Þórkötlustaðahverfi og eru til viðbótar þeim tveimur, sem endurnýjuð voru á síðasta ári (2022), þ.e. við gömlu kirkjuna og ofan við bryggjuna á Þórkötlustaðanesi. Skiltin voru orðin 12 ára gömul og höfðu látið verulega á sjá vegna ágangs ljóss, veðurs og vinda. Illlæsileg skilti eru engum til ánægju og því nauðsynlegt að viðhalda þeim eftir þörfum.

Grindavík

Grindavík – endurnýjað skilti við Járngerðarstaði.

Örnefna- og minjaskiltunum er ætlað að vera bæjarbúum og gestum þeirra til fróðleiks um þeirra næsta mjög svo áhugaverða umhverfi. Gerð þeirra var upphaflega styrkt af Grindavíkurbæ, Saltfiskssetri Íslands og Pokasjóði. FERLIR gaf alla vinnu við undirbúning og gerð þeirra. Vonir standa til að hægt verði að endurnýja þau þrjú skilti er eftir eru, þ.e. á Holuhól í Staðarhverfi, á Gerðarvöllum og við Hraun, næsta vor.

Sjá umfjöllun um endurnýjun fyrstu tveggja skiltanna HÉR.

Grindavík

Grindavík – Örnefna- og minjaskiltið við Járngerðarstaði.

Ytri-Njarðvík

Í Skýrslu Reykjanesbæjar um “Breytingu á deiliskipulagi í Innri-Njarðvík v/kirkjugarð og Thorkellinsgarð” árið 2020 má m.a. lesa eftirfarandi sögulegt ágrip Njarðvíkna sem og sögu Innri-Njarðvíkurkirkju.

Sögulegt ágrip

Njarðvík

Njarðvík – Áki Grenz.

Í ritgerð sinni Guðir og goð í Örnefnum skoðar Helgi Biering Þjóðfræðingur meðal annar Njarðar forskeytið í örnefnum á Íslandi. Þar segi hann meðal annars um Njarðvíkurnar.
Ekki er mikið um Njarðar forskeyti í örnefnum á Íslandi en þó eru tvær Njarðvíkur og svo skemmtilega vill til að þær eru á sitthvorum enda landsins. Önnur þeirra er á suðvesturhorni landsins en hin er á norðaustur horninu.

Njarðvík

Njarðvík – Áki Grenz.

Sú sem er á Suðvesturhorninu er ekki stór landfræðilega heldur einungis lítil vík sem gengur inn úr Staksvík í Faxaflóa og er sá hluti víkurinnar sem er við svokallaðar Njarðvíkurfitjar, eða Fitjarnar eins og þær eru nefndar í daglegu tali. Hún er í landnámi Steinunnar gömlu en samt er líklegt að nafnið á víkinni hafi verið komið fyrir hennar tíð. Þó er áhugaverð kenning í Bókinni Saga Njarðvíkur þar sem haft er eftir Þórhalli Vilhjálmssyni, sem gegndi starfi forstöðumanns Örnefnastofnunar Þjóðminjasafnsins þegar bókin var gefin út, að nafnið tengist ekki átrúnaði á Njörð né heldur séu sambærileg heiti í Noregi kennd við goðið.

Njarðvík

Njarðvík – Áki Grenz.

Heldur snúist örnefnið um það að upphaflega hafi þær haft forliðinn “nær” í merkingunni “nærri”. Hann vill meina að Njarðvík á Suðurnesjum heiti svo vegna þess að hún er næsta vík við landnámsjörðina Kvíguvoga, en Njarðvík eystri í N-Múlasýslu beri sitt heiti vegna þess að hún er í næsta nágrenni við Fljótsdalshérað. Ritari ætlar ekki að leggja neinn dóm á það er hitt gæti allt eins verið rétt að nafnið komi af tilbeiðslu við Njörð sem sjávarguð og þá getur Njarðvík vel passa við að vera til marks um góða lendingarstaði og nefnd Njarðvík Nirði til heiðurs.

Njarðvík

Frá Njarðvík.

Það gæti vel passað við Njarðvíkurfitjar þar sem þar er mjúk og sendin strönd með grýttar- og klettastrandir í báðar áttir. Þegar skoðað er kort og myndir af Njarðvík sést hve þar er góð lending fyrir skip eins og Knerri og langskip landnámsmanna voru. Tvennt er sameiginlegt með þeim syðri og eystri, annarsvegar eru báðar með sendinn botn og góðar strendur til að lenda skipi á þannig að lágmarks hætta er á að skemmdir á skipi tefji för, slæmar lendingar á báðar hendur með klettum og skerjum. Og báðar eru sennilega lausar við mjög krappa öldur eða brim inni í botni þar sem þær eru báðar grónar alveg niður í fjöru.

Njarðvík

Innri-Njarðvík – Stekkjakot og Víkingasafnið.

Fram til 1889 var Njarðvík hluti Vatnsleysustrandahrepps, en varð þá sjálfstætt sveitarfélag. En það hafði verið staðfest með dómi árið 1596. Árið 1908 var Njarðvíkurhreppur sameinaður Keflavíkurkauptúni, enda var þar hluti verslunarlóðar Keflavíkur innan Njarðvíkurhrepps. Njarðvík var áður skipt í Innri- og Ytri Njarðvík, sem seinna mynduðu eitt sveitarfélag.
Njarðvíkurnar fengu þá sjálfkrafa verslunarréttindi og hreppurinn fékk nafnið Keflavíkurhreppur. Árið 1942 var hreppunum skipt og Njarðvík varð aftur sjálfstætt sveitarfélag.

Njarðvík

Kot í Innri-Njarðvík.

Heldur er það rýrt sem fjallar um það landsvæði sem Njarðvíkurnar tilheyra í Landnámu. Og í raun er það eingöngu um það að Ingólfur hafi gefið Steinunni gömlu landsvæði og hvernig hún deildi því niður á sitt fólk. „Steinuður hin gamla, frændkona Ingólfs, fór til Íslands og var með Ingólfi hinn fyrsta vetur. Hann bauð að gefa henni Rosmhvalanes allt fyrir utan Hvassahraun, Borgaði hún honum fyrir með “heklu flekkótta enska og vildi kaup kalla; henni þótti það óhættara við riftingum.” Úr Landnámabók, merkir að hún vildi ekki fá landið að gjöf heldur borgaði fyrir líklega með enskri flík, með því vildi hún tryggja eignarhald sitt ef Ingólfi eða erfingjum hans myndi snúast hugur. Eyvindur hét maður, frændi Steinunnar og fóstri; honum gaf hún land milli Kvíguvogabjarga og Hvassahrauns.“

Njarðvíkur

Njarðvíkur um 1910.

Landnámsmenn hafa siglt hingað á knörrum sem ekki hafa hentað til fiskveiða, of stór og þurftu góð hafnarskilyrði, minni bátar voru meðfærilegri og auðveldara til dæmis að draga þá á land milli róðra í vörum. Reyndar voru fiskibátarnir sumir hverjir töluverð fley, gott dæmi um þessi stærri skip er hákarlaskipið Ófeigur sem varðveittur er á Byggðasafninu á Reykjum. Í Eiríkssögu rauða er sagt frá ferðum Eiríks og fleiri landnámsmanna til Grænlands og áfram til Vínlands og Íslands.

Víkingar

Víkingaskip – knerrir í legu.

Knerrin voru farskip landsmanna svo lengi sem þeir entust, en ólíklegt er að í landnemahópnum hafi ekki verið menn sem kunnu til skipasmíða. Þeir hafa fljótlega tekið til við að gera heppilega báta til fiskveita við landið, og sterk rök benda til þess að þegar á söguöld – 985, þegar Eiríkur rauði og fleiri Vestlendingar lögðu í landnámsferð til Grænlands – hafi verið komin fram sú gerð fiskibáta sem notuð var víða um land allt fram á þessa öld (20. öld) og hákarlabáturinn Ófeigur sem smíðaður var 1875 og enn er varðveittur þykir góður fulltrúi fyrir.

Ytri-Njarðvík

Ytri-Njarðvík – túnakort 1919.

Landnemarnir voru járnaldarmenn ritaði Kristján Eldjárn, fólk sem byggði verkmenningu sína á víðtækri notkun járns og mikilli leikni í meðferð þess innan þeirra takmarka sem algjör skortur á vélmenningu setti. Lágt tæknistig hefur hins vegar áreiðanlega valdið því að þorri fólks hefur þurft að eyða megninu af tíma sínum til að afla sér fæðis og klæða. Þar hefur verið í mörgu að snúast því hvert heimili þurfti að afla allra sinna fanga sjálft og sjálfsþurftarsamfélagið var afar háð árstíðabreytingum. Allt árið þurfti að sinna skepnum, að vetrarlagi var stunduð tógvinna, þá var gripið til enn fornaldarlegra tækja, halasnældu og kljásteinavefstól, hvorutveggja frá steinöld. Að sumarlagi þurfti að sinna kornyrkju og líklega hafa menn heyjað, lítilsháttar, en treyst á útibeit. Veiðar stundaðar allt árið, fugl, fiskur og selur. Þá var berjum, sölvum og öðrum jarðargróðri verið safnað.

Innri-Njarðvík

Stapakot – túnakort.

Mikilvægt var að einhver á heimilinu kynni til allra verka, hvort sem var við matseld, klæðagerð, smíðar hverskonar, húsbyggingar, umönnun búfjár o.s.frv. í þessu felst hugtakið sjálfsþurftarbúskapur. Eitthvað þurfti þó alltaf að kaupa að, til dæmis efni eins og góðan við og járn. Treysta varð á innflutning járns, þótt menn hafi reynt að vinna járn úr mýrarrauða þá var það ekki gerlegt nema fyrstu aldirnar, verkþekkingu þurfti og síðan töluverðan skóg til viðarkolagerðar, hvorutveggja minnkaði eftir því sem leið á. Í upphafi var Ísland viði vaxið eins og Ari fróði sagði en ólíklegt má telja að viðurinn hafi alls staðar verið nægilega góður til hús- og skipasmíða. Þá kom til góða, rekafjörur, sem sést að þær hafa verið mjög eftirsóttar, rekinn hins vegar dugði ekki og flutti því landinn inn við. Þannig gerði landlægur efnisskortur á þessum grundvallarþætti húsagerðar og skipasmíða.

Njarðvíkur

Njarðvíkur – Áki Grenz.

Búsetu á jörðinni Njarðvík er fyrst getið á 13. öld. Svo virðist sem 25 jarðir hafa verið í byggð á 13. öld í Rosmhvalaneshreppi og í Vatnsleysustrandarhreppi teljast 19 jarðir örugglega hafa verið byggðar á 13. öld. Alls er talið að sæmileg vitnesja sé um 54 býli á Suðurnesjum á 13. öld en í lok 16 aldar voru þau orðin 65 talsins.
Ályktað hefur verið að byggð hafi verið að þéttast hér á 12. og 13. öld með vaxandi hjáleigu– og kotbúskap og ennfremur hefur verið bent á að hjáleigur hafi flestar verið í fiskveiðihéruðunum sunnanlands og megi því tengja fjöldun þeirra viðleiti til að lifa af sjávarfangi.
Fram til þessa hafa fræðimenn flestir verið þeirrar skoðunar að útflutningur skreiðar frá Íslandi til Noregs hafi komist á um 1330 og valdið því að fleiri tóku að stunda sjósókn en áður hafði tíðkast.”
Framhaldið um sjálfsþurftarbúskapinn þekkja meðvitaðir. Minjar um hann er víða að finna, ef vel er að gáð…

Heimild:
-Reykjanesbær, Innri-Njarðvík, Kirkjugarður og Thorkellinsgarður – Breyting á deiliskipulagi. Húsakönnun 2020.

Innri-Njarðvík

Innri-Njarðvík – loftmynd 1954.

Þingvallavegur

Forn leið frá Reykjavík til Þingvalla lá m.a. um Seljadal. Sjá má endurbætur á henni við Kambhól þar sem vegurinn liggur í gegnum Kambsréttina. Þar er hlaðið í vegkantinn. Gamli Þingvallvegurinn svonefndi lá hins vegar sunnar og vestar á Mosfellsheiði. Við hann er er margt að skoða, auk þess sem vegurinn er ágætt dæmi um vandaða vegagerð þess tíma.

Þingvallavegur

Nýi Þingvallavegur – brú.

Nýi Þingvallavegurinn var lagður fyrir Alþingishátíðina á Þingvöllum árið 1930. Þar sem gamli vegurinn mætir þeim nýja að austanverðu , skammt vestan við vegamótin, er mikil lægð í heiðinni og blautar mýrar. Þetta er Vilborgarkelda. Örnefnið er ævafornt, að líkindum frá þjóðveldisöld. Ekki er vitað við hvaða Vilborgu þetta keldusvæði er kennt.
Gamli Þingvallavegurinn, sem liggur áfram yfir háheiðina, var lagður á árunum 1890-96. Byrjað var á honum af Suðurlandsvegi við Geitháls. Vegalagningin miðaðist þá að sjálfsögðu við umferð hestvagna og ríðandi fólks.

Þingvallavegur

Gamli Þingvallavegurinn – ræsi og varða framundan.

Vegurinn var lagður nær á sömu slóðum sem hinar fornu ferðamannaslóðir lágu um, en þó ívið sunnar eins og fyrr sagði. Eftir lagningu hans beindist nær öll umferð um heiðina að þessum vegi. Vörður voru hlaðnar við hann á allri heiðinni til leiðbeiningar ferðamönnum. Byggt var nýtt sæluhús við veginn í stað gamla hússins, sem stóð talsvert austar og norðar, á sýslumörkunum. Talsverðar endurbætur voru gerðar á þessum vegi vegna konungskomunnar 1907. Sumarið 1913 var í fyrsta sinn ekið bifreið eftir þessum vegi til Þingvalla og var notast við hann sem bílveg eftir það í hálfan annan áratug.

Gamli Þingvallavegurinn er ekki síst áhugaverður vegna vinnubragða þeirra manna, sem fyrstir ruddu brautir og lögðu vegi milli héraða með handverkfærum einum, skóflu og haka, járnkarli og handbörum. Enn vottar fyrir leifum af hellurennum, hlöðnum brúarstöplum og fallega hlöðnum vörðum sem vísuðu veginn þegar ekki sást í dökkan díl. Vegalengdin frá Krókatjörn þar sem gamli leiðin kemur inn á götuna ofan við Langavatn um Miðdal og austur að beygjunni á nýja Þingvallaveginum er um 20 km. Leiðin er u.þ.b. hálfnuð er komið er á Háamel.

Mosfellsheiði

Sæluhúsið við Gamla-Þingvallaveginn.

Minjar gamla sæluhússins eru þar sem skerast markalínur sýslanna og hreppamörk Mosfells-, Grafnings- og Þingvallahrepps. Tóft nýrra sæluhússins er norðan vegarins. Það var hlaðið úr tilhöggnu grjóti. Sagt hefur verið að þar hafi verið reimt og til af því sögur. Tveimur kílómetrum austan þess eru fornar steinbrýr á veginum, nefnd Loft.

Þingvallavegur

Brú á Gamla Þingvallaveginum.

Þegar haldið var austur eftir Gamla-Þingvallaveginum sást vel hversu mikið mannvirki hann hefur verið á sínum tíma, bæði beinn og breiður. Púkkað er svo til í allan veginn og jafnvel hlaðið í kanta. Nú er yfirborðið fokið út í veður og vind, en eftir stendur undirlagið og frostupphleyft grágrýti er torveldar leiðina. Fallega hlaðin ræsi eru mörg á veginum og er ótrúlegt að sjá hversu stóra steina mönnum hefur tekist að forfæra við gerð þeirra. Ræsin á veginum eru tvenns konar; annars vegar hlaðnar rásir með þykkum og þungum hellum og hins vegar “púkkrás” þvert í gegnum veginn.

Gamli Þingvallavegur

Gamli Þingvallavegurinn.

Vestan við Háamel er fallega hlaðin brú. Lækjarfarvegurinn undir brúnni hefur verið flóraður. Brúarendarnir eru listasmíð, steinarnir nákvæmlega felldir saman og ofan á brúnni beggja vegna hvíla brúarsteinarnir. Í þá hefur verið festur teinn og væntanlega hefur keðja verið strengd á milli þeirra.
Efst á Háamel kemur gamla leiðin ofan úr Seljadal og Leirdal saman við nýju götuna. Gamla leiðin er vel vörðuð yfir Háamelin og áfram austur. Hún heldur áfram yfir melinn, en kemur inn á nýju götuna skammt austar. Skammt frá mótunum er há heil varða, gerð úr stóreflis bjargi. Það hvílir á hveimur “fótsteinum”, en ofan á “búknum” hvílir “höfuð” með “nefi” er bendir vegfarendum rétta leið við stíginn. Austan vörðunnar er gatan flóruð í kantinn annars vegar.

Seljadalur

Seljadalur – brú á Seljadalsvegi.

Haldið var til baka og nú um Seljadalsleið. Við hana sést gamli stígurinn (eldri þjóðleiðin til Þingvalla) víða þar sem hún liggur í hlykkjum upp úr dalnum, upp með Hrafnagjá og áfram austur. Vestan við Kambshól sést gatan vel þar sem hún hlykkjast um landslagið. Neðan þverdalsins, þars em Nessel er, er nokkurt mannvirki; landbrú yfir mýrlendi. Þetta hefur verið mikið mannvirki á sínum tíma, en er nú sem minnismerki um löngu liðnar ferðir margra á merkisstað.

Frábært veður – sól og hiti. Ferðin tók 5 klst og 5 mín.

Efni m.a. úr Árbók FÍ – 1985.
Einnig úr Áfangar, ferðahandbók – 1986.

Thingvallavegur gamli - 217

Gamli Þingvallavegur – ræsi.

Landakot

Landakot er jörð í Vatnsleysustrandarhreppi. Á jörðinni leynast í dag tóftir tveggja annarra býla; Landa og Götu.

LandakotÍ “Aðalskráningu fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrslu I” frá árinu 2011 segir m.a. um Landakot:
“1584: Landskuld jarðarinnar til Viðeyjarklausturs 3 vættir fiska. Árni Óla: Strönd og Vogar, 26. Guðmundur [Björgvin] Jónsson segir þetta býli hafa verið
höfuðból Vatnsleysustrandarhrepps á árunum 1830-1930.
Gata var tómthús milli Landakots og Þórustaða í Landakotslandi.
Niður við sjó var býlið Lönd. Ö-Landakot GS, 2.
1793: Hálflenda, jarðadýrleiki óviss 1703, konungseign. JÁM III, 139-140. “Túnin fordjarfast stórum af sandi og sjáfargángi allareiðu til þriðjúngs. Engjar eru öngvar.” JÁM III, 140.
1919: Tún 4,7 teigar, garðar 1620m2.

LandakotÍ bókinni Mannlíf og mannvirki eftir Guðmund Jónsson segir: “Einnig byggði hann [Guðmundur Brandsson bóndi í Landakoti] nýtt íbúðarhús í Landakoti um 1883-4 á líkum tíma og aðrir hér í hreppi byggðu úr James-Town strandinu í Höfnum.” “Núverandi íbúðarhús var byggt 1925-27 norðan við grunn eldra húss, sem rifið var. Standa nú tröppur þess húss einar eftir, og mótar fyrir grunnir,” segir í örnefnaskrá. Heimildum ber ekki saman um byggingarár núverandi íbúðarhúss; í bók Guðmundar Jónssonar, Mannlíf og mannvirki, segir að steinhúsið hafi verið byggð um 1921-22. Húsið sem byggt var á árunum 1883-4 er það hús sem sýnt er á túnakorti frá 1919 en samtengt því var annað hús sem stóð fast austan við það og er mynd af báðum húsum í bókinni Mannlíf og mannvirki. Bærinn er í miðju túni sem nýtt er til beitar. Í túninu eru klappir sem eru að mestu grónir hólar.

Landakot

Landakot 2022.

Ekki er eiginlegur bæjarhóll sýnilegur í Landakoti. Núverandi íbúðarhús og áfast fjós eru fast austan við húsið sem byggt var 1883-4 og hafa líklega raskað bæjarhólnum en óvíst er hversu umfangsmikill hann var ef hann hefur náð að myndast. Kjallari, um 1 m djúpur, er undir húsinu. Enn sjást leifar af húsgrunni gamla hússins frá 1883-4 en hann er um 4×8 m að stærð, þar hann sem sést, og er múr eða sementslím í hleðslum sem eru um 0,5 m á hæð. Steyptar tröppur eru upp á grunninn á vesturhlið en grunnurinn snýr norður-suður. Í framhaldi af húsgrunninum til suðurs eru hleðslur úr kálgarði sem sýndur er á túnakorti frá 1919.

Landakot

Gata.

“Neðan við Landakotsbæinn eru tættur eftir býlið Götu og niður við sjó var býlið Lönd,” segir í örnefnaskrá GS. “Í austur hallaði Bakkanum í aflíðandi brekku á áttina að tóftum býlisins Götu. Milli Götu og Þórustaðagirðingar var túnið þýft og grýtt,” segir í örnefnaskrá. Í bók Guðmundar Jónssonar, Mannlíf og mannvirki, segir: “Gata var tómthús milli Landakots og Þórustaða í Landakotslandi […] mun bærinn hafa aflagst nokkru eftir aldamót.” Gata er um 115 m norðaustan við bæ. Býlið er í hæðóttu túni. Tvískipt tóft og kálgarður tilheyra býlinu.

Landakot

Gata.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703 segir: “Lönd, eyðihjáleiga, hefur í eyði legið í fjegur ár. … Grasnautnina brúkar nú heimabóndinn og þykist ei missa mega að skaðlausu.” “Neðan við Landakotsbæinn eru tættur eftir býlið Götu og niður við sjó var býlið Lönd,” segir í örnefnaskrá GS. ” Óvíst er hvar býli þetta hefur verið en það kann að hafa verið í horni því sem keypt var úr landi Auðna, í norðvesturhorni jarðarinnar, um 115 m norðvestan við bæ. Ekki er ljóst hvenær sú landspilda var keypt úr landi Auðna en það hefur verið áður en landamerkjalýsing var gerð fyrir jarðirnar 1886. Líklegast hefur býlið Lönd verið í túni í norðvesturhorni jarðarinnar niður við sjó. Ekki sjást önnur ummerki um býlið Lönd á þessum stað. Mögulega eru minjarnar sem skráðar eru þar reistar á rústum býlisins en ekki er hægt að slá neinu föstu um það nema með ítarlegri rannsókn.

Landakot

Gata.

Íbúðarhúsið í Landakoti stendur í Landakotstúni sunnanverðu, nær Auðnum og Bergskoti en Þórustöðum. Núverandi íbúðarhús var byggt 1925-27 norðan við grunn eldra húss, sem rifið var. Standa nú tröppur þess húss einar eftir, og mótar fyrir grunni. Þetta hús, sem nú er búið í, byggðu Sveinn og Geir Pálssynir. Bjó Sveinn þá í Landakoti, en fluttist síðar að Hábæ í Vogum og rak þar verzlun. Árið 1927 fluttist að Landakoti Guðni Einarsson. Hann kom frá Haga í Holtum í Rangárvallasýslu og hafði haft nokkurra mánaða búsetu í Reykjavík, áður en hann fluttist að Landakoti. Árið 1928 kvæntist hann Guðríði Andrésdóttur, er alin var upp á Þórustöðum á Vatnsleysuströnd og hafði aldrei þaðan farið. Þau bjuggu allan sinn búskap í Landakoti. Síðan 1958 hafa búið í Landakoti tveir synir Guðna, fyrst Eyjólfur, síðan Jón, sem enn hefur ábúð á jörðinni, þegar þetta er ritað (1977).

Landakot

Landakot með yfirlögðu túnakorti frá 1919.

Brunnurinn, sem notaður var, er út undan tjörninni, rétt norðan sjávargötunnar. Sá brunnur er a. m. k. 50 ára, byrgður, og vatn leitt úr honum í íbúðarhúsið um 80-100 m veg. Vitum við ekki, hvort þar kann að hafa verið eldri brunnur endurbyggður, þegar vatn var leitt í bæinn.
Útræði hefur alltaf verið gott frá Landakoti. Þrjár varir hafa verið þar, Suðurvör, Miðvör og Norðurvör, og er Miðvörin enn notuð. Lendingarskilyrði eru þarna góð frá náttúrunnar hendi og gott smábátalægi á sundinu fyrir utan varirnar. Þar má leggja stærri trillum. Innsigling er þægileg. Tvö sundmerki eru, sundvarða á sjávargarðinum norðan til og önnur á hól í heiðinni, skammt frá þjóðveginum eldri. Á báðar að bera saman og í miðjan Keili, þegar inn er siglt. Á sjávarkambinum ofan við varirnar voru þau mannvirki, sem þurfti til árabátaútgerðar fyrri tíma. Þar var naust, skiparétt, hjallur og söltunarhús. Hjallurinn var áfastur við söltunarhúsið og sneri dyrum til sjávar. Á lofti yfir báðum var veiðarfærageymsla.
Handsnúið spil var norðan við hjallinn og bátar settir á hvalbeinum eins hátt upp í uppsátrið og þurfa þótti til að verja þá sjógangi. Milli Miðvarar og Norðurvarar var lág klöpp, kölluð Hausaklöpp. Þar var gert að og hertir þorskhausar. Slorfor var gryfja lítið eitt ofan við uppsátrið. Þangað fór slorið á vertíðinni, en síðan í áburð á túnið. Fé var beitt í fjöru. Flæðihætta er, og var rekið upp úr fjörunni fyrir aðfallið.

Landakot

Landakot – túngarður.

Gísli Sigurðsson skráði örnefni í Landakoti: “Landakot stóð í Landakotstúni, og var það umgirt görðum þeim, sem nefndir verða í sambandi við landamerki milli Landakots og jarðanna Auðna að sunnan og Þórukots að innan. Ekki mun hafa verið tvíbýli í Landakoti, en vitað er um tvö býli eða þurrabúðir í túninu. Neðan við Landakotsbæinn eru tætur eftir býlið Götu og niður við sjó var býlið Lönd”.

Í “Mannlífi og mannvirki á Vatnsleysuströnd” eftir Guðmund Björgvin Jónsson árið 1987 segir um landakot:
“Landakot var eitt af höfuðbólum Vatnsleysustrandarhrepps í heila öld, allt frá 1830 til 1930. Þar bjó Guðmundur Brandsson, f. í Kirkjuvogi í Höfnum 21. okt 1814, sonur Brands Guðmundssonar hreppsstjóra þar. Kona Guðmundar Brandssonar var Margrét Egilsdóttir frá Móakoti.
Guðmudur GuðmundssonGuðmundur, sonur Guðmundar í Landakoti, var sómi sinnar sveitar og hjá honum sat ráðdeild og hagsýni í fyrirrúmi. Hann rak útgerð, þótt lírið færi hann sjálfur á sjó. Landakotsbóndi var söngmaður mikill og fyrsti organisti í Kálfatjarnarkirkju eftir að þar kom orgel árið 1876, og hafði Guðmundur það starf í um 40 ár. Hann sá um smíði þeirrar kirkju er nú stendur að Kálfatjörn. Einnig byggði hann nýtt íbúðarhús í Landakoti um 1883-4 á líkum tíma og aðrir hér í hreppi byggðu úr James-Town strandinu í Höfnum.

Guðmundur lést árið 1920 og var Landakot selt árið 1921 Sveini Pálssyni og konu hans, Önnu Guðmundsdóttur. Hann byrjaði á því að rífa Landakotshúsið og byggja nýtt steinhús, það sem stendur í dag. Smiður var Geir, bróðir Sveins, byggingameistari í Reykjavík. Sveinn hafði aðeins kúabúskap. Hvað sem því réði, þá seldi Sveinn hús og jörð og flutti aftur til Reykjavíkur árið 1927. Þá voru “kreppuárin” farin að gera vart við sig og þrengja að bændum og hefur Sveinn ekki þótt fýsilegt að halda áfram búskap.

LandakotKaupandi af Sveini var Guðni Einarsson og kona hans, Guðfinna Loftsdóttir. Þegar Guðni kom að Landakoti hafði Guðfinna látist. Hann tók fljótlega viðs tjórn kirkjukórs Kálfatjarnarkirkju og var oranisti þar uns sonur hans, Jón, tók við. Guðni lést 1970.
Við Landakoti tók Jón, sonur Guðna, og kona hans Jóhanna Bára Jóhannesdóttir.

Gata var tómthús milli Landakots og Þórustaða í landakotslandi. Um 1882 bjuggu í Götu hjónin Jón Teitsson og kona hans, Vilborg. Eftir veru Jóns og Vilborgar í Götu, komu þangað Sigurður Þorláksson, f. 1849, og kona hans, Þuríður Þorbergsdóttir, f. 1855. Ekki er mér kunnugt um fleira fólk í Götu og mun bærinn hafa aflagst nokkru eftir aldamótin.”

Heimildir:
-Aðalskráning fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrsla I, 2011.
-Mannlíf og mannvirki á Vatnsleysuströnd, Guðmundur Björgvin Jónsson 1987.
-Margrét Guðnadóttir Eyjólfur Guðnason, Rofabæ 29, Reykjavík.

Landakot

Landakot – tóftir Götu.

Auðnar

Í “Mannlífi og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi“, riti Guðmundar Björgvins Jónssonar frá árinu 1987, er m.a. fjallað um “Vindmylluhúsið” við Auðna.

Stefán Sigurfinsson.

Stefán Sigurfinsson.

“Stefán Sigurfinnsson á Auðnum, stofnaði ásamt fleirum, samtök meðal hreppsbúa sem byggðu rammgerða vindmyllu 1918-19. Skyldi hún mala þurrkuð bein úr sjávarafurðum til skepnufóðurs. Stendur þetta sérkennilega hús enn, þ.e. steyptir veggirnir sem ég tel að Stefán hafi byggt. Ég þykist þekkja handbrögðin og byggingarefnið af öðru sem ég hef skoðað frá þessum tíma. Myndi þessi bygging sóma sér vel se, vendaður minjagripur og efa ég að annarsstaðar á landinu hafi verið reist beinamylla, þó hér í landi hafi verið kornmyllur fyrr á árum. Beinamylla stót stutt ig var aflögð 1920-21. Tvennt kom þar til, fyrst það að hún malaði of gróft og annað hitt að bilun var alltíð og því dýrt vioðhald. Þórarinn í Höfða var starfsmaður við myllunar er þess þurfti með og vindar blésu mátulega.
Stefán var maður hugsóna og athafna, varð fljótt í miklu áliti hjá hreppsbúum og frammármaður í mörgum héraðsmálum. Hann hóf fyrstu manna trillubátaútgerð hér í hreppi og átti tvo í senn, var sjálfur með annan en Þórarinn í Höfða með hinn.”

Heimild:
-Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi. Guðmundur Björgvin Jónsson, 1987.

Auðnir

Vindmylluhúsið voð Auðnar 2023.

Bessastaðir

Guðmundur Daníelsson fór að Bessastöðum og ræddi við þáverandi forseta, Ásgeir Ásgeirsson. Grein um heimsóknina birtist í Vísi 1954 undir fyrirsögninni “Forsetabústaðurinn og heimilið – viðtal við forsetahjónin að Bessastöðum“:

Guðmundur Daníelsson

Guðmundur Daníelsson.

“Eg gerði mér ferð til Bessastaða í þeim tilgangi að geta á síðan sagt lesendum Vísis nokkuð frá þessu þjóðarheimili og húsbændunum þar. Mér var tekið með virktum, svo sem eg hafði raunar átt von á. Forsetann Ásgeir Ásgeirsson hef eg þekkt síðan eg var skólastjóri á Súgandafirði og jafnan metið hann mikils, en af því væri önnur saga, sem hér verður ekki sögð.
Forsetafrúnni, Dóru Þórhallsdóttur, hef eg einnig kynnzt nóg til að vita, að þar fer mikil ágætiskona, og fer allt saman: glæsilegt útlit, göfugt innræti og húsmóðurþokki.

Bessastaðir

Bessastaðir.

Það er staðarlegt að líta heim að Bessastöðum og allri húsaskipun vel fyrir komið. Fyrst mætir manni kirkjan, síðan forsetabústaðurinn sjálfur og útihús, þá er hús bústjóra og starfsfólks og síðast fjós og hlaða í hæfilegri fjarlægð. Öll eru húsin reisuleg, hvítkölkuð og með rauðu tiglaþaki. Þeir litir fara vel við græna jörð og bláan fjallahring.
Útsýnið frá Bessastöðum er svipmikið og fagurt, sjóndeildarhringurinn stór. Í útnorðri rís úr öldunum hvítur tindur Snæfellsjökuls og þar austur af fjallgarðurinn, unz hann hverfur undir Akrafjall. Þá tekur við Skarðsheiði og Esjan, en síðan Reykjanesfjallgarðurinn allur norðan frá Hengli og suður fyrir Keili. En í vestrinu opið haf, blár sjór og hvítir boðar. Undrar víst engan þó Faxi teldi þá Ingólf vera komna nýrækt og nýtízku fjós og að miklu landi, er árósar væru svo víðir!

Gengið til kirkju

Ásgeir Ásgeirsson

Ásgeir Ásgeirsson.

Eg skýrði forsetahjónunum frá erindi mínu yfir kaffibollanum.
Forsetinn svaraði: „Hvar skal byrja?“ sagði Matthías í Skagafirði. Er ekki rétt að við göngum fyrst í kirkju?“
Kirkjan er mikil, veggjaþykk og öll nokkuð þung, en yfir henni er virðuleiki, sem ekki kemur nema með aldrinum. Kirkjan er þó yngri en bústaðurinn og var lengi í
smíðum, því konungur var félaus. Ekki þótti hún vistleg á vetrum og alloft lak þakið, þar til okkar góði íslenzki ríkissjóður tók hana á áð sér og endurnýjaði.”
Mér varð að orði: „Þótt þakið sé hætt að leka, finnst mér allur blærinn yfir kirkjuhúsinu nokkuð kaldur.“
„Það finnst mörgum,“ svaraði forsetinn. „En allt, sem gert hefir verið, er traust og til frambúðar. Nú éf að byggja á því. Það er langt frá: því, að kirkjusmíðinni sé lokið. Þessa kirkju þarf að gera veglega og til fyrirmyndar um alla skreytingu fyrir aðrar kirkjur landsins.“
„Er nokkuð í undirbúningi?”
„Já, eg býst við að reynt verði að byrja á gluggamálverkum. En allt er dýrt, og verður ekki gert í einu, sem unnið er fyrir aldirnar.”

Fátt til frá fyrri tímum

Bessastaðakirkja

Í Bessastaðakirkju.

„Einhverjir kirkjugripir eru hér þó til?
„Það er ótrúlega fátæklegt eftir alla þá höfðingja og harðdrægu skattheimtumenn, sem setið hafa að Bessastöðum öldum saman. Og eftirtektarvert er það, að þessir miklu koparstjakar á altari, eru frá Holm-mæðgunum í þakkarskyni fyrir sýknun þeirra í Schwarzkopf-málinu. Svo eru hér hinar fögru oblátudósir (og þó í eftirlíkingu), sem gefnar voru til minningar um Magnús Gíslason, fyrsta íslenzka amtmanninn, en legstein hans sérðu þarna í veggnum á virðulegasta stað. Er það maklegt, því að hann lét gera Bessastaðastofu, sem auk kirkjunnar, eru einu leifar fortíðarinnar hér á staðnum. Það er hér eins og víðar, að minningarnar einar lifa.“

Bessastaðanes

Bessastaðanes – skothús.

Úr kirkju gengum við út í Bessastaðanes. Þar er mikil nýrækt og nýtízku fjós og hænsnabú. Bústjóri er Jóhann frá Öxney, og er rekstur hans allur með reisn og myndatbrag. Í nesinu er góð beit, og ný framræsla í mýrarsundum til viðbótarræktunar. Austan nessins er Lambhúsatjörn, sem nú er vogur og sætir þar sjávarföllum. En að vestan er Bessastaðatjörn – og erum við því komnir úr á “Skansinn”.

Þar sem Tyrkir komu

Skansinn

Skansinn á Bessastaðanesi – uppdráttur ÓSÁ.

„Bessastaðatjörn var vogur eða fjörður, þar sumar er leið,“ segir forsetinn.
„Þá var fyllt upp í Dugguósinn og grandinn allur hækkaður. Síðan gætir ekki sjávarfalla og ætti það að taka fyrir frekara landbrot, auk þess sem prýði er að vatnsfletinum.
Grandarnir hefir staðið sig vel – það braut að vísu úr honum að innanverðu, en í þær hvilftir var hlaðið jafnharðan. Eins og þú sérð, þá hefir sjórinn gert hér fallega vík að utanverðu við Seyluna, svo að allt gengur eftir áætlun Vitamálaskrifstofunnar.“
“Svo þessi vík er þá Seylan, var það ekki þar, sem Tyrkirnir komu?“ spyr eg.
„Rétt er það,“ svaraði forsetinn, „og óskemmtilegt er að minnast þess, að fangarnir úr Vestmannaeyjum voru fluttir á milli skipa til að létta á því skipinu, sem strandaði, án þess að nokkuð væri hægt að aðhafast úr landi. Til þess atburðar á Skansinn, þar sem við nú stöndum, rót sína að rekja. Hann var byggður fyrir álögur á landsmenn og kauplaust dagsverk — og aldrei hefir verið hleypt af skoti hér til landvarna.

Skansinn

Skansinn.

En Skansinn er einn fegursti bletturinn í landareigninni. Við létum girða hann í sumar, eins og þú sérð; hér má koma upp kjarri og íslenzku fjölgresi. Og hér væri tilvalið að gera lítinn sveitabæ utan í Skansinum. Þá gætu gestir skyggnzt hér inn í fortíðina.“

Þar sem Óli Skans bjó forðum

Skansinn

Frá vígslu upplýsingaskiltisins við Skansinn.

„Mér virðist hér hafa verið býli.“
„Já, hér var lítið grasbýli, og hér bjó Óli Skans einna síðastur — sá, sem danskvæðið er enn þá sungið um. Þarna rétt fyrir norðan girðinguna eru gamalt naust og sæmileg vör, sem ekki hefir spillzt af sjávargangi. Þar hafði Grímur Thomsen uppsátur, meðan hann gerði út. Héðan eru þeir einu forngripir, sem til eru heima á staðnum: tvær þungar byssukúlur, og lítill og slitinn hverfisteinn. Það minnir á kúgunina og stritið. Eg gróf upp steininn, sem var sokkinn í jörð; eg hugsa mér, að Óli Skans hafi skilið hann eftir. Nú er hann laglegur lampafótur heima á skrifborði.“
„Hvað heitir víkin þarna austur af?“

Skansinn

Skansinn – upplýsingaskilti.

„Þarna komst þú við viðkvæman blett,“ gegnir forsetinn og brosir. „Eg kann ekki að nefna hana. Hér hafa flestöll örnefni týnzt í flutningum; oft skipt um heimilisfólk og ekkert varðveist. Eg hefi haldið uppi spurnum um örnefni, en lítið orðið ágengt. Skilaður því til lesendanda þinna, að þeir fái af mér millar þakkir, sem komið geta til skila gömlum örnefnum úr Bessastaðalandi. Líttu þarna út í tjörnina. Þú sér þar lítinn hólma, sem við létum stækka í sumar vegna varpsins. Hann heitir Bessi. Þetta er merkilegasta örnefnið, sem varðveizt hefir, en allar skýringar eru týndar, eins og á sjálfu staðarnafninu.”
„Er hér mikið varp?“
„Já, — þú átt auðvitað við œðarfugl, eins og alltaf þegar talað er um varp. Varp er hér mikið, og góð skilyrði, þrátt fyrir skothríð á Skerjafirði; svartbakinn og hrafninn.
Eg spyr hvort ekki sé tiltölulega auðvelt að flæma burt hrafninn.

Bessastaðastofa

Bessastaðastofa 1928.

„Nei, hann er nú verstur allra viðfangs,“ svaraði forsetinn og gefur mér svofellda lýsingu á nútímahrafninum:
„Hann kemur á vorin í stórhópum frá fiskimjölsverksmiðjum og frystihúsum, því að enn veit hann, að æðareggin eru ljúffengasta fæðan. En þessir hrafnar eru skríll og engin gömul sveitamenning í þeim lengur. Bezt gæti eg trúað, að þeir sé hættir öllu þinghaldi!“
„Ef eg má skjóta því inn í,“ gríp eg fram í fyrir forsetanum, „þá styrkir þetta mig í þeirri trú, sem eg hefi alltaf haft á Alþingi, þótt að ýmsu sé nú fundið: Alþingi er burðarásinn í menningu okkar, og spegilmynd af menningu okkar. Þinglaus þjóð verður skrílþjóð, samanber hrafnána.“
„Alveg rétt,“ svarar forsetinn: „Annars þykir mér leitt að þurfa að segja þetta um hrafninn. Þetta er fugl Óðins, og vænt finnst mér um þá fáu, sem enn halda uppi gömlum og góðun sið, og flögra í kringum kirkjuturninn á vetrum. Eg hefði gaman af að ræða fleira um fuglana — tjaldinn, sem heldur sig hér á hlaðinu, og maríuerluna, kríuna, sem sýnir hér sitt meistaraflug, enda þarf hún að fara á milli heimskautanna á hverju ári, brimöndina, stelkinn og sendlinginn — en það er of langt mál.“

Fornleifar

Fornleifar undir Bessastaðastofu.

Við fórum nú aftur heim á staðinn og gengum til skrifstofu forseta. Hann heldur áfram að fræða mig um það, sem fyrir augu ber:
„Hér voru áður tvö herbergi,“ segir hann. „Hið fremra skrifstofa og svefnherbergi innar af. Í þessari gluggakistu hafði Grímur Thomsen skrifborð sitt, hátt borð og stóð við það, þegar hann orti. Á einum vegg var stór mynd af Runeberg, finnska skáldinu, og á öðrum mynd af Bismark með eiginhandar áritun. Í engri lítilli kvæðabók eru fleiri meistarakvæði en hjá Grími. Þjóðin getur verið þakklát fyrir að hann flutti heim, og hann eignaðist Bessastaði fyrstur íslenzkra manna eftir Snorra Sturluson.”
Skrifstofan er fallegt herbergi, ílangt, rúmgott og djúpar gluggakistur. Á veggjum ágæt málverk eftir Ásgrím og Kjarval og eirmynd af Jóni Sigurðssyni eftir Guðmund frá Miðdal. Báðir veggir eru þaktir bókum.
„Er þetta forsetabókasafnið?“

Bessastaðir

Lágmynd á Bessastaðakirkju.

Forsetinn brosir lítið eitt, þegir andartak. Svo segir hann: „Staðurinn á fjórar bækur. Þrjár eftir Grím, og er ein þeirra árituð af H. C. Andersen: Til min rigtbegavede, dygtige Ven. Og hér sérðu Íslandsmyndir Gaimards, sem Árni Helgason ræðismaður gaf staðnum, í dýrlegu skrautbandi. Það hafa margir áður spurt líkt og þú, enda ætti hér að vera staðarbókasafn íslenzkra úrvalsbókmennta. Það þarf ekki að vera stórt og gæti vel rúmazt í þessum tveim skápum. Það gæti ekki nema gott af því leitt, að íslenzkir úrvalshöfundar tækju hér á móti hverjum nýjum forseta. — Annars eru þetta mínar bækur, bæði hér og frammi í Litlustofu.“
Eg lít yfir hillurnar, þar eru handritaútgáfumar, Íslendingasögur, Búnaðarritið allt og Andvari o. s. frv. Eg veiti því eftirtekt, að hér er einnig margt úrvalsbóka innlendra og erlendra höfunda.
„Vildir þú sýna mér þá bók, sem þér finnst vænst um í safni þínu?“ spyr eg.
„Það er úr vöndu að ráða, en hér er fyrsta bókin, sem eg eignaðist á mínum fyrsta afmælisdegi.“

Vonir og tálvonir

Dóra Þórhallsdóttir

Dóra Þórhallsdóttir.

Eg tek við bókinni. Þetta er Nýja Testamentið og letrað á spjöldin: 13. maí 1895. Síðan heldur forsetinn áfram: „Annars hafa störf mín og áhugamál verið margbreytileg og bókasöfnun eftir því, auk þeirra almennu bókmennta, sem eg hefi safnað að mér meira eins og kunningjum, til að vita af þeim, og hægt er að velja um og grípa til, þegar stund kemur. Eg hefi alltaf haft mikla trú á bókum, og vísast stundum haldið að í þeim væri meiri vísdómur en svo reyndist. Bókartitlar og fyrirsagnir gefa oft miklar vonir og stundum tálvonir. En er það ekki svo um allt? Íslendingar mega aldrei hætta að kaupa og lesa bækur, þótt blöð og dægurtímarit leiti fast á. Auk þess eru bækur ein sú bezta ellitrygging í mörgum skilningi.“
Forsestaskrifstofan er eitt bezta herbergi, sem eg hefi komið í. Loftið er mettað af sögu, veggirnir þaktir list og bókmenntum, en það er minn dómur, að forsetinn, Ásgeir Ásgeirsson, fylli út í það — að hér sé réttur maður á réttum stað.
Eg er nú leiddur um önnur herbergi hússins. Við komum í herbergi forsetafrúarinnar, þar sem hún situr þessa stundina og saumar í dúk. Frú Dóra er, eins og alþjóð er kunnugt, glæsileg kona að ytra útliti, og þó ekki síðri í reynd. Framkoma hennar mótast af látleysi og glaðværð ásamt hóglátum myndugleika, svo sem títt er um beztu húsfreyjur og mikilhæfar konur í hvaða stétt sem er. Eg leita staðfestingar forsetafrúarinnar á því, að eg sé hér staddur í einkastofu hennar.
Á ríkið á líka hana?

Bessastaðir

Dóra og Ásgeir.

„Jú,“ svarar hún, „þetta er mín stofa, þótt raunar séu öll herbergi niðri í húsinu gesta og móttökuherbergi. Eg kalla þetta mína stofu, af því að við höfum hér okkar húsgögn. Það léttir mikið fyrir um að venjast breytingunni, að hafa einhvers staðar sitt eigið. Þegar Tryggvi bróðir minn bjó í ráðherrabústaðnum, þurfti stundum að banna börnunum. Því var það, þegar litlum snáða var bannað að fikta við systur sína, sem svaf í vöggu, að hann sagði: „Á ríkið þá líka hana?“
Það er gott að hafa sitt eigið gamla dót í kringum sig. Og víða blöndum við því saman við það, sem staðarins er.“
Eg rek augun í gamla, forláta dragkistu, sem stendur úti við vegg, og spyr eins og barnið:
„Á þá ríkið þennan góða grip?“
„Nei, ekki enn að minnsta kosti, en það er saga að segja frá því. Þessi dragkista er úr búi Jóns Sigurðssonar, en þaðan komst hún í eigu Tryggva Gunnarssonar, sem við systkinin kölluðum „afa“, og áður en hann dó, ánafnaði hann mér dragkistuna.“
Það er eins og forspá hjá gamla manninum, því hér er kista Jóns Sigurðssonar réttilega niður komin.

Gamalt og nýtt fellur saman

Bessastaðir

Frá Bessastaðastofu.

Við göngum nú inn í næsta herbergi, hina rúmgóðu borðstofu. Þar voru áður skólastofurnar tvær, meðan Latínuskólinn var á Bessastöðum. Hér hafa þeir kennt og numið, flestir, sem áttu mestan þátt í endurfæðing íslenzkar tungu, Sveinbjörn og Jónas, svo að aðeins tveir séu nefndir.
Þessu næst förum við inn í móttökusalinn, en þá erum við komin úr gamla húsinu, sem Magnús amtmaður lét byggja á árunum 1760—1765. Þessi salur, sem er mesta herbergi staðarins, var gerður fyrir forgöngu Sveins Björnssonar forseta eftir teikningum Gunnlaugs Halldórssonar. Hið gamla og hið nýja fellur saman, eins og það j væri jafnaldra, og þó er hér öllu vel fyrir komið með tilliti til hins nýja tíma og embættis.
Fyrir miðjum gafli hangir stór mynd af freigátum Kristjáns níunda, þegar þær sigla inn Faxaflóann, og tengir myndin bústað hins íslenzka forseta við fyrstu konungsheimsóknina og stjórnarskrána frá 1874. Allur er þessi salur hinn virðulegasti, gluggar hans ná niður að jörð og útsýni um þá fagurt.
„Náttúran sjálf tekur fram öllum veggmyndum,“ segir forsetinn.

Flestir gestir 130 í einu

Bessastaðir

Leitað var ráða hjá sendiherra Breta á Íslandi varðandi kaup á húsgögnum. Íslenski sendiherrann í London sá svo um að versla inn húsbúnað í samræmi við upprunalegan stíl Bessastaðastofu sem hafði verið byggð sem embættisbústaður amtmanns á árunum 1761–1766. Myndin er tekin um 1960 og sýnir þjónustufólk við veisluborð á Bessastöðum.

„Eg hefi fylgzt með því, að hér er gestkvæmt á stundum,“ verður mér að orði.
„Nokkuð svo,“ svaraði forsetinn. „En þegar við tókum við staðnum, var það samkomulag við ríkisstjórnina, að við ykjum heldur risnuna til að létta á stjórninni. Hér er flest vel í haginn búið, og ef okkur tekst að gera hér heimilislegt, þá er hér eins gott að koma og á gistihús í stjórnarboði. Okkur er ljúft að hafa hér gesti af öllu landinu, og söknum margra, sem verða útundan, af því að þeir eru ekki á neinum landsfundi.“
„Hvað er hægt að hafa hér marga gesti í einu?“
Forsetinn lítur til konu sinnar og segir, að nú sé tryggara að hún svari, ef eg vilji fá nákvæma óyggjandi tölu.
„Flestir hafa þeir verið 130,“ svarar frúin, „en þá var þröngt.
Við venjulegar móttökur eru hér 50-100 manns. En í matarboðum geta flestir verið 26 aðkomandi. Kemur það sér oft illa, enda er langt síðan gerðar voru áætlanir um nýja borðstofu og eldhús. En allt bíður síns tíma.“
„Er ekki mikil fyrirhöfn að búa allt í haginn á svo gestkvæmu heimili?”
„Það getur hver sagt sér sjálfur, og mikil yfirferð daglega á stóru húsi. En við höfum ágætt fólk, og samvant. Sem betur fer hafa lítil umskipti orðið, síðan við komum hingað.“

Góðvild og ástúð

Bessastaðir

Bessastaðir – fallstykki frá Skansinum í kjallara Bessastaðastofu.

„Hvað skyldu margir gestkomandi hafa verið hér á þessum 15 mánuðum, sem þið hjónin hafið setið staðinn?“ .
„Það get eg ekki sagt,“ svarar forsetafrúin, „en þér skuluð líta í gestabókina, og bæta svo við einum þriðjung.”
Eg tek við gestabókinni, sem gæti heitið Fagurskinna eftir fráganginum, gefin og gerð af Handíðaskólanum. Hún virðist nærri hálfnuð, og endist því vart út kjörtímabilið. Sérkennileg nöfn upp og niður blaðsíðurnar. Þetta verður merkileg bók á sínum tíma fyrir margra hluta sakir. En eg gefst fljótt upp við samlagninguna.
Nú dregur að kveðjum, og eg árna forsetahjónunum alls góðs og get þess um leið að það gleðji mig, hvað fari vel um þau hér.
„Við höfum um ekkert að kvarta,“ segir forsetinn, „og ómetanleg er sú góðvild og ástúð, sem við mætum alls staðar. En vísast þarf lengri tíma, til að venjast til fulls nýjum viðhorfum í þessu starfi en víðast annars staðar.“

Bessastaðir

Bessastaðir.

Eg kveð svo þetta góða og virðulega heimili með þeirri sannfæringu, að forsetaembættið og bústaðurinn sé í góðum höndum, og að ástsæld þeirra hjóna muni fara vaxandi með ári hverju.” – Hreinskrifað á Eyrarbakka, 22. desember 1953. Guðmundur Daníelsson

Heimild:
-Forsetabústaðurinn og heimilið, Guðmundur Daníelsson – Vísir, miðvikurdagur 17. febrúar 1954, bls. 5.
-Vísir, 18. 02. 1954, framhald, bls. 6.

Bessastaðir

Bessastaðanes – uppdráttur ÓSÁ.

Bessastaðanes

Á vef Umhverfisstofnunar 30. júní 2023 mátti lesa eftirfarandi:

Bessastaðanes

Pótintátar hinna ýmsu stofnana voru viðstaddir friðlýsingar Bessastaðarness.

 “Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra staðfesti í dag Bessastaðanes sem friðland við hátíðlega athöfn að viðstöddum Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands og Almari Guðmundssyni bæjarstjóra Garðabæjar.

Á Bessastaðanesi eru fjölbreyttar fjörur og grunnsævi með auðugu lífríki sem eru mikilvæg fæðusvæði fugla. Í Lambhúsatjörn er m.a. vistgerðin marhálmsgræður sem er mikilvæg fæða fyrir ýmsar andfuglategundir s.s. margæsir.

Bessastaðir

Bessastaðir og Lambhús – uppdráttur danskra frá 1903.

Svæðið er viðkomustaður margæsar og rauðbrystings en auk þess er þar æðarfugl, sendlingur og tildra sem hafa alþjóðlegt verndargildi. Stórir máfar og hávella eru algengir vetrargestir og hundruð tjalda, stelka og lóuþræla koma þar við á fartíma. Fuglalíf er fjölbreytt allt árið og er mikilvægur viðkomustaður farfugla og sjaldgæfra fuglategunda.

Á Bessastaðanesi eru tún og akurlendi en einnig votlendi sem einkennist af vistgerðunum starungsmýravist, gulstaraflóavist og grasengjavist. Língresi- og vingulsvist er á allstórum flákum inni á miðju nesinu og á svokölluðum Rana.

Verndargildi vistgerðanna er miðlungs til mjög hás og eru votlendisvistgerðirnar og marhálmsgræður á lista Bernarsamningsins yfir vistgerðir sem þarfnast verndar.
Friðlandið er 4,45 km2 að stærð.

Bessastaðanes

Bessastaðanes – uppdráttur ÓSÁ.

Friðlýsing svæðisins miðar að því að vernda og varðveita til framtíðar náttúrulegt ástand svæðisins sem búsvæði fugla og mikilvægt viðkomusvæði farfugla. Markmiðið er einnig að vernda líffræðilega fjölbreytni svæðisins, lífríki í fjöru, grunnsævi, hafsbotni og vatnsbol, einkum með tilliti til fuglalífs. Jafnframt er markmiðið að vernda fræðslu- og útivistargildi svæðisins sem felst m.a. í líffræðilegri fjölbreytni, auðugu lífríki og tækifærum til útivistar.
Umhverfisstofnun hefur umsjón með friðlandinu og ber ábyrgð á gerð stjórnunar- og verndaráætlunar í samvinnu við embætti forseta Íslands, Garðabæ, Minjastofnun Íslands og fleiri hagsmunaaðila.

Bessastaðanes

Bessastaðanes – örnefni og minjar.

Bessastaðanes er hluti af alþjóðlega mikilvægu fuglasvæði Skerjafjarðar. Fuglalíf er fjölbreytt allt árið og svæðið er mikilvægur viðkomustaður farfugla og sjaldgæfra fuglategunda.
Á svæðinu eru jafnframt fjölbreyttar fjörur og grunnsævi með auðugu lífríki sem eru mikilvæg fæðusvæði fugla. Í Lambhúsatjörn er m.a. vistgerðin marhálmsgræður sem einkennist af fínkornóttu seti með beðum af marhálmi sem hefur takmarkaða útbreiðslu og er mikilvæg fæða fyrir ýmsar andfuglategundir s.s. margæsir.

Bessastaðir

Bessastaðir.

Á Bessastaðanesi eru tún og akurlendi en einnig votlendi. Verndargildi vistgerðanna á svæðinu er frá því að vera miðlungs hátt og upp í mjög hátt og eru votlendisvistgerðirnar starungsmýravist, gulstaraflóavist og marhálmsgræður á lista Bernarsamningsins yfir vistgerðir sem þarfnast verndar.

Fræðslugildi svæðisins er hátt með tilliti til lífríkis og menningarminja en þar er fjöldi menningarminja.

Skansinn

Skansinn á Bessastaðanesi – uppdráttur ÓSÁ.

Á Bessastaðanesi er þjóðhöfðingjasetur.

Markmið friðlýsingarinnar
Markmið friðlýsingarinnar er að vernda og varðveita til framtíðar náttúrulegt ástand svæðisins sem búsvæði fugla og mikilvægt viðkomusvæði farfugla.

Markmiðið er einnig að vernda líffræðilega fjölbreytni svæðisins, lífríki í fjöru, grunnsævi, hafsbotni og vatnsbol, einkum með tilliti til fugla. Jafnframt er markmiðið að vernda fræðslu- og útivistargildi svæðisins sem felst m.a. í líffræðilegri fjölbreytni, auðugu lífríki, tækifærum til útivistar innan þéttbýlis og nýtingar sem samrýmist verndun búsvæða fugla.
Svæðið er 4,45km2 að stærð.”

HÉR má sjá texta “Friðlýsingunnar”.

Heimild:
-https://ust.is/nattura/natturuverndarsvaedi/fridlyst-svaedi/sudvesturland/bessastadanes/

Bessastaðanes

Bessastaðanes – friðlýsing; kort.

Bessastaðanes

Bessastaðanes er bæði opið og aðgengilegt. Engar hömlur eru á umferð gangandi fólks um Nesið svo framarlega að hófsemi sé gætt. Útsýni er þarna tilkomumikið og auk þess má sjá, ef vel er að gáð, ýmsar minjar frá fyrri tíð. Við skoðun á svæðinu nú komu t.a.m. í ljós nokkrar áður óskráðar minjar, s.s. athvarf, byrgi og garðar. Og til fróðleiks má geta þess að skófir á jökulsorfnum klöppunum eru ekki hvítar eða gular (húsaglæða), líkt og annars staðar, heldur kóngabláar.
Bessastaðanes - örnefniÍ örnefnalýsingu Kristjáns Eldjárns um Bessastaði frá árinu 1973 segir m.a.: “Örnefnalýsing þessi er þannig gerð, að fyrst var athuguð nýleg skrá Örnefnastofnunar eftir Gísla Sigurðsson í Hafnarfirði, þar sem þó er ekki getið heimilda og sitthvað er talið með, sem í raun réttri eru ekki örnefni. Tekin var upp gömul landamerkjaskrá Bessastaða og farið gegnum Dægradvöl Benedikts Gröndals og hliðsjón höfð af uppdrætti af Álftanesi í Sjósókn, endurminningum Erlends Björnssonar, Breiðabólsstöðum, skráðri af Jóni Thorarensen, Reykjavík 1945, bls. 35. (Kortið er þó ekki rétt í öllum greinum og er reyndar varhugavert.)
GrastFleiri rit voru ekki könnuð, en allt var að lokum vandlega borið undir Björn Erlendsson á Breiðabólstöðum, sem fæddur er þar 1898 og hefur átt þar heima alla tíð. Fórum við tvisvar yfir allt efnið, haustið 1972 og 7. júní 1973. Sjálfur hef ég svo skoðað staðhætti og ummerki eftir föngum.
Örnefnin eru fá og strjál, enda er landið ekki sérlega stórt, fremur kennileitasnautt og mjög búið að breyta því með framræslu, sléttun og ræktun og vegagerð, einkum hið næsta húsunum. Á þetta síðasta verður að leggja mikla áherzlu, og á slíkt auðvitað við um marga aðra bæi, jafnvel flesta. Gömul ummerki kringum húsin á Bessastöðum eru lítil sem engin, og er þar orðin mikil breyting á síðan Benedikt Gröndal þekkti þar bezt til um miðja síðastliðna öld. Gömul verksummerki í landi Bessastaða eru yfirleitt fá, jafnvel inni í nesinu, þar sem land er þó mjög ósnert.
LambhúsÞað sem ég hef einkum tekið eftir er það sem nú skal greina: Tæpum 300 m fyrir innan hliðið milli túns og ness, hægra megin við veginn inn í nesið, er grunnur undan einhvers konar húsi, um 7×8 m, allstórir steinar í, og svipur fornlegur. Ekki er þetta kallað neitt sérstakt. Rétt austan við sjómerki sem mikið ber á lengra inni í nesinu (þetta er nýlegt siglingamerki), er mikil upphækkun, sem tekur sig út sem talsverður þúfnaklasi, 15–25 m í þvermál, en bersýnilega virðist þetta vera af manna völdum. Þótt ekki sé kringlótt, get ég varla ímyndað mér annað sennilegra en að hér hafi verið stór fjárborg eða fjárskjól. Og sú skýring á áreiðanlega við aðra svipaða upphækkun, en minni og reglulegri, um 125 m suðvestur frá sjómerkinu, 10–12 m í þvm.

Langivöllur

Hvort tveggja hefur þetta verið gert úr torfi eingöngu, og virðist allgamalt. Þá er það Skothúsið, sem seinna getur, og niðri í Rana eru á einum eða tveimur stöðum lítt forvitnilegar minjar eftir einhvers konar kofa. Og má þó ekki gleyma Skansinum, sem er vitanlega mesta mannvirkið frá fyrri tíð. Ég læt þessa getið um rústir eða ummerki mannabyggðar, af því að ég hef lengi reynt að hafa augun opin fyrir slíku og undrazt, hve fátæklegt þetta er. Ég hefði búizt við fleiri merkjum eftir búskaparumstang inni í nesinu en raun ber vitni. Á túninu sunnan við staðinn er brunnur, sem notaður var fyrir ekki alls löngu.
Tóft á VestÍ afsals- og veðmálabók Gullbringu- og Kjósarsýslu er svohljóðandi landamerkjaskrá Bessastaða með Lambhúsum, dagsett á Bessastöðum 31. maí 1890, undirskrifuð af Grími Thomsen og samþykkt af fyrirsvarsmönnum Eyvindarstaða og Brekku: “Þessi eru landamerki Bessastaða með Lambhúsum eftir fornum skjölum og brúkun frá ómunatíð: Bessastaðir eiga að austan, norðan og sunnan allt að sjó (Skerjafirði og Lambhúsatjörn), en milli Lambhúsa og Eyvindarstaða eru landamerki að norðan og norðaustan bein lína úr Grásteini á Brekkugranda eftir vörðum, sem þar eru hlaðnar fyrir utan Lambhúsaveitu og í miðjan Bessahólma, sem og heyri undir Bessastaði. Að sunnanverðu eiga Bessastaðir (Lambhús) að Grásteini á fyrrtéðum granda.”

Garður á VestariHefst nú hin eiginlega örnefnalýsing.Þegar ekið er Álftanesveg af Hafnarfjarðarvegi, sést hvernig Álftanes í þrengri merkingu takmarkast af Lambhúsatjörn að austan og Skógtjörn að vestan, en milli þeirra er tiltölulega mjótt eiði, sem vegurinn liggur eftir,þó miklu nær Lambhúsatjörn. Farið er fram hjá eyðibýlinu Selskarði (eða Selsgarði) á hægri hönd, við endann á Lambhúsatjörn, en fyrir vestan Lambhúsatjörn er mýri, sem heitir Álamýri og nær að Skógtjörn. Vegurinn sem um hana liggur áleiðis til Garðahverfis er kallaður Álamýrarvegur. Öll þessi nöfn eru óviðkomandi Bessastöðum.
Jökulleirinn

Þegar komið er um 65 m fram hjá Selskarði, liggur vegurinn upp á hrygg, sem stundum er á þessum stað kallaður Brekkugrandi oftar þó Bessastaðagrandi en líklega oftast aðeins Grandinn (en í rauninni er þetta aðeins svolítill spotti af hinni miklu jökulruðningsöldu, sem Bessastaðir og margir aðrir bæir á Álftanesi standa á og nær alla leið inn Bessastaðanes og endar við Skerjafjörð, en heldur svo áfram í Kársnesi beint á móti. Á Grandanum standa stórir steinar upp úr, en einn er eftirtakanlega hár og reisulegur, nokkuð vestur frá hliðinu heim að Bessastöðum og heitir hann Grásteinn ágætt kennileiti. Í hann eru klappaðar holur í röðum, og ber það til þess, að þegar vegurinn var lagður út nesið, var fyrst ætlunin að hann lægi yfir þann stað þar sem steininn stendur. Þetta var fyrir minni Björns Erlendssonar. Var þá búizt til að kljúfa steininn og holurnar gerðar. Einhver álög voru á steininum. Þegar svo átti að fara að reka fleygana og kljúfa steininn, slasaðist einn maðurinn. Var þá hætt við verkið, sem betur fór, því að steininn er hinn ágætasti og sögufrægur, sbr. Dægradvöl.

Bessahólmi

Eins og fram kemur í landamerkjaskránni eru merki milli Eyvindarstaða og Bessastaða bein lína úr Grásteini í miðjan Bessahólma og milli Brekku og Bessastaða úr Grásteini í Lambhúsatjörn. Á þessari öld mun þó einhver smátota hafa verið seld vestan af þessari keilu,og er því Grásteinn varla í landi Bessastaða nú, en þetta skiptir litlu máli hér.
Þegar á Grandann kemur, skiptist vegurinn í þrennt, í vestur, í norður og í austur eða heim að Bessastöðum. Liggur vegurinn heim á staðinn eftir jökulruðningnum, sem nú er hryggur með vel ræktuðu túni, sem fyrrum var tún Lambhúsa, hjáleigunnar frá Bessastöðum. Norðan við hrygginn, eða milli Bessastaða og Eyvindarstaða, er víðáttumikill mýrarslakki, Eyvindarstaðamýri sem virðist taka á sig nafnið Breiðamýri þegar kemur lengra vestur eftir.

Músavík

Björn Erlendsson virðist telja að nafnið Breiðamýri geti jafnvel átt við alla Eyvindastaðamýri einnig, en það örnefni er þó ekki hér talið með örnefnum Bessastaða. Úr mýrinni var áður afrennsli gegnum Grandann út út í horn Lambhúsatjarnar, svo sem 2–3 faðma fyrir utan núverandi hlið heim á staðinn. Þetta var niðurgrafinn lækur, sem illt gat verið að komast yfir vegna bakkanna, en vatn var lítið. Þó hét þetta Lambhúsaá. Hún sést ekki nú. Kennd var hún við Lambhús, smábýlið þar sem lektor Bessastaðaskóla bjó, en það var nokkru vestar en miðja vega frá kirkju að hliði og liggur vegurinn yfir bæjarstæðið nú. Sáust byggingarleifar og aska þegar vegur var endurbættur 1972–73, og þá fannst þar fallega tilhöggvinn steinn, sem nú er á Bessastöðum og hefur líklega verið stjórasteinn. Sjá má af landamerkjaskránni, að sá hluti Eyvindarstaðamýrar, sem næst hefur legið Lambhúsum, hefur heitið Lambhúsaveita, en það nafn er nú gleymt, enda öll mýrin þurrkuð og ræktuð og Lambhús horfin.

Skothús

Bessastaðaland takmarkast að sunnan af Lambhúsatjörn, sem er fjörður inn úr Skerjafirði og gætir þar mjög flóðs og fjöru, en að norðan af Bessastaðatjörn, sem einnig var eins konar fjörður eða vík þangað til 1953 að gerður var stíflugarður mikill fyrir framan hana, svo að nú er þar ferskt vatn og gætir ekki flóðs og fjöru. Að austan er svo Skerjafjörður. Einu nafni er allt þetta land kallað Bessastaðanes, en oft er það nafn helzt haft um landið innan við staðinn, í daglegu tali “Nesið”, “inni í Nesi”. Heima við bæjarhúsin, norður af flötinni milli húss og kirkju, þar sem fánastöng stendur nú, er hóll með snarbrattri brekku norður af, og segir B.Gr. (og B.E.) að þetta heiti Bessastaðahóll, og voru nýsveinar látnir velta þar niður heldur ómjúklega á dögum skólans.
Tóft NA

Á öllum jökulruðningnum sem áður var nefndur er þetta greinilegasta hólmyndunin, og mundi það ef til vill segja sína sögu um nafn bæjarins. Frá kirkju og vestur að Lambhúsum var nefndur Langivöllur, og var það þó einkum sunnan megin, en nú er þetta nafn haft um allt vesturtúnið.
Í norður og norðaustur af Bessastaðahól, niðri við tjörnina, voru áður fyrri allmikil ummerki eftir ýmiss konar búsumstang, og lýsir B.Gr. því nokkuð, en öll merki mega heita þar horfin meðal annars af því að sjór hefur brotið þarna mikið land, og er því erfitt að marka nákvæmlega fyrir hvar hvað eina var. Traðir lágu ofan að smiðju og þar var Sjóbúðarflöt og þar var Skevingstún og þar voru Akrarnir á móts við bæinn, en það voru “stórir ferhyrndir blettir, mig minnir tveir samfastir með lágum torfgarði á milli, mátti vel sjá móta fyrir “akurreinum” eða löngum þverdældum” (B.Gr.). 

Kóngabláar

Hjá Sjóbúðarflöt var tóft sem víst var kölluð Sjóbúð, og enn fremur mun þarna hafa verið uppsátur, Bessastaðavör. Af öllu þessu sést aðeins votta fyrir leifum af gömlum garði sem sjór hefur brotið af meðan enn flæddi inn í tjörnina. Þessi nöfn mega nú heita óþekkt. Norður frá bústjórahúsi (sem nú er) var hólmynd í túninu og nefndist Smiðjuhóll og minnir á smiðjuna, en sést ekki lengur. Þarna norður frá ráðsmannshúsi og bílstjórahúsi nær sjó heitir nú Prentsmiðjuflöt, sem er nafn frá dögum Skúla Thoroddsens, enda sér þar enn steyptan grunn undan prentsmiðjuhúsi hans.
Sauðaborg

Í Bessastaðatjörn er áðurnefndur hólmi, þar sem æður verpur, og kalla landamerkjaskrá og B.Gr. hann Bessahólma, en stundum er hann kallaður Bessi, trúlega hvort tveggja stytting úr Bessastaðahólmi, sem stundum heyrist. B.E. segir að Bessahólmi sé langalgengast og séu það munnmæli, að Bessi bóndi á Bessastöðum sé heygður þar. Í tíð Ásgeirs Ásgeirssonar var hólminn mikið stækkaður til suðurs með því að aka að honum grjóti og hnausum á ís. Lítill hólmi er nær Eyvindarstöðum og var hann einnig gerður að undirlagi Ásgeirs Ásgeirssonar, sem kallaði hann Kóra eftir fæðingarstað sínum Kóranesi á Mýrum. Ásgeir lét líka grafa skurð þvert yfir tangann norður af bílstjórahúsi og búa þannig til ey eða hólma, sem kallast Sandey en nýtt er þetta nafn að sjálfsögðu.

Húsaglæða

Allt hefur þetta verið gert vegna æðarfuglsins. Ósinn út úr tjörninni hét Dugguós en hann er nú úr sögunni, síðan stíflan var gerð. Áður fyrri, meðan enn fjaraði í tjörninni, kom upp með fjöru klettabelti eða brík frá tanganum áðurnefnda (nærri Prentsmiðjunni) og að Stekkjarmýrarhól í Breiðabólsstaðalandi og var þessi leið oft farin, ekki sízt ríðandi. Þetta var kallaður Steinboginn. Þetta er rangt sýnt á korti í Sjósókn.
Suður frá bæ voru áður mikil svöð, en nú eru þar ræktuð tún. Er mér ekki kunnugt um nein nöfn þar nema Kringlumýri sem Björn Erlendsson segir að hafi verið suðaustur frá útihúsunum sem nú eru eða vestur frá Músavík. 

Timburhus

Vafalaust er nú erfitt að takmarka hana vegna ræktunarbreytinga. Niður af henni eru tveir tangar út í Lambhúsatjörn, sem nú eru alltaf kallaðir Tangarnir, Vestaritangi og Eystritangi, og er þar mikið æðarvarp, en stóra víkin austan við þá heitir Músavík (eða Músarvík). Nesið austan við víkina heitir Rani og nær alla leið að ósnum þar sem mætast Skerjafjörður og Lambhúsatjörn, og allra fremst á Rananum heitir Ranatá hefur B.E. eftir Jakob Skansibróður sínum, sem er eldri en hann.
Efst á Rana, eða þar sem allrahæst ber á Bessastaðanesi, er hóll, sem heitir Skothús, og segir B.Gr. nokkuð frá því. Þar hefur verið eitthvert mannvirki, en engar sagnir eru um það.
Þar sem jökulaldan endar við Skerjafjörð heitir Svartibakki en norðan við hann er mýri sem heitir Litlamýri. Nyrzt í Nesinu heitir Sauðatangi, nokkuð löng og ekki vel afmörkuð strandlengja. Nyrzt og vestast við Dugguós er svo Skansinn eða Bessastaðaskans, hið gamla virki (sjá Kristinn Jóhannesson, Þættir úr landvarnasögu Íslendinga, Saga VI, 1968, bls. 122–38), og sér þar einnig rústir af smábýlinu Skans með túngarði. Árið 1901 keypti Tryggvi Gunnarsson Skansinn og girti þvert yfir í beina línu frá Bessastaðatjörn og í Skerjafjörð. Í yfirlýsingu um þetta 5. marz 1928 segir Theodóra Thoroddsen að þessi girðing hafi legið “eftir því sem ég man bezt, úr Bessastaðatjörn fyrir innan Skansinn þvert yfir nesið í svokallaða (sic) Skólanaust.” Örnefnið Skólanaust er nú óþekkt, en einmitt þar sem þessi girðing hefur endað eru sýnilegir um 1 m langir endar af tveimur veggjum samhliða, sem sjór hefur að mestu brotið. Gætu þetta vel verið leifar af nausti, enda hefur B.E. eftir Jakob bróður sínum að kallað hafi verið Bátanaust rétt hjá Skansinum. Gæti verið eitt og hið sama (Ath. B.E. hefur naust í kvk. eins og Theodóra).

Skan

Hið gamla skipalægi Seilan er fram af Skansinum og Dugguósi. Við skipti milli Bessastaða og Breiðabólstaða fyrir allfáum árum féll dálítill hluti Breiðabólstaðaeyrar, næst Dugguósi, í hlut Bessastaða. Heitir það Eyraroddi. Öll þau örnefni þessarar lýsingar sem nú er hægt að staðsetja, hafa verið færð inn á uppdrátt, sem fylgja á lýsingunni.
Ath.: Ekki er nú vitað hvar Grímur Thomsen lét heygja hest sinn Sóta, framar en segir í Sjósókn, bls. 46, “í túninu fyrir norðaustan staðinn”. Í umtali er þetta stundum kallað Sótaleiði, sem virðist mega telja með örnefnum.

Skólanaust

Ókunnugt er mér, hvar Fálkahúsið stóð, svo og allt annað um fyrri tíðar húsaskipan á Bessastöðum.”

Í Árbók hins Ísl. fornleifafélags árið 1981, bls. 141-147, segir m.a. um einstakar fornminjar á Nesinu: “Af horfnum minjum á Bessastöðum má t.d. nefna tóftir smábýlisins Lambhúsa, sem voru miðja vega milli kirkjugarðs og heimreiðarhliðs, svo og „akrana”, sem Benedikt Gröndal segir frá, í túni fyrir sunnan staðarhúsin. Enn fremur traðir og garða o.fl. sem Gröndal nefnir einnig í Dægradvöl. Þó virðist það vera vonum minna sem horfið hefur, þótt nú sé ógerningur að segja nákvæmlega til um slíkt. Einhverjar útihúsatóftir hafa eflaust verið sléttaðar út. Þær mannaminjar sem enn eru við lýði og sýnilegar eru, mega heita færri en ætla mætti að óreyndu á höfuðbóli. Skulu þær nú taldar upp og þeim lýst í stuttu máli og vísast um leið til uppdráttarins á bls. 134.

Skansins ola

1. Túngarður. Eins og sjálfsagt er var garður kringum túnið, ýmist úr torfi eða grjóti, og lætur Gröndal hans lítillega getið. Búið er fyrir löngu að slétta yfir hann að langmestu leyti. Sjá má móta fyrir honum vestur frá staðnum þar sem hann skildi milli túnsins í Lambhúsum og Langavallar og hefur hann teygt sig þar niður í fjöru við Lambhúsatjörn. Einnig sést hann, ef vel er að gáð, innan við staðinn, þar sem hann hefur legið nokkurnveginn þvert yfir milli tjarnanna, Bessastaðatjarnar að norðan og Lambhúsatjarnar að sunnan. Þarf þó að standa vel á um árstíð og birtu til þess að hann megi greina þar.

Ska

Loks er svo þess að geta að enn er dálítill krókóttur partur eftir órofinn meðfram Bessastaðatjörn innanverðri, og má glöggt sjá að tjörnin hefur brotið hann niður, þar sem að húsunum veit, meðan enn gætti þar flóðs og fjöru. Þá má og sjá móta fyrir garðinum þvert yfir, rétt ofan við Prentsmiðjuflöt, sem nú heitir. Hefur þá verið, og er reyndar enn, allmikið athafnasvæði utan hans næst tjörninni. Í sambandi við túngarðinn og reyndar einnig túngarð Lambhúsa skal bent á að allir þessir garðar sjást einkar vel á uppdrætti Björns Gunnlaugssonar frá 1831, þeim sem hér er birtur, þótt ónákvæmur sé á ýmsa grein. Hann er eigi að síður mjög mikilsverður. M.a. sést hvar sjávargatan lá niður að Bessastaðatjörn.

Skansinn-loftmynd

2. Prentsmiðjutóft. Á áðurnefndu athafnasvæði er vestast steinsteyptur ferkantaður grunnur undan prentsmiðjuhúsi Skúla Thoroddsen, frá því skömmu eftir síðastliðin aldamót. í því húsi varð prentsmiðjudanskan til. Grunnurinn er um 7×9 m að ummáli, ekki hár.
3. Húsatóftir á áðurnefndu athafnasvæði utan túns við Bessastaðatjörn. Austan við prentsmiðjugrunninn er garðspotti og stefnir þvert á sjávarbakkann, en austan við hann grasigrónar húsatóftir tvennar, að því er virðist, og stutt á milli, en erfitt er sökum mikils gróðurs að greina skilsmynd á þeim. Þær eru frammi á allháum sjávarbakka. Efalítið standa þær í sambandi við athafnasemi við sjóinn og tengjast örnefnum eins og Sjóbúð, Sjóbúðarflöt og Bessastaðavör.
4. Húsgrunnur, að því er helst virðist, gerður af allstóru grjóti og gamalgróinn á milli, er rétt við veginn á hægri hönd þegar ekið er inn í Bessastaðanes, um 300 m innan við hliðið. Ekkert nafn er á þessu og engar sagnir. Grunnurinn er ferkantaður, um 5×9 m. Þarna mun varla hafa verið peningshús, heldur timburhús til einhverra annarra nota á staðnum. 

Garður við Skans

Ekki er óhugsandi að þarna hafi Fálkahúsið verið, en helst til langt virðist það þó frá staðnum, enda er þetta ágiskun einber. — Friðlýst að ósk staðarhaldara 1976.
5. Skansinn, Bessastaðaskans (Ottavirki) er við Skerjafjörð þar sem Dugguós var áður en stíflan var gerð milli Bessastaðatjarnar og sjávar. Skansinn er virki, í stórum dráttum fjórir moldarveggir, sem upphaflega hafa verið mjög háir, en eru nú ávalir og grasi grónir. Mannvirki þetta var reist seint á
17. öld til varnar gegn aðvífandi ófriðarmönnum eins og t.d. Tyrkir voru. Annars skal Skansinum ekki lýst hér, heldur vísað til ritgerðar sem að miklu leyti fjallar um hann, sjá Kristinn Jóhannesson, Þættir úr landvarnarsögu Íslendinga, Saga VI, 1969, bls. 122. Skansinn var formlega friðlýstur með skjali dags. 25. okt. 1930 og friðlýsingarmerki sett upp þann 5. júní 1965.

Brunnur við Skansinn

Í Skansinum var smábýli, hjáleiga frá Bessastöðum, „kotrass auðvirðilegur”, segir Benedikt Gröndal í Dægradvöl. í Sjósókn segir Erlendur Björnsson á Breiðabólstöðum frá síðustu hjónunum sem í Skansinum bjuggu og syni þeirra Ólafi, sem kallaður var Óli Skans. Skansinn mun hafa farið í eyði fyrir aldamót, en seinna fékk Gísli Jónsson listmálari leyfi til að byggja sér þar hús og sér enn leifar af steyptum veggjum þess upp við suðurhlið virkisins. Minjar býlisins eru fyrst og fremst túngarður úr grjóti, girðir af hornið milli Skerjafjarðar og Bessastaðatjarnar, enn fremur útihúsarústir uppi á sjálfum Skansinum, gamallegar grónar tóftir í þýfðu túninu og við túngarðinn, loks brunnhola að því er virðist.

Prentsmiðjan

Innan við túngarðinn, þar sem hann kemur út í Skerjafjörð, er grjótveggur samsiða honum, 5-6 m bil á milli, og endar snögglega 25 m frá sjó. Helst dettur manni í hug að með þessum garði hafi átt að skýla bátum sem á land voru dregnir, sbr. það sem segir í örnefnalýsingunni að kallað hafi verið Bátanaust rétt hjá Skansinum. ,,í Skansinum var lendingin frá Bessastöðum,” segir Erlendur Björnsson í Sjósókn. Allar minjar um búskap í Skansinum eru friðlýstar með honum.
Garður eða sjávargata

6. Skólanaust (?). Skammt fyrir innan Skansinn sjást tveir lágir veggspottar hlið við hlið, 1 m langir og eru sýnilega leifar af lengri veggjum sem sjórinn er búinn að brjóta niður. Þetta gætu verið leifar af svonefndu Skólanausti, sjá Örnefnaskrá, og mundu þá skólapiltar hafa geymt þar bát sinn.
7. Mannvirki nokkurt um 70 m suðaustur frá nýlegu sjómerki innarlega í Bessastaðanesi, á smáþýfðri grund. Þetta er töluverð upphækkun, mjög þýfð ofan, að öðru leyti eins og um 1 m hár pallur. Til að sjá er þetta eins og stór þúfnaklasi, enda hefur öðru hverju blásið í jaðrana en gróið upp aftur. Upphækkun þessi, sem greinilega er af mannavöldum, er 25 m á lengd og 15 m á breidd, nokkurn veginn eins og sporbaugur, en helst óregluleg á suðurhlið, enda er svo að sjá að þar hafi verið inngangur í það sem þarna hefur verið, sennilega sauðaborg eða hrossaskjól, því að kindur og hross gengu mjög úti í Bessastaðanesi fyrrum, en fátt um náttúrleg afdrep. — Friðlýst að ósk staðarhaldara 1976.

Kartöflugeymsla

Aths.: Gísli Sigurðsson í Hafnarfirði sagði mér 1.10.1976 að mannvirki þetta mundi ekki vera eldra en frá 1914, eða þar um bil. Einhver sagði honum að maður sem þá var á Bessastöðum hefði hlaðið þarna skjól handa útigangshrossum. Þetta gæti verið rétt þótt maður hefði frekar haldið að minjarnar væru eldri. Læt þetta fylgja með til minnis. K.E.
8. Mannvirki annað (sauðaborg) um 120 m vestur frá nr. 7 og svipað útlítandi, upphækkaður pallur þýfður, kringlóttur, 14 m í þvermál, í aflíðandi brekku móti vestri. Dyr hafa verið á vesturhlið. Allt um kring mótar fyrir veggjum sem upphækkuðum kraga. Varla kemur annað til mála en að þetta hafi verið sauðaborg, gerð að öllu eða mestu leyti úr torfi eins og nr. 7.

Bess

9. Sauðaborg, undirstöður hennar, innarlega í Bessastaðanesi, þar sem hallar til Skerjafjarðar, andspænis Kópavogskaupstað. Borgin hefur verið hlaðin úr grjóti, a.m.k. undirstöðurnar, kringlótt, um 10 m í þvermál. Þetta er skýrt, en svo virðist sem innan í þessum hring sé annar minni, 4-5 m í þvermál. Má vera að þessi innri hringur sé undirstaða borgar sem hlaðin hefði verið úr grjótinu úr eldri og stærri borg, en slíkri tilgátu ber að taka með varúð. — Friðlýst að ósk staðarhaldara 1976.
10. Skothúsið, hóll með sýnilegum tóftum á, þar sem hæst ber í Bessastaðanesi, eða eins og Gröndal segir í Dægradvöl: ,,Þar hæst á bungunni er kringlóttur grasblettur og rúst eftir gamalt byrgi, þar sem fálkarar hafa líklega legið við fyrrum, það var kallað „skothúsið”, og er þaðan víðsýni mikið og fagurt.” (2. útg. 1965, bls. 4).

Sandey

Hvað sem líður ummælum Gröndals um fálkana, má telja mjög sennilegt að þarna hafi verið skotbyrgi. Gæsir eru t.d. tíðir gestir í nesinu. Hóllinn sem tóftirnar eru á, er 9 m í þvermál við grunninn, sýnist að upphafi hafa verið náttúruverk en þó má vera að hann hafi smám saman hækkað af mannavöldum. — Friðlýst að ósk staðarhaldara 1976.
11. Grjótgarður hlaðinn er rétt fyrir norðan Skothúsið, tveir armar 5 og 9 m og gleitt horn á milli. Þetta er tvíhlaðinn veggur úr býsna stórgerðu grjóti. Það er eins og þetta séu leifar af rétt og búið að flytja burtu mikið grjót fyrir löngu. Annars er út i bláinn að giska á hvað þetta hefur upphaflega verið.

Bessastaðatjörn

12. Tóftarbrot smá og ógreinileg eru á Ranatá framarlega. Tilgangslaust að giska á hvað verið hafi. [Líklega er annað hvort um að ræða skjól fyrir yfirsetumann er fylgdist með því að ær og sauðir flæddi ekki á skerjunum á og við Ranatá eða vatkmann yst á Nesinu, nema hvorutveggja hagfi verið.]
13. Tóftarbrot lítilfjörlegt er einnig fremst á Vestaritanga. Rennur mjög saman við þýfið þar og verður ekki séð til hvers verið hefur. [Gæti hafa verið sjóbúð eða fangageymsla fyrir þá er fluttir voru til aftöku yfir í Gálgakletta handan Lambhúsatjarnar.]

Hér með lýkur upptalningu sýnilegra minja í Bessastaðalandi. Á skránni eru sjóvarnargarðar við Lambhúsatjörn ekki meðtaldir enda að verulegu leyti nýir, ekki heldur brunnur eða brunnar staðarins, sem verið hafa í notkun til skamms tíma. Sumar minjarnar eru formlega friðlýstar, aðrar ekki.”
Árni Hjartarson fjallar um aldur jökulgarðsins á Álftanesi í Náttúrufræðingnum árið 1992. Þar segir m.a.: “Ysti sjáanlegi og ótvíræði jökulgarðurinn á höfuðborgarsvæðinu er Álftanesgarðurinn. Þorleifur Einarsson (1968, 1991) telur hann vera frá eldra-dryas. Aldur þessa kuldastigs er 11.800-12.000 BP. Hið íslenska heiti þess hefur verið dregið af Álftanesgarðinum og nefnt Álftanesstig. Garðinn má rekja þvert yfir Álftanes, um Bessastaði og í sjó við Bessastaðanes.
Fram undir síðustu ár mátti sjá hvar garðurinn tók land handan Kópavogs, yst á Kársnesi, þar sem bátahöfnin er nú. Aldursgreiningarnar frá Kópavogi og Suðurnesi staðfesta það sem aldursgreiningarnar á Fossvogssetinu gáfu raunar sterka vísbendingu um, að Álftanesgarðurinn sé frá lokum yngra-dryas eða preboreal.
TímataflaÁlftanesgarðurinn markar ekki ystu stöðu Suðvesturlandsjökulsins á yngra-dryas. Jökulruðningurinn á Fossvogssetinu við Skerjafjörð og aldursgreiningarnar frá Suðurnesi Seltjarnarness sýna að jökullinn hefur náð mun lengra út á yngra-dryas. Ystu mörk hans eru óþekkt enn sem komið er en vafalaust liggja þau nokkuð undan landi á botni Faxaflóa. Engar lífrænar leifar hafa fundist í Álftanesgarði og bein aldursgreining á honum er ekki fyrir hendi. Aldurinn liggur þó á bilinu 9.500-10.200 BP. Hugsanlega er hann á sama aldri og Búðaröðin á Suðurlandi, 9.700 BP (Árni Hjartarson og Ólafur Ingólfsson 1988).”
Sjá meira um Nesið HÉR. Og Skansinn HÉR.

Heimildir m.a.:
Örnefnalýsing KE fyrir Bessastaði – 7.6. 1973
-Árbók hins ísl. fornleifafélags 1981, bls. 141-147.
-Náttúrufræðingurinn, 62. árg. 1992, bls. 214-215, Ísaldarlok á Íslandi – Árni Hjartarson.

Bessastaðanes

Bessastaðanes – uppdráttur ÓSÁ.