Eldvörp
“Vér höfum baðstofur og í þeim óna, sem eru gerðir af grjóti og hellusteinum, og eru þeir hér tíðkaðir og brúkaðir með tvennu móti. Sá eini og eldri ónháttur er að óvönduðum steinum og grjóti, upp um hvert grjót, er ofan á þversteinum ónsins liggur að logann leggur. Og svo sem ónninn er nú af kyndingunni eður eldinum nógu heitur orðinn og baðstofan er rokinn, þá er gefið köldu vatni á þá brennheitu ónsteina, hvar af hitann nóglega leggur upp um allt húsið, hverjum hita bæði torfveggir og torfþakið vel heldur og forsvarar.
Þeir aðrir ónar eru gerðir af hraunhellum, sem af hraunhellum, sem af jarðeldi forðum brunnið hafa. Þessar hellur eru höggnar, klappaðar og grópaðar og svo nákvæmast sem verður samfelldar og svo í mynd eins útlenska járnóna saman settar og fyrir komnar. Og sem af þessum hellum er slíkur ónn orðinn, þá eru allar hans samkomur móaðar og saman límdar og svo hagfellt grjót á báðar síður og ofan fyrir hlaðið og það allt saman vel og nákvæmlega móað, svo engan reyk skuli í stofuna inn leggja. Og þetta ónsmíði er ekki fyrir fimmtíu árum upp tekið, hvert ónsmíði á Suðurnesjum er nú helst brúkað, og héðan til annarra sveita fært og burt fengið. Ert það og í Kjalarnessýslu, og ég af veit, fyrst upp komið.
Hinn fyrri kyndingarhátturinn er til baðs vel þénanlegum og á þvílíkan hátt eður aðferð böð að kynda svo almennilega hef ég lesið, að utan lands sé síðar til sums staðar.“

-Arngrímur (lærði) Jónsson
-Öldin okkar 1609.

Mýrarrauði

Mýrarrauði – járn.

Í apríl árið 1602 var tilkynnt að Kristján konunur IV hefði selt kaupmönnum í Kaupmannahöfn, Málmey og Helsingjaeyri á leigu alla Íslandsverslun í næstu tólf ár. Undanskildar voru Vestmanneyjar einar, sem konungur hefur lengi leigt með öllum sköttum og skyldum. Jafnframt var öllum kaupmönnum, öðrum en leigutökum, bönnuð verslun á Íslandi.

Óttarsstaðir

Straumur og Óttarsstaðir – uppdráttur ÓSÁ.

Þjóðverjar og Englendingar höfðu um langt skeið stundað mjög verslun á Íslandi, og Hamborgarar, Brimarar og Lýbikumenn, sem hér versluðu í konungsleyfi, áttu víða hús, kirkjur og vörubirgðir í kaupstöðum. Nú varð þeim algerlega bolað frá allri Íslandsverslun, nema hvað örfáir kaupmenn, sem áður höfðu fengið leyfi konungs til verslunar á nokkrum höfnum, fengu að halda þar velli, uns leyfistími þeirr rann út.
Það voru tuttugu hafnir á landinu, sem konungur leigði hinum dönsku kaupmönnum, þ.a. fjórar við Faxaflóa. Með þessari breytingu var talið að verslun á mörgum stöðum myndi leggjast niður, þar sem Þjóðverjar höfðu legið með skip sín á sumrin, svo sem á Hvalfjarðareyri, í Flatey, Straumsvík og Vatnsleysuvík og miklu víðar.
Konungur skrifaði hirðstjóra sínum, Enevold Kruse, og skipaði honum að hafa strangar gætur á, að Hamborgarar reki enga verslun við Faxaflóa, nema í Hafnarfirði, enda þótt þeim séu þar heimilar nokkra hafnir fleiri þetta sumar, samkvæmt gömlum leyfisbréfum. Bændum, sem versla á Suðurnesjum og í Grindavík, var bannað að selja Hamborgurum fisk og aðrar afurðir, nema hvað þeir máttu láta það, sem afgangs varð venjulegri verslunarvöru, ganga upp í skuldir.

Straumur

Hróf ofan Straumsvarar.

Ætla mátti, að Þjóðverjum yrði gert ókleift að versla hér, en verslun við þá hafði staðið allt frá 14. öld og verið landsmönnum að ýmsu leyti hagstæð.
Þýsku kaupmennirnir voru mjög ósáttir við hina nýju skipan verslunarmála á Íslandi. Árið 1602 ráku þeir víða mikla verslun um sumarið undir því yfirskini, að þeir væru að innheimta skuldir, og tvö skip er komu á Suðurnesjahafnir, urðu að sigla tóm heim um haustið. Þar að auki létu Hamborgarar menn hafa hér vetursetu sums staðar og halda versluninni áfram. Þýskur maður, Jóhann Holtgreven, tók sér t.d. höfn í Keflavík og Bátsöndum og bar því við að hann hefði eigi komist til hafnar sinnar við Húnaflóa sökum íss og hafið verslun á Suðurnesjum fyrir þrábeiðni landsmanna.

Þýskabúð

Þýskabúð við Straumsvík.

Árið 1604 bar á mikilli óánægju með hina nýju verslunarhætti. Verslun fór versnandi og varð hún nú mun verri síðan Hamborgarar voru brott hraktir. Hinn aldni lögmaður, Þórður Guðmundsson, áttræður maður, gekk fram fyrir skjöldu og kærði kaupmenn fyrir konungi og höfuðsmanni. Árið áður skrifaði hann bændum á Suðurnesjum og í Grindavík bréf um verslunarmálin og skoraði á þá að mótmæla verslunarháttunum, því auðveldara myndi verða að fá leiðréttingu þegar í upphafi en síðar meir. En það gerðist sem oft er þegar einn eða fáir mótmæla, en margir horfa sitjandi hjá – nákvæmlega ekkert.

Básendar

Básendar – uppdráttur ÓSÁ.

Kappella
Í Öldinni okkar, 7. nóv. 1550, segir að Jón biskup Arason og synir hans, sem með honum voru gripnir á Sauðfelli í haust, séra Björn á Melstað og Ari sýslumaður í Möðrufelli, voru hálshöggnir í Skálholti í morgun, þvert ofan í lögmannsdóminn, sem kveðinn var upp í Snóksdal fyrir hálfum mánuði.
Skálholt

Skálholt.

Talið er, að fógetinn á Bessastöðum, Kristján skrifari, hafi verið frumkvöðull aftökunnar, en aðrir fyrirmenn í Skálholti samþykkt hana.
Kristján skrifari ætlaði að hverfa frá Skálholti vegna ágreinings um hvað skyldi verða um þá feðga. Lét fógetinn söðla hesta sína og bjóst til brottfarar. Þeir Marteinn biskup og Daði í Snóksdal gengu þá til hans og drukku honum til af silfurkerjum, sem þeir gáfu honum síðan til þess að sefa reiði hans. Við það frestaði hann brottför sinni, og mun þá hafa samist, að þeir feðgar þrír skyldu hálshöggnir.

Skálholt

Skálholt fyrrum.

Menn voru þegar settir til að gera aftökustað austan við túnið í Skálholti, og var þangað fluttur gamall vindustokkur frá kirkjunni og höggvið í hann hökuskarð, svo að nota mætti sem höggstokk. Böðull hafði þegar verið fenginn frá Bessastöðum til þess að vinna á þeim feðgum.
Þegar morgnaði, voru fangarnir búnir til aftökunnar. Ari var fyrst leiddur á höggstokkinn, og fylgdi honum prestur sá, sem vakað hafði hjá honum um nóttina. Vildi Ari ekki, að bundið væri fyrir augu sér. Hann gaf böðlinum gjöf til þess, að hann ynni verk sitt hreinlega eins og alsiða er erlendis. Síðan hjó böðullinn hann og fórst allvel.

Skálholt

Skálholt – minnismerki um Jón Arason og syni hans.

Þessu næst var höggstokkurinn færður og sér Björn leiddur til höggs. Böðlinum fataðist fyrsta höggið. Hljóp Daði í Snóksdal þá til og skipaði böðlinum að fullkomna verk sitt. Murkaði böðull loks af honum höfuðið í fjórða höggi.

Síðastur var Jón biskup höggvinn, og fylgdi séra Hængur Höskuldsson á Stóru-Völlum á Landi honum til aftökunnar. Hafði biskup kross í hendi. Við höggstokkinn kraup hann sjálfur á kné og signdi sig. Þegar biskup var lagstur á höggstokkinn, reiddi böðullinn öxi sína til höggs. En höggið geigaði hjá honum sem fyrr, og við þriðja högg mælti biskup: “In manus tuas, domine, commendo spiritum meum” – herra, í þínar hendur fel ég anda minn. Það heyrðu menn hann mæla síðast orða, en í sjöunda höggi tók loks af höfuðið.

Eftirmáli – janúar 1551

Kirkjuból

Tóftir Kirkjubóls.

Norðlenskir vermenn drápu alla danska vetursetumenn á Suðurnesjum til hefnda eftir Jón biskup Arason og syni hans nú rétt fyrir Pálsmessu svo að ekki lifir utan einn, sem slapp frá þeim og komst í Skálholt. Meðal þeirra, sem að velli voru lagðir, var fógetinn á Bessastöðum, Kristján skrifari, er stóð fyrir aftöku Hólafeðga.

Þremur nóttum fyrir Pálsmessu komu sextíu norðlenskir vermenn suður á Reykjanes, og er það almannarómur, að Þórunn á Grund, dóttir Jóns biskups, hafi búið þá til ferðar og lagt svo fyrir, að þeir skyldu drepa alla Dani, sem þeir fengju færi á, hvar sem til þeirra næðist.

Kirkjuból

Kirkjuból – grafstæði.

Fógetinn, Kristján skrifari, tók sér gistingu að Kirkjubóli á Miðnesi með förunauta sína hjá Jóni bónda Kenrikssyni. Norðlendingar héldu uppi njósnum umferð hans, og um kvöldið eða nóttina dreif að flokka manna, sem slógu hring um bæinn. Voru þar komnir Norðlendingar þeir, sem talið er að Þórunn á Grund hafi gert út til hefnd. Voru þeir allir með hettur og hökustalla, svo að ekki yrðu borin á þá kennsl.
Norðlendingum varð það fyrst fyrir, er þeir sáu, að til bardaga myndi koma, að þeir létu kalla séra Jón Bárðason út, svo að hann fengi ekki mein af vopnum manna, og þekktist hann þegar boð þeirra um undankomu. Síðan rufu þeir húsin og veittu Dönunum atgöngu er þeir þóttust hafa brotið sér nógu greiða leið. Féllu allir þar inni, sjö eða níu, nema fógetinn, sem komst út, nokkuð sár. Var hann í hringatreyju, sem járn bitu ekki á, og fékk varist enn umhríð, uns til koma einn sveina Þórunnar á Grund. Hann var með lensu í hendi og kvaðst skjótt skyldu finna lagið á fógeta. Lagði hann lensuna neðan við treyjuna upp í smáþarmana. Rak fógeti þá upp hljóð, er hann kenndi lagsins, og lýsti piltinn banamann sinn. Meðal þeirra, sem drepnir voru á Kirkjubóli, var ungur sonur fógetans, Baldvin að nafni.

Kirkjuból

Kirkjuból – loftmynd 1954.

Þegar lokið var vígum, drógu Norðlendingar líkin norður fyrir garð á Kirkjubóli, þar sem þeir urðuðu þau í einni kös.
Á Bústöðum á Seltjarnarnesi bjó danskur maður og var honum gerð aðför ásamt fleirum, s.s. að Másbúðum. Alls voru það fjórtán menn, sem Norðlendingar vágu í einni lotu til hefnda eftir Jón biskup og syni hans.

Lík Jóns biskups Arasonar og sona hans, Björns og Ara, voru í apríl 1551 grafin upp að kórbaki í Skálholti og færð heim til Hóla. Hlutu þau leg í kirkjunni.

Laugarvatn

Vígðalaug á Laugarvatni.

Á leiðinni norður var komið við á Laugarvatni, þar sem tjaldað var yfir líkin, þau þvegin og búið sem best um þau. Kisturnar voru reiddar á kviktrjám og við hverja kistu voru hengdar litlar bjöllur eða klukkur, sem hringdu látlaust við hverja hreyfingu hestanna. Hvar sem þeir fóru um sveitir, flykktist fólk að þeim, einkum vanheilt og sjóndapurt, til þess að snetra kisturnar, ef það mætti verða því til bötunar, og fannst mörgum þeim verða að hyggju sinni.

Dönsk herskip voru send til Íslands í júlí 1551. Og tóku höfn í Eyjafirði. Flotaforingjarnir riðu til Hóla með sveit manna. Lögðu þeir hald á það, er þeim þótti fémætt og séra Björn Gíslanson hafði ekki áður komið undan í gröft eða geymslu. Helstu klerkar, sýslumenn, lögréttumenn og bændur voru kvaddir á Oddeyri og látnir sverja konungi hollustueiða.

Laugarvatn

Upplýsingaskilti á Laugarvatni.

Helga Sigurðardóttir, fylgikona Jóns biskups Arasonar, leyndist í úthaga um sumarið. Bjóst hún fyrst um í Vindáshlíð í mosalituðu tjaldi, samlitu jörðinni, en var síðar flutt á Glóðafeyki upp á Ökrum í Blönduhlíð, þar sem hún þótti óhultari.
Otti Stígsson lét taka Jón Kenriksson, bónda á Kirkjubóli á Miðsnesi, af lífi, ásamt einum hjáleigubændanna þar syðra. Var Jóni fundið það til saka, að hann hefði ekki bannað Norðlingum að rjúfa bæinn að Kirkjubóli, er þeir fóru að Kristjáni skrifara og fylgismönnum hans. Menn þessa lét Otti færa inn í Straum og reisa þar höggstokk, hjól og stengur. Voru þeir Jón Kenriksson leiddir þar ti höggs, höfuð þeirra sett á stengurnar og bolirnir hjólbrotnir í viðurvist, er þangað var stefnt. Síðan var allt látið standa sem komið var, öllum þeim til viðvörunar, er þar fóru um.

Hörð hríð var gjörð að banamönnum Kristjáns skrifara og annarra Dana, sem norðlenskir vermenn vágu á Suðurnesjum. Voru þeir allir dæmdir óbótamenn á Öxarárþingi. Sextán Norðlendinganna flúðu land með enskum kaupförum og fiskiskipum. Konungur féllst síðan á að þeim yrði leyft að kaupa sér frelsi, þar eð ekki var unnt að ná til margra þeirra, sem fremstir voru í flokki.

Skálholt

Skálholt á miðöldum.

Þórunn á Grund var fjórgift og loks svipt sjálfræði. Hún andaðist í desember 1593. Með henni var fallin einn helsti skörungur meðal kvenna á landinu. Hún var komin nokkuð á níræðisaldur. Var séra Sigurður á Grenjaðastað einn á lífi barna Jóns biskups Arasonar.
Hálfri öld eftir víg Jóns biskups Arasonar og sona hans var kyn hans þó orðið næsta fjölmennt, einkum þó kynkvísl séra Björns Jónssonar á Melstað.
Sjá meira um eftirmálana.

Heimild m.a.:
-Öldin okkar.

Kirkjuból

Kirkjuból – grafstæði.

Reykjanes

Hugtakið Reykjanes hefur löngum verið á reiki meðal fólks. Á gömlum landakortum er Reykjanesið sagt vera vestan línu sem draga má milli Sandvíkur í suðri og Stóru-Sandvíkur í norðri vestast á Reykjanesskaganum.

Reykjanes

Reykjanes – kort 1952.

Jón Th. fjallar um Reykjanesskaga í ferðalýsingum sínum og á þá jafnan við Landnám Ingólfs, þ.e. vestan línu, sem dregin er milli Ölfusárósa og Hvalfjarðar (Kollafjarðar). Eggert og Bjarni lýsa Reykjanesinu og Reykjanesskaga og eiga þá yfirleitt við svæði vestan línu milli Ölfusárósa og Kópavogs.
Á Netinu er lýst sveitarfélögunum á Reykjanesi, þ.e. Grindavík, Reykjanesbæ, Höfnum, Sandgerði, Garði og Vogum. Sveitafélögin kynna sig yfirleitt sem hluta af Reykjanesinu. Um bergfræðina á Reykjanesinu segir m.a.:
“Reykjanesinu er gjarnan skipt í 4 eða 5 eldstöðvakerfi, Reykjanes-Grindavík-Vogar (oft talið sem tvö kerfi), Krýsuvík-Trölladyngja, Brennisteinsfjöll-Bláfjöll og Hengill-Selvogur. Hliðrunarbelti með austur-vestur stefnu í gegnum þessi kerfi veldur tíðum jarðskjálftum á Reykjanesi og á því hafa myndazt háhitasvæði á yfirborði, s.s. á Reykjanesi, í Eldvörpum, í Svartsengi, í Krýsuvík og í Brennisteinsfjöllum Flest fjöll, t.d. Keilir, eru úr móbergi frá síðasta kuldaskeiði.”

Reykjanes

Reykjanes – kort.

Þá segir um Reykjanes: “Jarðskjálftar tíðir. Fjögur til fimm söguleg gos á Reykjanesi á tímabilinu 875 – 1340 og hraun u.þ.b. 16 talsins. Hraun við Hlíðarvatn frá 1340. Ögmundarhraun frá 1150. Hraun efst í Heiðmörk og Í Bláfjöllum u.þ.b. 1000 ára. Svínahraun gæti verið kristintökuhraunið frá 1000. Svartahraun við Bláa lónið frá 1226. Kapelluhraun frá 1150. Afstapahraun frá sögulegum tíma. Stampahraun og Arnarseturshraun frá 1226. Búrfellshraun er ca. 7200 ára (C14), gæti verið eitthvað yngra vegna skekkjuvalds C14 aðferðarinnar, sem er óþekktur. Kapellu- eða Nýjahraun rann á fyrri hluta 11. aldar (1010-1020). Heilög Barbara, verndari ferðamanna, jarðfræðinga og málmbræðslumanna. Lindir austan álvers gáfu Straumsvík nafn (nú listamannamiðstöð). Einnig miklar lindir austan Straumsvíkur. Hrútagjárdyngjuhraun ná frá Hvaleyrarholti að Vatnsleysuströnd (Vatnsleysuvík). Þar taka við Þráinsskjaldarhraun (Vatnsleysuhraun). Skjaldlögun austan Fagradalsfjalls er dyngja. Dalur milli dyngnanna. Þar eru Afstapahraun (apal), áður nefndt Arnstapahraun. Eldra Hraun undir, en þar er líka frá sögulegum tíma (landnámslagið er undir því).

Reykjanes

Reykjanes – jarðfræðikort.

Það eru u.þ.b. 12 söguleg hraun á skaganum, en litlar skráðar heimildir eru til um tilurð þeirra. Ástæður eru meðal annars þær, að bækur hurfu úr Viðeyjarklaustri. Þeim var rænt og hurfu í flutningi á 17. öld (skipstapi). Þráinsskjaldarhraun runnu við hærri sjávarstöðu skömmu eftir síðasta kuldaskeið. Það sést á rúlluðu grjóti ca 5m ofar núverandi sjávarstöðu (9000 ára).

Reykjanes

Reykjanes – jarðfræðikort.

Þráinsskjöldur er bunga austan Fagradalsfjalls (9000-10000 ára). Erfitt er að ákveða hvenær kuldaskeiði lauk hér, áætlað fyrir 9000-10000 árum.
Á Vatnsleysuströnd eru elztu hraunin. Stöðugar og hægfara hreyfingar hafa valdið miklum sprungum í þeim. Nýrri hraun ofan á fela líka eldri sprungur. Vogar (áður Kvíguvogar) og Vogastapi (Kvíguvogastapi; grágrýti). Stakksvogur á milli. Misgengi sunnan vegar við Vogastapa, Grímshóll með vörðu (75m). Lábarið grjót alls staðar meðfram vegi um Vogastapa. Vogastapi og Miðnesheiði eru gamlar dyngjur. Keflavíkurflugvöllur er á dyngju. Sandfellshæð er dyngja.
Stapafell myndaðist undir ís eða í sjó.

Reykjanes

Reykjanes – kort.

Arnarseturshraun (apal) er á leiðinni til Grindavíkur. Það er frá sögulegum tíma sbr. annála úr Skagafirði. Vallholtsannáll segir frá gosi 1661, en við rannsókn kom í ljós að landnámslagið (dökkt að ofan og ljóst að neðan) er undir hrauninu og Kötlulag (1495-1500) er ofan á því. Hraun við Svartsengi og Grindavík er ca 2400 ára. Án þess væri engin höfn í Grindavík. Grindavík fær neyzluvatn frá Svartsengi en fékk áður 12°C heitt vatn, sem hafði flest einkenni hitaveituvatns. Sandey í Þingvallavatni er u.þ.b. 2000 ára. Leitarhraun, þar sem Raufarhólshelli er að finna, er u.þ.b. 4800 ára.”
Þarna er Reykjanesið teygt alla leið til Þingvalla, sem er reyndar það lengsta, sem tekist hefur að koma því hingað til.
Á nat. is er Reykjanesið sagt vera “yzti hluti Suðurnesja. Þar eru mikil ummerki eldvirkni og vart sést þar stingandi strá. Mest ber á dyngjum, s.s. Háleyjarbungu og Skálafelli, og gossprungum eða gígaröðum, sem eru mun yngri en dyngjurnar og hafa að öllum líkindum myndast á sögulegum tímum. Jarðhiti er mikill á skaganum, ekki færri en fimm háhitasvæði. Eitt þeirra er á Reykjanesi, þar sem sjá má leir- og vatnshveri.”

Reykjanes

Reykjanes – kort.

Á nat.is eru taldir upp áhugaverðir staðir á Reykjanesi. Þar eru nefndir staðir frá Reykjanesvita upp í Brennisteinsfjöll og allt þar á milli, s.s. Selatangar, Þráinsskjöldur, Keilir og Helgafell fyrir ofan Hafnarfjörð. Silungsveiði er sögð góð í vötnum á Reykjanesi, s.s. í Djúpavatni, Hlíðarvatni og Kleifarvatni. Söfn eru sögð nokkur, þ.á.m. Byggðasafn Hafnarfjarðar.
Ljóst má af framangreindu að hin almenna túlkun á Reykjanesinu nær langt út fyrir Reykjanestána. Segja má að nú orðið sé svæðið vestan höfuðborgarinnar jafnan nefnt Reykjanes eða Reykjanesskagi í daglegu tali.
Reykjavík varð samheiti yfir alla byggðina ofan lítillar víkur, sem nú er horfin. Reykjanesbær varð samheiti yfir Keflavík, Njarðvíkur og Hafnir. Svona mætti lengi telja.
Mikilvægt er að aðilar noti Reykjaneshugtakið á sem jákvæðastan hátt þannig að sem best nýting megi verða á því sem flestum til hagsbóta.

Reykjanesskagi

Reykjanesskaginn.

Hnúkar

Á landakortum koma oft fram misvísandi upplýsingar. Þar eru t.d. staðsettur Kvennagönguhóll í Selvogi er Hnúkar heita. Hinn réttnefndi Kvennagönguhóll er sunnar og neðan við Hnúkana. FERLIR gekk á dögunum niður að hólnum. Segir sagan að þangað hafi konur, gamalt fólk og lasburða úr Selvogi gengið til að líta krossinn helga í Kaldaðarnesi augum. Hafði hann slíkan lækningamátt að hver sem rak hann augum gat læknast af meini því sem viðkomandi hrjáði. Þótt Kvennagönguhólar virðist vera eins og hverjir aðrir slíkir í landslaginu er hér um mjög merkilegan stað að ræða í sögu landsins.

Selvogsheiði

Selvogsheiði – kort.

Þegar kaþólskan vék fyrir lútherskunni varð krossinn þrándur í götu kirkjuvaldins. Segir sagan að Gissur biskup Einarsson hafi látið taka niður krossinn í kirkjunni í Kaldaðarnesi og sett hann á afvikinn stað. Á þessum krossi hafi hvílt mikil helgi og fjöldi fólks streymt í Kaldaðarnes á stórhátíðum til þess að gera þar bæn sína að krossinum. Þangað hafa og iðurlega verið farnar heitgöngur, þegar á bjátaði, og krossinum verið gefið stórfé.
Gissur biskup sendi prestum sínum áminningarbréf í vetur nokkru eftir áramótin og skipaði svo fyrir, að það skyldi lesið í öllum kirkjum biskupsdæmisins á krossmessu, helgum dómum til fordæmingar.
Bréfið sagðist hann skrifa sökum þess, að forn trú, er þann nefndi blindleika og hjátrú, haldist við í biskupsdæminu, og fólk láti ekki af því að leita líknar og huggunnar “hjá svo auðvirðulegum hlutum sem hjá einum og öðrum líkneskjum, sérlega hjá þeirri róðukrossmynd, sem hér er í Kaldaðanesi, með áheitum, fórnfæringum og heitgöngum, þvert á móti guðs boðorðum og vorrar trúar artikúlum.”

Kaldaðarnes

Kaldaðarnes – kirkjuhlið.

Þessu til áréttingar reið biskup síðan í Kaldaðarnes og fjarlægði krossinn. Hefur miklum óhug slegið á alþýðu manna, sem trúir sem fyrr staðfastlega á krossinn, við þessar tiltektir biskups.
Einhvern tímann á árinu 1560 eða 1561 var krossinum helga í Kaldaðarnesi tortímt. Gísli Skálholtsbiskup lét flytja hann í Skálholt og setti mann í að höggva hann sundur og brenna síðan brot og spæni. Fólkið bar harm sinn í hljóði. Var það blandið ugg og kvíða, því að mörgum bauð í grun, að land og þjóð myndi gjalda þess, er svo illa og ómannlega var farið með þann grip, sem mest helgi hefur verið á í öllum kirkjum landsins.

Heimild:
-Öldin okkar 1546-1547.

Kvennagönguhóll

Kvennagönguhóll.

Hraun

Haldið var að Hrauni í Ölfusi og tekið hús á Ólafi Þorlákssyni, öldnum og virtum bónda. Hann fylgdi FERLIR góðfúslega að hinni dulúðlegu dys á bökkum Ölfusár, en í henni eru taldar vera jarðneskar leifar Lénharðs fógeta á Bessastöðum.

Ölfus

Dys Lénharðs.

Í Öldinni okkar árið 1502 segir m.a. um dráp Lénharðs fógeta:
“Torfi Jónsson, sýslumaður í Klofa á Landi, hefur látið drepa Lénharð, fógeta á Bessastöðum. Fór Torfi að fógetanum, er hann var staddur á bæ í Ölfusi, rauf á honum húsin og felldi hann.
Torfi í Klofa er eitt hið mesta afarmenni, sem nú er uppi í landinu, og flestum óvægnari, ef í odda skerst. Hann hefur lengi átt í miklum deilum við Stefán biskup Jónsson í Skálholti, goldið slælega tíundir og kirkjureikninga, haft að engu dóma hans og haldið verndarhendi yfir fólki, sem biskup telur í sökum við kirkjuna.Lénharður fógeti hefur getið sér hið versta orð sökum ofríkis og ójafnaðar síðan hann kom að Bessastöðum. Í vetur gerðist hann sekur um manndráp, og á páskadag í vor misþyrmdi hann Árna Snæbjarnarsyni, ábóta í Viðey. Með þeim Torfa og Lénharði var fullur fjandskapur, og hefur fógeti haft í heitingum við hann að undanförnu. Fjandskapur var einnig með þeim Lénharði og biskupi.
Þegar Lénharður reisti austur í Ölfus, settist í bú að Arnarbæli og fór þar með ránskap og ofbeldi, safnaði Torfi liði og fór að fógetanum.

Hjalli

Lénharðardys.

Lénharður var staddur að Hrauni í Ölfusi, er Torfi kom með menn sína, og bjóst um í húsum inni, þegar hann varð ófriðarins var. Varð þeim Torfa ekki greitt inngöngu, því að piltur úr liði Lénharðs, Eysteinn Brandsson að nafni, varði dyrnar svo fimlega, að þeim vannst ekki á, nema hætta sér undir vopn hans.
Torfi greip þá til þess ráðs að láta rjúfa þekjuna á bæjarhúsunum, og féll fógeti eftir skamma viðureign, er menn Torfa voru inn komnir.
Stefán biskup í Skálholti hefur lagt bann við, að fógeti fái kirkjuleg, nema greidd séu þrjátíu hundruð honum til yfirbótar.”
Torfi ríki Jónsson, sýslumaður í Klofa, andaðist snögglega á þingferð í Landeyjum er hann sat að drykkju árið 1505. Ekkja hans, Helga Guðnadóttir, varð að gjalda biskupi nokkrar jarðir til þess að fá hann grafinn í Skálholti.

Hraun

Hraun í Ölfusi.

Lénharður var sagður hafa verið dysjaður að Hrauni. Hóllinn, eða dysin, er greinilega manngerður. Hlaðið er með hólnum og hefur áin skolað steinum úr henni. Regluleg hleðsla er vestan við hólinn. Líklegt er að þarna hafi verið t.d. leiðarmerki yfir Ölfusá, en vaðið er þarna nokkur ofar í ánni.
Ólafur sagðist hafa verið á ferð þarna einhverju sinni og þá fundið mannbein er stóð út úr hólnum. Áin hafi oft leikið hólinn illa, einkum fyrrum. Hún flæddi oft um svæðið og mæddi þá talsvert á hólnum. Munnmæli hafi verið um að þarna hefði Lénharður fógeti verið dysjaður, en hann teldi eins víst að þarna hefði fornmaður látið verpa yfir sig.
Ólafur sagði að einhverju sinni hafi ung nafngreind kona dvalið í tjaldi niður við bakka árinnar, nálægt dysinni, ásamt öðrum. Þá dreymdi hana að einkennisklæddur maður kæmi til hennar og sagði að þau myndi una þarna hag sínum vel um sumarið. Setti hún drauminn í samband við fógetann.
Frábært veður.

Lénharð

Dys Lénharðs.

Fornubúðir

„Eins og kunnugt er lauk “Ensku öldinni” með bardaganum og drápi Englendinga í virki Jóhanns breiða ofan við Stórubót í Grindavík í júní 1532. Þar má enn sjá leifar virkisins sem og „Enskulágar“ þar sem hinir ólánssömu Englendingar voru grafnir. En sá bardagi átti sér langan aðdraganda. Árið 1518 varð t.d. stórbardagi í Hafnarfirði milli þýskra og enskra kaupmanna, sem lutu í lægra haldi eftir mjög mannskæða viðureign. Hrökkluðust þeir við svo búið úr bækistöðvum við Hafnarfjörð.

Gerðisvellir

Tómas Þorvaldsson við leifar virkis Jóhanns Breiða ofan við Stórubót.

Englendingarnir höfðu sest að í Fornubúðum við Hafnarfjörð og voru með fjölmenni á stóru skipi. Hamborgarar, sem ekki vildu una því, að ensku kaupmennirnir hefðu höfnina, söfnuðu liði meðal Þjóðverja á Vatnsleysuströnd, í Keflavík, Básendum og Þórshöfn (við Ósa) og fengu þaðan fjörutíu og átta menn til liðs við sig.
Hamborgarar klæddu síðan skip sín sængum í sjó niður og sigldu þannig búnir inn fjörðinn í útrænu. Elda kyntu þeir og á skipum sínum, svo að reykinn legði inn yfir Englendinga.

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir og Gerðavellir – uppdráttur ÓSÁ.

Þarna varð hinn grimmasti bardagi, og er til marks um mannfallið, að ekki komust heilir úr slagnum nema átta þeirra Þjóðverja, sem gengið höfðu í liðið á Suðurnesjum. Eigi að síður unnu Hamborgarar sigur á Englendingum, er nú eiga sér ekki lengur griðland annars staðar á Reykjanesskaga en í Grindavík.
Vorið 1532 sneru þýskir kaupmenn og skipstjórar sér til ráðsins í Hamborg og báðu það senda sér liðsauka, þar er þeir hefðu einsett sér að fara að Englendingum í Grindavík.
Það er skreiðin, sem í rauninni er bitist um. Hún er svo verðmæt, að Englendingar telja skreiðarfarm geta numið allt að fjórum fimmtu hlutum af verði skips, öllum úthaldskostnaði þess í Íslandssiglingu og vörufarmi, er það flytur til Íslands.“

-Úr Öldin okkar 1518 og 1532.

Hvaleyrarlón

Hvaleyrarlón við Hafnarfjörð. Fornubúðir voru á grandanum að handan.

Rauðablástur

Í Morgunblaðinu 1971 er fjallað um „Rauðablástur„:

Mýrarrauði

Mýrarrauði.

„Rauðablástur er aðferð til að bræða járn úr mýrarrauða yfir viðarkolaglóð í sérstökum ofni. Talið er að Íslendingar hafi unnið sitt járn sjálfir þar til farið var að flytja inn Ásmundarjárn um miðja 15. öld. Rauðablástur á Íslandi lagðist af þegar vinnsla járngrýtis hófst á Norðurlöndum.
Rauðablástur fór þannig fram að þurrkuðum mýrarauða var blandað saman við viðarkol. Kveikt var í blöndunni í ofni og við brunann afoxaðist járnið úr (vötnuðu) járnoxíði í járnmálm sem er bráðinn og seytlaði niður í botn ofnsins.

Mýrarrauði

Mýrarrauði – járn.

Járnvinnsla er elzta iðn sem um getur hér á landi. Í Landnámu er þess getið um Björn landnámsmann í Dalsmynni í Norðurárdal, að hann hafi fyrstur manna blásið rauða á Íslandi, og þess vegna hafi hann verið kallaður Rauða-Björn.
Jám var þá unnið úr mýrarauða og var það kallað rauðablástur. Enginn vafi er talinn á því, að allir hinir norrænu landnámsmenn hafi kunnað rauðablástur, því að hann var stundaður á öllum Norðurlöndum. Þykir því líklegt, að rauðablástur hafi þegar í öndverðu verið tekinn upp um land allt, og mjög óvíst að Rauða-Björn hafi orðið fyrstur til þess, því að sagt er að hann hafi komið út seint á landnámsöld. En í Egils sögu er þess getið um Skallagrím, að hann hafi verið járnsmiður mikill, haft rauðablástur og sjálfur framleitt járn til smíðanna.

Mýrarrauði

Mýrarrauði – járn.

Rauðablástursofnar hafa fundizt mjög víða um land og heimildir eru um, að rauðablástur hafi verið stundaður á fleiri bæjum en þar, sem ofnar hafa fundizt.
Samhliða þessari iðju varð einnig að stunda aðra, en það var viðarkolagerð, vegna þess að járnið varð að bræða úr rauðanum við viðarkolaeld. Og kolagerð kunnu landnámsmenn líka. En vegna þess, að þetta hvort tveggja fór saman, hefir verið seilzt til þess að hafa rauðablástursofnana, þar sem nægur skógur var, þvá að mikil kol þurft til rauðablástursins.

Rauðablástur

Rauðabástur; tilgátuuofn.

Það er álit fróðra manna, að fornbændur hafi framleitt mikið járn, jafnvel eins mikið og þeir þurftu árlega til smíða. Járnið mun þó aldrei hafa verið gott, því að framleiðsluaðferðin var einföld og tæki til hennar mjög fábrotin. Rauði finnst mjög víða í byggðum, en varla á hálendinu. Hann er í kögglum eða í heilum, en er mjög blandaður leir, jurtaefnum, söltum o.fl. og er mikil vinna að ná hreinu járni úr honum.

Reykjavík

Laugarnes 1836.

Menn vita nú ekki glögglega hvernig rauðablæstrinum hefir verið hagað vegna þess hve langt er síðan hann lagðist niður, en þetta þykjast menn vita: „Hlaðinn var á bersvæði allstór ofn úr grjóti, ýmist hringlaga eða ferhliða. Síðan var grjóthleðslan þéttuð vandlega innan með leiri eða deigulmó. Þegar ofninn var fullger varð að kynda hann rækilega til þess að hita hann og varð að vera mikil glóð í honum þegar bræðslan hófst. Þá var viðarkolum og muldum rauða mokað í ofninn sitt á hvað og til þess að örva eldinn og hitann, var blásið í ofninn með físibelgjum. Bráðnaði þá járnið úr, en sorinn og gjallið varð eftir. Þegar járnið kólnaði var það tekið úr ofninum með töngum og síðan var gjallið hreinsað úr honum og fleygt í hrúgu.“ Þessar gjallhrúgur vísa mönnum venjulega á þá staði, þeir sem rauðablástur hefir farið fram. Og fundarstaðir eru orðnir margir, eins og áður er sagt og nálgast nú líklega hundraðið.

Laugarnes

Laugarnes.

Rauðablástur var stundaður allt fram á 16. öld, eða þar til Þjóðverjar fóru að flytja erlent járn hingað. Þetta járn var miklu betra en hið íslenzka og tók því brátt að dofna yfir rauðablæstri hér.
Járnvinnslan lagðist niður og aðferðin gleymdist. Þó getur Eggert Ólafsson þess, að Jón Halldórsson prófastur í Hítardal hafi látið vinna járn úr rauðum hraunsteini, og hefir það líklega verið laust eftir 1700. Seinasti maðurinn, sem talið er að hafi stundað rauðablástur, var Einar bóndi í Kollsvík, en Einar var uppi á fyrri hluta 19. aldar.

Kollsvík

Kollsvík.

Hér í Reykjavík hefir einnig verið rauðablástur í fomöld. Var það svo að segja segja af tilviljun, að bræðsluofninn fannst. Í sunnanverðu Laugarnestúni var stór þúfa eða lítill hóll og bar nafnið Hallgerðarleiði. Fylgdi sú sögn, að þetta væri legstaður Hallgerðar langbrókar, sem eitt sinn átti Laugarnes og sagt var að hefði dáið þar. Nú var það um 1920 að slétta átti túnið. Þá átti Ólafur Þorgrímsson lögfræðingur heima í Laugarnbesi hjá föður sínum. Honum þótti leitt til þess að vita, að Hallgerðarleiði hyrfi alveg án þess að rannsakað væri hvort sögnin um það hefði við nokkuð að styðjast. Þess vegna réðst hann í að grafa upp ,,leiðið“.

Laugarnes

Laugarnesstofa.

Kom hann þá brátt niður á steinahleðslu, sem sýndi, að þarna var eitthvert mannvirki. Vildi hann þá ekki grafa þar meira að sinni. Og nú var Matthías Þórðarson þjóðminjavörður kvaddur á vettvang til þess að skera úr um hvers konar mannvirki þetta væri. Hann þurfti ekki nema að horfa á þetta til þess að sjá, að hér var um gamlan rauðablástursofn að ræða.
Þetta var merkilegur fornleifafundur, því að hann sýndi það ótvírætt, að í fornöld hefir allt Laugarnesið verið þakið skógi, því að rauðablástursofnar voru ekki settir annars staðar en þar, sem nægur kolskógur var fyrir. Og þetta gefur bendingu um, að öll holtin, sem Reykjavík stendur nú á, hafi verið skógi klædd í fomöld.
Þessi rauðablástursofn er nú horfinn, en hann mun vera undir malbikinu sem næst því, er nú mætast Laugarnesvegur og Kleppsvegur.“

Heimild:
-Morgunblaðið 5. febr. 1971, Rauðablástur, bls. 7.
-https://is.wikipedia.org/wiki/Rau%C3%B0abl%C3%A1stur

Rauðablástur

Gjall eftir rauðablástur.

Reykjanesskagi

Fjölmargir, bæði innlendir sem útlendir, fara að Reykjanesvita á hverju ári. Þar virða þeir fyrir sér hið fallega umhverfi, vitann á Vatnsfelli, Valahnúk og Karlinn utan við ströndina. Fuglakliðið í Hnúknum vekur jafnan mikinn áhuga sem og átök sjávar og strandar þegar hreyfing er á vindi og vatni.
En það er fjölmargt fleira að sjá og skoða við Reykjanesvita.

Reykjanesviti

Reykjanesviti.

Fellin við nýja vitann, sem tekinn var í notkun 1908, heita Hverhólmar, Írafell og Vatnsfell. Í því er dálítið vatn í dýjaveitum, sem safnast þar saman af snjó- og regnvatni.
Við strönd Reykjaness og báðu megin nessins hafa orðið mörg og mikil sjóslys á þessari öld (20. öldinni). Við Reykjanes strandaði m.a. eitt af stærstu skipum sem strandað hefur við Ísland, olíuskipið Clam. Það var 28. febrúar 1950. Skipið vari vélarvana eftir að hafa rekið upp í fjöru í Reykjavík og á leið til útlanda dregið af dráttarbáti, sem það slitnaði frá í ofsaveðri.

Clam

Clam á strandsstað.

Um borð voru 50 skipverjar. (Hvers vegna 50 manns voru um borð í vélarvana skipi sem draga átti til útlanda af dráttarbáti bíður sagnfræðinga að rannsaka). Þarna fórust 27 manns en 23 tókst að bjarga. Til eru og sagnir af björgun skipsáhafna er báta þeirra rak inn í Blásíðubás í vondum veðrum. Undir berginu austan Valbjargargjár eru margir sjávarhellar. Einn þeirra er opinn upp og hægt að komast áleiðis niður í hann og horfa á hvernig sjórinn er smám saman að grafa undan berghellunni.
Fyrsti ljósviti á Íslandi var reistur á Valahnjúki 1878.

Reykjanesvit

Reykjanesviti 1878.

Í miklum jarðskjálftum 8-9 árum síðar hrundi úr hnjúknum og sprungur mynduðust ofan á honum. Var þá talið að reisa yrði vitann á öruggari stað og var þá núverandi viti á Vatnsfelli byggður og tekinn í notkun 1908.
Annar viti (oft nefndur Litli viti), minni, var reistur sunnar á svonefndu Austurnefi. Ástæðan er sú að lítið eldfell, sem nefnist Skálarfell, skyggir á ljósið frá stóra vitanum á nokkru svæði þegar siglt er úr suðri. Hóllinn sem er á móti Vatnsfelli og er á vinstri hönd þegar ekið er fram hjá vitavarðarhúsinu á leið út að Valahjúk nefnist Bæjarfell.

Þegar gamli Reykjanesvitinn var reistur um 1878 voru auk þess bygður bær fyrir vitavörðinn sem og hlaðinn brunnur undir Bæjarfelli. Þetta var fallega hlaðinn brunnur, sem enn stendur. Gengið er inn í brunninn, sem þótti sérstakt. Slíka brunna má t.d. sjá við Merkines við Hafnir og á Snæfellsnesi (Írskabrunn). Nálægt brunninum er a.m.k þrjár tóftir.

Reykjanes

Reykjanesviti og nágrenni – uppdráttur ÓSÁ.

Til eru uppdrættir og riss af vitasmíðinni, umhverfinu og öðrum mannvirkjum á svæðinu. Verkinu var stjórnað af dönskum, sem lögðu fram verkfræðikunnáttuna, en íslenskir handaflið.
Frá vitavarðahúsinu var hlaðinn og flóraður stígur yfir að Valahnúk. Stígurinn sést enn vel. Gamli vitinn var hlaðinn úr grjóti og var sumt tilhöggvið. Sjá má leifar gamla vitans undir Valahnúk, skammt frá hlöðnu hesthúsi, sem enn stendur. Grjótið var sótt í yfirborðsklöpp norðan við Valahnúk. Þar hefur jafnþykk klöppin verið brotin niður af bakka og sést hlaðin gata liggja þar niður með kantinum.

Reykjanes

Reykjanesviti og nágrenni – uppdráttur ÓSÁ.

Norðan nýja vitans má sjá grunn af sjóhúsinu ofan við Kistu, en þangað var efni í hann flutt sjóleiðina og skipað á land. Enn austar með ströndinni er hlaðin tóft af húsi, líklega upp úr selstöðu, eða hugsanlega frá hinum gömlu Skjótastöðum.

Neðan við Bæjarfellið, við Keldutjörnina, er hlaðið gerði umhverfis klettasprungu. Í sprungunni er vatn þar sem gætir sjávarfalla. Áður var vatnið volgt, en hefur nú kulnað. Þarna lærðu ungir Grindvíkingar að synda og í kringum 1930. Ofan við Keldutjörn er hlaðinn túngarður.
Hlaðið er undir pall austan við Valahnúk. Þar höfðust menn frá Kirkjuvogi/Kotvogi við í tjöldum er þeir unnu m.a. reka á Valahnúkamölum. Til eru sagnir um iðju þeirra eftir mikla trjáreka. Dæmi eru og um að menn hafi gist í hellisskúta uppi í Valahnúkum, en ekki orðið svefnsamt vegna draugagangs.

Skálafell

Skálafell á Reykjanesi.

Í Skálfelli er djúpur hellir, Skálabarmshellir. Við op hans er torræð áletrun. Austan undir Skálafelli er hlaðið skjól, líklega fyirr refaskyttu, en mörg greni voru þaðan í sjónmáli niður á Rafnkelsstaðabergi.
Jarðfræðin á svæðinu er merkileg. Sprungurein gengur í gegnum það til SA. Sjá má hvernig gosið hefur á reininni á nokkrum stöðum (Stamparnir) og hvernig gosin hafa raðað sér upp eftir aldri. Ströndin ber glögg merki átakanna við Ægi. Landið hefur ýmist verið að stækka vegna nýrra gosa og minnka þegar sjórinn hefur verið að brjóta það miskunnarlaust niður þess á milli. Karlinn utan við ströndina er ágætt dæmi um það.

Heimild m.a.:
-Leó. M. Jónsson – Höfnum

Reykjanesviti

Reykjanesviti.

Tunglið, tunglið taktu mig

FERLIRsfélagar héldu fótagangandi frá Stóra-Nýjabæ í Krýsuvík yfir að Víti í Kálfadölum.

Ásgeir Long

Ásgeir Long.

Ásgeir Long og Valgarð Runólfsson gerðu stuttmyndina „Tunglið, tunglið taktu mig“ árið 1954. Kvikmyndin var að hluta til tekin í bátasmiðjunni Dröfn í Hafnarfirði og útiatriðin vestan við framangreint Víti austan Stóra-Nýjabæjar. Víti er hraunfoss í austanverðum syðri Kálfadölum er rann skömmu fyrir landnám úr eldgosahrinu í sunnanverðum Brennisteinsfjöllum – ofan Geitahlíðar.
Í örnefnalýsingu Ara Gíslasonar fyrir svæðið segir: „Norður af Geitahlíð, sem fyrrnefnd er, tekur við háslétta, sem er víðast eldbrunnin. Vestur af hálendisbrúninni norðan Geitahlíðar fellur hraunfoss, sem allur er vaxinn þykkum grámosa. Foss þessi heitir Víti. Norður af Geitahlíð og Víti eru Kálfadalahlíðar, og vestan þeirra eru dalir eða lægðir, nokkuð djúpar, og heita Kálfadalir. Inn af þeim er svo Kálfadalahnúkur. Hér norðar á hásléttunni er Vörðufellið, sem fyrr var getið, og austan þess heita Sandfjöll. Hér uppi er hásléttan áfram hallandi til vesturs eða suðvesturs. Er hún frekar mishæðalítil, en öll eldbrunnin, með hrauntröðum og formfögrum gígum.

Víti

Myndatökustaðurinn vestan Vítis.

Efst, þar sem er markalínan móti Herdísarvík, eru svonefnd Brennisteinsfjöll. Hækka þau til norðurs. Heldur sunnar en háaustur frá norðurenda Kleifarvatns er uppi á há Brennisteinsfjöllum svonefnt Kistufell. Þar norður af eru svo Draugahlíðar, sem munu vera í Herdísarvíkurlandi, enda hallar þeim mót austri, og er þá skammt eftir í Kóngsfell.“

Víti

Myndatökustaðurinn vestan Vítis.

Fátt er um örnefni á svæðinu. Þó er getið um Austurengjafellið milli syðri Kálfadala og Austurengjahvers (Stórahvers), en nafns hinnar feikimiklu hraunbreiðu ofan Geitahlíðar er hvergi getið. Þar eru nokkrir formfagrir gígar og nokkur samliggjandi hraun er benda til þess að gosið hafi þar nokkrum sinnum í mismunandi goshrinum, líkt og nú gerist í og við Fagradalsfjall. Hraunfossinn Víti er afurð eins þessa. Hraunstraumurinn fyllti að hluta til Kálfadalina, bæði til suðurs og norðurs, líkt og sjá má á meðfylgjandi loftmynd neðst. Á jarðfræðikortum ÍSOR er hraunið nefnt Kálfadalshraun og aldur þess sagður 1100-4000 ára.

Víti

Víti.

Stórbrotið er að standa andspænis hraunfossinum og ímynda sér þær miklu náttúruhamfarir þá er þar urðu.
Vestan við syðri Kálfadali eru miklar móbergsmyndanir í bland við hraungos undir jökli fyrir meira en ellefu þúsund árum. Landslagið þar mynnir á yfirborð Tunglsins. Það var því ekki að ástæðulausu sem Ásgeir Long og félagar hafi ákveðið að gera það að sviðsmynd stuttmyndarinnar „Tunglið, tunglið taktu mig„. Lengi vel má sjá leifar „kóngulóarvefs“ leikmyndarinnar í móbergsmyndunum.

TungliðÍ Tímanum 16. ágúst 1961 segir m.a. um kvikmynd þeirra Ásgeirs og Valgarðs: „Tunglið, tunglið taktu mig segir frá ferð lítils drengs með eldflaug til tunglsins og ævintýrum hans þar. Leikur Jón Guðjónsson drenginn. Kvikmyndin er að mestu tekin við Víti við Kleifarvatn, en þar er ákaflega tunglslegt landslag. Leikstjórinn að báðum þessum kvikmyndum var Jónas Jónasson útvarpsþulur.“

Tunglið

Úr stuttmyndinni; karlinn í Tunglinu.

Í bæjarblaðinu Hamri 1955 er fjallað um stuttmyndina undir fyrirsögninni „Íslenzk barnakvikmynd“: „Ásgeir Long sýndi barnaskólabörnum og fleirum tvær kvikmyndir, sem hann hefur tekið. Er önnur þeirra „Dagur við ána“, laxveiðimynd, tekin við Haukadalsá í Dölum og er hún mjög vel tekin. Er þar fjölbreytilegt og fagurt landslag en myndin er í litum og eru þeir mjög fagrir. Um 15 mínútur tekur að sýna myndina.

Tunglið

Úr kvikmyndinni.

Hin myndin er barnakvikmynd, og heitir „Tunglið, tunglið taktu mig“ og eru þeir Ásgeir Long og Valgarð Runólfsson höfundar hennar, en Ásgeir tók myndina. Tekur um 20 mínútur að sýna hana. Þetta er fyrsta barnamyndin, sem þeir framleiða og er hún því gerð í tilraunaskyni, en ætlun þeirra félaga er að framleiða íslenzkar barnamyndir og nota m. a. efni úr þjóðsögunum.
Myndin segir frá Nonna litla, sem í draumi fer í geymfari til tunglsins og lendir hann í hinum mestu mannraunum bæði á leiðinni og svo eftir að hann kom til tunglsins. Hitti hann þar karlinn í tunglinu og bjargaði honum úr lífsháska, en komst svo í hann krappan sjálfur, því þar átti einnig hin mesta ófreskja heimkynni sín.

Tunglið

Úr kvikmyndinni.

Leikendur í myndinni eru: Nonni litli leikinn af Jóni Guðjónssyni, pabbi og mamma leikin af Valgarð Runólfssyni og Guðrúnu Helgadóttur, karlinn í tunglinu leikinn af Ólafi Friðjónssyni og ófreskjan leikin af Jóni Má Þorvaldssyni. Hefur myndin heppnast vel og hafa bæði börnin og fullorðnir haft mikla ánægju af að sjá hana. Þeir Ásgeir og Valgarð eru langt komnir með aðra barnamynd og er við gerð hennar stuðst við þjóðsöguna um Gilitrutt. Mun taka um 1 klst og 20 mínútur að sýna hana.
Hér er um merkilegt starf að ræða í því að framleiða íslenzkar barnakvikmyndir og er vonandi, að þeim Ásgeiri og Valgarð takist að ná því marki að geta framleitt góðar og skemmtilegar barnamyndir.!

Tunglið

Úr kvikmyndinni.

Í ritinu „Unga Ísland“ árið 1954, undir fyrirsögninni „Ný íslensk barnakvikmynd- Tunglið, tunglið taktu mig“, segir: „Bráðum verður farið að sýna nýja íslenzka kvikmynd fyrir börn, sem heitir „Tunglið, tunglið taktu mig.“ En framleiðendur myndarinnar þeir Ásgeir Long vélstjóri í Hafnarfirði og Valgarð Runólfsson kennari í Reykjavík. Myndin fjallar um lítinn dreng, sem kallaður er Nonni.

Tunglið

Úr kvikmyndinni.

Á gamlárskvöld horfir hann á eftir flugeldi, sem skotið er upp í loftið. En Nonni litli á sjálfur dálítið geimfar, sem hann leikur sér oft að; og nú sjáum við inn í hugarheim drengsins, — fljúgum með honum út í endalausan geiminn í litlu eldflauginni hans og stefnum á tunglið. Á leiðinni lendir hann í ýmsum erfiðleikum, en kemst að lokum til tunglsins og hittir þar fyrir óvænta íbúa. En ekki meira um efnið að sinni.

Víti

Tökustaðurinn.

Talsverðum erfiðleikum var bundið að gera þessa mynd, og lengi var aðalvandinn að finna hentugt húsnæði. En úr því rættist sem öðru. Skipasmíðastöðin Dröfn í Hafnarfirði lánaði stóran sal endurgjaldslaust í þrjá mánuði undir kvikmyndatökuna. Flugfélag Íslands lánaði ýmislegt er þurfti við smíði flugskipsins, og ennfremur lánuðu Randíóverkstæði Landssímans og Flugskólinn Þytur ýmsa nauðsynlega hluti. Engu starfsfólki var hægt að greiða kaup, og urðu allir, sem hönd lögðu að verkinu, að vera sjálfboðaliðar og áhugafólk.

Víti

Kvikmyndastaðurinn.

Auk Valgarðs og Ásgeirs unnu við myndina þeir Axel Sölvason rafvélavirki, Reykjavík, er sá um ljós og annan rafmagnsútbúnað, Sigurður Haraldsson, Reykjavík, er gerði flug geimfarsins kleift, og Þórður Bjarnar útvarpsvirki, Reykjavík, er tók allar ljósmyndir og vann við ýms tækniatriði. — Einn mann skorti þó tilfinnanlega, en það var leikstjóri. Ber myndin þess að sjálfsögðu merki og hefði vafalaust getað orðið betri, ef hans hefði notið við.
Leikendur eru: Jón Guðjónsson (10 ára), sem leikur Nonna og því aðalhlutverkið; Guðrún Helgadóttir leikur mömmuna og Valgarð Runólfsson pabbann. Auk þess leika þeir Ólafur Friðriksson og Jón Már Þorvaldsson persónur, sem bezt er að vita sem minnst um fyrirfram.

Víti

Víti.

Byrjað er á töku annarrar myndar, sem sótt er í íslenzkar þjóðsögur. Verður Jónas Jónasson útvarpsþulur leikstjóri hennar, en Ásgeir Long sér um kvikmynda- og tónupptökuna o. fl. Ljósameistari verður Axel Sölvason, og Valgarð Runólfsson semur kvikmyndahandritið og leikur eitt aðalhlutverkið.
Erfitt er að spá nokkru um framtíð þessa unga fyrirtækis að svo stöddu, en ef aðstandendur þess vinna áfram af sama áhuga og hingað til, er ekki útilokað að þeir geti með tímanum boðið íslenzkum bömum upp á kvikmyndir, sem þau skilja og sem hafa meiri fræðandi og þroskandi áhrif á þau en mikið af þeim erlendu barnamyndum, sem nú tíðkast í kvikmyndahúsum okkar.“
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Heimildir:
-Krýsuvík, örnefnalýsing; Aro Gíslason.
-Tíminn, miðvikudagur 16. ágúst 1961, bls. 16.
-Hamar IX. árg. 9. maí 1955, bls. 3.
-Unga Ísland, 4. tbl. 01.12.1954, Ný íslensk barnakvikmynd, bls. 8-9.
https://www.youtube.com/watch?app=desktop&v=DtYmcBHjRck

Víti

Víti – loftmynd.