Selgjárhellir

Gengið var að hellunum í Urriðavatnshrauni. Á litlu svæði eru a.m.k. sex hellar, þar af þrír nokkuð langir, en hinir hafa verið notaðir sem fjárskjól. Í einum þeirra, Þorsteinsshelli (Sauðahellirinn syðri), eru miklar hleðslur er mynda þverskiptan niðurgang í tvískiptan hellinn.

Selgjá

Norðurhellrar í Selgjá.

Annar fjárhellir (Selgjárhellir) er skammt norðaustar, í norðvesturenda Selgjár, sem einnig var nefnd Norðurhellragjá. Hleðslur eru fyrir opi hans. Þá eru fyrirhleðslur í helli skammt norðan hans (Sauðahellirinn nyrðri). Sá hellir hefur greinilega verið notaður sem fjárhellir. Einnig eru hleðslur í helli vestan við Þorsteinshelli. Hellar þessir gengu áður undir samheitinu Norðurhellar.
Selgjá hét Norðurhellragjá eða Norðurhellagjá. Í henni eru margar minjar selsbúskaparins fyrr á öldum. Í jarðabókinni 1703 er getið um sel frá átta kóngsjörðum á Álftanesi. Ávallt er getið um selstöðurnar í þátíð svo allnokkur tími virðist hafa verið síðan þær lögðust af. Í Selgjá hafa talist 11 seljasamstæður, sem allar eru byggðar upp við gjárbarmanna, a.m.k. um 20 byrgi og 10 eða 11 litlar kvíar.

Selgjá

Þorsteinshellir við Selgjá.

Sauðahellirinn syðri er hér nefndur Þorsteinshellir, en undir því nafni mun hann hafa gengið um tíma er samnefndur maður Þorsteinsson, þá ábúandi í Kaldárseli, notaði hellana sem fjárskjól um aldamótin 1900. Um hann er fjallað í lýsingu um Kaldársel hér á vefsíðunni. Urriðakotsdalastígur/Gjáarréttarstígur lá þarna skammt frá hellinum um Mið-Tjarnarholt.
Opnað hefur verið inn í langan helli í jarðfalli skammt norðvestan við Þorsteinshelli. Þá er Skátahellir alllangur. Varða er ofan við op hans. Þriðji langhellirinn er skammt norðar. Gróið er í kringum opið. Fara þarf niður undir lágt klapparholt. Þar opnast rás inn undir hraunið. Gömul mosavaxin varða er skammt frá opinu. Því miður gleymdist ljóskerið svo ekki var hægt að fara mjög langt inn eftir rásunum að þessu sinni. Ljósið frá farsímanum dugði þó fyrstu 30 metrana, svona til að skoða hvers konar rásir var um að ræða. Fyrir innan opið á síðastnefndu rásinni er hleðsla, líkt og einhver hafi haft þar bæli um tíma. Augsýnilega hafði þó ekki verið farið þangað niður um allnokkurn tíma.

Þorsteinshellir

Fjárskjól við Selgjá (Þorsteinshellir).

Urriðavatnshraun er hluti af Búrfellshrauni. Hraunið er komið úr Búrfellsgíg, sem blasir þarna við í enda Búrfellsgjár. Selgjáin hefur verið hluti þessarar hrauntraðar, en vegna misgengis og hreyfingu landsins, er hún nú allnokkru hærri en Búrfellsgjáin. Misgengið gengur þarna áfram við sunnanverðar Smyrlabúðir að vestanverðu og Hjallana að norðanverðu. Hraunið hefur runnið í tveimur kvíslum vestur milli grágrýtishæðanna og allt í sjó úr í Hafnarfirði og Skerjafirði. Á leiðinni heitir hraunið ýmsum nöfnum, s.s. Urriðvatnshraun, Vífilsstaðahraun, Svínahraun, Garðahraun, Flatahraun, Gálgahraun, Hafnarfjarðarhraun, Gráhelluhraun og e.tv. fleiri nöfnum. Guðmundur Kjartansson (1972) fékk gerða aldursákvörðun á mó undan Búrfellshrauni við Balaklett og samkvæmt því er hraunið um 7200 ára.

Setbergsselshellir

Í Setbergshelli.

Í syðri hraunkvíslinni eru t.d. Hvatshellir, Kershellir og Kethellir (Selhellir). Skammt norðar í nyrðri hraunkvíslinni (sömu og Norðurhellarnir) eru Maríuhellar, öðru nafni Urriðakotshellir og Vífilsstaðahellir.
Búrfellsgjá er engin gjá í venjulegri merkingu heldur hrauntröð, þ.e. farvegur, sem rennandi hraunkvika hefur eitt sinn fyllt upp á barma. Hraunrennslið þvarr mjög snöggt í Búrfellsgjá og farvegurinn tæmdist nær því í botn. Hellarnir við enda Selgjár eru við enda hrauntraðarinnar
Frá sjónarmiði hellafræðinnar er Búrfellsgjáin merkilegasta fyrirbærið í Búrfellshrauni, en í hrauninu eru einnig nokkrir hellar, m.a. þeir sem hér eru nefndir.

Frábært veður – stilla og hlýtt – Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Heimildir m.a.:
-Hraunhellar á Íslandi – Björn Hróarsson – 1990.
-Örnefni og leiðir í landi Garðabæjar – Guðlaugur R. Guðmundsson -2001.

Þorsteinshellir

Þorsteinshellir.

Ísland

Nafngift Íslands er tengt nafni Jesú. Í gamal-írsku er það skrifað Ís(s)u, eða sá hvíti. Ísusland mun því hafa verið „landið hvíta„. Það hefur löngum vafist fyrir mönnum, bæði lærðum og leikum, hvers vegna þessu fallega landi var í upphafi valið svo kaldranalegt nafn. Það er ákveðin staðreynd, sem hefur sýnt sig og sannað í aldanna rás, að þeir, sem uppgötva ný lönd gefa þeim eitthvert nafn annaðhvort þegar þeir berja þau fyrst augum eða þegar þeir stíga fæti á fast land.

Landnám Íslands

Landnám Íslands – Samúel Eggertsson.

Þegar Leifur Eiríksson fór í sína landkönnunarferð í vesturátt, gaf hann öllum þeim löndum nafn er hann fann, ýmist þegar hann sá þau eða þegar hann hafði kynnt sér þau nánar og oftast var það tengt útliti eða landgæðum.
Í Landnámu er sagt frá að Naddoddur víkingur hafi fyrstur fundið landið og nefnt það Snæland, vegna þess að snær mikill hafi fallið á fjöll. Þetta er samsvarandi venjunni að gefa einhverju nafn eftir atburði, kostum eða göllum.
Næstur til þess að uppgötva landið er Garðar Svavarsson. Hann fer að ráði móður sinnar að leita Snælands og siglir umhverfis landið og uppgötvar að það er eyja. Þrátt fyrir að þá þegar sé búið að gefa landinu nafnið Snæland og Garðari sé kunnugt um það, er landinu gefið nafnið Garðarshólmur.

Íslandskort

Íslandskort (Nova et accurata Islandiæ delineatio) frá árinu 1670, gert af Þórði Þorlákssyni biskupi í Skálholti. Fyrir neðan Íslandskortið er Lofkvæði til Kristjáns
konungs V, skrifað í fjóra dálka, á latínu, dönsku og íslensku með venjulegu letri og rúnaletri.
Efst á kortinu eru myndir af sjávardýrum og skjaldarmerki Íslands, sem er flattur þorskur borinn af tveimur fuglum, í hægra horni, þar fyrir neðan er titill. Í neðra horni vinstra megin
er skjöldur með táknmyndum og tileinkun til Kristjáns V Danakonungs. Kortið er á pappír (95 cm x 69 cm). Í handritaskrá Jóns Ólafssonar úr Grunnavík (AM 477 fol.) eru nefnd
fleiri kort með þessu sem ekki finnast lengur í safni Árna Magnússonar.

Það er einkennilegt, fyrst á annað borð þurfti að klína einhverju öðru nafni á landið, að ekkert annað hafi komið upp í hugann eftir alla þá stórkostlegu landfegurð og furður, sem hljóta að hafa borið fyrir augum, hringinn í kringum landið.
Næstur í röðinni er Hrafna-Flóki Vilgerðarson. Hann fer að leita að Garðarshólma, þannig að hann veit ekki aðeins um það nafn á landinu, heldur má líka gefa sér það að hann hafi vitað um nafnið Snæland. Hann kemur að landinu austanmegin, við Horn, alveg eins og Garðar Svavarsson og siglir vestur um Reykjanes og sér eins og Garðar hvar Snæfellsjökull blasir við í allri sinni dýrð og önnur kennileiti, sem verða á leið hans alla leið vestur í Vatnsfjörð við Barðaströnd.
Hann virðist hafa tekið land að sumri til, því sagt er að allt kvikfé þeirra hafi drepist um veturinn vegna heyleysis. Allan veturinn þrauka þeir og þrátt fyrir harðan vetur og að vorið varð líka kalt er það þá fyrst að Flóki gefur landinu nafn upp á nýtt og nefnir það Ísland. Hvílík andagift og hugljómun!

Eldborg

Eldborg í Svínahrauni.

Allt í einu uppljúkast augu hans fyrir fegurðinni, sem landið hefur upp á að bjóða. Þrátt fyrir fegurð Snæfellsjökuls og snjóþyngslanna í Vatnsfirðinum og nágrenni, sem hefðu getað gefið staðfestingu á nafninu Snæland, kemur hann með nafnið Ísland. Öllu réttara hefði verið nafnið Ísaland, fyrst honum ofbauð svona vetrarhörkurnar, eins og Ísafjörður hefur verið réttilega nefndur.
Fyrstu sagnir um byggð er allt frá fjórðu öld, ef ferðasaga Pýþeasar frá Marseille segir rétt frá að hann hafi rekist á fólk, sem nærst hafi á korni og hunangi, á eyjunni Thule. Næst er sagt frá því að heilagur Brendan hafi komið til Íslands, árið 548, eða Tílí eins og landið hafi verið nefnt af grískum sæfarendum.

Brendan

Heilagur Brendan frá Clonfert (um 484 e.Kr. – um 577) (írska: Naomh Bréanainn eða Naomh Breandán; latína: Brendanus; íslenska: (heilagur) Brandanus), einnig nefndur „Brendan moccu Altae“, kallaður „siglingamaðurinn“, „Veyagerinn“, „The Anchorite“ og „The Bold“, er einn af fyrstu írsku munkadýrlingunum og einn af tólf postulum Írlands.
Sæfarinn og dýrlingurinn Brendan var ábóti sem sigldi á húðbyrðingi (curragh) sínum til Færeyja og Íslands og jafnvel Azoreyjanna og Ameríku. Greint er frá ferðum hans í Navigatiohandritum sem eru nokkur að tali. Þeir sem hafa lesið þau eru ekki í vafa um að þar sé lýsing á eldgosi. Hvergi er um slík eldgos að ráða á Norðuratlantshafinu nema á Íslandi. Lýsingarnar af landsins forna fjanda, hafísnum, eru afar trúverðugar.

Hann hittir hér fyrir einsetumanninn Pól og hafði hann dvalið þarna í 60 ár. Einhverjir virðast hafa farið þarna á undan heilögum Brendan, því hann vissi af einsetumanninum og leitaði hann uppi. Þegar heilagur Brendan fer síðan aftur til Írlands er hann að sjálfsögðu hugfanginn af þessum nýja og í hans huga heilaga stað, sem er fullkominn til guðrækilegra íhugana og aðrir fylgja í kjölfarið. Það hefur verið friðsamasta og trúaðasta fólkið, ekki endilega einsetumenn, heldur allir þeir, sem vildu skapa sér og sínum friðsælt og öruggt athvarf því það voru á þessum tímum landlægar deilur milli ættflokka á Írlandi. Þannig hefur landið byggst á næstu árum af trúhneigðu, ötulu dugnaðarfólki, sem valið hefur sér búsetu í fyrstu meðfram Suðurlandinu en síðan haldið áfram vestur fyrir Reykjanes og allt Vesturland og Vestfirðina.
Það sem styður þessa kenningu, sem aðrir fræðimenn hafa löngum ýjað að, að hlyti að vera, er sú staðreynd að bæði Garðar Svavarsson og Flóki Vilgerðarson, koma að landinu við Horn en sigla áfram. Þrátt fyrir landgæðin, sem hljóta að hafa blasað við þeim, freista þeir ekki landgöngu fyrr en í öðru tilfellinu norður í Húsavík á Skjálfanda en í hinu í Vatnsfirði við Breiðafjörð. Það er alveg augljóst að þeir sæfarendur, sem eru með kvikfé um borð, þurfa við fyrsta tækifæri að endurnýja vatnsbirgðir sínar. Í dæminu með Flóka er ekki ýjað að því einu orði að landtaka hafi verið reynd fyrr en í Vatnsfirði. Fyrst hægt er í sögninni af ferð hans að tíunda að þeir hafi gleymt sér við veiðiskap og að kvikfé þeirra hafi drepist og vorið hafi verið kalt, hvers vegna ekki að segja frá landgöngu annars staðar þar sem augljós þörf hefur verið fyrir það?

Thule

Pýþeas (330-320 f. Kr.). Vafalaust hefur Grikkjum borist til eyrna frásagnir af ferðum Fönikíumanna til ókunnra landa í norðri. Hann var sendurPýþeas (330-320). Vafalaust hefur Grikkjum borist til eyrna frásagnir af ferðum Fönikíumanna til ókunnra landa í norðri. Hann var sendur í leiðangur norður á bóginn á vegum borgarráðsmanna Massalíu. Lýsingar hans um hið leyndardómsfulla Thule hafa varðveist í verkum síðari höfunda, en þó ekki án tortryggni. Polybíus (um 140 f. Kr.) kemst svo að orði að Pýþeas ,,hafi leitt marga í villu með því að segja að hann hafi farið fótgangandi kringum Bretland og komist að þeirri niðurstöðu að strandlengjan væri 40.000 stadíur.“ Pýþeas víki einnig að ,,Thule þar sem ekki var lengur um neitt raunverulegt land, sjó né loft að ræða, heldur sambland þessa alls ásamt marglitum þar sem hvorki væri unnt að ganga eða sigla eða festa hönd á neinu“ (Saragossahafið?). í leiðangur norður á bóginn á vegum borgarráðsmanna Massalíu. Lýsingar hans um hið leyndardómsfulla Thule hafa varðveist í verkum síðari höfunda, en þó ekki án tortryggni. Polybíus (um 140 f. Kr.) kemst svo að orði að Pýþeas ,,hafi leitt marga í imagevillu með því að segja að hann hafi farið fótgangandi kringum Bretland og komist að þeirri niðurstöðu að strandlengjan væri 40.000 stadíur.“ Pýþeas víki einnig að ,,Thule þar sem ekki var lengur um neitt raunverulegt land, sjó né loft að ræða, heldur sambland þessa alls ásamt marglitum þar sem hvorki væri unnt að ganga eða sigla eða festa hönd á neinu“ (Saragossahafið?).

Flóki var ekkert að flýta sér frá landinu, því það tók hann heilt ár að hafa sig burt. Hann hefur vetursetu í Borgarfirði en einn félaga hans, Herjólfur, verður viðskila við hann og tekst allslausum að þrauka heilan vetur í Hafnarfirði. Þegar loks þeir komast frá landinu hræðilega, Íslandi, og til Noregs lætur Flóki illa af landinu en félagar hans vel. Herjólfur segir kost og löst af landinu, sem vekur óneitanlega furðu, þarsem hann varð að hírast einn og allslaus allan seinni veturinn.
Þórólfur kvað drjúpa smjör af hverju strái á landinu. Eftir það var hann kallaður þórólfur smjör.
Það vekur óneitanlega furðu, að þeir félagar eru svo ósammála um landgæðin, sérstaklega ummæli Þórólfs. Það er ekki nóg, samkvæmt mínum skilningi, að land sé grösugt og afar gjöfult ef ekki fer saman landnýting og gæði. Auðvitað hafa þeir félagar notið gestrisni þess fólks sem fyrir var og þess vegna hafa þeir getað borið vitni um hversu gott væri að hafa búsetu í þessu gjöfula landi. Flóki og Þórólfur koma seinna til landsins og setjast hér að og virðast una sér vel eftir það.
Auður djúpúðga brýtur skip sitt við Víkarsskeið og hlýtur það að hafa verið um haustið eða hávetur. Þrátt fyrir það fer hún með alla skipshöfn sína, ekkert er tíundað að nokkur hafi farist, alla leið til Kjalarness þar sem hún veit af bróður sínum, Helga bjólu. Hvernig í ósköpunum veit hún hvar hún er stödd í ókunnu landi, þekkir ekkert til staðhátta en fer samt rakleiðis til Kjalarness? Samkvæmt sögunni gerir hún stuttan stans hjá bróður sínum, vegna þess að hann vildi bara taka við helming manna hennar. Hvert áttu hinir að fara? Var um aðra staði að ræða, sem gátu þá tekið við hinum? Auður djúpúðga heldur áfram, án þess að þiggja nokkurn beina, og nú alla leið vestur í Breiðafjörð til Bjarna austræna, hins bróður síns, og var vel tekið við henni þar. Allir vita hvernig veðurfar er á landinu að hausti til og um vetur, það að bjargast frá skipbroti og berjast áfram alla leið til Kjalarness frá Víkarsskeiði og þaðan til Breiðafjarðar er alveg lífsins ómögulegt án hjálpar og aðhlynningar. Þess hefur Auður djúpúðga notið af fólkinu sem fyrir var á þessari leið og það hefur leiðbeint henni til bræðra sinna.

Ameríka

Amerigo Vespucci (1454-1512). Hann var ítalskur og fyrstur manna til að gera sér ljóst að meginland Ameríku væri aðskilið frá Asíu. Ameríka var nefnd eftir honum 1507 þegar þýski kortagerðamaðurinn Martin Waldseemüller prentaði fyrsta kortið sem notaði nafnið Ameríka yfir Nýja heiminn. Í fyrsta leiðangri sínum frá Spáni 1499-1500 var Vespucci siglingafræðingur undir stjórn Alonso de Ojeda. Þeir uppgötvuðu mynni Amazonfljóts og Orinoco í Suður-Ameríku og töldu sig stadda í Asíu. Í öðrum leiðangri sínum 1501-1502 – og nú frá Portúgal – varð honum ljóst að Suður-Ameríka væri ekki hluti Asíu, heldur Nýr heimur.

Þetta furðulega nafn, Ísland, á jafnfallegu landi hefur jafnan vakið undrun. Málfræðilega væri réttara að kalla það Ísaland, ef það væri kennt við rekísa þá sem Hrafna-Flóki er talinn hafa séð ofan af fjalli. Mín kenning er að þetta sé rétt nafn, Ísland, og rétt skrifað, en að það sé, eins og aðrir fræðimenn hafa ýjað að, kennt við eitthvað guðdómlegt. Ennfremur er það staðföst trú mín að landinu hafi verið gefið þetta fallega nafn, Ísland, af heilögum Brendan þegar hann hitti hér fyrir einsetumanninn Pól. Það vafðist svolítið fyrir mér þetta nafn, Pól, vegna þess að engin góð skýring fannst á því í gelískri orðabók. Þar var “ poll“ sagt vera hola en svo fann ég svarið í gamal-írskri orðabók og hún var ósköp einföld, nafnið Pól þýddi Páll, þ.e. einsetumaðurinn hét, eða kallaði sig, í höfuðið á Páli postula, sem merkilegastur hefur verið af lærisveinum Jesús. Þannig tengist Páll postuli á einstakan hátt kristni- og landnámssögu Íslands.

Brendan

Brendan hittir Pól.

Heilagur Brendan varð svo snortinn af að hitta Pól á páskadag og sögum hans af 60 ára dvöl hans í þessu einstaka, fagra landi að hann fellur á kné og lýsir landið heilagt og nefnir það Ísland, eftir þeim sem hann vissi mestan í huga sínum, Jesú. Nafn Jesú er skrifað á gamal-írsku, Ís(s)u og þá virðist margt skýrast með nafn landsins, Ísland. Í gegnum aldirnar hafa menn viljað tengja Ísland við eitthvað heilagt án þess að geta skýrt það frekar nema þá helst að tengja nafnið við gyðjuna Ísis hjá Egyptum til forna.

Íslandskort

Thule á Íslandskorti fyrrum.

Ef nafnið Ísland er tengt við ís og kulda, hvers vegna er það þá ekki tengt því á öðrum tungumálum? T.d. á frönsku er nafnið Islande, sem hefur ekkert með ís eða kulda að gera. Á þýsku er nafnið Island, hvers vegna ekki Eisland, sem er rétt ef nafnið hefði frá upphafi verið kennt við rekís? Það er viss skýring á þessu. Írskir munkar og fræðimenn voru helstu kennarar við hirðir konunga á meginlandi Evrópu á fyrstu öldum fyrir landnám norrænna á Íslandi. Þeir hafa notað í sinni kennslu bæði nöfnin Thule eða Týli og Ísland en að sjálfsögðu hefur nafn landsins, sem hét eftir Jesú, verið ofar í huga og orðið fast í tungu Frakka og Þjóðverja.

Íslandskort

Íslandskort.

Hjá þessum þjóðum hefur ekkert verið hróflað við nafninu Ísland en aftur á móti hefur ríkt mikil óvissa hjá Englendingum hvað landið héti eða hvernig ætti að skrifa nafn þess. Á miðöldum er nafn Íslands í heimildum, eins og t.d. toll- og skipaskrám, ýmist skrifað, Iselande, Islond, Yslond, Yselondis, Izeland Ysland, Yslondes en í opinberum skjölum frá 14. öld er Ísland nefnt Islande. Þarna er ekkert verið að koma með seinni tíma orðskrípið Iceland, vegna þess að merking þess hefur ekki legið ljóst fyrir.

Hellir-kross

Krossmark í Seljalandshellum. Hellir undir Eyjafjöllum var manngerður að hluta fyrir landnám, það er um árið 800. Þetta sýnir rannsókn vestur-íslensks fornleifafræðings meðal annars á gjóskulögum við hellinn.

Það virðist vera að þegar Ari fróði skrifar Íslendingabók og þegar Landnáma er rituð, hugsanlega á 12. öld, hafi merking nafngiftar landsins verið á huldu. Hún hafi lifað meðal þeirra sem voru af írskum uppruna en merkingin, að kenna landið við Jesú, ekki hugnast þeim er röktu ættir sínar til hinna norrænu landnámsmanna.

Nafnið Ísland fékk að halda sér en það varð að finna aðra merkingu til þess að ekki væri hægt að rekja slóð til hinna raunverulegu fyrstu landnámsmanna, sem voru írskir einsetumenn og þeirra eftirfylgjendur. Það eru biskuparnir, Þorlákur og Ketill, ásamt Sæmundi fróða, sem ráða því að hlutur norrænna manna er talinn meiri í sögu landsins. Ari fróði sýndi þeim frumskrif sín, en varð að lúta vilja þeirra er honum finnst hann knúinn til þess að segja: „En hvatki er missagt er í fræðum þessum, þá er skylt at hafa þat heldur, er sannara reynist.“ Hann hefði ekki þurft að setja þetta inn, nema vegna þess að ekki var allt með felldu.
Það eru þeir, sem ráða því að tilbúningurinn um nafngift Hrafna-Flóka á landinu, heldur sér, en stenst engan veginn þegar grannt er skoðað. Nafngift Íslands er tengt nafni Jesú vegna þess að í gamal-írsku er það skrifað Ís(s)u.

Heimildir:
-Enskar heimildir um sögu Íslendinga á 15. og 16. öld eftir Björn Þorsteinsson.
-Frá árdögum íslenskrar þjóðar, eftir Arnór Sigurjónsson.
-Grúsk II, eftir Árna Óla. Íslendingasaga, eftir Jón Jóhannesson.
-Pýþeas og gátan um Thule, eftir Ian Whitaker.
-Old Irish reader, eftir Rudolf Thurneysen.
-https://rafjon.wordpress.com/saekonnudur/

-Úr grein eftir ÆGI GEIRDAL, Lesbók – laugardaginn 22. janúar, 2000.

Íslandskort

Gamalt Íslandskort.

Skötufoss

Árið 1704 bjó að hálfum Árbæ maður er Sæmundur hér, Þórarinsson, 41 árs gamall, grímsneskur að ætt. Kona hans hét Steinunn Guðmundsdóttir, 43 ára, og var Sæmundur þriðji eiginmaður hennar. Hjá þeim voru þrjú börn hennar af fyrra hjónabandi.

Skötufoss

Skötufoss.

Á móts við þau bjuggu Sigurður Arason, 26 ára gamall, ókvæntur, og móðir hans. Kærleikar munu hafa verið með þeim Sigurði og Steinunni og eggjaði hún hann til að fyrirkoma bónda sínum með einhverju móti.

Sunnudagskvöld eitt í septembermánuði fóru þeir Sæmundur og Sigurður til veiða í Elliðaánum. Er þeir voru staddir við Skötufoss, sem er skammt fyrirneðan Ártún, gekk Sigurður aftur að Sæmundi, sló hann með trébarefli, sem hann hafði meðferðis og hratt honum fram í hylinn.
Daginn eftir lét Sigurður þau boð út ganga til sveitunga sinn að Sæmundar væri saknað. Söfnuðust menn saman til leitar og fannst lík Sæmundar fljótlega í ánni. En hann var ekki bólginn eins og þeir er drukkna og þótti sýnt að hann hefði dáið á þurru landi. Líkið var nú grafið og leið síðan nokkur stund.

Elliðaárdalur

Skötutjörn.

Smám saman kom upp orðrómur um að Sigurður væri annaðhvort valdur að dauða Sæmundar eða byggi yfir vitneskju um endalok hans. Var nú gengið á hann og er hótað var að grafa upp líkið gekkst hann við morðinu. Var nú einnig gengið á Steinunni og viðurkenndi hún þátttöku sína eftir nokkrar umtölur yfirvaldsins. Fengu þau bæði líflátsdóm og voru tekin af lífi í Kópavogi skömmu síðar. Sigurður var höggvinn en Steinunni drekkt. “Fengu þau bæði góða iðran og skildu vel við” segir í Vallaannál.

-Elliðaárdalur – ÁH, HMS og RV – 1998.

Elliðaárdalur

Skötufoss.

Kristján Sæmundsson

Í Morgunblaðinu 2013 er fjallað um stórvirkið „Jarðfræðikort ÍSOR“ af Suðvesturhorni Íslands undir fyrirsögninni „Afrakstur rannsókna í áratugi“.

IsorJarðfræði; misgengi, gjár, hverir, lindir og ótalmargar hraunbreiður hafa verið færðar á yfirlitskort. Vísindamenn ÍSOR hafa kannað svæðin ítarlega. Síðan hafa nær sleitulaust verið stundaðar rannsóknir af ýmsu tagi sem fjölmargir vísindamenn hafa komið að. Flestar þessara rannsókna hafa verið í tengslum við virkjanir og hugmyndir þar að lútandi. Kortlagning ÍSORs af jarðfræði landsins er og hefur verið grundvöllur verndar og nýtinga náttúruverðmæta þess.

„Árið 2010 kom hjá ÍSOR fyrsta jarðfræðikortið í kvarðanum 1:100.000 en það var af Suðvesturlandi. Nýverið er hafin vinna við kort af syðri hluta norðurgosbeltisins og vonast er til að það komi út árið 2014.
ÍSOR hefur lagt til að hafist verði handa við alhliða rannsóknir á auðlindum gosbelta landsins, en slíkar rannsóknir eru nauðsynlegar – og grundvöllur þess þegar taka skal ákvörðun um vernd og nýtingu auðlindanna. Reikna má með að átta kort þurfi til þess að ná yfir gosbeltin.

Isor

Jarðfræðikort ISOR af Suðvesturlandi – auglýsing.

Við lítum á það sem samfélagslega skyldu okkar að koma þeirri þekkingu sem vísindamenn okkar afla á form sem nýtist sem flestum til fróðleiks og skemmtunar. Auk þess að vera undirstaða fyrir umhverfismat, skipulag, nýtingu lands og auðlinda eru slík kort fróðleiksnáma fyrir alla þá sem vilja ferðast um landið og fræðast um náttúru þess,“ segir Ingibjörg Kaldal, jarðfræðingur hjá Íslenskum orkurannsóknum.

„Það er misjafnt eftir svæðum hve langan tíma það tekur að afla gagna fyrir svona kort, segir Ingibjörg Kaldal sem er einn jarðfræðinganna sem unnu kortið. Hinir eru Kristján Sæmundsson, Árni Hjartarson, Magnús Á. Sigurgeirsson, Sigurður G. Kristinsson og Skúli Víkingsson.
ISORIngibjörg nefnir í að í sumar séu liðin 50 ár síðan aðalhöfundur jarðfræðikortsins nýja, Kristján Sæmundsson, kom fyrst á Kröflusvæðið til jarðfræðirannsókna. Síðan hafa nær sleitulaust verið stundaðar þar rannsóknir af ýmsu tagi sem fjölmargir vísindamenn hafa komið að. Flestar þessara rannsókna hafa verið í tengslum við virkjanir og hugmyndir þar að lútandi. Einnig hefur landið verið kannað vegna annarra verkefna eins og vatnsaflsrannsókna og lághitarannsókna. Ingibjörg Kaldal segir þau mál ekki hafa að neinu leyti þrýst á um útgáfu kortsins góða.

Isor

Jarðfræðikort ISOR af Suðvesturlandi.

„Nei, eiginlega ekki. Við rannsóknir vegna virkjanahugmynda á svæðinu hefur orðið til fjöldinn allur af jarðfræðikortum sem eingöngu hafa birst í skýrslum og greinargerðum fyrir verkkaupa ÍSOR og því fáum öðrum aðgengileg,“ segir Ingibjörg. Bætir við að það hafi verið með samþykki verkkaupa rannsókna á þessu svæði sem ákveðið hafi verið að gefa kortið góða út.

Gjávella er nýyrði
Við gerð þessa korts af Norðurgosbeltinu varð til nýyrðið gjávella. Þar sem greið leið er ofan í opnar gjár getur hraun runnið ofan í þær og langa leið eftir þeim neðanjarðar.

Kvikugangur

Gjávella eða kvikugangur.

Hraunið getur jafnvel komið upp um gjá annars staðar í tuga kílómetra fjarlægð og kallast þá gjávella.
„Augu manna opnuðust fyrst fyrir þessu fyrirbæri í Kröflueldum 1975-1984 þar sem menn urðu vitni að því er hraun rann ofan í gjá í 170 m breiðum hraunfossi. Nýyrðið varð þó fyrst til við gerð þessa korts og er Kristján Sæmundsson nýyrðissmiðurinn. Nokkur dæmi er um eldri gjávellur á þessu svæði en þetta fyrirbæri er ekki þekkt í öðrum landshlutum,“ segir Ingibjörg Kaldal. – sbs@mbl.is

Grindavík

Grindavík – jarðfræðikort Jóns Jónssonar. Kort Jóns voru öll unnin „á fæti“ fyrir tíma tölva og nákvæmra loftmynda.

OR (Orkuveita Reykjavíkur) birti á sínum tíma áhugavert rit og síst einstök jarðfræðikort Jóns Jónssonar, jarðfræðings, af Reykjanesskaganum. Það var síðan tekið út af vefnum, einhverra hluta vegna. Eitt eintak er til af ritinu í kjallara Þjóðarbókhlöðunnar.
ÍSOR birti síðan á vefsíðu sinni uppdrátt af jarðfræðikorti Suðvesturlands. Kristján Sæmundsson hafði skömmu áður prentað kortið út fyrir FERLIR, sem fylgdi Kristjáni síðan áfram um Reykjanesskagann með nýjum uppgötvunum. Einhverra hluta vegna var vefútgáfa jarðfræðikortsins í framhaldinu fjarlægð og prentaðri útgáfu komið í sölu í allar helstu bókaverslanir. Slíkt getur nú varla talist „fyrir alla þá sem vilja ferðast um landið og fræðast um náttúru þess“.

Segja má að Jón Jónsson hafi verið frumkvöðull að gerð jarðfræðikorta á Reykjanesskaga, Kristján Sæmundsson hafi síðan tekið upp þráðinn og Árni Hjartarson, Magnús Á. Sigurgeirsson, Sigurður G. Kristinsson og Skúli Víkingsson bætt um betur. Af þessu má sjá hversu mannkynið er öflugt í eigin þróun, þrátt fyrir tiltölulega stuttan líftíma hvers og eins, miðað við jarðsöguna.
Öllum þessum fólki ber að þakka fyrir þess frábæra framlag…

Heimild:
-Morgunblaðið 25.04.2013, Afrakstur rannsókna í áratugi, bls. 14.

Kristján Sæmundsson

Kristján Sæmundsson, jarðfræðingur, með drög að jarðfræðikorti Suðvesturlands í FERLIRsferð undir Festisfjalli/Lyngfelli.

Jón Arason
Böðullinn sem hjó Jón Arason biskup á Hólum og syni hans tvo, Ara lögmann og séra Björn á Melstað, 7. nóvember árið 1550, var íslenskur og hét Jón Ólafsson.
Norðlenskir hefndu þeirra feðga árið 1551. Í Setbergsannál segir:

Kirkjuból

Kirkjuból – grafstæði.

„Þegar þeir norðlenzku riðu frá Kirkjubóli eftir hefnd fyrir þá feðga, fundu þeir böðulinn, sem þá feðga líflét í Skálholti og hét Jón Ólafsson. Hann tóku þeir á Álftanesi og héldu í sundur á honum túlanum og helltu svo ofan í hann heitu blýi. Með það lét hann líf sitt, en þeir riðu síðan norður.“ (Ann. IV. 63)
Í annarri heimild er sagt að norðlenskir hafi hellt heitu biki, en ekki blýi, ofan í Jón böðul sem í sumum heimildum er nefndur „herfileg kind“ og „drengtötur.“Oft urðu þeir menn böðlar sem gerst höfðu sekir um smáglæpi og ef til vill hefur það átt við um böðul biskupsins á Hólum. Í Setbergsannál segir frá Guðlaugi sem hafði stolið úr búðum danskra árið 1640. „Þar eftir fékk hann eða var tekinn fyrir böðul.“ (Ann.IV.89) Og í Eyrarannál er þess getið að árið 1671 hafi strákur verið strýktur í Skagafjarðarsýslu fyrir þjófnað. Hann fékk „60 högg og lofaði að verða böðull.“ (Ann.III.298)

Höggstokkur

Höggstokkur sá er þau Friðrik Sigurðsson og Agnes Magnúsdóttir voru hálshöggvin á 12. jan. 1830 af Guðmundi Ketilssyni, bróður Nathans þess er þau höfðu myrt. – Aftakan fór fram í Vatnsdalshólum í Húnavatnssýslu og lá höggstokkurinn þar síðan til þess er hann var sendur hingað suður af Árna Árnasyni frá Höfðahólum. – Hann er eikardrumbur, hefur verið röng í skipi. Við aftökuna var höggstokkurinn klæddur rauðu klæði. Hún var framkvæmd með böðulsöxi nýrri, er til þess var fengin; er nú blaðið af henni í safninu; hefur hún ekki verið notuð til aftöku síðan, því að þessar eru hinar síðustu hjer á landi. – Í þá hlið höggstokksins, er virðist hafa snúið upp við aftökuna, eru 2 stórar rifur og 1 lítil í milli. Sagt er að Guðmundur hafi höggvið af svo miklu afli að öxin hafi gengið nokkuð ofan í stokkinn; má vera að smárifan í miðju sje far eptir öxina, en í þeirri rifunni, sem næst er hökuskarðinu virðist jafnvel votta fyrir axarfari, miklu dýpra; sje það sönn sögn, að verið hafi tveggja manna tak að ná öxinni aptur úr stokknum hlýtur hún að hafa sokkið hjer í hann þá, en það var við fyrri aftökuna, Friðriks; hið smærra öxarfarið, ef það er svo, kann þá að vera eptir hina síðari. – Er þar sagt að öxin og höggstokkurinn hafi verið fengin frá Kaupmannahöfn.

Fyrr á öldum var var hálshöggning algeng refsing á Íslandi fyrir stórglæpi eins og morð og dulsmál, þar sem fæðingu barns var leynt og það síðan deytt. Þessari refsingu var þó nær eingöngu beitt gegn karlmönnum en konum var drekkt fyrir dulsmál. Sakamenn voru hálshöggnir með handöxi og höfuð þeirra stundum sett á stengur öðrum til viðvörunar.

Þingvellir

Þingvellir – aftökustaðir.

Svo virðist sem böðlar á Íslandi hafi ekki alltaf verið stétt sinni til sóma. Í Skarðsárannál segir frá aftöku Björns Þorleifssonar árið 1602:
Tekinn af á alþingi Björn Þorleifsson fyrir kvennamál og svall, fékk góða iðran. Biskupinn herra Oddur áminnti hann sjálfur. Hann kvaddi menn með handabandi, áður sig niður lagði á höggstokkinn, og bauð svo öllum góða nótt. Var hann með öllu óbundinn. Jón böðull, er höggva skyldi, var þá orðinn gamall og slæmur og krassaði í höggunum, en Björn lá kyr á grúfu, og þá sex höggin voru komin, leit Björn við og mælti: Höggðu betur, maður! Lá hann svo grafkyr, en sá slæmi skálkur krassaði ein 30 högg, áður af fór höfuðið, og var það hryggilegt að sjá. (Ann.I.187)
Eftir aftöku Björns voru yfirvöld áminnt um að hafa örugga menn í böðulsstarfi svo að landið yrði ekki að spotti.

-Af www.haskolinn.is

Jón Arason

Minnismerki um Jón Arason við Skálholt um 1970.

Jón Arason

Árið 1551 dró heldur betur til tíðinda á Suðurnesjum. Árið áður hafði síðasti kaþólski biskupinn, Jón Arason, verið tekinn af lífi og nú vildu ættingjar hans ogbandamenn leita hefnda. Nærtækast þótti að láta hefndina koma niður á umboðsmanni danska hirðstjórans, Kristjáni skrifara, sem kveðið hafði upp úrskurðinn um að biskup skyldi hálshöggvinn.

Kapella

Kapella í Kapelluhrauni.

Í ársbyrjun var Kristján staddur í konungserindum á Suðurnesjum og hafði fjölmennt fylgdarlið. Norðlenskum vermönnum barst njósn af ferð hans og héldu í skjóli nætur 30 saman að Kirkjubóli þar sem Kristján dvaldist ásamt mönnum sínum og ungum syni.
Norðanmenn fengu leyfi bóndans á bænum til að rjúfa þekjuna og gátu því komið skrifaranum að óvörum og drepið þá einn af öðrum. Kristján náði þó að brjótast út úr húsinu án teljandi sára því hann var brynjuklæddur.
Kom þá aðvífandi 18 ára piltur, sveinn Þórunnar á Grund, dóttur Jóns Arasonar. Hann var vopnaður lensu, sem hann rak í smáþarmana og mælti í sömu svifum: “Ég skal finna á honum lagið”.
Því næst héldu Norðlendingar um Suðurnes og drápu þá konungsmenn, sem þeir náðu í. Á Másbúðum rákust þeir á tvo fylgdarmenn Kristjáns og felldu annan, en hinn slapp með því að skjóta einn norðanmanna á flóttanum. Er þetta e.t.v. fyrsti íslenski byssubardaginn.

Kirkjuból

Kirkjuból – grafstæði.

Loks hemrir Setbergsannáll að Norðlendingar hafi haldið norður á Álftanes þar sem þeir tóku höndum böðul Jóns Arasonar, Jón Ólafsson,…”og héldu í sundur á honum túlanum og helltu svo ofan í hann heitu blýi. Með það lét hann líf sitt, en þeir riðu norður.”
Vitaskuld brugðust dönsk stjórnvöld illa við þessu framferði og sumarið eftir létu þau hálshöggva bóndann á Kirkjubóli og hjáleigumann hans. Voru höfuðin sett á stengur en búkarnir á hjól og haft sem víti til varnaðar við þjóðveginn við Straumsvík.
Mest gramdist yfirvöldum þó meðferð norðanmanna á líkum þeirra er féllu við Kirkjuból. Þeir voru dysjaðir fyrir norðan tún og líkin svívirt með því að höfuðin voru höggvin af og nefin sett milli þjóanna, til að þeir gengju síður aftur.

-Samantekt frá Fræðsasetrinu í Sandgerði.

Jón Arason

Minnisvarði um Jón Arason og syni hans við Skálholt.

Elliðavatn

Elliðavatn (Vatn) var löngum ein þekktasta jörðin í nágrenni Reykjavíkur og höfðingjasetur á tímabili. Bæjarstæðið er glæsilegt, en umhverfið gerbreyttist þegar stíflað var vegna vatnsmiðlunar 1924. Þá stækkaði vatnið um helming, en hinar frægu Elliðavatnsengjar hurfu. Bújörðin Elliðavatn er ekki til lengur, hún er orðin hluti af friðlandinu í Heiðmörk.

Elliðavatn

Elliðavatn – Ben. Gröndal.

Flest nútímafólk hefur enga hugmynd um þær umhverfisbreytingar sem orðið hafa á bökkum Elliðavatns, eða hvernig vatnið leit út á fyrsta fjórðungi 20. aldarinnar. Ásamt með beitarlandinu uppi á Elliðavatnsheiði voru víðáttumiklar og grasgefnar engjar beztu hlunnindi jarðarinnar á Vatni. Túnið var alltaf lítið, en hafi Elliðavatnsbændur náð í starung á engjunum; sem ekki er ólíklegt, þá var hann kúgæft hey og þótti geysileg búbót. Lítið eitt vestan við miðju vatnsins eins og það er nú var allstór eyja sem skildi vötnin nánast að. Úr vestara vatninu rann áin Dimma allar götur niður að brúnni við núverandi Seláshverfi. Þar rann í hana áin Bugða, en svo heitir neðsti og vestasti hluti Hólmsár. Tvö læmi tengdu þó árnar saman við hólinn Skyggni, skammt frá stíflunni sem síðar kom.

Elliðavatn

Elliðavatn – stífla.

Á árunum 1923-1928 eignaðist Rafmagnsveita Reykjavíkur jörðina Elliðavatn og 1924 var ráðizt í vatnsmiðlun með stíflu sem síðar var tvívegis hækkuð og flestir þekkja þessa stíflu núna. Við stíflugerðina hefur vatnsborð Elliðavatns hækkað hvorki meira né minna en um heilan metra og vatnið hefur stækkað um það bil um helming. Eyjan út af Þingnesi fór að stórum hluta í kaf, svo og hinar rómuðu Elliðavatnsengjar.
Ekki verður séð að því hafi verið mótmælt árið 1924, eða að tilfinning hafi verið fyrir því að þarna væri verið að vinna náttúruspjöll.

Elliðavatn

Elliðavatn.

Elliðavatn, þessi náttúruperla við útmörk höfuðborgarsvæðisins, er að stórum hluta uppistöðulón. Í umhverfi Elliðavatns er víðast hvar fagurt um að litast og bærinn sem ber nafn af vatninu var byggður á fallegum stað á nesi sem skagar út í vatnið frá austri. Það land sem fyrrum tilheyrði jörðinni Elliðavatni var þó aldrei stórt. Vatnsendaland var mun stærra og Hólmsland var það einnig; það náði allar götur upp í Bláfjöll, sunnan við Elliðavatn.
Allt er þetta umhverfi mikilfenglegt, en einhver fegursti reiturinn er við smærri vötnin norðaustur og austur af Elliðavatnsbænum: hjá Helluvatni, Hrauntúnstjörn og Kirkjuhólmatjörn. Þessi undrafögru smávötn sjást þegar ekið er sem leið liggur að Elliðavatni framhjá Rauðhólunum. Vegurinn liggur á brú yfirálinn úr Helluvatni og áfram upp í Heiðmörk, en afleggjari er heim að Elliðavatnsbænum.

Rauðhólar

Svona lítur eystri hluti Rauðhólanna út í dag.

Norðan við Helluvatn eru nokkrir lágir gjallhólar af sama uppruna og Rauðhólarnir, en óskemmdir. Rauðhólarnir urðu til fyrir 4.600 árum þegar glóandi og þunnfljótandi hraunstraumur rann úr eldstöðinni Leiti í Svínahrauni og fylgdi nokkurn veginn sömu slóð til sjávar og Suðurlandsvegurinn. Þorleifur Einarsson jarðfræðingur taldi að Elliðavatn, eða einhver hluti þess, hafi þá náð þangað sem Rauðhólarnir mynduðust og hefur það eflaust verið tilkomumikil sjón að sjá glóandi hraunstraum þurrka vatnið upp. Hraunstraumurinn hélt áfram niður í voginn sem 3.500 árum síðar var kenndur við Elliða, skip Ketilbjarnar hins gamla. Árnar bera og nafn skipsins og trúlega Elliðavatn einnig.
Vatnið í tjörnunum þremur sprettur fram undan hraununum í Heiðmörk, en að hluta er það úr Suðurá sem á upptök sín í Silungapolli og undir Selfjalli hjá Lækjarbotnum.

Elliðavatn

Elliðavatn.

Elliðavatn í Seltjarnarneshreppi var lengst af meðal þekktustu bújarða í nágrenni Reykjavíkur. Vatn eins og bærinn var gjarnan nefndur var þó ekki höfuðból; til þess að svo væri þurftu jarðir að vera 60 hundruð, en Vatn var aðeins 12. Hlunnindin voru engjarnar fyrrnefndu sem nú sjást ekki lengur, kvistbeit í hraununum og veiði í vatninu og ánum Dimmu og Bugðu.
Elliðavatn var í landnámi Ingólfs og því ekki landnámsjörð. Ef til vill hefur Ingólfur ráðstafað þessari blómlegu og kjarri vöxnu engjajörð til frændfólks eða vina, en um það er ekkert vitað. Engar heimildir eru til um upphaf bæjarins á Elliðavatni, en í máldaga frá 1234 segir að Viðeyjarklaustur eigi hálft land jarðarinnar. Getið er um Elliðavatn í Kjalnesinga sögu, sem skrifuð var á 14. öld, en telst full ævintýraleg til þess að vera treystandi sem heimild. Þar segir að á þeim bæ „er heitir að Vatni, er síðan er kallat Elliðavatn“ hafi búið kona sem Þorgerður hét. Hún átti son þann er Kolfinnur hét og var kolbítur, eða með öðrum orðum: Hann lá í öskustó og hafðist lítt að.

Elliðavatn

Elliðavatn.

Þetta fyrirbæri er vel þekkt úr ævintýrum. Ef til vill þjáðist hann af þunglyndi, en síðan hefur bráð af honum; hann reis úr öskustónni og tók að líta í kringum sig eftir konuefni. Með tilliti til þess að kolbítar voru ekki í miklu áliti, verður að teljast að Kolfinnur hafi ekki ráðizt á garðinn þar sem hann var lægstur með því að leita eftir ástum Ólafar vænu, dóttur Kolla bónda í Kollafirði. Urðu vígaferli vegna bónorðsins og kolbíturinn sýndi að það voru töggur í honum, því hann nam Ólöfu á brott og hafði hana með sér heim að Elliðavatni.
Ekki hélst honum þó lengi á konunni. Ástmaður hennar, sá mikli kappi Búi Ástríðsson sem Kjalnesinga saga greinir frá, gerði sér lítið fyrir og felldi Kolfinn. Við konunni leit hann ekki meir, „síðan Kolfiðr hefir spillt henni“.

Elliðavatn

Elliðavatn – bærinn.

Klausturjarðir urðu konungseign eftir siðaskiptin og þeirra á meðal var Elliðavatn. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín sem gerð var skömmu eftir 1700 segir að eigandinn sé „kóngl. Majestat.“ Jarðardýrleiki er sagður óviss og á jörðinni er þá þríbýli. Ábúendur eru Einar Eyvindsson á hálfri jörðinni, Tómas Vigfússon á fjórðungi og sá þriðji er Snorri Snorrason, og býr hann á þeim fjórðungi jarðarinnar, sem áður var hjáleigan Vatnskot. Allir eru þeir leiguliðar hjá kónginum og er landskuld goldin með „iii vættum fiska eður í fríðu og átta tunnum kola“ (viðarkol).

Elliðavatn

Elliðavatn 1836.

Margvíslegar kvaðir eru og á jörðinni, enda þótti ekki gott að búa í næsta nágrenni við Bessastaðavaldið. Sem dæmi um þessar kvaðir má nefna að eitt mannlán er um vertíð, hestlán til alþingis eða austur á Eyrarbakka; einn hestur frá hverjum ábúanda. Enn gætir yfirráðanna frá Viðey, „tveir dagslættir“ renna þangað. Hægt er að kalla menn til formennsku á bátum ef þeir eru til þess hæfir og fá þeir formannskaup „ef þeim heppnast afli.“ Tvo til þrjá hríshesta verður jörðin að láta af hendi og tvö til þrjú lömb skulu tekin í fóður og láta verður tvo heyhesta „til fálkafjár í Hólmskaupstað“.

Elliðavatn

Elliðavatn á 19. öld.

Tólf kýr má fóðra á allri jörðinni segir Jarðabókin, en rifhrís til eldiviðar og kolagjörðar „fer mjög í þurð“. Þrönglendi er í högum, engjar spillast af vatnsgángi, en torfrista og stúnga „lök og lítt nýtandi“.
Þessi lýsing bendir ekki til mikillar búsældar á Elliðavatni. Segir nú fátt af búskap á Vatni þar til brautryðjandinn Skúli Magnússon kom upp Innréttingum sínum í Reykjavík eftir 1750. Meðal verkefna þar var ullarvinnsla og þurfti þá að koma upp fjárræktarbúi, bæði til þess að tryggja vinnslunni næga ull, en einnig var ætlunin að bæta hana með blöndun á útlendu sauðfé.

Elliðaár

Elliðaár.

Elliðavatn varð fyrir valinu og má ætla að ástæðan hafi einkum verið sú að þar hefur verið talin bezta fjárjörðin í nágrenni Reykjavíkur vegna beitarinnar í skóglendinu þar sem Heiðmörk er nú. Vegna kynbótanna voru fluttir inn hrútar af enskum sauðfjárstofni, en sænskur barón, Hastfer að nafni, átti að stýra kynbótunum fyrsta kastið. Ekki er alveg ljóst hvers vegna þessi kynbótatilraun var flutt að Helliskoti, skammt frá Elliðavatni árið 1757. En þar var reist „mikil stofa“ þó ekki sjái hennar stað, en einnig að sjálfsögðu vandaðasta fjárhús landsins, „meira en flestar kirkjur hér á landi og afþiljað“.

En ekki dugði þetta afburða fjárhús til þess að bægja óláninu frá, sem fólst í að upp kom veiki í fénu: Fjárkláði sem breiddist ört út og olli gífurlegum búsifjum. Á einum áratugi frá 1760-1770 hrapaði sauðfjáreign landsmanna úr 360 þúsundum í 140. Ugglaust er það eitthvert mesta efnahagsáfall sem Íslendingar hafa orðið fyrir, svo háðir sem þeir voru sauðfjárbúskap.

Elliðavatn

Elliðavatn í leiðangi Gaimard.

Fjárræktarævintýrinu á Elliðavatni lauk með þessu; búið var lagt formlega niður 1764. Ber nú lítt til tíðinda fram til 1815 að fjöldi konungsjarða var seldur og Elliðavatn þar á meðal.
Sextán árum síðar, 1836, var Paul Gaimard í öðrum Íslandsleiðangri sínum. Hann var maður ferðavanur; hafði þá tvívegis farið kringum hnöttinn. Í leiðangurinn til Íslands hafði hann með sér lið valinkunnra manna og þar á meðal var teiknarinn Auguste Mayer. Hann gerði fjölda teikninga og skyssa á Íslandi sem eru ómetanleg heimild, ekki sízt um húsakynni landsmanna, og þar á meðal er teikning af Elliðavatnsbænum.
Mayer var frábær teiknari, en ætla má að oft hafi hann fullunnið baksviðið, fjöll og annað úr umhverfi bæja, eftir að heim var komið. Fyrir kemur að þekkt kennileiti eru óþekkjanleg og þar á meðal er hæðin ofan við Elliðavatnsbæinn.
Kirkja var aldrei á Vatni; bærinn átti kirkjusókn að Laugarnesi ásamt Breiðholtsbænum, Vatnsenda, Bústöðum, Kleppi, Rauðará, Hólmi, Hvammskoti, Digranesi og Kópavogi.
Bærinn á teikningu Mayers hefur trúlega verið á Elliðavatni 1841 þegar náttúrufræðingurinn og skáldið Jónas Hallgrímsson kom þar til að sjá og teikna upp minjar um þingstaðinn Þingnes sunnan við vatnið. Þingstaðurinn var þó ekki á sjálfu nesinu sem skagar út í vatnið, heldur í hallanum ofan við nesið.

Þingnes

Þingnes – uppgraftarsvæði.

Þar hafa fornleifarannsóknir farið fram; stórt rannsóknarsvæði var grafið upp og komu í ljós leifar af stórum, hringlaga garði. Innan hans sást móta fyrir fleiri mannvirkjum. Garður og rústir voru taldar vera frá 11.-12. öld og undir þeim reyndust vera minjar frá 10. öld. Frá vegamótum austan við Elliðavatnsbæinn liggur vegur sem nefndur er Þingnesslóð út með vatninu og er ökufært alla leið að Þingnesi. Sunnan vegarins er Myllulækur og samnefnd tjörn, sem samkvæmt uppdrættinum frá 1916 virðist ekki hafa verið til þá, enda hefur hún orðið til við framkvæmdir Vatnsveitunnar. Ætla má að kornmylla hafi einhverju sinni verið við Myllulæk.

Uppdráttur af minjum í Þingnesi

Minjasvæði við Þingnes.

Þingnes er talinn einn merkasti sögustaður í nágrenni Reykjavíkur, jafnvel á landsvísu og hafa fleiri en Jónas Hallgrímsson rannsakað hann. Þeirra á meðal er Sigurður Guðmundsson málari, sem gerði uppdrátt af staðnum, Brynjólfur frá Minna-Núpi, Daniel Bruun, Finnur Jónsson prófessor, svo og Þjóðminjasafnið að sjálfsögðu. Ari fróði segir í Íslendingabók sinni, að Alþingi hafi verið sett „at ráði Ulfljóts ok allra landsmanna þar es nú nes, en áður var þing á Kjalarnesi, þat es Þorsteinn Ingólfssonr landnámsmanns, faðir Þorkels mána lögsögumanns, hafði þar ok höfðingjar þeir es at því hurfu“.

Þinganes

Fornleifauppgröftur á Þingnesi.

Því er verr, að ekki eru til neinar heimildir um það hvar Kjalarnessþing var háð, en vísir menn hafa talið að um tíma hafi það verið í Þingnesi. Rannsóknir sem fóru fram 1984 benda eindregið til þess að þar hafi mannfundir farið fram. Dr. Jakob Benediktsson telur ljóst í Sögu Íslands, 1. bindi sem út kom 1974, að Kjalarnesþing hafi verið eins konar undanfari Alþingis, enda þótt það hafi ekki verið löggjafarþing, heldur aðeins dómþing og „sennilegt sé að upptakanna að stofnun Alþingis sé að leita í hópi þeirra höfðingja, sem stóðu að þinginu á Kjalarnesi.“
Sé þetta rétt er Þingnes hinn allra merkasti staður á bökkum Elliðavatns.

Lesbók Mbl. – GÍSLI SIGURÐSSON

Elliðavatn

Elliðavatn.

Jón Svaþórsson
Í Rjúpnadölum að Rauðuhnúkum virðist liggja gömul gata, sem að mestu er gróið yfir. Þó vottar fyrir henni sums staðar í gróðurræmum og í hraunum.
Gengið var frá Bláfjallavegi í átt að Rauðuhnúkum. Fljótlega var komið að götu í gegnum hraunið að Rauðuhnúkum (GPS N64 01 525 W21 36 724). Stutt ganga var í gegnum hraunhaftið og síðan framaf hraunbrún við hnúkana. Stefnt var á áberandi dæld í hnúkunum. Gengið í vestur frá Bláfjallavegi (GPS N64 01 585 W21 36 764) á götu, stutt í gegnum hraunið. Þegar komið var út úr því kom fljótlega í ljós mjög greinileg gata sem stefnir að hlíðinni framundan. Síðan var komið að hrauntungu og liggur gata inn í hraunið (GPS N64 01 731 W21 37 013 h.y.s 330m). Gatan verður ógreinileg þegar inní hraunið er komið. Ef gengið er niður með hraunkantinum, er komið að mjög greinilegri götu inn í hraunið (GPS N64 01 810 W21 36 958 h.y.s. 316m). Hér virðist vera stytst yfir hraunið. Þegar yfir er komið (GPS N64 01 832 W21 37 080 h.y.s. 314m) sjást götur sniðhallt upp hlíðina framundan, vestan við lága klettaborg. (GPS N64 01 984 W21 37 325). Gatan liggur svo niður með lækjarfarvegi og niður á rinda með leiðarvörðu sem áður hefur verið mynnst á. Ef farið er niður til hægri þegar komið er yfir hraunið. Liggur leiðin um grasivaxna hvamma og síðan hallalítið upp með klettaborginni austanverðri (GPS N64 02 066 W21 37 116 h.y.s 321m), síðan fram á brúnir og sést þá leiðarvarðan greinilega framundan, niðri á rindanum.
Héðan var gengið að Bláfjallavegi örstutta leið, þar sem farskjóti beið tilbúinn við kröppu beygjuna. Ekki er ólíklegt að þarna hafi verið gata á milli gömlu leiðarinnar til höfðustaðarins vestan Fóelluvatna og Selvogsgötu og/eða Heiðarvegar vestan í Heiðinni há. Með því hafa vegfarendur getað sparað sér talsverðan krók ef ferðinni var heitið milli Selvogs og Reykjavíkur eða lengra. Mikið jarðrask hefur orðið í Bláfjöllum, en votta ætti fyrir leiðinni syðst og vestast í þeim, ofan við Strompa. Þar eru, skv. annarri lýsingu af þessu svæði, nokkur vörðubrot er gætu hafa tengst þessari leið. Skammt norðan við Litla-Kóngsfell eru gatnamót sem og vestan við það. Bæði mótin eru merkt með þremur vörðum. Við syðri gatnamótin liggur stígur af Selvogsgötu yfir á Hlíðarveg (sem jafnan er talinn vera Selvogsgata) og síðan til norðausturs inn á heiðina. Við nyrðri gatnamótin liggur stígur af Selvogsgötu yfir á Hlíðarveg og einnig af henni yfir á Heiðarveginn.

Selvogsgata

Litla-Kóngsfell.

Ekki er ólíklegt að þarna megi einnig finna áfanga af þessum götum til norðurs, niður með vestanverðum Bláfjöllum og niður með Draugahlíðum að austanverðu.
Ljóst er að fljótlega grær yfir götur, sem hætt er að nota. Gatan um Grindarskörð sést t.d. ógreinilega, nema þar sem hún skásker hlíðina að vestanverðu og hófar og fætur hafa markað för í klappir þar fyrir neðan. Vörðubrot geta einnig gefið ákveðnar vísbendingar um legu hinna gömlu gatna.
Skv. upplýsingum Jóns Jónssonar, jarðfræðings, mun bæði Kóngsfellshraun (úr Bláfjalla-Kóngsfelli) og Rjúpnadalahraun (einnig úr Bláfjalla-Kóngsfelli) hafa runnið eftir landnám. Gamlar götur á þessu svæði gætu því einhverjar verið eldri en hraunin.

Frábært veður – gangan tók 2 klst og 2 mín.

-Jón Svanþórsson.

Draugahlíðagígur

Draugahlíðagígur í Brennisteinsfjöllum.

Reykjanesskagi

Góð gönguleiðakort af tilteknum svæðum eru mikilvæg. Svo virðist sem ákveðin feiðmni virðist ráða þegar kemur að birtingu þeirra í góðri upplausn á veraldarvefnum. Hér á eftir eru dæmi um nokkur kort af svæðum á Reykjanesskaganum, s.s. Þingvöllum, Hengli, Heiðmörk, Mosfellsbæ og Reykjanesskaga.

Þingvellir

Þingvellir – kort.

Þingvellir

Þingvellir – kort.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – kort.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – kort.

Reykjanesskagi

Jarðfræði Reykjanesskagans – Isor.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi.

Hengill

Hengilssvæðið – kort.

Mosfellsbær

Gönguleiðir í Mosfellsbæ

Elliðaárdalur

Eitt vinsælasta útivistarsvæði höfuðborgarsvæðisins er Elliðaárdalurinn.

Leitarhraun

Leitarhraun í Elliðaárdal.

Elliðaárnar hafa oft verið nefndar perla Reykjavíkur, enda einstakt að laxveiðiá renni í gegnum höfuðborg. Reykjavíkurborg keypti Elliðaárnar árið 1906, ekki til laxveiða heldur beislunar vatnsafls og rafstöðin var reist um 1920. Um það leyti hefur líklega hafist trjárækt í Elliðaárdalnum en árið 1951 hóf Rafmagnsveita Reykjavíkur skógræktar- og uppgræðslustarf í árhólmanum, sem er eitt mesta aðdráttarafl dalsins.
Fuglalíf er fjölskrúðugt í Elliðaárdal og þar hafa einnig fundist fornminjar, m.a. frá tíð Innréttinganna.
Elliði sá sem Elliðaár eru nefndar eftir var skip Ketilbjörns gamla landnámsmanns.

Elliðaárdalur

Elliðaárdalur 1880 – Ben. Gröndal.

Í Landnámu segir: „Ketilbjörn hét maður ágætur í Naumudal; hann var Ketilsson og Æsu, dóttur Hákonar jarls Grjótgarðssonar. Hann átti Helgu dóttur Þórðar skeggja. Ketilbjörn fór til Íslands, þá er landið var víða byggt með sjá [þ.e. sjó]. Hann hafði skip það er Elliði hét. Hann kom í Elliðaárós fyrir neðan heiði“.
Ingólfur Arnarson, landnámsmaður í Reykjavík, er talinn fyrsti eigandi Elliðaánna. Eflaust hafa laxveiðar verið stundaðar í Elliðaánum allt frá upphafi byggðar í Reykjavík, þótt áður hafi það verið með öðrum hætti en nú. Fram eftir öldum áttu bændur og kirkjan veiðirétt í Elliðaánum, en við siðaskiptin lagði Danakonungur eignir kirkjunnar undir sig og eignaðist um leið veiðina í Elliðaánum. Í upphafi lét hann stunda veiðarnar fyrir sig en síðan voru þær leigðar út, fyrst árið 1757, að því er talið er.

Elliðaárdalur

Elliðaár.

Upp úr 1800 fór konungur að selja jarðir sem að Elliðaánum liggja. Átti hann laxveiðirétt í Elliðaánum í um 300 ár. Áður fyrr var laxinn veiddur ýmist með ádrætti í voginum við árósana, eða með stíflun árkvíslanna, annarrar í einu og var þá vatninu veitt í hina. Þannig var laxinn tíndur upp því sem næst á þurru. Reykvískur kaupmaður sem átti árnar um tíma gekk mjög nærri laxastofninum með því að veiða laxinn í kistur og voru báðar kvíslarnar þvergirtar með þeim búnaði. Laxinn fór ekki að rétta úr kútnum fyrr en Englendingur nokkur, Pyne að nafni, keypti árnar árið 1890. Þá hófust þar stangaveiðar með líkum hætti og nú eru stundaðar. Reykjavíkurborg keypti síðan Elliðaárnar árið 1906, sem fyrr sagði.

Elliðavatn

Elliðavatn – Ben. Gröndal.

Elliðaárvirkjun var vígð árið 1921. Þremur árum síðar var hafizt handa við gerð miðlunarstíflu uppi við Elliðavatn. Henni var lokið 1926 og við þessar framkvæmdir fór Elliðavatnsengi ofan núverandi stíflu undir vatn. Fram að þeim tíma rann Bugða um engjarnar og sameinaðist Dimmu, sem var afrennsli Elliðavatns, sem var þá helmingi minna en það er nú. Neðan ármóta þessara þveggja áa fékk áin nafnið Elliðaár.
Líklegt er, að Ingólfur Arnarson hafi grafið fyrsta brunninn í Reykjavík. Um aldamótin 1900 voru 34 brunnar í Reykjavík og árið 1906 brauzt út taugaveikifaraldur vegna mengaðs vatns í mörgum þeirra. Árið 1909 var tekið neyzluvatn úr Elliðaánum til hausts en þá var vatnsveitan frá Gvendarbrunnum tilbúin.

Kristján X

Kristján X. sem var konungur Danmerkur frá 1912 til 1947 ásamt Alexandrínu af Mecklenburg-Schwerin drottningu.

Vesturfarinn Frímann B. Arngrímsson hvatti fyrstur manna til athugunar á möguleikum til virkjunar Elliðaánna til hitunar og lýsingar húsa í Reykjavík. Bæjarstjórn samþykkti þó ekki byggingu rafstöðvar þar fyrr en 26. september 1918. Steingrímur Jónsson, rafmagnsverkfræðingur, var ráðinn rafmagnsstjóri í Reykjavík 1. júní. Kristján X og Alexandrína drottning hans vígðu stöðina 27. júní 1921.
Elliðaárnar falla úr Elliðavatni, þær kvíslast um miðbik dalsins og renna í tveimur kvíslum til sjávar. Er fleirtölumyndin Elliðaár dregin af kvíslum þessum..

Jarðfræði Elliðaárdals er stórkostleg vegna jarðfræðilegrar sundurgerðar. Við Elliðaárósa eru merkileg setlög, kölluð Elliðavogslögin og má þar finna leifar ýmissa plantna sem uxu við Elliðavog fyrir nokkur hundruð þúsund árum og skeljar af grunnsævi. Það má einnig finna jökulrákaðar grágrýtisklappir, hraun frá nútíma og sjávarhjalla.

Viðeyjareldstöð

Viðeyjareldstöðin.

Í Elliðaárdal hafa fundist minjar sem tengjast nýsköpun í atvinnuháttum Íslendinga, en það eru leifar af byggingum sem reistar voru vegna ullarvinnslu Innréttinganna um miðja 18. öldina. Innréttingarnar, sem svo voru nefndar, höfðu það að markmiði að stuðla að framförum í atvinnulífi. Skúli Magnússon landfógeti hafði forgöngu um stofnun fyrirtækisins. Sögufrægasta byggingin frá tíð Innréttinganna er húsið við Aðalstræti 10.

Reykjavík

Þófaramylla við Elliðaár.

Minjar Innréttinganna, sem enn sjást og færri vita um, eru rústir sem standa í árhólmanum nokkru neðan við rafstöðvarbygginguna, á móts við veiðistað sem nefnist Teljarastrengur. Þarna voru þófaramylla, litunarhús og sútunarverkstæði, en vefsmiðjan var í Aðalstræti. Ástæða þess að þófaramyllunni og litunarhúsinu var komið fyrir í Elliðaárdal var sú að starfsemin þarfnaðist rennandi vatns. Tilgangur þæfingarinnar var að þétta ullarvoðir og gaf straumur árinnar drifkraftinn. Sneri hann vatnshjóli sem tengt var drifhjóli sem aftur tengdist búnaði sem hamraði ullina. Þegar ullin hafði verið þæfð, sem var mismikið eftir því til hvers átti að nota hana, var hún gjarnan lituð. Talið er að litunarhúsið hafi staðið skammt frá þófaramyllunni, en óvíst nákvæmlega hvar. Þó er talið að húsið hafi staðið nokkru neðan við mylluna. Tvennar aðrar rústir eru á þessum slóðum. Er talið að önnur hvor geti verið leifar sútunarverkstæðis.

Elliðaárdalur

Camp Ártún.

Stríðsárin, 1939-1945, settu mark sitt á íslenskt þjóðlíf og ekki síst Elliðaárdalinn. Eftir hernám Íslands og tilkomu setuliðs, skiptu hermenn þúsundum hér á landi, fyrst Bretar, en síðan Bandaríkjamenn. Voru víða reistir braggar þar sem setuliðið dvaldist, svonefndir kampar, og voru nokkrir slíkir í Elliðaárdal. Sjást ummerki þeirra á nokkrum stöðum. Alls voru kamparnir fimm talsins. Sá efsti, nefndur Camp Baldurshagi, var ofarlega í Elliðaárdal, við nyrðri enda skeiðvallarins. Sjást þar rústir hans. Fjórar þyrpingar voru neðarlega við ána, Camp Phersing, skammt frá rafstöðinni, Camp Battle var aðeins neðar, Camp Hickham var í Ártúnsbrekkunni þar sem jarðhýsin eru nú og loks Camp Fenton Street, en hann var þar sem nú er athafnasvæði fyrirtækisins Ingvar Helgason.

Elliðaárdalur

Camp Baldurshagi.

Fleiri braggaþyrpingar voru í næsta nágrenni, bæði á Ártúnshöfða og vestan Elliðaáa. Einu ummerki um hernaðarmannvirki við Elliðaárnar neðanverðar eru í Ártúnsbrekku. Annars vegar eru það dæld eftir sandpokavígi sem fallin er saman að mestu og hins vegar ummerki undir yfirborði jarðar, neðanjarðarbyrgi, en munni þess er hulinn jarðvegi.

Elliðaárnar voru síðasti farartálminn á leiðinni til Reykjavíkur þegar komið var til bæjarins úr austri. Lá þjóðbrautin um Ártún og yfir árnar á vaði rétt neðan við rafstöðina núverandi, eftir Bústaðahálsi, Öskjuhlíð og niður í Kvos. Er ekki að undra að fljótlega hafi þótt nauðsynlegt að brúa árnar og voru fyrstu brýrnar byggðar árið 1883. Nú er svo komið að Elliðaárnar eru sú á landsins sem flestar brýr eru yfir. Hafa glöggir menn talið yfir 20 brýr á ánum.

Elliðaárdalur

Letursteinn í Elliðaárdal.

Á 30 ára afmælisári Rafmagnsveitu Reykjavíkur árið 1951 hófu starfsmenn fyrirtækisins undir stjórn Steingríms Jónssonar, rafmagnsstjóra, skógræktar- og uppgræðslustarf í Ellidaárhólma og lögðu þar með grunn að þeirri skógrækt sem þar er. Fyrsta árið voru gróðursettar 3000 plöntur. Upp úr 1970 var dalurinn friðaður fyrir beit en nokkru áður var skógrækt hafin í afgirtu hólfi í árhólmanum. Við friðunina tók gróður við sér og hófst þá gróðurframvinda sem enn á sér stað.

Í Elliðaánum lifa fjórar tegundir fiska sem kalla mætti nytjafiska, aðallega lax, urrið og bleikja, en einnig má þar finna ál í litlum mæli. Í ánum er auk þess fjölskrúðugt botndýralíf sem er mikilvægur þáttur í uppvexti seiðanna.

Elsta

Viðeyjareldstöðin.

Gos með hraunrennsli um Elliðaárdalinn hefur aðeins einu sinni orðið frá því að ísa leysti fyrir um 10 þúsund árum. Það er Leitarhraun sem er nefnt eftir gíg sem það kom úr austan Bláfjalla. Hraunið rann fyrir um 5000 árum og flæddi niður Sandskeið og um Lækjarbotna. Þaðan rann það í Elliðavatn, sem hefur verið mun stærra en það er í dag, og myndaði Rauðhóla. Þaðan flæddi hraunið viðstöðulítið um Elliðaárdal í sjó fram við Elliðaárósa. Hraunið er mjög greinilegt í Elliðaárdalnum sérstaklega þar sem áin hefur skorið sig í gegnum hraunið t.d. kringum Elliðaárhólmann. Elsta bergið þarna er þó frá meginselstöð mun utar er gaf af sér hraunmyndun fyrir 3-4 milljón árum (sjá HÉR).

Heimildir m.a.:
http://www.rafheimar.is

Við Elliðaárnar

Við Elliðaárnar.