Völvuleiði

Í Lesbók Morgunblaðsins 1992 fjallar Sigurður Ægisson um “Sagnir og minjar um Völvuleiði á Íslandi“. Völvur voru fölkunnugar og sögðu fyrir um örlög manna og óorðna hluti. Víða um land, einkum fyrir austan og suðaustan, eru völvuleiði; þúfur í túni, óreglulegar þústir, steinar eða hólar og fylgir oft blettinum sú arfsögn, að sá sem byggi upp leiðið eða haldi því við, fái einhvern glaðning eða happ í staðinn. Hér er drepið niður í frásögnina.

Völvuleiði

FERLIRsfélagar á Völvuleiði ofan Dysja á Álftanesi.

“Hin fornu trúarbrögð Íslendinga eru nefnd ásatrú, eða norræn trú. Árið 999 eða 1000 lögðust þau af, að nafninu til a.m.k., og kristin trú var lögleidd. Ásatrúin var margþætt, og skartaði ýmsum kynjaverum. Þar í flokki voru t.d. dísir, fylgjur og völvur.
Um þessi fyrirbæri er nú á dögum lítið vitað, enda ritaðar heimildir um þennan fyrsta sögulega tíma landsmanna flestar tiltölulega ungar, og því með kristnum formerkjum. Sem dæmi má nefna, að hinar elstu Íslendingasögur eru taldar ritaðar á fyrsta þriðjungi 13. aldar. Engin þeirra er samt til í frumriti sínu; elsta varðveitta söguhandritið er brot úr Egilssögu, frá miðri 13. öld.

Völvuleiði

Völvuleiðið í Leyningshólum, innst í Eyjafirði; rúnasteinn liggur þar yfir. Jónas Hallgrímsson, skáld, kom þar mörgum sinnum til rannsókna.

Ein heimild telst þó merkilegri en aðrar, þegar kemur að því að forvitnast um völvurnar. Það er Eiríkssaga rauða, er m.a. segir frá Þorbjörgu nokkurri, sem kölluð var lítilvölva. Sagan er talin rituð um miðja 13. öld, en geymir þó tiltölulega lítt brenglaðar eldri myndir, eins og reyndar eftirfarandi lýsing gefur til kynna. Þar segir orðrétt: Í þenna tíma var hallæri mikið á Grænlandi. Höfðu menn fengið lítið, þeir sem í veiðiferð höfðu verið, en sumir eigi aftur komnir.
Þessi heimild er ómetanleg, og mun vera nákvæmasta lýsing á búnaði seiðkonu eða völvu, er geymst hefur. Athyglisvert er að lesa um þessi dýrindis klæði, sem benda til þess hver virðingarstaða þessara kvenna í raun var á heiðnum tíma. Má geta þess til dæmis, að samkvæmt Grágás var kattarskinn margfalt verðmeira en refaskinn.

Völvuleiði

Völvuleiði við Einholt á Mýrum (Guðm. Ólafsson).

Mikill fjöldi álagabletta á Íslandi er lifandi dæmi um “neista heiðninnar” fram á okkar daga, þ.e.a.s. trú á huldufólk og álfa margs konar.
Eitt af því sem gæti líka hafa varðveist frá gamalli tíð er merkilegt fyrirbæri, sem kallast völvuleiði, en það eru minjar og örnefni víða um land, einkum þó fyrir austan og suðaustan. Oft er þar um að ræða þúfur í túni, óreglulegar þústir, steina eða hóla.
Um flest þessara völvuleiða er ekkert meira vitað; örfáum fylgja þó sagnir, munnlegar eða ritaðar. Kemur þar iðulega fram, að sá, er byggi upp leiðið eða haldi því við, fái einhvern glaðning eða happ í staðinn.

Völvuleiði

Efst í Hólmahálsinum, nokkru ofan við veginn, er leiði völvunnar sem hefur verndað Reyðarfjörð og Eskifjörð fyrir utanaðkomandi árásum um aldir. Hægt er að keyra eða ganga frá þjóðveginum upp að Völvuleiði efst á Hólmahálsi. Áður voru þar þrjár steinhellur en nú hefur verið hlaðin há varða á legstað völvunnar, sem er talin vera verndarvættur Reyðarfjarðar. Sagan segir að Völva ein hafi búið á Sómastöðum í Reyðarfirði nokkru fyrir þann tíma er Tyrkir rændu hér við land árið 1627. Áður en hún andaðist mælti hún svo fyrir að sig skyldi grafa þar er best væri útsýni yfir Reyðarfjörð og kvað þá fjörðinn aldrei mundu rændan af sjó meðan nokkurt bein í sér væri ófúið. Var hún þá grafin á fyrrnefndum stað. Þegar Tyrkir komu að Austfjörðum hugðust þeir sigla inn á Reyðarfjörð og ræna Hólmakirkju og kaupstað að Breiðuvíkurstekk. Þóttust þeir eiga þar fangsvon góða, en er þeir komu í fjarðarmynnið kom á móti þeim geysandi stormur svo að fjöll þakti í sjávarroki beggja megin fjarðar. Urðu þeir frá að hverfa við svo búið. 

Það athyglisverðasta við þessi „leiði“ — burtséð frá því, hvað undir kann að liggja — er, að menn hafa verið að hlúa að þeim allt fram á okkar tíma, þ.e.a.s. undir lok 20. aldar, hlaða þau upp og snurfusa, og það í landi, sem búið er að vera kristið í næstum 1000 ár.

Völvurnar

Þeir, sem á landnámsöld vildu fræðast um komandi tíma, gengu m.a. til völvu. Hún var fjölkunnug og sagði fyrir örlög manna og óorðna hluti.
Orðið völva er talið dregið af fornu orði, völur, er merkir stafur, en þess lags tæki munu völvurnar hafa notað, m.a. er þær frömdu seið. Orðtakið „að fara á vonarvöl”, þ.e.a.s. að vera með betlara- eða göngumannastaf, er einnig komið frá þessu, en sumar eða allar völvurnar flökkuðu um.
Af fornum bókum má ráða, þrátt fyrir allt, að völvur hafa á 8., 9., og 10. öld verið algengar á Norðurlöndum og Grænlandi, en tekið að fækka upp úr því, við tilkomu hins nýja siðar, kristinnar trúar.
Og nú er spurt: Hafi þessar eftirlegukindur heiðindóms lifað fram á 11. öld og haldið iðju sinni áfram, hvað skyldi þá hafa verið gert með jarðneskar leifar þeirra síðar? Í kristnu landi, vel að merkja. Ekki kom til greina að setja þær í kirkjugarð, og því hefur bara eitt verið til ráða: að grafa þær fyrir utan svæði hinnar vígðu moldar.
Á milli 50 og 60 völvuleiði (þ.e.a.s. örnefni óg/eða minjar) hafa varðveist fram á okkar daga á Íslandi, á meðan engin heimild eða vitneskja er til um slík örnefni á Norðurlöndunum og Grænlandi. Mörg leiðanna snúa í norður-suður, eins og títt var með grafir heiðinna manna, en sum þó einnig í austur-vestur.

Staðirnir

Völvuleiði

Völvuleiði – eitt af mörgum.

Í raun og veru skiptir ekki nokkru máli hvort völvuleiðin eru raunverulegar grafir eða ekki. Út frá þjóðfræðilegu sjónarmiði er hitt áhugaverðara, að þessi örnefni kviknuðu, og héldust lifandi fram á okkar daga. Það eitt segir margt.
Tekist hefur verið að finna, með dyggri aðstoð góðra manna, 49 staði á landinu, þar sem völvur eiga að sögn að vera grafnar. Yfirleitt má finna heimildir um þessi leiði á prenti; í sumum tilvikum þó ekki. Stundum eru fleiri en eitt leiði á hverjum stað. Langoftast er talað um völvuleiði í þessu sambandi (ýmist ritað með hástaf eða litlum), en fyrir kemur þó Völvuhóll, og á örfáum stöðum er þess einungis getið, að þar sé völva grafin, en örefnið sjálft hefur týnst.

Lokaorð

Völvuleiði

Völvuleiðið á Hólmahálsi endurreist.

Í ritgerðarkorni sem þessu verður ekki komist langt í greiningu á jafn viðamiklu efni og hér er á borðinu. Enda var tilefnið ekki það, heldur að vekja athygli á þessu merkilega örefni, Völvuleiði, sem enginn virðist hafa lagt niður fyrir sig að rannsaka fyrr en núna.
Ef við drögum saman ofanritað, kemur þetta í ljós: Til er á Íslandi, einkum þó austanlands og suður eftir, fjöldi svokallaðra völuleiða. Oft er hér um að ræða þúfu í
túni eða utan, stundum í laginu eins og gröf; yfirleitt er samt um ólögulega þúst að ræða, kannski vegna aldursins. Í örfáum tilfellum er þessum leiðum haldið við, og fylgir þá einhver gömul sögn, um að happ reki á fjörur þess, er slíkt gerir, eða því um líkt.

Völvuleiði

Völvuleiðið á Garðaholti ofan Dysja.

Fundist hafa um 50 staðir á landinu, þar sem völvur eiga að sögn að liggja grafnar. Þó vantar hálft landið inn í myndina, einhverra hluta vegna.
Völvuleiðin eru flest orðin máð og lasin, og því erfitt að sjá hvernig þau í raun snúa. Þó má í sumum tilvikum greina stefnuna, og er hún þá ýmist norður-suður eða austur-vestur. Hvað þetta allt gefur til kynna, er ómögulegt að vita á þessu stigi málsins. En framtíðin á vonandi eftir að skera úr um það.”

Heimildir:
-https://www.bbl.is/folk/menning/volvur-og-volvuleidi
-Lesbók Morgunblaðsins 21. nóv. 1992, Sagnir og minjar um Völvuleiði á Íslandi, Sigurður Ægisson, bls. 6-8.

Völvuleiði

Völvuleiði á Íslandi.

Víghóll

Örnefnið Víghóll á Digraneshálsi í Kópavogi var á allra vörum fyrir skömmu. Margar fyrirspurnir um nafnið hafa síðan borizt Þórhalli Vilmundarsyni, forstöðumanni Örnefnastofnunar Þjóðminjasafns. Í þessari grein Lesbókar Morgunblaðsins frá árinu 1994 svarar hann þeim fyrirspurnum. Hér birtist hluti greinarinnar.

Þórhallur Vilmundarson

Þórhallur Vilmundarson.

“Frá því að deilur risu um kirkjubyggingu á Víghóli á Digraneshálsi í Kópavogi á liðnu ári, hafa ýmsir spurt mig, hvort nokkuð sé vitað um uppruna nafnsins og merkingu. Ég vil af þessu tilefni greina frá eftirfarandi:
Ekki eru til, svo að mér sé kunnugt, gamlar heimildir um örnefnið í Kópavogi. Það kemur fyrir í örnefnaskrám frá þessari öld, bæði í eintölu, Víghóll, og í fleirtölu, Víghólar, sbr. götunafnið Víghólastígur og félagsheitið Víghólasamtökin.

Margir Víghólar
VíghóllÞegar hugað er nánar að örnefninu Víghóll eða Víghólar, vekur það athygli, að nafnið er víðar til en í Kópavogi. Þannig er mér kunnugt um fjóra aðra Víghóla á Suðvesturlandi: einn í Selvogi, tvo í Garðabæ og einn í Mosfellssveit. Víghóll er og í Kjarrárdal (Kjarradal) í Borgarfirði, á Fellsströnd í Dölum, í Steingrímsfirði, í Hörgárdal (þar eru þeir reyndar tveir), á Jökuldal og undir Eyjaflöllum. Víghólar eru í Öxnadal og á Síðu. Engra þessara nafna er getið í fornum heimildum.

Munnmæli um Víghólana – Heiðarvíg og fornmannadys

Víghóll

Víghólar á höfuðborgarsvæðinu.

Ekki er mér kunnugt um munnmæla eða skýringarsagnir um átta Víghólanna, en ung munnmæli eða skýringarsagnir eru hins vegar til um hina sex: Kristian Kálund segir það nú (þ.e. 1877) sögn heimamanna, að “Heiðarvígin” (sbr. Heiðarvíga sögu) hafi verið tvenn, önnur þeirra í Kjarradal, sunnan ár, hjá Víghóli, og þar í grennd sé dys hinna föllnu. Kálund bendir á, að þessi frásögn sé í ósamræmi við frásögn Heiðarvíga sögu og að Heiðarvígin á Tvídægru eigi að hafa átt sér stað eftir kristnitöku.

Hrakspár hefnt í Selvogi

Víghólsrétt

Víghólsrétt í Selvogi.

Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar segir um Víghól í Selvogi, að Erlendur lögmaður Þorvarðsson á Strönd í Selvogi (d. 1576) hafi drepið þar smalamann að launum fyrir þá hrakspá, að jörðin Strönd ætti eftir að verða eyðisandur.

Eru þeir réttnefndir Víghólar?

Húsfell

Húsfell – Víghóll neðst til vinstri.

Mörg efnisatriðin í þessum vígaferlasögnum eru lítt trúverðug. Verður að telja líklegt, að yfírleitt séu þessar sagnir spunnar upp til skýringar á nöfnunum. Jafnframt eru sagnir þessar skemmtileg dæmi um það, hve ríkan þátt örnefni eiga í myndun sagna, og á það reyndar ekki aðeins við um síðari tíma, heldur einnig ritunartíma Íslendingasagna.
En þótt sagnirnar um Víghólana séu ekki sem sennilegastar, stendur eftir spurningin: Eru hólar þessir réttnefndir Víghólar, þ.e. kenndir við vígaferli á fyrri tíð? Fjöldi nafnanna veldur óhjákvæmilega efasemdum um, að öll þessi nöfn eigi sér þennan uppruna. En á hvaða skýringu aðra er þá unnt að benda?

Veghóll og Veghólar

Víghóll

“Liðinu stefnt að Víghól”

Þegar að er hugað, kemur í ljós, að til era á landinu sviplík -hólsnöfn: Veghóll og Veghólar. Þannig má fljótlega tína upp úr örnefnaskrám Veghóla á Mýrum við Hrútafjörð, og er gamla reiðgatan frá Mýrum í Tjarnarkot sögð hafa legið um hólana, Veghól á Litlu-Giljá í Þingi, Veghól á Presthólum í Öxarfirði, Veghóla á Bótarheiði í Hróarstungu, Veghól á Litlabakka í sömu sveit, þar sem vegur er sagður hafa verið áður fyrr, og Veghóla í Skuggahlíð í Norðfirði inn og niður af Vegahnúk, en hestavegur er sagður liggja vestan við hann. Veghólar hafa augljóslega verið mönnum eins konar vörður eða vegvísar við vegi, ekki aðeins fjölfarnar leiðir, heldur einnig hinar fáfarnari. Nútímamenn verður að minna á, að hér er um fornar reiðgötur eða göngustíga að ræða, sem horfið gátu í fyrstu snjóum, og því var ekki vanþörf á kennileitum, sem vísað gátu veginn.
Nú vaknar sú spurning, hvort hér kunni að hafa slegið saman tveimur örnefnum: Veghólum og Víghólum — og þá þannig, að ýmsum Veghólum hafi verið breytt í Víghóla og nöfnin þannig gerð sögulegri.

Eitt örnefni dregur til sín annað – dæmi: Búrfell/Búfell

Búrfell

Búrfell við Þingvelli.

Það er þekkt fyrirbæri í örnefnafræðum, að eitt örnefni dragi til sín annað. Dæmi þess hygg ég megi finna í hinum fjölmörgu Búrfells-nöfnum hér á landi. Þau hafa helzt verið talin vera líkingarnöfn og draga nafn af lögun sinni („efter formen“, segir Finnur Jónsson). Átt er við, að þau séu kubbsleg og minni á búr, einkum stafbúrin norsku. Þessi skýring getur átt við mörg Búrfell, en þó ekki öll, t.d. ekki það Búrfell, sem næst er höfuðborgarbúum, sunnan Hafnarfjarðar.
Nú er til austur í Vopnafirði Búfell ofan við Hauksstaði. Að sögn Friðbjarnar Hauks Guðmundssonar bónda þar (f. 1946) kallaði eldra fólkið fellið ævinlega Búfell, m.a. afi hans, Friðbjörn Kristjánsson (f. 1894), og börn Víglundar Helgasonar (f. 1884), sem bjó á Hauksstöðum á undan Friðbirni Kristjánssyni. Nafnið er ritað Búfell í örnefnaskrá, en á herforingjaráðskorti stendur hins vegar Búrfell, og er það lítið dæmi um ofríki Búrfells-nafnmyndarinnar. Mér þykir líklegt, að Búfell hafi upphaflega verið fleiri á landinu, sbr. norsku fjallaheitin Bufjell á Þelamörk og Bufjellet á Vestfold.

Búfell

Búfell í Þjórsárdal.

Fyrri liður Búfells er trúlega no. bú í merkingunni “búpeningur’” og ætti Búfell þá að merkja “fell”, þar sem búpeningur var hafður á beit eða í “seli”, sbr. „fara til sætra (þ.e. selja) með bú sínu“, eins og segir í norsku fornbréfi. Friðbjörn Haukur Guðmundsson segir mér, að fram og niður af enda Búfells sé Selbotn með tóftum og niður undan Selbotni séu beitarhúsatóftir. Hann segir, að mjög góð beit sé í Búfelli. Til hliðsjónar eru hér einnig íslenzk örnefni eins og Búhólar, Búland og Bústaðir.

Dreifing Veghóla og Víghóla

Víghóll

Víghóll við Hvammsfjörð.

Dreifing Veghóla- og Víghóla-nafna ýtir undir þá hugmynd, að Veghóla-nöfn hafi breytzt í Víghóla: Á Suðvesturlandi eru fimm Víghólar með tiltölulega stuttu millibili, og á öllu Suður- og Vesturlandi, austan frá Síðu norður í Steingrímsfjörð, eru 10 Víghólar, en enginn Veghóll. Síðan bregður svo við, að Húnaþing er Víghólalaust svæði, en þar eru hins vegar fimm Veghólar, hvernig sem menn vilja skýra það. Í Eyjafirði eru þrír Víghólar á litlu svæði, en engir Veghólar. Á Norður- og Austurlandi frá Tjörnesi til Norðfjarðar eru hins vegar átta Veghólar, en aðeins einn Víghóll. Þessi dreifing virðist ekki einleikin, og sýnist eðlilegast að skýra hana með því, að á tilteknum svæðum hafi eitt nafnið eða nafnbreytingin kveikt aðra. Nefna mætti þrennt, sem kynni að hafa stuðlað að nafnbreytingunni:

Orrustuhóll

Orrustuhóll á Hellisheiði.

Í fyrsta lagi: Þegar þess er gætt, að langflest Víghóls-nöfnin eru ekki varðveitt í eldri heimildum en frá 20. öld, vaknar eðlilega sú spurning, hvort framburðarruglingur eða samruni e og i (hljóðvilla) hafi í einhverjum tilvikum hrundið breytingunni af stað. Þegar menn gerðu ekki greinarmun á Veghóll og Vighóll, hafi merkingin týnzt, nýrrar merkingar verið leitað og úr orðið Víghóll. Hljóðvillu eða flámælis fór að gæta um miðja 19. öld eða fyrr, sennilega fyrst á Suðvesturlandi. Þessi skýring getur þó trúlega ekki átt við alla Víghólana, bæði vegna aldurs sumra nafnmyndanna og legu sumra hólanna.
Hér má ekki gleyma því, að örnefni taka oft breytingum, án þess að fylgt sé hljóðalögmálum, og eiga slíkar breytingar sér ekki sízt stað, er menn leita nýrrar merkingar í nafninu.
Í öðra lagi: Ekkert Víghóla-örnefni er í íslenzkum fornsögum, en þar er þess hins vegar alloft getið, að bardagar hafi verið háðir á hólum eða hæðum.
Í þriðja lagi: Þekktar skráðar sögur, svo sem um Heiðarvíg í uppsveitum Borgarfjarðar og Víga-Glúm í Eyjafirði, kunna að hafa ýtt undir nafnbreytingu í þeim héruðum.

Hvernig liggja Víghólarnir við vegum?

Orrustuhraun

Rétt undir Orrustuhrauni á Hellisheiði.

Ef Víghólarnir hafa upphaflega heitið Veghólar, ættu þeir að liggja við gamla vegi, og verður því að leita svars við spurningunni: Hvernig liggja Víghólarnir við vegum? Hér má gera þá athugasemd, að það sanni ekki mikið, þótt í ljós komi, að Víghólar séu við vegi, því að víg hafi einatt verið framin á eða við vegi og alfaraleiðir. Því er til að svara, að vopnaviðskipti og víg hafa samkvæmt samtímaheimildum og sögnum einnig átt sér stað við aðrar aðstæður: heima við bæi eða á flótta til skógar eða fjalls, í fjöru, eyjum og á annnesjum, í kolaskógi, á engjum eða í úthögum og á heiðum, þar sem setið var yfir fé o.s.frv.

Hvað um hestavíg?

Hestaþinghóll

Hestaþinghóll í Kjós.

Aðra athugasemd má gera: Gæti verið átt við hestavíg í Víghóls-nöfnunum, sbr. örnefni eins og Hestaþingshamar (svo í Sturlungu, síðar Hestavígshamar) í Skagafirði, Hestavígshólmi á mótum Blöndu og Svartár, Víghestahvammur hjá Sauðafelli í Dölum, Hestaþingshóll hjá Kaldaðarnesi í Flóa og í landi Vallar í Hvolhreppi, Hestaþingsflöt hjá Hróarsholti í Flóa og Hestaþingstaðir nærri Flögu í Skaftártungu, og hólarnir þá eðlilega verið við reiðgötur? Því er til að svara, að hestaþing (hestaat, hestavíg) voru samkvæmt fornum heimildum yfirleitt háð á sléttum grundum á samkomustöðum: á þingstöðum. Margir Víghólanna uppfylla engan veginn þessi skilyrði, t.d. Víghólarnir á Digraneshálsi, í Mosfellssveit, Kjarrárdal, Arnkötludal og Hörgárdal.

Síðasta hestavíg á Íslandi

Þingvellir

Hestaat var stundað til forna. t.d. við Þingvelli.

En hvað þá um síðasta hestavíg á Íslandi við Vindhóla fram af Fnjóskadal árið 1623, sem Jón Espólín segir frá. Segir Jón Espólín og, að hann hafi ekki vissu fyrir þessum uppruna Vindhólanafnsins. Þegar hugleidd eru hestavíg og Víghólar, ber einnig að hafa í huga, að engar heimildir, hvorki sagnarit, skjöl né munnmæli, tengja nokkurn hinna mörgu Víghóla við hestavíg.

Víghóll í Selvogi

Selvogur - örnefna- og minjakort

Selvogur – örnefna- og minjakort – ÓSÁ.

Víghóll í landi Ness í Selvogi er samkvæmt ömefnaskrá við Víghólsrétt, ofan við Nes. „Frá túngarðshliði (í Nesi) að austan lá gata upp í heiðina, upp hjá Víghólsrétt, upp á Klakksflatir. Tvær smávörður við götuna vom kallaðar Ljúf og Leið, ekki vitað hvers vegna,“ segir í skránni. Heimildarmaður þessa er Eyþór Þórðarson frá Torfabæ í Selvogi (1898-1988, var í Torfabæ til 1962). Þórarinn Snorrason bóndi í Vogsósum (f. 1931) segir Víghól vera á Heimasandi um 2 km norðaustur af Nesi, og er land þar löngu uppblásið. Hann telur eðlilegast, að leiðin frá höfuðbólinu Nesi austur í Ölfus hafi legið um Víghól, Klakksflatir, Hellisþúfu og Kvennagönguhól.

Víghóll sunnan Hafnarfjarðar

Víghóll

Víghóll í Garðabæ vestan Húsfells.

Í örnefnaskrá óbyggðarinnar suður frá Hafnarfirði segir, að Víghóll heiti norðan við Mygludali milli Valahnúka og Húsfells. Selvogsgata eða Grindaskarðavegur liggur milli Valahnúka og Víghóls, um 300 m sunnan við Víghól. Þorkell Jóhannesson prófessor og Óttar Kjartansson, sem kannað hafa þetta svæði, segja, að frá suðurhrauni Búrfells sé „gamalt og tiltölulega flatt hraun. Þar eru farnir allglöggir slóðar í átt að Víghól.“ Að sögn Þorkels Jóhannessonar liggur þessi leið síðan meðfram Víghól og þar á Selvogsgötu. Götuslóðana hefur hann ekki getað rakið austan Búrfells í átt að Löngubrekkum (á Heiðmörk), en tekur fram, að kjarr kunni að hafa hulið gamlar slóðir í Búrfellsdal. Gömul reiðleið er frá Elliðavatni suður allar Tungur undir Löngubrekkum í Búrfellsgjá. Þess má geta til, að götuslóðarnir „í átt að Víghól“ séu hluti vermannaleiðar frá Mosfellssveit, Kjós, Vestur- og Norðurlandi um Elliðavatn og Tungur á Selvogsgötu eða Grindaskarðaveg hjá Víghól.

Arnarnes

Arnarnes og Arnarneshæð 1954.

Í Selvogi var mikil verstöð fyrrum. Árið 1703 voru íbúar þar nærri 200 að tölu; þaðan voru gerð út árið 1785 rösklega 30 skip, og á þeim voru 380 menn, þar af 340 aðkomumenn. Má nærri geta, að margir hafa átt leið í Selvog á fyrri tíð, flestir sjálfsagt af Suðurlandi, en sumir að vestan og norðan. Ef rétt er til getið, má Víghóllinn hafa verið vegvísir á hinni gömlu vermannaleið og er þá jafnframt minnismerki um hana.

Víhóll í Arnarneslandi í Garðabæ

Víghóll

Víghóll Mosfellssveit.

Örnefnaskrá Arnarness, sem Gísli Sigurðsson lögregluþjónn í Hafnarfirði (1903-85) skráði, segir, að Vífilsstaðagata hafi legið frá alfaraleiðinni á Arnarnesholti „inn með holtinu, sem nefndist Móholt. Hér einhvers staðar á að vera hóll, er nefnist Víghóll.“ Ekki hefur mér tekizt að hafa uppi á þessum Víghól. Sigríður Gísladóttir á Hofstöðum (f. 1921) þekkir hann ekki. Hún telur Móholt vera sama og Nónholt, en mór var tekinn í mýrinni norðan við Arnarneslækinn á stríðsárunum fyrri. Vífilsstaðagatan gamla lá frá Vífilsstöðum sunnan í Nónholtinu á Arnarneshæð.

Víghóll í Mosfellssveit

Víghóll

Víghólar í Kópavogi 1954.

Um Víghól í Mosfellssveit segir séra Magnús Grímsson á Mosfelli (1825-60): „Á skarðinu, sem skilr Helgafell og Reykjafjall, stendr hamar einn, svo sem þriggja mannhæða hár, upp úr sléttri melbúngu. Hann heitir Víghóll, en eigi veit eg af hverju það nafn er dregið. Hjá hól þessum liggr vegrinn ofan í Skammadalinn og suðr í Reykjahverfi, þar sem Reykjalaug er.“

Víghóll á Digraneshálsi

Og þá er að lokum komið að Víghólnum (eða Víghólunum) á Digraneshálsi í Kópavogi, sem var tilefni þessarar greinar. Digranesháls eða hluti hans virðist áður hafa heitið Langi jörvi samkvæmt frásögn Árna Magnússonar prófessors í Kaupmannahöfn. Hann segir, að jörvi (jörfi) merki „slétt melholt, ex. gr. (þ.e. til dæmis) langa slétta holtið fyri ofan Kópavog. Almennt málfæri syðra í Mosfellssveit: Þar yfir á jörfanum, yfir á langa jörfann. Langi jörfi heitir melurinn fyri ofan Kópavog.“

Víghóll

Víghólar í Kópavogi 1958.

Adolf J. E. Petersen vegaverkstjóri (1906-85) segir í örnefnaskrá Kópavogskaupstaðar: „Víghólar eru í tvennu lagi, annar hóllinn er sunnan við Digranesveginn, en hinn er norðan við þann veg og ber nokkuð hátt, enda er þaðan eitt mesta útsýni af Digraneshálsinum, og þar er útsýnisskífa.” Fyrrnefndi hóllinn er neðan við húsið nr. 94 við Digranesveginn, og segir Bergsveinn Jóhannsson (f. 1915), sem þar hefur átt heima frá 1960, að Ingjaldur Ísaksson í Smárahvammi (1909—91) hafi kallað hólinn Neðri-Víghól og sagt, að það væri hinn rétti Víghóll. Hann er um 140-50 m suður og niður af efri Víghólnum.

Víghóll

Víghólar í Kópavogi 2022.

Haustið 1992 heimsótti ég á Hrafnistu í Reykjavík Guðbjörgu Jónsdóttur frá Digranesi (f. 1899 og átti þar heima til 1923) og spurði hana um gamlar leiðir vestur frá Digranesi. Guðbjörg lézt á síðastliðnu sumri (1993).
– Hvaða leið fóruð þið frá Digranesi til Kópavogs (þ. e. gamla bæjarins í Kópavogi), þegar þú varst að alast upp?
„Við fórum brekkurnar sunnan í Digraneshálsinum.“
– Fóruð þið ofan eða neðan við neðri Víghólinn?
„Neðan við hann.“
– Hvernig lá leiðin frá Digranesi til Reykjavíkur?

Kópavogur

Á nyrðri Víghól í Kópavogi.

„Þá var farið á ská yfir Digraneshálsinn og niður brekkurnar að norðanverðu talsvert norðan við efri Víghólana og síðan beint á Fossvogsbrúna. Á þeirri leið voru fen, og það var ekki fyrir aðra en kunnuga að fara hana.“
– Var þá einnig farið eftir hálsinum frá Digranesi út á alfaraveginn milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar?
„Já, þá leið fóru ferðamenn stundum, og var þá farið eftir holtinu rétt fyrir norðan Víghólana, yfir Stútulaut, lægðina vestan við Víghólana, og eftir háhálsinum
út á Hafnarfjarðarveg.”
– Átti Digranesfólk ekki einnig erindi þessa leið?

Víghóll

Útsýnisskífa á nyrðri Víghól í Kópavogi.

„Jú. Fé föður míns sótti í fjöruna fram af Kársnesinu, og þar var faðir minn einu sinni hætt kominn í flæðiskeri, en Vigfús Guðmundsson vert sá til hans frá Skerjafirði og kom honum til bjargar. Mér eru minnisstæðir Borgarhólarnir þarna utar á hálsinum, þar sem Kópavogskirkja stendur nú, því að við krakkarnir höfðum svo gaman af bergmálinu í klettunum. Faðir minn ruddi bílveg eftir hálsinum frá Hafnarfjarðarvegi heim í Digranes árið 1914, og fór Buicksbíll frá Hafnarfirði fyrstur veginn.“

Víghóll

Víghóll í Kópavogi – skilti.

Ég sneri mér til Bergþóru Rannveigar Ísaksdóttur (f. 1905) í Tungu hjá Fífuhvammi (sem áður hét Hvammkot og þar áður Hvammur) og spurði hana, hvernig kirkjuvegurinn hefði legið fyrrum — fyrir bílaöld — frá Hvammkoti til Reykjavíkur, en þangað átti Hvammkot kirkjusókn.
„Farið var frá Fífuhvammi eða Hvammkoti yfir Kópavogslækinn og upp Stútuslakka yfir Digraneshálsinn vestan við Víghóla og svo beint af augum á brúna yfir Fossvogslækinn og síðan austan við Leynimýri yfir Öskjuhlíðina sem leið liggur til kirkju í Reykjavík,” sagði Bergþóra.
– Í Stútuslakkanum hefur verið farið neðan við neðri Víghólinn. Var hann eina kennileitið í brekkunum?
„Já, hann var í brekkunni fyrir austan slakkann og var eina kennileitið í brekkunni sunnan frá séð. Efri Víghólana ber hins vegar við loft frá Fífuhvammi, ég sé útsýnisskífuna héðan.“
-Þetta er þá leiðin, sem bömin þrjú frá Hvammkoti fóru hinn örlagaríka vetrardag 1874, þegar þau fylgdu frænku sinni, sem gekk til spurninga í Reykjavík?

Kópavogur

Fífuhvammur/Hvammskot.

„Já, það var mikil sorgarsaga. Til okkar í Fífuhvamm kom eitt sinn gamall sjómaður, sem sagðist hafa verið á ferð þennan dag og lent í því að bera ásamt föðurnum eldri dótturina örenda frá Danskavaði á Kópavogslæk heim í Hvammkot. Síðan lögðust þeir við hlið stúlkunnar í von um, að hún lifnaði. „Það var köld nótt, og það var löng nótt,“ sagði hann.“
Í örnefnaskrá Digraness má sjá, að götuslóði frá Digranesi norðan í Digraneshálsinum að Fossvogslækjarbrú var nefndur Kirkjuleið, Kirkjugata eða Prestsgata.

Kópavogur

Upplýsingaskilti við Fífuhvamm.

Framangreind athugun á fjölda, dreifingu og legu Víghólanna virðist mér benda til þess, að hér sé yfirleitt um upphaflega Veghóla að ræða, þó að sjálfsagt sé að slá þann varnagla, að meðal þessara mörgu Víghóla kunni að leynast hóll, sem réttilega hafi verið svo nefndur eða fengið nafnið að tilefnislausu sem flökkunafn.
Af þessum sökum — svo og vegna allra aðstæðna — tel ég því ólíklegt, að Víghóll á Digraneshálsi sé með réttu orðaður við forn mannvíg og illdeilur og hygg eðlilegra að líta á hann sem vegvísi á kirkjuleið. Óþarft ætti því að vera að láta hólinn kveikja hugsanir um illindi og úlfúð. Fremur ætti hann að geta verið tilefni hugleiðinga um veginn og lifið — og dauðann.”

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins 26. mars 1994, Víghóll, Þórhallur Vilmundarson, bls. 9-11.

Víghólar

Víghólar á Íslandi – kort.

Hvalsnes

Hvalsneskirkja var vígð á jólum 1887. Ketill Ketilsson, stórbóndi í Kotvogi, þáverandi eigandi Hvalsnestorfunnar, kostaði kirkjubygginguna.

Hvalsneskirkja

Hvalsneskirkja.

Hvalsneskirkja er byggð úr alhöggnum steini og var grjótið sótt í klappir í nágrenninu. Um steinsmíði sá Magnús Magnússon (182-1887) og Stefán Egilsson. Um tréverk sá Magnús Ólafsson (1847-1922). Allur stórviður var fenginn úr fjörunum í nágrenninu, m.a. súlurnar. Viðamiklar viðgerðir fóru fram árið 1945 undir umsjón Húsameistara ríkisins. Kirkjan er friðuð.
Altaristaflan er eftirgerð af Dómkirkjutöflunni, máluð af Sigurði Guðmundssyni (1833-1874) árið 1886 og sýnir hún upprisuna.

Hvalsneskirkja

Legsteinn Steinunnar í Hvalsneskirkju.

Einn merkilegasti gripur kirkjunnar er legsteinn yfri Steinunni Hallgrímsdóttur, sem dó á fjórða ári (1649). Hún var dóttir Hallgríms Péturssonar (1614-1674), eitt mesta sálmaskáld Íslendinga, sem þjónaði þá sem prestur í Hvalsnessókn. Kona hans var Guðríður Símonardóttir. Hallgrímur Pétursson þjónaði á Hvalsnesi fyrstu prestskaparár sín (1644-1651).
Hella þessi var lengi týnd, en fannst 1964 þar sem hún hafði verið notuð í stéttina framan við kirkjuna.
Kirkja hefur líklega verið á Hvalsnesi lengi. Hennar er fyrst getið í Kirknaskrá Páls biskups frá 1200 og stóð hún til ársins 1811 er Hvalsnesprestakall var lagt niður. Íbúarnir voru mjög ósáttir við það og var ný kirkja byggð 1820. Hún var timburkirkja. Núverandi kirkja er fyrsta kirkjan, sem stendur utan kirkjugarðsins. Í kaþólsku tengdust margir dýrlingar kirkjunni. María guðsmóðir, Ólafur helgi, heilög Katrín, Kristur, allir heilagir og hinn heilagri kross.

Hvalsneskirkja

Hvalsneskirkja.

Tröllafoss

Landmælingar Íslands gáfu á sínum tíma út stafrænt “Hryllingskort” þar sem listuð eru upp allflest örnefni er tengst gætu hryllingi af einhhverju tagi hér á landi. Að eftirskráðu eru þau þar að lútandi örnefni er tengjast Reykjanesskaganum með einum eða öðrum hætti.

Hryllingsörnefnakort Lmi

“Hryllingsörnefnakort” Landmælinga Íslands.

Austan Mölvíkur taka við Draugagjártangar, sker og drangur fram í sjó, og austur af þeim taka svo við Draugagjár, og eru þar klappir og klettar. Á einum stað liggur milli klettanna gjá; þar svarrar sjórinn fast. Á Draugagjárlóninu er steinn mikill, Skarfaklettur. Austarlega í Draugagjám er klöpp, þangi vaxin og öðrum sjávargróðri. Í eina tíð lá Steinbogi út á klöppina, og þá leið fór féð til beitar. En á flæði hraktist það af klöppinni í ker, sem þar liggur inn af, og drapst þar. Þar af var kerið kallað Drápsker. Fyrir þessa sök var steinboginn brotinn. (Gísli Sigurðsson – örnefnalýsing fyrir Stakkavík)

Stakkavík

Stakkavík og Hlíðarvatn – örnefni.

Tangi eða hólmi er úti í vatninu fram undan bænum; Hjalltangi eða Hjallhólmi er hann nefndur. Þar á bærinn að hafa staðið upphaflega. Arnarþúfa er suður af tanganum. Sat þar örninn oft og hlakkaði yfir veiði. Þar fyrir sunnan skerast inn í landið vikin þrjú. Þar er fyrst Kristrúnarvik, og þá Girðingarvik, sem er nýlegt nafn, og þá vik með mörgum nöfnum, Vondavik, Forarvik og Moldarvik. Í viki þessu var venjulega kafhlaup af for, og því eru nöfnin. Gerð hafði verið brú með grjóti yfir vikið, og var að því nokkur bót. (Gísli Sigurðsson – örnefnalýsing fyrir Hlíð)

Hraun

Hraun – uppdráttur ÓSÁ.

Örnefni sem mér eru kunn í landi Hrauns eru eftirfarandi: Með sjó er Markabás vestast. Hann er austan við svonefnd Slok og skiptir löndum á milli Þórkötlustaða og Hrauns. Austan við Markabás er Hádegistangi. Hádegisklettur er þar ofan og sunnan við. Hann hét öðru nafni Klofaklettur, tvær strýtur voru upp úr honum en önnur er nú brotin af fyrir mörgum áratugum. Þetta var hádegismark frá gamla bænum á Hrauni. Þar norðan við er Skarfatangi. Það er smátá sem skagar út í sjóinn en fer í kaf á flóði. Magnús Hafliðason segist muna eftir grasi á Skarfatanga og þegar hann var ungur hafi gamlir menn sagt sér að grasbakki hafi verið á Skarfatanga. Skip hafa strandað sitt hvoru megin við Skarfatanga. Franski togarinn Cap Fagnet að sunnan og kútterinn Hákon að norðanverðu. Vikið norðan við Skarfatanga heitir Vatnagarður og sama nafn ber syðsti hluti túnsins þar upp af. Sker út af Vatnagarði kemur aðeins upp úr á stórstreymisfjöru og er kallað Klobbasker. Sagt er að það hafi komið upp þegar bænahús var aflagt á Hrauni (sennil. Á 17. öld).

Hraun

Hraun í Grindavík.

Gamla sundið lagðist þá einnig af. Vatnstangi er norðan við Vatnagarð. Þar rennur fram ferskt vatn. Fast norðan Vatnstanga er Suðurvör og var þar aðallending á Hrauni. Norðan við Suðurvör er sker og var farið fast með því þegar lent var og var það nefnt Rolla.
Norðurvör er í þröngum klöppum þar norður af og þar var aðeins hægt að lenda í mátulega sjávuðu. Baðstofa er stór klöpp fast fyrir norðan Norðurvör. Þar norður af er Bótin og þar var nyrsta lendingin. Þaðan var hægast að fara út í vondu. Efst í Bótinni er klettur sem fer í kaf á flóði og heitir Barnaklettur. Þar áttu að hafa flætt og síðan drukknað tvö börn. (Loftur Jónsson – örnefnalýsing fyrir Hraun)

Þorbjarnarfell

Þorbjarnarfell – Baðsvellir nær.

Þorbjörn mun upphaflega hafa heitið Þorbjarnarfell en nú er það nafn alveg glatað. Hann rís upp hár og tignarlegur frá Grindavík séð yfir alla flatneskjuna.
Toppur fjallsins er klofinn af stórri sprungu sem heitir Þjófagjá. Þar eiga að hafa haldið til þjófar og ræningjar er gerðu Grindvíkingum slæmar búsifjar. Lauk því svo að þeir fóru að þeim, handtóku þá og hengdu í Gálgaklettum sem eru í Hagafelli austur af Þorbirni. (Ari Gíslason – örnefnalýsing fyrir Járngerðarstaði)

Skipsstígur

Götur og hraun ofan Grindavíkur.

Hraunið vestur af Kasti heitir Beinavörðuhraun og nær fram að Hrafnshlíð, Fiskidalsfjalli og Vatnsheiði. Norður á móts við áður getinna er hraunið mikið sléttara með stórum mosaþembum og heitir þar Dalahraun. Í Dalahrauni eru tveir hólar með nokkru millibili og heita Innri-Sandhóll og Sandhóll sem er hærri og sunnar. Gömul gata inn með Fagradalsfjalli að vestan og allt til Voga heitir Sandakravegur. [Beinavörðuhraun rann fyrir u.þ.b. 6000 árum.] (Loftur Jónsson – örnefnalýsing fyrir Hraun)

— Eru ekki líka draugar hér á Reykjanesi?

Óskar Aðalsteinn

Óskar Aðalsteinn, vitavörður.

Óskar: Jú, það vantar ekkert uppá það. Ég varð strax var við par, sem hélt til í kjallaranum hjá okkur hér. Mér líkaði illa við það hyski. Mér fannst stafa kuldi, jafnvel illska frá þeim. Mér hefur tekist aö koma þeim útúr kjallaranum, en þau eru samt ekki farin.
Ég hef spurt karlmanninn hvort þau ætli ekki aö koma sér burt, en hann þverskallast viö. Þau eru búin að vera hér siðan á 18. öld. Fórust á enskum togara. Þessi náungi var illmenni, hefur morð á samviskunni. Hann segist hvergi finna frið, eins og oft vill verða með menn sem deyja í slysi og hafa illt á samviskunni. Ég veit að hann vill gera okkur illt, en hann er bara ekki nógu kröftugur til þess, sem betur fer. (Viðtal við Valgerði Hönnu Jóhannsdóttur og Óskar Aðalsteinn, vitaverði í Reykjanesvita – Þjóðviljinn 2. des. 1978, bls. 11)

Norðan Selhellu er Seljavogur og norðan hennar er Beinanes (Ari Gíslason – Örnefnastofnun)

Ósabotnar

Ósabotnar – uppdráttur ÓSÁ.

Stafnes hefur verið á sama stað frá öndverðu. Landamerki milli Hvalsness og Stafnesshverfis eru í viki einu litlu sem heitir Mjósund, stundum kallað Skiptivík, sunnan við Ærhólma. Endar landið í Djúpavogi í Ósabotnum. Átti Stafnes inn í land að Beinhól og Háaleiti. Heimild um blóðvöll; Beinhóll: „Þar var slátrað hrossum til refafóðurs,“ segir í örnefnalýsingu. (Ari Gíslason -Örnefnaskrá)

Þegar komið var austur fyrir Hunangshelluna var haldið frá gatnamótunum að Njarðvík eftir reiðleiðinni þar sem Lágafellsleiðin sameinast henni áleiðis að gamla verslunarstaðum í Þórshöfn. Gatan er greinileg í heiðinni og sjá má fallnar vörður við hana. Þegar komið var yfir austanverðan Djúpavog tók við vagnvegur frá Illaklifi áleiðis að verslunarstaðnum.

Kaupstaðaleiðin

Kaupstaðaleiðin ofan Illaklifs.

Af og til mátti þó sjá gömlu reiðleiðina út frá veginum. Á Selhellu og við Draugavog eru tóftir, bæði ofan Selhellu og efst á henni. Vestan við tóttina er fallegt vatnsstæði í klöpp. Efst við sunnanverðan Selvoginn, sem er næsti vogur, eru einnig tóttir. Gengið var inn fyrir voginn og inn á þjóðleiðina, ofan við Beinanesið að Hestaskjóli og áfram fyrir Djúpavog, sem fyrr sagði. Í botni vogarins liggur girðing upp í heiðina, í átt að varnarsvæðinu. Norðan vogarins, þegar upp á holtið (Illaklif) er komið, er Kaupstaðaleiðin rudd svo til þráðbein á drjúgum kafla. Í stað þess að fylgja leiðinni niður að tóttum sunnan við Illaklif var haldið áfram vestur yfir holtið, að kletthól, sem þar er beint framundan. Vestan undir hólnum er allnokkuð gras og í því tóttir Stafnessels. (Ferlir.is)

Gálgar

Gálgar/Gálgaklettar ofan Stafness.

Þá er að bregða sér upp í heiðina. Á Flötunum fyrrnefndu er svo nefnd Urðarvarða, og ofan túns er Heiðarvarða. Beint upp af túni eins og 1 km er varða á leið til Hafna. Hún heitir Pétursvarða og stendur þar á klettasyllu. Þar til austurs er garðbrot fyrir fé, nefnt Skjólgarður. En niðri við Flatirnar er vik, sem fellur upp í og er nefnt Fagradalsvik. Þar upp frá er Fagridalur, sem nú hefur verið girtur af. Hér nokkuð austar upp frá sjó, suður frá Draughól, eru klettar tveir allháir og nokkurra faðma breitt sund á milli. Heitir þetta Gálgaklettar. (Ari Gíslason – örnefnalýsing fyrir Stafnes)

Másbúð

Brúin út í Másbúðarhólma.

Norðan í Langarifi, skammt framan við Réttarklappir, er stór og hár klettur, ljótur og hrikalegur, ílangur og söðulbakaður; heitir hann Svartiklettur. Lítið eitt utar er stórt og hátt sker, fast norðan við rifið; heitir það Illasker. Út í Illasker má ganga þurrum fótum um fjöru; sækir sauðfé mjög í skerið, því þar eru söl, en af því leiðir ákaflega flæðihættu. Líklega hafa öll „Illusker“ á Miðnesi fengið nafnið vegna flæðihættu. (Magnús Þórainsson – örnefnalýsing fyrir Másbúðir – Nesjar)

Gamla Sandgerðisgatan (Sandgerðisvegurinn, sbr. Sig. B. Sívertsen – sóknarlýsing um 1880) var gengin frá Sandgerði að Grófinni í Keflavík.

Sandgerðisvegur

Gengið um Draugaskörð á Sandgerðisvegi.

Gatan sést þar sem hún kemur undan einum húsgrunnanna á nýbyggingarsvæðinu ofan bæjarins og liðast síðan upp móann. Vestan við Vegamótahól, þar sem voru gatnamót Sandgerðisgötu og Bæjarskersvegar, liggur gatan undir nýja Sandgerðisveginn, en kemur aftur undan honum í Draugaskörðum. Ofan við þau eru t.d. Efri-Dauðsmannsvarðan. Þar liggur hann áfram til suðurs framhjá Dynhól. Fallnar vörður eru vinstra megin götunnar svo til alla leið upp að Gotuvörðu. (Ferlir.is)

Garðskagi

Garðskagi – kort.

Naust hafa fyrr verið nefnd sem býli, en er nú horfið í sjó. Heitir þar nú Naustarif, þar sem bær þessi var, en nú brýtur á því sem þaragarði fyrir framan land og fer í kaf um öll flóð. Fyrr var talað um Lónsós og Lónið, sem er fram undan Akurhúsum. Hér er svo hin lendingin í Útskálalandi landmegin við Naustarif og heitir Króksós. Innan við ósinn er svonefnd Manntapaflúð, sem ekki mun tilheyra Útskálalandi. (Ari Gíslason – örnefnalýsing fyrir Útskála).

Vatnsleysa

Vatnsleysa – örnefni.

Rétt utan túngarðs Minni-Vatnsleysu eru klettar tveir, sem kallast Gálgaklettar. Þó eru þeir nefndir til frekari glöggvunar Gálgaklettur nyrðri og Gálgaklettur syðri. Klettar þessir standa í fjörubakkanum, og er þröngt vik á milli þeirra. (Jónas Þórðarson, örnefnalýsing fyrir Stóra- og Minni-Vatnsleysa)

Trölladyngja er eldfjall semmyndaðist við gos undir jökli fyrir lok ísaldar og rétt við hana er Grænadyngja, en oft er talað um fjöllin sem tvíbura og saman eru þau kölluð Dyngjurnar. (Reykjanesgeopark.is)

Út í Lambhúsatjörn ganga Hrauntangar. Þar innar með sjónum eru svonefndir Gálgaklettar, sem svo skiptast í Gálga og Litlagálga, sem er nær hrauni og innan við Stóragálga. Þar eru tjarnir, sem heita Vatnagarðar. Framar eru Gálgaflöt. (Ari Gíslason – örnefnaskráning fyrir Garðahverfi)

Garðahverfi

Garðahverfi – örnefni (ÓSÁ).

Á milli Kringlu og Oddakotsóss eru Vöðlar. Þar eru leirur og hægt að vaða um fjörur. Aðeins úti í sjó, rétt fyrir vestan Granda, er svolítil steinaþyrping, sem heitir Draugasker (et.). Það fer í kaf með flóði. (Kristján Eiríksson – örnefnalýsing fyrir Garðahverfi)

Verður nú rakin merkjalína Garðalands, er Vífilstaðalandi sleppir. Arnarbæli var fyrr nefnt. Þaðan er línan í austur-landsuður upp í Hnífhól, og þaðan með sömu stefnu í mitt Húsfell, sem er allhátt fell, sem rís hér upp af hraunbreiðunni. Breytir nú stefna merkjanna suður í miðja Efri-Strandatorfu, svo beint suður í Markraka í Dauðadölum. Markraki er hóll, en dalirnir eru lægðir kringum hólinn. Við Markraka breytist stefna merkjanna. Þar vestur eða norður frá er allhátt fell, sem heitir Helgafell. (Ari Gíslason – örnefnalýsing fyrir Garðaland)

Dauðadalir

Dauðadalir – hellisop í jarðfalli.

Stórabollahraun er talið vera um 2700 ára. Hraunið ber keim af dyngjugosi. Gígurinn, mjög stór, er utan í vestanverðu Kóngsfelli í norðanverðum Grindaskörðum ofan Hafnarfjarðar. Hraunið er undir Tvíbollahrauni, komið úr gígum skammt sunnar. Dauðadalahellarnir eru í Stórabollahrauni, Þeir eru nokkrir, þ.á.m. Flóki. Leiðarendi, einn mest sótti ferðamannahellir á landinu, er einnig í Stórabollahrauni. Yfir honum hvílir Tvíbollahraunið. Á einum stað hefur það náð að þröngva sér inn í hellinn.

Tvíbollar

Tvíbolli.

Upptök Tvíbollahrauns eru í framangreindum Tví-Bollum eða Mið-Bollum. Tví-Bollarnir þeir eru tveir samliggjandi gígar í brúnum Grindarskarða, í um 480 m hæð yfir sjó. Hraunið hefur fossað niður bratta hlíðina niður á láglendið en einnig runnið í lokuðum rásum. Hraunið flæmdist síðan til norðurs milli móbergshnúka og klapparholta allt niður undir Hvaleyrarholt við Hafnarfjörð.
Tvíbollahraun er runnið eftir landnám og er eitt af nokkrum hraunum sem brunnu í miklum eldum á 10.-11. öld. (Ratleikur hafnarfjarðar 2021)

Draugahlíðagígur

Draugahlíðagígur (Bláfeldur).

Vesturmynd Draugahlíðar var sem ævintýraland elddrottningarinnar. Hraungígar og mosagróið land. Dúnmjúkur ljós gulgrænn mosi sem birtist með hvítum og svörtum tilbrigðum. Litadýrðin var ótrúleg, samspil grábláa hraunsins, gjóskusteinar sem voru ljósrauðir og ótal afbrigði af mosa. Vætan í loftinu og snjórinn gerði allt tilkomumeira. Gekk niður fönnina og kom niður á hinn þykka mjúka mosa sem maður ber ósjálfrátt lotningu fyrir. Náttúruteppi sem hefur verið samviskulega ofið í meir en þúsund ár.

Draugahlíðagígur

Draugahlíðagígur í Brennisteinsfjöllum.

Margar álfakirkjur má hér finna, furðusmíð íslenskra náttúru í líkingu við margar “Sagrada Familia” Gaudis. Steinborgir í Grindaskörðum eru tilkomumiklar og gaman að ganga þar fram ótroðnar slóðir. Klifra niður steinklappir og láta sig detta niður í bratta fönnina. Sjá kvöldsólina hverfa út við Snæfellsjökull. Allt borgarsvæðið er undir, en næst dökkrautt Húsfell og Helgafell, Þríhnúkahraun. Í norðausturátt er Þríhnúkahellir. Alstaðar dýrgripir sköpunarverksins sem kynslóðir eiga eftir að uppgötva og njóta. (Sigurður Antonsson – blogg)

Dauðsmannsskúti

Dauðsmannsskúti. Litla-Kóngsfell fjær.

En við höldum áfram og liggur leiðin um austurenda Draugahlíðar. Þar hefur bæði verið ruddur vegur og hlaðinn. Þegar niður kemur liggur leiðin yfir hraun, sem nefnist Skarðahraun, kennt við Grindaskörð. Þar förum við gegnum girðingarhlið og litið eitt austar eru svo tvær vörður, sem við köllum Tvívörður. Liggur nú leiðin austur og upp undir Kóngsfellið litla.
Í hrauntröðum, sem þar eru, blasir við okkur lítill skúti. Hann er kallaður Dauðsmannsskúti. Þar varð úti maður um 1860. Skörðin búa yfir mikilli dul, þvi 1633 hvarf þarna maður og hefur ekkert af honum fengizt. Haldið var að tröll hafi heillað hann. (gísli Sigurðsson – Gamla Selvogsgatan)

Mæðgnadys

Mæðgnadys.

Í Örnefnaskrá 1964 er nefnd Mæðgnadys: “Dys eða þúfa norðan í holtinu skammt frá Garðagötu [nr. 54] norðan Torfavörðu [nr. 49] Þar varð úti griðkona frá Görðum með barn sitt ungt […] mæðgur […]”. (Gísli Sigurðsson – Skrá yfir örnefni og fiskimið í Álftaneshreppi hinum forna: Bessastaðahreppi: Garðahreppi: Hafnarfirði og Hraunum)

Gengið var norður með vesturjarði hraunsins og inn á svonefndan Sakamannastíg (Gálgastíg) í Gálgahrauni.

Gálgaklettar

Gálgaklettar.

Skammt austar, norðan stígsins má sjá nokkrar mjög gamlar hleðslur. Ein þeirra er herðslugarður og sést móta fyrir húsi á einum stað. Stígnum var fylgt að Gálgaklettum. Klettarnir, sem eru þrír; Vesturgálgi, Miðgálgi og Austurgálgi, standa reisulegir rétta ofan við sjóinn. Sígurinn liggur beint að þeim. Utan í vestanverðum Gálgaklettum er skeifulaga garður, sennilega Gálgaflöt. Í henni voru sakamenn dysjaðir. (Ferlir.is)

Völvuleiði

Á Völvuleiði.

Völvuleiði er við Holtsendann, austan til á Garðaholti. Gamall stígur, Kirkjustígur, lá við Völvuleiði. Á 18. öld er þess getið í lýsingu séra Markúsar Magnússonar. Hann segir að fornar sagnir séu um Völvuleiði. Þar sé grafin Völva (spákona), sem farið hafi um í heiðni. Bóndinn í Pálshúsi vísaði FERLIR á Völvuleiðið á sínum tíma. Völvuleiði munu vera til víða um land og segir t.d. af einu þeirra í Njálssögu. Í örnefnaslýsingum Garðabæjar segir að Mæðgnadys sé í norðanverðu Garðaholti, sunnan við Presthól. Svo virðist sem fyrri hluti lýsingarinnar sé rétt (í norðanverðu Garðaholti), en síðari hlutinn getur vart staðist. (Ferlir.is)

Þorgarðsdys

Þorgarðsdys.

“Sviðholtsættinni fylgdi draugur, sem kallaður var Þorgarður. En um uppruna hans er þessi saga:
Hallldór faðir Bjarna í Sviðholti bjó að Skildinganesi og var maður auðugur. Um þessar mundir fekk maður einn, sem annað hvort var dæmdur til dauða eða ævilangrar fangelsisvistar, leyfi til þess að leysa sig út með peningum, en hann var sjálfur fátækur og fekk því loforð hjá Bjarna fyrir gjaldi því, er þurfti. Aðrir nefna til þess bróður Halldórs. Þá er Halldór var að telja gjaldið, kom að kona hans. Hún sópaði saman peningunum og sagði að þarfara væri aft verja þeim öðruvísi en að kasta þeim svo á glæður. Seki maðurinn fekk ekki fjeð, og sagði hann að svo mætti fara að tiltæki konunnar yrði henni til lítillar hamingju og ættliði hennar. Nú átti að flytja hann utan, en dugga sú, er hann var á, týndist fyrir Austfjörðum með allri áhöfn. Eftir þetta gekk hann aftur og sótti mjög að konu Halldórs og fór svo að hún ljest. Tók draugurinn þá fyrir aðra menn í ættinni og varð að ættarfylgju. Hann var nefndur Þorgarður. Hann var síðar dysjaður á Arnarneshæð. (Ferlir.is)

Skorarhylur

Skorarhylur.

“Rétt fyrir innan Skorarhyl voru Draugaklettar, sem trúlega eru enn til. Þeir voru nokkurn veginn á móti Árbæ og hljóta því nú að vera til móts við Höfðabakkabrúna. Draugaklettar voru nokkuð stórir klettar, dökkir á lit, og átti að vera þar huldufólk.” (Athugasemdir og viðbætur Þóru Jónsdóttur við Örnefnaskrá Breiðholts)

Þegar hugað er nánar að örnefninu Víghóll eða Víghólar, vekur það athygli, að nafnið er víðar til en í Kópavogi. Þannig er mér kunnugt um fjóra aðra Víghóla á Suðvesturlandi: einn í Selvogi, tvo í Garðabæ og einn í Mosfellssveit. Engra þessara nafna er getið í fornum heimildum. (Víghóll; Lesbók Morgunblaðsins, Þórhallur Vilmundarson, 26.03.1994, bls. 6.)

Húsfell

Húsfell – Víghóll neðst til vinstri.

Draugaklettar eru í Breiðholsthvarfi á móts við Árbæinn, ekki háir en dökkir að lit. Þar fer ekki sögum af draugum; hins vegar átti huldufólk að búa í þeim.
Einnig er talað um Draugasteina skammt frá suðurenda Árbæjarstíflu.
Uppi á Breiðholtshvarfinu, eða við fjölbýlishúsið Vesturberg 2-6, er önnur álfabyggð í hól einum, skv. Fornleifaskrá Reykjavíkur. Trúin á hana lifir svo sterkt að þegar byggja átti fjölbýlishús þar sem hóllinn var, í samræmi við skipulag annarra húsa við götuna, þótti það óráðlegt. Var ákveðið að hrófla ekki við hólnum heldur víkja frá skipulagi og byggja húsið fyrir framan hann. (Ferlir.is)

Viðey

Viðey – kort.

Þar sem eyjan gengur næst landi gegnt Vatnagörðum nefnist Sundklöpp, en Sundbakki autast, gegnt Gufunesi; á þeim stöðum voru hestar sundlagðir úr eynni. Suður af túninu eru Kvennagönguhólar, g er sagt, að þar hafi huldufólk búið. Þar niður undan heitir Drápsnes við sjóinn. (Viðey, útvarpserindi dr. Guðna Jónssonar 28. 12. 1962)

Líkaflöt, austan í hólnum. Þar höfðu verið þvegin lík.” (Ágúst Jósefsson – Minningar og svipmyndir úr Reykjavík, Leiftur, Reykjavík, 1959. Örnefnakort unnið 1984-1986 af Einari J. Hafberg frá Viðey)

Gaman er að ganga út á Þórsnes og vestur fyrir það, yfir á Kríusand. Þaðan er hægt að fara með ströndinni vestur að bryggju. Sé farið aftur eftir veginum er ráðlegt að ganga niður í Kvennagönguhóla, skoða réttina og hellisskútann Paradís.

ViðeyLoks er svo farið um Heljarkinn heim að stofu, minnisvarði Skúla skoðaður, Danadys og Tóbakslaut. Hin leiðin er í vestur. Veginum er fylgt af Viðeyjarhlaði, vestur á Eiði. (DV – Viðey; tvær gönguleiðir vinsælastar, 24, júni 1992, bls. 27)

Í Viðey hafa trúlega um 3.000 manns verið bomir til moldar, en á öldum áður þótti það örugg leið til himnaríkis, ef munkamir í Viðey sáu um síðasta spölinn. Slík helgi hvíldi yfir grafreitnum, að lík frá landi voru lauguð á Þvotthól við Líkaflöt, áður en þau voru færð til hinstu hvíldar. ( Morgunblaðið – Viðey; eyjan við bæjardyr Reykjavíkur, 20.08.1988, bls. 17)

Gönguskarð heitir þar sem gengið er upp á kinnina. Þar voru dysjaðir fjórir Danir, sem vegnir voru eftir víg Diðriks af Mynden.(Útvarpserindi Guðna Jónssonar. Á örnefnakortinu er dysin merkt inn á upp á kinninni rétt suður af uppgöngunni upp Gönguskarði – Örnefnaskrá yfir Viðey)

Tröllabörn

Tröllabörn.

Tröllabörnin eru nokkurs konar systkini Rauðhóla í jarðsögunni, ef svo má að orði komast. Bæði náttúrufyrirbrigðin mynduðust í sama eldgosinu, sem átti sér stað fyrir rétt rúmum 5000 árum í eldstöðinni Leitum austan Bláfjalla. Frá Leitum runnu tveir heljarmiklir hraunstraumar, annars vegar til suðurs niður á láglendið vestan Ölfusárósa og hins vegar til norðurs og nefnist sá Svínahraun. Mjó hraunlæna læddist svo loks til vesturs, yfir Sandskeið og Fóelluvötn, niður Lækjarbotna og um Elliðavatn alla leið niður í Elliðavog. Á þeirri leið mynduðust Tröllabörn og Rauðhólar þegar hraunstraumurinn flæddi yfir vatnsósa mýrarlendi. (Vísindavefurinn)

Orrustuhóll

Réttin við Orrustuhól.

Orrustuhóll er í Orrustuhólshrauni sunnan við Litla-Skarðsmýrarfjall. Í lýsingu frá árinu 1703 segir að “fyrir austan Skarðsmýrarfjöllin er kallaður Orrustuhóll og þó fyrir vestan ána, er úr Hengladölum fram rennur. Þar undir hrauninu sjást enn í dag glögg merki til fjárrétta, er menn heyrt hafa brúkað hafi í fyrri tíð Ölves innbyggjarar og Suðurnesjamenn, þá saman og til afréttarins hvorutveggja rekið höfðu, og hafi á milli þessara óeining komið, hvar af Orustuhóll mun nafn sitt draga.” Önnur lýsing segir að “austan undir hrauninu er Orrustuhóll. Gömul sögn kveður á um, að á þessum slóðum hafi verið sundurdráttarrétt. Áttu réttarmenn að hafa orðið missáttir og barist á hólnum. (Ferlir.is)

Draugatjörn

Draugatjörn – sæluhúsið.

Árið 1703 var hún talin nauðsynleg á vetrartímanum til innivistar. “Er og lofsvert, að þetta sælhús skuli ei niður fallið (1793)”. Hann var ætlaður þeim, sem ferðast þarna á vetrardegi, og kallaðist sæluhús. Margir hafa dáið í þessum kofa, því oft hafa þeir ekki fundið hann fyrr en þeir voru örmagna af hungri og kulda. Í örnefnalýsingu segir að í ekkert hús var að venda [á leiðinni yfir Hellisheiði] nema smákofa, er var í Svínahraunstöglum, sem ganga út á Norðurvellina. Kofi þessi var illa ræmdur fyrir draugagang, og mynduðust meðal manna hinar fáránlegustu sögur um kofa þennan. (Ferlir.is)

Lakastígur

Lakastígur.

Þarna um dalina liggur Lakastígur (Lákastígur), greiðfærasta leiðin milli Þrengsla og vestanverðrar Hellisheiðar. Reyndar er um Lágaskarðsleið að ræða því hún liggur Lágaskarð sem er þarna mitt á milli.
Gengið var upp á vesturbrún Norðurhálsa, en svo nefnist næsti stallur á undirhlíðum Skálafells ofan Hverahlíðar. Þegar upp er komið má sjá hversu víðlent svæðið er, mosaþýfi, smáhæðir og stallar er hallar að brúnum. Haldið var inn að Trölladal og áfram til austurs með norðurbrún Tröllahlíðar að norðurhlíð Skálafells. (Ferlir.is)

Sleðaás

Steinn við Sleðaás (Matthías Þórðason).

Sumir hafa haldið og halda enn, að Sleðaás sé sama og Tröllaháls. Á Íslandskortinu eftir Björn Gunnlaugsson er Sleðaás settur ofan til við Tröllaháls, og Sveinn Pálsson talar um í Dagbók sinni 1772, að Sleðaás sé einnig þar (sbr. Kålund I, bls. 151), enn þetta getur með engu móti verið rétt, sögurnar sanna það. Sleðaás heitir enn í dag ásklifið, sem gengur suður úr Ármannsfelli fyrir ofan grænu brekkuna, sem kallaður er Bás, og Sleðaáshraun heitir þar niður undan. Grettissaga Kh. 1853 nefnir Sleðaás, bls. 31, þar sem höfðingjarnir áðu, er þeir riðu af þingi, og Grettir hóf steininn, er sagan segir að liggi þar í grasinu. (Ferlir.is)

Líkatjörn

Líkatjörn.

Úr Suðurhól eftir hæstu brúnum Krossfjalla og í há Sandfell. Þaðan norður eftir Líkatjarnarhálsi og í Bátsnef (líklega fremur nýtt örnefni), sem er sunnan við Hagavík.
Fagrabrekka byrjar fyrir ofan og norðan Sandfellskrika og liggur niður á Líkatjarnarháls. Fremst á Líkatjarnarhálsi er djúpur dalur, sennilega gígur, nefndur Pontan. Líkatjörn er rangt merkt á kortið. Hún er nú horfin. Þegar Guðmann man fyrst eftir, var þetta aðeins uppsprettulind, mjög lítil að ummáli. Hún var rétt austan Líkatjarnarháls og hefur sennilega horfið undir sand, framburð úr Sandfelli. Þar rétt fyrir ofan er mýri, en Leirur fyrir norðaustan og síðan Leirhóll. Sú sögn er um Líkatjörn, að í henni hafi þvegin, er þau lík verið voru flutt austur að Skálholti. (Guðmann Ólafsson – örnefnalýsing fyrir Hagavík)

MosfellsheiðiBeinakerling var einnig á Mosfellsheiði, skammt frá Borgarhólunum. Hún lagðist af nálægt 1880, eptir að sæluhúsið var reist á heiðinni. Frá þeirri kerlingu er þessi vísa:
„Herra minn guð, eg held nú það”
hann Sigurður rendi
…………………..vað,
„mikil skelfing! Vittu hvað”.
Vísan er frá síðara hluta 19. aldar, og kveðin á leið í verið; eru í henni orðatiltæki manns þess, sem hún er kveðin til.” (Ferlir.is)

Guðnahellir

Guðnahellir.

Talið er að útilegumenn hafi m.a. hafst við í helli í Illaklifi á Mosfellsheiði. Hellir þessi hefur í seinni tíð verið nefndur Guðnahellir eftir Guðna Bjarnasyni (f: 1971) refaskyttu á Harðastöðum sem hefur legið þar á greni.
Á þessum slóðum gerðist mikil harmsaga laust eftir miðja 19. öld. (Ferlir.is)

Leirvogsá rennur um Stardal, sem eins og nafnið gefur til kynna, er nokkuð votlendur.

Tröllafoss

Tröllafoss.

Í Stardal eru leifar fornrar megineldstöðvar sem kennd er við dalinn. Stardalseldstöðin var virk fyrir um 1,8 milljónum ára og er hún mikið rofin. Stardalshnjúkar eru grunnstætt berginnskot eða bergsylla, líklega efsti hluti kvikuþróar eldstöðvarinnar.
Tröllafoss er í miðri öskju hinnar fornu eldstöðvar. Hann fellur milli hamra ofan í gljúfur sem áin hefur grafið í gegnum Tröllalágar í mynni Stardals. Fyrir neðan fossinn breiðir áin úr sér sem slæða yfir bergið. Gljúfrið er um 500 metra langt og 50 til 80 metra breitt og kallast TröllagljúfurT. (Mannlíf.is)

Niður af Austurenni er vont dý, sem heitir Vondadý. Það er hættulegt skepnum. Mýrarsund er sunnan við Pyttalæk, suður af Austurenni, sem heitir Mjóaveita og dregur nafn af lögun sinni. Það er mjög grasgefið. (Ari Gíslason – örnefnalýsing fyrir Vellir)

Skálafell

Skálafell.

Um mitt fellið austan Flágils kemur annað gil ofan úr háfjallinu. Ofan við miðjar hlíðar fellur lækur þess fram af þverhníptum svörtum hamrastalli niður í klettabás sem nefnist Bolabás og gilið Bolagil. Skýringu á þessu örnefni hefur höf. heyrt að svartur hamraveggurinn minni á svart naut sem standi á bás séð heiman frá bænum, einkum þegar fjallið er hvítt af snjó, en snjór tollir aldrei í hamravegg þessum.

Skálfell

Skálafell – Beinagil.

Þriðja gilið í fellinu er nokkuð austar og kemur lækur þess úr drögum neðan við fjallsbrúnina. Gilið liggur niður fjallið skammt vestan við skíðaskála KR og liggur nær þráðbeint niður fjallið og kallast Beinagil, þ.e. gilið beina. Skammt austan þess er eins og mjúk brún niður eftir fjallinu og sést nú ekki meir af því heiman frá bæ. Þessi brún er stundum nefnd Höggið. Báðum megin við Beinagil neðarlega í fjallinu eru mjúkir ávalir melhólar með grasteygingum á milli og nefnast Jafnhólar. Fjórða gilið í fellinu kemur úr austurhlíð fellsins úr skálarmyndaðri kvos og heitir Grensgil. Nafnið er dregið af tófugreni sem er skammt austan við gilið og hafa refir þar löngum lagt í þetta greni áður en skíðalyftur og menningarhávaði flæmdu þá þaðan. (Egill Jónasson – örnefnalýsing fyrir Stardal)

Svínaskarð

Dys í Svínaskarði – Innradys.

Skammt austan við Þverfellsgil er Einbúi. Þetta er fallegur, einstakur melhóll, fast ofan götunnar, sem liggur upp til Svínaskarðs. Einbúagil liggur hjá hólnum niður í Skarðsá. Austur af Einbúa eru Einbúalágar. Svo hækkar vegurinn upp á Svínaskarð. Þar á há-skarðinu eru tvö dys, sem heita Fremradys og Innradys. Upp af öllu þessu, sem hér er talið, er stór röð af hnúkum, sem heita Móskarðshnúkar, og skörðin milli þeirra heita Móskörð. (Ari Gíslason – örnefnalýsing fyrir Þverárkot)

Svínaskarð

Svínaskarð – Fremridys.

Fyrir norðan Hrafnagil eru tvö djúp gil. Hátt upp í fjallið norðan við nyrðra gilið er stór steinn og smáskúti undir honum: Einstakiklettur. Lækirnir úr þessum giljum sameinast þegar kemur niður á láglendi. Undan þeim hefur myndazt stórt jarðfall niður að á: Vondasprunga. Milli Vondusprungu og skriðunnar úr Hrafnagili. er stór grasivaxin lægð: Hrafnagilslág. Norðan sprungunnar er allstórt graslendi, norðan til á því eru tveir melhólar, Sandhólar. Milli þeirra er smálækur: Sandhólalækur. (Þórður Oddsson – örnefnalýsing fyrir Eilífsdal)

Kjós

Kjós – kort.

Vatn fellur til Miðdalsár; þá er næst Hrútatunga. Vestan við hana heitir Illagil að ofan. Þá tekur við breið tunga, er heitir Skessutungur ofan til, en Helguhólstungur (neðan til. Neðan til í þeim er grjóthóll, sem heitir Helguhóll. Austan við Skessutungur er lækur, sem heitir Svörtuskriðulækur. Fer hann úr Illagili og rennur eftir grundum, sem nefnast Vellir. Hér er áin að verða til. (Ari Gíslason – örnefnalýsing fyrir Miðdal)

Beint niður undan Valshömrum, við lækinn, er holt, sem heitir Stefánarholt. Nokkuð fyrir framan fremri Valshamarinn rennur smálækur niður úr Hálsinum, hann heitir Hálslækur. Töluverðum spöl framar kemur annar og stærri lækur niður Hálsinn og heitir hann Drápskriðulækur. Hann rennur norður dalinn og sameinast Hálslæknum, eftir það heitir lækurinn Birtingslækur. Hann fellur í Dælisá skammt fyrir framan Háaleiti. (Ellert Eggertsson – örnefnalýsing fyrir Meðalfell)

Valshamar

Valshamar.

Eftir Torfdal rennur samnefnd á, Torfdalsá í henni eru þrír fossar: Kálfabanafoss neðst, rétt áður en Torfdalsá sameinast Flekkudalsá, þá Hjallafoss en efsti fossinn heitir Þrengslafoss, en efsti hluti Torfdals heitir Vestri-Þrengsli og Eystri-Þrengsli. Flekkudalsá rennur um Flekkudal. Í henni eru tveir fossar, Grafarfoss í miðjum dal og Suðurdalsfoss syðst í botni dalsins.
Ofan til og vestan á Miðtunguhjalla er hóll er Skyggnir heitir. Þaðan sést í báða dalina. Miðtungan endar í háu standbergi rétt við Kálfabanafoss, Miðtunguberg, móti því norðan Torfdalsár er Kálfabanaberg, vestar Snös, klettanibba. Milli þeirra Kúahvammur. Stórihvammur er við Flekkudalsá, neðan Miðtunguhjallans. Holtið ofan við Grjóteyrarbæinn heitir aðeins Holt. (Magnús Blöndal og Guðni Ólafsson – örnefnalýsing fyrir Grjóteyri og Flekkudal)

Þjóðskarð

Þjóðskarð.

Í Melafjalli upp af bænum eru skörð. Lækurinn, sem rennur um Melagil, kemur um Stekkjarskarð í brúninni, en nokkru innar er stórt skarð í klettana, sem heitir Þjóðskarð. Vestar er far í berginu eða plötunni, sem heitir Skessuspor. Milli þessara skarða er venjulega nefnt „Milli skarða“. (Ar Gíslason – örnefnalýsing fyrir Mela (Melahverfi))

Dys er hvorugkynsorð (Dysið). Þar fram hjá lá vegurinn vestur undir Dauðsmannsbrekkum. Þjóðsögur greina frá því að bóndi nokkur á Fossá hafi setið þarna fyrir ferðamönnum, drepið þá og rænt. (Páll Bjarnason – örnefnaskrá fyrir Fossá)

Gíslagata

Dys í Dauðsmannsbrekkum á Reynivallahálsi.

Á Reynivallahálsi er þýfður og rofinn melur. Ofan af jafnsléttu er einstigið illgreinanlegt í fjallshlíðinni. Enn er hægt er að ganga upp þennan göngustíg (2010). Vegurinn liggur upp meðfram gilinu á landamerkjum og beygir svo í vestur upp/út hlíðina milli tveggja efstu fjalla. Stígurinn liggur yfir hálendið yfir á Svínaskarðsveg ANA við Dauðsmannsbrekkur. Á Reynivallahálsi og í Dauðsmannsbrekkum er gatan (Gíslagötudrög) enn greinilegur mjór malarstígur sem er um 0,2-0,4 m á breidd og <0,2 m á dýpt. (Fornleifaskráning í Kjósarhreppi III, 2012)

Reykjanesskagi

“Hryllingsörnefnakort” af Reykjanesskaga.

Útskálakirkja
Útskálakirkja var vígð 1863. Formsmiður af henni var Einar Jónsson frá Brúarhrauni (1818-1891).
Árið 1975 var forkirkjan stækkuð. Að innan er kirkjan máluð og skreytt af Áka Gränz, málarameistara. Hann skýrði jafnframt upp gamla skrautmálningu, sem nær var horfin.Útskálakirkja

Kirkjan er af yngri turngerð og er friðuð.
Altaristaflan er eftir útlendan málara og sýnir boðun Maríu. Predrikunarstóllinn var að öllum líkindum upprunalega í Dómkirkjunni í Reykjavík. Skírnarfonturinn er eftir Ríkharð Jónsson.
Séra Sigurður B. Sívertsen (1808-1887) var prestur í Útskálum í tæplega hálfa öld. Hann vann að mörgum framfaramálum, s.s. jarðabótum og húsbyggingum. Hann lét m.a. byggja kirkjuna, sem nú stendur, en þekktastur er hann fyrir Suðurnesjaannál, sem hann skrifaði.
Kirkja hefur líklega verið á Útskálum frá fyrstu tíð. Hennar er fyrst getið í kirknaskrá Páls biskups frá um 12000. Þá var kirkja einnig á Kirkjubóli, en þeirrar kirkja er síðast getið í heimildum frá 14. öld. Dýrlingar kirkjunnar í kaþólskri tíð voru Pétur postuli og Þorlákur helgi.

Útskálar

Útskálakirkja – rúnasteinn.

Einn hryggilegasti atburður sjóferðasögu Íslands tengist kirkjunni. Þann 8. mars 1685 fórust 136 á sjó, flestir af Suðurnesjum. Um nóttina rak 47 lík á lad í Garðinum og var 42 þeirra búin sameiginleg gröf í Útskálakirkjugarði. Það er talið að aldrei hafi jafn margir verið jarðaðir á sama degi frá sömu kirkju landsins.

Útskálakirkja

Útskálakirkja.

Njarðvíkurkirkja

Innri-Njarðvíkurkirkja var vígð 18. júlí 1886. Hún var reist að frumkvæði Ásbjörns Ólafssonar, bónda í Innri-Njarðvík.

Njarðvíkurkirkja

Innri-Njarðvíkurkirkja.

Kirkjan er gerð úr alhöggnum steini og var grjótið sótt í heiðina fyrir ofan byggðarlagið. Um steinsmíði sá Magnús Magnússon (1842-1887).
Viðarmiklar viðgerðir fóru fram á kirkjunni 1944, en þá hafði hún ekki verið notuð sem sóknarkirkja frá 1917, og síðan aftur 1980-1990. Arkitekt að seinni viðgerð var Hörður Ágústsson. Kirkjan er friðuð.
Altaristaflan (1986) er eftir Magnús Á. Árnason og sýnir krossfestinguna.
Forn kirkjuklukka (1725) er ein þriggja kirkjuklukkna í turninum.
Saga kirkju í Innri-Njarðvík er nokkuð slitrótt. Í heimildum frá 13. öld er kirkju getið. Hún virðist hafa verið lögð niður á 16. öld, en endurreist á síðari hluta 17. aldar. Kirkjan var aflögð 1917, en endurgerð 1944 og hefur verið þjónað í kirkjunni síðan. Í kaþólsku var hún Maríukirkja og Þorlákur helgi var einnig dýrlingur kirkjunnar.
Sjá meira um Innri Njarðvíkurkirkju HÉR.

Njarðvíkurkirkja

Innri-Njarðvíkurkirkja.

Þorbjörn

Gengið var á Þorbjarnarfell (231 m.y.s) upp frá Eystri-Klifhól ofan við Klifhólahraun (sunnan fellsins). Stefnan var tekin upp suðurhlíð þess að Þjófagjá. Þjóðsagan segir að ræningjar hafi hafst þar við á 17. öld og herjað á bæjarbúa. Sama heimild kveður á um að enn megi sjá helli þeirra í gjánni.
Gönguleiðin“Miklir” fréttasnjóar hafa herjað á Grindvíkinga undanfarna daga svo ætla má að einhverjir þeirra hafi nú safnast fyrir í Þjófagjánni. Ætlunin var að reyna að brjótast upp í gegnum gjána og síðan niður kafaldið að Hádegisgili (séð frá Baðsvallaseljunum) og halda síðan á snjóskriðu niður misgengið er einkennir miðju fellsins, allt niður á Baðsvelli, að fyrrum selstöðum Grindvíkinga. Þar má enn sjá rústir seljanna við Kvíalág og Stekkjarhól. Alvöru Grindjánar og aðrir bæjarbúar höfðu verið hvattir til þátttöku, en einungis þeir allra alvarlegustu létu sjá sig. Að sumu leiti var það skiljanlegt því lágrenningur þakti láglendið, en heiðríkja var ofan við einn metran. Þeir, sem ekki voru staðnir upp á tvo 
fæturna svo snemma, gátu varla hafa áttað sig á því. Þetta átti þó eftir að breytast.

Þorbjarnarfell

Þorbjarnarfell. Þjófagjá efst, Klifhólar neðst t.h.

Annars reis “fréttasnjórinn mikli” í Grindavík alls ekki undir nafni þegar betur var að gáð. Að vísu hafði verktökum tekist að moka honum upp í nokkra hrauka og ruðninga innanbæjar, en utar var aftur á móti hvergi torfæra vegna snjóa. Gangan að Þorbirni var því álíka auðveld og á vordegi.
Bæjarstjórinn vakir yfir GrindavíkFram hafði komið að 
FERLIRsfélagar kalli nú ekki allt ömmu sína og fullyrtu að yrði verði ekki til trafala, enda væri það snjómagn sem nú huldi grund eins og föl í samburði við snjómagn minninga frá fyrri tíð. Í þá tíð voru húsin að vísu lágreistari. Er mest snjóaði þurftu íbúarnir að moka sig út um snjógöng. Þegar út var komið sáust engin hús, einungis hvítdrifnir snjóskaflar eins langt og augu eygðu. Mannlífið var líka svolítið öðruvísu þá – eins og fram kemur í fyrsta kafla í óskrifuðu handriti um Gindavík og Grindvíkinga:

Þjófagjá efst

Rökkrið grúfir yfir láð og land. Tunglið guðar ofar skýjum. Í suðri, þar sem himinn og haf renna saman í eitt, líða öldurnar mjúklega inn litlu víkina undir skinrönd – uns þær lognast loks út af hvítfyssandi í fjöruborðinu. Snjór þekur jörð ofan við fjöruna. Grýtt ströndin næst sjónum er auð.
        Það er kalt í veðri og þrátt fyrir lygnuna g
nauðar vindurinn ámátlega utan við gluggann. Ofan sjávarbakkans liðast lágrenningurinn hægt með jörð­inni af suð­austri. Bjartar stjörnur glitra á himninum. Ekki er lifandi veru að sjá á ferli utan dyra.
      

Þórkötlustaðir

Grindavík.

Í fjarlægð má í skímunni greina fáeina kofa og nokkrar húsnefnur vestar með ströndinni. Þær snúa flestar mót opnu úthafinu. Sum húsanna virðast halla fram eins og þau væru að búa sig undir að þurfa að mæta enn máttugri hafáttinni.
        Í vestri sést ljósabaugur handan hæðar – í hverfinu. Þar er víðast ratljóst bæði utan dyra og innan. Hverfisfólkið býr í nýrri og betri híbýlum en þeim gömlu, sem fyrir eru hérna megin við Nesið.

Grindavík

Grindavík.

        Lágt Nesið skilur staðina að – bæði í tíma og rúmi. Margt er ólíkt með íbúunum. Fólkið austanvert við Nesið segir t.d. “alltaf” þegar íbúarnir vestanvert við það segja “aldrei” í sömu merkingunni. Þannig eru gæftir alltaf góðar hjá því á meðan þær eru aldrei slæmar hjá hinu og þótt sólin sjáist aldrei vestur í Hverfi er hún alltaf  á bak við skýin austan við Nesið.  Og það fólk játar jafnan þegar hitt neitar. Þá er eftir því tekið hversu íbúarnir austurfrá hafa tileinkað sér vel það sem ekki er til. Þeir eru nægjusamari og nærast frekar á væntingum – virða fortíðina og vænta mikils af framtíðinni á meðan þeir vesturfrá eru nokkuð fastheldnir á líðandi stund – nútíðina. Framfarirnar hafa orðið meiri þar en að austanverðu því fólkið hefur nýtt sér betur það sem upp á er boðið á hverjum tíma.
        Torfufólkið lét ekki myrkrið og ámátlegt ýlfrið í vindinum raska ró sinni. Þetta er harðgert fólk, sem hefur lifað tímana tvenna. Yngra fólkið vill frekar búa í nýrri húsunum handan við Nesið þar sem þægindin hafa í seinni tíð bæði verið meiri og sjálfsagðari.

Þjófagjá - án kafaldsbyls

Gengið var um Klifhólahraunið er liggur austan við Lágafell og að Klifhól eystri upp undir Þorbirni. Í örnefnalýsingu er þessu svæði, og öðru framundan, lýst þannig: “Sunnan í [Lágafelli] er Lágafellsbrekka en austan í því er Lágafellstagl. Vestur af Lágafelli eru Óbrynnishólar og norður frá þeim er Tæphella. Norður af Lágafelli er svo Skipsstígshraun.
Þorbjörn mun upphaflega hafa heitið Þorbjarnarfell en nú er það nafn alveg glatað. Hann rís upp hár og tignarlegur frá Grindavík séð yfir alla flatneskjuna. Toppur fjallsins er klofinn af stórri sprungu sem heitir Þjófagjá. Þar eiga að hafa haldið til þjófar og ræningjar er gerðu Grindvíkingum slæmar búsifjar. Lauk því svo að þeir fóru að þeim, handtóku þá og hengdu í Gálgaklettum sem eru í Hagafelli austur af Þorbirni. Við norðurenda Þjófagjár er dalmynduð kvos, Hádegisgil og Miðmundagil. Það eru eyktamörk frá seli er var á Baðsvöllum og síðar getur.

Gyltustígur

Gyltustígur (t.h.).

Klifhólar eru útrennsli úr Þorbirni en sunnan í Þorbirni er fyrst Eystri-Klifhóll. Ofar í Klifinu er Fiskitorfa. Neðar og vestar er Vestri-Klifhóll og þar ofar er Krókatorfa. Vestan við Klifhól, utan í fjallinu vestast, er Gyltustígur, eins konar hraunveggur. Hann er vestarlega í Þorbirni að sunnanverðu frá Lágafellstagli og upp úr. Vegghamrar  er lágur hraunhamraveggur suðaustan í Lágafelli og tengir það við Þorbjörn. Vesturhlið Þorbjarnar er brattar skriður sem heita Skjónabrekkur. Milli Klifhólanna er Klifhólatorfa niður af Krókatorfu sem nú er aðeins snepill.

Grindavík

Þorbjarnarfell og Baðsvellir. Selháls lengst t.v.

Ef farið er yfir Selháls sem er milli Þorbjarnar og Hagafells taka við sléttir vellir, Baðsvellir. Sagt er að þeir dragi nafn af því að þar hafi ræningjar baðað sig. Norðan í Þorbirni eru tvö gil grasivaxin. Eystra gilið er Hádegisgil en hitt er Miðmundagil. (Sjá meira um eyktarmörk).
GálgaklettarAlveg niður við hraun er hallandi graslendi. Þar er slétt laut sem heitir Kvíalág. Þar með hrauninu eru tvennar seltættur og hóll. Þar austan við heitir Stekkjarhóll. Norðan í Þorbirni er girðing sem á að verða skógræktarsvæði og hefur hlotið nafnið Selskógur. Norður frá Þorbirni breytir hraunið um svip og heitir eftir því Illahraun.”
Þegar komið var upp fyrir Klifhólatorfu skall á þvílíkur skafrenningur að hvergi eygði dökkan díl. Snjófjúkið varð slíkt að þátttakendur áttu erfitt með andardrátt. Þrátt fyrir þrálátalæti hunds, sem var með í förinni, var ákveðið að halda áfram, enda búnaðurinn eins og best var á kosið. Komist var með erfiðismunum upp fyrir eystri gjárbarminn og stefnan tekin þverleiðis á Þjófagjá. Þegar henni var náð kom í ljós að gjáin var full af snjó. Þarna var þá allur snjórinn, sem ekki hafði fests á láglendi utan Grindavíkurbyggðar. Hann hafði leitað skjóls í gjánni. Kafaldbylur rann lárétt fram af efribrúnum Þjófagjár, en féll síðan niður í hana sem lóðrétt snjókoma. Í suðri sveimaði bæjarstjórinn yfir byggðinni í lítili flugvél – svona til að kanna hvernig snómoksturinn hafði gengið fyrir sig.

Þjófagjá

Þjófagjá.

Einn FERLIRsfélaga hafði útbúið nýmóðins snjóþrúgur úr áli – og haft þær meðferðis. Þær voru nú dregnar fram, settar undir fætur og ferðinni haldið áfram upp gilið. Þrúgurnar reyndust vel á annars óþéttum snjónum. Efst í gjánni var sótt um einkaleyfi fyrir framtakinu.
Eftirleiðin reyndist auðveldari, enda hafði kafaldinu létt. Niðurundir að sunnanverðu hafði Grindavík dregið sig í kút í lágrenningnum. Komið var í dalverpið þar sem fyrrum braggahverfi hersetumanna var og síðan undanhallarennslið nýtt niður að Baðsvöllum.
Sjá meira um Þjófagjá og Gyltustíg. Einnig Baðsvelli.
Frábært ferð. Gangan tók 3 klst og 3 mín. (Ljósmyndum úr ferðinni er ekki til að dreifa úr Þjófagjánni því aðstæður þar voru álíka hvítar og sjá má að baki þessum skrifaða texta).

Baðsvallasel

Baðsvellir – Baðsvallasel; uppdráttur ÓSÁ.

 

Baðsvellir

Gengið var um Baðsvelli og leitað Baðsvallaselja.

Hópssel

Hópssel.

Ein tóft er vestur undir Hagafelli, alveg við Grindavíkurveginn að austanverðu og mun það hafa verið hluti sels frá Hópi, enda í Hópslandi. Önnur tóft því tengdu er í lægð undir Selshálsi og er vatnsstæði framan við hana. Stekkurinn er í hvylft skammt sunnar, undir Selhálsi.
Hitt selið, Baðsvallasel, er á Baðsvöllunum sjálfum sem og utan í hraunkantinum vestan þeirra. Þar eru bæði tóftir og a.m.k. tveir stekkir. Fjöldi stekkja í selstöðu segja jafnan til um fjölda selja.

Baðsvellir

Baðsvellir – tóftir.

Í umfjöllun Guðrúnar Gísladóttur um Sel og selstöður í Grindavík í ritinu “Söguslóðir”, afmælisriti helgað Ólafi Hannessyni sjötugum, 1979, segir hún m.a.: “Mönnum kemur eflaust margt fyrr í hug en græna selhaga og þriflegar selstúlkur, þegar minnst er á Grindavík, enda staðurinn frægari fyrir fisk undir hverjum steini en búkap. En Grindvíkingar hafa ekki lifað af fiski einum saman, og til skamms tíma þurftu þeir að sjá sér að mestu fyrir bújörðum sjálfir.”

Baðsvellir

Selstaða á Baðsvöllum.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns 1703 er m.a. getið um selstöður frá Grindavíkurbæjunum á Baðsvöllum. Frá Krýsuvík

voru tvær selsstöður á jörðinni; önnur til fjalls en hin nálægt sjó, báðar merkilegar góðar. Á Ísólfsskála er ekki minnst á selsstöðu. Frá Hrauni er selstaða langt frá og þó sæmilega góð. Þórkötlustaðir brúkaði selstöðu lengi í Krýsuvíkurlandi þar sem heitir á Vigdísarvöllum. Selstaðan var leigð frá Krýsuvík, en Krýsuvík fékk aftur skipsstöðu fyrir landi Þórkötlustaða. Selstaðan er góð, en langt og erfitt að sækja. Hóp þurfti að kaupa selstöðu, en hafði áður Selstöðu við Baðsvelli, sbr. Hópssel undir Selhálsi.

Baðsvallasel

Baðsvallasel.

Járngerðarstaðir brúkaði selstöðu á Baðsvöllum, sem fyrr segir, en “menn kvarta um að þar séu hagar of litlir og þröngir. Stórt mein var af vatnsleysi og þurfti fyrir þær sakir að kaupa selstöðu annars staðar.” Járngerðarstaðamenn gerðu og tilkall til selstöðunnar í Fagradal norðan Fagradalsfjalls þar sem er Dalssel.
Það er athyglisvert, að selstöðunum er lýst sem sæmilega góðum, góðum eða merkilega góðum, nema Baðsvöllum.

Selsvellir

Gömlu selin á Selsvöllum.

Þar eru hagar sagðir litlir og vatnsból ófullnægjandi. Enda mun selstaðan snemma hafa verið færð upp á Selsvelli þar sem Grindavíkurbændurnir höfðu lengi í seli – eða allt frá á seinni hluta 19. aldar. Hraunsselið er þar skammt frá.
Önnur megintófin á Baðsvöllum er norðan við greniskóginn, sem þar hefur verið plantaður, en hin er inni í skóginum, um- og ásetin trjám, sem þyrfti að fjarlægja. Kvíar og stekkir eru með hraunkantinum.

Baðsvallasel

Baðsvallasel – uppdráttur ÓSÁ.

Sundhnúkur

Gjár, sigdældir og misgengi eru fjölmörg í og við Grindavík. Þessi jarðfræðifyrirbrigði sjást nánast einungis í eldri hraunlögum, en nánast öll ofanverð Grindavíkur er hulin nýlegum hraunum og því erfitt, ef ekki ómögulegt, að greina sprungur undir þeim í eldri jarðlögum.

Vatnsheiði

Vatnsheiði (dyngja).

Dyngjurnar, s.s. Sandfellshæð, Lágafell, Vatnsheiði og Festarfjall, skópu undirstöðu Grindavíkurhverfanna fyrir meira en 11 þúsund árum. Þórgötlustaðanesið er t.d. sköpun Vatnsheiðarinnar. Í lágfjöru má t.d. sjá móta fyrir hinum forna gíg Festarfjalls/Lyngfells í sjónum framan við fellin. Talið er að hann sé jafnvel frá því á fyrra ísaldarskeiði (KS). Fyrir ca. 5-3 þúsund árum, mótuðu stök eldvörp umhverfið, en síðustu tvö þúsund árin hafa gígaraðirnar smurt nýju “deigi” sínu yfir gömlu “kökuna” og þar með hulið stóran hluta af framangreindum jarðfræðifyrirbrigðum sjónum nútímans.
Hér á eftir verður lýst þeim nafngreindum gjám og sprungum í og við Grindavík, sem getið er um í örnefnalýsingum, frá vestri til austurs.

Staður:

Grænabergsgjá

Grænabergsgjá við Grindavík.

Sandgjá/Draugagjá: “Sandgjá, svört og dimm, liggur þvert yfir Hvirflana. Hún er kölluð Draugagjá. Nú er hún orðin nær full af sandi”.

Grænabergsgjá: “Austan við Grænaberg er Grænabergsgjá. Liggur hún í suðvestur til sjávar. Sést vel ofan í hana beggja megin við bílveginn, þar sem hann liggur yfir gjána á hafti”.

Lambagjá: “Austan við Reykjanesklif er hraunlægð, sem nær austur að Moldarlág, allmiklum, grýttum moldarflákum með smávegis gróðri. Upp af hraunlægðinni eru Klofningar eða Klofningshraun, sem ná austur að Lambagjá, en sú gjá er upp af Moldarláginni”.

Húsatóftir:

Húsatóftir

Baðstofa.

Baðstofa: “Norðaustur af Tóftatúni er Baðstofa, mikil gjá, 18 faðma djúp, þar af er dýpt vatnsins í botni hennar 9 faðmar. Töluverður gróður er á hamrasyllum í gjánni. í Baðstofu var oft sótt vatn, er brunnar spilltust í stórflóðum. Þótti vatn þar mjög gott. Svo sagði Lárus Pálsson hómópati, að hann tæki hvergi vatn í meðul annars staðar en í Baðstofu. Sögn er um, að Staðarprestar hafi fengið að sækja vatn í Baðstofu gegn því, aö Húsatóftabændur fengju að taka söl í landi Staðar”.

Hjálmagjá: “Vestast (efst) í túni Húsatófta byrjar gjá, grasi gróin í botninn. Vestri hamraveggurinn rís allmiklu hærra en sá eystri, og reyndar er enginn eystri veggur neðst. Gjá þessi heitir Hjálmagjá. Haft var eftir gömlu fólki, að það hefði oft séð hamrana upplýsta með dýrlegum ljósahjálmum, sem báru mjög af lýsiskollunum í mannheimi”.

Grindavík

Grindavík – eldgos í umdæmi Grindavíkur; blátt eru dyngjur (eldri en 5000 ára), grænt eru eldborgir (eldri en 3000 ára) og rautt eru gígaraðir (frá 3000 árum til nútíma).

Túngjá/Tóftagjá: “Framhald Hjálmagjár með túninu heitir Túngjá og síðan heitir hún Tóftagjá og er hún eina 2-3 km á lengd”.

Haugsvörðugjá

Haugsvörðugjá.

Haugsvörðugjá: “Á Hvirflum eru tvær vörður, Hvirflavörður. Neðri varðan er ofan við efsta flóðfar, hin um 150 m ofar. Vörðurnar eru leiðarmerki á Staðarsundi og landamerki milli Húsatófta og Staðar með stefnu um Skothól í Hauga við Haugsvörðugjá, en hún er á mörkum milli Húsatófta og Hafna”.

Skothólsgjá: “Vestast í Tóftakrókum er Skothóll í mörkum milli Húsatófta og Staðar, fast upp undir apalhrauninu (Eldborgahrauni). Skothólsgjá liggur eftir endi-löngum hólnum frá norðaustri til suðvesturs. Á Skothól hefur líklega verið legið fyrir tófu”.

Grýtugjá: “Um 1/2 km norður af Skothól er Grýtugjá. Allmikið graslendi er á þessu svæði. Um 1500 m norður af Grýtugjá er Sauðabæli, hár hóll”.

Klifgjá

Klifgjá.

Hrafnagjá: “Vestur af Grýtugjá, upp undir jaðri apalhraunsins, er Hrafnagjá. Hún liggur frá norðaustri til suðvesturs eins og allar gjár á þessu svæði og reyndar allar gjár á Reykjanesi. Frá Hrafnagjá er einstigi um hraunið frá Sauðabæli út í Óbrennishóla”.

Klifgjá: “Klifgjá er norðvestast í apalhrauninu, suðvestan við Þórðarfell, sbr. kortið. Gamli vegurinn frá Grindavík til Keflavíkur liggur austan við túnið á Húsatóftum, og liggur hann um Klifgjá vestast í jaðri hennar. Þar er svokallað Klif, snarbratt niður í gjána. Er það hálfgert einstigi og illt yfirferðar með klyfjahesta”.

Járngerðarstaðir:

Bjarnagjá

Bjarnagjá við Grindavík.

Bjarnagjá: “Vesturmerki Járngerðarstaða eru frá Markhól, sem er við sjó, um Bjarnagjá, þaðan í Hvíldarklett og úr honum sjónhending í Stapafellsþúfu um Þórðarfell. Bjarnagjá er norðaustur frá honum. Hún er stutt en í tveim hlutum og er efri partur hennar 18 faðma djúpur. Í Járngerðarstaðalandi eru allmargar gjár eins og Bjarnagjá, hyldjúpar og með söltu vatni”.

Hrafnagjá: “Markhól sem fyrr var getið. Fyrir ofan og austan hann er Stórhóll, sem áður er getið. Þar austur með er Hrafnagjá upp af Sandvikinu, en hún liggur til austurs. Stekkjarhólar eru rétt niður við kampinn”.

Silfurgjá: “Í utanverðri Grindavík eru margar hyldjúpar gjáarsprungur með vatni í, sem á yfirborði er að mestu ósalt, og flæðir og fjarar í þeim eins og sjónum.

Sifra

Silfurgjá.

Ein af þessum gjám heitir Silfurgjá, skammt fyrir ofan túngarðinn á Járngerðarstöðum. Í þessari gjá segir sagan að fólgin sé kista full af silfurpeningum. Hafa verið gerðar ýmsar tilraunir til þess að hefja þennan fjársjóð upp, en þær hafa strandað á því að þá er menn hafa náð kistunni upp á gjáarbarminn, þá hefir mönnum sýnst allt Járngerðarstaðarþorpið standa í björtu báli og hafa menn því jafnan sleppt kistunni aftur. Síðasta tilraunin sem á að hafa verið gjörð fór á þá leið að þeir slepptu ekki einungis kistunni heldur fylltu gjána upp með mold svo að nú er yfir kistunni grasi gróin brekka”.
“Skammt fyrir ofan þorpið er gjáin Silfra. Er sagt að í henni sé fólgin kista full af silfurpeningum. Gjá þessi er upp af Vatnsstæðinu”.

Stamphólsgjá

Grindavíkurhellir í Stamphólsgjá.

Stamphólsgjá: “Stamphólsgjá er ofan við byggð í Járngerðarstaðahverfi. Hún er einnig í Hópslandi að hluta”.

Gjáhúsagjá: “Svo er Gjáhúsagjá í túninu. Í öllum upptöldum gjám og svo í dalnum og Vatnsstæði var fram um aldamót töluvert af ál, en heldur var hann smár, stærstur í Silfru. Þó var hún lengst frá sjó. Þó var eg ekki viss um Stamphólsgjá, að áll væri þar. Um álaveiðar okkar strákanna á eg uppskrifað. Allar gjár stefna eins, frá norðaustri til suðvesturs. Í raun og veru má rekja þessa gjá (Stamphólsgjá) alla leið ofan úr Hópsheiði og gegn um allt: Krosshúsagjá, Gjáhúsagjá, Vallarhúsagjá og Flúðagjá, þetta er allt í sömu stefnu, þó höft séu heil á milli og endar út í sjó vestast á Flúðum”.

Grindavík

Grindavík – Járngerðarstaðir og nágrenni.

Nautagjá: “Hún er í útjaðri á túninu Drumbar og kemur þar í stað girðingar á svo sem 20 faðma lengd. Ekki er hún breið, en þó stökkva hvorki menn né skepnur yfir hana. Öll talin er hún ekki lengri en 40-50 faðmar, og í hanni [svo] er hylur á einum stað nærri norðurenda. Hylji köllum við þar, sem ekki sést í botn, en þeir eru mjög misdjúpir. Í hana kemur Ræsirinn, það er rás úr Vatnsstæðinu. Stundum kom fyrir, að skepnur syntu þar inn á túnið, þegar þær sáu þar grængresið fyrir innan, en úthagar voru litlir”.

Grindavík

Járngerðarstaðir – gjár; uppdráttur ÓSÁ.

Magnúsargjá: “Magnúsargjá er í raun og veru sama sprungan. Hún var í sömu stefnu og svo sem 15 faðmar á milli endanna. (Allar gjár stefna frá norðaustri til suðvesturs.) Á þeirri leið var þó opin “gjóta” með vatni í; þó var hún nafnlaus. Magnúsargjá var öll fremur grunn. Þar var enginn hylur, og á einum stað mátti stökkva yfir hana. Þar var hún svo sem einn og hálfur metri. Eg tel, að þessar gjár báðar hafi verið svo sem eitt hundrað og þrjátíu faðmar enda á milli, að meðtöldum þeim föðmum, sem á milli þeirra voru”.

Þjófagjá

Í Þjófagjá.

Þjófagjá: “Þorbjörn mun upphaflega hafa heitið Þorbjarnarfell en nú er það nafn alveg glatað. Hann rís upp hár og tignarlegur frá Grindavík séð yfir alla flatneskjuna. Toppur fjallsins er klofinn af stórri sprungu sem heitir Þjófagjá. Þar eiga að hafa haldið til þjófar og ræningjar er gerðu Grindvíkingum slæmar búsifjar. Lauk því svo að þeir fóru að þeim, handtóku þá og hengdu í Gálgaklettum sem eru í Hagafelli austur af Þorbirni”.

Hóp:
Vatnsgjá: “Austar á Kambinum var varða, sem nú er horfin, og hét hún Sigga. Rétt hjá Siggu ofan við Kambinn er Vatnsgjá. Í henni gætti flóðs og fjöru”.

Gjáhólsgjá: “Beint vestur af bænum Hópi austan við veginn er hraunhóll, sem heitir Stamphóll, og gjá inn með hrauninu frá Járngerðarstöðum, austur með veginum, heitir Stamphólsgjá. Austar er Gjáhólsgjá og Gjáhólsvatnsstæði. Milli tjarnanna er smáhraunrimi, breiður slakki með hamrabeltum beggja vegna. Slakkinn heitir Gjáhólsgjá. Austan við gjána er Gjáhóll. Þarna hafði herinn fylgsni í síðasta stríði”.

Þórkötlustaðir:

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes – uppdráttur ÓSÁ.

Gjáin: “Gjáin ofanverð er framhald Vatnsgjárinnar. Efst við hana er Gjáhóll. Hjá Gjáhól er löng lægð en mjó frá norðri til suð-suðvesturs sem heitir Gjáhólsgjá”.

Hraun:
Ekki er getið um gjár í Hraunslandi, en vissulega má sjá misgengi í Borgarhrauni er liggur til norðausturs frá Hrafnshlíð að Einbúa.

Ísólfsskáli:
Hjálmarsbjalli: “Frá vikinu og austur í Skálabót er lágt berg sem heitir Hjálmarsbjalli og er eins og smátota fram í sjóinn. Bjallinn er misgengi.
Bjallinn er klettastallur og nær frá Hjálmarsbjalla og inn í Ból sem er undir fellinu Slögu vestast. Hæðarbunga vestan undir Slögu heitir Slögubringur”.

Heimildir:
-Örnefnalýsingar fyrir Stað, Húsatóftir, Járngerðarstaði, Hóp, Þórkötlustaði, Hraun og Ísólfsskála.
-Map.is

Grindavík

Grindavík – sýnilegar gjár, sprungur og misgengi.

Jón Jónsson

Jón Jónsson, jarðfræðingur, lést árið 2005. Jón var afkastamikill vísindamaður og ritaði um fræði sín í skýrslur, blöð, bækur og tímarit, bæði íslensk og erlend. Á 85 ára afmæli hans var gefið út bókin Eyjar í eldhafi honum til heiðurs með safni greina um náttúrufræði. Þar má finna æviágrip hans og ritalista.

Jón Jónsson

Jón Jónsson, jarðfræðingur.

Jón Jónsson var fæddist 3. október 1910 að Kársstöðum í Landbroti. Hann starfaði aðallega á sviði jarðhita og neysluvatnsrannsókna og vann brautryðjandastarf við sundurgreiningu og kortlagningu hrauna á Reykjanesskaga.

Jón innritaðist í jarðfræðideild Uppsalaháskóla 1954. Það haust varð Jón 44 ára. Vorið 1958 lauk hann námi með tvöfaldri útskrift með kandidats- (fil.kand.) og licenciatpróf (fil. lic.). Lokaritgerðin fjallaði um afstöðubreytingar láðs og lagar við Ísland og um kísilþörunga í sjávarseti.

Jón hóf störf á Raforkumálaskrifstofunni (síðar Orkustofnun) 1958. Hann fékkst mikið við jarðfræðikortlagningu á starfsferli sínum og vann frábært brautryðjandastarf við sundurgreiningu og kortlagningu hrauna á Reykjanesskaga. Sú vinna skilaði sér á kortum og í mikilli skýrslu um hraun og jarðmyndanir á skaganum sem Orkustofnun gaf út.

Jón Jónsson

Rit Jóns Jónssonar – Jarðfræðikort af Reykjanesskaga.

Árni Hjartarson skrifaði minningargrein um Jón í Náttúrufræðinginn árið 2005. Þar segir m.a.: “Jón Jónsson jarðfræðingur lést þann 29. október sl. [2005] 95 ára að aldri. Þar með er fallinn frá síðasti fulltrúi frumherjanna í íslenskri jarðfræðingastétt.
Námsferill hans var óvenjulegur um margt. Barnalærdóm og vísi að unglingafræðslu hlaut hann í Þykkvabæ, fór síðan 1928 að Eiðum og sat þar tvo vetur í Alþýðuskólanum. Haustið 1933 hélt hann til Svíþjóðar og vann þar næstu árin við ýmis störf jafnframt því sem hann sótti sér fræðslu á námskeiðum og í bréfaskólum. Námið var þó æði óskipulagt og sundurleitt. Tíminn leið og Jón kom víða við, bæði í Svíþjóð, Þýskalandi og á Íslandi. Árið 1945 settist hann að í Uppsölum og kynntist Tómasi Tryggvasyni, sem þá hafði nýlega lokið jarðfræðinámi við háskólann þar. Fyrir tilstilli Tómasar kynntist Jón fleiri jarðfræðingum og jarðfræðiprófessorum og tók að kynna sér fag þeirra. Síðan fékk hann vinnu sem aðstoðarmaður við jarðfræðistörf og sumarið 1949 tók hann þátt í leiðangri til Grænlands undir stjórn dr. Lauge Koch og stundaði steingervingaleit. Hann starfaði síðan sem rannsóknarmaður á steingervingasafninu í Uppsölum. Hann tók einnig þátt í sænskum leiðöngrum og jarðfræðirannsóknum á Hoffellssandi 1951-1952.

Grindavík

Grindavík – jarðfræðikort Jóns Jónssonar.

Sumarið 1954 fór Jón til Íslands og fékk þá þann starfa að gera jarðfræðikort af Reykjavík og nágrenni með Tómasi Tryggvasyni. Samsumars giftist hann Guðrúnu Guðmundsdóttur, eftirlifandi eiginkonu sinni. Þegar hér var komið sögu má segja að Jón hafi verið orðinn jarðfræðingur að atvinnu, en hann hafði engin prófréttindi og nú var gengið ákveðið til verks að kippa því í liðinn. Jón safnaði saman sundurleitum námsvottorðum sínum og kúrsum, fékk þau með harðfylgi dæmd sem jafngildi stúdentsprófs haustið 1954 og innritaðist þá strax í jarðfræðideild Uppsalaháskóla. Það haust varð Jón 44 ára.
Nú var skipt um gír, námið var þaulskipulagt og gekk hratt. Vorið 1958 var því lokið með tvöfaldri útskrift þegar hann tók kandídats- (fil.kand.) og licentiat-próf (fil.lic.) sama daginn. Lokaritgerðin fjallaði um afstöðubreytingar láðs og lagar við Ísland og um kísilþörunga í sjávarseti.

Sprungur

Sprungur í nágrenni Reykjavíkur. Uppdráttur Jóns Jónssonar, jarðfræðings.

Jón hóf störf á Raforkumálaskrifstofunni (síðar Orkustofnun) sama ár og hann lauk prófum. Framan af voru verkefni hans einkum á sviði neysluvatns- og heitavatnsöflunar. Boranir eftir heitu vatni voru þá komnar á skrið og heppnuðust víða vel undir hans tilsögn. Hann vann einnig sem jarðhitaráðgjafi í ýmsum löndum Mið-Ameríku og Afríku á vegum Sameinuðu þjóðanna og fleiri stofnana.
Jón fékkst mikið við jarðfræðikortlagningu á starfsferli sínum og vann frábært brautryðjandastarf við sundurgreiningu og kortlagningu hrauna á Reykjanesskaga.

Árið 1980 lét Jón af störfum fyrir jarðhitadeild Orkustofnunar en hélt þó áfram eigin rannsóknum og ráðgjöf í neysluvatns- og jarðhitamálum.

Jón Jónsson

Jarðfræðikort Jóns Jónssonar – eldgosasvæði, sprungur og gígar ofan höfuðborgarsvæðisins.

Á þessi skeiði beindust augu hans mjög að Eyjafjöllum og af þeim gerði hann jarðfræðikort sem út kom ásamt ítarlegri lýsingu 1989. Á síðustu árunum beindist áhugi hans í auknum mæli að átthögunum í Vestur-Skaftafellssýslu og hinum miklu hraunaflæmum frá Eldgjá, Lakagígum og Hálsagígum. Síðustu rannsóknarleiðangrana fór Jón á það svæði árið 2002, þá á 92. aldursári. Þótt Jón hæfi ekki jarðfræðistörf fyrr en á fimmtugsaldri spannar starfsferill hans á því sviði vel á sjötta tug ára og er lengri en flestir jarðfræðingar geta státað af.

Helgafellshraun

Hraunin ofan Helgafells – Jón Jónsson.

Jón Jónsson var öflugur vísindamaður sem sést m.a. á þeim fjölda greina sem hann skrifaði um fræði sín í skýrslur, blöð, bækur og tímarit, bæði íslensk og erlend. Hann var heiðursfélagi í Hinu íslenska náttúrufræðifélagi og einn afkastamesti greinahöfundur Náttúrufræðingsins frá upphafi. Í efnisyfirliti tímaritsins er hann skráður fyrir 77 titlum um fjölmörg efni tengd jarðfræðum. Fyrsta greinin kom 1951, það voru minningarorð um sænskan jarðvísindamann og Íslandsvin, en fyrsta jarðfræðigreinin birtist 1952 og var ávöxtur rannsóknanna á Hoffellssandi. Hún nefnist „Forn þursabergslög í Hornafirði”.

Jón Jónsson

Jón Jónsson – jarðfræðikort af Hrútagjárdyngju og nágrenni.

Flest ár þaðan í frá birtist eitthvað eftir hann í ritinu og stundum margar greinar. Í 55. árgangi (1985) urðu þær t.d. sjö. Síðasta greinin kom 2002, „Poas og Katla”, en þar ber hann saman þessi tvö miklu eldfjöll.

Raunvísindamönnum er oft skipt í tvo hópa, þá sem stunda frumrannsóknir, draga saman þekkingu, skrifa lýsingar og setja fram rannsóknargögn, og hina sem nota þessar rannsóknir og grundvallargögn til að smíða úr þeim kenningar eða fræðilegar skýjaborgir og verða gjarnan frægir af. Kenrúngar falla og frægðin dofnar, en vandaðar frumrannsóknir standast tímans tönn og bera gerendum sínum góðan orðstír um aldir. Því mun Jóns Jónssonar lengi minnst í heimi jarðfræðanna.
Náttúrufræðingurinn kveður hinn gengna vísindamann og greinahöfund með þökk og virðingu. – Árni Hjartarson

Heimildir:
-https://is.wikipedia.org
-https://timarit.is/files/71237940
-Náttúrufræðingurinn, 3.-4. tbl. 2005, Jón Jónsson, jarðfræðingur, 1910-2005, Árni Hjartarson, bls. 74.

Jarðfræðikort

Jarðfræðikort ÍSOR af Reykjanesskaga. Jón Jónsson lagði grunninn að kortinu ásamt Kristjáni Sæmundssyni o.fl.