Ætlunin er að reyna að gefa innsýn í 10 alda sögu seljanna ofan við Kálfatjörn og Ströndina, þ.e. Strandarheiði og Vogaheiði, á innan við 10 mínútum. Stikklað verður því á stóru.
Byggðin hér á Vatnsleysuströnd var frá upphafi svo til öll með sjávarsíðunni. Útvegsbændurnir höfðu fjárbúskap samhliða útvegum. Fá býlin höfðu kýr og þá yfirleitt fáar. A.m.k. einn hlaðinn kúastekkur sést þó enn hér fyrir ofan – í Kúadal. Annars höfðu bændur stærri og landmeiri bæja fé sitt yfirleitt í seli yfir sumarið, venjulega frá 6. – 16. viku sumars, en í þá tíð var árdagatalið miðað við meginárstíðarnar, sumar og vetur. Vegna ótíðar gat seljatíðin færst til um viku eða svo. Selin voru yfirleitt í jaðri jarðanna til að nýta mætti landið sem best, þ.e. hlífa heimatúnum, sem yfirleitt voru lítil, og heimahögum, en beittu úthagann. Lífið á Ströndinni hér áður fyrr, eins og svo víða annars staðar á Reykjanesskaganum, snerist um fisk og fé. Fólkið hélt lífinu í fénu og féð hélt lífinu í fólkinu.
Á Norðurlandi voru selin oft minni bæir, sem bændur fluttu með mest allt sitt fólk í yfir sumarið og gerðu út þaðan. Á Reykjanesi, sem telur í dag um 140 sýnilegar selstöður, þ.e. á milli Suðurlandsvegar og Stampa yst á Reykjanesi, voru selin annars eðlis. Þau voru tímabundar nytjaútstöðvar bæjanna er byggðu afkomu sína engu minna á útgerð. Dæmi eru þó um einstaka kolasel, þ.e. þau hafa verið notuð til kolagerðar í heiðinni.
Selin eða selstöðurnar í heiðinni, þ.e. í Vatnsleysustrandarbæjalandi milli Hvassahrauns og Seltjarnar, en Innri-Njarðvíkur tilheyrðu þeim þangað til á 20. öld, eru um 34-40, eftir því hvernig talið er.
Hvassahraunssel er austast, en Njarðvíkursel vestast, við Seltjörn eða Selvatn, eins og það þá hét. Deilt hefur verið um hvort Dalselið undir Fagradalsfjalli hafi tilheyrt Grindavíkingum eða Strandarmönnum. Þá var Sogasel í Trölladyngju í fyrstu sel frá Krýsuvík, en síðan Kálfatjörn. Þessi sel hafa áreiðanlega ekki öll verið notuð á sama tíma, sum eru greinilega eldri en önnur, þó gera megi ráð fyrir að þau hafi jafnan verið gerð upp eftir því sem not voru fyrir þau. Þá benda einkum gerðir seljahúsanna til þess að þau séu frá mismunandi tímum.
Áhersla á landbúnað var meiri á fyrstu öldum Íslandsbyggðar, en þá voru bæirnir líka færri. Þegar líða fór á miðaldir og síðar urðu fiksveiðar ríkari þáttur útvegsbændanna, en landbúnaður óverulegur. Líklegt er að þá hafi seljunum fækkað. Samkvæmt jarðabókinni 1703 voru þá a.m.k. 18 sel og selstöður í notkun frá Vatnsleysustrandarbæjunum. Það hefur því oft verið talsvert líf í heiðinni, eða um 40-60 manns að staðaldri yfir sumarmánuðina.
Síðast var haft í seli frá Flekkuvík um og í kringum 1870 og mun það hafa verið síðasta selið í notkun frá Vatnsleysustrandarbæ. Gunnar og Ólafur Erlendssynir nefna Flekkuvíkursel í örnefnaskrá árið 1976 og segja: “Herdís Jónsdóttir frá Flekkuvík, f: 1858, kom í selið sem barn og voru þar þá bæði smali og selráðskona. Í selinu voru þá einnig eingöngu hafðar kindur”.
Síðasta selið á Reykjanesi var Hraunselið undir Núpshlíðarhálsi, en það var í notkun til 1914.
Oftast bera selin nöfn þeirra bæja, sem gerðu þau út. Flekkuvíkursel var frá Flekkuvík, Hvassahraunssel var frá Hvassahrauni, Óttarstaðasel frá Óttarstöðum o.s.frv.
Þó eru dæmi um að selin hafi dregið nöfn sín af staðháttum, s.s. Sogasel í Sogagíg, Selsvallasel af Selsvöllum og Gvendarsel undir Gvendarselshæð af Krýsuvíkur-Gvendi o.s.frv. Flestra seljanna er getið í gömlum heimildum og örnefnalýsingum. Nokkur þeirra, a.m.k. þeirra stærstu, má sjá á gömlu kortum, s.s. dönsku herforingjakortunum svonefndu, en annað það er gefur vísbendingu um að sel hafi verið að ræða á tilteknum stöðum eru nafngiftir tengdar þeim, s.s. Selháls, Selshæð, Selsvallafjall, Selsvellir, Selsfjall, Seljahlíð, Selalda, Selstígur og Selshóll.
Selstígurinn lá upp frá bænum að selinu. Hann var venjulega u.þ.b. klukkustundar langur – stundum styttri – stundum lengri. Stígurinn var varðaður og varða var á hól ofan við selstöðuna. Hér á Reykjanesi var selið oftast í skjóli fyrir rigningaráttinni, að norðaustan, þ.e. í skjóli við hól, hæð eða gjábakka mót suðvestri. Selið sjálft var venjulega þrjú rými. Einn inngangur var í tvö þeirra, þ.e. svefnaðstöðu og búr, og annar í eldhúsrýmið. Í sumum seljunum voru fleiri en ein selstaða, þ.e. frá fleiri bæjum. Skammt frá var vatnsstæði eða brunnur. Þó eru allnokkr dæmi um að notað hafi verið yfirborðsvatn í bollum og lautum, sem oft vildi þrjóta þegar leið á sumarið. Þá varð að yfirgefa sum selin, s.s. áður en eiginleg selstíð var á enda. Í selinu var tvískiptur stekkur, venjulega hlaðinn úr grjóti. Hann var notaður til að færa frá. Einnig var þar kví, notuð til mjalta. Fráfærur voru í upphafi stekkstíðar og er í rauninni sérstakur kafli seljabúskaparins.
Fjárskjól, hlaðið fyrir hellisop eða skúta, eru við eða nálægt sumum seljanna á Reykjanesi, en fá hér í heiðinni. Þó má sjá slíkt í Kálffelli, en þar er sagt að Oddur á Grænuborg hafi setið yfir sauðum og í Öskjuholti. Einnig við Smalaskála. Sauðaútgerðin er enn annar kafli, sem ekki verður fjallað um hér.
Fjárborgir, hlaðin hringlaga gerði, eru nokkur í heiðinni. Má þar frægasta nefna Staðarborgina hér ofan við Kálfatjörn, Gvendarborg, enn ofar, Pétursborg á Huldugjárbarmi, Þórustaðaborgina, Auðnaborg, Hringinn, Grænuborg og Gvendarstekk ofan við Voga. Sumar tengjast seljabúskapnum, en þeim var þó yfirleitt ætlað að veita fé skjól í vondum veðrum. Fé var ekki tekið í hús, eða sérstök hús byggt yfir fé, á Reykjanesi fyrr en komið var fram á 20. öldina.
Nátthagar voru ekki fjarri seljunum, yfirleitt í stórum grónum lægðum eða hraunkrókum.
Yfirleitt var tvennt í hverju seli, þ.e. selmatsseljan, eða selráðskona, og smalinn. Stundum var unglingur hafður með til aðstoðar. Dæmi er um að kona í seli hafi haft með sér erfiðan ungling til verka og fékk að launum fisk frá foreldrunum á Ströndinni. Dugði hann til viðurværis út árið. Verkaskiptingin var skýr. Hún mjólkaði og vann úr mjólkinni, en hann gætti fjárins og skilaði því í selið á tilskildum tíma. Gerði hann það ekki gat hann átt von að þurfa að éta skömmina, eins og það var nefnt. Þessi verk gátu oft verið erfið og slítandi. Samt voru þetta eftirminnilegustu verk þeirra, sem þau unnu, er litið var síðar yfir liðna tíð.
Sögur tengdar seljafólkinu eru nokkrar til, þá aðallega tengdar barnshafnandi seljamatsseljum eftir að huldumenn eða útilegumenn komust í tæri við þær. Þá gleymdist oft að bóndinn á bænum fór reglulega upp í selið á tveggja eða þriggja daga fresti til að sækja afurðirnar og færa þangað matarkyns, talsverður samgangur var á milli seljanna og auk þess var nokkur umferð fólks um heiðina yfir sumartímann, á leið hingað og þangað umm Innnesin og Útnesin því ekki fóru allir Almenningsleiðina.
Selsbúskapurinn átti erfitt uppdráttar þegar tók að líða á 19. öldina, bæði vegna mannfæðar á bæjum og sumir sögðu vegna leti bændanna. A.m.k. þurfti konungstilskipun til að gera bændum skylt að gera selin út, en þeim fækkaði þó smám saman uns þau lögðust af er líða fór að aldamótunum 1900.
Selsbúskapurinn leggst af á ofanverðri 19. öld. Ástæðan er ekki ein heldur nokkrar; fólki tók að fækka á einstökum bæjum, aukin áhersla var lögð á útveg, kýr voru nyjaðar í auknum mæli líkt og féð áður, þ.e. unnir ostar, smér og aðrar afurðir, og breytingar urðu á samfélagsmyndinni. Féð var nýtt heima við framan af sumri, en síðan rekið á afrétt til sumarbeitar, en smalað að hausti.
Ekki hefur verið skrifað mikið um sel hér á landi, en Guðrún Gísladóttir hefur þó ritað um Grindavíkurselin, bæði á Baðsvöllum og á Selsvöllum undir Núpshlíðarhálsi, sem Vogamenn hafa stundum viljað hafa átt, og Sesselja Guðmundsdóttir, heimamaður hér á Ströndinni, hefur getið allra seljanna í heiðinni og nefnir þau í bók sinni Örnefni og gönguleiðir á Vatnsleysuströnd, sem Lionsklúbburinn gaf út á sínum tíma. Þar getið þið lesið ykkur meira til um þetta efni. Brunnaselstöðunni er t.d. lýst svo:”….Selstöðu hefur jörðin við fjallgarð, er þar hagar litlir, en vatnsskortur að miklu meini, þegar þerrar gánga”. Þessi heimild segir okkur margt um erfiða búskaparhætti og ástand gróðursins í heiðinni. í Brunnastaðaseli hafa þá verið 30-40 kindur og er það hreint ekki lítið.
Í heimildum um sel segir m.a. á einum stað: “Í seljum þessum störfuðu venjulega 2-3 menn; selsmalinn og selráðskonan og oft einn unglingur þeim til aðstoðar, ýmist piltur eða stúlka. Áður fyrr voru þar gerðir úr mjólkinni, ostar, skyr, smjör og sýra…. Sótt var í selið tvisvar í viku; skyr, mysa og smjör og flutt heim á hestum”.
Heiðin lítur öðruvísi út í dag en hún gerði þegar selsbúskapurinn var í sem mestum blóma. Telja má víst að landsnámsmenn hafi komið með selsbúskaparhættina með sér frá Noregi og haldið þeim þegar hingað var komið að teknu tilliti til aðstæðna hér. Þau munu skv. því hafa verið við lýði hér í um 1000 ára skeið. Selsbúskapurinn hefur því verið stór þáttur í búskaparháttum þessa landsvæðis, en er nú að mestu gleymdur. Hins vegar eru minjar seljanna enn vel sýnilegar í heiðinni og standa þar sem minnismerki þess liðna – fortíðinni – sem við þurfum að geta borið virðingu fyrir. Þau tala máli fólksins, forfeðra okkar og mæðra, sem hér bjó, stritaði og dó, en skyldu eftir sig dýrmæta arfleið – okkur.
Selin í heiðinni bíða heimsóknar ykkar – hvenær sem þið hafið áhuga á, getu eða nennu og tíma til.
Úr erindi ÓSÁ er flutt var í Kálfatjarnarkirkju á Menningardegi í kirkjum á Suðurnesjum 24. okt. 2004.