Hansabærinn

Á upplýsingaskilti við Smábátabryggjuna (Flensborgarhöfnina) í Hafnarfirði má lesa eftirfarandi um Hansabæinn Hafnarfjörð:

„Hið svokallaða Hansasamband var stofnað í Lübeck í Þýskalandi á 13 öld og var bandalag kaupmanna í verslunargildum borga í Norður- og Vestur-Evrópu. Lübeck var á þessum tíma mjög öflug verslunarborg og útskipunarhöfn inn á Eystrasaltið eftir að elsti skipaskurður Evrópu var opnaður árið 1398 á milli Trave og Elbe.

Hafnarfjörður

Upplýsingaskiltið við smábátabryggjuna.

Upp úr 1470 hófu Hansakaupmenn að sigla til Íslands, upphaflega komu þeir einungis frá Bergen í Noregi en fljótlega einnig frá þýsku Hansaborgunum Hamborg, Lübeck og Bremen. Konungur hafði veitt Hansakaupmönnum leyfisbréf til verslunar á Íslandi árið 1468 en mikil samkeppni myndaðist á milli enskra og þýskra kaupmanna um bestu hafnirnar hér á landi í kjölfarið og til eru heimildir frá árinu 1475 um ófrið þeirra á milli við Hafnarfjörð.

Hafnarfjörður

Minnismerki þetta var afhjúpað á Óseyrarbryggju við Flensborgarhöfn í Hafnarfirði í júlí 2003 um fyrstu lúthersku kirkjuna sem reist var á Íslandi, árið 1533. Kirkjan stóð á Háagranda í Hafnarfirði þar sem þýskir Hamborgar kaupmenn stunduðu verslun sína í rúmlega eina öld. Hún var reist til þess að þjóna þýskum farmönnum og var grafreiturinn við kirkjuna hinsta hvíla þeirra sem týndu lífi fjarri fósturjörðinni. Kirkjan var reist úr þýskum kjörviði og henni haldið við af Þjóðverjum allt til ársins 1603, en þá var þeim meinuð hvers kyns verslun á Íslandi. Var kirkjan tekin niður nokkrum árum síðar. Forsetar Íslands og Þýskalands afhjúpuðu minnismerkið, sem er verk þýska listamannsins Hartmuts Langs, sem kallar sig Lupus. Verkið myndar táknrænan gotneskan boga úr íslensku grjóti og nær sex og hálfs metra hæð. Hliðið minnist samskipta Íslendinga og Þjóðverja til forna og vísar veginn um ókomna tíð.

Ófriðurinn hélt áfram um nokkurra ára skeið en svo fór að upp úr 1480 höfðu Þjóðverjarnir náð að hrekja Englendinga frá Hafnarfirði, Straumsvík og Básendum. Þýsku kaupmennirnir urðu mun vinsælli en þeir ensku, einkum vegna þess ap þeir fóru með friði og buðu ódýrari og fjölbreyttari varning en hinir höfðu gert. Baráttan um Íslandsverslunina sneri ekki nema að litlum hluta að innflutningi, fyrst og síðast var sóst eftir íslenskri skreið til að viðhalda völdum á skreiðarmörkuðum Evrópu. Hafnarfjörður var aðalhöfn Hansakaupmanna hér á landi á ofanverðri 15. öld og alla þá 16. og má segja að hann hafi verið þýskur bær á þessu tímabili.

Verslunarbúðir Hansakaupmanna í Hafnarfirði voru á svoköllum Háagranda sem var ysti hluti Hvaleyrargranda. Þar höfðu þeir ríka þörf fyrir varanlegan húsakost enda fjölmennar áhafnir á skipum þeirra, jafnvel um 60 manns á hverju. Í frumskýrslum þýsku kaupskipanna má sjá að þeir fluttu töluvert af byggingarvið til landsins til smíði verslunarhúsa og vöruskemma en einnig kirkjuvið til kirkjubyggingar.

Þekkt er að þýskir kaupmenn reistur sér kirkjur í erlendum höfnum og það gerðu þeir einnig hér. Kirkjan sem Hansakaupmenn reistur í Hafnarfirði var fyrsta lúterska kirkjan hér á landi og nokkuð vegleg timburkirkja með koparþaki.
Hafnarfjarðarhöfn
Að stofnun og byggingu kirkjunnar stóðu bæði kaupmenn og skipstjórar sem lögðu stund á Íslandssiglingar en þeir voru í trúarlegu bræðralagi sem bar nafnið „Die Islandfahrerbrüderschaft“.

Hansaskip

Skip Hansakaupmanna.

Kristján IV. danakonungur gat út tilskipun sína um einokunarverslunina árið 1602 en með henni var öllum öðrum en þegnum danska ríkisins bannað að stunda verslun á Íslandi. Liðu undir lok áhrif þýskra kaupmanna í Hafnarfirði og hið beina verslunarsamband á milli Hafnarfjarðar og Hamborgar. Konungur gaf einnig út þá tilskipun árið 1608 að allar byggingar Hansakaupmanna í Hafnarfirði skyldu rifnar.“

Í heimildum segir jafnframt um Hansaverslunina:

Lübeck

Lübeck fyrrum.

„Þjóðverjar höfðu á 13. öld náð undir sig mikilli verzlun við Norðurlönd, en er Íslendingar voru gengnir Norðmönnum á hönd, eftir 1264, vildu Norðmenn gæta hagsmuna sinna í verzlunarviðskiptum við Ísland, og var þá Björgvin aðalverzlunarstaður Islendinga um langt skeið. Þjóðverjum var þá bannað að sigla „ultra Bergas versus partes boreales“, og urðu menn í fyrstu að gæta þessa. En Englendingar ráku allmikla verzlun á Íslandi frá upphafi 15. aldar, án þess að fá leyfi til þess hjá Norðmönnum. Þeir voru illa þokkaðir hjá Íslendingum, og þegar þýzku Hansakaupmennimir tóku að verzla við Ísland á seinni hluta 15. aldar, fór ekki hjá því, að margs konar árekstrar yrðu.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður 1903.

Það voru einkum Hansaborgirnar Hamborg og Bremen, en að nokkru einnig Lübeck, Danzig, Bostock, Wismar og Stralsund og jafnvel Lüneburg, er þessa verzlun ráku. Þjóðverjar voru vel séðir á Íslandi, og var jafnvel litið á þá sem verndara Íslendinga gagnvart Bretum, er frömdu ýmis ódæðisverk. Þeir drápu t. d. hirðstjórann Björn Þorleifsson 1467 á Snæfellsnesi. Eftirmaður hans einn var Þjóðverjinn Diederik Pining, er Piningsdómur er við kenndur, en hann er frá l.júlí 1490 um réttindi erlendra kaupmanna á Íslandi. Það er sagt, að Pining hafi siglt til Norður-Ameríku 20 árum á undan Kolumbusi. Pining gaf út tilskipun m. a. um, að ríkið skyldi annast fátækrahjálp. Er þessu mjög vel lýst í riti Hans Friedrich Bluncks „Auf grosser Fahrt“. Um árekstra Breta og Þjóðverja á íslandi ber einkum að geta um atburð þann, er varð á höfninni í Grindavík sumarið 1532.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður. Kortið frá 1903 er lagt yfir loftmynd frá 1978 svo sjá megi afstöðuna á Háagranda og Fornubúðum.

Þar lá brezkt skip, „Peter Gibson“ frá London, og veiddu skipverjar bæði fisk og seldu varning sinn. Þá komu þangað nokkrir kaupmenn frá Hamborg og Bremen og heimtuðu að kaupa sama fiskinn, er Englendingar höfðu lagt til hliðar fyrir sjálfa sig. Englendingar neituðu um viðskiptin, en þá komu þangað Hansakaupmenn með 280 manns á 8 skipum frá Hamborg og Bremen. Þeir réðust á enska skipið um nóttina og drápu 15 manns af áhöfninni. Enskar og þýzkar heimildir eru ekki sammála um ástæðuna fyrir þessum fjandskap, en hann leiddi til stjórnmáladeilna milli Breta og Dana, auk þess sem danska stjórnin gat ekki unað því, að landsstjóri hennar hafði verið veginn 1467, án þess að hefndir kæmu fyrir. Verzlun Hansakaupmanna á Íslandi jókst og náði hámarki sinu í upphafi 16. aldar.

Íslandskort

Hluti af Íslandskorti Guðbrands Þorlákssonar, biskups, 1590.

Konungur Dana reyndi nú að losna smám saman við verzlun annarra þjóða, og þetta leiddi til, að einokunarverzlunin komst á 1602, er stóð til 1787, og á þessu tímabili hrakaði Íslendingum mjög í öllum efnum. Hansakaupmenn ráku allmikla verzlun fram að einokunartímabilinu. Það er sagt, að þeir hafi reist þýzka kirkju í Hafnarfirði. Gætti ýmissa áhrifa þeirra, einkum hafa mörg orð úr þýzku verzlunarmáli komizt inn í íslenzku á þessu tímabili.“ -Skírnir 1. jan. 1960, Alexander Jóhannesson, menningasamband Þjóðverja og Íslendinga, bls. 49-50.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður. Hér má sjá (gul lína) strandlínuna árið 1903. Hvaleyrargrandi austanverður, þ.á.m. Háigrandi og Fornubúðir, er kominn undir uppfyllingu.

Setberg

Á upplýsingaskilti við rústir gamla Setbergsbæjarins í Hafnarfirði má lesa eftirfarandi:

„Um aldir hefur verið búið á jörðinni Setbergi við Hafnarfjörð en elstu heimildir um jörðina eru frá árinu 1505. Bærinn stóð ofarlega í Setbergstúninu en túnið lá á móti suðvestri. Upp úr 1770 var bærinn teiknaður upp og var þá hinn reisulegasti enda sýslumannssetur. Minjar Setbergsbæjarins, sem hér eru, hafa verið friðlýstar.

Setberg

Teikning af Setbergsbænum eftir Sir Joseph Banks frá 1772.

Setbergsannáll var ritaður af Gísla Þorkelssyni sem fæddist á Setbergi 1676 og bjó þar megnið af ævi sinni. Segja má að þessi annáll sé sérstakt bókmenntaverk því að þar er töfraskilningur ráðandi og reglulega sagt frá fyrirbærum á borð við sæskrímsli, náttúruvættir og himnasýnir eins um staðreyndir hafi verið að ræða. Þar er meðal annars sagt frá ljóni sem rak á land árið 1230 með hafís og tókst að valda miklum skaða en slík sjón eru annars lítið þekkt. Annað dæmi er frá árinu 1206, þar segir: „Rak suður með garði skrímsli með 8 fótum í einu norðanverðri; var grátt sem selur með heststrjónu eður haus, en rófu upp úr bakinu; hvarf nóttina eftir. Þetta skeði um veturnætur.“

Setberg

Galdraprestsþúfa við gamla Setbergsbæinn.

Til eru sögur um bænahús eða kapellu við Setbergsbæinn og á hún að hafa staðið þar sem nú er „Galdraprestaþúfa“ skammt frá bæjarrústinni. Þar réð meðal annars ríkjum sr. Þorsteinn Björnsson (d. 1675) en eftir hann liggur kvæðasafnið „Noctes Setbergenes“ eða Setbergsnætur sem varðveitt er í Árnasafninu. Kvæðasafn þetta orti hann meðal annars til að „stytta sér hið leiða líf“ eins og hann orðaði það sjálfur. Þorsteinn þessi var, að telið er, rammgöldróttur og lagði hann svo á að ekki mætti hrófla við þessari þúfu án þess að illa færi.

Íslandskort

Forn Íslandskort með skrímslum og öðrum forynjum.

Þegar Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns var rituð árið 1703 voru allar jarðir í Álftaneshreppi ýmist í eigu konungs eða Garðakirkju með þeirri einni undantekningu að jörðin Setberg var í eigu Þóru Þorsteinsdóttur. Álftaneshreppur náði á þeim tíma allt frá Kópavogslæk og suður að Hvassahrauni. Þá voru heimilismenn sex og á bænum voru fimm kýr, 23 ær, fjórir suaðir veturgamlir og fjórir hestar og selstöð átti jörðin þar sem heitir Ketshellir eða Kershellir. Í sömu lýsingu kemur fram að „silungsveiði hefur hjer til forna verið í Hamarskotslæk, kynni og enn að vera ef ekki spillti þeir með þvernetjum sem fyrir neðan búa“, Setberg átti ekki land að sjó en fram kemur í heimildum að jörðin hafi haft búðaaðstöðu og skipsuppsátur í landi Garða þar sem heitir Skipaklettur og greitt leigu fyrir. Skipaklettur var þar sem Norðurbakkinn er í dag við Hafnarfjarðarhöfn en hann var brotinn niður þegar fiskverkunarhús Bæjarútgerðar Hafnarfjarðar var byggt um miða 20. öld.“

Setberg

Tóftir gamla Setbergsbæjarins.

Í örnefnaskrá fyrir Setberg segir m.a.:
„Samkvæmt máldaga fyrir jörðinni Setbergi í Garðahreppi, dagsettum 6. júní 1523, eru landamerki jarðarinnar Setbergs sem hér segir: Úr miðjum Kethelli og í stein þann, er stendur í fremsta Tjarnholti; úr honum og í Flóðhálsinn; úr Flóðhálsinum og í Álftatanga, úr honum og í hellu, er stendur í Lambhaga. Þaðan í neðstu jarðbrú, svo eftir því sem lækurinn afsker í túngarðsendann; þaðan í Silungahellu, svo þaðan í þúfuna, sem suður á holtinu stendur, úr henni og í syðri Lækjarbotna, úr þeim og í Gráhellu, úr henni og í miðjan Kethelli. [Nmgr.: Landamerkjaskrá er samkvæmt landamerkjabók Gullbringu- og Kjósarsýslu. J. H.]

Setberg

Setberg – loftmynd.

Setberg, jörð í Garðahreppi, fyrrum í Álftaneshreppi. Setbergsbær stóð í Setbergstúni ofarlega nokkuð og lá túnið mót suðvestri. Túngarðar eða Setbergstúngarðar lágu að því að sunnan, austan og norðan. Suðurtúngarður lá neðan frá læk, sem síðar getur, upp á holtið að fjárhúsi, er þar er. Austurgarður er ofan túns allt út að austurtúngarðshliði og þaðan nokkuð lengra, en þá tekur norðurtúngarður við, og nær hann allt niður að læk. Gamligarður, þar sem túnið er hæst ofan bæjar. Markar enn fyrir þessu garðlagi.

Setberg

Setberg – túnakort 1918.

Setbergsbrunnur lá í lægð niður frá austurbæjarhorni. Þaðan lá svo brunngatan niður að brunninum. Túnið hér var kallað Niðurtún eða Suðurtún, allt upp undir fjárhúsið. Þar var utan garðs Stöðullinn, og innan garðs var Stöðulgerði. Milli Gamlagarðs og túngarðs voru nefndar Útfæringar allt út að hliði. Frá vesturbæjarhorni lágu Setbergstraðir austur um túnið. Þar sem það var hæst, var farið framhjá Galdraprestsþúfu, en þúfa sú mun vera kapella, sem eitt sinn var hér á Setbergi. Á þúfu þessari sat löngum Þorsteinn Björnsson prestur, og hér orti hann „Noctes Setbergenses“. Eru ströng fyrirmæli um að hrófla ekki við þúfu þessari. Í Norðurtúni var Setbergskot eða Norðurkot og kringum það Norðurkotstún.“  –Örnefnalýsing Gísla Sigurðssonar um Setberg.

Setberg

Setberg 1984. Gamla Setbergsbæinn má sjá efst í hægra horninu – á þeim stað, sem hann var.

Kapella

Tvö upplýsingaskilti eru við uppgerða kapellu í Kapelluhrauni, gegnt álverinu; annað frá Þjóðminjasafninu og hitt frá Byggðasafni Hafnarfjarðar.
Á fyrrnefnda skiltinu stendur:

Kapella

Upplýsinagskilti Þjóðminjasafnsins við kapelluna.

„Rústir smákapellu frá miðöldum, sem reist hefur verið til skjóls fyrir ferðamenn í illveðrum við hina fornu alfaraleið um Nýjahraun (Kapelluhraun), sem mun hafa runnið á 14. öld. Kapellan var rannsökuð 1950 og fannst þar lítið líkneski úr leir af heilagri Barböru, hollenskt að uppruna. Heldur Barbara á turni, einkennistákni sínu, en hún var efir helgisögunni lokuð inni í turni og leið þar píslavættisdauða. Gott þótti að heita á heilaga Barböru gegn eldsvoða og gæti hún hafa orðið fyrir valinu vegna eldhraunsins.“

Á síðarnefnda skiltinu stendur:

„Árið 1950 var rústin rannsökuð af þeim dr, Kristjáni Eldjárn þjóðminjaverði, Gísla Gestssyni safnverði, Jóhanni Briem listmálara og dr. Jóni Jóhannessyni. Fundust þá nokkrir munir í rústinnni og ber þar helst að nefna hluta af líkneski heilagrar Barböru. Líkneskið var úr grágulum leirsteini og var einungs um 3.3. cm á hæð, en hefur líklega verið um 5.5. cm heilt. Þar sem hraunið sem kapellan stendur á er yngra en landnám var það vel við hæfi að einmitt heilög Barbara fanst þarna, sem e.t.v. stendur í sambandi við bæn um það, að svona hrikalegt hraunrennsli endurtaki sig ekki. Styttan sem fannst við rannsóknina er varðveitt á Þjóðminjasafni Íslands, en þessi hérna er eftir líking, svipuð en lítið eitt stærri.
Kapella þessi var alveg við gamla veginn og hefur því líklega einnig verið eins konar sæluhús. menn hafa farið þar inn til að bilja bæn sína, en líka til að hvílast eða leita skjóls í vondum veðrum.

Kapella

Upplýsingaskilti Byggðasafnsins við kapelluna.

Kapella þessi er á skrá yfir friðlýstar fornminjar og er talið að hún sé frá kaþólskum tíma en ekki hefur hún verið aldursgreind nánar. Hraunið umhverfis kapelluna hefur verið kallað Kapelluhraun eða Nýjahraun og er talið að það hafi runnið einhvern tímann á tímabilinu 1100-1300. Kapellan er rétt við gamla krákustíginn, sem ruddur var fljótlega eftir að hraunið rann og hefur verið alfaraleið úr á nes öldum saman.

Saga heilagrar Barböru:

Kapella

Kapella – stytta af heilagri Barböru.

Snemma á 3. öld var höfðingi í borginni Nikódemdíu í Litlu-Asíu, þar sem nú er Izmid í Tyrklandi. Átti hann forkunnarfríða dóttur er Barbara hét. Hún var í æsku lokuð inni í turni einum til að forðast biðla en þrátt fyrir einangrunina tókst Origenes kirkjuföður að komast inn til hennar og fyrir fortölur hans tók hún kristna trú. Barbara lét aldrei af trú sinni, þrátt fyrir pyntingar sem að stærstum hluta voru gerðar að kröfu föður hennar, sem vildi snúa henni aftur til heiðinnar trúar. Að lokum var hún leidd fyrir dómara og dæmd til lífláts í ofsóknum á kristna menn.
Hún varð snemma kaþólskur dýrlingur, aðallega ákölluð við óvænta hættu, eldsvoða, sprengingar og þess háttar. Hérlendis lá því beint við að ákalla hana í sambandi við jarðelda og hraunflóð.“

Sjá meira um kapelluna HÉR.

Kapella

Kapellan í Kapelluhrauni.

Kópavogur

Eiríkur Þ. Einarsson, bókasafnsfræðingur, skrifaði um minnismerki í Kópavogi:

Kópavogsfundurinn 28. júlí 1662

Kópavogur

Kópavogsfundurinn – skilti.

Árið 1660 hófst breyting stjórnskipunar konungsríkisins Danmerkur til einveldis. Vald konungs jókst, erfðaréttur konungsættarinnar var lögbundinn og afnumin voru viss réttindi aðalsins. Áður var konungur kjörinn á stéttaþingum.
Friðrik III Danakonungur var hylltur á Alþingi 1649, árið eftir að hann tók ríki. Þegar hann varð einvaldur 1661 skyldi staðfesta nýja eiða í löndum hans. Í þeim erindagjörðum kom Henrik Bjelke aðmíráll og hirðstjóri á Íslandi, sumarið 1662.
Borist höfðu bréf til landsins þá um vorið um að sendir skyldu fulltrúar á Alþingi til að hylla Friðrik III sem erfðakonung. Ekki var minnst á einveldishyllingu í þeim bréfum.

Kópavogur

Kópavogur – minnismerki um Kópavosgfundinn 28. júlí 1662.

Hingaðkoma Bjelkes tafðist um þrjár vikur, þinghaldi var lokið við Öxará þegar skip hans kom að landi í Skerjafirði. Eiðarnir voru því ekki undirritaðir á Alþingi. Fyrsta verk Bjelkes 12. júlí 1662 var að senda valdsmönnum bréf; þeirra var vænst við Bessastaði 26. júlí. Daginn eftir, sem var sunnudagur, skyldu eiðarnir undirritaðir.
Árni Oddsson lögmaður setti þing í Kópavogi mánudaginn 28. júlí 1662, degi of seint. Ástæða tafarinnar liggur ekki fyrir en vísbendingar eru um að Árni og Brynjólfur Sveinsson biskup hafi mótmælt til varnar fornum réttindum landsins. ,,Var þann dag heið með sólskini” segir í Vallholtsannál.
Á Kópavogsfundinum 28. júlí 1662 var Friðrik III hylltur sem ,,einn Absolut soverejn og erfðaherra”. Þannig varð hann hvort tveggja einvcaldskonungur og erfðakonungur. Undir eiðana rituðu 109 menn; báðir biskuparnir, báðir lögmennirnir, 42 prestar og prófastar, 17 sýslumenn, 43 lögréttumenn og bændur, svo og landþingsskrifari, klausturhaldari og bartskeri.

Friðrik III

Friðrik III. Danakonungur 1663.

,,Og að þessum eiðum unnum og aflögðum gerði lénsherrann herra Henrich Bjelke heiðarlegt gestaboð og sæmilega veizlu öllum þar saman komnum og stóð hún fram, á nótt með trómetum, fiðlum og bumbum, fallstykkjum var þar og skotið, þ.remur í einu og svo á konungsskipi sem lá í Seilunni, rachetter og fyrværk gekk þar þá nótt, svo undurfm gegndi”. (Fitjaannáll)

Á þinginu voru ritaðar bænaskrár til konungs um að fá að halda fornum lögum og réttindum, áréttuð fátækt landsins og nýjum álögum hafnað., Ekki var minnst á einveldi í bænaskránum.
Með Kópavogsfundi minnkaði vald Alþingis. Konungur tók í ríkari mæli til sín löggjafarvaldið og styrkur embættismanna konungs á Bessastöðum jókst.

Þingstaðurinn í Kópavogi

Kópavogur

Kópavogur – Þingstaðurinn; skilti.

Land Kópavogsbæjar var áður í Seltjarnarneshreppi hinum forna. Mörk hans voru á milli Kollafjarðar og Skerjafjarðar og allt til fjalla.
Frá gildistöku lögbókarinnar Járnsíðu 1271 var sett í land Kópavogs hreppaþing og þriggja hreppa þing fyrir Seltjarnarneshepp, Álftaneshrepp og líklega Mosfellssveit.
Á þingstaðnum í Kópavogi gengu dómar sýslumanna í héraði og var þá dómstigið fyrir neðan Öxarárþing. Dómabækur Gullbringusýslu, þ.m.t. Kópavogsþings eru nokkrar til í Þjóðskjalasafni, sú elsta frá 1696.
Eldri vitnisburðir um Kópavogsþing en sjálfar dómabækurnar eru fáeinir til. Elstu þekktu ritaðar heimildir eru frá 1523. Þá fékk Hannes Eggertsson hirðstjóri forvera sinn Týla Pétursson dæmdan og tekinn af lífi eftir ránsferð Týla og flokks hans um Bessastaðagarð í átökum um völd og embætti.

Friðrik II

Friðrik II. Danakonungur 1581.

5. apríl 1574 gaf Friðrik II Danakonungur út opið bréf um að Alþingi skyldi flutt á þingstaðinn í Kópavogi. Þessi tilskipun, var líkt og margar aðrar, hundsuð af Íslendingum.
Síðustu aftökurnar í Kópavogi fóru fram 15. nóvember 1704. Þá var hálshöggvinn Sigurður Arason og drekkt Steinunni Guðmundsdóttur frá Árbæ fyrir morðið á manni Steinunnar, Sæmundi Þórarinssyni.
Þjófnaðarmál frá 1749 er síðast þekkti dómurinn á Kópavogsþingi. Þing var sett í Reykjavík árið 1751 og þar með lýkur sögu þinghalds í Kópavogi þar til embætti bæjarfógetans í Kópavogi var stofnað 1955. Lægra dómstigið var á ný í Kópavogi uns lög um héraðsdóma tóku gildi 1992 og Héraðsdómur Reykjaness í Hafnarfirði var settur.
Þegar Landsréttur var stofnaður með lögum frá 2016 var hann settur í Kópavog, en hann er næst æðsta dómstig í landinu.

Systkinin frá Hvammkoti

Kópavogur

Kópavogur – minnismerkið um systkinin frá Hvammkoti.

Sunnudaginn 1. mars 1874 voru þrjú systkin á heimleið frá Dómkirkjunni í Reykjavík. Þau þurftu að fara yfir lækinn á vaði nálægt þessum stað. Lækurinn var bólginn vegna leysinga og hættulegur yfirferðar.
Tvö systkinanna drukknuðu í læknum.
Þau hétu Þórunn Árnadóttir, 18 ára, Árni Árnason 15 ára.
Sigríður Elísabet Árnadóttir 17 ára komst lífs af.
Blessuð sé minning þeirra.

Gert á 140. ártíð, 1. mars 2014, Kópavogsbær og Sögufélag Kópavogs
Minnisvarðinn stendur í Kópavogsdal, móts við Digraneskirkju.
Kópavogslækurinn lætur ekki mikið yfir sér að sumarlagi þegar allt er í blóma, en að vetrarlagi gat hann verið hinn versti farartálmi, enda á köflum bæði djúpur og vatnsmikill. Hvammkot (Fífuhvammur) var austan við lækinn.

Guðmundur H. Jónsson (1.8.1923-22.11.1999) – Guðmundarlundur

Kópavogur

Kópavogur – Guðmundarlundur; minnismerki um Guðmund H. Jónsson.

Heiðursvarði um Guðmund H. Jónsson, fyrrverandi forstjóra BYKO. Heiðursvarðinn til umfjöllunar að þessu sinni var
reistur til heiðurs Guðmundi H. Jónssyni, stofnanda og forstjóra byggingarvörufyrirtækisins BYKO, sem lést árið 1999. Varðinn stendur í fallegum lundi sem ber nafn hans, Guðmundarlundi í Kópavogi.
Lundinn afhentu Guðmundur og fjölskylda hans Skógræktarfélagi Kópavogs árið 1997 og er hann um 6,5 hektarar að stærð. Guðmundur og fjölskylda hófu skógrækt á svæðinu árið 1967, sem þá var illa gróinn berangur og náðu undraverðum árangri.
Guðmundarlundur er núna vöxtulegur skógur þar sem byggð hefur verið upp afar aðgengileg útivistaraðstaða.
Heiðursvarðinn er gjöf frá BYKO og var afhjúpaður við hátíðlega athöfn árið 2003 þegar útivistaraðstaða var tekin í notkun á svæðinu og það opnað formlega fyrir almenningi. Nú er þetta afar vinsælt útivistarsvæði fyrir Kópavogsbúa og aðra. -Jón Geir Pétursson

Brjóstmyndin er eftir rússneskan listamann.
Minnisvarðinn stendur í Guðmundarlundi.

Sr. Gunnar Árnason (1901-1985)

Kópavogur

Kópavogur – minnismerki um sr. Gunnar Árnason og fr. Sigríði Stefánsdóttur.

Hér stóð hús Sigríðar Stefánsdóttur og sr. Gunnars Árnasonar sem var fyrsti sóknarprestur í Kópavogi (1952-1971)

Sr. Gunnar Árnason þjónaði Bústaðaprestakalli frá 1952 en hafði aðsetur í Kópavogi. Árið 1964 var Kópavogsprestakall skipt út úr Bústaðaprestakalli og varð sr. Gunnar fyrsti prestur prestakallsins, alltaf með aðsetur í Kópavogi. Minnisvarðinn er á grunni húss hans rétt ofan Vogatungu í Kópavogi.

Ólafur Kárason

Minnismerki um Ólaf Kárason er við Smiðjuveg gegnt Íspan. Á stöplinum er skjöldur. Á honum stendur:

Hjá lygnri móðu í geislaslóð
við græna kofann
hann sá hvar hún stóð hið fríða fljóð
fráhneppt að ofan.

Kópavogur

Kópavogur – minnismerki um Ólaf Kárason.

Mitt er þitt og hjá mér áttu heima
víst skaltu öllum veraldar sorgum gleyma.

Á hann leit hún æskuteitu
auga forðum
það var kvöld í sveit og hún kvaddi hann veit ég kærleiksorðum.
Mitt er þitt og hjá mér áttu heima
víst skaltu öllum veraldar sorgum gleyma.

Inst í hjarta augað bjarta
og orðið góða
hann geymir sem skart uns grafarhúm svart
mun gestum bjóða.
Mitt er þitt og hjá mér áttu heima
víst skaltu öllum veraldar sorgum gleyma. -H.K.L.

Norrænn vinalundur

Kópavogur

Kópavogur – minnismerki við Norrænan vinarlund.

Lundurinn var gróðursettur í tilefni af 100 ára afmæli Norræna félagsins á Íslandi 2022. Við hann er skjöldur á steini. Á skyldinum stendur:
Saman erum við sterkari – Norræna félagið.

Lundurinn er í Fossvogsdal, neðan við Álfatún í Kópavogi.

Þótt lundur þessi geti ekki talist stór að umfangi umfaðmar hann fjölmargar ólíkar trjátegundir frá öllum Norðurlöndunum, þ.m.t. Grænlandi og Færeyjum. Vonandi eiga græðlingarnir eftir að fá að dafna í framtíðinni og standa saman sem tákn um vindáttu hinna norrænu þjóða.

Agnar Kofoed-Hansen 1915-1982

Kópavogur

Kópavogur – minnisvarði um Agnar. Kofoed Hansen við Sandskeið.

„Sviffljúga er þó að mínum dómi fegursta íþrótt sem til er. Manni líður aldrei betur. Maður leitar eins og fuglinn að heppilegum loftstraumi að bera sig – og ferðin er hljóðlaus; aðeins kliðurinn í vængjunum. [A.K-H. Á brattann. Jóhannes Helgi skráði.]

Agnar Kofoed Hansen fæddist í Reykjavík 3. ágúst 1915. Ungur fékk hann áhuga á flugi og fór til flugnáms í Konunglega Danska Sjóliðsforingjaskólanum og útskrifaðist þaðan 1935. Þær flugvélategundir sem Agnar flaug á námsárunum voru Avro Tutor, Heinkel 8 og DH Moth.

Kópavogur

Kópavogur – skjöldur á minnismerkinu.

Árið eftir að náminu lauk, var Agnar flugmaður hjá Det Danske Luftfartselskap. Þar flaug hann flugvélum af gerðinni Fokker FXII. Veturinn 1937 starfaði hann hjá Wideröe í Noregi og flaug Waco flugvélum Hann tók próf í næturflugi og flaug þá JU 52 flugvél frá Berlín til Parísar.

Agnar var aðalhvatamaður að stofnun Svifflugfélags Íslands og Flugmálafélagsins 1936. Hann var einnig aðalhvatamaður að stofnun Flugfélags Akureyrar 1937, og fyrsti flugstjóri þess og framkvæmdastjóri frá 1937 til 1939. Félagið keypti flugvél af gerðinni Waco YKS-7, TF-ÖRN og ávalt nefnd Örninn. Hún kom til landsins 1938.

Agnar lagði mikla vinnu í að leita að, og kortleggja hentuga lendingarstaði á Íslandi og notaði til þess flugvél af gerðinni Klemm KL-25E.

Agnar var lögreglustjóri í Reykjavík frá 1940 til 1947, síðan flugvallastjóri ríkisins 1947 til 1951. Hann var ráðinn flugmálastjóri 1951 og gegndi því embætti til dauðadags 23. desember 1982.

Kópavogur

Kópavogur – lágmynd af Agnari á minnisvarðanum.

Frumkvöðulsstarf Agnars var mikið, bæði á sviði flugsins og lögreglumála.
Með stofnun Flugfélags Akureyrar árið 1937 kom hann af stað samfelldum flugrekstri á Íslandi, sem enn er í örum vexti og teygir sig nú langt út fyrir landsteinana.

Með aðstoð sinni við stofnun svifflugfélaga, lagði Agnar grunn að flugnámi fjölda íslendinga, sem síðan sköpuðu nýja stétt atvinnuflugmanna í landinu. Og sem flugmálastjóri lagði hann grunninn að flugþjónustu eins og við þekkjum hana í dag, þar sem alþjóðasamskipti eru í heiðri höfð og öryggi í fyrirrúmi.

Agnar ritaði fjölda blaðagreina og flutti fyrirlestra um flugmál og miðlaði þannig af sinni miklu reynslu og þekkingu á flugmálum til samtíðarmanna sinna við uppbyggingu þessa nýja atvinnuvegar sem var í sköpun og hefur haft mikla þýðingu fyrir þjóðina.

Brjóstmyndin er eftir Sigurjón Ólafsson.

Minnisvarðinn stendur við miðstöð svifflugs á Sandskeiði.

Stúpa á Hádegishólum
Stúpa við Lindakirkju! Á Hádegishólum, fyrir aftan Linda

Kópavogur

Kópavogur – minnismerki; stupa.

kirkju, stendur stúpa sem reist var árið 1992. Elstu tegundir tilbeiðslustaða búddadóms eru svokallaðar stúpur sem eru litlar byggingar reistar til að minna á Búdda og kenningar hans. Hátt í annað hundrað manns af ólíku þjóðerni og trú komu að gerð stúpunnar. Einkennisorð stúpunnar á Hádegishólum eru jákvæðni, friður, viska og kærleikur.

Á skilti, skrúfað á grágrýtisbjarg, við stúpuna má lesa: „Lýsandi innri stupa – Stupa er byggð á erfðavenju, sem má rekja til Budda sem lifði fyrir 2500 árum.
Þessi stupa nefnist að stíga niður frá Tushita. nafngiftin kemur frá atburði, þegar hugljómuð vera kom frá heimi sem kallast Tushita til að hjálpa lífverum jarðarinnar að losna undan oki hverskonar óhamingju og þjáningu með því að leiðbeina þeim hvernig öðlast megi hamingju og hugljómun.

Kópavogur

Kópavogur – minnismerki; stupa.

Stupan táknar hug sem hefur verið hreinsaður af öllum neikvæðum eiginleikum og takmörkunum og hvar ríkir hamingja og friður.
Stupa er táknræn fyrir leið til visku og kærleika.
Stupa býr yfir lækningamætti og hefur eiginleika til að umbreyta neikvæðri orku í jákvæða í nærliggjandi umhverfi.
Þessi stupa er tileinkuð alheimsfriði, fórnalömbum stríðs og sjúkdóma hvar sem er í heiminum. Að friður og farsæld megi ríkja á Íslandi og allar lífverur megi feta braut innri þroska og kærleika.
Stupan er byggð af listamönnum, sem tilheyra mismunandi trúarbrögðum og þjóðernum“.

Heimildir:
-https://eirikur.is/minnisvardar/vesturland/kopavogur-minn/
2006 Agnar Kofoed-Hansen | Flugsafn Íslands

Kópavogur

Kópavogur – Minnismerki um Guðmund H. Jónsson í Guðmundarlundi.

Kópavogur

Við hinn gamla Kópavogsþingstað á Kópavogstúni eru tvö skilti. Á öðru er fjallað um „Þingstaðinn“ og á hinu „Kópavogsfundinn 28. júlí 1662“. Á skiltunum má lesa eftirfarandi texta:

Þingstaðurinn

Kópavogur

Kópavogur – þingstaðurinn.

„Land Kópavogsbæjar var áður í Seltjarnarneshreppi hinum forna. Mörk hans voru á milli Kollafjarðar og Skerjafjarðar og allt til fjalla.

Frá gildistöku lögbókarinnar Járnsíðu 1271 var sett í landi Kópavogs hreppaþing og þriggja hreppa þing fyrir Seltjarnarneshrepp, Álftaneshrepp og líklega Mosfellssveit.

Á þingstaðnum í Kópavogi gengu dómar sýslumanna í héraði og var þar dómstigið fyrir neðan Öxarárþing. Dómabækur Gullbringusýslu, þ.m.t. Kópavogsþings, eru nokkrar til í Þjóðskjalasafni, sú elsta frá 1696.

Eldri vitnisburðir um Kópavogsþing ern sjálfar dómabækurnar eru fáeinir til. Elstu þekktu ritaðar heimildir er frá 1523. Þá fékk Hannes Eggertsson hirðstjóri forvera sinn Týla Pétursson dæmdan og tekinn af lífi eftir ránsferð Týla og flokks hann um Bessastaðagarð í átökum um völd og embætti.

Friðrik II

Friðrik II. Danakonungur 1581.

5. apríl 1574 gaf Friðrik II. Danakonungur út opið bréf um að Alþingi skyldi flutt á þingstaðinn í Kópavogi. Þessi tilskipun var, líkt og margar aðrar, hunsuð af Íslendingum.

Síðustu aftökurnar í Kópavogi fóru fram 215. nóvember 1704. Þá var hálshöggvin Sigurður Arason og drekkt Steinunni Guðmundsdóttur frá Árbæ fyrir morðið á manni Steinunnar, Sæmundi Þórarinssyni.

Þjófnaðarmál frá 1749 er síðasti þekkti dómurinn á Kópavogsþingi. Þing var sett í Reykjavík árið 1751 og þar með lýkur sögu þinghalds í Kópavogi þar til embætti bæjarfógetans í Kópavogi var stofnað 1955. Lægra dómstigið var á ný í Kópavogi uns lög um héraðsdóma tóku gildi 1992 og Héraðsdómur Reykjaness í Hafnarfirði var settur.“

Kópavogsfundurinn 28. júlí 1662

Friðrik III

Friðrik III. Danakonungur 1663.

„Árið 1660 hófst breyting stjórnskipunar konungsríkisins Danmerkur til einveldis. Vald konungs jókst, erfðaréttur konungsættarinnar var lögbundinn og afnumin voru viss réttindi aðalsins. Áður var konungur kjörinn á stéttaþingum.

Friðrik III. Danakonungur var hylltur á Alþingi 1649, árið eftir að hann tók ríki. Þegar hann varð einvaldur 1661 skyldi staðfesta nýja eiða í löndum hans. Í þeim erindagjörðum kom Henrik Bjelke, aðmíráll og hirðstjóri á Íslandi, sumarið 1662.

Borist höfðu bréf til landsins þá um vorið um að sendir skyldu fulltrúar á Alþingi til að hylla Friðrik III. sem erfðakonung. Ekki var minnst á einveldishyllingu í þeim bréfum.

Hingaðkoma Bjelkes hirðstjóra tafðist um þrjár vikur, þinghaldi var lokið við Öxará þegar skip hans kom að landi í Skerjafirði.

Bjelke

Hendik Bjelke, hirðstjóri.

Eiðarnir voru því ekki undirritaðir á Alþingi. Fyrsta verk Bjelkes 12. júlí 1662 var að senda valdsmönnum bréf; þeirra var vænst við Bessastaði 26. júlí. Daginn eftir, sem var sunnudagur, skyldu eiðarnir undirritaðir.

Árni Oddsson lögmaður setti þing í Kópavogi mánudaginn 28. júlí 1662, degi of seint. Ástæða tafarinnar liggur ekki fyrir, en vísbendingar eru um að Árni og Brynjólfur Sveinsson biskup hafi mótmælt til varnar fornum réttindum landsins. „Var þann dag heið með sólskini“ segir í Vallholtsannál.

Á Kópavogsfundinum 28. júlí 1662 var Friðrik III. hylltur sem „einn Absolut sauverejn og erfðaherra“ þannig varð hann hvort tveggja einvaldskonungur og erfðakonungur. Undir eiðana rituðu 109 menn; báðir biskuparnir, báðir lögmennirnir, 42 prestar og prófastar, 17 sýslumenn, 43 lögréttumenn og bændur, svo og landþingsskrifari, klausturhaldari og bartskeri.

Kópavogur

Kópavogur – minnismerki um Kópavogsfundinn 1662.

„Og að þessum eiðum unnum og aflögðum gerði lénsherrann herra Hendrich Bjelke heiðarlegt gestaboð og sæmilega veislu öllum þar saman komnum, og stóð hún fram á nótt með trómetum, fíólum og bumbum; fallstykkjum var þar og skotið, þremur í einu, og svo á kongsins skipi, sem lá á Seilunni; rachetter og fyrværk gekk þar þá nótt, svo undrum gegndi.“ – Fitjaannáll

Á þinginu voru ritaðar bænaskrár til konungs um að fá að halda fornum lögum og réttindum, áréttuð fátækt landsins og nýjum álögum hafnað. Ekki var minnst á einveldi í bænaskránum.

Með Kópavogsfundi minnkaði vald Alþingis. Konungur tók í ríkari mæli til sín löggjafarvaldið og styrkur embættismanna konungs á Bessastöðum jókst.“

Kópavogur

Kópavogur – skiltin á Kópavogstúni.

 

Jóhannes Reykdal

Á tveimur upplýsingaskiltum, annars vegar við Austurgötu nálægt Læknum og hins vegar við „Reykdalsstífluna“ ofan Hörðuvalla er eftirfarandi texti um fyrstu almenningsrafveituna á Íslandi:

Verksmiðjan og fyrsta almenningsrafveitan

Jóhannes Reykdal

Trésmíðaverkstæði Reykdals við Lækjargötu.

Árið 1901 flutti ungur trésmiður til Hafnarfjarðar, Jóhannes J. Reykdal, en hann hafði þá nýlokið námi í iðn sinni í Danmörku. Til Hafnarfjarðar kom hann í þeim erindagjörðum að stofna hér trésmíðaverksmiðju en hann taldi að Hamarskotslækurinn væri ákjósanlegur aflgjafi fyrir vélar verksmiðjunnar.

Jóhannes Reykdal

Jóhannes Reykdal – Skilti um fyrsty almenningsrafveituna á Íslandi við Lækinn.

Í verksmiðju þessari, sem tók til starfa árið 1903, voru átta trésmíðavélar sem allar voru knúnar áfram af fallorku lækjarins. Það var þannig gert að 94 metra langur tréstokkur var reistur og í honum var vatninu veitt í vatnskassa sem áfastur var við húsið. Fallhæð vatnsins í kassanum var tæpir fjórir metrar og í honum var 11 kílóvatta hverfill. Frá hverflinum lá aðalöxullinn inn í kjallarann undir húsinu og þaðan lágu svo reimar upp í gegnum gólfið í tvær hreyfivélar sem aftur knúðu trésmíðavélarnar.
Jóhannes ReykdalÍ frétt Heimskringlu af stofnun verksmiðjunnar sagði meðala annars: „Lækurinn í Hafnarfirði er um aldir og áratugi búinn að renna út í fjarðarbotninn án þess að miðla nokkru af afli sínu mönnum til nytsemdar. Nú er mannshöfnin búin að beizla hann, og er það allrar virðingarvert. Vonandi, að ekki líði langar stundir þangað til hann vinnur fleiri þarfaverkin Hafnfirðingum til þarfa og sóma t.d. að lýsa upp hús og götur þar í bænum.“ Það var einmitt raunin, því árið 1904 keypti Jóhannes níu kílóvatta rafal frá Noregi og tengdi hann við ás nýs hverfils.
Jóhannes ReykdalÍ kjölfarið réð hann Halldór Guðmundsson rafmagnsfræðing, sem þá var nýkominn heim úr námi í Þýzkalandi, til að annast lagningu raflagnanna til húsa í nágrenninu og Árna Sigurðsson, sem síðar varð fyrsti rafvirki landsins, til að sjá um tengingu raflagnanna innanhúss. Í desember 1904 voru svo fyrstu rafljósin kveikt en þá var búið að leggja rafmagn í 16 hús auk fjögurra ljóskera í bænum. Á þess­um tíma bjuggu 1.079 manns í Hafnar­f­irði.
Meðal húsanna sem tengd voru má nefna Góðtemplarahúsið, barnaskólann, trésmíðaverkstæðið og íbúðarhús Jóhannesar Reykdals við Brekkugöötu.

Hörðuvallastöðin

Hörðuvallastöðin – skilti.

Fljótlega kom upp sú staða að rafstöð þessi náði ekki að sinna þeirri eftirspurn sem myndaðist og var ráðist í að reisa aðra, mun stærri, rafstöð við Hörðuvelli sem tekin var í notkun árið 1906. Trésmíðaverkstæðið seldi Jóhannes tólf Hafnfirðingum árið 19111 en þeir mynduðu sameignarfélag um reksturinn undir nafninu Dvergur, trésmíðaverksmiðja og timburverzlun Hafnarfjarðar, Flygenring & Co. og starfaði hún um áratugaskeið í bænum.

Hörðuvallastöðin
Jóhannes Reykdal
Fyrsta almenningsrafveita á Íslandi tók til starfa í Hafnarfirði árið 1904. Rafstöðin var við Austurgötu og í eigu Jóhannesar Reykdal. Vegna mikillar eftirspurnar eftir raforku í bænum árið eftir var ákveðið að reisa nýja og mun stærri rafstöð við Hörðuvelli. Jóhannes leigði landið af staðarhaldara á Görðum en auk stíflunnar lét hann reisa langan vatnsstokk og stöðvarhús með íbúð fyrir stöðvarstjórann og fjölskyldu hans. Hörðuvallahúsið er fyrsta rafstöðvarhús sem reist var á Íslandi.

Jóhannes J. Reykdal

Stytta af Jóhannesi J. Reykdal við „Reykdalsstífluna“ ofan Hörðuvalla.

Þessi nýja virkjun var tekin í notkun haustið 1906 og var gerð fyrir 37 kW en vegna vatnsleysis gat hún aldrei framleitt meira en 22 kW. Árið 1909 keypti Hafnarfjarðarbær báðar rafstöðvarnar af Jóhannesi og í kjölfarið var stofnuð rafljósanefnd. Rafmagnssölunni var þannig háttað á þessum árum að einungis var hægt að fá rafmagn á svokölluðum ljósatíma en hann var frá því að skyggja tók og fram til miðnættis á tímabilinu 15. ágúst til 15. maí. Á öðrum tímum var ekkert rafmagn að fá.
Árið 1914 var vatnsstokkurinn frá stíflunni og niður að stöðvarhúsi orðinn svo lélegur að ákveðið var að stytta hann og rafljósastöðin færð frá íbúðarhúsinu í nýtt hús er stóð mun nær stíflunni.
Fljótlega var ljóst að þessar tvær rafstöðvar nægðu ekki til að veita þá raforku sem Hafnarfjarðarbær þurfti á að halda. Margar leiðir voru skoðaðar en að lokum var brugðið á það ráð að reisa dísilrafstöð við Strandgötu og var það fyrirtækið Nathan & Olsen sem átti og starfrækti þá stöð. Það var árið 1922 sem sú stöð tók til starfa og sá hún bænum vestan lækjar fyrir rafmagni en eldri stöðvarnar sáu um þann hluta bæjarsins sem var sunnan lækjar. Þetta fyrirkomulag stóð stutt því að árið 1923 var neðri rafstöðin lögð niður og þremur árum síðar var svo komið að Hörðuvallastöðin gat ekki lengur séð íbúum sunnan lækjar fyrir nægilegu rafmagni. Var hún þá einnig lögð niður og eftir það sá stöð Nathan Olsen öllum bænum fyrir raforku.
Stöðvarstjórar við Hörðuvallastöðina voru Jón Þórðarson (1906-1908), Þórður Einarsson (1908-1914) og Árni Sigurðsson (1914-1926).

Sjá meira um Jóhannes og rafvæðinguna HÉR og HÉR.

Jóhannes Reykdal

Minnismerki um Jóhannes Reykdal og fyrstu almenningsrafstöðina við Austurgötu. Lista­verkið Hjól er eft­ir Hall­stein Sig­urðsson.

Urriðavöllur

Í fylgiblaði Morgunblaðsins 1997 skrifar Gísli Sigurðsson um, „Útivistaparadís í Urriðavatnslandi„:

Urriðavöllur

Urriðavöllur – grein Gísla Sigurðssonar í MBL.

„Urriðavatn er fallegt stöðuvatn, steinsnar norðan við Setbergshverfið í Hafnarfirði. Það blasir við af Flóttamannaveginum, sem svo hefur verið nefndur og Bretar lögðu á stríðsárunum. En framan frá sést vatnið í rauninni illa, því hraunið sem Reykjanesbrautin liggur yfir, hefur tekið á sig krók og runnið austur á bóginn og út í vatnið. Í hlíðinni norðan við vatnið má sjá tóftir eftir bæ og dálítill túnkragi hefur verið í kring. Þetta var sá bær sem hét Urriðakot til 1944, en síðan Urriðavatn. Þarna hefur verið búið með kindur og treyst á beit uppi í Urriðavatnsdölum og Heiðmörk.
Guðmundur Jónsson átti jörðina til 1939, en seldi hana þá sonarsonum sínum, Kára og Alfreð, sem síðar varð forstöðumaður Kjarvalsstaða. Síðasti ábúandi á Urriðavatni var hinsvegar Gunnlaugur Sigurðsson, sem bjó þar til 1957. Bærinn brann skömmu síðar.
Nokkru áður, 1946, hafði 30 manna hópur úr Oddfellowreglunni einast jörðina. Hún hafði verið auglýst til sölu og Reykjavíkurbær gerði tilboð, sem var hafnað. Þá var það að hópurinn úr Oddfellowreglunni bauð betur, svo kaupin gengu: Kaupverðið var 160 þúsund krónur. Síðar bættist við hópinn svo í honum varð 61 maður.

Urriðavöllur

Urriðavöllur.

Núna, eftir að Urriðavatnsland er orðið þekkt útivistarsvæði, hafa menn dást að þessari framsýni Oddfellowa. En þeir voru ekki með draumsýnir um það sem nú er orðið að veruleika þarna, heldur var annað sem stóð hug þeirra og hjarta nær á þeim tíma. Þeir höfðu fengið augastað á hlíðinni ofan við Urriðavatn fyrir sumarbústaði.

Þórður er einn úr hópnum
Þórður Kristjánsson, byggingameistari, er einn af fimm eftirlifandi félögum úr hinum upphaflega 30 manna hópi Oddfellowa sem keyptu landið. Hinir eru Björn G. Bjömsson, fyrrverandi forstjóri Sænska frystihússins, Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, fyrrverandi stórkaupmaður, Guðjón Sigurðsson múrarameistari og Jónas B. Jónsson fyrrverandi fræðslustjóri.

Urriðavöllur

Urriðavöllur.

Þórður er Dýrfirðingur að uppruna, en lærði húsasmíði á Ísafirði og fluttist síðan til Reykjavíkur 1943 og varð mikilvirkur í byggingastastarfsemi um sína daga byggði mörg stórhýsi, þar á meðal hótelið og aðrar byggingar Loftleiða á Reykjavíkurflugvelli, mörg hús Pósts og síma, flestar byggingar KR; þar á meðal KR-heimilið og svo byggði hann að sjálfsögðu blokkir.

Urriðavöllur

Urriðavöllur.

Þórður verður áttræður á þessu ári, og er í útliti og að líkamsburðum eins og alla dreymir um að geta orðið á þeim aldri, en fæstir ná. Hann kvaðst hafa dregið sig í hlé frá byggingarstarfsemi þegar hann var 75 ára.
„Þá nennti ég þessu ekki lengur og fór að leika mér“, segir hann.
Og hvað meinar hann með því?
Ójú, hann kynntist því aldrei í æsku að mega leika sér og á fullorðinsárunum hafði hann ekki tíma til þess. Núna leikur hann golf á hinum nýja golfvelli Oddfellowa í Urriðavatnslandi og nýtur þess. Hann sagði að það hefði verið afar skrýtin tilfinning í fyrstu að geta bara farið út og leikið sér. En hann kvaðst hafa kunnað því merkilega vel.

Urriðavöllur

Urriðavöllur.

En hvað varð um drauminn um sumarbústaðina? Um þær mundir var þjóðin í hlekkjum allskonar hafta. Til þess að kaupa bíl þurfti gjaldeyrisleyfi og til þess að fá að byggja sumarbústað þurfti fjárfestingarleyfi, – og öllu var úthlutað eftir pólitískum línum og geðþótta. Skömmtunarstjórunum þótti ekki nauðsynlegt að byggja sumarbústaði og fjárfestingarleyfi til þeirra fengust einfaldlega ekki.
Þá kom upp tvær hugmyndir, segir Þórður. Önnur var sú að selja landið í bútum og græða á því; hin var sú að gefa það Oddfellowreglunni. Það varð ofaná árið 1957 að gefa Urriðavatnsland og Oddfellowreglan þáði gjöfina með þökkkum.

Landamerki skilgreind 1986

Urriðakot

Urriðakot – landamerkjalýsing; örnefnaskráning Gísla Sigurðssonar.

Urriðavatnsland er í Garðabæ. Upphaflega náði það neðar í hraunið en Reykjanesbrautin liggur nú. En þegar Oddfellowreglan var búin að eiga landið í 40 ár, komst skriður á nýja þróun. Sá hluti landsins sem var norðan við Reykjanesbrautina, 5 ha., var seldur Garðabæ 1986. Í framhaldi af því tók stjórn Styrktar- og líknarsjóðs Oddfellowa undir stjórn Jóns Ótta Sigurðssonar að huga að nýtingu landsins. Í því augnamiði var unnið að bókum Urrðavatnsland sem út kom 1988. Ljóst var að efri hluti landsins yrði ekki byggður fyrr en eftir 2050 og Urriðavatnsdalir þar að auki á vatnsverndarsvæði. Í ljósi fjölbreyttrar náttúru og hrífandi fegurðar sem þarna er árið um kring, þótti augljóst að þarna gæti orðið útivistarparadís í næsta nágrenni við þéttbýlið á Reykjavíkursvæðinu. Eftir að sú ákvörðun var tekin að líta á Urriðavatnsland sem útivistarsvæði, fékk framkvæmdanefndin til liðs við sig fagmenn eins og Reyni Vilhjálmsson og Þráin Hauksson, landslagsarkitekta, og þá kom fljótlega upp hugmynd um golfvöll en jafnframt lögð áherzla á það að landið yrði almennt útivistarsvæði og girðing inn með Vífilsstaðahlíð var rifin niður.

Urriðakotsdalir

Urriðakotsdalir – úr fornleifaskráningu 2022.

Líknarsjóðurinn hefur lagt til efni í göngustíga, en unglingar í Garðabæ hafa unnið verkið. Nú eru komnir göngustígar inn eftir Búrfellshrauni, sem tengjast stígnum undir hlíðinni og hægt að ganga þar talsvert langan og framúrskarandi fallegan hring.
Inni í hrauninu hafði verið efnistaka, sem hætt var við, en útivistar- og leiksvæði útbúið í gryfjunni. Hún er nægilega stór til að rúma löglegan handboltavöll og þar verður púttvöllur að auki.
Í Urriðavatnsdölum var frá náttúrunnar hendi öll sú tilbreyting í landslagi sem þarf til þess að golfvöllur geti orðið í senn krefjandi og skemmtilegur. Leitað var til Hannesar Þorsteinssonar, líffræðings og golfvallarhönnuðar á Akranesi og á hann heiðurinn af skipulagi vallarins og útfærslu á teigum, brautum og flötum. Með honum unnu þeir Reynir Vilhjálmsson og Þráinn Hauksson.

Urriðavöllur

Urriðavöllur – minnismerki um gróðursetningu Oddfellowsfélaga.

Þriðji aðilinn sem þarna átti hlut að máli er Batteríið, arkitektastofa Sigurðar Einarssonar og Jóns Ólafs Ólafssonar, en þeir hafa teiknað framtíðar golfskála, sem um leið verður miðstöð útivistarfólks og liggja stígar frá skálanum út á stíginn í hrauninu.
Þegar skipulagstillögurnar lágu fyrir og höfðu verið samþykktar af þar til bærum yfirvöldum, voru þær gefnar út í veglegu riti og kynntar innan Reglunnar. Var strax mikill áhugi á stofnun golfklúbbs sem Oddfellowar ættu aðild að. Um leið og völlurinn var tilbúinn, hófu margir félagar í nýstofnuðum Golfklúbbi Oddfellowa að leika golf, sem aldrei höfðu snert á því áður, og uppgötvuðu nú, að Urriðavatnsdalir er unaðsreitur fegurðar og sú fegurð hefur farið vaxandi með ári hverju eftir því sem framkvæmdum miðar áfram.

Urriðavöllur

Urriðavöllur – Golfklúbburinn Oddur.

Síðar var stofnaður Golfklúbburinn Oddur, sem öllum er opinn. Golfvöllurinn verður með þeim beztu á Íslandi.
Ekki er það hrist framúr erminni að búa til boðlegan 18 brauta golfvöll. Venjulega tekur þ|ið áraraðir á Íslandi, en það er lýginni líkast hvað allt greri og dafnaði skjótt í Urriðavatnsdölum. Fyrst voru lagðar 9 brautir á golfvellinum og sáð í þær. Jafnframt voru teigar og flatir byggð upp og bráðabirgða golfskáli reistur.

Félagar hafa fjármagnað allt

Urriðavöllur

Urriðavöllur – gróðursetning.

Mörgum hefur þótt hraði framkvæmdanna ævintýralegur í Urriðavatnsdölum og því hefur verið slegið fram, að Oddfellowar hafi getað gengið í digra sjóði til þess í arna. En það er ekki svo. Félagarnir sjálfir hafa fjármagnað þetta, nema hvað Styrktar- og líknarsjóðurinn fjármagnar gróðursetningu á tijáplöntum, hönnun, svo og grasfræ á brautirnar. Tekin hafa verið lán vegna framkvæmda og ein stór er eftir: Golfskálinn, en hann verður látinn bíða; völlurinn gengur fyrir.
Bráðabirgðaskálinn hefur lítið eitt verið stækkaður, en draumurinn er að lítlu austar rísi nýr skáli, sem þjóni líka göngufólki.

Urriðavöllur

Urriðavöllur – gróðursetning.

Stofnfundur golfklúbbs Oddfellowa var haldinn 12. mai, 1990 og þá voru skráðir um 300 stofnfélagar. Nú eru klúbbfélagar yfir 500. Hraða framkvæmdanna má m.a. þakka hópi vaskra manna úr Oddfellowreglunni sem vann bæði við frágang hússins og þökulagningu á teiga, allt í sjálfboðavinnu. Þar að auki lögðu félagarnir á sig framkvæmdagjald og hafa á þann hátt fengizt 5-6 milljónir til framkvæmda. Óskar Sigurðsson, fyrsti formaður Golfklúbbs Oddfellowa, hefur unnið mikið og gott starf og einnig Gunnlaugur Gíslason, sem hefur verið formaður vallarnefndar frá upphafi og stjórnað framkvæmdum.

Urriðavöllur

Urriðavöllur – minnismerki um frumkvöðlana.

Byggð hefur verið vélageymsla, sem einnig hýsir aðstöðu fyrir starfsmenn og stjórn, en það veigamesta sem nú er á framkvæmdastigi er helmingur golfvallarins, sem kunnugir telja að sé ekki á síður á fögru og tilbreytingarríku landi en sá hluti sem við þekkjum, og jafnvel að svæðið þeim megin sé ennþá fegurra.
Í ágúst verður Oddfellowreglan á Íslandi 100 ára og stefnt er að því að opna þennan nýja hluta vallarins og leika á 18 brauta golfvelli á landsmóti Oddfellowa í sama mánuði.“

Við golfvöllinn er minnismerki um frumkvöðlana er stuðluðu að tilvist hans, en upplýsingar um það er hvergi að finna á vefsíðum Oddfellows. Þegar FERLIRsfélagi leitaði eftir staðasetningu þess við starfsfólk vallarsins virtist enginn vita um tilvist þess. Sporin eiga það til að fyrnast!?

UrriðavöllurUrriðakotshraun var friðlýst sem fólkvangur þann 10. janúar 2024 að beiðni landeiganda og Garðabæjar.

Heimildir:
-Morgunblaðið 27.03.1997, „Útivistaparadís í Urriðavatnslandi“, Gísli Sigurðsson, bls. 1-4.
-https://ust.is/nattura/natturuverndarsvaedi/fridlyst-svaedi/sudvesturland/urridakotshraun/

Urriðavöllur

Urriðavöllur – friðlýsing.

Garðabær

Eiríkur Þ. Einarsson, bókasafnsfræðingur, skrifaði um „Minnisvarða í Garðabæ„:

Alfred Wegener – Landrekskenningin

Alfred Wegener

Alfred Wegener – stöpullinn á Arnarnesi.

Minnismerki um Alfred Wegener og „Landrekskenningu“ hans er fremst á Arnarnesi

.Alfred Wegener setti landrekskenningu sína fram á árunum 1908-1912. Hann hafði veitt því eftirtekt að strendur meginlanda, einkum Afríku og Suður-Ameríku, falla býsna vel hvor að annarri. Hið sama átti við um jarðmyndanir og plöntu- og dýrasteingervinga á aðskildum meginlöndum.
Wegener dró þá ályktun að upphaflega hefðu öll löndin myndað eitt meginland, Pangeu. Hann hélt því jafnframt fram að á miðlífsöld, fyrir um það bil 200 milljónum ára, hefði Pangea byrjað að klofna, fyrst í tvo meginlandsfleka og síðar í fleiri og væru þeir á stöðugri hreyfingu, sums staðar hver frá öðrum, annars staðar hver að öðrum.
Samtímamenn Wegeners höfnuðu landrekskenningunni enda var fátt sem renndi stoðum undir hana í upphafi. það var ekki fyrr en um 1960 að hún fékk byr undir báða vængi. Það gerðist í kjölfar þess að breskum jarðeðlisfræðingum tókst að túlka rákamynstur sem fram kom við segulmælingar á Reykjaneshrygg. Síðan þá hafa fjölmargar niðurstöður mælinga á jarðskorpunni staðfest kenningu Wegeners enn frekar þannig að nú nýtur hún almennrar viðurkenningar.

Landrekskenningin

Alfred Wegener

Alfred Wegener – splatti á stöplinum; minnismerki um Alfred.

Stöpul þennan reisti þýski veðurfræðingurinn Alfred Wegener (1880-1930) í aprílmánuði 1930 ásamt fleiri stöplum með það fyrir augum að færa sönnur á landrekskenninguna sem hann setti fram á árunum 1908-1912. Landrekskenningunni var fálega tekið í upphafi. Nú nýtur landrekskenning Wegeners almennrar viðurkenningar. Alfred Wegener varð úti í rannsóknarleiðangri á Grænlandi 1930.

Í DV 2017 skrifaði Kristinn H. Guðnason grein með fyrirsögninni „1930 – Wegener reisir stöpul á Arnarneshæð„:
„Alfred Wegener var þýskur stjörnu- og jarðeðlisfræðingur sem stundaði rannsóknir á norðurhveli, sér í lagi á Grænlandi. Árið 1915 setti hann fram hugmyndir um landrek sem urðu forveri flekakenningarinnar sem hefur verið viðtekin síðan árið 1968. Wegener sá að meginlöndin Suður-Ameríka og Afríka passa saman eins og púsluspil og því hlytu meginlöndin að vera á hreyfingu.

Alfred Wegener

Alfred Wegener – minnismerki um „Landrekskenninguna“.

Árið 1930 kom Wegener við á Íslandi á leið sinni til Grænlands í rannsóknarleiðangur. Hann sótti hingað íslenska hesta sem gefist höfðu vel í slíkum leiðöngrum sem burðardýr. Þá fóru Wegener og fylgdarlið hans í æfingaferð yfir Vatnajökul. Stöpulinn á Arnarneshæðinni reisti hann til að prófa landrekskenningu sína en sambærilegur stöpull var síðar reistur á vesturströnd Grænlands. Ferðin til Grænlands endaði hins vegar illa því að Wegener og annar samferðamaður hans létust. Wegener, sem var fimmtugur, reykti mikið og hjartað þoldi ekki álagið í jöklaferðunum.
Samferðamaður hans týndist eftir að hafa grafið Wegener.

Sigurður Steinþórsson jarðfræðingur segir í samtali við DV að stöplarnir hafi ekki haft neina þýðingu því að þeir séu báðir á sama jarðflekanum. „Hann ætlaði að staðfesta kenningu sína með því að koma aftur mörgum árum síðar og mæla rekið.“

Alfred Wegener

Alfred Wegener.

Skömmu síðar kom annar þýskur fræðimaður, Bernauer að nafni, og gerði sams konar tilraun yfir gosbelti Íslands. „En stríðið kom og rótaði því fyrir þeim og í raun var engin hreyfing á norður-gosbeltinu á þessum tíma. Þetta gerist í rykkjum.“

Árið 1930 var ekki þéttbýli í kringum stöpulinn á Arnarneshæð. Nú stendur hann í mynni íbúðahverfis en margir gera sér ekki grein fyrir því að hann sé hluti af merkum jarðfræðitilraunum.“

Urriðavöllur

Urriðavöllur

Urriðavöllur – minnismerki um gróðursetningu.

Minnismerki um gróðursetningu við völlinn stendur á Urriðavelli í Urriðavatnsdölum milli golfskálans og vélahúss. Um er að ræða stuðlabergsstöpul með áletrunni „Lundur þessi er gróðursettur í tilefni af Landsmóti Oddfellowa 1994“.

Urriðavöllur
Minnismerkið er um frumkvöðla og er áfest bjargi við skúr ofan golfskálans.
Oddfellowar á Íslandi létu gera þessa plötu til heiðurs þeim Oddfellowum sem gáfu Oddfellowreglunni á Íslandi jörðina Urriðavatn.

Gísli Guðmundsson skrifaði um Urriðavatn (Urriðakot) í fylgiblað Morgunblaðsins 1997 undir fyrirsögninni „Útivistaparadís í Urriðavatnslandi“:
„Guðmundur Jónsson átti jörðina til 1939, en seldi hana þá sonarsonum sínum, Kára og Alfreð, sem síðar varð forstöðumaður Kjarvalsstaða. Síðasti ábúandi á Urriðavatni var hinsvegar Gunnlaugur Sigurðsson, sem bjó þar til 1957. Bærinn brann skömmu síðar.

Urriðavöllur

Urriðavöllur – minnismerki um frumkvöðlana.

Nokkru áður, 1946, hafði 30 manna hópur úr Oddfellowreglunni eignast jörðina. Hún hafði verið auglýst til sölu og Reykjavíkurbær gerði tilboð, sem var hafnað. Þá var það að hópurinn úr Oddfellowreglunni bauð betur, svo kaupin gengu: Kaupverðið var 160 þúsund krónur. Síðar bættist við hópinn svo í honum varð 61 maður.
Núna, eftir að Urriðavatnsland er orðið þekkt útivistarsvæði, hafa menn dást að þessari framsýni Oddfellowa. En þeir voru ekki með draumsýnir um það sem nú er orðið að veruleika þarna, heldur var annað sem stóð hug þeirra og hjarta nær á þeim tíma. Þeir höfðu fengið augastað á hlíðinni ofan við Urriðavatn fyrir sumarbústaði.

Urriðavöllur

Urriðavöllur – Minnismerkið um frumkvöðlana.

Þórður Kristjánsson, byggingameistari, er einn af fimm eftirlifandi félögum úr hinum upphaflega 30 manna hópi Oddfellowa sem keyptu landið. Hinir eru Björn G. Bjömsson, fyrrverandi forstjóri Sænska frystihússins, Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, fyrrverandi stórkaupmaður, Guðjón Sigurðsson múrarameistari og Jónas B. Jónsson fyrrverandi fræðslustjóri. Þórður er Dýrfirðingur að uppruna, en lærði húsasmíði á Ísafirði og fluttist síðan til Reykjavíkur 1943 og varð mikilvirkur í byggingastastarfsemi um sína daga byggði mörg stórhýsi, þar á meðal hótelið og aðrar byggingar Loftleiða á Reykjavíkurflugvelli, mörg hús Pósts og síma, flestar byggingar KR; þar á meðal KR-heimilið og svo byggði hann að sjálfsögðu blokkir. Þórður verður áttræður á þessu ári, og er í útliti og að líkamsburðum eins og alla dreymir um að geta orðið á þeim aldri, en fæstir ná. Hann kvaðst hafa dregið sig í hlé frá byggingarstarfsemi þegar hann var 75 ára; „þá nennti ég þessu ekki lengur og fór að leika mér“, segir hann.
Og hvað meinar hann með því?

Urriðavöllur

Urriðavöllur.

Ójú, hann kynntist því aldrei í æsku að mega leika sér og á fullorðinsárunum hafði hann ekki tíma til þess. Núna leikur hann golf á hinum nýja golfvelli Oddfellowa í Urriðavatnslandi og nýtur þess. Hann sagði að það hefði verið afar skrýtin tilfinning í fyrstu að geta bara farið út og leikið sér. En hann kvaðst hafa kunnað því merkilega vel.
En hvað varð um drauminn um sumarbústaðina? Um þær mundir var þjóðin í hlekkjum allskonar hafta. Til þess að kaupa bíl þurfti gjaldeyrisleyfi og til þess að fá að byggja sumarbústað þurfti fjárfestingarleyfi, – og öllu var úthlutað eftir pólitískum línum og geðþótta. Skömmtunarstjórunum þótti ekki nauðsynlegt að byggja sumarbústaði og fjárfestingarleyfi til þeirra fengust einfaldlega ekki. Þá kom upp tvær hugmyndir, segir Þórður. Önnur var sú að selja landið í bútum og græða á því; hin var sú að gefa það Oddfellowreglunni. Það varð ofaná árið 1957 að gefa Urriðavatnsland og Oddfellowreglan þáði gjöfina með þökkkum.“

Hausastaðaskóli 1792-1812

Hausastaðir

Hausastaðir – minnismerki um Hausastaðaskóla.

Minnismerki um Hausastaðaskóla er við aðkeyrsluna að Hausastöðum.

Jörðin Hausastaðir liggur á sjávarbakkanum yst eða vestast í Garðahreppi, þar sem Álftanesið hefur sig út í flóann. Þar er aflíðandi land mót suðri, lágur ás til norðurs, og inn til norðausturs hæðardrög og holt, en til vesturs opinn flóinn, og sér suður um ströndina allt til Garðskaga. Þar var útræði.

Þessi staður var valinn fyrir hinn fyrsta heimavistarbarnaskóla á landinu, sem jafnframt var um skeið eini starfandi barnaskóli landsins.

Hausastaðaskóli

Hausastaðaskóli um 1800.

Árið 1793 var byggt skólahús á Hausastöðum. Það var timburhús, 15 álnir á lengd og 8 álnir á breidd, í 7 stafgólfum. Skólastjóri var Þorvaldur Böðvarsson, sálmaskáld og kunnur merkismaður frá Mosfelli í Mosfellsdal.

Þessu fyrsta barnaskólahúsi landsins er svo lýst við úttekt árið 1806, að það sé “afþiljað umhverfis í hvolf og gólf með fjalagólf yfir allt, svo nær sem grjótlögðu stykki fyrir framan skorsteininn.”

Hausastaðaskóli

Hausastaðaskóli – tóftir.

Börnin, sem þangað voru send, voru snauðust af hinum snauðu, – það voru börnin úr hópi þeirra, sem sveitarstjórnirnar seldu lægstbjóðanda á uppboði sveitarómaga, – það voru vonarpeningar þjóðfélagsins. Þau, sem verið höfðu á flækingi, eignuðust nú heimili og áttu vinum að fagna.
Sumarið 1812 voru áhöld skólans og innanstokksmunir seldir á uppboði, og hljóp það allt á rúma 24 rd. Skólinn hafði starfað í 18 ár, hinn eini barnaskóli landsins á þeirri tíð, og þar af einn vetur hinn eini starfandi skóli í landinu.
Börnin, sem verið höfðu í skólanum, voru send hvert á sína sveit, og heitið meðlagi með þeim úr Thorkelliisjóði. [Lengri útgáfa á Ferlir.is, sjá HÉR, HÉR og HÉR.]

Minnisvarðinn var reistur 18.10.1978.

Heilsuhælis-félagið

Garðabær

Garðabær-minnismerki; Vífilsstaðir.

Framan við Vífilsstaðaspítala eru þrír uppistandandi stuðlabergsstandar, bundnir saman með keðju. Framan við minnismerkið er skjöldur. „1906 – Heilsuhælis-félagið. Berið hvers annars byrðar. Heilsuhælisfélagið var stofnað 19. nóvember 1906 að forgöngu Guðmundar Björnssonar landlæknis og félögumhans í Oddfellowreglunni Ingólfi. Mikil og almenn samstaða var meðal þjóðarinnar um þetta verkefni. Fjórum árum síðar þann 5. september 1910 var Vífilstaðahælið vígt. Vífilsstaðahælið 1910“.

Undir skildinum er annar skjöldur: „Gefandi Oddfellowreglan á Íslandi. Hönnuðir Jón Otti Sigurðsson – Þorkell Gunnar Guðmundsson. 5 september 2010“.

Heimild:
-https://eirikur.is/minnisvardar/vesturland/gardabaer-minn/

Hausastaðir

Hausastaðir – minnismerkið.

Blikdalur

Margrét Björk Magnúsdóttir skrifaði skýrslu um „Rannsóknir á seljum í Reykjavík“ fyrir Minjasafn reykjavíkur árið 2011. Þar fjallaði hún m.a. um selin átta í Blikdal:

Selstöður á Blikdal
Blikdalur

Yfirlit um sel í Blikdal.

Blikdalur er stór og grösugur dalur í vesturhluta Esju. Hann liggur frá Gunnlaugsskarði í austri og hallar í vestur að klettabelti við Tíðarskarð en dalsmynnið er skammt austan við það. Blikdalur var áður nefndur Bleikdalur sem gæti verið vegna þess að háhitavirkni náði norður yfir dalinn og gaf berginu ljósan lit en innar í dalnum er ljósleitt og grænsoðið móberg. Eftir dalnum rennur á sem nefnist Blikdalsá, en frá dalsmynni að sjó nefnist hún Ártúnsá eftir samnefndum bæ við mynni dalsins.

Blikdalur

Saubæjarsel í Blikdal.

Blikdalur hefur löngum verið nytjaður af bæjum á Kjalarnesi fyrir lausagöngu hesta til fjáruppreksturs, og selstöðu. Suðurhluti Blikdals lá undir kirkjustaðnum Brautarholti, en sá nyrðri undir kirkjustaðinn Saurbæ og skiptist hann um Blikdalsá.

Blikdalur

Blikdalur – herforingjaráðskort.

Blikdals er ekki getið beint í skriflegum heimildum fyrr en í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns.
Hinsvegar er Blikdalsár getið í máldaga Saurbæjarkirkju 1220, þar sem fram kemur kvöð um að halda skuli brú yfir ánna: „… bru scal hallda a blic dals a. þar milli fialls oc fjoru. ær sa vill sem j saurbæ byr.“ Þessi kvöð er áréttuð í Vilchinsmáldaga frá 1397 og í vísitasíum 1642, 1678, 1703 og 1724. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns er Blikdals getið við nokkra bæi varðandi fjárupprekstur og selstöðu. Blikdals er getið í landamerkjabréfi fyrir Saurbæ árið 1890. Þar segir: „Á Bleikdal eiga allar jarðirnar óskipta beit en slægjur þannig að Hjarðarnesin (bæði kotin) hafa slægjur fyrir ofan götu milli Heygils og Bolagils en Ártún fyrir neðan götu frá Seljagilslæk að Heygilslæk.“

Blikdalur

Sel í sunnanverðum Blikdal.

Nokkur örnefni í dalnum vísa til selja og þar eru sýnilegar sex selstöður neðan við Selfjall. Tvær selstöður eru í norðan Blikdalsár, Saurbæjarsel sem stendur við læk ofan um 120 m ofan við ána og Holusel sem er um 370 m innar einnig staðsett við læk rétt ofan við ána.

Guðrún Runólfsdóttir

Guðrún Runólfsdóttir – Matthías og Guðrún Runólfsdóttir, kona hans, höfðu verið í hjónabandi í 45 ár er hann lést. Guðrún lifði mann sinn í 3 ár, dó 6. nóvember 1923.

Saurbæjarsel hefur verið í notkun framundir árið 1874 en heimildir geta þess að Guðrún Runólfsdóttir frá Saurbæ hafi verið þar selráðskona. Hún varð árið 1875 þriðja kona skáldsins Matthíasar Jochumssonar sem bjó á Móum á Kjalarnesi. Á eyri sem liggur sunnan við ána eru fjórar selstöður sem voru í landi Brautarholts. Efsta og innsta selstaðan er væntanlega sú sem síðast hefur verið í notkun og gæti verið frá svipuðum tíma og Saurbæjarsel. Saurbær er kirkjustaður en kirkju er þar fyrst getið um 1200. Þegar Jarðabókin var gerð er Saurbær orðin annexía frá Brautarholtskirkju. Saurbær er á ofanverðu Kjalarnesi, á sjávarbakka niður af Tíðarskarði. Í Jarðabók Árna og Páls segir; „Fjárupprekstur, hestagöngu og selstöðu hefur jörðin í sínu eigin landi, þar sem heitir Blikdalur.“ Þar er segir einnig; „Selvegur lángur og erfiður.“ Á þeim tíma var jörðin í eigu Sigurðar Björnssonar lögmanns.

Ártún var kirkjujörð frá Saurbæ og stendur við mynni Blikdals við Ártúnsá. Í Jarðabók Árna og Páls segir: „Selstöðu og beit hefur jörðin frí á Blikdal um sumar og vetur í Saurbæjarlandi.“ Þáverandi eigandi Ártúns var Saurbæjarkirkja sem var í eigu Sigurðar Björnssonar lögmanns.

Ártún

Ártún 1967.

Hjarðarnes var byggt út úr Saurbæ og kirkjujörð þaðan. Bærinn er á sjávarbakka um 1,5 km í norðaustur frá Saurbæ rétt innan við Tíðarskarð. Í Jarðabók Árna og Páls segir; „Fjárupprekstur hefur jörðin frí á Blikdal í Saurbæjarlandi. Item selstöðu frí ibidem.“ Þáverandi eigandi Saurbæjarkirkja, sem var í eigu Sigurðar Björnssonar lögmanns.

Brautarholt

Brautarholtskirkja.

Brautarholt stendur á hæð sem kallast Kirkjuhóll á vestanverðu nesinu og vestur af bænum er lítið og mjótt nes, Músarnes við mynni Hvalfjarðar. Brautarholts er fyrst getið í Landnámabók og kirkja var komin þar árið 1200. Fram kemur í máldaga Brautarholtskirkju frá 1497-1518 að hún eigi hálfan Stardal á móti Þerneyjarkirkju. Í Jarðabók Árna og Páls segir: „Selstöðu og beitiland á kirkjan á Blikdal og liggur það til jarðarinnar, tekur nú mjög af sjer að gánga af skriðum og vatnsgángi.“ Þá var eigandi jarðarinnar prófastsekkjan Sigríður Hákonardóttir að Rauðamel eða sonur hennar Oddur Sigurðsson.

Blikdalur

Blikdalur – sel.

Borg var kirkjujörð frá Brautarholti og var um 175 m í norðaustur af klettinum Borg og 335 m suðaustur frá botni Borgvíkur. Í Jarðabók Árna og Páls segir; „Selstöðu á jörðin frí í Blikdal þar sem er Brautarholts kirkjuland.“

Mýrarholt var einnig kirkjujörð frá Brautarholti. Var í neðri túnum Brautarholts um 100 m suðaustur af Krosshól og 350 m vestur af svínabúinu í Brautarholti. Í Jarðabók Árna og Páls segir; „Selstöðu má jörðin hafa með frjálsu í Brautarholtskirkjulandi Blikdal.“

Hof var landnámsjörð sem er austur af Brautarholti og skammt vestan við Grundahverfi. Þar er sagt að til forna hafi verið hálfkirkja eða bænhús. Í Jarðabók Árna og Páls segir um selstöðu Hofs; „Menn töldu að Hof hafi haft í seljum í Blikdal þar sem heita Hofssel gömlu en ekki vissu menn hvort þar hefði verið haft frítt eða nokkuð greitt til Brautarholts.“ Þá voru eigendur jarðarinnar nokkrir Sr. Vigfús Ísleifsson prestur í Skaftafellssýslu og bróðir hans Magnús Ísleifsson lögréttumaður á Höfðabrekku í Skaftafellsþingi, Hallfríður Snorradóttir ekkja, Kolbeinn Snorrason Seljatungu í Flóa.

Lykkja var tíundi partur úr jörðinni Hofi, en á Hofi er sagt að til forna hafi verið hálfkirkja eða bænhús. Um Lykkju segir: „Selstaða segja menn að hjeðan hafi brúkuð verið á Blikdal þar sem heita Hofsel gömlu, hvort frí eða fyrir toll nokkurn til Brautarholts vita menn ekki.“

Blikdalur

Sel í Blikdal.

Við vettvangskönnun sumarið 2010 fundust að því er virðist fjórar selstöður á eyri sem er um sunnan Blikdalsár um miðjan Blikdal í Brautarholtslandi. Efsta selið er greinilega það sem síðast hefur verið notað en hin eru fornleg að sjá. Handan árinnar norðan megin eru tvær sýnilegar selstöður og fylgir örnefnið Saurbæjarsel þeirri fremri sem síðast var notað frá Saurbæ. Selið er við læk uppí miðri hlíð undir Selfjalli en hin Holusel er aðeins innar í dalnum og niður við Blikdalsá, einnig við læk. Beggja vegna í dalnum eru greinilegar götur að selstöðunum.

Sjá meira um Rannsókn á seljum í Reykjavík HÉR og HÉR.

Sjá skýrsluna í heild HÉR.

Heimild:
-Margrét Björk Magnúsdóttir, Rannsókn á seljum í Reykjavík – Reykjavík 2011, Minjasafn Reykjavíkur – Skýrsla nr. 159, bls. 11-14.

Blikdalsselin

Selin í Blikdal  þjappað saman – uppdráttur ÓSÁ.

Kaplakriki

Hér verður lítillega fjallað um húsbyggjendur og íbúðaeigendur á fyrstu árum Sjónarhóls í Hafnarfirði, eða allt þangað til þáverandi hús var fært FH að gjöf árið 1965.

Halldórsstaðir

Halldórsstaðir.

Í bókinni, „Að duga eða drepast“ (útg. 1962), sögu Björns Eiríkssonar skipstjóra og bifreiðastjóra sem Guðmundur Gíslason Hagalín skrásetti, er að finna merkilegar heimildir um lífið á Ströndinni rétt um og fyrir og eftir aldamótin 1900. Fyrsti kaflinn er afskaplega falleg lýsing, einskonar héraðslýsing á Vatnsleysuströndinni. Þar fangar sögumaður mjög vel andstæðurnar í landslaginu og en gerir sér um leið grein fyrir sögu byggðarinnar.

Í „Dánarminning“ um Eirík Jónsson í Morgunblaðinu 21. júlí 1922 segir:

Halldórsstaðir

Halldórsstaðir á Vatnsleysuströnd.

„Hinn 18. apríl 1922 drukknaði í fiskiróðri Eiríkur Jónsson á Sjónarhól í Hafnarfirði, ásamt syni sínum Jóni Ágúst og Ara B. Magnússyni, syni Magnúsar Jóhannessonar verkstjóra í Hafnarfirði. Eiríkur sál. var fæddur í Hátúni á Vatnsleysuströnd 2. júní 1857. Var hjá foreldrum sínum þar til hann var 7 ára, fór þá að Njarðvík og ólst þar upp til tvítugs aldurs; fluttist þá í vinnumennsku að Landakoti á Vatnsleysuströnd.
LandakotVar lausamaður á Þórustöðum í sömu sveit þar til hann kvæntist 20. júní 1889 eftirlifandi konu sinni, Sólveigu G. Benjamínsdóttur frá Hróbjartsstöðum í Hnappadalssýslu. Fluttist hann þá að Halldórsstöðum á Vatnsleysuströnd og bjó þar í átján ár, eða til ársins 1907, er hann fluttist til Hafnarfjarðar, og dvaldi þar síðan.

Þau hjón eignuðust ellefu börn; af þeim dóu tvö í æsku og tveir synir þeirra drukknuðu í sjónum uppkomnir, Benjamín Franklín, sem drukknaði við Vestmannaeyjar af skipinu „Argo“ 28. febr. 1910, og Jón Ágúst, er drukknaði með föður sínum, 20 ára gamall.

Grindavík

Opinn tíæringur.

Eiríkur sál. stundaði alla æfi sjómennsku og þó mestmegnis eða nær eingöngu á opnum fleytum; byrjaði þá atvinnu strax eftir fermingu og fór að verða formaður strax um tvítugs aldur. Stundaði hann fiskveiðar á opnum bátum alllengi á Austurfjörðum og víðar kringum landið, og var þá ætíð formaður, og þótti takast vel. Eiríkur sál. var kappsmaður til sjósóknar meðan heilsan leyfði, enda kappsmaður í flestu, sem hann lagði hug og höfn að. Hann átti oft við þröngan efnahag að búa, og var honum það víst oft áhyggjuefni, því hugurinn var mikill og skapið stórt.

Halldórsstaðir

Halldórsstaðir á kampinum – sjóhús.

Þau hjón áttu oft mjög erfitt með að framfleyta heimili sínu, meðan þau bjuggu á Halldórsstöðum, enda þá oft fiskileysi; einnig munu ef til vill þröngsýnisáhrif annara þar ráðandi manna oft og einatt hafa beiskjað þeim lífið meira en vera hefði átt. Aftur á móti mun efnahagur og geta hafa orðið meiri eftir að þau komu til Hafnarfjarðar, enda þótt heilsa væri þá farin að lamast allmikið. En kona hans var honum samtaka, og var og er enn dugnaðar og tápkona, enda hefir hún víst oft orðið að taka á slíku um ævina, eins og margar þær konur, er í slíkum sporum hafa staðið.

Sólveig G. BenjamínsdóttirEiríkur sál. byggði sjer gott og myndarlegt íbúðarhús í Hafnarfirði og vann mikið að því að laga í kringum það.“ – S.G.

Í Nýju kvennablaði árið 1947 er grein um „Sumarbarnið„, Sólveigu G. Benjamínsdóttur:
„Árið 1907 fluttist fjölskyldan til Hafnarfjarðar. Sýndu hjónin þá mikinn dugnað að koma sér upp húsi. Nefndu þau húsið sitt Sjónarhól. Hafði Sólveig svo lengi greiðasölu og hlynnti að mörgum fátækum, sjúklingum og sængurkonum. Nú eru sex börn hennar á lífi, öll landskunn, en þrjá syni sína og eiginmanninn missti hún í sjóinn.“

Skv. upplýsingum Byggðasafns Hafnarfjarðar liggur eftirfarandi fyrir um Reykjavíkurveg 22 (Sjónarhól):

Sjónarhóll

Reykjavíkurvegur 22 Sjónarhóll Eiríkur Björnsson sjómaður byggði húsið árið 1908. Hafði hann og fjölskyldan flutt til Hafnarfjarðar frá Halldórsstöðum á Vatnsleysu árið áður. Sólveig kona Eiríks fékk það hlutverk að velja húsinu lóð og valdi því stað á lóð er þá var í eigu Garðakirkju, með útsýni yfir fjörðinn og kom því nafnið að sjálfu sér, „Sjónarhóll“. Umsjón með byggingunni hafði Jóhannes Reykdal en yfirsmiður var Eggert Böðvarsson og lauk smíðinni á jólaföstu 1908. Var Egill Eyjólfsson málari fenginn til að mála skilti á húsið. Rauða rós á fagurgrænum stilk málaði Egill framan við heiti hússins. Síðar var það í höndum Árna Árnasonar málarameistara að endurmála skiltið en þá var það aðeins nafn hússins.

„Árið 1907 fluttu hjónin Eiríkur Jónsson (1856-1922) og Sólveig Benjamínsdóttir (1866-1949) frá Halldórsstöðum á Vatnsleysuströnd til Hafnarfjarðar með börn sín, sem þá voru orðin 7, en alls eignuðust þau 11 börn. Árið eftir hófust þau handa við að byggja sér hús. Sólveig hafði augastað á lóð við Reykjavíkurveg, gegnt fiskreitum Brydesverslunar (fyrir norðan og vestan þar sem Reykjavíkurvegur og Skúlaskeið mætast nú), en það land átti Garðakirkja. Sólveig lét sig ekki mun um að fara á fund Jens Pálssonar prófasts og falast eftir lóðinni. Hann tók bón hennar vel og lóðin varð þeirra. Á hæðinni sem húsið stóð var útsýni til allra átta og fékk húsið því nafnið Sjónarhóll og var númer 22 við Reykjavíkurveg. Á lóðinni var einungis ber klöpp, enginn jarðvegur og ekkert lausagrjót, því það hafði allt verið flutt yfir veginn á reiti Bydes.

Það varð því að flytja að allt grjót í sökkulinn undir húsið. Húsð var 10 álna langt og 9 á breidd og allmikill skúr við norðurendann. Niðri var eldhús og tvö herbergi — og önnur tvö uppi á loftinu. Bárujárn var á þaki. Milli laga í veggjum var troðið hefilspónum. Stór og góð eldavél var í eldhúsinu, og þótti sá hiti, sem frá henni lagði um húsið, nægileg upphitun, svo að ekki voru keyptir ofnar, enda þótti húsið verulega hlýtt.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – herforingjaráðsuppdráttur 1903.

Smíði hússins var lokið á jólaföstu 1908 og næsta vor fékk Sólveig Eyjólf Illugason málara til að mála nafn hússins á skilti sem sett var á húsið. Framan við nafnið málaði hann rauða rós á fagurgrænum stöngli. Þegar spjaldið var síðar endurmálað var rósinni sleppt.

Þann 18. apríl 1922 drukknaði Eiríkur ásamt Jóni Ágústi (1901-1922) syni sínum, sem var um tvítugt, og þriðja manni þegar bátur þeirra fórst í ofsaveðri.
Haustið 1946 hófst Björn Eiríksson (1894-1983), sonur Eiríks og Sólveigar, handa við að grafa fyrir nýju húsi í norðausturhorni lóðar Sjónarhóls.

Sjónarhóll

Sjónarhóll hinn nýi um 1980 – Á myndinni eru, talið frá vinstri: Árni Ágústsson (3. apríl 1922 – 6. apríl 2008), Bergþór Jónsson (15. júlí 1935-) og Björn Eiríksson (9. september 1894 – 7. maí 1983).

Þegar búið var að steypa kjallarann sumarið 1947 hófst Björn handa um að færa gamla „hólinn“. Hann byrjaði á því að rífa skorsteininn úr húsinu, annars færði hann það með öllu í. Um leið og hann færði það, sneri hann því þannig, að norðurendinn sneri út að götu, en suðurendinn gekk inn á nýsteypta planið, þar sem Björn geymdi timbrið. Gamla húsið náði út á miðjan þennan steypt flöt og var vesturhliðin á suðurlóðamörkunum, þá fyrst fékk hann nægjanlegt rými fyrir nýja húsið. Þetta var mjög erfitt verk, en þannig fór minnst fyrir því og nú gat gamla húsið staðið þar sem það var komið, meðan verið var að byggja það nýja. Gísli Guðjónsson var aðalmaðurinn og verkstjóri við flutninginn á gamla húsinu, en sjálfur tengdi Björn við það vatnið og frárennslið. Bjó svo fjölskyldan áfram í húsinu í heilt ár.

Sjónarhóll

Bautasteinn að baki Sjónarhóli – Á myndinni eru, talið frá hægri: Árni Ágústsson, Björn Eiríksson og Bergþór Jónsson.

Björn flutti í nýja húsið ásamt Guðbjörgu Jónsdóttur (1894-1993) konu sinni í júní 1948, en áður höfðu tvö barna þeirra hafið búskap í húsinu. Á sjómannadaginn 2. júní 1957 lét Björn reisa á lóð sinni stuðlabergsstein til minningar um föður sinn og þrjá bræður sína sem drukknuðu. Sá bautasteinn var síðar fluttur í Kaplakrika, þar sem FH-ingar hafa aðstöðu.

Í gögnum frá Byggðasafni Hafnarfjarðar kemur fram að árið 1948 hafi Magnúsi Óskari Guðbjartssyni (1921-1994) verið heimilað að flytja gamla Sjónarhólshúsið á lóð númer 5 við Bröttukinn í Hafnarfirði. Þar var húsið sett á steyptan grunn og stækkað nokkuð. Ekki er vitað hversu lengi Magnús átti húsið, en í manntalsskýrslu árið 1953 býr hann þar enn ásamt konu sinni Hallgerði Guðmundsdóttur (f. 1924) og fimm börnum þeirra ásamt öðrum hjónum með eitt barn, sem hafa væntanlega leigt íbúð þá sem Magnús auglýsti til leigu í húsinu í ágúst 1950.

Brattakinn 5

Brattakinn 5.

Þess má geta að Björn Eiríksson sótti skiltið með nafni hússins þegar það hafði verið flutt í í heilu lagi í Bröttukinn, því hann taldi að aðeins eitt hús ætti að bera nafnið, en nýr Sjónarhóll var þegar risinn við Reykjavíkurveg. Skiltið er enn til, því það hangir nú yfir innganginum í félagsheimili FH-inga, Sjónarhól í Kaplakrika, en Björn var mikill velgjörðarmaður félagsins. (Skiltið það ‘atarna er nú horfið en eftir stendur nafnið „Sjónarhóll“ með iðnaðarskrift ofan við innganginn.)

Björn Eiríksson

Bifreið með númerinu HF-1 og karlmaður í jakkafötum með kaskeiti. Maðurinn á myndinni er Björn Eiríksson, Björn á Sjónarhóli í Hafnarfirði.

Í Morgunblaðinu 1969 er grein um „Björn Eiríksson 75 ára – Að duga eða drepast„, eftir Guðmund Gíslason Hagalín. Þar segir m.a. um nefnda bók, sögu Björns um lífið og tilveruna:

„Ekki stóð á Birni til eins eða neins, og hófst með okkur ágæt samvinna.
Svo kom þá út á kostnað Skuggsjár Olívers Steins í Hafnarfirði bókin „Að duga eða drepast“, sem ég tel fyrir ýmsar sakir eina af merkustu bókum, sem ég hef skrifað.“

Og Guðmundur heldur áfram: “

Að duga eða drepast

Að duga eða drepast. Saga Björns Eiríkssonar skipstjóra og bifreiðastjóra, skráð eftir handriti hans, munnlegri frásögn og fleiri heimildum. Guðmundur Gíslason Hagalín skráði.

Til sönnunar því, að ekkert sé þar ofsagt hjá okkur Birni, vil ég láta þess getið, að hin merka kona, Sigríður Sæland í Hafnarfirði, skrifaði mér bréf, þá er hún hafði lokið lestri bókarinnar og sagði, að frekar hefði Björn, bróðir hennar, dregið úr en ýkt, en hún var elzt barna þeirra Halldórsstaðahjóna og mátti því bezt muna erfiðleika fjölskyldunnar.

…Þar hefur og Björn látið reisa íslenzkan steindrang til minningar um föður sinn og þrjá bræður. Eiríkur Jónsson og Jón Ágúst, sonur hans drukknuðu í fiskiróðri á báti Eiríks 18. apríl 1922. Benjamín Franklín við Vestmannaeyjar 28. febrúar 1910, einnig í fiskiróðri, og Bjarni fórst á Fieldmarshal Robertson í Halaveðrinu mikla 1925. Eru nöfn þeirra feðga, ásamt fæðingar- og dánardægrum höggvin á dranginn. Stendur þessi drangur ekki aðeins til minningar um þessa feðga, sem sjórinn hremmdi, heldur vitnar hann einnig ljóslega um eitt af styrkustu skapgerðareinkennum Björns Eiríkssonar, ræktarsemi hans og tryggð, sem ekki nær einungis til nánustu skyldmenna, heldur og allra, sem hann hefur bundið vináttu við.

Kaplakriki

Bautarsteinninn við inngang „Sjónarhóls“ í Kaplakrika.

Björn lítur svo á, að íþróttir séu ómetanlegur þáttur í uppeldi ungs fólks, og fyrir fáum árum ánöfnuðu þau hjónin Fimleikafélagi Hafnarfjarðar Sjónarhól eftir sinn dag, þar eð þau munu líta svo á, að þau hafi að fullu rækt foreldraskyldur við börn sín.“ – Guðmundur Gíslason Hagalín

Í Morgunblaðinu 1965 má finna fyrirsögnina „FH færð að gjöf glæsileg húseign við aðalgötu Hafnarfjarðar – Bjöm Eiríksson og kona hans gefa Sjónarhól við R.víkurveg Fimleikafélagi Hafnarfjarðar„:
„FH hefur verið færð stórkostleg gjöf, sem [varla á] sér hliðstæðu í sögu íþróttahreyfingarinnar hér á landi. Hjónin Björn Eiríksson og Guðbjörg Jónsdóttir hafa ákveðið að gefa FH húseignina Sjónarhól nr. 22 við Reykjavíkurveg í Hafnarfirði ásamt lóðarréttindum og tveim bilskúrum. Eignin verður félaginu til ráðstöfunar og hagnýtingar þegar það hjónanna er lengur lifir er fallið frá.

Húsið Sjónarhóll, sem verður þannig eign FH að þeim hjónum látnum, er sem kunnugt er öllum Hafnfirðingum nr. 22 við Reykjavíkurveg. Stærð hússins er 13 x 11 m. Húsið er tvílyft steinhús með risi og kvistum.

SjónarhóllMeð gjöf sinni vilja þau hjónin stuðla að því að sem flestum hafnfirzkum unglingum gefist kostur á að fá þá aðhlynningu og aðhald á uppvaxtarárum sínum, sem þau telja að félagsstarfsemi FH hafi veitt börnum þeirra. Ef stjórn FH telur rétt á sínum tíma að selja Sjónarhól ætti andvirði eignarinnar að verða drjúgur liður til að reisa veglegt félagsheimili FH á þeim stað sem stjórnin telur heppilegri. Þannig myndi gjöfin alla vega verða lyftistöng fyrir enn öflugri og víðtækari starfsemi félagsins.
Stjórn FH og allir þeir, sem hafa unnið að félagsstörfum FH á undanförnum árum eru hrærð ir yfir hinni rausnarlegu gjöf. Betri og varanlegri meðmæli er ekki hægt að hugsa sér.

Kaplakriki

Kaplakriki – áletrun á bautasteininum.

Þessi gjöf verður ómetanleg fyrir FH og íþróttahreyfinguna í Hafnarfirði, í þeirri merkingu að menn yngri og eldri fyllast krafti, sem mun koma fram í félagsstarfseminni á komandi árum, ekki hvað síst í að vera hvetjandi afl ungum sem gömlum.

Samþykki þeirra systkinanna fyrir gjöf foreldranna verður fagur og sterkur minnisvarði foreldra þeirra. Og það verður verk FH að framlag þeirra hjónanna verði til þess að hin unga æska Hafnarfjarðar verði aðnjótandi þeirra áhrifa, sem þau telja að hafi orðið svo mikilvæg fyrir uppeldi barna þeirra.“

Þeim hjónum, sem og afkomendum þeirra, hefur verið sýndur ýmiss sómi í vistarverum FH í Kaplakrika.

Halldórsstaðir

Halldórsstaðir – áletrun á málverki; „Halldórsstaðir, fæðingarheimili Björns Eiríkssonar – 9. 9. 1894“.

Í vistarverum Sjónarhóls í Kaplakrika hangir uppi málverk frá þeim hjónum af Halldórsstöðum á Vatnsleysuströnd. Á rammanum er skilti með meðfylgjandi áletrun; „ “Halldórsstaðir, fæðingarheimili Björns Eiríkssonar – 9. 9. 1894”.

Saga Eiríks, Sólveigar, Björns og Guðbjargar er vel þess virði að henni sé gefinn nánari gaumur – þótt ekki væri fyrir annað en ruglið í fornleifaskráningum og misvísunum í heimildum er varða fæðingarstað Björns að Halldórsstöðum. Sú saga þarfnast nánari og betri skýringa, þótt ekki væri fyrir annað en að teknu tilliti til þeirra miklu minja, sem þar er enn að finna….

Heimildir:
-Morgunblaðið, 21. júlí 1922, Dánarminning, bls. 3.
-Nýtt Kvennablað. 4. tbl. 01.04.1947, Sumarbarnið, bls. 5.
-https://husaflutningar.is/brattakinn-5-hafnarfirdi/
-Morgunblaðið, 9. sept. 1969, Björn Eiríksson 75 ára, Að duga eða drepast, bls. 24.
-Morgunblaðið 16. des. 1965, FH færð að gjöf glæsileg húseign við aðalgötu Hafnarfjarðar, bls. 2.
Halldórsstaðir

Halldórsstaðir á Vatnsleysuströnd. Málverkið hangir uppi á vegg í Sjónarhóli, aðstöðu FH í Kaplakrika.