Borgarkotssvæðið – Bakkastekkur – refagildra

Borgarkot

Gengið var frá Stefánsvörðu, um Borgarkotsstekk, að hlaðinni refagildru ofan við Borgarkotstúnið. Þaðan var gengið að Hermannavörðunni, fallinni og raskaðri á hól við austurlandamerki Borgarkots, stórgripagirðingunni gömlu er liggur við hann áleiðis upp frá ströndinni og síðan þaðan til veturs í átt að Kálfatjörn. Henni var fylgt niður að Þjófabyrgi og síðan vestur með ströndinni að Borgarkotstóttunum. Láfjöróttur sjórinn var spegilsléttur. Krían var mætt á svæðið og fór mikinn.

Borgarkot

Borgarkot – uppdráttur ÓSÁ.

Við skoðun á tóttum Borgarkots bættust þrjár tóttir við þær fjórar, sem áður höfðu verið skoðaðar. Ljóst er að þarna hafa verið mun meiri umsvif en álitið hefur verið. Sjórinn hefur brotið smám saman af ströndinni, en túnið hefur náð mun lengra fram á klappirnar líkt og annars staðar með ströndinni. Framan við þær er myndarleg vör, sem líkast til hefur verið notuð fyrr á öldum, en kotið fór í eyði á 18. öld þegar bóndinn var ranglega sakaður um að hafa skorið sauð Flekkuvíkurbónda á aðfangadag. Síðar mun hafa komið í ljós að sauðurinn var prestsins á Kálfatjörn. Vont að þurfa að missa allt sitt fyrir sauðsmisskilning. Lokið var við uppdráttargjörð af svæðinu.
Borgarkot var um tíma nýtt frá Viðeyjarklaustri (sjá fyrri umfjöllun um Borgarkotssvæðið). Klaustrið átti margar jarðir með norðanverðum skaganum, umhverfis Reykjavík og á sunnanverðu vesturlandi (sjá meðfylgjandi kort).
Vatnssteinar (Vaðsteinar) voru litnir augum, en á milli þeirra er fallegt vatnsstæði. Vestan þess er hlaðið gerði eða rétt. Vestan réttarinnar má sjá hleðslur er að öllum líkindum tengjast refaveiðum. Ein hrúgan ber þess ummerki að hafa verið refagildra. Sjá má hlaðinn „ganginn“ í henni ef vel er að gáð.

Borgarkot

Jarðeignir Viðeyjarklausturs á Reykjanesskaga.

Að þessari gaumgæfingu lokinni var strikið tekið suður heiðina í leit að svonefndum Bakkastekk. Hann fannst eftir stutta leit, greinilega mjög forn. Hann er á hraunhól allnokkuð suðsuðaustur af Bakka. Búið var að umbreyta austurhluta hans og hlaða úr honum refagildru. Þarna virðist því víða hafa verið átt við refaveiðar. FERLIR hefur skoðað um 70 hlaðnar refagildrur á Reykjanesi en ótaldar eru tvær mjög gamlar gildrur skammt ofan við gildruna ofan Borgarkots, gildra ofan við Húsatóftir, sem og tvær gildrur í Hraunsleyni ofan við Hraun og jafnvel gildra á Stóruflöt við Grindavík. Gildrurnar þarna virðast allar hafa sömu lögun og líklega gerðar af sama manninum. „Fellan“ virðist hafa verið hentugur steinn, en ekki slétt þunn hella, eins og t.d. í gildrunum á Selatöngum, við Húsfell, í Básum og undir Sundvörðuhrauni. Sumar heimildir segja gildruveiðar þessar vera komnar frá landnámsmönnum, en aðrir vilja meina þær yngri. Þær virðast þó að mestu hverfa eftir að byssur urðu almenningseign hér á landi. Þó er ekki óraunhæft að álíta að menn hafi haldið við einstaka refagildrum, einkum þeim sem voru á reglulegri leið þeirra, s.s. í beitarhús eða á rekagöngum.
Tiltölulega auðvelt væri að endurgera refagildrur líka þeim, sem fyrr voru notaðar, svo heillegar eru þær sem eftir standa.
Veður var frábært – sól og blíðviðri.
Gerður var uppdráttur af svæðunu (sjá mynd).
Frábært veður.

Borgarkot

Refagildra ofan Borgarkots.