Reykjanes
Sagt er að náttúran á Reykjanesi sé engu lík.
Reykjaneshryggurinn er kannski ekki þekktasta náttúruparadís Íslands en þar er hins vegar náttúran óviðjafnanleg. Reykjanesfjallgarðurinn í öllu sínu veldi með fjöll eins og Keilir, tignarlegt fjall í miðju hrauni, þar sem umhverfið milli fjallanna minnir helst á tunglið. Umhverfið er gráleitt og þar er gamalt mosavaxið hraunið í samspili við græn engi.

Stampar

Stampar – gígur.

Sandvík og svæðið þar í kring er skemmtilegt útivistarsvæði fyrir vini og vandamenn að koma saman og njóta náttúrufegurðar í góðu veðri. Þar er flott strönd þar sem m.a. er hægt að fara í strandblak og fleiri strandleiki ásamt ýmsu öðru.
Hafnarbergið er mjög tignarlegt og þar er fjölskrúðugt fuglalífið í miklum blóma í hrauninu og klettunum. Þar er einn besti fuglaskoðunarstaður á suð/vestur horninu og þar er stutt 40m gönguleið sem orðin er mjög vinsæl hjá göngufólki.
Ýmis hverasvæði eru á Reykjanesinu, s.s. Gunnuhver.

Skálafell

Gígur Skálafells – flugmynd.

Á Reykjanesvitasvæðinu eru ýmsar merktar gönguleiðir út á Reykjanestá og að Skálafelli og einnig frá Valarhnúk út á Önglabrjótsnef þar sem hægt er að fara í stuttar gönguferðir í fallegri og skemmtilegri náttúru en þess má geta að á Reykjanesinu er mikið um merktar gönguleiðir s.s. Prestastígur, Skipsstígur og Skógfellavegur sem eru mjög vinsælar leiðir.
Á Stafnesinu, frá Hvalnesi að Básendum sem er forn verslunarstaður frá tímum einokunarverslunar, má sjá rústir af húsum og festingar polla sem festir hafa verið í klappirnar þar sem verslunarskipin voru bundin.

Reykjanes

Reykjanes – uppdráttur ÓSÁ.

Bergið í Reykjanesbæ er einnig dæmi um fallegt útivistarsvæði og í góðu veðri er þaðan ómótstæðilegt útsýni til fjalla höfuðborgarsvæðisins.

Gunnuhver

Reykjanes – Gunnuhver.

Þetta eru bara lítil dæmi um náttúrufegurð Reykjaness og væri hægt að telja upp endalaust af stöðum, s.s. Bláa-lónið, Garðskaga þar sem er fjara með hvítum sandi og einnig mætti nefna Þórkötlustaðanes í Grindavík og Þorbjörn frá fjallinu sést vítt yfir vestanverðan Reykjanesskaga og jafnvel víðar.

Hvalsneskirkja

Hvalsneskirkja.

Viðeyjarborg

Í nokkrum FERLIRslýsingum er vitnað til umráða og yfiráða Viðeyjarklausturs á jörðum á Reykjanesskaganum. Til frekari fróðleiks og samhengis verður hér fjallað um upphaf Viðeyjarklausturs og umsvifa þess.

Viðey

Klaustrið á Viðey, sem var starfrækt milli 1226 og 1550, var af Ágústínusarreglu. Allavega mestmegnis. Ágústínusarreglan kennir sig við Ágústínus frá Hippó (354-430) en hann var einn kirkjufeðranna. Bréfið sem reglan sækir fyrirmynd sína í er mjög almennt og því mikill sveigjanleiki í túlkun. Hinsvegar, árið 1344, var Ágústínusarreglan afnumin og Benediktsreglu komið á. Sú regla kennir sig við Benedikt frá Núrsíu og er ein stærsta og fjölmennasta klausturregla í kaþólskum sið. Hún entist þó ekki og var Ágústínusarreglu aftur komið á 8 árum síðar. Nokkur Benediktsklaustur voru á Íslandi, eins og til dæmis Þingeyrarklaustur, Munkaþverárklaustur og nunnuklaustrið á Kirkjubæ.

“Klaustrið hefur trúlega verið sett á messudegi heilags Ágústínusar, 28. Ágúst 1225, en máldagi þess hefur svo sennilega verið kynntur á næsta Alþingi, sem ekki var fyrr en sumarið 1226. Þá var Snorri lögsögumaður og hefur því væntanlega lesið máldagann upp til þinglýsingar. Þorvaldur Gissurarson frá Haukadal var þar fyrst forstöðumaður án titils, en fyrsti spríor er Styrmir Kárason hinn fróði, lögsögumaður og mikill sagnamaður.

Magnús Gissurarson var biskup í Skálholti árin 1216-37. Af bréfi, sem hann ritaði bændum og prestum í Kjalarnesþingi árið 1226 um gjafir til hins nýstofnaða Viðeyjarklausturs, má ráða, að þeim höfðingjum Sunnlendinga hefur þótt það nokkur niðurlæging fyrir fjórðung sinn, að þar skyldi ekkert klaustur vera. Verður að telja víst, að oft hafi verið um þetta rætt. Ekki eru kunnar aðrar ástæður klausturstofnunarinnar en þær, sem Magnús biskup nefnir í bréfi sínu.
ViðeyFleira gæti þó hafa komið til. Á slíkum stað reis jafnan upp andleg miðstöð, sem hlaut að efla trúarlíf á svæðinu. Meinlæta- og kausturstefna var hið algenga svar kirkjunnar, þegar veraldarhyggjan varð of mikils ráðandi í hugum manna. Á síðustu áratugum 12. aldar höfðu íslenskum veraldarhöfðingjum og biskupum borist ítreklaðar áminningar frá erkibiskupi, sem og páfaboðskapur, þar sem höfðingjar voru alvarlega gagnrýndir fyrir siðlaust líferni. Þeir voru sagðir “lifa búfjárlífi” og ásakaðir fyrir margvísleg brot á kirkjuaga.
Meðal þeirra, sem þar voru nefndir, voru Jón Loftsson í Odda og Gissur Hallsson í Haukadal. Klausturstofnun í Viðey gæti verið eðlileg afleiðing þeirrar umræðu.
ViðeyjarstofaAllnokkrir fjármunir fóru út úr landsfjórðungnum í áheitum, sálugjöfum og fleiru, meðan menn gátu ekki leitað þörf sinni farvegar í þeim efnum í heimabyggð. Þá hefur höfðingjum litist það góður kostur að eiga á því möguleika á efri árum að “setjast í helgan stein” með hægu lífshlaupi. Um þessar mundir lögðust af skólarnir í Odda og Haukadal og gæti það einnig hafa verið hvati til klaustursstofnunarinnar.
Þorvaldur fékk sjálfdæmi eftir dráp sonar hans, Björns, á hendur Kolskeggi hinum auðga undir Eyjafjöllum, sem þá var talinn ríkastur manna á Íslandi. Fór hann eftir hinum stærstu gerðum, sem höfðu verið hér á landi. Kolskeggur andaðist 1223, áður en kom til þess að Þorvaldur fengi fébætur. Þorvaldur varð þá fjárhaldsmaður tengdardóttur sinnar, Hallveigar, sem var eini erfingi Kolskeggs, en hann var barnlaus.

ViðeyÞegar Snorri Sturluson hafði sagt sagt skilið við Herdísi Bersadóttur á Borg, kom hann suður um heiðar þeirra erinda að biðja Hallveigar sér til handa. Hét Þorvaldur honum liðsinni við kvonbænirnar og fékk á móti af fé Kolskeggs, sem hann þurfti til klausturstofnunar. Var þetta árið 1224. Keypti Þorvaldur þá Viðey og var þar efnt til klausturs. Vinátta þeirra Snorra og Þorvalds voru tryggð með því að Gissur, sonur Þorvalds, skyldi fá Ingibjargar, dóttur Snorra. Nefndur Gissur stóð síðar yfir höfuðsvörðum Snorra, þá fyrrum tengdarföður síns.
Þorvaldur virðist hafa verið fljótur að tengja saman sonarminninguna og stofnun heilags klausturs. Sú hugmynd var og þekkt á hans tíð að minnast látinna að andlegum leiðum.

Viðey

Viðeyjaklaustur – uppgröftur.

Hvað sem framangreindum ástæðum líður má segja að stofnun Viðeyjarklausturs hafi verið dýrmæt með tilliti til framtíðar íslenskrar menningar.“
Sturla Þórðarson segir, að Viðeyjarklaustru hafi verið sett að vetri en þeir Þorvaldur og Snorri gerðu samkomulag sitt 1225. Bæði annálar og saga Guðmundar biskups hins elsta telja, að Viðeyjarklaustur hafi verið sett 1226 og til þess árs er talinn máldagi klaustursins. Við það ár hafa sagnfræðingar miðað.

Viðey

Fornleifarannsóknir sýna að byggð var hafin í Viðey á 10. öld en árið 1225 var stofnað þar klaustur af reglu heilags Ágústínusar. Í meira en 300 ár var Viðeyjarklaustur mesta helgisetur í Sunnlendingafjórðungi af Skálholti frátöldu. Alþjóðleg hefð er fyrir því að klausturbyggingar myndi umgerð um klausturgarð. Túlka má rannsóknir á svæðinu á þann veg. Byggingar merktar A, B og C hafa verið grafnar upp og sýna langhús (stofu, skála og búr). Þar austur af er sennilega smiðjukofi (D). Aftur af langhúsinu eru lítið rannsökuð bakhús. Kirkjan (E) er tilgátuhús en fyrir myndir eru sóttar í kirkjur á Þingeyrum og á biskupsstólunum. Jarðsjármælingar sýna að fyrir framan Viðeyjarstofu og kirkju hafi verið byggingar, trúlega sjálf klausturhúsin (F), þau eru einnig tilgátuhús.

Snorri Sturluson átti bú beggja megin Viðeyjar, á Bessastöðum og á Brautarholti á Kjalarnesi. Hann dvaldi oft á Bessastöðum, en vitað er að hann dvaldi einnig í Viðey.
Áhrif Viðeyjarklausturs urðu mikil vegna aðstöðu þess og ríkidæmis. Eignaðist klaustrið m.a. flestar sjávarjarðir á norðanverðum Reykjanesskaganum mót jörðum Skálholtsbiskupsstólsins á honum sunnanverðum.

Viðey

Viðeyjarklaustur – tilgáta.

Í klaustrinu var ágætur bókakostur og voru þar iðkuð klausturleg fræði og skrifaðar bækur. Á síðmiðöldum, a.m.k., er líklegt að straumur pílagríma hafi legið til Viðeyjarklausturs á helstu hátíðisdögum kirkjuársins.
Eftir að siðbreyting gekk í garð í Danmörku tók Diðrik af Minden, umboðsmaður hirðstjóra konungs á Íslandi, Viðeyjarklaustur á hvítasunnudag 1539. Menn hans létu greipar sópa og misþyrmdu munkunum og lýstu eigur þess konungseign.

Jón Arason

Minnismerki um Jón Arason og syni hans í Skálholti.

Jón Arason, Hólabiskup, síðasti katólski biskup landsins, fór í herför suður og lagði m.a. Viðey undir sig, endurreisti klaustrið og lét byggja virki í kringum það. Eftir að siðbreytingin gekk endanlega í garð á Íslandi 1550 var klausturlíf í Viðey lagt af og jarðeignir klaustursins komust í eigu konungs.
Að honum látnum sama ár varð siðbótinni komið á um allt land og klausturlíf var endanlega lagt niður. Viðey varð að annexíu frá Bessastöðum og síðar aðsetur Skúla Magnússonar, landfógeta, sem lét byggja Viðeyjarstofu.

Viðeyjarstofa

Viðeyjarstofa er stórt, gamalt steinhús í Viðey á Kollafirði. Hún er elsta hús Reykjavíkur og jafnframt elsta steinhús Íslands, byggð á árunum 1753-1755 sem embættisbústaður fyrir Skúla Magnússon landfógeta.[1] Upphaflega átti húsið einnig að vera bústaður stiftamtmanns en af því varð þó ekki. Arkitekt Viðeyjarstofu var Daninn Nicolai Eigtved, sem meðal annars teiknaði Amalienborg í Kaupmannahöfn. Við hlið hússins stendur Viðeyjarkirkja, sem Skúli lét reisa nokkrum árum síðar.

Viðeyjarstofa er fyrsta steinhús landsins og var fullbyggð árið 1755.
Kirkjan var vígð árið 1774 og er hin næstelzta landsins, sem enn stendur.

Heimild m.a.:
-Erindi flutt í viðey á 750. ártíð Snorra Sturlusonar 23. sept. 1991 (Þórir Stephensen) – Lesbók MBL 17. desember 1991.

Viðey

Margar búræktunartilraunir hafa verið gerðar í Viðey. Ein þeirra átti sér stað sumarið 1861. Þá fékk August Thomsen nokkra héra með gufuskipi frá Færeyjum, og hleypti þeim lausum í Viðey. Héragreyin voru upphaflega frá Noregi en voru fluttir til Færeyja til manneldis þar sem það hafði gefist vel. Sú var ekki raunin hér á Íslandi. Í raun virðist sem nær ekkert hafi getað þrifist á eyjunni sem var flutt þangað, fyrir utan kúmen og gras. Virðist sem allar aðrar tilraunir hafi farið fyrir bý.

Hvaleyrarsel

Gönguleiðin um og í kringum Hvaleyrarvatn er tiltölulega greiðfær. Lagt er af stað frá bifreiðastæðinu syðst á Vatnshlíðinni, ofan brekkunnar norðan við Hvaleyrarvatn, gengið veginn niður að vatninu og inn á göngustíg til vinstri er liggur austan og sunnan þess. Þá er athafnasvæði Skógræktar Hafnarfjarðar og Húshöfði á vinstri hönd. Framundan er skáli Gildis-skáta, en sunnanvert við vatnið, hægra megin við stíginn, eru tóttir af seli, Hvaleyrarseli.

Hvaleyrarvatn

Hvaleyrarvatn – minjar (ÓSÁ).

Um Hvaleyrarsel segir eftirfarandi í samantekt Gísla Sigurðssonar um Líf og þjóðhætti í Hafnarfirði: “Selstöð átti Hvaleyri við Hvaleyrarvatn og þar höfðu bændurnir haft í seli frá fornu fari. Sér enn tættur seljanna við sunnanvert vatnið. Þau hjón Jón [Magnússon] og Þórunn [Sigurðardóttir (bjó á Hvaleyri 1866-1868 og í Gestshúsum1869-1973] héldu uppteknum hætti Hvaleyrarbænda og höfðu í seli á sumrum við Hvaleyrarvatn. Höfðu þau þar jafnan selsstúlku og smala.

Hvaleyrarvatn

Hvaleyrarvatn.

Annaðist selstúlkan mjaltir á málum og matargerð úr mjólkinni auk matargerðar fyrir þau og þjónustubrögð. En smalinn hélt fé í haga og annaðist heimflutning selsafurða. Nú bar svo til kvöld nokkurt, að er smalinn kemur á stöðul, lætur selstúlkan ekki sjá sig. Smalinn kvíar því ánum einn. Gengur síðan heim í sel að skyggnast eftir stúlkunni og finnur hana hvergi. Gengur því heiman frá seli og niður að vatni og vestur með því. Ekki hafði hann lengi gengið, er hann finnur stúlkuna rétt við vatnsbakkann heldur illa útlítandi. Var hún rifin á hol, eins og eftir óargadýr og traðk mikið þar í kring eftir hringmyndaða hófa stóra. Þóttist smalinn vita hvað valdið hafði dauða selstúlkunnar, því sögur hafði hann heyrt um að nykur væri í Hvaleyrarvatni og væri annað árið þar og hitt í Urriðakotsvatni. Smalinn varð flemtri sleginn og tók á rás heim til bæjar á Hvaleyri. Var brugðið við skjótt og lík selstúlkunnar sótt og það jarðsett að Görðum. Uppfrá þessu lögðust niður selfarir við Hvaleyrarvatn. En oft mátti sjá grábleikan hest á beit í Seljahrauninu eftir þetta. þau urðu endalok nykursins, að hann fraus í hel frostaveturinn mikla 1918”.

Hvaleyrarvatn

Stekkur á Selshöfða.

Auðvelt er að finna gömul sel á hraunsvæðum með því að svipast um eftir kennileitum. Þau voru oft við brunna, ár eða læki – og í nágrenninu er yfirleitt að finna kví, stekk, nátthaga og/eða náttskjól, auk graslendis umhverfis.

Hvaleyrarvatn

Hvaleyrarvatn um 1960 – Skátalundur nýbbyggður. Mynd ÓKG.

Við stærri sel smá sjá grjótgarða og jafnvel fjárhella. Selshúsin voru yfirleitt tvískipt, annars vegar vistarvera og geymsla og hins vegar eldhús. Allnokkur sel eru í nágrenni Hafnarfjarðar, s.s. Fornasel, Gjásel, Straumssel, Óttarstaðarsel, Lónakotssel og vestar Hvassahraunssel, Knarrarnessel og Brunnastaðasel, auk seljanna í Sogagýg og á Selsvöllum, en þar voru sel frá bæjum í Grindavík. Í Þrengslunum sunnan Selsvalla er Hraunssel frá Hrauni við Grindavík. Í nágrenninu eru auk þess nokkrar fallegar fjárborgir, s.s. Hólmsborg, Þorbjarnarstaðarfjárborg, Óttarstaðarfjárborg og Staðarborg í Vogum.

Hvaleyrarvatn

Stekkur í Seldal.

Þegar komið er við vesturenda Hvaleyrarvatns er beygt suður götuslóða, sem þar er, í átt að Seldal. Á hægri hönd er Selhraun. Þegar horft er til norðvesturs má sjá hraunhól í lægðarsvæði, en í hólnum er op til vesturs. Þar var tófugreni s.l. sumar.

Hvaleyrarvatn

Tjaldað við vesturenda Hvaleyrarvatns fyrrum. Mynd; EJ.

Götuslóðanum er fylgt upp vesturöxlina á Selhöfða (á vinstri hönd) og Seldalurinn á milli hans og Stórhöfða blasir við. Vel má sjá hversu landið hefur blásið burt, en Skógrækt Hafnarfjarðar hefur plantað talsverðu af trjám með vegslóðanum inn dalinn. Úr Stórhöfða kom Stórhöfðahraun vestan og sunnan við höfðann. Þegar komið er upp á Langholtsásinn er Miðhöfði í austur og Fremstihöfði í suðaustur. Gengið er beint áfram, út af veginum, niður ásinn að sunnanverðu og áfram með hraunkantinum framundan að Kaldárseli. Á leiðinni er fallegur hraunskúti undir klettavegg á vinstri hönd. Áður en komið er að Kaldárseli er gengið að farvegi Kaldár þar sem hún sést hverfa niður í hraunið, en áin er u.þ.b. 1100 metra löng í venjulegu árferði frá upptökum sínum í Kaldárbotnum, vatnsbóli Hafnfirðinga. Í þurrkatíð styttist hún til muna.

Hvaleyrarsel

Hvaleyrarsel – uppdráttur ÓSÁ.

Talið er að áin renni neðanjarðar þaðan sem hún hverfur niður í hraunið og komi undan Hvaleyrarhrauni í Hraunsvík austan Straumsvíkur. Hæðarmismunur á yfirborði Kaldárbotna og grunnvatnsins vestan við Kaldárhnúk er sem næst 20 m. Orsök þessa mismunar er misgengi er liggur eftir undirhlíðum og noðrur um Búrfell. Það hefur hindrað grunnvatnsstreymið, lokað leið þess vestur og þvingað vatnið upp á yfirborðið. Þegar langvarandi úrkoma hefur verið kemur vatnið líka upp á yfirborðið í Helgadal austan undir misgenginu, en eftir langvarandi þurrkatímabil hverfur Kaldá sjálf stundum alveg. Í Helgadal er talið að byggð hafi verið fyrrum.

Lambagjá

Vatnsleiðsluundirhleðsla yfir Lambagjá.

Þegar komið er að veginum er rétt að fylgja honum framhjá fjárréttinni og beygja þá til vinstri eftir gamla veginum að brekkunni. Áður en komið er að henni er beygt út af veginum til hægri, eftir Lambagjá. Gjáin er friðlýst. Í gjánni er komið að mikilli fyrirhleðslu þvert yfir hana. Þetta er hleðsla undir vatnsleiðslu, sem þarna lá áður fyrr. Fara þarf upp með hleðslunni, niður aftur hinum megin og fylgja gjánni. Á leiðinni er farið undir haft og upp hinum megin. Þegar komið er í enda þess hluta gjárinnar þarf að ganga upp úr henni, en enn ein sigdældin er handan hennar. Síðar verður fjallað um hella austar í hrauninu, en niðri í einum þeirra má auðveldlega sjá kristaltært bergvatnið við jaðar misgengisins, sem getið var um.

Hvaleyrarvatn

Sumarhús í Vatnshlíð um 1960.

Í austri má sjá Búrfell, Húsfell í suðaustri og Helgafell (338 m. yfir sjó) í suðri. Á milli fellanna eru Valahnjúkar.
Þegar þarna er komið er beygt til norðurs og gengið austur fyrir Klifsholtið með Smyrlabúðarhrauni. Þá er komið inn á gömlu Selvogsgötuna er var þjóðleiðin á milli Selvogs og Hafnarfjarðar. Hún er u.þ.b. 10 klst ganga frá upphafi til enda. Erfiðasti hluti leiðarinnar, en jafnframt sá fallegasti, er um Grindarskörðin (Kerlingaskarð). Um hana verður fjallað síðar.
Selvogsgötunni er fylgt til norðurs, með hraunkantinum, framhjá Smyrlabúð og niður að Hvatshelli og Ketshelli (Kershelli). Hlíðin framundan á hægri hönd heitir Setbergshlíð.

Hvatshellir

Hvatshellir – uppdráttur ÓSÁ.

Op Hvatshellis er í jarðfalli þegar halla fer undan og útsýni er yfir að hesthúsabyggðinni austan við Húshöfða. Fallega hlaðin varða stendur á barminum. Neðar má sjá graslendi er bendir til fjárhalds og þar í hraunhól er hellir (Ketshellir). Hann var notaður sem fjárból frá Setbergi meðan fjárbúskapur var rekinn þar og útbeit mest stundið. Ganga má í gegnum hellinn. Hleðslur er beggja vegna en auðveldlega er hægt að ganga þar í gegn ljóslaus. Hvatshellir er mun stærri. Á vetrum hanga bæði grýlukerti úr lofti og standa á gólfi hans. Í ljósadýrt getur verið mjög fallegt þar að líta.

(Sagnir eru um að Hvatshellir sé ofar, austar og norðar í hrauninu, og hafi tapast, en hann var áður samkomustaðar félagsskaparins Hvatar, en félagsmeðlimir eru sagðir hafa málað nafn hans gylltum stöfum á hvelfingu eða gólf hellisins, sbr. grein Ólafs Þorvaldssonar í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1943-48).

Lokaáfanginn er skáhallt yfir hraunið til norðvesturs að Kaldárselsvegi. Sú leið er einnig tiltölulega greiðfær ef fylgt er grónum lægðum, sem þar liggja. Loks er hægt að ganga veginn að bifreiðastæðinu á Vatnshlíðinni.
Góða ferð.

Hvaleyrarvatn

Hvaleyrarvatn.

Kaldársel

Gengið var um Kaldársel.

Kaldársel

Kaldársel – fjárborg á Borgarstandi.

Skoðað var gamla sel- og bæjarstæðið ofan við bakka Kaldár og síðan haldið yfir að Borgarstandi þar sem fjárborgin, stekkurinn og fjárskjólin voru skoðuð. Til hliðsjónar var höfð lýsing Ólafs Þorvaldssonar á aðstæðum í Kaldárseli.
Lengi vel mátti sjá veggi tóftanna í Kaldárseli, allt þangað til fólk fór að sækja í þá reglulegt grjótið og nota í annað. Húsaskipanina mátti rekja greinilega fram eftir 20. öld. Vandlega hlaðnir vegginir voru þegjandi vitni þess, að þar hefði fólk haft aðstöðu og búið endur fyrir löngu, stundum við misjafnar aðstæður.

Kaldársel

Kaldársel – sumarbúðir.

Kaldársel á sér ekki langa sögu sem fastur bústaður og saga þess er svipaður öðrum sögum smábýla á þeim tíma.  Bærinn stóð sem næst á miðjum túnbletti, örfáa metra norðan Kaldár.
Árið 1929 kom út í Reykjavík lítil bók með þremur kvæðum eftir séra Friðrik Friðriksson. Kver þetta nefnist “Útilegumenn”, og heitir annað aðalkvæðið “Kaldársel”. Friðrik var síðasti landnámsmaðurinn í Kaldárseli þar sem fyrir eru nú sumarbúðir KFUMogK. Kvæðið er svona:

”Eitt sinn ég kom
að Kaldárseli,
eyðistað
í ógna hrauni,
gömlu býli
og bæjarrústum:
einmana tóttir
eftir stóðu.

Reikaði ég einn
um rústir þessar, ríkti þar yfir
ró og friður,
unaðskyrrð djúp
við elfu niðinn
svölum gaf sál
og sæla gleði.”

Kaldársel

Kaldársel – stekkur.

Elstu heimild um Kaldársel er líklega að finna í Jarðabók þeirra Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1703. Þar segir í sambandi við lýsingu Garða á Álftanesi: “Selstöð á staðurinn þar sem heitir við Kaldá, þar eru bæði hagar og vatnsból gott”. Þetta telur Jarðabókin ein af hlunnindum Garðastaðar og er augljóst að staðurinn hafi átt landið, eða allt þar til Hafnarfjarðarbær kaupir það árið 1912. Garðar höfðu einnig um tíma selstöðu í Selgjá og jafnvel neðst í Búrfellsgjá. Ummerki þess má sjá enn í dag.
Þótt Kaldársel hafi um aldir verið eign Garðakirkju, ásamt miklu landflæmi til suðurs, austurs og norðurs frá Kaldárseli, er fátt heimilda um selfarir  Garðapresta við Kaldá.

Kaldársel

Kaldársel – fjárhellir.

Seltættur má finna í nágrenninu, s.s. í Helgadal. Hitt er vitað, að þar var haft í seli frá Hvaleyri á síðasta fjórðungi síðustu aldar (skrifað 1968), en leiguselstöð hlýtur það að hafa verið, þar eð elstu landamerki, sem vitað er um, liggja í a.m.k. eins km vegalengd vestur frá Kaldárseli. Meðan selfarir voru mikið tíðkaðar, urðu landlitlir bændur oft að fá leigt land eða skipta á hlunnindum undir sel sín hjá landríkari bændum, svo að einsdæmi hefði það ekki verið, þótt Hvaleyrarbóndinn leigði selstöð í Garðakirkjulandi.

Kaldársel

Kaldársel um 1930. Tóftir Kaldársels hægra megin við nýreist húsið.

Hvenær þessi selstöð hafi fyrst verið notuð frá Hvaleyri, er með öllu óljóst. Þegar litið er á bændatal Hvaleyrar um árið 1700 og það ástand, sem þar var í búskap manna, þegar jarðamat fór fram 1703, sést, að bændur hafa allir búið svo smátt, að varla er hugsanlegt, að selfarir hafi haft og síst svo langt í burtu sem í Kaldárseli, þar eð allgott selland og nóg vatn var helmingi nær Hvaleyri og auk þess í heimalandi, þar sem selstöðin var við Hvaleyrarvatn.

Kaldársel

Kaldársel – Gamla þjóðleiðin.

Vitað er að séra Markús Magnússon á Görðum lét byggja selstöðuna í Kaldárseli upp auk þess sem hann lét hlaða fyrir nálæg fjárskjól, hlaða fjárborgir o.fl. árið 1800 með það fyrir augum að viðhafa þar fjárhald allt árið um kring.
Það eina, sem nú er vitað með vissu um selfarir í Kaldárseli er að hjónin Jón Hjartarson og Þórunn Sigurðardóttir á Hvaleyri höfðu þar í seli. Jón keypti Hvaleyrina 1842. Hann mun hafa verið ríkasti bóndi, sem nokkru sinni hefur setið Hvaleyri. Jón dó árið 1866. Bjó Þórunn eftir það á Hvaleyri til 1873. Þegar Þórunn dvaldist í “Selinu” á sumrin, sem var þó ekki nema við og við, fór hún stundum með orf sitt og hrífu upp með Kaldá og sló þar á hólmum, það sem slægt var, einnig smámýrarbletti milli kvíslanna í Kaldárbotnum. Þegar Þórunn á Hvaleyri hætti selförum að Kaldárseli, lagðist selstöð þar niður með öllu, og má ætla, eftir því sem síðar kemur fram, að það hafi verið 1865 eða 1866.

Kaldársel

Húsin í Kaldárseli 1898 – Daniel Bruun.

Í húsvitjnarbók Garðaprestakalls sést, að ábúandi er kominn í Kaldársel árið 1867, og er svo að sjá sem það sé fyrsta árið, sem fólk sé þar til ársdvalar. Þessi ábúandi var Jón Jónsson, kona hans og tvö börn. Þau munu hafa verið þar tvö eða þrjú ár. Fátæk voru hjón þessi og bústofn þeirra mjög lítill. Hjálparstelpa var hjá þeim, Sigríður Jónsdóttir frá Setbergi. Hún skrifaði m.a. um dvöl sína í selinu sem og skráði raunsanna huldufólkssögu er þar átti að hafa gerst. Jón flutti síðan með fjölskyldu sína að Ási. Við brottförina lagðist búskapur niður í Kaldárseli í nokkur ár.
Árið 1867 er manntal tekið í Kaldárseli, og er það sennilega fyrsta árið, sem það er í byggð eftir brottför Jóns. Sá, sem þá er orðinn ábúandi, er Þorsteinn Þorsteinsson, upprunninn í Ölfusi. Þetta ár telur húsvitjunarbókin þar þrjár manneskjur í heimili, bóndann, ráðskonu og tökubarn. Árið eftir, 1877, eru þar fjórir í heimili og hefur þá bæst við vinnukona. Árið 1883 er Þorsteinn orðinn einn í Kaldárseli. Hann dó þar þremur árum seinna.

Steinhes

Kaldársel – Steinhes (Steinhús).

Þegar Þorsteinn fellur frá eru í Kaldárseli nokkrar byggingar og önnur mannvirki. Hús öll í Kaldárseli keypti Jón Guðmundsson bóndi að Setbergi svo og flestar kindurnar. Bæjarhús voru lítil en snoturlega byggð, og voru baðstofa, búr, eldhús og bæjardyr. Allar voru tætturnar vel hlaðnar úr sléttum, en nokkuð þykkum brunahellum og hvergio mold né torf á milli, svo sem venja var til um flestar byggingar þess tíma. – Danski höfuðsmaðurinn Daniel Bruun kom í Kaldársel árið 1897. Hann teiknaði upp húsakostinn og minjar í nágrenninu, auk þess sem hann tók ljósmyndir, sem birtust síðar í bók um ferðir hans. Lýsir Daniel allvel Kaldárseli og umhverfi þar. Hann segir m.a. um húsatætturnar, að „þær séu frábrugðnar flestum, ef ekki öllum þess konar byggingum hér á landi, þar sem þær séu byggðar úr grjóti einu saman“.

Kaldársel

Kaldársel um 1932. Tóftir Kaldársels uppfærðar  inn á ljósmyndina.

Aðalbústofn Þorsteins var sauðfé og eitt eða tvö hross, kú mun hann aldrei hafa haft þar. Að mestu mun Þorsteinn hafa haft fullorðna féð á útigangi, þar eð heyfengur var þar lítill. Fjárhús með jötu við annan vegg var norðvestan við bæjarhúsin, og mun hann hafa haft lömb sín þar. Fullorðna féð hafði hann við hella, sem voru skammt norður frá bænum, eða þá í fjárborginum uppi á Standinum, sem er nokkru nær. Önnur þeirra er nú horfin með öllu. Þá hafi hann fé sitt við helli í Heiðmörk, svonefndum Þorsteinshelli.
Þegar flytja átti Þorstein látinn til greftrunar að Görðum höfðu burðarmenn á orði, vegna þess hversu þungur hann var, að óþarfi væri að fara með karlfauskinn alla leið þangað og stungu upp á því að hola honum þess í stað niður einhvers staðar á leiðinni. Að Görðum varð hann þó færður að lokum og jarðsettur þar af séra Þórarni Böðvarssyni.

Þorsteinshellir

Fjárskjól við Selgjá (Þorsteinshellir).

Árin 1906 til 1908 var enn gerð tilraun til búsetu í Kaldárseli. Kristmundur Þorláksson frá Stakkavík í Selvogi fékk það til afnota og hélt hann þar afskekktri útigangshjörð sinni til haga og gjafar. Beitahúsavegur Kristmundar var langur þar sem hann var búsettur í Hafnarfirði og árferði óvenjuslæmt. Hann ætlaði að hlaða hús norðvestan við Kaldársel, en mýs lögðust á féð um veturinn svo fjárhaldi þar varð sjálfhætt.

Kaldársel

Kaldársel – tilgáta ÓSÁ.

Jón Guðmundsson, bóndi á Setbergi, keypti síðan Kaldársel með það fyrir augum að hafa þarf athvarf fyrir smala og aðstöðu fyrir ferðamenn á ferðum þeirra um upplandið, en húsunum var lítt við haldið svo þau grotnuðu smám saman niður.

Árið 1925 byggði K.F.U.M. hús í Kaldárseli. Eftirfarandi frásögn um upphaf sumarbúða K.F.U.M í Kaldársel birtist í Bjarma árið 1967:

kaldarsel-990

Kaldársel – sumarbúðir.

„Að aflokinni messu á Bessastöðum á annan hvítasunnudag árið 1921, var haldinn stuttur K.F.U.M.-fundur þar í kirkjunni. Þá var stofnaður sjóður, sem hafa skyldi þann tilgang að koma upp sumarbúðum fyrir K.F.U.M. Það voru tveir félagar úr K.F.U.M. í Hafnarfirði, sem lögðu fram hundrað krónur. Seinna mynduðu nokkrir félagsmenn í Hafnarfirði og Reykjavík samtök um þetta mál. Var ákveðið að koma saman fyrsta föstudag hvers mánaðar, annan hvern mánuð í Reykjavík en hinn í Hafnarfirði. Fundir þessir voru bænafundir, þar sem beðið var fyrir málefninu, og að því loknu var lögð fram fórn til sjóðsins. Allt fór þetta fram í mestu kyrrþey. Vorið 1925 var sjóðurinn orðinn nær fjögur þúsund krónur. Var þá farið að hugsa til framkvæmda og lét bæjarstjórn Hafnarfjarðar félaginu í té eignarhald á túninu umhverfis eyðibýlið Kaldársel.

Þetta sama vor var hafizt handa um að byggja skálann. Minnast ýmsir þess enn í dag, er við hin erfiðustu skilyrði varð að bera efnivið allan yfir hraunhálsinn þaðan, sem bifreiðir komust lengst, og upp að Kaldárseli.

Kaldársel

Kaldársel – fyrsti skáli K.F.U.M. Sjá má tóftir selsins að baki hússins.

Um miðjan júní var unnt að vígja skálann. Var þá í honum svefnsalur með 24 rúmum, auk þess lítið herbergi og eldhús. Síðar var hann stækkaður um helming, með því að byggð var fyrir vestan skálann álma til norðurs. Nú fyrir fjórum árum var enn hafizt handa um stækkun skálans, og eru vonir til, að henni verði nokkurn veginn lokið í sumar.

Við framangreinda framkvæmd var það sem eftir var af tóftum selsins í Kaldárseli, sem stóð suðaustan við fyrsta hús K.F.U.M. fram á sjöunda áratug síðustu aldar, fjarlægt. Fáir vita í dag hvar selið stóð ofan við árbakkann.

Saga Kaldársels er hvorki löng né viðburðarrík, en saga er það nú samt.
Frábært veður.

Heimild m.a.:
-Ólafur Þorvaldsson – Áður en fífan fýkur – 1968.
-Jarðabók þeirra Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1703 – III. bindi, bls. 180.
-Bjarmi 1967.

Kaldársel

Fjárskjól við Kaldársel.

Landnám

Hér verður áfram fjallað um landnám Íslands. Taka verður umfjöllunina með öllum þeim fyrirvörum, sem þegar hafa verið gerðir um landnám norrænna manna hér á landi, bæði fyrr og síðar.

Helgadalur

Helgadalur – tóftir.

Englar og Saxar höfðu hernumið Bretlandseyjar um 600 e.Kr. Samkvæmt Ulsterannálum hefjast ránsferðir víkinga til Bretlandseyja laust fyrir 800 e.Kr. Um 30% þeirra, sem námu land á Íslandi eftir 870, komu frá Bretlandi eða Suðureyjum ef taka á mið af Landnámu. Þórður skeggi, Helgi Bjóla og Örlygur gamli voru t.d. búsettir á Suðureyjum áður en þeir tóku sig upp ásamt “þrælum” og fluttust til Íslands. Helgi magri, sem nam Eyjafjörð, var gauskur, en hann var fæddur og uppaldinn á Bretlandseyjum og átti írska móður. Auður djúpúðga og fylgdarlið hennar kom frá Katanesi í Skotlandi.

Landnám Íslands

Landnám Íslands – Samúel Eggertsson.

Fundur Íslands hefur ekki verið sú tilviljun, sem margir vilja halda. Íbúar á norðvesturjöðrum Bretlands hafa eflaust mjög snemma séð ótvíræðar bendingar á náttúrunni um tilveru mikilla eyja og landa norðar og norðvestur í hafi. Sambúð víkinga og Kelta um nokkurt skeið fyrir landnám virðist einnig varpa ljósi á sumt í landnáms- og siglingasögunni. Víkingar stunduðu ekki eiginlegar úthafssiglingar, en á því vandasama sviði sóttu þeir þekkingu til Kelta.
Löngu á undan manninum námu fuglar hér land. Frá Skotlandi finnur fuglinn auðveldlega Orkneyjar og Hjaltland og einnig Færeyjar, Ísland og Grænland. Flestir farfuglanna koma frá Norður-Írlandi. Þar bjuggu Keltar löngu fyrir landnám Íslands. Vor- og haustferðir farfuglanna hafa varla farið framhjá Keltum.

Fornagata

Fornagata í Selvogi.

Á öldunum fyrir Víkingaöld voru Írar ein mesta lærdómsþjóð Evrópu. Þeir höfðu tekið kristni á 5. öld, en einangrast svo er hinir heiðnu Englar og Saxar lögðu undir sig England í kringum 600 e. Kr. Á 7. og 8. og 9. öld gerðust írskir og skoskir munkar miklir trúboðar og kennarar í Evrópu, bæði í Englandi, Þýskalandi og Frakklandi. Þeir hafa eflaust gert sér einhverjar hugmyndir um landið eða löndin, sem fuglarnir og ungar þeirra áttu endurkomu frá á haustin.

Hellir

Hellir landnámsmanna, Papa/Kelta, á Suðurlandi?

Veigamikil rök hníga að því að Írar hafi stundað landaleitir í norðvestri eftir daga Pýþeasar (þ.e. 300 f. Kr.) og gætu því vel hafa fundið Færeyjar og Ísland snemma á öldum. Skiljanlegt er þó að rústir eftir byggð þeirra eða annarra frumherja finnist hér engar, nema ef vera skyldu manngerðir hellar á Suðurlandi. Í sífelldum skorti á hleðsluefni rifu Íslendingar jafnan niður hverja rúst, sem nærtæk var og notuðu efnið í nýrri hús – aftur og aftur.

Keltar

Keltar – landvættir.

Til er skrifleg íslensk heimild um veru írskra trúmanna hér á landi, eftir að norrænir menn setjast hér að. Þá höfðu forfeður okkar umstaflað búðatóttum Íra og tínt allt, sem þar kann að hafa verið að finna. Ekki er að efa að Írar voru í Færeyjum fyrir norræna byggð þar. Heimildir um fund Íslands ganga einnig miklu lengra til baka. Landnáma hefst á á tilvitunun í Beda prest um eyland eitt, kallað Týli, sem á bókum sé talið 6 dægra signing norður frá Bretlandseyjum og einnig eftir lýsingu á sólargangi gæti vel átt við Ísland.

Íslandskort 1576

Íslandskort 1576.

Rit Beda prests, sem í er vitnað, er samið 703 eða 725. Þetta Týli eð Thulenafn gengur einnig í gegnum rit allt frá tímum Grikkja. Pýþeas siglir frá grísku nýlendunni Massalíu (nú Marseilles) um 300 f. Kr. til Bretlands og þaðan norður í Týli, sem gæti eftir lýsingunni að sumu leyti átt við Ísland.

Óbrennishólmi

Óbrennishólmi – garður.

Hrafna-Flóki tók með sér hrafna til að vísa sér veginn að landi. Með í för með honum var suðureyskur maður. Gæti það hafa verið tilviljun? Og varla fer Ingólfur út í óvissuna í leit að óþekktu landi, einkum ef hafðar eru í huga fyrri hrakningasögur Garðars og Naddoðs á og við landið. Ingólfur er sagður hafa haft með sér “þræla”, sem voru í raun Keltar. Var það vegna þess að þeir þekktu leiðina?
Þeir Ingólfur og Hjörleifur fóru fyrst til Íslands til að kanna nánar búsetumöguleika, sem talsverðar sögur gengu þá þegar af. Þeir létu sér nægja að hafast við í Álftafirði einn vetur. Staðsetningin er athyglisverð. Hann liggur á milli Papeyjar að norðan og Papafjarðar og Papóss að sunnan, eða í miðri papabyggð, að því er virðist.

Hjörleifshöfði

Hellir í Hjörleifshöfða.

Voru þeir svona hittnir, bráðókunnugir, á leiðina yfir úthafið mikla, að geta siglt beint á miðja papabyggðina, eða höfðu þeir ekki öllu heldur með sér Vestmenn eða mann, sem þekkti leiðina og hafði átt vinsamleg samskipti við Papana og talaði mál þeirra. Völdu þeir ekki einmitt þennan stað til þess að geta haft samskipti við þá menn, sem mest vissu um landið? Og hvað gat verið sjálfsagðara fyrir þá en að vingast við Papana, úr því að þeir höfðu í huga að setjast fáliðaðir að í sama landinu og slá eign sinni á nokkurn hluta þess.

Víkingar og Keltar höfðu lifað í friði saman í 1-3 kynslóðir þegar norrænir menn tóku að nema Ísland. Þegar til landnámsins kemur hafa Keltar haldið uppi siglingum hingað í allt að því öld og ef til vill lengur. Hvað er þá sjálfsagðara fyrir nýliðana að færa sér reynslu hinna í nyt, ráða sér vana menn á skip, þegar sigla á með sína nánustu út á úthafið stóra. Ingólfur hefur varla einungis treyst á mjaltakonur og sauðamenn til þeirra verka.

Húshólmi

Húshólmi – skáli.

Í reynsluferð þeirra Ingólfs um Álftafjörð ætti þeim félögum að hafa orðið ljóst að friðsamleg viðskipti við margfalt fjölmennari Íra voru þeim sjálfum fyrir bestu, ef þeir ætluðu á annað borð að setjast að í landinu. Hitt er annað mál, að þegar norrænum mönnum fjölgaði í landinu, hafa þeir sjálfsagt þrengt að byggð papanna, sem kusu þá heldur að hverfa á brott eða hætta ferðum hingað. Hliðstætt upphaf og þróun er margþekkt í samskiptum landnema víða um heim. Ekki þarf að fara lengra en til Norður-Ameríku (nærtækt dæmi) þegar hvíti maðurinn ásældist lönd indíána – fyrst vinsamleg viðskipti, en síðan rán og dráp.

Ingólfur Arnarsson

Stytta af Ingólfi Arnarssyni, fyrsta norræna landnámsmanninum, á Arnarhóli í Reykjavík.

Ingólfur valdi þann kost að setjast að vestan við svæði Íranna svo minni hætta væri á árekstrum. Suðausturhorn landsins lá best við landnáminu, en Ingólfur ákvað einnig að sníða hjá landnámi í Vestmannaeyjum, einu raunverulegu höfninni fyrir allri Suðurströndinni, ákjósalegum stað til fisk- og fuglaveiða og búskap fyrir allmarga bændur. Ástæðan gæti verið sú að Írar hafi þegar verið þar fyrir, enda byggðust eyjarnar seint af norrænum mönnum að sögn Landnámu. Írar voru jafnan nefndir Vestmenn og er það ekki ólíklegri ástæða til nafngiftar eyjanna en síðar saga um þræla Ingólfs, sem nefndir eru Vestmenn í landnámu. Þeir gætu hafa verið að flýja á náðir samlanda sinna, sem þar voru fyrir, eftir drápið á Hjörleifi. Á Suðurlandi eru líka víða manngerðir móbergshellar. Margir þeirra eru taldir hafa verið gerðir af Keltum, sbr. hellana á Hellum og í Landssveit.

Landnám

Landnám Íslands.

Ingólfur settist að í Reykjavík. Öll skynsemi mælir með því miðað við þáverandi aðstæður. Sagan um öndvegissúlurnar er jafn ólíkeg og margt annað. Við komu Ingólfs hafa fjörur og firðir verið þaktir rekaviði líkt og nú á Ian Mayen og því ógjörningur að finna tvo drumba þar innan um á allri slíkri leið. Hefur einhver reynt að ganga fjörur Suðvesturlands og líta í allar víkur og vik á þeirri leið? Og það með þeirra tíma skótau á fótum. Hins vegar má ætla að strandir Reykjanesskagans hafi litið örðuvísi út í þá daga og líklegt má telja að víðast hvar hafi verið greiðfærara, en á öðrum stöðum erfiðara yfirferðar, s.s. undir björgunum er nú liggja ofar í landinu. Hraun á sögulegum tíma hafa ummyndað landið og breytt útlínum þess og aðstæðum allnokkuð frá því sem þá var.
Búpeningur landnámsmanna óx með ólíkindum á fyrstu árum landnámsins. Tölulegar staðreyndir draga í efa möguleika á slíkum flutningum hingað til lands með þeirra tíma skipabúnaði.

Landnám

Siglingar forfeðra vorra.

Aðdragandi að norrænu landnámi hér á landi er sagnakennd og sögnin af fyrsta landnámsmanninum virðist vera arfsögn.
Með fullri virðingu fyrir fornleifafræðingum og öðrum er mikilvægt að benda á að þeir verða a.m.k. að gera tvennt til að leiða hið sennilega í ljós; þ.e. a) að gefa sér tíma til að leita og b) halda áfram að leita (grafa dýpra) þegar eitthvað finnst. Hætta er á að fræðingarnir hafi um of viðurkennda lýsingu af landnáminu til hliðsjónar þegar þeir skoða í jörð – og láta þar við setja. Ekki hætta – leitið lengur og grafið dýpra. Þessu fólki til stuðnings (því það þarf ekki bara skilning, heldur og bæði tíma og fjármuni) er því hér með komið á framfæri við löggjafarvaldið að verja nú fjármunum (umfram þá, sem þegar eru veittir úr Kristnitökusjóði) til rannsókna á „venjulegum“ minjum, ekki síst á afskiptasta svæði landsins hingað til – Reykjanesinu. Staðreyndin er nefnilega sú að allar minjar eru jafnmerkilegar. Þær, hver og ein, eru handritin, sem skrifuð voru með hinu daglega striti dugandi fólks.

Sjá meira um Landnám – aldur. Einnig Landnám II.

-ÓSÁ tók saman.

Húshólmi

Í Húshólma í Ögmundarhrauni.

Húshólmi

Hér er fjallað svolítið um landnám hér á landi. Taka verður þó skrifin með hæfilegum fyrirvara því sérfræðikunnáttu er ekki nægilega vel fyrir að fara.

Húshólmi

Húshólmi – stoðhola.

Elsta ritaða heimild um sögu Íslands er að öllum líkindum frásögn gríska landkönnuðarins Pýþeasar frá því um 300 fyrir Krist. Þar segir frá eyju í norðri er hann nefndi Thule. Lýsingar hans minna á Ísland. Hann heldur því fram að eyjan hafi þá verið fullbyggð fólki.
Írski menntamaðurinn Dicuil kappkostaði að skrifa um eyjuna Thule í landfræðiriti sínu Liber de Mensura Orbis Tarrae (Bók um mælingu jarðkringlunnar). Í því riti, sem talið er vera skráð um 825 e. Kr. fjallar hann um írska einsetumunka, sem flust hafa búferlum til eyjarinnar Thule þrjátíu árum áður eða undir lok 8. aldra. Rit hans hefur verið ein áreiðanlegasta heimildin um Ísland.

Húshólmi

Húshólmi – tóftir í Ögmundarhrauni.

Af skrifum Dicuil má einnig ráða að umræddir einsetumenn, papar, hafi ekki fundið landið fyrstir manna. Þvert á móti virðist sem vitneskjan um tilvist landsins hafi verið löngu þekkt og Írar hafi byrjað að sigla hingað mun fyrr. M.a. segir frá ferðum hins írska Brendans um 600 e.Kr. til Íslands og hvernig hann hitti einsetumanninn Pól (Paul). Hann nefndi eyjuna Ísan upp á gelísku. Einnig eru til heimildir um ferðir Rómverja til norðurhafseyja. Á síðustu öld fundust í fornleifauppgröftum á nokkrum stöðum hér á landi rómverskir peningar frá þeim tíma. Þeir gætu þó hafa borist hingað til lands allnokkru eftir útgáfudag.

Íslandskort 1576

Íslandskort 1576.

Bát Náttfara og ambáttar slitnaði frá skipi á ferð með landinu um miðja 9. öld. Bátinn rak að landi og hefur Náttfari lítið getað gert annað en að setjast hér að.

Húshólmi

Húshólmi – skálatóft.

Elstu íslensku heimildina um veru papa hér á landi er að finna í Íslendingabók Ara fróða Þorgilssonar, en þá merku bók ritaði hann á árunum 1122-1133 e.Kr. Þar segir svo frá: „Þá voru hér menn kristnir, þeir er Norðmenn kalla papa, en þeir fóru síðar á braut, af því þeir vildu eigi vera hér við heiðna menn, og létu eftir sig bækur írskar og bjöllur og bagla; af því mátti skilja að þeir voru írskir“. Ari ritaði bók sína 250 árum eftir komu norrænna manna og studdist því einungis við munnmælasögur. Þá var bók hans fyrst og fremst ætluð sem nokkurs konar „jarðarbók“ með ekki síst það hlutverk að festa í sessi ráðandi ættir þess tíma með hliðsjón af þáverandi skipulagi Alþingis.
Þótt fáar skýrar fornminjar hafi fundist um veru papa hér á Íslandi þá er óneitanlega gnægð af örnefnum með tilvísunum í einsetumunkanna. Nægir þar að nefna Papey á Austfjörðum, Papýli fyrir austan, Papafjörð í Lóni og talið er að Apavatn hafi upphaflega heitið Papavatn. Í fornum heimildum er þess einnig getið að á Kirkjubæ hafi papar búið áður en Ketill hinn fíflski, landnámsmaður, reisti þar bú. Þeirra er ekki getið eftir að norrænt landnám hófst hér á landi.

Húshólmi

Húshólmi – garður.

Mörgum hefur fundist skrýtið hversu bústofn norrænna landsnámsmanna óx ört skömmu eftir landnám þeirra þrátt fyrir tiltölulega fáar ferðir og fáar skepnur í hverri ferð. Til eru nokkrar tilvitnanir í Íslendingasögur þess efnis, s.s. sagan af Hafur-Birni og einnig landnámsmönnum í Hvalfirði. Talið er að Hjaltland hafi verið byggðar Keltum áður en norrænir menn tóku þær yfir, yfirtóku bústofninn og flæmdu eyjaskeggja á braut. Sama á við um Færeyjar. Ekki er ólíklegt að draga megi sömu ályktun um Ísland, enda stutt á milli eyjanna.
Þrátt fyrir að fornleifafræðingar telji að engar minjar sem fundist hafa hingað til sanni að papar hafi siglt hingað, hafa fundist þrjár litlar bronsbjöllur í heiðnum kumlum sem freistandi er að eigna írskum einsetumunkum.

Húshólmi

Húshólmi – skáli.

Þá nefnir Ari fróði bagla papanna, en baglar þessir hafa að öllum líkindum verið einfaldir göngustafir förumunka en ekki skreyttir biskupsstafir þótt bagall merki það nú. Loks hafa fundist krossristur í hellum víðs vegar um landið en ómögulegt er að tímaseta þær. Nú er unnið að rannsókn nokkurra þeirra á Rangárvöllum með hliðsjón af svipuðum hellaristum Kelta. Ef papar létu sér ekki nægja einfalda hellisskúta sem híbýli er mjög líklegt að skýli þeirra hafi verið einföld og látlaus. Þess háttar bústaði er því miður mjög erfitt að greina með fornleifarannsóknum. Þá er og líklegt að þeir, sem á eftir komu, hafi nýtt sér híbýli þeirra, sem fyrir voru, auk þess sem mjög líklegt er að sama grjótið hafi verið notað aftur og aftur í hleðslur nýrri eða endurnýjaðra húsa.

Húshólmi

Húshólmi – skáli.

Einnig ber á það að líta að lítið sem ekkert hefur verið gert að því að leita skipulega að fornminjum hér á landi, hvað þá fornminjum sem lítil tiltrú er á að hafi verið til staðar. Nógu erfitt er að greina hús frá því á 17. öld, eða fyrir 300 árum, hvað þá látlausa bústaði frá því 1200 árum fyrr.
Ef fyrstu víkingarnir sem hingað komu hafi hitt fyrir kristna og friðsama Íra má telja víst að heiðingjar hafi haldið uppteknum hætti í samskiptum sínum við þá; rænt og ruplað, hneppt í þrældóm líkt og Tyrkir síðar eða hrakið þá af landi brott. Það sætir því ekki furðu að hinn prestlærði Ari hafi reynt að skrifa sem minnst um papana.
Hús, sem hafa verið endurbyggð og enn standa, t.d. í Landssveit, hafa óyggjandi keltneskt toppbyggingalag. Fornar garðhleðslur eru líkar því sem þekktust á Írlandi.

Óbrennishólmi

Óbrennishólmi; fjárborg eða virki!?

Hringlaga hlaðnar fjárborgir hafa sama handbragð og þekktust á Írlandi. Má þar t.d. nefna fjárborgina í Óbrennishólma í Krýsuvík sem og garðhleðslur, grafreit og skála í Húshólma. Í dag má enn sjá móta fyrir u.þ.b. 70 fjárborgum á Reykjanesi einu, misjafnlega gömlum. Munir, sem fundist hafa í fornum gröfum, s.s. á Hafurbjarnastöðum í Garði, útiloka ekki að þar hafi fólk af keltneskum uppruna verið greftrað.
Fornar þjóðleiðir á hraunleiðum eru furðu mikið niðurgrafnar. Hraun runnu að hluta til yfir þær skömmu eftir norrænt landnám. Fleira mætt nefna. Það ætti því enginn að afskrifa alveg tilvist eldri forfeðra Íslendinga en þeirra er segir af norrænum mönnum í Landnámabók, enda benda blóðrannsóknir m.a. til þess að Íslendingar megi alveg eins rekja ættir sínar til Írlands en til Skandinavíu. Hins vegar er ljóst að fyrsti skráði landnámsmaðurinn hér á landi var norrænn.

-ÓSÁ tók saman.

Húshólmi

Húshólmi – uppdráttur ÓSÁ.

Selalda

Selalda er ofan við Heiðnaberg, sem er hluti Krýsuvíkurbergs. Víkin framan við Heiðnaberg heitir Hælsvík. Hæðin að austanverðu heitir Rauðskriða. Undir henni, við Hælsvík, var Ræningjastígur, fær leið upp á bjargið. Hann er nú horfinn með öllu. Ræningjastígur er nefndur eftir ræningjum þeim er Eiríkur á Vogsósum, prestur í Krýsuvík, atti saman sunnan við Kirkjuna. Þar er nú Ræningjadys.

Eyri

Eyri – tóftir.

Tveir bæir voru undir Selöldu, Fitjar og Eyri. Eyri fór í eyði 1775 og Fitjar um 1867. Fitjar er sunnan Stráka og Eyri við uppþornaðan lækjarfarveg nokkru austar. Tóttirnar sjást enn vel á ofanverðum bakkanum. Sunnan við bæjartóttirnar eru tvær borgir. Sú efri er minni, en utan í þeirri neðri hefur verið gerður stekkur og jafnvel hús. Litlu austar eru tóttir sels, greinilega mjög gamlar. Talið er að þar hafi verið sel frá Krýsuvík, líkt og var á Selsvöllum um tíma, á Vigdísarvöllum, á Seltúni og í Húshólma.

Krýsuvíkursel

Krýsuvíkursel við Selöldu.

Af því segir þjóðsagan af ræningjunum, selsstúlkunum og smalanum er flúði upp að Krýsuvíkurbæjunum, kom að kirkjunni þar sem séra Eiríkur var við messu og móttökum hans við ræningjana. Enduðu þau með því að ræningjarnir drápu hvern annan að áeggjan séra Eiríks, sem sagði það guðsmildi að ekki væri sunnudagur því annars hefði hann mælt svo um að þeir ekki bara dræpu hvern annan, heldur og ætu. Ræningjadys sunnan Krýsuvíkurkirju er til marks um atburðinn.

Selalda

Selalda – fjárhús.

Undir Strák á Selöldu eru fallega hlaðin fjárhús. Vestan við tóttir Fitja eru tóttir tveggja fjárhúsa og vestan þeirra er enn heilleg steinbrú yfir Vestarilæk.
Undir Krýsuvíkurbjargi, Hælsvík og lengra út með var löngum fiskisælt, en þar er engin lending. Lendingin hefur líklega verið í Hólmastað eða gömlu Krýsuvík í Húshólma, en eftir að Ögmundarhraun rann um 1150 tók hana af og gert var út frá Selatöngum. Krýsuvíkingar stunduðu einnig útróðra frá Herdísarvík um aldir – með hléum.

Fitjar-21

Fitjar.

Tugþúsundir sjófuglapara verpa í Krýsuvíkurbjargi, aðallega rita og svartfugl. Svo mikið fékkst af svartsfuglseggjum á vorin að þau voru flutt á mörgum hestum heim til bæjanna. Sömu sögu er að segja af bergfuglinum sem gaf af sér bæði fiður og kjöt.

-ÓSÁ tók saman.

Selalda

Krýsuvíkursel í Selöldu. Uppdráttur ÓSÁ.

Hreindýr

Í Dýraverndaranum 1972 er stutt grein eftir Sólmund Einarsson, sjávarlíffræðing, um „Hreindýr„:

Sólmundur Einarsson

Sólmundur Einarsson.

„Hreindýr (Rangifer tarandus L.) eru hjartarættar og þau eru einu hjartardýrin þar sem bæði kynin hafa horn. Hjá báðum kynjum byrja hornin að vaxa á fyrsta lífsári og eru fullvaxin er dýrið nær 15 mánaða aldri. Á öðru ári fella kvendýrin hornin að burði loknum, eða frá miðjum apríl til maíloka. Hinir ungu tarfar fella hornin í febrúar—marz, en hinir eldri eigi fyrr en í nóvember. Annars gerist þetta á hverju ári og er ótrúlegt hve fljótt hornin vaxa.
Hreindýrin eru hópdýr og eru saman í misstórum flokkum eftir árstímum. T.d. leita tarfarnir frá hjörðinni á sumrin en sameinast henni svo aftur á haustin um fengitímann. Þá byrja einnig innbyrðis slagsmál milli tarfanna um kvenhyllina og geta þau oft orðið æði ofsafengin og leitt til dauða beggja, ef þeir festast saman á hornunum, sem á þessum tíma eru stór og alsett greinum. Meðan eldri tarfarnir slást þannig, geta þeir yngri komizt að kvígunum og lagt grundvöll að komandi kynslóð.
HreindýrÚtbreiðsla hreindýranna er oftast bundin heimskautahéruðum, en þó hafa þau frá alda öðli fundizt á Hardangervidda í Suður-Noregi, og þar hafa fundizt merkar leifar steinaldarmanna, sem sýna, að hreindýr hafa verið aðalfæða þeirra og allt þeirra líf hefur raunverulega byggzt á þessari þarfaskepnu. Í því sambandi hafa fundizt víða dýragryfjur, sem dýrin voru rekin niður í og þeim síðan slátrað. Staða þessara gryfja sýnir, að jafnvel á þessum tímum hefur mannskepnan kynnt sér háttu dýranna og hagað veiðum sínum þar eftir. Lappar, sem búa í nyrztu héruðum Noregs, Svíþjóðar, Rússlands og Finnlands, fá allt af þessum dýrum, bæði fæði og skæði, þótt nú á tímum sé hreindýrahald á þessum slóðum meira rekið sem aukaatvinnugrein.

Hreindýr

Hreindýr við Miðfell.

Á þeirri forsendu, að hreindýr gætu orðið okkur Íslendingum að sama gagni, voru þau flutt hingað til lands seint á 18. öld eða 1771. Komu þau hingað frá Söröy í Norður-Noregi og var þeim fyrst sleppt hér sunnanlands og síðan á norðausturlandi. Á Reykjanesi þrifust þau vel og döfnuðu og juku kyn sitt og var aðalheimkynni þeirra Bláfjöll. En saga hreindýranna á Íslandi hefur verið raunasaga frá upphafi og er hún glöggt dæmi um skilningsleysi manna á þessum fallegu dýrum og þeirra háttum. Fór svo að lokum, að þeim var hreinlega útrýmt með gegndarlausri veiði alls staðar nema þar, sem menn komust ekki að þeim, eða uppi á öræfum.

Húshellir

Hleðslur í Húshelli. Skjól hreindýraveiðimanna?

Tóku þá nokkrir hagsýnir menn sig til og fengu þau friðuð, þrátt fyrir mikla andstöðu margra alþingismanna, sem vildu þau feig og álitu þau hinn mesta skaðvald. Var það ekki seinna vænna, þar eð stofninn var í lágmarki, en nú er svo komið, að þeim hefur fjölgað aftur og prýða í æ ríkara mæli okkar áður lífssnauðu öræfi. En alltaf koma upp raddir, sem vilja hreindýrin feig, og sí og æ berast háværar kröfur þeirra bænda af austursvæðinu, sem vilja hreindýrin burt úr landi sínu. Bera þeir það fyrir sig, að þau eyði þarlendum gróðri og keppi við sauðkindina um fæðuöflun. Samkvæmt rannsóknum, sem gerðar hafa verið þess efnis bæði hér og erlendis, t.d. í Noregi, hefur reyndin orðið önnur, og er sú fæðusamkeppni fremur lítil.“

Heimild:
-Dýraverndarinn, 3. tbl. 01.09.1972, Hreindýr – Sólmundur Einarsson, bls. 49-51.

Hreindýr

Hreindýr.

Kaldársel

Út frá Kaldráseli eru margar greiðfærar og skemmtilegar gönguleiðir.

Kaldarsel-22

Kaldársel – fjárborg.

Til dæmis er hægt að leggja af stað frá húsi K.F.U.M. og K., ganga til suðurs að Kaldá, þar sem hún rennur neðan við húsið, og yfir göngubrú, sem þar er á henni. Kaldá rennur á mótum tveggja hrauna. Annað rann úr suðri, en hitt rann úr Búrfelli löngu fyrr, eða fyrir u.þ.b. 4700 árum, norðaustur af Kaldárseli.

Gjár

Gjárnar.

Gjárnar norðan Kaldársels eru mótaðar af því mikla hraunrennsli. Að sunnanverðu, á hægri hönd þegar farið er yfir, má enn sjá tótt á árbakkanum. Eftir stutta göngu að girðingu framundan er komið inn á hluta gömlu Krýsuvíkurleiðarinnar. Hún er augljós í Kaldárhrauninu og auðvelt að fylgja henni í átt að Kaldárselshnjúkum. Við hnjúkana greindist Krýsuvíkurvegurinn, annar lá upp fyrir Undirhlíðar, Dalaleiðin, og hinn út með Hlíðunum.

Kaldársel

Kaldársel – tilgáta ÓSÁ.

Gamli bærinn í Kaldárseli stóð á túnblettinum, sem núverandi hús stendur á, þ.e. á móts við miðju þess er snýr að árbakkanum. Útihúsin voru þar sem flaggstöngin er nú (árið 2011). Áður tilheyrði landið Garðakirkju og hafði hún þar í seli fram til ársins 1836. Frá árinu 1873 hafði Hvaleyri þar leigusel. Sel Garða og Álftnesinga voru flest í Selgjá vestan Búrfellsgjár; 11 (12) talsins.

Selgjá

Tóft í Selgjá.

Enn sjást þar tóttir selja með hraunbarminum beggja vegna, einkum að sunnanverðu, svo og fallegir fjárhellar, bæði í gjánni og efst í Urriðavatnshrauni.
Hafnarfjarðarbær keypti árið 1912 allmikinn hluta af Garðakirkjulandi, Kaldársel þar með.
Elsta heimild um Kaldársel er í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703. Þar segir að Hvaleyri eigi selstöð þar sem heitir Hvaleyrarsel suður af Hvaleyrarvatni í Selshöfða, auk selstöðvar í Kaldárseli. Aðrir munu ekki hafa nýtt það sel. Þegar Hvaleyrarbóndi hætti selförum að Kaldárseli lagðist selstöð þar niður með öllu, annað hvort 1865 eða 1866.
Í húsvitjunarbók Garðaprestakalls má sjá að árið 1867 er kominn ábúandi í Kaldársel.
Kaldarsel-uppdrattur-VHann hét Jón Jónsson, en hann var þar stutt. Eftir það lagðist búskapur niður um nokkur ár. Árið 1876 kom þangað Þorsteinn Þorsteinsson eða Þorsteinn í Selinu, eins og hann var jafnan nefndur. Enn er efst í Heiðmörkinni fallegur fjárhellir, Þorsteinshellir, sem lengi var talinn týndur. Þorsteinn var nokkuð sérkennilegur í háttum. Á hans tíma voru í Kaldárseli nokkar byggingar, matjurtargarður [nú fremst ofan árinnar], sem lá frá bænum niður að ánni mót suðri og vörslugarður. Bæjarhús voru lítil en snoturlega byggð. Í því var baðstofa, búr, eldhús og bæjardyr. Tætturnar voru allar vel hlaðnar úr sléttum og þykkum hraunhellum, en hvergi mold eða torf á milli, svo sem venja var.
Jón Guðmundsson á Setbergi keypti húsin í Kaldárseli sem og kindur. Þau voru öll rifin, nema baðstofan, sem stóð uppi fram undir aldamót.
Hún Thorsteinshellirvar einkum notuð sem sæluhús fyrir fjármenn Setbergsbænda, sem þá heldu fé sínu, einkum sauðum, víðs vegar þar í högum. Einnig var gott fyrir Krýsvíkinga að hafa þarna afdrep á ferðum sínum. Haustleitarmenn Grindvíkinga leituðu alla leið að Kaldá og höfðu náttstað í Kaldárseli. Þá var mikil umferð útlendra ferðamanna til Krýsuvíkur, einkum til að skoða hinar nýyfirgefnu brennisteinsnámur, sem þar voru. Þeir gistu margir í Kaldárseli. Baðstofan bar þess merki. Í sperrur og súð voru skorin ófá mannanöfn af ýmsum þjóðernum.
Að liðnum aldamótum 1900 var ekkert hús lengur í Kaldárseli. Ferðum útlendinga fækkaði, Krýsvíkingar týndu ört tölunni, fjallleitir Grindjána styttust og hið stóra Setbergsheimili tvístraðist. Og fénaðurinn hvarf úr högunum.

Fremstihöfði

Hálfhlaðið fjárhús undir Fremstahöfða.

Árin 1906-1908 fékk Kristmundur Þorláksson Kaldársel til afnota, síðar stórbóndi í Stakkavík. Hann kom upp smáheyhlöðu í Kaldárseli fyrir sínar 50 kindur með því að byggja yfir hina gömlu baðstofutótt, sem þá stóð enn ófallinn. Þá byggði hann þar lambahús. Ekki hafði hann not af gömlu tóttunum að öðru leyti en því að hann gat nýtt úr þeim hraunhellurnar, sem hann gerði af miklum dugnaði.
Kristmundur lá við í Hafnarfirði, en fór fótgangandi um veturinn beitarhúsaveginn í Kaldársel í myrkri kvölds og morgna. Ærnar hafði hann við gömlu hellana, sem eru skammt norður af Selinu.

Kaldársel

Kaldársel – fjárhellar.

Lömbin voru í húsi, en músin vildi leggjast á þau. Kristmundur flutti loks fé sitt í Hvassahraun þar sem honum bauðst vist. Hann var því síðasti bóndinn í Kaldárseli.
Framundan eru Kaldárhnjúkar Syðri. Hlíðin á vinstri hönd og hraunið á þá hægri. Eftir stutta göngu er gengið framhjá Kúadal, en talið er að selssmalinn hafi rölt kvölds og morgna um þessa sömu götutroðninga með kýr úr og í haga. Vestan Kúadals taka Undirhlíðarnar við. Gengið er framhjá Kýrskarði og áfram útfyrir Múla á hægri hönd. Þar á horninu er hellisskúti er nefnist Árnahellir, kenndur við Árna Gíslason í Brekkubæ í Hafnarfirði.

Ingvar Gunnarsson

Minningarsteinn um Ingvar Gunnarsson.

Með Hlíðunum eru tré, sem plantað var af Skógræktarfélagi Hafnarfjarðar, sum fyrir áratugum síðan. Þar er minnisvarði um fyrsta formann Skógfræktarfélagsins, Ingvar Gunnarsson. Afturhlíðar Undirhlíða heita Bakhlíðar eða Gvendarselshæð. Þar er Gvendarsel vestan í hlíðinni. Sjást tóttir selsins og hlaðinn stekkur framan þess.

 

Gvendarsel.

Gvendarsel.

Framundan undir Hlíðunum, sem áður nefndust Gvendarselshlíðar, eru Kerin. Þau eru fallegir tvíburagígar. Hægt er að ganga upp í efri gíginn úr þeim neðri um gat á milli þeirra, en þar uppi er tilvalinn, skjólgóður áningastaður.
Kaldarsel-24Þegar FERLIR var nýlega á gangi um svæðið var ákveðið að staldra við og gaumgæfa það betur en fyrr. Komu þá í ljós tvírýma mannvirki og tvö stök hús skammt frá; sennilega eldhús og geymsla. Afstaða minjanna minnti á dæmigerða tímabundna selstöðu. Svo virðist sem svæði það er geymir fjárskjólshellana hafi verið notað sem slíkt. Gæti það hafa hugsanlega hafa verið í tíð Þorsteins, Krýsuvíkur-Gvendar eða Kristmundar frá Stakkavík. Hin ókláruðu hús austan undir Fremstahöfða gætu hafa tengst tímabundinni dvöl fjárbónda á nefndum stað.
Hvað sem öllum vangaveltum líður er þarna um að ræða sérstaklega ahugaverðan stað með hliðsjón af fyrri búskaparháttum á svæðinu.

-ÓSÁ tók saman.

Kaldársel

Kaldárssel – uppdráttur ÓSÁ.

Grindavík

Í Tímanum 1972 er fjallað um „Útvegsbæinn á hraunströndinni undir Þorbirni„:

Grindavík„Svo finnst ritað á fornar bækur að Molda-Gnúpur og hans kyn hafi endur fyrir löngu reist byggð í Grindavík. Þeir frændur bjuggu við geitfé, enda heitir Geitahlíð ei mjög fjarri þessum slóðum, og er sú sögn um son Gnúps, Hafur-Björn, að hafur einn, sem ekki var úr byggðum manna, heldur hergbúa eða huldufólks, hafi komið í geitur hans um fengitímann. Eftir það tímguðust þær með ólíkindum og undruðust menn stórum búsæld Grindavíkurhóndans.
Þessari sögu get ég vel trúað, ekki siður en Helgi á Hrafnkelsstöðum, og hef ég það einkanlega til sannindamerkis, að enginn skagi landsins er jafnhrjóstrugur og Reykjanesskagi og snauður að grænum gróðri. En geitfé gengur fast að mat sínum, þar sem það er margt, og hef ég að minnsta kosti fyrir satt, að þess finnist dæmi í veraldarsögunni, að það hafi sorfið í grjót niður stærri skaga en það horn Íslands, sem spyrnir fæti suðvestur í hafið.

Geitahlíð

Geitahlíð.

Það getur að minnsta kosti hugsazt, að það hafi verið dálítið tvíeggjuð lukka, ef Björn heitinn Gnúpsson hefur átt svo miklar geitahjarðir, sem fornir sagnritarar gefa í skyn. Og einhvern veginn býður mér i grun, að kvikfjárbúskapur hafi ekki verið sá þátturinn, sem bezt hentaði á Suðurnesjum eða mest var í sómanum i Grindavík á liðnum öldum, og orð Jóns á Laxamýri hef ég fyrir því, að sauðfjárræktin þar syðra hafi verið heldur bágborin yfirleitt talsvert fram á þessa öld. Henni mun hafa verið þannig háttað, að sauðfé fullkomnaði það verk, sem geiturnar kunna að hafa hafið, enda ekki auðhlaupið að því að finna slægjur á Reykjanesskaga, svo að safna mætti heyi í garð til vetrarins. Auk þess var torfengið eldsneyti í fjölmennum verstöövum, þar sem enginn var svörður né heldur tað, svo að þurrka varð þang og þöngla í eldinn og rífa lyngtætlur á meðan þær fundust.

Gerði sig digran, en féll samt
GrindavíkLíf Grindavíkur hefur þess vegna fyrst og fremst verið sjórinn — miðin framundan hraunströndinni, þar sem matfiskurinn gekk svo grunnt, þegar vel lét, að stundum máttu heita fá áratog fram á fiskislóðir. Það eru sjálfsagt vænar kasir, sem búið er að draga á Klofi um Kónga og Húsum um Hnúðana, svo að ekki séu nefnd þau mið, sem utar liggja.
Og sagan um fiskinn á Grindavíkurmiðum er löng saga. Bretum og Þjóðverjum var mætavel kunnugt um fiskidrátt karlanna í Grindavík á kaþólskri tíð og litu þá skreið þeirra miklu girndarauga, svo að af spruttu bardagar og manndráp.

Grindavík

Leifar virkis Jóns breiða.

Á Járngerðarstöðum gerði til dæmis Englendingur einn sér virki, þegar i harðbakkann sló. Sá hét Jón breiði, og af því má ráða, að ekki er ný bóla, að Englendingar geri sig digra, þegar fiskurinn okkar er annars vegar. Hann neitaði líka að greiða hirðstjóranum toll, ekki fús á að láta sér neitt úr greipum ganga af því, sem hann hafði hremmt, og þess vegna gerði hirðstjórinn honum aðför með tilstyrk Þjóðverja, er væntanlega hafa fengið eitthvað fyrir snúð sinn, og þar féll Jón breiði eins og Gordon í Khartum mörgum öldum seinna.

Fógeti og kaupmaður flugust á um pundara

Grindavík

Járngerðarstaðir fyrrum.

Grindavík varð ein helzta verstöð Skálholtsstaðar, er fram liðu stundir, og þangað sigldi Ögmundur Pálsson, þegar gott var orðið í sjóinn á vorin á biskupsjaktinni, sem hann hafði látið smíða í Vatnsfirði, svo að hann gæti séð með eigin augum, að ekkert væri undan dregið af því, sem heilög kirkja átti að hreppa af fiskmetinu. Í Grindavík var Marteinn Einarsson á vegum Mammons, kaupmaður á snærum Englendinga, áður en Kristján kóngur og lútherskan lögðu biskupskápuna á axlir honum og settu á hann mítrið.

Staður

Staður í Grindavík. Hafnarkort Dana frá einokunartímanum á 17. öld.

Þá fór að styttast í því, að aðrir en þeir, sem kóngleg náð útvaldi, fengjust við verzlun á Íslandi, hvort heldur var í Grindavík eða annars staðar, og hafi karlarnir ekki áður kunnað að standa álútir með pottlokið sitt milli handanna, þá hafa þeir lært það þá. Ég get ímyndað mér, að þeir hafi fast að því fallið í stafi af forundran eftir hálfra aldar kynni af danska verzlunarvaldinu, þegar sá dagur rann, að Skúli fógeti reið grýttar slóðir suður í Grindavík og flaugst á við sjálfan kaupmanninn út af sviknum pundara hans í verzlunarhúsunum.

Margir fóru upp, en fáir út aftur

Grindavík

Grindavík fyrrum.

Þó að ég verði að gera ráð fyrir því, að Grindvíkingum gömlu hafi verið einn kostur nauðugur að gera sig bljúga andspænis kaupmanninum, hefur ósmá verið sú seigla, sem í þeim bjó, og mikil mannlifssaga væri öll þeirra sjósókn, ef einhvers staðar væri á vísan að róa, þar sem hún er. En það er eins með varsímann, sem bátarnir draga á sjávarflötinn, og það, sem í sand er skrifað: Það er horfið áður en við er litið. Eftir er aðeins það, sem má láta sig gruna eða óra fyrir. Í gulnuðum annálum má lesa örfáar línur um þennan eða hinn skipstapann, stökum sinnum jafnvel drepið á björgun úr þeim lífsháska, er vonlaust virtist að sleppa frá. En þögnin og gleymskan hylja sögur um mikinn garpskap og mikið æðruleysi hinna gengnu kynslóða i Staðahverfi, Járngerðarstaðahverfi og Þórkötlustaðahverfi — gömlu byggðarlögunum þrem í Grindavík.

Grindavík

Grindavík – bátar við bryggju.

Öll skipin, sem hafa skolazt upp að ströndinni, hvort heldur gömul og úr sér gengin eða svo ný, að þau höfðu flutt afla að landi, segja líka sína sögu um það, hversu víðsjárverður þessi staður var, jafnvel þeim, sem stærri fleytum réðu en Grindvíkingar sjálfir. Flökunum, sem brimið hefur tvístrað um hrauntangana, ægir þar saman af mörgum þjóðernum — enskum, frönskum og dönskum og guð má vita hvað: Fiskiskip frá Vidalínsútgerðinni og Duus, spekúlantsskip frá Eyþóri Felixsyni, franskarskútur frá Normandí, togarar frá Hull og Grimsby — hver getur talið það allt eða tíundað þau mannslíf, sem þar hafa slokknað.
Jú — við getum nefnt Karl Nilsson, veiðiþjófinn og óþokkann, sem drekkti mönnunum á Dýrafirði um aldamótin— hann lauk líka ævidögum sínum á þessum slóðum.

Grimmur leikur og djúp sár

Brim

Grindavíkurbrim.

Þó að örlög Karls Nilssonar hafi tæpast verið sárt hörmuð hérlendis, eftir það sem á undan var gengið, hafa margir, sem í landi sátu, hlotið mikil og djúp sár, sem seint greru, af völdum þeirra dætra Ægis, sem þreytt hafa grimman leik við þessa háskalegu strönd. Og af öllum þeim skipum, sem þarna hafa borizt upp, eru þau færri en fingur annarrar handar, er komizt hafa aftur á flot. En dæmi eru þess, að í svo rismiklum sjó hafi vélvana bátur lent, að bylgja bar hann yfir öll sker og grynningar langt upp á malarkamp, þar sem hann stóð á þurru við útsogið, svo að ganga mátti úr honum þurrum fótum.

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes – brak.

Á slíkum stað má nærri geta, að oft hefur þurft að hlynna að sjóhröktum mönnum, sem naumlega sluppu af strandi — hjúkra þeim, fæða þá og klæða. Væru þeir margir klæðvana, var einna helzt að leita til Einars á Garðhúsum, eftir að mektardagar hans runnu upp. Þá urðu franskir strandmenn kannski að sætta sig við ívið færri flíkur en hentaði vexti þeirra, því að Fransarar á skútunum gömlu voru ekki nein tröll og talsvert smávaxnari en þeir, sem fatnaðar þörfnuðust í Grindavík endranær.

Það var á elleftu stundu
GrindavíkVið drápum aðeins á þá alla sögu, sem orðið hefur i Grindavík, án þess að hennar sjái nú stað. Þessi mikla og aflasæla verstöð var þannig sett, að þar var furðulega lengi mjög örðugt um vik um útgerð. Grindavík var að vísu lengi kaupstaður og Járngerðarstaðavíkin löggiltur verzlunarstaður. En þar flutu ekki í varir nema lítil róðrarskip, og þó vandfarið inn. Það var fyrst 1928 eða 1929, að þar var bryggja gerð milli tveggja vara. Þá fyrst féll það niður, að sjómennirnir bæru aflann sinn á bakinu upp úr bátunum, nýkomnir úr róðri.
GrindavíkVinnuhagræðingin komst á það stig, að kasta mátti fiskinum upp á bryggjuna og aka honum þaðan á handvögnum. En eftir sem áður urðu menn að bjarga bátum sínum undan sjó eftir hvern róður, setja þá sem kallað var, því að enginn vissi, nema sjór tæki að stæra áður en við var litið, og þá voru bátarnir í voða.
Úti fyrir Hópinu var rifið, og var svo grunnt á því, að yfir það flutu ei nema litlir bátar. En er skipastóllinn fór að taka stórbreytingu í öðrum verstöðvum, vofði sú hætta yfir Grindavík, að fólk færi að flýja þaðan á staði, þar sem lífið var léttara. Það var fyrst 1939, að byrjað var á því að gera vísi að bátaleið inn í Hópið.

Grindavík

Grindavík – Grafið inn í Hópið 1939.

Reynt var að dýpka svonefndan Miðós — með handverkfærum. Eftir það gátu tíu til fimmtán lesta bátar flotið inn á flóði. Árið 1945 var loks heldur betur tekið að beita tækninni: Dýpkunarskip kom til starfa, og það var ruddur gegnum rifið þrjátíu metra breiður skurður, sjö eða átta feta djúpur. Það var á elleftu stundu, því að óþreyja var komin í margan Grindvíkinginn við allt það, sem þar var við að stríða við sjósóknina.
Síðan hafa mikil tíðindi gerzt. Það er komin höfn í Grindavík og mikill og góður bátafloti, og þar er líf og önn og vöxtur — þúsund manna bær, sem leggur mikið í þjóðarbúið, og mun á komandi tíð bjóða upp á fjölbreyttari störf en hingað til, þótt sjórinn og aflinn verði jafnan undirstaðan.

Vísindamaðurinn og Gunna í kongungshúsinu

Grindavík

Til skamms tima hefur fátt manna úr Grindavík gengið þá braut, sem kölluð hefur menntavegur. Þaðan var þó Bjarni Sæmundsson, fiskifræðingurinn okkar fyrsti, og fleiri Grindvíkingar af gömlu kynslóðinni hafa orðið mörgum kunnir, þótt ekki hefðu þeir lært svo mjög til bókar. Mér dettur i hug hún Gunna gamla i Konungshúsinu, eins og við kölluðum hana hér fyrr meir — veitingakonan, sem átti langa sögu á Þingvöllum, erfingi hússins, sem reist var handa kónginum árið 1907. Öðrum finnst kannski, að heldur hefði átt að nefna aðra en hana, svona við hliðina á vísindamanninum Bjarna Sæmundssyni.

Sjóslysaskilti

Sjóslysaskilti á Þórkötlustaðanesi.

En gamla konan á líka sín ítök, þar sem hún liggur undir grænni torfu, svo margir drukku hjá henni kaffisopa. Það hefðu svo verið hæg heimantökin að tíunda einhvern harðfengan skipstjóra og veiðikló.
Ef við víkjum að listum í sambandi í Grindavík þá er skemmst að minnast nýja félagsheimilisins, sem Ragnar Kjartansson myndhöggvari hefur skreytt myndum í tengslum við hlutverk staðarins í þjóðlífinu og málverka Péturs Friðriks Sigurðssonar af gömlu húsunum, bátunum og höfninni.

Getið tveggja guðsmanna með góðan orðstír

Grindavík

Grindavík – innsiglingin.

Ekki má ljúka þessu spjalli, án þess að geta svo sem tveggja presta, sem lifðu og störfuðu á meðal Grindvíkinga, alllöngu áður en nýi tíminn hélt þar innreið sína. Þar var séra Kristján Eldjárn prestur um skeið, og var í minnum hafður sökum þess meðal annars, að hann taldi sig ekki ofgóðan til þess að skemmta sóknarbörnum sínum, þegar það átti við. Hann var maður, sem hafði margt dottið í hug — jafnvel ekki grunlaust um, að hann hafi eitthvað fitlað við smíði einhvers konar frumstæðrar flugvélar á æskuárum, og suður í Grindavík brá hann því fyrir sig að leika persónur úr Skugga-Sveini. Hann náði i skottið á þeim tima, er fyrirmenn áttu korða, og sjálfur eignaðist hann þvílíkan grip.

Staðarhverfi

Korði séra Kristjáns. (Úr Staðhverfingabók).

Korðar hafa að líkindum verið lítið notaðir í Grindavík síðan gengið var af Jóni breiða dauðum, nema hvað Tyrkir hafa eflaust brugðið þess kona vopni. En af því er saga, að sér Kristján greip einu sinni til korða síns. Það bar til að steypireyður á flótta undan háhyrningatorfu hljóp á land í Grindavík. Presturinn tók sér þá korðann i hönd og stytti þjáningarstundir skepnunnar, sem brauzt um í fjörunni, með því að reka hann á kaf undir bægslið.

Grindavík

Árabátur neðan verbúðar.

Hinn presturinn, sem við getum ekki gengið fram hjá, var séra Oddur Gíslason frumherji í björgunarmálum á Íslandi og bindindishetja að auki á mikilli drykkjuöld, þegar brennivín var bæði ódýrt og auðfengið. Hann leitaðist við að kenna mönnum að nota bárufleyg í sjávarháska, láta lýsi eða olíu lægja öldurnar. Hann gaf af fátækt sinni út tímaritið Sæbjörgu i eitt ár, og mun tímariti ekki hafa verið stjórnað úr Grindavik í annan tíma, og hann lagði sig fram um að kenna sund. Sjálfur hafði hann bjargað sér og dreng, er með honum var, á sundi úr bráðum háska, er báti hvolfdi undir þeim.

Oddur. Gíslason

Séra Oddur V. Gíslason.

Því er ekki að leyna, að meðal Grindvíkinga hafa verið þeir, sem þótti dropinn góður, og er þar til marks, að einu sinni fór harðmannlegur sægarpur að hágráta, þegar hreppstjórinn velti um einu víntunnunni, sem borizt hafði að landi ósködduð úr strönduðu skipi, og er þó þeim, er þreyta ævi langan leik við hafið, sízt öðrum táragjarnara að jafnaði. Bindindisboðskapur séra Odds kann þess vegna að hafa fallið í grýtta jörð hjá sumum í sókninni. Hvenær gerir boðskapur það ekki? En séra Oddi var svo farið, að hann var maður síns fólks, sjálfur sjómaður, og formaður af bezta tagi, og jafnvígur, hvort sem hann var í skinnklæðum á miðum úti í rismiklum sjó eða hempu í kirkju sinni eöa annars staðar í ræðustóli. Og um hann lék frægðarljómi sökum þess, að hann hafði ungur rænt sér brúði úr húsum þess og höndum, sem ríkastur var og mestur fyrir sér meðal margra ráðríkra útvegsbænda á Suðurnesjum.

Sitthvað úr náttúrunnar ríki

Grindavík

Grindavík – höfnin.

Við höfum látið móðan mása og hlupið úr einu i annað. Og þó er næsta fátt sagt. Það er að svo mörgu að hyggja í Grindavík. Þar eru vatnsgjár, sem álar ganga í neðanjarðar, og þar vex þistill á bletti, og segir þjóðsagan, að hann hafi komið upp af blóði manns, sem Tyrkir drápu. Fuglum, sem annars eru sjaldséðir hérlendis, bregður oft fyrir í Grindavík. Einkum bar nokkuð oft við, að hegrar sæjust þar, og áttu þeir að minnsta kosti fyrr á árum fast náttból undir hraunjaðri utanvert við túnið á Járngerðarstöðum. Þetta eru sem sagt fuglar, sem hafa reiðu á sínu.

Grindavík

Grindavík – Í Norðurvör.

Ekki síður bregður þar fyrir mörgu sérkennilegu og fágætu úr sjónum. Þannig er það í minnum haft, að rétt fyrir aldamótin skaut Helgi i Húsatóftum rostung með framhlaðning. Þeim þótti vont af honum kjötið, Grindvíkingum, en húðin var aftur á móti hreinasta þing í reipi. Það voru þess konar reipi, er nefndust svarðreipi áður fyrr. Þorradag nokkrum árum fyrr rak upp svo mikið af karfa, að fjaran var öll rauð yfir að líta.
Þá var ekki búið að skarka með botnvörpur um allan sjó. En meðal sjaldgæfra fiska, sem rekið hafa þar syðra, má nefna gljáháf 1917, tunglfisk 1931 og umfram allt Bretahveðni, sem er svo sjaldgæfur, að það ætti að halda uppi á daginn, þegar hann fannst, 7. marz 1905, ekki síður en afmæli kóngsins á meðan sú persóna var og hét.
En svona nokkuð þýðir ekki að þylja, því að það myndi æra óstöðugan. Það er ekki seinna vænna að slá punkti aftan við.“ — JH.

Heimild:
-Tíminn, 248. tbl. 29.10.1972, Útvegsbærinn á hraunströndinni undir Þorbirni, JB, bls. 10-11.

Grindavík

Grindavík.