Lónakot

Gengið var til norðurs á ská niður hraunið frá gatnamótum Lónakotsafleggjara við Reykjanesbraut. Eftir stutta göngu var komið í hraunlægð á milli hóla skammt norðan við landamarkagirðingu Óttarsstaða. Þar suður undir þeim, suðsuðaustan Sjónarhóls, var hlaðið myndarlegt fjárskjól, gjarnan nefnt Óttarsstaðahellir, en í örnefnalýsingu er það nefnt Sjónarhólsskjól. Stígur liggur frá því til norðurs í átt að Óttarsstöðum.

Lónakot

Tóftir Lónakotsbæjarins.

Haldið var áfram suðvestur hraunið að Lónakoti. Komið var að suðurgarðinum og inn fyrir gerðið. Inni í því er heillegt tótt af húsi. Búið var í Lónakoti framundir 1930, en eftir það var byggt þar myndalegt sumarhús, sem nú er fallið. Lónin voru yfirfull vegna háflæðis. Ferskvatn var efst í lónunum. Gengið var framhjá hlöðnum nátthaga og áfram yfir túngarðinn að Lónakotsbæjarstæðinu. Austan þess mátti sjá Krumma, klofinn hraunhól, en lónið sunnan undir bænum, þar sem brunnurinn er. Var það svo yfirfullt að hvergi sást í skeljasandsstrandmyndina undan bænum. Tóttir fjóss mátti greina norðar í túninu og sauðakofa norðaustan á því. Víða eru þarna garðar og tóttir.
Gengið var vestur með ströndinni, framhjá hlöðnu gerði eða rétt og áfram yfir hraunhaft. Áður en gengið er upp hraunhaftið mátti sjá greinilegan flóraðan veg og annan hluta þess vestan við haftið. Þarna eru garðar og gerði, tóttir o.fl. í fögru umhverfi. Sækindin var þarna á beit við tjörn skammt vestar, en þegar hún varð mannaferða vör, tók hún strikið í átt að hafinu og hvarf sjónum enn á ný.

Lónakot

Lónakotsbærinn.

Gengið var spölkorn lengra til vesturs og var þá komið inn í fallega hrauntjörn, Dulu, með skjól á allar hliðar. Innan um hraunklettanna var tendraður varðeldur og var síðan sest við guðsveigainnlegg um stund, eins og sjá má á meðfylgjandi mynd. Sólin skein frá hafi og lognið speglaðist í tjörninni.
Loks var haldið suðaustur upp hraunið með viðkomu í Lónakotsfjárhelli. Norðan hans er Réttartangi eða Réttarklettar. Umhverfis þá eru garðhleðslur, hlaðinn stekkur eða rétt og tóftir undir klettum. Talið er að annað hvort hafi svæðið verið nýtt sem heimaselstaða frá Lónakoti eða hreinlega að gamli Lónakotsbærinn hafi staðið þarna, en verið færður fyrir nokkrum öldum vegna ágangs sjávar. Þá er og hermt að bærinn hafi heitið Svínakot.
Þegar gengið hafði verið enn lengra upp hraunið var komið að tveimur fyrirhleðslum undir gjávegg á mót suðaustri. Frá hólnum mátti sjá roðagyllta sólina setjast á sléttan hafflötinn. Útsýnið var eins og að horfa á málverk skapandi listamanns.
Frábært veður. Gangan 1. klst. og 11. mín.

Lónakot

Lónakot – sjóhús.

Arnarfell

Starfsmaður hjá kvikmyndafyrirtækinu Truenorth, sem þessa dagana er að aðstoða bandaríska aðila við undirbúning á kvikmyndinni Flags of our Fathers, bauðst til að hitta FERLIRsfélaga við Arnarfell, en eins og kunnugt er munu tökur á kvikmyndinni fara fram þar og í Stóru Sandvík við Hafnir.
Starfsmaðurinn kvaðst hafa verið að fylgjast með greinum í blöðum síðustu dagana vegna kvikmyndatökunnar í Arnarfellinu og virtist honum sem þar væri nokkur misskilningur á ferðinni um raunverulegt umfang verksins og þá helst þeim hluta sem fer fram við Arnarfell.
Við Arnarfell var dregin fram loftmynd af svæðinu þar sem fyrirhuguð veglína og athafnasvæði voru merkt inn á. Starfsmaðurinn sagði töluverðar breytingar hafa verið gerðar frá fyrstu áætlunum. Þá hefði verið fyrirhugað að gera veg til austurs með Arnarfelli frá Ísólfsskálavegi, á móts við athafnasvæði skátanna, en þá var yfir nokkrar fornleifar að fara. Nú væri hins vegar ætlunin að gera vegspotta að norðaustanverðu Arnarfelli frá Herdísarvíkurvegi. Hann á að liggja um gróðurlitlar lænur í landslaginu og enda við lítið athafnasvæði við fellið. Jarðvegsdúkur verður settur yfir jarðveginn og á hann lagður sandur. Hvorutveggja væri hægt að fjarlægja að loknum kvikmyndatökum, en ef vilji Hafnarfjarðarbæjar stendur til að hafa veginn áfram sem og athafnasvæðið undir fellinu þá stendur það til boða. Ljóst væri að aðkoma að Arnarfelli verður mun betri á eftir.

Arnarfell

Byssubyrgi í Arnarfelli.

Til stóð að grafa sprengigíga við og í fellið, en nú hefur verið horfið frá því. Þeir verða grafnir í Stóru-Sandvík, en alls ekki í þeim stærðarhlutföllum sem lýst hefur verið. Við Arnarfell verður litlum gígum komið fyrir með gervisprengjum. Skotsprengjum verður komið fyrir víða, en þær ættu ekki að skilja eftir sig sár, sem ekki verður hægt að laga. Skotbyrgi úr spónarplötum verða byggð í fjallshlíðina, en þau verða öll fjarlægð. Svíða á gróðurtorfur í hlíðinni með gasloga, en það verður gert eftir leiðbeiningum Landgræðslunnar. Sáð verður í sárin og áburður borinn á. Gróðurinn ætti að geta jafnað sig á nokkrum árum. Reynt verður að valda eins litlu raski og mögulegt er og allt fært í samt lag aftur að athöfnum loknum.
Fáninn frægi (Flags of our Fathers) verður reistur við Eiríksvörðuna, en allur myndbúnaður verður fluttur á fellið með þyrlu. Til stendur að nota eitthvað suðurhlíðina, en þó óverulega.
Breyttar áherslur eru frá því sem var. Stórvirk tól verður ekki ekið um svæðið, heldur munu einhver standa kyrr undir fellinu á meðan á tökum stendur. Umferð starfsfólks (um 500 manns) mun verða takmörkuð við fellið, enda á engin að koma inn á myndasvæðið nema þeir, sem þangað eiga erindi í hvert sinn.
Ljóst er að athafnsvæðið er nú utan seilingar fornleifa, nema kannski gömlu þjóðleiðarinnar, sem farið var yfir með jarðýtu fyrir mistök. Sú fornleif, sem næst er, er skjól undir stórum steini, beint undir Stínuskúta. Hvorutveggja staðurinn ættu að vera utan látamarka.
Upptökur við Arnarfell munu líklega fara fram 24. – 29. ágúst n.k., en mun lengur í Stóru-Sandvík. Á meðan á upptökum stendur mun umferð um svæðið verða takmörkuð. FERLIR verður að sjálfsögðu velkominn í kurteisiheimsókn. Starfsmaðurinn sagðist hafa góðan skilning á mikilvægi þess að rödd almennings heyrðist þegar efasemdir kæmu upp um að rétt væri að málum staðið. Kvikmyndafélaginu væri hins vegar í mun að ganga þannig frá svæðum, sem það notaði, að sómi væri að.

Arnarfell

Virki í Arnarfelli.

Fram kom að aðallega þrjár ástæður athugasemda vegna kvikmyndatökunnar hafa verið tilgreindar; í fyrsta lagi vegna sögu og arfleiðar svæðisins, í öðru lagi vegna gróðurfars og mögulegra skemmda og í þriðja lagi vegna hugsanlegra röskunar fornleifa, sem tilheyra heildstæðum búsetuminjum Krýsuvíkurbæjanna og fólksins, sem þar bjó um aldir.
Sóknarprestur Hafnfirðinga vísiteraði Krýsuvík meðan á heimsókninni stóð. Var honum greinilega mikið í mun að svæðinu yrði sýnd sú virðing, sem því ber. Áhuga- og afskiptaleysi þeirra, sem ættu bæði að hafa vit og þor, væri í rauninni sorglegur vitnisburður um slæmt viðhorf til arfleifðarinnar. Tilfinningahliðin virðist sýnileg, en sjaldnast tiltekjanleg.

Arnarfell

Búðir við Arnarfell.

Það kom fram hjá starfsmanni kvikmyndaaðstoðarfyrirtækisins að öryggisverðir hafa verið beðnir um að amast ekki við áhugasömu göngufólki um svæðið. Kamranir munu verða þeirra meginverkefni. Hins vegar mun umferð þess verða takmörkuð á meðan á upptökum stendur, sem fyrr segir.
Þá kom fram í samtalinu að bæjarstjóri Grindvíkinga hafði boðið kvikmyndafyrirtækinu aðstöðu í einhverju Grindavíkurfellinu ef það þyrfti að hverfa frá Arnarfellinu af einhverjum orsökum. Þá er og hugmyndin að nýta Hesthelli við Grindavík, en hann er í óskiptu landi Þórkötlustaðahverfisbæjanna. Landeigendafélagið mun væntanlega skoða það.
Einn FERLIRsfélaganna hefur fengið svar bæjarstjóra Hafnfirðinga vegna athugasemda hans um að rétt hafi verið að málum staðið við afgreiðslu málsins. Í svarinu kemur m.a. fram að „umferð um beitarhólfið er óheimil skv. 1. tl. auglýsingarinnar um fólkvanginn“. Bæjarstjórinn virðist gleyma sér í hinum pólitíska orðaleik í stað þess að útskýra bara hvaða heimildir hann hafði og hvar þær er að finna. Allir aðrir vita að umferð um fólkvanginn og þar með talið beitarhólfið er opin bæði gangandi og akandi umferð. Þjóðvegur liggur um það og á honum er rimlahlið til að auðvelda aðgengið. Þá vita líka margir hvernig bæjarfulltrúi, alþingismaður og ráðherra tiltekins stjórnmálaflokks færði Hafnfirðingum Krýsuvíkursvæðið, sneið úr lögsögu Grindvíkinga, á slilfurfati. Það má heita pólitískur gjörningur, sem enginn myndi komast upp með í dag, um 50 árum síðar. Bæjarfulltrúar Hafnfirðinga ættu að hugsa um það í fullri alvöru hvort þeir ættu ekki að afhenda Grindvíkingum
Krýsuvíkursvæðið á nýjan leik.
Umhverfi Arnarfells er stórbrotið, fyrir þá sem hafa auga fyrir slíku (sjá myndir).
FERLIR þakkar framangreindum starfsmanni Truenorth fyrir upplýsingarnar og kynninguna, en þar eru gleggri en nokkur nefnd eða opinber stofnun hefur látið frá sér fara um málið fram að þessu.
Þá vonar FERLIR þess að leikstjórinn, Eastwood, eigi ánægjulega og eftirminnilega daga á Reykjanesskaganum meðan á upptökum stendur.
Frábært veður.

Arnarfell

Sprengigígur við Arnarfell.

Gestsstaðir

Gengið var frá Sveinsstofu (-safni) við Gestsstaðavatn um Sveiflu og upp undir Hettu, þaðan niður Hettustíg inn á Bleikingsvelli innan Vigdísarvalla og um Drumbsstíg yfir sunnanverðan Sveifluháls að Gestsstöðum, tóftum elsta bæjar Krýsuvíkur að talið er.
HnakkurHnakkur blasti við norðan Hettu. Hann er að kortum nefndur Hattur, en sá mun vera þarna næst norðar (þar sem sér best niður á Seltúnið). Sveiflan mun heita dalskorningur suðaustan Hettu. Um hann rennur lækur, heitur efst, en smákólnar eftir því sem neðar dregur. Sveinar í Vinnuskólanum í Krýsuvík stífluðu lækinn fyrst árið 1962 og reistu kofaborg í neðanverðum dalnum og ári síðar byggðu þeir varanlegri stíflu á læknum (neðan við núverandi gróðurhús) og gerðu þar volga sundlaug. Áður höfðu þeir gert sundlaug sunnan undir Bleikhól, en þar eru heitar uppsprettur á annars gróðursnauðum sandinum. Allar þessar heitavatnsuppsprettur hafa kólnað umtalsvert á s.l. aldarfjórðungi. Löngu seinna taldi göngumaður á ferð um svæðið sig hafa fundið þar fornminjar, en við athugun kom í ljós að þar var um umrædda sundlaugagerð að ræða frá því um 1960. Enn má sjá leifar mannvirkisins á sandinum.
Þegar komið var upp í Hettu gafst hið ágætasta útsýni yfir Krýsuvíkursvæðið; Gestsstaðavatn, Grænavatn, Bæjarfell, Arnarfell, Geitafell (Æsubúðir) og allt niður að Selöldu. Litbrigði jarðvegsins eru þarna ólík öðrum stöðum, enda um virkt háhitasvæði að ræða.
járnbrautarlestin Sunnan við Hettu (379 m.y.s.) er ílangt móbergshæð. Vinnuskólastrákarnir kölluðu hana jafnan „Járnbrautarlestina“ því hún er ekki ólík lest að sjá þar sem hún kemur út úr henni að norðanverðu. Þegar upp er komið er hægt að velja um tvær leiðir; annars vegar til vesturs norðan Járnbrautarlestarinnar og hins vegar til vesturs sunnan hennar. Í fyrrnefnda tilvikinu er komið inn á Hettustíg, götu áleiðis niður að Vigdísarvöllum. Í síðarnefnda tilvikinu er farið yfir litbrigðafagra hlíð þa sem útsýni yfir að Vigdísarvöllum birtist í allri sinni dýrð.´
Síðarnefnda leiðin var valin að þessu sinni. Haldið var niður með hlíðinni og inn á Hettustíg. Hann sést vel á köflum þar sem hann er markaður í móbergsbrúnir. Þegar komið var niður í Bleikingsdal var vesturhlíð Sveifluhálsins (Austurhálsins) fylgt til suðurs. Áður hafði uppspretta lækjar þess er rennur niður um Ögmundarhraun og reynir nú eftir bestu getu að hlaða undir sig jarðvegi úr hlíðunum til að komast til sjávar, opinberast. Í Krýsuvík var fjöldi íbúa og býla stöðugur fram undir 1825, en eftir það fór ásókn í nýbýli að aukast í sókninni. Til að byrja með voru stofnuð nýbýli undir Bæjarfelli, þ.e. Garðshorn og Lækur. Landrými var hins vegar takmarkað og voru þrjú Gestsstaðirnýbýli stofnuð fjarri Bæjarfelli á árunum 1830-1850. Vigdísarvellir og Bali á svokölluðum Vigdísarvöllum og Fitjar undir fellinu Strákum suður undir sjó. Fólksfjöldinn í sókninni jókst stöðugt og varð mestur á 6. áratug 19. aldar þegar rúmlega 70 manns byggðu sóknina. Á þeim árum byggðust kotin Arnarfell, Snorrakot og Hnaus, sem voru í byggð einujngis í skamman tíma.
Eftir 1865 fór svo að halla undan fæti fyrir byggðinni. Fólkinu fækkaði um leið og býlin lögðust í eyði hvert á fætur öðru. Eftir aldarmótin voru íbúarnir orðnir færri en í byrjun 18. aldar og einungis 3 bæir í byggð. Litli Nýibær og Vigdísarvellir lögðust í eyði eftir jarðskjálfta 1905.
Gengið var inn á svonefndan Drumbsstíg austur yfir hálsinn til Krýsuvíkurtorfunnar. Efst í brúninni er drykkjarsteinn. Um er að ræða þægilega leið um fallegt umhverfi. Þegar komið var að austurbrúnum Austurshálsar var stefnan tekin til norðurs. Stígur liggur með móbergshlíðinni. Upp í einni gróðurkvosinni má sjá tóftir. Leifar hinna fornu Gestsstaða (sem nú eru friðlýstir) sjást að handan. Tóftirnar í hlíðinni eru að öllum líkindum hluti megintóftanna og ættu því að njóta friðlýsingar að sama skapi. Reyndar njóta þær hennar skv. Þjóðminjalögum því þar eru allra minjar eldri en 100 ára friðaðar.
TóftEkki er vitað til þess að fornleifauppgröftur hafi farið fram á að Gestsstöðum í Krýsuvík, en eflaust kemur að því. Guðrún Gísladóttir segir í skýrslu sinni um „Gróður ofl. í Reykjanesfólkvangi“ að gera ætti upp allar sýnilegar rústir á svæðinu. Taka má undir orð hennar að hluta því nauðsynlegt er að endurgera a.m.k. eitt sel og eina verbúð á svæðinu.
Getsstaðatóftirnar sunnan undir brúnum Gestsstaðavatns (sem nú hýsir starfsemi Krýsuvíkursamtakanna) sjást vel frá hálsinum. Vestar er stór ílöng megintóft, en austar tóftaþyrping.
Í Gestsstaðavatni er silungur. Vatnið var vatnsforðabúr Vinnuskólans á sínum tíma. Austar er Grænavatn, alldjúpur sprengigígur. Gestsstaðavatnsgígurinn hefur jafnan verið nefndur „hinn mildi“ á meðan Grænavatnsgígurinn hefur fengið nafnbótina „hinn hvassi“. Nafngiftin er fengin af brúnum þeirra.
Austanverðum hálsinum var fylgt uns haldið var niður að Sveinssafni – að upphafsstað.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 31 mín.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja.

Tvíbollahraun

Um kl. 15:00 í dag (22.07.2009) var tilkynnt um reyk í hrauninu milli Valahnúka og Helgafells. Slökkviliðsmenn frá SHS komu á vettvang á sexhjóli skömmu síðar. FERLIR fór að sjálfsögðu fótgangandi á vettvang. Þegar á tilkynntan stað var komið varð ljóst að mikinn reyk lagði upp úr hrauninu ofan við Kaplatóur.
Gert klártEldurinn var í jaðri Tvíbollahrauns, sunnan gömlu Selvogsgötunnar, milli Kaplatóa og Strandartorfa. Af ummerkjum að dæma virðist sem göngufólk á leið um Selvogsgötu skömmu eftir hádegi þennan dag hefði sest niður í skjólinu undir jaðri hraunsins, hvílt sig, etið m.a. epli og appelsínubát og síðan kveikt í vindlingi – áður en það hélt ferðinni áfram. Glóðin úr reyktum vindlingnum gæti óafvitandi hafa kveikt eldinn í skrjáfþurru lynginu og mosatóunum með tilheyrandi afleiðingum.
Við fyrstu sýn var að sjá sem óvinnandi vegur væri að slökkva elda og glóðir í skrjáfþurrum mosanum. Þegar reynt var að drepa í á einum stað kom sjálkrafa upp eldur á öðrum skammt frá. Hraunið sjálft er þarna úfið apalhraun og því varla á færi færustu manna að slökkva slíkan eld á þeim staðnum. Allt stefndi í að mosahraunið, eða öllu heldur mosahraunin, norðan Bláfjallavegar og austan Helgafells myndu brenna öðru sinni. Fyrra sinnið var um 980 er Tvíbollahraunið upphaflega rann. Undir því er Þríhnúkahraun, norðaustar Húsfellsbruni og suðvestar Stórubollahraun og Hellnahraun; allt mikil mosahraun. Svæðið sem heild er líka sérstaklega viðkvæmt því um vatnsverndarsvæði Hafnfirðinga er að ræða.
BrunasvæðiðÍ frétt mbl.is frá því í marsmánuði mátti lesa eftirfarandi: „Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar og yfirmenn Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins æfðu viðbrögð við gróðureldum við Kleifarvatn í gær. Við æfingarnar notaði þyrlusveitin tvö þúsund lítra fötu til að dæla vatni upp úr Kleifarvatni. Fatan var keypt eftir gróðureldana miklu á Mýrum árið 2006.“ (Sjá fréttina.)
Þarna var komin lausin að vandanum. Þyrla Landhelgisgæslunnar var kvödd til með fyrrgreindan búnað, vatn sótt í Hvaleyrarvatn og hellt yfir eldsvæðið, aftur og aftur. Eftir u.þ.b. 20 ferðir með vatn mátti lesa eftirfarandi á mbl.is: „Slökkvistarf stendur enn yfir þar sem eldur kviknaði í mosa og öðrum gróðri í hrauni á milli Helgafells og Valahnjúka við Kaldársel í nágrenni Hafnarfjarðar um klukkan hálf þrjú í dag.
SlökkvistarfiðSamkvæmt upplýsingum slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins gengur slökkvistarf nú betur en það gerði fyrr í dag. Alltaf er þó erfitt að slökkva í mosa og þurfa slökkviliðsmenn að nota skóflur til að grafa upp mosann og komast að eldunum. Þá er erfitt að komast að svæðinu þar sem það er fjarri vegum og erfitt yfirferðar.
Þyrla Landhelgisgæslunnar hefur því verið notuð til að flytja vatn til slökkvistarfsins í dag. Hún hefur nú flogið tugi ferða með vatn á svæðið og m.a. hellt vatni yfir kanta þess.
Heldur hefur dregið úr eldinum en þó er gert ráð fyrir að slökkvistarf standi fram eftir nóttu og að eftirlit verði á svæðinu í nótt.“ Með fréttinni fylgdi að sjálfsögðu mynd frá FERLIR.
GlóðEftir að hafa verið um stund á staðnum, rætt við slökkviliðsmenn og fylgst með vatnsdreifingu þyrlumanna má segja að þar hafi æðrulausir fagmenn verið að verki. Byrjað var á því að slökkva elda upp í vindáttina (að norðanverðu), síðan hugað að jöðrunum beggja vegna og loks lokað fyrir frekari útbreiðslu eldsins til suðurs. Allt tók þetta tíma. Slökkviliðsmenn á jörðu niðri leiðbeindu flugmönnum þyrlunnar inn á svæðið. Í fyrstu virtust aðfarirnar ómarkvissar, en þegar á leið reyndust þær mjög fagmannlegar. Til að mynda var þyrlunni flogið inn yfir svæðið og vatninu sleppt úr skjóðunni á þarflegustu staðina, staðnæmst, bakkað og 2000 lítrarnir þannig nýttir til hins ítrasta. Segja má að eldurinn á svæðinu hafi þannig orðið bæði hin ágætasta æfing við erfitt slökkvistarf við tilætlaðar aðstæður og auk þess má segja að án notkunar þyrlunnar og tilheyrandi búnaðar hefði slökkvistarf þarna verið næsta vonlaust.
SlökkvistarfiðÍ stað þess að allt mosahraunið (eða öll) hafi brunnið þarna á þessum tíma brann einungs svæði sem nam ca. 15×30 metrar – og verður það að teljast lítið við framangreindar aðstæður, þökk sé ágætum slökkviliðs- og þyrluflugmönnum sem og tilheyrandi búnaði.
Undir kvöld birtist eftirfarandi frétt á www.visir.is: „Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins barðist við töluverða gróðurelda í mosa og lággróðri, í hrauni í nágrenni Hafnarfjarðar seinni part dags og fram á kvöld.
HvunndagshetjurRétt fyrir ellefu tókst endanlega að slökkva eldana en þyrla Landhelgisgæslunnar tók virkan þátt í slökkvistarfinu.
Slökkviliðsmaður, sem fréttastofa náði tali af, telur að þyrlan hafi í heildina farið um 50-60 ferðir á svæðið. Þyrlan fór með um tvö tonn af vatni í hverri ferð og jós hún því líklega á bilinu 100-120 tonnum af vatni yfir svæðið.
Í augnablikinu eru tveir slökkviliðsmenn sem vakta svæðið en ljóst þykir að töluverðar gróðurskemmdir hafi hlotist af eldinum, hve miklar er ekki ljóst á þessari stundu.
Ekki er vitað um ástæður eldsupptaka.“
Á mbl.is á sama tíma sagði: „
Slökkvistarfi þar sem eldur kviknaði í mosa og öðrum gróðri í hrauni á milli Helgafells og Valahnjúka við Kaldársel í nágrenni Hafnarfjarðar lauk á tólfta tímanum í gærkvöldi samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni en þyrla hennar var notuð til að slökkva eldinn.Samkvæmt upplýsingum slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins gekk slökkvistarf betur er líða tók á daginn. Alltaf er þó erfitt að slökkva í mosa og þurftu slökkviliðsmenn að nota skóflur til að grafa upp mosann og komast að eldunum. Þá var erfitt að komast að svæðinu þar sem það er fjarri vegum og erfitt yfirferðar. Þyrla Landhelgisgæslunnar var því verið notuð til að flytja vatn til slökkvistarfsins. Hún flaug tugi ferða með vatn á svæðið og hellti  m.a. vatni yfir kanta þess. Gert var ráð fyrir að eftirlit yrði á svæðinu í nótt.“ (Sjá fréttina HÉR.)
HÉR má sjá hvert þyrlan sótti vatnið.
Umfjöllun netmiðlanna er sett hér inn vegna þess að með því mun hún lifa þá til mun lengri tíma…

Heimild m.a.:
-mbl.is 17.04.2009.
-mbl.is 22.07.2009.
-visir.is 22.07.2009.

Tvíbollahraun

Tvíbollahraun.

Lágafellsleið

Á ferð FERLIRs með vesturmærum Grindavíkur frá austanverðum Valahnúk um Sýrfell, Súlur og Stapafell áleiðis að Arnarkletti var m.a. gengið þvert á forna þjóðleið milli Lágafells og Ósabotna (Hafna/Keflavíkur). Leið þessi er vörðuð litlum vörðum og eru sumar fallnar fyrir alllöngu, einkum norðan af.
LeidirÞegar fyrrnefnd leið var skoðuð frá sunnanverðu Lágafelli og henni fylgt niður að Ósabotnum kom í ljós að sumstaðar hafi verið kastað úr götunni, en mosi gróið yfir. Þannig sást hún t.d. greinilega suðvestan í Lágafelli, brú var hlaðin á Súlugjá og þá sást hún vel norðan Mönguselsgjár. Lægð er í landinu svo til alla leið að Mönguselsgjá. Gatan er vörðuð í lægðinni. Ljóst er að leið þessi hefur ekki verið farin um aldir og hún virðist flestum gleymd. Ekki er ólíklegt að leiðin hafi verið notuð fyrr á öldum jafnt fyrir ferðir frá Þórkötlu- og Járngerðarstöðum í Hafnir, að Básendum og í Keflavík. Ekki hefur enn verið fullkannað hvar gatnamótin eru, en það verður gert fljótlega, nú þegar búið er að kanna meginleiðina.
Í örnefnalýsingu Vilhjálms Hinriks Ívarssonar frá Merkinesi um Hafnahrepp má lesa eftirfarandi: „Svo sem 1/2 kílómetra norðaustar í gjánni er klapparhóll, sem lítið ber á, og heitir hann Gamli-Kaupstaður. Ekki er kunnugt um nafngift þessa nema ef vera kynni, að setja megi í samband við alfaraleið (hestagötu) úr Grindavík til Keflavíkur til forna og þarna hafi máske verið áningarstaður.“
Varda-29Líklega á Vilhjálmur Hinrik við þessa götu þegar hann nefnir alfaraleiðina. Um er að ræða auðvelda reiðleið, tiltölulega slétta að Lágafelli. Ásinn, sem þar þarf að fara yfir, er aflíðandi, gróinn og mjög greiðfær.
Sem fyrr sagði er ætlunin að skoða þetta víðfeðmi betur fljótlega m.t.t. framangreinds. Ekki er ólíklegt að ætla að hlöðnu fiskibyrgin undir Sundvörðuhrauni (bæði við Árnastíginn) og í Eldvörpum (við Hafnaheiðaveginn)) hafi verið staðsett með hliðsjón af þessarri leið, sem eftirleiðis verður nefnd Lágafellsleið.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Heimild:
-Hafnir (Hafnahreppur), Vilhjálmur Hinrik Ívarsson skráði. Skrásetjari:  Vilhjálmur Hinrik Ívarsson; fæddur 12/8 1899, Eyvík, Grímsnesi, Árnessýslu; flytur að Merkinesi í Höfnum 1934.

Arnarbæli

Varða á Arnarbæli.

Sólstafir

Sérhver sá, sem upplifir að sjá sólstafi, gleymir aldrei þeirri sjón. Óvíða eru sólstafirnir fegurri en á Reykjanesskaganum, hvort sem er inn til landsins eða úti yfir sjó.
Sólstafir En hvernig stendur á því að sólstafir eru eins og þeir eru; ekki lóðréttir, heldur eins og blævængur á hvolfi?
„Sólstafir myndast þegar sólin skín gegnum göt í skýjaþykkninu og geislar hennar ná að lýsa upp loftið í samanburði við dekkri bakgrunn. Af þessu leiðir að stefna þeirra er beint frá sól. Hér á norðurslóð eru þeir því aldrei lóðréttir heldur getur frávik þeirra frá láréttu mest orðið um 50° á Suðurlandi en nokkrum gráðum minna á Norðurlandi.
Sólin er svo langt í burtu að sólstafir og sólargeislar eru allir samsíða. Sólstafir sýnast mynda blævæng eins og spyrjandi segir og það stafar af þrívíddaráhrifum (perspektífi), samanber að beinn og jafnbreiður vegur framundan sýnist mjókka. Margir kannast við þetta af alls konar myndum. Sólstafirnir stefna í rauninni allir frá einum punkti á himninum, punktinum þar sem sólin væri ef við sæjum hana en það gerum við sjaldnast þegar sólstafir eru á lofti.
SólstafirVissulega getur komið fyrir að einn sólstafurinn virðist lóðréttur við fyrstu sýn. Þegar betur er að gáð sjáum við þó einnig að hann sýnist breikka niður á við. Þetta er líkast því að stigi sem er alls staðar jafnbreiður hallist að húshlið og við horfum á hann þvert á hana. Stiginn virðist þá breikka niður á við alveg eins og sólstafurinn og af nákvæmlega sömu ástæðu.
Sólstafir eru skemmtilegt og snoturt náttúrufyrirbæri sem er ekki erfitt að skilja með svolítilli umhugsun. Við ættum að gefa okkur tíma til að virða þá fyrir okkur og hugleiða þá þegar þeir láta sjá sig. Þeir geta leitt hugann að ýmsum fræðigreinum, svo sem stærðfræði (rúmfræði), eðlisfræði (ljósfræði), stjarnvísindum (ganga og fjarlægð sólar), veðurfræði (eðli lofthjúpsins) og listasögu (perspektífið). Ásamt öðrum hliðstæðum fyrirbærum eru þeir líklega kveikjan að því að okkur er svo tamt að líta á ljósið sem geisla.“
Matthías Jóhannessn orti „Á ferð um landið“:

Sólstafir„Í dag voru sólstafir
á fjöllum
og skuggi af hvítu skýi
sigldi fullum seglum
eftir dimmbláum hlíðum
lyngs og mosa.“

Á sama hátt ortu Haraldur Reynisson og Sigurður Sigurbjörnsson frá Vígholtsstöðum:

„Það grétu allir englar á himnum í nótt.
hamingjutárum,
og ég upplifði það sem ég ætíð hef sótt,
til þín, á liðnum árum.“

Einhverjum varð að orði er hann sá fallegu sólstafina: „Ég vona að himininn verði einmitt svona þegar ég dey“. Þessi tíu orð endurspegla nákvæmlega hugvitund svo margra er líta fyrirbærið augum. Svo virðist sem einmitt þá gangi hið himneska og hið mennska hvoru öðru á hönd – sættist á svo undurfagran hátt.

Heimild:
-visindavefur.is

Sólstafir

Bæjarráð Grindavíkur samþykkti fyrir stuttu að kosta endurprentun á öllum minja- og örnefnakortin á skiltastöndunum sjö er settir hafa verið niður í gömlu byggðinni, áhugasömu og fróðleiksfúsu fólki um sögu byggðalagsins til ánægju.

Grindavik - uppdrattur StadaehverfiEldri skiltin voru prentuð á pappír og sett undir plast, en hin nýju voru prentuð á ál með sérstakri teflonplastfilmu yfir. Veðrun hafði afmáð alla áletrun svo við blasti einungs hvítur flötur.
Nú er búið að koma öllum skiltunum sjö fyrir á sínum stað – fallegri sem aldrei fyrr.
Hér er uppdráttur af Staðarhverfi. Tilgreindir bæir eru 28, auk þess sem minja og örnefna er getið. Meðfylgjandi á skiltinu er svo sögulegur fróðleikur um hverfið.
Þá má geta þess að Grindavíkurbær hefur gefið úr rit; Sögu- og minjakort af Grindavík. Ritið hefur að geyma öll kortin auk meðfylgjandi fróðleiks. Það fæst ásamt öðrum ritum um gersemar Grindavíkur í Kvikunni í hjarta bæjarins.

 

Gerðavellir

Gerðavellir – uppdráttur ÓSÁ.

 

Norðurkot

Gengið var með frískum hóp um Kálfatjörn. Ein í hópnum hafði verið svo forsjál að fá léðan lykil af Kálfatjarnarkirkju. Eftir að hafa lokið upp kirkjudyrum var þátttakendum boðið inn fyrir. Þar rakti hlutaðeigandi það helsta sem fyrir augu bar, s.s. hina sérstöku málningarvinnu dansksins Bertelsens, sem enst hefur í meira en öld, og rennismíði Þorkels Jónsson, ábúandi í Móakoti, auk þess sem hún lýsti einstökum munum.
Fram kom að Kálfatjarnarkirkja var helguð kalfatjornPétri postula, en elstu haldbærar heimildir um kirkjuna eru í fornum máldögum og kirkjuskrá Páls biskups Jónssonar frá árinu 1200. Kirkjan var einnig nefn Maríukirkja og kirkja hins heilaga Þorláks biskups í Vogum fyrir 1367. Síðasti staðarprestur á Kálfatjörn var séra Árni Þorsteinsson, en eftir að hann lést árið 1920 tók við jörðinni Erlendur Magnússon frá Tíðargerði og kona hans Kristín Gunnarsdóttir frá Skjaldarkoti. Þau hófu búskap í Tíðargerði en fluttu að Kálfatjörn 1920 og bjuggu þar allan sinn búskap eða allt til ársins 1975. Erlendur var fyrsti og eini kirkjubóndinn á Kálfatjörn. Synir þeirra hóna voru Magnús, Ólafur, Gunnar og Erlendur og dæturnar hétu Herdís og Ingibjörg. Herdís bjó áfram á Kálfatjörn eða þangað til íbúðarhúsið brann með dularfullum hætti.
Efst á kirkjuturninum er ártalið 1893, en það er smíðaár timburkirkjunnar, sem nú stendur. Teiknari og yfirsmiður var Guðmundur Jakobsson, en við grunnbygginguna vann Magnús Árnason steinsmiður frá Holti, viðurkenndur hagleiksmaður. Kirkjan var reist á 14 mánuðum, en þá var kirkjuturninn öðruvísi útlits en nú er.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – ártalssteinn úr sjóbúð.

Þá var gengið niður með hinni aldargömlu hlöðu á kirkjuhlaðinu, framhjá tóttum fjóssins, hinu botnlauslausa Víti og Hólkoti, niður með Kálfatjörn með sjóbúðina á vinstri hönd og síðan áfram til vesturs með ströndinni. Þar var gamla bátagerðið skoðað ásamt fjárhúsunum og Hausaréttinni. Á steinum réttargarðsins voru áberandi hvítar og gular skófir. Einn þátttakenda kunni eðlilega skýringu á því, en hún var eftirfarandi í mjög styttri útgáfu: Bóndakona týndi snældu, en gat ekki endurheimt hana nema greiða fyrir hana með mikið af graut. Dugði það ekki til og þurfti því að taparinn enn og aftur að punga út stiga til viðbótar svo þyggjandinn gæti komið umframgrautnum til Maríu meyjar. Á leiðinni þangað með grautinn hrapaði sá ferðaglaði og lenti að lokum á jörðinni. Hvítu og gulu skófirnar á grjótinu eru síðan ævarandi merki um heilaslettur hlutaðeigandi og grautinn góða“. Engin ástæða er til að draga þessa sögu í efa frekar en margar aðrar.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – skósteinn með ártali.

Gengið var upp að Goðhól og húsin þar skoðuð sem og garðar og annað markvert. Haldið var yfir að Norðurkoti, litið á hlaðinn brunninn og síðan kíkt inn í gamla skólahúsið. Þar voru gömlu kennslubækurnar enn á borðum, bæði orðsins bækur svo og draumabækur unga fjósamannsins. Fengin var að tímabundnu láni handskrifuð Kennsluritgerð Ingibjargar Erlendsdóttur frá árinu 1942 um „nokkra meginþætti í stjórn og starfi barnaskóla“. Ritgerðin skiptist í: I. Inngang og uppeldi, II. Tilgangur skóla, III. Stjórn skóla, IV. Niðurskipan skólastarfsins, V. Refsingar, V. Kennsla og kennsluaðferðir, VII. Námið og gildi þess og VIII. Kennarinn og hlutverk hans. Tilefnið var notað og lesin hluti ritgerðarinnar, en hún verður tölvuritfærð fljótlega og send viðkomandi til gagns og gamans. Ritgerð þessi hefur aldrei áður birst á prenti – sjá HÉR.
Gengið var niður gamla flóraða götu með garðinum að Norðurkotsbyrginu á sjávarkambinum. Þar mun hafa verið salthús. Síðan var ströndin gengin til vesturs og fjaran skoðuð. Komið var að völundar spili í fjörunni og síðan tók fagurhvít sandfjara við, sbr. meðfylgjandi mynd. Staðnæmst var í fjörunni neðan við Landakot, litið á Landakotsbrunninn og síðan gengið var til baka með ofanverðri ströndinni. M.a. var litið á leturssteininn [A° 1690] í kirkjubrúnni á gömlu kirkjugötunni að Kálfatjarnarkirkju og Landabrunninn, hið forna þvottastæði Kálfatjarnarfólksins. Kvenkrían lét í sér heyra að venju á meðan karlkrían tók lífinu með stóískri ró. Golfararnir voru hljóðlátari en jafnan. Þekktu kannski orðið söguna og tilurð vallarins.
Veður var frábært – logn og sól.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – uppdráttur ÓSÁ.

Húsatóptir

Gengið var frá Markhól austast í landi Húsatópta vestan Grindavíkur, um Stekkjartún, Vörðunes, Arfadal og Kóngshellu út að Hvirflum. Þá var ofanlandið skoðað, s.s. Nónvörður, Hjálmagjá og Baðstofa, auk hinna gömlu tófta á Húsatóptum.

Húsatóftir

Nónvarða ofan Húsatófta.

Austast í Tóptarlandi eru brunnarnir, s.s. Tóptarbrunnur og Stakibrunnur, en vestast í Járngerðarstaðahverfi eru Gerðabrunnar eða Gerðavallabrunnar. Grindvíkingar kölluðu og kalla ferksvatnstjarnirnar ofan við sjávarkambinn brunna. Sjávarfalla gætir í brunnum þessum sem og í nálægum gjám, s.s. Bjarnagjá, sem er á mörkunum, og Baðstofu.
Hverfin í Grindavík eru þrjú; Þórkötlustaðarhverfi austast, Járngerðarstaðarhverfi í miðið og Staðarhverfi vestast. Hér er gengið um hið síðastnefnda (fyrri hluti).

Húsatóptir

Húsatóptir -Vindheimar; túnakort.

Húsatóptir, þar sem golfvöllur Grindvíkinga er nú, var önnur stóra jörðin í Staðarhverfi. Hin var Staður. Árið 1703 voru Húsatóptir konungsjörð og lá til Viðeyjarklausturs. „Selstöðu hefur jörðin lángvaranlega haft þar sem heitir á Selsvöllum, er þángað bæði lángt og erfitt að sækja.“ Hjáleigur voru Kóngshús og Garðhús. Árið 1936 var jörðin seld „með fleiri kóngsjörðum þetta ár, fyrir 630 ríkisdali í silfri til þáverandi landseta. Höfðu Viðeyingar hér áður útræði (1847). Til forna átti Staður rétt til vatnssóknar í Baðstofu í Húsatóftalandi. Til endurgjalds áttu Húsatóftir þangfjörutak á Stað. Kaupstaður var á Húsatóptum og var lent við Kóngshellu. Jörðin fór í eyði 1946. Fimm tómthúsbýli voru byggð í landi Húsatópta á árunum 1906-1934; Dalbær (1906-46), Vindheimar (1911-34), Blómsturvellir (1914-22), Hamar (til 1930) og Reynistaður (1934-38). Vel má sjá móta fyrir öllum þessum býlum í vesturjaðri golfvallarins sunnan Húsatópta.

Húsatóftir

Húsatóftir – byggt 1930.

Árið 1703 var túnið á Húsatóptum mjög spillt af sandi og „enn hætt við meiri skaða“. Engvar öngvar og mestallt landið hraun og sandi undirorpið. Árið 1840 var hins vegar önnur lýsing gefin af Húsatóptum: „Mörgum þykir fallegt á bæ þessum því þar eru stór tún, slétt og fögur, þegar í blóma standa, eru þau og allvel ræktuð.“
„Bærinn stóð spottakorn frá sjó, á háum og víðsýnum fleti“, segir í sóknarlýsingu. Á túnkorti frá 1918 eru sýndar tvær húsaþyrpingar, en tvíbýli var á Húsatóptum. Tóftir gömlu bæjanna eru þar sem nýrra íbúðarhúsið stendur nú, uppi á brekkunni ofan vegarins. Annars eru tóftir fyrir austan húsið og hins vegar um 15 m vestan þess. Tóftirnar eru enn greinilegar að hluta, en sléttað hefur verið fyrir golfvellinu allt umhverfis þær. Nýja húsið er stendur neðar, var byggt 1930 af Einar Jónssyni og sonum hans. Það hýsir nú Golfklúbb Grindavíkur.

Húsatóptir

Húsatóptir – sjá má torfbæinn v.m.

„Frá þeim tíma [þ.e. verslunarinnar] er gólfið þar í bæjardyrunum steinlagt með tígulsteini. Er líklegt að Kaupmannshúsin hafi verið rifin þegar verzlunin lagðist niður, en svo aftur byggður bóndabær í „tóptum“ þeirra, og fengið þar af nafnið, sem hann hefur nú“, segir Brynjúlfur Jónsson í grein frá árinu 1903. Íbúðarhús úr steini var byggt á bæjarhólnum 1930, en fram að því hefur verið þar toftbær. Hús voru byggð 1777 með „binding úr torfi og grjóti að utan en göflum úr timbri“. Einnig var þar íbúðarhús beykisins, byggt 1779, „með veggjum úr torfi og grjóti, enm þaki úr timbri“. Eldra íbúðarhúsið er nú stendur að Húsatóptum, byggt 1930, stendur neðar og vestar en tóftirnar. Það hýsir nú golfskála Grindvíkinga. Tóftirnar fast austan við nýja íbúðarhúsið eru á hól. Þær eru tveggja hólfa, en á milli hólfanna er steyptur pallur. Um 20 m norðaustan við tóftirnar eru leifar húss eða kálgarðs.

Húsatóftir

Efri-Sundvarða austan Húsatófta.

„Hjáleigan Kóngshús stóð niður við Húsatóptarvör“, segir í Sögu Grindavíkur. Fast vestan Tóptarvarar er stór klöpp, sem á standa rústir sjóhúss. Er líklegt að hjáleigan hafi verið á svipuðum stað. Klöppin er alltaf upp úr sjó, en getur verið mikið umflotin á flóði. Hún er grasi gróin að hluta. Ekki eru aðrar tóftir á klöppinni en steypurústin, en sunnan í klöppinni standa tveir fúnir timburstaurar úr sjó.
Hjáleigan Garðhús var til 1703. Í Sögu Grindavíkur segir að ekki sé ljóst hvar hjáleigan, sem nefnd var Garðhús, stóð.
Stekkjatún er norðan Jónsbásakletta. Í örnefnaskrá segir að Markhóll, gróinn hóll, sé austast á mörkum, en vestan við hann er Hvalvík. Vestan Hvalvíkurkletta er Jónsbás, u.þ.b. 80 m breiður. Vestan Jónsbáss er hár malarkambur, kallaður Stekkjatúnskambur. Tóftabrunnar, sjóvatnstjarnir, eru fast vestan við gamla veginn, vestan við Bjarnagjá, vatnsfyllta gjá fast austan við Markhól. Þá er Stekkjartúnsbarð og þá kemur Stekkjatún vestan þess. Ofan við Stekkjatún er Stakibrunnur.

Húsatóftir

Baðstofa.

Þann 14. janúar 1902 sigldi enski togarinn Anlaby í strand við Stekkjartúnskamp og fórst öll áhöfnin.Vestan við Stekkjartúnskamp eru klettabásar, nefndir Sölvabásar. Vestan við Sölvabása skagar tangi fram í sjó. Heitir hann Vörðunes, en er í daglegu tali nefndur Vörðunestangi. Beint upp af honum, u.þ.b. 1 km, er stór hlaðin varða. Tvær vörður með dálitlu millibili stóðu á bakkanum tæpum 200 austan við Vatnslón. Vörður þessar heita Sundvörður. Efri varðan er um 800 m austan við bæjarhólinn á Húsatóptum, í uppgrónu hrauni.  Í örnefnaskrá segir að „þegar þær bar í háan hraunstand í háhrauninu og í Höskuld, hnjúk austan í Þórðarfelli, þá var verið á réttu Djúpsundi. Var því miði haldið, þar til Hvirflavörður bar saman á Snúningnum. Þá var sveigt til vinstri inn á Staðarvík, en þaðan var greið leið inn í Staðarvör og Tóptarvör, þótt brimhroði væri. Snúningur var nefnt, þar sem beygjan var tekin, og talað var um að vera komin á Snúning.“ Varðan er hlaðin úr hraungrýti og er um 2 m á hæð. Hún er mest um 1,5 m í þvermál og umför grjóts eru um tíu. Neðri varðan er skammt austan við þar sem hús fiskeldisins standa nú (suðvestar).
Þvottaklappir eru vestan við Vatnslónsvík, vestan við Vatnslónskletta. Á þeim eru daufar uppsprettur. Þær draga nafn sitt af því, að þegar lágsjávað var, rann þarna mikið vatn niður í fjöruna og var farið þangað með þvott frá Húsatóptum og hann skolaður. Var það kallað „að fara í Vötnin“. Vatnslónsvík er fyrir suðvestan fiskeldið.

Húsatóftir

Húsatóftir – fiskibyrgi.

Tóptarklöpp er stærst klappanna. Hún er um 100 metra norðaustur af steyptri bryggju og er vestasti hluti skerjatangans, austan við grónu klöppina, sem steypta sjóhúsarústin stendur á. Á henni voru fiskhjallar áður fyrr. Guðsteinn Einarsson segir að þar hafði lengi staðið sjávarhús frá Húsatóptum, en þau voru farin af fyrir síðustu aldamót (1900) og þá komin upp á bakkann fyrir ofan. Tóptarvör er vestan Tóptarklappar, vestast í Garðsfjöru. Búðasandur tekur við af henni til vesturs. Vörin er á milli Tóptarklappar og grónu klapparinnar, sem steypta rústin er á.
Barlestarsker er beint niður af Húsatóptum, millli Þvottaklappa og Garðsfjöru, í Vikinu. Skerið er skerjatangi syðst í Garðsfjörunni. Ef tekið er mið af klöppinni með steyptu rústinni er Tóptarklöpp austan við hana, en Barlestarsker sunnan við hana. Þau eru tvö. Þar munu verslunarskipin hafa tekið barlest. Í öðru Barlestarskerinu var festarbolti gegnt öðrum í Bindiskeri í Vatnstanga í landi Staðar.

Staður

Staður í Grindavík. Hafnarkort Dana frá einokunartímanum.

Keðja mun hafa legið þvert yfir víkina milli festarboltanna og voru verslunarskipin á dögum kóngsverslunarinnar svínbundin við keðjuna, þar sem þau lágu á víkinni. Svínbundið var þegar skip var bundið bæði aftan og framan langsum á keðjuna, þannig að hlið lægi að henni.
Boltinn í Barlestarskeri var stór, fleygmyndaður með auga í efri endanum. Hann var lengi notaður sem hestasteinn á hlaðinu á Húsatóptum, en er nú sagður vera í garði húss í Járngerðarstaðahverfi. Festarboltinn á Bindiskeri er enn á sínum stað. Í lýsingu Brynjúlfs Jónssonar frá 1903 segir „að skipin hafi verið bundin á þrjá vegu við járnbolta, sem festir voru í klappir. Tveir af þeim voru í Húsatóptalandi, en einn í Staðarlandi. Jón bóndi Sæmundsson á Húsatóptum lét, nálægt 1850, taka upp báða þá boltana, sem í hans landi voru og færa heim til bæjar. Var annar hafður sem hestasteinn“.

Húsatóftir

Brunnur við Húsatóftir – Erling og Helgi Gam.

Búðarhella er upp af Kóngshellu. Næstur er Búðasandur er tekur við af Garðsfjöru allt frá Tóptarvör. Danska verslunarhúsið stóð á litlum hól, u.þ.b. 80 m upp af Tóptarvör. Ennþá sést móta fyrir grunni þess. Í sóknarlýsingu1840 segir: „Stóðu höndlunarhúsin niður við sjó nálægt Hvirflunum, en kaupmenn bjuggu heima á Húsatóptum.“ Á innri klöppinni (ofan við Kónshellu), sem er mun hærri, hafði krambúðin síaðst staðið. Þar stóð enn fisksöltunarhús Húsatóptarmanna er þar var róið 1865 og 1866. Þar á klöppini var aflanum skipt eftir róðra og gjört að fiskinum. Líklega er hóllinn, sem talað er um hóll sá, sem sumarbústaðurinn Staðarhóll stendur nú. Fast sunnan við hann er Búðasandur.

Verslun var í Grindavík áður, en hætt var við hana snemma á 18. öld. Höfnin var rétt við prestsetrið Stað, við hólma, sem hjallur var á.

Húsatóftir

Minjar dönsku einokunarverslunarinnar á Húsatóftum.

Skipin lágu milli hans og Barlestarskers. Verslunarhúsin stóðu á Búðartanga, en nú er tanginn að mestu brotinn af brimi. Þegar grafið var þar fyrir löngu fannst þar lóð, 100 pund að þyngd, sem bar merki Kónsghöndlunar. Þar finnast enn krítarpípur ef vel er leitað. Búðin var byggð 1779, einnig eldhús með múraðri eldstó og Gamla pakkhúsið (sennilega eldri verslunarbúð). Verslun var tekin upp á ný í Grindavík árið 1664, en hafði fram til 1639 verið í Járngerðarstaðalandi. Kaupmenn „fluttu sig um set vestur í Arfadal í landi Húsatópta. Þar var ráðist í umtalsverðar framkvæmdir og á uppdrætti, sem Kristófer Klog gerði af Grindarvíkurhöfn árið 1751 má sjá verslunarhús niðri við ströndina. Þau stóðu skammt frá svonefndum Hvirflum, sem heita Búðarsandur…“, segir í Sögu Grindavíkur. Á uppdrættinum sést tvílyft hús, talið vera krambúðin, sem reist var 1731, og minna hús sambyggt við austurendann. Þetta hús mun hafa staðið fram undir lok 18. aldar, en 1779 hafði ný krambúð verið byggð.
Kaupsigling var í Staðarvík til 1745, en eftir það var aðeins siglt til Básenda, þó ennþá væri verslað í húsunum í grindavík. Árni Jónsson keypti húsin á Búðasandi 1789, krambúð, eldhús og „gamla pakkhús“, en hann varð gjaldþrota 1796 og lagðist þá verslun alveg af í Grindavík. Verslunarhúsin voru rifin 1806.

Prestastígur

Prestastígur.

Í Arfadal, neðan við túnið á Húsatóptum, eru Pípuklettar. Neðan þeirra, með sjávargötu frá Húsatóptum, er lítill klettur (gróinn hóll), sem Pústi heitir. Þar hvíldu menn sig gjarnan, er sjófang var borið heim. Nú er Pústi í golfvellinum.
Út undir Hvirflum eru klettar, sem heita Háavíti og Lágavíti. Í þeim eru mörg grjótbyrgi, og var fiskur þurrkaður a þeim, áður en söltun kom til. Í hrauninu fast norðan við þjóðveginn eru margir greinilegir grjóthlaðnir hleðslugarðar. „Þá notuðu m.a. Skálholtsmenn til að herða fisk sinn“, segir Þorvaldur Thoroddsen í Ferðabók sinni.
Vestur af Húsatóptum er landið nokkuð hærra og heita Hæðir suðvestur af bænum. Á þeim eru Nónvörður, eyktarmark frá Húsatóptum. Vörðurnar eru tvær og standa á hárri ógróinni hraunbungu norðan við þjóðveginn. Fremri varðan sést greinilega frá veginum.

Húsatóftir

Húsatóftir – ein Nónvarðan.

Sagan segir að „þegar Tyrkir komu til Grindavíkur 1627, lentu þeir skipi sínu við Ræningjasker í landi Staðar. Gekk þá Staðarprestur upp á efstu brún Hæðanna, hlóð þar þrjár vörður og mælti svo fyrir um, að Grindavík skyldi ekki verða rænd, á meðan í þeim stæði steinn yfir steini.“ Hefur það orðið að áhrínisorðum, enda standa Nónvörður enn, auk vörðunnar á Nónhól skammt vestar, í Staðarlandi.
Árnastígur er sunnan við Klifgjá, vestast í jarði hennar, austan við túnið á Húsatóptum, vel rudd braut um apalhraun. Gamli vegurinn milli Staðarhverfis og Keflavíkur lá um Árnastíg og Klifgjá, þar norð-austur af er Þórðarfell. Um gjána lá svokallað Klif, snarbratt niður í hana. Er það hálfgert einstigi og illt yfirferðar með klyfjahesta, segir í örnefnaskrá. Syðsti hlutinn var bæði kallaður Staðar- og Tóptarvegur. Norðan Stapafells, kom gatan inn á svonefndan Járngerðarstaðaveg á landamerkjum Njarð- og Grindvíkinga. Leiðin er um 16 km löng.

Húsatóptir

Fuglaþúfa ofan við Húsatóptir.

Prestastígur er gömul þjóðleið milli Húsatópta og Hafna. Hrafnagjá er vestur af Grýtugjá undir jaðri Eldborgarhrauns. Yfir gjána er hlaðin brú þar sem hún er um 2 m á dýpt. Hleðslan er úr hraungrýti og mjög heilleg, um 2 m breið og um 4 m löng. Frá Hrafnagjá er einstigi um hraunið frá Sauðabæli út í Óbrennishóla.
Líklega er þar að finna svonefndan Hamrabóndahelli, sem mikið er búið að leita að. Troðningur þessi er fær öllum þótt slæmur sé, segir í örnefnaskrá. Gatan liggur í norðvestur upp frá vestanverðu túninu á Húsatóptum. Nú er upphaf götunnar sett við þjóðveginn austan Húsatópta, en golfvöllurinn hefur verið lagður yfir hana næst bænum.
Frá túninu túninu á Húsatóptum að Eldvörpum liggur gatan um mosagróið hraun, mjög úfið á köflum. Norðan Eldvarpa er landið sléttara, grónara og auðveldara yfirferðar. Leiðin er vörðuð svo til alla leiðina og eru flestar vörðurnar miklar og breiðar og vel uppistandandi. Hún er um 12 km.

Húsatóttir

Refagildra við Húsatóttir.

Skothóll, allhár og gróinn með fuglaþúfi í toppinn, áberandi í landslaginu. Hann er vestast í Tóptarkrókum. Hóllinn er á mörkum Húsatópta og Staðar. Skothólsgjá liggur eftir endilöngum hólnum (um 1 m djúp). Á Skothól hefur líklega verið legið fyrir tófu.
Útilegumannabyrgi eru í sunnanverðu Sundvörðuhrauni. Um þau er fjallað sérstaklega í annarri FERLIRslýsingu.
Byrgjahólar eru vestan við Tóptartúnið. Eru þar mörg hlaðin byrgi frá þeim tímum er allur fiskur var hertur. Byrgin, sum heilleg, eru ofan við Hjálmagjá. Þau eru yfirleitt kringlótt og hlaðin í topp. Á þeim voru lágar dyr, vafalaust til að stórgripir kæmust ekki inn í þau. Byrgin voru hlaðin úr stórgrýti og blés vel í gegnum þau. Fiskurinn var hengdur upp á slár inni í byrgjunum. Aðeins eitt byrgjanna er enn vel heillegt og uppistandandi að hluta.

Húsatóptir

Fiskbyrgi ofan Húsatópta.

Baðstofa er norðaustur af Tóptartúni, mikil gjá, 18 faðma djúp, þar af er dýpt vatnsins í botni hennar um 9 faðmar, segir í örnefnaslýsingu. Baðstofa er um 300 m austur af bæjarhólnum. Í gjána var oft sótt vatn, er brunnar spilltust í stórflóðum. Þótti vatn þar mjög gott.

Húsatóftir

Refagildra við Húsatóftir.

Svo sagði Lárus Pálsson hómapat, að hann tæki hvergi vatn í meðul annars staðar en í Baðstofu. Sögn er um, að Staðarprestur hafi fengið að sækja vatn í Baðstofu gegn því, að Húsatóptarbændur fengju að taka söl í landi Staðar. Gjáin er mjög djúp niður á vatnsborðið, en ekki nema um 3 m breið. Mikill gróður er í henni víða. Brú liggur yfir gjána þar sem vatni er dælt úr henni, en vatnið er bæði notað til vökvunar á golfvellinum og í fiskeldinu sunnan vegarins. Gegnumstreymi er á vatninu í gjánni. Skammt ofan gjárinnar er hlaðin refagildra.

Hjálmagjá er norðvestast (efst) í túni Húsatópta, grasi gróin í botninn. Haft var eftir gömlu fólki, að það hefði oft séð hamrana upplýsa með dýrlegum ljóshjálmum, sem bárum mjög af lýsiskolum í mannheimi. Sást þá oft huldufólkið úr Hjálmagjá leika listir sínar á skautum í tungsljósinu (.þe.a.s. í lægð í Húsatóptatúni, sem kallast Dans, og þar mynduðust góð svell í frosthörkum á vetrum), segir í örnefnaskrá.

Húsatóftir

Húsatóftir – minjar og örnefni – ÓSÁ.

Sunnan við Dans (sem er norðaustast í túninu) er Kvíalág og Fjósskák sunnan hennar. Næst er Harðhaus. Hann er ósleginn túnpartur um 120 m norður af bænum, fast utan golfvallarins. Þar hraktist aldrei hey. Í óþurrkatíð var Harðhaus sleginn til að fá þurrkt. Fjósaskák og Harðhaus náðu alveg heim að gamla bænum.

Þangggarðar voru suðaustan við bæjarhlaðið þar sem nú eru gamlar veggtóftir. Þar var þurrt þang geymt til vetrarins. Var því hlaðið þar upp og tyrft yfir það eins og hey. Á veturna var það svo notað til eldiviðar. Þangið var skorið í fjörunni, helst þegar stórstreymt var, og reitt á hestum upp á sjávarbakkann til verkunar. Þegar sterkur álandsvindur var, þá var þang of skorið „undir straum“, vafið um það gömlum netariðli ogmeð flóði fleytt í efsta flóðfar og þaðan reitt á hestum á þurrkvöll. Þá var breitt úr þanginu eins og heyi til þurrkunar. Nú var nauðsynlegt að rigndi vel á þangið, svo úr færi selta. Næst var þangið þurrkað vel, bundið í bagga eins og hey og flutt í geymslur til vetrarins. Oftast var þungu þangi hlaðið í bing í eldhúsinu og brennt á hlóðum. Vel þurrt þang logaði vel, með snarki og neistarflugi, en heldur þótti það léttur eldiviður. Kom sér þá vel að hafa „rekaspýtu í augað“.
Skipadalur er neðst í túninu. Þangað munu vertíðarskipin til forna hafa verið sett í vertíðarlok. Golfskálinn stendur í raun í Skipadal. Þar er nú sléttað malarplan. Skammt vestar er Húsatóptarbrunnurinn, sem enn sést móta fyrir.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Heimildir m.a.:
-Saga Grindavíkur
-Fornleifaskráning 2002 – FÍ
-Örnefnalýsing fyrir Húsatóftir

Húsatóptir

Refagildra ofan Húsatópta.

Býtibúr

FERLIR fer einungis einu sinni á ári út fyrir Reykjanesskagann í leit að öðrum áhugaverðum viðfangsefnum. Að þessu sinni var stefnan tekin á Hrunamannahrepp. Í sveitarfélaginu eru margir áhugaverðir staðir, t.d. búr Fjalla-Eyvindar í Skipholtsfjalli.
BúriðGengið var frá Jötu ofan við Brúarhlöð. Norðan við bæinn hefur verið komið fyrir skilti þar sem lýst er leiðinni að búrinu sem og frumlífshlaupi Fjalla-Eyvindar, þekktasta fjallamanns Íslandsbyggðar er þversniðinn varð útilegumannaásýnd landsins af þeirra tíma tíðaranda. (Sjá meira um Eyvind HÉR).
Þetta er í raun þægileg gönguleið, víðast hvar sléttlendi og það hallar undan fæti mest alla leiðina. Einn galli er á leiðarýsingunni á skiltinu, en hann er sá er vísað á aðra „prílu á rafmagnsgirðingu“. Sú príla er nokkru ofar á hestagötunni (vara ber við að bílslóði liggur samhliða og utan með henni) brotin og liggur niðri við girðinguna, en ef reiðleiðinni (ekki bílslóðanum) er fylgt frá fyrri prílu ætti viðkomandi að ratast rétta leið. Getið eru um stikur. Um er að ræða grænar plaststikur. Sú fyrsta er norðan við rafmagnsgirðinguna þar sem prílan á að hafa verið og síðan tekur hver við af annarri; fyrst strjálar en þær þéttast síðan er nær dregur byrginu.
„Við hellubúrið var í megindráttum dregið fram lífshlaup Eyvindar Jónssonar. Hann fæddist í Hlíð, næsta bæ við Foss 1714, en dvaldist í æsku- og unglingsárum sínum á fleiri bæjum, m.a. í Skipholti, þar sem Jón bróðir hans bjó.
Og þá meira um þetta byrgi. Þetta leynibyrgi eða búr er meistarasmíði hlaðið úr hellum. Höfundur þess hefur tileinkað sér fullkomna nýtingu á náttúruauðæfum staðarins. Það fellur óaðfinnanlega að landslaginu. Byggingarefnið eru hellur af holtinu úr næsta umhverfi. Búrið er um 40 sm á hæð og um 80 sm á hvorn veg að innanmáli. Framan við opið stendur hella, sem rís upp á rönd. 

Búrið

Að utan er búrið að hluta til með óreglulega lögun, sem fellir það enn betur að umhverfinu.
Hver hlóð þetta hellubúr? Hvenær var það hlaðið og til hvers var það notað? Margir hafa velt þessum spurningum fyrir sér. Eitt er víst að búrið hefur verið hlaðið í leyfisleysi, því engin skrásetning er um það né leyfisveiting hjá byggingafulltrúa Hrunamanna. Þetta haganlega mannvirki hefur áunnið sér réttindi þjóðsagnarinnar.
Tvennar tilgátur eru með tilgang búrsins. Önnur tilgátan er sú að fjárgæslu- og yfirsetudrengir ásauða hafi reist þetta sér til gamans og til geymslu nestis og afþreyingarverkefna í hjásetunni. Sú tilgáta lifir í hugum eldra fólks í sveitinni.
Hin tilgátan er að eigna Fjalla- Eyvindi þetta haglega hellubúr, sem féll svo vel að landslaginu að það gat staðið þarna án vitundar almennings í marga áratugi. Það er mjög freistandi að draga fram rök fyrir þessari tilgátu. Ferðir og dvalarstaðir Eyvindar voru háðir þagmælsku margra samtíðarmanna, sérstaklega hans nánustu. Öll hugsanleg aðstoð Jóns bróður hans varð að vera fullkomlega leynileg. Það að hylma yfir með grunuðum þjófi var saknæmt athæfi. Full ástæða hefur verið að koma öllum grunsemdum um þennan leynilega felustað þeirra fjarri alfaraleið. Aðrar byggingar Eyvindar og nýting byggingarefnis gefa sterka samsvörun með þessu litla búri og/eða byrgi.
Heiðartjörnin undir SkipholtsfjalliÞær sagnir bárust og voru í alla staði eðlilegar að Jón bróðir hans hefði reynt af fremsta megni að liðsinna honum í útlegðinni. Þetta byrgi fannst löngu eftir daga þeirra bræðra, að ártal er hvergi tímasett. Þá hika sveitungar þeirra bræðra ekki við að tengja tilveru og tilgang búrsins handlægni Eyvindar, útlegð hans, umhyggjusemi og aðhlynningu Jóns bróður hans. Þjóðsagan hermir að Jón hafi flutt honum matvæli og aðrar nauðsynjar upp í búrið og Eyvindur vitjað þeirra, er hann dvaldi á laun í nánd eða næstu óbyggðum.
Þessi tilgáta verður aldrei að fullu sönnuð. Með tilliti til hefðar þjóðsagnarinnar og sterkra munnmæla er það mjög freistandi að leggja þessa tilgátu fram fyrir ferðamenn og spámenn framtíðar, að einmitt þarna hafi hetja öræfanna og einn frægasti útilegumaður og launferðamaður Íslandssögunnar sýnt fram á hugkvæmni við að bjarga sér. Jafnframt bera hellusteinarnir þögult vitni miskunnar og bróðurkærleika Jóns bróður hans.
Þetta hellubúr er þá ekki síður veglegur minnisvarði um drenglyndi Jóns í Skipholti en hagleikni og handaverk Eyvindar.  Þeir bræður skipta þar á milli sín gæfunni og gjörvileikanum.“
Í leitinni að þessu smálega byrgi Fjalla-Eyvindar var m.a. gengið fram á heiðartjörn austan undir Skipholtsfjalli þar sem álftir syntu stoltar um með þrjá gráleita unga sína, steindepillinn lék sér að bergmáli fjallsins, og það með gogginn fullhlaðinn flugu fyrir unga sína,  og tóftir ónefnds eyðibýlis fékk að kúra í friði í skjóli fyrir norðanáttinni.
Þegar á vettvang var komið kom mjög á óvart hversu lítið „búrið“ reyndist vera, en þegar það var skoðað í ljósi nýtingarinnar sem slíkrar „per se“ þá var svarið bæði eðlilegt og augljóst. Hið smáa vandaða og hagleiksgerða handverk tengt hönnuðinum margfaldar stærð þess af augljósum ástæðum. Fyrrum var frumþörfin bæði sterkari og nauðsynlegri en nú mætti ætla, þ.e. þegar matur fékkst einungis sem undirbúningur, en ekki sem sjálfsagður pakkaumbúðnaður í Bónus (þar sem neyslustimpill vörunnar er gjarnan og að öllu jöfnu löngu liðinn þegar kemur að kaupum).
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Byggt á lýsingu Hjartar Þórarinssonar.

Skilti