Hafnarfjörður

Kotin og þurrkvíin – síðari hluti frásagnar Gísla Sigurðssonar, lögregluþjóns, í Þjóðviljanum árið 1960. “Hér segir Gísli nokkuð frá gömlu hafnfirzku kotunum, byggðahverfunum og gömlum örnefnum. En hann segir líka frá riddaranum og þurrkvínni hans, svo og kóngsins böðli og Bessastaðavaldinu, en fáa staði landsins hefur erlent vald leikið jafn grátt og byggðina á Suðurnesjum, bæði fyrr og síðar, og engir Íslendingar heldur lengur borið menjar erlendrar yfirdrottnunar en fólkið þar.

gisli sigurdsson IIIGísli Sigurðsson lögregluþjónn í Hafnarfirði hefur ekki aðeins safnað heimildum er komnar hafa verið að því að glatast, heldur hefur hann einnig grafið upp þræði úr sögu Hafnarfjarðar um hálfa fjórðu öld aftur í tímann. Í fyrri hluta spjallsins við hann vorum við komin að því að ræða um einstaka bæi og örnefni.
— Með fyrstu bæjarnöfnunum sem heimildir eru um hér í Hafnarfirði, segir Gísli, er Brúarhraun. Það var byggt um 1770, en líklega mun hafa verið þar sjóbúðarnefna á 17. öldinni.
Klofi var byggður 1775 og Gestshús um 1790. Fram af Gestshúsum var á sínum tíma byggð fyrsta hafskipabryggja í Hafnarfirði og Bæjarútgerðarhúsin standa á Klofalóðinni. Nýjahraun, (nú 27 við Strandgötu) var byggt 1806.
Garður eða Sigþrúðarbær stóð þar sem byggt var hús Einars Þorgilssonar (nr. 25 við Strandgötu). Markúsarbær (Markús þessi var forfaðir Brynjólf Jóhannessonar leikara) stóð þar sem nú er Sjálfstæðishúsið (nr. 29 við Strandgötu). Fyrsti bær við Lækinn var Weldingshús, byggt um 1784 og kennt við Kristján Welding, steinsmið og assistent við verzlanir hér. Frá honum er mikil ætt komin. Lækjarkotsnafnið kemur fyrst fram um 1830, en það er ekki það Lækjarkot sem síðar var kunnugt móti Dverg.
brandsbaer IIBæirnir voru eins oft kenndir við konur, t.d. Kolfinnubær, — sem einnig var nefndur Tutlukot. Á Hamrinum var Hamarsbærinn, sem Bjarni Oddsson verzlunarmaður hjá Linnet byggði á öldinni sem leið. Sjóbúð var þar nokkru sunnar. Hamarsbæjarnafnið færðist svo yfir á annan bæ, sem nú er Hellubraut 9, en upphaflegi Hamarsbærinn var svo kallaður Bjarnabær, og er nafnið í góðu gildi enn, Hella er byggð um 1870, og heitir þar svo enn. — Þá kemur næst suður í Flensborgar- eða Skuldarhverfið. Þar verður fyrst fyrir Guðrúnarkot. Nafn þetta lifir fram yfir 1860. Þar umhverfis rís svo heil bæjarþyrping, kölluð Skuldarhverfi. Hvernig nafnið er til komið er óvíst, en líklegt má telja að bæirnir hafi verið í skuld við Flensborgarverzlunina; það voru fátæklingar sem þarna bjuggu.
Óseyri verður til 1770-1774 og Ásbúð um svipað leyti og Melurinn. Brandsbær heitir svo eftir fyrsta búanda þar, Guðbrandi að nafni.
Hafnarfjordur 1890Í Vesturbænum var t.d. Skamagerens Hus, er fyrst hét svo, en síðar aldrei kallað annað en Skóbót. Skerseyrar og Bala er beggja getið í jarðabók Árna Magnússonar. Þar vestur frá var líka bær sem kallaður var Sönghóll, og hefur sennilega einhverntíma verið glatt á hjalla þar.
Fyrst framan af virðist Hafnarfjarðarnafnið aðeins hafa náð yfir byggðina norðan Lækjarins. Byggðin í hrauninu skiptist í Lækjarþorpið, það náði frá Gerðinu (hjá Barnaskólanum) og inn að Gunnarssundi. Brúarhraunshverfið náði frá Guðarssundi að Linnetsstíg — og suður að Læk við Ósinn. Frá Linnetsstíg tók við Skemmuþorpið vestur að Reykjavíkurvegi. Stofuþorpið eða Akurgerði var þaðan vestur að Merkúrgötu eða Klofa og Gestshúsum. Frá læknum og suður að Hamri var stundum nefnt Miðfjörður, nokkru seinna er öll byggðin suður að Hamri nefnd Hafnarfjörður. Bærinn Jófríðarstaðir suður á Hamrinum hét áður Ófriðarstaðir, nefndur í heimildum frá 1595 sem sérstakur bær — og var þá konungsjörð. Árið 1816 er þetta land, allt sunnan frá Bruna (Hafnarfjarðarmegin við Straum) og allt vestur að Fiskakletti í Hafnarfirði komið í eigu Bjarna riddara Sívertsens.
sivertsenshus-II— Bjarni riddari var víst einn umsvifamesti Hafnfirðingur, fyrr og síðar.
— Já, og þegar hann fór að stofna til skipasmíða byggði hann m.a. þurrkví fyrir 3 skip við Skipaklett. Hún var til fram að 1882 eða 1884, ég talaði við fólk sem mundi hana þar. Í sóknarlýsingu sr. Árna Helgasonar prófasts í Görðum er ágæt lýsing á henni. Sr. Árni segir þar: „Í Hafnarfirði er grafin gröf inn í malarkambinn í hléi við klettasnös sem gengur fram í fjörðinn til suðurs skammt fyrir vestan það elzta höndlunarhús. Í þessa gröf gengur sjór með hverju aðfalli, en um fjöruna er hún þurr. Fyrir framan er hurð og sterkt plankaverk með grjóthleðslu fyrir innan, nema þar sem hurðin er. Hingað eru á haustin, með stórstraumsflóði, leidd 3 þilskip. Fleiri rúmast þar ekki, en eigi veit ég hvort þetta má heita hróf. Flest þilskip standa allan veturinn í fjörum hinu megin fjarðarins, sunnan til við Óseyrartanga, bæði þau sem hér eiga heima og eins nokkur annarstaðar frá”. Á Skipakletti er nú risin aðalbygging Hraðfrystihúss Bæjarútgerðar Hafnarfjarðar.
— Voru ekki fleiri „klettarnir” — og hefur þú ekki safnað örnefnum almennt?
—Jú, ég hef safnað töluverðu. af gömlum örnefnum, bæði eftir munnlegri geymd og skráðum heimildum og reynt að rekja sögu þeirra. „Klettanir” voru t.d. „Brúarhraunsklettur”, „Fjósaklettur”, „Skipaklettur” (stundum nefndur jagtaklettur) — hann er sem fyrr segir horfinn undir Bæjarútgerðina, og loks var Fiskalettur”. Hann var þar sem nú er Vesturgata 32; var fjórklofinn. Hann hét svo vegna þess að af þessum kletti var hægt að fiska úr landi áður fyrr. Það var strax dýpi fyrir utan og “þar á leirnum var oft mikill fiskur fyrrum.
Hafnarfjordur 2008Vesturhamarinn gekk líka stundum undir nöfnunum Sjávarhamar og Skiphamar, en Vesturhamarsnafnið hefur alltaf borið sigur af hólmi. Allir þessir „klettar” eru fyrir löngu horfnir nema eitthvað mun enn sjást af Fiskakletti. Fyrir sunnan fjörðinn var Grandinn með Skiphól, Kringlu og Háagranda. Þar fyrir suunan tekur Hvaleyrin við. Á Hvaleyri hafa sennilega verið einhver reisulegustu bæjarhús á landinu, bæði á 19. og 20. öld. Þorsteinn Jónsson bjó þar á 19. öld og 1850—1870 bjuggu þar Jón Hjartarson og Þórunn Sigurðardóttir. Ég hef lýsingu á bæ þeirra; það var mjög myndarlegur bær. Hjáleigur á Hvaleyri voru allt að því 6, og hétu þær eftir körlunum sem á þeim bjuggu. Sveinskot fær nafn af Sveini Eiríkssyni er býr þar frá 1840—1855. Halldórskot eftir Halldóri búanda þar 1847—1877. Hjartarkot eftir Hirti er bjó þar 1868—1872. Vesturkot mun lengst af hafa verið kallað því nafni af því það var vestast, en það var líka nefnt Drundurinn af því það var yzta totan á eyrinni. Ennfremur voru á Hvaleyri Þórðarkot og Tjarnarkot.
hvaleyrarbaerinn IÞegar mest var byggt voru þar sex hjáleigur samtímis, og húsmenn að auki, bæði á aðalbænum og hjáleigunum. Í sambandi við þessa könnun mína á nöfnum hef ég fengið lýsingar af bæjunum í bænum hjá mörgu ágætu fólki og hef getað borið lýsingar þess saman. Þá fór ég einnig að grafa upp hvaðan fólkið var komið, og er langt kominn með það en það er tafsamt verk. Heimildarbækurnar eru orðnar um hundrað, manntöl og kirkjubækur norður til Eyjafjarðar og og austur í Skaftafellssýslu, því fólkið var komið hingað og þangað að. Þá hef ég einnig kannað dómabækur í þessu sambandi.
Hvaleyrarbaerinn IIÁrið 1603 býr á Hvaleyri Guðlaugur nokkur Guðlaugsson. Í Alþingisbók frá Kópavogsþingi er hans getið það ár. Þeir voru teknir fjórir saman fyrir þjófnað, en svo virðist sem hann hafi tekið á sig sökina, því Jónar tveir sluppu og einnig Ólafur nokkur Pétursson er var „borgaður út fyrir góðra manna bænarstað og sakir ætternis, og svo vegna “eyðar konu sinnar og barna og erfiðleika í búskap”.. Ekkert slíkt hlífir Guðlaugi og um hann segir svo: “Um Guðlaug Guðlaugsson þá ályktast svo og fullnaðist að áðurskrifaður Guðlaugur undirbjó og lofaði með fullnaðarhandsölum sjálfviljuglega konunginum og hans umboðsmönnum að þjóna sína lífstíð, og refsa það honum verður skipað eftir lögmáli, það gjöra að því tilskyldu að hann hefði nokkurt auðkenni það hann mætti bera alla sína daga fyrir vondan glæp og tilverknað, og til merkis ef hann kann aftur um að hlaupast, en steli hann aftur eða sýni hann aðra nokkra óhlutverdni, þá sé hann réttfangaður og dræpur”… Hvaleyrarbóndi þessi er þannig brennimerktur og gerist Bessastaðaböðull til þess að bjarga eigin lífi og félaga sinna, annarra en þess sem var „borgaður út fyrir góðra manna bænarstað og sakir ætternis”. Sonur Guðlaugs, Jón að nafni, bjó í Hamarskoti og giftist dóttur lögréttumanns á Vatnsleysuströnd. Ormur Jónsson býr á Hvaleyri 16S6—1714. Hann var leiguliði konungs. Ábúðarkjör hans eru þessi: „Kvaðir eru; Mannlán um vertíð, tveir hríshestar heim til Bessastaða með skyldu, en margoft þar fyrir utan einn hríshestur, tveir eða þrír á ári fyrir bón, og einu sinni í tíð Heidemanns sjö um árið og tveimur áskyldum. Hér að auki tveir dagslættir árlega heim til Bessastaða og fæði bóndinn verkamennina sjálfur. Ennþá hér á ofan skipaferðir hvenær sem umboðsmaðurinn á Bessastöðum kallar, vetur eða sumar, og er óvíst hve margar verði, fæðir bóndinn mann þann ávallt sjálfur, hvort sem reisan varir lengur eða skemur”. Auk þess þegar upptalda er svo lambsfóður án endurgjalds. Í þessu sambandi er vert að minnast þess að Hvaleyrarbóndinn hafði marga hjáleigubændur og hefur hann vafalaust reynt að koma semmestu af þessum kvöðum yfir á þá, svo þá sem endranær hafa byrðarnar komið þyngst niður á þeim fátækustu.
Gísli hefur frá mjög mörgu fleiru að segja, en þetta verður að nægja að sinni. Við sleppum því að ræða nú um veru Englendinga og Þjóðverja á Hvaleyri, sem báðir höfðu þar aðsetur og þá sinn hvoru megin við Ósinn, og var ærið róstusamt stundum. Gömlu skipanaustin, sem þó voru enn við lýði fyrir ekki löngu árabili, munu nú horfin.”

Heimild:
-Þjóðviljinn 26. apríl 1960, bls. 6-7 og 10.

Hvaleyri

Hvaleyri fyrrum.

Garðahverfi

Eftirfarandi fróðleik um sögu og minjar Garða á Álftanesi (Garðahreppi) má lesa í skýrslu Þjóðminjasafnsins frá árinu 2004 um fornleifaskráningu í Garðahverfi 2003:
“Í Hrafnkels sögu Freysgoða eru Garðar á Álftanesi orðnir til þegar á 10. öld og bjó þar Þormóður Þjóstarsson, bróðir voldugra manna sem veittu óvinum söguhetjunnar lið. Hann er látinn vera eiginmaður Þórdísar, dóttur Þórólfs Skalla-Grímssonar en þar eð Hrafnkatla er rituð um 1300 og varðveitt í ungum handritum verður henni ekki treyst.  Konan mun hafa heitið Þuríður Þorleifsdóttir eins og segir í Landnámu en þar fæst raunar staðfesting á því að þeir feðgar, Þjóstar og Þormóður, bjuggu á Álftanesi. Bústaðurinn er þó ekki tilgreindur nánar. Hvað sem því líður hafa Garðar snemma orðið kirkjustaður og prestssetur því skv. Kirknaskrá Páls biskups Jónssonar var risin þar kirkja árið 1200 ef ekki fyrr og þjónaði sú einnig Bessastöðum.
gardar-201Fram eftir 13. öld var staðurinn þó áfram í höndum veraldlegra höfðingja og birtist með ýmsum hætti í heimildum frá þeim tíma. Árið 1230 er getið um Þorvald Gissurarson Viðeyjarkanoka “at boði j Görðvm”  og má vera að gestgjafi hans hafi verið Einar Ormsson sem að sögn Sturlungu bjó a.m.k. á staðnum árið 1243 og skaut skjólshúsi yfir frænda sinn, Þórð Bjarnarson. Sá var liðsmaður höfðingjans Þórðar kakala, á flótta undan fjandmönnum, og Ormur sá til þess að vel fór um hann í Görðum. Er m.a. getið um bað á staðnum en kvöld eitt þegar þeir frændur hugðust njóta þess réðust óvinirnir til inngöngu. Þórður fékk að tala við prest, væntanlega þann sem gegndi embætti á staðnum, en var síðan miskunnarlaust höggvinn í ytri stofu bæjarins. Næst eru Garðar nefndir árið 1264 þegar Gissur Þorvaldsson jarl gisti hjá Einari: “var honum þar vel fagnat, ok var þar nokkurar nætr”. Þangað bárust Gissuri varnaðarorð og talaði við sendimanninn “í kirkjugarðinum þar í Görðum”. Um tveimur áratugum síðar var þetta ein þeirra jarða sem Árni Þorláksson Skálholtsbiskup deildi um við veraldlega höfðingja og er greint frá því í sögu hans.

gardar-233

Staða-Árni eins og hann var nefndur réri að því öllum árum að kirkjan öðlaðist sjálfstæði í eigin málum og að allir kirkjustaðir kæmust undir hennar forsjá. Fékk hann m.a. þáverandi eiganda Garða, Sturlu Sæmundarson, til að sverja sér af hendi staðinn og lofa að “taka alldri síðan af kirkjufjám né hennar eign utan með biskups ráði”. Árni setti síðan systurson sinn Bjarna Helgason prest niður í Görðum. Leikmenn mótmæltu staðartökunni og fleiru í bréfi til biskups árið 1286 en þegar það bar ekki árangur kom goðorðsmaðurinn Hrafn Oddsson með herlið, stökkti séra Bjarna á brott og fékk Sturlu aftur “í hönd alla kirkjunnar eign”.
Næst eru Garðar nefndir í Alþingissamþykkt frá 1307 og er þá séra Jón Þórðarson kominn þangað til starfa.  Einhverjar heimildir eru svo um alla þá Garðapresta sem gegndu kallinu næstu aldir en þeir verða ekki taldir upp hér. Í máldögum árin 1397  og 1477  kemur fram að Garðakirkja var helguð Pétri postula og vel búin munum.
Meðal merkra kennimanna sem sátu á þessum kirkjustað má nefna Þorkel Arngrímsson (1629-77) sem tók við embætti árið 1658 og fékkst m.a. við skáldskap, þýðingar, útgáfur guðsorðabóka og lækningar. Séra Þorkell var í Görðum til 1677 og þar fæddist sonur hans, Jón Vídalín (1666-1720), sem gegndi prestsembætti á staðnum 1695-7. Eins og frægt er hófst hann síðar til biskups en þekktastur er hann líklega af hinni vinsælu húspostillu sinni sem við hann er kennd.  Séra Markús Magnússon (1748-1825) kom til starfa árið 1780 og stóð að stofnun Landsuppfræðingarfélagsins, Hins íslenska biblíufélags og fleiri menningarfélaga. Að beiðni nefndar til varðveislu fornminja, “Commision for Oldsagers Opbevaring”, sem stofnuð var árið 1807, skrifaði hann einnig merka Fornleifaskýrslu um Garðajarðir árið 1820.

gardar-230

Markús hafði forgöngu um mannvirkjagerð á staðnum og lét hlaða langan garð meðfram túnum bæjanna sem heyrðu undir Garða. Skv. manntölum voru hjá þessum prófasti 30 heimilismenn árið 1801  og 23 fimmtán árum síðar, um helmingi fleiri en öld áður hjá séra Ólafi Péturssyni en Manntal var líka gert í hans tíð.  Nefna má konu Markúsar, Þuríði Ásmundsdóttur, séra Sigurð Hallgrímsson “capellan”, hinn unga Jón Steingrímsson sem um skeið gegndi starfi skrifara, Guðmund Ormsson ráðsmann, Guðfinnu Bergsdóttur, unga frænku prófastins sem varð ráðskona hjá honum, Gísla Guðmundsson smið og Þórarinn Þorsteinsson smala. Auk þessa fólks voru á prestssetrinu tvö gamalmenni og fjögur börn, þrír vinnumenn og átta vinnukonur en bændasynir og dætur úr bæjahverfinu gegndu ýmsum störfum í Görðum. Markús hélt embættinu til æviloka. Skv. Manntali árið 1845 voru 25 í heimili hjá eftirmanni hans, séra Árna Helgasyni (1826-1894) sem skrifaði Lýsingu Garðaprestakalls árið 1843. Hann var prófastur 1825-58, mikilhæfur maður, stofnaði ýmis félög og gegndi biskupsembætti á tímabili. Frúin hans hét Sigríður Hannesdóttir en auk Óla Peter Finsens lærisveins, Ólafs Símonssonar gustukamanns og vinnuhjúa höfðu hjá þeim í húsnæði hjónin Magnús Brynjólfsson húsmaður og Þorbjörg Jónsdóttir.  Kirkja er enn í Görðum og jörðin í byggð.
Árið 1397 er getið um búfjáreign Garða: 30 sauðir, 6 hross og 33 nautgripir, þeirra á meðal tveir gamlir plóguxar eða “arduryxn”. Jafnframt kemur fram að tíu kornsáld voru færð í jörðina. Af þessu má ráða að jafnhliða kvikfjárrækt hafi á fyrri tímum verið stunduð kornrækt í Görðum. Reyndar eiga gömul akurgerði að hafa verið um ofanverð túnin a.m.k. fram á daga séra Markúsar og nefna má bæinn Akurgerði sem að vísu var þar sem nú er Hafnarfjörður en lá að fornu undir Garðakirkju. Forvitnileg í þessu sambandi eru einnig hin fjölmörgu gerði í hverfinu sjálfu en í sumum þeirra fór fram einhvers konar ræktun. Loks má minnast öldrykkju mikillar sem séra Þórður Ólafsson efndi til og greint er frá í Biskupsannálum árið 1530 en hann hefur kannski notað bygg af ökrunum til maltgerðar fyrir mjöðinn.  Í skrá frá árinu 1565 segir frá “bygging” eða leigu á jörðum Garðkirkju, tekjum af þeim, kvikfénaði og ábúendum en ekkert er um prestsjörðina sjálfa.  Skráin var sett saman um það leyti sem séra Jón Loftsson var í Görðum, sá sem Presthóll í holtinu fyrir ofan er talinn kenndur við en þar áttu að vera álfar. Einnig er minnst á Garða í Gíslamáldaga árið 1570.
Þegar Árni Magnússon og Páll gardar-231Vídalín tóku saman Jarðabók sína árið 1703 var Ólafur Pétursson prófastur, fyrst 1695-6 og síðan aftur 1697-1719. Þá áttu Garðar 20 kúgildi, sum í leiguburði á eignajörðum og hjáleigum en heima fjórar kýr og ein leigukýr, ein þrevetra mjólkandi kvíga og önnur tvevetra geld. Auk þeirra voru 32 ær, 19 sauðir, 20 lömb, hestur, þrjú hross og tveir tvevetra folar.  Fóðrast kunnu ríflega 5 kýr og hestur og kemur á óvart að í Jarðatali Johnsens árið 1847 er aðeins tilgreint eitt kúgildi.  Jarðardýrleiki var lengst af óviss en taldist 40 hundruð frá 1697 og fram um miðja 19. öld og 48,8 ný hundruð í Jarðabók árið 1861. Í Fasteignabókum 1932 var jörðin með húsakosti metin á 207 hundruð kr.  en 154 hundruð kr. Á þessum tíma voru 8-8,5 kúgildi, 60 sauðir og tvö hross en undir lokin engir sauðir og aðeins eitt hross. Um 3200 m² garðar gáfu í fyrstu 40 tunnur matjurta en síðast aðeins 18 tunnur. Þegar Örnefnaskrá var gerð árið 1964 var Garðatún stórt en grýtt og skiptist í velli. Frá Garðatúngarði niður að hlaði nefndist Vesturgerði vestan heimatraðanna og Austurgerði austan þeirra. Skikinn vestan bæjarhúsa og kirkjugarðs hét Vesturflatir en austan megin voru Austurflatir. Lindarflöt kallaðist loks völlurinn frá kirkjugarðinum að Garðamýri eða Garðatjörn, kennd við Garðalind í túnjaðrinum.

Gardar-299

Í mýrinni sem náði að sjó voru útheysslægjur og torfrista og slógu hjáleigubændur þar dagslætti fyrir kúabeit. Hún tilheyrði að fornu jörðinni Bakka sem lá upp að henni sunnan megin en séra Þorkell lagði hana til Garðastaðar vegna skorts á slægjum og torfi.  Nytjaland Garðastaðar var annars að miklu leyti ofan og austan við hverfið, handan hins mikla Garðatúngarðs. Næst honum var Garðaholt og austur af því Garðahraun. Í nyrsta hluta þess, Gálgahrauni, var beitiland frá Görðum en úthagar í næsta nágrenni voru þröngir og snögglendir. Selstaða var við Kaldá og í Kirkjulandi ofan byggðarinnar frá Elliðavatns- og Vatnsendalandi. Sjórinn var stundaður allt árið frá Görðum og jörðum í kring. Heimræði var og mikil hrognkelsaveiði en miðin skammt frá landi. Einnig var þó róið á fjarlægari mið. Lendingar voru góðar en öll stærri býlin höfðu uppsátur í sérstökum vörum sem fylgdu þeim og voru við þær kenndar. Auk þess voru náttúrulegar bryggjur við syðstu jarðirnar og við þá nyrstu, Hausastaði. Frá henni lá Hausastaðakambur meðfram sjánum ofan vara allt að Miðengi og á honum var skiptivöllur með búðum og hjöllum frá bæjunum. Við suðaustari jarðirnar nefndist hins vegar Garðagrandi. Þar framan við voru sker og grynningar sem mynduðu nokkurs konar hring eða kví um fjöru með mörgum þröngum sundum á milli og kallaðist það Garðatjörn.  Skelfiskafjara var en fór til þurrðar þegar um 1700. Gengt var í fjörunni en lítil rekavon. Hins vegar átti Garðakirkja á 14. öld og e.t.v. lengur allan viðreka og hvalreka frá Rangagjögri og Leitukvennabásum að Kálftjörningafjöru. Fram eftir öldum var nóg af nýtanlegum fjörugrösum. Aðalsölvatekjusvæðið var á Hausastaðagranda sem lá út á sjó frá Hausastöðum og fór í kaf á flóði.

gardar-234

Marhálmur óx við sjávarlón á norðurmörkum hverfisins, Skógtjörn norðan Hausastaða og Lambhúsatjörn norðan hins sameiginlega nytjalands. Í Örnefnalýsingu frá árunum 1976-7 er lýst mikilli þang- og marhálmstekju á Hrauntanga við Lambhúsatjörn. Var þangið þar skorið í fjörunni og látið reka upp í flóðfar með aðfalli en síðan borið á þerrivöll og þótti best ef rigndi fyrst því þá losnaði það við saltið og þornaði fyrr. Suðaustur úr Skógtjörn gékk svolítil tota sem nefnd var ýmist, Litlatjörn, Aukatjörn, Hausastaðatjörn eða Álatjörn. Síðasta nafnið tengdist Álamýri norðaustur af tjörninni en þar veiddu Garðhverfingar ála og seldu til Reykjavíkur. “Þeir veiddust helst í ljósaskiptum.” Á þessum slóðum fóru einnig fram annars konar veiðar: “Mýrarhóll er austast í Álamýri og Skothóll austur af honum. Við Skothól eru klettar. Þar lágu menn fyrir fugli, er flaug fyrir, einkum álft, sem sótti í marhálminn við Skógtjörn. Þegar hækkaði í tjörninni og marhálmurinn fór í kaf, flaug álftin upp á Urriðakotsvatn og Vífilstaðavatn. Fóru menn þá á Skothól, þegar tók að flæða. Nú er allur marhálmur horfinn úr Skógtjörn.” Skammt undan var líka mikið æðarvarp og tóftir á Eskinesi sem skilur milli Lambhústjarnar og Arnarnesvogs bera enn vitni um tilraun til æðarræktar á dögum Þórarins Böðvarssonar (1825-95) Garðaprests  1868-95. Mór var skorinn í Hraunholtsmýri við Arnarnesvog og í Dysjamýri við syðstu jörðina Dysjar en norðan í henni hefur kannski einnig verið torfrista. Auk þess var skógur Garða nýttur til kolagerðar en bæði mór og viður voru farin að eyðast um 1700. Mosi var tekinn í Gálgahrauni og lyng rifið til eldiviðar en “hvergi er nú skógarhrísla eða lyng í hrauninu nema næst Hraunsholtinu” austan megin.
Bæjahverfi það sem með tímanum myndaðist kringum kirkjustaðinn lá meðfram sjávarsíðunni á leiðinni út á Álftanes og nefndist Garðahverfi. Með vísun til bæjatúnanna innan garðs var einnig stundum talað um Garðatorfuna. Garðar sjálfir eru rétt suðaustan við miðju hverfisins, næst þeim norðan megin hjáleigan Ráðagerði og niðri við sjó Miðengi en sunnan megin Nýibær og Pálshús. Handan Garðamýri hjá sjónum var auk þess Bakki, eitt af lögbýlunum og suður af því Dysjar sem líka var lögbýli. Norðvestan megin í hverfinu voru svo Hlíð, lögbýli þangað til Miðengi var hlutað úr því, Móakot, Hausastaðakot og Hausastaðir.

gardar - midengi

Allar þessar jarðir lágu undir Görðum og á sumum voru á tímabilum minni hjáleigur og þurrabúðir. Mýrarhús , Sjávargata, Hóll og Garðabúð voru við mýrina neðan Garða, Krókur, Garðhús, Háteigur og Höll við nytjalandið ofan þeirra. Þar í landi Hlíðar voru einnig Gata, Holt og Sólheimar en Hlíðarkot var í miðju túni og Dysjakot á Dysjum. Á mörkum Hlíðar og Hausastaðakots var Grjóti og í landi Hausastaða þrjú ef ekki fleiri býli, Kaldakinn, Katrínarkot og Arndísarkot á tanganum Skreflu, vestasta hluta hverfisins. Hvar Óskarbúð var er ekki vitað með vissu og sum býli eru nafnlaus. Í Manntölum er t.d. oft greint frá tómthúsfólki og húsfólki á aðaljörðunum án þess að getið sé um bústaði en tómthúsmenn bjuggu venjulega í sjálfstæðu húsnæði og húsmenn oft líka þótt sumir fengju inni á bæjum. Býlin í Garðahverfi hafa þó verið a.m.k. þau 34 sem hér á eftir eru skráð, á stundum trúlega færri eða fleiri. Skammt var á milli heimila og kominn vísir að smáþorpi enda virðast menn sums staðar hafa verið farnir að sérhæfa sig í ákveðnum störfum. Á prestssetrinu hefur verið miðstöð mannlífs en einnig var um skeið skóli á Hausastöðum og þingstaður en hann var fluttur í Garða. Bændur hverfisins skiptust á að gegna embætti hreppstjóra. Ljósmóðir var á Dysjum og hafnsögumaður á Bakka og Ósk í Óskarbúð rak svolitla verslun. Sumir eins og Guðmundur Einarsson vefari lifðu af handiðn sinni, handverkskonur og trésmiðir voru víða en gull- og silfursmiðir höfðu aðsetur í Ráðagerði. Mikið flakk var á fólkinu, a.m.k. þegar kom fram á 19. öld og þegar gömlu ábúendurnir fluttu tóku oftast við óskyldir menn. Nokkuð var þó um að fólk færi búferlum innan hverfisins og óvenjuleg nöfn eins og Ormur, Illugi og Nikulás sem skjóta aftur og aftur upp kolli í hverfinu gegnum aldirnar benda til innbyrðis skyldleika íbúanna. Ætla má að grjóthlöðnu gerðin sem eru sérkennandi fyrir Garðahverfi hafi tengst þéttbýlinu. Innan þeirra hefur verið sú litla lóð eða grasnyt sem hvert býli hafði. Flest eru kennd við búðirnar sem þau tilheyrðu: Hallargerði, Sjávargötugerði, Holtsgerði o.s.frv. Nokkur eru nöfnin tóm og hafa komið upp ýmsar getgátur um þau, Pálshúsagerði í Pálshúsatúni t.d. verið bendlað við akuryrkju og Hausastaðatúngerði á Hausastöðum talið landamerkjagarður en orðið gerði getur bæði vísað til ræktarlands og hlaðins garðs.
Hausastadir-221Í hverju bæjatúni var svolítill brunnur og sérstakar brunngötur til þeirra. Mikilvægasta vatnsbólið var þó Garðalind sem aldrei þraut og í hana sóttu öll heimilin vatn þegar þurfti. Til þessa hjarta Garðahverfis lágu að lokum allar leiðir en býlin tengdust með innbyrðis vegakerfi. Frá Hausastöðum og býlum þar lá gata yfir í Hausastaðakot og áfram í Grjóta, þaðan niður í Móakot eða yfir í Hlíð. Frá Hlíðabæjum lágu leiðir vestur í Götu og Háteig og Hlíðarbrunngata suður í Miðengi og síðan líklega áfram eftir jaðri túns og mýrar að Garðalind. Traðir tengdu saman Götu og Holt, Háteig og Ráðagerði en þaðan lá gata til kjarnans  í Görðum. Frá hinum búðunum við Garðatúngarð var farið um Garðatraðir niður að kirkju og prestssetri og þangað var sérstakur stígur, Króksbrunngata, úr Króki. Þá lágu traðir milli suðaustustu býlanna Dysja, Pálshúsa og Nýjabæjar og frá þeim síðastnefnda í Garða en þaðan mátti loks ganga um Garðabrunngötu að Garðalind. Hins vegar lá Bakkabrunngata beint frá Bakka upp kringum mýrina og að lindinni.
Þurrabúðarfólkið við Garðamýri hefur trúlega notað dysjar-224Sjávargötu sem lá milli þeirra og sjávarins annars vegar, Garða hins vegar, og síðan Hlíðarbrunngötu til að komast alla leið. Sérstakar sjávargötur lágu frá bæjum niður að sjávarhliðum í varnargarðinum ofan vara og neðan syðri jarðanna lá Bakkastígur eftir sjávarbökkum. Víðar hefur verið gengið við sjóinn en frá sjávarhliði Hausastaða lá svo nefnd Hliðsnesgata, framhjá Katrínarkoti og Arndísarkoti út á Skreflu og að Oddakotsósi. Þar varð svo að fara á bát yfir í Hliðsnes á móti. Í hina áttina lá gatan meðfram Skógtjörn, framhjá Köldukinn, og yfir grjóthlöðnu brúna Stíflisgarð. Þar var áður aðalleið úr hverfinu út á Álftanes. Í vestur lágu einnig Hausastaðatraðir frá Hausastöðum en slíkar traðir við bæina kenndar lágu frá þeim mörgum að hliðum á Garðatúngarði. Þaðan lágu leiðir svo út í nytjalandið og til næstu byggðalaga. Þannig lágu Garðatraðir frá Görðum um Garðahlið þar sem við tók Garðagata og hlykkjaðist þvert yfir Garðaholt að Garðastekk í jaðri Garðahrauns. Framhald stekkjargötunnar lá svo upp í hraunið nokkru norðar þar sem hún sameinaðist að lokum hinni fornu þjóðleið milli Álftaness og Reykjavíkur, Gálgahraunsstíg nyrðri, Fógetastíg eða Álftanesgötu. Sú gata lá á kafla meðfram Lambhústjörn og Arnarnesvogi. Þar í Hraunviki greindist annar stígur frá henni,
Móslóði og lá í suðvestur um dysjar-225Garðahraun og Flatahraun í Garðahverfi. Um hann var farið með hesta klyfjaða mó úr Hraunholtsmýri en þessi vegur var sá austasti þeirra sem lágu yfir Garðahraun. Dysjabrú eða Dysjamýrarbrú hét leiðin yfir hitt mósvæðið sem náði milli Garða og Flatahrauns en var kirkjugata því hana fóru Hafnfirðingar þegar þeir ætluðu í Garðakirkju. Dysjabrú var þá lokakaflinn á leið þeirra, frá svo kölluðu Mónefi sem skagaði vestur úr hrauninu. Vegurinn yfir hraunið að nefinu hét hins vegar Gálgahraunsstígur syðri og náði alveg frá Hafnarfirði. Dysjabrú var þó ófær í miklum leysingum og varð þá frá Gatnamótum vestast við Garðaholtsenda að fara Kirkjustíg yfir holtið og að Görðum. Hann lá vestur frá Urriðakoti og Setbergi um Gatnamót þar sem göturnar mættust.
Girt var milli túna einstakra jarða Garðahverfis og kringum það í heild. Varnargarður lá eftir sjávarkambinum að vestan og norður við Skógtjörn og Garðatúngarður skildi milli Garðatorfunnar og nytjalandsins austan megin. Mörk alls þessa svæðis náðu frá Balakletti við sjóinn suðaustan Dysja að Oddakotsósi á Hliðsnesi gegnt Skreflu og yfir Skógtjörn þvera, um Markatanga við Núpslækjarós, áfram um Lambhúsatjörn og austur í Eskines, þaðan lengst suður í Engidalsnef og svo aftur vestur í Balakletta. Innan þessara marka voru að fornu einnig jarðirnar Bali í suðurendanum og Selskarð milli Skógtjarnar og Lambhústjarnar. Þegar í máldögum 14. og 15. aldar kemur fram að Garðakirkja átti allt heimaland, Dysjar, Bakka, Hlíð, Hausastaði, Selskarð, Hraunsholt, Hjallaland og afrétt í Múlatúni. Á 16. öld bættust við Nýibær og Pálshús, Vífilstaðir, Akurgerði og Hamarskot og ítök staðarins lágu miklu víðar. Í Örnefnaskrá segir: “Garðaland: Svo var í eina tíð allt land Garðastaðar kallað. Bæði það sem var í byggðinni við sjóinn og upp til fjalla. […] Allt tilheyrði þetta hinum forna Álftaneshreppi.”.  Í Landamerkjaskrá frá 1890 eru tilgreind víðari “merki á landi Garðakirkju á Álptanesi, samkvæmt máldögum og fornum skjölum:
1. Í móti Oddakoti í miðjan ós þann, sem rennur úr Skógtjörn í sjó fram austan til við túngarð í Oddakoti. […]
2. Úr ósnum norður í hóla hjá Skógtjörn, er þar hlaðin merkjavarða; þaðan í móti landi Skógtjarnar og Brekku í vörðu á hólum hjá Núpsstíflum, þar er og hlaðin merkjavarða. […]
3. Útí miðja tjörn þá, sem er milli Bessastaða og Gálgahrauns og í miðjan tjarnarósinn og í mírina Arnarnesslækjar, upp með læknum sunnanverðum uppí Stóra Krók á sama læk og úr því keldudragi, fjallid eina-21sem þar er að sunnanverðu og beina stefnu yfir mýrina uppí Dýjakrók […] þaðan í midt Hnoðraholt, þaðan fyrir norðan Vetrarmýri beina línu til austur landsuðurs í miðja Kjóavelli, þaðan beina línu í suður landsuður í Arnarbæli, þaðan í austur landsuður uppí Hnífsós, þaðan til austurs landsuðurs í miðt Húsfell, úr miðju Húsfelli beint til suðurs í efri Standartorfu, þaðan beint í (suður) Markraka í Dauðadölum, þaðan til vesturs í Melrakkaskarð (Vatnsskarð, Markrakagil í Undirhlíðum), sem er norðanvert við Fjallið Eina, þaðan til norðurs ofanvert við Hvaleyrar- og Áslönd í Steinhús, sem er við neðri Kaldárbotna, þaðan móts við Jófríðarstaðaland í norður vestanvert við Gráhelluhraun beina línu í svonefndan Moldarkrika, þá til norðvesturs í vörðu  á Heiðarþúfum, þá sömu línu í norðuröxl á Mosahlíð, enn sömu línu í vörðu norðanhallt á Kvíholti, loks sömu línu miðt á milli Gíslahúss og Bjarnabæjar í vörðu fremst á miðjum Hamri við Hafnarfjarðarbotn.
Þaðan land allt með Hafnarfirði norðaverðum vestur í ós hinn áðurnefnda hjá Oddakoti. […] Innan framangreindra takmarka eru auk Garðastaðar, þessar jarðir Garðakirkju: Selskarð, Hraunsholt, Hamarskot, Lan[g]moakot-21eyri, Skerseyri, Bali, Dysjar, Bakki, Pálshús, Nýibær, Krókur, Ráðagerði, Hóll, Miðengi, Hlíð, Móakot, Hausastaðakot og Hausastaðir, sem allar hafa afmörkuð tún og rjett til að nota að tiltölu kirkjulandið utantúns, til allra leiguliða nota, en ekkert inskipt land fyrir utan túnið, svo og þurrabúðir, sem eru eign kirkjunnar, með kálgörðum og túnblettum, og timburhús sömuleiðis.” Innan merkjanna eru einnig Vífilstaðir, Setberg, Urriðakot, Hofsstaðir, Hagakot og Akurgerði.
Skemmtilegar sagnir um Garða hafa spunnist um örnefnið Garðaflatir í hinu forna afréttarlandi Álftaneshrepps og birtust hjá Sigurði Nordal og Þórbergi Þórðarsyni í Gráskinnu árið 1928: “Sagt er að Garðar og Garðakirkja hafi einu sinni verið á Garðaflötum, sem eru skammt fyrir innan Hafnarfjörð, en hafi verið flutt, þegar hraunið rann á. Sagan segir, að fólkið í Görðum hafi flúið undan hrauninu með ljós í hendi, en svo hafi verið um mælt, að kirkjuna skyldi reisa þar, sem ljósið slokknaði, en það var þar, sem nú er kirkjan og Garðastaður. […] Maður nokkur var eitt sinn við slátt á Garðaflötum. Þúfurnar, sem hann var að slá, sýndist honum líkjast leiðum í kirkjugarði. Ein þúfan var stærst, og hugsar hann með sér, að gaman væri nú að vita, hver lægi undir þessu leiði. Syfjar hann þá bráðlega og getur ekki varizt svefni. Hann dreymir að maður tígulegur kemur til hans og segir: “Fyrst þig langar til að vita, hver hér liggur, þá hét sá Þórður og var prestur hér. Síðasta verk hans var að jarðsyngja sjö manneskjur.” Sú tilgáta fylgir sögunni, að þetta hafi verið í svartadauða. Ýms merki þess má sjá, enn þann dag í dag, að byggð hafi verið á Garðaflötum; þar eru garðahleðslur miklar, og víða sjást húsarústir og sumar mjög stórar um sig. Hlaðinn brunnur kvað og hafa sézt til skamms tíma.” Í sagnaþáttum sínum árið 1951 telur Ólafur Þorvaldsson einnig að umgetnar flatir hafi fengið nafn af Görðum en skýring hans er þó jarðbundnari: “Allt land þarna umhverfis og langt út frá er hið forna land Garðakirkju á Álftanesi […] Ekki er ósennilegt, þegar stórt var búið í Görðum fyrr á tímum, að Garðaprestar hafi notað nokkuð þá ágætu vetrarbeit, sem er um þessar slóðir, til dæmis framan af vetri, og látið halda fé þarna efra, því að nóg er þar góðra skjóla í hellum og öðrum afdrepum”. Ólafur segir auk þess frá því að fólk sem komið var til réttar hafi skemmt sér og dansað á Garðaflötum.
gardar-230Á Túnakorti frá árinu 1918 má sjá bæjarstæðið í Görðum nokkurn veginn í miðju túni, austan kirkjunnar, ofan og norðan kirkjugarðsins. Þar eru þrjár stórar byggingar, lítið hús og for. Gamli bærinn gæti verið stóra torfhúsið næst kirkjunni en það skiptist í tvö aðalhólf og virðist anddyrið snúa í suðvestur að bæjarhlaðinu. Í Örnefnalýsingu 1958 segir: “Ofan við Kirkjugarðinn er býlið Garðar.” Skv. Örnefnaskrá 1964 stóðu “byggingar staðarins […] á Bæjarhólnum austan kirkju […]  ofarlega í Garðatúni miðsvegar í hverfinu”. Örnefnalýsing 1976 hefur þetta: “Garðar, hið forna prestsetur og höfuðból, eru norðvestur frá Nýjabæ. Tún Nýjabæjar, Króks og Garða liggja saman. Gamli bærinn í Görðum stóð aðeins vestar en nýja húsið. Kirkjan var vestan hans […]”. Í grein frá árinu 1904 (bls. 34) segir Matthías Þórðarson að Garðakirkja hafi áður verið innan kirkjugarðsins. Á Túnakorti 1918 sést gamla kirkjan vestan við bæjarhúsin og sýnist vera úr steini með stefnuna suðaustur-norðvestur. Skv. Örnefnaskrá 1964 var hóllinn “þar sem Garðastaðarkirkja stóð” kallaður “Kirkjuhóll”. Í Örnefnalýsingu 1976 segir hins vegar: “Gamli bærinn í Görðum stóð aðeins vestar en nýja húsið.
Kirkjan var vestan hans, og hefur hún verið endurbyggð á sama stað.” Núverandi kirkja var reist árið 1966 (Þ.J. og S.S.: 226).
gardastekkur-21Þegar Matthías Þórðarson rannsakaði legsteina í Garðakirkjugarði árið 1903 komst hann að því að þar eru sex frá 17. öld og einn frá byrjun 18. aldar, auk þess sem nýlega hafði fundist brot af 17. aldar steini: “Allir þessir legsteinar eru höggnir úr venjulegu hraungrýti (dolerit) og sömu tegundar og annað grjót í Garðaholti. Þrír af þeim […] lágu fyrir dyrum kirkjunnar, sem áður var í kirkjugarðinum, og því nokkuð máðir, en þó er letrið enn vel skýrt á þeim öllum.” Árið 1918 voru “um 40 minnisvarðar” í Garðakirkjugarði”.
Á Túnakorti 1918 sést hús úr torfi nokkru vestan Sjávargötugerðis, við Sjávargötuslóðann skammt frá sjónum og landamerkjum við Miðengi. Þetta gæti verið “verbúð frá Görðum” sem í Örnefnaskrá 1964 er nefnd Búðin, og “stóð ofanvert við vörina”, þ.e. Garðavör, “ofan við Garðasjó”. Kringum hana og aðallega ofan hennar var Búðarflötin og fyrir “framan hana var skiftivöllur”. Í Örnefnalýsingu segir: “Grasi gróinn hóll, sléttur að ofan, er á kampinum á milli Miðengis og Garða. Hér áður mun hafa verið sjóbúð á þessum hól, en þess sjást nú engin merki.” Líklega er þetta hóllinn sem við Fornleifaskráningu 1984 er kallaður Garðabúð eða Búð og er suður “frá bænum í Miðengi, alveg niður við flæðarmálið”, túnið ofan við en sjórinn að framan. Núna er þarna áberandi grænn hóll. Lengd hans meðfram sjávarmálinu er 8,5-9 m og breiddin um 5 m. Í honum er  hleðslugrjót en lögun tóftarinnar sést ekki. Á a.m.k. einum stað utan í honum sér í mikið af skeljum.
gardastekkur-22Garðabúð var skv. Jarðabók og Manntali árið 1703 (bls.18) nýbyggð hjáleiga frá Görðum og tók í raun við af hjáleigunni Skemmu. Ábúendur voru hjónin Jón Þórðarson og Ingunn Ingimundardóttir, heimilismenn þrír talsins. Jarðardýrleiki var óviss en séra Ólafi Péturssyni greidd 40 álna landskuld með tveimur fiskavættum eða peningum upp á fiskatal. Leigukúgildi, venjulega eitt, var ekkert hjá Jóni þetta ár en hann átti kýr sem fóðraðist naumlega, ær með lambi, þrjá veturgamla sauði, tvo hesta og hross með fyli. Kvaðir allt árið voru mannslán sem leyst var með hálfum skipshlut af tveggja manna fari ábúanda og einn dagsláttur. Hætt var að heimta hrísshest sem áður hafði fylgt afgjaldi af Skemmu. Garðabúð hafði “grasnautn hina sömu” og Skemma áður. Staðarhaldari lagði við til húsabótar en bóndi hafði móskurð í landi Garða. Garðabúð er ekki nefnd í síðari Manntölum og Jarðabókum.

Heimild:
-Þjóðminjasafn Íslands 2004, fornleifaskráing fyrir Garðahverfi 2003, bls. 24-60.

Garðar

Garðar.

Garðaskagaviti

Gengið var frá Útskálum um Garðskaga og með Skagagarðinum að Hafurbjarnastöðum, Kirkjubóli og um Flankastaði að Sandgerði.

Garðsskagaviti

Gamli Garðsskagaviti.

Strönd suðvesturhornsins og Reykjanesskagans er mjög fjölbreytt; sandstrendur, sjávarbjörg, grýttar fjörur eða ýmis konar bergmyndanir í flæðarmálinu. Svæðið hentar því vel til gönguferða og er mátulega langt frá höfuðborginni. Við ströndina er fjölskrúðugt fuglalíf, ekki síst á vorin. Þar fer saman stórkostleg náttúra og lífríki, hreint umhverfi og að mestu óbyggt svæði. Að þessu sinni var gengið ofan strandar, en víða má finna skoðunarverða staði á svæðinu.

Garður

Útskálar.

Útskálar var og er kirkjustaður og prestsetur í Garði, eða Sveitarfélaginu Garði eins og það heitir nú. Útskálar voru eitt mesta höfuðból á Suðurnesjum ásamt Stóra Hólmi í Leiru og Kirkjubóli á Miðnesi. Útskálakirkja var helguð Pétri postula og Þorláki biskupi fyrr á tíð. Kirkja sú er nú stendur á Útskálum var reist á árunum 1861-1863, timburhús á hlöðnum grunni, með sönglofti, forkirkju og turni. Kirkjugarðurinn er athygluverður enda tengjast mörg leiðin fólki og atburðum í Garði og nágrenni, ekki síst miklum sjósköðum fyrrum.

Garðskagi

Garðskagi. Nýi vitinn.

Vitinn á Garðskaga trjónir til lofts hvaðan sem litið er í Garði. Hann var byggður árið 1944, en eldri vitinn á Garðskagatá var reistur 1897, en áður hafði verið þar leiðarmerki, varða frá 1847, með ljóskeri frá 1884.
Garðskagi er nyrzti hluti skagans, sem gengur til norðurs, yzt á Reykjanesi. Þar var viti fyrst reistur árið 1897, þar sem hafði verið leiðarmerki, varða frá 1847 með með ljóskeri frá 1884. Árið 1944 var byggður nýr viti. Gamli vitinn var notaður sem fuglaathugunarstaður á vegum Náttúrufræðistofnunar á árunum 1962-1978.

Skagagarðurinn

Skagagarðurinn – kort.

Garðskagi er einn af beztu fuglaskoðunarstöðum Reykjaness og er mikið um farfugla þar vor og haust. Fuglaskoðarar flykkjast þangað til að heilsa upp á vini sína og vonast til að eignast nýja. Gamli Vitinn, sem fremst stendur er vinsælt efni ljósmyndara og í honum má sjá kort af Garðskaga þar sem skipströnd fyrri ára eru merkt og ýmsar upplýsingar eru þar um strandlengjuna.
Greinileg merki um akuryrkju hafa fundizt á Garðskaga, enda dregur hann nafn af Skagagarðinum, sem liggur á milli túnsins á Útskála og Túnsins á Kirkjubóli. Þessi garður var byggður til varnar akurlendinu. Fyrir aldamótin 1900 sást móta fyrir 18 akurreinum, sem voru aðskildar með görðum.
Frá Útskálum var gömlu kirkjugötunni fylgt áleiðis að og ofan við íþróttahúsið ofan við Síkið. Við hana eru tóftir gamalla kota sem og fornmannagröf, að talið er. Við hana er letursteinn, sem ekki hefur tekist að ráða í.

Skagagarður

Skagagarðurinn.

Gengið var til baka eftir götunni og beygt upp að enda Skagagarðsins, sem enn er sýnilegur, ofan við aðalgötuna í gegnum þorpið. Þar liggur hann beint upp í hæðina, áleiðis að Kirkjubóli.
Skagagarðurinn, sem mun vera forn, girti nyrsta hluta Rosmhvalsness frá öðrum hlutum Reykjanesskaga. Garðurinn var aðlíðandi norðanmeginn, en hár og lóðréttur til suðurs, enda hefur honum væntanlega verið ætlað að halda sauðfé frá miklum kornökrum sem voru nyrst á skaganum.
Fáum mun kunnugt um Skagagarðinn sem forðum lá frá túngarðinum á Kirkjubóli norður í túngarðinn á Útskálum. Engu að síður er hér um að ræða einhverjar merkustu fornminjar landsins og gefa okkur vísbendingar um löngu horfna starfshætti.

Garðsskagi

Skagagarðurinn – loftmynd 1954.

Skagagarðurinn mun hafa verið um 1500 metra langur og var fyrr á öldum um einn og hálfur metri á hæð og afar þykkur. Í tímans rás hefur hann hins vegar flast út og fengið ávalan svip.
Lengi ver var talið að garðurinn væri frá 13. og 14. öld, en fyrstu ritheimildir um hann eru frá árinu 1528. Rannsóknir jarðfræðinga hafa þó leitt í ljós að garðurinn hefur varla verið hlaðinn síðar en á 10. öld.
Ljóst er að garðurinn hefur girt með öllu fyrir skagann. Því við báða enda hans tóku við miklir túngarðar, en samkvæmt lögum íslenska þjóðveldisins var hver maður skyldugur til að verja vikum á ári til garðhleðslu.

Garðskagi

Garðsskagaviti.

Garðinum var fylgt til vesturs. Ofarlega í hæðinni eru tóftir Skálareykja. Þar við var læst hlið á Skagagarðinum. Vörslumaður hliðsins bjó að Skálareykjum.
Garðinum var fylgt áfram yfir þjóðveginn milli Garðs og Sandgerðis og þá var stutt eftir að Hafurbjarnarstöðum.
Hafurbjarnastaðir hefur verið bær allt frá landnámsöld. Þar fannst árið 1868 kumlateigur úr heiðni sem telja verður einn merkasta fornleifafund Íslandssögunnar. Bein og gripir voru flutt í Forngripasafnið, en dr. Kristján Eldjárn lauk rannsóknum á honum árið 1947. Í teignum voru bein sjö eða átta manna auk ýmissa gripa. Heillegasta beinagrindin er varðveitt í glerkassa á Þjóðminjasafni Íslands eins og margir munu kannast við. Alls voru í teignum 9 kuml og í þeim bein 7 eða ef til vill 8 manna og hafa þau verið rannsökuð. Einnig var mikið af beinaleifum hunda og hesta. Allmargt gripa fannst þar, vopn, skartgripir og fleira og sennilega hefur verið þar bátskuml.
Haldið var yfir að Kirkjubóli, sem nú er á golfvelli Sandgerðinga. Kirkjuból var mikil jörð og oft setin áður af höfðingjum. Það var áður þar sem nú heitir Gamlaból. Sá atburður gerðist vorið 1433 að hópur manna, sveinar Jóns Gerrekssonar Skálholtsbiskups, undir forustu Magnúsar nokkurs kæmeistara hafði beðið Margrétar, dóttur Vigfúsar hirðstjóra Hólms, en fengið hryggbrot. Reiddist Magnús og ákvað að brenna Margréti inni á Kirkjubóli. Hún var þó eina manneskjan sem komst úr eldinum komst á þreveturt trippi og gat flúið. Hét hún að giftast þeim manni sem hefndi hennar. Það gerði Þorvaldur Loftsson á Möðruvöllum og fékk hann Margrétar.

Kirkjuból

Kirkjuból – loftmynd 1954.

Árið 1550 var síðasti kaþólski biskupuinn á Íslandi tekinn af lífi. Sá sem kvað upp úrskurðinn um að biskup skyldi líflátinn hét Kristján og var umboðsmaður danska hirðstjórans á Íslandi. Í ársbyrjum 1551 fór Kristján með fjölmennu liði á Suðurnes í erindum konungs og tók sér gistingu að Kirkjubóli. Um nóttina réðust Norðlendingar að bænum fengu leyfi bóndans þar til að rjúfa þekjuna, réðust að Kristján og mönnum hans og drápu þá fleiri eða færri. Voru Kristján og fylgdarmenn hans dysjaðir fyrir norðan túngarð á Kirkjubóli, á Draughól. Þótti þar reimt, svo að Norðlendingar fóru aftur, grófu líkin upp og hjuggu höfuðin en settu nefin milli þjóana. Þetta þótti mönnum hin mesta smán og svívirðing og er fréttin barst til Danmerkur og töldu að níðst hefði verið á líkunum.

Garður

Letursteinn á fornmannaleiði í Garði.

Leiddi þessi atburður til þess að árið eftir komu danskir hermenn að Kirkjubóli, tóku bóndann og fluttu í Straum og hálshjuggu þar. Því næst héldu þeir út á Álftanes, handsömuðu böðulinn sem tekið hafði biskupinn af lífi og neyddu hann til þess að drekka bráðið blý. Tókst danska konungsveldinu að koma lögum yfir fæsta þessara manna.
Gengið var um Flankastaði, en að Flankastöðum voru fyrr á tímum haldnir vikivakar og jólagleði. Ýmsir kirkjunnar þjónar höfðu horn í síðu þessara dans- og gleðisamkoma sem þeir töldu ýta undir drykkjuskap og lauslæti. Voru þessar samkomur því bannaðar um 1745. Var því spáð að prestinum Árna Hallvarðssyni ætti eftir að hefnast fyrir tiltækið og gekk það eftir þegar hann drukknaði á voveiflegan hátt.
Þá var komið í Sandgerði. Það er með elstu höfuðbólum á Suðurnesjum. Þaðan hefur alla tíð verið stunduð mikil útgerð enda Sandgerði einhver mikilvægasta verstöð landsins, á sama tíma og dró úr mikilvægi flestra annarra verstöðva á Rosmhvalsnesi. Elsta húsið í Sandgerði, Sáðgerði eða Efra-Sandgerði, sem er nyrst í plássinu við Sandgerðistjörn. Árið 1990 fékk Sandgerði kaupstaðarréttindi og er með yngstu kaupstöðum landsins.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimildir m.a.:
-http://www.reykjanes.is/Um_Reykjanes/Ahugaverdir_stadir
-http://www.nat.is/travelguide/ahugav_st_gardskagi.htm
-http://www.islandsvefurinn.is/landshlutar.asp?lysing=sws&hluti=sws&menu=sw
-http://www.sandgerdi.is/igen.asp?ID=361&pID=348&rvID=6358

Hafurbjarnastaðir

Gripir sem fundust í kumli við Hafurbjarnastaði.

Ísólfsskáli

Gengið var um Ísólfsskála, frá Skálabót að Gvendarvör skammt austar og mannvirkjunum ofan hennar, að Tröntum og áfram um Hattvík og Kvennagöngubása. Haldið var eftir ruddum slóða út í Hraunsnes og hin merkilegu jarðfræðifyrirbæri skoðuð. Þá var haldið áfram ofan við Veiðibjöllunef, framhjá Mölvik og inn í borgirnar (Ketilinn) áður en komið var að Selatöngum.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli.

Á Ísólfsskála var gengið að bæjarstæði gamla bæjarins, sem var þar sem nú er sumarhús niður við sjó, ofan við Skálabótina, vestast í túninu. Vestan og neðan við hann var sjóbúð, sem enn sést móta fyrir. Þar sem járnhlið er á girðingunni sjávarmegin var brunnurinn, sem nú er kominn undir sjávarkambinn. Sjóbúðun var framan og vestan við bæinn, fast við veginn að bústaðnum. Austan við veginn að bústaðnum eru einnig hleðslur gripahúsanna, en göng voru yfir í þau úr bænum.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – uppdráttur ÓSÁ.

Réttin var undir hamrinum ofan við núverandi íbúðarhus að Ísólfsskála, þ.a.e.s. það íbúðarhús, sem síðast var búið í. Nú er húsið notað sem “fjölskyldurefreshment” skv. nútímamáli, sem endurspeglar að nokkru nálægð varnarliðsins um nokkurt skeið. Það hafi fjarskiptastöð undir Fiskidalsfjalli/Húsafjalli er lagðist af undir lok sjötta áratugar tuttugustu aldar.
Gengið var austur með Skálabótinni að Gvendarvör. Hún er innan í fallegu lóni utan við Nótarhól austan við túnin á Skála.

Nótarhóll

Nótarhóll.

Á hólnum og við hann eru mikil fiskibyrgi og þurrkgarðar frá þeim tíma er fiskur var verkaður og þurrkaður á staðnum. Fiskurinn var flattur eins og saltfiskur nú, hann síðan lagður inn í byrgin og þess gætt að roðið lægi saman. Þannig hafi fiskurinn verið um veturinn. Um vorið var hann tekinn og lagður á garðana uns honum var pakkað og skúturnar komu erlendis frá og sóttu hann. Þær voru á legu utan við víkina, stundum margar saman. Utan við Nótarhól er Gvendarvör, eins og fyrr sagði og heitir ysta mark lónis Gvendarsker. Frá því myndast Alnbogi til lands með því austanverðu og sker að vestanverðu.

Ísólfsskáli

Fiskbyrgi við Nótarhól.

Lending var í Börubót, sem var beint neðan við bæinn. Kampurinn hefur gengið mikið upp síðan því tún var niður að honum allt að móts við Lambastapann, sem er austasti klettur Festisfjalls, Skálamegin. Ofan hans er Hjálmarsbjalli, nefndur eftir bróður Guðmundar. Hann ruddi svæðið ofan við bjallann, hlóð veggi og gerði þar túnblett. Norðan við húsið er stakur steinn er nefnist Huldukonusteinn. Segir sagan að huldukona hafi eitt sinn birst heimasætunni er var að leik við steininn og beðið hana um að lána sér dúkku, sem hún hafði. Heimasætian lánaði huldukonunni dúkkuna, en svo óheppilega vildi til að hún missti hana svo hún brotnaði. Varð af grátur og gnýstan tanna, en huldukonan hvarf inn í steininn.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli -málverk eftir ljósmynd 1956.

Haldið var að “nýja” Skálahúsinu, sem byggt var 1931. Í stefnu austur frá húsinu, ríst klettaborg úti í hrauninu. Hún nefnist Kista. Fjárbólið var uppi í klettunum norðan við bæinn.

Gamla lestargatan, eða rekagatan (lestargatan) vestari, liggur frá Ísólfsskála, í gegnum hraunið til austurs og út að Selatöngum. Þangað er um 20 mín. gangur. Gatan er áberandi ígegnum hraunið, en þegar hún kemur út á sandflákana ofan við ströndina (ofanvið Veiðibjöllunef og Mölvík, hverfur hún að mestu. Þó má sjá þar vörðubrot á stangli.
Djúp gjá opnaðist nýlega við götuna skömmu áður en komið er að Smíðahellinum austan við Ketilinn (Borgirnar) í Katlahrauni. Gatan, sem hefur verið löguð til, liggur niður í Ketilinn, gegnum hann og út hann að austanverðu. Þaðan er ágætt útsýni yfir Selatangasvæðið.

Hraunssnes

Hraunsnes – bergsstandur.

Á Selatöngum var fyrrum mikil útróðrarstöð og verstöð. Þar eru verbúðarústir, fiskbyrgi og fiskgarðar auk hraunhella sem voru notaðir til ýmissa hluta. Standa mörg fiskbyrgin og fiskgarðarnir enn að miklu leyti. Svæði þetta var allt friðlýst 1966 af Kristjáni Eldjárn, þáverandi þjóðminjaverði.
Selatangar eru í Ögmundarhrauni á mörkum jarðanna Ísólfsskála og Krýsuvíkur. Landamerkin liggja um klett (Dágon) í ofan við fjöruborðið. Ljóst er að hraunið hefur runnið eftir landnámsöld því undir því eru leifar mannvirkja sem greinilegar eru t.d. á svonefndum Húshólma.
Geislakolsaldursgreining á koluðum gróðurleifum dagsettu hraunið til miðrar 12. aldar og annálar nefna eldgos 1151. Óvíst er hvenær útgerð hefst frá Selatöngum en samkvæmt ofangreindu eru minjarnar ekki eldri en frá miðri 12. öld.

Hraunsnes

Í Hraunsnesi.

Víst er að útgerðin lagðist niður um tíma eftir Básendaflóðið 1799, og svo að fullu og öllu 1884 en það ár var síðast róið frá Selatöngum. Um það leyti var seinasta sjóbúðin rifin, og hafa menn eigi hafzt þar við síðan.
Rústirnar eru margar og er hægt að telja þær upp undir 20, auk garðhleðslanna sem eru á hraunnefunum og eru nú að mestu horfnar. Á vestustu hraunnibbunni er verbúð og rústir auk garðhleðsla. Á næstu nibbu austan við eru rústir sömuleiðis en hraunnibban er aðgreind frá þeirri vestari af sandi.

Selatangar

Rekagatan.

Fleiri rústir eru svo á þriðju nibbunni sem myndar samfelldara og stærra svæði en hinar og þar eru líka flestar rústirnar. Austast á þessu svæði er önnur verbúðartóft og byrgi í líkingu við það sem er vestast. Utan í hraunflákanum að austan eru fyrirhleðslur við skúta sem virðast hafa verið notaðir af fé. Margar hleðslurnar hafa farið verulega illa í flóðum undanfarin ár.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Heimildir m.a.:
-Fornleifaskrá. Skrá um friðlýstar fornleifar. Ágúst Ó. Georgsson tók saman. Reykjavík 1990.
-Ísólfsskáli. Örnefnalýsing. Guðmundur Guðmundsson bóndi Ísólfsskála. Ari Gíslason skráði. Örnefnastofnun Íslands.
-Lúðvík Kristjánsson: Íslenzkir sjávarhættir II. Rvk. 1982, bls. 410-11

Ísólfsskáli

Brimketill utan við Ísólfsskála.

Jockum Magnús Eggertsson

Í Sjómannadagsblaði Grindavíkur 2019 er frásögn Jockum Magnúsar Eggertssonar;  “Einn áfangi á Reykjanesi“. Fjallar hún um ferðir hans um Reykjanesskagann árið 1945.

Jockum Magnús Eggertsson“Við höfðum slegið tjöldum austan Festarfjalls undir hlíðarrana. Fellin fallast þar í arma og geiga í hafsuðrið móti útsænum. Hann er þar einvaldur en gjögrin ögra honum. Þar með slævist hann og slöðrast í skútum og bergvilpum og andar djúpt millum þess er hann flæmist og flaðrar um dranga og kletta sem haldið er rígföstum í krepptum hnefum af stálörmum fjallsins.
Hlíðarraninn er gróinn kjarngresi millum grjót rasta og ofanhraps og þar er græn grundin undir. Forbrekkið lykur hálfhring í klettaskjóli af vestri og norðri. Til austurs er úfið hraun, liggjandi í landáttinni, en til suðurs særinn, óendanlegur. Blómsprungin gróðurlænan, ilmandi og marglit, teygist fast í sjávarkampinn, uppausinn og umturnaðan, með slitringi af sjóreknum sprekum og hrakviði ásamt vargétnum ræfrildum og rusli, skeljabrotum og skrani.
Ásýnd Ægis konungs er aldrei smávægileg. Andgufa hans þryngir loftið. Ærið er borðhald hans þjösnalegt, oft og tíðum, og refjar henta honum eigi er hann ryðst um að mat sínum. Skap hans er ætíð mikið og persóna hans fyllir rúmið, hvort heldur hann vakir, dormar eða dreymir. Víst kann hann að kasta mæði og ganga að borði kurteislega. Heitir það hófstilling. En er hann kveður sér hljóðs við bergþil strandarinnar, þá rymur hann og klappar klettinn. Þar ríkir annar höfðingi fastur í sessi, þolmikill og þybbinn og enginn veifiskati.
Kveðjur þeirra stórvelda eru mikilúðugar og oftast kaldar, en þó fjandskaparlausar, og vekja af dvala vætti og höfuðskepnur. Gætir þar geigvænnar alvöru og hráslagalegrar kampakæti: er kyssast klettur og sjór. Konungur hafs og lands!

Ísólfsskáli
Ísólfsskáli
Bær er þarna einn og úrhreppis. Heitir að Ísólfsskála. Telst til Grindavíkursókna. Bærinn situr í fjallskverkinni undir Slögubarðinu, í beygjugjögur olnbogans, á lágsléttu fyrir ögurbotninum, kvíaður milli fjallsins og hraunstorkunnar.
Hraunflóð mikið hefir ollið yfir allt undirlendið og í sjó fram millum Festarfjalls og Krýsuvíkurbergs. Það heitir Ögmundarhraun og er eyðimörk. Aðeins mjó ræma óbrunnin milli hraunjaðra og fjallsróta. Bærinn Ísólfsskáli húkir þarna undir Festarfjallinu út við hafið. Hann er nú ofar en áður fyrr og aukið við túni, sem teygir sig upp á hjallann yfir bænum. Það hefur kostað ærna aðvinnslu í bogri og eigri einyrkjans. Grjóthrúgur miklar auglýsa erfiðið. Lausa grjót liggur hér víða í hálsum og hlíðum á opnum svæðum, þar sem eigi hafa hraun ollið ofaraurum og myldingi, en gróðurmold góð og víða alldjúpt undir. Er það svo upp til hæstu hnjúka. Ennþá eimir þarna eftir af þykkum, kringumblásnum jarðvegstoddum og tyrfum, til og frá í fellum og fjöllum. Forni jarðarfeldurinn er enn ekki að öllu og fullu eyddur og burtblásinn. Bendir þar til mikils gróðurs og skjólsælla skóga áður á öldum. Þarna í eyðimörkinni búa væn hjón og vinnusæl. Góðfús eru þau og gestrisin. Þau eru við aldur. Börn þeirra uppkomin; flest flogin úr hreiðrinu. Barnabörn aftur komin innundir. Ísólfur heitir einn yngstur sonurinn hjónanna. Hann var heima. Álitlegur sveinn og vel líklegur ríkisarfi. Heitir í höfuðið á bólinu.

Hjónin í eyðimörkinni

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – gamli bærinn. Sumarbústaður byggður á tóftunum.

Rústir gamla bæjarins eru rétt á sjávarbakkanum. Sá bær var áður ofarlega í túni. Svona sækir sjórinn á landið.
Hrammur hafsins og höggtennur hafa hér brutt og nagað ströndina, hámað í sig mold og mýkindi, grafið og gramsað í landinu, hóstað og hrækt út úr sér brimsorfnum buðlungum og hrúgað öllu saman í hryggi, er verpa ströndina.

Isólfsskáli

Ísólfsskáli – bærinn og útihús.

Sá mikildjarfi dögglingur þokast nú þéttskrefa á landið upp í átt til fornu bæjarrústanna. Hann iðjar ekki allsvana. Hann ekur á undan sér hrynhárri upplausnarkempunni, íklæddri byngborinni kyngi. Nú gín hann yfir eina vatnsbóli eyðimerkurinnar, gamla brunninum, og er nú kominn á fremsta hlunn og þegar hafinn handa að hrækja í hann hroðanum.
Hjónin í eyðimörkinni eru, eins og best má vera, brot af íslensku bergi, frumbornir arftakar þess ódrepandi úr þjóðlífinu; uppalin af duttlungum veðurfarsins, hert af óblíðu árstíðanna, viðjuð gróanda vorsins, kynbætt af þúsund þrautum. Þeim hæfði þáttur sérstakur.

Hér er þess varla völ
ÍsólfsskáliNöfn þeirra þarf ekki að nefna. Þau vita sjálf hvað þau heita. Allir þekkja þau, sem eitt sinn kynnast þeim, en ókunnugum mætti segja að þau hétu Agnes og Guðmundur. Hann mun eitthvað hafa fæðst þar austur í fjallgarðinum.
Fólk klekst þetta hvað af öðru, hálfóafvitandi, svo fæðingarstaður hvers og eins verður sjaldan nákvæmlega útreiknaður enda skiptir það minnstu máli. Undirlega landsins er þar aðalatriðið. Vigdísarvellir mun það heitið hafa þar sem foreldrum hans fénaðist drengurinn.
Kotið lá undir Krýsavíkursókn. Nú í auðn komið fyrir áratugum. Svo er og um sóknina alla. Enginn maður er þar uppistandandi. Sá síðasti féll í fyrra (1945), og þó eigi til útafdauða. Einsetumaður. Hafðist við í kirkjuhrófi Krýsavíkur, eina húsi sóknarinnar uppihangandi, í miðjum gamla kirkjugarðinum,
inn á milli leiðanna. Þar voru hans gömlu samherjar og sálufélagar gróðursettir.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – Erling Einarsson við steinninn nefnda.

Aftur skal vikið að Ísólfsskála. Ungur fluttist hann þangað, drengurinn. Er hann var 9 ára varð hann fyrir einkennilegu atviki. Hann var að leika sér með öðrum börnum undir klettum í krikanum vestan við túnið. Skúti einn er þar undir bergið, en stuðlaberg slapir yfir. Drengurinn var að bauka þar undir að leik sínum. Losnaði þá og féll á drenginn allstórt brot neðan af einum bergstuðlinum. Kramdist hann þar og klesstist undir og lá sem dauður væri. Börn voru þar önnur, er hlupu heim og sögðu frá. Var þegar farið til af fullorðnum.
Drengurinn var talinn dauður með því blóðlækur mikill rann undan farginu. Var því lyft af og gætt fyllstu varúðar. Sá litli lá þar meðvitundarlaus: höfuðleðrið rifið og flett af hauskúpunni og annar handleggurinn tvíbrotinn. Drengurinn lifnaði við og varð græddur, en vegsummerki ber hann til æviloka.
Bær þessi fór svo í auðn skömmu síðar og ekkert nýttur nokkurt skeið. En þá drengur þessi varð frumvaxta og hafði sér konu festa, keypti hann þetta eyðikot, hefur búið þar síðan, byggt upp og bjargast.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – Agnes og Guðmundur með nokkrum börnum þeirra.

Hollvættir staðarins hafa verndað drenginn sem síðar átti eftir að endurbyggja bólið, rækta það og reisa, auka það og uppfylla. Konan mun komin af einhverri ódrepandi ætt, líklega af Vatnsleysuströnd eða Suðurnesjaalmenningum, sem hægt og rólega kljáðist við örlögin og klóraði þeim bak við eyrað. Með fyrirhyggjunni og frumstæðustu amboðum skal það hafast, þó allt annað umhverfist og heimurinn gangi af göflunum. Annars segir ekkert af henni, þessari konu. Engin ógæfa mun að henni komast, svo ágæt er hún. Hún var ekkja með 6 ungbörn er hún ákvað að rugla saman reitunum með núverandi manni sínum og setjast að í eyðikotinu á eyðimörkinni. Hún lét ekki þar við sitja heldur fæddi síðari manni sínum önnur 6 börn. Gerði báðum jafnt undir höfði og sýnir það háttvísi í hegðun. Hún hefur fullkomlega lagt sinn skerf að heill staðarins. Þessi kona er síung þrátt fyrir alla erfiðleika barnauppeldis og búskapar. Um leið og bú hennar blómgaðist og færðist út, óx hún sjálf og þroskaðist. Nótt og nýtan dag hefur hún unnið og annast heimili sitt og haldið þar hlífiskildi. Í skrúðgarðinum hennar hjá hlaðvarpanum voru um 60 jurtategundir og trjáa. Kunni hún ævisögu hverrar plöntu og kvists. Þá stóð hún ekki á gati í ættfræði og kynbætum hundanna, kattanna og kvikfénaðarins.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – uppdráttur ÓSÁ.

Þá var ekki komið að tómum kofanum með kartöflurnar, garðjurtirnar og kornakrana, sem rotturnar gengu í eins og þeim væri borgað fyrir það, bitu öxin af stöngunum og báru burt og söfnuðu í kornhlöður handa sjálfum sér. Þetta þurfti sosum að basla fyrir lífinu eins og aðrir, þessi kvikindi.
Heimilið og fjölskyldan: barnabörnin, hænuungarnir, hundarnir, matjurtirnar, kindurnar, kýrnar, eldiviðurinn og taðan, innanhússtörfin, þvottarnir og matreiðslan: Allt í sömu andránni, á einu bretti og í hagsýnum tilgangi. Ekkert mannlegt óviðkomandi, er hagsýni hennar mátti að gagni verða. Vissi margt, en fann sig þó þurfa að vita miklu meira og spurði óspart. Huldufólk umgekkst hún heiðarlega; ættfærði köttinn í átjánda lið, hundinn til heilags anda, en drottni gaf hún dýrðina. Ólukkan forsómaði hún algjörlega. Náttúrubarn. Elskuleg kona.
Ísólfsskáli
Hundurinn auglýsir sál og samvisku hvers heimilis. Þarna standa þeir Tryggur og Móri dinglandi af ánægju meðan við erum að reyra saman baggana og remba á okkur byrðunum. Kötturinn kom líka og vippaði sér upp á garðshornið; setti upp gleraugu, leit á hundana og heiminn og allt sem skaparinn hafði gert og gera látið, reisti kamb og hvarf með úfnu og uppréttu skotti.
„Aumingja strákurinn“, okkar hundur hann var tjóðraður og hafður í bandi til að missa hann ekki út af réttlínunni. Þetta var ungur óvaningur, uppveðraður til skammarstrika.
Svo kveðjum við Ísólfsskála, þennan ágæta bæ, með öllu sem um hann og í honum hrærist.

Jónar og Kristjánar

Krýsuvík

Krýsuvík seinni tíma – uppdráttur ÓSÁ.

Ferðinni var heitið austur í ólgandi hraunið í átt til þeirrar upprunalegu Krýsavíkur, er auðvitað situr við sæinn, og var á sínum tíma stærsta höfuðból á Íslandi, en átti sel og hjáleigur víðsvegar upp í Gullbringunum, meðal annars í dalnum góða og grösuga, þangað sem nafnið Krýsavík var flutt, langt upp í land, eftir að sjálft höfuðbólið fórst í því ægilega hraunflóði, er Ögmundarhraun rann. Það mun hafa verið í byrjun 14. aldar, sennilega um 1340. Gamla Krýsavík var, alllöngu fyrir landnám norrænna manna eða austmanna: þ. e. Dan-þjóðflutninga kvíslarinnar, orðin höfuðstöð sægarpa og siglinga og af austrænum uppruna eins og Dankvíslin, (víkingarnir), aðeins stórum mun lengra komnir í vísindum, menningu og siðgæði. Lærðu mennirnir voru nefndir „papar“, þ.e. feður, og skiptust á tvær deildir: Jóna og Kristjóna = Kristjána. Jónarnir skoðuðu Krist sem mann, er hægt væri að líkjast og urðu óumræðilega vitrir og máttugir.

Húshólmi

Gamla Krýsuvík í Húshólma – uppdráttur ÓSÁ.

Kristjánar trúðu, aftur á móti, eingöngu á Krist sem guð, hafinn yfir allt mannlegt sem aðeins væri hægt að elska og tilbiðja í auðmýkt og lotningu. Þeir urðu óumræðilega heimskir og ofstækisfullir og liggur ekkert eftir þá af viti. Jónarnir tileinkuðu sér lífsskoðun Jóhannesar frá Antiochia Krýsostómas = gullmunnur. Þeir voru því kallaðir krýsar og af þeim dregur Krýsavík nafn, því þar var höfuðbækistöð krýsostomosa, og búinn að vera það full 200 ár, áður en Ingólfur Arnarson kom hér að landi.
Gamla Krýsavík var, fram yfir miðja elleftu öld, eða þar til Krýsar voru drepnir, eitthvert mesta menntasetur veraldarinnar. Kristjónar hötuðu jóna = krýsa og skoðuðu þá sem heiðingja og andskota, en urðu að vera upp á þá komnir, því þá skorti alla þekkingu og manndáð til að geta bjargast án þeirra. Heiðnum mönnum (Ásatrúar) og krýsum kom, aftur á móti ágætlega saman, svo fremi, að ekki væru við höfð mannblót eða annað ódæði.

Einsetumenn, er hér höfðu aðsetur

Húshólmi

Skálatóft í Húshólma í Gömlu-Krýsuvík.

Flestir „papanna” voru fæddir hér á landi.
Ísólfsskáli lá áður fyrr undir gömlu Krýsavík, eins og flestar jarðir í „Landnámi Ingólfs”, en féll undir Skálholtsstól er hann var stofnaður (1056), eins og nær allar jarðir á Reykjanesi og Suðurnesjum, og hélst það allan tímann meðan Skálholtstóll var biskupssetur, en þó tókst Danakóngum að krækja í einhver kotin.
Aðförin að Krýsum var gerð, eins og áður er sagt, haustið 1054, og eignum þeirra skipt millum kirkjunnar og höfðingjanna, og fyrsti stóllinn stofnaður. Urðu þar fyrstu þverbrestirnir í þjóðveldið, en hvalreki fyrir erlenda konungsvaldið. Var hér um stóreignir að ræða því Krýsar áttu meðal annars meginpart innlenda kaupskipaflotans, en höfðingjar þurftu að fá vel borgaðan „herkostnað“ allan og ómak sitt og manntjón við aðförina.
Við ferðalangarnir, erum fjórar mannverur, tvennt af hvoru kyni, og hundurinn sá fimmti. Við verðum að bera allan farangur á sjálfum okkur, tjöld vor og útbúnað allan, vistir og vatn. Það er 15-20 km. leið, er við eigum fyrir höndum að fyrir huguðum áfangastað, meginhlutann yfir úfið apalhraun, gróðurlaust af öðru en grámosa, sprengt og umturnað af algjöru handahófi, ófært hestum og öllum farartækjum nema fótum manns og fuglinum fljúgandi. Og vatnsdropa er hvergi að fá á þeirri leið, er við höfum ákveðið að fara.

Reykjanesláglendið

Húshólmi

Húshólmastígur um Ögmundarhraun.

Meginhluti Ögmundarhrauns, en í það leggjum við, getur vart hafa runnið fyrr en á árunum 1211- 1340. Í og um Reykjaneshálendi eru skógar sagðir hafa verið mestir á landi hér og landskostir bestir, að fornu fari, áður en allt Reykjanes brann og varð eyðimörk, að Gullbringnadalnum undanteknum, en þangað var nafn fornu Krýsavíkur flutt, eftir eyðinguna, og hefur síðar orðið að Krísuvík sem er lítilsháttar afbökun og latmæli, en þó ekki meira en gengur og gerist um eiginnöfn, meðal allra þjóða.
Ævaforn helluhraun hafa víðast hvar verið á Reykjanesláglendinu og nýrri hraunin runnið yfir þau. Allmargir hólmar og tæjutásur af þessum eldri hraunum hafa undanþegist og liggja eins og hrakspjarir hingað og þangað innan um úfnar rastir og storkinn hrákavelling nýju hraunanna. Vegferð allmikil hefur verið um fornu hellurnar, því markast hafa í þær greinilegar götur og troðningar, eftir aðalumferð, og hverfa þessar aðalgötur undir nýju hraunin sem ófær eru yfirferðar. Má af þessu marka, að mjög hefir verið sótt til Suðurnesja á fyrri öldum.

Traðarfjöll

Gígar norðan Traðarfjalla milli Fremrivalla og Tófubrunna.

Í ísl. annálum er getið 14 mikilla eldgosa á Reykjanesskaga og í Trölladyngjum, efst í fjallgarðinum vestan Gullbringudalsins, en þær dyngjur virðast hafa átt stóra samvisku og nóg á sinni könnu, enda mæður margra hrauna. Ekki er fullvíst að þarna séu meðtalin gos í Eystri Gullbringum, Eldborgum, Brennisteinfjöllum og Heiðinni Há sem öll hafa gosið ákaflega síðan sögur hófust. Hafa þau gos umturnað hálendinu austan Krýsavíkur og hraunfossar steypst ofan af Geitahlíð og austari hamrahlíðinni, allt til Selvogsósa, breiðst þar út yfir láglendið og runnið í sjó fram beggja megin Herdísarvíkur, en það er fornfræg veiðistöð vestast í Selvogi.
Meginrennsli Ögmundarhrauns hefir komið úr þrem sprungum utan undir ystu hlíðunum á Núpshlíðarhálsi, rétt fyrir neðan Vigdísarvelli. Hafa myndast fjöldi smágíga í þessum sprungum, fleiri tugir gíga í hverri sprungu. Eru stærstu gígarnir nyrst í neðstu sprungunni. Heita þar Fremrivellir, en Tófubrunnar neðstu gígarnir. Hinar sprungurnar eru ofar og sunnar. Flestallar gjár og eldsprungur á þessu svæði liggja frá norðaustri til suðvesturs. Er það næsta merkilegt hve ægilegt hraunflóð hefur ollið úr þessum sprungum og síðan breiðst út niður á láglendinu, yfir fornu helluhraunin, bæði til suðurs og vesturs, en til austurs alla leið að Krýsavíkurbergi og á sjó fram á öllu því svæði og vestur að Selatöngum.

Selatangar

Selatangar – sjóbúð.

Vestari hluti Ögmundarhrauns hefir runnið úr gígum við Selvelli, suður og vestur á við, og í sjó fram milli Festarfjalls og Selatanga. Virðist það hraun vera nokkru eldra en það austara.
Gífurlega er Ögmundarhraun víða úfið og kargað og mismunandi opinmynntar og gapandi gjásprungur óteljandi. Hafa orðið í hrauninu ægilegar gufu og ketilsprengingar, er það dróst saman og kólnaði.
Milli vestur og austurhluta Ögmundarhrauns er nokkurn vegin greiðfær leið, um fornu hraunhellurnar, undan Núpshlíðinni og niður að Selatöngum, en þar var mikil fornfræg veiðistöð og útræði, og er að kalla má, fyrir miðju Ögmundarhrauni. Í Selatöngum eru miklar rústir búða og fiskibyrgja. Útræði var þaðan stundað allt fram á síðari helming 19. aldar. Þar voru eitt sinn, á fyrri öldum, taldir í veri 27 Jónar og eitthvað færri Kristjánar, er sóttu þaðan sjóinn ásamt mörgum öðrum minna algengum mannaheitum.

Húshólmi

Húshólmi – tóftir í Ögmundarhrauni.

Nú hefur þaðan í 70 ár ekki verið á sjó farið, en allt bíður síns tíma. Segja mætti mér að sú kæmi tíðin, að hafnarmannvirki yrðu gerð í Selatöngum. Ögmundarhraun á allt eftir að byggjast og verða eitthvert blómlegasta hérað landsins. Öll verðum við þá horfin er nú byggjum landið, en ritsmíð þessi mun ennþá uppi og bera sannleikanum vitni.
Gamla Krýsavík á enn eftir að rísa upp og verða aftur mesta menningarsetur veraldarinnar. Þetta er ekki spádómur heldur lítilsháttar athugun á lögmálum orsaka og afleiðinga. Það er ófrávíkjanleg staðreynd, að allt sem fram á að koma er löngu fyrirfram séð og vitað, planlagt og útreiknað. Þetta virðist næsta ótrúlegt þegar þess er gætt að frelsi mannsandans er ótakmarkað og hann getur allt sem hann vill – ef hann veit að hann getur það.
Allt Ögmundarhraun verður með tímanum molað niður og notað til áburðar. Í því er mikil gnægð jurtanærandi efna, bundin í steininum. Mosafeldurinn mikli, er þekur hraunin á stórum svæðum er einnig mjög dýrmætur. Vatn er undir niðri, ótæmandi, í gjám og sprungum og þyrfti óvíða að bora eftir því. Vatnssvið landsins nægilegt fyrir stórborg og orka jarðhitans takmarkalaus.

Tröll og berserkir

Ögmundardys

Ögmundardys austast við Ögmundarstíg.

Þjóðsagnaþrugl er til um það, hvernig nafn Ögmundarhrauns eigi að vera til komið. Á slíkum þjóð sögum er ekkert að græða, allt uppspuni og tilbúningur, þar sem engin tímasetning er við höfð, og allt úr lausu lofti gripið. Þjóðsögur eru marklausar nema þær séu tímasettar og vísað til vegar með raunverulegum atburðum.
Þjóðsagan um vegruðninginn yfir aðal ofanrennslistaum Ögmundarhrauns, vestan við Krýsavíkur Mælifell (Eystra-Mælifell), þar sem beinakerling sem sögð er dys Ögmundar, er undir Fellinu, við veginn, er sama sagan og sögð er í fornsögunum (fyrir 900 árum) um veginn gegnum “Berserkjahraun” á Snæfellsnesi. Það er móðursögnin. Þrjár arfsagnir hafa svo, öldum síðar, sprottið af þessari upprunalegu móðursögn og gróðursettar sín í hverju landshorni.

Ögmundarhraun

Ögmundarhraunið rutt.

Afsprengi upphaflegu móðursagnarinnar eru eftirtaldar arfsagnir:
-Sögnin um berserkinn Ögmund = Ögmundarhraun undir Gullbringum í Gullbringusýslu.
-Sögnin um berserkinn Rusta = Rustastígur, í Rustahrauni við Dimmuborgir í Mývatnssveit í Suður-Þingeyjarsýslu.
-Sögnin um berserkinn á Ósi = Ósvör við Buðlungavík (Bolungarvík) í Norður Ísafjarðarsýslu. Allt voru þetta berserkir og tröllmenni, er fyrir sitt líkamlega erfiði, að loknum afköstum, höfðu gefin loforð um fríða og efnilega heimasætu; en sviknir og drepnir að verkalaunum.

Ögmundarstígur

Ögmundarstígur í dag.

Þess verður ávallt að gæta um þjóðsögur: hvort þær eru móðursagnir eða afsprengi.
Sagan um „lönguna“ er t.d. sögð í þrem samstofna útgáfum, sín í hverju landshorni; Þegar sóknarmenn vildu „plata“ prest sinn, eða reyna „kunnáttuna“ og láta hann jarða löngu í staðinn fyrir sveitakerlingu. – Það eru 3 „galdraprestar“, sinn á hverjum tíma sem eignaður er sami leikurinn, sama vísan eða vísurnar og sömu tilsvörin: séra Jóni gamla á Þæfusteini undir Jökli, ár 1580; Eiríki presti á Vogsósum í Selvogi, dáinn 1716, 49 ára að aldri; og loks Snorra presti Björnssyni á Stað í Aðalvík; prestur þar á árunum 1741-1757, en síðar á Húsafelli og kenndur við þann stað.
Á slíkum samstofna „guðspjöllum” verða menn alvarlega að vara sig. Þess vegna verður að rekja ætt hverrar þjóðsögu til upprunans, og staðfæra hana, á svipaðan hátt og frumhöfundar Íslendingasagnanna gerðu um sögu hetjur sínar og máttarstólpa viðburðanna. Þeir byrja á því að rekja ættir og tildrög til sannsögulegs uppruna. Þeir staðfæra söguhetjurnar raunvísindalega, byrja á byrjuninni og vita endirinn til síðasta orðs um leið og byrjunina. Verk sín byggja þeir á órjúfandi – sannsögulega – raunverulegum grunni. Með því tókst þeim að skapa sannar og lifandi, rólegar og öfgalausar lýsingar og ódauðleg listaverk. Þeir kunnu svo vel á ekju tungu sinnar, að nærri heggur að þeir skáki nornunum í manntafli örlaganna.
Helgi Guðmundsson, safnari „vestfirskra sagna“, skildi hlutverk sitt best ísl. þjóðsagnaritara. Við fráfall hans urðu íslenskar bókmenntir fyrir óbætanlegu tjóni.

Áfram skal haldið

Krýsuvíkurberg

Gamla Krýsuvíkurbergið austan Húshólma.

Leið okkar liggur undir fellum og fjöllum, hálsum og hæðum til landsuðurs meðfram Núpshlíðinni og austurfyrir Núpinn sem er allhár, og teygir sig fram úr fjallrananum út í hraunið. Þetta er afgömul sjávarströnd, fuglabjörg ævaforn og aflóga, frá þeim tíma er sjórinn stóð miklu hærra en nú, undirlendi var ekkert, og þar sem áður voru firðir eru nú fagrir dalir, eins og t.d. Þórsmörk.
Gaman er að lesa land um leið og maður gengur. Þó efst séu hamrar og hengiflug, og enn ákleyft, hækkar ofanhrapið og úrlausnin aftur neðan frá, eftir því sem upp hleðst, uns orðið er bústið og bringu hvelft undir klettakraganum. Fæðast þá geirar grasgrónir, er teygjast svo sem auðið er upp í álkur og hófst foreldrisins og hanga þar góðteit millum aurskriðna og iðrunarbolla framhleypninnar. En sú framhleypni er þó undirstaða annars meira, þótt særist brjóstið og svívirðist gróðurinn. Þarna í geirunum móti suðri og sól, í skjóli hamra hlíðarinnar fyrir norðannæðingum, finnum við fullþroska jarðarber og er þar allmikið af þeim. Þau voru góð, þó villt væru, stór og ljúffeng og merkilega bráðþroska. Enn var júlímánuður ekki afliðinn.

Latur

Latur í Ögmundarhrauni og Latfjall ofar. Krýsuvíkur-Mælifell á millum.

Leið okkar liggur fram hjá Litla-Lat sem er fjallsrani með hækkandi fellskolli upp að endanum og hömrum framan í að sævarátt, og skagar út í úfna og ólgandi hraunstorkuna.
Við stefnum á Óbrennishólma, en það er allmikill grasgróinn hólmi, umgirtur hrauni á alla vegu. Þarna er aðalniðurrennsli hraunsins frá gígunum við Fremrivelli. Hefur hraunið runnið þar undan brekkuhalla, suður á við, millum EystraMælifells og Núpshlíðarháls. Öll er hraunstorkan úfin þarna og í henni bárur miklar og þversprungur, bognar eftir rennslinu og bramlaðar sitt á hvað. Hallandi hraunbrekkan, úfin, storkin, sprungin og bólgin, er sviplíkust skrið jökli, er sígur og hnígur fram og niður úr þröngum og djúpum dali.

Óbrennishólmi

Óbrennishólmi; fjárborg eða virki!?

Við köstum byrðum og hvílumst um stund á hæsta hóli Óbrennishólmans, í suðurenda hans, en þar er ævaforn fjárborg sem nú er með öllu jöfnuð við jörðu svo ekki stendur steinn yfir steini. Má þó enn greina hring undirstöðunnar og hefur fjárborg þessi verið allstór eða nálægt 10 metrar að þvermáli; hlaðin úr basalti og grágrýti sem ekki finnst þarna annarstaðar, enda er borgin miklu eldri en hraunið um kring.
Úr Óbrennishólmanum héldum við til suðausturs, í átt til Húshólmans sem var fyrirhugaði áfanga staðurinn, en hittum ekki á bestu leiðina, heldur þá alverstu.
Fórum of nærri sjónum og lentum inn í kolsvart brunahraun, afarúfið, með engum mosagróðri. Byrðarnar voru þungar: 40-50 kg., á þeim er þyngst var. Þegar þarna var komið var hundurinn orðinn svo sárfættur, að bæta varð honum ofan á eina byrðina. Við höfðum þó gert honum skó á alla hans fjóra fætur, en ekkert vildi duga þó sífellt væri verið að reyra og vefja og endurbæta skógerðina. Hann fór margan óþarfa krókinn: „Aumingja strákurinn“, og flengdi af sér skóböslin í eltingaleik við kjóahjón, er hann átti í erjum við, þó enginn yrði árangurinn annar en skóslit og sárir fætur eftir margt vel útilátið vindhögg og mörg misheppnuð frumhlaupin.

Húshólmi

Húshólmi – skálatóftir.

Steinuppgefin með sprengda skó og rifnar flíkur komum við í áfangastaðinn, Húshólmann. Þar féllum við til jarðar á rennislétta, ilmandi grundina undir úfnum, bröttum hraunjaðrinum skammt frá rústum forna stórbýlisins sem eru þar umluktar og inni bræddar í hrauninu.
Marflöt eins og ormar teigum við angan gróður vinjarinnar, er hvílir þarna innan vébanda eldstorkunnar í hrjósturkufli eyðimerkurinnar. Faðmur móður vorrar, jarðarinnar, er æ reiðubúinn að taka börn sín og hjúfra í friði og farsæld.
Örfá andartök og þreytan er þorrin. Sami töfrailmurinn er hér enn úr grasi og Grelöð Jarlsdóttir hin írska fann, er hún, á fyrstu dögum Íslandsbyggðar, valdi sér bústað eftir angan jarðar og ilman blóma.
Og gamla persneska skáldið Omar Khayyám vissi hvað hann söng, er hann, fyrir meir en 800 árum, kvað um mannsævina og líkti henni við lestargöngu.

Húshólmi

Húshólmi – Kirkjulágar.

Vel var sofið og vært þessa fyrstu nótt í tjaldbúðum vorum í Húshólma, enda aldrei áður tjaldað þarna og sofið svo menn viti til. Miklir voru draumar og mannfróðlegir. Meðal annars þóttist eitt okkar finna allmargar beinagrindur og hirða. Voru þær frá ýmsum tímum og öldum og sín úr hverri áttinni. Þegar farið var að rannsaka kom það upp úr kafinu að beinagrindur þessar voru af draumamanninum sjálfum, frá áður lifuðum og liðnum æviskeiðum. Ein fannst austur í Eyjahafi, nálægt stórri eyju undan Grikklandsströndum; önnur í Atlantshafi í nánd við Hebrides-eyjarnar og tvær, eða fleiri, grófust upp úr kafinu einhvers staðar á voru landi, Íslandi.
Draumamann langaði mjög til að hirða hauskúpurnar og eiga sem minjagripi, því mjög gæti það verið fróðlegt, að eiga vel verkaða hauskúpu af sjálfum sér frá einhverri fyrri jarðvist. En allar hurfu þær draumamanni, að undantekinni einni, er hann vildi ekki fyrir nokkurn mun missa. Og er hann vaknaði hélt hann báðum höndum ríghaldi um hauskúpu þessa og horfði á hana leysast upp og hverfa úr greipum sínum. Dreymanda þótti þetta miður, og það mundi fleirum hafa þótt, svo raunverulegur var draumurinn. Þetta var klukkan 6, að morgni laugardagsins 29. júlí 1944. Fuglar loftsins komnir á kreik og farnir að hefja dagskipan sína. Draumamaður skreið úr svefnpoka sínum og klæddist, skundaði síðan út í glitrandi morgunljómann og fór að rannsaka umhverfið. Hann hafði áður farið hér um sér til angurs og fróðleiks, en rannsóknarefnið er ótæmandi fyrir allflesta sem eitthvað hafa lært að tileinka sér.

Húshólmi

Húshólmi – hin gamla Krýsuvík – uppdráttur ÓSÁ.

Húshólminn er allstór. Aðalhólminn mun nálægt 30 ha. (um 100 dagsl.) að stærð. Uppblásturs gætir þar á nokkrum stöðum. Austan við Hólmann hefur hraunið runnið utan í hliðarhalla og fylgt honum allt í sjó fram. Má vera að þarna hafi verið daldrag sem hafi yfirfyllst af hrauni; öðruvísi verður þetta varla skýrt eða skilið og harla einkennilegt, að hraunið skyldi ekki steypa sér yfir hólmann allan. Millum aðalhólmans og sjávar er mikill og svartur hraunkampur, úfinn og ljótur, en fyrir ofan þennan hraunkraga, þvert yfir graslendi Hólmans, er fornt fjöruborð af brimsorfnu grágrýti.
Vestan megin Hólmans hefur hraunið einnig runnið langt í sjó fram, fyllt alveg víkina og lokað henni. Er glóandi grjótleðjan kom í sjóinn og kólnaði, hlóðst hún upp og stöðvaði framrennslið, svo hraunið hefur sumstaðar runnið til baka aftur.

Rústir í hrauni

Húshólmi

Húshólmi – tóft og garðar í Kirkjulág.

Úti í hrauninu, rétt fyrir vestan aðalhólmann, heitir Kirkjulág. Þar eru rústir mikillar húsaþyrpingar sem hraunið hefur að nokkru leyti runnið yfir, en nokkuð hefir orðið eftir og standa veggir og tóftar brot út undan hraunröndunum.
Kringum eina rústina er garður og hefur hraunið runnið inn í hann, en ekki fyllt hann alveg, svo austurkanturinn og norðurhornið er hraunlaust. Er það sagður hafa verið kirkjugarður, en ekki er víst að svo sé.
Í há norður frá Kirkjulánni, um 100 metrum ofar í hrauninu, eru aðrar rústir miklu heillegri. Þær rústir hafa aldrei verið athugaðar af fræðimönnum. Hefur hraunið hlaðist að þeim á alla vegu en hvergi komist inn fyrir veggina. Hleðslurnar haldast ennþá á pörtum fastar í hraunstorkunni. Sumt af hleðslunum hefur bráðnað, en sumt af steinunum hitnað svo og eldast að þeir bera þess merki. Tóft þessi er um 20 m. á lengd og 8 á breidd og liggur frá austri til til vesturs. Við austurendann hefur verið minna hús áfast en ekki eins breitt og aðalrústin. Í hleðslum húsarústa og garðabrota er mestmegnis grásteinn og margt af honum vatnsnúið eða brim marið, sennilega tekið úr forna fjörukampinum sem verið hefur skammt fyrir sunnan, því víkin hefur náð langt inn að vestanverðu, áður en hún fylltist af hrauni. Bæjarhúsin munu hafa staðið skammt austan við víkurbotninn.

Húshólmi

Húshólmi – forn garður hverfur undir Ögmundarhraun.

Forna fjöruborðið, eða sjávarkampurinn, er mjög merkilegur til fróðleiks. Hans gætir kringum allt land og eins norður á Grímsey sem annarstaðar. Þetta fjöruborð liggur í 4-5 metra hæð yfir núverandi sjávarmál og eigi myndað fyrr en löngu eftir síðustu ísöld. Hlýindatímabil hefur þá staðið yfir, um alllangt skeið, svo jöklar hafa bráðnað á norður hveli, að svo miklum mun að hækkað hefur í höfunum. Hefur þá verið orðið nær jöklalaust á Íslandi. Síðan hefur kólnað aftur og mikil uppgufun bundist. Á aðalhólmanum eru greinilegar fornar garðhleðslur, sá lengsti um 300 metra langur og hverfa báðir endar hans inn undir hraunið.
Margar sagnir eru til á ýmsum tegundum af „galdraletri” um Gömlu Krýsavík og starfhætti krýsa og menningu. Ber öllum þeim lýsingum saman í aðalatriðum. Í tíð Kolskeggs vitra voru þar stórt hundrað manns í heimili og 30 hurðir á járnum. Þar voru miklir akrar og ræktun. Auk korntegunda var þar ræktað lín og hör og einhverskonar korntegund sem Kolskeggur flutti inn frá Vesturheimi og kallað er „hölkn“, og eftir lýsingunni að dæma hlýtur að hafa verið maís. Í Krýsavík var og skipasmíðastöð og mörg hafskip smíðuð. Gjá ein eða klauf gekk upp í landið úr vesturbotni víkurinnar og mátti þar fleyta skipum inn og út um stórstraumsflóð. Mátti hafa þar 1-2 hafskip í vetrarlagi.”

Heimild:
-Sjómannadagsblað Grindavíkur 2019 – Einn áfangi á Reykjanesi – Jockum Magnús Eggertsson (1896-1966) fjallar um ferðir hans um Reykjanesskagann árið 1945, bls. 20-28.

Húshólmi

Gamla Krýsuvík hægra megin, nú fyllt af hrauni. Tóftirnar á víkurbakkanum.

Sigurður Eiríksson

Gengið var með Sigurði Eiríkssyni í Norðurkoti og fleirum eftir gömlu kirkjugötunni milli Býjaskers og Hvalsness. Leiðirnar fyrrum þarna á millum voru tvær; Neðri-gatan, sem lá með ströndinni, og Efri-Efri-gatagatan, sem lá ofar í landinu.
Gatan síðarnefnda sést víða enn mjög vel og er ætlunin að ganga hana milli hverfanna og jafnframt skrá á spjöld sögunnar – því ekki er vitað til þess að henni hafi áður verið lýst, hvorki á prenti né skjá. Sigurður þekkir örnefnin best núlifandi manna og kann að segja sögur af eftirminnilegum atburðum. Þetta var því söguleg ganga.
Byrjað var þó á því að skoða Bæjarskersgötuna þar sem frá var horfið.
Reynt var að skrá niður það helsta er fyrir augu bar á leiðinni, en vegna þess hversu margt það var, verður sumt að bíða betri síðna.
Sigurður býr nú að Norðurkoti III, austan Stafnesvegar. Þegar hann vildi hliðra til og hleypa yngra fólkinu að búskapnum í Norðurkoti mættu honum ýmsar hindranir, sem bæði eðlilegt og sjálfsagt hefði verið að leysa af verandi ráðamönnum í Sandgerði. Má þar t.d. nefna viðurkenningu á búsetu í hina ágæta nýja húsi, sem sumir vildu flokka undir sumarbústað.
Norðurkot IIISkv. túlkun þeirra mátti Sigurður ekki hafast þar við yfir vetrarmánuðina. Hann þurfti þá að greiða fullt verð fyrir rafmagn, vera án þjónustu sveitarfélagsins og svo mætti lengi telja. Auðvitað verður að flokka þessi viðbrögð undir þröngsýni og lýsir kannski best þeim er þau sýndu – og hafa sýnt. En nóg með það að sinni…
Gangan hófst við leifar gamla bæjarins Bæjarsker. Þar eru nú engin ummerki eftir gömlu götuna.
Að sögn Sigurðar má sjá Neðri-götuna stutta kafla á þremur stöðum, s.s. við Norðurkot. Annars væri hún að mestu horfin. Í lýsingu segir Sigurður m.a. svona frá þessari götu: “Neðri göngugatan milli hverfa, stundum kölluð kirkjugata. Hún lá með bæjum. HólkotÉg man vel eftir henni á Háabakkahólnum. Þar var hún vel merkjanleg eftir miðju Norðurkotstúni. Kom gatan upp úr Fúluvíkinni um hlaðið í Fuglavík, í traðir sem liggja með Fjósakotstúni sunnan til sjávar. Gatan þar er vel sjáanleg í dag, lá með sjó yfir Melabergsá og í gegnum hlaðið á Nesjum og Löndum. Efri-gata var notuð líka og víða sjáanleg.”
Gengið var í fyrstu yfir að og framhjá tóftum Hólkots, Hábæjar og Miðkots. Þar eru á öllum stöðum tóftir torfbæja og hlaðnir grjótveggir.
Efri-gatan kom glögglega í ljós sunnan við Setberg, vestan Stafnesvegar. Götunni var fylgt áleiðis til suðurs. Þegar komið var á móts við Kambsstekk benti Sigurður á grónar leifar hans skammt ofan þjóðvegarins.

Skammt sunnar mátti sjá móta fyrir nánast jarðlægum hlöðnum görðum: “Gilsgarðar, sagði Sigurður”: Gilsgarðar voru hlaðnir af Þorgils Árnasyni í Hamrakoti.
Skammt sunnar staldraði Sigurður við, snérist um 90° og benti til austurs, áleiðis upp heiðina: “Þetta er forvitnilegt, hluti gamals vegar, sem átti að liggja héðan til Keflavíkur. Hér má sjá hvernig mótar fyrir veginum, sem byrjar hér við Efri-götu ofan Vatnagarðs. Hluti vegarins var skemmdur töluvert þegar slitlag var sett á Stafnesveg. Var mjög vel hlaðinn og breiður.
Gamlir menn sögðu, að hestvagnar hafi átt að geta mæst Götuhlutinná honum. Hann hefði átt að liggja til Keflavíkur en draugar hefðu stoppað áframhald. Voru menn hér í hverfinu svona framsýnir og langt á undan tímanum og einhverjir draugar, e.t.v. mennskir, tafið og viljað láta hann liggja með byggð?”
Sigurður taldi að þarna hefði getað verið um vegabótavinnu að ræða. Þegar fjármagn hefði skort var ekki lengra farið. Eflaust hefur líka verið ágreiningur um vegstæðið, sem er svolítið einkennilega staðsett, millum Fuglavíkur og Melabergs.
MarkavarðaOfan við þjóðveginn eru Fuglavíkurstekkir; Neðri-Stekkur (grjóthlaðinn) og Efri-Stekkur (torfhlaðinn). Efri stekkurinn ber við sjónarröndina. Eftir er að skoða hann nánar, en ekki er ólíklegt að þar kunni undir háum gróningunum að leynast fjárborg. Ætlunin er að skoða þessi mannvirki betur fljótlega.
Framundan til hægri mátti sjá Markavörðuna svonefndu. Um hana sagði Sigurður: “Markavarðan er á mörkum milli Fuglavíkur og Melabergs. Varðan er neðst í Almenningum og í klöpp við hana er höggvið L.M. Almenningur var samkomulag milli fjárbænda í Bæjarskershverfi og Fulavíkurhverfi, suður í Nesjar. Almenningur hafði þann tilgang að fé kæmist í fjöru. 

Hábær

Vel má sjá móta fyrir útlínum stekksins. “Kambsstekkurinn er norðast í Setbergsgirðingu (eða Bárugirðingu). Gæti hafa verið stekkur frá Syðstakoti?”, segir í lýsingu Sigurðar. Suðaustan við hann er lítil tjörn, sem þornar á sumrum. Stekkurinn er norðan í svonefndu Kambsgili, sem er aflíðandi slakki upp í landið.
Þá liggur gatan innan girðingarinnar í Norðurkoti og færist smám saman nær henni við þjóðveginn. Þegar komið var inn fyrir Norðurkot III (Bjarghús), þar sem Sigurður býr núna, var staldrað við. Það er í svonefndu Gili.

Kambsstekkur

Austan við húsið í Norðurkoti I er sæmileg tjörn. Hana sagðist Sigurður hafa búið til á sínum tíma. Norðan við Norðurkotsbæinn er Lón, nefnt Skurðir. Um Norðurkotstjörnina segir Sigurður: “Hún var mikið minni hér áður og náði Háibakki mikið ofar og var mjótt haft á milli upp í tangann sem nú er orðinn hólmi. Var farið á steinum yfir á Háabakkann. Pabbi (Eiríkur) byrjaði að laga til og búa til hólma um 1939. Hólmarnir voru búnir til með því að aka grjóti á ís og laða æðarfugl að og smám saman fjölgaði fugli. Var það aðallega úti í hólmunum, en eftir að minkurinn kom, þá flutti fuglinn sig upp í landið.” Sigurður lýsti því hvernig æðarvarpinu var komið á legg, baráttunni við nálægan varg, sem reyndust vera kettir úr Bæjarskershverfi, uppsetningu 5 km langra varnarneta umleikis o.fl.
Brókarlaut er austar, þar sem Stafnesvegur fer upp brekku suðvestan Norðurkots III. Sagði Sigurður nafnið hafa komið til vegna þess að vegagerðarmenn við veginn hafi þurft að klæðast hlífðarbrókum vegna þess hversu blautt vegarstæðið hafi verið.
Gatan við KlapparkotshólFarið var yfir heimreiðina að Norðurkoti. Þar á hægri hönd mátti sjá leifar af gömlum hlöðnum túngarði. Gatan liggur þarna upp stutta hæ
ð. Á hægri hönd er aflangur klapparhóll, Klapparkotshóll. “Klapparkot stóð vestur undir hólnum”, sagði Sigurður. Þar má enn sjá tóftir þess. Skammt sunnar mátti sjá leifar Hamrakots, hjáleigu frá Fuglavík. Við þær er trjárækt austanvert. Að sögn Sigurðar plantaði Una í Fuglavík, systir Jónínu, þessum trjám löngu eftir að kotið var aflagt. Kotið stóð við Hamrakotshól. Vestar, austan Fuglavíkurbæjarins, var Móhús. Sunnan við Fuglavík er Fuglavíkurtjörn. Hún var einnig nefnd Varptjörn. Sést hún vef frá götunni, sem og annað er lýst hefur verið.
Fuglavíkurbærinn er vestan við Norðurkot. Frá fundi húsfreyjunnar þar, Jónínu, á fornum ártalssteini, segir annars staðar á vefsíðunni.
Ofan götunnar, móts við Hamrakot, er aflangur klettur með hárri fuglaþúfu á, grónar leifar vörðu. “Álfakirkja heitir hann þessi”, sagði Sigurður. Sagðist hann ekki þekkja til sagna af álfum þarna, en þær gætu þó tengst konu einni (Stína) er umsetin var álfum. Bjó hún fyrrum í Hamrakoti. Hún kom þangað einus inni á ári og gekk þá um Hólinn. “Sögur hef ég heyrt um dularfulla hegðun og hvörf hennar þegar hún var ung í Hamrakoti. Ein er sú að bankað var þar að kvöldi, fór hún til dyra en kom ekki aftur og var horfin. Fannst hún inn á Njarðvíkurfitjum. Fleiri sögur eru til skráðar.”
Ofar má sjá steypta veggi Hóla. Faðir Sigurðar, sem bjó í Fjósakoti niður við Fuglavík, byggði húsið, nýbýlið, 1934. Sigurður (f: 1929) flutti síðan í húsið ásamt foreldrum sínum, en það brann árið 1937. Um það leyti var Norðurkotið laust til ábúðar og fluttist þá fjölskyldan þangað. 

Álfakrikjan

Eiríkur Jónsson keypti Norðukotið af Guðmundi Gíslasyni, sem fékk að vera þar áfram meðan hann lifði. Eiríkur reif öll hús í Norðurkoti, sem þá voru úr torfi og grjóti, og reisti ný.
Þarna, upp frá Fuglavík, liggur Fuglavíkurvegur. Um hana segir Sigurður: “Fuglavíkurvegur, gömul leið til Keflavíkur. Man eftir honum liggja frá Efri-götu sunnan Norðurkotsafleggjara, norðan hænsnakofa, norðan Háamels og upp, beygði svo norður af Folaldatjörn og inn á Einstæðingsmel, vestan Gotuvörðu á Sandgerðisvegi. Gotuvarða er ný upphlaðin og merkt af okkur Guðmundi Sigurbergssyni.”
Efri-gataUtan við Hóla og ofan Stafnesvegar er Siggavarða. Ekki sagðist Sigurður vita hvaðan nafngiftin er komin, en hann og Jónína í Fuglavík væru sammála um að hún væri gömul. Skammt sunnar er Dagmálavarða á ílangri Dagmálahæð. Um var að ræða eyktarmark frá Fuglavík.
Frá þessum stað við gömlu götuna benti Sigurður til vesturs og sagði að þarna neðar hefði verið býli er nefndist Vatnagarðar eða Vatnagarður. Sunnar hefðu Kaðalhamrar verið, niður við ströndina. Um væri að ræða stórtgrýttan kletthöfða. Sagði hann fróða menn hafa talað um að nafnið væri sennilega keltneskt. Svo væri og um mörg önnur áhrifaorð í íslensku. Tók hann sem dæmi orðið “geir” í merkingunni “mör”. Þannig mætti nefna geirfuglinn “mörfugl”, en það væri einfaldlega rökrétt þegar afurð hans væri skoðuð í samhengi. Mörgæsin væri t.a.m. ekki ólíkur þeim fugli, sem reyndar er ekki  útdauð eins og hann. Fleiri dæmi tók Sigurður af nafngiftum kelta og áhrif þeirra á þessu svæði við gömlu kirkjugötuna.

Seinna, um 1945 varð gert samkomulag um að loka þessu til að stjórna flæðihættu. Norðurkot hafði alltaf aðgang að sinni spildu í gegnum Almenning, þangað til 2005, að Melabergsbændur girtu hana af einhliða.”
LindinÞrátt fyrir leit á klöppum við vörðufótin sást engin áletrun. Hún mun þó geta leynst þarna undir sandi, sem fokið hefur um svæðið og þakið misfellur.
Það kom líka augsýnilega í ljós á götukaflanum, sem framundan var. Allt Melabergssvæðið vestanvert er sandoprið þótt takist hafi að rækta þar upp á seinni árum. Gatan er því horfin í sandinn. Syðst á svæðinu staðnæmdist Sigurður við litla tjörn. “Hér neðar er Lindarsandur og þetta er Lindin. Lindarkot var hér skammt ofar, rétt ofan þjóðvegarins, og enn ofar er Melaberg. Í Lindinni þraut aldrei vatn. Hún var hlaðinn niðurgenginn brunnur. Tröppur voru hér að suðvestanverðu og hlaðið umleikis, líkt og sjá má í brunninum forna á Merkinesi. Sandurinn fyllti síðan brunninn og nú er hann horfinn. Það væri létt verk og löðumannlegt að grafa hann upp og gera aðgengilegan áhugasömum ferðalöngum um svæðið”. Í örnefnalýsingu fyrir Melaberg segir um lind þessa: “Er sandur þessi niður undan bænum Melaberg og heitir Lindarsandur. Dregur hann nafn af lind þeirri, sem er þar vestan við túnið. Hún var vatnsból og talin eins konar lífslind. Þetta sýnist þó vera ómerkileg hola í slétta grund og mun hafa verið talin hættuleg skepnum. Þau ummæli voru á Lindinni, að aldrei mætti fylla hana upp. Þetta var þó gjört á síðari hluta 19. aldar, og hlaut sá, er verkið vann, ógæfu nokkra. Hann hafði lokið verkinu, en var eigi genginn frá Lindinni er hann tók sjúkleika, sem varaði í nokkur ár, og fleira gekk

 báglega um tíma. Voru ummælin talin valda. 

Smalinn

Lindin var grafin upp aftur og hreinsuð; hefir ekki ógæfa á legið síðan. Þó Lindin sé eigi enn þá vatnsból Melabergs, er vatnið í henni hreint og tært. Hún hefir nú fengið þann umbúnað, að partur af tunnu hefir verið festur í botninn, og góður gangvegur er nú niður í holuna á einn veg. Geta kýr og aðrar skepnur gengið þangað sjálfkrafa til brynningar sér.”
Leiðin liggur nú yfir að því er virðist gamlan árfarveg, svonefnda Melabergsá. Utan við hana eru nokkrir steina á lágu hloti. Komið var að “Melabergsbræðrum og smalanum”; þremur stórum steinum á lágri aflangri hæð. Þjóðsaga kveður á um tilurð steinanna, smalinn austast og bræðurnir þétt saman vestar. Í kringum þá eru minni steinar; ær er urðu að steinum líkt og hinir fyrrnefndu.

Norður-Nesjar

Í lýsingu Magnúsar Þórarinssonar: „Leiðir, lendingar og örnefni á Miðnesi; – Melaberg“, Frá Suðurnesjum. Frásagnir frá liðinni tíð, sem Félag Suðurnesjamanna gaf út í í Reykjavík, 1960, bls. 131-133, segir m.a. um neðanvert svæðið nálægt Melabergi: “Upp af Skjólgarðsbökkum, norðan við Melabergsá ofanverða, eru tveir stórir klettar með 3—4 faðma millibili; heita þeir Melabergsbræður, en í daglegu tali stytt í „Bræður“. Um 20—30 föðmum austar er einn steinn af sömu stærð og líkri lögun; heitir hann Smali.
Milli þessara einstæðu kletta eru nokkrir tugir smærri steina, sem eru öðru vísi en annað grjót á þessum slóðum. Þeir eru sléttir, ljósir að lit, líkir að stærð og lægri í vesturendann. Ef á að lýsa þeim nánar, þarf að hafa sömu aðferð og þegar skoðað er gott málverk, en það er: að vera í hæfilegri fjarlægð og horfa á þá frá réttri hlið.
Bezt er að standa spölkorn fyrir sunnan þá eða suðaustan og hugsa sér Suðurnesjaveðrá
ttu, útsynning með hryðjum eða éljum. Er þá ekki öðru líkara en að þarna sé fjárhópur og snúi allar „kindurnar“ í veðrið og séu að bíta. Enda segir gamla sögnin, að Melabergsbræður, ásamt með sauðamanni og búsmala, hafi þarna dagað uppi um eina fagra sólarupprás einhvern tíma í fyrndinni.
Efri-gata

Margar og miklar sögur hafa gengið frá Melabergi og Melabergsmönnum; eru nokkrar þeirra skráðar í þjóðsögum. Það var í munnmælum, á unglingsárum mínum, að Melaberg hafi einhvern tíma áður verið stórbýli með 50 hurðir á járnum, aðrir sögðu 80 og einstöku maður komst upp í hundrað. Enginn hefir þó getað sagt, hvar þennan fróðleik er að finna.”
Þegar lengra var haldið blasti Másbúðarvarða við niður við ströndina; sundvarða í Keili. Komið var að gatnamótum Hvalsnesgötu frá Keflavík og Efri-götu. Frá þeim tók gatan svo til beina stefnu á efsta grjótgarðinn við Nesjar. Ekki er auðvelt við fyrstu sýn að greina götustæðið, en úr því rættist fljótlega. Á leiðinni var gengið yfir jarðlægan garð Norður-Nesja. Tóftir bæjarins eru á lágum hól sunnan við túngarðinn. Hleðslur sjást enn er forma fyrrum bæjarstæðið. Um hann og fleira á leiðinni má t.d. lesa í Rauðskinnu.

Hvalsnes

Gengið var ofan garðs við Nesjar og Lönd. Þar fylgdi gatan utanverðum görðum. Að sögn Sigurður má enn greina Virkið (Virkishól) og Gömlu Nesjar á bak við bílskúrinn á Nesjum. Másbúðarhólmi er neðar, landfastur á fjöru.
Nýlegt sumarbýlissvæði var á hægri hönd er lengra var haldið og þá Bursthús. Nýlenda var síðasti bærinn á hægri hönd áður en haldið var heim á hlað að Hvalsnesi. Frægastur ábúenda á Hvalsnesi er að ölluk líkindum séra Hallgrímur Pétursson.
Að lokinni göngu bauð Sigurður þátttakendum til stofu í Norðurkoti III. Til að bæta um betur fyrir hinar ellefu sortir og laufabrauð á borðum eftir fyrri ferðina galdraði hann fram rúsínur í súkkulaðihjúp og bauð rjúkandi kaffi með.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 22 mínútur.

Heimild:
-Sigurður K. Eiríksson í Norðurkoti (f: 1929)

Hvalsnes

 

Kaldársel

Ætlunin var að ganga á Undirhlíðum til suðvesturs, framhjá Stóra-Skógarhvammi, um Móskarðshnúka, framhjá Markrakagili (Melrakkagili), upp á Háuhnúka (262 m.y.s.) og að Vatnsskarði þar sem gengið verður til baka um Breiðdal og Slysadali að upphafsstað.

Markrakagil

Þegar gengið er frá Bláfjallavegi (sunnan við námuna) er fyrst farið um lága melhæð og lágum hæðum síðan fylgt á ásnum. Gil eru í hlíðinni og verður Stóra-Skógarhvammsgil fyrst áberandi. Í Skógarhvammi er skógrækt Skógræktarfélags Hafnarfjarðar. Nú eru liðin u.þ.b. hálf öld síðan byrjað var að gróðursetja tré þarna í hlíðunum og hefur af hlotist hinn myndarlegasti skógur, líkt og í Ingvarslundi nokkru norðar með þeim. Utan í gíg neðan og skammt sunnan við Bláfjallaveginn vottar fyrir fornum hleðslum.
Þá var komið að svonefndum Móskarðshúkum. Hauhnukar-2Örnefnið hefur valdið ágreiningi í gegnum tíðina, en hvað sem því líður er þarna um að ræða bæði fallegar og tignarlegar móbergskletta-myndanir, sem verð er að gefa góðan gaum. Myndræn skál er í “Hnúkunum” og ef gengið er umleikis þá má bæði sjá fallegar myndanir og góð skjól.
Áður en komið var upp á Háuhnúka; efstu hæðir Hlíðarinnar, má sjá steina á stökum móbergsstandi. Þar mun vera um að ræða landamerki Hafnarfjarðar (?) og Krýsuvíkur. Loks var komið á efsta Háahnúkinn. Þar er varða. Staðsetninguna má ráða af hinu fallegasta útsýni í allar áttir; einkum til suðurs og suðvesturs.

Markrakagil

Markrakagil.

Markrakagil er síðan á hægri hönd. Aðrar lýsingar segja Markrakagil og Vatnsskarð vera eitt og hið sama. Landamerki Hafnarfjarðar liggja um gilið og í beina línu í Markraka ofan við Dauðadali suðaustan við Helgafell. Mörkin eru reyndar óviss vegna þessa álitamáls, en samhengi er í nöfnunum á þessum tveimur stöðum. Markraki er eitt af mörgum nafngiftum refsins, melrakkans.
Þá var komið í Vatnsskarð. Ofan við það er varða; líklega hin fornu landamerki, en þarna munu landamerkin hafa legið fyrir aldarmótin 1900 (sjá herforingjakort frá 1919).
VatnsskardOfan í Melkrakagili (Vatnsskarðsgili?) er fallegur berggangur, einn sá fallegasti og aðgengilegasti á Reykjanesskaganum. Hann var barinn augum. Loks var Dalaleiðinni fylgt um Breiðdal og Slysadölum að upphafsstað. 

Í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1945 lýsir Ólafur Þorvaldsson svonefndri Dalaleið, þ.e. um fyrrnefnda dali að norðanverðu Kleifarvatni: „Áður en við yfirgefum þessar slóðir að fullu, skulum við nú, þegar við hverfum frá Krýsuvík að þessu sinni, fara leið, sem við höfum ekki áður farið. Þessi leið er hin svonefnda Vatns- eða Dalaleið. Nú vill svo til, að nokkur kafli hins nýja vegar frá Hafnarfirði til Krýsuvíkur liggur með Kleifarvatni að vestan, svo að nú gefst fleiri mönnum kostur á að fara þessa leið en áður var.
Þessi leið mun ekki hafa talizt til höfuðleiða milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar, enda sjaldan farin, og þá helzt á vetrum. Þó tel ég hana ekki með öllu ómerkilega, og ber fleira til en eitt. Það er þá fyrst, að þessi leið er stytzta og beinasta lestaleiðin milli Krísuvíkur og Hafnarfjarðar. Hún er greiðasta og hægasta leiðin. Hún liggur í sérkennilegu og fögru umhverfi. Hún var nokkrum annmörkum háð, — og hún gat verið hættuleg.“

Breiðdalur

Breiðdalur – Helgafell fjær.

Þegar komið var að endamörkum var rifjuð upp fyrr ferð um svæðið, líkt og sjá má á eftirfarandi texta: Gengið var frá Krýsuvíkurvegi ofan við Vatnsskarð um Breiðdal, Leirdal og Slysadali, haldið yfir á Skúlatún í Skúlatúnshrauni og síðan niður í Kaldársel framhjá Gvendarselshæðargíga og Kaldárhnúka.
Gengið var niður í sunnanverðan Breiðdalinn og áfram til norðausturs vestan Breiðdalshnúks. Norðan hans var beygt upp á holtin og haldið áfram á þeim til norðausturs, yfir í Leirdal. Þar er Leirdalsvatnsstæðið, annað af tveimur. Beygt var frá því og gengið að Leirdalshöfða og með honum niður í Slysadali. Dalirnir eru vel grónir. Í þeim norðanverðum er nokkuð er líkist tóftum, en Breiddalur-2gæti verið hvað sem er. Dalirnir virðast vera einn, en Bláfjallavegurinn sker nú dalina. Landið þarna er að mestu innan hinna fornu Almenningsskóga Álptaneshrepps, en Slysadalir eru innan lögsögu Hafnarfjarðar. Útlendur ferðamaður var að koma frá Krýsuv
ík á 19. öldinni, hafði farið um Hvammahraun og Fagradal að vetrarlagi. Hin leiðin var um Helluna þarna vestan af, í austanverðum hlíðum Sveifluhálsins ofan við Kleifarvatn, en það mun hafa verið óvegur og ekki fyrir hesta. Vilpur voru í dalnum og voru þær ísi lagðar. Fór svo að maðurinn missti tvo hesta sinna niður um ísinn, en mannskaði varð enginn.

Skílatún

Skúlatún norðanvert.

Áður en komið var upp á þjóðveginn var beygt til austurs, yfir nokkrar klettasprungur. Í þeim óx fallegur burkni. Nokkur jarðföll eru þarna á svæðinu og í nokkrum þeirra litlir og lágir skútar.
Skúlatúnið blasti við í austri. Í Landnámu er tveggja jarða getið innan þess svæðis sem Garðabær nær til. Ásbjörn Özurarson, bróðursonur Ingólfs Arnarssonar, er sagður hafa búið á Skúlastöðum, en nam land milli Hraunsholtslækjar og Hvassahrauns og Álftanes allt. Eru munnmæli um að Skúalstaðir hafi verið þar sem Skúlastaðahraun er, sem er norðan við Lönguhlíðarhorn, innan Almenningsskóga Álftaneshrepps.

Skúlatún

Skúlatún – Helgafell fjær.

Gengið var í átt að Skúlatúni. Að sumra áliti gæti þar hafa verið landnámsbær, en þó er það talið ólíklegt. Skúlatún er þúfótt graseyja í Tvíbollahrauni (Skúlatúnshrauni). Ekki skyldi þó efast fullkomlega eða útiloka með öllu að þar undir kynnu að leynast einhverjar minjar. Skúlatúnshraun (stundum einnig nefnt Hellnahraun eldra) er slétt helluhraun og er talið hafa runnið fyrir 2000 árum.
Tvíbollahraun eða Hellnahraun yngra eru frá því um 950. Það kom úr Brennisteinsfjallakerfinu, líklega frá Stórabolla í Grindaskörðum og stíflaði meðal annars Hvaleyrarvatn. Hraunið myndar ströndina milli Straumsvíkur og Hvaleyrarholts.

Gullkistugjá

Gullkistugjá.

Gengið var norður hraunið, yfir Gullkistugjá og í beina stefnu að nyrsta hluta Gvendarselshæðargíga. Gígarnir eru tilkomumiklir og er hægt á gönguleiðinni norður með þeim austanverðum að lesa jarðfræði gíganna sem og svæðisins, auk tilkomu hraunsins, nokkuð vel, allt nema kannski aldurinn.
Gengið var niður með Kaldárhnúkum og niður að Kaldá, þar sem gangan endaði.
Frábært veður – Gangan tók 3 klst og 3 mín.
Sjá meira HÉR, HÉR og HÉR.breiddalur

Húshellir

Nafnið Fjallið eina hefur löngum vafist fyrir mörgum. Fjallið eina er ekki aðeins nafn á einu fjalli eins og ætla mætti, heldur þremur, ef fjöll skyldi kalla. Þau eru þessi:

Fjallið eina

Fjallið eina – dæmigerður stapi.

1) Móbergshnjúkur (223 m) skammt vestan við Krýsuvíkurveg, norður af Sveifluhálsi fyrir sunnan eða suðvestan Óbrinnishólabruna.
2) Ávöl alda (401 m) í Árnessýslu, austan undir Bláfjöllum í Reykjanesfjallgarði.
3) Lágt fell (210 m) í Vatnsleysustrandarhreppi í Gullbringusýslu. Því er þannig lýst í örnefnaskrá: “Vestan við Höskuldarvelli er norðurendi á frekar lágu felli, sem er mjög langt og mjótt og liggur til suðurs. Heitir það Oddafell, stundum nefnt Fjallið eina.” (Örnefnaskrá Stóru- og Minni-Vatnsleysu). Sesselja G. Guðmundsdóttir segir í bók sinni, Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi, að við vesturjaðar Höskuldarvalla sé “Oddafell sem Þ. Thoroddsen kallar Fjallið Eina og er það eina heimildin um þetta nafn á fellinu. Líklega hefur verið einhver nafnaruglingur hjá Thoroddsen því Fjallið eina er til á þessum slóðum eða nokkrum kílómetrum norðaustan við Dyngjur.”

Hverinn eini

Hverinn eini.

Hér gæti verið komin skýring á staðsetningu útilegumanna á Reykjanesskaganum er kveður á um dvöl þeirra undir Núpshlíðarhálsi sunnan Selsvalla, en þeir færðu sig síðan norður með fjöllunum og fundu sér stað nálægt Hvernum eina. Menn gætu hafa verið að færa fjöllin og jafnvel hverina til eftir því sem þeir best þekktu. Þannig gæti Oddafellið hafa heitið Fjallið eina um stund þar sem Hverinn eini var þar. Menn gætu hafa tengt hann staðsetningu útilegumannanna. Þeir gætu því hafa haldið til í helli við Fjallið eina norðan Hrútargjárdyngju, sem reyndar er ekki svo langt í burtu, en þó í öryggri fjarlægð frá þeim stað, sem vitnaðist um þá við Selsvelli. Í Húshelli við Fjallið eina eru hleðslur og mannvistarleifar. Hellirinn er við gömlu þjóðleiðina upp frá Stórhöfða áleiðis til Krýsuvíkur.
Þetta er einungis hugmynd – og ber að virða hana sem slíka.

Húshellir

Op Húshellis.

Hraun

Margir, sem leið eiga framhjá Seltjörn veita eldri grágrýtissteinum athygli þar sem þeir liggja ofan á yngri hraunum. Í fljóti bragði virðist tilurð þeirra stinga í stúf við öll eðlileg lögmál. Jón Jónsson, jarðfræðingur, skrifaði eftirfarandi í Náttúrufræðinginn um grettistök í nútímahraunum og þ.á.m. Seltjorn-1björgin við Seltjörn: “Allir kannast við hin svo nefndu grettistök, stórbjörg, sem oft er tildrað ofan á minni steina eins og þau hefðu verið færð þangað af mannahöndum, eða sem liggja á fáguðum klöppum ein síns liðs, stundum á brúnum hárra fjalla. Þjóðtrúin hefur sett þau í samband við Gretti hinn sterka og má vera, að í því felist ævaforn dýrkun orkunnar, og er það naumast framandi fyrir okkar tíma. Hvert mannsbarn veit að um er að ræða björg, sem jöklar hafa borið með sér og orðið hafa eftir, er jökullinn bráðnaði. Það vekur því enga athygli að finna þau á landi, sem jökull hefur gengið yfir, en talsvert er öðru máli að gegna, er þau verða á vegi manns ofan á hraunum, sem runnið hafa löngu eftir að ísöld lauk.

Seltjörn sú, sem hér er um að ræða, er sunnan við Vogastapa og skammt vestan við Grindavíkurveg. Hún er milli grágrýtisklappa í sigdal, sem stefnir norðaustur-suðvestur og fyllir þann hluta hans, sem lægstur er. Eftir lægðinni milli grágrýtisásanna vestur af Seltjörn hefur runnið hraun eftir að ísöld lauk og eftir að sjór hvarf af þessu svæði, en síðla á síðustu ísöld gekk sjór yfir það, eins og sjá má af lábörðu grjóti víðs vegar um Vogastapa. Hraun þetta er komið frá Sandfellshæð, sem er stór dyngja um 5 km vestur af Stapafelli. 

Seltjorn-2

Hrauntungan, sem runnið hefur austur eftir áðurnefndum sigdal nær austur í Seltjörn. Skammt vestur af tjörninni liggur dreif af grágrýtisbjörgum ofan á þessu hrauni. Steinar þessir eru í ýmsum stærðum, allt frá sæmilegum „hálfsterk” upp í björg, sem vart eru minna en 8—10 tonn. Þau liggja ofan á hrauninu og hvergi hef ég séð þess merki að þau hafi sokkið ofan í það, en víða má sjá hraungára (hraunreipi) liggja inn undir steinana og án þess að hafa orðið fyrir áhrifum af þeim, þótt um stórbjörg sé að ræða. Sum björgin liggja þvert yfir sprungur í hrauninu. Engin merki sjást þess, að grágrýtisbjörgin hafi orðið fyrir hitaáhrifum frá hrauninu. Björg sem þessi eru dreifð í jökulurðinni um allan Vogastapa, en hvernig hafa þau komist ofan á hraunið? Það kostaði mig talsverðar vangaveltur að komast að því sanna hvað þetta varðar, en ég tel það nú liggja fullkomlega ljóst fyrir.
Hraun-221Grágrýtisbjörgin eru ættuð af svæðinu sunnan Vogastapa og skriðjökull hefur skilið þau eftir á jökulhefluðum klöppum, væntanlega ekki langt frá þeim stað, þar sem þau eru nú. Meðan stóð á gosum í Sandfellshæð hefur hraunið náð að renna austur dalinn milli grágrýtisásanna allt austur í Seltjörn. Hraun þetta er dæmigert dyngjuhraun. Það hefur verið þunnfljótandi, heitt og hefur runnið nánast eins og þunn leðja og því mun hraunið þarna ekki þykkt. Hraunið hefur runnið umhverfis grágrýtisbjörgin og undir þau, lyft þeim upp og síðan hafa þau borist með hraun straumnum eins og jakar á vatni. Hraunkvika, sem misst hefur verulegan hluta af því gasi, sem upprunalega var í henni, hlýtur að hafa nokkru hærri eðlisþyngd en storknað hraun enda þótt munur á efnasamsetningu þeirra sé nánast enginn. Hliðstæður eru vatn og ís og sú staðreynd, að storknaðir hraunflekar fljóta á rennandi hrauni. Nánast enginn munur er á samsetningu hraunanna frá Sandfellshæð og grágrýtisins (Jónsson 1972) og hlutfallið milli eðlisþyngdar hins rennandi hraun og grágrýtisbjarganna því væntanlega ekki ósvipað og milli íss og vatns.
Grágrýtið á Suðurnesjum og eins kringum Reykjavík er yfirleitt frauðkennt og eðlisþyngd þess virðist að mestu leyti vera á bilinu 2,66—2,78 og ólivíninnihald um 8—14% (Jónsson 1972).
Hvað grettistökin ofan á nútímahrauni varðar, hef ég fundið þau víðar en við Seltjörn. Eitt slíkt heljarbjarg liggur ofan á hrauni suðaustan við Vogastapa og dálitla dreif af slíkum framandsteinum er að finna norðan í Brúnum, þ. e. utan í dyngjunni miklu, sem er norðan undir Fagradalsfjalli, en frá henni eru Strandar- (Vatnsleysustrandar) hraunin komin. Af ofannefndu má ljóst vera, að þar sem svona björg finnast getur aðeins verið um eitt hraun ofan á jökulurðinni að ræða.”

Heimild:
-Náttúrufræðingurinn, 45.árg. 1975-1976, bls. 205-209 – [
HEIMILDARIT; Jónsson, 1972: Grágrýtið, Náttúrufr., 42: 21-30].

Seltjörn

Við Seltjörn.

Selsvellir

Í Faxa árið 1960 skrifar Hilmar Jónsson “Ferðaþátt” um för Ferðafélags Keflavíkur á Selsvelli og nágrenni:
“Eins og lesendum Faxa er kunnugt, var starfsemi Ferðafélags Keflavíkur fremur lítil í fyrra, aðeins ein ferð var farin á vegum félagsins. Nú hefur brugðið mjög til hins betra um hag félagsins. — Þegar þetta er skrifað hafa 5 ferðir verið farnar, en það er einni ferð fleira en gert var ráð fyrir í áætlun F. K.
— Eflaust er þessi ágæti árangur mikið veðrinu að þakka, en fram Selsvellirhjá hinu verður ekki gengið, að í ár hafa félaginu bætzt starfskraftar, sem ríða baggamuninn. — Á ég þar við smiðina Magnús og Bjarna Jónssyni, að ógleymdum konum þeirra. En á síðasta aðalfundi var Magnús kosinn varaformaður, en Ásta Arnadóttir, kona Bjarna, gjaldkeri. Þetta fólk hefur myndað kjarnann í flestum ferðum félagsins í sumar. Og í fyrstu ferðinni, sem var gönguferð á Trölladyngju og nærliggjandi staði, var Magnús Jónsson leiðsögumaður.
Lagt var af stað í þá ferð kl. 8 að morgni hins 6. júní. Þátttakendur voru 17. Þykir það mjög gott, jafnvel í höfuðstaðnum, þegar um gönguferð er að ræða. Á Höskuldarvelli vorum við komin um kl. 10, þar var setzt að snæðingi. Þá var hæg gola og leit út fyrir bezta veður. En að hálftíma liðnum var byrjað að rigna og það veðulag hélzt til kvölds. Fyrst var haldið á Selsvelli. —
Þrátt fyrir veðrið voru allir í góðu skapi, sérstaklega lá vel á Guðmundi Magnússyni, sem fór með óprenthæfan kveðskap kvenfólkinu til andlegrar uppbyggingar.

Selsvellir

Í Árbók F. Í. 1936 skrifar Bjarni Sæmundsson um Suðurnes. Hann segir: „Einn fallegasti staðurinn á suðurkjálkanum, og einn sá, er verðast er að sjá þar, eru Selsvellir, vestan undir algrænni hlíðinni á Selsvallafjalli, sem er miðhlutinn af vestur hálsinum. Þeir byrja, má segja, þegar komið er inn úr þrengslunum og ná „milli hrauns og hlíðar” 2 1/2 km. inn með hálsinum, rennsléttir og grösugir. Tærir lækir úr hlíðinni renna yfir vellina og hverfa svo í hraunið.”
Fjallasýn er þarna mjög fögur, á aðra hönd er Keilir, en á hina Grænadyngja (393 m.) og Trölladyngja. Í fjarska eru Fagradalsfjöll. Frá Selsvöllum til Grindavíkur er allgreiðfær leið. Í fyrra gengum við Hafsteinn Magnússon frá Festarfjalli í Grindavik og á Keili. Gallinn var bara sá, að við fórum of nálægt Keflavík og lentum þar af leiðandi utan í aðalfjallgarðinum. Á Selsvöllum eru nokkrar tættur eftir sel frá Grindavík. Í bókinni Útilegumenn og auðar tóttir er frásaga um þjófa þrjá, sem höfðust við á Selsvöllum við Hverinn eina. Þeir voru hengdir samkvæmt Vallaannál 13. júlí 1703.

Hverinn eini

Hverinn eini.

Frá Selsvöllum fórum við síðan yfir Selsvallaháls og komum á Vigdísarvelli. Þar eru miklar rústir bæði eftir útihús og mannabústaði. Þaðan er nokkur gangur að Djúpavatni. Með í förinni voru þrír ungir piltar, synir Bjarna og Magnúsar, og Jón Eggertsson. Þegar hér er komið sögu höfðu þeir gengið okkur eldra fólkíð af sér. Urðum við að hafa hraðann á til að ná þeim, því að þoka var á og villugjarnt fyrir unga menn og ókunnuga. —
Frá Djúpavatni var gengið yfir hálsinn frá Grænudyngju, og það verð ég að segja, að sjaldan hefur maður verið fegnari mat sínum en þegar við komum aftur á Höskuldarvelli.
Var nú farið að rigna allmikið og ekki til setunnar boðið. Tóku menn það ráð, að ganga niður á veg, þar eð bíllinn, sem skyldi flytja okkur heim, var ekki væntanlegur fyrr en kk 6.

Lýkur hér með frásögn af þessari ágætu göngu.
Hilmar Jónsson.”

Heimild:
-Faxi – Ferðaþáttur – Hilmar Jónsson, 7. tbl., 1. sept. 1960, bls. 111-112.

Selsvellir - uppdráttur

Selsvellir – uppdráttur ÓSÁ.