Markrakagil
Á vinstri hönd er Markrakagil, eða Markraki. Landamerki Garðakirkju lágu um gilið. Eins og svo títt er í landamerkjadeilum telja sumir að þar sem um sama skarð og ræða og Vatnsskarð, en aðrir að hið eiginlega Vatnsskarð sé undir Vatnsshlíðarhorninu þar sem fyrst sér til Kleifarvatns. Hvað sem þeim deilum líður er Markrakagil merkt á landakort við Markraka á Undirhlíðum.
Í Breiðdal er steyptur stólpi, sem komið hefur niður úr skarðinu. Hann mun einhvern tímann hafa staðið uppi á brúninni, en einhver séð sig knúinn til þess að spyrna við honum.

Markrakagil

Markrakagil.

Gilið mun áður hafa heitið Markagil á Marraka eða Marrakagil á Undirhlíðum, en síðar er það nefnt Marrakagil í skjalinu frá 21. júní 1849 um Álftanesskóga. Það er það sama og annar staðar er nefnt Markrakagil (Melrakkaskarð, Vatnsskarð) eða Melrakkaskarð (Vatnsskarð, Markrakaskarð) í Undirhlíðum eins og það er nefnt sitt á hvað í “Merki á landi Garðakirkju….” frá 7. júní 1890 og sem staðfest er í landslögum nr. 13. frá 22. október 1912 um merki í landi Garðakirkju. Auk þess virðist þetta kennileiti hafa verið stafað Markragil, Marakki, Markragil o.s.frv. og á sumum stöðum staðsett á röngum stað. Í dag er þetta skarð eða gil aðeins nefnd Vatnsskarð. Eigandi Krýsuvíkur er samþykkur aðalmarki Garðakirkju og Krýsuvíkur í Vatnsskarði (Markrakagili, Melrakkaskarði), samkvæmt fyrrgreindu skjali frá 1890 og bréfi frá 14. apríl þ.á. (undirritaður tekur Vatnsskarð út fyrir sviga).

Hraunhóll

Hraunhóll.

Námusvæði er í vestanverðum Undirhlíðum norðan Vatnsskarðs. Vestan þess, sunnan Krýsuvíkurvegar, er Hraunhóll, enn eitt jarðfræðifyrirbrigðið, sem skemmt hefur verið í gegnum tíðina. Úr honum rann Nýjahraun, síðar nefnt Kapelluhraun, um 1188. Gígurinn hefur verið eyðilagður sem og allt umhverfi hans, Hraunhóll, stundum nefndur Rauðhóll, var með fallegri gígum á Reykjanesi og í rauninni stolt svæðisins. En þegar ráðist er að stolti landsins er dregið úr verðmæti þess. Skammsýni, þegar landsgæði eru annars vegar, hefur því miður verið eitt af höfuðeinkennum Íslendinga, allt frá landnámi til vorra daga.

Hraunhóll

Hraunhóll – upptök Kapelluhrauns.

Með gengdarlausri eyðingu skóga kom landeyðingin, skjólið hvarf og landsmenn stóðu berrassaðir á berangri um aldir. Nú þegar ferðamennskan er að verða ein aðalatvinnugrein landsmanna standa þeir enn og aftur berrassaðir fyrir framan ferðamennina, með landið sundurkorið og með óafturkræfar námur á einum fallegustu og nærtækustu svæðunum. Þeir, sem fengið hafa að ráða ferðinni í þessum málum, eiga að verða verðlaunaðir með fálkaorðunni fyrir eindæma skammsýni í þessum efnum. Nóg um það í bili.
Haldið var suður með Sveifluhálsi, um Sandfellsklofa. Þessi leið var fyrrum farinn frá Kaldárseli til Krýsuvíkur, Undirhlíðavegur. Hún er sendin frá Vatnsskarði og upp fyrir Norðlingaháls, en þá taka við grónar brekkur og sléttur að Ketilsstíg. Svæðinu um Sandfellsklofa hefur nú verið spillt með efnistöku, auk þess sem vélhólafólk hefur sett för sín á landið.

Sandfellsklofi

Sandfellsklofi – hrauntröð.

Mikil og löng hrauntröð, sem nú er að mestu sandi orpin, liggur samhliða klofanum. Hún var elt upp í gígana, sem eru í brekkunni áður en beygt er upp að Hrútargjárdyngju. Vegurinn liggur um þá. Jarðföll taka við tröðinni, en í því efra er hægt að komast niður í Klofahelli.Hraunrennslið hefu nær eingöngu orðið úr syðstu gígunum. Stærð hraunsins nær ekki einum ferkílómetra, en raunveruleg stærð þess gæti verið mun meiri. Aldursákvörðun hefur verið gerð á gróðurleifum undir hrauninu (Jón Jónsson, 1983) og fékkst aldurinn 3010 +/-70 eða um 1060 ár f.Kr.

Sandfellsklofi

Sandfellsklofi – hellisop.

Nokkrir hellar ganga fáeina tugi metra inn frá miklum niðurföllum við suðurenda hrauntraðarinnar. Í þessum smáhellum hefur mikið hrunið, en þeir eru nafnlausir og hluti af Klofahelliskerfinu.
Inn frá litlu opi ofan við Djúpavatnsveginn. Inn frá því til norðausturs er Klofahellir. Fyrst er klöngrast niður þrönga rás, sem á stunum er á tveimur hæðum. Þar innanvið er mikil hvelfing með um fjögurra metra lofthæð og um átta metrar eru milli veggja. Aftur þrengist hellirinn nokkra vegalengd þar til komið er í “símaklefann”, en þar má rétta úr sér á ný. Inn frá símaklefanum eru um 10 m göng, en ákaflega þröng og ekki á færi allra að fara þar í gegn. Þar innan við stækkar hellirinn á ný, en endar svo í miklu hruni. Klofahellir er um 115 m langur.
Suðvestan við Klofahelli er enn einn hellir eða skúti. Heildarlengd er um 15 metrar. Í honum voru fjögur pör af skóm og fékk hellirinn því nafnið Skóhellir.

Sandfell

Sandfell – austurhliðin er snýr að Sandfellsklofa.

Sandfellið er auðvelt uppgöngu. Fallegt útsýni er af því yfir að Hraunhól, yfir Kapelluhraun og Óbrennisbrunahraun. Gengið var niður af fellinu að austanverðu og haldið yfir nokkuð slétt hraunið og sandsléttu að upphafsstað. Upp úr henni gægist ein og ein burnirót. Ósjálfrátt fara tvífætlingar að gaumgæfa hvar þeir stíga niður. Það, sem næst er, yfirsést – oftast.
Á leiðinni var gengið yfir tiltölulega litla hraunsprungu. Jarðvinnuvél hafði verið ekið af óskiljanlegri ástæðu yfir sprunguna og verið rótað með henni að hluta til yfir hana. Forvitnilegt skoðunarverkefni síðar.
Innst í Sandfellsklofa eru glögg merki þess hversu utanvegaakstur getur spillt annars fallegu landslagi.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Heimild m.a.:
-Hraunhellar á Íslandi – Björn Hróarsson.

Sandfellsklofi

Sandfellsklofi – ummerki eftir utanvegaakstur.

Í Bálkahelli

Gengið var niður Klofninga í Krýsuvíkurhrauni með það fyrir augum að skoða Bálkahelli og Arngrímshelli (Gvendarhelli). Þá var gengið upp vestanvert hraunið áleiðis að Stóru-Eldborg, upp í Kerlingadal og staldrað við um stund hjá dysjum þeirra Herdísar og Krýsu.

Gvendarhellir

Við Gvendarhelli.

Arngrímshellis er getið í gamalli lýsingu. Þar segir að Arngrímur á Læk í Krýsuvík hafi hafi fé í helli í Klofningum undir aldamótin 1700. Þar hafi hann haft 99 ær og að auki eina frá systur sinni. Sú, þ.e. ærin, nefndist Grákolla. Fénu beitti hann m.a. í fjöruna neðan við bergið. Um veturinn gerði aftakaveður og fannfergi. Varð það svo slæmt að féð hraktist fram af berginu og drapst. Grákolla lifði hins vegar af hrakningarnar og er talið að allt fé Krýsuvíkurbænda sé frá henni komið.
Arngrímur var við annan mann við sölvatekju undir bjarginu skömmu eftir aldamótin 1700 og féll þá sylla á hann með þeim afleiðingum að hann lést.

Arngrímshellir

Í Arngrímshelli.

Um 130 árum síðar mun Krýsuvíkur-Gvendur hafa haft fé í fjárhellinum. Nefndist hann þá Gvendarhellir. Tóft er við munnann. Er sagt að þar hafi verið hús úr timbri og hafi það talist til frásagnar að gler hafi verið þar í gluggum. Við og inni í hellinum eru hleðslur.
Bálkahellir er skammt austar. Þegar komið er niður úr efsta opi hans má sjá hraunbálka beggja vegna. Annars er hellirinn um 450 metra langur.

Stóra-Eldborg

Stóra-Eldborg vestast undir Geitahlíð.

Neðan við Deildarháls ofan Stóru-Eldborgar, er dregur nafn sitt af deilum Herdísar Í Herdísarvík og Krýsu í Krýsuvík, er Kerlingadalur. Neðst í honum eru dysjar kerlinganna, auk smala Herdísar. Þjóðsagan segir að Krýs og Herdís hafi verið grannkonur og “var nábúakritur megn á milli þeirra; því hvor öfundaði aðra af landgæðum þeim er hin þóttist ekki hafa, Krýs Herdísi af beitilandinu, en Herdís Krýs aftur af enginu. Svo hafði lengi gengið að hvor veitti annari þungar búsifjar; rak Krýs sauðfénað sinn í land Herdísar, en Herdís vildi aftur ná í engið, og beittust svo þessu á víxl með því landamerki virðast annaðhvort hafa verið óglögg eða engin í það mund.

Bálkahellir

Við Bálkahelli.

Þegar þær grannkonurnar eltust meir fóru þær síður að hafa fylgi á framkvæmdum til að ásælast hvor aðra, en ekki var skap þeirra að minna eða vægara fyrir það. Bar þá svo við einhverju sinni að Herdís hafði gengið út í hraun og síðan út með Geitahlíð svo sem leið liggur út í Krýsuvík. En utarlega undir hlíðinni ganga úr henni hæðir nokkrar fram að hrauninu og eru þær kallaðar Eldborgir. Yfir þessar hæðir liggur vegurinn. Þann sama dag er Herdís tókst þessa göngu á hendur fór og Krýs að heiman.

Krýsuvík

Breiðivegur vestan Stóru-Eldborgar.

Í suður frá Krýsuvík er slétt melgata (Breiðivegur); er hún nokkuð langur skeiðsprettur suður undir hornið á Geitahlíð, en þegar komið er fyrir það horn blasa Eldborgir við sunnar með hlíðinni og er allskammt þangað undan hlíðarhorninu. Gamla þjóðleiðin lá hins vegar upp á hálsinn milli Geitahlíðar og Stóru-Eldborgar og síðan um Kerlingadal.
Nú segir ekki af ferðum þeirra grannkvennanna fyrr en Krýs kemur þar á götunni sem hún liggur yfir hina nyrztu Eldborgina, þá kemur Herdís í flasið á henni að sunnan. Þegar þær hittust varð fátt af kveðjum, en því fleira af illyrðum á milli þeirra er hvor um sig þóttist eiga land það er þær stóðu á.

Dysjar

Dysjar Herdísar, Krýsu og smalans í Kerlingadal.

Ekki er þess að vísu getið hvernig hvorri um sig hafi farizt orð, en svo lauk að hvor hézt við aðra vegna landadeildarinnar. Lagði þá Krýs það á Herdísi að allur ætur silungur skyldi hverfa úr veiðitjörn hennar, en verða aftur full af loðsilungi, sumir segja öfugugga. En Herdís lagði það aftur á Krýs að allur silungur í veiðivötnum hennar skyldi verða að hornsílum. Enn lagði Krýs það á Herdísarvík að þaðan skyldi týnast tvær eða þrjár skipshafnir. Herdís mælti aftur það um fyrir Krýsuvík að starengið þar skyldi smásökkva á hverjum 20 árum, en koma upp á jafnlöngum tíma. Eftir þessi ummæli sprungu þær báðar þar sem þær stóðu og eru þær dysjaðar báðar til vinstri handar við götuna þegar riðið er út í Krýsuvík norðan til á Eldborginni nyrztu, og sér dysirnar þar enn; dys Krýsar er það sem nær er Krýsuvík, en Herdísar hitt sem fjær er.

Dysjar

Dysjar Krýsu, Herdísar og smalans neðst.

Meðan þær voru að mæla hvor um fyrir annari kom að þeim smalinn úr Krýsuvík, en svo brá honum við heitingar þeirra að hann féll þegar dauður niður og er hann dysjaður hægra megin við götuna þar upp undan sem þeirra dys er niður undan svo ekki skilur nema gatan ein. Dys þeirra grannkonanna eru enn kölluð Krýs og Herdís og þar með eru þau kölluð sýsluskil Gullbringusýslu og Árnessýslu, svo eru þau og talin landamerki milli Krýsuvíkur og Herdísarvíkur.”
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Heimild m.a.:
-http://bokasafn.rnb.is/default.asp?cat_id=200

Kerlingadalur

Dysjar Herdísar og Krýsu.

Grindavík

Í Ægi 1985 fjallar Jón Ó. Ísberg um “Sjómennsku í Grindavík”:

Veiðar
“Eitthvað er það á reiki í gömlum heimildum hvenær vetrarvertíð átti að hefjast, en samkvæmt úrskurði lögréttumanna á Alþingi 1578, skyldi vetrarvertíð eigi byrja síðar en á Pálsmessu þ.e. 25. jan. Í Píningsdómi 1490 segir að vetrarvertíð skuli lokið á föstudegi þegar níu nætur eru af sumri. Vetrarvertíð til forna við Suðurland hefur því staðið yfir í 14 vikur.

Grindavík

Grindavík – tíæringur í lendingu.

Þegar hið gregorianska tímatal var lögleitt á Alþingi árið 1700 breyttust dagsetningar er vörðuðu upphaf og lok vertíða. Eftir 1700 skyldi vetrarvertíð hefjast á Kyndilmessu þ.e. 2. febrúar og standa til 12. maí. Sú venja skapaðist að telja 11. maí lokadag því þann dag var farið í síðasta róðurinn.
Við Faxaflóa og víðar gilti sú regla, að úr lokadagsróðri átti að vera lent fyrir kl. 12 á hádegi. Ef formenn hirtu ekki um þessa venju, gátu þeir átt á hættu að hásetarnir sneru skipinu rétt fyrir utan lendinguna, og reru því með skutinn að landi. Var það til mikillar háðungar fyrir formann að ljúka vertíð með þessum hætti.
Grindavík
Öldum saman var færið eina veiðarfærið sem Íslendingar notuðu. Veiðiskapurinn var þá ekki flókið fyrirbæri, menn reru út á miðin beittu sín færi og drógu uns nóg þótti og sneru þá í land.
Með tilkomu annarra veiðarfæra, línu og neta breyttist veiðiskapurinn all verulega. Í Grindavík byrjuðu menn ætíð vetrarvertíð með færaveiðum en er loðnan kom miðin var skipt yfir á net, sumir voru einnig með lóð. Róður hófst vanalega um kl. 5 að morgni. Menn fengu sér eitthvað í svanginn áður en lagt var af stað, vanlega kaffi og brauð. Skipið var sett niður með þessum orðum formannsins: „Setjum nú hendur á það í Herrans nafni”.

Grindavík

Grindavík – Í Norðurvör.

Hver maður hafði sitt rúm og var rúmið stjórnborðsmegin í andófinu talið það virðingarmesta og í því besti maðurinn, að undanskildum formanninum. Þegar skipinu hafði verið ýtt frá, var tekið í á bak og því snúið sólarsinnis til has, þá tóku menn ofan höfuðföt og fóru með sjóferðarbæn. Misjafnt var hvað róður stóð lengi og fór það eftir veðri og fiskdrætti, ef vel fiskaðist var stundum farið í fleiri en einn róður á dag, yfirleitt var þá róðri (róðrum) lokið seinnipart dags (17:00-18:00). Er komið var að landi þurfti fyrst að seila fiskinn á land og síðan setja skipið upp, því höfn var engin. Venja var að menn fengju sér að borða er þessu var lokið. á meðan skipti formaður fengnum.

Grindavík

Árabátur neðan verbúðar.

Að þessu loknu var allur fiskur borinn í verbúðir þar sem hann var þveginn, hausaður, flattur og saltaður. Söltun hófst á 18. öld, en áður var fiskurinn breiddur á klappir og garða og hengdur upp til þerris. Veiðarfæri voru einnig borin til verbúða að kvöldi. Vinnudagurinn vildi oft verða í lengra lagi og stritið mikið, margur slitnaði því fyrir aldur fram.
Vorvertíð hófst er vetrarvertíð lauk og stóð hún til Jónsmessu. Á vorvertóð var róið á smærri batum, sexmannaförum og þaðan af minni, aðkomumenn voru því færri en á vetrarvertíð. Veiðarfæri var annað hvort færi eða lóð og eitt var ræksni eða krækling. Grindvíkirngar beittu yfirleitt lóð sín í landi og voru þau því einbeitt, en á móti kom að lóð þeirra voru lengri en hjá þeim er beittu um borð. Venja var að fara út að kvöldi til, um eða upp úr miðnætti, legið var við fram undir morgun, en þá dregið og síðan siglt í land.

Grindavík

Bátar ofan varar.

Haustvertíð hófst í lok september og stóð til jóla, róðra stunduðu þá eingöngu heimamenn og var yfirleitt róið á sexmannaförum. Veiðarnar gengu svipað fyrir sig og á vorvertíð, sömu veiðarfæri voru notuð, en róið síðar um nóttina og verið styttra að.
Á sumrin milli vertíða var ekki verið á sjó, nema hvað menn skruppu öðru hvoru til að fá sér í soðið.

Grindavík

Vélbátur.

Með tilkomu vélbáta urðu litlar breytingar á veiðum Grindvíkinga, skipan vertíða og veiðiaðferðir héldust að mestu óbreytt. Það var ekki fyrr en með tilkomu dekkbáta í kringum seinna heimsstríð að breytingar urðu.
Nýrri og fullkomnari veiðarfæri komu á markaðinn ásamt gjörbreyttum tækjabúnaði um borð, bæði í brú og á dekki. Í kjölfar þessa riðlast öll vertíðarskipan, að undanskilinni vetrarvertíð, sem enn er með hefðbundnum hætti og á sama tíma. Í dag eru vertíðir frekar kenndar við þá fisktegund sem veidd er hverju sinni, s.s. humarvertíð og síldarvertíð.
Nokkuð er því árstíðarbundið hvaða veiðarfæri eru notuð hverju sinni og fer það eftir því í hvað er sótt. Aðalveiðarfærin á vetrarvertíð eru sem fyrr net og lína. Á sumrin fara vertíðarskipin yfirleitt á fiskitroll eða humartroll, en á haustin á síldveiðar, með nót eða reknet, nokkur fara á línuveiðar, en útilega hefur lítið verið stunduð. Á síðustu árum hafa nokkur vertíðarskip farið á úthafsrækju yfir sumartímann, hafa þau þá stundað veiðar fyrir norðan og yfirleitt landað hjá rækjustöðvum við ísafjarðardjúp. Meðan á loðnuvertíð stendur, þ.e. frá október fram í mars, elta loðnuskipin gönguna. Þessi skip hafa mjög lítinn bolfiskkvóta en þeim litla kvóta sem þau hafa, ná þau í troll á sumrin.
Fiskiskip Grindvíkinga stunda veiðar með flestum þeim veiðarfærum sem Íslendingar nota yfirleitt, enda hefur útgerð frá Grindavík verið hvað blómlegust á landinu á síðustu árum og áratugum.

Bátar

Grindavík

Árabátar ofan varar.

Höfundur Laxdælasögu byrjar á að lýsa íslandi þannig, að þar sé veiðistöð á öllum misserum og er auðsýnt að hann telur það góða kosti. Orðið veiðistöð merkir stað þar sem meira en einum bát er haldið til fiskjar, og samkvæmt lögum Jónsbókar merkir orðið stað, þar sem um er að ræða veiði á landi eða við land.
Lúðvík Kristjánsson telur upp í riti sínu Íslenskir sjávarhættir II 326 verstöðvar, allt í kringum landið. Verstöðvarnar eru síðan flokkaðar niður eftir aðstæðum ogfyrirkomulagi.

Þórkötlustaðir

Þórkötlustaðir gerðu út frá Þórkötlustaðanesi.

Heimaver var það kallað, er róið var úr heimavör. Gagnstætt því var útver, en þá fóru menn með báta sína og áhafnir að heiman og dvöldu í verbúðum meðan á vertíð stóð. Í sumum verstöðum voru aldrei verbúðir þótt þar væru aðkomubátar og aðkomumenn, var það kallað viðleguver. Viðleguver gátu verið með tvennum hætti. Annars vegar viðlegubátar, þ.e. aðkomubátar með áhöfnum, en hins vegar viðleguhafnir, þ.e. aðkomumenn, er reru á heimabátum verstöðvarinnar. Áhafnirnar bjuggu í heimahúsum í stað verbúða meðan á vertíð stóð og höfðu þar þjónustu.
Grindavík var dæmigerður staður fyrir blandað ver, þar sem löngum var allt í senn, heimaver, útver og viðlegurver, enda var Grindavík ein mikilvægasta verstöð landsins um aldir, önnur aðalverstöð Skálholtsstaðar, og hvergi á landinu var uppsátur metið sérstaklega nema í Grindavík.

Grindavík

Tvíæringur.

Frá aldaöðli hafa íbúar Grindavíkur haft aðallífsbrauð sitt frá sjónum. Þeim skipum er þaðan var róið svipar mjög til annarra er notuð voru í öðrum verstöðvum. Á vetrarvertíð var róið á tólf-, tein- og áttæringum. Á vor og haustvertíð var notast við minni báta, sexæringa og þaðan af minni, allt niður í skektur.
Um miðbik 18. aldar voru nálgæt 60 skip í Grindavík, sexæringar upp í teinæringa. Frá sjötta áratug 19. aldar fram á þann áttunda var mikið eymdarástand í Grindavík. Lítið fiskaðist og var Grindavík talin aumasta veiðiplássið á Suðurlandi, útróðrarmenn vildu ekki lengur róa þaðan og lagðist þá útgerð stærri skipanna niður en smærri bátum fjölgaði. En Grindavík náði sér aftur á strik er veiði fór að glæðast á ný. Árið 1896 eru gerð þaðan út 30 skip flest áttæringar. Algengt var í Grindavík, að áttæringarnir væru tírónir, enda voru þeir margir hverjir í stærra lagi af áttæringum að vera.
Grindavík
Grindavík liggur fyrir opnu hafi, þar sem brimaldan gengu óbrotin á land. Stærð og þyngd bátanna takmarkaðist því lengstum af því, að hægt væri að setja þá á land. Meðal annars af þeirri ástæðu komu vélar mun seinna báta í Grindavík en víða annars staðar á landinu, þar sem hafna skilyrði voru betri frá náttúrunna hendi.
Framtil 1910 var róið á árabátum frá Suðurnesjum, en þá var farið að setja vélar í bátana, allsstaðar nema í Grindavík. Þangað kom fyrsta vélin ekki fyrr en 1926 og 1929 var sett vél í síðasta áraskip Grindvíkinga. Þessir bátar voru uppistaða í flota Grindvíkinga fram yfir stríð, lítið var um nýja báta en nokkrir voru endurbyggðir, og þá dekkaðir. Upp úr stríði er farið að byggja nýja dekkbáta ca. 10 lestir.

Grindavík

Grindavík – Grafið inn í Hópið.

Það sem gerði útgerð þeirra mögulega frá Grindavík var, að 1939 var hafist handa við að grafa leið inn í Hópið þar sem höfnin er nú. Með tilkomu hafnarinnar þurfti ekki lengur að setja bátana, enda var það ekki mögulegt með dekkaða báta vegna þyngdar þeirra. Annað er breyttist með höfninni var að þá lögðust róðrar niður frá Staðar- og Þórkötlustaðahverfi og síðan hefur útgerð eingöngu verið stunduð frá Járngerðarstaðahverfinu. Höfnin var frumskilyrði þess að Grindavík fengi þrifist sem útgerðarbær og að ekki færi þar sem í Höfnum en þar lagðist niður blómleg útgerð sökum hafnleysis.
Upp úr 1955 tekur útgerð í Grindavík mikinn fjörkipp og var þar mikið blómaskeið allt fram til 1967. Á þessu tímabili voru keypt fjölmörg ný skip. Orsakir þessa blómaskeiðs eru þær helstar að síldveiði jókst mjög fyrir Norður- og Austurland og gerðu Grindvíkingar mikið út á þær. Fiskigengd var og mikil við suðvesturströndina á þessu tímabili, og raunar allt fram til 1972. Skipin stækkuðu sífellt á þessum árum og urðu stöðugt tæknilega fullkomnari.

Grindavík

Grindavík – innsigling í Hópið.

Hér á eftir kemur tafla yfir fjölda báta í Grindavík á tímabilinu 1945-1985, tekinn er bátafjöldinn á 5 ára tímabili. (Samkvæmt skipaskrá Siglingamálastofnunar).
1945 – 15
1950 – 13
1955 – 12
1960 – 17
1965 – 15
1970 – 24
1975 – 47*
1980 – 43*
1985 – 48

*Togararnir Guðsteinn og Jón Dan meðtaldir.

Grindavík

Jón Dan GK 141.

Skipta má Grindavíkurskipunum í tvo meginhópa, vertíðarskip og lonuskip. Vertíðarskipin voru flest byggð sem síldarskip á árunum 1956-1967, en síðan 1980 hefur farið fram gagnger endurbygging vertíðarflotans og mörg skipanna hafa nú verið yfirbyggð þ.e. tvídekkuð. U.þ.b. helmingur vertíðarflotans eru skip á bilinu 150-200 lestir, hinn helmingurinn þar fyrir neðan. Minni skipin eru flest úr tré en þau stærri stálskip. Loðnuskipin eru mun stærri en vertíðarskipin. Flest þeirra hafa um 600 tonna burðargetu og eitt þeirra, Grindvíkingur GK-606, ber t.d. 1100 tonn.
Fjölbreytni í stærð og búnaði skipa er nauðsynleg til að hægt sé að nýta alla þá möguleika er gefast til veiða. Skuttogaraútgerð hefur þó lítt átt upp á pallborðið hjá Grindvíkingum. Er það bæði vegna þess, að bátarnir hafa alla tíð getað séð fiskvinnslufyrirtækjunum fyrir hráefni, og að fyrirgreiðsla opinberra sjóða, svo sem Byggðasjóðs náði ekki til þessa landshluta.

Grindavík

Guðsteinn GK 140 – fyrsti togari Grindvíkinga.

Fyrsti togarinn sem Grindvíkingar eignuðust var Guðsteinn GK-140, hann var sameign þriggja fyrirtækja í Grindavík, Bæjarútgerðar Hafnarfjarðar og Barðans h.f. í Kópavogi. Einnig áttu Grindvíkingar hlut í togaranum Jóni Dan GK 141. Reynslan af togaraútgerðinni var ekki nógu góð og hafa Grindvíkingar því selt sinn hluta íbáðum skipunum.

Kjör

Grindavík

Grindvísk aflakló.

Frá upphafi byggðar stunduðu bændur við sjávarsíðuna róðra, aflinn gekk til heimilisins og var einnig notaður í skiptum fyrir landbúnaðarafurðir. Þeir menn er stunduðu róðra, en áttu ekki bát voru ráðnir upp á hlut. Venja var að formaður fengi tvo hluti en báturinn þrjá, þó voru á þessu undantekningar.
Er tímar liðu og kirkja, kóngur og höfðingjar efldust og sölsuðu undir sig sífellt meira jarðnæði versnuðu kjör sjómanna, sem og annarra. Vinnumenn og landsetar voru með kvöðum ýmiss konar látnir róa fyrir húsbændur sína fyrir smánarkaup, en hluturinn varð eign húsbóndans. Á bessu verður breyting til batnaðar með afnámi einokunarverslunarinnar og sölu stólsjarða. Flestir fara að róa fyrir hlut sínum sem áður og afkoman skánar verulega.
Með tilkomu vélbáta var nokkuð um að menn væru ráðnir fyrir fast kaup, líkt og á þilskipunum, sérstaklega átti þetta við ef um aðkomumenn var að ræða, þessi háttur lagðist þó fljótt af. Í kreppunni versnuðu kjör bátasjómanna mikið, sem og hjá öðrum.

Grindavík

Grindavík – síldarbræðslan á fullu.

Er síldveiðin brást 1935 gengu margir allslausir í land eftir vertíðina, og voru ekki einu sinni taldir matvinnungar. Þessi kollsteypa varð til þess að sjómenn settu kröfuna um hlutatryggingu á oddinn. Tryggingin komst fyrst á 1936, hún var að vísu lág, en þó betri en engin. 1958 voru gerðar þær breytingar á kjarasamningum bátasjómanna, er gjörbreyttu aðstöðu beirra, en þá var afnumin sú regla að útgerðarkostnaður bátanna væri greiddur af óskiptum afla. Um svipað leyti komst sú skipan á, að hafa kokka um borð í dagróðrarbátum, en áður höfðu menn haft með sér skrínukost. Næsta stóra breytingin hvað varðar kjörin, verður í samningunum 1977, en þá verður hver mánuðum að sérstöku tryggingartímabili. Áður höfðu tímabilin verið þrjú, þ.e. 1/1-15/516/5-15/9 og 16/9-31/12. Í samningunum 1982 var svo skrefið stigið til fulls, en þá var um það samið að sjómenn hefðu rétt á að fá kauptrygginguna greidda vikulega.

Grindavík

Grindavík – bátar í höfn.

Í dag eru kjör sjómanna á hefðbundnum vertíðarbát 50- 110 rúml. þannig að skipverjar fá 28,5% af brúttóafla miðað við 11 menn, kauptrygging á mánuði fyrir háseta er 27.000 kr. að frádregnum ferðakostnaði. Vinnuskyldan er 18 t. á sólarhring, sex daga vikunnar og skal frídagurinn ætíð vera sunnudagur á tímabilinu 1/4-31/12 en frá 1/1 31/3 annað hvort laugardagur eða sunnudagur. Ýmsa félagsmálapakka hafa sjómenn einnig sem aðrir launþegar, og verða þeir ekki taldir hér, enda verða fáir feitir af þeim pökkum. Sjómennskan getur gefið góðar tekjur ef vel fiskast en ekki er tímakaupið hátt ef einungis er róið fyrir trygginguna, eins og oft vill verða.

Konungsbréf um fiskútveg frá 1758

Grindavík

Magnús á Hrauni í vör.

Nú á dögum fer jafnan um viðskipti sjómanna og útvegsmanna eftir kjarasamningum milli aðila.
En hvernig færi ef kjarasamningar væru ekki fyrir hendi? Þá yrði að fara eftir gildandi lögum að svo miklu leyti sem þau ættu við hverju tilviki. Vegna kjarasamninganna eru mjög fáar lagasetningar um þessi samskipti. Ein slík lög er að finna í Konungsbréfi til stiftamtmanns og amtmanna frá 28. febrúar 1758.

Hér birtast nokkrar glefsur úr þessu bréfi sem enn eru í gildi.

1. Allir formenn og hásetar sem hafa látið sig leigja eður festa til að róa nokkrum fiskibát um vertíðina skulu án forsómunar koma í þann áskilda vissa tíma á þann stað, hvar þeir ætla að róa, og það allir í einu undir það straff að bæta fyrir þann tíma sem þeir koma eigi.

2. Þegar formaðurinn hefur snúið skipinu upp og fengið allar þær tilheyrandi tilfæringar, má enginn af hásetum á nokkurn hátt hindra hann frá því að sækja sjóinn, hvenær sem tækifæri gefst til þess, heldur skal sérhver skyldur vera þegar hann er af formanninum kallaður aðláta sig án dvalar finna við bátinn og á honum róa.

3. Ef nokkur háseti er burtu eina klukkustund, eftir það honum hefur verið sagt til og hinir aðrir eru komnir til bátsins, skal hann gjalda þrjá fiska í sekt fyrir það, nema hann geti sannað lögleg forföll.

4. Enginn háseti má á sjónum á nokkurn hátt kúga formanninn til að fara tillands, fyrr en hann skipar það sjálfur.

5. Hver sá háseti er sýnir sig hyskinn eða latan til að fiska og lætur ekki að formannsins áminningu og skipan, sem hann gerir honum í því tilliti, skal gjalda 2 fiska í hvert sinn.

6. Eins og formennirnir eru skyldir til að hafa gætur á, að hásetar verki afla sinn sem best þeim er mögulegt. Í sama máta skal og formaðurinn hafa vakandi auga á, að hásetar sínir haldi sjóklæðum þeirra í góðu standi, svo að enginn þurfi, ef það brestur, að hindrast frá róðri og vera ónýtur til sjósóknarinnar.

7. Enginn háseti má yfirgefa þann fiskibát, á hvern hann er ráðinn, fyrr en formaðurinn hefur sagt upp vertíðinni, nema hann hafi fengið formannsins leyfi þar til vegna mikilvægra orsaka. En strjúki þar á móti nokkur burt án formannsins vitundar og samþykkis, þá skal sá hinn samti takast af sýslumanni og bæta fyrir það fjárlátum eða straffi á líkamanum, eftir málavöxtum.

8. Sérhver formaður skal kostgæfilega sækja fiskveiðar, þegar verðurátt og sjór leyfa það, og má enginn af þeim vera í landi þann dag, sem einn fjórði partur af bátum þeirrar veiðistöðu, hvar hann rær, eru á sjó, nema hann geti sannað, að hann hafi gilda orsök til þessa.

9. Formaðurinn skal einnig hafa vakandi auga á, að fiskibát hans sé altíð haldið í góðu standi með veiðarfærum og öðru tilheyrandi, sem og að hann í hvert sinn verði settur svo hátt upp frá sjónum og skorðaður, að honum geti hvorki grandað sjór eða stormur. Líka skal hann halda sínum hásetum til að gera bátinn jafnaðarlega hreinan. Hann skal og nákvæmlega gæta þess, að hver og einn fari varlega með árar og önnur bátsins og fiskifangsins áhöld.

Verbúð
Grindavík
Líklegt er að verbúðir hafi í öndverðu verið sömu gerðar víðast hvar á landinu, og gerð þeirra hélst svo til óbreytt allt fram undir síðustu aldamót. Teikning sú sem hér er, er af verbúð sem var á Járngerðarstöðum um aldamótin síðustu. Verbúðin var ca. 20 m2 (5,6×3,6). Veggir voru tvöfaldir, annað lagið var grjót en hitt torfstrengir, á milli var troðið mold. Þak var úr torfi, tvöfalt, í sumum búðum var haft þrefalt lag, mold var í gólfi. Svefnbálkar voru með hliðum þrír hvorum megin, í þeim var grjót og urðu vermenn því að finna eitthvað mýkra og var ýmist til notað hey, skeljasandur, lyng eða þang. Eldstæði voru í hverri verbúð, en oft voru erfiðleikar með eldivið, einnig var vatn víða takmarkað.
Grindavík
Vermenn höfðu með sér kost að heiman, smjör og annað feitmeti, einnig sýru eða sýrublöndu. Soðningu höfðu þeir og oftast kaffi, en lítið var um kjöt, helst voru það rifrildi er nýttust best í súpu. Kornmatur var af skornum skammti, sérstaklega hjá þeim er voru fjarri kaupstað. Ekki er þetta þó algild lýsing um mataræði, og undantekningamar æði margar.
Yfirleitt var reynt að búa vel að vermönnum hvað varðar mat, og bjuggu þeir vart við lakari kost en margur annar er ekkert átti nema vinnuaflið.”

Heimild:
-Ægir, 6. tbl. 01.06.1985, Sjómennska í Grindavík – Jón. Ó. Ísberg, bls. 334-342.

Grindavík

Grindavík 2021.

Staðarhverfi

Gengið var um Staðarhverfi í fylgd Helga Gamalíassonar. Byrjað var við Húsatóftir og gengið með ströndinni um Kóngshelluna, Hvirfla, Stóra-Gerði, Litla-Gerði – Kvíadal og Stað. Að því loknu var haldið út í Bása ofan við Staðarberg og skoðuð hlaðinn refagildra.

Húsatóftir

Brunnur við Húsatóftir – Erling og Helgi Gam.

Helgi byrjaði á því að staldra við Pústhól á golfvellinum að Húsatóttum eftir stutta göngu. Sagði hann þann sið viðhafðan að þar hafi menn tekið byrðar af baki sér, sest niður og hvílst um stund áður en lengra var haldið. Rústir Kóngsverslunarinnar eru á sjávarbakkanum vestan við golfvöllinn. Kóngshellan sjálf er að mestu horfin sem og lendingin, enda hafa aðstæður þarna breyst mjög síðari áratugina (og jafnvel til enn lengri tíma litið). Sandfjara, sem verið hafði við skerin, væri nú horfin. Sjórinn hefur verið að brjóta af ströndinni smátt og smátt. Sést það m.a. vel á tóftunum, sem nú eru að hverfa til sjávarins.
Golfsvæðið, sem byggt var eftir stofnun Golfklúbbs Grindavíkur árið 1981, hefur verið varið með brimgarði, en hann nær ekki út fyrir það. Skv. upplýsingum fróðustu manna höfðu fengist fjármunir til að verja landið þarna og aðilum falið að sjá um það, en þeir hafi því miður einungis takmarkað sig við vallarsvæðið. Undir sjávarbakkanum má sjá hluti frá kóngsversluninni, s.s. krítarpíur o.fl. vera koma smám saman í ljós.

Staðarhverfi

Bryggjan í Staðarhverfi.

Skoðuð var bryggjan á Hvirflum, en hún á sér áhugaverða upprunasögu líkt og svo mörg mannanna verk, þar sem deilt var um gildi og staðsetningu, skatta og skil. Staðarvörin er fallega flóruð.

Stóra-Gerði er dæmi um grindvískan bæ í Staðarhverfi. Vel má enn sjá húsaskipan, fallega heimtröðina, brunninn og garðana í kring. Hins vegar er sjóinn að taka Litla-Gerði, sem er þar skammt vestar, til sín. Kvíadalur er heillegar tættur. Við hann eru síðustu leifar af görðum Staðahverfis, en þeir voru áður þarna svo til út um allt. Þegar bryggjan var byggð sem og bryggjan í Járngerðarstaðahverfi var komið á vörubílum og grjótið úr þeim hirt í hana. Eftir stendur heillegur stubbur til minningar um bræður hans. Vel sést hvernig sandurinn hefur safnast vestan við garðinn og hlaðist upp.

Stóra-Gerði

Stóra-Gerði í Staðarhverfi.

Helgi lýsti Stað og staðháttum þar. Hann vísaði m.a. á Staðarbrunninn, sem byggður var 1914, fallega hlaðinn og nær óskemmdur. Prestssetur og kirkjustaður frá fornu fari og allt fram á síðustu öld. Þar var kirkja helguð með guði Maríu guðsmóður, Jóhannesi postula, heilögum Stefáni, Ólafi konungi, Blasíusi biskupi, Þorláki biskupi og heilagri Katrínu mey. Staðarkirkja var flutt inn í Járngerðarstaðahverfi árið 1909 og nefnd Grindavíkurkirkja.

Gíslavarða

Gíslavarða.

Vestan við Staðarhverfið er hóll við þjóðveginn. Á honum er varða, svonefnd Tyrkjavarða eða Gíslavarða. Sagan segir að hún hafi verið hlaðin eftir Tyrkjaránið með þeim áhrínisorðum að á meðan hún stæði myndi Grindavík og Grindvíkingum óhætt.
Austan við Staðarbergið þaðan í sjávarhendingu (við austurenda bjargsins) er sker eitt hér um bil landfast sem heitir Ræningjasker. Nafnið á það að hafa fengið af því að einhvern tíma á 17. öld kom ræningjaskip að landi í Grindavík og lentu ræningjarnir í skerinu og gengu þaðan á land. Þá var prestur á Stað er Gísli var nefndur og var talinn fjölkunnugur. Þá er byggðarmenn urðu varir við ferð ræningjanna, fóru þeir sem skjótast á fund prests og sögðu honum tíðindin. Brá prestur skjótt við og fór á móti ræningjunum og stökkti þeim á flótta þó að sagan segir ekki með hverjum hætti. Hlóð hann síðan vörðuna til minja um þennan atburð.
Loks vísaði Helgi þátttakendum á hlaðna refagildur á Básum ofan við Staðarbergið. Hún hefur verið staðsett utan í hraunbakka, á leið rebba með berginu.

Staðarhverfi

Staðarhverfi – uppdráttur – ÓSÁ.

Rebbi

Lagt var á Nátthagaskarð ofan við Stakkavík. Stakkavíkurhraun steypist í miklum hraunfossi fram af brún fjallsins austan skarðsins. Kvikan kom úr Draugahlíðagígnum.

Nátthagi

Í Nátthaga.

Nokkrir fallegir hellar eru á Stakkavíkurfjalli, s.s. Hallur (Stakkavíkurhellir), Annar í aðventu og Nátthagi. Á fjallinu ofan og austan við Mosaskarð ofan Herdísarvíkur eru m.a. Rebbi og Brúnahellir. Herdísarvíkurhraunið hefur runnið í miklum hraunfossi niður skarðið sem og fram af fjallinu skammt austar. Það er komið ofan úr Eldborgargígunum austan Vörðufells.
Neðarlega í Mosaskarði er Mosaskarðshellir, fallegt öndunarop og stutt ljúflingsrás. (FERLIR seig niður opið á sínum tíma og gróf sig inn í rásina – sjá HÉR).

Þegar upp var komið var gengið að Hall ofan við vesturbrún skarðsins. Opið er í stóru jarðfalli í brekkunni er halla fer að Nátthagaskarði. Op liggur úr því til vesturs, vítt til að byrja með, en þrengist síðan uns komið er upp úr því í opi eftir 80 metra. Rásin niður og til austurs er hins vegar öllu stærri. Ljósin ná varla að lýsa á milli veggja, en mikið hrun er í hellinum. Rásin liggur um 140 metra í átt að skarðinu, en hún hallar mikið undir það síðasta.
Skammt norðan við Hall er lítil rás, sem skiptir sér, en endar í þrengslum á öllum leiðum. Bibbi (Guðmundur Brynjar Þorsteinsson) fann hellir þennan árið 1980.

Nátthagi

Við Nátthaga.

Ekki var farið niður í Hall að þessu sinni, en ferðinni haldið áfram til vestur ofan við brún fjallsins, að Öðrum í Aðventu. Nafnið er tilkomið vegna þess að hellirinn fan á þessum degi árið 1992. Þar voru sex hellamenn á ferð, þ.á.m. Þröstur Jónsson.
Neðra op Annars í Aðventu er í kvos rétt ofa við bjargbrúnina. Þaðan er tilkomumikið útsýni yfir Stakkavík og Hlíðarvatn. Lengdin frá því upp í efra opið er um 45 metrar. Allhrunið er í neðri hlutanum og þrengist eftir því sem ofar dregur að nyrðra (efra) opinu. Frá því liggur rásin um 150 metra upp á við (til norðurs). Göngin er heil, breið, en nokkuð lág. Tvær súlur eru í rásinni, sem hægt er að komast framhjá.
Svo virðist sem Annar í aðventu geti verið hluti af hellakerfi Nátthaga, sem er þarna norðan við.

Nátthagi

Í Nátthagi.

Gengið var upp að opum Nátthaga. Efsta op Nátthaga er í stóru jarðfalli langleiðina upp undir nýja hrunið. Rásin liggur suður og norður, báðar mjög stórar. Gestabók frá Guðmundir Brynjari Þorsteinssyni er vinstra megin skammt innan við hellismunnann, en Guðmundur fann hellinn 1992.
Þegar haldið er upp norðurrásina er komið niður á stétt hellisgólfið, en síðan tekur við talsvert hrun uns komið er upp í þverrás. Mikil hrauná hefur komið ofan að, frá vinstri, og stefnir niður rásina hægra megin. Vegna árinnar lækkar rásin svolítið, en hægt er að ganga boginn inn eftir henni og niður hana. Hún hækka fljótlega á ný. Bergið er bæði svarleitt í hraunánni og grænleitt að hluta. Grjót, sem hrunið hefur úr loftinu meðan hraunið rann, sést í storknaðri kvikunni á nokkrum stöðum. Rásin liggur í boga og er komið út um sama jarðfallið og farið var niður í, vinstra megin við meginrásina. Þessi leið er um 200 metrar.
Þá var haldið niður í syðri rásina og henni fylgt. Þegar komið er niður er komið á fallegan jarðfastan hraunbekk, sem stendur út undan hruninu. Fljótlega tekur við talsvert hrun, en hellirinn er samt nokkuð hár. Á einum stað í hruninu má sjá hraunplötu, sem fallið hefur úr loftinu. Ef skoðað er undir hana má sjá hvernig loftið hefur verið, fallega rautt. Í miðri rásinni er svartur, jarðfastur og svartleitur, sléttur steinn, sem stingur nokkuð í stúf við annað á leiðinni. Glampar á hann af ljósunum.
Sumir vilja meina að þarna geti verið um svonefndan “rekstein” að ræða, en líklegra er að þarna hafi fella með nokkrum steinum hrunið úr loftinu um það leyti er draga tók úr þunnfljótandi hraunstraumnum í rásinni. Hún náði þó að smyrja yfir alla felluna þannig að hún virðist nú einn stór steinn. Ef betur er gáð má sjá í honum nokkra smærri steina, sem húðaðir hafa verið með hraunkvikunni sem einn.

Nátthagi

Op Rebba.

Rétt áður en komið úr út um jarðfall má sjá þrönga rás liggja upp til hægri. Þessi hluti Nátthaga er um 150 metrar. Í jarðfallinu er stutt rás áfram uns komið er upp á nýjan leik. Þar er rásin fallin, beygir til að opi, sem þar er. Innan við það op liggur falleg rás áfram til suðurs. Í henni eru dropasteinar og loft hennar er á kafla mjög fallegt. Þessi rás endar í þrengslum eftir um 80 metra. Skammt sunnar er enn eitt opið. Úr því liggja hraunrásir bæði til norðurs og suðurs. Þær enda einnig í þrenglsum. Þessar rásir eru um 140 metrar.

Veður var einstaklega fallegt þennan dag og því hrein unun að ganga vestur eftir fjallsbrúninni, sjá brimið leika við Herdísarvíkurbjargið og heyra öflugan sjávargníginn í logninu.

Þá var lagt í Rebba. Þekkja má hellinni, sem í hraunholu, á beinum, sem eru þar niður í. Tvö önnur op eru ofar. Til aðgreiningar voru þau nefnd Hiðhellir og Hvalskjaftur, en þær rásir eru að öllum líkindum í sama hellakerfinu. Sama hraunið og sömu litirnir koma þar fyrir í öllum rásunum þótt þeir virðist aðskildir.
Rebbi er fallegastur hellanna á þessu svæði. Þegar komið er niður liggja hraunrásir til suðurs og norðurs. Beinagrind af ref liggur innan við opið. Hellirinn dregur nafn sitt af refnum, sem skotinn var nálægt hellisopinu árið 1945 og henti skyttan hræinu niður um opið, væntanlega eftir að hafa hirt skottið af dýrinu. Ummerki eru eftir refaskyttur ofan við hellisopið, hlaðið skjól. Skíkt skjól, mun stærra, er einnig við efra op Annars í Aðventu. Greni er ofan við bjargbrúnina á milli hellanna. Guðmundur Brynjar Þorsteinsson fann Rebba 1993.

Rebbi

Í Rebba.

Þegar haldið er til suðurs er fljótlega komið að gati í gólfinu. Þar niðri, mannhæðahátt, liggur önnur hraunrás í sömu stefnu og sú efri – um 6 í hvora átt. Haldið var niður eftir rásinni, sem er um 60 metrar að lengd. Mjög fallegar hraunmyndanir eru í henni uns hún þrengist verulega. Hægt er þó að þrengja sér inn undir rásina, sem er um meters breið. Fyrir innan er nokkuð sem líkist tvöföldum flór, um 6 metrar á lengd. Þar skammt frá endar hellirinn er loft mætir gólfi.Â
Þegar haldið er til norðurs blasa við geysifallegar hraunmyndanir. Fljótlega kemur eldrauður flór í ljós, um metersdjúpur. Bekkur liggur samhliða honum. Hægt er að fara ofan í flórinn og ganga áfram upp eftir honum. Þá birtast hinar fallegustu hraunmyndir. Flór kemur fram úr hellinum og myndar nokkurs konar björgunarbát, eldrauðan, í honum miðjum. Síðan stallast myndanirnar áfram upp.
Hellirinn lækkar síðan, en hækkar aftur. Þar inni er mjög fallegir hraunbekkir, tvílitir. Dekkra hraun hefur lagst þunnfljótandi utan á rauða hraunið og myndað fallegan bolla. Innar eru einnig margar fallegar hraunmyndanir. Þessi hluti hellisins gæti verið um 150 metra langur. Hægt er með erfiðismunum að skríða lengra áfram í gegnum þrengingu og er þá hægt að fara út um 6 metra löng þröng op, sem er annað op á hinum eiginlega Rebba.

Rebbi

Í Rebba.

Ofan við Rebba, svolítið til hægri, er gat. Þar liggur hraunrás til suðurs. Hún er um 60 metrar að lengd og endar í þrengslum. Til hægðarauka var þessi hluti nefndur Miðhellir. Efst í rásinni hægra megin er fallegur hraunfoss, sem hefur komið niður rás ofarlega í veggnum og storknað neðan við hann. Aðeins lengra er mjó raunrás, einnig upp við loft, og neðan við hann hefur myndast fallegt og stórt hraundríli. Suðvestan við opið er hlaðið skjól fyrir refaskyttur.

Rebbi

Beinagrind af rebba innan við op Rebba.

Loks er enn eitt hraungatið, svolítið norðar, svo til alveg upp undir nýja hraunkantinum. Hægt er að fara ofan í hraunrásir bæði í vesturjarðir opsins og eynni í austurjaðri þess. Þegar komið er ofan í vesturgatið má sjá hinar fallegustu sepamyndanir. Að ofanverðu birtist nokkurs konar hvalskjaftur og ef setið er í kjaftinum má sjá allan tanngarðinn eins og hann leggur sig. Þessi sýn er ekki ólík þeirri, sem má finna í efri hluta Rebba, skammt ofan við “skálina”. Auk þess er þarna “skógur” af löngum sepum inn undir rásinni.Â
Rás liggur til suðurs, um 40 metra, sem kemur upp í litlu jarðfalli. Þegar haldið er niður koma í ljós tvær hæðir. Gólfið á eftir hæðinni er mjög þunnt, en rásin á neðri hæðinni endar í þrengslum.
Í eystra opinu liggur rás til suðurs. Sjá má rásina koma sem hraunæð að ofan og er hún opin upp, mjög lág. Rásin niður er hins vegar myndarleg, en lækkar fljótlega. Hraunnálar eru í loftinu. Skríða þarf áfram, en þá birtist allt í einu 10 fingra krumla niður ú loftinu. Þess vegna er þessi hluti hellakerfisins nefnd Krumlan til hægðarauka. Rásin er um 100 metra löng.
Þá var haldið austur yfir í Annan í aðventu. Varða er austan við brúnina þar sem neðra opið er í jarðfalli framan í bjargbrúninni. Ofar er hlaðinn veggur, skjól fyrir refaskyttur. Hellirinn liggur því til norðurs. Rásin er víð neðst, en lækkar síðan. Skríða þarf hluta hellsins upp að efra opinu. Þessi hluti er um 60 metra langur. Ofan við efra opið liggur rásin í vinstri beygju. Hún er nokkuð stór fyrst, en lækkar síðan uns hún endar í þrengslum. Efri rásin er um 120 metra löng.

Haldið var niður að Brúnahelli, en hann er í rás fremst á fjallinu skammt austan Mosaskarðs, skammt sunnan við Rebba. Þetta er falleg og litskrúðug rás, mosagróin fremst þar sem birtu nýtur við, liggur þar upp í hraunið og beygir þar til vinstri uns hún lokast þar sem flór kemur undan þrengslum eftir um 20 metra. Hægt væri að skríða áfram, er það væri erfitt.
Rás liggur einnig til suðurs um 40 metra. Hún endar í þrengslum. Fallegar hraunmyndanir eru í rásinni á kafla.

Mosaskarð

Mosaskarð.

Gengið var spölkorn til norðurs og síðan til vesturs að Mosaskarði. Af brúninni má vel sjá hveru óhemjumagn af kviku hefur streymt þarna fram af fyrrum og móta landið fyrir neðan, allt til sjávar. Hraunið kom úr Eldborg í Brennisteinsfjöllum og sést vel til hennar frá brúninni.Â
Megingígurinn er þó skammt norðvestar. Frá honum rann einnig mikið hraun niður að Kleifarvatni og myndaði Hvammahraun.
Haldið var niður skarðið og staðnæmst við Mosaskarðshellir. Til að komast niður um opið, eða öllu heldur til að komast upp aftur, þarf aðstoð kaðals, sem ekki var hafður með í för að þessu sinni. FERLIR fann helli þennan fyrir þremur árum og skoðaði hann síðan með HERFÍs-mönnum. Sigið hafði verið niður í gatið og þá virtist hún einungis vera rúmgóð rás. En þegar grafið var í gjallhaug á gólfi syðst í rásinni kom í ljós gat. Opnaðist þá leið inn í fallega manngenga bogadregna hraunrás með glerjuðum veggjum. Í heildina er Mosaskarðshellir um 50 metra langur.

Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Rebbi

Eyjólfur, FERLIRsfélagi, í Rebba.

Hausastaðaskóli

Gengið var um Langeyri og Malir, skoðaðir gamlir fiskreitir og síðan haldið út með ströndinni með Bala, Dysjum og Görðum. Gengin var Lindargata að Garðalind og síðan út á Hliðsnes og að Hausastaðaskóla.

Langeyri

Langeyri og nágrenni – örnefni.

Langeyri var upphaflega tómt hús í landi Garðakirkju sem stóð autt árið 1703 vegna aflabrests. Þegar fríhöndlunin gekk í garð 1787 lögðu danskir lausakaupmenn Langeyri undir sig og reistu sér íbúðarhús og vöruskemmur. Örnefnið Rauðhúsnef er frá þeim tíma er rauðlituð dönsk hús stóðu við tangann er kallast í dag Rauðsnef. Þar var í eina tíð hvalstöð sem lagðist niður þegar alvarlegt slys varð í stöðinni. Núverandi Langeyrarbær var byggður árið 1904 og telst vera dæmigerður hafnfirskur hraunbær af stærri gerðinni.

Fagrihvammur

Fagrihvammur.

Nokkru vestar eru fleiri gömul hús Eyrarhraun, Fagrihvammur og steinbærinn Brúsastaðir. Utar taka við Brúsastaðamalir eða Litlu-Langeyrarmalir og Skereyrarmalir. Hér voru fyrirtaks malir fyrir smábáta sem þurftu ekki að fara djúpt til að afla vel.
Finna mátti samskonar malarkamba inn eftir öllum Hafnarfirði í aldarbyrjun. Langeyrarmalir voru lengstar malanna og hér reisti August Flygenring fiskvinnsluhús 1904. Malirnar voru mikið athafnasvæði og var saltfiskur breiddur til þurrkunar á góðviðrisdögum á fiskreitum í hrauninu sem enn sést móta fyrir, t.d. utan við beygjuna neðan við Eyrarhraun.

Allians

AllianZ-fiskreitur við Hrafnistu. Var eyðilagður er viðbygging var gerð.

Fiskverkunarhúsin voru rifin á níunda tug 20. aldar. Líklegt er að þessir fiskreitir verði eyðilagðir innan skamms vegna fyrirhugaðra byggingaframkvæmda á svæðinu. Allians-reiturinn, sem var þarna skammt ofar, var t.d. rifinn uppá einum degi þegar síðast var byggt við Hrafnistu. Í rauninni virðist það hafa verið óþarfa eyðilegging ef tekið er mið af byggingunni, sem reist var á svæðinu. Í rauninni hefði verið táknrænt að vernda þennan gamla fiskreit svo til við gaflinn á þessu dvalarheimili aldraðra sjómanna.

Langeyri

Langeyri og nágrenni – Loftmynd 1954. Fiskreitir víða.

Þegar saltfiskverkun var sem mest í bænum á fyrrri hluta 20. aldar var fjöldi fiskreita og stakkstæða um allan bæ þar sem fiskurinn var breiddur og þurrkaður. Það er enn hægt að skoða fagurlega hlaðna fiskreiti á nokkrum stöðum í bænum þó mjög hafi verið þrengt að þeim. Alliansreitur (stundum nefndur Allanzreitur) er sunnan Hrafnistu. Hann er kenndur við Allen Major, framkvæmdastjóra hinna ensku Hellyers bræðra sem stunduðu útgerð frá Hafnarfirði 1924 – 1929. Annar þekktur fiskreitur var Einarsreitur, sem Einar Þorgilsson útgerðarmaður og kaupmaður lét útbúa, er á svæðinu milli Arnarhrauns, Smyrlahrauns, Álfaskeiðs og Reykjavíkurvegar.

Einarsreitur

Einarsreitur.

Byggð hefur verið í landi Garðabæjar frá landnámstíð og er talið að núverandi landsvæði bæjarins hafi tilheyrt þremur mönnum. Vestasti hlutinn hafi verið land Ingólfs Arnarsonar, landið í kringum Vífilsstaði í eigu Vífils, leysingja Ingólfs, og syðsti hlutinn í eigu Ásbjarnar Özurarsonar, sem Landnáma segir að hafi fengið land á milli Hraunsholtslækjar og Hvassahrauns, Álftanes allt og bjó á Skúlastöðum. Talið er að Skúlastaðir hafi annað hvort verið þar sem nú eru Bessastaðir eða þar sem nú er kirkjustaðurinn Garðar á Álftanesi en við hann er Garðabær kenndur.

Hausastaðaskóli

Minnismerki við Hausastaðaskóla.

Minnismerki stendur nú þar sem Hausastaðaskóli var. Enn má sjá tóftir hans. Skólinn var annar fyrstu skóla á Íslandi fyrir börn og unglinga á aldrinum 6-17 ára. Skólinn starfaði á árunum 1792-1812. Skólinn var stofnaður handa fátækum börnum sem fengu ekki tækifæri til að læra. Það voru bæði strákar og stelpur í skólanum sem þótti merkilegt því stelpur gengu ekki í skóla þá. Fyrst í stað voru 6 stelpur og 6 strákar en þeim fjölgaði fljótlega. Eftir 1804 fækkaði þeim aftur. Markmið Hausastaðaskóla var ekki bara að lesa, skrifa og reikna, heldur líka að ala upp fátæk börn. Minnisvarði um Hausastaðaskóla var reistur árið 1979.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.
Sjá meira um Hausastaðaskóla HÉR.

Heimild m.a.:
-http://www.gardabaer.is/default.asp?cat_id=69
-http://www2.hafnarfj.is/hafnarfj.nsf/pages/merkir_stadir
-Jón Skálholtsrektir – minning um Jón Þorkelsson Thorkillius, Rvík 1959.

Hausastaðaskóli

Hausastaðaskóli.

Oddshellir

Gengið var inn á Skógfellaveg frá Reykjanesbraut og upp fyrir Brandsgjá, upp Vogaheiði um Huldugjá, að Péturborg og síðan áfram upp heiðina í Kálffell.

Kálffell

Fjárskjól við Oddshelli í Kálffelli.

Í Kálffelli eru hlaðin mannvirki, s.s. gerði, kví, rétt, fjárskjól og þar er mannvistarbústaður; Oddshellir.
Kálffellið er, séð úr fjarlægð, líkt og lítil þúst í heiðinni. Þegar komið er að því kemur í ljós að um fallegan eldgíg er að ræða og það nokkuð stóran.
Þegar gengið er beint upp heiðina tekur hver hæðin og lægðin við af annarri. En þegar farið er suður með vestanverðri heiðinni er gengið rétt utan við lyngsvæðið og þar er öllu sléttara aðgöngu að fellinu. Á þeirri leið ber ýmislegt skemmtilegt fyrir augu, s.s. gjár og mosasléttur, misgengi og litlir hraungígar á NA-lægum sprungureinum.

Syðri-Mosadalagjá liggur fast neðan Kálffells (87 m.y.s.), en það er á hreppamörkum og liggur norðaustan við svonefnda Aura. Kjörin fjárfesting fyrir einhverja bankastofnunina, sem ekki veit aura sinna tal.

Kálffell

Kálffell.

Fellið er stærsti gígurinn í nokkuð stórum gígaklasa á þessum slóðum. Megin hraunstraumurinn hefur runnið norðvestur úr og þekur hraunið um 3.5 ferkm. Fell er varla réttnefni því Kálffell er aðeins ávöl hæð, sem fellur inn í landið, sérstaklega séð neðan frá eins og fyrr sagði.

Oddshellir

Oddshellir.

Það eru snöggtum fleiri fell en fjöll á Reykjanesskaganum og séra Geir Backmann gerir eftirfarandi greinarmun á felli og fjalli í lýsingu sinni á Grindarvíkursókn árið 1840: “Þann mun gjöri ég á felli og fjalli, að fell kalla ég klettalausa, alls staðar að snarbratta, uppmjóa og toppvaxna, háa hæð, sem hvar vill má upp ganga; en fjall, hvar klettar eða klungur hamla uppgönguna, og hvers hæð er í hið minnsta 200 faðmar; þó sé hverjum leyfi að gjöra þar þann mismun, er sjálfur vill.”.

Kálffell

Rétt í Kálffelli.

Í Kálffelli var setið yfir sauðum um og eftir síðustu aldamót og var frægasti sauðamaðurinn þar Oddur Stefánsson frá Grænuborg (d. 1925). Í gígnum eru hlaðnir garðar og við hellaop ofan við gíginn eru einnig hleðslur, sem líklega hafa átt að beina fé í skjól ef veður var vont.
Einn hellanna heitir Oddshellir og er í Brunnhól rétt sunnan við gígskálina. Hóllinn dregur nafn af lögun hellisins og eða “dyrum” hans. Opið er eins og brunnop og til þess að komast niður þarf að stökkva niður á nokkrar hellur, sem hlaðnar hafa verið upp neðan “dyranna”.

Kálffell

Kálffell.

Oddshellir er nokkuð rúmgóður og á einum stað er hlaðið upp í einn afkimann. Líklega hefur Oddur í Grænuborg átt afdrep í þessum helli og af því er nafngiftin trúlega komin. Sagnir eru u að þegar mest var af sauðum Í Kálffelli hafi þeir verið á annað hundrað.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Heimild m.a.:
-Örnefni og gönguleiðir á Vatnsleysutrönd – Sesselja G. Guðmundsdóttir.

Kálffell

Fjárskjól í Kálffelli.

Stóra-Eldborg

Í Krýsuvíkurlandi, skammt ofan Kerlingahvamms undir Geitahlíð, eru þrjár dysjar, ýmist nefndar Kerlingadysjar, Smaladysjar og Hundadysjar, Krýsudys og Dísudys.

Kerlingadalur

Dysjar Herdísar (Dísu) og Krýsu ofan Kerlingahvamms. FERLIRsfélagar mættir á vettvang.

Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar (aðalheildarmaður; Ólafur Þorvaldsson og Krýsuvíkurbræður synir Guðmundar í Krýsuvík, aðallega tveir; voru fluttir til Hafnarfjarðar, annar bjó á Holtsgötu ?, en hinn í Þorgeirstúni. Unnið á milli 1960–70) er dysjanna getið sem og leiðina að þeim frá Krýsuvík: “Alfaraleið austur á allbreiða mela ofan Bleiksmýrar. Þar nefndust Breiðgötur. Er austar dregur liggja þær alveg neðst við Geitahlíðarskriður.

Stóra-Eldborg

Stóra-Eldborg. Deildarháls er ofan hennar.

Hér blasir Eldborgin við Stóra-Eldborg. Milli hennar og Geitahlíðar er skarð, nefnt Deildarháls. Þegar komið er fram úr skarðinu blasir við Hvítskeggshvammur er skerst inn og upp í Geitahlíðina. Þá blasir við hraunbunga með smá strýtum á. Þarna eru Dysjarnar. Þarna mættust þær eitt sinn þær maddömurnar. Krýsa úr Krýsuvík og Herdís úr Herdísarvík með smölum sínum og hundum þeirra. Deildu þær um beit, veiði í Kleifarvatni og fleira. Urðu báðar reiðar. Drap þá Dísa smalamann Krýsu. Krýsa drap þegar í stað hinn smalann. Þá sló í svo harða brýnu milli þeirra og heitingar, að báðar létur þarna líf sitt og hundarnir. Síðan eru þarna Kerlingadysjar, Smaladysjar og Hundadysjar, Krýsudys og Dísudys. Neðan við bunguna er Kerlingahvammur.”

Í þjóðsögunni um Herdísi og Krýsu í Þjóðsagnasafni Jóns Árnasonar segir:

Herdís og Krýsa

Kerlingadysjar Herdísar (Dísu) og Krýsu, auk smalans fremst. Þjóðleiðin lá milli dysjar smalans og kerlinganna.

Þórir haustmyrkur nam Selvog og Krýsuvík. Það hefir verið seint á landnámstíð, því fjölbyggt hefir verið orðið syðra eftir þeirri sögn að fátækt fólk hafi flakkað í Selvog bæði utan með sjó og sunnan yfir fjall.
Það þótti Þóri illt og setti því grindarhlið læst í Grindaskarð, en annað í skarð það sem farið er úr Grindavík upp á Siglubergsháls. Þar af skulu þessi örnefni vera dregin: Grindaskarð og Grindavík. –

Það er naumast annað en getgáta að Krýsa og Herdís hafi verið dætur Þóris haustmyrkurs; þó hefir það verið sagt.

Krýsa bjó í Krýsuvík, en Herdís á Herdísarvík. Þær deildu um landamerki milli sín. Vildi Krýsa eiga Geitahlíð alla og væru landamerki í stóran stein er stendur í hrauninu fyrir austan hlíðarhornið. Herdís vildi eiga út á Deildarháls. Hann er nokkuð vestar en undir miðri Geitahlíð og hefir spúð eldi því í honum er gígur ekki alllítill, og úr honum hefir runnið hraun það er Klofningur heitir eða Klofningar.

Herdís og Krýsa

Dysjar Herdísar og Krýsu. Eldborg fjær. Hér má sjá friðlýsingarskilti, sem nú er horfið.

Þar hittust þær og deildu þar til báðar heittust, og eru dysjar þeirra á hrygg nokkrum undir hlíðinni skammt fyrir austan hálsinn. Má geta til að Herdís hafi gengið þangað undan, því henni veitti miður þó hvorug hefði vel.

Þangað til hafði veiði mikil verið í Kleifarvatni í Krýsuvíkurlandi og tjörnin í Herdísarvík stararflóð og silungapollur í miðjunni.

Herdísarvíkurtjörn

Herdísarvíkurtjörn.

Herdís mælti svo um að allur silungur í Kleifarvatni skyldi verða loðsilungur óætur.

Þá lagði Krýsa það á að tjörnin í Herdísarvík skyldi éta sig út og eyða úr sér störinni og brjóta bæinn, en allur silungur skyldi verða að hornsílum. Það skyldi og fylgja að tvær skipshafnir skyldu í henni drukkna.

Þetta gekk allt eftir. Bærinn Herdísarvík stóð áður undir Búrkletti, en tjörnin gróf undan honum grundvöllinn svo hann varð að flytja úr stað og einn vetur sem oftar var tjörnin lögð með ís, þá komu sjómenn frá skipum (þau voru tvö) og gengu tjörnina, en ísinn brast og allir drukknuðu. Og enn er varazt að ganga hana þó hún sé lögð. Svo fór um landamerkin sem Krýsa vildi og heitir nú kletturinn Sýslusteinn.”

Heimildir:
-Örnefnalýsing Gísla Sigurðssonar fyrir Krýsuvík.
-Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar.

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

Hjallakirkja

Að Hjalla í Ölfusi er Ólafskirkja, kennd við Ólaf helga Noregskonung.
Núverandi kirkja er byggð 1928. Talið er að kirkja hafi staðið á Hjalla í Ölfusi frá um 1000, trúlega alltaf á sama staðnum, nema Hjalli-1e.t.v. í upphafi. Hjalli í Ölfusi kemur mjög við sögu kristnitökunnar því að þar bjuggu þeir feðgar Þóroddur Eyvindsson goði og Skafti Þóroddsson lögsögumaður.
Ofan Hjalla stöðvaðist kristnitökuhraunið. Þá komst Hjalli aftur í fréttir sögunnar þegar síðasti kaþólski biskupinn í Skálholti, Ögmundur Pálsson, leitaði þar skjóls hjá systur sinni árið 1541. Gafst hann upp fyrir dönskum hermönnum gegn því að fá að fara frjáls maður. Þeir handtóku hann hins vegar og fluttu um borð í skip áleiðis til Kaupmannahafnar. En biskupinn aldni hlaut samt sitt frelsi því að hann dó í hafi.

Heimild:
-Morgunblaðið, 14. nóvember 1998, bls. 72.

Ölfus

Hjallakirkja 1927.

Fornistekkur

Gengið var um Kúadal, yfir að Þórustaðaborg, niður að Knarrarnesi og síðan að Kálfatjörn. Í leiðinni var litið á letursteina við heimkeyrsluna að Stóra-Knarrarnesi og í brú á gömlu götunni að Kálfatjarnarkirkju.

Stóra-Knarrarnes

Stóra-Knarrarnes – letursteinn.

Stuttu ofan og sunnan við Arnarbæli á Vatnsleysuströnd er klapparholt og þar í djúpri gróinni kvos er fallegur stekkur, sem líklega heitir Ásláksstaðastekkur. Fjárgirðingin liggur austan stekksins, en kvosin sjálf heitir Kúadalur. Skammt vestan við Arnarbæli er stekkur í lágri grasbrekku, sem snýr mót norðvestri. Sá heitir Fornistekkur.
Tekin var stefnan í austurátt á Rauðstekk og síðan yfir að Litlastekk. Báðir eru þeir grónir upp, en enn sést móta vel fyrir þeim í heiðinni. Bein lína er úr þeim í Þórustaðaborgina. Hún kúrir á milli gróinna hraunhola ofan við Þórustaði í Kálfatjarnarheiði.

Vogaheiði

Sel í Vogaheiði

Gróðurinn í heiðinni er tiltölulega einhæfur og er grámosinn ríkjandi með góðu gróðurblettum innan um. Heiðina prýða margar lyngtegundir, s.s. krækiberjalyng, sortulyng, beitilyng og blóðberg. Bláberjalyng vex svo til eingöngu við og í nýrri hraununum, Afstapahrauni og Skógfellahrauni, svo og í Hvassahraunslandi. Aðalbláberjalyng finnst á stöku stað uppi til fjalla. Einihríslur sjást á nokkrum stöðum í heiðinni, en sjaldan bera þær aldin. Þó gerðist það sumarið 2004, enda óvenju hlýviðrasamt. Burkni vex víða í gjám og getur orðið risavaxinn og þar er burnirótin aldrei langt undan. Blómplönturnar, sem vaxa í heiðinni eru helstar þessar; geldingahnappur, holtasóley, lambagras, holurt, músareyra og melablóm. Grasgeirar eða svokallaðar lágar, eru víða við hóla og eins eru grasrindar í skjóli undir gjárveggjum.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – letursteinn (skósteinn).

Frá borginni var gengið beint að heimkeyrslunni að Knarrarnesi. Þar við hliðið að Stóra-Knarrarnesi er letursteinn. Á hann er klappað ljóð, sem innifelur bæði höfundarnafn og ártal. Gengið var eftir gömlu götunni að Kálfatjarnarkirkju. Í steinbrú áður en komið er að túngarðinum vestan túnsins (nú golfvallarins) er hlaðin steinbrú. Í henni er ferhyrndur skósteinn með ártalinu A°1790 klappað í. Þaðan er stutt yfir að kirkjunni. Skósteinar munu hafa verið til nálægt kirkjum. Kirkjugestir munu hafa skipt þar um skótau, farið úr farskónum, geymt þá þar, og klætt sig í spariskóna í tilefni athafnarinnar. Slík var virðingin borin fyrir guðsorðinu í þá daga.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Heimild m.a.:
-Örnefni og gönguleiðir á Vatnsleysuströnd – Sesselja G. Guðmundsdóttir.

Þórustaðaborg

Þórustaðaborg.