Sauðabrekkur

Gengið var frá Krýsuvíkurvegi um Hrútargjárhraun yfir að Markhellu eða Markhelluhól eins og hún er stundum nefnd. Frá henni var gengið niður að Búðarvatnsstæði, upp um Sauðabrekkur að Sauðabrekkugjá og norður eftir henni um Sauðabrekkugíga á leið til baka niður hraunið. Í leiðinni var gengið framhjá Gapinu, mikilli holu í miðju hrauninu.

Markhella

Við Markhellu.

Á Markastein, oftar nefnd Markhella, á einnig að vera klappað “ÓTTA” “STR” “KRYSU”. Síðan lá línan að liggja frá þessum Markasteini í stefnu upp í Krýsuvíkurland. Merkingarnar fundust á Markasteini, en ekki á Klofakletti eða Klofningskletti,eins og hans er getið í sumum landamerkjalýsingum. Hér gæti verið um einhverja misvísun að ræða.
Landamerkjabréf milli Óttarstaða og Hvassahrauns er ritað 26. maí 1890 og undirritað vegna Óttarstaða, Hvassahrauns og Krýsuvíkur. Lýsing merkja er svona: “Landamerki milli Óttarstaða og Hvassahrauns byrja í Mið-Krossstapa, frá honum í Klofningsklett, sem varða er hjá, sunnanvert við Einirhól. Frá Klofningskletti í Búðarvatnsstæði, frá þeim stað í Markhelluhól, sem er hornmark frá Óttarstöðum, Hvassahrauni og Krýsuvík; í hann er klappað: Ótt, Hvass, Krv.”

Sauðabrekkur

Skjól í Sauðabrekkum.

Landamerkjabréf er til milli Hvassahrauns, Lónakots og Óttarstaða ritað 13. júní 1890, samþykkt frá öllum þremur jörðunum. Lýsing merkja er þessi:
“Merkin byrja í svonefndum Markaklett við sjóinn austanvert við Hraunsnes, úr Markakletti í Skógarhól, úr Skógarhól í Stórgrænahól, úr Stóragrænhól í Hólbrunnsvörðu, úr henni í Skorásvörðu, úr henni í Miðkrossstapa, sem er horn mark á Lónakotslandi, svo heldur áfram sömu stefnu millum Hvassahrauns og Óttarstaða úr Miðkrossstapa í Klofningsklett með vörðu sunnanvert við Einirhól, úr Klofningskletti í Búðarvatnsstæði, úr Búðarvatnsstæði í Markhelluhól, sem er hornmark frá Hvassahrauni, Óttarstöðum og Krýsuvík.”
Vatn var í Búðarvatnsstæðinu. Vestan við það er klettur, einnig nefndur Markhella eða Markhelluhóll. Stundum hefur verið áhöld um við hvorn klettinn hafi verið miðað í landamerkjalýsingum. Búðavatnsstæðið hefur áreiðanlega skipt miklu máli fyrir beit í heiðinni og ferðir um hana hér fyrrum. Margir slóðar liggja að vatnsstæðinu og vel gróið er í lægðum í kring.

Sauðabrekkugígar

Sauðabrekkugígar.

Haldið var upp í Sauðabrekkur og fram á barm Sauðabrekkugjár. Honum var fylgt til norðurs, um svonefnda Sauðabrekkugíga. Um er að ræða fallega gígaröð ofan við gjána. Austar hafa verið aðrir gígar, en þunnfljótandi hraun fyllt í þá að mestu. Í einum gígnum er bæli, slétt gólf og hraunbekkur. Gluggi er í bælinu, en steinn hafði verið settur fyrir.
Ginið er hluti gamallar gjár, sem nýrra hraun hefur runnið ofan í og fyllt að mestu. Eftir stendur þessi hluti, óuppfylltur. Dýpið er um 20 metrar.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Sauðabrekkur

Gígur í Sauðabrekkugígaröðinni.

Hvaleyrarlón

Í Árbók Hins íslenska fornleifafélags árið 1926 má lesa eftirfarandi um “Fundin bein á Hvaleyri þriggja manna”:
“Á Hvaleyri, sunnan við Hafnarfjörð, brýtur jafnan af túninu að norðanverðu, og eru þar nú orðnir háir bakkar við fjörðinn, neðst berg, allhátt, á því malarlag þykt og efst þykt moldarlag. Fyrir 30 árum, svo jeg veit til, varð vart mannabeina á einum stað þarna í bakkanum, ofarlega í moldarlaginu, og fundust þar nokkrir gnpir.
Hvaleyri - 223Bein sáust stundum í fjörunni undir berginu. — Fyrir þremur árum tók Magnús bóndi Benjamínsson, sem þar á heima í Hjörtskoti, höfuðkúpu af manni og nokkra hálsliði þar úr bakkanum og gröf í kistli í mónum þar hjá, fjær sjó. Haustið 1924 varð hann var fleiri beina þar yzt í bakkanum og sumra í fjörunni. Gróf hann þá dálítið til og tók enn úr bakkanum 2 höfuðkúpur og mörg bein önnur, úr tveim mönnum. Var mjer nú gert við vart og fór jeg að skoða beinin.
Höfuðkúpurnar voru heillegar og mátti sjá af tönnunum, að önnur væri af öldruðum manni, en hin af miðaldra. Eftir skýrslu Magnúsar um upptöku beinanna og því, sem sjá mátti af þeim, vantaði enn mikið af beinum yngra mannsins; hafði hann legið litlu innar í bakkanum, en raunar virtust allar beinagrindurnar hafa legið þjett saman. Að sögn Magnúsar lágu bein gamla mannsins þannig, að sjá mátti að hann hafði ekki orðið lagður til, heldur jarðsettur kreptur. Svo var nú áliðið, að jörð var frosin og ákvað jeg að fresta frekari rannsókn til næsta sumars. Fór jeg svo 13. ág. 1925 og athugaði fundarstaðinn.
Við rannsóknina komu í ljós fætur yngra mannsins, báðir heillegir, og hægri handleggur, sem hafði verið sveigður inn yfir miðju. Efri hluta beinagrindarinnar hafði Magnús tekið upp að öðru leyti. Lærleggir voru 50 cm. að lengd. Fæturnir voru alveg beinir; hafði maðurinn verið lagður til og rjett grafinn; vissu fæturnir lítið eitt (15°) sunnar en í háaustur. Hjá beinum hans varð ekki vart fleiri beina, en ekki var grafið vítt út frá þeim. Beinin voru um 50 cm. (19 þuml.) Frá núverandi grassverði og hafa menn þessir ekki verið grafnir dýpra. Ekki varð vart við leifar af líkkistum, en hornhnapp af fötum hafði Magnús fundið. Sennilega hafa líkin verið grafin í fötunum. Magnús tók nú upp aftur höfuðkúpu þá, er hann hafði grafið í móann fyrir 2 árum. Hún var af ungum manni; sýndu það tennurnar í kjálkunum, sem voru heilir og með allsendis óslitnum tönnum; efri tanngarð vantaði.
hvaleyri - 224Bein þessi munu vera frá síðari öldum og þótti mjer ekki ástæða til að varðveita þau í Þjóðminjasafninu. Þau eru sennilega kristinna manna leifar og voru flutt í kirkjugarð Hafnarfjarðar. Er leitt er getum að því, hversu stendur á þessum grefti hjer utan kirkjugarðs á Hvaleyri, þar sem þó var kirkjugarður, notaður fram á 17. öld, og kirkja eða bænhús fram yfir 1760, má minna á frásagnir sjera Jóns Egilssonar í Byskupa-annálum hans, þar sem hann skýrir frá því, að á dögum Magnúsar Skálholtsbyskups Eyjólfssonar (1477—90), hafi ábótinn í Viðey ráðist á Englendinga, sem lágu hjer hjá Fornubúðum, og unnið sigur á þeim, en mist þó son sinn í bardaganum.
hvaleyri-221Enn segir sjera Jón, að á dögum Stefáns byskups Jónssonar, árið 1518 eða þar um, hafi Englendingar og Hamborgarar í Hafnarfirði barist þar. »Unnu þýzkir og rýmdu hinum í burtu og fluttu sig fram á eyri og hafa legið þar síðan«, segir sjera Jón. Fornubúðir munu hafa verið þar sem enn sjer leifar 2 stórra búða í túnfætinum fyrir austan Hjörtskot, en búð Hamborgara frammi á eyrinni mun hafa verið þar, sem nú heitir Skiphóll á Hvaleyrargranda. Menn þá er fjellu í fyrri bardaganum af liði ábóta, hefur hann óefað fært til graftar og Hamborgarar hafa einnig að sjálfsögðu grafið landa sína á heiðarlegan hátt. Um 30 árum síðar er þess getið, að þeir ættu sjer kirkju þarna. Aftur á móti munu bæði Íslendingar og Hamborgarar hafa álitið hina ensku óvini sína, er þeir drápu, ófriðhelga menn, sem ekki sæmdi að veita gröft í vígðum reit. Þó þykir mjer líkast til, að bein þeirra þriggja er fundist hafa nú í Hvaleyrarbakka, sjeu fremur úr sjódauðum mönnum, er fundist hafa reknir hjer á Hvaleyri, en að þau sjeu bein nokkurra þeirra enskra manna, sem drepnir hafa verið hjer í öðrum hvorum þessara bardaga, því að sem mörgum mun kunnugt var sá siður algengur fyrrum, að jarða eða dysja ókend lík, er rak af sjó, þar nærri er þau fundust. Þau voru ekki færð til kirkjugarðs, heldur grafin í óvígðri mold, því að óvíst þótti, nema þau væru af ókristnum mönnum eða óbótamönnum. Hjer gengu fyrrum ræningjar oft á land, helzt Englendingar, sem stálu bæði fólki og fje, og eftir Tyrkjaránið var lengi uggur og ótti við útlendinga, sem voru á sveimi hjer við land. – Matthías Þórðarson”.
Sjá meira HÉR og HÉR.

Heimild:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélegas, 39. árg. 1925-1926, bl.s 57-58.

Hvaleyri

Hvaleyri – örnefni.

Hraunsvík

Gengið var frá Hrauni til norðurs með austurhlíðum Húsafell, upp í sandnámur er áður hýstu eina af útstöðvum varnarliðsins, áfram upp Berjageira og norður með vesturhlíðum Fiskidalsfjalls. Haldið var um Stórusteina milli fjallsins og Vatnsheiðar, inn í Svartakrók og áfram upp með Hrafnshlíð.

Festarfjall

Festarfjall og Hraunsvík.

Gengið var áfram um Tryppalágar og inn á gömlu götuna frá Ísólfsskála um Siglubergsháls milli Fiskidalsfjalls og Festisfjalls, niðurmeð Skögugili og beygt til suðurs niður á Hraunssand þar sem Dúnknahellir var m.a. barinn augu. Ofan Hraunssands að vestanverðu er Skora, Skarfaklettur sunnar, en síðan taka við Hvalvík og Hrólfsvík. Hraunsvíkin er utar.
Húsafell, Fiskidalsfjall, Hrafnshlíð og Siglubergsháls eru móbergsstapar, bólstraberg, móbergsþurs og túff, þakið grágrýti. Síðastnefndu fellsmyndirnar eru komnar úr Bleikhól, áberandi gíg nyrst í fjallinu. Grágrýti þetta er öfugt segulmagnað og runnið á segulmund sem kennd er við Laschamp í Frakklandi. Fleiri slíkar basalthettur er á þessum slóðum, t.d. á Skálamælifelli, Hraunsels-Vatnsfellum og Bratthálsi. Aldur bergsins er um 42.000 ár. Fyrir rúmum 40.000 árum lá þunnur jökull yfir Grindavíkurfjöllunum sem teygði sig um 4 km vestur og norður frá norðurhorni Fagradalsfjalls.

Hraunsvík

Hraunsvík – Dúknahellir.

Festafjall og Lyngfell eru stapar sem rof sjávar hafa klofið í herðar niður og myndað hæstu sjávarhamra á Rekjanesi. Einnig sjást innviðir þess, m.a. berggangur.
Þjóðsagan segir að austarlega í Grindavík, hér um bil miðja vegu milli bæjanna Hrauns og Ísólfsskála, er þverhnípt fell fram við sjóinn, sem heitir Festarfjall. Neðan undir felli þessu er hátt blágrýtisstandberg og ægisandur undir sem ganga má þurrum fótum með lágum sjó. Frá Hrauni blasir við í miðju berginu grá rák sem gengur þráðbeint upp í gegnum bergið og nefnist Festin. Sagan segir að rák þessi sé silfurfesti sem tröllkona ein hafi einhvern tíma í fyrndinni hengt fram af berginu með þeim ummælum að þá er dóttir bóndans á Hrauni, sú sem bæri nafn hennar, gengi þar neðan undir þá skyldi festin detta niður og verða eign stúlkunnar. Því miður lét tröllkonan ekki nafns síns getið svo að ekki hefir verið auðvelt að láta heita eftir henni, enda hangir festin óhreyfð enn í dag.

Siglubergsháls

Gamla Krýsuvíkurgatan um Siglubergsháls.

Þegar gengið var áleiðis niður Siglubergsháls eftir gömlu þjóðleiðinni ofan núverandi þjóðvegar varð ekki hjá því komist að sjá hið mikla malar og sandnám, sem átt hefur sér stað utan í Fiskidalsfjalli og Húsafelli. Rifjuð var upp umsögn

Skipulagsstofnunar um svonefndan Suðurstrandarveg, þ.e. mat á umhverfisáhrifum, frá því 10. desember 2003. Þar segir m.a. að fulltrúar stjórnar Landverndar hafi kynnt sér skýrslu um mat á umhverfisáhrifum Suðurstrandarvegar. “Svæðið sem fyrirhugaður vegur fer um er á margan hátt sérstakt og veðmætt vegna landslags, jarð- og menningarminja. Skýrslan ber með sér að framkvæmdaaðili gerir sér þetta ljóst og hann hefur lagt ríka áherslu á að finna vegstæði sem hefur sem minnst neikvæð áhrif á þessi verðmæti. Svo virðist sem ekki sé mögulegt að nota núverandi vegstæði miðað við þær tæknilegu kröfur sem gerðar eru og nýr vegur mun því óhjákvæmilega hafa nokkur sjónræn áhrif og skera samfellda hraunfláka í tvo.

Hraunsvík

Svæðið.

Námustæði við Húsafell og við Fiskidalsfjall eru í dag afar mikil lýti í landinu og efnistaka virðist óskipulögð. Suðurstrandarvegur kemur til með að fara um þessar námur og það væri til bóta ef hægt væri að nýta framkvæmdir til að gera umbætur á námunum.”
Fram kemur einnig að “vakin er athygli á því að framkvæmdum loknum verði hugað að lokun vegaslóða sem liggja að efnistökustöðum til að draga úr líkum á utanvegaakstri og eftir atvikum gera þar bílastæða sem nýta má sem upphafsstað fyrir gönguferðir og útvist.”

Gengið var niður á Hraunssand um einstigi, sandströndinni fylgt til vesturs að Dúnknahelli, sem sjórinn hefur smám saman verið að skila aftur eftir að hafa fyllt hann af sandi um tíma.

Hraunsvík

Bjargfuglar.

Fíllinn verpir á syllum í berginu, en rauðnefjuð svört teistan í hellum undir Festisfjalli. Dúnknahellis er getið í frásögn af strandi spænskrar skútu við ströndina og björgun áhafnarinnar, sem leitaði skjóls í hellinum uns hjálp barst. Erfitt getur reynst að komast upp úr fjörunni því þverhnípt bjargið er ofan hennar. Merkilegar hraunmyndanir eru í bjarginu; annars vegar hart grágrýtið í lögum og hins vegar meir rauðamölin þeirra á millum. Hennar vegna gengur Ægi svo vel sem raun ber vitni að brjóta bergið smám saman undir sig.
Frábært veður. Gangan tók 2 kls. og 2 mín.

Hraunsvík

Hraunsvík.

Eldvörp

Gengið var um sunnanverð Eldvörp, skoðaðar mannvistaleifar í helli og Árnastíg fylgt áleiðis að Sandfellshæð, með Sandfelli að Lágafelli.

Eldvörp

Í Eldvörpum.

Gengið var upp á Lágafell, gígurinn skoðaður og síðan haldið áfram niður á Árnastíg og gengið um Klifið í Klifgjá, austur með sunnanverðu Þórðarfelli, skoðaðir hellar þar í hrauninu, og síðan gengið upp á brún Gígsins, mikils eldgígs í hrauninu. Frá honum liggur stór hrauntröð til austurs og beygir síðan til suðurs. Henni var fylgt áleiðis að upphafsstað í Eldvörpum.
Eldvörp eru um 10 km löng gígaröð í stefnu suðvestur – norðaustur. Talið er að síðast hafi gosið þar fyrir meira en 2000 árum.

Eldvörp

Í Eldvörpum.

Nokkur yfirborðsjarðhiti er á afmörkuðu svæði í Eldvörpum og voru þar fyrrum stundum bökuð brauð sem vafalítið hefur komið sér vel í eldiviðarskorti. Örstutt vestan við meginborholuna er hellir í hrauninu. Þegar Hitaveita Suðurnesja lét bora eftir gufu þarna sumarið 1982 brotnaði hraunið undan jarðýtu sem vann við frágang í kringum holuna. Í ljós kom hellir með geinilegum mannvistarleifum, beinum og hleðslum. Ekki er vitað hver eða hverjir höfðust þarna við. Hellirinn er alllangur eða 25-30 m en hvergi hærri en 1,5 m og víðast hvar mun lægri eða 40-50 sentímetrar.

Gígur

Gígur sunnan Þórðarfells.

Árnastígurinn liggur um slétt helluhraunið norðan Sundhnúkahrauns og í gegnum Eldvörpin á leið hans að Þórðarfelli og áfram að Rauðamel þar sem hann sameinast Skipsstíg. Stígnum var fylgt spölkorn yfir hraunið uns vikið var út af honum utan í Sandfellshæð.
Á toppi Sandfellshæðar er stór gígur sem er um 450 m í þvermál og að minnsta kosti 20 m djúpur og vel þess virði að ganga upp á hæðina. Þótt Sandfellshæð sé ekki nema um 90 m y.s. er gríðarlega víðsýnt af henni. Í norðri blasa við fellin Sandfell, Lágafell, Þórðarfell, Súlur og Stapafell sem reyndar er að mestu horfið vegna efnistöku.

Sandfell

Sandfell.

Gengið var noður með vesturhlíðum Sandfells og upp á Lágafell. Í fellinu er stór gróinn gígur. Talsverðar minjar eru þarna eftir æfingar varnarliðsmanna, s.s. hleðslur og símalínur. Gengið var niður af Lágafelli að austanverðu og Árnastíg fylgt niður Klifið, áleiðis að Þórðarfelli. Þar var beygt upp á hraunið ofan við Klifgjá og skoðaðir nokkrir hellar á svæðinu. Loks var haldið upp á brún Gígsins og hann skoðaður. Hrauntröðinni miklu var síðan fylgt sem leið lá til austurs og síðan til suðurs með hraunkantinum. Í fordyrum hennar eru fallegar hraunmyndanir og rúmgóðir skúta. Þegar líða tekur á hana fellur hún inn í misgengi samhliða sprungureinum svæðisins.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Eldvörp

Gígur í Eldvörpum.

Mosaskarðshellir

Fyrir ofan bæinn er Herdísarvíkurfjall (329 m y.s.), hömrum girt á kafla, en annars staðar hafa hraunfossar fallið fram af því og alla leið til sjávar. Sagt er að hraunið neðan skarðsins, austan Herdísarvíkur, geymi m.a. Breiðabáshelli, sem ná á úr Breiðabás rétt ofan við fjörumörk austan Herdísarvíkur og alla leið upp í mitt Mosaskarð, ca. 2 km. Í örnefnalýsingu fyrir Herdísarvík segir m.a.: “Á hraunbrúninni ofan Breiðabásarkamps er Hellir eða Fjárhellir, þar leitaði fé sér skjóls oft og tíðum.”

Mosaskarðshellir

Mosaskarðshellir.

Þegar FERLIR hafði verið að leita að efra opi Breiðabáshellis í Mosaskarði uppgötvaðist gat í gasrás í miðju skarðinu. Var jafnvel um tíma talið að þar væri nú opið loksins komið. Vitað er um marga hraunhella á Íslandi sem myndast í halla og einn slíkur er þessi í Mosaskarðinu. Í ljós koma að hellirinn sjálfur er stuttur, nokkrir tugir metra, en hraunrásin sjálf er mjög falleg og lögun hennar einstök. Hægt er að klifra niður í hann, en best er að taka með stiga eða festa klifurlínu ef áhugi er á að komast upp aftur. Þegar fyrst var farið var niður virtist þetta einungis vera rúmgóð rás, en þegar sléttur steinn var tekinn og grafið með honum niður í brunann á gólfinu kom í ljós fyllt gjallhola syðst í henni. Eftir að gjallhaugnum var síðan mokað frá með hraunhellunni kom í ljós framhald á rásinni. Skriðið var niður, inn og upp aftur. Í ljós kom þessi fallega bogadregna hraunrás. Veggirnir eru nokkuð sléttir, glerjaðir, fjólubláir að lit, og gólfið slétt. Rásin, rúmlega mannhæðar há, lá í vinstri boga niður á við uns hún endaði þar sem loft og gólf runnu saman í eitt. Þarna virtist enginn maður áður virtist hafa stigið niður fæti. Þetta var því um að ræða eiginlega “landnámsferð”. Hins vegar hafði lítill fugl einhvern veginn og einhvern tímann náð að komast þangað inn, en ekki út aftur. Morkin beinagrindin litla sagði sína sögu – sem og sögu svo margra annarra dýra, sem endað hafa líf sitt í dimmum skjólum, sbr. hreindýrskálfinn í Kúluhattshelli, kindina í Leiðarenda og refinn í Rebba. Þegar “landnámsmaðurinn” leit litlu beinagrindina þarna augum í myrkri hraunrásinni varð honum að orði:

Hraun rann og fugl fann,
langa flóttaleið í myrkri.
Leiðina leyndu seinna rann,
maðurinn, sem fann hann.

Hafa ber í huga að þetta var ort í myrkri.

Mosaskardshellir

Í Mosaskarðshelli.

Garður

Skagagarðurinn á Rosmhvalanesi er eitt fárra íslenskra mannvirkja frá miðöldum sem varðveist hefur. Fáum mun kunnugt um tilvist hans, en engu að síður má telja Skagagarðinn einhverjar merkustu forminjar landsins og gefur hann vísbendingar um löngu horfna atvinnuhætti.

Skagagarðurinn

Garðurinn lá frá bænum Kirkjubóli norður til Útskála. Við báða enda hans tóku við miklir túngarðar og munu mannvirki þessi því hafa girt með öllu fyrir skagann. [Hluti garðsins liggur norðan Hafurbjarnarstaða, en það gæti sagt nokkuð til um aldur og tilgang hans.] Sjálfur garðurinn var um 1500 metra langur, um einn og hálfur metri á hæð og afar þykkur. Í tímans rás hefur hann hins vegar flast út og fengið ávalan svip.
Lengi vel var talið að garðurinn væri frá 13. eða 14. öld, en elstu ritheimildir um hann eru frá árinu 1528. Rannsóknir jarðfræðinga hafa þó leitt í ljós að garðurinn hefur vart verið hlaðinn síðar en á 10. öld.
Garður
Garðinum hefur væntanlega verið ætlað að halda sauðfé frá kornökrum á norðanverðum skaganum, en örnefni og fornar akurreinar benda til umfangsmikillar kornræktar á Suðurnesjum fyrr á öldum. Herma þjóðsögur meira að segja að bærinn Sandgerði hafi upphaflega gengið undir nafninu “Sáðgerði”.
Á hinum köldu öldum Íslandssögunnar áttu Suðurnesjamenn bágt með að trúa sögnum um akuryrkju á Garðsskaga fyrr á tíð. Þess í stað freistuðust þeir til að skýra byggingu Skagagarðsins á öllu skemmtilegri hátt.
KirkjubólFrá því að elstu menn kunnu frá að segja, höfðu verið haldnir vikivakar og jólaskemmtanir að bænum Flankastöðum. Þetta voru hinar mestu dans- og gleðisamkomur og oft drukkið meira en góðu hófi gegndi. Þar sem veislugestir frá Útskálum og öðrum bæjum af norðanverðum skaganum áttu yfir heiði að fara, gat bakaleiðin reynst æði varasöm, enda auðvelt að villast þegar saman fór myrkur, ölvun og flatt landslag án hæða, hóla eða annarra kennileita. Það var því hald manna að garðurinn hafi verið hlaðinn til að vísa slompuðum vegfarendum veginn.
Af vikivökunum að Flankastöðum er það hins vegar að segja að sr. Árni Hallvarðsson, prestur á Hvalsnesi 1743 til 1748, bannaði þá vegna óreglu. Var því spáð að Árna hefndist fyrir tiltækið og gekk það eftir þegar hann drukknaði skömmu síðar á leið til annexíunnar í Kirkjuvogi.

Heimild:
-www.sandgerdi.is

Skagagarðurinn

Skagagarðurinn – kort.

Selsvellir

Gengið var norður með vestanverðum Núpshlíðarhálsi og upp í Hraunssel neðan við Þrengslin.

Hraunssel

Hraunssel – stekkur.

Eftir að hafa skoðað selstóftirnar var gengið á hálsinn og honum fylgt niður að gígaröð syðst á honum austanverðum. Um er að ræða mjög fallega gíga, myndarlegar hraunæðar og hrauntraðir í hlíðinni neðanverðri. Vestan undir sunnanverðu Núpshlíðarhorni var, að sögn Jóns Jónssonar, jarðfræðings, einn fallegasti hraungígur landsins, en hann hefur nú að miklum hluta verið notaður sem ofaníburður í þjóðveginn.
Suður lægðina austan Méltunnuklifs, hefur tunga úr Leggjabrjótshrauni runnið vestur um skarð á milli Sandfells og Höfða og suður með honum að vestan. Slóði liggur nú þvert yfir Leggjabrjótshraunið og áfram upp með Núpshlíðinni, inn á Selsvelli og áfram niður á Höskuldarvelli suðvestan Trölladyngju.

Hraunssel

Hraunsselsstígur.

Gamlar vörður eru við slóðann yfir hraunið svo líklega hefur hann verið gerður ofan í eldri götu, sem þarna var, enda liggur gata þarna áfram upp á hálsinn við Línkrók, í móbergsskarð á honum og síðan í sneiðingum niður hann að austanverðu. Gatan sést síðan á ný sunnan Djúpavatnsleiðar skammt ofan við gatnamót Ísólfsskálavegar.
Gömul gata er á köflum grópuð í hraunið á þessari leið. Litlu norðar er Hraunsel en þar var sel frá Hrauni í Grindavík. Hér sér greinilega til tófta sem eru nú minnisvarði um löngu liðna búskaparhætti. Eftir að hafa skoðað stekkina í hrauninu norðan selsins, sem eru þrjár heillegar tóttir undir Núpshlíðarhálsinum, kom í ljós ein tótt, greinilega elst þeirra, neðar og á milli tóftana og stekksins. Sunnan við þennan hlaðna stekk var annar mun eldri. Selsstígur liggur frá selinu að suðurhlíð Hraunssels-Vatnsfells. Hraunsselið er síðasta selið, sem lengst var brúkað á Reykjanesi, eða allt til ársins 1914.

Leggjabrjótshraun

Gígur ofan Höfða – Leggjabrjótshraunsskapari.

Ofan við Hraunsselið eru Þrengslin, sem fyrr sagði. Neðan við Hraunsselið að sunnanverður heita einnig Þrengsli. Frá Hraunseli liggur leiðin eftir gamalli götu á milli hrauns og hlíðar norður með Núpshlíðarhálsi að vestan. Þegar komið er norður fyrir Þrengsli er fljótlega komið á Selsvelli, u.þ.b. 20 mín. ofar.
Selsvellir eru allmikið gróðurlendi sem myndast hefur með framburði lækja úr hálsinum.
Vellirnir eru eins og vin í eyðimörk, og hér var eftirsótt beitiland fyrir búfé. Selsvellir tilheyrðu Stað í Grindavík og notuðu Staðarprestar og hjáleigubændur þeirra selstöðuna. Um miðja nítjándu öld höfðu hér 6 bændur í seli ásamt prestinum á Stað og átti hver sitt selhús. Samtals voru þá um 500 fjár og 30 nautgripir á Selsvöllum.

Höfði

Hrauntröð við Höfða.

Núpshlíðarhálsinn er vel gróinn ofan við Hraunssel. Haldið var niður hálsinn og kíkt á hraungígana syðst á honum austanverðum. Þeir eru hver öðrum fallegri. Flestir eru opnir til suðausturs og hefur hraunið, sem rann undan hallanum og niður hlíðina, skilið eftir sig fallegar hraunæðar og traðir.
Moshóll var loks skoðaður niður undan suðvesturhorni hálsins. Jón Jónsson sagði hann merkilegan, ekki síst fyrir það að hægt væri að sjá í honum þversnið af gígrás. Því miður hefur þeirri ásýnd nú verið svipt á brott með stórtækum vinnuvélum.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Heimild m.a.:
-http://www.utivist.is/utivist/greinar/

Hraunssel

Hraunssel – uppdráttur ÓSÁ.

Kross

Að Hjalla í Ölfusi er Ólafskirkja, kennd við Ólaf helga Noregskonung.
Núverandi kirkja er byggð 1928. Hjalli-2Talið er að kirkja hafi staðið á Hjalla í Ölfusi frá um 1000, trúlega alltaf á sama staðnum, nema e.t.v. í upphafi. Hjalli í Ölfusi kemur mjög við sögu kristnitökunnar því að þar bjuggu þeir feðgar Þóroddur Eyvindsson goði og Skafti Þóroddsson lögsögumaður.
Ofan Hjalla stöðvaðist kristnitökuhraunið. Þá komst Hjalli aftur í fréttir sögunnar þegar síðasti kaþólski biskupinn í Skálholti, Ögmundur Pálsson, leitaði þar skjóls hjá systur sinni árið 1541. Gafst hann upp fyrir dönskum hermönnum gegn því að fá að fara frjáls maður. Þeir handtóku hann hins vegar og fluttu um borð í skip áleiðis til Kaupmannahafnar. En biskupinn aldni hlaut samt sitt frelsi því að hann dó í hafi.
Þegar svæðið ofan við Þóroddsstaði var skoðað kom m.a. í ljós hringlaga gerði. Að sögn bóndans hafði svæðið allt verið sléttað út fyrir allnokkru og því erfitt að gera sér grein fyrir gamla bæjarstæðinu af einhverjum áreiðanleik.
Hjalli-3Um hlaðið á Þóroddsstöðum liggur Suðurferðagata um 8 km að þjóðvegi 1 á Hellisheiði. Leiðin er svo kölluð vegna þess að hún var flutningaleið til Reykjavíkur og frá. Hún var einnig nefnd Skógargata, því að þar fóru Hjallamenn í Grafning til hrísrifs. Frá Þóroddsstaðahlaði þarf að stefna fyrst vestar en í meginstefnu, yfir gaddavír og að vörðubroti (N63°7´55 / V21°16´42). Hér er beygt til hægri, farið yfir Hvanngil ofan gljúfra, og stefnt milli Fremra- og Efra-Háleitis. Norðan Háaleita er best að fylgja vesturbrún Þurárbrunans, sem rann um Krists burð, og þvert yfir hann (beygja við N64°00´06 / V21°16´55) þar sem hann er mjóstur, á móts við miðja Hverahlíð. Þá er stutt að Lofti, þar sem einn farvegur Hengladalsár rann undir þjóðveg 1 (við 40 km steininn).
Skógarmannavegur, Skógargata eða Suðurferðagata sameinaðist leiðinni Milli hrauns og hlíðar í Fremstadal undir Svínahlíð. Lá þaðan um Smjörþýfi að Þurá.
Úr Hjallasókn austanverðri var fjölfarin leið á Hellisheiði. Heitir hún Suðurferðagata. Hún liggur milli Háaleita, hjá Hlíðarhorni, og þaðan austur á þjóðveginn rétt fyrir vestan loftið, hjá 40-km steininum. Ennfremur lá gata inn með Hverahlíðinni að Einbúa, og frá honum norður á þjóðveginn, austan við Láguhlíð.
Leiðin var farin þar til vagnfær leið var rudd af þjóðveginum fyrir neðan Kamba út í Hjallasókn. Það mun hafa verið upp úr 1910.
Leiðin er víða sýnileg undir Hverahlíð norðan Skálafells og eins austan við fjallið. Um er að ræða u.þ.b. 30 cm rásir í grasigrónu landi. Rásirnar liggja víða nokkrar samsíða og eru sumsstaðar allt að 30 til 40 cm djúpar.
Leiðin er ágætis dæmi um veg frá síðustu öldum þar sem hún er sýnileg. Hún er ekki uppbyggð eða rudd en hefur myndast við troðning hesta og manna.

Heimildir:
-Morgunblaðið, 14. nóvember 1998, bls. 72.
-Eiríkur Einarsson. Örnefnaskrá. Hellisheiði. Örnefnastofnun.
-Örnefnaskrá. Örnefnalýsing Þóroddsstaða. Örnefnastofnun.
-Hengill og umhverfi – Fornleifaskráning 2008, Kristinn Magnússon.

Hjallakirkja

Í Hjallakirkju.

Markrakagil
Á vinstri hönd er Markrakagil, eða Markraki. Landamerki Garðakirkju lágu um gilið. Eins og svo títt er í landamerkjadeilum telja sumir að þar sem um sama skarð og ræða og Vatnsskarð, en aðrir að hið eiginlega Vatnsskarð sé undir Vatnsshlíðarhorninu þar sem fyrst sér til Kleifarvatns. Hvað sem þeim deilum líður er Markrakagil merkt á landakort við Markraka á Undirhlíðum.
Í Breiðdal er steyptur stólpi, sem komið hefur niður úr skarðinu. Hann mun einhvern tímann hafa staðið uppi á brúninni, en einhver séð sig knúinn til þess að spyrna við honum.

Markrakagil

Markrakagil.

Gilið mun áður hafa heitið Markagil á Marraka eða Marrakagil á Undirhlíðum, en síðar er það nefnt Marrakagil í skjalinu frá 21. júní 1849 um Álftanesskóga. Það er það sama og annar staðar er nefnt Markrakagil (Melrakkaskarð, Vatnsskarð) eða Melrakkaskarð (Vatnsskarð, Markrakaskarð) í Undirhlíðum eins og það er nefnt sitt á hvað í “Merki á landi Garðakirkju….” frá 7. júní 1890 og sem staðfest er í landslögum nr. 13. frá 22. október 1912 um merki í landi Garðakirkju. Auk þess virðist þetta kennileiti hafa verið stafað Markragil, Marakki, Markragil o.s.frv. og á sumum stöðum staðsett á röngum stað. Í dag er þetta skarð eða gil aðeins nefnd Vatnsskarð. Eigandi Krýsuvíkur er samþykkur aðalmarki Garðakirkju og Krýsuvíkur í Vatnsskarði (Markrakagili, Melrakkaskarði), samkvæmt fyrrgreindu skjali frá 1890 og bréfi frá 14. apríl þ.á. (undirritaður tekur Vatnsskarð út fyrir sviga).

Hraunhóll

Hraunhóll.

Námusvæði er í vestanverðum Undirhlíðum norðan Vatnsskarðs. Vestan þess, sunnan Krýsuvíkurvegar, er Hraunhóll, enn eitt jarðfræðifyrirbrigðið, sem skemmt hefur verið í gegnum tíðina. Úr honum rann Nýjahraun, síðar nefnt Kapelluhraun, um 1188. Gígurinn hefur verið eyðilagður sem og allt umhverfi hans, Hraunhóll, stundum nefndur Rauðhóll, var með fallegri gígum á Reykjanesi og í rauninni stolt svæðisins. En þegar ráðist er að stolti landsins er dregið úr verðmæti þess. Skammsýni, þegar landsgæði eru annars vegar, hefur því miður verið eitt af höfuðeinkennum Íslendinga, allt frá landnámi til vorra daga.

Hraunhóll

Hraunhóll – upptök Kapelluhrauns.

Með gengdarlausri eyðingu skóga kom landeyðingin, skjólið hvarf og landsmenn stóðu berrassaðir á berangri um aldir. Nú þegar ferðamennskan er að verða ein aðalatvinnugrein landsmanna standa þeir enn og aftur berrassaðir fyrir framan ferðamennina, með landið sundurkorið og með óafturkræfar námur á einum fallegustu og nærtækustu svæðunum. Þeir, sem fengið hafa að ráða ferðinni í þessum málum, eiga að verða verðlaunaðir með fálkaorðunni fyrir eindæma skammsýni í þessum efnum. Nóg um það í bili.
Haldið var suður með Sveifluhálsi, um Sandfellsklofa. Þessi leið var fyrrum farinn frá Kaldárseli til Krýsuvíkur, Undirhlíðavegur. Hún er sendin frá Vatnsskarði og upp fyrir Norðlingaháls, en þá taka við grónar brekkur og sléttur að Ketilsstíg. Svæðinu um Sandfellsklofa hefur nú verið spillt með efnistöku, auk þess sem vélhólafólk hefur sett för sín á landið.

Sandfellsklofi

Sandfellsklofi – hrauntröð.

Mikil og löng hrauntröð, sem nú er að mestu sandi orpin, liggur samhliða klofanum. Hún var elt upp í gígana, sem eru í brekkunni áður en beygt er upp að Hrútargjárdyngju. Vegurinn liggur um þá. Jarðföll taka við tröðinni, en í því efra er hægt að komast niður í Klofahelli.Hraunrennslið hefu nær eingöngu orðið úr syðstu gígunum. Stærð hraunsins nær ekki einum ferkílómetra, en raunveruleg stærð þess gæti verið mun meiri. Aldursákvörðun hefur verið gerð á gróðurleifum undir hrauninu (Jón Jónsson, 1983) og fékkst aldurinn 3010 +/-70 eða um 1060 ár f.Kr.

Sandfellsklofi

Sandfellsklofi – hellisop.

Nokkrir hellar ganga fáeina tugi metra inn frá miklum niðurföllum við suðurenda hrauntraðarinnar. Í þessum smáhellum hefur mikið hrunið, en þeir eru nafnlausir og hluti af Klofahelliskerfinu.
Inn frá litlu opi ofan við Djúpavatnsveginn. Inn frá því til norðausturs er Klofahellir. Fyrst er klöngrast niður þrönga rás, sem á stunum er á tveimur hæðum. Þar innanvið er mikil hvelfing með um fjögurra metra lofthæð og um átta metrar eru milli veggja. Aftur þrengist hellirinn nokkra vegalengd þar til komið er í “símaklefann”, en þar má rétta úr sér á ný. Inn frá símaklefanum eru um 10 m göng, en ákaflega þröng og ekki á færi allra að fara þar í gegn. Þar innan við stækkar hellirinn á ný, en endar svo í miklu hruni. Klofahellir er um 115 m langur.
Suðvestan við Klofahelli er enn einn hellir eða skúti. Heildarlengd er um 15 metrar. Í honum voru fjögur pör af skóm og fékk hellirinn því nafnið Skóhellir.

Sandfell

Sandfell – austurhliðin er snýr að Sandfellsklofa.

Sandfellið er auðvelt uppgöngu. Fallegt útsýni er af því yfir að Hraunhól, yfir Kapelluhraun og Óbrennisbrunahraun. Gengið var niður af fellinu að austanverðu og haldið yfir nokkuð slétt hraunið og sandsléttu að upphafsstað. Upp úr henni gægist ein og ein burnirót. Ósjálfrátt fara tvífætlingar að gaumgæfa hvar þeir stíga niður. Það, sem næst er, yfirsést – oftast.
Á leiðinni var gengið yfir tiltölulega litla hraunsprungu. Jarðvinnuvél hafði verið ekið af óskiljanlegri ástæðu yfir sprunguna og verið rótað með henni að hluta til yfir hana. Forvitnilegt skoðunarverkefni síðar.
Innst í Sandfellsklofa eru glögg merki þess hversu utanvegaakstur getur spillt annars fallegu landslagi.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Heimild m.a.:
-Hraunhellar á Íslandi – Björn Hróarsson.

Sandfellsklofi

Sandfellsklofi – ummerki eftir utanvegaakstur.

Í Bálkahelli

Gengið var niður Klofninga í Krýsuvíkurhrauni með það fyrir augum að skoða Bálkahelli og Arngrímshelli (Gvendarhelli). Þá var gengið upp vestanvert hraunið áleiðis að Stóru-Eldborg, upp í Kerlingadal og staldrað við um stund hjá dysjum þeirra Herdísar og Krýsu.

Gvendarhellir

Við Gvendarhelli.

Arngrímshellis er getið í gamalli lýsingu. Þar segir að Arngrímur á Læk í Krýsuvík hafi hafi fé í helli í Klofningum undir aldamótin 1700. Þar hafi hann haft 99 ær og að auki eina frá systur sinni. Sú, þ.e. ærin, nefndist Grákolla. Fénu beitti hann m.a. í fjöruna neðan við bergið. Um veturinn gerði aftakaveður og fannfergi. Varð það svo slæmt að féð hraktist fram af berginu og drapst. Grákolla lifði hins vegar af hrakningarnar og er talið að allt fé Krýsuvíkurbænda sé frá henni komið.
Arngrímur var við annan mann við sölvatekju undir bjarginu skömmu eftir aldamótin 1700 og féll þá sylla á hann með þeim afleiðingum að hann lést.

Arngrímshellir

Í Arngrímshelli.

Um 130 árum síðar mun Krýsuvíkur-Gvendur hafa haft fé í fjárhellinum. Nefndist hann þá Gvendarhellir. Tóft er við munnann. Er sagt að þar hafi verið hús úr timbri og hafi það talist til frásagnar að gler hafi verið þar í gluggum. Við og inni í hellinum eru hleðslur.
Bálkahellir er skammt austar. Þegar komið er niður úr efsta opi hans má sjá hraunbálka beggja vegna. Annars er hellirinn um 450 metra langur.

Stóra-Eldborg

Stóra-Eldborg vestast undir Geitahlíð.

Neðan við Deildarháls ofan Stóru-Eldborgar, er dregur nafn sitt af deilum Herdísar Í Herdísarvík og Krýsu í Krýsuvík, er Kerlingadalur. Neðst í honum eru dysjar kerlinganna, auk smala Herdísar. Þjóðsagan segir að Krýs og Herdís hafi verið grannkonur og “var nábúakritur megn á milli þeirra; því hvor öfundaði aðra af landgæðum þeim er hin þóttist ekki hafa, Krýs Herdísi af beitilandinu, en Herdís Krýs aftur af enginu. Svo hafði lengi gengið að hvor veitti annari þungar búsifjar; rak Krýs sauðfénað sinn í land Herdísar, en Herdís vildi aftur ná í engið, og beittust svo þessu á víxl með því landamerki virðast annaðhvort hafa verið óglögg eða engin í það mund.

Bálkahellir

Við Bálkahelli.

Þegar þær grannkonurnar eltust meir fóru þær síður að hafa fylgi á framkvæmdum til að ásælast hvor aðra, en ekki var skap þeirra að minna eða vægara fyrir það. Bar þá svo við einhverju sinni að Herdís hafði gengið út í hraun og síðan út með Geitahlíð svo sem leið liggur út í Krýsuvík. En utarlega undir hlíðinni ganga úr henni hæðir nokkrar fram að hrauninu og eru þær kallaðar Eldborgir. Yfir þessar hæðir liggur vegurinn. Þann sama dag er Herdís tókst þessa göngu á hendur fór og Krýs að heiman.

Krýsuvík

Breiðivegur vestan Stóru-Eldborgar.

Í suður frá Krýsuvík er slétt melgata (Breiðivegur); er hún nokkuð langur skeiðsprettur suður undir hornið á Geitahlíð, en þegar komið er fyrir það horn blasa Eldborgir við sunnar með hlíðinni og er allskammt þangað undan hlíðarhorninu. Gamla þjóðleiðin lá hins vegar upp á hálsinn milli Geitahlíðar og Stóru-Eldborgar og síðan um Kerlingadal.
Nú segir ekki af ferðum þeirra grannkvennanna fyrr en Krýs kemur þar á götunni sem hún liggur yfir hina nyrztu Eldborgina, þá kemur Herdís í flasið á henni að sunnan. Þegar þær hittust varð fátt af kveðjum, en því fleira af illyrðum á milli þeirra er hvor um sig þóttist eiga land það er þær stóðu á.

Dysjar

Dysjar Herdísar, Krýsu og smalans í Kerlingadal.

Ekki er þess að vísu getið hvernig hvorri um sig hafi farizt orð, en svo lauk að hvor hézt við aðra vegna landadeildarinnar. Lagði þá Krýs það á Herdísi að allur ætur silungur skyldi hverfa úr veiðitjörn hennar, en verða aftur full af loðsilungi, sumir segja öfugugga. En Herdís lagði það aftur á Krýs að allur silungur í veiðivötnum hennar skyldi verða að hornsílum. Enn lagði Krýs það á Herdísarvík að þaðan skyldi týnast tvær eða þrjár skipshafnir. Herdís mælti aftur það um fyrir Krýsuvík að starengið þar skyldi smásökkva á hverjum 20 árum, en koma upp á jafnlöngum tíma. Eftir þessi ummæli sprungu þær báðar þar sem þær stóðu og eru þær dysjaðar báðar til vinstri handar við götuna þegar riðið er út í Krýsuvík norðan til á Eldborginni nyrztu, og sér dysirnar þar enn; dys Krýsar er það sem nær er Krýsuvík, en Herdísar hitt sem fjær er.

Dysjar

Dysjar Krýsu, Herdísar og smalans neðst.

Meðan þær voru að mæla hvor um fyrir annari kom að þeim smalinn úr Krýsuvík, en svo brá honum við heitingar þeirra að hann féll þegar dauður niður og er hann dysjaður hægra megin við götuna þar upp undan sem þeirra dys er niður undan svo ekki skilur nema gatan ein. Dys þeirra grannkonanna eru enn kölluð Krýs og Herdís og þar með eru þau kölluð sýsluskil Gullbringusýslu og Árnessýslu, svo eru þau og talin landamerki milli Krýsuvíkur og Herdísarvíkur.”
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Heimild m.a.:
-http://bokasafn.rnb.is/default.asp?cat_id=200

Kerlingadalur

Dysjar Herdísar og Krýsu.