Fuglavíkurstakkir
Í ferð með Sigurði K. Eiríkssyni í Norðurkoti III benti hann FERLIR á myndarlegan “grashól” er bar við sjónarrönd í austri af gömlu kirkjugötunni (Efri-götu) skammt sunnan við Hóla (Dagmálahæð).
Neðri-StekkurSagði Sigurður þar efra vera svonefna Fuglavíkurstekki. Þá var ekkert aðhafst frekar í könnun á mannvirkjunum, en afráðið að gera það við fyrstu hentugleika. Það var gert daginn eftir.
Í örnefnalýsingu fyrir Fuglavík segir m.a. um Stekkina: “Rétt ofan við veginn er grjóthæð ílöng, sem heitir Dagmálahæð. Suður frá henni ofan við veg, Neðri-Stekkur og Efri-Stekkur.”
Það var því ekki eftir neinu að bíða. Stefnan var tekin af Stafnesvegi millum Fuglavíkur og Melabergs. Miðað við Markavörðuna á merkjum neðra gátu Stekkirnir verið nálægt mörkum jarðanna.

Efri-Stekkur

Skammt vestar eru leifar gamallar vegagerðar, líklega frá því skömmu eftir aldarmótin 1900. Götuleifunum var fylgt áleiðis upp holtið, en þegar þær enduðu var vikið til hægri og stefnan tekin á “grashólinn”. Áður en komið var að honum féll Neðri-Stekkur að fótum fram. Um var að ræða tvískiptar samvaxnar aflangar tóftir. Sú syðri var gróin, en sú nyrðri ekki. Í henni mátti sjá grjóthleðslur og op mót vestri. Hæð á veggjum voru um 0.6 m. Þar sem mannvirkið var byggt á klapparholti má telja líklegt að örnefnið rísi undir nafni.
Skammt ofar voru öllu meiri mannvirki – og reisulegri. Þarna er Efri-Stekkur. Við fyrstu sýn líkist hann fjárborg, en þegar að er komið reynast þar vera tvískipt aflöng mannvirki. Op eru mót suðvestri. Heillegar grjóthleðslur sjást enn í syðri tóftinni, einkum við opið. Grjótið er flatt. Við skoðun á nágrenninu var slíkt grjót ekki að finna í námunda. Það gæti hafa verið flutt þangað á sleðum að vetrarlagi. Óvíst er hvaðan úr heiðinni.

Vatnsbólið

Útsýni frá Stekkjunum er ágætt að Melabergi og Hvalsnesi. Norðan við Efri-Stekk er vatnsból milli klappa. Í því eru stórir steinar og á nokkrum þeirra litlar vörður, ekki nýlegar. Vatnsbólið þornar væntanlega upp þegar líða tekur á sumrin, en í vætutíð gæti þarna auðveldlega legið vatn um langan tíma.
Rásirnar neðanvert við Stekkina eru grónar og hafa eflaust verið góð skjól fyrrum. Götu var að greina áleiðis upp heiðina milli þeirra og Hóla. Vörður voru á klöppum. Hún var ekki rakin að þessu sinni, en verður skoðuð í samhengi fyrir leitina að Hvalsnesseljunum tveimur, sem eiga að hafa verið í heiðinni.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.
Heimild:
-Sigurður K. Eiríksson í Norðurkoti III (f: 1929).
-Örnefnalýsingar fyrir Fuglavík.

Vörður

Kálfatjörn

“Munnmæli eru um að aðalkirkjan á Vatnsleysuströnd hafi staðið upphaflega á Bakka, fram við sjóinn, en verið flutt að Kálfatjörn vegna landbrots af sjávargangi. En þar sem Bakki á að hafa staðið upphaflega, er nú grængolandi sjór. Þetta gæti staðizt, því að tvívegis hefir Bakki verið færður undan sjávargangi, 1779 og 1838.
Í Vilkinsmáldaga segir að Péturskirkja sé á Galmatjörn, og í athugasemdum í Fornbréfasafni segir að þetta muni hafa verið hið forna nafn staðarins. — kalfatjorn 1965Torfkirkja var í Kálfatjörn fram til 1624, en þá var þar reist kirkja með torfveggjum og timburþaki Fyrsta timfburkirkjan var reist þar 1844, en kirkja sú, er nú stendur þar, og er með allra stærstu sveitarkirkjum, var reist 1S93. Prestar sátu á Kálfatjörn fram til 1919, en þá varð Kálfatjörn útkirkja frá Görðum á Álftanesi. —
Kálfatjörn stendur nokkurn veginn miðsvæðis á Ströndinni og var þangað fyrrum drjúgur kirkjuvegur frá innstu og yztu bæum. Var þar yfir hraun að fara og lá vegurinn í ótal krókum og sem næst sjónum, og var því mörg um sinnum lengri en akvegur inn er nú. Ekki voru þó ár til trafala, því að á Vatnsleysuströnd er ekkert rennandi vatn. Þó var þár á vorin ein afar ill torfæra fyrir þá, sem komu að utan, og nefndist hún Rás. Í leysingum á vorin gat safnazt fyrir mikið vatn fram í heiði og fékk það farveg til sjávar um. Rásina og var þar stundum beljandi elfur sem tók mönnum í mitti. Farvegur þessi er skammt fyrir vest an Kálfatjörn. Mönnum mun hafa leikið hugur á að sigrast á þessari torfæru, og árið 1706 var gerð heljarmikil brú úr grjóti þvert yfir Rásina. Sjást leifar hennar enn með fram stauragirðingunni hér á myndinni. Fékk vegarbót þessi nafnið Kirkjubrú vegna þess, að hún var gerð til þess, að kirkjufólk gæti komist óhindrað að staðnum. Á einn stein í rústum þessarar brúar er höggvið ártalið 1706, og af því draga menn þá ályktun að brúin hafi verið gerð það ár, og er því þessi vegarbót 260 ára gömul.”

Heimild:
-Morgunblaðið 1 júní 1965, bls. 5.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – loftmynd.

Trölladyngja

Gengið var frá Trölladyngju upp í Sogadal, þaðan upp að Spákonuvatni og síðan niður Þórustaðastíginn þar sem hann liggur skásniðinn niður Selsvallafjall á Selsvelli, suður með vestanverðum Núpshlíðarhálsi, um Þrengsli og Hraunsel, áfram niður með austurjarði Leggjabrjótahrauns og síðan gamla Krýsuvíkurveginum (Hlínarveginum) fylgt austur yfir Núpshlíðarhálsinn á Djúpavatnsveg sunnan Stóra Hamradals.

Trölladyngja

Trölladyngja og nágrenni.

Trölladyngjusvæðið er nátttúrminjasvæði, auk Keilis og Höskuldarvalla. Mörk svæðisins eru um Keili að vestan, Markhelluhól að norðan, fylgja síðan vesturmörkum Reykjanesfólkvangs á móts við Hverinn eina, þaðan um Driffell í Keili. Þá er gígasvæðið vestan í Vesturhálsi er liggur frá Höskuldarvöllum suður á milli Oddafells og Trölladyngju til Selsvalla hluti af náttúrverndarsvæðinu, en úr gígaröðinni þar hefur Afstapahraun runnið. Gígasvæðið er að hluta innan Reykjanesfólkvangs. Sjálf er Trölladyngjan móbergsfjall, líkt og Grænadyngja, systir hennar, og Keilir.

Spákonuvatn

Spákonuvatn.

Gengið var yfir Sogalækinn og áfram upp á gígbrún Spákonuvatns. Þaðan er tilkomumikið útsýni yfir litskrúðugt Oddafellið og formfagran Keili. Spákonuvatnið er í einum gíg af mörgum á Núpshlíðarhálsinum. Önnur vötn má t.d. nefna Djúpavatn og Grænavatn.

Gengið var um Grænavatnsengjar áleiðis niður að Selsvallafjalli. Af fjallinu var horft yfir Grænavatn í suðaustri. Skásneiðingur Þórustaðastígsins var síðan tekinn niður á Selsvellina vestur undir fjallinu. Selsvallafjall er 338 m hátt. Fjallið greinist frá Grænavatnseggjum af smá dalverpi eða gili en um það liggur Þórustaðastígurinn skáhalt niður fjallið. Reykjavegurinn liggur um Selsvellina.

Selsvellir

Selsvellir – uppdráttur ÓSÁ.

Þrír lækir, Selsvallalækir, renna um Selsvelli en hverfa svo niður í hraunjaðarinn sem afmarkar vellina til vesturs. Sá nyrsti kemur úr gili fast sunnan Kúalága, en sá syðsti rennur fram sunnan og nokkuð nálægt Selsvallaselja.
Moshóll er stór, reglulegur og skeifumyndaður gígur við norðurenda Selsvalla. Mosakápan á austurhlíð Moshóls er mjög illa farin eftir hjólför ökumanna sem hafa fundið hjá sér þörf að aka sem lengt upp í hlíðar hans. Jón Jónsson, jarðfræðingur, segir að gosið úr Moshól hafi líklega verið það síðasta í hrinunni sem myndaði Afstapahraun.
Upp í fjallshlíðinni, utan í Selsvallafjalli, að sunnanverðu við vellina, norðan við syðsta lækinn, eru eldri selstóttir, bæði ofan og neðan slóðans, sem liggur eftir endilöngum völlunum. Enn neðar á völlunum má sjá móta fyrir kví og stekk.
Hluti selstóttanna kúra í vesturhorni vallanna fast við hraunkantinn og þar eru a.m.k. þrjár kofaþyrpingar og tveir nokkuð stórir stekkir nálægt þeim. Úti í hrauninu, fast við tóttirnar, er einn kofi og lítið gerði á grasbletti. Skúti er undir kletti á bak við miðtóttirnar.

Grænavatn

Grænavatn á Núpshlíðarhálsi.

Í bréfi frá séra Geir Backmann Staðarpresti til biskups árið 1844, kemur fram að sumarið áður hafi sjö búendur úr Grindavíkurhreppi í seli á völlunum og að þar hafi þá verið um 500 fjár og 30 nautgripir. Út frá selsstæðinu liggur selsstígurinn til Grindavíkur í átt að Hraunsels-Vatnsfelli. Á Selsvöllum var selsstaða frá bæjum Grindavíkur og í sóknarlýsingu þaðan frá árinu 1840 er sagt að allir bæir í sókninni nema Hraun hafi haft þar í seli.
Í sóknarlýsingu sr. Geirs Backmanns, sem var prestur að Stað í Grindavík 1835-1850 kemur greinilega í ljós, hvers virði selsturnar hafa verið Grindvíkingum. Þar segir: “Eftir jarðabókinni 1760 á Staður selstöðu á Selsvöllum, þó það nú sýnist orðið almennings selstaða úr allri Grindavík”.

Keilir

Keilir.

Það fer ekki á milli mála, að selstaðan hefur verið Grindvíkingum dýrmæt á 19. öld. Þeir einu, sem ekki nytjuðu selstöðuna á Selsvöllum, Hraunsmenn, notuðu sitt eigið sel árlega.

Ef marka má lýsingu sr. Geirs var ekki um marga kosti að ræða: “Eigi verður höfð nokkur skepna heima á sumrum, og eru allir hestar daglega langt í burtu á bak við Fiskidalsfjall, þó brúka eigi strax að morgni”. Telur hann, að sumarið áður hafi að minnsta kosti 500 fjár, ungt og gamalt, og 30 nautgripir auk inntökupenings gengið á völlunum og geti menn getið sér þess nærri, að þvílíkur urmull af kúm og kindum geri “ærið usla og jarðnag í beitilandi í Þrengslum”. Vegna hagleysis verði að reka allan fénað, sem tíðum sé kominn í selhagana löngu fyrir fráfærur í 7. viku sumars, heim á miðjum selvinnutímanum, eintatt í 17. viku sumars
Vera kann, að ein ástæðan fyrir þessari miklu ássókn í selstöðuna á Selsvöllum um daga sr. Geirs sé sú, að Grindvíkingar hafi ekki lengur haft innhlaup í selstöðurnar í Krýsuvíkurlandi eins og var á 18. öldinni.

Hraunssel

Hraunssel.

Gengið var niður Þrengslin og tóftir Hraunssels skoðaðar. Hraun hafði í seli í Hraunssseli, en það sel lagðist síðast af á Reykjanesi (1914).
Haldið var áfram niður syðri Þrengslin, með austurjaðri Leggjabrjótshrauns og niður í Línkrók. Þar skammt frá á Sængurkonuhellir að vera í hrauninu undir hlíðinni. Þegar komið var niður á gömlu götuna (Hlínarveginn), sem rudd var fyrir hestvagna um 1932, var beygt til vinstri og götunni fylgt í sneiðingi upp Núpshlíðarhálsinn, um móbergsskarð og niður hálsinn að vestanverðu. Gangan endaði á Djúpavatnsvegi þar sem FERLIR-095 hafði byrjað.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Dyngjur-2

Dyngjur.

Göngufólk rakst nýlega (apríl 2010) á dauðann hrút á ferð um Berghraun vestan við Grindavík.
Hræið Hræiðvirtist hafa legið þarna um skamma hríð. Afturfæturnir voru bundnir saman, líklega vegna þess að þá er auðveldara að færa hann úr stað. Eflaust er til haldgóð skýring á tilvist hrútsins þarna í hrauninu en eigandinn gæti þekkt hann á eyrnarmerkinu, sem enn er á sínum stað.
FERLIR leitaði til gamalreynds fjárbónda í Grindavík eftir hugsanlegri skýringu á tilvist hrútsins dauða í hrauninu. Svarið var: “
Ég hef ekki komið að þessu hræi og veit ekkert um það. Kindur eiga það til að drepast á öllum tímum árs, jafnt í fjárhúsi sem í haga. Sást í mark eða merki í eyra? Mér þykir líkleg skýring á þessu, að þeir sem stunda vetrarveiðar á refum (og þeir eru nokkrir í Grindavík sem og annars staðar) hafi komið honum þarna fyrir sem útburð fyrir tófu. Það er næsta víst að hann hefur ekki farið þarna af sjálfsdáðun þar sem afturfætur hans eru vel bundnir saman.”

Sandgerðissel
Athygli FERLIRs hafði fyrir nokkrum árum verið vakin á svonefndri “Grænulaut” ofan við Sandgerði. Sá, sem það gerði, sagðist hafa leikið sér þar sem barn. Eftirtektarvert hefði verið að svæði í lautinni, sem raunar er aflíðandi breitt gróið gil, hefði jafnan grænkað fyrr á vorin en önnur svæði í nágrenninu.
SelstaðanLýsingin vakti strax forvitni því hér var komin vísbending um að þarna kynnu að leynast gamlar tóftir; beitarhús, kot eða jafnvel gömul selstaða.
Í gamalli lýsingu á Sandgerði segir m.a.: “Sandgerðisvík skerst inn í vestanvert Rosmhvalanes. Víkin afmarkast að sunnan og vestan af skerjaklasa sem nefnist einu nafni Bæjarskerseyri. Landið umhverfis Sandgerði er láglendi og að austan er Miðnesheiði, víða grýtt og gróðurlítil. Minjar eftir mikinn uppblástur sjást víða, stór rofabörð, sem sýna að fyrrum var jarðvegur mun meiri í heiðinni en nú er. Nú er sauðfjárhald að mestu afnumið en landið friðað. Norðan Sandgerðis eru Flankastaðir. Þar myndaðist snemma byggðarhverfi. En með vaxandi byggð hefur Sandgerði náð þangað og er nú skammt á milli hverfa. Að sunnan liggur land Bæjarskerja að Sandgerði. Seinustu árin hefur byggðin í Sandgerði teygt sig þangað og nú eru þessi gömlu hverfi sambyggð. Sjávarströndin er lág, víða sendin og mjög skerjótt. Sandfok herjaði áður á byggðina og eyðilagði oft fisk sem breiddur var til þurrkunar. En á árunum 1930-1950 var gert stórátak í baráttunni gegn sandfokinu og það heft með melgresi. Landbrot hefur verið geysimikið á Miðnesi. Sést það á hinu mikla útfirri meðfram landinu, t.d. fram undan Kirkjubóli skammt norðan Flankastaða.”

Tóftir

Um bæinn Sandgerði segir í sömu lýsingu: “Um 1935 var steyptur mikill sjóvarnargarður fyrir landi Sandgerðis. Bærinn Sandgerði stóð við litla tjörn norðan til í hverfinu sem myndaðist snemma upp af Sandgerðisvörinni. Er tjörnin kennd við bæinn og heitir Sandgerðistjörn. Á seinni hluta síðustu aldar var byggt stórt timburhús í stað gamla Sandgerðisbæjarins. Stendur húsið enn á tjarnarbakkanum. Þar bjó Sveinbjörn Þórðarson og seinna sonur hans, Einar. En þeir feðgar voru eigendur Sandgerðis.”
Í örnefnalýsingu fyrir Sandgerði segir m.a. um kotin: “Hjáleigur 1703 eru nefndar Bakkakot, sem einnig er til 1847; Krókskot, er einnig til enn; Landakot, er einnig til enn; Tjarnarkot, er einnig til enn; Harðhaus og Gata munu horfin. Stöðulkot var komið í eyði 1703, svo og Bakkabúð og Helgakot. Sums staðar er sagt frá því, að Sandgerði hafi heitið Sáðgerði. Má og sjá merki akurlanda í landi jarðarinnar.”

Tóftin

Þá segir í annarri örnefnalýsingu: “Í Sandgerðistúni útnorður frá Krókskoti suður af Sandgerðisbæ er stór hóll, grasi vaxinn, sem heitir Álfhóll. Á þessum hól eru rústir. Þetta er allmikið suður af Sandgerðisbæ. Þar upp af eru Uppsalir. Þar er sagt að hafi verið 18 hurðir á járnum. Þar voru rústir, sem nú hefur verið byggt á. Það er norðaustur frá Krókskoti. Þar er nú verið að byggja upp af Uppsölum, ofan við grænan hól, sem heitir Oddstóft. Þar suður af er gil eða melur, sem heitir Gulllág, líkast því að það sé farvegur eftir vatn og hafi runnið í sjó sunnan við Krókskot. Þar upp af, en ofan grjóthola, er varða, sem heitir Kríuvarða. Upp af henni er töluverður dalur með vatni í á vetrum og heitir Leirdalur.”
Álfhóll var talinn bústaður álfa og fullyrt var að þar hrektist aldrei hey. Gvendartóft er skammt frá Oddstóft, ofar í heiðinni, og var hún kennd við Guðmund í Tjarnarkoti.
Hvort fyrstnefnd tóft hafi verið svonefnd Gvendartóft eða Oddstóft er erfitt að segja nokkuð til um. Þó er það ósennilegt.
FuglTóftin í Grænulaut er aflöng með þremur rýmum. Hún er of lítil til að geta hafa verið bær og tæplega nógu stór til að geta hafa verið kot, en hæfileg sem selstaða. Miðað við stærð rýma og skipulag þeirra gæti þarna hafa verið sel frá Sandgerði (Sáðgerði). Fjórða rýmið, aflangt, vestast gæti þá hafa verið stekkur undir selhúsinu.
Auðvitað gæti þarna hafa byggst upp örkot eða önnur nytsöm mannvirki um skamman tíma, en þegar horft er til aðstæðna má leiða að því líkum að þarna hafi verið selstaða fyrrum. Reyndar er ekki minnst á selstöðu frá Sáðgerði í Jarðabókinni 1703, en það segir þó lítið um fyrri not.
Grasgróningar eru þarna í skjóli og lægðum, en hvergi er ræktaðan blett að finna. Það styrkir tilgátuna um selstöðu svo ofarlega í heiðinni.
Tóftin er í skjóli fyrir austanáttinni. Neðan við þær hefur runnið lækur fram á sumarið. Neðan við þær hafa myndast tjarnir, ákjósanlegar til beitar. Tóftin sjálf er gróin, en þó má sjá í henni grjóthleðslur í veggjum og lögun rýma. Lítill ágangur hefur verið á tóftina í seinni tíð.
Ef um selstöðu hefur verið að ræða er hún sambærileg við það sem sjá má í Bæjarskersseli undir Álaborginni og Fuglavíkurseli í Miðnesheiði, undir Selhólum. Hvalsnesselin tvö hafa enn ekki verið skoðuð, en það verður gert fljótlega.
Þarna gæti verið komin 253. selstaðan í fyrrum landnámi Ingólfs. Annars væri forvitnilegt að glugga í fornleifaskráningu, sem unnin var fyrir Sandgerðisbæ v/nýbyggingarsvæðis ofan bæjarins. Hún var lögð fram á fundi byggingarnefndar bæjarins 21. maí 2008.
Frábært veður. Gangan tók 12. mínútur.
Heimildir m.a.:
-Reynir Sveinsson.
-Jarðabók 1703.
-Örnefnalýsingar fyrir Sandgerði.

Efra-Sandgerði

Grindavík

Í skýrslu um “Húsakönnun, Gamli bærinn í Grindavík” frá árinu 1914 má m.a. lesa eftirfarandi samantekt um byggðasögu Grindavíkur:

Staðhættir

Sloki

Fiskgarðar í Slokahrauni.

Land Grindavíkur er að mestu þakið hrauni sem runnið hefur eftir lok síðustu ísaldar. Hraunflákar skipta Byggðinni í þrennt og milli hraunanna eru gróin svæði þar sem byggðin hefur risið. Sjóndeildarhringur Grindvíkinga til norðurs einkennist af frekar lágum en svipmiklum fjöllum sem flest eru í landi sveitarfélagsins. Til suðurs er ströndin fyrir opnu úthafinu og er víðast hvar lág og lítið vogskorin. Nokkrar litlar víkur ganga inn í hana og eru Staðarvík, Járngerðarstaðarvík og Hraunsvík þeirra stærstar.

Landnám og byggðaþróun

Hóp

Hóp í Grindavík – uppdráttur ÓSÁ.

Í landnámabók er greint frá því að Molda-Gnúpur Hrólfsson hafi numið land í Grindavík og Þórir haustmyrkur Vígbjóðsson í Selvogi og Krýsuvík um árið 934. En Grindavíkurhreppur náði yfir tvær kirkjusóknir, Staðarsókn og Krýsuvíkursókn allt til ársins 1946. Synir Moldar-Gnúps settust að á þremur höfuðbólum sem hin 3 hverfi Grindavíkur heita eftir. Austast er Þórkötlustaðahverfi, þá Járngerðarstaðarhverfi, þar sem megin byggðin er í dag, en Staðarhverfi heitir vestast. Þessi hverfi eru meðal þess sem einkenndi gerð og þróun byggðar í Grindavík fram á þessa öld. Lítið sem ekkert er vitað um byggð í Grindavík næstu þrjár aldir eftir landnám en gert er ráð fyrir því að hverfin þrjú hafi byrjað að myndast strax á 10. eða 11. öld. Líklegt verður að teljast að staðsetning hverfanna ráðist af samspili graslendis á þessum stöðum og því að aðstaða til sjósóknar hefur verið góð. Hverfin þrjú voru aldrei formlegar einingar heldur aðeins þrír hreppshlutar og á milli þeirra voru engin formleg mörk, heldur réðust þau af landamerkjum jarða. Um það bil þremur öldum eftir landnám (á 13. öld) hófst eldgosahrina sem almennt gengur undir nafninu Reykjaneseldar. Þessi umbrot ollu miklum landspjöllum í Grindavík. Rituð heimild frá því um aldamótin 1700 gefur til kynna að þau hafi jafnvel eytt vestasta hluta byggðarinnar sem þá var. Má reikna með að öskulagið hafi þakið alla sveitina, kæft gróður og valdið bændum miklum búsifjum.

Staðarhverfi

Staðarhverfi – uppdráttur ÓSÁ.

Byggðin í hverfunum í Grindavík virðist hafa verið í svipuðu formi frá 13. öld og allt til upphafs 20. aldar. Byggð í hverfunum virðist hafa svipað mjög hver til annarrar og ekkert hverfi virðist hafa verið á nokkurn hátt fyrir hinum. Hugtakið hverfi var notað yfir þéttbýli sem risu hvort sem er til sjávar eða sveita hér á landi og virðist hafa verið notað eins í Noregi. Orðið þorp var ekki notað hér yfir þéttbýli fyrr en mikið seinna.
Þó hefur Staður haft nokkra sérstöðu. Þar var kirkjustaður og grafreitur Grindvíkinga og þar hafði verslun einnig þróast og því munu Grindvíkingar hafa átt tíðari erindi þangað en á aðra bæi í sveitinni.
Eftir Svarta dauða 1402 mun þungamiðja byggðar hafa færst nær sjónum og sjávarútvegur efldist. Grindavíkurhverfin munu þá hafa vaxið og byggðin aukist. Risu þar fjöldi verbúða.
Ekki er ljóst hvenær Grindavík varð verslunarstaður, en heimildir eru um aukna verslun þar á 15. öld og líklegt virðist að Skálholtsstóll hafi átt þar vörugeymslu- eða verslunarhús í lok aldarinnar.

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi – uppdráttur ÓSÁ.

Þegar Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín, var tekin saman árið 1703, voru allar jarðir í Grindavík, aðrar en Húsatóftir, í eigu Skálholtsstóls og voru það framundir aldamótin 1800, er biskupsstóll var lagður niður í Skálholti og stólsjarðirnar seldar. Húsatóftir voru konungseign, en höfðu verið eign Viðeyjarklausturs fyrir siðaskipti.
Á 15. öld og fyrri hluta þeirrar 16. stunduðu Englendingar og Hansakaupmenn verslun í Grindavík. Ekki voru samskipti þeirra þó friðsamleg og kom til átaka milli þeirra með mannavígum.
Þegar einokunarverslun Dana var komið á 1602 var Grindavík meðal þeirra 20 hafna sem gert var ráð fyrir að siglt yrði til árlega. Leyfi sem Hansakaupmenn höfðu til verslunar var úr gildi fallið. Íslandsversluninni var skipt milli þriggja borga, Kaupmannahafnar, Málmeyjar og Helsingjaeyrar. Í hlut Kaupmannahafnar komu Grindavík, Keflavík, Hafnarfjörður, Dýrafjörður, Ísafjörður og Hofsós. Þrátt fyrir þetta héldu Þjóðverjar áfram að versla á Íslandi á fyrstu áratugum 17. aldar og oft komu skip þeirra til Grindavíkur á þessu tímabili.

Grindavík

Grindavík – Járngerðarstaðir – örnefna og minjakort – ÓSÁ.

Ákvæði um árlega skipakomu á verslunarstaði voru oft hunsuð og einokunarverslunin var stopul framan af.
Á einokunartímanum risu ýmiss konar verslunarhús í Grindavík eins og öðrum verslunarstöðum, bæði úr timbri og torfi. Verslunarfélögin fluttu tilsniðin hús til landsins af nokkrum gerðum. Mörg voru gerð úr láréttum stokkum, önnur voru grindarhús, klædd lóðréttum borðum og um 1765 risu svokölluð bolhús á mörgum verslunarstaðanna. Fáein hús eru enn uppi standandi frá þessum tíma annars staðar á landinu. Flest eru þau í Neðstakaupstað á Ísafirði, en þar getur að líta hús af þeim þremur gerðum sé hér hafa verið nefndar.

Básendar

Básendar – uppdráttur ÓSÁ.

Um miðja 18. öld var Grindavíkurhöfn talin ófær venjulegum hafskipum og beinar siglingar þangað höfðu fallið niður. Vörur sem ætlaðar voru Grindavíkurverslun voru fluttar að Básendum og þaðan voru þær fluttar á hestum og bátum til Grindavíkur. Grindavík varð eins konar úthöfn Básendaverslunar.
Við afnám einokunarverslunarinnar 1786 voru eignir hennar seldar og víðast bárust nokkur tilboð. Enginn sýndi þó verslunareignunum í Grindavík áhuga í fyrstu enda staðurinn ekki árennilegur til verslunarreksturs. Veturinn 1788 – 1789 keypti Árni Jónsson á Eyrarbakka þó verslunina í Grindavík, meðal annars fjögur hús í landi Húsaftófta. Verslunarrekstur hans gekk afar illa og lognaðist út af um 1796. Haustið 1802 var verslunarhúsið rifið og efni þess selt og árið 1806 höfðu öll verslunarhúsin verið seld og rifin. Verslun lá niðri í Grindavík fram undir lok aldarinnar. Um aldamótin 1900 sóttu Grindvíkingar verslun til Lefoliiverslunar á Eyrarbakka og Duusverslunar í Keflavík.

Saga Grindavíkur

Flagghúsið

Flagghúsið 1910 og Einarsbúð.

Einar G. Einarsson var fyrsti staðbundni kaupmaðurinn en hann hóf verslun í Grindavík árið 1897. Verslun hans dafnaði vel og að sama skapi dró úr umsvifum Eyrarbakka- og Keflavíkurverslana. Árið 1902 var stofnsettur þar löggildur verslunarstaður á ný en í þetta sinn var hann við Járngerðarstaðarvík. Árið 1932 tók til starfa önnur verslun á staðnum undir nafninu Gimli og upp úr 1940 hóf Kaupfélag Reykjavíkur og nágrennis starfsemi í Grindavík en Kaupfélag Suðurnesja tók svo við rekstrinum og varð stærsta verslunarfyrirtækið á staðnum.

Grindavík

Grindavík – Norðurvör.

Frá fyrstu tíð hefur sjósókn verið stunduð í Grindavík ásamt landbúnaði og héldust þeir búskaparhættir fram á miðja 20. öld. Vægi landbúnaðar var mikið á fyrstu öldum byggðarinnar í svokölluðum landbýlahverfum. En þegar sjávarútvegur jókst á 14. öld byggðust svokölluð sæbýlahverfi í námunda við verstöðvar.
Á árunum 1840 og 1841 voru aðeins 7 aðalbýli í sókninni og 13 hjáleigur. Aðalbýlin voru þessi, talin vestan frá, Staður, Húsatóftir, Járngerðarstaðir, Hóp, Þórkötlustaðir, Hraun og Ísólfsskáli.
Byggð í Staðarhverfi var nokkuð stöðug á árunum 1801 – 1920 en lagðist svo alveg af fljótlega eftir 1920. Byggð í Þórkötlustaðahverfi og Járngerðarstaðahverfi var nokkuð jöfn fram til ársins 1910. Fólksfjöldi var svipaður en á fyrri hluta 20. aldarinnar dró þó nokkuð í sundur með hverfunum. Að lokum var svo komið að Þórkötlustaðahverfi var orðið nokkurs konar úthverfi við hlið meginbyggðarinnar.
Síðari heimsstyrjöld hafði mikil áhrif á byggðaþróun Grindavíkur. Fyrstu áhrif styrjaldarinnar voru að stórir markaðir lokuðust tímabundið árið 1939 en síðla sama árs tóku Bretar við nær allri vöru sem sett var á markað. Vinna tengd hersetuliðinu dró fólk frá fiskvinnslu svo tímabundin fækkun varð í Grindavík.

Fiskveiðar og útgerð

Grindavík

Grindavík – tíæringur.

Fiskveiðar og fiskvinnsla hafa löngum verið aðaluppistaðan í atvinnu og lífsbjörg í Grindavík.
Frá því Grindavík byggðist og fram á miðja 19. öld var ein og sama veiðiaðferð notuð, handfæri. Oftast var stutt róið, öldum saman á sömu miðin, út á víkurnar eða stutt út fyrir þær.
Fyrstu grindvísku bátarnir hafa sjálfsagt verið mjög litlir. Jafnvel aðeins fyrir tvo til fjóra… Skipin hafa verið smátt og smátt að stækka og talið er að um miðbik 14. aldar hafi tólfæringar verið mjög algengir í Grindavík. Strax á 15. öld sóttust erlendir menn mjög eftir fiski í Grindavík og lögðu útvegsmenn mikið kapp á að auka útgerð sína. Bændur í öðrum landshlutum sendu vinnumenn sína á vertíð í verið á Suður- og Vesturlandi, og hafa þá verið settar upp einhverskonar verbúðir. Um miðja 19. öld var fyrst komið með lóð (línu) til Grindavíkur. Línan var stutt í byrjun og stutt á milli öngla, um 100 önglar á streng og 5-6 strengir með áttæringum, en þær smálengdust, ár frá ári en í upphafi var ávallt beitt á sjó. Þessi aðferð tíðkaðist fram um síðustu aldamót. Þá er byrjað að nota net og um svipað leyti er hætt að beita línur á sjó.
Árið 1924 hófst vélvæðing báta í Grindavík, nokkru seinna en annars staðar á landinu. Ástæða þess er líklega léleg hafnaraðstaða fyrir stærri báta miðað við önnur vogskornari landsvæði.

Grindavík

Vélbátur.

Árið 1928 voru allir bátar sem gerðir voru út frá Grindavík orðnir vélbátar en þá þurfti enn að setja bátana á land eftir hvern róður, það var ekki fyrr en á 20. öld sem menn byrjuðu að nota spil til þess að draga báta á land. Fyrsta bryggjan í Grindvík var byggð í Járngerðarstaðahverfi, önnur var svo byggð í Þórkötlustaðahverfi árið 1930 og 1933 var bryggja byggð í Staðarhverfi.
Árið 1939 var Ósinn grafinn og er með ólíkindum að það hafi tekist þar sem allt var grafið með handverkfærum. Dýpkun hafnarinnar árið 1949 markaði svo enn á ný tímamót í uppbyggingu staðarins. Í framhaldinu urðu miklar breytingar á atvinnuháttum þegar fyrirtæki um fiskvinnslu og útgerð voru stofnuð og voru hafnarframkvæmdir miklar á næstu árum og áratugum.

Landbúnaður

Grindavík

Grindavík 1930 – heyskapur við Gjáhús og Krosshús.

Eitt einkenni elsta hluta bæjarins er að húsin standa frekar strjált og eru túnskákir víða á milli en þetta helgast af því að svokallaður tómthúsbúskapur, sjósókn ásamt landbúnaði, tíðkaðist í Grindvík fram undir miðja 20. öld. Vægi landbúnaðar var mikið á fyrstu öldum byggðarinnar en hann hefur þó alla tíð verið erfiður í Grindavík, eldsumbrot með hraunrennsli og öskulagi hafa skert gróður og valdið búsifjum. Til að fóðra búpeninginn hafa bændur því þurft að grípa til fleiri ráða en heyskapar, einkum seljabúskapar á sumrin og fjörubeit og söfnun hríss og lyngs til að drýgja hey fyrir kýr. Sel eru þekkt víða í Grindavík og eru sum þeirra ævaforn.
Núlifandi Grindvíkingar (fæddir upp úr 1940) muna enn vel eftir því að á hverju heimili voru hænur og kindur og sums staðar einnig kýr, en þeir sem héldu kýr seldu oft nágrönnum sínum hluta af mjólkinni. Heimilisfeðurnir voru flestir sjómenn. Enn í dag er fjárbúskapur í Grindavík þó það sé í mjög litlu mæli og eingöngu stundaður af tómstundabændum.

Járngerðarstaðahverfi

Þyrnir

Blóðþyrnir í Grindavík. Bakki fjær.

Járngerðarstaðir voru vettvangur Grindavíkurstríðsins 1532 og Tyrkjaránsins 1627 og vex þar blóðþyrnir er heiðið og kristið blóð blandaðist.
Árið 1703 voru “öngvar engjar” á Hópi. “Flæðihætt er fyrir sauð, og líka brýtur sjófargángur túnið, og er hætt við enn meira landbroti.“ Bærinn varð snemma eign Skálholtsstaðar, líkt og flestir útvegsbæir á suðurströnd Reykjanesskagans.
Um Járngerðarstaði 1840 segir í Landnámi Ingólfs III6: “eigi fagurt á Járngerðarstöðum, því þó þar ei sé ýkja illa húsað, þá stendur bærinn og allt hverfi þetta nema Krosshús niður í dæld eða dalverpi, og er þaðan hvergi víðsýnt. Þýfð hafa tún verið á Járngerðarstöðum, en eru mikið sléttuð í seinni tíð af bóndanum Þórði sál. Einarssyni og þar núverandi bónda sr. Einari Jónssyni. Hafa og nokkrir hjáleigubændurnir í seinni tíð þessa jarðarbót eftir þeim upp tekið. Bæði í túninu og utanhúss eru djúpar vatnsgjár, í hverjar sjór fellur að í og út; í sumum þeirra er oft veiddur áll, og mætti þó mikið meira veiða, ef atorka og rækt við höfð. Það hafa Járngerðarstaðir til landkosta fram yfir Stað og Húsatóptir og meiri en nokkurt annað býli í þessari sókn, að fyrst er þar nóg vatn í gjám þessum handa fénaðinum, og svo í öðrum smá stöðutjörnum, eins líka þar er grasgefnast utantúns, þó eigi megi hagar heita. Mætti þó halda þar fáum skepnum heima á sumardag, hvað ekki má heita mögulegt á Stað og Húsatóptum.”

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir 1890.

Árið 1847 voru Járngerðarstaðir eign Skálholtsstaðar líkt og flestir betri útvegsbæir á suðurströnd Reykjanesskagans. “Selstöðu hefur jörðin og brúkar þar sem heitir Baðsvellir. Hjáleigur eru; Vallarhús, Lambús, Kvíhús, Hrafnshús, Akurhús, Gjáhús, Krosshús, Garðhús og Hlaðhús. Búðir til forna voru; Gullekra (tómthús), Krubba (tómthús) og Litlu-Gjáhús, skv. Jarðabók Árna Magnússonar 1703. Þá var “heimræði árið um kring og lending í betra lagi. Engvar öngvar. Jörðin nær frá sjó upp til fjalls eins og önnur býli hér.”
Elsta úttekt bæjarins er af Vesturbænum frá 1882. Þar voru þá baðstofa, göng, bæjardyr, skáli, eldahús, búr í norðurenda baðstofu, fjós með 3 básum, hesthús fyrir 3 hesta, heyhús, smiðja, sjómannabúð, fiskhjallur, húsagarður með bæjarrönd, túngarður 160 fðm, traðargarður 85 fðm og kálgarður. Fyrir sumu þessu mótar fyrir enn í dag.

Grindavík

Grindavík – Vorhús fyrir 1925. Gamli barnaskólinn ofar t.v.

Þróun byggðarinnar í Járngerðarstaðahverfi hefur einkennst mjög af atvinnuháttum og landfræðilegum aðstæðum. Árið 1925 gerði mikið sjávarfljóð í Grindavík er eyðilagði mörg hús og skemmdi stórkostlega uppsátrið í annarri vörinni og eyðilagði hina að mestu. Fram til þess tíma bjuggu margir í torfhúsum sem skemmdust í flóðinu. Mikið af húsum í gamla bænum er byggður á næstu árunum eftir flóðin, 1925-1930. Í Landnámi Ingólfs segir um 1840 “á bæ þessum bagar vatnsleysi til neyslu.” En vatn hefur væntanlega ávallt verið verðmæti í Grindavík enda hraunið gljúpt og regnvatn rennur fljótt niður og saltur sjór gengur undir skagann og brim yfir hann og ofanvatn því oft heldur salt. Enda var í Grindavík lengi steypt vatnsþró við hvert hús þar sem regnvatni var safnað. Eftir að vatnsveita kom í bæinn var þessum þróm iðulega breytt í salernisaðstöðu.
Breyttir atvinnuhættir, eftir 1950 þegar útgerðar- og fiskvinnslufyrirtæki eru stofnuð, hafa haft áhrif á heimilishald í Grindavík en smám saman lagðist búfjárhald af á heimilum og útihús grotnuðu því niður eða voru tekin til annarra nota.

Skipulagsmál í Grindavík

Grindavík

Grindavík – uppdráttur 1946.

Á fyrstu áratugum síðustu aldar var Grindavík á mörkum sveitar og þéttbýlis. Árið 1942 fór Guðsteinn Einarsson þáverandi oddviti Grindavíkurhrepps þess á leit að skipulagsuppdráttur yrði gerður af þorpinu á vegum félagsmálaráðuneytis. Erindið var sent til skipulagsnefndar ríkisins sem tók málið í sínar hendur og árið 1944 var fyrsti uppdrátturinn gerður af Grindavík. Vegna erindis nokkurra manna um að byggja sjóhús við höfnina í Hópinu, lagði hreppsnefndin það til við skipulagsstjóra að nýtt skipulag yrði undirbúið. Skipulagsstjóri sendi mann til Grindavíkur til mælinga og setti fram skipulagstillögu þann 12. nóvember 1945. Frekar var unnið að tillögu þessari og árið 1946 gerði Páll Zóphóníasson uppdrátt af Járngerðarstaðahverfi.

Heimild:
-Húsakönnun, Gamli bærinn í Grindavík, janúar 2015.

Grindavík

Grindavík.

Tyrkjarán

Í Sjómannadagsblaði Grindavíkur 2019 rekja Karl Smári Hreinsson og Adam Nivhols “Tyrkjaránið í Grindavík 1627 og afdrif Járngerðarstaðafólksins“:

Tyrkjaránið

“Margir þekkja til Tyrkjaránsins á Íslandi í júlí 1627 þegar hartnær 400 manns var rænt í Vestmannaeyjum og á Austfjörðum og fólkið flutt á þrælamarkað í Algeirsborg á norðurströnd Afríku. Hér verður fjallað um annan þátt Tyrkjaránsins 1627 þegar sjóræningjar semvoru frá borginni Sale á strönd Marokko rændu verðmætum og fólki í Grindavík. Þessir sjóræningjar, sem Íslendingar nefna oftast Tyrki, sigldu um 3.500 kílómetra vegalengd yfir úfið Atlandshafið og komu fólki í Grindavík algjörlega í opna skjöldu.

Járngerðarstaðir
Á fyrri hluta 17. aldar var Grindavík, eins og bæði fyrr og síðar verslunar- og útgerðarstaður. Í margar aldir skiptist Grindavík í þrjú hverfi eða bæjarþyrpingar. Það eru Staðarhverfi vestast, þar var kirkjustaður, síðan Járngerðarstaðahverfi þar sem þorpið og síðar Grindavíkurbær byggðist upp og austast er Þórkötlustaðahverfi.
TyrkjarániðÖll þessi hverfi voru kennd við aðalbýlin á þessum stöðum og í raun eru það landfræðilegar aðstæður, hraunflákar, sem skipta byggðinni í þrennt. Sjósókn og sjávarnytjar voru alla tíð aðalatvinnuvegurinn. Járngerðarstaðir voru höfuðbýli og besta jörð sveitarinnar. Þar hófst byggð þegar á landnámsöld. Þar var þingstaður sveitarinnar. Járngerðarstaðir komust í eigu Skálholtsstóls löngu fyrir siðaskipti og voru Járngerðarsstaðir mjög mikilvægur útgerðarstaður Skálholtsstóls. Á fyrri hluta 16. aldar þegar enskir kaupmenn höfðu mikil umsvif í útgerð og verslun á Íslandi höfðu þeir aðalbækistöð sína í landi Járngerðarstaða.

Járngerðarstaðir á dögum Tyrkjaránsins

Grindavík

Árið 1627 bjuggu á Járngerðarstöðum hjónin Jón Guðlaugsson, sagður smiður og Guðrún Jónsdóttir frá Stað. Foreldrar Guðrúnar voru Séra Jón Jónsson og Guðrún Hjálmsdóttir. Sr. Jón hafði verið prófastur á Stað á árunum 1582-1602.

Grindavík

Dæmigert sjávarbýli 1627.

Ekki eru heimildir um foreldra Jóns Guðlaugssonar. Guðrún átti fjóra bræður, Filippus, Hjálm, Halldór og Jón. Guðrún og Jón Guðlaugsson áttu þrjá syni sem voru ungir menn og einn þeirra enn á barnsaldri. Líkur eru á að móðir Guðrúnar hafi verið á lífi árið 1627 þar sem Jón sonur Guðrúnar, biður í bréfi sem hann skrifaði úr Barbaríinu (eins og múslimski hluti Norður-Afríku var kallaður) að heilsa ömmu sinni, sé hún enn á lífi, en Jón minnist ekki á afa sinn og því má telja að hann hafi verið látinn árið 1627. Heimildir telja að Jón Guðlaugsson hafi verið nokkuð við aldur en Guðrún hefur verið um fertugt í Tyrkjaráninu. Halldór Jónsson, bróðir Guðrúnar var fæddur um 1590 og því 37 ára þegar þessir atburðir gerðust. Hann var kvæntur Guðbjörgu Oddsdóttur Oddssonar prests á Stað frá 1602-1618, þannig að Oddur tók við Stað af sr. Jóni Jónssyni, föður Guðrúnar.

Grindavík

Grindavík – Tyrkjaskipin.

Þetta dæmi sýnir náin tengls fjölskyldunnar innbyrðis og stöðu hennar í samfélaginu. Halldór og Guðbjörg áttu tvö ung börn, Jón sem var fæddur 1623 og Guðbjörgu sem var fædd 1625. Um aðra bræður Guðrúnar, Filippus, Hjálmar og Jón eru fáar heimildir. Af þessari upptalningu má sjá að Járngerðarstaðafólkið var vel sett og áhrifamikið í samfélaginu sem allar líkur voru að héldi áfram til næstu kynslóða. Jón, sonur Guðrúnar sem var nýútskrifaður úr Skáholtsskóla var líklegur til að taka við Járngerðarstöðum, gerast prestur eða taka við öðru góðu embætti. Járngerðarstöðum tilheyrðu 10-12 hjáleigur þannig að alls bjuggu margir tugir manna á Járngerðarstöðum og hjáleigunum. (Þess má geta að í manntalinu 1703 bjuggu um 70 manns á Járngerðarstöðum og hjáleigunum).

Miðvikudagurinn, 20. júní 1627

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir – bæir og sögusvið “Tyrkjaránsins” – uppdráttur ÓSÁ.

Sjóræningjar frá Norðurströnd Afríku gerðu oftast árásir á mörgum skipum samtímis líkt og úlfahjörð. Þeir voru þekktir fyrir að ráðast á fólk og fénað með öskrum og látum. En svo var ekki um sjóræningjaskipið sem kom til Grindavíkur frá hafnarborginni Salé í Marokkó. Foringi þeirra var gætnari en svo. Sjóræningjarir voru einskipa og hafa því hugsanlega verðið varkárari fyrir vikið. Þegar komið var fram á sumar voru skipaferðir tíðar umhverfis landið.

Grindavík

Grindavíkurhöfn fyrrum.

Bæði verslunarskip og fiskiduggur voru algeng sjón og því var fólk í Grindavík ekki sérstaklega á verði þegar sjóræningjaskipið kom að landi. Sjóræningjarnir beittu brögðum. Danskt kaupskip lá við akkeri fyrir utan ströndina.
Sjóræningjarnir sendu menn um borð í danska skipið til að kanna aðstæður. Þeir þóttust vera danskir hvalfangarar sem villst höfðu af leið. Þegar hér var komið sögu sendi danski kaupmaðurinn bát með átta mönnum innanborðs til að kanna hverjir væru á þessu nýkomna skipi. Þegar þeir klifruðu um borð í sjóræningjaskipið voru þeir yfirbugaðir. Allar líkur eru á að þeirra hafi beðið barsmíðar og ill meðferð. Það voru fastir liðir hjá sjóræningjum þessa tíma. Eftir að hafa gengið í skrokk á þessum átta mönnum er ljóst að sjóræningjarnir hafa fengið allar þær upplýsingar um staðhætti sem þeir vildu fá. Í Tyrkjaránssögu Björns Jónssonar á Skarðsá, sem er ein aðalheimildin um þennan atburð er þess getið að sjóræningjarnir hafi þegar þeir lögðu frá Grindavík gefið tveim íslenskum mönnum af þessum átta frelsi. Ekki er ólíklegt að það hafi verið sem um það samið að þeir fengju frelsi í stað upplýsinga um aðstæður í landi. Hvað sem öllu líður þá urðu sjóræningjarnir mun öruggari með sig eftir að hafa kyrrsett þessa átta menn. Þrjátíu sjóræningjar, vopnaðir byssum, sveðjum og sverðum reru yfir í danska verslunarskipið og yfirbuguðu áhöfnina auðveldlega þar sem aðeins skipstjóri skipsins og tveir úr áhöfninni voru enn um borð.

Jan Janszoon van Haarlem

Tyrkjir

Tyrkir koma.

Sjóræningjarnir réðust nú skjótt til atlögu í landi. Foringi þeirra var hollenskur trúskiptingur (kristinn maður sem snúið hafði til múhameðstrúar), að nafni Jan Janszoon van Harlem, betur þekktur sem Murat Reis (Kafteinn Murat) Hann hóf sinn feril tuttugu árum áður sem sjóvíkingur og siglgdi þá undir hollensku flaggi. Þá rændi hann spænsk skip. Árið 1618 var hann hertekinn á Lanzarote einni af Kanaríeyjum og færður til Algeirsborgar. Þar snérist hann til Múhameðstrúar og varð skipstjóri á sjóræningjaskipi, fyrst frá Algeirsborg og síðan borginni Salé.
Í Salé var hann aðmíráll flotans. Morat Reis var reynslumikill foringi. Hann hafði eytt mörgum árum í sjóræningjaferðum bæði á Miðjarðarhafi og á Atlantshafsströnd Spánar og Portúgals og við strendur Suður-Englands. Hann vissi nákvæmlega hvernig standa átti að árás á strandbæi líkt og Grindavík. Á skipi hans var á milli 60 og 70 manna áhöfn. Líklegt er því að yfir 50 þeirra hafi gert áhlaup á byggðina í Grindavík. Óvopnað fólk í Grindavík var því auðveld bráð.

Tyrkir ráðast til atlögu

Tyrkir

Tyrkjaskip.

Sjóræningjar voru þekktir fyrir takmarkalausa grimmd en markmið árásar sem þessarar í Grindavík var ekki að drepa fólk og eyðileggja verðmæti heldur að ræna fólki og verðmætum og koma í verð. Þegar sjóræningjarnir gerðu atlögu að íbúum Grindavíkur hafa þeir farið um með ópum og látum en fyrst og fremst til að ógna fólki en þeir hafa forðast að særa fólk líkamlega nema það veitti mótstöðu.
Sært fólk eða illa haldið var ekki álitleg söluvara á þrælamörkuðum Norður-Afríku. Þegar sjóræningjarnir komu inn í byggðina réðust þeir á dönsku verslunarhúsin. Danski kaupmaðurinn hafði flúið en hafði falið eins mikið af verðmætum eins og hann gat áður þannig að sjóræningjarnir gripu í tómt. Næst urðu Járngerðarstaðir fyrir sjóræningjunum.
Fyrsta manneskjan sem féll í hendur þeirra var húsfreyjan Guðrún Jónsdóttir.
Bróðir hennar, Filippus reyndi að koma henni til aðstoðar en ræningjarnir slógu hann og skildu hann eftir hálfdauðan.
Annar bróðir Guðrúnar, Hjálmar sem var á hestbaki reyndi einnig að koma Guðrúnu til bjargar. Hann drógu ræningjarnir af hestinum. Hjálmar var óvopnaður fyrir utan písk sem hann hafði í hendi.
Með písknum sló hann til ræningjanna en það dugði skammt. Ræningjarnir slógu hann og meiddu á margan hátt og skildu hann eftir liggjandi í sárum sínum. Þeir settu nú Guðrúnu á hest Hjálmars og færðu hana til skips. Í lok dagsins höfðu þeir ekki aðeins hertekið Guðrúnu og Jón bróður hennar heldur einnig Halldór bróður hennar og þrjá syni, þá Jón, Helga og Héðinn. Samkvæmt Tyrkjaráns-sögu voru Halldór og „aðrir“ auðveldir viðfangs fyrir sjóræningjana þar sem ekki hvarflaði að þeim að þeim yrði rænt þannig að þeir reyndu ekki að flýja. Íslendingar höfðu áður fengið að kenna á sjóræningjum en þeir voru af annari sort, þeir rændu ekki fólki, aðeins verðmætum og fénaði. Maður Guðrúnar, Jón Guðlaugsson var einnig tekinn höndum en Tyrkirnir höfðu lítinn áhuga á honum þar sem hann var nokkuð við aldur og því skildu þeir hann eftir í sárum eftir barsmíðar.

Hollensk heimild um Grindavíkurránið

Tyrkjaránið

Tyrkjaránið – handrit.

Heimildir um ránið segja ekki hvort bræður Guðrúnar, Halldór og Filippus náðu sér af sárum sem þeir hlutu af Tyrkjum. Í bréfi sem Oddur Einarsson Skálholtsbiskup skrifaði haustið 1627 kemur fram að Tyrkir rændu dönsku kaupskipi í Grindavík og 12 Íslendingum, þar á meðal „konu og stúlku“ og að einn íslenskur maður hafi fengið mörg sár og verið rúmliggjandi upp frá því. Hér er greinilega átt við Guðrúnu og bróður hennar. Hvort annar bróðir hennar hafði verið drepinn kemur ekki fram í bréfi Odds biskups. Svo vill til að til er bók sem fjallar um ýmsa atburði á fyrri hluta 17. aldar í Evrópu, Norður-Afríku, Asíu og Ameríku. Höfundurinn var Nicolaes van Wassenaer, læknir í Amsterdam, Hollandi. Bókin, Historisch verhael… ( hefur afar langan titil) var tuttugu og eitt bindi, gefin út á árunum 1622-1630. Í umfjöllun um árið 1627 rekur Nicolaes van Wassenaer ránið í Grindavík og segir að sjóræningjarnir frá Salé hafi hertekið 12 manneskjur, og: “þar á meðal konu ásamt þrem sonum sínum og tveim bræðrum og tveir aðrir bræður hennar voru drepnir.“ Hér er augljóslega verið að vísa til Guðrúnar, bræðra hennar og sona. Það er því nokkuð víst að bæði Filippus og Hjálmar dóu af sárum sínum.

Murat Reis heldur frá Grindavík

Skansinn

Skansinn við Bessastaði.

Þegar Murat Reis hélt með ránsfeng sinn frá Grindavík sigldi hann næstu daga með ströndinni í átt til Bessastaða. Nú hafði hann mannað danska kaupskipið og því voru skipin nú orðin tvö sem hann réði fyrir. Það var ekki tilviljun að Murat Reis hélt til Bessastaða þar sem þar var einna helst von til að finna verðmæti í hirslum dönsku yfirvaldanna þar. Járngerðastaðafólkið var hlekkjað í lest stærra skipsins. En ekki vildi betur en svo til að þegar hann sigldi skipum sínum inn á Seyluna, sem eru grynningar rétt utan við Bessastaði strandaði stærra skipið. Hirðstjórinn á Íslandi, Holgeir Rosinkrans bjóst til varnar en hikaði þó að láta til skarar skríða gegn ræningjaskipunum. Murat Reis tók það til bragðs að hann flutti farm, þar á meðal Járngerðastaðafólkið úr stærra skipinu yfir í það minna og náði stærra skipinu þannig á flot. Síðan sigldu ræningjaskipin í brott og héldu nú undir Snæfellsnes. Allmargar enskar fiskiskútur voru að veiðum út af Vestfjörðum en þeirra var vel gætt af enskum herskipum. Þegar Murat Reis og hans menn fréttu að herskip væru á þessum slóðum ákvað hann að snúa við og tók nú stefnuna á heimahöfn sína. Í lok júlí eftir rúmlega mánaðar siglingu komu bæði skipin til Salé.

Salé á strönd Marokkó
Tyrkjaránið
Fólkið sem rænt var í Grindavík var flutt til borgarinnar Salé sem er á Atlantshafsströnd Marokkó í tæplega 300 kílómetra fjarlægð frá Gíbraltar, nokkru norðar en borgin Casablanka. Í dag er oftast talað um borgirnar Salé-Rabat, sem er höfuðborg Marokkó sem eina heild. Borgirnar eiga sér ólíkan uppruna þrátt fyrir að aðeins áin Regret skilji þær að.
Salé (sem stundum er nefnd Gamla Salé) er á norðurbakka árinnar var stofnuð á 11. öld. Hafnaraðstaða er góð og þar var rekin verslun og landbúnaður. Á fyrsta fjórðungi 17. aldar varð Salé sjálfstætt ríki og víðkunn bækistöð sjóræningja. Jan Janszzon, foringi sjóræningjanna í Grindavík átti þátt í stofnun þess.
Tyrkjaránið
Ástæðan fyrir uppgangi sjóræningja í Salé er sú að þegar múslímar voru reknir frá Spáni í lok 15. aldar fengu margir þeirra að verða eftir á Spáni gegn því að taka kristna trú og siði. En þar sem þeir aðlöguðust ekki vel og Spánverjar sem voru kaþólskir treystu þeim ekki til þess að verða góðir og gegnir Spánverjar. Því voru þessir múslímar reknir frá Spáni í byrjun 17. aldar og fluttir til Norður-Afríku. Þessir múslímar voru nefndir Márar en þeir voru reyndar ekki alls staðar velkomnir í Norður-Afríku. Því settust sumir þeirra að í Salé (Gömlu-Salé) þar sem þeir tóku upp sjórán og gerðust herskáir sjóræningjar.
Tyrkjaránið
Borgin skiptist í Gömlu-Salé og Nýju-Salé. Á þessum tíma var Nýja-Salé mikilvæg miðstöð sjóræningja með mikil tengls við sjóræningjaborgir á Norðurströnd Afríku, sérstaklega Algeirsborg. Nýja-Salé var heimahöfn 30 til 40 sjóræningjaskipa og íbúafjöldi borgarinnar líklega um 15.000, þar af stór hluti þrælar. Murat Reis var foringi þessa sjóræningjaflota sem gerði þaðan út.
Þessi velheppnaða ránsferð Murat Reis til Íslands var tilefni til mikils fagnaðar, hleypt var af fallbyssum, lúðrar hljómuðu og sekkjapípur flautuðu. Þessi ránsferð hafði verið óvenju löng og hættuleg, en þrátt fyrir það vel heppnuð. Ránsfengurinn var danskt kaupskip, allur ránsfengur sem ræningjarnir höfðu komist yfir í landi og ekki síst 50 til 100 manns, Íslendingar, Danir og Englendingar. Þó er erfitt að finna út einhverja nákvæma tölu. Fangaða fólkið var sett á land og rekið upp á “kastala borgarinnar Kyle, að frá tekinni Guðrúnu Jónsdóttur, hennar yngsta syni og lítilli stúlku er Guðrún Rafnsdóttir hét“ segir í Tyrkjaránssögu. Síðan segir í sömu heimild: “Margt landsfólk kom þangað í húsið til fanganna, kristnir menn til að gleðja þá og hugga en Tyrkjar til að skoða þá og spotta. Þar eftir voru þeir leiddir út á kauptorg staðarins, og til settir menn að bjóða þá fram til sölu sem önnur ferfætt kvikindi.“

Tyrkjaránið

Alsírborg og höfnin fyrrum.

Afdrif systkinanna Guðrúnar og Halldórs
Guðrún Jónsdóttir var ekki seld á þrælamarkaðinum eins og aðrir. Hún var leidd ásamt Guðrúnu Rafnsdóttur í hús til Tyrkja nokkurs. Ástæðan fyrir þessu gæti verið að einhver ræningjanna, eða fjárhagslegur bakhjarl leiðangursins hafi sjálfur viljað gera samning um útlausn hennar. En það var ekki síður gróðavegur fyrir sjóræningja og samverkamenn þeirra að heimta lausnargjald fyrir fangana. Halldór Jónsson var seldur Tyrkja nokkrum en síðar eignaðst Beram Reis Halldór. Beram Reis var einn þeirra sem tók þátt í Grindavíkurráninu og var gerður að kapteini á danska kaupfarinu sem rænt var. Halldór átti illa vist í Salé. Hann var skorinn í andlit og á höndum og bar örkuml þessi alla ævi. Oftast er þess getið í frásögnum um Tyrkjaránið að Guðrún og Halldór bróðir hennar hafi verið leyst út af hollenskum manni og þau komið til Íslands innan árs eftir að þeim var rænt. En hvernig má það vera að þau eru leyst úr ánauð svo skömmu eftir að þau koma til Salé? Þessi stutti tími útilokar að Íslendingar hafi samið um lausnargjald fyrir þau. Bréf bárust seint og illa á milli landa. Bréf voru oft jafnvel nokkur ár á leiðinni frá Norður-Afríku til Íslands ef þau á annað borð komust til skila.

Hollenskt kaupfar

Hollenskt kaupfar.

Hér verður því að gera ráð fyrir því að Guðrún sjálf hafi samið um lausnina á einn eða annan hátt fyrir þau systkinin. Það er ekki tilviljun að það var hollenskur kaupmaður sem keypti þau laus eða haft milligöngu um að kaupa þau laus. Hollendingar voru verslunarþjóð og siglingaveldi á þessum tíma og þeir áttu viðskipti víða. Í bók Nicolasar van Wassenaer sem áður er minnst á var danska kaupfarið sem rænt var á legunni í Grindavík í raun hollenskt kaupfar sem hét, Oliifboom, eða Ólífutréð upp á íslensku. Mjög mörg kaupför sem komu til Íslands á þessum tíma voru hollensk. Þess má geta að séra Ólafur Egilsson, prestur í Vestmannaeyjum sem rænt var í Tyrkjaráninu kom með hollensku kaupfari til Íslands sumarið 1628. Það er því hugsanlegt að þessi hollenski kaupmaður sem greiddi lausnargjaldið fyrir Guðrúnu og Halldór hafi þekkt til þeirra. Járngerðarstaðir voru mikilvæg verstöð og verslunarstaður. Guðrún hefur án efa borið það með sér að hún var ekki dæmigerð alþýðukona, heldur húsfreyja sem átti talsvert undir sér og kom frá efnuðu heimili. Því má alveg gera ráð fyrir að hún hafi samið um lausnargjaldið þeirra systkina sjálf.
Hollenski kaupmaðurinn hefur í gegnum sín sambönd greitt götu þeirra og líklega hagnast sjálfur vel á viðskiptunum. Þetta eru ekki tómar getgátur heldur má færa sterk rök fyrir þessu í bréfi sem Jón sonur Guðrúnar skrifaði til Íslands frá Algeirsborg til foreldra sinna árið 1630. Þar segir: “Þakkir séu lifandi guði, að móðir okkar sæl frelsaðist héðan, og ég segi fyrir mig, að þó ég ætti hér í staðinn vera, veit ég vel að ykkar peningur hefir þar til gengið – má vera.“ Með öðrum orðum segir Jón hér að það séu ekki til meiri peningar á Járngerðarstöðum til að leysa hann út og þá bræður. Jón Guðlaugsson maður Guðrúnar lést um svipað leyti og hún snéri aftur til Íslands. Guðrún giftist síðan Gísla Bjarnasyni prófasti í Grindavík en hann var ekkjumaður. Halldór snéri aftur til konu sinnar og barna. Hann var jafnan nefndur Halldór hertekni eftir herleiðinguna. Á meðal afkomenda hans er margt merkisfólk og fólk af hinni þekktu Járngerðarstaðaætt á Suðurnesjum getur rakið ætt sína til hans. Halldór skrifði rit um Tyrkjaránið sem nú er glatað.

Afdrif Járngerðarstaðabræðra
TyrkjarániðJón Jónsson stúdent er þekktastur þeirra bræðra frá Járngerðarstöðum, sona Guðrúnar og Jóns Guðlaugssonar. Vitað er að hann skrifaði nokkur bréf til Íslands og eitt þeirra hefur varðveist í afskriftum.
Það er bréf sem hann skrifaði til foreldra sinna frá Algeirsborg og dagsett er 24. janúar 1630. Helgi bróðir hans skrifar einnig undir það bréf. [Bréfið er varðveitt í Landsbókarsafninu]. Ævi Jóns var í engu frábrugðin annarra þræla í Barbaríinu eins og Íslendingar kölluðu íslamska hluta Norður-Afríku einu nafni. Hann var fljótlega eftir komuna til Salé seldur áfram til Algeirsborgar ásamt Helga bróður sínum. Þegar árið 1630 hafði hann verið seldur fimm sinnum. Ein ástæða fyrir því að hann var ekki keyptur úr ánauð var sú að hann var of dýr eins og hann minnist sjálfur á í bréfi sínu sem varðveist hefur. Um afdrif hans er ekki vitað annað en hann var enn á lífi ári 1635 en gera má ráð fyrir að hann hafi dáið sem þræll í Algeirsborg en þangað var hann kominn ekki löngu eftir að hann var settur á land í Salé.

Héðinn Jónsson
Héðinn varð frjáls maður aðeins sex árum eftir að hann kom til Salé og fékkst við smíðar. Það bendir til þess að hann hafi turnast, kastað kristni og gerst Múhameðstrúar. Það var í raun eina leiðin til að verða frjáls. Um afdrif hans er ekki vitað frekar. Helgi átti litríkan feril í Barbaríinu. Hann var hraustur og hugrakkur og var um tíma á galeiðu undir stjórn sjóliðsforingjans Jairi Mustafa. Þó er ólíklegt að hann hafi verið galeiðuþræll þar sem vitað er að hann kom eitt sinn í land í borginni Salé en hlekkjaðir galeiðuþrælar gátu aldrei yfirgefið skipin. Gera má ráð fyrir að Helgi hafi verið innan við 7 ára gamall þegar hann kom til Salé. Það má ráða af því að hann fylgir fyrst móður sinni eftir komuna til Salé en hefur síðan alist upp sem múslími eins og venja var með unga drengi sem rænt var. Það skýrir einnig hvers vegna hann varð frjáls maður og varð smiður. Það hefði hann ekki getað gert sem kristinn maður.

Helgi Jónsson
TyrkjarániðÞegar loks farið var að kaupa Íslendingum í Barbaríinu frelsi var Helgi einn þeirra. Hann var keyptur úr ánauð í maí 1635, síðastur þeirra 37 Íslendinga sem keyptir voru. Lausnargjaldið fyrir hann var 200 ríkisdalir. Helgi kom til Íslands sumarið 1637 ásamt öðrum Íslendingum sem leystir höfðu verið. Helgi kvæntist Guðbjörgu Gísladóttur og tóku þau við búi á Járngerðarstöðum eftir lát Guðrúnar Jónsdóttur. Helgi lést 1664 eða 1665. Við Járngerðarstöðum tók um tíma Guðbjörg ekkja Helga en Jón Helgason sonur þeirra tók við Járngerðarstöðum 1668.
Þess má geta að í Sögu Grindavíkur, fyrra bindi frá árinu 1994 eftir Jón Þ. Þór er því haldið fram að Guðrún Jónsdóttir frá Stað hafi átt þrjá bræður og þau hafi verið hertekin og öll komið aftur til Íslands. (sjá bls. 114) Þetta er ekki rétt.
Eins og fram hefur komið hér átti Guðrún fjóra bræður, Jón og Halldór sem voru herteknir, og Halldór síðan leystur út með Guðrúnu en Filippus og Hjálmur (Hjálmar) sem dóu líklega af sárum sínum í ráninu í Grindavík.)”

Um höfundana
Karl Smári Hreinsson er ásamt Adam Nichols annar þýðandi Reisubókar sr. Ólafs Egilssonar á ensku. Hann var í mörg ár kennari í nútíma íslensku við Maryland háskóla. Hann er höfundur margra greina um söguleg efni og aðalhandritshöfundur tveggja heimildamynda. Hann á og rekur málaskólann Sögu Akademíu í Keflavík.
Adam Nichols hefur skrifað margar greinar um Tyrkjaránið og skyld efni og er nú að vinna að bók um einn þekktasta sjóræningja 17. aldar, Jan Janszzon. Adam hefur einnig skrifað nokkrar skáldsögur og er liðtækur vatnslitamálari. Hann er prófessor við Maryland háskóla og kenndi á Íslandi af og til í 10 ár. Hann heldur úti bloggsíðu um sjórán og siglingar 17. aldar: corsairandcaptivesblog.com.
Þessi grein birtist upphaflega í Heima er bezt, 10 tbl. 68.árg. 2018.

Helstu heimildir framangreinds:
-Tyrkjaráns-saga eftir Björn Jónsson á Skarðsá. Samin 1643. Reykjavík. 1866.
-Tyrkjaránið á Íslandi 1627. Sögufélagið gaf út. Reykjavík 1906-1909.
-Jón Þ. Þór. Saga Grindavíkur. Frá Landnámi til 1800. Grindavíkurbær 1994.

Heimild:
-Sjómannadagsblað Grindavíkur 2019 – Tyrkjaránið í Grindavík 1627 og afdrif Járngerðarstaðafólksins – Karl Smári Hreinsson og Adam Nivhols, bls. 8-17.

Grindavík

Grindavík – Járngerðarstaðir – örnefna og minjakort – ÓSÁ.

Hvaleyri

Í Sunnudagsblaði Tímans árið 1964 má lesa eftirfarandi um beinafund við Hjörtskot á Hvaleyri undir fyrirsögninni “Lítil saga sunnan af Hvaleyri”:
Hvaleyri - mynd“Nokkru eftir að Pálína gerðist ráðskona hjá Magnúsi í Hjartarkoti, sennilega haustið 1922, fann hún þarna mannabein í rofbakka, höfuðkúpu og hálslið. Tók hún beinin í sínar vörzlur, svo að þau veltust ekki í reiðuleysi í fjörunni. Sjálfsagt hafa henni verið bein þessi hugstæð, enda ekki alsiða, að bústýrur á Íslandi hafi mannabein í fórum sínum. En hvað sem um það er, þá gerðist það þessu næst, að Pálínu birtist sýn í svefni. Þótti henni sem á sinn fund kæmu tveir karlmenn og ein kona og þökkuðu henni varðveizlu beinanna, en báðu hana þó að hlúa betur að þeim. Sungu þau síðan sálm og lauk með því draumnum. Þótti þeim hjónum ráð að grafa beinin sem næst þeim stað, er þau höfðu fundizt á, en þó svo, að þau væru óhult í sjávargangi. Voru þau látin í kistil, sem Magnús gróf í mónum úti á bökkunum, skammt frá fundarstaðnum, þegar klaki var úr jörðu.
En þess var ekki langt að bíða, að meira fyhdist af mannabeinum þarna á Hvaleyrarbökkum. Haustið 1924 veitti Magnús því athygli, að bein voru í fjörunni og fleiri stóðu út úr rofinu. Safnaði hann þeim saman og gróf síðan nokkuð í bakkann fyrir forvitnis sakir. Fann hann þar tvær hauskúpur til viðbótar og mörg bein önnur úr tveim mönnum, ásamt einum hornhnappi.
hvaleyri - tunakort - 1908Nú var fólkinu í Hjartarkoti nóg boðið, er mannabein hlóðust að því með þessum hætti, og varð það fanga ráðið að láta fornminjavörðinn, Matthías Þórðarson, vita um þetta. Skoðaði hann höfuðkúpurnar, sem báðar voru heillegar, og komst hann að þeirri niðurstöðu, að önnur myndi af manni, sem kominn hefði verið allmjög til aldurs, er hann dó, en hin af miðaldra manni. Tjáði Magnús honum, að glöggt hefði mátt sjá, að eldri maðurinn hefði ekki verið lagður til, því að hann hefði sýnilega verið krepptur í gröf sinni, og öll hefðu beinin verið þétt saman.
Nú leið og beið, því Matthías hafði ekki tök á því að sinni að kanna sjálfur stað þann, er beinin fundust á. Voru beinin því geymd og ráðstöfun þeirra látin bíða betri tíma. Og meðan þess var beðið, að fornminjavörður kæmi á vettvang, skeggræddu menn sín á millí um það, hvernig staðið gæti á þessum beinum í Hvaleyrarbökkum. Það var raunar kunnugt, að á Hvaleyri hafði lengi verið kirkja, sem ekki var tekin af fyrr en árið 1765. Sást þar enn fyrir kirkjugarðinum í túni heimajarðarinnar, og hafði hann ekki verið þar, sem beinin voru. Þá var enn fremur kunnugt, að þýzkir kaupmenn áttu kirkju í Hafnarfirði á 16. öld, og sjálfsagt hafa þeir farmenn þýzkir, er létust í Íslandsferðum, verið grafnir við hana En engin líkindi voru til þess, að hún hefði staðið yzt á sjávarbökkum á Hvaleyri, auk þess sem allt benti til þess, að þeir menn, sem þarna hvíldu, hefðu verið dysjaðir utan garðs, án þess umbúnaðar, er siður var að veita líkum í vígðum reitum. Bar því allt að þeim brunni, að þarna lægju annað tveggja sekir menn eða útlendingar, sem ekki þóttu þess verðir að hvíla meðal annarra kristinna manna, kasaðir af óvinum sínum eða minnsta kosti þeim, er ekki vildu við þá kannast sem bræður í Kristi.
hvaleyri - tunakort 1908 IINú voru uppi ýmsar sagnir um um erjur og bardaga á þessum slóðum, er enskir og þýzkir kaupmenn lögðu hvað mest kapp á að ná hér fótfestu. Þess vegna tóku menn að fletta í gömlum annálum og leita þar frásagna, er gætu leyst þessa gátu.
Biskupaannálar Jóns Egilssonar í Hrepphólum geymdu tvær sögur, sem menn stöldruðu við. Þar var sagt, að ábótinn í Viðey á dögum Magnúsar Eyjólfssonar, sem biskup var í Skálholti 1477-1490, hefði í kringum 1480 ráðizt með liðsafla á Englendinga, er lágu við Fornubúðir í Hafnarfirði, fyrir þær sakir, að þeir höfðu rænt skreið klaustursins. Hefur þessi ábóti verið Steinmóður Bárðarson, harðskeyttur maður og mikill fyrir sér. Hafði hann sigur í orrustunni, en mannfall hefur nokkurt orðið, því að þar lét lífið sonur ábótans, er Snjólfur hét. Í öðru lagi kunni Jón Egilsson að greina frá öðrum bardaga á þessum sömu slóðum milli Englendinga og þýzkra kaupmanna, Hamborgara. Lutu Englendingar í lægra haldi í þeirri viðureign fyrir Þjóðverjum”, sem „rýmdu hinum burt og fluttu sig fram á eyrina og hafa verið þar síðan.” Þetta gerðist kringum 1518. Leizt mönnum fljótt, að þarna á Hvaleyrarbökkum myndu Englendingar, sem fallið höfðu í öðrum hvorum þessara bardaga, hafa verið heygðir, því að einsýnt var, að bæði íslenzkir menn og þýzkir, er féllu í  þessum bardögum, hefðu verið færðir til kirkju.
hvaleyri-tunakort-1908 IVEr ekki ólíklegt, að um þetta leyti hafi ýmsum orðið tíðlitið til þeirra staða, þar sem hinir ensku og þýzku kaupmenn höfðu bækistöðvar sínar endur fyrir löngu. Á eyrinni, þar sem nú heitir Skiphóll, voru búðir Hamborgara, en í túnfæti fyrir austan Hjartarkot voru vallgrónar rústir tveggja stórra búða: Fornubúðir, þar „em hinir ófyrirleitnu Englendingar lágu með kaupskip á dögum Steinmóði ábóta. Það mátti að sönnu láta sér til hugar koma, að Jón í Hrepphólum hafi ekki kunnað glögg skil á hinum gömlu erjum í Hafnarfirði — jafnvel, að sitthvað væri missagt í fræðum hans. Hann fæddist sjálfur ekki fyrr en um miðja sextándu öld, svo að margt það, sem um þessi stórtíðindi hafði verið sagt, gat afbakazt, áður en hann nam söguna, einkum hvað varðaði hinn fyrri bardaga, er Viðeyjarábóti átti við Englendinga. En engin ástæða er til þess að rengja það, að þarna hafi mannskæð átök orðið, enda segir Jón Guðmundsson lærði einnig frá því í rtii sínu „um ættir og slekti”, að forfaðir sinn, Magnús Auðunsson hins ríka, hafi fallið á Jófríðarstöðum „í því engelska Hafnarfjarðarstríði fyrir svik landsmanna.”
Bústýran í Hjartarkoti leitaði hófanna um það við sóknarprest sinn, séra Árna Björnsson í Görðum, að hann greftraði beinin, þegar það væri tímabært Hann færðist undan því að jarðsyngja beinin, en Pálína sótti þeim mun fastar á, og þegar hún fékk engu um þokað, sneri hún sér til biskups í þeirri von, að hann vildi taka af skarið. En þegar biskup fékkst ekki til þess að skipa séra Árna að verða við óskum Pálínu, fór málið að vandast.
Þegar hér var komið, mun fólkinu í Hjartarkoti hafa verið orðið mikið kappsmál, að beinin yrðu grafin í kirkjugarði, enda greip það nú til þess ráðs að segja sig úr þjóðkirkjunni og ganga í fríkirkjusöfnuðinn í Hafnarfirði. Séra Ólafur Ólafsson var prestur fríkirkjusafnaðarins, og hann tjáði sig fúsan að jarða beinin með þeim hætti, er Hjartarkotsfólki mátti vel líka. En ekki var það unnt fyrr en Matthías Þórðarson hafði gert þær athuganir, er hann taldi við eiga.
hafnarfjordur 1955Ekki varð úr því fyrr en í ágústmánuði, að Matthías kæmi suður á Hvaleyri til rannsókna. Gróf hann þá í bakkann, þar sem Magnús Benjamínsson hafði fundið beinin úr mönnunum tveimur. Fann hann þar bein úr neðri hluta annars mannsins, sem önnur hauskúpa var úr, svo sem fimmtíu sentímetra undir grassverðinum. Þessi bein voru heilleg, og mældust lærleggirnir fimmtíu sentimetrar á lengd. Hafði hægri handleggur verið sveigður yfir manninn miðjan, og þótti Matthíasi ekki vafi leika á þvi, að þessi maður hefði verið lagður til líkt og venja var á miðöldum.
Þegar hann hafði tekið upp þessi bein, var grafinn upp kistill sá, er í var hauskúpan og beinin, er Pálína í Hjartarkoti fann í öndverðu. Var hún þar í mónum, er Magnús vísaði til, og reyndist kúpan af ungum manni. Þegar Matthías hafði þetta starfað, seldi hann þeim Magnúsi og Pálínu beinin í hendur, kvaddi og hélt á brott.
Nú var það eitt eftir að neyta þess, að séra Ólafur fríkirkjuprestur vildi syngja yfir beinunum. Og það var ekki látið dragast úr hömlu. Þetta var stutt athöfn, og innan lítillar stundar, er henni lokið. Þegar beinakistunni hefur verið sökkt í gröfina í kirkjugarðinum ofan við Jófríðarstaði og séra Ólafur kastað á hana rekunum, tekur Magnús Benjamínsson skóflu og mokar ofan í. Þá er þessu lokið. Beinunum hefur verið sýnt sú tillitssemi, sem er á valdi fólksins í Hjartarkoti, og fólk aftan úr öldum þarf ekki framar að koma til bústýrunnar í draumi til þess að bera henni tilmæli sín.”

Heimild:
-Tíminn Sunnudagsblað 9. ágúst 1964, bls. 724-725 og 247.

Hvaleyri

Hvaleyri fyrrum – tilgáta.

Hafnarfjörður

“Lítið er til af ritheimildum sem varða gamla bæinn Steina við Hamarsgerði í Hafnarfirði og ekki er til túnakort. Þetta stafar sjálfsagt af því að bærinn var lítill með takmörkuð umsvif. Talið er að bærinn hafi verið byggður 1887 eftir að búsetu í Sjóbúðarbæjunum var hætt.  Eldra nafnið á honum er Steinsstaðir.
Steinsstadir-221Fyrsti ábúandi hét Guðmundur Grímsson, fæddur 1828, og bjó hann á Steinum 1887-1904.  Hann mun hafa flust frá Hafnarfirði 1904 og dáið á Neðra-Apavatni 1908. Síðasti ábúandi mun hafa verið Jón Guðmundsson sem fór frá Steinum 1915. Brunabótamat gert árið 1917 greinir frá því að íbúðarhúsið sé notað sem geymsla.
Í óútgefnu riti Gísla Sigurðssonar kemur fram að útveggir og þak bæjarins standi enn. Í afsalsbréfi er sagt að hann sé “7×10 álnir að ummáli. Veggir utan hlaðnir úr höggnu grjóti. Þak og stafnar járnvarið. Allur þiljaður innan með ¾ panelborðum. Bænum var skipt í þrennt. Auk þess gangur. Allt innan dyra málað, tvær fylningshurðir og tvö gluggafög, múrpípa og tvö eldfæri. Bærinn var virtur á 1010, 25 kr. Lóðin á kr.2686,00 og var 5372 ferálnir að stærð. Bærinn var með lágum veggjum og háu risi. Skúr var á suð-vesturhlið og náði þakið upp í miðja þekjuna á bænum. Norður sneru dyrnar. Til vinstri handar er inn var komið voru dyrnar í bæinn, en þar var lítill gangur og dyr í hvorn enda” (Gísli Sigurðsson: bls. 422).
steinsstadir-uppdratturLeifar Steina liggja nú um 3 m NV við núverandi íbúðarhús við Hamarsgerði 17. Veggirnir eru um 6×5 m að utan. Þeir hafa verið steyptir utan um steina, steypa er enn á hálfum innanverðum austurvegg og á vestri vegg sunnan inngangs. Vegghæð er ca. 1.10-1.20 m. Tveir veggir standa uppi, en steinhleðslur marka grunninn í NV og SA enda hússins. Mikið af lausum steinum er inni í húsinu, mest næst veggjunum. Viður er í innanverðum NA vegg að norðan, efst á veggnum.
Utan við húsið að suðvestan er jarðvegurinn upphækkaður svo að þar myndast lítill hóll.  Á honum er meira af illgresi en grasi, og mikið af steinum.  Norðaustan og austan við húsið er einnig illgresi og steinar umhverfis, en ekki þó sýnilega upphækkað.
Leifar útihúss eru ca. 12 m vestan við norðurhorn núverandi íbúðarhúss. Þetta er hár og mjög brattur hóll, um 1.20 m á hæð og um 4 m að ummáli. Tvær syllur eru innan í honum efst; önnur grunn og flöt, en sú fyrir austan um 15 cm dýpri með steinum í botninum.  Þröng rás er út úr henni að norðaustan í gegnum vegginn.
Svæðið hefur verið raskað þegar nágrannahúsið að Hamarsbraut 14 var byggt og möl og frágangi hrúgað þar ofan á.
Garður er sunnan við steinhúsið, um metri að breidd og ca. 20-25 cm hár. Rennur niður bratta brekku þar sem hann hverfur inn í tré. Næst er hægt að sjá 2 m bút af honum um 10 m NNA við steinhúsið áður en hann hverfur aftur undir tré.
Steinbærinn við Hamarsbraut 17 og fjós og garður sem honum fylgdu eru svo raskaðir auk þess sem hann stendur í miðri íbúðabyggð og er ekki hluti af fornu menningarlandslagi, að ekki þykir nein ástæða til að varðveita hann eða byggja hann upp. Engar heimildir eru heldur til um bæinn sem er hægt að styðjast við ef ráðist yrði í endurgerð. Hann er ekki ýkja gamall, reistur seint á 19. öld, en minjagildi hans varð að engu árið 1998, þegar hann var rifinn.”

Heimild:
-Steinsstaðir í Hafnarfirði/Hamarsbraut 17, fornleifaskráning vegna deildiskipulags, Byggðasafn Skagafjarðar – 2005.

Garðahverfi

Í skýrslu Þjóðminjasafnsins árið 2004 um fornleifaskráningu í Garðahverfi 2003 má m.a. lesa eftirfarandi um Bakka:
“Bakki er talinn meðal jarða í eigu Garðakirkju í máldögum frá 1397 og 1477, hann er nefndur í Jarðaskrá kirkjunnar 1565, þá byggður Jóni Jónssyni og í Gíslamáldaga 1570. Þegar Jarðabók var gerð 1703 var þetta lögbýli í kirkjueign, ábúandi Jón Pétursson með fimm í heimili en Guðlaugur Grímsson hreppstjóri hefur eftir Manntalinu að dæma tekið við af honum sama ár, heimilismenn sjö talsins. Þá er einnig tilgreindur Þorsteinn Pétursson, húsmaður um þrítugt með konu og lítið barn.  Í Manntali 1801 bjó á Bakka Einar Bjarnason ásamt konu sinni Rannveigu Sigmundsdóttur, 14 ára syni, Guðmundi, og 10 ára fóstursyni, Jóni. Hjá fjölskyldunni voru vinnukonan Guðrún og Bergsveinn Gardahverfi - fornleifar Vnokkur sem var vanfær og að hluta á framfærslu hreppsins en lifði þó einnig á eigin handverki. Sjálfstætt bjuggu jarðnæðislausu hjónin, Bjarni Einarsson húsmaður og fiskari, trúlega sonur óndans, og Ingibjörg Narfadóttir. Þegar Manntal var tekið fimmtán árum síðar voru þessar fjölskyldur á brott en Guðmundur Einarsson orðinn vefari og vinnumaður hjá nýjum hreppstjóra á Hausastöðum. Á Bakka voru komin hjónin Árni Ketilsson og  Kristjana Ólafsdóttir, áður þjónustufólk hjá prests-hjónunum í Görðum. Auk þess að vera sjálfstæður bóndi var Árni nú orðinn meðhjálpari séra Markúsar í Görðum. Þau Kristjana áttu þrjár dætur og einn son á aldrinum 1-18 ára og höfðu inn vinnumann, Gísla Jónsson sem áður var á Hausastöðum. Auk þess sáu þau fyrir Sigríði Magnúsdóttur, 62 ára niðursetningi og voru alls átta í heimili.  Enn höfðu orðið ábúendaskipti árið 1845 en þá var þar Brandur Jakobsson grasbóndi ásamt þremur börnum sínum, vinnukonu og vinnumanni, niðursetningi og gamalli konu, Hallfríði Ófeigsdóttur sem var “sjálfrar sinnar”. Annar var Jón Höskuldsson úr Pálshúsum, lóðs og fiskari sem e.t.v. hefur verið búsettur í ónefndri þurrabúð við Bakkabryggju. Í Jarðatali tveimur árum síðar var ábúandi aðeins einn og jörðin áfram kirkjueign,  hún er nefnd í Jarðabók 1861  og í Fasteignabókum, enn undir kirkjunni 1932.  1942-44 var hins vegar ekki lengur búið á jörðinni  og í dag liggur hún undir Pálshús.
Bakki-221Til forna og fram um 1565 fylgdi Bakka Garðamýri og var landskuld þá fjórar vættir fiska og vallarsláttur, leigukúgildi tvö og mannslán um vertíð auk annarra kvaða sem héldust áfram. Séra Þorkell Arngrímsson lagði hins vegar mýrina til Garðastaðar, lækkaði landskuldina og tók burt annað kúgildið og mannslánið. 1703 var jarðardýrleiki óviss en landskuld 80 álnir og galst með þremur fiskavættum og vallarslætti. Jón Pétursson bóndi lagði við til húsabótar með styrk séra Ólafs Péturssonar sem einnig uppyngdi hið eina kúgildi jarðarinnar. Fyrir það fékk presturinn smjör eða fisk en hálfar leigur féllu niður þar eð verkamenn voru í fæði á Bakka. Jón átti í kvikfénaði fjórar kýr, jafnmargar ær, tvevetra sauð og sjö veturgamla, þrjú lömb, tíu gimbrar, hest og tvö hross. Jörðin fóðraði þrjár kýr og hefur fóður m.a. verið sótt í Bakkavik, smástararblett sem skv. Örnefnalýsingu frá 1976-7 er “fast vestan við Bakkahrygg […]”, en hann  liggur að Garðamýri. Kvaðir voru dagsláttur, hríshestur sóttur í skóg kirkjunnar eða almenning og hestlán nýtt til að færa heim eldivið og til ferða innansveitar einn eða tvo daga. Heimræði var allt árið, lending í Bakkavör og inntökuskip þegar vel fiskaðist.
Bakki-222Sölvafjara hafði eyðilagst vegna ísa og fjárbeitar en fjörugrös mátti tína að gagni og hrognkelsafjara var nokkur. Skv. Örnefnaskrá frá 1964 voru “hrognkelsaveiðar miklar” í svonefndum Bakkaþara. Jörðin hafði móskurð í Dysjamýri en brenndi einnig þöngla til eldis. Árið 1847 var dýrleiki hennar enn óviss, landskuld 60 álnir og kúgildi eitt en 1861 taldist hún 10,6 ný hundruð. 1932 var hún metin á 35 hundruð kr. en þá hafði kúgildum fjölgað í þrjú, sauðir voru 20 og hrossið eitt. Úr 1100 m² görðum fengust 12 tunnur matjurta og hlunnindi voru áfram hin sömu. Jörðin var nytjuð frá kaupstaðnum og hey af henni flutt þangað. Tíu árum síðar var fasteignamatið 47 hundruð kr.
Bakkatún lá undir skemmdum vegna sjávarágangs en var 2 ha þegar kom fram á 20. öld. Bærinn var margfluttur undan sjó gegnum aldirnar og eru rústir þess sem síðast stóð nú að hverfa. Bakkafjörur og Bakkakambur hét neðan túnsins en norðan megin var Garðamýri og þar fyrir handan Garðar. Að vestan eru Pálshús og næst sjónum Dysjar.
Bakki-223Á Túnakorti árið 1918 má sjá tvær byggingar í bæjarstæðinu á Bakka alveg niður við sjó og er sú stærri líklega bærinn. Í Örnefnaskrá 1964 er nefndur Bakkahryggur “er lá eftir vesturtúni Pálshúsa […] heiman frá bæ allt niður undir Bakka […] Bærinn stóð á Bakka og hafði verið marg oft færður undan sjó og eru nú rústir hans að falla niður í fjöruna.” Bakkatún heitir “tún býlisins, sem sjór brýtur stöðugt til skemmda”. Í Örnefnalýsingu 1976-7 segir: “Niður af íbúðarhúsinu í Pálshúsum er u.þ.b 200 m langur hryggur niður að sjó. Hann heitir Bakkahryggur. Neðst á honum stóð bærinn á Bakka. Sjórinn brýtur nú stöðugt landið þarna, og er bakkinn niður í fjöruna víða ein til tvær mannhæðir. Bakki er löngu kominn í eyði og liggur undir Pálshúsum. Fjárhús og hlaða frá Pálshúsum eru nú á Bakka. Gamli bærinn á Bakka stóð fast vestan við, þar sem hlaðan er.” Skv. fornleifaskráningu 1984 var Bakki “frammi á sjávarbakkanum í vestur frá Pálshúsum […] heimatúnið að baki (til austurs) sjávarbakkinn beint fram af”.
Túnakortið sýnir þrjú aflöng og samföst torfhús, miðhúsið minna en hin. Þau eru með standþili og snúa í norðvestur. Þessi hús stóðu skv. Fasteignabók enn árið 1932 (bls. 23) en þau eru ekki lengur sýnileg. Þarna er hins vegar tóft hlöðu sem byggð var ofan í þar sem bærinn stóð, um 8,5 x 7 m að utanmáli, þvermál að innan 3,5. Hún er með grjóthlöðnum hringlaga veggjum, göflum og bárujárnsþaki og virðist ögn niðurgrafin.
bakki-224Í Örnefnalýsingu 1976-7 segir: “Fjárhús og hlaða frá Pálshúsum eru nú á Bakka. Gamli bærinn á Bakka stóð fast vestan við, þar sem hlaðan er. Bretar byggðu þar tvö loftvarnarbyrgi á stríðsárunum, og eru þau nú að fara í sjó.” Í Fornleifaskráningu 1984 segir að jarðhús hafi verið byggt ofan í eitt þessara byrgja “en þau voru mörg hér frammi á bakkanum, með skotgröfum á milli. Sumt er brotið af ofan í flæðarmál, annað á leiðinni þangað. Mikið brýtur hér af landi að sögn heimamanna í Pálshúsum.
Um Bakkastekk segir m.a.: Í Örnefnaskrá 1964 segir: “Norður frá Bala er hraunsnef lítið”, Mónef. “Nokkru norðar þar sem Garðavegurinn liggur út af hrauninu, er” Hvítaflöt, “vel gróin þúfnakargi. […] Nokkru norðar með hraunbrúninni gengur enn hraunsnef fram í mýrina”, Oddsnef eða Hraunsnef. “Norðar tekur við hraunsnef stærst af þessum hraunsnefjum”, Bakkastekksnef, “Þar austan við var stekkur frá Bakka, sér enn.”
bakki-225Í Örnefnalýsingu 1976 segir að Mónef gangi fram í Dysjamýri, en Hvítaflöt sé gróið hraunnef á vinstri hönd, þar sem vegurinn til Hafnarfjarðar  liggur upp á” Garðahraun. “Næsta nef þar fyrir ofan er Oddsnef. (Ath.: G.S. segir, að Oddsnef hafi stundum verið kallað Hraunsnef, en ekki kannast Guðmann [Magnússon á Dysjum] við það nafn). Þar sem hraunið skerst lengst út í Dysjamýri, fyrir innan Oddsnef, heitir Bakkastekksnef. Norðaustan í því eru tóftir af Bakkastekk.” Skv. Fornleifaskráningu 1984 er Bakkastekkur í skjólgóðum bolla sem opnast til norðurs “í hraunjaðrinum sunnan við austurenda nýræktar í Dysjamýri”. Hann er hringlaga, gerður úr þurri grjóthleðslu. Veggjaþykkt er um 1-1,1 m og er veggurinn vestan megin í hraunbrúninni. Þvermál að innan er um 5,6 en þvert á 5,3. Um 1,4-1,5 m breitt hlið er á stekknum austan megin og liggur aðhaldshleðsla úr grjóti frá því 16,5 m til austurs. Stekkurinn var ekki í notkun í tíð Tryggva Gunnarssonar núverandi ábúanda í Grjóta.
Um Bakkarétt segir: “Samkvæmt fornleifaskráningu 1984 er rétt: “…uppi af hraunnefninu suður af Dysjamýri. Í austur 65° frá Bala. Sléttlent og grösugt, hraunnibbur standa uppúr. Réttin er grjóthlaðin, óreglulega ferhyrnd, þó með rúnuðum hornum. Hlið er á móti hvoru öðru, sem vísa í suðaustur og norðvestur. Þessi rétt var notuð til skamms tíma samkvæmt upplýsingum. [Ekki kemur fram hver er heimildarmaður.] Við vettvangskönnun 2002 stóð réttin enn.”

Heimild:
-Þjóminjasafn Íslands árið 2004 – fornleifaskráning fyrir Garðahverfi 2003, bls. 10-16.

Bakki

Bakki við Bakka.