Gullbringuhellir

Farið var að jaðri Hvammahrauns austan Kleifarvatns til að leita Hvammahraunshellis.

Jón Bergsson leiddi leitarhópinn, en hann hafði rekist á hellisop þarna á leið sinni um Gullbringur nokkrum áratugum fyrr. Hann var þá ljóslaus og gat ekki kannað nánar.

Gullbringuhellir

Gullbringuhellir – bæli.

Þarna, norðan Gullbringu (ranglega merkt á landakort), liggur Dalaleiðin í fleyg upp gras- og lyngbrekku, upp með suðurjaðri hraunsins og áfram norður yfir það allnokkru ofar, neðan hinnar eiginlegu Gullbringu. Norðan hennar er Gullbringuhellir (Jónshellir).

Greinilegt var að engin umferð hefur verið um hellisopið í langan tíma. Dýjamosi er á steinunum innan við opið, en þar voru hvorki spor og né önnur ummerki. Haldið var niður í hellinn, en nokkuð hrun er í fremst í honum. Komið var niður á slétt gólf stórrar hraunrásar. Hraunstrá voru í loftum. Innar þrengist rásin. Þar var hlaðið sporöskjulaga fleti á þurrum stað. Gólfið undir er slétt og grjótið var greinilega týnt til og flórað þarna undir fleti. Ofan við fletið var fúin spýta, en til hliðar við þar voru nokkur smábein. Haldið var innar í hellinn, en eftir u.þ.b. 40 metra lækkar hann og þarf að skríða að opi þar sem rásin hallar niður á við og víttkar á ný (eftir um 70 metra). Ákveðið var að fara ekki lengra að sinni, en skoða bælið betur. Ofan við það virtist hellisveggurinn vera svartur af sóti á kafla. Fallið hafði úr loftinu að veggnum. Góð birta er allt að bælinu og sést vel frá því að opinu, en ekki sést í fletið ef staðið er við opið og horft inn.

Gullbringuhellir

Í Gullbringuhellir.

Hellirinn var nefndur Jónshellir þangað til annað kemur í ljós. Jafnframt var ákveðið að láta Hellarannsóknarfélagið vita um hellinn því skoða þarf hann nánar, einkum innan og neðan við þrengslin. Þegar haldið var upp frá jarðfallinu birtist um 10 m. hellisrás.
Á næstunni verður reynt að grafa upp sögur og sagnir af notkun hellisins, en allt eins er víst að þarna hafi forðum verið athvarft eða skjól fyrir vegfarendur á leið um Dalaleiðina sunnanverða.
Skammt ofar og norðar í Hvammahrauni er Hvammahraunshellir (lýst síðar).
Í bakaleiðinni var litið ofan í Brunntorfuhelli, en hann er á um fimm metra dýpi. Sá hellir bíður enn nákvæmari skoðunar.
Veður var frábært – hlýtt og bjart.

Gullbringuhellir

Gullbringuhellir. Nafnarnir Jón Bergs og Jón Svanþórsson við opið.

Þráinsskjöldur

Í Wikipedia er fjallað um „Þráinsskjöld“ á Reykjanesskaga:

Þráinsskjöldur – gígurinn

„Þráinsskjöldur er geysimikil hraunbunga norðaustan undir Fagradalsfjalli á utanverðum Reykjanesskaga.

Þráinsskjöldur

Þráinsskjöldur – herforingjaráðskort Dana.

Eldgígurinn er hraunfylltur og mjög ógreinilegur en frá honum hefur runnið mikið hraun, Þráinsskjaldarhraun, sem þekur meira og minna allt land frá Fagradalsfjalli og til strandar í norðri. Það myndar ströndina alla utan frá Vogastapa og inn að Vatnsleysuvík. Nokkur móbergsfjöll standa upp úr hrauninu svo sem Keilir og Keilisbörn, Litli Keilir og Litli Hrútur. Þráinsskjöldur er dyngja, þ.e. eldstöð af svipaðri gerð og Skjaldbreiður, en vegna landslagsáhrifa hefur hann ekki náð að verða reglulegt hringmyndað eldfjall. Hraunið hefur komið upp um einn hringmyndaðan gíg eins og í flestum dyngjum. Úlit hraunsins og hraunstraumanna í því bendir til þess að kvikan sem upp kom hafi verið þunnfljótandi og gosið virðist hafa staðið lengi. Á þeim langa tíma sem liðinn er síðan hraunið rann hafa myndast mikil misgengi, sprungur og gjár í því.

Þráinsskjöldur

Þráinsskjöldur og dyngjur Reykjanesskagans fyrir u.þ.b. 6000 árum.

Örnefnið Þráinsskjöldur er gamalt heiti á hraununum upp af Vatnsleysuströndinni og er nefnt í Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar. Jón Jónsson jarðfræðingur gróf það úr gleymsku þegar hann kortlagði hraun Reykjanesskagans og notaði það yfir eldstöðina í heild. Þráinsskjöldur er því strangt til tekið eldfjall þótt fáir myndu vilja kalla þennan lága og flata hraunskjöld fjall. Hæstu nibbur á gígbörmum ná 238 m y.s.

ÞráinsskjaldarhraunÞráinsskjaldarhraun er stærsta hraunið á utanverðum Reykjanesskaga, flatarmál þess er um 135 km². Sjór hefur staðið allnokkru lægra við ströndina þegar hraunið rann en hann gerir nú. Hraunið nær víða einn til tvo km út fyrir ströndina. Talið er að flatarmál þess neðansjávar sé um 11 km². Heildarflaratmálið er því 146 km². Rúmmál hraunsins hefur verið áætlað rúmir 5 km³. Vogar og byggðin á Vatnsleysuströnd er á hrauninu. Þráinsskjaldarhraun er meðal elstu hrauna á Reykjanesskaga, það rann í ísaldarlok, á sama tíma og ísaldarjökullinn var að hopa af skaganum. Sýnilegt er að eftir að hraunið rann hefur jökullinn vaxið á ný og flætt út á austasta hluta þess en síðan hopað fljótt til baka og hörfað inn til lands. Aldursgreiningar á skeljum í sjávarseti undir hrauninu sýna að það er um 14.100 ára.“

Tilvísanir:
-Kristján Sæmundsson 1995. Um aldur stóru dyngnanna á utanverðum Reykjanesskaga. Í: Björn Hróarsson, Dagur Jónsson og Sigurður Sveinn Jónsson (ritstj.). Eyjar í eldhafi. Safn greina um náttúrufræði til heiðurs -Jóni Jónssyni jarðfræðingi. Gott mál hf. Reykjavík, bls. 165-172.
-Kristján Sæmundsson og Magnús Á. Sigurgeirsson. Reykjanesskagi. Í: Júlíus Sólnes (ritstj.) Náttúruvá á Íslandi. Eldgos og jarðskjálftar. Viðlagatrygging Íslands/Háskólaútgáfan, bls. 379-401.
-Kristján Sæmundsson, Haukur Jóhannesson, Árni Hjartarson, Sigurður Garðar Kristinsson og Magnús Á. Sigurgeirsson 2010. Jarðfræðikort af Suðvesturlandi 1:100.000. Íslenskar orkurannsóknir.
-Jón Jónsson 1978. Jarðfræðikort af Reykjanesskaga. Skýringar við Jarðfræðikort. OS-JHD-7831, Orkustofnun.

Olivin

Ólinvínþóleiít.

Í Náttúrufræðingnum 1984 fjallar Sveinn P. Jakobsson um „Íslenskar bergtegundir II – Ólinvínþóleiít“:
„Í fyrstu greininni um íslenskar bergtegundir (Sveinn P. Jakobsson 1983) var fjallað um pikrít, upphafslegustu bergtegund þóleiísku bergraðarinnar. Nú er röðin komin að ólivínþóleiíti, sem er náskylt pikríti, en langtum algengara. Ólivínþóleiít er meðal þeirra bergtegunda sem nefndar hafa verið einu nafni basalt (blágrýti), aðrar basalt-tegundir eru þóleiít, „millibasalt“ (hálf-alkalískt basalt) og alkalíólivínbasalt. Önnur nöfn hafa að vísu verið notuð um afbrigði basalts, svo sem grágrýti og kvarsþóleiít, en þau eru óþörf og í sumum tilvikum villandi. Verður nánar að því vikið síðar.

olivin

Ólinvínþóleiít.

Ólivínþóleiít er gráleit bergtegund, nokkuð breytileg að lit, en oftast grádökkgrá. Við ummyndun dökknar bergið og verður brúngrátt eða brúnsvart. Það er einkenni á ólivínþóleiíti, að það er mjög blöðrótt, en blöðrurnar eru yfirleitt smáar. Ólivínþóleiít er fín- til millikorna, þannig að einstakir kristallar bergsins eru greinanlegir með berum augum. Þó er þetta breytilegt og hefur áhrif á lit bergsins. Því smærri sem kornin eru, þeim mun dekkra er bergið. Ólivínþóleiít er þunnfljótandi við rennsli, og virðist allajafna storkna í helluhraun, en þau eru byggð upp af þunnum (oft 0,2-2 m á þykkt), óreglulegum hraunlögum, líkt og sjá má á veggjum Almannagjár við Þingvöll.

Þráinsskjöldur

Þráinsskjöldur.

Þráinsskjaldarhraun á Reykjanesskaga, skal hér tekið sem dæmi um ólivínþóleiít-bergmyndun, en það er norðantil á skaganum og nær óslitið frá Vatnsleysuvík að Vogastapa (Jón Jónsson 1978).

Þráinsskjöldur

Þráinsskjöldur – loftmynd.

Þráinsskjöldur er dyngjuhraun (hraunskjöldur) og hefur runnið frá stórum gíg sem er norðaustan undir Fagradalsfjalli. Hraunið, sem er dæmigert helluhraun, er um 130 km2 og er þannig eitt stærsta hraunið á Reykjanesskaga. Sé gert ráð fyrir að meðalþykkt sé 40 m, þá er rúmmál þess 5,2 km3. Þótt hraunið sé þannig mjög mikið, þá benda athuganir til þess að það sé allt mjög svipað að samsetningu. Víða er gott að ná sýni úr hrauninu í gjám og sprungum og einnig á nokkrum stöðum meðfram Reykjanesbraut.
Þessar steintegundir mynda Þráinsskjaldarhraun: Dílar (kristallar, sem skera sig úr að stærð og oftast eru sjáanlegir með berum augum) eru ólivín (grængult, Fo 80-85), með litlum innlyksum af krómspínli.
Flekaskil
Ólivínþóleiít eins og það sem hér er lýst er algengt í miðgosbeltinu, og mest allt það berg sem hingað til hefur verið kallað grágrýti er sennilega ólivínþóleiít. Nafnið ólivínþóleiít höfðar til þess, að hér er um að ræða ólivínríkt þóleiít, og er fyrst notað hér á landi í núverandi merkingu af Carmichael (1964). Nafnið þóleiít er nú á tímum notað um basalt sem inniheldurpyroxen-tegundirnar ágít og pígeonít, en lítið eða ekkert ólivín.

ÞráinsskjöldurÓlivínþóleiít, og þóleiít, eru langalgengustu bergtegundir landsins. Þóleiískt berg er að finna í miðgosbeltinu sem liggur um Reykjanesskagann, Langjökuls- og Hofsjökulssvæðin, um norðvesturhluta Vatnajökuls og þaðan norður í sjó. Allt basalt sem hefur myndast á þessum svæðum á nútíma og á jökultíma er annaðhvort ólivínþóleiít eða þóleiít (Sveinn P. Jakobsson 1972). Í hliðargosbeltunum er hinsvegar alkalískt berg. Einnig er talið, að allt basalt í jarðmyndunum sem eru eldri en u. þ. b. 2 milljónir ára, sé annaðhvort ólivínþóleiít eða þóleiít.

Í gosbeltunum og við þau eru það einkum stóru hraundyngjurnar sem eru af ólivínþóleiítgerð. Auk Þráinsskjaldar má í Reykjanes-Langjökulsbeltinu benda á Selvogsheiði, Borgarhóla á Mosfellsheiði, Reykjavíkurgrágrýtið, Lyngdalsheiði, Skjaldbreið, Skálpanes og Kjalhraun. Í norðurgosbeltinu eru Trölladyngja, Vaðalda, Kollóttadyngja, Grjótháls, Þeistareykjabunga og ýmsar fleiri dyngjur. Þessar dyngjur eru flestar taldar hafa myndast í einu gosi, hver fyrir sig. Þarna er oft um mikið magn gosefna að ræða; þannig er talið að við gosið í Skjaldbreið hafi myndast um 17 km3 hrauns (Guðmundur Kjartansson 1967).

Trölladygja

Trölladyngja og nágrenni.

Eins og gefur að skilja, hefur mikið verið fjallað um uppruna ólivínþóleiíts. Tilraunir sýna, að auk pikríts og skyldra bergtegunda, þá geti ólivínþóleiít einnig myndast við hlutbráðnun á möttulberginu peridótít. Nokkuð greinir menn á um á hvaða dýpi þetta gerist, en oftast er talað um 10-60 km undir yfirborði jarðar.
Hvað varðar uppruna ólivínþóleiíts á Íslandi, telja margir líklegt, að það myndist beint við hlutbráðnun á möttulefni á tiltölulega litlu dýpi undir miðgosbeltinu, (sjá t. d., O’Nions og Karl Grönvold 1973, og Níels Óskarsson o. fl. 1982). Einnig hafa verið leiddar líkur að því að það hafi þróast úr pikríti í kvikuhólfum í jarðskorpunni, einkum við hlutkristöllun (Sveinn P. Jakobsson o. fl. 1978).“

Tilvísanir:
-Carmichael, I. S. E. 1964. The petrology of Thingmúli, a Tertiary volcano in eastern Iceland. — J. Petrol. 5: 435-460.
-Guðmundur Kjartansson. 1967. Rúmmál hraundyngna. – Náttúrufræðingurinn 37: 125.
-Jón Jónsson. 1978. Jarðfræðikort af Reykjanesskaga. – Orkustofnun OSJHD 7831: 303 bls. og 21 kortblað.
-Kristján Sæmundsson. 1980. Outline of the geology of Iceland. – Jökull 29: 7 – 28.
-Níels Óskarsson, Guðmundur E. Sigvaldason & Sigurður Steinþórsson. 1982. A dynamic model of rift zone petrogenesis and the regional petrology of Iceland. – J. Petrol. 23: 28-74. -O’Nions, R. K. & Karl Grönvold. 1973.
-Petrogenetic relationship of acid and basic rocks in Iceland. Sr-isotopes and rare-earth elements in late and postglacial volcanics. – Earth Planet. Sci. Letters 19: 397-409.
-Sveinn P. Jakobsson. 1972. Chemistry and distribution pattern Of Recent basaltic rocks in Iceland. – Lithos 5: 365-386.
-Sveinn P. Jakobsson, Jón Jónsson & Shido, F. 1978. Petrology of the western Reykjanes Penisula, Iceland.- J. Petrol. 19: 669-705.
-Sveinn P. Jakobsson. 1979. Petrology of Recent basalts of the Eastern Voicanic Zone, Iceland. – Acta Naturalia Islandica 26: 103 bls.
-Sveinn P. Jakobsson. 1983. íslenskar bergtegundir I. Pikrít (óseanít). – Náttúrufræðingurinn 52: 80-85.

Þráinsskjöldur

Þráinsskjöldur – gígurinn.

Á Vísindavefnum er fjallað um örnefnin Þráinsskjöldur og Þráinsskjaldarhraun?
„Þráinsskjaldarhraun er mikið í fréttum þessa dagana vegna jarðhræringa á Reykjanesskaga, ásamt Fagradalsfjalli, Keili, Litla-Hrút, Krýsuvík, Brennisteinsfjöllum og fleiri góðum örnefnum.
Heitið virðist sett saman úr þremur hlutum: Þráinn, skjöldur og hraun. Það síðastnefnda er auðskiljanlegt. Skjöldur er svo þekkt í örnefnum til að lýsa dyngjulaga fjöllum, samanber Lyngskjöld á sunnanverðum Reykjanesskaga og hina alkunnu Skjaldbreiði norðan við Þingvallavatn. Hins vegar er ekkert vitað um Þráin. Hver var Þráinn? Hvað var Þráinn? Var Þráinn yfirleitt til?

Örnefnaskrár fyrir svæðið á Reykjanesskaganum kannast ekki við Þráinsskjöld og heimamenn kalla svæðið Heiðina.

Þráinsskjöldur

Þráinsskjöldur.

Örnefnin Þráinsskjöldur og Þráinsskjaldarhraun eiga sér ekki forna sögu eins og mörg önnur íslensk örnefni. Þau koma ekki fyrir í Landnámu eða Íslendingabók Ara fróða, á þau er ekki minnst í Íslendingasögunum og þjóðsögurnar eru sömuleiðis þöglar.

Þráinsskjöldur

Reykjanesskagi – kort.

Þau koma í raun fyrst fyrir í ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar frá miðri 18. öld. Þar segir: „Skolahraun er ævagamalt hraun, sem liggur vest-suðvestur af fjallinu Keili og niður til strandar, þar sem það heitir Þráinskjöldshraun.“ Góðri öld síðar segir Þorvaldur Thoroddsen í sinni ferðabók: „Sumir kalla hraunin vestur af Keili Þráinskjölds- eða Þráinskallahraun.“ Af orðum Eggerts og Bjarna er svo að sjá heitið hafi einkum átt við hraunið nær sjó í norðri en Þorvaldur virðist nota það í víðari skilningi, svipað og nú er gert.
Örnefnaskrár fyrir þetta svæði á Reykjanesskaganum kannast sömuleiðis ekki við Þráinsskjöld. Sesselja G. Guðmundsdóttir sem er heimakona úr Vogunum og hefur kannað þetta svæði mikið, bæði á bók og fæti, segir að heimamenn hafi aldrei kallað þetta svæði annað en Heiðina og náði það nafn allt frá sjó í norðri og suður í Reykjanesfjallgarð.
Örnefnið hefur væntanlega fest í sessi með skrifum jarðfræðinga um svæðið á 20. öldinni en fyrir þann tíma hafa verið áhöld um hvort það var yfirleitt notað af heimamönnum eða hversu vítt það náði. Nafnið er því ófyrirsegjanlegt eins og skjálftarnir sem skekja það nú.“

Þráinsskjöldur

Þráinsskjöldur og nágrenni að sunnanverðu.

Á vef Árnastofnunar er spurt: „Hvaða örnefni er rétt? – Nokkur orð um notkun og heimildir örnefna á Reykjanesskaga.

Þráinsskjöldur

Þráinsskjóldur – jarðfræðikort Jóns Jónssonar.

„Athygli landsmanna (og heimsfjölmiðla) beinist um þessar mundir að Reykjanesskaga þar sem jarðskjálftavirkni er enn mikil og kvikugangur er að myndast á svæðinu sem afmarkast af Fagradalsfjalli og Keili (sjá kort Veðurstofu Íslands 10. mars 2021 hér).

Um þetta svæði skrifaði jarðfræðingurinn Jón Jónsson að „Samspil orsaka til breytinga á afstöðu láðs og lagar er afar flókið og ljóst er að kyrrstaða er hér ekki ráðandi“ (Árbók Ferðafélags Íslands 1984, bls. 76).

Meðal þeirra örnefna sem vakið hafa athygli eru Þráinsskjöldur og Þráinsskjaldarhraun. Eins og áður hefur verið bent á er hvergi að finna í heimildum skýringu á því hver þessi Þráinn var, sem skjöldurinn er kenndur við, og þar af leiðandi ekki gott að segja hversu gamalt örnefnið er. Karlmannsnafnið Þráinn er þekkt bæði í Njáls sögu og Landnámabók en samkvæmt bókinni Nöfn Íslendinga kemur nafnið ekki aftur fyrir sem eiginnafn fyrr en á 19. öld. Í manntali fyrir árið 1910 voru tveir karlar með þessu nafni (annar í Barðastrandarsýslu en hinn í Þingeyjarsýslum). Á árunum 1921–1950 báru 86 drengir nafnið Þráinn og í þjóðskrá 1. janúar 2008 voru 160 karlar skráðir með nafnið sem einnefni eða fyrra nafn, en 34 að seinna nafni (bls. 647).

Í Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar er heitið á hrauninu talið upp ásamt öðrum hraunum í Gullbringusýslu:

Ögmundarhraun

Ögmundarhraun og nágrenni.

„Helztu hraunbreiðurnar í Gullbringusýsla heita: Ögmundarhraun, skammt frá Krýsuvík. Það er ungt hraun og mjög ljótt. Djúpadalshraun, hinum megin Selvogsheiðar. Herdísarvíkurhraun á Selvogsheiði. Skolahraun (Skúlahraun?) er ævagamalt hraun, sem liggur vest-suðvestur af fjallinu Keili og niður til strandar, þar sem það heitir Þráinsskjöldshraun (eða Þráinskallahraun, Þ[orvaldur] Th[oroddsen]). Báðum megin Hafnarfjarðar eru ljótir hraunaflákar, Garðahraun að norðanverðu, en Vatnsleysuhraun að sunnan“ (bls. 198).

Isor

Jarðfræðikort ISOR af Reykjanesskaga.

Þessi tilvísun í Ferðabókina gefur ekki hvað síst góða hugmynd um flækjurnar sem koma oft fyrir þegar upphaf og saga örnefna er rakin, t.d. varðandi stafsetningu þeirra, mismunandi nafngiftir eða orðmyndir og staðsetningu. Þorvaldur Thoroddsen getur þess að hraunið sé kallað Þráinskjöldshraun eða Þráinskallahraun af sumum (Ferðabók, bls. 182). Þess ber að geta að Þráinsskallahraun er orðmyndin sem finna má í örnefnaskrá eftir skrásetjarann Þorstein Bjarnason frá Háholti (fæddur 1900) þar sem örnefni í óbyggðinni vestur og norður frá Grindavík eru tekin saman (Lbs 2857 4to og afrit í örnefnasafni Árnastofnunar en handritið var ekki sett saman fyrr en árið 1944 þegar Landsbókasafnið fékk það að gjöf). Einnig er þessa mynd orðsins að finna í örnefnalýsingum t.d. fyrir bæinn Hraun í Grindavíkurhreppi.
Sesselja G. Guðmundsdóttir bendir á í riti sínu Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi að örnefnin Þráinsskjöldur og Þráinsskjaldarhraun hafi ekki þekkst í sveitinni og að „menn hér í hreppi töluðu einfaldlega um Heiðina (með stórum staf)“ (2. útgáfa, 2007, bls. 28–29).

Litli-Keilir

Keilir og nágrenni.

Oft er það þannig að ekki er hægt að segja með vissu hvaða útgáfa örnefnis er ‚rétt‘ – rithættir og málvenjur eru ekki alltaf í samræmi og geta breyst í tímans rás. Örnefni eru lifandi fyrirbæri: breytileikinn er meðal þeirra einkenna sem athyglisvert er að skoða. Þau færast til – stundum vegna misskilnings, eins og virðist hafa gerst með örnefni á svæðinu sem vísa í aðra lægri hnjúka: Litli-Keilir, Nyrðri-Keilisbróðir, Syðri-Keilisbróðir, Keilisbörn, Litli-Hrútur og Stóri-Hrútur. Heimildum ber ekki saman um hvort Litli-Keilir sé sama kennileiti og Nyrðri-Keilisbróðir og/eða Litli-Hrútur. Eins og Sesselja bendir á er notkun þessara örnefna og kennileitanna sem þau vísa til mismunandi eftir því hvaðan heimamenn koma (t.d. frá Vatnsleysuströnd eða Grindavík) og hvaða kynslóðum þeir tilheyra (bls. 132, 141).

Keilir

Keilir.

Keilir er þó engum ókunnugur. Hann hefur verið notaður sem kennileiti í aldanna rás af sjófarendum (Íslendingum sem útlendingum – sem kölluðu fjallið Sykurtopp samkvæmt Sýslu- og sóknalýsingum fyrir Gullbringu- og Kjósarsýslu, bls. 109) til að finna fiskimið og rata, eins og Jón Helgason frá Litlabæ í Vatnsleysustrandarhreppi kvað:
Sæfarendur reyna rétt / rata‘ að lending heilir; / til að benda‘ á takmark sett / tryggur stendur Keilir‘. (Tilvísun fengin úr bókinni Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi, bls. 128.).“

Heimildir:
-https://is.wikipedia.org/wiki/%C3%9Er%C3%A1insskj%C3%B6ldur
-Náttúrufræðingurinn, 1.-2. tbl. 01.04.1984, Íslenskar bergtegundir II – Ólinvínþóleiít, Sveinn P. Jakobsson, bls. 13-17.
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=81334
-https://arnastofnun.is/is/utgafa-og-gagnasofn/pistlar/hvada-ornefni-er-rett-nokkur-ord-um-notkun-og-heimildir-ornefna
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi, Sesselja Guðmundsdóttir, bls. 128.

Þráinsskjöldur

Þráinsskjöldur og aðrar dyngjur Reykjanesskagans.

Hvaleyrartjörn

Litli Ratleikur Hafnarfjarðar er ætlaður sem hvatning til útiveru í og við byggðina í Hafnarfirði.
Litli Ratleikur 2021 hefur 15 nýja áhugaverða staði sem m.a. vekja athygli á sögunni. Leikurinn er samvinnuverkefni Fjarðarfrétta og Hafnarfjarðarbæjar. Guðni Gíslason lagði leikinn. Hann er á vefsíðu Fjarðarfrétta og er aðgengilegur hvenær sem er.
Þú ræður hvernig þú nýtir þér leikinn, textinn og myndirnar eiga að hjálpa þér að finna staðina og finna má fróðleikstexta um staðinn og jafnvel umhverfi hans.

1 – Hellisgerði, Bjarni riddari

hellisgerði

Hellisgerði.

Skrúðgarðurinn Hellisgerði var vígður á Jónsmessu 1923. Málfundafélagið Magni, sem stofnað hafði verið þremur árum áður, hafði frumkvæði að gerð hann og annaðist hann rekstur hans um langt skeið. Hafði einn félaganna, Guðmundur Einarsson, framkvæmdastjóri í Dverg, hvatt til þess að sérkenni Hafnarfjarðarhrauns yrðu varðveitt og þótti Hellisgerði ákjósanlegur staður til að koma upp blóma- og skemmtigarði. Í skipulagsskrá segir að tilgangurinn væri þríþættur: 1. Að vera skemmtistaður, þar sem bæjarbúar eiga kost á að njóta ánægju og hvíldar í tómstundum sínum. 2. að vekja áhuga bæjarbúa á blóma- og trjárækt. 3. að geyma óraskaðar minjar um hið sérkennilega bæjarstæði Hafnarfjarðar, þegar mannvirki framtíðarinnar hafa máð þær út annars staðar í bænum.

Var skipað fimm manna garðráð sem stjórnaði starfseminni til 1977 er starfsemi Magna lagðist niður og hefur Hellisgerði síðan verið á ábyrgð garðyrkjustjóra Hafnarfjarðarbæjar.

Bjarni riddar.

Bjarni riddari í Hellisgerði.

Árið 1950 var afhjúpuð stytta af Bjarna riddara Sivertsen sem gerð var af hinum merka listamanni Ríkharði Jónssyni. Það voru útgerðarfélögin Hrafna-Flóki og Vífill sem gáfu 25 þúsund kr. í tilefni af 25 ára afmælis Magna. Stendur styttan vestarlega í garðinum, á stalli úr hraungrýti sem sótt í Selvog þar sem Bjarni hóf verslunarstörf sín.

Bjarni Sívertsen er talinn vera frumkvöðull í Hafnarfirði. Árið 1813 flutti hann um 500 plöntur frá Skotlandi og gróðursetti víðsvegar í Hafnarfirði.

Hellisgerði er um 1,4 ha af stærð og liggur milli Reykjavíkurvegar, Hellisgötu og Skúlaskeiðs.

Skammt frá styttunni eru tóftir lítils húss sem talið hafa upphaflega verið kamar en seinna notað sem verkfærageymsla Magna-manna.

Vert er að skoða tré ársins 2017 sem Skógræktarfélag Íslands útnefndi. Það er beyki, Fagus sylvatica.

2 – Einarsreitur

Einarsreitur

Einarsreitur,

Framan af í Hafnarfirði var saltfiskur einkum þurrkaður á mölunum við sjávarsíðuna eins og á Hamarskotsmöl og Langeyrarmölum en þegar útgerðin jókst og bærinn stækkaði þurfti að finna stærri og betri svæði fyrir fiskreitina.

Frá Einarsreit. Ljósm.: Óþekktur

Framan af 20. öldinni voru margir fiskreitir útbúnir í Hafnarfirði og þá einkum í hrauninu í útjaðri hans og urðu þeim hin mestu mannvirki. Það verk að brjóta Hafnarfjarðarhraunið undir fiskreiti var mikið og erfitt starf sem oftast var unnið í akkorðsvinnu. verkfærin voru járnkarl, haki, sleggja og fleygar auk hins svokallaða Hafnarfjarðarþrífótar sem var eins konar krani, píramídalagaður gálgi með blökk og handvindu sem fjórir menn gátu komist að samtímis og lyft þannig allþungu grjóti eða dregið á milli staða. Eins og sjá má á hleðslunum hér var grjótinu ekki hrúgað upp heldur lögðu menn metnað í hleðslurnar, jafnvel þótt um ákvæðisvinnu væri að ræða.

Einarsreitur

Einarsreitur – skilti…

Einar Þorgilsson útgerðarmaður lét úbúa saltfiskreiti þennan árið 1913 og var hann stækkaður nokkuð árið 1929 en þá lét Einar jafnframt reisa hér þurrkhús sem var þá eitt það fullkomnasta hér á landi.

Nú hefur mikil íbúðabyggð risið á svæðinu en fiskreitirmir eru friðaðir og þar má finna upplýsingaskilti. Aðrar minjar um starfsemi á svæðinu eru horfnar, m.a. braggar og stríðsminjar frá síðari heimsstyrjöldinni en braggarnir voru síðar notaðir undir fjölbreytta starfsemi.

3 – Mánastígur
Fjölmörg opin svæði eru í Hafnarfirði sem eru ómerkt og gönguleiðir að þeim alveg ómerktar. Þar leynast margar náttúruperlur, ekki síst í hraununum við Álfaskeið og Arnarhraun. Aðgengi að þeim er í raun ágætt og stígar í gegnum þau, en þessir stígar eru heldur hvergi merktir.

Stígur gengur í gegnum hraunið á milli Mánastígs og Klettahrauns.

Eitt þessara svæða liggur á milli Arnarhrauns, Álfaskeiðs og Klettahrauns og er ágætt aðgengi að hrauninu um stíg sem liggur í beinu framhaldi af Mánastíg, en við hann eru aðeins þrjú hús. Hann liggur í gegnum svæðið og inn á Klettahraun.

Þaðan er tilvalið að ganga yfir Smyrlahraunið yfir á Einarsreitinn þar sem finna má minjar um fiskþurrkun.

Hraunið sem er um 1,5 ha að stærð, er að mestu ósnortið og til almenningsafnota þó einhverjir lóðarhafar hafi fikrað sig inn á bæjarlandið með sínar lóðir. Þarna má njóta fjölbreytileika hraunsins og gaman að sjá hvernig trjáplöntur ná að nýta sér sprungur í hrauninu til að dafna. Ef vel er gáð má finna þar hleðslur.

4 – Reykdalsvirkjunin

Reykdalsvikjunin

Reykdalsvirkjunin.

Árið 2001 var stofnaður vinnuhópur til að undirbúa hvernig minnast mætti á eftirminnilegan hátt brautryðjandastarfs Jóhannesar J. Reykdals og 100 ára afmælis rafvæðingar í Hafnarfirði og á Íslandi.

Hópurinn tók sér vinnuheitið Reykdalsfélagið og að frumkvæði þess var ráðist í endurbyggingu Reykdalsvirkjunar, sem upphaflega var gangsett haustið 1906.

Endurbyggingin náði til endurgerðar miðlunarlóns, stíflu og aðveitustokks, auk þess sem byggt var nýtt glerhús sem hýsir hverfil og rafal undir brúnni á Lækjargötu.

Framkvæmdum við endurbygginguna lauk seint árið 2007 og var Reykdalsvirkjun formlega endurræst þann 18. janúar 2008.

Fyrsta almenningsrafveita á Íslandi tók til starfa í Hafnarfirði árið 1904. Rafstöðin var við Austurgötu og í eigu Jóhannesar Reykdal. Vegna mikillar eftirspurnar eftir raforku í bænum árið eftir, var ákveðið að reisa nýja og mun stærri rafstöð við Hörðuvelli. Jóhannes leigði landið af staðarhaldaranum á Görðum en auk stíflunnar lét hann reisa langan vatnsstokk og stöðvarhús með íbúð fyrir stöðvarstjórann og fjölskyldu hans. Hörðuvallahúsið er fyrsta rafstöðvarhús sem reist var á Íslandi.

Reykdalsvirkjunin

Reykdalsvirknunin.

Þessi nýja virkjun var tekin í notkun haustið 1906 og var gerð fyrir 37 kw en vegna vatnsleysis gat hún aldrei framleitt meira en 22 kw. Árið 1909 keypti Hafnarfjarðarbær báðar rafstöðvarnar af Jóhannesi og í kjölfarið var stofnuð Rafljósanefnd. Rafmagnssölunni var þannig háttað á þessum árum að einungis var hægt að fá rafmagn á svokölluðum ljósatíma en hann var frá því er skyggja tók og fram til miðnættis á tímabilinu 15. ágúst til 15. maí. Á öðrum tímum var ekkert rafmagn að fá.

Árið 1914 var vatnsstokkurinn frá stíflunni og niður að stöðvarhúsi orðinn svo lélegur að ákveðið var að stytta hann og rafljósastöðin færð úr íbúðarhúsinu í nýtt hús er stóð mun nær stíflunni.

Fljótlega var ljóst að þessar tvær rafstöðvar nægðu ekki til að veita þá raforku sem Hafnarfjarðarbær þurfti á að halda. Margar leiðir voru skoðaðar en að lokum var brugðið á það ráð að reisa dísilrafstöð við Strandgötu og var það fyrirtækið Nathan & Olsen sem átti og starfrækti þá stöð. Það var árið 1922 sem sú stöð tók til starfa og sá hún bænum vestan lækjar fyrir rafmagni en eldri stöðvarnar sáu um þann hluta bæjarsins sem var sunnan lækjar. Þetta fyrirkomulag stóð stutt því að árið 1923 var neðri rafstöðin lögð niður og þremur árum síðar var svo komið að Hörðuvallastöðin gat ekki lengur séð íbúum sunnan lækjar fyrir nægilegu rafmagni. Var hún þá einnig lögð niður og eftir það sá stöð Nathan Olsen öllum bænum fyrir raforku.

Stöðvarstjórar við Hörðuvallastöðina voru Jón Þórðarson (1906-1908), Þórður Einarsson (1908-1914) og Árni Sigurðsson (1914-1926).

Reykdalsstíflan

Afrakstur Reykdalsstíflunnar fyrrum.

Árið 1901 flutti ungur trésmiður til Hafnarfjarðar, Jóhannes J. Reykdal, en hann hafði þá nýlokið námi í iðn sinni í Danmörku. Til Hafnarfjarðar kom hann í þeim erindagjörðum að stofna hér trésmíðaverksmiðju en hann taldi að Hamarskotslækurinn væri ákjósanlegur aflgjafi fyrir vélar verksmiðjunnar. Í verksmiðju þessari, sem tók til starfa árið 1903, voru átta trésmíðavélar sem allar voru knúnar áfram af fallorku lækjarins. Það var þannig gert að 94 metra langur tréstokkur var reistur og í honum var vatninu veitt í vatnskassa sem áfastur var við húsið. Fallhæð vatnsins í kassanum var tæpir fjórir metrar og í honum var 11 kílóvatta hverfill. Frá hverflinum lá aðalöxullinn inn í kjallarann undir húsinu og þaðan lágu svo reimar upp í gegnum gólfið í tvær hreyfivélar sem aftur knúðu trésmíðavélaranar.

Reykdalsvirkjun

Reykdalsvirkjun endurgerð.

Í frétt Heimskringlu af stofnun verksmiðjunnar sagði meðal annars: „Lækurinn í Hafnarfirði er um aldir og áratugi búinn að renna út í fjarðarbotninn án þess að miðla nokkru af afli sínu mönnum til nytsemdar. Nú er mannshöfnin búin að beizla hann, og er það allrar virðingarvert. Vonandi, að ekki líði langar stundir þangað til hann vinnur fleiri þarfaverkin Hafnfirðingum til þarfa og sóma t.d. að lýsa upp hús og götur þar í bænum.“ Það var einmitt raunin, því árið 1904 keypti Jóhannes níu kílóvatta rafal frá Noregi og tengdi hann við ás nýs hverfils.
Í kjölfarið réð hann Halldór Guðmundsson rafmagnsfræðing, sem þá var nýkominn heim úr námi í Þýzkalandi, til að annast lagningu raflagnanna til húsa í nágrenninu og Árna Sigurðsson, sem síðar varð fyrsti rafvirki landsins, til að sjá um tengingu raflagnanna innanhúss. Í desember 1904 voru svo fyrstu rafljósin kveikt en þá var búið að leggja rafmagn í 16 hús auk fjögurra ljóskera í bænum. Á þess­um tíma bjuggu 1.079 manns í Hafnar­f­irði.

Meðal húsanna sem tengd voru má nefna Góðtemplarahúsið, barnaskólann, trésmíðaverkstæðið og íbúðarhús Jóhannesar Reykdals við Brekkugöötu.

Fljótlega kom upp sú staða að rafstöð þessi náði ekki að sinna þeirri eftirspurn sem myndaðist og var ráðist í að reisa aðra, mun stærri, rafstöð við Hörðuvelli sem tekin var í notkun árið 1906. Trésmíðaverkstæðið seldi Jóhannes tólf Hafnfirðingum árið 19111 en þeir mynduðu sameignarfélag um reksturinn undir nafninu Dvergur, trésmíðaverksmiðja og timburverzlun Hafnarfjarðar, Flygenring & Co. og starfaði hún um áratugaskeið í bænum.

5 – Reykdalsstíflan

Reykdal

Reykdal – minnisvarði.

Fyrsta almenningsrafveita á Íslandi var reist í Hafnarfirði árið 1904. Var það athafnamaðurinn Jóhannes Reykdal sem reisti hana og átti og stóð rafstöðin við Austurgötu.

Fljótlega dugði hún ekki til og reisti Jóhannes þá nýtt stöðvarhús á Hörðuvöllum og stíflu í Hamarskostslæk um 100 m ofar.

Stíflan hefur verið endurgerð á upprunalegum stað og stokkur byggður í stíl við upphaflega stokkinn.

Rafstöð til að minnst frumkvöðulsins var svo byggð undir Lækjargötubrúnni. Sú virkjun er í raun endurgerð Hörðuvalavirkjunar sem tekin var í notkun 1906.

Setbergsbærinn

Setbergsbærinn – tóftir.

6 – Setbergsbærinn gamli
Um aldir hefur verið búið á jörðinni Setbergi við Hafnarfjörð en elstu heimildir um jörðina eru frá árinu 1505. Bærinn stóð ofarlega í Setbergstúninu en túnið lá á móti suðvestri. Upp úr 1770 var bærinn teiknaður upp og var þá hinn reisulegasti enda sýslumannssetur. Minjar Setbergsbæjarins hafa verið friðlýstar.

Til eru sögur um bænahús eða kapellu við Setbergsbæinn og á hún að hafa staðið þar sem nú er „Galdraprestaþúfa“ skammt frá bæjarrústinni. Þar réð meðal annars ríkjum sr. Þorsteinn Björnsson (d. 1675) en eftir hann liggur kvæðasafnið „Noctes Setbergenes“ eða Setbergsnætur sem varðveitt er í Árnasafninu. Kvæðasafn þetta orti hann meðal annars til að „stytta sér hið leiða líf“ eins og hann orðaði það sjálfur. Þorsteinn þessi var, að talið er, rammgöldróttur og lagði hann svo á að ekki mætti hrófla við þessari þúfu án þess að illa færi.

Upplýsingaskilti hefur verið komið upp við rústina.

7 – Stekkjarhraun

Stekkjarhraun

Stekkjarhraun – stekkur.

Stekkjahraun var friðlýst árið 2009 en það liggur á milli Setbergshverfisins og Mosahlíðarinnar. Hraunið þar kom úr Búrfelli fyrir um 8.000 árum eins og stór hluti hraunsins í Hafnarfirði og í Garðabæ sem þekur um 18 km² svæði. Meðfram því liggur Lækjarbotnalækur.

Stekkjarhraun dregur nafn sitt af stekk eða stekkjum frá Hamarskoti og Görðum og má enn sjá leifar þeirra. Í bréfi frá 1670-80 segir, að Hamarskot og Garðar hafi haft þarna stekk.

Stekkjarhraun er í beinu framhaldi af Gráhelluhrauni og hefur hraunið runnið um þröngan farveg milli Setbergshlíðar og Mosahlíðar. Aðgengi að svæðinu er gott og er það því ákjósanlegt til fræðslu og útikennslu. Með friðlýsingunni er einnig verið að vernda votlendisbletti við Lækinn þar sem hann rennur með Stekkjarhrauni, en þar vaxa m.a. horblaðka og starir sem eru fágætar tegundir í þéttbýli.

Rétt hjá er vatnsból, nefnist Lambadrykkur. Vestan undir hrauninu eru hvammar tveir. Nefnast þeir Atkeldan nyrðri og Atkeldan syðri, en frá þeim rennur Atkeldnalækur. At til litunar var tekið á þessum stöðum.

8 – Skotbyrgi á Mógrafarhæð

Mógrafarhæð

Mógrafarhæð – skotbyrgi.

Mógrafarhæð nefnist öxlin sem gengur suðaustur frá hábungu Ásfjalls innan við byggðina í Áslandi 3, í áttina að Bláberjahrygg. Ekki er þó talið að mótekja hafi verið á þessu svæði.

Austarlega í hæðinni er skotbyrgi sem breskir hermenn hlóðu sumarið 1940. Þeir stóðu vaktina með riffla en þar var einnig gervifallbyssu úr gildum trjálurk sem leit út eins fallstykki úr lofti.

Einnig eru skotbyrgi undir Dagmálavörðunni. Þá eru leifar fimm annarra byrgja suðaustar í fjallinu.

Ógreinilegur troðningur er í gegnum lúpínuna frá Skógarási að skotbyrginu og frá skotbyrginu að vörðunni á Ásfjalli.

9 – Varðan á Ásfjalli

Ásfjall

Ásfjall – varðan og hleðslur umhverfis.

Ástjörn og Ásfjall var friðlýst sem fólkvangur árið 1996. Fólkvangurinn umlykur friðland Ástjarnar en Ástjörn og svæðið umhverfis hana var friðlýst árið 1978.

Ásfjallið var lengi sagt lægsta fjall á Íslandi. Það mun þó ekki vera alls kostar rétt því á Austurlandi mun þó finnast fjall sem mælist lægra.

Útsýni af fjallinu er gott og sérstaklega áhugavert fyrir áhugafólk um jarðfræði og sögu höfuðborgarsvæðisins.

Á Ásfjalli eru minjar um hersetu fyrr á öldinni, m.a. eru minjar frá hersetu Breta neðan við vörðuna.

Ásfjall er hæst 127 m.y.s. Það er í raun grágrýtishæð. Ásfjall og Ástjörn bera nafn af bænum Ási, sem stóð undir fjallinu. Fjallið er víðast hulið lausum jarðlögum, en allvel gróið mosa og lyngi. Efst á því er Dagmálavarðan, sem nú hefur verið endurhlaðin.

Dagmálavarðan var fyrst og fremst leiðarmerki á fiskimið, sbr.: „Með hvarfi vörðunnar á Ásfjalli hefði líka horfið eitt ágætt fiskimið. Í endurminningum Erlends Björnssonar á Breiðabólsstöðum kemur fram að Ásvörðuslóð er eitt að þeim miðum sem mest voru sótt fram á Sviði. Önnur mið á Sviðinu heita Sandhali, Marfló, Klettslóð, Bollaslóð og Riddararnir saman. Reyndar talar Erlendur um vörður í Ásfjalli og því virðast þær hafa verið fleiri um aldamótin 1900. En miðið Ásvörðuslóð er þegar Valahnjúkarnir eru um vörður á Ásfjalli.“ Til fróðleiks má nefna að nú er aðeins annar Riddarinn eftir og er hann á Helgafelli.

Ásfjall

Svona leit varðan út árið 2007 eftir að hún hafði verið skemmd.

Rótarýklúbbur Hafnarfjarðar reisti árið 1987 útsýnisskífu á fjallinu, rétt við vörðuna. Með útsýnisskífunni má þekkja fjöll og staði sem fyrir augum ber.

Friðlandið við Ástjörn er 28,5 ha að stærð og var friðlýst 1978. Vegna fuglaverndunar er óheimilt að fara um svæðið frá 1. maí til 15. júlí utan merktra stíga. Bærinn Ás stóð í brekku vestan undir Ásfjalli. Norður frá Ástjörn var býli, sem hét Stekkur. Þar mun hinn gamli stekkur frá Ási hafa verið. Þótt bærinn Ás hafi verið rifinn má enn sjá margar minjar húsa og annarra búsetuleifa.

Varðan á Ásfjalli var eyðilögð 2006 eða 2007 en var reist aftur með leiðsögn frá Byggðasafni Hafnarfjarðar. Mörgum þykir hún þá allt of flöt og ekki lík þeirri sem menn muna eftir fyrrum.

10 – Bleikisteinn

Bleiksteinn

Bleiksteinn.

Á Bleikisteinshálsi, efst á Hamranesi, er Bleikisteinn sem var markavarða jarðanna Hvaleyrar og Áss. Á honum er gróin fuglaþúfa, sem einhverju sinni hefur verið lítil varða á jarðfastri klöppinni.

Hamranesið er í dag að mestu útgrafið en þar var sprengt grjót til að nota við nýjustu hafnargarðana í Hafnarfjarðarhöfn. Útjaðrarnir eru þó eftir sem mynda nesið, og sjá má mikil björg, fagurlega skreytt skófum norðan vert í hálsinum.

Landmælingastólpi er við Bleikstein.

Í örnefnalýsingunni (AG) fyrir Ás segir: „Svo er hár hnúkur syðst á fjalli, sem heitir Vatnshlíðarhnúkur. Vestur af honum hallar fjallinu niður og myndar þar háls, sem nær niður á Hamranesið fyrrnefnda og heitir Bliksteinaháls eða Bleiksteinaháls. Á honum eru tveir steinar ljósir að lit, sem heita Bliksteinar. Þeir eru í hálsinum norðanverðum og eru á merkjum móti Hvaleyri.“

Ofar, á Bleikisteinshálsi, er markavarða í línu að Þormóðshöfða. Þessi varða er nokkrum metrum ofan við endimörk mikils jarðrasks utan í hálsinum.

12 – Krýsuvíkurvegurinn gamli

Krýsuvíkurvegur

Krýsuvíkurvegurinn gamli við Vellina.

„Hinn nýi vegur til Krýsuvíkur, sem nú er í smíðum, hefur vakið mikið umtal, og hefur fyrirtæki þetta að mestu sætt áfellisdómum. Er því einkum borið við, að vegagerð þessi verði vitleysislega dýr, en gagnið af henni óvíst.“ Þetta mátti lesa í ítarlegri grein Árna Óla í Lesbók Morgunblaðsins 21. júlí 1940.

Finna má ummerki gamla Krýsuvíkurvegarinn vestan við göngustíginn að undirgöngunum undir Reykjanesbraut á móts við Bónus. Þar má sjá upphlaðinn veginn með vönduðum hleðslum.

Krýsuvíkurvegur

Hér má sjá hvar vegurinn tengdist yfir á Hvaleyrarholtið. Nútímalegri vegamannvirki á Reykjanesbraut fjær.

Það skal getið að Reykjanesbrautin kom langt á eftir Krýsuvíkurveginum og leiðin út úr Hafnarfirði var um Suðurgötu og það sem nú heitir Suðurbraut.

Fjölmargir ganga fram hjá gamla Krýsuvíkurveginum sem enn hefur ekki verið merktur.

13 – Ljónagryfjan

Ljónagryfjan

Ljónagryfjan.

„Ljónagryfjan” svonefnda myndaðist þegar tekið var stórgrýti vegna hafnarframkvæmda við Suðurgarðinn i Hafnarfirði um 1950.

Fyllt hefur verið upp í gryfjuna og skemmtilegum leikvelli komið fyrir. Aðkoman að gryfjunni var fremst á myndinni.

Á áttunda áratugnum notaði Fiskimjölsverksmiðjan Lýsi & mjöl gryfjuna fyrir loðnuþró, en undir lok áratugsins notaði Hafnarfjarðarbær hana sem geymslu fyrir bílhræ í nokkurn tíma.

Töluvert var um að fólk næði sér í varahluti úr bílhræjunum um leið og það losaði sig við rusl að heiman í gryfjuna. Fyrir rest var gryfjan hreinsuð og síðar fylltu upp að hluta en í dag er þarna leikvöllur og fallegt umhverfi.

14 – Verslunarstaðurinn Fornubúðir

Fornubúðir

Fornubúðir og Slippurinn.

Hafnarfjörður var aðalhöfn Hansakaupmanna hér á landi á ofanverðri 15. öld og alla þá sextándu.

Verslunarbúðir Hansakaupmanna í Hafnarfirði voru á svoköllum Háagranda sem var ysti hluti Hvaleyrargranda. Þar höfðu þeir ríka þörf fyrir varanlegan húsakost enda fjölmennar áhafnir á skipum þeirra, jafnvel um 60 manns á hverju.

Fornubúðir voru á tanga sem náði all frá Hvaleyrarlóni og að þar sem nú er smábátabryggja.

Gísli Sigurðsson skrifaði um Fornubúðir og Hvaleyrartjörn í tímaritið Sögu árið 1963: hann, verzlunarstaðurinn við Hafnarfjörð á miðöldum. Hann er talinn hafa staðið á Hvaleyrargranda, sem líka er nefndur Hafnarfjarðargrandi eða Grandinn við Hafnarfjörð. Þarna er hann talinn hafa staðið, frá því sögur hófust um verzlun og siglingar til Hafnarfjarðar fram til ársins 1677, að verzlunarstaðurinn var fluttur norður yfir fjörðinn, í land Akurgerðis, hjáleigunnar hjá Görðum. Talið er, að færsla þessi hafi átt sér stað sérstaklega vegna þess, að þrengdist um hann af landbroti og sjávargangi.“

Hafnarfjarðarhöfn

Hafnarfjarðarhöfn fyrrum.

Þá segir hann einnig: „.. en það, sem tekur af öll tvímæli um legu verzlunarstaðarins, eru þó ummæli Skarðsár- og Setbergsannála um drukknun þeirra Bjarnastaðafeðga, Ásbjörns Jörinssonar og sona hans. Hann vildi ríða ósinn frá verzlunarstaðnum, e« ósinn var óreiður. Við þekkjum þetta Hafnfirðingar, sem munum ósinn milli Háagranda og óseyrar meðan hann var óheftur. Þá var hann hverjum hesti ófær, með an harðast var í honum útstreymið. Að öllu þessu athuguðu mun því mega f ullyrða, að Fornubúðir, verzlunarstaðurinn við Hafnarfjörð, hafi staðið á Háagranda innst á Grandanum við Hafnarfjörð.“

Hansakaupmenn

Minnismerki um Hansakaupmenn við Hafnarfjarðarhöfn.

Kirkjan sem Hansakaupmenn reistu á Háagranda að talið er 1533 var fyrsta lúterska kirkjan hér á landi og nokkuð vegleg timburkirkja með koparþaki. Að stofnun og byggingu kirkjunnar stóðu bæði kaupmenn og skipstjórar sem lögðu stund á Íslandssiglingar en þeir voru í trúarlegu bræðralagi sem bar nafnið „Die Islandfahrerbrüderschaft“. Var kirkjan notuð til 1603.

Þann 1. júlí 2003 afhjúpuðu forsetar Íslands og Þýskalands minnismerki á Óseyrarbryggju til minningar um fyrstu lúhersku kirkjuna sem reist var á Íslandi fyrir u.þ.b. 400 árum síðan. Það var þýski listamaðurinn Hartmut Wolf sem gerði listaverkið sem myndar táknrænan gotneskan boga úr íslensku grjóti.

15 – Dráttarbrautin

Dröfn

Dröfn- leifar dráttarbrautarinnar.

Skipasmíðastöðin Dröfn var stofnuð árið 1941 en árið 1944 var hafin bygging dráttarbrautarinnar sem tekin var í notkun 1946. Áður hafði helsta skipasmíði í Hafnarfirði verið í Skipasmíðastöð Haraldar Nyborg neðan við þar sem ráðhús bæjarins er núna. Hins vegar mun Bjarni riddari Sivertsen hafa haft sína merku skipasmíðastöð á þessum slóðum, í landi Ófriðarstaða, í upphafi 19. aldar.

Dröfn hf. var lýst gjaldþrota 1995 en síðar eignaðist Vélsmiðja Orms og Víglundar dráttarbrautina en hún hefur ekki verið notum um langt árabil.

Í húsi ofan við Strandgötuna, sem í daglegu tali nefnist Drafnarhúsið, var um langt skeið blómleg iðnaðarstarfsemi. á efri hæðinni rak Dröfn öflugt trésmíðaverkstæði en á neðri hæðinni var byggingarvöruverslun Drafnar. Í hliðarbyggingu, þar sem veitingastaðir eru í dag var járn- og vélaverkstæði sem þjónustaði að mestu skipasmíðina og viðgerðir á skipum. Vestan við dráttarbrautina standa enn smíðaverkstæði skipasmíðastöðvarinnar og nýrra hús sem hýsti minni báta og bátasmíði. Ofan við vélarhús dráttarbrautarinnar var gufuofn þar sem efniviður í trébáta var gufuhitað svo auðveldara væri að aðlaga það að formi bátanna.

Dráttarbrautin

Frá Dráttarbrautinni.

Í viðtali í Þjóðviljanum 1960 sagði hinn merki sögusafnari, Gísli Sigurðsson lögregluþjónn, að í Hafnarfirði væri aðallega hægt að fá mó á þremur stöðum í Hafnarfirði. Það var í Hamarskotsmýrinni meðfram læknum, Sjávarmýrinni, þar sem skipasmíðastöðin Dröfn var síðar en þar var mórinn 18 stungur að dýpt. Þegar dráttarbrautin var byggð þar var tveggja mannhæða rof niður á móhellu.

Heimild:
-https://ratleikur.fjardarfrettir.is/litli-ratleikur-hafnarfjardar/litli-ratleikur-2021/

Setbergsbærinn

Setbergsbærinn – tóftir.

Litli Ratleikur Hafnarfjarðar 2020

Litli Ratleikur Hafnarfjarðar er nýr ratleikur sem fór af stað í miðjum kórónafaraldri árið 2020 og er ætlaður til að hvetja fólk til að njóta útivistar um leið og það lærir um fróðlega staði í útjaðri bæjarins og í bænum sjálfum. Leikurinn er samvinnuverkefni Fjarðarfrétta og Hafnarfjarðarbæjar. Guðni Gíslason lagði leikinn.
Litli Ratleikur er frábrugðinn stóra Ratleik Hafnarfjarðar, engin ratleiksmerki eru á staðnum eða ratleikskort. Hann er einungis á vefnum og hægt er að stunda hann hvenær sem er.
Í Litla Ratleik 2020 eru 15 áhugaverðir staðir. Að þessu sinni:

1 – Útihús við Ástjörn

Ástjörn

Ástjörn – útihús.

S-A Ástjarnar, neðan við klapparhól sem vel sést frá göngustígnum eru rústir útihúss. Svona rústir og ummerki mannvistar er víða að finna í landi Hafnarfjarðar en opinber skráning þeirra er af skornum skammti og nær engar þeirra merktar. Flestar rústir sem enn er að finna eru ummerki um búskaparhætti fyrri alda. Líklegt er að þetta séu rústir útihúss sem tilheyrði bænum Ási sem stóð þarna skammt frá og var rifinn síðla á síðustu öld.

Greinilega má sjá hleðslurnar skammt frá göngustígnum. Hleðslurnar eru neðan við stóran klett við stíginn.

Ástjörn

Útihús við Ástjörn.

Markmiðið er að ganga í kringum Ástjörnina sem er rúmlega 3 km hringur frá bílastæðunum. Til viðbótar má ganga upp að útsýnisskífunni á Ásfjalli að norðanverðu, og ganga eftir öxlinni og koma niður á Skarð, þar sem finna má grjóthlaðinn stekk, og á göngustíginn í kringum Ástjörnina. Allt eru þetta ágætir stígar, misgóðir þó.

Ástjörn

Ástjörn.

Friðlandið við Ástjörn er 28,5 ha að stærð og var friðlýst 1978. Vegna fuglaverndunar er óheimilt að fara um svæðið frá 1. maí til 15. júlí utan merktra stíga. Bærinn Ás stóð í brekku vestan undir Ásfjalli. Norður frá Ástjörn var býli, sem hét Stekkur. Þar mun hinn gamli stekkur frá Ási hafa verið. Þótt bærinn Ás hafi verið rifinn má þar enn sjá margar minjar húsa og annarra búsetuleifa.

Ástjörnin er vogskorin uppistöðutjörn sem myndast hefur í kvos vestan undir Ásfjalli þegar Hellnahraun rann fyrir um 2000 árum og stíflaði afrennsli hennar til sjávar. Í tjörnina renna nokkrir smálækir og er yfirborðsrennslið breytilegt sem hefur þó lítil áhrif á vatnsborðið.

Lífríki tjarnarinnar er fjölbreytilegt og hér er kjörlendi margra fuglategunda því fæðuframboð í tjörninni er mikið. Sést hafa 44 tegundir fugla við tjörnina.

Tjörnin og nánasta umhverfi nýtur friðlýsingar vegna fjölskrúðugs fuglalífs og lífríkis. Þar sem Ásbærinn gamli stóð áður er nú trjáreitur frá því þar var skógræktarstöð og liggur göngustígurinn umhverfis vatnið þar í gegn.

Skammt vestan bæjarstæðisins milli Ásfjallsaxlar og Grísaness er Hádegiskarðið sem ferðalangar gengu um fyrrum er þeir fóru Stórhöfðastíg og Hrauntungustíg til Krýsuvíkur eða Grindavíkur.

Fólkvangurinn Ásfjall og umhverfi Ástjarnar var opnaður 10. maí 1997.

2 – Útsýnisskífa á Ásfjalli

Ásfjall

Ásfjall – útsýnisskífa.

Lengi var talið að Ásfjall væri lægsta fjall á Íslandi. Reyndar er lægra fjall á Austurlandi svo Ásfjall er þá a.m.k. næst lægsta fjall Íslands.

Á Ásfjalli er gott útsýni yfir fallegan fjörðinn og nágrenni og það nýttu sér hermenn á stríðsárunum. Enn má sjá merki eftir byrgi þeirra á fjallinu.

Rótarýklúbbur Hafnarfjarðar reisti árið 1987 útsýnisskífu á fjallinu, rétt við vörðuna sem þar er. Með útsýnisskífunni má þekkja fjöll og staði sem fyrir augum ber.

Markmiðið er að ganga upp á Ásfjallið til að upplifa fallegt útsýnið yfir Hafnarfjörð. Frá útsýnisskífunni má ganga eftir öxlinni til suðurs og koma niður á Skarð og á göngustíginn í kringum Ástjörnina. Slóðinn á fjallinu er greinilegur en grófur.

Friðlandið við Ástjörn er 28,5 ha að stærð og var friðlýst 1978. Vegna fuglaverndunar er óheimilt að fara um svæðið frá 1. maí til 15. júlí utan merktra stíga. Bærinn Ás stóð í brekku vestan undir Ásfjalli. Norður frá Ástjörn var býli, sem hét Stekkur. Þar mun hinn gamli stekkur frá Ási hafa verið. Þótt bærinn Ás hafi verið rifinn má enn sjá margar minjar húsa og annarra búsetuleifa.

Ásfjall

Ásfjallavarða árið 2007.

Varðan á Ásfjalli var eyðilögð snemma á öldinni en var reist aftur með leiðsögn frá Byggðasafni Hafnarfjarðar. Mörgum þykir hún þá allt of flöt og ekki lík þeirri sem menn muna eftir fyrrum.

Ásfjallavarða

Ásfjallavarða árið 2020 og ummerkin umleikis.

Útsýnisskífan á Ásfjalli átti sér langa sögu eins og segir í 50 ára afmælisriti Rótarýklúbbs Hafnarfjarðar. Þegar hún var komin á sinn stað voru fimmtán ár liðin frá því að fyrst var rætt um það í klúbbnum að hann ætti að beita sér fyrir því að koma upp útsýnisskífu á Ásfjalli. Málinu var hreyft öðru hvoru en úr framkvæmdum varð ekki fyrr en árið 1987 að forseti klúbbsins, Steingrímur Atlason, fékk nokkra vaska drengi í lið með sér og verkið var unnið.

Þessir félagar voru auk forsetans: Jón Bergsson, Sigurbjörn Kristinsson, Gísli Guðmundsson, Hjalti Jóhannsson, Einar Ágústsson og Gunnar Hjaltason. Lögðu þeir allir fram góð ráð, mikla vinnu og fagþekkingu án þess að ætlast til launa.

Loks stóðu 14 manns á Ásfjalli við vígslu skífunnar 26. júní 1987 og veðurguðir sáu um hressilega vatnsskírn því að regn bókstaflega hvolfdist úr loftinu.

Vígsluskálina hafði forseti í fórum sínum og þótti mönnum ekki vanþörf á. Þegar menn bergðu á veigunum reyndust þær vera íslensk mysa. Sló þá þögn á mannskapinn!

3 – Ósinn

Ósinn

Bekkur við Ósinn.

Ósinn er heiti á mannvirki sem tengist fráveitu Hafnarfjarðar. Í gegnum þetta mannvirki er skolpi dælt frá stórum hluta bæjarins út í pípu sem liggur undir Hvaleyrina og út í hreinsi- og dælustöð í Hraunavík en þaðan er öllu skolpi dælt langt á haf út eftir að það hefur verið grófhreinsað. Skolpdælistöðvar bæjarins hafa gjörbreytt áhrifum skolpsins við strendurnar frá því sem áður var.

Horft að miðlunartankinum sem hægt er að fara upp á.

Gott að leggja
Leggja má við enda Óseyrarbrautar þar sem hún sveigir til hægri við tanka Atlantsolíu.

Markmið
Markmiðið er að ganga stíginn við Hvaleyrarlónið, upplifa fegurð þess og láta sig dreyma um að sjá alla þá byggð sem var á Hvaleyrinni. Við enda stígsins er Ósinn og upp á mannvirkið eru tröppur sem leiðir gesti að útsýnisstað með bekkjum.

Bekkir leynast uppi á miðlunartankinum.

Fróðleikur
Lang stærstur hluti hafnarsvæðisins er á uppfyllingu og er svæðið sem Ósinn er á það nýjasta og stærsta.

Í 2. kafla Landnámu segir að þar hafi Flóki Vilgerðarson og Herjólfur, bóndi er honum fylgdi, komið að landi fyrir árið 870 og dvalið um stund. „Flókaklöppin“ efst á Hvaleyrarholti er með ýmsum áletrunum, sem sumir telja vera eftir áhöfnina.

4 – Minnisvarði um Hrafna-Flóka
Í Landnámu segir frá því er Hrafna Flóki, Flóki Vilgerðarson, kom til Hafnarfjarðar þar sem hann fann félaga sinn Herjólf, sem hafði orðið viðskila við hann á eftirbát í mynni Faxaflóa. Fann Flóki þar og rekinn hval við eyri og nefndi Hvaleyri.

Var Hrafna-Flóka reistur minnisvarði í vörðuformi hæst uppi á Hvaleyri og var hann vígður í lok Víkingahátíðar 13. júlí 1997. Varðan er úr norsku grjóti og er gjöf frá Norðmönnum til minnis um atburðinn.

Markmiðið er að ganga stíginn við Hvaleyrarlónið, upplifa fegurð þess og láta sig dreyma um að sjá alla þá byggð sem var á Hvaleyrinni. Einnig að kynnast sögunni um Hrafna-Flóka og jafnvel um þá fornu byggð sem var á Hvaleyrinni, Hvaleyri, Sveinskot, Hjörtskot, Hvaleyrarkot, Vesturkot og Halldórskot.

Hrafna-Flóki

Minnisvarða um Hrafna-Flóka á Hvaleyrarholti.

Í Landnámu segir frá því að Flóki hafi upphaflega haldið af stað frá Noregi vestur um haf til að leita lands sem fréttir höfðu borist af. Hann ætlaði að setjast þar að og þess vegna voru með í för fjölskylda hans og frændlið, auk búfénaðar. Af förunautum Flóka eru nefndir þeir Herjólfur, Þórólfur og Faxi. Flóki hafði með sér þrjá hrafna sem hann hafði blótað í Noregi og lét þá vísa sér leið til Íslands. Hann sleppti fyrst einum og flaug sá aftur um stafn í átt til Færeyja, sá næsti flaug í loft upp og aftur til skips en sá þriðji flaug fram um stafn í þá átt sem Flóki og félagar fundu landið. Þeir komu að Horni eystra, síðan sigldu þeir suður og vestur fyrir land og námu land í Vatnsfirði á Barðaströnd. Vatnsfjörður mun hafa verið fullur af fiski og nýbúarnir stunduðu veiðar svo stíft að ekkert varð úr heyskap og öðrum nauðsynlegum undirbúningi fyrir íslenskan vetur. Þess vegna drapst allt kvikféð um veturinn. Vorið var heldur kalt og þá gekk Flóki upp á fjall eitt hátt og sá fyrir norðan fjöllin fjörð, líklega Arnarfjörð, fullan af hafís. Því kölluðu þeir landið Ísland sem það hefur síðan heitið.

Flóki og fylgdarlið hans ákváðu að fara burt og héldu úr Vatnsfirði þegar langt var liðið á sumar. Þeir náðu ekki að sigla fyrir Reykjanes og urðu Flóki og Herjólfur viðskila í mynni Faxaflóa.

Flókaklöpp

Flókaklöpp á Hvaleyri..

Ýmsar minjar er að finna á Hvaleyrinni. Herjólfur kom að landi í Herjólfshöfn en Flóki hafði vetursetu í Borgarfirði. Næsta sumar kom Flóki í Hafnarfjörð og þar fundust þeir Herjólfur.

Menn hafa leitt að því getum að Herjólfshöfn sé Hvaleyrartjörn en hún var höfnin í Hafnarfirði sem fjörðurinn dregur nafn sitt af.

Í Landnámu segir enn fremur: Flóki Vilgerðarson hét víkingur mikill; hann bjóst af Rógalandi að leita Snjólands; þeir lágu í Smjörsundi. Hann fékk að blóti miklu og blótaði hrafna þrjá, þá er honum skyldu leið vísa, því að þá höfðu hafsiglingarmenn engir leiðarstein í þann tíma í Norðurlöndum. Þeir hlóðu þar varða, er blótið hafði verið og kölluðu Flókavarða; það er þar er mætist Hörðaland og Rogaland.

Samskonar varða er í Sveio sem liggur á mótum Hörðalands og Rogaland á vesturströnd Noregs. Varðan sem talin er að hafa verið upprunalega Flókavarðan, var rifin af ókunnum ástæðum á 19. öld. Ný varða var reist þar sem hin stóð og samskonar varða á Hvaleyri sem fyrr er nefnd.

5 – Útsýnisskífan á Hamrinum

Hamarinn

Litlu Ratleiksfrumkvöðlar við útsýnisskífuna á Hamrinum.

Hamarinn, öðru nafni Hamarskotshamar, er eitt af staðareinkennum Hafnarfjarðar. Hann hefur fengið nafnið Austurhamar þar sem hann er hæstur og Vesturhamar, þar sem hann gekk í sjó fram.

Áður fyrr var þessi mikli klettur sem stendur fyrir miðjum fjarðarbotninum nefndur Hamarskotshamar eftir koti sem stóð þar sem Flensborgarskólinn er nú.

Sprengt var úr Vesturhamrinum 1941-1948 og var efnið úr honum notað við gerð Norðurgarðsins í Hafnarfjarðarhöfn. Eru enn ljót ummerki eftir þetta og sést vel frá Flensborgarskóla.

Á austurhamrinum er útsýnisskífa og í góðu skyggni má sjá allan fjallahringinn umhverfis Faxaflóa. Ath. að hádegi á skífunni er sýnt þegar sól er í hásuðri en þar sem við erum bæði um hálfum tíma vestan við tímabeltið auk þess að vera með sumartíma allt árið, er hádegi sýnt um einum og hálfum tíma of snemma á skífunni.

Hamarinn á sér bróður; Setbergshamar (Þórsbergshamar). Á þeim báðum eru jökulminjar, einkum þó á hinum fyrrnefnda. Af Hamrinum er hið ákjósanlegasta útsýni yfir miðhluta bæjarins sem og Hamarskotslækinn.

Hamarinn

Hamarinn.

Ofan Hamarsins eru Öldurnar og niður af Austurhamri er Brekkan með Brekkugötu og Suðurgötu. Svæðið neðan Vesturhamars kallaðist fyrrum einu nafni Undirhamar.

Elsta bergmyndun Hafnarfjarðar og undirstaðan sem allt annað hvílir á er grágrýti, sem er einkennisbergtegundin í Hamrinum. Ætla má að bergið geti verið yngra en 800 þúsund ára. Grágrýtið myndaðist úr hrauni frá eldstöðvum sem voru virkar á hlýskeiði ísaldar og eru yfirleitt komin úr dyngjum. Ekki er vitað úr hvaða eldstöð grágrýtið í Hafnarfirði og umhverfi þess er komið.

Hamarinn er góður staður til að setjast niður og horfa yfir bæinn.

Í klöppunum ofan á Hamrinum sjást jökulrispur, menjar ísaldarjökulsins.

Finna má ummerki á Vesturhamrinum eftir veru hersins í Hafnarfirði í síðari heimsstyrjöldinni.

Í Hamrinum eru sagðar búa álfaverur af „konungakyni”. Hamarinn var friðlýstur sem náttúruvætti árið 1984.

Austurgatan en samt er aldrei talað um austur í Hafnarfirði!

Markmiðið er að ganga á Hamarinn og upplifa hann og útsýnið þaðan. Útsýnisskífan gefur möguleika á að þekkja fjöllin og umhverfið í kring.

6 – Arnarklettur

Arnarklettur

Arnarklettur.

Arnarklettar standa ásamt Krummakletti og Gnípu í grónu hrauni sem markast af Klettahrauni, Arnarhrauni, Sunnuvegi og neðra Álfaskeiði. Jafnframt eru gerði og aðrar mannvistarminjar í kringum klettana. Arnarklettarnir voru tveir; Arnarklettur syðri og Arnarklettur nyrðri. Hlaðin gerði og aðrar mannvistarminjar eru í kringum klettana. Á öðrum Arnarklettanna sem stendur á óbyggðu svæði á horni Arnarhrauns og Álfaskeiðs er merki með nafni klettsins.

Á svæðinu eru hverfisverndarákvæði: „Hverfisvernd tekur til þess að þessum hraunmyndunum og minjum verði ekki raskað“.

Á síðustu tugum nítjándu aldar voru í Gullbringusýslu nokkrir þekktir varpstaðir arnarins, enda bera örnefnin þess merki, s.s. Arnarklettar utanvert við Balatún, Arnarnýpa á Sveifluhálsi, Arnarfell í Krýsuvík og Arnarþúfa í Ögmundarhrauni, auk tveggja Arnarkletta sunnan Stórhöfða og Helgafell í Garðakirkjulandi.

Markmiðið er að upplifa friðuðu hraunin, göngustígana austan og vestan Arnarhrauns. Stígarnir eru ekki merktir sérstaklega en ganga má m.a. inn á þá út úr endum Mánastígs, Þrastahrauns og víðar.

7 – Vindspil

Vindspil

Listaverkið Vindspil.

Listaverkið Vindspil frá árinu 2000 eftir Einar Má Guðvarðarson stendur á malarkambi við bílastæði við enda Langeyrarmala. Verkið heitir ekki aðeins Vindspil heldur er það vindspil og í vindi hljóma úr því fagrir bjölluhljómar. Einar Már bjó og hafði vinnustofu sína í bænum Ljósaklifi en það er bærinn sem er næst Herjólfsgötu. Hann var fæddur í Hafnarfirði 9. febrúar 1954. Hann lést 25. júní 2003.

Í Skerseyrarhrauni, á svæði sem er norð-vestasti hluti Hafnarfjarðar, og markast af Herjólfsgötu, Garðavegi og landamerkjum Hafnarfjarðar og Garðabæjar við Bala, eru fimm gömul bæjarstæði þar sem enn standa hús. Auk Ljósaklifs eru bæirnir Fagrihvammur (Litli bær), Brúsastaðir I og nýbýlið Brúsastaðir II og Sæból sem stendur nyrst. Á milli bæjanna liðast steinhlaðnar götur í hrauninu.

Stifnishólar

Stifnishólar við Brúsastaði.

Hraundranginn utan við bílastæðið nefnist Rauðsnef og hraundrangarnir framan við Brúsastaði nefnast Stifnishólar þar sem sagt er að draugur hafi verið kveðinn niður um aldamótin 1800. Þar sem Brúsastaðir standa stóð áður bærinn Litla-Langeyri.

Langeyri var ævaforn hjáleiga frá Görðum og stóð þar sem Herjólfsgata 30 var en stutt er síðan það hús var rifið og ný fjölbýlishús byggð á lóðinni.

Meðal örnefna við sjóinn eru Brúsastaðavör, Skerseyrarvör og Balavör sem segja okkur að útræði hafi verið þarna áður.

Vindurinn skellir skálunum saman og myndar fallega bjölluhljóma.

Ganga Strandstíginn og Langeyrarmalirnar út með ströndinni að Bala.

8 – Hlaðnar götur

Hlaðnar götur

Gömul hlaðin gata.

Lengst af voru í raun engir afmarkaðir vegir í Hafnarfirði, einungis götur og slóðar. Hús voru byggð þar sem hagkvæmt þótti í hrauninu og milli hraunklettanna mynduðust götur eða troðningar áður en eiginleg gatnagerð hófst. Víða má enn finna leyfar af fyrstu gatnagerðinni, þar sem götur voru einfaldlega hlaðnar upp af hraungrjóti og fylltar með grús og hraunbrotum.

Best er að finna dæmi um slíkar götur við Hjallabrautina, gegnt skátaheimilinu Hraunbyrgi, og að Klettagötu. Þar má sjá hversu hagalega menn hafa hlaðið mjóar götur til að aka fiski á vögnum á stakkstæðin.

Fyrsta eiginlega gatnagerðin var þegar vegur var lagður frá Sjónarhóli, yfir Flatahraun og inn í Engidal.

„Hafnarfjörður var löngum verzlunarstaður án þess að vera svo mikið sem þorp, og hingað lágu koppagötur úr ýmsum áttum yfir hraunin allt til ársins 1873. Að innan lágu Gömlufjarðargötur, troðningar frá túngarðshorni á Hraunsholti að Sjónarhóli, og þaðan niður um Háaklif hjá hliðinu á Hellisgerði. Þar stendur nú hálfbrotinn klettur, Svensensklettur. Kletturinn er kenndur við skipstjóra, Svensen, sem lengi sigldi upp Hafnarfjörð á vegum Knudtzons. Þangað gekk hann til þess að skyggnast til veðurs og gá til skipa. Þá var Kristinn Zimsen verzlunarstjóri hjá Knudtzon hér í Firðinum. Hann gekkst fyrir því, að vegur var lagður frá Sjónarhóli yfir Flatahraun inn í Engidal,” skrifaði Björn Guðmundsson sagnfræðingur 1962.

Markmiðið er að kynnast Hafnarfirði fyrri ára og láta sig dreyma um fólkið á ferðinni með fiskinn á vögnum efir hlöðnum götunum.

Allt umleikis eru grjóthlaðnir garðar og gerði er nýtt voru til heimilisbrúks fyrrum.

Víðistaðir

Víðistaðatún.

Tilvalið er að ganga til baka um Víðistaðatúnið þar sem bærinn Víðistaðir stóð og sláturhús sem margir muna eftir og stóð neðan við þar sem Víðistaðakirkja stendur núna.

Víðistaðatún er stórt opið svæði við Víðistaðakirkju og skátaheimili Hraunbúa. Þar er starfrækt tjaldsvæði frá miðjum maí fram í enda ágúst. Svæðið státar af fjölmörgum listaverkum sem tilvalið er að skoða og börn hafa gaman af að leika sér í. Einnig er þar aparóla, ærslabelgur og kastali sem staðsettur er í nálægð við grillhús. Hann hentar fyrir bæði leik- og grunnskólaaldur. Einnig er þar skógarlundur sem börn hafa gaman af að leika sér í sem og eini tennisvöllur Hafnfirðinga.

9 – Lækjarbotnar

Lækjarbotnar

Lækjarbotnar – stífla.

Lækurinn sem rennur í jaðri Stekkjarhrauns og framhjá Setbergsskóla kemur úr Lækjarbotnum í norðurjaðri Gráhelluhrauns (Lækjarbotnahrauns). Við upptökin eru steinhleðslur undan timburhúsi sem þar stóð um tíma á vatnsþró. Frá húsinu lá svo trépípa niður til bæjarins og var í raun fyrsta alvöru vatnsveita bæjarins frá um 1909. Sjá má vanræktar leifar hennar neðan við hleðslurnar. Skammt neðar er stíflumannvirki, steypt og hlaðið.

Stuttu ofar, í skógarjaðrinum má sjá hvar vatnið kemur undan hrauninu. Rennslið dugði þó ekki á sínum tíma til að anna vatnsþörf bæjarbúa og það varð til þess að árið 1916 fengu þeir Jóhannes Reykdal og Jón Ísleifsson verkfræðingur brjálæðislega hugmynd. Þar sem nægt vatn var í Kaldárbotnum, uppruna Kaldárinnar, var það áhugavert að koma því vatni til bæjarins. En það var löng leið og ekki á færi manna þá að leggja rör eða stokk alla þá leið auk þess sem það var yfir gjá og misgengi að fara. En hvað gera menn þá? Jú, hlaða úr grjóti og smíða tréstokk sem hleypti vatninu um 1,6 km leið yfir hraun og djúpa Lambagjána. Var vatninu sleppt inn á vatnasvæði Lækjarbotna og það var mikil spenna í bænum þegar beðið var eftir því hvort vatnið yfirleitt kæmi fram neðar í hrauninu. Voru margir efins um þessa aðferð, en vatnið kom í ljós um síðir og dugði vatnsveitan úr Kaldárbotnum allt til 1951 þegar ný vatnsleiðsla var lögð úr Kaldárbotnum í Hafnarfjörð.

Lækjarbotnar

Lækjarbotnar – leifar af vatnsleiðslunni.

Hluta af vatnsleiðslunni má enn sjá en mest af henni hefur nú verið eyðilögð.

Því miður grotna minjar um þessa vatnsveitu niður og lítið er gert til að varðveita þessa sögu úti í náttúrunni t.d. með endurgerð hluta stokksins og uppsetningu á fleiri fræðsluskiltum.

Austan við lækinn má finna götu sem liggur alla leið í Selvog en það er hin margkunna Selvogsgata.

Látið ekki hjá liggja að ganga inn í Gráhelluhraunið, þar er góður göngustígur og margt að sjá, ekki síst ef vikið er svolítið frá stígnum.

10 – Hvaleyrarsel

Hvaleyrarsel

Hvaleyrarsel.

Á odda sunnan við Hvaleyrarvatn, þar sem stígurinn skiptist í tvennt, eru tóftir Hvaleyrarsels. Má þar sjá þrjár tóftir og er ein þeirra stærst, eldhús vestast, búr og baðstofa austast. Stekkurinn er skammt vestan við eldhúsið.

Hvaleyrarsel

Hvaleyrarsel.

Þarna átti að hafa gerst hryllilegur atburður um 1880 er smali fann seljastúlku rifna á hol niður við vatnið. Var talið að nykurinn í vatninu hafi leikið stúlkuna svo illa. Um nykur þennan sagði sagan að hann væri annað hvert ár í Hvaleyrarvatni, en hitt árið í Urriðakotsvatni. Sást til hans oftar en einu sinni.

Hvaleyri hafði bæði í seli við Hvaleyrarvatn og um hríð í Kaldárseli.

Önnur selstaða er við Hvaleyrarvatn; Ássel. Það er skammt austan við Hvaleyrarsel, en landamerki Hvaleyrar og Áss lágu um vatnið. Jófríðarstaðir hafði um tíma selstöðu þar sem nú er Húshöfði. Þar við má sjá leifar beitarhúss og stekk selsins skammt norðar.

Ganga umhverfis Hvaleyrarvatn og um skemmtilega stíga í skóginum. Stígar í skóginum eru fjölmargir og vel þess virði að ganga um þá og upplifa raunverulega skógarstemmingu.

11 – Riddaralundur

Riddaralundur

Riddaralundur – setstaður gamalla Hafnarfjarðarskáta.

Frá upphafi skátastarfs á Íslandi var gjarnan farið í skátaútilegur í uppland Hafnarfjarðar og var Kaldársel mjög vinsælt og Helgadalur fyrir 1960. En síðar varð Hvaleyrarvatn áhugavert en þess ber að geta að um 1960 sást þar í umhverfinu varla nokkurt tré. St. Georgsgildið í Hafnarfirði, félag eldri skáta, var stofnað 22. maí 1963 og nýttu félagar þess umhverfi Hvaleyrarvatn til útivistar og útilegu. Fljótt kom áhugi á að byggja skála við vatnið og fékk félagið úthlutað lóð og var skálinn Skátalundur vígður 25. júní 1968.

Um svipað leyti kom skátasveitin Riddarar í Skátafélaginu Hraunbúum sér upp varðeldalaut sunnan við vatnið, á milli Ássels og Hvaleyrarsels. Settu þeir upp bekki í hring úr rafmagnsstaurum og útbjuggu eldstæði í miðjunni en sveitarforingjar þá voru þeir Ólafur Sigurðsson (Óli Sill) og Hermann Sigurðsson. Þarna var þetta undir brekku er hvergi neitt tré var að sjá en fallegur staður og skjólgóður til að sitja í kvöldsólinni.

Á Selfjalli ofan seljanna eru leifar stekks og fjárborgar. Sunnan þess, í norðanverðum Seldal, eru leifar sels.

Riddaralundur

Eldri skátar rifja upp gamla tíma í Riddaralautinni.

Ganga umhverfis Hvaleyrarvatn og stíga í skóginum tekur u.þ.b. 20-30 mínútur. Stígar í skóginum eru fjölmargir og mislangir en vel þess virði að ganga um þá og upplifa skógarstemmingu á hinum ólíku árstíðum.

12 – Ássel

Ássel

Ássel.

Flestir ganga greiðfæra stíginn í kringum Hvaleyrarvatn án þess að átta sig á því að þarna leynast minjar mannvistar frá fyrri öldum.

Sunnan við Hvaleyrarvatn, skammt frá skátaskálanum Skátalundi, undir Selhöfða, eru tóftir tveggja selja, Ássels og Hvaleyrarsels.

Niður undir landi skátanna, á grónum hól eru tóftir sels sem talið er að hafa verið frá bænum Ási sem stóð við Ástjörnina, undir Ásfjallinu. Þetta er sel frá því um 1900 er Jófríðarstaðir og Ás skiptu með sér aðstöðunni við norðaustanvert vatnið

Á Íslandi var seljabúskapur stundaður frá landnámi fram á 19. öld en var á undanhaldi ofanvert á 18. öld eða jafnvel fyrr. Í seljabúskap voru mjólkandi skepnur, aðallega ær en í einhverjum tilvikum kýr, reknar í sel snemma sumars og hafðar á beit þar yfir sumarmánuðina, frá 6. til 16. viku sumars. Samkvæmt ritheimildum var dæmigert að sel skiptust í þrjá hluta: íveruhús, búr og eldhús. Utandyra voru yfirleitt stekkir eða kvíar skammt frá, afgirt svæði þar sem hægt var að mjólka skepnurnar.

Selstöðurnar voru jafnan við vötn, ár, læki eða náttúrleg vatnsstæði.

Ganga umhverfis Hvaleyrarvatn og stíga í skóginum. Stígar í skóginum eru fjölmargir og vel þess virði að ganga um þá og upplifa skógarstemminguna.

13 – Beitarhús

Beitarhús

Beitarhús í Húshöfða.

Aðsetur Skógræktarfélags Hafnarfjarðar er á Húshöfða og skógurinn sem þar hefur verið myndaður nú kallaður Höfðaskógur.

Næst Kaldárselsvegi er þjónustubygging en suðvestar á svæðinu, á Beitarhúsahálsi, er skáli félagsins, skammt frá trjásýnilundi sem vígður var á 50 ára afmæli félagsins.

Sunnan skálans er nokkuð stór tóft (tótt) í hlíðinni. Það er rúst beitarhúss, Veturhúss, frá Jófríðarstöðum en Jófríðarstaðasel varð að beitarhúsi þegar selfarir lögðust af. Sjá má tóftir selsins skammt norðan við beitarhúsið.

Er talið að selið hafi síðast verið notað árið 1922 frá Ási.

Skammt fá tóftinni er útikennslustofa félagsins. Þetta er einfalt skýli með bekkjum inn á milli trjánna. Kennslustofan var útbúin að tilstuðlan hjónanna Harðar Zóphaníassonar og Ásthildar Ólafsdóttur sem gáfu félaginu peningagjöf á 60 ára afmæli þess í því skyni að efla áhuga skólabarna á skógrækt.

Allt umleikis eru fræðslustígar um hin ólíklegustu trjádæmi og plöntur.

Fleiri tóftir, m.a. af seli frá Jófríðarstöðum, eru á svæðinu, en þessi er þeirra stærst.

Ganga um skógarstíga og umhverfi Hvaleyrarvatns. Stígar í skóginum eru fjölmargir og vel þess virði að ganga um þá, skoða trjásýnisafnið, rósagarðinn og bara upplifa alvöru skógarstemmingu.

14 – Fuglstapaþúfa

Fuglastapaþúfa

Fuglastapaþúfa.

Fuglstapaþúfa er við Þúfubarð á Hvaleyrarholti en gatan er kennd við þúfuna.

Svæðið, sem hún er á, hefur verið látið óhreyft er segir nokkuð til um vægi þess í hugum fólks þegar hverfið var að byggjast upp. Ábúendur í nágrenninu fylgdust með því er farfuglarnir komu í holtið á vorin eða hópuðust saman við þúfuna á haustin á leið þeirra til baka.

Í deiliskipulagi er hverfisvernd skilgreind á svæði milli Kelduhvamms og Þúfubarðs, Fuglstapaþúfu sem skal vera opið og óraskað svæði. Þúfurnar voru á jökulsorfnum klöppum, syðri þúfa við Þúfubarð og nyrðri þúfan við olíutanka norðan Melabrautar.

„Innan hverfisverndar má hvorki raska landslagi né gróðri og eru allar framkvæmdir háðar framkvæmdaleyfi“.

Fuglstapaþúfa er landamerki milli Hvaleyrar og Ófriðarstaðalanda.

Þann 22. nóv. 1907 var ákveðið í 1. grein laga um bæjarstjórn Hafnarfjarðar að takmörk kaupstaðarins yrðu sem hér segir:

„Úr sjó Arnarklettar utanvert við Balatún [varða], sjónhending eftir takmörkum Hafnarfjarðarhrauns og Dysjamýrar, þar til kemur á hinn forna veg frá Görðum til Reykjavíkur [varða]. Eftir þeim vegi í Engidal [varða]. Þaðan eftir nyrðri brún Hafnarfjarðarhrauns, þar til kemur móts við austurhorn Hraunsholtstúns. Þaðan bein stefna yfir neðanverðan Kaplakrika í vörðu á háholtinu fyrir ofan Jófríðarstaði, þaðan yfir í Fuglastapaþúfu efri beina leið í sjó fram. Kaupstaðurinn skal skyldur til að setja nægilega mörg varanleg merki, er sýni greinilega takmörk landsins, og viðhalda þeim.“

Víða um bæinn eru óröskuð svæði eða svæði sem eiga sér sögu sem vert er að minnast og er Fuglstapaþúfa og ÓlaRunstúnið gott dæmi um slík svæði. Auða lóðin þar sem Fuglstapaþúfan er, var á sjöunda áratugnum vinsælt leiksvæði barna í hverfinu og þarna voru byggðir kofar og var þarna mikið líf. ÓlaRunstúnið var einnig gríðarlega vinsælt meðal barna í svæðinu sem léku þar fótbolta á sumrin og renndu sér á sleðum og skíðum á vetrum. Var vera barna á túninu ekki alltaf vinsæl því Ólafur Runólfsson heyjaði túnið og það jók ekki á sprettuna að strákar væru þar að hamast í fótbolta.

15 – Jófríðarstaðir

Jófríðarstaðir

Jófríðarstaðir.

Bærinn Jófríðarstaðir suður á Hamrinum hét áður Ófriðarstaðir, nefndur í heimildum frá 1595 sem sérstakur bær og var þá konungsjörð. Er talið að nafnið Ófriðarstaðir hafi komið til eftir bardaga milli enskra kaupmanna og Hansakaupmanna um yfirráð mikilvægrar verslunar í Hafnarfirði.

Árið 1816 er þetta land, allt sunnan frá Bruna (Hafnarfjarðarmegin við Straum) og allt vestur að Fiskakletti í Hafnarfirði komið í eigu Bjarna riddara Sívertsens.

Jófríðarstaðir

Jófríðarstaðir fyrrum – tilgáta.

Á árunum 1921 og 1922 keypti Kaþólska trúboðið á Íslandi jörðina Jófríðarstaði. Jófríðarstaðir voru ein af þeim fjórum bújörðum sem Hafnarfjarðarkaupstaður stóð á. Örnefnaskráning Hafnarfjarðar fyrrum var grundvölluð á jörðinni. Hinar voru Akurgerði, Hamarskot og Hvaleyri.

St. Jósefsskirkja, sem vígð var 3. júlí 1993, stendur rétt við efsta hluta Jófríðarstaða en töluvert graslendi er í kringum kirkjuna. Hugmyndir voru uppi fyrir all nokkrum árum að byggja á túninu en mikil andmæli íbúa urðu til þess að svo varð ekki – að sinni. Víðsýnt er frá Jófríðarstaðaholtinu.

Markmiðið er að njóta fallegra staða, útsýnisins yfir Hafnarfjörðin fyrrum, kynnast sögunni og hreyfa sig svolítið í leiðinni. Hafnarfjarðarbær leggur áherslu á góða heilsu bæjarbúa og gesta þeirra.

Heimild:
-https://ratleikur.fjardarfrettir.is/litli-ratleikur-hafnarfjardar/litli-ratleikur-2020/

Skólpstöðin

Óseyri – Skólpstöðin.

Írafell

Í Alþýðublaðinu, helgarblaði, segir m.a. um Kjós; „Talir þú gott, þá lýgur þú„.

„Kjósin lætur ekki mikið yfir sér, þegar maður virðir hana fyrir sér af þjóðvegjnum. En hún er ekki öll þar sem hún er séð. Hún leynir á sér. Og þetta er falleg sveit og búsældarleg, þótt hér verði hvorki tíunduð fegurð hennar né gæði.

Írafell

Írafell.

Lengi vel vissi ég ekki annað um þessa sveit eða íbúa hennar en ýmsar sögur af Írafells-Móra, einum atkvæðamesta draug Íslandssögunnar, sem kenndur var við Írafell í Kjós. Írafells-Móri var vakinn upp af galdramanni nyrðra og sendur Kort Þorvarðarsyni, gildum bónda, sem lengi bjó á Möðruvöllum í Kjós, en fluttist síðast að Flekkudal og dó þar 1821.

Möðruvellir

Möðruvellir í Kjós 1913.

Kort var tvíkvæntur; hét fyrri kona hans Ingibjörg. Margir höfðu orðið til að biðja hennar áður en Kort, en hún synjaði þeim öllum. Biðlarnir þóttust sárt leiknir og keyptu af galdramanninum að senda Kort og konu hans sendingu. Valdi hann til þess drenghnokka, sem orðið hafði úti milli bæja. Vakti galdramaðurinn hann upp volgan eða ekki með öllu dauðan og sendi hann þeim Kort á Möðruvöllum og mælti svo um, að draugurinn skyldi fylgja þeim hjónum og niðjum þeirra í níunda lið og vinna þeim margt til meins. Móri sveikst ekki um þetta. Gerði hann þeim hjónum og afkomendum þeirra margar skráveifur, drap fyrir þeim fénað, skemmdi mat og sótti að fólki í svefni og vöku. Skammta varð honum fullan mat ekki síður en hverjum öðrum heimilismanni á Möðruvöllum og á Írafelli, eftir að hann fluttist þangað með Magnúsi Kortssyni. Sömuleiðis þurfti að ætla honum rúmflet til að liggja í, bæði af bæ og á.
Hér er ekki ætlunin að rekja frekar lífshlaup Írafells-Móra, sem þó var ærið sögulegt og viðburðaríkt. Hins vegar hefði kannski einhver gaman af að kynnast lítillega Kjósverjum þeirrar tíðar, samtíðarfólki Írafells-Móra, eins og það kom sálusorgara þess á Reynivöllum fyrir sjónir, og hvernig hann lýsir því, daglegu lífi þess og áhugaefnum, atvinnuháttum og menningu.

Reynivellir

Reynivellir.

Um þessar mundir, eða nánar tiltekið 30. apríl 1839, sendi nefnd manna í umboði Hins íslenzka bókmenntafélags í Kaupmannahöfn boðsbréf heim til Íslands „sérílagi öllum prestum og próföstum á landinu“ með þar til heyrandi spurningum um náttúru og byggð landsins, menningu og atvinnuhætti.

Kjós

Kjós – kort.

Séra Sigurður Sigurðsson á Reynivöllum í Kjós fékk þetta bréf eins og aðrir kirkjunnar menn í landinu. Svaraði hann spurningum nefndarinnar vel og skilmerkilega. Um Kjósverja hefur hann m.a. þetta að segja: „Flestir bændur í Kjósinni hafa sauðfá fátt, en fer mikið fleiri að tiltölu, sem þeir ala margir á útheyi, arðlitlar, fram eftir vetri. Tún sín rækta þeir sæmilega; láta margrf kýr liggja inni á sumrum. Til eru þeir, sem brúka færikvíar, og margir beitarhús á vetrum. Þeir stunda heyafla vel og fara lestir í útver tll fiskifanga vetur, vor og haust, þegar afli er. Fiskur er meiri partur þeirra höndlunarvara, þar landvara svo lítil til. Kálgarða rækta þeir margir, er ekki kartöflur eður önnur jarðepli. Sölva- og rótatekju hafa þeir ekki og lítið af fjallagrösum, sem ekki fást í Kjósarfjöllum. Nokkrir fara samt eftir þeim austi: á fjöll, í Skjaldbreið, langan veg. Sumir veiða rjúpur á vetrum.

Kjósarhreppur

Kjósarhreppur – bæir og mörk (rauð lína).

Þeir lifa margir fátæklega á kornvöru, fiski og mjólk. Þeir vinna ullu á vetrum til fatnaðar, en ekki til útgjalda, því ull er víða lítil. Karlmenn spinna sumir hamp á vetrum í þorskanet og til veiðarfæra. Sumir elta skinn og sauma skinnföt, nokkrir vefa vaðmál og hafa á hendi útiverk við fé og hross. Kvenfólk fæst við ullarvinnu, þó minna en víða er siður í Norðurlandi. Þegar vetrarvertíð byrjar, fara karlmenn flestir í ver, en kvenfólk tekur þá við útiverkum. Þeir smíða ekki til gróða, hvorki tré eður járn; margir eru þeir vel búhagir og smíða húsgögn sín af tré og járni. Trjáreki er hér enginn, ekki heldur skógarviður til húsabygginga. Ekki iðka menn skotfimi, — fáeinir að sönnu skjóta refa við gren og slysa rjúpur, — ekki glímur, ekki skíða- eður skautaferðir, — ekki sund, — vaða heldur —; enginn þeirra þekkir nótnasöng, ekki heldur kunna þeir á hljóðfæri.

Reynivellir

Reynivellir 1884 – Sigfús Eymundsson.

Þeir skrifa fáeinir, og þó lítið, og eru ekki gefnir mjög fyrir bókmenntir, svo ekki hafa þeir þetta til skemmtunar. Ég nefni ekki fleira. Sumir lesa dálítið í alþekktum fornsögum, en vita lítið í veraldarsögunni. Ekki skilja þeir danska tungu. Enginn hefir hér vit á lækningum eður þekkir lækrringajurtir; engin er hér yfirheyrð yfirsetukona. Ekki tíðkast hér í sveit nokkrir sérlegir sjúkdómar, nema þeir, sem almennt ganga yfir landið, landfarsóttir, og ekki mjög sóttnæmt, enda þekkja menn hér lítið til uppruna sjúkdóma eður vita að ráða bót á þeim. Bráðdauði eður fjárpest sú, sem víða gengur um landið, hefur nú upp í nokkur ár undanfarið stungið sér niður á einstöku stað, einkum fyrri part vetrar, og drepið fénað. Dýralæknir vor í Reykjavík hefir enn ekkert ráð við henni gefið til hlítar.

Reynivellir

Reynivellir.

Um trúrækni manna og trúarbragðaþekkingu talar maður með varygð, helzt um einn söfnuð út af fyrir sig. Er lítið mun því hafa miðað síðan um aldamótin síðast.“
Þann 1. marz 1840 sezt svo séra Sigurður á Reynivöllum við skrifborð sitt, eftir að hafa svarað samvizkusamlega öllum spurningum þeim, sem til hans var beint, og ritar nefndarmönnum eftirfarandi bréf til frekari skýringar og áréttingar:

Reynivellir

Reynivellir – MWL.

-Háttvirtu herrar! Meðtekið hefi ég á síðastl(iðnu) sumri ykkar heiðursverða og góða bréf til mín af 30. apríl f.á. áhrærandi það efni að svara upp á þær spurningar, sem bréfið hljóðaði upp á. En bæði lasleysi þá í stað og sumarannir hindruðu mig frá því að sýna lit á að koma þessu í verk, sízt í lagi nokkuð eftir óskum, sem þurfti, þar fávizka, aldurdómur og ókunnugleiki, þar sem maður kemur gamall langt að, bægði mér að geta nákvæmari útmálun gefið en þessa.
Nú, þó seinna sé en ég vildi, legg ég í þetta umslag útmálun um Reynivallasókn, hvar í lýst mun vera öllum örnefnum, er ég vissi eður heyrt hefi, að hér séu, sömuleiðis sveitarinnar ástandi og afstöðu yfir höfuð.

Reynivellir

Reynivellir 1884 – útihús.

Spursmálunum hefi ég svarað [á] þann veg, ekki hverju út af fyrir sig eftir röðinni, heldur í söguformi, þó með tiliti því, að þeim yrði öllum svarað nokkurn veginn. Um siðferðið og trúrækni í þeirri sveit, hvar maður býr, og á að skipta við aðra, mundi bezt að vera nokkuð fáorður, ekki óþægilega. Nógu margir skrifa eður varpa á það efun yfir höfuð. Síðari tíð sýnir ávöxtinn, hver hann verður. Hertugans sannyrði mættu mér í minni vera: Talir þú illt um þá, verður þú barinn, talir þú gott, þá lýgur þú. Yfir höfuð ætti landkort að gjörast eftir sveitanna útmálun; þó eru fáir færir fyrir þeirri útmálun, sem þyrfti. Forlátið, háttvirtu herrar, þessa ófullkomnu tilreynslu mína.
Reynivöllum, þann 1. marz 1840, – S. Sigurðsson.“

Írafell

Írafell

Írafell er næstum því inni á gafli í Kjósinni, svo að notuð sé samlíking, sem á upprunalega annars staðar heima en í landslaginu. Jörðin og sveitin öll hefur tekið miklum stakkaskiptum síðan á dögum séra Sigurðar á Reynivöllum og Írafells-Móra er ekki lengur skammtað í askinn sinn eins og hverjum öðrum heimilismanni eða ætlað rúmflet til að liggja í, enda lætur hann nú ekki á sér kræla.
En þeir, sem aka um Kjósina á góðviðrisdegi ættu þó að renna augum til bæjarins undir fellinu, sem uppvakningurinn var kenndur við, og hafa jafnframt í huga sóknarlýsingu sálusorgarans á Reynivöllum til skilningsauka á Írafells-Móra og samtíð hans. Kjósin er ekki öll þar sem hún er séð. Hún leynir á sér.“ —6G

Heimild:
-Alþýðublaðið, helgarblað; „Talir þú gott, þá lýgur þú“, 25.05.1969, bls. 9-10.

Meðalfellsvatn

Við Meðalfellsvatn í Kjós.

Huldufólkssögur

Í „Huldufólkssögum – úrvali úr þjóðsögum og ævintýrum Jóns Árnasonar„, segir m.a. um „Marbendil,

Mjer er í minni stundin,
þá marbendill hló;
blíð var baugahrundin,
[er bóndinn kom af sjó];
kysti hún laufalundinn,
lymskan undir bjó.
Sinn saklausan hundinn
sverðabaldur sló.

Stóru-Vogar

Stóru-Vogar – fornleifar.

Á Suðurnesjum er bæjaþorp nokkurt, sem heitir í Vogum, en raunar heitir þorpið Kvíguvogar, og svo er það nefnt í Landnámu.

Vogar

Vogar – loftmynd 1954.

Snemma bjó bóndi einn í Vogum, er sótti mjög sjó, enda er þar enn í dag eitthvert besta útræði á Suðurlandi. Einhvern dag reri bóndi, sem oftar, og er ekki í það sinn neitt sjerlegt að segja af fiskifangi hans. En frá því er sagt, að hann kom í drátt þungan, og er hann hafði dregið hann undir borð, sá hann þar manns-líki, og innbyrti það. Það fann bóndi, að maður þessi var með lífi, og spurði hann, hvernig á honum stæði; en hann kvaðst vera marbendill af sjávarbotni. Bóndi spurði, hvað hann hefði verið að gera, þegar hann hefði ágoggast. Marbendill svaraði : »Jeg var að laga andskjólin fyrir eldhússtrompnum hennar móður minnar. En hleyptu mjer nú niður aftur«. Bóndi kvað þess engan kost að sinni, »og skaltu með mjer vera«. Ekki töluðust þeir fleira við; enda varðist marbendill viðtals.

Stóru-Vogar

Stóru-Vogar í Vogunum eru með þeim merkilegri minjum sveitafélagsins Voga (Kvígurvoga). Steinhúsið var byggt 1871 af fyrsta íslenska steinsmiðnum, Sverri Runólfssyni. Sá hinn sami og byggði m.a. sjálfa Skólavörðuna (1868), Þingeyrakirkju (vígð 1877) og steinbrúnna yfir lækinn í Reykjavík (1866). Húsið er hlaðið úr hraungrýti með sambærilegri aðferð og í Þingeyrakirkju, bogadregin gluggagöt eru á húsinu líkt og voru á Skólavörðunni og loks var það klætt 20×40 cm hreysturlöguðum steinskífum á þakinu, okkur er sagt velskum. Mikið teikninga- og heimildasafn um Sverri er á Þjóðskjalasafninu, en í því safni eru m.a. bréfasamskipti um steinkirkju er átti að rísa á Kálfatjörn, þar eru hugleiðingar um stærð kirkju, uppbyggingu o.fl við Stefán Thorarensen, frá miðbik 19. aldar. (Heimildir: Iðnsaga Íslands: fyrra bindi, Íslensk byggingararfleifð fyrra bindi og dánarbú Sverris).

Þegar bónda þótti tími til, fór hann til lands og hafði marbendil með sjer, og segir ekki af ferðum þeirra, fyr en bóndi hafði búið um skip sitt, að hundur hans kom í móti honum og flaðraði upp á hann.

Vogar 1950

Vogar um 1950.

Bóndi brást illa við því, og sló hundinn. Þá hló marbendill hið fyrsta sinn. Hjelt bóndi þá áfram lengra og upp á túnið, og rasaði þar um þúfu eina, og blótaði henni; þá hló marbendill í annað sinn.
Bóndi hjelt svo heim að bænum; kom þá kona hans út í móti honum, og fagnaði bónda blíðlega, og tók bóndinn vel blíðskap hennar. Þá hló marbendill hið þriðja sinn. Bóndi sagði þá við marbendil: »Nú hefir þú hlegið þrisvar sinnum, og er mjet forvitni á að vita, af hverju þú hlóst«. »Ekki geri jeg þess nokkurn kost«, sagði marbendill, »nemi þú lofir að flytja mig aftur á sama mið og þú dróst mig á«. Bóndi hjet honum því. Marbendill sagði: »Þá hló jeg fyrst, er þú slóst hund(inn) þinn, er kom og fagnaði þjer af einlægni. En þá hló jeg hið annað sinn, er þú rasaðir um þúfuna og bölvaðir henni; því þúfa sú er fjeþúfa, full af gullpeningum. Og enn hló jeg hið þriðja sinn, er þú tókst blíðlega fagurgala konu þinnar; því hún er þjer fláráð og ótrú; muntu nú efna öll orð þín við mig, og flytja mig á mið það, er þú dróst mig á«. Bóndi mælti: »Tvo af þeim hlutum, er þú sagðir mjer, má jeg að vísu ekki reyna að sinni, hvort sannir eru, trygð hundsins og trúleik konu minnar; en gera skal jeg raun á sannsögli þinni, hvort fje er fólgið í þúfunni, og ef svo reynist, er meiri von, að hitt sje satt hvorttveggja, enda mun jeg þá efna loforð mitt«.

Vogar

Vogar.

Bóndi fór síðan til, og gróf upp þúfuna, og fann þar fje mikið, eins og marbendill hafði sagt. Að því búnu setti hann skip til sjávar, og flutti marbendil á sama mið, sem hann hafði dregið hann á; en áður en bóndi ljet hann fyrir borð síga, mælti marbendill: »Vel hefir þú nú gert, bóndi, er þú skilar mjer móður minni heim aftur, og skal jeg að vísu endurgjalda það, ef þú kant til að gæta og nýta þjer. Vertu nú heill og sæll, bóndi«. Síðan ljet bóndi hann niður síga, og er marbendiil nú úr sögunni.

Vogar

Vogar um 1950.

Það bar til litlu eftir þetta, að bónda var sagt, að 7 kýr sægráar að lit væru komnar þar í túnjaðarinn við fjöruna. Bóndi brá við skjótt, og þreif spýtukorn í hönd sjer, gekk svo þangað, sem kýrnar voru; en þær rásuðu mjög og voru óværar. —
Eftir því tók hann, að þær höfðu allar blöðru fyrir grönum. Það þóttist hann og skilja, að hann mundi af kúnum missa, nema hann fengi sprengt blöðrur þessar. Slær hann þá með kefli því, er hann hafði í hendi sjer, framan á granirnar á einni kúnni, og gat náð henni síðan. En hinna misti hann, og stukku þær þegar í sjóinn. Þóttist hann þá skilja, að kýr þessar hefði marbendill sent sjer í þakkar skyni fyrir lausn sína. Þessi kýr hefir verið hinn mesti dánumannsgripur, sem á Ísland hefir komið; æxlaðist af henni mikið kúakyn, sem víða hefir dreifst um land, og er alt grátt að lit, og kallað sækúakyn. En það er frá bónda að segja, að hann varð mesti auðnumaður alla æfi. Hann lengdi og nafn bygðar sinnar og kallaði af kúm þessum, er á land hans gengu, Kvíguvoga, er áður voru kallaðir Vogar.

Vogar

Vogar.

Heimild:
-Huldufólkssögur – úrval úr þjóðsögum og ævintýrum Jóns Árnasonar, Ísafoldarprentsmiðja 1920, bls. 162-165.
-https://ferlir.is/grindavik-alagablettir-og-thjodsogur-3/

https://ferlir.is/tudra/https://ferlir.is/arnarfellslabbi/

eldgos

Eftirfarandi frétt, viðtal við Pál Einarsson, jarðfræðing, birtist í Morgunblaðinu 20. október 2012 undir fyrirsögninni: „Engin teikn um eldsumbrot á Reykjanesi“.

Páll Einarsson

Páll Einarsson.

„Komi upp jarðeldar á Reykjanesi er ekki ólíklegt að þeim muni svipa til Kröfluelda 1975-1984. Þar yrðu gangainnskot með sprunguhreyfingum og hraunflæði aðallega þegar færi að líða á umbrotin. Hraungos af því tagi myndi eiga sér nokkurn aðdraganda. Engin óyggjandi teikn eru um að slíkir atburðir séu í aðsigi.
Þetta kom fram í erindi Páls Einarssonar jarðeðlisfræðings í gær á ráðstefnunni Björgun 2012 sem Slysavarnafélagið Landsbjörg heldur nú um helgina. Yfirskrift erindis Páls var „Jarðskjálfta- og eldfjallavá í nágrenni Reykjavíkur.“
Páll EinarssonPáll sagði að höfuðborgarsvæðið væri nálægt mjög sérkennilegum jarðskjálfta- og eldgosasvæðum. Þar með væri ekki sagt að bráð hætta steðjaði að fólki þeirra vegna.
Nokkur eldstöðvakerfi eru á Reykjanesi og tengjast þau gangainnskotum. Páll sagði að þegar svona kerfi yrði virkt streymdi hraunkvika upp í rætur þess og gæti síðan leitað eftir sprungunum og upp á yfirborðið. Það fer eftir spennuástandi á hverjum tíma hve langt kvikan getur farið og hvað gliðnunin verður mikil sem fylgir hverju gangainnskoti.
Vestasta kerfið liggur um Reykjanesið utanvert, norðan við Grindavík og út í Vogaheiði. Næsta kerfi austan við er Krýsuvíkurkerfið sem innifelur allar eldstöðvar í Krýsuvík og eldstöðvar sem hraun runnu úr niður í Hafnarfjörð. Þetta kerfi liggur m.a. um úthverfi Reykjavíkur. Sprungurnar í Heiðmörk tilheyra þessu eldstöðvakerfi og er eldstöðin í Búrfelli ofan við Hafnarfjörð sú nyrsta í kerfinu. Það liggur áfram norður um Elliðavatn og Rauðavatn og deyr út í Úlfarsfelli. „Þetta er það kerfi sem getur kannski valdið mestum usla í sambandi við eldvirkni og eldvirknivá á höfuðborgarsvæðinu,“ sagði Páll.
EldgosÞriðja kerfið liggur um Brennisteinsfjöll og sagði Páll að það væri ef til vill virkasta kerfið og úr því hefði runnið mesta hraunið. Kerfið liggur um Bláfjöll og Sandskeið og upp í Mosfellsheiði. Lengra til austurs er Hengilskerfið. Það nær alveg frá Selvogi og upp á Þingvelli. Páll sagði að þar til fyrir skömmu hefðu ekki sést nein merki um að kvika væri að streyma inn í eldstöðvakerfin á Reykjanesskaga. Fyrir 2-3 árum fór þó að örla á því að eitthvað gæti verið að gerast.

Páll vildi þó ekki gera mikið úr því og sagði menn enn vera að reyna að átta sig á því hvað hefði gerst. Hann sagði að Krýsuvíkursvæðið væri undir smásjánni að þessu leyti. Þar varð landris 2009 og svo aftur landsig.
EldgosEldstöðvakerfin á Reykjanesi virðast hafa orðið virk á um þúsund ára fresti og hver hviða hafa staðið í 300-500 ár. Öll eldstöðvakerfin virðast vera virk í hverri hviðu en hvert kerfi tímabundið.
Páll taldi að hraungos á Reykjanesskaga á okkar tímum myndi tæplega ógna mannslífum. Líklegra væri að það myndi valda eignatjóni, aðallega á innviðum eins og vatnsveitu, hitaveitu, rafveitu og vegum. Öskufall gæti orðið staðbundið og myndi nágrennið við Keflavíkurflugvöll líklega valda mönnum mestum áhyggjum, að mati Páls. Grunnvatn gæti hitnað og vatnsból mengast. Skjálftavirkni gæti orðið nokkur. Hraun gæti hugsanlega runnið nálægt byggð án þess þó að ógna beinlínis mannslífum.

eldgos

Eldgos á Reykjanesi frá landnámi – Ekkert gos eftir 1240
Nokkur hraun hafa runnið á Reykjanesi frá því að sögur hófust. Það gaus við Reykjanestá, í Eldvörpum norðan við Grindavík, Arnarseturshraun við Grindavíkurveg rann einnig.
Goshrina varð í Krýsuvíkurkerfinu í kringum árið 1150 e.Kr. Ögmundarhraun er syðst og rann út í sjó. Síðan rann Kapelluhraunið niður í Straumsvík. Þetta gerðist sennilega allt í þeirri hrinu.
Nokkur hraun hafa runnið úr Brennisteinsfjallakerfinu frá því að land byggðist. Kristnitökuhraunið er á milli Brennisteinsfjallakerfisins og Hengilskerfisins.
Nánast öll þessi eldgos urðu á tímabilinu 900-1240 e.Kr. Ekkert eldgos er þekkt á Reykjanesskaga eftir árið 1240.“ [Þrátt fyrir ótölulegan fjölda jarðskjálfta í gegnum tíðina hefur ekki orðið eldgos á Reykjanesskagnum – a.m.k. ekki hingað til].

Heimild:
-Morgunblaðið 20. október 2012, bls. 28.
Eldgos

eldgos

Í Fréttablaðið.is 5. mars 2021 mátti lesa eftirfarandi „frétt“; „Minjar í hættu samkvæmt spá um hraunrennsli“. Þar segir m.a.:

EldgisYfirlitskort Minjastofnunar er unnið út frá þeim minjum sem eru þekktar og eru á skrá hjá stofnuninni en fleiri minjar er að finna á svæðinu þar sem heildarskráning fornleifa á svæðinu hefur ekki farið fram.
Fornleifafræðingar Minjastofnunar eru í kapphlaupi við tímann að skrá minjar sem eru í hættu miðað við hraunrennslisspá. Enn á eftir skrá margar minjar sem gætu glatast að eilífu komi til eldgoss.

„Fjölmargar friðaðar og friðlýstar minjar eru á óróasvæðinu og enn á eftir að skrá margar minjar með fullnægjandi hætti að sögn Sólrúnar Ingu Traustadóttur fornleifafræðings. Hætta er á að þær glatist að eilífu komi til eldgoss.

Eldgos
„Fjöldi þekktra friðaðra minja er á svæðinu. Minjarnar tilheyra ýmsum minjaflokkum en helst er að nefna fjölmörg sel, bæði frá bæjum sunnan- og norðanvert á Reykjanesskaganum,“ útskýrir Sólrún. Hún segir helstu selin í hættu vera Dalssel við Fagradalsfjall, Knarrarnessel, Auðnasel, Fornasel, Rauðhólasel, Seltó, Kolhólasel, Oddafellssel nyrðra og syðra sem eru sunnan Reykjanesbrautar.

Ekki er talið líklegt að gos hefjist á næstu klukkustundum og lauk gosóróanum sem hófst um klukkan 14:20 á miðvikudag um miðnætti þann sama dag.

„Nú er viðvarandi skjálftavirkni á svæðinu en óróinn var bara á miðvikudag,“ segir Einar Hjörleifsson, náttúruvársérfræðingur, í samtali við Fréttablaðið.“

Staðreyndirnar eru hins vegar þessar:

Kringlumýri

Kringlumýri ofan Krýsuvíkur – með elstu mannvistarleifum á Íslandi.

Í fyrsta lagi; Minjastofnun hefur sýnt minjum á svæðinu takmarkaðan áhuga í gegnum tíðina, jafnvel svo jaðrar við vanrækslu, þrátt fyrir þrálátar ábendingar. Eitt svarið við einni slíkri ábendingu var t.d.: „Það eru engar merkilegar minjar á svæðinu“.

Í öðru lagi; Minjastofnun hefur hingað til ekki haft einn sérstakan minjavörð er gætt hefur hagsmuni svæðisins sérstaklega, líkt og um aðra landshluta.

Seltó

Kort Sesseljar af Seltó og nágrenni.

Í þriðja lagi; Minjastofnun á að vita að áhugasamir einstaklingar, umfram starfsfólk hennar, hefur bæði skoðað, skráð, ljósmyndað, teiknað upp og fjallað opinberlega um allar mikilvægar minjar á svæðinu. Má þar t.d. nefna Sesselju Guðmundsdóttur o.fl. Þessir aðilar hafa haldið skrár, þ.á.m. hnitaskrár, af öllum fornminjunum. Stofnunin hefur hins vegar haft lítinn áhuga á samvinnu við þetta fólk, a.m.k. hingað til.

Sel

Sel vestan Esju – ÓSÁ.

Í fjórða lagi; Minjastofnun má vita að allar selstöðurnar á svæðinu hafa þegar verið skráðar, hnitsettar, ljósmyndaðar og teiknaðar upp. Heimildir um það liggja fyrir í opinberum skrám, öðrum en hennar.

Í fimmta lagi; Seltó var ekki selstaða í eiginlegum skilningi, líkt og þekktist í heiðinni. Staðurinn var að vísu nytjastaður til hrístöku fyrrum, líkt og nafnið bendir til, þótt þar finnast engar minjar þess í dag.

Í sjötta lagi; Ef Minjastofnun vildi leggja áherslu á minjasvæði á mögulegu gossvæði ætti starfsfólkið að beina athygli sinni  fyrst og fremst að Selsvöllum, en mér að vitandi hefur starfsmaður stofnunarinnar varla stigið þar niður fæti þrátt fyrir aldarlýsingar ferðalanga og sagnir þeirra fyrrum af minjunum þar sem og handavinnu áhugasamra einstaklinga um mikilvægi þeirra í hinu sögulega samhengi svæðisins.

Hraun

Refagildra við Hraun.

Í áttunda lagi; Fáir vita t.d. að fjárborgir á Reykjanesskagnum eru 134 talsins, fornar refagildrur 91 og sels og selstöður 402, réttir 122 o.s.frv.  Efast er um að Minjastofnun hafi yfirlit um allar þær minjar, hvað þá allar mannvistaðleifarnar er finna má í hellum á svæðinu.

Í níunda lagi mætti Minjastofnun gjarnan líta sér nær þegar kemur að umræðu um minjar á Reykjanesskaga.

Fyrir áhugasama vil ég vekja athygli á vefsíðunni www.ferlir.is sem hefur fjallað um örnefni, leitir að mannvistarleifum, hversu ómerkilegar sem þar kynnu að virðast, á Reykjanesskaga um áratuga skeið…

Heimild:
-Fréttablaðið.is 5. mars 2021, Minjar í hættu samkvæmt spá um hraunrennsli.

Selsvellir

Selsvellir – uppdráttur ÓSÁ.

Gálgahraun

Halldór H. Halldórsson skrifaði um „Fornar reiðleiðir“ á vefinn lhhestar.is“

„Hvenær er reiðleið skilgreind sem forn reiðleið, ég hef velt þessu nokkuð fyrir mér, en ekki komist að neinni áþreifanlegri niðurstöðu. En líklegt þætti mér að miða við komu bílsins til landsins, akvegir almennt lagðir um landið og bíllinn orðin almenningseign.
Fornar reiðleiðir og þjóðleiðir eru sem sagt þær leiðir sem voru almennt farnar á milli staða og landshluta fótgangandi eða ríðandi fyrir tilkomu bílsins sem almenningsfarartækis.

Hvaða lög eða hefðir ná yfir þessar leiðir til almennra nota í dag, oft liggja þessar leiðir um eignarlönd manna. Þá er oft um að ræða þéttbýlisbúa, eða aðra sem hafa eignast þau lönd þar sem þessar leiðir liggja um. Fyrir kemur að girt er fyrir þær og ekki hirt um að setja hlið á girðinguna þar sem viðkomandi leið liggur um, sá sem ferðast eftir þessum leiðum lendir þá í ógöngum. Hvað segja lögin um þetta?

Langastígur

Langastígur á Þingvöllum.

Lög um náttúruvernd 1999 nr. 44 22. mars, þar segir:
23. gr. Óheimilt er að setja niður girðingu á vatns-, ár eða sjávarbakka þannig að hindri umferð gangandi manna. Þegar girða á yfir forna þjóðleið eða skipulagðan göngu-, hjólreiða- eða reiðstíg skal sá sem girðir hafa hlið á girðingunni eða göngustíga.

Vegalög 2007 nr. 80 29. mars, styðja þetta ákæði í þeim segir (tóku gildi 1. janúar 2008):
53. gr. Girðingar og hlið yfir vegi.
Enginn má gera girðingu yfir veg með hliði á veginum án leyfis Vegagerðarinnar nema um einkaveg sé að ræða. Sama bann gildir þar sem mælt og markað hefur verið fyrir vegi enda hafi Vegagerðin tilkynnt jarðarábúanda hvar mælt hefur verið.

55. gr. Vegir sem ekki tilheyra vegflokki.
Nú liggur vegur, stígur eða götutroðningur yfir land manns og telst eigi til neins vegflokks samkvæmt lögum þessum og er landeiganda þá heimilt að gera girðingu yfir þann veg með hliði á veginum en eigi má hann læsa hliðinu né með öðru móti hindra umferð um þann veg nema sveitarstjórn leyfi. Ákvörðun sveitarstjórnar skv.1. mgr. má leggja undir úrskurð ráðherra.

Vitnum í viðtal við Sigurð Líndal lagaprófessor sem birtist í Eiðfaxa 2003 þar sem hann vitnar í Jónsbók frá árinu 1281, landsleigubálk 24. Þar segir að mönnum sé heimilt að ríða um annara manna land og almenning og æja þar. Þessi túlkun Jónsbókar er svo staðfest í náttúruverndarlögum þar sem í þriðja kafla laganna er nánar fjallað um einstök atriði og takmarkanir þessa almannaréttar, einkum í 12. – 16. grein þeirra.

Vífilsstaðahlíð

Vífilsstaðahlíð – reiðstígur.

Meginreglan er sem sé sú að mönnum er heimil för um landið, þar á meðal um eignarlönd og heimil dvöl á landi í lögmætum tilgangi. Ekki er þörf á að fá sérstakt leyfi til að fara um óræktað land og heimilt er að hafa lausa hesta með í för. Ferðamenn, þ.m.t. hestaferðamenn, skulu sýna landeiganda eða rétthafa lands fulla tillitssemi einkum er varðar búpening, hlunnindi eða ræktun. Á eignarlöndum má að fengnu leyfi slá upp aðhaldi eða næturhólfi, enda valdi hrossin ekki landspjöllum. Á hálendinu er heimilt að æja á ógrónu landi og hafa skal fóður í næturstað. Þegar farið er um náttúruverndarsvæði ber mönnum að hafa samráð við landverði og fylgja leiðbeiningum þeirra.

Landeigandi getur unnið eignarhefð á tilfæringum bundnum við fornar þjóðleiðir og þeir sem hafa farið um slíkar þjóðleiðir geta unnið afnotahefð og þannig helgað sér rétt til umferðar. Þar kæmi til 20 ára hefðartími, hugsanlega 40 ára, ef slíkur réttur teldist til ósýnilegra ítaka.
Mikilvægasta heimildin fyrir hefðbundnum og fornum reiðleiðum eru dönsku herforingjaráðskortin (atlaskortin ) frá fyrsta áratug síðustu aldar. Hafi leiðum á þeim ekki verið mótmælt í orði eða verki, má líta svo á að þær séu verndaðar af hefðarrétti, en undantekningar geta þó verið á því. Ef einhver vill véfengja reiðleiðirnar á herforingjaráðskortunum, sem kortlagðar voru í góðri trú, þá hvílir á honum sönnunarbyrði um að hún sé ekki hefðbundin þjóðleið, ekki á þeim sem vilja fara þessa leið ríðandi eða gangandi.

Hér meðfylgjandi má sjá tvær myndir, annars vegar frá Langastíg í Þingvallaþjóðgarði, þar hefur verið borið í stíginn og honum viðhaldið sem reið- og göngustíg af Þingvallanefnd. Hins vegar er mynd frá vígslu nýs reiðvegar inn með Vífilsstaðahlíð 2004. Um Vífilsstaðahlíð liggur gömul þjóðleið sem liðar sig áfram um Búrfellsgjá á Selvogsgötu. Hestamenn notuðu þessa leið fram eftir síðustu öld, en fyrir 1990 var henni breytt í göngustíg og hestamönnum bannaður aðgangur. Það var ekki fyrr en 2004 sem tókst, eftir harða baráttu, að fá reiðveg samþykktan á skipulag á þessu svæði. Þar er nú einn besti reiðvegur á höfuðborgarsvæðinu í óviðjafnanlegu umhverfi.“

Hafa ber í huga að allt tal um „fornar reiðleiðir“ fyrir hestamenn í gegnum aldirnar eru ofmetnar. Leiðirnar voru jafnt fyrir þá sem og gangandi fólk.

Samantekt,
Halldór H. Halldórsson – www.lhhestar.is › Fornar_reidleidir

Reykjanes - fornar leiðir

Reykjanes – fornar leiðir.

Mosfell

Í Mosfellingi árið 2006 er fjallað um „Kirkjuna á Hrísbrú“. Ekki er úr vegi, að því tilefni, að fjalla svolítið um einn þekktasta íbúann þar sem og spurninguni hvað varð um silfursjóð hans á gamals aldri.

Kirkjan á Hrísbrú

Hrísbrú

Mosfellsdalur – Hrísbrú fremst.

„Undanfarin ár hefur staðið yfir fornleifauppgröftur að Hrísbrú í Mosfellsdal. Rannsóknin hefur leitt margt merkilegt í ljós m.a. um kirkju á Hrísbrú. Hrísbrú er ein af fimm jörðum í Mosfellsbæ þar sem heimildir eru fyrir að kirkja hafi staðið. Á tveimur jörðum stendur kirkja enn þann dag í dag, á Lágafelli og á Mosfelli. Hinar jarðirnar eru Suður-Reykir og Varmá.
Í Egilssögu segir að kirkja sem reist var á Hrísbrú er kristni var lögtekin hafi verið flutt að Mosfelli.
Í gegnum tíðina hafa verið nokkrar vangaveltur um hvar fyrsti bærinn á Mosfelli stóð. Kristian Kålund segir í verki sínu Bidrag til en historisktopografi sk Beskrivelse af Island, sem gefin var út 1877 að hann álíti að bærinn hafi upphaflega staðið á Hrísbrú ásamt kirkjunni. Síðan hafi bærinn verið fluttur að Mosfelli og kirkja á eftir. Sigurður Vigfússon ræðir þetta mál einnig í Árbók hins íslenska fornleifafélags 1884-1885, en kemst að annarri niðurstöðu en Kålund. Álítur hann, frásögn Egilssögu um kirkju á Hrísbrú, sem seinna var flutt að Mosfelli, rétta.
Um bæjarflutning og þar með nafnbreytingu var ekki að ræða. Í útgáfu sinni að Egils sögu (Rvk. 1933) telur Sigurður Nordal líklegast, að kirkjan hafi fyrst verið byggð fjarri bænum að Mosfelli, en seinna verið flutt að bænum og hjáleigan Hrísbrú byggð á gamla kirkjustaðnum.
Menn hafa leitt að því líkur að kirkja hafi staðið á Hrísbrú í um 150 ár. Hún var reist er kristni var lögtekin, þ.e. í kringum árið 1000.
Hrísbrú
Kirkja var hins vegar risin á Mosfelli í tíð Skapta prests Þórarinssonar sem uppi var um miðja 12. öld og því hafa menn ályktað sem svo að þá hafi verið búið að flytja kirkjuna frá Hrísbrú. Talsvert hefur verið skrifað um staðsetningu hinnar fornu Hrísbrúarkirkju. Um þetta segir Magnús Grímsson í Safni til sögu Íslands og íslenzkra bók mennta að fornu og nýju, sem gefin var út í Kaupmannahöfn og Reykjavík árið 1886: „Það er varla von, að nein viss merki sjáist nú Hrísbrúarkirkju, eptir hérumbil 700 ára tíma. En þó eru þar nokkur vegsummerki enn, sem styðja söguna. Skammt útnorðr frá bænum á Hrísbrú, norðan til við götu þá, er vestr liggur um túnið, er hólvera ein, hvorki há né mikil um sig. Það er nú kallaðr Kirkjuhóll. Stendur nú fjárhús við götuna, landsunnan megin í hóljaðri þessum. Þegar menn athuga hól þenna lítr svo út, sem umhverfis hann að vestan, norðan og austan, sé þúfnakerfi nokkuð, frábrugðið öðrum þúfum þar í nánd. Þetta þúfnakerfi á að vera leifar kirkjugarðsins (því kirkjan á að hafa staðið á hólnum) og er það alllíkt fornum garðarústum. Innan í miðju þúfnakerfi þessu á kirkjan sjálf að hafa staðið, og þar er varla efunarmál, að þar hafi til forna eitthvert hús verið. Eigi er hægt að ætla neitt á um stærð rústar þessarar …
Tveir steinar sáust uppi á hólnum, sokknir í jörð að mestu; voru þeir teknir upp haustið 1857, og líta út fyrir að hafa verið undirstöðusteinar, óvandaðir og óhöggnir, en ekki alllitlir; má vera að þeir hafi verið í kirkjunni. Við upptekníng steina þessara sýndist svo, sem moldin í hólnum væri lausari og mýkri,(?) en í túninu fyrir utan hólinn. Það mun því efalaust, að kirkja Gríms Svertíngssonar hafi hér staðið. Annarsstaðar getr hún varla hafa verið á Hrísbrú, enda bendir og nafnið, Kirkjuhóll, á að svo hafi verið. Hefir þar og verið kirkjustæði allfagrt, en ekki mjög hátt.“
Á árunum upp úr 1980 fór fram fornleifaskráning í Mosfellsbæ á vegum Þjóðminjasafns Íslands. Þar er sagt frá einni sporöskjulaga rúst og tveimur ferhyrningslaga tóftum á Kirkjuhóli. Allar eru tóftirnar þó ógreinilegar. Um það segir skrásetjari: „Almennt má segja um Kirkjuhól, að hann er mjög rústalegur að sjá. Mjög erfitt er samt að koma öllu heim og saman. Er hólkollurinn allþýfður og eflaust má sjá það út úr þessu, sem menn langar helst til.“
Nú er sem sagt fengin niðurstaða í málinu. Þær fornleifarannsóknir sem stundaðar hafa verið á Hrísbrú undir stjórn Jesse Byock á undanförnum árum hafa leitt í ljós að kirkja var reist á Hrísbrú í frumkristni og að hún stóð á Kirkjuhóli.“ – Kristinn Magnússon, fornleifafræðingur.

Í Mosfellingi árið 2005 er fjallað um fornleifauppgröftinn að Hrísbrú:
Hrísbrú
„Margir hafa velt vöngum um afdrif beina Egils.
Egilssaga fjallar um þetta og víðar hefur það verið gert. Halldór Laxness stúderaði sögu Mosfellsdals á sínum tíma og færði í frásögn með sínum hætti í Innansveitarkróniku: „Kirkja hafði að öndverðu verið reist undir Mosfelli á þeim stað sem síðar hefur heitið Hrísbrú, og stóð þar uns skriða hljóp á túnið á 12tu öld; var þá flutt á hól einn leingra inn með fjallinu, Mosfellsstað sem nú heitir. Hrísbrú varð leigukot í Mosfellstúni vestan skriðunnar. Þegar kirkjan var flutt fundust, að því er skrifað er, mannabein undir altarisstað í Hrísbrúarkirkju hinni fornu; voru þau miklu meiri en annarra manna bein og fluttu Mosdælir þau til Mosfells ásamt með kirkjunni og þóttust gamlir menn kenna þar bein Egils Skallagrímssonar.“

Eins og flestir vita hefur staðið yfir á Hrísbrú í Mosfellsdal stórmerkur fornleifauppgröftur undanfarin sumur. Uppgreftrinum hefur verið stjórnað af fornleifafræðingnum Jesse Byock. Jesse er prófessor í norrænum fræðum við Kaliforníuháskóla og kom til íslands í fyrsta skipti fyrir um það bil 30 árum. Þess má geta að á síðasta ári veitti Alþingi honum íslenskan ríkisborgararétt.
Mosfellingur náði tali af Jesse á Brúarlandi þar sem fornleifafræðingarnir hafa haft aðsetur undanfarin sumur.

Hvenær hófst þú störf við uppgröftin á Hrísbrú?
Hrísbrú
„Árið 1995 gerði ég forkönnun að Mosfelli og á fleiri stöðum í Dalnum. Það var svo árið 2001 sem starfið hófst að fullum krafti á Hrísbrú með aðkomu og stuðningi Mosfellsbæjar að verkefninu“.
Ert þú ánægður með þann árangur sem hefur náðst fram að þessu?
„Það er óhætt að segja að hann sé framar björtustu vonum. Síðastliðiðið sumar fannst kirkja sem að öllu líkindum er reist skömmu eftir Kristnitöku árið 1000. Um er að ræða stafkirkju, einstaka að því leyti að varðveist hafa betur en áður hefur sést stólpar og grunntré hússins, ásamt hleðslum. Þessi fundur er verulegur hvalreki fyrir byggingarsögu íslands, enda kemur í ljós að frágangur og vinnubrögð við byggingu benda til séríslenskra úrlausna við bygginguna sem ekki þekkjast á Norðurlöndum frá sama tímabili. Það er því Ijóst að fundur stafkirkjunnar er stórmerkur. Þá er ljóst að kirkjan hefur verið staðsett á stað sem fyrir kristnitöku hefur verið notaður við greftranir eða brennu látinna, því þar hefur fundist eina brunagröfin sem fundist hefur á Íslandi. Niðurstöður rannsókna sýna með óyggjandi hætti að maður hefur verið brendur á Hulduhól, skipslöguðum hóli sem liggur skammt frá kirkjugarðinum. Það er ekki ólíklegt að einn af fyrstu höfðingjum Mosfellsbæjar hafi verið brendur þarna.
Í garðinum kringum kirkjuna hefur fundist fjöldi beinagrinda. Frá því uppgröftur hófst höfum við fundið 22 beinagrindur sem m.a. hafa gefið okkur margvíslegar vísbendingar um lifnaðarhætti fólksins, það er t.d. um: næringu, sjúkdóma, ofbeldi og hvar fólkið er fætt, enda beinist rannsóknin ekki síst að lífsskilyrðum og siðum fyrir og eftir Kristnitöku.
Með því að beita hátæknilegum mælingum á ísótópum, sem er ný greiningartækni í fornleifafræði, er hægt að mæla í beinum og tönnum hlutfall næringar á fyrstu æviárum einstaklinga. Niðurstaða hefur leitt í ljós að sjávarnitjar voru greinilega mikil uppistaða í fæðu á þessum tíma í kringum 1000. Við höfum einnig getað rakið sjúkdóma eins og berkla og krabbamein frá þessum tíma og við höfum séð merki mikils ofbeldis. Þar vegur þyngst fundur okkar í fyrrasumar af hauskúpu sem bar greinileg einkenni þess að hafa orðið fyrir þungu höggi eggvopns. Enn fremur hefur verið rannsakað hvort einstaklingar eru fæddir hérlendis eða erlendis. Niðurstaðan er sú að að svo virðist sem að allir þeir sem bera bein sín í kirkjugarðinum á Hrísbrú hafi verið fæddir hérlendis.
Með samvinnu fjölda vísindamanna úr margvíslegum fræðigreinum, svo sem almennri líffræði, frjókornafræði, réttarlæknisfræði, sagnfræði, fornleifafræði, jarð- og landafræði hefur verið leitað eftir upplýsingum svo hægt sé að draga heildarmynd af búsetuskilyrðum frá þessum tíma, en það er meginmarkmið rannsóknarinnar.
Rannsóknir síðastliðinna fimm ára eru líka farnar að skila verulegum árangri, sem styrkir þekkingu manna á smáatriðum og heildarmynd af lífi á íslandi á landnámsöld. í sumum tilfellum er um að ræða þekkingu sem ekki hefur komið fram áður.“

Eigum við eftir að finna silfur Egils?
Hrísbrú„Það er eðlilegt að spurningar sem tengjast Agli Skallagrímssyni og Egilssögu komi upp. Vísindamenn vilja gjarnan víkja sér undan óyggjandi svörum um slíkt, en samsvörun fundar á kirkju og kirkjugarði við stóra kafla í Egilssögu eru sláandi, því er ekki að neita. Nú í sumar var farið undir kirkjugólfið og þar finnst gröf, en kistan hafði verið fjarlægð, enda finnast leifar hennar. Sá sem í gröfinni hefur legið hefur greinilega verið stór og mikill eins og fram kemur í öllum lýsingum, enda gröfin sú stærsta af þeim sem við höfum fundið á Hrísbrú.“

Fundur skálans hefur vafalaust verið skemmtilegur endir á vinnu sumarsins?
„Það var ánægjulegt að finna þetta og án vafa er þessi viðbótarfundur til að styrkja þá skoðun mína að hér sé um einn merkasta fornleifafund seinni tíma að ræða, þegar horft er til þessa tímabils, ekki bara eftir íslenskum mælikvarða heldur einnig þegar horft er til heiminum. Það dæmi ég alla vega af viðbrögðum kollega minna víða úr heiminum. Þetta gerðist þannig að við vorum að fara að ganga frá eftir vinnu sumarsins þegar þessi bygging kom í Ijós. Ljóst er að hún hefur varðveist svo vel vegna skriðunnar sem féll á hana. Það hefur verið ótrúlegt að finna þetta allt og sjá á einum stað og ég tel það einstakt.“

Koma fleiri en fornleifafræðingar að þessum rannsóknum?
„Að þessum rannsóknum hefur hópur vísindamanna komið frá fjölda landa og má til gamans geta þess að nú eru þegar fjórir af þeim að gera doktorsritgerð vegna þessa verkefnis við Háskólann í Kaliforníu. Þessi hópur hefur verið afar samstilltur og frábært að vinna með. Af þessu leiðir að um er að ræða margþættar rannsóknir svo hægt sé að ná þeim árangri að varpa ljósi á líf og lifnaðarhætti á landnámsöld, á mörkum kristni og heiðni og rannsóknin skipar sér þar með í hóp með stærri fornleifauppgröftum.“

Í Ólafíu, riti Fornleifafræðingafélags Íslands árið 2007, er fjallað um „Valdamiðstöðina í Mosfellssdal – Rannsóknir á fornleifum frá tímum víkinga að Hrísbrú að Mosfelli“:

Niðurstöður:

Hrísbrú

Hrísbrú – uppgröftur – skáli.

Landslag frá heiðni til kristni Fornleifarannsóknir í Mosfellsdal hafa leitt í ljós verulegar sannanir á því að umtalsverð byggð hefur verið þar frá landnámsöld fram yfir kristnitöku, og áfram allt fram á 12. öld. Með rannsóknarniðurstöðunum er að myndast vel skrásett mynd af flókinni sambúð og samskiptum heiðinna manna og kristinna á fyrstu öldum Íslandsbyggðar. Á Hrísbrú hafa fornleifafræði og fornar ritheimildir hjálpast að við að sýna fram á mikilvægi staðbundinna minja, sem og rannsóknir á áþreifanlegum minjum í nánum tengslum við ritaðar miðaldaheimildir.
Mikilvægur þáttur í rannsóknunum á Hrísbrú hefur falist í því að skoða og skilja hvernig greftrunarsiðir og trúarbrögð hafa blandast við kristnitöku.

Uppi hafa verið margar tilgátur í víkingaaldarfræðum um hætti, menningarleg gildi og trúarhegðun Norðurlandabúa á þeim tíma þegar skipt var frá heiðnum sið til kristni. Margt bendir til þess að breyting hafi átt sér stað frá heiðni til kristni á sérstökum helgistöðum en lítið er um skýrar fornleifafræðilegar sannanir þessu til staðfestingar. Niðurstöður okkar á Mosfelli gætu skipt máli í tengslum við þessa alþjóðlegu umræðu.

Hrísbrú

Hrísbrú – fornleifauppgröftur.

Nálægð heiðinnar líkbrennslu á Hulduhól við kristna kirkju og kirkjugarð á Kirkjuhól sýnir einstaklega heillega mynd af trúarlegum greftrunarstað og veitir okkur tækifæri til að skoða hvernig eitt ákveðið samfélag á víkingaöld kristnaðist. Sú staðreynd að kirkjan á Kirkjuhóli hafi verið byggð svo nálægt hinni heiðnu hæð á Hulduhóli segir okkur margt um félagslega og menningarlega hætti á þessum tíma og það er afar sjaldgæft í dag að finna minjastað með tveimur jafnvel varðveittum grafhaugum. Rannsóknarniðurstöðurnar benda til þess að heiðið og kristið samfélag hafi búið hlið við hlið á tímum kristnitökunnar.
Fornleifarnar á Mosfelli/Hrísbrú eru sérstaklega mikilvægar í sambandi við túlkun á Íslandssögunni vegna þess að fyrir rannsóknina höfðu aðeins verið til ritaðar heimildir um fólkið sem þar bjó.
Grímur Svertingsson er gott dæmi um þetta. Hann bjó þar við kristnitöku og var lögsögumaður á árunum strax eftir hana. Grímur var giftur Þórdísi, dóttur voldugs höfðingja frá Borg í Borgarfirði, og var einn af áhrifamestu mönnum á Íslandi á þeim tíma. Margir sagnfræðingar hafa lengi haldið því fram, og byggt það á rituðum heimildum, að margir voldugir höfðingjar á Íslandi, og þar á meðal Grímur, hafi tekið kristni til þess að halda völdum. Vegna þessa hafi margir höfðingjar reist kirkjur á jörðum sínum um árið 1000 til þess að fá vígða jörð á landareign sinni. En eru einhverjar sannanir fyrir þessu?
HrísbrúNiðurstöður fornleifarannsókna á Hrísbrú benda til þess að á landnámsöld hafi staðurinn verið bústaður höfðingja og staðsetning hans áhrifamikil í samfélagi og menningu íbúa Mosfellsdals.
Egils saga segir frá því að Grímur Svertingsson hafi reist sér eigin kirkju og kirkjugarð að Hrísbrú í kjölfar kristnitökunnar. Áþreifanlegar fornleifar sem fundist hafa í rannsóknunum styðja þetta. Með byggingu kirkjunnar eftir kristnitöku staðfestu Mosfellingar, sú fjölskylda sem mestu réði á þeim tíma í dalnum, eignarhald sitt á landinu, sjálfsmynd sína og stöðu. Steinar og grafir að Hrísbrú sýna fram á miðpunkt í menningarlegu og raunverulegu landslagi á meðan áþreifanlegar minjar úr gröfunum veita okkur upplýsingar um heilsu og lifnaðarhætti, auk þess að staðfesta ofbeldi í samfélagi íbúanna á Mosfelli/Hrísbrú. Þessar áþreifanlegu minjar eru vitnisburður um tilraun voldugrar höfðingjaættar til þess að koma sér vel fyrir í breyttu trúarlegu og félagslegu umhverfi fyrstu tvö hundruð ár landnáms á Íslandi. Rannsóknir okkar benda til þess að landsvæðið hafi verið notað í trúarlegum tilgangi og til greftrunar bæði fyrir og eftir kristnitöku; bæði heiðnir og kristnir hafi viljað hafa forfeður sína nálægt sér.“

Í Árbók Hins íslenska fornleifafélags árið 1884 skrifar Sigurður Vigfússon um „Rannsókn í Borgarfirði 1884“. Þar fjallar hann m.a. um Mosfell:

Hrísbrú„Þriðjudaginn, 2. sept., fór eg af stað úr Reykjavík, síðara hluta dags, og upp að Mosfelli, var þar um nóttina. Hér kemr stax til Egils s. Skallagrímssonar, og síðan til landnáms pórðar Skeggja. Þetta þurfti eg að athuga betr. Grímr Svertingsson bjó að Mosfelli víst mestallan siðara hluta 10. aldar, og fram yfir 1000. Hann var ættstór maðr og göfugr og lögsögumaðr um hríð ; hann átti Þórdísi Þórólfsdóttur Skallagrímssonar; þegar Egill seldi af höndum bú að borg, fór hann suðr til Mosfells til pórdisar bróðurdóttur sinnar og var þar i elli sinni og andaðist þar, og hér fal Egill fé og koma hér fram í sögunni ýmsar staðlegar lýsingar.

Hrísbrú

Hrísbrú – fornleifauppgröftur.

Síra Magnús heitinn Grímsson, sem var prestr á Mosfelli, hefir skrifað ritgerð um þetta efni, „Athugasemdir við Egils sögu“ í Safni til sögu Íslands, Kaupmh. 1861, II. bl. 251—76. Ritgerð þessi er mikið fróðleg og skemmtilega skrifuð, og vel lýst mörgu landslagi á Mosfelli og þar í kring; þarf eg því ekki svo mjög að tala um það. Síra Magnús heldr, að bœrinn Mosfell hafi í fyrstu staðið þar sem Hrísbrú nú er, sem er lítilfjörlegt kot, skamt fyrir utan túnið á Mosfelli, og að Grímr Svertingsson hafi búið þar; hann ímyndar sér, að bœrinn hafi verið fluttr — líklega einhvern tíma fyrir miðja 12. öld — frá Hrísbrú og þangað sem hann nú stendr, og hafi þá nafnið flutzt á þenna nýja bœ, enn nafnið Hrísbrú verið gefið þeim stað, þar sem hið forna Mosfell stóð; meðal annars um þetta bls. 255 og 260—261. Allar þessar getgátur byggir höfundurinn einkannlega á því, sem stendr í Egils s. Reykjavíkr útg. um flutning á kirkju þeirri, er Grímr Svertingsson lét byggja að Mosfelli, eða sem stóð þar sem síðar hét á Hrísbrú, og flutt var síðar heim að bœnum. Eg get nú ekki vel fallizt á alt þetta.
Mosfell hefir snemma bygzt, sem eðlilegt er, því að uppi í Mosfellsdalnum hefir verið mjög byggilegt. Landn. segir, bls. 53 : „Fiðr enn auðgi Halldórsson, Högnasonar, fór úr Stafangri til Íslands; hann átti Þórvöru dóttur Þorbjarnar frá Mosfelli Hraðasonar; hann nam land“ o.s.frv. Það má ætla, að bœrinn Mosfell hafi verið bygðr ekki miklu eftir 1000, þar sem landnámsmaðr átti dóttur Þorbjarnar, sem þar er fyrst getið, enn ekki sést það, hvort hann hefir fyrst bygt þar, svo að Mosfell getr verið enn eldra. Grímr Svertingsson að Mosfelli er oft nefndr, fyrst í Íslendingabók, og oft í Landnámu og Egils s. og ávalt er hann kallaðr „Grímr at Mosfelli“, þegar nefnt er, hvar hann hafi búið; Landn. mundi vissulega geta um það, hefði Mosfellsbœrinn fyrst staðið úti á Hrísbrú og það í hálfa þriðju öld, og síðan verið fluttr þangað, sem hann nú er.

Mosfell

Mosfell – Kýrgil fjær.

Öllum handritum ber saman um, að við þenna kirkjuflutning á Mosfelli hafi verið staddr Skafti prestr Þórarinsson, og öllum ber þeim líka saman um, að kirkjan, sem var ofan tekin, hafi verið sú kirkja, er Grímr Svertingsson lét byggja; þar af er þá ljóst, að kirkja Gríms hefir þá enn staðið, og hefir hún þá orðið um 150 ára gömul. Það má finna mörg dæmi þess, hvað hús stóðu ákaflega lengi bæði í fornöld og á miðöldunum. Þetta er og eðlilegt, þvíað annaðhvort bygðu menn af rekaviði, sem endist svo lengi, eins og kunnugt er, eða menn gátu valið viðinn í Noregi, þ.e. sóttu hann þangað ; þá voru ekki mjög sparaðir skógarnir ; menn bygðu og sterkt, þegar menn vildu vanda eitthvert hús. Það sýna þær leifar, sem bæði eg og aðrir hafa séð, og eins má sýna viðargœðin.

Kýrgil

Tóft ofan við Kýrgil.

Eg hefi verið nokkuð langorðr um þetta efni, því að mér þótti þess þurfa sögunnar vegna, og mætti þó fleira tilfœra; enn eg skal vera því stuttorðari um, hvar Egill hafi fólgið fé sitt, og lofa einum sem öðrum að hafa sínar ímyndanir, getgátur og munnmælasögur. Þær geta verið mikið góðar, þar sem þær eiga heima, enn eg er þeirrar meiningar, að ekki verði á þeim bygt, þegar um rannsókn er að rœða. Höfundar Egils s. vita sjálfir einu sinni ekki, hvar Egill muni hafa fólgið féð, og vóru þeir þó nær því enn vér; enn þess er ekki von, því að Egill sagði það engum manni.
Sá, sem ritað hefir það handrit, sem liggr til grundvallar fyrir Kh.útg.=Rv.útg., getr til á þremr stöðum bls. 228. Eg skal geta þess hér, að hvorki Hrappseyjarútg. né handr. geta neitt um það, þegar Egill ætlaði að sá silfrinu að lögbergi; þau sleppa alveg þeim kafla ; eg verð að taka hér þenna stað einungis til þess að sýna, hvað öllu er hér rétt lýst, og sem sýnir hvað ritari sðgunnar hefir verið kunnugr, bls. 227—8: „Þat var eitt kveld, er menn bjuggust til rekkna at Mosfelli, at Egill kallaði til sín þræla tvá, er Grímr átti. Hann bað þá taka sér hest. „Vil ek fara til laugar, ok skulu þér fara með mér“, segir hann. Ok er Egill var búinn, gekk hann út ok hafði með sér silfrkistur sínar. Hann steig á hest.
Fóru þeir síðan ofan eptir túninu, ok fyrir brekku þá, er þar verðr,er menn sá síðast. En um morguninn, er menn risu upp, þá sjá þeir, at Egill hvarflaði á holtinu fyrir austan garð, ok leiddi eptir sér hestinn. Fara þeir þá til hans og fluttu hann heim. En hvártki komu aptr síðan þrælarnir né kisturnar, ok eru þar margar getur at, hvar Egill hafi fólgið fé sitt.“

Skv. framansögðu hafa margir ætlað, með allskyns margflóknum ályktunum að Egill hafi falið silfur sitt í nágrenninu og drepið þrælana tvo, en fáir virðast hins vegar gera ráð fyrir þeim möguleika, sem eðlilegri má telja; að þrælarnir (yngri og betur á sig komnir) hafi áttað sig á aðstæðum, stolið silfrinu, hrakið gamla manninn frá með svo niðurlægjandi hætti að hann hafi ekki viljað viðurkenna mistök sín, og þeir síðan látið sig hverfa með allt heila klabbið, bæði fjársjóðinn og farskjótana. A.m.k. virðist enginn hafa haft rænu á að leita, hvorki farskjótana þriggja og þrælanna í framhaldinu. Nýlega teknar grafir eða önnur ummerki í og með Mosfelli hefðu án efa vakið alveg sérstaka athygli á þeim tíma – ekki síst í ljósi þessa merka atburðar; (ályktun ritstjóra FERLIRs). Hvers vegna fór ekki fram rannsókn í framhaldinu, eða a.m.k. athugun, á atburðinum. Gallinn við frásagnar“sérfræðinga“ seinni tíma er að þeir voru svo meðvirkir sagnaskýringunum fyrrum að þeir sáu ekki til sólar. Meðaumkunin var öll Egils. Hér virðist vera um eitt merkilegasta óleysta sakamál Íslandssögunnar að ræða.

Hrísbrú

Ólafur Magnússon, bóndi á Hrísbrú.

Merkisbóndinn Ólafur Magnússon og Finnbjörg, eiginkona hans, bjuggu á Hrísbrú. Ólafur barðist hatramlega gegn niðurrifi kirkjunnar að Mosfelli, eins og fyrr er getið, en varð að lúta í lægra haldi fyrir yfirvöldum árið 1888. Hann tók gömlu klukkuna úr kirkjunni til varðveislu og var hún geymd á Hrísbrú í meira en mannsaldur eða þangað til henni var komið fyrir í Mosfellskirkju sem vígð var árið 1965.
Eyjólfur Guðmundsson frá Hvoli lýsir Hrísbrúarhjónunum þannig í endurminningum sínum: „Hvergi í Mosfellsdal hafði ég meira gaman af að koma en að Hrísbrú. Hjónin þar hétu Ólafur og Finnbjörg, kona roskin. Fyrst í stað voru þau nokkuð gróf og forneskjuleg, en glöð og gestrisin, þegar marka mátti. Það var ánægjulegt að bíða þar, meðan Finnbjörg hitaði ketilinn, og hlusta á Ólaf gamla. Var þá jafnan tilfyndnast það sem húsmóðirin lagði til málanna. Ekki var orðræðan hefluð né blíð, heldur oft stóryrt og krydduð velvöldum fornyrðum, stundum klúr.“
Ólafur og Finnbjörg voru hluti af aðalsögupersónum í bók Halldórs Laxness, Innansveitarkróniku.
Myndin af Ólafi er líklega tekin í kaupstaðaferð í Reykjavík kringum aldamótin 1900. Ekki er vitað til að mynd hafi varðveist af Finnbjörgu.

Heimild:
-Mosfellingur, Kirkjan á Hrísbrú, 12. tbl. 08.09.2006, Kristinn Magnússon, bls. 10.
-Mosfellingur, 10. tbl. 19.08.2005, Fornleifauppgröfturinn að Hrísbrú, bls. 12-13.
-Ólafía; rit Fornleifafræðingafélags Íslands, 2. árg. 01.05.2007, Valdamiðstöð í Mosfellssdal – Rannsóknir á fornleifum frá tímum víkinga að Hrísbrú að Mosfelli, bls. 84-105.
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 01.01.1884, Rannsókn í Borgarfirði 1884, Sigurður Vigfússon, Mosfell, bls. 62-74.
-http://www.hermos.is/forsida/frettir/frett/2017/09/25/Olafur-Magnusson-1831-1915-fra-Hrisbru/

Hrísbrú

Hrísbrú – uppgröftur – skáli.