Breiðabólstaðir

Í Fornleifaskráningu á Álftanesi, á Miðsvæði og Suðurnesi og á Norðursvæði er getið um bæi og merkar minjar. Hér á eftir er þeirra helstu getið.

Skógtjörn (býli)

Álftanes

Skógtjörn um 1900.

Jörðin Skógtjörn er fyrst nefnd í Þórðar sögu kakala í Sturlungu: ,,Gaf Þórður til staðarins í Skálaholti Skógtjörn á Álftanesi fyrir sál föður síns og móður.“ Þetta á að hafa verið árið 1248. Næst er Skógtjarnar getið í jarðskiptabréfi frá 1556 þar sem samþykkt er að eignarhald átta jarða, þar á meðal hennar, færist frá Skálholtsdómkirkju til konungs. Jarðarinnar er einnig getið í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 en þar er jarðardýrleiki sagður óviss. Þá brýtur sjórinn „engi jarðarinnar […] í Skógtjörn og ber þar uppá sand og marálm“. Þetta hefur þó verið stór jörð enda er hún talin eitt af aðalbýlunum á Álftanesi. Tvíbýli er á Skógtjörn og nefnast ábúendur Eyjólfur Einarsson og Jón Jónsson. Átta manns eru í heimili hjá hvorum um sig. Auk þeirra eru nefndir tveir hjáleigumenn, Jón Þóroddarson sem býr innanbæjar hjá Eyjólfi og Bárður Geirmundsson sem býr við nýuppbyggt hesthús hjá Jóni.

Álftanes

Stíflisgarður við Skógtjörn.

Í Jarðatali Johnsens frá 1847 er jörðin skráð sem bændeign og metin á 20 hdr. Ábúendur eru þá einn eigandi og tveir leiguliðar.
Í Sýslu- og sóknarlýsingum er Skógtjörn talin upp með einni hjáleigu og þremur tómthúsum. Hjáleigurnar og þurrabúðirnar eru ekki nafngreindar í þessum heimildum en gætu verið einhver þeirra býla sem Erlendur Björnsson lýsir á síðari hluta 19. aldar og greint er frá í örnefnalýsingum.
Áfram hefur verið tvíbýli á jörðinni og getið er um tvo bæi, Eystri-Skógtjörn eða Skógtjörn og Vestri-Skógtjörn eða Árnakot sem byggst hefur úr henni.
Hjáleigur og þurrabúðir í Skógtjarnarlandi eru taldar vera Moldarhús, Gíslakot, Dómhildarkot, Eysteinskot, Hólakot og Lásakot. Svalbarði og Melshús eru auk þess sögð hafa byggst úr Skógtjarnarlandi og í nágrenni þeirra eru einnig þurrabúðirnar Halakot og Lambhagi. Skógtjörn með hjáleigum og þurrabúðum nefndist Skógtjarnarhverfi. Á túnakorti af Skógtjörn frá 1917 kemur fram að tún eru 2,9 teigar að stærð, að mestu sléttuð en örlítið farin að þýfast.
Nú hefur íbúðarhúsabyggð risið allt í kringum hið gamla bæjarstæði Skógtjarnar nema hvað sléttað tún er austan þess. Land jarðarinnar er í aflíðandi halla mót suðri, niður að sjávarlóninu við Skógtjörn. Landamerkjum jarðarinnar er lýst í örnefnaskrá: „Bæirnir Eystri-Skógtjörn og Vestri-Skógtjörn liggja norðan samnefndrar tjarnar (sjávarlóns), Skógtjarnar. Austurmörk jarðanna eru á móti Selskarði suður frá Skógtjörn – norður í svonefnt Hreppahlið. En þetta voru jafnframt hreppamörk á milli Garðahrepps og Bessastaðahrepps, en nú er þetta sameinað sveitarfélag. Norðurmörk eru frá hreppamörkum vestur með landi Kirkjubrúar og Brekku eftir grjótgarði að svonefndum Grásteini. Þaðan liggja merkin eftir Sýsluvegi að Melshúsalandi og þaðan suður í Skógtjörn.“

Álftanes

Skógtjörn – herforingjaráðskort frá 1908.

Á túnakorti frá árinu 1917 er bærinn Skógtjörn staðsettur um 300 m suðvestan við Brekku. Þar má sjá tvö samhliða steinhús eða timburhús sem liggja þétt saman með stefnuna norðvestur – suðaustur. Heimreiðin liggur að norðvestan frá Svalbarði og meðfram göflum húsanna suðaustan megin og má því ætla að þar séu framgaflar. Norðaustara húsið er örlítið stærra. Þetta hafa að öllum líkindum verið íbúðarhúsin á Skógtjörn á þessum tíma en bærinn nefndist einnig stundum Eystri-Skógtjörn til aðgreiningar frá vestari Skógtjarnarbænum. Í örnefnalýsingu segir: „Bæirnir Eysri-Skógtjörn og Vestri-Skógtjörn liggja norðan samnefndrar tjarnar (sjávarlóns), Skógtjarnar. […] „Eystri-Skógtjörn hét Skógtjörn áður en Vestri-Skógtjörn kom til og svo er hún stundum nefnd enn.“
Nú er íbúðahverfi þar sem Skógtjarnarbæirnir voru áður og íbúðarhús Eystri-Skógtjarnar er staðsett við Miðskóga 22. Það er nokkru austan við bæjarhólinn þar sem talið er að Skógtjarnarbæirnir hafi staðið um aldir og jafnvel frá upphafi. Gamli bærinn sem stóð þar síðast var rifinn árið 2001 og þá byrjað að grafa fyrir nýju húsi í sama stæði. Fljótlega var komið niður á mannvistarleifar og fór þá fram fornleifakönnun þar sem grafnir voru sex könnunarskurðir í hólinn. Komið var niður á þykkar mannvistarleifar, allt að 1 m að þykkt, sem líkur eru á að hafi hlaðist upp á löngum tíma, jafnvel frá því snemma á miðöldum til upphafs 20. aldar. Undir gjóskulagi sem rakið var til Kötlu og talið frá því um 1500 e.kr. fundust öruggar vísbendingar um mannvist. Þar með er ekki sagt að allar minjarnar hafi verið aldursgreindar með vissu en þó er ljóst að þær vitna um búsetu á þessum stað í að minnsta kosti 500-600 ár. Á þessu svæði eru því fornleifar sem ekki má hrófla frekar við án undangenginnar rannsóknar. Stæði nýja íbúðarhússins við Miðskóga 22 var því flutt til og er gamla bæjarstæðið rétt austan við það en norðan við húsið Tjarnarland.
Miðað við Jarðabókina hefur verið tvíbýli á Skógtjörn að minnsta kosti frá því jarðirnar voru skráðar árið 1703.
Á túnakorti árið 1917 er vestari Skógtjarnarbærinn kallaður Árnakot. Þar má sjá tvískipta ferhyrningslaga byggingu sem virðist vera úr torfi en veggurinn suðvestan megin gæti verið úr steini eða timbri. Minna hólf eða anddyri gengur út af húsinu í austur og gæti líka verið steinsteypt eða byggt úr timbri.

Skógtjörn

Við Skógtjörn.

Erlendur Björnsson segir í endurminningum árið 1945 að Sveinn Gestsson hafi búið í Árnakoti: „Gerði hann út og var einnig járnsmiður, smíðaði öngla og annað, er að útgerð manna laut, og var hann mesti víkingur við það starf.“ Getið er um báða Skógtjarnarbæina í örnefnalýsingum en þar eru þeir jafnframt kallaðir Vestri-Skógtjörn og Eystri-Skógtjörn og nöfnin útskýrð nánar: „Vestri Skógtjörn hét áður Árnakot og var byggt úr landi Skógtjarnar. Klemens, faðir Sigurfinns, skírði það upp og nefndi Vestri-Skógtjörn. Húsið á Vestri-Skógtjörn stendur á hrygg, sem nær frá Bessastaðanesi og vestur að Hliði. Í túninu hefur hryggur þessi verið nefndur Bali. U.þ.b. 20-30 m suðvestur af húsinu á Vestri-Skógtjörn er nýbyggt hús, Tjarnarbakki.“
Þegar fram leið var Árnakot einnig stundum kallað Skógtjörn efri. Árnakot var með grasnyt í landi Skógtjarnar og nefndist túnið kringum býlið Árnakotstún. Það var 3 teigar, að mestu leyti slétt og smáþýft. Garðar ná yfir 1280 m2.

Árnakot – Vestri Skógtjörn (býli)

Álftanes
Miðað við Jarðabókina hefur verið tvíbýli á Skógtjörn að minnsta kosti frá því jarðirnar voru skráðar árið 1703.
Á túnakorti árið 1917 er vestari Skógtjarnarbærinn kallaður Árnakot. Þar má sjá tvískipta ferhyrningslaga byggingu sem virðist vera úr torfi en veggurinn suðvestan megin gæti verið úr steini eða timbri. Minna hólf eða anddyri gengur út af húsinu í austur og gæti líka verið steinsteypt eða byggt úr timbri.
Erlendur Björnsson segir í endurminningum árið 1945 að Sveinn Gestsson hafi búið í Árnakoti: „Gerði hann út og var einnig járnsmiður, smíðaði öngla og annað, er að útgerð manna laut, og var hann mesti víkingur við það starf.“ Getið er um báða Skógtjarnarbæina í örnefnalýsingum en þar eru þeir jafnframt kallaðir Vestri-Skógtjörn og Eystri-Skógtjörn og nöfnin útskýrð nánar: „Vestri Skógtjörn hét áður Árnakot og var byggt úr landi Skógtjarnar. Klemens, faðir Sigurfinns, skírði það upp og nefndi Vestri-Skógtjörn. Húsið á Vestri-Skógtjörn stendur á hrygg, sem nær frá Bessastaðanesi og vestur að Hliði. Í túninu hefur hryggur þessi verið nefndur Bali. U.þ.b. 20-30 m suðvestur af húsinu á Vestri-Skógtjörn er nýbyggt hús, Tjarnarbakki.“
Þegar fram leið var Árnakot einnig stundum kallað Skógtjörn efri. Árnakot var með grasnyt í landi Skógtjarnar og nefndist túnið kringum býlið Árnakotstún. Það var 3 teigar, að mestu leyti slétt og smáþýft. Garðar ná yfir 1280 m2.
Í örnefnaskrá segir: „Árnakotsvör: Hún lá aftur á móti sunnan Hliðsgranda.“ Væntanlega hefur lendingin þá verið í fjörunni vestan í Melshúsagranda. Yst í honum þeim megin, neðan við húsið sem nú stendur við götuna Lambhaga 14, má sjá mannvirki sem gæti verið lending eða bryggja og þá hugsanlega frá Árnakoti. Það er hlaðið úr stórum grjóthnullungum, um 39 m á lengd og 6 m á breidd, og gengur út í suðvestur frá grandanum. Sunnan megin virðast grjóthnullungar liggja áfram í sveig upp í fjöruna.

Árnakotsbúð (verbúð)
Árnakotsbúð var samkvæmt örnefnaskrá „búð frá Árnakoti upp af vörinni, vestan Melshúsabúðar.“ Ekki sést til búðar á þessu svæði en sennilega hefur hún staðið á Búðarflöt eins og fleiri búðir frá bæjunum.

Moldarhús (þurrabúð)
Álftanes
Moldarhús er ekki merkt inn á túnakort árið 1917 en heitið Moldarkot er þó sett innan sviga með spurningarmerki þar sem bæirnir og kotin eru talin upp í titli kortsins. Erlendur Björnsson segir hins vegar frá því í endurminningum sínum frá 1945 að „í Moldarhúsum bjó Brynjólfur, sem gerði út á vertíðum fjögramannafar, en réri fyrir hlut sínum utan vertíðar. Þar var gras handa einni kú.“ Hann merkir Moldarhús inn á kort mitt á milli bæjanna Árnakots og Skógtjarnar við bakka samnefnds sjávarlóns. Staðsetningin er svipuð á örnefnakorti Álftaness frá árinu 1977 en miðað við þetta hefur Moldarkot verið staðsett á sömu slóðum og kálgarður sem sést á túnakorti mitt á milli Skógtjarnarbæjanna tveggja. Í örnefnalýsingu eru Moldarhús talin meðal býla sem liggja meðfram sjávarlóninu innan svokallaðs Skógtjarnarhverfis. Einnig segir: „Moldarhús: Var þurrabúð eða hjáleiga úr Skógtjarnarlandi. Stóð ofan í túninu upp undir Alfaraveginum. Moldarhúsatún: Túnskækill sem fylgdi þurrabúðinni.“ Eins og hjá Erlendi er greint frá staðsetningu miðja vegu milli Skógtjarnarbæjanna tveggja þess eystri (Skógtjarnar) og vestri (Árnakots): „Í línu u.þ.b. mitt á milli Eystri- og Vestri-Skógtjarnar var áður gamall bær, er Moldarhús hét, fór í eyði fyrir 40-50 árum.“40 Miðað við að þetta var skráð 1976 hefur hefur býlið lagst af í kringum 1930. Þarna er komin íbúðabyggð, Miðskógar 8 og 14.

Gíslakot (þurrabúð)

Álftanes

Samkvæmt örnefnaskrá var Gíslakot „þurrabúð frá Skógtjörn suðaustur frá Skógtjörn“ og Gíslakotstún hét „lítið gerði sem fylgdi þurrabúðinni.“
Seint á 19. öld var grasnyt í Gíslakoti og ein kú. Á uppdrætti Erlends Björnssonar sem sýnir byggðina á Álftanesi um 1870 er Gíslakot merkt inn alveg niðri við sjó eða Skógtjörn, um 350 m suðsuðvestur frá Brekku. Auk þess eru þar þrjú önnur kot og öll í einum hnapp á norðurbakka Skógtjarnar. Gíslakot var vestast, Eysteinskot 100 m austar, Hólakot 50 m austur frá Eysteinskoti og 50 m norðan Gíslakots og Eysteinskots var Dómhildarkot. Staðsetning þessara kota kann að hafa breyst og þótt Gíslakot og Dómhildarkot hafi augljóslega verið tvö kot eða bæir um 1870 þá hefur þeim slegið saman síðar. Á túnakorti frá 1917 er Gíslakot merkt inn um 160 m suðsuðvestan við Brekku og 200 m suðaustan við Skógtjörn. Bæjarhúsin eru þó ekki sýnd heldur er heitið haft innan sviga sem gæti þýtt að kotið hafi verið komið í eyði og tóftir einar eftir af því þegar kortið var gert. Staðsetningin er því ef til vill ekki nákvæm þarna. Dómhildarkot er ekki tilgreint á túnakortinu en á örnefnakorti af Álftanesi frá árinu 1977 er Gíslakot hins vegar líka nefnt Dómhildarkot innan sviga.
Bæjarstæði Gíslakots hefur verið sléttað í suðurtúnið austan við bæinn á Skógtjörn og neðan Brekku. Þar gengur þurr rimi gegnum túnið frá vestri til austurs og neðan hans er deiglendisfláki. Á þessum túnrima eru ójöfnur og þúfnahlaup ásamt einstaka steinum sem standa upp úr. Þetta er jafnframt á þeim slóðum sem býlið stóð samkvæmt túnakortinu. Þarna má búast við leifum býlis undir sverði, og hefur það þá staðið á rimanum.

Dómhildarkot (þurrabúð)
Á uppdrætti sem sýnir staðhætti á Álftanesi um 1870 er Dómhildarkot norðar í túni Skógtjarnar en Gíslakot, Eysteinskot og Hólakot. Dómhildarkot er ekki merkt inn á túnakortið frá 1917. Í örnefnaskrá segir hins vegar: ,,Dómhildarkot: Þurrabúð austar en Gíslakot í Skógtjarnarlandi.“
Nöfnin á þessum kotum hafa því færst mikið til frá síðari hluta 19. aldar þangað til örnefni voru skráð á Álftanesi eftir miðja 20. öld Þar eð Gíslakot er auk þess nefnt Dómhildarkot innan sviga á örnefnakorti af Álftanesi frá 1977 er ljóst að þeim hefur líka verið slegið saman. Nákvæm staðsetning Dómhildarkots verður því ekki fundin út frá heimildum. En það eru ójöfnur og þúfnahlaup á þeim stað sem bærinn á að hafa staðið og virðist vera manngert.

Hólakot (þurrabúð)
Álftanes
Í endurminningum Erlends Björnssonar kemur fram að í Hólakoti var þurrabúð um 1870. Á korti þar er það staðsett á Skógtjarnarbakka vestan við Lásakot og skammt austan Eysteinskots sem er austan við Gíslakot. Á túnakort 1917 er í stæði Hólakots teiknuð upp rúst af torfhúsi niðri við Skógtjörn ásamt kálgarði. Þarna eru Eysteinskot og Gíslakot norðar í túni en Hólakot sem er um 100 m sunnan við Eysteinskot og 200 m suðaustan við Skógtjarnarbæinn. Erlendi ber hins vegar saman við upplýsingar sem skráðar voru síðar við örnefnasöfnun: „Hólakot: Þurrabúð í Skógtjarnarlandi, austur frá Eysteinskoti.“ Einnig kemur fram að Hólakot var „suðvestan við vestri grjótgarðinn [í svokölluðu Holti] alveg niður undir Skógtjörn.“ Hólakot „mun hafa farið í eyði um aldamótin 1900. Heimildunum ber að minnsta kosti saman um að Hólakot hafi verið skammt frá sjávarbakkanum og fornleifar á staðnum benda til að upplýsingar um innbyrðis afstöðu kotanna sé réttari á túnakortinu.
Hólakot hefur verið rifið og rústirnar jafnaðar í túnið. Hins vegar er stór hóll á bökkum Skógtjarnar, syðst í túninu, sunnan við rimann þar sem Gíslakot, Eysteinskot og að líkindum Dómhildarkot hafa verið. Þessi hóll er um 80 x 60 m að stærð og 1 m á hæð. Hann er þurr og harður en mýrardrög eru í túninu bæði vestan hans og austan. Niður af hólnum er aflíðandi brekka til allra átta sem nær lengst til suðurs. Ójöfnur sjást í hólnum sjálfum og á nokkrum stöðum standa steinar sem líklega eru úr býlinu upp úr sverðinum. Þessi staðsetning kemur heim og saman við túnakortið.

Eysteinskot (grasbýli)
Samkvæmt uppdrætti af Álftanesi frá síðari hluta 19. aldar er Eysteinskot um 350 m sunnan Brekku og 100 m austan við Gíslakot. Þar kemur einnig fram að Eysteinskot hafi verið grasbýli með eitt kýrfóður. Í örnefnaskrá segir: ,,Eysteinskot: Þurrabúð austur frá Gíslakoti nær Skógtjörn en Dómhildarkot. Eysteinskotstún: Tún eða gerði þessarar þurrabúðar.“
Á túnakorti frá 1917 er býlið Eysteinskot hins vegar merkt inn á kortið um 60 m norðvestan við Gíslakot. Það að látið hefur verið nægja að setja heiti bæjarins í sviga á kortið án þess að teikna bæjarhúsin gæti bent til að kotið hafi verið komið í eyði og að þegar á þessum tíma hafi einungis tóftirnar verið eftir. Núna hefur Eysteinskot að minnsta kosti verið rifið og rústirnar jafnaðar í túnið þannig að ekki sést vottur af því lengur. Örlitlar ójöfnur eru þó á rimanum í suðurtúni, neðan Brekku, þar sem kotið er staðsett á túnakortinu og gætu leifar býlis leynst í þeim.

Lásakot (þurrabúð)

Lásakot

Lásakot – uppdráttur.

Lásakot er sýnt austan við Hólakot á korti Erlends Björnssonar. Það er ekki merkt inn á túnakortið 1917 en Erlendi ber saman við örnefnakort af Álftanesi frá 1977 þar sem Lásakort er sýnt skammt norðan Skógtjarnar, suðaustan við Hólakot og Gíslakot. Í endurminningum Erlends segir jafnframt að Lásaskot hafi á síðari hluta 19. aldar verið þurrabúð og að þar hafi oftast verið tvíbýli. Í örnefnaskrá er Lásakot nefnt „þurrabúð austast í Skógtjarnarlandi“ eða fram til 1940.
Lásakot var í svokölluðu Holti eða Holtinu við Skógtjörn, „nokkurn veginn beint niður undan Brekku. Túnbleðill með garði í kringum er þar sem Lásakot var og eru bæjarhúsatætturnar í suðausturhorni hans.“ Að sögn heimildamanna við örnefnaskráningu hét Lásakot áður Skógtjarnarkot en nafnið á að hafa breyst þegar Nikulás nokkur fór að búa þar og hefur þá verið farið að nefna kotið eftir honum. Meðan tvíbýli var í Lásakoti voru bæirnir lengst af sambyggðir. Einnig greinir þó frá Eyjólfi Ísakssyni sem byggði sér bæ efst og vestast í Lásakotstúni en bjó þar mjög stutt þannig að bærinn fékk aldrei neitt fast nafn.

Síðasti ábúandi í Lásakoti var Guðmundur sem sérhæfði sig í marhálmstekju í Skógtjörn og Lambhústjörn. Hann var sonur Þórodds í Þóroddarkoti. Guðmundi í Lásakoti er lýst svo: „Hann var fótaveikur og voru fætur hans mjög snúnir. Hann var alinn upp við harðrétti og vosbúð og hefur fótaveiki hans líklega stafað af því. Vegna göngulagsins var hann kallaður Guðmundur á kartöflunum. […].

Álftanes

Tóftir Lásakots.

Lásakot fór í eyði um 1940 en Guðmundur lifði fram um 1950 og dó í Sviðholti.“ Í Lásakoti var búið einna lengst af öllum Skógtjarnarþurrabúðum.
Tóftir Lásakots hafa varðveist og eru enn þá vel sýnilegar fremst á hörðum grasi grónum en smáþýfðum norðurbökkum Skógtjarnar. Rústasvæðið allt er um 45 x 40 m að stærð og eru sjálfar bæjartóftirnar í suðausturhorni þess. Þær eru frá fjórum sambyggðum húsum, samtals 17 x 13 m að stærð með stefnuna austur – vestur.

Svalbarði (býli)

Álftanes

Svalbarði.

Jörðin er nefnd Svalbarð í elstu heimildinni um hana, bréfi frá árinu 1496 þar sem segir að Barti hafi afhent Lofti Snorrasyni „þriu hundrut j uarni(n)gi oc smiori oc þar til mioltunu uegna magnusar þorkelssonar er hann uard honum skylldugur upp j fiordungin jordena sualbard sem loftur hafde sellt magnusi.“ Síðar er hún kölluð Svalbarði og skilgreind sem hálflenda árið 1703 „því hún hefur ekki fyrirsvar nema til helmings á móts við lögbýlisjarðir.“ Jarðardýrleiki er óviss og tvíbýli er á jörðinni.
Samkvæmt Jarðatali Johnsens hefur hún þó ekki talist neitt smábýli árið 1847 því þá er hún metin á 16 2/3 hdr. Hún er í bændaeign og búa þrír leiguliðar á henni.
Í Sýslu- og sóknarlýsingum er Svalbarði talinn upp með tveimur tómthúsum án þess að nánari staðsetningar sé getið. Þegar túnakort er gert árið 1917 er túnið 1,5 teigar, að mestu sléttað en þó farið að þýfast örlítið aftur. Matjurtagarðar ná yfir 1500 m2 svæði. Erlendur Björnsson segir Þorsteinn Eiríksson hafa búið á Svalbarða á síðari hluta 19. aldar. „Gerði hann út skip. Þar var og grasnyt, hafði hann tvær kýr.“
Í örnefnaskrá er jörðin Svalbarði kölluð hjáleiga frá Skógtjörn. Vesturmörk Svalbarða á móti Halakoti lágu frá smiðju í Sólbarði sem var fast sunnan við Sýsluveginn, beint norður af Eystri-Skógtjörn, og þaðan austur í Grástein. „Sólbarð er nær því í beina stefnu norðan við Árnakot – Eystri-Skógtjörn, fast sunnan við sýsluveginn.
Vesturmörk grasbýlisins Svalbarða voru „á móti Halakoti frá […] smiðju [í Sólbarði] og austur í Grástein (Sjá Sviðholt). Úr Grásteini eru merkin norður í sýsluveg þar sem býlið Krókur var. – Norðurmörk voru á móti Sviðholti og Haugshúsum. – Sýsluvegur sker jörðina í miðju frá Sólbarði norður í Sviðholtsland.“

Sviðholt (býli)

Álftanes

Sviðholt.

Jörðin Sviðholt var í eigu Skálholtskirkju til ársins 1556 en komst eftir það undir konung. Hún er enn í konungseign árið 1703 og skiptist ábúðin þá milli fjögurra bæja. Jarðardýrleiki er óviss. Árið 1847 er Sviðholt hins vegar komið í eigu tveggja bænda sem búa þar sjálfir og jörðin er metin á 33 1/3 hundruð. Tvíbýli hélst fram eftir 19. öld en þegar kom fram á 20. öld urðu bæirnir þrír. Auk þess heyrðu allnokkrar hjáeigur og þurrabúðir undir Sviðholt: Litlibær byggðist fyrst um 1660 og Hjallakot, Hákot, Háholt, Hella, Gesthús og Sveinshús voru komin til í byrjun 19. aldar. Síðar bættust Krókur, Þórukot, Friðrikskot, Bjarnastaðir, Grashús, Kekkjakot og Þóroddarkot við. Einnig byggðust Haukshús eða Haugshús upphaflega úr landi Sviðholts.
Sagt er frá húsunum í Sviðholti í örnefnalýsingu: „Gamla húsið er úr timbri og er kjallari hlaðinn úr höggnum steinum undir því. Elzti hluti þess var byggður um 1911. Nýtt hús stendur rétt norðvestan við gamla húsið. Fjós og hlaða, sambyggð, eru u.þ.b. 20-30 metrum austan við nýja húsið.“ Áður var „þríbýli í Sviðholti. Nefndust bæirnir: Vesturbær, Miðbær og Austurbær. Vesturbær og Miðbær voru sambyggðir og voru bæjardyr sameiginlegar.

Álftanes

Sviðholt.

Austurbærinn var um 10 metrum austan við Miðbæinn á hól, sem nefndur var Sviðholtshóll. Mun hann að mestu hafa verið forn öskuhaugur og er líklegt að aðalbærinn í Sviðholti hafi staðið þar um aldir. Þegar grafið var fyrir vatnsveitunni var komið þar ofan á þykkt öskulag.
Þegar Kristján [Eyjólfsson, fæddur í Sviðholti 1892] var að alast upp var Miðbærinn einnig kallaður Gíslabær eftir bóndanum Gísla Þorkelssyni. Nýja húsið í Sviðholti stendur fast norðan við þar sem Miðbærinn var. Á þeim stað voru áður hesthús, móhús og fjós frá Gíslabæ.“
Húsin í Sviðholti standa á stórum náttúrulegum hól. Norðan megin eru nú tvö íbúðarhús og var grafið fyrir undirstöðum þess yngra en þó ekki gerður kjallari. Hins vegar eru útihúsin austan í hólnum djúpt niðurgrafin. Núna liggur heimreið upp eftir hólnum að suðvestan og við rætur hólsins sunnan hennar er kálgarður. Bæjarhóllinn sjálfur er að minnsta kosti 30 x 30 m að stærð og 1 m á hæð ef ekki meira en erfitt er að greina hvar byggingarleifar taka við af hinni náttúrulegu hæð. Á háhólnum sunnan við íbúðarhúsin er nú slétt flöt með hvompum og flag með miklu hleðslugrjóti um 5-10 sm undir grasrótinni. Ekki er um samhangandi hleðslur að ræða en þarna á flötinni stóðu síðast bæjarhús úr torfi og grjóti.
Ekkert túnakort er til af Sviðholti en auk bæjahúsa voru kálgarðar í túninu og túngarður að austanverðu. Ekki sést lengur til þeirra. Undir grassverði er um 1 m þykkt moldarlag niður á möl en austast næst Breiðumýri er klöpp skammt undir sverði. Moldarlagið er dýpra við bæjarhólinn. Túnið var upphaflega sléttað með herfi og þúfnabana en beðasléttur eru einnig syðst í því. Mikið grjót var tekið úr túninu fyrir og um miðja 20. öld en síðan hefur það ekki verið unnið.

Krókur (þurrabúð)
Kotið Krókur er ekki sýnt á túnakorti 1917 en Erlendur Björnsson nefnir það þurrabúð í endurminningum sínum 1945 og segir að þar hafi búið „Jón Vigfússon, góður og gegn maður.“ Krókur er merktur inn á kort hans norðvestan við Brekku, beint norður af Brekkukoti og norðaustan við Svalbarð. Hann er suðaustan við Sviðholt og í beinni línu vestur frá Kirkjubrú en austur frá Haugshúsum, miðja vegu milli þeirra. Þetta kemur heim við örnefnalýsingar enda er þar meðal annars farið eftir upplýsingum frá Erlendi: „Svo er lína hér norðar þvert yfir nesið, sem hér heitir Suðurnes. Er Kirkjubrú austast, svo Krókur, þá er Haugshús […]“. Krókur var „sunnan við Sviðholtsbrunn“, „syðsta býlið, hjáleigan í Sviðholtslandi“ og honum tilheyrði lítið tún sem hét Krókstún.
Einnig segir: „Eyðibýlið Krókur var suðaustanvert við Sviðholtstún. Þar sér enn fyrir garði, Króksgarði, en vegurinn lenti yfir húsatætturnar. Krókur var grasbýli.“120 Samkvæmt örnefnalýsingum lágu landamerki jarðanna Sviðholts og Brekku úr Grásteini „í Króksgarð miðjan og þaðan í markastein fast norðan við sjávargötu frá Króki.“
Til skamms tíma sást hluti af kálgarði sunnan við Suðurnesveg þar sem göngustígur greinist frá honum að Höfðabraut. Uppbyggður malbikaður vegur og gangbraut eru sunnan við þennan stað en hluti kálgarðsins lenti undir Suðurnesvegi þegar hann var fyrst lagður 1964. Síðan þá hefur meira horfið við vegabætur og lóðaframkvæmdir sunnan við veginn. Þar er nú nýlegt einbýlishús og nær moldaruppfylling fyrir lóð þess niður að gangbraut meðfram veginum.
Ekki er vitað um nákvæma staðsetningu Króks en talið er að kálgarðurinn hafi verið þar sem kotið var áður. Kotið gæti því hafa verið rétt sunnan vegarins eins og garðurinn eða þá að það hefur lent undir veginum. Norðan vegarins eru sléttuð tún Sviðholts.

Þórukot (býli)

Álftanes

Þórukot.

Samkvæmt Erlendi Björnssyni bjuggu um 1870 „Þorlákur, myndarlegur maður og vel látinn“ og „Ingibjörg, orðlögð merkiskona.“ Í örnefnalýsingum segir: „Þórukot: Hjáleiga úr Sviðholtslandi, vestur frá Sviðholti. Þórukotstún: Túnið var allstórt, lá í kringum bæinn.“
„Þórukot er 50-100 metra norðan Haugshúsa. Þar er nú stórt og reisulegt hús, að stofni til byggt úr gamla húsinu.“
Bæjarstæði Þórukots hefur verið um 200 m vestan Sviðholtsbæjar á ávalri smáhæð þar sem nú stendur einnar hæðar timburhús. Fylgja mörk hæðarinnar umfangi núverandi húss og grundin er aflíðandi í vestur. Ekki sést til fornleifa og virðist líklegt að leifar eldra býlis hafi lent undir nýju byggingunni. Sléttuð tún eru allt í kringum hæðina.

Friðrikskot (þurrabúð)

Í örnefnaskrá segir: „Friðrikskot: Þurrabúð í landi Sviðholts, sunnan við Litlabæ.
Friðrikskotstún: Gerði eða túnbleðill við kotið. Friðriksgáfa: Svo var Friðrikskot nefnt í spaugi. Friðriksgáfa á Möðruvöllum í Hörgárdal, var á sínum tíma eitt stærsta hús á Íslandi, en þetta eitt minnsta kot á Álftanesi.“
Samkvæmt örnefnalýsingu Sviðholts er Friðrikskot sunnan til í miðju Bjarnastaðatúni en í örnefnalýsingu Bessastaðahrepps er það staðsett „norðan Hjallakots með Helguvík“. Erlendur Björnsson merkir það inn á kort við sjóinn vestan við Þórukot, miðja vegu milli Hjallakots og Litlabæjar. Virðist sú staðsetning sennilegri og hefur Friðrikskot þá verið á svipuðum slóðum og Hjallaland.

Hjallaland (býli)
Býlið Hjallaland er ekki merkt inn á nein kort en samkvæmt örnefnalýsingu stóð það á miðjum Hjallalandsvelli: „Býlið Hjallaland stóð neðan til á honum miðjum.“
Hjallalandsvöllur er nú sléttað tún syðst, en íbúðarhúsabyggð er risin á vellinum nyrst. Völlurinn er í aflíðandi halla mót vestri. Hjallaland er ekki merkt inn á kort Erlends Björnssonar. Hins vegar er Friðrikskot haft á svipuðum slóðum. Í örnefnaskrá Álftaneshrepps er Hjallaland talið annað nafn á hjáleigunni Hjallakoti.

Hjallakot (þurrabúð)
„Í Hjallakoti bjó Páll Stefánsson í þurrabúð“ segir Erlendur Björnsson og staðsetur hana á korti niður við Helguvík, beint vestur af Haugshúsum. Staðsetning kemur saman við örnefnaskrá en þar er þurrabúðin kölluð Hjallakot eða Hjallaland.“ Landamerki jarðarinnar Sviðholts lágu um norðanverða Helguvík en Hjallakot var upp af víkinni „rétt fyrir norðan merkin“ Þegar örnefnalýsing var gerð árið 1976 var þurrabúðin Hjallakot „löngu komin í eyði“ og hafði „verið byggður sumarbústaður heldur nær sjónum en á tóftum þess.“ Hins vegar virðist Hjallaland þá vera talið annað býli en Hjallkot.
Hjallakot hefur verið rétt norðaustan við sumarbústaðinn sem nú er notaður sem golfskáli, vestan við bæjarhól Haugshúsa, um 20 m norðan við Halakotstjörn og leifar Halakotstúngarðs. Við golfskálann og bæjarstæðið er nú malarborið hlað og þaðan liggur hálfmalbikaður malarvegur austur gegnum golfvöllinn meðfram Halakotstúngarði.
Núverandi sjóvarnargarður við Helguvík er í um 15 m fjarlægð vestan megin. Hjallakot hefur verið rifið og jafnað í golfvöllinn en ekki virðist þó hafa verið byggt á rústum þess. Talsverðar ójöfnur á um 10 x 10 m svæði á yfirborði túnsins norðaustan við golfskálann gætu bent til að hleðslur séu undir sverði. Samkvæmt örnefnaskrá var Hjallakotstún „tún eða gerði sem tilheyrði Hjallakoti“ og „Hjallakotstúngarður: Túngarður norðan, austan og sunnan túnsins.“ Ekki sjást neinar fornleifar.

Haugshús (býli)

Álftanes

Tóftir Haugshúss.

Haukshús eru konungsjörð og kölluð hálflenda árið 1703 en jarðardýrleiki óviss. Talið er að þau hafi byggst úr Sviðholtslandi. Jörðin er síðan nefnd Haugshús, komin í bændaeign árið 1847 og metin á 8,3 hdr.150. Samkvæmt örnefnaskrá var tún býlisins um tvö kýrfóður.
Erlendur Björnsson segir Þorstein Jónsson hafa búið þar og stundaði „mest róðra, hvenær sem gaf. Á móti honum bjó Pétur nokkur og einn húsmaður var þar einnig.“
Staðsetningu Haugshúsa má ráða af túnakorti 1917, korti Erlends Björnssonar og herforingjaráðskorti frá 1902 þar sem sést að gata heim að bænum hefur legið um 100 m suður frá Þórukoti. Vestan megin er Hjallakot beint fyrir ofan Helguvík og Halakot beint í suður. Afstaðan frá Hjallakoti er í samræmi við örnefnalýsingu en þegar hún var gerð voru Haugshús „komin í eyði fyrir löngu. Þar var löngum tvíbýli.“ Í örnefnaskrá er einnig nefnt „salthús Haugshúsa.“
Að sögn Gróu Guðbjörnsdóttur sem ólst upp í Hákoti á Álftanesi voru Haugshús á hólnum sem er þarna enn þá. Hóllinn er rétt sunnan við brunnhús úr torfi og grjóti sem hefur varðveist frá 1950. Nú er golfvöllur allt í kring, frá Höfðabraut til Þórukots og frá Suðurnesvegi niður að sjó við Hjallakot. Sunnan bæjarhólsins er malarvegur niður að golfskálanum, fast sunnan hins gamla bæjarstæðis Hjallakots. Hóllinn er hér um bil á miðjum vellinum. Hann er um 45 x 45 m stór og um 0,5 m hár. Hann hefur verið sléttaður en þó ber á ójöfnum í honum. Þá er líka þúst um 15 m suðaustan háhólsins, um 1 m norðan vegarins að golfskálanum. Hún er um 8 m í þvermál og gætu þar verið leifar útihúss. Milli þessarar smáþústar og bæjarhólsins má sjá steina í sverðinum.

Halakot (býli)
Halakot er merkt inn á túnakort um 170 m vestan við Svalbarða. Þá virðast steinhús eða timburhús hafa verið í bæjarröðinni vestanverðri en stakt torfhús austan megin. Vegur var heim að bæ frá götunni þar sem nú heitir Höfðabraut. Bæjarstæðið er á rennisléttum golfvelli í aflíðandi halla að Halakotstjörn sem er um 20 m vestan við það. Í endurminningum Erlends Björnssonar kemur fram að á grasbýlinu Halakoti hafi venjulega verið hafðar þrjár kýr. Búið er að rífa bæinn og öll ummerki um hann eru horfin en gerði um matjurtagarð norðan hans sést enn þá.
„Suðurmörk Halakots „voru með sýsluvegi frá Sólbarði og niður að Melshúsalandi. Austurmörk voru frá smiðju í Sólbarði – norður að Haugshúsalandi. Þaðan vestur í Helguvík. Á mörkum suður frá Haugshúsum er gamall öskuhóll og garðbrot. Sjór, þ.e. Helguvík, ræður svo merkjum að vestan.“

Melshús (býli)

Álftanes

Melshús – túnakort 1917.

Mölshúsa er getið meðal konungsjarða á Álftanesi árið 1703, talin byggð úr landi Skógtjarnar en jarðardýrleiki er óviss. Samkvæmt Jarðatali Johnsens er hún komin í bændaeign árið 1847, eigandinn býr sjálfur á jörðinni og dýrleikinn er 8,3. Samkvæmt Erlendi Björnssyni bjuggu þar á síðari hluta 19. aldar tveir grasbýlismenn, Ísak Eyjólfsson og Oddur Erlendsson, „báðir duglegir sjómenn og álitnir góðir formenn.“ Auk þeirra voru tveir þurrabúðarmenn búsettir í Melshúsum og var annar þeirra Jón Vigfússon, „orðlagður aflamaður á grunni.“ Anna Ólafsdóttir Björnsson vitnar í minningar Guðnýjar Klemensdóttur um Melshús, en hún lýsir ofurlitlum torfbæ sem kúrði á sjávarbakkanum, hálfhulinn hvönn. ,,Hann var aðeins tvær burstir og svo samofinn umhverfinu að erfitt var að sjá hvar hlaðið tók við.“ Á eftir fylgir nokkuð nákvæm lýsing á bænum eins og hann var í byrjun 20. aldar. Í örnefnaskrá kemur hins vegar fram að bæirnir voru þrír. Melshús sem einnig er kallað Mölshús eða Mulshús „var í eina tíð kallað hálfbýli en seinast þurrabúð“ með þríbýli. „Melshúsatún fóðraði tvær kýr en var komið eyði við örnefnaskráningu eftir miðja 20. öld. Í túninu neðan við bæina var svolítil tjörn, Melshúsatjörn eða Lambhagatjörn.

Álftanes

Melshús um 1910.

Árið 1917 var túnið 1,8 teigar en sjór flæddi yfir þau. Melshús lágu á Hliðsgranda á leiðinni út á Hliðstanga með sjávarlónið Skógtjörn suðaustan megin og Helguvík norðvestan megin og ágangur sjávar frá báðum hliðum var orðið vandamál þegar árið 1703. Samkvæmt örnefnalýsingu voru „norðurmörk jarðarinnar […] eftir sýsluvegi niður að Búðarflöt“ suðvestan megin og þaðan niður í Ós en að austan réði Skógtjörn. Miðað við þetta var nesið Melshúsagrandi innan landamarka Melshúsa.
Á túnakorti frá árinu 1917 má sjá byggingu sem liggur rétt við fjöruna fyrir botni Helguvíkur. Hún samanstendur úr fjórum samföstum torfhúsum sem virðast snúa í suður burt frá víkinni. Norðar og nær sjónum eru tvö minni hús en sunnar tvö stærri hús og virðist hið vestara vera með standþili. Kannski eru þetta Melshúsabæirnir sem hafa þá verið sambyggðir.
Samkvæmt örnefnalýsingu stóðu Melshús hins vegar „áður fyrr norðanmegin við Helguvík; kálgarðar miklir voru þar“ en bæjarhúsin hafa síðan verið færð sunnar. Bæjastæði Melshúsa er nú komið undir íbúðahúsabyggð og veg.

Lambhagi (þurrabúð)
Þurrabúðin Lambhagi lá suður frá Melshúsum, úti á Melshúsagranda sem einnig var kallaður Lambhagatangi eða Lambhagi. Samnefnd þurrabúð var því í landi Melshúsa. Staðsetningin sést á korti Erlends Björnssonar sem segir að ábúandinn á síðari hluta 19. aldar, Hannes, hafi alltaf gert út skip á vertíðum. Samkvæmt örnefnalýsingum var býlið Lambhagi yst á tanganum eða syðst við ósinn en hann var „horfinn fyrir alllöngu“ þegar þær voru gerðar. Á Melshúsagranda er nú íbúðarhúsabyggð.

Brekka (býli)

Álftanes

Brekka, Halakot, Skógtjörn, Dómhildarkot, Lásakot, Haughús og nágrenni – kort.

Búseta á Brekku nær að minnsta kosti aftur til miðrar 16. aldar sé miðað við ritheimildir en jarðarinnar er getið í jarðskiptabréfi frá 1556 þar sem samþykkt er að eignarhald átta jarða, þar á meðal Brekku, færist frá Skálholtsdómkirkju til konungs.200 Árið 1703 er jörðin enn þá konungseign en jarðardýrleiki er óviss. Tún eru farin að spillast vegna sjávarágangs og átroðnings af almenningsvegi. Í Sýslu- og sóknalýsingum frá 1842 er Brekka sögð metin á 16 hdr. og var fáum árum áður seld í sjö pörtum þótt ekki hafi verið skráð lagaheimild fyrir því. Í Jarðatali Johnsens frá 1847 er jörðin komin í bændaeign og metin á 16 og 2/3 hdr. Á túnakorti frá 1917 kemur fram að jörðin er 12,2 teigar með hjálendum, tún að mestu sléttuð en þó nokkuð farin að þýfast aftur. Samtals hafa garðarnir á Brekku náð yfir yfir um 3000 fm2 svæði en þá eru þeir sem eru við hjáleigurnar sennilega taldir með. Talað var um Brekkuhverfi en innan þess voru bæirnir Brekka, Brekkukot, Kirkjubrú og Núpskot.
Samkvæmt Sýslu- og sóknalýsingum voru auk þess tvö tómthús við Brekku en ekki kemur fram hvar þau stóðu.
Á túnakorti frá 1917 sést ferhyrnd bygging sem virðist vera úr timbri. Hún er hólfuð í þrennt og er syðsta rýmið stærst. Sennilega er þetta gamli bærinn á Brekku. Bæjarstæðið er á Granda, hrygg sem liggur allt vestur frá Hliði austur að Skerjafirði en „er einna hæstur um Brekku.“ Gamli bærinn var fast vestan við núverandi íbúðarhús sem byrjað var að byggja úr timbri árið 1939. Síðar var bætt við steinsteyptum byggingum með með kjallara.“
Eldri leifar bæjarhúsa má þá ef til vill finna undir núverandi íbúðarhúsi en gætu þó einnig verið í hæð rétt vestan við Granda. Sú hæð er 16 m á lengd, 15 m á breidd og 0,3-0,4 m á hæð og stendur upp úr annars sléttu túni.

Brekkukot (býli)
Á túnakortinu er býlið Brekkukot merkt inn ofan við kálgarðana vestan við Brekku. Ofan við bæjarnafnið er heitið Bjarnarkot sett í sviga með spurningarmerki. Hefur það þá kannski verið annað nafn á Brekkukoti. Býlið er ekki teiknað. Samkvæmt örnefnalýsingu stóð Brekkukot á svipuðum stað og íbúðarhúsið Smiðshús stendur nú, „beint vestur af Brekku c.a. 10 m vestan við merkin“ milli Brekku og Brekkukots. „Smiðshús var reist þar sem neðri kálgarðurinn var“ og telur heimildarmaður við örnefnasöfnun að Brekkukot „hafi staðið í efri (nyrðri) garðinum.“ „Brekkukotstún: Lá bæði norðan og sunnan bæjarins og eins að vestan.“

Kirkjubrú (býli)

Alftanes

Álftanes – kort.

Á túnakorti frá 1917 má sjá býlið Kirkjubrú, staðsett um 220 m austan við Brekku. Þar er þó einungis teiknað eitt lítið hús, líklega úr torfi. Það hefur stefnuna norður – suður og fyrir norðurgaflinum virðist vera opin tóft út að götunni sem liggur þarna framhjá. Við deiliskráningu árið 2004 hafði Kirkjubrú verið í eyði í nokkur ár en þar stóð gamalt steinhús, tvílyft með kjallara, og auk þess útihúsaskúrar sem ekki voru niðurgrafnir.
Af túnakortinu að dæma hefur bærinn áður staðið um 20 m vestan við stæði þess. Við skráningu á vettvangi 2004 var þar hóll, um 25 x 25 m á stærð en 0,5 m á hæð. Hann var nokkuð raskaður og miklar ójöfnur í honum en húsum hafði verið ýtt í suður niður hólbrekkuna og þar fyrir neðan var brak frá spýtum og steypubrot. Að sögn Friðriks Jóhannssonar ábúanda í Sviðholti stóðu útihús á hólnum í seinni tíð. Allt bæjarstæðið var því raskað af sléttun, niðurrifi og nýrri byggingum. Á þessum tíma var gamli bæjarhóllinn þó enn þá varðveittur og var hann skráður, hnitsettur og merktur á kort. Þrátt fyrir það hafa ný íbúðarhús verið byggð á staðnum síðan þá án nauðsynlegrar aðgæslu. Bæjarhóll Kirkjubrúar er því kominn undir byggð og er það miður. Engu að síður þarf að gæta að því í framtíðinni að leifar eldri bæjarins geta leynst undir nýrri byggingum.

Núpskot (býli)
Býlið Núpskot er ekki teiknað en nafnið merkt inn á túnakortið um 170 m austan við Brekku, suðvestan við Kirkjubrú. Samkvæmt örnefnaskrá var Núpskot „á miðju Suðurtúni Kirkjubrúar (Ath.: en talað var um Norðurtún og Suðurtún sitt hvoru megin í áðurnefndum hæðarhrygg [þ.e. Granda] – bæði frá Brekku og Kirkjubrú). Á rústum þess var kálgarður fram til 1940.“ Hann er teiknaður inn á túnakortið. Túnið kringum býlið nefndist einnig Núpskotstún og Núpsflöt.232 Þar sem Núpskot var áður var ávalur hóll, um 30 x 30 m að þvermáli og 0,3-0,4 m hár, við fornleifaskráningu árið 2004. Mörk hans voru þó óskýr þannig að hann rann saman við túnið í kring. Það hafði verið sléttað og rústirnar þá líklega verið jafnaðar við jörðu um leið. Landinu hallaði í suður og austur. Ekki sást til fornleifa á yfirborði en gert var ráð fyrir að hleðslur leyndust undir sverði.
Þrátt fyrir nákvæma skráningu hefur bæjarhóll Núpskots að hluta til lent undir nýrri íbúðarhúsabyggð.

Sýsluvegur (leið)

Álftanes

Sýsluvegurinn.

Í örnefnalýsingum segir: ,,Sýsluvegurinn: Lagður laust fyrir aldamótin 1900 austan frá Selskarði vestur milli Skógtjarnar og Brekku. Þjóðvegurinn: Sýsluvegurinn var einnig kallaður svo.“
„Áður mun vegur hafa legið þar sem þessi garður er í stefnu á Selskarð. Hann hefur verið upphlaðinn og púkkaður. Þetta var fyrsti vegur um Suðurnesið og var byggður nokkru fyrir aldamótin.“
Hér er vísað til girðingarstæðis eða túngarðs sem varðveittur er að hluta en vestast meðfram honum liggur upphlaðinn beinn vegur. Stefnan er fremur á nýrra bæjarstæði Selskarðs en hið eldra. Vestar er tún ofan vegarins en austar framræstar mýrar og þýfi.
Vegurinn er orðinn talsvert úr lagi genginn enda byggður á mjög blautu undirlagi. Hlaðið hefur verið undir hann með grjóti. Hleðslur eru 0,2-0,4 m háar að sunnan en lægri að norðan því örlítill halli er á landinu. Vegurinn er að minnsta kosti 400 m langur og víðast um 2 m breiður. Hann liggur í suðaustur – norðvestur. Gerðar hafa verið vegabætur á nokkrum stöðum, til dæmis hlaðið ræsi í gegnum veginn til að koma í veg fyrir að vatn safnaðist ofan hans. Stungið hefur verið fyrir ræsinu og það lagt hellum sem eru reistar á rönd og að lokum lagðar hellur yfir.

Grásteinn (landmerki/álfasteinn)

Álftanes

Grásteinn.

Nokkrar örnefnalýsingar segja frá Grásteini, stórum steini „á Brekkugranda við vegamótin.“ Hann er „fast norðan við veginn, sem liggur út á Suðurnes“. Í hann lágu landamerki Sviðholts og Brekkukots. Grásteinn er um 290 m norðaustan við Brekku og 700 m austnorðaustan við Sviðholt. Hann er um það bil 10 m norðan Suðurnesvegar á náttúrulega hryggnum Granda. Samkvæmt örnefnaskránni býr huldufólk í Grásteini. „Eitt sinn var reynt að kljúfa Grástein og sjást enn þá fleygaförin í honum. Þegar menn voru byrjaðir að kljúfa sýndist þeim húsin á Eyvindarstöðum standa í loga og fóru að athuga. Reyndist þá ekki vera kviknað í. Önnur tilraun var gerð til að kljúfa Grástein og fór allt á sömu leið. Hefur það ekki verið reynt síðan.“
Hvort huldufólk eigi bústað í steininum skal ósagt látið en fleygaför eru vel greinanleg í honum.

Kumlamýri (kuml)

Álftanes

Kumlamýri.

Í Jarðabókinni árið 1703 segir um Brekkuland: „Torfrista og stúnga fer mjög til þurðar.“ Ekki er vitað hvar mór var tekinn í Brekkulandi en það gæti hafa verið í Kumlamýri.
Samkvæmt örnefnalýsingu er hún austan Kirkjubrúartúns og „nær að Lambhúsatjörn. Nær því austast í henni liggur nú þjóðvegurinn út á Álftanes.“
Kumlamýri er framræst og sléttuð. Sléttað túnið er skorið af skurðum og mýrin hefur áður verið slegin þannig að örnefnið gæti vísað til heykumla. Mýrin gæti þó einnig verið kennd við kuml sem virðist mega sjá austan megin í henni. Við Lambhústjörn, rétt austan þjóðvegarins eru tveir reglulegir hólar. Sá þeirra sem er norðar og nær hringtorginu er greinilega manngerður og sá syðri mögulega líka.

Breiðabólsstaðir (býli)

Álftanes

Breiðabólstaðir.

Breiðabólsstaðir voru meðal jarða sem Þorvarður Erlendsson hafði til kaups við brúðkaup þeirra Kristínar Gottskálksdóttur og eru nefndir í kaupmálabréfi hjónanna árið 1508:. ,,voru þessar jarder til greindar j þennan sama kavpmala. […] Breidabolstadir fyrir. xl.c.“
Samkvæmt Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns var jörðin hins vegar komin í konungseign árið 1703, þá kölluð hálfbýli og hafði „ekki fyrirsvar nema að helmíngi.“
Jarðardýrleiki var óviss og þrönglent á sumrin. Mikill ágangur og landbrot var af sjónum og sjávarsandur olli túnunum skaða. Eins og fleiri jarðir á Álftanesi höfðu Breiðabólsstaðir selstöðu í Norðurhellrum í Heiðmörk og sölvafjöru á Lönguskerjum í Skerfjafirði. Ábúandi var Guðlaugur Grímsson og voru 11 manns í heimili. Ekki virðist því hafa verið tvíbýli eins og síðar á Breiðabólsstöðum.
Þegar manntal var tekið árið 1801 skiptist jörðin þó milli tveggja ábúenda. En árið 1847 voru Breiðabólsstaðir komnir í bændaeign og einungis var einn eigandi og ábúandi. Jarðardýrleiki var 20 5/6 hundruð. Samkvæmt Erlendi Björnssyni voru bæirnir síðan tveir þegar foreldrar hans, Björn Björnsson (1814-1879) og Oddný Hjörleifsdóttir (1838-1901), bjuggu á Breiðabólsstöðum á síðari hluta 19. aldar. Á móti þeim Bjuggu Erlendur Erlendsson hreppstjóri og Þuríður Jónsdóttir.

Álftanes

Breiðabólstaðir – túnakort 1917.

Samkvæmt túnakorti frá árinu 1917 náðu tún jarðarinnar yfir þrjá teiga og voru sléttuð að mestu. Kálgarðar voru samtals 1792 m2 þannig að töluvert hefur verið ræktað af kartöflum og öðru grænmeti.
Land Breiðabólsstaða er flatlent og gróið. Skammt norðan bæjarins er sjávarkamburinn og var sjórinn stundaður af kappi. Austan bæjastæðisins er Breiðabólsstaðatjörn og enn austar Kálfskinn en svo nefnist norðuranginn af Bessastaðatjörn. Austast breiðir Eyrin úr sér, grasi gróin og flöt. Sunnan bæjarins eru þurrar grundir og enn þá sunnar Stekkjarmýrin niður að Bessastaðatjörn. Grund [783] hét áður hjáleiga Breiðabólsstaða norðaustur upp af Kálfskinni.
Nú er Grund hins vegar húsið sem er áfast gamla bænum eða steinhúsinu á Breiðabólsstöðum. Önnur nýbýli á jörðinni eru Hvoll suður af bænum og Jörfi suðvestur af honum, nær Kálfskinni. Breiðabólsstaðir voru teknir eignarnámi í stríðinu og var reistur kampur [812 o.áfr.] á svæðinu þar sem Jörfi er nú.
Á túnakorti frá 1917 má sjá að steinhúsið sem byggt var á Breiðabólsstöðum árið 1884 hefur verið staðsett nokkru norðar á bæjastæðinu en hin húsin. Eftir að það var byggt fluttu ábúendur sig þangað og enn þá er búið í þessu húsi. Nú hefur íbúðarhús nýbýlisins Grundar auk þess verið byggt við gamla steinhúsið. Þar eð löngum var tvíbýli á Breiðabólsstöðum hefur þó væntanlega líka verið búið í einhverjum þeirra húsa sem voru í húsaröð suðaustan við steinhúsið.
Bæjastæðið er slétt frá náttúrunnar hendi, þurrt og gróið. Breiðabólsstaðatjörn er austan bæjar og sjórinn norðan við. Eiginlegur bæjarhóll sést ekki en örlítill aflíðandi halli er þó frá gamla steinhúsinu [781] og nýbýlinu Grund niður að tjörninni. Ætla má að núverandi byggingar standi á hinu forna bæjastæði Breiðabólsstaða og að þarna hafi bæirnir staðið um aldir. Ef bæjahóll Fornleifaskráning Norðurnes á Álftanesi 2019 hefur náð að safnast upp á þessum stað hefur alveg verið sléttað úr honum við byggingu nýrra húsa.

Álftanes

Breiðabólstaðir skv. túnakorti.

Í endurminningum Erlends Björnssonar frá Breiðabólsstöðum, Sjósókn, segir eftirfarandi: Erlendur Erlendsson hreppstjóri „bjó í stóru steinhúsi sem hann byggði árið 1884. Það er fjórtán álnir á lengd, en níu álnir á breidd með kjallara og portbyggt. Á vertíðum voru fjörutíu manns í húsi þessu. Húsið er byggt úr klofnu og höggnu grjóti, sem tekið var víðsvegar í landareigninni. Grjótið var klofið þar, sem það var, og allt borið heim á tveggja og fjögurra manna börum, en höggvið og lagað betur heima. Veggirnir voru tvöfaldir og loft á milli, og yfir gluggum og dyrum voru drangar svo langir, að þeir náðu alveg yfir. Er hús þetta að öllu leyti ágætt enn í dag. Timbur allt og þak í húsi Erlends var komið úr gríðarstóru salthúsi og fiskhúsi [799], er stóð fyrrum á Eyrinni niðri við Seyluna í landareign Breiðabólsstaða […] Í kjallaranum í húsi Erlends voru þrjú herbergi, búr, eldhús og sjómannaskáli, sem var helmingur kjallarans. Voru þar tuttugu manns. Á hæðinni fyrir ofan voru þrjú herbergi, stofa fyrir gesti kvennaherbergi, – voru þar átta konur, – svo var helmingurinn af hæðinni kallaður baðstofa, og voru þar húsbændur og heimafólk, fjórtán manns. Var þar unnin ullarvinna og hampvinna á vetrum. Þar var líka vefstóll […] Uppi á loftinu var geymsla.“
Steinhúsið á Breiðabólsstöðum var friðlýst af forsætisráðherra 14. júní 2016 með vísan til 3. mgr. 18. gr. laga nr. 80/2012 um menningarminjar. Friðlýsingin tekur til ytra borðs hússins: „Gamla steinhúsið að Breiðabólsstöðum, Álftanesi var byggt […] úr klofnum og tilhöggnum grásteini sem límdur var saman með kalksandi. Húsið er einlyft með kjallara og portbyggðu risi. Veggir þess eru tvöfaldir með loftbili á milli og yfir dyrum og gluggum eru heilir steinar sem ná alla leið yfir opið. […] Viðir voru fengnir úr gömlu salt- og fiskhúsi Siemsensverslunar sem stóð á Eyrinni niður við Seyluna. Erlendur Erlendsson útvegsbóndi byggði húsið en seldi það síðar nafna sínum Björnssyni.
Breiðabólsstaðahúsið er vel varðveitt og er verið að gera það upp á vandaðan hátt. Það er fágætur vitnisburður um stórt útgerðarheimili frá seinni hluta 19. aldar þegar umfangsmikil sjósókn var stunduð frá Álftanesi og öðrum sjávarbyggðum við innanverðan Faxaflóa. Að öllum líkindum er það eina heillega húsið frá 19. öld sem enn stendur í sveitarfélaginu.
Byggingarlag hússins er athyglisvert og óvenju vandað.“

Akrakot (hálfbýli)

Álftanes

Akrakot – túnakort 1917.

Um Akrakot segir í Jarðbókinni árið 1703: ,,hálflenda so kölluð, því hún hefur ekki nema helmíngs fyrirsvar á móts við lögbýlissjarðir, hefur í manna minni, innan 60 ára, bygð verið úr Bárhaukseyrar landi á fornum tóftum, sem sumir hyggja fyr hafi bygðar verið og kallað Akrar. Jarðardýrleiki er óviss. Eigandinn kóngl. Majestat.“48 Við Jarðatal Johnsens árið 1847 var Akrakot komið í bændaeign og eigandinn bjó sjálfur á jörðinni sem metin var á 12 hundruð. ,,Túnið fordjarfast af sands og sjáfar ágángi“50 segir í Jarðabókinni en samkvæmt túnakorti voru Akrakotstúnin árið 1917 sléttuð að mestu og náðu yfir samtals 2,2 teiga heima við bæinn og við Breiðabólsstaði. Matjurtagarðar voru alls 380 m2.51 Sölvafjara var nægileg og var þangbrennsluverksmiðja rekin í Akrakoti í nokkur ár í byrjun 20. aldar. Samkvæmt Erlendi Björnssyni voru tveir ábúendur á Akrakoti og virðist því hafa verið tvíbýli þar á síðari hluta 19. aldar.
Á túnakorti árið 1917 er teiknað stakt hús innan kálgarðs og þar hjá ritað „gömlu bæir“ innan sviga.
Væntanlega hefur gamli Akrakotsbærinn því staðið þarna rétt sunnan við stærri byggingu, hús þangbrennsluverksmiðju frá því um 1900 sem er sýnt á kortinu og stendur enn á sama stað, nú sem íbúðarhúsið í Akrakoti eða við Blikastíg 16. Lóðin umhverfis íbúðarhúsið er fremur slétt eins og grundirnar víða á Álftanesi en ójöfnur eru í henni þar sem gamli bærinn hefur staðið miðað við túnakortið. Engar leifar frá honum eru þó sýnilegar á yfirborði.

Þangbrennsluverksmiðja (iðnaðarhús)

Álftanes

Norðurnes – örnefni. (JMJ)

Á túnakorti Akrakots má sjá hús þangbrennsluverksmiðjunnar um 10 m norðan gamla bæjarins. Húsið var byggt rétt eftir aldamótin 1900 og stendur enn þá í nokkuð breyttri mynd, nú sem íbúðarhúsið við Blikastíg 16. Austasti hluti hússins er að stofni til gamla þangbrennsluverksmiðjan sem var starfrækt á árunum 1904-1908: „Til vinnslunnar voru reist talsvert umfangsmikil mannvirki. Á víð og dreif um túnin voru settir staurar og vírar strengdir á milli og var þarinn lagður á þá til þurrkunar […] Byggt var stórt steinhús í Akrakoti til þess að brenna þarann í. Eftir endilöngu var steyptur ofn. Fjögur steypt hólf voru til að brenna þarann í og tvö þar sem kol voru brennd.“66 Áberandi strompur stóð lengi við austurgafl hússins og minnti á upphaflegt hlutverk þess en hann hefur nú verið rifinn frá húsinu. Það var breskt félag sem stundaði þarabrennslu á Akrakoti og var hann fluttur út til Skotlands til joðframleiðslu. Á síðustu áratugum hefur húsið svo verið stækkað örlítið og byggður bílskúr norðan við gamla bæjarstæðið.
„Þangbrennslan , er fór fram í Akrakoti hér á Álptanesi síðastl. vetur, mun nú verða aukin að mun, þar sern verið er að reisa þar stórt steinsteypuhús, til þess að brenna þarann í. Síðastl. vetur varð að þurrka þarann, áður en brennslan gat farið fram, og gekk það opt illa vegna óþurrkanna, sem opt eru hór syðra, en nú kvað þarinn verða brenndur, án þess hann sé fyrst þurrkaður.
Það er brezkt félag, sem stundar þarabrennslu þessa, en forstöðumenn fyrirtækisins hér á landi eru hr. Jón Vestdal og Daníel ljósmyndari Daníelsson í Reykjavík.“

Akrasteinn (þjóðsaga/álagablettur)

Akrasteinn

Akrasteinn.

Í örnefnalýsingum segir frá álagasteini í Akrakotstúni: ,,Akrasteinn: Stór steinn suður á túninu. Álagasteinn.“ Honum fylgja þau ummæli, að hann megi ekki hreyfa. „Steinn þessi er nyrzt í svonefndu Torfholti, grýttu og þýfðu.“ Akrasteinn er um 185 m suðvestur frá Akrakoti. Í túninu er að finna einn stakan stein og síðan rétt sunnan við hann eru nokkrir steinar saman. Sennilega er þessi staki steinn Akrasteinn. Túnið í kringum hann er nú þýft og gróið og svæðið notað fyrir hrossabeit.

Brighton kampur (herminjar)

Álftanes

Minjar í Brighton-kampi.

Það var á sunnudagsmorgni vorið 1940, að kvenfélagskonur voru á leið frá Bjarnastöðum með fötur sína og kústa. Þær höfðu nýlokið við að þrífa húsið, en þar hafði verið dansleikur kvöldið áður. Þegar þær nálguðust Grandann blasti við þeim undarleg sjón, þar sem endalaus runa af einkennisklæddum mönnum marseraði eftir Álftanesvegi en svo segir frá í Álftanessögu. Þetta átti eftir að breyta lífinu á Álftanesi næstu árin, herinn reisti hverfið Brighton á Breiðabólsstöðum og þegar mest var voru 500 hermenn á svæðinu. Herstöðin var reist til að verja Reykjavíkurflugvöll. Fyrst voru það Bretar en síðar Bandaríkjamenn. Sveinn Erlendsson á Grund varð að hætta búskap vegna þess að hann missti allt sitt land meira og minna undir umsvif hersins.
Með innreið hersins vorið 1940 var lagður malarvegur um nesið meðfram sjóvarnargarðinum. Þessi gamli vegur liggur enn þá eftir sjávarkambinum og fljótlega eftir að komið er framhjá Breiðabólsstaðatjörn beygir hann til suðurs í átt að bænum Jörfa. Við vegbrúnina austan megin blasir þá við stæðilegur lítill varðturn en við hann var inngangurinn í Brighton kamp.
Aðalbyggð hersins, svefnskálarnir, voru í slakkanum að sunnanverðu við Jörfa.
Minjar frá setuliðinu eru því allt í kringum bæinn, á hlaðinu og í túninu. Minjasvæðið teygir sig yfir um 300 x 250 m svæði vestan við Kálfskinn.

Varðturn (herminjar)

Álftanes

Álftanes – varðturn.

Turninn er hlaðinn úr ávölu sjávargrjóti og steinsteypt á milli. Hann er um 1,5 m að innanmáli og stendur vel undir þaki. Hann er sexhyrndur, með glugga á fimm hliðum en dyr á þeirri sjöttu. Lítið kringlótt op er þar sem tvær hliðarnar mætast gegnt suðri. Varðturninn er farin að láta á sjá og þarfnast viðgerðar. Mikilvægt er að eitthvað verði gert til að reyna varðveita þetta hús.

Hlið (býli)
1395: ,,Svo margar jarder hafa vunder komit sidan pall aboti kom til videyiar. … Hlid. xvj. c.“ DI. III, 598.
1397: Máldagar Vilchins. ,,Peturskyrkia j Gordum a aaltanesei aa heimaland allt. Havsastder. selskard. hlid…. .“ DI. IV, 107.
1477: Ágrip af Garðamáldaga og Álptanesi. ,,Pieturskirkia j gordum a alftanese a heimaland allt. hausastade. selskard. hlijd. … .“ DI. VI, 123.
1558: Garðakirkja hefur jarðaskipti við umboðsmann konungs, ,, … jeg hefe under köngsins eign til Bessastada tekid jördina Hlid. er liggur a Kongsznese. … .“ DI. XIII, 317. Mikið útræði var frá Melshöfða sem liggur suðvestur frá Hliðstanga. Melshöfða er getið í fógetareikningum yfir leigu, landskyldur og skreiðargjaldsreikninga af konungsjörðum frá 1547-1548.
ÁlftanesEinnig í fógetareikningum frá 1552 og 1553. DI. XII, 125,184, 567-568, 591, 595. Í Jarðbók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1703, segir: „Melshöfde, verbúðarstaður og grasnyt nokkur, sem heimabóndinn á Hliði brúkar alleinn, þar eru:…Kastiansshus…Jons Marteinssonar hus…Jonshus… Heimræði er við öll þessi tóm hús í Melshöfða og gánga þar kóngsskip um vertíð, vor og haust, fleiri eður færri, so mörg sem umboðsmaðurinn fær við komið að láta þar gánga, og er þar til þess ætluð verbúð ein fyrir utan þá, sem nú er bygð, til að hýsa fólk, er rær á þessum kóngsbátum, og kaupa þeir soðning af tómthússmönnum þar í stað…Lending er góð.“ Jarðardýrleiki árið 1703 er óviss. Fram kemur að: ,,Selstöðu hefur jörðin haft þar sem heita Norðurhellrar,…“. JÁM III, 195. Í Jarðtali Johnsens frá árinu 1847 er jarðadýrleiki 20 5/6 hdr. og jörðin er enn í konungseign. JJ, 93. Margbýlt var á Hliðstanga. Árið 1870 var ein þurrabúð hjá Neðra-Hliði og fjórar við Gamla Hlið 065 . EB. Sjósókn 33-34.
Árið 1989 eignast Bessastaðahreppur jörðina. AÓB, 220. Nú er eitt íbúðarhús á Hliðstanga, norðan við bæjarstæði Neðra-Hliðs.
Túnakort árið 1917: Tún (slétt) 3,1 teigar, garðar 1790 m2. 1703:,,Tún jarðarinnar Hliðs brotna og fordjarfast af sjáfarágángi meir og meir.“ JÁM III, 195. Yst á Álftanesi er Hliðstangi: „Ysti og syðsti hluti hans [Hliðstanga] nefnist Melshöfði. Það var einn helsti útróðrarstaður á Suðurnesinu í margar aldir.“AÓB. Hliðstangi er vel gróinn og hallar landið mót suðri. Sjó hefur brotið mikið af landinu, tugi metra frá því túnakort var gert 1917. Melshöfði er nú strípaður gróðurlaus klettatangi sem fer í kaf á flóði.

Efra-Hlið (býli)

Álftanes

Bærinn Efra-Hlið stóð á Hliðstanga, þar sem Grandinn er hæstur. Hliðstangi er grasi gróinn og þýfður. Bærinn stóð á Grandanum, náttúrulegum hrygg í landslaginu, sem liggur frá Hliði í vestri alla leið að Bessastöðum í austri. Á háhryggnum liggur malarvegur, þar sem Hliðstraðir lá áður. Norðan bæjar eru 20-30 m að sjó sem hefur brotið mikið af landi á síðustu áratugum og öldum. Aflíðandi halli er að sjó sunnan til en Þvottatjörn 058 er þar í fjöruborðinu, u.þ.b. 100 m frá Efra Hliði.
Í örnefnaskrá segir: „Hlið: Forðum stórbýli á Álftanesi. s.v. horni þess. Var í eigu Garðakirkju til 1556, að konungur skifti á því fyrir Vífilstaði og milligjöf, svo sem mjöltunnu, sem aldrei galzt af konungsins valdmönnum. Þar var margt þurrabúða. og þar var margbýlt jafnaðalega.“ Á uppdrætti í bók Erlends Björnssonar, Sjósókn, þar sem hann sýnir byggð á Álftanesi í kringum 1870, sést að þá eru á Hliðstanga eru þrjú býli: Gamla-Hlið, Efra-Hlið og Neðra-Hlið. Gamla Hlið lagðist í eyði milli 1870 og 1917 vegna landbrots og á túnakortið frá 1917 hefur kortagerðarmaðurinn skrifað: „Gamla Hlið 2 býli var hér. Nú tóttir einar og kg. [kálgarður?] í eyði…brotnar fast norðan við tætturnar.“ Við eyðingu Gamla Hliðs hófst nafnaruglingur og hefur Efra-Hlið stundum verð kallað Gamla-Hlið og ekki er ólíklegt að Gamla Hlið hafi einnig kallast Efra-Hlið áður fyrr enda segir í örnefnaskrá segir: „Efra Hlið: Svo var Gamla-Hlið einnig kallað.“

Álftanes

Einnig kemur fram í örnefnaskrá að bærinn Efra-Hlið var kallaður Kristjánshlið þegar maður að nafni Kristján [Jónsson] bjó þar seint á 19. öld. AÓB.
Í Sjósókn Erlends Björnssonar segir um búendur og býli í Bessastaðahreppi á 8. áratug 19. aldar: „Á Efra-Hliði bjó Kristján Mathiesen, ríkur maður og um leið einn merkasti maður sveitarinnar. Hafði hann útgerð mikla, venjulegast fjögur skip, tvo áttæringa og tvö sexmannaför.“Þegar túnakort var gert fyrir Hlið 1917 eru bæjarhúsin á Efra Hliði úr torfi og grjóti. Húsin snéru þremur burstum til suðurs og eitt hús sambyggt var norðan til. Við bæinn að norðan var kálgarður en bæjarhlað að sunnan. Sunnan bæjarhlaðsins voru einnig kálgarðar og greinir örnefnaskrá frá því að matjurtagarður á hlaðinu hafi heitið Sandagarður.
Álftanes
Stórt hús var reist í Efra-Hliði snemma á 20. öld og má sjá mynd af því Álftaness sögu bls. 219. Það hús brann á seinni hluta 20. aldar. Öll ummerki um Efra-Hliðsbæ og mannvirki umhverfis hann eru horfin. Rústir hafa verið sléttaðar og ekki sést móta fyrir þeim á yfirborði.

Neðra-Hlið (býli)

Hlið.Inn á túnakort frá 1917 er Nýja-Hlið merkt, um 180 m VNV við Gamla-Hlið, á vesturhluta Hliðstanga. Í örnefnaskrá segir: „Hjallavöllur: Svo hét teigur í túninu sem þar sem Neðra-Hlið stóð.“
Bærinn á Nýja-Hliði stóð talsvert lægra en Efra-Hlið og var því heitið Neðra-Hlið réttnefni. Grasi gróið og þýft er á gamla bæjarstæðinu, sem er sinuvafið og komið í órækt. Bærinn stóð á vesturenda náttúrulegs hryggs, Granda, sem býlin á Suðurnesinu eru mörg hver staðsett á. Fjörukambur er aðeins um 40 m vestan og norðan bæjarstæðisins.
Í örnefnaskrá kemur fram að á Neðra-Hliði var tvíbýli. Neðra-Hlið gekk einnig undir heitunum Nýja-Hlið og Jörundarhlið. Þar var þurrabúð um aldamótin 1900. Á túnakorti frá 1917 sést að þá var bærinn úr torfi og grjóti og sneru burstirnar tvær til suðurs. Sambyggt að norðan til var eitt hús. Kálgarður var kringum bæinn vestan til. Öll ummerki bæinn og kálgarðana sex sem voru sunnan, og austan við bæinn eru horfin. Bærinn hefur verið rifin og rústirnar sléttaðar í tún. Í Sjósókn Erlends Björnssonar segir um búendur og býli í Bessastaðahreppi á 8. áratug 19. aldar: „Á Neðra-Hliði bjó Ketill Steingrímsson…[hann] hafði alltaf mikla útgerð, þetta tvö og þrjú skip.“ EB.

Hús Jóns Björnssonar (býli)
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1703, segir:,,Hjáleiga af Hliði kend við þann, sem ábýr í hvört sinni, og nú kölluð Jóns Björnssonar hús. …Jarðardýrleiki er óviss. … Túnum hjáleigunnar spillir sjór árlega. Selstöðu nýtir ábúandi ásamt heimabóndanum.“
Ekki er vitað hvar hjáleigan var á Hliðstanga.

Hálfdánarhús (býli)
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1703, segir: ,, Hjáleiga önnur ónafngift, kend í hvört sinn við þann sem á býr og nú kölluð Halfdanarhús. Jarðardýrleiki er óviss. … Túnið brýtur sjór, sandur og veður. Selstaða er ásamt heimajörðinni brúkuð.“
Ekki er vitað hvar hjáleigan var á Hliðstanga.

Lonshus (býli)
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1703, segir: ,,Jarðardýrleiki er óviss. … Túnunum spillir sands og sjáfarágángur. Vatnsból og selstaða er sem á heimajörðinni.“
Ekki er vitað hvar hjáleigan var á Hliðstanga. Hún fær hnit með Efra-Hliði.

Kastiansshus (býli)
Í Jarðbók Árna og Páls frá 1703, segir: „Melshöfde, verbúðarstaður og grasnyt nokkur, sem heimabóndinn á Hliði brúkar alleinn, þar eru: Tómthús kallað Kastiansshus…Eldiviðartak af móskurði ásamt heimabóndanum. Vatnsból sama sem heima á jörðinni Hliði…Heimræði er við öll þessi tóm hús í Melshöfða…“
Melshöfði er brotinn af sjávarágangi. Hann kemur upp á fjöru en er rúinn öllum mannvirkjum.

Hús Jons Marteinssonar (býli)

Álftanes

Á Álftanesi.

Í Jarðbók Árna og Páls frá 1703, segir: „Melshöfde, verbúðarstaður og grasnyt nokkur, sem heimabóndinn á Hliði brúkar alleinn, þar eru: …Jons Marteinssonar hus, tómthús…Eldiviðartak ásamt heimajörðinni. Vatnsból sama sem heima á jörðinni [Hliði]….Heimræði er við öll þessi tóm hús í Melshöfða…“
Melshöfði er brotinn af sjávarágangi. Hann kemur upp á fjöru en er rúinn öllum mannvirkjum.

Jónshús (býli)
Í Jarðbók Árna og Páls frá 1703, segir: „Melshöfde, verbúðarstaður og grasnyt nokkur, sem heimabóndinn á Hliði brúkar alleinn, þar eru: …Jonshus, þriðja tómthús í sama stað [þ.e. Melshöfða]. Það halda Bessastaðamenn undir sínum umráðum og so hefur lengi verið…Eldiviðartak og vatnsból ásamt Hliði. Heimræði er við öll þessi tóm hús í Melshöfða…“
Melshöfði er brotinn af sjávarágangi. Hann kemur upp á fjöru en er rúinn öllum mannvirkjum.

Verbúð
Í Jarðbók Árna og Páls frá 1703, segir: „Melshöfde, verbúðarstaður og grasnyt nokkur, sem heimabóndinn á Hliði brúkar alleinn, þar eru:…Kastiansshus…Jons Marteinssonar hus…Jonshus…Heimræði er við öll þessi tóm hús í Melshöfða og gánga þar kóngsskip um vertíð, vor og haust, fleiri eður færri, so mörg sem umboðsmaðurinn fær við komið að láta þar gánga, og er þar til þess ætluð verbúð ein fyrir utan þá, sem nú er bygð, til að hýsa fólk, er rær á þessum kóngsbátum, og kaupa þeir soðning af tómthússmönnum þar í stað…Lending er góð“.
Melshöfði er brotinn af sjávarágangi. Hann kemur upp á fjöru en er rúinn öllum mannvirkjum.

Hliðskot (býli)
,,Hliðskot: Svo var eitt býlið kallað vestast í túninu [í Hliði]. Partur sá var gefinn Álftaneshreppi 1836…,“ segir í örnefnaskrá. Sjór hefur nú brotið mikið land af vestanverðu nesinu og má heita öruggt að Hliðskot sé horfið í sjóinn, sbr. útihús.
„Sveitaparturinn: Hliðskot var einnig kallað þessu nafni. 1910 rak þar hval, en þá átti Hafnarfjörður partinn.
Hvalurinn reyndist Andarnefja kasúldinn,“ segir í örnefnaskrá. Hliðskot hefur sama hnit og útihús og Hliðkotsvör. Það var tekið vestast á Hliðstanga.

Litli bærinn (býli)

Álftanes

Hlið.

„Þurrabúð við Kristjánshlíð [sama og Efra-Hlið,“ segir í örnefnaskrá. Litli bærinn hefur staðið nálægt Efra-Hliði, en ekki er vitað hvar.
Hliðstangi er grasi gróinn og þýfður. Bærinn stóð á Grandanum, náttúrulegum hrygg í landslaginu, sem liggur frá Hliði í vestri alla leið að Bessastöðum í austri. Á háhryggnum liggur malarvegur, þar sem Hliðsvegur lá áður. Norðan bæjar eru 20-30 m að sjó, en mikið land hefur brotnað af sjávargangi síðustu áratugum og öldum. Aflíðandi halli er að sjó sunnan til.
Ekki sést til fornleifar.

Gula húsið (býli)
„Gula húsið: Svo var gesthús Kristjáns [Jónssonar] í Hliði kallað. Á hlaðinu…Kinn: Svo var slétta kölluð, er lá framan við Kristjáns Hlið. Þar stóð hús sem kallað var „Gula húsið“,“ segir í örnefnaskrá. Gula húsið hefur verið í hlaðvarpanum sunnan við bæinn.
Bærinn stóð á háhæðinni en aflíðandi halli er niður að sjó sunnan til.
Kristján Jónsson bjó á Hliði seinni hluta 19. aldar. Þegar túnakortið er gert 1917 er Gula húsið horfið af bæjarhlaðinu.

Sandhús (býli)

Álftanes

Hlið – friðlýsing 2020.

Í örnefnaskrá segir:,,Sandhús: Svo hét eitt býlið á Hliði, suð-vestur frá Hliðsbæjum. Það stóð þar sem Melshöfði byrjaði.“
Sjávarágangur hefur brotið mikið af Melshöfða og það sama á við um suðurströnd Hliðstanga. Sandhús voru á þessum slóðum og eru horfin í sjóinn. Það var að líkindum nálægt Sandhúsavör 063. Sandhúsavör er sýnd á korti Erlends Björnssonar í bókinni Sjósókn, sem sýnir örnefni og bæjarskipan á Álftanesi um 1870, og fá Sandhús hnit með vörinni.

Pétursbúð (býli)
Í Sjósókn Erlends Björnssonar segir um búendur og býli í Bessastaðahreppi á 8. áratug 19. aldar: „Hjá NeðraHliði var Pétursbúð, er var þurrabýli.“ EB. Ekki er vitað hvar Pétursbúð stóð.
Grasi gróið og þýft er á bæjarstæðinu, sem er sinuvafið og komið í órækt. Bæjarstæðið er á vesturenda náttúrulegs hryggs, Granda. Fjörukambur er aðeins um 40 m vestan og norðan bæjarstæðisins. Ekki sést til fornleifar.

Gamla-Hlið (býli)
Gamla Hlið stóð u.þ.b. 100-120 m ANA við Efra-Hlið, en bæjartóftirnar eru nú horfnar í sjó eða sléttaðar í túnið. Ekki sjást neinar leifar bæjarins á yfirborði.
Hliðstangi er grasi gróinn og þýfður. Bærinn stóð á Grandanum, náttúrulegum hrygg í landslaginu, sem liggur frá Hliði í vestri alla leið að Bessastöðum í austri. Á háhryggnum liggur malarvegur, þar sem Hliðstraðir lá áður. Mikið land hefur brotnað í sjó á þeim stað sem bærinn var á síðustu áratugum og öldum. Aflíðandi halli er að sjó sunnan til.
Á uppdrætti í bók Erlends Björnssonar, Sjósókn, þar sem hann sýnir byggð á Álftanesi í kringum 1870, sést að á Hliðstanga eru þrjú býli: Gamla Hlið, Efra Hlið 001 og Neðra-Hlið 006. Í Sjósókn segir ennfremur: „Á Gamla Hliði voru fjögur þurrabúðarbýli, gerðu þeir bændurnir út í félagi tvö skip.“ EB. Gamla Hlið lagðist í eyði vegna landbrots og á túnakort frá 1917 hefur kortagerðarmaðurinn skrifað: „Gamla-Hlið 2 býli var hér [þ.e. fast austan við Hliðstúngarð. Nú tóttir einar og kg. [kálgarður?] í eyði…brotnar fast norðan við tætturnar.“ Gamla Hlið lagðist í eyði milli 1870 og 1917 og þá fluttist nafnið yfir á Efra-Hlið. Í örnefnaskrá segir: “ Efra Hlið: Svo var Gamla-Hlið einnig kallað.“ Að líkindum hefur Gamla-Hlið einnig verið kallað EfraHlið, en nafnið færst yfir á Efra-Hlið þegar gamli bærinn féll í eyði. Sem dæmi um hversu mikið landbrotið er, segir í örnefnaskrá: „Gamla Hliðsbakki: Svo var bakkinn kallaður bak við bæinn. 1900 var hann orðinn örmjór, svo rétt mátti ganga þar bak við bæ.“ Ójöfnur eru í sverðinum kringum veginn og austan við Hliðstúngarð, e.t.v. eru einhverjar leifar Gamla Hliðs þar undir sverði.

Skjónasteinn (áletrun)

Álftanes

Skjónaleiði.

„Skjónaleiði: Lítil þúfa í Hjallavelli þar var 1807 heygður hestur Jörundar bónda Ólafssonar á Hliði er Skjóni hét. Skjónasteinn: Á þúfu þessari eða leiði liggur steinn. Á hann er klöppuð vísa þessi. Ofan við vísuna er ártalið 1807. Heygan Skjóna hér ég tel/þessi Jörsa þjenti vel/Hestinn bezt að liði./Þegar hann bjó á Hliði,“ segir í örnefnaskrá. Ennfremur segir: „Hjallavöllur: Svo hét teigur í túninu þar sem Neðra-Hlið stóð.“ 10 m vestan við vesturgafl gerðis er Skjónaleiði. Það er 160 m suðvestan við bæjarstæði Efra-Hliðs og u.þ.b. 30 m frá bæjarstæði Neðra-Hliðs.
Hjallavöllur er í aflíðandi brekka mót suðri, sinuvafin og þýfð.
Skjónaleiði er þúfa, 1 x 1,5 m stór og snýr vestur – austur. Það er 0,3 m hátt og á því miðju er flatur steinn með áletrun. Það sem sést af steininum er 40 x 30 sm. Steinninn er meira en hálfur á kafi í sinu en og sokkinn í þúfuna.

Heimild:
-Fornleifaskráning, Deiliskipulag á Norðurnesi – Fornleifaskráning Norðurnes á Álftanesi 2019.
-Fornleifaskráning á Álftanesi, Deiliskipulag Miðsvæði og Suðurnes – Fornleifaskráning á Álftanesi, Miðsvæði og Suðurnes 2019.
-Deiliskráning í Bessastaðahreppi: Fornleifaskráning á völdum aðalskipulagsreitum, Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2004.
-Þangbrennslan, Þjóðviljinn + Þjóðviljinn ungi 20:52-53 (1906), bls 211.

Álftanes

Álftanes – örnefni og bæir. (ÓSÁ)

Landnám

Í ritinu „Landnám Ingólfs – Nýtt safn til sögu þess“, I. bindi, skrifar Björn Þorsteinsson m.a. eftirfarandi um Landnám Ingólfs.

Ritun Landnámu
Ari fróði setti saman Íslendingabók snemma á 12. öld, en hún er höfuðritheimild um atburði hér norður frá fyrir 1100; „Ísland byggðist fyrst úr Noregi á dögum Haralds hins hárfagra Hálfdánarsonar hins svarta í þann tíð… er Ívar Ragnarsson loðbrókar lét drepa Eadmund hinn helga Englakonung. En það var sjö tigum vetra hinn níunda hundraðs eftir burð Krists að því er ritað er í sögu hans.

Landnáma

Landnáma – endurgerð.

Ingólfur hét maður norrænn, er sannlega er sagt að færi fyrst þaðan til Íslands, þá er Haraldur hinn hárfagri var 16 vetra gamall, en í annað sinn fám vetrum síðar. Hann byggði suður í Reykjavík. Þar er Ingólfshöfði kallaður fyrir austan Minþakseyri, sem hann kom fyrst á land, en þar Ingólfsfell fyrir vestan Ölfossá, er hann lagði sína eigu á síðan.“
Svo farast Ara orð í 1. kafla Íslendingabókar, og er þetta marktækasta frásögnin, sem við eigum um upphaf Íslandsbyggðar, en hún var skrifuð um 250 árum eftir að atburðirnir áttu að hafa gerst.
Um svipað leyti og Ari fróði safnaði efni í Íslendingabók um 1100 varð til stofninn að Landnámu, sagnasafni um upphaf fólks og byggðar á íslandi. Þar greinir frá um 430 svonefndum landnámsmönnum, forystumönnum um landnám á íslandi og kynkvíslum þeirra, en haukur lögmaður, sem setti saman Hauksbók, síðustu miðaldagerð bókarinnar snemma á 13. öld, segir hana ritaða „eftir því sem fróðir menn hafa skrifað, fyrst Ari prestur hinn fróði Þorgilsson og Kolskeggur hinn vitri. En þessa bók ritaði ég, Haukur Erlendsson, eftir þeirri bók, sem ritað hafði Sturla lögmaður, hinn fróðasti maður, og eftir þeirri bók annarri, er ritað hafði Styrmir hinn fróði, og hafði ég það úr hvorri, sem framar greindi, en mikill þorri var þar, er þær sögðu eins báðar; og því er það ekki að undra þó að þessi Landnámabók sé lengri en nokkur önnur“ (Í.fr.I, 395-97).
Þetta er það helsta sem vitað er um ritun Landnámu.

Íslendingabók

Blaðsíða úr Íslendingabók.

Ari fróði (d. 1148) og Kolskeggur vitri skrifuðu fyrstu gerðina, Frumlandnámu, snemma á 12. öld, en hún er glötuð.
Styrmir Kárason fróði (d. 1245) prestur og lögsögumaður, síðast príor í Viðey og um skeið prestur í Reykholti hjá Snorra Sturlusyni, skrifaði aðra gerð, Styrmisbók, um 1220, en hún er einnig glötuð.
Sturla Þórðarson sagnaritari (d. 1284) skrifaði þriðju gerðina, Sturlubók, líklega um 1270. Hún er sæmilega varðveitt í afritum.
Haukur Erlendsson (d. 1334) skrifaði fjórðu gerðina, hauksbók, um 1310, og er hún varðveitt í eiginhandarriti.
Landnáma hefur verið vinsæl bók og einhverjar fleiri gerðir hennar hafa verið til (SR.: S.L. 68-84).
Af varðveittum gerðum bókarinnar sést að afritarar hafa talið sér heimilt að breyta forritum sínum bæði með viðbótum, breytingum á efnisröð og jafnvel textanum sjálfum.
Handrit líttskaddað, af stofni Styrmisbókar, hefur verið til frá 17. öld, og var þá afritað og aukið eftir öðrum Landnámugerðum af Þórði Jónssyni prófasti í Hítardal (d. 1670), og þá varð til Þórðarbók. Þar eru í eftirmála taldar hvatirnar að ritun Landnámu, og er klausan ýmist eignuð Styrmi fróða eða talin úr Frumlandnámu og verður það hér haft fyrir satt.
Samkvæmt frásögn Landnámu var henni ætlað að vera:
1) varnarrit gegn meintu illmæli erlendra manna,
2) ættfræðirit,
3) almennt fræðirit um upphaf byggða á landinu.
Landnáma var m.ö.o. skrifuð til fróðleiks og af metnaðar hvötum eins og öll önnur saga, en metnaður og pólitík hafa lengi verið samtvinnaðir þættir í samskiptum manna. Mikilvægasti fróðleikurinn fjallaði um upphafið; frumhöfundur Landnámu segist ætla að grafast fyrir um upphaf ætta, byggða og skipanir, því að sá sé háttur allra vitra þjóða að vilja vita um upphaf sitt.
Landnáma er heildstætt safn sagna og skáldskapar og sett á skrá snemma á 12. öld, af því að landslýðurinn var orðinn tíundarskyldur biskupum, sem þurftu að vita skil á byggðum landsins. Oft er frásögn ritsins lítið annað en eyðufylling, og leikur að örnefnum eins og Þórhallur Vildmundarson hefur fjallað um manna rækilegast:
„Þorgeir hét maður, er nam Þorgeirsfjörð og Hvalvatnsfjörð“ (Í.fr.I, 272).
Sagnir Landnámu eru margar sannanlegu skáldskapur, og ýmsir nafngreindir landnámsmenn hafa líklega aldrei verið til. Samt sem áður er bókin storkandi heimild um sjálft landnámið og þ.á.m. um hann Ingólf landnámsmann.

Ingólfur landnámsmaður

Landnám

Ingólfur og fjölskylda í Reykjavík.

Upphafleg gerð Landnámu er löngu glötuð, og á 13. öld tók Sturla Þórðarson sér fyrir hendur að breyta þáverandi gerð bókarinnar í inngangsrit að sögu Íslendinga með sérstökum kafla um fund landsins (J.Jóh. G.L.b. 70). Fram á hans daga hafði bókin hafist á Sunnlendingafjórðungi, landnámi Þrasa í Skógum undir Eyjafjöllum, og verið rakin landnámin sólarsinnis umhverfis landið. Landnáma Sturlu hefst hins vegar á byggð Ingólfs í Reykjavík, þegar landfundasögunni sleppir. Við breytinguna hækkaði hagur landnámshetjunnar Ingólfs sem breiðir úr sér við upphaf og endi Sturlubókar.
Þórðarbók Landnámu heldur fyrri efnisskipan, en þar hefst frásögnin af Landnámu vestan Ölfusár og Sogs á þætt um Ingólf landnámsmann, eins og þekkt er.
Íslendingabók Ara er varðveitt í annarri útgáfu endurskoðaðri, ef svo má að orði komast. Þar fullyrðir hann að Ingólfur hafi farið fyrstur manna úr Noregi til Íslands, lagt undir sig og ætt sína ákveðin héruð á tilgreindu aldursári Haralds hárfagra eða um 870, og nefnir örnefni frásögninni til styrktar. Ari segir ekki að Ingólfur hafi verið fyrsti landneminn á Íslandi, heldur fór hann fyrstur frá Noregi til Íslands. Það ríður því ekki í bág við frásögn Ara, þótt fólk af Bretlandseyjum hafi numið hér land á undan honum.
Landnámsöld er tíminn frá 850-950. Fólksflutningarnir til landsins hafa verið dræmir fyrstu áratugina, eða fram undir 890, en glæðst þá og fjara síðan út eftir 930.
Ingólfsfrásögnina og tímasetningu hennar hafði Ari eftir Teiti Ísleifssyni biskups (d. um 1110), en hann var manna spakastur; Þorkeli föðurbróður sínum, „er langt mundi fram“, og Þuríði Snorradóttur goða (d. 1112), „er var margspök og óljúgfróð“. Þessir vinir og vandamenn Ara fróða og Skálhyltingar hafa talið Ingólf einn helsta brautryðjanda landnámsins, af því að upphaf forréttindastéttar og þingaskipunar varð til í landnámi hans.
Á dögum Landnámshöfunda hefur ýmsum sögnum farið af fyrstu landnemunum í héruðum, en Ingólfur vann forsætið meðal þeirra af því að nafn hans var tengt stjórnskipaninni og afkomendur hans nefndust allsherjargoðar og settu alþingi árlega. Sagan er tæki til þess að skapa hefð og reglu, og í þá veru unnu Ari fróði og félagar hans. Alþingi og stjórnskipanin hefur einkum orðið til þess að halda á loft minningum um hálfgleymda söguhetju (Íb. 3. kap; J.Jóh.I, 53-59).

Landnámið

Landnám

Landnámið.

Landnáma greinir að Ingólfur hafi kannað sunnanvert landið í þrjú ár. Fyrsta árið hafði hann bækistöð við Ingólfshöfða, annað árið við Hjörleifshöfða, þriðja undir Ingólfsfjalli, og á fjórða ári fluttist hann til Reykjavíkur.
Innnesin buðu Ingólfi og félögum hans allsnægtaborð á íslenskan mælikvarða. Þar var mikið undirlendi, varp og akureyjar, svo hægt væri að rækta bygg og brugga öl, en bygg er samstofna orðinu byggð; þar sem ekki var hægt að rækta bygg var óbyggilegt. Eyjar fyrir landi voru sjálfgirt akurlönd, sífrjó af fugladriti og sjórinn varði þær fyrir næturfrosti, haust og vor. Við Reykjavík voru laxár, veiðivötn, selalátur og fiskigengd upp að landsteinum, hvalagöngur inn í Hvalfjörð, fuglabjörg ekki langt undan og talsverður reki. Þá voru heitar laugar til baða og þvotta, og sjálf nesin voru allmiklu stærri að fornu en þau eru í dag, og var þægilegt að gæta búgjár bæði fyrir vargi og víðáttu meðan það var fátt; hlaða mátti garða yfir eyði og hafa fénað úti í Viðey. Innnesin tóku vel á móti gestum sínum og voru örlát, og beitilandið á Reykjanesskaga brást aldrei. Bændur, sem komu úr barrskógaþykknum Skandinavíu hafa verið hugfangnir af björtu og grösugu birkiskógunum íslensku. Þar voru svo góð beitilönd, að sumir þeirra vissu brátt ekki sauða sinna tal, eins og sagt var um Hafur-Björn Gnúpsson landnámsmann í Grindavík.

Landnám

Búfé.

Búfé landnemanna fjölgaði ört, og er landið var ósnortið, graslendi rúmlega helmingi stærra en það er nú og árferði allgott. Ef 30% fæddra lamba eru gimbrar, verða 100 ær 220 á 3 árum, en 340.000 á 31 ári. Ef 20% fæddra lamba eru gimbrar, verða 100 ær 207 á 4 árum, en 304.000 á 44 árum. þessar tölur sýna að á skömmum tíma hafa landnemarnir getað haft þann fjölda fjár sem þeir vildu, og Íslendingar hafa snemma orðið önnum kafnir við ullariðnað. Vaðmál virðist hafa verið verðmæt útflutningsvara á 10. öld, 6 álnir, um 3 m af algengri tegund hafa gengið á eyri silfurs, um 27 gr., en fyrir 48 álnir fékkst aðeins 1 silfureyrir, þegar komið var fram á 12. öld og ullariðnaður var hafi í Vestur-Evrópu.
Ari segir að Ingólfur hafi lagt eign sína á allt land vestan Ölfusár, og Landnámabækurnar endurtaka þá staðhæfingu með tilbrigðum. Þinglýsing á þeirri einkaeign hefur aldrei verið til, en landnemum á Íslandi hefur auðvitað verið kappsmál að ná undir sig og vildarlið sitt sem stærstum og kostbestum héruðum, og það varð ekki gert nema með mannafla. Landnám Ingólfs vestan Ölfossár og Sogs og sunnan Hvalfjarðar var skýrt afmörkuð landfræðileg heild milli höfuðhéraða Vestur- og Suðurlands og kostasæl mjög með góðri skipaleið undan ströndum Faxaflóa, en aðrir hlutar landnámsins skiptu ekki máli, af því að þeir hlutu að verða fámenn jaðarsvæði. Hvaða serimoníur sem Ingólfur og félagar hans hafi haft í frammi, þegar þeir ákváðu bústað sinn, var þeim mikilvægara að fá fólk, trausta félaga, til þess að setjast að í héraðinu. Landnámabækurnar greina á annan tug dæma um landnámsmenn, sem voru hraktir úr landnámi sínu af ofbeldismönnum, sem síðar komu að því að hinir höfðu einangrast. landhelgun, hvernig sem hún var framkvæmd, dugði ekki til þess að eignast land, ef mannafla skorti. Landnemahóparnir voru aðeins ein eða tvær skipshafnir, nokkrir tugir karla og kvenna, og gátu ekki lagt undir sig svæði í grennd byggðra héraða nema með samþykki nágrannanna. Nágrennisvald höfðingja hefur snemma tekið talsvert út fyrir heimasveitina.
Engum sögum fer af því, hvernig fréttir bárust austur yfir hafið um nýja landvinninga, sem engin styrjöld fylgdi, en frændur og vinir sigldu í kjölfar frumherjanna og röðuðu sér á ströndina frá Reykjanesi og inn í Hvalfjörð.

Landnámsliðið: Frændur og venslamenn

Landnám

Landnám Ingólfs – Safn til sögu þess, I. bindi.

Ásbjörn Össurarson, bróðursonur Ingólfs, nam land milli Hraunholtslækjar, sem fellur úr Vífilsstaðavatni í Arnarnesvog, og Hvassahraun eða nærfellt allan hinn gamla Álftaneshrepp og núverandi; Bessastaðahrepp, Garðabæ og Hafnarfjörð. Ásbjörn bjó á Skúlastöðum, en þeir eru óþekktir og hafa sennilega verið upphafið að stórbýlinu Görðum á Álftanesi og nafnbreyting orðið við flutninga.
Vífill, þræll Ingólfs hlaut frelsi og land á Vífilstóftum. Þetta er merkileg saga um fyrsta kotið á Íslandi. Bærinn hefur líklega legið í eyði á elsta stigi Landnámuritunar, en byggst aftur undir nafninu Vífilsstaðir seint á 13. öld, en svo nefnist hann í Hauksbók (Í.fr. I, 48).
Steinunn gamla, frændkona Ingólfs, leitaði á fund hans, þegar hún var orðin ekkja eftir víking á Bretlandseyjum. Hann „bauðst að gefa henni Rosmhvalanes (Rostunganes) allt fyrir utan Hvassahraun, en hún gaf honum heklu flekkótta, enska og vildi kaup kalla. Henni þótti það óhættara við riftingum“ (Mb. 28). Heklan hefur verið tískukápa og dýrust flík, sem Íslendingur hefur borið. Í henni sprangaði fyrsti bóndinn í Reykjavík um tilvonandi Austurvöll, og galt fyrir gripinn; Vatnsleysuströnd, Njarðvíkur báðar, Keflavík, landið undir Keflavíkurflugvelli og Miðneshreppa. þetta mun hafa orðið með þekktustu jarðakaupum á Íslandi.

Landnám

Landnám Ingólfs – skipting.

Herjólfur að nafni, frændi og fóstbróðir Ingólfs, byggði að sögn Landnámu syðst á Reykjanesi í Vogi eða núverandi Hafnahrepp og hefur búið í Gamla-Kirkjuvogi. Þar eru ókannaðar rústir sunnan við Ósabotna. Sonarsonur hans, Herjólfur yngri, bjó á Drepstokki (Rekstokki) á Eyrarbakka og sigldi til Grænlands og byggði á Herjólfsnesi syðst á landinu. Herjólfur er sagður fóstbróðir Ingólfs í melabók og Hauksbók, en Sturla Þórðarson sviptir hann titlinum og setur hann á Hjörleif Hróðmarsson, sem hann hafði miklar mætur á. Hér liggur beint við að barna söguna og gera Herjólf að farmanni, fá honum skip og senda hann til landnáms með Ingólfi, sem gerði hann að útverði landnámsins og flotaforingja suður í Höfnum. Þar er Þórshöfn gegnt Kirkjuvogi.
Eyvindur, frændi og fóstri Steinunnar gömlu, hlaut hjá henni Voga og Vatnsleysuströnd, og settist hann að í Kvíguvogum. Þaðan hrökklaðist hann undan Hrolleifi Einarssyni barnakarls, sem telst hafa komið út seint á landnámstíð, vera margtengdur Ingólfsfrændum og lenti hjá þeim á Heiðarbæ í Þingvallasveit og undi þar illa við murtuveiði í vatninu. Hann bauð Eyvindi bústaðaskipti eða hólmgöngu öðrum kosti. Eyvindur kaus skiptin og stofnaði líklega til sjósóknar hjá Steinunni frænku á Bæjarskerjum á Miðnesi, en hefur haft búsmala á Heiðarbæ.
Við Gufuskála á Rosmhvalanesi á hrakhólavíkingur að hafa lent, og hrekja Landnámahöfundar hann úr einum Gufu-staðnum í annan; frá Gufuskálum í Rosmhvalanesi í Gufunes og þaðan í Gufuám þá í nýja Gufuskála og loks í Gufufjörð. Melabók nefnir manninn Gufa Ketilsson Bresasonar, en Ketill faðir hans „átti Akranes allt fyrir vestan Reyni og fyrir norðan Akraffell og til Urriðaár“ og hafði komið frá Írlandi til Íslands (Mb. 33). Gufi „vildi byggja á Nesi (Gufunesi), en Ingólfur rak hann á brott þaðan. Þá fór hann á Rosmhvalanes og vildi byggja að Gufu (skálum). En þau Steinunn keyptu saman að hann skyldi á burt fara en vermannastöð skyldi ávallt vera frá Hólmi“ (Mb. 35). Hér mum um Hólm í Leiru að ræða, en þar er talið að Steinunn gamla hafi búið.
Þórður skeggi Hrappsson Bjarnasonar bunu var giftur prinsessu, sem átti sér þjóðardýrling Engilsaxa fyrir afa. Þórður fluttist austan úr Lóni líkt og Ingólfur frændi hans hafði gert og tók sér bólfestu í nágrenni hans að Skeggjastöðum í Mosfellssveit. Hann nam land milli Leirvogsár og Úlfarsár, sem nú nefnist Korpúlfsstaðaá, en lönd sín í Lóni seldi hann Úlfljóti, sem síðar gerðist löggjafi Íslendinga. Þórður hefur hlotið rúmlega allan Mosfellsdalinn til búskapar og utanverða Mosfellsheiði, og styrkt stöðu sína og frændliðsins pólitískt við flutningana.
Hallur goðlausi á hafa verið tengdur Þórði skeggja og numið land frá Leiruvogi til Mógilsár. Hann reisti bæ að Múla, en bæjarstæðið er glatað. Leirvogsá hefur skilið lönd þerra Þórðar allt að Leirvogsvatni, en Esjan frá Mógilsá markað landnámið að norðan. Líklega hefur Þerney fylgt landnámi halls. Sonarsonur hans á fyrstur að hafa reist bú í Álfsnesi.
Helgi bjóla Grímsson Bjarnasonar bunu, fór úr Suðureyjum og nam land á Hofi á Kjalarnesi milli Mógilsár og Mýdalsár, sem síðar nefndist Miðdalsá og nú Kiðafellsá á mótum Kjósar og Kjalarness. Niður við Hofsvoginn norðaustur frá bænum eru miklar rústir, sem virtust við könnun 1973 vera frá elsta skeiði byggðarinnar.
Örlygur gamli, annar Suðureyingur og frændi þeirra Helga, sigldi á hans fund. Hann tók hér land með liðið sínu norður í Örlygshöfn við Patreksfjörð. Þar hefur hann frétt hverra kosta hann átti völ hjá frændliðinu við Faxaflóa. Hann sigldi suður og hlaut land milli Mógilsár og Ósvífurár, sem á síðari öldum kallst Ósénulækur, eða Ósýnilækur (L.L. 86). Örlygur bjá að Esjubergi. Hann telst hafa verið kristinn og reist kirkju á bæ sínum.
Svartkell katneski, frá Katanesi á Skotlandi, nam land milli Kiðafellsár og Elífsdalsár, sem nú heitir Dælisá og Bugða og fellur í Laxá neðanverða. Hann bjó að Kiðafelli og síðar á Eyri í Kjós.
Valþjófur Örlygsson frá Esjubergi nam Kjós alla segir Landnáma og bjó að Meðalfelli. Hér mun átt við Meðalfellsdalinn báðum megin Laxár að Bugðu.
Þessir tíu landnámsmenn eru allir tengdir Ingólfi og liði hans í frásögnum Landnámu nema Svartkell katneski á Kiðafelli. Frá Reynivallahálsi og suður í Hafnir lá kjarnasvæði byggðarinnar sunnan Hvalfjarðar og vestan fljótsins mikla, Ölfusár. Utan þess lágu jaðarsvæði, sem gátu ekki orðið neinir mótandi byggðarkjarnar á frumstigi mannlífsins í landinu.

Jaðarsvæði

Landnám

Landnámið – landnámsmenn.

Hvamm-Þórir nam land milli Laxár og Fossár og bjó í Hvammi. Engin deili eru sögð á honum.
Þorsteinn Sölmundarson Þórólfssonar smjörs af ætt Gríms kambans, sem nam Færeyjar, nam land frá Fossá að Botnsá og Brynjudal allan. Um bústað hans er ekki annað vitað en sonur hans telst búa á Múla í Brynjudal, en bær með því nafni er ókkur í dalnum.
Molda-Gnúpur kom frá Moldatúni (Moldtuna) á Norðmæri til Íslands og nam Álftaver. Hann flýði þaðan með fólk sitt undan jarðeldi (úr Eldgjá 934) vestur til Grindavíkur, og námu synir hans land frá Selatöngum til reykjaness. þeir komu þangað með fátt kvikfé, sem gekk mjög ört, og vissi Hafur-Björn Gnúpsson ekki sauða sinna tal.
Þórir haustmyrkur nam Selvog og krýsuvík líklega austur á Hafnarberg og miðja Selvogsheiði, en sonur hans Heggur byggði í Vogi, sem síðar varð Vogsósar.

Landnám

Þórir haustmyrkur nam Selvog.

Álfur hinn egski frá frá Ögðum í Noregi og „kom skipi sínu í þann ós, er við hann er kenndur og heitir Álfsós“ (Mb. 37). Álfi er eignað landnám fra Varmá út á Selvogsheiði að mörkum Selvogshrepps, en annars telst tilvera hans vafasöm. Nafn hans mun til orðið vegna misskilnings á heitinu Ölfus, sem telst samsett úr stofni orðsins elfur og ós. Um 1700 hafa gengið sagnir um það að Álfur hafi komið skipi sínu „inn Ölversármynni, upp eftir Þorleifslæk í Álfsós og bjó að Gnúpum. Ós þessi liggur að austanverðu, nær því við Þurárhraun“ (L.I.II, 13; III, 4). Hér mun um að ræða tilraun til þess að staðsetja örnefnið Álfós, sem er hvergi nefnt í fornritum nema í Landnámu, og var þar sem Varmá féll „í Ölversá fyrir austan Arnarbælisstað“ (L.I.II, 10). Síðar brýtur Varmá sér leið vestur „allt í Álfós“ (L.I.III, 4, 10), sem sumir nefna Álftárós, segir í Jarðabók Árna og Páls (II, 420, 422) en það mun upprunalegt nafn (Í.fr.I, 390-91).
Ormur hinn gamli Eyvindarson „nam land fyrir austan Varmá til Þverár og um Ingólfsfell allt og bjó í Hvammi“ (Mb, 27). Þverá sú er þar getur heitir nú Tunguá og fellur í Sogið.
Þorgrímur bíldur Úlfsson „nam lönd fyrir ofan Þverá (Tunguá) og bjó að Bíldsfelli.“ Hér er um að ræða allan Grafning ofan Tunguár að mörkum Þingvallasveitar.
Steinröður Melpatriksson af Írlandi og leysingi Þorgríms bílds og tengdasonur „nam öll Vatnalönd og bjó að Steinröðarstöðum“ (Mb, 27). Vatnalönd munu efri hluti Grafnings sunnan Þingvallavatns og Jórukleifar og landnáms Hrolleifs á Heiðarbæ, sem nam land allt fyrir utan Öxará til móts við Steinröð.
Ketilbjörn gamli úr Naumudal í Noregi telst tengdasonur Þórðar skeggja, en hann fór til Íslands, „þá er landið var víða byggt með sjó.“ Hann hafði veturvist hjá tengdaföður sínum, en fór þá austur um heiði og „nam Grímsnes allt upp frá Höskuldslæk og Laugardal allan og alla Biskupstungu upp til Stakkslækjar (Stakksár) og byggði að Mosfelli“ (Mb. 24-25). Landnámsmörkin að vestan voru ekki glögg og hafa verið þrætuland, en Ketilbjörn hefur náð undir sig mjög miklu landi, þ.á.m. Tungunni ytri (E.A.:Á. 102, 124-128). Þetta var mikilvægt svæði. Þar stóð höfuðstaður Íslands í 7 aldir í Skálholti, en Þingvöllur lá á milli landnáms Ingólfs og Ketilbjarnar, og þangað lágu þjóðleiðir.
Landnám Ketilbjarnar rak smiðshöggið á landvinninga þeirra Ingólfsfrænda og tengdaliðs þeirra suðvestan lands. þar höfðu þeir lagt undir sig kjarasvæði, en ættmenn áttu þeir á Snæfellsnesi, um Breiðafjörð, Eyjafjörð, austur á Síðu og víðar um land.
Samkvæmt frásögn Landnámu var þetta fólk komið úr ýmsum áttum í Noregi og á Bretlandseyjum, bæði frá írlandi, Suðureyjum og Katanesi á Skotlandi. Það hefur haft ýmis kynni af kristinni trú og verið blendið í skoðunum.

Framkvæmd landnámsins

Landnám

Landnámið virðist hafa verið framkvæmt á þann hátt að
1) ættingjar og tengdafólk raðaði sér á ströndina sunna úr Vogum og inn í Hvalfjörð;
2) menn voru fengnir til þess að flytjast úr öðrum landnámum á þetta svæði;
3) þaðan lögðu menn undir sig uppsveitir Árnesþings.
Hér var unnið skipulega að ákveðnu marki. Í landnámi Ingólfs hafa menn líklega frá upphafi stefnt að því að stofna stórbændasamfélag undir forystu goðans í Reykjavík og verja eignarrétt og forréttindi í héruðum, halda þrælum í skefjum og skipuleggja byggðina. valdastétt goða er óþekkt utan Íslands og virðist hér nýgervingur og til orðin vegna óvenjulegra aðstæðna. Hér voru allir nýgræðingar í stóru og dreifbýlu landi; landnemarnir hafa fæsti verið af höfðingjaættum, en flestir þekkt til þingaskipanar undir forystu ákveðins bændahöfðingja. Við sunnanverðan Faxaflóa hafa forystumenn landnámsins þingað, bundist samtökum um skipulag allt frá því að þeir tóku sér bólfestu, og nágrennisvald þeirra hefur verið allríkt í héruðum suðvestan lands. Fólksflutningar voru dræmir fyrstu áratugina, svo að fyrstu landnemunum gafst tóm til að búa um sig.

Heimild:
-Landnám Ingólfs – Nýtt safn til sögu þess, Björn Þorsteinsson; Landnám Ingólfs, bls. 9-35.

Landnám

Farkostur landnámsmanna.

Festarfjall

Árið 2001 var gerð svæðaskráning um „Menningarminjar í Grindavíkurkaupsstað“. Hér er getið um sumt það, sem fram kemur í skýrslunni um gömlu bæina og merkar minjar.

Krýsuvík

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja 1945.

Kirkjustaður. Samkvæmt Landnámu nam Þórir haustmyrkr Selvog og Krýsuvík. ÍF I, 392-393. 1275; Krýsuvík og Skálholt eiga hálfan allan reka undir fuglabergi í landi Strandakirkju í Selvogi. 1284: Stadur j videy aa fiordvng j hvalreka j [krýss[v]ik) ok skal sa sem býr j kryssvvik senda mann til videyar þegar hvalvr kemvr adur þridia sol sie af himne ok lata skiera hval ok abyrgizt sem seigir j logbok.“ DI II, 124 sbr. DI III, 212. DI II, 246,
sbr. 247, 248 og DI III, 749. 1356 var staðurinn 71 hndr og átti kirkjan allt heimalandið. DI III, 222. 1397: Þá á Krýsuvík fjöru í Keflavík til helminga við Kaldaðaneskirkju. Kaldaðaneskirkjra á „Saudahofn j krysevyk oc hvzrum manne ad geyma þar sauðda. fa kietil oc elldivid oc tvo menn til safna a vorid med þeim er sauda giæter.“ DI IV, 54. 1479: lýste hvn þat. at einginn jtok væri j greinda jord vatzleysv. nema kirkian j kryssvvik ætti þar j Xc.“ DI VI, 185-186.1524 eru þau kaup gerð að Viðeyjarkalustur eignast part Krýsuvíkurkirkju í Vatnsleysulandi og greiða fyrir fjögur hundruð til prests en kirkjunni áttæring. DI IX, 289. 1496 lét Stefán Jónsson Skálholtsbiskup meta byggingarnar á Krýsuvíkurstað, kirkjuna, „og staðinn aalan með hjáleiguhúsum innan garða.“ – DI VII, 324. 1563: „Jtem hefe eg fullt vmmbod gefid mijnumm firrgreinndumm Radsmanne ad byggia Krysewijk fyrst sira Birne ef hann vill med þeirre landskilld sem hann kann af stad ad koma og med þeim leigukugilldumm sem þar kunna til ad setiast svo og med þeim skilmála vmm rekann og allt annad sem addur stendur vmm Grijndavijk.“ DI XIV, 201. Kirkjustaður, eign Skálholtsstaðar, og var jarðardýrleiki óviss 1703.

Krýsuvík

Krýsuvíkurtorfan – kort (ÓSÁ).

Sama ár eru hjáleigur jarðarinnar Nýibær, Litli Nýibær, Norðurhjáleiga, Suðurhjáleiga, Austur hús og Vestur hús ásamt eyðijörðinni Gestsstöðum. 1847: 31 1/3 hndr, hjáleigur Suðurkot, Norðurkot, Stóri-Nýibær, Litli-Nýibær, Vigðísarveellir, Bali og Lækur. Árið 1918 eru tvö býli í Krýsuvík en jörðinni ekki skipt á milli þeirra. „Krýsuvík. Svo í Ln (Hauksbók og Sturlubók), og því réttara en Krísuvík (í F og víðar).“ Árbók 1923, 30.
Þórkötlustaðir áttu selför á Vigdísarvelli en Krýsuvík skipsstöðu í Þórkötlustaðanesi – Saga Grindavíkur I, 145.
Ummál Krýsuvíkurlands er á milli 60-70 km og á 300 ferkílómetra að flatarmáli. Gengið var frá afsali vegna kaupa Hafnarfjarðarkaupstaðar á Krýsuvík og Stóra-Nýjabæ 1941. ÁG: Saga Hafnarfjarðar 1908-1983 I, 107.
Austasti hluti Krýsuvíkurlands (Krýsuvíkurhraun) og sá vestasti (Ögmundarhraun og Vigdísarvellir) heyra þó undir Grindavíkurkaupstað.
1703: „Túninu er hætt fyrir skriðum og fje fyrir hrakníngi um vetur, ef ekki er vel gætt.“ JÁM III, 7.
1840: „Í hverfi þessu eru landkostir, hagaganga og heyskapur í meðallagi; ókostir, sérlegir óþerrar og snjókyngi, samt sérlegur uppblástur á öllum högum.“ SSÁ, 219. 1918: Tún 5,4, garðar 420 m2. Svæðið milli Kleifarvatns og Grænavatns er engja svæði. „Tún heimajarðarinnar liggur sunnan undir og upp í Bæjarfelli, en bæjarhús, kirkjan og kirkjugarðurinn standa á hól eða hygg, sunnarlega á túninu.“ Ólafur Þorvaldsson: Árbók 1943-48, 87.
Hluti Krýsuvíkurlands tilheyrir nú Hafnarfjarðarkaupstað.

Gvendarhellir (hellir/fjárskýli)

Arngrímshellir

Í Gvendarhelli.

„Í Krýsuvíkurhrauni eru gróðurblettir, góðir sauðhagar, þar sem heitir Eystri-Klofningar upp ad Seljabót, en Vestri-Klofningar eru upp af Keflavík … Í Klofningum eru tveir hellar. Annar er Gvendarhellir, sem ber nafn Guðmundur nokkurs Bjarnasonar, er bjó þar einn á vetrum með suðafé sitt um 1840. Hellir þessi er víðáttumikill og lágur.“
„Vestan undir Krýsuvíkurhrauni er stór hellir og besta hagaland í kring, í og með hrauninu, samt víðar út um heiðina, so alltíð má beita fé undir vind, af hvörri átt sem hann er. Hellir þessi er langt frá bæjum. Er því erfitt að nota hann í vetrarharðindum. Fyrir hér um bil 100 árum eður máske nokkuð meir, var bóndi í Krýsuvík, að nafni Arngrímur, mig minnir Jónsson. Hann tíundaði jafnan 50 hndr. Hann hafði fé sitt við hellir þenna. Hann skyldi hafa átt 99 ær grákollóttar. Sysitir hans átti eina á eins lita, og hætti hann ei fyrr að fala hana af systur sinni en hún yfirlét hönum ána sárnauðug. Sama veturinn seint gjörði áhlaupsbyl, sem stóð 6 dægur. Hrakti þá allt hans fé fram af Krýsuvíkurbergi hér og þar til dauðs og algjörlegs taps, því sjórinn tók við fyrir neðan bergið, en vindurinn rak til hafs. Í hengisfönninni framan í bergbrúninni stóð Grákolla alein, er hann fékk hjá systur sinni.

Gvendarhellir

Hústóft framan við Gvendarhelli.

Þegar hann eftir bylinn fór að leita að fénu, tekur hann ána þá og reynir í 3-gang að kasta henni fram af berginu, en gat aldrei kastað henni svo langt, að hún færi niður fyrir, en jafnótt og hún losnaði í hvört sinn við hendur hans, brölti hún upp að hnjám hönum. Loksins gaf hann frá sér og skal hafa sagt löngu seinna, að út af á þessari hefði hann eignast 100 fjár. Þetta hefi eg af sögusögn og gef það ei út sem áreiðnalegan sannleik. Ævilok Arngríms urðu þau, að steinn datt á hann úr Krýsuvíkurbergi og murði hann í sundur og 2 manneskjur aðrar. Þetta er víst. / Árið 1827 kom gamall bóndi til Krýsuvíkursóknar, Guðmundur Bjarnason, byggði nýbýlið Læk aldeilis að stofni, átti margt fé, hélt því við áðurnefndan hellir, en þar hönum þótti langt að hirða það þar, byggði hann þar annan bæ, dásnotran sem hinn, með glergluggum, sængurhúsi af- og alþiljuðu með 2r rúmum, í hinum karminum geymsluhús. Byggði hann hús þetta framan við hellisdyrnar og rak féð gegnum göngin út úr og inn í hellirinn, hlóð af honum með þvervegg, bjó til lambastíu með öðrum, gaf þeim þar, þá henta þókti, bjó til étur úr tilgengnum hellum allt í kring í stærri parti hellirsins, gaf þar fullorðna fénu í innistöðum (sem verið mun hafa allt að 200um eftir ágetskun manna), fluti þangað talsvert hey og smiðju sína og mun hafa starfað þetta að mestu eða öllu leyti, aleinn á einu ári. Þarna var hann 10 vetur samfellt yfir kindum sínum aleinn, en á sumrum heima. Loks gafst hann upp yfir 7tugt og sagðist hafa verið smali, síðan hann hafði 6 ár á baki.“ segir Jón Vestmann í sóknarlýsingu frá 1840.

Herdís og Krýs og smali (dysjar)

Kerlingadalur

Dysjar Herdísar og Krýsu í Kerlingardal.

„Norður af því [Krýsuvíkurhrauninu] uppi við veg, sitt hvoru megin hans, er svo Litla-Eldborg og Stóra-Eldborg.
… Beint upp af Stóru-Eldborg og austur af bæ er allhátt fell, sem heitri Geitahlíð. Milli Eldborgar og Geitahlíðar er Eldborgarskarð, en litlu austar er Deildarháls; um hann lá vegurinn áður. Beint upp af Stóru-Eldborg er hvammur , sem Krýsuvíkingar kalla Hvítskeggshvam … Austan við hvamminn og hálsinn eru þrjú dys, austust er Herdís, svo er Krýs og loks smalinn. Er hann ofan götunnar, en þær neðan …“ segir í örnefnalýsingu. „80 m norðan við malbikaðan veg, SV undir hlíðum Geitahlíðar. Við jaðar hrauns og vestan við þjóðleið.“ segir í skýrslu um fornleifar við Suðurstrandarveg.
FRIÐLÝSTAR MINJAR. „Dysjar tvær eða vörður („Krýs og Herdís“) austan Kerlingardals, um hálftíma gang fyrir vestan Sýslustein.“ Friðlýst (í Hafnarfriði) 30.04.1964, þinglýst 05.05.1964. – Fornleifaskrá, 12.
1840: „Forntíðarkonur 2, Krýs og Herdís, nafnkenndar af bæjum sínum, Krýsu- og Herdísarvíkum, áttu lönd saman, sem enn liggja þau. Vildi Herdís næstum eiga alla Geitahlíð af hennar landi, en hún vildi ei gefa eftir. Fundust þær á Deildarhálsi. Kom so hart í með þeim, að Herdís drap smala Krýsar, sem með henni var, en Krýs vildi hefna, og lauk svo með þeim, að hvör drap aðra. Eru þar 3 dys, þeirra beggja sunnan við götuna, en smalans uppí brekku fyrir norðan hana. Síðan heitir hálsinn Deildarháls.“ segir Jón Vestmann í sóknarlýsingu frá 1840. „… sögn um tvær konur, Krýs og Herdísi, sem deildu um beit og drápu hvor aðra. Enn eru sýndar rétt við veginn yfir hálsinn dysjar Krýsar og smalamanna, sem voru einnig drepnir.“ Kålund I, 29. 1950:

Herdís og Krýsa

Dysjar Herdísar og Krýsu.

„Spölkorn austan Eldborgarskarðs, þar sem hin forna leið liggur þétt við rætur hlíðarinnar, eru tvær fornar steindysjar. Báðar eru þær sunnan vegar, með mjög skömmu á milli. Dysjar þessar heita Kerlingar, og segja fornar sagnir um uppruna þeirra á þessa leið: / Krýs og Herdís, konurnar, sem sagan segir að fyrstar hafi búið á jörðunum Krýsuvík og Herdísarvík og jarðirnar síðan við þær kenndar, voru lengi búnar að eiga í deilum um landamerki jarðanna, eða komu sér ekki saman um hvar vera skyldu. Voru smalar þeirra oft búnir að elda grátt silfur sín á milli, út af fjárbeit, og vörðu oft spildur úr beitilandinu hvor fyrir öðrum og töldu, að með því rækju þeir erindi húsmæðra sinna. Erjur þessar leiddu til fjandskapar, ekki einasta hvað smalana snerti, heldur og millum þeirra Krýsar og Herdísar, sem báðar þóttust ofbeldi beittar. Þegar þóf þetta hafði farið fram um hríð, og óvild og ágengni færzt mjög í aukana, varð það þó að samkomulagi millum þeirra Krýsar og Herdísar, að endir skyldi bundinn á deilu þessa á þann hátt, að báðar skyldu þær fara, þar tilsettan dag, að heiman á sólarupprás og mörk ákveðin millum jarðanna þar sem þær mættust. Á tilteknum degi fara svo konurnar hvor heiman frá sér, Krýs frá Krýsuvík og Herdís frá Herdísarvík. Smala sína höfðu þær mð í för þessari. Ekki segir frá ferðum þeirra, fyrr en þær mættust á hálsi þeim, sem liggur austan Eldborgarskarðs. Umsvifalaust ganga þær til málanna, og sakaði Krýs Herdísi um að hafa brotið samkomulag það, sem þær höfðu áður gert, þar sem hún væri komin svona utarlega í landið, og hefði hún því hlotið að fara fyrr að heiman en tilsett var. Þetta vildi Herdís ekki viðurkenna og stóð fast á sínum rétti, sem hún taldi vera, en líklega hefur Herdís verið eitthvað minni fyrir sér.

Krýsa

Krýsa Sveins Björnssonar í Krýsuvík og ÓSÁ.

Um þetta deildu þær langa stund, og á meðan sú deila stóð gekk Krýs svo fast að Herdísi, að hún varð að láta undan síga, austur af hálsinum og yfir dal þann, sem austur af honum er. Með hverju skrefi, sem Krýs gekk fram, en Herdís aftur, hitnaði skap þeirra, svo að heitingum varð. Tóku þær þá að biðja hvor annarri óbæna, ásamt jörðum þeirra. Herdís lagði það á Krýsuvíkina, að allur silungur í Kleifarvatni skyldi verða að loðsilungi og öfugugga, en báðar þessar fisktegundir taldar baneitraðar. Krýs lagði það á Herdísarvíkina, að ein eða fleiri skipshafni skyldu drukkna í Herdísarvíkurtjörn, sem er smátjörn, fyrir túni Herdísarvíkur, innan við sjávarkambinn. / Þegar hér var komið sögu, var Krýs búin að hrekja Herdísi á eystri brún dals þess, sem áður er nefndur. Þar sprungu þær báðar af heift og mæði. Smalarnir, sem fram að þessu höfðu aðeins verið áhorfendur að því, sem fram fór millum húsmæðra þeirra, hugðu nú til hefnda. Ekki segir frá viðuregin þeirra annað en það, að þar féll Herdísarvíkursmalinn, en hinn fór heim og kunni frá tíðindum að segja. Staður sá, þar sem konur sögunnar mættust, heiti síðan Deildarháls, og dalurinn þar austur af Kerlingadalur. Þar, sem úrslitaþátturinn í þessari landamerkjaáreið fór fram, sjást enn hinar fornu grjótdysjar, sem … sagt er að séu kuml þeirra Krýsar og Herdísar. Fram á síðustu áratugi mátti sjá votta fyrir dys smalans, sem þarna féll, og var það neðst í hlíðinni ofan vegar, en er nú að fullu horfið undir skriðuhlaup. Dys Herdíar er talin sú eystri, Krýsar hin vestari. Heyrzt hefur, að til forna hafi sýslumörk verið um Kerlingar, en svo er staður þessi ávallt nefndur, og hefur þá línan sennilega verið milli dysjanna, þannig að hvor kona lægi í sínu landi.“ Harðsporar, 109-111. Bjarni Einarsson lýsir dysinni svo: „Úr hraungrjóti, ca. 5 m í þvermál og 1 m há. Dysin er talsvert mosavaxin og í henni miðri er friðlýsingarhæll (laus). 2 m vestur af [henni] er [Krýs] … Gamla þjóðleiðin liggur austan við dysina og austan við leiðina, gegnt dysunum, er vörðubrot á kletti. … Ljósleiðari hefur verið lagður býsna nærri dysunum, þó ekki nær en 20 m.“

Húshólmi (bæjarstæði/bústaður)

Húshólmi

Húshólmi – uppdráttur ÓSÁ.

„Neðst í hrauninu [Ögmundarhrauni], austast, er Húshólmi, og eru þar allmiklar rústir eftir bæ. Þessi hólmi er niðri við sjó skammt vestan við bergið … Vestur úr útsuðurhorni Húshólma liggur hraunlág milli tveggja hraungarða. Skiptist í hún í tvær lágar, er heita Kirkjulágar. Þar eru rústir. Álitið er, að gamli Krýsuvíkurbærinn hafi staðið í Húshólma, enda er illmögulegt að kenna hann við vík, þar sem hann stendur nú. Bæjarrústin þarna er því nefnd Gamla-Krýsuvík. Suður og suðvestur af bæjarrústum þessum verður lægð nokkur í hraunstrauminn, og telja sumir, að þar hafi víkin verið, rétt vestan við Húshólmafjöruna. Rétt hjá rústinni heitir Kirkjuflöt.“
Örnefnið Húshólmi kemur fyrst fyrir í trjáreikningi frá 1609 (AM 66a 8vo, 55r-56v) (sbr. Sveinbjörn Rafnsson: Um aldur Ögmundarharuns, 420). 1755: „Eldflóðið féll í sjó niður og eyddi nokkrum bæjum á því svæði, sem nú heitir Ögmundarhraun. Meðal þeirra var kirkjustaður, sem Hólmastaður hét, og sjást þar enn minjar kirkjugarðsins og húsatóttanna.“ segir í hinni prentuðu Ferðabók Eggerst og Bjarna. Í dagbók þeirra fyrir 31. maí 1755 segir hinsvegar: „Om Effter middagen forloed vi Krisevigen med alle, og Reiste moed NV. först over et Nyt hraun, Ogmundarhraun Kaldet, dette Steenfloed Har for omtrent 200. aar siden, brændt og rundet Ned fra fieldene hen til Söen over 2. miile lang vey og Naar den er Kommen Ned til det Skionne flade land som her har været udvidet sig alleveigne vel over 3. miile langs med Stranden, taget bort Nogle bajer sem her til forne har Staaet, og der i bland Eet Kirke Stæd som heed Holma Stadur med Kirken og alting, dog Seer man endnu paa Een liden plet der er bleven til overs lidet Stykke af (som det meenes) Kirke gaarden og faae Stykker af Husevæggene.“ ÍB 8 fol, s. 107v-108r (prentað í Sveinbjörn Rafnsson: Um aldur Ögmundarhrauns, 420). 1817: „Hús-Hólmi, nidur vid sióin í sama Hrauni; hefur þar verid mikil Bygd, ádur brann, sem sést af Húsa TóptaBrotum, ad hvórium Hraunid géngid hefur, ad nordan -vestan-sunnan, – og næstum saman ad Austan-verdu; er þar 1t Tóptar-Form 12 Feta breidt, og 24 Feta Lángt, innan nidur fallina Veggia Rústa; Húsid hefur snúid líkt og Kyrkiur vorar, meinast gamalt Goda-Hof; fundid hafa Menn þar nockud smávegis af Eyrtægi; þar er tvísett Túngards form med 20 fadma Milli-bili, hvar nú er Ling Mói; enn Graslendi innan ynnri Gards, austanverdt vid Hraunid.“ [afmg. 2: Um Húshólma er einnig getið í þjóðsögum um Ögmund og Ö.hraun] – FF, 227.

Húshólmi

Skálatóft í Húshólma.

1840: „Austan til við [Ögmundarhraun] er kallaður Húshólmi. Þar eru stórar húsatóftir niður sokknar, og ein þeirra snýr eins og kirkjur vanalaega. Hefur það verið vel stórt hús. Þó sjást ei tóftirnar allar, því hraunið hefur hlaupið yfir þær að vestanverðu, hvað mikið veit maður ekki, þó til að geta eftir sjón á því sjáanlega yfir fullan helfming, því þar hefur vafalaust verið stórbygging. Þar eru 2r túngarðshringir og hér um bil 20 faðma bil milli þeirra.
Meina menn, að Krýsuvík hafi þar verið, áður hraunið hljóp þar yfir, en við það tilfelli verið flutt upp í fjallavikið, sem þar er þó töluvert langt frá. Við sjóinn er og vík, sem bærinn gat nafn af tekið, nl. Hælsvík nú nefnd.“ Sóknarlýsing Jóns Vestmann. 1883: „Á aðalhólmanum eru glöggir garðar, einn þeirra 300 m á lengd; þar er kallaður Kirkjuflötur. Á dálitlum bletti úti í hrauninu, rétt fyrir vestan aðalhólmann, eru bæjarrústir. Hefir hraunið að nokkru leyti runnið yfir þær, en nokkuð hefir orðið eftir, og standa veggirnir út undan hraunröndunum. Lengsta tóttin er 16 m, breidd hennar sést þar eigi fyrir hrauninu, sem runnið hefir yfir báða hliðarveggina; önnur, við enda hinnar þveran, er 10 m á lengd og 7 m á breidd, og hin þriðja sérstök rétt við, 10 m á lengd og 8 á breidd. Utan um hana, frá aðalrústunum, er boginn garður, líkur húsagörðum, sem fyrr tíðkuðust á Íslandi. Auk þess sjást tveir aðrir garðspottar. Grjótið í tóttum þessum er dólerít, sams konar og það grjót, sem undir hrauninu liggur.“ – ÞT Ferðabók I, 189-90. „Hraunflóð það, sem á sínum stað er nefnt Ögmundarhraun, hefir eyðilagt hinn forna bæ. Sjást þess glögg merki. … Þar undir hraunjaðrinum [við Húshólma] kemur forn túngarður, er liggur kringum allstórt svæði, en hverfur aftur í hraunið niðurfrá eigi langt frá vesturenda sjávarkambsins, sem nú var getið. Annar garður kemur undan hraunjaðrinum nokkru neðar en hinn og stenfir í suðaustur. hann beygist suður á við og gengur gegnum hinn fyrra garð skamt fyrir ofan sjávarkambinn. Er þar hlið á hinum fyrra. Svo heldur þessi síðartaldi áfram að sjávarkambinum og hverfur þar. Er þar sem gata sé rudd gegnum kambinn, líklega sjávargata, er hér eigi allbrimsamt og mun hafa verið útræði.

Húshólmi

Húshólmi – skálatóft.

Fyrir neðan þennan síðartalda garð verður afhallandi brekka ofan að neðri hraunjaðrinum. Liggur þriðji garður þar ofan frá neðra garðinum að neðra hraunjaðrinum og hverfur undir hann. Þannig sér hér á 4 aðskildar girðingar, er allar hverfa að meiru eða minna leyti undir hraun. Engin tóft sést í neinni þessari girðingu, svo að, ef sín girðing hefur tilheyrt hverju býli, þá eru tóftir þeirra býla hrauni byrgðar. Vestur úr útsuður horni hólmans gengur graslág milli tveggja hraunjaðra. Er hún eigi breiðari en svo, að eigi má ríða 2 hestum samsíða. Þegar samt er komið vestur í hraunið, kvíslast hún í tvær lágar. Þær heita Kirkjulágar. Þar eru rústir. Verður fyrst fyrir tóft, sem snýr frá austri til vesturs, nál. 4 fðm löng og 2 fðm. breið. Dyr eru á vesturenda, jafnvíðar og tóftin sjálf. Mun þar hafa verið þil fyrir. Norðanmegin við þessa tóft, tæplega 2 fðm. frá henni, er garður, sem beygist austur fyrir hana og hverfur þar undir hraunið, en að vestan endar hann í tóftarvegg. Er sú tóft fyrir dyrum hinnar, nálægt jafnstór henni og liggur fr´anorðri til suðurs. Dyr hennar hverfa undir hraunjaðarinn að sunnanverðu. Vestanvið hana dýpkar lágin að mun, en er þar ekki víðari en svari tóftarvídd. Sé það tóft, hefir þar líklega verið kjallari, en hleðslan hrunin. Frá norðausturhorni þvertóftarinnar gengur garður eftir norðurláginni, fyrst beint í norður nál. 12 fðm., svo beint í vestur nær eins langt og hverfur svo í hraunið. Utanmeð þessum garði er svo sem gangrúm hraunlaust, og er það norðurkvísl Kirkjuláganna. Lítur út fyrir að hér hafi hraunið sigið að með hægð frá báðum hliðum. Svo sem 40 fðm norðar í hrauninu er auður vesturhluti rústar, sem auðsjáanlega er bæjarrúst. Hefir hún verið þrískift. Miðtóftin snýr frá norðri til suðurs og hefir dyr á suðurenda og aðrar á vesturveggnum, inn í vesturtóftina. Inn af miðtóftinni virðist og hús hafa verið, sem er hrauni hulið alt að kalla. Miðtóftin nál. 2 1/2 fðm. löng og 1 1/2 fðm víð. Vesturtóftin er jafnvíð og hin er löng, nfl. 2 1/2 fðm., ennál. 5 fðm á lengd. Hún er merkileg að því, að með báðum veggjum, eftir henni endilangri, eru 1 al. breið set eða rúmstæði og markar glöggt fyri vegjgjum þar utanvið. Austasta tóftin er nær öll hrauni hulin.

Húshólmastígur

Húshólmastígur.

Þó sýnist sem útidyr hafi verið á henni fyrir austan útidyr miðtóftarinnar. Hvergi er hraunlaus blettur kring um þessa rúst, og ekki veriður komizt að henni nema á hrauni. Nafnið Kirkjulágar bendir á, að hér hafi kirkjustaðurin Krýsuvík verið. Getur vel verið, að sú tóftin í syðri láginni, sem fyrst var talin, sé einmitt kirkjutóftin. Hefir heimabærinn þá víst verið þar líka. Rúsin uppi í hrauninu er þó ekki eftir smákot. Hygg ég að heimabæir hafi verið tveir, Efribær og Fremribær, og kirkjan verið hjá Fremri-bænum. Eftir afstöðu að dæma hafa girðingarnar, sem fyr getur, eigi verið tún þessara bæja, heldur annara afbýla, sem þá eru hrauni hulin.“
Bjarni Einarsson skráði fornleifar í Húshólma sumarið 2000. Hann getur þess að fjórar samsíða línur sem Brynjúlfur Jónsson sýnir þvert yfir hólmann ofanverðan séu „sennilega gamlar reiðgötur sem ekki sjást í dag.“ Á svipuðum slóðum skráir hann rúst (nr. 2300:4.4) „Ca. 35 m NNV af hæl 17 250, í blásnum móa. … Nánast hringlaga, 8-9 m í þvermál. Veggir ógreinilegir, en úr torfi og grjóti, ca. 1,5 m breiðir og 0,1 – 0,5 m háir.
Talsvert rof er í kringum rústina og sjá má líklega hleðslusteina. Engar dyr sjást. Gólf er grasi og lyngi vaxið. Rofabarð við rústina var kannað og kom í ljós að rústin er eldri en 1226.“ Rúst þessi hefur hnitið 63°50.22 N 022°09.52 W. Önnur rúst í Húshólma er „Sunnan við jaðar hrauns í móa. … 6 x 11 m (A – V). Veggir úr grjóti ca. 0,5 – 1 m breiðir og 0,2 – 0,8 m háir. Tvö hólf eru á rústinni (A og B). Dyr eru á hólfi A til suðurs. Hólf B er ógreinilegt og dyr ekki sjáanlegar. Veggir á hólfi A eru mosavaxnir en á hólfi B eru þeir grasi- og mosavaxnir. Gólf er grasi gróið. Í norðurhluta hólfs A er einskonar skúti í veggnum. Er hann hlaðinn úr mun stærra grjóti en veggirnir.“ Rúst þessi hefur hnitið 63°50.26 N 022°09.34 W. Enn önnur rúst er „Ca. 4 m vestur af jaðri hrauns, í móa. … 2,5 x 3 m (A – V). Veggir úr grjóti, 0,3 – 0,5 m breiðir og 0,2 – 0,5 m háir. Dyr snúa til austurs eða norðausturs. Gólfið er vaxið lyngi.“ Þessi rúst hefur hnitið 63°50.25 N 022°09.44. Ennfremur gerinir Bjarni frá túnagrði í Húshólma: „Við austur jaðar Ögmundarhrauns í Húshólma. Í móa. Garðurinn er úr torfi, 1,5 – 2 m breiður og 0,2 – 0,6 m hár. Garðurinn gengur ca. 50-60 m út undan hrauninu í dálitlum boga. Beygir hann síðan til suðurs og er þar mjög ógreinilegur. Þessi hluti liggur rétt vestan við mikið rofabarð. Að endingu gegnur hann inn í annan garð (ca. 60 m sunnar) sem einnig gengur út úr hrauninu. … Grafið var í rof á garðinum skammt austur af þeim stað þar sem hann kemur undan hrauninu og því haldið fram að hann væri eldri en landnámsgjóskan frá 871-72. Landnámsgjóskan lá í pælunni, en ekki garðinum sjálfum.“

Óbrennishólmi (fjárskýli)

Óbrennishólmi

Óbrennishólmi – uppdráttur ÓSÁ.

„Þá er þar vestar og ofar [en Húshólmi] niður undan Latsfjalli annar grashólmi í hrauninu, Óbrennishólmi.“ segir í örnefnalýsingu. „Í [Ögmundahrauni] spölkorn hér frá [þ.e. Húshólma] er og óbrunninn hólmi og ófært hraun allt í kring nema einn lítill stígur, sem síðan hefur verið ruddur. Hólmi þessi nefnist Óbrennirshólmi. Þar er sagt smalinn hafi verið með heimilisféð, meðan hraunið hljóp yfir heila plátsið (þar eru og 2 misstórar fjárborgarústir), og að hann hafi ei getað komist undan því annað en á hól þennan, sem hraunið umkringdi,“ segir Jón Vestmann í sóknarlýsingu frá 1840. „Í Óbrennishólma sjást engar rústir, utan aflagur hringur, vel 5 fðm. í þvermál á hól einum, og er það án efa fjárborg.“ segir Brynjúlfur Jónsson í skýrslu frá 1903. „Þessi rúst er enn greinileg. Hún er á hól syðst í hólmanum.“ segir Jón Jónsson í grein um Ögmundarhraun frá 1983.

Óbrennishómi

Óbrennishólmi – fjárborg eða virki.

Guðmundur Ólafsson skoðaði staðinn 23.7.1980, mældi hann og ljósmyndaði. „Í Óbrennishólma sjást engar rústir, utan aflagur hringur, vel 5 fðm. í þvermál á hól einum, og er það án efa fjárborg. Og þar litlu vestar liggur langur og digur garður þvert uppeftir. Slitin er hann sundur sumstaðar nú, en eigi mun svo hafa verið í fyrstu, Á einum stað t.d. hverfur hann undir hraunnef, en kemur undan því aftur hinumegin. Efst hverfur hann undir hraunnef. Tilgangur garðs þessa er mér óljós, nema hann hafi verið landamerkjagarður milli Krýsivíkur og næstu jarðar fyrir vestan.“
8.8.1979: „Efst og austst í hólmanum rakst ég þá á hleðslu úr grjóti, sem hverfur inn undir hraunið. Við nánari athugun kom í ljós að þarna hefur verið – sennilega – fjárbyrgi eða rétt, sem hraunið hefur runnið inn í og yfir.
Það hefur runnið í lækjum yfir hleðsluna og jafnvel smogið inn milli steinanna.“ segir Jónsson í grein um Ögmundarhraun frá 1983.
Guðmundur Ólafsson skoðaði staðinn 23.7.1980, mældi hann og ljósmyndaði.

Ögmundastígur (leið)

Ögmundarstígur

Ögmundarstígur.

„Einkum er mjó hraunkvísl, Ögmundarhraun, andstyggileg. Yfir hana hefur verið ruddur þröngur og djúpur troðningur, og gerði það einn maður að sögn, er Ögmundur hét. Skyldi hann hafa ákveðið gjald af hverjum þeim, er um veginn færi, fyrir fyrirhöfn sína. Launin urðu þau, að hann var myrtur austan við einstigið (þar sem hann hefur ef til vill haft tollbúð sína), og sést þar enn steindys, sem á að vera leiði hans.“ segir Sveinn Pálsson í skýrslu um Reykjanesför 1796. „Ögmundar-Hraun,…tekur Nafn af Fornmanni nockrum, sem ruddi Veg yfir þad, 480 Fadma; og féck til launa, Loford fyrir Dóttur Bóndans á Ísólfs-Skála; enn var af hónum drepinn sofandi, þá Þrautin var unnin. Leidi hans er í Hraunbrúninni austanverdt, aldeilis ómarkverd Dys. Er hér sídan alfara vegur, miklu skémmri, sem adur lá nordur i Fjóllum nærri Hrauns upptókum.“ FF,227. [svipað hjá BJ Tillag til… 1953,101-2, sbr. Jón Árna. IV, 1956, 133-4. Annars k. saga er hjá Sveini Pálssyni Ferðabók Rv. 1945,661] „Úr því að ég minnist á Ögmundarhraun, sem liggur skammt vestur af Krísuvík, milli Mælifells og Latfjalls, og gengur í sjó fram vestan Krísuvíkurbergs, afar illt yfirferðar, nema um einstígi það, sem í það hefur verið rutt endur fyrir löngu, þá get ég hér þeirrar sagnar, sem um þá vegarbót er sögð. Bóndinn í Krísuvík átti þræl þann, er Ögmundur hér, og lagði sá hug á dóttur bónda, sem ekki hefur bóndi kært sig um þær mægðir; samt gaf hann Ögmundi kost konunnar, en nokkuð skyldi hann til vinna, sem sé það að ryðja veg gengum hraun það er fyrr getur. Tók þrællinn tilboði bónda, en ekki hef og lauk verkinu á tilsettum tíma, en launin urðu þau sömu sem þeir bræður Halli og Leiknir hrepptu, eftri að hafa rutt veg um hið illfæra Berserkjahraun, – dauðinn; hann var veginn að undirlagi bónda, og er dys hans við austurbrún hraunsins við Mælifell, og heitir hraunið síðan Ögmundarhraun.“

Ögmundarstígur

Ögmundarstígur.

1840: „Ögmundarhraun. Áður en það var rutt, varð að fara vestur yfir hálsa fyrir endann á hraunsuppkomunni, þegar fara þurfti til Njarð- eða Keflavíkur. Bóndinn í Krýsuvík, að nafni Gissur, átti dóttur. Hennar bað lausingi nokkur, tröllmenni að stærð og kröftum. Bóndi vildi ei gifta dóttur sína fúlmenni þessu, en treystist ei að standa í móti hönum, tekur því það ráð að lofa hönum stúlku þessari, ef hann vilji vinna það til hennar að gjöra færan veg yfir hraunið, þar sem beinn yrðu vegur til Suðurnesja. Þetta verk tókst hinn á hendur og framkvæmdi það duglega, en lagðist til svefns að loknu verki austan til við hraunbrúnina, en bóndi lá í leyni í hraungjótu, ætlaði hinum stundir að sofna vært og drap hann sofandi. Þar er dys hans, sem drepinn var og hraunið síðan við hann kennt.“ segir Jón Vestmann í sóknarlýsingu frá 1840. „Frá Borgarhólum heldur leiðin í áttina að Ísólfsskála og áfram til Grindavíkur. Liggur hún þar bæði yfir blásna móa og úfið hraun. Í hinu úfna hrauni er leiðin yfirleitt rudd, ca. 3 m breið. Fornleiðin er vörðuð nær alla leiðina frá Krýsuvík að Ísólfsskála. Alla vega á einum stað er vísir að brú (veghleðsla) þar sem leiðin fellur ofan af stalli niður á hraun skammt vestur af Litlahálsi … Núverandi vegur hefur verið lagður ofan í gömlu leiðina frá Skalla og vestur að Ísólfsskála. Sömuleiðis hefur núverandi vegur legið yfir leiðina á stöku stað vestur af Ísólfsskála.“ segir í skýrslu um fornleifar við Suðurstrandarveg.

Ögmundarleiði (legstaður)

Ögmundardys

Ögmundardys austast við Ögmundarstíg.

„Einkum er mjó hraunkvísl, Ögmundarhraun, andstyggileg. Yfir hana hefur verið ruddur þröngur og djúpur troðningur, og gerði það einn maður að sögn, er Ögmundur hét. Skyldi hann hafa ákveðið gjald af hverjum þeim, er um veginn færi, fyrir fyrirhöfn sína. Launin urðu þau, að hann var myrtur austan við einstigið (þar sem hann hefur ef til vill haft tollbúð sína), og sést þar enn steindys, sem á að vera leiði hans.“ segir Sveinn Pálsson í skýrslu um Reykjanesför 1796. „Ögmundar-Hraun,…tekur Nafn af Fornmanni nockrum, sem ruddi Veg yfir þad, 480 Fadma; og féck til launa, Loford fyrir Dóttur Bóndans á Ísólfs-Skála; enn var af hónum drepinn sofandi, þá Þrautin var unnin. Leidi hans er í Hraunbrúninni austanverdt, aldeilis ómarkverd Dys. Er hér sídan alfara vegur, miklu skémmri, sem adur lá nordur i Fjóllum nærri Hrauns upptókum.“ FF,227. [svipað hjá BJ Tillag til… 1953,101-2, sbr. Jón Árna. IV, 1956, 133-4. Annars k. saga er hjá Sveini Pálssyni Ferðabók Rv. 1945,661]. „Úr því að ég minnist á Ögmundarhraun, sem liggur skammt vestur af Krýsuvík, milli Mælifells og Latfjalls, og gengur í sjó fram vestan Krísuvíkurbergs, afar illt yfirferðar, nema um einstígi það, sem í það hefur verið rutt endur fyrir löngu, þá get ég hér þeirrar sagnar, sem um þá vegarbót er sögð.

Ögmundastígur

Dys Ögmundar við Ögmundarstíg í Ögmundarhrauni.

Bóndinn í Krísuvík átti þræl þann, er Ögmundur hér, og lagði sá hug á dóttur bónda, sem ekki hefur bóndi kært sig um þær mægðir; samt gaf hann Ögmundi kost konunnar, en nokkuð skyldi hann til vinna, sem sé það að ryðja veg gengum hraun það er fyrr getur. Tók þrællinn tilboði bónda, en ekki hef og lauk verkinu á tilsettum tíma, en launin urðu þau sömu sem þeir bræður Halli og Leiknir hrepptu, eftir að hafa rutt veg um hið illfæra Berserkjahraun, – dauðinn; hann var veginn að undirlagi bónda, og er dys hans við austurbrún hraunsins við Mælifell, og heitri hraunið síðan Ögmundarhraun.“ „Austan við hraunið [Ögmundarhraun] í rótum Mælifells er Ögmundarleiðið, þar sem Ögmundur sá, sem hraunið er við kennt, á að vera grafinn. … Ögmundardysið eða leiðið er vestan undir Krýsuvíkur-Mælifelli …“
1840: „Ögmundarhraun. Áður en það var rutt, varð að fara vestur yfir hálsa fyrir endann á hraunsuppkomunni, þegar fara þurfti til Njarð- eða Keflavíkur. Bóndinn í Krýsuvík, að nafni Gissur, átti dóttur. Hennar bað lausingi nokkur, tröllmenni að stærð og kröftum. Bóndi vildi ei gifta dóttur sína fúlmenni þessu, en treystist ei að standa í móti hönum, tekur því það ráð að lofa hönum stúlku þessari, ef hann vilji vinna það til hennar að gjöra færan veg yfir hraunið, þar sem beinn yrðu vegur til Suðurnesja. Þetta verk tókst hinn á hendur og framkvæmdi það duglega, en lagðist til svefns að loknu verki austan til við hraunbrúnina, en bóndi lá í leyni í hraungjótu, ætlaði hinum stundir að sofna vært og drap hann sofandi. Þar er dys hans, sem drepinn var og hraunið síðan við hann kennt.“ segir Jón Vestmann í sóknarlýsingu frá 1840.

Hettuvegur (leið)

Hetturvegur

Hettuvegur.

„[Drumbsdalavegur liggur yfir Sveifluháls milli Krýsuvíkur og Vígdísarvalla] Þar norður frá er hóll, sem heitir Bleikshóll, og þar niðurundan í norðurhlíðum hálsins er dalur, sem heitir Bleikingsdalur. Þá er vegur sem heitir Hettuvegur eða Móhálsavegur. Ekki kann ég að staðsetja veg þennan.“
1883: „Síðan fórum við frá Vigdísarvöllum yfir Sveifluháls að Krýsuvík um Hettuveg (285 m), sem heitir eftir háu fjalli rétt sunnan við námurnar. Vegur þessi er allbrattur og eru hálsarnir báðir örmjóir að ofan, sagyddir og klungróttir, allir úr móbergi.“ – ÞT Ferðabók I, 184.

Ketilstígur (leið)

Ketilsstígur

Ketilsstígur.

1755: „Hverirnir í Krýsuvík liggja í dalverpi undir háum fjöllum á eldbrunnu landsvæði. Gatan niður af fjallinu í dal þenna heitir Ketilstígur. Hann er stuttur, en allbrattur.“ segir í ferðabók Eggerts og Bjarna. „Arnarvatn er í lægð á hálsinum, og í gegnum þá lægð liggur vegur, sem nefndur er Ketilstígur. Ef komið er norðan frá yfir hálsinn, liggur hann fyrst upp bratt klettahögg, og þegar upp á það er komið, blasir Ketillinn við, en það er  kringlóttur djúpur dalur eða skál niður í fjallið … Framan við Ketilstíg er Bleiksfflöt. Sunnan við Ketilstíg niðri heitir Fagraflöt.“
Henry Holland lýsir leiðinni milli Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur 1811 – Dagbók í Íslandsferð 1811, 80-82.
William Hooker lýsir Ketilsstíg 1809 – Ferð um Ísland 1809, 141-42. 1840: „Þegar komið er hér um bil í miðjan [Móhálsadal] liggur leiðin suðaustur til fjalla, yfir esytri Móhrygginn, og er þar fast hjá gígur einn í hálsinum, skammt ofan við dalbotninn. Þessi gamli gígur hefur nú að nokkru fyllst upp og gróið, hann er kringlóttur og var eitt sinn mjög djúpur; heitir hann Ketill og tekur vegurinn nafn sitt af honum og kallst Ketilsstígur. Þar er hálsinn nokkuð hár en ekki breiður og þegar kemur yfir hann eru nyrstu brennisteinsnámarnir í Krýsivík rétt við fætur manns.“ Jónas Hallgrímsson, Ritverk III, 366. 1840: „Frá Krýsuvík liggur annar vegur til [Hafnarfjarðar], nefndur Ketilsstígur, 3 partar úr þingmannaleið að lengd, grýttur og brattur sem hinn … Litli-Nýibær í Krýsuvík er næst við Ketilsstíg … Ás í Garðasókn á Álftanesi er næsti bær við Ketilstíg að vestan.“ SSÁ, 222.
1879: „Stuttur fjallvegur, en brattur liggur yfir hálsinn til Hafnarfjarðar og Reykjavíkur. Er af honum fagurt útsýni yfir fjörðinn til fjallanna fyrir norðan. Einnig er leiðin sem liggur af hálsinum niður að bænum í Krýsuvík talin mjög eftirtektarverð, því að hún bugðast að nokkru milli sjálfra námanna, og verður að gæta vel að sér að stíga ekki niður úr leirskorpunni, sem er laus og brothætt, en oft leynist undir sjóðandi leðja.“ Kålund I, 29.

Sogasel (sel)

Sogasel

Í Sogaseli.

„Norðan við Grænavatnseggjar [hæð vestan Djúpavatns og er smávatnið Grænavatn á henni.], Engjaháls og Djúpavatn er lægð gegnum fjöllin, sem heitir Sog. … Vestan í Sogunum er sel, sem heitir Sogasel.“ segir í örnefnalýsingu Krýsuvíkur. Selsvellir ná inn að Grænavatnseggjum er svo nefnist brúnin á hálsinum, þar sem Grænavatn er austur af…Grænavatnseggjar ná inn i Sog. Sogin eru gilskorningur í Vesturhálsinum.
Sogaselsdalur er grasigróinn gýgur vestast í Sogunum og þar var sel frá Flekkuvík.“, segir í örnefnaskrá fyrir Vesturháls.
Guðrún Gísladóttir getur Sogasels í skýrslu frá 1993 og birtir af því uppdrátt: „Seljarústirnar eru þrjár. Sú austasta er í bestu ásigkomulagi. Þarna var haft í seli um 1703 frá Kálfatjörn í Vatnsleysustrandarhreppi, en síðar einnig frá Bakka.“

Selatangar (verbúð)

Selatangar

Selatangar – uppdráttur ÓSÁ.

1703: „Jörðin á í sínu landi, en þó allfjarri, skipsuppsátur og brúkar heimabóndinn það um vertíð fyrir sig og hjáleigumenn sína. Öngvar eru þar verbúðir aðrar. Og er þó lendíng merkilega slæm, heitir plátsið á Selatöngum.“ segir í jarðabók Árna og Páls. 1756: „Selatangi við Krýsuvík er lítill, en vel fallinn til sjósóknar, en ströndin er klettótt og lending ill sakir brima.“ segir í Ferðabók Eggerts og Bjarna. „Þegar kemur vestur fyrir Miðrekana og landinu fer að sveigja til norðurs, taka við Seltangar. … Á Seltöngum var fyrrum mikil útróðrarstöð og verstöð. Er þar enn allmikið af búðarústum og fiskigörðum til herzlu á fiski. Hér er mikið af hraunhellum, þótt flestir séu þeir litlir, voru þeir notaðir til ýmissa hluta og hlutu nöfn af. Nokkru eftir 1880 lagðist útræði hér niður að fullu og öllu.“ segir í örnefnalýsingu Krýsuvíkr. „Austan við Hraunnef [þar sem leiðin er hálfnuð út í Selatanga er]…Veiðbjöllunef…Austan við Veiðbjöllunef kemur Mölvík…þar upp af Mölvík austan til heitir Katlahaun…Austast í Katlahrauni er Nótarhellir og gengur í sjó fram…Fyrir austan Nótarhelli er sandfjara og síðan taka við Selatangar.“, segir í örnefnaskrá Ísólfsskála. „Nokkuð austan við bæinn á Isólfsskála, sem svarar klukkutíma gang, gengur tangi fram í sjóinn. Hann heitir Selatangar.“, segir í örnefnaskrá AG um Ísólfsskála.
FRIÐLÝSTAR MINJAR. „Verbúðatóftir, fiskbyrgi, fiskigarðar og önnur gömul ammnvirki í hinni fornu verstöð á Sealtöngum.“ Friðlýst (í landi Ísólfsstaða) 01.09.1966, þinglýst 05.09.1966.

Selatangar

Selatangar – verbúð.

„Á Selatöngum var aldrei föst búseta, heldur einungis útver með nokkrum verbúðum. þaðan var einkum útræði Krýsuvíkurmanna, en Krýsuvík fylgdu lengi nokkrar hjáleigur. Til er gömul þula sem telur 73 menn við róðra í Krýsuvík. Ástæðan fyrir þeim kveðskap er sögð vera sú, að strákur einn hafi orðið mötustuttur í verinu. Buðust þá hásetar á skipum þeim sem þar reru að gefa honum mötu til vertíðarloka, ef hann kæmi nöfnum þeirra allra í eina þulu: Tuttugu og þrjá Jóna telja má,/ tvo Árna, Þorkel, Svein./Guðmunda fimm og Þorstein, þá/ Þorvald, Gunnlaug, Freystein. / Einara tvo, Ingimund, Rafn, / Eyvind, tvo Þórða þar. / Vilhjálmur Gesti verður jafn / Vernharður, tveir Bjarnar / Gissura tvo, Gísla, Runólf, / Grím, Ketil, Stíg, Egil. / Erlenda þrjá, Bernharð, Brynjólf, / Björn og Hildibrand til. / Magnúsar tveir og Markús snar / með þeim hannes, tveir Sigurðar. / Loftur, Hallvarður, Hálfdán, senn / þar sezt hann Narfa hjá. / Á Selatöngum sjóróðramenn / sjálfur Guð annist þá. – Þótt aldrei væri stórt útver á Selatöngum eru þar þó talsverðar verminjar. Þaðan var seinast róið 1884.“ Íslenskir sjávarhættir II, 37-38. Guðrún Gísladóttir lýsir rústunum svo í skýrslu frá 1993: „Þarna eru nú minjar um verbúðir, fiskbyrgi og garðhleðslur sem eru að mestu horfnar. Rústirnar eru margar og er hægt að telja þær upp undir 20, auk garðhleðslanna sem eru á hraunnefunum og eru nú að mestu horfnar. Á vestustu hraunnibbunni er verbúð og rústir auk garðhleðsla (rúst A á 4. mynd). á næstu nibbu austan við eru rústir sömu leiðis en hraunnibban er aðgreind frá þeirri vestari af sandi. Hinar rústirnar eru svo á þriðju nibbunni sem myndar samfelldara og stærra svæði en hinar og þar eru líka felstar rústirnar. Austast á þessu svæði er önnur verbúðatóft og byrgi í líkingu við það sem er vestast (rúst B á 4. mynd). Utan í hraunflákanum að austan eru fyrirhleðslur við skúta sem virðast hafa verið notaðir af fé. Margar hleðslurnar hafa farið verulega illa í flóðum undanfarin ár.
Verbúðartóftin vestari er undir hraunbrúninni og er mjög fallin, þó má greina húsaskipan. Rústin er hlaðin úr grjóti og torfi en hraungrjót er meginbyggingarefnið, enda hefur skort torf í hraunhafinu sem umlykur Selatanga að sjó. Við rústina að norðan- og sunnanverðu eru byrgi sem þarf að varðveita. Allt í nágrenninu eru svo hlaðnar rústir sem þarf að huga að. Nokkur byrgi eru uppistandandi og vel farin og slaga þau uppí að vera mannhæðarhá. … Stórflóðin á undanförnum árum hafa farið illa með rústirnar. Rústirnar eru á hraunnibbum sem skaga út frá Ögmundarhauni og utan í þeim.“ „Á Selatöngum var allmikil útgerð frá Skálholti í eina tíð, en lagðist fyrst niður um tíma eftir Básendaflóðið 1799 og svo að fullu og öllu milli 1880 og 1890. Þarna eru byrgi og búðatættur, sem eru nú friðlýstar. Dágon var klettur á kampinum suður af vestustu sjóbúðinni á Selatöngum er er nú hruninn…Skiptivöllur er smáhæð fyrir austan Dágon, grasivaxin að ofan. Sjóbúðirnar standa austan undir Skiptivelli á hraunefi.“, segir í örnefnaskrá Ísólfsskála. „Á Selatöngum sjást byrgi og búðatættur, eldhús og önnur mannvirki, enda var þarna allmikil útgerð fyrir eina tíð…“, segir í örnefnaskrá AG um Ísólfsskála.

Tangadraugur (draugur)
„Á Seltöngum [045] hafðist við um eitt skeið hinn nafnkunni Tangadraugur (Tanga Tumi), sem talinn var hversdagslegur fremur meinlítill, en þá er á hann rann jötunmóður, gat hann orðið svo fyrirferðarmikill, að hann „fyllti út í fjallaskörðin“ að því er Beinteinn gamli í Arnarfelli sagðist frá.“

Vigdísarvellir (sel/bústaður)

Vigdísarvellir

Vigdísarvellir – uppdráttur ÓSÁ.

1703: Hjáleiga Krýsuvíkur en nýtt sem selstaða frá Þorkötlustöðum. „Selstöðu brúkar jörðin [Þorkötlustaðir] og hefur lengi brúkað í Krýsuvíkurlandi, þar sem heitir á Vigdísarvöllum, segja menn að selstaðan sje ljeð frá Krýsuvík, en Krísuvík aftur ljeð skipstaða fyrir Þorkötlustaðalandi.“JÁM III, 14. Býlið var vestan við Sveifluháls en undir Núpshlíðarhálsi segir í örnefnalýsingu Krýsuvíkur. 1840: Vigdísarvellir eru nýbýli frá 1830 en voru áður selstaða – SSÁ, 220, 221. Var í eyði um 1880 en byggðist á ný fram yfir aldamótin 1900 – Saga Grindavíkur II, 86-87.
„Vigdísarvellir og Bali höfðu sínar eigin engjar og nærtækar, er og um nokkuð langan veg og einkar torsóttan að sækja þaðan á Krýsuvíkurengjar.“ Ólafur E Einarsson: Höfuðbólið Krýsuvík og fjórtán hjáleigur þess“.
„Undir Núpshlíðarhálsi norðan hrauns tekur við hraunlaust graslendi, sem heitir Vigdísarvellir. Þarna voru tvær hjáleigurnar, Vigdísarvellir, … og Bali.“ “ … 1879 féll sterk baðstofa á Vigdísarvöllum, en … (í) jarðskjálftunum 28. og 29. janúar 1905 … hrundu eða stórskemmdust öll hús á Vigdísarvöllum og á Litla-Nýjabæ.“ – ÞT Ferðabók I, 184.

Bali (bústaður)

Hjáleiga Krýsuvíkur, ekki nefnd í jarðatali 1703. Býlið var vestan við Sveifluháls en undir Núpshlíðarhálsi segir í örnefnalýsingu Krýsuvíkur. Þar er fyst getið búsetu árið 1840 og síðast 1850 – Saga Grindavíkur II, 87.
„Vigdísarvellir og Bali höfðu sínar eigin engjar og nærtækar, er og um nokkuð langan veg og einkar torsóttan að sækja þaðan á Krýsuvíkurengjar.“ Ólafur E Einarsson: Höfuðbólið Krýsuvík og fjórtán hjáleigur þess“.
„Undir Núpshlíðarhálsi norðan hrauns tekur við hraunlaust graslendi, sem heitir Vigdísarvellir. Þarna voru tvær hjáleigurnar, Vigdísarvellir, … og Bali.“

Ísólfskáli (bústaður)

Isólfsskáli

Ísólfsskáli 1920.

16 hdr. 1840, óviss 1703. Eign Skálholtsstaðar. JÁM III, 8. Aðrar orðmyndir nafnsins eru Ísuskáli og Ísiskáli. Saga Grindavíkur I, 142.
1703: „Við til húsabótar hefur ábúandinn af reka þegar hann heppnast…Tún sendið mjög og liggur undir skriðum. Engjar öngvar. Útigángur mjög lakur…Grasa og sölvatekja er í fjörunni að nokkru gagni. Selveiði hefur áður nokkur verið og kynni enn að vera, ef ágreiningslaust væri við Krýsuvíkur ábúendur. En hjer eru misgreiningar nokkrar um landamerki og vita menn óglögt, hvör þessi hlunnindi má með rjettu brúka…Heimræði er af jörðunni vetur og sumar, en lendíng bág og brimasöm…Torftekja til húsaþaks og heytorfs sendin, og mjög bæði gagnslítil og erfið. Vatnsból er erfitt bæði til nautnar fyrir menn og peníng sumar og vetur…“ JÁM III, 8-9.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli.

1840: „Slétt tún eru á ísuskála, en lítil rækt er í þeim; litlir eru hagar þar og fremur graslítið pláss, því fellin þar um kring að norðanverðu eru ber og graslítil eins og líka hraunið þar strax fyrir sunnan, sem nær allt til og þó langt austur fyrir Selatanga. Er þar líka vatnsskortur mikill nema fjöruvötn, sem bæði eru brúkuð til neyzlu og handa fénaði.“ segir í sóknarlýsingu, Landnám Ingólfs III, 141.
„Gamli Ísólfsskáli var upp af Skálabót undir Bjallanum vestast. Þar eru nú húsatættur.“, segir í örnefnaskrá.
„Á Ísólfsskála féll eldhús [í jarðskjálftum 28. og 29. janúar 1905].“ – ÞT Ferðabók I, 184. Athugasemd á túnakorti: „Bærinn fluttur frá sjó, bygður að stofni og kálgarðar árið 1916. Jörðin hafði þá verið í eyði 3 ár.“

Selsvellir (sel)

Selsvellir

Selsvellir – uppdráttur ÓSÁ.

„…Hraunsseli, sem eru tættur sels frá Hrauni í Grindavík. Þrengslin eru þar innar með hálsinum þar sem hraunið gengur næst hálsinum að vestan. Síðan taka við Selsvellir og þar upp af Selsvallafjall. Selsvellir ná inn að Grænavatnseggjum er svo nefnist brúnin á hálsinum, þar sem Grænavatn er austur af…Grænavatnseggjar ná inn í Sog. Sogin eru gilskorningur í Vesturhálsinum. Sogaselsdalur er grasigróinn gýgur vestast í Sogunum og þar var sel frá Flekkuvík.“, segir í örnefnaskrá Vesturháls.
Staður í Grindavík átti selstöðuna á Selsvöllum, sbr. 1703: „Selstaða góð til haga, en lángt og erfitt að sækja, hefur þó hjeðan frá staðnum brúkuð verið lxxx ár á Selsvöllum.“ – JÁM III, 22. 1840: „Eftir jarðabókinni 1760 á Staður selstöðu á Selsvöllum, þó það nú sýnist orðið almennings selstaða úr allri Grindavík.“ segir í sóknarlýsingu og ennfremur: „Selsvellir eru héðan í landnorður upp í fellum, og er Keilir, þegar í sel þetta er komið, rétt í útnorður. Stendur selið í Strandarmannalandi eður fyrir norðan Grindavíkur landamerki. Þar er allgrösugt, en bízt fljótt upp, því allir bæir í sókninni nema Hraun hafa þar í seli, og þó að engu goldið Staðarprestinum. Vilja menn hér, gjöra þessa selstöðu almenning, og þyrfti þó ei að vera. … Sú mun og orsök, að allir hafa þyrpzt á Selsvelli, því þar er dálítill rennandi lækur rétt við selið.“ Landnám Ingólfs III, 134. 1844:

Selsvellir

Á Selsvöllum.

“ … í bréfi sr. geirs Bachmanns til biskups árið 1844 … segir hann … að hann hafi notað sér selstöðuna á Selvöllum ásamt tveimur hjáleigubændum. Það hafi forverar sínir líka gert þegar þeir hafi verið það fénaðarmargir, að þeim hafi fundizt það borga sig. Þegar prestur notaði sér ekki selið, fóru sóknarbændur að fara með fénað sinn á Selvelli, í fyrstu með leyfi sóknarprests og keyptu þá af honum selhúsin. – Í tíð sr. Geirs var svo komið, að ásamt honum höfðu 6 bændur í seli á Selvöllum. Áttu þeir allir selhús þar og var fénaður þeirra um 500 fjár, ungt og gamalt, og um 30 nautgripir. Kvartar prestur yfir því, hve lítil not honum séu að selinu þegar slíkur skepnugrúi gangi á Selvöllum. Þetta valdi því líka, að reka verði allan selfénaðinn horaðan og nytlausan heim að bæjum einatt í 17. viku sumars (fyrir miðjan ágúst). Þessir bændur töldu sig eiga jafnan rétt til selstöðu eins og Staðarprestur, sumir jafnvel meiri. Var nú svo komið, að í stað þess, að Staðarprestur hefði átt að hafa talsverðan arð af selstöðu þessari hafði hann, að dómi sr. Geirs, af henni óbætanlegan skaða vegna þess hve nytlítill og rýr peningur hans verður meðan slíkur fjöldi fjár er á Selvöllum og fyrr er lýst. Þannig var selstaða prestssetursins „leyfis- og borgunarlaust brúkuð eins og almennings eða allra selstaða væri þeirra hér í sókn, sem hana nýta vildu“. Ef þessu héldi fram, yrði selstaðan ekki einungis arðlaus fyrir Stað heldur ónýt með öllu fyrir „óhemju átroðning og yfirgang“.“ GB Mannlíf, 43-44. 1883: „Selvellir eru stórar grassléttur norður með hálsinum norðanverðum, allt norður fyrir Trölladyngju. Er þar ágætt haglendi og vatn nóg, lækur, sem fellur úr hálsinum niður undir hraunið. Þar hefir áður verið sel frá Stað í Grinavík, en er nú af tekið. Sjást þar enn tvennar eða þrennar seltóttir. Nú hafa menn þar nokkurs konar afrétt og reka þangað fé og hesta, enda er þar fríðara land og byggilegra en víða þar, sem mikil byggð er. Væri það nóg land fyrir 2-3 bæi, því bæði eru slægjur nógar á völlunum og ágæt beit á hálsinum.“ ÞT Ferðabók I, 180. Guðrún Gísladóttir lýsir tóftum á Selsvöllu í skýrslu frá 1993: „Á Selsvöllum eru rústirnar mjög fallnar en má þó vel greina þær enn. … Þarna eru rústir í hraunjaðrinum sem liggur vestan Selsvalla og uppi undir hlíðinni. Haft var í seli á Selsvöllum þegar á 17. öld og jafnel fyrr. Selstaðan tilheyrði prestsetrinu á Stað í Grindavík. Um miðja 19. öldina var gróður og jarðvegseyðing þó orðin svo alvarleg að bændur í Grindavík höfðu nánast allir í seli á Selsvöllum við fátæklegar undirtektir Staðarprestsins.“ – Árið 1703 hföfðust útileguþjófar við í helli við Selsvelli og í helli hjá Hvernum eina í nokkrar vikur – þeir voru gripnir og hengdir á alþingi sama ár – Ólafur Briem í Útilegumenn og auðar tóttir.

Drykkjarsteinn (þjóðsaga)

Drykkjarsteinn

Drykkjarsteinn.

„…Mælifellsskarð. Vestan þess tekur svo við fjall allmikið, sem heitir Slaga…Norðanvert við Slöguna er Drykkjarsteinn.“, segir í örnefnaskrá AG. „Drykkjarsteinsdalur er norðan við Slögu vestanvert. Þar í er Drykkjarsteinn. Það er stakur móklettur við fjallshlíðina með nokkuð djúpa skál en litla um sig, og þar stóð oftast vatn í, sem var kærkomin svölun ferðamönnum, því lítið er um yfirborðsvatn á þessum slóðum. Skálin er nú sprungin og ekkert vatn þar lengur að hafa.“, segir í örnefnaskrá.
„Hans er víða getið, vegna þess að þar fengu ferðamenn oft svölun. Hans er einnig getið í þjóðsögum.“, segir í örnefnaskrá AG. 1840: „… frá Krýsuvík út eða vestur til Grindavíkur, annar [vegur], og til Njarðvíkur sá vestlægari vegur. Skiptast þeir hjá Drykkjarsteini, markverðum þess vegna, að í enni stærstu holu, sem í hönum eru, fæst eður hefur oftast verið vatn, nema máske í allra langvaranlegustu þerrum, til svölunar ferðafólki á þessum langa vatnslausa vegi. En fyrir fáum árum síðan skyldu nokkrir ferðamenn örmæddir af þorsta ekki hafa fundið vatn í steinsholunni og einn þeirra fyrir þann skuld ósæmt í hana, og er sagt, að síðan hafi hún verið jafnan þurr. … Steinn þessi stendur á þurru aurmelsholti.“ segir í lýsingu Selvogsþinga 1840. 1883: „Frá Ísólfsskála riðum við upp á Selvelli við Núpshlíðarháls. Á leiðinni er á einum stað, á hálsi nokkru fyrir norðaustan Ísólfsskála, svokallaður Drykkjarsteinn. Það er stór móbergssteinn með djúpum holum í. Sezt þar stundum vatn í holurnar, og er það kærkomið ferðamönnum í sumarhita.“ ÞT Ferðabók I, 180.

Hraunssel (sel)

Hraunssel

Hraunssel.

„Austan við mitt Sandfell er götuslóði yfir hraunið austur í Hraunssel fremst. Inn með Núpshlíðarhálsinum að vestan eru tættur, sem Hraunssel heita.“, segir í örnefnaskrá.
„…sem eru tættur sels frá Hrauni í Grindavík.“, segir í örnefnaskrá Vesturháls. 1840: „Litlu vestar en Selsvellir er selstaða frá Hrauni; hér er árlega haft í seli frá bæ þessum, og eru landamerkin milli seljanna í svo kölluðum Þrengslum.“ segir í sóknarlýsingu. 1883: „Komum við fyrst að Hraunsseli (155 m). Það er nú í rústum, en ágætt grras er í kring og dálítil vatnsdeigla í klettunum fyrir ofan.“ ÞT Ferðabók I, 180. Guðrún Gísladóttir lýsir Hraunsseli í skýrslu frá 1993: „Veggjarhleðslur uppi standandi þótt þær hafi látið á sjá. Þarna var sel frá Hrauni.“

Hraun (bústaður)

Hraun

Hraun við Grindavík.

26 hdr. 1840, óviss 1703. Eign Skálholtsstaðar. JÁM III, 9. 1847: Jarðardýrleiki 25 hdr. JJ, 84. Hjáleigur 1703:
Vatnagarður, Garðhús (í eyði) og ein ónefnd við heimabæinn. JÁM III, 10-11. Hjáleigur í örnefnaskrá: Draugagerði, Bakkar (Litla-Hraun), Sunnuhvoll, Hrauntún. Ö-Hraun LJ, 1.

Hraun

Brunnur á Hrauni.

1703: „Rekavon í betra lagi…Heimræði er árið um kríng en lending voveifleg…Engjar öngvar. Útigángur í lakasta máta hjer í sveit.“JÁM III, 9-10. Heimildir frá 18. öld gefa nokkra hugmynd um bújörðina Hraun, og virðast af þeim sem hún hafi þá verið einna lökust í sveitinni. Saga Grindavíkur I, 135. 1840: „Þar eru falleg tún og vel ræktuð; hefir nefndur hreppstjóri [Jón Jónsson] látið mikið slétta í túni sínu, og er þar þó ekkert illþýfi. … láglendið allt um kring túnið að vestan, norðan og útnorðanverðu er svarta lausasandur og lágar hraunklappir … Vatnsskortur er mikill á bæ þessum … Eigi verður þar höfð nokkur skepna heima á sumrum, og eru allir hestar daglega fluttir langt í burtu á bak við Fiskidalsfell, þó brúka eigi strax að morgni. Bágt er þar og með beiti í fjöru á vetrum, því fjara er þar allsstaðar há, en lítið útgrynni. Gengur því oftast fé og hross í Þorkötlustaðanesi um vetur, hvar, eins og á öllum bæjum í Grindavík, er betri fjara en á Hrauni.“ Landnám Ingólfs III, 140.
„Bærinn stendur við sjó vestanvert við Hraunsvík, rétt utast við hana vestanverða.“, segir í örnefnaskrá AG.
1840: „Bær þessi er hinn allra reisulegasti í sókninni…uppbyggð nú í seinni tíð þrjú stór og reisugleg timburhús.“SSG

Bænhús (kapella)

Fornleifar

Kapellan á Hrauni – friðlýstar fornleifar.

1840: „Á Hrauni var forðum bænhús, en ei veit ég hvenær aflagt, og ei heldur fæ ég upplýst, hverjir bæir sóttu þangað kirkju.“ segir í sóknarlýsingu. „Sker út af Vatnagarði kemur aðeins upp úr á stórstraumfjöru og er kallað Klobbasker. Sagt er, að það hafi komið upp, þegar bænhús var aflagt á Hrauni (sennil. á 17. öld).“, segir í örnefnaskrá LJ.
„Enginn vafi leikur þó á því, að kirkja hafi verið á Hrauni á miðöldum og allt fram yfir 1600, og virðist hún hafa gegnt mikilvægu hlutverki. Við vitum að sönnu ekki með vissu, hvenær kirkjan var reist, en…voru líkur leiddar að því, að með „Lónalandi“, sem getið er um í Vilkinsmáldaga, væri átt við Hraun. Fái sú tilgáta staðist, er ljóst að kirkja hefur verið risin á Hrauni árið 1397 og vafalaust allnokkru fyrr, en í Vilkinsmáldaga segir um „Lónaland“ og kirkjuna þar, að Staðarkirkja eigi fjórðung í jörðinni og „…skal sá hafa leigu af þeim sem kirkju varðveitir slíka sem settist við þann er þar býr.“ Með þessu er átt við það, að til Staðar skyldu renna leigur af jarðarpartinum eftir því sem umsemdist milli þess, er gætti kirkjunnar í „Lónalandi“, og ábúenda þar. Á hinn bóginn kemur ekki fram, hver þar var, sem gæta skyldi kirkjunnar. Hún virðist því ekki hafa verið prestsskyld, engar heimildir eru fyrir því, að til hennar hafi verið goldin neins konar gjöld eða tollar, og er því líklegast, að Staðarklerkar hafi samið um kirkjugæsluna við ábúandann á „Lónalandi“ (Hrauni). Engar heimildir eru um kirkjuna á Hrauni frá 15. og 16. öld. Árið 1602 skýtur henni skyndilega upp í annálum, en við það ár segir Fitjaannáll: „Þá drukknuðu á stóra farmaskipi Skálholtsstaðar 24 manneskjur með einni stúlku, fyrir framan Þorkötlustaði í Grindavík..og voru þeir flestir jarðaðir í bænhúsinu í Grindavík á Hrauni.“ Þessi útför hefur væntanlega verið ein síðasta kirkjulega athöfnin, sem framkvæmd var í kirkjunni, eða í bænhúsinu, á Hrauni.
Kirkjan mun hafa verið aflögð skömmu eftir þetta og í Chorographica Islandica, sem rituð var um 1700, segir Árni Magnússon: „Á Hrauni í Grindavík hefur verið kirkja. Sér enn til kirkjugarðs og stendur þar nú í staðinn skemma. Þessi kirkja er nú fallin fyrir um 100 árum ongefer (circa vel paulo ante annum 1600).“ Saga Grindavíkur I, 137-38. Í vísitasíu Staðar frá 1642 kemur fram að kirkjan þar átti klukku „sem kom frá Hrauni“ – Saga Grindavíkur I, 108-109.

Hraun

Kapellutóft í Kapellulág austan við Hraun.

1840: „Á Hrauni var forðum bænahús, en ei veit ég hvenær aflagt, og ei heldur fæ ég upplýst, hverjir bæir sóttu þangað kirkju.“SSG.
„Milli Festar [berggangur sem gengur úr Festarfjalli] og Dunkshellis upp með hömrunum með sjó er Hraunssandur. Heldur nær bæ en hellirinn er Hvalhóll. Rétt vestan við Hvalhól er smávík, sem heitir Hrólfsvík.
Upp af henni er lægðardrag, sem nefnt er Kapellulág.“, segir í örnefnaskrá AG. „Skeljabót er næst fyrir norðan Bótina [017]. Þar eru k[l]appir nefndar Skeljabótarklappir. Vondafjara er þar fyrir norðan. Síðan kemur Hrólfsvík, Efri-og Fremri-með skeri á milli…Upp af Efri-Hrólfsvík er grjóthrúga og kölluð Ræningjabæli. Þar gróf dr. Kristján Eldjárn, þegar hann var þjóðminjavörður, og taldi hann að þetta hefði verið enzkur verlsunarstaður.“, segir í örnefnaskrá LJ. „Á Hraunssandi, um það bil einum kílómetra fyrir austan Hraun, er örnefnið Kapellulág.“ Saga Grindavíkur I. „Ca. 8 m SA af malarvegi og 26 m SV af hæl 5150“ segir í skýrslu um fornleifar við Suðurstrandarveg.
FRIÐLÝSTAR MINJAR. „Lítil rúst í Kapellulág, við veginn á Siglubergsháls.“ Friðlýst 25.10.1930, þinglýst 15.11.1938. – Fornleifaskrá, 13. „Þar er smágrjótrúst. Er til þjóðsaga um rúst þessa.“, segir í örnefnaskrá AG.
Rannsókn í Gullbringu og Árnessýslu sumarið 1902 eftir Brynjúlf Jónsson: „Kapellulág heitir lægðardrag nokkurt upp með veginum sem liggur frá Hrauni í Grindavík upp á hálsinn (Siglubergsháls). Í draginu er dálítil grjótrúst, nokkuð grasigróin, svo sem 3 al. í þvermál að ofan, en fláir utan og virðast vera nokkuð hrunin. Naumast er hún yfir I al. á hæð. Nafnið Kapellulág bendir til þess, að hér hafi verið Kapella, án efa ætluð ferðamönnum til að gjöra þar bæn sína áður en þeir lögðu á Krýsuvíkurhálsa, sem hafa verið álitnir hættulegir eftir að jarðeldar runnu þar ofan. Rústin er raunar lítil til að vera kapellutóft.

Kapella

Kapellutóftin við Hraun eftir uppgröft.

En hafi kapellan verið af timbri og grunnur af grjóti undir, þá mundi rústin svara því, að vera leifar af þeim grunni. Einkennilega munnmælasaga hefir myndast um þessa rúst. Hún er á þá leið: Þá er Tyrkir rændu í Grindavík (1627), flýði drengur einn undan þeim, ríðandi á rauðri meri, og hleypti upp veg. Einn af Tyrkjunum elti hann, og var svo fljótur á fæti, að hann náði honum í Kapellulág. Þreif hann þá í tagl merarinnar. En hún sló báðum afturfótum fyrir brjóst honum svo hart, að hann lá dauður eftir. Var hann þá dysjaður, og á rústin að vera dys hans.“ BJ.
Fornleifarannsókn í Kapellulág 1954: „Á sjávarbakkanum um 200 m suðaustur frá dysinni er grasi gróinn hóll, sem heitir Hvalhóll. Menn taka mið af þessum hól, þegar hann ber í dysina frá sjónum séð, og heitir þetta mið „Húsið“. Í því nafni felst sjálfsagt réttari bending um uppruna þessa mannvirkis en í munnmælasögunni…Það var þegar í stað ljóst við rannsóknina, að við höfðum fyrir okkur lítið hús eða hústóft, sem var barmafull af mold, sandi og grjóti, innveggir lítið sem ekki hrundir, en útveggir mjög hrundir og steinar úr þeim skriðnir út á alla vegu. Af því skapaðist dysjarútlitið og þá einnig nafnið og loks munnmælasagan um Tyrkjann. Í miðnafninu Húsið hefur hins vegar geymst minning um, að þetta hafði í upphafi verið hús. Það hefur verið ótrúlega lítið; 2,20 m að lengd og 1,20 m að breidd. Veggirnir eru hlaðnir úr grjóti í 1 m hæð og standa vel að innan, lítið eitt fláandi upp eftir, þ.e. hallast út. Veggjarþykktin hefur verið um 1 m, eftir því sem næst verður komizt. Húsið hefur snúið frá austri til vesturs, þó lítið eitt til norðvesturs. Vesturgafl hefur verið úr timbri og dyr á að norðan.
„Fyrir nokkru benti Þórður Tómasson mér á merkilega heimild sem fram hjá mér fór en miklu máli skiptir. Í Biskupaannálum séra Jóns Egilssonar, sem hann skrifaði rétt eftir 1600, segir svo um biskupstíð herra Gissurar Einarssonar (þ.e. 1542-1548): „Á hans dögum slógust þeir Erlendur á Strönd og menn hans við Engelska í Grindavík, og fengu menn Erlends miklar skemmdir. Hann lét og þar um bil drepa tvo menn engelska, saklausa, – þeir lágu eptir, – annan á Bjarnarstöðum í Selvogi, þar í dyrunum, er hét Jón Daltun; hann sendi eptir honum í Fljótshlíð austur. Annan lét hann drepa á sandinum fyrir ofan Hraun í Grindavík, þar sem nú er kapellan; sá hét Nikulás“. – Safn til sögu Íslands I, Kph. 1853, bls. 86…þarna skrifar greinagóður maður um 1600 að Kapella sé á Hraunssandi…Í fljótu bragði mætti þetta virðast ótrúlega lítið guðshús, jafnvel þótt kapella sé, á eyðilegum stað…Lítil bænhús við alfaraveg voru (og eru) víða til í kaþólskum löndum. Hér á landi eru dæmi um slíkt mjög fá. Þess vegna væri mikil um vert að geta með vissu sagt að litla húsið í Kapellulág sé í raun réttri slíkur helgistaður.“ KE. Sumarið 2000 kom Bjarni Einarsson í Kapellulág: „5 x 6 m (NA-SV). veggir úr grjóti, en form á rústinni ekki sýnilegt. Rústin er 0,6 m há og mjög blásin. Friðlýsingarhæll er utan í rústinni að NV verðu.“
Dysin hefur hnitið 63°51.04 N 022°21.45 W.

Dalssel (sel)

Dalssel

Í Dalsseli.

„Rétt innan við Innstadal, norður undir hrauninu, sem hér heitir Dalahraun, eru Nauthólsflatir, og austast á þeim er hóll, sem heitir Nauthóll…Innst með Fagradalsfjalli, eða beint norðan þess, er gamalt sel, sem hét Dalssel, og inn af því undir vesturhorni fellsins, sem heitir Fagradals-Vatnsfell, er Fagradals-Hagafell.“, segir í örnefnaskrá AG.

Sandakravegur (leið)

Sandakravegur

Sandakravegur.

„…norður af Höfða er Sandfellið…Vestan við Leggjabrjótshraun, Fagradalsfjalls. Næst við Kálffell er Eldborgir. Svo tekur við mikið hraunflæmi og afarfornt, sem heitir Dalahraun…Skammt vestur af Fagradalsfjalli er í því tveir hólar með talsverðu millibili, og heita þeir Innri-Sandhóll og Sandhóll, sem er hærri og sunnar. Meðfram fellinu liggur hér gamall vegur, norðan úr Vogum, og heitir hann Sandakravegur. Lá hann um Móhálsa.“, segir í örnefnaskrá AG.
1840: „Sá norðasti [aðalvegur] kallast Sandakravegur; liggur hann í norður útnorður út úr þeim eina alfaravegi austanmanna, sem frá Ölfusinu og Selvogi er hingað, skammt fyrir austan og ofan Hraun …, fram hjá Fiskidalsfelli og Skógfellunum, sem öll eru að vestanverðu við veginn, og kemur maður af honum ofan á Vogastapa.“ segir í sóknarlýsingu.

Dúnkhellir (hellir)

Dunknahellir

Dúknahellir á Hraunssandi (lengst t.v).

„Fyrir austan hana [Kapellulág] er allmikil hæð, og af henni skammt austur að sjó, þar sem Hraunsvík nær lengst inn undir Festarfjall. Þar er mjög hár sjávarbakki, og grefur sjór hella inn í móbergið. Þar var hellir, sem nú er mjög lítið eftir af, og hét Dúnkhellir. Á skerjum nokkrum undir Festi segja þeir á Hrauni, að áður hafi verið járnhringar til að festa skip…“ KE.
„… hafi Írar fest þar skip sín. Þessir járnhringjar munu ekki sjást lengur, og enginn þeirra á Hrauni hafði sjálfur séð þá, en þeir þóttust þó vita fyrir víst, að þessir hringar hefður verið þarna.“KE. „Munnmæli eru um það, að í Selskeri, framundan Eystri-Nípu [á merkjum Hrauns og Ísólfsskála], hafi verið annar af tveim festarboltum og að þar hafi forðum verið skipalega. Þetta er þó fremur ólíklegt, vegna þess að á þessum slóðum er sjór sjaldan kyrr og erfitt að athafna sig við út- og uppskipun.“ segir í Sögu Grindavíkur I. Munnmæli um skipshringi Íra í sjávarhömrum við Grindavík pr. í Þjóðsögur og munnmæli 1899, s. 1.

Þorkötlustaðir (bústaður)

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi – uppdráttur ÓSÁ.

60 hdr 1840, óviss 1703. Eign Skálholtsstaðar. Hefur selstöðu í landi Krýsuvíkur, á Vigdísarvöllum. JÁM III, 11, 14. Hjáleigur 1703: Eyvindarhús, Ormshús, Eingland, Klöpp, Bugðunga. JÁM III, 12-13. 1840: Ætíð hefir þar verið tvíbýli, en nú eru þar þrír bændur, hjáleigur: Einland, Klöpp og Bullunga og tímthúsið Borgarkot. SSG, 139.
1847: Jarðardýrleiki 66 2/3 hdr. Hjáleigan Lambhúskot hefur bæst þá við 1847…“Eptir þremur afsals bréfum 8. August 1787 og 26. Janúar 1791 eru Þorkötlustaðir seldir í þrennu lagi (austurparturinn, vesturparturinn og miðparturinn). JJ, 84. Þríbýli var þar lengst af 19. öldinni. Stundum er jörðin kölluð Þórkötlustaðir.
1703: „Heimræði árið um kríng…Engjar öngvar. Sjór gengur á túnið og brýtur land að framan.“JÁM III, 12, 14.

Þórkötlustaðir

Þórkötlustaðir 1935.

1840: „Þar eru slétt og stór tún og hartnær þriðjungur þeirra kominn í móa fyrir órækt og hirðuleysi. … Þar er og sæmilegt beitiland fyrir fáan fénað, en þar amar vatnsleysi sem víðar. Syðst í nesinu var fyrrum selalátur frá Þorkötlustöðum, en nú hefir selurinn vegna brims og uppbrots yfirgefið látrin.“ Landnám Ingólfs III, 139. „Mikið af landi hennar er eldbrunnið, og bæirnir standa austast í landareigninni við sjóinn…Land jarðarinnar er frekar mjótt, en nokkuð langt.“Ö-Þorkötlustaðir AG, 1, 3. „…tiltölulega mikið sléttlendi, lending dágóð í Þorkötlustaðasundi og margvísleg hlunnindi í Nesinu.“Saga Grindavíkur I, 129.
21.9.1670: „Áður en Sigmundur [Jónssson] tók við búi á Þórkötlustöðum, voru hús öll á jörðinni skoðuð og metin…níu vistarverur innanbæjar og skiptust í stóra skála, litlu og stóru baðstofu, vesturskála, „hornshús“, „hús innar af skála“, eldhús, klefa og anddyri. Útihús voru fjós, hlaða, smiðja og skemma og loks tveir hjallar, annar heima við bæ, en hinn frammi á nesinu [000]. Öll voru húsin orðin gömul og hrörleg, og um sum var þess getið, að þau væru að hruni komin vegna elli og fúa. Útveggir voru flestir sagðir „trosnaðir“ og illa farnir, en innveggir virðast sumir hafa verið öllu skár komnir. Mörg útihúsanna voru hurðarlaus og viðrast hvorki hafa haldið vatni né vindi.“ Saga Grindavíkur I.
Rannsókn í Gullbringu og Árnessýslu sumarið 1902 eftir Brynjúlf Jónsson: „Á Þorkötlustöðum í Grindavík var í vor (1902) bygð heyhlaða í bæjarhúsaröðinni og grafið fyrir henni nál. 3 al. djúpt í jörð. Þar komu menn niður á merkilegar byggingarleifar. Kom fram grjótveggur langsetis eftir gröfinni, þeim megin sem inn vissi í húsagarðinn. Neðst framundan þeim vegg svo sem 1/2 al. breitt þrep, tæplega hnéhátt, alveg slétt að ofan, og svo vandað og óhaggað, að byggingarmenn létu það standa og höfðu það fyrir undirstöðu undir bakvegg hlöðunnar. Ofan á þessu þrepi var sæmilegur grjótveggur, rúml. I al. á hæð, eða að þrepinu meðtöldu um 2 al. á hæð. Langs með þessu þrepi, svo sem 2 al. frá því, lá grjótbálkur eftir endilöngu, viðlíka hár og þrepið, eða vart við það. Hann var nál. 2 al. breiður og allur lagður flötum hraunhellum ofan. Á þeim var öllum eldslitur. Var mér sýnt brot úr einni þeirra og var eldsliturinn auðsær. Hinumegin bálksins, viðlíka langt frá honum, sáust leifar af framvegg.

Grindavík

Þórkötlustaðanesviti.

En auðséð var að hann hafði einhverntíma áður verið rifinn og mestallt grjótið úr honum tekið burtu. Báðum megin við bálkinn var gólfskán, um 2. þuml. á þykt. En ofan á henni var þykt lag af svörtum sandi, sem líktist eldfjallaösku. Tveir byrkidrumbar láu í tóftinni, annar var brunninn utan, en ófúinn innan, nál. 6 þuml. í þvermál; hinn viðlíka digur, óbrunninn og með berki, en fúinn. Eigi var grafið fyrir enda þrepsins eða bálksins; var gröfin þó vel 12 al. löng. Tóku bæjarhúsin við að norðanverðu. En í suðurenda grafarinnar tík við fjósflór; og var að sjá, sem fjósið hefðir verið framhald sömu byggingarinnar. Þetta virðast hafa verið leifar af fornum „eldaskdla“. Þrepið ætlað til að sitja á , en bálkurinn arinn, til að kinda langeld á, og er merkilegt, að hann var upphleyptur. Eldfjallaskan ofan á gólfskáninni bendir til þess, að bærinn hafi lagzt í eyði um hríð og tóftirnar staðið opnar fyrir öskufalli. Má og vera að hraunið, sem myndar Þorkötlustaðanes og runnið hefur á báða vegu við túnið, sé yngra en bygging landsins, og verður þetta þá auðskilið.“BJ.

Þorkötlustaðaviti (viti)

„Í [Þorkötlustaða]nesinu er viti, sem nefndur er Þorkötlustaðaviti.“, segir í örnefnaskrá AG.

Vogavegur / Skógfellavegur (leið)

Skógfellavegur

Skógfellavegur.

„Norður af Vatnsheiði er kallað Sprengisandur. Um hann lá gamli vegurinn, einnig um Lyngrima…Dalahraun. Það hraun er frekar mishæðalítið, nema þar rís norðar allhátt fell, sem heitir Stóra-Skógfell. Austan þess er gamall vegur, nefndur Skógfellsvegur. Norðan þess er línan um Skógfellshraun…“, segir í örnefnaskrá AG.
„Austan Svartsengis eru sléttar klappir með melum og vikri á milli og heitir þar Sprengisandur og lá gamli Vogavegurinn þar um.“, segir í örnefnaskrá LJ.
„Vogavegurinn liggur austan Stóra-Skógfells og var nefndur þar Skógfellsvegur og tekur við af Sprengisandi.“, segir í örnefnaskrá LJ. GK-016:020 er „afleggjari“ af Skógfellavegi til Hóps og Járngerðarstaðahverfis.

Randeyðarstígur (leið)

Þórkötlustaðir

Randeyðarstígur hægra megin á uppdrættinum – uppdráttur ÓSÁ.

„Randeyðarstígur er gata á milli Hrauns og Þórkötlustaða og var hann farinn áður fyrr, er aðalumferðargatan lá fyrir neðan Þórkötlustaði og var þar komið á Eyrargötuna.“, segir í örnefnaskrá LJ.

Látragötur (leið)
„Látragötur eru slóðar úr vestur enda Stekkatúns fram í Látur.“, segir í örnefnaskrá LJ. „… úr vesturenda [Stokkatúns] og fram í látrin eru götuslóðar, sem Látragötur heita.“ segir í Sögu Grindavíkur I.

Eyrargata (leið)

Eyrargata

Eyrargata.

„Framundan Krabbagerði í flæðarmálinu og við syðri enda Herdísarvíkur eru háar klappir nefndar Draugur. Þar norður af er vík, Herdísarvík. Upp af henni í norðurenda eru klettahólar, sem heita Kóngar. Upp af Kóngum tekur við Kóngahraun…og inn undir miðju Nesi í norðvestur frá Kóngahrauni er hár hóll með grasþúfu í toppinn, sem heitir Gjáhóll. Hjá Gjáhól er löng lægð…sem heitir Gjáhólsgjá….Síðan tekur Þórkötlustaðabót við og skiftist hún í tvo hluta. Fyrst Syðri-bót og síðan Heimri-bót…Upp af Heimri-bót eru sandflatir nefndar Brunnaflatir.“, segir í örnefnaskrá LJ.
„Neðst á Brunnflötum við kampinn var grafinn brunnur, þar sem skepnum var vatnað áður en brunnur var grafinn hjá Þórkötlustöðum. Eftir Brunnflötum lá gata og sunnan við sandorpnar hæðir vestur af Brunnflötum, við norður enda Gjáhólsgjáar í átt að Rifinu (Eyri). Hét hún Eyrargata en lítið markar fyrir henni nú.“, segir í örnefnaskrá LJ.
„Önnur gata [en Eyrargata] er norðar og liggur um kirkjuhóla og fram hjá Hópi.“, segir í örnefnaskrá LJ.

Hóp (bústaður)

Hóp

Hóp í Grindavík – uppdráttur ÓSÁ.

32 hdr. 1840, óviss 1703. Eign Skálholtsstaðar. JÁM III, 14. 1847: 33 1/3 hdr. Seld er hún í tvennu lagi (vesturparturinn og austurparturinn) eptir afsalsbréfum 8. August 1787 og 26. Januar 1791. JJ, 84. Tvíbýli var á Hópi alla 19. öld en frá 1850 þríbýli og var þriðji parturinn nefndur Litla-Hóp frá 1880. Af sumum er bærinn talinn hafa heitið Hof.
1703: „Engjar öngvar…Flæðihætt er fyrir sauð. og líka brýtur sjófargángur túnið, og er hætt við enn meira landbroti.“JÁM III, 15. 1840: „Er jörð þessi miður ræktuð en skyldi, bæði að túnum og húsum, og er þó eigi að maklegleikum. Ekki eru tún þar eins slétt sem á Stað eða Tóttum og mega þó eigi þýfð heita. Miklar innnytjar eru við jörð þessa af Hópinu, ef notkaðar væru. … Í því veiðist mergð hrognkelsa eftir Jónsmessu, einnig silungur og mikill áll, en við ekkert þetta er sú ástundun höfð sem skyldi, og engir viðburðir við tvennt það síðarnefnda. Veiðzt hefir þar líka selur og lax, þótt minna fengist með jafnri viðleitni sem hið þrennt fyrst talda: þegar fiskur gengur afar grunnt, hefir þar inni þorskur fengizt og þyrsklingur, en sú veiði er samt ekki teljandi … á bæ þessum bagar vatnsleysi til neyzlu.“ Landnám Ingólfs III, 138-39. „Landið er því sneið af Þorkötlustaðanesinu og svo spildan samhliða landi Þorkötlustaða norður til Skógfells. Mikið af landinu er eldbrunnið, en gróið upp aftur á allstórum svæðum. Lón það er bærinn stendur upp frá og dregur nafn af, heitir Hóp. Nú er þar hafnarmannvirki Grindvíkinga.“Ö-Hóp, 1.
„Bærinn stendur niður við sjó, við Hópið, sem hann dregur nafn af.“, segir í örnefnaskrá AG.
„Sagt er að hann hafi upphaflega verið nefndur Hof, og er hér gömul goðatóft til. Sagt er að Hofsnafnið finnist í gömlum heimildum.“, segir í örnefnaskrá AG. 1902: „Þar er nú tvíbýli, og er á vesturbæjarhlaðinu hús, sem sú sögn fylgi, að þar hafi verið „goðahús“ í heiðni.“BJ.

Goðatóft (álagablettur)

Hóp

Hóp – Goðatóft.

„Austur af gömlu traðartóftinni neðan bæjar er Goðatóft…“, segir í örnefnaskrá AG.
FRIÐLÝSTAR MINJAR. „Goðahús“ svo nefnt á Vesturbæjarhlaðinu, nú fjós“ – friðlýst 25.10.1930, þinglýst 15.11.1938. – Fornleifaskrá, 13. BJ: „Bærinn Hóp í Grindavík er sagt að upphaflega hafi heitið Hof, og að þar hafi verið goðahof. Þar er nú tvíbýli, og er á vesturbæjarhlaðinu hús, sem sú sögn fylgir, að þar hafi verið „goðahús“ í heiðni. Þess vegna megi aldrei taka það burtu, en samt megi breyta því og nota það á hvern hátt sem ábúanda hagar. Hafa ábúendur fært sér þetta í nyt; „goðahúsið“ hefir til skams tíma verið geymslu-skemma, en nú er það haft fyrir fjós.“ Árb. 1903, 46-47
„…gamalt goðahús friðlýst, sem ekki má róta.“, segir í örnefnaskrá AG.

Selháls (sel)

Hópssel

Hópssel.

„Vestan úr Hagafelli er hraunkvísl, sem eins og steypist fram af fellinu. Það heitir Gráigeiri, og er gamalt fiskimið Melhóll í Gráageira. Þar vestan í fellinu er svonenfndur Selháls, sem vegurinn liggur yfir…Selháls er hryggur, sem tengir saman Hagafell og Þorbjörn. Þetta er sunnan við Dagmálaholtið.“, segir í örnefnaskrá AG.
„Dagmálaholt mun vera kennt við eyktamark frá selinu á Baðsvöllum [sel frá Járngerðarstöðum skv. Jarðabókinni]. Einnig er Selháls kenndur við það sel [Hópssel]… Fast við veginn eru seltættur, sem virðast yngri en hin selin.“, segir í örnefnaskrá AG.

Járngerðarstaðir (bústaður)

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir – gamli bærinn.

125 hdr. 1847, óviss 1703. Eign Skálholtsstaðar. „Selstöðu hefur jörðin og brúkar þar sem heitir Baðsvellir…Hjáleigur: Vallarhús, Lambhús, Kvíhús, Hrafnshús, Akurhús, Gjáhús, Krosshús, Garðhús, Hlaðhús.
Búðir til forna: Gullekra (tómthús), Krubba (tómthús) og Litlu Gjáhús.“ JÁM III, 15. 1803: Hjáleiga: Nyrðra-Garðshorn, 1847: Hjáleigur eru: Kvíhús, Rafnshús, Akurhús, Krosshús, Hóll, Lángi, Gjáhús, Garðhús og Vallhús. JJ, 84. Stundum talað um Járngerðarstaðahverfi.
1703: „Heimræði er árið um kríng og lendíng í betra lagi…Engjar öngvar.“JÁM III, 16. „Jörðin nær frá sjó og upp til fjalls eisn og önnur býli hér.“ Ö-Járngerðarstaðir SS, 1. 1840: „Eigi er fagurt á Járngerðarstöðum, því þó þar ei sé ýkja illa húsað, þá stendur bærinn og allt hvefi þetta nema Krosshús niður í dæld eða dalverpi, og er þaðan hvergi víðsýnt.- Þýfð hafa tún verið á Járngerðarstöðum, en eru mikið sléttuð í seinni tíð af bóndanum Þórði sál. Einarssyni og þar núverandi bónda sgr. Einari Jónssyni. Hafa og nokkrir hjáleigubændurnir í seinni tíð þessa jarðarbót eftir þeim upp tekið. – Bæði í túninu og utantúns eru djúpar vatnsgjár, í hverjar sjór fellur að í og út; í sumum þeirra er oft veiddur áll, og mætti þó mikið meira veiða, ef atorka væri og rækt við höfð.

Jángerðarstaðir

Járngerðarstaðir; Vesturbær, Austurbær og Valdastaðir.

Það hafa Járngerðarstaðir til landkosta fram yfir Stað og Húsatóttir og meiri en nokkurt annað býli í þessari sókn, að fyrst er þar nóg vatn í gjám þessum handa fénaðinum, og svo í öðrum smá stöðutjörnum, eins og líka þar er grasgefnast utantúns, þó eigi megi hagar heita. Mætti þó halda þar fáum skepnum heima á sumardag, hvað ekki má heita mögulegt á Stað og Húsatóttum.“ Landnám Ingólfs III, 137-138.
1840: „Tvíbýli er á heimajörðinni og fylgja hverjum parti 5 hjáleigur…“ segir í örnefnalýsingu „Nokkur um Dalinn…Þessar „holur“ voru nokkurs konar uppsprettur undir bökkunum. Úr þeim var tekið allt vatn í bæinn, sem kallað var, það var til notkunar fyrir fólkið á Járngerðarstöðum, báðum bæjum…“, segir í athugasemdum við örnefnaskrá. Elsta úttekt bæjarins er af Vesturbænum frá 1882. Þar voru þá baðstofa (8×5,5 al.), göng (4×1,5 al.), Bæjardyr (6×2,25 al.), skáli (7×3 al.), eldahús (9×4 al.), búr í norðurenda baðstofu (4×5,5 al.), fjós m. 3 básum, hesthús f. 3 hesta, heyhús (8,5×3 al.), smiðja (7×3 al.), sjómannabúð, fiskhjallur, húsagarður með bæjarrönd (50 fðm), túngarður 160 fðm og traðargarður 85 fðm og kálgarður – Saga Grindavíkur II, 57-58.

Gerðavellir (búðir)

Junkaragerði

Garður í Junkeragerði á Gerðavöllum – uppdráttur ÓSÁ.

„Frá Stórubót [vik inn í landið við Malarenda] liggur Rásin inn í Gerðavallabrunna, sem eru upp af Gerðavöllum. En sjórinn víkkaði hana og brauzt inn á lægra svæði. Sjórinn gegnur gegnum Rásina um flóð.“, segir í örnefnaskrá AG.
„Sagt er að Junkarar hafi lagt upp í Stórubót við Gerðavelli, upp af Skyggnir, vestan við Rásina. Þar voru á Gerðavöllum allmiklar hlaðnar girðingar gamlar…Á Gerðavöllum er allt fullt af görðum. Þeir eru hlaðnir á tvo vegu við vellina og eiga að vera eftir Junkarana, en þeir reru til skiptis eftir veðri úr Grindavík og Höfnum (Njarðvíkum), eftir því sem sögurnar segja. Fóru þeir með skipin á milli, og hét þar Skipastígur.“, segir í örnefnaskrá AG. „Munnmæli um útgerð Þjóðverja í Grindavík herma að þeir hafi haft aðsetur á Gerðisvöllum, skammt norðvestur af Stóru bót í Járngerðarstaðalandi.“ segir í Sögu Grindavíkur I, 251. „Á þessum slóðum voru aðstæður að ýmsu leyti hentugar aðkomumönnum, sem stunda vildu útgerð og kaupskap, en þurftu jafnframt að hafa vara á sér. Þeir voru utan meginbyggðarinnar í Járngerðarstaðahverfi, og á Stóru bót var bærileg höfn kaupskipum og þokkalegur útróðrastaður, a.m.k. yfir sumartíman. Aðstaða til fiskverkunar á Hellunum var góð og vestan Stóru bótar rís hóll sá, sem Skyggnir heitir og er með hæstu hólum í nágrenninu. Af honum mátti, eins og nafnið bendir til, hafa gát á mannaferðum.“ segir í Sögu Grindavíkur I, 240-41. „Heimildir um „Tyrkjaránið“ 1627 herma, að þá hafi danska kaupskipið legið í Járngerðarstaðasundi, og af heimildum um ránið verður ekki annað ráðið en að á þessum tíma hafi búðir kaupmanns staðið í landi Járngerðarstaða. Þar mun verslunin og hafa haft bækistöðvar sínar til árins 1939, en þá hættu kaupmenn að sigla á Grindavík …“ segir þar ennfremur á s. 253. Þegar verslun hófst á ný í Grindavík 1664 var hún færð til Arfadalsvíkur.

Skipstígur (leið)

Skipsstígur

Skipsstígur.

„Sagt er að Junkarar hafi lagt upp í Stórubót við Gerðavelli, upp af Skyggnir, vestan við Rásina. Þar voru á Gerðavöllum allmiklar hlaðnar girðingar gamlar…Á Gerðavöllum er allt fullt af görðum. Þeir eru hlaðnir á tvo vegu við vellina og eiga að vera eftir Junkarana, en þeir reru til skiptis eftir veðri úr Grindavík og Höfnum (Njarðvíkum), eftir því sem sögurnar segja. Fóru þeir með skipin á milli, og hét þar Skipastígur.“, segir í örnefnaskrá AG.
1840: „Miðvegurinn, sem ýmist kallast Járngerðarstaða- eða Skipstígsvegur, liggur í útnorður fyrir sunnan Þorbjarnarfell, og er þá Þórðarfell, Súlur og Stapafell allt að vestan og sunnanverðu.“ segir í sóknarlýsingu.

Baðsvellir (sel)

Baðsvallasel

Baðsvellir – Baðsvallasel; uppdráttur ÓSÁ.

1703: „Selstöðu hefur jörðin og brúkar enn nú þar sem heita Baðsvellir, og kvarta menn um að þar sjeu haga oflitlir og þröngvirr. Item sje þar stórt mein að vatnsleysi, þá þerrar eru, og fyrir þessa lesti selstöðunnar segja menn fulla nauðsyn til að kaupa selstöðu annarsstaðar. Þessa brúkar bóndinn alleina.“ segir í jarðabók Árna og Páls. „Ef farið er yfir Selháls, sem er milli Þorbjarnar og Hagafells, taka við sléttir vellir, Baðsvellir.“, segir í örnefnaskrá AG.
„Sagt er, að þeir dragi nafn sitt af því, að þar hafi ræningjar baðað sig … Alveg niður við hraun er hallandi graslendi. Þar er slétt laut Kvíalág. Þar með hrauninu eru tvennar seltættur og hóll. Þar austan við heitir Stekkjarhóll.“, segir í örnefnaskrá AG.

Stekkjarhóll (stekkur)
„Ef farið er yfir Selháls, sem er milli Þorbjarnar og Hagafells, taka við sléttir vellir, Baðsvellir.“, segir í örnefnaskrá AG.
„Sagt er, að þeir dragi nafn sitt af því, að þar hafi ræningjar baða sig…Alveg niður við hraun er hallandi graslendi. Þar er slétt laut Kvíalág. Þar með hrauninu eru tvennar seltættur og hóll. Þar austan við heitir Stekkjarhóll [Stekkhóll]“, segir í örnefnaskrá AG. „Þetta með seltóftina og Stekkjarhól getur verið rétt. Þetta var þá víst í Hópslandi.“, segir í athugasemdum við örnefnaskrá.

Gyltustígur (leið)

Gyltustígur

Gyltustígur (t.h.).

„Klifhólar eru útrennsli úr Þorbirni…Vestan í Klifhól, utan í fjallinu vestast, er Gyltustígur, eins konar hraunveggur. Hann er vestarlega í Þorbirni að sunnanverðu frá Lágafellstagli og upp úr.“, segir í örnefnaskrá AG.

Járngerður (legstaður)

Járngerðardys

Tómas Þorvaldsson við dys Járngerðar.

„Eitt örnefnið var við sjávargötu, þegar gengið var (til skips, sem kallað var) austur að lendingum. Á þá leið gengu sjómenn frá Járngerðarstöðum, Garðhúsum, Vallarhúsum, Velli og Gjáhúsum, nú Vík. Það var lítil mishæð, svo sem um 30 fet á lengd og 10 fet á breidd og svo sem 4 fet á hæð, grasi vaxin. Þetta var kallað Járngerður.“, segir í athugasemdum við örnefnaskrá.
„Þar átti að vera grafin sú merkiskona, sem eitt sinn bjó á Járngerðarstöðum, og mátti ekki við leiðinu hreyfa. En nú er það nú samt horfið fyrir nokkru.“, segir í athugasemdum við örnefnaskrá.
Rannsókn í Gullbringusýslu og Kjósarsýslu sumarið 1902 eftrir Brynjúlf Jónsson: “ Járngerðaleiði hafa menn kallað dálítinn aflangan bala í túninu á Hrafnshúsum í Járngerðarstaðahverfi. Ég lét grafa í þann bala, og reyndist hann gamall öskuhaugur.“BJ.

Engelska lág (vígi)

Jángerðarstaðir

Engelska lág.

„Upp af Stórubót, á Hellum, sem kallaðar eru, má enn sjá ógreinilegar leifar af virki Englendingsins Jóhanns Breiða …“ – „Aðsetur [enskra kaupmanna á fyrri hl. 16. aldar] var nokkuð fyrir vestan Járngerðarstaðabæinn, þar sem heitir „úti á Hellum“, upp af Stóru bót, og er líklegt, að þar hafi útræði þeirra og verslunarhöfn staðið á þessum slóðum hefur mikið land brotið á síðustu áratugum, og vafalaust einnig á fyrri öldum. Er því erfitt að gera sér grein fyrir því, hvernig aðstæður hafa verið fyrir nær hálfu árþúsundi. Þar sem nú er urð og grjót, voru grænir grasbalar fyrir u.þ.b. hálfri öld.

Jángerðarstaðir

Virkið.

Enn má þó greina þarna nokkur ummerki mannvistar, og er t.d. töluvert eftir af hól, þar sem munnmæli herma, að virki Jóhanns Breiða hafi staðið …“ segir í Sögu Grindavíkur I. „… stóðu búðir Jóhanns Breiða og félaga hans skammt upp af Stóru bót, sem er u.þ.b. einn kílómetra fyrir vestan Járngerðarstaðabæinn. Þar er örnefnið Engelska lág (eða laut), og herma munnmæli, að þar hafi Jóhann Breiði og aðrir Englendingar, sem féllu í átökunum aðfaranótt 11. júlí 1532, verið dysjaðir. Um það bil 5-600 metrum vestar heitir Gerðisvellir … Þar er líklegt, að búðir kaupmannanna frá Lynn hafi staðið.“, segir í Sögu Grindavíkur I, 246-47.
1532: „Gerði sagður Jóhann Breiði sér þá vígi eður virkisgarð skammt frá búðum á Járngerðarstöðum, sem enn sér merki og gerði orð með spotti þeim Hamborgurum að sækja til sín skreiðina. Tóku sig til hinir þýzku menn og Bessastaða fóveti, og komu óvart um nótt upp í Grindavík, komust upp í virki Jóhanns og slógu hann til dauðs og alla hans menn, en tóku skip og allt hvað þeir áttu. Þar sést kuml þeirra eða dysjar hjá virkisgarði.“ Skarðsárannáll.

Þjófagjá (þjóðsaga)

Grindavík

Grindavík – í Þjófagjá á Þorbjarnarfelli.

„Stór sprunga klýfur topp [Þorbjarnarfells] og heitir Þjófagjá. Þar herma munnmæli, að flokkur útileguþjófa hafi haldið sig og rænt og ruplað Í Grindavík. Að lokum tóku byggðamenn sig til, fóru að þjófunum, gripu þá og hengdu í Gálgaklettum … Engar öruggar heimildir eru um það, að útileguþjófar hafi nokkru sinni hafst við í Þjófagjá, og engar mannvistarleifar hafa fundist þar.“ segir í Sögu Grindavíkur I.

Húsatóptir (bústaður)

Húsatóftir

Húsatóftir.

33 hdr. 1840, óviss 1703. Konungsjörð og liggur til Viðeyjarklausturs. „Selstöðu hefur jörðin lángvaranlega haft þar sem heitir á Selsvöllum, er þángað bæði lángt og erfitt að sækja.“ Hjáleigur: Kóngshús og Garðhús. JÁM III, 20. 1836: „Seld með fleiri kóngsjörðum þetta ár, fyrir 630 ríkisdali í silfri til þáverandi landseta. Höfðu Viðeyingar hér áður útræði.“ SSG, 136. 1847: Jarðardýrleiki 33 1/3 hdr.JJ, 85. „Til forna átti Staður rétt til vatnssóknar í Baðstofu í Húsatóftalandi. Til endurgjalds áttu Húsatóftir þangfjörutak á Stað.“ GB Mannlíf, 39.
Kaupstaður var á Húsatóptum og var lent við Kóngshellu. Jörðin fór í eyði 1946 – GB Mannlíf, 91. 5 tómthúsbýli voru byggð í landi Húsatófta á árunum 1906-1934; Dalbær (1906-46), Vindheimar (1911-34), Blómsturvellir (1914-22), Hamrar (til 1930) og Reynistaður (1934-38).

Húsatóftir

Húsatóftir og Staður – uppdráttur frá einokunarverslunartíma Dana 1751.

1703: „Túnið er á næstliðnu vori þann 19. maí virt aldeilis fordjarfað að fjórðúngi sínum. Þeir eftirverandi fjórðúngar mjög spiltir af sandi og enn hætt við meiri skaða. Engjar öngvar. Mestalt land jarðarinnar hraun og sandi undirorpið.“JÁM III, 20. 1840: „…fyrir norðan og útnorðan túnið er víðast hvar náttúrleg gyrðing af lágum hraunhömrum, sem þar gjá er kölluð; líkt er og fyrir sunnan túnið sjálfgerð gyrðing af sama efni, em þeim mismun, að hér liggur túnið fram á klettana, þar sem það að norðanverðu hefir skýli af þeim og liggur upp undir þá…Mörgum þykir fallegt á bæ þessum því þar eru stór tún, slétt og fögur, þegar í blóma standa; eru þau og allvel ræktuð.“ Landnám Ingólfs III, 136.
1840: „Bærinn stendur spottakorn frá sjó, á háum og víðsýnum fleti…“ segir í sóknarlýsingu. Á túnakorti frá 1918 eru sýndar tvær húsaþyrpingar og gætu það verið tveir bæir eða bær og útihúsaþyrping – eru um 20 m á milli.
„Frá þeim tíma [þ.e. verslunarinnar] er gólfið þar í bæjardyrunum steinlagt með tígulsteini. Aðrar menjar sjást þar ekki. Er líklegt, að kaupmanns“húsin“ hafi verið rifin þegar verzlunin lagðst niður, en svo aftur byggður bóndabær í „tóftum“ þeirra, og fengið þar af nafnið, sem hann hefir nú.“ segir Brynjúlfur Jónsson í grein frá 1903. Íbúðarhús úr steini var byggt á bæjarhólnum 1930 en fram að því hafði verið þar torfbær – GB Mannlíf, 83.
1786 voru heima á Húsatóftum íbúðarhús verslunarmanna, byggt 1777, 10,6 x 7 m að stærð, múrað í binding með torf og grjótveggjum að utan en göflum úr timbri. Einnig var þar íbúðarhús beykisins, byggt 1779, 7,2×4,4 m að stærð m. veggjum úr torfi og grjóti en þak úr timbri – GB Mannlíf, 117-118.

Kóngshús (bústaður)

Húsatóftir

Húsatóftir – Kóngshús.

„Hjáleigan Kóngshús stóð niður við Húsatóttavör …“ Hjáleiga 1703. JÁM III

Búðasandur (verslunarstaður)

Húsatóftir

Minjar dönsku einokunarverslunarinnar á Húsatóftum.

„Upp af Kóngshellu er Búðarhella. … Næstur er Búðasandur er tekur við af Garðafjöru allt frá Tóftavör, sem er vestast í Garðafjöru.“ – GB Mannlíf, 21. „Danska verzlunarhúsið stóð á litlum hól u.þ.b. 80 m upp af Tóftavör.
Ennþá sést móta fyrir grunni þess.“, segir í örnefnaskrá. „Stóðu höndlunarhúsin niður við sjó nálægt Hvirflunum en kaupmenn bjuggu heima á Húsatóftum.“ segir í sóknarlýsingu frá 1840. „Á innri klöppinnni [ofan við Kóngshellu], sem er mun hærri, hafði krambúðin síðast staðið. Þar stóð enn fiskisöltunarhús Húsatóftarmanna, er eg reri þar, 1865 og 1866; og þar á klöppinni var aflanum skift eftir róðra og gjört að fiskinum. Þá var þó klöppin umflotin af sjó í stórstraumsflóðum. Nú er hún enn meira umflotin og ekki þykir lengur óhætt að hafa hús á henni. Hefir það nú verið flutt í land, og sjást engin merki eftir byggingu á klöppinni.“ segir Brynjúlfur Jónsson í grein frá 1903.
„Verzlun var í Grindavík áður, en hætt var við hana snemma á 18. öld. Höfnin var rétt við prestsetrið Stað, við hólma, sem hjallur er nú á. Skipin lágu milli hans og skers, sem heitir Barlest. Í Hólmanum eru enn kengir úr járni, sem skipin voru bundin í. Tangi gekk út að skerinu, og hét Búðartangi, af því verzlunarhúsin stóðu þar, en nú er tanginn að mestu brotinn af brimi.“ ÞT Ferðabók I, 179 „Fyrir mörgum árum var verið að grafa þar fyrir sjóhúsi. Þá fannst þar lóð, 100 pund að þyngd, sem bar merki Kóngshöndlunar.“ GB Mannlíf, 85. 1787 voru þar þessar byggingar: Búðin, byggð 1779, 12,5 x 7,5 m að stærð; Eldhús með múraðri eldstó, 6 x 4 m og Gamla pakkhúsið (sennilega eldri verslunarbúð) einnig 12,5×7,5 m að stærð – GB Mannlíf, 117. Verslun var tekin upp á ný í Grindavík árið 1664 en hafði fram til 1639 verið í Járngerðarstaðalandi. Kaupmenn „fluttu sig nú um set vestur í Arfadal í landi Húsatótta. Þar var ráðist í umtalsverðar framkvæmdir og á uppdrætti, sem Kristófer Klog gerði af Grindavíkurhöfn árið 1751 … má sjá verslunarhús niðri við ströndina. Þau stóðu skammt frá svonefndum Hvirflum, þar sem heiti Búðasandur …“ seegir í Sögu Grindavíkur I, 255. Á uppdrættinum sést tvílyft hús, talið vera krambúðin sem reist var 1731 og minna hús sambyggt við austurendann. Þetta hús mun hafa staðið fram undir lok 18. aldar, en 1779 hafði ný krambúð verið byggð. Saga Grindavíkur I, 255-56.
Kaupsigling var í Staðarvík til 1745 en eftir það var aðeins siglt til Básenda, þó ennþá væri verslað í húsunum í Grindavík. Árni Jónsson keypti húsin á Búðasandi 1789, krambúð, eldhús og „gamla pakkhús“ en hann varð endanlega gjaldþrota 1796 og lagðist þá verslun alveg af í Grindavík. Verslunarhúsin voru rifin 1806 – Saga Grindavíkur I, 256-65.

Prestastígur (leið)

Prestastígur

Prestastígur.

„Vestur af Grýtugjá, upp undir jaðri apalhraunsins (Eldborgarhrauns), er Hrafnagjá…Frá Hrafnagjá er einstigi um hraunið frá Sauðabæli út í Óbrennishóla. Troðningur þessi eða einstigi er fær öllum, þótt slæmur sé.“, segir í örnefnaskrá.
1840: „Sá fjórði og síðasti vegur, sem út úr sókninni liggur og alþjóðarvegur má nefnast, liggur upp frá Húsatóttum, í útnorður ofan í Hafnirnar, og er hann sá eini, sem héðan verður farinn þangað.“ segir í sóknarlýsingu. = Prestastígur

Byrgi (útilegumannabústaður)

Tyrkjabyrgi

Byrgin í Sundvörðuhrauni – uppdráttur ÓSÁ.

„Miðkrókakriki teygist langt inn í apalhraunið [Eldborgarhrauni] úr vesturjaðri Tóftakróka. Í norðvestur af honum, út í apalhrauninu, er dálítið sléttlendi og eru þar nokkur grjótbyrgi, er gefa til kynna, að þar hafi fólk hafzt við, er vildi fara huldu höfði. Byrgin eru vel falin í apalhrauninu, en frá staðnum ber Sundvörðuna í Gyltustíg í Þorbirni.“, segir í örnefnaskrá.
FRIÐLÝSTAR MINJAR. „“Útilegumannabæli“ svo nefnt, í hraunkvos norðvestur af túninu.“ friðlýst 25.10.1930, þinglýst 15.11.1938. 1883: „Frá Járngerðarstöðum í Grindavík fórum við upp í Eldvarpahraun … Í því skoðaði ég á einum stað gamlar, mosavaxnar rústir. Þær er mjög illt að finna, á afskekktum stað í versta brunahrauni. Þar hefir líklega einhvern tíma í fyrndinni verið athvarf manns, sem einhverra orsaka vegna hefir orðið að flýja úr byggðinni. Ekki er hægt að sjá þessar rústir, fyrr en maður er rétt kominn að þeim. Standa þær í kvos, á flötum hraunbletti, og há hraun allt í kring. Fram á miðjum fletinum eru þrír kofar, allir hlaðnir úr hrunhellum og hleðslan virðist einföld. Gjört hefir verið yfir byrgi þessi með stórum hraunhellum. Allir eru kofar þessir smáir, 5-6 m að lengd, og snúa dyrnar til norðurs. Stærsti kofinn er inni í hraunviki; hafa hraunbrúnirnar verið notaðar fyrir veggi. Bak við þennnan kofa var hlaðin tótt, djúp eins og brunnur. Þar fundum við hálffúna, tiltelgda spýtu undir mörgum hraunhellum og mosa. Önnur hringmynduð rúst var þar í nánd. Uppi á hæstu hraunbrúninni fyrir ofan var enn eitt byrgi, alveg eins og það hefði verið notað til þess að skyggnast um. Allar eru rústir þessar mjög gamlar, því á þeim var nærri eins þykkt mosalag eins og á hrauninu sjálfu. Enginn veit neitt um þessa kofa; þeir fundust af tilviljun 1872.“ ÞT Ferðabók I, 177-78. „Getgátur eru um, að þarna hafi menn flúið – annaðhvort undan ræningjum eða drepsóttum eða þá að ófrjálsir menn hafi hafzt þarna við, en engar sagnir eru um mannavist þarna. Sléttar klappir eru þarna og hraunið hátt umhverfis. Á klöppum þessum, nálægt miðju, eru þrjú byrgi í röð frá austri til vesturs. Auk þess er rúst af kofa norðaustast í þessari hvilft, undir hárri hraunpípu. Þröngum og djúpum hraunkrika vestan við rústina hefur verið lokað með grjótgarði og virðist þar hafa verið fjárrétt.“, segir í örnefnaskrá.

Tyrkjabyrgi

Byrgi í Eldvörpum.

Rannsókn Brynjúlfs Jónssonar sumarið 1902: „Útilegumannabæli hafa menn álitið rústir nokkrar í hrauninu fyrir ofan Húsatóftir, svo sem 1 1/2 kl.tíma leið þaðan ef mannavegur væri. En líttfært er að komast þangað nema á einn veg, með því að fara langan krók og þó mjög vandfarið. Má nærri geta, að þar er lítið um mannaferðir, þar eð enginn vissi af rústum þessum fyr en þær fundust af tilviljun litlu eftir 1870….Rústirnar er í kvos, þar sem hraunið hefir klofnað og sinn hraunriminn oltið fram hvorumegin, eftir flötu hrauni, sem áður hefir storknað. Sér að eins á einn veg út úr kvosinni, og á þeim stað er það, sem koma má þangað hesti, ef gætilega er farið. Við fundum 7 tóftir og var hver laus við aðra. Tvær eru afsíðis, suður með austurbrúninni, þær eru litlar og huldar mosa. Inni í kvosinni eru 3 tóftir, sem mynda röð yfirum hana þvera. Hin stærsta þeirra er við vesturbrúnina, nálægt 6 al. löng. 2 fðm. austar er önnur 5 al. löng og þá 7 fðm. austar en hin þriðja, 4 al. löng, og er hún við austurbrúnina. Allar eru þær jafnvíðar: rúml. 2 al.; þær eru bygðar af smáum hraunhellum og aðrar stærri hafa myndað þak, en eru nú fallnar ofan í. Veggirnir standa lítt haggaðir; eru gaflar hæstir og dyr á hliðinni við annan gaflinn, eins á öllum. Vindaugu eru á veggjum og göflum. Eigi snúa þær göflum saman og eigi heldur hliðum, en horfa skáhalt hver við annarri. Ekki virtust okkur þær líklegar til íbúðar, en hefðu getað verið geymsluhjallar, t.a.m. fyrir þurrkað kjöt. Í kvosarbotninum er hringmynduð tóft, svo lág, að veggirnir eru mosa huldir. Það gæti verið niður hrunin fjárrétt. En eigi bendir það þó til þess er Sæmundur [Jónsson á Járngerðarstöðum] sagði: að í henni hefði hann fundið ösku og skörung úr járni. Inn frá stærstu tótftinni er í hraunbrúninni glufa milli kletta. Sú glufa hefir verið notuð notuð fyrir tóft; hlaðið í skörð og svo reft yfir með breiðum hraunhellum. Þær eru nú fallnar ofan í og hleðslan að nokkru leyti líka. Þetta kynni helzt að hafa verið íveruhúsið. Þar er skjól gott og fylgsni gott. En ólíklegt er að menn hafi getað dvalið til lengdar á þessum stað. Þar hefir víst verið „á flestu góðu mesta óhægð“. Þar hefir ekkert verið til eldiviðar, því þá hefir mosinn ekki verið kominn.

Tyrkjabyrgi

Byrgi í Eldvörpum.

En gerum ráð fyrir, að íbúar hafi eigi kært sig um eld, hafi eigi viljað láta reyk sjást eða reykjarlykt finnast frá hýbýlum sínum. En þá er einn gallinn þó verstur. Þar fæst ekkert vatn nema regnvatn, eða snjór á vetrum….Ekki er hægt að skilja, til hvers litlu tóftirnar, sem fyrst getur, hafa átt að vera. Þær eru svo smáar, að það er eins og börn hafi bygt þær að gamni. Og trúa myndi ég, að þetta væri alt saman eftir stálpuð börn t.a.m. 10-14 ára gamla drengi ef líklegt væri, að þeir hefðu komið á þennan stað. En það sýnist mér ekki vera.“ Árbók 1903. 1959: „Skammt vestur af Sundvörðunni, sem er við austurbrún þess hluta Grindavíkurhrauns, sem við hana er kennt, er hraunkvos, sem er opin móti vestri. Hefur apalhraunið þar fyrir austan kvíslast í tvennt og þannig myndað kvosina. Í kvosarbotninum er slétt helluhraun, alþakið mosa, en litlum öðrum gróðri. Í kvos þessari eru rústir af mörgum smáum kofum, hlöðnum úr grjóti, og tvær rústir eru uppi á brún apalhraunsins fyrir sunnan kvosina. Rústir þesaar eru mjög vel faldar inni í hrauninu, og þar eiga að jafnaði engir leið um, enda voru þær ókunnar, þar til þær fundust af tilviljun veturinn 1872. … Stærsta tóttin innst í kvosinni hefur verið byggð inni í hraunviki, og að norðanverðu hefur hraunbrúnin verið notuð fyrir vegg.

Eldvörp

Dagbjartur Einarsson í Tyrkjabyrgjunum í Sundvörðuhrauni.

Þessi tótt er langmest úr lagi gengin af öllum tóttunum, svo að erfitt er að ákveða lögun hennar og stærð. Þó virðist hún hafa verið um 4 m á lengd að innanmáli og 1,50 m á breidd, þar sem hún er breiðust. Í henni hefur verið milligerð, sem skipti henni í tvö herbergi. Bendir Brynjúlfur á, að þessi tótt sé líklegust til að hafa verið mannabústaður. Enn fremur getur Þorvaldur Thoroddsen þess, að bak við þennan kofa sé önnur tótt, djúp eins og brunnur, og þar hafi hann fundið tiltelgda spýtu undir mörgum hraunhellum og mosa. Varla getur hér verið átt við aðra tótt en innri endann á sjálfri tóttinni í hraunvikinu, en hann hefur verið aðskilinn frá hinum hlutanum með millivegg og Þorvaldur því kallað hann sérstaka tótt. Þetta eru eunu trjáleifarnar, sem fundizt hada í rústunum, og annars er ekkert, sem bendir til að nokkur spýta hafi verið í þeim. Reft hefur verið yfir allar tóttirnar með hraunhellum, en þakið er allsstaðar dottið niður og hellurnar eru inni í tóttunum eða við þær. Stærstu hellurnar eru um 80 X 90 cm að stærð. Tótt 7 er hringmynduð, og veggir hennar eru miklu lægri en hinna tóttanna. Segir Brynjúlfur eftir Sæmundi bónda á Járngerðarstöðum, að þar hafi hann fundið ösku og skörung úr járni. Ef gert er ráð fyrir að tóttin í hraunvikinu hafi verið aðal-íveruhúsið á þessum stað, liggur næst að halda, að hringmyndaða tóttin hafi verið eldhús eða eldstæði. Tóttirnar nr. 8 og 10 eru mjög litlar og ómerkilegar að sjá. En tótt 9 er einkennilegust allra tóttanna. Eiginlega eru það þrjár tóttir, sem snúa göflum saman, en oðnast hver í sína áttina. Þessar tóttir eru miklu minni en tóttirnar inni í kvosinni. Í einni þessara tótta er ein þakhella enn óhögguð, og eru það einu leifarnar af uppistandandi þaki í rústum þessum. Að lokum skal þess getið, að skammt fyrir norðan kvosina, sem rústirnar eru í, er annað hraunvik, sem gegnur inn af sömu hraunsléttunni. Innst í því hefur verið hlaðið upp í öll skörð, svo að þar hefur myndazt aðhald, sem varla hefur verið gert til annars en að handsama fé. Hraunvik þetta er opið að framan, svo að varla hefur verið um eiginlega fjárrétt að ræða. … öruggt vatnsból er ekki nær en í hraungjá einni um 20 mínútna gang sunnar í hrauninu … Enn fremur er á sumum árstímum hægt að fá vatn rétt við kofana (að minnsta kosti var þar vatn í mái 1950). … Þær eru alþaktar mosa og hljóta því að vera nokkurra alda gamlar.“ segir Ólafur Briem í Útilegumenn og auðar tóttir.

Árnastígur (leið)

Árnastígur

Árnastígur.

„Sunnan við Klifgjá er Árnastígur, vel rudd braut um apalhraun. Gamli vegurinn milli Staðarhverfisins og Keflavíkur liggur um Árnastíg og Klifgjá, þar n-austur af er Þórðarfell. Þá er Stapafell og Stapafellsþúfa sem er mikilvægur punktur um landamerki milli ýmissa jarða á Suðurnesjum.“ GB Mannlíf, 23.

Staður (bústaður)

Staðahverfi

Staður.

Kirkjustaður. 37,3 hdr. 1847. Skálholtskirkjujörð. 1657 voru 7 hjáleigur: Krókshjáleiga, Beinróa og Brykrukka, Hús Ólafs Sighvatssonar, Hús Daða Símonarsonar, Vestur-Hjáleiga og ein ónafngreind auk einnar ónafngreindrar í eyði – Saga Grindavíkur I, 104. 1703 voru Sjávarhús, Krókur og Beinrófa hjáleigur, Bergskot 1803. Staður var prestsetur til 1928 en fór í eyði 1964 og þar með Staðarhverfi – Ö-Staður, 4; GB Mannlíf, 49-50. „Til forna átti Staður rétt til vatnssóknar í Baðstofu í Húsatóftalandi. Til endurgjalds áttu Húsatóftir þangfjörutak á Stað.“ GB Mannlíf, 39. Á tuttugustu öld byggðust eftirfarandi tómthús í landi Staðar: Merki (1908-43), Lönd (1911-46), og Melstaður (1936-50).

1840: Á Stað eru mikið slétt og í gróanda yfrið fögur tún; eru þau undirorpin afarmiklu sandfoki af öllum vindum frá útnorðri til landsuðurs, við hvað þau árlega skemmast og til þurrðar ganga. Við aldamótin voru af þeim vel fóðraðar 4 kýr, en nú á dögum gefa þau ekki af sér fóður fyrir 1 kú, þó vel í ári láti, og verður því að afla þess, á vantar, kjarna úr fjöru og lyngi úr heiði. Af sjóar ágangi er túninu líka mikill skaði búinn af sunnanveðrum og brimi. Bera þau enn að sönnu menjar eftir mikla flóðið 1798, og munu þó aðrar enn yngri vera. … Fáir eru kostir við jörð þessa, nema ef telja skal trjáreka, að hverjum eru þó mikil áraskipti, og allgóða fjárgöngu á vetrardag í fjörunni. En þess fleiri mætti telja hennar ókosti, t.d. í áföllum af feykilegu sandfoki, sem og líka sjóargangi í stórflóðum. Aldeilis engin hagabiet á sumardag, hvorki fyrir sauðfé, kýr né hesta, hverjir við minnstu brúkun horast niður af hagaleysi, en búsmali allur þá í sel rekinn, að eigi tapist hér heima né verði mönnum ónýtur fyrir fóðurleysi eða gangi á túnunm manna. Vatnsskortur er hér líka mikill, og eigi vatn að fá handa fénaði nema út undir Staðarbergi í gjá, sem fellur að og út í …“ sóknarlýsing, Landnám Ingólfs III, 134.

Staður

Staður. Síðasta íbúðarhúsið – byggt um 1930. Klukknaportið framar.

21.1.1925: „Gekk sjórinn langt upp á Staðartún, flæddi næstum upp að kirkjugarði, braut stórt skarð í malarkambinn og gróf sig þar niður í mold „svo túnið er nú með öllu varnarlaust fyrir hverju venjulegu stórstraumsflóði.“ “ GB Mannlíf, 49.
„Bærinn á Stað stóð eina 4-500 metra upp (norðvestur) frá sjó og var túnið að mestu sjávarmegin við hann.“ „Grunnur og tröppur steinhússins [b. 1938] sjást enn (1999) rétt norðan við núverandi kirkjugarð. Skv. munnlegri heimild (Ólafur Gamalíelson, uppalinn á Stað) stóð síðasti torfbærinn við NV horn núverandi kirkjugarðs. Tóftirnar eftir torfbæinn voru sléttaðar út fyrir nokkrum árum en traðirnar eru enn greinilegar norðan við kirkjugarðinn.“ AS Staður, 7. Úttekt af bænum á Stað frá 1657 er pr. í Sögu Grindavíkur I, 101-103 og fylgir tilgátuteikning af húsaskipan.

Kirkjugarður / kirkja

Staðarkirkjugarður

Staðarkirkjugarður.

„Kirkjugarðurinn er í túninu fast suðaustan við bæinn og ekki nema 2-3 m á milli skemmunnar og hans. Kirkjan stóð vestarlega í garðinum. – Þann 26. september 1909 var ný kirkja vígð að Járngerðarstöðum og tók sú við af Staðarkirkju, sem þá var aflögð.“
Um klukknaportið – GB Mannlíf, 55 og um sögu og skrúða kirkjunnar – GB Mannlíf, 136-44, Saga Grindavíkur I, 108-13. Koparbjallan í klukkuportinu er ú Anlaby, sem strandaði utan við Jónsbása.

Sjávarhús (bústaður)
1840: „Sjávarhús, austur við sjóinn hjá lendingunni; eru þau eyðilögð í mikla flóðinu 1798, og stendur þar nú fiskihjallur á háum, berum kletti; fellur nú sjór á milli klettsins og naustanna í hverju stórstraumsflóði.“ segir í sóknarlýsingu. „Staðarklöpp var umflotin á flóði og mun hér áður hafa verið nefnd Hjallhólmi. Um 1916 mátti sjá tættur hæst á Staðarklöpp, en þeim skolaði síðan burt í flóðum. Tættur þessar hafa líklega verið af gömlum fiskihjöllum … Líklega hefur hjáleigan Sjávarhús áður staðið á Staðarklöpp.“ Í GB Mannlíf, 25-26 er talað um hjáleiguna Sjóhús, norðan við Þvottakletta, en að á Staðarklöppinni hafi verið sjóhús fram til 1930 en á bls. 56 segir: „Sjávarhús. Þau stóðu austur hjá Staðarvör en eyðilögðust í Básendaflóðinu 1799. Var síðan reistur þar fiskhjallur á háum, berum kletti og féll sjór milli hans og naustanna í hverju stórstraumsflóði.“ Guðsteinn Einarsson lýsir þessu svo: „Fiskhjallur eða þeirra tíma söltunarhús var á klöppinni; tóftin að því stóð fram um 1930 og var undir því moldarjarðvegur, ca. 2m á hæð, en er nú öllu skolað í burtu og klöppin ber.“ GE Frá Valahnúk.

Staðarvör (lending)

Staðarvör

Staðarvör.

Fast norðan við Staðarklöpp er Staðarvör, flórlögð upp í sandinn. Á.V. og S.V.G. vita ekki með vissu hvenær hún var gerð, en telja sennilegast, að það hafi verið rétt upp úr síðustu aldamótum.“ segir í örnefnalýsingu.
„Innan við Staðarklöpp er Staðarvör, þar sem bátarnir voru settir á land.“ segir Guðsteinn Einarsson.

Básar (þjóðsaga / býli)
„Þá [utan við Sölvabása] koma Flóabásar (kallast nú Hróabásar), eign Staðarkirkju. Þar skal hafa staðið bær og heitið í Básum.“
ÁM hafði þetta eftir Eyjólfi Jónssyni á Þorkötlustöðum og öðrum gömlum Grindvíkingum 1703.

Háleyjar (þjóðsaga / býli)

Háleyjar

Háleyjar – tóft.

„Þá koma Háleyjar. Á Staðarkirkja þar hálfan viðreka en Viðeyjarklaustur hálfan, og hefur sá helmingur fylgt Húsatóftum fyrir þá almennilegu leiguna, sem annars af jörðinni gengur. Í Haleyjum skal hafa verið bær.“ hafði Árni Magnússon eftir Eyjólfi Jónssyni á Þorkötlustöðum og öðrum gömlum Grindvíkingum 1703. Á sjálfri Háleyjabungu er grasgróður, en hún er þó minna en 1/3 er gróin og hvergi er bæjarstæði eða sýnilegt vatnsból. Algerlega gróðursnautt er austan og vestan við bunguna. Engar fornleifar eru á þessum stað.
„Fyrir innan Krossvíkur tekur við Háleyjaberg og þá Háleyjar. Þar voru talin góð fiskimið skammt undan landi, og rústir og tóttabrot uppi á kampinum geta bent til þess, að þarna hafi fyrrum verið útræði. Um sjósókn frá Háleyjum eru þó engar öruggar heimildir, en hafi hún verið einhver, er líklegast, að útvegurinn hafi verið frá Húsatóttum. Húsatóttamenn áttu sölvatekju í Háleyjum, og er reyndar alls ekki loku fyrir skotið, að byrgistrústirnar séu leifar eftir þær athafnir. Þeir, sem á sölvafjöruna fóru, hafa að líkindum legið við þarna út frá og sjálfsagt þurrkað sölin, eftir því sem mögulegt var.“ segir í Sögu Grindavíkur I.

Háleyjar

Háleyjar – tóft.

Í örnefnalýsingu segir: „Talið er, að á Háleyjum hafi fyrrum verið útræði. Til þess benda m.a. kofarústir framarlega á Háleyjabungu.“ sbr. GB Mannlíf, 30. Hið rétta um þessa rúst kemur fram í skýrslu Brynjúlfs Jónssonar frá 1903: „Þar er ágætur lendingarstaður. Skammt vestur frá Krossvíkum, en á landi er þar hraun eitt og ekkert einkennilegt. Að eins er þar ofurlítil rúst eftir sjóbúð, sem bygð var seint á 18. öld. Þá gjörði Grindvíkingur einn, er Jón hét, bæ í Vatnsfelli, þar sem nú er bær vitavarðar, og hafði útræði frá Háleyjum. En það er langt frá Vatnsfelli, og gat hann ekki sótt sjó að heiman. Því bygði hann búðina. En honum reyndist ókleyft að lifa á þessu nýbýli sínu, og fór þaðan aftur eftir 2 ár. Síðan hefir Háleyjalenfing ekki verið notuð.“ Árbók 1903, 44. Leitað 1998 en ekkert fannst – starfsmaður í Saltverksmiðjunni sem segist mikið hafa gengið á þessu svæði kannst ekki við þessar rústir.
Um 1860: „Skarfasetur heitir hin yzta tá á Reykjanesi; þa er þar austur frá kallað Rafnkelsstaðaberg, þá Háleygjahæð …“ sgir Magnús Grímsson í ritgerð um fornleifar á Reykjanesi. „Fyrir innan Básinn tekur við mishátt berg, 10-40 metra hátt. Það er oftast nefnt Krossvíkurberg, en Guðsteinn Einarsson kveðst einnig hafa heyrt það kallað Rafnkelsstaðaberg. … Ekki er vitað til þess, að bæjarnafnið Rafnkelsstaðir hafi nokkurntíma  verið til í Grindavíkurhreppi, og reyndar mun engin jörð á Suðurnesjum hafa heitið svo, nema Rafnkelsstaðir í Rosmhvalaneshreppi.“ segir í sögu Grindavíkur I. Einnig er getið um þennan stað í örnefnalýsingu: „… utar tekur við Krossvíkurberg, sem einnig er nefnt Hrafnkelsstaðaberg (Ath.: í frb. var það oft haft Hrakkelsstaðaberg). Bendir nafnið til að þarna hafi einhvern tímann verið bær.“
Gróðurlausir sjávarhamrar.
Brynjúlfur Jónsson getur örnefnisins í grein í Árbók 1903 og telur að þar hafi verið bær nefndur Hrafnkelsstaðir – Árbók 1903, 43-44. Engar fornleifar eru við Hrafnkelsstaðaberg.

Mölvík (þjóðsaga / býli)
1703: „Þá kemur Mölvík, Staðarkirkjueign. Þar skal og hafa verið bær og þar er vatnsból hjá.“ Um 1860: „… þá Mölvík, sem samnefndur bær á að hafa staðið við …“ ÁM hafði þetta eftir Eyjólfi Jónssyni á Þorkötlustöðum og öðrum gömlum Grindvíkingum 1703.

Sandvík (þjóðsaga / býli)
1703: „Þar næst Sandvík, Staðarkirkju eign, skal og hafa verið bær.“ segir í Chorographiu Árna Magnússonar.
Um 1860: „… þá Háleygjahæð og Háleygjar, þá Sandgerði tvö við Sandvíkurnar.“ segir Magnús Grímsson í ritgerð um fornleifar á Reykjanesi. „Þarna er talið að hafi verið verbúð, jafnvel bær, fyrir eina tíð, enda má þetta kallast ein af fáum „byggilegum“ stöðum á þessum auðnarslóðum.“ segir Gísli Brynjólfsson í bók sinni um Staðhverfinga. „Hvorki [Sigurður V. Guðmundsson] né [Árni Vilmundsson] kannast við að hafa heyrt talað um byggð í Sandvík.“ segir í örnefnalýsingu. ÁM hafði þetta eftir Eyjólfi Jónssyni á Þorkötlustöðum og öðrum gömlum Grindvíkingum 1703.

Krossvík (þjóðsaga / býli)
„Stóra-Krossvík kemur þá. Hana eignar sér Staðarkirkja í Grindavík, en aðrir eigna hana Nesskirkju á Seltjarnarnesi og hefur nú Þorkell í Njarðvík af Nessmönnum rekann þar. Í Krossvík skal hafa verið bær.“ hafði Árni Magnússon eftir Eyjólfi Jónssyni á Þorkötlustöðum og öðrum gömlum Grindvíkingum 1703. Algerlega gróðursnauð klettaströnd.
Brynjúlfur Jónsson getur örnefnisins í grein í Árbók 1903 og telur að bendi til byggðar áður en hraun runnu þar – Árbók 1903, 44.

Herkistaðir (þjóðsaga / býli)
„Þar næst [utan við Krossvík] eru Herkistaðir. Skal hafa verið bær, eign Staðarkirkju.“ hafði Árni Magnússon eftir Eyjólfi Jónssyni á Þorkötlustöðum og öðrum gömlum Grindvíkingum 1703.
Þverhnípti klettaströnd, gróðursnautt. Engar fornleifar eru á þessum stað.

Skarfasetur (þjóðsaga / býli)
„Næst Herkistöðum er Skarfasetur. Skal hafa verið bær. Eigning er þar óviss. Þar er og gagnslaust öldungis, því þar er engin fjara. Á Skarfasetri halda menn hafa verið kirkju Reyknesinga og er það fremst á nesinu. Segja menn kirkjuna þaðan færða til Staðar í Grindavík og Grindvíkinga til forna hafa sótt kirkju til Hrauns. Þessa bæi meina menn til hafa verið alla áður en nesið brann. En nú er ekkert til baka nema brunahraun og sandar og er þar  engum amnni byggjandi.“ hafði Árni Mganússon eftir Eyjólfi Jónssyni á Þorkötlustöðum og öðrum gömlum Grindvíkingum 1703.
Skarfasetur er gróðurlaus klettatöng og er á henni lítill viti.
Engar fornleifar eru á þessum stað.

Sundlaug

Reykjanes

Sundlaugin á Reykjanesi.

„… örskammt ofan við [Valahnúka] Mölina er gjá í hrauninu, sem heitir Valbjargargjá. Í henni var ylvolgt vatn, og þar var gerð sundlaug um 1930. Laugin var um 30 fermetrar að stærð, og var börnum í Grindavík kennt þar sund. Sjór mun hafa gengið inn í gjána, því dýpi í lauginni fór eftir því, hvernig stóð á sjó. Nú er sundkennsla í gjánni löngu aflögð, en enn má sjá ummerki eftir hana, hlaðinn steinvegg og tröppur niður í vatnið.“ segir Jón Þ. Þór í Sögu Grindavíkur. 1998: Sundlaugin er syðst og vestast í túni frá vitavarðabústað, um 10 m norðan við Sjólaug, um 250 m SSV við Reykjanesvita.
Í náttúrulegri sprungu. Við austurenda sprungunnar hefur veggur verið hlaðinn upp með hraungrýti og myndar „U“ á móts við sprunguna. Gengið er niður í laugina norðantil á austurvegg. Hleðslan í norðurenda er 1,5 m há en þar er klöpp í botninn en suðurendi laugarinnar er 3m djúpur. Veggurinn í austurenda er um 0,7 m hærri en umhverfið en hefur þó tæplega verið vatnsheldur. Mjög sérstætt mannvirki.

Gunnuhver (þjóðsaga)

Gunnuhver

Gunnuhver.

1841: „Hver er á Reykjanesi, Gunna kallaður, skammt eitt í landnorður af Grasfelli. Bullar hann og sýður í leireðju en ekkert sést tært vatn; er hverinn utan í hól; holan, sem sýður í með mörgum augum, er hér um 12-16 faðmar ummáls og niður að eðjunni fullkomnar þrjár álnir. Fremur líkist hver þessi bullandi feni en nokkrum vatnshver og öldungis ólíkur öllum þeim hverum, ég séð hefi í Borgarfirði, Biskupstungum og Laugardal.“ – „Um Hveravelli, sem eru norðaustur frá vitanum, er Gunnuhver, sem mun vera hérna megin merkjanna. Hann er kenndur við Guðrúnu sálugu Önundardóttur, sem steypti sér þar niður á leið yfir í eilífðina.“ Gunnuhver er vel merktur og auðfundinn. Gert hefur verið bílastæði skammt sunnan við hann og gönguleið að honum og pallur við hann.
1860: „“Hverir eru hér út á Reykjanesi fæstir mjög stórir og gjósa ei hátt. [. . .] Einn hverinn er stærstur; í honum krakkar eins og katli. Sá hver er kallaður Gunnuhver,. . . Í þessum hver endaði afturgangan Gunna eftir að hún var búin að ganga aftur um hríð og valda skaða meðal manna. Upphaf sögunnar var það að prestur nokkur átti í útistöðum við Gunnu sem síðan dó og hóf að ásækja fólk og sérstaklega prest og konu hans. Hún dró bæði hjónin til dauða áður en menn tóku sig saman, fóru til Eiríks í Vogsósum sem gaf þeim hnoða og sagði þeim að láta Gunnu taka í. Það gerðu þeir og Gunna elti hnoðann ofan í Gunnuhver og sást ekki síðar.“ – MG. „… gufuhver einn mikill skammft … frá [Gunnuhver] er kominn þar upp á þessari öld … Rétt hjá „Gunnu“ er töluverð fúlga af hreinni kísilsýru (kísill), sem lengi var kölluð postulínsnáma, af því að menn hugðu það vera postulín, en lítill arður hefir enn orðið af henni.“ Bjarni Sæmundsson: Suðurkjálkinn, ÁFÍ 1936, 40.
Vilhjálmur Jónsson á Kirkjubóli (d. 1706) átti í útistöðum við kerlingu eina, Guðrúnu Önundardóttur, út af potti sem hann átti að hafa tekið hjá henni, líklega upp í skuld. Heitaðist hún við hann. Vilhjálmur var viðstaddur greftrun hennar en fannst dauður, blár og beinbrotinn á víðavangi daginn efti. Var prestur fenginn til að vaka yfir líkinu en þóttist eiga fullt í fangi við að verja það fyrir ágangi kerlingar. Afturgangan magnaðist mjög og næst dó ekkja Vilhjálms en fólk sem fór um þar sem lík hans fannst annaðhvort viltist eða varð vitstola. Þegar afturgangan var orðin svo mögnuð að menn sáu hana fullum sjónum voru sendir menn til séra Eiríks í Vogsósum en þegar þeir fóru af stað aftur frá honum fékk hann þeim hnoða sem þeir skyldu láta Gunnu taka í lausa endann á. Sagði hann að hnoðað mundi þá sjálft velta þangað sem hún mætti vera að ósekju. Sendimenn fóru þá heim og gerðu eins og fyrir þá var lagt. Þegar Gunna tók í lausa endann á hnoðanu valt það af stað en hún á eftir. Sást það seinast til að hvort tveggja hnoðað og Gunna, steyptist ofan í hver þann suður á Reykjanesi sem síðan er kallaður Gunnuhver. Sumir segja að hnoðað færi ofan í hverinn, en Gunna héldi í endann; var endinn svo langur að Gunna gat staðið hálfbogin uppi á hverbarminum og trítlar hún þannig einatt til og frá kringum hverinn á blábrúninni hálfbogin. Tveir eru hverirnir og er annar stærri en annar; greinir menn á um það hver hverinn það er. JÁM III, 508-510

Heimild:
-Menningarminjar í Grindavíkurkaupstað, Svæðisskráning. Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2001.

Grindavík

Grindavík.

Grindavík

Árið 2001 var gerð fornleifaskráning um, „Járngerðarstaði og hjáleigur“. Hér er getið um sumt það, sem fram kemur í skýrslunni um gömlu bæina og merkar minjar.

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir

Jángerðarstaðir – gamli bærinn.

Landnámsmenn í Grindavíkurhreppi voru tveir: Molda-Gnúpur Hrólfsson, er nam Grindavík, og Þórir haustmyrkur Vígbjóðsson, er nam Selvog og Krýsuvík. Gnúpur þessi fór til Íslands fyrir víga sakir og nam land milli Kúðafljóts og Eyjarár og allt Álftaver. Þar bjó hann, uns byggðin spilltist af hraunstraumi. Eftir vetursetu á Höfðabrekku fór hann um vorið ásamt sonum
sínum vestur til Grindavíkur, og tóku þeir sér þar bólfestu. „Vitneskja okkar um upphaf byggðar í Grindavík takmarkast við frásögn Landnámu af Molda-Gnúpi og sonum hans, og ekkert er vitað með neinni vissu um byggðina og sögu hennar næstu þrjár aldirnar.“
Heimildir um sögu jarðarinnar og ábúendur þar fyrir 1700 eru mjög af skornum skammti. Í fornbréfum er jarðarinnar sjaldan getið nema helst í sambandi við fjöruréttindi. Er þó sýnt að hún hefur komist í eigu Skálholtsstaðar ekki síðar en um miðbik 15. aldar. Er Wilkinsmáldagi var settur, árið 1397, hafði Staðarkirkja í Grindavík eignast hálfa heimajörðina á Stað og að auki ítök í Húsatóttum, Járngerðarstöðum og Hrauni.

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir; Vesturbær, Austurbær og Valdastaðir.

Áttatíu árum síðar, 1477, setti Magnús biskup Eyjólfsson kirkjunni nýjan máldaga og átti hún þá allt heimaland á Stað. Í þeim máldaga kom ekkert fram um eignarhald á öðrum jörðum í víkinni, en líklegt er að þær hafi þá allar verið komnar í kirkjueign.
Í manntali 1703 voru tíu hjáleigur á Járngerðarstöðum, engin þeirra er þó nefnd með nafni. Þá voru tíu í heimili á höfuðbólinu. Á árunum 1785-1791 voru flestar stólsjarðirnar seldar og hófst sala stólseigna í Grindavík 30. júlí 1785 með sölu jarðanna Hrauns og Ísólfsskála. Um sölu Járngerðarstaða hafa engin skjöl fundist en jörðin mun engu að síður hafa verið seld um þetta leyti Jóni Jónssyni, ættföður Járngerðarstaðaættar.
Í manntali 1801 voru Járngerðarstaðir tvíbýli með 8 hjáleigum.
1816 voru þeir einnig tvíbýli með 9 hjáleigum, þar af einu tvíbýli.
1845 áfram tvíbýli og 9 hjáleigur, þar af eitt tvíbýli. Á túnakorti sem gert var 1918 kemur fram að tún eru slétt og voru þau flestöll sléttuð stuttu áður en kortið var gert.
Járngerðarstaðir voru þingstaður Grindvíkinga.

Náttúrufar og jarðabætur

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir 1890.

Landamerki Járngerðarstaða 1889 voru: „Að vestan byrjuð: Frá Markhól við sjóinn beina stefnu á Stapafellsþúfu, þaðan á Arnarstein fyrir ofan Snorrastaða vatnsgjá, úr Arnarsteini í þúfuna á Skógfelli litla, þaðan í þúfuna á Stagafelli, þaðan beint fram í Markalón á Hópsrifi.“ Landamerkjum þessum var mótmælt af eigendum Hóps og Húsatópta.
Í lýsingu Grindavíkursóknar frá 1840-41 eftir sr. Geir Bachmann er svohljóðandi kafli um Járngerðarstaði: „Þýfð hafa tún verið á Járngerðarstöðum, en eru mikið sléttuð í seinni tíð af bóndanum Þórði sál. Einarssyni og þar núverandi bónda sgr. Einari Jónssyni. Hafa og nokkrir hjáleigubændurnir í seinni tíð þessa jarðarbót eftir þeim upp tekið. – Bæði í túninu og utan túns eru djúpar vatnsgjár, í hverjar sjór fellur að í og út; í sumum þeirra er oft veiddur áll, og mætti þó mikið meira veiða, ef atorka væri og rækt við höfð. Það hafa Járngerðarstaðir til landskosta fram yfir Stað og Húsatóttir og meiri en nokkurt annað býli í þessari sókn, að fyrst er þar nóg vatn í gjám þessum handa fénaðinum, og svo í öðrum smá stöðutjörnum, eins og líka þar er grasgefnast utantúns, þó eigi megi hagar heita.“
Á bls. 145-6 í sömu lýsingu segir: “ hlunnindi eru hér í sveit engi nema trjáreki, og ef menn kalla svo, allgóð sauðganga í fjörunni þá vel vetrar. …
Alla tíma eru kýr hér inni nema þá 2 mánuði, sem í seli eru. … Engin eru hér beitihús á vetrum, borgir né fjárhús. Sauðfé, sem fátt er, gengur allt úti í fjörunni gjafarlaust og kemur aldrei í hús.
Það liggur undir upphrófluðum skjólgörðum, til hverra það er rekið á hverju kvöldi. … Hver sá maður, er býli hefir hér í sókn, hefir og 1 eða 2 kálgarðsholur, eftir því ræktaðar sem hver er hneigður til atorku og pössunarsemi.“
„Jörðin nær frá sjó og upp til fjalls eins og önnur býli hér. Stendur bærinn niðri við sjó, og eru þar nokkur önnur býli, sem hafa sameiginlegt land nema túnblettina. Býlin hafa verið þessi: Járngerðarstaðir voru höfuðbýlið, en kotabæir þessir: Vallarhús, Kvíhús, Rafnshús, Akurhús, Gjáhús (Norður- Gjáhús heita nú Vík, en SuðurGjáhús tilheyra Garðhúsum), Krosshús, Garðhús, Völlur (byggður úr Kvíhúsum), Hóll og Langi. Sjóbúðir eru nefndar 1703: Gullekra, Krubba og Litlu-Gjáhús.“ (Örn.,1)
Elsta heimild um húsakost og mannvirki í Vesturbænum á Járngerðarstöðum er úttekt frá 7. júní 1882, þar eru talin upp: baðstofa, göng frá baðstofu að bæjardyrum, bæjardyr, skáli frá bæjardyrum til eldahúss, eldahús og búr í norðurenda baðstofu. (J.Þ.Þ og G.M.H,58).

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir – bæir og sögusvið „Tyrkjaránsins“ – uppdráttur ÓSÁ.

Völlur (hjáleiga)
„Býlin hafa verið þessi: Járngerðarstaðir voru höfuðbýlið, en kotabæir þessir: …Völlur (byggður úr Kvíhúsum)…“ (Örn.,1).
Aðrar upplýsingar Skv. Guðjóni Þorlákssyni, sem býr í Vík, fór Völlur í miklu flóði 1924. Tóftin er að mestu horfin, þó sést aðeins móta fyrir henni í túninu ASA við Járngerðarstaði.

Gömlu-Rafnshús (hjáleiga)

Staður

Staður-loftmynd 1954.

„Hrafnshús eru á milli Gjáhúsa og Akurhúsa út við túngarðinn… Hrafnshús, sem áður stóðu milli Ekurhúsa og Kvíhúsa, eru í seinni tíð flutt þangað, hvar þau nú eru.“ (G.B.,137).
„Upp af Fornuvör eru leifar eftir Kvíhús niðri á sjávarbakkanum, og þar eru Gömlu-Rafnshús um 150 m austar.“ (Örn.,3).

Loftskofi (hjáleiga)

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir – loftmynd 1954.

Í manntali frá 1816 er Loftskofi hjáleiga frá Járngerðarstöðum með 2 í heimili.

Nýibær (hjáleiga)
Í manntali frá 1816 er Nýibær hjáleiga frá Járngerðarstöðum með 3 í heimili.

Lambhús (hjáleiga)
Í Jarðabók Árna og Páls segir: „Hjáleigur eru .. Lambhús, önnur hjáleiga, bygð fyrir innan xx ár“.

Hlaðhús (hjáleiga)
Í Jarðabók Árna og Páls segir: „Hlaðhús, níunda hjáleiga, gömul.“

Gullekra (verbúð)
„Sjóbúðir eru nefndar 1703: Gullekra, …“ (Örn.,1)
Í Jarðabók Árna og Páls frá 1703 segir: „Til forna hafa hjer verið þessar búðir: Gullekra, hefur verið tómthús, búðarleiga var xx álnir.“

Rafnshús

Rafnshús – Járngerðarstaðir fjær.

Krubba (verbúð)

Grindavík

Grindavík – sjóbúð.

„Sjóbúðir eru nefndar 1703: …, Krubba,…“ (Örn.,1).
Í Jarðabók Árna og Páls frá 1703 segir: „Til forna hafa hjer verið þessar búðir: … Krubba. Og svo tómt hús, búðarleiga var xx álnir.“

Litlu-Gjáhús (verbúð)
„Sjóbúðir eru nefndar 1703: … Litlu-Gjáhús.“ (Örn.,1).
Í Jarðabók Árna og Páls frá 1703 segir: „Til forna hafa hjer verið þessar búðir: … Litlu-Gjáhús, hafði grasnyt. Landsskyld var l álnir.“

Skjalda (hjáleiga)

Grindavík

Skjalda.

Geir Bachmann segir svo í Lýsingu Grindavíkursóknar 1840-41: „Eyðikotið kallast Skjalda og liggur í vestur útnorður út við túngarðinn.“ (G.B., 137)

Járngerðarstaðir  (verbúð)
Í Jarðabók Árna og Páls segir: „Þar gánga skip heimabóndans og þau inntökuskip, er þángað til fiskiafla ráðast fyrir undirgift, sem heimabóndi tekur, og lætur þá verbúð og vergögn í tje fyrir skipsöfnina.“

Járngerðarstaðir  (verbúð)

Grindavík

Í Jarðabók Árna og Páls segir: „Skip stólsins gánga hjer venjulega iii eður iiii, og hafa þeir verbúðir fyrir sig, sem stóllinn uppbyggir. En soðningu kaupa skipverjar. Hafa þessi skip stólsins verið so um lángar stundir, en alt þar til í tíð Mag.
Brynjólfs var gefin til heimabóndans undirgift undir þau skip, sem fleiri voru en tvö af stólsins hendi.Og hýsti þá heimabóndi þá skipsöfn. En í tíð Mag. Brynjólfs var uppbygð önnur staðarins verbúð, sem síðan hefur viðhaldist, og engin undirgift verið frá stólnum lögð til bóndans.“

Járngerðarstaðir  (verbúð)
Í Jarðabók Árna og Páls segir: „Á Járngerðarstöðum eru fáeinna verbúða stæði, nú forfallinna, og hafa þar legið við skipshafnir inntökuskipa, sem undirgift gefið hafa.“

Járngerðarleiði

Járngerðardys

Dys Járngerðar – áður en malbikað var hana.

„Járngerðarleiði hafa menn kallað dálítinn aflangan bala í túninu á Hrafnshúsum á Járngerðarstaðahverfi. Eg lét grafa í þann bala, og reyndist hann gamall öskuhaugur.“ (B.J., 46)

Virki

Virki

Virkið ofan við Stórubót.

Í Skarðsárannál, þar sem segir frá árinu 1532, stendur: „Gerði sagður Jóhann Breiði sér þá vígi eður virkisgarð skammt frá búðum á Járngerðarstöðum, sem enn sér merki“
„Þar sem nú er urð og grjót, voru grænir grasbalar fyrir u.þ.b. hálfri öld. Enn má þó greina þarna nokkur ummerki mannvistar, og er t.d. töluvert eftir af hól, þar sem munnmæli herma, að virki Jóhanns Breiða hafi staðið“ (J.Þ.Þ., 240).

Dys
Í Skarðsárannál, þar sem segir frá árinu 1532, stendur: „Tóku sig þá til hinir þýzku menn og Bessastaða fóveti, og komu óvart um nótt upp í Grindavík, komust upp í virki Jóhanns og slógu hann til dauðs og alla hans menn, en tóku skip og góss og allt hvað þeir áttu. Þar sést kuml þeirra eða dysjar hjá virkisgarði.“

Sel

Baðsvallasel

Baðsvellir – Baðsvallasel; uppdráttur ÓSÁ.

Í Jarðabók Árna og Páls segir: „Selstöðu hefur jörðin og brúkar enn nú þar sem heita Baðsvellir, og kvarta menn um að þar sjeu hagar oflitlir og þröngvir. Item sje þar stórt mein að vatnsleysi,
þá þerrar eru, og fyrir þessa lesti selstöðunnar segja menn fulla nauðsyn til að kaupa selstöðu annarstaðar.“
Baðsvellir voru skammt frá Járngerðarstöðum, þar sem nú er skógræktarlundur Grindvíkinga, skammt fyrir norðan Selháls. (J.Þ.Þ.,165).

Akurhús (hjáleiga)
„Býlin hafa verið þessi: Járngerðarstaðir voru höfuðbýlið, en kotabæir þessir:…Akurhús…“ (Örn.,1).
Í Jarðabók Árna og Páls frá 1703, bls. 18, eru Akurhús sögð „fimta hjáleiga bygð um langan aldur. Jarðardýrleiki óviss sem um hinar.“
„Akurhús sópaðist af grunni í sjávarflóði 1925, en þá urðu nokkrir bæir að hólma.“ (Örn.,3).
„Akurhús, út við garð, rétt í suðurátt.“ (frá Járngerðarstöðum) (G.B.,137).

Tún
„Jörðin nær frá sjó og upp til fjalls eins og önnur býli hér. Stendur bærinn niðri við sjó, og eru þar nokkur önnur býli, sem hafa sameiginlegt land nema túnblettina.“ (Örn.,1).

Garðhús (hjáleiga)

Garðhús

Garðhús.

„Býlin hafa verið þessi: Járngerðarstaðir voru höfuðbýlið, en kotabæir þessir: …Garðhús…“
(Örn.,1).
Í Jarðabók Árna og Páls frá 1703, bls. 19 eru Garðhús sögð gömul og jarðardýrleiki óviss.
„Hjáleigan Garðhús stóð nokkru austan við heimabæinn á Járngerðarstöðum, lítið eitt norðar en stórhýsið, sem Einar G. Einarsson reisti og enn stendur. Síðasti torfbærinn stóð fram á þessa öld, og var hann notaður sem verbúð í nokkur ár, eftir að steinhúsið var byggt. … Býlið var tekið út … 14. júní 1861, en blaðsíðan, sem úttektin er færð á er svo ílla farin, að litla vitneskju er af
henni að hafa um húsakost á hjáleigunni og ástand hennar. Þó má greina, að þetta ár hefur verið í Garðhúsum baðstofa, sem var sex álna löng með inngangi og hálf fimmta alin á breidd.
Hún var öll undir súð, með einu rúmi, og á henni var einn þriggja rúða gluggi. Fimm aðrar byggingar voru taldar í úttektinni …“ (J.Þ.Þ. og G.M.H,62-3).

Gjáhús (hjáleiga)
„Býlin hafa verið þessi: Járngerðarstaðir voru höfuðbýlið, en kotabæir þessir: …Gjáhús (Norður-Gjáhús heita nú Vík, en Suður-Gjáhús tilheyra Garðhúsum)…“ (Örn.,1)
Í Jarðabók Árna og Páls, bls. 18 segir: „Gjahus, sjötta hjáleiga bygð um langan aldur. Jarðardýrleiki óviss sem á heimajörðu.“
Í Manntali 1801, bls. 323 eru Gjáhús einbýli, en 1816 eru þau orðin tvíbýli.

Hóll (hjáleiga)

Grindavík

Grindavík – Járngerðarstaðahverfi.

„Býlin hafa verið þessi: Járngerðarstaðir voru höfuðbýlið, en kotabæir þessir: …Hóll…“ (Örn.,1).
„Á Hóli bjuggu árið 1822 hjónin Sturlaugur Jónsson og Guðrún Jónsdóttir, en er þau fluttust brott, virðist hjáleigan hafa lagst í eyði um hríð. Árið 1840 var Hóll kominn í byggð á ný og hélst svo fram yfir aldamót.“ (J.Þ.Þ. og G.M.H.,71).

Krosshús (hjáleiga)

Járngerðarstaðir

Gjáhús og Krosshús 1930.

„Býlin hafa verið þessi: Járngerðarstaðir voru höfuðbýlið, en kotabæir þessir: …Krosshús…“ (Örn.,1).
Í Jarðabók Árna og Páls frá 1703, bls. 19 segir: „Krosshús, sjöunda hjáleiga, gömul hjáleiga.
Jarðardýrleiki óviss sem á heimajörðu.“
„Krosshús í austur líka, en lengra frá og út við túngarðinn“ (frá Járngerðarstöðum) (G.B.,137)
Elsta heimild um húsakost í Krosshúsum er úttekt frá árinu 1888. „Samkvæmt henni hafa bæjarhúsin verið fjögur: baðstofa, göng, bæjardyr og eldhús. Baðstofan var fimm ára gömul, hálf sjötta alin á lengd og fimm álnir á breidd. Hún var öll undir súð, ,,…sem er að sjá lítt fúin en nokkuð vatnssósa af megnum slaga,“ eins og segir í úttektinni. Baðstofan var þiljuð innan, með ,, fjalargólfi fyrir gangi“, fjögurra rúða glugga og tveim rúmum. Önnur bæjarhús voru minni og sýnilega í lakara ástandi.“ (J.Þ.Þ. og G.M.H.,66).

Kvíhús (hjáleiga)

Járngerðarstaðahverfi

Járngerðarstaðahverfi – loftmynd 1954.

Kvíhús voru hjáleiga frá bænum Járngerðarstöðum í Grindavík. (Sjá Járngerðarstaði.)
„Býlin hafa verið þessi: Járngerðarstaðir voru höfuðbýlið, en kotabæir þessir: …Kvíhús…“ (Örn, 1).
Í Jarðabók Árna og Páls frá 1703, bls. 17 segir: „Qví hús, þriðja hjáleiga yfir l ára gömul. Jarðardýrleiki óviss sem á heimajörð.“ (50 ára)
Kvíhús eru ekki nefnd í manntali 1801 né 1816, en 1845 eru þar 6 í heimili.
„Kvíhús í suður frá heimabænum. … Kvíhús standa árlega í miklum voða fyrir sjóaráfalli…“ (G.B.,137).
„Upp af Fornuvör eru leifar eftir Kvíhús niðri á sjávarbakkanum…“ (Örn., 3).
„Jörðin nær frá sjó og upp til fjalls eins og önnur býli hér. Stendur bærinn niðri við sjó, og eru þar nokkur önnur býli, sem hafa sameiginlegt land nema túnblettina.“ (Örn., 1).

Langi (hjáleiga)
„Býlin hafa verið þessi: Járngerðarstaðir voru höfuðbýlið, en kotabæir þessir: …Langi.“ (Örn., 1).
„Austan við Járngerðarstaði var kot, sem hét Langi, eins og áður er getið. Túnið milli Járngerðarstaða og Garðhúsa var Langatún.“ (Örn.,4)

Rafnshús (hjáleiga)

Grindavík

Grindavík – Járngerðarstaðahverfi.

„Býlin hafa verið þessi: Járngerðarstaðir voru höfuðbýlið, en kotabæir þessir: …Rafnshús…“ (Örn., 1).
Samkvæmt Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín sem rituð var 1703 bls. 18, voru Hrafnshús innan við 40 ára, þ.e. byggð eftir 1663. Jarðardýrleiki óviss.
„Hrafnshús eru á milli Gjáhúsa og Akurhúsa út við túngarðinn… Hrafnshús, sem áður stóðu milli Ekurhúsa og Kvíhúsa, eru í seinni tíð flutt þangað, hvar þau nú eru.“ (G.B.,137).
„Jörðin nær frá sjó og upp til fjalls eins og önnur býli hér. Stendur bærinn niðri við sjó, og eru þar nokkur önnur býli, sem hafa sameiginlegt land nema túnblettina.“ (Örn., 1).

Vallhús (hjáleiga)
„Býlin hafa verið þessi: Járngerðarstaðir voru höfuðbýlið, en kotabæir þessir: …Vallarhús…“ (Örn, 1).
Í Jarðabók Árna og Páls frá 1703, bls. 17 segir: „Hjáleigur eru Vallarhús. Hefur verið um lángan aldur. Jarðardýrleiki óviss sem á heimajörðu.“
„Vallarhús standa í suðurátt að heiman að sjá innan í öllum kotakransinum.“ (G.B.,137)

Staðhættir í Grindavík

Járngerðarstaðir

Kort af Járngerðarstaðahverfi – ÓSÁ.

Land Grindavíkur er að mestu þakið hrauni sem runnið hefur eftir lok síðustu ísaldar.
Hraunflákar skipta Byggðinni í þrennt og milli hraunanna eru gróin svæði þar sem byggðin hefur risið. Sjóndeildarhringur Grindvíkinga til norðurs einkennist af frekar lágum en
svipmiklum fjöllum sem flest eru í landi sveitarfélagsins. Til suðurs er ströndin fyrir opnu úthafinu og er víðast hvar lág og lítið vogskorin. Nokkrar litlar víkur ganga inn í hana og eru
Staðarvík, Járngerðarstaðarvík og Hraunsvík þeirra stærstar.

Landnám og byggðaþróun

Hóp

Hóp; fornar minjar – uppdráttur ÓSÁ.

Í landnámabók er greint frá því að Molda-Gnúpur Hrólfsson hafi numið land í Grindavík og Þórir haustmyrkur Vígbjóðsson í Selvogi og Krýsuvík um árið 934. En Grindavíkurhreppur náði yfir tvær kirkjusóknir, Staðarsókn og Krýsuvíkursókn allt til ársins 1946. Synir Moldar-Gnúps settust að á þremur höfuðbólum sem hin 3 hverfi1 Grindavíkur heita eftir. Austast er Þórkötlustaðahverfi, þá Járngerðarstaðarhverfi, þar sem megin byggðin er í dag, en Staðarhverfi heitir vestast. Þessi hverfi eru meðal þess sem einkenndi gerð og þróun byggðar í Grindavík fram á þessa öld. Lítið sem ekkert er vitað um byggð í Grindavík næstu þrjár aldir eftir landnám en gert er ráð fyrir því að hverfin þrjú hafi byrjað að myndast strax á 10. eða 11. öld. Líklegt verður að teljast að staðsetning hverfanna ráðist af samspili graslendis á þessum stöðum og því að aðstaða til sjósóknar hefur verið góð. Hverfin þrjú voru aldrei formlegar einingar heldur aðeins þrír hreppshlutar og á milli þeirra voru engin formleg mörk, heldur réðust þau af landamerkjum jarða. Um það bil þremur öldum eftir landnám (á 13. öld) hófst eldgosahrina sem almennt gengur undir nafninu Reykjaneseldar. Þessi umbrot ollu miklum landspjöllum í Grindavík. Rituð heimild frá því um aldamótin 1700 gefur til kynna að þau hafi jafnvel eytt vestasta hluta byggðarinnar sem þá var. Má reikna með að öskulagið hafi þakið alla sveitina, kæft gróður og valdið bændum miklum búsifjum.

Grindavík

Grindavík – Járngerðarstaðarhverfi 1958.

Byggðin í hverfunum í Grindavík virðist hafa verið í svipuðu formi frá 13. öld og allt til upphafs 20. aldar. Byggð í hverfunum virðist hafa svipað mjög hver til annarrar og ekkert hverfi virðist hafa verið á nokkurn hátt fyrir hinum. Þó hefur Staður haft nokkra sérstöðu. Þar var kirkjustaður og grafreitur Grindvíkinga og þar hafði verslun einnig þróast og því munu Grindvíkingar hafa átt tíðari erindi þangað en á aðra bæi í sveitinni.
Eftir Svarta dauða 1402 mun þungamiðja byggðar hafa færst nær sjónum og sjávarútvegur efldist. Grindavíkurhverfin munu þá hafa vaxið og byggðin aukist. Risu þar fjöldi verbúða.
Ekki er ljóst hvenær Grindavík varð verslunarstaður, en heimildir eru um aukna verslun þar á 15. öld og líklegt virðist að Skálholtsstóll hafi átt þar vörugeymslu- eða verslunarhús í lok aldarinnar.
Þegar Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín, var tekin saman árið 1703, voru allar jarðir í Grindavík, aðrar en Húsatóftir, í eigu Skálholtsstóls og voru það framundir aldamótin 1800, er biskupsstóll var lagður niður í Skálholti og stólsjarðirnar seldar. Húsatóftir voru konungseign, en höfðu verið eign Viðeyjarklausturs fyrir siðaskipti.

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðahverfi 1946.

Á 15. öld og fyrri hluta þeirrar 16. stunduðu Englendingar og Hansakaupmenn verslun í Grindavík. Ekki voru samskipti þeirra þó friðsamleg og kom til átaka milli þeirra með mannavígum.
Þegar einokunarverslun Dana var komið á 1602 var Grindavík meðal þeirra 20 hafna sem gert var ráð fyrir að siglt yrði til árlega. Leyfi sem Hansakaupmenn höfðu til verslunar var úr gildi fallið. Íslandsversluninni var skipt milli þriggja borga, Kaupmannahafnar, Málmeyjar og Helsingjaeyrar. Í hlut Kaupmannahafnar komu Grindavík, Keflavík, Hafnarfjörður, Dýrafjörður, Ísafjörður og Hofsós. Þrátt fyrir þetta héldu Þjóðverjar áfram að versla á Íslandi á fyrstu áratugum 17. aldar og oft komu skip þeirra til Grindavíkur á þessu tímabili. Ákvæði um árlega skipakomu á verslunarstaði voru oft hunsuð og einokunarverslunin var stopul framan af.
Á einokunartímanum risu ýmiss konar verslunarhús í Grindavík eins og öðrum verslunarstöðum, bæði úr timbri og torfi. Verslunarfélögin fluttu tilsniðin hús til landsins af nokkrum gerðum. Mörg voru gerð úr láréttum stokkum, önnur voru grindarhús, klædd lóðréttum borðum og um 1765 risu svokölluð bolhús á mörgum verslunarstaðanna. Fáein hús eru enn uppi standandi frá þessum tíma annars staðar á landinu. Flest eru þau í Neðstakaupstað á Ísafirði, en þar getur að líta hús af þeim þremur gerðum sé hér hafa verið nefndar.

Grindavík

Grindavík – seilað í Norðurvör.

miðja 18. öld var Grindavíkurhöfn talin ófær venjulegum hafskipum og beinar siglingar þangað höfðu fallið niður. Vörur sem ætlaðar voru Grindavíkurverslun voru fluttar að Básendum og þaðan voru þær fluttar á hestum og bátum til Grindavíkur. Grindavík varð eins konar úthöfn Básendaverslunar.
Við afnám einokunarverslunarinnar 1786 voru eignir hennar seldar og víðast bárust nokkur tilboð. Enginn sýndi þó verslunareignunum í Grindavík áhuga í fyrstu enda staðurinn ekki árennilegur til verslunarreksturs. Veturinn 1788 – 1789 keypti Árni Jónsson á Eyrarbakka þó verslunina í Grindavík, meðal annars fjögur hús í landi Húsaftófta. Verslunarrekstur hans gekk afar illa og lognaðist út af um 1796. Haustið 1802 var verslunarhúsið rifið og efni þess selt og árið 1806 höfðu öll verslunarhúsin verið seld og rifin. Verslun lá niðri í Grindavík fram undir lok aldarinnar. Um aldamótin 1900 sóttu Grindvíkingar verslun til Lefoliiverslunar á Eyrarbakka og Duusverslunar í Keflavík.

Saga Grindavíkur

Flagghúsið

Flagghúsið 1910 og Einarsbúð.

Einar G. Einarsson var fyrsti staðbundni kaupmaðurinn en hann hóf verslun í Grindavík árið 1897. Verslun hans dafnaði vel og að sama skapi dró úr umsvifum Eyrarbakka- og Keflavíkurverslana. Árið 1902 var stofnsettur þar löggildur verslunarstaður á ný en í þetta sinn var hann við Járngerðarstaðarvík. Árið 1932 tók til starfa önnur verslun á staðnum undir nafninu Gimli og upp úr 1940 hóf Kaupfélag Reykjavíkur og nágrennis starfsemi í Grindavík en Kaupfélag Suðurnesja tók svo við rekstrinum og varð stærsta verslunarfyrirtækið á staðnum.
Frá fyrstu tíð hefur sjósókn verið stunduð í Grindavík ásamt landbúnaði og héldust þeir búskaparhættir fram á miðja 20. öld. Vægi landbúnaðar var mikið á fyrstu öldum byggðarinnar  í svokölluðum landbýlahverfum. En þegar sjávarútvegur jókst á 14. öld byggðust svokölluð sæbýlahverfi í námunda við verstöðvar.
Á árunum 1840 og 1841 voru aðeins 7 aðalbýli í sókninni og 13 hjáleigur. Aðalbýlin voru þessi, talin vestan frá, Staður, Húsatóftir, Járngerðarstaðir, Hóp, Þórkötlustaðir, Hraun og Ísólfsskáli.
Byggð í Staðarhverfi var nokkuð stöðug á árunum 1801 – 1920 en lagðist svo alveg af fljótlega eftir 1920. Byggð í Þórkötlustaðahverfi og Járngerðarstaðahverfi var nokkuð jöfn fram til ársins 1910. Fólksfjöldi var svipaður en á fyrri hluta 20. aldarinnar dró þó nokkuð í sundur með hverfunum. Að lokum var svo komið að Þórkötlustaðahverfi var orðið nokkurs konar úthverfi við hlið meginbyggðarinnar.
Síðari heimsstyrjöld hafði mikil áhrif á byggðaþróun Grindavíkur. Fyrstu áhrif styrjaldarinnar voru að stórir markaðir lokuðust tímabundið árið 1939 en síðla sama árs tóku Bretar við nær allri vöru sem sett var á markað. Vinna tengd hersetuliðinu dró fólk frá fiskvinnslu svo tímabundin fækkun varð í Grindavík.

Fiskveiðar og útgerð

Grindavík

Grindavík 1963.

Fiskveiðar og fiskvinnsla hafa löngum verið aðaluppistaðan í atvinnu og lífsbjörg í Grindavík.
Frá því Grindavík byggðist og fram á miðja 19. öld var ein og sama veiðiaðferð notuð, handfæri. Oftast var stutt róið, öldum saman á sömu miðin, út á víkurnar eða stutt út fyrir þær.
Fyrstu grindvísku bátarnir hafa sjálfsagt verið mjög litlir. Jafnvel aðeins fyrir tvo til fjóra. Skipin hafa verið smátt og smátt að stækka og talið er að um miðbik 14. aldar hafi tólfæringar verið mjög algengir í Grindavík. Strax á 15. öld sóttust erlendir menn mjög eftir fiski í Grindavík og lögðu útvegsmenn mikið kapp á að auka útgerð sína. Bændur í öðrum landshlutum sendu vinnumenn sína á vertíð í verið á Suður- og Vesturlandi, og hafa þá verið settar upp einhvers konar verbúðir. Um miðja 19. öld var fyrst komið með lóð (línu) til Grindavíkur. Línan var stutt í byrjun og stutt á milli öngla, um 100 önglar á streng og 5-6 strengir með áttæringum, en þær smálengdust, ár frá ári en í upphafi var ávallt beitt á sjó. Þessi aðferð tíðkaðist fram um síðustu aldamót. Þá er byrjað að nota net og um svipað leyti er hætt að beita línur á sjó.

Grindavík

Grindavík – fyrsta bryggjan í Járngerðarstaðahverfi.

Árið 1924 hófst vélvæðing báta í Grindavík, nokkru seinna en annars staðar á landinu. Ástæða þess er líklega léleg hafnaraðstaða fyrir stærri báta miðað við önnur vogskornari landsvæði.
Árið 1928 voru allir bátar sem gerðir voru út frá Grindavík orðnir vélbátar en þá þurfti enn að setja bátana á land eftir hvern róður, það var ekki fyrr en á 20. öld sem menn byrjuðu að nota spil til þess að draga báta á land. Fyrsta bryggjan í Grindvík var byggð í Járngerðarstaðahverfi, önnur var svo byggð í Þórkötlustaðahverfi árið 1930 og 1933 var bryggja byggð í Staðarhverfi.
Árið 1939 var Ósinn grafinn og er með ólíkindum að það hafi tekist þar sem allt var grafið með handverkfærum. Dýpkun hafnarinnar árið 1949 markaði svo enn á ný tímamót í uppbyggingu staðarins. Í framhaldinu urðu miklar breytingar á atvinnuháttum þegar fyrirtæki um fiskvinnslu og útgerð voru stofnuð og voru hafnarframkvæmdir miklar á næstu árum og áratugum.

Landbúnaður

Grindavík

Grindavík 1925.

Eitt einkenni elsta hluta bæjarins er að húsin standa frekar strjált og eru túnskákir víða á milli en þetta helgast af því að svokallaður tómthúsbúskapur, sjósókn ásamt landbúnaði, tíðkaðist í Grindvík fram undir miðja 20. öld. Vægi landbúnaðar var mikið á fyrstu öldum byggðarinnar en hann hefur þó alla tíð verið erfiður í Grindavík, eldsumbrot með hraunrennsli og öskulagi hafa skert gróður og valdið búsifjum. Til að fóðra búpeninginn hafa bændur því þurft að grípa til fleiri ráða en heyskapar, einkum seljabúskapar á sumrin og fjörubeit og söfnun hríss og lyngs til að drýgja hey fyrir kýr. Sel eru þekkt víða í Grindavík og eru sum þeirra ævaforn.
Núlifandi Grindvíkingar (fæddir upp úr 1940) muna enn vel eftir því að á hverju heimili voru hænur og kindur og sums staðar einnig kýr, en þeir sem héldu kýr seldu oft nágrönnum sínum hluta af mjólkinni. Heimilisfeðurnir voru flestir sjómenn. Enn í dag er fjárbúskapur í Grindavík þó það sé í mjög litlu mæli og eingöngu stundaður af tómstundabændum.

Járngerðarstaðahverfi

Grindavík

Grindavíkurkirkja – málverk eftir G. Scheving.

Járngerðarstaðir voru vettvangur Grindavíkurstríðsins 1532 og Tyrkjaránsins 1627 og vex þar blóðþyrnir er heiðið og kristið blóð blandaðist.
Árið 1703 voru „öngvar engjar“ á Hópi. „Flæðihætt er fyrir sauð, og líka brýtur sjófargángur túnið, og er hætt við enn meira landbroti.“ Bærinn varð snemma eign Skálholtsstaðar, líkt og flestir útvegsbæir á suðurströnd Reykjanesskagans.
Um Járngerðarstaði 1840 segir í Landnámi Ingólfs III6 „eigi fagurt á Járngerðarstöðum, því þó þar ei sé ýkja illa húsað, þá stendur bærinn og allt hverfi þetta nema Krosshús niður í dæld eða dalverpi, og er þaðan hvergi víðsýnt. Þýfð hafa tún verið á Járngerðarstöðum, en eru mikið sléttuð í seinni tíð af bóndanum Þórði sál. Einarssyni og þar núverandi bónda sr. Einari Jónssyni. Hafa og nokkrir hjáleigubændurnir í seinni tíð þessa jarðarbót eftir þeim upp tekið. Bæði í túninu og utanhúss eru djúpar vatnsgjár, í hverjar sjór fellur að í og út; í sumum þeirra er oft veiddur áll, og mætti þó mikið meira veiða, ef atorka og rækt við höfð. Það hafa Járngerðarstaðir til landkosta fram yfir Stað og Húsatóptir og meiri en nokkurt annað býli í þessari sókn, að fyrst er þar nóg vatn í gjám þessum handa fénaðinum, og svo í öðrum smá stöðutjörnum, eins líka þar er grasgefnast utantúns, þó eigi megi hagar heita. Mætti þó halda þar fáum skepnum heima á sumardag, hvað ekki má heita mögulegt á Stað og Húsatóptum.“

Grindavík

Grindavík – séð frá Þjófagjá.

Árið 1847 voru Járngerðarstaðir eign Skálholtsstaðar líkt og flestir betri útvegsbæir á suðurströnd Reykjanesskagans. „Selstöðu hefur jörðin og brúkar þar sem heitir Baðsvellir.
Hjáleigur eru; Vallarhús, Lambús, Kvíhús, Hrafnshús, Akurhús, Gjáhús, Krosshús, Garðhús og Hlaðhús. Búðir til forna voru; Gullekra (tómthús), Krubba (tómthús) og Litlu-Gjáhús, skv. Jarðabók Árna Magnússonar 1703. Þá var „heimræði árið um kring og lending í betra lagi. Engvar öngvar. Jörðin nær frá sjó upp til fjalls eins og önnur býli hér.“
Elsta úttekt bæjarins er af Vesturbænum frá 1882. Þar voru þá baðstofa, göng, bæjardyr, skáli, eldahús, búr í norðurenda baðstofu, fjós með 3 básum, hesthús fyrir 3 hesta, heyhús, smiðja, sjómannabúð, fiskhjallur, húsagarður með bæjarrönd, túngarður 160 fðm, traðargarður 85 fðm og kálgarður. Fyrir sumu þessu mótar fyrir enn í dag.

Grindavík

Grindavík – gamli skólinn.

Þróun byggðarinnar í Járngerðarstaðahverfi hefur einkennst mjög af atvinnuháttum og landfræðilegum aðstæðum. Árið 1925 gerði mikið sjávarfljóð í Grindavík er eyðilagði mörg hús og skemmdi stórkostlega uppsátrið í annarri vörinni og eyðilagði hina að mestu.

Fram til þess tíma bjuggu margir í torfhúsum sem skemmdust í flóðinu. Mikið af húsum í gamla bænum er byggður á næstu árunum eftir flóðin, 1925-1930. Í Landnámi Ingólfs segir um 1840 „á bæ þessum bagar vatnsleysi til neyslu.“ En vatn hefur væntanlega ávallt verið verðmæti í Grindavík enda hraunið gljúpt og regnvatn rennur fljótt niður og saltur sjór gengur undir skagann og brim yfir hann og ofanvatn því oft heldur salt. Enda var í Grindavík lengi steypt vatnsþró við hvert hús þar sem regnvatni var safnað. Eftir að vatnsveita kom í bæinn var þessum þróm iðulega breytt í salernisaðstöðu.

Grindavík

Grindavík – Einarsbúð t.h.

Breyttir atvinnuhættir, eftir 1950 þegar útgerðar- og fiskvinnslufyrirtæki eru stofnuð, hafa haft áhrif á heimilishald í Grindavík en smám saman lagðist búfjárhald af á heimilum og útihús grotnuðu því niður eða voru tekin til annarra nota.

Niðurstaða
Í Landnámu er sagt að Molda-Gnúpur Hrólfsson hafi numið Grindavík ásamt sonum sínum. Elsta ritaða heimild sem minnist á Járngerðarstaði sjálfa er Wilkinsmáldagi frá 1397. Annars eru heimildir um jörðina fyrir 1700 af mjög skornum skammti.

Heimild:
-Fornleifaskráning, Járngerðarstaðir í Grindavík og hjáleigur. Þjóðminjasafn 2001.
-Húsakönnun, Gamli bærinn í Grindavík – janúar 2015.

Járngerðarstaðahverfi

Járngerðarstaðahverfi – húsakort.

Staðarhverfi

Árið 199 var gerð rannsóknar skýrsla um „Fornleifar Staðarhverfi“. Hér er getið um sumt það, sem fram kemur í skýrslunni um gömlu bæina og merkar minjar.

Staður

Staður

Staður.

Árið 1964 fór Staður með öllu í eyði og þar með Staðarhverfið.
Elsta heimild sem varðveist hefur um húsakost á Stað, er „Reikningur kirkjunnar og Staðarins í Grindavík“, sem gerður var eftir andlát síra Gísla Bjarnasonar árið 1657. Þar var bæjarhúsum lýst allnákvæmlega þó að innbyrðis afstaða þeirra sé ekki skýr. (jþþ,101-3).
Torfbær var á staðnum fram til 1938 er Jón Helgason ábúandi á Stað byggði steinhús ásamt stórri viðbyggingu. Grunnur og tröppur steinhússins sjást enn (1999) rétt norðan við núverandi kirkjugarð.
Skv. munnlegri heimild (Ólafur Gamalíelson, uppalinn á Stað) stóð síðasti torfbærinn við NV horn núverandi kirkjugarðs. Tóftirnar eftir torfbæinn voru sléttaðar út fyrir nokkrum árum en traðirnar eru enn greinilegar norðan við kirkjugarðinn.
„Bærinn á Stað stóð eina 4-500 metra upp (norðvestur) frá sjó og var túnið að mestu sjávarmegin við hann… – Árið 1964 fór Staður með öllu í eyði og þar með Staðarhverfið.“ (Örn.).

Kirkjustaður. 37,3 hdr. 1847. Skálholtskirkjujörð. 1657 voru 7 hjáleigur: Krókshjáleiga, Beinróa og Brykrukka, Hús Ólafs Sighvatssonar, Hús Daða Símonarsonar, Vestur-Hjáleiga og ein ónafngreind auk einnar ónafngreindrar í eyði. Saga Grindavíkur I, 104. 1703 voru Sjávarhús, Krókur og Beinróf  hjáleigur, Bergskot 1803. Staður var prestsetur til 1928 en fór í eyði 1964 og þar með Staðarhverfi. Ö-Staður, 4; GB, 49-50. “Til forna átti Staður rétt til vatnssóknar í Baðstofu í Húsatóftalandi. Til endurgjalds áttu Húsatóftir þangfjörutak á Stað.» GB, 39. Á tuttugustu öld byggðust eftirfarandi tómthús í landi Staðar: Merki, Lönd, og Melstaður.

Staður

Staður fyrrum.

c. 1200: Staður í Grindavík (G) -Maríu, Jóni post, Stefáni, Ólafi, Blasíu, Þorláki, Katrínu. Kirknaskrá Páls, DI XII, 9.
1367: lxx. Kirkia ad stad j grindavijk er vijd med gude sælle mariu Jone postula. þad ber allt samann vid wilchinzbok. bæde vm reka og annad. vtann hier stendr suo. Kirkia a reka fra Biargsenda og til gardzenda er geingur fyrir vestann arfadalinn. Jtem stendur hier suo. skalhollttzstadr a helming j hualreka ollum vid stad j grindavijk ef meira er en iiij vætter. millum Rangagiogurs og valagnupa annad ber samann. vtann vilchinzbok helldur nockut meira. Hítardalsbók, DI III, 221-222.

Staður

Staður 1960.

1397: a halftt heimaland oc halftt annad mælisland ad Hvsatopttum og mork vadmäla af Jarngierdarstodum. alldri skal minna gialldast þott sa hafi eingi fie er þar byr. giallda skal oc alla kirkiutiund þott hann giori meiri oc aller heimamenn. Þadann skal oc eigi giallda legkaup vnder heimamenn. gialldi þo presti legsaungskaup. [+á grasnautnar hvalreka, reka og viðreka] Þar skal vera heimilisprestur. sa er kirkiu vardveiter. skal abyrgiast hana ad aullu oc allt kirkiufie Kirkia ä Skogfell. giallda skal til Skalholltz vjc skreidar hvert är oc flytia til Hialla. Hun a fiordung j Lonlandi. og skal sa hafa leigu af þeim sem kirkiu vardveiter slijka sem settist vid þann er þar byr. Skalhollt a helming j hvalreka ollum vid stad j Grindavik ef meire er enn iiij vætter millum Rangagiogurs oc Valagnvpa. Þar eiga fleiri j. enn þad verdur attungur skipttingarhvals er hlytst j þessu takmarke j Skalhollti. og þvi eiga Staderner fiordung vr aullum hval. vmm framm aa kirkian or Grindavijk settung vr Hvsatoptta hlut aukist ij kyr oc iij ær. ij hvs. iij hundrad. Jtem gefist sidan sira Ormur tok med einn hestr. portio vm iij ar xvij aurar; Máldagi Staðrkirkju, DI IV,
101-102.

Staður

Staður – uppdráttur ÓSÁ.

1477: Grindavijk. Kirkian ad stad j grinndavijk er vijgd med gude oc sælle gudz modur märie. jone postula. stephano. olauo. Blacio biskupe. Thorlacho Biskupe oc heilagre katrijnu meyiu fiorum nottum eptir allra heilagra messo. hun a allt heima lannd oc halft annars mælis lannd ad husatoptum oc mork vadmala. af jarngerdartodum. aldreij skal minna gialldst þott sä hafi einngin fee sem þar byr. giallda skal oc alla kirkiutijunnd þott hann giore meire oc allir heimamenn. þadan skal oc ej giallda lægkaup vnndir heimamenn. giallde þo preste legsaungskaup. hun ä ä grasnautnnar hualreka fiorar vættir oc settunng vr þeim hluta er husatoptum fylgir. enn sa hualreke er frä valagnupum til biarnnargiär. enn ef hualur er meire enn iiij vætter þa skal skipt j helmijnnga oc skal hafa stadur j grinndavijk oc jarngerdarstader oc husatoptir helmijnng. þar skal vera heimilisprestur sa er kirkiu vardveitir [oc] skal abyrgiast hana oc allt kirkiufee.kirkia a reka fra gardzbiargz ennda oc til gardz ennda er geingur fyrir vestann arfuadale. hälfur vidreke j mille biarnnargiär oc marks ä arfadalznese. halfur vidreke ä oddbiarnnarkelldu. kirkia a skogfell. hun a iiij kyr. xij ær. iiij saude veturgamla. nockrer hluter jnnann gätta feelitlir et cetera giallda skal til skalhollts .vj. hunndrud skreidar huert är oc flytia til hialla. hun a fiordung j lonalannde oc skal sa hafa leigu af þeim sem kirkiu vardveitir slijka sem hann sættist a vid þann er þar byr. skalhollt a helmijnng I hualreka ollum vid stad j grinndavijk. ef meire er enn iiij vætter millum rangagiogurs [oc valagnupa]. Máldagi Staðarkirkju, DI VI, 125-26. [Þjsks Bps A II, 1, bl. 122a-b].

Staður

Staður. Kirkjan stóð á hólnum nær.

1491-1518: Stadar maldagi j grindavik. Kirkian aa stad j grindavik er vigd med gude: sælli marie og johanne postula. steffano. olafe konge. blasio biskupi. thorlake biskupe. heilagre mey katrine: iiij nottvm eptir allra heilagra messo. hun aa allt heimaland: og hvn aa allt halft annad mælisland at husaþottum. og mork vadmala ath jarngerdarstodvm. alldri skal minna gialldazt þott sa hafi eigi fie er þar byr: giallda skal og alla kirkiv tivnd þott hann giore meire og allir heimamenn. þadan skal og giallda legkaup undir heimamenn. giallda þo presti liksaungskaup. hvn aa grasnautnar hvalreka iiij vættir og siettung vr þeim hlvta er hvsaþottvm fylgir. en sa hvalreki er fra valagnvpvm og til biarnargiar. ef hvalvr er meire en iiij vættir: þa skal skipta j helminga: og skal hafa grindavik og jarngerdarstodvm og hvsaþottir helming. þar skal vera heimilisprestur sa er kirkiu vardveitir: skal hann äbyrgiazt hana at ollv og alltt kirkiv fie: kirkia aa reka firir biarksenda og til gardsenda er gengvr firir vestan arfadali: halfur vidreki aa millvm biarnargiar og markz aa arfadalsnesi. halfur vidreki a oddbiarnarkielldu. kirkia a skogfell: hvn a vj kyr og hesta ij: vj c j busbuhlutum: med skipi: hvn a fiordvng j lonalandi og skal hafa af þeim sem kirkiv vardveitir sliktt sem hann verdvr vid þann asattvr er þar byr.skalholtz stadvr aa hellming j hvalreka ollvm vid stad j grindavik ef meire er enn iiij vættir aa millvm rangagiogvrs og valagnvpa þar eigv flerie j: En þad verdur attungur skiptingar hvals. er hlytzt j þessv takmarki j skallhollt. og þvi eiga
staderner fiordung vr ollvm hval. og vm fram kirkian j grindavik siettung vr hvsaþotta hlvta. Máldagi Staðarkirkju, DI VII, 48-49 [AM 238 4to, bl. 28 (Bessastaðabók skr. c. 1570); JS 143 4to, bl. 19-20, 149-50 skr. 1696 – þessi máld er samstofna Vilchin og sennilega eldri útg. ef eitthvað er – stofninn án efa frá 13. öld sbr. ábyrgðarákv og orðalag eins og ‘búsbúhlutir’].
1553-54: Máldagi Staðarkirkju, DI XII, 663-664.
1575: Máldagi Staðarkirkju, DI XV, 640.
16.2.1907: Selvogsþing lögð niður og Krýsuvíkursókn lögð til Staðar í Grindavík. PP, 95 [lög].

Staður

Staður. Síðasta íbúðarhúsið – byggt um 1930.

16.11.1907: Kirkjuvogssókn lögð til Staðar. PP, 12 [lög].
1909: Staðarkirkja flutt í Járngerðarstaðahverfi. PP, 102.
29.10.1929: Krýsuvíkurkirkja lögð niður og sóknin lögð til Grindavíkurkirkju. PP, 95 [stjórnarráðsbréf].
1840: Á Stað eru mikið slétt og í gróanda yfrið fögur tún; eru þau undirorpin afarmiklu sandfoki af öllum vindum frá útnorðri til landsuðurs, við hvað þau árlega skemmast og til þurrðar ganga. Við aldamótin voru af þeim vel fóðraðar 4 kýr, en nú á dögum gefa þau ekki af sér fóður fyrir 1 kú, þó vel í ári láti, og verður því að afla þess, á vantar, kjarna úr fjöru og lyngi úr heiði. Af sjóar ágangi er túninu líka mikill skaði búinn af sunnanveðrum og brimi. Bera þau enn að sönnu menjar eftir mikla flóðið 1798, og munu þó aðrar enn yngri vera. … Fáir eru kostir við jörð þessa, nema ef telja skal trjáreka, að hverjum eru þó mikil áraskipti, og allgóða fjárgöngu á vetrardag í fjörunni. En þess fleiri mætti telja hennar ókosti, t.d. í áföllum af feykilegu sandfoki, sem og líka sjóargangi í stórflóðum. Aldeilis engin hagabiet á sumardag, hvorki fyrir sauðfé, kýr né hesta, hverjir við minnstu brúkun horast niður af hagaleysi, en búsmali allur þá í sel rekinn, að eigi tapist hér heima né verði mönnum ónýtur fyrir fóðurleysi eða gangi á túnum manna. Vatnsskortur er hér líka mikill, og eigi vatn að fá handa fénaði nema út undir Staðarbergi í gjá, sem fellur að og út í …” sóknarlýsing, Landnám Ingólfs III, 134.
21.1.1925: “gekk sjórinn langt upp á Staðartún, flæddi næstum upp að kirkjugarði, braut stórt skarð í malarkambinn og gróf sig þar niður í mold “svo túnið er nú með öllu varnarlaust fyrir hverju venjulegu stórstraumsflóði.” “ GB, 49.

Hrafnkelsstaðaberg (bústaður)

Rafnkelsstaðaberg

Gatklettur í [H]Rafnkelsstaðabergi.

Vestan við Háleyjarbungu er smálægð. Framan við hana er Krossvíkin en utar tekur við Krossvíkurberg, sem einnig er nefnt Hrafnkelsstaðaberg. Þykir það nafn benda til þess að þarna hafi verið bær meðan Staður var í „miðri sveit“. (GB,30; Örn.)

Beinrófa/Beinróa (hjáleiga)
„Þær óbyggðu og óbyggilegu hjáleigur eru: … Beinrófa… Þessar hjáleigur hafa lagzt í eyði fyrir sjávargang eða sandfok“ (GB,40). Þeirrar hjáleigu er hvergi getið í eldri heimildum
svo vitað sé nema hjá Árna Magnússyni. (GB,57) og ekki er vitað hvar hún á að hafa staðið.

Blómsturvellir (hjáleiga)
Skammt austur af kirkjugarðinum var bakki, allstór, nefndur Blómsturvöllur. Hann var fast austan við túnið. Húsatóftir voru austast á Blómsturvelli. Hafa þær líklega verið af samnefndu býli – en þess getur Geir Bachmann svo í Lýsingu Grindavíkursóknar 1840-41: „Blómsturvellir, austan til í túninu, af sandi eyðilagðir síðan 1800, og sést þar nú lítt til rústanna.“ (Landnám Ingólfs III, bls. 134).
Blómsturvellir eru taldir í byggð í úttektargerð árið 1774 (GB,57).
„Nú hefur verið sléttað úr Blómsturvelli og er þar nú bílastæði við kirkjugarðinn og tóftirnar alveg horfnar. Þá nær nýi kirkjugarðurinn aðeins út á Blómsturvöll.“ (Örn.).

Hús Daða Símonssonar (hjáleiga)
„… þetta vor [1657] voru sjö hjáleigur byggðar í landi Staðar… tvær voru kenndar við ábúendur sína, … og Hús Daða Símonssonar… Enginn veit nú, hvar … bæir þeirra Ólafs og Daða stóðu, en
hugsanlegt er, að … þeir… hafi verið hjáleigurnar, sem síðar voru nefndar Blómsturvellir og Stóragerði.“ (JÞÞ,104).

Staðarhverfi

Staðarhverfi – uppdráttur ÓSÁ.

Hús Ólafs Sighvatssonar (hjáleiga)
„… þetta vor [1657] voru sjö hjáleigur byggðar í landi Staðar… tvær voru kenndar við ábúendur sína, Hús Ólafs Sighvatssonar…Einna myndarlegastur virðist bær Ólafs Sighvatssonar hafa verið …
Enginn veit nú, hvar … bæir þeirra Ólafs og Daða stóðu, en hugsanlegt er, að … þeir… hafi verið hjáleigurnar, sem síðar voru nefndar Blómsturvellir og Stóragerði.“ (JÞÞ,104).

Krókur (hjáleiga)

Staður

Staður-loftmynd 1954.

„Þær óbyggðu og óbyggilegu hjálegur eru: … Krókur… Þessar hjáleigur hafa lagzt í eyði fyrir sjávargang eða sandfok“ (GB,40).
Krókur stóð vestur við Móakot. Hann var í byggð 1703 en sr. Geir Bachmann segir í sóknarlýsingu sinni frá 1840, að um hann sjáist lítil merki, en að hann hafi staðið „í túninu sem nú er ræktað milli
Móakots og Staðar“. (Örn.;GB,57).

Krubba/Krukka/Brykrukka (hjáleiga)
„Þær óbyggðu og óbyggilegu hjálegur eru: … Krukka … Þessar hjáleigur hafa lagzt í eyði fyrir sjávargang eða sandfok.“ (GB,40).
„Krubbhóll er fast sunnan við Dægradvöl. Sagt er, að á honum hafi fyrir löngu staðið hjáleigan Krubba og dragi hann nafn sitt af heinni. Er þar líklega um að ræða sömu hjáleiguna og séra Geir
Bachmann nefnir Krukku í sóknarlýsingu sinni: Krukka veit ég ei, hvenær var í lögð í eyði, en þar er nú lambhús.“ (Örn.).
Enn heitir Krukkuhóll rétt neðan við brunninn í Staðartúni. (GB, 57).

Kvíadalur (hjáleiga)

Staðarhverfi

Kvíadalur.

Sr. Geir Bachmann telur í sóknarlýsingu sinni frá 1840 upp hjáleigur staðarins: „c. Kvíadalur, kvígilda- og húslaust, tómthús. Landskuld 1 vætt.“ (GB,40).
Kvíadalur hefur verið lagður undir staðinn þegar úttekt var gerð 1928. Skammt suður af Hundadal er Brunndalur, slétt flöt neðst í túni. Liggur hann frá austri til vesturs næst sjávarkambinum.
Hjáleigan Kvíadalur var suðaustast í Brunndal, niður við kamp. Sjást rústir hans vel ennþá er örnefnaskrá fyrir Stað er gerð 1977. (GB,34,40,50; Örn.).
„Neðst í Staðartúni, rétt ofan við kampinn, þar sem hafrótið hefur hlaðið sínum mörgu sæbörðu hnullungum í myndarlega hrönn, þarna austarlega fyrir miðri Staðarbótinni – þar standa
enn lágar grasi grónar tóftir hjáleigunnar Kvíadals … Í manntali 1822 er Kvíadals ekki getið, svo að þá mun þar ekki hafa verið byggð. En fólk hefur verið þar löngu fyrr, því að í þessu sama
manntali eru tveir menn fæddir í Kvíadal annar 1767 hinn 1786. Í manntali 1829 eru talin þar til húsa Hálfdán Jónsson 32 ára og Gróa Gísladóttir kona hans ári yngri. [Engin byggð í Kvíadal
1833-1845. Síðustu ábúendur voru Eyjólfur Oddsson og Vilborg Ólafsdóttir] … Skammt varð á milli gömlu hjónanna í Kvíadal. Vilborg dó 30. maí 1918 en Eyjólfur ári síðar 22. maí 1919.
Síðan hefur Kvíadalur legið undir Stað en gróin tóftarbrotin niðri við sjávarkambinn minna okkur enn í dag á hið hógværa mannlíf í smábýlinu í túnfætinum á prestssetrinu.“ (GB, 66-67).

Litlagerði (hjáleiga)

Staðarhverfi

„Þær óbyggðu og óbyggilegu hjálegur eru: … Litlagerði … Þessar hjáleigur hafa lagzt í eyði fyrir sjávargang eða sandfok.“ (GB,40).
„Litlagerði var u.þ.b. 70-100 m í vestur frá Staðargerði, þar í túnjaðrinum.“ (Örn.).
„Frammi á Gerðistöngum vestanverðum spölkorn vestan við rústirnar af Stóragerði sér enn móta fyrir undirstöðum húsanna í Litlagerði innan um sæbarða hnullunga, sem brimið hefur
skilið þar eftir í síðasta flóði. Ótrúlega nærri sjónum hefur bærinn staðið. Rétt framan við bæjarþilin hefur brimhvítt löðrið úðazt yfir svartar fjöruklappirnar. Áður fyrr var Litlagerði þó í enn
nánara sambýli við hafið, því að svo segir sr. Geir Bachmann í sóknarlýsingu sinni 1840: „Þar sem Litlagerðishúsin stóðu er nú hár og stórgrýttur malarkambur“. Það virðist vera upphaf byggðar
í Litlagerði innan þess tímaramma, sem hér er miðað við, að þangað kemur vorið 1851 Halldór nokkur Bjarnason austan af Skeiðum. (GB,72).
Lagðist í eyði 1914. (GB,73).

Staðarhverfi

Staðarhverfi og konungsverslunin – uppdráttur ÓSÁ.

Melstaður (hjáleiga)
„Melstaður nefnist nýbýli frá Stað. Húsið er um 5-600 m norðaustur frá Stað, sunnan undir svonefndun Hvirflum. Húsið var byggt 1936, en skemmdist mjög í eldi árið 1950 og lagðist þá af föst búseta á Melstað.“ (Örn.).

Móakot (hjáleiga)

Staðarhverfi

Móakot.

Sr. Geir Bachmann telur í sóknarlýsingu sinni frá 1840 upp hjáleigur staðarins: „a. Móakot, kvígilda og húsalaust, þó fylgir grasnyt. Landskuld 2 vættir.“ (GB,40).
„Móakot var u.þ.b. 150-200 m austan við Stað. Garður var milli túnanna. Nú er hann horfinn og túnin sameinuð.“ (Örn.).
„Móakot var í byggð fram á öld steinsteypunnar og ber þess augljós merki enn í dag, þar sem stæðilegt hús ber sig vel og reisulega, þótt það hafi staðið að mestu autt og yfirgefið í þrjá áratugi.
Það stendur hátt á barðinu vestast í Staðartúni… Bærinn stendur uppi fyrir miðri Staðarbótinni, víkinni, sem liggur opin til hafs milli Staðarmalar og Gerðistanga…“ (GB,57-58).
Elsta byggð sem minnst er á í bók Gísla er frá 1822, byggð lauk 1945.

Nýibær (hjáleiga)

Staðarhverfi

Staðarhverfi – loftmynd 1954.

„Nýibær var utan við Bringinn, nálægt 100 m norður af Bergskoti.“ (Örn.).
Búseta í Nýjabæ hófst vorið 1889 og lýkur 1910 er heimilisfólkið flutti til Reykjavíkur. Nú sjást engin merki um þennan bæ, en hann mun hafa staðið rétt norðan við Staðartúnið þar sem þjóðvegurinn
liggur nú út á Reykjanes. (GB,76-77).

Sjávarhús (hjáleiga)
„Þær óbyggðu og óbyggilegu hjálegur eru: …Sjávarhús. Þessar hjáleigur hafa lagzt í eyði fyrir sjávargang eða sandfok.“ (GB,40).
Hjáleigan Sjávarhús stóð líklega á Staðarklöpp austur hjá Staðarvör. Skv. lýsingu sr. Geirs Bachmann hvarf hún í Básendaflóðinu 1799. (GB,25,26; Örn.).
Þau stóðu austur hjá Staðarvör en eyðilögðust í Básendaflóðinu 1799. (GB,56).

Stóragerði/Staðargerði (hjáleiga)

Staðarhverfi

Stóra-Gerði.

„Staðargerði eða Stóragerði stóð niður á svonefndum Gerðistöngum , u.þ.b. 250 m suður frá Löndum. Venjulega var það bara nefnt Gerði.“ (Örn.).
Sr. Geir Bachmann telur í sóknarlýsingu sinni frá 1840 upp hjáleigur staðarins: „b. Stóragerði, kvígildislaust, baðstofa og eldhús, samt grasnyt fylgir. Landskuld 2 vættir.“ (GB,40)
„Nesið milli Staðarbótar og Arfadalsvíkur heitir Gerðistangar… Nes þetta dregur nafn af bænum sem á því stóð og var kallað Stóra-Gerði. Trúlegt er að upphaflega hafi bærinn heitið Staðargerði,
enda kemur það nafn oft fyrir í manntalsbókum og víðar. Fyrst hefur verið girt þarna hólf utan við Staðartúnið, notað fyrir nátthaga eða því um líkt. Síðan er byggður þar bær – Staðargerði. –
Löngu síðar annar bær – Litla-Gerði. Þá fær fyrra býlið nafnið Stóra-Gerði. Enn sjást bæjarrústir Stóragerðis vel og bera glöggan vott um hýbýli þar og húsaskipan enda er ekki nema um hálf
öld síðan það fór í eyði … Heim að þessum fornu, grænu rústum liggja fagurlega hlaðnar traðir í mjúkum boga. Fram af bænum hefur verið traustlega hlaðinn kálgarður. Á bæjartóftunum
sést að þetta hefur verið reisulegur bær og rúmgóður. Steinlímdir kambar baðstofunnar standa að nokkru leyti enn … Árið 1786 bjó í Stóragerði Þorgeir nokkur Halldórsson, ekkjumaður með 5 menn í heimili. Þá var vel búið í Stóragerði, því að Þorgeir var hæsti framteljandi í Staðarhverfi – 4 hundruð.“ (GB,68-9).
Stóragerði er í „löglegri byggingu“ þegar úttekt var gerð 1928. (GB,50).

Stóra-gerði

Stóra-Gerði. Uppdráttur ÓSÁ.

„Hjáleiga frá Stað. Getið er um mann fæddan í Stóragerði 1745 en búskapar þar er fyrst getið 1786 og var búið þar til 1919.“ Ekki er ljóst hvaðan þessar heimildir eru komnar en líklegast er að þær komi frá heimildamönnum er rætt var við árið 2002.
1840: “Stóragerði, í landsuður frá Stað, fram á Gerðistöngum.” SSGK, 134. Þar segir jafnframt að Litlagerði hét hjáleiga sem braut í Básendaveðrinu 1799 en 1851 er aftur byggð hjáleiga með því nafni og var þar búið til 1914.
„Stóragerði var í „landsuður frá Stað, fram á Gerðistöngum.“ Hefur þess verið getið til, að nafn hjáleigunnar hafi upphaflega verið Staðargerði, en síðan breytt í Stóragerði, er hjáleigan Litlagerði var byggð lítið eitt vestan á töngunum. […] Bærinn byggðist ekki aftur […], og var því sögu hjáleigunnar lokið um fardaga árið 1918.“ Saga Grindavíkur 1800-1974, 41-42.
„Enginn veit nú, hvar Beinróa eða bæir þeirra Ólafs og Daða stóðu, en hugsanlegt er, að tveir þeir síðarnefndu hafi verið hjáleigurnar, sem síðar voru nefndar Blómsturvellir og Stóragerði.“ Saga
Grindavíkur 1800-1974, 104.

Staðarhverfi

Stóra-Gerði – uppdráttur.

“Enn sjást bæjarrústir Stóragerðis vel og bera glöggan vott um híbýli þar og húsaskipan […] Heim að þessum fornu, grónu rústum liggja fagurlega hlaðnar traðir [sjá 009] í mjúkum boga. Fram af bænum hefur verið traustlega hlaðinn kálgarður . Á bæjartóftunum sést að þetta hefur verið reisulegur bær og rúmgóður. Steinlímdir kampar baðstofunnar standa að nokkru leyti enn og bera þögult en greinilegt vitni um mannlíf fortíðarinnar á þessum bæ […].” segir í Staðhverfingabók eftir Gísla Brynjólfsson.
“Staðargerði eða Stóragerði stóð niður á svonefndum Gerðistöngum, u.þ.b. 250 m suður frá Löndum. Venjulega var það bara nefnt Gerði,” segir í örnefnalýsingu. Á heimasíðu Ferlis segir:
„Stóra-Gerði er dæmi um grindvískan bæ í Staðarhverfi. Vel má enn sjá húsaskipan, fallega heimtröðina, brunninn og garðana í kring.“ Bærinn er sýndur á túnakorti frá 1918, því sem næst í miðju túninu. Þá eru níu hús á bæjarhólnum auk þriggja annarra útihúsa í túninu. Tóftir Stóragerðis eru enn varðveittar um 550 m suðaustur af Stað GK-028:001, yst á Gerðistöngum. Heimatúnið er óraskað og ekki hafa orðið miklar breytingar þarna nema af völdum sjávar og gerð sjóvarnargarðs á svæðinu seint á síðustu öld.

Staðarhverfi

Stóra-Gerði – uppdráttur.

Norðan við bæinn eru gróin tún inn til landsins en skammt sunnan hans tekur við stórgrýttur sjávarkampur. Bæjarhóllinn er 30 x 20 m að stærð og snýr norður-suður. Tóftir síðasta bæjarins ná yfir stærstan hluta hólsins og ekki eru greinileg ummerki um uppsöfnuð mannvistarlög undir honum. Þau sjást þó á smá kafla norðaustan við bæinn, þar sést bæjarhóllinn og er um 0,3 m á hæð og gróinn. Bæjartóftin er 27 x 17 m að stærð, snýr norður – suður og skiptist í níu hólf/hús auk gangs. Op eru fjögur til vesturs (hólf 1-5) og þar voru stafnar bæjarins. Eins og segir hér ofar þá stendur einn dyrakarmurinn ennþá uppi (sjá hólf 3), þar var baðstofan. Tvö hólf eru opin til austurs (hólf 6-7) og eitt til suðurs (hólf 8). Hólf 9 er norðarlega inni í tóftinni, austan við hólf 4-5.

Hleðsluhæð í hólfunum er mest um 1,3 m og umför grjóts allt að átta. Veggirnir eru grjóthlaðnir og víða er tekið að hrynja úr þeim. Þetta eru engu að síður heillegar minjar og mjög sjónrænar. Hér neðar er nákvæmari lýsing á hólfunum. Hólf 1 er syðst og er raskað til suðurs. Það er 4,1 x 2 m að innanmáli en helmingur þess er horfinn, það sést á túnakorti frá 1918. Stafnar þess snéru til vesturs. Hólf 2 er norðan við hólf 1. Það er 6,1 x 5 m að innanmáli og snýr norður-suður. Hólfið er opið til vesturs, þar var þil. Á túnakorti frá 1918 sést að þarna voru fleiri hólf en þau eru horfin.

Staðarhverfi

Stóra-Gerði í Staðarhverfi.

Hólf 3 er norðan við hólf 2 og var baðstofa. Steinlímdir karmar bæjardyranna standa enn að hluta. Hólfið er 5,5 x 2,5 m að innanmáli. Hólf 4 er norðan við hólf 3. Það er 4,3 x 1,7 m að innanmáli og opið til vesturs. Hólf 5 er nyrst í bæjarröðinni. Það er 4,1 x 1,9 m að innanmáli og veggirnir hafa hrunið hér að hluta. Hólf 9 er austan við hólf 4-5, inni í tóftinni. Það er 5 x 1,8 m að innanmáli og snýr norður-suður. Það er opið inn í hólfið í suðausturhorni, innan úr hólfi 6. Til austurs í bæjartóftinni eru tvö hólf opin. Hólf 6 er norðar. Það er 4 x 1,8 m að innanmáli og snýr austur-vestur. Í suðvesturhorni þess er op inn í gang sem liggur yfir í hólf 9. Hann er 3 m langur. Hólf 7 er sunnar. Það er 4,7 x 2,1 m að innanmáli og op er í suðausturhorni. Gangur liggur til suðvesturs, yfir í hólf 2. Gangurinn er 6 m langur og bogadreginn. Hólf 8 er sunnan í bæjartóftinni. Það er 6,4 x 2,8 m að innanmáli og opið til suðurs. Op er á því til norðvesturs, yfir í hólf 2.

Vestur-Hjáleiga (hjáleiga)
Vestur-Hjáleiga virðist hafa staðið í hlaðvarpanum á Beinróu samkvæmt elstu heimild sem varðveist hefur um húsakost á Stað: „Reikningur kirkjunnar og Staðarins í Grindavík“ frá 1657. (JÞÞ,101,104)

Hjallur
Eftir að hjáleigunni Sjávarhúsum skolaði burt 1799 var byggður fiskihjallur á Staðarklöpp. Um 1916 mátti sjá tættur efst á klöppinni en þeim skolaði síðar burt í flóðum. (GB,56; Örn.)
Samkvæmt Gísla Brynjólfssyni stóð sjóhús á Staðarklöpp fram til 1930. (GB,26).

Kirkja – Staðarkirkja

Staðarhverfi

Letursteinn í kirkjunnar stað.

„Á Stað í Grindavík mun kirkja hafa verið reist í öndverðri kristni en fyrst er hennar getið í kirknatali Páls biskups frá um 1200. Og á Stað stóð hún að öllum líkindum á sama grunni, í meira en 700 ár a.m.k… Allt fram til ársins 1836 var torfkirkja á Stað. Þá var reist timburkirkja… Trúlega hefur Staðarkirkja ætíð staðið á þeim stað, sem síðasta kirkjan stóð – inni í kirkjugarðinum, þar sem klukkuturninn er nú. Sáluhliðið var þá á vesturhlið garðsins, fram undan kirkjudyrum. Í því var klukknaport. Aðrar dyr voru á kórgafli til afnota fyrir prestinn vegna þess hve þröngt var orðið í framkirkjunni þegar guðsþjónustan hófst.
Kirkjan var, ásamt Guði og mörgum dýrlingum helguð Blasíusi biskupi… Staðarkirkja var allvel efnuð, átti heimaland allt, rekasælar fjörur (ásamt með Skálholtskirkju), 4 hundr. í fríðu, 7 hundr. í skipum. Auk þess hafði Staðarprestur tekjur af tveim jörðum með kúgildum austur í Árnessýslu, Stóru-Borg í Grímsnesi (30 hundruð að fornu mati) og Hvoli í Ölfusi (20 hundr.).“ (GB,136-7).

Staður

Staður. Kirkjan stóð á hólnum nær. Gröf sjómannanna af Anlaby er vinstra megin ofanvert.

„Sumarið 1858 var reist ný kirkja fyrir forgöngu sr. Þorvalds Böðvarssonar, sem þá hélt Stað. Var hún af sömu gerð og hin fyrri kirkja en nokkuð stærri eða um 50 m2. Er fram tekið í kirkjulýsingunni, að hún sé byggð á traustum grunni og rammbyggileg… Kirkja sr. Þorvalds var sú síðasta á Stað.“ (GB,142).
„Kirkjan stóð vestarlega í garðinum. – Þann 26. september 1909 var ný kirkja vígð að Járngerðarstöðum og tók sú við af Staðarkirkju, sem þá var aflögð.“ (Örn.).
„Ekki er vitað, hve margar kirkjur hafa verið á Stað í aldanna rás, en af vísitasíugerð frá árinu 1642 má sjá, að þá hafði síra Gísli Bjarnason nýlega látið reisa þar kirkju. Hún er elsta Staðarkirkjan, sem við vitum eitthvað um að gagni, og var lýst svo í vísitasíugerðinni: „Kirkjan í sjálfri sér með kórnum sterk og ný að sínum viðum, súðþak og nýtt öðrumegin. Kirkja og kór í 8 stafgólfum og kapella inn af kórnum. Að auki hálfþil undir bita milli kórs og kirkju og þil bak altaris, sem víðast umhverfis kirkjuna og framanfyrir. Tveir stólar kvennamegin, einn langbekkur kallmannamegin.
3 glergluggar vænir. Hurð á járnum með koparhring, innlæst. Hefur síra Gísli látið gjöra kirkjuna og lagt til marga viðu.“ (JÞÞ, 108).

Kirkjugarður – Staðarkirkjugarður

Staðarhverfi

Staðarhverfi – kirkjugarður.

„Kirkjugarðurinn er í túninu fast suðaustan við bæinn og ekki nema 2-3 m á milli skemmunnar og hans“ (Örn.).

Klukknaturn/Sáluhlið

Staðarhverfi

Klukknaport í Staðarkirkjugarði.

Sáluhliðið hefur verið á vesturhlið garðsins fram undan kirkjudyrum. (GB,137).
„Enda þótt klukknaportið á Stað í Grindavík sé nú löngu horfið, eigum við af því nákvæma lýsingu … Í sáluhliði, sem er 6 ál. vítt með kræktri rimlahurð á járnum er KLUKKNAPORTIÐ 2 1/6 al. á vídd og eins á breidd á 4 stólpum 4ra álna háum greypuðum á undirstokka að neðan og syllum hið efra og að neðanverðu eru greypaðir í fjóra stólpa út við veggi kirkjugarðsins, hverjir stólpar að eru styrktir með skástífum á jörð fyrir utan og innan sáluhliðið … Sjálft er klukknaportið með einfaldri súð á alla fjóra vegu uppmjókkandi, og í toppi vindhani á stöng. Undir súðinni er allt um kring rimlar negldir á slár, sem saman binda ennþá betur umgetna 4 stólpa klukknaportsins.
Uppi í því hanga á ramboltum tvær góðar klukkur sem hringt er með útleggjurum …“ (GB,55).

Lambhús
„Hún (Krukka) á að hafa staðið vestur við Móakot, þar sem nú sé lambhús.“ (GB,57).

Bergskot (þurrabúð)
„Þær óbyggðu og óbyggilegu hjáleigur eru: … Bergskot … Þessar hjáleigur hafa lagzt í eyði fyrir sjávargang eða sandfok“ (GB,40).
„Hæðin vestan og ofan við bæinn á Stað heitir Bringur. Bergskot var uppi á Bringnum, í norðvestur frá Stað. Þar voru tveir bæir sambyggðir þegar Á.V. og S.V.G. mundu eftir.“
(Örn.).
Bergskot I er þurrabúð í úttekt árið 1928. Bergskot II hafði lagst niður í tíð sóknarprestsin þegar úttekt var gerð 1928. (GB,50).
„Uppi á bringunum rétt ofan og utan við Stað stóð tómthúsið Bergskot. Þegar þar var mannflest voru þarna mörg lágreist þil í beinni bæjarrönd, sem sneri fram að sjónum. Var gott útsýni af
stéttinni til hafs og strandar… stundum voru þarna þrjú heimili… Bergskot hafði enga grasnyt frekar en aðrar þurrabúðir. Þar lifði fólkið á sjónum haust, vetur og vor en fór gjarna í kaupavinnu um
sláttinn og fékk sauði til frálags í heimilið fyrir veturinn. Í tiltækum manntölum er ekki getið um byggð í Bergskoti fyrr er 1845.“ (GB,62).
Síðasti ábúandi flutti burt 1927. (GB, 64).

Lönd (þurrabúð)
Staðarhverfi„Sunnan við Bjarnasand eru smáklappir, oft nefndar Landaklappir, en þurrabúðin Lönd var beint upp af þeim. “ (Örn.).
„Það var árið 1911, að stofnað var nýtt býli í landi Staðar. Það var nefnt á Löndum… Nýbýlið á Löndum fékk 900 ferfaðma lóð á grundinni skammt norðvestur af fjárhúsunum og má enn
sjá greinileg merki þess. Vilmundur reisti þar timburhús. Það var 3 herbergi og eldhús. Á því var óinnréttað ris, við innganginn var skúr með flötu þaki. Það var klætt með járni á tveimur
hliðum en pappa á tveimur. Gólfflötur þess var 37,6 fermetrar. Þessi lýsing er tekin úr fasteignamati 1916… Árið 1946 fluttist fjölskyldan frá Löndum til Reykjavíkur.“ (GB,77-79).

Merki (þurrabúð)
„Einar Einarsson og Guðrún Ingvarsdóttir voru gefin saman í hjónaband 10. nóvember 1908. Þetta sama ár fengu ungu hjónin leyfi Staðarprests til að byggja sér hús á Hvirflunum við landamerkin
milli Staðar og Tófta. Það kölluðu þau Merki. Þetta var hið snotrasta býli á fallegum stað með útsýni vestur yfir Staðartúnið, suður til Gerðistanga austur um Arfadalinn og víkina… Guðrún og
börn hennar fluttust frá Merki til Keflavíkur árið 1943. Síðan hefur ekki verið búið í Merki og litli bærinn löngu fallinn.“ (GB,75).

Vör – Staðarvör

Staðarvör

Staðarvör.

„Hér við Bjarnasand er eitt af stórmannvirkjum áraskipaútgerðarinnar: Flórlögð Staðarvörin, slétt og breið neðan úr stórstraumsflæðarmáli uppundir grasbakkana ofan við sandinn. Hún
hefur varðveitzt furðu vel, þótt áratugir séu síðan hér var skipi lent.“ (GB,26).
ÁV og SVG vita ekki með vissu hvenær hún var gerð, en telja sennilegast að það hafi verið rétt upp úr síðustu aldamótum. (Örn.).

Brunnur – Staðarbrunnur

Staðarhverfi

Staðarbrunnurinn hefur nú verið endurhlaðinn.

„Lægðin neðan við Bring nefnist Dægradvöl. Þótti góð dægradvöl að slá hana. Í suðurjaðri Dægradvalar lét séra Brynjólfur Magnússon grafa mikinn brunn árið 1914.“ (Örn.).
Skip fylgdu prestsetrinu Stað frá fornu fari og fram á daga sr. Brynjólfs Magnússonar. En með stjórnarbréfi 10. sept. 1914 var presti leyft að verja 300 krónum af andvirði skipanna til að grafa brunn á staðnum og er honum ýtarlega lýst í úttektinni 1928. Þar með er skipastóll Staðar úr sögunni…(GB,42).
„Í úttekt á Stað 16. júlí 1928 er 7. liður í upptalningu á mannvirkjum þannig: Brunnur byggður og tilbúinn ár 1914 að dýpt 23 fet, að þvermáli 6 fet, mjókkandi niður, hringhlaðinn að innan og hleðslan sementeruð ofan frá og niður að klöpp, er tekur við fyrir neðan miðju. Steinsteypur kragi er í kringum brunninn ofan jarðar og yfir sjálfu brunnopinu þak úr plönkum með hlera. Öflug vinda er til upphölunar á vatninu. Brunnurinn með öllum útbúnaði er í óaðfinnanlegu lagi. – (Álag því ekkert).“ (GB,82).

Brunnur -Kvíadalsbrunnur

Staðarhverfi

Kvíadalsbrunnur.

„Brunnur var beint vestur af Kvíadal. Hann er nú alveg horfinn í sjávarkampinn. Þessi brunnur mun hafa verið notaður í Staðarhverfinu áður en brunnurinn í Dægradvöl var gerður.“ (Örn.).
„Vatn handa fénaði var hvergi að fá í Staðarlandi nema út undir Staðarbergi í gjá, sem fellur að og út í með hverju sjávarfalli. Neyzluvatn var tekið úr brunni syðst í túninu en það var slæmur sjóblendingur.“ (GB,39).

Bryggja
Fram af svonefndum Hvilftum er bryggjustúfur, byggður 1933, meðan útgerðin var hér í fullu fjöri. (GB,25).

Heimild:
-Rannsóknarskýrsla, Fornleifar í Staðarhverfi, Þjóðminjasafn Íslands 1999.
-Deiliskráning í Grindavík: Stóragerði, Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2017.

Staðarhverfi

Staðarhverfi.

Þórkötlustaðahverfi

Árið 2018 var gerð skýrsla um „fornleifar í Þórkötlustaðahverfi – verndarsvæði í byggð“. Hér er getið um sumt það, sem fram kemur í skýrslunni um gömlu bæina og merkar minjar.

Þorkötlustaðir

Þórkötlustaðir

Þórkötlustaðatorfan.

Um 1270 er Þórkötlustaða getið í rekaskrá Skálholtsstaðar þar sem Þórkötlustaðir eiga fjórðung af hvalreka milli Valagnúpa og Rangagjögurs á móti Staðastöðum, Járngerðarstöðum og Hraun/Hofi og er þar einnig getið um landamerki. DI II, 76.
Um 1275 kemur fram í máldaga Maríukirkju í Krýsuvík að kirkjan á „ix. mæla land aa Þorkotlustodum“ DI III, 3.
1307 kemur fram í máldaga Maríukirkju í Krýsuvík að kirkjan á „ix. mæla land aa Þorkotlustodum“ DI II, 361.
1367 sama eignarhald (ix mæla land) kemur fram í máldaga Þorlákskirkju á Skeggjastöðum. DI III, 222.
1477 sama eignarhald (ix mæla land) kemur fram í máldaga Maríukirkju í Krýsuvík. DI VI, 124.

Þórkötlustaðir

Miðbær Þórkötlustaða 1948.

Um 1500 er jarðarinnar geti í lýsingu á landamerkjum milli Voga og Grindavíkur en þar segir að Vogar eigi ekki land lengra neðan frá en að Kálfsfelli og upp að vatnskötlum fyrir innan Fagradal upp að klettum þeim sem standa við Skógafell hið neðra við götuna „enn Þorkötlustader og Jarngerdarstader ættu ofan ad þessum takmorkum“ og er þessi lýsing í samræmi við elstu lýsingu
marka á þessum slóðum frá 1270. DI VII, 457-458.
1534: fram kemur á „bleðli“ sem varðveist hefur í fornbréfasafni að Eiríkur Pálsson skuldi Jochim Grelle fjögur hundruð fiska, sem eigi að greiðast í hlutum í Grindavík, bæði á Þórkötlustöðum, hjá Hauki (eða Hákoni) og hjá Þorgrími í Hópi. DI IX, 721.
24. júní 1552 kemur fram í afgjaldareikningi Eggerts fógeta Hannessonar af Íslandi frá alþingi 1551 til Jónsmessu 1552 um Þórkötlustaði: „Jtem aff Kettell aff Tórkottelestedom ij skatt viij alne vadmall.“ DI XII, 420.

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi.

1553 [1554] kemur fram í máldögum og reikningum kirkna í Skálholtsbiskupsumdæmi (við yfirreið Marteins biskups Einarssonar) að Krýsuvíkurkirkja á enn sömu eignarítök á Þórkötlustöðum (9 mæla lands). DI XII, 662.
1562 kemur fram að atvistarmenn að vígi Guðmundar Sigurðssonar séu skyldaðir til að koma fyrir dóm vegna vígis Guðmundar en hann hafði látist eftir slagsmál við fjóra menn á
Þórkötlustöðum. DI XIII, 744.
1563 kemur fram í bréfi Gísla biskups Jónssonar um byggingar stólsjarða í Grindavík að ábúendur lúti eftirfarandi skilmálum: „Ad i fyrstu wil eg ad stadurinn i Skalholltti eigi halftt skip vid þann sem byr a Jarngerdarstodum. Þorkotlustodumm og Hraune. Skal stadurinn þessumm skipumm uppkoma ad halfu leyte af þeim stadar Rekum sem liggia fyrir Grijndavijk. Jtem þau Bænhuskugildi se ad eru a Hraune. Þorkotlustaudumm og Höpe þa skipa eg ad þau snueast i leigukugilldi. Jtem byd eg mijnumm fyrrgrendumm Radsmanne ad hann tilskile i sinne jardabyggingu ad huer leigulide vaktti þann Reka sem fyrir sierhuers lande liggur epter þui sem laug seigia og hafe ecke mejra af enn so sem leigulida ber eptter logmale. Jtem byd eg
Radzmannernum ad fyrirbioda Leigulidunumm ad skamptta sier nockur trie sialfer af af rekunumm til stadarjardanna utann þad sem til verdur lagtt af sialfumm Radzmannenumm og naudsyn krefur“ DI XIV, 200-202.
1570 og síðar: kemur fram í Gíslamáldaga að Krýsuvíkurkirkja á enn sömu eignarítök á Þórkötlustöðum (9 mæla lands). DI XV, 641.
1703: dýrleiki óviss. Eign Skálholtsstaðar. Hefur selstöðu í landi Krýsuvíkur, á Vigdísarvöllum. „Heimræði árið um kríng…Engjar öngvar. Sjór gengur á túnið og brýtur land að framan.“JÁM III, 11-12, 14.
Hjáleigur 1703: Eyvindarhús, Ormshús, Eingland, Klöpp, Bugðunga. JÁM III, 12-13.
8. August 1787 og 26. Janúar 1791 eru Þorkötlustaðir seldir í þrennu lagi (austurparturinn, vesturparturinn og miðparturinn). JJ, 84.
1840: Ætíð hefir þar verið tvíbýli, en nú eru þar þrír bændur, hjáleigur: Einland, Klöpp og Bullunga og tómthúsið Borgarkot. SSGK, 139.

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi.

1840: 60 hdr. „Þar eru slétt og stór tún og hartnær þriðjungur þeirra kominn í móa fyrir órækt og hirðuleysi. … Þar er og sæmilegt beitiland fyrir fáan fénað, en þar amar vatnsleysi sem víðar. Syðst í nesinu var fyrrum selalátur frá Þorkötlustöðum, en nú hefir selurinn vegna brims og uppbrots yfirgefið látrin.“ SSGG, 139.
1847: Jarðardýrleiki 66 2/3 hdr. Hjáleigan Lambhúskot hefur bæst þá við 1847…“Eptir þremur afsals bréfum 19. öld: Þríbýli var þar lengst af 19. öldinni. Stundum er jörðin kölluð Þórkötlustaðir. „Mikið af landi hennar er eldbrunnið, og bæirnir standa austast í landareigninni við sjóinn…Land jarðarinnar er frekar mjótt, en nokkuð langt.“Ö-Þorkötlustaðir AG, 1, 3. „…tiltölulega mikið sléttlendi, lending dágóð í Þorkötlustaðasundi og margvísleg hlunnindi í Nesinu.“

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðir – loftmynd 1954.

Þórkötlustaðir eru elsti bærinn í Þórkötlustaðahverfi. Rétt eftir aldamótin 1900 var byggð hlaða við Miðbæinn og var þá komið niður á langhús með jarðeldi (sjá nánar fornleif 203) sem bendir til að bærinn hafi alltaf verið á svipuðum slóðum. Allt bendir til þess að snemma hafi orðið þéttbýlt á þessum slóðum en elsta heimildin um margbýli á Þórkötlustöðum sjálfum er frá seinni hluta 18. aldar (1785) en var orðið þríbýlt á heimajörðinni. Þríbýli hélst á Þórkötlustöðum lengst af eftir 19. öldinni og voru býlin samkvæmt Jóni Þ.Þór ýmis nefnd 1.,2. og 3. býli eða austurvestur- og miðpartur (Saga Grindavíkur II, 74, 272). Undir lok 19. aldar bætast svo tveir bæir við og snemma á 20. öld voru því fimm bæjarstæði á Þórkötlustaðatorfunni (Austari eða EystriAusturbær, Vestari Austurbær, Austar eða Eystri Vesturbær og Vestari Vesturbær). Ekki er ljóst hvor austur og vesturbæjanna var eldri en líklegra virðist þó að af austurbæjunum sé Austari/Eystri Austurbærinn og Austari/Eystri Vesturbær. Þórkötlustaðatorfan er á svolítilli hæð um 70 m norðan við sjó. Þórkötlustaðavegur liggur norðan við torfuna, vegarslóði í átt að sjó og fram hjá Sólbakka vestan við og annar vegarslóði að Buðlungu að austan. Að sunnanverðu er greinilegt að húsin standa á smá bungu en að norðanverðu er sléttað malarplan sem Þórkötlustaðavegurinn liggur í suðaustur-norðvestur. Sunnan við þar sem bæirnir fimm hafa staðið í röð er aflíðandi halli að sjó og á því svæði voru samfelldir garðar og kofar.

Þórkötlustaðir

Þórkötlustaðir.

Sem fyrr segir var komið niður á skálabyggingu þegar hlaða var reist á bæjartorfunni á Þórkötlustöðum. Til er lýsing af bænum frá seinni hluta 17. aldar, nánar tiltekið frá 1670: „Áður en Sigmundur [Jónasson] tók við búi á Þorkötlustöðum, voru hús öll á jörðinni skoðuð og metin…níu vistarverur innanbæjar og skiptust í stóra skála, litlu og stóru baðstofu, vesturskála,
„hornshús“, „hús innar af skála“, eldhús, klefa og anddyri. Útihús voru fjós, hlaða, smiðja og skemma og loks tveir hjallar, annar heima við bæ, en hinn frammi á nesinu. Öll voru húsin orðin gömul og hrörleg, og um sum var þess getið, að þau væru að hruni komin vegna elli og fúa. Útveggir voru flestir sagðir „trosnaðir“ og illa farnir, en innveggir virðast sumir hafa verið öllu skár komnir. Mörg útihúsanna voru hurðarlaus og viðrast hvorki hafa haldið vatni né vindi.“
Í Fasteignamati 1916-1918 segir: Eigandi og ábúandi Hjálmar Guðmundsson. Dýrleiki eftir síðasta mati 6,46. Landamerki sjá býli 12. Matjurtagarðar og tún eru úrskipt, en heiðaland og hagbeit óskipt í félagi við hinar jarðirnar. Mannvirki: eru Túngarðar úr grjóti og vírgirðingum.
Matjurtagarðar 400 faðmar, gefa 16 tn í meðalári, 1 safnþró, alt í góðu standi. Tún talið 7 dagsláttur, gefur af sér 90 hesta í meðalári, helmingur þýft. Útengi ekkert, mætti græða meira tún. Útengi ekkert. Útbeit er fjalllendi og fjörubeit, smalamennska erfið. Rekapláss í félagi við vesturbæi. Uppsátur í sambandi við hinar jarðirnar. Ágangur enginn. Hús á jörðinni, sem öll eru eign landeiganda.

Þórkötlustaðir

Þórkötlustaðahverfi.

Bæjarhóll Þórkötlustaða er lágur og ávalur og aðeins er hægt að greina litla uppsöfnun. Gróflega áætlað er hann um 90-100 x 70 m stór og snýr austur-vestur. Gríðarlegur fjöldi húsa og kofa ásamt kálgörðum er sýndur á bæjartorfunni á túnakorti frá 1918 og er gerð grein fyrir þeim undir sérstökum númerum í fornleifaskránni (en þó skráðar saman sambyggðar fornleifar). Árni Guðmundsson (1891-1991) mundi vel eftir torfbæ á sömu slóðum og Miðbærinn frá því hann var ungur. Af ljósmynd sem tekin var af Þórkötlustaðaþyrpingunni á tímabilinu 1902-1927 má sjá að þá hafa staðið tvö hús þar sem Miðbær er nú og telur Loftur Jónsson heimildamaður að þau hafi bæði verið hluti af Miðbænum. Húsið sem nú stendur var byggt á sama stað og vestara húsið (sem var minna) en austara húsið hefur staðið einhver ár eftir að núverandi íbúðarhús var byggt (stendur þegar ljósmynd er tekin af svæðinu eftir 1932). Engin ummerki sjást nú um eldri hús á þessum slóðum. Undir þetta númer er skráður bæjarhóll Þórkötlustaða, hús Miðbæjarins (bæði húsin sem stóðu í upphafi 20. aldar og svæðið norðan við þar sem stóðu 3-4 kofar).

Bænhús var áður á Þórkötlustöðum skv. máldaga frá 16. öld.
1563: „Jtem þau Bænhuskugilldi sem ad eru a Hraune. Þorkotlustaudumm og Höpe þa skipa eg ad þau snuest i leigukugilldi,“ DI XIV, 201.
Ekki er vitað hvar bænhúsið stóð en án efa var það á bæjarstæði Þórkötlustaða, nærri Miðbænum. Ekki eru þekktar frásagnir um að menn hafi komið niður á bein eða annað sem gæti gefið vísbendingu um staðsetningu bænhússins. Staðsetningarhnit var tekið á bæjarhólnum miðjum. Að sunnanverðu er greinilegt að húsin standa á smá bungu en að norðanverðu er sléttað malarplan sem Þórkötlustaðavegurinn liggur í suðaustur-norðvestur. Sunnan við þar sem bæirnir fimm hafa staðið í röð er aflíðandi halli að sjó og á því svæði voru samfelldir garðar og kofar.

Randeyðarstígur (leið)

Þórkötlustaðir

Randeyðarstígur hægra megin á uppdrættinum – uppdráttur ÓSÁ.

„Randeyðarstígur er gata á milli Hrauns og Þórkötlustaða og var hann farinn áður fyrr, er aðalumferðargatan lá fyrir neðan Þórkötlustaði og var þar komið á Eyrargötuna 027,“ segir í örnefnaskrá Lofts Jónssonar. Ekki er nákvæmlega vitað hvar Randeyðarstígur var en hann lá niður á Eyrargötu sem lá syðst í Þórkötlustaðahverfi. Á minjakorti Ómars Smára virðist sem Randeyðarstígur hafi verið sami stígur og Eyrargata en Randeyðarstígsnafnið notað í landi Hrauns. Í öllu falli virðist ljóst að ummerki um Randeyðarstíg er ekki að finna innan verndarsvæðis í Þórkötlustaðahverfi. Frá Hraunkoti vestur að Þórkötlustöðum eru sléttuð tún en austan við Hraunkot er hraunlendi að túninu í Hrauni.

Þjóðsaga – Þórkötluleiði (legstaður)

Þórkötludys

Þórkötludys – Sigurður Gíslason á Hrauni við dysina.

Í örnefnaskrá NN segir: „Í túninu austur af bæ er sagt að sé leiði Þórkötlu.“ Fjallað er um staðinn á heimasíðu Ferlis en þar segir: „Fram að þessu hefur jafnan verið horft á dys Þórkötlu í óslegnum hól í túninu austan við Hof. Þar hafa hinir elstu menn, sem vel þekkja til, talið hana hafa legið fram að þessu. Staðsetningin passar og við lýsinguna í sögunni þar sem segir að sú gamla hafi viljað láta grafa sig þar sem hún sæi yfir Þórkötlustaðabótina. Frá þeim stað sést vel yfir Bótina. (…) Sigurður, sem nú er nær blindur, var ekki í neinum vafa, sagðist alltaf hafa heyrt af Þórkötlu undir stórri þúfu í túninu neðan við gamla Lambhúskotið. Hann lýsti staðsetningu Þórkötludysjar þannig: „Hún er upp af Sólbakka, vestan við girðingu sem liggur í norður frá húsinu, austan og ofan við Hof. Þetta er stór þúfa í túninu, neðan við gamla Lambhúskotið í suðaustur í neðra túninu.“ […] Þúfurnar eru tvær í túninu. Sigurður gekk að þeirri eystri. Áður hafði Ferli verið bent á hina þúfuna (Ól. Gamalíasson) sem hina meintu dys. Skýringin á henni er sögð vera sú að undir austari þúfunni hafi hundur Þórkötlu verið grafinn. Stutt er á milli þúfnanna.“ Í Húsakönnun Lofts Jónssonar segir: „Í túninu sunnan Lambhúskots eru þrír hólar. Sagan segir að í þeim lengsta sé leiði Þórkötlu, sem Þórkötlustaðahverfi er kennt við, aðeins Uppmæling hinum meintu dysjum sunnar er leiði smala hennar og þar vestur af er leiði hundsins hennar.“ Líkt og kemur fram hér ofar er á reiki hver af þúfunum er Þórkötludys. Hún er í túninu, rúmum 20 m sunnan við Lambhús og rúmum 150 m norðvestan við bæ. Þar eru fjórar þúfur sem allar voru mældar upp. Ómar Smári Ármannsson merkir Þórkötludys inn á uppdrátt af Þórkötlustaðahverfi en að auki dys hunds og dys smala. Slétt, ræktað tún er allt umhverfis þúfurnar. Þær eru allar sléttar og grasivaxnar og ekki ólíklegt að mannvist sér hér undir sverði.

Eyrargata (leið)

Eyrargata

Eyrargata.

„Neðst á Brunnflötum við kampinn var grafinn brunnur, þar sem skepnum var vatnað áður en brunnur var grafinn hjá Þórkötlustöðum. Eftir Brunnflötum lá gata og sunnan við sandorpnar
hæðir vestur af Brunnflötum, við norður enda Gjáhólsgjáar í átt að Rifinu (Eyri). Hét hún Eyrargata en lítið markar fyrir henni nú,“ segir í örnefnaskrá Lofts Jónssonar. Eyrargata var á milli Þórkötlustaða (og mögulega líka Hrauns) og Járngerðarstaðahverfis. Innan verndarsvæðis í Þórkötlustaðahverfi var hún alveg við sjávarkampinn og er nú horfin í ágang sjávar og sand. Hún sést hins vegar vestar, utan verndarsvæðis. Brunnflatir 026 eru grónar sandflatir nyrst og austan í Nesinu. Vestan við þær, í hrauninu er Gjáhóll gróinn í toppinn með tveimur hundaþúfum. Hún kom upp úr fjörunni við Skarð en lág þar til austurs neðan við Þórkötlustaðabæina.
Göturnar hafa að hluta legið yfir úfið mosagróið hraun en í Þórkötlustaðahverfi lágu þær nærri sjávarkambinum og yfir Brunnflatir þar sem mikið af sandi hefur safnast. Svæðið er vaxið melgresi og sjór hefur einnig borið á land talsvert af stórgrýti og varpað því yfir svæðið. Gatan hefur líklega legið í austur-vestur yfir Nesið að Rifinu sem nú hefur verið opnað og gert að höfn Grindavíkur. Hún er gróflega staðsett innan verndarsvæðis.

Gata – kirkjugata (leið)

Kirkjugata

Kirkjugatan.

„Önnur gata en Eyrargata er norðar og liggur um Kirkjuhóla og fram hjá Hópi,“ segir í örnefnaskrá Lofts Jónssonar. „Þarna þvert yfir og framhjá Hópi var gangan á milli Þórkötlustaðahverfis og Járngerðarstaðahverfis áður fyrr og áfram framhjá Miðaftanshól. Austan við Moldarlág í hraunbrúninni eru hraunhólar sem heita Kirkjuhólar. Þar var áður mikil huldufólksbyggð og huldufólkskirkja. Álfar á svæðinu áttu sína kirkju rétt sunnan við núverandi smábátahöfn og heitir þar Álfakirkja,“ segir í Húsakönnun Lofts Jónssonar í Þórkötlustaðahverfi.
Kirkjuhólar eru um 600 m vestnorðvestan við Þórkötlustaði fast sunnan við Austurveg (þ.e. núverandi þjóðveg) en umræddur vegur var á svipuðum slóðum innan Þórkötlustaðahverfis þjóðvegurinn var áður, neðan við  fstaland/Heimaland/Þórsmörk. Á þeim slóðum er enn malarvegur. Uppgrónir hraunhólar eru að hluta þar sem vegurinn lá en yngri malarvegur er á sömu slóðum hluta leiðar. Gatan lá austur-vestur á milli Hóps og Þórkötlustaða og áfram austur.
Í Kirkjuhólum er gatan horfin en sést austar, sunnan undir Austurvegi um 400 m norðvestur af bæjarhól, beint norður af íbúðarhúsinu Klöpp/Teigi. Þar hefur grjót verið fjarlægt úr henni og raðað meðfram henni, í framhaldi liggur gamli malarvegurinn. Í hrauninu milli Þórkötlustaða og Hrauns sést að auki fyrir götunni.

Eyvindarstaðir/Eyvindarhús

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi – yfirlit.

Í Jarðabók Árna og Páls 1703 er getið hjáleigu: „Eivindar hús.“ Eyvindarstaðir hét kot í norðvesturhorni Þórkötlustaðatúns 1918 og er líklega sami staður. Í Fasteignamati 1916-1918 segir: þriðja þurrabúð frá býli 15 [miðbær Þórkötlustaða]. Ábúandi Guðmann J. Jónsson. Eftirgjald 10 kr. greitt landeiganda. Lóðarstærð 400 faðmar yrkt í matjurtagarða. Hús á lóðinni, sem öll eru eign ábúanda eru þessi: Íbúðarhús 8 x 6 ál., vegghæð 4 ál. ris ekkert, bygt úr timbri járnklætt, vel bygt eldhús 4 x 5 ál, grjótveggir, þakið úr timbri og járni Húsið er í ábúð 1909 á þessum stað. Guðmann Jónsson, kona hans Guðríður Þórðardóttir og sonur Haraldur Haraldsson endurbyggðu á sama stað 1928. Hjónin Einar Símonarson og Sólrún Guðmundsdóttir flytja síðan húsið 1948 að Ránargötu 2 í Járngerðarstaðahverfi. 1956 var útliti hússins breytt í núverandi mynd.“ Eyvindarstaðir voru með vindmyllu til ljósa áður en Sogsvirkjun var lögð til Grindavíkur samkvæmt Húsakönnun Lofts Jónssonar um Þórkötlustaðahverfis. Þar stóð síðast timburhús en það ásamt Miðhúsum (sjá túnakort 1918) var flutt í Járngerðarstaðahverfi 1948 og var þar Ránargata 2. Um 350 m norðvestur af bæjarhól 001 og um 100 m vestan við Búðir er steyptur grunnur á smá bungu í sléttuðu túni. Þar voru Eyvindarstaðir. Þau hafa verið byggð upp við innanverðan túngarð sem hér ber númerið 046. Umhverfis eru sléttuð tún en óslétt grýtt svæði til norðurs.
Steyptur grunnur er vestan til, tæplega 7 x 7 m að stærð. Vesturhlið hans er nánast horfin en mótar þó fyrir henni. Leifar af steyptum skorsteini liggja yfir norðurhlið. Tvö op sjást á suðurhlið eftir glugga eða dyr. Austan við húsgrunninn eru lágar hleðslur, áfastar, sem afmarka svæði, eins konar uppgróinn stall, sem er rúmlega 7 x 7 m stór. Á honum um miðbikið er steinn sem gæti verið fiskasteinn (óstaðfest) og gróinn hnúður, um 2 m í þvermál, norðan við hann. Hæst rís steypan líklega 40-50 cm og er gróf möl og steinar í steypunni. Samkvæmt Lofti Jónssyni heimildamanni var steinsteypt fjós/hænsnahús byggt heima við bæinn eftir 1940 og tóku þau við af fjós/fjárhúsi og hænsnakofa. Veggir húsanna við bæinn hafa hins vegar verið brotnir niður.

Borgarkot
Í Sýslu og sóknarlýsingum frá 1840 segir: „Tómthúsið er kallað Borgarkot og stendur fyrir norðan bæinn vestasta,“ segir í örnefnalýsingu. Ekki er lengur vitað nákvæmlega hvar býlið Borgarkot var. Það var þá líklega norðan við Vesturbæina. Bærinn var gróflega staðsettur í túninu norðan við Þórkötlustaðaveg en allt eins má vera að hann hafi verið nær Vesturbæjunum í sjálfri bæjartorfunni en nokkur fjöldi húsa er t.d. sýndur á túnakortinu norðan við Austar og Vestari Vesturbæ 1918.
Norðan við Þórkötlustaðaveg er grasflöt, vestan við þar sem íbúðarhúsið Valhöll stóð fram til 2010. Svæðið er fast sunnan við vesturenda garðlags. Þar er grasi gróið flöt og örlítil hæð þar sem garðlagið endar. Engin ummerki sjást um Borgarkot og nákvæm staðsetning þess ekki kunn. Loftur Jónsson heimildamaður hafði aldrei heyrt á Borgarkot minnst.

Hvammur

Þórkötlustaðir

Hvammur.

Hvammur var um 350 m norður af bæ og um 100 m austan við Efraland, fast norðaustan við Þórsmörk. Þar er 3 m hár steyptur skorsteinn og við hann eru tóftir bæjarins. Túngarður liggur uppi á hraunbrúninni norðan og austan tóftanna en sunnan þeirra er þýft tún. Hvammur er utan túnakortsins sem gert var af túninu í Þórkötlustöðum 1918 en býlisins er þó getið á kortinu, þar stendur: „Þórkötlustaðahverfi. Þórkötlustaðir, 5 býli […] Buðlunga og Einland (jarðir). Eyvindarstaðir, Búðir, Miðbær, Garðbær, Móar og Klöpp (með túnbletti).“ Þar kemur einnig fram að kálgarðar hafi verið 950 m2 í Hvammi. Í Húsakönnun Þórkötlustaðahverfis eftir Loft Jónsson segir: „Það var byggt um aldamótin 1900.
Þar bjuggu Guðmundur Þorláksson og kona hans Valgerður Einarsdóttir.“ Í Fasteignamati frá 1916-1918 segir: eigandi og ábúandi Guðmundur Þorláksson. Býlið er þurrabúð á Þórkötlustaðalandi: tilheyrir landið engum sérstaklega og ekkert borgað fyrir lóðina, en lóðargjald álíst hæfilegt kr. 15.00. Á lóðinni eru miklir matjurtagarðar en mál óþekkt og eins hvað þeir gefa af sér. Hús sem á lóðinni eru og öll eru eign ábúenda.
Svæðið allt er um 20×13 m að stærð og snýr austur-vestur. Þar eru tvær tóftir. Að sögn Guðbjargar Jónsdóttur, frá Efstalandi var lítið timburhús á bænum í Hvammi. Ekkert er eftir af íbúðarhúsinu nema hlaðnar og steinsteyptar undirstöður (kjallari) og brot af skorsteini þar vestan við. Undirstöður hússins eru grjóthlaðnar, um 5×5 m að stærð. Veggirnir er mest um 1,5 m á hæð og um tíu umför tilhöggvins grjóts sjást þar. Steypt hefur verið í hleðsluna í austurvegg. Dyr eru í norðausturshorni, steyptur dyrakampurinn stendur enn.
Grunnurinn er opin til suðurs og þar er fullt af braki og rusli.

Hraunkot

Þórkötlustaðir

Hraunkot.

Austast í túni við túngarð, um 350 m austnorðaustur af bæjarhól eru tóftir býlisins Hraunkots, sem sýnt er á túnakorti 1918. „Í austur frá Brekku, í brúninni á Slokahrauni, var húsið Hraunkot. Það var rifið þegar Ólafur og Helga, sem þar bjuggu, byggðu Bræðratungu. Björn R. Einarsson landskunnur hljómlistamaður og Guðmundur R. Einarsson einnig hljómlistarmaður voru ættaðir frá Hraunkoti synir Einars Jórmanns Jónssonar rakara í Reykjavík,“ segir í Húsakönnun Lofts Jónssonar um Þórkötlustaðahverfi. Í myndbandi sem tekið var upp í
Þórkötlustaðahverfi árið 1986 og rætt við þá Árna Guðmundsson (1891-1991) og Jón Daníelsson (1904-1987) kemur fram að Árni mundi vel eftir torfbænum í Hraunkoti en hann virðist hafa verið horfinn þegar Jón fór að muna eftir sér. Árni hafði komið inn í torfbæinn árið 1902 og segir bæjargöngin hafi þá verið svo þröng að hann hafi þurft að smokra sér inn um þau og þó hafi hann verið nettur, aðeins 11 ára gamall. Samkvæmt heimasíðu Ferlis var Hraunkot þurrabúð frá Klöpp. Á túnakortinu sést að um þetta leyti hefur Hraunkot staðið stakt austan túns en hefur nú verið innlimað í túnið, sem hefur því verið fært út til austurs. Tóftir í Hraunkoti Uppmæling af fjárhúsum og ljósmynd af sömu tóft, horft til vesturs samanstanda af tveimur megintóftum, grunni sem hér er lýst ásamt tóft þar norðan við, tveimur kálgörðum vestar og upphlöðnum vegi milli þeirra úr vestri. Hraunkot er einstök minjaheild sem ekkert hefur verið raskað. Alls er svæðið um 50 x 50 m stórt. Sléttuð tún vestur að bæjarhúsum en mosavaxið úfið hraun er austan túngarðsins.

Hraunkot

Hraunkot.

Tóftirnar eru á litlum hól austast í túninu upp austasta hluta túngarðs. Hóllinn markast af hleðslu að vestan- og sunnanverðu. Það sem hér er lýst er annars grunnur sem er að mestu steinsteyptur og húsaleifar í framhaldi af honum til norðurs, svæði sem alls er um 30 x 12 m stórt frá norðri til suðurs. Grunnurinn er syðst á svæðinu, beint austur af upphlaðna veginum. Alls er grunnurinn um 6 x 6 m stór. Hlaðið hefur verið undir hann og er það hraungrýti, mest sýnilegt á suður- og vesturhlið. Ofan á liggur talsvert af steypubrotum. Af túnakorti að dæma hefur bæjaröðin verið aflöng frá norðri til suðurs og snúið göflum mót vestri. Húsið á grunninum eða forveri þess hefur staðið syðst í röðinni en ekki er augljóst í dag að það hafi verið samfast tóftum norðar, enda eyða á milli. Tóftum sem þar eru er þó lýst hér í beinu framhaldi, enda hluti sama bæjar af túnakorti að dæma. Þetta eru tóftaleifar sem alls eru 15 x 7 m að stærð og samanstanda af 3-4 hólfum. Tvö eru samföst nyrst, það vestara með op í vestur en hitt opnast til suðurs. Líkast til hefur ekki verið innangengt á milli hólfa. Þar sunnan við markar fyrir tveimur hólfum sem ekki eru með vesturgafli. Sunnan þeirra er svo grunnur eða tóft sem er rúmlega 5 m í þvermál en ekkert sýnilegt op. Vestan í bæjarhól Hraunkots 051 er hólbrúnin hlaðin á um 20 m löngum kafla sem nær frá tröðum 136 og til NNA. Hleðslan er 4-5 umför og vönduð og hlaðin úr flötu grjóti. Austurbrúnin hverfur inn í hólinn en vesturbrúnin er allt að 1,5 m há.

Þórkötlustaðarétt

Þórkötlustaðir

Þórkötlustaðarétt.

Réttin var byggð í kringum aldamótin 1900 og grjótið að mestu sótt upp í Vatnsheiði,“ segir í Húsakönnun Lofts Jónssonar um Þórkötlustaði. Umhverfis eru sléttuð tún til norðurs og vesturs en vegur liggur fast sunnan og austan réttarinnar.
Réttin er um 41 x 37 m stór og er grjóthlaðin. Hleðsluhæð er um 1,5 m og umför allt að tíu en veggir eru um 0,5 m þykkir. Veggir eru 1,2 m á breidd og flatir í toppinn. Grjót er vel valið og tilhöggvið að verulegu leyti og virðist möl hafa verið notuð til að þétta hleðslurnar.
Almenningur í miðið er um 32×18 m að stærð og nokkurn veginn ferhyrndur (snýr norðursuður). Sex dilkar eru að vestanverðu við hann, sjö að austanverðu og tveir að sunnanverðu, allir með op á þeim vegg sem snýr að almenningnum og annað á andstæðum vegg. Hólfin eru misstór en snúa öll austur-vestur ef frá er talið vestasta hólfið sunnan við almenning sem snýr öfugt. Hlið eru öll úr timbri. Réttinni er viðhaldið. Þegar réttin var skráð í júlí 2017 var mikill grasvöxtur inni í henni. Réttin stendur mjög vel og er greinilega vel við haldið. Aðeins mátti greina hrun í veggjum á einum stað, nálægt norðausturhorni. Hlið eða grindur eru fyrir öllum opum. Norðan við réttina er girðing. Í suðvesturhorni tóftar er nú útsýnispallur, utan hennar.

Gamla-rétt

Þórkötlustaðir

Gamla-rétt.

Um 350 m norður af bæ, í hraunjaðrinum norðvestan við Efra-Land, er grasbali inn í kálgarður. Í hvamminum, við túngarð, er hlaðin kró sem nefnd er Gamla-rétt. Réttin er í kvos eða hvilft inn í hraunbrúnina og myndar að hluta náttúrulegt aðhald. Í húsakönnun Lofts Jónssonar um Þórkötlustaði kemur fram að þetta sé gömul fjárrétt og að grjótið úr henni hafi verið notað til að hlaða túngarð. Sunnan við hvamminn er sléttað tún en hraun norðan við hann. Um hraunið, fast norðan túngarðsins liggur Austurvegur í austur-vestur.
Balinn hækkar nokkuð upp í hraunið til norðurs og myndar grjóthlaðinn túngarðurinn umgjörð um hann norðan- og vestanverðan en hleðsla gengur til suðurs úr túngarðinum og myndar austurvegg réttarinnar. Suðurvegg vantar og er réttin því hálfopin til suðurs. Allar eru hleðslurnar úr grjóti mest um 2 m háar og umför grjóts allt að tólf. Innst, þ.e. nyrst, í balanum liggur hleðsla þvert á réttina og myndar lítið hólf við túngarðinn. Réttin er um 30×12 m að stærð.
Til norðausturs eru birkitré og víðirunnar sem hafa raskað hleðslum þar nokkuð en að er ljóst að réttin hefur látið á sjá og þar voru líklega fleiri hólf enda þetta gömul skilarétt. Það eru 2-3 hólf varðveitt.

Móar

Þórkötlustaðir

Móar og nágrenni.

Býlið Móar eru merktir inn á túnakort frá 1918 um 200 m norðan við bæjarhól. Býlið var um 170 m sunnan við Hvamm 047, á milli kálgarðaþyrpinga. Samkvæmt túnakortinu
voru þrjú hús (þá líklega útihús) sambyggð kálgarði 037 en stök tóft í suðurhorni kálgarðanna og var það líklega sjálf bæjarhúsin. Á þeim stað er nú greinileg upphækkun eða þúst. Um býlið er getið í fasteignamati 1916-1918 en þar segir: þurrabúð liggur undir býli [austurbæina tvo]. Eftirgjald 10 kr., greitt til landeiganda.
Móar voru sunnarlega í því túni sem tilheyrði jörðinni, á milli kálgarða. Ljóst er að a.m.k. þrír kofar sem tilheyrðu Móum voru sambyggðir kálgörðum en eru þeir nú allir horfnir. Óljós ummerki sjást hins vegar um mannvistarleifar undir sverði þar sem líklegast er að sjálft íbúðarhúsið hafi staðið. Á þeim stað sem húsið stóð um 1918 er greinileg þúst, fast norðan við túngarðinn sem gengur á milli kálgarðsþyrpingar. Þúst er byggð upp við suðurvegginn túngarðs Móa. Svæðið er um 6 m á breidd en allt að 20 m langt og snýr austurvestur. Þústin sker sig frá umhverfinu og er allra skýrust brún að austan en fjarar svolítið út þegar vestar dregur.

Garðlag (túngarður)

Þórkötlustaðir

Móar og nágrenni.

Garðlag afmarkar austasta hluta Þórkötlustaðatúns og virðist þessi hluti túnsins hafa verið færður út og ræktaður einhvern tíma eftir 1918 en þá voru mörk túnsins við garðlög umhverfis Móa og hefur túnið því verið stækkað um 50-150 m til austurs. Hér verða garðlög á þessu svæði, sem marka af austurhlið túna eins og hún er nú öll skráð saman en gefinn bókstafur til aðgreiningar.
Garðlögin liggja gróflega NNV-SSA og marka samtals af um 500 m svæði en þau liggja í Gerði í nokkrum hlykkjum við hraunbrún Slokahrauns, alla leið til sjávar. Garðurinn liggur á mörkum túns og hrauns.
Garðurinn liggur í beinu framhaldi af NA-horni túngarðs en þó eftir um 30-40 m breiða eyðu. Eins og áður segir hefur honum örugglega hafa verið bætt við túnið eftir 1918 og það þannig fært út til austurs, á svæði sem er á túnakortinu merkt „kúahagi“. Þannig hefur t.d. býlið Hraunkot verið stakstætt utan túngarðs þegar túnakortið var dregið upp en er innan þess garðs sem hér er skráður.

Hjarðarholt

Þórkötlustaðir

Hjarðarholt.

Húsið Hjarðarholt var áður um 400 m vestan við Miðbæ Þórkötlustaða 001 fast vestan við veginn suður í Þórkötlustaðanes og um 30 m vestan við Hraðfrystihúsið. Í Húsakönnun Lofts Jónssonar segir um húsið: „Bergur Bjarnason og Jóhanna Vilhjálmsdóttir byggðu húsið árið 1935. Það var síðan flutt árið 1962 að Hvassahrauni 6 í Járngerðarstaðahverfi. Þarna ólst upp rithöfundurinn Guðbergur Bergsson og bræður hans“. Greinilega má sjá hvar lóðarmörk Hjarðarholts hafa verið og eins sjást steypuleifar sunnarlega á svæðinu. Þær eru um 7-8 m til SSA frá steypuleifum 207 þar sem vindmylla frá Hjarðarholti stóð samkvæmt Lofti Jónssyni.
Ummerkin eru á grasi gróin svæði en þó er stutt í möl og svæðið ekki ræktarlegt. Hæðir eru hér og þar á sléttunni í kring. Austan við er vegur í átt að Hópsnesi og svo gamla hraðfrystihúsið að Uppmæld ummerki þar sem húsið Hjarðarholt stóð áður Hjarðarholt. Norðan er vegur heim að Auðsholti og réttin 055 að vestan garðurinn sem markar af lóðina við Auðsholt og að sunnan bithagi fyrir hesta, afgirtur rafmagnsgirðingu. Samtals má greina rót á svæði sem er um 30 x 26 m stórt og snýr h.u.b. norður-suður.
Sunnarlega á svæðinu sjást talsverðar steypuleifar. Norðurhliðin er óljósari, líkt og úr henni hafi verið rutt. Steypt plata sést í gólfinu. Steyptar leifar um 23 x 8,5 m að stærð og snýr nálega austur-vestur. Suðurhliðin er mjög skýr og liggur rafmagnsgirðing um bithólf eftir henni að hluta. Vesturhlið hússins er einnig fremur skýr en reyndar er stallur fram af henni líka, líkt og þar hafi verið stétt eða afmörkun um 1 m vestan við hús (1 m lægra)Um miðbik hússins er hrúga af grjóti sem virðist hafa verið rutt saman. Í veggjum má sum staðar sjá grjót í sverði, þó aldrei hærra en 0,3 m hærra en umhverfi. Ummerkin eru grasi gróin. Við suðurvegg, vestarlega er byggt lítið hólf, ferhyrnt. Hún er 2 x 2 m að stærð en þó aðeins um 1 m að innanmáli. Talsvert af grjóti er inni í hólfinu og það er mun lægra heldur en stóra byggingin eða 0,1 m. Mögulegt er að skúr hafi verið á þessum stað.

Heródes (álagablettur)

Þórkötlustaðir

Heródes – áletrun.

Heródes „álagasteinn eða letursteinn, er í garðinum framan við vestari Vesturbæ. Þann stein varð að umgangast með varúð og ekki hreifa við honum annars mundi illa fara,“ segir í Húsakönnun Lofts Jónssonar fyrir Þórkötlustaðahverfi. Á heimasíðu Ferlis segir: „Talið var að fornar rúnir væru markaðar á hlið steinsins, en ef vel er að gáð í réttri birtu má sjá þar klappað á bókstaf eða tákn.“ Steinninn er tæpum 6 m sunnan við íbúðarhús Vestari Vesturbæjar, í bakgarði hússins sem hallar til suðurs. Allt umhverfis hann eru grjóthleðslur og er hann fast vestan við austurhlið kálgarðs. Steinninn er stöpull um 0,9 m á hæð en um 0,4 x 0,25 m að stærð. Toppur steinsins er flatur en hallar til austurs. Steinninn er mosagróinn en stendur vel þótt hann halli örlítið til suðurs.

Eystri Austurbær

Þórkötlustaðir

Eystri-Austurbær (rammi).

Á 19. öld var þríbýli á Þórkötlustöðum og í kringum aldamótin 1900 voru bæirnir orðnir fimm. Ekki er vitað með vissu hvor austurbærinn er sá hin upprunalegi/sá eldri. Líklega er það þó sá bær sem hér er skráður, Eystri Austurbær, hann er a.m.k. er einfaldlega nefndur Austurbær í Fasteignabók 1932 en hinn bærinn Vestari Austurbær. Árið 1932 stóð þar samkvæmt Fasteignabókinni timburhús. Í Fasteignabók 1938 er sagt að þá búi íbúar í Austurbænum í sérmerktu húsi í annarri fasteign og þá ekki talin upp á umræddum stað og er þar líklega átt við húsið Valhöll 159 en samkvæmt Lofti Jónssyni heimildamanni byggðu síðustu ábúendur í Eystri Austurbænum húsið Valhöll 1932 og fluttu þangað og rifu eldra húsið í kjölfarið. Bærinn er merktur inn á túnakort frá 1918. Í Fasteignamati 1916-1918 segir: Eigandi Hafliði Magnússon Hrauni, ábúandi Pétur Helgason. Dýrleiki eftir síðasta mati 3.23. […] Tún og matjurtagarðar eru sérstakt, en heiðaland og hagabeit óskipt í félagi við hinar jarðirnar.
Svæðið er markað af margvíslegum yngri mannvirkjum auk þess sem þar vex talsverð sina sem gerir eldri ummerki ógreinilegri en ella hefði verið.
Samkvæmt Lofti Jónssyni stóðu Austurbæirnir tveir nokkuð þétt saman. „Í hinum Austurbænum bjó Pétur Helgason og Sigríður Hermannsdóttir,“ segir í Húsakönnun Lofts Jónssonar um Þórkötlustaðahverfi. Óljós ummerki sjást nú á því svæði sem Eystri Austurbær Þórkötlustaða stóð. Skýrustu ummerkin eru líklega tröppur sem lágu upp að íbúðarhúsinu sem eru fast suðvestan við malarveg að Buðlungu, 10 m norðvestan við standandi útihús frá Bjarmalandi (hús 13 á húsaskrá) en 25 m austan við Miðbæ Þórkötlustaða (íbúðarhús sem stendur
001). Tröppurnar eru steinsteyptar og sjást 3 þrep en þær eru reyndar að hverfa í sinu og gróður en þó er enn hægt að greina þær á óræktarblett sem þar er. Að tröppunum að dæma hefur húsið að hluta til verið þar sem vegurinn heim að Buðlungu liggur nú. Á þessum slóðum eru nokkur ummerki á svæði sem er 9,5 x 8,5 m stórt, þríhyrnt og liggur undir veg að norðaustan. Á svæðinu sést nokkuð greinileg suðurbrún og sér þar í grjóthleðslu á kafla, 2-3 umför. Á einu stað má sjá móta fyrir hólfi sem er alveg óskýrt til austurs en gæti hafa verið 4 x 3 m að innanmáli og snúið norður-suður. Ekki er ólíklegt að tóftin hafi verið opin til suðurs. Í aðalskráningu 2002 var hólfið skráð undir númerinu 001 B. Af ljósmynd í eigu Lofts Jónssonar sem tekin er af hverfinu eftir 1932 má sjá glitta í húsið. Það virðist hafa verið einfalt og lágreist timburhús. Samkvæmt túnakorti frá 1918 virðast hafa staðið nokkrir kofar á þessum slóðum og voru einhverjir þeirra sambyggðir. Líklega hafa lítil hús verið fast norðan við íbúðarhúsið.

Vestari Austurbær

Þórkötlustaðir

Vestari-Austurbær.- (rammi).

Á 19. öld var þríbýli á Þórkötlustöðum og um 1900 voru bæirnir á bæjartorfunni orðnir fimm. Ekki er vitað nákvæmlega hvor austurbærinn er sá hin upprunalegi. Líklega er það þó sá bær og sá bær sem hér er skráðir því einungis byggður um eða eftir aldamótin 1900. Bærinn er merktur inn á túnakort frá 1918. Í Fasteignamati 1916-1918 segir: Eigandi Hafliði Magnússon Hrauni, ábúandi Ólafur Þórleifsson. Dýrleiki 3.23 eftir síðasta mati. […] Matjurtagarðar og tún eru úrskipt, en heiðaland og hagbeit óskipt í félagi við hinar jarðirnar. Mannvirki: eru Túngarðar úr grjóti og vírgirðingar.
Matjurtagarðar 250 faðmar, gefa 15 tn í meðalári, 1 safnþró, alt í sæmilegu standi. Tún talið 4 dagsláttur, gefur af sér 40 hesta í meðalári, helmingur þýft, snögglent. Útengi ekkert, mætti græða meira tún. Útengi ekkert. Útbeit er fjalllendi og fjörubeit, smalamennska erfið. Reki sameiginlegur við hina býlin. Uppsátursréttur í sambandi við allar jarðirnar. Ágangur enginn.
Í Fasteignabók 1932 er sagt standa timburhús í Vestari-Austurbænum og 1938 eru útveggir sagðir úr timbri, járnvarðir. Austurbær Þórkötlustaða var austan við Miðbæ 001 og sunnan við hlöðu sem enn stendur við Miðbæ (sjá Hús 09 í húsakönnun). Samkvæmt Lofti Jónssyni heimildamanni stóðu Austurbæirnir tveir (sjá líka 138) mjög þétt saman. Ólafur Sigurðsson heimildamaður (f. 1941) dvaldi talsvert í Vestari Austurbænum sem barn en amma hans og afi áttu heima þar og hann var mikið hjá þeim. Húsið var samkvæmt honum rifið 1950 en ekki flutt. Samkvæmt Ólafi var hrútakofi sem var sambyggður húsinu að vestan og þegar hann svaf heyrði hann alltaf í hrútunum hinum megin við veginn. Ofan við bæinn og sambyggt honum var eldhús með torfþaki þar sem var geymdur eldiviður (hrossatað) samkvæmt Ólafi. Fiskisteinn var fyrir framan bæinn samkvæmt honum.

Þórkötlustaðir

Þórkötlustaðir 1935.

Svæðið er grasi gróið, bæjarstæði Þórkötlustaða. Þar sem húsið stóð er greinileg hæð. Austurhlið hæðarinnar er upphlaðin og 1,2-1,3 m á hæð og um 10 umför en ekki sést önnur hleðsla. Svæðið hallar aflíðandi til suðurs en til vesturs og norðurs er það fremur flatt og því er það í raun e.k. upphlaðinn stallur. Bærinn hefur líklega staðið þarna en á milli austurhliðar íbúðarhúss Miðbæjar Þórkötlustaða og austurhliðar hleðslunnar eru innan við 10 m. Engin eiginleg merki sjást um byggingu á þessum stað. Tóft 191 sem er fast austan við gæti hafa tengst Austurbænum. Svæðið er grasi gróið. Samkvæmt myndbandsviðtali við þá Árna Guðmundsson (1891-1991) og Jón Daníelsson (1904-1987) voru mjög mörg hús flutt vestur til Grindavíkur (í Járngerðarstaðahverfi) um miðja öld og var annað húsið í Austurbænum eitt þeirra. Þeir nefna ekki hvort húsið var flutt en Loftur Jónsson heimildamaður segir útilokað að það hafi verið Eystri Austurbærinn þar sem síðustu ábúendur þar byggðu Valhöll og rifu svo þann Austurbæ. Samkvæmt því mætti ætla að sá af Austurbæjunum sem hér er skráður hafi verið fluttur.
Loftur Jónsson mundi þó ekki eftir því og var reyndar efins um að annar hvor Austurbæjanna hefði verið fluttur. Engu að síður geta þeir Ari Guðmundsson og Jón Daníelsson þess í myndbandi og virðist það því líklegt.

Austari Vesturbær

Þórkötlustaðir

Austari-Vesturbær (rammi). Í miðið á hægri myndinni.

Fram eftir 19. öld var þríbýli á Þórkötlustöðum en ekki er vitað hvort Vestari Vesturbærinn eða Austari Vesturbær er nær því að standa þar sem hinn upphaflegi Vesturbær stóð.
Hvort sem var raunin voru bæirnir orðnir fimm í upphafi 20. aldar og teljast því allir til fornleifa í laganna skilningi. Austari Vesturbær Þórkötlustaða er merktur inn á túnakort frá 1918. Hann var á milli Miðbæjar (nánar tiltekið milli hlöðu við Miðbæ) og Vestari Vesturbæjarins 146. Svæðið sem er á milli núverandi íbúðarhúsa er aðeins um 17 m langt og því ljóst að þröngt var búið. Af ljósmyndum af Austari Vesturbæ að dæma stóð hann nokkuð þétt upp við Vestari Vesturbæinn 146 og var aðeins örlítið bil á milli húsanna.
Í Fasteignamati 1916-1918 segir: Eigandi og ábúandi Benóný Benidiktsson. Matjurtagarðar og tún eru úrskipt, en heiðaland og hagbeit óskipt í félagi við allar jarðirnar. Mannvirki: eru Túngarðar úr grjóti og vírgirðingum.
Á þessum slóðum er grasi gróin flöt nú og malarplan norðan við. Engin ummerki sjást nú um hús á þessum slóðum.
Í Austari Vesturbænum var tvíbýlt fram eftir 20. öld. Húsið sem þarna stóð var tveggja hæða timburhús sem rifið var eftir 1986 (en húsið sést á myndbandi sem tekið var upp í
Þórkötlustaðahverfi árið 1986). Af því að dæma var húsið með nokkuð stórum kvisti á suðurhlið en ekki var kvistur á norðurhliðinni. Á jarðhæð voru a.m.k. 2 gluggar á suðurhlið og dyr á milli
þeirra og miðjugluggi á kvisti beint ofan við hurð. Tveir gluggar voru á jarðhæð á báðum göflum hússins á efri hæð og einnig lítill gluggi í risi. „Í eystri-Vesturbæ var tvíbýli (tveggja hæða hús). Þar
bjuggu bræðurnir Benedikt Benónýsson og kona hans Magnúsar Ólafsdóttir á neðri hæð og Guðmundur Benónýsson og kona hans Sigríður Ólafsdóttir á efri hæð,“ segir í Húsakönnun
Lofts Jónssonar um Þórkötlustaðahverfi. Lítil sem engin ummerki sjást nú um Austari Vesturbæ Þórkötlustaða en þar sem húsið stóð er grasflöt milli húsa.

Vestari Vesturbær

Þórkötlustaðir

Vestari-Vesturbær (lengst til vinstri). Árni Guðmundsson segir frá.

Fram eftir 19. öld var þríbýli á Þórkötlustöðum en ekki er vitað hvort Vestari Vesturbærinn eða Austari Vesturbær er nær því að standa þar sem hinn upphaflegi Vesturbær stóð.
Hvort sem var raunin voru bæirnir orðnir fimm í upphafi 20. aldar og teljast því allir til fornleifa í laganna skilningi. Vestari Vesturbær er merktur inn á túnakort frá 1918. Vesturbæirnir voru tveir en nú stendur aðeins íbúðarhús þar sem Vestari Vesturbærinn stóð og er það hús byggt á 4. tug 20. aldar. Í Fasteignamati frá 1916-1918 segir: Eigandi og ábúandi Jón Þórðarson. Dýrleiki eftir síðasta mati. 3,44. Matjurtagarðar og tún eru úrskipt, en heiðaland og hagbeit óskipt í félagi við allar jarðirnar.
„Í vestari-Vesturbænum bjó Einar Guðmundsson [bróðir Árna] og fyrri kona hans Ingibjörg Jónsdóttir og síðar seinni kona hans Málfríður Einarsdóttir,“ segir í Húsakönnun Lofts Jónssonar fyrir
Þórkötlustaðahverfi. Á túnakort frá 1918 eru merktur talsverður fjöldi húsa í þyrpingu á þessum slóðum og hafa nokkur hús staðið norðan við íbúðarhúsið og eru þau skráð undir þessu númeri
en ekki sérstaklega ef frá er talið hesthús/fjós sem stóð norðvestan við íbúðarhúsið fram eftir 20. öld. Í Fasteignabók 1932 er sagt að þar standi timburhús og ólíkt öðrum húsum á
Þórkötlustaðabæjarstæðinu sé það enn óvarið 1938. Af ljósmynd sem tekin er eftir að Valhöll er byggð (1932) má sjá að þá er núverandi hús ekki risið en á sama stað stóðu þá tvö lítil timburhús.
Húsið sem nú stendur var líklega byggt skömmu síðar, a.m.k. var stóð það hús þegar Loftur Jónsson (f. 1938) fór að muna eftir sér. Engin ummerki sjást nú um eldri hús á þessum slóðum en
Árni Guðmundsson í Teigi (1891-1991) mundi eftir torfbæ þar sem Vestari Vesturbærinn stendur nú og kom Árni oft í hann sem barn enda Ingibjörg Jónsdóttir sem þar bjó frænka Árna.
Öll Þórkötlustaðaþyrpingin stendur á lágri hæð sem fellur inn í landið til norðurs og af henni hallar aflíðandi til suðurs (að sjó).
Einlyft timburhús á steinsteyptum kjallara er nú þar sem Vestari Vesturbærinn stóð en engin ummerki sjást um eldri hús.

Miðhús

Þórkötlustaðir

Eldri Miðhús.

Miðhús voru um 260 m NNV við Miðbæ Þórkötlustaða. Í Fasteignamati frá 1916-1918 segir: Þurrabúð frá býli [Miðbæ Þórkötlustaða]. Ábúandi Vilhjálmur Jónsson. Eftirgjald 5 kr. greitt landeiganda.
Lóðarstærð 400 faðmar yrkt í matjurtagarða. Hús á lóðinni, sem öll eru eign ábúanda eru þessi: Íbúðarhús 9 x 6 al, vegghæð 2 4/4 al bygt af timbri, þak pappaklætt, hitt áklæth. fornlegt.
Skúr áfastur 7 x 3 ál, úr timbri og járni. „Þar var búið um 1900. Árið 1932 er byggt nýtt hús sem er síðan 1961 flutt í Járngerðarstaðahverfi og er nú Túngata 2,“ segir í húsakönnun Lofts Jónssonar um Þórkötlustaðahverfi. Vilhjálmur Jónsson (afi Bjarna Kristins Garðarssonar heimildamanns) byggði bæinn sem reis í Miðhúsum 1932. Miðhús stóðu tæpum 30 m suðaustan við
suðausturhorn íbúðarhússins Búða. Húsið var um 260 m norðvestan við Miðbæ Þórkötlustaða en um 25 m suðaustan við íbúðarhúsið Búðir. Á þessum slóðum hefur safnast upp talsvert af rusli. Gömul bílhræ eru þar, hrúgur af hellusteinum og ýmislegt annað rusl auk þess sem hlut af svæðinu er að hverfa í órækt. Gámur er fast norðaustan við svæðið.
Miðhús eru sýnd á túnakorti frá 1918, nyrst í heimatúninu milli Búða til vesturs og Garðbæjar til suðausturs. Húsið er ranglega merkt „Miðbær“ en ekki „Miðhús“ á túnakortið. Á túnakortinu eru tvö hús á bænum og kálgarðar til norðurs og er svæðið allt skráð saman undir þessu númeri. Allar þessar minjar eru horfnar, þarna er nú m.a. skúr frá Búðum, gámur og mikið drasl og vélabrak. Ekki er hægt að sjá ummerki um mannvistarlög, né bæjarhól á svæðinu en leifar sjást af steyptum grunni eru greinilegar á því syðst, þar sem Miðhús stóð áður en íbúðarhúsið var flutt til Grindavíkur. Á grunninum er mikið af ýmiss konar braki og timbri. Það sem nú vottar best fyrir eru austur- og suðurhlið grunnsins og ná alls yfir svæði sem er um 8 x 8 m stórt. Grunnurinn er mest 0,8 m á hæð til suðurs en hverfur í hæðina og ýmiskonar rusl til norðurs. Samkvæmt Bjarna Kristni Garðarssyni var eldra hús Miðbæjar örlítið norðar en yngri húsin. Samkvæmt Lofti Jónssyni var Miðhús var með vindmyllu til ljósa áður en Sogsvirkjun var lögð til Grindavíkur. Um 4 m vestan við Miðhús stendur illa farið hús sem þjónað hefur hlutverki skemmu og hjalls eins lengi og menn muna. Þetta hús tilheyrði Miðhúsum en eigandi eftir að íbúðarhúsið í Miðhúsum var flutt til Grindavíkur lagði eigandi Búða húsið undir sig. Hjörleifur Stefánsson arkitekt telur að umrætt hús hafi á einhverju tímabili þjónað sem íbúðarhús en staðkunnugir telja það ólíklegt. Umrætt hús er skráð í Húsakönnun vegna verndarsvæðis.

Búðir

Þórkötlustaðir

Búðir 1985.

Í Fasteignamati 1916-1918 segir: önnur þurrabúð frá býli miðbæ Þórkötlustaða. Ábúandi Þórður Magnússon. Eftirgjald 5 kr. greitt landeiganda. Lóðarstærð 400 faðmar að mestu matjurtagarðar. Hús á lóðinni eru eign ábúanda.
Bærinn Búðir er sýndur á tínakorti frá 1918, skammt norðvestan við Miðbæ. Hann var norðarlega í heimatúninu og kálgarður við hann til vesturs og norðvesturs. Bærinn Búðir er sýndur á túnakorti frá 1918, skammt norðvestan við Miðbæ 142. Hann var norðarlega í heimatúninu og kálgarður við hann til vesturs og norðvesturs. Nýtt íbúðarhús var byggt á svipuðum stað árið 1928 og stendur það enn (sjá nánar í húsakönnun Þórkötlustaða) en garðhleðsla sem sléttuð hefur verið í tún.
Engin ummerki eldri húsa sjást nú á Búðum en yngsta íbúðarhúsið á bænum stendur samkvæmt Lofti Jónssyni heimildamanni er mögulegt að eldra hús hafi verið aðeins norðar en það sem nú stendur.
Íbúðarhúsið Búðir stendur enn þótt það sé í talsverðri niðurníðslu og umhverfis það hefur safnast upp talsvert af rusli, gömul bílhræ og fleira. Þrjú hús sem snéru stöfnum til austurs eða vesturs eru sýnd á túnakorti frá 1918. Ummerki um eldri bæ eru horfin og ekki er hægt að greina mannvistarlög né bæjarhól á svæðinu. Í húsakönnun Lofts Jónssonar segir: „Búðir: Hjónin Magnús Þórðarson og Ingibjörg Þórarinsdóttir byggðu núverandi hús 1932. Þar stóð annað hús áður.“

Garðbær

Þórkötlustaðir

Garðbær 1985.

Í Fasteignamati 1916-1918 segir: þurrabúð undir býli  [Vesturbær Þórkötlustaða]. Eftirgjald er ekki greitt, en er talið hæfilegt 10 kr. á ári. Ábúandi Daníel Daníelsson og Þóra Jónsdóttir. Lóðarstærð 400 faðmar yrkt í tún og matjurtagarða. Hús á lóðinni, sem er eign ábúenda er: Íveruhús 10 x 6 ál. vegghæð 4 ál, bygt af timbri og járni varið að mestu.
Garðbær er sýndur á túnakorti frá 1918 nyrst í heimatúninu, skammt suðaustan við Miðbæ.
Það eru sýnd fjögur hús á bænum á túnakortinu og stafnar snéru til suðurs. Í Húsakönnun Lofts Jónssonar segir: „Garðbæ byggðu hjónin Daníel Daníelsson og Þóra Jónsdóttir. Núverandi hús
byggðu þrjú af börnum þeirra 1933 en því hefur verið breytt nokkuð síðan.“ Kálgarðar voru bæði til norðurs og suðurs frá bænum en þeir eru mikið raskaðir. Kálgarður 039 er fyrir sunnan bæinn
en kálgarðarnir til norðurs eru horfnir, einungis hluti af kálgarði er þar eftir. Núverandi íbúðarhús er byggt í vesturhluta bæjarhólsins og mikið jarðrask er af þeim sökum. Fyrir austan og
vestan íbúðarhúsið eru haugar með mannvistarleifum sem komu upp við jarðrask.
Gróin, ræktuð tún eru sunnan, vestan og austan við bæinn. Til norðurs er núverandi íbúðarhús og jarðrask. Gamli bærinn er horfinn og ekki sér móta fyrir bæjarhól, íbúðarhúsið er
byggt í vesturhluta hans. Í austurhluta er m.a. búið að grafa niður rotþró með tilheyrandi raski. Það sést glitta í hlaðinn vegg suðaustan við húsið, það er hluti af húsi sem sést á ljósmynd frá
1978. Húsið er ekki sýnt á túnakorti frá 1918, það er innan kálgarðs. Veggurinn er 2 m á breidd, 0,5 m á hæð og grjóthlaðinn. Það mótar fyrir hólfi sem liggur austur-vestur, norðan við
vegginn en eins og fyrr segir er mikið jarðrask til norðurs, m.a. búið að grafa rotþró í austurhluta bæjarhólsins og erfitt að áætla frekar um minjar á bæjarhólnum og umfang hans.

Brekka

Þórkötlustaðahverfi

Bjarmaland og Buðlunga.

Húsið Brekka var á milli Bjarmalands og Buðlungu. „Það hús byggðu Kristinn Jónsson og Guðríður Pétursdóttur. Þau fluttu húsið í Járngerðarstaðahverfi árið 1949. Það er nú Arnarhraun
4,“ segir í Húsakönnun Lofts Jónssonar um Þórkötlustaðahverfi. Íbúðarhúsið var byggt eftir 1920 og telst því ekki til fornleifa í skilningi laganna en staðsetning þess var þó skráð og höfð með á fornleifalista samkvæmt ráðleggingum frá Minjastofnun Íslands um skráningu á minjum innan verndarsvæðis byggð. Samkvæmt upplýsingum frá Árna Guðmundsyni (1891-1991 á myndbandsupptöku sem er varðveitt á ÍSMUS) stóð Brekka nálægt vegi að Buðlungu, austan hans og aðeins norðar en að vera til móts við norðurenda fjárhúsa frá Bjarmalandi sem enn standa. Húsið var staðsett með aðstoð frá Lofti Jónssyni. Þar sem húsið stóð er nú malarplan þar sem geymdar eru heyrúllur. Engin ummerki sést um húsgrunninn. Sjálft húsið er nú Arnarhraun 4.

Kron (verslunarstaður)

Þórkötlustaðir

Katla.

Í Húsakönnun Lofts Jónssonar segir: „Austan við túnið í Teigi, rétt norðan við beygjuna á veginum, var hús þar sem Kron (Kaupfélag Reykjavíkur og nágr.) hafði verslun í nokkur ár.
Síðast var verslunin opin þar í árslok 1949. Afgreiðslumaður var Árni Helgason. Hann afgreiddi líka í verslun Kron í Múla. […] Vestan við veginn var byggt hús sem hýsti pöntunarfélag og var það starfrækt þartil Versl. Katla tók til starfa ca. 1952. Það hús var selt Kron sem flutti það í Járngerðarstaðahverfi og var það sett niður næst neðan við Bræðraborg á horni Víkurbrautar og Sunnubrautar. Þangað flutti verslun KRON frá Múla.“ Verslunin Kron er horfin en húsið sést á loftmynd sem tekið er um 1978. Hún var um 160 m norðan við Hraðfrystihúsið en skammt norðvestan við veginn sem liggur frá veginum að Þórkötlustöðum og að gamla þjóðveginum sem enn er notaður. Þarna er nú sléttur melur og gróið svæði þar sem húsið var.

Valhöll

Þórkötlustaðir

Valhöll. Helgi Andersen stendur á brunninum framan við húsið.

„Valhöll: Feðgarnir Pétur Helgason og Þórarin Pétursson byggðu húsið Valhöll 1932. Það var rifið 2010,“ segir í Húsakönnun Lofts Jónssonar um Þórkötlustaðahverfi. Húsið var byggt árið 1932 og telst því ekki til fornleifa í laganna skilningi en staðsetning höfð með á lista yfir fornleifar í Þórkötlustaðahverfi vegna verndarsvæðisskráningar 2017 að ráðleggingu Minjastofnunar Íslands.
Valhöll stóð þar sem nú er sléttuð grasflöt ofan við Þórkötlustaðaveg en vestan við malarplanið sem er sunnan Einlands 014:001 og vestan íbúðarhússins í Bjarmalandi. Engin ummerki sjást um húsið sem var rifið 2010 en steinstöpull hefur verið settur sunnarlega á svæðið. Af eldri loftmynd af svæðinu má sjá að húsið hefur verið 9 x 8,5 m að grunnfleti en sambyggt því að vestan var hús eða inngangsskúr sem var um 5,5 x 5,5 m stórt. Lóðin var um 28 x 26 m stór og var að hluta mörkuð af með steinsteyptum vegg. Af ljósmynd að dæma var húsið kassalaga og tvær hæðir með flötu þaki. Gengið var inn í húsið að sunnanverðu inn í viðbyggingu, á 2. hæð. Á neðri hæð/kjallara voru fjórir gluggar á suðurhlið en tveir stærri gluggar á 2. hæð. Húsið var afhent slökkviliðinu til æfingar og rifið í kjölfarið.

Pöntunarfélag
„Vestan við veginn var byggt hús sem hýsti pöntunarfélag og var það starfrækt þar til Versl. Katla tók til starfa ca. 1952. Það hús var selt Kron sem flutti það í Járngerðarstaðahverfi og var það sett niður næst neðan við Bræðraborg á horni Víkurbrautar og Sunnubrautar. Þangað flutti verslun KRON frá Múla. Sumarbústaður í Siglu [á Vondavelli] var fluttur þangað árið 2009,“ segir í Húsakönnun Lofts Jónssonar um Þórkötlustaðahverfi. Pöntunarfélagshúsið var áður innan við 20 m norðaustan við gamla Hraðfrystihúsið, fast neðan við Þórkötlustaðaveg og ofan við gamalt fjárhús sem enn stendur. Þar er grasflöt í órækt en ekki eru greinileg merki um húsið.

Laufás
„Laufás: Skammt sunnan við Sólbakka, við grjótgarð umhverfis kartöflugarðana frá Þórkötlustöðum stóð húsið Laufás,“ segir í Húsakönnun Lofts Jónssonar um Þórkötlustaðahverfi. Laufás var vestan við vesturhlið kálgarðs við Vestari Vesturbæ Þórkötlustaða. Samkvæmt túnakorti frá 1918 voru tvö útihús sambyggð vesturhlið kálgarðsins að vestanverðu og það þriðja sem stóð nyrst, var stakstætt. Líklega hefur Laufás verið byggt á svipuðum slóðum og það hús eða mögulega á leifum þess.
Engin ummerki sjást um íbúðarhúsið en þar sem það stóð er malarvegur til suðurs, í átt að sjó, vestan við vestanverðan kálgarðsvegg 004. Skemma eða geymsla úr timbri og bárujárni er rétt sunnan við þar sem Laufás hefur staðið.
Á þessum stað byggði Einar Guðmundsson fyrst verbúð sem var síðar breytt í íbúðarhús samkvæmt Árna Guðmundssyni og Jóni Daníelssyni (á myndbandsupptöku frá 1986) þá segja þeir að langt sé orðið síðan húsið hafi verið rifið. Samkvæmt Lofti Jónssyni heimildamanni stóðu tvö hús á þessum stað, mögulega sambyggð. Það austara var skemma og oftast nefnt „Rauða húsið“ en sjálft íbúðarhúsið var vestar. Laufás stóð þegar Loftur (f. 1938) man fyrst eftir sér en hann man þó ekki vel eftir útliti þess.

Klöpp (eldra bæjarstæði)

Þórkötlustaðir

Klappartúnið. Klöpp og Buðlunga t.h.

1703: Hjáleiga frá Þorkötlustöðum. JÁM III, 13. Enn hjáleiga 1801 og 1847. JJ, 84.
Klappar er getið sem hjáleigu frá Þórkötlustöðum í Jarðatali Árna og Páls frá 1703. 1840: „Klöpp og Bullunga; báðar þessar hjáleigur voru í landsuður frá bænum að sjá, niður í sjóinn, en eru báðar færðar hærra upp í túnið síðan aldamótin,“ segir í sóknarlýsingu. Samkvæmt Sýslu- og sóknarlýsingum stóð elsta bæjarstæði Klappar áður við sjó en var fært upp í landið um 1800. Þar stóð bærinn í um langt skeið en hætt var að búa á umræddum stað rétt fyrir 1930. Steinsteypt tvíbýlishús Teigur/Klöpp var byggt um og upp úr 1930 um 600 m norðvestar í hverfinu. Ekki er
nákvæmlega vitað hvar elsta bæjarstæði Klappar var en það er líklega horfið í sjó. Líklegast er að það hafi verið beint suður af því bæjarstæði sem byggt var þegar það var flutt um aldamótin 1800, sjá 002. Staðsetning er því aðeins gróflega ágiskuð. Bærinn er án efa horfinn í sjó.
Engin ummerki um elsta bæjarstæði Klappar sjást lengur.

Klöpp (yngra bæjarstæði)

Þórkötlustaðir

Klöpp. Tóftir bæjarins.

1840: „Klöpp og Bullunga; báðar þessar hjáleigur voru í landsuður frá bænum að sjá, niður í sjóinn, en eru báðar færðar hærra upp í túnið síðan aldamótin.,“ segir í sóknarlýsingu. „Austast
var Klöpp þar sem bjuggu Guðmundur Jónsson og Margrét Árnadóttir. Þar byggði sonur þeirra Guðmundur nýtt hús rétt við gamla torfbæinn og nefndi það einnig Klöpp [sjá 013:004],“ segir í Húsakönnun Lofts Jónssonar fyrir Þórkötlustaðahverfi. Annar sonur þeirra hjóna byggði svo hús skammt austan við torfbæinn og nefndi Teig. Í fasteignamati 1916-1918 segir:
„Jörðin Klöpp, eigandi og ábúandi Guðmundur Jónsson. Dýrleiki eftir síðasta mati 3,44. Tún 3 dagsláttur, greiðfært, grasgefið, gefur af sér 50 hesta. Matjurtagarðar 300 faðmar, gefa 10 tn: af matjurtum, útengi ekkert, heiðarland og hagbeit óskipt í sameiningu við alla jörðina Þórkötlustaði. Útbeit sæmileg, fjörubeit góð, smalamennska erfið. Uppsátur í sameiningu við Þórkötlustaði, ekki til að leigja út. Samgöngur erfiðar á landi, brúkanlegar á sjó. Túnið liggur undir áföllum af sjó. Hús á jörðinni, sem öll eru eign landeiganda og ábúanda.

Klöpp

Buðlunga og Klöpp – uppdráttur ÓSÁ.

Í Klöpp stóð 1932 timburhús samkvæmt Fasteignabók 1932. Bærinn er talinn upp í fasteignabók 1938 en þá er ekki skráð hús þar. Fasteignabók 1938. Svæðið fór illa í stórflóðinu 1925. Tóftir Klappar sjást enn vel um 135 m ASA við Miðbæ Þórkötlustaða og fast austan við útihúsasamstæðu í Buðlungu. Tóftin er innan hólfs sem nýtt er fyrir hrossabeit og sést talsvert traðk innan tóftar og við hana.
Sunnan og austan við skemmu í Buðlungu er stórt tóft. Samkvæmt heimildum var vesturhluti tóftarinnar bærinn í Buðlungu en austurhluti Klöpp. Er þetta óvanalegt og í lýsingu á mannvirkjunum verður hér allri tóftinni lýst en gert sérstaklega grein fyrir þeim hólfum sem eðlilegast er þá að ætla að hafi tilheyrt Klöpp. Tóftin er samtals 22,5 x 21,5 m að stærð og er því örlítið lengri austur-vestur en norður-suður. Í raun má segja að hún sé L-laga og eðlilegast er að álykta að sá hluti sem snýr norður-suður og er vestast hafi þá tilheyrt Buðlungu en hlutinn sem gengur til austurs syðst á svæðinu sé sá hluti sem tilheyrði Klöpp. Að sögn Árna var um að ræða eldhús, baðstofu austar, ískofa norðar, hlöðu sunnar, auk skemmu vestar.

Þórkötlustaðir

Buðlunga og Klöpp.

Norðurveggur er talsvert hruninn inn. Samkvæmt Árna Guðmundssyni (1891-1991) bjó hann fyrstu árin í Gömlu-Klöpp. Traðk eftir skepnur er sérstaklega áberandi í suðurhlið tóftarinnar. Fast sunnan við austurhluta tóftarinnar er raskað svæði. Samkvæmt Árna Guðmundssyni (1891-1991) var hlandforin á þessum stað, beint fyrir utan baðstofugluggann. Árni fyllti síðar upp í forina. Það er um 7 m í þvermál og
á því er mjög mikið af grjóti en í raun ekki önnur ummerki að sjá.
Samkvæmt myndbandi sem tekið var upp í Þórkötlustaðahverfi 1986 stóð þá uppi framhús Buðlungu úr timbri og báru járni. Samkvæmt Árna Guðmundssyni (1891-1991) var húsið líklega byggt 1913-1914.

Klöpp (þriðja bæjarstæði)

Þórkötlustaðir

Tóftir Klappar og Buðlungu.

„Nýja“ húsið í Klöpp stóð sunnan við gamla bæinn, þar sem nú er steypt þró. Klapparbærinn hefur verið á nokkrum stöðum í Þórkötlustaðahverfi. Elsta staðsetningin er horfin í sjávarrof og var bærinn færður norðar í túnið um 1800. Ekki er vitað hversu lengi hann stóð þar en í upphafi 20. aldar hefur verið búið að byggja nýtt hús um 5 m sunnan við eldra
bæjarstæðið og er það bæjarstæði skráð undir þessu númeri. Var það sonur hjónanna í Klöpp sem byggði húsið og nefndi það einnig Klöpp. Gömlu hjónin í Klöpp virðast þó hafa búið í yngra húsinu, því sem hér er skráð á tímabili. Um 1930 var svo bærinn fluttur á allt annan stað, norðvestarlega í Þórkötlustaðahverfi þar sem enn stendur steinsteypt parhús, Teigur og Klöpp en fjallað er um það síðastnefnda í húsaskráningu hverfisins. Ummerkin eru í túnskika sem tilheyrði Klöpp/Buðlungu.
Ekki er vitað nákvæmlega hvenær húsið sem hér er skráð var byggt en á heimasíðu Ferlis kemur eftirfarandi fram: „“Nýja“ húsið í Klöpp stóð sunnan við gamla bæinn, þar sem nú er steypt þró. Austan við gamla bæinn var byggt hús er nefndist Teigur. Marel í Klöpp og Árni í Teigi byggðu síðan samföst hús uppi á Leiti, sem enn standa [sjá húsaskráningu]“ Greinileg ummerki sjást eftir mannvirki á þessum stað. Steinsteypta þróin stendur enn að mestu. Líklega hefur þróin verið til að safna vatni. Hún er um 3 x 2,2 m að stærð og nýr norður-suður. Veggir
eru 10-15 cm á þykkt og úr grófri steypu og að vestur- og norðurhliðum sjást för eftir bárujárn í steypunni. Talsverð uppsöfnun er innan veggja. Þróin er í suðausturhorni svæðis þar sem ætla má
að íbúðarhúsið á Klöpp hafi staðið. Svæðið er rúmlega 6,5 m á kant og er 0,1 m hærra en umhverfið.

Teigur (eldri)

Árni Guðmundsson

Árni Guðmundsson í tóftum gamla Teigs.

„Austast var Klöpp þar sem bjuggu Guðmundur Jónsson og Margrét Árnadóttir. Þar byggði sonur þeirra Guðmundur nýtt hús rétt við gamla torfbæinn og nefndi það einnig Klöpp. Sonur þeirra Árni byggði og hús þar sem hann nefndi Teig,“ segir í Húsakönnun Lofts Jónssonar um Þórkötlustaðahverfi. Samkvæmt upplýsingum sem koma fram hjá Árna Guðmundssyni (1891-1991) í myndbandi varðveittu hjá Ísmus var húsið byggt um 8 árum fyrir flóðið 1925, þá líklega 1918-1919 og var timburhús. Árni reif húsið eftir Stóraflóðið 1925 og flutti vestur eftir og steypti svo upp það hús sem stendur í dag (Klöpp/Teigur, sjá umfjöllun í húsakönnun vegna verndarsvæði). Það hús er byggt 1934 og er mögulegt að Árni hafi búið annars staðar á milli 1925-1934. Eldri Teigur, það bæjarstæði sem hér er skráð, er ekki merkt inn á túnakort frá 1918 og hefur líklega risið ári síðar. Húsið er merkt inn á uppdrátt Lofts Jónssonar.
Samkvæmt Árna Guðmundssyni byggði hann húsið á hólnum sem nefndur var Harðhaus. Húsið og aðrar minjar utan við túnblett Klappar/Buðlungu eru skráðar undir jarðanúmeri Þórkötlustaða, en rétt að ítreka að svæðið hefur tilheyrt hjáleigunum, a.m.k. frá því í upphafi 20. aldar.
Lítil ummerki sjást nú þar sem Teigur stóð áður en þar er hæð/hóll í túninu, fast austan við túngarð Klappar og fast sunnan við túngarð. Hæðin þar sem Teigur stóð er um 15 m austan við gamla Klappar og Buðlungabæinn. Hún er um 35 x 12 m að stærð og snýr austur-vestur. Þar sem hæðin rís hæst er hún um 1 m hærra en umhverfið. Hún nær að túngarði 011:164 en raunar má á kafla sjá að mörk hennar eru norðan túngarðsins (1-2 m). Allra vestast á henni, um 1 m austan við túngarð er þúst. Þústin er 6,5 x 5 m að stærð og snýr norðursuður. Hún hefur líklega verið opin til suðurs. Þústin er frekar lá (um 0,2 m á hæð) og fellur inn í umhverfið. Engar grjóthleðslur sjást. Um 22 m austar, við austurenda hólsins er hnúta sem hér fær númerið 154_02. Um greinilegan hól er að ræða og er dæld inn í hann að austan en ekki er hægt að tala um eiginlega tóft. Hóllinn er 6 x 6 m að stærð. Umhverfis er grasi gróið og fremur sléttlent en svæðið er nú nýtt sem beitihólf fyrir hross. Sjórinn hefur kastað töluverðu af grjóti inn á svæðið allra syðst.

Vestur-Buðlunga

Þórkötlustaðir

Gamla-Buðlunga.

„Rétt vestan við Buðlungu voru tvö hús sem nefndust Vegamót og Vestur-Buðlunga,“ segir í Húsakönnun Lofts Jónssonar um Þórkötlustaðahverfi. Vestur-Buðlunga var líklega stutt vestan við Buðlungu 012:001 en austan við Vegamót 156. Ekki er vitað hvenær húsið er byggt, eða hvenær það var rifið/tekið niður en líklega var hvort tveggja á fyrri hluta 20. aldar. Á þeim stað er malarplan sunnan við skemmu og fjárhús og þar sunnan við tekur við túnskiki niður að sjó. Ekki sjást skýr merki um hússtæði á þessum slóðum. Loftur Jónsson heimildamaður telur að bæði Vegamót og Vestur-Buðlunga hafi verið þar sem nú er malarplan sunnan við útihúsasamstæðu hjá Buðlungu.

Vegamót
„Rétt vestan við Buðlungu voru tvö hús sem nefndust Vegamót og Vestur-Buðlunga,“ segir í Húsakönnun Lofts Jónssonar fyrir Þórkötlustaðahverfi. Loftur merkir húsið hins vegar ekki inn á uppdrátt af svæðinu sem hann teiknar og fylgir með húsakönnun. Húsið er hins vegar merkt inn á húsa og minjauppdrátt Ferlis/Ómars Smára af Þórkötluhverfi og samkvæmt því var um 30 m sunnan við austurhluta íbúðarhússins í Buðlungu og 10-15 m vestan við skemmu/fjárhús sem stendur á bænum (2017). Ekki er vitað hvenær húsið er byggt, eða hvenær það er tekið niður en líklega var hvort tveggja á fyrri hluta 20. aldar.
Húsið hefur samkvæmt tiltækum upplýsingum staðið þar sem nú er sléttað tún sunnan við Buðlungu og líklega náð inn á malarplan sem eru vestan við skemmu og fjárhús.
Samkvæmt upplýsingum frá Árna Guðmundssyni (1891-1991) sem fram koma í myndbandi sem aðgengilegt er á Ísmus var húsið alveg þokkalega stórt. Engin ummerki sjást um húsið nú. Loftur Jónsson heimildamaður telur að bæði Vegamót og Vestur-Buðlunga hafi verið þar sem nú er malarplan sunnan við útihúsasamstæðu hjá Buðlungu.

Þórkötlustaðagata (leið)

Þórkötlustaðir

Þórkötlustaðagata.

Þórkötlustaðagötur lágu milli Þórkötlustaða og Hrauns og sjást talsverð merki þeirra ennþá innan túns og utan. Göturnar liggja frá Hrauni til vesturs um Slokahraun en voru aðeins skoðaðar innan verndarsvæðis, í túni Þórkötlustaða 2017. Á þeim kafla er gatan merkt inn á túnakort frá 1918, frá túnjaðri og að bæjarhlaðinu á Þórkötlustöðum (nær að Austari Austurbænum 138. Á þessu
svæði er gatan merkjanleg allra austast, skammt norðvestan við Hraunkot, nálægt túnjaðri en fjarar út í túnið eftir því sem vestar dregur í túnið. Gatan er merkt inn á Minjakort Ómars Smára Ármannssonar af Þórkötlustaðahverfi. Sléttuð tún eru allt í kring.
Allra efst við túnjaðar Þórkötlustaða er dældin um 1 m á breidd og 0,4 m á dýpt. en verður breiðari og greinilegri eftir því sem ofar (suðvestar) dregur. Gatan er mjög skýr á um 100 m kafla en verður þá óljós og er að mestu sléttuð í túnið þar ofan við þótt óljós merki hennar sem rák í túnið megi rekja á um 50 m kafla til viðbótar.

Hraunkotsgata (leið)

Hraunkotsgata

Hraunkotsgata.

Tóftir Hraunkots 051 eru austast í túninu, um 300 m austnorðaustur af Miðbæ Þórkötlustaða, við túngarð. Gatan milli Hrauns og Hraunkots lá í vestur í gegnum hraunið frá Hrauni og með stefnu á kotið. Það sér móta fyrir götunni í hrauninu austan Hraunkots en best í landi Hrauns. Hins vegar er hún horfin í túninu vestan kotsins og sést því ekki innan þess svæði sem var skráð 2017 í tengslum við verndarsvæði. Gatan er merkt inn á Minjakort Ómars Smára Ármannssonar.
Hraunkot er í túnjaðri Þórkötlustaða en austar tekur við Slokahraun. Ekki eru greinileg merki um götuna innan túns við Hraunkot en op eða hlið er á túngarði 030 tæplega 40 m norðan við bæ þar sem gatan hefur legið í gegn. Fast norðaustan við túngarðinn má sjá dæld í framhaldi af hliðinu en gatan tekur á sig en hún verður fljótt mjög skýr í hrauninu og liggur í gegnum það til norðurs að Hrauni. Hún var ekki skráð utan túns þegar fornleifaskráning var gerð vegna verndarsvæðis 2017.

Skarð

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi – loftmynd 1954.

Tvöfalt útihús var vestast í suðurjaðri túnsins, samkvæmt túnakorti frá 1918. Húsið var um 90 m VSV við bæ (Miðbæ). Á svipuðum slóðum var byggt íbúðarhúsið Skarð um 1922. Um Skarð segir í Húsakönnun Lofts Jónssonar: „Skarð: Skammt vestan við Sólbakka var húsið Skarð. Það byggðu hjónin Magnús Guðmundsson og Sigríður Daníelsdóttir ca. árið 1922 og það var síðan rifið árið 1935 og Magnús byggði Sólvelli (Sunnubraut 8). Það voru afi og amma Más seðlabankastjóra og Magnúsar Tuma jarðeðlisfræðings. Húsið var um 40 m af íbúðarhúsinu Sólbakka í suðvesturhorni sléttaðs túns en þar er nú niðurgröftur og leifar torfkofa og var Skarð þar fast norðan við. Fast sunnan við er stórgrýttur sjávarkampur. Ofan við er sléttuð grasflöt sem tilheyrði líklega Sólbakka.
Af ljósmynd sem tekin er af Þórkötlustaðaþyrpingunni eftir 1902 en fyrir 1927 má sjá dökkleitt hús á þessum slóðum sem Loftur Jónsson heimildamaður telur líklegast að sé Skarð en
samkvæmt því væri myndin tekin á árabilinu 1922-1927). Af ljósmyndinni að dæma var húsið lítið, dökkleitt timburhús með mænisþaki. Húsið virðist hafa snúið nálega austur-vestur,
mögulega með skúrbyggingu að austan. Tveir gluggar hafa verið á suðurhlið en annars er lítið hægt að segja um útlit hússins af ljósmyndinni. Skarð er rétt á mörkum þess að teljast til fornleifa
en fær engu að síður að vera með á fornleifaskrá. Loftur Jónsson tekur að húsið hafi verið á svipuðum slóðum og útihús fast norðaustar. Er innan lóðamarka lóðarmarka Sólbakka, en neðan við tekur við fjörukambur. Á þessum stað eru tóftir húss, líklega þess húss sem síðast stóð á þessum stað sem hefur þá verið útihús. Kofinn er niðurgrafinn og stendur undir þaki. Hann er 6 x 3 m stór og snýr austur-vestur en dyr eru á vesturgafli. Aðeins þaktoppurinn rís upp úr lóðinni í um 0,5 m hæð en kofinn er mest um 2 m hár, en hleðslur í norður- og suðurvegg eru um 1 m háar. Þær eru úr torfi og grjóti auk þess sem eitthvað er steypt í þær. Laupurinn er úr timbri. Bæði í kampsbrúninni sunnan við kofann og norðvestan við hann eru lágar garðhleðslur sem loka af um 6 x 4 m stóru hólfi vestan við hann. Fyrir framan gaflinn er L-laga dæld og er hlaðið í barðið að hluta. Vestan og sunnan við er sjávarbakki og er þar bratt niður af svæðinu. Dældin er á kafi í sinu og drasli. Samkvæmt upplýsingum á heimasíðu Ferlis voru tóftir „skammt vestan við Sólbakka nýlegar fjárhústóftir frá Hofi“ og er líklega átt við umræddar tóftir.

Buðlúnga (eldra bæjarstæði)
1703: Hjáleiga frá Þorkötlustöðum. JÁM III, 13. Enn hjáleiga 1801 og 1847.
1840: „Klöpp og Bullunga; báðar þessar hjáleigur voru í landsuður frá bænum [Þórkötlustöðum] að sjá, niður í sjóinn, en eru báðar færðar hærra upp í túnið síðan aldamótin,“ segir í sóknarlýsingu. Samkvæmt Sýslu- og sóknarlýsingum stóð elsta bæjarstæði Buðlungu áður við sjó en var fært upp í landið um 1800. Þar stóð bærinn í um 130 ár þar til nýtt íbúðarhús var byggt enn norðvestar árið 1933 og stendur það enn. Ekki er vitað nákvæmlega hvar elsta bæjarstæði Buðlunga var en það var beint suður af því bæjarstæði þar sem byggt var á 19. öld. Býlið var því staðsett gróflega við fjöruborðið beint (50 m) suður á bæjartóft 002 og um 80 m SSA af íbúðarhúsinu í Buðlungu sem nú stendur (byggt 1933). Stórgrýttur fjörukambur og klappir fram
af þeim.

Buðlunga (yngra bæjarstæði)
Þórkötlustaðir1840: „Klöpp og Bullunga; báðar þessar hjáleigur voru í landsuður frá bænum að sjá, niður í sjóinn, en eru báðar færðar hærra upp í túnið síðan aldamótin.“ segir í sóknarlýsingu. „Túnið á Buðlunga liggur að vörinni og sundvarðan var þar neðst í túni,“ segir í örnefnaskrá AG. Í fasteignamati 1916-1918 segir: „Buðlunga, eigandi Hafliði Magnússon Hrauni, ábúandi Eyjólfur Jónsson, dýrleiki 44. Tún og matjurtagarðar sérstakt, hagbeit og heiðarlönd óskipt sameign við Þórkötlustaði. Útengi ekkert, útbeit er fjalllendi og fjörubeit, smalamennska erfið. Reki sameiginlegur við Klöpp og Einland. Uppsátursréttur í sameiningu við allar jarðirnar. Afföll nokkur af sjó á tún og garða. Eftirgjald til landeiganda kr. 40.00.
Bærinn í Buðlungu var á tímabilinu frá því um 1800 og til 1933 um 40 m suðaustan við núverandi íbúðarhús í Buðlungu (byggt 1933). Bæjartóftir Buðlungu og Klappar eru sambyggðar, a.m.k. sjást ekki skýr skil á yfirgrónum tóftunum nú (2017). Þær eru fast suðvestan við núverandi útihússamstæðu í Buðlungu. Bærinn í Buðlungu var færður undan ágangi sjávar um aldamótin 1800, til norðurs eða upp í túnið. Talsverð bæjartóft er þar sem bæjarstæði Buðlungu og Klappar virðast sambyggð, fast sunnan og austan við fjárhús og skemmu sem nú stendur í Buðlungu.
Tún eru allt í kring nema að norðvestan þar sem er útihúsasamstæða og malarplan. Tóftin er innan hólfs sem nýtt er fyrir hrossabeit og sést talsvert traðk innan tóftar og við hana.
Sunnan og austan við skemmu í Buðlungu er stórt tóft. Samkvæmt heimildum var vesturhluti tóftarinnar bærinn í Buðlungu en austurhluti Klöpp. Er þetta óvanalegt og í lýsingu á mannvirkjunum verður hér allri tóftinni lýst en gert sérstaklega grein fyrir þeim hólfum sem eðlilegast er þá að ætla að hafi tilheyrt Buðlungu. Tóftin er samtals 22,5 x 21,5 m að stærð og er því örlítið lengri austur-vestur en norður-suður. Í raun má segja að hún sé L-laga og eðlilegast er að álykta að sá hluti sem snýr norður-suður og er vestast hafi þá tilheyrt Buðlungu en hlutinn sem gengur til austurs syðst á svæðinu sé sá hluti sem tilheyrði Klöpp. Verður hólfunum gefin númer til samræmis við þetta og svæðinu lýst til á sambærilegan hátt. Sá hluti tóftar sem gera má ráð fyrir að tilheyrt hafi Buðlungu er sá hluti sem verst er farinn. Hluti þess hefur greinilega lent undir skemmu og má áætla að hann hafi náð lengra til vesturs áður. Þessi hluti er samtals um 21,5 x 7-9 m að stærð og snýr norður-suður. Allra syðsti hlutinn markar af norðurhlið til móts við hlið á túngarði Klappar. Allra syðst er lítil hólf sem nú er alveg samanhrunið og ógreinilegt. Inngangur inn í hóflið er stæðilegur og grjóthlaðinn um 0,8 m á breidd og allt að 1 m inn í tóftina en er þá kominn á kaf í torfhrun þannig að ekki er hægt að áætla stærð hólfs. Í þeim vegg sem gengur til vesturs frá opinu er steyptur stampur inn í grjóthleðslunni, þ.e. eins konar upphlaðinn varða, um 1,2 m á hæð sem er samanlímd með steinlími og sker sig úr grjóthleðslunni umhverfis þótt hún sé hlaðinn inn í vegginn. Þar er opið vel greinilegt og liggja stutt göng, sem enn eru undir þaki inn í hólfið. Göngin eru um 1,7 m löng.
Samkvæmt myndbandi sem tekið var upp í Þórkötlustaðahverfi 1986 stóð þá uppi framhús Buðlungu úr timbri og báru járni. Samkvæmt Árna Guðmundssyni (1891-1991) var húsið líklega byggt 1913-1914.

England (Einland)

Þórkötlustaðir

Árni Guðmundsson við Einland.

1703: Hjáleiga frá Þorkötlustöðum. JÁM III, 13. Enn hjáleiga 1801 og 1847. JJ, 84.
1840: „Einland, rétt fyrir norðan austasta heimabæinn,“ segir í Sýslu- og sóknarlýsingum Gullbringu- og Kjósarsýslu. Húsið Einland stendur enn (2017) og nánar er gerð grein fyrir því í Húsakönnun Þórkötlustaðahverfis. Í Húsakönnun Lofts Jónssonar segir að húsið sé byggt 1900 en árið 1896 hafi annað hús verið á sama stað. Samkvæmt upplýsingum frá Árna Guðmundssyni (1891-1991) af myndbandi sem tekið var af honum í Þórkötlustaðahverfi 1986 var Einlandshúsið flutt til Þórkötlustaða frá Járngerðarstöðum þar sem Árni taldi það hafa verið byggt fyrir aldamótin 1900. Á Járngerðarstöðum bjó Eiríkur Ketilsson í því (ættaður frá Kotvogi í Höfnum) og Jóhann Einarsdóttir. Árni hafði heyrt að það hefði verið flutt í einu lagi. Loftur Jónsson heimildamaður segist hins vegar hafa heyrt að Einland sé byggt úr timbri sem kom úr timburfarmi skipinu Jamestown sem strandaði við Hvalsnes við Hafnir 1881. Menn víðsvegar af Suðurnesjum keyptu mikið af timbri úr skipinu og notuðu til húsbygginga og Elías Guðmundsson hafði heyrt þá sögu sem strákur að afi hans, Jón Þórarinsson útvegsbóndi í Einlandi hefði keypt húsið í Höfnum, rifið það og flutt til Grindavíkur.
Norðan íbúðarhússins eru tóftir bæjarins en öll þessi mannvirki eru sýnd á túnakorti frá 1918. Einland er norðvestan við Bjarmaland og stutt er á milli húsanna. Í fasteignamati 1916-1918 segir: „Eigandi Hafliði Magnússon Hrauni, ábúandi Jón Þórarinsson. Dýrleiki eftir síðasta mati 3.44. Tún og matjurtargarðar sértakt en hagabeit og heiðaland óskipt sameign við Þórkötlustaði. Túngarður úr grjóti og vírgirðingum. Matjurtagarðar 400 faðm. gefa 20 tn í meðalári, 2 safnþrær, allt í góðu standi. Tún talið 3 dagsláttur, gefur af sér 60 hesta, hefur verið grætt út stórkostlega og má græða meira. Útengi ekkert, útbeit er fjallendi og fjörubeit, smalamennska erfið. Reki sameiginlegur við Klöpp og Buðlungu í uppsátursréttar er í sambandi við aðrar jarðir. Ágangur á yrkta lóð enginn.
Ekki er um eiginlegan bæjarhól að ræða og erfitt að greina uppsöfnuð mannvistarlög á yfirborði, það eru mannvirki á öllum hólnum að því virðist. Fast norðan við timburhúsið (byggt 1900) eru
tóftir, fullar af bárujárns- og timburbraki. Bærinn, og um leið bæjarhóllinn, er 21 x 14 m að stærð og snýr norður-suður. Á hólnum er timburhús sem áður er minnst á og tóftir útihúsa fast norðan
þess. Árið 1986 þegar viðtal var tekið við Árna Guðmundsson (1891-1991) greindi hann frá því að ekki hefði verið búið í húsinu um nokkurra ára skeið.

Lambhúskot

Þórkötllustaðir

Lambhúskot.

1847: Hjáleiga frá Þórkötlustöðum. JJ, 84, en ekki getið 1840 – Landnám Ingólfs III, 139.
Í Fasteignaskrá 1916-1918 segir: Þurrabúð liggjandi undir býli [Vesturbær Þórkötlustaða sem síðar var upp talinn, líklega vestari vesturbær]. Ábúandi Bjarni Bjarnason. Eftirgjald 6 kr, greitt til landeiganda. Lóðarstærð 400 faðmar yrkt í tún og matjurtagarða. Hús á lóðinni, sem er eign ábúenda.
Bærinn er sýndur á túnakorti frá 1918. Þar var þurrabúð og hét með réttu Lambhúskot. Bærinn snéri líklega stöfnum til austurs og þar eru sýnd a.m.k tvö hús og kálgarðar til norðurs og suðurs.
Bæjarhóllinn er varðveittur ásamt tóft ofan á honum. Nýtt hús, byggt eftir 2002 er fast vestan við bæjarhólinn en raskaði honum ekki. Ekki er vitað hvort að mannvistarleifar hafi komið upp við byggingu þess. Í Húsakönnun Lofts Jónssonar segir: „Þórkötlustaðavegur 9: Það hús byggðu Ásmundur Jónsson og Kolbrún Guðmundsdóttir árið 2008 en eldri bærinn, hinn upprunalegi var „í túninu rétt austan við þar sem Ásmundur Jónsson byggði sitt hús.“ Þar segir einnig: „Lambhúskot. Það hús stóð austan við þar sem Þórkötlustaðavegur 9 stendur nú. Hjón sem bjuggu þar síðast voru Helgi og Guðfinna, sem byggðu Stafholt.“ Á myndbandi sem tekið var í Þórkötlustaðahverfi 1986 og þeir Árni Guðmundsson og Jón Daníelsson ræða saman kemur fram að torfbærinn í Lambhúskoti stóð í minni þeirra beggja en þeir voru fæddir 1891 (Árni) og 1904 (Jón). Í sléttuðu túni.
Bæjarhóllinn er um 30×15 m að stærð, 0,4 m á hæð og sker sig úr umhverfinu vegna lits og lögunar þúfna. Hann snýr norður-suður og bærinn snéri stöfnum til vesturs. Um er að ræða þústir en ekki greinilegar tóftir nema á einum stað nokkurn veginn fyrir miðju svæðinu. Tóft er á miðju hans, lág eða veggjarbrot liggur til austurs frá henni. Mögulega var þarna komið að bænum eða voru traðir.

Hverfið
Þórkötlustaðahverfi
Elsta ítarlega heimildin um Þórkötlustaði er Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703. Þar er kostum og göllum jarðarinnar lýst og hjáleigur innan marka hennar taldar upp. Af lýsingunni fæst staðfest að gæði jarðarinnar voru fólginn í sjávarnytjum hennar fremur en skilyrðum til landbúnaðar. Samkvæmt jarðabókinni gat jörðin fóðrað 4 kýr, 20 ær, 16 lömb og 1 hest. Þar er þess getið að heimræði sé allt árið um kring, þang aðaleldiviður (þótt jörðin hafi átt kolagerð í almenningi), fjörugrastekja nægileg, selveiði til góðra hlunninda, rekavon góð (timbur og hvalur) og sölvafjara sæmilega góð en torfskurður aftur á móti sendinn, engjar engar, vatn aðeins flæðivatn og þess einnig getið að sjór brjóti af landi.
Þótt ekki sé getið um hjáleigubyggðina á Þórkötlustöðum fyrr en um 1703 eru allar líkur á að hún nái lengra aftur og Jón Þ. Þór telur hugsanlegt að hún eigi upphafi sitt að einhverju leyti að rekja allt aftur á 12.-13. öld þegar fiskneysla jókst til muna og sjávarútvegur fór að fá aukið vægi. Ástæða aukins þunga sjávarútvegs var m.a. kólnandi veðurfar, samdráttur í landbúnaði, vaxandi fólksfjöldi, aukin byggð við sjávarsíðuna og tilkoma föstunnar.18 Líklegt er að verstöðvar hafi þá orðið til víðast þar sem stutt var á góð mið.

Ekkert er vitað um eignarhald Þórkötlustaða framan af. En jörðin var, eins og fyrr kemur fram, orðin stólseign um miðja 16. öld. Jón Þ. Þór telur líklegt að staðurinn hafi eignast jarðirnar í kjölfar plágnanna á 15. öld, þá líklega í þeim tilgangi að auka áherslu stólsins á sjósókn. Lítið er vitað um mögulega útgerð Skálholtsstaðar í Grindavík á 15.-16. öld en ljóst að þegar komið var fram á miðja 17. öld lagði Brynjólfur Sveinsson biskup á það ríka áherslu að auka og byggja upp útgerð á svæðinu öllu, þ.m.t. á Þórkötlustöðum.19 Í úttekt frá 1665 kemur fram að engin verbúð sé á Þórkötlustöðum en heimabóndi hýsi skipsáhöfn en þegar Jarðabók Árna og Páls er rituð 1703 er risin verbúð á jörðinni.
Sem fyrr segir er Jarðabókin elsta heimildin um hjáleigubyggð á Þórkötlustöðum en þegar hún var rituð 1703 voru þar fimm hjáleigur og bjuggu samtals 60 manns í hverfinu, 13 á heimajörðinni en aðrir á hjáleigunum. Á 18. öld er jörðinni skipt í þrjá jarðparta og þeir seldir með stuttu millibili undir lok 18. aldar. Eftir það var hver partur orðin sjálfstæð eign, á við meðaljörð í gæðum. Svo virðist sem byggð haldist stöðug í hverfinu allt til loka 19. aldar. Í Sýslu- og sóknarlýsingum frá 1840 kemur fram að þrjár hjáleigur séu í byggð á jörðinni og ein þurrabúð og 1847 eru fjórar hjáleigur í byggð. Árið 1801 bjuggu þar 44 á 10 heimilum og íbúafjöldinn var á bilinu 40-60 manns á 8-10 heimilum allt fram yfir 1880.23 Á sjálfri heimajörðinni var reyndar þríbýlt lengst af á 19. öld og bjó þar m.a. Árni Einarsson hreppstjóri 1882 á einum parti sem e.t.v. má túlka sem vísbendingu um að jarðarpartarnir þrír hafi enn verið í flokki með betri jörðum á svæðinu. Þó voru ábúendaskipti á jörðinni og hjáleigum hennar voru fremur ör, sérstaklega á síðari hluta aldarinnar.

Þórkötlustaðir

Þórkötlustaðir – Miðhús, í dag.

Á árunum 1880-1901 tekur Þórkötlustaðahverfið talsverðum breytingum. Þá meira en tvöfaldaðist íbúatala í hverfinu, fór úr 60 íbúum árið 1880 í 132 árið 1901 og úr 9 heimilum í 22. Þegar túnakort var gert fyrir Þórkötlustaði 1918 voru býlin í hverfinu 12 talsins auk fimm íbúðarhúsa á sjálfri bæjartorfunni og að auki var án efa tvíbýlt á sumum býlanna. Á fyrri hluta 20. aldar virðist hafa verið algengt að afkomendur fólks á eldri bæjarstæðunum í hverfinu hafi byggt sér ný hús innan hverfis. Sem dæmi um þetta byggðu börn Englandsbóndans upp Heimaland og Efraland í kringum 1940, dóttir eiganda Hvamms byggði húsið Þórsmörk 1938 og synir hjónanna úr Klöpp byggðu sér tvíbýlin Vestri-Klöpp og Teig norðvestarlega í hverfinu á 4. áratugnum. Ekki er ólíklegt að þetta hafi einnig verið raunin á árunum fyrir 1900.
Þórkötlustaðahverfi hélt áfram að blómstra og vaxa á fyrri hluta 20. aldar en þegar komið var undir miðbik aldarinnar voru aukin umsvif og fólksfjölgun í Járngerðarstaðahverfi ásamt nýjum hafnarmannvirkjum í Hópinu farin að hafa áhrif á hverfið, þótt þar byggju þá ríflega 200 manns í hátt í 30 íbúðum. Greinilegt var orðið að þungamiðja athafnalífs í Grindavík yrði í framtíðinni í Járngerðarstaðahverfi. Til að bregðast við þeim vanda sem steðjaði að byggðinni stofnaði fólk á svæðinu félagskap um byggingu frystihúss sem tók til starfa í hverfinu 1947 og var það starfrækt fram til 1992. Frystihúsið blés miklu lífi í atvinnu á svæðinu enda voru gerð út allt að fimm fiskiskip á sama tíma og keyptur fiskur af öðrum bátum til verkunar. Á fimmta áratugnum var stofnaður skóli í hverfinu og þar var einnig rekin verslun um nokkurra áratuga skeið.
Þrátt fyrir aukna atvinnumöguleika með tilkomu hraðfrystihússins fór fólki að fækka í Þórkötlustaðahverfi upp úr miðri 20. öld og varð vöxtur bæjarfélagsins einkum í Járngerðarstaðahverfinu enda var sú jörðin meira miðsvæðis í sveitarfélaginu og hafnaraðstaða þar betri.

Sjá myndband – viðtal við Árna Guðmundsson.

Heimild:
-Fornleifar í Þórkötlustaðahverfi – verndarsvæði í byggð, Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2018.

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi.

Vindássel

Í „Fornleifaskráning í Kjósarhreppi III“ frá árinu 2012 er m.a. fjallað um „Byggðasögu Kjósarhrepps„.

Byggðasaga Kjósarhrepps
Kjósarhreppur er í sunnanverðum Hvalfirði. Hreppurinn nær frá Miðdalsá og norðurhlíðum Esju í suðri, að suðurbakka Botnsár í Botnsdal í Hvalfjarðarbotni, Hvalfells og Hvalvatns í norðri. Að austan marka svo fjöllin Hlíðar, Kjölur, Leggjabrjótur og Botnssúlur skil á milli Kjósarhrepps og Þingvallasveitar. Syðst í Kjósinni í norðurhlíðum Esjunnar eru fimm dalir sem liggja gróflega norður-suður.

Eilífsdalur

Eilífsdalur – málverk eftir Tolla.

Vestastur er Hrútadalur, þá Eilífsdalur, Flekkudalur, Eyjadalur og loks Svínadalur austast. Innan hreppsins eru fimm fjöll; Eyrarfjall, Meðalfell, Reynivallaháls, Þrándarstaðafjall og Múlafjall, sem skipta svæðinu niður í sex stóra dali til viðbótar.
Miðdalur sunnan við Eyrarfjall, Kjósardalur milli Eyrarfjalls og Reynivallaháls, Laxárdalur milli Meðalfells/Möðruvallaháls og Reynivallaháls, Hlíða- og Skálafellsháls, Fossárdalur milli Reynivallaháls og Þrándarstaðafjalls, Brynjudalur milli Þrándarstaðafjalls/Suðurfjalls og Múlafjalls og svo loks Botnsdalur milli Múlafjalls og Selfjalls/Háafells. Upp af Fossárdal er svo Seljadalur á milli Reynivallaháls og Kjalar. Flesta bæi Kjósarhrepps er að finna í þessum dölum en þó eru nokkrir bæir dreifðir eftir Hvalfjarðarströnd. Eitt stórt vatn er í Kjósinni vestanverðri milli Esju og Meðalfells sem kallast Meðalfellsvatn og hefur þar myndast á síðustu áratugum stór sumarbústaðabyggð. Slíka byggð er einnig að finna við mynni Eilífsdals litlu vestar og á Hvalfjarðarströnd vestan við Hvammsvík. Laxá í Kjós er ásamt Meðalfellsvatni eitt stærsta aðdráttarafl Kjósarinnar enda áin ein vinsælasta laxveiðiá landsins.
Helstu bæir sem skráðir voru í Kjósarhreppi dreifast misjafnt um svæðið en flesta þeirra má þó finna í Kjósar- og Laxárdölum. Í Miðdal eru nú bæirnir Kiðafell, Morastaðir og Miðdalur, sem og bærinn Eilífsdalur við mynni samnefnds dals. Kjósardal er skipt í tvennt af Dælisá og Bugðu sem renna saman og mynda eitt langt vatnsfall sem eitt sinn var nefnt Eilífsá. Vestan við Bugðu eru bæirnir Eyri, Þúfa, Bær, Blönduholt og Laxárnes norðaustan undir Eyrarfjalli en bæirnir Sandur, Eyjar, Flekkudalur, Grjóteyri og Meðalfell eru austan við árnar tvær. Flestir bæir eru austan við Meðalfellsvatn á meðan sjálfur Meðalfellsbærinn er norðan við vatnið.
Austan við Bugðu í Laxárdal eru svo bæirnir Neðri-Háls, Valdastaðir, Sogn, Reynivellir, Vindás og Hækingsdalur norðan við Laxá. Sunnan við ána eru Fremri-Háls, Írafell, Möðruvellir, Þorláksstaði, Hurðarbak, Káranes og Káraneskot.

Kjós

Kjós – kort.

Vestanvert við norðurmynni Fossárdals var bærinn Fossá og upp og suður af Fossárdal er Seljadalur þar sem má finna leifar bæjarins Reynivallasels. Bæirnir Ingunnarstaði, Þrándarstaði og Skorhagi (Múli) eru í Brynjudal. Á Hvalfjarðarströnd eru bæirnir Útskálahamar norðvestan undir Eyrarfjalli og Hvammur, Hvammsvík og
Hvítanes norðan undir Reynivallahálsi og vestan við Fossá. Enginn bær sem tilheyrir Kjósarhreppi er í Botnsdal í Hvalfjarðarbotni.
Þegar saga Kjósarinnar er skoðuð má sjá að talsvert af bæjum hefur þar byggst upp og fallið í eyði í gegnum aldirnar, þó að stærstu jarðirnar hafi verið í stöðugri ábúð. Í meðfylgjandi töflu er að finna yfirlit yfir þekkta bæi og býli á svæðinu ásamt upplýsingum um hvenær þeirra er fyrst getið í heimildum.
Kjósarhreppur
Frásögnum um landnám í Kjós ber ekki alveg saman. Kjósin virðist þó sannarlega hafa verið hluti af landnámi Ingólfs Arnarsonar. Samkvæmt Landnámu nam Helgi bjóla, tengdasonur Ingólfs Arnarssonar land á Kjalarnesi en hafði aðeins yfir að ráða svæðinu á milli Mógilsár og Miðdalsár (Mýdalsár). Kjalnesingasaga áætlar Helga, vinum hans og vandamönnum hins vegar mun stærra svæði eða allt land milli Leiruvogs og Botnsár. Samkvæmt Kjalnesingasögu útdeildi Helgi landinu til skipverja “ok þar hverjum, sem honum þótti fallit vera.
Í sögunni eru nefndir þrír bæir í Kjósinni; Þrándarstaðir í Brynjudal, Eilífsdalur og Hækingsdalur í ofanverðum Laxárdal, sem Helgi bjóla útdeildi til skipaverja sinna (sjá kort 2). Það er áhugavert að allar þessar jarðir eru í þröngum dölum langt frá hver annarri í útjaðri Kjósarinnar sem gæti gefið til kynna að Helgi bjóla hafi haldið bestu svæðunum fyrir sjálfan sig og fjölskyldumeðlimi. Bærinn Þrándarstaðir er ekki nefndur aftur í heimildum fyrr en í dómabréfi árið 1509.7 Hækingsdals er einnig getið í Sturlungu og í landamerkjabréfi frá árinu 1270 þar sem merkja milli bæjanna Vindáss og Hækingsdals er getið og kemur þar bæjarnafnið Vindás fram í fyrsta skipti.8 Vindásjörð hefur því greinilega einnig byggst nokkuð snemma. Eilífsdalur er nefndur um 50 árum fyrr, eða um 1220, ímáldaga Saurbæjarkirkju og árið 1478 eru landamerki milli Eilífsdals og Miðdals (Mýdals) nefnd í fornbréfi. Munnmæli eru um að bænhús hafi verið bæði í Hækingsdal og að Þrándarstöðum.
Í Landnámu er sagt frá fjórum aðal landnámsmönnum í Kjósinni; Svartkeli hinum katneska, Hvamm-Þóri, Þorsteini Sölmundarsyni og Valþjófi Örlygssyni. Svartkell nam samkvæmt Landnámu land vestast í Kjósinni frá Miðdalsá að Eilífsá (nú Dælisá og Bugða). Á hann að hafa búið fyrst að Kiðafelli en flutt síðar norðaustur fyrir Eyrarfjall að kirkjujörðinni (Hvalfjarðar-) Eyri).

Kjós

Kjós – bæir.

Heimildir eru annars þöglar um Kiðafell fyrr en komið er fram til um 1700 en Eyrar er næst getið árið 1198 í Sturlungu og Eyrarkirkja er einnig nefnd í kirknaskrá Páls þegar um 1200 og máldaga Saurbæjarkirkju um 1220.11 Meintur flutningur Svartkels frá Kiðafelli til Eyrar þar sem er betra undirlendi norðaustan og austan undir Eyrarfjalli gæti einfaldlega verið til marks um að landgæði hafi þótt betri þar, sér í lagi þegar fram liðu stundir, en undirlendi við bæjarstæði Kiðafels, suðvestan við Eyrarfjall, er takmarkað þar sem bærinn stendur nokkuð hátt í fjallshlíð stutt frá Miðdalsá og strönd Hvalfjarðar.

Kjós

Kjós-bæir.

Hvamm-Þórir nam land milli Laxár og Fossár og bjó í Hvammi samkvæmt Landnámu. Í Sturlungu er Hvammur orðinn að stórbýli árið 1237 og er útkirkja nefnd þar í Hítardalsbók um 1367. Í Harðar sögu er sagt frá því þegar Ormur sonur Hvamm-Þóris gefur Bolla þræl sínum land að Bollastöðum. Bollastaða er annars ekki getið í heimildum fyrr en í Jarðabók Árna og Páls árið 1705 þar sem jörðin er talin upp sem eyðibýli. Mannvistarleifar sem gætu verið leifar af bænum eru rétt austan við landamerkin milli Valdastaða og Neðri-Háls á landsvæði innan landnáms Hvamm-Þóris.
Þorsteinn Sölmundarson nam samkvæmt Landnámu land í Brynjudal milli Bláskeggsár og Fossár en ekki er ljóst hvar hann bjó. Hann átti son sem Refur hét og talinn er hafa búið að Múla (GK-357:008) eða á Stykkisvöllum í Brynjudal (Gullhlaðsvöllum) og gæti faðir hans hafa búið á svipuðum slóðum. Þó er ekki útilokað að hann hafi búið í norðanverðum Botnsdal eða jafnvel enn norðvestar í Hvalfjarðarstrandarhreppi. Múla er annars getið í máldaga Reynivallakirkju árið 135216 en bærinn var fluttur að Skorhaga um eða fyrir 1600 þegar skriður grafa eldra bæjarstæði að mestu.

Meðalfellsvatn - skilti

Meðalfellsvatn – skilti.

Í Kjalnesinga sögu er sagt frá kristnum Íra að nafni Örlygur sem kom til Íslands með konu og uppkomnum syni. Samkvæmt sögunni fékk Örlygur land hjá Helga bjólu frænda sínum, reisir bæ og kirkju að Esjubergi og býr á jörðinni til æviloka. Samkvæmt Landnámu nam Valþjófur sonur Örlygs “Kjós alla” og bjó að Meðalfelli við Meðalfellsvatn. Trúlega er þar átt við landsvæðið sem afmarkast af landnámi Svartkels að vestan og Hvamm-Þóris að norðan og austan, milli Eilífsár og Laxár suður að Esju og Skálafelli. Kirkjan að Meðalfelli er nefnd í kirknaskrá Páls um 1200. Innan þessa landsvæðis eru einnig Möðruvellir þar sem Valbrandur sonur Valþjófs er sagður hafa byggt fyrst en hann bjó þar árið 1198 samkvæmt Sturlungu.
Landnám Örlygs á Kjalarnesi og Valþjófs sonar hans í Kjósinni gefur til kynna að Helgi bjóla hafi sannarlega haft einhver yfirráð yfir landsvæðum í Kjósinni líkt og Kjalnesinga saga greinir frá þótt Landnáma taki ekki beint undir það. Valþjófi hefur trúlega verið úthlutað landsvæði fyrir sína fjölskyldu og vini um leið og föður hans þar sem hann kom til landsins fulltíða. Þeir sem námu fyrst land í Kjósinni hafa því flestir trúlega haft einhver tengsl við Helga bjólu og fjölskyldu hans og fylgt þeim að málum. Því til stuðnings má t.d. nefna frásögn í Kjalnesinga sögu sem greinir frá því þegar Búi Andríðarson erfir eigur tengdaföður síns Þorgríms goða Helgasonar bjólu. Þar segir m.a.: “Tók þá Búi við mannaforræði. Hafði hann allt út at Nýjahrauni ok inn til Botnsár,“ sem gefur til kynna að stuðnings- og venslamenn fjölskyldunnar hafi verið til staðar a.m.k. norður í Botnsdal.
Aðrir bæir í Kjósarhreppi sem nefndir eru í elstu heimildum er bærinn Valdastaðir sem nefndur er í Sturlungu árið 1237 og í fornbréfum frá 1352. Í Jarðabók Árna og Páls er getið um munnmæli um að bænhús hafi verið á jörðinni en staðsetning þess er óþekkt. 22 Ekki er ljóst hvort Valdastaðir byggjast úr landi Bollastaða, á svipuðum tíma og jörðin Neðri-Háls eða úr óskiptu landi Hvamms.
Bollastaðatóftir eru h.u.b. á merkjum Neðra-Háls og Valdastaða og gætu jarðirnar hafa byggst úr landareign Bollastaða eftir að jörðin leggst í eyði.

Kjós

Kjós – bæir.

Kuml eru talin góð sönnun fyrir byggð á 10. öld en engin slík hafa enn fundist í Kjósarhreppi. Sú kenning hefur verið sett fram að skýringar kumlaleysisins gæti a.m.k. að hluta verið að leita í háu hlutfalli kristinna landnáms- manna á svæðinu en slíkar hugmyndir hafa ekki verið rannsakað neitt frekar.
Dreifing kirkna og bænhúsa á miðöldum getur einnig gefið mikilvægar vísbendingar um byggðasögu. Slík hús voru víða á bæjum fyrir siðaskipti og talið er að flest slík hús hafi verið reist í heimagrafreitum um eða stuttu eftir kristnitöku í byrjun 11. aldar. Gera má ráð fyrir að þeir bæir sem nefndir eru í kirknaskrá Páls um 1200 hafa mjög líklega verið sjálfstæðar jarðir í byrjun 11. aldar. Samkvæmt máldaga Saurbæjarkirkju á Kjalarnesi frá 1220 voru sóknarmörk kirkjunnar á miðöldum um Eilífsá og tíundir lögðust til kirkjunnar af öllum jörðum vestan við ána nema af Eyri og Miðdal þar sem einnig voru kirkjur. Hálfkirkja var að Eyjum en hennar er getið fyrst í máldaga frá 1180. Miðdalur hefur trúlega byggst út úr landnámi Svartkels en Eyjar út úr landnámi Valþjófs en báðar jarðirnar hafa trúlega verið komnar í byggð snemma á 11.öld, ef ekki fyrr. Örlygur faðir Valþjófs var í Kjalnesingasögu sagður kristinn þegar hann kom til Íslands og líklegast hefur Valþjófur sonur hans verið það einnig. Því er ekki útilokað að kirkjan að Meðalfelli hafi verið reist áður en kristni var lögtekin. Kirkjur voru einnig að Reynivöllum og á Ingunnarstöðum strax um 1180 samkvæmt máldögum.
Báðar jarðir hafa greinilega orðið til snemma. Reynivellir hafa trúlega byggst út úr landnámi Hvamm-Þóris á meðan Ingunnarstaðir gætu hafa byggst úr landi Múla í landnámi Þorsteins.
Auk þeirra kirkna og bænhúsa sem þegar hafa verið nefnd eru munnmæli um bænhús nefnd í Jarðabók Árna og Páls frá árinu 1705, á bæjunum Neðri-Hálsi (Stóri Háls og Írafelli en nákvæm staðsetning þeirra er óþekkt. Hafi bænhús verið á þessum jörðum styrkir það hugmyndir um að þessir bæir hafi verið komnir í byggð um eða stuttu eftir kristnitöku. Þeir hafa þá byggst úr landnámi Hvamm-Þóris (Háls) og Valþjófs (Írafell). Þess ber reyndar að geta að hvorugs bæjar er að nokkru getið í elstu heimildum. Neðri-Háls er fyrst getið í heimild frá um 1468 og Írafell virðist hvergi nefnt fyrr en í Jarðabók Árna og Páls í byrjun 18. aldar.

Kjós

Kjós – fornleifar.

Samkvæmt Svavari Sigurðssyni eru ósamsett náttúrunöfn yfirleitt talin til marks um elsta stig búsetu. Ekki er útilokað að Neðri-Háls hafi í fyrstu aðeins heitið Háls eftir Reynivallahálsi en fengið á sig forliðinn Stóri-/Neðri- eftir að Efri-Háls byggðist (e-ð fyrir 1468?) mun ofar í Laxárdalnum undir Skálafellshálsi. Algengustu ósamsettu liðir í bæjarnöfnum Landnámu eru Fell, Dalur, Holt, Nes, Vík, Hóll, Á og Eyri og eru náttúrunafnaendingar einnig nokkuð algengar. Samkvæmt þessu gæti Írafell verið nokkuð gamalt bæjarnafn. Írar koma sannarlega við sögu í Landnámu og ekki er útilokað að Írafell dragi nafn af þeim sem þar reisti fyrstur bær.
Af þessum upplýsingum hér að ofan er greinilegt að mörg af bestu landsvæðum Kjósarinnar voru komin í byggð fljótlega eftir landnám. Vitað er um a.m.k. fjóra aðra bæi (Þúfa, Sogn, Hurðarbak og Káranes) sem samkvæmt heimildum hafa verið komnir í byggð fyrir lok 14. aldar en annarra jarða er ekki getið fyrr en síðar. Margar þeirra gætu þó vel hafa verið komnar í byggð á miðöldum, ef ekki fyrr, þó heimildir um það séu af skornum skammti.
Úr landnámi Svartkels hafa byggst jarðirnar Morastaðir, Útskálahamar, Þúfa, Bær, Blönduholt og Laxárnes. Þúfa er nefnd fyrst í jarðabréfum frá 1352/1397. Eins og áður sagði eru bæjarnöfn sem eru ósamsett náttúrunöfn yfirleitt talin til marks um elsta stig búsetu svo ekki er útilokað að Þúfa hafi verið byggð snemma út úr Eyrarlandi. Það sama mætti hugsanlega líka segja um Bæ því þó nafnið sé ekki náttúrunafn er það einfalt og ósamsett. Jarðarinnar er þó ekki getið í heimildum fyrr en um 1508. Báðir bæirnir eru í Kjósardal austan og suðaustan undir Eyrarfjalli og eru ágætis jarðnæði. Svipaða sögu er að segja um bæina Blönduholt og Laxárnes milli Bugðu og Hvalfjarðarstrandar, fast suðvestan við ósa Laxár. Laxárness er fyrst getið í sölubréfi árið 1483 en Blönduholts í jarðabréfum árið 1616. Allar þessar jarðir teljast meðalstórar (16-20 hdr) og hafa því líklegast flestar byggst út úr Eyrarlandi eftir landnám, en í hvaða röð það hefur gerst er ómögulegt að segja. Að lokum má svo nefna bæina Morastaði og Úskálahamar sem fyrst eru nefndir í heimildum í byrjun 18. aldar. Morastaðir hafa mjög líklega verið byggðir úr landi Kiðafells eða Miðdals en hvenær það hefur gerst er óljóst. Bæjarnöfn með endinguna –staðir eru yfirleitt talin tilheyra seinni stigum landnáms. Útskálahamar hefur trúlega byggst seint úr landi Kiðafells eða Eyrar enda er bæjarstæðið fremur slæmt, á strönd Hvalfjarðar norðvestan undir Eyrarfjalli þar sem undirlendi er af nokkuð skornum skammti.

Flekkudalur

Flekkudalur.

Líklegt er að Flekkudalsjarðir sem upphaflega voru líklega ein jörð, hafi upphaflega byggst úr landnámi Valþjófs Örlygssonar frá Meðalfelli við mynni Flekkudals sunnan við Meðalfellsvatn. Svipaða sögu er að segja um Þorláksstaði, Hurðarbak og Káranes og loks Sogn (eða Sofn), Sand og Fremri-Háls (Litli-Háls). Flekkudalsbæjar er fyrst getið í sölubréfi frá árinu 1483. Í Jarðabók Árna og Páls árið 1705 eru bæirnir orðnir tveir en þeir voru þó ætíð taldir saman (40 hdr) fram til ársins 1802. Jörðin Sandur er einnig sunnan undir Meðalfellsvatni og vestan við Sandsá líkt og Flekkudalsbæirnir en jörðin er fyrst nefnd í heimildum árið 1687 og þá metin á 10 hdr. Ef sett er fram sú tilgáta að jörðin Sandur hafi á einhverjum tímapunkti verið byggð úr landi Flekkudals hefur jörðin upphaflega verið 50 hdr jörð sem myndi þýða að hún hefði verið með dýrustu jörðum í Kjós og mætti ætla að hefði komist mjög snemma í byggð. Bæjarnafnið Sandur gefur til kynna að bærinn gæti tilheyri elsta búsetustigi á svæðinu.

Vindás

Vindás.

Bæirnir Hurðarbak og Káranes eru báðir nefndir í máldaga Meðalfellskirkju árið 1397. Þeir eru h.u.b. hlið við hlið á suðurbakka Laxár norðan undir Meðalfelli ásamt Þorláksstöðum austan við Þorláksstaðaás. Þorláksstaðir eru taldir hafa verið komnir í byggð eitthvað fyrir 1640 en –staðar endingin gæti þó jafnvel gefið til kynna að bærinn verði til á seinni stigum landnáms. Káranes samkvæmt Jarðabók Árna og Páls dýrasta jörðin af þessum þremur, metin á 30 hdr, en hinar eru metnar á 20 hdr. Ekki er útilokað að í upphafi hafi aðeins ein jörð verið á þessu svæði sem afmarkað er af Bugðu í vestri, Laxá í norðri og austri og Meðalfelli í suðri. Einhvern tíman á fyrstu öldum má svo gera ráð fyrir að jörðinni hafi verið skipt upp í þrennt, annað hvort í einu eða tveimur þrepum. Sé raunin sú að allt þetta svæði hafi upphaflega tilheyrt sömu jörðinni hefði hún verið um 70 hdr og líklega með fyrstu jörðum í Kjósinni til að byggjast úr landnámi Valþjófs. Ekki er þó hægt að útiloka að að jarðirnar þrjár hafi ætíð verið aðskildar og byggst ein og ein úr landi Meðalfells.
Jörðin Sogn (12 hdr) er nefnd í máldaga Reynivallakirkju árið 1352 sem eign kirkjunnar og hefur jörðin verið byggð eitthvað fyrir þann tíma annað hvort úr landi Reynivalla eða Valdastaða. Fremri Háls (Litli-Háls) er efsti bærinn í Laxárdal og í sjálfri Kjósinni, en hans er ekki minnst í heimildum fyrr en í byrjun 18. aldar.
Staðsetning hans svo langt inni í landi og í þröngum dal mætti túlka sem vísbendingu um að hann byggist fremur seint þegar annað og hentugra jarðnæði var á þrotum, og sannarlega eftir að Neðri- eða Stóri-Háls kom til sögunnar. Hvenær nákvæmlega það ætti að hafa verið er óþekkt.
Jarðirnar Hvítanes og Fossá hafa líklega báðar verið byggðar úr landnámi Hvamm-Þóris norðan Reynistaðaháls, en þeirra beggja er getið nokkuð seint í heimildum. Hvítanes er skráð í erfðabréfi frá árinu 1585 en Fossárbæjar er ekki getið nein staðar svo vitað sé fyrr en í Jarðabók Árna og Páls í byrjun 18. aldar. Nöfn beggja þessa jarða (samsett náttúrunöfn) mætti túlka sem vísbendingu um að þær gætu hafa byggst snemma. Báðar jarðirnar eru meðalstórar (metnar á 16 og 20 hdr 1705) en undirlendi er á báðum stöðum takmarkað og verður því að teljast líklegt er að þær hafi byggst úr landi Hvamms og Þrándarstaða, landsvæðið norðan við Fossána) eftir að aðrar og landbetri jarðir á svæðinu eru komnar í byggð.
Önnur stærri býli og bæir sem voru í byggð í Kjósarhreppi þegar Jarðabók Johnsens er gerð árið 1847eru Káraneskot, Þúfukot, Eyrar-Uppkot og Eyrar-Útkot, Miðdalskot, Meðalfellskot, Eyjahóll, Vesturkot, Hvammsvík og Hrísakot.

Kiðafell

Kiðafell.

Býlin draga oftast nöfn af heimajörðinni ef frá er talið Vesturkot sem byggðist út úr landi Reynivalla og Hrísakot sem byggðist út úr landi Ingunnarstaða. Flest þessara býla eru komin í byggð í byrjun 18. aldar (sjá töflu 1) fyrir utan Miðdalskot sem nefnt er fyrst um 1802. Auk þeirra bæja og býla sem þegar eru upptalin voru skráð um 50 önnur býli, hjáleigur og tómthús í Kjósarhreppi sem þýðir um 1,2 býli á hverja jörð, sem er rétt neðan við gróft meðaltal (1,6) þegar tölurnar eru bornar saman við sjö aðra hreppi sem áður hafa verið skráðir51. Flest eiga býlin það sameiginlegt að hafa verið fremur stutt í byggð. Upplýsingar um þau er að finna í töflu 1 (merktar með gráu) en býlin eru talin upp á eftir lögbýlinu sem þau byggjast frá.
Heimildir um eldri býli eru mjög óljósar en þegar nær dregur aldamótum 1900 fjölgar heimildum. Af bústöðunum 50 voru 20 í byggð á 17. öld eða fyrr, sex í byggð á 18. öld og fyrr og 24 í byggð á einhverjum tímapunkti frá lokum 18. aldar og fram á 20. öld.
Flest býli voru skráð að Eyri, eða átta, en þar af voru fimm tómthúsbýli ásamt býlinu Harðbala frá 19. öld sem líklega hafa tengst útgerð á þessu svæði. Fimm býli voru skráð frá Valdastöðum (sex ef Valdastaðir II eru taldir með) og fjögur frá Meðalfelli. Á flestum jörðum voru aðeins skráð 0-3 býli. Þegar jarðir skráðar með fleiri en eitt býli voru skoðaðar nánar kom í ljós að oftar en ekki virðist aðeins eitt býli (í mesta lagi tvö) hafa verið í byggð á hverri jörð á sama tíma og sjálft lögbýlið.“

Heimild:
-Fornleifaskráning í Kjósarhreppi III: I. bindi, Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2012.

Reynivellir

Reynivellir.

Vindássel

Eftirfarandi upplýsingar má lesa í „Fornleifaskráning í Kjósarhreppi III“ – I. bindi, um bæina Káranes, Káraneskot, Laxárnes, Miðdal, Miðdalskot, Hækingsdal og Vindás.

Káranes
Káranes
20 hdr 1673, Jarðabréf, 19. 20 hdr 1705. Káranes er komið í byggð árið 1705 samkvæmt Jarðabók Árna og Páls en Káraneskot, hjáleiga, virðist ekki í byggð þetta sama ár. Þó er vísbending í texta um að þar sé engu að síður tvíbýli. Þar segir: „Ábúandinn Grímur Magnússon, býr á hálfri. Annar Loftur Bjarnason, býr á hálfri.“ JÁM III, 409-410. Árið 1397 segir í máldaga Meðalfellskirkju: „a xxc j heimalandi. Leiguland Þat er ad Hurdarbaki heitir. …Þar liggia vnder tiunder af Hurdarbaki oc Karanesi oc lysitollar. So gropttur.“ DI IV, 115-116. Rjómabú var á jörðinni. Örnefnaskrá, 2. 1705: Landþröng er mikil, og bólgna vötn yfir mestallan haga um vetur, og gjörist því jörðin vetrarþúng í mesta máta.“ JÁM III, 410. 1840: „Heyskapur er þar nokkur á bökkum líkt og á hinu kotinu og landslag sama.“ SSGK, 258.
Túnakort 1917: Tún 3,7 teigar, garðar 1000 m2 . Allt sléttað.
„Fyrir austan bæjarhúsin er Áarhóll við vað [Höfðavað] á ánni, og svo er hóll heima við bæ, sem heitir Bæjarhóll,“ segir í örnefnaskrá. Káranes er um 2 km austan við Laxárnes, um 1,8 km NNA við Meðalfell og um 300 m suðvestan við Laxá. Samkvæmt Pétri Lárussyni bónda í Káranesi var gamli bærinn fast SSV við núverandi íbúðarhús 2010).
Káranes var byggt úr landi Meðalfells. Káranesbær er í Túnakort Káraness og Káraneskots frá árinu 1917 í miðjum Laxárdal á lágu holti sem stendur 2-10 m upp úr mýrinni og snýr NNA-SSV.
Á bæjarhólnum er íbúðarhús sem byggt var 1965-1967 og sléttað tún. „Hann [Hestgangur] var sunnan við gamla íbúðarhúsið, sem var sunnan við núverandi íbúðarhús,“ segir í svörum við spurningum um örnefnaskrá. Í grein eftir Halldór Jónsson um Jón Halldórsson í Káranesi segir m.a.: „Íbúðarhús 10×12 al. með veggjum að hálfu leyti steyptum og að hálfu leyti úr timbri, járnvarið með kjallara undir (einlyft),“. Bæjarhóll Káraness er um 40 m á lengd, um 20 m á breidd, 1-3 m á hæð og snýr NNA-SSV. Hóllinn er að mestu sléttað grasigróið tún/lóð umhverfis núverandi íbúðarhús. Útihús voru nyrst í bæjarröðinni og hestgangur syðst.

Káranes

Laxá í Kjos, Káranes og Káraneskot.

Íbúðarhúsið var byggt á árunum 1965-1967 og stendur á miðjum hólnum þar sem útihús voru áður. Þegar húsið var byggt komu í ljós í grunni þess gólfskánir og hleðslur eldri bæjar. Ekki virðist vera kjallari undir nýja húsinu. Á meðan verið var að byggja nýja húsið stóð gamli bærinn fast sunnan við það. Gamli bærinn var svo rifinn árið 1968 en grunnur hans finnst enn undir sverði. Gamli bærinn var byggður um 1896 og lá bæjarröðin NNA-SSV með framhlið til VNV. Bærinn var timburhús með hlöðnum kjallara en seinna voru steyptir veggir utan um bæinn. Húsið var um 60 m2 að flatarmáli á þremur hæðum þ.e. Kjallari, jarðhæð og ris.
Þegar bærinn var rifinn voru lítil eldiviðargeymsla og smíðaskúr áföst honum að norðanverðu (sem höfðu verið byggð við húsið eftir 1896). Gengið var um aðalinngang til austurs inn í eldiviðargeymsluna. Þegar inn var komið var gengið til hægri inn í bæinn sjálfan til suðurs. Framdyr og kjallaratröppur voru hlið við hlið vestarlega á norðurhlið bæjarins. Tröppur voru vestar og dyr inn á gang á jarðhæð austar. Þegar Pétur Lárusson, bóndi í Káranesi, man fyrst eftir sér voru þrjú herbergi í kjallara. Kartöflugeymsla, þvottahús og mjölgeymsla. Mjölgeymslan varð seinna baðherbergi. Á tímabili var einnig olíukynding í kjallaranum. Á jarðhæð voru tvö herbergi til vesturs og eldhús og stofa til austurs. Gangur var á milli eldhúss og nyrðra herbergis og herbergjanna tveggja. Þar var gengið upp í ris. Í risinu voru geymsluloft og eitt svefnherbergi. Eina loftræstingin í húsinu voru litlar túður í veggjunum sem fylltar voru með tuskum á vetrum.

Káraneskot
Hjáleiga Káraness, ekki í byggð árið 1705 þegar Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns er skrifuð. JÁM III, 409. Í Jarðabók Johnsens frá 1847 er Káraneskot skráð sem hjáleiga. Þar segir í neðanmálsgrein. „Sýslumaður skiptir dýrleikanum jafnt niður á milli Káraness og kotsins, 10 h.á hvoru.“ JJ, 99. 1840: „… niður á flatlendi, á flötum hávaða við lítið seg; hefir allsæmilegan heyskap og mýrlendi til beitar, ekki mikið.“ segir í Sýslu- og sóknalýsingum Gullbringu- og Kjósasýslna. SSGK, 257.
Samkvæmt túnakorti frá árinu 1917 var Káraneskot um 290 m SSV við Káranes. Það var nálægt því sem núverandi íbúðarhús í Káraneskoti stendur, um 280 m SSV við Káranes. Á þessu svæði er nýlegt íbúðarhús ásamt umfangsmiklum útihúsum og malarplani fast norðan við íbúðarhúsið. Sunnan við íbúðarhúsið er sléttað tún.
Enginn greinilegur bæjarhóll er sjáanlegur á svæðinu vegna bygginga, sléttunar og trjágróðurs. Samkvæmt Pétri Lárussyni heimildamanni stóð eldri torfbær á svipuðum stað og yngra steinsteypt hús sem byggt var um 1930. Í steinhúsinu var kjallari, jarðhæð og ris en fjósið og hlaðan voru stakstæð og byggð úr torfi og grjóti. Þessi hús voru rifin á seinni hluta 20. aldar þegar núverandi hús voru byggð. Samkvæmt túnakorti virðist svæðið sem torfbærinn stóð á vera um 40×40 m að stærð. Bærinn sjálfur var um 22 m á lengd, um 10 m á breidd og snéri austur-vestur. Um fimm hús/rými virðast hafa verið í gamla bænum en nákvæmt hlutverk þeirra er óþekkt. Ekki er alveg ljóst hversu lengi hefur verið búið í Káraneskoti en hugsanlega hefur byggð ekki verið það lengi á þessum stað að náðst hafi að byggjast upp greinilegur bæjarhóll.

Laxárnes
Laxárnes
16 hdr 1705. Laxveiði góð árið 1705, þá sagt að áður hafi selveiði verið til hlunninda.
1483: Jarðarinnar er getið í sölubréfi. DI V, 800. 1507: Jarðarinnar er getið í dómabréfi, þá virðist jörðin vera í Saurbæjarkirkjusókn. DI VIII, 146.
Flóakot: Hjáleiga í byggð fyrir 1685 samkvæmt Jarðabók Árna og Páls. Í bókinni Kjósarmenn segir frá því er kotið er aftur byggt upp um 1861 og var í byggð til 1870. Þar hefur ekki verið búið síðan. JÁM III, 398; Kjósarmenn, 451.
Melkot: Hjáleiga frá 1843-1849 og frá 1864-1882. Kjósarmenn, 444. HÞ telur Laxárnes réttara en Laxanes. HÞ:“Rannsókn og leiðrjettingar á nokkrum bæjanöfnum á Íslandi“.
Árbók 1923, 34. 1705: „Engjar eru öngvar, so annarstaðar þarf til að kaupa ut supra.“ JÁM III, 398. Túnakort 1917: Tún 3,8 teigar, allt sléttað, garðar 820 m2.
„Móinn við voginn er kargþýfður, kafloðinn með háum bökkum við sjó, og brotnað því nokkuð. Mjóst er orðið milli bakkans og vestur túnsins við garðlagshornið um 16 metra. Þaðan norður eftir er túnefnið mikið og gott. Túnið alt afgirt.“
Bærinn Laxárnes var um 2 km vestan við Káranes, um 200 m norðvestan og neðan við Hvalfjarðarveg 47 og um 50 m NNA við Sauðhól þar sem nú (2010) eru mikil steinsteypt útihús. Í bókinni Ljósmyndir segir svo: „Hús voru mjög ljeleg á jörðinni, er Ingvar [Bjarni Ingvar Jónsson] tók við [1928]. Kom hann sjer upp íbúðarhúsi úr timbri, steinsteypta heyhlöðu væna með áföstu fjósi, og
eina steinsteypta votheyshlöðu reisti hann. Enn fremur hefir hann byggt litla heyhlöðu við fjárhús með veggjum úr torfi og grjóti og með járnþaki. Kom þessi hlaða í stað lítillar og mjög lélegrar
heyhlöðu, er þar var áður.“ Á því svæði sem gamli bærinn stóð eru slétt malarplan, gamalt timburhús frá 1934 og umfangsmikil steinsteypt útihús með bárujárnsþaki. Ekkert sést til bæjarhóls vegna sléttunar og þeirra miklu útihúsa sem risu árið 1977.
Laxárnes er ekki lengur í byggð en landið er nýtt fyrir hrossabeit. Samkvæmt Pétri Lárussyni bónda í Káranesi var hefðbundnum kúabúskap hætt í Laxárnesi í kring um 1980 en jörðin er enn leigð út og landið vel nýtt.

Melkot

Melkot

Melkot – tóftir.

Í Jarðabók Johnsen frá árinu 1847 segir í neðanmálsgrein: „Prestur nefnir Melkot, sem nýbýli, en þareð þess hvorki er getið 1802 né af sýslumanni, er því hér sleppt.“ Melkot er einnig nefnt í örnefnaskrá Laxárness: „Eftir holtinu liggur nýr vegur. Suður af austurenda þess við Skorá eru rústir eftir Melkot, og þar aðeins neðar með ánni er hvammur, sem oft var matazt í á engjum. Hann heitir Matarbolli.“ Í bókinni Ljósmyndir I eftir Halldór Jónsson segir: „Í Saurbæjarsókn í Laxárnesslandi voru áður fyrr bæirnir Flóakot [010] og Melkot, hvorttveggja þurrabúðir.“ Í Kjósarmenn segir um Melkot: „Árni Jónsson og kona hans Guðrún Einarsdóttir bjuggu í Melkoti, húsmannsbæ í Blönduholtslandi, 1843-49. […] Guðmundur [Guðmundsson] bjó í Melkoti 1864-82, en fluttist síðan til Reykjavíkur […].“ Samkvæmt Kjósamönnum var Melkot í Blönduholtslandi en þar sem það er allsstaðar annarsstaðar talið með Laxárnesi er þetta líklegast bara villa. Það er um 1,4 km sunnan við Laxárnesbæ, um 80 m austan við Skorá og um 400 m suðvestan við Meðalfellsveg. Melkot var byggt á 1-3 m háu grasigrónu holti á austurbakka Skorár sem liggur norðaustursuðvestur. Fast norðaustan við holtið eru 5-6 samsíða skurðir og tún sem liggja norðvestur-suðaustur.

Mýdalur (Miðdalur)
Miðdalur
40 hdr 1705. Í Jarðabókinni frá 1705 er jörðin samanlagt metin á 40 hdr en henni var skipt í fjögur býli, þrír aðgreindir bæjir sem standa þó allir saman og heita allir Mýdalur. Fjórða býlið stendur á túninu og er nefnt Miðdalskot. Einnig er getið um eyðihjáleigu á bænum sem ekki er vitað hvar var.
JÁM III, 385-389. Kirkjunnar 002 í Mýdal er fyrst getið í máldaga Saurbæjarkirkju frá um 1220: „[í Saurbæ] liggia tiundir til millum blikdals ar. Oc æilifsdals ar. Nema af eyri. Oc vr myrdal. Ef þar bua landeigendr. Þa sculu þeir taka sina tiund heima oc hiona sinna allra. En ef leiglendingar bua þar eða hiabuðar menn. Þa scal j saurbæ þeirra tiund gialldaz oc hiona þeirra. Ef þav giora skiptingar tiund.“ DI I 402. Varðveist hefur máldagi kirkjunnar frá því um haustið 1269: „Mariu kirkia j mydal a .x. Hundrard j lande og ku eina.“ DI II, 64. Kirkjunnar er enn getið í máldaga Saurbæjarkirkju frá um 1315: „[til Saurbæjar] liggia tijundir til millum blikdalzär oc eilyfsdalzar nema af eyri og yr mydal ef þar bua landeigenndur. Skulu þeir taka heima tijund sijna oc allra hiona sinna. Enn ef leiglenndijngar bua þar eda hiabudamenn þa skal j saurbæ gialldast tijunnd þeirra oc hiona þeirra. Ef þau giora skiptijnngar tijunnd“ DI III, 32. Í máldaga kirkjunnar frá um 1367 segir að krikjan eigi: „xc j lande og viij ær,“ DI III, 219. Í máldaga Saurbæjarkirkju frá um 1379 segir: “ [til Saurbæjar] liggur tijund til millum blikdalzär og dalzär nema af eyri og mydal,“ DI III, 342. 1397:
Kirkjan er nefnd í máldaga Saurbæjarkirkju, DI IV, 114-115. 1397: „a xc j landi Þar skal syngia annan hvern dag helgann oc hinn fiorda hvern ottusong. Xvij aurar skulu lvkast j tijdaoffur og skal heima takst tiund Heimamanna.lysa skal fyrer loghelga messudaga svo Mariumesso vns lydur.“ DI IV, 115. 1468: Landamerkjabréf milli Eilífsdals og Mýdals. DI V, 516. [1491-1518]: Mydals kirkiu maldagi. Maríu kirkia j Mydal aa .x.c j heimalandi og viij ær en Jon Palsson lagdi til suo .iiij. Kugilldi voru.“ DI VII, 54. Jörðin átti uppsátursítak í landi Mela nálægt Kiðafellsárós. Konungur átti 6 hdr af jörðinni sem var árið 1847 metin á 36 hdr. JJ, 100. „Mýrdalskot [GK-333:001] er fyrst nefnt 1802, en áður hlýtur það að vera talið með undir höfuðjörðunni, sem með Mýrdals parti var talin 40 h. Öll (A.M.) og parturinn þarí útaf fyrir sig 6 h., með 36 al. 1sk. 1 kúg. … Annars segir þar, að eyðijörðin „Efri-Mýdalur“ sé yrkt bæði frá Mýdal og Mýdalskoti.“ JJnm, 100. Jörðin heitir nú Miðdalur. Mýdalskot hjáleiga, lögð undir Mýdal. HÞ telur Mýdalsnafnið réttast: HÞ:“Rannsókn og leiðrjettingar á nokkrum bæjanöfnum á Íslandi“ Árbók fornleifafélagsins 1923, 34. 1705: „Tún, engjar og hagar eru sífeldum skriðum undir orpnar, sem árlega spilla, og er jafnan fyrir því hætt, jafnvel heygörðum og fjósum þeirra Sölmundar og Guðlaugs. … Engjar eru annars litlar mjög, snöggvar og grýttar. Landþröng er mikil. Hætt er fyrir snjóflóðum og foruðum.“ JÁM III, 388. 1917: Tún 3,3 teigar, garðar 550m2. Mestallt tún á Miðdal er slétt.

Miðdalur

Miðdalur.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín er Miðdalur metinn á 40 hdr árið 1705. Þar segir m.a.: „Jörðin er afdeild í fjögur býli, þrjú af þeim, sem þó eru þrír aðgreindir bæir, standa öll til samans og kallast öll heimajarðar nafninu; fjórða stendur í túninu góðan snert frá hinum, og er kallað Mïdalskot.“ Gamli bærinn í Miðdal sem merktur er inn á túnakort frá 1917 stóð 10-15 m norðan við íbúðarhúsið sem byggt var árið 1921 sem stendur enn sem hluti af fjósi og um 30 m ASA við núverandi íbúðarhús í Miðdal sem byggt var á seinnihluta 20. aldar. Bærinn stóð um 5 m
austan við íbúðarhúsið frá 1921 þar sem hlaðan stendur núna.
Nákvæm staðsetning bæjanna sem stóðu þétt saman samkvæmt Jarðabók Árna og Páls er óþekkt en líklegast hafa þeir staðið á svipuðum stað og bærinn sem sýndur er á túnakorti frá 1917. Á þessu svæði er nýtt hátæknifjós, hlaða og sléttað malarplan. Í bókinni Ljósmyndir I eftir Halldór Jónsson segir m.a.: „Þegar Guðmundur Brynjólfsson kemur að Miðdal [1921], kaupir hann jörðina og einnig Miðdalskot fyrir kr. 7000,00 og fylgdu kaupunum sex ær og ein kýr. Á báðum býlum var eiginlega allt í rústum og öll hús að kalla mátti komin að falli. … Hann reisti allstórt íbúðarhús úr steinsteypu með áfastri steinsteyptri heyhlöðu og tveim litlum votheysgryfjum steyptum, fjós yfir tuttugu gripi og áburðarkjallara undir fjósinu, ennfremur byggði hann litla fjárhúshlöðu og aðra hlöðu rjett við bæjarhúsin, en þessar hlöður og tilheyrandi gripahús byggði hann með veggjum úr torfi og grjóti með járnþökum.“
Samkvæmt túnakorti frá árinu 1917 var svæðið sem bærinn og aðrar tengdar byggingar og garðar stóðu á um 50×40 m stórt og snéri VNV-ASA. Ekkert sést til bæjarhóls vegna framkvæmda á 20. öld. Ekki er þó útilokað að einhverjar mannvistarleifar leynist enn undir sverði VNV við núverandi útihús og undir þeim eldri sem byggð voru um eða eftir 1921 norðarlega á bæjarstæðinu.

Hálfkirkja

Miðdalur

Miðdalur.

Heimild er um hálfkirkju að Miðdal. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1705 segir: „Hjer hefur áður hálfkirkja verið, og er hún aflögð fyrir löngu, so sjötigir menn minnast valla að húsið var uppi, og þó voru tíðir löngu fyr aflagðar.“ Í örnefnaskrá segir: „Brekka beint upp af bæ heitir Kirkjubrekka.“ Í viðbótum við örnefnaskrá segir einnig: „Kirkjubrekka: Eitt sinn var kirkja í Miðdal. Ef til vill hefur hún staðið undir þessari brekku. Ekki er vitað um grafreiti í Miðdal, nema að einn maður er jarðaður í þessari brekku. Grímur man eftir þúfu sem sagt var leiði þessa manns.“ Nákvæm staðsetning hálfkirkjunnar og leiðisins er óþekkt en líklegast var kirkjan heima við bæ. Kirkjubrekka er um 100 m NNA við bæjarstæði og þó nokkuð ofarlega í hlíðinni ofan við bæ svo ekki er líklegt að brekkan tengist kirkjunni beint þó sjálft örnefnið tengist henni óneitanlega. Kirkjubrekka er vel grasigróin, nokkuð slétt og hallar í 5-20° til suðvestur.
MÝ(R)DALUR Á KJALARNESI (K) – Maríu (SAURBÆJARÞING) – HÁLFKIRKJA [um 1220]: „[í Saurbæ] liggia tiundir til millum blikdals ar. Oc æilifsdals ar. Nema af eyri. Oc vr myrdal. Ef þar bua landeigendr. Þa sculu þeir taka sina tiund heima oc hiona sinna allra. En ef leiglendingar bua Þar eða hiabuðar menn. Þa scal j saurbæ þeirra tiund gialldaz oc hiona þeirra. Ef þav giora skiptingar tiund,“. Máld DI I 402 [Saurbæjar]. [haustið 1269]: „Mariu kirkia j mydal a .x. Hundrard j lande og ku eina. Þar skal syngia annan hvern dag loghelgan. Ok enn fiorda hvern ottv song og kavpa .xviij. Avrum ad presti ur savrbæ og skal heima týund allra heima manna Lysa skal fyrer loghelga daga fra mariv messv. Vnz lidr paska vikv,“. Máld DI II 64. [1315]: „[til Saurbæjar] liggia tijundir til millum blikdalzär oc eilyfsdalzar nema af eyri og yr mydal ef þar bua landeigenndur. Skulu þeir taka heima tijund sijna oc allra hiona sinna. Enn ef leiglenndijngar bua þar eda hiabudamenn þa skal j saurbæ gialldast tijunnd þeirra oc hiona þeirra. Ef þau giora skiptijnngar tijunnd,“. Máld DI III 32 [Saurbæjar].
[1367]: „xlvi. Mariukirkia j Mydal a xc j lande og viij ær. Les Vilchinsbok. Vtann hier stendur suo. Skal lukazt atian aurar j tijdaoffur preste j Saurbæ. Annad ber saman,“. Hítardalsbók DI III 219. [1379]: „[til Saurbæjar] liggur tijund til millum blikdalzär og dalzär nema af eyri og mydal ef þar bua landeigendur. Þa skulu þeir taka sina tijund heima og allra hiona sinna,“. Máld DI III 342, Máld DI IX 17 [Saurbæjar]. 1397: [sbr [1379]]; Máld DI IV 114-115 [Saurbæjar]. 1397: „a xc j landi. Þar skal syngia annan hvern dag helgann oc hinn fiorda hvern ottusong. Xvij aurar skulu lvkast j tijdaoffur og skal heima takst tiund Heimamanna. Lysa skal fyrer loghelga messudaga svo Mariumesso vns lydur,“. Máld DI IV 115. [1491-1518]: „Mydals kirkiu maldagi. Maríu kirkia j Mydal aa .x.c j heimalandi og viij ær en Jon Palsson lagdi til suo .iiij. Kugilldi voru. Þar skal syngia annan huern dag helgan og hinn fiorda huern ottusaung. Xvij avrar skulu lukast j tidaoffur og skal heima tkast tiund heimamanna. Lysa skal fyrir laughelga messudaga,“. Máld DI VII, 54 [AM 238 4to, bl. 133 (Bessastaðabók)].
1575: Gíslamáldagi. „Hälfkirkian i Mijdal.ä xc.i heimalande. Jtem iiij mälnijtu kugilldj. Jtem lijtel klucka. Jørdenn xxxc. Lausagötz xxxjc.“ DI XV, 634. {1598: hálfkirkja; AM 263 fol. Bl. 63, 64}. Heimild óljós. Í Kirkjubrekku eru tvær þústir og óljósar leifar, hugsanlega garður. Ólíklegt er þó að umræddar leifar séu af hálfkirkjunni enda staðsetningin ólíkleg vegna mikils halla í brekkunni og fjarlægðar frá bæjarstæði.

Efri-Mýdalur
Í Jarðatali Johnsen frá árinu 1847 segir í neðanmálsgrein: „Annars segir þar, að eyðijörðin „Efri-Mýdalur“ sé yrkt bæði frá Mýdal og Mýdalskoti.“ Efri-Miðdals er Fjárhústóft GK-332:006, horft til suðurs ekki getið með þessu nafni í öðrum heimildum, hvorki í Jarðabók Árna og Páls frá 1705 eða í yngri heimildum og hefur því hugsanlega aðeins verið í byggð um stutt skeið. Þó er talað um í Jarðabók Árna og Páls að Miðdalsjörðinni sé skipt í fjögur býli og að þrír aðskildir bæir séu allir á svipuðum stað. Ekki er ólíklegt að Efri-Mýdalur hafi verið einn að þessum bæjum. Ekkert er lengur vitað um hvar eyðibýlið stóð og hvorki eru þekkt örnefni sem gætu gefið vísbendingar um staðsetninguna né heldur eru rústir innan Miðdals sem gætu bent til bústaðar. Ekkert sést til fornleifa.

Helguhóll (huldufólksbústaður)

Helguhóll

Helguhóll í Miðdal.

„Vatn fellur til Miðdalsár; þá er næst Hrútatunga. Vestan við hana heitir Illagil að ofan. Þá tekur við breið tunga, er heitir Skessutungur ofan til, en Helguhólstungur neðan til. Neðan til í þeim er grjóthóll, sem heitir Helguhóll,“ segir í örnefnaskrá. Í athugasemdum og viðbótum við örnefnaskrá segir að huldufólk hafi búið í Helguhól. Helguhóll er náttúruleg klettastrýta í sunnanverðum Miðdal, um 1,4 km sunnan við bæ og um 930 m SSV við Grjótstekk. Strýtan er mjög greinileg neðarlega í fjallshlíð Tindstaðahnúks. Hún er um 100x 50 m stór, 10-20 m há og snýr norðaustur-suðvestur. Toppur hennar er ógróinn. Á þessu svæði er fjallshlíðin vel grasigróin og mýrlend og hallar í 10-30° til norðaustur.

Mýdalskot

Miðdalskot

Miðdalskot.

1705, er Mýrdal (GK-332) skipt í fjögur býli, þrír aðgreindir bæir sem standa þó allir saman og heita allir Mýdalur. Fjórða býlið stendur á túninu og er nefnt Miðdalskot. Konungur átti 6 hdr af jörðinni. 1847: Hjáleiga Mýdals GK-332. „Mýrdalskot … áður hlýtur það að vera talið með undir höfuðjörðinni, sem með Mýrdals parti var talin 40 h. Öll (A.M.) og parturinn þarí útaf fyrir sig 6 h., með 36 al. 1sk. 1 kúg.“ JJnm, 100.
1917: Meirihluti túna í kotinu er slétt.
Miðdalskot var um 100 m VSV við eldri Miðdalsbæ sem byggður var fyrir 1921 og um 80 m suðvestan við núverandi íbúðarhús í Miðdal sem byggt var á seinni hluta 20. aldar. Um kotið segir svo í bókinni Ljósmyndir I eftir Halldór Jónsson sem gefin var út árið 1953: „Baðstofa og bæjarhús öll voru með afbrigðum ljeleg í Miðdalskoti og allt í rauninni að falli komið, er þessi hjón [Gestur Bjarnason og Guðrún Stefánsdóttir] fóru þaðan, vorið 1921. Vorið 1921 var svo Miðdalskotið sameinað Miðdalnum …“ Á þessu svæði er sléttað tún og liggur Eyrarfjallsvegur að Eilífsdal ANA við túnið. Engar leifar Miðdalskots sjást lengur og engar leifar í heimatúni þess. Ekki er ólíklegt að mannvistarleifar kunni að leynast undir sverði. Samkvæmt túnakorti voru um 8 hólf/hús í bæjarröðinni sem var um 30 x 20 m stór og snéri norðvestur-suðaustur. Trúlega hefur verið gengið inn í bæ að suðvestan.

Hækíngsdalur
Hækingsdalur
30 hdr. 1705. Bænhús var á jörðinni. Eyðihjáleigur tvær 1705, Sauðhús og Háamýri. JÁM III, 419-422. Bændaeign. 30 hdr. 1847. JJ, 100. 1237: Í Sturlungasögu er getið um mann úr Hækingsdal. Sturlunga saga I, 405 og 407. Varðveist hefur landamerkjabréf Vindáss GK-347:001 frá því um 1270 þar sem getið er merkja milli Vindáss og Hækingsdals. DI II, 81-82. Samkvæmt Hannesi Þorsteinssyni er Hækingsdallur réttnefni. „Rannsókn og leiðrjettingar á nokkrum bæjanöfnum á Íslandi“.
Árbók 1923, 34. 1705: „Túnunum hverutveggjum spillir skriða og snjóflóð, og er fyrir því árlegur háski, kostar og oft erfiði af að moka. Enginu spillir ogso skriða.“ JÁM III,
421. 1840: „… Þar er heyskapur nokkur, en beitiland arðgott, einkum á sumrum og landrými …“Sýslu- og sóknarlýsingar Gullbringu- og Kjósarsýslu, 256.
Gamli bærinn í Hækingsdal var nálega þar sem íbúðarhúsið á jörðinni stendur nú. Gamli bærinn var þó örlítið vestar, þ.e. austasti hluti hans var við vesturjaðar íbúðarhúss og náði til vesturs, milli þess og útihúss sem nú hefur verið rifið. Greinilegur bæjarhóll er að sunnan og vestan. Aðrar hliðar hans fjara út inn í landslagið.
Bæjarhóllinn er 50 X 30 m að stærð og 1-1,5 m á hæð. Hann snýr norðvestur-suðaustur. Grunnur núverandi íbúðarhúss var grafinn ofan í bæjarhólinn að hluta til og nú (2003) er að mestu bara hlað og grasflöt þar sem gamli bærinn stóð.
Gamli bærinn var burstabær með fjórum burstum. Vestasta burstin var rifin um 1950 en fram að því var búið í gamla bænum. Umrædd burst var rifin þegar útihús var byggt vestan bæjar en hinar burstirnar þrjár stóðu lengi. Kjallari var undir 2 burstunum. Fjós var sambyggt bæ að aftan austast. Innangengt var í það úr bæjargöngunum. Árið 1976 var teiknuð upp afstöðumynd af túninu í Hækingsdal eftir tilsögn Hannesar Guðbrandssonar. Þar er teiknuð mynd af bænum. Austast var fjós og fast fram af því Reykkofi (gamalt eldhús), vestan við fjósið kom skemma, svo búr, þá gangur stofa og eldhús. Vestast var skúr og síðan lítið sund svo mókofi og fjóshlaða fast við bæinn.

Selflatir (sel)

Selflatir

Sel við Selflatir.

Í Jarðabók Árna og Páls frá 1705 segir: „Selstöðu á jörðin í sínu eigin landi góða, þar sem heita Selsvellir á Geitahlíð.“ Í örnefnaskrá segir m.a.: „Neðan við Brattafell eru Selflatir. Þar var sel áður fyrr og sá enn fyrir tóftum, þar til aurskriða lagði þær undir fyrir nokkrum árum. Sel þetta er rúmlega 2 km frá bænum.“ Í svörum við spurningaskrá Þjóðháttadeildar um Hækingsdal segir einnig: „Eitt sel enn er í suðaustur frá bæjardyrunum í Hækingsdal. Það sel tilheyrði Hækingsdal, það stendur á Selflötum vestan undir Brattafjalli í Kjósarskarði.“
Selflatir eru 20-30 m austan við Laxá í norðvesturhlíð Brattafells um 3,7 km SSV við Hækingsdal. Selflatir eru grasigróin fjallshlíð og fjallsrætur Brattafells austan við Laxá upp af Þórufossi. Brekkan hallar 5-30° í VNV.
Samkvæmt Guðbrandi Hannessyni, heimildamanni, er selið horfið undir skriður. Engar tóftir eða líklegar þústir sjást á Selflötum eða í nágrenni þeirra norðan við Brattafellsgilslæk. Innst inni í Brattafellsgilinu gætu þó verið leifar fast undir suðurbrún gilsins á suðurbakka Brattafellsgilslækjar á svæði sem er um 14×10 m að flatarmáli. Þar er hugsanlega lítil rétt eða aðhald, sem nú (2011) er fullt af jarðvegi. Brúnin hallar 50-80° í norðvestur. Þar er lítið annað en óljós ferköntuð dæld sem er um 4×1,5-2 m að innanmáli og 0,2-0,5 m á dýpt, með hugsanlegum grjóthleðslum í köntum. Um 4 m norðar á suðurbakka Brattafellsgilslækjar er 0,2-0,5 m há þýfð og ávöl þúst B sem er um 8×7 m að flatarmáli. Ekki er útilokað að fornleifar finnist undir sverði en þó gæti einnig verið aðeins um náttúrumyndun að ræða. Í grasinu glittir víða í grjót en engar greinilegar vegghleðslur.

Sel

Hækingsdalssel

Hækingsdalssel ofan Blautaflóa.

„Upp af Blautaflóa var gamalt sel og má rétt marka það í brekkunni,“ segir í athugasemdum og viðbótum við örnefnaskrá. Norðaustan og upp af Blautaflóa við rætur Hornafells er þúfnaþyrping um 2,3 km NNV við bæ og um 2 km norðaustan við Vindáshlíð. Á þessu svæði er grasigróin mýri og þurrlendi á gróinni aurkeilu lækjar sem rennur í suðvestur ofan úr Hornafelli, nokkuð sléttlent en þúfur hér og þar. Brekkunni hallar 5-10° til vesturs.
Engar greinilegar tóftir eru á svæðinu. Þar er hins vegar um 0,2-0,4 m há þúfnaþyrping á svæði sem er um 16 x 14 m stórt og snýr gróflega norðvestursuðaustur. Engin greinileg hólf er hægt að sjá út úr þúfunum en þó glittir þar víða í grjót.

Vindás
Vindás
20 hdr 1705. Bústaður sóknarprests í Kjós gefin af kóngi eftir að bærinn að Reynivöllum eyðilagðist í skriðum og snjólflóði árið 1664. JÁM III, 422-423.
Varðveist hefur landamerkjabréf jarðarinnar frá því um 1270. Um landamerki milli Vindáss og Reynivalla annarsvegar og Vindáss og Hækingsdals hinsvegar. DI II, 81-82. 1352/1397 og um 1478 á Reynivallakirkja skjólgarð GK-347:034 í landi jarðarinnar ásamt kastar skurði GK-347:011. (DI III 70-71, DI IV, 116-117, DI VI,
178-79). 1705: „Engjar eru nær öngvar, sem þessari jörðu fylgdi áður hún var prestunum gefin, og brúkar því presturinn engið, sem óskpilt varð eftir, þá beneficium fordjarfaðist, so mikið af því og lítið sem hönum líkar. Högum spilla skriður.“ JÁM III, 422-423.
1840: „… Heyskaparlítil jörð með stóru og þýfðu túni. Þar er allgott beitarland um sumar og vetur og skógarblettur af smáviði í Sandfellshlíð.“

Vindás

Vindás.

Vindásbærinn er í Laxárdal austan við Laxá og VNV undir Sandfelli. Hann er um 3 km SSA við Reynivelli 348:001 og um 5,5 km VNV við Hækingsdal 346:001. Leifar af bæjarhólnum eru nú (2011) um 10 sunnan við gamla fjósið og um 70 m suðvestan við yngsta íbúðarhúsið sem byggt var árið 1952. Í landi Vindáss er sumarbúðir KFUM og KFUK en þær eru staðsettar rúma 3 km suðaustan við bæ 001 rétt norðvestan við landamerki Vindáss og Hækingsdals. Þar sem gamli bærinn stóð er sléttað tún, steinsteypt fjós, einföld röð af háum lauftrjám og slétt malarplan þar fast fyrir sunnan en þar eru m.a. geymdar heyrúllur og vélar. Samkvæmt bókinni Kjósarmenn eftir Harald Pétursson var tvíbýli að Vindási frá um 1820 og fram til 1884. Ekki er ljóst hvort búið var á tveimur stakstæðum bæjum eða ekki. Ekki er útilokað að annar bærinn hafi staðið þar sem heitir Ljóskollutóft en engar heimildir hafa fundist um slíkt. Gamli bærinn er nú (2011) horfinn vegna bygginga sem reistar voru á 20. öld.
Samkvæmt Magnúsi Lárussyni, heimildamanni, byggði Ólafur Einarsson (í Vindási 1905-1944) steinsteypt hús á bæjarhólnum, t.d. votheyshlöðu sem og tvær heyhlöður úr torfi og grjóti á fyrri hluta 20. aldar. Ekki er lengur búið að staðaldri í Vindási en tún eru enn nýtt til sláttu og sem beitiland fyrir hesta. Samkvæmt túnakorti frá 1917 var bæjarröðin um 30×40 m stór og snéri gróflega norðursuður. Í túninu sunnan við malarplanið eru í dag (2011) óljósar leifar bæjarhólsins sem er um 30×25 m að flatarmáli, 0,2-0,5 m á hæð og snýr austurvestur. Engar greinilegar dældir eru í hólnum en mjög líklegt er að fornleifar finnist þar undir sverði. Að minnsta kosti 5-10 m af lengd norðurhluta gamla bæjarhólsins virðist horfinn undir malarplan og útihús.

Vindássel (sel)

Vindássel

Vindássel – uppdráttur ÓSÁ.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1705 segir: „Selstöðu á jörðin í sínu eigin landi, en brúkast þó ekki, heldur í selstöðu þeirri, er beneficio tilheyrir á Seljadal [skráð undir númerinu GK-348b:001 sem hluti af Seljadal],“. Í svörum Hannesar Guðbrandssonar bónda í Hækingsdal við spurningum Þjóðháttadeildar segir einnig um sel frá Vindási: „Vindássel var einnig til þarna vestur af Sandfelli. Á Vindásflóum stendur það. Einn flóinn heitir Selflói þar sem selið hefur staðið líklega.“ Vindássel fannst ekki á flóunum austur og norðaustur af Sognsseli um 2 km austur af bæ í Vindási. Flóarnir norðan við Sandfell og Sandfellstjörn eru mjög deigir og á mörgum stöðum mjög rofnir í drullu- og sandflög. Selflói er ekki nefndur í örnefnaskrá Vindáss svo staðsetning selsins er mjög óljós. Ekki er útilokað að það sé horfið vegna rofs eða sokkið í þúfur og mýri.

Svínaskarðsvegur (leið)

Svínaskarðsvegur

Svínaskarðsvegur.

„Svínaskarðsvegur sem var mjög fjölfarinn á sumrin bæði af Kjósverjum, og þó einkum þeim sem ferðuðust á hestum milli Reykjavíkur og norðurog vesturlandsins, lá yfir Laxá á Norðlingavaði, upp Klifsnes, Vindáshlíð, Sandfellsmela norðan við Sandfell, sunnan við Hryggi, vestan við Dauðsmannsbrekku og síðan áfram yfir að Hvalfirði [í landi Fossár]. Þessi vegur meðan hann lá um Vindásland, var alltaf í daglegu tali nefndur Þjóðvegur,“ segir í örnefnaskrá. Svínaskarðsvegur sést ennþá vel austan, norðaustan og norðan við Sandfell og á Reynivallahálsi um 2 km austan við bæjarhól og um 140 m austan við Sandfellstjörn. Slóðinn liggur að mestu um sendna og grýtta mela og mosagróna móa. Svínaskarðsvegur er 2-5 m breiður malarvegur eða slóði sem liggur frá Laxá í suðri upp Vindáshlíð norður fyrir Sandfell að austanverðu að landamerkjum Vindáss í norðri. Vegurinn hefur verið um 4,5 km á lengd í Vindáslandi. Vegurinn er ennþá vel greinilegur mest alla leiðina frá brekkunum ofan við sumarbúðirnar í Vindáshlíð að landamerkjum í norðri.

Selstígur (leið)

Selsstígur

Selsstígurinn ofan Sandfells. Gatnamót eru við Svínaskarðsveg.

„Selstígur lá yfir Ása, austan við Eystri Hvammamýri, upp Múla og Múlahorn vestan við Sandfell, og þar á þjóðveginn. Í framhaldi af Selstíg lá gata norður yfir Hryggi, að Seljadal. Eins og nafnið bendir til mun Selstígur í fyrstu einkum hafa verið notaður til selfara, því Sogn átti sel við Sandfellstjörn sunnanverða, en Vindás átti sel í Seljadal, skammt vestur af Skálafelli. Einnig var hey flutt niður Selstíg, þegar heyjað var uppi á Vindásflóum, en það mun hafa verið stundað nokkuð einkum þegar tvíbýli var á Vindási. Allmikil umferð var um Selstíg meðan búið var á Seljadal. Einnig fóru hann margir sem leið áttu yfir Reynivallaháls.“
Samkvæmt Magnúsi Lárussyni, heimildamanni, var beygt út af leið suðvestan undir Múla þegar farið var Selstíg. Þá var farið upp með Múlalæk um 200 m norðan við Hústóftir og um 1,5 km suðaustan við bæ. Selstígur lá um grýtta bratta fjallshlíð, grasigróna móa og gróðurlausa grýtta mela. Selstígur lá upp með Múlalæk í norðaustur en þegar komið var upp á brúnina var beygt í NNA meðfram Sandfelli.
Gengið var um stíginn í boga meðfram Sandfellinu norðvestan verðu og norður fyrir það sunnan við Sandfellstjörn í ANA, en stígurinn tengdist Svínaskarðsleið 046 um 2,1 km austan við bæ og 300 m suðaustan við Sandfellsvatn. Stígurinn hefur verið um 2 km á lengd.

Heimild:
-Fornleifaskráning í Kjósarhreppi III: I. bindi; Káranes, Káraneskot, Laxárnes, Miðdalur, Miðdalskot, Hækingsdalur og Vindás. Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2012.

Laxárnes

Laxárnes.

Ingunnarstaðasel

Eftirfarandi upplýsingar má lesa í „Fornleifaskráning í Kjósarhreppi III“ – II. bindi, um bæina Reynivelli, Vesturkot, Seljadal, Sogn, Hvítanes, Þrándarstaði, Ingunnarstaði og Hrísakot.

Reynivellir
Reynivellir
Beneficial. 30 hdr. 1847. „Jarðabækurnar nefna bæði Vesturkot og Austurkot.“ JJ, 100 (nmgr.) Staður, dýrleiki ekki gefin upp 1705 vegna þess að þá var jörðin í eyði eftir snjóflóð sem féll um 1699. Þá var henni skipt upp í 3 býli, Nýjabæ, Austurkot og Vesturkot sem öll voru í byggð.
Kirkjunnar á Reynivöllum er fyrst getið í máldaga Ingunnarstaðakirkju og kirkjunnar í Eyjum: [1180]: „ef enginn fæsc prestr. [á Ingunnarstöðum] Þa scolo reynevellingar fyrst eiga kost at lata syngia til Þessa kaups ef Þeir vilia,“ DI I, 266.
[1180]: „Mariu kirkia i Eyivm … Þar scal syngia annan hvarn dag loghelgan af reynevollom;“ DI I, 267. c. 1200: „veisla ger mót Páli bp á yfirreið,“ Biskupasögur I, 340.
1200: Kirkjunnar er næst getið í kirknaskrá Páls biksups. DI XII, 9. Í máldaga kirkjunnar frá 1352 segir: „a kirkian. allt heima lannd og eina vtjord er heitir j sornne. þridiung j laxafossi oc særliga siovarfoss. Bollstædijnnga hyl. kiosar sker. fiogara tiga sauda beit j mula lannd. lamba hofnn j eilyfsdal. ellefu tigum. ij manada beit gomlum saudum j sanndfellz hlijd oc skiolgard j vinndaslanndi oc kastar skurdur. er annar kastar skurdur j eyiarlannd. þridie til valldastada. xij rossa beit j þufu lannd. vj j eyrar lannd.“ DI III, 70-71. Næsti máldagi kirkjunnar sem varðveist hefur er frá um 1367: „xliv. Mariukirkia a Reynevollum a heimaland alltt Sornns land. þridiung j laxfoss. Sioarfoss allann.“ DI III, 219. Í Vilcinsbók frá því um 1397 segir: „a heimaland allt. Sornsland. þridiung j Laxfossi. Siofarfos allann. Kiosarskier. Bollstædingahylur. tuær skogartoptter j Skoradal oc ein j Svijnada.“ DI IV, 116-117. Í mádlaga Eyjakirkju frá 1397 segir: „[til Eyja] skal syngia annann hvern dag loghelgann af Reynivollumm. paskadag oc kyndilmessv.“ DI IV, 116. Í máldaga Ingunnarstaðakrikju frá því 1397 segir: „ef ei fæst prestur. [á Ingunnarstöðum] Þa skulu Reynivellingar fyrst eiga kost ad lata syngia,“ DI IV 118. Í máldaga kirkjunnar frá því um 1478 segir: „Mariukirkia a reynivollum j kios a heimalannd allt sornns lannd. þridiunng j laxfosse. siofarfoss allann. kiosarsker. bollstædijnngahyl. ij skogartopter j skoradal oc eina j suijnadal. kastar skurd j vinndas lannd. annan j þorlaksstada lannd. þ[ridia] j ualldastada lannd. tueggia manada beit aullu saudfee a ve[tur]inn j sandfellzhlijd oc skiolgard j vinndaslannd. xl sauda hofnn j mula fiall oc skiol j mariuhelle oc scal sa telia epter hueria hrijd sem byr ä mula. lammba beit j lammbatungur j eileifsdal. xij hrossa beit a veturinn j þufu land. vj hrossa beit [j] eyrar lannd.“ DI VI, 178-79. 1486: Bréf um kirkjuna. DI VI, 586-87. 1575: Máldagi kirkjunnar. DI XV, 632-633. 1847: „Jarðabækurnar nefna bæði Vesturkot og Austurkot.“ JJ, 100 (nmgr.). Einnig var um tíma búið á Reynivallaseli og á Gerði en þar var byggt timburhús yfir vinnumann um 1930.
1705: „Túnin eru stórlega fordjörfuð, þau eru sjálum heimastaðnum fylgdu, og mikinn part eyðilögð, og er jafnan voði fyrir meiri skaða, so að ekki dirfast menn bygð að setja í hinu forna bæjarstæi síðan snjóflóð 1699 yfirfjell staðinn, braut hús, deyddi prestinn og 6 manneskjur aðrar, en beinbraut og limlesti þá, sem þó urðu með stórerfiði úr snjóflóðarústunum með mannsöfnuð upp mokaðir og náðust lífs, en þó að bana komnir. Engið, sem þó er bæði gott og mikið, skemmir stundum Laxá með grjóti og aur, þar með eru foruð á engjavegi, so að ekki verður tilsókt nema brúkað sje. Landþröngt er, so að ábúendur verða engið að beita, því að heimahagar eru mikinn part fordjarfaðir af skriðum.“ JÁM III, 425. 1847: „Hve mikinn fénað prestsetrið Reynivellir framfæri, skýrir prestur eigi frá, en segir, að 5 kúg. fylgi heimajörðunni, og að túnið sé undirorpið skemmdum af snjóflóðum og aurskriðum, ef eigi árlega er við gjört með mannafla og kostnaði. Staðurinn á rétt til móskurðar og skóg til kola á Vindási, svo og skógarreit í Reynivallatúngum í Skoradal, en óvist var (1839) hvort hann á laxveiði í Laxá, sem eigi heldur í mörg undanfarin ár hefir verið notuð.“ JJ,

Reynivellir (eldri bær)

Reynivellir

Reynivellir.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1705 segir m.a.: „Reineveller, var beneficium og kirkjustaður. Er nú heimabærinn aldreiliss eyðilagður af snjóflóðum og skriðum, so ekkert bæjarhús stendur eftir. Kirkjan og kirkjugarðurinn stendur enn nú, þó í stórum háska, samt eru þar ríðir fluttar. Er í staðinu þessa beneficii er sóknarprestinum, sem nú er Sr. Torfi Halldórsson, af sál. Kóngi Friðrik 3ja, gefin til bústaðar jörðin Vindás 1664.“ Elsti bærinn á Reynivöllum var nálega 30 m ofan við gömlu kirkjuna fast norðaustan við kirkjugarðsvegginn. Snjóflóð féll á bæinn 1699 og eftir það var hann fluttur um 200 m til SSA um 50 m neðan og VSV við núverandi íbúðarhús. Bærinn var á lágum, grasigrónum og grýttum hæðarrana norðaustan við kirkjugarðinn sem hallar um 5° í suðvestur. Lækur rennur rétt norðvestan við hólinn og kirkjugarðinn. Ofan við hæðina tekur við grasigróin brött brekka svo að bærinn hefur verið efst í heimatúni. Í Kjósarmenn segir m.a.:“… segir Fitjaannáll þannig frá þeim atburði [snjóflóði 1699], og getur jafnframt síra Odds: „Þann 15. janúar (1699), sem var sunnudagskvöldið fyrsta í þorra, eftir húslestur, skeði það voveiflega og hryggilega tilfelli á Reynivöllum í Kjós, að snjóflóð hljóp á staðinn og tók öll hús nema kirkjuna, smiðjuna og fjósið.[…] Síðan hefur sjálfur heimastaðurinn ekki verið uppbyggður, heldur lítið nýbýli [Nýibær] skammt frá.“ Þar sem bærinn stóð er mjög þýft og grýtt en engar tóftir sjást. Greina má lága hæð norðaustan við kirkjugarðinn sem er um 40×40 m að flatarmáli en innan við 1 m á hæð.

Kirkjugarður (kirkja)
Í Jarðabók Árna og Páls frá 1705 segir: „Reineveller, var beneficium og kirkjustaður. Er nú heimabærinn aldeiliss eyðilagður af snjóflóðum og skriðum, so ekkert bæjarhús stendur eftir. Kirkjan og kirkjugarðurinn stendur enn nú, þó í stórum háska, samt eru þar tíðir fluttar. Er í staðinn þessa beneficii er sóknarprestinum, sem nú er Sr. Torfi Halldórsson, af sál. Kóngi Friðrik 3ja gefin til bústaðar jörðin Vindás 1664.“ Kirkjan á Reynivöllum stóð áður inni í kirkjugarði, um 190 m NNV við nýja bæinn 003 en rétt suðvestan við elsta þekkta bæjarstæðið á Reynivöllum. Kirkjan, sem byggð var 1859 (004), var færð úr garðinum (fyrir 1917), í um 100 m til suðausturs þar sem hún stendur nú. Garðurinn og kirkjan snúa bæði VNV-ASA eða samsíða dalnum. Garðurinn er í aflíðandi halla til suðurs. Hann er stór og í honum fjöldamargar grafir. Garðurinn hefur greinilega verið stækkaður til suðurs og líklega til vesturs líka. Vírgirðing er umhverfis garðinn. Að norðan (norðaustan) er steinsteyptur kirkjugarðsveggur en að austan (suðaustan) þar sem aðkoman er að garðinum er grjóthlaðinn garður sem greinilega hefur nýverið verið endurhlaðinn. Garðurinn er nú (2003) um 55 X 60 m að stærð. Merki fjölmargra grafa sjást þó garðurinn hafi verið sléttaður að hluta. Elstu merktu leiðin eru frá því snemma á 19. öld en örfá ómerkt leiði sjást. Mikið hefur verið gróðursett í garðinn af ösp, birki og greni. Ekki er mjög greinilegt hvar kirkjan stóð en auður blettur er þó í garðinum, nálega í miðjum gamla garðinum. Er líklegast að kirkjan hafi verið þar. Bletturinn er um 15 m sunnan við við norðurhlið en 20-30 m vestan við austurhlið. Snemma á 20. öld lá leiðin heim að bænum fast neðan við kirkjugarð og kirkju en rétt ofan við bæ. Vegurinn lá áður um Kirkjustíg. Kirkjustígur byrjaði „vestur við Kipp á Hjallholti [sem er holtið upp af kirkjunni] heldur smáhækkandi, rétt austur að Þinghúsgili, er síðar getur. Síðan aftur til baka og áfram í
krókum,“ segir í örnefnaskrá. REYNIVELLIR Í KJÓS (K) -Maríu [1180]: „ef enginn fæsc prestr. [á Ingunnarstöðum] Þa scolo reynevellingar fyrst eiga kost at lata syngia til Þessa kaups ef Þeir vilia,“ Máld DI I 266 [Ingunnarstaða]. [1180]: „Mariu kirkia i Eyivm … Þar scal syngia annan hvarn dag loghelgan af reyne vollom,“ Máld DI I 267 [Eyja]. C. 1200: „veisla ger mót Páli bp á yfirreið,“ Jarteinabók 1200, Bsk I, 340. c. 1200: Kirknaskrá Páls, DI XII, 9. 1352: „Anno domini M°. Ccc°. L°. Secundo a þridia are biskups doms virduligs herra gyrdiz med gudz näd biskups j skalhollte so sem hann kom a[t] reynevollum j sinni visitacione reiknadist suo mikid gotz þad er kirkian ätte. Jnn primis vij manna klædi med hoklum. Iij kalekar. Þriar kanntara kapur. Ein med pell. Avnnur ed lynvef. Þridia med salun. Vj. Anntependia til vtalltara. Fimm anntependia til haalltaris. Vj. Alltarisdukar. Iiij. Sloppar. Tabulum fyrir alltare oc brijk medur. Smelltur kross oc skrijn. Glodarker. Baksturjarn. Glodaker elldbere. Vijgdz vatz ketill. Iij kerttistikur. Ein ampulla. Ein sacrarij munnlog. Tiolld vmhuerfi kirkiu. Og ad auk steintialld oc hrijnnga refil. Eitt fonntklædi oc skirnarsär. Mariu skript oc nicholas skript og gRadulae cum sequencijs. Iij lesbækur j are per anne circulum de sanctis oc de tempore. Songbokur per anni circulum tuær Euanngeliorum. Martyrjlogium. Capituliarius oc enn nockrar fornar bækur þær sem litit skolu. Fiorar samhrijngiur. Ij smaklockur oc ein vtiklocka. A kirkian. Allt heima lannd og eina vtjord er heitir j sornne. Þridiung j laxafossi oc særliga siovarfoss. Bollstædijnnga hyl. Kiosar sker. Fiogara tiga sauda beit j mula lannd. Lamba hofnn j eilyfsdal. Ellefu tigum. Ij manada beit gomlum saudum j sanndfellz hlijd oc skiolgard j vinndaslanndi oc kastar skurdur. Er annar kastar skurdur j eyiarlannd. Þridie til valldastada. Xij rossa beit j þufu lannd. Vj j eyrar lannd. Seautian kyr. Xij ær. Viij ross. Ij hundrat j metfie. Ij hunndrad j vidum. Fiordung vax. Ij presta skylld og diakns.“ Máld DI III, 70-71.
[1367]: „xliv. Mariukirkia a Reynevollum a heimaland alltt Sornns land. Þridiung j laxfoss. Sioarfoss allann les Vilchinzbok þui þetta ber samann,“ Hítardalsbók, DI III, 219.
1397: „a heimaland allt. Sornsland. Þridiung j Laxfossi. Siofarfos allann. Kiosarskier. Bollstædingahylur. Tuær skogartoptter j Skoradal oc ein j Svijnadal [+kastarskurði, beit, sauðahöfn, skjól í helli, lambarekstur, hrossabeit] er aa Þessu fie tveggia presta skylld og diakns. Portio medann sira Finnur hiellt halftt atta hundrad. Enn medann sira Vigfus hiellt ccc. Oc xiiij aurar. Jtem hefur sira Finnur lagtt til kirkiunnar halft Þridia hundrad,“ Máld DI IV, 116-117.
1397: „[til Eyja] skal syngia annann hvern dag loghelgann af Reynivollumm. Paskadag oc kyndilmessv. Þar skal lvkast c presti,“. Máld DI IV, 116 [Eyja]. 1397: „ef ei fæst prestur. [á Ingunnarstöðum] Þa skulu Reynivellingar fyrst eiga kost ad lata syngia til Þess kaups ef Þeir vilia.“ Máld DI IV, 118 [2 merkur, Ingunnarstaða]. [1478]: „Reyniveller j kios. Mariukirkia a
reynivollum j kios a heimalannd allt sornns lannd. Þridiunng j laxfosse. Siofarfoss allann. Kiosarsker. Bollstædijnngahyl. Ij skogartopter j skoradal oc eina j suijnadal. Kastar skurd j vinndas lannd. Annan j þorlaksstada lannd. Þ[ridia] j ualldastada lannd. Tueggia manada beit aullu saudfee a ve[tur]inn j sandfellzhlijd oc skiolgard j vinndaslannd. Xl sauda hofnn j mula fiall oc skiol j mariuhelle oc scal sa telia epter hueria hrijd sem byr ä mula. Lammba beit j lammbatungur j eileifsdal. Xij hrossa beit a veturinn j þufu land. Vj hrossa beit [j] eyrar lannd. Jtem þetta a hun jnnan sig et cetera. Jtem fiorar merkur vax. Jtem vij kyr oc eina kuijgu tuæuetra. Ix ær oc hrut tuæuetrann. Ij hesta er uoru metnir fyrir iij merkur bäder samann. Ij sænngur lettar. Halfa þridiu vod. Einn pott heilann oc annan brotinn. Eina munnlog sterka. Viij fiordunnga ketil oc annann vonndann. Eitt tinfat. Iij trefot.“ Máld., DI VI, 178-79 [Þjsks Bps A II, 1, bl. 121a-b – vitnað er í þannan máld. Í virðingargerð frá 2.11.1486 og mun hann því vera frá seinni hl. 15 aldar]. 2.11.1486: „Bref wm kirkiugiord aa Reyneuollum. Þath giorer ek arne prestr snæbiarnarson officialis heilagrar skalholltzkirkiu j mille huitar j borgarfirde ok helkunduheidar skalholltzbiskupsdæmis godum monnum viturligt med þessu minu opnv brefi at þa er ek reid j mitt profastdæme nidri wm gullbringu kom fyrir mik sira nikulas arnason sem þa hellt Reynevallar stad j kios. Beiddj hann mic ok krafdj vpp aa laganna vegna at sia ar at kirkiunne ok stadnum er hann villdj standa
sinne kirkiu reikninigsskp. Kalladj ek til med mier sex skælega menn presta ok leikmenn. Hafdj hann latid giora kirkiuna ok stadinn þa hann tok med. Var þa kirkia giord fyrir þriu hundrut. Enn stadurinn fyrir fimm hundrut. Jtem giordum vjer þa kirkiuna fyrir tuttugu hundrut enn stadinn fyrir fimtan hundrut. Atti kirkian at vera med golfi ok beckium. Ok aull vnder hellu. Fell þa aptur seytian hundrut fyrir kirkiubota. Enn tiu hundrut fyrir stadarbota. Hier med lagdj adrgreindur sira nikulas kirkiunne. Tiu hundrut j bokum ok messuklædum. Jtem stod þa epter j porcio ok mortuaria tuttugu hundrut. Var fyrgreindr sira nikulas hier med aullungis kvittur wm allan fornan reikningsskap kirkiunnar aa Reyneuollum fra þui er hann tok stadinn ok framan til þess sem þa war komet. Skylldj þesse fyrr greind tuttugu hundrut leggiazt kirkiunne til jnnstædu æfinlega hier epter þui hun var litil adr. Skylldj þesse tuttugu hundrut lukazt j suo uordnum peningvm. Tiu malnytu kugilldi ok tiu hundrut j aullvm þarfligvm peningum fridvirtvm. Jtem var adr gomul jnnstæda vij kyr ok tuæutur kuiga milk. Ix ær tuæuetur hrutur ok .ij. Hestar firir iij. Merkr bader ok þath at auk sem skrifath stendr jnnan gatta. Ok til sannennda hier vm settj ek officialatus jnscigle fyrir þetta bref skrifath aa Reyneuollum j kios fimtudaginn næsta epter festum sanctorum omnium anno dominj. M°. Cd° lxxx° sexto.“ Virðing DI VI, 586-87 [Þjsks Bps Fasc. XII, 1, frumrit á skinni; AM Apogr. 2442]. 1575: Máld DI XV, 632-633. 26.2.1880:
Saurbæjarsókn lögð undir Reynivelli; (PP, 112) [lög].

Gíslagata (leið)

Gíslagata

Gíslagata.

„Deplhálsar eru hæðir neðst í brekkunum. Þar vestur af er dalur, sem heitir Borgardalur, og austur við þann dal er klapparholt, sem heitir Gíslholt. Það holt er alveg á merkjum. Upp af holtinu er Gíslagata, og Gíslalækjardrög eru þar uppi á hálsi ofan við brúnir. Þaðan kemur Gíslalækurinn, sem er á merkjum,“ segir í örnefnaskrá. Í Árbók ferðafélagsins frá árinu 1985 í grein eftir séra Gunnar Kristjánsson segir: „Önnur leið yfir Hálsinn er á landamerkjum Vindáss og Reynivalla upp með Gíslalæk, það er Gíslagata. Hún hefst á Gíslholti, þar sem Skógræktarfélag Reykjavíkur hefur hafið skógrækt og komið sér upp bækistöð. Efst taka svo við Gíslagötudrög. Vegurinn beygir til austurs þegar upp er komið og er þar farið yfir Gíslalækinn og haldið síðan nánast beint til
norðurs yfir Hálsinn.“ Gíslagata lá upp á Reynivallaháls í norðaustur upp með Gíslholti og meðfram Gíslalæk á landamerkjum milli Reynivalla og Vindáss GK-347 um 2,2 km suðaustan við bæ 003. Gatan er ennþá mjög greinileg á hálsinum. Á þessu svæði niðri á jafnsléttu er skógræktargirðing og malarvegur. Hlíðar Reynivallaháls eru þarna lítt grónar og grýttar. Á Reynivallahálsi er þýfður og rofinn melur. Ofan af jafnsléttu er einstigið illgreinanlegt í fjallshlíðinni. Enn er hægt er að ganga upp þennan göngustíg (2010). Vegurinn liggur upp meðfram gilinu á landamerkjum og beygir svo í vestur upp/út hlíðina milli tveggja efstu fjalla. Stígurinn liggur yfir hálendið yfir á Svínaskarðsveg 356:026 ANA við Dauðsmannsbrekkur. Á Reynivallahálsi og í Dauðsmannsbrekkum er gatan (Gíslagötudrög) enn greinilegur mjór malarstígur sem er um 0,2-0,4 m á breidd og <0,2 m á dýpt.

Seljadalur/Reynivallasel

Reynivallasel

Reynivallasel.

„[Björn Erlendsson] … Byggði nýbýli í Seljadal, í gömlum seltóftum frá Reynivöllum, og nefndist bærinn þá Reynivallasel. Þar bjó Björn 1861-1878. … Seljadalur stóð óbyggður 1880-97. … Ekki mun hafa verið búið í Seljadal síðan … 1921. Kjósarmenn, 195-196. „Neðan við Brattafell eru Selflatir. Þar var sel áður fyrr og sá enn fyrir tóftum, þar til aurskriða lagði þær undir fyrir nokkrum árum. Sel þetta er rúmlega 2 km. Frá bænum. Hannes [Guðbrandsson í Hækingsdal f.1897] getur sér til þess að áður hafi Hækingsdalur haft sel í Seljadal, enda eiga Hækingsdalsbændur þar land. Þar var Reynivallasel, en nafn dalsins gæti bent til þess að þar hafi verið fleiri sel.“ Ö-Hækingsdalur, 9. „Þar var byggður lítill bær og fjenaðarhús … Er á Seljadal ágætt sauðfjárland, mýraflói og lyng og furðu hagsælt. Lítið tún var ræktað umhverfis þetta býli.“

Reynivallasel (sel)

Reynivallasel

Reynivallassel í Seljadal – uppdráttur ÓSÁ.

„Hannes [Guðbrandsson í Hækingsdal f.1897] getur sér til þess að áður hafi Hækingsdalur haft sel í Seljadal, enda eiga Hækingsdalsbændur þar land. Þar var Reynivallasel, en nafn dalsins gæti bent til þess að þar hafi verið fleiri sel,“ segir í örnefnaskrá Hækingsdals. Í bókinni Kjósarmenn segir svo: „[Björn Erlendsson] … byggði nýbýli í Seljadal, í gömlum seltóftum frá Reynivöllum, og
nefndist bærinn þá Reynivallasel. Þar bjó Björn 1861-1878. … Seljadalur stóð óbyggður 1880-97. … Ekki mun hafa verið búið í Seljadal síðan … 1921.“ Bærinn Reynivallasel er í Seljadal um 4,7 km ASA við Reynivelli og um 2,8 km SSA við Fossá, í litlu dalverpi um 1 km SSA við mynni Seljadals og um 400 m austan við Seljadalsá við suðvesturrætur Hornafells.
Seljadalur er um 2 km langur, 0,5-1 km breiður og snýr norður-suður. Gengið er inn í dalinn að norðanverðu úr Fossárdal upp nokkuð brattar grasigrónar brekkur sem halla í 10-45° til norður. Seljadalur er vel grasigróinn og þýfður en á köflum er dalurinn nokkuð deigur á bökkum Seljadalsár, sérstaklega í dalnum vestanverðum. Seljadalsá liggur norður-suður um miðjan dalinn. Umfangsmiklar hálfgrónar skriður eru í dalnum austanverðum undir Hornafelli um 400 m sunnan við bæjarstæðið í Seljadal. Einnig var hægt að ganga yfir í dalinn miðjan að vestanverðu frá syðri landamerkjum Reynivalla um Gíslagötu. Umhverfis Reynivallaselsbæ er vel grasigróin þýfð brekka sem hallar í 5-20° til vesturs í norðvesturhlíð/rótum Hornafells.
Þegar gengið er inn í Seljadalinn að norðanverðu sést ekki til bæjarins fyrr en komið er 300-350 m inn í dalinn. Seljadalur er mjög grösugur en trúlega hefur ekki mikið verið gert af því að slétta tún á þeim tíma sem búið var í dalnum. Í svörum við spurningaskrá Þjóðháttadeildar segir: „Seljadalur dregur nafn sitt af seli sem var þar frá prestsetrinu á Reynivöllum. Tóft sem er alveg að hverfa er það eina sem minnir á selið. … Selið í Seljadal var byggt upp aftur að einhverju leyti því að í því var búið í nokkur ár, líklega frá því um 1870. Föðurbróðir Hannesar [Guðbrandssonar í Hækingsdal f.1897] bjó þar síðastur manna til ársins 1921.“ Í Innsveitum Hvalfjarðar segir Kristján Jóhannsson um Reynivallasel: „Rústirnar eru allmiklar og ekki auðvelt að ráða í hvernig húsaskipan hefur verið … Útihúsarústir eru skammt frá bænum, ögn ofar. Rétt norðan við bæjarhólinn er réttin og er hún mjög fallin.“ Eins og áður var sagt er bæjarstæðið í litlu grasigrónu dalverpi á milli tveggja lækjargilja að norðan og sunnan sem eru 1-2 m djúp og 0,5-4 m á breidd. Svæðið sem flestar tóftirnar á er um 100 x 80 m að stærð, snýr austur-vestur og hallar í 5-20° til vesturs. Tóftirnar eru vel grasigrónar en hleðslur standa að mestu nokkuð hátt þó þær séu sannarlega víða mjög signar. Þrjár tóftir og tvær þústir voru skráðar á svæðinu. Norðan við nyrðra lækjargil eru svo tvær tóftir til viðbótar utan svæðis.

Sel

Hækingsdalssel

Hækingsdalssel.

„Hannes [Guðbrandsson í Hækingsdal f.1897] getur sér til þess að áður hafi Hækingsdalur haft sel í Seljadal, enda eiga Hækingsdalsbændur þar land. Þar var Reynivallasel, en nafn dalsins gæti bent til þess að þar hafi verið fleiri sel,“ segir í örnefnaskrá Hækingsdals. Í Jarðabók Árna og Páls frá 1705 segir um Vindás: „Selstöðu á jörðin í sínu eigin landi, en brúkast þó ekki, heldur í selstöðu þeirri, er beneficio tilheyrir á Seljadal.“ Falleg seltóft er innst í suðausturenda Seljadals á austurbakka Seljadalsár, um 1 km sunnan við Reynivallasel. Tóftin er um 3,3 km NNV við Hækingsdalsbæinn en aðeins um 900 m NNV við mót landamerkja milli Hækingsdals, Vindáss og Seljadals. Á þessu svæði er grasigróinn árbakki Seljadalsár. Tóftin er vestan undir 2-3 m háum hól, 2-4 m í austur frá ánni þar sem hún rennur niður í Seljadal að SSAverðu. Tóftin er þrískipt, um 15×5-10 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur. Veggir tóftarinnar eru um 2 m á breidd, 0,4-1 m á hæð og mjög grasigrónir. Engar grjóthleðslur eru sjáanlegar.

Vesturkot
Hjáleiga Reynivalla, í byggð 1705: „Vesturkot, þriðja býli, gömul hjáleiga.
Dýrleikinn óviss, telst með heimastaðnum.“ JÁM III, 424. Byggð lögð niður árið 1877 samkvæmt bókinni Kjósarmenn eftir Harald Péturson (bls. 194). Á túnakorti Reynivalla frá 1917 stendur um Vesturkot: „Túnblettur, grýttur sumstaðar og raklendur, ekki notaður.“
„Skammt fyrir utan bæinn að Reynivöllum er gil á merkjum móti Sogni. Það heitir Kotagil. Þar inn af heitir Vesturkot. Þar var býli austur frá gilinu,“ segir í örnefnaskrá. „Kotin voru tvö, Vesturkot og Austurkot. Austurkot var nokkru austan við Reynivelli. Það fór úr byggð fyrir aldamót. Vesturkot var fyrst nefnt Sólbrekka,“ segir í athugasemdum og viðbótum við örnefnaskrá. Í bókinni Kjósarmenn segir um kotið: „Arnór Björnsson og fyrri kona hans Lilja Jónsdóttir tóku við búi í Vesturkoti af móður Lilju, og bjuggu þar 1857-1877, voru þau síðustu húsráðendur í Vesturkoti, við brottför þeirra var kotið lagt undir heimajörðina Reynivelli.“ Þar segir einnig: „Þessi bær var nefndur Sólbrekka 1753, en ekki hélzt það.“ Tóftir Vesturkots eru um 270 m NNV við Reynivelli, um 460 m NNV við Nýjabæ og um 95 m suðaustan við landamerkjagarð. Á þessu svæði er grasigróin, grýtt brekka sem hallar í 5-20° til suðvesturs, fast suðaustan við landamerki Sogns og Reynivalla. Í bókinni Ljósmyndir IIa eftir Halldór Jónsson kemur fram að um 1900 voru í Vesturkoti aðeins rústir af bæjarhúsum og léleg fjárhús ásamt heykumli. Túnbletturinn var sleginn af prestsetrinu en síðar notaður sem kúahagi. Svæðið sem Vesturkotstóftir ná yfir er um 35×25 m stórt og snýr norðaustursuðvestur. Bæjarstæðið er mjög sigið og illa farið vegna ágangs búpenings en þó grasigróið. Bæjartóftin er um 22×17 m stór og snýr norðaustur-suðvestur. Veggir eru grjót- og torfhlaðnir, 0,4-1,5 m á hæð og 2-5 m á breidd. Grjóthleðslur eru signar en greinilegar.

Sogn
Sogn
1705: 12 hdr. 1705, Reynivallakirkjueign. JÁM III, 426. 1352, [1367] 1397 [1478]: Jörðin eign Reynivallakirkju. DI III, 70-71, DI III, 219, DI IV, 116-117, DI VI, 178-79.
Árið 1705 er jörðin nefnd Sofn eða Sogn, 1840 Sorn en 1847 Sogn. Sýslu- og sóknarlýsingar Gullbringu og Kjósarsýslu, 255. 1705: „Tún eru lítil og fordjarfast mjög af skriðum. Engið er gott en ærið votlent mikinn part og forað yfir að sækja, sem brúka þarf.“ JÁM III, 426. 1840: „… heflir lítið tún og veitiland, en engi mikið á Laxárbökkum, vantar mótak …“ Sýslu- og sóknarlýsingar Gullbringu og Kjósarsýslu, 255.
Bærinn Sogn er við rætur Reynivallaháls, um 400 m ASA við Valdastaði og um 1,4 km VNV við Reynivelli. Á þessu svæði er núverandi íbúðarhús byggt 1946, sléttað malarplan, gamalt steinsteypt fjós og stór barrtrjáreitur við norðvesturhorn fjóssins. Fast framan og SSV við malarplanið er brekka með lauf- og barrtrjálundi og malbikaðri heimreið heim að bænum. Brekkunni hallar í 5-10° til SSV. Bæjarlækurinn er enn á sínum stað og rennur hann til SSV vestan við bæ en ábúendur hafa þó breytt rennsli hans neðan við gamla bæjarstæðið en þar rennur hann nú áfram í SSV í stað þess að beygja í SSA eins og sést á túnakorti frá 1917. Samkvæmt Snorra Ö. Hilmarssyni bónda á Sogni voru öll þau tré sem nú standa á bæjarstæðinu gróðursett árið 1991. Á heimasíðu Menntavísindasviðs Háskóla Íslands er að finna almennar upplýsingar um Sogn í Kjós og ljósmynd af bænum frá því um 1918.

Heimildamaður er Ingunn Þormar f.21.11.1921 en hún var í sveit að Sogni á sumrin frá 1926-1931. Þá var tvíbýli að Sogni. Þar segir m.a.: „Ekki er vitað hvenær bærinn var byggður en hann var rifinn um 1935 og steinhús byggt í staðinn. … [Torfbær á ljósmynd frá 1918 og á túnakorti frá 1917:] Frá hægri: 1. Geymsla fyrir reiðtygi, ljái og allar þurrar vörur en áður fyrr bjuggu þarna foreldrar Gróu [Guðlaugsdóttur] og Jakobs [Guðlaugssonar]. 2. Inngangur. Ef farið var strax til hægri var gengið inn í geymsluna þar sem foreldrar Gróu [Ragnhildur Guðmundsdóttir og Guðlaugur Jakobsson] bjuggu áður. Innar voru hins vegar 3 tröppur og þar til hægri var herbergið þar sem Ragnhildur [Guðmundsdóttir], móðir Gróu, bjó nú en til vinstri var gengið inn í baðstofuna. 3. Þarna var búr og inn af því eldhús. Innar var síðan baðstofan þar sem heimilisfólkið bjó gisti [svo]. Í baðstofunni voru 4 rúm, 2 sitt hvoru megin. Oft var því tví- og þrímennt [svo] í hverju rúmi. 4. Smiðjan. Þar vann Jakob, se [svo] var járnsmiður, við að búa til skeifur og brýna ljái. 5. Geymslur fyrir Jakob, svipaðar þeim er Gróa og Sigurjón [Ingvarsson f. 29.10.1889] höfðu í húsinu lengst til hægri. 6. Steinhús [trúlega vestan við Bæjarlæk] þar sem Jakob bjó með fjölskyldu sinni. [Það sem ekki sést á ljósmynd:] Hægra megin við bæinn var fjósið [í bæjarröðinni samkvæmt túnakorti frá 1917], fjárhúsin [hugsanlega 008] voru vinstra megin en myndin er tekin fyrir framan hlöðuna [sjá 002]. … Segir Ingunn að allur fatnaður hafi verið skolaður úti við læk eftir að hafa verið þveginn inni í eldhúsi. Til að ná sem mestu vatni úr hverri flík voru þær lagðar á stein og spýtum slegið í fötin. Það var útikamar við bæinn [nákvæm staðsetning óþekkt] … Trégólf í baðstofunni en moldargólf annars staðar. Trégólfið var þvegið upp úr sandi. Vatn og sandur notað til að þvo gólfið, strigapoki notaður sem tuska. Bærinn var kyntur með taði og mó, … Sérstök kynding kom ekki í baðstofuna fyrr en 1928 þegar fyrsti ofninn kom þangað.“ Samkvæmt túnakorti hefur bæjarstæðið verið a.m.k um 50×50 m að stærði. Á þessu svæði var m.a. sjálf bæjarröðin sem virðist hafa verið um 30×15 m að flatarmáli og snéri VNV-ASA, hlaða, þrjú útihús (002-004) og kálgarður 021. Gengið var inn í bæ að sunnanverðu. Engin greinileg merki um gamla bæinn eða bæjarhól.

Sognssel (sel)

Sognsel

Sognsel.

„Úr Sandfellstjörn rennur Fossá. Vestan við hana, nokkru eftir að hún fellur úr tjörninni er Sognssel og eru rústir þess enn mjög greinilegar. Frá Sandfellstjörn gengur kvos til norðurs inn í Hryggi og heitir Hryggjardalur,“ segir í örnefnaskrá Bjarna Ólafssonar frá Króki. „Austan við tjörnina er Sandfellsflói, blautur og víðáttumikill, austan við tjörnina, en líklega heitir hitt öðru nafni. Þar var sel, sem heitir Sognssel. Það er nokkuð eftir að Fossá fellur úr Sandfellstjörn, og eru þar gamlar rústir,“ segir í örnefnaskrá Ara Gíslasonar. Sognsselstóft er um 1,6 km ANA við bæ 001, um 4,9 km suðaustan við Sogn 350:001 og um 250 m norðvestan við Sandfellstjörn. Seltóftin er fast utan í 2-4 m háu holti að suðvestan. Holtið er aflangt, um 250 m á lengd, um 150 m á breidd og snýr NNA-SSV. Hlíðar holtsins eru þýfðar og mosa-, grasi- og lyngigrónar en holtið er þó ógróið í toppinn. Sognsselstóft er fjórskipt, ferköntuð og grjóthlaðin. Hún er um 8 x 7 m stór og snýr NNA-SSV. Veggir tóftarinnar eru 1-2 m á breidd og 0,5-1,2 m á hæð en hleðslur eru víða nokkuð signar og grasi- og mosagrónar. Gengið var inn í tóftina á VNV-hlið gróflega fyrir miðju eða um 4 m frá
norðvesturhorni tóftar.

Hvítanes
Hvítanes
20 hdr. 1705. JÁM III, 435. 1585: Jörðin gefin í arf. Metin á 20 hdr. Jarðabréf, 18. Í eyði frá um 1942, í Hvítanesi byggði herinn mikið af byggingum, herskálahverfi o.fl. og lagðist jörðin því í eyði. Vígdrekar og Vopnagnýr, 69-76. Í bókinni Kjósarmenn eftir Harald Pétursson segir: „Jón Helgason og síðari kona hans Lára Þórhannesdóttir bjuggu í Hvítanesi 1933-1941, en hrökkluðust þaðan er jörðin var hernumin. Þar hefur ekki verið búið síðan.“ Kjósarmenn, 81. 1705: „Túnum og úthögum spillir fjallsskriða. Engjar eru nær öngvar, því skriður hafa mestan part eyðilagt þær litlar sem voru.“ JÁM III, 435. 1840: „… þar er stór tún, rammþýft. Engi lítið grasgott og lítið land til veitar – ekki óhult fyrir aurskriðum á túnið.“ SSGK, 255. Túnakort 1917: „Mest alt túnið sléttað, smáblettir og jaðrar þýfðir. Tún telst 5,9 t. (Mikil útgræðsla). Kálgarðar m2.“
„Kálgarður var austan við bæinn, en þegar byggt var, 1914, var gamli bærinn jafnaður við jörðu og gerður kálgarður þar; hann var þá vestan við bæinn. Snúrur voru framan við bæinn. Talið var vita á þurrk, þegar lét hátt í Glym í Botnsdal,“ segir í örnefnaskrá.
Í bókinni Ljósmyndir segir um Hvítanes: „Bætti Sveinbjörn [Einarsson, kemur 1907, fer 1921] mikið túnið í Hvítanesi, byggði þar lítinn steinbæ í stað baðstofunnar gömlu og stendur hann enn að mestu. … Var jörðin Hvítanes mjög notaleg jörð, túnin stór og grasgefin, en engjar litlar. Hafði túnið verið stórbætt á liðnum áratugum, byggð heyhlaða, votheyshlaða og allgóð fénaðarhús. Allt þetta mátti heita í góðu lagi, er herstjórnin tók jörðina til sinna umráða [árið 1941].“ Bæjarhóllinn á Hvítanesi er suðvestarlega á nesinu um 200 m norðan við Hvalfjarðarveg, um 3 km NNA við Reynivelli og um 2,5 km VNV við Fossá.
Hvítanes hefur verið í eyði síðan herinn yfirgaf Ísland eftir seinni heimstyrjöldina fyrir utan lítinn sumarbústað norðaustarlega á nesinu. Hvítanes er vel grasigróið, sérstaklega bæjarhóllinn, en brenninetlur eru búnar að breiða úr sér, sérstaklega á gömlum steingrunnum herskálanna. Landið hallar í um 5-20° til NNA. Á austan- og norðaustanverðu nesinu er láglent við sjóinn en að norðvestan og vestan hækkar landið mjög til suðvesturs. Þverhnípt er niður í sjó um 180 m vestan við bæinn.
Bæjarhóllinn á Hvítanesi virðist alveg óraskaður af hernum, a.m.k. í kring um bæinn sjálfan. Hóllinn er ekki mjög skýr en hægt er að greina óljósa 0,5-1,5 m háa hæð í landinu þar sem bæjarhúsin standa, á svæði sem er um 70 x 50 m stórt og snýr ASAVNV. Steinveggir yngsta íbúðarhúss 001B sem byggt var 1914 standa ennþá uppi illa farnir en þakið er horfið. Steypuklumpar sem liggja á víð og dreif inni og utan við íbúðarhúsið og gömlu útihúsin sýna að veggirnir eru smám saman að hrynja. Leifar skorsteins liggja í grasinu um 4 m norðvestan við rústir íbúðarhússins. Lítil op í hleðslu íbúðarhússins, neðst við jörðu gefa vísbendinu um að hugsanlega hafi verið kjallari undir húsinu. Útlínur kálgarðs 008 sjást ennþá en engin greinileg ummerki eru sjáanleg um gamla bæinn sem þar stóð áður. Steypan sem notuð var í að reisa yngsta húsið er mjög gróf og samsett úr fjörumöl, sandi og sementi. Veggirnir eru um 20 cm á breidd og 1,5-3 m hæð. Yngstu útihúsin voru einnig steinsteypt. Grunnur íbúðarhúss er 8×8 m að stærð. Gengið hefur verið inn bæinn að norðvestan. Fast norðvestan við húsið norðaustan við innganginn glittir í lágar grjóthleðslur sem eru trúlega leifar lítils timburskúrs, 4×4 m að stærð, sem sýndur er á túnakorti. Yngstu útihúsin eru um 2 m ANA við íbúðarhúsið, þau eru þrískipt og um 12×12 m að stærð. Þau hafa verið byggð eftir 1917 því þau eru ekki sýnd á túnakorti Hvítaness. Útihúsin voru steypt upp að norðvestanverðri útihústóft 004 sem búið var að hlaða 1917 því hún er sýnd á túnakorti. Hægt var að ganga inn í útihúsin bæði að norðaustan og suðvestan.

Þrándarstaðir
Þrándarstaðir
20 hdr. 1705. Bænhús var á jörðunni. JÁM III, 437-438. 1705 er nefnd nafnlaus eyðihjáleiga, í byggð um 1675-1700. Talin vera sama jörð og Þorbjarnarstaðir nefndir í Harðarsögu sem talin er rituð á fyrir hluta 13. aldar. ÍF XIII, xlix. Jörðin nefnd í dómabréfi 1509 vegna úrskurðar um eignarétt á henni. DI VIII, 284. Bændaeign. 20 hdr. 1847. „Prestur einn nefnir Þrándarstaði „neðri“ og „efri“. Skálholtsstóls hjálendan er talin í jarðabóks stólsins 13 2/3 h. að dýrleika.“ JJ, 101 (nmgr.). 1840: „… heyskapur er ekki mikill, en beitarland betra og útigangur nokkur.“ Sýslu- og sóknarlýsingar Gullbringu- og Kjósarsýslu, 254-255. Túnakort 1917: Tún 6,4 teigar, meira en 1/2 sléttað, garðar 1100 m2.
Bæjarhóllinn á Þrándarstöðum er að mestu óhreyfður. Hann er tæpum 200 m neðan (norðan) við núverandi íbúðarhús á Þrándarstöðum. Grösugur hóll í sléttu túni. Hóllinn er stæðilegur. Síðustu leifar á honum voru nokkurra kálgarða en úr þeim hefur verið sléttað. Ryðja átti úr hólnum á síðari hluta 20. aldar en hætt var við það vegna þeirra minja sem þar kynnu að leynast. Þó var aðeins rutt úr austurhlið hans og jafnvel örlítið að sunnan. Norður- og austurhlið eru mun brattari heldur en aðrar hliðar. Samtals er bæjarhóllinn 40×30 m stór og er 2-3 m á hæð þar sem hann er hæstur. Dældir eru í hólnum en ekki sér móta fyrir neinum tóftum. Vegna tíðra ábúendaskipta á jörðinni á 20. öld eru örnefni jarðarinnar og allur húsakostur illa þekkt.

Bænhús
Í Jarðabók Árna og Páls frá 1705 segir: „Þrandarstader. Hjer hefur til forna bænhús verið, og heitir þar enn nú Bænhústóft í túninu. Enginn minnist sá, sem nú er á lífi, nær það hafi eyðilagst.“ Ekkert er nú (2006) vitað um staðsetningu bænhúss á Þrándarstöðum en líklega hefur það verið nálægt gamla bænum á bæjarhólnum. Bæjarhóllinn er um 200 m norðan við núverandi íbúðarhús á Þrándarstöðum.

Efri-Þrándarstaðir
Nálega mitt á milli núverandi íbúðarhúss á Þrándarstöðum og bæjarhólsins var bærinn á EfriÞrándarstöðum þegar tvíbýlt var á jörðinni. Bæjarstæðið er um 80 m sunnan við bæjarhól 001 og um 110 m norðan við núverandi íbúðarhús.
Bæjarstæði Efri-Þrándarstaða er sýnt á túnakorti frá 1917.
Bærinn var í aflíðandi túni sem hallar 5-10° til NNA. Hann var byggður norðan í lágri hæð. Búið er að slétta yfir bæjarrústir Efri-Þrándarstaða. Þar sem bærinn stóð er þó enn óljós þúst sem er um 16 x 10 m stór, 0,2-0,5 m á hæð og snýr austur-vestur. Tvær um 0,4 m djúpar dældir eru í þústinni og snúa þær norður suður. Dæld A er vestar og er hún um 2×2,5 m að innanmáli á meðan dæld B er um 1 m austar og um 4×2 m að innanmáli. Lúther Ástvaldsson heimildamaður kannaðist ekki við öskuhaug á svæðinu en samkvæmt honum var gengið inn í gamla bæinn að norðvestanverðu og sést þar ennþá óljós tota í vestari dældinni. Lúther kannaðist ekki við neina brunna á svæðinu en hann telur að vatn hafi yfirleitt verið sótt í árnar. Bærinn hefur líklega verið byggður úr steinsteypu, timbri og bárujárni. Vegna tíðra ábúendaskipta á jörðinni á 20. öld eru örnefni jarðarinnar og húsakostur illa þekkt.

Íngunnarstaðir
Ingunnarstaðir
20 hdr 1705, Skálholtsdómkirkjueign, talið að hún hafi til forna verið 30 hdr. Bændaeign. 27 1/3 hdr. 1847. Kirkju á Ingunnarstöðum er fyrst getið í máldaga frá um 1180: „Kirkia a oc in helga agatta allt land a Jngunar stoþum oc settung j eyrar lande.“ (DI I 266). Kirkjunnar er næst getið í kirknaskrá Páls frá um 1200 (DI XII 10). Í máldaga frá því um 1367 segir: „Kirkia heilagrar Augottu a jngunnarstodum a heimaland alltt og siottung j eyialande.“ (DI III 219) Í Vilcinsbók frá um 1397 segir: „a heimaland allt oc settung j Eyalanndi.“ (DI IV 118) 1575: Máldagi kirkjunnar (DI XV 632). „Jarðabækurnar (hinar eldri, nema stólsjarðabókin) telja jörð þessa með Hrísakoti (A. M.), aðeins 20 hdr. Að dýrleika, og leggur sýslumaður 5 h. Þaraf á Hrísakot.“ Jarðabók Johnsens, 101 (nm.gr.) Hrísakot var hjáleiga 1705 en er orðin bændaeign 1847. Tvö eyðibýli eru nefnd 1705, Gullhlaðsvellir og Þórunnarsel. Hálfkirkja var á jörðinni. JÁM III, 339-441.
1705: „Túnum og engjum grandar skriða til stórmeina og kostar oft stórerfiði af að moka. Hætt er fyrir snjólfóðum bæði á bæ og tún.“ JÁM III, 440.
1840: „… sæmileg heyskapar og útigangsjörð; á hún hrístak og fjárbeit fram í dalnum, ekki frí fyrir skiðuáföllum og hefir lítið mótak eður ekki.“ Sýslu- og sóknarlýsingar Gullbringu- og
Kjósarsýslu, 254.
Gamli bærinn á Ingunnarstöðum stóð á svipuðum stað og nú (2003) stendur steinsteypt íbúðarhús. Íbúðarhúsið var byggt á árunum 1914-20 en þar á undan stóð timburhús á jörðinni um skeið. Búið var að rífa síðasta torfbæinn um aldamótin 1900. Ógreinilegur bæjarhóll er á þessum stað. Hann má merkja að sunnan og vestan en fjarar hins vegar út til norðurs (inn í brekkuna ofan við) og austurs. Erfitt er að áætla stærð bæjarhólsins þar sem erfitt er að greina mörk hans til norðurs og austurs. Hann er þó nálægt því að vera 50-60×40 m og er mest 1,5 m á hæð. Þegar afi Guðrúnar Björnsdóttur heimildamanns kom að Ingunnarstöðum 1912 hafði síðasti torfbærinn verið rifinn. Hann hafði verið á svipuðum slóðum og steinsteypta íbúðarhúsið er í nú. Þegar það var byggt var komið ofan á nokkuð af grjóthleðslum og ösku og voru grjóthleðslurnar að hluta endurnýttar til að byggja lítinn garð vestan við íbúðarhúsið. Íbúðarhúsið sem nú er á bæjarhólnum er steinsteypt með kjallara. Íbúðarhúsið á Ingunnarstöðum var fyrsta timburhúsið í sveitinni.

Hálfkirkja
Í Jarðabók Árna og Páls frá 1705 er getið um hálfkirkju á jörðinni: „Hjer er hálfkirkja og embætti flutt þá er heimafólk er til sacramentis.“ Bænhús var á Ingunnarstöðum en ekki er vitað nákvæmlega hvar það var. Samkvæmt heimildamanni fór tveimur sögum af staðsetningu bænhússins. Annars vegar var talað um að það hefði verið heima við bæinn en hins vegar að það hefði verið í nokkurri fjarlægð suðvestan við bæ. Lengi mátti sjá glitta í hleðslu við suðausturhorn íbúðarhússins á Ingunnarstöðum, milli þess og fjárhúss og voru uppi getgátur um að sú hleðsla gæti staðið í samhengið við bænhúsið. Lágur bæjarhóll þar sem steinsteypt íbúðarhús með kjallara og fjárhús standa. Vegur liggur að bænum og annar spotti fram hjá honum.
Kirkia a oc in helga agatta allt land a Jngunar stoþum oc settung j eyrar lande. kyr .vi. oc .xxx. a. fiogur kugillde j gelldfe. halft annat hundrat j busgognom oc j husbuninge. hestr gelldr lastalauss. xij manaþa tiþa bæcr oc messo fot. silfr kalec. roþo cross. alltara klæþe ij oc blæia. bricar clæþe gloþa ker oc gloþa jarn [alltara steinn. kirkiu stoll. bakstr jarn* oc linslopp. kerta stika. munnlogar .ij. oc lyse steinn. biollur .v. Su er afvinna skylld a þeso fe. at þar scal vera seto prestr ef sa vill er þar byr. meþ biscops raþe. Joan prestr scal vera þar meþan hann vill oc fylgia þessu fe at allda eyþle. Heima manna tiund alla a circia þar er scylldoct at syngia annan hvarn dag oc inn .iiij. hvern otto song oc kaupa at preste .ij. morcom oc ef enginn fæsc prestr. þa scolo reynevellingar fyrst eiga kost at lata syngia til þessa kaup[s] ef þeir vilia. Biscops handsol ero a þessum circio fiam ollom. oc hann a valld oc forræþe einn at kavpa þessom kirkio fiam sva sem hann vill oc þa er hann vill til þurþar oc til miclonar vm fe eþa afvinno; Máld DI I 266 [* bætt við utanmáls í hdr. C. 1200: Kirknaskrá Páls, DI XII 10. [1367]: xlix. Kirkia heilagrar Augottu a jngunnarstodum a heimaland alltt og siottung j eyialande. vij kyr og xxx asaudar. les Vilchinsbok þui þetta er eins; Hítardalsbók DI III 219. 1397: a heimaland allt oc settung j Eyalanndi. Sia er skylld af fie þessu ad þar skal vera setuprestur ef sa vill er þar byr med biskups rade. heimamanna tiund allra a kirkiann. Þar er skyllt ad syngia annann hvern dag oc fiorda hvern ottusong. lvka presti ij merkur. og ef ei fæst prestur. þa skulu Reynivellingar fyrst eiga kost ad lata syngia til Þess kaups ef þeir vilia. biskups handsol eru aa Þessum kirkiufiam ollumm Þar til Þurdar oc miklanar sem hann vill; Máld DI IV 118. 1575: Máld DI XV 632 {1598: hálfkirkja; AM 263 fol. bl. 64}.

Sel

Ingunnarstaðir

Ingunnarstaðir – sel.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1705 segir:“Selstöðu hefur jörðin í sínu eigin landi víðara en í einum stað.“ Í örnefnaskrá Ara Gíslasonar segir: „Næst eru Selflatir. Í botni [Brynju]dalsins og þar næst er hjalli sem heitir Langihjalli.“ Í örnefnaskrá Páls Bjarnasonar segir einnig um selið: „Austur af bakkanum er flatlendi, sem kallað var Eyrar einu nafni.
Þá taka við ónafngreindir hjallar og austur af [þeim] þeim Selflatir [svo], sem eru beint á móti gömlu beitarhúsunum frá Ingunnarstöðum. Þorlákur álítur, að þeir sem höfðu þar í seli, hafi haldið til í beitarhúsunum. Þorlákur sat þar yfir ám í kvíum, sem Kjósarmenn höfðu þar sameiginlega. Fært var frá í Hrísakoti til 1907.“ Selið á Selflötum er um 2,5 km suðaustan við Ingunnarstaði, um 300 m sunnan við beitarhús og um 50 m sunnan við Brynjudalsá. Á Selflötum er grasigróið og víðáttumikið þýft graslendi sem hallar í 2-10° til norðausturs, að Brynjudalsá. Á Selflötum eru þrír áberandi hólar í hnapp á svæði sem er um 60×60 m stórt. Á stærsta hólnum er greinileg tvískipt tóft A sem er um 10 x 6 m stór og snýr norðvestur-suðaustur.

Gullhladsveller (býli)

Stykkisvellir

Stykkisvellir – tóft.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1705 segir: „Gullhladsveller heita í Ingunnarstaða landi. Þar ætla sumir að hafi bygð í gamla daga, og sjást þar enn nú nokkrar tóftaleifar. Ekki verður þar bygð þett, nema með stórskaða heimajarðarinnar, og enginn veit nær það hafi í eyði fallið, meina þó að landþröng hafi til þess verið orðsök.“ Í örnefnaskrá Ara Gíslasonar segir um þetta svæði: „Þegar kemur fram úr Bótinni, taka við Gulllandsvellir, grasivaxin hæð, sem hallar niður af á smámýri. Þar út af er Gulllandsvallarmýri. Á ásnum eru gamlar tættur. Talið er, að þarna hafi verið býli.“
Stykkisvellir eru ofan og sunnan við suðurbakka Brynjudalsár um 850 m ASA við bæ 001 og um 600 m suðvestan við Hrísakot 360:001.

Gullvallsvellir

Gullvallsvellir – uppdráttur.

Rústirnar eru friðlýstar og í Friðlýsingaskrá segir: „Ingunnarstaðir. Forn rúst, er nefnist Gulllandsvellir, að sunnanverðu við Brynjudalsá, fyrir innan Þrándarstaði. Skjal undirritað af MÞ 25.10.1930. Þinglýst 17.11.1938.“ Stykkisvellir eru þýft graslendi á eyri lækjar sem rennur úr Gjáargili norðan undir Suðurfjalli. Svæðinu hallar í um 2-5° til norðurs niður að Brynjudalsánni. Stykkisvellir eru svæði sem er um 250×120 m stórt og snýr norðvestur-suðaustur úr fjallshlíðinni niður á eyri Brynjudalsár. Vestan við Stykkisvelli er brött brekka sem hallar í 30-40° niður í mýri. Brúnin er 3-4 m há á þessu svæði. „Austur af Bótinni taka við sléttir vellir, Gullásvellir, sem líka voru nefndir Stykkisvellir. Á þeim eru gamlar tættur, sem báru merki um að þar hefði verið byggð til forna. Framan vallanna er hár bakki, Gullásvalla-bakki. Norðan hans, að ánni, liggur lítil mýri, Gullásvallamýri (Gull-Þórir).“ segir í örnefnaskrá Páls Bjarnasonar. Í Árbók fornleifafélagsins frá árinu 1904 fjallar Brynjúlfur Jónsson um vellina: „Af stöðum sem nú eru óbygðir í Brynjudal eru Gulllandssvellir langlíklegastir til að vera Stykkisvöllur. Þar er slétt og fögur grund innan til á móts við Ingunnarstaði, sunnanmegin við ána. Auðséð er á bakkanum, sem afmarkar grundina að innan að gil sem þar kemur ofan hefir á sínum tíma brotið mikið af henni. Annars væri þar líklega bær hann. Hann hefir verið þar fyrrum. Það sýnir forn bæjarrúst skamt frá bakkanum. Hún er svo niðursokkin að fólk vissi ekki af henni fyr en eg kom austan á hana. Þó sér svo vel fyrir henni að ég gat gjört uppdrátt af henni. … Tóftirnar eru 3. hver af enda annarar, miðgaflar þó eigi vel glöggir. Dyr á miðjum suðurhliðvegg og vesturendi opinn. Lengda allrar rústarinnar nál. 16 fðm., meðalbreidd hennar 31/2 fðm. Fjós rúst sést eigi, mun vera afbrotin.“ Við skráningu fundust þrjár þústir á þessu svæði sem er um 60 x 40 m stór og snýr norðvestur-suðaustur.
Svæðið er þýft og líklegt að fleiri mannvirki geti leynst í þúfunum á svæðinu þó ekkert sjáist á yfirborði.

Hrísakot
Hrísakot
Árið 1705 er Hrísakot afgömul hjáleiga eða afbýli Ingunnarstaða GK-359:001. JÁM III, 439-440. Samkvæmt bókinni Kjósarmenn eftir Harald Pétursson fór kotið í eyði árið 1919 en var nytjað frá Ingunnarstöðum fram til ársins 1953. Það ár byggðist kotið upp aftur fólki frá Ingunnarstöðum. Kjósarmenn, 43. Samkvæmt Guðrúnu Björnsdóttiur, heimildamanni, fór Hrísakot endanlega í eyði um 1964. 1840: „… Heyskaparlítið; á skógarland og allgóða útbeit við hagahús [GK-360:013]; þar er ekki mótar …“
„Hrísakot stendur innarlega í dalnum innan við Ingunnarstaði og sömu megin í dalnum,“ segir í örnefnaskrá. Bæjarhóll Hrísakots er sunnan undir Múlafjalli og norðan við Brynjudalsá, um 1,1 km austan við Ingunnarstaði 359:001. Hrísakot er nú (2011) skógræktarjörð en hætt var búskap á jörðinni að mestu um 1964. Á bæjarhólnum stendur tvískipt timbur- og bárujárnsfjárhús sem, samkvæmt Guðrúnu Björnsdóttur heimildamanni, var byggt einhvern tíman milli 1925-30 þá trúlega frá Ingunnarstöðum. Suðvestan við bæjarhólinn og fjárhúsin er sléttað tún og suðaustan
við fjárhúsin er sumarbústaður og skógræktarreitur. Greinilegar mannvistarleifar eru á bæjarhólnum norðvestan, norðan og norðaustan við fjárhúsin. Á hjalla norðaustan og ofan við bæjarhólinn er barrskógur en norðvestan við hólinn er graslendi og stór ræsiskurður 5-10 m í burtu. Í bókinni Ljósmyndir I eftir Halldór Jónsson segir: „Í Hrísakoti bjó Pjetur Ottesen til ársins 1902, … Í Hrísakoti var, er hjer kemur sögu, fremur ljelegur bær, en túnið fremur greiðslægt. … Eftir að Pjetur Ottesen fór frá Hrísakoti, tekur jörðina bróðursonur hans, Oddur Pjetur Jónsson frá Ingunnarstöðum, … og býr hann þar til ársins 1919. … Oddur Pjetur byggði nýja baðstofu í Hrísakoti, bjarta og allvistalega og fleiri bæjarhús. … Er þessi baðstofa fyrir löngu horfin [árið 1953] og hin gömlu hús önnur.“ Bæjarhólnum hefur verið raskað þó nokkuð á 20. öld en hefur hann trúlega verið um 50×50 m stór og 1-2 m á hæð. Fjárhúsin standa á miðjum hólnum. Lítið er greinanlegt af gamla bæ Odds Pjeturs sem stóð árið 1917 annað en 2-3 grasigrónir og þýfðir hólar sem eru 1-1,5 m á hæð og er 1-2 m norðvestan við timburfjárhúsin. Grjót má er víða í hólunum. Hólarnir mynda saman aflanga þúst sem er um 25×15 m að stærð og snýr norðaustur-suðvestur. Í gegn um þústina er dæld sem er 5 x 1-3 m stór og snýr NNV-SSA. Dældin er 0,5-1,5 m djúp og sker þústina næstum í tvennt. Hér er líklega um að ræða rof vegna ágangs búpenings.
Engar aðrar dældir eru í þústinni. Ekki er ljóst hvort þessi þúst er leifar af gömlu húsunum sem hugsanlega hefur verið ýtt eitthvað til eða hvort þarna voru aðeins gamlir taðhaugar.

Heimild:
-„Fornleifaskráning í Kjósarhreppi III“ – II. bindi, um bæina Reynivelli, Vesturkot, Seljadal, Sogn, Hvítanes, Þrándarstaði, Ingunnarstaði og Hrísakot. Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2012.

Reynivellir

Reynivellir.

Dyljársel

Í „Fornleifaskráning í Kjósarhreppi II“ árið 2010 er fjallað um bæina Hurðarbak, Morastaði, Eilífsdal, Flekkudal, Grjóteyri, Fremri Háls, Valdastaði, Fossá og Skorhaga.

Hurðarbak

Hurðarbak

20 hdr 1705, Meðalfellskirkjueign. JÁM III, 411. 1847: 20 hndr. Bændaeign. JJ, 99. Árið 1397 segir í máldaga Meðalfellskirkju: „a xxc j heimalandi. leiguland Þat er ad Hurdarbaki heitir. …Þar liggia vnder tiunder af Hurdarbaki oc Karanesi oc lysitollar. so gropttur.“ DI IV, 115-116. „Snjóflóð féll á bæinn 1699 og tók fjós og fé.“ Hannes Þorsteinsson segir nafnið eiga að vera Hurðarbak en ekki Urðarbak eins og áður hafði verið lagt til að væri upprunaleg mynd þess. HÞ: „Rannsókn og leiðrjettingar á nokkrum bæjanöfnum á Íslandi“ Árbók fornleifafélagsins 1923, 34. 1705: Selstöðu í Meðalfellsland þarf með þágu að þiggja eður betala verði, því að búfjárhagar eru að mestu eyðilagðir af skriðum, og neyðast því ábúendur til að beita engi sitt geta þó ekki við varað að peningur gángi á Meðalfells og Þorláksstaða engi. Túnin eru merkilega fordjörfuð af snjóflóðum og skriðum, og er fyrir hvörutveggja þessum jafnan yfirhángandi voveiflegur mannháski manna og fjenaðar, gjörist og árlega í næstu 20 ár hjer af mein og skaði, og kostar það ábúendur stórerfiði sjerhvört ár og moka skriður, og hefur landsdrottinn það hingað til öngvu launað. Landþröng hin mesta.“ JÁM III, 411. 1840: „Þar er heyskapur allgóður, en mikið lítið beitiland og ekkert mótak.“ SSGK, 257. Túnakort 1917: Tún 5,4 teigar, garðar 2.160 m2. Í bókinni Ljósmyndir I eftir Halldór Jónsson segir: „Túnið girti hann [Sveinbjörn Guðmundsson 1906-1939] með netgirðingu. … En sjerstaklega gott verk gerði hann [Gunnar Holm 1939-1946] á Hurðarbaki með því að láta sljetta árbakkana (Laxár) í Hurðarbakslandi og yfirhöfuð engjarnar þar og Hurðarbaksnes, og er svo komið, að engjarnar mestallar að Hurðarbaki eru orðnar vjeltækar og fjótunnar og ná yfir mun stærra svæði en í tíð Sveinbjarnar Guðmundssonar. Gunnar fjekk sjer dráttarvjel til heimilisnota og fjekk hann hana viðeigandi greiðu og með þeim tækjum eru engjarnar að Hurðarbaki ákaflega fljótslegnar. Venjulega eru engjarnar á Hurðarbaki mjög grasgefnar, en Gunnar bar mikið á þær af útlendum áburði og eru þær nú [1949] í fremstu röð. Einnig bætti hann heimatúnið allmikið og stækkaði það nokkuð.“
Gamli bæjarhóllinn á Hurðarbaki er norðan undir Múlafjalli um 500 m VNV við núverandi íbúðarhús á jörðinni og um 3,6 km norðaustan við bæinn Flekkudal. Bærinn er að mestu leiti í eyði þó nýlegt íbúðarhús sé á jörðinni og landið sé að hluta nýtt sem hagi fyrir hesta. Jörðin Hurðarbak er nú (2009) í eigu ábúenda Efri-Flekkudals. Á þessu svæði er sléttaður, grasigróinn hagi fyrir hross. Í bókinni Ljósmyndir I eftir Halldór Jónsson segir: „Fór hún [brúðkaupsveislan] fram [28. nóvember 1902] í nýju timburhúsi litlu, sem reist hafði verið sumarið áður og var Stefán Hansson yfirsmiður. Hafði þar áður verið gömul og mjög ljeleg baðstofa, en portbyggð. Niðri var lítið stofuhús. Í hinu nýja húsi var herbergi í báðum endum uppi á lofti, en portið mjög lágt. Þótti þetta samt á þeim tímum hin bezta híbýlabót. Nokkrum árum síðar var steypt utan um húsið og það lengt dálítið til austurs með skúr. Útihús voru mjög léleg á Hurðarbaki á þeim tíma og voru fjárhúsin þá vestan við svonefndan Þorláksstaðaás. En vegna þess, að þau þóttu of langt frá bænum, voru þau rifin niður og flutt heim á túnið vestast. Þar var þá byggð heyhlaða við fjárhúsin og stendur hvort tveggja enn, en hlaðan endurbætt og ný fjárhús byggð við með góðum viðum í tíð Gunnars Hólm [1939-1946, sjá einnig Kjósarmenn], … Nokkru bætti hann húsin á Hurðarbaki, sjerstaklega fjárhúsin, kom sjer upp vinnuherbergi til að geta unnið að húsgagnabólstrun heima, breytti nokkuð íbúðarhúsinu og byggði dágott fjós í stað hins eldra.“ Alveg er búið að slétta úr bæjarhólnum en Hurðarbak fór í eyði um 1973. Erfitt er því að sjá nokkurn greinilegan bæjarhól en hann hefur trúlega verið að minnsta kosti um 65 m á lengd, um 35 m á breidd og snúið VNV-ASA. Nú (2009) virðist hann aðeins um 1-3 m á hæð í grasigróinni brekku sem hallar um 20-30° í NNA. Samkvæmt Pétri Lárussyni, heimildamanni og bónda í Káranesi, var tvíbýli að Hurðarbaki á tímabili og kemur fram í bókinni Ljósmyndir I að þar bjuggu frændur, Sveinbjörn Guðmundsson frá Valdastöðum og Benedikt Einarsson í sama húsi frá árinu 1906 fram til ársins 1939. Samkvæmt Pétri var að Hurðarbaki steinsteypt hús með bárujárnsþaki þegar bærinn fór í eyði 1973 en mjög líklegt er að hér sé um sama hús að ræða og byggt var fyrst sem timburhús árið 1901. Reiðingur var í þaki til einangrunar og líklega einnig í veggjum.
Steinsteypan var gróf þar sem hún var drýgð með stórum steinum. Húsin að Hurðarbaki voru jöfnuð við jörðu um 1990 en núverandi íbúðarhús er trúlega byggt í kring um eða eftir 1980.

Morastaðir

Morarstaðir

16 hdr 1705, konungseign. JÁM III, 389. 1847: 16 hndr. Kirkjueign. JJ, 99. 1705: „Landþröng er mikil. Skriður spilla úthögum. Hætt er peníngi fyrir fornum torfgröfum.“ JÁM III, 389-390.
Túnakort 1917: Tún 3,2 teigar, að mestu slétt, garðar 600 m2. Í bókinni Ljósmyndir eftir Halldór Jónsson segir: „Þegar Einar [Jónsson] byrjar búskap [1908] á Morastöðum, hefir hann tjáð mjer, að túnið hafi gefið af sjer 120 hesta, en nú [1949] með nýræktinni um eða yfir 500 hesta, er bezt lætur. Er nú Morastaðatúnið að mestu orðið sljett og vjeltækt. Meir en helmingur af ræktuðu landi er nú túnauki, gerður í tíð þeirra feðga. … Þegar Einar kom að jörðinni, voru engar girðingar til, en nú er túnið girt með netgirðingu og nokkuð af engjum, röskir tveir kílómetrar.“
Gamli bærinn á Morastöðum var um 1,1 km ASA við Kiðafell og fast norðan og norðvestan við núverandi íbúðarhús á jörðinni. Þar sem gamli bærinn stóð áður stendur nú (2009) nýlegt timburhús og sléttað malarplan norðan og vestan við húsið. Í bókinni Ljósmyndir I eftir Halldór Jónsson segir um bæinn á Morastöðum: „Hann [Einar Jónsson afi Bergmanns heimildamanns, á Morastöðum frá 1908-1946] keypti jörðina, rjeðst í stórframkvæmdir, en maðurinn bjartsýnn og stórhuga, byggði steinsteypt íbúðarhús í stað gamla bæjarins, steinsteypta heyhlöðu og fjós, steinsteyptar votheyshlöður, kjallara undir fjósinu fyrir áburðinn og stórbætti túnið og færði það út … Þegar Einar kom að Morastöðum, var þar eftir sögn hans heyhlaða með torfveggjum, er tók um 180 hesta heys. Nú [1949] er steinsteypt hlaða fyrir um 500 hesta og lítil hlaða með veggjum úr torfi og grjóti fyrir 70-80 hesta. Votheyshlöður hafa verið og gerðar á Morastöðum fyrir 150-200 hesta miðað við þurrhey. … Ýmsar fleiri framkvæmdir hafa verið gerðar á Morastöðum, steypt stórt hænsnahús og hesthús og settur upp setuliðsskáli til geymslu.“ Ekkert er eftir af gamla bænum sem uppi var áður en steinsteyptu húsin sem lýst er hér að ofan voru byggð og enginn skýr bæjarhóll er greinanlegur á svæðinu. Hluti steinsteyptu húsanna stendur ennþá (2009) um 30 m VNV við núverandi íbúðarhús. Við austurenda íbúðarhússins á Morastöðum virðast vera leifar af hleðslugrjóti eða vegghleðslum svo ekki er ólíklegt að leifar af bæjarhól finnist einnig undir sverði austan við hús og undir malarplani. Bærinn stóð í brekku sem hallar um 10-20° í SSV á hjalla sem er um 30 m breiður, um 5 m hár og liggur austur-vestur í fjallshlíðinni norðan við Miðdalsá. Samkvæmt túnakorti frá 1917 hefur bærinn verið um 30-40 m langur og trúlega hefur verið gengið inn að sunnanverðu. Núverandi íbúðarhús hefur trúlega verið byggt ofan í kálgarð.

Eilífsdalur

Eilífsdalur

20 hdr. 1705, Eilífsdalskot 1/4 jarðarinnar 1705 þá í byggð. JÁM III, 399, 400. 1690: 20 hdr. jörðin seld fyrir 60 hdr í lausafé. Jarðabréf, 21. Í Kjalnesinga sögu segir: „Helgi bjóla, son Ketils flatnefs, nam Kjalarnes millum Leiruvágs ok Botnsár ok bjó at Hofi á Kjalarnesi. … Helgi skipaði skipverjum sínum lönd þau, sem hann hafði numit; hann fékk Þrándi á Þrándarstöðum, Eilífi í Eilífsdal, Hækingi í Hækingsdal, Tind á Tindsstöðum ok þar hverjum, sem honum þótti fallit vera.“ ÍF XIV, 3. Nafnið Eilífsdalur kemur fyrst fyrir um 1220 í máldaga Saurbæjarkirkju: „[í Saurbæ] liggia tiundir til millum blikdals ar. oc æilifsdals ar. nema af eyri. oc vr myrdal. ef þar bua landeigendr. þa sculu þeir taka sina tiund heima oc hiona sinna allra. en ef leiglendingar bua þar eða hiabuðar menn. þa scal j saurbæ þeirra tiund gialldaz oc hiona þeirra. ef þav giora skiptingar tiund;“ DI I, 402. 1352: Á Reynivallakirkja lambahöfn í Eilífsdal. DI III, 70-71.
1468: Landamerkjabréf milli Eilífsdals og Mýdals. DI V, 516. [1478]: Á Reynivallakirkja lambabeit í Lambatungum í Eilífsdal. DI VI, 178-179. 1847: 20 hndr. Bændaeign. JJ, 100.
1705: „Engið er fordjarfað af skriuðum, en túnin brjóta árlega tvær ár, sem hjá þeim falla, er og háksi af þessum hvorutveggjum skaða jafnlega. Sandfjúk grandar ogso túnunum.“ JÁM III, 401. Túnakort 1917: Tún 5,4 teigar, garðar 540 m2. Í bókinni Ljósmyndir I eftir Halldór Jónsson segir: Engir voru kartöflugarðar í Eilífsdal, er hjer var komið sögu [1899-1912]. Kvað Oddur [Andrjesson], að reynt hafi verið að rækta kartöflur, en eigi lánazt vegna þess, hve jarðvegur er leirborinn þar sem til var sáð, og meiri hætta á næturfrostum þar í fjallakví að heita mátti. Fyrir allmörgum árum [texti skrifaður 1949] hefir þó verið hafizt handa í Eilífsdal um kartöfluræktun, en nokkuð fjær bænum, og gefizt yfirleitt allvel, enda í betri jarðvegi fyrir þann jarðargróða en heima við bæinn. … Í tíð Þórðar Oddssonar [1912-1941] var túnið girt með netgirðingu, en á árinu 1946 endurbættu bræðurnir [Oddur og Þorkell Þórðarsynir] girðinguna og stækkuðu hana, þannig, að hún nær um tún og engjar og er þa ð gott og mjög þarft verk.“
Gamli bærinn í Eilífsdal var um 3 km suðvestan við Flekkudal, um 320 m suðaustan við núverandi íbúðarhús á jörðinni og um 100 m vestan við Dælisá. Við bæjarhólinn eru gömul steinsteypt útihús sem reist voru upp úr 1920, malarborin hestagirðing og grasigróin sléttuð tún og hagar.
Útihúsin eru nú (2009) notuð sem hesthús. Í bókinni Ljósmyndir I eftir Halldór Jónsson segir m.a.: „Mjög voru byggingar ljelegar í Eilífsdal, er hjer var komið sögu [um aldamótin 1900], fornleg baðstofa, nokkuð stór, með glugga á báðum endum, aðrar byggingar voru eftir þessu, eiginlega á fallandi fæti.“ Þar segir einnig: „Tók þá [1912] við búi Þórður Oddson, … Búa þau [Þórður og kona hans] í Eilífsdal, þangað til synir þeirra tveir, …, taka við búi árið 1941, … Á síðari búskaparárum Þórðar Oddssonar var byggt laglegt íbúðarhús úr steinsteypu í Eilífsdal, heyhlöður tvær, votheyshlöður tvær og fjárhús við aðra heyhlöðuna. Var heimahlaðan steypt.“ Bæjarhúsin sem sýnd eru á túnakorti frá árinu 1917 hafa verið fast sunnan og suðaustan við steinsteypt útihúsin sem byggð voru rétt fyrir, eða í kring um, árið 1940. Samkvæmt lýsingu Halldórs Jónssonar hafa þau verið byggð eitthvað fyrir aldamótin 1900. Á þessu svæði er aðeins ógreinilegur sléttaður og hálf grasigróinn bæjarhóll sem er um 80 m á lengd, um 50 m á breidd og 1-3 m á hæð. Hóllinn snýr austur-vestur og er hann hæstur þar sem gömlu útihúsin standa. Ekkert sést til fornleifa vegna sléttunar en mjög líklegt er að fornleifar finnist undir sverði.

Eilífsdalskot

Eilífsdalur

Eilífsdalur – málverk eftir Tolla.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1705 segir: „Jarðardýrleiki xx c. Er jörðin sundurdeild í tvö býli, og er afbýlið kallað Eilífsdalskot, fjórðúngur jarðarinnar.“ Samkvæmt túnakorti frá árinu 1917 var Eilífsdalskot um 265 m NNV við bæjarþyrpingu og var heimatúnið 40-140 m norðan við Kotá og 30-230 m vestan við Dælisá. Mjög líklega er þetta sama kot skráð í bókinni Kjósarmenn undir nafninu Eilífsdalshjáleiga en þar var búið að minnsta kosti frá árinu 1681 fram til ársins 1740. Á svæðinu þar sem bærinn og kálgarðurinn stóðu eru útihús og hlaða úr bárujárni og timbri á steinsteyptum grunni. Útihúsin eru á sléttum hjalla utan í grasigrónum mel. Hjallinn hefur verið grafinn að hluta inn í hlíðina en brekkan umhverfis útihúsin hallar 20-45° í suður.Austar þar sem útihúsin stóðu breytist landslagið í grófan en frekar flatan malarkamb sem er gróinn mosa og grasi hér og þar. Samkvæmt Huldu Þorsteinsdóttur, heimildamanni, hefur Vegagerðin tekið mikið af efni til vegagerðar af þessu svæði og hefur því verið mjög raskað í gegnum árin. Á túnakort frá árinu 1917 eru merkt inn tvö hús í heimatúni. Túnið umhverfis kotið var 0,9 teigar, og þar var einn kálgarður 110 m2 að stærð. Eins og áður sagði var kotið, A, teiknað um 265 m NNV við bæjarhól Eilífsdals. Kálgarður C var um 5 m vestan við kotið.
Útihús B voru svo samkvæmt túnakorti um 135 m ANA við kot A. Á vettvangi virðist það þó ekki mögulegt miðað við stöðu Kotár og Dælisár. Útihús B var við vettvangsskráningu staðsett ofan við ármótin þar sem Kotá og Dælisá mætast eins og sýnt er á túnakorti en sá staður er ekki nema um 115 m norðaustan við kot A. Hugsanlegt er að kot A hafi þá staðið lengra í burtu frá bæ suðvestar en útihúsin. Þá er ekki ómögulegt að leifar finnist undir malarveginum niður að útihúsunum eða undir sverði í grasigrónum hrossahaga suðvestan við veginn þó ekkert sjáist á yfirborðinu. Einnig er mögulegt að árfarvegirnir hafi breyst síðan 1917 vegna uppmoksturs úr Dælisá og efnistöku á svæðinu og útihúsin því verið um 20 m ANA en þau voru skráð. Ekkert sést til fornleifa á þessum slóðum vegna
rasks.

Flekkudalur (enn efri)

Flekkudalur

40 hdr 1705, þá tveir bæir (sjá GK-340:001 og GK-340:017). JÁM III, 403. 1483: Jarðarinnar getið í sölubréfi, þá kaupir Margrét Vigfúsdóttir 10 hdr í Flekkudal, þá í Reynivallakirkjusókn, DI V, 800. 1847: 40 hndr. Bændaeign. Í Jarðatali Johnsens segir einnig: „Báðir Flekkudalir eru þángað til 1802 taldir saman. Prestur nefnir Efri- og Neðri-Flekkudal, með 1 ábúenda hvorn, en sýslumaður 1 Flekkudal, einsog líka prestur, Grjóteyri, sem engin jarðabók getur um, en máske er það sama sem jarðabækurnar kalla Neðri-Flekkudal, hvarámóti prestur að líkindum aðgreinir býlin á Flekkudal sjálfum (enum efri), í Efri- og Neðri Flekkudal, því sýslumaður telur 1 Flekkudal 25 h., en Grjóteyri 15 h. Að dýrleika, alls 40 h., einsog jarðabækurnar.“ JJ, 100. 1705: „Hætt er fyrir skriðum og snjóflóðum bæði húsum og túni. Á brýtur engjar og tún og ber grjót yfir til stórmeina. Hætt er fyrir foruðum og dýjum.“ JÁM III, 403. 1840: „… hefir fallegt tún, ekki mikið ummáls, engi nokkuð til hlítar og veitiland á dalnum um sumar, en minnni útbeit vetrar.“ SSGK, 257. Túnakort 1917: Tún 5,5 teigar allt slétt, garðar 1000 m2. Í bókinni Ljósmyndir I eftir Halldór Jónsson segir: „Er Guðni [Ólafsson 1935 til a.m.k. 1949] að bæta jörðin, með stækkun og umbótum á túninu og með uppþurrkun með skurðgröfu með fyrirhugaða frekari túnrækt.“
„Í túninu, þar sem húsin eru nú, hét Hjálmur, en gamli bærinn var, þar sem nú eru fjárhúsin,“ segir í örnefnaskrá Flekkudals. Í örnefnaskrá Grjóteyrar og Flekkudals segir einnig um Flekkudalsbæina: „Í Grjóteyrarlandi, vestan Flekkudalsár veit ég um þessi nöfn: Tutlutættur þar mun fyrsti Flekkudalsbærinn hafa verið byggður, og jarðirnar þá eitt býli, mun það nafn frá ofanverðri 19. öld, hét fyrr Neðri-Flekkudalur og Flekkudalur, Efri-Flekkudalur. Um 1840 var Neðri-Flekkudalur fluttur austur fyrir Flekkudalsá og fékk sá bær nafnið Grjóteyri, en kotbýli verið um skeið í Neðri-Flekkudal sem fékk þetta heiti. Þegar undirritaður fluttist að Grjóteyri 1905 gekk Grjóteyrartúnið vestan ár undir nafninu Tutlutún, móarnir neðan þess Flekkudalsmóar.“ Gamli bærinn í Flekkudal var um 570 m suðvestan við Flekkudal (enn neðri) (nú Grjóteyri) og um 100 m vestan við núverandi íbúðarhús í Flekkudal Efri þar sem áður hét Hjálmur. Leifar af bæjarhól eru við rætur Paradísarhnúks (fjallsrætur Esjunnar) neðst í grasigróinni brekku sem hallar um 10-20° í norðaustur. Á þessu svæði eru aðeins gömul, steinsteypt útihús og hlaða og sléttaður grasigróinn bæjarhóll. Í bókinni Ljósmyndir I eftir Halldór Jónsson segir: „Mikið gerði Ólafur [Einarsson bóndi í Flekkudal 1895-1935] að húsabótum og talsvert, að jarðabótum. Um aldamótin [1900] var mjög ljeleg baðstofa í Flekkudal, bekkbyggð, en í hennar stað byggði hann íbúðarhús úr steinsteypu, og þó það sje engan veginn gallalaust, var það mjög mikil bót frá því sem var, einnig allstóra heyhlöðu við íbúðarhúsið fyrir töðuna, og fjós og hesthús, einnig úr steinsteypu, allt áfast hvert öðru og svo hlöðu fyrir útheyskapinn og fjárhús við.“ Samkvæmt Guðnýju G. Ívarsdóttur, heimildamanni, var syðri hluti gömlu útihúsanna í Flekkudal sem enn eru uppistandandi eitt sinn hluti af gamla bænum. Veggir þeirra eru steyptir úr mjög grófri grjót- og malarsteypublöndu líkt og var í íbúðarhúsinu að Hurðarbaki. Steypt var með stórum grjóthnullungum til að drýgja steypuna. Húsið var með timburþaki og þremur burstum og var fjósið 002 eins byggt. Guðný vissi ekki hvenær húsin voru byggð en ef tekið er mið af túnakorti frá árinu 1917 virðast þau þegar hafa verið byggð þá. Líklegt er að þau hafi verið byggð um eða rétt eftir aldamótin 1900 þegar Ólafur Einarsson var bóndi eins og segir hér að ofan. Bærinn brann 1949 en þá var byggt aftur ofan á hann og honum breytt í hlöðu. Fjárhús voru svo steypt fast norðan við hlöðuna og nýtt íbúðarhús byggt á Hjálmi. Á ljósmyndum í eigu Guðnýjar frá því kring um 1925 má sjá að grjóthleðslur eru á milli steyptu húsanna (burstanna) líkt og í torfbæjum og var grjóthlaðin stétt fyrir framan húsið. Aðeins sést girðing umhverfis kálgarða 008. Búið er að raska bæjarhólnum mjög mikið en hann hefur verið um 60 m á lengd, um 50 m á breidd og snúið norðvestur-suðaustur. Aðeins eru greinanlegar leifar eftir af hólnum sunnan við gamla bæinn (hlöðuna) og þar er hann sléttaður, grasigróinn og 1-2 m á hæð. Hóllinn er ávalur vegna sléttunar en ekki er þó ólíklegt að fornleifar leynist þar undir sverði.

Getið er um mögulegt sel 

Flekkurdalur

Flekkudalur – mögulegt sel….

„Þegar kemur austur fyrir Bláberjagil, heitir Stekkur, og þar innar er lækur, sem heitir Borgagil [Borg er náttúruleg klettaborg ],“ segir í örnefnaskrá. Austan við Bláberjagil á Stekk eru hvorki meira né minna en fimm tóftir. Tvær þeirra eru hér skráðar saman þar sem þær voru nálægt hver annarri og keimlíkar í útliti. Tóftirnar eru á svæði sem er um 480 m norðvestan við bæjarhól 001 ofan (suðvestan) við malarveg sem liggur norðvestur-suðaustur niður að sumarbústað við Meðalfellsvatn. Tóftirnar eru í þýfðum grasi- og mosagrónum móa í brekku sem hallar 5-10° í norðaustur við rætur Esju. Tóftirnar tvær eru á svæði sem er um 80×20 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur.

Fremri Háls (Litli Háls)

Fremri-Háls

12 hdr 1705. Eyðibýli 1705 voru Sauðafell, Möngutóftir (Margrétarkot) og Hulstaðir. JÁM III, 418. 1847: 12 hndr. Bændaeign. JJ, 100.
Hannes Þorsteinsson: Fremri-Háls réttnefni. HÞ:“Rannsókn og leiðrjettingar á nokkrum bæjanöfnum á Íslandi“ Árbók fornleifafélagsins 1923, 34. 1705: „Túnin eru stórlega fordjörfuð af skriðum og enn hætt við meiri skaða bæði bænum og túnum, mönnum og fjenaði. Engjar öngvar í vissum stað, nema hvað slegið er vítt og dreift í heiðarlandi, og þó ekki í sama stað nema annaðhvört ár. En þær engjar, sem áður voru og nær liggja bænum, eru harnær eyðilagðar af skiðum og leir. Þverá, sem hjá túninu rennur, er kölluð Hálsá, brýtur túnið og ber grjót á. Hætt er bænum fyrir snjóflóði, og hefur það oft yfir fallið, so legið hefur við húsbroti.“ JÁM III, 418. 1840: „Heyskapur er erfiður og reytingslegur, en landrými mikið og gott, helzt um sumartímann, vetrarþungt.“ SSGK, 256. Túnakort 1917: Tún 6,8 teigar, að mestu sléttað, garðar 950 m2. Í bókinni Ljósmyndir I eftir Halldór Jónsson segir: „Nokkrar umbætur hafa verið gerðar á túni jarðarinnar í Jóns tíð [á tímabilinu 1927-1949] með hjálp dráttarvjelar.“
Gamli bæjarhóll að Fremri-Hálsi var um 50 m SSA við núverandi íbúðarhús á jörðinni. Á þessu svæði eru malarplan og nýleg útihús og hlöður, steinsteypt og bárujárnsklædd. Í bókinni Ljósmyndir I eftir Halldór Jónsson segir: „Á Fremra-Hálsi voru í tíð þeirra hjónanna [Einars Ólafssonar og Jóhönnu Þorsteinsdóttur 1908-1922] ákaflega aumleg bæjarhús og síhrörnandi. Var þar loftbaðstofa og stofuhús lítið undir baðstofu, … Þegar Jóhanna fór frá Fremra-Hálsi, hófu þar búskap hjónin Sveinbjörn Jónsson … og Jónína Guðmundsdóttir … en þangað fluttu þau vorið 1922. Voru þessi hjón þar þangað til vorið 1927, …
Voru þessi hjón ákaflega dugleg bæði og efnahagur þeirra góður. Þau rifu eldri bæjarhúsin og byggðu bekkbaðstofu, sem var ólíku betri verustaður en gamla baðstofan. … Þegar þessi hjón fara frá Fremri-Hálsi, koma þangað hjónin Jón Sigurðsson og Ingibjörg Eyvindsdóttir [frá 1927 til dauðadags eða þar til Ingibjörg Jónsdóttir heimildarmaður tók við búi (?).] … Hefir Jón komið sjer upp allgóðu íbúðarhúsi [einhvern tíman á árunum 1927-1949, trúlega á fyrrihluta þessa tímabils]. Er það byggt úr steyptum steinum og hefir hann komið þar fyrir olíukyndingu. … Heyhlaða allgóð hefir verið byggð þar í hans tíð einnig [fyrir 1949].“ Lítil sem ekkert er að sjá eftir af bæjarhólnum en samkvæmt túnakorti frá 1917 hefur hann verið að minnsta kosti um 60 x 60 m að stærð. Búið er að slétta allt svæðið í malarplan og byggja hlöðu og útihús úr bárujárni og timbri á steyptum grunni. Fast suðvestan og ofan við hlöðurnar er um 2 m hátt grasigróið barð sem hugsanlega gæti falið leifar bæjarhóls en ekkert sést þó á yfirborði. Búið er að bera möl í þetta svæði en ekki er óhugsandi að leifar finnist undir sverði. Fyrir árið 1927 var vatn fyrir heimafólk og skepnur tekið úr bæjarlækjunum og borið heim að bæ.

Heimild er um sel við Sauðafell

Fremri-Háls

Fremri-Háls; mögulegt sel við Sauðafell[skot]…

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1705 segir: „Selstöðu á jörðin í heimalandi.“ Þar segir einnig: „Saudafell hefur verið hjáleiga í þessarar jarðar landi, bygð í manna minni á fornu eyðibóli, þar sem halda, áður hafi lögbýlisjörð verið, en nær eyðilögð vita menn eigi, og hefur þetta land fyrir hundrað ár Hálsi átölulaust eignað verið. […] Eyðilagðist fyrir þá grein, að bóndanum á Fremrahálsi þótti sú bygð of mjög að sjer og sínum peningi þrengja, og eru nú síðan yfir 40 ár, sem það hefur ekki bygst; þar með er það vetrarríki mesta fyrir fannlögum, og því örvænt að aftur byggjast muni. Er þar nú selstaða frá Hálsi.“ Í örnefnaskrá Fremri-Háls segir svo frá: „Hálsá á upptök sín í Tjarnhólum, rennur eftir Seldal og áfram vestur með hlíðinni, sem síðar er nefnd, rennur skammt austan við bæ og út í Laxá. […].
Upp af Selflóa er Stóra-Sauðafell, sem áður getur. Það afmarkast af Seldal. Vesturendi fellsins er nefndur Sauðafellstagl. Þar hjá eru tóftir gamals eyðibýlis, sem hét Sauðafellskot.“ Í viðbótum við örnefnaskrá segir einnig: „Úr þeim tjörnum kemur Selgil, sem rennur norður í Fremra-Hálsland í Kjós. Þar neðar, austan merkja, eru gamlar tættur eftir sel.“ Sauðafell er um 2,1 km SSA við bæ 001 við sunnanvert mynni Seldals stutt frá austurbakka Hálsár og fast vestan við sléttað tún á Selflóa. Tóftirnar eru í þýfðum lyngi- og grasigrónum móa.

Valdastaðir

Valdastaðir

30 hdr. 1705, Reynivallakirkjueign. Munnmæli um að bænhús hafi verið á jörðinni. 1237 er jarðarinnar getið í Sturlungu. Sturlunga saga I, 406. 1352/1397 og um 1478 á Reynivallakirkja kastar skurð í landi jarðarinnar. DI III 70-71; DI IV, 116-117; DI VI, 178-79. 1705 er forn eyðihjáleiga í túninu og einnig nefnd þar Bollastaðir sem forn lögbýlisjörð sem Valdastaðir og Neðriháls GK-352 hafa haft afnot af. JÁM III, 428. 1847: Kirkjueign. 30 hndr. JJ, 100. 1705: „Túnin liggja undir skriðum og so engið, og jafnlega verði fyrir þeim skaða, spillist og nokkuð ár frá ári. Landþröngt er heldur en ekki, og stendur jörðin á horni landsins.“ JÁM III, 428. 1840: „… þar er tún í betra lagi, engi nokkuð, lítið beitarland og stopul vetrarútbeit, vantar mótak …“ SSGK, 255. Túnakort 1917: Tún 8 teigar, meirihluti sléttað, garðar 1900 m2. Í bókinni Ljósmyndir I eftir Halldór Jónsson segir: „Þegar Guðmundur byrjar búskap á Valdastöðum [1875], var allt túnið kargaþýft. Tók hann brátt að sljetta það. Fyrstu áhöldin við túnasljettun voru torfljáir til ofanafristu og skófla. Vildi ganga illa að láta bitið haldast í ljánum í malarjarðvegi, eins og víða er í túnum undir Reynivallahálsi. … Þá var talið, að túnið hafi gefið af sjer að meðaltali árlega um 120 hestburði. Allt var þá ógirt, bæði tún og engjar. Síðan girti hann tún og að nokkru leyti engjar, mest með grjótgörðum. Þegar hann hætti búskap [1908], mun túnið hafa gefið af sjer um 300 hestburði, þá var það orðið mikið sljett, en ekki þó nærri allt. … Árið 1944 var talið, að túnið fóðraði um 20 nautgripi, 15 hross og 250 sauðfjár, en síðan hefir það verið stækkað að mjög miklum mun.

Valdastaðir

Valdastaðir og nágrenni.

Nokkuð löngu áður en Guðmundur hættir búskap, var farið að nota ávinnsluherfi, eða nálægt aldamótum, en kerran kemur til sögunnar töluvert síðar. Sláttuvjel var næst fyrst farið að nota á Valdastöðum nálægt árinu 1928 og rakstarvjel nokkru seinna. Af ræktuðu landi fengust árið 1944 um 600 hestburðir.“
Það hús sem merkt er inn á túnakort frá árinu 1917 var timburhús byggt í kringum aldamótin 1900. Nú eru tvö íbúðarhús á Valdastöðum. Samkvæmt Ólafi Þ. Ólafssyni, heimildamanni, var gamli bærinn um 25 m ANA við vestara íbúðarhúsið á Valdastöðum og um 20 m norðan við það eystra. Líklega voru eldri bæir á svipuðum stað. Á þessu svæði er sléttað malarplan, steinsteypt gamalt fjós og bárujárnsklædd nýleg viðbygging. Í bókinni Ljósmyndir I eftir Halldór Jónsson og Kjósarmenn eftir Harald Pétursson (ártal) segir: „Á Valdastöðum bjuggu um aldamótin merkishjónin Guðmundur Sveinbjarnarson og Katrín Jakobsdóttir. … Þá [1877] hóf hann [Guðmundur] búskap á allri jörðinni. Hafði áður verið tvíbýli og jafnvel þríbýli á Valdastöðum.“ Í Kjósarmenn segir einnig: „Guðmundur átti heima í Kjós frá 11 ára aldri, fyrst í Eyrarkoti hjá Steina Halldórssyni og fluttist með honum að Valdastöðum [Austurbær] 1868, og þar átti hann heima síðan. Guðmundur hóf búskap á Valdastöðum 1875 í sambýli við Jakob tengdaföður sinn, en tók algerlega við hálflendunni í fardögum 1877, en hinni hálflendunni (vesturbænum) bætti hann við býli sitt 1882 og bjó upp frá því í einbýli á Valdastöðum til 1908, en þá brá hann búi og seldi jörðina sonum sínum tveimur. Þótt hann léti jörðina af hendi hafði hann þar fénað (sauðfé og hross) fram á elliár, stóðu fénaðarhús hans í aukatúni, þar sem nú standa Grímsstaðir.“ Ekkert sést til fornleifa eða bæjarhóls vegna sléttunar og bygginga. Gamli bærinn sem merktur er inn á túnakort frá árinu 1917 var byggður í kringum aldamótin 1900. Samkvæmt Ólafi Þ. Ólafssyni heimildamanni var gamli bærinn timburhús á tveimur hæðum með grjóthlöðnum kjallara. Húsið var einangrað með heyi og grjóthleðslur í kjallara voru styrktar með steypu. Kjallarinn var undir öllu húsinu en þar var fyrsta eldhúsið í húsinu ásamt kartöflugeymslu, geymslu, búri, miðstöðvarherbergi og baðherbergi. Eftir að eldhúsið var flutt upp á jarðhæð var komið upp þvottahúsi í kjallara. Gengið var inn í kjallarann að sunnan verðu en einnig tengdu tveir timburstigar allar hæðirnar inni í húsinu. Þegar gengið var inn í kjallarann var komið inn í stórt herbergi sem var fyrst eldhús en seinna þvottahús.
Beint á móti innganginum var búrið en að austan verðu voru geymsla, miðstöð og bað. Í vesturenda kjallara var svo kartöflugeymslan. Á jarðhæð voru tvær íbúðir. Í íbúðunum voru tvö eldhús, tvær stofur, tvö svefnherbergi, gangur og búr. Hægt var að ganga inn í húsið að sunnaverðu og kom maður þá inn á ganginn. Austan við ganginn sem lá norður-suður í gegn um allt húsið var svefnherbergi að norðanverðu fjær inngangi en stofa að sunnanverðu nær honum. Vestan við ganginn voru eldhús að norðan og svefnherbergi að sunnan. Vestan við eldhúsið var svo annað eldhús en vestan við svefnherbergið stofa. Búr var svo í norðvesturhorni hússins vestan við eldhúsin. Einnig var hægt að ganga að utan inn í vestari stofu og búr að vestanverðu. Upp úr 1965 voru svo baðherbergi og forstofa byggð við húsið vestanvert en fyrir þann tíma var klósettið í kjallaranum. Á annarri hæð var ris með kvisti. Fjögur herbergi voru uppi, tvö í kvisti. Gengið var upp stiga upp á framloftið en þar var gangur og geymsluloft undir súð. Í austur- og vesturendum var sitt hvort herbergið og svo tvö herbergi á milli þeirra í kvisti sunnan við framloftið. Ekki er ólíklegt að leifar eldri bæja leynist undir malarplani. Til gamans má geta að þetta hús var notað í fyrstu leiknu talmynd á Íslandi, „Milli fjalls og fjöru“, eftir Loft Guðmundsson og er hægt að fá meiri upplýsingar um hana hjá Kvikmyndasafni Íslands. Húsið brann árið 1974. Í bókinni Ljósmyndir I segir svo um húsakost á Valdastöðum: „Snemma hóf Guðmundur húsbætur á Valdastöðum. Fjenaðarhúsin voru til og frá um túnið, en allt hey geymt heima í heygarði [staðsetning óþekkt]. Smám saman færði hann fjenaðarhúsin saman og síðar byggði hann heyhlöðu fyrir töðuna heima [003] og mun hún ein hin elzta í Kjósinni. Einnig byggði hann stóra og allvistlega baðstofu, eftir því sem þá gerðist, með kjallara undir. Mun baðstofan hafa verið 12 álna löng. Nokkru eftir aldamót, eða árið 1904, byggði hann íveruhús úr timbri, 12.10 álnir með íbúð í risi og kjallara undir. Var yfirsmiður Guðmundur Þórðarson, hreppstjóra á Neðri-Hálsi. Síðan hefir húsinu verið talsvert breytt og það stækkað að allmiklum mun.“

Fossá

Fossá

16 hdr 1705. JÁM, 436. 1847: 16 hndr. Bændaeign. JJ, 101. „Seljadalur: þar var búið fram til 1921. Á 17.öld sölsaði Reynivallaprestur undir sig Seljadal, en Fossá átti hann áður. Vindás átti þar líka sel, þess vegna er dalurinn kenndur við fleiri en eitt sel.“ Ö-Fossá ath og viðb., 3 1840: „… ekki er hér heyskapur mikill, en hagkvisti gott og útigangur um vetur; partur norðan af Seljadal báðum megin liggur undir þessa jörð.“ SSGK, 255. Túnakort 1917: Tún 5,9 teigar, mest sléttað, garðar 800 m2. Í bókinni Ljósmyndir I segir svo: „Um aldamótin, eða laust eftir þau, tekur við búi á Fossá Ólafur Matthíasson, … Um aldamótin mátti segja, að túnið á Fossá væri sljett að einum fjórða hluta, sumt af því af náttúrunni. Ólafur Matthíasson gerði mikið að því að sljetta túnið, auðvitað með hinum gömlu aðferðum og höndum sínum. … Árið 1939 fara bræðurnir Helgi og Björgvin Guðbrandssynir … að búa á Fossá og hafa búið þar síðan [skrifað 1949]. … Hafa þeir bætt túnið mjög mikið og haft til þess not af dráttarvjel. Eru báðir gefnir fyrir sauðfje og hafa mestmegnis haft þar sauðfjárbú og alifugla, en vegna veiki í sauðfjenu eru þeir farnir að leggja meiri rækt við að fjölga kúm og eru farnir að selja mjólk til Reykjavíkur og flytja hana með mjólkurbílum, er flytja af Hvalfjarðarströnd. … Einnig áttu þeir, sem Skorhaga og Þrándarstaðamenn, rjett til reka fyrir landi jarðarinnar og fengu þeir mikið efni með þeim hætti, og gott, að því skapi.“
Bærinn Fossá er um 470 m sunnan við þjóðveg í Hvalfirði og um 240 m vestan við ána Fossá.
Land Fossár er nú skógræktar- og útivistarsvæði en samkvæmt minningargrein Björgvins Guðbrandssonar bónda á Fossá í Morgunblaðinu frá árinu 1988 og heimasíðum Skógræktarfélaga Kjósarsýslu og Kópavogs seldi Björgvin jörðina Skógræktarfélögum Kjósarsýslu og Kópavogs árið 1972, en hafði sjálfur ábúðarrétt á henni á meðan hann vildi búa.
Bæjarhóllinn er í sléttuðu graslendi við suðausturenda túns sem teygir sig til norðvestur frá bæ í átt að þjóðvegi 47. Í bókinni Ljósmyndir I eftir Halldór Jónsson segir: „Um aldamótin var á Fossá mjög ljeleg baðstofa og önnur bæjarhús af því skapi, baðstofan þröng og lítilfjörleg og einkum, er fjölskyldan stækkaði, en Ólafur [Matthíasson, bjó á Fossá 1899-1928] ljet reisa þar steinsteypt íbúðarhús, og var það talsverð híbýlabót, þótt þetta hús væri engan vegin svo vandað sem æskilegt hefði verið. Steypan reyndist illa. Fjekk nú þetta hús rækilegar umbætur á árinu 1946. Einnig reisti Ólafur heyhlöðu með járnþaki. … Árið 1939 fara bræðurnir Helgi og Björgvin Guðbrandssynir frá Hækisdal að búa á Fossá og hafa búið þar síðan. …
Þessir bræður hafa gert varanlegar umbætur á íbúðarhúsinu, einnig byggt heyhlöðu áfast því og fjós, hesthús og fleira, og vel byggð og stæðileg fjárhús með áfastri heyhlöðu. Var þeim mikil hjálp í því að gera fengið ódýrt timbur og járn, er setuliðið var farið, og eitthvað hjá því. … Enga votheystóft er til á Fossá til þessa [1949].“ Búskaparár Ólafs hér að ofan fengust í bókinni Kjósarmenn eftir Harald Pétursson.
Bæjarhóllinn er ávalur og sporöskjulaga, um 45 m á breidd, um 50 m á lengd, 2-3 m á hæð og snýr norðaustur-suðvestur. Gamalt steinhús stendur enn norðvestan í hólnum en ekki er vitað nákvæmlega hvenær það var byggt. Út frá lýsingum í Ljósmyndir I og Kjósarmenn hefur það verið byggt á tímabilinu frá 1899-1928. Öll önnur hús á hólnum hafa verið sléttuð svo ekkert sést til þeirra lengur. Samkvæmt Inga Steinari Ólafssyni, heimildamanni, voru torf- og grjóthlaðin fjós, hlaða og hesthús sem reft var yfir vestan við íbúðarhús á bæjarhól en hann treysti sér ekki til að gefa frekari lýsingu á þeim. Þessi útihús hafa trúlega verið fjarlægð þegar Helgi og Björgvin bæta húsakostinn á Fossá.

Í heimildum segir frá Dys ofan Fossár 

Gíslagata

Dysin.

„Fyrir framan Rauðsmýri og Stóradal eru Sperribrekkur, og fossinn fremst í þeim, við veginn, heitir Mígandi. Skammt fyrir framan Míganda, við þjóðveginn, er Dys, samanb. þjóðs,“ segir í örnefnaskrá. Dysið er um 1,7 m sunnan við bæjarhól 001 fast vestan við vegslóða 026 og um 50 m norðan við Míganda. Dysin er milli tveggja lítilla lækja. „Dys er hvorugkynsorð (Dysið). Þar fram hjá lá vegurinn [026] vestur undir Dauðsmannsbrekkum. Þjóðsögur greina frá því að bóndi nokkur á Fossá hafi setið þarna fyrir ferðamönnum, drepið þá og rænt.“ segir í athugasemdum og viðbótum við örnefnaskrá. Í Árbók ferðafélagsins segir: „Austan götunnar [Gíslagata] á landamerkjum Reynivalla og Vindáss eru Dauðsmannsbrekkur, sem svo heita vegna þess að þjóðsagan greinir frá stigamennsku Magnúsar bónda á Fossá, sem sat þar fyrir ferðamönnum á 18. öld.“ Dysið er 6-8 m hár náttúrulegur sporöskjulaga mosagróinn klettur sem er grýttur í toppinn. Ekkert sést til mannvirkja.

Gíslagata

Dysin.

Samkvæmt séra Gunnari Kristjánssyni sóknarpresti á Reynivöllum er hér um munnmæli frekar en þjóðsögu að ræða og benti hann skráningarmanni vinsamlegast á umfjöllun um Magnús Sighvatsson í Kjósarmönnum en Magnús var bóndi á Fossá frá árinu 1728 til dánardags 1779. Þar segir m.a.: „Um hann [Magnús] hefur margt misjafnt verið sagt og ritað, enda var hann óvinsæll og sagður misindismaður, en ekki sést af dómabókum sýslunnar að hann hafi sætt opinberum ákærum eða verið dæmdur til refsingar, má því telja víst að ýmsar af sögum þeim er af Magnúsi gengu hafi fremur verið sprottnar af óvinsældum hans en illverkum. T.d. segir ein sagan þannig frá að Magnús hafi verið á ferð með síra Einari Illugasyni á Reynivöllum (d.1758), hafi Magnús ráðizt á prestinn, drepið hann og síðan rænt líkið miklu fé. Hið sanna um dauða prests er, að hann var í kaupstaðarferð og reið kófdrukkinn frá lest sinni og samferðarmönnum, síðan hafi hann fallið af baki í Svínaskarði og annar fótur hans orðið fastur í ístaði hnakksins og hesturinn dregið prest áfram. Þannig leikinn fannst prestur dauður (Sjá ennfr. Annál Sæmundar lögrm. Gissurarsonar). Um peningahvarf af líki síra Einars geta hvorki annállinn né aðrar samtímaheimildir.“ Út frá þessu má ráða að Dauðsmannbrekkur séu frekar nefndar eftir slysadauða prests frekar en illverkum Magnúsar. Ekki er þó hægt annað en að velta því fyrir sér hvers vegna Magnús hefur verið stimplaður sem illmenni og hvort einhver fótur var fyrir sögunum.

Getið er um Gvendarbrunn
„Gvendarbrunnur er í læknum er rennur vestan við þjóðveginn, móti Míganda,“ segir í örnefnaskrá. Gvendarbrunnur er sagður vera í lítilli lækjarsprænu um 1,65 km sunnan við bæ og 20-30 m NNA við Dys. Nákvæm staðsetning hans er ókunn. Lækurinn sem um ræðir er náttúrleg lækjarspræna sem rennur fast norðan og norðvestan við Dys og þaðan í norðaustur niður í Fossá. Lækurinn rennur í grýttum farvegi sem er ekki nema 0,2-0,5 m djúpur og 0,5-1,5 m breiður á þessum slóðum. Bakkar lækjarins eru grónir grasi, mosa og lyngi og mjög lágir. Vatnið er tært og svalandi. Ekkert sést til fornleifa.

Skorhagi (Múli)

Skorhagi

10 hdr. 1705. Eyðibýlið Þórkötlustaðir nefnt 1705. JÁM III, 441. Jörðin hét áður Múli og er Múla getið í máldaga Reynivallakirkju frá 1352. DI III, 70-71. Múla er getið í landnámu en þar bjó Refur hinn gamli sonur Þorsteins landnámsmanns í dalnum. Þar segir: „Hvamm-Þórir nam land millim Laxár ok Forsár ok bjó í Hvammi. Hann deildi við Ref um kú þá, er Brynja hét ok Brynjudalr er við kenndr; … Son Þórólfs smjors var Solmundr, faðir Þorsteins, þess er land nam í Brynjudal á millim Bláskeggsár ok Forsár; hann átti Þorbjorgu kotlu, dóttur Helga skarfs Geirleifssonar, er nam Barðastrond; þeira son var Refr í Brynjudal, faðir Halldóru, er átti Sigfús Elliða-Grímsson.“ ÍF I, 57, 59 (H18 og H19). Hannes Þorsteinsson: telur að jörðin hafi áður heitið Skorrhagi. HÞ:“Rannsókn og leiðrjettingar á nokkrum bæjanöfnum á Íslandi“ Árbók fornleifafélagsins 1923, 34. 1705: „Tún jarðarinnar brýtur Brynjudalsá. Engjunum spilla skiður, og hefur bærinn fluttur verið fyrir þann skuld, að skriður eyðilögðu hin fornu tún að ofan, en áin að framan.“ JÁM III, 442. 1840: „… hér er heyskapur lítill, en góður útigangur vetur og sumar.“ SSGK, 254. 1917: Tún 2,8 ha (meira en 1/2 þýft), garðar 729 m2. Í bókinni Ljósmyndir I eftir Halldór Jónsson segir: „Nokkrar umbætur hefur Júlíus [Þórðarson 1922-1951] gert á túninu í seinni tíð. Litlir matjurtargarðar eru í Skorhaga og hefir bú þeirra hjóna jafna verið lítið og mjög treyst á beit með sauðfje. Kýr hafa verið þar fáar.“
Gamli bærinn í Skorhaga er um 2 m norðan við nýlegt steinsteypt íbúðarhús á jörðinni, um 210 m norðan við Brynjudalsá og um 1,3 km vestan við Þrándarstaði. Samkvæmt Séra Gunnari Kristjánssyni á Reynivöllum lést síðasti bóndinn í Skorhaga árið 1992 og lagðist þá niður búskapur. Gamli bærinn stendur enn á grasigrónu sléttlendi umkringdur húsagarði og sléttuðum túnum. Í bókinni Ljósmyndir I eftir Halldór Jónsson segir svo um Skorhaga: „Vorið 1922 kemur að Skorhaga Júlíus bóndi Þórðarson … Í tíð þessara hjóna hefur verið byggð björt og hæfilega rúmgóð baðstofa, er það pallbaðstofa og allrúmgott eldhús við hlið hennar. Er þessi bygging með torfveggjum, en járnþaki, einnig hafa þau reist heyhlöðu litla með járnþaki [sjá 002]. Þeir feðgar hafa einnig reist geymsluhús úr timbri og fjárhús rjett við bæinn.“ Í Skorhaga standa tvö íbúðarhús á um 20 m löngu og um 15 m breiðu svæði sem snýr norður-suður. Enginn bæjarhóll er greinilegur en þó má vera að leifar af eldri bæjum leynist undir sverði á svipuðu svæði og núverandi íbúðarhús eins og lýsing í bók Halldórs Jónssonar gefur til kynna, þar sem útihús var áður. Hugsanlegt er að mikill bæjarhóll hafi ekki náð að myndast á þessum stað þar sem heimildir segja frá því að bærinn hafi áður verið innar en verið færður utar í dalinn eitthvað fyrir 1600 vegna skriðufalla. Svæðið í kring um íbúðarhúsin hefur mjög líklega verið sléttað. Húsið er timburhús á tveimur hæðum sem er um 6 m á lengd, um 5 m á breidd og snýr norður-suður.
Þetta hús er nú (2009) notað sem geymsla. Á jarðhæð voru 3 (-4) herbergi og 2 uppi á lofti undir súð. Húsið er bárujárnsklætt timburhús. Steinsteyptur skorsteinn er sunnan við ás í miðju þaki og er þakgluggi eða kvistur um 0,4 m vestan við skorsteininn. Gengið er inn að vestan við suðvesturhorn hússins. Dyr hafa einhvern tíma einnig á austurhlið rétt sunnan við miðjan vegg en þeim hefur nú (2009) verið lokað og bárujárn neglt yfir. Ekki var hægt að fara inn í húsið en því virðist skipt í 3 herbergi niðri og 2 uppi í risi. Stiginn upp á loft er í austurenda húss fyrir miðju. Samkvæmt Sigurlaugu Júlíusdóttur, heimildamanni, voru 5 herbergi á neðri hæð þegar hún bjó í húsinu. Samkvæmt henni voru á neðri hæð stofa, eldhús, búr inn af eldhúsi, geymsla/herbergi og klósett. Tvö svefnherbergi voru uppi á lofti og er kvistur á því vestara á meðan gengið er upp stigann inn í hið eystra. Dyr eru á milli herbergja í miðju húsi. Þarna sváfu 2-3 manns í tíð Sigurlaugar. Húsið er mjög illa farið og þarfnast viðhalds. Nákvæmt byggingarár er ekki þekkt en líklegast er hér ekki um fornleif að ræða þar sem lýsingin á bæjarhúsunum í Skorhaga í Ljósmyndir I eru frá árinu 1949 og eiga greinilega við eldri bæjarhús í Skorhaga nema grjótveggirnir hafi verið fjarlægðir og járn sett í staðinn á seinni hluta 20.aldar.

Sagt er frá tóftum sels í landi Skorhaga

Múlasel

Múlasel í landi Skorhaga.

„Vestur af klettum er Seldalsholt, og þar vestur af er Seldalur,“ segir í örnefnaskrá. Tvær ógreinilegar tóftir eru um 860 m VNV við bæ 001 og um 245 m norðaustan við Maríuhelli, fast suðvestur undir Seldalsholti. Á þessu svæði er frekar deigt graslendi. Um 4 m norðaustan og norðan við tóftirnar er um 1,5 m hár náttúrulegur grasigróinn bakki. Tóftirnar eru á um 30 löngu og um 20 m breiðu svæði í Seldal sem snýr austur-vestur. Tóft A er lítið annað en um 12 m langur og um 8 m breiður sporöskjulaga hóll sem snýr NA-SV. Hæð hólsins er 0,4-0,8 m. Engin greinanleg hólf eru greinileg í hólnum lengur. Um 20 m austan við tóft A undir náttúrulegum bakka er tóft B. Tóft B er einföld, um 5 m á breidd, um 7 m á lengd og snýr austur-vestur. Innanmál hennar er 3 m á lengd og um 2 m á breidd. Veggir hennar eru mjög signir og grónir. Breidd þeirra er 2-3 m og hæð þeirra 0,4-0,6 m. Norðurveggur tóftarinnar er náttúrulegur bakki. Enginn inngangur er sjáanlegur. Tóftirnar virðast mjög fornar.

Heimild:
-Fornleifaskráning í Kjósarhreppi II: Hurðarbak, Morastaðir, Eilífsdalur, Flekkudalur, Grjóteyri, Fremri Háls, Valdastaðir, Fossá og Skorhagi. Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2010.

Múlasel

Múlasel – uppdráttur ÓSÁ.