Gróðrarsaga hraunanna á Íslandi
Helga Jónsson skrifar um „Gróðrasögu hraunanna“ í Skírnir árið 19906:
„Gróðurinn á sína sögu, og gróðursaga hinna ýmsu landa og hafa er með ýmsum hætti, og mjög svo komin undir lífsskilyrðum þeim, sem fyrir hendi eru. Gróðrarsagan segir frá »landnámi« plantnanna og skýrir oss frá, hverjar tegundir ber fyrst að hinum beru landflákum, hvernig þær þróast og greiða götu þeirra tegunda, er síðar koma. Hún er í fám orðum: þróunarsaga hinna fjölbreyttu plöntufélaga, er byggja jörðina nú á dögum. Eitt af þessum atriðum er gróðrarsaga hraunanna, er nú má kalla nægilega kunna í öllum aðalatriðum. Hraunin verða til á þann hátt, að glóandi hraunstraumur rennur úr gígnum og yfir yfir landið umhverfis. Þá kólnar hraunið og storknar, og er lögunin á yfirborði hraunsins mest undir því komin, hvernig og hve fljótt það storknar. Eftir lögun yfirborðsins greina menn á Íslandi milli tvenns konar hrauna, er nefnd eru apalhraun og helluhraun. Apalhraunin líta út sem óskipulegar urðaröldur, en helluhraunin eru miklu sléttari og í þeim eru víða á allstórum spildum sléttar klappir eins og nafnið bendir á, en á milli óskipulegar dældir og geilar. Eru helluhraunin miklu gróðursælli en apalhraunin, meðfram af þeirri ástæðu, að vatnið á örðugra með að síga gegn um þau.
Nýrunnið hraun er með öllu eyðimörk og enginn gróður byrjar fyr en yfirborðið er storknað og kalt. Er hraunið þá mjög svo óvistlegur bústaður fyrir plöntur, því að þar er alls enginn jarðvegur. Háplöntum er því með öllu ómögulegt að nema þar land að svo stöddu. En bót er það í máli, þótt hraunið sé jarðvegslaust, að yfirborð steinanna er hrufótt. Er það alsett skörpum broddum, en á milli þeirra eru smáholur og skorur. Stormarnir á Íslandi þyrla venjulega upp ryki, staðnæmist það miklu fremur í hinu hrufótta yfirborði hraunklettanna en á sléttum blágrýtisklettum. Um síðir kemur og jarðvegur í hraunin; verður það með ýmsu móti, en tíðast er, að plöntugróðurinn sjálfur gerir jarðveginn og lágplönturnar greiða götu háplantnanna. Skal nú farið um það nokkrum orðum.
Fyrstu landnemar hraunanna verða að vera þannig gerðir, að þeir geti lifað á beru berginu, af því að enginn jarðvegur er þar fyrir. Ýmsar lágplöntur eru þannig gerðar, svo sem þörungar (algæ), fléttur eða skófir (lichenes) og sumar mosategundir. Þörungar eru þó fremur sjaldgæfir í hraunum og látum vér því nægja að nefna þá. Fléttur og mosar eru alstaðar í klettum, en venjulegast eru flétturnar þó frumbyggjar þar.
Ýmsar fléttutegundir eru alkunnar alþýðu á Íslandi, svo sem litunarmosi, geitaskóf, fjallagrös, hreindýramosi, tröllagrös o.s.frv. Fjallagrösin og hreindýramosinn vaxa þó ekki á klettum, en eru algeng í mosaþembum, einkum til fjalla. Litunarmosinn og geitaskófir eru algengar á steinum, en teljast þó ekki til frumbyggja hraunanna.
Fléttur þær, er fyrstar nema land í hraunum, eru að nokkru leyti svipaðar litunarmosa og er því líkast sem hvítar, gráar, gular, svartar eða grænleitar skorpur séu á klettunum á víð og dreif. Flétturnar (skófirnar) teljast til sveppanna, en eru þeim þó frábrugðnar að því leyti, að þær geta sjálfar unnið fæðu sína úr kolsýru loftsins. Þó er léttusveppurinn að því leyti líkur öðrum sveppum, að hann er ekki grænn, og getur því ekki, fremur en þeir, af sjálfsdáðum fætt sig af kolsýru loftsins. Til þess þarf hann hjálpar við og hana fær hann hjá örsmáum grænleitum þörungum, er hann þéttar sig utan um og innilykur þannig í sínum eigin líkama. Svo má að orði kveða, að fléttusveppurinn hafi þörungana í æfilöngu haldi eða þrælkun og hann lifir af þeirri fæðu er þær vinna úr kolsýru loftsins. Sjálfur þörungslíkaminn fær enga meinsemd af þrælkuninni, en þó geta þörungarnir ekki æxlast meðan þeir eru í haldinu. Þess konar viðbúð, sem hér ræðir um, köllum vér því þrælkun. Líkami fléttnanna er því samsettur af tveim tegundum, sem meira að segja teljast til mjög svo ólíkra plöntuflokka, það er að segja svepp og þörungi. Ef fléttusvepparnir hefðu ekki hina grænu þræla til að vinna fyrir sér, mundu klettar þeir, er þaktir eru hinum marglita fléttugróðri, vera svo að segja gróðurlausir, því að svepparnir gætu ekki búið þar hjálparlaust. Líkami flétta þeirra, er algengastar eru á steinum, er, eins og drepið hefir verið á, líkastur þunnri skorpu eða skóf á klettinum. Er sú líkamslögun hin hagkvæmasta fyrir plöntur á skjóllausum klettum.
Fyrir því er auðsætt, að fléttur eru mætavel til þess fallnar, að nema land í hraunum. En hvernig flytjast þær inn í hraunið? Um bert og nýstorknað hraun er auðvitað engin umferð, og svo mætti að orði kveða, að þar kæmi aðeins fuglinn fljúgandi; þó er mjög svo ólíklegt, að fuglar flytji frumbyggjana inn í hraunið, en það er eflaust vindurinn. Stormarnir þyrla upp jarðryki, sópa fræi og grói af plöntum, er vaxa umhverfls hraunið, og þeyta öllu saman yfir hraunflákana. Sérstaklega ber þess að gæta, að gró lágplantnanna eru svo lítil og létt, að ekki þarf hvassan vind til að feykja þeim í hraunið. Gró þeirra plantna, er geta búið á bergi, dafna og verða að fullorðnum plöntum, en gró eða fræ þeirra plantna, er þurfa jarðveg, deyja auðvitað á klettinum. Af þeim plöntum, sem vindurinn flytur í nýstorknað hraun, dafna því aðeins fléttur, mosar og ölgur, en allar háplöntur deyja, því að hraunið er jarðvegslaust. Þá höfum vér að nokkru lýst fléttunum, hversu þær eru fallnar til landnáms, og getið um, hvernig þær flytjast í hraunið; og skal nú drepið á gróðrarsöguna.
1. gróðrarstig. Fléttur og mosar á við og dreif. Á fyrsta gróðrarstiginu er hraunið tilsýndar. eins og það væri alveg nakið, en þegar komið er í sjálft hraunið, verðum vér þess fljótt varir, að marglitar smáskorpur eru á stangli hingað og þangað um nibburnar. Skorpur þessar eru fyrstu landnemarnir og teljast allar til fléttnanna. Auk þeirra vaxa þar og órfáar mosategundir, en þær finnast að eins í örsmáum holum á fleti hraunsteinanna. Meðal hinna fyrstu mosategunda er grámosinn, er síðar nær mjög mikilli útbreiðslu í hraununum; en á þessu stigi er að eins að sjá einstaka smátór milli hraunbáranna. Niðri í hraungjótunum finnast og nokkrar mosategundir, og teljast til skuggamosa, það er að segja mosategunda, sem ekki þrífast í skarpri birtu.
2. gróðrarstig. Mosapembur. Eftir því sem árin líða verða flétturnar tíðari og tíðari og þekja hraunnibburnar að meira eða minna leyti, og mosatórnar, er voru örlitlar í upphafi, og að eins milli hraunbáranna, breiðast út meir og meir og verða smáþúfur víðs vegar á klettunum; víða renna þær saman og þekja þá allstórar spildur. Að grámosanum kveður langmest allra mosa í hramnum og er hans fyr getið. Er hann einn meðal hinna allra algengustu mosa á íslandi og vex því nær alstaðar á steinum, í móum og jafnvel þýfðum mýrum. Mjög fljótt kemur það í ljós í hraununum, að grámosinn breiðist út miklu fljótara en aðrar mosategundir. Fyrst koma upp örsmáar tór milli hraunbáranna, eins og getið var, en því næst vaxa tórnar og verða að mosaþúfum, er breiðast út í allar áttir. Að síðustu renna þúfurnar saman, og verður þá samloðandi mosaþak yfir stór svæði. Það köllum vér mosaþembur.
Það er auðvitað fólgið í skapnaðarlagi grámosans, hve vel hann þrifst á þurrum klettum. Allflestir munu hafa tekið eftir því, að mosaþemburnar eru grænleitar í rigningatíð, en gráleitar þegar þurviðri ganga. Orsökin til litbrigðanna er sú, að loft kemst inn í plöntuna, er vatnið gufar upp. Hið innilukta loft hylur grænkornin og veldur þannig gráa litnum, en um leið er það einnig vörn fyrir mosann gegn of miklum þurki. En er votviðri ganga, sýgur mosinn í sig svo mikið vatn, að loftið hverfur, og er hann því grænleitur á að sjá. Þar við bætist og, að grámosanum (og mörgum öðrum mosategundum) er þannig háttað, að hann getur unnið fæðu sína úr kolsýru loftsins við lægra hitastig en háplönturnar. Fyrir því er auðsætt, að grámosinn er allra plantna bezt fallinn til að gera jarðveg í hraunum. Við aldurinn verður sú breyting á mosaþembunni, að neðsta mosalagið deyr smámsaman og fer að rotna, það er að segja: að breytast í jarðveg. Í þessum mosajarðvegi er ávalt nokkur raki, jafnvel þó langvinnir þurkar hafi gengið, því að efsta mosalagið, eða hin lifandi mosaþemba, ver hann gegn þurki. Þannig er mosaþemban farin að breytast í jarðveg. Mosinn á erfiðara uppdráttar eftir því sem jarðvegurinn eykst, og stenzt að lokunum ekki samkepnina við háplönturnar, er koma hópunum saman til að taka sér bústað í hinum nýja jarðvegi. Svo mætti að orði komast, að grámosinn gerir jarðveg í hraununum og útrýmir sjálfum sér um leið. Stór svæði í hinum gömlu hraunum hafa ennþá ekki náð lengra en á þetta stig.
3. gróðrarstig. Lyngheiði. Þegar er neðsta mosalagið fer að rotna og jarðvegur sezt í hraunið, fer það að verða byggilegt fyrir háplönturnar, enda fara þær þá að flytjast þangað. En áður en farið er frekara út í það efni, skal örlítið drepið á, hvernig háplönturnar komast í hraunið. Vér gátum þese áður, að það væri eflaust vindurinn, sem flytti lágplöntur í hraunið, og hiklaust má fullyrða, að vindurinn vinni einna mest að flutningi háplantnanna; en þó munu margar þeirra berast í hraunið með dýrum, og þar eru fuglarnir eflaust fremstir í flokki. Þess ber nefnilega að gæta, að þegar er mosaþemban er komin, er hraunið fært yfirferðar ýmsum dýrum, er á margan hátt geta flutt fræ háplantnanna með sér. Þess ber og að gæta, að hraunið gengur miklu meira í augu fuglanna eftir að mosagróðurinn er kominn, því þá hyggja þeir að þar sé björg að finna. Fuglar bera ýms fræ með sér og það einkum í maganum, en mörg fræ hafa fræskurn svo sterka, að ekki sakar að fara, um meltingarfæri dýranna. Sum fræ spíra jafnvel fljótar eftir slíkt ferðalag en ef þau hefðu setið kyr heima. Til dæmis má nefna að hrafnarnir éta krækiberin og flytja þannig fræin oft langar leiðir. Þótt hinn nýi jarðvegur sé rakur, er ekki svo að skilja, að þar sé lífvænt öðrum háplöntum en þeim, er eigi eru sérlega sólgnar i vatn, eða þeim, er hafa slíkan skapnað blaða, að þær geta temprað uppgufan vatnsins úr plöntulíkamanum. Meðal hinna fyrstu plantna, er koma í hinn nýja mosajarðveg hraunsins, eru því t. a. m. krækiberjalyng, móasef, axhæra, blásveifgras, sauðvingull, lógresi, bugðupuntur, geldingalauf, heiðastör o.fl. o.fl. Í fyrstu eru innflytjendur þessir fáir og dreifðir víðs vegar um mosaþembuna, einn og einn á stangli; en með tímanum fjölga einstaklingarnir og fleiri plöntutegundir setjast að. Brátt skipa plönturnar sér og í félög eftir þeim kröfum, sem þær gera til lífsins, og félög þessi taka þau svæði í hrauninu, er þeim henta bezt. Þannig eru t a. m. allstórar spildur þaktar venjulegum lynggróðri, er samsettur er af krækilyngi, bláberja- og aðalbláberjalyngi, sortulyngi, beitilyngi, fjallhrapa, grávíði o. þ. h., en á öðrum stöðum finnum vér grasgróður og vaxa þar hinar algengustu grastegundir, er jarðvegurinn þar og nokkru rakari en í lyngheiðinni. Þessi grastegundafélög eru vísir til grasgróðurs þess, er síðar skal getið. Sumstaðar má og sjá vísi til jurtastóðs.
4. gróðrarstig. A. Kjarrskógur. Smám saman fara að koma í ljós birkiplöntur hingað og þangað í lyngheiðinni, og eftir því sem árin líða og jarðvegurinn eykst, dafnar birkið betur og betur og verður að lokum kjarrskógur. Sé birkið ekki skemt með fjárbeit eða skógarhöggi, má óhætt fullyrða, að víða kemur fram reglulegur skógur samsettur af trjám með beinum, óklofnum stofni. Innan um birkið vex reynir, grávíðir og gulvíðir, og eru þá tegundir þessar venjulega svipaðar birkinu að þroska. Hafa hraun þessi eflaust verið skógi vaxin í landnámstíð, þó þess sé ekki beinlínis getið í sögunum, að því er mér er kunnugt. Skóginn ber að skoða sem endatakmark að því er snertir gróðrarþróun á stórum svæðum í hraununum, því að öðrum plöntufélögum veitir mjög svo örðugt samkepni við skóginn. Rætur trjáa og runna liggja svo djúpt í jörðu, að aðrar plöntur geta öldungis ekki kept við skóginn að því er næringarefni jarðvegsins snertir, og eigi skaðar það skóginn hið minsta, þótt skógarjarðvegurinn sé alvaxinn lyngi eða grasi, því að þessar plöntur taka næringarefni úr hinum efstu lögum iarðvegarins. Annað mál er það, að þéttur undirgróður í skógi getur verið skaðlegur fyrir kímplöntur bjarkarinnar og fyrir ungt birki yfirleitt. Þá gnæfir skógurinn og hátt yfir önnur plöntufélög og er því miklu betur settur að því er sólarbirtu snertir, en án sólarljóssins geta grænar plöntur ekki lifað. Það er því augljóst að skógurinn er einvaldur um langan aldur þar, sem hann einu sinni er kominn, ef loftslag breytist ekki honum til skaða og ef engin óhöpp vilja til. En óhöpp teljum vér, skoðað frá sjónarmiði skógarins, skógarhögg, beit og yfirleitt allar árásir, er skógurinn verður fyrir af óðrum eða öðru en keppinautunum.
B. Jurtastóð, graslendi. Þar sem nægilegt vatn er og hagkvæmt skjól kemur sérstakur gróður, er vér köllum jurtastóð; í því plöntufélagi eru blómjurtir (þ. e. jurtir með stórum litfögrum blómum) og burknar yfirgnæfandi, en auk þeirra vaxa þar ýmsar grastegundir. Á endanum mun oftast svo fara, að blómjurtunum fækkar meir og meir, en grastegundum fjölgar að því skapi, og að lokunum breytist jurtastóðið í graslendi. Meðan jurtastóðið er upp á sitt hið bezta, eru blómjurtirnar venjulega mjög þroskamiklar, en eftir því sem grösin ná meiri og meiri yfirráðum, verða þær þroskaminni. Baráttan milli grastegundanna og blómjurtanna getur verið langvinn, en óefað má fullyrða, að grastegundirnar sigra að lokum, enda standa grastegundir betur að vígi en margar aðrar jurtir, sökum hinnar kynlausu æxlunar.
Graslendið er fremur sjaldgæft í hraunum, og það er oss einkum kunnugt frá helluhraununum t. a. m. Búðahrauni, Kapelluhrauni og Afstapahrauni. Til þess að grasgróður geti þrifist er nauðsynlegt að regnvatnið hripi ekki niður úr hrauninu, og er því ofur eðlilegt, að helluhraun hafi helzt graslendi. Í Búðahrauni var grasgróðurinn yfirleitt samsettur af þessum fjórum tegundum: snarrótarpunti, túnvingli, hálíngresi og bugðupunti, en auk þeirra voru ýmsar aðrar tegundir strjálar hingað og þangað í graslendinu. Auðvitað hittum vér og graslendi í apalhraunum, en þó ekki fyr en þau eru alþakin jarðvegi.
Þetta voru aðalatriðin í gróðrarsögu hraunanna, en þó á ekki hvert hraun þessa gróðrarsögu, því að hraun til fjalla komast ekki lengra en á annað gróðrarstigið, það er með öðrum orðum: mosaþemban heldur áfram að ríkja yfir fjallhraunum, meðan loftslag ekki breytist. Það sem vér höfum sagt um gróðrarþróun hraunanna á því sérstaklega við hraunin á láglendinu, en þó skal þess getið, að hraun á yztu annesjum komast ekki lengra en á þriðja gróðrarstigið, það er að segja, þau verða ekki skógivaxin.
Þá verður og fyrir oss sú spurning: hve langan tíma þarf hraunið til að verða skógi vaxið? Þeirri spurningu getum vér ekki svarað að svo komnu, en þó er það kunnugt, að hraun á láglendi verða fyr þakin gróðri en hraun til fjalla, og orsakast það mest af því, að heitara er á láglendi en í fjöllum. Það er augljóst, að það er ekki komið undir aldri hraunsins, hve fljótt það grær upp, heldur undir þeim lífsskilyrðum, sem fyrir hendi eru. Það eitt getum vér þó sagt, að hraunin þurfa margar, margar aldir til að gróa upp.
Vér gátum þess þegar í byrjun, að jarðvegurinn kæmi með ýmsu móti í hraunin, en tíðast væri að plöntugróðurinn hefði mest að segja í því efni. Nú höfum vér skýrt frá, hvernig plönturnar gera jarðveginn og vér gátum þess og, að þær þyrftu margar aldir til þess starfa, en stundum getur jarðvegur komið í hraunin á tiltölulega stuttum tíma; á það sér einkum stað þar sem sandfok er eða öskufok. Vindurinn feykir sandi, jarðryki og ösku í hraunið, smám saman fara glufur, gjótur og hraunbollar að fyllast og að lokunum hverfa jafnvel hæstu hraunstrýturnar í sandinn. Þá fara plöntur smámsaman að taka sér bústað í sandinum, og víða grær hann upp að lokum. Á þann hátt geta meðal annars komið upp rýrar graslendur eða lynggróður. Sandfyltu hraunin eiga í aðalatriðunum sömu gróðrarsögu og venjuleg sandjörð og skal því ekki farið frekara út í hana hér. Sandfylt hraun má finna á Reykjanesskaganum.“
Heimild:
-Skírnir, 80. árg. 1906, bls. 150-160.