Ísólfsskálahraun – gat
Erling Einarsson, áhugasamastur Grindvíkinga að leita að áður ófundnu, helst stöðum, sem enginn hefur áður stigið niður fæti, rakst nýlega á lítið, nýmyndað, gat í sléttu hrauni skammt austan Ísólfsskála. Það þarf góða sjón, athyglisgáfu og kunnugleika til að geta greint svo lítið gat í víðfeðminu. Hann var reyndar með FERLIRshúfu umrætt sinn – og af Skálafólkinu [r]unninn.
Í einni FERLIRsferðinni fyrir skemmstu var m.a. hugað að gatinu. Það er í þunnri hraunhellu eldra hraunsins, sem þarna er. Nýrra hraunið hefur verið nefnt Skollahraun, en Skálinn er á því eldra, líklega frá fyrra hlýskeiði. Það hraun mætti þess vegna nefna Ísólfsskálahraun, sbr. Krýsuvíkurhraun og Herdísarvíkurhraun austar.
Nú var ferðinni sérstaklega beint að þessu gati, sem var um fet í ummál. Þegar priki var stungið niður nam það botn á u.þ.b. metersdýpi, en hvergi var fyrirstöðu að finna innar. Gaf það von um umferðarvæna rás.
Eftir að hafa stækkað gatið nægilega með járnkarli til þess að maður gæti komist niður hófst könnun undirheima Skálans. Hafa ber í huga að áður hafa áhugaverðir og sérstakir hellar fundist í námunda við Ísólfsskála. Einn þeirra var um tíma í túninu austur af gamla bænum, sunnan þess nýja, en fyllt var í opið undir lok síðustu aldar. Erling telur sig þó vita hvar það er og gæti gengið að því ef á þyrfi að halda. Mokstur og annað jarðrask þyrfti þó eðlilega samþykkis viðkomandi. Þá er stutt að minnast hellis þess, sem kom í ljós við gerð nýja Ísólfsskálavegar (Suðurstrandarvegar – það virðist alltaf þurfa að nefna örnefnin eitthvað annað þegar nýtingin verður önnur, sbr. orðið Háaleiti þar sem nú er Keflavíkurflugvöllur [Kevlavik International airport eða Reykjavik airport eins og gefið er í skyn víða í útlenskum flughöfnum.
En það þarf þó ekki alltaf útlendinga til]. Örnefnið Háaleiti var þar sem núverandi íbúðarbyggð á vallarsvæðinu er nú. Á Háleiti var Kalka, sem síðar fór undir flugvöllinn. „Útlenskir“ Íslendingar, sem annað hvort hafa ekki kynnt sér örnefnin, sem fyrir voru, á svæðinu, nenna því ekki eða hafa ekki áhuga á því, datt í fyrstu í hug hug að nefna svæðið Sólarhæðir, sbr. þegar Selbrekku var breitt í Sólbrekku norðan Seltjarnar (sem reyndar hét Selvatn). Nýjasta tilraunin er að nefna Háaleitissvæðið Vallarheiði, sem á þá væntanlega að mynna á notkun þess fyrir breytingu. Segja má að þarna sé Keflvíkingum, mörgum hverjum, vel lýst, sem og viðhorfi þeirra til sögu og menningar svæðisins.
Jæja, aftur að hellinum við nýja Ísólfsskálaveginn. Þar rak gröfumaður arminn niður úr þunnri skel og við blasti hyldýpi. Í ljós koma geymur, sem hafði myndast eftir að ísstykki er bráðnað hafði úr jökli, sennilega frá því í lok síðustu ísaldar. Áður hafði stykkið umverpst ösku og gjósku og því ekki náð að bráðna fyrr en ofur hægt og á löngum tíma. Það var ekki fyrr en gröfumaðurinn mætti á svæðið að það opinberaðist,
Ofar er Slaga. Í henni eru elstu ummerki bergmyndunar á Reykjanesskaganum, jökurispuð innskot frá fyrri hlýskeiðum.
Og þá aftur að litla opinu í Ísólfsskálahrauni. Þegar stigið hafði verið fyrsta sinni niður á hellisgólfið reyndi myrkrið að villa sýn. Þetta var lítið skref, en stórt í sögu FERLIRs. Sigur myrkursins þarna um 20 alda skeið stóðst ekki opinberunina. Í ljós kom tómarúm í umlykjandi hrauninu. Það var þó ekki komið af engu því augljóst var að þarna hafði glóandi kvika streymt um við myndun hraunsins eftir að yfirborð þess hafði náð að storkna. Þegar fóðuröflunin fór þverrandi rann innkoman hægt áfram undan hallanum uns hún stöðvaðist við hlið samafurðum hennar, undir og yfir. Þótt „hellirinn“ sé ekki stór á hraunhellamælikvarða landsins er hann að mörgu leyti „læsilegri“ en margir stærri bræður hans. Og vegna þess hversu loftið er þunnt má víða sjá rætur ofanágróðursins liggja niður úr loftinu. Að vísu liggur þröng rás úr hellinum til suðvesturs, en ekki var aðstaða til að fylgja henni eftir að þessu sinni.
Erfitt var um myndatökur þarna niðri vegna móðu er fyllti hellinn bæði fljótt og vel, enda væntanlega kærkomin tilbreytni.
Frábært veður.