Tag Archive for: dysjar

Þinghóll

Árið 1996 birtist í Lesbók grein um morð við Skötufoss í Elliðaám árið 1704. Sakborningarnir, Sigurður Arason og Steinunn Guðmundsdóttir voru teknir af lífi á Kópavogsþingi sama ár. „Fornleifarannsókn var gerð á svonefndum Hjónadysjum við Kópavogslæk 1988 og eru hér leiddar líkur að því að þar hafi fundist jarðneskar leifar Steinunnar og Sigurðar.

Þinghóll

Þinghóll.

Fyrir nokkru var ágæt frásögn í Lesbók Morgunblaðsins eftir Helga M. Sigurðsson um gamalt morðmál frá 1704. Tildrög málsins voru þau að Sæmundur Þórarinsson, sem bjó í Árbæ ásamt 44 ára gamalli konu sinni, Steinunni Guðmundsdóttur, móti Sigurði Arasyni, 26 ára gömlum manni, og móður hans, fannst þann 22. september 1704 látinn í Elliðaá. Skömmu síðar vaknaði grunur um að hann hefði verið myrtur og við yfirheyrslur hjá Paul Beyer landfógeta játaði Sigurður að hafa myrt Sæmund að undirlagi Steinunnar. Þau Steinunn voru tekin af lífi á Kópavogsþingi sama ár. Henni var drekkt í Kópavogslæk og hann var hálshöggvinn. Í Vallaannál er þess jafnframt getið að höfuð Sigurðar hafi verið sett á stöng við gröf hans. Mál þeirra hefur orðið kveikja að draugasögu í nokkrum gerðum og er afturgangan ýmist nefnd Selsmóri, Sviðholtsdraugur eða Þorgarður.

Kópavogur

Kópavogur – herforingjaráðskort.

Í niðurlagi fyrrnefndrar Lesbókargreinar segir að annað sé ekki vitað um afdrif þeirra Steinunnar og Sigurðar en talið að grafir þeirra hafi fundist við vegagerð á fyrri hluta aldarinnar. Verður hér reynt að bæta nokkru við þá frásögn.
Munnmæli og sagnir um dysjar þeirra sem teknir voru af lífi á Kópavogsþingi hafa jafnan fylgt svæðinu og sést enn móta fyrir dys við gamla veginn sem liggur frá Kópavogslæk upp Arnarnesið sunnan læksins.
Frásagnir um beinafundi sem taldir hafa verið úr sakamannadysjum hafa einnig minnt á aftökurnar. Nokkrum sinnum hafa t.d. mannabein fundist í grennd við Gálgakletta í Garðabæjarhrauni. Þá er, eins og áður er getið, til frásögn um að vegagerðarmenn hafi árið 1938 fundið höfuðkúpu með miklu hári við Kópavogslæk og aðra beinagrind höfuðlausa. Þessi bein munu hafa verið sett aftur á sinn stað, en ekki var fundarstaðurinn staðsettur neitt nánar.

Kópavogur

Þinghóll – dysjar.

Í þessari grein, sem er stytt útgáfa greinar sem birtast mun í næsta hefti tímaritsins Landnám Ingólfs, er sagt frá fornleifarannsókn sem gerð var á svonefndum Hjónadysjum við Kópavogslæk vorið 1988 í sambandi við breikkun Hafnarfjarðarvegar. Leitt er að því líkum að þar hafi fundist jarðneskar leifar Steinunnar og Sigurðar.
Fyrir rannsókn sást dálítil þúst í krikanum milli Hafnarfjarðarvegar og Fífuhvammsvegar sem talin var vera dys. Fyrirsjáanlegt var að nýi vegurinn hlyti að fara yfir hana að hluta eða öllu leyti. Auk greinarhöfundar unnu fornleifafræðingarnir Sigurður Bergsteinsson og Lise Bertelsen við rannsóknina.
hjonadysjar-1Við rannsókn komu fyrst í ljós tvær smásteinahrúgur rétt undir yfirborði, um 3 x 1,5 m að ummáli hvor um sig, og var um 1 m á milli þeirra. Hér voru greinilega fundnar tvær grafir sem í upphafi höfðu verið þaktar steinhnullungum. Í efri lögunum voru margar smávölur sem vegfarendur hafa kastað í dysina um leið og þeir áttu leið framhjá, en samkvæmt gamalli þjóðtrú var það talið geta komið í veg fyrir óhöpp að henda þremur steinum í dys þegar farið var framhjá henni í fyrsta sinn.

Arnarnes

Litla-Arnarnes- bæjarstæði.

Undir neðsta steinalaginu var beinagrind og vantaði á hana höfuðkúpu og þrjá hálsliði. Hendur lágu yfir magann. Fætur voru krosslagðir. Gröfin, sem lá frá norðvestri til suðausturs, var 1,62 m löng og um 0,7 m þar sem hún var breiðust, mjókkaði til austurs og var um 0,4 m breið til fóta. Hún hafði upphaflega verið grafin niður um hálfan metra.

Fyrstu dauðadómar sem heimildir eru til um frá Kópavogsþingi, og sem jafnframt eru elstu rituðu heimildir um þingstaðinn, er frægur tylftardómur frá 1. júní 1523 yfir Týla Péturssyni. Týli sem var fyrrverandi hirðstjóri á Bessastöðum, hafði tvívegis snúið aftur til Bessastaða, tekið hirðstjórann Hannes Eggertsson til fanga um skeið, rænt fé úr Bessastaðakirkju og sköttum konungs. Eftir að hann hafði verið tekinn fastur og dæmdur var hann leiddur „austur yfir Bessastaði“ þar sem hann var hálshöggvinn ásamt syni sínum, þar sem kallaðist Týlshóll síðan.
hjonadysjar-2Greinarhöfundi er ekki kunnugt um legu Týlshóls. Af orðalagi heimilda má ætla að hann hafi verið í túni austan Bessastaða, en þar er ekkert slíkt örnefni varðveitt. Líklegra má telja að þeir feðgar hafi verið teknir af lífi á Kópavogsþingstað og dysjaðir þar. Hinrik Kules var þýskur maður sem dæmdur var til dauða og tekinn af lífi á Kópavogsþingstað, þann 23. febrúar árið 1582, fyrir að hafa drepið Bjarna Eiríksson á Bessastöðum á jólanótt. Talið hefur verið að Kules hafi verið dysjaður efst á Arnarneshæð, vestan við gamla veginn og mun þar lengi hafa mótað fyrir gróinni dys. Árið 1664, þann 25. janúar, var Þórður Þórðarson dæmdur til dauða í Kópavogi fyrir þjófnað á verslunarvarningi. Systir hans Guðrún kærði dóminn á Alþingi 1665. Í athugasemd með afskrift af dómnum sem færður er í alþingisbók 1666 kemur fram að Þórður hafi verið hengdur.
Í desember 1677 voru maður og kona dæmd fyrir sams konar afbrot. Árið 1703 voru tveir flökkuþjófar dæmdir til dauða og hengdir. Að lokum er þess getið að Sigurður Arason og Steinunn Guðmundsdóttir hafi verið dæmd og tekin af lífi á Kópavogsþingi árið 1704.
Ekki hef ég fundið fleiri heimildir um dauðadóma sem framfylgt hefur verið á Kópavogsþingstað en þessa 10 einstaklinga sem hér voru taldir upp að framan.
Kópavogsþingstaður var fluttur til Reykjavíkur árið 1753 og þá er hlutverki hans lokið. Eftir því sem næst verður komist virðast að minnsta kosti 4 karlmenn hafa verið hálshöggnir og 4 hengdir á þeim tíma sem þingstaðurinn var í notkun. Ein kona virðist hafa verið hengd og einni var drekkt.
Enda þótt það komi ekki fram af fornleifafræðilegum rökum, má telja líklegast að konunni hafi verið drekkt í Kópavogslæk.
Breikkun Hafnarfjarðarvegar við Kópavogslæk og rannsókn á dysjunum þar hefur orðið til þess að rifja upp fornt sakamál.

Heimild:
-Laugardaginn 23. mars, 1996 – Lesbók Morgunblaðsins, bls. 6-7, eftir Guðmund Ólafsson.

Kópavogur

Kópavegur – Þinghóll og nágrenni skv. fornleifaskráningu Kópavogs.

Stóra-Eldborg

Í Krýsuvíkurlandi, skammt ofan Kerlingahvamms undir Geitahlíð, eru þrjár dysjar, ýmist nefndar Kerlingadysjar, Smaladysjar og Hundadysjar, Krýsudys og Dísudys.

Kerlingadalur

Dysjar Herdísar (Dísu) og Krýsu ofan Kerlingahvamms. FERLIRsfélagar mættir á vettvang.

Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar (aðalheildarmaður; Ólafur Þorvaldsson og Krýsuvíkurbræður synir Guðmundar í Krýsuvík, aðallega tveir; voru fluttir til Hafnarfjarðar, annar bjó á Holtsgötu ?, en hinn í Þorgeirstúni. Unnið á milli 1960–70) er dysjanna getið sem og leiðina að þeim frá Krýsuvík: „Alfaraleið austur á allbreiða mela ofan Bleiksmýrar. Þar nefndust Breiðgötur. Er austar dregur liggja þær alveg neðst við Geitahlíðarskriður.

Stóra-Eldborg

Stóra-Eldborg. Deildarháls er ofan hennar.

Hér blasir Eldborgin við Stóra-Eldborg. Milli hennar og Geitahlíðar er skarð, nefnt Deildarháls. Þegar komið er fram úr skarðinu blasir við Hvítskeggshvammur er skerst inn og upp í Geitahlíðina. Þá blasir við hraunbunga með smá strýtum á. Þarna eru Dysjarnar.

Dysjar Herdísar og krýsu

Dysjar Herdísar, Krýsu og smalans neðst í Kerlingadal.

Þarna mættust þær eitt sinn þær maddömurnar. Krýsa úr Krýsuvík og Herdís úr Herdísarvík með smölum sínum og hundum þeirra. Deildu þær um beit, veiði í Kleifarvatni og fleira. Urðu báðar reiðar. Drap þá Dísa smalamann Krýsu. Krýsa drap þegar í stað hinn smalann. Þá sló í svo harða brýnu milli þeirra og heitingar, að báðar létur þarna líf sitt og hundarnir. Síðan eru þarna Kerlingadysjar, Smaladysjar og Hundadysjar, Krýsudys og Dísudys. Neðan við bunguna er Kerlingahvammur.“

Í þjóðsögunni um Herdísi og Krýsu í Þjóðsagnasafni Jóns Árnasonar segir:

Herdís og Krýsa

Kerlingadysjar Herdísar (Dísu) og Krýsu, auk smalans fremst. Þjóðleiðin lá milli dysjar smalans og kerlinganna.

Þórir haustmyrkur nam Selvog og Krýsuvík. Það hefir verið seint á landnámstíð, því fjölbyggt hefir verið orðið syðra eftir þeirri sögn að fátækt fólk hafi flakkað í Selvog bæði utan með sjó og sunnan yfir fjall.

Dysjar

Dysjar Herdísar og Krýsu við götuna um Kerlingadal.

Það þótti Þóri illt og setti því grindarhlið læst í Grindaskarð, en annað í skarð það sem farið er úr Grindavík upp á Siglubergsháls. Þar af skulu þessi örnefni vera dregin: Grindaskarð og Grindavík. –

Það er naumast annað en getgáta að Krýsa og Herdís hafi verið dætur Þóris haustmyrkurs; þó hefir það verið sagt.

Krýsa bjó í Krýsuvík, en Herdís á Herdísarvík. Þær deildu um landamerki milli sín. Vildi Krýsa eiga Geitahlíð alla og væru landamerki í stóran stein er stendur í hrauninu fyrir austan hlíðarhornið. Herdís vildi eiga út á Deildarháls. Hann er nokkuð vestar en undir miðri Geitahlíð og hefir spúð eldi því í honum er gígur ekki alllítill, og úr honum hefir runnið hraun það er Klofningur heitir eða Klofningar.

Herdís og Krýsa

Dysjar Herdísar og Krýsu. Eldborg fjær. Hér má sjá friðlýsingarskilti, sem nú er horfið.

Þar hittust þær og deildu þar til báðar heittust, og eru dysjar þeirra á hrygg nokkrum undir hlíðinni skammt fyrir austan hálsinn. Má geta til að Herdís hafi gengið þangað undan, því henni veitti miður þó hvorug hefði vel.

Þangað til hafði veiði mikil verið í Kleifarvatni í Krýsuvíkurlandi og tjörnin í Herdísarvík stararflóð og silungapollur í miðjunni.

Herdísarvíkurtjörn

Herdísarvíkurtjörn.

Herdís mælti svo um að allur silungur í Kleifarvatni skyldi verða loðsilungur óætur.

Þá lagði Krýsa það á að tjörnin í Herdísarvík skyldi éta sig út og eyða úr sér störinni og brjóta bæinn, en allur silungur skyldi verða að hornsílum. Það skyldi og fylgja að tvær skipshafnir skyldu í henni drukkna.

Herdísarvík

Herdísarvík – gamli bærinn undir Búrkletti.

Þetta gekk allt eftir. Bærinn Herdísarvík stóð áður undir Búrkletti, en tjörnin gróf undan honum grundvöllinn svo hann varð að flytja úr stað og einn vetur sem oftar var tjörnin lögð með ís, þá komu sjómenn frá skipum (þau voru tvö) og gengu tjörnina, en ísinn brast og allir drukknuðu. Og enn er varazt að ganga hana þó hún sé lögð. Svo fór um landamerkin sem Krýsa vildi og heitir nú kletturinn Sýslusteinn.“

Heimildir:
-Örnefnalýsing Gísla Sigurðssonar fyrir Krýsuvík.
-Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar.

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

Þorgautsdys

Í uppgraftarskýrslu um „Dysjar hinna dæmdu – uppgröftur á Þorgauts-/Þorgarðsdys á Arnarnesi„, sem fram fór árið 2019, má t.d. lesa eftirfarandi:

Útdráttur

Dysjar hinn adæmdu

Forsíða „Dysja hinna dæmdu II“.

Grafið var í meinta dys, Þorgautsdys/Þorgarðsdys, á Arnarnesi í Garðabæ í júlí 2019. Uppgröfturinn var hluti af rannsóknarverkefninu „Dysjar hinna dæmdu“. Markmið uppgraftarins var að ganga úr skugga um hvort um dys væri að ræða. Eftir að grjóthrúgan var afhjúpuð og grafnar í hana fjórar könnunarholur sem náðu niður á jökulruðning var ljóst að í henni voru engar mannsvistarleifar. Því var ályktað að ekki væri um dys að ræða heldur geti grjóthrúgan hafa verið landamerki eða orðið til við túnhreinsun og að þjóðsaga hafi spunnist út frá henni.

Forsaga rannsóknar
„Markmið verkefnisins er að leita þeirra einstaklinga sem teknir voru af lífi frá 1550–1830 hérlendis. Þá er markmiðið að skrá þá staði þar sem aftökurnar fóru fram og leita beina eða dysja á þeim. Með því að grafa upp suma þeirra má varpa frekara ljósi á heilsufar líflátinna, klæðnað þeirra, grafarumbúnað og aðferðir við aftöku. Loks verða aftökurnar settar í sögulegt samhengi með tilliti til veðurfars og stjórnarhátta. Dysin sem hér er fjallað um hefur ýmist verið kölluð Þorgarðsdys og Þorgautsdys en talið var að þar væri dysjaður afbrotamaður sem tekinn var af lífi á Kópavogsþingi.

Þorgautsdys

Þorgautsdys – loftmynd.

Dysin er nefnd í Landamerkjalýsingu fyrir þjóðjörðinni Arnarnesi í Garðahreppi sem Gísli Sigurðsson skráði. Þar er einnig vitnað í Landamerkjabók Gullbringu- og Kjósarsýslu. Þar segir: „Inn með Nesinu að norðan liggur að því Kópavogur. Inn með nesinu eru nokkrir stórir steinar í fjörunni, nefnast Bæjarsteinar, af hverju sem það nú er. Nokkru þar fyrir innan, spöl uppi í holtinu, er Gvendarbrunnur, lind sem Guðmundur biskup góði á að hafa vígt. Frá brunninum rennur Brunnlækurinn til sjávar. Þar enn innar með fjöru er svo Arnarneskot, Arnarnes gamla eða Arnarnes litla. Ofan til við það er dys, nefnist Þorgautsdys. Þar var réttaður þjófur, og gekk hann mjög aftur og var lengi á ferli í Seltjarnar- og Álftaneshreppum.“

Þorgarðsdys

Þorgarðsdys.

Gísli telur að Þorgautur, sá sem dysin hefur gjarnan verið kennd við, hafi verið þjófur sem var réttaður. Nafnið Þorgautur kemur þó hvorki fram í Alþingisbókum né Annálum Íslands 1400-1800 í tengslum við aftökur. Hins vegar er vitað að fjölda dauðadóma, fyrir hin ýmsu brot, var framfylgt á Kópavogsþingi og því ekki ólíklegt að dysjar sakamanna sé að finna á þessu svæði. Ekki langt frá dysinni sem hér um ræðir gróf Guðmundur Ólafsson upp svokallaða Hjónadys árið 1988 og fann þar beinagrindur karls og konu sem greinilega höfðu verið tekin af lífi (Guðmundur Ólafsson 1996). Raunar eru fleiri meintar dysjar afbrotamanna í Kópavogi og nefnir Gísli Sigurðsson tvær dysjar auk Þorgautsdysjar, þ.e. Kulhesdys og Þormóðsdys: „Þarna liggur um holtið Hafnarfjarðarvegurinn. Á háholtinu vestan hans er stór þúfa, og liggur alfaraleiðin rétt hjá. Hér er Þormóðsleiði eða Þormóðsdys. Enn vestar er svo Kulhesleiði eða Kulhesdys. Þormóður var dæmdur á Kópavogsþingi til lífláts fyrir þjófnað, en Kulhes, þýzkur maður, dæmdur þar fyrir mannvíg. Vó mann, íslenzkan, á Bessastöðum.“
Þorgautsdys
Í grein sinni „Nokkrar Kópavogsminjar“, sem birtist í Árbók Hins íslenzka fornleifafélags árið 1929, tekur Matthías Þórðarson Þuríði Guðmundsdóttur Mathiesen tali árið 1926 en hún var fædd árið 1855 í Kópavogi og uppalin þar til 19 ára aldurs (Matthías Þórðarson, 1929, bls. 29).

Garðabær

Þorgarðsdys í Arnarnesi.

Þuríður nefnir áðurnefnda dys og kennir hana við mann að nafni Þorgarður sem getið er um í þjóðsögum. Matthías veltir fleiri tilgátum fyrir sér en telur í öllu falli líklegast að hún sé dys afbrotamanns: „Neðar [en Kulhesdys], á norðanverðum hálsinum. Kvað hún vera dys Þorgarðs, sem svo miklar þjóðsögur gengu um, sbr. Þjóðs. Jóns Árnas., I, 388-91. Mun sú dys þó frá fyrri tímum en Þorgarður á að hafa verið á, eftir þjóðsögunum. Annars er svo að sjá að sumt í þeim, einkum frásögnin um glæp þann er Þorgarður á að hafa verið drepinn fyrir, stafi frá máli Sigurðar á Árbæ. En hvað sem um það er, þá er líklegast að þessi dys sé yfir einhverjum, sem hafi verið líflátinn hér skammt frá eftir dómi á Kópavogsþingi.

Arnarnes

Litla-Arnarnes- bæjarstæði.

Ögmundur skólastjóri Sigurðsson hefir sagt mér, að Filippus heitinn Filippusson, sem ólst upp í Arnarnesi, hafi skýrt svo frá, að þetta væri dys Steinunnar frá Árbæ. Ekki er það fortaksmál, þótt það komi ekki heim við frásögn Þuríðar. Dysin er úr grjóti og allstór. Að norðanverðu hefir henni verið rótað mikið upp, fyrir nokkrum árum, og kann þá að hafa verið tekið nokkuð grjót úr henni. Hún er að austanverðu við gamla veginn, skammt suður frá Litla-Arnarnesi, er Þuríður kvað svo heita.“ (Matthías Þórðarson, 1929, bls. 30).
Þorgautsdys/Þorgarðsdys er auk þess skráð í skýrslunni Fornleifaskráning Arnarnes í Garðabæ frá árinu 2018 eftir Ragnheiði Traustadóttur. Þar er oft vitnað í báðar fyrrnefndar ummfjallanir. Í skráningarskýrslunni eftir Ragnheiði segir einnig að Guðmundur Ólafsson hafi skráð staðinn árið 1983 fyrir Þjóðminjasafn Íslands og talið að um Þorgarðsdys væri að ræða. Skýrsla um skráningu Guðmundar var aldrei gefin út en gögnin nýttust við skráninguna árið 2018. Ragnheiður skráði Þorgautsdys/Þorgarðsdys sem dys eða legstað og sagði hana líklegri til að vera dys en hinar tvær, Þormóðsdys og Kulhesdys, vegna þess að staðsetning þeirra í fyrri skráningu virðist vera tóft og fuglaþúfa.“

Niðurstaða
Þorgautsdys
„Eftir að komist var niður á jökulruðning í öllum fjórum holunum sem grafnar voru í grjóthrúguna, án þess að leifar dysjaðrar manneskju hefðu fundist, var áætlað að hér væri ekki um dys að ræða. Þrátt fyrir að það hafi verið örlítil vonbrigði er það áhugaverð útkoma.

Arnarnes

Gamla þjóðleiðin frá Kópavogi yfir Arnarnesháls. Litla-Arnarnes t.v.

Þessi grjóthrúga hefur verið talin vera dys síðan vel fyrir aldamótin 1900, ef marka má frásögn Þuríðar Guðmundsdóttur Matthíansen: „Vert er að nefna það að fyrir nokkrum árum síðan var lagður hjólastígur yfir Arnarneshæðina og niður í Kópavog en hann var sveigður fram hjá dysinni. Ef til vill getur þessi grjóthrúga hafa myndast eftir túnhreinsun og út frá henni spunnist þjóðsaga um Þorgaut/Þorgarð. Venjan var að landamerki eins og vörður væru nálægt þjóðleiðum og að ferðalangar bættu við grjóti í þær á leið sinni fram hjá. Það sama átti við um dysjar sem hafðar voru nálægt alfaraleið til áminningar og viðvörunar. Því getur verið að upphaflega hafi hrúgan verið landamerki eða myndast eftir túnhreinsun og síðan hafi steinum verið bætt á af ferðalöngum árum saman og þannig orðið til þessi stóra sennilega hrúga.“
[Framangreind niðurstaða þarf ekki að koma svo mikið á óvart; nánast engin kum eða dysjar, sem getið er í lýsingum Íslandsbyggðar hvað fyrrum landnámsmenn varðar, hafa átt við rök að styðjast hingað til].

Heimild:
-Dysjar Hinna dæmdu – uppgröftur á Þorgauts-/Þorgarðsdys á Arnarnesi, Reykjavík 2019.

Þorgarðsdys

Þorgarðsdys.

 

 

 

 

 

 

 

Lækjarbotnar

Í rannsókn á „Dysjum hinna dæmdu – Rannsókn á Hallberuhelli í Lækjarbotnum„, sem fram fór árið 2019, má t.d. lesa eftirfarandi:

Rannsókn

Hallberuhellir

Forsíða rannsóknarinnar um Hallberulelli.

Þann 7. ágúst 2019 fór fram rannsókn á Hallberuhelli í Lækjarbotnalandi. Í hellinum er talið að Margrét Símonardóttir og Eyvindur Jónsson hafi haldið til um tíma en þau voru tekin af lífi á Öxarárþingi árið 1677 fyrir útileguþjófnað og hórdómsbrot. Rannsóknin á hellinum er þáttur í verkefninu Dysjar hinna dæmdu sem miðar að því að afla upplýsinga um einstaklinga sem teknir voru af lífi á Íslandi á árunum 1550 til 1830, bæði með tilliti til brota þeirra og dóma en einnig til bakgrunns þeirra, samfélagsstöðu og búsetu. Tilgangur rannsóknarinnar á Hallberuhelli er að varpa ljósi á aðstæður og lifnaðarhætti einstaklinga sem lifðu á flakki hér á landi og hlutu síðar dauðarefsingu fyrir þjófnað og fleiri brot. Rannsóknin á hellinum fólst fyrst og fremst í úttekt á innréttingu hans og voru gólf og veggir hans því ljósmyndaðir og teiknaðir en auk þess var gerður prufuskurður í gólf hellisins og þaðan tekin sýni.

Forsaga rannsóknar
Hallberuhellir
„Á Íslandi fóru fram um 240 aftökur á tæplega þremur öldum, frá siðaskiptum, þegar rétturinn til refsinga færðist úr höndum kirkjunnar til veraldlegra valdhafa, til ársins 1830 þegar síðustu dauðadómunum var framfylgt hér á landi. Dauðadómar féllu fyrst og fremst fyrir morð, galdra, þjófnað, dulsmál og blóðskömm.

Lækjarbotnar

Lækjarbotnar – hellisopið.

Árið 2018 hófst vinna við rannsóknarverkefnið „Dysjar hinna dæmdu“ en markmið þess er að varpa ljósi á dauðadæmda einstaklinga á íslenskri árnýöld með tilliti til brota þeirra og dómsmeðferðar sem og félagslegs bakgrunns þeirra, kyns, aldurs, stöðu, fjölskyldurhags og búsetu. Rannsóknarverkefni þetta hefur leitt í ljós að dauðadómar á Íslandi féllu oftar fyrir þjófnað en nokkra aðra tegund brota og fleiri en 70 þjófar voru teknir af lífi á árunum 1584–1758. Svo virðist sem að flestir þessara þjófa hafi verið heimilislausir einstaklingar sem lifðu á flakki og stálu sér til viðurværis. Rannsóknin á Hallberuhelli í Lækjarbotnum, þar sem talið er að útilegufólkið Margrét Símonardóttir og Eyvindur Jónsson hafi haft aðsetur á síðari hluta 17. aldar, er liður í áðurgreindu verkefni en tilgangur hennar er að kanna aðstæður og lífshætti flakkara og dæmdra afbrotamanna.
HallberuhellirMargrétar Símonardóttur og Eyvindar Jónssonar er getið í fjölmörgum rituðum heimildum og eru mál þeirra gjarnan kölluð Eyvindarmál hin fyrri til þess að greina þau frá málum Fjalla-Eyvindar og Höllu sem lögðust út tæpri öld síðar (Ólafur Briem 1983, bls. 28).
Í annálum kemur fram að Margrét og Eyvindur, sem var þá þegar giftur annari konu, hafi tekið saman og hlaupið úr Ölfusi. Fyrst um sinn munu þau hafa haldið til vestur undir Snæfellsjökli (Fitjaannáll, bls. 427; Hestsannáll, bls. 512). Síðar földu þau sig í helli sunnan við Örfiriseyjarsel sem Árni Magnússon nefnir Hraunhelli en hefur á síðari árum verið kenndur við Hallberu Jónsdóttur sem bjó á Lækjarbotnum á síðari hluta 19. aldar (Árni Magnússon, bls. 60; ferlir.is). Þann 20. október 1677, þegar Margrét og Eyvindur höfðu legið úti í meira en tvö ár, voru þau handtekin við Hallberuhelli og þýfi þeirra, sem samanstóð af nautakjöti og öðrum hlutum, gert upptækt (Alþingisbækur VII, bls. 403 – 405).

Engidalur

Tóftir útilegumanna í Engidal.

Á Bakkárholtsþingi þá um haustið voru Margrét og Eyvindur dæmd sek um hórdómsbrot með barneign, burthlaup úr héraði sem og foröktun sakramentis og heilagrar aflausnar. Í þetta sinn sluppu þau við dauðadóm en áttu að hljóta þrjár húðlátsrefsingar hvort um sig. Í dómsskjalinu kemur þó fram að sýslumaðurinn, Jón Vigfússon, mætti milda dóm Margrétar ef honum sýndist „vegna hennar nú sýnilegra vesalburða.“ Degi síðar var fyrsta refsingin lögð á þau. Eftir að hafa tekið út allar refsingarnar voru fangarnir svo sendir til Kjalarnessýslu þar sem þjófnaðarmál þeirra var tekið fyrir en samkvæmt lögum átti að dæma í slíkum málum í þeirri sýslu sem þjófnaðurinn fór fram (ÞÍ. Sýslumaðurinn í Árnessýslu 0000 GA/1-2-1).

Engidalur

Engidalur – bæli.

Á Kópavogsþingi voru Margrét og Eyvindur dæmd til líkamlegrar refsingar fyrir þjófnað en eftir að hafa staðið hana og meðtekið sakrament í Skálholtsdómkirkju voru þau aðskilin og tók eiginkona Eyvindar, Ingiríður, hann aftur til hjónabands. Refsingin dugði þó skammt því „þessar vandræðapersónur“ tóku fljótt upp útilegusamvistir á ný og fundust saman í rekkju í hreysi undir bjargskúta við Ölfusvatn með þýfi sitt. Voru þau fangelsuð á heimili valdsmannsins Stórólfshvoli og svo færð í járnum á Öxarárþing þar sem þau voru dæmd til dauða fyrir ítrekuð hórdómsbrot og útileguþjófnað. Þann 3. júlí 1678 var dauðadómnum framfylgt og eftir að hafa meðtekið kristilegar fortölur „til sannrar viðurkenningar, huggunar og trúarstyrkingar í herrans Kristí blessaðri forþénustu” var Eyvindur Jónsson hálshöggvinn en Margréti Símonardóttur drekkt – allt samkvæmt fyrirmælum Stóradóms (Alþingisbækur VII, bls. 403–405).
HallberuhellirEkki er vitað hversu lengi nákvæmlega Margrét og Eyvindur dvöldu í Hallberuhelli, þar sem þau voru handtekin, þann 20. október 1677. Hallberuhellir virðist þrátt fyrir allt ekki alslæmur felustaður; á þessum tíma var enginn bær nálægt hellinum en hann lá þó sennilega ekki algjörlega úr alfaraleið því rétt vestan við hann er talið að Örfirisey hafi átt sel átti til ársins 1799. Hugsanlega nýttu Margrét og Eyvindur sér þetta og stálu fé seljanna til viðurværis.

Viðeyjarsel

Viðeyjar (Örfiriseyjar-) Bessastaðasel).

Sem áður segir rak Örfirisey sel á Lækjarbotnum til ársins 1799. Árið 1868 fékk Þorsteinn Þorsteinsson svo nýbýlaleyfi fyrir landinu og lét Hallberu Jónsdóttur, sem Hallberuhellir er kenndur við, helming jarðarinnar. Á fyrri hluta 20. aldar gaf Guðmundur H. Sigurðsson, sem þá var bóndi að Lækjarbotnum, Skátasambandi Reykjavíkur land á jörðinni. Síðan þá hefur verið starfræktur skátaskáli á Lækjarbotnum (ferlir.is; gardbuar.com).
Fornleifarannsókn hefur ekki áður farið fram í Hallberuhelli en í rannsókn á seljum í Reykjavík, þar sem fjallað er um Örfiriseyjarsel, er hellirinn merktur á kort og hann er því ekki óþekktur. Hellirinn hefur auk þess verið nefndur í ferðahandbókum, t.a.m. í Árbók Ferðafélag Íslands (Egill J. Stardal 1985).“

Niðurstöður

Lækjarbotnar

Hellisopið.

„Sagnir af útilegumönnum eru gjarnar sveipaðar dulúðlegum og þjóðsagnakenndum blæ. Mál Fjalla-Eyvindar og Höllu er sennilega eitt besta dæmi þess. Sem áður segir var útilega og flakk þó raunveruleiki fjölda einstaklinga á íslenskri árnýöld og Eyvindarmálin tvö eru engan veginn einstök. Því er ekki ólíklegt að mannvistarleifar eftir útileguþjófa finnist í hellum þótt sjaldan sé minnst á það í hellarannsóknum.

Lækarbotnar

Lækjarbotnar – Hallberuhellir.

Hallberuhellir er hraunhellir og er hvelfing hans því náttúrusmíð. Þó eru hlutar hellisins greinilega manngerðir; við hellismunnann hefur grjóti verið hlaðið og set hafa verið útbúin upp við norðurvegginn þar sem hægt er að tylla sér og horfa út um hellismunnann. Þó er eftitt að ákvarða hvenær innréttingarnar voru gerðar í hellinum og ekki hægt að fullyrða að þær séu frá tíma Margrétar og Eyvindar. Raunar fannst ekkert í hellinum sem beint var hægt að rekja til dvalar Margrétar og Eyvindar enda voru þar hvorki gripir né jarðlög sem unnt var að aldursgreina. Áhugavert væri þó að framkvæma skordýra- og/eða frjókornagreiningar á jarðvegssýnunum sem tekin voru og í framhaldinu og m.a. nýta þær til kolefnisaldursgreininga.“

Hallberuhellir

Hallberuhellir – teikning.

[FERLIRsfélögum er þrátt fyrir allt framangreint ómögulegt að skilja hvers vegna umræddur hellir hefur fengið nafngiftina „Hallberuhellir“ í  framangreindri rannsókn!?]. Með fullri virðinu fyrir nefndri Margréti, ætti skjólið það arna, fremur að draga nafn sitt af þeirri „mætri“ manneskju. Öll höfum við þurft að takast á við misjafnar aðstæður um lífsins skeið; stundum tekst vel til, stundum ekki. Ef ekki tekst vel til, er og hefur alltaf verið til fólk hér á landi, og jafnvel utan þess, sem er tilbúið að dæma, hvernig til tókst – að þess mati…

Heimild:
-Dysjar hinna dæmdu – Rannsókn á Hallberuhelli í Lækjarbotnum, Reykjavík 2019.

Lækjarbotnar

Hellirinn í Lækjarbotnum.

 

Aftaka

Í áfangaskýrslu um „Dysjar hinna dæmdu“ frá árinu 2018, segir m.a.:

Inngangur

Dysjar hinna dæmdu

Forsíða áfangaskýrslunnar um „dysjar hinna dæmdu“.

„Skömmu eftir siðaskiptin færðist réttur til refsinga frá kirkju til veraldlegra valdhafa. Var þá farið í ríkara mæli en nokkru sinni fyrr að beita líkamlegum refsingum fyrir hvers kyns afbrot. Nýjum lagabálki, Stóradómi, var einnig bætt við gildandi lög en dæmt var eftir honum í siðferðisbrotamálum. Fólk var einkum tekið af lífi fyrir fimm flokka brota. Það var fyrir blóðskömm, dulsmál, morð, þjófnað og galdra en einnig fyrir iðkun kaþólskrar trúar. Fyrsta dómsúrskurði um dauðarefsingu var raunar ekki fullnægt hérlendis fyrr en seint á 16. öld. Árið 1551 voru aftur á móti fimm karlmenn teknir af lífi án dóms og laga í trúarbragðastríði því sem ríkti vegna siðaskiptanna. Frá 1582 urðu aftökur síðan nær árlegur viðburður og allt til ársins 1792 en þá fækkaði þeim verulega aftur. Síðasta aftakan fór svo fram árið 1830 eftir 25 ára langt hlé en dauðarefsingar voru ekki afnumdar úr íslenskum lögum fyrr en árið 1928.“
Það verður að segjast eins og er að stundum ferst fólki ekki fyrir er kemur að uppgreftri hinna dauðu.

Markmið rannsóknarinnar

Kuml

Kuml.

„Markmiðið með rannsókninni sem hér er sagt frá er að leita þeirra einstaklinga sem teknir voru af lífi hérlendis frá 1551–1830. Nöfn þeirra, brot og dómar verða skráð en einnig verður bakgrunnur þeirra kannaður með tilliti til stöðu, fjölskylduhags og búsetu. Þá er markmiðið að skrá þá staði þar sem aftökurnar fóru fram og leita beina eða dysja á þeim. Stefnt er að því að grafa upp sumar dysjanna svo varpa megi frekara ljósi á heilsufar líflátinna, klæðnað þeirra, grafarumbúnað og aðferðir við aftöku. Auk þess verða aftökurnar settar í sögulegt og félagslegt samhengi með tilliti til veðurfars og stjórnarhátta, og tilraun gerð til þess að greina bakgrunn líflátinna og um leið ástæður brotanna. Athugað verður hvort brotum hafi fjölgað í hallærum og sömuleiðis hvort greina megi breytingar í viðhorfi til þeirra á tímabilinu. Loks verður stétt böðla könnuð.

Rannsóknin mun byggja á kenningum um efnismenningu og undirsáta (e. subaltern) en einnig póst-marxisma og femínisma.
Dysjar hinna fordæmdu
Hugmyndafræðileg mótun stétta og stéttskiptingar, kynbundið misrétti og möguleikar undirsáta til að hafa áhrif á ríkjandi viðmið verða þannig í forgrunni (sjá t.d. Spivak 1988; Therborn 1999; 2013; Young 2003).

Kuml

Kuml.

Gert er ráð fyrir að rannsóknin standi yfir í að minnsta kosti fimm ár en hún hófst í maí árið 2018. Vinnan þetta fyrsta ár fólst að miklu leyti í að taka saman heimildir um dauðarefsingar á Íslandi og að gera gagnagrunn yfir þá einstaklinga sem teknir voru af lífi. Nær gagnagrunnurinn yfir öll þau mál sem getið er um í Annálum Íslands 1400–1800 auk örfárra annarra mála sem fundust fyrir tilviljun meðan á vinnslu hans stóð. Listinn yfir þær aftökur sem hér fóru fram er vafalaust ekki tæmandi, því eftir er að fara markvisst yfir héraðsdómsbækur og þjóðsögur, auk þess sem Alþingisbækurnar voru aðeins lesnar að hluta. Við gerð gagnagrunnsins var fyrst og fremst litið til dauðadóma sem var framfylgt.

Kuml

Kuml.

Dæmi þess að dauðadómar væru mildaðir af konungi eru mörg, sér í lagi frá síðari hluta 18. aldar og nær listinn ekki yfir slík mál. Hins vegar voru dauðadæmdir einstaklingar sem létust áður en aftaka þeirra fór fram skráðir enda má ætla að dauðadómum þessara einstaklinga hefði verið framfylgt hefðu þeir lifað. Þá eru talin með tilvik þar sem ekki er vitað hvort dauðadómi var fylgt eftir eða ekki. Farnar voru vettvangsferðir til fjarkannana eða uppgraftar á samtals átta aftökustaði sumarið 2018 og verður sagt nánar frá þeim hér á eftir. Eins voru stakir beinafundir kannaðir en fara þarf betur yfir þá staði þar sem óútskýrð mannabein hafa fundist. Loks var farið yfir þá uppgrefti sem hafa verið gerðir á dysjum dauðadæmdra.

Um líflátsdóma og aftökur á Íslandi
Dysjar hinna dæmdu
Elstu ákvæði um dauðarefsingar er að finna í Járnsíðu frá 1281 og litlu síðar í Jónsbók en heimildir um aftökur fyrir siðaskipti eru þó fáar. Og enda þótt ákvæði um dauðarefsingar hafi verið til í íslenskum lögum allt frá 13. öld og þeim framfylgt að vissu marki, mörkuðu siðaskiptin – líkt og fyrr getur – upphaf hrinu dauðarefsinga sem lauk seint á 18. öld.

Drekkingahylur

Drekkingarhylur, málað á staðnum á Þingvöllum. Höfundur er Guðlaugur Jón Bjarnason.

Við siðaskiptin var iðkun kaþólskrar trúar bönnuð og fólki refsað fyrir slík brot. Stærsta breytingin varð hins vegar þegar Danakonungur fyrirskipaði með bréfi rituðu árið 1554 að sýslumenn skyldu taka við afgreiðslu dóma vegna hvers kyns afbrota í stað kirkjuvaldsins. Um leið var kristniréttur Árna biskups frá 1275 afnuminn (DI XIV, bls. 271–276; Már Jónsson 1993, bls. 90–93). Eftir það var dæmt til dauða hérlendis fyrir alla þá fimm flokka brota sem nefndir eru hér að framan. Það er raunar ekki fyrr en Stóridómur var innleiddur í landslög árið 1564 að dæmt var til dauða fyrir ýmis siðferðisbrot, eins og til dæmis blóðskömm en það var samræði var haft í náinni frændsemi og fyrir þriðja hórdómsbrot. Átti að drekkja konum en hálshöggva menn fyrir slík brot (DI XIV, bls. 271-276).

Þingvellir

Þingvellir – aftökustaðir.

Stóridómur tók reyndar ekki á hinum svokölluðu dulsmálum, þ.e. þegar leynt var farið með fæðingu barns og því fargað. Hins vegar var getið um dauðarefsingu fyrir slík brot í dönskum lögum og var lengi vel dæmt eftir þeim hérlendis þó aðferðir við aftökur væru frekar í takt við ákvæði Stóradóms (Már Jónsson, 2000). Karlar voru því nærri alltaf hálshöggnir og konum oftast drekkt þótt að í sumum tilfellum hafi þær einnig verið höggnar á háls; Ingibjörg Jónsdóttir var til að mynda hálshöggvin fyrir dulsmál árið 1792. Þá gætti áhrifa siðaskiptanna ekki síst í galdramálum þegar kom að dauðadómum. Ýmis konar hvítagaldur sem kaþólska kirkjan hafði réttlætt töldu siðskiptamenn hættulegan og þeir sem fundnir voru sekir um kukl og meðferð galdrastafa voru brenndir á báli (Sigurlaugur Brynleifsson, 1976).
Af samantektinni, sem hér hefur verið gerð yfir dauðadóma, sést glögglega að karlar sem dæmdir voru fyrir morð voru nær alltaf hálshöggnir og sumir pyntaðir að auki.

Þingvellir

Þingvellir – Drekkingarhylur.

Fyrir dauða sinn árið 1596 var svo dæmi sé tekið Axlar-Björn limmarinn með sleggjum og árið 1752 var Kjöseyrar-Jón klipinn fjórum sinnum með glóandi töngum áður en hægri hönd hans og loks höfuð var höggvið af og sett á stöng öðrum til viðvörunar. Eitt dæmi er þess að manni væri drekkt fyrir morð. Hann hét Ögmundur Þorkelsson og hafði sjálfur drekkt syni sínum. Ýmsum aðferðum var beitt við aftöku á konum sem dæmdar voru fyrir morð en líkt og í tilfelli Ögmundar virðist stundum gilda nokkurs konar „auga-fyrir-auga” lögmál. Guðrún Þorsteinsdóttir var til að mynda brennd á báli árið 1608 fyrir að hafa brennt barn í grautarkatli norður í Þingeyjarþingi og árið 1706 var Kristínu Björnsdóttur drekkt en hún hafði sjálf drekkt 6 vetra gamalli dóttur sinni.

Að aftöku lokinni var fólk oftast dysjað á aftökustað, ýmist í gjótum eða í grunnum gröfum sem huldar voru grjóti. Svo virðist þó sem að þeir sem voru hengdir hafi verið látnir hanga í gálganum þar til reipin slitnuðu. Það kemur fram í þjóðsögum en laus bein hafa einnig fundist ofanjarðar við gálgakletta eða gálgagil (sjá t.d. Íslenskar þjóðsögur 1945, bls. 232).

Gálgaklettar

Gálgaklettar – meintur grafreitur.

Eins voru höfuð þeirra sem voru hálshöggnir alla jafna sett á stöng við dysina og látin vera þar þangað til þau féllu sjálf til jarðar. Í einu tilviki er vitað til þess að höfuð tveggja líflátinna í sama máli hafi verið grafin á aftökustað skömmu eftir aftökuna en talið er að sveitungar þeirra hafi gert það þar sem þeim ofbauð meðferðin á líkunum. Um var að ræða síðustu aftöku á Íslandi (Sigrún Huld Þorgrímsdóttir 2005). Þá eru að minnsta kosti tvö dæmi um að líflátnir hafi fengið greftrun í kirkjugarði eða við kirkjugarð – án helgiathafnar. Það voru þær Katrín Þorvarðsdóttir sem tekin var af lífi 1703 og Ingibjörg Sölvadóttir 1758 (Vallannáll, bls. 350; Ölfusvatnsannáll, bls. 46; Már Jónsson 2000, bls. 254).
Fimm dysjar dauðadæmdra hafa verið grafnar upp en auk þess hafa mannabein fundist á stöku aftökustað, einkum þá þar sem fólk var hengt. Hefur sumum þeirra verið skilað til Þjóðminjasafns en ekki öllum.

Gagnagrunnur yfir dauðadóma
Dysjar hinna dæmdu
Þegar gagnagrunnurinn lá fyrir sumarið 2018 var gerð samantekt um aldur og kyn dauðadæmdra, hvar þeir bjuggu og hver staða þeirra var. Þá var kannað í hvaða sýslum var dæmt og hvar aftökustaðirnir voru innan þeirra. Loks var tíðni brota af hverri gerð skoðuð og skoðað hvort samhengi var á milli þeirra og aðstæðna í samfélaginu. Ekki vannst tími þetta fyrsta ár rannsóknarinnar til að skoða bakgrunn böðla á Íslandi eða kanna afdrif barna og annarra afkomenda dauðadæmdra. Það verður gert síðar.

Stakkavík

Stakkavík – Gálgar.

Samantektin á aftökum nær yfir 235 einstaklinga; 69 konur og 166 karla. Aðeins tókst að áætla aldur 112 einstaklinga sem dæmdir voru til dauða en af þeim var sá yngsti 14 ára og sá elsti 80 ára. Algengasta aldursbilið var 35–39.
Oftast féllu dauðadómar fyrir þjófnað, af þeim fimm gerðum brota sem dæmt var til dauða fyrir (morð, blóðskömm, dulsmál og galdra, auk þjófnaðar). Athygli vekur líka að aftökur fyrir þjófnað fóru eingöngu fram á 174 ára tímabili, frá 1584 til 1758, á meðan tekið var af lífi fyrir flest önnur brot allt tímabilið frá 1551–1830. Aftökur vegna galdra skera sig einnig úr fyrir þetta en þær fóru fram á enn styttra tímabili, frá 1625–1685, enda yfirleitt talað um galdrafár í því sambandi.
Hlutföll kynja í þessum tveimur flokkum er sömuleiðis áberandi ójöfn. Alls voru 75 einstaklingar hengdir fyrir stuld og af þeim voru tvær konur. Aðeins ein kona þó var í hópi þeirra 22 einstaklinga sem brenndir voru fyrir galdra. Karlmenn voru raunar einnig í meirihluta í morðmálum; 27 karlar hlutu dauðarefsingu fyrir morð en sex konur. Dauðadæmdar konur eru hins vegar áberandi fleiri en karlar í flokkum siðferðisbrota. Í annálum er getið um 34 konur sem teknar voru af lífi fyrir dulsmál en sex þeirra voru líka dæmdar fyrir blóðskömm. Ellefu karlar voru hálshöggnir fyrir dulsmál og voru sex þar af um leið dæmdir fyrir blóðskömm.

Gálgaklettar

Gálgaklettar.

Kynjaskipting þeirra sem einungis hlutu dauðarefsingu fyrir blóðskömm er raunar nokkuð jöfn; 26 konur misstu lífið fyrir slík brot en 23 karlar.
Algengasti aftökustaðurinn voru Þingvellir en að minnsta kosti 72 einstaklingar voru teknir af lífi þar nær allt tímabilið sem hér um ræðir. Undantekningin er flokkur þjófa en þeir voru nær eingöngu teknir af lífi á á Alþingi tímabilið 1678 til 1703 og aðeins einn eftir það, árið 1726.

Kópavogsdysjar

Vettvangur Kópavogsdysja.

Einnig var algengt af aftökur færu fram á Kópavogsþingstað og í nágrenni við hann, í Elliðaá, á Bessastöðum og í Garðahrauni sunnan Bessastaða. Í Gullbringusýslu allri voru 22 teknir af lífi fyrir alla flokka brota. Dæmi um aðra algenga aftökustaði er Laugarbrekkuþing á Snæfellnesi þar sem ekki færri en fimm voru teknir af lífi og Gálgagil í Víðidal í Vestur-Húnavatnssýslu. Reyndar fóru fram aftökur víðast hvar um landið. Að Norður-Þingeyjarsýslu, Austur-Barðastrandarsýslu og Skaftafellssýslum frátöldum voru skráðar aftökur í öllum sýslum.
Athygli vekur að tíðni aftaka milli ára var mjög breytileg og á vissum tímabilum má greina bylgjur í aftökum og því væri áhugavert er að skoða þessar bylgjur út frá sögulegu og félagslegu samhengi. Á það ekki aðeins við um galdra og þjófnað en augljós er fylgni milli fjölda aftaka fyrir þjófnað og verðurfars en ljóst er að þjófar voru oftast nær heimilislausir einstaklingar sem stálu sér til matar.

Hannes Finnsson

Hannes Finnsson, biskup.

Hannes Finnsson skrifaði um hallæri: „Á árunum 1627–1641 gekk Hvítivetur harðast að, féll þá margt fólk, svo og í bólunni 1635.“ Engin hallæri voru næstu 30 árin en undir lok 17. aldar geisuðu langvarandi stórharðindi og mannfækkun. Um árin 1697–1701 skrifar hann: „Hallæri, svo og rán og þjófnaður gekk fram úr máta, en breytir til hins betra 1702.” Á fyrri hluta 18. aldar tilféllu engin hallæri en árið 1751 byrjuðu mikil harðindi sem náðu hámarki 1757. Á þessum tímabilum eru aftökur á þjófum áberandi margar og mannfækkun sömuleiðis Þeir Íslendingar sem teknir voru af lífi komu alls staðar af á landinu. Hægt var að finna búsetustað flestra þeirra við aftöku, nema síst þegar þjófar áttu í hlut enda voru margir þeirra heimilislausir flakkarar.

Lokaorð

Þingvellir

Þingvellir – Gálgaklettur.

Samantektin sem hér er sagt frá sýnir að hérlendis var samtals nærri 240 dauðadómum framfylgt fyrir alls fimm flokka brota frá 1550 til 1830 er síðasta aftakan fór fram í landinu. Raunar fóru flestar aftökurnar fram á um tveggja alda tímabili sem stóð frá 1582–1792.

Þingvellir

Í kirkjugarðinum á Þingvöllum.

Áberandi margir eru dauðadómar fyrir þjófnað en allt í allt voru 75 þjófar teknir af lífi á Íslandi og aðeins á 174 árum, sá fyrsti árið 1584 en síðasti árið 1758.
Það voru vissulega vonbrigði fyrir leitarfólk að finna engar dysjar á þeim þremur stöðum þar sem grafið var. En leit verður haldið áfram og aðrar dysjar sem þó sáust ofan jarðar á öðrum stöðum verða skoðaðar nánar síðar.“
[Þrátt fyrir allt framangreint í þessari annars „ágætu“ rannsókn má þó með engu móti sjá að í gagnagrunninum framangreinda sé getið hinna fjölmörgu kumla á vestanverðum Reykjanesskaganum, hvorki í Höfnum, Garði, á Vatnsleysuströnd, við Álftanes né í Kjós, en á þeim nánast öllum hafa áður bæði farið fram opinberar rannsóknir og uppgreftir.]

Heimild:
-Dysjar hinna dæmdu – áfangaskýrsla 2018, Reykjavík 2018.
-https://notendur.hi.is/sjk/DYS_2018.pdf
-https://ferlir.is/kuml-i-gardi/

Þingvellir

Gengið um aftökustaði Þingvalla með Árna Björnssyni 2008.

 

Knarrarnessel

Birgir Þórarinsson slóst með í för eftir að hinn litskrúðugi heimahani á Minna-Knarrarnesi hafði tekið á móti þátttakendum á hlaðinu. Hvita-Táta skokkaði um hlaðið og dillaði skottinu. Hún vissi greinilega hvað stóð til.

Knarrarneskirkja

Minna-Knarrarnes.

Hellirigning hafði verið á svæðinu, en við komu FERLIRs stytti upp. Geislar sólarinnar böðuðu tún og móa. Kríuungi kúrði undir girðingu og reyndi að láta fara lítið fyrir sér. Mamman heimtaði alla athyglina.
Fyrst benti Birgir á leturstein í formi myllusteins. Hann hafði hreinsað mosann af steininum og í ljós hafði komið ártalið 1823. Þá benti hann á svonefnt Brandsleiði á túninu suðaustan við íbúðarhúsið, aftan við garðinn er nú umlykur nýju kirkjuna. Það er lítill hóll sem lítur út fyrir að vera forn dys. Birgir sagði að ekki mætti slá hólinn því sú væri trú manna að hann væri álagablettur. Benjamín Eiríksson, sem alist hafði upp á Minna-Knarrranesi, hafði haft orð á því að þarna væri líklegast fornmaður grafinn. “Dysin” er ofarlega í túnkantinum, svo til beint fyrir ofan innsiglinguna í vörina, líkt og Flekkuleiði í Flekkuvík. Þar lét Flekka gamla dysja sig er hún hafði útsýn að innsiglingunni. Gæti verið eitthvað hliðstætt.

Árnastekkur

Árnastekkur.

Gengið var frá Hellum handan Strandarvegar og litið á Árnastekk skammt suður af bænum. Um er að ræða nokkuð stórt hlaðið gerði. Birgir sagði að grjót hafi sennilega verið tekið úr gerðinu og notað í höfnina í Vogum á sínum tíma. Þó mátti vel sjá neðsta lagið, sem var orðið nokkuð jarðlægt. Inni í gerðinu er tóft. Stekkurinn sjálfur er í og utan í gerðinu að norðanverðu. Sést vel móta fyrir honum við girðingu vestan við klapparhól, sem þar er. Ekki er vitað hvaða Árna stekkurinn eða gerðið er nefnt eftir. Sumir telja að þar eigi að standa Arnarstekkur, en úr þeirri missvísun verður sennilega seint ráðið. Minjarnar standa fyrir sínu samt sem áður.
Haldið var upp á línuveginn ofan Reykjanesbrautar eftir að kíkt hafði verið á hlaðna refagildru í vörðu á leiðinni skammt norðan við Hrafnagjá. Staðnæmst var við vörðu við Knarrarnesselsstíginn.

Knarrarnessel

Knarrarnessel – Leirflagsvatnsstæðið.

Stígnum var fylgt áleiðis í selið. Hann er greinilegur svo til alla leiðina ofan Hrafnagjár. Bæði eru vörður eða vörðubrot við hann og þá er hann einkar áberandi þar sem farið er yfir gjárnar á leiðinni. Þar sem farið er yfir Klifgjá eru t.d. vörður beggja vegna gjárinnar. Á einum stað, á klapparholti, er selsstígurinn markaður í klöppina. Skammt vestan við brúna yfir gjána er lítil varða við svonefnt Knarranesselsgreni. Ofan við gjána er Leirflagsvatnsstæðið. Norðvestan þess eru leifar tveggja skotbyrgja refaskyttna, en þriðja byrgið og það fallegasta er sunnan við vatnsstæðið. Vatnsstæðið sjálft var alveg þurrt þegar komið var að því, þrátt fyrir allnokkra rigningu fyrr um daginn.

Knarrarnessel

Varða ofan Knarrarnessels.

Þegar komið er að Knarrarnesseli sjást tvær vörður. Norðan þeirra er vatnsstæðið. Allnokkurt vatn var í því að þessu sinni, enda er þetta vatnsstæði talið hafa verið með þeim stærri í heiðinni. Selið sjálft er á nokkuð sléttri hraunhæð og í því eru margar tóftir. Sjá má a.m.k. tóftir á fjórum stöðum. Hverri þyrpingu fylgir stekkur. Fyrst var fyrir fyrir selsstaða með eldhúsi og þremur öðrum rýmum. Stekkur var norðan hússins. Vestan við það sást móta fyrir miklu mun elda seli með tveimur tóftum. Þær eru greinilega með öðru lagi en eldri seltóftirnar. Stekkur þess virðist vera leifar jarðlægs stekks svolítið vestar. Forvitnilegt væri að grafa þessar minjar upp, svona til að athuga hvernig lag þeirra er.

Knarrarnessel

Knarrarnessel.

Sunnar er stærstu tóftirnar. Í þeim er eldhús og tvö rými (hefðbundið sel á Reykjanesi). Suðvestan þess er tvískiptur stekkur. Handan við holtið að suðaustanverðu eru tóftir enn annars sels. Í því er eldhús og viðverurými. Vestan þess eru tvær aðrar tóftir með hleðslum á milli.Â
Talið er að flestir bæir í Knarraneshverfi hafi haft þarna selstöðu. Getið erum Litla-Knarrarnessel og Ásláksstaðasel á þessum stað. Rétt fyrir ofan selið er stór gjá. Gjáselsgjá er framhald hennar til vesturs. Gjáselið sást vel þegar gengið var áleiðis uppí Knarrarnesselið.

Knarrarnesssel

Stekkur í Knarrarnesseli.

Ofan við Knarrarnessel, með stefnu í Keili, er Vandarholt. Nafnið er talið vera vegna þess að vandasamt hafi verið að reka fé niður svæðið og yfir gjána.
Norðaustan frá selinu er Breiðagerðisslakki. Í apríl 1943 hrapaði þýsk Junkers könnunarflugvél niður í þennan slakka. þrír fórust, en loftskeytmaðurinn komst lífs af í fallhlíf, lítið meiddur. hann var fyrst þýski flugliðinn sem bjargaðist úr flugvél sem skotin var niður yfir Íslandi og jafnframt sá fyrsti sem Bandaríkjamenn tóku höndum í Seinni heimstyrjöldinni. Lík þeirra sem fórust voru grafin í upphafi við Brautarholt á Kjalarnesi, en eftir stríðið voru þau flutt í Fossvogskirkjugarðinn. Enn sést nokkuð af brotum úr vélinni.

Eldborgir

Eldborgir.

Suðsuðaustur af Knarranesseli eru Eldborgir, níu gígar í röð er mynda m 900 metra langan hrygg. Austast í Eldborgum er skotbyrgi við greni. Vestast eru Eldborgargren, s.s. Hólsgrenið, Skútagrenið, Hellisgrenið, Brúnagrenið og Sléttugrenin. Við þau eru a.m.k. þrjú hlaðin skotbyrgi. Eitt af þeim er sýnu stærst. Ekki var að sjá að refur væri í grenjunum núna, því ef svo væri færi það varla á milli mála.

Eldborgargren

Skjól refaskyttu í Eldborgargrenjum – fyrrum landamerkjavarða?

Gíslhóll er stuttu ofan við eystri hluta Eldborganna og á honum er varða. Spölkorn sunnan hólsins er Eldborgarvatnsstæðið eða Gíslhólsvatnsstæðið í gróinni lægð og situr vatn þar langt fram, eftir sumri.
Norðnorðvestan við Eldborgargrenin var gengið fram á enn eitt skotbyrgið í heiðinni. Sunnan þess er greni. Austan þess er mjög gömul hlaðin refagildra yfir grenjaopi. Svo er að sjá sem þarna séu minjar enn eldri veiðiaðferða en síðar tíðkaðust með skotvopnum. Líklegt er að maðurinn hafi löngum reynt að vinna þarna á skolla, enda mörgum grenjum fyrir að fara á tiltölulega litlu svæði.

Eldborgargren

Eldborgargren.

Landamerki Minna-Knarrarness eru sögð liggja í beina línu upp í Eldborgargrenin. Ofan þeirra er “bjartur” áberandi hraunhóll. Neðar, á breiðu “hvalbaksklapparholti” eru merki eftir gamla vörðu. Tvær minni hafa verið hlaðnar úr henni, en eru nú einungis brot. Fótur þeirra gömlu stendur enn. Í beina línu frá Eldborgargrenjunum í gegnum þessa vörðu er enn annað gróið vörðubrot á klapparhól. Af honum sést íbúðarhúsið í Minna-Knarrarnesi. Á milli er áberandi stór varða á klapparhól skammt norðan línuvegarins. Þessar vörður mynda beina línu frá Minna-Knarrarnesi í ljósan hraunhól skammt ofan við vestasta gígin í Eldborgum, þ.e. örskammt vestar og ofar en þar sem flest Eldborgargrenin eru.
Frábært veður – sól og stilla – og hiti. Gangan tók 3 klst og 43 mín.

Heimildir m.a.:
-Örnefni og gönguleiðir á Vatnsleysuströnd eftir Sesselju G. Guðmundsdóttur.

Knarrarnessel

Knarrarnessel – uppdráttur ÓSÁ.

Við skoðun á áður þekktu minjasvæði frá því fyrir miðja 15. öld kom í ljós meint kuml.
Um er að ræða Hafnir-kuml-IIIgróinn manngerður hóll á ysta tanga byggðarinnar. Hóllinn er nú óðum að fjúka burt, auk þess sem sjórinn er smám saman að taka leifar hans til sín.
Á Reykjanesskaganum eru allnokkrar fornmannagrafir; kuml, dysjar eða hvað menn vilja nefna þær. Skamms er að minnast afrakstur fornmannagrafanna við Hafurbjarnastaði, sem nú eru til sýnis í Þjóðminjasafninu.
Þótt ólíklegt megi telja að starfsfólk Fornleifaverndar ríkisins lesi efni vefsíðunnar er því samt sem áður boðið að fara í „kumlferð“ um Reykjanesið til frekari upplýsinga því til handa þá og þegar því hentar.

Gömlu Hafnir

Gömlu Hafnir.

 

Hraun

Tekið var hús á Sigurði Gíslasyni á Hrauni við Grindavík.

Grindavík

Grindavík – dys við Hraun.

Gengið var með honum um svæðið. Þegar komið var að hleðslum á grónum hraunhól norðan þjóðvegarins skammt vestan heimkeyrslunnar að bænum sagði Siggi aðspurður að þar væri líklega um dys að ræða. Hann kvaðst ekki kunna frekari deili á dysinni, en sagði dr. Kristján Eldjárn hafa haft mikinn áhuga á að skoða hana. Þá hafi hann rætt við gamlan mann, fæddan á svæðinu. Sá sagði að dysin væri frá því í Tyrkjaráninu. Hennar væri getið í Þjóðsögum Jóns Árnasonar.

Hraun

Dysin við Hraun.

Sagan segir að bóndasonur á Hrauni (aðrir segja Ísólfsskála) hafi séð skip koma í Hraunsvíkina og ætlað að fagna komumönnum. Hafi hann lagt af stað á rauðri meri, en þegar hann sá hversu óvinveittir aðkomumenn voru, sneri hann þegar við hófum merinnar. Hún var hins vegar svo svifasein að Tyrkinn, sem fremstur fór, en svo munu þeir aðkomumenn hafa verið, hefði náð í taglið. En við það sama hafi merin sparkað aftur fyrir sig og kom höggið í Tyrkjann, sem drapst samstundis. Önnur saga segir að Tyrkirnir hafi verið tveir og merin sparkað þá báða til dauðs (Brynjúlfur Jónsson). Félagar Tyrkjans komu þá þar að, náðu bóndasyni og drápu. Hann var síðan dysjaður á hólnum. Brynjúlfur nefnir þó Dysina á Hraunssandi, sem staðinn þar sem þeim var komið fyrir, en við uppgröft þar á sjötta áratug 20. aldar kom í ljós kapellutóft.
Segja má að sagan sé alls staðar sýnileg – hvert sem litið er.

Hraun - kort

Hraun í Grindavík – uppdráttur ÓSÁ.

Gerðakot

Magnús Grímsson segir í ritgerð sinni „Fornminjar á Reykjanesskaga“ frá tveimur kumlum, sem fundust að Gerðakoti skammt SV Hvalsness árið 1854.
Gerdakot-2Nýbýlið virðist hafa verið byggt á lágum hól, sem að öllum líkindum hefur verið og er kumlateigur. Húsið stóð þangað til annað nýrra var byggt skammt NA. Það var timburhús á steyptum kjallara. Það hús var síðan flutt til Keflavíkur, sem það er enn (Sigurður Eiríksson í Noðurkoti).
Í „Kuml og haugfé“ er m.a. fjallað um fundinn á nefndum tveimur mannsbeinagrindum árið 1854 að Gerðakoti í Miðneshreppi. Þar segir m.a.: „Gerðakot er SV frá Hvalsnesi, nær sjó. Nafn bæjarins bendir til að hann sé ekki forn. Þar fundust tvær mannsbeinagrindur 1854 er verið var að grafa fyrir húsi (nýbýli) Finnendur hafa lýst fundinum vo vel að þar er engu við að bæta, og eru lýsingarnar birtar hér orðréttar;
Gerdakot-31. kuml. „Hinn 10. d. maím. í vor var ég undirskrifaður að grafa niður í sléttan hól að Gerðakoti. Þegar ég var kominn niður hér um bil 1 1/2 alin (um 95 sm), fann ég höfuðkúpu af manni í svörtu sandlagi, leitaði svo betur fyrir mér og fann von bráðara hálsliðina, sem rétt voru áfastir við höfuðkúpuna; lá beinagrindin frá landsuðri til útnorðurs.. hnífskaft og var járnryð á öðrum endanum..“ Undir þetta ritar Brynjólfur Jónsson frá Klöpp.
2. kuml. „Nokkru vestar en þau bein lágu, sem nú var lýst, fann ég undirskrifaður 13. d. maím. í voru mannsbein, er svo lágu, að höfuðið sneri til útnorðurs og fótleggirnir í landsuður, með þeim umbúnaði að hellur  voru á rönd resitar til beggja hliða og hellulag ofan á..“ Undir þetta ritar Jón Jónsson frá Gerðakoti.
Gerdakot-4„Heimilt virðast telja legstaði þessa með fornum kumlum, bæði vegna hnífsins (er svo virðist verið hafa) og umbúnaðar líkanna. Komlin snúa sitt á hvað og því varla gerð samtímis. Bendir það til kumlateigs, en síður að hé rhafi verið grafin lík af einhverri tilviljun. Lega líksins í 1. kumli  minnir á legu í 1. kumli á Hafurbjarnarstöðum. hellulagningin í 2. kumli er einnig eins og í barnskumlinu þar.“
Í Ingólfi 29.07.1854 má auk framangreinds sjá eftirfarandi frá útgefanda: „Viðvíkjandi beinafundi þessum hefur presturinn, sjera Sigurður að Útskálum, látið í ljósi það álit sitt, að bein þessi muni vera þeirra manna, sem árið 1551 voru drepnir af Norðlendingum í hefnd eptir Jón Arason, því svo stendur, að þeir hafi drepið alls 14 á Suðurnesjum, auk þeirra, sem þeir drápu á Kyrkjubóli; en úr dysi þeirra þar [við Hafurbjarnarstaði], segir hann, að uppblásin bein hafi verið tekin á fyrstu árum sínum og flutt að Útskálum.“

Heimildir:
-Kuml og haugfé, Kristján Eldjárn, 2. útgáfa 2000, bls. 94.
-Ingólfur 1854, Beinafundur á Suðurnesjum, bls. 131-32.
-Magnús Grímsson, Fornminjar á Reykjanesskaga, Landnám Ingólfs II, bls. 253-54.

Hvalsnes

Hvalsnes.

Kópavogsdysjar

Í bókinni „Rannsókn á Kópavogsþingstað“ eftir Guðrúnu Sveinbjarnardóttur er fjallað um fornleifauppgröft á þingstaðnum 1973-1976. Í inngangi eru raktar heimildir um svæðið sem og helstu minjar. Þar er m.a. minnst á fjögur kuml nálægt þingstaðnum, þ.e. Hjónadysjar, Systkinaleiði, Þorgarðsdys og Kuledys.
Kopavogsdysjar„Þingstaðurinn í Kópavogi er einn af þekktari þingstöðum landsins, og þá aðallega fyrir Kópavogseiðana svonefndu, sem þar voru unnir árið 1662. Talsverðar rústaleifar eru sjáanlegar á staðnum fyrir uppgröft, en að auki minna dysjar umhverfis staðinn á aftökur þær, sem þar áttu sér stað. Hjónadysjar eru enn allmikil þúst rétt austan við Hafnarfjarðarveginn. Vegavinnumenn rákust á dysina árið 1938, og fundu hauskúpu með miklu hári og aðra beinagrind hauslausa. Huldu þeir dysina aftur og var hún ekki rannsökuð frekar. Systkinaleiði munu nú vera undir Fífuhvammsveginum. Þorgarðsdys er rétt við gamla götuslóðann upp Arnarnesið, og efst á því er Kulesdys, dys Þjóðverja, sem dæmdur var til dauða fyrir manndráp.
Í AI V, bls. 56-7 segir: „Þann 23. febrúar 1582 var kveðinn upp dauðadómur á Kópavogsþingi yfir þýskum manni, Hinrik Kules, sem hafði vegið Bjarna Eíriksson á Bessastöðum. Sést dys hans, Kulesdys, enn efst á Arnarnesinu.“
Kopavogsdysjar-2Hinn 25. júní 1841 kom Jónas Hallgrímsson skáld við í Kópavogi á ferð sinni suður á Vatnsleysuströnd. Sýndi bóndinn þar, Árni Pétursson, honumgamla þingstaðinn, sem hann sagði vera í túninu og nefndi Þinggerði. Þá benti hann Jónasi á dysjar þeirra, sem teknir höfðu verið af lífi og var fróður um afdrif þess fólks.
Matthías Þórðarson krifaði grein um Kópavogsminjar í Árbók fornleifafélagsins 1929, en hann var þá þjóðminjavörður. „Suðaustan þjóðvegarins, rétt við Kópavogslækinn, hafa fundist fjórar dysjar, tvær og tvær saman. Eru þær nefndar hjónadysjar, sem er nær þingstaðnum (nr. 3 á uppdrætti Matthíasar) og systkinaleiði (nr. 4 á uppdrættinum) Þær síðarnefndu hafa nú horfið undir veginn.
Kopavogsdysjar-3Um Kule segir Matthías: „En hinn var dauðadómur yfir þýzkum manni, er Hinrik Kules hét. Var sá dómur kveðinn upp af sex mönnum, og samþyktur af Þórði lögmanni, 23. febr. 1582 »á almennilegu þriggja hreppa þingi« í Kópavogi. Þessi Hinrik Kules hafði vegið íslenzkan mann, Bjarna Eiríksson, á Bessastöðum sjálfa jólanóttina og ekki lýst víginu að lögum, svo það var dæmt morð og níðingsverk. En því er þessa dóms minnst hér, að sagt hefur verið, að dys sú, sem er efst á Arnarneshálsi, vestan við gamla veginn, sé dys dansks manns, er tekinn hafi verið af fyrir einhvern glæp. Skiljanlegt er að þjóðerni mannsins hafi skolast í frásögnunum, mann fram af manni í 3 aldir, og er ekki ólíklegt að þarna liggi Hinrik Kules. Dys þessi er nú að mestu grasi gróin.
Kopavogsdysjar-4Fleiri dysja verður vart í Kópavogi og sennilega eru þar nokkrar að auki, sem ekki eru kunnar nú. Verður sakmálasaga þessa þingstaðar ekki rakin hér, en getið nokkurra mála, sem kunn eru af annálum og dómabókum.“
Þá segir: „Árni prófessor Magnússon hefur getið þess í syrpu sinni, er hann nefnir Chorographica Islandica (213 svo í handrs. hans), að í Hraunhelli, er svo heitir, »fyrir sunnan Efferseyjarsel gamla«, hafi legið »þjófar (maður og kona) circa 1677, eða nokkru fyrr, hver þar fyrir ströffuð urðu á Kópavogsþingi 1677, þann 3. decembris«. Þau hafa sjálfsagt verið tekin af lífi þann dag samkvæmt dómi, dæmdum þar áður, líklega samdægurs, en af því er segir í Valla-annál og síðar skal tekið fram, er óvíst að aftaka þeirra hafi farið fram á sjálfum þingstaðnum. Hins vegar er þó líklegt, að dysjar tvær við Kópavogslæk séu leiði þeirra, því að þær eru nefndar »hjónadysjarnar«. Skal þeirra getið síðar.“
Kopavogsdysjar-5Í skýrslu frú Þuríðar Mathiesen segir m.a.: „Hún sagði mér af munnmælunum um dysina við veginn gamla efst á Arnarnesshálsi, sem getið er um hér að framan.
Neðar, á norðanverðum hálsinum, kvað hún vera dys Þorgarðs, sem svo miklar þjóðsögur gengu um, sbr. Þjóðs. Jóns Árnas., I, 388—91. Mun sú dys þó frá fyrri tímum en Þorgarður á að hafa verið á, eftir þjóðsögunum. Annars er svo að sjá sem sumt í þeim, einkum frásögnin um glæp þann er Þorgarður á að hafa verið drepinn fyrir, stafi frá máli Sigurðar á Árbæ. En hvað sem um það er, þá er líklegast að þessi dys sé yfir einhverjum, sem hafi verið líflátinn hér skammt frá eftir dómi á Kópavogsþingi. Ögmundur skólastjóri Sigurðsson hefir sagt mér, að Filippus heitinn Filippusson, sem ólst upp í Arnarnesi, hafi skýrt svo frá, að þetta væri dys Steinunnar frá Árbæ. Ekki er það fortaks-mál, þótt það komi ekki heim við frásögn Þuríðar. Dysin er úr grjóti og allstór. Að norðanverðu hefir henni verið rótað mikið upp, fyrir nokkrum árum, og kann þá að hafa verið tekið nokkuð grjót úr henni. Hún er að austanverðu við gamla veginn, skammt suður frá Litla-Arnarnesi, er Þuríður kvað svo heita. Þar sjást enn á flöt niður við voginn, norðan gamla vegarins, litlar og óglöggar tóftir eftir kot, sem var þar fyrrum.“
Þegar litið var eftir dysjunum árið 2011 voru þær allar horfnar nema Kulesdysin efst á Arnarsneshæðinni.

Heimild:
-Rannsókn á Kópavogsþingstað, Guðrún Sveinbjarnardóttir, 1986.
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1929, Matthías Þórðason, Kópavogsminjar, bls. 3-4 og 29-30.

Kópavogur

Frá Kópavogi.