Tag Archive for: eldgos

Eldgos

Krýsuvíkureldar voru tímabil stöðugrar eldvirkni í sprungusveim sem kennt er við Krýsuvík á Reykjanesskaga. Eldarnir hófust um miðja 12. öld, líklega árið 1151 og benda ritaðar heimildir til þess að þeim hafi lokið árið 1188. Hraun sem runnu í Krýsuvíkureldum eru Ögmundarhraun, Mávahlíðahraun og Kapelluhraun.

Ögmundarhraun

Ögmundarhraun sunnanvert – kort.

Fjórir aðskildir hraunflákar mynduðust smám saman í Krýsuvíkureldunum þótt hraunið allt sé nú kennt við Ögmundarhraun.  Syðst er Ögmundarhraun sem nær frá Djúpavatni í Móhálsadal suður í sjó. Næst norðan við það er lítið hraun sem runnið hefur út á Lækjarvelli og er það langminnst þessara hrauna. Þriðja hraunið er við Mávahlíðar, norðaustur af Trölladyngju, og liggur til hliðar við megingossprunguna. Nyrst er svo Kapelluhraun sem runnið hefur frá Undirhlíðum til sjávar sem og Gvendarselshæðargígaröðin vestan Helgafells.
Hraunin eru dæmigerð fyrir apalhraunin sem koma upp í gliðnunarhrinum á Reykjanesskaga. Hraunin eru þunnfljótandi og gasrík og mynda oft þunnt frauðkennt helluhraun næst gígunum. Algeng þykkt slíkra hrauna er um einn metri á sléttu landi og eru hraunaðrarnir oft ekki nema um hálfur metri á hæð.

Sundhnúkagígaröðin

Eldgos á Sundhnúkagígaröðinni 16. júlí 2025.

Þegar hraunin hafa runnið nokkur hundruð metra frá gígunum hefur verulegur hluti gassins verið rokinn úr hraunkvikunni, þannig að hún verður seigari og hraunið þykknar og breytist smám saman í apalhraun sem verður þeim mun úfnara sem fjær dregur gígunum. Hæstu hraunjaðrar af þessari gerð á Reykjanesskaga eru 10-15 m.

Ögmundarhraun, þ.e. hraunið sem rann frá syðsta hluta gossprungunnar fyllti allan Móhálsadal sunnan Djúpavatns og rann í sjó fram á um 5 km breiðu belti. Hraunið fyllti allstóra vík sem að líkindum hefur verið hin forna Krýsuvík. Þessi hraunfláki er stærstur af þeim fjórum sem mynduðust í Krýsuvíkureldum. Hann gæti hafa myndast í tveimur gosum (en þó í sömu goshrinu).

Djúpavatnsgígar

Djúpavatnsgígar.

Sá hluti hraunsins sem kominn er frá gígunum við Djúpavatn hefur runnið til austurs og síðan til suðurs austan Traðarfjalla. Við suðurbrún Traðarfjalla leggst yfir það yngra hraun sem runnið hefur frá þeim hluta gígaraðarinnar sem liggur í skarðinu milli Traðarfjalla og Núpshlíðarháls. Hraunið er allúfið austan Traðarfjalla, enda hefur það runnið þar í nokkrum halla.
Syðri hluti hraunsins fyllir allan Móhálsadal sunnan Traðarfjalla. Þar er hraunið víðast slétt hellhraun en í dalnum ofanverðum er það að verulegu leyti horfið undir framburð lækja, sem er afar mikill á þessum slóðum. Móbergið í hálsunum í grennd er mikið ummyndað vegna jarðhita og því auðrofið. Jafnhliða ummynduninni þéttist bergið þannig að úrkoma hripar ekki beint niður, eins og víðast á Reykjanesskaga, heldur myndar læki sem renna á yfirborði. Þeir hverfa reyndar fljótlega niður í jörðina er þeir koma út fyrir ummyndaða svæðið. Af þessum sökum er ógerningur að segja til um þykkt hraunsins í dalnum.

Ögmundarhraun

Ögmundarhraun – Tófubrunagígar.

Meginhraunið hefur komið upp í dalnum sunnanverðum. Þegar hraunið fellur suður úr dalnum breytist það að mestu í úfið apalhraun, enda búið að renna alllangan veg frá gígunum. Hraunið hefur síðan runnið allt til sjávar og fyllt hina fornu Krýsuvík. Ætla má að á flatlendi sé hraunið víðast um 5-10 m þykkt og miklu þykkara þar sem það náði út í sjó. Í Móhálsadal er það eflaust nokkru þynnra og vart meira en 3-4 m þykkt, en slík tala er þó ágiskun ein. Flatarmál hraunsins er um 18,6 km2 og ef gert er ráð fyrir 7 m meðalþykkt er rúmmálið um 0,13 km3.
Norður af Djúpavatni liggur ungleg gígaröð til norðausturs eftir Móhálsadal, í beinu framhaldi af gígum Krýsuvíkurelda.
Allt framangreint svæði er einstaklega áhugavert í jarðsögulegum tilgangi, ekki síst í ljósi þeirra atburða sem núverandi Grindvíkingar hafa þurft að horfa upp á tengda samfelldri goshrinu á Sundhnúkagígaröðinni ofan bæjarins á undanförnum árum.

Framangreindri umfjöllun fylgja myndir af einstökum gosstöðvum á  u.þ.b. 25 km langri sprungureininni er náði allt frá Höfða og Latfjalli í suðri að Helgafelli að vestanverðu í norðri – Sjá Myndir.
Reykjaneseldar

Sundhnúkagígaröðin

Í Vikunni árið 1964 er viðtal við Jón Jónsson, jarðfræðing, undir fyrirsögninni „Það má búast við gosi á Reykjanesi„:
Jón Jónsson„Reykjanesskagi er meir eldbrunninn en nokkur annar hluti þessa lands. Ég ætla að engin viti hversu margar eru þær eldstöðvar og því síður hversu mörg þau hraun eru, sem þar hafa brunnið frá því að jökla leysti af landinu. Um hraunflákana á þessu svæði fær maður nokkra hugmynd ef það er athugað að hægðarleikur er að ganga alla leið frá Þingvallavatni út á Reykjanestá án þess að stíga nokkurntíma af hrauni.
Fyrsta gos, sem sögur fara af á þessu svæði er það, sem átti sér stað árið 1000 og sem getið er um í Kristnisögu. Það gos var á Hellisheiði norð-austur og austur af Hveradölum og eru eldstöðarnar vel sýnilegar hverjum þeim, sem um Hellisheiði fer. Ekki fara sögur af fleiri gosum á austanverðum Reykjanesskaga. Þó hefur þar gosið síðar a.m.k. tvisvar sinnum, í Eldborg nyrðri og syðri, milli Lambafells og Bláhnjúks, því hraun frá þeim gosum hafa runnið út á hraunið frá 1000.

Hellisheiði

Gígarnir á Hellisheiði – upptök Kristnitökuhraunsins frá árinu 1000.

Í námunda við þær eldstöðvar hefur áður gosið oftar en einu sinni eftir ísöld, og þaðan er komið það hraun, sem næst hefur komizt höfuðborginni, en það er hraunið sem runnið hefur út í Elliðaárvog. Samkvæmt rannsóknum Þorleifs Einarssonar er þetta hraun komið úr stórum gíg er nefnist Leitin sunnan við Ólafsskarð austan undir Bláfjöllum. Yngri hraun þekja þetta að mestu vestur að Draugshlíðum, en þaðan er auðvelt að rekja það alla leið til sjávar. Þetta hraun hefur verið mjög þunnfljótandi og væntanlega runnið hratt. Það er helluhraun og myndar hvergi kraga það ég veit, en í því eru gervigígir á nokkrum stöðum og þekktastir þeirra eru Rauðhólar við Elliðavatn. Skammt ofan við brúna yfir Elliðaár á Suðurlandsvegi er mór undir hrauninu. Hann hefur verið aldursákvarðaður með C14 aðferð og reynzt vera 5300 + eða + 340 ára.

Eldborg

Eldborg (Drottning) og Stóra-Kóngsfell vestan við Bláfjöll.

Vestan við Bláfjöll eru allmargir gígir og sumir þeirra stórir. Meðal þeirra er sá sem gerður hefur verið hinn mesti ógnvaldur í Vikunni á undanförnum vikum. Frá eldstöðvum á þessum slóðum hafa hraun runnið norður á Sandskeið, milli Sandfells og Selfjalls og vestan við Selfjall, milli þess og Heiðmerkur. Á síðast nefnda svæðinu ber hraun þetta nafnið Hólmshraun. Þarna er þó um a.m.k. 5 mismunandi hraunstrauma að ræða, og verða þeir nefndir Hólmshraun I—V hér.

Hólmshraun

Hólmshraun – uppdráttur Jón Jónsson.

Hólmshraun I er þá þeirra elzt og V yngst. Ekki hafa þessi hraun ennþá verið rakin til einstakra eldstöðva, og er raunar óvisst hvort það er mögulegt, a.m.k. með öll þeirra. Af þessum slóðum hafa þau samt komið. Engar sagnir eru til um gos á þessum slóðum. Hólmshraun I hefur runnið út á Leitahraunið rétt austan við Gvendarbrunna og langleiðina yfir það þar skammt fyrir austan. Hólmshraun II hefur einnig runnið út á það austan við Lækjarbotna og myndar hina áberandi, háu hraunsbrún ofan við gamla Lögbergsbæinn aðeins norðan við Suðurlandsveginn. Af þessu er ljóst að Hólmshraunin öll eru yngri en Leitahraunið, en um aldur þess var áður getið.

Nesjahraun

Nesjahraun í Grafningi.

Samkvæmt því sem hér hefur verið sagt hafa orðið a.m.k. 9 eldgos á austanverðum Reykjanesskaga á síðastliðnum 5300 árum. Auk þess er Nesjahraun í Grafningi, en það er samkvæmt rannsóknum Kristjáns Sæmundssonar 1880 + eða + 65 ára, C14 aldursákvörðun. Þar með eru gosin orðin 10. Milli Selfjalls og Helgafells virðist ennfremur vera nokkuð á annan tug mismunandi hrauna, sem öll eru runnin eftir ísöld, eru þá ekki talin með áðurnefnd fimm Hólmshraun né heldur hraun það sem komið er úr Búrfellsgígnum, og sem nefnt er ýmsum nöfnum, svo sem Hafnarfjarðarhraun, Garðahraun, Gálgahraun o.s.frv., en sem ég mun nefna Búrfellshraun. Á þessu hrauni stendur meginhluti Hafnarfjarðarbæjar. Ekki skal nú haldið lengra vestur skagann að sinni, en aðeins geta þess að fjöldi hrauna og eldstöðva eru þar, og hafa sumar þeirra verið virkar eftir að land byggðist.

Ögmundarhraun

Ögmundarhraun – yfirlit.

Það er óhætt að slá því föstu, að alls engar líkur eru til þess að eldgosum sé að fullu og öllu hætt á Reykjanesi. Það verður þvert á móti að teljast í fyllsta máta líklegt að gos muni enn verða þar. Sé jafnframt litið á, hversu oft hefur gosið þar og hvað langt er liðið frá síðasta gosi, en það hefur líklega verið um 1340 [var reyndar 1151] er Ögmundarhraun brann, þá vaknar sú spurning hvort ekki muni nú líða að því að gos verði einhvers staðar á þessu svæði.
Vitanlega er þetta nokkuð sem enginn veit, ekki jarðfræðingar fremur öðrum. Það er þó ljóst að a.m.k. verulegur hluti þeirra mynda, sem — sumar í allsterkum litum hafa verið dregnar upp í undangengnum blöðum VIKUNNUR gætu áður en varir verið komnar í hinn kaldliamraða ramma veruleikans. Við höfum ekki leyfi til að haga okkur eins og við vitum ekki, að við byggjum eitt mesta eldfjallaland jarðarinnar. Það er skoðun mín að það sé í fyllsta máta tímabært að hiutaðeigandi geri sér nokkra grein fyrir því, hvað komið getur fyrir og hvernig við því skal bregðast. Sumt af því er svo augljóst að ástæðulaust er um það að fjölyrða. Ég á þar við truflanir á samgöngum og beina skaða á mannvirkjum.

Kaldá

Kaldárbotnar.

Því er ekki að neita að vatnsból Reykjavíkur og Hafnarfjarðar geta legið nokkuð illa til í þessu sambandi. Vatnsbóli Hafnarfjarðar í Kaldárbotnum hagar þannig til að vatnið kemur úr misgengissprungu, sem klýfur Kaldárhnjúk, Búrfell og myndar vesturhlið Helgadals. Svo sem 1—1,5 km. sunnan við Kaldárbotna hefur sama sprunga gosið hrauni. Það er að vísu lítið hraun, en hætt er við að gos á þessum stað eða með svipaða afstöðu til vatnsbóls ins gæti haft óheppileg áhrif á vatnið.
Þess skal getið að ólíklegt virðist að gos mundi hafa veruleg eða jafnvel nokkur áhrif á vatnsrennslið. Um Gvendarbrunna er svipað að segja. Vatnið kemur þar líka úr sprungum, sem a.m.k. tvö og líklega þrjú Hólmshraunanna hafa runnið yfir. Vatnið í Gvendarbrunnum kemur því ekki aðeins undan hrauninu í venjulegum skilningi heldur dýpra úr jörðu og af miklu stærra svæði.

Gvendarbrunnar

Gvendarbrunnar.

Því er ekki líklegt að gos hefði áhrif á rennslið, en kæmi enn eitt Hólmshraun, gæti það hæglega runnið y|ir vatnsból Reykjavíkurborgar. Bullaugu eru hins vegar ekki á sambærilegu hættusvæði. Vel gæti komið til mála að hægt væri að segja fyrir gos á því svæði, sem hér er um að ræða með því að fylgjast stöðugt með efnasamsetningu vatnsins. Þetta hafa Japanir gert, en á þessu sviði sem alltof mörgum öðrum fljótum við ennþá sofandi að feigðarósi.

Þráinsskjöldur

Þráinsskjöldur og aðrar dyngjur Reykjanesskagans.

Eldstöðvarnar á Reykjanesi eru aðallega tvennskonar: dyngjur og gossprungur. Dyngjurnar eru eldri a.m.k. á vestanverðu nesinu. Frá þeim eru stærstu hraunin komin, og ná sum þeirra yfir mjög stór svæði. Sprungugosin virðast hins vegar flest hafa verið tiltölulega lítil og ekki hafa gert mikinn usla. Mörg þeirra hafa ekki verið öllu meiri en Öskjugosið síðasta og sum minni. Þau virðast einnig hafa verið samskonar, þ.e. hraungos með sáralitlu af ösku, og hafa yfirleitt ekki staðið lengi. Svo er að sjá sem þannig sé um Hólmshraunin. Nokkuð öðru máli gegnir um gosið í Búrfelli. Það hefur verið mikið gos, og er hraunið víða um og yfir 20 m þykkt.

Búrfell

Búrfell í Garðabæ.

Ekki verður séð að Búrfell hafi gosið nema einu sinni. Um aldur þess hrauns er ekki vitað, en líklegt virðist mér að það sé með eldri hraunum hér í grennd. Ekki er því að leyna að allófýsilegt væri að búa í Hafnarfirði ef Búrfell tæki að gjósa á ný, sérstaklega á þetta við um þann hluta bæjarins, sem stendur á hrauninu eða við rönd þess. Sama er að segja um Grindavík, ef eldstöðvarnar, sem þar eru næst færu aftur að láta til sín taka. Aðeins eru um 5 km. frá Búrfelli til Hafnarfjarðar og mun skemmra til Grindavíkur frá gígunum, sem þar eru næstir. Í þessu sambandi má benda á að hraunið frá Öskjugosinu síðasta mun hafa runnið um 11 km. á 2—2% sólarhringum. Hveragerði gæti verið hætta búin af gosum á Hellisheiði.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – jarðfræðikort ISOR.

Vera má að sumum lesenda finnist hér hafa verið málað svart, að ég sé hér að spá illu og jafnvel að hræða fólk að ástæðulausu. Því fer fjarri að það sé ætlun mín. Ég, sem allir aðrir vona að sjálfsögðu að þær byggðir sem um hefur verið rætt fái um alla framtíð að vaxa og dafna í friði. Hins vegar er í hæsta máta óheppilegt í þessu sem öðru að loka augunum fyrir staðreyndum.
Enginn veit hvar eða hvenær eldur kann næst að brjótast upp á Reykjanesskaga. Þeir sem nú byggja þessar slóðir sjá kannski ekkert af honum, kannski ekki heldur þeir næstu, en persónulega efast ég ekki um að, ef ekki við, þá muni einhver eða öllu heldur einhverjar komandi kynslóða verða að taka afstöðu til þess, hvað gera skuli er glóandi hraunflóð stefna að byggðu bóli — og þá væri gott að vera ekki alveg óviðbúinn.“ – Jón Jónsson.

Heimild:
-Vikan, 7. tbl. 13.02.1964, Það má búast við gosi á Reykjanesi, Jón Jónsson, bls. 20-21 og 30.
Drottning í Bláfjöllum

Reykjanes

Í Íslenskum söguatlas er lítillega getið um  „Afdrifarík eldgos runnin eftir landnám“ á Reykjanesskaga:

Reykjanes„Eldsumbrot voru tíð á Reykjanesskaga á fyrstu öldum Íslandsbyggðar. Eldgos urðu bæði á landi og neðansjávar suðvestur af Reykjanesi. Síðast gaus á skaganum á fjórtándu öld en í sjó gaus síðast 1926. Eitt þekktasta eldgos á þessu svæði eru Krýsuvíkureldar sem munu hafa verið árið 1151 en þá runnu Ögmundarhraun og Kapelluhraun. Annað þekkt eldgos varð við Eldeyjarboða 1783. Þá myndaðist eyja sem nefnd var Nýey en hvarf skömmu síðar í hafið.
Áður óþekkt eldgos sem uppgötvað hefur verið á síðustu árum eru Reykjaneseldar. Þeir virðast hafa verið á árabilinu 1210/1211 til 1240. Þá urðu eldgos bæði neðansjávar undan Reykjanesi og á landi með nokkurra ára millibili.

Eldey

Eldey.

Í fyrsta eldgosinu (1210/1211) myndaðist Eldey. Öflugustu goshrinurnar virðast hafa verið 1226/1227 og 1231. Árið 1226 varð mikið öskugos við Reykjanestána og er öskulagið sem þá myndaðist nefnt Miðaldalag. Í kjölfar öskugossins runnu sex hraun á utanverðum Reykjanesskaga. Þau eru vestri Yngra Stampahraun, Tjaldstaðagjárhraun, Klofningahraun, Eldvarpahraun, Illahraun og Arnarseturshraun. Goshrinan hófst vestast og færðist með tímanum til austurs. Þannig er Yngra Stampahraunið elst en Arnarseturshraun yngst. Öll hraunin hafa lagst ofan á Miðaldalagið nýfallið. Hraunin hafa að líkindum lagt í auðn svæði sem búið hefur verið á enda greina munnmæli svo frá að Staður í Grindavík hafi áður verið í miðri sveit en er nú á sveitarenda.

Karlinn

Karlinn á Reykjanesi – afurð Nýeyjar?.

Mesta eldgos sem orðið hefur eftir að land byggðist og skóp helsta ösklagið á þessum slóðum myndaðist 1226 er nefnt Miðaldalagið. Það kom úr gíg sem leifar sjást enn af við Reykjanestána. Drangur sem stendur þar skammt undan landi og heitir Karl mun vera hluti af gígnum. Askan dreifðist til norðausturs yfir allan Reykjanesskagann, austur í Flóa og upp í Borgarfjörð. Í annálum er þess getið að þetta ár hafi eldur verið uppi i sjónum undan Reykjanesi og myrkur verið um miðjan dag. Sandvetur var veturinn 1226-27. Aftur varð allmikið öskugos að líkindum á sömu slóðum sumarið 1231.
Miðaldalagið hefur komið að góðum notum við aldursgreiningar á hraunum og fornum mannvistarleifum á Reykjanesskaga.“

Heimild:
-Íslenskur söguatlas, bls. 48-49.
Reykjanes

Eldgos

Það er kominn tími á eldgos„, sagði Magnús Á. Sigurgeirsson, jarðfæðingur hjá ISOR í viðtali Guðna Einarssonar blaðamanns mbl.is, þann 5. mars árið 2021. “ Haldist sami taktur í eldvirkni Reykjanesskagans og verið hefur síðustu árþúsundin er ljóst að það styttist í að til tíðinda dragi, að mati Magnúsar Á. Sigurgeirssonar, jarðfræðings hjá ÍSOR – Íslenskum orkurannsóknum.“

Magnús Á. Sigurgeirsson

Magnús Á. Sigurgeirsson, jarðfræðingur.

Eldgos hófst síðan í Geldingadölum á Fagardalsfjalli þann 19. sama mánaðar. Gosið var upphaf hrinu eldgosa, fyrst í fjallinu og nágrenni og síðan ofan Grindavíkur, á svonefndri Sundhnúksgígaröð. Þegar þetta er skrifað í lok sept 2025 hafa hrinurnar orðið tólf talsins, þar af níu á Sundhnúksgígaröðinni.
Hér verða af þessu tilefni rifjað upp nefnt viðtal sem og tvö önnur sambærileg við sérfræðinga á sviði jarðfræðirannsókna í aðdraganda eldgosahrinunnar.

Eldgos við Fagradalsfjall hófst, sem fyrr segir, þann 19. mars 2021 kl. 20:45 í kjölfar jarðskjálftahrinu sem stóð í meira en 3 vikur. Öflugasti skjálftinn var 5.8 stig. Gosið kom úr kvikugangi sem náði frá Keili að Fagradalsfjalli. Kvikan fann sér fyrst leið til yfirborðs í Geldingadölum við austanvert Fagradalsfjall nærri Stóra-Hrúti. Eldgosið hefur einnig verið kallað Geldingadalagos eða Geldingadalsgos (þó í raun sé örnefnið Geldingadalir).

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall 2022.

Þann 3. ágúst árið 2022, rúmum tíu mánuðum eftir að eldgosinu við Fagradalsfjall lauk opnaðist um 300 metra löng sprunga við norðanverða Meradali, við norðurenda hrauns sem rann 2021, og nálægt Meradalahnjúkum. Jarðskjálftahrina var vikurnar áður og 3 dögum áður var skjálfti upp á 5,5 nálægt Grindavík. Sprungan sem opnaðist var lengri og gosið öflugra en í síðasta gosi þegar það hófst. Hún þéttist í nokkur gosop og einn aðalgíg fyrstu vikuna. Gosið stóð í um 18 daga.

Sundhnúkseldar eru eldgosahrina sem hófst í desember 2023 við Sundhnúksgíga norðan Grindavíkur og austan Svartsengis. Kvikusöfnun hófst undir Svartsengi í lok október 2023 og stór kvikugangur myndaðist í nóvember.

Sundhnúkar

Sundhnúkagígaröðin 2020.

Nú hafa orðið níu sprungugos á kvikuganginum þar sem hraunrennsli er mest fyrstu klukkustundirnar þegar gýs á langri sprungu en gosin hafa svo dregist saman á fáein gosop sem hafa sum verið virk í margar vikur.

Eldgosahrinan og jarðhræringar í aðdraganda hennar eru á meðal stærstu náttúruhamfara sem gengið hafa yfir á Íslandi. Grindavíkurbær var rýmdur þegar kvikugangurinn myndaðist 10. nóvember 2023 og þar hefur orðið verulegt eignatjón á fasteignum og innviðum, aðallega vegna sprunguhreyfinga. Hraun frá eldgosunum hefur runnið yfir vegi og lagnir og ráðist hefur verið í gerð mikilla varnargarða til að verja Grindavíkurbæ, Svartsengisvirkjun og aðra innviði.

Eldgos

Yfirlit Sundhnúkagígagosanna fram til 16.07.2025.

Í visir.is þann 5. október 2018 hafði Kristín Ólafsdóttir skrifað; „Reykjanesskagi „kominn á tíma“ og búast má við eldgosi hvenær sem er“ eftir viðtal við Þorvald Þórðarson, eldfjallafræðing.

„Eldgos gæti orðið hvað úr hverju á Reykjanesskaga, að sögn Þorvalds Þórðarsonar, eldfjallafræðings, sem rannsakað hefur náttúruvá á svæðinu undanfarin þrjú ár ásamt samstarfsfólki sínu. Þorvaldur segir mikilvægt að hægt sé að bregðast við og meta hættuna sem fylgir yfirvofandi gosi. Viðbragðsaðilar munu aðeins hafa nokkra klukkutíma til stefnu eftir að eldgos hefst en byggðalög á Reykjanesskaga eru nær öll í grennd við „heit svæði“.

Eldgos

Eldgosa- og náttúruvárhópur jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands hefur unnið að reiknilíkani vegna jarðvár á Reykjanesi undanfarin þrjú ár og fékk hópurinn nýlega viðbótarstyrk frá Evrópusambandinu til áframhaldandi starfa. Þorvaldur hefur unnið að verkefninu frá upphafi, ásamt Ármanni Höskuldssyni, Ingibjörgu Jónsdóttur og hópi meistaranema. Ármann Höskuldsson og Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingar rýna í gögn. Taldar eru verulegar líkur á því að eldgos verði á Reykjanesskaga í náinni framtíð.

Þorvaldur segir í samtali við Vísi að verkefnið felist fyrst og fremst í því að setja saman svokallaða „verkfærakistu“ fyrir eldgosavá. Þannig verði jarðfræðileg gögn notuð til að leggja mat á vána á ákveðnum svæðum. Hópurinn hefur einblínt á Reykjanesskagann og vinnur að því að meta hvar á svæðinu er líklegast að gjósi.

„Þó svo það geti orðið eldgos á Reykjanesskaga þá er ekki þar með sagt að það muni endilega gjósa hvar sem er. Það eru meiri líkur á að það gjósi á ákveðnum stöðum sem tengjast jarðfræðilegu uppbyggingu svæðisins, eldstöðvakerfum og þar sem síðast kom upp gos,“ segir Þórarinn. Úrvinnslu gagnanna er svo hægt að nota á marga vegu, til að mynda við skipulag á byggð.

„Og að sjálfsögðu getur þetta líka hjálpað okkur við að undirbúa okkur betur undir það hvernig á að bregðast við eldgosum.“

Reykjanesskagi

Kort af vesturhluta Reykjanesskaga sem sýnir heit svæði (rauð) þar sem mestar líkur eru taldar á eldsuppkomu í náinni framtíð. Einnig eru sýndir helstu byggðarkjarnar svæðisins (Heimild: MS-ritgerð Þóru B. Andrésdóttur, 2018).

Þá hefur verið unnið að gerð svokallaðra hermilíkana sem hægt er að nota til að spá fyrir um hvert hraun flæðir í tilteknu gosi, hvert gjóska dreifist og hvernig gas breiðist út. Þannig verði hægt að búa til viðbragðsáætlun í samræmi við þessar upplýsingar. Þorvaldur segir hópinn vilja koma á fót vefsíðu, þar sem upplýsingarnar og gögnin yrðu aðgengileg opinberum aðilum á borð við Almannavarnir, Veðurstofuna og fulltrúa sveitarfélaga.

Vinna hópsins á Reykjanesskaga er að nokkru leyti almenns eðlis en ýmislegt hefur þó komið í ljós um eldvirkni og jarðhræringar á svæðinu. Þorvaldur segir til dæmis að verulegar líkur séu á því að hraungos verði á Reykjanesskaga í náinni framtíð. Ákveðnir staðir á Reykjanesi eru þó líklegri í því samhengi en aðrir.
„Þeir staðir sem við teljum vera heitasta, miðað við þau gögn sem við höfum notað, eru staðir þar sem hafa orðið gos nýlega. Við höfum skoðað tvö tímabil. Annars vegar sögulega tímann og svo förum við þrjú þúsund ár aftur í tímann,“ segir Þorvaldur.
Heitu svæðin á sögulegum tíma eru að sögn Þorvaldar alveg úti á Reykjanesi, þ.e. „hælnum“ á Reykjanesskaga, en þar voru til dæmis gos á 9. og 13. öld. Þá eru heit svæði við Svartsengi, í Krýsuvík, nánar tiltekið í Ögmundarhrauni og Kapelluhrauni, og í Bláfjöllum.

Eldgos

Gos á Reykjaneshrygg á sögulegum tíma. Kort frá Þorvaldi sem sýnir eldsupptök á Reykjaneshrygg á sögulegum tíma. Tölurnar gefa til kynna gosárið. Eldar í sjó undan Reykjanesi eru líklegir til þess að mynda sprengigos sem getur dreift gjósku og eldfjallagösum yfir stóran hluta Reykjanesskagans.

„Jarðhræringar á svæðinu allra síðustu ár hafa verið mest úti í sjó, út af Reykjanesi. Þá getum við fengið sprengigos, eða öskumyndandi gos. Slíkt gos gerði líka á þrettándu öld og bjó til gjóskulag sem heitir Miðaldalag og nær frá Reykjanesi og upp í Hvalfjörð, og ríflega það, og fór yfir Reykjavík.“

Nokkur eldstöðvakerfi eru á Reykjanesskaga og hefur töluverð eldvirkni verið á svæðinu á nútíma. Virknin er lotubundin og gengur yfir á átta hundruð til þúsund ára fresti. Það gæti byrjað að gjósa eftir 50 ár – eða á morgun.

„Í flestum tilfellum eru þetta hraungos og þau virðast koma í ákveðnum hrinum sem við köllum elda. Þessir eldar standa yfir í um tíu til þrjátíu ár og í þeim eru nokkur gos.

Þorvaldur Þórðarson

Þorvaldur Þórðarson, eldfjallafræðingur.

Þetta er ekki samfelld virkni heldur er kannski pása í hundrað ár og svo byrjar aftur að gjósa. Þessar syrpur, þ.e. hrinur af eldum, þær virðast ganga yfir í bylgjum og koma á sirka átta hundruð til þúsund ára fresti og standa þá yfir í um fjögur hundruð ár,“ segir Þorvaldur.

Langt er síðan síðasta eldahrina varð á Reykjanesskaga og því er gert ráð fyrir að von sé á gosi á svæðinu í náinni framtíð, hugtak sem þó ber að fara gætilega með í jarðvísindum.

„Besta leiðin til að útskýra það, og svo geta menn dregið sínar ályktanir, er að það eru um átta hundruð ár síðan síðustu eldar voru á Reykjanesskaga.

Eldgos

Reykjanesbraut – Skaginn er þakinn hrauni (Brunntjörn/Urtartjörn við Straum).

Og svona hrinur koma á átta hundruð til þúsund ára fresti. Það má því alveg búast við eldgosi. Við vitum ekki nákvæmlega tímann en það virðist vera, miðað við það sem við þekkjum, að þá er Reykjanesskaginn „kominn á tíma“, eins og sagt er. Það geta náttúrulega liðið 50 ár þangað til næsta gos kemur en það gæti líka orðið á morgun.“

„Við yrðum sennilega vör við óróa á svæðinu, skjálfta og annað, kannski vikum eða mánuðum áður en eitthvað skeður. En þegar kemur að gosi þá er nú sennilega ekki meiri viðvörun en upp í sólarhring, og hugsanlega styttra. Þegar við vitum að það er að koma gos, og að það verður á tilteknum stað, þá eru það einhverjir klukkutímar sem við höfum til að vinna með. Þá þurfum við að geta okkur til um hvernig gos það verður og nota hermilíkanið til að segja fyrir um hvert hraunið eða askan fer, og bregðast þá við samkvæmt því.“

Eldgos

Hraunflæði á Sundhnúkagígaröðinni 2024.

„Þegar hraungos byrjar þá er oft mestur gangur á þeim í byrjun, þá flæða hraunin hraðast og þau geta farið nokkra kílómetra á klukkustund og eyðileggja allt sem fyrir þeim verður. Ef þetta kemur mjög nálægt byggð eða mannvirkjum þar sem fólk er þá þarf að koma því burtu einn tveir og þrír, þú hleypur ekkert undan þessu,“ segir Þorvaldur.

„Ef verður öskufall, hvort sem það afmarkast við ysta hluta Reykjanesskagans eða nær alla leið til Reykjavíkur, þá myndi það loka flugvöllum í einhvern tíma. Gjóskufall getur valdið skaða og óþægindum, bæði skaða á innviðum og svo er óþægilegt fyrir fólk að anda því að sér. Verulegt gjóskufall er yfirleitt fyrstu klukkutímana eða dagana, en svo kemur brennisteinsmengunin og hún getur verið viðvarandi. Það fer eftir lengd gossins og hún getur þess vegna verið til staðar í vikur og mánuði ef gosið stendur það lengi.“

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – jarðfræðikort ISOR.

Byggð á Reykjanesskaga er nær öll nálægt eldstöðvakerfum á svæðinu, og það er einkum þess vegna sem gos á umræddum slóðum gætu reynst hættuleg. Þorvaldur segir þó ákveðin byggðalög berskjaldaðri en önnur í þessu samhengi.
„Þau eru öll náttúrulega mjög nálægt en þau sem eru berskjölduðust fyrir þessu eru kannski Grindavík og Þorlákshöfn. Svo eru Vogarnir, Keflavík og Reykjanesbær. Það fer líka eftir því hvort við erum að tala um hraun, ösku eða brennisteinsmengun en þessir bæir eru allir í þessari línu, svo og Reykjavíkursvæðið.“

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – rauðlituð nútímahraun. Þorvaldur útskýrir jarðfræðina fyrir áhorfendum í sjónvarpi.

Þorvaldur ítrekar jafnframt að höfuðborgarsvæðið sé ekki undanskilið í umræðu um hættu í tengslum við jarðhræringar á Reykjanesskaga.
„Mín skilaboð eru að það er miklu betra að læra að lifa með þessu og vera undirbúinn heldur en að vera að velta því fyrir sér hvar er öruggast að búa. Því við þurfum alltaf að bregðast við þessu hvort eð er.“

Úlla Árdal ræddi við Pál Einarsson, jarðeðilsfræðing, í RÚV þann 27. janúar 2020 undir yfirskriftinni „Tími kominn á eldgos á Reykjanesskaga„.

Páll Einarsson

Páll Einarsson, jarðeldisfræðingur.

„Jarðeðlisfræðingur segir kominn tíma á eldgos á Reykjanesskaga. Staðurinn sem beri merki um kvikusöfnun núna sé sennilega einn versti staðurinn á Reykjanesskaga til þess að hafa gos.

Páll Einarsson, jarðeðlisfræðingur, segir kominn tíma á eldgos á Reykjanesskaga. Skaginn liggi á flekamótum og síðasta eldgos þar hafi verið árið 1240. Frá þeim tíma hafi flekarnir færst í sundur sem útskýrir hvers vegna Reykjavík og svæðið í kring hafi sigið: „Vegna þess að flekarnir eru að færast í sundur, þá þarf náttúrulega að fylla í gatið og það er það sem eldgosin gera. Ef ekki er fyllt í gatið þá síga flekaskilin. Þess vegna sígur landið í Reykjavík og þess vegna verðum við fyrir æ verri sjávarflóðum eftir því sem tíminn líður.

Grindavík

Grindavík – eldgos 1. apríl 2025.

Fólk hugsar misjafnlega til eldgosa, í aðra röndina sé þetta skelfilegt en í hina sé eldgos vinsæl alþýðuskemmtun. Eldgos hafi ákveðið skemmtanagildi en á móti séum við minnt á það annað slagið að þetta er ekkert grín.“

Páll segir tvo staði á landinu þar sem mögulegt sé að gjósi í þéttbýli. Í Vestmannaeyjum og í Grindavík. Reykjavík sé í sjálfu sér ekki innan hættumarka en gjósi á flekaskilunum séu byggðarlög í næsta nágrenni í hættu. Staðurinn sem beri merki um kvikusöfnun núna sé sennilega einn versti staðurinn á skaganum til þess að hafa gos.“

Eldgos

Gosvirkni á Reykjanesskaga 800-1240 (M.ÁS.).

Í fyrstnefnda viðtali Guðna Einarssonar á mbl.is við Magnús Á Sigurgeirsson undir fyrirsögninni „Það er kominn tími á eldgos„, fjórtán dögum áður en fyrsta eldgosahrinan hófst í Geldingadölum í Fagradalsfjalli, segir: „Haldist sami taktur í eldvirkni Reykjanesskagans og verið hefur síðustu árþúsundin er ljóst að það styttist í að til tíðinda dragi. Ef það fer að gjósa þá er líklegt að það verði byrjun á löngu eldgosaskeiði,“ sagði Magnús. Kvikugangurinn sem nú er fylgst með við Fagradalsfjall tilheyrir eldstöðvakerfi sem kennt er við fjallið. Magnús segir að á því svæði hafi ekki verið mikil eldvirkni en samt séu merki um eldgamlar gossprungur frá því snemma á nútíma utan í fjallinu.
Hann skrifaði yfirlitsgrein um síðasta gosskeið á Reykjanesskaga, 800-1240 e.Kr. sem birtist á heimasíðu ÍSOR (sem því miður virðist hafa horfið við endurnýjun vefsíðunnar). Með henni birtist kortið sem sýnir hvar hraun runnu á þessu gosskeiði.

Reykjanesskagi

Eldstöðvakerfi á Reykjanesskaga (bleik). Jarðskjálftabelti liggur eftir skaganum og markar flekaskilin (rauð). Jarðhitasvæði eru einnig sýnd (gul). Sprungusveimar Hengils til norðausturs og Reykjaness til suðvesturs eru svartir.

Magnús segir að á Reykjanesskaga séu sex eldstöðvakerfi sem raðast í stefnu frá norðaustri til suðvesturs. Vestast er Reykjaneskerfið, svo eru til austurs Svartsengi, Fagradalsfjall, Krýsuvík, Brennisteinsfjöll og loks Hengill. Hann segir að þessi kerfi séu nokkuð sjálfstæð en eldvirknin færist á milli þeirra. Hvert gosskeið getur náð yfir nokkrar aldir með áratuga löngum hléum á milli eldgosa. „Það er kominn rétti tíminn fyrir eldgos. Það hafa liðið um eitt þúsund ár á milli gosskeiða og það er nánast nákvæmlega sá tími núna frá því síðasta,“ sagði Magnús. Hann hefði giskað á að ný eldgosavirknin hæfist í Brennisteinsfjallakerfinu eða í Krýsuvíkurkerfinu. Það hafi gerst á síðustu gosskeiðum. Síðan færðist hún vestur eftir Reykjanesskaganum.
„Það er ekki byrjað eldgos,“ sagði Magnús um miðjan dag í gær. „Gosvirknin gæti byrjað í Krýsuvíkursveimnum eða hann farið af stað stuttu eftir að þetta byrjar við Fagradalsfjall, ef það gerist. Það er ekki langt þarna á milli,“ sagði Magnús.

Grindavík

Grindavík – jarðskjálftar í nóv. 2023.

Mögulega geta eldgos á Reykjanesi valdið tjóni á mannvirkjum eins og t.d. í Grindavík, í Svartsengi eða á Reykjanesi. Eldgos í sjó hafa fylgt eldvirkni á Reykjanesi og frá þeim komið aska sem hefur borist yfir land. Hún gæti haft áhrif á flugumferð en Magnús telur ólíklegt að hraungos muni gera það.
„Allgóð þekking er til staðar um þrjú síðustu gosskeiðin á Reykjanesskaga sem stóðu yfir fyrir 3000-3500 árum, 1900-2400 árum og svo 800-1240 e.Kr. Hvert gosskeið virðist standa yfir í um 500 ár en á þeim tíma verða flest eldstöðvakerfin virk, en þó yfirleitt ekki á sama tíma. Einkennist gosvirknin af eldum sem standa í nokkra áratugi hver. Hraunin renna frá gossprungum sem geta orðið allt að 12 km langar. Stök hraun eru innan við 25 km2 að stærð, flest mun minni,“ skrifar Magnús í greininni á isor.is.
ReykjanesskagiSíðasta gosskeið hófst um 800 e.Kr. í Brennisteinsfjöllum og Krýsuvíkurkerfinu. Aftur gaus í Brennisteinsfjallakerfinu á 10. öld. Svo gaus í Krýsuvíkurkerfinu líklega 1151. Reykjaneseldar sem stóðu yfir 1210-1240 marka lok um 450 ára langs eldsumbrotaskeiðs, skrifar Magnús. Yngra-Stampahraun rann frá 4 km langri gígaröð líklega 1211. Sprungugos hófst í Svartsengiskerfinu um 20 árum eftir Yngra-Stampagosið og á árunum 1230-1240 runnu Eldvarpahraun, Illahraun og Arnarseturshraun. Ekki hafa orðið hraungos á Reykjanesskaga síðan.“

Heimildir:
-Morgunblaðið, 54. tbl. 05.03.2021, Það er kominn tími á eldgos, Guðni Einarsson, bls. 6.
-https://www.visir.is/g/20181327521d/reykjanesskagi-kominn-a-tima-og-buast-ma-vid-eldgosi-hvenaer-sem-er
-https://www.ruv.is/frettir/innlent/timi-kominn-a-eldgos-a-reykjanesskaga

Fgaradalsfjall

Fagradalsfjall og nágrenni – örnefni skv. herforingjaráðskorti 1906.

Grindavík

Reykjanes vaknar“ er ljósmyndsýning Sigurðar Ólafs Sigurðssonar á nokkrum stöndum á bifreiðastæðinu ofan við Festi í Grindavík. Sýningin ber fyrirsögnina „Ljósmyndaferðalag mitt um sögulega tíma á Íslandi – Ljósmyndir og frásagnir af jarðhræringum og mannfólki á Reykjanesi frá 2020-2024„. Á forspjaldi sýningarinnar má lesa eftirfarandi:

Grindavík

Grindavík – „Reykjanes vaknar“; ljósmyndasýning.

„Myndirnar á þessari sýningu [eru] hluti af verkefni sem ég kýs að kalla „Reykjanes vaknar„. Verkefnið í heild sinni hefst á íbúafundi í Grindavík 29. janúar 2020 og stendur enn yfir. Áþeim fundi var farið yfir jarðhræringar við Þorbjörn og mögulega jarðskjálfta og eldgos í kjölfar þeirra. Líklega voru þó fá á þeim fundi sem gátu séð fyrir sér þá atburðarás sem við þekkjum í dag og líklega erum við öll í sömu sporum hvað varðar framtíðina um komandi ár.

Verkefnið
Markmiðið með Reykjanes vaknar verkefninu er að skjalfesta ljósmyndir jarðhræringarnar á Reykjanesi og áhrif þeirra á mannfólk, mannvirki, náttúru og byggð.

Grindavík

Grindavík – ljósmyndasýning; „Reykjanes vaknar“.

Þó að ljósmyndarinn leggi metnað sinn í að vitna sem stærstan hluta sögunnar þá mun svo viðarmikil saga vart sögð af einum manni. Þannig er verkefnið í raun sýn eins manns í gegnum linsu myndavélar, innsýn utanaðkomandi áhorfanda fremur en heildstætt yfirlit yfir atburðina. Þegar þessi sýning lítur dagsins ljós spannar verkefbið tíu eldgos á Reykjanesi, jarðhræringar, rýmingar, varnargarða, mannvirki, rafmagnsleysi og vatnsleysi, fólk og dýr, sorg og gleði, von og vonleysi, dugnað, áræðai, úrræðasemi og íslenska þrautseigju. Í dag er alls hátt í 90 þúsund ljósmyndir og myndbönd af atburðunum á Reykjanesi í safninu og er þessi sýning úrvalið úr því safni. Annar angi verkefnisins er 416 blaðsíðna ljósmyndabík, sem segir sína sögu á ýtarlega hátt í máli en aðallega myndum. Eins og áður segir hófst verkefnið í janúar 2020 en enginn veit hvenær því líkur enda erum við stödd í sögunni miðri og enginn leið að segja hverning næstu kaflar verða eða hvort sagan sé rétt að byrja eða brátt að taka enda.

Ljósmyndarinn

Sigurður Ólafur Sigurðsson

Sigurður Ólafur Sigurðsson.

Sigurður Ólafur Sigurðsson, eða Siggi Sig eins og fleiri kannast við hann, er ljósmyndari að mennt og atvinnu og hefur í einn og hálfan áratug ljósmyndað leit, björgun og neyðarstörf á Íslandi. Á þessum tíma hefur hann sinnt verkefnum fyrir Slysavarnarfélagagið Landsbjörg, Almannavarnir, Rauða krossinn, slökkvilið, neyðarlínuna og fleiri neyðaraðila. Gefið út þrjár bækur, haldið og tekið þátt í fjölda sýninga, hlotið verðlaun og viðurkenningar fyrir myndir af björgunarstörfum og haldið fyrirlestra með ljósmyndum frá störfum neyðaraðila hérlendis og erlendis. Siggi hefur verið félagi í Hjálparsveit skáta í Kópavogi í 34 ár, starfaði hjá Slysavarnarfélaginu Landbjörg um árabil og sinnti þar meðal annars ritsjórn tímarits um björgunarmál, menntun björgunarfólks og stjórnun neyðaraðgerða ásamt ýmsum verkefnum tengdum leit, leitarstjórn, ferðamennsku of fleiru. Árið 2012 fór Siggi svo að starfa í fullu við ljósmyndun og hefur gert það síðan. Það er í raun samansuða þessara tveggja ráðandi þátt í bakgrunni hans sem er undirstaða verkefnisins Reykjanes vaknar.

Þakkir

Grindavík

Grindavík – ljósmyndasýning; „Reykjanes vaknar“.

Þó að vinna ljósmyndarans að baki slíku verkefni sé mikil þá væri hún til lítils án aðstoðar og velvildar annarra sem ber að þakka. Þið öll sem hafið lent fyrir framan linsuna, þið öll sem hafið gefið mér ábendingar og látið vita þegar eitthvað markvert er að gerast, allir neyðaraðilarnir sem hafa umborið mig, tekið mig með og aðstoðað á svo margan hátt, verktakar, íbúar, yfirvöld, vísindamenn, Almannavarnir, Landbjörg, lögregla, slökkvilið og svo mætti lengi telja, lengi takk. Takk öll. þetta verkefni er ekki unnið í tímarúmi pg það er eins mikið ykkar og það er mitt.“

Grindavík

Grindavík – ljósmyndasýning; „Reykjanes vaknar“.

Um sýninguna má segja a.m.k. fernt: Í fyrsta lagi er Grindavík og jarðeldarnir ofan byggðarinnar ekki á „Reykjanesi“, hvorutveggja eru á Reykjanesskaga! Í öðru lagi eru ljósmyndirnar ekki teknar af frumkvæði viðbragðs- og neyðaraðila, s.s. lögreglu og slökkviliðs, enda slíkt með öllu óheimilt. Í þriðja lagi geta ljósmyndirnar vart talist meira upplýsindi en myndir annarra ljósmyndara af umræddri atburðarárs og í fjórða lagi hefur nefndur ljósmyndari gert Grindvíkingum meiri grikk en greiða með athöfnum sínum. Þá þar t.d. nefna ómerkilega og algerlega tilgangslausa ljósmynd þá sem viðkomandi tók af Grindvíkingnum Hermanni Ólafssyni á Stað er varð til þess að honum varð í framhaldinu gerður óbætanlegur miski, bæði að hálfu Landsbjargar og lögreglu.
Fólk þarf stundum að kunna fótum sínum forráð, einnig „sjálfsummikilsmetandi ljósmyndarar“, með þröngt áhugasvið. Ljósmyndin getur nefnilega stundum orðið stærri og tvíræðari en ljósmyndarinn heldur. Auk þess er fjöldi ljósmynda af tilteknu landssvæði engin mælikvarði á gæði þeirra eða merkilegheit…

Grindavík

Grindavík – ljósmyndasýning; „Reykjanes vaknar“.

Eldgos

Daníel Páll Jónasson skrifaði um „Hraunflæði á höfuðborgarsvæðinu – Saga hraunflæðis á svæðinu á nútíma og kortlagning mögulegra farvega til byggða“ í ritgerð sinni við Háskóla Íslands árið 2012. Ritgerðin var hluti af Baccalaureus Scientiarum gráðu í landfræði. Þar skrifar hann m.a. jarðfræði Reykjanesskagans og yfirlit um jarðfræði svæðisins þótt megininntakið felist í titli ritgerðarinnar.

Daníel Páll Jónasson

Daníel Páll Jónasson.

„Vel er hægt að ímynda sér einhvern af forfeðrum Íslendinga, eftir miðja 12. öld, standandi uppi á hæð nærri Hafnarfirði og horfandi hughrifinn á úfið Kapelluhraunið þar sem það skreið í sjó fram hjá Straumsvík. Hefur hann hugsanlega, á svipaðan hátt og Vésteinn Vésteinsson mælti um vatnasvið Dýrafjarðar, muldrað þessi fleygu orð: „Öll hraun renna til Hafnarfjarðar“ enda voru forfeður Íslendinga upp til hópa orðheppnir, að minnsta kosti ef miðað er við Íslendingasögurnar. Sá hefur þó líklega gleymt blekinu og kálfskinninu heima því engin slík fleyg setning hefur varðveist í bókmenntaarfi Íslendinga.
HraunÍ staðinn hafa ummerki þessa atburða varðveist og nú byggist stór hluti Vallahverfisins skammt austan þessa úfna hrauns sem í daglegu tali nefnist Kapelluhraun. Örnefnin í vestanverðum Hafnarfirði bera líka enn merki af brennandi áhuga forfeðra Íslendinga af eldsumbrotum en sem dæmi um örnefni sem lýsa vel eldrænu landslagi á svæðisin má nefna „Óbrinnishóla“, Háabruna“, „Hraunhól“ og „Brennu“.
Ef litið er lengra aftur en til þess tíma þegar Kapelluhraun rann, má sjá að hraun hafa runnið alloft um Reykjanes á síðustu öldum og árþúsundum. Eru þessi hraun til marks um að Reykjanesið er virkt svæði þar sem enn má búast við eldsumbrotum.
ReykjanesskagiReykjanesskagi er hluti af gosbeltinu, sem liggur um Ísland þvert og er í beinu framhaldi af Reykjaneshryggnum, sem neðansjávar teygir sig langt suðvestur í haf og raunar er hluti af Atlantshafshryggnum mikla. Frá því að síðasta kuldaskeiði lauk hefur mikil eldvirkni verið á þessu svæði bæði ofansjávar og í hafi. Sú eldvirkni hefur á umliðnum öldum byggt upp Reykjanesskaga og verður ekki enn séð nokkurt lát á þeirri starfsemi.
Reykjanes er það svæði þar sem Reykjaneshryggurinn nær yfirborði en fyrir suðvestan skagann er hryggurinn undir sjávarmáli. Jarðfræðileg lega skagans nær frá Reykjanestá í suðvestri og að þrígreiningu plötuskilanna fyrir sunnan Hengilinn en á því svæði mætast Reykjanesgosbeltið, Suðurlandsbrotabeltið og Vesturgosbeltið.
FlekaskilÁ skaganum er sniðrekbelti og fer gliðnunin fram í eldstöðvakerfum sem liggja frá suðvestri til norðausturs. Heildarlengd þessa rekbeltis á skaganum eru um 65 kílómetrar. Allt eldgosaberg á yfirborði skagans er yngra en 700.000 ára. Stór hluti yfirborðs Reykjaness er þakið hraunum frá nútíma. Hraunin eru ýmist úr dyngjugosum eða sprungugosum en móberg frá fyrri og seinni hluta síðasta jökulskeiðs mynda fjallgarða og hryggi á skaganum auk móbergs frá eldri jökulskeiðum Brunhes. Síðasta jökulskeið, Weichsel, er almennt talið hafa náð frá því fyrir um 10.000 til 100.000 árum en segulskeið Brunhes, sem nær yfir önnur jökulskeið, byrjaði fyrir um 780.000 árum.

Jarðfræðikort

Ísland jarðfræðikort ISOR.

Sé Ísland skoðað í heild hafa samtals komið upp 369 km3 basalts í 457 hraungosum á nútíma, eða eftir hvarf Ísaldarjökulsins fyrir um 11.000 árum. Eru þessi 457 gos rúmlega 90% þeirra 501 hraungosa sem samtals hafa komið upp á Íslandi á nútíma en 56 þeirra hafa orðið eftir landnám. Komu 111 km3 (30%) upp á síðustu 5.000 árum, eða að meðaltali um 22,2 km3 á hverju árþúsundi, og um 188 km3 fyrir 5.000 til 10.000 árum, eða að meðaltali 37,6 km3 á hverju árþúsundi. Dreifðust rúmmálin nokkuð jafnt á hvort tímabil fyrir sig en þó var mjög lítil eldvirkni á tímabilinu fyrir um 2.000 til 3.000 árum síðan.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – jarðfræðikort ISOR.

Á tímabilinu fyrir 10.000 til 11.000 árum síðan gaus 70 km3 basalts, tvöfalt meira hraunmagn á árþúsundi en árþúsundin á eftir, og hefur basalthraunflæði samkvæmt þessum tölum því að jafnaði minnkað á nútíma á Íslandi.
Talið hefur verið að þetta mikla rúmmál hrauns, sem og annarra gosefna, sé rakið til hraðrar upplyftingar landsins eftir að síðustu ísöld lauk en þá komu upp flestar þær rúmmálsmiklu dyngjur sem til dæmis má sjá á Reykjanesi.
Líkt og á Íslandi öllu kemur nær eingöngu upp basaltkvika á Reykjanesi. Á skaganum hafa basalthraungos samtals verið um 111 á nútíma, og þar af 15 á sögulegum tíma, og 33 sprengigos.

Jarðfræðikort

Ísland – jarðfræðikort.

Úr öllum þessum gosum hafa samtals myndast 26 km3 af hrauni og 7 km3 af gjósku eða sem samsvarar 29 km3 af föstu bergi. Sé gengið um Reykjanes sjást ummerki þessarar eldvirkni afar vel og mörg eldvörp eru í steinsnar frá byggð og samgöngum. Eru þessi eldvörp enn greinanleg meðal annars sökum þess að eftir að ísaldarjökullinn hvarf hefur rof á skaganum minnkað verulega. Mörg ummerki eldvirkni eru einnig undir nýrri hraunum sem sífellt mynda ný lög ofan á skaganum en sem dæmi má nefna að síendurtekin hraunflæði hafa fært ströndina í Straumsvík fram um 1,5 til 2 kílómetra frá ísaldarlokum. Þar að auki eru fjöldi hrauna grafin undir yngri hraunum og sjást þau því ekki á yfirborði en þeirra verður aftur á móti vart í borholum.“
Sjá meira HÉR.

Í frétt mbl.is árið 2023 er stutt viðtal við Daníel Pál eftir göngu við gosstöðvarnar í Fagradalsfjalli þar sem hann taldi sig hafa funið „minnsta hraun í heimi“:

Fagradalsfjall

„Minnsta hraunbreiða í heimi“ – Litli-Keilir fjær. Ljósm DPJ

„Daníel Páll Jónasson landfræðingur fann minnstu hraunbreiðu í heimi við gosstöðvarnar við Litla-Hrút þegar hann gekk umhverfis þær á sunnudag. Daníel, sem vinnur nú að útgáfu bókar um síðustu þrjú eldgos á Reykjanesskaga, var í sinni fertugustu ferð að gosstöðvunum þegar hann kom auga á hraunið litla. Hraunið er norðan við gíg­ana sem gaus úr við Litla-Hrút nú í sumar.
„Ég ákvað að labba hringinn í kringum hraunið og þá tók ég eftir þessari litlu klessu. Ég sá að það voru tvö lítil hraun sem voru ekki tengd við stóra hraunið og svo þessi litla klessa,“ segir Daníel í samtali við mbl.is.
Hann birti mynd af klessunni í Iceland Geologyhópnum á Facebook og stakk upp á því að þetta væri minnsta hraunbreiða í heimi. Fékk hann góðar undirtektir og var húmorinn ekki langt undan hjá öðrum notendum sem spurðu í góðu gamni hvort best væri að fylgja leið A eða B að hrauninu.“

Heimildir:
-Hraunflæði á höfuðborgarsvæðinu – Saga hraunflæðis á svæðinu á nútíma og kortlagning mögulegra farvega til byggða, Daníel Páll Jónasson, Háskóli Íslands 2012.
-https://www.mbl.is/frettir/innlent/2023/08/15/fann_minnsta_hraun_i_heimi/

Eldgos

Eldgos á Reykjanesskaganum.

Sundhnúkagígaröðin

Níunda eldgosið á og við Sundhnúksgígaröðina ofan Grindavíkur hófst 16. apríl 2025 kl. 03:55 að undangenginni skammvinnri jarðskjálftahrinu. Áður höfðu þrjú gos brotist út í eldstöðvakerfinu sem kennt er við Fagradalsfjall. Þetta er því tólfta hrinan í röð eldgosa á sama sveimi síðan 2021, en það níunda í röð eldgosa á Sundhnúkagígaröðinni síðan í desember árið 2023. Líklega er þó hér um eitt og sama gosið að ræða – með hléum?

Sundhnúkagígaröðin

Eldgos á Sundhnúksgígaröðinni 16. júlí 2025.

Gosið hófst að þessu sinni af talsverðum krafti á sprungureininni við Sundhnúk til norðurs millum Stóra-Skógfells áleiðis að Kálffelli, sunnan Litla-Skógfells, á u.þ.b. 2,5 km löngum kafla. Hraunrennslið lá til suðurs og suðausturs í átt að Slögu í Fagradalsfjalli. Talsverður gosmökkur fylgdi í kjölfarið með stefnu á Njarðvíkur og Keflavík.

Fyrri gosuppsprettur á sprungureininni hafa jafnan byrjað með skammvinnum látum, en væntanlega mun, líkt og reynslan gefur til kynna, draga úr gosinu fljótlega og ljúka eftir ca. 12 – 20 daga.

Sundhnúkagígaröðin

Eldgis á Sundhnúksgígaröðinni 16. júlí 2025.

Fyrsta eldgosalotan ofan Grindavíkur var 18. desember 2023, önnur 14. janúar 2024, þriðja 8. febrúar 2024, fjórða 16. mars 2024, fimmta 29. maí, sjötta 22. ágúst, áttunda 20. nóv. og loks þetta níunda 1. apríl 2025 sem fyrr sagði. Fyrstu goshrinurnar þrjár voru skammvinnar, vöruðu einungis í rúman sólarhring, sú fjórða varði í u.þ.b. tvo mánuði – lauk þann 9. maí sama ár, eftir 54 daga dugnað og sú fimmta tuttugu dögum síðar, eða þann 29. maí. Stærsta goshrinan að magni til varð hins vegar 22. ágúst 2024.

Sundhnúksgígaröðin

Eldgos á Sundhnúksgígaröðinni 16. júlí 2025.

Ætla má að þessi hrina verði skammlíf, í tíma talið, líkt og þau fyrri. Eitt er þó víst – von er á nýju áhugaverðu landslagi ofan Grindavíkur með nýjum ófyrirséðum framtíðarmöguleikum. Náttúruöflin eru jú ólíkindatól. Þótt þetta eldgosin virðast óálitlegt tilsýndar munu þau bjóða upp á nýja og spennandi tækifæri – til lengri framtíðar litið. Spurningin er bara að reyna að hugsa til lengri framtíðar og nýta það sem í boði verður. Jarðaröflunum verður ekki stjórnað, en hægt verður að nýta þau þá og þegar svo ber undir, líkt og mannkynið hefur gert í árþúsundir.

Sundhnúksgígaröðin

Eldgos á Sundhnúksgígaröðinni 16. júlí 2025.

Kvikuvirknin virðist skv. mælingum hafa teigt sig lengra til norðurs og er nú mest ofan Voga, sem kemur reyndar ekki á óvart að teknu tilliti til landshátta; gífurlegs landsigs millum Þráinsskjaldardyngjunnar og Hrafnagjár.

Eldsumbrot á þessu svæði ætti ekki að hafa komið nokkrum á óvart í ljósi sögunnar – með Dyngjuna Þráinsskjöld í austri, dyngjuna Fagradalsfjall í suðaustri, dyngjuna Vatnsheiði í suðri og dyngjuna Lágafell í suðvestri og dyngjuna Sandfellshæð í vestri.

Sundhnúksgígaröðin

Eldgos á Sundhnúksgígaröðinni 16. júlí 2025.

Gosið er nokkurn veginn á sömu slóðum og fyrri gos á þekktri sprungurein er liggur áleiðis að Kálffelli. Það ætti að þykja heppileg staðsetning m.t.t. byggðarinnar í Grindavík og að merkilegri megininnviðum standi tiltölulega lítil ógn af gosinu. Ólíklegt er að reyna muni á vatnargarðanna ofan Grindavíkur að þessu sinni.

Eldgosið að þessu sinni, líkt og hin fyrri, undirstrikar hversu litla þekkingu jarðfræðingar og jarðeðlisfræðingar virðast hafa á náttúrufyrirbærum sem þessum.

Sundhnúksgígaröðin

Eldgos á Sundhnúksgígaröðinni 16. júlí 2025.

Jörðin, og þar með umhverfið, hefur verið að breytast allt frá því að hún varð til. Slíkar breytingar, smærri sem stærri, munu eiga sér stað á meðan Jörðin lifir, en reynslan hefur sýnt að þær munu eftir sem áður koma venjulegu núlifandi fólki og sérfæðingum alltaf jafn mikið á óvart.
Sem betur fer verða jarðeldarnir ofan Grindavíkur að teljast léttvægir að teknu tilliti til alltumliggjandi atburða sögunnar.

Sundhnúksgígaröðin

Eldgos á Sundhnúksgígaröðinni 16. júlí 2025.

Áhugavert er að engin gögn hafi borist sem sýna að landið hafi sigið eftir að umrætt gos hófst. Engin merki landsigs liggja fyrir. Það beri þess merki að breytingar hafi orðið á eldstöðvarkerfinu í kjölfar gossins í apríl s.l. Enn er þó óljóst hverjar þær breytingar séu eða hvaða afleiðingar þær gætu hafi í för með sér. Líklegt má telja að núverandi goshrina geti verið sú síðusta í Sundhnúksferlinu.

Þessari hrinu eldgossins í Sundhnúkaröðinni lauk 5. ágúst.

Sjá MYNDIR úr eldgosunum átta við Sundhnúkagígaröðina ofan Grindavíkur sem og hrinunum í Geldingadölum, Meradölum og við Litla-Hrút í og við Fagradalsfjall.

Sundhnúksgígaröðin

Eldgos á Sundhnúksgígaröðinni 16. júlí 2015.

Grindavík

Áttunda eldgosið við Sundhnúksgígaröðina ofan Grindavíkur hófst 1. apríl 2025 kl. 09:43 að undangenginni jarðskjálftahrinu. Áður höfðu þrjú gos brotist út í eldstöðvakerfinu sem kennt er við Fagradalsfjall. Ritstjóri FERLIRs hafði reyndar, fyrir tveimur mánuðum, spáð málamyndareldgosi nefndan þriðjudag og þar með skammvinnum goslokum í framhaldinu.

Grindavík

Grindavík – eldgos 1. apríl 2025.

Gos hófst að þessu sinni af annars litlum krafti á sprungurein við Sundhnúk að austanverðu sunnan Hagafells í norðri og inn á Stamphólshraun í suðvestri þar sem eitthvert hraunflæði náði á kafla inn undir varnargarðinn skammt ofan við bæinn. Stamhólsgjáin liggur jú þarna, ásamt þremur öðrum samliggjandi, niður undir austanvert Járngerðarstaðarhverfi…

Fyrstu fréttir af hraunrennslinu bendir til þess að hraunstraumurinn renni í vestur og liggi sunnanvert austan við Sundhnúk, sem fyrr sagði. Tiltölulega lítill hraunstraumur sést í átt að Grindavík og hefur hann leitað lengra til suðvesturs en áður hefur verið – í átt að hraunspýju, sem kom upp í sjötta eldgosinu þegar tvö hús efst í Hópshverfinu urðu hrauni að bráð.

Grindavík

Grindavík – eldgos 1. apríl 2025.

Gosmökkurinn er lítill, auk þess sem gosmagnið virðist minna en í öðrum undanfarið. Væntanlega mun því draga úr gosinu fljótlega.

Þetta er ellefta hrinan í röð eldgosa á sama sveimi síðan 2021, þ.e. auk þeirra þriggja fyrstu er áttu uppruna sinn í Fagradalsfjalli skammt norðaustar – hæfilega fjarri byggð. Líklega er samt sem áður um eitt og sama gosið að ræða – með hléum?

Grindavík

Grindavík – eldgos 1. apríl 2025.

Fyrsta eldgosalotan ofan Grindavíkur var 18. desember 2023, önnur 14. janúar 2024, þriðja 8. febrúar 2024, fjórða 16. mars 2024, fimmta 29. maí, sjötta 22. ágúst, áttunda 20. nóv. og loks þetta níunda 1. apríl 2025 sem fyrr sagði. Fyrstu goshrinurnar þrjár voru skammvinnar, vöruðu einungis í rúman sólarhring, sú fjórða varði í u.þ.b. tvo mánuði – lauk þann 9. maí sama ár, eftir 54 daga dugnað og sú fimmta tuttugu dögum síðar, eða þann 29. maí. Stærsta goshrinan að magni til varð hins vegar 22. ágúst.

Grindavík

Grindavík – eldgos 1. apríl 2025.

Líklegt er að þessi hrina verði skammlífari, í tíma talið, og þau fyrri. Eitt er þó víst – von er á nýju áhugaverðu landslagi ofan Grindavíkur með nýjum ófyrirséðum framtíðarmöguleikum. Kvikuvirknin virðist skv. mælingum hafa teigt sig lengra til norðurs og er nú mest ofan Voga, sem kemur reyndar ekki á óvart að teknu tilliti til landshátta; gífurlegs landsigs millum Þráinsskjaldardyngjunnar og Hrafnagjár.

Gosið er nokkurn veginn á sömu slóðum og fyrri gos á þekktri sprungurein er liggur áleiðis að Kálffelli. Það ætti að þykja heppileg staðsetning m.t.t. byggðarinnar í Grindavík og að merkilegri megininnviðum standi tiltölulega lítil ógn af gosinu, utan hættu á niðurgrafinni vatnsæð Njarðvíkurlínu, háspennulínum og bílastæðum Bláa lónsins, sem eru utan varnargarða.

Grindavík

Grindavík – eldgos 1. apríl 2025.

Eldgosið að þessu sinni, líkt og hin fyrri, undirstrikar hversu litla þekkingu jarðfræðingar og jarðeðlisfræðingar virðast hafa á náttúrufyrirbærum sem þessum. T. d. virðast Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði og bergfræði, við Háskóla Íslands, og Magnús Tumi Guðmundsson, jarðfræðingur og prófessor í jarðeðlisfræði í Háskóla Íslands, jafn forgengilegir og áður þegar á aðdragandann reynir.
Náttúruöflin eru jú ólíkindatól. Þótt þetta eldgos hafi virst óálitlegt tilsýndar, líkt og hin fyrri, við fyrsti sýn, getur það boðið upp á nýja og spennandi tækifæri.

Grindavík

Grindavík – eldgos 1. apríl 2025.

Spurningin er bara, fyrir okkur hin, að reyna að hugsa til lengri framtíðar og nýta það sem í boði verður. Við stjórnum ekki jarðaröflunum, en við getum nýtt okkur þau þegar svo ber undir, líkt og mannkynið hefur gert í árþúsundir.

Jörðin, og þar með umhverfið, hefur verið að breytast allt frá því að hún varð til. Slíkar breytingar, smærri sem stærri, munu eiga sér stað á meðan Jörðin lifir, en reynslan hefur sýnt að þær munu eftir sem áður koma okkur, núlifandi, alltaf jafn mikið á óvart.

Grindavík

Grindavík – jarðeldarnir 1. apríl 2025.

Sem betur fer verða jarðeldarnir ofan Grindavíkur að teljast léttvægir að teknu tilliti til atburða sögunnar.

Eld­gosinu lauk um kl. 16.45 sama dag. Gosið stóð þar með aðeins yfir í um sex klukku­tíma og rek­ur því lest­ina hvað varðar lengd ein­stakra elds­um­brota í þeirri gos­hrinu sem hófst í mars fyr­ir fjór­um árum, þrátt fyrir glaðklakkanlegar lýsingar „hinna mætustu“ vísindamanna.

Hermann Ólafsson

Hermann Ólafsson – Hemmi í Stakkavík.

Og svo virðist sem einhverjir óveraldavanir björgunarsveitarliðar sem og sérsveitarmenn hafi farið á taugum af litlu tilefni í aðdraganda gossins þegar nýlega sjötug refaskytta lyfti góðlátlega haglabyssu upp úr annars veraldlegum vönum farangri sínum. Hafa ber í huga að á þessum árstíma snýst, líkt og fyrrum, hugur Hemma fyrst og fremst um að tryggja æðarvarpið á Stað fyrir ásókn árviss Vargsins. Þetta vita innfæddir, en „vígasveitir“ Ríkislögreglustjóra bera hins vegar ekkert skynbragð á rauntilvist tilverunnar. Þeirra skammsýni snýst einungis um byssur og meinta „bófa“ í afar þröngum skilningi fjölbreytileikans.

Þórkötlustaðarétt

Hermann í Stakkavík, bóndi á Stað, og Birgir á Hópi í Þórkötlustaðarrétt.

Umrædd refaskytta, Hermann Ólafsson, eða „Hemmi í Stakkavík“, er innfæddur Grindvíkur, sonur Ólafs Gamalíassonar á Stað. Hermann hefur verið ein helsta burðarásin í atvinnuuppbyggingu Grindavíkur um áratuga skeið, og hvers manns huglúfi. Hann hefur jafnhliða stuðlað, a.m.k. hingað til, að uppbyggingu og viðhaldi björgunarsveitar bæjarins. Ólíklegt er að framhald verði á því í kjölfar framangreinds. Ef lögreglan á Suðurnesjum (Grindavík tilheyrir reyndar ekki Suðurnesjum) á eitthvað sökótt við nefndan Hermann væri það helst vegna áratuga gamals óupplýsts „sakamáls“, „Stóra Kjöthvarfisins“ í bænum, sem nú er reyndar löngu fyrrt…

Sjá MYNDIR úr eldgosunum átta við Sundhnúk sem og hrinunum í Geldingadölum og Meradölum.

Grindavík

Grindavík – eldgos 1. apríl 2025.

FERLIR lagði í lok marsmánaðar (2010) land og jökul undir fót og hélt að eldsupptökum gosstöðva á Fimmvörðuhálsi.
Gosið kom reyndar upp á Hruna í Goðalandi, en ekki á hálsinum sjálfum líkt og fréttir hermdu.
EldurFetuð voru spor á Mýrdalsjökli upp í allt að 1.504 m.h.y.s., framhjá gígopi Kötlu og inn á berangurshálsinn millum Mýrsdalsjökuls og Eyjafjallajökuls. Leiðangursstjóri var Kári Björnsson, fumlaus með öllu, enda ekki lagt að sækja það (sonur Björns Hróarssonar, jarð- og hellafræðings [Extreme Iceland]).
Um var að ræða gos er varð á sprungurein á tiltölulega afmörkuðu svæði. Gosið er að mörgu leyti líkt bæði Heimeyjargosinu (1973) og Surtseyjargosinu (1963), a.m.k. er um samskonar frumstætt „sjávarhraun“ að ræða að mati jarðfræðings af frönskum ættum er var með í för. Samferða var einnig enskur fasteignasali, sem af einhverri ástæðu hafði sérstakan áhuga á eldstöðinni – hvað s.s. það táknar til lengri framtíðar litið…
Tilgangurinn var ekki að hlusta á bullið í jarð- og jarðeldisfræðingum landsins, heldur var megintilgangur ferðarinnar að líta á og heyra í þessari nýfæddu systureldstöð þeirra fjölmörgu eldri er enn má sjá á Reykjanesskaganum.

Fimmvörðuháls

Á Fimmvörðuhálsi.

 

 

Grindavík

Eldgos hófst af miklum krafti á sprungurein við Sundhnúk að austanverðu Stóra-Skógfelli ofan Grindavíkur um klukkan 23.14 þann 20. nóv. 2024. Starfsmenn HS Orku urðu fyrst varir við merki í borholum um yfirvofandi eldgos rétt áður en það hófst. Starfsmenn voru á svæðinu og fluttu þeir sig strax upp á Reykjanes.

Grindavík

Grindavík – eldgos 20. nóv. 2024.

Fyrstu fréttir af hraunrennsli benda til þess að hraunstraumur renni í vestur og liggi sunnanvert í Stóra-Skógfelli, að því er fram kemur í tilkynningu Veðurstofunnar. Enginn hraunstraumur sést í átt að Grindavík, heldur hefur hann leitað lengra til vesturs en áður hefur verið – að bílastæði Bláa lónsins. Þar mætir hraunstraumurinn annars vegar hárri hraunbrún Illahrauns að sunnanverðu og Arnarseturshraunsbrúninni að austan. Eini möguleikinn er að meint hrauntunga teygi sig í átt að Lat, syðsta gíg hinna eldri Eldvarpahrauna.

Grindavík

Grindavík – eldgos 20. nóv. 2024.

Gosmökkurinn var mikill í upphafi goss. Sást hann greinilega í kvöld- og næturskímunni. Sprunga opnaðist á annars miðri gosrásinni á um 2.5-3.0 km kafla milli Sundhnúks og austur fyrir sunnanvert Stóra-Skógfell. Umfangs hraunsins gæti orðið um 6 ferkílómetrar. Væntanlega mun draga úr gosinu fljótlega. Fyrsta sólahrringinn kom upp tæplega helmingur þeirrar kviku sem hafði áður safnast upp undir svæðinu.

Þetta er tíunda hrinan í röð eldgosa á sama sveimi síðan 2021. Þrjú hinna fyrstu áttu uppruna sinn í Fagradalsfjalli skammt norðaustar – hæfilega fjarri byggð. Líklega er um eitt og sama gosið að ræða – með hléum?

Grindavík

Grindavík – eldgos 20. nóv. 2024.

Fyrsta eldgosalotan ofan Grindavíkur var 18. desember 2023, önnur 14. janúar 2024, þriðja 8. febrúar 2024, fjórða 16. mars 2024, fimmta 29. maí, sjötta 22. ágúst og þetta nýjasta 20. nóv., sem fyrr sagði. Fyrstu goshrinurnar þrjár voru skammvinnar, vöruðu einungis í rúman sólarhring, sú fjórða varði í u.þ.b. tvo mánuði – lauk þann 9. maí sama ár, eftir 54 daga dugnað og sú fimmta tuttugu dögum síðar, eða þann 29. maí. Stærsta goshrinan að magni til varð hins vegar 22. ágúst.

Grindavík

Grindavík – eldgos 20. nóv. 2024.

Líklegt er að þessi hrina verði litlu langlífari, í tíma talið, og þau fyrri. Eitt er þó víst – von er á nýju landslagi ofan Grindavíkur með nýjum ófyrirséðum framtíðarmöguleikum.

Gosið er nokkurn veginn á sömu slóðum og fyrri gos á þekktri sprungurein er liggur áleiðis að Kálffelli. Það ætti að þykja heppileg staðsetning m.t.t. byggðarinnar í Grindavík og að merkilegri megininnviðum standi tiltölulega lítil ógn af gosinu, utan hættu á niðurgrafinni vatnsæð Njarðvíkurlínu, háspennulínum og bílastæðum Bláa lónsins, sem eru utan varnargarða.

Grindavík

Grindavík – eldgos 20. nóv. 2024.

Eldgosið að þessu sinni, líkt og hin fyrri, undirstrikar hversu litla þekkingu jarðfræðingar og jarðeðlisfræðingar virðast hafa á náttúrufyrirbærum sem þessum. T. d. virðast Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði og bergfræði við Háskóla Íslands, og Magnús Tumi Guðmundsson, jarðfræðingur og prófessor í jarðeðlisfræði í Háskóla Íslands, jafn forgengilegir og áður þegar á hólminn er komið.
Náttúruöflin eru ólíkindatól. Þótt þetta eldgos, líkt og hin fyrri, hafi virst óálitlegt tilsýndar, við fyrsti sýn, getur það boðið upp á nýja og óvænta möguleika. Spurningin er bara, fyrir okkur hin, að reyna að hugsa til lengri framtíðar og nýta það sem í boði verður…

Sjá MYNDIR úr eldgosunum sex við Sundhnúk sem og hrinunum í Geldingadölum og Meradölum.

Grindavík

Grindavík – eldgos 20. nóv. 2024.

Tag Archive for: eldgos