Tag Archive for: fornleifar

Kópavogskirkja
Í Kópavogi eru nokkrir staðir, sem hafa skírskotun til sagna og munnmæla. Þeim hefur flestum verið hlíft við raski. Má þar nefna stekk nálægt Fífuhvammsvegi og sel í Rjúpnahæð. Jafnframt eru í bænum nokkrir staðir s.s. Álfhóll, Víghólar, Borgarholt, Latur og Þinghóll þar sem fyrrum er talinn hafa verið þingstaður. Kórsnesið eða Kársnesið, þar sem ormurinn langi bjó í helli, er þó horfið undir landfyllingu – og þar með gull hans.
Mikilvægt er að gæta þess vel að spilla ekki sagnatengdum stöðum, hvorki með jarðraski né skógrækt, eins og svo allt of mörg sorgleg dæmi eru um. Ástæðulaust er þó að sýta súrt, en gleðjast yfir því sem til er og nýta það til fróðleiks og ánægju.

Álfhóll

Álfhóll

Álfhóll í Kópavogi.

Álfhóllinn er líklega kunnasti bústaður álfa í Kópavogi. Hann stendur sunnanvert við Álfhólsveg skammt þar frá sem Digranesskóli er nú. Hóllinn, sem er nokkuð aflíðandi, mun vera um það bil þriggja metra hár ef mælt er frá götu.
Álfhóll er jökulsorfinn klapparhóll sem nýtur bæjarverndar sem bústaður álfa. Hóllinn er dæmi um þjóðtrú Íslendinga og hve sterk hún hefur verið allt fram á þennan dag. Því er haldið fram að álfar hafi fjórum sinnum haft áhrif á framkvæmdir við hólinn.
Hann er að miklu leyti hulinn grasi og mosagróðri, sérstaklega að norðan og austan. Í Álfhólnum er nokkurt stórgrýti sem líkist litlum klettastöllum og liggja þessir smáklettar að mestu um sunnanverðan og vestanverðan hólinn.

Kópavogur

Álfhóll.

Lengi hefur verið talað um að álfar hafi tekið sér búsetu í Álfhólnum og margir segjast hafa séð þá með vissu. Ekki er ljóst hve gamlar þær sögusagnir eru; engar heimildir eru til um atburði fyrr en nokkuð er liðið á þessa öld.
Seint á fjórða áratug þessarar aldar var hafist handa við að leggja Álfhólsveginn. Byrjað var á honum við Hafnarfjarðarveg og ætlunin var að halda áfram í austurátt þar til komið væri að Álfabrekku sem skyldi tengja Álfhólsveginn við Nýbýlaveg. Vegurinn átti að liggja þar um sem Álfhóllinn er en hann yrði jafnaður við jörðu eftir því sem framkvæmdum miðaði. Vel gekk að leggja veginn austur eftir Digranesinu að Álfhólnum.

Kópavogur

Álfhóll.

Þegar kom að því að sprengja hólinn gerðust atburðir sem leiddu til þess að ekkert varð af sprengingu. Vildi svo til að fjármagn það, sem veitt hafði verið til lagningar Álfhólsvegarins, var á þrotum. Féllu þá framkvæmdir niður við ólokið verk og Álfhóllinn stóð óhaggaður.
Árið 1947 var á ný hafist handa og átti að leggja veginn áfram í gegnum Álfhólinn. Þegar vinna hófst á hólnum komu upp vandamál sem áttu sér ókunnar og dularfullar orsakið að margra áliti. Vinnuvélar biluðu og ýmis verkfæri skemmdust eða hurfu jafnvel. Varð það úr að vegurinn var lagður í bugðu fram hjá hólnum norðanverðum en ekki í gegnum hann eins og ætlunin hafi verið. Sagt er að þá hafi framkvæmdir gengið eins og venja var til og hafi álfarnir ekki gert vart við sig að sinni.
Talið er að áhrifa álfa hafi einnig gætt við uppbyggingu lóðarinnar nr. 102 við Álfhólsveg en hún liggur næst hólnum. Eigandi lóðarinnar skilaði lóðinni og vildi ekki byggja þar og fellur lóðin ásamt hólnum nú undir bæjarvernd.

Borgarholt

Kópavogur

Kópavogskirkja á Borgarholti.

Holtið þar í kring, sem Kópavogskirkja stendur nú, hefur verið nefnt Borgarholt. Þar hefur álfabyggð verið talin hvað blómlegust í Kópavogi.
Þegar Borgarholtsbraut var lögð á sínum tíma þurfti að sprengja nokkuð í Borgarholtinu á þeim slóðum sem álfar bjuggu. Um það leyti er fréttist að fyrirhugað væri að leggja veg um Borgarholtið mun maður að nafni Sveinn hafa gengið út á holtið og aðvarað álfana.
Segir sagan að íbúar Borgarholtsins hafi tjáð honum að þeir myndu ekki hindra framkvæmdir heldur flytja sig um set. Kom það á daginn að greiðlega gekk að leggja Borgarholtsbrautina og urðu þar engin óhöpp eða undarlegir atburðir.
Nokkrar heimildir eru um álfabyggðina í Borgarholti og segjast skyggnir menn hafa séð þar bústaði og byggingar álfanna. Hefur húsum álfanna verið lýst nokkuð nákvæmlega og eru til teikningar af þeim eftir lýsingu hinna skyggnu. Þá hefur það borið við að börn frá leikskóla þar í grenndinni hafi séð álfa í holtinu og jafnvel tekið þá tali.

Latur

Latur

„Gamlar“ sagnir eru um að steinninn sé
álfabústaður. Einnig kemur hann nokkuð við sögu Jóns bónda Guðmundssonar í Digranesi. Mun hann hafa setið við steininn og sungið þegar hann kom heim úr sollinum í Reykjavík á fyrri helmingi tuttugustu aldar.

Latur er nokkuð stór steinn í sunnanverðum Digraneshálsi þar sem nú liggur gatan Hlíðarhjalli. Stendur steinninn enn óhreyfður innst í einum af botnlöngum Hlíðarhjalla en áður mun Digranesbærinn hafa verið skammt norðan við steininn.
Sagnir um stein þennan tengjast fremur Jóni Guðmundssyni bónda í Digranesi en álfum en sagt er að á steininum hafi Jón hvílt sig á ferðum sínum um jarðeignina. Þá mun Jón einnig hafa setið eða staðið á steininum og sungið allt hvað af tók er hann var drukkinn sem oft kom fyrir.
Gamlar sagnir eru til um að steinninn Latur hafi verið álfabústaður og mun það sérstaklega hafa verið á vitorði manna er bjuggu í Fífuhvammslandi. Eitt sinn gerðist það að börn, sem voru á ferð við steininn, sáu huldukonu þar á sveimi en er hún varð þeirra vör hvarf hún þeim sjónum við steininn.
Annars er Latur hinn ágætasti drykkjarsteinn.

Þinghóll

Þinghóll

Þinghóll.

Þinghóll er hóllinn sem stendur við Kópavogsbotn hjá gamla þingstaðnum í Kópavogi. Helsta sögnin af Þinghólnum er tengd nafni hans. Það hefur verið trú manna að á hólnum hafi álfar haldið sitt eigið þing á svipuðum tíma og mannfólkið. Eiga álfarnir að hafa komið þar saman og þingað en ekki fóru aftökur þar fram enda þekkist það ekki á meðal álfa.
Til er önnur sögn tengd Þinghólnum en hún segir að þar í grennd hafi sést til huldukonu einnar og mun það hafa verið á sama tíma á hverjum degi. Sást hún ganga frá Þinghólnum í átt að Borgarholtinu.
Kópavogur var einn af fjórum þingstöðum Gullbringusýslu og fyrir margar sakir þeirra frægastur. Mikill fjöldi mála voru tekin fyrir á Kópavogsþingi og dómar felldir. Mun nálægð við Bessastaðavaldið hafa ráðið þar miklu um.

Þinghóll

Afhjúpun upplýsingaskilta við Þinghól.

Elstu varðveittu rituðu heimildirnar um þing í Kópavogi eru frá 1523. Árið 1574 gaf Friðrik II Danakonungur út tilskipun þess efnis að Alþingi skyldi flutt í Kópavog en til þess kom þó aldrei. Merkasti atburður sem tengist þingstaðnum er erfðahyllingin 28. júlí 1662. Þá neyddi danski höfuðsmaðurinn Hinrik Bjelke íslenska forystumenn til að undirrita einveldisskuldbindingu og að sverja Friðriki III Danakonungi hollustueiða meðan hermenn hans hátignar stóðu yfir þeim alvopnaðir. Síðasta aftakan sem fór fram á þinginu í Kópavogi var þann 15. nóvember 1704. Þá voru Sigurður Arason og Steinunn Guðmundsdóttir frá Árbæ tekin af lífi fyrir morð. Var hann höggvinn skammt norðan við þinghúsið en henni drekkt í Kópavogslæk. Árið 1753 var þinghald aflagt í Kópavogi.

Þinghóll

Minningarsteinn um erfðahyllinguna á Þinghól.

Á fyrri hluta aldarinnar bjó sérkennileg kona á Skjólbraut í vestanverðum Kópavogi. Var hún komin nokkuð á efri ár en heilsuhraust þó og skörp í hugsun. Ekki var hún þekkt fyrir annað en að vera góðhjörtuð og hjálpleg á allan hátt en mörgum þótti hún dularfull enda vissu menn að hún var skyggn. Sagði hún stundum sögur af sérkennilegum atburðum og var fullviss um tilvist huldufólks.
Það var á flestra vitorði að gamla konan hefði séð álfa og huldufólk. Eitt þótti öðru merkilegra en það var að um sama leyti hvern einasta dag sá hún huldukonu á gangi. Var huldukonan í svörtu pilsi og með gráa hyrnu á höfði. Ætíð gekk hún sömu leið sem lá frá Þinghól og upp að Borgarholtinu í austri þar sem Kópavogskirkja stendur nú. Hvarf hún gömlu konunni þar sjónum.
Ekki hefur heyrst af öðru fólki sem sá þessa dularfullu konu á gangi og ekki eru allir á sama máli um hver hún var. Telja sumir að hún tengist dysjum sem eiga að vera víða í grenndinni. Þeir eru þó fleiri sem segja að þarna hafi verið huldukona á ferð og hafi hún annaðhvort búið í Þinghólnum sjálfum eða í Borgarholtinu.

Einbúi

Einbúi

Einbúi.

Einbúi er hóll sem rís austan í Digraneshálsi í austasta hluta Kópavogsbæjar fast við Reykjanesbraut. Við hólinn eru stakir steinar en þar hjá munu áður hafa legið landamerki.
Hólnum tengist sú saga að þar hafi búið álfur eða huldumaður. Ekki skal hér fullyrt um hvort hann búi þar enn. Þegar framkvæmdir stóðu yfir við byggingu iðnaðarhúss sem þar átti að rísa skammt frá er sagt að íbúi hólsins hafi látið á sér kræla. Hafi hann séð til þess að vélar biluðu með þeim hætti að ómögulegt var að beita þeim á hólinn.
Sagan segir að þegar lóðaúthlutun stóð sem hæst í Kópavogi var húsbyggjanda fengin lóð við hól í austurbæ Kópavogs sem kallaður var Einbúi. Fékk hann lóðina með því skilyrði að hann kæmi ekki nærrri hólnum er hann færi að grafa fyrir húsinu. Þótti húsbyggjanda sjálfsagt að verða við þeirri bón.
Einhvern tíma á föstudegi var komið að því að grafa fyrir grunni og fékk húsbyggjandinn jarðýtu á staðinn til að sinna því verki. Gekk verkið vel og var langt komið þegar vinnu var hætt um kvöldið. Næsta dag var haldið áfram þar sem frá var horfið en þegar nokkuð var lliðið á daginn þurfti lóðareigandinn að bregða sér frá. Varð það að samkomulagi að ýtustjórinn lyki verkinu en húsbyggjandinn tók honum vara fyrir því að fara of nærri hólnum.

Einbúi

Einbúi.

Ekki hafði ýtustjórinn verið lengi að er honum varð það á að bakka utan í hólinn. Stöðvaðist jarðýtan þar við hólinn og bilaði vél hennar svo að ekki var hægt að koma henni í gang. Kallaði stjórnandi ýtunnar til viðgerðarmenn sem komu þar á staðinn. Eftir að hafa skoðað vélina voru viðgerðarmennirnir sammála um að bilunin væri mikil og alvarleg. Var því kallað á dráttarvagn og ýtan færð á verkstæði til viðgerðar.
Þegar húsbyggjandinn hafði lokið verkum sínum í bænum og kom á staðinn sá hann enga jarðýtu og greinilegt var að ekkert hafði þokast við bygginguna síðan hann fór. Segir ýtustjórinn honum hvernig komið er og verður húsbyggjandinn óánægður með gang mála. Fara þeir saman á verkstæðið. Þegar þangað kom sneri húsbyggjandinn sér að ýtustjóranum og bað hann að setjast í ýtuna og kanna hvort hún færi ekki í gang. Þrátt fyrir vantrú sína verður ýtustjórinn við óskinni og ræsir vélina. Við það hrekkur hún í gang eins og ekkert hafi í skorist. Urðu menn þá mjög undrandi en þó mest viðgerðarmennirnir sem höfðu skoðað ýtuna.
Er nú aftur farið með ýtuna út að Einbúa þar sem framkvæmdum er haldið áfram. Reyndist hún þá í góðu lagi. Fór lóðareigandinn aldrei frá verkinu eftir það og urðu upp frá því engin vandræði. Þóttust menn vissir um að íbúi hólsins hefði hér átt hlut að máli og séð til þess að Einbúinn fengi að standa óhreyfður.

Víghólar

Víghólar

Víghólar.

Víghólar voru friðlýstir sem náttúruvætti árið 1983. Þeir eru í um 70 m hæð yfir sjó og er víðsýnt af þeim. Víghólar eru jökulsorfnar grágrýtisklappir með ávölum hvalbökum og jökulrákum sem bera vitni um legu og skriðstefnu jökulsins sem lá yfir Kópavogi fyrir um tíu þúsund árum. Bergið tilheyrir yngri grágrýtismyndun Íslands, en þær jarðmyndanir runnu einkum sem dyngjuhraun á hlýskeiðum ísaldar fyrir um 100.000– 700.000 árum. Upptök grágrýtisins í Víghólum eru óviss, en gætu verið á Mosfellsheiði. Aldurinn er líklega 300.000–400.000 ár. Af hvalbökum og jökulrákum á Víghólum má ráða að jökullinn sem síðast gekk yfir Kópavog hafði stefnuna NV-SA. Líklega hafa ísaskil jökulsins legið austan Bláfjalla og skriðjöklar gengið frá honum bæði út í Faxaflóa og niður í Ölfus.

Kórsnesormurinn

Kársnes

Kársnes.

Skammt undan ysta odda Kársness er sker sem vel má greina þegar fjarar. Sögur eru til sem segja frá miklum ormi er bjó í skerinu. Lá hann þar á gulli og beit í sporðinn á sér. Mun skerið hafa verið nokkru stærra og meira en nú er og hafi þá frekar talist hólmi. Hólmi þessi var heimili ormsins en þar hélt hann til í hellisskúta einum sem kallaður var kór. Þar lá hann ófrýnilegur mjög og gætti fjársjóðs síns.
Sagt er að nesið allt hafi verið kennt við kór þennan. Hafi það því ekki alltaf verið nefnt Kársnes heldur kallað Kórsnes. Þá var oftar en ekki talað um kórinn í nesinu.
Nú er Kórsnesið/Kársnesið horfið undir landfyllingu – og sennilega hvílir ormurinn undir henni.
Sjá meira HÉR og HÉR.

Heimild m.a.:
-http://www.ismennt.is/
-http://www.kopavogur.is/

Þinghóll

Þinghóll – minjar.

Járngerðarstaðir

Þegar Vesturbraut í Járngerðarstaðahverfi í Grindavík var nýlega grafin upp vegna úrbóta  á varanlegri gatnagerð kom verktakinn niður á hlaðið garðlag. Sá hafði þegar uppi snör handtök, fjarlægði garðinn og mokaði yfir. Vitni urðu þó að atvikinu. Skv. Þjóðminjalögum hefði verktakanum borið að tilkynna fundinn til Fornleifaverndar ríkisins. Ekki er ólíklegt að ætla að þarna hafi verið um að ræða leifar heimagarðs gamla bæjarins á Járngerðarstöðum, þeim er kom við sögu „Tyrkjaránsins“. Af meðfylgjandi uppdrætti að dæma liggur Vesturbrautin í gegnum gamla veggstæðið. Eðlilegt er því að spyrja: „Í ljósi gildandi laga; hvers vegna var ekki gert ráð fyrir að minjar myndu finnast á þessu svæði áður og á meðan á framkvæmdunum stóð og hvers vegna var ekki fylgst með hvort svo væri?“
Járngerðarstaðir - grá lína er ætlaðir garðarÍ
Þjóðminjalögum, 2001 nr. 107, 31. maí segir: „12. gr. Hver sá sem verður var við að fornleifar liggi undir skemmdum skal gera Fornleifavernd ríkisins viðvart. Ef fyrirsjáanlegt er að minjastaður spillist vegna breyttrar landnotkunar eða framkvæmda skal viðkomandi sveitarfélag eða framkvæmdaraðili gera Fornleifavernd ríkisins viðvart með hæfilegum fyrirvara. Fornleifavernd ríkisins ákveður að höfðu samráði við Náttúruvernd ríkisins hvort rannsóknar er þörf, hvort friðlýsa beri viðkomandi stað eða hvort fornleifarnar megi víkja og þá með hvaða skilmálum.
13. gr. Nú finnast fornleifar sem áður voru ókunnar og skal finnandi þá skýra Fornleifavernd ríkisins frá fundinum svo fljótt sem unnt er. Sama skylda hvílir á landeiganda og ábúanda er þeir fá vitneskju um fundinn. Ef fornleifar finnast við framkvæmd verks skal sá sem fyrir því stendur stöðva framkvæmd uns fengin er ákvörðun Fornleifaverndar ríkisins um hvort verki megi fram halda og með hvaða skilmálum.

Gamli bærinn á Járngerðarstöðum

14. gr. Nú telur landeigandi, ábúandi eða einhver annar, þar á meðal sá sem stjórnar opinberum framkvæmdum, að hann þurfi að gera jarðrask, svo sem vegna vegagerðar, veitulagnar, framræslu eða skógræktar, er haggað geti við fornleifum og skal hann þá skýra Fornleifavernd ríkisins frá því áður en hafist er handa við verkið. Lýst skal nákvæmlega breytingum þeim er af framkvæmd mundi leiða. Fornleifavernd ríkisins ákveður hvort og hvenær framkvæmd megi hefja og með hvaða skilmálum. Við allar meiri háttar framkvæmdir, svo sem vegagerð, virkjanaframkvæmdir, flugvallargerð, veitulagnir og skógrækt, skal sá sem fyrir þeim stendur bera kostnað af nauðsynlegum rannsóknum.
Kostnaður Fornleifaverndar ríkisins vegna athugunar á fornleifafundi sem gerð er í því augnamiði að staðfesta eðli og umfang fundarins skal greiddur af stofnuninni.
Framkvæmdaraðili greiðir kostnað vegna þeirra rannsókna á fornleifum sem Fornleifavernd ríkisins úrskurðar að séu nauðsynlegar vegna athafna hans
.“
Var bygginganefnd Grindavíkur í fríi? Þarf að fjölga byggingafulltrúum í bænum svo hægt verði að fylgjast með að fleiri fornleifum verði ekki spillt í framtíðinni? Mun verktakinn iðrast? Hvert verður frumkvæði Fornleifarverndar ríkisins? Spennandi tímar virðast vera framundan. Meira HÉR.

Járngerðarstaðir og Vesturbraut

Sogasel

Með bréfi 20. mars 2006 skilaði Hitaveita Suðurnesja skýrslu um Fornleifaskráningu til sveitarfélagsins Voga og Grindavíkurbæjar, nokkru eftir að sveitarfélögin höfðu þá þegar veitt leyfi til vegagerðar í Sogadal. Ekki er vitað til þess að athugasemdir hafi verið gerðar við þessa aðferðafræði eða vinnubrögð hafi borist frá viðkomandi stjórnvaldi, t.a.m. Fornleifavernd ríkisins. Svo virðist sem hið opinbera (virka) stjórnvaldskerfi sé steindautt þegar kemur að forvörnum eða mikilvægum álitamálum er snerta hugsanlega aðgát varðandi varðveislu fornminja hér á landi.

Sogaselsgígur

Sogasel – uppdráttur ÓSÁ.

Í Fornleifaskráningunni kemur m.a. fram, eins og reyndar áður hefur verið fjallað um á vefsíðu FERLIRs eftir vettvangskoðunarferðir um svæðið, að ein rústanna og sennilega sú elsta er rétt við vegstæðið. Um hana segir höfundur skýrslunnar, Bjarni F. Einarsson, eftirfarandi: „Rústirnar hafa hátt minjagildi. Hugsanlega eru þær forveri Sogasels“.
Auk þess segir helst í Fornleifaskráningunni:
„Þar eru t.d. minjar Sogasels í afar fallegum gíg. Er minjarnar nánast út um allan gíg og líklega margar kynslóðir seljarústa… Á hinu kannaða svæði eru engar friðlýstar fornleifar, en bent skal á að skv. þjóðminjalögum frá 2001 eru allar fornleifar eldri en 100 ára friðaðar og sumar friðlýstar. Þeim má enginn, hvorki landeigandi, framkvæmdaaðili né nokkur spilla, granda né færa úr stað.
Samtals eru fjórar minjar á hinu kannaða svæði, þ.e. í Sogadal utan Sogaselsgígs. Þar af voru einar sem trúlega eru ynri en 1900 og því ekki fornleifar í skilningi laganna. Af þessum fjórum minjum teljast einar hafa hátt minjagildi. Rústir 39:1-2 hafa í heild sinni hátt minjagildi. Hugsanlega eru þær forveri Sogasels.
Nyrst er varða við vegslóða. Hún er líklega nýleg og mun ekki hafa neytt varðveislugildi, en í mikilli hættu. Syðst er vörðubrot, en í lítilli hættu. Um er að ræða vörðu er mun hafa varðað götu frá Sogaseli austur að Vigdísarvöllum.

Sogadalur

Tóft í Sogadal.

Í miðjunni eru tvær fornleifar í lítilli hættu, en í mikilli hættu verði vikið út frá vegstæðinu. Velta mætti fyrir sér hvort ekki sé ástæða til að friðlýsa hinar meintu minjar selsins (39) um leið og leifar Sogasels verða friðaðar. Í raun ætti að friðlýsa allar seljarústir á Reykjanesinu.
Merkilegustu fornleifarnar sem skráðar voru eru fornleifar nr. 39:1-2, í miðið. Þær falla í hæsta minjaflokk og hafa hátt varðveislugildi. Rústirnar eru 18-20 m suður af Sogalæk, í grónum og þýfðum móa undir hlíðarfæti. Rústirnar eru afar ógreinilegar í forminu ogg þýfðar þar sem þær kúra við jaðar vel gróins móa. Þó aðeins tvær rústir séu skráðar hér, er ekki hægt að útiloka að stekk sé t.d. að finna um 80 m suður af minjunum, norðan undir lágum kletti. Rústirnar eru fornlegar að sjá og líklega mun eldri en rústir Sogasels (frá Kálfatjörn, Jarðabók 1923-1924:142) skammt hjá norðan Sogalækjar.
Stærri rústin hefur vekki úr grjóti og torfi, 2-4 m breiða og um 40 cm háa. Ekki er hægt að greina vel hve mörg hólf hafa verið í mannvirkinu. Þau hafa vafalítið ekki verið færri en tvö og dyr snúið mót NV. Einstaka hraungrýti sést á yfirborðinu, en annars er rústin vel gróin mosa og grasi og þýfð. Hún stendur líklega ofan á eldri minjum og því er hún aldursgreind til sextándu aldar eða eldri.

Sogadalur

Varða í Sogadal.

Minni rústin (39:2) er 6 m í þvermál og nær hringlaga. Þykkt veggja er ekki greinanleg, en hæð þeirra er um 60 cm þar sem hæst er. Í SV hluta eru sýnilegir steinar (hraunsteinar). Rústin er vel gróin grasi og mosa og þýfð. Hugsanlega stendur rústin ofan á eldri minjum. Hið hringlaga form bendir til þess að hér hafi staðið fjárborg og þá ekki endilega í tengslum við rúst 39:1. Rústin gæti einnig hafa verið gerði eða stekkur frá hinu meinta seli. [Hinn nýi vegur liggur skammt vestan við rústina].
Varast ber að hafa vinnuskúra eða önnur mannvirki of nálægt fornleifum og haga akstri þungavinnuvéla með tilliti til fornleifa.“
Rétt er að minna á að allt framangreint var áður vitað. Þó ber að gera þá athugasemd við skráninguna að nyrsta rústin, varða, sé nýleg. Ef vel er að gáð, með fullri virðingu fyrir reyndum fornleifafræðingi, er um að ræða að hluta til endurreista vörðu á gömlum vörðufæti. Þarna er um að ræða selsvörðuna við Sogasel, en hún gefur selstöðuna í Sogagíg til kynna þegar komið er upp hálsinn frá Höskuldarvöllum. Selið sjálft sést ekki fyrr en komið er mun ofar og því auðvelt að fara framhjá því. Þarna hefur því verið um einu vísbendinguna að fara eftir fyrir þá sem leið áttu í selið fyrsta sinni. Eðlilegt hefði því verið að gefa henni hættmatið „mikið“.

Sogadalur

Vörðuleifar í Sogadal.

Þrátt fyrir kæruleysislega meðferð sveitastjórna í Vogum og Grindavík, hluthöfum í HS, á leyfisveitingum til gatnagerðar og umferðar um Sogadal er full ástæða til að benda hutaðeigandi aðilum á nauðsyn þess að umgangast svæðið með mikilli aðgát og af varfærni. Þarna eru verðmæti, miklu mun merkilegri, en það sem undir býr.
Þess má geta að lokum að þar sem beinir eigin hagsmunir, eindreginn (þröngsýnn vilji) og fjármunir fara saman gegn hagsmunum varðveislu menningararfleifðarinnar, munu þeir síðarnefndu ávallt bíða lægri hlut – því miður. Mannvitið er ekki lengra komið á þróunarbrautinni. Þótt heita eigi að maðurinn trjóni á toppi vitsmunastigans er það ekki efasemdalaust. Þegar fylgst er grannt með dýrunum verður að álykta að sum þeirra noti skilningarvit sín mun betur þegar kemur að aðstæðum er máli skipta.

Trölladyngja

Trölladyngja og Sogaselsgígur nær.

Fornleifar
Þegar orðið gripafræði er nefnt í tengslum við fornleifafræðina dettur flestum jafnan í hug fagrir og stílhreinir fornir gripir, s.s. Þórslíkneski, sverð eða brjóstnæla, hvort sem er frá heiðnum tíma eða víkingatímanum. Aðrir tengja gripina við meiri nálægð, s.s. rokka, kaffikvarnir eða jafnvel hjólbörur.

Fólk lítur ógjarnan á bíla sem gripi, en þeir og reyndar allt annað sem nútíminn hefur upp á bjóða eru forngripir framtíðarinnar.
Gripafræðin er stærsta einstaka fræðasviðið innan fornleifafræðinnar. Sviðið er reyndar það umfangsmikið að enginn getur verið sérfræðingur í öllum gripum allra landa á öllum tímabilum sögunnar, jafnvel innan einstakra svæða. Þess vegna er sérhæfing í faginu nauðsynleg. Það er hægt að verða sérfræðingur í sverðum, bátum, lyklum, hringprjónum og kunna almenn skil á hvað telst til fornra gripa, en sérfræðingur í perlum hér á landi getur átt erfitt með að vera sérfræðingur t.d. í kínverskum perlum allra tímabila.
En hvað er Gripur? Það er hlutur sem maðurinn hefur sett mark sitt á. Venjulega er gripum skipt i þrennt; a) artifact, gripi gerða af mönnum (sem hægt er að flytja með sér með góðu móti), s.s. skrautgripi, verkfæri og áhöld, b) ecofact, mannvistaleifar, s.s. bein, svarf eða aðrar leifar manna, og c) mannvirki, stærri gripir, sem ekki er hægt að flytja með góðu móti, s.s. stærri styttur, hús o.þ.h. Sumt gæti „fallið á milli laga“, s.s. gjall, sem reyndar er flokkað sem „artifact“, en gæti þess vegna verið „ecofact“.
Eitt af því mikilvægasta við gripafræðina eru „context“ eða samhengið. Það að vita samhengi gripa við umhverfi sitt gefur þeim margfallt vægi. Gripur á borði, slitinn frá umhverfi sínu, segir þess vegna lítið, eða jafnvel ekki neitt. Gripur, sem finnst á vettvangi uppgraftar með öðrum gripum, getur sagt heilmikla sögu, lýst menningu, samfélagi, notkun og jafnvel tilurð hans. Þetta skiptir miklu máli í gripafræðinni og ætti að verða fólki, sem finnur óhreyfðan grip að staldra við og íhuga stöðu sína. Þannig gat „sjóbúðarsteinninn“ í tjörninni í Herdísarvík gefið ýmislegt til kynna um „context“ hans við mannlífið þar fyrrum, en hann mun ekki gera það í stofuhillu þess sem fjarlægði hann þaðan (árið 2005). „Gripur án samhengis er lítils virði“.
Gullstytta er vermætari en þyngd hennar í gulli – á vettvangi þar sem hún finnst. Þar er hún afsprengi tiltekinnar menningar og dæmi um verk hönnuðarins. Á borði safnara er hún verðmæt í gulli. Þannig getur gildismat gripa breyst einungis við tilfærslu. „Sjóræningjar“ stunda listaverkauppgröft víða um heim. Í vanþróaðri löndum fá þeir t.d. leyfi stjórnvalda til að grafa „formlega“ á tilteknum stað með þátttöku heimamanna, en á sama tíma eru þeir að grafa „handan við hæðina“ í leit að verðmætum, sem einungis er ætlunin að selja hæstbjóðendum. Það er þó ekki einungis í fornleifafræðinni sem tvískinnungurinn ríkir. Sama birtingarform má sjá víðar í samfélaginu.
Með fornleifum er reynt að enduskapa söguna, menningu eða samfélag. Þess vegna er svo mikilvægt að skrá jafnan alla „contexta“ af nákvæmni og lýsa þeim vel. Skráningar Daniels Brunn voru t.a.m. mjög nákvæmar miðað við skráningar flestra annarra fyrrum. Það var ekki fyrr en um 1990 að fornleifafræðingar fóru að skrá gripi, sem fundust, bæði af nákvæmni og með samræmdum hætti. Fyrrum var vandinn sá að fallegri, heillegri og áhugaverðari gripir voru skráðir, en aðrir síður. Í dag er hægt að skrá samhengi gripa á vettvangi með ýmsum hætti, en mikilvægt er að halda sama skráningarfyrirkomulagi í gegnum allan uppgröftin, ekki síst fyrir þá, sem á eftir koma. Hins vegar hefur verið, er og verður alltaf spurning hvað eigi að skrá og hvað ekki. Líklegt má telja að sumt af því sem ekki er skráð í dag, s.s. skeljar, gætu þó orðið áhugavert rannsóknarefni sérfræðinga í framtíðinni.
Stigsmunur er að rannsaka forsöguleg og söguleg tímabil. Í fyrrnefndum tímabilum skipta gripirnir öllu, en í hinum síðarnefndu er engu að síður mikilvægt að þekkja hinar skráðu heimildir, sem lagðar hafa verið til grundvallar. Þótt form og notkun áhalda hafi lítið breyst um langan tíma hafa ný orðið til. Hvenær það varð er nauðsynlegt að vita.
Á skömmum tíma hafa orðið tengslarof með kynslóðum. Ef bóndi, uppi um 1920, hefði staðið á bæjarhól þar sem uppgröftur ætti sér stað, gæti hann nafngreint svo til alla gripi, sem þar birtust. Annar bóndi, árið 2005, ætti erfitt með að nefna slíka gripi með nafni.
Sérhver hlutur báts hét eitthvað. Sérhver hlutur rokksins hét eitthvað. Í fornleifauppgrefi er líklegt að hvorutveggja komi ekki upp í heilu lagi, heldur í hlutum. Þess vegna er svo mikilvægt að þekkja hvað hver hlutur hét – eða a.m.k. bera kennsl á hann sem hluta úr þeim tiltekna grip.
Sérhver hlutur hafði hlutverk. Hnífur var t.d. notaður til margvíslegra verka, s.s. búrhnífur, eldhúshnífur eða skurðarhnífur. Á sama hátt gat steinn með gati verið notaður sem kljásteinn, hurðaloka eða þyngdarsteinn. Finnist margir steinar saman er líklegt að þarf sé um kljásteina að ræða. Allt þetta þarf að hafa í huga í „contextum“ þegar gripir finnast á vettvangi.
Ferli gripa er mikilvægt, allt frá uppgraftarstað til safns. Mörg slys hafa orðið á þessari löngu leið. Nægilegt er að ógætinn starfsmaður leggi t.d. kljástein ofan á glerperlu. Þess vegna er svo mikilvægt að gefa öllu góðan gaum, skrá allt vandvirknislega í „contextum“, staðsetningum, hnitakerfum og y og X, auk þess sem skrá þarf allar þekktar upplýsingar s.s. fundarnúmer og fjölda gripa. Margir gripir á sama stað, t.d. leikerkjabrot eða naglar, fá venjulega eitt fundarnúmer, og því er nauðsynlegt að lýsa því öllu mjög vel.
Á fundarstað þarf að huga að „lyftingu“ gripa sem og væntanlegri forvörslu þeirra. Leður þarf t.a.m. skjótari meðhöndlun en bein. Fara þarf vel yfir einstaka gripi, þvo þá (ef það á við – hér kemur að hinu margminnistæða tannburstanotkunartímabili í fornleifafræðinni), og athuga hvort gripir eru rétt flokkaðir eða skráðir.
Þá er komið að því að skrá gripi í gagnagrunn, s.s. eftir númeri, tegund, efni, þyngd, lýsingu o.s.frv. Hægt er að flokka gripi með fleiri en einni aðferð, en mikilvægust er hin kerfisbundna samræmda flokkun á einum og sama uppgraftastaðnum. Við uppgröftin á Bessastöðum, sem tók langan tíma og fara þurfti í gegnum nokkur mannvistarlög, var t.d. notuð fleiri en ein skráningaraðferð. Það er og getur verið slæmt fyrir þá sem á eftir koma.
Ljósmyndun gripa er nauðsynleg sem og teikning af mikilsverðari gripum. Skýrsluskrif eru yfirleitt lokahnikkurinn á hverjum uppgrefti, en stundum getur þurft að bíða með birtingu lokaniðurstaðana því senda getur þurft einstaka gripi til sérfræðinga, t.a.m. jarðfræðinga, málmfræðinga, plöntufræðinga eða annarra, og þá getur lokaniðurstaðan tekið allnokkurn tíma.
Túlkun gripa er eitt mikilvægasta verkefni fornleifafræðingsins. Í því sambandi þarf að hafa margt í huga, en mikilvægt er að fara varlega í allar yfirlýsingar, þ.e. „dempa lýsingar“ á túlkun þeirra. Hin „vísindalega“ aðferð er mikilvæg í þessu sambandi. Benda má á að hér getur reyndar verið um einn veikasta hlekk fornleifafræðinnar, en jafnframt einn þann vandmeðfarnasta. Hin „vísindalega“ varfærni getur á stundum hamlað mögulegri framþróun og umleitun, en hún er eftir sem áður nauðsynleg.
Við túlkun gripa þarf að huga að og spyrja að samhenginu (contextum) sem fyrr sagði (hvar, tími og rúm), með hverju fannst gripurinn, var hann innlendur, erlendur eða aðfluttur, skýrir fundarstaðurinn ástand og tilvist hans, hver eru viðskiptatengslin, skrautið, menningarlegt samhengi, tengsl við þjóðhætti (etnógrafíska nálgun), samanburð á milli staða/svæða, varðveislu (absence = vantar, presence = það sem sést), endurspeglun samtímans (geta sagt til um starfsemi á staðnum, s.s. hvort um var að ræða skála, eldhús eða smiðju í fortíð og nútíð, en ekki framtíð), aukningu eða rýrnun, svæðisbundna tilvist, typologiu (tísku, gerðfræði) og félagslegs- efnahagslegs- eða menningarlegs munar.
Hafa ber í huga að jafnan er mikilvægt, til að fá raunhæfa niðurstöðu, að hafa til grundvallar einstökum rannsóknum samanburð við einstaka staði innan svæðis eða á milli einstakra svæða.
Hér er einungis drepið á það allra helsta sem gripafræðin innan fornleifafræðinnar þarf að hafa að leiðarljósi þegar einstaka gripur er annars vegar. Framangreint er því einungis yfirlit (innsýn), en ekki fullkomin lýsing á fræðigreininni.

Heimild:
Framangreint er að meginefni til fengið úr kennslustund GG í fornleifafræði við HÍ árið 2006.

Fornleifar

Fornleifar undir Bessastaðastofu.

Úlfarsá

Í „Fornleifaskráningu Úlfarsárdals, Reykjavík 2017„, segir m.a. um Úlfarsá:

Úlfarsá

Úlfarsá – tóftir gamla bæjarins nær.

„Úlfarsá telst vera hluti af víðáttumiklu landnámi Ingólfs Arnarsonar en hann nam land milli Ölfusár og Hvalfjarðar fyrir utan Brynjudalsá. Samkvæmt þessu hefur landnám Ingólfs náð yfir alla Gullbringu- og Kjósarsýslu, ef frá er talið svæðið sem liggur milli Brynjudalsár og Botnsár, og Árnessýslu vestan við Ölfusá. Ingólfur gaf svo vinum og vandamönnum er síðar komu hluta af landnámi sínu.1 Svæðið sem jörðin Úlfarsá tilheyrir var því síðar land Þórðar skeggja Hrappssonar en hann hafði fyrst numið land austur í Lóni og búið þar í um tíu ár. Þegar Þórður skeggi frétti að öndvegissúlur hans hafði rekið á land í Leiruvogi seldi hann land sitt Úlfljóti sem þekktur var fyrir að hafa komið með lögin til Íslands. Þórður flutti svo suður og settist að, með ráði Ingólfs, á svæðinu milli Úlfarsár og Leiruvogs.

Úlfarsá

Úlfarsá – gatan að nýjasta bænum.

Við siðbreytinguna urðu þær jarðir sem áður höfðu tilheyrt kirkjunni eign konungs. Úlfarsá er ekki að finna í fógetareikningum, jarðaskiptabréfum né jarðaskrám kirkjunnar frá miðöldum. Jarðarinnar er fyrst getið í jarðabók 1584 og þá undir nafninu Kálfastaðakot og telst jörðin þá vera konungseign. En hvernig má það vera? Ólafur Lárusson hefur komið með skýringu á þessu. Hann taldi víst að jörðin hafi farið undir konung á árunum 1552-1584. Flestar jarðirnar í kringum Kálfakot tilheyrðu Viðeyjarklaustri á miðöldum og því nokkuð líklegt að það hafi einnig átt við Kálfakot. Ólafur bendir á að algengt hafi verið að bæjarnöfn fengju endinguna – kot við það að leggjast í eyði. Jörðin hafi því áður heitið Kálfastaðir en það gæti verið afbökun úr enn eldra nafni, Kálfarrstaðir sem sé þá dregið af karlmannsnafninu Kálfarr.
Hannes Þorsteinsson gerði nafn jarðarinnar einnig að umtalsefni í skrifum sínum um 1923. Hann benti á að jörðin nefnist Kálfastaðakot í jarðabókum frá 1639 og 1696 “og getur vel verið, að það sé upphaflega heitið, kennt við einhverja Kálfa(r)sstaði (eða Kálfsstaði), en nafnið horfið fyrir ævalöngu og Kálfakot komið í staðinn, sem heiti jarðarinnar.” Ólafur Lárusson taldi sennilegt að Kálfastaðir hafi lagst við nágrannajörðina Lambhaga þegar jörðin fór í eyði. Lambhagi tilheyrði Viðeyjarklaustri og fór svo undir konung og þannig hafi Kálfakot komist undir konungshendur. Þegar jörðin var aftur byggð þá var það undir nafninu Kálfastaðakot. Upp úr 1590 er farið að nefna jörðina Kálfakot og árið 1925 er jörðin nefnd Úlfarsá, þá átti hana Sigurjón Einarsson.

Úlfarsá

Úlfarsá (Kálfakot) – tóftir.

Samkvæmt jarðabókinni 1704 var jörðin þá konungseign. Ábúendur voru tveir, Salbjörg Gunnlaugsdóttir sem bjó á helmingi jarðar og Einar Sveinbjörnsson sem bjó á hinum helmingnum. Landskuld af allri jörðinni voru xl álnir og skiptist til helminga á milli ábúenda. Landskuld skyldi borgast í fríðu með sama taxta og gilti um Helliskot. Ábúendur skyldu leggja fram við til húsabóta. Kúgildi voru þrjú, eitt og hálft hjá hvorum ábúanda. Leigur skyldu borgast í smjöri heim til Bessastaða eða í Viðey eftir því sem fyrirmæli voru. Ábúendum bar að yngja upp kúgildin. Á jörðinni voru sömu kvaðir og á Reynisvatni nema hvað hestlán varðar en hestlán höfðu ekki verið á kvöð á jörðinni þar sem ábúendur voru svo fátækir að þeir áttu annað hvort engan hest eða einn og þá „lítt eður ekki færan, og fóður minnast menn ei að verið hafi kýr að fullu“. Engjar voru taldar „ærið“ litlar, útigangur lakur og landþröng mikil. Kvikfénaður Salbjargar voru tvær kýr en Einar var með fjórar kýr, eina kvígu veturgamla, einn hest, sjö ær með lömbum, tvær geldar ær, tvo veturgamla sauði og einn tvævetur. Talið var að á allri jörðinni gætu fóðrast sex kýr, 10 lömb og einn hestur. Tveir voru til heimilis hjá Salbjörgu og þrír hjá Einari. Torfskurður til húsagjörðar og eldiviðar var talinn nægilegur.

Úlfarsá

Úlfarsá – fjárborg.

Árið 1882 var jörðin í eigu Jóns Péturssonar „háyfirdómara” og Tómasar Hallgrímssonar „læknaskólakennara” sem bendir til þess að þá hafi eigendur ekki búið á sjálfir jörðinni allt árið. Árið 1909 þegar Herforingjaráðskortið var gert af svæðinu, er Úlfarsáin nefnd Korpúlfsstaðaá og Úlfarsfell Hamrafell. Frá Vesturlandsvegi sem þá var orðinn vagnavegur liggja tveir vegir inn Úlfarsárdalinn að norðan, en við Lambhaga greinast þeir í tvær leiðir, önnur fer upp að hryggnum sunnan við Leirtjörn að Úlfarsfelli og áfram að Reykjarkoti og Syðri-Reykjum, en neðri leiðin fer beint að Kálfakoti.
Samkvæmt manntali frá árinu 1703 til 1920 bjuggu í Kálfakoti ein til tvær fjölskyldur frá 1703 til 1920, fæst fimm manneskjur en flest nítján.

Kálfakot

Kálfakot – túnakort 1916.

Túnakort var gert af jörðinni Kálfakot árið 1916, af Vigfúsi Guðmundsyni frá Keldum. Aðalbærinn er á miðju kortinu undir „Fellinu“ og samanstendur hann af sjö húsum sem hafa verið torfhús með standþili og snúa þau suður. Á hlaðinu eru auk þess tveir stórir kálgarðar, bæjartröðin lá í austur frá bænum. Norðaustur af bænum í Fellinu hefur verið annar bústaður, tvö hús og annað þá greinilega orðið tóft, en við það var lítill kálgarður.
Austur af bænum voru tvö útihús og hefur anað þeirra verið tóft. Suður af bænum neðst í túninu hefur verið lítið timburhús, þar suður af var skeifulaga skjólgarður og lítill kálgarður. Í athugasemdum við kortið kemur fram að timburhúsið neðst í túninu hafi verið byggt til íbúðar (Margrét Zoega) árið 191?, og rifið aftur (Jón Kr.) 1917 og selt til Reykjavíkur. Jaðar túnsins er markaður en einungis hefur verið hlaðinn túngarður frá Gili í austur að bústaðnum en þar hefur tekið við girðing. Í Gilinu hefur verið girðing eða aðhald. Túnið telst vera 3,2 teigar (hektarar) og er um helmingur sléttaður nýlega og kálgarðar hafa verið um 950 m2.

Úlfarsá

Úlfarsá – stekkur.

Á árunum 1915-17 bjó Margrét Zoëga í Kálfakoti, en hún flutti þangað í kjölfar brunans á Hótel Reykjavík, en hún var þá orðiðn ekkja (Einar Zoëga). Margrét átti þá tvær jarðir, Einarsstaði á Grímstaðholti og Kálfakot. Sjálf ræktaði hún garðávexti að Einarstöðum en hafið ráðsmann í Kálfakoti. Margrétt lét byggja lítið timburhús fyrir sig í túnfætinum á Kálfakoti trúlega árið 1915, en þar var síðar reist steinhús á Úlfarsá (1930). Árið 1918 reisti Margrét Zoëga síðan húsið Þrúðvang við Laufásveg 7 og flutti þangað í kjölfarið.
Í framhaldi eignast Jón Kristjánsson prófessor í Reykjavík jörðina árið 1918 og lætur hann rífa hús Margrétar og selur það til Reykjavíkur. Hann var stórhuga í búskapnum, og árið 1918 lét hann þurrka upp tjörn fyrir utan og ofan bæinn (Leirtjörn), sem var 18 dagsláttur að stærð. Þar ætlaði hann, ef honum hefði enst aldur til, að sá í hana höfrum. Að meðaltali fengust 18 hestar af hafragrasi af dagsláttunni hér á landi þá. Auk þess byggði hann, ásamt eiganda Reynisvatns, vatnsveitugarða og ætluðu þeir að veita Úlfarsá yfir allar engjarnar, sem liggja með fram henni.

Úlfarsá

Úlfarsá – stífla.

Í Fasteignamatsbók Kjósarsýslu frá 1918 er jörðin nefnd Kálfá en svo innan sviga (=rkot) þannig að bæði nöfnin hafa verið þekkt á þeim tíma. Að auki hefur nafninu Úlfarsá verið bætt við fyrir aftan og er það líklega gert árið 1930, þegar athugasemdum var bætt inn í bókina. Í matsbókinni kemur fram að jörðin sé norðanvert í Úlfarsdalnum, um 11 km frá Reykjavík, eigandi og notandi sé Jón Kristjánsson. Jörðin er skattsett 200 krónur. Svo virðist sem enginn búi á jörðinni á veturna. Tún voru 3,2 teigar, hölluðu til suðurs og tæplega helmingur var sléttaður og taða var um 130 hestburðir. Sáðreitir voru 800 m2 og uppskeran um 12-15 tunnur. Miðað við stærð sáðreita hefur þetta verið lítill hluti af Leirtjörninni sem sáð var í. Útslægjur voru taldar fremur þýfðar en nokkuð samfelldar og mest var af þeim hafa um 300 hestburði. Land var ekki mikið, og fremur rýrt, sunnan í Úlfarsfelli. Tún var girt á tvo vegu, mest var notast við þriggja strengja vír en restin var grjótgarður. Aðrir kostir eða ókostir voru „varla teljandi“ en mótak talið sæmilegt, vatnsból gott, byggingarefni lélegt og „hægt um tún útfærslu“. Bent er á að foss sé í ánni á merkjum og mögulegt væri að veita á slægjublett. Árið 1918 er engin áhöfn á jörðinni um veturinn en talið að hún fóðri þrjár kýr og einn vetrung, þrjú hross og 100 fjár. Hvað húsakost varðar var hann metinn á 1100 krónur en hann samanstóð af timburhúsi í smíðum úr fremur lélegu efni, 4,4 x 6,9 m metið á 500 krónur, hlaða fyrir 250 hesta metin á 300 krónur, fjós fyrir tólf nautgripi (sumarfjós) metið á 160 krónur, hesthús fyrir fimm hross metið á 40 krónur. Jarðabætur voru metnar á 300 krónur og heildarmat var því um 6000.

Úlfarsá

Úlfarsá – stíflugarður fyrir vorflæðið.

Björn Bjarnason segir svo í riti sínu Sagnir, ljóð o.fl. frá 1931: „Úlfarsá (áður Kálfakot). Þar bjó lengi Guðm. Jónsson á síðari hluta 19. aldar. Síðan hafa ýmsir búið þar, sumir eigendur, þar á meðal Margrét (Tómasd.) Zoega. Hún færði bæinn, er var ofarlega í túni, á lítinn bala neðst í því. Byggði þar timburh. og leiddi vatn inn. Það hús var síðar rifið, og byggt annað minna. Síðar var annað íbúðarhús byggt við það, en eldra húsið gert að geymslu. Fjós og hlaða er nú steypt. Eig. + ábúandi nú Jón Guðnason hefur gert nýrækt allmikla. Túnið að mestu sléttað. Var 3 kúa tún, nú 10-12. Talsvert sauðfé. Girðingar miklar.“
Ljóst er af þessum lýsingum að staðsetning bæjarins hefur ekki verið samfelld á einum bæjarhól. Bærinn var að hluta færður um 1916 þar sem síðar var steypt hús á Úlfarsá. Þar byggði Margrét Zoega fyrst 1915 það hús var síðan rifið og nýtt í byggingu 1918 þegar úttektin fór fram, sjá hér að framan, sama ár létust hjónin Jón Kristjánsson lagaprófessor og kona hans Þórdís T. Benedikts. Jörðin var síðan auglýst til sölu í desember 1918 metin á 12,2 hr. að dýrleika og átti að seljast hvort sem er með eða án áhafnar. Þá virðist ekki hafa fundist kaupandi, því jörðin var boðin upp 8. maí árið eftir og þá eru þar 6 kýr 25 kindur, 2 vagn hestar og 6 hænsni auk vagna, plóga, herfis, reipa og annarra húsmuna.

Úlfarsá

Úlfarsá – kennileiti.

Jón Guðnason og Jóna Þorbjarnardóttir bjuggu á Úlfarsá frá 1927-1944 og byggðu þau upp jörðina. Árið 1930 var búið að byggja tvö íbúðarhús annað úr timbri en hitt steypt, auk steyptar hlöðu og fjóss. Vatnleiðsla lá heim að bænum og búið að stækka túnin frá fyrra mati.
Fjárhús var á jörðinni auk þess sem búið var að ryðja bílfæra braut að bæjarstæðinu. Úlfarsá var í ábúð til ársins 1953.
Á árunum 1948-50 fékk Atvinnudeild Háskólans að gera ræktunartilraunir á Úlfarsá og var dr. Áskell Löve þar fremstur í flokki með ræktun, t.d. á jarðaberjum, eplatrjám ásamt 97 afbrigðum af kartöflum.
Upp úr 1950 var farið að huga að byggingu fyrir drykkjumannahæli í nágrenni Reykjavíkur og árið 1979 var Gæsluvistarsjóður orðinn eigandi Úlfarsár. Jörðin var þá nýtt sem útibú frá Kleppspítala og var drykkjumannahæli þar til ársins 1962. Gestur Björnsson forráðamaður vistheimilisins var skráður fyrir nokkrum skepnum á jörðinni 1980.
Jörðin tilheyrði Mosfellssveit til ársins 2001, þegar sveitafélagsmörkum var breitt. Uppbygging á íbúðahverfi innan jarðamarka Úlfarsár hófst í kjölfar samþykktar á deiliskipulags fyrir Úlfarsárdal árið 2006.“

Heimild:
-Fornleifaskráning Úlfarsárdals, Reykjavík 2017.

Úlfarsá

Úlfarsá – brunnur.

Strýthólahraun.

Eftirfarandi er megininntak erindis, sem einn FERLIRsfélaganna flutti á opinni ráðstefnu Landverndar um þá framtíðarsýn að Reykjanesskagi verði eldfjallagarður og Handritfólkvangur. Ráðstefnan var haldin í safnaðarheimili Keflavíkurkirkju 24. febr. 2007:

Reykjanesskaginn geymir miklar náttúru- og mannvistarminjar – mikil verðmæti. Með sanni má segja að á svæðinu megi sjá minjar um svo til alla búsetu- og atvinnusögu þess frá upphafi landnáms hér á landi.
Skaginn – hið forna landnám Ingólfs – er vestan línu sem dregin er frá  Botni að Ölfusrárósum.
Á þessu svæði búa nú, árið 2007, um 207.000 manns. Það skapar bæði möguleika í verulegra góðri nýtingu, en einnig þörf á yfirveguðum varnaraðgerðum.
Hópur fólks, FERLIR, hefur endurkannað landnámið markvisst og skipulega í nokkur ár, leitað uppi minjar, skoðað, myndað og skráð þær.
“Reykjanesskaginn er alger auð“ og þar er ekkert merkilegt að sjá”. Þetta má sjá í ferðabók fyrr á öldum. Segja má að viðhorfið hafi lítið breyst  – hjá mörgum.
Það sem flest fólk sér á ferð sinni um svæðið eru þjóðvegir og háspennumöstur – og kannski hraun og stöku fjall.
Svæðinu hefur verið raskað, oft að óþörfu og stundum án tilskilinna leyfa.
Margar hinna merkilegu mannvistaleifa eru vanræktar (Kapellan á Hraunssandi).
StakkavíkurselAðrar hafa verið skemmdar án nokkurrar skynsamlegrar hugsunar.
Svæðið hefur fjöldamargar mannvistaminjar að geyma. Segja má að hvar sem stigið er niður fæti megi sjá ummerki eftir forfeður og –mæður.
Minjarnar eru engu ómerkilegri en hin fornu handrit. Þau eru skráð í leður. Bæði letur og skinnin eru mannanna verk. Það eru aðrar minjar líka. Þær eru úr efni, sem fólkið nýtti sér, efni sem landið gaf af sér, mest grjót, torf og timbur. Úr því má enn lesa sögu fólksins, hagi þess og aðstæður á hverjum tíma. Engum dytti í hug að rífa blað úr fornu handriti. Með því hyrfi hluti sögunnar.
Fortíðin skiptir máli. Minjarnar eru áþreifanleg tengsl okkar við fortíðina.
Með sanni má segja að gömul hús eru bæði minnismerki um fortíðina og arfleifð fortíðar, einkum kirkjurnar.
Af sömu hvötum hefur verið reynt að gera upp gömul hús í upprunalegri mynd.
En uppruninn, algerlega ósnertur, liggur víðar. Áþreifanleiki hans felst í minjunum, sem víða leynast.
Í minjunum felast mikil verðmæti, bæði umhverfisleg og söguleg. Náttúruminjar gleðja augað, fylla okkur stollti á landinu okkar og skapa atvinnu. Mannvistaminjar eru áþreifanleg tengsl okkar við fortíðina.
Án fortíðar er framtíðin lítils virði.

Álftanes

Álftanes – varðskýli í Camp Brighton.

Bessastaðir

Fornleifafræðingar líta á sig sem vísindamenn, sem og þeir eru. Þeir eru, líkt og aðrir vísindamenn, jafnan uppteknir af því að takmarka umræðuefni fræðigreinarinnar og spyrja eigin spurninga, s.s. um hvað er hægt að tala og hvað ekki? Þeir halda sig og við þær vísindalegu kröfur, sem til þeirra eru gerðar vegna þess að þeir telja sig bera ábyrgð á viðfangsefni fagsins. Hér er að hluta til um misskilning að ræða og það af nokkuð þröngsýnum ástæðum. Það er reyndar ekkert að því að takmarka viðfangsefnin og beina athyglinni að ákveðnum atriðum, en þó má aldrei gleyma að sýna skilning á skoðunum annarra fræðimanna (sagnfræðinga og þjóðfræðinga) sem og jafnvel leikmanna? Og hvað er að því að opna fyrir aðrar túlkanir á ákvörðuðu viðfangsefni líðandi stundar? Ef þessir ólíku aðilar tækju sig nú saman, samhæfðu möguleika fræðigreinarinnar og reyndu að nýta allt það sem hún hefur upp á að bjóða henni til framdráttar væru líkur á góðum, og jafnvel ágætum, árangri miklu mun meiri en hingað til hefur þekkst.

Hafnir

Hafnir – landnámsskáli.

Fornleifafræðingar hafa undanfarna áratugi reynt að marka sér nýja „bása“ og um leið aukna möguleika. Þessi „básauppblátsur“ hefur hins vegar kallað á gagnrýni á það sem fyrir er og þar með sundurlyndi. Fagið hefur því ekki borið gæfu til að nýta sér það besta til enn betri nota.
Eitt helsta vandamál fornleifafræðinnar er þó almennt sambandsleysi fræðimanna og leikmanna. Hinir fyrrnefndu eru hafnir yfir það að ræða við þá síðarnefndu og þeir síðarnefndu reyna ekki einu sinni að nálgast þá fyrrnefndu af hógværum ástæðum. Hér vantar eðlilegan samráðsvettvang fyrir þessa mikilvægu vitundaaðila um fornleifafræðileg efni. Líklegt má telja að sameiginleg nálgun þeirra geti skilað miklu mun meiru inn í þjóðararfinn en hingað til hefur hefur verið.
Hér er ágætt dæmi: Leikmaður finnur merkilega fornleif. Hann reynir að koma vitneskjunni á framfæri, en vegna þess að viðkomandi er á fundi, á ráðstefnu, veikur eða í sumarfríi, er ekki hægt að koma upplýsingunum á framfæri. Leikmaðurinn gefst upp, en segir loks fréttamanni frá uppgötvuninni. Áhugi vaknar hjá fréttamanninum og hann kemur fréttinni á framfæri, enda telur hann sig vera að þjóna hagsmunum almennings. Einhver kerfiskarl, eða -kona, verður afbrýðissamur/-söm og ákveður að senda leikmanninum áminningu með vísan til 13. gr. þjóðminjalaga (tilkynna ber o.s.frv.). Leikmaðurinn verður sár og ákveður að tilkynna aldrei slíka fundi aftur, hvorki til viðkomandi stjórnvalds né fréttamanns. Og hver var ávinningurinn? Verri en enginn. Ef stjórnvaldið hefði hins vegar sent leikmanninum kveðju og þakkir fyrir árangurinn hefðu viðbrögð hans í framhaldinu, a.m.k. gagnvart því, orðið allt önnur og líklega árangursríkari. Viðbrögð opinberrar sjórnsýslu, þótt hún sé einungis marklítil orð í lögum eða reglugerð, getur því skipt máli um árangur.

Hofsstaður

Hofsstaður eftir fornleifauppgröft.

Reynslan sýnir að þegar fornleifafræðilegir vísindamenn fá tækifæri til að nálgast eðlilega og hversdagslega hluti á mannlegum forsendum þá hefur vitund þeirra breyst og skilningur aukist, bæði á viðfangsefninu og faginu í heild. Dæmi um þetta eru útgefnar staðbundar fornleifaskráningar, sem hingað til (skv. skilyrðum laga) hafa einungis verið unnar undir handleiðslu fornleifafræðinga. Sumum þeirra hefur verið ábótavant. Leikmenn hefðu möguleg getað bætt þar um betur.
Það eitt segir til um mikilvægi „eðlilegra samskipta“. Háskólasamfélagið eða afurð þess á í sjálfu sér enga möguleika að lifa sjálfstæðu lífi án „fóðurs“. Fóðrið mun og hefur alltaf komið frá áhugasömu fólki um ríkjandi viðfangsefni á hverjum tíma, hvort sem það hefur verið í formi texta á skinni eða „álestur“ landsins. Útfærslan og meðhöndlunin hefur hins vegar verið viðfangsefni vísindamannanna. Fóður fornleifafræðinnar verður einungis sótt til fortíðarinnar – hvort sem „nýjar“ uppgötvanir hennar eða ábendingar koma frá leikmanni eða einstaka fornleifafræðingi.

Fornleifar
Almennt
Ein sérgreina innan fornleifafræðinnar, og að mörgu leyti alveg sérstök, er að skrá minjastaði úti í náttúrunni. En hvað er fornleifaskráning og hvert er markmið hennar?
Eftirfarandi er dæmi um þróun og stöðu fornleifaskráningar, sem virðist vera nokkuð lík eftir ýmsum löndum Evrópu. Krísa hefur hins vegar orðið í skráningunni í seinni tíð, einkum vegna vanskráningar. Áhersla hefur í auknum mæli færst yfir á björgunaruppgrefti, en minna verið um leit og skráningu minja.
Í Austurríki (83.000m2) eru áætlaðar um 250.000 fornleifastaðir. Engin fornleifaskráning hefur farið fram eftir 1995 nema vegna umhverfismats. Á Spáni eru áætlaðir um 100.000 fornleifastaðir (505.000m2). Í Danmörku (43.000m2) eru um 158.000 fornleifastaðir skráðir í miðlægan gagnagrunn, þ.á.m. um 7.000 neðansjávar (t.d. skipsflök). Á Íslandi eru um 120.000 fornleifastaðir til í miðlægum skrám (103.000m2) eða 1.16 fornleif per km2. Sambærilegar tölur eru; Spánn 0.19 fornleif, Danmörk 3.67 fornleifar og Austurríki 3.01 fornleifar.

Hlöðunes

Hlöðunes – uppdráttur 2024; ÓSÁ.

Í fyrstu voru fornleifar skilgreindar sem eitthvað skrýtið og skemmtilegt. Síðan var sett löggjöf til verndar fornminjum, t.d. allar eldri en 100 ára og hús eldri en 1918. Erlendis er allur gangur á slíkri skilgreiningu og jafnvel dæmi um að fornleifastaðir verði það ekki fyrrr en þeir hafa verið rannsakaðir, t.d. eftir uppgröft.
Það sem ráðið hefur skráningu fornleifa í gegnum tíðina eru margvíslegar. Í fyrstu réðu hagsmunir valdhafa (tengsl fornleifastaða og fyrri valdhafa), þeir voru fjarhagslegir eða jafnvel ímyndarlegir (mat á gæði þjóða). Hagsmunir hópa gátu ráðið hvað teldist til fornleifa, sameiginleg fortíð, s.s. helgir staðir í augum þjóðar (Þingvellir) eða jafnvel hagsmunir ferðaþjónustunnar á hverjum tíma. Um varðveislu fornleifa hefur verið tekist á, en mikilvægt er að vernda það sem telja má merkilegt fyrir sögu og tilfinningagildi þjóðar. Hagsmunir vísindasamfélagsins liggja fyrst og fremst í kröfunni um heildarskráningu (mikilvægt að hafa yfirsýn til að vita hvað er til), samræmi í skilgreiningum, samræmi í gagnavistun (til að auðvelda aðgengi) og nákvæmni skráninga.
Á Íslandi má segja að skipuleg fornleifaskráning hafi hafist með spurningum fornmenjanefndarinnar dönsku árið 1817, Sóknarlýsingum Hins ísl. bókmenntafélags frá 1839, skráningu Hins ísl. fornleifafélags 1879 og síðan með lögum til verndar fornleifum frá 16. nóv. 1907. Skilgreiningar á hugtakinu fornminjar var mjög víð. Í framhaldi af þeim voru 10 staðir friðlýstir. Lögin voru að mestu samani af Matthíasi Þóraðsyni, þjóðminjaverði. Þá komu Þjóðminjalög 19. maí 1969 og aftur 29. maí 1989. Þá kom inn 100 ára reglan um friðun og heimild til að friðlýsa yngri minjar. Þessi regla kemur ekki til með að eldast vel því hún kemur til með að úreldast þegar fram líða stundir (öll mannvirki verða mun varanlegri en áður var).

Ásláksstaðir

Ásláksstaðir – uppdráttur 2024; ÓSÁ.

Reglugerð með Þjóðminjalögum kom út 4. janúar 1998. Í henni var m.a. gert ráð fyrir að allir minjastaðir yrðu skráðir undir stjórn fornleifafræðings og færðir á kort. Reglugerðin hefur hins vegar ekki verið löguð að núgildandi Þjóðminjalögum, sem eru frá 31. maí 2001. Þau lög eru nú í endurskoðun. Vonandi verða gerðar róttækar breytingar á þeim, bæði hvað varðar „stofnanalénsveldi“ og möguleika á „eðlilegri“ samskiptagrundvelli fræðimanna og leikmanna.Sagan hér á landi – stutt yfirlit
Fram til 1850 voru ýmsir rannsóknarleiðangrar farnir hér á landi, en vísindalegar aðferðir við fornleifaskráningar voru varla til. Fór það eftir áhuga ferðalanga (t.d. Eggerts og Bjarna) að hverju athyglin beindist og hvað var skráð. Örnefni, einkum er tengdust sögustaðaminjum, dómhringjum og hofum, komu fram í prestaskýrslum dönsku fornminjanefndarinnar (1817) og sóknarlýsingum. Oft var vitnað í munnmæli studd texta fornritanna og einstakar eigin athuganir voru gerðar.

Krýsuvík

Krýsuvíkurtorfan – uppdráttur ÓSÁ.

Um 1870 til 1910 fór fram víðtæk sögustaðaskráning (tengd Íslendingasögunum bæði beint og óbeint). Örnefni og frásagnir komu frá staðkunnugum og eigin athuganir höfðu aðallega þann tilgang að finna tiltekna staði er getið var um í Íslendingasögum eða Landnámu. Fram fóru nokkurs konar dómar hvort tillögur eða kenningar tiltekinna manna stæðust eður ei. Í flestum tilvikum stóðust þeir – að minnska kosti á meðan annað var ekki vitað. Kaalund hafði nokkra sérstöðu. Hann hafði aðgengi bæði að óprentuðum gögnum í Kaupmannahöfn og hafði lag á leiðsögn heimamanna á hverjum stað. Þá hafði Brynjúlfur Jónsson einnig nokkra sérstöðu á þeim tíma þar sem var áhugi á alþýðufróðleik þess tíma, byggðum á sögum og munnmælum en ekki algerlega á texta Íslendingasagnanna. Segja má að Brynjúlfur hafi verið fyrsti fornleifaskrásetjarinn, sem reyndi með eigin upplifun að túlka minjar, s.s. eyðibýli, oft sem engar ritheimildir voru til um.

Daniel Bruun.

Daniel Bruun.

Um 1895-1905 byrjaði hin menningarsögulega skráning fornminja. Þar voru fremstir í flokki Þorsteinn Erlingsson og Daniel Bruun. Sá fyrrnefndi safnaði minjum til stuðnings minjum í Kanada að beiðin þarlendrar konu, en sá síðarnefndi leitaði bæði skipulegar og ítarlegar að fornminjum en áður þekktist. Þá beindi hann athygli að fleiri og miður áhugaverðari minjum, s.s. stekkjum og kvíum. Þessi áhugi hans varð til þess að efni um þessar tegundir „sjálfsagðra“ fornminja varðveittust síðar. Daniel byggði á fyrra skráningarstarfi, gerði skipulegar athuganir, leitaði á vettvangi og lagði áhersla á tilteknar gerðir og flokka fornminja, en gerði ekki upp á milli þess sem hann uppgötvaði og beinna ritheimilda.

Kristján Eldjárn

Kristján Eldjárn.

Um 1920-1970 kom millikafli – örnefnaskráningin. Áherslan færðist yfir á sjálfan íslenska bóndann. Hann gerði örnefnaskrá fyrir sitt svæði (enda staðkunnugur) eða tekið var viðtal við hann um örnefni í landareign hans. Allt var skráð. Landið sjálft fékk einnig verðskuldaða athygli. Auknar eyðibýlarannsóknir fylgdu í kjölfarið samfara tóftaskoðunum.
Eftir 1970 hafa ýmsir áhrifaþættir ráðið fornleifaskráningunni, s.s. umhverfisverndarstefna, barátta fyrir friðun (þjóðgarðar) og aukinn almennur áhugi á verndun, einkum gamalla húsa. Rannsókn Sigurðar Þórarinssonar á jaðarbyggðum og útbreiðslu eyðibyggða fékk athygli og norrænt eyðibýlaverkefni fór í gang með þátttöku Björns Teitssonar (í Suður-Þingeyjarsýslu).
Helstu vörður þessa tíma má segja að séu þó söguminjaskráning Helga Hallgrímssonar 1974 í Mývatnssveit þar sem lögð var til grundavallar staðgóð þekking á tilteknus væði (ritheimildir, örnefni, náttúrufar og tóftaskoðun). Hann lagði fram mjög stuttar lýsingar á staðháttum, en engar myndir. Minjar voru staðsettar á uppdrætti og þær voru flokkaðar.

Selsvellir

Selsvellir – sel Grindvíkinga; uppdráttur ÓSÁ.

Nýjar eyðubýlarannsóknir fóru fram um 1980. Sveinbjörn Rafnsson (í Hrafnkelsdal og á Brúardölum) og Guðrún Sveinbjarnardóttir (undir Eyjafjöllum, í Skagafjarðadölum, í Berufirði og víðar) gerðu ítarlega heimildakönnun á svæðunum, skipulögðu leit á vettvangi og afmörkuðumsvæðum, nýaldarminjum var sleppt, nákvæmir uppdrættir gerðir, prufuskurðir til gjóskulagagreiningar grafnir, formleg útgáfa gefin út og doktorsritgerð Guðrúnar tók á verkefninu. Tilraunir voru gerðir með aðferðir, loftmyndir notaðar og innrauðar ljósmyndir skoðaðar.
Kristján Eldjárn gaf síðan tóninn. „Örnefni og minjar í landi Bessastaða“ (1981) var nærtækt verkefni eftir að hann varð forseti, en í lagði hann línuna í skráningu og frágangi slíkra skráa. Hann gekk eftir örnefnum og gerði vettvangsathuganir, tók ljósmyndir af 13 minjastöðum, tilnefndi garðlög, tóftir, runna og rústabungur, lýsti minjum og gerði uppdrátt af svæðinu. Þá framkvæmdi hann fornleifaskráningu í Papey (kom út 1989) þar sem hann tiltók minjar frá öllum tímabilum.
Þrátt fyrir friðlýsingar fornleifa fyrrum var könnun á tilvist friðlýstra fornminja árið 1980 mögum áhyggjuefni. Í henni kom m.a. fram að 7.7% minjanna voru horfnar, 19% skemmdar, 12.2% í hættu, 13.1% óþekktar hvað staðsetningu varðaði (gætu hafa verið horfnar eða týndar ábúendum) og 31.7% landeiganda vissu hreinlega ekki um friðlýsingu minja á þeirra landssvæði.
Þá má nefna baráttu Þjms, einkum Guðmundar Ólafssonar, fyrir skipulegri fornleifaskráningu eftir 1980. Ákvæði þess efnis komst inn í lögin og eftir þeim hefur verið unnið við skipulagsvinnu sveitarfélaga.

Fornugata

Fornagata austan Herdísarvíkur – fornleifar.

Skipuleg fornleifaskráning fór fram á árunum 1982-89, ekki síst fyrir vinnuframlag Ágústar Ólafs Georgssonar, en eldri fornleifaskráningar hafa ekki enn verið gefnar út og því lítt aðgengilegar.
Ný Þjóðminjalög komu 1989, en veruleg kreppa varð í öllu framlagi fornleifarannsókna á árunum þar á eftir (til 1994). Deilur og óeining settu mark sitt á fræðin. Samdráttur varð í fornleifaskráningunni, nema ef vera skyldi fornleifaskráning fyrir Reykjavík, sem varð sú fyrsta heilstæða á landinu.
Framundan eru bjartari tímar, en gera þarf gangskör í skipulegri fornleifaskráningu á landinu, ekki síst á grundvelli „field walking“ þar sem ákveðin svæði er gengin skipulega og fornleifa leitað, hvort sem um er að ræða sýnilegar minjar eða jarðlægar.
Ekki er öllum gefið að skynja og greina minjar í landinu. Til er þó það fólk, sem það getur með tiltölulega auðveldum hætti.
-Byggt á kennslu í fornleifafræði (OV) hjá Háskóla Íslands – 2006.

Fornleifar

Fornleifar undir Bessastaðastofu. Fundust við uppgröft.

 

Fornleifar

Nauðsynlegt er fyrir fornleifafræðinga og aðra fræðimenn að vita hvaða ritaðar heimildir fjalla um fornleifar. Um er að ræða bæði beinar heimildir og óbeinar.
Beinar heimildir eru t.a.m. hvers konar lýsingar á fornleifum og staðsetningu þeirra, textar sem gagngert fjalla um fornleifar, s.s. Fornleifaskýrslur, Corographia Árna Magnússonar, óprentaðar ritgerðir Jóns Grunnvíkings, prestaskýrslur frá 1817 (sem var fyrsta heilstæða ritið um fornleifar á Íslandi) er kom út í riti Árnastofnunar (Frásögur um fornaldarleifar), sóknalýsingar af nærri öllu landinu, sögustaðarit Christians Kaalunds (upphaflega gefið út á dönsku, en síðar á íslensku) og Árbók hins íslenzka fornleifafélags (geymir m.a. í fyrstu rannsóknarskýrslur og skrár, en breytist um 1910. Þá kom inn meira af örnefnum og þjólegum fróðleik – eitt helsta rit fornleifafræðilegra upplýsinga). Auk Árbókarinnar má finna upplýsingar um uppgrefti og rannsóknir í doktorsritgerðum og ýmsum sérprentunum, t.d. í formi greinaskrifa. Prentaðar skráningarskýrslur eru til allnokkrar. Má þar helstar telja skýrslu Þorsteinns Erlingssonar (Ruins of the Sagatime), Daniels Bruuns (ísl. útg.; Íslenskt þjóðlíf í þúsund ár) og Sveinbjörns Rafnssonar og Guðrúnar Sveinbjarnardóttur um skráningu á hálendisbyggðum (1980). Í dag eru fornleifaupplýsingar helst gefnar út í fjölritaðum skýrslum, en einnig eru til fjölmörg óprentuð skráningargögn á Þjms, s.s. handbækur og minnisblöð. Uppgraftarskýrslur hafa sumar verið prentaðar, fjölritaðar eða eru til í handriti og auk þess hefur lengi verið haldin svonefnd Aðfangaskrá í Þjms og öðrum söfnum. Í hana eru skráðir gripir sem söfnin hafa fengið. Raunin er samt sú að tiltölulega fáar stofnanir geyma upplýsingar, en hins vegar getur reynst mjög erfitt að finna upplýsingarnar hjá þeim, sem það gera. Upplýsingarnar eru víðast hvar ekki aðgengilegar og til að komast í þá fáu gagnabanka, sem til eru, s.s. Sarp, þarf aðgangsleyfi til.
Örnefnaskrár eru einnig beinar heimildir. Elstu örnefnalýsingar má finna í „Safni til sögu Íslands“, einkum í öðru bindinu er kom út árið 1987. Í Árbókinni eru prentaðar örnefnaskrár og í héraðssöguritum og víðar má finna örnefnalýsingar um afmörkuð svæði eða jarðir. Örnefnastofnun geymir flestar örnefnaskrár, sem gerðar hafa verið og hefur beitt sér fyrir ritun þeirra, staðfestingum og leiðréttingum. Yngstu útgáfurnar hafa verið færðar upp í vélrit – stafrænt safn. Margar kynslóðir örnefnalýsinga eru til fyrir sömu jarðir og svæði og þeim ber ekki alltaf saman. Þá er rústa, sem ekki hafa örnefni ekki alltaf getið í slíkum skrám. Og þótt rústir sjáist ekki eða eru horfnar geta örnefnin gefið vísbendingu um að þarf hafi verið fornleifar. Lýsingarnar eru jafnan takmarkaðar við ákv. svæði, jarðir eða býli.

Óbeinar heimildir eru oft á tíðum heimildir um samhengi fornleifanna, vísbendingar um staðsetningu fornleifa eða textar með lýsingum á fornleifum. Má þar nefna ævisögur, ferðasögur og frásagnir. Í lýsingum er oft fjallað um eða sagt frá stöðum og minjum þótt ekki hafi beinlínis verið ætlunin að staðfesta tilvist þeirra.

JarðabókJarðabækur hafa verið margskonar í gegnum tíðina. Fógetareikningar frá 16. öld eru sennilega elstu skrárnar, Jarðaskjöl (s.s. sölubréf, landamerkjaskrár og erfðaskiptabréf), Jarðabækur 1686 og 1695 (ná yfir allt landið og eru í raun fornleifaskráning yfir jarðir, sem þá voru í byggð) og Jarðabók Árna og Páls 1702-14 (sem var miklu ítarlegra rit um jarðagildi en áður, stutt stöðluðum lýsingum á hverri einustu jörð landsins og oft getið um eyðibýli, möguleika á nýbýlabyggingum og seljum, hvort sem eru í notkun eða eyði. Ritið er gullnáma og traust heimild. Hins vegar þarf að hafa í huga að yfirleitt eru ókostir jarða ýktir og dregið úr kostum af ótta bænda við skattheimtu konungs). Yngri jarðabækur eru t.d. Jarðatal Johnsens (1847), Brauðamat (heildarúttekt á prestaköllum – til prentað í einu eintaki 1850), Fasteignamat (fyrst 1918, mjög ítarlegt þar sem allar byggingar eru skráðar) og Búkollur (rit átthagafélaga og búnaðarsambanda, oft stöðluð með myndum af jörðunum, húsum og ábúendum, auk texta um það helsta sem að þeim lýtur, s.s. Sunnlenskar byggðir, Sveitir og byggðir í Múlasýslum).
Kort ýmis konar geta verið góðar heimildir um fornleifar. Íslandskort frá 16. og 17. öld og Landshlutakort Knopfs 1723-33 eru fyrstu skipulegar mælingar landakorta er sýna bæi og jafnvel örnefni. Strandmælingar frá 18. öld eru nokkuð nákvæmar og sýna bæði hafnir og bæi með strandlengjunni. Mælingakort Björns Gunnlaugssonar og Landamerkja- og lóðakort frá 19. öld eru til á Þjóðskjalasafni, Landsbókasafni og hjá Landmælingum ríkisins. Reyndar er ekki til heilstætt safn og því getur verið erfitt að hafa upp á þeim. Herforingjaráðskortin dönsku frá 1902 eru nokkuð nákvæm og fagurlega gerð, líkt og gerendur hafi fundið samsvörun með landinu, sem þeir voru að mæla upp. Þau eru til bæði í 50.000 hlutum og 100.000 hlutum. Á þeim sjást t.d. göngu- og reiðleiðir, eyðibýli o.fl.
Túnakort er önnur gerð korta. Elstu eru frá 1886 (frá Bændaskólanum á Hólum), en túnakort eru til um allt landið 1915-22. Þau voru tæki fyrir bændur til að hjálpa þeim að skipuleggja starf sitt. Búnaðarfélögin söfnuðu upplýsingum um túnastærðir. Árið 1915 var byrjað að gera túnakort fyrir allt landið þar sem m.a. staðsetning húsa er sýnd. Þau eru því mjög góð heimild því þá voru nær öll hús (öll útihús) úr torfi og grjóti. Þau eru og heimild um staðsetningu mannvirkja voru í notkun í upphafi 20. aldar. Þau gefa og vísbendingar um byggingar margar aldir aftur í tímann. Nú eru túnakort jafnan gerð eftir loftmyndum, en túnræktun er sennilega sá þáttur sem hvað mest hefur breytt ásýnd Íslands síðustu 50-60 árin.

Loftmyndir hafa verið teknar skipulega af landinu frá 1950 þótt eldri myndir séu til, m.a. frá stríðsárunum. Nokkrar kynslóðir mynda af sömu svæðum og stöðum gefa breytingar til kynna. Oft má sjá á þeim garðlög og byggingar úr torfi og grjóti, sem síðan hafa horfið og koma ekki fram á nýrri myndum.
Amerísku kortin svonefndu voru gerð á 6. áratug 20. aldar (1:50.000). Þau voru gerð eftir loftmyndum og sem slík nokkuð nákvæm. Vinnan fór hins vegar fram úti í Virginíu þar sem örnefni og annað var færti inn af Herforingjaráðskortunum dönsku. Mennirnir, sem það gerðu, komu aldrei hingað, svo bera vill við að nöfn hafi verið rangt staðsett og örnefni beinlínis röng. Þá virðast þeir hafa ruglast á skurðum og girðingum, en stígar eru yfirleitt rétt færðir, enda mikilvægir hernaðarlega. Staðfræðikort landamerkja tóku við af þessum kortum, en að mörgu leyti byggð á dönsku kortunum. Gróðurkort með landamerkjum ná til hluta landsins. Náttúrufræðistofnun hefur annast gerð þeirra, en áður gerði Rala það. Elstu kortin sýna einnig landamerki með þarfir landbúnaðarins í huga. Til eru slík kort af Snæfellsnesi, Suðvesturhorninu, Borgarfirði og Þingeyjarsýslum.
Fornrit og prentaðar frumheimildir eru t.a.m. Íslendingasögur, samtíðarsögur og annálar (Annálar 1400-1800. Annales islandici posteriorum sæculorum I-VII, Reykjavík 1924-1998). Þetta eru miðaldaheimildir, sem og annálar 19. aldar og einstök rit, uns fréttablöðin tóku við hlutverki þeirra. Þegar handrit eru notuð er mikilvægt að nota viðurkenndar útgáfur. Segja má að „Íslensk fornrit“ séu „standardútgáfa“ slíkra rita og viðurkennd sem slík. Byrjað var á á útgáfu þeirra 1933.
Fornbréfasafn með máldaga, jarðasölubréf, landamerkjabréf, stóls- og fógetareikningum kom út í 16 bindum, fyrst um miðja 19. öld. Um er að ræða safn framangreindra rita, auk skráa yfir kirkjur, firði, erfðir o.m.fl. Þau ná fram til 1570, en yngri skjöl eru enn óútgefin.
Alþingisbækur (Alþingisbækur Íslands I‑XVII, Reykjavík 1912‑1990) eru nótabækur, sem dómasöfn taka síðan við af. Þau hafa oft verið notuð í landamerkjamálum. Manntöl eru til frá 1703, 1801, 1816, 1845 og 1910 (reyndar er 1910 eintakið í útgáfu). Auk þess má leita í kikrjubókum þar sem skráð er hvar fólk var fætt. Stundum er það eina heimildin um að tiltekinn staður hafi verið til eða í byggð.
Héraðssögurit eru t.d. sýslu- og sóknalýsingar (flestar frá um 1840 og til útgefnar), átthagafræði frá fyrri hluta 20. aldar, saga byggðarlaga, t.d. Eyrarbakka (oft hefðbundin sagnfræði, en stundum er að finna í þeim upplýsingar um bæi og hús – misjafnar að notagildi), þættir – t.d. Úr Byggðum Borgarfjarðar og Borgfirsk blanda, sagnaþættir ýmis konar, þjóðhættir og lýsingar, persónufróðleikur, staðhættir, þjóðsögur, sagnfræði og sagnir af fornleifum.

Tímarit sögufélaga, s.s. Goðasteinn, Súlur, Árbók Þingeyinga, Múlaþing, Blik ofl. segja sögur af fornleifum, fræðirit, t.d. Landnám á Snæfellsnesi, Landnám í Vestur-Skaftafellssýslu og Skagfirsk fræði.
Ævisögur eru mikilvægar, einkum sjálfsævisögur. Margar eru komnar frá fólki, sem var að alast upp er leið á 19. öldina. Þær gefa oft lýsingar á húsaskipan eða staðháttum (Fátækt fólk eftir Tryggva Emilsson).

FerðabókAf Ferðasögum og landfræðilegum lýsingum má nefna Ferðabók Eggerts og Bjarni (1752-54), Olaviusar (1777), Sveins Pálssonar (Dagbækur og ritgerðir 1791-1797, útg. 1945) og Þorvaldar Thoroddsens (Skýrslur um rannsóknir á Íslandi 1882-1898, útg. í Kaup. 1913-15). Erlendir leiðangrar voru nokkrir og fylgdu bækur í kjölfarið, s.s. Horrebows, Stanleys, Hendersons og margra fleiri. Útlenskar lýsingar og ritgerðir voru oft af sömu fornleifunum, s.s. Snorralaug, við Mývatn, Skálholt eða á Þingvöllum, þótt vissulega séu þar undantekningar á.
Rannsóknarleiðangrar voru einnig nokkrir með fylgjandi ritum, s.s. Gaimard og co (1836) og margir í kjölfar Öskjugoss 1875. Árbók Ferðafélagsins getur um fjölmargar fornleifar víða um land og Ólafur Jónsson gerði landfræðirit um Ódáðahraun í þremur bindum. Þar getur hann um náttúru, brennisteinsnám og fornleifar. Yngri rannsóknir eru t.d. orkurannsóknir, en á þeim svæðum má oft finna fornleifar. Sama má segja við vegagerð og aðrar framkvæmdir.
Fornleifaskráning sveitarfélaga er nýtilkomin, en þær skrár eru víða aðgengilegar í heftum og skýrslum.
Staðbundnar þjóðsögur teljast til fornleifa og geta gefið miklar heimildir um þær. Þjóðsögum safnaði t.a.m. Jón Árnason, Ólafur Davíðsson og Sigfús Sigfússon, en auk þess má finna þjóðsögur í ritum s.s. Grímu, Rauðskinnu, Gráskinnu ofl. Þematísk heimildasöfn geyma lýsingar af fornleifum, ritflokkurinn „Göngur og réttir“ (fimm binda safn um fjallskil, itgerðir eftir fjallkónga og leitarmenn, stundum lýst landslagi og jafnvel fornleifum), „Skriðuföll og snjóflóð“ (heildarsamantekt um efnið, sýnir staðsetningu minja, sem farið hafa undir flóð), „Íslenzkir sjávarhættir“ (lýsingar á verstöðvum og sjávarjörðum) og „Útilegumenn og auðar tóftir“ (samantekt um sögu útilegumanna og fornleifar þeim tengdum) svo einhver rita í þessum flokki séu nefnd.
Óprentaðar heimildir eru t.d. Fornbréfasafnsefnið eftir 1570, búnaðarskýrslur, byggingabréf, úttektir, landamerkjaskjöl, lög um landamerki (1882), landamerkjabækur, erfðaskjöl, útsvarsreikningar, Jarðamat, Brunabótamat og Manntöl. Um mikið magn efnis er að ræða og frekar óaðgengilegt eins og fyrir því er komið í dag, en getur verið afar gagnlegt.

Af teikningum má nefna málverk og riss frá 18. og 19. öld, bæjateikningar, uppmælingar á bæjum og jafnvel ljósmyndir, bæði af bæjum og svæðum. Til eru t.d. myndir af flestum nýjustu torfbæjum á Íslandi áður en hætt var að búa í þeim eða skömmu á eftir.
Ótalinn er allur sá fróðleikur um fornleifar, sem finna má á Netinu, og unninn er úr framangreindum heimildum, s.s. á Vísindavef HÍ.
Ljóst er að úr nægu ritefni, bæði birtu og óbirtu, er að moða – ef og þegar tími vinnst til.

-Framangreint er byggt á fyrirlestri Orra Vésteinssonar í Fornleifafræði við Háskóla Íslands 2006 – ÓSÁ.

Prestsvarðan

Fornleifar

„Fornleifauppgröftur er í eðli sínu eyðileggjandi. Til þess að geta túlkað minjastaðinn verður oft að rífa steinahleðslur í sundur og grafa burt torfveggi og gólf. Enda þótt það bætist við þekkinguna við fornleifauppgröft, þá eru tengslin við söguna rofin með uppgreftinum og menningarlandslagi svæðisins breytt.

husholmi 331

Í Húshólma.

Hingað til hefur helst verið stuðst við gildishlaðið mat, eins og tilfinninga gildi eða upplýsinga gildi þegar íslenskar minjar hafa verið metnar. Höfundur þessarar ritgerðar hefur lengi haft hug á að yfirfæra aðferðafræði, sem beitt hefur verið erlendis, til að rannsaka hagrænt gildi fornleifa á Íslandi. Eru það fyrst og fremst aðferðir sem þekkjast úr umhverfishagfræði (e. evironmental economics). Upplýsingar um hagrænt gildi ættu að koma að gagni í allri stefnumörkun um minjavernd. Upplýsingarnar ættu að hjálpa til við ákvarðanatöku um hvaða minjar sé ástæða til að rannsaka með uppgrefti og hverjar væri skynsamlegra að varðveita óraskaðar á vettvangi og nýta þannig í menningarferðaþjónustu. Kostnaður við að halda minjum við, varðveita þær og útbúa upplýsingaefni miðað við þær tekjur sem hugsanlega væri hægt að hafa af minjunum, gætu þannig verið þáttur sem taka ætti hér tillit til við matið. Þá nýtast upplýsingar um hagrænt gildi minja í allri vinnu varðandi mat á umhverfisáhrifum. Erlendis hafa hagrænir útreikningar verið teknir með inn í ákvörðunarferilinn, en hingað til hefur einungis verið stuðst við huglægt gildismat við þá vinnu hérlendis.

Hofstaðir

Hofstaður – frágangur eftir uppgröft fornaldarskála.

Það var ekki fyrr en í upphafi 21. aldarinnar sem menningargeirinn á Íslandi tók við sér og fór að kanna hagrænt gildi menningar. Meðal þess var rannsókn Ágústar Einarssonar á hagrænum áhrifum tónlistar. Í skýrslu norræns verkefnis um gildi minja, er að finna grein eftir Þór Hjaltalín þar sem fjallað er um nýtingu minja og þann hag sem byggðir landsins gætu haft af slíkri nýtingu. Í byrjun desember 2010 var kynnt rannsókn sem mennta- og menningarmálaráðuneytið stóð fyrir á hagnaði af skapandi greinum. Rannsóknin leiddi í ljós að heildarvelta skapandi greina nam 191 milljarði króna árið 2009. Sumt af því sem sem fjallað var um í skýrslunni eru raunverulegar markaðsvörur, sem hægt var að setja verðmiða á, en menningarminjarnar eru annars eðlis og ekki svo einfalt verk að meta gildi þeirra. Fornleifar heyra til svokallaðra almannagæða (e. common resources), eins og náttúran. Á undanförnum árum hefur verið unnið að nokkrum rannsóknum á Íslandi, sem byggja á slíkri aðferðafræði, þar sem fjallað er um hagrænt gildi náttúrunnar.“

Heimild:
-Hagrænt gildi fornleifa. Kristín Huld Sigurðardóttir. HÍ – 2011.
http://hdl.handle.net/1946/7946

Húshólmi

Húshólmi – skáli.