Tag Archive for: Garðabær

Selvogsgata

Ætlunin var að huga að svonefndum Draugsskúta í Litla-Kóngsfelli. Þar á maður að hafa orðið úti á leið sinni um Selvogsgötu fyrr á öldum. Draugurinn er sagður enn á reiki við hellinn. Tekist hafði að finna haldgóða lýsingu á staðsetningu skútans. En eins og gerist á langri göngu þá bar ýmislegt óvænt fyrir augu.

Grindarskörð

Grindarskörð.

Ákveðið var að fylgja Selvogsgötunni frá Bláfjallavegi áleiðis upp að gatnamótunum þar sem gatan greinist annars vegar upp í Kerlingarskarð og hins vegar upp í Grindarskörð. Áður hafði tekist að rekja götuna um norðanverð skörðin nokkru norðar, frá gatnamótum ofan við Helluna og áfram upp hlíðina norðan Stórabolla, en nú var ætlunin að fylgja gömlu korti er sýnir Grindarskarðleið upp hlíðina milli Stórabolla og Miðbolla, frá gatnamótum nokkru ofar.
Gatan er óskýr í fyrstu, enda mosinn vaxinn yfir hana að hluta. Hún hefur ekki verið farin um langa tíð. Þó er auðvelt að rekja hana að hlíðinni. Þar fylgir hún rótum hennar með greinilegum hætti áleiðis upp að Miðbolla – kjörin hestagata. Nokkrar götur liggja að henni út frá mosabreiðunni. Þá liggur ofan við megingötuna og kemur í Grindarskörðin skammt norðar. Með henni er aflíðanin þegar komið er úr skarðinu minni en þeirri, sem hér er fylgt. Fallegt vatnsstæði er í gróinni kvos á miðri leið. Þegar komið er upp undir Miðbolla liggur gatan í hlykkjum upp hlíðina þar sem hún er bröttust. Hún er þó þægileg uppgöngu alla leiðina og mun greiðfærari og styttri en um Kerlingarskarð.

Selvogsgata

Selvogsgatan áleiðis að Grindarskörðum.

Þegar upp er komið liggur gatan suður fyrir Miðbolla og sameinast Hlíðarvegi við vatnsstæði norðaustan við Draugahlíðar. Kortið sýnir ekki Hlíðarveginn, en það sýnir Selvogsgötuna liggja frá vatnsstæðunum áleiðis yfir að Litla-Kóngsfelli. Reyndar liggur önnur gata til suðurs frá vatnsstæðunum, en hún sameinast Selvogsgötunni við fellið. Á báðum gatnamótunum eru tvær vörður. Fallega hlaðin brú er af Hlíðarveginum yfir að vatnsstæðunum.

Á leiðinni voru gígar Bollanna gaumgæfðir. Gígar sem sjá má á Reykjanesi eru dyngjur eins og t.d. Þráinsskjöldur á Strandarheiði, klepra- og/eða gjallgígar eins og við Búrfell við Hafnarfjörð, gjóskugígar eins og Eldvörpin yst á Reykjanesinu og sprengigígar eins og Grænavatn við Krýsuvík. Svo var að sjá sem gígar Bollanna hafi verið úr blönduðum gosum. Þeir bæði klepra- og gjallgígar, sem hafa opnast í eina áttina og hraunið flætt út. Það er að hluta apalhraun, en einnig helluhraun.

Brennisteinsfjöll

Miðbolli (t.h.) og Kóngsfell.

Megingígur Miðbolla er gjóskugígur, þ.e. eldborg, þar sem meginhraunstarumurinn hefur runnið úr gígnum neðanjarðar, undir storkinni hraunhellunni, og niður Lönguhlíðar. Sjá má stór jarðföll á nokkrum stöðum í hlíðinni, sem fallið hafa niður í meginrásir. Gígur norðan í Miðbolla er blandaður gígur, sem og gígur vestan í Stórabolla.

Selvogsgata

Selvogsgata ofan Grindarskarða.

Þegar gengið er upp á Miðbolla sést vel hversu stórbrotið listaverk hann er. Hann er einstaklega vel formaður og sérstakt er að hafa slíka gíga svo að segja við hendina því flestir nærtækari hafa þegar farið undir vegi að meira eða minna leyti.
Sunnan við Miðbolla er Kóngsfellið. Það er klepra og gjallgígur, opinn til austurs og vesturs. Norðan í honum er lítill gjóskugígur. Sjá má að röð lítilla gíga ligga suðvestur úr Miðbolla. Ljóst er að þar hefur gosið á sprungurein og það efst og norðan í Lönguhlíðunum. Gígar ofan viðKerlingarskarð eru hluti af þessari gígaröð og líklega er stóri fallegi Draugahlíðagígurinn það einnig. Bláfjallareinarnar gusu á tímabilinu 950 til 1000 og mun þetta vera hluti af þeim. Víða sunnan og austan við hlíðarnar má sjá litlar gígaraðir, sem gosið hafa litlum gosum og sennilega ekki verið virkar nema stuttan tíma, jafnvel nokkra daga.

Litla-Kóngsfell

Selvogsgata og Litla-Kóngsfell framundan.

Megin sprungureinabeltin, sem gosið hafa á sögulegum tíma á Skaganum, eru a.m.k. þrjú; Bláfjallareinin (950-1000), Krýsuvíkureinin (1150-1188) og Reykjanesreinin (1210-1240).

Selvogsgötunni var fylgt yfir að Litla-Kóngsfelli. Þar fannst Draugsskúti skammt frá götunni þar sem syðri gígur fellsins opnast til vesturs. Hrauntröð liggur frá honum og er skútinn í jaðri traðarinnar. Hann er fremur lítill. Segja má að hann sé fremur skjól fyrir suðaustanáttinni en rýmilegur skúti.
Til baka var haldið yfir á Hlíðarveg og áleiðis niður Kerlingarskarð. Drykkjarsteinarnir efst í skarðinu voru skoðaðir og síðan gengið sem leið lá að upphafsstað.
Veður var hreint sagt frábært – sól og lyngna. Gangan tók 3 klst og 3 mín.
Sjá MYNDIR.

Efst í Kerlingarskarði

Efst í Kerlingarskarði.

 

Búrfell

Búrfell eru 39 talsins, nokkuð há stapafjöll með klettum ofantil. En hvers vegna heita öll þessi fjöll á landinu „Búrfell“?
Búrfell landsins eru mörg og finnast um allt land. Að auki eru fjölmörg örnefni dregin af því, nefna má ár, dali, flóa, drög, heiðar, hraun, hyrnur, hálsa og margt fleira. Einnig bera níu bæir nafnið.

Búrfell

Búrfell í Garðabæ.

Þrjátíu og níu fell eða fjöll bera nafnið Búrfell [fjögur fellanna eru á Reykjanesskaga; í fyrrum landnámi Ingólfs, þ.e.]:
-Búrfell við Hafravatn í Mosfellsbæ, 81 m
-Búrfell í Heiðmörk, Garðabæ, 179 m
-Búrfell, norðvestan Þingvalla, 782 m
-Búrfell norðvestan við Þorlákshöfn, 200 m

Af þessum fjórum Búrfellum á Reykjanesskaga eru tvær eldborgir (í Garðabæ og í Ölfusi (Þorlákshöfn)) og tvö eru móbergs og basaltfjöll (við Þingvelli og í Mosfellsbæ).

Sigurður Sigurðsson

Sigurður Sigurðsson.

Sigurður Sigurðsson birti fróðlega umfjöllun og vangaveltur um „Búrfell“ á bloggsíðu sinni sigsig.blog.is árið 2013:
„Að einhverju leiti getur verið að útlit fjalla með nafninu „Búrfell“ ráði því að þau fengu nafnið. Ekki veit ég orðið „búr“ merkir upphaflega, ef til vill er það hið sama og nú til dags sem er matargeymsla.

Mér finnst frekar óljóst er af hverju nafn fjallanna er dregið og þess vegna fór ég í dálitla heimildavinnu. Hún dróst dálítið á langinn, endaði í vikuvinnu. Leiddi þar hvað af öðru. Sem betur fer glataði ég tvisvar sinnum því sem ég hafði skrifað. Þá þurfti ég að byrja aftur og þó ég hafi bölvað missinum er ég nú þeirri skoðunar að ritgerðin hafi batnað eftir því sem ég skrifaði hana oftar. Ég vara þó lesandann við, ég er enginn sérfræðingur.

Hvaða búr er um að ræða?

Bær

Bær og útibúr.

Á Vísindavef Háskóla Íslands segir:
Forliður nafnsins Búrfell er líklega dreginn af hinum fornu útibúrum, sem stóðu ein sér og í voru geymd matvæli, dýrir munir og svo framvegis. Þau gátu staðið nokkuð frá jörð svo að skepnur kæmust ekki í þau.

Búrfell standa oft stök og skera sig úr að lögun, og minna sum þeirra á hús.

Þetta skýrir ekki málið neitt sérstaklega og er heldur einföld skýring.

Búrfell

Búrfell í Garðabæ.

Á hinum ágæta vef ferlir.is er fjallað um gíginn Búrfell í Heiðmörk og vitnað í vef Örnefnastofnunar um nafnið. Örnefnastofnun er nú ekki lengur til sem slík heldur var gerð að deild innan Árnastofnunar og vefurinn ekki lengur finnanlegur. En á Ferli segir eftirfarandi:
En hvers vegna ætli fjöll heiti Búrfell? Það fyrsta sem kemur væntanlega upp í hugann er búrhvalur því ef litið er á mynd af slíku dýri þá eru ákveðin líkindi með útliti hvalsins og sumum Búrfellum einkum þeim sem eru stapar.

Þar sem fjöllin þykja oft lík að lögun hefur stundum verið talað um Búrfellslag eða Búrfellslögun fjalla.

Búrfell

Hjallur.

Það er til önnur skýring á nafninu og hún er sú að það tengist matargeymslu og þá helst stokkabúr, sem voru reist á lóðréttum bjálkum upp frá jörð svo að dýr kæmust ekki í þau, öðru nafni stafbúr.“

Sum Búrfellin eru kölluð Matarfell af sjó svo sem Búrfell á Snæfellsnesi og Búrfell í Reykjarfirði á Ströndum en Búrfell á Gnúpverjaafrétti er kallað „fjallið fyrir innan Heklu“ og Búrfell á Tjörnesi er kallað Kistufell. Ástæða þess er sú að sjómenn trúðu því að ef þeir nefndu Búrfell á nafn gætu þeir egnt á sig búrhvalinn. Þetta voru því svokölluð varúðarnöfn.

Hyggjum nú aðeins að þessu. Á Vísindavefnum er getið um „hin fornu útibúr“. Líklega hafa þau verið geymslur, byggðar til að geyma matvöru og hugsanlega byggð þannig að vindur blási um þau eins og hjallar þar sem fiskur er þurrkaður.

Búr og kjölur

Búrfell

Búr.

Voru „búr“ kölluð svo eftir fjöllunum eða fengu fjöllin nafnið af útibúrunum? Þetta er ansi góð spurning, þó ég segi sjálfur frá og eftir svarinu fór ég að leita.

Gæti verið að orðið „búr“ hafi haft aðra merkingu en í dag, jafnvel að það hafi verið einskonar útlitslegt orð, ef ég má orða það þannig. Um leið kemur orðið „kjölur“ upp í hugann. Það var áður haft um ásinn, tréstykkið, sem er frá stefni og í skut. Síðar hefur orðið færst yfir á allan þann hluta bátsins eða skips sem er í sjó enda víst að kjölur, slíkur þeim sem hér hefur verið lýst, er ekki til á stálskipum.

Hugsanlega eru „kjölur“ og „búr“ andheiti. Hið fyrrnefnda gæti átt við kjalarásinn en hið síðara um það sem snéri inn í bátinn … Jafnvel gæti „búr“ verið einhvers konar mænir á húsi, það sem hæst ber.

Orðsifjafræðin

Búrfell

Búrhvalur.

Hvers vegna er hvalur kenndur við „búr“? Er það vegna þess að hvalurinn var notaður í fæðu eða var það vegna útlitsins? Líklega er ágætt að verja dálitlum tíma í að kanna þetta.

Í Orðsifjabók Ásgeirs Blöndal Magnússonar segir:

Búrhvalur
Búrhvalur k., búrhveli h., búri k. ´sérstök tannhvalategund (physeter macrocephalus)´; sbr. nno. [miðnorska] burkval um óvissa hvalatengund. Uppruni óljós. Oftast talið leitt af búr og sé þá átt við lýsisforðann í höfði hvalsins.

Þó tilvitnanir í Orðsifjabókina sé eflaust dálítið flóknar finnst mér engin goðgá að álykta af þessu að orðið „búr“ merki eitthvað stórt.

Í sömu bók segir:

Búrfell

Langreyður.

1 Buri eða Búri k. goðsögul. Nafn á föður Bors eða Burs, föður Óðins. Uppruni óviss. Oftast lesið Buri og þá talið merkja þann sem eignast afkvæmi eða son, sbr. bur. Aðrir ætla að orðið sé sk. fi. [fornindverska] bhuri- ´stór´eða mno. [miðnorska] bura ´öskra´, sbr. að Buri eða Búri var risaættar, af Ými kominn. Ath. búrhvalur.

Þarna fannst mér ég vera kominn í feitt þangað til ég rakst á eftirfarandi:
2. Buri eða Búri k. dvergsheiti. E.t.v. sk. búri.

Komum síðar að nöfnum sem tengjast Búra. Af þessu má draga þá ályktun að „búri“ geti þýtt hvort tveggja, stórt og lítið, sbr. risa eða dverg. Það kann þó að vera misskilningur.

Búrfell

Sandreyður.

Loks er ástæða til að tiltaka þriðju tilvitnunina í Orðsifjabókina. Hún er svona:
1. búri k. ´ruddi, dóni, durgur; aðsjáll maður, nirfill; íbúi (verslunar)borgar´. To. [tökuorð] úr mlþ. [nýlágþýsku] bure ´bóndi´, sk. [skylt] búr og búa.

Er eitthvað hér sem hönd á festir? Hugsanlega má telja að „búr“ sé eitthvað stórt eða það merki hús eða matargeymslu. Engin af ofangreindum tilvitnunum tekur til útlits, ekkert skýrir almennilega „búrfellslagið“.

Ég leyfi mér þó að draga þá ályktun aftur að „búr“ merki eitthvað sem er stórt. Hins vegar verður að hafa það í huga að Búrfell landsins eru afar mismunandi í útliti og stærð og jarðfræðilega eru þau ekki eins.

Fornritin

Sæl væri eg
ef sjá mættag
Búrfell og Bala,
báða Lóndranga,
Aðalþegnshóla
og Öndvertnes,
Heiðarkollu
og Hreggnasa,
Dritvík og möl
fyrir dyrum fóstra.

Búrfell

Steypireyður.

Þetta fallega kvæði er úr Bárðar sögu Snæfellsáss. Helga Bárðardóttir orti það er hún kom til Grænlands eftir að hafa hrakist þangað frá Íslandi. Hún var komin með heimþrá og saknaði heimahaganna. Í sögunni segir: „Þessi örnefni öll eru á Snjófellsnesi“.

Af þessu má draga þá álykta að snemma eftir landnám hafi örnefni myndast og þar með að fjall á Snæfellsnesi fékk nafnið „Búrfell“. Í þessu sambandi má geta þess að Grímur Rögnvaldsson sá sem nam Grímsnes bjó að Búrfelli. Líklega var bærinn samnefndur fjallinu fyrir ofan.

Búrfell

Búrfell í Rogan.

Þetta var mér hvatning til að fletta í gegnum önnur fornrit þó svo að ég minnist þess ekki að hafa séð orðið „búr“ í þeim. Enda varla von, flestir leikmenn lesa vegna söguþráðarins og smáatriðin hverfa.

Ég fór því í gegnum Fornaldarsögur Norðurlanda, Gylfaginningu, Heimskringlu, Íslendingasögur, Landnámubók og Jómsvíkingasögu. Leitaði að öllu því sem tengst gæti búri, Búrfelli eða fólki sem ber nafnið Búri. Margt merkilegt fannst í þessum ritum.

Líklega er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því að málið hefur breyst talsvert frá því að fornsögurnar voru ritaðar. Ekki er víst að ég átti mig á öllum blæbrigðum sem málfræðingar og fornritaspekingar koma glöggt auga á.
Við skulum líka hafa hugfast að matur er viðkvæmur og það hafa fornmenn án efa vitað. Þar af leiðir að þeir leituðu ýmissa ráða til að gera hann sem lengst neysluhæfan. Án efa vissu þeir að kæling hjálpar til. Því gátu búr verið stök hús, staðsett annað hvort þar sem um gustaði um eða að þau voru grafin í jörð.

Að öðru leyti er gott ráð að nota hugarflugið þegar eftirfarandi tilvitnanir í fornritin eru skoðaðar. Í þeim er oftlega getið um „búr“ og „útibúr“.

Burfjell í Noregi

Búrfell

Búrfell í Fusa.

Ég er langt frá því sérfræðingur í orðsifjafræði þarlendra. Hitt veit ég í gegnum hann Gúgöl vin minn, að það eru að minnsta kosti tvö Búrfjöll eru þarna fyrir austan og bæði með þessu líka laglega búrfellslagi. Hið fyrra er Burfjell í Fusa og hið seinna er Burfjell í Rogan. Merkilegt er að skoða myndir af þessum tveimur fjöllum. Eru þau með „Búrfellslagi“? Mér finnst nokkur líkindi með því.

Stapi

Fjallið eina

Fjallið eina – dæmigerður stapi.

Mörg Búrfellin eru keimlík í laginu og ekki síst þau sem jarðfræðilega bera heitið stapi eins og Búrfell við Þjórsárdal, Búrfell austan Mývatns og ábyggilega fleiri.
Hvað er þá stapi, svona jarðfræðilega séð. Hann myndast í upphafi þegar eldgos verður undir jökli. Þá hlaðast upp gosefni í plássið sem eldgosið bræðir í jöklinum. Um leið og glóandi kvika snertir vatnið springur hún og myndar smágerð gosefni, en vegna þess að jökullinn virkar sem mót dreifast þau ekki heldur hlaðast smám saman upp. Þegar svo mikil gosefni hafa hlaðist upp að eldvirknin nær upp fyrir vatnsborðið rennur loksins hraun. Eftir að gosi lýkur heldur jökullinn að fjallinu, rétt eins og mót og með tímanum, og vegna hita og þrýstings, verður til móberg úr lausu gosefnunum.
Þetta gerðist margoft hér á landi á ísöld og þegar jökullinn hvarf urðu eftir svokallaðir stapar. Þeir er oftast hringlaga eða jafnvel ílangir. Efst er oft hraunskjöldur, dyngja, en undir er móberg.

Niðurstaða

Búrfell

Búrfell í Ölfusi – loftmynd.

Ég held að nú megi slá því föstu að búr sé ekki aðeins matargeymsla heldur hafi líka ýmislegt annað verið geymt í þeim. Mörg dæmi eru til í fornritum um að búr hafi verið notuð sem íverustaðir. Búr sem matargeymslur hafa líklega staðið þar sem gustar um enda hafi tilgangur verið að halda matvöru kaldri svo hún geymdist sem lengst. Einnig er til að búr hafi verið grafin í jörðu í sama tilgangi.

Óljóst er hins vegar hvernig búr hafa litið út. Draga má þá ályktun af helstu fjöllum sem heita Búrfell að þau hafi verið með frekar flötu þaki, að minnsta kosti ekki bröttu. Þakið kann einnig að hafa verið ílangt.

Orðið „búr“ merkti líklega til forna eitthvað sem var stórt og mikið um sig og þá hefur hugsanlega ekki verið miðað við hús sem var matargeymsla. Orðið hafi einfaldlega verið heiti á stóru húsi eða nafn á stórum manni. Þess vegna er stórt fjall nefnt Búrfell í vegna þess að það er einfaldlega stórt fjall, jafnvel stórt stakt fjall.

Búrfell

Búrfell í Mosfellsbæ – loftmynd.

Hvalurinn hefur þar af leiðandi verið nefndur Búrhvalur vegna þess að hann er stærri og meiri um sig en flestir aðrir hvalir en ekki vegna lýsis eða kjöts.

Hitt er svo til umræðu hvers vegna stórt fjall er nefnt fell. Í Noregi eru eins og áður sagði að minnsta kosti tvö fjöll sem heita Burfjell. Á íslensku örnefnunum kann að vera málfræðileg skýring sem er sennilegri en aðrar, til dæmis náttúruleg.“

Brynjólfur Þorvarðsson fjallar um framangreint og skrifar m.a.:

Búrfell

Búrfell við Þingvelli.

„Sæll Sigurður og takk fyrir skemmtilega ritgerð.
Það er afskaplega erfitt að rekja orðsifjafræði stuttra orða með fjölbreytta merkingu. En mér sýnist þú ekki taka eina algeng merkingu orðsins „búr“ í daglegu máli, þ.e. aflæst hirsla með rimlum. Nú veit ég ekki hversu gömul sú málnotkun er, en rimlar heita „bars“ á ensku og „barer“ á dönsku. Samkvæmt enskum orðsifjum er þetta tekið úr síð-latnesku „barra“.

Búrfell

Búrfell í Mosfellsbæ – kort 1903.

Ennfremur finn ég fornnorræna orðið „burr“, enn notað í ensku, sem merkir fræhylki með litlum þyrnum sem festast í fatnaði. Önnur heimild talar um „borr“ eða „borre“ í fornnorrænu.

Loks finn ég „búrr“ notað sem kenningu um son í Eddukvæðum: „Óðins búrr“. Einhverjir tengja orðin búrr, búri, bör í Eddukvæðum við „að framfæra“ sem aftur er augljóslega skylt sögninni að bera, öll orðin ur Sanskrít „bâras“.

FERLIR spyr: Hvers vegna eru engin fjöll nefnd eftir Langreyð, Sandreyð eða Steypireyð. Allir þeir hvalirnir eru ekki ólíkir Búrhvalnum. Og hvernig er örnefnið „Kistufell“ tilkomið? Gæti það verið hliðstæða við örnefnið „Búrfell“ líkt og örnefnið „Húsfell“?!? Búr var jafnan einungis hluti bæja eða selja. „Bæjarfellin“ eru allnokkur. Undir þeim flestum kúra bæir eða bæjatóftir, sbr. Bæjarfell í Krýsuvík og við Vigdísarvelli. Þar liggja fyrir augljósar skýringar á örnefninu. Bæirnir Búrfell og Búrfellskot voru undir Búrfelli í Mosfellsbæ. Hvers vegna var fellið ekki nefnt Bæjarfell til samræmis?…

Heimild:
-https://sigsig.blog.is/blog/sigsig/entry/1328331/

Búrfell

Búrfellin – kort.

Garðakirkja

Þekktustu staðir á Álftanesi eru Bessastaðir og Garðar. Á Bessastöðum er aðsetur forseta Íslands. Garðar eru kirkjustaður og fyrrum prestssetur.
Garðar á ÁlftanesiByggð hefur verið í landi Garðabæjar frá landnámstíð. Talið er að núverandi landsvæði bæjarins hafi tilheyrt þremur mönnum. Vestasti hlutinn hafi verið land Ingólfs Arnarsonar, landið í kringum Vífilsstaði í eigu Vífils, leysingja Ingólfs, og syðsti hlutinn í eigu Ásbjarnar Özurarsonar, sem bjó á Skúlastöðum og Landnáma segir að hafi fengið land á milli Hraunsholtslækjar og Hvassahrauns, Álftanes allt. Talið er að Skúlastaðir hafi annað hvort verið þar sem nú eru Bessastaðir eða þar sem nú er kirkjustaðurinn Garðar á Álftanesi en við hann er Garðabær kenndur.
Í Landnámu (Sturlubók) segir m.a.: „Maður hét Ávangur, írskur að kyni; hann byggði fyrst í Botni. Þar var þá svo stór skógur, að hann gerði þar af hafskip. Hans son var Þorleifur, faðir Þuríðar, er átti Þormóður Þjóstarsson á Álftanesi og Iðunnar Molda-Gnúpsdóttur… Þá fékk Illugi Jórunnar, dóttur Þormóðar Þjóstarssonar af Álftanesi, en Sigríður hengdi sig í hofinu, því að hún vildi eigi mannakaupið.
Í Landnámu er tveggja jarða getið innan þess svæðis sem Garðabær nær til. Ásbjörn Özurarson, bróðursonur Ingólfs Arnarsonar, er sagður hafa búið á Skúlastöðum, en Garðakirkjanam land milli Hraunsholtslækjar og Hvassahrauns og Álftanes allt. Eru munnmæli um að Skúlastaðir hafi verið þar sem Skúlastaðahraun er, sem er norðan við Lönguhlíðarhorn, innan Almenningsskóga Álftaneshrepps. Hin jörðin er Vífilsstaðir, eða Vífilstóftir, sem þó telst ekki til hinna eiginlegu landnámsjarða, en hún var byggð af Vífli. Vífilsstaðir munu fljótlega eftir landnám hafa komist í eigu kirkjunnar, fyrst Viðeyjarklausturs, en árið 1558 eignaðist Garðakirkja jörðina.
Talið er að kirkja hafi verið að Görðum á Álftanesi allt frá því að kristni var lögtekin á Íslandi árið 1000. Garðakirkju er fyrst getið í heimildum um 1200 í kirknamáldaga Páls biskups Jónssonar. Á þjóðveldis- og Sturlungaöld eru litlar heimildir um íbúa Álftaness og þar í kring. Þormóðs Þjóstarssonar er þó getið, sem sagður er hafa búið í Görðum, Álftanesi, t.d. skv. Hrafnkels sögu Freysgoða og Geirmundar þætti heljarskinns.
Höfuðbólið Garðar, var í nágrenni höfuðseturs veraldslegs valds á Íslandi, Bessastaða. Eftir að hreppskipan komst á, á þjóðveldisöld, tilheyrðu núverandi landsvæði Garðabæjar Álftaneshreppi og einnig bæði höfuðbólin Garðar og Bessastaðir. Garðalind - hið gamla vatnsból GarðaAfréttarland Álftaneshrepps hafði ýmist nöfnin Garðaland, Garðakirkjuland eða Garðastaðarland. Álftaneshreppi var skipt upp árið 1878, í Garðahrepp og Bessastaðahrepp. Var Álftaneshreppur þá lagður niður samhliða. Eftir skiptinguna 1878 tilheyrði byggðin suður fyrir Hafnarfjörð Garðahreppi. Sú skipting hélst þar til Hafnarfjörður fékk kaupstaðarréttindi árið 1908. Eftir það og fram til ársins 1959 náði lögsaga Garðahrepps beggja vegna við Hafnarfjörð, en þá var mörkum sveitarfélaganna breytt.
Garðakirkja í Görðum á Álftanesi er sóknarkirkja Garðaprestakalls. Kirkjan sem nú stendur er vígð 20. mars 1966 á fjórða sunnudegi í föstu. Talið er að kirkja hafi staðið í Görðum allt frá landnámi, utan þess sem kveðið er á í einni þjóðsögu að Garðar hafi verið þar sem nú eru Garðaflatir ofan Búrfellsgjár. Garðarmunu vera einn af elstu kirkjustöðum hér á landi. Garðakirkja þjónaði Garðahreppi og Hafnarfirði allt til 1914 er Hafnarfjarðarkirkja var vígð. Þá lagðist helgihald af í Görðum og kirkjan sem byggð hafði verið 1880 grotnaði smám saman niður uns hún var rifin 1938 og stóð aðeins tóftin eftir. Kvenfélagskonur í Garðahreppi áttu frumkvæði að því að hafist var handa um endurbyggingu Garðakirkju árið 1953. Var kirkjan svo endurreist og endurvígð af biskupi hinn 20. mars 1966, þegar 300 ár voru liðin frá fæðingu Jóns Vídalíns.
Bessastaðir með Perluna og Móskarðshnúka í baksýnUm hinn staðinn, Bessastaði, er það helst að segja að hann er órjúfanlegur hluti af íslenskri þjóðarsögu allt frá landnámstíð til vorra daga. Rannsóknir fornleifafræðinga hafa leitt í ljós að fyrstu íbúar á Bessastöðum settust þar að á landnámsöld og búseta hefur verið þar óslitið síðan. Á þjóðveldisöld bjó þar skáldið og höfðinginn Snorri Sturluson eins og getið er um í Íslendingasögu Sturlu Þórðarsonar. Snorri Sturluson átti Bessastaði á fyrra helmingi þrettándu aldar. Ekki er ljóst með hverjum hætti hann eignaðist jörðina en þegar veldi hans stóð hæst á öðrum fjórðungi þrettándu aldar átti hann miklar jarðeignir og rak stórbú víða um vestan- og sunnarvert landið. Eftir dauða Snorra sló Noregskonungur eign sinni á staðinn og síðari hluta miðalda sátu í konungsgarði á Bessastöðum æðstu fulltrúar erlends valds á Íslandi. Við einveldistöku Danakonungs breyttist hérlend stjórnsýsla talsvert og árið 1688 urðu Bessastaðir embættisbústaður fulltrúa konungs, landfógeta og amtmanns allt þar til yfirstjórn landsins fluttist til Reykjavíkur.
Hákon konungur gamli Hákonarson kallaði til arfs eftir Snorra Sturluson, sem hann taldi vera landráðamann við sig og brotlegan hirðmann, og fól Þorgilsi skarða BBessastaðir 1789öðvarssyni, sonarsyni Þórðar bróður Snorra, að heimta þann rétt á Íslandi. Þorgils hafði því umráð Bessastaða þau ár sem hann sat í öndvegi á Íslandi, og eitt fyrsta verk hans árið 1252 var að sögn sögu hans að sækja „landsleigu af Eyvindarstöðum og Bessastöðum.
Á 15. og 16. öld festist í sessi titillinn „höfuðsmaður“ um þessa æðstu valdsmenn landsins. „Höfuðsmenn voru löngum sjóforingjar, sem sendir voru til landsins á herskipum til landvarna gegn útlendingum. Þeir voru hér að sumarlagi, en settu fyrir sig fógeta annan tíma ársins, og sátu þá yfirleitt á Bessastöðum.
Á siðskiptaöld komust Bessastaðir í brennipunkt átaka; þaðan fóru siðbótarmenn konungs í herferðir sínar til að snúa landsmönnum á rétta braut og í kjölfar siðskipta færðust jarðeignir á Suðurnesjum og víðar um landið undir Bessastaði í vaxandi mæli, m.a. í makaskiptum við biskupsstólana og önnur höfuðbýli. Meðal þeirra jarða voru stöndugar útvegsjarðir sem gáfu af sér drjúgar tekjur í landskuldum sem greiddar voru í fríðu, einkum skreið og smjöri. Það fé sem safnaðist konungi og umboðsmönnum hans á Íslandi var varðveitt á Bessastöðum og þangað sóttu því erlendir sjóræningjar og ránsmenn. Á ensku öldinni svokölluðu, 15. öld, er oftar en einu sinni getið um áhlaup Englendinga að Bessastöðum og vilja Íslendinga til að efla þar nauðsynlegar varnir en þær hugmyndir komust þó ekki til framkvæmda. Frægasta ránstilraun á Bessastöðum er Tyrkjaránið svonefnda sumarið 1627.
Bessastaðir 1934Ýmsar breytingar á íslenskri stjórnsýslu fylgdu einveldistöku konungs í Danmörku. Hinn forni konungsgarður á Bessastöðum var þá gerður að embættisbústað tveggja æðstu umboðsmanna konungsvaldsins á Íslandi, landfógeta og amtmanns. Bessastaðastofa var aðsetur amtmanns eða stiftamtmanns til 1804 þegar Lærði skólinn, sem þá var æðsta menntastofnun landsins, var fluttur til Bessastaða þar sem skólinn starfaði óslitið til ársins 1846 að hann var aftur færður til Reykjavíkur.
Benedikt Sveinbjarnarson Gröndal, (1826-1907) fæddist á Bessastöðum. Einnig Grímur Thomsen skáld og alþingismaður, árið 1820. Árið 1867 komust Bessastaðir í eigu Gríms Thomsen og þar bjuggu hann og Jakobína Jónsdóttir kona hans þar til Grímur lést árið 1896. Þá keypti Landsbanki Íslands Bessastaði, Lambhús og Skansinn af ekkju Gríms.
Skúli Thoroddsen ritstjóri og alþingismaður og kona hans Theodóra Thoroddsen skáldkona eignuðust Bessastaði 1898 og bjuggu þar rausnarbúi með börnum sínum tólf til 1908.
FERLIRsfélagar á leið að Bessastöðum 2002Jón H. Þorbergsson bóndi (síðar á Laxamýri) bjó á Bessastöðum 1917-28 og Björgúlfur Ólafsson læknir 1928-40. Þá keypti Sigurður Jónasson forstjóri Bessa

staði og hann afhenti síðan íslenska ríkinu staðinn að gjöf árið 1941 svo þar mætti verða bústaður ríkisstjóra og síðar forsetasetur.
Talið er að kirkjur hafi staðið á Bessastöðum frá því um árið 1000 en elstu heimildir um kirkju þar eru frá árinu 1200. Fyrsta kirkjan var helguð heilagri Maríu guðsmóður og heilögum Nikulási. Núverandi steinkirkja á Bessastöðum, byggð að tilhlutan Kristjáns 7. Danakonungs, var vígð 1796 og er hún meðal elstu steinbygginga landsins. Smíði turnsins lauk þó ekki fyrr en 1823. Eru veggir hennar ríflega metri að þykkt, hlaðnir úr grjóti úr Gálgahrauni. Verulegar breytingar voru gerðar á innviðum Bessastaðakirkju á árunum 1945-47, m.a. lagt trégólf í stað flísa og predikunarstóllinn frá því um 1700 vék fyrir nýjum. Steint gler var sett í glugga kirkjunnar árið 1956. Gluggarnir eru átta talsins eftir listamennina Finn Jónsson og Guðmund Einarsson frá Miðdal og þeir sýna atburði úr Biblíunni og úr kristnisögu Íslands. Gagnger viðgerð fór fram á kirkjunni árið 1998.
Sjá meira HÉR.

Heimildir m.a.:
-forseti.is
-alftanes.is

Völvuleiði

Gengið var um vestanvert Flatahraun norðan Hrafnistu. Í hrauninu er margt minja, s.s. rétt, stekkur, heytóftir, kví og stöðull, en utan þess, ofan við Dysjamýrina er Völvuleiðið.

Flatahraunsrétt

Flatahraunsrétt (Balarétt).

Á Völvuleiði hvíla álög. Algengt var að sjá dysjar við gamla þjóðvegi sbr. dysirnar við Kópavogslæk og uppi á Arnarneshálsinum. Eftirfarandi upplýsingar um svæðið eru komnar frá Jónatani Garðasyni, sem þekkir það einna manna best.

Garðagata

Garðagata – kirkjuvegurinn.

Garðagata er gamla leiðin frá Hraunsholti, um Garðaholtsendann, þar sem námurnar voru og nú eru garðlönd, um ýmist um lágholtið eða háholtið framhjá þúfunum (dysjunum) og að Garðakirkju. Kirkjuvegurinn var aftur á móti í gegnum Víðistaði, um Dysjamýrina og Hraunsnefið. Upphlaðinn moldavegur lá yfir Dysjatúnið (sem var mýrlent mjög í þá tíð). Dysjabrúin eins og gatan var nefnd þar sem hún lá yfir mýrina var sléttuð á sínum tíma.
Í annars sléttur hrauninu áður en komið er að úfnum hraunkantinum mátti sjá hringlaga rétt; Bakkastekkjarétt eða Flatahraunsrétt. Stundum var hún nefnd Balarétt. Hún er nokkuð heilleg. Sunnan hennar var gróinn manngerður, hringlaga hóll. Slétt og gróið hraunið ber með sér að þarna hafi verið fiskitrönur þangað til nýlega.

Garðahverfi

Bakkastekkur.

Norðvestan réttarinnar eru hleðslur af kví. Í hraunbolla norðan hennar er hlaðinn leiðigarður og lítil stekkur framan við fyrirhlaðinn smáskúta. Suðvestan við hann er Bakkastekkjanef, sem tilheyrir Flatahrauni. Sunnan þessa mátti sjá rústir af a.m.k. tveimur húsum eða heytóftum.
Neðan við Garðaveginn sem nú er, rétt við steinhlaðna húsið að
heimtröðinni að Bala, er gamall stöðull í hraunkrika þar sem ærnar voru mjólkaðar. Það er Balastöðull.

Það er rétt að benda þér á að ástæðan fyrir að Flatahraun er algjörlega marflatt á þessum stað, sem og á þeim stað þar sem raðhúsin, sem tilheyra Hrafnistu eru, er sú að á Garðaholti var kampur á stríðsárunum og hermennirnir voru einnig með skúra sína og byrgi við Bala, á Skerseyri og Brúsastöðum (eitthvað af þessu stendur enn).

Garðahverfi

Presthóll (Prestaþúfa).

Hermennirnir notuðu gjóturnar í Flatahrauni sem ruslahauga og fylltu þær af drasli og síðan var sléttað
yfir allt saman. Þess vegna er þetta svona fagurlega slétt.
Norðan við Dysjamýri er gróinn hóll; Völvuleiðið.
Haldið var áfram upp á ásinn og yfir að Prestaþúfu (Presthól). Umrótið eftir herinn er í Prestaþúfu, þar sem Markús nokkur sem var Garðaklerkur á sautjándu, frekar en átjándu öld, sat gjarnan þegar hann íhugaði efni predikana sinna. Hóllinn var grafinn út og útbúin einskonar skotgröf, hann er við vegamót Álftanesvegar og afleggjarans að Garðaholti.

Flatahraun

Hlaðið byrgi í Flatahrauni.

Gengið var norður og niður að Garðastekk og gömlu götunni heim að Görðum síðan fylgt til vesturs upp eftir norðanverðu Garðaholti. Við götuna, hægra megin, eru hleðslur. Þar mun vera svonefnd Mæðgnadys.
Garðakirkja á Álftanesi er vegleg kirkja á sögufrægum stað. Hún hefur átt tímana tvenna kirkjan, sem þar er nú. Hún var reist 1879-80 og Pétur Sigurgeirsson, biskup, vígði hana á öðarum degi hvítasunnu. Kirkjan er úr hlöðnu grjóti úr holtinu fyrir hana.
Hinn 20. desember 1914 var nýja kirkjan í Hafnarfirði vígð og frá sama tíma var Garðakirkja formlega lögð niður. Gekk nú á ýmsu uns konur í Garðahreppi tóku málið í sínar hendur á öndverðu ári 1953 og hafði kirkjan þá verið rústir einar að heita má í aldarfjórðung. Var kirkjan svo endurreist og endurvígð af biskupi hinn 20. mars 1966, þegar 300 ár voru liðin frá fæðingu Jóns Vídalíns.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 11 mín.

Völvuleiði

Völvuleiði.

Alfaraleiðin

Alfaraleiðin er elsta kunna samgönguleiðin milli Útnesja og Innnesja Reykjanesskagans.
Um Alafaraleiðina fóru Alfaraleidin-27allir fólks- og vöruflutningar fyrr á öldum. Vermenn sem fóru um norðanverðan skagann fylgdu þessari götu á ferðum sínum í og úr verinu. Bændur og kaupmenn, ferðamenn og vinnuhjú fylgdu þessum fjölfarna götuslóða allt þar til Gamlivegur, fyrsti vagnfæri Suðurnesjavegurinn var lagður um 1900. Þá lagðist Alfaraleiðin af. Allflestar aðgengilegar vörður voru rifnar niður af vegagerðarmönnum og leiðin gleymdist smám saman. Hluti leiðarinnar hefur orðið nútímanum að bráð, farið  undir golfvöll, lent undir Reykjanesbrautinni á stöku stað og horfið að hluta þegar mikil efnistaka átti sér stað í Kapelluhrauni á sjötta og sjöunda áratug 20. aldar. Víða er þessi leið að gróa upp og hverfa en þó getur glöggt fólk auðveldlega fetað sig eftir Alfaraleiðinni með því að leggja sig örlítið fram og fylgja þeim vörðum sem enn standa og skýrum kennileitum.

Sudurgata-221

Leiðin lá frá botni Hafnarfjarðar þar sem Hafnarfjarðarkirkja sem stendur á Hamarskotsmöl. Þar eru ekki lengur nein merki um þessa fornu leið. Mannvirki, gatnagerð og umbreytingar sem fylgt hafa uppbyggingu bæjarins hafa fyrir löngu eytt öllum minjum um hana. Það eina sem er eftir er nafnið Suðurgata sem minnir á forna tíma. Þessi sama gata nefndist áður fyrr Suðurvegur. Þegar komið er upp steyptar tröppur, þar sem áður var Illabrekka, er brún Vesturhamars og þar liggur Suðurgatan að mestu á sama stað og gamli Suðurvegurinn var. Gamla leiðin lá sniðhalt framhjá Kaldárbrunni áleiðis að gömlu Flensborg við Ásbúðarlæk.

Alfaraleidin-25

Þessi leið er ekki lengur fær en hægt er að fara niður af Suðurgötunni um Flensborgarstíg, mjóan og beinan stíg sem liggur að Íshúsi Hafnarfjarðar. Farið er yfir Strandgötuna og stefnt á Hvaleyrabraut og henni fylgt að Hvaleyri. Gamla leiðin lá yfir Ásbúðarlæk á vaði, framhjá Ásbúð, gamalli verbúð frá Ási sem var í landi Ófriðarstaða. Stefnt var yfir ásinn ofan Óseyrartúngarðs að Skiphóli, sem var áberandi kennileiti á móts við þann stað þar sem seinna var Lýsi og mjöl. Norður frá Skiphól lá eyrarsker þar sem Eyrarskersgarður eða syðri hafnargarðurinn var lagður eftir seinni heimstyrjöld.

Alfaraleidin-26

Fylgt er Hvaleyrarbraut og farið vestur með Hvaleyrarlóni eða Hvaleyrartjörn og stefnt á bátaskýlin neðan undir Sandskörðum við lónið. Þar er hægt að fara gömlu leiðina upp Sandbrekkur, slakkann milli Hvaleyrarholts og Suðurtúngarðs en svo nefndist vörslugarður Hvaleyrartúnsins sem enn sést. Þegar komið er efst í Sandskörðin blasir Flókavarða við á vinstri hönd, eftirlíking norsku Flókavörðunnar í Smjörsundi, en þaðan lagði Hrafna-Flóki upp í för sína til Íslands. Farið er framhjá golfskála Keilis, niður í Stóru Sandvík, þar sem Sædýrasafnið var til húsa. Norðarlega í fjörunni eru Hvaleyrarklettar, en vestar eru Þvottaklettar þar sem Hvaleyrakonur skoluðu léreft sín í ómenguðu jarðvatni sem rennur úr Kaldárbotnum í sjó fram, og þurrkuðu þvottinn á klettunum. Þarna er nú golfvöllur en hægt að fylgja göngustíg nærri fjörunni. Vestan Þvottakletta var Litla Sandvík og ofan klettanna var Hvaleyrarsandur eða Sandurinn sem er alveg horfinn vegna æfingasvæðis golfara. Þarna var mikill fjörusandur sem seldur var sem pússningasandur þegar Hafnarfjarðarbær byggðist sem hraðast uppúr miðri 20. öldinni. Mjög gekk á þennan sand og var lítið eftir af honum þegar Sædýrasafnið var sett þarna á laggirnar í lok sjöunda áratugar 20. aldar.
Alfaraleiðin liggur fram hjá byggingum sem hýstu hluta Sædýrasafnsins en tilheyra nú golfklúbbnum Alfaraleidin-34Keili. Framundan blasir strítumynduð varða [landamerki] við sjónum í vesturátt. Stendur hún á áberandi hraunklöpp um miðbik nýjasta áfanga golfvallar Keilis sem tekinn í notkun 1996. Leiðin lá skáhalt yfir völlinn og stefndi í næstu vörðu sem er suðvestar og nær Reykjanesbraut. Vörður þessar vísa veginn og þegar komið er yfir golfvöllinn er slóðinni fylgt þar sem hún stefnir til suðvesturs undir Reykjanesbrautina. Handan brautarinnar stendur þriðja varðan nærri austurjaðri Nýjahrauns eða Brunans, en nyrsti hlutinn nefnist Kapelluhraun. Þar sem farið var upp á Kapelluhraunið var Stóravarða eystri sem vísaði á Brunaskarð eystra, austurmörk slóðans í gegnum þetta illvíga hraun sem eitt sinn var.

Alfaraleidin-28

Gatan sést ekki lengur í Kapelluhrauni nema á u.þ.b. 10 m kafla við kapelluna því stórvirkar vinnuvélar hafa eytt þeirri merku vegaframkvæmd sem þarna var unnin fyrir margt löngu. Ekki er vitað hvenær gatan í gegnum Nýjahraun var rudd, en það hefur trúlega átt sér stað seint á 12. öld eða snemma á 13. öld. Nýjahraun rann í miklum eldsumbrotum sem áttu sér stað 1151 úr gígaröð í Undirhlíðum. Hefur hraunið tálmað för manna í útverin á Vatnsleysuströnd og Suðurnesjum, sem voru flest í eigum biskupsstólsins í Skálholti, kirkna og klaustra. Viðeyjarklaustur átti Hvaleyri og er hægt að ímynda sér að leiguliðar klaustursins sem byggðu Hvaleyri fyrir 7 öldum hafi verið skikkaðir til að ryðja braut í gegnum eldhraunið  og opna leiðina milli verstöðvanna og Innnesjanna. Það eina sem vitnar um þessa miklu framkvæmd er kapelluhóllinn sem stendur eins og illa gerður hlutur í sköfnu og sléttuðu hrauninu. Á þessum hól stendur húslaga rúst sem er um 2m x 2,2m í ummál og opnast til vesturs eins og kirkja. Þetta eru taldar vera leifar kapellu heilagrar Barböru. Kristján Eldjárn þjóðminjavörður fann lítið leirlíkneski heilagrar Barböru við fornleifauppgröft í kapellunni árið 1950 og hefur hún verið friðlýst síðan 1955.
Alfaraleidin-29Frá kapellunni lá slóðin til suðvesturs nokkru sunnan við skúrbyggingu sem er nærri vesturbrún Kapelluhrauns. Farið er sunnan við hrauntappa sem enn stendur uppúr berangrinu og niður af Brunanum um Brunaskarð vestra, sem ekki sést móta fyrir lengur, en þar birtist Alfararleiðin á nýjan leik sunnan við Gerðið. Liggur nú leiðin að suðurenda Gerðis- og Þorbjarnarstaðatjarna. Syðst í Þorbjarnarstaðatjörn er fallega hlaðinn hringlaga brunnur þar sem íbúar Þorbjarnarstaða sóttu  drykkjarvatn um aldir. Út í tjörnina liggur upphlaðið spor í framhaldi af Brunngötunni sem hefst við traðarhlið Þorbjarnarstaða. Á þessum stað er tjörnin réttilega kölluð Brunntjörn, ein margra slíkra sem finna má í Hraunum og allar með samskonar nafn. Fram undan hrauninu seytlar fram ferskvatn í suðurjaðri tjarnarinnar þar sem brunnurinn er. Mun vatnið eiga upptök sín í Undihlíðum og Kaldárbotnum.
Alfaraleidin-30Alfaraleiðin liggur sunnan tjarnarinnar framhjá myndarlegum hraunhólum sem nefnast Hólar. Þar sem fyrrum stóð varða, en hún var rifin í byrjun 20. aldar. Farið er yfir Stekkagötuna sem liggur með austurtúngarð Þorbjarnarstaða í áttina að Stekknum undir Stekkahæðinni eystri, einnig nefnd Hádegishæð enda eyktarmarki frá Gerðinu, en þar var Hádegisvarða.
Liggur Stekkagatan framhjá Stekknum og Stekkahæð vestri, suður með Hólunum yfir í Selhraun og áfram suður í Straumssel. Alfararleiðin er mjög greinileg þar sem farið er yfir Stekkagötuna og stefnan tekin á Miðmundarhæðarvörðu sem stendur á háum klapparhól Miðmundarhæð. Vestan hæðarinnar er þvergata sem nefnist Hraungata eða Hraunavegur, sem er ennfremur hluti Straumsgötu sem liggur frá Hraunabæjunum um skarð áleiðis að Skotbyrginu sunnan þess, áfram suður í Grenigjár og þaðan suður í Katla og Straumssel. Hraungatan liggur um skarð sem blasir við á vinstri hönd í suðurátt. Vestan skarðsins er lítil varða og vörðulagaður steinn austan þess.
Alfaraleidin-36Enn vestar er önnur varða, nokkuð stærri sem vísar á Mosastíginn. Alfaraleiðinni er fylgt til vestur en hún er mjög greinileg á þessum slóðum. Þegar lengra er komið verður gatan krókótt þar sem hún þræðist um skorninga á milli hraunstrauma. Þessi kafli nefnist Draugadalir og vestar eru Þrengslin. Á móts við miðja Draugadali er áberandi varða á vinstri hönd.  Þegar komið er vestur úr Þrengslum ber þriðju vörðuna við himinn. Framundan er Gvendarbrunnshæð og er stefnan tekin á hana. Slóðanum er fylgt, þar sem hann liggur um þrjá metra frá hæðinni, þar til komið er að sléttri grasi gróinni klöpp með holu í miðjunni. Þetta er Gvendarbrunnur sem aldrei þrýtur. Brunnurinn er á mörkum tveggja jarða, því um hann miðjan eru landamerki milli Óttarsstaða og Straums. Hér er gott að staldra við um stund og hvílast rétt eins og gert hefur verið öldum saman. Gott skjól er í nálægu fjárskjóli, Óttarsstaðahelli, fyrir flestum veðrum ef á þarf að halda.

Alfaraleidin-32

Þegar förinni er haldið áfram eftir slóðinni til vesturs er innan skamms komið að enn einni hliðargötunni sem sker Alfaraleiðina. Litlar vörður á sitthvora hönd sem vísa á Skógargötuna eða Rauðamelsstíg sem lá frá bænum Óttarsstöðum í norðri, milli Rauðamelanna sem nú eru horfnir. Þar sem þessi áberandi kennileiti voru áður er djúpur gígur í jörðina sem sker gamla Keflavíkurveginn í sundur. Hefur jarðvatn náð að mynda tjörn í botni námunnar sem nefnist Rauðamelstjörn. Skógargatan hét áður Óttarsstaðaselsstígur því hún liggur yfir Seljahraun og Mjósund um hlaðið á Óttarsstaðaseli og þaðan áfram suður að Hrúthólma yfir á Krýsuvíkurleið nærri Sveifluhálsi.
Alfaraleiðin er skýrt mörkuð í hraunið og stefnt er á krókóttar hrauntraðir, sem eru minni í sniðum en Draugadalir. Þegar komið er út úr þeim  blasa Löngubrekkur við á hægri hönd, grasi og kjarri vaxnar brekkur sem eru syðst í allmikilli hraunhæð, Smalaskálahæð. Brekkurnar eru áberandi í landslaginu og mynda hraunvegg. Efst í suðurhluta hæðarinnar Alfaraleidin-33er löng og mikil sprunga, Löngubrekkugjá einnig nefnd Hrafnagjá því þar verpur hrafninn jafnan á vorin. Þegar komið er vestur fyrir þessa hæð liggur hliðarleið til norðurs í áttina að Kristrúnarborg eða Óttarsstaðaborg sem blasir við við á hægri hönd. Þetta er falleg lítil fjárborg sem Kristrún Sveinsdóttir húsfreyja á Óttarsstöðum hlóð ásamt vinnumanni sínum um 1865-70. Vert er að staldra við og skoða Smalaskálahæð nánar. Ástæðan fyrir hinni miklu Löngubrekkugjá skýrist þegar gengið er fram á djúpt jarðfall vestast í hæðinn, sem nefnist Smalaskálaker. Á botni þess er gjallhaugur þar sem myndlistarmaðurinn Hreinn Friðfinnsson, félagi í SÚM hópnum, reisti lítið hús árið 1974, sem nú er horfið. Húsið kallaðist Slunkaríki og tengist Sóloni sem bjó á Ísafirði snemma á 20. öld. Hann var sérkennilegur fyrir margra hluta sakir, en einkum vegna þess að hann byggði hús á röngunni. Sólon lét bárujárnið snúa inn og veggfóðrið út eins Þorbergur Þórðarson lýsir í bók sinni Íslenskum aðli. 

Gvendarbrunnur-21

Ef Alfaraleiðinni er fylgt áfram þar sem vikið var af henni við Smalaskálahæð, þá er framundan stakur hraunhóll sem minnir á höfuðfat. Farið er framhjá þessum hól á nokkuð greinilegum slóða og má sjá vörðubrot á stöku stað. Leiðin verður brátt óglögg vegna gróðurs og þessvegna getur verið erfitt að fylgja henni, enda sjást ekki mörg kennileiti sem hægt er að styðjast við. Haldið er áfram þar til fer að halla til vestnorðvesturs og lækkar þá landið smám saman. Á vinstri hönd má sjá Taglhæð, nokkuð sérstakan hraunhól, síðan er tiltölulega slétt hraun sem nefnist Sprengilendi.

Alfaraleid-4

Framundan er hæðótt hraunlandslag með einstökum vörðum sem hverfa síðan alveg þegar nær dregur Reykjanesbrautinni. Virkishólar eru sunnan Alfaraleiðarinnar sem stefnir nú að Hvassahrauni. Gatan sést mjög vel áður en komið er að undirgöngunum. Skynsamlegt er að fara í gegnum göngin undir Reykjanesbraut og stefna eftir gamla Keflavíkurveginum að Hvassahraunsrétt. Ofan hennar sést gatan enn mjög vel. Þegar þangað er komið hættir þessi þjóðleið að kallast Alfararleið og heitir eftir það Almenningsleið. Þeirri leið verður ekki lýst nánar, en hún liggur nærri sjónum framhjá Kúagerði, nokkurn vegin með veginum út á Vatnsleysuströnd, um Voga og Vogastapa og Innri Njarðvik, Fitjar, Ytri Njarðvík til Keflavíkur og þaðan suður í Sandgerði.
Kaflinn frá Hamarskotslæk í Hafnarfirði að Stekknum ofan Þorbjarnarstaða er 6.2 km.
Gangan tók 2 klst og 2 mín. Frábært veður.

Heimildir m.a.:
-hraunavinir.net

Hvaleyri

Hvaleyri við Hafnarfjörð.

Krýsuvík

Þekkt er að örnefni hafa tilhneigingu til að breytast, bæði hvað varðar staðsetningu og heiti í tíma og rúmi.
ofeigskirkja-221Ástæðurnar geta verið margar; t.d. nýtt fólk kemur á vettvang þar sem það þekkti ekki til áður, skrásetjarar fara rangt með (m.a. vegna þess að þeir fóru aldrei á vettvang), þeir sem þekktu best til voru aldrei spurðir (áður en þeir féllu frá), ný tilefni fyrir örnefnum verða til og glaðklakkanlegir einstaklingar einfaldlega giska á bæði heiti og staðsetningu örnefna.
Eitt dæmið er svonefnd „Ófeigskirkja“ í Garðahrauni. Skv. örnefnalýsingu og öðrum skriflegum heimildum fór hún („stór klettur“) undir núverandi Álftanesveg á sínum tíma (staðsetningin er þekkt). Til að viðhalda örnefninu var það allnokkru síðar fært yfir á næsta „stóra klett“ skammt norðar í hrauninu. Leiknir og lærðir, sem aldrei höfðu áður komið á vettvang, hafa fengið tækifæri til að staðfesta flutninginn. Sumir þeirra trúa jafnvel að í klettinum þeim arna sé nú fjölmennur samkomustaður bæði dverga og álfa). Og „Grenshóll“ (þar sem menn lágu fyrir tófu á sínum tíma“ er allt í einu orðinn að athvarfi álfa. A.m.k. tveir segjast hafa séð þessar verur á staðnum.
Ef sú ákvörðun verður tekin að endurbæta núverandi Álftanesveg (í stað þess að gera nýjan veg um Garðahraun) þarf væntanlega að gera ráð fyrir undirgöngum, eða göngubrú, yfir veginn – svo hvorki dvergum né álfum verði bráður bani búinn á ferð þar yfir á leiðinni að samkomustöðunum.
Svo hlýtur alltaf að vera hægt að flytja bara „álfakirkjuna“ fyrst hún hefur nú áður verið færð – án vandræða.

Ófeigskirkja

„Ófeigskirkja“ flutt.

 

Garðahraun

Gengið var um Garðahraun. Við fyrstu sýn virðist hraunið erfitt yfirferðar, en ef rétt er farið er hvergi auðfarnara utan gangstétta Garðabæjar.
MálverkÞegar gengið er inn á hina fornu leið Fógetastíg að austanverðu inn á hraunbrúnina og henni fylgt spölkorn inn á slétt hraunið er tilvalið að venda til hægri, áleiðis að klettaborgum innan seilingar. Ofan við þær eru leifar af lítilli fjárborg (ævagamalli) og fyrirhleðslum. Augljóst er að þarna hefur verið setið yfir fé fyrrum. Hraunbollar eru grösugir og víða má sjá gróin vörðubrot, garðleifar og lítil skjól. Hið 8000 ára gamla hraun ber aldurinn vel. Í tilefni hans var boðið upp á allt sem alvöru gömul hraun geta boðið upp á; grónar sprungur, háa klapparkolla, innfelldar hraunæðar og alls kyns kynjamyndir. Á þessu svæði eru mannvistarleifar á grónum hól ofan við Eskines (sjá meira HÉR). Utar er hleðsla í sprungu, líklegt aðhald eða nátthagi. Þegar gengið var upp (suðvestur) hraunið birtust fleiri kynjamyndir og hraunstandar. Enn ofar sléttist hraunið og auðvelt er að fylgja yfirborðinu til suðurs. Á hægri hönd er svo „ógurlegt“ Gálgahraunið. Á stöndum þess stóðu gráðugar veiðibjöllur og biðu eftir bráð vorsins, eggjum mófuglanna.

Fyrirmynd

Garðahraunið er ótrúlega fljótfarið enda á millum. Fyrirvaralaust komust tvífætlingarnir upp undir suðurbrún þess, að svonefndu „Kjarvalskletti“ eftir að hafa lagt lykkju á leiðina til að komast niður í eina myndarlegustu klettagjána. Hvarvetna á leiðinni mátti sjá hvar fyrirmyndirnar að verkum meistarans biðu léreftsáfestingar. En líftími mannsins er bara svo skammur þegar horft er til líftíma hraunsins – nema maðurinn breyti því til hins verra. Það er nefnilega svo auðvelt og það tekur svo skamman tíma að skemma viðvarandi fegurð ef ekki er að gætt. Stundarskemmarverk (sbr. stundarbrjálæði) getur svipt komandi kynslóðir ánægjunni af fá að njóta fyrrum dásemda. Þær sá meistari Kjarval í hrauninu og þær sjá allir aðrir er hafa næmt auga fyrir fegurð landsins. Auðvitað getur sú skynjun tapast í ölduróti annarra hagsmuna, s.s. kröfu til aukinna lífsgæða og þörf á landrými undir íbúðir og vegi.

Móslóði

Ætlunin var m.a. að skoða eina af fyrirmyndum Kjarvals. Með afrit af málverki við hendina fannst staðurinn. Umhverfis voru miklar klettaborgir, en fyrirmyndin virtist léttvæg þar sem hún var þarna í hinu tilkomumikla landslagi. En af einhverri ástæðu valdi Kjarval þennan stað, enda hafði hann næmt auga fyrir myndefninu.
Austan við þennan stað og vestan við annan stað, sem hann málaði einnig á, liggur gata; Móslóði.
KjarvalÍ örnefnalýsingu segir að eftir 
honum var farið með klyfjahesta og reiddur mór úr Hraunsholtsmýri, áður en akvegur kom til sögunnar. Slóðanum var fylgt til norðurs. Áður en langt var komið varð gróin varða á leiðinni. Frá henni lá gatan áleiðis yfir slétt gróið hraunið og síðan undan halla þess, áleiðis niður að uppruna Fógetastígs (þar sem hann kemur inn á Garðahraunið). Gatan er vel greinileg alla leiðina, allt þar til hún mætir Fógetastíg. Þar er mosavaxin varða er gefur til kynna hvar gatnamótin eru.
Frábært veður. Gangan um Garðahraunið tók 2 klst og 2 mín.

Garðahraun

Litir eftir Kjarval í Garðahrauni skammt frá Móslóða.

 

Garðahraun

Í tilefni af því að nú virðist vera fyrir hendi áhugi að afmá hluta Fógetastígs var ákveðið að ganga götuna enda á millum þar sem hún er enn greinileg (2009).
VarðaGengið var um stíginn yfir Garðahraun áleiðis að Garðastekk og áfram áleiðis að Bessastöðum. Í leiðinni var hugað að Móslóða í Garðahrauni og Garðagötunni (-veginum) áleiðis um norðanvert Garðaholt að Görðum. Fógetastígur er hin forna leið í gegnum hraunið á leiðinni millum Reykjavíkur og Álftaness (Bessastaða). Garðagata liggur um Garðaholt frá Görðum, inn á Garðahraun við Garðastekk og sameinast Fógetastíg inni í hrauninu. Móstígur er austlægari, liggur frá Fógetastíg nyrst þar sem hann kemur inn á Garðahraun og síðan í suðlæga stefnu áleiðis að Engidalshrauni.
Í fornleifaskráningu fyrir Garðahraun segir m.a.: „Gamli vegurinn (götuslóði) úr Reykjavík út á FógetastígurÁlftanes lá yfir Hraunsholtslæk og út með ströndinni. Hann greinist í tvo slóða í Hraunviki. … Hinn götuslóðinn úr Hraunviki hefur vestlæga stefnu, og hefur hann verið alfaraleið á liðnum öldum. Víða sjást djúpir troðningar og hófaför í klöppunum. Hann greinist um mitt hraunið. Liggur annar í Garðahverfið, en hinn út á Álftanes. Rétt sunnan við, þar sem vegirnir skiptast, er Skyggnir, stór, einstæður klettur.“ segir í örnefnalýsingu. Troðningar sjást meðfram fjörunni í Hraunviki og upp með hraunbrúninni vestan við vikið, en um 50 m frá flæðarmáli, þar sem lítið vörðutyppi er á brúninni liggur gatan upp á hraunið og er þar geil í brúnina. Hraunið er allslétt um 400 m bein vestur frá Hraunviki og liggur leiðin um það slétta svæði og skiptist gatan sumstaðar í fleiri en eina rás en er allsstaðar mjög skýr. Hún liggur síðan í hlykk fram hjá hraunklettum þar sem hraunið er einna hæst og beygir til norðvesturs vestan við klettana. Þar sem gatan beygir er hraunið allslétt og gætu troðningar legið þaðan til suðurs og suðvesturs en ekki eru þeir skýrir. Frá beygjunni liggur gatan beint í um 300 m – og er þar samsíða fyrirhuguðu vegarstæði, sumstaðar innan við 20 m frá því, en fer undir veglínuna við hæl sem merktur er 1660 m. Þar beygir gatan til vesturs og liggur síðan niður úr hrauninu á móts við hleðsluna.
TóftÍ flagmóunum vestan við hraunið má rekja götuna áfram til vesturs og hefur hún nokkuð beina stefnu á Selskarð. Þar sem gatan nálgast fjörumál í Lambhústjörn eru götupaldrar á stuttum kafla en síðan hverfur hún alveg í mýri og flög. Vestan við Selskarð sést framhald götunnar en þar hefur verið gerður malarvegur, nú aflagður. Líklegt er að gatan hafi klofnað við Selskarð og austari grein legið út á Bessastaði en hin á vesturhluta Álftaness. Á móts við núverandi Garðaholtsveg liggur annar slóði upp í hraunið, um 100 m norðan við Garðastekk og liggur til norðausturs og sameinast aðalgötunni eftir um 250 m. Þetta mun vera gatan sem lá í Garðahverfi. Sú gata er mun ógreinilegri en aðalgatan út á Álftanes.
Í hrauninu er gatan víðast alldjúp geil, allt að 1 m djúp og 1-2 m breið, algróin. Brotnað hefur af götunni á einum stað við Lambhústjörn. Þessi leið hefur verið notuð fram á síðustu ár 19. aldar en sumarið 1873 var lagður vegur yfir Flatahraun frá Sjónarhóli í Engidal, og framhald á honum áleiðis á Hraunsholtið 1879. Endanleg vegtenging við Reykjavík kom þó ekki fyrr en 1897-99. Eftir það mun aðalleiðin á Álftanes hafa fylgt hinum uppbyggða vegi milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur og beygt útaf honum í Engidal.“
VarðaUm Móslóðan segir skráningin: „Stígur úr Garðahverfi, lá meðfram Garðaholti og yfir Flatahraun og svo yfir hraunið inn að Arnarnesvogi, en þar tóku Garðhverfingar upp mó. Troðningur þessi var nefndur Móslóði. (Ath.: G.S. nefnir hann Gálgahraunsstíg syðra, en ekki kannast Guðmann við það nafn, og mun það rangt. … Gamli vegurinn (götuslóði) úr Reykjavík út á Álftanes lá yfir Hraunsholtslæk og út með ströndinni. Hann greinist í tvo slóða í Hraunviki. Hefur annar suðvestlæga stefnu nokkurnveginn á [Garða]holtsendann (þar sem sandnámið var. Hann var við líði fram um 1920, en er nú að mestu uppgróinn. 

Varða

Er þetta hinn fyrrnefndi Móslóði. Eftir honum var farið með klyfjahesta og reiddur mór úr Hraunsholtsmýri, áður en akvegur kom til sögunnar“, segir í örnefnalýsingu. Þessi stígur hefur verið sá austasti af þeim sem lágu yfir hraunið milli Garða og Hraunsholts. Hann hefur af lýsingunni að dæma legið upp í hraunið á svipuðum slóðum og Álftanesvegur kemur nú niður úr því að sunnan, og þaðan legið til norðurs uns hann sameinaðist Fógetagötu í miðju hrauninu. Víða sjást troðningar á þessum slóðum en hvergi er hægt að rekja ákveðna götu alla þessa leið. Þessi leið hefur verið ívið greiðfærari með reiðingshesta heldur en aðalleiðin sem lá norðar.“
GarðastekkurUm Garðastekk segir: „Krummaklettar eru fyrsta örnefnið á hægri hönd, þegar farið er norður hraunbrúnina norðan Álftanesvegar. Hefur hraunskelin brotnað þar niður og myndað klettana. … Rústir af gamalli fjárrétt, Garðastekk, eru u.þ.b. 150 metrum norðan við Krummakletta, á móts við Garðaholtsveg, þar sem hann kemur á Álftanesveg. Rétt þessi var notuð fram yfir 1930.“ segir í örnefnalýsingu. Tveir túnbleðlar eru sunnan undir hraunbrúninni á móts við Garðaholtsveg. Norðan við austurendann á vestari blettinum er stekkurinn, grjóthlaðin rétt með 4 hólfum og vestan við hana gróin tóft.
Réttin er hlaðin utan í hraunkant og hefur stekkjartún verið í kring. Það hefur nú verið ræktað. Fjær eru stórgrýttir flagmóar. Réttin skiptist í fjögur hlaðin hólf en Gerðimilli hennar og hraunsins myndast einnig tvö hólf til viðbótar. Þá sjást leifar af fimmta hólfinu nyrst. Sunnan við það er 11×9 m hólf með dyrum á vesturvegg og eru hleðslurnar allar bogadregnar í þessu hólfi. Sunnan við það er stærsta hólfið og er ekki gengt á milli. Það er 19×6 m og er aðeins gegnt úr því í annað af tveimur minni hólfum sem eru áföst við það sunnanvið. Þau eru bæði um 5×5 m með dyr á suðurvegg. Í krikanum sem myndast vestan við stekkinn er grasi gróin tóft, 10×4 m að utanmáli og mögulega kró eða smátóft aftan úr henni að austan. Gæti verið hinn eiginlegi stekkur.“ Ekki er minnst á leifar fjárborgar ofan við Garðastekk, sem verður að þykja allmerkilegar mannvistarleifar. Og ekki heldur er minnst á mun fleiri minjar, sem er að sjá á og við Fógetastíg.
FógetastígurHér skal byrjað á byrjuninni; á austurenda Fógetastígs. Hann kemur upp á hraunbrúnina eins og áður hefur verið lýst. Stígurinn er mjög greinilegur þar sem hann liggur gróinn í sveig upp brúnina. Fyrir innan hana er gatan nokkuð slétt. Vörðuleifar eru á vinstri hönd. Heilleg varða er framundan á vinstri hönd. Áður en að henni er komið greinist gatan. Aðalgatan liggur áfram til vinstri, áleiðis að vörðunni, en hjáleið liggur til hægri. Fylgjum hjáleiðinni; hún er alls ekki ógreiðfærari, en beinni. Vörðubrot er á henni við lágan hól áður en gatan beygir og liggur svolítið niður á við. Þaðan liggur hún með brún upp á við og beygir til vinstri, að áberandi stökum klettastandi, framhjá honum og þá til hægri. Síðan liggur þessi hluti upp hraunið uns hann kemur saman við aðalgötuna allnokkru ofar. Vörðubrot er á leiðinni. Sennilega hefur þessi hluti Fógetastígs verið notaður af kunnugum því hann styttir leiðina svolítið. Ástæðan gæti líka verið sú að af þessarai leið liggur þvergata stystu leið niður í Gálgakletta. Hana gætu menn því hafa farið er átt hafa þangað erindi. Sú gata er enn vel greinileg ef rétt er farin.
KjarvalsverðugheitOg þá aftur inn á aðalleið Fógetastígs. Engar vörður eða vörðubrot sjást á þessari leið allt þangað til komið er að fyrrnefndum gatnamótum. Þar fer gatan í gegnum hraunskarð og er undirlagið hnoðað af manna og dýra fótum. Þarna beygir gatan til vestnorðvesturs. Skammt þar frá má greina að því er virðist forn tóft, ca. 3×6 m., hægra megin götunnar. FRá henni liggur gata til vinstri, áleiðis að Garðastekk austanverðum. Þar er Garðagatan. Aðra slíka tóft má sjá stuttu lengra, vinstra megin götunnar. Frá henni liggur gata til vesturs og kemur hún niður af hraunbrúninni inn í hlaðið gerði norðvestan við Garðastekk. Þegar lengra er haldið eftir aðalleiðinni má sjá vörðubrot. Þar liggur gatan til vinstri í sveig niður af hraunbrúninni, í gróinn hvamm. Þá liggur hún niður með hraunkantinum og inn á móana áleiðis að Bessastöðum. Stuttu eftir að gatan kemur niður af hraunbrúninni má sjá hleðslur utan í hrauninu, sennilegt skjól, enda er líklegt að kvosin hafi verið áningarstaður fyrrum.
KletturÞá var haldið til baka eftir Fógetastígnum inn að gatnamótum götu er liggur vestur af hraunbrúninni norðvestur af Garðastekk. Eftir að hafa skoðað stekkinn var fjárborg (sjá mynd hér efst) litin augum á hraunbrúninni ofan við stekkinn. Einhverra hluta vegna hafa fornminjar þær ekki verið skráðar. Suðaustan við stekkinn er gróin kvos inn í hraunkantinn. Í henni eru hlaðin gerði á tveimur stöðum. Í kvosinni sjálfri eru leifar af tóft, sennilega undan bragga eða seinni tíma húsi. Innan við hana liggur gata upp á hraunið. Fylgja má henni nokkurn spöl, en þar greinist hún í tvennt; annars vegar til suðurs, áleiðis inn á Móslóða og hins vegar inn að stórbrotnum hraunmyndunum, sem gætu jafnvel fyllt meistara Kjarval minnimáttarkennd.
TóftÞá var haldið aftur að gatnamótum Garðavegar og Fógestastígs og hinum síðarnefnda fylgt að upphafsreit. Á leiðinni fer hann í gegnum hraunskarðið fyrrnefnda, en skammt innan við það eru gatnamót Fógetastígsleiðanna, sem áður var lýst. Auðvelt er að fylgja Fógetastígnum því hann er bæði gróinn og auk þess hefur hann verið unninn á köflum. Víða er stígurinn djúpt markaður í jörðina og vel gróið umleikis. Hann er jafnan á nokkuð sléttu plani og því auðveldur eftirferðar. Ef aðalleiðinni er fylgt má áætla ca. 15-20 mín. á milli hraunbrúna. Ef vilji er til að fara báðar göturnar, sem fyrr hefur verið lýst, er um að ræða ca. hálfrar klukkustundar rólega göngu – reyndar í stórbrotnu, síbreytilegu og ógleymanlegu hraunumhverfi. Hafa ber í huga að standi vilji til að skoða og upplifa þessar fallegustu hraunmyndanir landsins til langrar framtíðar þarf einungis að bregða sér spölkorn út af stígnum og berja þær augum.

Garðahraun

Garðahraun – götur. ÓSÁ.

Í leiðinni var ákveðið að skoða austurhluta Garðahrauns. Við þá skoðun fundust hlaðin gerði á a.m.k. þremur stöðum. Öll eru þau við legu fyrirhugaðs Vífilsstaðavegar yfir Garðahraun – og væntanlega óskráð sem fornleifar.
Benda má áhugasömu fólki um hreyfingu og útivist að gefa sér, þótt ekki væri nema einu síðdegi, til að skoða Garðahraun. Tryggja má, með loforði um óafturkræfan skilafrest, að vitund þess og áhrif af þessu nánasta umhverfi þéttbýlismyndunar-innar mun verða sú sama og Kjarvals fyrrum.
Gangan var notuð til hnitskrá götur í Garðahrauni eins og sjá má á meðfylgjandi loftmynd. Ástæðan var einkum sú að fyrirhugað er að leggja nýja vegi yfir Garðahraunið austanvert, þ.e. Álftanesveg og Vífilsstaðaveg.
AlftanesvegurÞótt FERLIR sé að öllu jöfnu á móti röskun forn- og náttúruminja er viðlagið jafnan það að skoða aðstæður nánar áður en upp úr er kveðið. Tvennt hefur þá komið í ljós; annars vegar að takmarkaður áhugi og vilji til að láta fara fram rannsóknir á tilteknu svæði og að fornleifaskráningu (ef hún err yfirleitt framkvæmd) er stórlega ábótavant. Oftar en ekki er verktakinn búinn að fara yfir svæðið á jarðýtu og aka óvart yfir hugsanlegar minjar, sem þyrfti að skrá. Ef svo óheppilega vildi til að verktakinn missti af hugsanlegum minjum á leið sinni, en fornleifafræðingar uppgötvuðu þær við leit, hafði hinn fyrrnefndi óvart rennt yfir það á skriðtækinu sínu um það leiti er skýrsla hins síðarnefnda birtist. Svona er lífið…
Frábært veður. Gangan tók 1. klst og 11. mín.

Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsingar.
-Fornleifaskráning.

Fógetagata

Fógetagata.

 

Garðahraun

Jóhannes Sveinsson Kjarval málaði nokkur málverka sinna í Garðahrauni þar sem hraunmyndanir voru notaðar sem fyrirmyndir (,,Kjarvalssvæði“). Árið 1955 var haldin yfirlitssýning á verkum Kjarvals í Listasafni Íslands. Um 25.000 manns sóttu sýninguna. Þá hafði hann uppgötvað Gálgahraun á Álftanesi og hafði málað þar oft, stundum nokkrar myndir af sömu fyrirmyndinni. Þrátt fyrir verðmætin, sem í verkum Jóhannesar felast, eru mótvív hans, þ.e. hraunmyndanirnar, ekki síður verðmætar.
KjarvalJóhannes Sveinsson Kjarval fæddist í Efriey í Skaftafellssýslu árið 1885. Fjögurra ára var hann sendur í fóstur til frændfólks síns í Geitavík í Borgarfirði eystra og ólst þar upp.
Þegar Kjarval var 17 ára fluttist hann til Reykjavíkur. Hann hafði lengi verið áhugasamur um myndlist og einsetti sér að mennta sig og taka framförum á listabrautinni. Vann hann fyrir sér með sjómennsku og ýmsum störfum í landi en teiknaði og málaði þegar tími vannst til.
Kjarval var ljóst að til að ná árangri í myndlist yrði hann að fara utan. Síðla árs 1911 sigldi hann með togara til London með það að markmiði að komast inní Konunglega listaháskólann. Ekki fékk Kjarval skólavist en hann notaði tímann í London til að skoða söfn og mála. Næsta vor hélt hann til Kaupmannahafnar. Að loknu árs teikninámi við tækniskóla fékk hann inngöngu í Konunglega listaháskólann. Þar stundaði hann nám næstu árin og brautskráðist í árslok 1917.
KjarvalskletturÁ námsárunum kom Kjarval oftast heim á sumrin og málaði. Að loknu náminu í Kaupmannahöfn ferðaðist hann um Norðurlönd og dvaldist einnig um hríð á Ítalíu.
Kjarval fluttist til Reykjavíkur við upphaf 20. aldar. Þá var höfuðstaðurinn mjög frábrugðinn því sem nú er. Um aldamótin bjuggu í Reykjavík tæplega 7000 manns, flestir í torf- eða timburhúsum. Fyrsta myndlistarsýningin á Íslandi var haldin árið 1900. Þá sýndi Þórarinn B. Þorláksson (1867-1924) málverk sín. Þórarinn var fyrsti íslendingurinn sem fór til útlanda gagngert til þess að læra listmálun, en Ásgrímur Jónsson (1876-1958) varð fyrstur íslendinga til að gera myndlistina að aðalstarfi sínu. Kjarval naut tilsagnar beggja þessara manna.
KjarvalÁ fimmtugsafmæli Kjarvals 1935 var haldin yfirlitssýning á verkum hans í Menntaskólanum í Reykjavík. Með þeirri sýningu festi hann sig í sessi sem einn ástsælasti og virtasti málari þjóðarinnar. Vinsældir hans jukust og fjárhagurinn batnaði. Árið 1945 sýndi hann 41 mynd í Listamannaskálanum. Af þeim seldust 38 strax fyrsta klukkutímann. Á hálfum mánuði sáu um 14 þúsund manns sýninguna, eða um þúsund gestir á hverjum degi. Þessi mikli áhugi endurspeglaði ekki aðeins aukinn áhuga á list Kjarvals heldur einnig breytingu sem var að verða á íslensku samfélagi.
KjarvalskletturEftirfarandi tilvitnanir lýsa vel viðhorfi Kjarvals til náttúrunnar, lífsins og listarinnar: „Það er svo mikill vandi að vera manneskja. Það hefur alltaf verið erfitt fyrir mig. Við höfum margs að gæta, náttúran leikur við mannseðlið og ef við gætum okkar ekki á leik náttúrunnar verður engin list til. Og við verðum að hugsa um steinana. Við megum ekki alltaf láta þá liggja undir skugganum okkar, við eigum stundum að klappa þeim og hlusta á þá og heyra hvað þeir hugsa.“
Kjarval málaði víða um land. Fram til 1939 fór hann aðallega á Þingvöll og aðra staði í nágrenni Reykjavíkur. Bágur efnahagur takmarkaði möguleika hans til ferðalaga. Eftir 1939 ferðaðist Kjarval meira um Samalandið. Staðir sem hann fór oft á að mála voru: Þingvellir, Svínahraun, Álftanes, Snæfellsnes, Skagaströnd, Vestur-Skaftafellssýsla og Borgarfjörður eystri.
Í útvarpsviðtali frá 1957 segir Kjarval um verk sín: „Listin mín er innifalin í mótívinu og á mörgum myndum af sama mótívi ef mér finnst það vera það gott að það sé hægt að búa til margar myndir af því úr sama stæði, ekki kóperuð mynd af mynd, heldur standa og sjá mótívið í mismunandi veðri.“
Oft er talað um að með landslagsmyndunum sem Kjarval málaði á síðari hluta ævinnar hafi þjóðin lært að sjá og meta fegurðina sem býr í íslenskum mosa og hraungrjóti. Áður var náttúrufegurð einkum talin felast í tignarlegum fjöllum, birkihríslum og grænum túnum.
MálningHér er ekið dæmi í Garðahrauni (Gálgahrauni), sem Kjarval festi á striga, stundum nefndur Kjarvalsklettur. Sjá má hleðslu í skjóli undir klettavegg þar sem hann hefur setið og málað klettinn. Ofan við skjólið eru litir þar sem hann hafði skolað úr penslum sínum. Þessi ummerkri sjást enn á vettvangi:
Þótt staðir sem Kjarvalsfyrirmyndir teljist ekki til fornleifa og eigi því ekki að vaðveitast sem slíkir er engu að síður ástæða til að umgangst þá af virðingu því það kom ekki af engu að listamaður með svo næmt auga fyrir fegurð umhverfisins taldi ástæðu til að festa þá á striga svo aðrir mættu njóta þess með honum til framtíðar.

Heimild:
-www.listasafnreykjavikur.is

Garðahraun

Kjarvalsklettur í Garðahrauni.

Garðahraun

Nú (apríl 2009) eru síðustu forvöð að líta á fornminjar og kletta sem Kjarval málaði margsinnis um miðja síðustu öld. Ástæðan er fyrirhuguð lagning nýs Álftanesvegar um hraunin. Að öllu óbreyttu munu framkvæmdir hefjast við veginn innan fárra daga.

Ófeigskirkja

Jónatan Garðarson hefur fjallað um þennan hluta hraunsins. „Árið 1996 komu fram fyrstu hugmyndir um færslu Álftanesvegar norður í Garðahraun á rúmlega 1 km kafla. Margt hefur verið skrifað og skrafað um þessa hugmynd og ýmsar leiðir verið skoðaðar. Nú virðist stefna í að framkvæmdir muni hefjast þar innan skamms og hefur veginum verið valin leið í gegnum hraunið á stað sem margir eru mjög ósáttir við. Veginum er ætlað að liggja frá Engidal um Flatahraun mjög nærri nýju húsunum,  rétt norðan við klettana þar sem Kjarval málaði margar af merkustu myndum sínum, og um Klettahraun nærri Gálgahrauni á milli Fógetagötu og Garðastekks. Vegurinn mun koma niður af hrauninu mjög nærri Garðastekk og liggja í áttina að núverandi vegstæði í Selskarðslandi.

Minjar

Fornleifakönnun var gerð á svæðinu mili Selskarðs og Engidals árið 1999. Þessi könnun ber með sér að minjar í námunda við Engidal hafa annaðhvort farið framhjá þeim sem könnina gerðu eða ekki talist nógu merkilegar. Það stendur beinum orðum í könnuninn að ekki sé vitað um neinar fornleifar í Engidal. Merkasti minjastaðurinn nærri Engidal er Grænhóll sem er með greinilegri tóft og þar er einnig Engidalsstígurinn sem sést ágætlega á köflum.

Allt hraunsvæðið sem vegurinn mun liggja um tilheyrir Búrfellshrauni sem rann fyrir um 7-8000 árum úr eldgígnum Búrfelli. Búrfellshraun er samheiti sem jarðfræðingar hafa gefið öllum hraunmassanum sem þekur í dag um 18 ferkílómetra, en var mun víðfeðmari á sínum tíma. Búrfellshraun skiptist í fjölmarga minni hraunfláka sem hver og einn hefur borið sitt eigið nafn frá fornu fari. 

vörðubrot

Hraunið er víða gróið fjölbreyttum plöntum úr íslenska jurtaríkinu og áhugavert að fara um það á sumrin þegar allt er í blóma. Hraunið sjálft er margbreytilegt og skiptist í nokkuð flata hraunvelli og grasgefnar lautir, úfna og ógreiðfæra fláka og klettótt belti með hrikalegum hraundröngum, djúpum gjótum og sprungreinum. Það er leitun að eins fjölbreyttu hraunlandslagi svo nærri mesta þéttbýli landsins enda hefur hraunið orðið skáldum að yrkisefni og listmálurum uppspretta myndsköpunar. Áður fyrr gegndi hraunið hlutverki beitilands búsmalans, þar var kjarrviður sem bændur sóttu í til kolagerðar, lyngrif var stundað í hraunin og mosinn nýttur til upphitunar.

Skjól

Berjalandið hefur jafnan verið gjöfult á haustin og á víð og dreif mátti finna ágæta slægjuteiga þegar öll grös voru nýtt til hins ítrasta. Fjölmargir slóðar og götutroðningar lágu um hraunið sem voru sumir fjölfarnir en aðrir næsta fáfarnir. Ein merkasta gatan var Fógetagata eða Álftanesgata sem var meginleiðin til og frá kóngsgarðinum á Bessastöðum.

Grænhóll og Engidalsstígur sem verður fórnað ef nýr Álftanesvegur verður lagður. Á Grænhól er tóft sem ekki hefur verið rannsökuð. Aðrar leiðir eru líka kunnar eins og  Sakamannastígur sem var líka nefndur Gálgastígur, Móslóði, Álftanesstígur, Engidalsstígur, Flatahraunsgata og Alfaraleið eða Fjarðargata sem var helsta leiðin í kaupstaðinn við Hafnarfjörð. Á þessum leiðum voru ýmis kennileiti sem vert er að hafa í huga og jafnvel manngerð hús eða skjól eins og á Grænhól.
NátthagiTóftin á Grænhól hefur verið svipuð að ummáli og Kapellan í Kapelluhrauni en engar sagnir eru þekktar um það til hvers Grænhólstóftin var notuð. Það má vel vera að þar hafi verið reist lítið skýli til að veita ferðamönnum í slæmum veðrum. Það getur líka verið að þar hafi upphaflega verið bænhús sem fékk annað hlutverk við siðaskiptin. Tóftin hefur ekki verið rannsökuð og þar af leiðandi ekki hægt að segja með neinni vissu hverslags mannvirki þetta var. Verði af lagningu Álftanesvegar er algjörlega nauðsynlegt að rannsaka hólinn áður en framkvæmdir hefjast því hann mun að öllum líkindum lenda í miðju vegstæðinu. Það er því ekki seinna vænna að rannsaka hann, áður en hann hverfur með öllu.

Grænhólstóft

Ófeigskirkju er getið í gömlum sögnum en ekki er alveg á hreinu hverskonar klettur þetta er að öðru leyti en því að hann er sagður klapparhyrna á Flatahrauni. Samkvæmt orðanna hljóðan trúði fólk að um hulda kirkju væri að ræða og álagablett sem ekki mátti raska. Þegar örnefnalýsing var gerð fyrir þetta svæði á sínum tíma áttuðu menn sig ekki á umfangi Flatahrauns og gerðu þar af leiðandi ráð fyrir að Ófeigskirkja væri horfin. Sagt er í örnefnalýsingum að kletturinn hafi verið brotinn niður þegar Álftanesvegurinn var lagður og örnefnið færst til yfir á gervigíg við Álftanesveg. Þar hefur nýlega verið sett upp spennistöð fyrir nýjan hverfið í Garðahrauni.

Engidalsvegur

Þrátt fyrir það sem stendur í örnefnalýsingunni hefur Ófeigskirkju ekki enn verið raskað, enda hefði engum heilvita manni dottið í hug að leggja til atlögu við hana þegar Álftanesvegur var lagður 1908. Örnefnalýsingin greinir einnig frá því að Grænhóll hafi verið hraunhóll neðan við Ófeigskirkju og þegar betur er að gáð stendur Grænhóll enn á sínum stað og Ófeigskirkja sömuleiðis. Það er engu líkara en þeir sem tóku að sér örnefnaskráninguna hafi blandað saman tveimur nöfnum og talið að Grenishóll og Grænhóll væru einn og sami hóllinn. Ófeigskirkja er álagaklettur sem ekki má raska. Grenishóll er hæðarhryggur til norðurs sem er norðan Álftanesvegar þar sem Flatahraunið endar í norðvestri. Þar var síðast unninn refur 1870 af Magnúsi Brynjólfssyni, hreppstjóra á Dysjum. Grænhóll er hinsvegar skammt frá Ófeigskirkju í suðausturjaðri Flatahrauns, langt frá Grenishól. Ruglingurinn er skiljanlegur því í örnefnalýsingu Ara Gíslasonar stendur: ,,Þessi hóll er á austanverðu Flatahrauni. Framan við Flatahraun var klettur, sem hét Ófeigskirkja, en hann fór í veginn. Hann var þar sem gjóturnar byrjuðu. Vestan við Flatahraun er Engidalur, sem er skemmtistaður Hafnfirðinga við Hafnarfjarðarveg”.

Garðastekkur

Gamla Engidalsgatan mun eyðileggjast ef Álftanesvegur verður lagður. Engidalsstígur og Flatahraunsstígur voru mjög nærri Ófeigskirkju og við þann stíg stendur Grænhóllinn sem ekki er tilgreindur í rannsókn þeirri sem unnin var af fornleifafræðingum fyrir Vegagerðina 1999. Þessi stígar voru hluti af stíganetinu sem lá til Bessastaða og eru þeir enn mjög greinilegur í landinu þó þeir séu fyrir löngu orðnir vel grónir. Enn er tími til að þyrma þessum fornu minjum sem njóta verndar samkvæmt þjóðminjalögum og láta söguna og náttúruna njóta sannmælis.“

Fjárborg

Við þetta má bæta að hraunmyndanir í Garðahrauni eru einstakar þegar horft er á nálægð þeirra við þéttbýlið. Óvíða má nálgast slíkar kynjamyndir eins auðveldlega – og ekki spillir litadýrðin fyrir.
Í matsskýrslu um vegaframkvæmdina segir þó m.a.: „Verndargildi hraunsins og fagurfræðilegt gildi þess aukist eftir því sem hraunið sé úfnara og jarðmyndanir stórkostlegri. Ljóst sé að lagning nýs Álftanesvegar, ásamt hringtorgi, muni hafa í för með sér töluvert rask á hrauninu og rof á vestanverðum hraunkantinum.

Myndanir

Fyrirhuguð  vegarstæði muni þó ekki fara yfir jarðmyndanir sem eiga engan sinn líka annars staðar í hrauninu eða öðrum hraunum á Íslandi. Fram kemur að skv. lögum um náttúruvernd séu eldhraun runnin á nútíma á borð við Garðahraun-/Gálgahraun skilgreind sem landslagsgerðir sem skuli njóta sérstakrar verndar.“
Hér kemur fram að vegna þess að hraunmyndanir eru ekki sérstæðari og stórkostlegri en í öðrum sambærilegum hraunum væri ekki ástæða til að vernda þær, þrátt fyrir að þær njóti sérstakrar verndar skv. náttúruvernd. Skondinn rökstuðningur þetta!
GarðahraunÍ raun er Garðahraun ein samfelld kynjamynd eins og sjá má á meðfylgjandi ljósmyndum.
Eins og fram kemur hér að framan eiga ekki, skv. fornleifaskráningu, að vera fornminjar í eða við fyrirhugað vegstæði. Sú fornleifaskráning hlýtur í besta falli að vera lélegur brandari því ekki þarf annað en að ganga svæði tið að sjá margar minjar við fyrstu sýn. Til að mynda er Grænhólstóftin fornleif. Neðan við hana er hlaðið skjó undir klettavegg. Skammt norðar má sjá leifar af ferhyrndu mannvirki, uppgróið. Enn norðar eru hleðslur í nátthaga. Fallin varða er við það. Og þá liggur Engidalsgatan eftir hrauninu endilöngu. Ef þetta eru „engar“ fornleifar þá er himininn líka grænn.
ÓfeigskirkjaÞað verður því miður að segja frá hverjum hlut eins og hann er. Reynslan af útgefnum fornleifaskýrslum af einstökum svæðum Reykjanesskagans er vægara sagt mjög slæm. Samt sem áður hafa hlutaðeigandi yfirvöld tekið þær góðar og gildar þegar ákvarðanir eru teknar um einstakar framkvæmdir sem Álftanesveg. Ofar en ekki eru staðsetningar fornleifa rangar, þeim er lýst á ófullnægjandi hátt, komist er hjá að leggja mat á þær og það sem vert er; nær alltaf vantar margar fornleifar í skrárnar, stundum nálægt 2/3 hluta þeirra, sem auðveldlega mæti greina eða heimildir segja til um.

Tóftin

Einhver gæti sagt að þetta væru stór orð, en því miður – þetta er reynsla þeirra, sem gerst þekkja, hafa skoðað svæðin og skráð minjar. Eitt dæmi um algera handvömm er skýrsla um fornleifar á tilteknu afmörkuðu svæði, en þegar innihaldið var skoðað nánar reyndist skrásetjarinn hafa verið á öðru svæði, en hann í raun og veru átti að skrá. Þegar gerðar eru athugasemdir við slíkar skráðar skýrslur virðast fulltrúar yfirvalda bara leggjast í fúlheit. Geta má þess að sá, sem þetta skrifar, fékk t.a.m. einkunnuna 10.0 fyrir fornleifaskráningu í fornleifafræði við Háskóla Íslands (svo hann telur sig hafa a.m.k. svolítgið vit á efninu, auk þess sem hann hefur leitað og skoðar minjar á svæðinu um áratuga skeið).
Við skoðun á tóftinni á Grænhól er ljóst að um fornleif er að ræða, en hún virðist hafa verið smalaskjól (um einn fermeter að innanmáli) eða búr fyrir smalann, en tóftin er ekki ómerkilegri fyrir það.
Eins og fram hefur komið hefur engin fornleifarannsókn verið Hraunstandurframkvæmd á henni. Það, hversu sjaldan fornleifarannsókn er framkvæmd á viðkvæmum svæðum, er svo efni í aðra umfjöllun. Með viðkvæmum svæðum er ekki átt við sögustaði, s.s. Þingvöll, Hóla eða Skálholt, heldur staði sem jafnan eru hluti af heilstæðri búsetumynd um langt skeið eða svo sérstök að ástæða væri að nota tækifærið og rannsaka hið óþekkta. Frumkvæði á slíkum rannsóknum hefur jafnan komið frá áhugafólki um einstakar minjar, en ekki minjayfirvöldum þessa lands þótt svo að lokum hafi þau þurft að hafa fyrir framkvæmdinni.
Í raun er löngu kominn tími til að leggja mat á fyrirkomulag minjaverndar í landinu, frumkvæði hennar og áhuga á viðfangsefninu. Hafa ber í huga að áhugasviðið þarf að vera víðtækara og snúast um annað og meira en bara innihaldið. Umgjörðin og tengslin við fólkið skiptir ekki minna máli, eigin rannsóknarvinnu og frumkvæði á áhugaverðum viðfangsefnum. Ef takmarkað fjármagn hamlar mögulegum árangri mætti virkja áhugafólk með áhrifaríkari hætti.
Undir Grænhól er mikið graslendi í hraunlægðum og bollum. Í þeim má m.a. sjá fyrrnefndan nátthaga, garðbrot á tveimur stöðum, annað skjól undir hraunvegg, vörðubrot o.fl. Þarna virðist því hafa verið setið yfir fé fyrrum. Ekki er ólíklegt að þarna megi finna leifar af stekk ef nánar er skoðað. Götur sjást á milli staðanna og frá þeim upp á meginleiðirnar, s.s. Fógetastíg og Engidalsveg. Þá eru greinileg tengsl millum þessa svæðis og fjárhaldsminjanna við Garðastekk.
Tilgangurinn með vettvangsferðinni var ekki að fornleifaskrá svæðið, það geta þeir gert sem það eiga að gera lögum samkvæmt.
Njótið á meðan er. Sjá umfjöllun RUV.

Heimild m.a.:
-Jónatan Garðason.
Litadýrð