Tag Archive for: Grindavík

Tyrkjaránið

Bókin „Tyrkjaránið á Íslandi„, útgefin 1906, fjallar, líkt og titillinn gefur til kynna, um heimildir og sögu Tyrkjaránsins hér á land í byrjun 17. aldar. Hér verður drepið niður í tvo kafla bókarinnar; „Lítill annáll um Tyrkjans herhlaup á Íslandi Anno 1627“ og „Tyrkjaránssaga Björns á Skarðsá„:

Tyrkjaránið á Íslandi„Rán það og manndráp þau, sem tyrkneskir sjóreyfarar frá Algier og Kyle á norðurströnd Suðurálfunnar frömdu hér á landi, í Austfjörðum, Vestmannaeyjum og Grindavík, 1627, og venjulega er nefnt Tyrkjaránið, hefir orðið mönnum minnisstætt á landi hér, og margt verið um það ritað, bæði af þeim, sem herleiddir voru af Tyrkjum og aptur komust hingað til lands, og svo af öðrum. Þó hafa frásagnir þessar og gögn hingað til að eins að litlu verið útgefin, og hvergi verið að þeim að ganga á einum stað, heldur hefir þessara frásagna, kvæða og skjala verið að leita í óvissu á víð og dreif í opinberum handritasöfnum og hjá einstökum mönnum. Og sumt hefir fyrst verið að koma fram nú hin síðustu árin.

Árni Magnússon

Árni Magnússon.

Sá, sem fyrstur safnaði saman öllum frásögnum og skýrslum um Tyrkjaránið, var Árni Magnússon, en það safn hans brann allt hjá honum eins og fleira 17281). Hefir hann þá verið búinn að þrautsafna svo, að þá hafa líklega eingar afskriptir verið eptir á Íslandi af sumum frásögnunum, svo sem af riti Einars Loptssonar úr Vestmannaeyjum og Halldórs Jónssonar úr Grindavík, sem bæði voru til fyrrum, en reynast nú glötuð, eins og margt af skjölum hlýtur að vera liðið undir lok, er snertir þetta efni.

Handritasýning

Skarðsbók – Tyrkjaránið.

Um 1830-40 hafði Finnur Magnússon í hyggju að gefa út helztu frásagnir og skýrslur um Tyrkjaránið eptir því sem hann ritar etazráði Engelstoft 8. apr. 1833; hafði Engelstoft þá í áformi að rita eitthvað um þetta efni, en af því varð þó ekki. Aldrei varð og heldur af því að Finnur gæfi út neitt af Tyrkjaránsritunum, enda var þá enn hörgull á afskriptum sumra þeirra í opinberum söfnum, síðan brunann hjá Árna.
Það fyrsta, sem séð verður, að gefið hafi verið út á prent um Tyrkjaránið, er dönsk þýðing af ferðasögu síra Ólafs Egilssonar, prentuð í Kaupmannahöfn 1741 (og önnur útgáfa síðar), en ekki var ferðasaga þessi gefin út á íslenzku fyrri en 1852. Bæði frá þýðingu þessari og útgáfu var lélega gengið.

Tyrkjaránið

Annálar Björns frá Skarðsá.

Betur var varndað til útgáfunnar af Tyrkjaránssögu Björns á Skarðsá, sem út kom í Reykjavík 1866. Allar þessar bækur eru nú orðnar ófáanlegar fyrir löngu.
Árið 1899 skrifaði meistari Sigfús Blöndal merka yfirlitsgrein um Tyrkjaránið í tímariti einu dönsku. Annað hefir ekki á prent komið um þetta efni sérstaklega, en bæði er Tyrkjaráns getið í Annálum Björns á Skarðsá, Árbókum Espólíns, Kirkjusögu Finns biskups og enn víðar.
Jón prófastur Haldórsson hefir ritað um Tyrkjaránið í Biskupasögum sínurn og Hirðstjóraannál, sem hvorttveggja er áður prentað ekki alls fyrir löngu. Í Biskupasögunum segir hann svo frá1:
Tyrkjaránið»Um ránið i Vestmannaeyjum í tíð herra Odds biskups. Á hans dögum voru Vestmannaeyjar rændar tvisvar. Í fyrra sinni Anno 1614 af þeim eingelska sjóreyfara Jóni Gentelmann, hver með sínum reyfaraflokki gekk um eyjarnar í hálfan mánuð, sem settu knífa og sverð sín á hálsa og harka þeim íslenzku og stuttar byssur fyrir þeirra brjóst, með spotti og skellihlátri; drápu þó hvorki né særðu nokkurn mann né smánuðu ærlegt kvenfólk, en ræntu og rupluðu öllu, sem þeir vildu nýta, en skemmdu og fordjörfuðu það þeir vildu ekki.

Tyrkjaránið

Íslandskort frá 1600.

Þeir tóku burt þá stóru Landakirkjuklukku. En þá Jón kom fram til Einglands var hann tekinn og drepinn með sínum selskap. Bókstafir, sem steyptir stóðu á klukkunni, hermdu frá hverri kirkju á Íslandi hún var tekin; var hún þremur árum síðar send aptur til Vestmannaeyja eptir skipun Jacobs kongs á Einglandi.
Hið síðara ránið gerðu Tyrkjar Anno 1627. Komu þeir fyrst á einu skipi þann 12. júní í Grindavík og rændu þar fé og peningum og XII eða fleiri mönnum, konum og körlum, en skáru og skammarlega særðu suma.

Grindavík

Grindavík – Tyrkjaskipin.

Danska kaupskipið tóku þeir á höfninni með gózi og fólki; kaupmaðurinn gat flúið undan. Þar tóku þeir og annað kaupskip, sem sigla átti upp á  Skutulsfjarðareyrarhöfn. Síðan lögðu þeir á tveimur skipum til Bessastaða, hvar Holger Rosenkranz höfuðsmaður hafði búizt til varnar, ef svo mætti kalla, með nokkrum íslenzkum. Þá skotið var á móti þeim, er þeir lögðu inn á Seyluna, kom stanz á ræningjana, sneru við, en þá stóð annað skip þeirra fast á grunni; fluttu þeir þá af því á hitt, þar til flaut út aptur, því logn var og ládeyða; fóru svo burt. Ekkert hrós fékk hirðstjóri af sinni hugdirfsku og framkvæmd í þessu.

Tyrkja-Gudda.

Tyrkja Gudda – málverk eftir Jóhannes S. Kjarval.

Á sama sumri komu tvö önnur Tyrkja skip inn á Djúpavog fyrir austan; tóku þessi ræningjar þar danska kaupskipið á höfninni með fólki og gózi, hlupu með hrinum og háhljóðum um bygðina alt í kring að Heydölum, hertóku landsfólkið, en börðu sumt og drápu, ræntu kirkjur á Hálsi og Berufirði og öllu því, er þeir náðu og nýta vildu, en fordjörfuðu hitt, er þeir vildu ekki. Síra Jón Þorvarðsson á Hálsi tóku þeir í sæng hans um nótt og burtfluttu ásamt CX manneskjum öðrum, en drápu IX menn, sem menn vissu og fundu.

Tyrkjaránið

Vestmannaeyja – aðkomu ræningjanna.

Þaðan héldu þeir undir Vestmannaeyjar; tóku þeir eingelska duggu; þeir friðkeyptu sig með því að vísa ræningjum uppgöngu á eyjarnar, hvað helzt gerði Þorsteinn nokkur íslenzkur, sem áður hafði verið í eyjunum. Að kvöldi þess 17. júlí lögðu þessir ræningjar sunnan að eyjunum, hlupu þar upp óvanalegan veg CCC vopnaðir menn eður fleiri, skiptu sér í þrjá flokka, hlupu með hrópi og ofsahljóðum um alla bygðina, inn í hverja krá og afkyma, börðu fólkið, konur og karla, börn og gamahnenni, drápu sumt og sundurhjuggu í smátt með alls kyns háðungum, ráku það hópum saman eins og fé í kvíar ofan í Dönskuhúsin, völdu þar úr því þá, sem þeirn leizt bezt á, og fluttu frarn á skip sín. Björg og hamra runnu þeir upp og klifruðu eins og léttfærustu bjargmenn, og gripu fólkið, sem sig hafði falið þar, en skutu niður með byssum það, sem þeir náðu ekki. Sóknarprestinn annan, síra Jón Þosteinsson, með hans konu, börnum og heimafólki, fundu þeir í afviknum stað; fyrrgreindur Þorsteinn þekti hann og sagði; »Síra Jón! Því ertu nú ekki í kirkju þinni?«

Tyrkjaránið

Tyrkir í Vestmannaeyjum.

Prestur svaraði:
»Eg hefi verið þar í morgun«; hjó hann þrisvar i höfuðið hvað eptir annað; presturinn befalaði sig og sína sálu guði og dó svo, en konu hans og börn, svo og hinn prestinn, síra Ólaf Egilsson, með hans konu, börnum og fólkinu, börðu þeir og keyrðu í skip. CCXLII manneskjur hertóku þeir, en XXXIV fundust dauðar, fyrir utan þær, sem þeir brenndu þá í Dönskuhúsunum veikar og vanfærar; þeir brendu og Landakirkju upp til ösku, ræntu öllu, sem þá girnti, en fordjörfuðu hitt. Þann 19. júlí sigldu þeir burt fram í Barbaríið með fólkið og allt það ránsfé«.
Í Hirðstjóraannál farast séra Jóni svo orð, og er hann nú heldur skorinorðari um frammistöðu hirðstjórans og Dana á Bessastaðaskanzi:

Skansinn

Bessastaða-Skansinn.

»Anno 1627 kom Rosenkranz höfuðsmaður hingað í öndverðum Junio. Og er hann heyrði ránskap Tyrkjanna í Grindavík, sem byrjaðist þann 12. júní, stefndi hann kaupförunum úr Hafnarfirði og Keflavík til sín í Seyluna, hvar hans sjálfs skip lá, en Hólmsskipið dvaldist inn í Leiruvogum; lét hann þar búast til varnar bæði á sjó og landi; lét (hann) gera virki eður skanz, sumir segja af fiskböggum, — upp á skop, að eg meina, eður þó réttara að segja, að virkið hafi ei gagnast meira en þótt hlaðið hefði verið af fiskaböggum. Var í þeirri virkisnefnu varla rúm fyrir fáeina menn, miklu síður fyrir heilan flokk manna eður varnarlið; voru þangað færðar feltbyssur — ef svo mætti kallast — þær, sem til voru, og þó varla nokkur af þeim til gagns».

Frásögn Björns á Skarðsá

Tyrkjaránið

Tyrkjaránið – Málverk eftir flæmska málarann Andries van Eertvelt (1590-1652) af seglskútu frá Algeirsborg í Barbaríinu, eins og Norður-Afríka var þá kölluð. Málverkið er frá sama tíma og svonefnt Tyrkjarán var framið hér á landi.

„Hér segir frá komu Tyrkjanna og þeirra ránum og skemdum í Grindavík.
Þegar liðin voru 1627 ár frá vors herra Jesu Christi fæðingu og sá loflegi herra kóngur Kristján, fjórði þess nafns, stýrði Danmerkur- og Noregsveldi, en hirðstjóri var yfir Íslandi sá herramann Holgeir Rosenkranz, falla til þessi tíðindi, sem eptir fylgir. Og eru það upptök þessara atburða, að suður í heimsálfunni, sem nefnist Africa, hverjum heims þriðjungi, sem og miklum parti austurálfunnar Asiœ, ásamt nokkrum hluta norðvestur heimsins, Europœ, sú nafnfræga þjóð hefir að ráða, sem kallast Tyrkjar, hver óþjóðalýður er ófrægur af illskuverkum og ódáðum, sem kristnu fólki má helzt kunnugt vera, hvert fólk þessi þjóð helzt á sækir, og til sinnar óguðlegrar trúar þvingar, eður og hefir það í æfinlegum þrældómi, nema þeir, sem aptur kunna að kaupast með stóru gjaldi peninga.

Tyrkjaránið

Tyrkjaránið – hollensk skip við Barbaríið frá byrjun 17. aldar.

Hafa þessir Tyrkjar við sjávarhafið herskip úti á hverju ári að herja upp á kristindóminn i norðurálfunni og ræna mönnum og fjárhlutum, hvar þeir kunna, sem og að hertaka þau skip, er þeir um sjóinn finna, er sér ætla til kaupskapar, næringar til annarra landa, og þetta er sífeldleg iðja þessara Tyrkja í landsálfum Lijbiœ hinnar ytri, er Harbaria heitir.
Kom til tals með yfirherrunum, hvert til kristinna landa halda skyldi, þar mannránin mætti helzt verða og svo fjárvænur væru. Var nefnd hjá þeim sú ey í norðvestursjónum, sem heitir Ísland; en hinn æðsti yfirmaður Tyrkja sagði það ómögulegt vera, að sækja til Íslands þaðan frá þeim hinn minsta stein, þess síður mannfólk, en annar kvað það vinnanlegt væri, og veðjuðu hér upp á stóru gjaldi, því að þetta mannrán, þá það tekst, fær þeim mikinn ábata, svo að nokkrir segja, að eitt ungbarn fáist selt fyrir 300 dali í þeirra löndum.

Tyrkjaránið

Kort frá um 1630 – Kortið er eftirmynd af yfirlitskorti Willems Janszoons Blaeus af vesturströndum Evrópu. Kort Blaeus, sem birtist fyrst 1623 var síðan gefið út endurbætt.

Og nú sem þessi umræða var með yfirherranum og kapteinunum, bar svo við, að á meðal þeirra var einn hertekinn maður danskur, hver lengi hafði hjá þeim verið í þrældómi, þó með sinni kristilegri trú; sá hét Páll. Þessi maður hugfesti það að fá sér fríun og frelsi úr ánauð og þrældómi með því að vísa þeim þangað, er auðveldlegt vera mundi kristnu fólki að ná. Á þessu bryddi hann við Tyrkjana. Það féll þeim vel í geð og lofuðu honum lausn og frelsi. Þessi danski Páll segir þeim, að Íslands innbyggjarar séu ekki vanir hernaði eður bardögum; því mundi lítið fyrir verða það fólk að hertaka; svo og væri sér kunnug sigling til Íslands, því hann hefði opt þangað með dönskum mönnum farið. Hér af mega Íslendingar þekkja sitt manndómsleysi, þar guð hefir þó gefið (þeim) burði og hug til að verja líf sitt, ef vopn til væru.

Tyrkjaránið

Tyrkjaránið – hollenskt skip frá fyrri hluta 17. aldar.

Nú strax eptir þessar viðræður bjuggust Tyrkjarnir af stað með mesta hasti til Íslandsferðar, og vilja nokkrir svo segja, að tólf hafi herskipin þaðan lagt, svo ekki skyldi hjá sleppa framkvæmd ránanna, [hvernig sem vor guð hefir því hamlað], að ekki komust hér að landi nema 4 af þeim, sem greina skal. Þessi skip komu í tvennu lagi að landinu og svo einnig af tveimur borgum úr Barbariinu. Og vil eg nú fyrr tala um það eitt skip, sem af þeirri borg var, er Kyle heitir, á hverju skipi nefndir eru þrír yfirmenn; admírállinn hét Amorath Reis, og kapteinarnir Arciph Reis og Beyram Reis. Þessir gerðu minna skaðann og slógu sér hvergi út um byggðina, þar sem þeir í land komu, hverjum vor drottinn náðarsamlega frá stýrði skaðann að gera, sem eftir fylgir.

Grindavík

Járngerðarstaðir fyrrum.

Þann 20. dag júnímánaðar kom sunnan til á Íslandi að því litla sjávarplássi, sem heitir Grindavík, eitt tyrkneskt herskip, og það beitti upp undir landið, þar sem danska kaupskipið lá inni fyrir á höfninni í Járngerðarstaðasundi. Þessir skipsmenn köstuðu þar út streing grunnt um dagmál, létu út bát og sendu til kaupskipsins nokkra menn til njósnar, hvort varnir væru á skipinu, en föluðu af þeim kost; sögðust menn kóngsins af Danmörk, og ættu að veiða hvali og hefðu í hafinu hrakizt í níu vikur.

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir – bæir og sögusvið „Tyrkjaránsins“ – uppdráttur ÓSÁ.

Þetta greindu þeir skipherranum í þýzku máli, en hann kvaðst ekki kost til sölu hafa, og svo fór báturinn burtu aptur. Þessu jafnframt sendi kaupmaðurinn Lauriz Bentson átta menn íslenska fram til þess nýkomna skips, að vita hverir þeir væri. Bárður hét sá Teitsson, er fyrir þeim var. Þeir komu á Tyrkjaskipið og fengu ekki aptur þaðan í land að fara. Í þessu sama bili sendi yfirkapteinninn 30 menn á báti, þrívopnaðan hvern, sem voru byssur, skotvopn og korðahnífar. Þeir stungu sköptum niður í bátinn, en létu oddana upp standa; þeir inn tóku strax kaupskipið. Þar var ekki manna þá, nema skipherrann. Þeir fluttu síðan úr því, hvað hafa vildu, og fram í herskipið. Kaupmaðurinn, sem í landi var, sendi strax tvo bátsmenn fram til skipherrans; [þeir voru strax ásamt honum herteknir].

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir – uppdráttur ÓSÁ.

Síðan fóru víkingar í land og ræntu búðir kaupmannsins, en hann var flúinn [á land upp] og allir þeir Dönsku [með honum] er á landi voru, og höfðu áður falið nokkuð af vöru sinni, því, sem þeir gátu undan komið. Hér næst fóru víkingarnir heim til bæjarins á Járngerðarstöðum, tóku þar Guðrúnu Jónsdóttur, kvinnu Jóns Guðlaugssonar, er þar bjó. Þeir báru hana nauðuga frá bænum, hraklega með farandi, og á veginum kom þar að bróðir hennar, er Filippus hét, og vildi hafa liðsinnt henni. Hann særðu þeir og hörðu, og lá hann þar eptir hálfdauður. Einnig kom þar að litlu síðar annar hennar bróðir, Hjálmar að nafni. Hann var ríðandi. Af honum tóku þeir hestinn, og reiddu hana ofan að sjónum.

Blóðþyrnir

Blóðþyrnir í Grindavík – ofan við Kaupmannsvörina. Sú saga hefur varðveist að þyrnir þessi hafi sprottið upp af blóði þeirra Grindvíkinga er drepnir voru í Tyrkjaráninu.

Hjálmar sló þá einn Tyrkjann nokkur högg með járnsvipu, sem hann hafði i hendi, en sá hjó til hans aptur með hnífnum, og svo annar og hinn þriðji, og stungu hann jafnframt, en Hjálmar var vopnlaus og féll hann síðan óvígur. Tyrkjar ræntu fé úr bænum á Járngerðarstöðum, því er þeir vildu.
Þeir tóku Halldór Jónsson bróður Guðrúnar. Hann og aðrir flýðu ekki, því þeir meintu, að ekki mundu mannrán gerast, þótt fjárstuldir mættu verða. Einnig tóku Tyrkjarnir þrjá sonu Guðrúnar: Jón, sem elztur var, skólagenginn, Helga og Héðinn, en hróðir hennar einn, er Jón hét, var einn af þeim átta, er sjálfkrafa fram fóru að finna skipið. Jón Guðlaugsson ráku þeir til strandar með sonum sínum og Halldóri, og var Jón þá orðinn aldraður maður og hafði þá um stund veikur verið, og gáfu þeir hann lausan; féll hann þar í fjörunni, og sögðu Tyrkjar þá ekki um hann varða. Stúlku eina unga tóku þeir með Guðrúnu, og fluttu svo fram til skips þessa menn alla.

Tyrkjaránið

Tyrkjaránið – skip undan Grindavík.

Á þessum sama degi sigldi fyrir framan Grindavík til vesturs eitt hafskip. Það gintu Tyrkjar að sér með flaggi eður merki dönsku, er þeir upp festu. Þeir hertóku síðan það skip, sem var kaupfar, er sigla skyldi á Vestfjörðu. Kaupmaður á því hét Hans Ólafsson. Þetta fólk var alt rekið ofan í skip, íslenzt og danskt, og sett í hálsjárn með hlekkjafestum, og voru hverjar festar fjögurra manna byrði. Í þessum járnum sat fólkið optast á allri þeirri Tyrkjanna reisu.
Áðurnefndum Bárði Teitssyni með öðrum manni, er Þorsteinn hét Pétursson, gaf admirállinn Amorath Reis hurtfararleyfi. Þeir náðu bát sínum og fóru til lands. Eptir þetta héldu þessir ræningjar burt frá Grindavík, [sem betur fór].

Grindavík

Grindavíkurhöfn fyrrum.

Þeir tyrknesku hermenn, sem ræntu í Grindavík, héldu samflota skipum sínum fyrir Reykjanes, og gerðu ráð sín að taka skip það, sem lá í Hafnarfirði. Nú sem Holgeir Rosenkranz, hirðstjóri yfir Íslandi, er þá var á kóngsgarðinum Bessastöðum, og hafði kaupskip þar nærri, þó varnarlítið — hver höfn að nefnist Seila —, spurði Tyrkja ránin manna og fjár í Grindavík, sendi hann til kaupmannanna í Keflavík og Hafnarfirði, bjóðandi þeim, að þeir legði inn þangað sínum skipum með hasti, hvað yfirmenn skipanna jafnskjótt gerðu, og urðu þá þar í Seilunni þrjú hafskip til samans, en það danska skipið, sem lá [inn við kaupstaðinn Hólm, lagði inn á Leirur] sem grynnst í Leiruvogs skjóli nokkurt.

Bessastaðir

Bessastaðir – fallstykki frá Skansinum í kjallara Bessastaðastofu.

Þá bjóst hirðstjórinn við á landi í Seilunni og svo á skipunum, hvað þeir gátu, ef víkingarnir þar koma kynnu. Var til búið virki, og þó af torfi, við sjóinn, og þar á settar byssur þær, er þar til voru. Þá voru á suðurferð menn af norðurlandinu, einkum þeir, sem sýslur höfðu, og komnir voru lil Bessastaða, og fóru þeir til virkisins með þeim Dönsku til varnar. Þar var Jón frá Reynistað Sigurðarson, er lögmaður hafði verið. Einnig var þar síra Þorlákur Skúlason, skólameistari frá Hólum, er kjörinn var til biskups á þessu ári. Þar voru og einnig þeir bræður, Þorbergur og Sigurður Hrólfssynir, er sýslu höfðu í Þingeyjarþingi. Þessir voru allir með sínum mönnum í virkinu.

Skansinn

Skansinn á Bessastaðanesi – uppdráttur ÓSÁ.

Sem nú Tyrkjaskipin voru komin vestur og inn fyrir Garðinn, sigldu þeir inn um og sáu kaupskipin |á burt og komin inn] á Seiluhöfnina, og þar voru þrjú skip á einum stað. Glöddust þeir næsta, og þá sagði admírallinn, að svo framt hann kæmist inn á höfnina, þá skyldi þau þrjú skip öll í hans valdi og eign vera, og svo héldu þeir inn fyrir Álptanes réttleiðis að Seilunni.
Það var hinn næsta dag fyrir Jónsmessu móti kveldi. Skutu þá Tyrkjarnir af nokkrum byssum að boða ófrið og svo hinir Dönsku á móti. Um þenna tíma var uggur og ótti á fólki um Suðurnesin, fluttar kvinnur, börn, fé og búsmali til selja og upp um hraun til fjalla. Nú sem víkingarnir héldu beinleiðis inn að höfninni, og herskipið tyrkneska undan, bar svo til fyrir guðs mildi verk, er hindraði þeirra skaðlega ásetning, að skipið renndi í sundinu framan upp á flúð nokkra og stóð svo. Þar voru á allir fangarnir danskir og íslenzkir og voru þeir um nóttina varðveittir, en á Jónsmessumorgun sem var sunnudagur, voru þeir leystir úr járnunum og upp á þilfar leiddir, þrír hverir í einu, síðan tekin mjó lóðarfæri og bundnar sérhvers hendur aptur á bak um bera úlfliði.

Tyrkjaránið

Tyrkjaránið – fangarnir fengu óvægna meðferð.

Þá meintu bandingjarnir, að þeim mundi eiga fyrir borð að kasta, og biðu svo, en það var ekki, heldur var bundinn kaðall um hvern, og látnir síga fyrir borð í bátinn og fluttir á hið danska vestanskipið, þar upp dregnir og bönd af skorin, ofan í skipið hneptir og í járn settir sem fyrr. Hér eptir ruddu þeir upp barlest og út úr skipinu |og fleira öðru það fánýtt þótti, svo það mætti flotast af skerinu. Þann næsta dag eptir Jónsmessu losaðist skipið af flúðinni, og sigldu víkingarnir þá nokkuð burt frá landinu þessum tveimur skipum og [skiptu þá aptur gózinu sem henta þótti]; voru þá með öllu frá horfnir inn aptur að Seilunni að leggja, hvað þó með fyrsta var þeirra harðlegur ásetningur, hirðstjóranum að ná [ásamt kaupskipunum, einnig síðan stela og ræna, hvað þeir gætu yfir komizt.

Tyrkjaránið

Skansinn og Seylan – kort.

Ámæli stórt fengu Danir af því, að þeir lögðu ekki að víkingunum, meðan Tyrkjaskipið stóð á skerinu [og þeir vömluðu með gózið og mennina milli skipanna, því vitanlegt mátti vera, að skipið hefði gilt, hefði þeir fallstykkjum að því hleypt, meðan á klettinum slóð, hvað Íslendingar höfðu þó til orða haft.

Eptir þetta svo framkvæmt sigldu þessir ránsmenn vestur fyrir Snæfellsjökul og höfðu í ráðslagi að halda á Vestfjörðu og þar að ræna. Fundu þeir þar tvær eingelskar duggur, hverra skipsmenn Tyrkjum sögðu, að fjögur orlogsskip þess einelska kóngs lægju fyrir Vestfjörðum.

Skansinn

Skansinn við Bessastaði. Seylan framundan.

Við það urðu víkingarnir mjög felmtsfullir og sigldu vestur i haf í [fjögur dægur], sem af tók, svo þeir skyldu þess síður verða á slóðum þeirra eingelsku stríðsskipa. Þar eptir lögðu þeir til útsuðurs og hið beinasta heimleiðis.
Nokkrum sinnum voru þeir kristnu lausir látnir á reisunni, þó manna munur á því gerður; en altíð, þegar þeir öldrykkjur höfðu, voru þeir fjötraðir. Einn blíðan veðurdag var það, að þeir voru lausir Íslendingar, Haldór og Jón, hans systurson. Sat Jón á kaðli fram undir gallioni, en einn hollenskur bátsmaður gaf þann kaðal lausan, svo Jón datt útbyrðis ofan í sjó. Síðan heyrðist kall hans á skipið, og var hann óskaddaður upp dreginn fyrir sérlega guðs hjálp, – þannig bevarar drottinn sína, sem á hann vona.
TyrkjarániðÚr því á leið framsiglinguna, liðu fangarnir mikið hungur, svo að hver einn íslenzkur fékk eigi meira mat á dag en hálfa brauðköku danska, og hálfan bjórkút tíu menn á dag til drykkjar. Nú sem liðnar voru sex vikur frá því ránin skeðu, komu þeir undir Tyrkjanna veldi í Barbaría, mitt undir þá höfn, er kjósa vildu, nær liggjandi þeirra höfuðhorg Tyrkjanna, er Kyle heitir, 700-mílur vegar frá Íslandi, einn mánudag, sem var 30. júlí, og þar lágu þeir tvo daga úti fyrir, sakir þess að brim var furðumikið, álíka og alltíðum við Ísland. Og eingir landsmenn komu þá út til þeirra.

Tyrkjaránið

Tyrkjaránið – admíráll í Barbaríinu á skipi þess tíma.

Eptir liðna þá daga komu landsmenn fram og vildu ránsmenn þá á höfnina leggja. Voru þá fangarnir aptur á skipið færðir ofan í barlest, og sátu þar í járnum, meðan hafnast skyldi, og þar voru tveir Tyrkjar til gæslu. Admírallinn sjálfur stóð á þilfarinu, og hann átti einungis að hafa forsögn og annar enginn orð að mæla, meðan sundið tækist á höfnina. En sem skipið hafnaðist, skutu þeir af tólf fallhyssum sér til virðingar og fagnaðar frama. Þar næst var blásið í trompet og belgpípur; hrósuðu svo sigri sínum; komu síðan landshöfðingjarnir og vinir þeirra, hverir með þeim samglöddust, er þeir sáu herfang þeirra. Þar eptir voru þeir kristnu fangarnir á land látnir 2. dag ágústsmánaðar og reknir upp á kastala borgarinnar Kyle, að frá tekinni Guðrúnu Jónsdóttur og hennar yngsta syni og [lítilli stúlku, er Guðrún hét Rafnsdóltir], þar í eitt hús látnir og einn heimilis-Tyrki settur til gæzlu. Þar voru þeir í þrjár nætur. Brauð var þeim fært að eta, en vatn sóttu þeir sér sjálfir með geymslu-Tyrkjans leyfi, og fékk hann þá aðra Tyrkja að fylgja þeim altíð, er slíks þurfti við.

Tyrkjaránið

Tyrkjaránið – Aleirsborg á 17. öld.

Margt landsfólk kom þangað í húsið til fanganna, kristnir menn til að gleðja þá og hugga, en Tyrkjar til að skoða þá og spotta. Þar eptir voru þeir leiddir út á kauptorg staðarins, og til settir menn að bjóða þá fram til sölu sem önnur ferfætt kvikindi, og þessir gengu um strætin með óhljóðum og miklu kalli, [svo sölu orðin]: þrœldóms-bandingjar. Þeim var fyrir sett að ganga berhöfðuðum eptir kallaranum til merkis, það þeir kristnir væru. Þessi gangur, kall og uppboð gekk um strætið, þar til sérhver einn var seldur, og fór svo hver einn af þessum raunamönnum til sinna yfirmanna undir þrældóms-ánauðarok, eptir sem gamalt mál fyrri manna hljóðar, að þvílíkir herteknir menn nefnast ánauðugir, ánauðarmenn eða nauðokar.

Tyrkir

Tyrkir voru ljótir andskotar.

Þessi áður sögðu skip höfðu feingið ofurmikinn storm í heimsiglingunni og sleit í sundur í hafinu, og kom Tyrkjaherskipið þremur dögum seinna en það danska kaupskipið, og hét kapteinninn, sem á því var, Beiram Reis, hver einn var af þeim þremur kapteinum, sem í Grindavík komu. Þessi eignaðist Halldór Jónsson til þrældómsvinnu, þá er hann kom, þótt hann væri af öðrum Tyrkja áður keyptur. Hjá honum var Halldór þann tíma, hann var úti í Barbaría. Halldór var angurlaus látinn.  Sömuleiðis má lesa þar um Guðrúnu, hans systur, hennar þarveru, og hvernig þau voru þaðan keypt af hollenzkum manni, komu svo til Kaupinhafnar, þáðu þar miklar velgerðir og gjafir, fluttust svo hingað til Íslands á kaupmannafari ári síðar 1628.

Tyrkir

Tyrkjaránið – Sjóræningjarnir eignuðust nokkur börn með hinum herteknu Íslendingum, sem segir nokkuð til um meðferðina.

Sjötti og síðasti partur þessa máls er um bréf Jóns Jónssonar, hingað send úr Barbaríenu, hvernig þar til gengur, og um útlausn nokkurra íslenzkra þaðan:
Anno 1633 í hvítadögum skrifar Jón, sonur Jóns Guðlaugssonar, sem tekinn var í Grindavík með Guðrúnu Jónsdóttur, móður sinni, hingað til lands bréf foreldrum. Það kom ári seinna. Það bréf var merkilega samsett: af stórum trúarinnar krapti nákvæmlega beðið fyrir hans foreldrum, vinum og vandamönnum, herrum hér andlegum og veraldlegum, kennivaldinu og almúganum, óskandi af öllum fyrir sér að hiðja og því hertekna auma fólki. Segist hann vera og sinn bróðir Helgi fyrir guðs náð í meinleysi og góðri heilsu [með sömu húshændum] í sama stað, borginni Artel [[eður Alger í Barberíinu Barharorum í landsálfu Lybiæ hinnar ytri [í Africa].

Tyrkjarán

Tyrkjaránið – veggmynd við Grindavíkurkirkju.

Segir hann þar nagg og narrari á þrælunum og háðungaryrði, þau sem ekki síður svíði, sem sárið eldist, og það sé bezt að yfirvinna með góðu, því það sé eigi vondur djöfull, sem saunleikann þoli. Menn sé þar ekki í dispiitazíu-stað, því ef þeir geti ekki forsvarað sitt rmál og þyki þeim fyrir, að ein klausa yfírvinni þá, þá sé að hlaupa til kaðla og keyra, báls og brenniviðar. Það halda þeir þægt verk guði þann af dögum ráða, sem rétt talar og forsvarar hið góða. Þetta viti nú sínir Íslendingar, og óskar hann, að Tyrkjar skuli fara eptir því sem hann trúi, og fái laun eptir því, sem þeir geri, því þeir sé óvinir krossins Christi og geri kristnum mönnum og þeirra æfilok sé fordæmingin og nema svo hefði verið, að guð hefði af oss borið eldlegar pílur djöfulsins, þá hefði þessir morðingjar fyrir ári eður tveimur, já, árlega síðan, hingað til Íslands farið skaða og skemdarverk að gera; hafi guð hamlað þeirra ásetningi í sérhvert sinn mjög furðanlega og mildilega, og ef guð hindraði þá ekki, þá mundu þeir ganga yfir lönd og lýði; þeir skuli sækja mjög eptir því íslenzka fólki og hafi við leitast stundum með þrjú skip, líka fjögur skip á þeim umliðna mánuði Maio.
TyrkirSegir hann, þeir sig saman tekið hafi á sex skipum, en það hafi hindrazt, hví kapteinarnir hafi allir þurft í stríð að fara. Þeir Tyrkjar segja, að það íslenzka fólk sé betra en annað fólk, strákskaparlaust, hlýðið og trúfast við sína húsbændur. Þar fyrir hafa þessir kapteinar ráðslagað að taka ekki annað en ungmenni um tvítugsaldur, hvers blóðs og sálna mest þyrstastur verið hafi sá bannsettur eiturdreki Morath Fleming, hvers minning sé í helvíti.“

Eldvörp

Eldvörp – „Tyrkja“byrgi.

Af framangreindri lýsingu, þ.e. „Síðan fóru víkingar í land og ræntu búðir kaupmannsins, en hann var flúinn [á land upp] og allir þeir Dönsku [með honum] er á landi voru, og höfðu áður falið nokkuð af vöru sinni, því, sem þeir gátu undan komið„, mætti ætla, án nokkurrar sönnunar, að felustaður hinna dönsku hafi verið byrgin í Sundvörðuhrauni, er síðar týndust, en fundust á ný um 1820. Mikil dulúð hefur hvílt yfir tilgangi byrgjanna alla tíð síðan. Lengi vel var álitið að þarna væru felubyrgi, sem Grindvíkingar ætluðu að flýja í ef Tyrkirnir kæmu aftur (sem verður að teljast ósennilegt) og einnig hefur verið talið að um væri að ræða felustaði Grindvíkinga á fiskundanskoti vegna nauðþurfta í harðindaárum fyrr á öldum. Fyrstnefnda skýringin er ekki ólíklegri en aðrar.

Heimild:
-Tyrkjaránið á Íslandi, Sögufélagið gaf út, Reykjavík 1906, bls. 223-233 og 289-290. Lítill annáll um Tyrkjans herhlaup á Íslandi Anno 1627, bls. 1—5. V. Tyrkjaránssaga Björns á Skarðsá, samin 1643, bls. 204—299.

Eldvörp

„Tyrkjabyrgin“ í Sundvörðuhrauni ofan Grindavíkur.

Grindavík

Eiríkur Alexandersson, bæjarstjóri skrifar um „Grindavík – Ágrip af sögu og staðarlýsing“ – í Sveitarstjórnarmál árið 1974:

Saga
Eiríkur Alexandersson, bæjarstjóri Grindavíkur„Maður hét Hrólfur höggvandi. Hann bjó á Norðmæri, þar sem hét Moldatún. Hans synir voru þeir Vémundur og Molda-Gnúpur. Þeir voru vígamenn miklir og járnsmiðir. Gnúpur fór til íslands fyrir víga sakir þeirra bræðra og nam land milli Kúðafljóts og Eyjarár og Álftaver allt. Þar var þá vatn mikið og álftveiðar á.
Molda-Gnúpur seldi mörgum mönnum af landnámi sínu og gerðist þar fjölbyggt, áður jarðeldur rann þar ofan, en þá flýðu þeir vestur til Höfðabrekku og gerðu þar tjaldbúðir, er heitir á Tjaldavelli. En Vémundur, sonur Sigmundar kleykis, leyfði þeim eigi þar vist. Þá fóru þeir í Hrossagarð og gerðu þar skála og sátu þar um veturinn, og gerðist þar ófriður með þeim og vígafar. En um vorið eftir fóru þeir Molda-Gnúpur vestur í Grindavík, og staðfestust þar.“
Svo segir í Landnámu.
Synir Molda-Gnúps voru þeir (Hafur)-Björn, Gnúpur, Þorsteinn Hrungnir og Þórður Leggjaldi. Munu þeir bræður hafa stundað landbúnað og sjósókn jöfnum höndum.

Atvinnuvegir
GrindavíkÞessir búskaparhættir héldust síðan í Grindavík allar götur fram til loka fimmta áratugs þessarar aldar. Var sjávarútvegur undirstöðuatvinnuvegur, stundaður á árabátum allt til ársins 1926, en landbúnaður var annar aðalatvinnuvegurinn þannig, að þeir, sem áttu jarðir í hreppnum, höfðu hvort tveggja. Fyrst og fremst sjávarútveg, en einnig landbúnað.
Upp úr síðustu aldamótum færðist landbúnaðurinn frekar í aukana, og var þá farið að auka ræktun túna. Eftir 1920 þótti t. d. sjálfsagt að nota landlegudaga, sem oft voru margir, til að skera ofan af ræktanlegu landi og gera úr því tún. Verkfæri voru ristuspaði, skófla og haki.
Til sömu tíðar jókst og útgerðin, og um  1920 munu 24 bátar hafa verið gerðir út frá Grindavík frá hinum 3 aðallendingarstöðum í hreppnum, sem þá voru í Staðarhverfi, Járngerðarstaðahverfi og Þorkötlustaðahverfi.

Grindavík

Árabátar ofan varar í Grindavík.

Sem áður er sagt, voru árabátar notaðir frá landnámstíð allt til ársins 1926. Þá fyrst voru vélar settar í 2 báta, sem notaðir voru á vetrarvertíð, og hétu þeir eftir það trillubátar. Þetta lánaðist svo vel, að í árslok 1927 var búið að setja vélar í alla báta í hreppnum nema einn. Á vetrarvertíð árið eftir mátti segja, að trillubátaöldin væri gengin í garð í Grindavík, þar sem þá voru allir bátar komnir með vél.
Eins og allir vita, liggur Grindavík fyrir opnu hafi, þar sem brimaldan gengur óbrotin á land. Stærð og þyngd bátanna takmarkaðist þess vegna löngum af því, að hægt væri að setja þá á land. M. a. af þeirri ástæðu komu vélar mun seinna í báta í Grindavík en víða annars staðar á landinu, þar sem hafnarskilyrði voru betri frá náttúrunnar hendi.
GrindavíkFljótlega upp úr aldamótunum komu spil til sögunnar til að draga bátana á land. Spil þessi voru smíðuð úr tré, og gengu menn umhverfis þau og sneru þeim þannig, að dráttartaugin vatzt upp á lóðrétt kefli. Spil þessi voru seinna endurbætt, svo að hægt var að nota þau við setningu trillubátanna, og síðan voru þau látin duga til að draga dekkbátana, sem voru 7-8 lestir að stærð.
Sem sögur herma, mun kóngsverzlun hafa verið í Staðarhverfinu fram til ársins 1745, en hana tók af í náttúruhamförum. Þessi staður mun því frá upphafi hafa verið talinn líklegust lega fyrir báta. Af þeim sökum mun útgerð dekkbáta fyrst hafa verið reynd frá Staðarhverfinu, og á árunum 1920-24 voru 2 dekkbátar gerðir út þaðan, en sú útgerð lagðist þó niður af ýmsum ástæðum.

Grindavík

Grindavík – Grafið inn í Hópið 1939.

Upp úr 1930 er svo farið að dekka stærri trillubátana og olli það vaxandi erfiðleikum við að setja þá með þeim frumstæðu spilum, sem áður er lýst. Varð það til þess, að menn fóru að gera því skóna að grafa ós í gegnum rifið, sem lokaði Hópinu í Járngerðarstaðahverfi, og menn sáu að gæti orðið gott skipalægi, hvernig sem viðraði.
Á árinu 1939 er svo ráðizt í að grafa ósinn með handverkfærum og eftir þá framkvæmd gátu þeir bátar, sem þá voru til, komizt inn í Hópið á hálfföllnum sjó og fengið þar örugga legu.

Grindavík

Dýpkunarskipið Grettir.

Árið 1945 var fengið dýpkunarskip, Grettir, sem Reykjavíkurhöfn átti, til að grafa ósinn, og má þá segja, að útgerðarsaga Grindavíkur í nútímastíl væri hafin. Síðan hefur nær óslitið verið unnið að endurbótum í Hópinu og hafnarmannvirki verið byggð, svo að nú er Grindavíkurhöfn orðin ein öruggasta bátahöfn á landinu. Innsiglingin (sundið) er þó enn eins og á dögum Molda-Gnúps, erfið og varasöm. Gengur úthafsaldan óbrotin inn á grynningar í víkinni, og verður hún stundum ein samfelld brimröst, sem engri fleytu er fært um. Með stærri og betri skipum verða landlegudagar vegna brima þó sífellt fátíðari.
GrindavíkÁ árunum 1939—1942 varð mikill afturkippur í athafnalífi og þróun Grindavíkur. Voru þar að verki áhrif frá heimsstyrjöldinni síðari 1939-1945, sem þá geisaði. Markaðir lokuðust fyrir fisk í Miðjarðarhafslöndum Evrópu þegar í byrjun stríðsins, svo að saltfiskurinn, sem var aðalframleiðslan, lá óseldur fram eftir ári 1939.
Þegar svo úr rættist í árslok og Bretar fóru að kaupa allan saltfisk af Islendingum og síðan alla okkar fiskframleiðslu til stríðsloka, var hin svokallaða setuliðsvinna komin til sögunnar. Mannaflinn fór í hana, en útgerð dróst mjög saman. Ýmsir fluttu þá í burtu og fólkinu fækkaði. Þetta lagaðist þó aftur fljótlega upp úr 1945 með tilkomu betri hafnarskilyrða í Hópinu, sem áður er getið.

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi.

Landbúnaður var lengst af annar aðalatvinnuvegur Grindvíkinga og stundaður af kappi fyrst og fremst sem hliðargrein við sjávarútveginn.
Upp úr síðustu aldamótum færðist svo nýtt fjör í búskapinn með aukinni ræktun túna, eins og fyrr er sagt. Samkvæmt landbúnaðarskýrslum er búfjáreign Grindvíkinga árið 1930 63 nautgripir, 2781 sauðkind og 67 hross. Árið 1940 eru samsvarandi tölur 92 nautgripir, 2857 sauðkindur og 51 hross, og virðist búskapur þá vera í hámarki.

Grindavík

Grindavík – beðið í fjörunni.

Eftir að höfn er byggð í Hópinu og grundvöllur skapaðist fyrir útgerð stærri báta, má segja, að mikil breyting verði á atvinnuháttum hreppsbúa. Fleiri og fleiri fara að byggja afkomu sína eingöngu á útgerð og fiskiðnaði, en landbúnaði hrakar til sömu tíðar. Árið 1945 virðist þessi neikvæða þróun vera hafin, en þá eru 80 nautgripir, 2386 sauðkindur og 78 hross til í hreppnum. Nautgripum fækkaði mjög á næstu árum, og 1963 er síðustu kúnni fargað. Enn er þó sauðfjárrækt nokkuð stunduð, en aðallega af eldri mönnum í hjáverkum. Nú eru 1429 sauðkindur og 26 hross í hreppnum og fækkar með hverju ári.

Fiskibátar
GrindavíkFrá því er sögur hófust og allar götur fram til ársins 1945 eru fiskveiðar stundaðar á smáfleytum; opnum árabátum til ársins 1926 og síðan á hálfopnum eða dekkuðum trillum. Stærstu trillurnar voru líklega um 9 lestir að stærð. Fjöldi bátanna hefur sjálfsagt verið breytilegur á hinum ýmsu tímum, en eins og áður er getið, voru 24 bátar gerðir út frá Grindavík um 1920 frá öllum hverfunum þremur.
Árið 1919 var byggð fyrsta bryggjan í Grindavík í Járngerðarstaðahverfi. í Þorkötlustaðahverfi var svo byggð bryggja árið 1930 og í Staðarhverfi þremur árum síðar. Voru þetta miklar framfarir frá því, sem áður var, en eftir sem áður varð að setja bátana á land. Með tilkomu hafnarmannvirkjanna í Hópinu lögðust svo róðrar fljótlega niður frá Staðar- og Þorkötlustaðahverfi, og síðan hefur útgerð eingöngu verið stunduð frá Járngerðarstaðahverfinu.

Grettir

Grindavík – dýpkunarskipið Grettir.

Eftir afturkipp stríðsáranna fer heldur að rofa til í útgerðarmálum Grindavíkur um og eftir 1945. Og með frekari dýpkun og mannvirkjagerð í höfninni árið 1949 er þróuninni alveg snúið við og nýtt líf færist í atvinnulífið á staðnum. Upp úr 1950 hefst svo hið stórkostlega framfaraskeið í sögu Grindavíkur, sem hefur staðið óslitið síðan. Til dæmis um ótrúlega aukningu á sjósókn og aflabrögðum síðustu árin má nefna, að árið 1967 bárust á land í Grindavík 24.753 lestir af bolfiski í 2830 sjóferðum, árið 1970 öfluðust 46.077 lestir í 5522 sjóferðum og árið 1973 44.525 lestir í 6380 sjóferðum. Frá Grindavík er nú gerður út 51 bátur frá 10 og upp í 363 lestir, þar af eru 7 bátar 10-50 lestir, 16 bátar 50-100 lestir, 20 bátar 100-200 lestir og 8 bátar 200 lestir og þar yfir.

Fiskverkun

Grindavik

Verkun aflans var lengi vel einhæf, eins og annars staðar á landinu. Fram eftir öldum verkuðu Islendingar aðallega skreið, og var hún ásamt prjónlesi aðalútflutningsvara landsmanna. Eftir að Íslendingum lærðist að nota salt, varð saltfiskverkun fljótlega aðalframleiðsluaðferðin ásamt skreiðarframleiðslunni. Eins og allir vita, voru ýmsar fiskafurðir meðhöndlaðar á annan hátt, en þá í smærri stíl og aðallega til innanlandsneyzlu. Þó er rétt að geta um lýsisframleiðsluna, sem alltaf hefur verið mikil að vöxtum, og hefur lýsið löngum verið Íslendingum nytsamt bæði sem heilsulind, ljósmeti og útflutningsvara.

Sloki

Fiskgarðar í Slokahrauni.

Lengst af fór verkun aflans fram sem heimilisiðnaður eða með þeim hætti, að hlutasjómenn verkuðu hver sinn hlut, eftir að í land var komið. Seinna, með tilkomu trillubátanna, verkuðu svo skipverjar í sameiningu aflann hver af sínum báti, og fóru hlutaskipti fram eftir því verði, sem fékkst fyrir aflann, eftir að hann hafði verið seldur. Nú tíðkast varla annað en að aflinn sé seldur upp úr sjó, eins og það er kallað, og fiskverkunarstöðvar í landi kaupi aflann og sjái um verkun hans. Fjölbreytni í verkunaraðferðum er nú meiri en áður gerðist.

Grindavík

Grindavík – hraðfrystihúsið.

Fyrsta hraðfrystihúsið var reist í Grindavík árið 1941, Hraðfrystihús Grindavíkur h.f., og 5 árum síðar var Hraðfrystihús Þorkötlustaða h.f. stofnað. Eru bæði þessi fyrirtæki enn starfandi og hafa eflzt með árunum og eru nú með stærstu fyrirtækjum í Grindavík. Þriðja hraðfrystihúsið rekur svo Arnarvík h.f.
Saltfiskverkunarfyrirtæki eru samtals 14, bæði stór og smá, og er Þorbjörn h.f. þeirra stærst. Eru þá hraðfrystihúsin 3 meðtalin, en þau reka einnig saltfiskverkun. Mestur hluti aflans, sem á land berst, er saltaður, frystur fiskur er í öðru sæti, en skreiðarframleiðsla hefur að mestu legið niðri seinustu árin af markaðsástæðum erlendis. Þá er eftir að geta um beina- og fiskimjölsverksmiðju, sem er 1 á staðnum. Vinnur hún úr því slógi og beinum, sem til fellur frá fiskverkunarstöðvunum og einnig síld og loðnu eftir því sem aflast.

Verzlun og viðskipti
GrindavíkEins og áður er sagt, var kóngsverzlun í Staðarhverfinu fram til ársins 1745, að hana tók af í náttúruhamförum. Frá þeim tíma og allt fram undir síðustu aldamót er mér ókunnugt um verzlunarhætti að öðru leyti en því, að svokallaðir spekúlantar eða fríhöndlarar komu hér við á skipum og ráku vöruskiptaverzlun við íbúana. Einnig má geta þess, að fyrir og upp úr aldamótunum síðustu gerði Lefóliisverzlun á Eyrarbakka út skip, sem hún sendi til Grindavíkur og allt vestur fyrir Reykjanes með vörur að sumrinu til. Var hér einnig um vöruskiptaverzlun að ræða. Verzlunarskip þessi munu hafa verið með gufuvél og gekk það fyrsta, sem vitað er um, undir nafninu „Den lille“. Á eftir honum kom bátur, sem hét Oddur, kallaður Bakka-Oddur. Sá slitnaði upp af legunni í Grindavík í einni verzlunarferðinni í suð-austan stormi og stórsjó og varð þar til á fjörunum. Til sömu tíðar hafði Lefoliisverzlun saltfiskmóttöku hér á staðnum á vetrarvertíðum.

Einar G. Einarsson

Einar G. Einarsson í Garðshúsum.

Fyrir og um aldamótin mun Duusverzlun í Keflavík hafa haft nokkur viðskipti við Grindvíkinga. Voru þau á þá leið, að menn sóttu úttekt sína til Keflavíkur ýmist á hestum eða á sjálfum sér og greiddu hana aftur með verkuðum saltfiski að sumrinu, sem Duusverzlunin lét sækja á sínum skipum.
Rétt fyrir aldamótin byrjaði Einar G. Einarsson í Garðhúsum að verzla í húsi, sem hann lét byggja fyrir ofan lendinguna á Járngerðarstöðum, og má það teljast fyrsta verzlunarhús okkar tíma í Grindavík. Verzlun Einars í Garðhúsum þróaðist fljótlega svo, að aðkomuverzlanirnar lögðust niður. Lengst af var nær eingöngu um vöruskiptaverzlun að ræða eins og áður, en breyttist smátt og smátt í nútímahorf. Fram til ársins 1932 var verzlun Einars í Garðhúsum eina verzlunin á staðnum og fullnægði þörfum Grindvíkinga að mestu, enda má segja, að vöruúrval væri mikið og fjölbreytt. Árið 1932 stofnaði Ólafur Árnason verzlun í húsi sínu að Gimli, og var það fyrsta samkeppnin, sem Einar í Garðhúsum fékk á staðnum. Næsta áratuginn urðu litlar breytingar á verzlunarháttum, en upp úr 1940 byrjar Kaupfélag Reykjavíkur og nágrennis hér verzlun í smáum stíl, en stofnar hér formlega deild árið 1944.

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir – gamli bærinn.

Árið 1946 er sú deild lögð niður, en verður upp frá því útibú frá Kaupfélagi Suðurnesja í Keflavík. Kaupfélagið hefur rekið hér verzlun síðan og er nú stærsta verzlunarfyrirtækið á staðnum með allumfangsmikinn verzlunarrekstur.
Verzlun Einars í Garðhúsum hætti rekstri árið 1957 og Verzlun Ólafs Árnasonar þremur árum síðar.
Nú eru í Grindavík auk Kaupfélagsins 6 verzlanir; 2 matvöruverzlanir, bókaverzlun byggingarvöruverzlun, vefnaðarvörubúð og smávörubúð. Ein veitingastofa er á staðnum, og einnig má geta þess, að nokkrar fiskvinnslustöðvarnar hafa um skeið rekið verbúðir sínar sem gisti- og matsölustaði. Með tilkomu félagsheimilisins Festi á árinu 1972 hefur verið unnt að bjóða upp á þjónustu í mat og drykk þar. Þá eru í Grindavík 2 vélsmiðjur með nokkuð umfangsmikinn rekstur, bæði viðgerðir og nýsmíði, aðallega í sambandi við bátaflotann, og 2 lítil trésmíðaverkstæði.

íbúa- og byggðaþróun

Grindavík

Grindavík – innsiglingin.

Grindavík er talin frá ómunatíð að hafa verið í 3 hverfum: Staðarhverfi vestast, Járngerðarstaðahverfi í miðið og Þorkötlustaðahverfi austast. Milli þessara hverfa voru svo taldir einstaka bæir: Húsatóftir milli Staðar- og Járngerðarstaðahverfis. Hóp milli Járngerðarstaða- og Þorkötlustaðahverfis og Hraun rétt austan við Þorkötlustaðahverfi, en ísólfsskáli nokkru austar.
Krýsuvíkurhverfi var einnig tilheyrandi Grindavíkurhreppi allt til ársins 1936, að hluti af Krýsuvíkurlandi var lagður undir Hafnarfjarðarbæ.
Grindavík - Gamli bærinnSögur herma, að í öndverðu hafi helztu jarðir í hreppnum verið Staður, Húsatóftir, Járngerðarstaðir og Hraun. Með nýjum og nýjum kynslóðum í aldanna rás skiptust heimajarðirnar, og bændum, þ.e.a.s. jarðeigendum, fjölgaði, og jarðir urðu fleiri og smærri. Einnig hafa jarðirnar gengið kaupum og sölum, ýmist verið konungs-, kirkju- og síðar ríkisjarðir eða bændajarðir.
Nú eru lóðir og lendur í hreppnum ýmist í eigu ríkis, sveitarfélags eða hinna ýmsu landeigenda. Frá landnámstíð og allt framá þessa öld var íbúunum gjarnan skipt eftir því, hvort þeir áttu land eða voru landlausir.

Húsatóftir

Vindheimar – tómthús við Húsdatóftir.

Þeir, sem land áttu, nefndust bændur, en hinir þurrabúðar- eða tómthúsmenn. Eftir að þéttbýliskjarnar fóru að myndast fyrir alvöru, leið þessi skilgreining undir lok.
Byggðin var frá upphafi í þremur hverfum, eins og oft hefur verið að vikið. Risu þessi hverfi umhverfis lendingarstaðina. Tók enginn lendingarstaðurinn öðrum fram, svo að nokkra úrslitaþýðingu hefði fyrir byggðaþróunina. íbúafjöldinn hefur því fremur ráðizt af öðrum ástæðum, s.s. framtaki fólksins, húsakosti o.s.frv.
Árið 1890 er tekið manntal í Staðarprestakalli, þ.e.a.s. í Grindavíkurhreppi að Krýsuvík undanskilinni. Þá eru samtals 302 íbúar í sókninni. í Staðarhverfi búa þá 63 íbúar, í Járngerðarstaðahverfi 145 og í Þorkötlustaðahverfi 94 íbúar.

Gríndavík

Grindavík – höfnin.

Með byggingu hafnar í Hópinu í Járngerðarstaðahverfi skapast fyrst þær breyttu aðstæður, sem valda því, að útgerð leggst með öllu niður frá Staðar- og Þorkötlustaðahverfunum og hefur fljótlega þau áhrif, að byggðin dregst saman á þessum stöðum og þó sérstaklega í Staðarhverfinú, sem er fjær. Enda fór svo, að Staðarhverfið fór fljótlega í eyði. Lengst var búið á Stað eða til ársins 1964. Örlög Þorkötlustaðahverfis urðu nokkuð á annan veg. Byggð hefur að vísu ekki aukizt síðan höfnin var gerð, en heldur ekki minnkað verulega, sumpart mun þetta stafa af tiltölulega lítilli fjarlægð frá höfninni og sumpart af því, að hraðfrystihús var reist þar árið 1946 og veitti mikla atvinnu, einmitt um sama leyti og róðrar lögðust niður frá hverfinu sjálfu.

Grindavík

Grindavík 1958.

Eins og áður er getið, stóðu atvinnuvegir með nokkrum blóma á fyrstu áratugum þessarar aldar og fjölgaði íbúunum þá nokkuð. Árið 1900 eru íbúarnir 357, og árið 1938 eru þeir orðnir 553. Á stríðsárunum kom svo afturkippurinn, sem áður er lýst, svo að árið 1945 er íbúatalan komin niður í 489. Það er svo ekki fyrr en 1950 sem íbúatölunni frá 1938 er aftur náð eða því sem næst. Eftir það heldur fjölgunin áfram jafnt og þétt, þannig að árið 1960 eru íbúarnir 734, fimm árum síðar eru þeir orðnir 913, og árið 1968 fara þeir yfir 1000. Árið 1970 voru þeir 1169, hinn 1. desember 1973 voru Grindvíkingar 1456, og nú, hinn 1. desember 1974 munu þeir vera alveg um 1600.

Staðarlýsing

Grindavík 1968

Eins og flestum er kunnugt, er Grindavíkurland að mestu leyti þakið hraunum, sem runnið hafa eftir lok síðustu ísaldar. Þó er nokkurt graslendi meðfram sjónum, þar sem byggðin var, en hún hefur nú á síðari árum þokazt upp á hraunin í Járngerðarstaðahverfi. Þá eru og í landi hreppsins sérstakir gróðurblettir í hinum víðlendu hraunum, og má þar sérstaklega nefna Selsvelli vestan í Núphlíðarhálsi innarlega, sem er sérstaklega fallegur staður. Um vellina rennur lækur, og mun vatn hvergi renna ofanjarðar annars staðar svo utarlega á skaganum, enda hverfur hann fljótlega, þegar kemur í hraunið. Annar skemmtilegur gróðurblettur er á Vigdísarvöllum, sem er austan í Núphlíðarhálsinum. Þar var áður búið og lengi tvíbýlt. Mun síðasti bóndinn hafa farið þaðan árið 1907.

Grindavík

Grindavík 1974.

Norðan í Þorbirni er nokkurt graslendi. Þar hefur verið afgirt svæði til skógræktar og virðist ræktunin þrífast þar mjög vel. Norðan undir Svartsengisfelli er og fallegur gróðurblettur, og hafa Grindvíkingar haldið þar útiskemmtanir til margra ára.
Bæjarland Grindavíkur er mjög víðlent og nær alla leið frá Reykjanestá austur í Selvog. Ef Iandamörkin eru rakin nákvæmlega frá vestri til austurs, eru þau úr miðri Möl við Reykjanes í Sýrfell. Þaðan beina línu í miðja Hauksvörðugjá í Súlur. Úr Súlum í Stapafellsþúfu. Þaðan í Arnarklett fyrir sunnan Snorrastaðatjarnir. Úr Arnarkletti í Litla-Skógfell og þaðan í Kálffell í Kálffellsheiði. Þaðan í Fagradals-Hagafell og þaðan í Litla-Keili. Frá Litla-Keili í Sog (Sogaselsdal) undir Trölladyngjuhlíðum og með þeim í Markhelluhól. Frá Markhelluhól, norðanvert við Fjallið eina í Markrakagil, þaðan í Markraka í Dauðadölum og þaðan í Stóra-Kóngsfell. Úr Stóra-Kóngsfelli í Litla-Kóngsfell og þaðan suður heiðina beina línu í Sýslustein og síðan í Seljabót.

Fiskidalsfjall

Útsýni af Fiskidalsfjalli yfir Festarfell og Lyngfell. Lambastapi fjær.

Sjóndeildarhringur Grindvíkinga takmarkast víða af fjöllum, sem flest eru í landi bæjarins. Þau eru fremur lág, en setja þó mikinn svip á umhverfið. Öll munu þau vera gosmyndanir og ekki eldri en frá því seint á síðustu ísöld. Þessi eru helzt: Sýrfell, Sandfell, Súlur, Þórðarfell, Stapafell, Þorbjörn (Þorbjarnarfell), Svartsengisfell, Hagafell, Fagradalsfjall, Húsafell, Fiskidalsfjall, Festarfjall, Slaga, Skála-Mælifell, Krýsuvíkur-Mælifell og Geitahlíð austast. Ströndin liggur fyrir opnu úthafinu, víðast hvar lág og lítið vogskorin. Nokkrar litlar víkur ganga þó inn í hana á stöku stað, og eru Staðarvík, Járngerðarstaðavík og Hraunsvík þeirra helztar, og við þær hefur byggðin staðið alla tíð, þegar Krýsuvík er undanskilin. Inn af Járngerðarstaðavíkinni er svo Hópið, eina örugga skipalægið á allri strandlengjunni. Á milli Járngerðarstaðavíkur og Hraunsvíkur er lítið nes, sem heitir Hópsnes, en gengur líka undir nafninu Þorkötlustaðanes.

Jarðhitinn í Svartsengi

Svartsengi

Jarðhitasvæði eru mikil og virk innan bæjarlandsins, og eru jarðhitasvæðin á Reykjanesi og í Krýsuvík þeirra mest. Á svæðinu þar á milli má víða sjá merki um hita í jörðu. Haustið 1971 og fram í janúar 1972 voru boraðar tvær holur við Svartsengi í Grindavík á vegum Grindavíkurhrepps. Var tilgangurinn tvíþættur: Annars vegar að freista þess að fá upp varma til hitaveitu í Grindavík og hins vegar til þess að fá úr því skorið, hvers eðlis hitinn væri (háhiti eða lághiti) í sambandi við þær miklu umræður, sem fram höfðu farið um nýtingu jarðvarma til stóriðju s.s. sjóefnavinnslu. Árangurinn lét ekki á sér standa. Áformað hafði verið að bora eina holu 700-800 m djúpa, en þegar holan var orðin 240 m djúp, var hætt, því þá var hitinn kominn í rúmar 200° C og afl holunnar um það bil 60 kg/sek.

Svartsengi

Svartsengisvirkjun.

Var þá síðari holan boruð. Varð hún 400 m djúp, lítið eitt heitari en sú fyrri og afl hennar um 70 kg/sek. Ókostur var það hins vegar, að vatnið í holunum var salt og ekki unnt að virkja það til hitaveitu, án þess að um varmaskipti yrði að ræða, þ. e. að gufan yrði notuð til upphitunar á fersku vatni. Boranir þessar sönnuðu einnig, að Svartsengissvæðið var háhitasvæði, svipað og á Reykjanesi, og síðan hafa athuganir leitt í ljós, að það er ekki minna en 4 km2 að stærð.
Á fundi sínum 7. apríl 1972 samþykkti hreppsnefnd Grindavíkurhrepps að bjóða hinum sveitarfélögunum á Suðurnesjum til samvinnu um nýtingu jarðhitans í Svartsengi. Það tók sveitarfélögin nokkuð langan tíma að ákveða sig, þar sem áhugi var þá mikill hjá þeim að freista þess að bora eftir varma í landi Keflavíkur.

Svartengi

Svartsengi.

Seint á árinu 1973 var loks ákveðið að snúa sér að Svartsengi, og hefur samfleytt verið unnið síðan að undirbúningi hitaveitu á Suðurnesjum undir forystu Samstarfsnefndar sveitarfélaganna þar.

Á árinu 1974 hefur Orkustofnun verið athafnasöm á Svartsengissvæðinu. Hafa nú verið boraðar þar tvær hitaholur til viðbótar með gufubornum. Eru þær 1500 og 1700 m á dýpt, 230°—240° C heitar og afl þeirra samanlagt um 180 kg/sek. Einnig hefur verið boruð 1 kaldavatnshola, sem gefur mikið og gott vatn til upphitunar. Varmaskiptatilraunir voru einnig gerðar á árinu, og gáfu þær góða raun.
Á vegum sveitarfélaganna hefur talsvert verið unnið að hönnun og áætlanagerð varðandi hitaveituna og núna rétt fyrir jólin samþykkti Alþingi lög um Hitaveitu Suðurnesja, sem er sameign sveitarfélaganna á Suðurnesjum (60%) og ríkisins (40%), en ríkið fékk snemma áhuga á fyrirtækinu vegna Keflavíkurflugvallar.

Bláa lónið

Bláa lónið.

Binda Suðurnesjamenn miklar vonir við, að framkvæmdir geti nú farið að hefjast innan tíðar.
Svartsengissvæðið er í eigu einkaaðila. Er það óskipt sameign ýmissa landeigenda í Grindavík. Samningaviðræður standa yfir, en er ólokið enn. Vonandi verða þeir ekki til þess að tefja þessar þýðingarmiklu framkvæmdir.

Fengin kaupstaðarréttindi
Grindavíkurhreppur öðlaðist kaupstaðarréttindi með lögum nr. 18, 10. apríl 1974.“

Heimild:
-Sveitarstjórnarmál, 34. árg. 1974, Grindavík – Ágrip af sögu og staðarlýsing – Eiríkur Alexandersson, bls. 255-265.

Grindavík - Einarsbúð

 

Hraun

Sigurður Gíslason á Hrauni er manna kunnugastur um örnefni og staðhætti á jörðinni Hrauni skammt austan við Þórkötlustaðahverfi í Grindavík.

Sigurður

Rætt var við Sigga þar sem hann dvelur um þessar mundir á Hjúkrunarheimilinu að Víðihlíð við góða umönnun. Sigurður fæddist á Hrauni 5. maí árið 1923 og hefur búið þar fram til þessa.
„Ég veit sjálfsagt eitthvað um örnefnin á Hrauni, en þekki þau ekki endilega öll“, segir Siggi. „Krókur hét t.d. krikinn vestast í túninu, norðan Vatnagarða. Þar eru tóftir. Draugagerði eru leifar garða eða gerðis austan við Tíðarhliðið, innan garðs. Bakki eða Bakkar voru norðan við Gamla bæinn. Bóndinn þar vildi nefna það Litlahraun, en fékk ekki. Hrauntún var vestan við Gamla bæinn. Sunnuhvoll var norðan við Hrauntún og Gamla bæinn. Sauðagerði var austast í túninu og sjást tóftir þess enn. Vatnagarður (-ar) lýsti ég áður, en Gamli bærinn var vestan og sunnan við núverandi hús; tvíbýlið.

Hraun

Hraun um 1940 – hér sést gamli bærinn og sjóbúðin.

Fjárhús tóftir eru á a.m.k. tveimur stöðum er enn sjást. Gamlibrunnur er ofan við Hrólfsvík. Krókshellir er í Krókstúninu. Suðvestan þess lá Eyrargatan út á Nes. Hraunkotsgatan lá upp úr Króknum yfir að Haunkoti og Þórkötlustaðagatan lá upp um Fremra-Leiti út í Þórkötlustaðahverfi. Allar þessar götur sjást enn, nema kannski Eyrargatan. Á götum þessum voru hlið í túngarðinum. Hraunsvegur var nýjasta gatan áður en núverandi þjóðvegur kom. Hann lá um Efra-Leiti, framhjá Hvammi og um Tíðarhliðið á Hrauni. Markhóll er upp á Efra-Leiti, hlaðinn. Hraunsleynir er austar.

Hraun

Vatnagarðar – tóftir.

Ofan hans er hlaðin refagildra og leifar af fleirum í Leyninum sjálfum. Hraunsvörin var þrískipt; Suðurvör (Hraunsvör), Norðurvör og Bótin. Þú þekkir svo Hraunsbrunninn og hvar líklegt er að kirkjan til forna gæti hafa staðið austan við Gamla bæinn.
Ekki má gleyma Dysinni ofan við bæinn þar sem karlsson er sagður hafa verið grafinn eftir Tyrkjaránið  og Ræningjadysinni, eða Kapellunni, á Hraunssandi, sem Kristján Eldjárn gróf í og fann þar eitthvað að gripum. Tyrkjahellirinn er svo uppi á Efri-Hellum, en þar var alltaf gott vatn fyrir kýrnar. Og ekki má gleyma Guðbjargarhelli, en hann var löngum athvarf öm
mu minnar fyrst eftir að hún kom að Hraunu, vildi hún vera í næði.“ 

Í örnefnalýsingu Ara Gíslasonar, sem Gísli Hafliðason, bóndi, Hrauni (Vestur-Hrauni) og Guðmundur Guðmundsson, bóndi á Ísólfsskála (fyrrum bóndi á Austur-Hrauni (Manntal 1910)), gáfu kemur eftirfarandi fram: „Fram af túninu gengur þangivaxinn tangi fram í sjó, sem fer í kaf um flóð.
SunnuhvollÞegar Jón Jónsson, afi Gísla Hafliðasonar, var hér, var á tanganum grasflöt. Sunnan við Skarfatanga í bás, sem þar er, strandaði franskur togari. Einnig strandaði kútter Hákon hér 1926 milli 8. og 9. maí.
Næst austan við Skarfatangann er Markabás, sem fyrr getur. Hann gengur þannig inn í bergið og fer alveg í kaf um flóð. Þar flæðir allt, sem þar kann að vera. Í túninu eru engin nöfn, en gerðið austur af túninu er nefnt Sauðagerði. Túnið sjálft er nafnalaust.
Næsta vík við Skarfaklett er Hvalvík, svo er Hrólfsvíkin fyrrnefnda. Síðan er Vondafjara eða Vindfjara. Utan hennar gengur fram Skeljabótarklöpp. Er þá komið heim undir bæ, og er þar vík, sem heitir Skeljabót. Út af Skeljabót heitir Barnaklettur. Vestan við Barnaklett er Hraunsbót og fjaran þar heitir Hraunsvör. Þá taka við, niðri á túninu, Vatnagarðar. Þar var eitt sinn býli.
SunnuhvollHúsafell er vestan við Fiskidalsfjall. Skarð á milli fellanna er einungis nefnt Skarð. Grasbrekkur framan í Húsafelli heita: Langigeiri og er austast; Djúpigeiri, Litli-Skotti og Stóri-Skotti er vestast. Kvos upp á Húsafelli fyrir ofan Stóra-Skotta heitir Húsafellsdalur. Austur af hrauninu framan við Húsafell er hellisskúti sem nefndur er Guðbjargarhellir. Hann er kenndur við Guðbjörgu ömmu Magnúsar Hafliðasonar en hún hafði þarna afdrep í leiðindum sínum fyrst eftir að hún kom að Hrauni.

Húsafell

Húsafell ofan Hrauns.

Landamerki Hrauns og Þórkötlustaða eru um hæstu bungu Innstuhæðar frá hól á Hraunsleiti framan við Hraunsleyni. Úr Innstuhæð eru landamerkin í norðaustur í svonefnda Vatnskatla í Fagradals-Vatnsfelli.“

Loftur Jónsson skráði örnefni í Hraunslandi:

Guðbjargarhellir

„Jörðin Hraun í Grindavík á land að Ísólfsskála og Krýsuvík að austan, Vatnsleysuströnd að norðan og Þórkötlustöðum að vestan. Bærinn stendur við sjó utarlega við Hraunsvík að vestanverðu.
Eftirfarandi hjáleigur voru í Hraunslandi: Vatnagarður syðst í túninu. Þar bjó eitt sinn ekkja á 17. öld og hafði allt upp í 8 kýr þegar flest var. Bakkar (eða Litla-Hraun) norðan núverandi túns. Sunnuhvoll norðvestan við Hraun og Hrauntún þar vestur af. Óljósar sagnir eru um hjáleiguna Draugagerði vestur við túnhlið. Þar stóðu fjárhús sem elstu menn muna. [Á túnakorti frá 1918 eru merktar þar „gamlar rústir“.]

Slok

Hraunsgarðar í Slokahrauni.

Örnefni sem mér eru kunn í landi Hrauns eru eftirfarandi: Með sjó er Markabás vestast. Hann er austan við svonefnd Slok og skiptir löndum á milli Þórkötlustaða og Hrauns. Austan við Markabás er Hádegistangi. Hádegisklettur er þar ofan og sunnan við. Hann hét öðru nafni Klofaklettur, tvær strýtur voru upp úr honum en önnur er nú brotin af fyrir mörgum áratugum.
Þetta var hádegismark frá gamla bænum á Hrauni. Þar Sauðagerðinorðan við er Skarfatangi. Það er smátá sem skagar út í sjóinn en fer í kaf á flóði. Magnús Hafliðason segist muna eftir grasi á Skarfatanga og þegar hann var ungur hafi gamlir menn sagt sér að grasbakki hafi verið á Skarfatanga. Skip hafa strandað sitt hvoru megin við Skarfatanga. Franski togarinn Cap Fagnet að sunnan og kútterinn Hákon að norðanverðu. Vikið norðan við Skarfatanga heitir Vatnagarður og sama nafn ber syðsti hluti túnsins þar upp af. Sker út af Vatnagarði kemur aðeins upp úr á stórstreymisfjöru og er kallað Klobbasker. Sagt er að það hafi komið upp þegar bænahús var aflagt á Hrauni (sennil. Á 17. öld). Gamla sundið lagðist þá einnig af. Vatnstangi er norðan við Vatnagarð. Þar rennur fram ferskt vatn.
Fast norðan Vatnstanga er Suðurvör Hraunog var þar aðallending á Hrauni. Norðan við Suðurvör er sker og var farið fa
st með því þegar lent var og var það nefnt Rolla. Norðurvör er í þröngum klöppum þar norður af og þar var aðeins hægt að lenda í mátulega sjávuðu. Baðstofa er stór klöpp fast fyrir norðan Norðurvör. Þar norður af er Bótin og þar var nyrsta lendingin. Þaðan var hægast að fara út í vondu. Efst í Bótinni er klettur sem fer í kaf á flóði og heitir Barnaklettur. Þar áttu að hafa flætt og síðan drukknað tvö börn.

Túnið upp af Bótinni er nefnt Sauðagerði. Bóndagerði var líka til í túninu en er komið undir kamp fyrir löngu síðan. Önnur örnefni eru ekki kunn í túninu.

Markhóll

Skeljabót er næst fyrir norðan Bótina. Þar eru klappir sem nefndar eru Skeljabótarklappir. Vondafjara er þar fyrir norðan. Síðan kemur Hrólfsvík, Efri- og Fremri- með skeri á milli. Í Hrólfsvík strandaði breskur togari (Luis). Upp af Efri-Hrólfsvík er grjóthrúga og kölluð Ræningjabæli. Þar gróf dr. Kristján Eldjárn þegar hann var þjóðminjavörður og taldi hann að þetta hafi verið enskur verslunarstaður.
Hvalvík er norðan við Hrólfsvík. Hvalhóll er á kampinum milli þeirra. Fram undan hamrabelti ofan Hvalvíkur er stór klettur laus við landið og heitir Skarfaklettur. Hellir í hamrabeltinu rétt ofan Skarfakletts heitir Dunkhellir. Hann er nú að mestu fullur af grjóti.

Festarfjall

Festarfjall – Hraunssandur nær.

Fjaran undir Festarfjalli heitir Hraunssandur. Skora hét rauf í bergið fyrir norðan Dunkhelli en er nú horfin. Stígurinn var gata niður á sand og var hún upp við fjallsræturnar. Þar er nú bílfært niður. Klettarani skagar fram á sandinn og heitir Vestrinípa. Eystrinípa er töluvert austar og skilur hún á milli Hraunsands og Skálasands og þar af landamerki. Ekki er hægt að komast fram hjá þessum klettum nema þegar lágsjávað er. Við Eystrinípu er áberandi lóðrétt blágrýtisstuðlabergslag í berginu kallað Festin. Þjóðsaga segir þetta vera gullhálsfesti tröllkonu sem bjó í fjallinu.
Hún lét svo um mælt að þegar ábúendum á Hrauni tækist að Túnakortláta dóttur heita í höfuð sér og stúlkan gengi á sandinum þarna fyrir neðan mundi festin falla um háls henni. Þetta virðist ekki hafa tekist enn.
Festarfjall er fyrir botni Hraunsvíkur. Í daglegu tali er það kallað Festi. Norðan við Festi og á milli fjallsins Hrafnshlíðar er Siglubergsháls. Skökugil heitir gil með grasgeira í suðvestan í Hrafnshlíð. Þar ofar í hlíðinni heitir Vondaklif. Djúpidalur er norðaustan í Hrafnshlíð.
Vestan við Hrafnshlíð er Fiskidalsfjall. Þar sem fjöllin mætast er Skökugil að framan en að norðan er djúpt gil eða geil inn á milli fjallanna og heitir Svartikrókur. Við rætur

Fiskidalsfjall

Útsýni af Fiskidalsfjalli yfir Lyngfell. Lambastapi t.h.

Fiskidalsfjalls að norðan var mikið af stórum björgum sem hrunið höfðu úr fjallinu en eru nú farin, voru notuð við byggingu hafnargarðs í Grindavíkurhöfn. Þetta var kallað Stórusteinar. Framan í fjallinu að austanverðu eru grasbrekkur sem kallaðar eru Hálsgeirar og grasbrekka að vestanverðu heitir Berjageiri.“

Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsing Ara Gíslasonar.
-Örnefnalýsing Lofts Jónssonar.
-Sigurður Gíslason, Hrauni.
Hraun 1924

Slokahraun

Gengið var um Slokahraun milli Þórkötlustaðahverfis og Hrauns austan Grindavíkur. Slokahraun er líklega um 2400 ára. Hraunið er hluti af Sundhnúkahrauni. Önnur nafngreind hraun í sama gosi eru Blettahraun og Klifhólahraun.

Garðar í Slokahrauni

Slokahraun rann í mjórri ræmu til suðsuðausturs frá gígunum sunnan Sundhnúks, milli Vatnsheiðar og Hópsheiðar. Getið er um Slok í tveimur örnefnaskrám Þórkötlustaða í Grindavík:  „Utar er tangi fram í sjóinn, sem heitir Slok, og upp af honum er hraunspildan nefnd Slokahraun“ og „síðan taka við Slok og er austast Slokatá. Slokin draga nafn af áberandi soghljóði, sérstaklega undir austanátt.“ Innfæddir Grindvíkingar austanverðir þekkja hljóðið. Þegar aldan skellur undir hraunhellunni slokrar í henni svo um munar.

Hraun

Hraun í Grindavík.

Að austanverðu eru mörk hraunsins við ströndina við vesturtúngarðinn á Hrauni. Garðurinn liggur uppi á hraunbrúninni, sem nú er gróin að innanverðu. Sigurður Gíslason, bóndi á Hrauni, sagði hraunið, séð frá bænum, jafnan hafa verið nefnt Hraunið. Um það hefðu legið þrjár götur fyrrum, áður en akvegirnir voru lagðir yfir það, fyrst með ströndinni og síðar um Tíðarhliðið á norðvestanverðum túngarðinum. Enn mótar fyrir síðarnefnda veginum, bæði innan garðs og utan. Hann lá yfir að Hvammi og þar áfram til vesturs. Sjást leifar hans bæði austan við Hvamm og vestan við Efra-Land. Um hinar göturnar þrjár verður nánar fjallað um hér á eftir. Þeirra er hvorki getið í örnefnalýsingum né fornleifaskráningarskýrslum.
Byrgi í SlokahrauniÍ Sögu Grindavíkur segir að Slokin séu “austan við Buðlungavör; út af þeim samnefndur skerjatangi, sem gengur vestur og út í Þórkötlustaðavík, og er sundið inn í víkina á milli þessara tanga og þeirra, sem liggja út frá Leiftrunarhól [á Þórkötlustaðanesi]. Þarna á Slokunum er álitið að eitt af stóru slysunum hafi orðið. Það var nóttina áður en mb. Aldan rá Vestmannaeyjum rak upp í Nesið að vestanverðu… að annan vélbát frá Vestamannaeyjum, Þuríði formann, sem einnig varð fyrir vélarbilun í sama veðrinu, rak þar upp. En þar tóku höfuðskepnurnar öðru vísi á hlutunum. Þegar fólk kom á fætur á Þórkötlustöðum, varð það vart við óeðlilega mikið brak í fjörunni, og þótt allt væri mjög maskað niður, sást þó, að þarna hafði Þuríði formann rekið upp og hún farizt með allri áhöfn.

Hraun - kort

Hraun í Grindavík – uppdráttur ÓSÁ.

Hinn 8. desember 1923 gerðist það í austan veðri og snjókomu, að þýskur togari strandaði einhvers staðar hjá Grindavík, að því er skipstjórinn hélt. Togarinn losnaði sjálfur fljótlega úr strandinu, en hafi laskazt svo mikið, að hann fór fljótlega að síga niður og sökk svo eftir lítinn tíma. Áhöfnin komst í björgunarbátinn og hélt síðan undan sjó og vindi, þar til þá allt í einu bar að landi og upp í stórgrýtiskamp. Mennirnir komust allir ómeiddir í land…
Skiptar eru skoðanir manna um, hvar togari þessi hafi strandað, en Þórkötlustaðamenn töldu, að eftir strand þetta hafi komið festa á veiðarfæri þeirra, sem ekki hafði verið þar áður, á leirbotni skammt út af víkinni, og veiðarfærin oft ryðlituð, er þau komu upp. Því er gizkað á, að togarinn hafi lent annaðhvort á Slokunum eða nálægt Leiftrunarhól, þ.e. öðru hvoru megin við Þórkötlustaðavíkina.”
HraunkotsgataVertíðir settu löngum svip á atvinnulífið í Grindavík. Tvær verbúðir voru um tíma í Þórkötlustaðalandi, ein á Ísólfsskála og fleiri í Járngerðarstaðalandi. Hraunsmenn gerðu út á Þórkötlustaðanesi og gengu á milli. Þá var Eyrargatan jafnan farin, en hún lá með ströndinni, í gegnum Slokahraun framhjá Sögunarhól og eftir fjörunni neðan við Klöpp, Buðlungu og Þórkötlustaði. Ströndin var þá sandfjara líkt og enn má sjá að hluta innst í Bótinni. Sandurinn náði dágóðan spöl út. Þar voru góðar lendingar fyrrnefndra bæja. Vestan Þórkötlustaða, þar sem nú er Sólbakki, kom gatan upp á bakkann við bæ, sem hét Skarð og þar var. Síðan liðaðist hún ofan strandarinnar, yfir Kónga og að naustunum vestan þeirra.

Hraunkot

Hraunkot.

Eyrargatan sést enn í hrauninu innan landamerkja Þórkötlustaðahverfis. Austar hefur sjórinn kastað grjóti yfir hana, auk þess sem vegur var lagður að hluta til yfir hana. Nánar er sagt frá Eyrargötunni annars staðar á vefsíðunni.
Önnur gatan hét Hraunkotsgata. Hún lá upp frá austanverðri hraunbrúninni, í gegnum túngarðinn á Hrauni og svo til beina stefnu yfir það til vesturs, að Hraunkoti, sem var austast bæja (kota) í Þórkötlustaðahverfi. Stór gróinn hraunklettur er norðan götunnar skammt frá Hraunstúngarðinum. Þessi gata sést enn mjög vel, enda gróin. Sigurður sagði það varla geta talist undarlegt því þessa götu hefðu vermennirnir gengið til baka með fiskinn á bakinu. Áburðurinn hafi því verið ágætur og nyti gatan góðs af því enn í dag.

Hraunkot

Hraunkot.

Þriðja gatan, sem enn sést, er Þórkötlustaðagata. Hún liggur, líkt og Hraunkotsgatan, í gegnum hlaðinn túngarðinn á Hrauni, um hlið þar sem sem garðurinn myndar 90° horn. Gatan, sem er sú nyrsta þeirra þriggja, liggur nú um gróið hraunið, en hinar fyrrnefndu liggja enn um úfið mosavaxið apalhraunið. Lítill hraunhóll er norðan götunnar. Frá honum beygir gatan lítillega í átt að norðurtúngarðshorni Hraunkots. Þar lá hún samhliða garðinum með svo til beina stefnu á Þórkötlustaði. Enn sést móta fyrir honum á sléttuðu túninu sem þar tekur nú við.

ÞórkötlustaðagataÍ Slokahrauni eru miklir þurrkgarðar. Vegna þess hversu fáir vita af mannvirkjunum hafa þau fengið að vera í friði og því varðveist vel. Á þessa garða var flattur fiskurinn lagður og hann þurrkaður. Einnig hausar og annað er nýta mátti af fiskinum. Auk garða má sjá nokkur þurrkbyrgi, sem fiskurinn hefur verið geymdur í milli þurrkálagninga. Eins byrgi má bæði sjá í Strýthólahrauni á Þórkötlustaðanesi, vestan Húsatófta, við Nótarhól austan Ísólfsskála og á Selatöngum. Einnig austan við Herdísarvík.

Buðlunga

Buðlunguvör.

Þegar bátar komu úr róðri var aflinn færður á skiptivöll, þar sem skipt var í hluti. [Einn slíkan má enn sjá neðan við Klöpp]. Því næst var gert að, á skiptivellinum ef aðstæður þar leyfðu, annars á öðrum hentugum stað. Í Grindavík mun víðast hafa verið gert að á skiptivelli. Á vetrarvertíð, þegar ekki var þerrisvon, var fiskurinn lagður í kös, eða kasaður sem kallað var. Það var gert eftir sérstökum reglum. Fiskurinn var lagður þannig í kösina, að dálkurinn sneri niður, svo að blóð sem síga kynni úr honum færi síður í hinn helminginn; fiskurinn var kýttur, en það var gert með því móti að beygja hann saman í hnakkann, svo að fiskurinn fyrir framan dálk myndaði ¼ úr hring.

Sloki

Fiskgarðar í Slokahrauni.

Næsta lag var svo sett ofan á það, sem fyrir var, þannig að hnakkinn af þeim fiski læki móts við gotraufina á þeim, sem undir var, og með sama hætti koll af kolli. Helzt þurfti kösin að vera á sléttum halla, svo að ekki sæti vatn í henni. Að lokum myndaðist hringur og komu sporðar allra neðstu fiskanna saman. Kösin stóð misjafnlega lengi, stundum svo vikum skipti, þar sem sjaldnast viðraði vel fyrr en undir vor. Í frosti skemmdist kasarfiskurinn ekki að ráði, en ef skiptist á vætutíð og frost vildi hann vera maltur, jafnvel grútmaltur.
Hraun - tóftir Vatnagarðs framarÞegar komið var fram á vor og veður fór batnandi, var fiskurinn tekinn úr kösinni og byrjað að þurrka hann. Fyrst var hann þveginn og himnudreginn, en síðan breiddur á garða, möl eða grjótghryggi, og var roðinu snúið niður á daginn en upp á nóttunni. Á meðan á þurrkuninni stóð, var fiskinum snúið hvað eftir annað, en er hann þótti orðinn hæfilega þurr, var honum hlaðið í stakka og þeir fergðir, svo að sléttaðist úr fiskinum. Þegar þurrkur var, var fiskurinn síðan breiddur úr stökkunum, uns hann var orðinn sprekaður, en þá þótti loks fært að vigta hann og flytja.

Slokahraun

Slokahraun – fiskgarðar.

Nokkur tími gat jafnan liðið frá því fiskur var fullþurkkaður og þar til hægt var að flytja hann, og reið þá á miklu í stórum verstöðvum, þar sem margir gerðu út, að ekki ruglaðist fiskurinn. Af þeim sökum höfðu menn sérstök fiskmerki, og umsvifamiklir aðilar höfðu sérstakt brennimark.
Á meðan fiskurinn beið flutnings, var hann tíðast geymdur í fiskbyrgjum. Þau voru hlaðin úr grjóti, strýtu- eða stróklaga, en þannig var best að verja fiskinn gegn vætu. Á sumum jörðum í Grindavík munu einnig hafa verið sérstök fiskgeymsluhús, en ekki er ljóst hvernig þau voru byggð.

Grindavík

Grindavík – Þórkötlustaðir.

Frá 17. öld eru heimildir um slík hús frá Hópi, sem voru í eigu Skálholtsstaðar. Þá var hús á Þórkötlustöðum, sem gekk undir nafninu “staðarhúsið”, og var það sýnilega fiskgeymsluhús í eigu Skálholtsstóls. Hugmyndir eru uppi um að einu fiskgeymsluhúsin, sem varðveist hafa í Grindavík, megi finna undir rótum Sundvörðuhrauns, svonefnd “tyrkjabyrgi”. Fleiri slík byrgi má finna í upplandi bæjarins, ósnert með öllu. Staðsetning kemur vel heim og saman við heimildir þess efnis að annar aðalútflutningsstaður Grindvíkinga um tíma var frá Básendum.

Hraun

Hraun – tóftir Vatnagarða.

Með vorinu er ætlunin að fylgja Sigurði Gíslasyni um Vatnagarð og Slokahraun að Sloka.
Frábært veður. Gangan tók 1. klst og 11 mín.

Heimildir m.a.:
-Sigurður Gíslason, bóndi á Hrauni.
-Örnefnaskrá Þórkötlustaða.
-Örnefnaskrá Hrauns.
-Saga Grindavíkur. J.Þ.Þ 1994.

Sloki

Sloki – uppdráttur ÓSÁ.

Kapella

Kristján Eldjárn skrifaði um fornleifarannsóknir í Kapelluhrauni vestan Hafnarfjarðar og Kapellulág austan Grindavíkur í „Árbók hins íslenska fornleifafélags“ árið 1955:

Kristján Eldjárn

Kristján Eldjárn.

„Á tveimur stöðum á Reykjanesskaga eru örnefni dregin af kapellu. Þau eru Kapelluhraun í landi Lambhaga í Garðahreppi og Kapellulág hjá Hrauni í Grindavík. Báðum örnefnunum eru tengdar sagnir, sem snúast um mannvirki á stöðunum. Verður hér skýrt frá árangri rannsókna, sem gerðar hafa verið á þessum fyrirferðarlitlu en forvitnilegu mannaverkum.

Kapellan í Kapelluhrauni við Hafnarfjörð (fornleifarannsókn 1950)
Fyrir sunnan Hafnarfjörð er hraunfláki mikill, sem upptök á í gígaröð meðfram Undirhlíðum og hefur runnið þaðan allt norður í sjó. Hraun þetta heitir nú í daglegu tali Bruninn, nema neðsti eða nyrzti hluti þess heitir Kapelluhraun. Það er mjög úfið og lítt gróið apalhraun, og eru jarðfræðingar á einu máli um, að það hafi runnið eftir að land byggðist. Ráða þeir það af útliti og ástandi hraunsins, en auk þess er talið víst, að þetta sé hraun það, sem í gömlum heimildum er nefnt Nýjahraun.

Kapelluhraun

Kapellan í Kapelluhrauni – herforingjaráðskort 1903.

Í landamerkjaskrám er sagt, að mörkin milli Hvaleyrar og Straums séu í norðurbrún Nýjahrauns. Kjalnesinga saga, sem talin er rituð á 14. öld, nefnir og Nýjahraun, og í annálum er þess getið, að skip, er lét út úr Hvalfirði, hafi brotið við Nýjahraun fyrir utan Hafnarfjörð, og á þetta að hafa gerzt árið 1343. Nafnið Nýjahraun sýnir ótvírætt, að hraunið hefur runnið eftir landnámsöld, en heimildirnar, að það sé eldra en frá 1343.
Þegar Nýjahraun rann, hefur það orðið ófær farartálmi á leiðinni suður með sjó. Hefur eflaust þá þegar verið ruddur um það vegur sá, sem síðan var notaður, unz bílvegur var gerður.

Keflavíkurvegur

Hleðslur við gamla Suðurnesjaveginn gegnt Gerði ofan Péturskots, skammt vestan kapellunnar.

Gamli vegurinn var mikið mannvirki. Hann liggur þar sem skemmst er yfir hraunið (á ská yfir akveginn, sem nú er, 1955), mjög krókóttur, eins og slíkir hraunvegir eru, sem þurfa að þræða milli hárra hraunhóla og djúpra katla, en nóg er af hvoru tveggja í Kapelluhrauni. En vegurinn er sæmilega sléttur og breiður, enda mátti skeiðríða hann. Fast við veginn sjávarmegin, um miðju vegu milli hraunjaðra, er mannvirki, sem kallað er Kapellan, og dregur neðsti hluti hins gamla Nýjahrauns nafn af henni á síðustu tímum.

Kapellan

Kapellan – sjá má leifar Alfaraleiðarinnar, sem lá framhjá henni áður en Suðurnesjavegurinn kom til.

Ekki er mér kunnug eldri heimild um Kapelluna en sóknarlýsing séra Árna Helgasonar um Garðaprestakall frá 1842. Séra Árni segir svo: „Nálægt í miðju þessu hrauni er upphlaðin grjóthrúga rétt við veginn, sem fólk kallar Kapellu og segir þar séu dysjaðir þeir menn frá Bessastöðum, sem drepnir hafi verið í hefnd eftir Jón biskup Arason 1551, er ólíklegt þykir satt geti verið“.

Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar er stutt frásögn um Kapelluhraun og Kapelluna, og er henni lýst þannig: „Hún er að norðanverðu við veginn, hlaðin upp af hellugrjóti í lögun eins og borg.
KapellaDyrnar hafa snúið móti suðri, en nú eru þær fullar af mold og mosa. Kapellan er og hærri að norðan en sunnan. Sagt er, að í Kapellunni sé grafinn einn af umboðsmönnum þeim, sem áður voru á Bessastöðum. Var honum gert umsátur þarna í hrauninu, drepinn þar og grafinn“. Þessi frásaga mun eiga rætur að rekja til séra Jóns Þórðarsonar á Auðkúlu.
Brynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi segir þannig frá Kapellunni: „Kapellutóftin í Kapelluhrauni, þar sem sagt er, að lík Kristjáns skrifara hafi verið náttsett, stendur enn að mestu. Raunar er hún nokkuð hrunin utan, einkum vesturgaflinn, og eru dyrnar hrundar saman. Innan er tóftin að öðru leyti hér um bil heil. Er hún hlaðin úr smáum, flötum hraunhellum. Hún er nálægt jöfn á lengd og breidd, ekki fullar fjórar álnir. Þakið er dottið ofan í tóftina. Það mun hafa verið hlaðið saman í topp, einnig úr hraunhellum“.
KapellaLoks má geta þess, að Bjarni Sæmundsson hermir þau munnmæli að í Kapellunni hafi verið dysjaður einn af mönnum Kristjáns skrifara. Kallar Bjarni mannvirkið grjótdys.

Hinn 21. maí 1950 var Kapellan rannsökuð, eftir því sem kostur var á. Auk mín unnu að rannsókninni Gísli Gestsson safnvörður, Jóhann Briem listmálari og dr. Jón Jóhannesson. Þegar við hófum rannsóknina, var húslag rústarinnar svo skýrt, að engum gat blandazt hugur um, að þarna hefði staðið hús og ekkert annað. Hið sama kemur berlega fram í lýsingum Brynjúlfs Jónssonar og þjóðsagnanna. Séra Árni Helgason kallar rústina hins vegar „upphlaðna grjóthrúgu“, og bendir það orðalag til þess, að hún hafi litið öðruvísi út á hans dögum, verið líkari hrúgu en hústóft.
KapellaHúslagið hefði eftir þessu átt að koma fram seinna við það, að einhver hefði rifið upp grjót innan úr tóftinni, enda þóttumst við sjá þess ótvíræð merki, að tekið hefði verið mikið grjót við austurgafl, bæði stærri steinar, sem oltið höfðu úr veggjum, og smásteinar úr gólfi, og hafði þessu grjóti verið varpað yfir í vesturendann. Lá þar dyngja mikil, og sá ekki fyrir dyrum eða dyrakömpum að vestan. Einhver hefur þannig grafið niður með austurgafli og alveg niður á gólf eða jafnvel niður úr gólfi, og líklega hefur þetta gerzt um miðja 19. öld, ef marka má orðalagsmun höfundanna, sem til var vitnað hér að framan. Við tíndum það sem eftir var af grjóti út úr tóftinni, og kom þá lögun hennar skýrt fram.

Jóhann Briem

Jóhann Briem.

Kapellutóftin snýr austur-vestur, þó ekki alveg eftir áttavita, heldur veit framstafninn ögn til suðvesturs. Hann er þó kallaður vesturhlið hér og aðrar hliðar eftir því. Tóftin er öll lögulega hlaðin úr hraunsteinum, og halda veggir sér furðu vel, einkum að innan. Lengdin er 2,40 m, breidd við vesturgafl 2,20 m, en við austurgafl 2,10, og má það í rauninni heita sama breidd austast og vestast. Hæð veggja að innan er 1,80 m við austurgafl, 1,20 í norðausturhorni, 1,35 í suðausturhorni, 0,95 í norðvesturhorni og 1,0 í suðvesturhorni.

Gísli Gestsson

Gísli Gestsson, safnvörður. tók fjölmargar myndir, en fáar eru tila f honum sjálfum. Hér er hann við kumlarannsóknir í Þjórsárdal.

Þar sem hægt er að mæla veggþykkt, er hún um 1,0 m. Á vesturgafli eru dyrnar, og eru dyrakampar meira hrundir en aðrir veggir, einkum þó syðri dyrakampur, en þó eru þeir mjög skýrir. Ekki grófum við alveg út úr dyrum, og var það gert í því skyni, að auðveldara væri að koma rústinni í samt lag eftir rannsóknina. Inn úr dyrum hússins voru flatar hraunhellur í gólfi, enda einnig lítils háttar í suðausturhorni, og virðist svo sem allt hafi gólfið verið flórað, en hellur að miklu leyti rifnar upp, þegar gert var rask það, er að framan getur. Á gólfinu sást töluvert af rauðbleikri ösku og viðarkolabútar í, einkum neðst. Miklu meira bar þó á öskunni en kolamolunum. Langmest var af öskunni í suðvesturhorni tóftarinnar. Í öskunni voru naglarnir og leirkerabrotin, sem talin verða hér á eftir, en þó strjálingur þessara hiuta um gólfið allt.

Kappella

Kapellan í Kapelluhrauni endurgerð.

Ekki tel ég auðið úr því að skera nú, hvort hús þetta hefur verið borghlaðið, eins og Brynjúlfur Jónsson telur. Fremur þykir mér það ólíklegt. Hornin eru að vísu bogadregin, en þó verður húsið að kallast greinilega ferhyrnt að lögun. Hins vegar hafa veggir allir verið hiaðnir í fullri hæð úr hraungrýti, einnig gaflar alveg upp úr, a. m. k. austurgafl með vissu og sennilega einnig vesturgafl. Þakið sjálft tel ég líklegt, að hafi verið uppreft og tyrft, þó að hugsanlegt sé, að það hafi að einhverju leyti verið gert af hraunhellum án þess að vera borghlaðið.

Kapella

Kapellan með friðlýsingaskilti framan við.

Eftir rannsóknina var reynt að ganga frá tóftinni sem líkastri því, sem hún var áður. Ég kom aftur að Kapellunni 26. nóv. 1955. Hún hafði farið vel að stöfnum eftir rannsóknina, ekki hrunið, en klæðzt mosa eðlilega. Hins vegar hefur umhverfi hennar stórum verið spillt við stórkostlega töku hraunsalla í vegi og húsgrunna. Hafnarfjarðarbær hefur keypt þennan hluta hraunsins. Á því friðlýsingarskjal Kapellunnar að vera í hans vörzlu, og hafa ráðstafanir verið gerðar til að koma því í rétt horf.
[Lambhagi (181125 167). Kapellutóft (181125 167-1) forn úr grjóti í Kapelluhrauni. Sbr. Árb. 1903: 34. Skjal undirritað af MÞ 25.10.1930. Þinglýst 15.11.1938.]

KapellaÍ Kapellunni reyndust vera fjölskrúðugri mannvistarleifar en búizt var við að órannsökuðu máli. M.a. fannst mynd af heilagri Barböru, telgd úr grágulum leirsteini, aðeins efri hluti eða vel niður fyrir mitti, fannst í þremur hlutum, sem auðvelt var að fella saman. Myndin eða líkneskið er nú aðeins 3,3 sm á hæð, en hefur líklega verið um 5,5 sm heilt. Það er haglega telgt, andlitið nokkuð máð, hár mikið og hrokkið og nær niður á herðar og sveigur um yfir ennið. Barbara er í flegnum kjól, aðskornum í mitti, barmurinn hvelfdur, kjóllinn í miklum fellingum neðan beltis. Hún grípur hægri hendi i kjólinn, og sést, að hann er ermalangur. Skikkju slegna hefur hún yfir um axlir, og fellur hún með stórum, mjúkum fellingum á baki.

Kapella

Endurgerð stytta af heilagri Barböru í kapellunni.

Í vinstri hendi heldur Barbara á einkunn sinni, turninum, og hvílir hann við vinstri öxl og upp með vinstri vanga hennar. Turninn er ferstrendur með undirstöðu neðst, síðan nokkru grennri bol, þar sem tveir gluggar sjást, sinn á hvorri hlið, slær sér síðan aftur út líkt og neðst, en upp úr hefur loks verið toppur, sem nú er að miklu leyti brotinn af. Sýnilegt er, að einhvern tima hefur verið brugðið knífi á líkneskinu, sennilega til að kanna efnivið þess, eins og menn gera oft fyrir forvitni sakir. — Lítið brot úr sams konar eða mjög líkum steini fannst einnig í tóftinni skammt frá Barbörulíkneskinu. Það er tiltelgt og mætti vel vera úr neðri hluta myndarinnar, þótt ekki sé hægt að koma því í samhengi nú.

Kapellan

Kapellan – líklenski heilagrar Barböru endurgert.

Ekki virðist ástæða til að efa, að Barbörulíkneskið sé frá kaþólskum tíma, en ekki treysti ég mér til að tímasetja það nánar. Líkneskið sýnir þá, að húsrúst þessi mun vera síðan fyrir siðaskipti, því að óhugsandi virðist með öllu, að það hafi borizt í rústina á seinni öldum. Þá bendir og líkneskið eindregið til þess, að nafn rústarinnar segi rétt til um upphaflega notkun hússins. Það hefur að líkindum verið kapella, þar sem vegfarendur gátu staðnæmzt til að gera bæn sína.
Húsið hefur verið alveg við gamla veginn og vitað við áttum eins og kirkja. Mætti hugsa sér, að kapellan hafi verið reist þarna um leið og vegurinn var gerður yfir nýja hraunið, sem þvergirti fyrir leið manna suður með sjó. Eflaust hafa þau tíðindi þótt mikil og ill og ekki hættulaust að ryðja veginn og fara hraunið, meðan það var nýrunnið. Gat hætta sú og óhugnaður, sem hrauninu fylgdi, verið ástæða þess, að kapella var reist einmitt þarna. Stoðar þó að vísu lítt að gizka á slíkt, en hitt má vera því nær víst, að hús þetta hafi í raun og veru verið kapella, eins og nafn þess bendir til.

Kapella

Kapellan – misvísandi skilti frá mismunandi aðilum…

Líkneski Barböru er af þeirri tegund smálíkneskja, sem menn báru á sér sem verndargripi. Dýrkun heilagrar Barböru meyjar hefur sjálfsagt verið allmikil hér á landi eins og annars staðar. Þó var hún ekki nafndýrlingur neinnar kirkju hér á landi, en meðal verndardýrlinga tveggja, kirknanna í Reykholti og Haukadal. Barbörulíkneski áttu að minnsta kosti fjórar kirkjur, í Reykholti, Vestmannaeyjum, Holti í Saurbæ (Stórholti) og Möðruvöllum í Eyjafirði.
Myndir af Barböru hafa auk þessa auðvitað verið á mörgum kirkjugripum, svo sem altaristöflum og skrúða, og má nefna sem dæmi þess saumaða mynd á kórkápu Jóns Arasonar, Barbörumyndir á útskornum altaristöflum frá Reykholti og Síðumúla og á sjálfri stóru altaristöflunni í Hólakirkju, en fleira mætti sjálfsagt nefna. Barbörumyndin í Kapellunni er vitanlega ekki full sönnun þess, að rúst þessi hafi í raun og veru verið kapella á kaþólskum tíma. En hún bendir þó til þess, að menn hafi haft þar tilbeiðslu um hönd öðrum stöðum fremur.

kapella

Leirkersbrot, nagla og skeifubrot treysti ég mér ekki til að tímasetja, en ekkert er óeðlilegt að rekast á þetta dót þarna, þó aldrei nema húsið hafi verið kapella í pápísku. Líklega hefur það verið eins konar sæluhús öðrum þræði, menn hafa farið þar inn til að gera bæn sína, en einnig til þess að hvílast eða leita skjóls í vondu veðri, jafnvel til að matast. Þetta kann að hafa verið frá upphafi ellegar ekki fyrr en eftir siðaskipti, því að sennilega hefur húsið staðið a.m.k. fram á 17. öld. Krítarpípuleggurinn sýnir það. Þarna hafa menn verið á ferð eftir að tóbak komst í notkun hér á landi. Og eldur hefur verið gerður á gólfi til þess að orna sér við, sjóða mat eða hvort tveggja. En ekkert af þessu þarf að mæla því í gegn, að húsið hafi upprunalega verið bænahús vegfarenda á óhugnanlegum stað.

Kapella

Kapella á Helgafelli á Snæfellsnesi.

Í ýmsum kristnum löndum eru enn til smákapellur, sem reistar hafa verið við vegi á miðöldum, ætlaðar vegfarendum til bænagerðar. Þá voru og stundum reistir krossar úti á víðavangi í sama skyni. Slíkur hefur verið krossinn, sem lengi stóð við hættuleiðina í Njarðvíkurskriðum, milli Njarðvíka og Borgarfjarðar eystra. Við hann áttu menn að lesa faðirvor. Af slíkum krossum kunna og að vera dregin sum örnefni af krossi eða krossum. Nefna má og í þessu sambandi hústóft litla úr grjóti, sem er uppi á Helgafelli á Snæfellsnesi og kölluð er „kapellan“. Víst mun hún hafa verið bænahús í kaþólskum sið. Hana má bera saman við Kapelluna í Kapelluhrauni, þótt ekki standi hún við veg. Fleiri sambærilegar menjar er mér ekki kunnugt um hér á landi, úr því að rústin í Kapellulág verður að dæmast úr leik, svo sem fram kemur hér að aftan.

Kapellulág hjá Hrauni í Grindavík (fornleifarannsókn 1954)

Kapella

Hraunssandur og nágrenni – herforingjaráðskort 1903.

Austur frá Hrauni í Grindavík og allt til Festarfjalls heitir Hraunssandur, enda er þar mjög blásið og sér lítinn sem engan gróður á heilum flákum. Þó sagði Gísli Hafliðason, gamall bóndi á Hrauni og átti þar heima alla ævi (d. 1956), að allt sé þarna heldur að gróa upp, sandurinn sé að festast, og mun það eflaust rétt athugað.
Um Hraunssand hefur frá fornu fari legið vegur, og var um hann áður fyrri mikil umferð af mönnum austan úr sýslum, lestamönnum haust og vor og vermönnum um vetur.

Kapella

Kapellan á Hraunssandi 2023.

Frumstæður bílvegur liggur nú mjög þar sem gamli vegurinn var áður. Um það bil 1 km fyrir austan bæinn á Hrauni er lægðardrag allmikið í sandinum, hefst í hæðunum hið efra og nær niður að sjó, víkkar niður eftir og virðist myndað af rennandi vatni, þó að nú sé hvergi vatn á þessum slóðum. Lægð þessi heitir Kapellulág. Rétt neðan við bílveginn, sem nú liggur þvert yfir lægðina á sama stað og gamli vegurinn lá fyrrum, er töluvert áberandi þúst eða grjóthrúga, auðþekkt mannaverk í sandauðninni.

Kapella

Kapellan í Kapellulág 2000.

Þessi grjóthrúga er í daglegu tali kölluð Dysin, og hermir Brynjúlfur Jónsson um hana eftirfarandi sögu: „Þá er Tyrkir rændu í Grindavík (1627), flýði drengur einn undan þeim, ríðandi á rauðri meri, og hleypti upp veg. Einn af Tyrkjum elti hann og var svo fljótur á fæti, að hann náði honum í Kapeliulág. Þreif hann þá í tagl merarinnar. En hún sló báðum afturfótum fyrir brjóst honum svo hart, að hann lá dauður eftir. Var hann þar dysjaður, og á rústin að vera dys hans“.
Á sjávarbakkanum um 200 m suðaustur frá dysinni er grasi gróinn hóll, sem heitir Hvalhóll. Menn taka mið af þessum hól, þegar hann ber í dysina frá sjónum séð, og heitir þetta mið Húsið. Í því nafni felst sjálfsagt réttari bending um uppruna þessa mannvirkis en í munnmælasögunni.

Festarfjall

Festarfjall frá sunnanverðum Hvalhól.

Fleira er eftirtektarvert í umhverfi dysjarinnar. Fyrir austan hana er allmikil hæð, og af henni er skammt austur að sjó, þar sem Hraunsvík nær lengst inn undir Festarfjall. Þar er mjög hár sjávarbakki, og grefur sjór hella inn í móbergið. Þar var hellir, sem nú er mjög lítið eftir af, og hét Dúnknhellir. Þannig bar Gísli á Hrauni þetta fram mjög greinilega. Magnús bróðir hans sagði Dúknhellir, en Jón Engilbertsson á Hrauni sagði Dúnkshellir. Á korti herforingjaráðsins stendur Dúknahellir. Þannig skrifar einnig séra Geir Bachmann í sóknarlýsingu Grindavíkur 1840— 41 (Landnám Ingólfs III, bls. 142).

Hraunsvík

Hraunsvík – Dúknahellir.

Á skerjum nokkrum undir Festi segja þeir á Hrauni, að áður hafi verið járnhringar til þess að festa skip, og hafi írar fest þar skip sín. Þessir járnhringar munu ekki sjást lengur, og enginn þeirra á Hrauni hafði sjálfur séð þá, en þeir þóttust þó vita fyrir víst, að þessir hringar hefðu verið þarna. (Sbr. og Jón Þorkelsson, Þjóðsögur og munnmæli, Reykjavík 1899, bls. 1.)
Dysin í Kapellulág var rannsökuð dagana 13. og 14. maí 1954. Auk mín unnu við rannsóknina Gísli Gestsson safnvörður og Jóhann Briem listmálari fyrri daginn, en Gísli og Guðmundur Þorsteinsson frá Lundi seinni daginn). Báða dagana nutum við gestrisni Gísla Hafliðasonar á Hrauni og konu hans. Veður var gott báða dagana, skúrir þó seinni daginn, en vinnufriður sæmilegur.
KapellaBrynjúlfur Jónsson lýsir dysinni svo árið 1903, að hún sé „dálítil grjótrúst, nokkuð grasgróin, svo sem 3 al. í þvermál að ofan, en fláir utan og virðist vera nokkuð hrunin. Naumast er hún yfir 1 al. á hæð“. Þessi lýsing á sæmilega við dysina, eins og hún leit út, áður en við byrjuðum að grafa í hana. Hún var að sjá eins og hver annar blásinn hóli, steinar oltnir út úr á allar hliðar, en nokkuð gróið á milli. Einkum var kollurinn vel gróinn, og vottaði þar ekki fyrir neinni laut eða lægð. Að ógröfnu mátti þó aðeins greina steinaraðir, sem stóðu upp úr þessum gróna kolli og virtust sýna innri brúnir veggja í litlu húsi.
[Hraun (181010 10). Lítil rúst í Kapellulág (181010 10-1), við veginn upp á Siglubergsháls. Sbr. Árb. 1903: 46-47. Skjal undirritað af MÞ 25.10.1930. Þinglýst 15.11.1938.]

kapellaÞegar við vorum búnir að mynda dysina, fórum við að grafa innan úr henni, eftir því sem þessar steinaraðir eða veggbrúnir sögðu til. Mold létum við sér og grashnausa sér til þess að geta komið öllu í sama fallega lagið aftur, þegar rannsókninni væri lokið. Efsta rekustungan eða vel það var eingöngu foksandur moldarblandinn. Í honum voru nokkur stórgripabein og fuglabein nýleg. Á hér um bil 50 sm dýpi varð vart við fyrstu mannvistarleifar, koladrefjar, sem ekki voru tilkomumeiri en það, að þær héngu ekki saman svo að lag myndaðist. Við hreinsuðum upp alla tóftina við þetta lag, gerðum uppdrátt og tókum myndir. Niðri við lagið eða um 45 sm frá yfirborði. Inni undir húsgafli (þ. e. austurgafli), fundum við eina stappaða látúnsþynnu.
KapellaNú skal lýsa húskofa þessum, eins og hann kemur fyrir sjónir uppgrafinn. Það varð þegar í stað ljóst við rannsóknina, að við höfðum fyrir okkur lítið hús eða hústóft, sem var barmafull af mold, sandi og grjóti, innveggir lítið sem ekki hrundir, en útveggir mjög hrundir og steinar úr þeim skriðnir út á alla vegu. Af því skapaðist dysjarútlitið og þá einnig nafnið og loks munnmælasagan um Tyrkjann. Í miðnafninu Húsið hefur hins vegar geymzt minning um, að þetta hafði í upphafi verið hús. Það hefur verið ótrúlega lítið, 2,20 m að lengd og 1,20 m að breidd. Veggirnir eru hlaðnir úr grjóti í 1 m hæð og standa vel að innan, lítið eitt fláandi upp eftir, þ.e. hallast út.

Grindavík

Grindavík – dys við Hraun. Kristján Elján hafði meiri áhuga á þessum manngerða hól, en entist ekki aldur til.

Ekkert bendir til þess, að hús þetta hafi verið kapella, annað en nafnið Kapellulág. Rústin sjálf var ekki kölluð Kapella, heldur Dysin. Miðnafnið Húsið er fremur bending um, að hús þetta hafi ekki verið kapella. Ekki er þarna heldur neinn svo hættulegur staður, að eðlilegt væri að hafa þar bænhús fyrir vegfarendur, enda örstutt að Hrauni, þar sem áður var kirkja. Þrátt fyrir þetta hefðu þó getað verið einhverjar ástæður til þess að þarna væri reist kapella, en heimildir eða staðhættir mæla ekki sérstaklega með því, og fornleifafundurinn mælir því mikið heldur í gegn, þótt hann afsanni það ekki að fullu. Til dæmis snýr húsið í vestur án þess að sjáist, hvernig á því stendur, jafnvel snýr það dálítið skakkt upp á móti brekku, eins og nokkuð hafi þótt við liggja, að það snéri einmitt þannig. En ekki er þetta nógu veigamikið til þess að halda megi fram þess vegna, að húsið hafi verið bænhús.

Hraun

Signingasteinn (skírnarsteinn) við Hraun. „Sigurðarhús“ h.m.

Þegar hinir mörgu smáhlutir komu fram á svo litlum bletti og loks enskur peningur í þokkabót, hvarflaði hugurinn óneitanlega að verzlun Englendinga hér á miðöldum. Eins og kunnugt er, var Grindavík einmitt einn sá staður, þar sem þeir stóðu hvað föstustum fótum. Gat það verið, að þarna væri beinlínis fundin svolítil ensk búðarhola, þar sem einkum hefði verið verzlað með kvenlegan glysvarning? Hugmyndin virtist góð í fyrstu, en ekki get ég þó haldið þessari skýringu til streitu.
Að öllu athuguðu held ég helzt, að hús þetta hafi verið verkstofa málmsmiðs. Því til sönnunar tel ég fyrst og fremst það, að sumir smáhlutirnir virðast greinilega ekki fullgerðir. Afklippur úr látúni og tini benda og í sömu átt. Skylt er þó að vekja athygli á, að ekki fundust nein merki um, að bræddur hefði verið málmur á þessum stað, hvorki málmdropar né gjall, deiglubrot eða þess háttar. En ekki afsannar það, að þarna hafi hafzt við maður, sem hafði að atvinnu að smíða hluti þá ýmsa, sem þarna fundust.

Kapella

Kapellan á Hraunssandi í dag (2024).

Einkennilegast er staðarvalið. Að vísu er ekki ljóst, hvernig umhverfi hússins hefur verið á miðöldum, þó að trúlegt sé, að þá þegar hafi það verið mjög blásið, og hefði það þó ekki þurft að gera smiðnum neitt til. Hitt er torskýrðara, hversu einangrað þetta hús er og snautt að öllum mannvistarleifum öðrum.“

Heimild:
-Árbók Hins íslenzka fornleifafélags – 01.01.1955, Kapelluhraun og Kapellulág; fornleifarannsókn 1950 og 1954, Kristján Eldjárn, bls. 5-34.

Kapella

Kapellan á Hraunssandi.

Sogaselsgígur

Bæirnir Kálfatjörn og Þórustaðir höfðu áður í seli á Fornaselshæð, vestan Rauðhóls norðan Keilis og síðan vestur undir Oddafelli, en fengu síðan mun betri selsstöðu í Sogaseli í skiptum við Krýsuvík fyrir uppsátur á Ströndinni.

Sogasel

Sogasel – tóftir einnar stöðunnar.

Enn má sjá leifar selstöðvanna, ekki síst í Sogagíg. Elsta selstöðin, frá Krýsuvík, er reyndar utan við gíginn, neðarlega í Sogadal. Tóftarhóllinn sést vel og enn má, ef vel er að gáð, greina þar rými.

Í Sogagígnum eru leifar þriggja selstöðva. Sú elsta er í miðjum gígnum. Þar má enn greina rými, en þær, sem eru austar og norðar undir gígveggjunum eru augljósar. Þar eru rýmin augljós, s.s. eldhús, baðstofa og búr. Rétt er í gígnum sem og stekkir og kvíar. Gerði norðan nyrstu selstöðunnar hefur nú orðið fyrir áhrifum nýlegrar jarðskjálftarhrinu.

Soagsel

Sogasel í Sogaselsgíg.

Þegar farið er til suðurs frá Höskuldavöllum upp Sogaselsdal eða Sogadal, er þar stór og víður gýgur á vinstri hönd. Hann heitir Sogaselsgígur eða Sogagígur. Op hans snýr til suðurs, að Sogalæk, sem rennur niður dalinn og áfram niður á Höskuldarvellina, allt niður í Sóleyjarkrika. Lækurinn hefur í gegnum tíðina myndað gróðið undirlendi vallanna. Gígurinn, gróinn, er girtur skeifulaga hamrabelti og myndar því ágætt aðhald fyrir skepnur. Þarna var Sogasel frá Kálfatjarnarhverfi og enn fyrrum Krýsuvík um tíma, sem fyrr sagði.

Sogasel

Sogasel.

Í samantekt Orra Vésteinssonar um menningarminjar í Grindavíkurkaupstað frá árin 2001 segir m.a. að “Sogaselsdalur sé grasigróinn gýgur vestast í Sogunum og þar var sel frá Flekkuvík”, segir í örnefnaskrá fyrir Vesturháls. Guðrún Gísladóttir getur Sogasels í skýrslu frá 1993 og birtir af því uppdrátt: “Seljarústirnar eru þrjár. Sú austasta er í bestu ásigkomulagi. Þarna var haft í seli um 1703 frá Kálfatjörn í Vatnsleysustrandarhreppi, en síðar einnig frá Bakka”.

Sogasel

Í Sogaseli.

Gígurinn er mjög skjólgóður og þar hefur verið góð selsstaða. Frá honum liggur selsstígur niður og norður yfir vellina og áfram á milli nyrstu hluta Oddafellsins þar sem farið hefur verið framhjá Oddafellsseli, yfir hraunið á Oddafellsselsstíg og áfram norður Þórustaðastíg heim að bæjum.

Sogasel er skjólsæl selstaða í grónum gíg. Utan hans eru einnig góðir gróningar, auk Sogalækjarins, sem hefur verið grundvöllur selstöðunnar. Skiljanlegt er að Krýsuvíkurbændur hafi gefið hana eftir fyrir útræði á Vatnsleysuströnd, enda selsstígurinn þaðan æði langur. Sogasels er getið í Örnefnalýsingu Ara Gíslasonar fyrir Krýsuvík: „Vestast í Sogunum er sel, sem heitir Sogasel“. Í Örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Krýsuvík er hins vegar ekki minnst á selstöðuna, einungis á örnefnið „Sogaselshrygg“. Í örnefnalýsingu fyrir Kálfatjörn má finna örnefndið „Krýsuvíkurvör“ skammt austan Kálfatjarnarvararinnar.

Sogasel

Sogasel – uppdráttur ÓSÁ.

Þórkötlustaðir

Eftirfarandi frásögn um „Grindavík“ birtist í Alþýðublaðiðinu 22. mars árið 1964:
„Sunnan á Grindavik-502Reykjanesskaganum er Nestota, tvínefnd, heitir Hópsnes vestan megin og Þórkötlunes austan megin. Grindavíkin er slitin sundur af þessu nesi. Á því sjálfu er engin byggð, hins vegar eru hverfin beggja vegna við og sést ekki á milli. Í krikanum austan nessins er Þórkötlustaðahverfi, sem nú hefur séð sitt fegursta, en byggð er þar óðum að leggjast af. Vestan megin þar sem heitir Hópsnes er aðalbyggðin og nefnist Járngerðarstaðahverfi. Lengra vesturfrá er enn vogur í víkina, þar sem heitir á Stað. Þar var áður fyrr eitt hverfið enn og nefnist það Staðarhverfi. Útræði var frá öllum hverfunum, en hefur aðeins haldizt frá Járngerðarstaða-hverfinu þar sem hafnarskilyrði eru illskást.
Þegar maður kemur í gegnum skarðið [Selháls], sem er á milli Þorbjarnarfells og Hagafells, er sú hugsun einhvernvegin fjarri, að blómskilja legt þorp með peningareyk og véla skellum blasi allt í einu við augum. Úfið apalhraunið hefur heltekið svo skilningarvitin, að maður er blátt áfram hættur að trúa á tilvist heiðarlegs gróðurs og hvítra snoturra einbýlishúsa. Grindavíkin er því bæði óvænt og skemmtileg tilbreyting fyrir augað.

Grindavik-503

Landnáma segir að synir Molda-Gnúps hafi numið land í Grindavík. Reyndar er helzt á henni að skilja að karlinn hafi verið með þeim og hafi þeir feðgar hrakizt í Kúvík alla þessa leið austan úr Álftaveri efiir að hraun eyddi fyrir þeim byggð og þeir lentu í slagsmálum og manndrápum austur í sýslum. Þarna hafa þeir svo að líkindum setzt á friðarstól, enda komnir úr kallfæri við náungann og bergþursar urðu ekki vopnbitnir. Hins vegar er sagt að Björn Molda-Gnúpsson hafi samið við þurs einn um kynbætur á geitafé sínu og orðið ríkur af. Grindavík er þannig vagga búfjárkynbóta á Íslandi. Mönnum þykir einsætt að víkin dragi nafn af hvalfiski þeim, sem Færeyingar kalla grind en Íslendingar uppnefnt og kallað marsvín.

Grindavik-504

Eins og allir vita fer grindin í stórum vöðum og á það til að ana á land og fjára þar uppi. Líka er hægt að reka vöðurnar eins og fjárhóp inn á víkur og loka fyrir þeim undankomuleiðinni. Undan Grindavík eru góð síldarmið og loðnugöngur stórar á vertíð. Trúlegt er að hvalurinn hafi sótt í hnossgætið og ýmist álpazt á land í víkinni, eða verið rekinn. Gaman væri að geta sér þess til, að Molda-Gnúpssynir hafi búið við, konuríki, eins og margir þeir, sem miklir eru fyrir sér útífrá. Þeir hafi þessvegna kallað bæi sína eftir eiginkonunum, Járngerði og Þórkötlu og viljað með því blíðka skap þeirra, enda er hljómur nafnanna ekki beinlínis blíðlegur.
Grindavik-505
Útræði hefur verið í Grindavík frá ómunatíð. Opin skip reru frá öllum hverfunum, líklega flest frá Þórkötlustöðum, því þar var þraut að lenda ef brimaði, en segja má að sjór deyi aldrei við ströndina enda er næsta fastaland í hásuðri sjálft Suðurheimskautið. Það hefur því verið harðsótt úr Grindavík og ef allt lokaðist þar af brimi er líka hætt við að Eyrarbakki, Stokkseyri og Þorlákshöfn hafi verið ófær, og allir vita hvernig innsiglingin til Vestmannaeyja er í stórviðrum. Þannig urðu formenn að horfast í augu við þann möguleika í hvert sinn sem þeir fóru í róður, að ná aldrei landi. En til mikils var að vinna, því undan lélegustu höfnum landsins eru einmitt beztu fiskimiðin á Selvogsbanka, í Grindavíkursjó og í kringum Vestmannaeyjar. Þessar aðstæður hljóta a
ð hafa skapað æðrulausa manngerð og bænheita. Enn eimir eftir af þessu hjá sjómönnum í aðalverstöðvum landsins, þeir eru flestir forlagatrúar. Og mannfólkið skrimti aldirnar af á skreið og þorskhausum, sem þessir menn sóttu út í tvísýnuna.
Grindavik-506Enn er sóttur sjór frá Grindavík og nú eingöngu frá Járngerðarstaða-hverfinu. Þar heftur verið gerð höfn með því að grafa rennu inn í Hópið, sem vesturhlið nessins ber nafn af. Inni í þyí hafa svo verið gerðar bryggjur, þ.e.a.s. einn megingarður og tvær bryggjur út úr honum. Þrengsli eru óskapleg við þennan eina garð. Bátarnir liggja í margfaldri tröð í innri krikanum, því þeim ytri er venjulega haldið fyrir landanir, nema þegar landlega er. Nú róa 50 bátar, stórir og smáir frá Grindavík og þangað sækir mikill fjöldi aðkomubáta til að landa á bíla, sem síðan aka með fiskinn til Keflavíkur eða Reykjavíkur. Sundið úti á víkinni er hreint af skerjum, en bátarnir verða að þræða álinn að rennunni í Hópið. Þreföld innsiglingarmerki auðvelda landtökuna.
Auðskilið er að helzta áhugamál Grindvíkinga sé bætt hafnaraðstaða. 

Grindavik-507

Bátarnir verða stærri og rúmfrekari, þeim, fjölgar og ásókn aðkomubáta til umlöndunar er mikil, einkum þegar mikið fæst af góðum fiski í hringnót eins og nú á sér stað. Þá munar miklu fyrir bátana að koma fiskinum af sér sem næst miðunum og þó á þeim stað sem vel liggur við flutningum til vinnsluhúsanna við Faxa flóa. Þessi ásókn hefur einkum bitnað á Þorlákshöfn og Grindavík nú í vetur.
Og máli málanna er sinnt í Grindavík. Þegar hefur verið hafinn undirbúningur að uppfyllingu út í Hópið. Markað hefur verið fyrir henni með garði, sem er landfastur í báða enda og er aðeins eftir að fylla upp í lónið, sem innan hans er. Því næst er ætlunin að dýpka Hópið, sem mun vera auðvelt vegna hagstæðs botnlags og svo stálþil rekið niður með uppfyllingunni og mikið viðlegu pláss myndast. Leikmanni virðist í fljótu bragði, að hafnarbætur í Grindavík séu tiltölulega auðveldar ef miðað er við það sem ráðizt hefur verið í sums staðar annars staðar. Grindvíkingar vona að þessu verki verði haldið áfram í sumar og lokið við það fyrir næstu vetrarvertíð.
Upp af bryggjunni stendur Hraðfrystihús Grindavíkur, beitingaskúrar og hjálla
r alls konar. Einnig fiskimjölsverksmiðja, aðgerðarhús og salthús. Vinna er mikil, enda er landað 350-600 tonnum af fiski á sólarhring. en íbúar þorpsins ekki nema 840. Þeim fer að vísu fjölgandi, en fjölgunin takmarkast af húsasmíðum því húsnæðisskortur er óskaplegur eins og í öllum uppgangsplássum. Mikill fjöldi Skagstrendinga hefur sótt til Grindavíkur hin seinni ár, ýmist til vertíðarstarfa, eða fastrar búsetu. Kunnugir segja að svipmót sé með þessum tveim stöðum, þótt þeir séu sitt í hvorum landsfjórðungi.
Grindavik-508Áður fyrr var lendingin vestan við Hópið og enn stendur þar niðri á bakkanum þyrping gamalla húsa, m. a. verzlunarhús frá danskri tíð. Á sjávarbakkanum standa nú uppi nótabátar, en mikill földi af þeim liggur í vanhirðu í flestum eða öllum útgerðarplássum landsins. Stokkaðar lóðir hanga til þerris utan á bátunum. Raunar hanga þær hvar sem hægt er að tylla þeim upp, því línuvertíð er nýlokið, en þar er sérkennilegt að sjá gamla nótabáta tjaldaða með snyrtilega stokkuðum lóðum. Niður af kambinum er gamla lendingin eins og fyrr segir. Talið er, að oþin áraskip hafi gengið frá Grindavík allt til ársins 1930. Varirnar eru tvær og heita Norðurvör og Suðurvör. Seinustu árin var komin þar steinsteypt renna með föstum hlunnum, til að draga bátana á upp á kamb. Áður en lent var, hafði fiskurinn verið dreginn upp á band og áður en báturinn kenndi grunns, urðu mennirnir að stökkva útbyrðis og halda honum fríum meðan fiskböndunum var kastað upp, eða þau borin á bakinu upp á kambinn. Þegar svo búið var að létta bálinn var hann settur með aðstoð handvindu í landi.

Grindavik-509

Allt til stríðsáranna var líka lending í Þórkötlustaða-hverfinu. Hún var svipuð hinni, sem að framan er lýst, nema hafði það fram yfir að bryggjustúfur hafði vorið gerður samhliða vörinni. Uppi á Kambinum má enn sjá handvinduna, sem notuð var við setningu bátanna og einnig er þar ryðguð vinda, sem knúin var af mótor. Hún kom ekki til sögunnar fyrr en allra síðustu árin. Þórkötlustaðalendingin er alllangt utan við aðalþorpið og ofan við hana hafa verið nokkur hús. Þau hafa nú ýmist verið brotin niður eða færð í burtu. Það eina sem minnir á forna frægð Þórkötlustaða-hverfisins eru gapandi tóttir, steinsteypt vörin og bryggju stúfurinn. Reyndar er enn starfrækt frystihús í hverfinu, en allan fisk til þess verður að flytja að vestan úr Járngerðarstaða-hverfinu. Það er mikið byggt í Grindavík. Hraunið er smám saman að láta undan mannanna verkum. Jarðýturnar slétta úfnasta yfirborðið og brunagjallið er hið ákjósanlegasta undirlag.

Grindavik-510

Barnaskólinn var byggður árið 1947 og er nú orðinn of lítill. Eins og hægt er að skilja á framansögðu byggja Grindvíkingar allt sitt á sjónum og fiskinum, sem í honum er. Að vísu er þar enn nokkur sauðfjárbúskapur, sem stundaður er í hjáverkum, en geit fé það, sem Björn landnámsmaður kom sér upp og kynbætti með aðstoð trölla mun nú útdautt. Iðnaður er enginn, nema þær löggiltu iðngreinar, sem nauðsynlegar eru til útgerðarrekstursins og þjónustu við Grindavik-512almenning.
Undir kvöldið löbbum við niður að höfninni í fylgd með Svavari Árnasyni oddvita. Hann hefur verið hjálplegur með upplýsingar og sýnt okkur það markverðasta í þorpinu.
Allir eru að vinna. Eina fólkið sem er á ferli utan vinnustaða, eru húsmæður hlaðnar matvöru, og börn. Bátarnir eru farnir að koma að og við förum um borð í Hrafn Sveinbjarnarson III. nýjasta og fullkomnasta bát þeirra Grindvíkinga. Hann hefur fengið um 10 tonn í netin og löndun er í fuílum gangi. Björgvin Gunnarsson skipstjóri er á stjórnpalli og lítur eftir verkinu. Hann er ungur maður að sjá, en hann er líka a
flakóngurinn á vetrarsíldveiðunum hér við suðvesturlandið. Varð hæstur með rúmar 30.000 tunnur. Björgvin segir að auðvitað langi sig á þorskanótina í uppgripin, en útgerðin á bara enga slíka nót. Hann er mjög ánægður með bátinn enda er þetta stórglæsileg fleyta eins og allir nýju bátarnir. Það þarf ekki annað en að líta út úr höfninni, til að sjá bátana, þar sem þeiar eru að draga netin. Miðin eru uppi í landssteinum. Austur með landinu, inni á svolítilli vík má telja 10 hringnótabáta að veiðum. Þeir eru mjög grunnt. Það kom líka á daginn að einmitt þetta kvöld og nóttina eftir var óhemju magni af fiski landað í Grindavík.

Þegar við förum er háflæði og sjórinn í Hópinu spegilsléttur. Þorbjarnarfell vakir yfir borpinu og til austurs blasa við fjöllin sunnan í Sveifluhálsi. Festarfjall er næst, þverskorin hamraveggur ofan frá og niður i sjó. Vegurinn til Krýsuvíkur liggur yfir þetta fjall og ofan af hálsinum er hægt að sjá út allt Reykjanes og alla leið til Eldeyjar þegar skyggni er gott. Mann langar ósjálfrátt til að koma til Grindavíkur og skoða meira.“
Grindavik-514Árið 1975 skrifaði Jón Jónsson, jarðfræðingur, um hraunin ofan Grindavíkur, einkum Sundhnúkahraunin er urðu til á nánast sömu sprungureininni með u.þ.b. 3000 ára tímabili:
„Hraun við Grindavík – Norðaustur af Grindavík hefur gosið á sprungu og hefur hraun þaðan flætt í sjó fram og myndað Þórkötlustaðanes. Hluti af hrauni því hefur runnið út á gróna gjallhóla vestan undir Svartsengisfelli.
Hraun eru allt umhverfis Grindavík, þorpið stendur á hrauni og á beinlínis hrauni tilveru sína að þakka, eins og hér mun verða sýnt fram á. Sundhnúkahraun og Sundhnúkur.
Hluti af hrauninu ofan við Grindavík, milli Járngerðarstaðahverfis og Þorbjarnarfells, ber nafnið Klifhólahraun. Frá Melhól er verulegur hluti hrauns þess, er Klifhólahraun er nefnt, án efa komið, því að hólarnir eru endinn á langri gígaröð.
Gígaröð sú, sem Sundhnúkahraun er komið úr, byrjar suðvestan undir Hagafelli. Þar eru nokkrir gígir í röð, og er, eða öllu heldur var, einn þeirra mestur, því að nú hefur hann verið um langan tíma notaður sem náma fyrir rauðamöl, og er því farinn að láta á sjá. Þaðan liggur svo röð af smágígum upp suðvesturhlíðina á Hagafelli og eru þar snotrar hrauntraðir, sem sýna, að þarna hefur verið hraunfoss. Úr ofangreindum gígum er meginhluti þess hrauns kominn, sem á kortinu ber nafnið Klifhólahraun.
Grindavik-515Gígaröðin er svo lítt áberandi á kafla norðan undir Gálgaklettum, en þeir eru misgengi, sem stefnir eins og gígaröðin frá suðvestri til norðausturs. Hún er þar á kafla tvískipt og stefna hennar lítið eitt óregluleg, gígirnir smáir og hraunhellan, sem myndazt hefur kringum þá á sléttunni norðan við Gálgakletta, vafalaust þunn. Frá þessum gígum hefur hraun runnið í þrjár áttir, til austurs norðan við Gálgakletta, til suðvesturs
eins og áður er nefnt og loks til norðvesturs og norðurs. Örmjór hraunfoss hefur fallið niður á Selháls, þar sem vegurinn liggur nú, en numið þar staðar. Hefur hraunið runnið þar út á jarðhitasvæði, sem virkt hefur verið, þegar hraunið rann og væntanlega nokkru eftir það. Verður vikið að því síðar.

Allbreiður hraunfoss hefur svo fallið norður af fellinu og runnið út á forna gjallgígi, sem þar eru fyrir. Er vegurinn skorinn gegn um nyrzta hluta Grindavik-516þessarar hrauntungu. Verður nánar greint frá þessu svæði síðar.
Nokkurn spöl norðaustur af Hagafelli verður gígaröðin öllu fyrirferðarmeiri. Rísa þar háir gígir og nefnist Sundhnúkur sá þeirra, er hæst ber. Frá þessari gígaþyrpingu hefur meginhraunflóð það, er til suðurs rann, komið. Það hefur fallið eftir dalnum, sem verður milli Vatnsheiðar, sem er dyngja, og Hagafells. Það hefur fyllt dalinn hlíða milli og fallið beint í sjó fram og myndar þar um 2 km langan og rúmlega 1 km breiðan tanga, Þórkötlustaðanes, en vestan undir honum er vík sú, er Grindavík heitir og hefur frá fyrstu tíð verið ein mesta verstöð þessa lands. Tilveru sína á víkin hrauninu að þakka, því að án þess væru þar engin hafnarskilyrði. Svo vikið sé að nafninu Sundhnúkur, hefur Ísleifur Jónsson, verkfræðingur, bent mér á, að nafnið muni vera komið af því, að hnúkurinn hafi verið notaður sem leiðarmerki fyrir siglingu inn sundið inn á höfnina í Grindavík. Nokkru norðan við Sundhnúk verður skarð í gígaröðina á ný, en norðar tekur hún sig upp aftur og heldur eftir það beinu striki að heita má austur að Stóra Skógfelli. Þessi kafli gígaraðarinnar er annar sá mesti hvað hraunrennsli snertir. Er ljóst, að hraunrennsli hefur að mestu verið bundið við ákveðna kafla gígaraðarinnar, og hefur hún því naumast verið virk öll nema rétt í byrjun gossins og sennilega um mjög stuttan tíma. Virðist þetta eiga almennt við um sprungugos (Jónsson 1970).
Frá þessum kafla gígaraðarinnar — kannski væri réttara að kalla það gígaraðir — hafa hraunstraumar fallið til norðurs og austurs, auk þess sem þaðan hafa hraun runnið niður í áðurnefndan dal milli Hagafells og Vatnsheiðar saman við hraunin úr Sundhnúkagígunum.
Mikill hraunstraumur hefur fallið til norðurs frá þessum Grindavik-517gígum, runnið vestur með Svartsengisfelli að norðan, og þekur allstórt svæði vestur af því, langleiðina norður að Eldvörpum. Þar hverfur það undir Illahraun, sem því er yngra. Hraunin úr Eldvörpum, Illahraun og hraun úr stórum nafnlausum gíg suðvestur af Þórðarfelli eru samtímamyndun, en ekki verða hér raktar sannanir fyrir því. Þessi hraunstraumur hefur fyllt skarðið milli Svartsengisfells og Stóra Skógfells. Virðist hraunið þar mjög þykkt, annan. Geta má þess, að þrjár gossprungur eru í Stóra Skógfelli og stefna allar eins. Sjálft fellið er úr bólstrabergi. Til suðurs og suðausturs hefur hraunið náð lengst í mjóum tanga, sem liggur meðfram Vatnsheiðar-dyngjunni að austan. Mikill hraunfláki er milli ofangreindrar gígaraðar, Vatnsheiðar og Fagradalsfjalls. Ganga þau hraun undir nafninu Dalahraun (Bárðarson 1929), en aðeins lítill hluti þeirra er kominn úr því gosi, sem hér um ræðir. Það er hins vegar ljóst, að áður hefur gosið á sprungu, sem er lítið eitt til hliðar við Sundhnúka-sprunguna. Sumt af þessum hraunum á rætur að rekja t
il hennar, nokkuð til Vatnsheiðardyngjunnar og enn nokkur hluti til fornra eldstöðva norðaustan undir Hrafnshlíð. Loks má vel vera, að fleiri eldstöðvar séu faldar undir þessum hraunum. Það er greinilegt, að þarna hafa mörg gos átt sér stað frá því að ísöld lauk.

Grindavik-518

Yngsta hraunið á þessu svæði er það, sem komið er úr Sundhnúkagígnum, en það þekur ekki stórt svæði þarna austan til og hefur víðast hvar ekki runnið langt til suðurs frá eldvörpunum. Það er því mun minna, en virðast kann við fyrstu sýn.

Við suðurhornið á Stóra Skógfelli er gígaröðin lítið eitt hliðruð til suðausturs og stefnan breytist um hér um bil 7° til suðurs. Hraunið hefur runnið báðum megin við Stóra Skógfell, en nær þó ekki saman norðan þess. Milli Stóra Skógfells og Litla Skógfells eru mörk hraunsins sums staðar óljós, enda koma þar fyrir eldri hraun og eldstöðvar auk þeirra, sem eru í Stóra Skógfelli sjálíu og áður er getið. Suðurbrún hraunsins er víða óljós, enda svo skammt frá eldvörpunum, að hraunið hefur verið mjög heitt og því náð að renna í mjög þunnum straumum. Nú er það gróið mosa og mörk þess víða hulin. Að þessu leyti verður kort af hraunröndinni ekki hárnákvæmt.
Grindavik-519Fremur lítið hraun hefur runnið lir gígaröðinni eftir að kemur austur fyrir Stóra Skógfell. Gígirnir eru litlir, mest í þráðbeinni röð, sem heita má að sé óslitin úr því. Smáhraunspýja hefur runnið norður eftir vestanhallt við Litla Skógfell, en ekki náð alla leið norður á móts við það. Gígaröðin endar svo í smágígum, sem liggja upp í brekkurnar, suðaustur af Litla Skógfelli, en þær brekkur eru raunar hluti af dyngjunni miklu, sem er við norðausturhornið á Fagradalsfjalli. í heild er gígaröðin um 8,5 km á lengd.

Grindavik-520

Nokkru norðan við austurenda gíganna er Kálffell. Það eru gígahrúgöld, ekki sérlega stór, og hefur hraun frá þeim runnið norðvestur og norður. Þessi eldvörp eru eldri en Sundhnúkahraun. Guðmundur G. Bárðarson (1929) er fyrstur til að nefna þessa eldstöð. Eldri gígaröð. Engum efa er það bundið, að áður hefur gosið svo til á sömu sprungu. Gígir eru suðvestan í Hagafelli aðeins austan við Sundhnúkagígina, og stefnir sú gígaröð alveg eins og þeir.
Grindavik-522Suðaustur af Stóra Skógfelli sér á stóran gjallgíg, sem opinn hefur verið til suðausturs. Hann er lítið eitt austan við Sundhnúkagígina og einmitt þar, sem sú gígaröð hreytir nokkuð um stefnu. Um 1,5 km austar er svo annar stór ösku- og gjallgígur og er gígaröðin fast við hann að norðan. Gígur þessi er líka eldri. Báðir eru þeir að nokkru leyti færðir í kaf í yngri hraun. Hraunflákinn vestur af Fagradalsfjalli virðist að mestu leyti vera kominn úr þessari eldri gígaröð, en þó eru þar fleiri eldstöðvar. Hraunin á þessu svæði ganga undir nafninu Dalahraun. Hraun frá Vatnsheiðardyngjunni hafa og náð alllangt þarna austur, því að þau koma fram í bollum í yngri hraununum, þar sem þau hafa ekki náð að renna yfir. Eftir þessu að dæma eru bæði gosin á Sundhnúkasprungunum yngri en dyngjugosin, sem skópu Vatnsheiði og Fagradalsdyngju. Loks endar þessi eldri gígaröð í litlum gjall- og klepragígum utan í vesturhlíð Fagradalsdyngju nokkur hundruð metrum sunnar en austustu gígirnir í Sundhnúkaröndinni, sem áður er getið.

Grindavik-523

Hvenær rann hraunið?
Þess er getið hér að framan, að hraunfoss frá gígnum vestan við Gálgakletta hafi fallið vestur, eða réttara norðvestur af Hagafelli. Blasir þessi hraunfoss við, þegar komið er suð
ur yfir hraunið við vesturhornið á Svartsengisfelli. Þessi hraunspýja hefur runnið út á forna gjallhóla vestan undir fellinu. Þar er það mjög þunnt, og hefur það verið skorið sundur við rauðmalarnám og vegagerð. Kemur þá í ljós, að hólar þessir hafa verið grónir, þegar hraunið rann. 

Grindavik-524Leifar þess gróðurs má nú finna sem viðarkol undir hrauninu. Mest eru það smágreinar og stofnar, líklega af víði, lyngi og ef til vill fjalldrapa og birki. Jarðvegslagið hefur verið örþunnt, líkt og það er víða á gjallhólum ennþá. Viðarbútarnir eru sjaldan meira en 2—3 mm í þvermál. Þessar jurtaleifar hafa nú verið aldursákvarðaðar með C14-aðferð. Hefur dr. Ingrid U. Olsson á Rannsóknarstofnun Uppsalaháskóla gert það. Samkvæmt niðurstöðum af þeirri rannsókn eru jurtaleifarnar 2420 ± 100 C14 ára gamlar, talið frá árinu 1950, og hraunið hefur því runnið tæpum 500 árum fyrir upphaf okkar tímatals.

Bergsprungur.
Í hraunum kringum Grindavík er mikið um sprungur og gjár, en einkum eru þær áberandi í hinum eldri hraunum og í móbergsfjöllunum. Er Þorbjarnarfell ljósasta dæmið um það. Í Sundhnúkahraununum ber lítið á sprungum yfirleitt og bendir það til, að fremur hægfara breytingar séu þar eða þá, og það virðist fullt eins líklegt, að þær séu bundnar ákveðnum tímabilum. Má telja sennilegt, að hreyfingar þessar eigi sér aðallega stað samfara jarðskjálftum. Má í því sambandi minna á jarðskjálftana á Reykjanesi 30. september 1967.
Vestur af Svartsengisfelli má, ef vel er að gætt, sjá fyrir sprungum í þessu tiltölulega unga hrauni. Þær eru í beinu framhaldi af sprungum, er ganga í gegnum Þorbjarnarfell. Rétt við eina þeirra er jarðhitastaður sá, sem jafnan er kenndur við Svartsengi.

Ummyndun og jarðhiti.
Eins og áður var getið um, er jarðhiti í hrauninu vestur af Svartsengisfelli. Þar hefur mælzt yfir 60° hiti. Engum efa er bundið, að allstór hver hlýtur að vera þarna undir hrauninu, því líklegt má telja, að vart séu minna en 20—30 m niður á grunnvatnsborð á þessum stað. Við hagstæð veðurskilyrði, logn og nálægt 0°C má sjá gufur leggja upp úr hraununum víðs vegar á þessu svæði. Eru þær í áberandi beinum línum, sem sýnir, að þær eru bundnar við sprungur í berggrunni þeim, sem Sundhnúkahraun og önnur hraun hafa runnið yfir.

Grindavik-525

Rétt austan við veginn norðan í Selhálsi hefur hraunið runnið út á svæði, sem er mjög ummyndað af jarðhita. Það er athyglisvert, að hraunið sjálft er þarna líka nokkuð ummyndað, en það sýnir, að þarna hefur verið virkur jarðhiti, eftir að hraunið rann, þ. e. fyrir eitthvað skemur en um það bil 2400 árum.
Ummyndun eftir jarðhita er þarna víða í kring, bæði í Þorbjarnarfelli og Svartsengisfelli. Sömuleiðis er mi
kil jarðhitaummyndun í austustu gígunum í Eldvörpum við hina fornu slóð milli Njarðvíkur og Grindavíkur. Boranir þær, sem gerðar voru á þessum stað 1971, hafa staðfest, að þarna er um háhitasvæði að ræða. 

Grindavik-526Ef marka má af ummyndun, og eins því á hve stóru svæði vart verður við gufur í hraununum við hagstæð skilyrði, þá er svæðið ekki lítið. Eftir er nú að kanna takmörk þess.“
Í Náttúrufræðingnum 1973 skrifar Jón Jónsson um sama efni:
„Gígaröðin í Sundhnúkum gaus fyrir 2400 árum, en þá varð Þórkötlustaðanes til og Grindavík skapaðist. Gígaröð þessi er um 8 km löng og á þeirri sprungugrein hefur áður gosið.
Sé gengið norðan fellsins, er vert að veita því athygli hvað gróður breytist þegar kemur austur fyrir gilið, sem er upp af samkomustaðnum gamla. Vestan gilsins er fellið gróið upp eftir hlíðinni og þar grænkar fyrr á vorin. Þetta stafar af jarðhita og gilið er tengt sprungu og ummyndun af jarðhita er þar mikil. Á háfellinu er myndarlegur gígur og frá honum hafa hraun runnið og þekja fjallið.
Grindavik-527Austan við Sundhnúkahraunið tekur Vatnsheiði við. Það er hraunskjöldur (dyngja) eða hraun skildir öllu heldur, því gosopin eru fleiri en eitt. Nyrsti skjöldurinn er þó þeirra mestur en hraunið er pikrít, mjög ólívínauðugt berg, sem sums staðar er nærri grænt af ólívínkristöllum, en þeir eru mjög dreifðir um bergið. Vatnsheiði er eldri en sprunguhraunin í kring og hverfur því hraunið úr dyngjunum undir þau. Dyngjuhraunin hafa verið þunnfljótandi, heit og talið er að þau komi djúpt úr jörðu, jafnvel neðan úr möttli.
Fagradalsfjall er stapi og gígurinn er á norðurhorni þess og er all myndarlegur. Hraunborð er svo ofan á fjallinu og hallar borðinu til suðurs. Er talið líklegt að jökull hafi haldið að á báðar hliðar þegar komið var á lokastig gossins og þannig markað hrauninu rás svo úr verði þríhyrningur. Syðst á fjallinu eru yngri (nútíma) gígar og hraun í og við lítinn sigdal (snoturt umhverfi, góður hvíldarstaður). Slaga.
Grindavik-528S
unnanfrá séð er Slaga mest áhugaverð. Neðst ofan við skriðurnar koma fram gráir stuðlabergshamrar (grágrýti). Að ofan eru þeir rispaðir af jökli (sést ekki nema upp sé klifrað, varúð, grjóthrun getur átt sér stað). Ofan á þessu kemur svört brotabergskennd gosmyndun, sem þó er yngri en jökull sá er heflaði grágrýtið. Aðrennslisæð þessarar gosmyndunar má sjá norðaustan til í brúninni, ljósgrá brík, gangur, skerst þar upp í brún og fleiri gangar, þunnir, eru þarna. Á síðjökultíma hefur sjór fallið upp að fjallinu. Hraun hafa þarna og nokkuð austar eftir skapað væna sneið af nýju landi.“
Margar frásagnir eru til um slysfarir utan við Hópsnes og Þórkötlustaðanes. Hér á eftir er t.d. sagt frá því er þilskipið Hákon strandaði:

Grindavik-530Þilskipið „Hákon“ strandar í Grindavík –  Menn komust af.
Þann 10. þessa mán. var fiskiskipið Hákon“ hjeðan úr Rvík á leið heim af veiðum sunnan fyrir land. Um nóttina gerði, eins og kunnugt er, grenjandi norðanbyl, mestu stórhríðina, sem hjer hefir komið sunnanlands um mörg ár.
Á sunnudagsmorguninn um kl. 9, kendi „Hákon“ grunns. Var svartabylir, og vissu skipverjar ekki fyr en þeir voru strandaðir skamt frá Hrauni, insta bæ í Grindavfk, rjett fyrir austan Þórkötlustaðanes. Steytti skipið á skeri og kom strax sjór í það. Engin tiltök fanst skipverja að komast í land, því brim var mikið, en sást þó óglögt fyrir hríðarbylnum. Lögðu þeir því í skipsbátinn, 21 að tölu, og reyndu að komast vestur með landi. Tókst þeim það. Og eftir um klukkustunda ferð í stórhríð og brimi, lentu þeir upp á líf og dauða í bás einum hjá litla vitanum á Reykjanesi, og komust heilu og höldnu í land. Þaðan fóru þeir gangandi heim að Reykjanesi til vitavarðar. Var þar vel tekið á móti þeim. En þeir Grindavik-531voru allmjög þjakaðir, blautir og kaldir, því sumir höfðu verið verjulausir. Á mánudagsnóttina voru þeir hjá vitaverði, en fóru daginn eftir til Grindavíkur til þess að líta á skipið. Skipið var mölbrotið þegar á fyrsta degi, og hefir því ekki náðst út.“
Árið 1926 varð til önnur umfjöllun af öllu alvarlegra sjóslysi austan við innsiglinguna í Hópið: 
„Bátur úr Grindavík fórst við innsiglingunni í fyrrakvöld – 5 manna áhöfn hans drukknaði.
Í fyrrakvöld var þriðja sjóslysið í mánuðinum. Vélbáturinn Grindvíkingur frá Grindavík fórst og með honum áhöfn hans, fimm menn, allir á bezta aldursskeiði, Þrjú börn misstu föður sinn í þessu sviplega slysi, tveir voru fjölskyld
umenn og einn heitbundinn. Allir áttu þeir foreldra á lífi. Fjórir mannanna voru úr Grindavík, en sá fimmti af Vestfjörðum.
Grindavik-532Skipverjar á Grindvíking voru Jóhann Magnússon, skipstjóri, 24 ára. — Hann lætur eftir sig eitt barn og foreldra átti hann á lífi. Hermann Kristinsson, 1. vélstjóri, 23 ára. — Hann lætur eftir sig unnustu og foreldra. Þorvaldur Kristjánsson, stýrimaður, 25 ára. — Hann lætur eftir sig konu og tvö börn ung, Sigfús Bergmann Árnason, háseti. — Átti foreldra á lífi. Hann var 36 ára. Valgeir Jónsson, háseti. Ættaður af Vestfjörðum. Annað hvort úr Aðalvík eða af Ströndum.
Bátar úr Grindavík voru allir á sjó er veðrið skall á. Þeir, sem komu í höfn, komu að landi milli klukkan fjögur og 6,30. Um klukkan sjö, sást bátur við Þórkötlustaðarnes, en það er við innsiglinguna í Grindavíkurhöfn. Á þilfari höfðu skipverjar kynnt bál, er gaf til kynna að báturinn væri í nauðum staddur.

Grindavik-533

Í landi var brugðið skjótt við og þrátt fyrir hríð og mikla ófærð komst björgunarsveitin út í nesið. Þá var þar engan bát að sjá. Þá þegar um kvöldið var gengið á fjörur og um miðnætti tók ýmislegt brak að reka á land. Það reyndist vera úr Grindvíkingi. Í allan gærdag var að reka úr bátnum. Í gærkvöldi hafði eitt lík rekið.
Grindvíkingur var 65 rúmlesta skip. Var byggður á Akranesi árið 1945. Hlutafélagið Ingólfur átti bátinn. Voru þeir aðilar að) félaginu bæði skipstjóri og fyrsti vélstjóri.
Vegurinn til Grindavíkur var illfær í gær. Í hinu harmi lostna sjávarþorpi var ekkert rafmagn og þaðan símasambandslaust bæði við Reykjavík og ýmsar sveitir.“

Heimildir:
-Alþýðublaðið, 22. mars 1964, bls. 8-10.
-Náttúrufræðingurinn, Jón Jónsson, Aldur hrauna, 45. árg. 1. tbl. 1975-1976, bls. 27.
-Náttúrufræðingurinn, 43. árg., 3.-4. tbl., 1973, Jón Jónsson, Sundhnúkahraun við Grindavík, bls. 145-153.
-Morgunblaðið 3. maí 1991, Jón Jónsson, bls. 25.
-Ísafold, 15. maí. 1926, bls. 3.
-Morgunblaðið, 20. janúar 1952, bls. 20.

Grindavik-501

Festarfjall

Meðfram fræðslufæti Kristjáns Sæmundssonar, jarðfræðings, var gengið um Hraunssand og Skálasand undir Festisfjalli (Festarfjalli), þar sem þjóðsagan er tengist bergganginum og festinni á að hafa gerst.

Festarfjall

„Festin“ í Festarfjalli.

Svæðið lýsir stórbrotinni jarðsögu storkubergs, setbergs og myndbreytts bergs, gefur setlögun fyrri jökulskeiða og forðum sjávarstöðu til kynna og kynnir til sögunnar bergganga, syllur og innskot, sprungufyllingar, frumsteindir og samsetningu þeirra. Sjórinn hefur brotið sér leið inn rúmlega miðja eldstöð með öllum þeim „dásemdum“ sem því fylgir. Jarðfræðin og jarðsagan á nútíma er óvíða bersögulli en undir Festisfjalli.

Kristján ásamt félögum sínum hefur staðsett og aldursgreind svo til öll hraun á Reykjanesskaganum og þótt víða væri leitað. Hann þekkir jarðfræði skagans eins og handabökin á sér, enda kom frá honum í ferðinni hafssjór af fróðleik.
Eftir að hafa farið yfir Slokahraun, sem skv. mælingum Kristjáns er um 2300 ára gamalt (hann hafði drög að jarðfræðikorti af ofanverði Grindavík meðferðis) þar sem m.a. kom fram lega Vatnsheiðahraunsins og nýrra yfirspil Sundhnúkahraunsins, en hið nýjasta, Melhólshraunið, á hins vegar meginefni þess hrauns, sem bærinn stendur á eða við.

Kristján Sæmundsson

Kristján Sæmundsson, jarðfræðingur, í með drög að jarðfræðikortinu í FERLIRsferð undir Festisfjalli/Lyngfelli.

Örlög Melhólsins urðu lík og svo margra annarra fallegra gosgíga, að verða rótað upp og ekið undir vegi og hús.
Byrjað byrjað á því að fara niður á vestanverðan Hraunssandinn. Skoðuð voru berglög. Efst trjónar storkubergshraunlag, misþétt, en undir því er aska og gosmöl, þ.e. öfug gossagan. Undir hvorutveggja er móberg frá fyrra ísaldarskeiði. Forvitnilegt er að sjá ísaldarrákirnar á sléttyfirborðs jökul(set)berginu, móbergslagið þar ofan á og enn ofar það sem að framan greinir. Allt sést þetta mjög vel þarna á hraunstöllum þeim er hábáran hefur brotið niður og er smám saman að draga til sín. Víða má sjá bergganga upp í gegnum móbergið sem og sprungur, sem fyllst hafa með setlögum neðanfrá, en gosmöl og ösku ofan frá. Niðri á vestanverðum Hraunssandi er frábær aðstaða til að skoða hraun neðanfrá, þ.e. botninn á því þar sem það hefur runnið yfir og storknað á rakri gosmöl. Neðsta lagið ber þess glögg merki, en síðan þéttist bergið eftir því sem ofar dregur.

Festarfjall

„Festin“ í Festarfjalli neðst.

Hafaldan hafði tekið Dúnknahelli. Hellirinn, sem áður var orðinn nokkuð stór innvortis og með fallegu loftgati, lá nú eins og hrávirði neðan undir berginu. Ægisaldan hafði sprengt hellinn svo að segja frá berginu og skilið hann eftir berrassaðan fyrir verði og vindum.

Þegar gengið var undir Festisfjalli mátti vel sjá „festina“, berggang er gengur upp í gegnum fjallið. Um er að ræða fóðuræð fyrir yngra berg, en Festisfjall er lagskipt og hefur því orðið til í fleiru en einu gosi. Undir eru bólstranir, þá móberg, bólstra- og brotaberg þar fyrir ofan og loks móbergshetta með jökulsorfnu yfirborði. Austan við vestursnösina, sem skilur af Hraunssand og Skálasand þar austar, er annars konar berglag, olivíninnihaldríkara og enn austar brotabergskenndara. Austast er svo enn eitt berglagið.

Festarfjall

Festarfjall – jökulberg.

Jökulberg er undir neðsta bólstraberginu undir Festisfjalli, en annað slíkt lag tekur síðan við að nýju enn austar, undir Lambafelli. Um er að ræða jökulberg frá tveimur jökulskeiðum. Í þeim má vel sjá grannbergið, sem jökulsetið hefur hnoðað undir sig. Það er hnöttótt, en í nálægum móbergslögum má sjá köflóttara nærberg.
Í Rauðskinnu segir að „austarlega í Grindavík, hér um bil miðja vegu milli bæjanna Hrauns og Ísólfsskála, er þverhnípt fell fram við sjóinn, sem heitir Festarfjall. Neðan undir felli þessu er hátt blágrýtisstandberg og ægisandur undir sem ganga má þurrum fótum með lágum sjó. Frá Hrauni blasir við í miðju berginu grá rák sem gengur þráðbeint upp í gegnum bergið og nefnist Festin.“

Festarfjall

FERLIRsfélgar ferðast um neðsta hluta „Festarinnar“ undir Festarfjalli.

Sagan segir að rák þessi sé silfurfesti sem tröllkona ein hafi einhvern tíma í fyrndinni hengt fram af berginu með þeim ummælum að þá er dóttir bóndans á Hrauni, sú sem bæri nafn hennar, gengi þar neðan undir þá skyldi festin detta niður og verða eign stúlkunnar. Því miður lét tröllkonan ekki nafns síns getið svo að ekki hefir verið auðvelt að láta heita eftir henni, enda hangir festin óhreyfð enn í dag.
Inn undir bergið eru fallegir smáskútar.
Þar sem ekki var vel fært fótum lítilmátturga manna fyrir sæiðandi ytri snösina var ákveðið að nýta tímann og ganga til baka um Hraunssand og koma inn á Skálasand úr austri, frá Lambastapa.

Strax þegar komið er niður í fjöruna vestan Lambastapa, inn í svonefndar Mávafláar, kom í ljós ódílótt bólstraberg, rauðleitt. Annars var losaralegt brotabergið ráðandi. Jökulbergið er skammt að handan, niðurundir bjargbrúninni. Stigi var notaður til að komast niður af austari jökulbergsstappanum og áfram til vesturs inn á Skálasand. Þar tók við stórkostlegt útsýni um bergið, bæði austanvert Festisfjall og vestanvert Lambafell.

Festarfjall

Festarfjall – sjávarhellir.

Skútar eru víða og sjá má glögglega jökulbergið þar undir. Ofar trjóna skessumyndir, en ljósbrúnar steinmóbergsklessur niðurundir. Þótti við hæfi að nefna þær skessuskít.

Toppurinn á ferðinni var uppgötvun Kristjáns á fóðuræð Lyngfells. Hún liggur upp í gegnum bergið skammt austan markanna, um 170 cm, breið neðst og liggur áleiðis út í sjó. Þar fyrir utan eru há sker er mynda nokkurn veginn hring. Ekki er með öllu útilokað að þau kunni að geyma fornan eldgíg er fóðraði bæði Festisfjall og Lyngfell, eða a.m.k. annað hvort þeirra.
Skammt austar er berggangur, er virðist nokkuð sprunginn. Hann er yngri en bergið umhverfis og virðist hafa fóðrað eldstöðvar ofar í landinu. Við vettvangsskoðun eftir gönguna komu í ljós tvö móbergssvæði sunnan Mókletta er gætu hafa verið afurðir þessa berggangs.

Festarfjall

Sjávarhellir í Festarfjalli.

Allt í ferðinni var hið fróðlegasta. Segja má að hún hafi verið svolítið innlegg í skráningu jarðsögu svæðisins.
Kristján var, sem fyrr sagði, hafsjór fróðleiks. Hann á nú nálægt fimm mánuðum til eftirlaunaaldurs, en virðist aldrei hafa verið frískari í viðleitni sinni og leit að nýjum uppgötvunum um myndun landsins.
Að lokinni göngu var þegið kaffi og meðlæti á Ísólfsskála þar sem farið var yfir helstu áhættuþætti og uppgötvanir ferðarinnar.
Staðreyndin er sú að einungis örfáir núlifandi (og þótt lengra væri leitað) hafa farið þá leið, sem farin var að þessu sinni.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 44 mín.

Festarfjall

Festarfjall og Hraunsvík.

Eldvörp

Margir hafa sótt Selatanga heim, eina þekktustu verstöð Reykjanesskagans fyrrum.

Fiskgeymsluhús á Selatöngum

Færri vita að svipaðar minjar má finna nokkrum öðrum stöðum í nágrenni Grindavíkur, s.s. mikla þurrkgarða, -byrgi og ekki síst – fískgeymslur. Vegna þess hversu fáir vita af öðrum mannvirkjum hafa þau að mestu fengið að vera í friði og því varðveist nokkuð vel. Mannvirkin á Selatöngum hafa látið á sjá í seinni tíð af tveimur ástæðum; ágangi sjávar annars vegar og manna hins vegar. Sjórinn hefur nú tekið til sín öll elstu mannvirkin og er á góðri leið með að hirða það sem eftir er. Mannfólkið hefur ekki látið sér nægja að berja minjanar augum heldur hefur það þurft að príla upp á sumar þeirra svo þær hafa orðið fyrir skemmdum.

Selatangar

Selatangar – fiskgarðar.

Á  þurrkgarðana var flattur fiskurinn lagður og hann þurrkaður. Einnig hausar og annað er nýta mátti af fiskinum. Auk garða má á nokkrum stöðum sjá þurrkbyrgi, sem fiskurinn hefur verið geymdur í milli þurrkálagninga. Slík byrgi má bæði sjá í Strýthólahrauni á Þórkötlustaðanesi, vestan Húsatófta, við Nótarhól austan Ísólfsskála svo og á Selatöngum. Einnig austan við Herdísarvík.
Þegar bátar komu úr róðri var aflinn færður á skiptivöll, þar sem skipt var í hluti. [Einn slíkan óskemmdan má enn sjá neðan við Klöpp í Þórkötlustaðahverfi].
Fiskgeymsluhús í SundvörðuhrauniÞví næst var gert að, á skiptivellinum ef aðstæður þar leyfðu, annars á öðrum hentugum stað. Í Grindavík mun vísast hafa verið gert að á skiptivelli. Á vetrarvertíð, þegar ekki var þerrisvon, var fiskurinn lagður í kös, eða kasaður sem kallað var. Það var gert eftir sérstökum reglum. Fiskurinn var lagður þannig í kösina, að dálkurinn sneri niður, svo að blóð sem síga kynni úr honum færi síður í hinn helminginn; fiskurinn var kýttur, en það var gert með því móti að beygja hann saman í hnakkann, svo að fiskurinn fyrir framan dálk myndaði ¼ úr hring. Næsta lag var svo sett ofan á það, sem fyrir var, þannig að hnakkinn af þeim fiski læki móts við gotraufina á þeim, sem undir var, og með sama hætti koll af kolli. Helzt þurfti kösin að vera á sléttum halla, svo að ekki sæti vatn í henni. Að lokum myndaðist hringur og komu sporðar allra neðstu fiskanna saman. Kösin stóð misjafnlega lengi, stundum svo vikum skipti, þar sem sjaldnast viðraði vel fyrr en undir vor. Í frosti skemmdist kasarfiskurinn ekki að ráði, en ef skiptist á vætutíð og frost vildi hann vera maltur, jafnvel grútmaltur.
Þegar komið var fram á vor og veður fór batnandi, var fiskurinn tekinn úr kösinni og byrjað að þurrka hann. Fyrst var hann þveginn og himnudreginn, en síðan breiddur á garða, möl eða grjótghryggi, og var roðinu snúið niður á daginn en upp á nóttunni. 

 

Fiskgeymslur í Sundvörðuhrauni - flugmynd

Á meðan á þurrkuninni stóð, var fiskinum snúið hvað eftir annað, en er hann þótti orðinn hæfilega þurr, var honum hlaðið í stakka og þeir fergðir, svo að sléttaðist úr fiskinum. Þegar þurrkur var, var fiskurinn síðan breiddur úr stökkunum, uns hann var orðinn sprekaður, en þá þótti loks fært að vigta hann og flytja.
Nokkur tími gat jafnan liðið frá því fiskur var fullþurkkaður og þar til hægt var að flytja hann, og reið þá á miklu í stórum verstöðvum, þar sem margir gerðu út, að ekki ruglaðist fiskurinn. Af þeim sökum höfðu menn sérstök fiskmerki, og umsvifamiklir aðilar höfðu sérstakt brennimark.
Fiskbyrgi við EldvörpOg þá er komið að megininntaki þessarar umfjöllunar. Á meðan fiskurinn beið flutnings, var hann tíðast geymdur í fiskbyrgjum. Þau voru hlaðin úr grjóti, strýtu- eða stróklaga, en þannig var best að verja fiskinn gegn vætu. Á sumum jörðum í Grindavík munu einnig hafa verið sérstök fiskgeymsluhús, en ekki er ljóst hvernig þau voru byggð. Frá 17. öld eru heimildir um slík hús frá Hópi, sem voru í eigu Skálholtsstaðar. Þá var hús á Þórkötlustöðum, sem gekk undir nafninu “staðarhúsið”, og var það sýnilega fiskgeymsluhús í eigu Skálholtsstóls. Hugmyndir eru uppi um að einu fiskgeymsluhúsin, sem varðveist hafa í Grindavík, megi finna undir rótum Sundvörðuhrauns, svonefnd “Tyrkjabyrgi”. Fleiri slík byrgi má finna í upplandi bæjarins, ósnert með öllu. Staðsetning kemur vel heim og saman við heimildir þess efnis að annar aðalútflutningsstaður Grindvíkinga um tíma var frá Básendum.

Húsatóftir

Húsatóftir – fikibyrgi.

Fiskgeymslur voru staðsettar í hverfum Grindavíkur meðan miðstöð útflutningsverslunarinnar var þar, en færðist síðan út fyrir þau þegar verslunin færðist að Básendum er verslunin færðist frá Grindavík árið 1639.  Þær geymslur, sem sjá má í Sundvörðuhrauni og við Eldvörp eru mjög nálægt gömlu þjóðleiðinni milli Grindavíkur og Hafna, sem lá áfram um Ósa og út á hinn gamla verslunarstað Þórshöfn og loks að Básendum. Einnig leifar hinna mörgu fiskgeymslubyrgja ofan Húsatófta.

Ekkert fiskgeymsluhús hefur varðsveist í Grindavík, en fiskgeymsluhúsin í Sundvörðuhrauni og við Eldvörp hafa varðveist með ágætum.
Skjól fiskivarða við EldvörpÁstæðan er tvíþætt; annars vegar eru þau yngri og auk þess hafa þau gleymst eftir að notkun þeirra lauk um 1800 eða skömmu eftir Básendaflóðið mikla 1799. Það var ekki fyrr en síðla á 19. öld að byrgin í Sundvörðuhrauni fundust á ný og Eldvarpabyrgin fundust ekki fyrr en árið 2006.
Öll geymslubyrgin í Sundvörðuhrauni og við Eldvörp eru svo til að sömu stærð, hvort sem varðar breidd, lengd eða hæð. Þau eru gisin til að loft gæti leikið um varningin, sléttar þunnar hellur voru lagðar yfir sem þak svo auðveldara væri að koma fyrir og fjarlægja varninginn og auk þess voru settar upp hlaðnar refagildrur í nágrenninu ef vargurinn skyldi ásælast matvöruna í byrgjunum.
ÁhugiVakt hefur verið við báða staðina. Ummerki um varðmannskjól eru í Sundvörðuhrauni og einnig við Eldvörp. Þar eru mannvistarleifar í hellum á tveimur stöðum, örskammt frá geymslunum.
Allnokkur umgangur hefur verið um Sundvörðubyrgin í seinni tíð, en engin um Eldvarpabyrgin. Þau gætu því verið kærkomin rannsóknarvettvangur þeirra fornleifafræðinga er áhuga fengju á viðfangsefninu (sem reyndar gæti orðið einhver bið á m.v. núverandi áherslur minjavörslunnar í landinu).

Eldvörp

Eldvörp – hlaðin refagildra við fiskbyrgin.

Auðvitað er ávallt „leiðinlegt“ að svipta hulunni af jafn dulúðlegum stöðum og Sundvörðubyrgin hafa verið um langa tíð. Þau hafa hingað til ýmist verið talin felustaður útilegumanna eða flóttamannabúðir fyrir Grindvíkinga er þyrftu að flýja undan „Tyrkunum“ í skyndi, minnunga komu þeirra til þorpsins í júnímánuði 1627 er tólft þorpsbúar voru dregnir til skips og aðrir þrír limlestir. Til varnaðar má segja að enn hafi ályktun þessi ekki verið fullsönnuð því vísindaleg fornleifarannsókn hefur enn ekki farið fram á mannvistarleifunum – hvað svo sem tefur.
Líklegast má þó telja, þrátt fyrir að hver hafi apað upp eftir öðrum hingað til, að umrædd byrgi hafi þjónað öðrum tilgangi en hingað til hefur þótt sagnakennt.
Sjá meira um byrgin HÉR og HÉR.

Tyrkjabyrgi

Byrgin í Sundvörðuhrauni – uppdráttur ÓSÁ.

 

Herdísarvík

Krýsuvík er austastur bær í Gullbringusýslu með sjávarsíðunni, en Herdísarvík er vestastur bær í Árnessýslu. Þetta eru næstu bæir sinn hvoru megin við sýslumótin; hvort tveggja er landnámsjörð og svo að ráða sem sín konan hafi gefið hvorri nafn er þar bjuggu lengi, og hét sú Krýs er byggði Krýsuvík, en Herdís sú er setti bú í Herdísarvík.

Krýsuvík

Krýsuvík – uppdráttur ÓSÁ.

Jarðir þessar hafa alla tíð verið taldar með beztu bólstöðum hér á landi og er það ekki að undra, því báðum fylgir útræði, fuglaberg mikið og trjáreki nógur. Á landi áttu báðar jarðirnar veiðivötn ágæt.

Krýsuvík

Krýsuvík og Herdísarvík – herforingjaráðskort.

Krýsuvík mjög í suður og austur frá bænum þar sem hann er nú, en Herdísarvík litla tjörn eina í heimatúni milli sjós og bæjar. Rétt hjá veiðivötnunum átti Krýsuvík starengi mikið og fagurt. Herdísarvík átti aftur á móti ekkert engi, en beitiland svo miklu betra fyrir sauði en Krýsuvík að nálega tekur aldrei fyrir haga í Herdísarvíkurhrauni; er þar bæði skjólasamt af fjallshlíð þeirri er gengur með endilangri norðurbrún hraunsins og kölluð er Geitahlíð og skógur mikill.

Breiðivegur

Breiðivegur neðan Geitahlíðar.

Þótt fjarskalöng bæjarleið, hér um bil hálf þingmannaleið, sé milli þessara bæja voru þær Krýs og Herdís grannkonur og var nábúakritur megn á milli þeirra; því hvor öfundaði aðra af landgæðum þeim er hin þóttist ekki hafa, Krýs Herdísi af beitilandinu, en Herdís Krýs aftur af enginu. Svo hafði lengi gengið að hvor veitti annari þungar búsifjar; rak Krýs sauðfénað sinn í land Herdísar, en Herdís vildi aftur ná í engið, og beittust svo þessu á víxl með því landamerki virðast annaðhvort hafa verið óglögg eða engin í það mund.

Stóra-Eldborg

Stóra-Eldborg.

Þegar þær grannkonurnar eltust meir fóru þær síður að hafa fylgi á framkvæmdum til að ásælast hvor aðra, en ekki var skap þeirra að minna eða vægara fyrir það. Bar þá svo við einhverju sinni að Herdís hafði gengið út í hraun og síðan út með Geitahlíð svo sem leið liggur út í Krýsuvík. En utarlega undir hlíðinni ganga úr henni hæðir nokkrar fram að hrauninu og eru þær kallaðar Eldborgir. Yfir þessar hæðir liggur vegurinn. Þann sama dag er Herdís tókst þessa göngu á hendur fór og Krýs að heiman. Í suður frá Krýsuvík er slétt melgata; er hún nokkuð langur skeiðsprettur suður undir hornið á Geitahlíð, en þegar komið er fyrir það horn blasa Eldborgir við sunnar með hlíðinni og er allskammt þangað undan hlíðarhorninu.

Stóra-Eldborg

Stóra-Eldborg og Geitahlíð í Krýsuvík.

Nú segir ekki af ferðum þeirra grannkvennanna fyrr en Krýs kemur þar á götunni sem hún liggur yfir hina nyrztu Eldborgina, þá kemur Herdís í flasið á henni að sunnan. Þegar þær hittust varð fátt af kveðjum, en því fleira af illyrðum á milli þeirra er hvor um sig þóttist eiga land það er þær stóðu á. Ekki er þess að vísu getið hvernig hvorri um sig hafi farizt orð, en svo lauk að hvor hézt við aðra vegna landadeildarinnar. Lagði þá Krýs það á Herdísi að allur ætur silungur skyldi hverfa úr veiðitjörn hennar, en verða aftur full af loðsilungi, sumir segja öfugugga. En Herdís lagði það aftur á Krýs að allur silungur í veiðivötnum hennar skyldi verða að hornsílum. Enn lagði Krýs það á Herdísarvík að þaðan skyldi týnast tvær eða þrjár skipshafnir. Herdís mælti aftur það um fyrir Krýsuvík að starengið þar skyldi smásökkva á hverjum 20 árum, en koma upp á jafnlöngum tíma.

Dysjar

FERLIRsfélagar skoða dysjar kerlinganna og smalans neðan Kerlingadals.

Eftir þessi ummæli sprungu þær báðar þar sem þær stóðu og eru þær dysjaðar báðar til vinstri handar við götuna þegar riðið er út í Krýsuvík norðan til á Eldborginni nyrztu, og sér dysirnar þar enn; dys Krýsar er það sem nær er Krýsuvík, en Herdísar hitt sem fjær er. Heitir þar kerlingadalur, en Deildarháls ofar.

Meðan þær voru að mæla hvor um fyrir annari kom að þeim smalinn úr Krýsuvík, en svo brá honum við heitingar þeirra að hann féll þegar dauður niður og er hann dysjaður hægra megin við götuna þar upp undan sem þeirra dys er niður undan svo ekki skilur nema gatan ein.
Dys þeirra grannkonanna eru enn kölluð Krýs og Herdís og þar með eru þau kölluð sýsluskil Gullbringusýslu og Árnessýslu, svo eru þau og talin landamerki milli Krýsuvíkur og Herdísarvíkur.

Herdísarvíkurtjörn

Herdísarvíkurtjörn.

En af ummælum þeirra er það að segja að í veiðivötnum Krýsuvíkur hefur enginn silungur fengizt svo menn viti nokkurn tíma síðan, en fullt er þar af hornsílum, og í Herdísarvíkurtjörn hefur ekki heldur orðið silungs var; en loðsilungar ætla menn þar hafi verið þótt ekki sé þess getið að neinn hafi af því bana beðið. Aftur var það einn vetur eftir þetta er sjómenn gengur til sjávar snemma morguns frá Herdísarvík, en skemmst leið er að ganga til sjávar þaðan yfir tjörnina þegar hún liggur, að þeir fórust allir í tjörninni ofan um hestís, og segja menn þeir hafi verið 24 að tölu. Um starengið í Krýsuvík er það enn í dag sannreynt að það lækkar smátt og smátt fram við tjörnina er það liggur að svo að hún gengur hærra upp eftir því unz hún er komin yfir allt engið eftir 20 ár, en þá fjarar tjörnin aftur smásaman svo engið kemur æ betur upp unz það er orðið jafngott og áður að öðrum 20 árum liðnum.

-Jón Árnason I 459.

Herdísarvík

Herdísarvík – uppdráttur ÓSÁ.