Tag Archive for: Grindavík

Hraun

Gengið var um Klappartúnið og kíkt á tóttir gamla Klapparbæjarins. Veður var frábært – logn og hlýtt. Mikið fuglalíf. Mörg hreiður. Sólin glampaði á Festarfjall og Skála-Mælifell í austri.

Klöpp

Gamla-Klöpp.

Tekið var hús á Helga Andersen á Þórkötlustöðum. Þegar hann var spurður hvar hlaðni brunnurinn við Valhöll, sem stendur gegnt bænum, hafi verið, sté hann út, gekk yfir á götuna og staðnæmdist þar gegnt hliðinu. “Hér er hann undir”, sagði Helgi. Tækifærið var notað og mynd tekin af Helga á staðnum. Brunnurinn, sem er mjög gamall, var hlaðinn, en fylltur upp og rutt yfir hann þegar gatan var lögð framan við Valhöll. Þá var litið á gömlu hlöðuna, en þegar hún var gerð skömmu eftir aldarmótin 1900 komu í ljós fornar hleðslur er taldar að væru af fornaldarbæ. Veggur hlöðunnar, sem nú er geymsla, liggur ofan á einni hleðslunni. Framan við hlöðudyrnar var myndarlegt steinrekankeri.

Þórkötlustaðahverfi

Helgi Andersen stendur á brunninum fyrrum. Valhöll í baksýn.

Beini var afþakkaður á Þórkötlustöðum að þessu sinni, en þess í stað haldið niður fyrir bæinn þar sem Birgir Guðmundsson frá Hópi var að stússast í kringum kofaskryfli, sem hann hafði erft að hluta til eftir föður sinn, Guðmund Þorsteinsson. “Ég ríf þetta úrsérgengna drasl fljótlega”, sagði hann eftir að hafa heilsað. “Þetta eru ekkert nema útgjöld. Hugsaður þér. Maður er látinn borga fasteignagjöld af þessu drasli. Mér er alveg sama hvað þeir segja. Það er betra að rífa draslið strax í stað þess að láta það fjúka um allt í næsta suðaustanroki”. Hann virtist ekki par ánægður þrátt fyrir að vera nýbúinn að erfa tugi milljóna króna (peningar gera menn heldur ekki ánægða – einungis léttara um vik).

Heródes

Heródes.

Litið var á álagasteininn Heródes, en fólkið í Vesturbænum, sem hann stendur fyrir neðan, hafði nú snyrt í kringum steininn og mold komin þar í stað múrbrots. Erfiðara að skoða rúnirnar á steininum á eftir, en fólkið virðist vera meðvitað um mikilvægi steinsins. Hann má hvorki hreyfna né skemma, ella…
Óskar á Hofi var útivið. Hann sagðist ekki vita hvort hóllinn í túninu austan við Hof væri dys Þórkötlu (aðkomumaður), en henni gæti svo sem alveg eins hafa verið holað þar niður eins og hvar annars staðar.
Litið var út á Þórkötlustaðanes, en ætlunin var að skoða betur fiskigarðana ofar á Nesinu. Þeir eru þarna svo til um allt – þvers og kruss. Á milli þeirra er stór hringlaga garður utan um nokkuð víða kvos. Á garðinum er hlið. Þarna gæti hafa verið rétt fyrir tíma Þórkötlustaðahverfisréttarinnar. Þegar verið var að skoða garðana kom þar gangandi bæjarstjóri, Ólafur Örn, og frú með einn ferfættan í bandi. Staldrað var við í góða veðrinu, litið yfir sviðið og spjallað – Höfn, Arnarhvol og Þórshamar.

Heródes

Letur á Heródesi.

Loks var haldið út í Járngerðarstaðahverfi og hús tekið á Pétri Guðjónssyni, en FERLIR hafði lofað að heimsækja hann. Rætt var góða stund um umhverfi Grindarvíkur, reiðleiðir um Vatnaheiði og Kastið, vatnsstæði efst á heiðinni, sem á eftir að skoða, o.fl. o.fl. Pétur sagði þurrkgarðana uppi á Nesinu hafa verið notaða löngu fyrir hans tíð. Pabbi hans hefði aldrei minnst á þá, en hann hafi vitað af þeim þarna því fé þeirra hafi gengið um hraunið og krakkarnir hefðu þurft að eltast við það á milli garðanna.
Pétur afhenti frásögn Jóhanns Pétursonar, vitavarðar, af slysatvikinu er hann varð undir einum veggnum við húsaúrbætur sínar í Þórshamri. Við það hafi Jóhann hrygg- og lærbrotnað, en náð að skríða út og komast að hól þar skammt frá. Í hólnum var vatn, en þar lá hann í frosti og snjó hátt á annan sólarhring án þess að geta hreyft sig frekar, eða þangað til hundur á ferð með manni kom auga á hann og kallaði á húsbónda sinn. Jóhann var síðan borinn upp í hverfi og síðan fluttur á spítala. Hann náði sér aldrei alveg eftir slysið.

Þórsmörk

Þórsmörk í Þórkötlustaðanesi.

Strýthólahraun.

Gengið var að gömlu hliði, sem enn sést móta fyrir, á Hraunsgarði vestan við Hraun. Um hann lá Hraunsgatan vestur yfir í Þórkötlustaðahverfi og síðan áfram út á Þórkötlustaðanes, en Hraunsmenn nýttu Nesið fyrrum m.a. til útgerðar. Þeir réru t.a.m. þaðan fyrir tíma útgerðar Þórkötlustaðabænda og héldu því áfram eftir að byggt var í Nesinu.

Hraun

Hraun í Grindavík.

Enn má sjá hluta að gömlu hlöðnu görðunum á Hrauni, en fyrir þá fékk Jón bóndi Dannebrogsorðuna á sínum tíma. Norðan vegarins er hóll og á honum hleðsla; Hraunsdysin. Þar segja kunnugir að hafi verið dysjaður drengur er „Tyrkir“ drápu er þeir stigu á land í Hrólfsvíkinni 1627. Sagan segir að strákur hafi reynt að komast undan á rauðri meri, eltur af tveimur tyrkjum. Merin hafi náð að sparka í og drepa annan þeirra, en hinn hefði náð stráksa af baki og vegið hann. Sumir hafa sagst hafa séð honum bregða fyrir á dysinni, einkum eftir að rökkva tekur.

Slok

Slok – Brennivínshóll.

Garðinum var fylgt til suðurs og var þá komið inn í Slokahraun vestan við túngarðinn. Í hrauninu eru margir og miklir þurrkgarðar. Haldið var á Sögunarhól þar sem bændur unnu rekavið og áfram yfir á „Brennivínshól“. (Við hann földu Grindjánar vínföng sín í þá gömlu daga. Fóru þeir þangað, einkum að kvöldlagi, til að fá að vera í friði með drykkjuna fyrir spúsum sínum, því ólíklegt var að þær leggðu í úfið hraunið til að leita þeirra). Eftir stutta leit fannst ein faska, rúmlega hálffull. Á henni var handunninn merkimiði er á stóð m.a.: Grindarvigsbrennevin – 1889 – með kongen´s fuldmagt – Einarsbutik – den enesete ene, upp á dönsku, enda Grindavík danskur bær á þeim tíma eins og aðrir bæir á landinu. Vínbragð var af innihaldinu. Hvort sem það var vegna innihaldsins eða einhvers annars, virtust sumir þátttakenda sjá hvíta vofu á Hraunsdysinni í fjarnorðri.

Þórkötlustaðanes

Ískofi á Þórkötlustaðanesi.

Gengið var áfram vestur yfir hraunið, í gegnum mikla þurrkgarða, sem þar eru, vent til hægri og stefnt að tóttum Hraunskots, innan garðs. Mikill hlaðinn garður umlykur Þórkötlustaðabæina að austan- og norðanverðu. Hann hefur staðið af sér öll veður, en jarðskjálftar hafa hrist úr honum af og til. Það hefur þó verið lagfært jafnóðum. Hluti garðsins sunnan Hraunkots er öðruvísi fallega hlaðinn og úr annars konar grjóti en afgangurinn. Grjótið hefur verið tekið úr eldra hrauni, sem hið yngra rann yfir, en það kemur þarna undan hraunkantinum á kafla.

Hraunkot

Hraunkot.

Tóttir og fallegar hleðslur eru í Hraunkoti. Heimtröðin er sérstaklega verkleg, sbr. meðfylgjandi mynd. Gengið var yfir á Klappartúnið og það síðan til vesturs, að tóttum gamla Klapparbæjarins. Þaðan var haldið suður austustu sjávargötuna af þremur í Þórkötlustaðahverfi, niður að Buðlungavör, litið á skiptivöllinn og síðan haldið upp að göngum Klapparbæjarins utan girðingar, fast við fjárhús Stakkavíkurmanna í Buðlungu. Göngin eru þarna nokkuð heilleg, en þau komu í ljós eftir eftir að gamalt bárujárnshús hafði verið fjarlægt frá þeim fyrir nokkru.

Þórkötlustaðir

Einland í Grindavík.

Gengið var upp að Einlandi, litið á gömlu tóttirnar norðan hússins og skyggnst yfir að tóttum Móa, sem eru þarna upp á túninu. Loks var litið á hugsanlega staðsetningu Þórkötlustaðabrunnarins undir veginum gegnt Valhöll áður en hús var tekið á Helga Andersen í Miðbæ og hans hustru. Hún bauð upp á útistandandi kaffi í veðurblíðunni á meðan Helgi sagði frá því er hann fékk því áorkað að öskudagurinn var gerður að frídegi öskukarla í Grindavík, líkt og sjómannadagurinn varð frídagur sjómanna.

Að kaffidrykkju lokinni var kíkt á Heródes, álagastein við Vesturbæ. Snyrt hafði verið umhverfis hann og því erfiðara en áður að berja rúnarletrið á austurhlið hans augum.

Þórkötlusdys

Þórkötludys.

Gengið var upp að Þórkötludys á túninu austan við Hof, rifjuð upp þjóðsagan og tengsl fundin við fyrrum gegna tíð. Sagan segir að Þórkatla hafi mælst svo fyrir um að hún yrði dysjuð þar sem hún sæi yfir Bótina og jafnframt að engin skyldi farast á rétt siglu sundinu. Þarna sér vel yfir Þórkötlustaðabótina.
Staðnæmst var við staðsetningu gamla barnskólahússins við verbúðina, gengið framhjá hlöðnu réttinni og staðnæmst gegnt þeim stað er foreldrar Guðbergs Bergssonar, skáls, bjuggu fyrrum, Hjarðarholti. Húsið var síðar flutt vestur í Járngerðarstaðahverfi. Ofar er Auðsholt. Verbúðin var nefnd Bjarnarhöfn. Í suðausturhluta þess hús sem hefur verið tengt saman og kallast nú Bjarnarborg (verbúð HÞ). „Marel Guðmundsson byggði þar hús yfir fjölskyldu sína 1930.

Brautarholt

Brautarholt.

Eftir að hann dó úr berklum var húsið rifið af lánadrottni Marels (Einari kaupmanni í Garðhúsum). Síðar var sett þak á steyptan grunn hússins og gert að barnaskóla. Þar var hafður barnaskóli í Þórkötlustaðahverfi þar til nýr barnaskóli tók til starfa í Járngerðarstaðahverfi árið 1948. Brautarholt er norðan Hraðfrystihúss Þórkötlustaða. Húsið var byggt árið 1934. „Þetta hús byggðu hjónin Júlíus Daníelsson og Sigríður Þorleifsdóttir 1934 og bjuggu þar til 1956“. Húsið var byggt sem íbúðarhús en síðar var þar vog fyrir Hraðfrystihúsið.

Þórkötlustaðanes

Minjar í Þórkötlustaðanesi – uppdráttur ÓSÁ.

Gengið var suður götuna út á Þórkötlustaðanes, en á leiðinni var staðnæmst í Kóngum, hraunslengju, sem aðskilur austurhverfið frá gömlu útgerðaraðstöðuna ofan við gömlu bryggjuna skammt sunnar.

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes – minjar á Kóngum.

(Þarna hefur lengi verið kjörlendi sandfuglsins. Mjög erfitt er að koma auga á hann. Til að finna hreiður hans er helst að leita spora eftir fuglinn. Eftir stutta leit fundust spor. Grafið var í sandinn og þá komu tvö gulleit egg í ljós – egg sandfuglsins. Þess var vel gætt að skilja við þau án þess að ummerki sæjust).
Þá var gengið um gamla útgerðarstaðinn ofan við bryggjuna í Þórkötlustaðanesi, litið á bæjarstæði Hafnar, Arnarhvols og Þórshamars, lifrabræðsluna, ískofana, salthúsin, sökklana undir beitningaskúrana, spilið, stýrikengina, staðsetningu gamla brunnsins og bryggjuna. Rifjuð var upp útgerðarsagan eins og hún kemur fyrir í lýsingu Péturs Guðjónssonar í nýjasta Sjómannablaði Grindavíkur.

Grindavík

Grindavík – dys við Hraun.

Gengið var til suðurs austan Flæðitjarnarinnar. Þá var komið að manngerðum hól. Í honum er fornt fjárskjól og austan í honum er gömul tótt. Gerði liggur umhverfis skjólið. Sunnar eru hlaðin fjárhús og gerði. Enn sunnar er skrautgarður Þórshamarsfólksins, en allt í kring eru garðar og tóttir. Litið var inn í Þórshamar og sagan um Jóhann Pétursson, vitavörð, rifjuð upp, einkum er hann slasaðist við breytingar á húsinu, komst út við illan leik og lá þar vel á annan sólarhring í kulda og snjó áður en honum var bjargað. Enok og frú bjuggu áður í Þórshamri.

Strýthólahraun

Strýthólahraun – fiskibyrgi.

Gengið var til suðurs inn í Strýthólahraun. Í suðaustri mátti sjá Leiftrunarhól og Strýthóla austari og vestari í suðri. Í hrauninu eru þurrkgarðar og fiskbyrgi líkt og við Ísólfsskála og á Selatöngum. Ofar í Nesinu eru einnig margir þurrkgarðar.
Haldið var áfram eftir veginum, framhjá vitanum, sem byggður var skömmu eftir aldarmótin 1900, og rifjuð upp saga af ströndum og mannsköðum við Nesið. Skilti, uppsett af Slysavarnarfélaginu, eru þar við með helstu upplýsingum.
Gengið var framhjá vörðufæti Siggu og áfram út að Nesi, en þar stóð húsið Nes. Enn má sjá þar sjóbúð, bátarétt og fleiri mannvirki.

Sigga

Sigga.

Litið var á Goðatóttina við gömlu bæjar- og útihúsin á Hópi og skyggnst yfir túnið, en þar má sjá, ef vel er að gáð, jarðlæga tótt og bogadregna garða. Ofar á túninu, upp undir Sjónarhól, eru einnig tóttir, sem vert væri að rannsaka. Gamla leiðin á milli hverfa lá rétt ofan við Sjónarhól.
Gangan endaði við Íþróttahúsið þremur tímum frá upphafsreit.
Eða eins og bæjarstjórinn sagði dimmum rómi: „Það er gott að ganga um Grindavík“, og leit á lúinn hund sinn (sjá mynd).

Þórkötlustaðanes

Á Þórkötlustaðanesi.

Grindavík

Grinda­vík hlaut kaupstaðarrétt­indi 10. apríl 1974. Saga Grindavíkur sem byggðar er þó mun lengri.
Í Fornleifaskráningu í Grindavík – 3. áfanga, má lesa eftirfarandi yfirlit um „Þróun byggðar í Grindavík“ í sögulegu samhengi. Taka þarf þó skráninguna með hæfilegum fyrirvara.

Grindavík

Grindavík – umdæmi.

„Grindavíkurhreppur liggur með suðurströnd Reykjaness frá Valahnúk að vestan, sem skilur land og reka Grindavíkur og Hafna, austur að Seljabót, en þar austan við tekur við Selvogshreppur (nú Ölfus). Að norðan eiga Grindavíkingar hreppamörk á móts við Hafnamenn, Njarðvíkinga, Garðahrepp og Vatnsleysustrandarhrepp.

Geldingadalir

Geldingadalir – eldgos.

Náttúrufar í hreppnum einkennist af þeim miklu eldsumbrotum sem þar hafa orðið á nútíma og sögulegum tíma og er stór hluti svæðisins óbyggilegur af þeim sökum. Víða meðfram ströndinni og á milli hraunbreiðanna eru þó fagurgrænir og búsældarlegir vellir þar sem byggð hefur staðið öldum saman. En það eru ekki aðeins eldsumbrot sem ógna landi og lífi á þessum slóðum. Landbrot sjávar hefur verið, og er, mjög mikið og færist strandlínan ört upp í landið. Auk þess hefur uppblástur verið mikið vandamál og hafa þannig áður gróin og nýtileg svæði orðið að örfoka melum.

Staðarberg

Staðarberg.

Hér verður fyrst gerð grein fyrir landnámi í Grindavíkurhreppi eins og því er lýst í Landnámabók, en á grunni þess og staðsetningu kirkna og kumla má oft setja fram tilgátur um hvaða jarðir byggðust fyrstar. Kuml eru auðsjáanlega vísbending um búsetu fyrir árið 1000, en kirkjur og bænhús eru yfirleitt talin vera reist skömmu eftir kristnitöku.

Hóp

Hóp – minjar gamla bæjarins, þ.á.m. hofstóft.

Nærtækasta skýringin á hinum mikla fjölda guðshúsa almennt er sú að þau hafi upphaflega verið reist við heimagrafreiti, sem voru líklega við hvern bæ líkt og kumlateigar í heiðni. Sé svo má nota bænhús eða kirkjur sem vísbendingu um að viðkomandi bær hafi verið kominn í byggð á fyrri hluta 11. aldar. Jarðir þar sem kirkjur eða bænhús hafa verið eru einnig að jafnaði stærri og dýrari en þær sem ekki höfð slíkum húsum á að skipa og getur því verið freistandi að álykta að hinar síðarnefndu séu seinna til komnar, eða hafi að minnsta kosti ekki verið orðnar sjálfstæð býli á fyrri hluta 11. aldar. Lögbýli á skráningarsvæðinu, átta talsins, eru ef talið er frá vestri til austurs: Staður, Húsatóptir, Járngerðarstaðir, Hóp, Þórkötlustaðir, Hraun, Ísólfsskáli og Krýsuvík.

Grindavík

Útsýni til sjávar frá Grindavík.

Samkvæmt Landnámabók voru landnámsmenn í Grindavíkurhreppi tveir. Annars vegar Molda-Gnúpur Hrólfsson sem nam land í Grindavík, og hins vegar Þórir haustmyrkur Vígbjóðsson sem nam Krýsuvík og Selvog. Molda-Gnúpur var sonur Hrólfs höggvanda sem bjó á bænum Moldatúni á Norðurmæri í Noregi, en bróðir hans Vémundr. Gnúpur fór til Íslands fyrir vígasakir þeirra bræðra og nam land milli Kúðafljóts og Eyjaár. Þar bjó hann þar til landið spilltist af jarðeldum og hann flúði vestur til Höfðabrekku. Vémundur Sigmundarsonar kleykis, sem þar átti land, meinaði honum hins vegar dvöl þar og flutti Gnúpur sig þá í Hrossagarð þar sem hann var um veturinn.

Núpshlíð

Núpshlíðarhorn.

Þegar hér er komið sögu ber Hauksbók og Sturlubók Landnámu ekki saman um örlög Molda-Gnúps eða sona hans. Samkvæmt Hauksbók féll Molda-Gnúpur ásamt tveimur sona sinna í Hrossagarði, en Björn sonur hans (og e.t.v. einnig Gnúpur) fór til Grindavíkur og staðfestist þar. Sturlubók segir hins vegar að vegna ófriðar og vígafars í Hrossagarði hafi þeir feðgar allir farið til Grindavíkur og numið þar land. Hvorug bókanna nefnir nöfn landnámsjarða í Grindavík og verður því ekki af Landnámu einni séð hvaða bæir byggðust þar fyrstir.

Húshólmi

Húshólmi – tóftir í Ögmundarhrauni.

Um landnám í Krýsuvík eru Sturlubók og Hauksbók sammála og segja: „Þórir haustmyrkr nam Selvág ok Krýsuvík, en Heggr son hans bjó at Vági.“ Af því má áætla að Þórir hafi sjálfur búið í Krýsuvík. Um tímasetningu landnáms í Grindavík og Krýsuvík er ekkert vitað með vissu. Rannsóknir jarðfræðinga hafa þó bent til þess að frásögn Landnámu af jarðeldum í Skaftafellssýslu eigi við rök að styðjast og hafi þeir líklega átt sér stað á 4. áratug 10. aldar. Sé það rétt, og sögurnar jafnframt taldar trúverðugar, má hafa það sem vísbendingu um tímasetningu landnáms í Grindavík. Segja má að Grindavík hafi horfið af kortinu á 13. og 14. öld. Ástæðan var ítrekuð eldgos. Um þetta verður þó ekkert fullyrt.

Grindavík

Járngerðarstaðir – gömlu húsin færð í nútímann.

Hvenær Þórir haustmyrkur kom í Krýsuvík og Selvog er hins vegar ekki hægt að lesa úr frásögn Landnámu. Hvergi er heldur talað um hversu margir fylgdu þeim Þóri eða Molda-Gnúp að landnámum þeirra á Suðurströndinni. Staðsetning allra lögbýlanna í hreppnum er kunn, enda var búið á þeim öllum fram á 20. öld. Enn er búið á Járngerðarstöðum, Hópi, Þórkötlustöðum og Hrauni, þótt búskapur sé þar ekki mikill.

Staður

Staður 1960. Kirkjugarðurinn fjær.

Staður fór í eyði árið 1964, og hafa flestöll hús þar verið rifin og tún að miklu leyti sléttuð. Þar er þó enn kirkjugarður Grindvíkinga, þótt sóknarkirkja hafi ekki verið þar síðan 1909.

Húsatóftir

Húsatóftir.

Á Húsatóptum hefur ekki verið búið síðan 1946 en þar er nú Golfvöllur Grindvíkinga og er heimatúnið því meira og minna rennislétt. Síðasta íbúðarhúsið á Tóptum, reist 1930, er nú klúbbshús golfklúbbsins en nýtt íbúðarhús hefur verið reist í túninu norðaustan þess. Þar er þó enginn búskapur. Ísólfsskáli og Krýsuvík fóru í eyði um eða eftir miðja 20. öld. Á Ísólfsskála stendur íbúðarhús frá 1929 enn ásamt tveimur sumarbústöðum. Að öðru leyti eru þar engin hús og túnin meira og minna sléttuð. Í Krýsuvík hafa hús verið rifin, nema kirkjan frá árinu 1857 sem enn stendur. Ólíkt hinum jörðunum hafa tún þar hins vegar ekki verið sléttuð nema að litlu leyti.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – gamli bærinn.

Tveir bæjanna hafa verið fluttir til svo vitað sé. Annars vegar Ísólfsskáli, en árið 1916 var bærinn fluttur, eftir að hafa verið í eyði í þrjú ár. Bærinn var byggður frá stofni um 150 m norðan við eldra bæjarstæði í túninu, en landbrot sjávar er mikið vandamál á þessum slóðum. Hins vegar Krýsuvík, en talið er að upprunalega hafi bærinn staðið þar mun sunnar, enda er nafngiftin einkennileg fyrir bæ sem stendur svo langt inn í landi. Austast í Ögmundarhrauni eru hólmar tveir í hrauninu og heitir sá eystri Húshólmi. Í honum eru rústir bæjar og kirkju og hafa þær verið nefndar Gamla-Krýsuvík. Munnmæli herma að þar hafi bærinn staðið áður en hraunið rann. Þótt ekkert sé vitað með vissu um það er víst að í hólmanum eru greinilegar tóftir sem benda til þess að þar hafi verið bær. Örnefnið Húshólmi kemur fyrst fyrir í trjáreikningi frá 1609.

Húshólmi

Húshólmi – tilgáta.

Í Ferðabók Eggerts og Bjarna, sem lýsir ferðum þeirra árin 1752-57, segir ennfremur: „Eldflóðið féll í sjó niður og eyddi nokkrum bæjum á því svæði, sem nú heitir Ögmundarhraun. Meðal þeirra var kirkjustaður, sem Hólmastaður hét, og sjást þar enn minjar kirkjugarðsins og húsatóttanna.“ Örnefnið „Hólmastaður“ er þó líklega til komið eftir að hraunið rann og má því ímynda sér að þar hafi bærinn í Krýsuvík áður verið. Haukur Jóhannesson jarðfræðingur gróf tvö snið í Húshólma, annað í gegnum torfgarð sem þar er og hitt í vegghleðslu fjárborgar nyrst í hólmanum. Bæði sniðin bentu til þess að mannvirkin hefðu verið reist áður en landnámslagið féll, eða fyrir árið 900. Hins vegar lá miðaldalagið upp að hleðslunum beggja vegna sem bendir til þess að verulega hafi verið fokið að þeim þegar það féll 1226/27.

Þórkötlusdys

Þórkötludys.

Ekki hefur fundist heillegt kuml á skráningarsvæðinu svo vitað sé, en kuml eru sjálfstæður vitnisburður um byggð fyrir 1000. Sögusagnir herma þó að Járngerðarleiði og Þórkötluleiði sé að finna í túnum samnefndra bæja. Brynjúlfur Jónsson lét grafa í leiði Járngerðar sumarið 1902 og reyndist það vera öskuhaugur.

Kerlingadalur

Dysjar Herdísar og Krýsu ofan Kerlingahvamms. Dys smalans fremst.

Í landi Krýsuvíkur eru auk þess heimildir um fjórar steindysjar og eru tvær þeirra friðlýstar síðan 1964. Þar eiga að vera dysjaðar fornkonur tvær, þær Krýs og Herdís, en bæir þeirra, Krýsuvík og Herdísarvík, drógu nafn af þeim. Kerlingarnar greindi á um landamerki og mættust á Deildarhálsi og vildi hvorug gefa eftir. Lauk svo með þeim að hvor drap aðra og voru þær síðan dysjaðar í svonefndum Kerlingadal austan við hálsinn. Auk þeirra mun þar vera dysjaður smali sem einnig féll í átökum kvennanna. Hin fjórða dys í Krýsuvíkurlandi er svokallað Ögmundarleiði. Mun þar vera dysjaður Ögmundur sá er Ögmundarhraun dregur nafn sitt af og myrtur var eftir að hafa rutt braut í gegnum hraunið. Ekki hefur verið grafið í dysjar þessar svo vitað sé. Að lokum herma sögusagnir að í Geldingadölum í Hraunslandi sé þúst þar sem Ísólfur á Skála sé grafinn, en hún hefur ekki verið rannsökuð.

Dágon

Dágon á Selatöngum – í fjöruborðinu. Nú horfinn.

Frá fornu fari og allt til ársins 1946, þegar hluti Krýsuvíkurlands var innlimaður í lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar, náði Grindavíkurhreppur yfir tvær kirkjusóknir. Þetta voru Staðarsókn að vestan og Krýsuvíkursókn að austan. Staðarsókn, eða Grindavíkursókn eins og hún var einnig nefnd, teygði sig á milli Valahnúks að vestan að Selatöngum að austan. Miðuðust sóknarmörkin við klett í fjöruborðinu sem nefndur var Dágon, og náði Krýsuvíkursókn frá honum og austur að Seljabótarnefi.14 Allir bæirnir nema Krýsuvík, þ.e. Húsatóptir, Járngerðarstaðir, Hóp, Þórkötlustaðir, Hraun og Ísólfsskáli ásamt hjáleigum áttu kirkjusókn að Stað. Var því um langan kirkjuveg að fara, sérstaklega fyrir austustu bæina, Ísólfsskála og Hraun. Krýsuvík þjónaði heimilisfólki sínu og hjáleigum auk þeirra sem dvöldu í verstöðinni á Selastöngum.

Staður

Staður fyrrum.

Í dag er sóknarkirkja Grindvíkinga í Járngerðarstaðahverfi (Grindavíkurkaupstað), en kirkjugarður sóknarinnar er að Stað í Staðarhverfi, þar sem sóknarkirkja var til ársins 1909. Aðeins er ein önnur uppistandandi kirkja í hreppnum og er sú í Krýsuvík. Öruggar heimildir eru um kirkjur að Stað, á Hrauni og í Krýsuvík frá fornu fari, en hugsanlega hafa þær verið fleiri. Páll Jónsson biskup í Skálholti lét í sinni biskupstíð gera skrá yfir kirkjur í umdæmi Skálholtsstóls. Hann var biskup frá 1195 til 1211 og er skráin yfirleitt talin vera frá því um 1200. Kirknaskrá Páls greinir frá tveimur kirkjum í Grindavíkurhreppi. Annars vegar er sögð prestskyld kirkja að Stað í Grindavík og hins vegar í Krýsuvík.

Húshólmi

Húshólmi – kirkjutóft.

Eins og áður segir herma munnmæli að bærinn í Krýsuvík hafi í upphafi verið þar sem nú heitir Húshólmi í Ögmundarhrauni og telja menn að þar megi sjá bæði bæjartóftir og kirkjutóft. Ögmundarhraun er talið hafa runnið 1151 og ætti því sú kirkja sem nefnd er í kirknaskrá Páls að vera sú sem reist var eftir að bærinn var fluttur, en ekki sú í hólmanum. Það verður þó ekki fullyrt og telja sumir að svo sé einmitt ekki, heldur hafi kirkjan í Ögmundarhrauni verið í notkun í allt að fjórar aldir eftir að hraunið rann og þannig sé til komið nafnið „Hólmastaður“.18 Er sú tilgáta meðal annars reist á því að kirkjutóftin í Húshólma þykir mun heillegri en aðrar tóftir sem þar eru. Auk þess hefur kirkjan verið miðsvæðis, þ.e. á milli Krýsuvíkur og Selatanga. Að lokum er svo sú staðreynd að Krýsuvíkurprestakall var afnumið með hirðstjórabréfi árið 1563, fjórum öldum eftir að hraunið rann, vegna þess hve fámennt það var orðið. Guðshús fékk þó að standa þar áfram vegna þess heimilisfólks sem þó var þar.19 Ekkert af þessu eru óyggjandi rök fyrir því að meint kirkja í Húshólma hafi ekki lagst af um leið og byggðin þar.

Staður

Staður. Kirkjan stóð á hólnum nær. Gröf sjómannanna af Anlaby er vinstra megin ofanvert.

Hin kirkjan sem nefnd var í kirknaskrá Páls Jónssonar var sú að Stað í Grindavík, en þar var sóknarkirkja Grindvíkinga frá fornu fari til ársins 1909. Gömul munnmæli herma hins vegar að kirkja hafi einnig verið á Skarfasetri vestast á Reykjanesi. Árni Magnússon greinir frá munnmælum þessum í Chorographica Islandica og segist hafa þau eftir Eyjólfi Jónssyni og öðrum gömlum Grindvíkingum. Samkvæmt þeim var Staður áður í miðri sveit og sóttu Grindvíkingar kirkju að Hrauni þar til nesið brann og kirkjan var flutt frá Skarfasetri að Stað. Sjö bæir áttu þá að hafa verið vestan Staðar: Rafnkelsstaðir, Mölvík, Sandvík, Háleyjar, Krossvík, Herkistaðir og kirkjustaðurinn Skarfasetur. Engar heimildir styðja þessa frásögn né hrekja, en margir jarðfræðingar munu þó telja ólíklegt að þetta svæði hafi nokkurn tíma verið gróið og byggilegt. Sem fyrr er þó ekkert hægt að fullyrða í þessum efnum. Mögulega hefur kirkjan á Skarfasetri verið einhverskonar útkirkja, en höfuðkirkja Grindvíkinga, þá sem síðar, verið að Stað. Að minnsta kosti á það við svo langt sem öruggar heimildir ná. Reykjaneseldar eru taldir hefjast eftir 1210 og standa með hléum til um 1240 og því hefði Skarfasetur samkvæmt munnmælunum átt að vera í byggð þegar kirknaskrá Páls biskups var tekin saman. Ef þar hefði verið kirkja með prestskyldu hefði það átt að koma fram í skránni.

Grindavík

Grindavíkurkirkja.

Sóknarkirkja var að Stað til ársins 1909 er hún var aflögð og önnur kirkja vígð í Járngerðarstaðahverfi, þ.e. núverandi Grindavíkurkaupstað. Kirkjugarður Grindvíkinga er hins vegar enn að Stað og því hefur aldrei verið grafið við Grindavíkurkirkju. Bænhús og útkirkjur voru algeng á Íslandi og voru oft á öðrum til þriðja hverjum bæ, þótt heimildir séu ekki alltaf tiltækar um þau. Í bréfi um byggingu jarða Skálholtsstóls í Grindavík frá 1563 er boðið að breyta bænhúskúgildum á Hrauni, Þórkötlustöðum og Hópi í leigukúgildi og gæti það verið vísbending um bænhús á þessum stöðum. Engar aðrar heimildir minnast á bænhús á Þórkötlustöðum eða Hópi, en á Hrauni var sem áður segir.

Hraun

Hraun – forn signingafontur frá fv. kirkju nær.

Samkvæmt munnmælum, sem áður er greint frá, áttu Grindvíkingar að hafa sótt kirkju að Hrauni áður en Reykjaneseldar brunnu og kirkjan var flutt frá Skarfasetri að Stað. Þetta er fremur ólíklegt þar sem Hraunskirkju er ekki getið í kirknaskrá Páls Jónssonar biskups frá því um 1200. Hins vegar er enginn vafi á að kirkja var á Hrauni á miðöldum. Engar heimildir minnast á kirkju á Hrauni á 15. eða 16. öld, og er fyrstu beinu heimildina um hana að finna í Fitjaannál fyrir árið 1602. Þar segir: „Þá drukknuðu á stóra farmaskipi Skálholtsstaðar 24 manneskjur með einni stúlku, fyrir framan Þorkötlustaði í Grindavík … og voru þeir flestir jarðaðir í bænhúsinu í Grindavík á Hrauni.“ Skömmu síðar hefur kirkjan líklega verið aflögð, en í Chorographica Islandica, sem rituð var um 1700, segir Árni Magnússon kirkjuna aflagða fyrir um 100 árum. Í máldaga Staðarkirkju frá 1642 kemur auk þess fram að klukka í eigu hennar sé komin frá Hrauni. Að öðru leyti er lítið vitað með vissu um guðshús þetta. Líklega hefur það verið annaðhvort bænhús eða hálfkirkja, og þá vafalítið þjónað frá Stað. Við kirkjuna hefur verið kirkjugarður þar sem greftraðir hafa verið heimamenn og e.t.v. menn úr Þórkötlustaða- og Járngerðarstaðahverfum.

Hraun

Hraun.

Í Vilkinsmáldaga frá 1397 kveður á um kirkjutíundargreiðslur, legkaup og legsöngskaup Járngerðarstaðamanna, og ber Járngerðarstaðamönnum samkvæmt því að greiða legsöngskaup til Staðar en ekkert legkaup. Þetta gæti bent til þess að á Járngerðarstöðum hafi verið bænhús eða útkirkja, en um það eru engar frekari heimildir. Líklegra er hins vegar að þetta sé vísbending um að grafreitur Járngerðarstaðamanna, og þá væntanlega Þórkötlustaðamanna einnig, hafi verið á Hrauni en presturinn setið að Stað.

Staðarhverfi

Staðarhverfi. 

Í áðurnefndum Vilkinsmáldaga frá 1397 er eftirfarandi klausa: „Hún [kirkjan að Stað] á fjórðung úr Lónalandi, og skal sá hafa leigu af þeim sem kirkju varðveitir slíka sem settist við þann er þar býr.“ Þessi klausa hefur þótt torskilin þar sem jörð með þessu nafni hefur aldrei verið í Grindavík svo vitað sé. Í riti sínu Saga Grindavíkur. Frá landnámi til 1800 gerir Jón Þ. Þór ráð fyrir því að um misritun sé að ræða og í stað „Lónalands“ eigi þar að standa „Hraunsland“. Ennfremur leggur hann þann skilning í ofangreinda klausu að leiga af jarðarpartinum í Lónalandi skyldi renna til Staðar eftir því sem um semdist milli kirkjuhaldara á Lónalandi og ábúanda þar. Á þessum grunni telur hann hugsanlegt að kirkja á Hrauni sé risin 1397, þegar Vilkinsmáldagi er gerður. Hér er hins vegar um misskilning að ræða. Það sem átt er við með ofangreindri klausu er að leiga af eignarhlut Staðarkirkju í Lónalandi skyldi renna til kirkjunnar, þ.e. Staðarkirkju, eftir því sem um semdist við ábúanda á Lónalandi. Það er því auðséð að ekki má af þessu draga neinar ályktanir um kirkju á Hrauni.

Grindavík

Grindavík – Rafnkelsstaðir í Járngerðarstaðahverfi.

Örnefni, eins og t.d. bæjarnöfn, hafa mikið verið rannsökuð í gegnum tíðina og geta þau oft gefið einhverjar vísbendingar um aldur byggðar. Bæjarnöfn sem eru ósamsett náttúrunöfn eru yfirleitt talin til marks um elsta stig búsetu. Algengustu liðir í bæjarnöfnum í Landnámu eru fell, dalur, holt, nes vík, hóll, á og eyri, og flest þeirra ósamsett. Ósamsett náttúrunöfn í Grindavíkurhreppi eru tvö, Hraun og Hóp. Ein jörð, Krýsuvík, ber samsett náttúrunafn, og er í Landnámu sögð numin um leið og Selvogur, sem einnig er samsett náttúrunafn. Bæjarnöfn sem enda á –staðir eru yfirleitt talin tilheyra síðari stigum landnáms. Tvö lögbýli bera slík nöfn, Þórkötlustaðir og Járngerðarstaðir (og eyðijörðin Gestsstaðir í landi Krýsuvíkur), auk þess sem hugsanlega mætti telja Stað til þessa flokks.

Hóp

Hóp – tóftir gamla bæjarins.

Miðað við þessar vísbendingar einar mætti ætla að Hraun og Hóp hafi verið þær jarðir sem fyrstar byggðust í Grindavík. Sé hins vegar litið til áðurgreindra jarðfræðirannsókna á eldsumbrotum í Skaftafellssýslu, má e.t.v. samkvæmt þeim rekja landnám í Grindavík til 4. áratugar 10. aldar (en engan veginn er hægt að fullyrða um það). Það verður að teljast til síðari stiga landnáms, enda hafði Ari Þorgilsson, ritari Íslendingabókar, það eftir spökum mönnum „…at á sex tegum vetra yrði Ísland albyggt…“. Samkvæmt því væri eðlilegt að þær jarðir sem fyrstar byggðust í Grindavík hafi borið nöfn með endingunni –staðir. Auk þess má benda á að byggð í Grindavík skiptist í þrjú hverfi sem bera nafn af jörðunum Stað, Járngerðarstöðum og Þórkötlustöðum, þ.e. þeim jörðum sem samkvæmt nafnakenningunni teljast til síðari stiga landnáms. Í öllum hverfunum eru þó tvö lögbýli, Staður og Húsatóptir í Staðarhverfi, Járngerðarstaðir og Hóp í Járngerðarstaðahverfi og Þórkötlustaðir og Hraun í Þórkötlustaðahverfi.

Hraun

Hraun – Þórkötlustaðagata fremst.

Ef áðurnefnd kenning um náttúrunöfn ætti að standast í þessu tilviki og Hraun og Hóp væru þær jarðir sem fyrstar byggðust hefði verið eðlilegra að hverfin drægju nafn af þessum fyrstu lögbýlum, þ.e. „Hraunshverfi“ og „Hópshverfi“. En Jón Þ. Þór segir í Sögu Grindavíkur að líklega megi rekja hverfaskiptinguna allt aftur til landnámsaldar. Ef litið er á landfræðilega dreifingu jarðanna má einnig sjá að dreifing jarðanna Staðar, Járngerðarstaða og Þórkötlustaða er mun jafnari ( þ.e. fjarlægð á milli bæjanna er mjög svipuð) en Staðar, Hóps og Hrauns. Hafi landnámsmenn þá viljað skipta landinu bróðurlega á milli sín hefði því verið hyggilegra að velja fyrri kostinn. Þetta eru hins vegar aðeins getgátur einar og ekkert hægt að fullyrða um þessi efni. Standist þessar örnefnakenningar hins vegar má hugsa sér að landnám í Krýsuvík (og Selvogi) hafi orðið fyrr en í Grindavík.

Stóra-Gerði

Stóra-Gerði í Staðarhverfi.

Dýrleiki jarða getur oft gefið vísbendingar um byggðaþróun þar sem ætla má að dýrustu jarðirnar hafi byggst fyrstar. Dýrleikinn var fasteignamat sem virðist hafa verið fastsett mjög snemma, a.m.k. þegar á 12. öld og má því hafa hann sem vísbendingu um misjöfn gæði jarðanna. Dýrleiki flestra jarðanna helst sá sami milli 1695 og 1847. Ísólfsskáli, Hraun og Hóp lækka hins vegar verulega í dýrleika á tímabilinu og er líklegt að landbrot sjávar og uppblástur lands séu helstu orsakir þess. Eins og sést er Staður sagður vera í konungseign árið 1847. Neðanmáls í Jarðatali Johnsens segir hins vegar: „Sýslumaður, og eins jb. [jarðabók] 1803, telur jörð þessa konúngs eign, en jb. 1760 og en prentaða stólsjarðabók, með hér greindum dýrleika og lsk., meðal stólsjarða. “Líklega hefur Stað þarna verið ruglað saman við Húsatóptir, sem voru í konungseign (til 1837) og er getið meðal seldra konungsjarða frá 1760 til ársloka 1846 í jarðatali Johnsens. Staðar er hins vegar ekki getið meðal seldra jarða Skálholtsstóls í fyrrgreindu jarðatali og ætti því réttilega að teljast eign Skálholtsstóls en ekki konungs árið 1847.

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi.

Í Grindavíkurhreppi var margbýlt á flestum jörðum, og hjáleigur og tómthús voru nokkuð mörg, enda ekki síður treyst á sjósókn en búskap í þessari sjávarsveit. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 eru byggðar hjáleigur 27 talsins. Í Jarðatali Johnsens 150 árum síðar eru þær 23. Búseta á hjáleigum og afbýlum fór þó mjög eftir árferði, spratt upp í góðærum en dróst saman þegar harðnaði í ári, og hefur því verið mjög breytileg í gegnum aldirnar.

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi – Túnakort 1918.

Bygging hjáleiga og þurrabúða var að mestu hætt þegar kom fram á 20. öld, en í staðinn var tekið að reisa nýbýli, oft í landi eldri bújarða. Fiskneysla jókst til muna á 12. og 13. öld og sjávarútvegur fór að fá aukið vægi. Ástæða þess er m.a. kólnandi veðurfar, samdráttur í landbúnaði, vaxandi fólksfjöldi, aukin byggð við sjávarsíðuna og tilkoma föstunnar. Verstöðvar tóku þá að spretta upp í Grindavík sem annars staðar þar sem stutt var á miðin og ný stétt manna, búðsetufólk og þurrabúðarfólk, varð til. Það er ljóst að sjávarútvegur hefur leikið stórt hlutverk í Grindavíkurhreppi frá öndverðu og svæðið fljótlega orðið mikilvægt að því leyti. Landgæði eru ekki mikil í byggðarlaginu og hafa í gegnum aldirnar spillst mjög af eldsumbrotum, uppblæstri og ágangi sjávar. Það verður því að teljast einsýnt að í byggðarlaginu hafi menn þurft að reiða sig á sjósókn samhliða búskapnum þar sem landbúnaðurinn einn hafi ekki staðið undir viðurværi manna.

Seltangar

Selatangar – vestasta sjóbúðin.

Verstöðvar voru á tveimur stöðum í Grindavíkurhreppi, í Grindavík og á Selatöngum. Á Selatöngum var útver með nokkrum verbúðum en aldrei föst búseta. Frá Selatöngum var einkum útræði Krýsuvíkurmanna og var síðast róið þaðan 1884. Þar var aldrei stórt útver, en til er gömul þula sem telur 73 menn við róðra þar. Í Grindavík var dæmigert „blandað ver“, þar sem var í senn heimaver, útver og viðleguver.

Keflavík

Keflavík – rekaítak Krýsuvíkurkirkju.

Þegar á 13. öld áttu Viðeyjarklaustur og Skálholtsstaður rekaítök í Grindavík og þótt þess sé ekki getið sérstaklega er líklegt að þessir staðir hafi þá þegar haft skipstöðu þar. Að minnsta kosti varð Grindavík, ásamt Þorlákshöfn, aðalverstöð Skálholtsstóls, enda átti biskupsstóllinn þar allar jarðir nema Húsatóptir þegar komið er fram á 17. öld. Það var jafnan margt aðkomu vermanna í Grindavík en bátafjöldinn var löngum breytilegur eftir árferði. Sem dæmi reru 26 skip þaðan á vetrarvertíð árið 1703, en árið 1767 eru taldir þar 75 bátar. Um 1870 voru 12 skip gerð út frá Grindavík og um aldamótin 1900 voru þau 30. Sögu Grindavíkur sem árabátaverstöðvar lauk ekki fyrr en á þriðja áratug síðustu aldar.

Grindavík

Grindavík – Gerðavellir fremst. Forn verslunarstaður.

Grindavík var einnig verslunarstaður og komu þangað erlend kaupskip allt frá miðöldum fram á 18. öld. Lengi vel, eða fram á 14. öld, sóttu Grindvíkingar líklegast verslun til Eyrarbakka, en fyrst er getið um komu kauskips til Grindavíkur í lok þeirrar aldar. Með vaxandi skreiðarútflutningi varð vægi kauphafnarinnar í Grindavík meira og benda tiltækar heimildir til þess að umsvifin hafi verið orðin þó nokkur á 15. öld. Englendingar og Hansakaupmenn komu mjög við sögu Grindavíkur á 15. og 16. öld, eins og landsins alls. Fyrsta koma ensks skips hingað til lands, sem heimildir greina frá, var árið 1412, en siglingar Englendinga jukust svo á næstu árum. Umsvif þeirra urðu mest á suður- og vesturlandi og Grindavík varð ein helsta bækistöð þeirra ásamt Básendum, Vestmannaeyjum, Hafnarfirði, Rifi og Flatey á Breiðafirði.

Virki

Virkið Jóhanns breiða ofan við Stórubót.

Aðsetur Englendinga í Grindavík mun hafa verið þar sem heitir „á Hellum“ í Járngerðarstaðahverfi, lítið eitt utan við aðalbyggðina þar. Þegar leið á 2. áratug 16. aldar fór að halla undan fæti hjá enskum kaupmönnum hér við land um leið og vegur Hansakaupmanna fór vaxandi. Um 1520 var svo komið að Englendingar höfðu hvergi fasta bækistöð nema í Grindavík og Vestmannaeyjum. Sögu þeirra í Grindavík lauk svo að fullu með „Grindavíkurstríðinu“ árið 1532 þegar Jóhann Breiði og menn hans voru drepnir í búðum sínum, og síðan dysjaðir þar sem síðan heitir Engelska lág. Eftir þetta komst útgerð í Grindavík að fullu í hendur heimamanna, konungs og kirkju, en Þjóðverjar tóku við versluninni og síðar þegnar Danakonungs. „Enska öldin“ í sögu Grindavíkur hefur því ekki staðið nema í um 14 ár, og samskipti þeirra við heimamenn því e.t.v. ekki verið gríðarleg.

Junkaragerði

Garður í Junkeragerði á Gerðavöllum – uppdráttur ÓSÁ.

Eftir brotthvarf Englendinga úr Íslandsversluninni færðust Þjóðverjar mjög í aukana og sátu þeir nánast einir að henni í um sjö áratuga skeið. Þessi útgerð og verslun Hansamanna hér við land var konungsvaldinu mikill þyrnir í augum enda stefndi það dönskum yfirráðum beinlínis í hættu. Samtímaheimildir greina ekki frá því hvort Hansakaupmenn stunduðu útgerð frá Grindavík, en það er þó ekki ólíklegt þar sem aðalbækistöðvar þeirra voru á Básendum og í Höfnum. Munnmæli herma að aðsetur þeirra í Víkinni hafi verið á Gerðavöllum í Járngerðarstaðahverfi. Eftir að svonefndur Skipadómur var dæmdur árið 1545 versnaði staða Þjóðverja hér við land til muna. Þeir héldu versluninni þó áfram út öldina en samkeppnin við Dani óx jafnt og þétt.

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir – bæir og sögusvið „Tyrkjaránsins“ – uppdráttur ÓSÁ.

Með opnu bréfi Kristjáns konungs IV, dagsettu þann 20. apríl 1602, var borgurum í Kaupmannahöfn, Málmeyjum og Helsingjaeyri veittur einkaréttur á allri Íslandsverslun. Lét konungur skipta kauphöfnum hér á landi á milli borganna þriggja og kom Grindavíkurhöfn í hlut Kaupmannahafnar. Hvar í Víkinni verslunin hefur verið er ekki vitað með vissu, en heimildir um Tyrkjaránið árið 1627 herma að danska kaupskipið hafi þá legið á Járngerðarstaðasundi. Hefur verslunin líklega haft bækistöðvar sínar þar til ársins 1639 þegar kaupmenn hættu að sigla til Grindavíkur vegna slæmrar hafnaraðstöðu þar. Urðu Grindvíkingar þá að sækja alla sína verslun að Básendum eða Eyrarbakka.

Húsatóftir

Húsatóftir.

Verslun í Grindavík hófst að nýju 1665 eftir að Skálholtsbiskup hafði hvatt til þess í bréfi. Að þessu sinni fór hún hins vegar ekki fram í Járngerðarstaðahverfi heldur voru verslunarbúðir reistar í Arfadalsvík í Staðarhverfi. Þangað sigldu kaupmenn til ársins 1745 að skyndilega var hætt að sigla þangað og báru kaupmenn fyrir sig að hafnaraðstaðan hefði spillst af sandi. Verslunin lagðist þó ekki af með öllu því nokkurskonar útibúi var haldið úti í Arfadal, þar sem undirkaupmaður frá Básendum sá um móttöku og afhendingu varnings. Grindvíkingar önnuðust sjálfir allan flutning á milli Grindavíkur og Básenda en þáðu kaup fyrir.

Húsatóptir

Kort Kristófers Klog frá 1751 af verslunarstaðnum á Húsatóftum og Stað.

Með konungstilskipun og lögum sem gefin voru út 13. júní 1787 var tekin upp svokölluð fríhöndlun á Íslandi, þ.e. öllum þegnum Danakonungs var frjálst að versla á Íslandi. Með lögunum voru stofnaðir sex kaupstaðir og landinu skipt í kaupsvið. Innan kaupsviðanna voru nokkrar úthafnir þar sem sjálfstæðir kaupmenn störfuðu. Með þessu lenti Grindavík, ásamt öðrum höfnum á Suðurnesjum, innan kaupsviðs Reykjavíkur. Eignir konungs á Búðasandi í Arfadal voru boðnar upp en kaupandinn, Árni Jónsson undirkaupmaður á Eyrarbakka, reyndist ekki farsæll í starfi og var versluninni brátt lokað. Næstu öldina urðu Grindvíkingar því að sækja verslun til Keflavíkur.

Hóp

Hóp í Grindavík – uppdráttur ÓSÁ.

Af dreifingu byggðar í Grindavíkurhreppi má greina þrjá byggðarkjarna eða „hverfi“, Staðarhverfi vestast, þá Járngerðarstaðahverfi og loks Þórkötlustaðahverfi. Raunar mætti með nokkrum rökum tala um Krýsuvík og hjáleigur hennar sem hið fjórða hverfi, en byggð þar er skýrt afmörkuð frá annarri byggð í hreppnum. Í heimildum frá 19. öld kemur einnig fram að Grindvíkingar litu margir hverjir á Krýsuvík sem „hverfi“ töluðu gjarnan um Krýsuvíkurhverfi. Ekkert er vitað með vissu um upphaf hverfanna en þó er líklegt að þau hafi tekið að myndast þegar á landnámsöld. Sé frásögn Sturlubókar Landnámu tekin fram yfir Hauksbók, og gert ráð fyrir að allir fjórir synir Molda-Gnúps hafi numið land í Grindavík, má telja hugsanlegt að þeir hafi byggt bæina Stað, Járngerðarstaði og Þórkötlustaði, án þess að hægt sé að fullyrða nokkuð um það. Þá má einnig ætla að einhverjir úr fylgdarliði þeirra hafi fengið land til búskapar á Húsatóptum og Hrauni. Þessar jarðir auk Hóps hafa svo orðið að lögbýlum sem hjáleigur eða önnur afbýli byggðust útfrá og þannig hafa hverfin smám saman orðið til.

Þórkötlustaðanes

Örnefni ofan bryggjunnar í Þórkötlustaðanesi – uppdráttur ÓSÁ.

Sú staðreynd að sjósókn hefur löngum verið stunduð jafnhliða landbúnaði á svæðinu hefur án efa einnig ráðið nokkru um tilurð og viðhald hverfanna. Um aldamótin 1800 var byggð í Grindavík með sama sniði og þá hafði verið um aldir. Fjölmennast var í hverfunum þremur og Járngerðarstaðahverfi þeirra stærst og þéttbýlast með 59 íbúa. Alla 19. öldina hélt byggðin í Járngerðarstaðahverfi áfram að vaxa og styrkjast og við upphaf 20. aldar var þar orðið til þorp, við og umhverfis Hópið.

Grindavík

Grindavík, Járngerðarstaðahverfi, 1963.

Margt hefur valdið því að þéttbýlisþróunin varð á þennan veg. Járngerðarstaðahverfi lá miðsvæðis í sveitinni og leiðin þangað frá öðrum vaxandi þéttbýliskjörnum á Reykjanesi og við Faxaflóa var bæði skemmri og greiðari en t.d. að Þórkötlustöðum. Auk þess voru skilyrði til lendingar og útróðra betri í Járngerðarstaðahverfi en á Þórkötlustöðum. Síðast en ekki síst tók fyrsta verslun svæðisins til starfa í Járngerðarstaðahverfi um aldamótin 1900, þ.e. sú fyrsta frá því verslun í Grindavík lagðist af í lok 18. aldar eins og áður greinir. Þessi þéttbýliskjarni, einkum vestan megin Hópsins, í Járngerðarstaðahverfi, varð þungamiðja Grindavíkurkauptúns sem síðan hlaut kaupstaðarréttindi árið 1947.“

Heimild:
-Fornleifaskráning í Grindavík – 3. áfangi, Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2004.

Grindavík

Grindavík, Járngerðarstaðahverfi, 1958.

Skógfellavegur

Gengið var inn trönusvæðið austan Grindavíkurvegar.

Skógfellavegur

Litla-Skógfell.

Í stað þess að fylgja veginum til austurs um svæðið var gengið beint áfram yfir úfið Skógfellahraunið til austurs. Það er erfitt yfirferðar og í rauninni leggjabrjótur, enda var gengið fram á löngu dauðan stakan legg lengst inni í hrauninu, sem einhver hafði misst þarna á leið sinni þar um. Svipast var um eftir öðrum beinum, en engin fundust. Það verður því að draga þá ályktun að viðkomandi hafi komist yfir það á a.m.k. öðrum fætinum. Loks var komið að fínum slóða til suðurs inn í hraunið. Honum var fylgt í átt að Litla-Skógfelli. Miðsvæðis við slóðann er stórbrotið hraun utan í kjarrivöxnum brekkum. Í því eru margir bollar og smáop, en hvergi rásir eða hellar, einungis smáskútar. Vottaði fyrir hleðslu á einum stað.

Skógfellavegur

Skógfellavegur.

Þegar komið var upp á vestari öxlina á Litla-Skógfelli sást vel tilgangur slóðans – leitin að malarnámu. Rótað hafði verið upp á öxlinni og greinilega verið að kanna hvort Litla-Skógfell væri vænlegt til malartekju. (Þess skal getið til að taka af allan vafa að Litla-Skógfell er í óskiptu landi Þórkötlustaðahverfis og ekki er vitað til þess að eigendur þess hafi samþykkt malartekju þarna, hvað þá slóðagerðina, sem einnig er á þess landi).
Haldið var áfram til suðurs að Skógfellastígnum, sem liggur þarna á milli Skógfellanna á sléttu helluhrauni. Stígurinn er klappaður í helluna (sbr. mynd) á löngum kafla. Blankalogn og glaðvær lóukórssöngur í kvöldkyrrðinni við sólarspil. Slóðinn liggur áfram til suðurs inn í hraunið, í átt að Kastinu.

Skógfellavegur

Skógfellavegur – varða.

Gengið var til vesturs um helluhraunið og þá komið aftur að hraunbrún Skógfellshrauns. Kanturinn með hlíðinni er vel gróinn og liggur stígur á milli hennar og hraunsins. Til vesturs mátti sjá slétt mosahraun og virtist þar vel greiðfært yfir hraunið. Ekki sást móta fyrir stíg, en þykkur mosi er þarna yfir. Ef taka ætti mið af svæðinu ofan við hlíðina og hugsanlegu framhaldi af leið vestur yfir hraunið þá væri hún einhvers staðar þarna, en hún væri þá beint framhald af Sandakraveginum til suðvesturs.
Ákveðið var að ganga slóðann til baka. Nyrst við hann er borhola.
Gangan tók 3 klst. Veður var frábært – logn, stilla og sól.

Skógfellavegur

Varða við Skógfellastíg. Litla Skógfell framundan.

Staðhverfingabók

Í bókinni „Mannlífi mikilla sæva – Staðhverfingabók„,  er m.a. lýst hungurástandi því sem ríkti í Grindavík og á Suðurnesjum um miðja 18. öld – á tímum einokunarverslunar Dana.

Tyrkjabyrgi

Eitt byrgjanna.

Ekki verður, í ljósi þess, hjá því komist að skoða tilvist „Tyrkjabyrgjanna“ svonefndu í Sundvörðuhrauni neðan Eldvarpa, en þau virðast fyrst og fremst hafa verið byggð sem fiskbyrgi – og þá mögulegar vistgeymslur til að bregðast við ríkjandi tímabundnu ástandi. Ekki er vitað um aldur þeirra, en hafa ber í huga að fyrr á öldum voru allflestir Grindvíkingar leiguliðar og þurftu því á stundum nauðráð til bjargar. Byrgin gleymdust, en voru uppgötvuð sem minjar í lok 19. aldar. Ekki er ólíklegt að ætla að Grindvíkingar á árabátum Skálholtsstóls hafi stungið undan einum og einum fiski, borið hann upp í hraunið og hlaðið þar byrgi sem geymslur með það fyrir augum að geta sótt hann þangað síðar þegar hungur svarf að fjölskyldunni. Síðar, með breyttum breytanda, urðu byrgin óþörf og gleymdust, enda úr alfaraleið. Byrgin bera öll einkenni fiskibyrgjanna í Strýthólahrauni á Þórkötlustaðanesi, í Slokahrauni vestan Hrauns, við Nótarhól austan Ísólfsskála og á Selatöngum.

Einokunin
„Með tilskipun 20. apríl 1602 gaf konungur þegnum sínum einkaleyfi til verslunar á Íslandi. Með því hófst Einokunarverslun Dana hér á landi, sem stóð í 185 ár. Versluninni var skipt milli þriggja borga, Kaupmannahafnar, Málmeyjar og Helsingaeyrar. Kom Grindavík, ásamt Keflavík og fjórum öðrum höfnum, í hlut höfuðstaðarins.

Staðarhverfi

Staðarhverfi – uppdráttur – ÓSÁ.

Þótt Danir ættu að taka við versluninni að fullu árið 1602 var svo ekki í raun. Til þess skorti bæði kapítal, skipakost og mannafla. Hlutu þeir því að semja um það við Þjóðverja að annast verslunina að svo miklu leyti, sem þeir ekki komust yfir hana sjálfir. Stóð svo a.m.k. 2 fyrstu áratugi einokunar. Á þessum tíma átti Skálholtsstóll nánast allar jarðir í Grindavík og nágrenni.

Aðeins tvær ýsur

Húsatóptir

Minjar konungsverslunarinnar við Húsatóptir.

Hér skal brugðið upp einni mynda, sem lýsir nokkuð vel ástandinu og afkomunni í Grindavík þegar harðindin, aflaleysið og verslunaráþjánin fylktu liði gegn þessari örbjarga þjóð með þeim afleiðingum, að á árunum 1756 og ’57 dóu 2500 manns í Skálholtumdæmi.
Árið 1756 voru búsettir í Grindavík 28 fjölskyldur eða 196 manns, segir í umfjöllun Guðmundar sýslumanns Brynjólfssonar þann 12. febrúar, um ástandið á Suðurnesjum; „sem ei hafa annað af að lifa en litla mjólk vel flestir en sumir aldeilis ekkert nema það hjá öðrum skrármegandi betla. Hér fyrir utan er heill hóp margt sjófólk í þessa sveit komið matarlítið, sem ei verður matur lánaður, svo fyrir því bíður ei annað en vísast aftur til baka heim í sveitir, hvað þessa hreppa innbyggjurum, sem sjálfu því, er hin mesta skaða von. Og orsakast þessi bágindi mest af fiskleysi og stórri óveðurháttu, sem lengi hefur viðhaldist og enn nú yfir dynur.

Húsatóftir

Húsatóftir – Kóngshús.

Því er vor þénustusamleg begjæring til hr. sýslumannsins, að hann láti þess hrepps innbyggjara fá hjálp og styrk til lífs uppihalds í soddan nauðsynjum frá Básendabúðum ei síður en aðra utan districtsmenn þar eð vér byggjum Grindarvíkurhafna matvöru fyrirliggjandi í nefndum búðum og þykjumst því eiga þar frekara tilkall en þeir, hvað ef ekki nægir, óskum vér í undirgefni að hann komi hingað hið snarasta og opni hér kaupmannshúsin til frekari hjálpar þeim nauðlítandi, sem ómögulega geta sótt mjöl eður brauð til Bátsenda, því vér meinum hér fyrirliggja um eða yfir 10 tunnur matar.“
Átta dögum síðar – þ. 19. febrúar er sýslumaður kominn til Járngerðarstaða; „Kemur þar allt hið sama fram og hér að framan er lýst. Í sveitina hafa aðeins fengist 14 tunnur matar frá Bátsendum. Hins vegar telja þeir sig vita „nokkurn mat fyrirliggja í Companiniens handelshúsum hér í Grindavík“. Það sé því lífsnauðsyn, að þau sömu séu af sýslumanninum, sem næsta yfirvaldi með fyrstu hentugleikum, opnuð nauðlíðandi fólki í sveit þessari til lífsbjargar svo ei af hungri út af deyi eða ófært verði sér næringar leita á sjónum, hvar af sjófólksins heimavísan hangir, oss og því til óbætanlegs skaða“.

Húsatóptir

Kort Kristófers Klog frá 1751 af verslunarstaðnum á Húsatóftum og Stað.

Aðspurði sýslumaðurinn samankomna þingmenn hvort þeir vissu engin önnur ráð, meðöl eður útvegi þessu nauðlíðandi fólki til lífsbjargar en Companiens handels húsa opnan í Grindavík, hvar til einlæglega og sameiginlega svaraða var: NEI“.
„Svo og undirréttast sannferðulega, að næstliðinn dag hafi nær alskipa róið í sveit þessari, og allan dag í temmilegum makindum úti verið, djúpt og grunnt að leita. Hafi þó einasta tvær ýsur á land komið en varla orðið vart við aðra drætti. Sanni þessa best, hve algjört fiskleysið sé.“

Ein tunna bygg, en brennivín nóg

Húsatóftir

Húsatóftir – leifar konungsverslunarinnar.

En hvort sem Grindavíkurverslunin hefur verið opnuð á þessari vertíð og eitthvað hefur verið gert til að seðja sárasta hungur útróðrarmanna eða ekki, þá er svo mikið víst, að vorið fyrir var þar ekki um auðugan garð að gresja, hvað matvöruna snerti, aðeins tvær tunnur af skonroki og ein af af bygggrjónum. Hins vegar voru vínbirgðirnar 878 pottar af kornbrennivíni, 92 pottar af öðru víni, 4 tunnur af öli og 68 pottar af mjöð.“

Sjá meira um „Tyrkjabyrgin“ HÉR og HÉR.

Heimild:
-Mannlíf mikilla sæva – Staðhverfingabók, séra Gísli Brynjólfsson, Bókaútgáfan Örn og Örlygur 1975-, bls. 107-113.

Húsatóftir

Minjar dönsku einokunarverslunarinnar á Húsatóftum.

Grindavík

Áhugasömum og leitandi er hér með upplýstar um helsta ágæti Grindavíkur.
Bærinn hefur upp á fjölmargt að bjóða. Sagan er svo til við hvert fótmál og minjar allsstaðar. Saga jarðfræðinnar (tiltölulega nýleg landssköpun) er hvergi eins áberandi og útivistar- og gönguleiðir með þeim fjölbreyttustu á öllu landinu.

Grindavík

Grindavík framundan.

Áhugaverðir staðir eru allt umhverfis og í bænum. Má í því sambandi nefna að vestanverðu Junkaragerðið ofan við Stórubót, Gerðisréttina, Virkið, Staðarbótina, Staðarbótarflórgólfið, Stóra-Gerði, Kóngsklöppina, Hvirfla, Staðarbrunninn, fiskibyrgin ofan við Húsatóttir, „Tyrkjabyrgin“ í Sundvörðuhrauni og „Brauðhellinn“ í Eldvörpum. Miðsvæðis eru þyrnirunnar er uxu er blóð heiðinna manna og kristinna blönduðust, Fornuvör, Einarsverslunina, Járngerðardysina eða gröftinn í gegnum eiðið – inn í Hópið. Ekki má gleyma gömlu kirkjunni og Flagghúsinu.

Að austanverðu eru minjarnar í Þórkötlustaðanesinu og fiskigarðarnir, byrgin í Strýthólahrauni, þurrkgarðarnir í Slokahrauni, dysin ofan við Hraun, Gamlibrunnur, kapellan frá því um 1400, Húshellir sá sem Grindvíkingar ætluðu að flýja í ef Tyrkirnir kæmu aftur, Hraunsvörina o.fl. o.fl.

Þjófagjá

Þjófagjá.

Að norðanverðu eru merkar minjar vegagerðarinnar, s.s. við Hesthúsabrekkuna, Baðsvallaselin, steinbyrgin við Bláalónsafleggjarann, í Arnarsetri (á Gíghæð), Innra-Njarðvíkurselið við Seltjörn ásamt hlöðnum mannvirkjum, uppgerður Skipsstígurinn að hluta á bak við Lágafell o.fl. o.fl. Þá eru ótaldir Gálgaklettarnir í Hagafelli og Þjófagjáin í Þorbjarnarfelli, Hópsselið utan í Selshálsi og jafnvel Hraunselið utan í Núpshlíðarhálsi sem og Baðsvallaselin og Selsvallaselin,sem voru lengst af aðalsel Grindvíkinga. Hraunsselið er merkilegt fyrir það að það var síðasta selið, sem aflagt var á Reykjanesi, eða árið 1914.

Þá eru í landi Grindavíkur ýmsir aðrir merkilegir staðir, s.s. Selatangar, sem eru heimur út af fyrir sig, með sjóbúðum, þurrkbyrgjum, viðveruhellum, Smíðahelli, 5 hlöðnum refagildrum og hlöðnu fjárskjóli. Að ekki sé talað um Óbrennishólma með tveimur fjárborgum, líklega þeim elstu á landinu, hlöðnum garði, sem Ögmundarhraun rann að um 1150, leifar af fornum garði o.fl.

Ferlir

FERLIR í Bálkahelli.

Húshólmi er með, auk tótta gömlu Krýsuvíkurkirkju, tóttir gamla bæjarins, forns skála, sem hraunið stöðvaðist við, miklar garðhleðslur, sjúbúð, fjárborg, stekk, selsstíg og gerðis utan í hraunkantinum. Utan í Borgarhól er gömul fjárborg skammt frá veginum. Ofan við Selöldu eru tóttir Fitja, fjárhúss á Strákum, tóttir bæjarins Eyri og tóttir Krýsuvíkursels. Utar á heiðinni er Jónsbúð og fallega hlaðið hús. Í Krýsuvíkurhrauni er m.a. Arngrímshellir (Gvendarhellir), en hans er getið í þjóðsögunni af Grákollu. Þar hjá eru Bálkahellir og mikið fjárskjól í Fjárskjólshrauni. Þá eru dysjar Herdísar og Krýsu þar ofar, auk fjölmargra annarra mannvirkja.

Gíghæð

Vegavinnubyrgi á Gíghæð.

Ofan Ögmundarhrauns eru rúningsrétt í Stóra-Hamradal, fallega hlaðinn fjárhellir sunnan Vigdísarvalla, auk Vigdísarvalla sjálfra. Á öllu þessu svæði eru fjölmargar gönguleiðir, bæði fornar og nýjar. Má í því sambandi nefna Prestastíginn frá Höfnum, Skipsstíginn frá Njarðvíkum, Sandakraveginn yfir að Skála, Drumbsdalaveginn yfir að Krýsuvík, Skógfellaveginn frá Vogum o.fl. Þá eru svæðin sunnan Vigdísarvalla mjög fýsileg, s.s. Bleikingsdalur og hraunið ofanvert, auk svæðisins í kringum Lat. Í hrauninu undir honum er fallega hlaðið sæluhús.

Geldingadalur

Í Geldingadal – Dys Ísólfs innar.

Fagradalsfjallið hefur upp á fjölmargt að bjóða. Þar er mjög fallegt umhverfi inni í og utan með fjallinu. Gígurinn nyrst í því er einstakur, auk þess sem útsýni yfir Merardali, Þráinsskjöld og upp á Selsvelli er hvergi fallegra í góðu veðri.

Í Geldingadal á Ísólfur á Skála að hafa verið dysjaður að eigin ósk „því þar vildi hann hvíla þar sem sauðir hans undur hag sínum svo vel“. Sunnan Borgarfjalls er t.d. Borgarhraunsborgin, gamalt mannvirki frá Viðeyjarklaustri, auk hleðsla utan í hraunköntum. Þar er og fallega hlaðinn Borgarhraunsréttin utan í hraunkanti. Uppi við Nautshóla, í Fagradal, er Dalssel, eitt seljanna frá Grindavík, a.m.k. um tíma. Jarðfræðiskoðun er hvergi betri en í Eldvörpum, í Arnarsetri, á Núpshlíðarenda, í gígum Ögmundarhrauns og sunnan við Stóra-Skógfell. Í Fagradalsfjalli eru leifar þriggja flugslysa frá stríðsárunum.

Vigdísavellir

Fjárskjól við Vigdísavelli.

Framangreint er einungis brot af því sem Grindvíkingar hafa að bjóða ferðafólki. Þar er fleira en BARA Bláa lónið, þótt margir standi í þeirri trú. Saltfisetur grindjána er t.d. eitt af því merkilegra, sem gert hefur verið í ferðamennsku á liðnum árum.

Grindavík

Grindavík 2023.

Grindavík hefur upp á allt að bjóða, sem áhugasamt útivistarfólk hefur áhuga á. Það er í næsta nágrenni við mesta fjölbýlissvæði landsins.
Grindvíkingar eru glaðvært og frásagnasafaríkt fólk, sem gaman er að sækja heim.

-ÓSÁ tók saman.

Þorbjörn

Þorbjörn (Þorbjarnarfell).

Kleifarvatn

Hér kemur svolítil, en forvitnileg lýsing, úr „Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar um Reykjanesskaga 1752-1757„:

Krýsuvíkurhraun

Krýsuvíkurhraun – herforingjaráðskot.

„-Sunnan við Reykjanes er Grindavíkurhöfn, en Bátsandar, sem farmenn kalla Bátssanda, fyrir norðan.
-Sagt er að nykur sé í ýmsum stöðuvötnum. En þetta er allt of alvanalegt, og höfum við áður skýrt skoðun okkar á því efni.
-Grænavatn er í grennd við Krýsuvík. Það er ekki aðeins merkilegt sakir dýptarinnar, sem valda mun litnum á vatninu, sem það dregur nafn af, heldur einnig af því, að þeir, sem búa þar í grennd, segja, að þeir hafi oft séð furðuleg kykvendi koma upp úr því, en þau hafa þó ætíð verið mjög skamma hríð ofan vatns.

Grænavatn

Grænavatn.

Maður nokkur fullyrti við okkur, að hann hefði eitt sinn sjálfur séð slíka skepnu. Hún hafi verið smávaxin, á stærð við hnísu, en hún hvarf skjótt aftur. Í Kleifarvatni eru greinilegri frásagnir. Árið 1755 sagði maður einn okkur, að hann hefði þá fyrir skemmstu séð einhvers konar skepnu synda í vatnsborðinu. Að lögun og lit líktist hún skötu, en var geysileg fyrirferðar. Öllum bar saman um, að kykvendin í Kleifarvatni séu stórvaxnari en í Grænavatni og sjáist lengur í einu.

Kleifarvatn

Kleifarvatn – Indíaninn.

Þegar við vorum á þessum slóðum 1750, var okkur sagt margt um Kleifarvatn, aðallega þó það, að þótt menn vissu, að vatnið væri fullt af fiski, sem vakir þar sífellt í yfirborðinu, þyrðu menn ekki að veiða í því fyrir ormi eða slöngu, sem væri í vatninu.

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

Ormur þessi væri svartur á lit og á stærð við meðalstórhveli, eða 30-40 álna langur. Fylgdarmaður okkar sagði okkur, að hann hefði oftsinnis horft á orm þenna, bæði þegar hann hefði verið þar einn á ferð og í hópi annarra manna, því að oftast þegar ormurinn sést, er hann nálægt tveimur mínútum uppi. Hann sagði okkur einnig, að í ágústmánuðu 1749 hefi allmargt fólk, bæði karlar og konur, sem var að heyskap við vatnið í kyrru veðri og sólskini, séð orm þenna miklu betur en nokkur maður hefðu áður gert, því að hann hefði þá skriðið upp úr vatninu upp á lágan og mjóan tanga eða rif, sem gengur út í það, og þar hefði hann legið í hart nær tvær klukkustundir, áður en hann skreiddist út í vatnið á ný.

Herdísarvík

Herdísarvík 1898.

Fólkið var svo skeflt allan þenna tíma, að það þorði ekki fyrir sitt líf að nálgast orminn, en af því að hann lá hreyfingarlaus allan tímann, flýði það ekki brott, en samt gat það ekki frá því skýrt, hvernig ormurinn komst upp á land eða hvernig hann fór aftur út í vatnið. En mergurinn málsins er þetta, að ormurinn kom upp úr vatninu, óx eða hækkaði og skreið áfram, án þess að því bæri, og hvarf síðan, á meðan fólkið sá til. Við höfum tilgreint þess sögu til þess að bera hana saman við og treysta það, sem áður er sagt um Lagarfljót.

Hverinn eini

Hverinn eini.

-Hverinn eini heitir kunnur hver, sem liggur nokkrar mílur norðaustur frá Reykjanesi, mitt á milli þess og Krýsuvíkur. Sagt er að hverafuglar, svartir á lit á stærð við smáendur, fiðurlausir með smávængjum, stingi sér í hverinn. (Rétt er að geta þess að hverafuglar verpa jafnan harðsoðnum eggjum, sbr. harðsoðnu eggin ofan við brennisteinstökusvæðið, skammt neðan búðartóftanna, í Brennisteinsfjöllum).
-Fyrir utan Eyrabakka er byggðalagið Flói. Þar búa Flóafífl.
-Magahúð dýra, einkum nautgripa, er skæni kallast, er að vísu notað í glugga, en algengt er það ekki og alls ekki í glugga íveruherbergja, því að það ber lélega birtu, enda þótt það sé sterkt og endingargott. Þess vegna er það mest notað í önnur hús, fjós og þess háttar.

Gluggi

Gluggi (skjár) á torfbæ.

Algengasta gluggaefnið er líknarbelgur. Er það hin tvöfalda fóstuhimna dýranna. Innri og fíngerðari himnan er kölluð sérstaklega vatnsbelgur. Einkum er teknar fósturhimnur úr kúm, en stundum einnig úr ám. Eru þær svo tærar og gegnsæjar, að menn fá ekki séð úr nokkurri fjarlægð mun á þeim og loftinu.“

-ÓSÁ tók saman.

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

Selatangar

Selatangar á suðurströnd Reykjanesskagans, hin forna verstöð Krýsuvíkurbænda, Ísólfsskálabænda og Skálholtsdómkirkju hafa gefið af sér ýmiss ævintýri, skrímsla- og draugasögur sem og sagnir af álfum og tröllum.

Selatangar

Gengið um Selatanga.

Hér hefur verið gerð samantekt fyrir þá/þær, sem bæði hafa gaman af sögnum og vilja til að gæða landslagið lífi. Sumar sögurnar eru til í ýmsum myndum, en hér eru þær staðfærðar upp á Selatangana.
Ögmundarhraun er talið hafa runnið árið 1151. Katlahraun, það er umlykur Tangana að vestanverðu, er hluti þess. Verstöðin sjálf getur því ekki verið eldri en frá 12. öld. Þá er talið að Skálholtsdómkirkja hafi ásælst flestar sjávarjarðir á suðurströnd Skagans, en svæðið var eitt gjöfulasta forðabúr landsins á þeim tíma sem og eftirleiðis. Helsta útflutningsvaran varð og er enn verkaður fiskur. Þá var fiskur frá Grindavík og nágrenni helsta viðurværi biskups, hans fólks og skólasveinanna í Skálholti um langa tíð. Sjórinn hefur nú tekið til sín hinar fornu minjar fyrri alda. Núverandi minjar á Selatöngum eru því nánast allar frá því á 19. öld, en eru þó hinn ágætasti vitnisburður um söguleg tengsl fortíðar við nútíðina.

Tanga-Tómas (draugasaga)

Verkhús

Verkhús á Selatöngum.

Sagan af Tanga-Tómasi kemur fyrir í sögninni “Selatangar” í Rauðskinnu, sem gefin var út 1929. Síðan hefur hún verið gefin út í nokkrum útgáfum. Hér er sagan svona [með innskotum vegna mismunar í öðrum frásögnum af sama atburði]:
“Á Selatöngum, miðja vegu milli Grindavíkur og Krýsuvíkur, var fyrrum verstöð og útræði mikið. Gengu þaðan m.a. biskupsskip frá Skálholti. Þar sér enn allmikið af gömlum búðartóftum og göðrum, er fiskur og þorskhausar voru fyrrum hengdir á til herslu. Hjá Selatöngum eru hraunhellar margir, en flestir litlir. Var hlaðið fyrir opið á sumum þeirra til hálfs, og notuðu sjómenn þá til ýmissa hluta. Í einum þeirra höfðu þeir kvörn sína, og kölluðu þeir þann helli Mölunarkór, í öðrum söguðu þeir, og kölluðu hann því Sögunarkór o.s.frv. Reki var mikill á Selatöngum, og færðu sjómenn sér það í nyt; smíðuðu þeir ýmsa gripi úr rekaviðnum, þá er landlegur voru, en þær voru ekki ótíðar, því að brimasamt var þar og því sjaldan róið á stundum. Á Selatöngum mun ort hafa verið margt um manninn, eins og ráða má af vísu þessari um sjómenn þar:

Tuttugu og þrjá Jóna telja má,
tvo Árna, Þorkel, Svein,
fimm Guðmunda og Þorstein þá,
þar með Guðlaug, Freystein,
Einara tvo, Ingimund, Rafn,
Vilhjálmur Gesti verður jafn,
Selatanga sjóróðramenn;
sjálfur guð annist þá.

Selatangar

Selatangar – Vestari rekagatan.

[Hér er um að ræða stytta afbökun á vísunni. Hún mun vera til í nokkrum útgáfum og jafnvel heimfærð upp á aðrar verstöðvar með suðurströndinni.]. Á síðara hluta 19. aldar bjó í Stóra-Nýjabæ í Krýsuvík maður sá, er Einar Sæmundsson hét. Hann átti mörg börn, og er saga þessi höfð eftir tveim sonum hans, Einari og Guðmundi. Einar, faðir þeirra, var allt að 30 vertíðum formaður á Selatöngum. Var í mælt, að reimt hefði verið á Selatöngum, og var draugsi sá í daglegu tali nefndur Tanga-Tómas. Hann gerði búðarmönnum ýmsar smáglettur, en var þó ekki mjög hamramur.
Þá bjó á Arnarfelli í Krýsuvík maður sá, er Beinteinn hét. Var talið, að Tómas væri einna fylgispakastur við hann. Var Beinteinn þessi fullhugi mikill, smiður góður og skytta og hræddist fátt. Var þetta orðtak hans: “Þá voru hendur fyrir á gamla Beinteini”.
Einu sinni varð Beinteinn heylítill, og flutti hann sig þá niður á Selatanga með fé sitt til fjörubeita. var hann þarna um tíma og hafðist við í sjóbúð, er notuð var á vetrum. Kvöld eitt, er Beinteinn kemur frá fénu, kveikir hann ljós og tekur tóbak og sker sér í nefnið.

Selatangar

Selatangar – austari rekagatan.

Tík ein fylgdi honum jafnan við féð og var hún inni hjá honum. Veit Beinteinn þá ekki, fyrr en ljósið er slökkt og tíkinni hent framan í hann. Þreif hann þá byssuna og skaut út úr dyrunum. Sótti draugsi þá svo mjög að Beinteini, að hann hélst loks ekki við í sjóbúðinni og varð að hrökklast út í illviðrið og fara heim til sín um nóttina. [Í annarri sögu af sama atviki kemur fram að þegar Beinteinn hafi ætlað að ganga til náða, gert krossmark fyrir dyrum, lagt hurðina aftur og stein fyrir svo Tanga-Tómas héldist úti, hafi draugsi rumskað, séð að hann hafði verið lokaður inni, ráðist á Beintein og þeir slegist úti sem inni. Hafi Beinteinn komist berfættur og við illan leik heim að Arnarfelli og þurft að liggja þar næstu daga til að jafna sig]. Hafði Beinteinn skaröxi í hendi, og hvar sem gatan var þröng á leiðinni heim um nóttina, þá kom draugsi þar á móti honum og reyndi að hefta för hans, en undir morgun komst Beinteinn heim og var þá mjög þrekaður.

Selatangar

Selatangar – verbúð.

[Í hljóðrituðu viðtali við Sæmund Tómasson frá Járngerðarstöðum, sem varðveitt er hjá þjóðháttadeild Árnastofnunnar, kemur fram að Beinteinn frá “Vigdísarvöllum” hafi skorið silfurhnappa af peysunni sinni til þess að skjóta á drauginn því það hefði verið eina ráðið. Í enn annarri frásögn kemur hins vegar fram að silfurhnappar hefðu ekki dugað á Tanga-Tómas, einungis lambaspörð]. Sjá m.a. HÉR.
Um viðskipti draugsa og Beinteins er ekki fleira kunnugt, svo að sögur fari af. Þess má geta, að þá er Beinteinn var spurður, hvað hann héldi, að um draugsa yrði, er sjóbúðin yrði rifin, þá svaraði hann: “Og hann fylgir staurunum, lagsi”.
Nokkuru eftir þetta bar svo við, að tveir áður nefndir synir Einars bónda í Stóra-Nýjabæ fóru niður á Selatanga á jólaföstunni og hugðu að líta til kinda og ganga á reka; jafnframt ætluðu þeir að vita, hvort þeir sæu ekki dýr, því að annar þeirra var skytta góð.

Selatangar

Selatangar – verkhús fjær og verbúð nær.

Þeir komu síðla dags niður eftir og sáu ekkert markvert; fóru þeir inn í þá einu verbúð, sem eftir var þar þá, og ætluðu að liggja þar fram eftir nóttunni, en fara á fætur með birtu og ganga þá fjöru og vita, hvort nokkuð hefði rekið um nóttina.
Bálkar voru í búðinni fyrir fjögur rúm, hlaðnir úr grjóti, eins og venja var í öllum sjóbúðum, og fjöl eða borð fyrir framan. Lögðust þeir í innri rúmbálkinn að vestanverðu og lágu þannig, að Einar svaf við gaflhlaðið, en Guðmundur andfætis. Þá er þeir höfðu lagst niður, töluðu þeir saman dálitla stund, og segir þá Guðmundur meðal annars: “Skyldi þá Tómas vera hér nokkurs staðar”? Kvað Einar það líklegt vera. Fella þeir svo talið og ætla að sofna, en er þeir hafa legið litla stund, þá heyra þeir, að ofan af ytra bálkanum við höfuð Guðmundar stekkur eitthvað, Var það líkast því sem stór hundur hefði stokkið niður á gólfið; voru þeir þó hundlausir, er þeir komu þangað, og búðin lokuð. Segir þá annar bræðranna: “Þarna er hann þá núna”, en í sömu svipan er kastað tómu kvarteli, sem hafði staðið á ytra bálkinum hinum megin, einn í gaflhlað beint yfir höfuð Einari. Sofnuðu þeir bræður ekki um nóttina, en fóru á fætur. Ekki lét draugsi neitt frekar til sín heyra.
Eftir 1880 lagðist útræði niður frá Selatöngum. Um það leyti var seinasta sjóbúðin rifin, og hafa menn eigi hafst þar við síðan.

Tangaboli (skrýmsli)

Selatangar

Selatangar – þurrkbyrgi.

Við sjóinn vestan af hinum forna stað Húshólma í Krýsuvík, þann stað er hraunið í eyði lagði um miðja 12. öld, eru Selatangar eða Seltangar, eins og fyrrum var kveðið. [Það nafn færðist síðar á tanga í Hólmasundi]. Lengi vel var talið að þar hafi selstöð verið, en lagst af þegar Tangarnir voru teknir undir útver Krýsuvíkurbænda á 18. öldinni. Kletturinn Dágon með tveimur bræðrum sínum skiptir jörðum Krýsuvíkur og Ýsuskála, sem nú mun heita Ísólfsskáli, neðan við gömlu búðina. LM er klappað í klöppina neðan við Dágon og sést markið enn í lágfjöru.

Selatangar

Katlahraun.

Katlahraun heitir hraunið vestan við Tangana. Í því er Ketillinn.  [Sumir nefna þann stað Borgir eftir hraunborgunum í því miðju]. Austast í Katlahrauni, í viki víkur er krókur eða hellir nokkur sem kallaður var Bolabás, en nú nefndur Nótarhellir. Eftir að verstöðin lagðist af á Selatöngum var staðurinn notaður til selaveiða. Var þá dregið fyrir selinn yfir víkina af löngum tanga, sem enn sést og yfir í hellirinn. Ekki er hægt að komast niður í hann af háum hraunkambinum eða ganga þurrum fótum í hann með sjónum nema þegar velfjarað hefur út. Um Tangabola er saga sú er nú skal greina:

Það var trú manna að í Bolabás væri vættur einn sem kallaður var Tangaboli, og eru engar sögur um það hvörs kyns hann væri, en sagt er að hann hefði mannsmynd niður að mitti, en menn greinir á um hvort neðri hlutinn átti að hafa líkst sel eður nauti, en það var annað hvört. Öngvir eru nú lifandi er hann gátu hafa séð.

Selatangar

Selatangar – verkhús.

Þegar Tangaboli hafði aðsetur í hellinum hljóðaði hann ákaflega, einkarlega undir slæm suðaustanveður, sumar sem vetur, en sú átt stendur beint upp á Bolabás.
Engum átti hann þó að hafa gjört illt og líka var sjaldgæft að sjá hann; þó er sagt að eitthvört sinn hafi maður verið á gangi upp á kambinum að vitja um refagildru er hann heyrði Tangabola hljóða ámátlega. Maðurinn, sem var bæði hvatvís og ófyrirleitinn, fór með mesta flýti ofan og suður með hraunkambinum til að sjá skepnu þessa; honum tókst það líka og átti hann að segja svo frá að kvikindi þetta hafi verið mjög svo aumlegt og ljótt og hafi sagt við sig að honum mundi verða það lítið til gæfu að kappkosta að skoða sig, en fór við það svo búið í helli sinn. En sagt er að maðurinn hafi orðið lánlítill eftir þetta.

Selatangar

Selatangar – sjóbúðartóft.

Fáum árum áður lágu þar tveir menn við í búðinni á Selatöngum, en voru við róðra þess á milli. Höfðu ungan dreng með sér til léttis. Annar maðurinn var frekur og ósvífinn og alþekktur að því alla sína tíð. Nú um nóttina tók Tangaboli að hljóða, en fyrrnefndur maður tók undireins með háðsglósum til við að herma eftir honum. Við það espaðist Tangaboli svo að þeim sem vöktu þótti sem hljóðið væri einlægt að færast nær og verða grimmlegra, og seinast heyrðist þeim sem hljóðið væri komið heim undir búð. Þá beiddi hinn þennan að hætta að herma eftir því, hvað hann og gjörði, enda haldið að honum hafi ekki verið farið að finnast til, en þegar hann hætti að herma eftir. Þá hætti líka Tangaboli undireins að hljóða.

Sjóbúð

Sjóbúð.

Ekki er um það borið á móti að aftur hafi heyrst til Tangabola við komur manna á Selatanga, einkum þegar brimasamt er. En eftir að fella féll úr berginu ofan við op hellisins fyrir nokkrum árum er ekki vitað til að heyrst hafi til Tangabola enda er nú sjórinn búinn að brjóta mikið upp hellirinn hans svo hann er orðinn víðari og opnari og ólíkur því sem áður var. Því verður ekki neitað að vættur þessi var til, en líkast virðist hann hafa verið af sjóskrímslakyni. Vissa er um eina sanna sögu um það að það hafi verið til hér í sjónum:

Selatangar

Gengið um Selatanga.

Þegar Gvendur bjó á Skála var einn bræðra hans þar með honum um tíma. Bróðirinn var skotmaður frægur og hagleiksmaður með marga hluti.
Eitt sinn skaut Gvendur sel; bróðirinn stóð í fjörunni, en selurinn var á sundi út á sjó. Selurinn var dauðskotinn, og sendi Gvendur hundinn þeirra bræðra eftir honum, en hann réði ekki við selinn. Fór þá Gvendur sjálfur og ætlaði að sækja selinn, en sneri aftur allt í einu þegar hann átti skammt þangað sem selurinn var, og kom í land aftur. Var hann þá spurður hvað til hafi komið að hann fékkst ekki við selinn, en hann sagði að móti sér hefði komið sjóskrímsli bæði ljótt og mikið vexti og hann skyldi aldrei að nauðsynjalausu fara til sunds í þennan sjó.
Þótt kvikindið hafi ekki sést í seinni tíð er ekki hægt með öllu að fortaka að Tangaboli sé allur.

Sjórekna skútan (draugasaga)

Selatangar

Sögunarkór í Katlahrauni.

Fyrir mörgum árum fórst bátur utan við Selatanga með 7 mönnum. Þrír komust á kjöl og kölluðu á hjálp því að margir vermenn stóðu á sandinum – báturinn barst á skammt undan lendingu – en brimið var svo mikið að ómögulegt var að hjálpa þeim.
En er mennirnir voru allir dauðir og drukknaðir þá snerist báturinn við og kom sjálfur í land eins og honum væri stýrt. Stóð hann svo uppi í sandfjörunni vestan við Dágon og snart enginn við honum fyrr en veturinn eftir er hann var færður lengra upp á land. Vildi enginn róa bátnum framar því að geigur stóð mönnum af honum.
Þegar báturinn var settur upp á land stóð fjármaður frá Ísólfsskála, sem er þarna vestan við Hraunsnesið, uppi undir Katlahraunsbrúninni að leita fjár. Sá hann þá að öll dauða skipshöfnin gekk á eftir bátnum þegar hann var settur upp og var ófrýn á að sjá. Eftir það stóð báturinn í djúpri sandhvilft upp við berghamarinn.

Selatangar

Selatangar – rekagatan (Tangagatan) um Katlahraun.

Skömmu seinna reið þar um bóndi utan af Vík er Guðmundur hét og bjó á Þorkötlustöðum. Ætlaði hann austur undir Fjöll. Þetta var í svartasta skammdegi og reið Guðmundur bóndi Tangagötuna, um Ketilinn og út á bergbrúnina því þar liggur alfaravegurinn. Hundur fylgdi með í för. Gatan beygir þarna til norðausturs ofan við sandhvilft. Þegar Guðmudnur er kominn á móts við hana mætir honum maður er hann bar eigi kennsl á og segir sá við hann:
„Settu með okkur, lagsmaður!“

Guðmund grunar ekkert því að báturinn sást ekki af götunni og tekur hann vel undir þetta. Ekki mælti maður þessi fleira en snýr við og bendir Guðmundi að koma á eftir sér. Guðmundur ríður svo á eftir honum en það þótti honum skrýtið að hestur hans var alltaf að frýsa og virtist nauðulega vilja elta manninn. Hundurinn var og afundinn og flóttalegur ásýndum.

Selatangar

Refagildra við Selatanga.

Nú koma þeir í lágina þar sem báturinn stóð og sér Guðmundur þá 6 menn standa í kringum bátinn og voru svaðalegir álitum. Þá man Guðmundur fyrst eftir frásögnum af bátreikanum undan Tanganum um haustið og þykist hann þarna þekkja þá sem drukknað höfðu. Verður hann þá skelkaður mjög og slær upp á klárinn. Tekur hann til fótanna en Guðmundur heyrir draugana kveða vísu þessa um leið og hann reið upp úr lautinni:

Dágon

Dágon á Selatöngum.

Gagnslaus stendur gnoð í laut,
gott er myrkrið rauða.
Halur fer með fjörvi braut,
fár er vin þess dauða,
fár er vin þess dauða.

Guðmundur nam vísuna. [Hún er bæði til í annarri útgáfu auk þess sem vísan hefur verið notuð með öðrum þjóðsögnum]. Reið hann nú allt hvað af tók og náði í Krýsuvík um kvöldið. Eftir það fór Guðmundur bóndi aldrei einn um þennan veg og lét alltaf einhverja fylgja sér þótt albjartur dagur væri.
Báturinn var loks höggvinn að mestu niður í eldinn, en áður höfðu menn oft heyrt högg og brak í því, einkum er kvölda tók. Enn má þó merkja leifar úr bátnum inni í Rekavik [vik var stundum notað yfir skjól ofan ströndina, en vík niður við sjó] ofan við Selatanga.

Ketilskessan (tröllasaga)

Selatangar

Selatngar – þurrkbyrgi.

Skessa bjó í Festisfjalli ofan við Ægisand austan við Grindavík. Frænka hennar hafði dvöl í helli einum í Katlinum í Katlahrauni skammt vestan við Selatanga. Hellir þessi var stundum nefndur Skessuhellir, en vermenn er síðar voru á Selatöngum nefndu hann Mölunarhellir. Lítið hafði hún gjört mönnum til móðs. Einu sinni fór hún að ganga á rekana. Ekki er getið um að hún hafi fundið nokkuð á rekunum, en á heimleiðinni varð hún naumt fyrir, því hana greip skyndilega jóðsótt þar á leiðinni.
Á Katlinum er steinn mikill; skammt frá alfaraleiðinni. Þar lagðist hún við og fæddi barn sitt. Kom þá maður með hest til hennar og beiddi hún hann að liðsinna sér. Maðurinn gjörði það. Hún fékk hann til að lofa sér að ríða hestinum og hjálpa sér að Festisfjalli. Hann segir: „Stíg þú á bak stórkona, en sligaðu ekki hestinn.“

Selatangar

Selatangar – þurkkbyrgi.

Hún strauk höndum um hrygg hestsins og fór síðan á bak. Reiddi hann hana upp með Móklettum, á Siglubergsháls og að fjallinu. En er hún steig af baki var alblóðugt bakið á hestinum. Hún bað hann hafa þökk fyrir, en hesturinn mundi aldrei uppgefast.
Steinninn er síðan kallaður Skessusteinn og er enn í Katlinum og laut við hann.
Annað sinn fór skessan á fjöru, en er hún kom af fjörunni mætti henni maður sá er Hjálmar hét. Réðist hún á hann; fór hann heldur halloka. Urðu það úrræði hans að hann greip hægri hönd sinni í magaskegg skessunnar og felldi hana með því.
Bað hún hann þá að gefa sér líf, hvað hann gjörði. En er hún var upp staðin þakkaði hún Hjálmari lífgjöfina.
Sagt er að skessan hafi enn viðdvöl í helli sínum í Katlinum. Þegar veður eru góð og lygnt á Töngunum og vel er hlustað má heyra hana raula við barn það er hún fæddi við Skessustein, en hann er skammt frá opinu.

Bátamál (fyrirbærasaga)

Selatangar

Selatangar – Smíðahellir.

Eftirfarandi galdrasaga var oftlega sögð á sagnastundum vermanna á kvöldvökum eða landlegum Selatöngum:
„Stundum heyrist marra í bátunum þótt logn sé og þeir standi í naustum. Það er málipð bátanna sem fáum er gefið að skilja.
Einu sinni var þó maður er skildi bátamál. Hann kom þar að sem tveir bátar stóðu og heyrir hann að annar bátanna segir: „Lengi höfum við nú saman verið, en á morgun verðum við að skilja.“
„Það skal aldrei verða að við skiljum,“ sagði hinn báturinn, „höfum við nú verið saman í þrjátíu ár og erum við orðnir gamlir, en ef annar ferst þá skulum við farast báðir.“
„Það mun þó ekki verða. Gott veður er í kvöld, en annað veður mun verða á morgun og mun enginn róa nema formaður þinn, en ég mun eftir verða og allir bátar aðrir. En þú munt fara og aldrei aftur koma; munum við eigi standa hér saman oftar.“
„Það skal ekki verða og mun ég ekki fram ganga.“
„Þú munt þó verða að ganga fram og er þessi nótt hin síðasta sem við verðum saman.“
„Aldrei skal ég fram ganga ef þú fer ekki.“

Selatangar

Rit um Selatanga.

„Það mun þó verða.“
„Ekki nema andskotinn sjálfur komi til.“
Eftir þetta töluðu bátarnir svo hljótt að heyrandinn í holtinu nær heyrði ekki hljóðskraf þeirra.
Morguninn eftir var veður ískyggilegt mjög og sýndist engum ráð að róa nema einum formanni og áhöfn hans. Gengu þeir til sjóar og margir fleiri sem ekki varð úr að réru.
„Skinnklæðið ykkur í Jesú nafni,“ segir formaður sem títt er. Þeir gjöra svo.
„Setjum fram bátinn í Jesú nafni,“ segir formaður eins og vant var. Þeir taka til, en báturinn gekk ekki fram. Heitir þá formaður á sjómenn aðra sem þar voru staddir að duga þeim, en það kom fyrir ekki. Þá heitir hann á alla sem við voru að setja fram bátinn og gekk þá maður undir manns hönd, og kallar nú formaður: „Setjum fram bátinn“ með sama formála sem áður. En báturinn gekk ekki að heldur.
Þá kallar formaður hátt: „Setjið fram bátinn í andskotans nafni.“ Hljóp þá báturinn fram, og so hart að ekki varð við ráðið og á sjó út. Sóferðabænin misfórst sem og annað regluverk. Höfðu haldsmenn nóg að vinna; síðan var róið, en ekki hefur sést til þess báts síðan og ekki spurst til nokkurs sem á honum var.“

Álfheimar (álfasaga)

Nótarhellir við Selatanga

Nótarhellir við Selatanga.

Unglingspiltur var einu sinni með öðrum vermönnum á Selatöngum. Hann hafði orðið eftir er aðrir réru. Ákvað hann að ganga sér til hreyfings. Veður var heitt eins og oft vill vera á suðurströndinni. Í leið sinni til baka varð hann bæði göngumóður og þyrstur, en hann kom hvergi auga á vatn til að svala sér á.

Katlahraun

Katlahraun – ströndin.

Hann gengur nú hjá hömrum vestast á Töngunum og heyrist honum þar eitthvað inni; hann ímyndar sér að einhverstaðar kunni vatn að renna ofan af klettinum og fer að skyggnast um. Þá heyrir hann glöggt strokkhljóð og í sama vetfangi þykir honum hamarinn vera opinn og sér hann þar unglegan kvenmann snöggklæddan sem stendur upp við háan rúmgafl og skekur strokk. Við þessa sýn verður honum nokkuð bilt, en horfir þó um stund á stúlkuna og virðir hana fyrir sér.
Hún horfir líka á hann og hættir á meðan verki sínu og segir loksins: „Ertu þyrstur; viltu drekka?“
Við þetta ávarp varð hann dauðhræddur og hljóp í burtu. Þegar aðrir vermenn komu að landi sagði hann einum þeirra, greindum manni, þessa sýn. Þá sagði hinn: „Ekki skyldi mér hafa farið eins og þér; ég skyldi hafa þegið það sem mér var boðið.“
En næstu nótt dreymdi piltinn sömu stúlkuna og segir hún við hann: „Því vildir þú ekki þiggja af mér svaladrykk? Ég bauð þér hann í einlægni.“
Pilturinn þóttist svara: „Ég gat það ekki fyrir hræðslu.“

Selatangar

Varða við vestari rekagötuna.

Þá segir hún: „Hefðir þú þegið af mér að drekka skyldir þú hafa orðið mesti auðnumaður, en nú legg ég það á þig að þú getir aldrei orðið annað en fjársmalamaður.“ Að svo mæltu hvarf hún.
Er frá því að segja að pilturinn fór úr verinu af ótta við stúlkuna; hann sá hana ekki oftar, hvorki í vöku né svefni. En ámæli hennar urðu að áhrínsorðum.

Með réttu, án þess að þurfa að bæta þar nokkru við, er fjölmargt auk þessa að skoða og upplifa á Selatöngum. Minjasvæðið er bæði aðgengilegt og auðgengið, en hefur verið verulega vanrækt af þeim opinberu yfirvöldum, sem gæta eiga menningarverðmætanna. Grindavíkurbær hefur þó af eigin frumkvæði reynt að leiðbeina fólki um svæðið, leggja göngustíga og setja upp upplýsingaskilti, án þess að Menntamálaráðuneytið (Þjóðminjasafnið og Minjavernd ríkisins) hafi svo sem sýnt hinn minnsta vott um áhuga á menningarvarðveislu svæðisins. Benda má í því sambandi á viðleytni Menningarfélags Grindavíkur er gaf út á sínum tíma bækling um svæðið. Hann er enn til fáanlegur í Saltfisksetri Íslands í Grindavík. Síðast er fréttist voru sex eintök enn óseld.

Selatangar

Refagildra á Selatöngum.

Arnarvatn

Lagt var af stað efst í Vatnsskarði um kl. 10:30 þann 17. júní 2000.

Sveifluháls

Sveifluháls – Folaldadalur syðri.

Gengið var sem leið lá suður hálsinn, vestan við Miðdegishnúk og niður í Nyrðri-Folaldadal, eftir sléttum sandbotna dalnum og upp á hálsinn aftur við suðurenda hans. Þegar komið var á móts við Stapatinda var tækifærið notað til að dáðst að útsýninu suður eftir Syðri-Folaldadal í fjallgarðinum, í átt að Arnarvatni. Þarna er mosvaxinn hraunhóll og móbergshólar um kring. Sunnan við hólinn eru fallegir skessukatlar. Gengið var niður í dalinn um móbergsskarð og síðan áleiðis eftir sléttum botninum. Þegar komið var í miðjan dalinn heyrðist allt í einu og mjög skyndilega mikill þytur úr suðaustri, líkt og þota nálgaðist óðfluga.

Sveifluháls

Sveifluháls – Folaldadalur nyrðri.

Skömmu síðar sást hvar Sveifluhálsinn reis undir nafni – gekk í sveiflum úr suðri, að því er virtist. Undir tók í fjöllunum allt í kring og stór grjót féllu úr þeim og skoppuðu niður í dalinn. Síðan tók við dauðaþögn. Fyrsta hugsunin var: „Skyldi nú vera byrjað að gjósa hér rétt hjá?“ Hvergi voru þó merki þess. (Síðar kom í ljós að skjálftinn reyndist rúmlega 7° á Richter).

Arnarnýpa

Arnarnýpa á Sveifluhálsi.

Haldið var áfram för, en skömmu síðar kom annar kröftugur jarðskjálfti, en mjög ólíkur hinum fyrri. Hann kom beint upp undir hálsinn. Steinar skruppu upp af jörðinni í nokkurs konar skjálftadansi. Stóð þetta í nokkrar sekúndur. Þegar skjálftinn hætti sást hvar skórnir höfðu grafist niður í mölina. Enn var svipast um eftir hugsanlegu gosi, en ekkert bólaði á því. (Reyndist vera 5.5°á Richter). Eftir að síðustu steinarnir stöðvuðust í dalnum varð grafarþögn. Síðan komu nokkrir minni skjálftar í kjölfarið, en þeir hristu einungis jörðina líkt og væri hún á floti. Gengið var fram á norðurbrún Sveifluhálsins. Á henni blasti við svipur tröllkarls, sem virtist fylgjast vel með öllu. Undir Núpshlíðarhálsi, við Djúpavatn, virtist fólk á hlaupum. Þar hafði greinilega grjót skroppið úr hlíðinni.

Sveifluháls

Á Sveifluhálsi.

Þegar gengið var áfram suður hálsinn mátti víðs vegar sjá hvar björg höfðu losnað úr hlíðum og einnig hvar smásteinar á ákveðnum svæðum höfðu losnað og jafnvel snúist við. Þegar komið var upp að Arnarvatni mátti sjá sprungur í jarðveginum við vatnið að austanverðu. Gróðurhaft hafði losnað úr hlíðinni að sunnaverðu. Stapatindur í norðaustri, eitt af prýðunum á hálsinum, stóð þó óhaggaður.

Miðdegishnúkur á Sveifluhálsi

Miðegishnúkur á Sveifluhálsi.

Það sem eftir var leiðarinnar mátti víða sjá hvar stórt grjót hafði losnað og skroppið niður gróðurhlíðar, s.s. norðan við Hettu. Þoka skall á þegar komið var suður fyrir Arnarvatn svo fara þurfti þétt með norðanverði hlíðinni. Þegar áætlað var að Krýsuvík væri handan við hálsinn var lagt á hann, upp bratta brunahlíð. Í þokunni glytti í gang á milli tveggja gíga. Haldið var eftir honum og síðan beygt aftur til suðurs. Var þá komið niður í gróinn dal nokkuð norðan við Krýsuvíkur-Mælifell. Beitilegur dalur, Bleikingsdalur, en farin að láta á sjá í botninn. Aðeins sunnar á hálsinum tók við náttúrulega flórað hellusvæði.

Drumbdalastígur

Drumbdalastígur.

Komið var niður á veg, Drumbdalastíg, austan við Borgarhól 6 klst. eftir að lagt hafði verið af stað. Þá átti eftir að ganga að Bæjarfelli þar sem bíll beið. Fylgt var gamalli götu frá fjárbyrginu á Borgarhól, um mela, eftir flóraðri brú að vörðu norðan vegarins og síðan áfram að gömlu réttinni sunnan Bæjarfells.
Veður var frábært – sól og hiti.

Sveifluháls

Sveifluháls – gönguleiðin rauðlituð.

Gunnuhver

Skoðaður var Gunnuhver á Reykjanesi sem og næsta nágrenni. Hverasvæðið er litskrúðugt og mikilfenglegt, en varasamt og síbreytilegt. Við hverasvæðið eru m.a. nokkrar tóftir og grunnur húss.

Reykjanes

Reykjanes – grunnur húss Höyers.

Margir kannast við söguna af Gunnu Önundardóttur er hverinn er nefndur eftir. Hún segir af Guðrúnu og viðureign hennar við Vilhjálm á Kirkjubóli á Suðurnesjum. Á dögum hans skyldi hafa verið þar í koti hjá kona sú er Guðrún hét og var Önundardóttir. Hún átti að gjalda Vilhjálmi skuld að Kirkjubóli, en hafði það ekki, er gjalda skyldi. Er þá sagt, að Vilhjálmur hafi tekið pottinn hennar í skuldina. Viðureign þeirra endaði með því stakkst ofan í hverinn, og heitir þar síðan Gunnuhver. (Hafa ber í huga að hverinn sá hefur átt það til að hlaupa til um svæðið og er því síbreytilegur.)

Höyer

Hús Höyers og Eriku við Gunnuhver.

Tóftirnar við Gunnuhver eru eftir búsetu Anders Christian Carl Julius Höyer og konu hans, Eriku Höyer, á Reykjanesi. Høyer var danskur garðyrkjumaður. Fæddur var hann einhvers staðar í hinum fyrrum rússnesku Eystrasalts-héruðum Prússlands, og sá þess stað í óvenjulegri málakunnáttu. Hann fluttist til Íslands á 3. áratugnum og kom sér upp garðyrkjubýli í Hveradölum við hverina þar hjá sem nú er Skíðaskálinn. Kona hans var lettnesk. Þau fengu ekki frið í Hveradölum og fluttu sig þá út á Reykjanes. Þar komu þau sér fyrir á spildu úr landi Staðar, reistu hús og dvöldu með litlum syni sínum 3 eða 4 síðustu árin fyrir stríð, en hurfu þá til Kaupmannahafnar. Nýbýli þeirra hét Hveravellir.

Gunnuhver

Reykjanes – Gunnuhver. Hús Höyers var nálægt bílastæðinu t.v.

Grunnur íbúðarhússins sést enn sunnan í Kísilhólnum, rétt við veginn út að vita. (Kísilhóll er hóllinn suðvestan við Gunnuhver). Þar er volg jörð og þurfti ekki aðra hitun. Annar endi hússins var gróðurhús og innangengt í íbúðarhlutann. Þarna er vatnslaust, en Høyer bjargaði sér með því að þétta gufu úr hverunum “für Menschen, Hund und Blumen” segir í þýskri ferðabók (E. Dautert án ártals). Aðallega munu þau hjón hafa fengist við að búa til blómapotta úr hveraleir sem þau bökuðu/hertu við jarðhitann.

Höyer

Anders C. Höyer.

Høyer var aðstoðarritstjóri garðyrkjublaðs “Politiken” fyrir komu sína hingað og líklega einnig á stríðsárunum (finn ekki heimild um það, en minnir ég hafi lesið). Þá skrifaði hann ævisögu konu sinnar fram að því að hún komst til Þýskalands eftir fyrra stríð. Bókin kom út í Danmökru á stríðsárunum. Árni Óla þýddi hana á íslensku (hún heitir „Anna Ivanowna“ og höfundur er skráður Erika Høyer). Bókin er átakanleg lýsing á miklum hörmungatímum í ævi konunnar, var lesin sem útvarpssaga. Erika var 15 árum yngri en Høyer. Hann kom aftur til Íslands eftir stríð en hún varð eftir í Danmörku. Hann endaði sem “flugumferðarstjóri” á Melgerðismelum í Eyjafirði. Heimildir eru um Høyer í bók Árna Óla “Erill og ferill blaðamanns.”

Reykjanes

Reykjanes – texti á skilti við fyrrum bústað Höyers.

Í bók eftir Erich Dautert (Islandfahrt) er sagt frá viðkynningu og innliti til hjónanna.
Einnig er að finna frásögn af heimsókn til þeirra í bókinni “Árin okkar Gunnlaugs” (Scheving) eftir konu hans (G.L. Grönbech). Kristján Sæmundsson tók saman upplýsingarnar um Höyer. Þá segir í  Degi 16. mars 1955 um Höyer:“Ræktaði blóm í Hveradölum – afgreiddi flugvélar í Melgerði.

Gunnuhver

Gunnuhver – loftmynd.

„A. C. Höyer Jóhannesson afgreiðslumaður á Melgerðisflugvelli varð 70 ára í gær“.
Þegar A. C. Höyer kom hingað til Íslands áríð 1925, hafði hann þegar víða farið og reynt margt. Hann er fæddur í Árósum í Danmörku, af suður-józku foreldri, en uppalinn í Suður-Jótlandi undir þýzku krúnunni.

Bræðratunga

Bræðratunga í Biskupstungum.

Ungur lagði hann land undir fót og fór suður um Evrópu, gekk á búnaðarskóla í Berlín, og réðist til ræktunarstarfa á lettnaskum búgarði. En útlendingum var ekki vært þar þegar byltingin flæddi yfir, þótt þeir hefðu þraukað af styrjaldarárin. Þá hélt Höyer til Danmerkur með unga konu af lettneskum uppruna. Ætlunin var að fá jarðnæði í Danmörk, en það var ekki laust fyrir efnalítinn mann. Úr fjarlægð að sjá var nóg landrými á Íslandi. Höyer réðist vinnumaður að Bræðratungu í Biskupstungum, síðan á búgarði Thor Jensens, en árið 1927 hófu hjónin, Höyer og Erika, landnám sem þótti harla nýstárlegt hér á landi á þeim tíma.

Gunnuhver

Við Gunnuhver.

Landnám í Hveradölum og Reykjanesi.
Þau byggðu sér bæ við heitar Laugar í Hveradölum við rætur Hellisheiðar, og bjuggu þar í 7 ár. Þar reis þá upp næst fyrsta gróðurhús á Íslandi og þar ræktuðu þau hjónin alls konar suðræn blóm. Þóttu það tíðindi í höfuðstaðnum, er þessi útlendi ræktunarmaður auglýsti að hann mundi hafa torgsölu á blómum.
Hann kom svo akandi með bílfarm af fallegum blómum og þau seldust öll á svipstundu. En með árunum urðu Hveradalir landnám skíðafólksins í æ stærri stíl, og þá var ekki rúm fyrir búskap Höyers. Þá hóf hann annað landnám sitt hér á landi og settist að úti á Reykjanestá, við heitar laugar þar. Þar höfðu þau hjónin garðrækt og seldu garðávexti og blóm til höfuðstaðarins. En þar var lífið erfitt, staðurinn einangraður og samgöngur strjálar.
Þar hófu þau leirmunagerð í smáum stíl til búdrýginda, en skorti verkfæri. Þau fóru til Danmerkur skömmu fyrir stríð til að afla sér þeirra, en lokuðust inni í Danmörk í styrjöldinni og komust ekki hingað út fyrr en árið 1946.

Gunnuhver

Leirgoshver við Gunnuhver.

Þriðja landnámið á Melgerðismelum.
Eftir viðdvöl í Reykjavík komu þau hingað norður, og litlu seinna réðist Höyer til Flugfélags Íslands og flugmálastjórnarinnar sem gæslumaður á Melgerðisflugvelli, og þar hafa þau hjónin átt heima síðan. Fyrst í húsakynnum vallarins, sem brunnu árið 1950 þeim til mikils tjóns, og síðan á nýbýli því, er Höyer hefur byggt og nefnir Melbrekku. Er það þriðja landnám hans hér á landi.
Frá 1947 til ársloka 1954 var mikil flugvélaferð um Melgerðisflugvöll og var nafn Höyers tengt henni á einn eða annan veg. Farþegar allir sáu þennan gráhærða, góðlega mann fyrst er þeir stigu á land, og síðastan manna, er þeir litu út um gluggana er vélin ók út á flugbrautina. Inni í skálanum við völlinn — meðan uppi stóð — hafði frú Erika veitingasölu, sem var mjög vinsæl af farþegum og fólki héðan úr bænum, sem gjarnan kom í heimsókn.

Melgerðisflugvöllur

Melgerðisflugvöllur (MWL).

Nú eru flugvéladrunurnar yfir Melgerðisflugvelli þagnaðar, en Höyer hefur eftirlit með tækjum og eignum flugmálastjórnarinnar þar, því að völlurinn er enn nothæfur ef þörf krefur. En þótt árin færist yfir og landnám gerist erfiðara, er það samt fjarri skapgerð Höyers að leggja árar í bát. Nú rekur hann hænsnarækt á búi sínu og unir allvel við sitt.

Gunnuhver

Upplýsingaskilti um Höyer við Gunnuhver.

Sýslar við bú, þótt svalt blási.
Lífið í Lettlandi á stríðsárunum fyrri vandi þau hjónin ekki á lúxus, og það kom sér vel í vistinni í Hveradölum og á Reykjanesi. Ríkmannlegt hefur aldrei verið hjá þeim á Melgerðisvelli, en hlýlegt, og ævinlega nóg um bækur og blöð, enda eru þau hjónin bæði bókelsk og vel að sér í mörgum greinum. Bæði hafa þau ritað nokkuð og margir minnast sögu Eriku um Önnu, Ivanovnu, en þar er víða haldið meira en í meðallagi vel á penna.
Nú eru 70 ár að baki og trauðla hyggur Höyer á nýtt landnám. Hann segist líka kunna vel við sig í Eyjafirðinum og talar um að gott verði að hvílast að Möðruvöllum eða Saurbæ að afloknu dagsverki. En þótt elli sæki nokkuð á, er engin uppgjöf hjá honum nú frekar en fyrri daginn. Á mánudaginn blés svalt um Melgerðismela og lítt sá til fjalla fyrir fjúki. En þá stóð Höyer enn að starfi við búsýslu sína. Hann þarf að sinna um 100 hænur í kofa. Þær verða 200 næsta ár, segir hann.
Hún ætlar að endast honum, sjálfsbjargarhvötin.“

Í Litla Bergþóri, 2. tölublað (01.12.2012), bls. 20-23, er fjallað um „Hveradala Höyer og konu hans“:
„Hér verður fjallað um hjón, sitt af hvoru þjóðerni, sem skolaði hér á land í umróti millistríðsáranna. Þau voru ólík sem dagur og nótt en undu sér samt vel saman og voru hér til dauðadags, með hléum þó.
Höyer Þau höfðu bæði reynt ýmislegt áður en þau settust að á Íslandi og hér fóru þau heldur ekki troðnar slóðir.
Sérstakt var að þau virtust sækjast eftir að búa á hrjóstrugum jaðarsvæðum, þó þau væru engar mannafælur. Þvert á móti. Þau tóku gjarnan á móti ferðamönnum og voru vel liðin af þeim sem höfðu við þau samskipti. Þau komu á sinn hátt að tveimur starfsgreinum, sem voru að hasla sér völl þegar þau voru á manndómsárum, ylrækt og svo farþegaflugi innanlands, þar sem þau voru umsjónarmenn á flugvelli. Það gætu því þess vegna hangið myndir af þeim bæði á Flugminjasafninu og á tilvonandi Garðyrkjusafni.
„Var hún ekki rússnesk prinsessa?“ Þannig spurði fullorðinn Akureyringur þegar ég nefndi við hann hvort að hann myndi eftir Ericu Höyer og þeim hjónum fyrir norðan. Já, það var ekki laust við að nokkur ævintýrabragur þætti á þeim og margt höfðu þau brallað á langri ævi. Það var fyrst að frétta af Anders C. Höyer hér á landi að hann kom sem vinnumaður í Bræðratungu í Biskupstungum í maí 1926. Þar var hann í fjóra mánuði, en eigandi jarðarinnar þá var hinn danski ritstjóri Berlinske Tidende, Svend Paulsen. Höyer kynnti sig hér sem garðyrkjumann og var það sjálfsagt, en síðar kom á daginn að hann hafði starfað sem blaðamaður í Danmörku og því ekki ólíklegt að hann hafi þekkt til Sveins bónda, enda höfðingjadjarfur og ófeiminn að koma sér í kynni við mann og annan.

Jóhannes Boeskov

Johannes Boeskov í dyrum gróðurhúss.
Fyrsta gróðurhúsið reis á Reykjum í Reykjahverfi árið 1923. Var það gert að frumkvæði Guðmundar Jónssonar skipstjóra og mágs hans Bjarna Ásgeirssonar alþingismanns en báðir bjuggu þeir á Reykjum og höfðu þeir mikinn áhuga á ylrækt. Helsti hvatamaður þeirra var Daninn Johannes Boeskov sem starfaði sem vinnumaður á Reykjum. Á garðyrkjusýningu sem haldin var í Reykjavík 1924 mætti Johannes með afurðir gróðurhússins eða 14 tegundir af matjurtum og blómum sem vöktu töluverða athygli enda ýmislegt sem ekki hafði sést áður.
Johannes stofnaði árið 1926 garðyrkjubýlið Blómvang sem telst vera eitt fyrsta nýbýlið sem byggðist eingöngu á ylrækt.
Johannes lést af völdum voðaskots árið 1927.

Um haustið fór hann ekki heim til Danmerkur heldur réði sig að Lágafelli í Mosfellssveit og var þar til vors. Hann sagði seinna (1953) í grein í Garðyrkjuritinu, að hann hefði strax heyrt um „vitlausa“ Danann, sem vildi byggja gróðurhús og lifa af ylrækt. Því miður ruglar Höyer aðeins saman gróðurhúsi sem byggt var á Reykjum í Mosfellssveit 1924, að vísu í umsjón Danans Jóhannesar Boeskov, en í eigu máganna á Reykjum, Bjarna Ásgeirssonar og Guðmundar skipstjóra, og svo aftur gróðurhúsi sem Boeskov byggði á nýbýlinu Blómvangi 1926 og telst fyrsta garðyrkjubýli á Íslandi þar sem eingöngu var treyst á ylrækt. Höyer og Boeskov urðu vinir og Höyer hjálpaði honum við byggingu gróðurhússins í Blómvangi og vildi svo fara sjálfur út í ræktun. Um sumarið var hann í Reykjavík og þá kom til hans hingað til lands unnustan Erica, fædd Hartmann, en hún var fimmtán árum yngri, aðeins 27 ára, en Höyer 42. Erica var frá Lettlandi, þeim hluta sem kallast Kúrland, og hafði ratað í ótrúlegustu hörmungar í fyrra stríði og sagði frá því í skáldsöguformi seinna. Það var bókin Anna Íwanowna, sem kom út í Danmörku haustið 1939, um þann mund sem seinna stríðið skall á og fékk góða dóma.

Skáldævisaga Kúrlendings.
Bókin er svokölluð „skáldævisaga“ og segir sögu fjölskyldu Ericu frá því að fyrri heimstyrjöld skellur á, þegar Erica var fjórtan ára, og þangað til þau snúa heim úr útlegð í Rússlandi og koma að öllu í rúst í sveitinni sinni í Lettlandi í stríðslok. Rússar og Þjóðverjar völtuðu til skiptis yfir þetta smáríki og það stóð varla steinn yfir steini er yfir lauk. Þau upplifðu stríðsátök, flótta, borgarastríð og rússnesku byltinguna, svo það var engin furða að henni þætti
friðsamlegt á Íslandi þegar hún rifjaði upp ævi sína á efri árum.

Auðvitað hefur Höyer skrifað bókina“, sagði Árni Óla löngu seinna, enda reyndist Höyer eftir allt saman þrælvanur blaðamaður þótt hann væri í fjósverkum og öðru púli meðan hann dvaldi hér fyrir stríð. Hvað um það, Erica er enn viðurkennd í Danmörku sem rithöfundur fyrir þessa bók. Árni Óla þýddi hana 1942 og var hún ein mest auglýsta og selda bókin hér á landi það árið. Ég var að enda við að lesa hana núna sem kvöldsögu fyrir konuna mína og gefum við henni bestu meðmæli. Erica, hin unga og lífsreynda, var semsagt komin til unnusta síns er hallaði sumri 1927. Þau fengu leyfi til að setjast að í Hveradölum á Hellisheiði þá um haustið og voru svo bjartsýn að ætla sér að búa í tjaldi á þessum stað meðan þau væru að hrófla sér upp kofa.

Landnámið í Hveradölum og á Reykjanesi.
HöyerAldrei í manna minnum hafði rignt svo mikið eins og þetta haust. Allt fór á flot, matur eyðilagðist, enga flík var hægt að þurrka og þeim var ekki svefnsamt um nætur vegna kulda þó þau væru örþeytt eftir 14 til 16 tíma þrældóm við moldarverk. En þetta hafðist, þau gátu í lok október flutt í hlýjan kofa þar sem hverahitinn var nýttur og voru þannig í senn útilegufólk í anda Eyvindar og Höllu, og einskonar brautryðjendur. Þann 27. október þetta haust giftu þau sig og voru svaramennirnir fyrrnefndur Johannes Boeskov garðyrkjumaður og svo sendiherra Dana, sá með langa nafnið, Frank le Sage de Fonteney. Þarna í Hveradölum voru þau að basla til ársins 1934 þegar Skíðafélag Reykjavíkur reisti þar sinn skála og hóf greiðasölu. Þá fannst þeim sér ofaukið og leituðu annað. Þau prófuðu ýmislegt þarna uppfrá, ræktuðu í gróðurhúsum, brugguðu jurtamjöð, reyndu leirbaðslækningar, þjónuðu ferðamönnum og voru fyrst með torgsölu í Reykjavík með afurðir sínar. Þau stunduðu líka rjúpnaveiði sem stundum var happafengur en gaf stundum ekki neitt. Erica sagði löngu seinna er hún leit yfir líf sitt; „Bara að við hefðum aldrei farið úr Hveradölum“.

Erika Höyer

Erika Höyer – minningargrein.

Já margt átti eftir að henda þau hjón áður en yfir lauk. Fyrst fóru þau bókstaflega úr öskunni í eldinn, því þau fluttu út á Reykjanes og gerðu sér annað nýbýli við Gunnuhver þar sem allt ólgar og sýður og ekki þurfti upphitun í kofann. Hitinn streymdi upp um fjalirnar í gólfinu eins og í „Nature Spa Laugarvatn Fontana“ í dag. Þau gátu ræktað og gerðu það, en vegaleysið varð til þess að þau komu ekki afurðum frá sér. Síðar datt þeim svo í hug að búa til jurtapotta úr leir, sem þarna var við hendina. Þau hertu pottana ýmist við hverahita eða brenndu í ofni sem kyntur var með rekaviði, sem þau söguðu í búta og klufu. Þau spöruðu ekki erfiðið, það var eins og þau væru að keppast í „ræktinni“ og þyrftu að passa línurnar. Árni Óla heimsótti þau þarna og leist ekki á. Höyer var kátur að vanda en sagðist samt vera á förum til Danmerkur, sér hefði verið boðin staða hjá Politiken og ætti að verða aðstoðarritstjóri landbúnaðarútgáfu blaðsins. Þegar hér var komið sögu höfðu þau eignast son og var trúlega ekki gæfulegt til frambúðar að hokra þarna hjá Gunnuhver með stækkandi fjölskyldu.
Þarna við hverinn er nú skilti þar sem sagt er frá „síðustu ábúendunum“ en það voru þau hjónin. Því miður eru nokkrar missagnir í frásögninni, t.d. að Höyer hefði verið fæddur í „einhverjum fyrrum Eystrasaltshéruðum Prússlands og það skýrði hina sérstöku málakunnáttu hans“. Hið rétta mun vera að hann fæddist í Árósum á Jótlandi 1885 og var kominn til Kaupmannahafnar fyrir tvítugt. Sem ungur maður hafði Höyer starfað sem formaður Ungra jafnaðarmanna í Kaupmannahöfn og á landsvísu og kynnst mörgum lykilmönnum í Jafnaðarmannaflokknum. Og ekki urðu kynnin minni er hann gerðist blaðamaður á þeirra vegum og þá líka hjá stærsta blaðinu Socialdemokraten. Hann var þá á uppleið, hafði eignast konu og tvo syni, en eitthvað fór úrskeiðis, hann skildi við konuna og fluttist til Lettlands. Hann dvaldi í Lettlandi árin 1923 til 1925, þar sem hann hitti Ericu og þar með tóku örlögin nýja stefnu. Annað sem missagt er á skiltinu er að Erica hafi orðið eftir í Danmörku eftir stríð en Höyer hafi komið einn til Íslands. Hið rétta er að hjónin komu saman og voru hér til dauðadags, en sonur þeirra varð eftir í Danmörku, þó hann væri aðeins 12 ára gamall er þau fluttu „heim“.

Í dönsku útvarpi og þýsku. 

HöyerÞau fluttust sem sagt frá Gunnuhver á Reykjanesi til Danmerkur 1937. Höyer komst strax inn á danska útvarpið og var mælt með honum sem fyrirlesara og fékk hann venjulega greiðslu fyrir, sem voru 100 krónur fyrir hvert erindi. Hann flutti þó nokkur erindi í Statsradioen fram að stríði og var mjög fundvís á efni sem þóttu nýstárleg í Danmörku á þessum tíma. T.d. hét einn þátturinn „Danskur veiðimaður og landnemi á Íslandi“, annar hét „Að eiga heima á eldfjalli“ o.s.frv. Sem dæmi um fjölbreytnina má nefna erindi um skipakirkjugarð við Ísland, rjúpnaveiðar og bindindismál, að ógleymdu erindi um íslenskan landbúnað, þar sem hann lýsir búskapnum í Bræðratungu og þótti takast vel upp. Hann var óþreytandi að bjóða efni, sumt var tekið en öðru hafnað, og þótti vel frambærilegur fyrirlesari. Það virkar því dálítið kómískt að lesa það í bók Jóhannesar flugstjóra, Skrifað í skýin, um Höyer að þegar hann var orðinn umsjónarmaður á flugvellinum á Melgerðismelum, hafi hann verið búinn að týna niður dönskunni, sem og öðrum tungumálum og verið næsta óskiljanlegur, þó að oft þyrfti hann að leiðbeina flugmönnum í lendingu gegnum talstöð. Flugstjórinn hefur ekki vitað að Höyer var ekki alls óvanur að handleika hljóðnema.

Erika Höyer

Erika Höyer.

Nú voru þau Erica og Höyer semsagt komin til Danmerkur eftir fyrri dvöl sína á Íslandi og það var ekki langt í næstu heimstyrjöld. Það var örlagadagur fyrir Höyer og fjölskyldu þegar Danmörk var hertekin 9. apríl 1940. Höyer gekk þá strax Þjóðverjum á hönd og tók þátt í útvarpssendingu á þeirra vegum þar sem hann studdi „frelsun Danmerkur“. Þá var hann umsvifalaust rekinn frá útvarpinu, því að danska útvarpið hélt merkilegt nokk sjálfstæði sínu alveg þangað til í hreinsunum í ágúst 1943, þegar lögreglan var leyst upp og ríkisstjórnin fór frá. Í júlí 1941 varð Höyer fréttaritari í Berlín fyrir dönsku bændasamtökin, en þau gáfu út blöð og tímarit í Danmörku. Danskir bændur voru hallir undir þjóðverja, enda þénuðu þeir á úflutningi til Þýskalands, sem var óþrjótandi markaður fyrir danskar landbúnaðarvörur.
Meðfram fréttaritarastarfinu kom Höyer líka að sendingum þýska útvarpsins á dönsku og flutti m.a. 10 erindi um landbúnaðarmál á þessum tíma. Í Berlín var Höyer fram að uppgjöf Þjóðverja, en Erica var í Danmörku með soninn. Þau lentu í yfirheyrslum í Danmörku í stríðslok en sluppu með skrekkinn, enda íslenskir ríkisborgarar og komu „heim“ með Drottningunni um miðjan janúar 1946, eins og segir í klausu í Morgunblaðinu.

Erika Höyer

Erika Höyer – legsteinn í Möðruvallakirkjugarði – 1900-1982.

Ástandið í Danmörku hafði verið þrúgandi öll hernámsárin. Fyrsta stríðsveturinn 1939-40 höfðu Danir reynt að halda uppi hlutleysi eins og hinar Norðurlandaþjóðirnar, en 9. apríl 1940 var sá draumur úti. Ráðherrar voru rifnir upp á rassinum úr hlýjum sængurfiðunum og settir úrslitakostir, annað hvort að samþykkja hernámið eða fá sprengjuregn yfir Kaupmannahöfn. Þeir völdu fyrri kostinn með óbragð í munni eins og sagt er. Spennan fór vaxandi eftir því sem tíminn leið og þegar Þjóðverjum fór að ganga verr í stríðinu óx andstöðuhópum fiskur um hrygg í Danmörku og þeir voru tilbúnir á friðardaginn 5. maí 1945 með lista yfir handbendi Þjóðverja í styrjöldinni. Það var engin miskunn sýnd, 34.000 manns voru handteknir fyrstu dagana eftir friðardaginn, smalað aftan á vörubíla og keyrðir þannig um götur með uppréttar hendur og skammaryrði hengd um háls. Og múgurinn hrópaði krossfestum þá, eða eitthvað álíka. Mörgum urðu þessir frelsisvinir að sleppa vegna óljósra sannana, en margir fóru í fangelsi og 48 fengu dauðadóm fyrir landráð. Kamban var skotinn án dóms og laga og varð af því mikið milliríkjastapp, sem kunnugt er.

Braggalíf á Melgerðismelum og ekkjustand á Akureyri.
HöyerÞeim Ericu og Höyer þótti margt breytt á Íslandi eftir stríðið, ekki síst í garðyrkjunni, þar sem risnar voru stórar garðyrkjustöðvar með fleiri þúsund fermetrum undir gleri. Þó ætluðu þau sér enn að reyna að lifa á landsins gæðum og jarðhitanum. Þau fluttust norður í Eyjafjörð að Melgerðismelum, en þar hafði verið flugvöllur og bækistöð Bandamanna á stríðsárunum. Þar komu þau sér fyrir í bragga, sem þau skiptu í tvennt, annars vegar íbúð og hins vegar afgreiðslusal fyrir flugið. Þar voru þau hjón umsjónarmenn og höfðu greiðasölu. „Við vorum þar mörg góð ár“ sagði Erica í endurminningum sínum.
Sigmundur Benediktsson, Eyfirðingur sem ég talaði við, man eftir þeim hjónum í bragganum, þar sem haldin voru böll sem þóttu nýstárleg. Þar skaust hin dökkeyga, smávaxna Erica á milli dansfólksins og stráði yfir það „Konfetti“-pappírsræmum. Það hafði ekki tíðkast í Eyjafirði þó mörg erlend áhrif hefðu borist til Akureyrar gegnum tíðina. Þessir góðu dagar á Melgerðismelum tóku enda eins og aðrir dagar. Flugið fluttist inn til Akureyrar 1955. Þá var bragginn rifinn og hjónin byggðu sér lítið hús, sem þau nefndu Melbrekku.

Höyer

Anders Christian Carl Julius Höyer – legsteinn í Möðruvallakirkjugarði – 15 mars 1885-30 júní 1959.

Anders var eins og áður sagði 15 árum eldri en Erica og heilsan fór að bila. Síðustu þrjú árin sem hann lifði var hann á sjúkrahúsinu á Akureyri og lést þar 30. júní 1959. Erica auglýsti látið og jarðarförina rækilega. Fyrst auglýsir hún í Morgunblaðinu: „Hjartkær eiginmaður minn og faðir A.C.Höyer, Melbrekku, áður Hveradölum, lést á sjúkrahúsi Akureyrar 30. júní. Jarðsett verður frá Fossvogskirkju 8. júlí kl. 2“.
Þá er önnur auglýsing þar sem bálförin er auglýst frá Fossvogskapellu þann 7. júlí og undir stendur Erica Höyer og synir. Síðan er í Degi 16. september auglýst minningarathöfn um Carl Höyer Jóhannesson umsjónarmann, sem fari fram daginn eftir frá Möðruvallakirkju. Síðast kemur þakkartilkynning, einnig í Degi, þar sem Erica þakkar öllum sem studdu hana við útförina; sr. Pétri Sigurgeirssyni fyrir ræðu og liðveislu, söngkór fyrir aðstoð og kvenfélagskonum fyrir gefnar veitingar. Það hafa margir lagt þessari erlendu konu lið og hún var vel kynnt hjá þeim sem umgengust hana.

Erika Höyer

Erika Höyer – Helgafell, 3. hefti 01.05.1942, bls. 149.

Erica átti mörg ár eftir ólifuð sem ekkja á Akureyri. Hún stundaði saumaskap meðan heilsa leyfði, eignaðist vinkonur sem ortu til hennar í minningagrein þegar hennar tími kom. Seinustu tvö árin átti hún heima á dvalarheimilinu Hlíð, en hún lést 9. maí 1982, fyrir aðeins 30 árum.
Annar Kúrlendingur, Wolf von Seefeld, minnist hennar í grein í Íslendingaþáttum Tímans, og nefndi m.a. að hún hafi verið þrítyngd, jafnvíg á þýsku, lettnesku og rússnesku. Íslenskan hennar var ekki alveg eftir málfræðinni sagði hann, en kom beint frá hjartanu. Wolf, sem seinna varð Úlfur Friðriksson, var líka flóttamaður úr stríðunum tveim, fæddur 1912 í Kúrlandi og kom til starfa hjá föður mínum 1955. Hann var fornfræðingur og sagnfræðingur, en hafði „lent í garðyrkju“ upp úr stríðinu. Mér fannst hann vera gamalmenni er ég sótti hann á rútuna þá um sumarið, en þá hefur hann verið 43 ára. Það var þó seigt í karli, því að hann varð 97 ára, mikill Íslendingur og skrifaði bækur, bæði um íslenska hestinn og minningabrot úr Hólavallakirkjugarði.
Nú hef ég verið að stikla á stóru í lífi útileguhjónanna Höyer. Ekki koma öll kurl til grafar með þeirra líf, en þau voru hluti af íslenskri sögu á umbrota- og framfaraskeiði þjóðarinnar og áttu sinn hlut, ekki síður en hinir, sem hér voru bornir og barnfæddir.
Erica gaf Íslendingum góðan vitnisburð í minningarbrotum, sem hún var beðin um að skrifa í jólablað Dags 1957: „Helstu kostir Íslendinga eru heilbrigð skynsemi þeirra og jafnaðargeð. Þeir rasa ekki um ráð fram, þeir gera ekki vanhugsaða hluti í reiðiköstum. Svo eru Íslendingar óþreytandi að hjálpa þeim sem miður mega sín og gestrisni þeirra er frábær“.
Þetta er ekki slæmur vitnisburður hjá gestinum glögga, sem bjó hér í yfir 40 ár. Þau hjónin hvíla í Möðruvallakirkjugarði í Eyjafirði, hlið við hlið, eins og í tjaldinu í Hveradölum forðum. En nú gildir einu þó að rigni.

Heimildir:
-Árni Óla: Erill og ferill blaðamanns hjá Morgunblaðinu um hálfa öld, (Reykjavík: Ísafoldarprentsmiðja, 1963).
Ásgeir Guðmundsson: Berlínarblús. Íslenskir meðreiðarsveinar og fórnarlömb þýskra nasista, (Reykjavík: Skjaldborg,
1996).
-Danmarks Historie, Kjersgaard, Erik, önnur útáfa, 1997.
-Erica Höyer: Anna Iwanowna, (Reykjavík: Ísafoldarprentsmiðja, [1942]).
-Hallir gróðurs háar rísa, Haraldur Sigurðsson, 1995.
-Grete Grönbech: Árin okkar Gunnlaugs, ([Reykjavík]: Almenna bókafélagið, 1979).
-Garðyrkjuritið, 1953.
-Íslensk dagblöð á ýmsum tímum.
-Sunnlenskar byggðir 3 : Laugardalur, Grímsnes, Þingvallasveit,
-Grafningur, Ölfus, Hveragerði og Selvogur, Páll Lýðsson bjó undir prentun, ([Selfoss]: Búnaðarsamband Suðurlands, 1983).

Gangan tók 1 klst. Frábært veður.

Meginheimildir m.a.:
-Dagur, 16, mars 1955, Ræktaði blóm í Hveradölum – afgreiddi flugvélar í Melgerði, bls. 16.
-Litli Bergþór – 2. tölublað (01.12.2012) – bls. 20-23.
-Íslendingaþættir Tímans, 24. tbl. 23.06.1982, Minning; Erika Höyer, bls. 4.
-Helgafell, 3. hefti 01.05.1942, bls. 149.

Gunnuhver

Reykjanesviti.