Tag Archive for: Grindavík

Vigdísarvellir

Á vefsíðu Minjastofnunar getur að lesa eftirfarandi um Vigdísarvelli austan við Núpshlíðarháls (Vesturás):

Vigdísarvellir

Vigdísarvellir – uppdráttur Minjastofnunar. Á hann vantar nokkrar minjar.

„Á Vigdísarvöllum má sjá mjög fallegt og heillegt minjasvæði kotbýla frá 19. öld.

Vigdísarvellir

Vigdísarvellir.

Samkvæmt Jarðabók Árna og Páls frá 1703 var á Vigdísarvöllum selstaða frá Þórkötlustöðum í Grindavík. Henni var lýst sem góðri en langt og erfitt að fara. Selstaðan var í landi Krýsuvíkur en Þórkötlustaðabændur fengu að nýta hana í skiptum fyrir skipsstöðu í Þórkötlustaðalandi.

Vigdísarvellir

Vigdísarvellir – Bali.

Á Vigdísarvöllum var og er eitt besta gróðurlendi í Grindavíkurhreppi en staðurinn var hins vegar afskekktur. Árið 1830 var þar reist nýbýlið Vigdísarvellir og skömmu síðar nýbýlið Bali. Ekki er alveg ljóst hvaða ár Bali byggðist, það er ekki nefnt í heimildum fyrir 1840 þegar fyrst er getið búsetu þar en árið 1846 bjó þar sex manna fjölskylda. Síðasta heimild um búsetu á Bala er frá árinu 1850.

Vigdísarvellir

Vigdísarvellir – útihús.

Á Vigdísavöllum var búið allavega til ársins 1901, mögulega með einhverju hléi milli 1870 og 1890. Þriðja nýbýlið á svæðinu sem heimildir eru um er býlið Fell. [Fell er reyndar ekki nálægt Vigdísarvöllum heldur sunnan Grænavatns]. Þar er getið búsetu í manntalinu 1855 en hvorki fyrr né síðar. Í lok janúar árið 1905 hrundu eða stórskemmdust öll hús á Vigdísarvöllum og fór bærinn eftir það í eyði.

Bærinn Vigdísarvellir eru í norðvesturhorni vallanna sem þeir heita eftir. Utan um túnið er mikill túngarður afar greinilegur og heill að mestu, alls rúmlega 1 km. að lengd. Bali er í austurhluta túnsins á Vigdísarvöllum. Tóftin er mjög greinileg með tveimur samföstum kálgörðum.

Þórkötlustaðasel

Þórkötlustaðasel við Vigdísarvelli – uppdráttur ÓSÁ.

Minjarnar eru vel varðveittar og menningarlandslagið í heild mjög skýrt. Þó svo minjarnar séu flestar ungar eða frá seinni hluta 19. aldar eru þær afar áhugaverðar sérstaklega sem minnisvarði um kotbýli frá þessum tíma sem annars staðar eru flest horfin vegna seinni tíma byggðar.“

Þess ber að geta að selstaða Þórkötlustaða fyrrum var á sunnanverðum Völlunum, sem þá hétu reyndar ekki Vigdísarvellir en voru norðurhluti Bleikingsvalla. Á þeim tíma var ekkert tún, sem síðar varð umleikis Vigdísarvelli og Bala sunnan undir Bæjarfelli.

Heimild:
-https://skyrslur.minjastofnun.is/Verkefni_2571.pdf

Vigdísarvellir

Vigdísarvellir – uppdráttur ÓSÁ.

Hraun

FERLIR grennslaðist fyrir um nýlegt niðurif gamla íbúðarhússins að Hrauni í Grindavík og sendi því byggingarfulltrúa bæjarins eftirfarandi fyrirspurn:

Hraun

Hraun í Grindavík. Gamla íbúðarhúsið handan „Sigurðarhúss“.

„Sæll, áttu afrit af nýlegu bréfi Minjastofnunar um íbúðarhúsið (1929) að Hrauni, sem nú hefur verið rifið. Kannski leynist þar gagnlegur fróðleikur um byggingarsögu hússins? sbr.

„Fundur 74.
Hraun 129179 – Umsókn um byggingarheimild Niðurrif – Flokkur 1, – 2304054.
Tekið er fyrir mál Harðar Sigurðssonar vegna einbýlishúss (N2092758) á jörðinni Hraun (L129179) meðumsækjendur eru Gísli Grétar Sigurðsson og Margrét Sigurðardóttir.

Hraun

Hraun í Grindavík.

Máli var frestað á síðasta fundi þar til niðurstaða minjastofnunar lægi fyrir.
Minjastofnun gerir ekki athugasemd við að húsið verði rifið.
Niðurrifsheimild er því veitt.“

Hverjir voru skráðir eigendur hússins (sem var tvískipt) áður en það var rifið?“
Svar barst um hæl;
„Sæll.
Sjálfsagt mál (sjá meðfylgjandi viðhengi).

Hraun

Hraun – svar Minjastofnunar v/ niðurrif íbúðarhússins að Hrauni.

Í bréfi Minjastofnunar má lesa eftirfarandi (leitt er þess að vita að ekki er hægt að nálgast bréf og erindi í opinberum fundargerðum bæjarfélagsins án þess að biðja um það sérstaklega. Það ætti það þykja sjálfsögð kurteisi að birta meðfylgjandi fylgiskjöl við tilfallandi erindum.

Svar: „Eigendur voru Hörður Sigurðsson, Gísli Grétar Sigurðsson, Margrét Sigurðardóttir“.

Innihald bréfs Minjastofnunar:

„Í tölvupósti dags 11. maí 2023 leitar Hörður Sigurðsson eftir áliti Minjastofnunar Íslands vegna íbúarhúss á Hrauni í Grindavík. Húsið hefur orðið fyrir vatnstjóni og nú er sótt um leyfi til að rífa húsið.
Gamla íbúðarhúsið á Hrauni er tvílyft bárujárnsklætt timburhús, kjallari og ris. Skv. Fasteignaskrá er það byggt árið 1929. Í lögum um menningarminjar nr. 80/2012 er eigendum húsa sem byggð voru 1940 eða fyrr skylt að leita álits Minjastofnunar ef þeir hyggjast breyta þeim, flytja eða rífa.

Hraun

Signingasteinn (skírnarsteinn) við Hraun. Gamla húsið v.m. og „Sigurðarhús“ h.m.

Áfast húsinu er svonefnt Sigurðarhús, reist 1956. Eigendur búa í því og það mun standa áfram.
Húsið Hraun er stórt og reisulegt, greinilega byggt af metnaði. Það var reist af bræðrum og samanstendur af tveimur sambyggðum íbúðum undir einu þaki, austur- og vesturhluta. Húsið hefur varðveislugildi og ánægjulegt hefði verið að sjá það gert upp með vönduðum hætti.
Undirrituð skoðuðu húsið ásamt eigendum þann 13. júní s.l. Ljóst er að það er illa farið eftir að hafa staðið autt í nokkur ár og ekki síst eftir vatnstjórn þegar hitaveituofnar á fyrstu hæð þess sprungu árið 2021 en það uppgötvaðist ekki fyrr en eftir nokkurn tíma. Víða eru augljósar rakaskemmdir, stórir myglublettir og sterk saggalykt í húsinu.

Hraun

Hraun 2020.

Minjastofnun gerir ekki athugasemd við að húsið verið rifið. Til fyrirmyndar væri að endurnýta húshluti, innréttingar, glugga, hurðir, snerla, ljósrofa o.fl. og styðja þannig við hringrásarkerfið. Ef ekki reynist unnt að nýta hlutina á staðnum mætti auglýsa þá á samfélagsmiðlum eða koma þeim til Efnismiðlunar Sorpu eða Húsverndarstofu.“

Undir bréfið skrifa Þór Hjaltalín og María Gísladóttir.

Hraun

Hraun í Grindavík 2019.

Efnisinnihald bréfs Minjastofnunar verður að teljast rýrt, svo ekki sé meira sagt. Hvorki er getið um byggingasögu hússins, fyrrum eigenda þess, hönnuðar eða skýrskotun til byggingahefðar þess tíma.

Hraun er skammt austan við meginbyggðina í Grindavík. Alls eru eigendur Hraunsjarðanna, og þar með gamla íbúðarhússins að Hrauni, sem eru í svonefndu Þórkötlustaðahverfi, um 20 talsins. Lönd þeirra ná talsvert til norðurs inn á hásléttuna og þeim tilheyrir meðal annars Fagradalsfjall og Geldingadalir, þar sem eldgos hefur gert sig heimankomið undanfarin ár.

Hraun

Hraun – eftir niðurrifið.

Í Fasteignaskrá ríkisins eru engir eigendur tilgreindir að fasteigninni Hrauni. Þar er einungis getið um svonefnt „Sigurðarhús“, sem byggt var vestan við gamla íbúðarhúsið frá 1929 árið 1956. Gamla húsið var tvískipt og tilheyrði a.m.k. tveimur fjölskyldum, sem á síðustu árum töluðust ekki við vegna álitamála.
Skv. upplýsingum Þinglýsingardeildar Sýslumannsins á Suðurnesjum voru Hörður Sigurðsson og Valgerður Söring Valmundsdóttir skráðir eigendur að íbúðarhúsinu að Hrauni í júní 2023.

Árni Konráð Jónsson

Árni Konráð Jónsson.

Árni Jón Konráðsson var fæddur 16. september 1926 að Móum Grindavík. Hann lést á Hrafnistu 7. mars 2017. Foreldrar hans voru Sigríður Jónsdóttir, f. 1 september 1895 að Hrauni Grindavík, d. 27. júní 1957, og Konráð Árnason, f. 22. Árni átti austurhluta íbúðarhússins að Hrauni, þegar síðast var vitað, og afkomendur hans eftir hans dag.

Skv. Lögbýlaskrá 2018 voru 15 skráðir eigendur að landareigninni Hrauni. Þeir hafa þá án efa verið fleiri því eiginkvenna eigenda er þar ekki getið.

Hraun

Hraun – lögbýlaskrá 2018.

Kirkja var á Hrauni frá 1226. Að sögn Sigurðar Gíslasonar var hún á hólnum austan við íbúðarhúsið þar sem síðar var byggt fjós. Vestan við kirkjuna var kirkjugarður. Bein fundust við umrótið. Sigurður fann þarna handunninn signingarstein þegar grafið var í hólinn og færði hann vestur fyrir íbúðarhúsið þar sem hann er enn. Sigurði var umhugað um að steinninn færi ekki á flakk vegna tengsla hans við kirkjusöguna að Hrauni fyrrum.

Heimild m.a.:
-Bréf Minjastofnunar 19. júni 2023 (MÍ202306-0021/ 6.06/ 6673.

Hraun - kort

Hraun í Grindavík – uppdráttur ÓSÁ.

Skansinn
Í júlí 1627 segir í Öldinni okkar:
Víkingar frá Algeirsborg ræna fólki og myrða – námu brott allt að fjögur hundruð manns, myrtu fjörutíu og rændu miklum fjármunum. Brenndu auk þess og eyðilögðu mikil verðmæti.

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir – uppdráttur ÓSÁ.

“Geigvænlegir atburðir hafa gerst: Víkingar frá Norður-Afríku hafa gengið á land í Grindavík, Vestmannaeyjum og víða á Austfjörðum, rænt fólki og fémæti og drepið fjölda manna. Meðal þeirra er séra Jón Þorsteinsson í Kirkjubæ í Eyjum. Minnstu munaði að víkingar þessir réðust einnig til atlögu að Bessastöðum, og tálmaði það fyrirætlan þeirra, að eitt skip þeirra tók niðri á boða á Skerjafirði.
Víkingar þessir, sem flestir voru frá Algeirsborg, komu hingað til lands á fjórum skipum. Það er talið að þeir hafi drepið hér um fjörutíu manns, flesta í Vestmannaeyjum, sært nokkra og haft á brott með sér hátt á fjórða hundrað Ísledninga og nálega tuttugu Dani, þar á meðal tvo Vestfjarðarkaupmenn. Fjögur kaupskip hremmdu þeir og höfðu tvö þeirra á brott með sér.

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir – teikning dr. Bjarna Sæmundssonar 12. apríl 1895.

Í Grindavík voru teknir tólf Íslendingar og þrír Danir og þar að auki áhöfn duggu þeirrar, sem átti að fara til Skutulsfjarðar.
Fyrsta víkingaskipið kom til Grindavíkur 20. dag júnímánaðar og varpaði akkerum á grunninu úti fyrir höfninni. Var sendur frá því bátur að dönsku kaupskipi er þar lá og létust víkingar vera hvalveiðimenn í þjónustu Danakonungs og báðust vista, en fengu ekki.
Grindavíkurkaupmaðurinn, Láritz Bagge, mannaði þá bát og lét róa út í skipið. Voru sendimenn þegar gripnir. Þessu næst greiddu víkingar atlögu, hremmdu kaupskipiðog réðust til uppgöngu í kaupstaðinn.

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir og Gerðavellir – uppdráttur ÓSÁ.

Flúði kaupmaður á land upp með öllum þeim, sem hjá honum voru í kaupmannshúsunum, en víkingar hófu að ræna búðirnar og byggðarlagið. Flest fólk fór að dæmi kaupmanns, nema Járngerðarstaðafólk, er féll í hendur víkingum. Engan drápu víkingar þó í Grindavík og ekki hirtu þeim um að hafa þá á brott með sér, er lasburða voru og einskis verðir sem þrælar á markaði.
Þegar víkingar létu út frá Grindavík, sáu þeir kaupfar danskt á leið vestur með landinu. Var þetta Skutulsfjarðarduggan. Tókst þeim að blekkja skipstjórnarmenn á henni með danskri veifu og ná henni á sitt vald. Sigldu þeir síðan á tveimur skipum fyrir Reykjanes og Garðskaga og inn Faxaflóa og huguðst ganga þessu næst á land á Álftanesi.

Bessastaðakirkja

Bessastaðakirkja og Bessastaðastofa fyrrum.

Fréttir af ráninu í Grindavík bárust þegar til Bessastaða, þar sem hirðstjórinn, Holgeir Rósinkrans, var fyrir á herskipi, sem lá á Seylunni. Lét hann undir eins safna liði um Nesin og halda vörð nótt og dag. Kaupför þau, sem komin voru, sendi hann inn á Leirvog í Mosfellssveit, en bændur voru kvaddir til virkishleðslu í Bessastaðanesi og þangað dregnar fallbyssur, sem heima voru á Bessastöðum. Aðkomumenn komu, voru kyrrsettir, og vildi svo til, að meðal þeirra voru þrír Frakkar, sem kunnu með skotvopn að fara, og hinn íslenski ævintýramaður, Jón Indíafari, sem hefur verið skytta á herskipum Danakonungs.

Víkingaskipin lögðu inn á Skerjafjörð laugardaginn 23. júní og stefndu á Seyluna. Steig þá hirðstjóri á hest með sveit manna, og reið flokkurinn fram og aftur með langar stengur, sem smíðaðar höfðu verið. Var það gert í því skyni, að víkingum virtist þar sveit altygjaðra hermanna.
Víkingar tóku að skjóta úr fallbyssum sínum, er þeir nálguðust, og var þeim svarað með fallbyssuskotum úr virkinu og af hirðstjóraskipinu á Seylunni. Véku þá víkingar skipum sínum undan norður á fjörðinn, en við það tók stærra skipið niðri, þar sem heita Löngusker, og stóð þar fast.

Skansinn

Skansinn við Bessastaði.

Lét hirðstjóri þá hætta skothríðinni, því að honum þótti ekki vogandi að egna víkingana til bardaga, ef vera kynni, að þeir létu sér strandið að kenningu verða. Hófu víkingar að flytja fanga og þungavarning úr hinu strandaða skipi yfir á hitt, en fleygðu því í sjóinn, er torveldast var viðfangs. Tókst þeim loks eftir hálfan annan sólarhring að ná skipinu af grynningunum og færðu skip sín þá utar, þar sem þeir voru óhultari. Þar selfluttu þeir fólk og varning á ný á milli skipanna, sigldu síðan brott og létu í haf með feng sinn.”

Árið 1628 komu nokkrir þeirra handteknu aftur heim. Þar á meðal voru tvo systkin frá Járngerðarstöðum við þriðja mann. Það var hollenskur kaupmaður sem leyst hafði Grindvíkingana út. Fólk þetta sagði þær fréttir að hinir herteknu væru flestir í ánauð í Algeirsborg, þeir sem ekki létust skömmu eftir komuna til Norður-Afríku.
Á Suðurnesjum eru nokkrar minjar og sagnir tengdar komu Tyrkjanna. Má þar nefna Ræningjastíginn í Heiðnabergi í Krýsuvík, komu Tyrkjanna í Krýsuvíkurselið ofan við bjargið, samskipti séra Eríks á Vogsósum við þá og Ræningjadysin austan við Ræningjahól, Eiríksvarðan á Svörtubjörgum ofan við Selvog, „Tyrkjavarðan“ vestan við Stað í Grindavík, sem ekki má raska, Fornavörin neðan við Járngerðarstaðahverfi, en þar er talið að Tyrkinn hafi varpað akkerum, blóðþyrnirinn (þistill) neðan við Sjólyst í Grindavík, hellir við Húsfjall ofan við Hraun, en þangað ætluðu Þórkötlustaðabúar að flýja ef Tyrkinn kæmi á ný, Dýrfinnuhellir, en sagan segir að þangað hafi samnefnd kona flúið með börn sín og dvalið meðan Tyrkir höfðust við í plássinu, byrgin undir Sundvörðuhrauni, en ein tilgátan er sú að þau hafi verið hlaðin til að veita fólki skjól ef Tyrkinn kæmi aftur til Grindavíkur og dysin á Hrauni, en þar eiga Tyrkir er Rauðka drap að hafa vera verptir skv. sögunni, svo eitthvað sé nefnt.
Við Bessastaði má enn sjá Skansinn og minjarnar umhverfis hann, auk fallbyssu í kjallara Bessastaðastofu.Tyrkjaránið

Fornubúðir

„Eins og kunnugt er lauk “Ensku öldinni” með bardaganum og drápi Englendinga í virki Jóhanns breiða ofan við Stórubót í Grindavík í júní 1532. Þar má enn sjá leifar virkisins sem og „Enskulágar“ þar sem hinir ólánssömu Englendingar voru grafnir. En sá bardagi átti sér langan aðdraganda. Árið 1518 varð t.d. stórbardagi í Hafnarfirði milli þýskra og enskra kaupmanna, sem lutu í lægra haldi eftir mjög mannskæða viðureign. Hrökkluðust þeir við svo búið úr bækistöðvum við Hafnarfjörð.

Gerðisvellir

Tómas Þorvaldsson við leifar virkis Jóhanns Breiða ofan við Stórubót.

Englendingarnir höfðu sest að í Fornubúðum við Hafnarfjörð og voru með fjölmenni á stóru skipi. Hamborgarar, sem ekki vildu una því, að ensku kaupmennirnir hefðu höfnina, söfnuðu liði meðal Þjóðverja á Vatnsleysuströnd, í Keflavík, Básendum og Þórshöfn (við Ósa) og fengu þaðan fjörutíu og átta menn til liðs við sig.
Hamborgarar klæddu síðan skip sín sængum í sjó niður og sigldu þannig búnir inn fjörðinn í útrænu. Elda kyntu þeir og á skipum sínum, svo að reykinn legði inn yfir Englendinga.

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir og Gerðavellir – uppdráttur ÓSÁ.

Þarna varð hinn grimmasti bardagi, og er til marks um mannfallið, að ekki komust heilir úr slagnum nema átta þeirra Þjóðverja, sem gengið höfðu í liðið á Suðurnesjum. Eigi að síður unnu Hamborgarar sigur á Englendingum, er nú eiga sér ekki lengur griðland annars staðar á Reykjanesskaga en í Grindavík.
Vorið 1532 sneru þýskir kaupmenn og skipstjórar sér til ráðsins í Hamborg og báðu það senda sér liðsauka, þar er þeir hefðu einsett sér að fara að Englendingum í Grindavík.
Það er skreiðin, sem í rauninni er bitist um. Hún er svo verðmæt, að Englendingar telja skreiðarfarm geta numið allt að fjórum fimmtu hlutum af verði skips, öllum úthaldskostnaði þess í Íslandssiglingu og vörufarmi, er það flytur til Íslands.“

-Úr Öldin okkar 1518 og 1532.

Hvaleyrarlón

Hvaleyrarlón við Hafnarfjörð. Fornubúðir voru á grandanum að handan.

Reykjanesskagi

Fjölmargir, bæði innlendir sem útlendir, fara að Reykjanesvita á hverju ári. Þar virða þeir fyrir sér hið fallega umhverfi, vitann á Vatnsfelli, Valahnúk og Karlinn utan við ströndina. Fuglakliðið í Hnúknum vekur jafnan mikinn áhuga sem og átök sjávar og strandar þegar hreyfing er á vindi og vatni.
En það er fjölmargt fleira að sjá og skoða við Reykjanesvita.

Reykjanesviti

Reykjanesviti.

Fellin við nýja vitann, sem tekinn var í notkun 1908, heita Hverhólmar, Írafell og Vatnsfell. Í því er dálítið vatn í dýjaveitum, sem safnast þar saman af snjó- og regnvatni.
Við strönd Reykjaness og báðu megin nessins hafa orðið mörg og mikil sjóslys á þessari öld (20. öldinni). Við Reykjanes strandaði m.a. eitt af stærstu skipum sem strandað hefur við Ísland, olíuskipið Clam. Það var 28. febrúar 1950. Skipið vari vélarvana eftir að hafa rekið upp í fjöru í Reykjavík og á leið til útlanda dregið af dráttarbáti, sem það slitnaði frá í ofsaveðri.

Clam

Clam á strandsstað.

Um borð voru 50 skipverjar. (Hvers vegna 50 manns voru um borð í vélarvana skipi sem draga átti til útlanda af dráttarbáti bíður sagnfræðinga að rannsaka). Þarna fórust 27 manns en 23 tókst að bjarga. Til eru og sagnir af björgun skipsáhafna er báta þeirra rak inn í Blásíðubás í vondum veðrum. Undir berginu austan Valbjargargjár eru margir sjávarhellar. Einn þeirra er opinn upp og hægt að komast áleiðis niður í hann og horfa á hvernig sjórinn er smám saman að grafa undan berghellunni.
Fyrsti ljósviti á Íslandi var reistur á Valahnjúki 1878.

Reykjanesvit

Reykjanesviti 1878.

Í miklum jarðskjálftum 8-9 árum síðar hrundi úr hnjúknum og sprungur mynduðust ofan á honum. Var þá talið að reisa yrði vitann á öruggari stað og var þá núverandi viti á Vatnsfelli byggður og tekinn í notkun 1908.
Annar viti (oft nefndur Litli viti), minni, var reistur sunnar á svonefndu Austurnefi. Ástæðan er sú að lítið eldfell, sem nefnist Skálarfell, skyggir á ljósið frá stóra vitanum á nokkru svæði þegar siglt er úr suðri. Hóllinn sem er á móti Vatnsfelli og er á vinstri hönd þegar ekið er fram hjá vitavarðarhúsinu á leið út að Valahjúk nefnist Bæjarfell.

Þegar gamli Reykjanesvitinn var reistur um 1878 voru auk þess bygður bær fyrir vitavörðinn sem og hlaðinn brunnur undir Bæjarfelli. Þetta var fallega hlaðinn brunnur, sem enn stendur. Gengið er inn í brunninn, sem þótti sérstakt. Slíka brunna má t.d. sjá við Merkines við Hafnir og á Snæfellsnesi (Írskabrunn). Nálægt brunninum er a.m.k þrjár tóftir.

Reykjanes

Reykjanesviti og nágrenni – uppdráttur ÓSÁ.

Til eru uppdrættir og riss af vitasmíðinni, umhverfinu og öðrum mannvirkjum á svæðinu. Verkinu var stjórnað af dönskum, sem lögðu fram verkfræðikunnáttuna, en íslenskir handaflið.
Frá vitavarðahúsinu var hlaðinn og flóraður stígur yfir að Valahnúk. Stígurinn sést enn vel. Gamli vitinn var hlaðinn úr grjóti og var sumt tilhöggvið. Sjá má leifar gamla vitans undir Valahnúk, skammt frá hlöðnu hesthúsi, sem enn stendur. Grjótið var sótt í yfirborðsklöpp norðan við Valahnúk. Þar hefur jafnþykk klöppin verið brotin niður af bakka og sést hlaðin gata liggja þar niður með kantinum.

Reykjanes

Reykjanesviti og nágrenni – uppdráttur ÓSÁ.

Norðan nýja vitans má sjá grunn af sjóhúsinu ofan við Kistu, en þangað var efni í hann flutt sjóleiðina og skipað á land. Enn austar með ströndinni er hlaðin tóft af húsi, líklega upp úr selstöðu, eða hugsanlega frá hinum gömlu Skjótastöðum.

Neðan við Bæjarfellið, við Keldutjörnina, er hlaðið gerði umhverfis klettasprungu. Í sprungunni er vatn þar sem gætir sjávarfalla. Áður var vatnið volgt, en hefur nú kulnað. Þarna lærðu ungir Grindvíkingar að synda og í kringum 1930. Ofan við Keldutjörn er hlaðinn túngarður.
Hlaðið er undir pall austan við Valahnúk. Þar höfðust menn frá Kirkjuvogi/Kotvogi við í tjöldum er þeir unnu m.a. reka á Valahnúkamölum. Til eru sagnir um iðju þeirra eftir mikla trjáreka. Dæmi eru og um að menn hafi gist í hellisskúta uppi í Valahnúkum, en ekki orðið svefnsamt vegna draugagangs.

Skálafell

Skálafell á Reykjanesi.

Í Skálfelli er djúpur hellir, Skálabarmshellir. Við op hans er torræð áletrun. Austan undir Skálafelli er hlaðið skjól, líklega fyirr refaskyttu, en mörg greni voru þaðan í sjónmáli niður á Rafnkelsstaðabergi.
Jarðfræðin á svæðinu er merkileg. Sprungurein gengur í gegnum það til SA. Sjá má hvernig gosið hefur á reininni á nokkrum stöðum (Stamparnir) og hvernig gosin hafa raðað sér upp eftir aldri. Ströndin ber glögg merki átakanna við Ægi. Landið hefur ýmist verið að stækka vegna nýrra gosa og minnka þegar sjórinn hefur verið að brjóta það miskunnarlaust niður þess á milli. Karlinn utan við ströndina er ágætt dæmi um það.

Heimild m.a.:
-Leó. M. Jónsson – Höfnum

Reykjanesviti

Reykjanesviti.

Seltún

Ásdís Dögg Ómarsdóttir jarðfræðingur, gönguleiðsögumaður og einn eigenda Asgard ehf. og starfsmaður Fjallakofans hefur smekk fyrir ævintýrum. Hún elskar náttúruna og dýrkar Ísland. Hún deilir hér með okkur gönguleið vikunnar sem er 5 km ganga sem tekur einn og hálfan tíma til tvo tíma að ganga og er erfiðleikstigið 2 á skalanum 1-5. Leiðin er Seltún – Arnarvatn.

Ketilsstígur

Upphaf Ketilsstíg við Seltún.

Hverasvæðið Seltún er staðsett um 40 mínútna akstur frá Reykjavík, við suðvesturenda Kleifarvatns á Reykjanesskaganum. Aksturinn frá höfuðborginni er upplifun útaf fyrir sig, eftir að komið er í gegnum Vatnsskarð. Vegurinn hlykkjast um stórkostlegt landsvæði sem er furðuleg blanda af aðlaðandi svörtum sandströndum og girnilegum grænum lautum og svo skuggalegum móbergsmyndunum og draugalegri jarðhitagufu sem minna mann á að hér er landið okkar unga með vaxtaverki og það þarf ekki mikið til að það teygi sig og hristi. Það er hollt að láta minna sig á að það er náttúran; jörðin sem stjórnar okkur, en ekki við sem stjórnum henni, þegar öllu er á botninn hvolft.

Arnarvatn

Ásdís Dögg Ómarsdóttir á Ketilsstíg.

Það fer ekki á milli mála þegar komið er að Seltúni. Þar rjúka gufustrókar úr hverum, líkt og stórtæk skýjaverksmiðja reki þar starfsemi sína. Veglegt bílastæði tekur á móti manni, sem alla jafna er fullt af bílaleigubílum, rútum og ferðamönnum.

Einu sinni var þarna mikil athafnastarfsemi og brennisteinsvinnsla í blóma. Því miður koma hvorki inn gjaldeyristekjur af brennisteini né ferðamönnum þessa dagana. Það býr þó til meira pláss fyrir okkur sem hér búum, til að njóta.

Arnarvatn

Arnarvatn.

Gengið er upp Ketilsstíg. Auðvelt er að koma auga á göngustíginn sem er merktur með skilti sem stendur við landvarðarhúsið. Leiðin liggur upp aflíðandi brekku að Arnarvatni. Stígur þessi var fjölfarinn um miðja 19. öld þegar brennisteinsvinnslan var á svæðinu. Þá lá hann yfir Sveifluháls norðan Arnarvatns og síðan um Hrauntungustíg til Hafnarfjarðar, og var flutningsleiðin fyrir brennisteininn.

Arnarvatn

Arnarvatn.

Tilvalið er að staldra við hjá Arnarvatni og njóta fagurs útsýnis. Þaðan má meðal annars sjá Stóra- og Litla Lamba­fell, Austurengjahver sem er aflmesti gufuhver Reykjanesskagans og Arnarnýpu sem er hæsti tindur Sveifluhálsins. Á meðan við nutum landslagsins hristist jörðin af eftirskjálftum meginskjálfta dagsins og drunur skriðufalla fylgdu í kjölfarið þetta stórskjálftasíðdegi, 20. október síðastliðinn.

Í logni síðdegissólarinnar staðfesti Veðurstofan síðar að skjálfti, 5,6, hefði riðið yfir fyrr um daginn og við fundum svo sannarlega fyrir eftirköstunum af á göngunni. Það fór ekki fram hjá okkur að stórir grjóthnullungar höfðu fallið í skriðum umleikis í stóra skjálftanum fyrr um daginn. Það var ekki laust við að maður yrði á vettvangi frekar lítill í sér í annars stórbrotinni náttúru skagans við þá sjón.

Folaldadalir

Folaldadalir.

Frá norðanverðu Arnarvatni liggja leiðir til allra átta, s.s. til norðvesturs að Katlinum með framhald að Hrauntungustíg, til suðurs að Hettuvegi yfir að Vigdísarvöllum, til norðurs um Folaldadali – en hringurinn sem við lýsum hér, fer með okkur hálfhring um vatnið og að frábærasta útsýnisstaðnum af þeim öllum, hvernum Pýni austan Baðstofu. Leiðin niður að Seltúni er brött á köflum, og þar þarf að fara varlega því undirlagið er laust í sér, hér getur veri gott að hafa með sér göngustafi.

Seltún

Í Seltúni.

Í lok göngunnar er tilvalið að rölta um veglega stíga háhitasvæðisins í Seltúni og hlusta á hviss og bubbl hveranna er eiga sér þá íslenskulegustu lykt sem til er og njóta litadýrðarinnar sem gefur Landmannalaugum og Sogunum sunnan Trölladyngju á Núpshlíðarhálsi lítið eftir.

Njótið útivistarinnar.

Heimild:
-https://www.mbl.is/ferdalog/frettir/2020/10/23/gonguleid_vikunnar_seltun_arnarvatn/

Arnarvatn

Arnarvatn.

Elvarpahraun

Gengið var um hið misgreiðfæra Berghraun vestan við Staðarhverfi í Grindavík. Berghraunið er ofan við Staðarbergið og sennilega eitt af Eldvarparhraunum. Þrátt fyrir úfið apalhraun eru helluhraunssléttur inni á milli og því auðveld yfirferðar.

Refagildra

Refagildra á Staðarbergi.

Næst berginu er sambland af hvorutveggja. Þegar gengið var ofan við Klaufir austarlega ofan við Staðarbergið sást glöggskyggnum heilleg hleðsla uppi í hrauninu, undir hraunbakka. Staðsetningin er augljós þar sem lágtófan er annars vegar, þá er „dældirnar smjó“. Þegar hleðslan var skoðuð kom í ljós alveg heil refagildra. Meira að segja fellihellan var enn fyrir opinu. Gildran er hlaðin úr hraunhellum, en stoðsteinarnir sitt hvoru megin við helluna eru úr grágrýti. Þetta var 26. hlaðna refagildran, sem FERLIR hafði skoðað á Reykjanesskaganum.

Staðarberg

Staðarberg – refagildra.

Skömmu síðar fundust tvær gamlar refagildrur austan við Ísólfsskála auk tveggja til viðbótar einni austan við Húsatóftir. Fyrir einungis nokkrum misserum var einungis talið að 3-5 slíkar væru til á Nesinu öllu. Ljóst er nú að mun fleiri slíkar eiga eftir að finnast á svæðinu. Þekktar refagildrur hafa allar verið skráðar, myndaðar og staðsettar með gps-hnitum.
Stuttu eftir að þetta var skrifað fór FERLIR aftur um svæðið í öðrum tilgangi. Í þeirri ferð var gengið fram á enn eina refagildruna, skammt norðvestan við hina fyrrnefndu. Sú gildra er einnig alveg heil. Talan er því komin yfir á átta tuginn.
Sjá meira um refagildrur HÉR.

Staðarberg

Staðarberg – refagildra.

 

Krýsuvíkurbjarg

Gengið var niður í Seljabót frá Sýslusteini. Girðing er þar á mörkum Herdísarvíkur og Krýsuvíkur, en þau eru jafnframt sýslumörk Árnessýslu og Gullbringusýslu.

Herdísarvíkursel

Herdísarvíkursel – uppdráttur ÓSÁ.

Við girðinguna eru einnig endamörk Grindavíkurumdæmis að austanverðu. Reyndar mætti deila um staðsetningu markanna, en venjulegast er miðað við línu milli Seljabótanefs og Sýslusteins og þaðan í Kóngsfell (Konungsfell), öðru nafni Stóra Bolla. Eldri girðing liggur á ská til norðausturs í gegnum Herdísarvíkurhraun og í Fálkagilsskarð (Fálkageirsskarð) í Herdísarvíkurfjalli. Austan við girðinguna nefnist hraunið (sem reyndar eru nokkur) Herdísarvíkurhraun, en vestan við hana Krýsuvíkurhraun. Sum vestari hraunanna eru komin úr Edborgum (Litlu og Stóru) undir Geitahlíð, en einnig úr fallegum gígum ofan Geitahlíðar, sbr. hraunið er rann niður Slátturdal, oft nefnt Fjárskjólshraun.
Skömmu áður en komið er niður í Seljabót, suður undir syðstu hraunbrúninni, er Herdísarvíkursel, nokkrar tóftir og stekkur. Nokkur austar með ströndinni má enn sjá móta fyrir a.m.k. einni hlaðinni refagildru, sem minnst hefur verið á í gömlum lýsingum af þessu svæði. Sjórinn er búinn að brjóta aðrar undir sig.

Seljabót

Gerði í Seljabót.

Í Seljabót er hlaðið gerði. Ofan þess er gróinn hóll uppi í brunahrauninu, að hluta til manngerður. Girðingin svo að segja frá honum í beina línu til norðurs, að Sýslusteini. Seljabótanefið er fremst en frá því er fallegt útsýni austur eftir Háabergi, stundum nefnt Herdísarvíkurberg.
Haldið var til vesturs með ströndinni. vel má sjá lagskiptinguna á hinum ýmsu hraunum sem og tegundum hrauna, er runnið hafa þarna í sjó fram. Neðst og næst sjónum eru fallegar hraunæðar og rásir, sem sjórinn hefur hreinsað allt laust ofan af. Ofar er gjallmulningur og ofan á því grágrýti og hraungrýti. Allt myndar þetta hina fallegustu hraun- og litasamsetningu þarna á mörkum lands og sjávar.

Herdísarvíkurbjarg

Á Herdísarvíkurbjargi.

Á einum stað, á örlitlu svæði, eru hraunlistaverk, sem myndu sóma sér vel í hvaða stofu sem væri. Fallegust er þau þarna ofan strandarinnar – þar sem þau urðu til er herra Ægir og frú Hraun runnu saman í eitt.
Víða eru mjóar víkur eða básar inn í ströndina og oftlega opnast fallegt útsýni yfir hluta strandarinnar. Vel grói er ofan strandarinnar. Svo til miðja vegu milli Herdísarvíkur og Krýsuvíkur er hóll er ber hæst í landslagið, sama úr hvorri áttinni er komið. Á hólnum er hlaðin beinakerlning eða skilaboðavarða.
Stórir sjávarhellar eru sums staðar inn undir bergið og gatklettar eru nokkrir. Þrír eru þó tilkomumestir. Skammt vestan og neðanundir beinakerlingunni er feiknafallegur og mikill svelgur, opinn með stórri steinbrú til hafs, ótrúleg náttúrusmíð. Ekki er gott fyrir lofthrædda að standa of nærri brúninni. Skammt vestar er fallegt útsýni vestur með berginu, m.a. gatkletti skammt austan Kefavíkur.

Keflavík

Keflavík.

Vestar er Keflavík. Víkin ber nafn með réttu; stórum keflum hefur skolað þar á land. Stígur liggurniður í víkina, sem er gróinn næst berginu, en utar eru stórt ávalt fjörugrjótið. Vestan við Keflavík má slá leifar af gamla berginu. Ofan á því standa nokkrir gulskófnir steinar (fuglaglæða/húsglæða). Nefnast þeir Geldingar. Af grashól vestan við keflavík, austan Geldinga, er fallegt útsýni austur eftir berginu, m.a. að gatklettinum fyrrnefnda.
Haldið var áfram yfir apalhraunið neðan Klofninga. Ofar í þeim er Arngrímshellir, stundum nefndur Gvendarhellir.

Keflavík

Keflavík – gatklettur.

Gengið var niður undir gamla bergið neðan Krýsuvíkurhellis. Þar sést vel hvernig hraunið hefur runnið niður af berginu og fram af því, en skilið hluta þess eftir sem fagurt sýnishorn af því sem var.
Skammt vestar eru Bergsendar, grasi grónir. Af þeim er einn fallegasti útsýnisstaðurinn vestur eftir Krýsuvíkurbjargi, háu og tilkomumiklu. Gengið var upp eftir fjárhólfsgirðingunni ofan Bergsenda og að réttinni undir Stóru Eldborg.
Frábært veður – sól og hiti. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Krýsuvíkurbjarg

Á Krýsuvíkurbjargi.

Reykjanes

Sagt er að ysti hluti Suðvesturkjálkans nefnist Reykjanes, þ.e. svæðið vestan línu er dregin er á milli Stóru-Sandvíkur í norðri og Sandvíkur í suðri.

Reykjanesviti

Reykjanesviti.

Allt er svæðið mjög eldbrunnið og sundurskorið af gjám, enda snautt að gróðri. Eldfjöll eru þar mörg en öll fremur lág. Þau eru einkum tvenns konar, hraundyngjur, s.s. Skálafell og Háleyjarbunga og gossprungur eða gígaraðir s.s. Stampar og Eldvörp. Gígaraðir tvær eru miklum mun yngri en dyngjurnar og sennilega orðnar til á sögulegum tíma. Nokkuð er og um móbergsfjöll þarna og ber einna mest á Sýrfelli. Utan í því er fallegur gígur, Hreiðrið (Stampur)
Mikill jarðhiti er víða á Reykjanesskaganum. Reykjanestáin er þar ekki undanskilin. Á Reykjanestánni er mikið hverasvæði, leirhverir og vatnshverir. Allt er land þar sundurtætt af jarðeldum, gígum, leirpittum, gufuhverum o.fl. Stærsti leirhverinn heitir Gunna. Um þann hver er til sú þjóðsaga að kona ein, sem Guðrún hét hafi gengið aftur. Lék hún menn grátt, reið húsum og fældi fénað. Lokst var galdraprestur nokkur fenginn til koma draugnum fyrir og gerði hann það í Gunnu.

Reykjanesviti

Reykjanesvitinn á Valahnúk.

Viti er á Reykjanesi, sá fyrsti sem byggður var á Íslandi árið 1879, Hann var reistur upp á Valahnúk, en 8 eða 9 árum seinna gerði mikla jarðskjálfta og komur þá þrjár stórar sprungur skammt frá honum, bær vitavarðarins skemmdist og enn meira rask varð á jörðu og mannvirkjum. Var vitinn endurbyggður þar sem hann er nú á árunum 1907-1908. Hann stendur í 78 m.y.s.
Reykjanesinu er gjarnan skipt í 4 eða 5 eldstöðvakerfi, Reykjanes-Grindavík-Vogar (oft talið sem tvö kerfi), Krýsuvík-Trölladyngja, Brennisteinsfjöll-Bláfjöll og Hengill-Selvogur. Hliðrunarbelti með austur-vestur stefnu í gegnum þessi kerfi veldur tíðum jarðskjálftum á Reykjanesi og á því hafa myndazt háhitasvæði á yfirborði, s.s. á Reykjanesi, í Eldvörpum, í Svartsengi, í Krýsuvík og í Brennisteinsfjöllum. Eldstöðvakerfin hafa öll skilað blágrýti (þóleiískt berg) til yfirborðsins á nútíma nema Hengilssvæðið. Píkrít er að finna í gömlu og minni dyngjunum á svæðinu en ólivínþóleit í hinum yngri og stærri. Fjöldi dyngnanna frá nútíma er u.þ.b. 30 og gossprungur eru í tugatali. U.þ.b. 52% Reykjanesskagans (mælt úr botni Kollafjarðar til Þorlákshafnar) er þakinn hraunum, sem runnu eftir síðasta skeið ísaldar (43 km²). Flest fjöll, t.d. Keilir, eru úr móbergi frá síðasta kuldaskeiði.

Háleyjarbunga

Háleyjarbunga.

Reykjanes er yzti hluti Suðurnesja. Þar eru mikil ummerki eldvirkni og vart sést þar stingandi strá. Mest ber á dyngjum, s.s. Háleyjarbungu og Skálafelli, og gossprungum eða gígaröðum, sem eru mun yngri en dyngjurnar og hafa að öllum líkindum myndast á sögulegum tímum. Jarðhiti er mikill á skaganum, ekki færri en fimm háhitasvæði. Eitt þeirra er á Reykjanesi, þar sem sjá má leir- og vatnshveri. Stærsti leirhverinn heitir Gunna. Guðrún var ódæll draugur, sem olli usla. Galdraprestur var fenginn til að koma henni fyrir í hvernum. Rétt þar hjá er saltvinnsla og fiskþurrkun og þar mun líklega rísa magnesíumverksmiðja í framtíðinni. Árið 2003 var hafin bygging stórs varmaorkuvers á Reykjanesi í tengslum við stækkun Norðuráls á Grundartanga við Hvalfjörð.

Reykjanesviti

Reykjanesvitinn fyrri.

Fyrsti viti landsins var reistur uppi á Valahnjúki árið 1878. Árið 1887 ollu jarðskjálftar miklu hruni úr hnjúknum, þannig að nýr viti var reistur á árunum 1907-08, þar sem hann stendur enn þá 73 m yfir sjó. Skammt undan Reykjanestá er 52 m hár drangur í sjónum. Hann heitir Karl. Utar sést til Eldeyjar í góðu skyggni. Hún er 77 m há og á henni er mesta súlubyggð í heimi, u.þ.b. 70 þúsund fuglar. Eldey hefur oft verið klifin, en til þess þarf sérstakt leyfi, þar sem hún er á náttúruverndarskrá. Á Eldeyjarsvæðinu hefur líklega gosið a.m.k. 10 sinnum og þrisvar hafa orðið til eyjar, sem hurfu nokkurn veginn jafnskjótt og þær urðu til.
Gengið var frá Gunnuhver, suðurmeð austanverðu Skálafelli og niður á Krossavíkurbjarg, öðru nafni Hrafnkelsstaðaberg. Bergið er 10 – 40 metra hátt. Undir því fórst bátur í marsmánuði 1916 með 10 eða 11 manna áhöfn. Skipshöfnin komst í land, að sagan segir fyrir dugnað Kristjáns Jónssonar frá Efri-grund, sem hélt skipinu föstu í klettunum meðan skipshöfnin var að komast úr því. Skipið dróst síðan út og brotnaði. Undir berginu eru Skemmur – básar inn undir bergið á kafla. Eitt mesta björgunarafrek, sem unnið hefur verið undan ströndum landsins, var unnið þarna fyrir utan er kútter Ester frá Reykjavík bjargaði áhöfnum fjögurra báta, eða 40 manns. Undir berginu þarna stendur bergstandur úti í sjó, líklega leifar af steinboga. Heill og stór steinbogi er í borginni skammt vestar og sést hann vel þegar staðið er inni á bjargbrúninni.

Reykjanes

Litliviti.

Nýjasti Reykjanesvitinn, stundum nefndur Litli viti, er á Tánni. Hann er staðsettur þarna vegna þess að stóri vitinn á reykjanesi er í hvarfi við Skálafellið á kafla nokkuð austur í grindavíkursjó. Vestan við hann er Blásíðubás. Í óverðinu í mars 1916, mestu hrakningum í sjóferðasögu grindavíkur, bjargaðist einn bátanna upp í básinn og áhöfnin bjargaðist. Blásíðubás er stærstur básanna við Grindavíkurstrendur og einn sá fallegasti. Vitað er að þrisvar hafi skipshafnir lent og bjargast þar á síðustu stundu frá því að lenda í Reykjanesröstinni og sogast þannig til hafs.

Valbjargargjá

Valbjargargjá.

Áður en komið er út að Valbjargargjá mótar fyrir bás. Ofan við hann er varða. Þarna varð eitt af stærstu sjóslysum, sem orðið hafa á þessum slóðum, þegar olíuskipið Clam strandaði og 27 menn drukknuðu. Eitthvert ofboð hljóp í skipshöfnina eftir að skipið strandaði. Björgunarbátar voru settir út í brimið, en það velti þeim á svipstundu. Ekki voru nema 20-30 metrar í land. Þremur mönnum skolaði lifandi á land. Þegar björgunarsveitin úr Grindavík kom á vettvang voru enn 24 menn um borð í skipinu. var þeim öllum bjargar á línu milli skips og lands.

Valahnúkur

Valahnúkar og Valahnúkamöl.

Valahnúkamölin er fyrsta örnefnið í Grindavíkurlandi vestan megin. Þar eru landamegi Hafna, eða Kalmanstjarnar í Höfnum og Staðar í Grindavík. Mörkin hafa ekki verið krýsulaus. Hafnamenn nefndu t.d. básinn ausanvið Valbjargargjá Kirkjuvogsbás, svona til að koma Hafnalandinu örlítið austar, en Grindvíkingar hafa ekki sætt sig við það.
Fallegt útsýni er af berginu yfir að Valahnúk. Draugshellirinn í miðjum hnúknum sést vel, efst í grasbrekku. Við hann eru tengdar rammar draugasögur (sjá Rauðskinnu).

Reykjanes - sundlaug

Sundlaugin á Reykjanesi.

Gengið var vestur eftir Valahnúksmölum og niður að Keldutjörn. Reykjanesvitinn speglaðist fagurlega í vatninu. Vestan við tjörnina eru hleðslur eftir hina gömlu sundlaug Grindvíkinga, en í gjánni innan þeirra lærðu margir Grindjánar að synda á fyrri hluta 20. aldar. Líklega hefur verið hitavermsl í gjánni þótt hún sé nú kulnuð.
Gengið var vestur að flóruðum stíg er lá á milli Valahnúks, þar sem fyrsti vitinn hér á landi var reistur, og vitavarðarhússins. Vestan við Valahnúk er lægð í hellulandið. Í henni er flóraður vegur niður undir helluna. Þangað var efnið í gamla vitann og vitavarðahúsið m.a. sótt. Leifar gamla vitans liggja undir Valahnúk og bíða endurnýjun lífdaga. Það voru danskir er höfðu hönd í bagga við byggingna á sínum tíma sem og gerð brunnsins í túninu neðan við Bæjarfell.

Karl

Karlinn.

Karlinn stendur teinréttur utan við ströndina, 52 m hár móbergsdrangu. Eldey ber í sjónarrönd.
Reykjanesið, svonefnda, býður upp á ótrúlega mikla útivistarmöguleika. Minjasvæðið tengt vitagerð nær frá Kistu að Hrafnkelsstaðarbergi. Þar má sjá grunn gamla sjóhússins, lendinguna neðan þess, gerði, stíg, flóraðagötu niður að sjó vestan Valahnúks, flóraðan stíg milli hans og vitavarðahússins gamla, brunninn undir Bæjarfelli, leifar gamla vitans undir Valahnúk, vitann á Vatnsfelli og Litla vita á Reykjanestá svo eitthvað sé nefnt.

Reeykjanes

Dásemdir Reykjanesskagans má í dag finna víða, þökk sé jarðvánni….

Berg- og jarðmyndarfræðin (sköpunarsagan) eru þarna allt um kring, fugla- og gróðurlíf er með fjölbreyttara móti, auk þess sem landslagið er bæði hrikalagt og fagurt í senn. Og ekki skemmir fyrir að svæðið er einungis spölkorn frá Stór-Hafnarfjarðarsvæðinu (Grindvíkingar gætu hæglega gengið þangað líkt og í sundlaugina fyrrum).
Frábært veður – sól og afar hlýtt – Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Heimildir:
-natmus.is
o-Frá Suðurnesjum – frásagnir frá liðinni tíð – Frá Valahnúk til Seljabótar eftir Guðstein Einarsson – 1960.

Reykjanes

Við Reykjanesvita – uppdráttur ÓSÁ.

Grindavík

FERLIR  hefur nú (2023) endurnýjað þrjú af átta sögu- og minjaskiltum Grindavíkur með stuðningi bæjaryfirvalda.

Grindavík

Grindavík – gamla skiltið við Járngerðarastaði.

Skiltin eru við Járngerðarstaði (sögusvið Tyrkjaránsins), Hóp og í Þórkötlustaðahverfi og eru til viðbótar þeim tveimur, sem endurnýjuð voru á síðasta ári (2022), þ.e. við gömlu kirkjuna og ofan við bryggjuna á Þórkötlustaðanesi. Skiltin voru orðin 12 ára gömul og höfðu látið verulega á sjá vegna ágangs ljóss, veðurs og vinda. Illlæsileg skilti eru engum til ánægju og því nauðsynlegt að viðhalda þeim eftir þörfum.

Grindavík

Grindavík – endurnýjað skilti við Járngerðarstaði.

Örnefna- og minjaskiltunum er ætlað að vera bæjarbúum og gestum þeirra til fróðleiks um þeirra næsta mjög svo áhugaverða umhverfi. Gerð þeirra var upphaflega styrkt af Grindavíkurbæ, Saltfiskssetri Íslands og Pokasjóði. FERLIR gaf alla vinnu við undirbúning og gerð þeirra. Vonir standa til að hægt verði að endurnýja þau þrjú skilti er eftir eru, þ.e. á Holuhól í Staðarhverfi, á Gerðarvöllum og við Hraun, næsta vor.

Sjá umfjöllun um endurnýjun fyrstu tveggja skiltanna HÉR.

Grindavík

Grindavík – Örnefna- og minjaskiltið við Járngerðarstaði.

Tag Archive for: Grindavík