Færslur

Slaga

Gengið var um Skollahraun í blíðskaparveðri. Vestast í hrauninu eru gamlir fiskigarðar og fiskbyrgi frá árabátaútgerðinni við Ísólfsskála.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – fiskbyrgi við Nótarhól.

Þarna, líkt og í Strýthólahrauni, Slokahrauni, á Selatöngum og í Herdísarvík eru hundruðir metra af þurrkgörðum er liggja um hraunið. Inni á milli má sjá þurrkbyrgin. Erfitt er að koma auga á sum þeirra vegna þess hversu mosavaxin þau eru orðin. Enn einn verstöðvaminjastaðurinn við strönd Reykjanesskagans. Þessar minjar hafa varðveist vel vegna þess hversu fáir hafa vitað af þeim.
Skoðaður var fjárhellir Skálabúa undir öxlinni er liggur suðvestur úr Slögu og síðan kíkt á vatnslind þeirra undir hlíðinni.

Slaga

Slaga.

Slaga er merkilegt jarðfræðifyrirbæri. Undir henni sunnanverði voru fyrrum sjávarhamranir, en nýrra hraun færði hana utar þar sem hún nú er. Á bak við Slögu að norðanverðu er Drykkjasteinsdalur. Dregur dalurinn nafn sitt af Drykkjarsteininum, sem aldrei á að þrjóta vatn í. Hann er við gömlu þjóðleiðina um dalinn austur til Krýsuvíkur.
Síðan var haldið á Núpshlíðarháls þar sem gengið var eftir eldgígaröðinni og skoðaðar hraunæðar og hraunfarvegir.

Stóri-Hamradalur

Stóri-Hamradalur.

Gengið var um Stóra-Hamradal og við norðurenda hans upp á Núpshlíðarhálsinn þar sem útsýni er um bakland Keilis, norður til höfðuborgarsvæðisins og vestur til Grindavíkur. Neðan undir hálsinum kúrði Hraunssel með tóttum og stekkjum. Á bakaleiðinni var gengið að gígunum, sem Ögmundahraun kom úr, dáðst að útsýninu yfir Bleikingsdal og síðan haldið með gígaröðinni til suðurs.
Um var að ræða frábæra göngu í fallegu umhverfi.

Ísólfsskáli

Refagildra Í Skollahrauni við Ísólfsskála.

Hraunssel

Haldið var norður Leggjabrjótshraun vestan við Núpshlíðarháls og gengið í sólskini að Hraunsseli.

Hraunssel

Hraunssel.

Selið er merkilegt fyrir að að hafa verið síðasta selið svo vitað sé sem notað var á Reykjanesi, eða allt fram til 1914. Á sumum kortum er það staðsett uppi á hálsinum, en er í norðan undir honum. Selið eru heillgar tóftir og stekkur. Ef vel er að gáð má sjá tóftir eldra sels á sléttlendi skammt norðar. Við þær er einng stekkur, nær jarðlægur. Hraunssels-Vatnsfell, fjallið gegnt selinu, dregur nafn sitt af því.

Núpshlíðarháls

Núpshlíðarháls – gígur.

Vegna góðs veðurs var ákveðið að ganga einnig á Núpshlíðarhorn og skoða gígana, sem þar eru, en þeir munu vera einstakir í sögu jarðfræðinnar. Fyrir ofan hraunárfarvegina klofnuðu gígarnir eftir endilöngu fjallinu svo sjá má þversnið þeirra og þannig átta sig enn betur á hvernig þeir, og aðrir sambærilegir gjallgígar, hafa myndast upp úr móbergsfjalli, eins og víða má sjá, s.s. inn með austanverðum Núpshlíðarhálsinum. Gígarnir eru hver öðrum fallegri og alveg þess virði að gefa sér góðan tíma til að ganga á milli þeirra, virða þá fyrir sér og skoða hraunæðarnar og – traðirnar, sem frá þeim liggja niður hlíðina að vestanverðu.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Hraunssel

Hraunssel- uppdráttur ÓSÁ.

Æsubúðir

Gengið var upp hraunána að Stóru-Eldborg, yfir gömlu þjóðleiðina milli Herdísarvíkur og Krýsuvíkur um Deildarháls, áfram upp Hvítskeggshvamm og upp að gígnum á Geitahlíð. Þarna eru heimkynni þokunnar.

Stóra-Eldborg

Stóra-Eldborg.

Eftir stutta dvöl á gígbarminum, brá hún sér af bæ svo hið mikla og kyngimagnaða útsýni birtist þátttakendum í allri sinni dýrð. Í norðri birtust eldborgirnar fallegu austan við Kálfadalahlíðar, úfið mosahraunið, Vörðufell og Sveifluhálsinn.

Kleifarvatnið setti skarpan lit í landslagið. Sunnar lágu Klofningar, Litlahraun og Krýsuvíkurheiðin við augum, svo langt sem þau entust.

Hvítskeggshvammur

Hvítskeggshvammur. Stóra-Eldborg neðar.

Haldið var áfram upp að Æsubúðum í 382 metra hæð y.s. Í gömlum sögum er því haldið fram að Æsubúðir hafi verið gamall verslunarstaður jötna þá og þegar sjórinn náð upp að Geitahlíð og hægt var að leggja skipum við Hvítskegsshvamm. Í honum átti að vera járnkengur sem skipafesti, en lítið virðist vera á honum nú. Landslagið gaf ekki annað til kynna.
Af tindinum er eitt fegursta útsýni hér á landi yfir suðurströndina, fjöllin ofan Herdísarvíkurfjalls, Kleifarvatn, Sveifluháls, Krýsuvík og svæðið ofan Krýsuvíkurbjargs. Gengið var norður með Æsubúðum og síðan í hálfhring niður að brún Geitahlíðar ofan við Stóru-Eldborg.

Æsubúðir

Æsubúðir og nágrenni.

Þaðan sjást vel hinir þrír gígar borgarinnar, einnum þó sýnum stærstur, þ.e. Eldborgin sjálf. Geitahlíðin var skáskorin niður að Eldborginni og hún síðan skoðuð betur í nálægð. Auðvelt var að ganga niður gróna hrauntröðina að upphafsstað.
Huga þarf að umgengni við Eldborgina. Ferðamenn hafa sjálfir verið látnir um að að marka stíg upp um hlíðar hennar, en eðlilegast og án minnstu skemmda væri að ganga upp á hana frá gömlu þjóðleiðinni. Þaðan er stutt upp á brúnina og minnsta umhverfisraskið – just að proposal, eins og Norðmaðurinn sagði.
Frábært veður – Gangan tók 1 klst. og 40 mínútur.

Æsubúðir

Æsubúðir efst á Geitahlíð.

Kerlingarskarð

Gengið var upp á Lönguhlíðar (512 m.y.s.) um Kerlingargil og ofan hlíðanna til suðurs að Mígandagróf.

Mígandagróf

Mígandagróf.

Grófin, sem framdalur ofan við brúnina, var tóm vegna undanfarandi þurrka, en litadýrðin var söm við sig. Grænni litur er óvíða til hér á landi í bland við brúnan. Grófin er verðandi skál líkt og sjá má í Vestfjarðarfjöllunum. Þunnt lækkandi haft skilur hana frá hlíðinni. Vatn safnast saman í hana og myndar vænan poll. Þegar blár liturinn fer saman við þann fagurgræna verður til fegurð, sem hvorki sá guli né rauði ná að brjóta upp. Stutt stjórnmálalíking.
Grófin er stundum nefnd Mýgald og hún þá Mýgaldagróf.

Lönguhlíð

Varða á Lönguhlíð vestan Mígandagrófar.

Frá grófinni var haldið að reisulegri útsýnisvörðu fremst á Lönguhlíðum. Útsýni þaðan yfir láglendið og til vesturs með Sveifluhálsi, Núpshlíðarhálsi og Keili er stórbrotið. Í austri blasi Hvirfill við (602 m.y.s.), þá Kistufell, Eldborg og Vörðufell og í suðri bar Æsubúðir við haf og himin.
Haldið var niður hraunfossinn í Fagradalshlíðum, niður í gróinn dalinn og síðan gengið með neðanverðum Lönguhlíðum til baka.
Veður var bjart, stilla og sólskin. Gangan tók 3 og 1/2 klst.

Mígandagróf

Mígandagróf.

Járngerðardys
Tómas Þorvaldsson, barnfæddur Grindvíkingur, nú nýlátinn [2. des. 2008], var manna fróðastur um sögu og örnefni í Grindavík.
Tómas ÞorvaldssonEkki er langt um liðið síðan hann gekk rösklega að Járngerðardysinni við Járngerðarstaði, staðnæmdist og sagði: “Hér er hún”. Um var að ræða gróna þúst undan beygju á veginum framan við Vík. “Sjómennirnir gengu til skips eftir sjávargötunni frá Járngerðarstöðum, staðnæmdust hér við dysina, tóku ofan og fóru með sjóferðarbæn. Síðan gengu þeir sjávargötuna áfram að Norðurvör, hérna fyrir neðan þar sem gamla bryggjan er nú.”
Nokkrum árum síðar lögðu ómeðvitaðir aðkomumenn malbik yfir dysina. Þeir höfðu ekki vit á því að ræða við Tómas áður en gengið var til verksins.
Framangreint er nú rifjað upp vegna þess að Tómas miðlaði af margvíslegum fróðleik um staðháttu í Grindavík fyrrum, benti á örnefni og sagði frá liðnum atburðum og horfnu fólki. Eitt af því, sem kom upp í samræðum við Tómas, voru gamlar þjóðleiðir til og frá Grindavík. Skipsstíginn þekkti hann eins og fingurna á sér, staðsetti Títublaðavörðuna og Dýrfinnuhelli, lýsti leiðinni í gegnum loftskeytastöðvarsvæðið o.m.fl. Skipsstígurinn var meginleiðin milli Járngerðarstaða og Njarðvíkna (Keflavíkur). Vogaveginn þekkti hann og mjög vel, enda meginliðin milli Járngerðarstaða og Innnesja.

Hemphóll

Varða á Hemphól.

Öðrum leiðum átti Tómas ekki jafn auðvelt með að lýsa, enda fæddur um það leyti er fyrsti bílvegurinn var lagður til Grindavíkur árið 1918 (fæddur 1919). Hann hafði þó farið Prestastíginn gömlu götuna norðan Sandfellshæðar) niður að Ósum, nokkrum sinnum austur í Krýsuvík eftir Krýsuvíkurleiðinni, um Hálsana ofan við Keili niður í Hraunin við Hafnarfjörð og auk þess hafði hann einu sinni ungur farið í fylgd manna um Brúnaveginn frá Hauni í Kúagerði og áfram inn til Reykjavíkur. Því miður var ekki rætt við hann nánar um síðastnefndu leiðina, hvorki um staðháttu né legu hennar. Eitt örnefni kom þó við sögu, en það var Presthóll [Hemphóll]. Ýmist var farið um hjallann (sunnan Húsfells) eða upp Skökugil og inn fyrir Mókletta. Hvar leiðin lá nákvæmlega um Brúnirnar efst í Strandarheiði liggur ekki ljóst fyrir. Það verður því verkefni næsta vors að sporrekja heiðina ofanverða með það að markmiði að reyna að staðsetja þennan svonefnda Brúnaveg.

Sigurður Gíslason

Líklega hefur leiðin ekki verið fjölfarin, en þó hefur hún verið farin af mönnum er þekktu vel til staðhátta og vissu hvernig og hvar væri hægt að fara auðveldlega á millum svæða á sem skemmstum tíma.
Sigurður Gíslason, bóndi á Hrauni, sagðist aðspurður oft hafa heyrt förður sinn, Gísla Hafliðason, tala um  Brúanveginn. Sjálfur hefði Sigurður ekki farið þá leið, en hún hefði verið aðalleiðin frá Hrauni niður í Kúagerði fyrrum. Farið var þá upp með Húsfelli og inn með því að vestanverðu, áfram inn á Sandakraveg og áfram norður með vestanverðu Fagradalsfjalli, inn á Brúnirnar og á ská niður í Kúagerði. Faðir hans, sem hafi verið frár á fæti, hefði yfirleitt farið þessa leið einn eða sem fylgdarmaður með öðrum fyrir og eftir aldamótin 1900.

Reykjanes

Reykjanesskagi – fornar götur.

Brennisteinsfjöll

Haldið var upp á Lönguhlíðar um Kerlingarskarð og þaðan upp í Kistudal. Dalurinn skartaði sínu fegursta svo stuðlabergið naut sín vel.

Námuhvammur

Tóftin í Námuhvammi oafn við brennisteinsnámurnar.

Skoðaðar voru brennisteinsnámurnar í Brennisteinsfjöllum og þátttakendur fundu það sem leitað var að – minjar um bústaði námumanna. Minjarnjar eru í gili undir hlíðum fjallana og mjög heillegar þrátt fyrir að hafa verið yfirgefnar í um 140 ár.
Gengið var um Grindarskörð á bakaleiðinni. Á leiðinni mátti sjá norðurljósin í sinni fegurstu mynd. Þau eru hvergi fallegri en þar sem engra ljósa frá byggð nýtur við.
Norðurljósin munu verða til vegna þess að frá sólinni berst í sífellu svonefndur sólvindur sem er straumur rafhlaðinna agna. Þegar vindurinn nálgast jörðina hrindir segulsvið jarðarinnar honum frá sér nema í kringum segulpólana. Þar sleppur eitthvað af ögnunum inn í segulsviðið.

Norðurljós

Norðurljós.

Þegar eindirnar rekast á lofthjúp jarðar, í um 100-250 km hæð örvast sameindir og frumeindir í hjúpnum og þær senda frá sér sýnilegt ljós sem við köllum norður- eða suðurljós.Margir af litum norðurljósanna myndast við svokallaðar forboðnar færslur eða ummyndanir milli orkustiga í sameindum og frumeindum í ystu lögum lofthjúpsins.
Sjaldgæf rauð norðurljós eru komin frá súrefni í mikilli hæð, yfir 200 km. Súrefni í um 100 km hæð myndar skæran gulan og grænan lit sem er bjartasti og algengasti liturinn í norðurljósum. Blár og fjólublár litur kemur frá jónuðum nitursameindum en óhlaðið nitur gefur rauðan lit. Purpurarauður litur við neðri rönd og gáraða jaðra á norðurljósum kemur einnig frá nitursameindum.
Veðrið var í einu orði sagt frábært.

Heimildir m.a.
http://visindavefur.hi.is/svar.asp?id=1512

Kerlingarskarð

Kerlingargil.

Bálkahellir

Haldið var ásamt hellarannsóknarmönnum úr Hellarannsóknarfélaginu í Klofninga til að skoða Bálkahelli, sem FERLIRsfólk endurfann þar s.l. vetur. Þegar þátttaekndur stigu út úr farkostum sínum í upphafi ferðar undir Geitahlíð skalf jörðin líkt og venja er í FERLIRsferðum. Skjálftinn mældist að þessu sinni um 4° á Richter. Sumum varð ekki um sel.

FERLIR

FERLIRsþátttakendur í Bálkahelli.

Um tuttugu mínútur tekur að ganga frá veginum niður í Bálkahelli eftir tiltölulega greiðfærum slóða. Hann er ekki auðfundinn þrátt fyrir stærð, en komið hefur verið fyrir litlum vörðum við opin.
Bálkahellir er um 450 metra langur. Um miðbik efsta hlutans greinist hann í tvennt, en rásirnar koma saman að nýju nokkru neðar. Að jafnaði er hellirinn um 6 metra breiður og 3-5 metrar á hæð og eftir því auðgenginn. Hrun er í efri hluta efsta hluta, en það hættir um miðbik hans. Í loftinu eru fallegar hraunnálar og á gólfinu eru dropasteinar, þ.e. í neðsta hlutanum.
Bálkahellis er getið í gamalli frásögn í umfjöllun um Arngrímshelli, síðar nefndur Gvendarhellir.

Arngrímshellir

Í Arngrímshelli.

Að lokinni skoðun var haldið í Arngrímshelli, hinn fallega fjárhelli með miklum mannvistarleifum, bæði utanhellis og innan, og loks voru skoðuð þrjú önnur jarðföll, sem FERLIR hafði gengið fram á veturinn fyrrum.
Í einu þeirra leyndist nokkur hundruð metra hellir og í öðru urðu rannsóknarmenn frá að hverfa því sá hellir virtist endalaus. Ætlunin er að fara þangað aftur síðar til skoðunar.

Arngrímshellir

Í Arngrímshelli.

Ofangreindir hellar eru líklega með þeim fallegri í nágrenni höfðuborgarinnar. Þeir eru aðgengilegir og auðvelt að ganga að þeim. Staðsetningin er og verður þó að mestu í vitund þess FERLIRsfólks og hellarannsóknarmanna, sem lagt hafa á sig að skoða náttúrugersamirnar.
Veður var frábært (en hvaða máli skiptir það niður í hellum þar sem myrkur ríkir 364 daga á ári (að nýársnótt undanskilinni)).
Gangan og helladvölin tók 4 klst og 4 mín.

Bálkahellir

Bálkahellir – uppdráttur ÓSÁ.

Hraunssel

Farið var yfir Höskuldarvelli, að Sogagíg utan í vestanverðri Trölladyngju og litið á selin og önnur mannvirki þar. Síðan var haldið inn á Selsvellina og staðnæmst við Selsvallaselin eldri sunnan á vestanverðum völlunum.

Selsvellir

Á Selsvöllum.

Eftir að hafa skoðað tóttirnar tvær undir hálsinum uppgötvaðist þriðja tóttin, greinilega sú elsta þeirra, skammt neðar, nær völlunum. Tóttir þessarra eru því a.m.k. 3 talsins. Þá voru Selsvallaselin yngri norðan í vestanverðum völlunum skoðuð, bæði stekkirnir tveir við þrjár tóttir seljanna sem og hlaðinn stekkur norðan við hraunhólana. Hraunhólinn, sem miðselið stendur utan í, er holur að innan, gat er austan í honum og hefur hann greinilega verið notaður sem skjól. Norðvestan við hólinn liggur selsstígur yfir hraunið og áfram að norðurhlíð Hraunssels-Vatnsfells. Selsvallaselin voru útgerð frá Grindavíkurbændum.

Hraunssel

Hraunssel – selsstígurinn.

Haldið var að Hraunsseli neðan við Þrengslin. Eftir að hafa skoðað stekkinn í hrauninu norðan selsins, sem eru þrjár heillegar tóttir undir Núpshlíðarhálsinum, kom í ljós ein tótt, greinilega elst þeirra, neðar og á milli tóttana og stekksins. Sunnan við þennan hlaðna stekk var annar mun eldri. Verður því þetta seinna sel nefnt Hraunssel eldra (332), en þau undir hlíðinni nefnd Hraunssel yngri. Selsstígur liggur frá selinu að suðurhlíð Hraunssels-Vatnsfells.

Hraunsselið er síðasta selið, sem lengst var brúkað á Reykjanesi, eða allt til ársins 1914. Haldið var norður fyrir Fellið og síðan til vesturs norðan þess, niður með austanverðum Merardalahlíðum og áfram niður með Einihlíðum vestan Sandfells. Þessi leið er mjög auðfarin, melar og móar.

Hraunssel

Í Hraunsseli.

Þegar komið var langleiðina niður að Bratthálsi var vent til norðurs upp Lyngbrekkur og upp að gili, sem aðskilur þær frá Langahrygg. Þar niðri í því og upp með hlíðum Langahryggs liggja leifar flaks amerískrar flugvélar er fórst þar á stríðsárunum. Einn hreyfillinn liggur með öðru dóti í gilinu. Annað, þ.e.a.s. það sem ekki var fjarlægt á sínum tíma, er dreift um hlíðina og upp á hryggnum. Frá Lyngbrekku var haldið niður að gömlu þjóðleiðinni er lá þarna um Drykkjarsteinsdal, austur að Méltunnuklifi og áfram austur. Leiðin er þarna mjög greinileg og óspillt. Loks var haldið vestur með Slögu, niður í Drykkjarsteinsdal, Drykkjarsteininn skoðaður, en skálar hans voru skráþurrar aldrei þessu vant, og ferðin enduð á Ísólfsskálavegi.
Frábært veður.

Hraunssel

Hraunssel- uppdráttur ÓSÁ.

Geitahlíð

Jörð í Krýsuvík hafði skolfið meira en hún á venju til að undanförnu. Nýjalandssvæðið hefur risið og hnigið á víxl. Líklega er gígurinn stóri milli Stóra-Lambafells og Kleifarvatns, yst í Hvömmum, að láta vita af sér.
SmjorbrekkustigurÞrátt fyrir lætin var ætlunin að feta Ketilsstíg frá Seltúni upp á Sveifluháls, framhjá Arnarvatni og yfir á Smjördalahnúk vestan í hálsinum. Sunnar eru Smjördalir og Smjörbrekkur. Um þær liggur Smjörbrekkustígur.
Þegar gengið var upp Ketilsstíg frá Seltúni mátti glögglega sjá gömlu námugötuna á a.m.k. tveimur stuttum köflum á leiðinni upp á hálsinn. Víðast hvar hefur runnið úr hlíðinni yfir gömlu götuna eða hún afmáðst, en nýrri göngustígur verið merktur annars staðar og  mun ofar. Leifar af vörðu eru efst í skarðinu við gömlu götuna. Austar hefur vatn afmáð götuna.

Smérbrekkustígur

Smérbrekkustígur norðan Hettu.

Útsýnið af hálsinum til morgunssólarinnar í austri var í einu orði sagt stórkostlegt. Þegar komið var inn fyrir Arnarvatn, sem nú var ísi lagt, var stefnan tekin áleiðis niður að Smjördalahnúk. Virkt hverasvæði er þar í hálsinum. Gengið var niður að þeim stað er líklegt þótti að Smjörbrekkustígur kæmi upp á hálsinn vestan hans. Þar er brött sandbrekka, en sjá má votta fyrir skásneiðing og tilgerðri götu. Vélhjólamenn hafa nýtt sér hann til að komast upp hlíðina. Þegar upp er komið mótar enn fyrir gamalli götu á sandhrygg. Liggur hún áleiðis suður hálsinn, beygir til suðausturs upp rofabrekku og síðan til austurs ofan hennar. Er þá komið inn á hverasvæðið fyrrnefnda. Beitarhólfsgirðingin liggur þar um og er príla fyrir gangandi yfir hana. Þaðan liggur gatan til suðausturs norðan við lágan hól. Austan hans beygir hún til suðurs og liggur síðan í sneiðing upp náttúrulegan stall. Ofan hans liggur gatan upp með norðanverðri Hettu og tengist Hettustíg (Hettuskarðsstíg) suðaustan hennar.
Smjorbrekkustigur-3Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir þetta svæði segir m.a.: “Þess er vert að geta, að Sveifluháls ber nokkur nöfn, svo sem Austurháls og Móháls eystri.
Hér voru líka Smjörbrekkur og Smjörbrekkustígur upp í Smjörbrekkuskarð.
Þá er komið að Ketilstígssteini kletti allmiklum og liggur vegurinn frá honum upp á hálsinn og er þá komið að Katlinum og í hinn eiginlega Ketilstíg, sem liggur um austurhlíð og suðurhlíð Ketilsins og þar upp á brún, síðan áfram framhjá Arnarvatni niður með efsta hluta Seltúnsgils yfir á stall ofan Seltúns og niður Seltúnsbrekkuna í Seltúnshvamm. Stundum var öll leiðin frá Hafnarfirði í Seltún og að Krýsuvík kölluð Ketilstígur. Að fara Ketilstíg. Vestur með hálsi liggur leiðin áfram og blasir þá fyrst við Smjördalahnúkur og Smjördalir milli hans og hálsins.”
Smjorbrekkustigur-4Stígurinn er ágætlega greiðfær og auðveldur yfirferðar fyrir ferðalanga á leið yfir hálsinn.
Gatan öll hefur líklega ekki heitið Smjörbrekkustígur heldur einungis kaflinn upp svonefndar Smjörbrekkur. Neðan þeirra gæti hún hafa greinst í lýsta leið og aðra til norðurs inn á Ketilsstíg ofan við Ketilinn.
Líklega heita Smjördalirnir og Smjörbrekkurnar austan Smjördalahnúks því nafni vegna þess að síðdegis þegar sól er lágt á lofti virðast þær smjörgular yfir að líta. Nú hefur allnokkurt rof orðið í dölunum, en vel má enn sjá hversu vel grónar hafa verið fyrrum. Á sama hátt bera Bleikingsvellir vestan undir hlíðunum keim af sólarroðanum.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Heimild m.a.:
-Gísli sigurðsson, örnefnalýsing fyrir Krýsuvík.

Krýsuvík

Krýsuvík – gamlar götur.

 

Trölladyngja

Trölladyngja er eitt af formfegurri fjöllum Reykjanesskagans. Í rauninni er hún “síamstvíburi” Grænudyngju, en þær hafa gjarnan saman verið nefndar einu nafni Dyngjur. Á landakortum er Trölladyngja sögð vera hæst 275 m y.s. og Grænadyngja 393 m.y.s. Einnig mætti vel halda því fram að Dyngjurnar væru “símastvíburar” Núpshlíðarhálss, en þær eru nyrsti hluti hans. Á millum eru Sogin, sundurgrafið háhitasvæði. Háhitinn hefur sett mikinn svip á suðurhlíðar Dyngnanna þar sem litadýrðin er mikil. Í Trölldyngju hefur fundist silfurberg.

Hraunkarl

Út úr Grænudyngju til norðausturs gengur Dyngjuháls eða Dyngjurani. Utan í honum er fjöldi gíga sem sent hafa hraunstrauma langt niður í Almenning.
Dyngurnar eru órofahluti af fjallamyndun Skagans, urðu til við gos á sprungurein. Gróft séð er Skaginn um 50 km langur og 20 km breiður eða um 1000 ferkílómetrar, sem samsvarar lauslega reiknað 1% af landinu. Hann einkennist af þessum fjöllum, sem eru flest frekar lág móbergsfjöll, mynduð við gos undir jökli á ísöld, og hraununum, sem runnið hafa bæði fyrir landnám og á sögulegum tíma. Þótt Skaginn sé frekar gróðursnauður má þó finna á honum ótrúlegan tegundafjölda ef vel er að gáð, ekki síst í kringum Dyngjurnar Jarðfræðilega er svæðið umhverfis þær mjög athyglisvert og ennfremur er það kjörið til útivistar og gönguferða.
Trölladyngja og Grænudyngja eru tilvaldar til uppgöngu. Óvíða er útsýni fegurra en þaðan. Sogunum má jafna við “miniture” Brennisteinsöldu og Landmanalauga. Auðvelt er að ganga á þær um dal á millum þeirra að norðanverðu, áleiðis upp Sogin og áfram upp með Sogagíg þar sem sjá má minjar fornra seltófta eða bara fara upp frá Lækjarvöllum við norðanvert Djúpavatn og þar af brúninni inn á fjöllin til hægri.

Trölladyngja

Í rauninni eru þetta með fallegustu gönguleiðum í Reykjanesfólkvangi sökum litadýrðar og fjölbreytni. Þegar komið er að Dyngjunum að Höskuldarvöllum hverfur Grænadyngja að mestu á bak við systur sína.
Trölladyngja er klettótt og hvöss, einkum eftir því sem ofar dregur, en hin er stærri um sig og nær flöt að ofan. Aðeins um 40 mínútna rólegur gangur er upp á Trölladyngju og síðan má gera ráð fyrir svona svipuðum tíma af henni og á þá Grænu. Hún líkist ekki dyngjum, reyndar hvorugar, að einu eða neinu leiti, enda eru þær það ekki. Hins vegar er gróin gígskál á milli þeirra er gæti verið gígopið, en jökullinn síðan sorfið niður barmana að norðan og sunnan. Þegar haldið er á Grænudyngju að suðaustan er hægt að ganga áfram upp á suðvesturhlíðina, sem er nokkuð brött. Innan skamms er þó komið langleiðina upp og þá er skammt að hæsta tindi. Einnig er hægt að halda upp með austurhlíðinni, en þar er líkt og gata liggi áleiðis upp hana. Henni er ágætt að fylgja ef ætlunin er einungis að fara með og niður norðurhlíðina.
Trölladyngja Útsýnið er stjórbrotið, sem fyrr sagði. Vel má sjá hraunstraumana sem runnið hafa um nágrennið, Afstapahraun, Eldborgarhraun, Dyngnahraun og fleiri og fleiri hrauntauma sem líklega bera ekki neitt nafn. Útsýnið yfir Móhálsadal er sérstaklega gott. Víða má sjá gíga í dalnum, litla og stóra og formfagrar litlar eldborgir. Undarlegt er að sjá stöku stað sem hraunið hefur hlíft, s.s. Lambafell og Snókafell, en það eru smáfell, mynduð á jökulskeiði, er hraunið hefur runnið umhverfis.
Vestan við Grænudyngju er Trölladyngja, sérkennilegur mjór hryggur sem úr norðri hefur keilulögun, Oddafellið. Undir honum eru Höskuldarvellir, víðir og fagrir í skjóli fjalla og hrauns.
Af Dyngjunum virðist Keilir (379 m.y.s.), handan Oddafells, smávaxinn, en einstaklega lögulegur þar sem hann sendur sem “einbirni” þar í hraunsléttunni.
Trölladyngjusvæðið er eitt af háhitasvæðunum. Árið 1975 vottaði ekki fyrir jarðhita neðan við Soginn, nema í kringum Hverinn eina allnokkru suðvestar. Árið 1979 byrjaði að örla á jarðhita á svæðinu, en nú u.þ.b. 25 árum seinna er svæðið jarðgufuvaki. Búið er að gera tilraunaborholu á svæðinu, leggja veg að henni og annan upp í Sogadal þar sem nú er verið að bora slíkar holur. Kristján Sæmundsson, jarðfræðingur o.fl. hafa m.a. rannsakað Trölladyngjusvæðið. Krýsuvíkursvæðið nær yfir jarðhitasvæðin á Austurengjum, Krýsuvík, í Köldunámum, Trölladyngju, og við Sandfell. Fjögur þau fyrst töldu sýna sig samfelld í viðnámsmælingum, en Sandfellssvæðið er laust frá. Meginsvæðið er hringlaga um 50 km2 að flatarmáli. Sandfellssvæðið er mælt á sama hátt um 4 km2.

Trölladyngja

Sveifluháls og Vesturháls með Trölladyngju eru móbergshryggir samsettir úr mörgum goseiningum og ná mest í 300–400 m hæð. Nútímahraun þekja allt sléttlendi vestan við hálsana og á milli þeirra. Upptök þeirra eru í gossprungum beggja megin við og utan í Vesturhálsi og Trölladyngju. Gossprungur eru einnig austan í Sveifluhálsi og sprengigígar á öldunum vestan hans, en hraunmagn úr öllum er lítið. Gosvirknin hjaðnar þaðan til NA og verður af lægð þar sem Kleifarvatn er. Jarðmyndanir milli Sveifluháls og Austurengja eru eldri en vestur í hálsunum og á hraunasvæðunum. Efnismiklar móbergsmyndanir úr öðru eldstöðvakerfi eru austan við Kleifarvatn og öldurnar þar suður af. Hveravirknin á ofannefndum fjórum jarðhitasvæðum er að ýmsu leyti ólík.
Í Trölladyngju sjálfri eru hverir og ummyndun samfelldust á skák sem nær austan frá Djúpavatni vestur á Oddafell. Hveravirkin er nú fremur dauf, tveir hverir upp við Sogin, gufur með smávegis brennisteini og hverasprengigígur neðan undir hálsinum og hitaskellur í Oddafelli. Sprengigígar og miklir gjallgígar eru á gossprungum þar sem þær liggja yfir ofannefnda A-V-skák. Ummyndun er mest í Sogum þar sem stórt svæði er ummyndað í klessuleir. Vestan í hálsinum frá Sogum suður á móts við Hverinn eina er móbergið einnig ummyndað en hvergi nærri eins og í Sogum. Þar eru stórir sprengigígar frá ísöld, og vatn í sumum. Djúpavatn er myndað á sama hátt. Kalkhrúður finnst á tveim stöðum. Hitarák með gufuhverum liggur frá Trölladyngju um Eldborg norður í Lambafell, bundin nánast við eina sprungu. Hverinn eini er í hrauni skammt suðvestur af SV-endanum á Oddafelli. Gufuauga með smávegis brennisteini er í hraunbolla og gufur á smásvæði í kring. Þar hjá er dálítil hrúðurbunga (kísill) og kaldar hveraholur í henni.
Trölladyngja Í Trölladyngju voru fyrir tvær borholur, önnur við hverasprunguna norðan undir henni, hin á hverasvæðinu vestan undir hálsinum. Báðar sjá um 260°C hita ofarlega. Þegar borholan var gerð suðvestan við Trölladyngju lofaði hún góðu. Borholan í Sogadal virðist þó hafa haft gagnvirk áhrif á hana. Um tíma hitnaði í henni til mikilla muna svo hún reyndist vera ein heitasta hola landsins. Nú hefur það breyst að nýju. Borholan í Sogadal hefur þann eiginleika að “gjósa” á ca. 12 klst fresti, líkt og geysishverir. Um er að ræða skáborun og gæti það hafa haft þessi áhrif. Sumir hafa gælt við þá hugmynd að gera þessa holu að tilbúnu “túristagosi” líkt og er við Perluna, en slíkt tal ber nú bara keim af slæmum brandara því það virðist eiga að vera sárabót fyrir eyðileggingu svæðisins með vegagerðinni og borstæðinu.
Framkvæmdir Hitaveitu Suðurnesja (matið á umhverfisáhrifum) voru kærðar til umhverfisráðuneytis á sínum tíma. Niðurstaðan var enn einn brandarinn. “Í niðurstöðu Skipulagsstofnunar á síðu 5 segir að fyrirhuguð framkvæmd hafi ekki “..umtalsverð umhverfisáhrif. Staðsetning framkvæmdarinnar hefur áhrif á svæði sem nýtur verndar skv. lögum um náttúruvernd en umhverfisáhrif eru ljós og að mati Skipulagsstofnunar ekki veruleg og leiða því ekki til matskyldu…” Síðan segir í beinu framhaldi: “Að mati Skipulagsstofnunar er hægt að tryggja að framkvæmdin, eins og hún er kynnt, hafi ekki í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif með samvinnu framkvæmdaraðila, sveitarstjórna og Náttúruverndar ríkisins…”
Keilir Að sjálfsögðu hafa tilraunaboranir haft áhrif á svæðið, jafnvel varanleg. Vegagerðin í gegnum hraunið er ekki afturkræf. Borstæðið er skorið inn í gróna hlíð. Hæðarmismunur er um 3 metrar. Verði svæðið virkjað, sem er jú tilgangurinn með þeim tilraunaborunum, sem ekki hafa þurft að sæta umhverfismati, mun röskunin verða varanleg; hús, röralagnir, vegagerð, háspennumöstur o.fl. munu fylgja í kjölfarið.
Trölladyngja er í raunininni bæði minnisvarði um hið liðna og áskorun um að virkjunaraðilar staldri nú við og ígrundi hvernig hægt er að standa að undirbúningi virkjana með lágmarks röskun eða eyðileggingu að markmiði. Hingað til hafa þeir fengið að fara sínu mótþróalaust fram þar sem jarðýtustjórinn hefur síðan ráðið ferðinni. Stjórn Hitaveitu Suðurnesja hefur skipuð fulltrúum sveitarstjórnanna á svæðinu, sem stundum virðist hafa farið fram úr sér við einstaka framkvæmdir. Nú gera verndunarsinnar þá sjálfsögðu kröfu að jarðýstustjóranum verði leiðbeint miðað við þær ákvarðanir, sem aðrir hafa tekið fyrir stjórnina og hlotið hafa sáttarviðurkenningu, með framangreint (verndun og nýtingu) að leiðarljósi.
Eyðilegging við borsvæðið í Sogadal
Á Trölladyngusvæðinu, þ.e. í Sogadal, hefur umhverfinu verið raskað verulega í þágu væntanlegra virkjunarframkvæmda. Nýjustu fréttir í þeim efnum eru boranir á Krýsuvíkurheiði. Þær framkvæmdir hafa farið hljótt, svo hljótt að þær hafa hvergi verið kynntar opinberlega – ekki einu sinni á vefsíðu umhverfisráðuneytisins (sjá m.a. Umhverfisráðuneytið).

Trölladyngja

Fíflvallafjall, Mávahlíðar, Grænadyngja og Trölladyngja.

Heimildir m.a.:
-Örnefni og gönguleiðir á Vatnsleysuströnd – Sesselja Guðmundsdóttir (1995), bls. 106-107.
-http://is.wikipedia.org/wiki/Reykjanesskagi.
-http://www.reykjanes.is/Um_Reykjanes/Fjoll/Trolladyngja/
-http://web.mac.com/sigurdursig
-http://www.os.is

Dyngjurnar