Tag Archive for: Grindavík

Selatangar

Gengið var um Katlahraun frá Moshólum. Jón Jónsson, jarðfræðingur, gaf hólunum þetta nafn. Taldi hann þá með merkilegri jarðfræðifyrirbrigðum landsins því í þeim mátti sjá þverskorinn eldgíg (gjall- og klepragíg) sem átti sér fá fordæmi í heiminum. Ekki leið þó á löngu að vegagerðarmenn komust í gíginn og eyðilögðu merkilegheitin.
MoshólarMoshólar eru leifar af eldri gígaröð en þeirri er nálægt hraun, Ögmundarhraun, kom frá árið 1151. Frá þeim liggur falleg hrauntröð til suðurs, áleiðis að Katlinum (Borginni) í Katlahrauni (Borgarhrauni). Katlahraun er á náttúruminjaskrá.
Áður en haldið var í Katlahraun var leitað fararnestis hjá Kristjáni Sæmundssyni, jarðfræðingi Íslands nr. eitt. Kristján brást vel við að venju:
„Ég á svo sem ekki mikið um hraunið. Veit þó um aldurinn, en hann er um 2000 ár. Niðri undir sjó skammt vestan við Selatanga (byrgin) er heilmikið jarðfall í hrauninu. Áður en það myndaðist hefur orðið fyrirstaða í rennslinu og hraunið bunkast upp. Yfirborðið hefur storknað og hraunbráðin síðan hlaupið fram undan bungunni. Klóruför sjást hér og þar, þar sem yfirborðshellan hefur strokist við innveggi jarðfallsins.
Ketillinn í KatlahrauniÞetta er fágæt hliðstæða við Dimmuborgir nema þar er meira gjall í bungunni. Innar á hrauninu, norðvestur af jarðfallinu, eru minni dokkir, en þær held ég að hafi ekki myndast við undanhlaup, heldur við írennsli í hraunið sem áður var storknað efst og neðst, en tjakkaðist við það upp, og dældir urðu til þar sem það var gegnstorkið.“
Við þetta bætti svo Kristján: „Smáviðbót við Katlahraun. Moshólar eru suðvesturstu gígarnir á langri gossprungu sem nær norðaustur í Trölladyngju (í vesturhlíðinni). Afstapahraun kom upp í þessu sama gosi úr gígnum skammt vestan við Hverinn eina. Mig minnir að aðalgígurinn þar heiti Melhóll [Moshóll]. Afstapahraun var lengi talið hafa runnið eftir landnám, en það er ekki svo.
Katlahraun - standurÉg gróf víða á því í fyrrasumar og landnámsöskulagið (frá 871) er ofan á hrauninu sem og annað lag um 1400 ára gamalt. Fékk svo Magnús Sigurgeirsson (aðalsérfræðinginn í öskulögum á Reykjanesskaga) til að skoða með mér. Hann staðfesti.“
Framangreindar upplýsingar Kristjáns eru fyrir marga hluta áhugaverðar. Í fyrsta lagi upplýsir hann um aldur Katlahrauns, en þær upplýsingar hafa ekki legið á lausu hingað til. Í öðru lagi segir hann frá myndun Ketilsins og nálægra jarfræðifyrirbæra. Í þriðja lagi upplýsir hann í fyrsta skipti um raunaldur Afstapahrauns. Í fjórða lagi getur hann um uppruna hraunsins og í fimmta lagi kynnir hann samhengi Moshóla við aðrar eldstöðvar, alveg upp undir suðvesturrætur Trölladyngju. Allur þessi stutti, en mikli, fróðleikur gerir svæðið ennþá áhugaverðara til skoðunnar.
KatlahraunsskjólÞegar gengið var um Katlahraun mátti vel bæði sjá og finna hversu slétt helluhraunið er. Kvikan hefur verið þunnfljótandi og runnið í átt til sjávar líkt og vatn. Hin minnsta fyrirstaða hlóð upp tjörnum, sem kvikan bræddi sér leið framhjá. Þess vegna má víða sjá litla katla, sem myndast hafa við þessar aðstæður. Miklar hrauntraðir liggja frá Moshólum áleiðis niður í Ketilinn. Nýrra hraun (apalhraun) hefur runnið ofan frá og umleikið Moshóla. Hraun þetta virðist vera úr gíg undir Höfða og inn undir Selsvöllum. Leggjarbrjótshraun og Skolahraun eru hluti af þeim.
Aðspurður um framangreint svaraði Kristján: „Það er verið að vinna í nýju korti af þessu hrauni. Það verður klárað í næsta mánuði [jan. 2010].
Það er gamalt hraun á smábletti ofan við Moshóla.
HöfðiNA-framhald gossprungunnar í Moshólum er utan í Höfða að austan. Hraunið úr þeim gígum hefur runnið fram milli Núphlíðar og Moshóla. Það nær langleiðis niður að Selatöngum.
Næsti kafli gossprungunnar er austan við Sandfell. Þaðan eru Leggjabrjótshraun (vestan við Höfða) og Skolahraun (austan við Sandfell).
Gossprungan heldur svo áfram inn úr og liggur nærri Selvallafjalli þar til kemur að Selvöllum. Þá víkur hún vestur og er vestan við Vellina. Sá kafli hennar endar í Melhól.
Innsti kafli hennar er svo utan í Trölladyngju (nær reyndar suður fyrir Sogalækinn) og endar loks í Eldborg.
Þessir gígar og hraun er allt af svipuðum aldri, um 2000 ára.
Ég á von á C14-aldursgreiningu á kvistum undan hrauni við Trölldyngju neðst, aðeins sunnar en þar sem vegurinn frá Oddafelli þverbeygir suðvestur með henni.
Það hraun tilheyrir þessu sprungugosi.“
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Selatangar

Gengið um Katlahraun og nágrenni.

 

Grindavík

Megi minning um góðan mann lifa.
JárngerðarstaðirTómas Þorvaldsson lést þann 2. desember s.l. (2008). Hann bjó lengst af að Gnúpi í Grindavík, fæddist að Eiði í Grindavík 26. desember árið 1919. Foreldrar hans voru Þorvaldur Klemensson, bóndi á Járngerðarstöðum í Grindavík (1891-1967) og Stefanía Margrét Tómasdóttir (1893-1969). Systkini Tómasar voru Margrét (1917), Halldóra (1921), Guðlaugur (1924-1996) og Valgerður (1927). Hálfsystir hans var Lovísa (1913-2000).
Tómas kvæntist Huldu Björnsdóttur frá Kjalvararstöðum í Reykholtsdal í Borgarfirði (1931-2008). Þau eignuðust Eirík (1953), Gunnar (1954), Stefán Þorvald (1956) og Gerði Sigríði (1960). Hálfsystir þeirra var Stefanía Kristín (1939-1948).
Tómas, eða Toddi eins og hann var jafnan nefndur meðal heimamanna, kynntist snemma sjómennskunni. Hann gekk jafnan ásamt öðrum sjómönnum eftir sjávargötunni árla morguns, staðnæmdist við leiði Járngerðar, tók ofan og fór með sjóferðarbæn áður en haldið var áfram stíginn niður að bátnum er beið sjósetningar ofan við Norðurvör. Hann réð sig fyrst sem hálfdrætting til sjós á „Járngerðarstaðaskipinu“ sem svo var nefnt í daglegu tali, en hét reyndar Björgvin GK 35, opinn bátur gerður út frá Járngerðarstöðum í Grindavík.

Tómas

Þetta var árið 1934. Áður hafði hann setið yfir ánum í Stekk[jar]hrauni þar sem hann þekkti hverja þúfu. Áður lauk hverri sjóferð á árabátnum með því að leggja á seilar. Næstu árin stundaði hann sjóinn á ýmsum vélskipum og bátum sem veiddu og lögðu upp afla allt í kringum landið. Með tilkomu vélbátanna var tekist á við að skapa varanlega hafnagerð í Grindavík. Tómas lagði þar sitt af mörkum við erfið skilyrði. Á stríðsárunum stjórnaði hann vinnuflokkum sem unnu við að byggja upp flugvelli og braggahverfi fyrir breska hermenn. Eftir stríðið gerðist hann bílstjóri hjá Hraðfrystihúsi Grindavíkur. Tómas var virkur í félagsmálum bæði til sjós og lands. Hann var í stjórn Verkalýðsfélags Grindavíkur í nokkur ár. Tómas var í fyrstu stjórn Íþróttafélags Grindavíkur og formaður félagsins 1948 til 1963. Tómas var fyrsti formaður Björgunarsveitarinnar Tómas og HuldaÞorbjarnar í Grindavík 1947 og gegndi því starfi til ársins 1987. Hann stofnaði ásamt þremur félögum sínum útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækið Þorbjörn hf í Grindavík árið 1953 og var framkvæmdarstjóri þess fram til ársins 1985. Tómas var í stjórn Þorbjarnar til ársins 2000 eða í 47 ár. Hann var mjög virkur í öllu félagsstarfi í sjávarútvegi anna sinn starfsaldur. Hann var í stjórn Sölusambands íslenskra fiskframleiðenda árið 1959, fyrstu tvö árin sem varaformaður og síðan stjórnarformaður til ársins 1981. Hann sat í stjórnum Landssambands íslenskra útvegsmanna, Fiskifélagsins, Fiskveiðisjóðs og Verðjöfnunarsjóðs. Hann var varaformaður Viðlagasjóðs þegar hann var stofnaður í Vestmannaeyjagosinu 1973. Þegar hafist var handa við byggingu heimilis aldraða í Grindavík, Víðihlíð, var hann í byggingarnefnd heimilisins. Þar dvaldi hann síðustu mánuðina áður en hann lést.
Tómas Þorvaldsson var börnum sínum góður faðir og mikill vinur vina sinna. Honum var eðlislægt að bregðast jákvætt við bónum fólks, ekki síst þess er minna mátti sín. Þannig kom hann mörgum Grindvíkingnum til aðstoðar þegar mest á reyndi. Sá er þetta ritar minnist Todda, allt frá því að hann ók honum lífakstur árið 1959, illa slösuðum eftir bílslys, í aftursæti drossíunnar um harðtenntan Grindavíkurveginn og krókóttan Keflavíkurveginn að anddyri Landspítalans, og allt til þeirra daga er sá hinn sami naut fylgda Todda um umdæmið þar sem hann miðlaði af ómetanlegri þekkingu sinni um menningu, minjar og sögu Grindavíkur.

Hjónin 1981

Nú, eftir fráfall hans, hafa þau verðmæti margfaldast að andlegu verðgildi, þökk sé honum. Sumt hefur verið skráð og annað geymt, en engu gleymt. Bækur hans um sögulegt lífshlaupið eru nú sem fyrr ómetanleg heimild um þróun Grindavíkur á tímamótum er hið forna samfélag var að nútímavæðast og byrja kapphlaupið mikla við umheiminn – í seinni tíð meira af kappi en forsjá. Þegar rætt  var við Tómas símleiðis fyrir u.þ.b. viku hafði hann á orði að menn hefðu betur tekið mið af þeirri einföldu fyrirhyggju Einars verslunarmanns í Garðhúsum að góður væri geymdur aur. Hafa ber í huga að Einar var eini kaupmaðurinn á Suðurnesjum er lifði af kreppuna miklu 1930 af þeirri einföldu ástæðu að hann gætti þess að eiga jafnan fyrir sínum skuldum.

Toddi

Sumt af því er Tómas miðlaði má sjá hér á vefsíðunni, s.s. fróðleik um Dýrfinnuhelli, Járngerði og Þórkötlu, Skips[s]tíg sem og um staðháttu fyrrum og örnefni í Grindavík.
Margir munu á næstunni skrifa mörg orð um ágæti Tómasar, nú að honum gengnum. Greinarhöfundi finnst þó, á þessari stundu, mest um vert að hafa getað sagt Tómasi sjálfum frá viðhorfi hans til alls þess merkilega er hann hafði lagt af mörkum um ævidagana – ekki síst mjög meðvitaðrar varðveislu menningarverðmæta er hann hafði þá þegar skilað áfram til komandi kynslóða.
FERLIR þakkar Todda samfylgdina á liðnum árum. Systrum og afkomendum Tómasar eru vottuð innileg samúð. Megi þau nýta sér það besta er hann gaf þeim þá er hann lifði.
Tómas

Selalda
Stefnan var tekin á austanverða Selöldu. Þegar komið er yfir hálsinn blasir við gróin brekka suðvestan undir honum. Mikið landrof hefur orðið þarna í gegnum tíðina, en þó markar enn fyrir hleðslum neðst í brekkunni er gætu hafa verið mjög gamall stekkur.
Selalda

Selalda – uppdráttur ÓSÁ.

Einhvern tímann hefur allstór lækur runnið austast vestur með sunnanverðri Selöldunni. Vestar með hlíðunum er grasigróið svæði og tóttir. Hér er  að Krýsuvíkursel hafi verið. Í Jarðabókinn frá 1703 er sagt að Krýsuvík hafi bæði haft í seli til fjalla og fjöru. Hitt selið var á Seltúni undir Sveifluhálsi. Skammt vestan við tóftirnar er stór steinn. Við hann er talsvert gróið og líklegt er að þar hafi verið stekkur suður undir honum. Ummerki benda til þess.
Skammt suðvestar við selið eru margar tóftir og sumar heillegar. Hér er talið að bærinn Eyri hafi staðið, rétt ofan við lækjarfarveginn. Bærinn fór í eyði árið 1775.

Eyri

Eyri.

Frá tóftunum ætti að vera best að ganga áfram vestur með Selöldunni, en ef gengið er frá þeim til suðurs kemur nokkuð merkilegt í ljós. Á grashól eru miklar hleðslur, greinileg fjárborg. Hennar er hvergi getið og verður því hér nefnd Neðri-Eyrarborg. Vestan í henni er stekkur eða löng og mjó hústótt. Ofar, til austurs, er önnur fjárborg, svolítið minni. Verður hún nefnd Efri-Eyrarborg.
Vestast í sunnanverðri Selöldunni, á Strákum, eru miklar hleðslur undir móbergskletti. Þetta er fjárhús og eru veggir þess svo til alveg heilir. Suðvestan undir Strákum eru svo heillegar tóttir gamals bæjar, er nefndist Fitjar.
Frábært veður.

Eyri og Krýsuvíkursel

Eyri undir Selöldu – uppdráttur ÓSÁ.

Hraun

Tekið var hús á Sigurði Gíslasyni á Hrauni við Grindavík.

Grindavík

Grindavík – dys við Hraun.

Gengið var með honum um svæðið. Þegar komið var að hleðslum á grónum hraunhól norðan þjóðvegarins skammt vestan heimkeyrslunnar að bænum sagði Siggi aðspurður að þar væri líklega um dys að ræða. Hann kvaðst ekki kunna frekari deili á dysinni, en sagði dr. Kristján Eldjárn hafa haft mikinn áhuga á að skoða hana. Þá hafi hann rætt við gamlan mann, fæddan á svæðinu. Sá sagði að dysin væri frá því í Tyrkjaráninu. Hennar væri getið í Þjóðsögum Jóns Árnasonar.

Hraun

Dysin við Hraun.

Sagan segir að bóndasonur á Hrauni (aðrir segja Ísólfsskála) hafi séð skip koma í Hraunsvíkina og ætlað að fagna komumönnum. Hafi hann lagt af stað á rauðri meri, en þegar hann sá hversu óvinveittir aðkomumenn voru, sneri hann þegar við hófum merinnar. Hún var hins vegar svo svifasein að Tyrkinn, sem fremstur fór, en svo munu þeir aðkomumenn hafa verið, hefði náð í taglið. En við það sama hafi merin sparkað aftur fyrir sig og kom höggið í Tyrkjann, sem drapst samstundis. Önnur saga segir að Tyrkirnir hafi verið tveir og merin sparkað þá báða til dauðs (Brynjúlfur Jónsson). Félagar Tyrkjans komu þá þar að, náðu bóndasyni og drápu. Hann var síðan dysjaður á hólnum. Brynjúlfur nefnir þó Dysina á Hraunssandi, sem staðinn þar sem þeim var komið fyrir, en við uppgröft þar á sjötta áratug 20. aldar kom í ljós kapellutóft.
Segja má að sagan sé alls staðar sýnileg – hvert sem litið er.

Hraun - kort

Hraun í Grindavík – uppdráttur ÓSÁ.

Lóa

Gengið var eftir Rauðamelsstíg. Vikið var út af stígnum til suðurs og komið við í Bekkjum, þar sem skoðaður var mikið fjárskjól á fallegum stað. Komið er að því í gegnum klofinn hól og birtast þá hleðslurnar skyndilega framundan.

Álfakirkja

Álfakirkjan – fjárskjólsop t.v.

Þá var haldið til norðvesturs og komið við í Brenniselshæðum. Norðan hæðanna eru mikla hleðslur á tveimur stöðum og tótt framan við þá stærrii. Talið er að þarna hafi verið kolagerðarvinnsla á öldum fyrrum.
Gengið var á ská upp að Álfakirkunni og skoðaður fjárhellir, sem er norður undir henni. Álfakirkjan gæti jafnframt hafa verið þriðji Krosstapinn, sem er að finna á þessu svæði.
Haldið var til norðurs og þá komið að gömlum tóftum í lág.
Í henni hafa verið hleðslur og sennilega ein tvö hús. Þessar hleðslur eru eldri en þær sem er að finna í Brenniseli. Alveg er gróið yfir þær og nær ógjörningur að finna þær að sumarlagi.

Bekkjarskúti

Bekkjarskúti.

Litið var á Bekkjaskútann, mikið fjárskjól í bakka jarðfalls, og loks á Sveinsskúta í grunnu jarðfalli nokkru ofar. Við op eru fyrirhleðslur úr þunnum hraunhellum. Allar eru þessar minjar vestan Rauðamelsstígs (Skógargötu). Gatnamót eru á stígnum skammt þar frá, sem fyrst var vikið út af honum. Annars vegar liggur stígurinn áleiðis upp í Óttarstaðasel og hins vegar til suðurs áleiðis upp í Skógarnef. Þar greinist hann annars vegar í átt að Mosunum við Böggukletta og hins vegar áfram upp í gegnum nefið áleiðis upp að Búðarvatnsstæði. Gatan er vörðuð frá gatnamótnum við Rauðamelsstíg.

Brennisel

Brennisel í Almenningum.

Eftir Almenningsgönguna var haldið í Arnarseturshraun og leitað fyrstu vegavinnumannabúðanna, sem reistar voru þegar Grindarvíkurvegurinn var lagður 1914 til 1918. Þarna eru miklar hleðslur og hús. Þá var leitað endabúða vegagerðarmannanna, og fundust þær skammt norðan Grindavíkur. Þar með hafa sennilega allar búðir vegagerðarmannanna fundist við Grindavíkurveginn, en þær eru á tólf stöðum og hafa búðirnar að öllum líkindum verið með um 500 metra millibili í gegnum hraunið.

Sigurgeir Gíslason

Sigurgeir Gíslason.

Á öllum stöðunum eru heilleg hús og/eða hleðslur, auk skjólveggja og garða. Vegavinnubúðunum er lýst annarss staðar. Þá liggja fyrir talsverðar upplýsingar um aðdraganda, undirbúning og framkvæmd við lagningu vegarins. Verkstjóri var Sigurgeir Gíslason, Hafnfirðingur, en víða má enn sjá vegi, einkum í kringum Hafnarfjörð, sem hann tók þátt í að leggja í upphafi 20. aldar. Sigurgeir bjó lengi á Vífilsstaðatúni.
Ávallt gaman að fylgja eftir verkum frumkvöðla fyrri kynslóða.
Frábært veður.

Álfakirkja

Álfakirkja.

Sveifluháls

Gengið var frá Seltúni um Ketilsstíg upp að Arnarvatni og síðan suður með vestanverðu vatninu um Sveifluveg.

Hettustígur

Hettustígur.

Útsýni af veginum var stórkostlegt yfir að Vígdísarvöllum og Bleikingsdal er sólageislarnir leituðu niður fyrir skýin og dönsuðu um velli og dali. Og ekki var útsýnið síðra yfir Arnarvatn og umhverfi þess.
Genginn var Hettuvegur suður fyrir Hettu og síðan haldið á Hettu fyrir ofan Krýsuvíkurbæina. Útsýnið var fegurra en orð fá lýst. Af Hettu var gengið með hverasvæðinu á Sveifluhálsi aftan við Hnakk, norður með austanverðu Arnarvatni og inn á Ketilsstíg aftur. Var hann genginn til baka að Seltúni.
Leitað var selja á túninu, en engin fundust í þetta sinnið.
Þá var litið að Kaldrana, elsta bæ í Krýsuvík. Þar átti að gerast hluti þjóðsögunnar um Krýsu og Herdísi eftir að sú síðanefnda lagði á og mælti að allur silungur í Kleifarvatni myndi verða að loðsilungi og banvænn öllum sem hann ætu. Fólkið á Kaldrana át silunginn og hlaut bana af, allt nema ein vinnustúlkan, sem átti að matast á eftir heimilisfólkinu. Á því sannaðist að þeir síðustu vera fyrstir – eða öfugt. Kaldrani liggur undir brekku við suðvesturhorn Kleifarvatns. Enn má sjá hluta tóftanna.
Veður var hið ágætasta – hlýtt og stillt.

Hetturvegur

Hettuvegur.

Krýsuvíkurbjarg

Haldið var niður í Krýsuvíkurhraun. Ætlunin var að skoða ströndina vestan Seljabótar, en hún er ein sú fáfarnasta á landinu, þrátt fyrir nálægðina við höfðuborgarsvæðið.

Krýsuvíkurbjarg

Krýsuvíkurbjarg (-berg).

Þegar gangan var farin voru samningar lögreglumanna lausir og lítið dregið saman með aðilum. Umhverfið minnti þátttakendur á launasamninganefnd ríkisins og fulltrúa Landssambandsins. Hafið, óráðið og óendanlegt, ólagandi og óviðræðuhæft annars vegar og stórbrotnir klettarnir með ströndinni hins vegar, standandi vörð um landið, óhagganlegir, áreiðanlegir, en vanmetnir.

Krýsuvíkurbjarg

Krýsuvíkurberg (-bjarg).

Ströndin er fjölbreytileg og útsýni með henni víða mjög fagurt. Sjá mátti berar hraunæðar, sem sjórinn hafði sorfið, djúpa svelgi og mikla hraunhella inn undir bjargið. Hrauná rann fram af því á einum stað og annars staðar mátti sjá skrautlegt hraungrýti sem myndi sóma sér vel sem stáss í hvaða stofu sem er.
Veður var með ágætum þrátt fyrir þungan himninn með fjöllunum. Leiðin niður að ströndinni er 2.2 km um rollulaust hraunið, sem allt er að koma til eftir ofbeit liðinna ára.

Krysuvikurbjarg-802

Krýsuvíkurbjarg.

Vatnsheiði

Gengið var með kunnugum um Vatnsheiði, litið í jarðfall er opnaðist er jarðýta var næstum fallin ofan í það á leið yfir hraunið og skoðað svæði þar sem myllusteinar voru höggnir til fyrr á öldum. Enn má sjá einn steinanna, sem hafði verið unnin að öðru leiti en því að augað vantar. Svo virðist sem hann hafi verið skilinn eftir þarna þegar hann klofnaði við augnsmíðina.

K-9

Nían – neðst í Vatnsheiði.

Jarðfallið var nefnt Nían eftir jarðýtunni, Caterpillar 9. Ýtustjórinn var á leið yfir syðsta Vatnsheiðargíginn þegar jörðin opnaðist skyndilega undir henni. Hann náði þó að koma ýtunni áfram og úr allri hættu. Síðan hefur opið stækkað smám saman. Nú er þarna hið myndarlegasta jarðfall, u.þ.b. 10-12 metrar á dýpt. Svo er að sjá, þegar staðið er á barminum, að rás liggi inn undir bakkann, en svo mun ekki vera. Gjallið í gígnum er rauð- og brúnleitt.
Grindvíkingar hafa fundið leið til að nýta jarðfallið. Hobbýbændur þar hafa losað sig við afgangssláturafurðir í holuna, líklega í von um að ná að fylla hana smám saman?

Vatnsheiði

Vatnsstæðið í Vatnsheiði.

Ögmundastígur

Farið var um Hrauntungu í Kapelluhrauni og leitað fjárhella, sem þar eiga að vera.

Hrauntungur

Hrauntunguskjól.

Í Tungunni fannst fjárskjól hlaðið fyrir hellisskúta og skjól í jarðfalli, sem hlaðið hafði verið fyrir. Stórt birkitré huldi innganginn í skjólið, sem mun hafa verið afdrep fyrir smala, en þegar inn var komið blasti við talsvert rými og miklar hleðslur.

Þá var haldið í Krýsuvík og gengið norður með vestanverðu Krýsuvíkur-Mælifelli, í kantinum á Ögmundarhrauni, framhjá Drumbi og inn í Bleikingsdal. Til baka var gengið með læk í gegnum hraunið. Staldrað var við hjá Ögmundardys, en eins og flestum er kunnugt lét Krýsuvíkurbóndi (sumir segja Njarðvíkurbóndi) drepa og síðan dysja vinnumanninn Ögmund eftir að hafa svikið hann um að mega eiga dóttur hans ef hann gæti rutt braut í gegnum hraunið innan tilskilins tíma.

Stóri-Hamradalur

Rétt í Stóra-Hamradal.

Einungis brot af hinum gamla Ögmundavegi er eftir í hrauninu. Nýr vegur, Hlínarvegurinn, var lagður ofan í hann yfir Ögmundarhraun á fyrri hluta 20. aldar.
Loks var gengið yfir Tófubruna vestan Latfjalls, upp í gígana og áfram yfir í Stóra-Hamradal. Þar undir hömrunum er gömul rétt, sem notuð var til rúninga á öldum áður, skv. upplýsingum Jóns Guðmundssonar frá Skála.
Veður var með miklum ágætum.

Stóri-Hamradalur

Stóri-Hamradalur.

Staðarhverfi

Gengið var um Staðarhverfi undir leiðsögn Helga Gamalíassonar í ágætisveðri.

Staðarvör

Staðarvör.

Helgi, sem er fæddur og uppalinn á Stað, er margfróður um svæðið, sýndi þátttakendum og lýsti m.a. rústum kóngsverslunarinnar ofan við Búðarsand, aðsetri Hansakaupmanna og Englendinga, Húsatóttir, gömlu bryggjuna, Stóra-Gerði, Litla-Gerði og Kvíadal. Hann lýsti mannlífinu í Staðarhverfi fyrr á öldum, ströndum og björgun áhafna báta og skipa, sem leituðu upp að ströndinni eða fórust þar fyrir utan. Þá sýndi hann gamla brunninn við Hiyrfla, við Stóra-Gerði og við Stað (merkilegt, en hulið mannvirki frá 1914), lýsti gömlu bæjarhúsnum á Stað, sýndi kennileiti í kirkjugarðinum, gömlu bæina við Húsatóftir, að Dalbæ, Vindheimum og Hamri, gamla veginn í Staðarhverfi, naust og flórgólf ofan við Staðarbót, nokkur hundruð ára ára gamlan keng á flæðiskeri vestan bótarinnar, fiskibyrgi á Stöllum, lýsti hellum innan við Sundvörðuhraun og í Ögmundarhrauni (verða leitaðir uppi síðar) o.s.frv. o.s.frv.

Staður

Staður – uppdráttur ÓSÁ.

Helgi sagði að einn hóllinn í Staðartúninu, ofan við Hundadal, innihéldi gamlan bæ, Krukku, sem fór í eyði þegar sandfokið ætlaði allt að drepa. Bærinn væri væntanlega nokkuð heillegur í hólnum og því væri forvitnilegt að grafa hann út til að kanna hvort þar væri eitthvað áhugavert að finna.
Mikil byggð og mannlíf var í Staðarhverfi fyrr á öldum. Hverfið var eitt af þremur byggðakjörnum Grindavíkur, sem stundum hefur verið nefnd Greindarvík vegna hinna mörgu mannkostamanna og -kvenna, sem þar hafa alið manninn – oftast þó í kyrrþey fyrir sjálfa sig og samfélagið.

Staður er nú eyðibýli. Prestssetur og kirkjustaður var á Stað frá fornu fari og allt fram á síðustu öld. Þar var kirkja helguð með guði Maríu guðsmóður, Jóhannesi postula, heilögum Stefáni, Ólafi konungi, Blasíusi biskupi, Þorláki biskupi og heilagri Katrínu mey.

Staðarhverfi

Óli Gam. sýnir FERLIRsfélögum brunn á Stað.

Staðarkirkja var flutt inn í Járngerðarstaðahverfi árið 1909 og nefnd Grindavíkurkirkja. Hún hýsir nú leikskóla bæjarins þar sem lagður er grunnur að góðum Grindvíkingum.
Í kirkjugarðunum á Stað má t.d. sjá skipsklukkuna úr Alnaby, torgarnum er fórst utan við Jónsíðubás skömmu eftir aldamótin 1900. Með honum fórst skipstjórinn, Nilson, sá hinn sami og hafði verið valdur að láti Íslendinga í Dýrafirði er Hannes Hafsteinn ætlaði að koma lögum yfir hann þar fyrir ólöglegar veiðar.
Helgi sagði að sú saga hafi gengið á Stað að venja hafi verið að ganga rekann. Vegna veðurs þennan dag var það ekki gert. Daginn eftir fannst stígvéli ofan við fjöruna er benti til þess að einn áhafnameðlima hafi komist lífs af, en orðið úti. Vildu menn að nokur kenna sé rum að hafa ekki gengið rekann að venju og þar með getað bjargað skipsbrotsmanninum. Um söguna af Nilson og strandið í Grindavík hefur Árni Óla m.a skrifað sem og fleiri. Hún er t.d. í Staðhverfingabókinni.

Staðarhverfi

Staðarbrunnurinn hefur nú verið endurhlaðinn.