Tag Archive for: Grindavík

Maístjarnan

Gengið var um Sandfellsklofa, með Sandfelli, yfir norðuröx Hrútfells og að Hrútagjárdyngju.

Fjallið eina

Fjallið eina.

Norðan hennar var staðnæmst og litið yfir hraunin og höfuðborgarsvæðið áður en horfið var niður í Húshelli. Í hellinum, sem fannst 1968, eru húshleðslur og bein. Hann er mjög rúmgóður og alveg sléttur í botninn. Ekkert hrun er í hellinum.
Snjór þakti jörð. Kynntir voru aðrir hellar á svæðinu, s.s. Steinbogahellirinn, Híðið, Langihellir og Maístjarnan, en ekki var farið í þá að þessu sinni því markmiðið er að takmarka umferð í þá svo sem kostur er.
Með í för var m.a. geðþekki ráðherrann, Halldór Ásgrímsson og Örlygur Sigurðsson, blaðamaður MBL o.fl.
Fjallið eina teigði sig upp úr fannbreiðunni og lagði við koll.
Veður var skínandi gott til gönguferðar þennan nýársdagsmorgun.

Húshellir

Í Húshelli.

Sýslusteinn

Gengið var frá Sýslusteini í Seljabót, um 20 mínútna gang eftir greiðfærri götu í gegnum Herdísarvíkurhraun, niður með sýslugirðingunni. Hún er á mörkum Gullbringusýslu og Árnessýslu í línu úr Seljabót um Sýslustein og áfram upp að Kóngsfelli. Í örnefnalýsingu fyrir Herdísarvík segir m.a.: „Á Seljabót eru landa- og sýslumörk. Landamörk milli Herdísarvíkur og Krýsuvíkur og sýslumörk milli Gullbringusýslu og Árnessýslu. Seljabótarnef er þessi staður nefndur. Þarna má sjá selrústir gamlar…“

Herdísarvíkursel

Herdísarvíkursel.

Í Bótinni var gamla réttin skoðuð og síðan gengið upp í Herdísarvíkursel, sem liggur undir hraunkantinum u.þ.b. 5 mínútum ofan við ströndina í austnorðaustur. Selið er þrjú hús og lambastekkur framar. Hreyfing var á logninu, en þegar komið var undir hraunkantinn varð hreyfingin að engu.
Í örnefnalýsingunni segir að „Gamlivegur er götuslóði, er liggur upp á Seljabót, upp undir austurhorn Geitahlíðar.“ Gamlavegi var fylgt upp hraunið að upphafsstað.

Herdísarvík

Herdísarvíkurvegir – uppdráttur ÓSÁ.

Þá var gengið upp Selstíg ofan við Hlíðarvatn. Haldið var upp í Selbrekkur, en þar má enn sjá tóttir Stakkavíkurselsins.

Til að nota góða veðrið var ákveðið að halda áfram upp Stakkavíkurveginn, yfir Dýjabrekkur, að Vestur-Ásum og að Hvalskarði þar sem hann og Selvogsgatan koma saman. Þá var haldið niður Stakkavíkurveginn til baka og komið við í tóftum fjárhúss í Stakkavíkurhrauni skammt fyrir neðan þjóðveginn.
Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Stakkavík

Stakkavík – uppdráttur ÓSÁ.

Prestastígur

Farið var Prestastíginn frá Höfnum að Húsatóftum – 16 km leið.

Prestastígur

Varða við Presthól.

Lagt var af stað úr Hundadal og haldið yfir Presthól, um Haugsvörðugjá og Eldvörp. Útsýni yfir að Reykjanesvita og Eldey var stórkostlegt í kvöldsólinni. Komið var við í Tyrkjabyrgjunum í Sundvörðuhrauni, litið á fiskibyrgin ofan við Húsatóftir og gengið að Kóngshellu og Búðarsandi, skoðað í brunn við Vaðla og litið á brunninn á Stað, sem er einn sá stærsti og fallegasti á Reykjanesi.
Prestastígurinn er bæði þægileg og falleg gönguleið. Í fyrstu, þegar farið er frá Höfnum, er hún svolítið á fótinn, sendinn og gróðursnauð, en þegar komið er yfir Haugsvörðugjá verða skörp gróðurskil. Þar taka við mosar og mógróður. Sandfellshæðin, dyngja, er á vinstri hönd, en í henni er stór gígur.

Prestastígur

Prestastígur í Eldvörpum.

Reykjavegurinn kemur inn á Prestastíginn vestan Eldvarpa, en skilur við hann er sá síðarnefndi beygir til suðurs skammt vestan þeirra. Gangan í gegnum Eldvörpin gefa tilefni til að rifja upp Reykjaneseldana 1226 og allar hamfarirnar, sem þær höfðu í för með sér. Verksummerkin má bæði sjá þarna og þreifa á.

Frábært veður – Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Haugur

Prestastígur – Haugur framundan.

Reykjanesviti

„Reykjanesið er undarlegur skapnaður“, sagði Jón Trausti. En þrátt fyrir svartsýni hafa miklar vonir verið bundnar í gegnum tíðina við þennan útskaga, nýjasta hluta landsins.

Háleyjar

Tóft á Háleyjabungu.

Gengið var frá Sandvík. Mikill reki er á sandorpnum köflum með ströndinni. Innan um rekann ber margt forvitnilegt fyrir augu. M.a. var þarna hluti úr síðu gamals árabáts. Byrðingurinn var negldur saman með koparnöglum.
Hátt bergið gapið við. „Það er eitthvað hrikalegt og seiðmagnað yfir þessari strönd sem enginn mun gleyma“, sagði séra Gísli Brynjólfsson þegar hann hafði gengið leiðina um 1980. Austast í urðinni undir Háleyjarbungu fannst lík óþekkta sjómannsins, sem nú hvílir í Fossvogskirkjugarði. Það var vorið eftir Skúlastrandið fógeta á Staðarmölum.

Rafnkelsstaðaberg

Gatklettur í [H]Rafnkelsstaðabergi.

Nokkru vestar heitir Hrafnkelsstaðaberg. Undir þessu bergi strandaði Jón Baldvinsson 31. mars 1955. Þar gat nú að líta dauðan búrhval í fullri stærð. Utar heitir Skarfasetur. Þar fyrir utan er eina mannvirkið á þessum slóðum, lágur viti til leiðbeiningar sjófarendum þegar ljósið úr Reykjanesvita hverfur bak við Skálafell. Frá vitanum blasir Eldey við sem og karlinn úti með ströndinni austan Valahnjúka.
Í norðurhlíð Skálafells og þar norður af er hverasvæði það sem gefið hefur nesinu öllu nafn. Einn hveranna mun áður hafa verið nefndur Reykjanes-Geysir, en hann var breytilegur, hvarf um lengri tíma en tók sig upp á ný sem goshver 1918. Þá var hverinn einfaldlega nefndur 1918. Í kringum 1960 varð hann hreyfingarlítill, en við jarðskjálftann haustið 1967 tók hann að gjósa ákaflega, en það stóð ekki lengi. Nú er hann tær atkvæðalítill vatnshver með söltu vatni.

Valahnúkur

Valahnúkur og Valahnúksmöl.

Rétt norðan við Reykjanestána, sem er 78 metra há, skerts smávík inn í bergið, Blásíðubás. Þetta er falleg náttúrusmíð. Oftar en einu sinni hefur lífum sjómanna verið borgið í Blásíðubás þótt þar sé alldrei kyrr sjór.
Vestar er Valahnjúkamölin. Þar fyrir utan strandaði Clam 28. febrúar 1950.
Á skipinu voru 50 manna áhöfn. Af þeim fórst um helmingur er þeir reyndu að komast á land á skipsbátum. Hinum náðu björgunarsveitir.
Á syðri Valahnjúknum var reistur fyrsti viti landsins árið 1878. Hann skemmdist í jarðskjálfta 10 árum síðar. Leifar hans sjást nú neðan við hnúkinn.

Reykjanesviti

Reykjanesviti.

Árið 1908 var núverandi Reykjanesviti byggður á Bæjarfelli. Hann blasti nú við göngufólkinu frá Valbjargargjá, en þaðan séð er hann eins og klipptur út úr landslagsmálverki.
Endað var með því að skoða hlaðna sundlaug í sprungu skammt ofan við Valahnjúkamalir. Þar lærðu Grindavíkurbörn sund um og í kringum 1930. Þá rann volgt vatn um gjána er blandaðist köldum sjónum. Mannvirkið er enn nokkuð heillegt.

Reykjanes - sundlaug

Sundlaugin á Reykjanesi.

Húshólmi

Fornminjadagurinn var genginn í garð. Lagt var af stað úr bænum í roki og rigningu, en þegar komið var að Húshólmanum í Krýsuvík brosti sólin sínu blíðasta og veðrið gat ekki verið betra.

Húshólmi

FERLIRsfélagar í Húshólma.

Sumir taka ávallt mið af veðrinu út um stofugluggann, en aðrir hafa lært að veður á einum stað er ekki endilega sama veðrið og annars staðar.

Í Húshólma tók Magnús, fornleifafræðingur, Kristinsson á móti FERLIRsförum og gekk með þeim um hólmann. Skoðuð var m.a. fjárborgin, Kirkjuflötin, sem sem er gamall kirkjugarður, líklega frá 10. og 11. öld. Þá var gengið eftir bæjargarðinum, sem bendir til að stórbýli hafi verið á svæðinu áður en Ögmundarhraun rann þar yfir landið árið 1151. Jón Jónsson, jarðfræðingur, telur hins vegar að hraunið hafi runnið árið 1005 (C14 945 ± 85).

Húshólmi

Kirkjulág.

Í Kirkjuláginni var skoðuð tótt gömlu Krýsuvíkurkirkju, hleðslurnar þar sem og bæjartóttirinar ofar í hrauninu. Þá var skoðaður skáli, sem hraunið hafði runnið að og í kringum, en hann síðar fallið saman. Við það myndaðist jarðfall og upp úr því stóðu burðarsúlurnar. Enn má sjá holur þeirra í tóttinni.
Á bakaleiðinni var skoðaður stekkur og fleiri minjar með hraunröndinni að norðanverðu. Gamlar sagnir eru um selstöðu Krýsuvíkurbæjanna í Húshólma fyrr á öldum.
Utan við hólmann er gamalt gerði í hraunkantinum.

Húshólmi

Húshólmi – minjasvæðið. Kirkjulágar efst.

Magnús var vel heima í sögu og umhverfi Húshólma. Hann lýsti fyrir þátttakendum því sem fyrir augu bar, kynnti möguleika svæðisins út frá fornminjalegu tilliti og leiddi hópinn frá einu minjasvæðinu yfir í annað.
Þjóðminjasafnið mætti gera meira af því að upplýsa áhugasamt fólk um einstök minjasvæði, en ástæða er til að þakka fyir þetta framlag þess, sem var hið mætasta.

Heimild m.a.:
-J.J. ´81.

Húshólmi

Upplýsingaskilti í Húshólma.

Krýsuvík

Gengið var upp á Bæjarfell og skoðaðar einstakar jarðmyndanir, en í viðræðum við Jón Jónsson, jarðfræðing, á heimili hans fyrir skömmu sýndi hann hvar þær var að finna. Norðan undir Bæjarfelli, skammt vestan varnargarðs, má sjá tótt af húsi.

Krýsuvík

Krýsuvík – fjárskjól í Bæjarfelli.

Komið var við í fjárhellinum sunnan í fellinu og gengið eftir garðinum að Arnarfelli. Skoðaður var Arnarfellsbærinn og haldið umhverfis fellið. Norðan þess var gengið fram á stekk, sem ekki var vitað um.
Þá var haldið til Grindavíkur og leitað að Dýrfinnuhelli. Hann fannst vestan Skipsstígs norðvestan Lágafells. Um er að ræða fallegan, stóran, rúmgóðan skúta, en lágan.

Skipsstígur

Skúti vegagerðarmanna við Skipsstíg.

Skammt frá er hellisskúti þar sem hlaðið hefur verið fyrir vestara opið. Greinilegt er að vegagerðarmenn hafa notað skútann eftir að Dýrfinna hafði flúið í hraunið undan Tyrkjunum á sínum tíma. Skipsstígurinn hefur einhverra hluta vegna verið uppgerður sem vagnfær á u.þ.b. 300 metra kafla, einmitt á þessum stað. Hann hefur verið breikkaður og hlaðinn upp eins og honum hafi þá verið eitthvert ákveðið framtíðarhlutverk í samgöngusögunni. Grindjánar geta aðspurðir ekki útskýrt þessar framkvæmdir. Líklegt má telja að vegaframkvæmdin hafi verið í tengslum við atvinnubótavinnuna skömmu eftir aldamótin 1900.

Grindavíkurvegur

Grindavíkurvegur – vegavinnubúðir á Gígæð.

Þá hafi Grindvíkingar viljað sníða samgöngukerfið að hestvagninum eða jafnvel tilkomu sjálfrennireiðarinnar, en verið horfið frá því einhverra hluta vegna. Kannski vegna fjárframlags ríksins, sem kom til nýja (Gamla) vegarins árið 1913 og síðan var lagður frá Stapanum til Grindavíkur á árunum 1914 til 1918.

Haldið var inn í hraunið og svo merkilega vildi til að  þá fannst eftirfarandi, sem ekki var vitað að væri til á svæðinu; hátt upphlaðið skjól eða aðhald.

Grindavíkurvegur

Grindavíkurvegur – skjól gegnt Svartsengi.

Á öðrum stað hlaðið hús undir kletti og á fjórða staðnum hlaðnir skjólgarðar. Líklega tengist þetta hlöðnu húsunum, sem fundust fyrir skömmu, en þau eru á milli annarra mannvirkja, sem fundist hafa að undanförnu. Frá því fyrsta til þess síðasta, eru um 5-6 km. Ákveðið hefur verið að fara skoða svæðið kerfisbundið á næstunni þegar frost er í jörðu, en þá er auðveldast að ganga um mosahraunin. Leita þarf nánari fróðleiks um hugsanleg mannvirki á þessu svæði. (Um var að ræða upphafið að leitinni að vegavinnubyrgjunum við Gamla Grindavíkurveginn, sem lagður var á árunum 1914-1918).
Frábært útivistarveður, logn, sól og hlýindi.

Dýrfinnuhellir

Dýrfinnuhellir.

Krýsuvíkurhellir

Gengið var frá Sýslusteini að Herdísarvíkurseli og þaðan í Seljabót. Síðan var gengið vestur með ströndinni. Um er að ræða magnaða leið.

Krýsuvíkurbjarg

Krýsuvíkurbjarg.

Fjölbreytilegt ber fyrir augu, hvort sem um er að ræða stórbrotið útsýni eða merkileg náttúrfyrirbæri. Leitað var að Skyggnisþúfu. Hún fannst nokkurn veginn miðja vegu á milli Seljabótar og Keflavíkur. Á henni er varða og í vörðunni er hólf sem skilaboð á milli bæja voru látin í. Skammt vestan hennar er stórbrotinn djúpur svelgur ofan í jörðina og sér út á hafið í gegnum stórt gat á honum. Nokkru vestan var gengið ofan í Keflavík eftir stíg. Þar er gróið undir bjarginu, en framar eru lábarðir steinar. Af þeim, horft til austurs með berginu, er hár og fallegur gatklettur út í sjó – stórbrotið útsýni.

Keflavík

Keflavík í Krýsuvík – einnig nefnd Kirkjufjara. Þangað áttu kirkjur norðan Reykjanesskaga rekaítök fyrrum.

Vestan Keflavíkur eru leyfarnar af gamla Krýsuvíkurbjarginu, en hraun hefur síðan runnið allt um kring og út í sjó. Sjá má gömlu hamrana standa tígurlega upp úr á smá kafla. Á þeim eru svonefndir Geldingasteinar, mosavaxnir gulbrúnir steinar, en grasi gróið í kringum þá. Liggur rekagata vestur með ströndinni frá þeim, neðan gamla bergsins, sem nýtt hraun hefur runnið fram af og framlengt ströndina sunnan þeirra.

Krýsuvíkurhellir

Krýsuvíkurhellir.

Gengið var ofan gömlu hamrana, yfir mosahraun og var þá komið að helli er gæti verið hinn týndi Krýsuvíkurhellir. Snjór var framan við opið og var að sjá hleðslur ofan þess. Tekinn var punktur og verður hellirinn skoðaður betur við tækifæri. Neðan hellisins er nýja bergið og liggur gömul gata efst á því. Honum var fylgt til vesturs og opnaðist þá stórkostlega sýn vestur Krýsvíkurbjargið, hátt og tignarlegt. Fram af því steyptist Eystri-lækur og hefur hann varla í annan tíma sést jafn vel og núna. Frábært myndefni – með hæstu fossum á landinu.

Eystri-Bergsendi

Horft vestur yfir krýsuvíkurbjarg frá Eystri-Bergsenda.

Þegar komið var út á Bergsenda var strikið tekið að Sundvörðunni ofan við bjargbrúnina skammt vestar, síðan upp í fjárhellir í Litlahrauni og loks komið við í réttinni og fjárhústóttinni ofan hans áður en haldið var að Krýsuvíkurrétt undir Eldborgum.
Þessi gönguleið er ein sú stórbrotnasta, sem hægt er að fara á Reykjanesi og ættu sem flestir að nýta sér það tækifæri í góðu veðri.

Keflavík

Keflavík.

Skógfellavegur

Lagt var af stað frá Vogum og genginn 16 km langur Skógfellavegurinn til Grindavíkur.

Skógfellavegur

Skógfellavegur.

Í heimildum ber leiðin eftirfarandi nöfn: Skógfellavegur, Skógfellsvegur og Vogavegur (notað af Grindvíkingum). Hluti hans var nefndur Sandakravegur eða Sandakradalsvegur. Skógfellaleiðin lagðist af um 1920 þegar bílvegur var lagður til Grindavíkur. Björn Gunnlaugsson skráði Sanakraveg inn á kort sín árið 1831 og 1844 og þar er vegurinn strikaður frá vesturenda Vogastapa yfir Skógfellahraunið að Litla-Skógfelli, þaðan að syðri enda Fagradalsfjalls og síðan áfram suður úr.
Gengið var framhjá Snorrastaðatjörnum, Nýjaseli, yfir Brandsgjá og að Litla-Skógfelli. Bæði er yfir grófara hraun að fara og gróið, en gatan er greið.

Skógfellavegur

Skógfellastígur.

Leiðin frá Litla-Skógfelli að Stóra-Skógfelli er tiltölulega slétt helluhraun og er gatan mörkuð djúpu fari langleiðina. Hún er auk þess ágætlega vörðuð. Áður en komið er að fellinu er vörðubrot vinstra megin (en annars eru vörðurnar hægra megin á þessari leið). Vörðu ber við loft á hæð í suðri. Þarna liggur Sandakravegurinn áleiðis yfir að Slögu.
Vestan við Stóra-Skógfell taka Sundhnúkarnir við, en vestan þeirra hallar undan að Hópsheiði og áfram niður í Grindavík.
Veður var frábært, sól og hiti, svo og útsýni á leiðinni. Gangan tók nákvæmlega 4 klst.

Heimild m.a.
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi – Sesselja G. Guðmundsdóttir.

Skógfellavegur

Skógfellavegur.

Óbrennishólmi

Á hvítasunnudag var gengið í Krýsuvíkurhraun. Farið var um Bálkahelli, sem er víð u.þ.b. 500 metra löng og rúmgóð hraunrás. Hægt er að ganga eftir henni og koma upp um 300 metrum neðar í hrauninu. Þá var gengið um Klofninga og síðan að Arngrímshelli, fjárhelli, sem notaður var um aldir af bóndanum á Læk ofan við Krýsuvíkurbjarg (um 1700). Við Arngrím er kennd þjóðsagan um Grákollu, þá einu á, sem af lifði hrakningarveðrið mikla aðdragandavetur 18. aldarinnar. Síðar (um 1830) nýtti Krýsuvíkur-Gvendur hellinn í sama tilgangi.

Gvendarhellir

Í Arngrímshelli (Gvendarhelli).

Vegna þess hve veður var gott var ákveðið að ganga um Lat að aldagömlu sæluhúsi í hrauninu sunnan hans.

Óbrennishólmi

Óbrennishólmi; fjárborg eða virki!?

Þaðan var haldið í Óbrennishólma þar sem skoðaðar voru yfir 1000 ára gamlar minjar, eða allt frá því fyrir að Ögmundarhraun rann árið 1151. Jón Jónsson, jarðfræðingur, telur aldur Ögmundarhrauns hins vegar vera C14 945 ± 85. Samkvæmt því mun hraunið hafa runnið 1005. Efst í hólmanum eru hlaðnir veggir, sem hraunið staðnæmdist við, neðst í honum eru veggir af gamalli rétt við hraunkantinn og efst eru leifar gamallar fjárborgar, þeirrar stærstu á Reykjanesi. Skammt austar er tóft fjárborgar eða topphlaðins húss. Vestan stóru borgarinnar sést móta fyrir jarðlægum garði er liggur upp í hólmann.

Heimild m.a.: J.J. ´81.

Óbrennishólmi

Forn garður í Óbrennishólma.

Óbrennishólmi

FERLIR leitaði tófta næstelsta upplandsbæjar Krýsuvíkur, Gestsstaða. Elsti bærinn mun vera, að því er talið er, Kaldrani við suðvesturhorn Kleifarvatns.

Gestsstaðir

Tóftir Gestsstaða í Krýsuvík – austan hálsa…

Þrjár heimildir eru um hvar tóttir Gestsstaða kunni að vera að finna. Sú yngsta segir að bærinn hafi verið undir Píningsbrekkum norðaustur af gróðurhúsunum sunnan Hettu, en engin ummerki eru á þeim slóðum. Hinum eldri heimildum tveimur ber saman, þótt orðaðar séu á mismunandi vegu. Þær kveða á um að bærinn hafi verið sunnan undir brekkunum sunnan Gestsstaðavatns, nálægt núverandi skólahúsi. Mikið landrof hefur orðið á svæðinu, en undir brekkunum eru tóftir bæjarins, á a.m.k. þremur stöðum. Megintóftirnar eru neðan við brekkurnar og er merki um Friðlýsar fornminjar í annarri þeirra. Þriðja tóftarsvæðið er uppi í Sveifluhálsi ekki langt frá. Þar er stök tóft og hleðslur ekki fjarri. Vel má sjá móta fyrir húsunum undir Gestsstaðavatnsbrekkunum. Þarna hafa verið nokkuð stór hús, en óvíst er um aldur þeirra.

Sængurkonuhellir

Sængurkonurhellir sunnan Lats.

Tilgangur ferðarinnar var einnig að skoða minjar í Óbrennishólma í Ögmundarhrauni í landi Grindavíkur. Á leiðinni var komið við í hlöðnu sæluhúsi undir Lat. Steinhella, sem notuð hefur verið sem hurð, var enn á sínum stað – til hliðar við dyraopið.
Í svo til beina stefnu á húsið eru merki um tillöguna að svonefndum Suðurstrandavegi í gegnum hraunið. Ef sú tillaga (sem fyrir liggur er þetta er skrifað) verður að veruleika mun vegurinn fara yfir húsið.

Gestsstaðir

Gestsstaðir – tóft utan í Sveifluhálsi.

Í Óbrennishólma var hinn forni garður skoðaður, stóra fjárborgin, sem hefur verið sú stærsta á Reykjanesi, minni fjárborgin skammt austar og ofar nýlegrar kvíar í hraunkantinum sem og forna garðhleðslan, sem hraunið hefur stöðvast við á leið sinni til sjávar. Óbrennishólmi auk Húshólma þarna skammt austar eru sennilega merkustu fornminjasvæði á landinu og jafnvel kunna að leynast þar fornminjar, sem breytt geta vitneskju manna um landnám á þessu landi, sem síðar var nefnt Ísland. Fyrirhugað er nú (gæti breyst) að leggja breiða hraðbraut í gegnum Hólmana með ófyrirséðum afleiðingum því svæðin hafa þrátt fyrir allt verið mjög lítið rannsökuð. Til að mynda er hvergi til vitneskja á einum stað um allar minjarnar, sem vitað er um í hólmunum.

Norðurkot

Norðurkot í Krýsuvík.

Í Húshólma, sem síðar verður skoðaður nánar, er þó vitað um fornu kirkjuna, sem talið er að hafi verið notuð eftir að Ögmundarhraun rann árið 1151, forna skálann, reyndar tvo eða þrjá, sem hraunið umlukti og enn má sjá leifar af, Kirkjuflötina, sem talið er að sé forn grafreitur, Kirkjulágina og forna garðinn, sem liggur á ská í gegnum hólmann, þvergarðinn og fjárborgina í honum ofanverðum – svo til í vegastæði fyrirhugaðs Suðurstrandavegar. Hins vegar liggur ekki fyrir vitneskja um tóttir syðst í hólmanum, sennilega tengt útræði á Seltöngum, en svo eru tangarnir nefndir utan hans við Hólmasundið.

Norðurkot

Norðurkot í Krýsuvík 1892.

Selatangar eru vestar á ströndinni þar sem verið hefur verstöð undir Katlahrauni og enn má sjá miklar leifar af. Þá liggur hvorki fyrir vitneskja um sýnilegar tóttir sels (stekks) efst í Húshólma né hringlaga garðlags austan undir Ögmundarhrauni þar sem Húshólmastígur liggur inn í Hraunið. Einnig mótar fyrir sporöskjulaga gerði í Kirkjuflötinni, sem gæti verið tóft, jafnvel kirkjunnar, sem menn hafa gefið sér að sé innar í hrauninu og fyrr var nefnd. Annars staðar í hrauninu má einnig sjá hleðslur fornra garða. Og án efa, ef svæðið yrði rannsakað betur, kæmu í ljós mun fleiri minjar, en þegar er vitað um að þar kunni að leynast.
Húshólmi og Óbrennishólmi eru því án efa einir af áhugaverðustu stöðum með tilliti til fornminja og sögu landsins.
Frábært veður.

Óbrennishólmi

Tóft í Óbrennishólma.

/https://ferlir.is/husholmi-ogmundarhraun/