Tag Archive for: Grindavík

Geitahlíð

Jörð í Krýsuvík hafði skolfið meira en hún á venju til að undanförnu. Nýjalandssvæðið hefur risið og hnigið á víxl. Líklega er gígurinn stóri milli Stóra-Lambafells og Kleifarvatns, yst í Hvömmum, að láta vita af sér.
SmjorbrekkustigurÞrátt fyrir lætin var ætlunin að feta Ketilsstíg frá Seltúni upp á Sveifluháls, framhjá Arnarvatni og yfir á Smjördalahnúk vestan í hálsinum. Sunnar eru Smjördalir og Smjörbrekkur. Um þær liggur Smjörbrekkustígur.
Þegar gengið var upp Ketilsstíg frá Seltúni mátti glögglega sjá gömlu námugötuna á a.m.k. tveimur stuttum köflum á leiðinni upp á hálsinn. Víðast hvar hefur runnið úr hlíðinni yfir gömlu götuna eða hún afmáðst, en nýrri göngustígur verið merktur annars staðar og  mun ofar. Leifar af vörðu eru efst í skarðinu við gömlu götuna. Austar hefur vatn afmáð götuna.

Smérbrekkustígur

Smérbrekkustígur norðan Hettu.

Útsýnið af hálsinum til morgunssólarinnar í austri var í einu orði sagt stórkostlegt. Þegar komið var inn fyrir Arnarvatn, sem nú var ísi lagt, var stefnan tekin áleiðis niður að Smjördalahnúk. Virkt hverasvæði er þar í hálsinum. Gengið var niður að þeim stað er líklegt þótti að Smjörbrekkustígur kæmi upp á hálsinn vestan hans. Þar er brött sandbrekka, en sjá má votta fyrir skásneiðing og tilgerðri götu. Vélhjólamenn hafa nýtt sér hann til að komast upp hlíðina. Þegar upp er komið mótar enn fyrir gamalli götu á sandhrygg. Liggur hún áleiðis suður hálsinn, beygir til suðausturs upp rofabrekku og síðan til austurs ofan hennar. Er þá komið inn á hverasvæðið fyrrnefnda. Beitarhólfsgirðingin liggur þar um og er príla fyrir gangandi yfir hana. Þaðan liggur gatan til suðausturs norðan við lágan hól. Austan hans beygir hún til suðurs og liggur síðan í sneiðing upp náttúrulegan stall. Ofan hans liggur gatan upp með norðanverðri Hettu og tengist Hettustíg (Hettuskarðsstíg) suðaustan hennar.
Smjorbrekkustigur-3Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir þetta svæði segir m.a.: „Þess er vert að geta, að Sveifluháls ber nokkur nöfn, svo sem Austurháls og Móháls eystri.
Hér voru líka Smjörbrekkur og Smjörbrekkustígur upp í Smjörbrekkuskarð.
Þá er komið að Ketilstígssteini kletti allmiklum og liggur vegurinn frá honum upp á hálsinn og er þá komið að Katlinum og í hinn eiginlega Ketilstíg, sem liggur um austurhlíð og suðurhlíð Ketilsins og þar upp á brún, síðan áfram framhjá Arnarvatni niður með efsta hluta Seltúnsgils yfir á stall ofan Seltúns og niður Seltúnsbrekkuna í Seltúnshvamm. Stundum var öll leiðin frá Hafnarfirði í Seltún og að Krýsuvík kölluð Ketilstígur. Að fara Ketilstíg. Vestur með hálsi liggur leiðin áfram og blasir þá fyrst við Smjördalahnúkur og Smjördalir milli hans og hálsins.“
Smjorbrekkustigur-4Stígurinn er ágætlega greiðfær og auðveldur yfirferðar fyrir ferðalanga á leið yfir hálsinn.
Gatan öll hefur líklega ekki heitið Smjörbrekkustígur heldur einungis kaflinn upp svonefndar Smjörbrekkur. Neðan þeirra gæti hún hafa greinst í lýsta leið og aðra til norðurs inn á Ketilsstíg ofan við Ketilinn.
Líklega heita Smjördalirnir og Smjörbrekkurnar austan Smjördalahnúks því nafni vegna þess að síðdegis þegar sól er lágt á lofti virðast þær smjörgular yfir að líta. Nú hefur allnokkurt rof orðið í dölunum, en vel má enn sjá hversu vel grónar hafa verið fyrrum. Á sama hátt bera Bleikingsvellir vestan undir hlíðunum keim af sólarroðanum.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Heimild m.a.:
-Gísli sigurðsson, örnefnalýsing fyrir Krýsuvík.

Krýsuvík

Krýsuvík – gamlar götur.

 

Trölladyngja

Trölladyngja er eitt af formfegurri fjöllum Reykjanesskagans. Í rauninni er hún „síamstvíburi“ Grænudyngju, en þær hafa gjarnan saman verið nefndar einu nafni Dyngjur. Á landakortum er Trölladyngja sögð vera hæst 275 m y.s. og Grænadyngja 393 m.y.s. Einnig mætti vel halda því fram að Dyngjurnar væru „símastvíburar“ Núpshlíðarhálss, en þær eru nyrsti hluti hans. Á millum eru Sogin, sundurgrafið háhitasvæði. Háhitinn hefur sett mikinn svip á suðurhlíðar Dyngnanna þar sem litadýrðin er mikil. Í Trölldyngju hefur fundist silfurberg.

Hraunkarl

Út úr Grænudyngju til norðausturs gengur Dyngjuháls eða Dyngjurani. Utan í honum er fjöldi gíga sem sent hafa hraunstrauma langt niður í Almenning.
Dyngurnar eru órofahluti af fjallamyndun Skagans, urðu til við gos á sprungurein. Gróft séð er Skaginn um 50 km langur og 20 km breiður eða um 1000 ferkílómetrar, sem samsvarar lauslega reiknað 1% af landinu. Hann einkennist af þessum fjöllum, sem eru flest frekar lág móbergsfjöll, mynduð við gos undir jökli á ísöld, og hraununum, sem runnið hafa bæði fyrir landnám og á sögulegum tíma. Þótt Skaginn sé frekar gróðursnauður má þó finna á honum ótrúlegan tegundafjölda ef vel er að gáð, ekki síst í kringum Dyngjurnar Jarðfræðilega er svæðið umhverfis þær mjög athyglisvert og ennfremur er það kjörið til útivistar og gönguferða.
Trölladyngja og Grænudyngja eru tilvaldar til uppgöngu. Óvíða er útsýni fegurra en þaðan. Sogunum má jafna við „miniture“ Brennisteinsöldu og Landmanalauga. Auðvelt er að ganga á þær um dal á millum þeirra að norðanverðu, áleiðis upp Sogin og áfram upp með Sogagíg þar sem sjá má minjar fornra seltófta eða bara fara upp frá Lækjarvöllum við norðanvert Djúpavatn og þar af brúninni inn á fjöllin til hægri.

Trölladyngja

Í rauninni eru þetta með fallegustu gönguleiðum í Reykjanesfólkvangi sökum litadýrðar og fjölbreytni. Þegar komið er að Dyngjunum að Höskuldarvöllum hverfur Grænadyngja að mestu á bak við systur sína.
Trölladyngja er klettótt og hvöss, einkum eftir því sem ofar dregur, en hin er stærri um sig og nær flöt að ofan. Aðeins um 40 mínútna rólegur gangur er upp á Trölladyngju og síðan má gera ráð fyrir svona svipuðum tíma af henni og á þá Grænu. Hún líkist ekki dyngjum, reyndar hvorugar, að einu eða neinu leiti, enda eru þær það ekki. Hins vegar er gróin gígskál á milli þeirra er gæti verið gígopið, en jökullinn síðan sorfið niður barmana að norðan og sunnan. Þegar haldið er á Grænudyngju að suðaustan er hægt að ganga áfram upp á suðvesturhlíðina, sem er nokkuð brött. Innan skamms er þó komið langleiðina upp og þá er skammt að hæsta tindi. Einnig er hægt að halda upp með austurhlíðinni, en þar er líkt og gata liggi áleiðis upp hana. Henni er ágætt að fylgja ef ætlunin er einungis að fara með og niður norðurhlíðina.
Trölladyngja Útsýnið er stjórbrotið, sem fyrr sagði. Vel má sjá hraunstraumana sem runnið hafa um nágrennið, Afstapahraun, Eldborgarhraun, Dyngnahraun og fleiri og fleiri hrauntauma sem líklega bera ekki neitt nafn. Útsýnið yfir Móhálsadal er sérstaklega gott. Víða má sjá gíga í dalnum, litla og stóra og formfagrar litlar eldborgir. Undarlegt er að sjá stöku stað sem hraunið hefur hlíft, s.s. Lambafell og Snókafell, en það eru smáfell, mynduð á jökulskeiði, er hraunið hefur runnið umhverfis.
Vestan við Grænudyngju er Trölladyngja, sérkennilegur mjór hryggur sem úr norðri hefur keilulögun, Oddafellið. Undir honum eru Höskuldarvellir, víðir og fagrir í skjóli fjalla og hrauns.
Af Dyngjunum virðist Keilir (379 m.y.s.), handan Oddafells, smávaxinn, en einstaklega lögulegur þar sem hann sendur sem „einbirni“ þar í hraunsléttunni.
Trölladyngjusvæðið er eitt af háhitasvæðunum. Árið 1975 vottaði ekki fyrir jarðhita neðan við Soginn, nema í kringum Hverinn eina allnokkru suðvestar. Árið 1979 byrjaði að örla á jarðhita á svæðinu, en nú u.þ.b. 25 árum seinna er svæðið jarðgufuvaki. Búið er að gera tilraunaborholu á svæðinu, leggja veg að henni og annan upp í Sogadal þar sem nú er verið að bora slíkar holur. Kristján Sæmundsson, jarðfræðingur o.fl. hafa m.a. rannsakað Trölladyngjusvæðið. Krýsuvíkursvæðið nær yfir jarðhitasvæðin á Austurengjum, Krýsuvík, í Köldunámum, Trölladyngju, og við Sandfell. Fjögur þau fyrst töldu sýna sig samfelld í viðnámsmælingum, en Sandfellssvæðið er laust frá. Meginsvæðið er hringlaga um 50 km2 að flatarmáli. Sandfellssvæðið er mælt á sama hátt um 4 km2.

Trölladyngja

Sveifluháls og Vesturháls með Trölladyngju eru móbergshryggir samsettir úr mörgum goseiningum og ná mest í 300–400 m hæð. Nútímahraun þekja allt sléttlendi vestan við hálsana og á milli þeirra. Upptök þeirra eru í gossprungum beggja megin við og utan í Vesturhálsi og Trölladyngju. Gossprungur eru einnig austan í Sveifluhálsi og sprengigígar á öldunum vestan hans, en hraunmagn úr öllum er lítið. Gosvirknin hjaðnar þaðan til NA og verður af lægð þar sem Kleifarvatn er. Jarðmyndanir milli Sveifluháls og Austurengja eru eldri en vestur í hálsunum og á hraunasvæðunum. Efnismiklar móbergsmyndanir úr öðru eldstöðvakerfi eru austan við Kleifarvatn og öldurnar þar suður af. Hveravirknin á ofannefndum fjórum jarðhitasvæðum er að ýmsu leyti ólík.
Í Trölladyngju sjálfri eru hverir og ummyndun samfelldust á skák sem nær austan frá Djúpavatni vestur á Oddafell. Hveravirkin er nú fremur dauf, tveir hverir upp við Sogin, gufur með smávegis brennisteini og hverasprengigígur neðan undir hálsinum og hitaskellur í Oddafelli. Sprengigígar og miklir gjallgígar eru á gossprungum þar sem þær liggja yfir ofannefnda A-V-skák. Ummyndun er mest í Sogum þar sem stórt svæði er ummyndað í klessuleir. Vestan í hálsinum frá Sogum suður á móts við Hverinn eina er móbergið einnig ummyndað en hvergi nærri eins og í Sogum. Þar eru stórir sprengigígar frá ísöld, og vatn í sumum. Djúpavatn er myndað á sama hátt. Kalkhrúður finnst á tveim stöðum. Hitarák með gufuhverum liggur frá Trölladyngju um Eldborg norður í Lambafell, bundin nánast við eina sprungu. Hverinn eini er í hrauni skammt suðvestur af SV-endanum á Oddafelli. Gufuauga með smávegis brennisteini er í hraunbolla og gufur á smásvæði í kring. Þar hjá er dálítil hrúðurbunga (kísill) og kaldar hveraholur í henni.
Trölladyngja Í Trölladyngju voru fyrir tvær borholur, önnur við hverasprunguna norðan undir henni, hin á hverasvæðinu vestan undir hálsinum. Báðar sjá um 260°C hita ofarlega. Þegar borholan var gerð suðvestan við Trölladyngju lofaði hún góðu. Borholan í Sogadal virðist þó hafa haft gagnvirk áhrif á hana. Um tíma hitnaði í henni til mikilla muna svo hún reyndist vera ein heitasta hola landsins. Nú hefur það breyst að nýju. Borholan í Sogadal hefur þann eiginleika að „gjósa“ á ca. 12 klst fresti, líkt og geysishverir. Um er að ræða skáborun og gæti það hafa haft þessi áhrif. Sumir hafa gælt við þá hugmynd að gera þessa holu að tilbúnu „túristagosi“ líkt og er við Perluna, en slíkt tal ber nú bara keim af slæmum brandara því það virðist eiga að vera sárabót fyrir eyðileggingu svæðisins með vegagerðinni og borstæðinu.
Framkvæmdir Hitaveitu Suðurnesja (matið á umhverfisáhrifum) voru kærðar til umhverfisráðuneytis á sínum tíma. Niðurstaðan var enn einn brandarinn. „Í niðurstöðu Skipulagsstofnunar á síðu 5 segir að fyrirhuguð framkvæmd hafi ekki „..umtalsverð umhverfisáhrif. Staðsetning framkvæmdarinnar hefur áhrif á svæði sem nýtur verndar skv. lögum um náttúruvernd en umhverfisáhrif eru ljós og að mati Skipulagsstofnunar ekki veruleg og leiða því ekki til matskyldu…“ Síðan segir í beinu framhaldi: „Að mati Skipulagsstofnunar er hægt að tryggja að framkvæmdin, eins og hún er kynnt, hafi ekki í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif með samvinnu framkvæmdaraðila, sveitarstjórna og Náttúruverndar ríkisins…“
Keilir Að sjálfsögðu hafa tilraunaboranir haft áhrif á svæðið, jafnvel varanleg. Vegagerðin í gegnum hraunið er ekki afturkræf. Borstæðið er skorið inn í gróna hlíð. Hæðarmismunur er um 3 metrar. Verði svæðið virkjað, sem er jú tilgangurinn með þeim tilraunaborunum, sem ekki hafa þurft að sæta umhverfismati, mun röskunin verða varanleg; hús, röralagnir, vegagerð, háspennumöstur o.fl. munu fylgja í kjölfarið.
Trölladyngja er í raunininni bæði minnisvarði um hið liðna og áskorun um að virkjunaraðilar staldri nú við og ígrundi hvernig hægt er að standa að undirbúningi virkjana með lágmarks röskun eða eyðileggingu að markmiði. Hingað til hafa þeir fengið að fara sínu mótþróalaust fram þar sem jarðýtustjórinn hefur síðan ráðið ferðinni. Stjórn Hitaveitu Suðurnesja hefur skipuð fulltrúum sveitarstjórnanna á svæðinu, sem stundum virðist hafa farið fram úr sér við einstaka framkvæmdir. Nú gera verndunarsinnar þá sjálfsögðu kröfu að jarðýstustjóranum verði leiðbeint miðað við þær ákvarðanir, sem aðrir hafa tekið fyrir stjórnina og hlotið hafa sáttarviðurkenningu, með framangreint (verndun og nýtingu) að leiðarljósi.
Eyðilegging við borsvæðið í Sogadal
Á Trölladyngusvæðinu, þ.e. í Sogadal, hefur umhverfinu verið raskað verulega í þágu væntanlegra virkjunarframkvæmda. Nýjustu fréttir í þeim efnum eru boranir á Krýsuvíkurheiði. Þær framkvæmdir hafa farið hljótt, svo hljótt að þær hafa hvergi verið kynntar opinberlega – ekki einu sinni á vefsíðu umhverfisráðuneytisins (sjá m.a. Umhverfisráðuneytið).

Trölladyngja

Fíflvallafjall, Mávahlíðar, Grænadyngja og Trölladyngja.

Heimildir m.a.:
-Örnefni og gönguleiðir á Vatnsleysuströnd – Sesselja Guðmundsdóttir (1995), bls. 106-107.
-http://is.wikipedia.org/wiki/Reykjanesskagi.
-http://www.reykjanes.is/Um_Reykjanes/Fjoll/Trolladyngja/
-http://web.mac.com/sigurdursig
-http://www.os.is

Dyngjurnar

Húsatóttir

Gengið var með Jórmundi Kristinssyni, 75 ára, um Húsatóptir og m.a. leitað að fyrrum brugghelli við Tóptirnar, sem munnmælasagnir hafa verið til um.

Húsatóttir

Baðstofa.

Jórmundur bjó hjá foreldum í eystri bænum að Húsatóptum. Hreppsstjórinn bjó þá í vestari bænum uns hann var fluttur niður fyrir bæina, í hús það sem nú hýsir golfskála Grindvíkinga. Jórmundur sagðist ekki muna eftir því hvernig gamli bærinn hafi litið út, en sennilega hafi hann verið úr torfi og grjóti, eins og hús voru fyrrum. Hús það, sem hann bjó í hafi verið á þeim stað, sem núverandi hús er.
Jórmundur sagði vatn hafa jafnan verið sótt í brunninn neðan við nýja húsið á Húsatóptum (golfskálann), en það hafi yfirleitt verið með saltbragði. Þá hafi faðir hans grafið niður í gjá skammt suðaustan við hús þeirra og þá komist níður í ferskt vatn. Op er niður í gjána, sem gengur í gegnum hraunhól. Í dag er þar nokkurt drasl, en sjávarfalla gætir í gjánni. Ferska vatnið flýtur ofan á saltvatninu svo bæði auðvelt og nærtækt hefur verið að nálgast þarna vatn.
Jórmundur sagði að vitað hafi verið að víða hafi verið bruggað í Grindavík og nágrenni fyrrum. M.a. voru einhverjir við þá iðju í Jónshelli (Gaujahelli) þegar jarðskjálfti reið yfir. Lokaðist hellirinn og þeir þar inni. Voru mennirnir orðnir úrkula vonar um að komast út er annar jarðskjálfti opnaði hellinn á ný. Sagnir eru og til um brugghelli við Húsatóptir og samsvarar lýsingin á honum framangreindum brunni í hraunhólnum.
Margar sprungur eru beggja vegna Húsatópta. Stærsta gjáin og jafnframt sú dýpsta, Baðstofa, er austan við túnin. Í henni er mikið ferskt vatn, um 12 °C. Fiskeldisstöðin á Tóptum sækir vatn sitt þangað. Sprungurnar eru í misgengi, sem m.a. nær í gegnum Þorbjörn. Á einum stað austan og ofan við Baðstofu hefur gjáin fyllst af grjóti og sandi svo ganga má í gegnum hana. Er hún nokkurs konar minni útgáfa að Almannagjá á Þingvöllum.

Húsatóttir

Refagildra.

Baðstofa er um 18 faðma djúp, þar af er dýpt vatnsins í botni hennar um 9 faðmar. Í gjána var oft sótt vatn, er brunnar spilltust í stórflóðum. Þótti vatn þar mjög gott. Svo sagði Lárus Pálsson hómapat, að hann tæki hvergi vatn í meðul annars staðar en í Baðstofu. Sögn er um, að Staðarprestur hafi fengið að sækja vatn í Baðstofu gegn því, að Húsatóptarbændur fengju að taka söl í landi Staðar. Gjáin er mjög djúp niður á vatnsborðið, en ekki nema um 3 m breið. Mikill gróður er í henni víða. Brú liggur yfir gjána þar sem vatni er dælt úr henni, en vatnið er bæði notað til vökvunar á golfvellinum og í fiskeldinu sunnan vegarins, sem fyrr sagði. Gegnumstreymi er á vatninu í gjánni. Skammt ofan gjárinnar er hlaðin refagildra. Hún er fallin saman að hluta, en vel má greina útlínur hennar og byggingarlag. Nú er vitað um 25 slíkar refagildrur á Reykjanesskaganum. Væri í rauninni hægt að gera þær virkar með skömmum fyrirvara ef einhver hyggðist á refaveiðar. Þessar gildrur falla mjög vel inn í landslagið og eiga ókunnugur jafnan erfitt með að greina þær frá því.
Nokkur hlaðin fiskbyrgi eru vestan við Húsatóptir, ofan við megingjárbarminn. Eitt þeirra er enn nokkuð heillegt. Þrjár ástæður munu hafa verið fyrir staðsetningu byrgjanna, þ.e. lofta þurfti vel um fiskinn, þau voru fjarri flugunni og einnig hæfilega langt frá alfaraleið.

Húsatóttir

Fiskibyrgi.

Hjálmagjá er norðvestast (efst) í túni Húsatópta, grasi gróin í botninn. Haft var eftir gömlu fólki, að það hefði oft séð hamrana upplýsa með dýrlegum ljóshjálmum, sem bárum mjög af lýsiskolum í mannheimi. Sást þá oft huldufólkið úr Hjálmagjá leika listir sínar á skautum í tungsljósinu (þ.e.a.s. í lægð í Húsatóptatúni, sem kallast Dans, og þar mynduðust góð svell í frosthörkum á vetrum), segir í örnefnaskrá.
Sunnan við Dans (sem er norðaustast í túninu) er Kvíalág og Fjósskák sunnan hennar. Næst er Harðhaus. Hann er ósleginn túnpartur um 120 m norður af bænum, fast utan golfvallarins. Þar hraktist aldrei hey. Í óþurrkatíð var Harðhaus sleginn til að fá þurrkt. Fjósaskák og Harðhaus náðu alveg heim að gamla bænum. Harðhaus fékk nafn sitt er bóndi á Tóptum reyndi að slétta hann líkt og aðrar skákir, en fékk þá þrálátt mein í annan fótinn. Lét bóndi þá af túnsléttunni í hólnum og varð hann aldrei sleginn. Talið var að huldufólk hefðist við í hólnum.

Húsatóttir

Tóft á Húsatóttum.

Ísólfsskáli

„- Þegar hann er einu sinni lagstur í suðvestanátt er hætt við því að útsynningurinn verði þrautseigur hérna við ströndina, segir Ísólfur Guðmundsson, bóndi á Ísólfsskála við Grindavík, er blaðamann og ljósmyndara Nýs Helgarblaðs bar þar í hlað á dögunum. Þetta voru orð að sönnu. Heimamenn hafa orðið að fresta smalamennsku í Grindavíkurfjöllum um viku tíma sökum slagveðurs og þoku.
isolfsskali-231Ísólfsskáli er um margt sérstakur. Þrátt fyrir að jörðin sé skammt austan Þórkötlustaðar-hverfis í Grindavík, er yfir slæmfæran fjallveg að fara – Festarfjall – til að komast á milli. Á Ísólfsskála er austasta byggð í landi Grindavíkur og óravegur er í næsta byggt ból austur með hrjóstugri suðurströnd Reykjanesskagans. Ísólfsskáli er eina bújörðin á Reykjanesskaganum vestan Selvogs, þar sem ábúendur hafa framfæri sitt eingöngu af landbúnaði, en þar stunda þau Ísólfur og Herta kona hans sauðfjárbúskap með hálft annað hundrað fjár.
– Við vorum með 300 kinda kvóta. Í dag er þetta ekkert orðið, enda naumt skammtað af hálfu þeirra sem fara með stjórn landbúnaðarmála. Núna höfum við aðeins leyfi fyrir 165 ærgildum og fullnýtum þann kvóta. Maður getur harla illa framfleitt sér af þessu lengur, segir Ísólfur, – en svona er þetta orðið. Bændum eru allar bjargir bannaðar. Það er engu líkara en að við Íslendingar séum að taka upp sama skömmtunarkerfið og sömu miðstýringuna og þeir þarna austantjalds hafa verið að bagsa við að leggja niður.
Isolfur-231– Nei blessaður vertu. Það hefur ekki hvarflað að mér, segir Ísólfur, þegar hann er inntur eftir því hvort honum hafi aldrei komið til hugar í kreppudansi sauðfjárræktar-innar að reyna fyrir sér í loðdýrarækt. – Enda hefur það reynst óðs manns æði fyrir flesta að leggja út í þessar nýju búgreinar.
Á sínum tíma átti minnkurinn að leysa allan vanda íslensks landbúnaðar. Síðan varð lausnarorðið refaræktin, þá kom kanínuræktin og fiskeldið og nú hafa snillingarnir fundið upp að við eigum að lifa af skógrækt, segir Ísólfur og er auðheyrilega ekki par hrifinn.
– Svo er reynt að telja manni trú um það að skógræktin geti blessast vegna þess að einu sinni hafi landið verið skógi vaxið milli fjalls og fjöru. Þessi vitleysa tekur vart tali. Heldurðu að við fyndum ekk rætur af trjám ef svo hefur verið. Það sem menn eru að tala um að hafi verið skógur, hefur vart verið annað en venjulegt kjarr, segir Ísólfur.
– Eftir skrifum DV að dæma er það eiginlega orðin þjóðarskömm að standa í þessu hokri. Nei, við sauðfjárbændurnir eigum ekki upp á pall í samfélaginu í dag, svo mikið er víst.
Gudmundur - 231Nei, ég lét ekki ginnast. Það var einhver sérfræðingurinn sem ráðlagði mér að taka helminginn af fjárhúsunum og setja þar upp refabú. Ég væri svo vel settur hérna, skammt frá Grindavík þar sem nægt fóður fellur til frá fiskvinnslunni. Ég bað hann bara að átta sig á einu sem honum yfirsást. Yfir fjallið og til Grindavíkur, en nú eru hér hvorki hross né nautgripir. Það er því af sem áður var.
En hvað með uppblásturinn og landeyðinguna, skýtur blaðamaður inní.
– Það er ekki nóg að friða landið – það grær ekki upp sjálfkrafa. Ef ekkert er borið á sprettur ekkert. Þetta þekkjum við bændur fullvel. Ef ekki er borið á garða og bletti fer allt í órækt. Þeir hjá Landgræðslunni tala sýknt og heilagt um það að friða og friða og að girða fyrir lausagöngu búfjár.
– Það er nú ein plágan til, segir Ísólfur. – Menn eru að skrattast þetta hér um skagann og aðallega akandi vegleysur. För og skorningar eru upp um allt. Það segir sig sjálft að það er engin hollusta fólgin í því fyrir landið að um það sé ekið í mars, apríl og maí þegar gróður er hvað viðkvæmastur.
– Svo er verið að tala um ofbeit, meðan bæjarbúum þykir ekkert sjálfsagðara en andskotast eins og þeim sýnist út og upp um allt. Þegar maður minnist á þetta við þessa menn er viðkvæðið einatt: þú átt ekkert meira í landinu en við helvítið þitt.
Þegar blaðamaður beinir talinu að uppblæstri á Reykjanesskaga og spyr eins og álfur út úr hól hvort ekki sé ástæða til að koma alfarið í veg fyrir lausagöngu búfjár á skaganum, hleypur Ísólfi fyrst verulega kapp í kinn.
– Það er ekki meiri ofbeit hér en víða annarsstaðar. Ef sauðféð er of margt, eins og alltaf er verið að tala um, þá þarf að fækka því til jafns allsstaðar á landinu. Menn eru látnir hokra við búskap víða við miklu verri skilyrði en hér, þar sem allt verður að leggja niður.
Í dag er svo komið að það er eiginlega ekkert orðið eftir af skepnum á Reykjanesskaganum. Það eru eitthvað um tólf hundruð kindur á öllum Reykjanesskaganum. Áður fyrr var sauðfé hér milli tuttugu og þrjátíu þúsund og það gekk úti árið um kring.
Ég minnist þess þegar ég var stráklingur, þá gengu í fjallinu hér fyrir ofan um eitt hundrað hross. Á öllum kotum var hið minnsta einn hestur og ein til tvær sveitarfélaga á Suðurnesjum og íslenskir aðalverktar hafa verið að dreifa á landið lítilsháttar áburði og sá í það.

Ég veit ekki betur en að austur við Strandakirkju hafi verið landgræðslugirðing í ein 60 ár. Ef eitthvað er, þá er ástand gróðurs innan þessarar girðingar verra núna en þegar var girt, enda hefur ekkert frekar verið að gert eftir að girðingin var sett upp. Uppblásturinn og landeyðingin hér stafar ekki af ofbeit. Þar er við veðráttuna að sakast. Það sjáum við skýrast þegar gerir miðsvetrarhláku. Þegar svörðurinn er frosinn og þurr og það gerir asahláku með vindbeljanda er, ekki að sökum að spyrja. Vatnselgurinn og sjávarseltan vinna þá auðveldlega á öllum gróðri. Það nægir bara að líta á suðurhlíðar Reykjanesfjallanna. Þau eru gróðurvana af þessum sökum. Svo mikið er víst að þar er ekki við sauðkindina eina að sakast, segir Ísólfur.
– Það er ekki ábætandi þegar menn eru akandi hér upp um fjöll of firnindi á torfærubílum og fjórhjólum, segir húsfrúin Herta, sem hefur ekki blandað sér til þessa í umræðurnar, enda verið önnum kafin við að taka til úr búri bakkelsi, heimabakaðar flatkökur og annað góðgæti, eins og góðra búkvenna er gjarnan siður er gesti ber að garði. þessara jarðvöðla og fá birt í blöðunum.
En ábúendurnir á Ísólfsskála hafa orðið varir við annan og öllu óhuggulegri átroðning af hálfu þéttbýlisbúa.
– Við búum ekki afskekktara en það að hér koma menn og skjóta á allt sem hreyfist, segir Herta – og það dugar ekki til. Það hefur komið fyrir að skotið hefur verið á útihúsin og bæjarhúsið.
– Þannig að þið hafið verið höfð að skotspæni í eiginlegri merkingu þess orðs?
– Já, það má segja það, segir Herta og bætir því við að eitt sumarið hafi lögreglan gert upptækar 18 byssur af skotveiðimönnum í landi Ísólfsskála.
– Öll meðferð skotvopna er óheimil hér við suðurströndina, frá Reykjanesi og allt austur að Ölfusá. Landeigendur á svæðinu tóku sig saman og bönnuðu alla skotveiði í landi þeirra. Það virðist þó koma fyrir lítið. Grimmdin er slík að fýllinn fær ekki einu sinni að vera í friði þegar hann er skríða á hreiðrin í fjallinu hér fyrir ofan, segir ísólfur, er getur trútt um talað enda alvanur meðferð skotvopna eftir að hafa verið grenjaskytta um áraraðir.
– Ég er búinn að vera viðloðandi þetta síðan ég var sextán eða sautján ára, segir Ísólfur um grenjaleitina.
– Það hafa verið mikil áraskipti í þessu. Sum árin vinnast mörg dýr, en færri önnur árin. í fyrra gekk grenjaskyttiríið vel. Þá náði ég 53 dýrum, en í vor hefur þetta gengið fremur illa.

Það er töluvert um búref hérna á skaganum sem slapp út úr refabúinu í Krýsuvík á sínum tíma og það er alltaf talsvert um að maður nái búrtófu. Annars er útilokað að segja til um það hvaðan dýrin eru upprunnin. Ég veit dæmi þess að tófa sem slapp úr búinu í Krýsuvík hafi náðst austur undir Lómagnúp. Það er ekki nein smávegalengd. Hún er fljót í förum og fer hratt yfir. Hún fer þetta tuttugu og fimm til þrjátíu kílómetra í leit að æti. Eitt er víst að refur bítur aldrei nálægt greninu.
Ísólfur segist vita um ein 200 greni á Reykjanesskaga. Honum telst svo til að það þurfi að fara yfir 300 kílómetra til að komast á milli þeirra allra. – Sum grenin hef ég fundið sjálfur en vitneskju um önnur hef ég eftir tilvísun mér eldri manna.
– En er skolli eins skæður og af er látið?
– Já, ef um bitdýr er að ræða. Ég hef fundið allt að tuttugu til þrjátíu lambshausa við greni. Við höfum þó náð að leggja að velli skæðustu bitdýrin. Eftir að rifflarnir komu til sögunnar varar refurinn sig ekki á því að það er hægt að skjóta hann af lengra færi en áður. Það getur verið bölvað slark í grenjaleitum. Eg hef legið allt upp í fjóra sólarhringa úti. Skolli er bæði var um sig og getur verið ansi skæður.
Mannfólkið getur lært margt af því að fylgjast með rebba, reyndar eins og fleiri skepnum. Það er gaman að sjá hvað yrðlingarnir eru eftirtektarsamir og vel uppaldir. Ungviðið er ekki látið komast upp með neitt múður eins og hjá okkur mannskepnunni, segir Ísólfur sem ber auðheyrilega engan kala til skolla. Ísólfur segir refinn vera afburða lyktnæman og heyra vel.
– En hann sér ekki vel. Það er orðið sáralítíð um bitdýr hérna á skaganum. Þessi refur sem er hér er aðallega í fuglinum, fýlnum og- mófuglinum og hann er ansi skæður. Núorðið sér maður varla mófugl. Það sagði mér grenjaskytta að hann hefði eitt sinn náð ref á Mosfellsheiði sem var með átján þrastarunga í kjaftinum. Refurinn er eins og ryksuga þegar því er að skipta.
– Hvað skyldi Ísólfi finnast um þá skoðun að ástæða sé til að friða refinn?.
– Ef við friðum tófuna verður hún óviðráðanleg eins og minkurinn. Það er tómur kjánaskapur að halda þessu fram eða þá að um er að ræða fólk sem hefur engra hagsmuna að gæta við að stemma stigu við útbreiðslu rebba. Ef menn vilja friða tófuna þá eru menn um leið að kveða upp dauðadóm yfir öllu fuglalífi. Það er reyndar mikið verra að eiga við minkinn en tófuna. Minkurinn getur leynst í hrauninu. Það er eins og silunganet, hann smýgur allsstaðar í gegn.
Það er minkur hérna meðfram öllum fjörum. Ég hef náð þetta einu og einu skotti. Hann hefur drepið hjá mér lömb heima við fjárhús. Þannig var að ég setti tvö þriggja vikna lömb út í sól og blíðu. Seinna um daginn tek ég eftir því að annað lambið er búið að liggja hreyfingarlaust nokkra stund. Þegar ég athuga málið er það steindautt. Daginn eftir fór á sömu leið – hitt lambið liggur dautt þegar að var gáð. Herta fláði bæði lömbin og þá kom það sanna í ljós. Innanverður lærvöðvinn á þeim báðum var eins og gatasigti. Þar hafði minkurinn bitið og sogið úr lömbunum allt blóð og þrótt.
Á mæli Hertu má greina að hún er af erlendu bergi brotinn. Hún er nánar tiltekið þýsk. Við spyrjum Hertu um ástæður þess að hún er komin hingað upp.
– Ég kom til Íslands árið 1949, þá um tvítugt. Ég kom hingað upp ásamr átta samlöndum mínum með togaranum Maí frá Hafnarfirði sem hafði verið í sölutúr til Cuxhaven, segir Herta, en þetta sama ár réðu Búnaðarsamtökin nokkur hundruð Þjóðverja til vinnumesku vítt og breitt um sveitir.
– Ég er fædd í Pommern sem er austur undir pólsku landamærunum. Eftir stríðið var enga atvinnu að fá í Þýskalandi. Rauði herinn brenndi æskuheimili mitt og fjölskyldan hraktist til vesturhluta Þýskalands. Einn bróðir minn féll á Krímskaga, annar var í fangelsi á Krít eftir stríð og það sem eftir var af fjölskyldunni var á tvist og bast. Ég hafði því vart í nein hús að venda á þessum árum.
Vissulega voru það mikil viðbrigði að koma hingað, en okkur var vel tekið. Það gerði gæfumuninn, segir Herta. Hún segist hafa kunnað ljómandi vel við sig hér á landi. Fljótlega eftir að hún kom til landsins réði hún sig í vinnumennsku á Ísólfsskála hjá Guðmundi föður Ísólfs.
– Ég sé ekki eftir neinu. Ég held að ég gæti ekki sest aftur að í Þýskalandi eftir þetta langan tíma. Þar er allt orðið breytt frá því sem áður var þegar ég bjó þar. Þeir tímar koma reyndar stundum að maður hugsar heim til æskustöðvanna með ljúfsárum söknuði, en það nær ekkert lengra. Hér á ég heima. Ég hef enga ástæðu til að sýta mitt hlutskipti í lífinu, segir Herta.
– Í fyrra voru liðin fjörutíu ár frá því að við komum hingað upp. Við ætluðum að hittast og halda sameiginlegan gleðskap, en vegna heyanna og rysjótts tíðarfars varð ekkert úr, segir Herta aðspurð hvort Þjóðverjarnir sem komu hingað 1949 og eru enn búsettir hér á landi haldi hópinn.
Ísólfur er fæddur og uppalinn á Ísólfsskála. Hann tók við búi af föður sínum, en þar á undan hafði afi Ísólfs búið á jörðinni eftir að hann fluttist frá Vígdísarvöllum.
– Afi var þrígiftur og átti aðeins þrjátíu og þrjú börn, þar af eitt á milli kvenna. Hann var heljarmenni að burðum. Hann var mikil hreindýraskytta og hann lá einnig á grenjum þegar svo bar við, segir Ísólfur. Þar á meðal segir Ísólfur eftirfarandi hreystisögu af afa sínum, sem honum hefur auðheyrilega fundist mikið til koma.
– Sjáðu þennan stein sem liggur hérna á flötinni fyrir utan stofugluggann. Hann er ekki nein smásmíði og það er ekki fyrir hvern sem er að taka hann upp. Ég er ekki að segja að þú sért neinn amlóði, en þennan stein tvíhenti gamli maðurinn á loft kominn vel á efri ár.
Tildrög þessa voru þau að pabbi sem var níu ára, að mig minnir, var að leika sér upp við rétt hérna undir fellinu sem verið var að hlaða. Afi var með kindur í réttinni sem hann kannaðist ekki við markið á. Hann biður pabba að gæta kindanna meðan hann skjótist heim í bæ til að sækja markabókina. Pabbi var eitthvað að rjátla við grjót undir hamraveggnum og allt í einu veit hann ekki meira af sér. Það hafði hrunið fylla ofan á hann. Piltungur sem var þarna líka, hleypur þá heim í bæ og hrópar: „Hann Gvendur er dauður“. Afi rauk í snarhasti upp eftir og tínir ofan af pabba grjótið og þar á meðal þennan stein.
Pabbi fór illa. Höfuðleðrið rifnaði og hann tvíbrotnaði á öðrum handlegg. Þegar afi er að bera drenginn sinn inn um bæjardyrnar rekst hann í dyrastafinn og viðþað rankar lagsi við og öskrar: „Ætlarðu að drepa mig?“, en þá hafði brotið gengið út í vöðvann og strákur komist til meðvitundar út af sáraukanum.
Á þessum tíma var næsti læknir í Keflavík. Afi reið í hendingskasti þangað til að sækja Þorgrím Þórðarson sem þá var þar þjónandi læknir. Þorgrímur saumaði ein 18 spor í höfuðið á pabba og spelkaði handlegginn. Eftir þriggja vikna tvísýna legu var pabbi kominn algóður á fætur sem má heita hreinasta kraftaverk. Pabbi sagði mér síðar að honum hefði ekki farið að batna fyrr en eftir að sér hafi fundist að til hans kæmi kona sem bæði hann að koma með sér, sem hann neitaði.
Efir þessa sögu Ísólfs berst talið að dulrænum fyrirbærum og dulargáfum.
– Eg get ekki neitað því, segir ísólfur þegar hann er inntur eftir því hvort hann verði var við svipi og dularfull fyrirbrigði í fámenninu. – Það er ekki svo að skilja að hér sé eitthvað illt á kreiki, bætir hann við. Herta segist aftur á móti aldrei verða vör við neitt þótt hún gjarnan vildi.
– Ég skal segja þér eina sanna sögu. Er ég var 14 ára var ég sendur einhvern tíma í maí austur á Selatanga að sækja þangað dauða rollu sem hafði flætt. Eg fór ríðandi flóðfarið og er ég var kominn austur ríð ég þar fram á lík í flæðarmálinu, sem síðar reyndist vera af sjómanni af togara sem fórst við Eyrarbakka í marsmánuði.
Ég varð skelkaður mjög en tek þó rolluna og held heim. Ég segi pabba strax frá því að ég hafi fundið dauðann mann. „Þvæla er þetta í þér drengur“, segir pabbi og vill í engu sinna málinu. Eftir miklar fortölur, fellst hann þó á að fara út að Selatöngum, en segist ætla að hlusta á kvöldfréttirnar í útvarpinu fyrst. Þegar hann ætlar að kveikja á útvarpinu, snýst takkinn laus. Eftir að hann hafði fullvissað sig um það að útvarpið væri bilað og hann fengi ekkert hljóð út tækinu, afréð hann að skreppa með mér austur eftir. Þegar þangað var komið var farið að flæða undir líkið. Við bárum það upp úr flæðarmálinu og bjuggum um það. Líkið var síðan sótt daginn eftir og flutt til Grindavíkur.
Þegar heim var komið um kvöldið fer pabbi aftur að fikta í útvarpinu og það er alveg sama, engu tauti var við það komandi. En viti menn næsta dag var allt í lagi með útvarpið. Hefðum við farið að hlusta á fréttirnar hefði flætt undir líkið og það tekið út, segir Ísólfur.
– Það hefur aldrei hvarflað að mér að bregða búi. Sagt er að þangað sæki klárinn sem hann er kvaldastur. Ætli það eigi ekki við um okkur mennina líka. Við hímum flest þar sem við erum niðurkomin mestan part af okkar hundsævi, segir Ísólfur.
Hvað skyldi nú verða um Ísólfsskála í framtíðinni þegar þau ísólfur og Herta verða að láta af búskap fyrir aldurs sakir? Þau segjast engar áhyggjur hafa af jörðinni. Öllu verra sé að segja til um það hvort hún muni haldast áfram í byggð.
– Haft hefur verið eftir Einari Benediktssyni, stórskáldi, er átti Vatnsenda og fleiri stórbýli, að allar þær jarðir sem liggja nærri þéttbýli verða fyrr eða síðar gullnáma. En þegar Ísólfsskáli hækkar í verði verðum við náttúrulega margdauð, segir Ísólfur. – rk“

Heimild:
Þjóðvilinn – Nýtt Helgarblað, 20. júlí 1990, bls. 14-15.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – uppdráttur ÓSÁ.

Grindavík

Jökull Jakobsson gengur með Tómasi Þorvaldssyni forstjóra um Járngerðarstaðahverfi í Grindavík. Þetta er fjórði þáttur, frá 11. mars 1973.

Tómas Þorvaldsson

Tómas Þorvaldsson.

„Handan við stíginn og hér rétt við endann á þessum forna grjótgarði, sem við minntumst á áðan, rísa fleiri hús. Ekki veit ég hvort þarna hafi búið hagyrðingar eða skáld, Tómas“.
Jú, það vill svo til að í a.m.k. einu þeirra hefur búið hagyrðingur. Ég kem að því á eftir. Húsið hér næst stendur sjó heitir Akur. Þegar ég man fyrst eftir mér bjó hér Jón Sveinsson og Margrét. Þau að ég held hafi byggt þetta hús. Þau bjuggu hér með tveimur sonum sínum. Þau byggðu síðan annað hús hér ofar í byggðalaginu. Ung hjón keyptu síðan húsið af þeim. Þau hétu Kristján Þorvaldsson og Krístin Guðmundsdóttir. Þau byrjuðu sinn búskap þarna. Hann var duglegur formaður og þau voru dugleg að bjarga sér. Svo skeði sá atburður að þau dóu bæði á sóttarsæng í sömu viku frá þremur ungum börnum. Þeim var komið fyrir hjá skyldmennum hér í byggðarlaginu, sem komu þeim í foreldrastað. Þetta er nú sagan um þetta hús.
HamraborgSíðan er þetta hús selt og þá Vilmundi Stefánssyni og Maren Jónsdóttur frá Sjólyst. Þau búa þar enn, eru orðin fullorðið fólk. Ég kom þarna inn síðast í morgun og drakk kaffi með Vilmundi, en Margrét er á spítala sem stendur. Vilmundur var eini maðurinn sem bjargaðist af skipinu af rúmsjó er ég gat um í upphafi þessa þáttar að það var hann sem var sá eini sem lifði um borð í marrandi flakinu af Óskabirninum sem Guðmundur heitinn Erlingsson var með og ég minntist á fyrr.“
„Hér eru fleiri hús?“
„Þessi tvö hús vinstra megin við okkur heita Steinar, hér nær. Það var í allt öðru formi þegar ég man fyrst eftir mér, timburhús. Þá bjuggu hér tvenn hjón. Yngri hjónin voru Guðmundur Tómasson og Steinunn Guðmundsdóttir, en Guðmundur var hagyrðingur. Þau eru einu hjónin sem ennþá lifa bæði frá þeim tíma sem við erum að rekja söguna. Í öðrum dæmum eru annað hvort annað farið eða bæði. Þau eru að byggja sér nýtt hús ofar í byggðinni. Þau eiga hér tvo syni og dætur. Annar er Tómas og gerir við öll þessi flóknu tæki sem eru í fiskiskipaflotanum.
BorgargarðurSeinasta húsið sem við komum að er Garðar. Þar stóð lítið hús upp úr 1920, baðstofubygging. Þar bjuggu þá Ívar Magnússon og Guðný. Guðný var frá Stöðvarfirði en Ívar var hér fæddur og uppalinn. Hjá þeim var eldri maður sem Hákon hét og ég man að mér fannst það afar einkennilegt að hann gæti heitið Hákon því hann var með allra lægstu mönnum, en hann var knár og það sannaðist á honum að maður gat verið knár þótt hann væri smár. Þeirra börn búa hér og koma við sögu atvinnulífsins. Síðan var húsið rifið niður og breytt í það form sem það er í dag. Síðan hefur búið í því færeyingur sem heitir Niels og hann hefur ekki verið eftirbátur Grindvíkinga að leggja sitt í þjóðarbúið.“
Bræðraborg„Þá höfum við gengið hér um gamla hverfið í Grindavík og lýst því sem fyrir augu bar. Nú stöndum við upp á hól nálægt sjávarströndinni og við blasa ný hverfi. Kanntu deili á þeim?“
„Í þessum hús býr yfirleitt ungt fólk og mikið af aðkomufólki. Þessi stóra breiða er afrakstur og árangur þrautseigju þess fólks sem við höfum verið að segja frá í þáttunum.“
„Hvernig var bæjarbragurinn þegar þú varst að alast upp? Getur þú lýst honum?“
„Ég skal reyna það. Við höfum nú í seinustu þáttum gengið um hlaðið hjá fólki sem bjó hér í Járngerðarstaðahverfi á þriðja áratug þessara aldar. Þetta voru svo um það bil 30 hús sem voru þá í byggð. Í þessum húsum voru þrjár kynslóðir, þ.e. afinn og amman, unga fólkið í blóma lífsins á sínum manndómsárum og síðan börnin. Þetta fólk bjó í sambýli. Lífsreynsla þeirra eldri fluttist til þeirra yngri svona mann fram af manni og það var meginuppistaðan í kennslu og lífsskóla þessa fólks að öðlast handleiðslu þessa gamla fólks sem er löngu horfið undir græna torfu og velflest af því fólki, þ.e.a.s. unga fólkið, er líka horfið af sjónarsviðinu. Guðmundur og Steinunn á Steinum eru einu hjónin sem eftir eru.
Eftir sitjum Hliðvið fólkið á mínum aldri og við eigum þessu fólki mikið að þakka því Grindavík hefur bæði verið gjöful og tekið mikið. Járngerðar-staðavíkin hefur verið erfið lending og hér hefur þurft að þreyja þorrann og góuna hvernig sem viðraði og hvernig sem gekk að ná afla úr sjó. Á mörgum þessum heimilum hagaði þannig til að bæði var landbúnaður og sjávarútvegur jöfnum höndum. Daglegt líf fólksins, sem bæði dró björg úr sjó og erjaði landið, og hafði þannig sitt viðurværi, segja má að saga fólksins sé svipuð á þessum bæjum, en þar sem ekki var landbúnaður var aðeins frábrugðið, en það sem viðvék sjó var mjög svipuð saga allra.
Ég ætla að draga svolitla mynd frá Jángerðarstöðum þar sem ég fæddist og ólst upp og foreldrar mínir, afi og amma, langafi og langamma. Það myndi vera nokkur spegilmynd af daglegu lífi fólksins. Byrjum á árinu. Þegar jólagleðin var um garð gengin og alvara lífsins tók við á ný tók hélt áfram undirbúningur að vetrarvertíð. Það var hugað að skipum, farmi, árum, seglum, belgjum, lóðum og netum og öllu sem að sjónum laut og sjósók, allt var að laga og lagfæra og nytja allt sem nothæft var því engu mátti kasta.

Grindavík

Lífið snerist mikið um þetta samfara því sem sinna þurfti búnfénaði og þá var a.m.k. sá búfénaður sem var látinn út á daginn, þ.e. sauðféð – það var margt sauðfé þá. Það var rekið í fjöruna og síðar var það rekið upp til heiða þegar hækkaði í sjó og staðið yfir því þar þegar hægt vað beita því þar vegna snjóa og klaka. Síðan var það tekið í hús þegar fór að rökkva. Kveikt var á olíulömpum og unnið að hnýtningu og gerð alls kyns veiðifæra. Vertíðin er talin byrja á kyndilmessu, þ.e. 2. febrúar. Hver varð að vera kominn við sinn keip á kyndilmessu. Menn, venjulega sömu mennirnir, úr sveitum á Suðurlandsundirlendi komu til að róa héðan og svo náin tengsl og vinskapur skapaðist milli heimila að sá vinskapur stendur enn það í dag.
BáturSvo eftir að vertíð hófst snerist daglega lífið mest um sjósókn og að komast á sjó þegar fært var en víkin er brimasöm og dögum saman var ekki hægt að komast á sjó. En þessir menn voru duglegir og sóttu sjóinn fast og þeir fóru þegar fært var. Sjórinn tók til sín og sagnir eru um það margir hafa farist hér á Járngerðarstaðarsundi. Kvenfólkið sinnti aftur fénaði og öllum verkum er laut að landi, en þegar landlegur voru langar hjálpuðu piltanir til við þessi störf.
Afla var skipt í fjöru á þessum tíma og hver gerði að sínum hlut, átti lítinn kofa og saltaði þar sinn afla. Aflinn var síðan lagður inn að vorinu til ýmissa aðila sem keyptu fullverkaðan eða fullstaðinn saltfisk. Síðan breyttist þetta fyrir 1930 og þá var farið að vinna saman að þessu og fletja og salta allan afla bátsins saman og síðan skipt úr flöttum og söltuðum fiski í vertíðarlok. Vertíðarlok voru 11. mai og aldrei kvikað frá því. Þá var kátt á hjalla líkt og réttardagurinn upp til sveita.
BátrSíðan tók við alvara lifsins enn á ný. Þá urðum við að fara að snúa okkur að sinna verkum á túnum, bera á, laga girðingar og allt er laut að því að rækta jörðina og búa hana undir sumarið. Síðan að taka fiskinn og vaska hann og ganga frá honum til útflutnings eða út á fiskreitina til að byrja með og þessir hlutir stóðu fram til jónsmessu en um jónsmessu var venjulega búið að ljúka þessum þætti.
Þá kom sumarið og þá byrjaði sláttur fljótlega og breiða fisk þegar þerrir var. Byrjað var venjulega á því á morgnana að breiða fiskinn og síðan hraðað sér heim til að „breyja“ þegar tekið var sem kallað var. þ.e. þegar döggin var þornuð á túnunum. Allir höfðu nóg að gera. Þegar kvöldaði var fiskurinn tekinn saman og síðan heyið. Allir höfðu nóg að gera. Þetta var langur vinnudagur, frá kl. 6 á morgnana til kl. 10 á kvöldin. Allt átti sér þó ljósa daga innan um. Til dæmis var geysilega mikil tilhlökkun hjá okkur til útiskemmtunar sem haldin var hér árlega hjá Kvenfélaginu í Svartsengi. Okkur fannst ákaflega notarlegt að geta verið búnir að ljúka sem mestu af þessum störfum þegar skemmtunin fór fram því þá nutum við hennar betur.
GrindavíkÁ fjórða áratugum fór fólk út á land í kaupavinnu. Þegar fór að hausta voru stopulir haustróðrar en gátu gefið nokkuð í aðra hönd. Þá hófst líka undirbúningur undir vetrarvertíðina. Við stóðum alla daga við að riða eða gera við notuð net. Þetta var höfuðvinna okkar sérstaklega á kvöldin. Við vorum látin læra þetta og allir tóku þátt í þessu þegar ekki var verið að sinna búpeningi.
Um haustið var öllu fé smalað heim, þá var sláturtíð, í seinni hluta septembermánaðar og mörg af þessum heimilum hafði nóg til matar yfir veturinn af því fé sem það átti. Ekki var mikið um atvinnu nema undirbúa veturinn. Þrautseigja þessa fólks var með fádæmum og ég myndi segja að þessar þrjár kynslóðir sem ég hef nefnt hafa fyrst og fremst valdið hér aldarhvörfum með því að hopa ekki af hólminum.
HópiðVið vorum að mörgu leyti verulega á eftir hér í Grindavík. Við vorum með áraskip lengur en víðast annars staðar og við höfðum trillubáta mun lengur en í öðrum verstöðum enda var hér algert hafnleysi. Verulegur fólksflótti varð og byggð lagðist niður í Staðarhverfi.
Fólki fækkaði um heilan tug. Það sem breytir kannski fyrst og fremst hlutunum var þegar ráðist var í að að grafa inn í Hópið með haka og skóflu í gegnum eyðið sem aðskilur það frá Járngerðarstaðavíkinni. Grindvíkurbændur höfðu þó áður grafið inn lænu í gegnum rifið til að komast inn á Hópið og liggja þar inni.

Járngerðarstaðir

Ósinn heitir Barnaós. Ósinn heitir eftir því að maður sem hafði farið með börn sín til þangskurðar hafi flætt þarna út á og maðurinn bjargaðist en börnin drukknuðu í ósnum. Þegar grafið var inn í ósinn 1939 breytti það öllu. Á stríðsárunum lagðist þó útgerð niður en eftir stríðið óx þetta hröðum skrefum. Samstarfsmaður minn um langt árabil, Sigurður Þorleifsson frá Neðri-Grund, var hér hafnarstjóri og á sinn þátt í hvernig Grindavíkurhöfn er í dag. Árni Magnússon í Tungu var með mér í stjórn björgunarsveitarinnar og unnum við lengi saman á þeim vettvangi.
Ég myndi vilja endurtaka það að þessu fólki eigum við mikið upp að unna og við vonum það að unga kynslóðin sem tekur við sem þetta fólk hefur komið hér á fót, byggt upp, fyrst af vanefnum en mikilli framsýni og dugnaði og þrautseigju, haldi áfram á sömu braut, enda get ég ekki séð annað en að svo sé.
EJárngerðarstaðirins og búið er að koma fram höfum við fraum um garð hjá öllu þessu fólki, nefnt nöfn þess, sagt frá dugnaði, áhuga og kjarki þess og líka dregið fram ýmsar spaugilegar hliðar lífsins. Einmitt þessir menn lyftu öðrum yfir hversdagsleikann og umkomuleysið sem gjarnan settist að fólki sem bjó svona afskekkt – með ekkert rafmagn, engin lífsþægindi og þessa hörðu lífsbaráttu.
Milli 1920 og 1930, sem þetta kemur nú mest við, fór það ekki framhjá þjóðinni að hér í Grindavík bjó dugmikið fólks. Ég minnist eins atviks. Þegar Fylle var hér og átti að sinna strandgæslunni var sagt að þeir lægju oft í landi, einkum í Reykjavík. Einhverju sinni skoruðu þeir á Íslendinga í kappróður. Þá var vandi í efnum. Einhverjir mundu þá eftir dugmiklum mönnum hér suður með sjó sem voru aldir upp með árahlunninn í hendinni. Leitað var á náðir Grindvíkinga í þessum efnum og það var úr að nokkrir fóru til að keppa við Fylledáta. Þeir sem fóru í þennan fræga kappóður var Eiríkur Tómasson frá Járngerðarstöðum, formaður og móðurbróðir minn, Jón Sigurðsson, líka formaður, bjó á Sólheimum með konu sinni Guðríði sem var hér lengi ljósmóðir, Kristinn Jónsson frá Hraunkoti í Þórkötlustaðahverfi, bjó lengst af á Brekku í Þórkötlustaðahverfi, giftur Guðríði, og Sigurgeir Guðjónsson frá Hliði og Benóný Benediktsson frá Þórkötlustöðum, en þeir feðgar, sem voru þrír voru allir þrjár álnir að stærð. Þessir ungu menn fóru til Reykjavíkur og kepptu við Fylledáta. Þeir fengu grásleppukænu til að keppa á móti rennilegu fleyi Fylledáta. En þeir báru þó sigur úr bítum á sinni grásleppukænu.“
„Þakka þér fyrir Tómas. Eftir þessa göngu er þetta litla þorp ekki eins umkomulaust og áður, með Þorbjörn hið efra og brimgarðinn í neðra“.


Heimild:
-Jökull Jakobsson gengur með Tómasi Þorvaldssyni forstjóra um Járngerðarstaðahverfi í Grindavík. Frá 11.mars 1973. www.ruv.is – rás I – Gatan mín…

Grindavík

Grindavík.

Brandur

Guðmundur Guðmundsson, fyrrum bóndi á Ísólfsskála, gat í örnefnalýsingu sinni um Skollanef í Slögu, austan Bólkvosa. Í þeim eru Stórusteinar. Sonur hans, Ísólfur, sagði og frá Skollahrauni sunnan þess sem og Kistu. Hraunið er hluti af Höfðahrauni, sem átti uppruna í Höfða og Moshólum á 12. öld. Aðrir hlutar þess eru Leggjarbrjótshraun og Katlahraun.

Skollanef

Í Skollahrauni eru hlaðnar refagildur, sem ekki er getið í fornleifaskráningu fyrir fyrirhugaðan Suðurstrandarveg um hraunasvæðin, líkt og svo margt annað.
Ætlunin var að ganga um hraunið millum nefnsins og Hraunsness og skoða hvort þar kynnu að leynast fleiri áður óþekktar mannvistarleifar.
Mosinn var frosinn og hraunin því auðvel yfirferðar. Skammt austan við Skollanef eru tvær vörður á brunahæð og neðan þess er klettur í hrauninu, nefndur Kista.
Í örnefnalýsingu Guðmundar Guðmundssonar frá Skála segir m.a.: „Rétt innan við bæinn skagar Kistaklapparnef fram úr Slögunni, sem heitir Skollanef. Niður af henni, austur af túni, út í hrauni, er klettur, sem sker sig úr að lögun og heitir Kista.“
Þegar Ísólfur Guðmundsson, bóndi á Skála, var spurður um svæðið svaraði hann: „Skollahraun er suður af því; þar var og er enn greni. En er vitað, hvers vegna Slaga er nefnd svo? Sv.: Nei.“
Í örnefnalýsingu
Lofts Jónssonar fyrir Ísólfsskála segir: „Bjallinn er klettastallur og nær frá Hjálmarsbjalla og inn í Ból sem er undir fellinu Slögu vestast. Hæðarbunga vestan undir Slögu heitir Slögubringur. Stór klettur er þar sem Hattur heitir en er skráður á kort Grettistak.
Austan við Bólið eru smálautir sem heita Bólkvosir. Lengra austur með Slögu að sunnan, ofan við skriður, er bergstallur sem heitir Hrafnshreiður. Stórusteinar er stórgrýti sem fallið hefur hæst úr Slögu. Þar innan við er Langakvos. Upp af Löngukvos er móklettur sem kallaður er Móklettur. Fyrir austan Löngukvos er Skollanef og er nokkurs konar öxl eða klapparnef fram úr Slögu.

Innri-Stórusteinar

Skollahraun er þar suður af. Í hrauninu austan við túnið er sérstæður klettur sem heitir Kista. Hvammur austan Skollanefs með stórum steinum er Innri-Stórusteinar. Austan og uppi á Slögu fyrir norðan Innri-Stórusteina eru sjö grastorfur sem heita Sláttutorfur.
Skálamælifell er austur af Slögu og skarðið þar á milli heitir Mælifellsskarð. Þar eru tvö vatnsstæði sem sjaldan þorna. Grasbrekkur austan Skálamælifells heita Fyrstabrekka, Önnurbrekka og Þriðjabrekka. Og síðan tekur við Bjallinn í Klifinu. Við endann á Bjallanum í Klifinu að austan er gjá og nær hún langleiðina suður á Vondanef.“

Brandur

Vörðurnar Brandur og Bergur.

Í Skollahrauni hlóðu Bergur frá Skála og vinnumaður á bænum sitt hvora vörðuna um miðja 20. öld þegar þeir sátu þar yfir fé. Hafa vörðurnar síðan verið nefndar eftir hleðslumönnunum og nefndar Brandur (sú nyrðri) og Bergur. Í fornleifaskráningu fyrir svæðið eru vörðurnar taldar til fornleifa, sem er í sjálfu sér allt í lagi því þá ættu að verða minni líkur á að þær verði eyðilagðar – eða hvað?
Stórusteinar í Bólkvos voru flestir teknir þegar malarnám var stundað þar og notaðir í uppfyllingu í bryggjur í Járngerðarstaðarhverfi. Slaga hefur hins vegar gefið af sér nýja Stórusteina niður í Bólkvos, sem eflaust eiga eftir að verða fleiri er fram líða stundir.
Í Skollahrauni er fjölbreytt hraunalandslag. Hrauntröð liggur niður hraunið neðan við Skollanef.
StórusteinarBeggja vegna hennar eru sléttur. Enn neðar er Hraunsnes með sínum miklu hraundröngum og stórbrotnum jarðmyndunum. Neðarlega vestast í Skollahrauni má sjá leifar af sjávardranga, sem hraunið hefur umlukið á leið þess til sjávar.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsingar fyrir Ísólfsskála.

Hraunasvæðin

Grindavík

Gengið var eftir Staðarbergi frá Mölvík yfir að Staðarmölum. Fremst er Brimketillinn – eða brimkatlarnir því þeir eru fleiri en einn. Á leiðinni, við Bergsenda að austanverðu, er Ræningjasker það er „Tyrkir“ komu að þá er þeir rændu Grindavík 1627 ef marka má munnmæli og þar var eitt hörmulegasta sjóslys við Grindavík þann 4. apríl 1924, í strandi Önnu frá Tofte. Þá fórust fimmtán eða sextán menn, flestir ungir menn úr sömu fjölskyldum frá litlu þorpi í Færeyjum. Þessi færeyski kútter kom upp við Bergsendasker, sem er við austurenda Staðarbergs. Þeir voru síðan jarðsettir í kirkjugarðinum í Reykjavík.

Brimketill

Staðarbergið er einn af fjölmörgum úivistarmöguleikum Grindvíkinga – og gesti þeirra. Bergið er bæði fjölbreytt og tiltölulega auðvelt göngu ef rétt er farið. Á leiðinni voru skoðaðar, auk hinna ýmsu bergumbreytinga, nokkrar hlaðnar refagildrur, sem enn eru óhreyfðar í Bergshrauni. Aðaltilgangurinn var þó að skoða slysstaðinn fyrrnefnda og rifja uppp atburðinn.

Þriðjudaginn 9. september var níundi fundur ársins 2008 haldinn í framkvæmdastjórn Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma. Rekstrarstjóri sagði frá framtaki færeysks manns, Jakob Michael Mikkelsen
84 ára, sem hefur látið útbúa minningarskjöld úr steini með nöfnum 17 samlanda sinna sem fórust á vélbátnum „Önnu frá Tofte” við Íslandsstrendur í apríl árið 1924, þeirra á meðal faðir Jakobs. Skjöldurinn verður afhjúpaður í Hólavallagarði næsta laugardag, þann 13. september.

Á Staðarbergi

Í 12. árgangi Bautasteins var í greininni „Minningarmörk atburða“ eftir Björn Th. Björnsson fjallað um
örlög áhafnarinnar á Önnu frá Tofte sem fórst við Grindavík fyrir 85 árum síðan. Jarðarför skipverjanna fór fram þann 11. apríl 1924 og var þar mikið fjölmenni sem sýndi þá virðingu og hlýhug sem ríkti í garð frænda okkar Færeyinga. Í september á síðasta ári var afhjúpuð minningarplata um áhöfnina og á henni má sjá hversu stórt skarð var höggvið í lítið samfélag á sínum tíma sem minnir okkur á hversu margar fórnir voru færðar á fjarlægum miðum.
Jakob Michael Mikkelsen, sonur eins áhafnarmannanna, hefur sýnt einstaka ræktarsemi og
virðingu í minningu föður síns og skipsfélaga hans og beitti hann sér fyrir gerð minningarplötunnar en
Kirkjugarðar Reykjavíkur gáfu vinnu og efni við uppsetninguna í virðingu við þá sem létust í þessu
hryggilega sjóslysi.

Staðarberg

Í bókinni Minningarmörk í Hólavallagarði, eftir Björn Th. Björnsson, segir m.a. um þennan atburð: „Þess eru dæmi, m.a. í Hólavallagarði, að legsteinn sé ekki aðeins minningarmark um liðinn einstakling, heldur um atburð, oftast vofveiflegan, þar sem margir menn eiga í hlut og hvíla saman undir einu og sama legmarki. Vestast í Hólavallagarði, nálægt Ljósvallagötu, má sjá mikið bjarg, óhöggvið að öðru en letri, sem minnir á raunarlegan stóratburð á þriðja áratugi liðinnar aldar. Í bókinni Minningarmörk í Hólavallagarði segir svo frá: „Þegar menn úr Staðarhverfi vestan Grindavíkur fylgdu fé í fjöru morguninn þess 6. apríl 1924, komu þeir auga á torkennilegt brak; síðan sáu þeir lík fljóta upp og óðu út í að draga það undan sjó. RefagildraSíðdegis fóru fleiri menn ofan á Staðarmalir og gaf þá enn að líta: fjögur lík til viðbótar. Á bátsþóftunum og árunum stóð nafnið „Anna Tofte“, eftir því sem bezt varð lesið, en menn voru þó engu nær. Sumir minntust þess nú, að ljós hefðu sézt ískyggilega
nálægt landi í útsynningnum nóttina áður. Þegar hringt var til Reykjavíkur kom brátt það svar, að hér myndi sennilegast vera um að ræða færeyska fiskikútterinn Önnu frá Tofte á Austurey, sem verið hefði á leið til Reykjavíkur utan af Selvogsbanka. Væri þetta 82 smálesta skip, sem áður var í eigu Péturs J. Thorsteinssonar og hét þá Sléttanes, og að færeyskri venju um margmennið á slíkum skútum hefðu líklega verið allt að 25 mönnum um borð.
Refagildra á StaðarbergiE
nn rak lík, og enn brak. Og enn fréttist það frá Reykjavík, að önnur færeysk skúta, Marsdal, hefði haft samflot með Önnu frá Tofte utan af Banka og stefnt fyrir Reykjanes, en skipstjórinn á Marsdal hefði um kvöldið séð af ljósunum að Anna sigldi allt of austarlega, undan veðrinu, og óttazt að hún næði ekki fyrir nesið. Engin fjarskiptatæki voru þá á slíkum skipum; hver varð að sjá fyrir sér. Enn fengust þær upplýsingar frá útgerðinni í Færeyjum, að 17 menn hefðu verið á Önnu, en til þessa hafði aðeins 7 líkum verið bjargað undan sjó.
Lík færeysku sjómannanna voru flutt heim á Stað og þar búizt til að jarða þau, svo sem fyrrum hafði verið siður um sjórekna menn. En þá komu þau orð frá sendiherra Dana í Reykjavík, að flytja ætti líkin þangað og ef til vill áfram til Færeyja. Voru nú sendir af stað bílar þessa torfæru leið að sækja líkin. Var jarðarförin ákveðin föstudaginn 11. apríl og skyldi jarðað hér heima.

Færeyskar

Var allnokkuð skrifað í blöðin um þetta hryggilega slys og skorað á bæjarbúa að fjölmenna við jarðarförina til þess að votta færeysku þjóðinni virðingu og samúð. „Hér eru lagðir í íslenzkan kirkjugarð erlendir menn, en þó frændur vorir, synir smáþjóðar, eins og við erum, norrænir menn, sprottnir af sama stofni og við: hrjóstrugt land, bólgið brim við sand, óblíða náttúru og örðugleika smáþjóðar … Seytján hrausta, vinnandi menn hefir litla færeyska fiskimannaþjóðin misst.“
Daginn sem jarðarförin átti að fara fram var símað frá Grindavík að áttunda líkið hefði rekið, og var bifreið þegar send eftir því. Þegar suðureftir kom, hafði það níunda enn bæzt við, og fylgdust þau öll að í eina og sömu gröf. „Jarðarför þessara manna hefir verið einhver sú hátíðlegasta og fjölmennasta sem hér hefir farið fram í langa tíð. Var kirkjan troðfull út í dyr, og líkfylgd suður í garðinn afar fjölmenn“, segir Morgunblaðið daginn eftir, þann 12. apríl.
Séra Bjarni Jónsson flutti ræðu í kirkjunni og mælti á danska tungu, og þegar sunginn var sálmurinn „Dejlig er Jorden“ , stóðu allir upp. Kisturnar níu voru bornar alla leið suður í garðinn, og gengu undir þeim meðlimir verzlunarráðsins, útgerðarmenn og Færeyingar sem búsettir voru í bænum. Í garð-inum mælti færeyski trúboðinn Alfred Petersen yfir gröfinni, en hann fylgdi færeysku skútunum meðan þær voru hér að veiðum.
„Hafa aldrei verið jarðaðir svo margir menn síðan 1906, að drukknunin mikla varð við Viðey“, segir í blaðinu að lokum.
Færeyingar eru einstakir að því að búa að sínum látnu af mikilli virðingu. Hér brást það heldur ekki. Ekki leið á löngu þar til fluttur var í garðinn mikill klettur með áhöggnu letri og lagður á hlæður yfir gröfinni, í reit D 9 – 8 . Af áletruninni má sjá, að enn hafa fundizt fimm af áhöfn Önnu af Tofte og verið jarðaðir þar nokkru síðar, því framan á steininum stendur:
TIL MINDE OM SYTTEN FÆRØISKE FISKERE
DER FORLISTE MED KUTTER ANNA AF TOFTE
VED GRINDAVÍK DEN 5. APRIL 1924
FJORTEN HVILE HER
Ofan á steininum getur að lesa þessa hendingar:
HVIL I FRED OG GUD I VOLD
VÆRE EDERS SJÆLE
OM JER GRAV BLEV BØLGEN KOLD
ELLER HER I DVÆLE
Steininn yfir sjómennina af Önnu af Tofte er ólíkur öðrum steinum í garðinum, skófum þakið grettishaf á undirsteinum eða hlæðum. Annað minnismerki er í garðinum um færeyska sjómenn sem einnig sker sig nokkuð úr, en á talsvert annan hátt, þar sem það er mjög unninn steinn með gylltu letri og lágmynd af skútu undir fullum seglum. Hann er í reit G9 – 33, nýlega hreinsaður og gull dregið í stafina, svo aldurinn er ekki á honum að sjá. Steinninn er óreglulegur í laginu, grófur að utan, en á framhliðinni eru höggnir tveir sléttir fletir, sá efri með lágmynd skútunnar á bárum, en sá neðri með eftirfarandi áletrun úr gylltum stöfum og nú á færeysku en ekki dönsku:
VIÐ FØROYSKA FISKISKIPNUM
A C O R N
BRENDUST OG DOYÐU HESIR
MENN 20 – 3 – 1928
D. DEBES – GJÓGV
H.J. JOENSEN – –
N. KLEIN – – –
H.J. BISKOPTSTØ –
BrakD.P. OLSEN – FUNNING
H. JACOBSEN – EIÐI
H.D. MØRKØRE – –
TEIR SKOÐAÐU STÓRVERK HARRANS
OG Í DÝPINUM UNDUR HANS
Í NEYÐ SÍNI HEITTU TEIR Á HARRAN
OG HANN HJÁLPTI ÚR TRÓNGDUM.
Orð þessi eru tekin úr Davíðssálmum, 107, 24-28, en í íslenzku biblíunni eru þau svolátandi: „Þeir hafa séð verk Drottins / og dásemdir hans í djúpinu – Þá hrópuðu þeir til Drottins í neyð sinni, / og hann leiddi þá úr angist þeirra.“

Lesandi á stein þennan hlýtur að staldra við orðin „brendust og doyðu“, því oftar er að erlendir sjómenn í görðum okkar hafi orðið sjódauðir. En til þess er einkar átakanleg saga sem lesa mátti í íslenzkum blöðum í marslok 1928. Færeyska skútan Acorn var að veiðum á Selvogsbanka er hún fékk skyndilega á sig krappan hnút, svo hún var nærri farin á hliðina, og allt lauslegt um borð kastaðist til. Frammi í lúkar voru níu menn og höfðu hjá sér ljóstýru. Við ágjöfina streymdi sjór niður í lúkarinn, en í sama mund sentist karbíðdunkur ofan af hillu niður á gólf og laskaðist, en um leið varð af ógurleg sprenging. Einn mannanna hné þegar dauður niður, en hinir átta komust upp, flestir í logahafi. Þeir sem höfðu verið aftur á hlupu þegar til, reyndu að slökkva í mönnunum og draga þá aftur í káetuna, meðan skipið logaði framan og sjór gekk yfir það í föllum.
BrakTveir í viðbót létust þegar, og meðan barizt var við eldinn gáfu enn þrír upp öndina, mjög illa brenndir. Var nú reynt að koma upp seglum og stefna fyrir Reykjanes, í átt til Reykjavíkur. „Var það erfið ferð, því að þeir fengu hvorki neytt svefns né matar allan tímann. Í káetunni máttu þeir ekki kveikja upp eld, því hinir brunasáru þoldu ekki hitann. Enda ekki aðgengilegt að vera að matseld innan um líkin.“ Um leið og Acorn kom til Reykjavíkur voru þeir þrír brunasáru, sem enn lifðu, fluttir á Landakotsspítala. Voru þá liðnir þrír sólarhringar frá því að slysið varð. Einmitt þessa dagana var staddur í Reykjavík Jóhannes Patursson kóngsbóndi í Kirkjubæ og flutti hann opinber erindi um færeyska menningu og fiskiveiðar í Nýja Bíó. Kom þessi voðasending af hafinu því sorglega heim við þá erfiðu og frumstæðu sjósókn landa sinna sem Paturson lýsti.
Jarðarför sjómannanna af Acorn fór fram þann 29. mars frá Líkhúsinu í kirkjugarðinum. Kisturnar voru þá orðnar sjö, því einn, Hans Doris Mörköre frá Eiði, hafði látist á spítalanum. Mikið var við haft, séra Bjarni flutti líkræðu, Karlakór KFUM söng, en sendiherrar Dana, Svía og Finna, auk Jóhannesar kóngsbónda og skipverja af Acorn fylgdu kistunum til grafar. Ekki leið heldur á löngu áður en legsteinninn barst hingað til lands, sennilega höggvinn í Færeyjum, og minnir með skútumynd sinni á þann skamma tíma sem liðinn er síðan sjómenn urðu að berjast tækjalausir með berum höndum við ógnaröfl sjávar – og elds.“

Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimild m.a.:
-Kafli úr bókinni Minningarmörk í Hólavallagarði, eftir Björn Th. Björnsson. Útgefin af Máli og Menningu 1988. Bls. 225-230.
-Þriðjudaginn 9. september, 9. fundur 2008, haldinn í framkvæmdastjórn Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma.

Staðarberg

Staðarberg – Bergsendi ofan Ræningjaskers.

Járngerðarstaðir

Skoðað var þyrnasvæðið (þistilssvæðið) við Sjólyst í Grindavík. Sagan segir að (blóð-)þyrnir hafi vaxið þar sem blóð heiðinna (Tyrkja) og kristinna (Grindvíkinga) blandaðist en alkunna er að heiðingjarnir réðust á þorpið friðsæla anno 1627.

Þyrnir

Blóðþyrnir í Grindavík. Bakki fjær. (Því miður hafa Grindvíkingar vanrækt þetta svæði á síðari tímum).

Í þjóðsögum Jóns Árnasonar segir m.a. um Tyrkina í Grindavík “En svo segja Grindvíkingar og fleiri að þar vaxi þyrnir síðan þar kom saman kristið blóð og heiðið, en það er raunar þistill, en ekki þyrnir.”
Því hefur löngum verið haldið fram að þessi þyrnir vaxi einungis að tveimur stöðum á landinu, þ.e. í Grindavík og á Djúpavogi,þar sem Tyrkirnir stigu einnig á land og rændu fólki. Raunin er hins vegar sú að þyrnir þessi vex núorðið víðar, t.d. í Elliðaárdal.
Lítið er eftir af þyrnasvæðinu í Grindavík. Það er nú einungis á litlu svæði við gatnamótin neðan við Sjólyst, skammt ofan við gömlu Einarsbúðina.

Grindavík

Grindavík – Járngerðarstaðahverfi.

Hestum hefur verið beitt á svæðið, en þótt þeir reyni ekki að leggja sér þyrnana til kjafts þá hafa þeir náð að traðka þá niður innan girðingarinnar. Svo er að sjá sem Grindvíkingar séu svo naumir með bitbletti að þörf sé að nýta þennan eina bleðil, sem sagnfræðilega merkilegan og frómum áhugaverðan má telja á þessu svæði. Það hefur reyndar lengi loðað við heimamenn hversu notadrjúgir þeir þyki um nýtingu gróðurbletta, jafnvel þótt þeir tilheyri öðrum en þeim sjálfum.

Blóðþyrnir

Blóðþyrnir.

Nokkrir þyrnar eru enn næst veginum og í jöðrum girðingarinnar á þessu annars litla svæði. Mikilvægt er að huga vel að þessu svæði, ekki einungis sögunnar vegna, heldur og jurtarinnar.

Gengið var með gömlu húsunum ofan við bryggjuna og rifjuð upp saga sjósóknar og sjóslysa fyrri tíma, bæði á Járngerðarstaðarsundi og Þórkötlustaðasundi. Þá var haldið í rólegheitum yfir á Hópsnes og gengið með ströndinni, skoðaðir gamlir þurrkgarðar og staldrað við hjá Hópsvita, sem reyndar er innan landamerkja Þórkötlustaða, og síðan haldið að gömlu bryggjunni á sunnanverðu nesinu.

Blóðþyrnir

Blóðþyrnir í Grindavík.

Bryggjan var steypt um 1930, en velar voru fyrst settar í árabáta Grindvíkinga um 1927. Mikil umsvif voru þarna fyrir ofan og utan með, s.s. lifrabræðsla og íshús, auk ískofa, fiskibyrgja og þurrkgarða er liggja þvers og kurs á grónu hrauninu ofan við bryggjuna. Pétur Guðjónsson, skipstjóri, sem fæddur var í Nesinu, lýsir ágætlega mannlífinu þar á þessum árum í Sjómannablaði Grindavíkur árið 2003. Notkun bryggjunnar og aðstöðunnar í Nesi lagðist fljótlega af eftir að opnað var inn í Hópið í Járngerðarstaðarhverfi og bryggja reist í lóninu, á núverandi hafnarsvæði.
Fornminjarnar á Þórkötlustaðanesi hafa naumt verið skráðar. Þarna eru t.d. fiskbyrgi og þurrkgarðar frá fyrri öldum í Strýthólahrauni og auk þess manngerður hóll eða haugur, sem lítt eða ekkert hefur verið rannsakaður.
Loks var gengið um Herdísarvík og yfir Kónga áður en haldið var vestur yfir nesið á ný.

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes – uppdráttur ÓSÁ.

Krýsuvík

Fróðlegt er að lesa manntöl, einkum síðustu alda. Manntal frá 1802 gefur t.a.m. góðar upplýsingar um búsetu og fólk í Strandar- og Krýsuvíkursókn, en Grindavík heyrði þá undir þá síðarnefndu.
Manntöl frá 1816 og 1822 gefa auk Torfbaerþess ágæta yfirsýn yfir fjölda bæja og fólks í Selvogsþingi og Staðarsókn í Grindavík. Manntal frá 1845 getur enn um Krýsuvíkursókn og Staðarsókn í Grindavík líkt og manntalið frá árinu 1822. Mikil breyting virðist hafa orðið á svæðunum á tiltölulega skömmum tíma.
Í manntalinu frá árinu 1802 er getið um 17 bæi í sókninni. „Hlyd“ er þá enn í byggð sem og „Hialeje“, „Salthóll“ og „Beggjakot“. Sautján eru þá heimilisfastir á Wogsosar (Vogsósum). Húsbóndinn er Benedikt Sveinsson, sóknarprestur (36 ára). Eiginkona hans er Oddni Helgadóttir (33 ára). Á Hlyd (Hlíð) búa Egill Jónsson, útvegsbóndi, og Guðrún Guðmundsdóttir ásamt sjö öðrum. Í Stachavÿk (Stakkavík) búa Biarne Björnsson og Gudrun Jonsdottir. Í sókninni búa þá 115 manns á 17 bæjum. Í dag má telja íbúana á fingrum annarrar handar.

Minnismerki um horfin bæ, Strönd, í Selvogi

Í Krýsuvíkursókn eru 5 bæir árið 1810; Krisivik, Nordurkot, Sudrkot, Store Niebær og Litle Niebær. Húsbóndinn í Krýsuvík er þá Guðmundur Þorsteinsson og húsfreyjan Agnes Jonsdottir. Auk þeirra búa þar níu aðrir. Í sókninni búa all 39 manns.
Manntalið var tekið saman af Jóni Jónssyni, presti í Vogssósa- og Krýsuvíkursókn. Sama ár tók Benedikt  Ingemundsen, prestur í Grindavíkursókn og bóndi á Stað, saman manntal fyrir sóknina. Íbúar voru 146 talsins, þar af ellefu á Stað, 17 á Járngerðarstöðum og 20 á Þórkötlustöðum. Bæirnir voru 24 að Ísólfsskála meðtöldum, en þar bjuggu þá 5 manns; John Nicolausson (48 ára) ásamt eiginkonu (49 ára), Solveigu Bjarnadóttur, tveimur börnum og fósturbarni.
Tóftir Lækjar í KrýsuvíkTæpum fimmtán árum síðar (1816) eru íbúar í Selvogssókn 118, en þá hefur sóknin verið sameinuð Krýsuvíkursókn. Af þeim eru 30 búandi í Krýsuvík og 8 í Herdísarvík, þ.e. Árni Þorsteinsson og Rannveig Jónsdóttir ásamt þremur börnum, eiginkonu annars þeirra, ógiftum vinnumanni, ógiftri vinnukonu og niðursetningi (17 ára gömlum) frá Beggjakoti. Húsbóndinn í Krýsuvík er Árni Þorvaldsson frá Þórkötlustöðum og húsfreyjan Þuríður Jónsdóttir úr Villingaholtshreppi. Þar eru þá 11 íbúar, sami fjöldi og árið 1802. Enn eru og 5 bæir í byggð, en 16 í Selvogi (hafði fækkað um einn).

Nesviti

Nesviti – leifar gamla vitans, sá nýi fjær.

Í manntalinu árið 1845 eru 8 bæir í byggð í Krýsuvíkursókn. Nú, árið 1822, höfðu bæst við nýbýlið Lækur og hjáleigurnar Vigdísarvellir og Bali. Að Læk bjó Halldór Magnússon og Margrét Þorleifsdóttir ásamt tveimur börnum og móður húsbóndans. Á Vigdísarvöllum bjuggu Ólafur Þórðarson úr Stokkseyrarsókn og Guðrún Halldórsdóttir úr Grindavík með fjórum börnum þeirra. Á Bala bjuggu Einar Þórðarson, grasnytsbóndi, og Guðríður Jónsdóttir, einnig með fjórum börnum sínum. Öll börnin átta voru fædd á bæjunum tveimur. Beinteinn Stefánsson (29 ára) frá Hjallasókn er þá búandi í Krýsuvík ásamt eiginkonu sinni, Jórunni Gísladóttur (46 ára), ásamt dóttur þeirra, Sigríði, sonur hennar, Þorsteinn Magnússon sem og móðir hennar, Gróa Helgadóttir. Bergsteinn Þorkelsson (43 ára) og Sigríður Jónsdóttir (45 ára) búa þá í Krýsuvíkurbænum ásamt tveimur börnum þeirra, Þorkeli (11 ára) og Jónasi (7 ára). Íbúar sóknarinnar eru þarna 54 talsins. Sóknin virðist vera í örum vexti, en allir íbúarnir eru aðrir en voru þar 23 árum fyrr.
Þetta árið bjuggu 190 manns í Staðarsókn, hafði fjölgar um 44 síðan 1810, eða að jafnaði um  einn og hálfan á ári. Tóftir að Nesi í SelvogiBæirnir voru líka orðnir 29 að tölu, hafði fjölgað um 4. Stóragerði, Móakot, Kvíadalur og Bergskot höfðu vaxið upp í Staðarhverfi og svo virðist sem vöxturinn hafi mestur verið þar. Járngerðarstaðabæirnir eru nú orðnir tveir og Þórkötlustaðarbæirnir fjórir talsins. Þar býr Sveinbjörn Þórðarson, útvegsbóndi, ásamt Margréti Guðmundsdóttur, bæði fædd á staðnum, ásamt 5 öðrum. Alls búa þá 25 manns á Þórkötlustaðabæjunum. Í Einlandi býr þá Eiríkur Erlendsson og Ingibjörg Þorláksdóttir, dóttir þeirra Guðrún og niðursetningurinn Jón Stephansson (73 ára). Á Hrauni, sem þá er orðið tvíbýli, eru 20 manns, þ.a. Jón Jónsson, hreppsstjóri, fæddur á bænum, og eiginkona hans, Guðbjörg Gísladóttir. Hér er komin skýringin á svonefndum Guðbjargarhelli, sem er skammt fyrir ofan Hraun, en þangað mun húsfreyjan hafa leitað er hún vildi vera í næði. Á hinum bænum býr Guðmundur Jónsson, fæddur á Hrauni, og Valgerður Hafliðadóttir. Börn þeirra eru Gísli, Valgerður og Gróa. Hafliða- og Gíslanöfn hafa loðað við bæinn æ síðan.
Á Torfbaer-3Járngerðarstöðum býr Einar Jónsson, fæddur á bænum, og Sigríður Guðmundsdóttir úr Reykjasókn. Alls eru 13 manns vistaðir á bænum og 21 á báðum Járngerðarstaða-bæjunum, mest vinnufólk og venslafólk. Niðursetningurinn, Einar Magnússon, var þá 14 ára. Á Stað var Geir Jónsson Backmann (42 ára) frá Miklaholtssókn, prestur, og eiginkona hans, Guðríður Magnúsdóttir (38 ára) frá Reykjavík ásamt tveimur börnum, Stephan og Sigríði og tveimur tökubörnum, Þórði og Ragnhildi. Alls bjuggu þá 11 manns að prestsetrinu Stað. Vernharður Ólafsson (65 ára) frá Gaulverjabæjarsókn bjó að Stóragerði ásamt Sigríði Björnsdóttir (64 ára), fæddri í hverfinu. Litlagerði virðist ekki hafa verið orðið til á þessum tíma. Á Húsatóftum bjuggu þá 16 manns; Jón Sæmundsson, útvegsbóndi, frá Kirkjuvogssókn, og Margrét Þorláksdóttir frá Húsatóftum. Niðursetningurinn var Margrét Sveinsdóttir, þá 13 ára, frá Húsatóftum.

Torfbaer-4

Í manntalinu 1910, eða fyrir tæplega einni öld síðan, segir m.a. frá því að í Krýsuvíkursókn hafi búið 25 manns í tveimur bæjum. Hér hafa orðið mikil umskipti á 65 árum þegar íbúarnir voru 54 talsins á 8 bæjum. Einungis Krýsuvík (hér er bæjarheitið loksins ritað með „ý“) og Stóri-Nýibær eru í byggð. Á fyrrnefnda bænum búa 11 manns og 14 í þeim síðarnefnda. Krýsuvíkurbærinn, þar sem Jón Magnússon, Hreppshólasókn, og Kristbjörg Sigurðardóttir, Brautarholtssókn, búa er nú timburhús, en Stóri-Nýibær, þar sem Guðmundur Jónsson frá Skarðshólasókn og Kristín Bjarnadóttir úr Gaulverjabæjarsókn búa, er torfbær með 3 heilþilum og 5 hálfþilum. Börnin eru þá orðin 9 talsins. Magnús Ólafsson (f:1872, d: 1950) frá Garðasókn er hér tilgreindur sem fjármaður og sláttumaður. Í báðum tilvikum er eigandi jarðanna tilgreindur fyrrverandi sýslumaður [og svikahrappur] Einar Benediktsson og stórkaupmaður í Kristjaníu í Noregi. Jarðirnar eru tilgreindar í Grindavíkurhreppi.

Tóftir við gamla Hópsbæinn í Grindavík

Í Grindavíkursókn eru þetta árið (1910) orðnir 62 bæir. Grindavík virðist því í mikilli sókn á meðan fækkar verulega í nágrannsveitunum og bæir hafa lagst þar af. Íbúarnir eru orðnir 275 talsins á 65 bæjum. Bæjunum hefur því fjölgað verulega, en íbúum á hverjum stað hefur fækkað. Á Ísólfsskála, torfbæ með hálfþili, var nú búandi Brandur Guðmundsson frá Breiðagerði og Estífa  Benidiktsdóttir frá Tjarnarsókn ásamt þremur börnum, elsta fætt í Suðurkoti í Krýsuvík 1898. Hrauntún er orðið til út frá Hrauni. Ábúandi er Guðmundur Loftsson (fæddur 1833) frá Sigluvíkursókn og Guðlaug Sveinsdóttir (fædd 1859) frá Hólasókn. Barn þeirra er Guðmundur (fæddur 1902). Þórkötlustaðabæirnir eru nú orðnir fimm, samtals með 35 íbúa. Þarna hefur orðið veruleg breyting frá síðasta manntali. Þórkötlustaðahverfið virðist vera í mestri sókn Grindavíkurhverfanna þriggja, Staðarhverfis, Járngerðarstaðahverfis og Þórkötlustaðahverfis. Á Þórkötlustöðum III býr Hjálmar Guðmundsson, óðalsbóndi, formaður og útvegsbóndi. Eiginkona hans er Helga Jónsdóttir frá Goðhól í Kálfatjarnarsókn. Benóný Benitiktsson og Ólöf Einarsdóttir búa að Þórkötlustöðum II ásamt 5 öðrum, en á höfuðbýlinu býr Jón Þórðarson og Valgerður Gamalielsdóttir.

Hus

Þurrabúðin Lambúshúskot er þá í byggð, auk Eyvindarstaða, Miðhúss, Vestur-Móa, Austur-Móa, Vestur-Buðlungu, Sunnuhvols, Þingeyrar, Efri-Grundar, Vallarhúsa, Valla, Austur-Akurhúsa, Suður-Gjáhúsa, Byggðarenda, Hæðarenda. Garða, Gimli, Bjargs, Grundar, Skemmu, Rafnshúss, Akrahóls, Akrakots, Krosshúsa, Dalbæjar, Merkis, Bergskots og Litla-Gerðis.
Eftir manntalið 1910 hafa orðið miklar breytingar á byggðaþróun framagreindra byggðalaga. Selvogur er nú „lifandi“ minjasafn og Krýsuvík komin í eyði. Grindavík hefur hins vegar vaxið upp úr „öskustónni“ og orðið að lífvænlegum bæjarkjarna. Miðað við nýjustu fréttir af áhuga þarverja á framtíðaruppbyggingu staðarins má ætla að fjölgunin muni á næstu árum og áratugum verða margföld m.v. það sem áður var. Nú er íbúafjöldi í Grindavíkursókn (fyrrum Staðarsókn) um 2800 manns á ótalmörgum bæjum (heimilum).
Benda má á manntalsvef Þjóðskjalasafns Íslands. Þar er nú hægt að leita rafrænt að fólki, eftir nafni, bæjum, sóknum eða stöðu í manntölunum 1703, 1835 og 1840-1910, alls 11 manntöl. Hægt er að láta kerfið leita í einu eða fleiri manntölum í senn. Sjá www.manntal.is. Hafa verður í huga að bæjarheiti eins og t.d. Krýsuvík, getur ýmist verið ritað Krýsuvík, Krísuvík eða Krísivík, því getur þurft að gera fleira en eina leit eða nota % þ.e. Kr%suvík. Sjá nánar leiðbeiningar á síðunni.

Heimildir:
-Manntal 1802.
-Manntal 1816.
-Manntal 1822.
-Manntal 1845.
-Manntal 1910.

torfbaer-2

Brennisteinsfjöll

Einn sunnudag í nóvember ákváðu félagar í Climbing.is að skreppa í hellaferð í Brennisteinsfjöll.
Fjallgarðurinn liggur suður-norður á Reykjanesskaga og er stysta leið að honum frá Kleifarvatni. ferlirGengum við uppúr Gullbringu og haldið inn hraunið í átt að fjöllunum. Til að byrja með var gönguleiðin nokkuð slæm, þykkur mosi og miklar mishæðir en skánaði stórum þegar komið var upp á heiðina. Við gengum í talsverðum vindi en hita yfir frostmarki inn að fjöllunum og skoðuðum þónokkra smáhella á leiðinni en talsvert hellakerfi virðist liggja í austur-vestur en er þó mikið hrunið og grunnt.
Þegar komið er í Brennisteinsfjöll er nokkuð áberandi gígaröð til suðurs og gengum við upp á einn gíginn sem heitir Eldborg og er útsýni af honum mikið og fagurt eftir gígaröðinni og niður í Selvog. Um 1 kílómeter sunnan við gíginn er opið niður í hellinn Ferli sem var áætlunarstaður okkar. Í munnanum eru 2 op, annað beint áfram niður og annað til hægri og talsvert þrengra. Fyrst var valið að fara beint niður og mætti okkur þar smá gangakerfi með hraunflór í miðju sem er mjög rauðleitur og fallegur.
FerlirEftir smá ljósmyndun þar var snúið við og farið í göngin sem liggja niður til hægri. Þau skiptast strax í tvennt, önnur liggja til hægri og enda mjög fljótt en fallegar myndanir eru í gólfi þar. Göngin til vinstri eru mun lengri en þrengri. Þar hefur þunnur hraunstraumur runnið og eru veggirnir ótrúlega fagrir með beinum rennslismyndunum og öðru megin er bakki sem er eins og bekkur. Þau göng eru cirka 40 metrar og enda svo snarlega.
Þegar við kláruðum að skoða það sem við fundum af hellinum var ljóst að stutt væri í myrkur og því haldið af stað til baka um 7 km leið að bílnum. Var myrkur skollið á á miðri leið en þar sem allir voru vel ljósum búnir reyndist það ekki vandamál, leiðsögutæki sett í hönd og haldið áfram að labba. Nokkuð lengri leið var valin til baka þar sem enginn nennti aftur að klöngrast um hraunið aftur og lá sú leið niður í lítinn dal rétt norðan Gullbringu en þar hefur stór og úfin hrauntunga runnið um. Við tókum stefnuna fyrir hana á þægilegum göngustíg sem liggur niður á veginn fyrir suðurenda Kleifarvatns.
Gangan reyndist vera 15 km samkvæmt GPS og er þetta frábært svæði að ganga um.

Ferlir

Í FERLIR í Brennisteinsfjöllum.