Tag Archive for: Grindavík

Óbrennishólmi

FERLIR leitaði tófta næstelsta upplandsbæjar Krýsuvíkur, Gestsstaða. Elsti bærinn mun vera, að því er talið er, Kaldrani við suðvesturhorn Kleifarvatns.

Gestsstaðir

Tóftir Gestsstaða í Krýsuvík – austan hálsa…

Þrjár heimildir eru um hvar tóttir Gestsstaða kunni að vera að finna. Sú yngsta segir að bærinn hafi verið undir Píningsbrekkum norðaustur af gróðurhúsunum sunnan Hettu, en engin ummerki eru á þeim slóðum. Hinum eldri heimildum tveimur ber saman, þótt orðaðar séu á mismunandi vegu. Þær kveða á um að bærinn hafi verið sunnan undir brekkunum sunnan Gestsstaðavatns, nálægt núverandi skólahúsi. Mikið landrof hefur orðið á svæðinu, en undir brekkunum eru tóftir bæjarins, á a.m.k. þremur stöðum. Megintóftirnar eru neðan við brekkurnar og er merki um Friðlýsar fornminjar í annarri þeirra. Þriðja tóftarsvæðið er uppi í Sveifluhálsi ekki langt frá. Þar er stök tóft og hleðslur ekki fjarri. Vel má sjá móta fyrir húsunum undir Gestsstaðavatnsbrekkunum. Þarna hafa verið nokkuð stór hús, en óvíst er um aldur þeirra.

Sængurkonuhellir

Sængurkonurhellir sunnan Lats.

Tilgangur ferðarinnar var einnig að skoða minjar í Óbrennishólma í Ögmundarhrauni í landi Grindavíkur. Á leiðinni var komið við í hlöðnu sæluhúsi undir Lat. Steinhella, sem notuð hefur verið sem hurð, var enn á sínum stað – til hliðar við dyraopið.
Í svo til beina stefnu á húsið eru merki um tillöguna að svonefndum Suðurstrandavegi í gegnum hraunið. Ef sú tillaga (sem fyrir liggur er þetta er skrifað) verður að veruleika mun vegurinn fara yfir húsið.

Gestsstaðir

Gestsstaðir – tóft utan í Sveifluhálsi.

Í Óbrennishólma var hinn forni garður skoðaður, stóra fjárborgin, sem hefur verið sú stærsta á Reykjanesi, minni fjárborgin skammt austar og ofar nýlegrar kvíar í hraunkantinum sem og forna garðhleðslan, sem hraunið hefur stöðvast við á leið sinni til sjávar. Óbrennishólmi auk Húshólma þarna skammt austar eru sennilega merkustu fornminjasvæði á landinu og jafnvel kunna að leynast þar fornminjar, sem breytt geta vitneskju manna um landnám á þessu landi, sem síðar var nefnt Ísland. Fyrirhugað er nú (gæti breyst) að leggja breiða hraðbraut í gegnum Hólmana með ófyrirséðum afleiðingum því svæðin hafa þrátt fyrir allt verið mjög lítið rannsökuð. Til að mynda er hvergi til vitneskja á einum stað um allar minjarnar, sem vitað er um í hólmunum.

Norðurkot

Norðurkot í Krýsuvík.

Í Húshólma, sem síðar verður skoðaður nánar, er þó vitað um fornu kirkjuna, sem talið er að hafi verið notuð eftir að Ögmundarhraun rann árið 1151, forna skálann, reyndar tvo eða þrjá, sem hraunið umlukti og enn má sjá leifar af, Kirkjuflötina, sem talið er að sé forn grafreitur, Kirkjulágina og forna garðinn, sem liggur á ská í gegnum hólmann, þvergarðinn og fjárborgina í honum ofanverðum – svo til í vegastæði fyrirhugaðs Suðurstrandavegar. Hins vegar liggur ekki fyrir vitneskja um tóttir syðst í hólmanum, sennilega tengt útræði á Seltöngum, en svo eru tangarnir nefndir utan hans við Hólmasundið.

Norðurkot

Norðurkot í Krýsuvík 1892.

Selatangar eru vestar á ströndinni þar sem verið hefur verstöð undir Katlahrauni og enn má sjá miklar leifar af. Þá liggur hvorki fyrir vitneskja um sýnilegar tóttir sels (stekks) efst í Húshólma né hringlaga garðlags austan undir Ögmundarhrauni þar sem Húshólmastígur liggur inn í Hraunið. Einnig mótar fyrir sporöskjulaga gerði í Kirkjuflötinni, sem gæti verið tóft, jafnvel kirkjunnar, sem menn hafa gefið sér að sé innar í hrauninu og fyrr var nefnd. Annars staðar í hrauninu má einnig sjá hleðslur fornra garða. Og án efa, ef svæðið yrði rannsakað betur, kæmu í ljós mun fleiri minjar, en þegar er vitað um að þar kunni að leynast.
Húshólmi og Óbrennishólmi eru því án efa einir af áhugaverðustu stöðum með tilliti til fornminja og sögu landsins.
Frábært veður.

Óbrennishólmi

Tóft í Óbrennishólma.

/https://ferlir.is/husholmi-ogmundarhraun/

Efri-Hellir

Gengið var yfir Beinvörðuhraun að Húsafelli og leitað tveggja hella, sem þar áttu að vera þar skv. gömlum heimildum.

Hraun

Garðbjargarhellir.

Annar þeirra átti að geta hýst Grindvíkinga ef Tyrkirnir kæmu aftur, en hinn átti að hafa verið athvarf konu, Guðbjargar, frá Hrauni.

Mjög erfitt var að leita þeirra vegna víðfemrar lýsingar í annars erfiðu landslagi. Brugðið var því á það ráð að ganga að Hrauni og heimsækja Sigurð gamla, bónda, Gíslason. Hann tók FERLIRsfélögum vel og fylgdi þeim að Guðbjargarhelli, spottkorn ofan við veg gegnt heimkeyrslunni að bænum. Skútinn var ekki áfrýnilegur inngöngu, en þarna átti konuhróið að hafa leitað er hún vildi fá næði eða vera út af fyrir sig í friði og ró.

Tyrkjahellir

Í Tyrkjahelli (á Efri-hellu).

Þá fylgdi Sigurður hópnum upp að Efri-helli, eins og hann nefndi hellinn. Hann er í framjaðri suðuraxlarinnar á Húsafelli þegar fer að halla niður að hraunkantinum á Hópsheiði. Hellirinn hefur tvö op og er hægt að ganga í gegnum hann. Talið var að hann hefði áður getað hýst alla Grindvíkinga ef til ófriðar hefði komið að nýju.
Til marks um hversu erfitt er að finna opin má segja frá því að þegar umhverfi þeirra var skoðað kom í ljós að spor leitarmanna voru einungis í u.þ.b. tveggja metra fjarlægð frá öðru þeirra, en sá sem þau átti kom ekki auga á opið.
Sigurði var þökkuð aðstoðin, en hann er ágætt dæmi um þau dýrmæti, sem felast í hagvönum heimamönnum á vettvangi.

Tyrkjahellir

Í Tyrkjahelli (Efra-Helli) ofan Hrauns.

Slaga

Gengið var um Skollahraun í blíðskaparveðri. Vestast í hrauninu eru gamlir fiskigarðar og fiskbyrgi frá árabátaútgerðinni við Ísólfsskála.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – fiskbyrgi við Nótarhól.

Þarna, líkt og í Strýthólahrauni, Slokahrauni, á Selatöngum og í Herdísarvík eru hundruðir metra af þurrkgörðum er liggja um hraunið. Inni á milli má sjá þurrkbyrgin. Erfitt er að koma auga á sum þeirra vegna þess hversu mosavaxin þau eru orðin. Enn einn verstöðvaminjastaðurinn við strönd Reykjanesskagans. Þessar minjar hafa varðveist vel vegna þess hversu fáir hafa vitað af þeim.
Skoðaður var fjárhellir Skálabúa undir öxlinni er liggur suðvestur úr Slögu og síðan kíkt á vatnslind þeirra undir hlíðinni.

Slaga

Slaga.

Slaga er merkilegt jarðfræðifyrirbæri. Undir henni sunnanverði voru fyrrum sjávarhamranir, en nýrra hraun færði hana utar þar sem hún nú er. Á bak við Slögu að norðanverðu er Drykkjasteinsdalur. Dregur dalurinn nafn sitt af Drykkjarsteininum, sem aldrei á að þrjóta vatn í. Hann er við gömlu þjóðleiðina um dalinn austur til Krýsuvíkur.
Síðan var haldið á Núpshlíðarháls þar sem gengið var eftir eldgígaröðinni og skoðaðar hraunæðar og hraunfarvegir.

Stóri-Hamradalur

Stóri-Hamradalur.

Gengið var um Stóra-Hamradal og við norðurenda hans upp á Núpshlíðarhálsinn þar sem útsýni er um bakland Keilis, norður til höfðuborgarsvæðisins og vestur til Grindavíkur. Neðan undir hálsinum kúrði Hraunssel með tóttum og stekkjum. Á bakaleiðinni var gengið að gígunum, sem Ögmundahraun kom úr, dáðst að útsýninu yfir Bleikingsdal og síðan haldið með gígaröðinni til suðurs.
Um var að ræða frábæra göngu í fallegu umhverfi.

Ísólfsskáli

Refagildra Í Skollahrauni við Ísólfsskála.

Hraunssel

Haldið var norður Leggjabrjótshraun vestan við Núpshlíðarháls og gengið í sólskini að Hraunsseli.

Hraunssel

Hraunssel.

Selið er merkilegt fyrir að að hafa verið síðasta selið svo vitað sé sem notað var á Reykjanesi, eða allt fram til 1914. Á sumum kortum er það staðsett uppi á hálsinum, en er í norðan undir honum. Selið eru heillgar tóftir og stekkur. Ef vel er að gáð má sjá tóftir eldra sels á sléttlendi skammt norðar. Við þær er einng stekkur, nær jarðlægur. Hraunssels-Vatnsfell, fjallið gegnt selinu, dregur nafn sitt af því.

Núpshlíðarháls

Núpshlíðarháls – gígur.

Vegna góðs veðurs var ákveðið að ganga einnig á Núpshlíðarhorn og skoða gígana, sem þar eru, en þeir munu vera einstakir í sögu jarðfræðinnar. Fyrir ofan hraunárfarvegina klofnuðu gígarnir eftir endilöngu fjallinu svo sjá má þversnið þeirra og þannig átta sig enn betur á hvernig þeir, og aðrir sambærilegir gjallgígar, hafa myndast upp úr móbergsfjalli, eins og víða má sjá, s.s. inn með austanverðum Núpshlíðarhálsinum. Gígarnir eru hver öðrum fallegri og alveg þess virði að gefa sér góðan tíma til að ganga á milli þeirra, virða þá fyrir sér og skoða hraunæðarnar og – traðirnar, sem frá þeim liggja niður hlíðina að vestanverðu.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Hraunssel

Hraunssel- uppdráttur ÓSÁ.

Æsubúðir

Gengið var upp hraunána að Stóru-Eldborg, yfir gömlu þjóðleiðina milli Herdísarvíkur og Krýsuvíkur um Deildarháls, áfram upp Hvítskeggshvamm og upp að gígnum á Geitahlíð. Þarna eru heimkynni þokunnar.

Stóra-Eldborg

Stóra-Eldborg.

Eftir stutta dvöl á gígbarminum, brá hún sér af bæ svo hið mikla og kyngimagnaða útsýni birtist þátttakendum í allri sinni dýrð. Í norðri birtust eldborgirnar fallegu austan við Kálfadalahlíðar, úfið mosahraunið, Vörðufell og Sveifluhálsinn.

Kleifarvatnið setti skarpan lit í landslagið. Sunnar lágu Klofningar, Litlahraun og Krýsuvíkurheiðin við augum, svo langt sem þau entust.

Hvítskeggshvammur

Hvítskeggshvammur. Stóra-Eldborg neðar.

Haldið var áfram upp að Æsubúðum í 382 metra hæð y.s. Í gömlum sögum er því haldið fram að Æsubúðir hafi verið gamall verslunarstaður jötna þá og þegar sjórinn náð upp að Geitahlíð og hægt var að leggja skipum við Hvítskegsshvamm. Í honum átti að vera járnkengur sem skipafesti, en lítið virðist vera á honum nú. Landslagið gaf ekki annað til kynna.
Af tindinum er eitt fegursta útsýni hér á landi yfir suðurströndina, fjöllin ofan Herdísarvíkurfjalls, Kleifarvatn, Sveifluháls, Krýsuvík og svæðið ofan Krýsuvíkurbjargs. Gengið var norður með Æsubúðum og síðan í hálfhring niður að brún Geitahlíðar ofan við Stóru-Eldborg.

Æsubúðir

Æsubúðir og nágrenni.

Þaðan sjást vel hinir þrír gígar borgarinnar, einnum þó sýnum stærstur, þ.e. Eldborgin sjálf. Geitahlíðin var skáskorin niður að Eldborginni og hún síðan skoðuð betur í nálægð. Auðvelt var að ganga niður gróna hrauntröðina að upphafsstað.
Huga þarf að umgengni við Eldborgina. Ferðamenn hafa sjálfir verið látnir um að að marka stíg upp um hlíðar hennar, en eðlilegast og án minnstu skemmda væri að ganga upp á hana frá gömlu þjóðleiðinni. Þaðan er stutt upp á brúnina og minnsta umhverfisraskið – just að proposal, eins og Norðmaðurinn sagði.
Frábært veður – Gangan tók 1 klst. og 40 mínútur.

Æsubúðir

Æsubúðir efst á Geitahlíð.

Kerlingarskarð

Gengið var upp á Lönguhlíðar (512 m.y.s.) um Kerlingargil og ofan hlíðanna til suðurs að Mígandagróf.

Mígandagróf

Mígandagróf.

Grófin, sem framdalur ofan við brúnina, var tóm vegna undanfarandi þurrka, en litadýrðin var söm við sig. Grænni litur er óvíða til hér á landi í bland við brúnan. Grófin er verðandi skál líkt og sjá má í Vestfjarðarfjöllunum. Þunnt lækkandi haft skilur hana frá hlíðinni. Vatn safnast saman í hana og myndar vænan poll. Þegar blár liturinn fer saman við þann fagurgræna verður til fegurð, sem hvorki sá guli né rauði ná að brjóta upp. Stutt stjórnmálalíking.
Grófin er stundum nefnd Mýgald og hún þá Mýgaldagróf.

Lönguhlíð

Varða á Lönguhlíð vestan Mígandagrófar.

Frá grófinni var haldið að reisulegri útsýnisvörðu fremst á Lönguhlíðum. Útsýni þaðan yfir láglendið og til vesturs með Sveifluhálsi, Núpshlíðarhálsi og Keili er stórbrotið. Í austri blasi Hvirfill við (602 m.y.s.), þá Kistufell, Eldborg og Vörðufell og í suðri bar Æsubúðir við haf og himin.
Haldið var niður hraunfossinn í Fagradalshlíðum, niður í gróinn dalinn og síðan gengið með neðanverðum Lönguhlíðum til baka.
Veður var bjart, stilla og sólskin. Gangan tók 3 og 1/2 klst.

Mígandagróf

Mígandagróf.

Járngerðardys
Tómas Þorvaldsson, barnfæddur Grindvíkingur, nú nýlátinn [2. des. 2008], var manna fróðastur um sögu og örnefni í Grindavík.
Tómas ÞorvaldssonEkki er langt um liðið síðan hann gekk rösklega að Járngerðardysinni við Járngerðarstaði, staðnæmdist og sagði: „Hér er hún“. Um var að ræða gróna þúst undan beygju á veginum framan við Vík. „Sjómennirnir gengu til skips eftir sjávargötunni frá Járngerðarstöðum, staðnæmdust hér við dysina, tóku ofan og fóru með sjóferðarbæn. Síðan gengu þeir sjávargötuna áfram að Norðurvör, hérna fyrir neðan þar sem gamla bryggjan er nú.“
Nokkrum árum síðar lögðu ómeðvitaðir aðkomumenn malbik yfir dysina. Þeir höfðu ekki vit á því að ræða við Tómas áður en gengið var til verksins.
Framangreint er nú rifjað upp vegna þess að Tómas miðlaði af margvíslegum fróðleik um staðháttu í Grindavík fyrrum, benti á örnefni og sagði frá liðnum atburðum og horfnu fólki. Eitt af því, sem kom upp í samræðum við Tómas, voru gamlar þjóðleiðir til og frá Grindavík. Skipsstíginn þekkti hann eins og fingurna á sér, staðsetti Títublaðavörðuna og Dýrfinnuhelli, lýsti leiðinni í gegnum loftskeytastöðvarsvæðið o.m.fl. Skipsstígurinn var meginleiðin milli Járngerðarstaða og Njarðvíkna (Keflavíkur). Vogaveginn þekkti hann og mjög vel, enda meginliðin milli Járngerðarstaða og Innnesja.

Hemphóll

Varða á Hemphól.

Öðrum leiðum átti Tómas ekki jafn auðvelt með að lýsa, enda fæddur um það leyti er fyrsti bílvegurinn var lagður til Grindavíkur árið 1918 (fæddur 1919). Hann hafði þó farið Prestastíginn gömlu götuna norðan Sandfellshæðar) niður að Ósum, nokkrum sinnum austur í Krýsuvík eftir Krýsuvíkurleiðinni, um Hálsana ofan við Keili niður í Hraunin við Hafnarfjörð og auk þess hafði hann einu sinni ungur farið í fylgd manna um Brúnaveginn frá Hauni í Kúagerði og áfram inn til Reykjavíkur. Því miður var ekki rætt við hann nánar um síðastnefndu leiðina, hvorki um staðháttu né legu hennar. Eitt örnefni kom þó við sögu, en það var Presthóll [Hemphóll]. Ýmist var farið um hjallann (sunnan Húsfells) eða upp Skökugil og inn fyrir Mókletta. Hvar leiðin lá nákvæmlega um Brúnirnar efst í Strandarheiði liggur ekki ljóst fyrir. Það verður því verkefni næsta vors að sporrekja heiðina ofanverða með það að markmiði að reyna að staðsetja þennan svonefnda Brúnaveg.

Sigurður Gíslason

Líklega hefur leiðin ekki verið fjölfarin, en þó hefur hún verið farin af mönnum er þekktu vel til staðhátta og vissu hvernig og hvar væri hægt að fara auðveldlega á millum svæða á sem skemmstum tíma.
Sigurður Gíslason, bóndi á Hrauni, sagðist aðspurður oft hafa heyrt förður sinn, Gísla Hafliðason, tala um  Brúanveginn. Sjálfur hefði Sigurður ekki farið þá leið, en hún hefði verið aðalleiðin frá Hrauni niður í Kúagerði fyrrum. Farið var þá upp með Húsfelli og inn með því að vestanverðu, áfram inn á Sandakraveg og áfram norður með vestanverðu Fagradalsfjalli, inn á Brúnirnar og á ská niður í Kúagerði. Faðir hans, sem hafi verið frár á fæti, hefði yfirleitt farið þessa leið einn eða sem fylgdarmaður með öðrum fyrir og eftir aldamótin 1900.

Reykjanes

Reykjanesskagi – fornar götur.

Brennisteinsfjöll

Haldið var upp á Lönguhlíðar um Kerlingarskarð og þaðan upp í Kistudal. Dalurinn skartaði sínu fegursta svo stuðlabergið naut sín vel.

Námuhvammur

Tóftin í Námuhvammi oafn við brennisteinsnámurnar.

Skoðaðar voru brennisteinsnámurnar í Brennisteinsfjöllum og þátttakendur fundu það sem leitað var að – minjar um bústaði námumanna. Minjarnjar eru í gili undir hlíðum fjallana og mjög heillegar þrátt fyrir að hafa verið yfirgefnar í um 140 ár.
Gengið var um Grindarskörð á bakaleiðinni. Á leiðinni mátti sjá norðurljósin í sinni fegurstu mynd. Þau eru hvergi fallegri en þar sem engra ljósa frá byggð nýtur við.
Norðurljósin munu verða til vegna þess að frá sólinni berst í sífellu svonefndur sólvindur sem er straumur rafhlaðinna agna. Þegar vindurinn nálgast jörðina hrindir segulsvið jarðarinnar honum frá sér nema í kringum segulpólana. Þar sleppur eitthvað af ögnunum inn í segulsviðið.

Norðurljós

Norðurljós.

Þegar eindirnar rekast á lofthjúp jarðar, í um 100-250 km hæð örvast sameindir og frumeindir í hjúpnum og þær senda frá sér sýnilegt ljós sem við köllum norður- eða suðurljós.Margir af litum norðurljósanna myndast við svokallaðar forboðnar færslur eða ummyndanir milli orkustiga í sameindum og frumeindum í ystu lögum lofthjúpsins.
Sjaldgæf rauð norðurljós eru komin frá súrefni í mikilli hæð, yfir 200 km. Súrefni í um 100 km hæð myndar skæran gulan og grænan lit sem er bjartasti og algengasti liturinn í norðurljósum. Blár og fjólublár litur kemur frá jónuðum nitursameindum en óhlaðið nitur gefur rauðan lit. Purpurarauður litur við neðri rönd og gáraða jaðra á norðurljósum kemur einnig frá nitursameindum.
Veðrið var í einu orði sagt frábært.

Heimildir m.a.
http://visindavefur.hi.is/svar.asp?id=1512

Kerlingarskarð

Kerlingargil.

Bálkahellir

Haldið var ásamt hellarannsóknarmönnum úr Hellarannsóknarfélaginu í Klofninga til að skoða Bálkahelli, sem FERLIRsfólk endurfann þar s.l. vetur. Þegar þátttaekndur stigu út úr farkostum sínum í upphafi ferðar undir Geitahlíð skalf jörðin líkt og venja er í FERLIRsferðum. Skjálftinn mældist að þessu sinni um 4° á Richter. Sumum varð ekki um sel.

FERLIR

FERLIRsþátttakendur í Bálkahelli.

Um tuttugu mínútur tekur að ganga frá veginum niður í Bálkahelli eftir tiltölulega greiðfærum slóða. Hann er ekki auðfundinn þrátt fyrir stærð, en komið hefur verið fyrir litlum vörðum við opin.
Bálkahellir er um 450 metra langur. Um miðbik efsta hlutans greinist hann í tvennt, en rásirnar koma saman að nýju nokkru neðar. Að jafnaði er hellirinn um 6 metra breiður og 3-5 metrar á hæð og eftir því auðgenginn. Hrun er í efri hluta efsta hluta, en það hættir um miðbik hans. Í loftinu eru fallegar hraunnálar og á gólfinu eru dropasteinar, þ.e. í neðsta hlutanum.
Bálkahellis er getið í gamalli frásögn í umfjöllun um Arngrímshelli, síðar nefndur Gvendarhellir.

Arngrímshellir

Í Arngrímshelli.

Að lokinni skoðun var haldið í Arngrímshelli, hinn fallega fjárhelli með miklum mannvistarleifum, bæði utanhellis og innan, og loks voru skoðuð þrjú önnur jarðföll, sem FERLIR hafði gengið fram á veturinn fyrrum.
Í einu þeirra leyndist nokkur hundruð metra hellir og í öðru urðu rannsóknarmenn frá að hverfa því sá hellir virtist endalaus. Ætlunin er að fara þangað aftur síðar til skoðunar.

Arngrímshellir

Í Arngrímshelli.

Ofangreindir hellar eru líklega með þeim fallegri í nágrenni höfðuborgarinnar. Þeir eru aðgengilegir og auðvelt að ganga að þeim. Staðsetningin er og verður þó að mestu í vitund þess FERLIRsfólks og hellarannsóknarmanna, sem lagt hafa á sig að skoða náttúrugersamirnar.
Veður var frábært (en hvaða máli skiptir það niður í hellum þar sem myrkur ríkir 364 daga á ári (að nýársnótt undanskilinni)).
Gangan og helladvölin tók 4 klst og 4 mín.

Bálkahellir

Bálkahellir – uppdráttur ÓSÁ.

Hraunssel

Farið var yfir Höskuldarvelli, að Sogagíg utan í vestanverðri Trölladyngju og litið á selin og önnur mannvirki þar. Síðan var haldið inn á Selsvellina og staðnæmst við Selsvallaselin eldri sunnan á vestanverðum völlunum.

Selsvellir

Á Selsvöllum.

Eftir að hafa skoðað tóttirnar tvær undir hálsinum uppgötvaðist þriðja tóttin, greinilega sú elsta þeirra, skammt neðar, nær völlunum. Tóttir þessarra eru því a.m.k. 3 talsins. Þá voru Selsvallaselin yngri norðan í vestanverðum völlunum skoðuð, bæði stekkirnir tveir við þrjár tóttir seljanna sem og hlaðinn stekkur norðan við hraunhólana. Hraunhólinn, sem miðselið stendur utan í, er holur að innan, gat er austan í honum og hefur hann greinilega verið notaður sem skjól. Norðvestan við hólinn liggur selsstígur yfir hraunið og áfram að norðurhlíð Hraunssels-Vatnsfells. Selsvallaselin voru útgerð frá Grindavíkurbændum.

Hraunssel

Hraunssel – selsstígurinn.

Haldið var að Hraunsseli neðan við Þrengslin. Eftir að hafa skoðað stekkinn í hrauninu norðan selsins, sem eru þrjár heillegar tóttir undir Núpshlíðarhálsinum, kom í ljós ein tótt, greinilega elst þeirra, neðar og á milli tóttana og stekksins. Sunnan við þennan hlaðna stekk var annar mun eldri. Verður því þetta seinna sel nefnt Hraunssel eldra (332), en þau undir hlíðinni nefnd Hraunssel yngri. Selsstígur liggur frá selinu að suðurhlíð Hraunssels-Vatnsfells.

Hraunsselið er síðasta selið, sem lengst var brúkað á Reykjanesi, eða allt til ársins 1914. Haldið var norður fyrir Fellið og síðan til vesturs norðan þess, niður með austanverðum Merardalahlíðum og áfram niður með Einihlíðum vestan Sandfells. Þessi leið er mjög auðfarin, melar og móar.

Hraunssel

Í Hraunsseli.

Þegar komið var langleiðina niður að Bratthálsi var vent til norðurs upp Lyngbrekkur og upp að gili, sem aðskilur þær frá Langahrygg. Þar niðri í því og upp með hlíðum Langahryggs liggja leifar flaks amerískrar flugvélar er fórst þar á stríðsárunum. Einn hreyfillinn liggur með öðru dóti í gilinu. Annað, þ.e.a.s. það sem ekki var fjarlægt á sínum tíma, er dreift um hlíðina og upp á hryggnum. Frá Lyngbrekku var haldið niður að gömlu þjóðleiðinni er lá þarna um Drykkjarsteinsdal, austur að Méltunnuklifi og áfram austur. Leiðin er þarna mjög greinileg og óspillt. Loks var haldið vestur með Slögu, niður í Drykkjarsteinsdal, Drykkjarsteininn skoðaður, en skálar hans voru skráþurrar aldrei þessu vant, og ferðin enduð á Ísólfsskálavegi.
Frábært veður.

Hraunssel

Hraunssel- uppdráttur ÓSÁ.