Tag Archive for: Grindavík

Hóp

Um var að ræða fyrsta áfanga af fjórum í menningar- og sögutengdri ferð í boði Grindavíkurbæjar og Saltfiskssetursins í tilefni að Gönguhátíð í Grindavík 2009.
KvíabryggjaFerðin hófst við Saltfisksetrið, Hafnargötu 12a. 105 manns gengu niður á hafnarsvæðið, Kvíabryggju, þar sem rifjuð var upp 70 ára gömul saga af forsögu og opnun Hópsins. Rifið var grafið út árið 1939 með handafli og Hópið opnað fyrir vélbátum þess tíma. Áður höfðu Hópsbændur opnað rifið á öðrum stað fyrir umferð smærri árabáta. Alla tíð síðan hafa verið framkvæmdir í Hópinu er ýmist hafa miðað að því að dýpka það eða byggja viðlegu- og löndunarbryggjur. Í dag er Grindavíkurhöfn ein besta höfn landsins og um hana fara mest aflaverðmæti á ári hverju.
Staldrað var við Fiskmarkaðinn og aðstöðu Björgunarsveitarinnar Þorbjörn áður en rifjuð voru upp eyktarmörk tengd Miðaftanshól.

Hópurinn

Þá var gengið að tóftum gamla Hópsbæjar og Neðri-sundvörðu. Þar var vígt fimmta söguskiltið sem sett er upp í Grindavík og nú í Hópshverfi. Þar mátti má sjá ýmsar minjar, s.s. tóftir gamla torfbæjarins á Hópi og jafnvel minjar um landnámsskála Molda-Gnúps, landnámsmanns Grindavíkur.
Gengið var með strandlengjunni áleiðis að Eyjagarði, hafnarbakkanum sem reistur var í Vestmannaeyjagosinu, og að minjum á Hópsnesi. Í ferðinni var og ýmislegt skoðað sem fyrir augu bar á leiðinni. Maríuvöndullinn var t.d. í miklum blóma í austanverðu Hópstúninu þessa kvöldstund.

Miðmundarhóll

Þegar komið var að söguskiltinu við Hóp mátti m.a. lesa eftirfarandi: „Þú ert ofan við Vatnstanga norðan við Hópið, núverandi hafnarlægi Grindvíkinga. Til hægri handar eru tóftir gamla bæjarins á Hópi. Í Manntali 1880 var bæjarstæðan nefnd Stóra-Hóp og Litla-Hóp, en í Manntali 1910 nefndist hún Austur-Hóp og Vestur-Hóp. Þar var þríbýli frá 1850 og fram í byrjun 20. aldar. Gamli bærinn mun hafa verið rifinn um 1930. Tröð lá upp með vestanverðum bænum upp að túngarðinum. Önnur tröð lá frá bænum áleiðis niður á Vatnstanga. Fjaran var rétt neðan við bæinn, en gerð var uppfylling á henni eftir miðja 20. öld þar sem nú er vegurinn (Bakkalág).

Hóp

Húsið Hóp var byggt árið 1935 af Einari Einarssyni í Garðhúsum og húsið Sjónarhóll var byggt af Guðmundi Þorsteinssyni árið 1951. Á túnakorti frá 1918 var hlaðin sundvarða þar sem íbúðarhúsið er nú. Rétt neðan við húsið Hóp er rúst. Hún mun vera leifar þurrabúðar sem byggð var ábúanda um tíma frá Þórkötlustöðum fyrir aldamótin 1900. Útihús var þarna skammt vestar.
Í Manntölum frá ýmsum tímum má sjá bæði tengsl og nöfn íbúanna á ýmsum tímum. Frændsemi hefur löngum verið mikil og náin milli íbúa hverfanna í Grindavík. Fremsta tóftin (suðvestanvert) við gamla Hóp er svonefnt Goðhús eða Goðatóft. Hún var friðlýst 1930. Nafnið bendir til þess að tóftin sé mjög gömul. Hún hefur verið endurbyggð til annarra nota líkt og flest önnur mannvirki á svæðinu.

Goðatóft

Í túninu við Hóp eru leifar gamalla mannvirkja, s.s. gerðið og Gerðishúsið (Gerðatóft), sem ekki hafa verið rannsökuð, svo og gamlar götur. Enn má sjá leifar gömlu Hópsbæjanna, Melbæjar, Hópskots, Hópsness og Ness (síðasta íbúðarhúsið var flutt yfir Hópið á bát og er nú Túngata 9), auk minja verbúðar frá Hópi ofan við Hópsvör, þurrkgarða og ískofa. Elsta bryggjan neðan við Hópskot er sýnd á uppdrættinum, en hún er nú horfin og aðrar nýrri teknar við hlutverki hennar.
Auk örnefnanna má sjá ýmiss gömul mannvirki í Hópinu á þessu sögu- og minjakorti.

Landnám

Gerðistóft

Molda-Gnúpur nam land í Grindavík, en hvar…..? Bjó Molda-Gnúpur að Hópi? Eða kannski einhver sona hans?
Í Landnámu segir að „Maður hét Hrólfur höggvandi; hann bjó á Norðmæri, þar sem hét Moldatún. Hans synir voru þeir Vémundur og Molda-Gnúpur; þeir voru vígamenn miklir og járnsmiðir …. Gnúpur fór til Íslands fyrir víga sakir þeirra bræðra… En um vorið eftir fóru þeir  Molda-Gnúpur vestur í Grindavík og staðfestist þar; þeir höfðu fátt kvikfjár. Þeir voru þá fulltíða synir Molda-Gnúps, Björn og Gnúpur, Þorsteinn hrungnir og Þórður leggjaldi.“

 

Ískofi

Hér að framan er einungis sagt Grindavík en ekki nákvæmlega hvar. Í örnefnalýsingu um Hóp í Grindavík sem Ari Gíslason skráði segir m.a. um jörðina Hóp, „sem hefur um langt skeið hefur verið miðsvæðis og ein af lykiljörðum byggðalagsins: Hóp í Grindavík er næsta jörð vestan við Þórkötlustaðahverfi. Bærinn stendur niður við sjó, við Hópið, sem hann dregur nafn af. Sagt er, að hann hafi upphaflega verið nefndur Hof, og er hér gömul goðatóft til. Sagt er, að Hofsnafnið finnist og í gömlum heimildum.
Vestan við túnið á Hópi er Eystri-Vikradalur. Vestan hans er stór hóll, sem heitir Miðaftanshóll. Hann er eyktamark frá gamla bænum.“

Gamla

Á túninu umhverfis gamla bæinn eru jarðlægar tóftir og garðar svo til við hvert sjónmál. Garðarnir eru greinilega misgamlir og hafa flestir þeirra eldri verið sléttaðir út. Ofan við gamla bæjarhólinn, norðvestan fjárhúsanna má greina 5 tóftir, auk matjurtargarða. Heimtröðin sést vel vestan við hólinn og suðvestan við Goðatóftina fyrrnefndu. Jarðlægur vörslugarður hefur verið í boga ofan við gamla bæinn, en hann síðan verið færður út og stækkaður og auk þess hefur verið hlaðinn garður til norðurs. Innan gamla garðsins og ofan gamla bæjarhólsins er forvitnileg jarðlæg rúst með görðum til beggja átta er teygja sig að gamla garðinum. Við norðvesturhornið hefur verið hlið. Nokkru vestar í túninu eru tóftir nýrri útihúsa. Forvitnilegasta rústin er þó sú minnst sýnilega í túninu. Hún virðist vera leifar af fornum skála er snýr til SV og NA. Stærðin á mannvirkinu er svipuð skála þeim er sjá má í Húshólma og lögunin er áþekk. Um er að ræða áhugaverðar minjar, sérstaklega með hliðsjón af framangreindri lýsingu í Landnámu.

Hóp

Hópsgatan

Í Jarðabókinni 1703 segir að „öngvar engjar“ séu á Hópi. Þar var þá tvíbýli. „Flæðihætt er fyrir sauð, og líka brýtur sjófargángur túnið, og er hætt við enn meira landbroti.“ Þá eru þarna kýr, hestar og fé hjá báðum ábúendum. „Heimræði árið um kring og lending hin besta sem hjer í sveit er, en ærið lángt að setja, nema með flóði verði lent. Þar gánga vetur og sumar skip heimabænda. Item áttrætt skip stólsins og fylgir því búð og vergögn, sem hvorutveggja er innkomið í tíð Mag. Brynjólfs, en var ekki fyrr.“ Þá segir að „fjörugæði eru mikil til beitar fyrir fje á Hópi.“
Bærinn varð snemma eign Skálholtsstaðar. Verminjarnar ofan við Hópsvör virðast skv. þessu því geta tengst útveri Skálholtsstóls á staðnum. Árið 1840 er „Miklar innnytjar eru við jörð þessa af Hópinu, ef notkaðar væru. Í því veiðist mergð hrognkelsa eftir Jónsmessu, einnig silungur og mikill áll, en við ekkert þetta er sú ástundun höfð sem skyldi, og engir viðburðir Austanvið tvennt það síðarnefnda.
Veiðst hefir þar líka selur og lax, þótt minna fengist með jafnri viðleitni sem hið þrennt fyrst talda; þegar fiskur gengur grunnt, hefir þar inni þorskur fengist og þyrsklingur, en sú veiði er samt ekki teljandi.“ Í Landnámi Ingólfs segir að „á bæ þessum bagar vatnsleysi til neyslu.“ Þar stingur skökku við því ferskvatnsuppspretta kemur undan landinu í fjörunni við Vatnstanga. Í fjöruborðinu hefur því verið mikið og fjölbreytt lífríki frá náttúrunnar hendi þar sem ferskvatnið kemur undan berginu og sameinast sjónum.
Árið 1847 var jörðin seld í tvennu lagi (Stóri- og Litliparturinn) eftir afsalsbréfum 8. ágúst 1787 og 26. janúar 1791. Tvíbýli var á Hópi alla 19. öldina, en frá 1850 þríbýli og var þriðji parturinn nefndur Litla-Hóp frá 1880, sem fyrr er lýst.
MaríuvöndullInn á Túnakort 1918 er býlið Hópsnes merkt. Bærinn mun hafa staðið á hól, sem notaður var í vegagerð á 7. áratugnum og er bæjarstæðið sjálft því horfið. Skv. lýsingu Huldu D. Gísladóttur (f:1918) stóð bærinn ofan við núverandi smábátahöfn, sunnan við Skiparéttina. Hann hafi jafnan verið nefndur Hópsnes, en ábúandinn í hennar tíð gjarnan kenndur við „Nes“, t.d. Guðmundur í Nesi.
Á tjaldstæðinuÍ bréfi um byggingu jarða Skálholtsstóls í Grindavík frá 1563 er boðið að breyta bænhúskúgildum þeim sem voru á Hrauni, Þórkötlustöðum og Hópi í leigukúgildi. Gæti það verið vísbending um bænhús á Hópi. Í manntali 1703 er getið um hjáleigu á Hópi, en hennar er ekki getið í Jarðabók frá sama ári eða öðrum heimildum.

Pálmar

Melbær er merktur inn á túnakort frá 1918. Þar var um 160 m norðnorðvestan við bæ. Bærinn stóð rétt norðan við þar sem gamalt bárujárnshús stendur nú, rétt norðan við íbúðarhúsið á Hópi I. Nú er þar sléttað tún. Gerðatóft, útihús, er fast norðan við bæjarhólinn. Það er merkt á túnkort 1918. Þrátt fyrir að sléttað hefur verið yfir húsið má greinilega merkja útlínur þess. Það hefur verið 12×18 m að stærð og virðist hafa verið einfalt. Út frá vesturhlið má grein garðlag sem og út frá austurhlið þess. Mun þetta vera gerðið sem húsið var kennt við.
Austanvert við túnið er svonefnt Vatnsstæði. Milli þess og Skiparéttar er hraunhryggur eða strýta, sem heitir Álfakirkja. Kletturinn er í mosa- og grasigrónu hrauni. Hann er aflíðandi og grasivaxinn að norðan en að sunnan skín í klöppina. Frá jafnsléttu er kletturinn um 3 m á hæð. Skiparéttin er suður af Vatnsstæðinu. Þetta var grjótrétt, sem skipin voru sett upp í. Hún sést enn og er 12×12 m að stærð. Veggir hennar eru nokkuð hrundir. Tóftin er einföld ef frá er talinn krókur, sem er á henni austarlega. Loftur Jónsson segir um Vatnsstæðið: „Þar sem mýrin sunnan við þar sem fyrirtækið Stakkavík er nú var vatnsstæði þar sem sjór rann í á flóði. Þetta var þó nokkuð stór tjörn. Ósinn inn í vatnsstæðið var það mikill að ekki var hann fær þurrum fótum á flóði. Einhverntíma þegar dýpkun fór fram í höfninni var botndrullu dælt í þetta vatnsstæði og það fyllt upp. Smám saman greri þetta upp.“

Hópsnes

Tóft á Langhól.

Langhóll er austan við Síkin, fast vestan við veginn er liggur suður á Hópsnes. „Álfarnir sem þar bjuggu, sóttu kirkju í Álfakirkjuna,“ segir í örnefnaskrá. Nyrst á Langhól er tóft og bogadregin grjóthleðsla liggur yfir Síkið. Önnur tóft er sunnar á hólnum. Þetta eru leifar frá því að Hóp hafði útgerð ofan við Hópsvör. Hleðsluleifar eru í hrauninu á Hópsnesi. Þetta voru herslugarðar. Fyrir neðan Hóp eru Vötnin og Vatnatangi (Vatnstangi), en í Vötnunum var þveginn þvottur frá Hópi. Í Vatnatanga sóttu húsfreyjur að Hópi vatn í kaffið og þótti hvergi betra vant á þessum slóðum,“ segir í Sögu Grindavíkur.
Öskuhóll er hóll, fullur af gamalli ösku. Hann er beint norðan við eystri Hópsbæinn. Hóllinn er í sléttuðu túni, grasi gróinn. Hann er 25×15 að stærð. Gömul rudd leið liggur úr túni á Hópi til austurs óræktina, í átt að Þórkötlustöðum. Leiðin Þátttakendurliggur til austurs í svipaðri hæð í túninu og Hópsbæirnir standa nú. Slóðinn liggur í jarðri túnsins og í um 50 m áður en hann kemur að girðingu, sem girðir af Hópstún, og vegi sem liggur þar til suðurs að Bakkavör. Slóðinn er svo aftur greinilegur austan vegarins og þar liggur hann út hraunið til austurs.
Gömul þjóðleið liggur ofan við Hóp áleiðis í Voga. Um var að ræða svonefnda Skógfellsleið, sem einnig var nefnd Vogavegur. Leiðin milli byggðalaganna liggur að mestu um hraunlendi, en kaflinn milli Skógfellanna er djúpt markaður í slétta hraunklöppina. Hann er um 16 km, en bæði greiðfær og áhugaverð gönguleið.

Hafnargerð
BrekkuÁ fyrri öldum, og allt undir síðari heimsstyrjöld, ýttu Grindvíkingar bátum sínum á sjó og lentu í vörum. Var þá oftast svo, að ein vör a.m.k. fylgdi hverju lögbýli. Þær voru flestar við vík eða víkur, sem gengu inn í ströndina. Í þeim var eilítið meira skjól en utar, brimaldan sumstaðar lítið eitt minni og setningurinn nokkru hægari. Í flestum þeirra var þó lending bæði bág og hættuleg.
Engum sögum fer af lendingabótum í Grindavík fyrir 1800. Bændur hafa vafalaust hreinsað varirnar eftir því sem þörf krafði og kostur var, en meira gátu þeir ekki. Gefur og auga leið, hve mikil og erfið vinna það hefur verið að halda vörunum sæmilega hreinum. Hafið er á sífelldri hreyfingu og skolar sandi og grjóti upp á ströndina, og þegar gerði stórbrim og flóð, bárust oft stórgrýtisbjörg upp í varirnar svo þær urðu ónothæfar.

Þátttakendur

Engar heimildir eru um að hugað hafi verið að hafnargerð fyrr en kom fram á síðari hluta 18. aldar. Þá lét Guðmundur Runólfsson, sýslumaður, mæla Hópið og ósinn, en ekkert varð af framkvæmdum. Hefur verkfæraleysi og e.t.v. skortur á mannafla, að líkindum valdið mestu.
Á 20. öld hafa gríðarlegar breytingar orðið í hafnarmálum í Grindavík og mun vart ofsagt, að hvergi annarsstaðar á landinu hafi skipt svo mjög um til hins betra í þessum efnum. Árið 1902 fól hreppsnefnd þeim Einari Jónssyni, hreppsstjóra, og Erlendi Oddsyni, að mæla dýpi og stærð Járngerðarstaðavíkur og ef unnt er að gera uppdrátt af höfninni. Ári síðar ákvað hreppsnefndin að skoða Hópið og kanna hvað mundi kosta að gjöra innsiglingu fyrir haffær skip svo þar gæti orðið öruggt skipalægi. Ljúka átti því verki fyrir alþingi 1905.

Hópið

Fjórtán árum síðar (1917) komust hafnarmálin aftur á dagskrá í Grindavík. Einar G. Einarsson, kaupmaður í Garðhúsum, tók sér penna í hönd og skrifaði Stjórnarráði Íslands. Í bréfinu óskaði hann eftir því, að varðskip yrði fengið til að gera frumkönnun á innsiglingu og höfn í Grindavík. Sumarið 1919 voru gerðar mælingar í Járngerðarstaðavík og lagt til að byggður yrði lítill steypugarður á rifið suðaustur af Akurhúsanefi til skjóls fyrir lendinguna. Þessari álitsgerð fylgdi uppdráttur, er sýndi legu garðsins. Dýrara var talið að dýpka Hópið og gera innsiglingu inn í það, og reyndar óvíst, hvort hugmyndin væri framkvæmanleg.
Árið 1925 gerði mikið sjávarflóð í Grindavík er eyðilagði allmikið af húsum og skemmdi stórkostlega uppsátrið. Einar G. Einarsson hélt áfram að ýta á Stjórnarráðið um úrbætur. Athuganir voru gerðar og tillögur lagðar fram. Einar lét gera teikningu af bryggju við varirnar í Járngerðarstaðahverfi og sendi Alþingi með beiðni um fjárstyrk. Benti hann m.a. á að allar vörur, sem fluttar voru til Grindavíkur sjóleiðis hafi orðið að bera á bakinu og klöngrast með langa leið yfir hált og óslétt fjörugrjót.

HÓPIÐ

Bryggjusmíði hófst þó ekki fyrr en á árunum 1931-1933, en þá voru gerðar þrjár bátabryggjur, ein í hverju hverfi. Þörf fyrir bryggju hafði vaxið mjög í víkinni er vélbátaútgerð hófst þar árið 1928.
Bryggjan í Járngerðar-staðahverfi var byggð á árunum 1931-1932. Hún var með steyptum veggjum og þekju, grjótfyllt og hallaði í sjó fram. Náði endi hennar u.þ.b. einn metra út fyrir stórstraumsfjöru-borð. Alþingi greiddi þriðjung kostnaðarins en heimamenn tvo þriðju hluta. Þrátt fyrir mikinn fögnuð Grindvíkinga með bryggjuna þótti hún helst til of stutt. Árið 1933 var bryggjan lengd.
HópSem fyrr varð að setja bátana í naust að kvöldi. Næsta skref var að gera varanlega höfn, þar sem allur bátaflotinn ætti öruggt lægi í öllum veðrum. Enn tók Einar G. Einarsson sig til árið 1938 og ritaði vitamálsstjóra bréf. Bað hann um hæfan mann til að athuga hvort tiltækilegt væri að grafa skurð í gegnum grjót og malarrif það, sem lokar Hópinu. Einnig lagði hann til endurbætur á bryggjunni.

Grindavik

Árið 1939 hófust framkvæmdir við að opna Rifósinn. Get var ráð fyrir að reisa bráðabirgða stíflugarð við efra mynni væntanlegrar rásar, þannig að vatnið héldist inni í Hópinu um fjöru svo hægt væri að vinna 4-5 tíma að dýpkun um hverja fjöru. Handverkfæri voru notuð til að losa grjót og handbörur til að flytja það til. Í september var búið að gera 10 m breiða rás í gegnum eiðið og svo djúpt niður, að fiskibátarnir flutu inn og út um hálffallinn sjó. Hinn erfiði setningur bátanna eftir hvern róður heyrði þá sögunni til. Eftir affermingu voru bátarnir færðir inn í Hópið og lágu þar til næsta róðurs.
Árið 1945 var “grafvél” Reykjavíkurhafnar notuð til að breikka og dýpka innsiglinguna og um leið grafin renna upp að bryggju í Hópinu, sem gerð var 1944.

Leiðsögn

Árið 1947 var gerður skjólgarður frá svonefndum Svíra og fram á Rifið, auk þess sem byggð var ein bryggja af þremur, sem áætlun hafði verið gerð um í Hópinu. Fé til framkvæmdanna var tekið að láni og þótti sumum nóg um. Aðkomubátum fjölgaði hins vegar svo ört við úrbæturnar að krafa var gerð um enn frekari framkvæmdir í höfnini. Síðan hefur stöðugt verið unnið að úrbótum og betrumbótum á hafnaraðstöðinni í Grindavík.
Byggingar- og framkvæmdarsaga Grindavíkurhafnar er ævintýri líkust. Árið 1939, þegar hafist var handa um dýpkun innsiglingarinnar, bjuggu grindvískir sjómenn enn við hafnleysi. Frá árinu 1939 hefur hver stórframkvæmdin rekið aðra, og þegar lauk því tímabili, sem hér er til umfjöllunar, áttu Grindvíkingar eina bestu og fullkomnustu höfn á suðurströnd landsins.
Göngunni lauk með söngskemmtun á nýju tjaldstæði Grindarvíkur. Pálmar Guðmundsson leiddi sönginn. Hann mun að sögn hafa staðið Brekkusöng Árna nokkurs Johnsen lítt að baki.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 11 mín. 

Gangan

Óbrennishólmi

Gengið var inn í Ögmundarhraun frá Lat áleiðis í Óbrennishólma. Gata liggur niður með vestanverðum Lat og beygir til austurs sunnan hans. Stígnum var fylgt yfir úfið hraun, en þegar því sleppti lá gata til hægri niður í hraunið.

Sængukonuhellir

Sængukouhellir vestan Óbrennishólma.

Eftir að hafa fylgt henni spölkorn var komið að skúta með fallegri dyralaga hleðslu. Um er að ræða rúmgóðan skúta, sem lengi var notaður sem sæluhús á ferðalögum fólks að og frá Grindavík á leið þess með ströndinni. Loftop er á skútanum og hleðslur umhverfis það. Hurðarhellan er enn til hliðar við dyrnar. Skútinn hefur í heimildum verið nefndur „Sængukonuhellir“.

Óbrennishólmi

Fjárborgin, eða virkið, í Óbrennishólma.

Gengið var áfram austur stíginn að Óbrennishólma. Hann skiptist sumstaðar í tvennt, en ráð er að fylgja ávallt efri stígnum – nær hraunkantinum – því hann er greiðfærari. Annars er stígurinn auðgenginn. Þar sem stígurinn liggur alveg við hraunkantinn má sjá, ef vel er gáð, stíg liggja inn á kantinn. Best er að fylgja honum og er þá komið á gróið svæði eftir að hafa farið yfir stutt hraunhaft. Í stað þess að fylgja hraunkantinum þarna til austurs var gengið upp á tiltölulega slétt mosahraun í norðaustur. Framundan sést úfnara hraun, en upp með því að vestanverðu liggur góð gata upp úr hólmanum til norðurs, í átt að Latsfjalli. Þessari götu var fylgt spölkorn upp fyrir úfna hraunið, en þar kemur stígur inn á götuna úr suðaustri. Gatan heldur áfram upp hraunið, en ákveðið var að fylgja stígnum áleiðis niður í hólmann. Stígurinn er breiður á kafla og greinilega mikið farinn. Hann kemur ofan í hólmann vestan og ofan við hæsta hólinn þar sem stóra fjárborgin (virkið) trjónir upp á. Í stað þess að fara þarna inn í hólmann var gengið til austurs ofan við gróna svæðið í hólmanum.

Óbrennishólmi

Óbrennishólmi – uppdráttur ÓSÁ.

Komið var að görðunum utan í hraunkantinum úr vestri, en þeir eru í grónum rana norðaustan í hólmanum. Hraunið, sem rann um 1151, hefur runnið þarna að hlöðnum görðum og sjást þeir vel í kantinum. Þessir garðar, að vestanverðu í lænunni, hafa legið í boga upp hæð, en auk þeirra má sjá annan garð liggja niður með lænunni að austanverðu. Hraunkantinum var fylgt áfram til austurs og var þá gengið yfir hraunhaft og inn í gróið svæði ofan þess. Þar sem gengið var inn á svæði sást móta fyrir garði. Á austanverðu svæðinu eru leifar fjárborgar eða topphlaðins húss. FERLIRsfélagar hafa komið þarna tvisvar áður, en ekki fyrr rekið augun í borg þessa.
Veður var frábært – sól og blíða. Gangan tók 1 ½ klst.

Sængurkonuhellir

Sængurkonurhellir.

Hóp

Hverfin í Grindavík eru þrjú; Þórkötlustaðarhverfi austast, Járngerðarstaðarhverfi í miðið og Staðarhverfi vestast. Hér er gengið um miðhverfið (fyrri hluti). Molda-Gnúpur nam land í Grindavík, en hvar…..

Grindavík

Grindavík – neðri Hópsvarðan (innsiglingarvarða).

Árið 1703 voru „öngvar engjar“ á Hópi. „Flæðihætt er fyrir sauð, og líka brýtur sjófargángur túnið, og er hætt við enn meira landbroti.“ Bærinn varð snemma eign Skálholtsstaðar, líkt of flestir útvegsbæir á suðurströnd Reykjanesskagans.
Árið 1840 er „jörð þessi miður ræktuð en skyldi, bæði að túnum og húsum, og er þó eigi að maklegheitum. Ekki eru tún þar eins slétt sem á Stað eða Tóttum og mega þó eigi þýfð heita. Miklar innnytjar eru við jörð þessa af Hópinu, ef notkaðar væru. Í því veiðist mergð hrognkelsa eftir Jónsmessu, einnig silungur og mikill áll, en við ekkert þetta er sú ástundun höfð sem skyldi, og engir viðburðir við tvennt það síðarnefnda. Veiðst hefir þar líka selur og lax, þótt minna fengist með jafnri viðleitni sem hið þrennt fyrst talda; þegar fiskur gengur grunnt, hefir þar inni þorskur fengist og þyrsklingur, en sú veiði er samt ekki teljandi.“ Í Landnámi Ingólfs segir að „á bæ þessum bagar vatnsleysi til neyslu.“

Hóp

Hóp – túnakort.

Árið 1847 var jörðin seld í tvennu lagi (vesturparturinn og austurparturinn) eftir afsalsbréfum 8. ágúst 1787 og 26. janúar 1791. Tvíbýli var á Hópi alla 19. öldina, en frá 1850 þríbýli og var þriðji parturinn nefndur Litla-Hóp frá 1880. Af sumum er bærinn talið hafa heitið Hof. Bær Molda-Gnúps í Álftaveri austan mun hafa heitið Hof. „Sagt er að bærinn hafi upphaflega verið nefndur Hof, og er hér gömul goðatóft til. Sagt er að Hofsnafnið finnist í gömlum heimildum,“ segir í örnefnaskrá.
Landið er sneið af Þorkötlustaðanesinu og spildan samhliða landi Þorkötlustaða norður til Skógfells. Mikið af landinu er eldbrunnið, en gróið upp aftur á allstórum svæðum. Lón það er bærinn stendur upp frá og dregur nafn sitt af, heitir Hóp. Nú eru þar hafnarmannvirki Grindvíkinga. Ós var á hópinu, austast, stundum nefndur Barnaós því þar munu börn hafa drukknað.
Inn á túnakort 1918 er býlið Hópsnes merkt. Það var um 140 m suðsuðaustan við Hópskot. Húsið hefur verið í námunda við þar sem nú er fiskvinnsluhús við Bakkalág. Bærinn mun hafa staðið á hól, sem notaður var í vegagerð á 7. áratugnum og bærinn því kominn undir veginn.

Grindavík

Grindavík – Hópið.

Gamli Hópsbærinn stóð að hluta þar sem fjárhúsbyggingin stendur nú. Hann hefur þó náð lengra til norðurs þar sem nú eru tún. Tröð lá niður túnið á Hópi. Enn sjást merki um tröðina vestan í bæjarhólnum og má greina hvar hún beygir meðfram honum til austurs. Sléttuð tún eru umhverfis. Tröðin er greinileg á 16 m kafla vestan í bæjarhólnum og beygir meðfram honum sunnaverðum. Á þessu svæði hefur tröðin mótast af bæjarhólnum, en hlaðið hefur verið upp með henni að austan.
„Austur af gömlu traðartóftinni neðan bæjar er Goðatóft“, segir í örnefnaskránni. Goðatóftin er friðlýst frá 25.10.1930. Brynjúlfur Jónsson segir 1903 að „bærinn Hóp hafi upphaflega heitið Hof og að þar hafi verið goðahof“. Þar hafi verið „goðahús“ í heiðni og þess vegna megi aldrei taka það burtu, en samt megi breyta því og nota á hvern hátt sem hentar. „Hafa ábúendur fært sér þetta í nyt; „goðahúsið“ hefir til skamms tíma verið geymsluskemma, en nú er það haft fyrir fjós,“ segir Brynjúlfur. Tóftin er einföld og snýr austur-vestur. Op er syðst á vesturhlið.

Hópsnesviti

Hópsnesviti (Þórkötlustaðanesviti).

Í bréfi um byggingu jarða Skálholtsstóls í Grindavík frá 1563 er boðið að breyta bænhúskúgildum þeim sem voru á Hrauni, Þórkötlustöðum og Hópi í leigukúgildi. Gæti það verið vísbending um bænhús á Hópi. Engar vísbendingar eru um staðsetningu bænhússins, en það hefur þó líklega verið í námunda við bæjarstæðið.
Í manntali 1703 er getið um hjáleigu á Hópi, en hennar er ekki getið í jarðabók frá sama ári eða öðrum heimildum. Frá 1880 og fram yfir aldamótin er þriðja býlið á Hópi nefnt Litla-Hóp í manntölum, og á kortum er sýnt Hópskot suðaustan við bæinn.
Melber er merkt inn á túnakort frá 1918. Þar var um 160 m norðnorðvestan við bæ. Bærinn stóð rétt norðan við þar sem gamal bárujárnshús stendur nú, rétt norðan við íbúðarhúsið á Hópi I. Nú er þar sléttað tún.

Hópssel

Hópssel.

Gerðatóft, útihús, er fast norðan við bæjarhólinn. Það er merkt á túnkort 1918. Þrátt fyrir að sléttað hefur verið yfir húsið má greinilega merkja útlínur þess. Það hefur verið 12×18 m að stærð og virðist hafa verið einfalt. Út frá vesturhlið má grein garðlag sem og út frá asuturhlið þess. Mun þetta vera gerðið sem húsið var kennt við.
Tóft er 10 m norðan við vegarslóðann sem liggur suður Hópsnes. Þar mun hafa verið ískofi, líkt og í Þórkötlustaðanesi. Önnur tóft er fast norðan við Bakkalág með sama brúkunargildi skv. upplýsingum Tómasar Þorvaldssonar.

Ofan við Kambinn er Vatnsgjá. Í henni gætti flóðs og fjöru. Þar upp frá skammt frá vitanum er Látravarða og norður af þeim hólum heita Katlar. Látravarða var í sjónlínu frá Siggu, sem stóð á fjörukambinum, en er nú horfin. Hún var endurhlaðin a.m.k. í tvígang, en Ægir tók Siggu jafnan til sín á ný.

Hóp

Hóp; fornar minjar – uppdráttur ÓSÁ.

Langur klettahryggur liggur til norðurs frá vegarslóðanum um Hópsnesið (nálægt landamerkjum við Þórkötlustaði). Varðan stóð á þessum hrygg, nyrst. Nú er grjóthrúga þar sem varðan var.
Austanvert við túnið er svonefnt Vatnsstæði. Milli þess og Skiparéttar er hraunhryggur eða strýta, sem heitir Álfakirkja. Hún er 5-10 m vestan við vegarslóða, sem liggur suður Hópsnesið. Kletturinn er í mosa- og grasigrónu hrauni. Hann er aflíðandi og grasivaxinn að norðan en að sunnan skín í klöppina. Frá jafnsléttu er kletturinn um 3 m á hæð. Skiparéttin er suður af Vatnsstæðinu. Þetta var grjótrétt, sem skipin voru sett upp í. Hún sést enn og er 12×12 m að stærð. Veggir hennar eru nokkuð hrundir. Tóftin er einföld ef frá er talinn krókur, sem er á henni austarlega. Skiparéttin er um 10 m suðaustan við bílastæði við smábátahöfnina.

Hóp

Minjar í Hópstúni.

Langhóll er austan við Síkin, fast vestan við veginn er liggur suður á Hópsnes. „Álfarnir sem þar bjuggu, sóttu kirkju í Álfakirkjuna,“ segir í örnefnaskrá. Nyrst á Langhól er tóft og bogadregin grjóthleðsla liggur yfir hálft Síkið. Önnur tóft er sunnar á hólnum. Þetta eru leifar frá því að Hóp hafði útgerð ofan við Hópsvör, sem er þarna fyrir utan.
Hleðsluleifar eru í hrauninu á Hópsnesi. Mikið er um hleðslur í hrauninu á þessum stað, sumar hverjar greinileg hólf en aðrar ógreinilegar. Hugsanlega hafa þetta verið herslugarðar.

Hóp

Hóp – gamli bærinn.

Túngarðsleifar sjást 50-60 m ofan við eystri bæ Hóps. Hægt er að greina hvar túngarðurinn hefur legið í vestur frá þessari girðingu, en þar hefur verið sléttað yfir hann. Garðurinn liggur í grasigrónu og sléttuðu túni. Hægt er þó að sjá hvar garðurinn hefur legið til vesturs frá girðingunni austan við Hópstún. Frá girðingunni er um 30 m kafli þar sem einungis er merkjanlegur hryggur þar sem garðurinn var. Þá verður garðurinn greinilegri og sést hann þaðan á um 36 m kafla til vesturs þar til rof er í hann og honum hefur alveg verið rutt á 22 m kafla. Hann birtist aftur þar vestan við á 40 m kafla áður en hann verður enn aftur ógreinilegur og úr honum sléttað. Þó sést hann óglöggt í 35 m til viðbótar sem hæð í túninu uns hann hverfur alveg. Hornsteinn í norðvesturhorni garðsins er enn merkjanlegur í sléttu túninu miklu vestar, en þær garðleifar sem enn sjást á yfirborði.

Hóp

Hópsvör – uppdráttur ÓSÁ.

Austan við garðinn í túninu er brekka, sem heitir Kinn, og rétt við hana er laut, sem heitir Kvíalág. Þar voru kvíar þegar fært var frá. Kvíarnar voru þar sem Hópsvegur liggur niður brekku vestan við túnin á Hópi, milli hans og túnanna.
„Hópsvör er austan við bæinn að Hópi. Austan við vörina heita Vöðlar. Þá er Stekkjarfjara og svo básar, sem heita Heimribás og Syðribás,“ segir í örnefnaskrá. Þar ofan við er Stekkjarbakki og Síkin, feskvatnstjarnir. Hópsbændur reru frá Hópsvör á fyrri tíð. Enn má sjá móta fyrir vörinni utan varnargarðsins á lágsjávuðu. Þar sem garðurinn er nú voru sjóbúðirnar frá Hópi.

Hóp

Hóp – uppdráttur ÓSÁ.

Stekkjarvarða er um 50 m norðan við gatnamót á vegarslóðanum sem liggur út í Hópsnes. Hún stendur þar á hól fast sunnan við vegarslóðann. Varðan er alveg hrunin, en sést grjóthrúga þar sem hún stóð. Hún hefur væntanlega verið kennd við sama stekk og Stekkjarfjara.
Markasteinn var í fjörunni um 60 m vestan við Hópsvita. Á hann voru klappaðir stafirnir LM til merkis um landamerki Hóps og Þórkötlustaða. Hann virðist nú vera horfinn.
Fyrir neðan Hóp eru Vötnin og Vatnatangi (Vatnstangi), en í Vötnunum var þveginn þvottur frá Hópi. Ummerki eftir þvottastaðinn eru nú horfin vegna framkvæmda, en Vatnatangi er beint suður af innsiglingarvörðunni, stundum nefnd Svíravarða, en sú varða mun hafa verið nokkru vestar við Hópið, í Járngerðarstaðalandi. Efri innsiglingavarðan er efst í túninu á Hópi. „Í Vatnatanga sóttu húsfreyjur á Hópi vatn í kaffið og þótti hvergi betra vant á þessum slóðum,“ segir í Sögu Grindavíkur.

Hóp

Hóp.

Öskuhóll er hóll, fullur af gamalli ösku. Hann er beint norðan við eystri Hópsbæinn. Hóllinn er í sléttuðu túni, grasi gróinn. Hann er 25×15 að stærð. Draugur var klettur í túninu á Hópi. Hann er nú horfinn þar sem eru sléttuð tún. Draugar eru víða til, en þeir voru nefndir svo vegna rökkuropinberunarinnar.
Gömul rudd leið liggur úr túni á Hópi til austurs óræktina, í átt að Þórkötlustöðum. Leiðin liggur til austurs í svipaðri hæð í túninu og Hópsbæirnir standa nú. Slóðinn liggur í jarðri túnsins og í um 50 m áður en hann kemur að girðingu, sem girðir af Hópstún, og vegi sem liggur þar til suðurs að Bakkavör. Slóðinn er svo aftur greinilegur austan vegarins og þar liggur hann út hraunið til austurs.
Leifar gerðis eru sunnan við Austurveg. Gerðið er fast vestan við óskýrðan vegarslóða sem liggur frá Austurvegi að olíutönkum. Það er á gróðurlitlu hraunlendi, formlega lagað.
Í efralandinu er Heiðarvarðan í Hópsheiði, en svo nefnist svæðið ofan þjóðvegarins að Þórkötlustaðahverfi. Varðan var innsiglingamerki. Nokkuð hefur hrunið úr vörðunni einkum úr suðurhlið hennar.

Hóp

Hóp – gamli bærinn.

Gjáhóll er austan við Stamphólsgjá. Þarna hafði herinn fylgsni í síðasta stríði. Leifar þess eru að mestu horfnar.
Gálgaklettar eru norðan í Hagafelli. Þar er klettabelti með þessu nafni. Þar segir sagan, að þjófarnir í Þjófagjá hafi verið hengdir. Vestan í Hagafelli er hraunkvísl, sem eins og steypist fram af fellinu. Það heitir Gráigeiri og er gamalt fiskimið (Melhóll í Grágeira). Þar vestan í fellinu er svonefndur Selháls, sem þjóðvegurinn liggur yfir. Selháls er hryggur, sem tengir saman Hagafell og Þorbjörn. Hann er sunnan við Dagmálaholtið. Dagmálaholt mun vera kennt við eyktarmark frá selinu á Baðsvöllum, en það var frá Járngerðarstöðum skv. Jarðabókinni. Einnig er Selháls kenndur við það sel, sem er fast austan við veginn norðan við hálsinn. Þær tættur virðast yngri en Baðsvallaselin. Tóftin er í aflíðandi hæð. Seltóftin er þrískipt. Hún er tæp 12 m á lengd, en 4,5 m á breidd. Op eru á suðurveggjum allra hólfanna, en ekki er greinilegt op á milli þeirra. Tóftin er gróin að utan, en grjóthleðslur sjást að innan.

Skógfellavegur

Skógfellavegur og Sandakravegur.

Skógfellaleið er forn leið milli Grindavíkur og Voga. Við hana eru vörður, sumar fallnar, aðrar endurhlaðnar í seinni tíð. Fast norðan við Austurveg, þar nálega til móts við þar sem Mánagata kemur á veginn er nýlegt minnismerki þar sem Skógfellsleið lá. Leið þessi lá frá merkinu og til norðvesturs út á hraunið. Afleggjarinn lá á hina eiginlegu Skógfellsleið, sem einnig var nefnd Vogavegur og liggur frá Þórkötlustöðum, austur fyrir Stóra Skógfell og í Voga eins og nöfnin gefa til kynna. Leiðin milli byggðalaganna liggur að mestu um hraunlendi, en kaflinn milli Skógfellanna er djúpt markaður í slétta hraunklöppina. Hann er um 16 km, en bæði greiðfær og áhugaverð gönguleið.
Líklegt má telja að Molda-Gnúpur hafi numið land þar sem nú er Hóp og nefnt bæ sinn Hof. Eldgos efra á 12. og 13. öld raskaði byggð í Grindavík sem og á nálægum svæðum, t.d. í Krýsuvík. Eftir það byrjar flækja búsetu í Grindavík, sem enn á eftir að greiða úr.

Heimildir m.a.:
-Saga Grindavíkur.
-Fornleifaskráning FÍ 2002.
-Örnefnalýsing.

Hóp

Hóp – uppdráttur ÓSÁ.

Selatangar

Menningar- og sögutengd gönguhátíð í Grindavík  um verslunarmannahelgina 2008.

Dagskrá:

Föstudagur 1. ágúst:
SandakravegurMæting kl. 20:00 við Saltfisksetrið, Hafnargötu 12a. Gengið verður með leiðsögn um Járngerðarstaðahverfi, gamla bæjarhlutann í Grindavík í 1-2 tíma. Fróðleikur í Flagghúsinu í lok göngu.
Gangan er í boði Grindavíkurbæjar og Saltfisksetursins.

Laugardagur 2. ágúst:
Mæting kl. 11:00 við Ísólfsskála, sem er í um 6 km austur af Grindavík, á Krýsuvíkurleið. Gengið verður með leiðsögn um Selatanga þar sem sjá má minjar um verbúðir og sjósókn fyrri tíða. Síðan verður gengið eftir rekastíg um Katlahraunið sem er líkt og „Dimmuborgir“ með sínum kyngimögnuðu hraunmyndunum. Gangan endar við Ísólfsskála og tekur um 2-3 tíma. Gott er að vera í góðum skóm. Aðstaða er til að grilla á Ísólfsskála í lok göngu. Gangan er í boði Grindavíkurbæjar og Saltfisksetursins.

Sunnudagur 3. ágúst:
Mæting kl. 11:00 við Saltfisksetrið. Ekið með rútu að Móklettum á Krýsuvíkurleið. Gengið verður með leiðsögn um gömlu þjóðleiðirnar, Sandakraveg og Skógfellaveg og endað við Saltfisksetrið í  Grindavík. Svæðið býður upp á  stórbrotna náttúru, jarðfræði og sögu. Gangan tekur um 5-6 tíma. Gott er að hafa með sér nesti og vera í góðum skóm.
Í lok göngu verður boðið upp á heilgrillað lamb á teini í Saltfisksetrinu. Verð kr. 1.200.
Gangan er í boði Ferðamálasamtaka Suðurnesja.

Mánudagur 4. ágúst:
Mæting kl. 11:00 við bílastæði Bláa lónsins – Gengið með leiðsögn um hluta af gömlum þjóðleiðum, Skipsstíg og  Árnastíg að Húsatóftum. Gangan tekur um  3-4 tíma. Svæðið bíður upp á  stórbrotna náttúru, jarðfræði og sögu. Gott er að hafa með sér nesti og vera í góðum skóm. Rútuferð til baka.
Gangan er í boði Bláa Lónsins sem auk þess býður upp á aðgangseyri, 2 fyrir 1 í Lónið í lok göngu.

Ekkert þátttökugjald er í gönguferðir en rútugjald er kr. 500, frítt fyrir börn 12 ára og yngri sem og FERLIRsfélaga. Allir á eigin ábyrgð í ferðum. Kjörið tækifæri til að fræðast, nærast og hreyfa sig í hinu margbrotna umhverfi Grindavíkur.

Gönguhátíðin er liður í viðburða- og menningardagskrá Grindavíkur 2008.

Jángerðarstaðir

Hóp

Bjó Molda-Gnúpur að Hópi? Eða kannski einhver sona hans?

Loftmynd af Hópi

Í Landnámu (IV.hluti) segir að „Maður hét Hrólfur höggvandi; hann bjó á Norðmæri, þar sem hét Moldatún. Hans synir voru þeir Vémundur og Molda-Gnúpur; þeir voru vígamenn miklir og járnsmiðir …. Gnúpur fór til Íslands fyrir víga sakir þeirra bræðra og nam land milli Kúðafljóts og Eyjarár, Álftaver allt; þar var þá vatn mikið og álftveiðar á. Molda-Gnúpur seldi mörgum mönnum af landnámi sínu, og gerðist þar fjölbyggt, áður en jarðeldur rann þar ofan, en þá flýðu þeir vestur til Höfðabrekku og gerðu þar tjaldbúðir, er heitir á Tjaldavelli. En Vémundur, son Sigmundar kleykis, leyfði þeim eigi þar vist. Þá fóru þeir í Hrossagarð og gerðu þar skála og sátu þar um veturinn, og gerðist þar ófriður með þeim og vígafar. En um vorið eftir fóru þeir Molda-Gnúpur vestur í Grindavík og staðfestist þar; þeir höfðu fátt kvikfjár. Þeir voru þá fulltíða synir Molda-Gnúps, Björn og Gnúpur, Þorsteinn hrungnir og Þórður leggjaldi.“
Hér að framan er einungis sagt Grindavík en ekki nákvæmlega hvar í Grindavík. í önefnalýsingu um Hóp í Grindavík sem Ari Gíslason skráði segir m.a. um jörðina Hóp, sem hefur um langt skeið verið miðsvæðis og ein af lykiljörðum byggðalagsins: „Hóp í Grindavík er næsta jörð vestan við Þorkötlustaðahverfi. Bærinn stendur niður við sjó, við Hópið, sem hann dregur nafn af. Sagt er, að hann hafi upphaflega verið nefndur Hof, og er hér gömul goðatóft til. Sagt er, að Hofsnafnið finnist og í gömlum heimildum. Ekki hef eg kannað það. Þó hef eg flett upp einum slíkum stað, en þar er bærinn nefndur Hóp. Þjóðvegurinn liggur rétt ofan við túnið. Landið er því sneið af Þorkötlustaðanesinu og svo spildan samhliða landi Þorkötlustaða norður til Skógfells. Mikið af landinu er eldbrunnið, en gróið upp aftur á allstórum svæðum. Lón það, sem bærinn stendur upp frá og dregur nafn af, heitir Hóp…
Goðatóftin fremst - og gamli bæjarhóllinnAustur af gömlu traðartóftinni neðan bæjar er Goðatóft, gamalt goðahús friðlýst, sem má ekki róta. Vestan við túnið á Hópi er Eystri-Vikradalur. Vestan hans er stór hóll, sem heitir Miðaftanshóll. Hann er eyktamark frá gamla bænum.
FERLIR flaug nýlega yfir Hóp með Ólafi Ólafssyni, bæjarstjóra. Tilefnið var m.a. að ljósmynda gömlu bæjartóftirnar og næsta nágrenni. Útkoman var ótrúleg; á túninu umhverfis gamla bæinn voru jarðlægar tóftir og garðar svo til við hvert augnmál. Garðarnir eru greinilega misgamlir og hafa flestir verið sléttaðir út. Ofan við gamla bæjarhólinn, norðvestan fjárhúsanna má greina 5 tóftir, auk matjurtargarða. Heimtröðin sést vel vestan við hólinn og suðvestan við Goðatóftina fyrrnefndu. Jarðlægur vörslugarður hefur verið í boga ofan við gamla bæinn, en hann síðan verið færður út og stækkaður og auk þess verið hlaðinn garður til norðurs. Innan gamla garðsins og ofan gamla bæjarhólsins er forvitnileg jarðlæg rúst með görðum til beggja átta er teygja sig að gamla garðinum. Við norðvesturhornið hefur verið hlið. Nokkru vestar í túninu eru tóftir nýrri útihúsa.
Forvitnilegasta rústin er þó sú minnst sýnilega í túninu. Hún virðist vera leifar af fornum skála er snýr til SV og NA. Stærðin á mannvirkinu er svipuð skála þeim er sjá má í Húshólma og lögunin er áþekk.
Aðrar minjar eru þekkjanlegar á loftmyndinni, en verða ekki raktar hér. Hins vegar er hér um áhugaverðar minjar að ræða, sérstaklega með hliðsjón af framangreindri lýsingu Landnámu.

Heimildir m.a.:
-Landnámabók – IV. hluti.
-Örnefnalýsing AG fyrir Hóp – ÖÍ.

Hópið

Járngerðarstaðir

Hverfin í Grindavík eru þrjú; Þórkötlustaðarhverfi austast, Járngerðarstaðarhverfi í miðið og Staðarhverfi vestast. Hér er gengið um miðhverfið (seinni hluti).

Járngerðarstaðir

Blóðþyrnir.

Járngerðarstaðir eru ekki síst minnistæðir vegna Tyrkjaránsins 1627, en þá var rúmlega tug hverfisbúa rænt af alsírskum sjóræningjum ofan við Fornuvör, auk nokkurra Dana. Bærinn kom einnig við sögu í Grindavikurstríðinu 1532 þá er heimamenn ásamt liðisinni börðust við enska ofan við Stórubót þar skammt suðvestar (sjá aðrar FELRIRslýsingar).
Árið 1847 voru Járngerðarstaðir eign Skálholtsstaðar líkt og flestir betri útvegsbæir á suðurströnd Reykjanesskagans. „Selstöðu hefur jörðin og brúkar þar sem heitir Baðsvellir. Hjáleigur eru; Vallarhús, Lambús, Kvíhús, Hrafnshús, Akurhús, Gjáhús, Krosshús, Garðhús og Hlaðhús. Búðir til forna voru; Gullekra (tómthús), Krubba (tómthús) og Litlu-Gjáhús, skv. Jarðabók Árna Magnússonar 1703. Þá var „heimræði árið um kring og lending í betra lagi. Engvar öngvar. Jörðin nær frá sjó upp til fjalls eins og önnur býli hér.“
Árið 1803 var Nyrðra-Garðshorn orðin hjáleiga frá Járngerðarstöðum.

Járngerðarstaðir

Tómas Þorvaldsson við Járngerðardys.

Í Landnámi Ingólfs III, segir m.a. að 1840 er „eigi fagurt á Járngerðarstöðum, því þó þar ei sé ýkja illa húsað, þá stendur bærinn og allt hverfi þetta nema Krosshús niður í dæld eða dalverpi, og er þaðan hvergi víðsýnt. Þýfð hafa tún verið á Járngerðarstöðum, en eru mikið sléttuð í seinni tíð af bóndanum Þórði sál. Einarssyni og þar núverandi bónda sr. Einari Jónssyni. Hafa og nokkrir hjáleigubændurnir í seinni tíð þessa jarðarbót eftir þeim upp tekið. Bæði í túninu og utanhúss eru djúpar vatnsgjár, í hverjar sjór fellur að í og út; í sumum þeirra er oft veiddur áll, og mætti þó mikið meira veiða, ef atorka og rækt við höfð. Það hafa Járngerðarstaðir til landkosta fram yfir Stað og Húsatóptir og meiri en nokkurt annað býli í þessari sókn, að fyrst er þar nóg vatn í gjám þessum handa fénaðinum, og svo í öðrum smá stöðutjörnum, eins líka þar er grasgefnast utantúns, þó eigi megi hagar heita. Mætti þó halda þar fáum skepnum heima á sumardag, hvað ekki má heita mögulegt á Stað og Húsatóptum.“

Túnakort

Járngerðastaðahverfi – túnakort 1918.

Árið 1847 voru hjáleigurnar; Kvíhús, Rafnshús, Akurhús, Krosshús, Hóll, Lángi, Gjáhús, Garðhús og Vallhús. Stundum er þá talað um Járngerðarstaðahverfi.
Árið 1840 var skv. sóknarlýsingu tvíbýli á heimajörðinni og fylgdu hverjum parti 5 hjáleigur. Elsta úttekt bæjarins er af Vesturbænum frá 1882. Þar voru þá baðstofa, göng, bæjardyr, skáli, eldahús, búr í norðurenda baðstofu, fjós með 3 básum, hesthús fyrir 3 hesta, heyhús, smiðja, sjómannabúð, fiskhjallur, húsagarður með bæjarrönd, túngarður 160 fðm, traðargarður 85 fðm og kálgarður. Fyrir sumu þessu mótar fyrir enn í dag.

Járngerðarstaðir

Virkið.

Íbúðarhúsið, sem nú stendur á Járngerðarstöðum (Vesturbær) var byggt á síðasta áratug 19. aldar. Húsið er nýlega uppgert og byggt hefur verið við það. Um er að ræða járnbáruklætt timburhús með hlöðnum kjallara. Að sögn eiganda er húsið elsta hús Grindavíkur, sem enn er búið í.
Skjalda var eyðikot 1840. Í sóknarlýsingu segir að það hafi legið í útnorður út við túngarðinn. Líklegast er að Skjalda hafi verið skammt þar frá sem seinna var byggt steinhlaðið útihús við túngarð. Bærinn var sambyggur við túngarðinn vestan við bæinn, norðvestan við heimreiðina. Enn má greina hvar húsið hafði staðið þó að sléttað hafi verið yfir það. Tómas Þorvaldsson, sem fæddur er á Járngerðarstöðum sagði Skjöldu hafa verið eitt fyrsta fátækraskjólið í Grindavík og til merkis um velvild Járngerðisstaðabænda sem og samfélagsins, sem þá var.

Skjalda

Skjalda.

Hlaðhús voru hjáleiga árið 1703. Hennar er ekki getið í tali Johnsens 1847. Ekki er vitað hvar Hlaðhús stóðu og örnefnið er nú týnt. Helst er að giska á að húsið hafi verið í námunda við hlað Járngerðarstaða þar sem nú er malbikaður vegur.
Lambhús voru hjáleiga 1703, „byggð við xx ár.“ Ekki er heldur vitað hvar Lambús stóðu.
Gullreka var tómthús eða sjóbúð. Árið 1703 segir að „til forna hafa hjer verið þessar búðir; Gullreka hefur verið tómthús, búðarleiga var xx álnir.“ Staðsetning Gullreku er nú óþekkt.
Krabba var einnig sjóbúð. „Til forna hafa hjer verið þessar búðir;…Krubba. Og svo tómt hús, búðarleiga xx álnir. Staðsetningin er einnig óþekkt.
Litlu Gjáhús munu hafa verið sjóbúð. „Til forna hafa hjer verið þessar búðir; … Litlu Giahus, hafði grasnyt. Landskyld var 1 álnir.“ Litlu Gjáhús hafa verið í námunda við bæinn Gamla-Gjákot.

Járngerðarstaðir

Tómas Þorvaldsson við Virkið.

Þarna voru tvö býli, einnig nefnd Syðra- og Nyrðra-Gjákot. Bæirnir voru rúmum 20 m austan og (eilítið sunnar) en Vík. Um 20 m norðan við Verbraut, þar sem nú standa útihús. Engin ummerki sjást nú um húsið, en á svipuðum slóðum og það stóð eru nú nokkur útihús.
Nyrðra Garðshorn var eyðihjáleiga 1803 „Nyrðra Garðshorn, hverrar nú eigi er getið.“ Engar sagnir eru uppi um hvar Nyrðra Garðshorn stóð.
Akrahóll og Akrakot voru komin fyrir aldamótin 1900, „hvorutveggja þurrabúð, grasnyt fylgdi ekki,“ segir í athugasemdum við örnefnaskrá. Akrakot var þar sem nú Kirkjustígur 1 og 3, en litlu austar. Leifar garðlaga er þar sem eru bakgarður íbúðarhúsanna.

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir – Hólsgarður neðst t.v.

Hólsgarður er kálgarður/kartöflugarður með grjóthlöðnum vegg í kring syðst í svokölluðu Hólstúni, suðaustan við Tjörnina. Í einu horni hans er útihús (kofi). Þetta er ferhyrnd rúst, sem að sögn Guðjóns Þorlákssonar frá Vík, er gamall hrútakofi frá Járngerðarstöðum. Fast upp við þennan kálgarð (austan við) er annar kálgarður, sem virðist eldri. Hann er svipaður að stærð og sá fyrri, hlaðinn úr torfi og grjóti. Guðjón sagði að svæðið allt, kálgarðanir tveir, hrútakofinn og staðurinn þar sem hann heyrði að kotið hafi legið, hefðu ekkert breyst frá því að hann man eftir sér. Hólsgarður var enn notaður sem kartöflugarður þegar hann var ungur.

Annar kálgarður er merkt inn á túnakort 1918 beint neðan (sunnan við) vesturbæ Járngerðarstaða. Garðurinn sést enn fast sunnan við Vesturbraut, sem liggur framhjá Járngerðarstöðum og áfram til vesturs. Sunnan við garðinn er Dalur (vatnið), en annars eru sléttuð tún umhverfis.

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir og nágrenni.

Kálgarður er einnig frá Vallarhúsum, um 20 m vestan við vegarslóða, sem liggur að sjávarsíðunni þvert á Vesturbraut.
Leifar að garði eru greinilega 100 m norðan við Járngerðarstaði. Garðurinn liggur um sléttuð tún. Hugsanlegt er að hann hafi verið hluti af merkjum milli Járngerðastaða og Garðshúsa eða jafnvel hluti af túngarði við Járngerðarstaði. Annars var víða hlaðið um kálgarða í hverfinu og sjást þeir margir enn, t.d. við Rafnshús.
Traðirnar lágu frá bænum og til suðvesturs. Nú liggur vegur (Vesturbraut) á þessum slóðum og ummerki um traðirnar því horfin. Traðirnar lágu þar sem nú er malarvegur, umhverfis eru sléttuð tún.

Grindavík

Gengið um Grindavík.

Túnhliðið á túngirðingunni að vestan hét Tíðahlið, en þá var grjótgarður í kringum túnið allt. Túngarður sést víða umhverfis tún Járngerðarstaða. Sunnan við tún sést garðurinn austan við Tjörnina og að Vesturbraut.
Athyglisverð þúst er um 30 m suðvestan við girðingu, sem liggur umhverfis Garðshús. Hún er í rennisléttu túninu, um 8 x 5 m að stærð og 0.4 m á hæð. Ekki sjást dokkir ofan í rústina. Þetta er ein þeirra rústa, sem forvitnilegt er að grafa í á svæðinu. Um er að ræða haug þar sem Einar í Garðhúsum dysjaði gæðinga sína með öllum reiðtygjum.
Áður fyrr var svonefnt Hólsbyrgi á grösugri hæð utan túns, í hádegisstað frá Járngerðarstöðum. „Það var austan við Litlubót,“ segir í örnefnaskrá. Á hólnum átti að vera lítil tóft, en hóllinn er nú horfinn vegna vegagerðar.

Járngerðardys

Dys Járngerðar – áður en malbikað var hana.

„Eitt örnefnið var við sjávargötu, þegar gengið var (til skips, sem kallað var) austur að lendingum. Á þá leið gengu sjómenn frá Járngerðarstöðum, Garðshúsum, Vallarhúsum, Velli og Gjáhúsum, nú Vík. Það var lítil mishæð, svo sem 30 fet á lengd og 10 fet á breidd og svo sem 4 fet á hæð, grasi vaxin. Þetta var kallað Járngerður,“ segir í lýsingu. „Þar átti að vera grafin sú merkiskona, sem eitt sinn bjó á Járngerðarstöðum og mátti ekki við leiðinu hreyfa. En nú er það samt komið undir veg. Eitt hornið á leiðinu stendur undan beygjunni á veginum. Brynjúlfur Jónsson skrifar 1902 að hann hafi látið grafa í aflangan bala í túninu á Hrafnshúsum í Járngerðarstaðahverfi. „Reyndist hann gamall öskuhaugur“. Balinn var þar sem Verbraut beygir í átt að Vík. Sagnir eru um að piltar, sem gengu frá Járngerðarstöðum til sjávar, hafi ávallt farið fram hjá leiðinu þar sem það var talið boða lukku. Leiða má að því líkum að Tyrkirnir er hlupu adrinialínsfullir í júnímánuði 1627 upp að Járngerðarstöðum frá Fornuvör með brandinn brugðinn hafi farið sjávargötuna og væntanlega framhjá Járngerðardysinni.

Þyrnir

Blóðþyrnir í Grindavík. Bakki fjær.

Austan Sjólistar, sem síðar er nefnd, eru á bletti sagður vaxa blóðþyrnir þar sem blandaðist blóð heiðinna manna og kristinna. Þyrnirinn er greinilegur milli þess að hann er ekki traðkaður niður af hrossum, sem þar eru höfð í girðingu, fast við veginn norðan við Flagghúsið, sem nú er í endurgerð.
Vallarhúsahola var lind í Dalnum, nokkurs konar uppspretta undir bökkunum. Úr henni, sem og öðrum holum, var tekið allt vatn í bæinn til notkunar fyrir fólkið á Járngerðarstöðum og Vallarhúsum, sem var rétt þar við. Á Járngerðarstöðum voru fyrir og fram að 1900 oft á vertíðum yfir eitt hundrað manns. „Vatn þetta var nú samt salt, sögðu sveitarmennirnir, aðeins jafnsíaður sjór.“

Gerðavellir

Gerðavellir – Junkaragerði. Uppdráttur ÓSÁ.

Hólshola var önnur lind í Dalnum Í Dalsvatni, um 50 m norðan við túngarð var brunnur Hólskots. Lítill tangi út í vatnið. Í dag eru ekki greinanleg ummerki þess hvar vatnið var tekið úr Dalsvatni.
Heimrihola var Brunnur Járngerðarstaða, ýmist nefndur Járngerðarstaðabrunnur eða Hemrihola. Hann var austan við Dalsvatn, nálega þar sem girðing afmarkar nú land Vallarhúsa (norðan við girðingu). Þarna er vík í vatnsbakkann. Umhverfis er grasi vaxið.
Við Stekkjarhóll er heimild um stekk. „Vesturmerki Járngerðarstaða eru frá Markhól, sem er við sjó (grasi vaxinn, ekki hár). Vestan við Markhól er Hvalvík, sem er í Húsatóptarlandi. Austan við Hvalvík er Katrínarvík. Austan við hana er Sandvík. Austan við það eru Hásteinar, sem eru hraunstandar upp úr kambinum. Austan við Hásteina er flöt hella, sem er upp úr um flóð og heitir Hella. Austan við Hellu heitir Malarendi.

Skyggnisrétt

Skyggnisrétt.

Næst Malarenda er Skyggnir, sem er hóll. Litli-Skyggnir var þar skammt vestar, lítill hóll lengra frá sjónum norður frá Stekkjarhól,“ segir í örnefnaslýsingu. Stekkjarhólar/Stekkjarhóll er nokkru vestan við Hásteina og um 130 m austan við Markhól. Hólarnir eru að mestu grasi grónir, en steinar frá sjávarkambinum liggja þó á víð og dreif í hólnum. Stekkurinn var lengi vel greinilegur, en er nú einungis greinilegu „velsjáandi“ augum. Hann er suðvestan í hólnum, gróinn.
Gerðavellir liggja ofan við Skyggni. Ofan þeirra eru Gerðavallabrunnar, en Grindvíkingar kölluðu ferskvatnstjarnirnar ofan strandar jafnan brunna, sbr. Tóftarbrunna og Stakabrunn í Tóptarlandi. „Sagt er að Junkarar hafi lagt upp í Stórubót við Gerðavelli, upp af Skyggnir, vestan við Rásina (affallið). Þar voru á Gerðavöllum allmiklar hlaðnar girðingar gamlar. Á Gerðavöllum er allt fullt af görðum. Þeir eru hlaðnir á tvo vegu við vellina og eiga að vera eftir Junkarana, en þei reru til skiptis eftir veðri úr Grindavík og Höfnum (Njarðvíkum), eftir því sem sögurnar segja. Fóru þeir með skipin á milli, og hét þar Skipastígur,“ segir í örnefnaskrá.

Junkaragerði

Garður við Junkaragerði.

Í Sögu Grindavíkur segir að „munnmæli um útgerð Þjóðverja í Grindavík herma að þeir hafi haft aðsetur á Gerðisvöllum, skammt norðvestur af Stórubót í Járngerðarstaðalandi.“ Þar segir einnig að „á þessum slóðum voru aðstæður að ýmsu leyti hentugar aðkomumönnum, sem stunda vildu útgerð og kaupskap, en þurftu jafnframt að hafa var á sér. Þeir voru utan meginbyggðarinnar í Járngerðarstaðahverfi, og á Stórubót var bærileg höfn kaupskipum og þokkalegur útróðrastaður, a.m.k. yfir sumartímann. Aðstaða til fiskverkunar á Hellunum var góð og vestan Stóru bótar rís hóll sá, sem Skyggnir heitir og er með hæstu hólum í nágrenninu. Frá honum mátti, eins og nafnið bendir til, hafa gát á mannaferðum.“
Sumir telja að á Gerðavöllum kunni að leynast minjar allt frá landnámsöld – ef vel væri að gáð.

Grindavík

Grindavík.

Í örnefnaskrá er getið um „heimildir um „Tyrkjaránið“ 1627. Þær herma að þá hafi danska kaupskipið legið í Járngerðarstaðasundi, og af heimildum um ránið verður ekki annað ráðið en að á þessum tíma hafi búðir kaupmanns staðið í landi Járngerðarstaða. Þar mun verslunin hafa haft bækistöðvar sínar til ársins 1639, en þá hættu kaupmenn að sigla á Grindavík.“ Þegar verslun hófst á ný í Grindavík 1664 var hún færð til Arfadalsvíkur.
Í örnefnaskránni segir að „frá Stórubót liggur Rásin inn í Gerðavallabrunna, sem eru upp af Gerðavöllum. En sjórinn víkkaði hana og brauzt inn á lægra svæði. Sjórinn gengur gegnum Rásina um flóð.“

Norðnorðvestan við Skyggnisrétt, grjóthlaðna hestarétt, má sjá garðlag á Gerðavöllum, sem liggur í tæpra 60 m til vestnorðvesturs, en það beygir til norðurs. Garðslagið liggur um 140 m til norðurs, en beygir þá til austurs í um 90 m áður en það fjarar út um 100 m suðvestan við Rásina. Garðurinn liggur um grasi gróið sléttlendi. garðurinn sést enn tæplega 300 m langur, en er vísðar um 1,5 m breiður. Hann er siginn og aðeins um 0,3 m á hæð.

Jángerðarstaðir

Engelska lág.

Við Engelsku lág er heimild um vígi. Árið 1532 „gerði Jóhann Breiði sér þá vígi eður virkisgarð frá búðum á Járngerðarstöðum, sem enn sér merki og gerði orð með spotti þeim Hamborgurum að sækja til sín skreiðina. Tóku sig til hinir þýsku menn og Bessasta fógeti, og komu óvart um nótt upp í Grindavík, komust upp í virki Jóhanns og slógu hann til dauðs og alla hans menn, en tóku skip og allt það þeir áttu. Þar sést kuml þeirra eða dysjar hjá virkisgarði,“ segir í Skarðsannál.

Gerðavellir

Leifar virkis Jóhanns Breiða við Gerðisvelli í Grindavík.

Í Sögu Grindavíkur segir að „upp af Stórubót, áHellum, sem kallaðar eru, má enn sjá ógrenilegar leifar af virki Englendingsins Jóhanns Breiða. Aðsetur enskra kaupmanna á fyrri hluta 16 aldar var nokkuð fyrir vestan Járngerðarstaðabæinn. Er líklegt að þar hafi útræði þeirra og verslunarhöfn staðið. Á þessum slóðum hefur mikið land brotið á síðustu áratugum, og vafalaust einnig fyrr á öldum. Er því erfitt að gera sér grein fyrir því, hvernig aðstæður hafa verið fyrir nærri hálfu árþúsundi. Þar sem nú er urð og grjót, voru grænir grasbalar fyrir u.þ.b. hálfri öld. Enn má þó greina þarna nokkur ummerki mannvistar, og er t.d. töluvert eftir af hól, þar sem munnmæli herma, að virki Jóhanns Breiða hafi staðið.“ Örnefnið Engelska lág (eða laut) og munnmæli herma, aðþar hafi Englendingarnir, sem féllu í átökunum aðfaranótt 11. júli 1532, verið dysjaðir (sjá umfjöllun um Grindavíkurstríðið undir Fróðleikur). Um það bil 5-600 metrum vestar heitir Gerðavellir. Þar er líklegt, að búðir kaupmannanna frá Lynn hafi staðið.
Hraunsstekkirnir voru suður af Einidalshrauni, sem er vestan við túnið á Járngerðarstöðum. Einidalur er falleg gróin hraundæld með vatnstjörn. Í honum norðanverðum er skúti. Tæpum 100 m austan við Rásina sjást leifar af öðrum Hraunsstekknum, en hinn er alveg horfinn í lón, sem er á þessum slóðum og hafa stækkað á síðustu árum. Stekkurinn er á grasi vöxnu svæði milli hraunbrúnar og lónsins.

Skyggnisrétt

Skyggnisrétt.

Tóft er fast vestan við enda lónsins. Hún er í dæld suðvestan við vesturenda lónsins. Tóftin er mynduð úr sérkennilegri blöndu af mjög stórum hnullungum og smásteinum.
Tóft, lítil og einföld, er á Sölvhól, sem er grasi gróin klettahæð vestan við Dal (vatnið).
Fornavör er austan við Eystri-Þanghól. Það segir ókunnugum svo sem ekkert, en í vörunum tveim, sem þarna eru utan varnargarða, Fornuvör og Stokkavör, mun hafa staðið útvegur fyrr á öldum. Fornavör er fast austan við fjárhús sunnan við veg, sem liggur með sjávarsíðunni og tengist götunni Seljabót norðvestar. Ofan við hana stórgrýtt fjara og sjávarkambur. Í fornleifaskráningu 2002 er sagt að „ekki sjást merki um hvar lendingin hefur verið“, en hana má glögglega sjá neðan og austan við fyrrnefnd fjárhús. Upp frá henni lá sjávargatan að Járngerðarstöðum, framhjá Járngerðardys. Gatan sjálf er nú í sléttuðu túni, en vísbendingin er glögg.
Draugalón er í kvos milli Eystri-Þanghóls og Sjálfskvíarklappar. Þar er fúll pyttur, 3-4 m á dýpt, sem þang safnaðist í og fúlnaði. Pytturinn er enn greinilegur í sjávarmálinu.
Sjálfskvíar eru „fram af Þanghólum. Milli þeirra eru berar klappir; Sjálfskíar eða Sjálfskvíarklöpp, og Sjálfskvíarlón er þar fram af“, segir í örnefnaskrá. Saga Grindavíkur segir að „við klöppina, sem nefnd er Sjálfskvíarklöpp, hafa bændur vafalítið haft fé í kvíum, á meðan enn var fært frá, og er ekki ósennilegt, að nafnið sé þannig til komið, að kletturinn hafi verið notaður sem kvíarveggur og þarna hafi þótt hentugt að króa fé af. Líklegastir til að notfæra sér klöppina með þessum hætti voru bændur á hjáleigunni Kvíhúsum, sem stóð þarna niðurundir kampinum, og við hana er Kvíahúsakampur vitaskuld kenndur.“

Grindavík

Grindavík.

Sjálfskvíarklöpp er klöpp í fjöruborðinu við Draugapytt. Á þessum stað er hamar í fjöruborðið, og grýtt fjara upp af, þar norðan við er raskað svæði. Engar kvíar eru lengur á þessum stað.
Stokkavör var næst Akurhúsanefi. Í Sögu Grindavíkur segir að „austan við Akurhúsanef er komið að gömlu lendingunum. Þar var kallaður Gamlisjór. Næst nefinu var Stokkavör. Í vörunum tveim; Fornuvör og Stokkavör, mun hafa staðið útvegur fyrr á öldum.“ Stokkavör var næst austan við Suðurvör, þar sem sjógarður er nú. Ofar er smágrýtt fjara og enn ofar (eða norðvestar) er sjávarkamburinn og vegur. Engin merki sjást nú um Stokkavörina.
Suðurvör var þar sem „ferðamenn komu með ströndinni að vestan og yfir Akurhúsanef. Komu þeir fyrst í varnirnar í Járngerðarstaðahverfi eru hétu Norðurvör og Suðurvör. Þá var tekið að landa afla við bryggjuna, en síðan voru bátarnir settir upp í vörnum sem fyrr. Hélst svo allt til þess, er hafnargerð hófst í Hópinu 1939. Á milli varanna var sker, sem Suðruvararsker hét, og við leiðina inn í varirnar var annað, sem Brúnkolla nefndist. Þar lentu bátar stundum uppi, og þótti ekki sérlega mikil sjómennska.
Skip Járngerðisstaðabænda reru jafnann úr vörunum tveim,“ segir í Sögu Grindavíkur. Þar segir jafnframt að „skip Járngerðarstaðabænda reru úr Norðurvör og Surðurvör, en fyrir innan þær var þriðja vörin og hét Staðarvör. Þaðan réru skip Skálholtsstóls á meðan enn var úttræði á vegum stólsins í Grindavík. Dró vörin nafn af Skálholtsstað.“

Grindavík

Grindavík – Norðurvör.

Árið 1703 „gánga skip stólsins hjer bvenjulega iii eða iiii, og hafa þeir verbúðir fyrir sig, sem stóllinn uppbyggir, En soðningu kaupa skipverjar. Hafa þessi skip stólsins verið so um lángar stundir, en alt þar til í tíð Mag. Brynjólfs var gefin til heimabóndans undirgift undir þau skip, sem fleiri voru en tvö af stólsins hendi. Og hýsti heimabóndi þá skipshöfn. En í tíð Magn. Brynjólfs var uppbyggð önnur staðarins verbúð, sem síðan hefur viðhaldist, og engin undirgift verið frá stólnum lögð til bóndans (þeirra tíma íslenska). Átroðning líður jörðin mikinn af hestum þeirra manna, er róa stólsins skipum.“

Í Sögu Grindavíkur segir að „innan við Staðarvör tók við malarkambur, sem Staðarhúsakampur nefndist. Þar munu verbúðir Skálholtsstaðar hafa staðið á fyrri tíð. Þar fyrir innan var Svartiklettur.“ Engin ummerki um lendinguna eru nú greinanleg. Skálholtsbyggingarnar voru upp af fjörunni þar sem síðar stóð löng bygging, Kreppa. Undir austurenda hennar voru tóftirnar frá Skálholti.

Grindavík

Grindavík – Í Norðurvör.

„Svartiklettur var austan við Staðarvör. Hann stóð upp úr sjó á fjörunni. Þar upp af heitir Svíri. Á Svíra var hlaðin varða, Svíravarða, en áður bar Svartiklettur þetta nafn,“ segir í örnefnaskrá. Svíravarðan var áður við suðausturhorn fiskvinnsluhúss, þar sem sjóvarnagarður gengur til austurs. Hún var um 70 m austan við Járngerðarstaði. Þar sem varðan stóð eru nú tankar og fiskvinnsluhús. Nafnið hefur í seinni tíð verið notað um neðri innsiglingavörðuna neðan við Hóp (sjá fyrri hluta).
Suðurvör var þar sem nú er nýr sjógarður að baki handverkshúsi og beitningarskúrum. Nú hefur svæðinu verið umturnað og ekki sér lengur hvar lendingin var.
Norðurvör var fast austan við Suðurvör, þar sem núr er sjávargarðurinn og steypuleifar hanar, sem byrjað var að byggja, en komst aldrei í notkun. Sjóvarnargarður, sem byggður er úr miklum grjóthnullungum, er á þessum stað, en engar minjar sjást nú hvar lendingin var.

GrindavíkÞegar ekki var lendandi í vörunum áður fyrr, var farið inn í Hóp og lent í Kvíaviki, en það hefur nú verið fyllt upp og byggðir tankar á því. Kvíavikið var suðvestan við Álfsfit, innan við Svíra. „Þar munu hafa verið kvíar frá Rafnsstöðum eða Krosshúsum,“ segir í Sögur Grindavíkur. Kvíavik var þar sem austurendi beinaverksmiðju er nú og vegarslóði liggur meðfram henni að norðaustan. Bygging og vegur eru þar nú, en öll ummerki eftir kvíar eru löngu horfin. Fyllt var upp í svæðið á árunum 1956-57.

Grindavík

Grindavík – Grafið inn í Hópið 1939.

„Á 17. öld herma sagnir, að maður nokkur hafi verið við þangskurð á Rifinu (eiðinu). Hann fór út, á meðan lágsjávað var, hafði með sér tvö börn, en gætti sín ekki, er sjór tók að falla að, og fór svo, að maðurinn gat bjargað sér í land, en börnin drukknuðu. Var ósinn, sem þau lentu í, nefndur Barnaós eftir það. Eftir þennan sorglega atburð herma sögur,a ð bændur hafi hlaðið fyrir ósinn, sem áður hafði verið grafinn inn í Hópið, og mátti ganga þar þuruum fótum, er lágsjávað var. Kom þessi hleðsla í ljós. þegar Rifið var grafið út á árunum 1938-1939, og var u.þ.b. fimm metra breið og hnéhá,“ sgeir í Sögur Grindavíkur. Barnaós var þar sem nú er innsigling inn í Grindavíkurhöfn. Að ósnum liggur höfnin vestanmegin, en sjávargarðurinn að austan.

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðavör.

Ekki er annað vitað um staðsetningu Álfsfitar en að hún hafi verið norðaustan við Kvíavik, líklega þar sem bryggjan er nú. Staðurinn var sunnan við þar sem nú standa olíutankar.
Í vikinu með fjörunni til vestsuðvesturs vottaði fyrir troðningi um síðustu aldamót (1900), sem kallaðir voru Eyrargata. Í örnefnaskrá segir að „það væri kirkjugata frá Þórkötlustöðum að Stað, en þá átti Hóp að hafa verið grasi gróið valllendi. Sagnir voru einnig um, að Staður hafi verið í miðri sókn áður fyrr,“ sbr. fornar sagnir um byggð vestan við Staðarhverfi (sjá lýsingu um Staðarhverfi II). Eyrargata lá eftir eyrinni til en beygði svo til austurs og var nálægt því að liggja samsíða Hafnargötu núverandi, suðaustan hennar. Gatan lá svo um Hópsbæina og áfram til austurs að Þórkötlustöðum (sjá fyrri hluta). Hún er nú horfin á þessum hluta, en sést enn austan við Hóp.
Ofan við bæinn er Vatnsstæðið. „Niður af Vatnsstæðinu, vestan við gamla heimabæinn, er Bóndastekkstún,“ segir í örnefnaskrá. Ekki er lengur hægt að sjá leifar stekks á þessum stað, en í túninu, sem hefur verið sléttað, er hryggur, sem liggur austur-vestur í boga. Hugsanlega eru þetta leifar af garðlagi tengdu stekknum í Bóndastekkstúni.

Silfra

Silfra.

Silfra er skammat norðan við Vatnsstæðið, „þegar haldið er til heiðarinnar“. Er sagt að í henni sé fólgin kista full af silfurpeningum. Silfra er mjótt og aflangt vatnsstæði, umhverfis hana er grasivaxið sléttlendi.
„Nautagjá er í útjaðri á túninu Drumbar og kemur þar í stað girðingar á svo sem 20 faðma lengd.“ Allt vatn í þvotta og handa kúm var tekið úr Nautagjá og þar voru líka þvottar þvegnir. Kýr voru fjarska oft reknar til vatns í Nautagjá á vetrum, ef gott var, og þannig látnar bera vatnið sjálfar. Þessi vegarlengd mun hafa verið nær eitt hundrað faðmar eftir túninu Drumbar og gæti hugsast, að nafn gjárinnar væri frá þessu komið í fyrstunni, að nautpeningur var þar oft við drykk. Nautagjá liggur frá vatnsstæðinu við norðurjaðar túns, um 100 m norðnorðvestan við Járngerðarstaði. Tún liggur upp að gjáni að norðan, sunnan og austan. Vestan er Vatnsstæðið.
„Magnúsargjá var í raun og veru sama sprungarn og Nautagjá. Hún var í sömu stefnu og svo sem 15 faðmar á milli endanna.“ Í Nautagjá voru líka þvottar þvegnir, en ull í Magnúsargjá. Grjót er á víð og dref við austurenda gjárinnar.

Títublaðavarða

Títublaðavarða.

„Fast við Vatnsstæðið er varða við veginn til Keflavíkur (Skipsstíg) og heitir hún Títublaðavarða.“ Varðan er nú að mestu hrunin. Leifar hennar sjást þó enn við gömlu götuna þar sem hún liðast upp frá Járngerðarstöðum, að girðingunni umhverfis fjarskiptastöðina er markar yfiráðasvæði hersins. Títublaðavarða er um 120 m norðan við þjóðveginn, á hæð í mosavöxnu hrauninu. Tómas Þorvaldsson sagði Járngerðarstaðabændur jafnan hafa haldið þessari vörðu við því svo hafi verið sagt að á meðan hún stæði væri ferðalöngum um veginn óhætt. Neðan við Títublaðavörðu er önnur varða við sömu götu, um 60 m norðan við þjóðveginn.
Ofanlands eru t.a.m. Skipsstígur. Í sóknarlýsingu árið 1840 segir að „miðvegurinn, sem ýmist kallast Járngerðarstaðastígur eða Skipstígsvegur, liggur í útnorður fyrir sunnan Þorbjarnarfell, og er þá Þórðarfell, Súlur og Stapafell allt að vestan og sunnanverðu. Sagt er að Junkarar hafi lagt upp í Stórubót við Gerðavelli, upp af Skyggnir. Reru Junkarar til skiptis eftir veðri úr Grindavík og Höfnum (fyrirgefið endurtekninguna) og fóru þeir með skipin á milli, og hét þar Skipstígur.“

Gengið um Járngerðarstaðahverfið

Járngerðarstaðir hafði slestöðu á Baðsvöllum. Í Jarðabókinni 1703 segir að „selstöðu hefur jörðin og brúkar enn nú þar sem heita Baðsvellir, og kvarta menn um að þar sjeu hagar ofurlitlir og þröngvir. Item sje þar stórt mein að vatnsleysi, þá þerrar eru, og fyrir þessa lesti selstöðunnar segja menn fulla nauðsyn til að kaupa selstöðu annarsstaðar. Þessa brúkar bóndinn aleinn.“ Sagt er að Baðsvellir dragi nafn sitt af því, að þar hafi ræningjar baðað sig. Alveg niður við hraun er hallandi graslendi. Þar er slétt laut, Kvíalág. Þar með hrauninu eru tvennar seltættur og hóll. „Þar austan við heitir Stekkjarhóll,“ segir í örnefnaskrá. Rústirnar er undir Þorbirni norðanverðum, í hraunjaðri, vestan við skógarrjóður. Syðst er þyrping, 5 hólf og klettur í miðjunni, sem hólfin raðast utan um. Þar norðan af er önnur tóft, tvö hólf. Norðan við þessa tóft eru tvær tóftir til viðbótar.

Grindavík

Grindavík – Stekkhóll.

Við Stekkjarhól eru greinilegar og mjög grónar tóftir. Þær eru norðaustan í skógarjaðrinum. Norðaustan við aðra tóftina er 2 m djúp hola. Hún er nær hringlaga. Sunnan við vegarslóða þar við er önnur hola, 1 m djúp, e.t.v. brunnur. Í skógarjarðrinum, sunnan brunnsins, er önnur tóft.

Þjófagjá

Í Þjófagjá.

Þjófagjá er „stór sprunga er klýfur topp Þorbjarnarfells. Þar herma munnmæli, að flokkur útilgeuþjófa hafi haldið sig og rænt og ruplað í Grindavík. Að lokum tóku byggðamenn sig til, fóru að þjófunum, gripu þá og hengdu í Gálgaklettum. Engar öruggar heimildir eru um það, að útileguþjófar hafi nokkru sinni hafst við í Þjófagjá og engar mannvistarleifar hafa fundist þar,“ segir í Sögu Grindavíkur. Klettasprungan er með grasi grónum botni. Hún er um 10 m breið, en allt að 80 m djúp. Skúti er í sprungunni vestarlega. Einstigi er niður Þjófagjá og leiðin greið, ef rétt er að farið. Frá suðurenda hennar er fallegt útsýni yfir Járngerðarstaðahverfið.

Gíghæð

Vegavinnubúðir á Gíghæð.

Við Grindavíkurveginn má víða sjá hlaðin byrgi eftir vegavinnumenn er lögðu veginn til Grindavíkur frá Stapa á árunum 1913-1918. Sum þeirra eru alveg heil, t.d. á Gíghæðinni.
Við op Hesthellis, norðan Gíghæðar, er falleg hleðsla, mannhæðarhá.

Grindavík

Grindavíkurkirkja.

Gamla kirkjan í Járngerðarstaðahverfi var vígð 26. september 1909. Hún stendur enn, en hýsir nú leikskóla. Hér og þar má sjá bungur í garðinum, en ekki var grafið í kirkjugarðinum. Þangað var kirkjan flutt frá Stað. Suðvestan við kirkjuna má sjá leifar útihúsa. Þar eru og hús og húsleifar, s.s. Gimli (Víkurbraut 9), Vík, suðaustan við Garðhús, Hlið, austan við Vík, Sjólist, norðaustan við kirkjuna nálægt gatnamótum Víkurbrautar og Vetrarbrautar (engin ummerki lengur), Grund (Víkurbraut 8), Vesthús (stóð í bakgarði Víkurbrautar 10), Bjarg, norðvestan við Vesthús, Efri-Grund, norðaustan við kirkjuna, Hæðarendi (Víkurbraut 18), Byggðarendi (malarblettur 30 m austan við Hæðarenda) og Hraungerði (malarblettur norðaustan við kirkjuna).

Heimildir m.a.:
-Fornleifaskráning FÍ – 2002.
-Saga Grindavíkur.
-Örnefnalýsing.

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir – sögusvið „Tyrkjaránsins“ – uppdráttur ÓSÁ.

Flagghúsið

Nú (júlí 2005) er verið að endurbyggja Flaghúsið svonefnda í Grindavík.
Flagghúsið er eitt elsta hús Grindavíkur, talið vera byggt árið 1890. Erling Einarsson í EP verk h/f, eigandi hússins, áformar að koma húsinu í upprunalegt horf og eru framkvæmdir hafnar.
FlagghúsiðLjóst er að mikið verk er fyrir höndum. Erling er þegar búinn að smíða sperrur og hefur verkað panelklæðningu sem fer inni í húsið með ákveðnum aðferðum þannig að hann lítur út fyrir að vera hundrað ára gamall. Verkið ætlar Erling að taka í áföngum. Hann áætlar í fyrstu atrennu að loka húsinu með undirklæðningu, koma járni á þakið, hlaða undir sökkla og síðan endurgera klæðningar utan og innan svo eitthvað sé nefnt.
Flagghúsið fékk viðurnefni sitt af því að það þjónaði sjófarendum á Járngerðarstaðasundi. Dagbjartur Einarsson frá Ásgarði (1876-1944) hætti formensku fimmtugur að aldri og tók þá að sér það hlutverk að gefa sjófarendum leiðbeiningar ú landi um veðurhofur og lendingaraðstæður. Járngerðarstaðarsund var erfitt, jafnvel vönum mönnum og landtaka oft erfið og illfær.

Flagghúsið

Á tímabilinu frá 1925 framundir 1940 var notað sérstakt merkjakerfi sem Dagbjartur sá um. Í fyrstu var hengt á suðurgafl Sæbóls hvítt merkjaflagg en síðar var sett á Flagghúsið mikil stöng á norðurgaflinn. Þá var hífður upp einn belgur ef vá var í vændum t.d veðrabrigði og tveir belgir þýddi aðgát á sundi og brim í lendingu. Gifta fylgdi þessu starfi hans og færðu formenn í Járngerðastaðahverfi honum silfurskjöld er hann lét af þessum starfa sem viðukenningu fyrir hjálp á hættustundum.
Húsnúmer í Grindavík eru miðuð við þann stað, sem Flagghúsið er nú.
Þegar FERLIR kíkti á Flagghúsið í ársbyrjun 2006 var búið að undirklæða, járnið komið á þakið, sökkulvinnu lokið og búið að loka húsinu. Ljóst er að endurbyggingin mun verða glæsileg. Nú þarf hins vegar að fara að huga að nágrenninu, þ.e. næstu húsum, annað hvort gera kröfu um að þau verði lagfærð, eða að bærinn kaupi þau fyrir lítið með frekari endur- og uppbyggingu gamalla húsa á þessu svæði að markmiði. Með því væri kominn grundvöllur til að endurgera hluta gamla bæjarins, ofan við gömlu Norðurvörina, í Járngerðarstaðahverfi. Það myndi án efa setja mikinn svip á bæinn, fylla bæjarbúa stolti og jafnframt gera Grindavík áhugaverðan kost fyrir ferðamenn.

Flagghúsið

Flagghúsið endurbyggt.

Ljóst er að endurgerð húsa eins og Flagghússins kostar talsverða fjármuni og tíma. Mikilvægt er að aðilar gangi samhentir til verka og efli um leið almennan vilja til frekari uppbyggingar á svæðinu. Fögur orð duga skammt í þeim efnum, en eru þó ágætis byrjun. Styðja þarf við áhugasamt fólk og hvetja það áfram, t.d. með markvissum styrkjum og framlögum.
Erling hefur haft áhuga á að endurbyggja skúrinn Lubba, sem var beituskúr og stóð sunnan við Flagghúsið. Vonandi mun honum verða gert kleift að koma því í verk, sem og endurbyggja verslunina norðan við húsið, sem sjá má á meðfylgjandi málverki Gunnlaugs Schevings.

Flagghúsið

Flagghúsið.

Vinstra megin á málverkinu má einnig sjá hús, sem kallað var „Samvinnubragginn“. Samvinnuútgerðin í Grindavík hafði þar verbúð, beituskúr og netaloft 1930-1970. Eldra nafn á húsinu var Eyrabakkahús. Þar hafði Eyrabakkaverslun vöruhús og aðsetur frá því um 1880 fram yfir aldamótin 1900. Grindavíkurhöfn hafði þarna áhaldahús fram undir 1990. Húsið var rifið af Grindavíkurbæ eftir að því hlutverki lauk.
Norðurvörin er framundan húsinu. Hún var fagurlega grjótlögð en er orðin, ásamt bryggjunni, skemmd og þarfnast viðgerðar. Eins er með aðgengið og umhverfið – allt þarf þetta að laga.
(Sjá einnig
Flagghúsið – endurnýjun II).

Heimild:
-grindavik.is
-Ering Einarsson

Einarsbúð

Einarsbúð og nágrenni – Flagghúsið í miðið.

Skógfellavegur

Gengið var um Skógfellaveg frá Vogum til Grindavíkur. Þessi gamla þjóðleið milli byggðalaganna var einnig nefnd Vogavegur.

Skógfellavegur

Skógfellavegur – skilti.

Skógfellavegur er hluti gömlu þjóðleiðarinnar til Grindavíkur frá Hafnarfirði og dregur nafn sitt af tveimur fellum, sem hann liggur framhjá að austanverðu, Litla- og Stóra-Skógfelli. Þau eru við götuna um miðja vegu til Grindavíkur. Nafn götunnar hefur breyst í tímans rás því áður hét hluti hennar Sandakravegur. Sumir telja það þann hluta leiðar, sem liggur frá Stapahorni og langleiðina að Stóra- Skógfelli, en þar eru vegamót. Aðrir telja Sandakraveginn hafa legið með Fagradalsfjalli með Görninni og Kastinu um Nauthólaflatir skammt vestan Dalsels og þaðan um sléttar sandflatir niður í Mosa um Grindavíkurgjá og á Skógfellaveginn skammt ofan við Brandsgjá. Þannig er leiðin sýnd á kortum eftir aldamótin 1900.
Gangan inn á Skjógfellaveginn hófst við skilti skammt ofan Reykjanesbrautar, skammt austan við Háabjalla. Bílastæði eru skammt austan við skiltið. Gatan er nokkuð óljós framan af og vörður fáar og ógreinilegar. Leiðin hefur nú verið stikuð að Litla-Skógfelli af áhugagönguhópi á Suðurnesjum.

Skógfellavegur

Skógfellavegur.

Skammt sunnan við Reykjanesbrautina er gengið fram á sprungu sem heitir Hrafnagjá. Þarna við Skógfellaveginn lætur hún lítið yfir sér en þegar austar dregur er hún mjög falleg og tilkomumikil og þar er gjábarmurinn hæstur og snýr á móti suðri. Í gjárveggnum er hrafnslaupyr. Hrafnagjá nær alla leið niður á túnið á Stóru-Vatnsleysu. Þar í er svonefnt Magnúsarsæti með áletrunum. Þegar götunni er fylgt áfram er komið að nokkuð löngu grágrýtisholti, Nýjaselsbjalla, og liggur gatan yfir austurhluta þess. Skammt austan götunnar, áður en komið er upp á bjallann, eru litlar seltóftir, Nýjasel, undir lágum hamri sem snýr til norðurs og dregur bjallinn nafn af selinu.
Nokkrar gjár eru á leiðinni, auðveldar yfirferðar og snúa hamraveggir þeirra allra til norðurs.
Fyrsta gjáin sem eitthvað kveður að er Huldugjá en þar sem gatan liggur yfir gjána er sagt að Huldugjárvarða hafi staðið. Þarna liggur vel mörkuð leiðin nálægt austurjaðri Skógfellahraunsins.

Skógfellavegur

Varða við Skógfellaveg.

Áhugavert er að gera smá lykkju á leiðina austur með gjánni og skoða Pétursborg sem stendur á barmi Huldugjár. Fjárborgin stendur nokkurn spöl austan vegarins yfir gjána. Pétursborg er gamalt sauðabyrgi frá Tumakoti í Vogum nefnt eftir Pétri Andréssyni bónda þar (1839-1904) en hann er sagður hafa hlaðið borgina. Við Pétursborg að austanverðu eru tvær gamlar fjárhústóftir og ein nokkuð nýrri aðeins ofar.
Á milli Huldugjár og næstu gjár sem heitir Litla-Aragjá er gatan nokkuð óljós á kafla en hefur verið stikuð en gatan er skýrari þar sem hún liggur yfir Aragjána. Þar er tæpt til beggja handa en stór varða stendur á efri gjábarminum. Þegar líður á verður gatan greinilegri og næsta gjá á leiðinni sem eitthvað kveður að er Stóra-Aragjá. Grjótfylling og hleðsla er í Stóru-Aragjá þar sem leiðin liggur yfir hana og þar er varða sem heitir Aragjárvarða en gjáin þarna við vörðuna heitir Brandsgjá.

Brandsgjá

Brandsgjá við Skógfellastíg.

Eftirfarandi er frásögn um atvik sem henti á þessum stað: Á jólaföstu árið 1911 var Brandur Guðmundsson bóndi á Ísólfsskála (1862-1955) á leið heim úr Hafnarfirði og dró sú ferð dilk á eftir sér. Hann lagði á Skógfellaveginn og ætlaði síðan inn á Sandakraveginn og niður að Ísólfsskála. Veður versnaði er leið á daginn og lenti Brandur í umbrotafærð suður heiðina. Allt í einu gaf fönn sig undan hestinum og þeir hrösuðu ofan í Stóru-Aragjá. Þarna hafði Brandur leitt hestana utan við klifið og svo fór að bæði hrossin þurfti að aflífa á staðnum. Síðan heitir þarna Brandsgjá. Brand kól mikið á fótum og var á Keflavíkurspítala í nokkra mánuði eftir slysið.
Þegar komið er upp fyrir Stóru-Aragjá tekur fljótlega við helluhraun sem nær langleiðina að Litla-Skógfelli og er vegurinn vel varðaður á þessum slóðum. Á fyrsta spottanum þarna er gatan mjög djúp því grjóti hefur verið rutt úr henni í miklum mæli en þegar ofar kemur taka við sléttar klappir markaðar djúpum hófförum.

SkógfellavegurÁ hægri hönd eru Krókar, hraunhólar með kjarri í dældum, en á vinstri hönd, spöl sunnar, er Nyrðri-Mosadalagjá. Gjáin snýr bergvegg til suðausturs og þess vegna er erfitt að greina hana frá götunni. Milli hennar og Syðri-Mosadalagjár (með bergvegg til norðvesturs) er víðáttumikill misgengisdalur, þakinn mosa, og heitir sá Mosdalir eða Mosadalir. Við austurrætur Litla-Skógfells þarf að klöngrast yfir smá haft af grónu apalhrauni þar sem gatan liggur en þegar yfir það er komið liðast hún „milli hrauns og hlíðar” um skriðugrjót og grasteyginga. Skógfellin bera ekki nöfnin með réttu í dag því þau eru að mestu gróðurlaus.
Fyrir neðan og austan Litla-Skógfell er þó dálítið kjarr, bæði birkihríslur og víðir, og sjálfsagt hefur svæðið allt verið viði vaxið endur fyrir löngu. Við Litla-Skógfell endar Vatnsleysustrandarhreppur og Grindavíkurhreppur tekur við.
SkógfellavegurFrá hlíðum Litla-Skógfells er gaman að horfa á „vörðuskóginn” framundan en á milli Skógfellanna er einkennasnauð hraunbreiða sem auðvelt væri að villast um ef ekki væru vörðurnar. Þarna standa þær þétt saman eins og menn á mosagrónu taflborði og gatan er djúpt mörkuð af þúsundum járnaðra hesthófa.
Þegar komið er langleiðina að Stóra-Skógfelli greinist Sandakravegurinn út úr til suðausturs yfir hraunið og að Sandhól. Til gamans geta göngumenn leikið sér að því að telja vörðurnar frá Litla-Skógfelli að gatnamótunum en þær eru 22. Sandakravegurinn þarna yfir er fallegur, djúpmarkaður og skoðunarverður.
Vestan við Stóra-Skógfell er Gíghæðin og er stutt ganga frá fellinu yfir í gígana og þaðan yfir á Grindavíkurveginn. Í austri blasir Fagradalsfjallið við með sína fylgifiska s.s. Sandhól og Kastið.

Reykjanes

Reykjanes – Skógfellavegur – kort ÓSÁ.

Sunnan Stóra-Skógfells liggur vegurinn austan undir fallegri gígaröð, Sundhnúksgígum, sem er um 8 km löng og áfram að Sundhnúk sem er aðal gígurinn og stendur hann norðan við Hagafell. Gatan er slétt og sendin á kafla. Heitir þar Sprengisandur. Þegar komið er framhjá Hagafelli, þar sem í eru Gálgaklettar, að austanverðu fer að halla undan til Grindavíkur og spöl neðar greinst leiðin til „allra átta” um gamalgróið hraun niður til bæja. Í Gálgaklettum eru þeir þjófar sagðir hengdir, sem handamaðir voru á Baðsvöllum, en höfðu hafst við í Þjófgjá í Þorbjarnarfelli og herjað á Grindvíkinga.
Frábært veður. Gangan tók 6 klst og 6 mín.

Byggt m.a. á lýsingu Rannveigar Lilju Garðarsdóttur.

Heimild:
-Sesselja G. Guðmundsdóttir, Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi. Útg. 1995.

Skógfellavegur

Skógfellavegur – Litla-Skógfell framundan.

Prestastígur

Gengið var þvert yfir vestanverðan Reykjanesskagann um Prestastíg frá Húsatóftum (Húsatóttum/Húsatóptum) á sunnanverðum skaganum yfir í Hundadal ofan við Kalmannstjörn á honum norðanverðum með viðkomu í fiskgeymslubyrgjum í Sundvörðuhrauni og öðrum sambærilegum í Eldvörpum, auk þess sem skyggnst var inn í útilegumannabælu í hraununum. Þessi kafli Prestastígsins er að jafnaði u.þ.b. 16 km, en að þessu sinni var ætlunin að nýta nálægt 20 km í þágu göngunnar.

Eitt af nýfundnum byrgjum í Eldvörpum

Prestastígsnafngiftin er tiltölulega nýlegt heiti á þessari annars fornu þjóðleið, sem um aldir hefur verið nokkuð fjölfarin milli Staðahverfis og Hafna. Sú skýring á nafninu er þó líkleg að með prestakallalögum frá 1907 var Kirkjuvogssókn í Höfnum lögð til Staðarprestakalls í Grindavík og hefur því Staðarprestur oft átt erindi um þessa fyrrum fornu leið. Presthóll á hæstu hæð Hafnamegin undirstrikar nafngiftina. Annars er leiðin ágætt dæmi um seinni tíma prestaleið því gatan er bæði vel og þétt vörðuð, auk þess sem hún er unnin víðast hvar, bæði með brúargerð í gjám og úrkasti í móum og melum. Yfirvaldið hafði í hendi sér að nýta þegnskylduánauðina og hvernig gat verið nýtanlega en við vörðu- og vegagerð? Þegar horft er á vörðurnar má sjá mismunandi handbragð, auk þess þær geta verið ólíkar að stærð og lögun. Efnið í þeir er einnig mismunandi því það tók óneitanlega mið af aðstæðum á hverjum stað. Handbragðið og útlitið gæti hafa breyst frá því að vörðurnar voru fyrst hlaðnar því búið er að endurhlaða margar þeirra á leiðinni. Meginlínan hefur þó haldið sér, þ.e. að vörðurnar eru vestan stígsins. Þó má sjá stakar vörður á leiðinni, sem virðast ekki vera í röðinni. Ein þeirra er t.a.m. landamerkjavarða á mörkum Hafna og Grindavíkur vestan götunnar og önnur var hlaðin austan hans eftir að maður varð úti eða bráðkvaddur á leiðinni. Sumar varðanna eru nú fallnar og hafa ekki verið endurhlaðnar, einkum á miðkafla leiðarinnar, vestan Sandfellshæðar.
Í seinni tíð hefur þessi fornu þjóðleið verið nefnd Prestastíg en hvergi finnast þess merki í gömlum heimildum. Geir Bachmann lýsir þeim þjóðleiðum sem frá Grindavík liggja í sóknarlýsingu frá 1840. Hann nefnir með nafni fyrstu þrjá aðalvegi yfir hraunin (Árnastíg, Skipsstíg og Skógfellastíg) en segir svo: „Sá fjórði og síðasti vegur sem úr sókninni liggur og alþjóðarvegur má kallast, liggur upp frá Húsatóftum í útnorður ofan í Hafnirnar og er hann sá eini sem héðan farinn verður þangað“. Þetta er eini vegurinn frá Grindavík sem Geir nefnir ekki með nafni.
Annað nýfundið byrgi í EldvörpumGengið var upp frá Húsatóftum. Nú er gatan vörðuð upp af brún Hjálmagjáar norðan við Harðhaus og Dansinn, en hún lá áður upp frá Nónvörðu suðvestan við Húsatóftir. Þar voru gatnamótin að Stað og Húsatóftum/Járngerðarstaðahverfi til austurs. Við þann kafla leiðarinnar má enn sjá fallnar vörður að Gerðisvöllum ofan við Stóru-Bót. En þar sem engin varða er á leiðarkaflanum frá Nónvörðu að gatnamótum þessarra hlöðnu varða upp frá Hjálmagjá má ætla að gatan hafi fyrrum ekki verið jafn vel vörðuð og nú má augum líta.
Þjóðsögur eru tengdar bæði Harðhaus og Hjálmagjá, en þær má sjá annars staðar á vefsíðunni þar sem umhverfi Húsatófta er lýst.
Ofan við Hjálmagjá er Byrgishæð. Á henni má sjá leifar nokkurra fiskbyrgja frá Húsatóftum. Móar eru ofan gjárinar. Þegar komið er upp fyrir gatnamót „Staðarvegar“ skýrist gatan verulega. Ofar, örlítið til vinstri, er Skothóll (með fuglaþúfu á) og til hægri handar eru 
Tóftarkrókar inn í apalhraunbrúnir, sem þar eru. Hraunið er hluti af einu Eldvarpahraunanna. Gengið var yfir Miðgjá og síðan Hrafnagjá. Í hana hefur verið hlaðin myndarleg hraunbrú.
Leifar útilegumanna?Þegar tilteknu miði var náð var stefnan tekin til austurs, að fiskigeymslubyrgjunum undir jaðri Sundvörðuhrauns. Byrgi þessu féllu í gleymsku, en fundust aftur á seinni hluta 19. aldar. Vildu menn meina að þarna hefði verið tilbúnir felustaðir Grindvíkinga ef Tyrkirnir kæmu aftur (þeir komu til Grindavíkur í júnímánuði 1627 og tóku 12 íbúa og 3 Dani herfangi) eða að þarna hefðu útilegumenn leynst um tíma. Fjallað er um Tyrkjaránið I og Tyrkjaránið II sem og „Tyrkjabyrgin“ á annarri vefsíðu FERLIRs].
Þá var stefnan tekin á sambærileg byrgi, ósnert í Eldvörpum. FERLIR fann þau fyrir stuttu. Byrgin er sambærileg hinum fyrri og bíða rannsóknar áhugasamra fornleifafræðinga. Sú rannsókn gæti upplýst tilurð og notkun byrgjanna á báðum stöðunum.
Eldvarpagígaröðinni var fylgt yfir á Prestastíg og stefnan tekin á Hundadal. Rauðhóll var á vinstri hönd og síðan Sandfellshæð á þá hægri.
EGatvarða við Prestastígldvarpahraunið er yngsta hraunið á svæðinu, rann árið 1226. Þá gaus á u,þ.b. 10 km langri sprungurein. Meðal jarðfræðinga er hraunið nefnt einu nafni Eldvarpahraun en í tali heimamanna hétu einstök svæði þess ýmsum nöfnum, m.a. Sundvörðuhraun. Gígarnir í Eldvörpum eru fjölmargir og margir þeirra fallegir. Flestir eru gjall- eða klepragígar og eru nær allir óskertir og er gígaröðin ein af fáum á Reykjanesskaganum sem hefur verið hlíft við efnistöku. Eldsumbrotin á þrettándu öld yst á Reykjanesskaganum stóðu með hléum frá um 1210 til 1240. Mest gekk á árið 1226. Þessi hrina er nefnd Reykjaneseldar af fræðimönnum.
Rauðhóll er hluti af eldri gígaröð sem Eldvarpahraunið hefur hulið að allnokkrum hluta. Rauðhólshraunið er talið 2000-3000 ára. Vestan við Sandfellshæð ævagamall hóll, Einiberjahóll. Hann er stakur gígur sem Rauðhólshraunið hefur umlukið.
Í Sandfellshæð er stór gígskál, Sandfellsdalur, og þar á hið mikla hraunflæmi dyngjunnar upptök sín. Hraunið er talið hafa runnið fyrir um 12 þúsund árum. Þegar norrænir menn komu til Íslands, síðla á níundu öld, var svæði þetta allt vel gróið en eftir mikil eldsumbrot og öskufall á Reykjanesi á öðrum fjórðungi þrettándu aldar hófst uppblástur á svæðinu. Ef grafið er niður í sandbollana í hrauninu þá er komið niður í jarðveg. Önnur gatvarða við Prestastíg
Norðvestan við Sandfellshæðina breyttist landlagið. Nú tóku við móar og síðan, þegar komið var yfir sigdæld milli dyngjunnar og Haugsvörðugjár, varð fínn basaltsandur ráðandi. Sandurinn er upprunninn í Stóru-Sandvík, en eftir að fok hans var heft um miðja 20. öld, snarminnkaði ángurinn á heiðina. Áður hafði honum þó tekist að leggja alla bæina vestan Kalmanstungu og Junkaragerðis í eyði. Gjáin dregur nafn sitt af hól vestast við gjána, Haug. Í kringum hólana er þunnt gjallkennt hraun og er það eldra en 8000 ára. Norðan þeirra taka við Stampahraunin með sínum fjórum sprungureinagígaröðum. Syðsta röðin nefnast Hörsl.
Prestastígur liggur um flekaskilin milli Evrópu- og Norðurameríkuflekanna. Í rauninni eru flekaskilin á öllu miðsvæði landsins frá SV til NA, allt frá norðvestanverðu Reykjanesi austur að Heklu. En ef menn vilja hafa einhver tiltekin mörk þar sem skilin eru nákvæmlega er ekkert verra að hafa þau við Haugsvörðugjá en einhvers annars staðar.
Þá tók við Kinnin og Presthóll sást framundan. Handan hans sást heim að Merkinesi og yfir til Hafna. Tvær gatavörður eru á þessum kafla er stinga í stúf við annars hefðbundnari vörðugerð á leiðinni. Hugsanlega hefur sá, sem falið var vörðugerðin á þessum kafla, viljað annað hvort breyta til eða tjá hug sinn til verksins með þessu framtaki. Og eflaust hefur handverkið fengið mikla umfjöllun í sveitinni og hverjum sýnst sitthvað um framtakið. Þessar vörður eru reyndar táknrænar fyrir það hvað allt öðruvísi getur verið eftirminnilegt.
Þá sást heim að Kalmannstjörn. Heiðin er tekin að gróa upp með staðbundum plöntum, sem er ánægjuleg þróun á vistkerfinu.
Þegar komið var niður í Hundadal var látið staðar numið, en stígurinn liggur áfram til austurs norðan Hafnavegar. Nokkrar vörður við hana standa enn, en aðrar eru fallnar.
Ánægður hópur að leiðarlokumÖll þessi leið er, sem fyrr segir, vel vörðuð og ber þess merki að þar hefur verið fjölfarið um aldir. Víða sést hvar umferðin hefur markað alldjúpar götur í hraunið og lausagrjót hefur verið tínt úr götunni og lagt til hliðar. Þetta var aðalleið vermanna af Suðurlandi, sem sóttu sjó frá Höfnum og af Rosmhvalanesi og þar hafa skreiðarlestir verið á ferð. Eins hafa Grindvíkingar lagt leið sína þarna um á þeim tíma sem þeir þurftu að sækja verslun til Básenda og öfugt, því Hafnamenn þurftu áður að sækja verslun til Grindavíkur um aldir.
Hafnir voru fyrr á öldum blómlegur útgerðarstaður og var þar stundaður umfangsmikill búskapur bæði til lands og sjávar. Vermenn fjölmenntu þangað á vertíðum og eru sagnir til um stórfellda útgerð Ketils Ketilssonar í Kotvogi, en hann gerði út þrjú skip á árunum 1870 – 1880 og voru þá um 50 sjómenn á hans vegum auk 22 annarra heimilismanna. Ketill var meðal auðugustu manna landsins á sínum tíma. Hann byggði steinkirkju þá sem enn stendur á Hvalsnesi, en Ketill átti m.a. alla Hvalsnestorfuna og Járngerðarstaði í Grindavík.
Frábært veður. Gangan tók 7 klst og 7 mín.

Heimildir m.a.:
-Kristján Sæmundsson

Prestastígur

Prestastígur

Kleifarvatn

„Svo sterk var trú manna á þessa þjóðsögu, að allt fram á síðustu ár hefur verið voiilaust talið með öllu að nokkru sinni gæti orðið veiði í Kleifarvatni. Kerling Herdís hafði nú einu sinni lagt þetta á og heitingar hennar orðið að áhrinsorðum — Kleifarvatn-322við það urðu menn að una. Nú hefur það gerzt að álögum þessum hefur verið létt af vatninu. Stangveiðifélagi Hafnarfjarðar hefur tekizt að rækta silung í Kleifarvatni, svo að það er orðið eitt þezta og skemmtilegasta veiðivatn hér í nágrenninu.
Fréttamaður og ljósmyndari Þjóðviljans lögðu leið sína suður að Kleifarvatni fyrir skömmu og fengu til fylgdar Hjörleif Gunnarsson, sem á sæti í stjórn SVH og er þessum málum öllum kunnugur.
Árið 1937 keypti Hafnarfjarðarbær Krýsuvíkurland af ríkinu og náði það land að Kleifarvatni. Í samningnum var klásúla um að bærinn eignaðist allan veiðirétt í vatninu og er ekki laust við að ýmsum hafi þótt kjánalegt að taka svo til orða um steindautt vatn. Þó lét bærinn gera athuganir um lífsskilyrði fyrir silung í vatninu.
Geir Gígja skrifaði svo um þær athuganir álitsgerð, sem kom út í bókarformi árið 1944 og var ekki þjartsýnn á að silungur gæti þrifizt í vatninu að nokkru gagni. Lágu þessi mál svo niðri nokkuð lengi. Það var eins og trúin á þjóðsöguna væri öllu yfirsterkari. — Kleifarvatn verður aldrei veiðivatn.
Kleifarvatn-323— Hvenær hófst svo Stangveiðifélag Hafnarfjarðar handa um silungsrækt í vatninu?
— Félagið var stofnað 1951 og strax á næsta aðalfundi var tekið að ræða hugsanlega fiskirækt í Kleifarvatni. Árið 1954 gerði félagið samning við Hafnarfjarðarbæ til 30 ára, hefur félagið allan veiðirétt í vatninu og afnot af því, en að þeim tíma liðnum eignast bærinn allan fisk í vatninu.
— Hvað hafið þið svo helzt gert til að koma upp veiði í vatninu?
— Strax um haustið 1954 slepptum við í vatnið 15 þúsund aliseiðum úr Þingvallableikju, seiðin fengum við hjá Skúla Pálssyni í Laxalóni. Auk þess létum við í vatnið 100 merktar fullvaxnar bleikjur úr Hlíðarvatni.
Um vorið 1958 rann svo upp hinn stóri dagur er við lögðum net í vatnið til að kanna hver árangur yrði af þessari tilraun okkar og varð strax ljóst að fiskurinn hafði þroskazt vel og var feitur og fallegur, mjög fallegur. Þetta var stór frétt og spurðist skjótt um Hafnarfjörð, og var nú vonin um veiði í Kleifarvatni næstum orðin að vissu.
Kleifarvatn-324— Þið hafið náttúrlega strax byrjað að veiða í vatninu?
— Nei, við fórum okkur hægt í fyrstu, vildum gefa silungnum betri tíma til að þroskast og laga sig að vatninu.
Sumarið 1959 var lítillega leyfð veiði í vatninu en byrjað svo af fullum krafti árið eftir. Nú eru seld allt að 20 veiðileyfi á dag, enda strandlengjan nógu stór.
— Hefur nokkuð verið gert frekar til að auka fiskistofninn í vatninu?
— Haustið 1958 fluttum við 100 bleikjur úr Hlíðarvatni í klak- og eldisstöðina að Þórsbergi við Hafnarfjörð.
Þegar búið var að klekja þar út voru bleikjurnar merktar og þeim sleppt í Kleifarvatn, en seiðin úr þeim síðan flutt í Kleifarvatn þegar þau voru ársgömul — 27 þúsund talsins. Seiðin sem látin voru í vatnið 1954 ættu nú að vera búin að hrygna og eru sem næst fullvaxin, en seiðin úr Hlíðarvatnsbleikjunum verða ekki veiðistofn fyrr en eftir tvö eða þrjú ár.
— Fæst sæmilegur fiskur úr vatninu?
— Stærsti fiskurinn sem enn hefur veiðzt er 7 1/2 pund en algengast mun vera tvö til fjögur pund. Menn hafa veitt yfir 20 fiska á dag þegar bezt gengur.
Kleifarvatn-335— Nokkrar fleiri framkvæmdir en fiskiræktin?
— Kleifarvatn er svo stórt að ógerlegt er að hafa not af þvi öllu til veiða meðan ekki verður komizt á bíl með öllu vatninu. Við höfum því ráðizt í að láta gera akfæran veg með vatninu að austanverðu og er þeim framkvæmdum nýlega lokið. Að vísu er enn ekki kominn vegur með öllu vatninu, en nýi vegurinn nær 6 km frá Krýsuvíkurveginum að sunnan og 3 km að norðan. Vantar þá enn 1/2 km á milli svo að endarnir mætist.
— Þetta hefur kostað talsvert fé?
— Stangveiðifélag Hafnarfjarðar ber allan kostnað af þessari vegagerð. Það tók um tvær vikur að vinna þetta með 18 tonna ýtu sem Högni Sigurðsson hjá Almenna byggingafélaginu stjórnaði, — mjög flinkur ýtumaður. Á einum stað, þar sem var mikil kísildrulla, þurfti að skipta um jarðveg eins og í Miklubrautinni, annars er ekki borið í veginn nema rétt á stöku stað og er því fremur ógreiðfært.
Hognaskard-221— Ræktið þið fisk í fleiri vötnum?
— Ekki ennþá, en það er hugur okkar úr því svona vel tókst til með Kleifarvatn.
Hér vestan við Sveifluháls milli Vigdísarvallar og Höskuldsvallar er vatn sem heitir Djúpavatn og höfum við gert samning við Jarðeignadeild ríkisins með samþykki sýslunefndar Gullbringusýslu um leyfi til fiskiræktar og veiðirétt í vatninu. Í haust verða væntanlega sett í það seiði um leið og við bætum við í Kleifarvatni.
Annars lýsir það bezt áhuganum fyrir þessum málum, að innan félagsins hefur verið komið með þá skemmtilegu tillögu að félagið sæki um veiðirétt í öllum þeim vötnum sem vitað er um og finnast kunna á Reykjanesskaga.
Í Krýsuvík og við Kleifarvatn þykir óvenju fjölbreytt landslag og andstæður miklar. Örnefnin segja sína sögu — upp af vatninu austanverðu er t.d. Gullbringa en svo sem snertuspöl þaðan er staður sem heitir því rosalega nafni Víti. Enn eru örnefni að skapast — tilefnin eru næg þótt breyttar séu aðstæður. Þessi mynd sýnir nýjasta örnefnið við Kleifarvatn og líklega hið nýjasta á landinu. Högnaskarð er þar sem hinn nýi vegur SVH liggur hæst yfir Geithöfða sunnarlega að austanverðu við vatnið. Skarðið ber nafn ýtustjórans sem lagði fyrrnefnda veginn, Högna Sigurðssonar er vinnur hjá Almenna byggingafélaginu. (Lj. A.K.)“

Heimild:
-Þjóðviljinn, 20. ágúst 1961, bls. 3 og 10.

Kleifarvatn

Kleifarvatn 2021.