Tag Archive for: Grindavík

Þórustaðastígur

Þórustaðastígur nefnist gamall götuslóði sem liggur frá bænum Þórustöðum á Vatnsleysuströnd og upp heiðina. Stígurinn heldur þessu nafni allt upp fyrir Vestriháls og að eyðibýlinu Vigdísarvöllum og Bala austan undir Núpshlíðarhálsi.

Þórustaðastígur

Þórustaðastígur. Her er hann sagður 12 km, en er allst 21 km.

Götuslóðinn byrjar um 200 m norðan afleggjarans að bænum og sér þess nú næsta lítil merki að þar hafi verið gata.
Gatan liggur um móa og moldarflag suðvestan við allmikinn klapparhól ofan við Gamla-Keflavíkurveginn. Þegar komið er upp fyrir hól þennan er stefna stígsins til austurs sjónhending skammt norðan við Trölladyngju. Nokkru ofar (um 1 km) liggur gatan um Þórustaðaborg en þar eru rústir stekks eða fjárborgar í vel grónum móa vestan undir allháum hól.
Frá Þórustaðaborg er stefnan áfram sú sama og fyrr er getið og að Lynghól, löngum hól, söðulbökuðum (þ.a. lægstum um miðjuna). Hóllinn er rétt ofan við miðja vegu milli Strandarvegar og Reykjanesbrautar. Stígurinn liggur um hólinn miðjan og er mjög greinilegur þarna upp hólinn vestanverðan. Frá Lynghól er stefnan síðan suðaustlæg að stórum klapparhól sem nefnist Kolgrafarholt skammt ofan Reykjanesbrautar, en það dregur nafn sitt af tveimur djúpum, grasigrónum bollum sunnanvert í holtinu.

Þórustaðastígur

Þórustaðastígur.

Undir Kolgrafarholti austanverðu eru tóftir af sauðabyrgi frá Þórustöðum, þar var áningarstaður á leið í fjallið á haustin um Þórustaðastíg. Liggur gatan meðfram Kolgrafarholti norðaustanmegin. Frá Kolgrafarholti er stefna götunnar austan Sýrholts sem er allmikil hæð í heiðinni og liggur slóðinn þar sem lægst er á milli holtsins og Flekkuvíkursels en það stendur nokkuð fyrir neðan Grindarvíkurgjá. Í selinu sjást sex kofatóftir og kví. Vatnsstæði er í klapparholu uppi á ásnum norðan tóftanna. Þeir Kálfatjarnarbræður Gunnar og Ólafur Erlendssynir nefna Flekkuvíkursel í örnefnaskrá árið 1976 og segja: „Herdís Jónsdóttir frá Flekkuvík, f. 1858 kom í selið sem barn og voru þar þá bæði smali og selráðskona. Í selinu voru þá eingöngu hafðar kindur.”

Þórustaðastígur

Þórustaðastígur um Núpshlíðarháls.

Einiberjahóll heitir stór hóll skammt neðan Grindavíkurgjár og liggur stígurinn spölkorn vestan hans. Einiberjahóll er hornmark jarðanna Kálfatjarnar, Flekkuvíkur og Vatnsleysu. Yfir gjána liggur stígurinn svo milli tveggja þúfna sem standa á vesturbarmi hennar en hærri bergveggurinn snýr til fjalla.
Þegar komið er upp fyrir Grindavíkurgjá er farið sem leið liggur í stefnu norðan til við Keili. Ofarlega í heiðinni liggur gatan vestan við stóran hól sem heitir Kolhóll. Stór skál er ofan í miðjan hólinn og eftir nafninu að dæma mætti halda að þar hafi verið kolavinnsla. Áfram liggur svo leiðin að norðurhorni Hrafnafells (Móbergsstapa rétt við Keili að norðanverðu) og síðan fram með því og að Keili. Frá þessu svæði liggur síðan Höskuldarvallarstígur yfir hraunið að Oddafelli.

Þórustaðastígur

Þórustaðastígur við Selsvelli.

Þórustaðastígurinn liggur áfram frá Hrafnafelli og er stefnan í suðaustur að Melhól en hann er spöl ofan Keilis við hraunjaðarinn að Driffelli. Fyrsti spölurinn er um brunakarga, stuttan veg, en svo eru sléttar klappir að fellinu. Stígurinn liggur síðan í sveig með Driffellinu að austanverðu og svo suður með því drjúgan spöl.
Þegar komið er á móts við stóra gíginn við norðurenda Selsvalla liggur leiðin yfir hraunhaft í stefnu fast sunnan við gíghólinn. Upp frá völlunum liggur gatan síðan upp gilið andspænis gígnum og þegar komið er upp á fjallið sveigir slóðin til suðurs.
Niður á túnið á Vigdísarvöllum er svo farið um skarðið vestan við Bæjarhálsinn og við gömlu reitina.

Heimild m.a.:
-Örnefni og gönguleiðir á Vatnsleysuströnd – Sesselja G. Guðmundsdóttir.

Þórustaðaborg

Þórustaðaborg.

Seltúnssel

Gengið var um Seltún í Krýsuvík og leitað Seltúnsselja, en gamlar heimildir kveða á um sel á túninu.
JóiSeltún er í Hveradal, en þar hafa orðið talsverðar (reyndar allmiklar) breytingar á landi síðan fyrrum. Síðast sprakk ein borholan í dalnum með miklum látum, en áður hafði hið ævintýralega brennisteinsnám farið þar fram með eftirminnilegum tilfæringum. Einu leifar þess ævintýris er hraukur af brennisteini sunnan Seltúnsgils, en þar var brennisteininum mokað upp eftir að hafa verið þveginn í þremur þróm og síðan fluttur á hestum til Hafnarfjarðar, óunninn. Það var enskt „milljónafélag“, sem að því stóð (sjá meira HÉR).
Þá var gengið upp Ketilsstíg, yfir Sveifluháls, framhjá Arnarvatni og Arnarnípu og niður Ketilinn í Móhálsadal, með hálsinum til suðurs og síðan upp á hverasvæðið er lækurinn um Bleikinsdal niður í Ögmundarhraun rennur úr. Þaðan var gengið áfram upp að Arnarvatni og til baka niður í Hveradal um Ketilsstíg. Um var að ræða létta göngu, 2-3 klst. Falleg gömul þjóðleið að hluta, sem æ fleiri fylgja nú á dögum.
Annars er frábært útsýni norður Sveifluhálsdalina þar sem staðið er norðan Arnarvatns. Þaðan sést vel hvernig hálsinn greinist um gígaröðina sem hann myndaði á síðasta jökulskeiði.
Frábært veður – sól og hiti.

Seltún

Seltún – minjar (ÓSÁ).

 

 

Ísólfsskáli

Erling Einarsson, Ísólfsskálabóndi, hafði samband og kynnti fund á hlaðinni refagildru í Skollahrauni austan Ísólfsskála. Skammt frá gildrunni væri jafnframt hlaðið byrgi refaskyttu.
RefagildraÞegar gengið var með Erling um svæðið kom í ljós að umrædd refagildra var nokkuð heilleg að sjá. Fallhellan var fyrir opinu. Gildran fellur mjög vel inn í aðrar hraunþústir á svæðinu.
Byrgið er kringlótt og fremur lítið. Ljóst er að þarna eru eða hafa verið greni. Víða eru op í grunnum yfirborðsrásum. Við sum þeirra má sjá lambabein. Hraunsvæði þetta er nokkuð slétt og sér þaðan vel heim að Skála. Rekagatan milli Skála og Selatanga liggur þarna í hraunlægð skammt sunnar. Nótarhóll með öllum fiskvinnslumannvirkjunum eru þar enn sunnar.
Norðan við svæðið taka við hraunhólar og lægðir. Handan þeirra er svo önnur hraunslétta, vestan Kistu. Um þessi hraunsvæði má sjá móta fyrir gamalli leið til norðausturs upp í gegnum hraunið með stefnu á Skollanef í Slögu.
Þegar efra svæðið var skoðað nánar mátti sjá vestast í brún þess enn aðra hlaðna refagildru. Þakið var fallið niður að hluta, en þó mátti enn sjá ganginn og hluta gildrunnar. Líklegt má telja að Guðmundur Hannesson, fyrrum bóndi á ísólfsskála, hafi hlaðið þessar gildrur, en hann var m.a. annálaður refaveiðimaður. Guðmundur kom frá Vigdísarvöllum austan við Núpshlíðarháls um aldamótin 1900. Fjórði ættliður hans á nú aðstöðuna og eignirnar á Ísólfsskála.
Refagildra Guðmundur er frægastur fyrir að hafa verið mikill veiðimaður og hafa verið víðförull þar sem hann fór um. Frá honum er kominn mikill og langur leggur dugmikilla manna og kvenna.
Í örnefnalýsingu Guðmundar Guðmundssonar, bónda á Ísólfsskála segir m.a. um þessi svæði Skollahraunsins: „Rétt innan við bæinn skagar klapparnef fram úr Slögunni, sem heitir Skollanef. Niður af henni, austur af túni, út í hrauni, er klettur, sem sker sig úr að lögun og heitir Kista. Fremst í Slögunni, rétt við túnið innanvert, er Fjárból, við alllangan hamravegg. Vestur af Slögunni er gróðurlítið svæði, sem nefnt er Melar. Vestan við þá heitir Lágar.“
Eftir Ísólfi Guðmundssyni, bónda á Ísólfsskála, er eftirfarandi haft árið 1983: „Skollanef er suður úr Slögu. Skollahraun er suður af því; þar var og er enn greni.“
Loftur Jónsson segir í örnefnalýsingu sinni að „fyrir austan Löngukvos er Skollanef og er nokkurs konar öxl eða klapparnef fram úr Slögu. Skollahraun er þar suður af. Í hrauninu austan við túnið er sérstæður klettur sem heitir Kista. Hvammur austan Skollanefs með stórum steinum er Innri-Stórusteinar.“

Samkvæmt örnefnalýsingum eru framangreindar refagildur í Skollahrauni, austan túns og vestan Kistu.
Með þessum refagildrum meðtöldum er nú vitað um a.m.k. 29 hlaðnar refagildur á Reykjanesskaganum. Trúlega má telja að Guðmundur Hannesson hafi hlaðið þær margar sem fundist hafa í nágrenni Ísólfsskála fyrir aldamótin 1900, s.s. á Selatöngum og allt upp í Hrútargjárdyngu. Annars er talið að hugmyndin af gildrunum hafi komið hingað til lands með norskum landnámsmönnum því sjá má svipuð mannvirki þar í landi allt frá þeim tíma.
Kista Annars staðar á vefsíðunni er sagt frá notkun refagildranna sem og nýtingu afurðanna.
Fyrirhugað vegstæði Suðurstrandarvegar átti að liggja um hraunið þar sem refagildrurnar eru, en með úrskurði var ákveðið að fara með hann norðar, eða nálægt núverandi vegstæði. Ekki er að sjá að refagildranna sé getið í fornleifaskráningu vegna vegstæðisins. Líklegt má telja að enn sú allnokkur mannvirki á þeirri línu, sem mannlegt auga hefur enn ekki komið auga á. Þannig var það t.a.m. með sæluhúsið undir Lat. Það var ekki fyrr en FERLIR benti hlutaðeigandi aðilum á það að þess var getið í lokaumferð fornleifaskráningarinnar, en Jón Guðmundsson frá Skála hafði áður upplýst um tilvist þess eftir minni. Hann treysti sér hins vegar ekki til að finna það aftur. Hið sama gildir um leiðina fyrrnefndu. Þó eru vörðurnar undir Skollanefi, sem bræðurnir á Skála hlóðu um miðja 20. öldina, sagðar í skráningunni vera fornar. Svona er nú margt skrýtið í kýrhausnum.
Guðmundur Hannesson, refaskytta og bóndi á Ísólfsskála í Grindavík. Hann fæddist á Arnarhóli, Gaulverjabæjarhreppi, Árnessýslu, þann 1. júní 1830. Guðmundur lést 27. janúar árið 1901 og því væntanlegar allar refagildrur, sem hann hlóð, nú friðaðar skv. þjóðminjalögum.
Byrgi refaskyttu Foreldrar hans voru Hannes Guðmundsson, 1800-1888, bóndi á Hjalla Ölfusi, og kona hans Guðlaug Sæfinnsdóttir, 1795-1841.
Guðmundur var bóndi á Bala í Krýsuvík og á Vigdísarvöllum, en fyrir 1880 er hann fluttur á Ísólfsskála í Grindavík og býr þar með konu sinni Helgu Einarsdóttur, 1825-1889, frá Breiðagerði á Vatnsleysuströnd, ásamt tveim sonum þeirra, þeim Hjálmari (1860-1947) og Brandi (1863-1955).

Seinni kona Guðmundar var Guðrún Jónsdóttir (1856-1898) frá Þórkötlustöðum í Grindavík. Þeirra börn voru Guðmundur (1884-1977) og Indriði (1894-1947).
Sem fyrr sagði má telja mjög miklar líkur á að fleiri hlaðnar refagildrur finnist í Skollahrauni ef vel væri gaumgæft. Þá má og telja líklegt að slíkar gætu fundist neðst í Ögmundarhrauni austan við Eystri-Látur. Þar eru greni, hlaðið byrgi refaskyttu og ákjósanlegar aðstæður til hleðslu. Segja má að þangað komi varla maður nema svo sjaldan á ári að telja megi á fingrum annarrar handar.
Frábært veður.

Refagildra

Refagildra við Ísólfsskála.

Skipsstígur

Um var að ræða í gönguröð um hluta gamalla þjóðleiða á Suðurnesjum undir heitinu „Af stað“ til tengingar loftmyndagönguleiðarkorti Ferðamálasamtaka Suðurnesja er þau gáfu út fyrir trekvart misserum síðan.

Bláa lónið

Bláa lónið – upphaf göngu.

Markmiðið er bæði að hvetja fólk til að nýta sér hina skemmtilegu og fornumbúnu þjóðleiðir á Suðurnesjum til útivistar, fróðleiks og hollrar hreyfingar og um leið rifja upp þær aðstæður er forfeður þeirra buggu við fyrrum – áður en sjálfrennireiðaakvegir og síðar mótorbílaakbrautir tóku við af hinum gömlu þarfaleiðum fótgangandi fólks og skepna á millum bæja, sveita og héraða.
Að þessu sinni var gengið frá Bláa lóninu í boði Grindavíkurbæjar. Ætlunin var að ganga inn á Skipsstíg, fylgja honum til suðurs að Dýrfinnuhelli, síðan Reykjaveginum til vesturs að Árnastíg, skoða hvar B17 (Fljúgandi virkið) nauðlenti árið í apríl 1943, ganga síðan Árnastíg áleiðis að Húsatóftum og skoða m.a. í leiðinni fornar hlaðnar refagildrur og þjóðsögukennda staði.

Bláa lónið

Gengið frá Bláa lóninu.

Til að þurfa ekki að fylgja hinnum nútímalega og afsaltlagða nútímaþjóðvegi milli Bláa lónsins og Grindavíkur í suðri, var ákveðið að ganga um slétt moasahraun samnefnt hinum Illa og um það inn á Skipsstíg sunnan Lats (einn af gígum eldri hluta Eldvarpanna). Þessi hluti er vel greiðfær. Framundan sást vörðuröðin á Skipsstíg þar sem hann liggur millum Njarðvíkna og Grindavíkur. Sólin skein að sunnanverðu, en að norðanverðu virtist dumbungur yfrum.

Skipsstígur

Gengið að Skipsstíg.

Þegar komið var inn á Skipsstíg var augljós og áþreifanlegu meðvindur til Grindavíkur. Hin gamla gata sást vel þar sem hún var mörkuð ofan í hraunhelluna vestan Skipsstígshrauns (Illahrauns) þar sem hún liðaðist vörðumprýdd, fullreistar eða hálffallnar um Bræðrahraun og síðan áfram sem slík með Blettahrauni. Á stöku stað sáust vel mannanna verk á hlöðnum köntum eða brúm stígsins, en þegar nær dró Lágafelli kom atvinnubótavegarkaflinn frá því skömmu eftir aldarmótin 1900 smám saman í ljós. Segja má með sanni að þarna er einn fallegasti kafli vegagerðar frá þessum tíma og sá hluti sem einna helst þarf að varðveita.

Skipsstígur

Skipsstígur.

Við þennan hluta Reykjavegar má t.d. sjá hraunæðar sem burnirótin hefur náð að nýta sér sem skjól, líkt og tófugrasið.
Þegar komið var að Dýrfinnuhelli var saga hans rifjuð upp. Segir sagan að samnefnd kona hafi dvalið með börn sín eftir að hafa flúið undan Tyrkjunum er herjuðu á Grindavík að morgni 20. júní 1627 Tyrkjasagan. Dvaldi hún þarna um skamman tíma, uns talið var óhætt að halda áný til fyrri híbýla í Grindavík. Opið snýr mót norðri, en botn hellisins er nú sandumorpinn. Í Nágrenninu eru einnig margir ákjósanlegir felustaðir.

Skipsstígur

Gengið um Skipsstíg.

Þá var gengið spölkorn til baka og vent til vesturs inn á Reykjaveginn. Í fljótu bragði virðist Reykjanesskaginn hrjóstugur og illur yfirferðar og því ekki vel fallinn til gönguferða. Við nánari skoðun kemur annað í ljós. Hann hefur upp á flest að bjóða sem göngufólk leitar að. Hraunið og auðnin hefur aðdráttarafl ekki síður en gróskumikið gróðurlendi þótt á annan hátt sé. Víða leynast fallegar gróðurvinjar og mosinn í hraununum er sérkennilegur. Þar eru líka einstök náttúrufyrirbrigði eins og hraunsprungur og misgengi, eldgígar, hrauntraðir, jarðhitasvæði, hellar og fuglabjörg. Þótt fjölbreytt mannlíf hafi aldrei verið á þeim slóðum sem Reykjavegurinn liggur um eru samt til sögur og minjar um mannlíf á þeirri leið. Gamlar götur líkar Árnastíg liggja víða um Reykjanesskagann og skera eða tengjast Reykjaveginum á mörgum stöðum.

Blá lónið

Helluhraun.

Í jarðfræðilegu tilliti er Reykjanesskaginn mjög merkilegur. Hann er hluti af Atlantshafshryggnum mikla sem liggur um þvert Ísland og er eini staðurinn þar sem hægt er að skoða hann ofansjávar. Sköpunarsaga landsins verður hér ljóslifandi. Að minnsta kosti 12 hraun hafa runnið á Reykjanesskaga síðan land byggðist. Það nýjasta sennilega á 13. öld. Eftir að jökul leysti af skaganum fyrir tólf til fimmtán þúsund árum hafa um 200 eldstöðvar í fjórum eldstöðvakerfum, verið virkar á svæðinu og úr þeim runnið um 42 rúmkílómetrar af hrauni sem þekur yfir 1000 ferkílómetra landsvæði. Má þar á meðal finna allar helstu gerðir íslenskra eldstöðva.

Reykjavegur

Reykjavegur – Þorbjarnarfell fjær.

Reykjavegurinn sem liggur um endilangan Reykjanesskagann var stikaður sumarið 1996. Hann liggur frá Reykjanesi að Nesjavöllum og er um 130 km langur eða meira en tvöföld vegalengd Laugavegarins margfræga á milli Landmannalauga og Þórsmerkur. Víða hafa myndast gönguslóðar á leiðinni, sérstaklega þar sem hún liggur um mosavaxin hraun. Á öðrum stöðum liggur leiðin um gamlar götur sem öðlast hafa nýjan tilgang. Einn helsti kostur Reykjavegarins auk þess að vera mjög skemmtileg gönguleið, er hvað hann er nálægt byggð og aðkoma að honum þægileg á mörgum stöðum án þess að fólk verði vart við skarkala þéttbýlisins. Hann liggur um óbyggð svæði og fullnægir því vel þörfum fólks sem vill vera í náinni snertingu við náttúruna og hvíla líkama og sál frá hraða hversdagsins.

Bláa lónið

Gengið um Skipsstíg.

Skömmu áður en komið var inn á aðra forna þjóðleið milli Húsatópta og Njarvíkna var beygt inn á að því er vitist gamall stígur. Um var hins vegar að ræða far eftir snertingu B17 flugvélar er nauðlenti þarna árið 1943. Sjá má á jörðinni brak úr vélinni þar sem neðsti hluti hennar, byssuturninn, varð hrauninu smám saman að bráð.

Skammt norðar má sjá kringlumótt í hrauninu, sem endar skammt norðar. Þar má einnig sjá nokkurt brak. Það er tilkomið vegna aðgerða til að bjarga leifum af flugvélinni (Fljúgandi virkinu) sem varð eldsneytislaus þarna og lenti á hrauninu.

Eldvörp

B-17 vélin í Eldvarpahrauni 1943.

Skv. upplýsingum frá Friðþóri Eydal „er brakið brot úr þessari B-17 sprengjuflugvél sem lenti í villum á leið frá Bandaríkjunum til Bretlands með fyrirhugaðri viðdvöl á Keflavíkurflugvelli og nauðlenti þarna er eldsneytið þraut eftir 14 klst. flug þann 17. apríl 1943. Mannbjörg varð meðal fimma manna áhafnarinnar, sem verður að teljast gleðilegt af annars fjölþættari flugvélaslysasögu svæðisins, en a.m.k. fimm aðrar flugvélar Bandaríkjamanna fóru niður á sviðuðum slóðum á svipuðum tíma. En má sjá leifar þeirra.

Bláa lónið

Áning.

Götu þeirri er herbílar fluttu sundurskorna flugvélina var fylgt inn á Árnastíg. Sá stígur er ágætt dæmi um aðra forna þjóðleið milli Njarvíkna og Húsatófta, þriðja hverfis Grindavíkur. Skipsstígur lá niður að Járngerðarstöðum, en það þriðja, senn hefur ónefnt verið, Þórkötlustaðahverfið, fékk afleggjara af Skipsstíg.
Þar sem Árnastígur beygir til norðurs inn á hraunhelluna að Eldvörpum eru nokkrir hraunhólar, Vegamótahólar. Þar greinist leiðin, annars vegar að Húsatóptum um Árnastíg og hins vegar að Járngerðarstöðum um Járngerðarstaðastíg. Mosinn er horfinn af þessu svæði, en hann brann um ´56 þegar brottflognir Bandaríkjamenn voru þarna við heræfingar. Eftir svo langan tíma hefur hann enn ekki náð sér á strik sem skyldi, enda tekur mosann u.þ.b. öld að ná jafnvægi þar sem honum hefur verið raskað.

Sundvarða í Sundvörðuhrauni

Sundvarðan í Sundvörðuhrauni.

Skammt neðan við austanvert Sundvörðuhraun, þar sem er Sundvarðan, klettastandur upp úr hrauninu, fyrrum mið Grindvíkinga. Á hábrúninni eru þrjár vörður; afstaða þeirra vísa veginn á gatnamót, sem þarna eru skammt frá, annars egar áfram um Ánarstíg og hins vegar um Brauðstíg, að Eldvörpum og framfjá svonefndum „Tyrkjabyrgjum“. Þau eru í hraunkrika sunnan undir Sundvörðuhrauni. Þetta eru 10 tóftir, auk hlaðinnar refagildru, en tvær tóftanna eru uppi á hraunbrúninni. Þetta eru allmikil mannvirki, misstór en stærsta rústin er um það bil 4 x 1,5 m á stærð. Engar heimildir hafa fundist um þessar rústir og hafa því verið uppi getgátur um tilvist þeirra. Þær fundust fyrir tilviljun veturinn 1872 og elstu lýsingu á þeim er að finna í Ferðabók Þorvaldar Thoroddsen en hann skoðaði þær árið 1883.

Brauðstígur

Gengið um Brauðstíg í Eldvörpum.

Þegar komið var að gatnamótum ofan við sauðfjárvarnargirðingu þótti ástæða til að staldra við. Þvergatan til vinstri nefndist Brauðstígur. Hann fór fólk frá Húsatóftum uppí Eldvörp til að baka brauð við hverahitann.
Skriðdrekaslóði liggur víða ofan á hinni gömlu þjóðleið Árnastígs. Síðan hefur honum verið haldið við með akstri annarra ökutækja. Þó má sumsstaðar sjá gömlu götuna til hliðar við slóðann. Á a.m.k. tveimur stöðum eru hlaðnar brýr á henni.

Árnastígur liggur yfir mjóa apalhrauntungu úr Sundvörðuhrauni og inn á slétt helluhraun Eldvarpahrauns.Fallegar hraunæðar, hraunreipi, katlar og önnur fyrirbæri varða leiðina upp fyrir suðaustanverð Sundvörðuhraunið. Sundvörðuna, hár hraunstöpull í austanverðu hrauninu, var mið sjómanna fyrrum, en vestan við Stekkjartúnskamp við Arfadalsvík eru klettabásar, nefndir Sölvabásar.

Skipsstígur

Við Árnastíg. Þorbjarnarfell fjær.

Vestan við Sölvabása skagar tangi fram í sjó. Heitir hann Vörðunes, en er í daglegu tali nefndur Vörðunestangi. Beint upp af honum, u.þ.b. 1 km, er stór hlaðin varða. Tvær vörður með dálitlu millibili stóðu á bakkanum tæpum 200 austan við Vatnslón. Vörður þessar heita Sundvörður. Efri varðan er um 800 m austan við bæjarhólinn á Húsatóptum, í uppgrónu hrauni. Í örnefnaskrá segir að „þegar þær bar í háan hraunstand [Sundvörðuna í Sundvöðruhrauni] í háhrauninu og í Höskuld, hnjúk austan í Þórðarfelli, þá var verið á réttu Djúpsundi. Var því miði haldið, þar til Hvirflavörður bar saman á Snúningnum. Þá var sveigt til vinstri inn á Staðarvík, en þaðan var greið leið inn í Staðarvör og Tóptarvör, þótt brimhroði væri. Snúningur var nefnt, þar sem beygjan var tekin, og talað var um að vera komin á Snúning.“ Varðan er hlaðin úr hraungrýti og er um 2 m á hæð. Hún er mest um 1,5 m í þvermál og umför grjóts eru um tíu. Neðri varðan er skammt austan við þar sem hús fiskeldisins standa nú (suðvestar).

Húsatóttir

Refagildra við Húsatóttir.

Síðasta varðan (nú sýnileg) á Árnastíg er skammt ofan við golfvöllinn. Hægra megin við hana liðast gamla gatan um móann áleiðis að lágri hraunbrekku á vinstri hönd. Lengra til hægri eru þrjár hlaðnar refagildrur. Búið er að rjúfa þakið á einni þeirra, en hinar tvær hafa fengið að halda sér eins og þær voru upphaflega byggðar.
Í stað þess að troða á væntumþykjanlegum grasflötum og grínum golfarana var ákveðið að fylgja striðdrekaslóðanum til austurs og nálgast gamlar hlaðnar refagildrur úr þeirri áttinni. Um er að ræða þrjár slíkar á tiltölulega litu svæði ofan Húsatófta. Vel má enn sjá lögun þeirra og notkunarforn,þrátt fyrir að þær sems líkar hafi ekki verið brúkaðar lengi.

Árnastígur

Árnastígur.

Gengið var að Húsatóptum (-tóftum, -tóttum) um Baðstofu (vatnsforðabúaðargjá Staðhverfinga og Hústóftinga). Hlélaust hefði gangan tekið u.þ.b. 2 klst, en með því að staldra við og skoða það er markverðast getur talist, s.s. jarðfræðifyrirbæri, jurtir, þjóðsögukennda staði og sjáanlegar minjar,tók ferðin tekið nálægt 4 klst.

Hverfin í Grindavík eru þrjú; Þórkötlustaðarhverfi austast, Járngerðarstaðarhverfi í miðið og Staðarhverfi vestast. Húsatóptir, þar sem golfvöllur Grindvíkinga er nú, var önnur stóra jörðin í Staðarhverfi. Hin var Staður, sem hverfið dregur nafn sitt af. Árið 1703 voru Húsatóptir konungsjörð og lá til Viðeyjarklausturs. „Selstöðu hefur jörðin lángvaranlega haft þar sem heitir á Selsvöllum, er þángað bæði lángt og erfitt að sækja.“ Hjáleigur voru Kóngshús og Garðhús. Árið 1936 var jörðin seld „með fleiri kóngsjörðum þetta ár, fyrir 630 ríkisdali í silfri til þáverandi landseta. Höfðu Viðeyingar hér áður útræði (1847).

Húsatóftir

Baðstofa.

Til forna átti Staður rétt til vatnssóknar í Baðstofu í Húsatóftalandi. Til endurgjalds áttu Húsatóftir þangfjörutak á Stað. Kaupstaður var á Húsatóptum og var lent við Kóngshellu. Jörðin fór í eyði 1946. Fimm tómthúsbýli voru byggð í landi Húsatópta á árunum 1906-1934; Dalbær (1906-46), Vindheimar (1911-34), Blómsturvellir (1914-22), Hamar (til 1930) og Reynistaður (1934-38). Vel má sjá móta fyrir öllum þessum býlum í vesturjaðri golfvallarins sunnan Húsatópta.
Árið 1703 var túnið á Húsatóptum mjög spillt af sandi og „enn hætt við meiri skaða“. Engvar öngvar og mestallt landið hraun og sandi undirorpið. Árið 1840 var hins vegar önnur lýsing gefin af Húsatóptum: „Mörgum þykir fallegt á bæ þessum því þar eru stór tún, slétt og fögur, þegar í blóma standa, eru þau og allvel ræktuð.“

Túnakort

Húsatóftir – túnakort 1918.

„Bærinn stóð spottakorn frá sjó, á háum og víðsýnum fleti“, segir í sóknarlýsingu. Á túnkorti frá 1918 eru sýndar tvær húsaþyrpingar, en tvíbýli var á Húsatóptum. Tóftir gömlu bæjanna eru þar sem nýrra íbúðarhúsið stendur nú, uppi á brekkunni ofan vegarins. Annars eru tóftir fyrir austan húsið og hins vegar um 15 m vestan þess. Tóftirnar eru enn greinilegar að hluta, en sléttað hefur verið fyrir golfvellinu allt umhverfis þær.
„Frá þeim tíma [þ.e. verslunarinnar] er gólfið þar í bæjardyrunum steinlagt með tígulsteini. Er líklegt að Kaupmannshúsin hafi verið rifin þegar verzlunin lagðist niður, en svo aftur byggður bóndabær í „tóptum“ þeirra, og fengið þar af nafnið, sem hann hefur nú“, segir Brynjúlfur Jónsson í grein frá árinu 1903.

Húsatóptir

Húsatóptir – sjá má torfbæinn v.m.

Íbúðarhús úr steini var byggt á bæjarhólnum 1930, en fram að því hefur verið þar toftbær. Hús voru byggð 1777 með „binding úr torfi og grjóti að utan en göflum úr timbri“. Einnig var þar íbúðarhús beykisins, byggt 1779, „með veggjum úr torfi og grjóti, enm þaki úr timbri“.

Eldra íbúðarhúsið er nú stendur að Húsatóptum, byggt 1930, stendur neðar og vestar en tóftirnar. Það hýsir nú golfskála Grindvíkinga. Tóftirnar fast austan við núja íbúðarhúsið eru á hól. Þær eru tveggja hólfa, en á milli hólfanna er steyptur pallur. Um 20 m norðaustan við tóftirnar eru leifar húss eða kálgarðs.

Húsatóftir

Minjar dönsku einokunarverslunarinnar á Húsatóftum.

„Hjáleigan Kóngshús stóð niður við Húsatóptarvör“, segir í Sögu Grindavíkur. Fast vestan Tóptarvarar er stór klöpp, sem á standa rústir sjóhúss. Er líklegt að hjáleigan hafi verið á svipuðum stað. Klöppin er alltaf upp úr sjó, en getur verið mikið umflotin á flóði. Hún er grasi gróin að hluta. Ekki eru aðrar tóftir á klöppinni en steypurústin, en sunnan í klöppinni standa tveir fúnir timburstaurar úr sjó.
Barlestarsker er beint niður af Húsatóptum, millli Þvottaklappa og Garðsfjöru, í Vikinu. Skerið er skerjatangi syðst í Garðsfjörunni. Ef tekið er mið af klöppinni með steyptu rústinni er Tóptarklöpp austan við hana, en Barlestarsker sunnan við hana. Þau eru tvö. Þar munu verslunarskipin hafa tekið barlest. Í öðru Barlestarskerinu var festarbolti gegnt öðrum í Bindiskeri í Vatnstanga í landi Staðar.
Keðja mun hafa legið þvert yfir víkina milli festarboltanna og voru verslunarskipin á dögum kóngsverslunarinnar svínbundin við keðjuna, þar sem þau lágu á víkinni. Svínbundið var þegar skip var bundið bæði aftan og framan langsum á keðjuna, þannig að hlið lægi að henni.

Staður

Kengur í Bindiskeri.

Boltinn í Barlestarskeri var stór, fleygmyndaður með auga í efri endanum. Hann var lengi notaður sem hestasteinn á hlaðinu á Húsatóptum, en er nú sagður vera í garði húss í Járngerðarstaðahverfi. Festarboltinn á Bindiskeri er enn á sínum stað. Í lýsingu Brynjúlfs Jónssonar frá 1903 segir „að skipin hafi verið bundin á þrjá vegu við járnbolta, sem festir voru í klappir. Tveir af þeim voru í Húsatóptalandi, en einn í Staðarlandi. Jón bóndi Sæmundsson á Húsatóptum lét, nálægt 1850, taka upp báða þá boltana, sem í hans landi voru og færa heim til bæjar. Var annar hafður sem hestasteinn“.

Húsatóftir

Húsatóftir – minjar og örnefni – ÓSÁ.

Búðarhella er upp af Kóngshellu. Næstur er Búðasandur er tekur við af Garðsfjöru allt frá Tóptarvör. Danska verslunarhúsið stóð á litlum hól, u.þ.b. 80 m upp af Tóptarvör. Ennþá sést móta fyrir grunni þess. Í sóknarlýsingu 1840 segir: „Stóðu höndlunarhúsin niður við sjó nálægt Hvirflunum, en kaupmenn bjuggu heima á Húsatóptum.“ Á innri klöppinni (ofan við Kónshellu), sem er mun hærri, hafði krambúðin síaðst staðið. Þar stóð enn fisksöltunarhús Húsatóptarmanna er þar var róið 1865 og 1866. Þar á klöppini var aflanum skipt eftir róðra og gjört að fiskinum. Líklega er hóllinn, sem talað er um hóll sá, sem sumarbústaðurinn Staðarhóll stendur nú. Fast sunnan við hann er Búðasandur.
Verslun var í Grindavík áður, en hætt var við hana snemma á 18. öld. Höfnin var rétt við prestsetrið Stað, við hólma, sem hjallur var á. Skipin lágu milli hans og Barlestarskers. Verslunarhúsin stóðu á Búðartanga, en nú er tanginn að mestu brotinn af brimi. Þegar grafið var þar fyrir löngu fannst þar lóð, 100 pund að þyngd, sem bar merki Kónsghöndlunar. Þar finnast enn krítarpípur ef vel er leitað. Búðin var byggð 1779, einnig eldhús með múraðri eldstó og Gamla pakkhúsið (sennilega eldri verslunarbúð).

Staður

Staður og Húsatóftir í Grindavík. Hafnarkort Dana frá einokunartímanum á 17. öld.

Verslun var tekin upp á ný í Grindavík árið 1664, en hafði fram til 1639 verið í Járngerðarstaðalandi. Kaupmenn „fluttu sig um set vestur í Arfadal í landi Húsatópta. Þar var ráðist í umtalsverðar framkvæmdir og á uppdrætti, sem Kristófer Klog gerði af Grindarvíkurhöfn árið 1751 má sjá verslunarhús niðri við ströndina. Þau stóðu skammt frá svonefndum Hvirflum, sem heita Búðarsandur…“, segir í Sögu Grindavíkur.
Á uppdrættinum sést tvílyft hús, talið vera krambúðin, sem reist var 1731, og minna hús sambyggt við austurendann. Þetta hús mun hafa staðið fram undir lok 18. aldar, en 1779 hafði ný krambúð verið byggð.

Staðarhverfi

Staðarhverfi – uppdráttur ÓSÁ.

Kaupsigling var í Staðarvík til 1745, en eftir það var aðeins siglt til Básenda, þó ennþá væri verslað í húsunum í grindavík. Árni Jónsson keypti húsin á Búðasandi 1789, krambúð, eldhús og „gamla pakkhús“, en hann varð gjaldþrota 1796 og lagðist þá verslun alveg af í Grindavík. Verslunarhúsin voru rifin 1806.
Í Arfadal, neðan við túnið á Húsatóptum, eru pípuklettar. Neðan þeirra, með sjávargötu frá Húsatóptum, er lítill klettur (gróinn hóll), sem Pústi heitir. Þar hvíldu menn sig gjarnan, er sjófang var borið heim. Nú er Pústi í golfvellinum.
Út undir Hvirflum eru klettar, sem heita Háavíti og Lágavíti. Í þeim eru mörg grjótbyrgi, og var fiskur þurrkaður a þeim, áður en söltun kom til. Í hrauninu fast norðan við þjóðveginn eru margir greinilegir grjóthlaðnir hleðslugarðar. „Þá notuðu m.a. Skálholtsmenn til að herða fisk sinn“, segir Þorvaldur Thoroddsen í Ferðabók sinni.

Húsatóftir

Nónvörður.

Vestur af Húsatóptum er landið nokkuð hærra og heita Hæðir suðvestur af bænum. Á þeim eru Nónvörður, eyktarmark frá Húsatóptum. Vörðurnar eru tvær og standa á hárri ógróinni hraunbungu norðan við þjóðveginn. Fremri varðan sést greinilega frá veginum.
Sagan segir að „þegar Tyrkir komu til Grindavíkur 1627, lentu þeir skipi sínu við Ræningjasker í landi Staðar. Gekk þá Staðarprestur upp á efstu brún Hæðanna, hlóð þar þrjár vörður og mælti svo fyrir um, að Grindavík skyldi ekki verða rænd, á meðan í þeim stæði steinn yfir steini.“ Hefur það orðið að áhrínisorðum, enda standa Nónvörður enn, auk vörðunnar á Nónhól skammt vestar, í Staðarlandi.
Árnastígur er sunnan við Klifgjá, vestast í jarði hennar, austan við túnið á Húsatóptum, vel rudd braut um apalhraun. Gamli vegurinn milli Staðarhverfis og Keflavíkur lá um Árnastíg og Klifgjá, þar norð-austur af er Þórðarfell. Um gjána lá svokallað Klif, snarbratt niður í hana. Er það hálfgert einstigi og illt yfirferðar með klyfjahesta, segir í örnefnaskrá.

Árnastígur

Gengið um Árnastíg norðanverðan.

Syðsti hlutinn var bæði kallaður Staðar- og Tóptarvegur. Norðan Stapafells, kom gatan inn á svonefndan Járngerðarstaðaveg (Skipsstíg) á landamerkjum Njarð- og Grindvíkinga. Leiðin er um 16 km löng.
Hjálmagjá er norðvestast (efst) í túni Húsatópta, grasi gróin í botninn. Haft var eftir gömlu fólki, að það hefði oft séð hamrana upplýsa með dýrlegum ljóshjálmum, sem bárum mjög af lýsiskolum í mannheimi. Sást þá oft huldufólkið úr Hjálmagjá leika listir sínar á skautum í tungsljósinu (þ.e.a.s. í lægð í Húsatóptatúni, sem kallast Dans, og þar mynduðust góð svell í frosthörkum á vetrum), segir í örnefnaskrá.
Sunnan við Dans (sem er norðaustast í túninu) er Kvíalág og Fjósskák sunnan hennar. Næst er Harðhaus. Hann er ósleginn túnpartur um 120 m norður af bænum, fast utan golfvallarins. Þar hraktist aldrei hey. Í óþurrkatíð var Harðhaus sleginn til að fá þurrkt. Fjósaskák og Harðhaus náðu alveg heim að gamla bænum.

Árnastígur

Mót Árnastígs og Skipsstígs.

Þangggarðar voru suðaustan við bæjarhlaðið þar sem nú eru gamlar veggtóftir. Þar var þurrt þang geymt til vetrarins. Var því hlaðið þar upp og tyrft yfir það eins og hey. Á veturna var það svo notað til eldiviðar. Þangið var skorið í fjörunni, helst þegar stórstreymt var, og reitt á hestum upp á sjávarbakkann til verkunar. Þegar sterkur álandsvindur var, þá var þang of skorið „undir straum“, vafið um það gömlum netariðli ogmeð flóði fleytt í efsta flóðfar og þaðan reitt á hestum á þurrkvöll. Þá var breitt úr þanginu eins og heyi til þurrkunar. Nú var nauðsynlegt að rigndi vel á þangið, svo úr færi selta. Næst var þangið þurrkað vel, bundið í bagga eins og hey og flutt í geymslur til vetrarins. Oftast var þungu þangi hlaðið í bing í eldhúsinu og brennt á hlóðum. Vel þurrt þang logaði vel, með snarki og neistarflugi, en heldur þótti það léttur eldiviður. Kom sér þá vel að hafa „rekaspýtu í augað“.

Árnastígur

Upphaf Árnastígs við Húsatóftir.

Skipadalur er neðst í túninu. Þangað munu vertíðarskipin til forna hafa verið sett í vertíðarlok. Golfskálinn stendur í raun í Skipadal. Þar er nú sléttað malarplan. Skammt vestar er Húsatóptarbrunnurinn, sem enn sést móta fyrir.
Baðstofa er djúp gjá ofan Tófta þar sem Staðhverfingar fengu í velþóknun heimamanna að sækja sér ferskst vatn um langa tíð. Það er nú helst notað til handa sandverfu- og silungsrækt og fyrrum laxeldisstöð neðan og austan Tófta.
Þegar komið var að golfvellinum á Húsatóptum mátti sjá Þorbjarnarfellið (243 m.y.s.) í norðaustri, en það var ágætt kennileiti alla gönguna.
Frábært veður.

Árnastígur

Varða við Árnastíg.

Vatnshólavarða
Um fiskimið við Grindavík
Síðan á landnámstíð hafa Íslendingar stundað veiðiskap, af miklum dugnaði og elju, bæði í vötnum og sjó. Svo er skráð um Hrafna-Flóka landnámsmann, að hann hafi misst fé sitt um veturinn, því hann gætti ekki þess að afla heyjanna um sumarið, vegna veiðanna, því Vatnsfjörður var fullur af fiski.

Keilir

Keilir.

Frumstæðasta hvöt alls, sem lifir, er að seðja hungur sitt. Þegar fiskur hefur fengið fylli sína og kannske etið yfir sig, svo maginn er við það að springa, tekur hann varla beitu en slær sér til rólegheita eða leggst á meltuna, eins og það er orðið, í holum, pollum eða við hraunbrúnir og hverja aðra mishæð, sem afdrep er. Þetta er kallað að fiskurinn sé lagztur.Heyrt hef ég það haft eftir Bjarna Sæmundssyni, að stórþorskarnir gömlu mundu að mestu leyti liggja kyrrir í hraunholum á grunnsævi og bíða þar ellidauða, sem karl og kerling í koti sínu, en lifðu aðeins af smáverum þeim, sem syntu eða bærust að munni þeirra. Ef til vill berst þeim svo einhvern tíma að munni góður biti og glæsilegur, en öngull er í því, maður matinn sendi eins og Jakob Thor. orðar það í kvæðinu ‘Tófan svanga’.Fyrr á tímum, allt fram yfir síðustu aldamót, var mest fiskað á handfæri og þá oftast legið við fast, á hnitmiðuðu fiskimiði, og vandað til beitu, svo sem bezt voru föng á. Menn höfðu fundið, að ekki var alls staðar jafn fiskisælt. Bezt aflaðist við hraunbrúnir eða í hraunholum og smápollum, þar sem sandur var í botni, en hraunhæðir í kring. Þessar fiskisælu matarholur voru miðaðar nákvæmlega á tvo vegu og gefin nöfn, sem oftast voru dregin af örnefnum þeim, sem miðað var við, eða hugkvæmni manna um nafnaval. Er mikill urmull slíkra fiskimiða frá eldri tímum með öllum Suðurnesjum og um allan Faxaflóa, fundin af glöggum formönnum áraskipanna.

Valahnúkur

Valahnúkur.

Stundum tileinkuðu menn sér einstakar holur, sem þeir höfðu fundið eða lengi notað. Fannst þeir eiga þær og það væri orðin hefð. Þótti miður og varla rétt, ef annar var þar kominn á undan þeim. Þeir höfðu kannski dekrað við holu sína með niðurburði. En það var oft, ef beita var afgangs, svo sem ræksni (innyfli úr grásleppu), að því var kastað útbyrðis, ef straumlaust var, til þess að hæna fisk í holuna. Má nærri geta, að það var gjört fyrir sjálfan sig en ekki aðra.

Svo nákvæmt varð að liggja í nokkrum þessum holum, að legufærið var stundum dregið inn að nokkru eða gefið betur út, eftir því sem straumur jókst eða minnkaði. Stundum varð að taka stjórann og okra, eins og það var kallað, um örfáa faðma, til þess að sökkur og önglar kæmu niður á alveg sama punkti og áður með hinu fallinu. Þeir voru oft nákvæmir, gömlu formennirnir, og þetta voru nú þeirra vísindi. – Bergmál, Radar og fisksjá þeirra tíma.

Með þeim stórbreytingum, sem orðið hafa á skipastól og veiðafærum á liðnum aldarhelmingi, hefir áraskipum verið útrýmt með öllu. Togarar og sístækkandi vélbátar hafa sótt næstum eingöngu á djúpmið. Gömlu miðin áraskipanna hafa lítið eða ekkert verið notuð um áratugi og eru nú að gleymast. Grunnmiðin flest verða horfin úr minni manna með þeirri kynslóð, sem nú er á förum.

Þó mikið vanti á, að öll gömul fiskimið séu talin og mörgu sé illa lýst mætti þó þessi upptalning verða að nokkru liði fyrir þá ungu menn, sem nú eru að hefja lífsstarf á smáum trillubátum, auk þess að það eru þjóðleg fræði, sem skaði er að láta með öllu tínast.

Fiskimið opnu bátanna á Miðnesi

Þorbjörn

Þorbjörn (Þorbjarnarfell).

1. Lambrifshola. Keilir um Ósvöðu (á melnum austur af Skálareykjum. – Súlur um Þóroddstaði. Syðsti bær í Kirkjubólshverfi.
2. Sundpollur grynnri. Kolbeinsstaðavarða um skúr við sjóinn á túnmörkum Kirkjubóls og Vallarhúsa. – Súlur um Flankastaði.
3. Sundpollur dýpri. Kolbeinsstaðavarða um skúrinn áðurnefnda. – Súlur um Sandgerði. – Heimahúsið gamla.
4. Vatnshólshola grynnri. Skiphóll um Vatnshól. – Súlur um Fuglavík.
5. Vatnshólshola dýpri. Skiphóll um Vatnshól. – Súlur um Melaberg.
6. Einarshola grynnri. Digravarða um Tjarnarkot í Sandgerðishverfi. – Sandfell um Melaberg.
7. Einarshola dýpri. Digravaða um Tjarnarkot. Súlur um Melaberg.
8. Munkállinn Keilir um Endagerði. – Hvalneskirkja um Munkasetur á Bæjarskerseyri.
Miðin 1 –8 eru öll í þaranum og aðeins notuð á smábátum á sumartíma. Fyrir utan þaragarðinn eru ágæt veiðisvæði, sem heita:
9. Kirkjubóls-Labbar. Þar suður af eru:
10. Fitja-Labbar.
11. Bæjarklettur. Keilir um Flankastaðakot. – Digravarða um Sandgerði. – Heimahúsið gamla.
12. Sundpollur. Keilir um Digruvörðu – Hamarsund. – Bæjarsker um Búðina á Bæjarskerseyri.
13. Sandskarð. Keilir um Sjónarhól. Hann er landamerki milli Sandgerðis og Bæjarskerja. – Sýrfell um Hvalneskirkju.
14. Miðskarð I (öðru nafni Boðatorfa). Keilir um skarð milli vegamótahólanna á vegamótum Bæjarskers og Sandgerðis. (Gamli vegurinn) – Skálin um Stafnes.
15. Miðskarð II Keilir um skarð o.s.frv. – Skálin um Garðana, (sjávarhús Stafnesinga á Gelluklöppum).
16. Miðskarð III Keilir um skarð o.s.frv. – Sílfell um Stafnes.
17. Bæjarpollur. Keilir um Bæjarsker. – Skálin um Stafnes.
18. Bæjarlega. Keilir um Bæjarsker. – Skálin um Garðana.
19. Bæjarlega dýpri Keilir um Bæjarsker. – Sílfell um Stafnes.
20. Hleypisund I. Keilir um Hleypisundshól, (landamerki milli Bæjarskers og Fuglavíkur). – Skálin um Stafnes.
21. Hleypisund II. Keilir um Hleypisundshól. – Skálin um Garðana.
22. Hleypisund III. Keilir um Hleypisundshól. – Sílfell um Stafnes.
23. Hólsund. Keilir um Eyktarhólma, (fjörumerki milli Bæjarskers og Fuglavíkur). – Skálin um Stafnes.
24. Hólsund II. Keilir um Eyktarhólma. – Skálin um Garðana.
25. Hólsund III. Keilir um Eyktarhólma. – Sílfell um Stafnes.
26. Hólsund IV. Keilir um Eyktarhólma. – Sílfell um Garðana.
Miðin 13 –26 eru nefnd einu nafni „Skörðin“. Þar út af (dýpra) er hraunfláki, mjög fiskisæll, sem heitir:
27. Eldborgarhraun
28. Gunnvararpollur. Keilir norðan við Norðurkot. – Sílfell um Stafnes.
29. Snókur. Keilir um Vatnshólavörðu. – Hvalneskirkja í Súlutoppinn.
30. Tjarnarpollur. Keilir um varptjörnina, sunnan við Fuglavíkurtúnið. – Sandfell um Hvalneskirkju.
31. Melabergsmið. Keilir um Melaberg. – Vatnsfellið laust.
32. Állinn. Virkisvarða um Moshús (nú horfin) alla leið frá Másbúðarsundi að Bæjarskerseyri. Vor og sumar veiðisvæði, þarafiskur.
33. Nesjapollur. Keilir um Nesjar. – Móar á Vatnsfelli. (Sést aðeins ofan á Vatnsfell yfir Hafnabergstána).
34. Busthúsahola I. Keilir um Busthús til Nýlendu. – Eldborg dýpri langlaus.
35. Busthúsahola II. Keilir um Busthús. – Djúphallir-Hausar. Löngumið á agnar smáum blett, eins og hreiður.
36. Virkispollur. Keilir um Virkishól. – Vatnsfell laust.
Miðin 33 –36 eru nefnd einu nafni: Hvalnespollar.
37. Bakkholur. Keilir um bakkana frá Ærhólmum að Hólakotstúngarði. (Hólakot nú í eyði.) – Eldborg dýpri til skörðin. Fiskisælt svæði.
38. Stafnesállinn. Heiðarvarða og Urðarvarða saman frá Urðinni fram á Vatnsfell.
39. Álslegan er í Álnum þegar móar á Eldborg dýpri.
40. Stafsund. Heiðavarða um Skiphólma (uppsátur Stafnesinga). – Eldborg dýpri laus.
41. Glaumbæjarhola. Heiðarvarða um Glaumbæ (í eyði). Eldborg dýpri laus.
42. Rifshola. Heiðarvarða um Vallarhús. (Eyðirústir norðvestan við Stafnesbæinn.) – Vatnsfell laust.
43. Sandhúsahola. Keilir um Sandhús. (Eyðirústir sunnan við Stafnestúnið.) – Vatnsfell laust.
44. Stromphola. Keilir um strompinn á gamla bænum á Stafnesi. – Vatnsfell laust.
45. Djúpmið. Keilir um Gálga. – Vatnsfell laust. (Lúðumið og löngu).
46. Lega I. Keilir um Þórshöfn. – Vatnsfell laust.
47. Lega II. Keilir um Þórshöfn. – Skálahaus við Berg. (Lúðumið og skötu).
48. Þórshafnarhola. Keilir um Þórshöfn. – Eldborg grynnri.
49. Þórshafnarhraun. Nær frá Álnum og Keilir suður um brún.
50. Básendahola. Keilir um Svartaklett (hann er úti í sjó í Djúpuvík). – Karlinn laus.
Þá er ógetið merkasta fiskimiðs um aldir, en það er:
51. Stafnesdjúp. Það nær Keili suður um Brún (þar endar hraunið, en byrjar Hafnaleir, Hafnasjór) og Keilir norður um Ærhólma. (Þar fyrir norðan kölluðum við Norðurdjúp.) En á djúpmiðið: Rauðhól, Vörðufell, Stampar og Sílfell. Þetta var aðalveiðisvæði stórskipanna og annarra vertíðarskipa öldum saman. Milli Hvalnespolla og Stafnesdjúps eru miðin: Skálin, Reykirnir og Hraunþúfurnar. Þar þótti ekki fiskisælt og var minnst notað.
53. Súluállinn. Keilir um Útskála. – Þrjár botnsúlur farmundan Esju. (Lúðumið, löngu og skötu).

Kringum 1890 voru mönnuð út stórskip úr Flankastaðavör á vorin með einum eða tveimur mönnum frá hverjum bæ, í legu, er svo var kallað. Voru þeir útbúnir með kaffiáhöld og mat til tveggja eða þriggja daga. Var þá ætið farið í Súluál og legið við fast, svo lengi sem verðu leyfði eða matur entist, nema fyrr væri fullt skip. Var það gleðistund hjá ungum og gömlum er skipin komu úr þessum ferðum með ágætan feng, mest lúðu og skötu, en nokkuð af þorski og löngu.

Um leið og skráð eru gömul fiskimið á Miðnesi, er þörf nokkurra skýringa á örnefnum þeim, er notuð voru sem mið.

Keilir

Keilir.

Nær ávalt er Keilir miðaður við bæi, hóla, tjarnir, garða, vörður og sundmerki eftir endilöngu Miðnesi, þó ekki ætið á grynnstu miðum. Keilir er ofarlega í Vatnsleysustrandarheiði. Strýtumyndaður, líkur Baulu í Borgarfirði séður frá Reykjavík og Innnesjum. En séður úr Miðsjó, líkastur því að sjá í gaflhlað á torfkofa, skökkum og skældum, er hann ber yfir Miðnesheiðina, og þá auðvitað blár vegna fjarlægðar.

Flest fiskimiðin fyrir norðan Másbúðarsund eru fremur grunnt, og djúpmið þeirra eru einhver örnefni á Miðnesi eða í heiðinni og tvö hin fremstu af svo nefndum Grindavíkurfjöllum, Sandfell og Súlur. En alls staðar þar fyrir sunnan eru djúpmiðin örnefni á Reykjanesi, er þau koma fram fyrir Hafnabergstána. En þau eru:

1. Karlinn. Það yddir á Karlinum af Gelluklöppum hjá Stafnesi.
2. Kerlingin.
3. Eldborgin grynnri.
4. Valahnjúkur. Þar, sem gamli vitinn stóð, fyrst byggður 1878.
5. Eldborgin dýpri.
6. Vatnsfellið. Þar, sem vitinn stendur nú.
7. Hnausarnir. Þ.e. þegar Skálartoppinn ber í Bjarghólinn á Hafnabergi.
8. Skörðin. Þ.e. þegar Skálatoppinn ber í smáskörð milli Bjarghóls og Hafnabergstáar.
9. Skálin.
10. Reykirnir – Úr Gunnuhver.
11. Hraunþúfurnar.
12. Rauðhóllinn.
13. Vörðufellið.
14. Stamparnir.
15. Sílfellið.
16. Þrúðurnar. Dýpsta fiskimið opnu skipanna.

(Eftir Magnús Þórarinsson – Frá Suðurnesjum – Prentsmiðja Hafnarfjarðar hf. – 1960).

Karlinn

Karlinn.

Svartsengi

„Ungmennafélag Grindavíkur hélt sumarhátíð sína á hinum gamla samkomustað Grindvíkinga, Svartsengi, helgina 18. og 19. júlí. Umf. Grindavíkur hefur undanfarin ár unnið að endurbótum á þessum sérstæða útisamkomustað og endurvakið hinar gamalkunnu Svartsengis-skemmtanir í nýju formi.
svartsengiDagskrá mótsins var fjölbreytt: íþróttir, tónlist, gamanþættir og fallhlífastökk, og tókst hún í alla staði mjög vel. Formaður UMFÍ, Hafsteinn Þorvaldsson, flutti ávarp á mótinu. Dansað var á palli bæði laugardags- og sunnudagskvöld. Sólskin var báða dagana og veður hið ákjósanlegasta, enda komu margir með alla fjölskylduna og bjuggu í tjöldum á mótssvæðinu.
Var það mál mótsgesta, að sumarhátíð Umf. Grindavíkur hefi farið hið bezta fram, og skemmtu allir sér prýðilega. Svartsengishátíðin er einn liður í víðtækri starfsemi ungmennafélaganna í þá átt, að koma á í hverju héraði glæsilegri sumarhátíð fyrir fólk á öllum aldri, þar sem það getur komið saman og skemmt sér á heilbrigðan hátt úti í náttúrunni.“

Heimild:
-Skinfaxi, 61. árg. 1970, bls. 24.

Svartsengi

Svartsengi – hátíð.

Hópssel

Gengið var eftir gamla vagnveginum er lá úr Járngerðarstaðahverfi framhjá og ofan við Hóp að Þórkötlustaðahverfi og áfram að Hrauni. Sunnan vegarins má enn sjá hina fornu götu er lá á milli hverfanna. Ofan við Klöpp/Teig var gömlu þjóðleiðinni frá Þórkötlustöðum fylgt upp á Skógfellastíg (-veg/Vogaveg). Þar sem gatan kemur inn á veginn skammt sunnan Sundhnúks eru gatnamót götu er lá upp frá Járngerðarstöðum. Þaðan var haldið eftir Reykjaveginum til vesturs inn fyrir Hagafell að Gálgaklettum, síðan til baka og Jángerðarstígsgata Skógfellavegar fetuð niður í Járngerðarstaðahverfi.

Lagt af stað

„Allir leiðir liggja til Rómar“ var sagt fyrrum. Á sama hátt má segja að fyrrum hafi  „allar götur hafi legið til Grindavíkur“. Grindavík var t.d. um aldir ein mesta „gullkista“ Skálholtssbiskups. Afurðir þaðan brauðfæddu alla skólasveina stólsins sem og heimilisfólkið, þ.á.m. biskupinn sjálfan. Sagt er og að biskupinn hafi af og til nartað í fisk frá Grindavík, öðrum til samlætis. Aðal útflutningsafurðir Biskupsstóls komu og frá Grindavík. Það þarf því engan að undra að göturnar fyrrnefndu hafi markast djúpt í hraunhelluna undan hinni miklu umferð – því flestir, sem komu til Grindavíkur, fóru reyndar þaðan aftur, sumir þó seint og um síðir.

Fræðsla

Grópför gatnanna í hraunhellunni gætu jafnvel verið eldri en byggðin, þ.e. landnám Molda-Gnúps árið 934. Sundhnúkahraunið að austanverðu er t.d. 2400 ára. Eldvarpahraunin eldri, sem verja undirstöðuna að vestanverðu, eru frá svipuðum tíma. Um Sundhnúkahraunið liggur Vogavegurinn (Skógfellastígur) frá Járngerðarstöðum, Hópi og Þórkötlustöðum upp fyrir Skógfellin (algengt var að götur voru nefndar eftir ákvörðunarstað, sbr. Selvogsgötu frá Hafnarfirði í Selvog er einnig var nefndur Suðurfararvegur)). Í örnefnalýsingu fyrir Þórkötlustaði segir: „Ofan við byggðina er geil í hraunið og byrjar þar gamli vegurinn frá Þórkötlustöðum til Voga og Hafnarfjarðar. Þar heitir Leynir (Þórkötlustaðaleynir til aðgreiningar frá Hraunsleyni) og nær hann inn á móts við Vatnsheiði. Gatan liggur samhliða hraunrima. Vegurinn liggur austan Stóra-Skógfells og var nefndur þar Skógfellsvegur og tekur við af Sprengisandi“.

Gamli vagnvegurinn

Um eldri Eldvarparhraunin lágu Skipsstígur frá Járngerðarstöðum og Árnastígur frá Húsatóftum. Þessar götur sameinuðust í eina við ofanverðan Rauðamel og enduðu í Njarðvíkum.
Í örnefnalýsingu fyrir Járngerðarstaði segir: „Á Gerðavöllum er allt fullt af görðum. Þeir eru hlaðnir á tvo vegu við vellina og eiga að vera eftir Junkarana en þeir reru til skiptis eftir veðri úr Grindavík og Höfnum (Njarðvíkum) eftir því sem sögurnar segja. Fóru þeir með skipin á milli og hét þar Skipsstígur“. Sumir hafa nefnt stíg þennan Skipstíg (Skipsstíg) eða Skipastíg. Ekkert af því er vitlausara en annað.

Gatan

Hluti Skipsstígsins, norðvestan undir Lágafelli, var gerður upp sem vagnvegur skömmu eftir aldarmótin 1900. Um var að ræða atvinnubótavinnu er dugði skammt við endurnýjun vegarins og aðlögun hans að nútímakröfum þar sem stígurinn lá um Lágafellsheiðina þar sem nú er loftskeytastöð. Þá segir: „Rétt fyrir suðaustan Klifgjá er vegurinn ruddur og greiðfær. Heitir sá spölur Árnastígur. Árni nokkur, sem fyrrum bjó í Kvíadal, litlu koti í Staðartúni, mun hafa rutt þennan stíg.“

Skógfellavegur

„Prestastígur“ hefur jafnan verið genginn í seinni tíð, en hans er hvorki getið í örnefnalýsingum fyrir Húsatóftir né Stað. Í örnefnalýsingu sem Vilhjálmur Hinrik Ívarsson gerði fyrir Hafnir er heiti götunnar ekki heldur nefnt, einungs: “ Til norðvesturs er feikistór hóll upp af gjárbarminum og heitir hann Presthóll. Meðfram honum lá hestagata frá Kalmanstjörn og undir Haugum til Grindavíkur. Vegur þessi var varðaður og standa margar vel enn í dag“. Prestastígur var reyndar til forðum, en þá lá hann frá Höfnum að Stað – um Hafnaheiði. Vörðubrot yfir heiðina gefa legu hans til kynna. Sú gata, sem seinna hefur verið genginn, og vörður upp hlaðnar, hefur fremur verið farin til skemmtunar en gagns því vörðurnar voru hlaðnar eftir að Staðarprestur hætti að þjóna Höfnum. Það á þó einungis við um nyrðri hlutann, þ.e. norðan Sandfellshæðar. Syðri hlutinn er hluti af gömlu götunni milli Staðar og Hafna. Prestarstígurinn er þó allur eftir sem áður áhugaverð leið fyrir þá sem nenna að hreyfa sig og vilja kynnast stórmerkilegri jarðfræði Reykjaness, s.s. flekakenningunni (Haugsvörðugjá), gosmyndunum á sprungureinum (Eldvörp og Stampar (Hörsl)) og tilurð nútímahrauna í bland við stórkostuleg dyngjugosin í Sandfellshæð, Háleyjabungu og Skálafelli.
Hér að framan hefur verið minnst á aðalleiðirnar, s.s. Árnastíg versus Skipsstíg, Skógfellastíg (Vogaveg og Grindavíkurveg) og Prestastíg. Aðrar leiðir lágu og til Grindavíkur eða millum hverfanna í Grindavík.  Auk þess lágu leiðir að tilteknum stöðum, s.s. selstígar frá Stað og Járngerðarstöðum að Baðsvallaseljunum og síðar upp á Selsvelli undir Núpshlíðarhálsi, frá Hópi að Hópsseli undir Selhálsi og frá Hrauni að Hraunsseli millum Þrengsla.

Götur

Sandakravegurinn millum Ísuskála (Ísólfsskála) kemur inn á seinni tíma kort og þá þjóðleið með sunnan- og vestanverðu Fagradalsfjalli. Áþreifanlegi merki eru þó um hann frá Sandhól áleiðis millum Skógfellanna, djúpt markaðan í hraunhelluna. Þarna mun hafa verið þýðingarmikil aðflutningsleið fyrrum, bæði að Selatöngum og fyrir austanmenna að verunum á norðanverðum Reykjanesskaganum, s.s. á Vatnsleysuströndinni.
Þá er í örnefnalýsingu getið um Gyltustíg: „Vestan við Klifhól, utan í fjallinu [Þorbirni] vestast, er Gyltustígur, eins konar hraunveggur (sjá HÉR). Hann er vestarlega í Þorbirni að sunnanverðu frá Lágafellstagli og upp úr“.
GengiðInnanhverfagötur má nefna t.d. Hraunkotssgötuna milli Hrauns og Hraunkots, þeirra austastur í Þó

rkötlustaðahverfi, Þórkötlustaðagötuna millum Hrauns og Þórkötlustaða og Eyrarveginn, eða Randeiðarveginn, millum Hrauns og Járngerðarstaða. Sú gata var einnig nefnd Kirkjugatan því hún var jafnframt kirkjuvegur Þórkötlustaðabúa um eiðið út að Staðarkirkju áður en kirkjan var flutt í Járngerðarstaðahverfi og endurvígð það árið 1909 og eiðið var grafið inn í Hópið. Sjá og örnefnalýsingu: „Randeiðarstígur er gata á milli Hrauns og Þórkötlustaða og var hann farinn áður fyrr er aðalumferðargatan lá fyrir neðan Þórkötlustaði og var þar komið á Eyrargötuna (LJ). Hét hún Eyrargata en litið markar fyrir henni nú. Önnur gata er Við Gálgaklettanorðar og liggur um Kirkjuhóla og fram hjá Hópi“. Síðar kom fyrrnefnd gata (vagnvegurinn) milli Þórkötlustaðahverfis og Járngerðarstaðahverfis um Hóp. Lá hún um svonefnda Kirkjuhóla og ofan hverfisins um „garðhliðið á Hrauni“.
Enn má nefna, þótt stuttur hafi verið, svonefndan „Hópsanga“, frá Hópi upp á Skógfellastíg (Grindavíkurveg). Enn ein meginleiðin inn á Skógfellaveginn frá Grindavíkurbæjunum var Hraunsgata. Lá hún frá Skógfellaveginum móts við Sundhnúk, skammt ofan gatnamóta Vogavegar, og síðan niður með hraunjöðrum Beinvörðuhrauns og Dalahrauns að Vatnsheiðadyngjunni. Lá hún milli Grenhóls og Húsafjallsaxlarinnar að Hrauni.
Í SundhnúkahrauniEnn eru ótaldir Ísólfsskálavegur, bæði frá Hrauni um Skökugil upp á Siglubergsháls, bakleiðin vestan Hrafnahlíðar og Ögmundarstígurinn (sjá HÉR) og Hlínarvegurinn sem framhald af hvorutveggja til Krýsuvíkur. Einnig leið frá Þórkötlustöðumk þvert á Skógfellaveg (Grindavíkurveg) yfir sunnanverðan Sýlingarfellsháls og áfram inn á Skipsstíg móts við Lat. Allar hafa þessar leiðir ákveðið menningargildi því þær endurspegla samgöngusögu svæðisins frá upphafi mannlegra vega.
Síðasta menninngarverðmætir er krefjast mun þessa tiltils á næstu árum er gamli Grindarvíkurvegurinn, sem lagður var á árunum 1914 til 1918 (sjá HÉR). Nýjasti rennireiðarrenningur þessi varð til á sjöunda áratug 20. aldar. Auk hans liggja nú seinni tíma malarvegir vegir að Grindavík frá Reykjanesvita (upphaflega lagður 1918) og frá Krýsuvík (Ögmundarstígur og Hlínarvegur) 1956.
ÞorbjörnÍ Landnámu (Sturlubók) er þess getið að Molda-Gnúpur Hróflsson hafi numið Grindavík, líklega um 934, og Þórir haustmyrkur Vígbóðsson nam Selvog og Krýsuvík. Synir Molda-Gnúps voru Gnúpur, Björn, Þorsteinn og Þórður. Eiginkona Gnúps var Arnbjörg Ráðormsdóttir og Björn giftist Jórunni dóttur Arnbjargar og Svertings Hrolleifssonar (á Hrauni). Í annarri útgáfu Landnámu (Hauksbók) segir að Gnúpur hafi fallið ásamt 2 sonum sínum í átökum við Kaplagarða um veturinn. Hinir synirnir; Björn, Þórður og Þorsteinn, hafi hins vegar numið land í Grindavík, líklega í hverju hverfanna þriggja.
ÁðLítið er vitað um byggð í Grindavík fyrstu 300 árin. Má það teljast eðlilegt því á ofanverðum 

þeim tíma hefur byggðin líklega tæmst um tíma. Um 1150 byrjaði að gjósa austan við Grindavík og aftur um 1188. Mikið hraun rann. Um svipað leyti byrjaði að gjósa að austanverðu. Um 1211 færist goshrinan nær (Eldvörpin) og enn 1226 þegar Illahraun og Afstapahraun ógna byggðinni. Ekki er ólíklegt að fólk hafi þá verið búið að fá nóg og því flutt sig til öruggari staða, a.m.k. um tíma.
Líklegt má telja að Molda-Gnúpur Hrólfsson, eða synir hans, hafi sest að þar sem nú er Hóp (aðrir nefna Þórkötlustaði. Á báðum stöðunum vottar fyrir leifum landnámsskála. Fyrrnefnda nafnið bendir til samnefnu bæjar hans í Álftaveri veturinn áður er nefnt hafði Hof, er gæti í Grindavík hafa breyst í Hóp eftir að kristni var innleidd.
Hér að framan hefur verið reynt að koma á framfæri svolitlum fróðleik um nú fjarlægar þjóðleiðir – Grindavíkurgöturnar fyrir vora daga.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Við GálgaklettaVið gatnamótin á Skógfellavegi

Grindavík

Jarðskjálftar á Íslandi verða á brotabelti á flekaskilum. Tvö slík belti eru á landinu: Á Suðurlandi, frá Ölfusi til Landssveitar og á Norðurlandi, kennt við Tjörnes. Öflugustu jarðskjálftar á Íslandi eru um 7 að stærð og geta valdið töluverðu tjóni. Þeir eru tíðir undir brotabeltunum og undir megineldstöðvum.

Grindavík

Þórkötlustaðaréttin eftir jarðskjálftann 31. júlí 2022.

Reykjanesskaginn er umorpin eldsumbrotum frá fyrri tíð. Elstar eru dyngjurnar s.s. Þráinsskjöldur og Hrútargjárdyngja, þá stakir gígar s.s. Stóra-Eldborg og Búrfell og loks gígaraðir á sprungureinum, s.s. Eldvörp og Sundhnúkar. Öllum þessum umbrotum fylgja ógrynnin öll af misstórum jarðskjálftum, líkt og íbúar Grindavíkur og nágrennis hafa áþreifanlega orðið varir við í aðdraganda eldgossins í Geldingadölum í Fagradalsfjalli í aprílmánuði árið 2021.

Grindavík

Þórkötlustaðarétinn 1. ágúst 2022.

Enn og aftur, nú í júlílok og byrjun ágústmánaðar árið 2022 skelfur jörð í umdæmi Grindavíkur með tilherandi óróa. Óvenjustór jarðskjálfti varð síðdegis þann 31. júlí, eða 5.5 á Richter. Skjálftinn felldi m.a. nokkar vörður og auk þess hluta af fjárrétt Grindvíkinga í Þórkötlustaðahverfi líkt og sjá má á meðfylgjandi myndum.

Í sögulegu samhengi hefur orðið manntjón, en það hefur breyst með betri byggingu húsa skv. stöðlum sem eiga að standast skjálfta sem vænt er í Íslandi.

Grindavík

Þórkötlustaðaréttin 1. ágúst 2022.

Selsvellir

Gengið var inn á Selsvelli til suðurs með vestanverðum Núpshlíðarhálsi. Fagurt umhverfið allt um kring. Trölladyngjan að baki, Keilir og Moshóll á hægri hönd, Kúalágar og Selsvallafjall á þá vinstri og Hraunsels-Vatnsfell framundan.

Selsvellir

Við selstóftir á Selsvöllum.

Á tveimur stöðum á Völlunum er miklar selsrústir. Allir Grindavíkurbæirnir nema Hraun höfðu þar selstöðu. Hraunsselið er nokkru sunnar með hálsinum, neðan svonefndra Þrengsla. Þar var síðast haft í seli á Reykjanesi eða til ársins 1914. Sogavallalækirnir tveir renna um sléttuna.
Austan á Völlunum, upp undir Selsvallafjalli eru tóttir eldri seljanna. Ein er þeirra stærst, en neðan hennar eru allnokkrar húsatóttir. Gengið var spölkorn áfram til suðurs og síðan beygt eftir gamalli götu svo til þvert á Vellina. Gatan, sem hefur verið nokkuð breið, liggur að nýrri seljunum suðvestast á Völlunum. Þar eru a.m.k. selstóttir á þremur stöðum, auk stekkja og kvía. Miðstekkurinn, sem er einna heillegastur, mun hafa verið notaður sem rétt af Vogamönnum, nefnd Vogarétt.

Selsvellir

Sel við Selsvelli.

Selsstígnum til vesturs frá seljunum var fylgt inn í hraunið. Eftir u.þ.b. 500 metra kom hann inn á gömlu leiðina frá Hraunssels-Vatnsfelli. Þeirri götu var fylgt áfram til vesturs, en hún greinist fljótlega í tvennt. Einn hópurinn fylgdi gömlu slóðinni að fellinu, en annar fór slóð er lá til vinstri. Sú gata liggur inn á breiðan stíg er liggur frá Hraunssels-Vatnsfelli nokkru sunnar en hinn og áfram austur yfir tiltölulega slétt helluhraun. Þessi gata er mun greiðfærari en sú nyrðri, en ekki eins klöppuð. Vestast í hrauninu nær slétt mosavaxið helluhraunið til suðurs með fellinu. Engar vörður voru við þessa stíga. Syðri stígnum var fylgt til austurs og var þá komið inn á Selsvellina u.þ.b. 500 metrum sunnan við selstóttirnar.

Selsvellir

Tóft við Selsvelli.

Ljóst er að vestanverð nyrsta gatan hefur verið mest farin. Syðsta leiðin liggur beinast við Grindavík, en sú nyrsta liggur beinast við vatnsstæðinu á Hraunssels-Vatnsfelli. Selstígurinn í miðjunni er greinilega leiðarstytting á þeirri götu að og frá seljunum. Tvennt kemur til er skýrt gæti hversu nyrsta gatan er meira klöppuð en hinar. Gatan er einungis meira klöppuð að vestanverðu eftir að selsstígurinn kemur inn á hana. Í fyrsta lagi gæti það verið vegna þess að gatan var notuð til að komast að og frá vatnsstæðinu. Vesturendi hennar bendir til þess að hún hafi einungis legið upp að því. Þegar 500 fjár og 30 naugripir arka sömu götuna fram og til baka sumarlangt í nokkur hundruð ár eru ummerkin eðlileg. Aðdrættir og fráflutningur hefur líklega farið um hluta götunnar, en þá verið beygt út af henni á tengigötuna inn á þá syðri og áfram suður með austanverðu Hraunssels-Vatnsfelli.

Selsvellir

Selsstígurinn að Selsvöllum.

Til stendur að fara fljótlega upp Drykkjarsteinsdal og áfram á leið að vestanverðum hraunkantinum og fylgja honum þar til suðurs. Í öðru lagi gæti þarna verið um gamla þjóðleið að ræða og gæti stígurinn þvert á Selsvellina gegnt henni skýrt það. Sú gata liggur í áttina að grónum sneiðing í Núpshlíðarhálsi, en þar virðist hafa verið gata upp hálsinn. Þetta þarf allt að skoða betur í enn betra tómi síðar.
Veður var frábært – logn, 16 °C hiti og sól.
Gangan tók u.þ.b. 2 klst.
Sjá MYNDIR.

Selsvellir

Selsvellir – uppdráttur ÓSÁ.

Tyrkjabyrgi

Gengið var upp eftir Prestastíg frá Hjálmagjá ofan við Húsatóptir og upp að Rauðhól ofan við Eldvörp. Tilgangurinn var að reyna að staðsetja svonefndan „Hamrabóndahelli“, sem enn er ófundinn.

Prestastígur

Prestastígur – brú yfir Hrafnagjá.

Nefndur hellir er sagður verða sauðahellir, sem Þorsteinn, bóndi frá hjáleigunni Hamri, hlóð einhvers staðar uppi í hrauninu eftir að honum sinnaðist við hreppsstjórann á Húsatóptum. Þeim hafði samist um að Þorsteinn gætti fjár hreppsstjóra, en héldi sínu fé einnig til haga. Þegar hreppsstjóri sá að Þorsteinn beitti sínu fé í fjöruna gerði hann athugasemd við það. Þorsteinn, sem var stór upp á sig, rauk þá með sauði sína upp í efri hluta Húsatóptarlands, hlóð þar fyrir skúta og hélt sauði sína þar um veturinn. Sauðagangur Þorsteins hefur verið bæði reglulegur og takmarkaður. Nefndur Þorsteinn er sá hinn sami og hafði járnsmiðju í hellinum undir Hellunni í Sveifluhálsi, við Kleifarvatn.
Helgi Gamalílesson, fæddur á Stað, hafði farið um fermingu með föður sínum og bræðrum upp í Þórðarfell til að sækja þangað eftirsótta málma þess daga. Á leiðinni var stoppað, drengirnir hlupu til og leituðu skothylkja eftir Kanann, og sáu þá allt í einu í fallega hlaðið op fjárskjólsins. Síðan eru liðin mörg ár.

Prestastígur

Prestastígur – varða.

Helgi hefur fylgt FERLIR á hugsanlegt svæði, en minningin er orðin þokukennd. Helgi taldi að opið væri í litlu jarðfalli í sléttu hrauni er vísaði mót suðri. Það hafi verið nálægt hraunkanti.
Í örnefnaskrá fyrir Húsatóptir og hjáleigur þess segir m.a. að „vestur af Grýtugjá, upp undir jarðri apalhraunsins (Eldborgarhrauns), er Hrafnagjá.
Frá Hrafnagjá er einstigi um hraunið frá Sauðabæli út í Óbrennishóla. Troðningur þessi eða einstigi er fær öllum, þótt slæmur sé.“ Það segir að „gatan liggur í norðvestur upp frá vestanverðu túninu á Húsatóptum í Hafnir. Frá túninu á Húsatóptum að Eldvörpum liggur gatan um mosagróið hraun, mjög úfið á köflum. Norðan Eldvarpa er landið sléttara, grónara og auðveldara yfirferðar.“

Prestastígur

Gengið um Prestastíg.

Nú var Prestastígnum fylgt frá Hjálmagjá upp að Rauðhól ofan við Eldvörp. Á leiðinni vakti þrennt sérstaka athygli; nef út úr tveimur vörðunum bentu til norðurs, frá stígnum, litlar vörður voru á nokkrum stöðum á hraunkanti Sundvörðuhrauns, en Prestastígur liggur til norðvesturs sunnan hans, og loks mátti sjá litlar vörður liggja frá Hamri upp hraunranann vestan Húsatópta, upp heiðina og áleiðis upp í norðnorðvestanvert Sundvörðuhraun.

Prestastígurinn sjálfur liggur um móa ofan við Húsatóptir og er vel varðaður svo til alla leiðina. Víða hafa vörður verið endurreistar, en einnig má sjá fallnar vörður milli þeirra.
Gatan er sumsstaðar grópuð í klöppina eftir hófa, klaufir og fætur liðinna alda. Þegar komið er upp fyrir Skothól og hlaðna brú á Hrafnagjá tekur Sauðabælið við. Norðan þess er gróin sprunga í hraunkantinum; tilvalið sauðabæli. Hins vegar var ekki að sjá neinar hleðslur þar við. Lægð liggur inn í hraunið í gróna kvos, en síðan tekur ekkert við.

Prestastígur

Prestastígur.

Ofar er einnig slétt mosahraun með mörgum smáskútum. Þegar komið var upp fyrir Eldvörp tók einnig við nokkuð slétt mosahraun með mörgum smáskútum. Víða voru smávörður á hraunhólum, en að því er virtist án tilgangs.
Þegar leiðin var fetuð til baka var reynt að rýna í hraunkantinn. Hann gaf ekki tilefni til lausnar spurningunni um „Hamrabóndahelli“.
Fjórar gjár eru milli Hjálmagjár og Hrafnagjár. Grýtugjá er næst þeirri síðarnefndu. Í einni gjánni munu vera mannvistarleifar.
Þegar komið var niður að tóftum Hamars mátti sjá litlar vörður liggja þar upp heiðina vestan við Nónvörður. Við þar mátti sjá vörðurnar liggja áfram upp heiðina, með stefnu á norðnorðvestanvert Sundvörðuhraunið. Víða í heiðinni mátti einnig sjá hinar formfegurstu fuglaþúfur.
Það mun verða næsta verkefni FERLIRs að fylgja litlu vörðunum frá Hamri upp heiðina og jafnvel áleiðis í gegnum hraunið. Til þess mun þurfa flokk manna og kvenna.
Þess má geta að í Sundvörðuhrauni eru hin svonefndu Tyrkjabyrgi (útilegumannabyrgi), sem eru í raun gömul fiskibyrgi: sjá m.a. HÉR og HÉR.

Í Eldvörpum

Eldvörp.