Tag Archive for: Grindavík

Staðarhverfi

Hverfin í Grindavík eru þrjú; Þórkötlustaðarhverfi austast, Járngerðarstaðarhverfi í miðið og Staðarhverfi vestast. Hér er gengið um hið síðastnefnda (seinni hluti).

Staðarhverfi

Helgi Gamalíasson sýnir Staðarbrunninn.

Staður, þar sem kirkjugarður Grindvíkinga er nú, var önnur stóra jörðin í Staðarhverfi. Hin var Húsatóptir.
Staður hefur verið kirkjustaður um langa tíð. Árið 1657 voru 7 hjáleigur á Stað; Krókshjáleiga, Beinróa og Brykrukka, Hús Ólafs Sighvatssonar, Hús Daða Símonarsonar, Vestur-Hjáleiga og ein ónafngreind, auk ónafngreindrar í eyði. Árið 1703 voru Sjávarhús, Krókur og Beinrófa hjáleigur og Bergskot 1803. Líklega hefur hjáleigan Sjávarhús áður staðið á Staðarklöpp, hjá lendingunni, en tættum á henni skolaði brott á miklu flóði 1798. Staðarklöpp er svört hraungrýtisklöpp með smá grasbrúsk í kollinn en ógróin að öðru leyti. Hægt er að ganga út í hana á lágsjávuðu, en hún er umflotin á flóði.

Staðarhverfi

Stóra-Gerði.

Krókur stóð vestan við Móakot. Þar eru nú gróin tún, en engar tóftir.
Krukka er forvitnilegt býli. Í sóknarlýsingu 1840 segir: “ Krukka veit ég ei hvernær var lögð í eyði, en þar e rnú lambhús. Eigi er býlið af sandi né sjó eyðilagt og er það í túninu, sem nú er ræktað milli Móakots og Staðar.“ „Krubbhóll er fast sunnan við Dægradvöl (lægð neðan við Bring). Sagt er, að á honum hafi fyrir löngu staðið hjáleigan Krubba og dragi hann nafn sitt af henni. Er þar líklega um að ræða sömu hjáleiguna og séra Geir Backman nefnir Krukku í sóknarlýsingu sinni. „Sú staðsetning kemur heim og saman við að Krukka hafi staðið á Krubbhól“, segir í örnefnalýsingu. Brykrubba var ein af hjáleigum Staðar í úttekt frá 1657, segir í Sögur Grindavíkur. Krubbunafnið var einnig til á bæ í Járngerðarstaðahverfi.
Bringur heitir gróinn hryggur, sem liggur í austur-vestur fyrir norðvestan kirkjugarðinn, fast sunnan við þjóðveginn. Lægðin sunnan við hann heitir Dægradvöl og eru í henni steyptar leifar útihúsa frá síðasta bænum á Stað. Fast sunnan við Dægradvöl er hæð eða hóll í túninu, það er Krubbuhóll eða Krukkhóll. Hann er um 70 m vestur af norðvesturhorni kirkjugarðsins, þar sem gamli bærinn á Stað stóð.

Gíslavarða

Gíslavarða.

Beinrófu er getið í úttekt frá 1657 og hjá Árna Magnússyni 1703. Ekki er vitað hvar hún stóð.
Blómsturvellir voru austan í túni skv. sóknarlýsingu 1840. „Þeir voru af sandi eyðilagðir 1800, og sést þar nú lítt til rústanna.“ „Skammt austur af kirkjugarðinum var bakki, allstór, nefndur Blómsturvöllur. Hann var fast austan við túnið. Húsatóptir voru austast á Blómsturvelli. hafa þær líklega verið af samnefndu býli. Nú hefur verið sléttað úr Blómsturvelli og var þar nú bílastæði við kirkjugarðinn og tóftirnar því alveg horfnar. Þá nær nýi kirkjugarðurinn aðeins úr á Blómsturvöll.“ Blómsturvellir eru taldir í byggð í úttektargerð árið 1774. Þar bjó Jón nokkur Knútsson árið 1783.
Bergskot stóð á háum bala norðan við Stað, og er það nú sjóbúð, segir í sóknarlýsingu 1840. „Bergskot var á Bringnum, í norðvestur frá Stað. Þar voru tveir bæri, sambyggðir, þegar Árni Vilmundarson, f: 1914, og Sigurður V. Guðmundsson, f: 1910, mundur eftir.“ Hjáleigan var komin í eyði 1840, en byggðist á ný 1845 til 1848, þá í eyði til 1855 og aftur frá 1866 til 1870. Á síðasta áratug 19. aldar var þríbýli um skeið í Bergskoti, en býlið fór endanlega í eyði 1927.

Túnakort

Staðarhverfi – túnakort 1918.

„Nýibær var utan við Bringinn, nálægt 100 m norður af Bergskoti“, segir í örnefnalýsingu. Á túnkorti frá 1918 er getið um Nýjabæjatættur á blásnu hrauni. Óvíst er hvar bærinn var.
Staður var prestsetur til 1928, en fór í eyði 1964 og þar með Staðarhverfi. „Til forna átti Staður rétt til vatnssóknar í Baðstofu í Húsatóptarlandi. Til endurgjalds áttu Húsatóptir þangfjörutak á Stað.“ Á tuttugustu öld byggðust eftirfarandi tómthús í landi Staðar; Merki (1908-43), Lönd (1911-46) og Melstaður (1936-50). Merki stóð á Hvirflum, á mörkum Húsatópta og Staðar, Melstaður skammt vestar og Lönd þar sem nú er ofan við fjárhúsið skammt vestar.
Árið 1840 var á Stað „mikið slétt og gróandi yfrið fögur tún; eru þau sandoprin afarmiklu sandfoki af öllum vindum frá útnorðri til landsuðurs, við hvað þau árlega skemmast og til þurrðar ganga.

Staðarvör

Staðarvör.

Við aldamótin voru af þeim vel fóðraðar 4 kýr, en nú á dögum gefa þau ekki af sér fóður fyrir 1 kú, þó vel í ári láti, og verður því að afla þess, á vantar, kjarna úr fjöru og lyngi úr heiði. Af sjóar ágangi er túninu líka mikill skaði búinn að sunnnaveðrum og brimi. bera þau enn að sönnu menjar eftir mikla flóðið 1799, og munu þó aðrar enn yngri vera. Fáir eru kostir við jörð þessa, nema ef telja skal trjáreka, að hverjum eru þó mikil áraskipti, og allgóða fjárgöngu á vetrardag í fjörunni. En þess fleiri mætti telja hennar ókosti, t.d. í áföllum af feykilegum foksandi, sem og líka sjóargangi í stórflóðum. Aldeilis engin hagabeit á sumardag, hvorki fyrir sauðfé, kýr né hesta, hverjir við minnstu brúkun horast niður af hagaleysi, en búsmali allur þá í sel rekinn, að eigi tapist hé rheima né verði mönnum ónýtur fyrir fóðurleysi eða gangi á túnum manna. Vatnsskortur er hér líka mikill, og eigi vatn að fá handa fénaði nema úr undir Staðarbergi, í gjá, sem fellur að og út í.“

Staðarhverfi

Gengið um Staðarhverfi.

Árið 1925 gekk sjór langt upp á Staðartún, flæddi næstum upp að kirkjugarði, braut stórt skarð í malarkambinn og gróf sig þar niður í mold „svo túnið er nú með öllu varnarlaust fyrir hverju venjulegu stórstraumsflóði.“
Bærinn á Stað stóð eina 4-500 metra upp (norðvestur) frá sjó og var túnið að mestu sjávarmegin við hann. Gamli torfbærinn var við norðvesturhorn kirkjugarðsins austan við steyptar rústir, sem þar eru.
„Grunnur og tröppur steinhússins (byggt 1938) sjást enn (1999) rétt norðan við núverandi kirkjugarð (endurbyggður 2005). Skv. munnlegri heimild (Ólafur Gamalíelson, uppalinn á Stað) stóð síðasti torfbærinn bið NV-horn núverandi kirkjugarðs. Tóftirnar eftir torfbæinn voru sléttaðar út fyrir nokkrum árum, en traðirnar eru enn greinilegar norðan við kirkjugarðinn.“ Úttekt á bænum Stað frá 1657 er pr. í Sögu Grindavíkur og fylgir tilgátuteikning af húsaskipan. Á sama stað og bæjarhóllinn var var byggt steinhús árið 1938 og hefur það líklega raskað hólnum, ef nokkur hefur verið.

Staðarhverfi

Klukknaport í Staðarkirkjugarði. Gamla kirkjuportið h.m.

„Kirkjugarðurinn er í túni suðaustan við bæinn og er ekki nema 2-3 m á milli skemmunnar og hans.“ Þann 26. september 1909 var ný kirkja vígð að Járngerðarstöðum og tók sú við af Staðarkirkju, sem þá var aflögð.
Garðurinn var sléttaður að hluta, en mörg leiðanna sjást vel. Kirkjan, sem var í norðvesturhorni kirkjugarðsins, þar sem nú er greinileg bunga á honum. Hún er um 8×8 m að stærð og á henni miðri eru tveir flatir legsteinar. Á eystri steininum má greina letur, þó svo afmáð að ómögulegt er að lesa það. Á hinum vestari er ekki að sjá neitt letur. Engar leifar eru af sjálfri kirkjunni. Umhverfis kirkjugarðinn er torf- og grjóthlaðinn garður. Hann er mest um 0,7 m á hæð og umför grjóts eru um fjögur. Klukknaportið er úr timbri, en hefur nú verið endurnýjað (2005). Í því er klukka, sem á er letrað; SS. Anlaby 1898 Hull. Það er skipsklukkan úr Anlaby, togara frá Hull, sem fórst með allri áhöfn við Jónsbásakletta aðfaranótt 14. janúar 1902. Saga skipstjórans tengist átökum Hannesar Hafsteins við landhelgisbrjóta í Dýrafirði, manntjóni og vofleiflum dauðdaga hans ofan við Jónsbása.

Staðarhverfi

Staðarhverfi – brunnur. Helgi Gam.

Í Brunndal er brunnur. Í sóknarlýsingu 1840 segir; „..en brunnur er grafinn syðst í túninu, hvar af neyzluvatn er tekið; er það vatnsslæmur sjóblendingur.“ Í örnefnaskrá segir: „Skammt suður af (Hundadal) er Brunndalur, slétt flöt neðst í túni. Liggur hann frá austri til vesturs næst sjávarkambinum. Lægðin nefnist Dægradvöl. Þótti góð dægradvöl að slá hana. Í suðurjaðri Dægradvalar lét Brynjólfur Magnússon grafa mikinn brunn árið 1914. Í úttekt, sem gerð var á Stað 16. júli 1948 er brunninum lýst þannig: „Brunnur byggður og tilbúinn ár 1914 að dýpt 23 fet, að þvermáli 6 fet, mjókkandi niður, hringhlaðinn að innan og hleðslan sementeruð ofan frá og niður að klöpp, en tekur við fyrir neðan miðju. Steynsteyptur kragi er í kringum brunninn ofan jarðar og yfir sjálfu brunnlokinu þar úr plönkum með hlera. Öflug vinda er til upphölunar á vatninu. Brunnurinn með öllum útbúnaði er í óaðfinnanlegu lagi.“ Brunnurinn hefur nú verið gerður upp.

Staðarhverfi

Letursteinn í kirkjustað.

Kvosin vestan við rústirnar af Kvíadalsbænum heitir Brunndalur. Þarna var fyrrum Kvíadalsbrunnurinn, sem Staðarbændur sóttu áður vatn sitt í, en hann er nú löngu horfinn í sjávarkambinn.
Móakot var hjáleiga frá Stað. Kastalalaga steinhúsið í Móakoti (byggt 1931), sem margir núlifandi muna eftir, var nýlega rifið. Fyrst er getið um byggð í Móakoti 1822, en býlið fór í eyði 1945. Árin 1869-70 voru tvö Móakot; efra og neðra. Móakot stóð á svipuðum stað – þó ekki sama – og Krókur á 18. öld og má líta á Móakot sem framhald byggðar í Króki, eins og segir í Sögu Grindavíkur.
Móakot var vestur af Staðartúni. Garður var á milli túnanna, en hann er nú að mestu horfinn og túnin sameinuð. Enn sést þó í suðurendann á honum, en gróið er yfir hleðslurnar. Eftir standa garðhleðslur og tóftarbrot útihúsa.

Staðarhverfi

Litla-Gerði.

Garðar voru hjáleiga frá Stað. Getið er um mann fæddan í Stóragerði 1745, en búskapar þar er fyrst getið 1786 og var búið þar til 1919. Litlagerði hét hjáleiga, sem braut í Básendaveðrinu 1799, en 1851 er aftur byggð hjáleiga með því nafni og var þar búið til 1914. Garðabæirnir, eða Gerðabæirnir, eru á Gerðistöngum suðaustur af Stað.
Staðargerðir eða Stóragerði stóð niður á Gerðistöngum. Venjulega var það bara nefnt Gerði. Tóftir Stóragerðis eru enn bæði miklar og greinilegar. Norðan við þær eru gróin tún, en sunnan við þær tekur við stórgrýttur sjávarkambur. Bæjarrústirnar bera enn glöggan vott um híbýli og húsaskipan. Heim að þessum fornu, grónu rústum liggja fagurlega hlaðnar traðir í mjúkum boga. Fram af bænum hefur verið traustlega hlaðinn kálgarður. Á bæjartóftunum sést að þetta hefur veruð reisulegur bær og rúmgóður. Steinlímdir kampar baðstofunnar standa að nokkru leyti enn og bera þögult en greinilegt vitni um mannfólk fortíðarinnar á þessum bæ, segir í Staðhverfingabókinni „Mannfólk mikilla sæva“. Útihús er austast í Stórageristúninu.

Staðarhverfi

Við Stóra-Gerði.

Brunnur er um 10 m norðaustan við þar sem traðirnar sveigja suður á milli kálgarðsins og Stóragerðistóftanna. Hann er um 1,5×1 m aðs tærð og tæplega 1 m á dýpt. Hann er grjóthlaðinn, en hleðslurnar eru mikið hrundar.
Við norðurenda traðanna að Stóragerði eru leifar túngarðs, sem liggur austur-vestur. Að vestan er hleðslan um 12 m löng, en sveigir þá til norðurs um 100 m. Hleðslurnar eru fallnar að mestu leyti.
Við Staðarbæina voru miklir, háir og breiðir steingarðar. Þeir voru flestir fluttir á brott með vörubifreiðum þegar höfnin í Járngerðarstaðarhverfi var byggð.
Litlagerði braut, sem fyrr sagði, í Básendaflóðinu 1799. Tóftir af bænum má þó enn sjá á töngunum fyrir vestan Stóragerði. Í Litlagerði var þurrabúð. Aðeins er lítið tóftarbrot eftir af býlinu, en sjórinn hefur að mestu eyðilagt aðrar minjar.

Staðarhverfi

Kvíadalur.

Kvíadalur var hjáleiga og tómthús frá Stað. Getið er um menn fædda í Kvíadal 1767 og 1786 og þar var búið skv. manntali 1801, en býlið virðist hafa lagst í eyði eftir það og ekki verið byggt á ný fyrr en 1829 til 1833, en þá aftur í eyði til 1845. Sú byggð stóð aðeins í eitt ár, en aftur var búið í Kvíadal 1847 og svo samfleytt til 1919 að býlið lagðist endanlega í eyði. Tóftir Kvíadals eru allnokkrar og standa suður af Stað. Norðan við þær eru gróin túnin á Stað. Tóftirnar eru um 15×12 m að stærð og skiptast í a.m.k. sex hólf. Op eru greinileg á öllum hólfunum, þrjú til vesturs, tvö til suðurs og eitt til norðurs.
Hvirflavörður eru á Hvirflum, hæðardragi milli Staðar og Húsatópta. Sypsta sundvarðan er á sjávarbrúninni fast vestan við bryggjuna. Hin er um 150 m ofar. Vörðunar eru leiðarmerki á Staðarsundi og landamerki milli fyrrnefndu bæjanna.

Staðarhverfi

Bryggjan í Staðarhverfi.

Draugagjá er annað nafn á Sandgjá, svartri og dimmri er liggur þvert yfir Hvirflana (á merkum Staðar og Húsatópta). Nú er hún nær full afs andi. „Þjóðvegurirnn um Reykjanes liggur þvert á gjána, en lítið mótar fyrir henni þar sem hún er nær full af sandi. Þó sést til hennar um 300 m norðaustur af bæjarstæðinu, fast norðan vegarins, sem lítið kletabelti í norðaustur-suðvestur.“
Bindiskeri er lýst í sóknarlýsingu 1840: “ …þriðji boltinn, úr hverjum hringurinn er farinn, er á Staðarlóð í skeri austur af Sjávarhúsum. Var kaupskipið þannig bundið á þrjá vegu, en atkerum varpað fram af því, og horfði svo á sjó út í landsuður.“ Norður af eystri enda Staðarklappar er Vatnstangi, kúptur hryggur út í sjó, og braut á honum þegar alda var. Bolti með hring í er í Vatnstanga, í skeri, sem heitir Bindisker. Er hann á móti þeim, sem var í Barlestarskerjum í landi Húsatópta,“ segir í örnefnalýsingu. „Utan við Staðarklöpp er lítil klöpp, Vatnstangi, slétt að ofan og í henni miðri stendur járnbolti, ferkantaður, ca. 6″ á kant og með ca. 4″ gati í uppendanum. Utan með boltanum hefur verið rennt blýi.“ Bolti þessi er talinn vera frá kóngsverslunartímanum, þegar skipin voru, sem kallað var, svínbundin. Hann var friðlýstur 1930.

Staðarhverfi

Staðarhverfi – uppdráttur ÓSÁ.

Þvottaklappir nefnist þar sem ferskt vatn vætlar undan klettunum norðaustan Bjarnasands. Þar skoluðu húsfreyjurnar í Merki og á Löndum þvott sinn og þvoðu ullina. Voru klappirnar því nefndar Þvottaklappir. Þær eru fast suðvestan við Hvirflavörðuna.
Norðan í Staðarklöpp er Skökk, lítil vör. „Mun nafnið dregið af því að ekki er hægt að róa beint inn í hana úr Staðarsundinu, heldur verður að taka á sig mikinn sveig,“ segir í örnefnalýsingu. „Þar var fiskurinn stundum tekinn á land þegar vel stóð á sjó,“ segir Gísli Brynjólfsson í riti sínu um Staðhverfinga. Að norðanverðu í Staðarklöpp voru í raun tvær varir; Skökk og Litla-Vör. Staðarklöpp er svört grágrýtisklöpp með smá grasbrúsk í kollinn, en algerlega ógróin að öðru leyti. Skökk er norðan í henni.

Staðarvör er fast norðan við Staðarklöpp, flórlögð upp í sandinn. Ekki er vitað með vissu hvenær hún var gerð, en talið er sennilegast, að það hafi verið rétt upp úr aldamótunum 1900.

Staður

Festarkengur.

„Í Staðarvör voru bátarnir settir upp á land,“ segir Guðsteinn Einarsson. Austan við Staðarvör er sandfjara. Flórinn er hellulagður stórum flötum steinum. Hann er um 50 m langur og um 10 m breiður. Eftir flórnum voru bátar dregnir á land.
Flæðikrókar eru ofan við Staðarmalirnar. Í framhaldi af Flæðikrókunum er nokkurt graslendi. Þar eru tveir hólar, nefndir Stekkjarhólar. Fram af þeim eru klappir fram í sjó, nefndar Stekkjarnef, allbreitt. Sjór flæðir upp á það framan til. „Norðvestan við Stekkjarhóla er dálítill pollur, nefndur Vatnsstæði,“ segir í örnefnalýsingu. Nöfnin benda til þess að þarna hafi stekkur Staðarprests verið fyrir eina tíð þótt nú sjái þess engin merki. Engar tóftir eru við Stekkjarhóla og ekki ólíklegt að þær séu fyrir löngu komnar undir sjávarkampinn.

Staðarberg

Staðarberg – Bergsendi ofan Ræningjaskers.

Ræningjasker er fram af Staðarmölum, alltaf upp úr sjó. „Þegar Tyrkir komu til Grindavíkur 1627 lentu þeir skipi sínu við Ræningjasker,“ segir í örnefnaslýsingu. Ræningjasker er skammt austan við eystri Staðarbergsendann, stakt, stórt og mikið.
Tyrkjavarðan er á hraunhól ofan og vestan við Stað. Við hana er kennd sú sama þjóðsaga um Tyrkjana og um Nónvörður skammt austar. Segir sagan að á meðan varðan stendur mun Grindavík óhætt.
Hróabásar eru við vestari Staðarbergsendann, austan við Mölvík. Í þeim var flóruð vör, sem bendir til þess að þarna hafi eitt sinn verið útræði, en um það eru engar skráð heimildir.

Háleyjar

Háleyjar – tóft.

Fyrir innan Krossvíkur tekur við Háleyjaberg og þá Háleyjar. Þar voru talin góð fiskimið skammt undan landi. Rústir eða tóftarbrot er upp á kampinum. Þær gætu bent til þess að þarna hafi fyrrum verið útræði. Um sjósókn frá Háleyjum eru þó engar öruggar heimildir. Húsatóptamenn áttu sölvatekju í Háleyjum og gætu minjarnar verið eftir þá. Í skýrslu Brynjúlfs Jónssonar frá árinu 1903 segir: „Þar er ágætur lendingarstaður. Skammt vestur frá Krossvíkum, en á landi er þar hraun eitt og ekkert einkennilegt. Að eins er þar ofurlítil rúst eftir sjóbúð, sem byggð var seint á 18. öld. Þá gjörði Grindvíkingur einn, er Jón hét, bæ í Vatnsfelli, þar sem nú er bær vitavarðar, og hafði útræði frá Háleyjum. En það er langt frá Vatnsfelli, og gat hann ekki sótt sjó aðheiman. Því byggði hann búðina. En honum reyndist ókleyft að lifa á þessu nýbýli sínu, og fór þaðan aftur eftir 2 ár. Síðan hefir Háleyjalending ekki verið notuð.“ Í Háleyjum átti Staðarkirkja hálfan viðreka við Viðeyjarklaustur og „hefur sá helmingur fylgt Húsatóptum fyrir þá almennilegu leiguna, sem annars af jörðinni gengur.“ „Í Háleyjum skal hafa verið bær“, hafði Árni Magnússon eftir Ryjólfi Jónssyni á Þórkötlustöðum og öðrum gömlum Grindvíkingum árið 1703.

Háleyjarbunga

Háleyjarbunga. Mölvík ofar.

„Skarfasetur heitir hin ysta tá á Reykjanesi. Þar austur frá er kallað Rafnkelsstaðaberg og þá Háeyjahæð,“ segir Magnús Grímsson í ritgerð sinni um fornleifar á Reykjanesi. Annað nafn á Rafnkelsstaðabergi er Krossvíkurberg. Ekki er vitað til þess að bæjarnafnið Rafnklesstaðir hafi verið til í Grindavíkurhreppi.
Í Mölvík er 1703 sagður hafa staðið bær og vatnsból þar hjá. Í Mölvík er fiskeldisstöð í eyði. Engar minjar hafa fundist þar.
Í Chorographiu Árna Magnússonar 1703 segir að Sandvík hafi verið eign Staðarkirkju og þar „skal hafa verið bær“. Um 1860 segir Gísli Brynjólfsson að þar sé „talið að hafi verið verbúð, jafnvel bær, fyrir eina tíð, enda má þetta kallast eitt af fáum byggilegum stöðum á þessum sandauðnum.“

Krossavíkur

Krossavíkur.

„Í Krossvík skal hafa verið bær“, hafði Árni Magnússon og eftir gömlum Grindvíkingum. Brynjúlfur Jónsson telur að örnefnið bendi til byggðar þar áður en hraun runnu þar.
Herkistaðir er næst Skarfasetri. Þá á að hafa verið bær. Þar er þó engin fjara, en á Skarfasetri halfa menn að hafa verið kirkja Reyknesinga og það fremst á nesinu. Segja menn kirkjuna þaðan færða til Staðar í Grindavík og Grindvíkinga til forna hafa sótt kirkju til Hrauns. „Þess bæi meina menn til hafa verið alla áður en nesið brann. En nú er ekkert til baka nema brunahraun og sandar og þar engum manni byggjandi.“ Þetta hafði Árni Magnússon eftir Eyjólfi Jónssyni á Þórkötlustöðum og fleiri gömlum Grindvíkingum 1703. Ljóst er að enn vita gamlir Grindvíkingar ýmislegt um byggðalagið, sem öðrum er hulið eða ókunnugt um.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Heimildir m.a.:
-Fornleifaskráning 2002 – FÍ.
-Saga Grindavíkur.
-Örnefnalýsing.

Staðarhverfi

Staðarhverfi – uppdráttur – ÓSÁ.

Selskógur

Selskógur er afurð Skógræktarfélags Grindavíkur í norðurhlíðum Þorbjarnarfells (Þorbjarnar) ofan Grindavíkur.
Selskogur-61Stofnun Skógræktarfélags Grindavíkur má rekja aftur til ársins 1939. Þá varð Ingibjörg Jónsdóttir sextug og kvenfélagskonur stofnuðu sjóð henni til heiðurs. Ingibjörg ákvað að verja honum til þess að koma upp skógrækt í Grindavík. Fékk hún landið í norðurhlíðum Þorbjörns og þegar hún plantaði fyrstu hríslunum, vorið 1957, gaf hún svæðinu nafnið Selskógur. Skógræktarfélag Grindavíkur var síðan stofnað um haustið.
Ingibjörg Jónsdóttir var stofnandi Skógræktarfélags Grindavíkur og var annt um að gróðursetja í Grindavík á árum áður. Hún var ritari og síðar formaður kvenfélagsins og á árinu 1939 þegar hún varð sextug stofnuðu kvenfélagskonur sjóð henni til heiðurs. Ingibjörg ákvað eftir umhugsun að verja sjóðnum í að koma upp skógrækt í Grindavík. Ráðfærði hún sig við skógræktarstjóra ríkisins sem taldi landið við Þorbjörn vel til þess fallið að rækta upp skóg. Á árinu 1957 var svo gróðursett birki og gróðursetti Ingibjörg fyrstu plöntuna.
Selskogur-8Eftirfarandi er úr ávarpi formanns kvenfélagsins, Laufeyjar Guðjónsdóttur frá Ásgarði, á afmælisfundi félagsins árið 1963: „Þann 24. nóvember 1923 fyrir réttum 40 árum var Kvenfélag Grindavíkur stofnað. Aðal hvatakona að stofnun félagsins var fr. Guðrún Þorvarðardóttir í Ási. Stofnfund félagsins sátu 23 konur úr Járngerðarstaða- og Þórkötlustaðarhverfi í Grindavík.
Fyrstu stjórn félagsins skipuðu frú Guðrún Þorvarðardóttir i Ási, formaður, frú Ólafía Ásbjarnardóttir í Garðhúsum gjaldkeri og frú Ingibjörg Jónsdóttir, kennari, ritari. Stjórninni var á stofnfundinum falið að semja lög fyrir félagið og tilnefndi hún sér til aðstoðar frú Katrínu Gísladóttir frá Hrauni. Á öðrum fundi félagsins voru lög þess samþykkt. Á þeim sama fundi gengu þrjár konur í félagið. Í ársbyrjun 1925 voru 34 konur skráðar í félagið. Eða mikill meirihluti allra giftra kvenna í Grindavíkurhreppi.
Selskogur-223Þ
ess má geta að í dag eru um 140 konur skráðar meðlimir. Á þriðja fundi félagsins var kosin varastjórn, í henni áttu sæti frú Jóhanna Árnadóttir, varaformaður, frú Katrín Gísladóttir vararitari og frú Margrét Jónsdóttir varagjaldkeri. Á þeim sama fundi ber María Guðmundsdóttir á Hlíð upp tillögu þess efnis að eitthvað verði gert til að gera fundina skemmtilega til dæmis með því að lesa upp skemmtilegar og fróðlegar sögur eða syngja falleg kvæði. Þetta er viturleg tillaga, því að fátt er líklegra til að halda saman góðum félagsskap en skemmtilegir og líflegir fundir.
Ekki er ár liðið frá stofnun félagsins þegar Ingibjörg Jónsdóttir heldur framsöguræðu um garðrækt. Hvetur hún konur félagsins til að gera tilraun með að rækta nytjajurtir og blóm. Á sama fundi sem haldinn var 16. maí 1924 vakti Ingibjörg einnig máls á því hvort ekki væri möguleiki á því að félagið keypti spunavél sem það svo starfrækti. Báðar þessar uppástungur Ingibjargar sýna hve holl og skynsamleg áhugamál Kvenfélagsins voru þegar á byrjunarstigi.
María Geirmundsdóttir á Hliði bar á sama fundi upp tillögu um að Kvenfélagið gengist fyrir því að 19. júní yrði haldinn hátíðlegur og hvatti til þess að haldin yrði útiskemmtun á Baðsvöllum. Mun þarna vera að finna fyrsta vísinn að hinum rómuðu útiskemmtunum sem Kvenfélagið stóð fyrir og haldnar voru við Svartengisfell í Grindavík um margra ára skeið og frægar urðu um allar nærliggjandi sveitir.
Ánægjulegt hefði verið að mega enn sjá hér meðal okkar í kvöld þá konu sem lengst, drýgst og óeigingjarnasta starf hefur unnið í okkar hopi — Ingibjörgu Jónsdóttir, en Ingibjörg heldur nú til á Dvalarheimili aldraðra sjómanna i Reykjavík. Henni óskum við allar langrar og bjartrar ævi.“
Nafnið Selskógur má rekja til gamalla seltófta sem enn má sjá á skógræktarsvæðinu. Margir Grindvíkingar kannast við að hafa gróðursett plöntur í hlíðum Þorbjarnar í skóginum hennar Ingibjargar en á sjöunda og áttunda áratugnum a.m.k fóru grunnskólabörn ár hvert og gróðursettu.
Félagið lagðist í dvala árið 1988 en það var svo vaskur hópur skógræktaráhugafólks sem tók sig til og endurvakti félagið 2006. Frá því 2006 hafa verið gróðursettar um 6000 plöntur.
Guðbjörg Ásgeirsdóttir, verðandi formaður Skógræktarfélags Grindavíkur og virkur meðlimur í Kvenfélagi Grindavíkur, tók eftirfarandi saman um Selskóg úr gömlum fundargerðum Kvenfélagsins.
„Í fundargerð Kvenfélags Grindavíkur 24. okt. 1956 má sjá að Ingibjörg Jónsdóttir hafi fengið orðið til að skýra frá sjóði er kallaður var „Ingibjargarsjóður“ og stofnaður hafði verið í tilefni af 60 ára afmæli hennar. Henni hafði dottið í hug að vekja athygli á að koma upp skógi í Grindavík. Hafði henni dottið í hug staður norðan ÞSelskogur-224orbjarnarfells. Fékk hún landið til afnota frá landeigendum. Ætlunin var að koma upp girðingu um haustið, en vírnet var þá ekki fáanlegt.
Þann 4. júní 1957 er getið um að búið væri að koma upp smágirðingu, sem að vísu var bara til bráðabrigða þar sem meira efni var ekki til að svo stöddu. Búið var að setja niður 1200 plöntur. Þá var nokkurn veginn búið að ganga frá undirbúningi að stofnun Skógræktarfélags Grindavíkur. Ætlunin var að starfrækja það á vegum Kvenfélagsins með stuðningi hreppsins og fyrirgreiðslu frá Skógrækt ríkisins. Hafði skógræktarsvæðið hlotið nafnið Selskógur, „sem væri viðeigandi þar sem í skógræktinni væru gamlar seltóftir“.“
Jóhannes Vilbergsson, núverandi formaður Skógræktarfélags Grindavíkur sagði að starfssemin hefði fallið niður um tíma en félagið verið endurstofnað árið 2006. Meðlimir væru í Selskogur-225kringum 40 manns.
„Það er búið að planta rúmlega 20 þúsund plöntum frá 2006 megnið á norður og suðurhlið Þorbjarnar.
Árið 2008 vann skógræktarfélagið í samvinnu við Landsvirkjun að átakinu „Margar hendur vinna létt verk“ og þar voru búnir til göngustígar, hreinsað frá ungum plöntum og áburður borin á. Einnig var plantað fleiri plöntum.
Árið 2009 sótti Skógræktarfélagið um þátttöku í atvinnuátaki Skógræktarfélags Íslands. Við komumst að í því átaki og fengu 10 manns vinnu við það um sumarið, við að setja niður plöntur og bera áburð á eldri plöntur ásamt því að stígar voru lagfærðir o.m.fl.
Árið 2010 endurnýjuðum við samninginn og 20 manns komu að starfinu það sumarið.
Selskogur-226Árið 2011 vildi Grindavíkurbær ekki taka þátt í atvinnuátakinu svo minna hefur gerst þetta árið.
Fyrsti hluti af grisjun skógarins hefur farið fram, og hefur það verið í höndum fagmanna frá Skógræktarfélagi Íslands.
Hefur Skógræktarfélag Grindavíkur sótt um þetta frá endurstofnun félagsins, og loksins fengum við grisjunina.
Grisjun skógarins bætir skóginn og sólarljósið kemst niður í skógarbotninn, og öll trén sem eftir verða fá að njóta sín betur.
Grunnskólinn hefur í mörg ár plantað græðlingum og Leikskólinn Krókur hefur einnig sett niður svolítið af plöntum.
Allir eru velkomnir að taka þátt í starfi Skógræktarfélags Grindavíkur því það er okkar allra hagur að Selskógur sé útivistarparadís Grindavíkur.“

Selskogur-227Jóhannes sagði að markmið Skógræktarfélags Grindavíkur væru mörg, m.a. að bæta aðkomuna að Selskógi sem er ekki góð eins og hún er í dag, gera göngustíga, grisja og gera skóginn að betra útivistarsvæði Grindvíkinga. Von félagsins er að fá að planta trjám í trefil utan um Þorbjörn og láta gera góða gönguleið þar í kring og til bæjarins.
Í aðalskipulagi Grindavíkur segir m.a.: „Selskógur í Þorbirni hefur verið ræktaður upp þó skógrækt ríkisins hafi mælt eindregið gegn skógrækt á flatlendi utan byggðar á Suðurnesjum. Þrjú skógræktarsvæði hafa talist hæf til skógræktar og er Selskógur eitt þeirra. Skógræktarfélag Grindavíkur sér um Selskóg og hefur unnið að ræktun þess myndarlega skógar sem nú er fyrir hendi. Félagið gerðist aðili að Skógræktarfélagi Suðurnesja til þess að tryggja plöntur á vægu verði frá Skógrækt ríkisins. Nú eru Selskogur-228hin myndarlegustu grenitré í nokkrum aðskyldum lundum og svo þéttur að þegar hefur myndast skógarbotn í þeim.“ Framangrein kemur fram í greinargerð með aðalskipulagi Grindavíkur fram til ársins 2020.
Að sögn Kristán Bjarnasonar, skógræktarmanns, er Selskógur ekki ræktaður á flatlendi, nema þá að mjög litlu leyti, þannig að það virðist vera mótsögn í textanum. Þá er það að Skógrækt ríkisins mæli eindregið gegn skógrækt á flatlendi utan byggðir. Síðan að „aðeins þrjú svæði á Suðurnesjum henti til skógræktar“ hefur ekki verið fjallað um fyrr af hálfu Skógræktarinnar.
Í Jarðabókinni 1703 segir að „selstöðu hefur jörðin og brúkar enn nú þar sem heita Baðsvellir, og kvarta menn um að þar sjeu hagar ofurlitlir og þröngvir. Item sje þar stórt mein að vatnsleysi, þá þeirrar eru, og fyrir þessa lesti selstöðunnar segja menn fulla nauðsyn til að kaupa selstöðu annarsstaðar. Þessa brúkar bóndinn aleinn.“

Selskogur-400

Sagt er að Baðsvellir dragi nafn sitt af því, að þar hafi ræningjar baðað sig. Alveg niður við hraun er hallandi graslendi. Þar er slétt laut, Kvíalág. Þar með hrauninu eru tvennar seltættur og hóll. „Þar austan við heitir Stekkjarhóll,“ segir í örnefnaskrá. Rústirnar eru undir Þorbirni norðanverðum, í hraunjaðri, vestan við skógarrjóður. Syðst er þyrping, 5 hólf og klettur í miðjunni, sem hólfin raðast utan um. Þar norðan af er önnur tóft, tvö hólf. Norðan við þessa tóft eru tvær tóftir til viðbótar. Trjám var plantað í eina megintóftina.
Við Stekkjarhól eru greinilegar og mjög grónar tóftir. Þær eru norðaustan í skógarjaðrinum. Norðaustan við aðra tóftina er 2 m djúp hola. Hún er nær hringlaga. Sunnan við vegarslóða þar við er önnur hola, 1 m djúp, e.t.v. brunnur. Í skógarjarðrinum, sunnan brunnsins, er önnur tóft. Norðar eru mannvistarleifar í lágum hraunhól.

Selskogur-6

Í þjóðsögu frá þessu svæði segir: „Skammt fyrir ofan byggðina í Grindavík er fjall, sem heitir Þorbjarnarfell, – oftast nefnt Þorbjörn. Í toppi þess er hamragjá, sem heitir Þjófagjá. Er svo sagt, að þar hafi einu sinni hafst við fimmtán þjófar, sem lögðust á fé Grindvíkinga. Eigi sáu byggðarmenn færi á að vinna þá fyrr, en bóndason frá Hópi tókst á hendur að svíkja þá. Hann fór til þeirra, sór þeim trúnaðareið og var með þeim um hríð. Hann varð þess vís, að þeir fóru hvern laugardag í bað í laug þeirri, sem er á Baðsvöllum norðan undir fjallinu. Einn gætti klæða þeirra, meðan þeir voru í baðinu, og gerðu þeir það til skiptis. Svo kom, að þeir trúðu bóndasyni fyrir að geyma föt sín. Þá sneri hann um annarri skyrtuerminni og annarri brókarskálminni hjá þeim öllum og hljóp síðan, sem fætur toguðu, til bæja. Það fór eins og hann ætlaðist til; þjófunum varð tafsamt að komast í föt sín, og ekki fóru þeir nema í nærklæðin og eltu hann síðan, en náðu honum ekki. Urðu þeir mjög sárfættir í grjótinu. Nú þustu byggðarmenn að þeim, og gátu þeir ekki komist undan. Voru þeir allir teknir höndum og hengdir þar, sem síðan heita Gálgaklettar. Bóndasonurinn varð ólánsmaður, en eigi er getið, hvað fyrir hann kom.“
Enn má sjá bæði Þjófagjá í Þorbirni og baðstaðinn á Baðsvöllum, auk Gálgaketta í austri.

Selskogur-230

Þegar gengið var um Selskóg þessa kvöldstund voru mannvistarleifarnar, selstöðurnar, m.a. skoðaðar. Þegar betur var að gáð komu í ljós áður óþekktar minjar inni í skóginum norðvestan Stekkhóls, en svo heitir hóllinn neðst í núverandi skógarlundi. Um var að ræða heilstæð selstaða með þremur rýmum, auk stekkjarins, sem hóllinn hefur verið nefndur eftir.
Hugmyndir eru uppi um að byggja upp dæmigerða selstöðu á Baðsvöllum. Hún yrði fulltrúi 286 slíkra, sem enn má sjá í fyrrum landnámi Ingólfs.
Rétt er að nota tækifærið og vekja athygli á því, með fullri virðingu fyrir því sem þegar hefur verið gert í skógrækt, að Selskógur er dæmi um kapp án mikillar fyrirhyggju. Staðsetningin er að vísu ágæt, í nágrenni bæjarins, en að teknu tilli til hinna fornu mannvistarleifa á svæðinu hefði mátt huga betur að þeim áður en plantað var trjám á svæðið. En nú, þegar verið er að grisja skóginn, skapast ágætt tækifæri til að endurheimta minjar þær að einhverju leyti, sem þegar hefur verið plantað í trjám.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Heimildir m.a.:
-Morgunblaðið, þriðjudaginn 17. október, 2006.
-grindavik.is
-Grindavíkurbær – GRINDAVÍK aðalskipulag 2000 – 2020.
-Morgunblaðið, 8. desember 1963, bls. 18.
-Fundargerðir Kvenfélags Grindavíkur.
Guðbjörg Ásgeirsdóttir.
-Jóhannes Vilbergsson, formaður Skógræktarfélags Grindavíkur

Baðsvellir

Baðsvellir – Selskógur.


.

Krýsuvík

Krýsuvík kemst í eigu Hafnarfjarðarbæjar

Krýsuvík

Horft yfir Krýsuvík um 1962 (HH).

Um 1930 var erfitt að stunda búskap í kringum Hafnarfjörð; bæjarbúar voru ekki sjálfum sér nógir um neyslumjólk og beitiland vantaði fyrir sauðfé. Ekki fékkst aukið ræktarland úr Garðakirkjulandi og var þá farið að svipast um eftir öðrum jörðum nærri bænum. Krýsuvík þótti álitlegust og ritaði bæjarstjórn Hafnarfjarðar Einari Benediktssyni bréf í janúar 1933 og spurðist fyrir um hvort jarðeignir hans í Krýsuvík eða Herdísarvík væru fáanlegar til kaups. Tveimur árum síðar átti bærinn kost á að kaupa Krýsuvík fyrir 50.000 krónur og tók jörðina á leigu á fardögum 1935 til eins árs, með það í huga að kaupa hana síðan með gögnum og gæðum. Með lögum nr. 11, 1. febrúar 1936 var ríkissjóði heimilað að taka eignarnámi lönd í lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar og lönd sem liggja að Hafnarfirði. Eftir það upphófst mikið málaþras um væntanleg kaup bæjarins á jörðum Krýsuvíkur og Stóra-Nýjabæjar og afnotaréttinn. Gekk á þessu í nokkur ár þar til lögunum var breytt og tóku lög nr. 101, gildi 14. maí 1940. Þar sagði að Gullbringusýsla skyldi fá í sinn hlut lítt ræktanlegt beitiland jarðanna Krýsuvíkur og Stóra-Nýjabæjar til sumarbeitar fyrir sauðfé samkvæmt skiptagerð frá 1. maí 1939, en Hafnarfjarðarkaupstaður fengi jarðirnar að öðru leyti með öllum gögnum og hlunnindum, sem þeim fylgdu og fylgja bæri, að undanteknum námuréttindum. Hinn 20. febrúar 1941 gaf Dóms- og kirkjumálaráðuneytið út afsal fyrir Krýsuvík til Hafnarfjarðar.

Framkvæmdir og rekstur

Krýsuvík

Vinnuskóladrengir við vinnu í gróðurhúsi í Krýsuvík (HH).

Árið 1935 var ákveðið að leggja Suðurlandsbraut um Krýsuvík til að fá snjóléttan vetrarveg milli Árnessýslu og Reykjavíkur. Árið 1945 var lagningu vegar fyrir Kleifarvatn lokið og árið eftir hófst borun eftir jarðhita í Krýsuvík. Gróðurhús voru reist og tekin í notkun í mars 1949 ásamt húsi fyrir starfsfólk. Tveimur árum síðar hófst bygging bústjórahúss og 130 gripa fjóss sem aldrei var lokið því 1950 var framkvæmdafé á þrotum. Þá hafði ræst úr mjólkurskorti bæjarbúa með bættum samgöngum við Suðurland. Framkvæmdir hófust að nýju í Krýsuvík 1954 er 15 hektarar voru teknir í fulla ræktun. Keypt voru 100 gimbralömb og flest varð féð um 650 áður en þessum rekstri var hætt nokkrum árum síðar. Gróðrarstöðin og búskapurinn gengu ekki vel og illa hélst á starfsfólki. Var búrekstri af hálfu bæjarins hætt í Krýsuvík 1960. Eftir það voru húsin leigð til einstaklinga sem ráku þar ýmis konar starfsemi, þar á meðal gróðurhús, svínabú og refabú svo fátt eitt sé talið.

Vinnuskóli

Krýsuvík

Vinnuskóladrengir við vinnu í fjósinu í Krýsuvík (HH).

Árið 1953 kom Hafnarfjarðarbær á fót vinnuskóla í Krýsuvík fyrir drengi á aldrinum 10-13 ára. Dvöldust um 40-50 drengir í Krýsuvík frá júníbyrjun til ágústloka, en komu heim til sín aðra hverja helgi. Bjuggu þeir í íbúðarhúsi því sem reist hafði verið fyrir starfsfólk gróðrarstöðvarinnar. Drengirnir stunduðu ýmis störf meðan á sumardvölinni stóð, fóru í leiki, stunduðu íþróttir og fóru í gönguferðir um nágrennið. Árið 1960 var tekið við drengjum frá 8-12 ára og dvölinni skipt upp í tvö fimm vikna holl. Voru rúmlega 50 piltar í hvoru holli og var nú meiri áhersla lögð á léttari störf og leiki ýmis konar. Lauk þessari starfsemi árið 1964.

Bústjórahúsið

Krýsuvík

Bústjórahúsið (Sveinssafn).

Bústjórahúsið í Krýsuvík var reist árið 1948 fyrir Jens Hólmgeirsson sem átti að stjórna kúabúinu í Krýsuvík. Hann flutti aldrei í húsið og aldrei kom til þess að kýr yrðu bundnar á bása í fjósinu. Árið 1952 sagði Jens stöðu sinni lausri og eftir það var húsið notað í stuttan tíma fyrir stjórnendur vinnuskólans í Krýsuvík. Árin liðu, húsið grotnaði niður og var mjög illa farið þegar Sveinn Björnsson listmálari fékk það til afnota 1974. Hann gerði húsið upp, flutti þangað málaratrönur, pensla, liti og húsbúnað og kom sér upp vistlegri vinnustofu. Sveinn hafði tekið þátt í að reisa þaksperrurnar á fjósinu í Krýsuvík á sínum tíma og þekkti því staðhætti. Þarna starfaði hann að list sinni þar til hann lést 1997. Húsið ber þess merki að þar hefur listamaður verið að störfum. Sveinn skreytti loft, veggi og hurðir hússins og lagði tröppurnar litskrúðugum teppabútum. Nú kallast bláa húsið með rauða þakinu ekki lengur Bústjórahúsið heldur Sveinshús eftir listmálaranum og rannsóknarlögreglumanninum Sveini Björnssyni, sem sá til þess að húsið endaði ekki sem gapandi tóft, heldur öðlaðist virðulegan sess sem listasetur.

Skátar

Hverahlíð

Skátaskáli í Hverahlíð.

Skátar í Hraunbúum reistu skátaskála við Hverahlíð við suðurenda Kleifarvatns 1945-46. Þennan skála nýttu skátar á sumrin og veturna um langt árabil. Á áttunda áratugnum fengu skátarnir afnot af hluta heimatúns Krýsuvíkurjarðarinnar og komu sér þar upp aðstöðu. Reistu þeir lítinn skála í gömlu fjárhústóftinni og sléttuðu túnið. Á þessum stað halda Hraunbúar árlegt vormót sitt á hvítasunnunni.

Fornleifar

Selalda

Selalda; Krýsuvíkursel og Eyri – uppdráttur ÓSÁ.

Hvergi er hins vegar minnst í „Aðalskipulaginu“ á meintar fornleifar á svæðinu, einungis endurtekin almenn klausa um skilgreiningu á fornleifum skv. þjóðminjalögum.
Þrátt fyrir allt hið innihaldslausa í „Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2013-2025“ eru t.d. Jónsbúð á Krýsuvíkurheiði, steinhlaðið veiðihús, heilleg fjárhústóft í Litlahrauni, steinhlaðin réttin sem og fjárskjólið þar í hrauninu, miðunarvarðan ofan Krýsuvíkurbjargs, tófta Krýsuvíkursels ofan Heiðnabergs, bæjartófta Eyris sem og annarra merkilegra fornleifa í heiðinni er hvergi getið í „Aðalskipulaginu“.

Orkuvinnsla

Seltún

Seltún – orkuvinnsla.

Heildarskýrsla um rannsókn jarðhitasvæðisins kom út 1975. Miðað við stærð svæðisins, hita í jarðhitakerfinu, að 80% þess er aðgengilegt til borana o.fl. var reiknað út að svæðið geti staðið undir vinnslu raforku sem svarar til 2400 GWh/ári í 50 ár, eða afl þess sé 300 MW til sama árafjölda. Í Rannsóknaráætlun fyrir Krýsuvíkursvæðið sem Íslenskar orkurannsóknir unnu fyrir Hitaveitu Suðurnesja er sótt um rannsóknarleyfi á 295 km2 svæði sem nær til Krýsuvíkur, Trölladyngju og Sandfells. Helsti rannsóknaráfanginn er borun þrettán rannsóknarholna allt 2500 m djúpar og einnig er ætlunin að bora rannsóknarholur til grunnvatnsrannsókna. Tilgangur er að kanna vinnslueiginleika jarðhitans m.t.t. nýtingar og til að auka við þekkingu á jarðhitanum. Jarðhitaholurnar verða boraðar með þeim hætti að þær geti nýst síðar til virkjunar. Af þessum þrettán holum er fyrirhugað að bora a.m.k. sex í Krýsuvík.
Í framhaldi af sprengingu á hverasvæðinu við Seltún haustið 1999 var leitað til Orkustofnunar um athugun til að svara spurningu um hvort hætta væri á frekari hamförum. Orkustofnun hefur lagt fram áætlun um nauðsynlegar athuganir og rannsóknir.

Námuvinnsla

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg.

Í skýrslunni, Eldstöðvar á Reykjanesi er sett fram tillaga um námuvinnslu. Suður á Krýsuvíkurbergi eru tvö forn eldvörp. Þeirra mest er Selalda og frá henni liggur röð flatra gjallhóla til norðausturs. Austari hluti þeirra heitir Trygghólar. Þarna er mikið efni að mestu leiti gjall, rauðamöl og vikur. Rauðskriða heitir gíghóll alveg fram á bergbrún og er sjór sem óðast að brjóta hann niður. Talsvert efni er þar að finna.

Beitiland

Austurengjar

Stöðull á Austurengjum.

Hrossabeit er í tveimur hólfum á Vestur- og Austurengjum frá Hvammsholti að Grænavatni. Við Hvamma standa um 10 sumarhús en upphaflega var gefið leyfi fyrir hnakkageymslum á þessum stað. Hafnarfjarðarbær og hestamannafélagið Sörli hafa gert með sér samkomulag um að þar megi mest vera 50 hross og gilti samningurinn frá 1988 til 1993. Í samningnum er ákvæði um að félagið viðhaldi girðingu og annist áburðardreifingu þannig að gróður rýrni ekki. Ath. Vantar upplýsingar um nýjan samning.
Í sauðfjárbeitarhólfi á Krýsuvíkurheiði eru fjárbændur í Hafnarfirði, Garðabæ og Bessastaðahreppi með samningi sem gildir til 1. janúar 2009. Hólfið er um 1500 ha að stærð. Landgræðslan er ráðgefandi varðandi beitarþol og uppgræðslu og leggur til grasfræ eftir þörfum. Árleg áburðaþörf er 20 tonn miðað við fullnýtingu hólfsins.
Samningur á milli Vegagerðarinnar, Hafnarfjarðarbæjar, Grindavíkurbæjar og Vatnsleysustrandarhrepps um nýtt sauðfjárbeitarhólf og bann við lausagöngu utan beitarhólfa var samþykkt s.l. vor. Tilgangur samkomulagsins er að auka umferðaröryggi á vegum á Reykjanesskaga og skapa sátt um sauðfjárhald á Reykjanesi. Á Krýsuvíkurjörðinni nær girðingin að núverandi beitarhólfi á Krýsuvíkurheiði og að jarðamörkum á Sveifluhálsi og þaðan að Selhögum og norður fyrir Djúpavatn. Samningurinn gildir til 20 ára.

Krýsuvíkurskóli

Krýsuvíkurskóli

Krýsuvíkurskóli.

Um miðjan áttunda áratuginn hófust miklar byggingaframkvæmdir á mel sunnan Gestsstaðavatns, en þar var ætlunin að reisa skóla fyrir unglinga sem þyrftu á sérúrræðum að halda. Áður en byggingunni var lokið var fallið frá hugmyndinni og stóð húsið autt um margra ára skeið eða þar til Krýsuvíkursamtökin fengu það til afnota 1986. Hafa þau rekið þar meðferðarheimili, uppeldis- og fræðslustofnun fyrir fíkniefnaneytendur. Á heimilinu dvelja að jafnaði 20 Íslendingar og Svíar í einu og eru þar frá sex mánuðum upp í tvö og hálft ár. Máttur náttúrunnar er augljós í Krýsuvík og styður við hugmyndfræðina sem notuð er við meðferðina.

Heimild:
-Aðalskipulag Hafnarfjarðar 2005-2025 – Krýsuvík; greinargerð 2 20. janúar 2006, lagfært 20. mars 2006.

Krýsuvík

Krýsuvík – fjósið 2022.

Maístjarnan

Það var vel við hæfi að kíkja í Maístjörnuna í byrjun maímánuðar. Gengið var…… (má ekki segja því um er að ræða einn af fegurstu, en jafnframt viðkvæmustu hraunhellum landsins). Fyrst var þó komið við í Húshelli til að afhræða þátttakendur.

Húshellir

Í Húshelli.

Húshellir er bæði víður og hár hellir með a.m.k. tveimur breiðum hliðarrásum og því tilfallinn til að draga hugsanlegan skrekk úr fólki áður en haldið er inn í þrengri hella á svæðinu. Á miðju gólfi hellisins er hlaðið stórt byrgi. Í annarri hliðarrásinni eru bein, sem ekki hafa verið aldursgreind, en ekki er talið ólíklegt að þar geti verið um bein úr hreindýri að ræða. Til eru gamlar sagnir um útilegumenn á Selsvöllum, “sem færðu sig norður með fjöllunum” þegar að þeim var sótt. FERLIR hefur fundið álitlegt skjól við Selsvelli, sem gæti hafa verið fyrra athvarf útilegumannanna, en ekki er óhugsandi að þeir hafi hafst um tíma við í Húshelli eða allt þar til þeir voru handteknir og færðir yfirvaldinu á Bessastöðum. A.m.k. eru miklar heillegar mannvistarleifar í hellinum. Skjólið í hellinum gæti einnig hafa verið athvarf hreindýra- og/eða rjúpnaveiðimanna fyrrum.

Þá var haldið í Maístjörnuna. Hellirinn er tvískiptur og óaðgengilegur á millum. Að þessu sinni var skriðið inn um “augað” í vestari rásinni. Þá var komið í rúmgóða þverrás. Að ofanverðu var dropasteinabreiða á gólfinu og hraunnálar í lofti. Niður liggur rás, sem skiptist síðan í tvennt. Haldið var upp eftir hellinu og fetað varlega í gegnum dropasteinana. Þá var komið í rúmbetri þverrás, sem skiptist síðan í nokkrar aðrar. Litatilbrigðin eru mikil, sem og hraunmyndanir þar sem gangar og op opnast í allar áttir.

Maístjarnan.

Augað í Maístjörnunni.

Rás liggur upp á við, en hún lokast síðan með hruni. Rásin liggur talsverðan spotta niður á við. Þar er fallegur rauðlitaður flór. Rásin þrengist síðan uns loft og gólf koma saman. Fetið var tekið til baka að “auganu” og síðan haldið niður þá rás. Vinstri rásin þrengist og lokast, en sú hægri liggur áfram niður eftir. Á hana kemur þverrás, nokkru lægri. Rásinni var fylgt yfir hana. Hún þrengist svolítið, en opnast síðan aftur í stórum litskrúðugum geimi. Haldið var til baka upp rásina, hoppað niður í þverrásina og henni fylgt til vinstri. Þá var komið út í opnu hellisins utan við “augað”. Þar hafði verið útbúið kertasett veisluborð í tilefni 500. FERLIRsgöngunnar – lifrapylsa og hákarl. Þjóðlegra gerist það nú varla undir yfirborði jarðar. Hvernig verður dagamunurinn í tilefni af 600. göngunni?
Til baka var gengið um tröllvaxið landslag. Þegar gengið var framhjá einum hraunhólnum virtist sem raulað væri inni í honum. Lagt var við hlustir og þegar betur var að gáð heyrði fleiri en einn að kveðið var lágri, en dimmri röddu: “Hóhó og hananú, Halldor ei falli. Híhí og snusnu, Solrun af stalli”. Þetta var endurtekið aftur og aftur. Hvort eða hvað þetta kann að boða verður bara að koma í ljós. (Ferðin var farin viku fyrir alþingiskosningarnar 2002).

Í göngunni fannst enn ein hlaðin refagildra, sú 70. sem vitað er um á Reykjanesi.
Gangan tók um tvær klukkustundir.
Veður var frábært – lygnt og hlýtt.

Maístjarnan

Maístjarnan – uppdráttur ÓSÁ.

Húshólmi

Ætlunin var að ganga um Húshólma og skoða einar elstu fornleifar landsins, ganga síðan um Brúnavörðustíg og venda þaðan yfir í Óbrennishólma ofan við Miðreka þar sem einnig eru að finna hinar elstu fornaldarleifar á landinu. 

Vegvísir við Húshólmastíg

Gengið var upp frá Óbrennishólmanum um fornan stíg og gamli Ögmundarstígurinn síðan fetaður til baka.
Allir áhugasamir Grindvíkingar – og aðrir –  í sumarfríi voru boðnir velkomnir í ferðina, þeim að kostnaðarlausu – enda eignin fyrst og fremst þeirra.
Þegar gengið er frá Ísólfsskálavegi niður (suður) með austurbrún Ögmundarhrauns er vegarlengdin niður að Húshólmastíg 2.5 km. Gengið er eftir jafnsléttuðum slóða svo gangan er auðveld fyrir alla er lyft geta öðrum fætinum og komið honum síðan fram fyrir hinn – o.s.frv., o.s.frv.
Á leiðinni niður eftir var litið á hringlaga gerði utan í hraunkantinum, líklega eina af rúningsréttum Krýsvíkinga, en hún liggur vel við leið í krika utan í hraunkantinum. Veggur er gróinn, um 1.0 m á hæð. Inni í hrauninu í vestur frá  réttinni eru greni með tilheyrandi mannvirkjum grenjaskyttna.
Fjárborg í HúshólmaÞegar komið var niður að mótum Húshólmastígs sýndi vegvísir leiðina (1.1 km). Haldið var inn eftir ruddum stíg til vesturs í gegnum hraunið uns komið var að hleðslum austast í Húshólma. Áberandi var hversu vel brönugrasið hafði braggast í skjóli lyngs og lágvaxins runnagróðurs í grónum hólmanum ofanverðum.
Komið var að leifum að hlöðnum tvískiptum stekk í hraunkantinum norðanverðum. Skammt vestan hans er upphleypingur, að öllum líkindum tvískipt seltóft. Þriðja tóftin var skammt norðaustar í kantinum, líklega eldhúsið.
Norðvestar mátti berja hlaðið skól refaskyttu augum, auk merkinga (steinn) á greni. A.m.k. tvo innganga var að ræða. Skammt vestar eru leifar af fornri fjárborg. Roföflin höfðu náð að naga í hana suðaustanverða, en sáning og áburðargjöf náðu að stöðva eyðinguna. Grasið mun mynda jarðveg, en það mun síðan víkja fyrir staðbundnum plöntum. Hér er um að ræða mikilvægt samstarf Landgræðslu ríkisins og FERLIRs með það að markmiði að koma í veg fyrir frekari eyðingu hinna merku fornleifa í Húshólma. 

Merki þjóðminjavörslu landsins í Húshólma

Þær, sem í hólmanum eru, hafa verulega látið á sjá, svo mikið að það er einungis á færi mjög kunnugra að rekja garðana eins og þeir voru fyrrum. Ummerkin eru greinileg þeim er til þekkja. Í ferðinni var þátttakandi er rakti fyrrum dæmigerða ferð sína í Hólmann. „Ég fylgdi stígnum og kom inn í gróna svæðið, en síðan vissi í bara ekki hvert ég átti að fara. Ég reyndi að finna eitthvað áhugavert við hraunkantinn, en sá ekkert. Þá reikaði ég um svæðið, en það bætti ekki um betur. Loks ákvað ég að fara með hraunkantinum og kom þá að stíg út úr hólmanum. Honum fylgdi ég með ströndinni uns ég kom að hraunkantinum sömu megin og ég hafði áður komið inn í hann. Ég sá aldrei neitt af þessum merku minjum, sem þarna eiga að vera.“
Framangreind frásögn er dæmigerð fyrir ferðalanga í Húshólma. Langflestir finna aldrei neinar minjar í hólmanum – enda eru þær einungis merktar (utan sjónhendingar) með einni spýtu. Á henni stendur ekkert (en áður mun þar hafa verið merki Þjóðminjasafnsins um friðlýstar fornminjar). Einmana og eyðileg spýtan er táknrænt dæmi um áhugaleysi fornleifaverndaryfirvalda þessa lands á sínum merkilegustu söguminjum.

Vel hefur tekist að hefta jarðvegsrof í Húshólma

Þegar komið var að görðunum miklu í vestanverðum Húshólma var gengið eftir hluta þeirra; annars vegar er um að ræða langan bogadreginn garð utanverðan og hins vegar annan sveigðan innanverðan. Þvert á síðanefnda garðinn liggur annar í átt að hraunbrúninni. Norðan hans að vestanverðu er, að því er virðist hlaðið egglega gerði. Þar er um að ræða svonefnda Kirkjuflöt. Ekki er ólíklegt að ætla að þarna kunni að leynast forn grafreitur. Af hinum miklu görðum og öðrum mannvirkjum að dæma virðist þarna hafa verið fjölmenn byggð forðum. Hún teygir sig alla leið yfir í Óbrennishólma, rúmlega 1.0 km í norðvestri.
Gengið var eftir Kirkjustíg inn í Kirkjulág, þar sem tóftir hinnar fornu kirkju Krýsvíkinga stendur. Umleikis hana er bogadreginn garður og skálatóft vestan hennar. Norðan hennar er einnig bogadreginn garður. Vestan hans liggur Brúnavörðustígurinn til suðvesturs í gegnum hraunið, í átt að Brúnavörðunum, tveimur vörðum við sjónarrönd.
Gengið var um gróninga til norðurs og var þá komið að fornaldarskála, sem hraunið er rann 1151 hafði hlíft að öllu leyti. Grjótið í hleðslum er í bland sjávargrjót og holtagrjót. Þegar staðið er við skálann má vel sjá hvernig hin grunna vík (krys) hefur legið inn í landið neðan við tóftirnar, en hraunið síðan fyllt. Norðan skálatóftarinnar er önnur slík, nema hvað hraunið hafði runnið upp að henni og brennt svo veggir og þak féllu niður.
Skálatóft við Húshólma

Í gólfi tóftarinnar má þó enn sjá stoðholuförin eftir helming burðargrindarinnar. Þykktin á hrauninu í tóftinni er um 0.80 m. Umleikis eru hraunmyndanir er gætu einnig verið eftir slíkar brunahamfarir.
Ef allt væri með felldu á þessu svæði hefði bæði Þjóðminjasafnið og Fornleifavernd ríkisins gengið erinda tillögu Grindavíkurbæjar um staðbundna rannsókn á svæðinu. Líklegt er að sú rannsókn gæti gefið til kynna hvaða fólk hefði búið þarna og hvenær. Ekki er ólíklegt að niðurstaðan gæti og haft einhver áhrif á hina staðlaða upplýsingu Íslandssögunnar. (Kannski að vandinn liggi í því).

Ef tekið er mið af kvöðum Orkneyjabúa og Hjaleyinga um upphaf fornleifarannsókna, frágang og aðgengi almennings að slíkum stöðum er ólíku saman að jafna. Þar utan er gert ráð fyrir því í upphafi rannsókna að svæðin verði gerð aðgengileg almenningi með tilhlýtandi upplýsingum um niðurstöður o.fl. Hér á landi þarf að koma bæði hugarfarsbreytingu og öðrum verulegum breytingum hvað þetta varðar. Segja má að menntamálayfirvöld hafi sofið hér um langan tíma að feigðarósi. Gagnmerkra hugarfarsbreytinga er þörf í þessum efnum.
Forn tóft í ÓbrennishólmaGengið var til vesturs eftir Brúnavörðustíg. Þegar helluhraunshlutanum sleppti tók við úfið apalhraun. Stígurinn lá þó áfram inn í úfningana, handhunninn. Þarna voru að verki sonur Krýsuvíkur-Gvendar og fl. á árunum 1850-1870. Þeir fóru á milli Krýsuvíkur og Selatanga og þurftu greiðfæra götu. Ekki náðist þí að fullklára stíginn því hlutai af millikaflanum er enn ófrágengur. Hins vegar má með sanni segja að sá hluti stígsins, sem unninn hefur verið, hefur verið mikið þarfaverk – og nýtist fótgangandi enn þann dag í dag.
Þegar komið var að Brúnavörðunum, sem eru mið í Krýsuvíkur-Mælifell er blasir við víðast hvar úr Ögmundarhrauni og er reyndar helsta kennileiti vegfarenda um það, var haldið niðru fyrir hraunkantinn og síðan stígur á sléttu helluhrauni fetaður með honum til norðvesturs. Gatnamót götu að Miðrekum urðu á leiðinni, en skammt norðvestan hennar var vent til hægri inn í apalhraunið – eftir greiðfærum stíg inn í Óbrennishólma. Um tiltölulega stutt haft var að ræða. Óbrennishólmi er. líkt og Húshólmi, gróið hæðardrag í eldra hrauni, sem Ögmundarhraun hefur ekki náð að eyða. Efst á fremstu brún eru leifar mikillar fjárborgar eða virkis. Hið síðarnefnda er líklegra því borgin hefur staðið fremst ofan við sjávarbrúnina og verið nægilega stórt til að þar hafi íbúarnir getað varist ef óvini bar að höndum.
AForn garður í Óbrennishólmaustan við borgina, rétt utan við háan hraunkant, er gróin tóft, líklega af húsi. Svo til beint í norður af henni, fast við hraunkantinn ofanverðan, eru garðar, sem hraunið (frá 1151) stöðvaðist við. Líklega er hér um að ræða hluta af hinum miklu görðum, sem þarna voru. Skv. rannsóknum, sem gerðar hafa verið á garði í Húshólma benda niðurstöður til þess að mannvirkin hafi verið gerð áður en landnámsöskulagið lagðist þarna yfir.
Hvönn er farin að festa rætur í hólmunum.
Haldið var upp með háum hraunkanti og stefnan tekin á Mælifell. Í leiðinni kom í ljós hlaðið hringlaga gerði, en það hefur verið gert úr hraungrýtinu eftir að hraunið rann. Með því að feta hraunið í rólegheitum upp að vegi var fátt til trafala. Þegar upp fyrir þjóðveginn var komið var gengið eftir Ögmundarstíg til austurs, að upphafsreit.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 24 mín. Gengnir voru 11 km.

Stoðhola

 

Húshólmi

Í tilefni af útgáfu á Húshólmaritinu bauð Ferðamálafélag Grindavíkur áhugasömum íbúum Grindavíkur og öðrum landsmönnum í Húshólmagöngu laugardaginn 23. júlí s.l. (2005). Áhugasamir mættu annaðhvort við bæjarskrifstofuna (við verslunarmiðstöðina) í Grindavík kl. 13:00 og þáðu rútuferð á staðinn í boði Ferðamálafélags Grindavíkur eða mættu á Ísólfsskálavegi undir Krýsuvíkur-Mælifelli kl 13:30.

Húshólmi

Húshólmi.

Ekið var að og gengið niður í Húshólma undir leiðsögn og hinar fornu minjar skoðaðar. Gangan, sem varði í 3 klst og 33 mín (fram og til baka), var róleg og tiltölulega auðveld. Fólk var hvatt til að taka með sér nesti og búa sig eftir veðri. Því var lofað að ferðin myndi verða eftirminnileg. Léttleikinn var í fyrirrúmi og fornmaður einn, sem lokaðist inni í Húshólmanum þegar Ögmundarhraun brann árið 1151, var á vappi í rústunum. Hann lýsti aðstæðum fyrrum sem og þegar hraunið rann og bað um skilaboð til fólks, sem vildi sækja Húshólma heim.
Gengið var suður gamlan stíg um Ögmundarhraun neðan við Krýsuvíkur-Mælifell. Stígur þessi hefur ekki verið genginn lengi, en nú ruddi hópur brautryðjenda slóðina að nýju svo hún var greinilegri en áður. Nú ætti að vera tiltölulega auðvelt að fylgja henni frá þjóðveginum niður í Húshólma.
Gatan liggur um tiltölulega slétt hraun, milli úfinna apalhrauna. Fara þarf yfir tvö stutt úfin hraunhöft á leiðinni.
Gengið var framhjá Mælifellsgrenjunum (miðsvæðis

Húshólmi

Gengið í Húshólma.

á vinstri hönd), en við þau eru hlaðnar vörður og byrgi refaskyttna. Efri byrgin eru sérlega falleg og heilleg. Þau eru gegnt vörðu á hraunbrún í austri.
Skammt frá neðri grenjunum er fornt arnarhreiður á háum hraunhól á hægri hönd. Þegar komið var neður í hraunið sást vel hversu hátt hóllinn stendur og hreiðrið blasir við víðast hvar úr hrauninu. Græn gróðurtorfan er áberandi í annars gráu gamburmosahrauninu.

Þegar komið var niður fyrir neðra hraunhaftið tók við nokkuð slétt mosahraun. Þar þurfti að venda til austurs og ganga upp á apalhraunsbrúnina, en yfir hana liggur grófur stígur tiltölulega stutta vegarlengd. Þá er komið inn í efstu gróðurtorfu Húshólma. Hægt er að fylgja stíg áfram til austurs og síðan suðausturs inn í hólmann, en hann er þakin þykkum mosa og því ógreiðfær. Ótrúlega blómleg gróðurflóra hefur myndast í hólmanum á tiltölulega stuttum tíma. Hvönn er t.d. að festa þar rætur, mikið er um blágresi og brönugras.
Vesturbrún hólmans var fylgt til suðurs, að fjárborginni ofarlega í honum. Þar var lýst nýtingu og fjölda fjárborga á Reykjanesskaganum, fjárskjóla, selja og nýtingu þeirra fyrrum.

Húshólmi

Fornmaður í Húshólma.

Haldið var áfram til suðurs, að fornum garði, sem liggur til austurs undan hraunbrúninni og beygir síðan til suðurs og suðvesturs. Sunnan hans er annar garður er liggur í svipaða stefnu, innan megingarðsins. Þá var haldið inn í Ögmundarhraun eftir stíg til austurs uns komið var að nyrstu rústinni, þeirri sem er algerlaga hraunoprin. Í henni miðri lá fornmaður.
Þegar byrjað var að velta við hraunhellum og sýna stoðholur í rústinni reis fornmaðurinn upp og rakti sögu staðarins, allt frá tímum hins heilaga Brendans og þeirra írsku munka er þarna reyndu að festa rætur við fagra vík, þeirra er fundu brunninn heilaga (Saint Kylda), og er síðar komu, en héldu saltan þótt hann skilaði fersku vatni á fjöru (afsakið, en tungumálið hefur breyst nokkuð frá því sem var). Þá lýsti hann og ófriði þeirra norsku manna, er síðar komu, á hendur þeim. Þar hafi fremstur í flokki verið Ingálvur nokkur er vanfeðraður var og bjó við Reykjavík í norðri. Annar norskur maður, Molda-Gnúpur og hans hyski, hafi haft ófrið við þá í vestri, og síðan bættist enn annar, Suðureyjamaður og enn verri, við í austri, Þórir er kenndur var við hið versta, haustið.

Húshólmi

Gengið um Húshólma.

Fornmaðurinn lýsti staðháttum við hina grunnu vík, er kennd var við logg og nefnd var Krýsa; fiskur nægur útifyrir og fugl í fjöru, fé á landi og friður með mönnum, í fyrstu. Þegar um átta hundruð árum og sjö tygum betur eftir fæðingu Kristus, hafi ásýnd með mönnum breyst þá er hinir heiðnu Norvegsmenn komu með ófriði. Ari, sá er kenndur var við fróðleik, hafi tekið bækur heimamanna, þótt norskir hafi ekki kunnað lestur á latínu, og breytt forskrift sögunnar í sinni lýsingu þá er gjörð var fyrir valdið. Minjarnar í Húshólma og í hrauninu er brann ætti hins vegar að segja hina réttu sögu ef vel væri lesið.

Þá er eldar komu upp efra og himininn brann flúði fólkið við víkina Krýsu (grunn skora) hvert sem betur gat, ýmist til austurs eða á skip, en til vesturs, út í óvissuna þorði það ei, þar sem fyrir voru afkomendur Moldans-Gnúps, þess er hamaðist sem mannýgt naut.
HúshólmiSjálfur hafi hann ákveðið að verða um kyrrt og skylja hvorki við sig bústað né brynju (sverð). Þá vörn vildi hann öngvum manni eftir gjöva. Þess vegna væri hann enn á vappi í rústum þeim, er sögðu hefðu að segja.
Bað fornmaðurinn fólk fara með friði, hvatti það til að koma aftur til að vita hins forna staðar og lagðist til hvílu í hinni fornu rúst.
Fornmaðurinn var leikinn af Erlingi Kristjánssyni, en næstur tók til máls bæjarstjórinn í Grindavík, Ólafur Örn Ólafsson, sem leikinn var af honum sjálfum.
Ólafur Örn þakkaði þátttakendum áhugann, benti á Húshólmarit Ferðamálafélagsins og kvað það viðleitni til að vekja athygli fólks á hinum merku minjum, sem umdæmi Grindavíkur hefur að geyma.

Húshólmi

Húshólmavarðan.

Bæjarstjórn sagðist hafa haft áhuga á að láta rannsaka rústirnar við Húshólma, en fengið dræmar undirtektir Fornleifaverndar ríksins, hingað til að minnsta kosti. Þar gæti vonandi orðið breyting á. Hvatti hann göngufólk til að nýta sér hinar sögulegu minjar, sem Grindavík hefur upp á að bjóða, sem sumar hverjar þykja einstakar, jafnvel á heimsvísu.
Gengið var um Kirkjulág, lýst var hinum einstöku minjum, bæði görðum og híbýlum. Kirkjurústinni var gefinn sérstakur gaumur.
Þá var gengið um Kirkjustíg yfir á Kirkjuflöt og garðurinn og hinn meinti grafreitur, sporöskjulaga, skoðaður.
Loks var gengið upp Húshólma og upp á Húshólmastíg, sem fetaður var til austurs yfir Ögmundarhraun.

Húshólmi

Uppgræðsla í Húshólma.

Þegar gengið var um efri hluta hólmans kom vel í ljós árangur uppgræðslunnar, sem FERLIRsfélagar höfðu tekið þátt í með fulltrúa Landgræðslunnar fyrir u.þ.b. mánuði síðan. Grænni slykju sló nú á moldarbörðin. Áætluð er önnur landgræðsluferð niður í Húshólma einhverja kvöldstundina fljótlega. Áhugasamir geta skráð sig á ferlir@ferlir.is.
Þá geta og þeir, sem áhuga hafa á gagnmerkri leiðsögn um Grindavíkurumdæmi, sent inn óskir þess efnis á sama netfang; ferlir@ferlir.is.
FERLIR vill þakka Ferðamálafélgi Grindavíkur, þátttakendum, bæjarstóranum sem og „fornmanninum“ fyrir þeirra framlag til að gera þessa ferð eftirminnilega.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 33 mín, sem fyrr sagði.

Húshólmi

Bæklingur Ferðamálafélags Grindavíkur um Húshólma.

 

Gestsstaðir

Gengið var frá Sveinsstofu (-safni) við Gestsstaðavatn um Sveiflu og upp undir Hettu, þaðan niður Hettustíg inn á Bleikingsvelli innan Vigdísarvalla og um Drumbsstíg yfir sunnanverðan Sveifluháls að Gestsstöðum, tóftum elsta bæjar Krýsuvíkur að talið er.
HnakkurHnakkur blasti við norðan Hettu. Hann er að kortum nefndur Hattur, en sá mun vera þarna næst norðar (þar sem sér best niður á Seltúnið). Sveiflan mun heita dalskorningur suðaustan Hettu. Um hann rennur lækur, heitur efst, en smákólnar eftir því sem neðar dregur. Sveinar í Vinnuskólanum í Krýsuvík stífluðu lækinn fyrst árið 1962 og reistu kofaborg í neðanverðum dalnum og ári síðar byggðu þeir varanlegri stíflu á læknum (neðan við núverandi gróðurhús) og gerðu þar volga sundlaug. Áður höfðu þeir gert sundlaug sunnan undir Bleikhól, en þar eru heitar uppsprettur á annars gróðursnauðum sandinum. Allar þessar heitavatnsuppsprettur hafa kólnað umtalsvert á s.l. aldarfjórðungi. Löngu seinna taldi göngumaður á ferð um svæðið sig hafa fundið þar fornminjar, en við athugun kom í ljós að þar var um umrædda sundlaugagerð að ræða frá því um 1960. Enn má sjá leifar mannvirkisins á sandinum.
Þegar komið var upp í Hettu gafst hið ágætasta útsýni yfir Krýsuvíkursvæðið; Gestsstaðavatn, Grænavatn, Bæjarfell, Arnarfell, Geitafell (Æsubúðir) og allt niður að Selöldu. Litbrigði jarðvegsins eru þarna ólík öðrum stöðum, enda um virkt háhitasvæði að ræða.
járnbrautarlestin Sunnan við Hettu (379 m.y.s.) er ílangt móbergshæð. Vinnuskólastrákarnir kölluðu hana jafnan „Járnbrautarlestina“ því hún er ekki ólík lest að sjá þar sem hún kemur út úr henni að norðanverðu. Þegar upp er komið er hægt að velja um tvær leiðir; annars vegar til vesturs norðan Járnbrautarlestarinnar og hins vegar til vesturs sunnan hennar. Í fyrrnefnda tilvikinu er komið inn á Hettustíg, götu áleiðis niður að Vigdísarvöllum. Í síðarnefnda tilvikinu er farið yfir litbrigðafagra hlíð þa sem útsýni yfir að Vigdísarvöllum birtist í allri sinni dýrð.´
Síðarnefnda leiðin var valin að þessu sinni. Haldið var niður með hlíðinni og inn á Hettustíg. Hann sést vel á köflum þar sem hann er markaður í móbergsbrúnir. Þegar komið var niður í Bleikingsdal var vesturhlíð Sveifluhálsins (Austurhálsins) fylgt til suðurs. Áður hafði uppspretta lækjar þess er rennur niður um Ögmundarhraun og reynir nú eftir bestu getu að hlaða undir sig jarðvegi úr hlíðunum til að komast til sjávar, opinberast. Í Krýsuvík var fjöldi íbúa og býla stöðugur fram undir 1825, en eftir það fór ásókn í nýbýli að aukast í sókninni. Til að byrja með voru stofnuð nýbýli undir Bæjarfelli, þ.e. Garðshorn og Lækur. Landrými var hins vegar takmarkað og voru þrjú Gestsstaðirnýbýli stofnuð fjarri Bæjarfelli á árunum 1830-1850. Vigdísarvellir og Bali á svokölluðum Vigdísarvöllum og Fitjar undir fellinu Strákum suður undir sjó. Fólksfjöldinn í sókninni jókst stöðugt og varð mestur á 6. áratug 19. aldar þegar rúmlega 70 manns byggðu sóknina. Á þeim árum byggðust kotin Arnarfell, Snorrakot og Hnaus, sem voru í byggð einujngis í skamman tíma.
Eftir 1865 fór svo að halla undan fæti fyrir byggðinni. Fólkinu fækkaði um leið og býlin lögðust í eyði hvert á fætur öðru. Eftir aldarmótin voru íbúarnir orðnir færri en í byrjun 18. aldar og einungis 3 bæir í byggð. Litli Nýibær og Vigdísarvellir lögðust í eyði eftir jarðskjálfta 1905.
Gengið var inn á svonefndan Drumbsstíg austur yfir hálsinn til Krýsuvíkurtorfunnar. Efst í brúninni er drykkjarsteinn. Um er að ræða þægilega leið um fallegt umhverfi. Þegar komið var að austurbrúnum Austurshálsar var stefnan tekin til norðurs. Stígur liggur með móbergshlíðinni. Upp í einni gróðurkvosinni má sjá tóftir. Leifar hinna fornu Gestsstaða (sem nú eru friðlýstir) sjást að handan. Tóftirnar í hlíðinni eru að öllum líkindum hluti megintóftanna og ættu því að njóta friðlýsingar að sama skapi. Reyndar njóta þær hennar skv. Þjóðminjalögum því þar eru allra minjar eldri en 100 ára friðaðar.
TóftEkki er vitað til þess að fornleifauppgröftur hafi farið fram á að Gestsstöðum í Krýsuvík, en eflaust kemur að því. Guðrún Gísladóttir segir í skýrslu sinni um „Gróður ofl. í Reykjanesfólkvangi“ að gera ætti upp allar sýnilegar rústir á svæðinu. Taka má undir orð hennar að hluta því nauðsynlegt er að endurgera a.m.k. eitt sel og eina verbúð á svæðinu.
Getsstaðatóftirnar sunnan undir brúnum Gestsstaðavatns (sem nú hýsir starfsemi Krýsuvíkursamtakanna) sjást vel frá hálsinum. Vestar er stór ílöng megintóft, en austar tóftaþyrping.
Í Gestsstaðavatni er silungur. Vatnið var vatnsforðabúr Vinnuskólans á sínum tíma. Austar er Grænavatn, alldjúpur sprengigígur. Gestsstaðavatnsgígurinn hefur jafnan verið nefndur „hinn mildi“ á meðan Grænavatnsgígurinn hefur fengið nafnbótina „hinn hvassi“. Nafngiftin er fengin af brúnum þeirra.
Austanverðum hálsinum var fylgt uns haldið var niður að Sveinssafni – að upphafsstað.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 31 mín.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja.

Lágafellsleið

Á ferð FERLIRs með vesturmærum Grindavíkur frá austanverðum Valahnúk um Sýrfell, Súlur og Stapafell áleiðis að Arnarkletti var m.a. gengið þvert á forna þjóðleið milli Lágafells og Ósabotna (Hafna/Keflavíkur). Leið þessi er vörðuð litlum vörðum og eru sumar fallnar fyrir alllöngu, einkum norðan af.
LeidirÞegar fyrrnefnd leið var skoðuð frá sunnanverðu Lágafelli og henni fylgt niður að Ósabotnum kom í ljós að sumstaðar hafi verið kastað úr götunni, en mosi gróið yfir. Þannig sást hún t.d. greinilega suðvestan í Lágafelli, brú var hlaðin á Súlugjá og þá sást hún vel norðan Mönguselsgjár. Lægð er í landinu svo til alla leið að Mönguselsgjá. Gatan er vörðuð í lægðinni. Ljóst er að leið þessi hefur ekki verið farin um aldir og hún virðist flestum gleymd. Ekki er ólíklegt að leiðin hafi verið notuð fyrr á öldum jafnt fyrir ferðir frá Þórkötlu- og Járngerðarstöðum í Hafnir, að Básendum og í Keflavík. Ekki hefur enn verið fullkannað hvar gatnamótin eru, en það verður gert fljótlega, nú þegar búið er að kanna meginleiðina.
Í örnefnalýsingu Vilhjálms Hinriks Ívarssonar frá Merkinesi um Hafnahrepp má lesa eftirfarandi: „Svo sem 1/2 kílómetra norðaustar í gjánni er klapparhóll, sem lítið ber á, og heitir hann Gamli-Kaupstaður. Ekki er kunnugt um nafngift þessa nema ef vera kynni, að setja megi í samband við alfaraleið (hestagötu) úr Grindavík til Keflavíkur til forna og þarna hafi máske verið áningarstaður.“
Varda-29Líklega á Vilhjálmur Hinrik við þessa götu þegar hann nefnir alfaraleiðina. Um er að ræða auðvelda reiðleið, tiltölulega slétta að Lágafelli. Ásinn, sem þar þarf að fara yfir, er aflíðandi, gróinn og mjög greiðfær.
Sem fyrr sagði er ætlunin að skoða þetta víðfeðmi betur fljótlega m.t.t. framangreinds. Ekki er ólíklegt að ætla að hlöðnu fiskibyrgin undir Sundvörðuhrauni (bæði við Árnastíginn) og í Eldvörpum (við Hafnaheiðaveginn)) hafi verið staðsett með hliðsjón af þessarri leið, sem eftirleiðis verður nefnd Lágafellsleið.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Heimild:
-Hafnir (Hafnahreppur), Vilhjálmur Hinrik Ívarsson skráði. Skrásetjari:  Vilhjálmur Hinrik Ívarsson; fæddur 12/8 1899, Eyvík, Grímsnesi, Árnessýslu; flytur að Merkinesi í Höfnum 1934.

Arnarbæli

Varða á Arnarbæli.

Bæjarráð Grindavíkur samþykkti fyrir stuttu að kosta endurprentun á öllum minja- og örnefnakortin á skiltastöndunum sjö er settir hafa verið niður í gömlu byggðinni, áhugasömu og fróðleiksfúsu fólki um sögu byggðalagsins til ánægju.

Grindavik - uppdrattur StadaehverfiEldri skiltin voru prentuð á pappír og sett undir plast, en hin nýju voru prentuð á ál með sérstakri teflonplastfilmu yfir. Veðrun hafði afmáð alla áletrun svo við blasti einungs hvítur flötur.
Nú er búið að koma öllum skiltunum sjö fyrir á sínum stað – fallegri sem aldrei fyrr.
Hér er uppdráttur af Staðarhverfi. Tilgreindir bæir eru 28, auk þess sem minja og örnefna er getið. Meðfylgjandi á skiltinu er svo sögulegur fróðleikur um hverfið.
Þá má geta þess að Grindavíkurbær hefur gefið úr rit; Sögu- og minjakort af Grindavík. Ritið hefur að geyma öll kortin auk meðfylgjandi fróðleiks. Það fæst ásamt öðrum ritum um gersemar Grindavíkur í Kvikunni í hjarta bæjarins.

 

Gerðavellir

Gerðavellir – uppdráttur ÓSÁ.

 

Húsatóptir

Gengið var frá Markhól austast í landi Húsatópta vestan Grindavíkur, um Stekkjartún, Vörðunes, Arfadal og Kóngshellu út að Hvirflum. Þá var ofanlandið skoðað, s.s. Nónvörður, Hjálmagjá og Baðstofa, auk hinna gömlu tófta á Húsatóptum.

Húsatóftir

Nónvarða ofan Húsatófta.

Austast í Tóptarlandi eru brunnarnir, s.s. Tóptarbrunnur og Stakibrunnur, en vestast í Járngerðarstaðahverfi eru Gerðabrunnar eða Gerðavallabrunnar. Grindvíkingar kölluðu og kalla ferksvatnstjarnirnar ofan við sjávarkambinn brunna. Sjávarfalla gætir í brunnum þessum sem og í nálægum gjám, s.s. Bjarnagjá, sem er á mörkunum, og Baðstofu.
Hverfin í Grindavík eru þrjú; Þórkötlustaðarhverfi austast, Járngerðarstaðarhverfi í miðið og Staðarhverfi vestast. Hér er gengið um hið síðastnefnda (fyrri hluti).

Húsatóptir

Húsatóptir -Vindheimar; túnakort.

Húsatóptir, þar sem golfvöllur Grindvíkinga er nú, var önnur stóra jörðin í Staðarhverfi. Hin var Staður. Árið 1703 voru Húsatóptir konungsjörð og lá til Viðeyjarklausturs. „Selstöðu hefur jörðin lángvaranlega haft þar sem heitir á Selsvöllum, er þángað bæði lángt og erfitt að sækja.“ Hjáleigur voru Kóngshús og Garðhús. Árið 1936 var jörðin seld „með fleiri kóngsjörðum þetta ár, fyrir 630 ríkisdali í silfri til þáverandi landseta. Höfðu Viðeyingar hér áður útræði (1847). Til forna átti Staður rétt til vatnssóknar í Baðstofu í Húsatóftalandi. Til endurgjalds áttu Húsatóftir þangfjörutak á Stað. Kaupstaður var á Húsatóptum og var lent við Kóngshellu. Jörðin fór í eyði 1946. Fimm tómthúsbýli voru byggð í landi Húsatópta á árunum 1906-1934; Dalbær (1906-46), Vindheimar (1911-34), Blómsturvellir (1914-22), Hamar (til 1930) og Reynistaður (1934-38). Vel má sjá móta fyrir öllum þessum býlum í vesturjaðri golfvallarins sunnan Húsatópta.

Húsatóftir

Húsatóftir – byggt 1930.

Árið 1703 var túnið á Húsatóptum mjög spillt af sandi og „enn hætt við meiri skaða“. Engvar öngvar og mestallt landið hraun og sandi undirorpið. Árið 1840 var hins vegar önnur lýsing gefin af Húsatóptum: „Mörgum þykir fallegt á bæ þessum því þar eru stór tún, slétt og fögur, þegar í blóma standa, eru þau og allvel ræktuð.“
„Bærinn stóð spottakorn frá sjó, á háum og víðsýnum fleti“, segir í sóknarlýsingu. Á túnkorti frá 1918 eru sýndar tvær húsaþyrpingar, en tvíbýli var á Húsatóptum. Tóftir gömlu bæjanna eru þar sem nýrra íbúðarhúsið stendur nú, uppi á brekkunni ofan vegarins. Annars eru tóftir fyrir austan húsið og hins vegar um 15 m vestan þess. Tóftirnar eru enn greinilegar að hluta, en sléttað hefur verið fyrir golfvellinu allt umhverfis þær. Nýja húsið er stendur neðar, var byggt 1930 af Einar Jónssyni og sonum hans. Það hýsir nú Golfklúbb Grindavíkur.

Húsatóptir

Húsatóptir – sjá má torfbæinn v.m.

„Frá þeim tíma [þ.e. verslunarinnar] er gólfið þar í bæjardyrunum steinlagt með tígulsteini. Er líklegt að Kaupmannshúsin hafi verið rifin þegar verzlunin lagðist niður, en svo aftur byggður bóndabær í „tóptum“ þeirra, og fengið þar af nafnið, sem hann hefur nú“, segir Brynjúlfur Jónsson í grein frá árinu 1903. Íbúðarhús úr steini var byggt á bæjarhólnum 1930, en fram að því hefur verið þar toftbær. Hús voru byggð 1777 með „binding úr torfi og grjóti að utan en göflum úr timbri“. Einnig var þar íbúðarhús beykisins, byggt 1779, „með veggjum úr torfi og grjóti, enm þaki úr timbri“. Eldra íbúðarhúsið er nú stendur að Húsatóptum, byggt 1930, stendur neðar og vestar en tóftirnar. Það hýsir nú golfskála Grindvíkinga. Tóftirnar fast austan við nýja íbúðarhúsið eru á hól. Þær eru tveggja hólfa, en á milli hólfanna er steyptur pallur. Um 20 m norðaustan við tóftirnar eru leifar húss eða kálgarðs.

Húsatóftir

Efri-Sundvarða austan Húsatófta.

„Hjáleigan Kóngshús stóð niður við Húsatóptarvör“, segir í Sögu Grindavíkur. Fast vestan Tóptarvarar er stór klöpp, sem á standa rústir sjóhúss. Er líklegt að hjáleigan hafi verið á svipuðum stað. Klöppin er alltaf upp úr sjó, en getur verið mikið umflotin á flóði. Hún er grasi gróin að hluta. Ekki eru aðrar tóftir á klöppinni en steypurústin, en sunnan í klöppinni standa tveir fúnir timburstaurar úr sjó.
Hjáleigan Garðhús var til 1703. Í Sögu Grindavíkur segir að ekki sé ljóst hvar hjáleigan, sem nefnd var Garðhús, stóð.
Stekkjatún er norðan Jónsbásakletta. Í örnefnaskrá segir að Markhóll, gróinn hóll, sé austast á mörkum, en vestan við hann er Hvalvík. Vestan Hvalvíkurkletta er Jónsbás, u.þ.b. 80 m breiður. Vestan Jónsbáss er hár malarkambur, kallaður Stekkjatúnskambur. Tóftabrunnar, sjóvatnstjarnir, eru fast vestan við gamla veginn, vestan við Bjarnagjá, vatnsfyllta gjá fast austan við Markhól. Þá er Stekkjartúnsbarð og þá kemur Stekkjatún vestan þess. Ofan við Stekkjatún er Stakibrunnur.

Húsatóftir

Baðstofa.

Þann 14. janúar 1902 sigldi enski togarinn Anlaby í strand við Stekkjartúnskamp og fórst öll áhöfnin.Vestan við Stekkjartúnskamp eru klettabásar, nefndir Sölvabásar. Vestan við Sölvabása skagar tangi fram í sjó. Heitir hann Vörðunes, en er í daglegu tali nefndur Vörðunestangi. Beint upp af honum, u.þ.b. 1 km, er stór hlaðin varða. Tvær vörður með dálitlu millibili stóðu á bakkanum tæpum 200 austan við Vatnslón. Vörður þessar heita Sundvörður. Efri varðan er um 800 m austan við bæjarhólinn á Húsatóptum, í uppgrónu hrauni.  Í örnefnaskrá segir að „þegar þær bar í háan hraunstand í háhrauninu og í Höskuld, hnjúk austan í Þórðarfelli, þá var verið á réttu Djúpsundi. Var því miði haldið, þar til Hvirflavörður bar saman á Snúningnum. Þá var sveigt til vinstri inn á Staðarvík, en þaðan var greið leið inn í Staðarvör og Tóptarvör, þótt brimhroði væri. Snúningur var nefnt, þar sem beygjan var tekin, og talað var um að vera komin á Snúning.“ Varðan er hlaðin úr hraungrýti og er um 2 m á hæð. Hún er mest um 1,5 m í þvermál og umför grjóts eru um tíu. Neðri varðan er skammt austan við þar sem hús fiskeldisins standa nú (suðvestar).
Þvottaklappir eru vestan við Vatnslónsvík, vestan við Vatnslónskletta. Á þeim eru daufar uppsprettur. Þær draga nafn sitt af því, að þegar lágsjávað var, rann þarna mikið vatn niður í fjöruna og var farið þangað með þvott frá Húsatóptum og hann skolaður. Var það kallað „að fara í Vötnin“. Vatnslónsvík er fyrir suðvestan fiskeldið.

Húsatóftir

Húsatóftir – fiskibyrgi.

Tóptarklöpp er stærst klappanna. Hún er um 100 metra norðaustur af steyptri bryggju og er vestasti hluti skerjatangans, austan við grónu klöppina, sem steypta sjóhúsarústin stendur á. Á henni voru fiskhjallar áður fyrr. Guðsteinn Einarsson segir að þar hafði lengi staðið sjávarhús frá Húsatóptum, en þau voru farin af fyrir síðustu aldamót (1900) og þá komin upp á bakkann fyrir ofan. Tóptarvör er vestan Tóptarklappar, vestast í Garðsfjöru. Búðasandur tekur við af henni til vesturs. Vörin er á milli Tóptarklappar og grónu klapparinnar, sem steypta rústin er á.
Barlestarsker er beint niður af Húsatóptum, millli Þvottaklappa og Garðsfjöru, í Vikinu. Skerið er skerjatangi syðst í Garðsfjörunni. Ef tekið er mið af klöppinni með steyptu rústinni er Tóptarklöpp austan við hana, en Barlestarsker sunnan við hana. Þau eru tvö. Þar munu verslunarskipin hafa tekið barlest. Í öðru Barlestarskerinu var festarbolti gegnt öðrum í Bindiskeri í Vatnstanga í landi Staðar.

Staður

Staður í Grindavík. Hafnarkort Dana frá einokunartímanum.

Keðja mun hafa legið þvert yfir víkina milli festarboltanna og voru verslunarskipin á dögum kóngsverslunarinnar svínbundin við keðjuna, þar sem þau lágu á víkinni. Svínbundið var þegar skip var bundið bæði aftan og framan langsum á keðjuna, þannig að hlið lægi að henni.
Boltinn í Barlestarskeri var stór, fleygmyndaður með auga í efri endanum. Hann var lengi notaður sem hestasteinn á hlaðinu á Húsatóptum, en er nú sagður vera í garði húss í Járngerðarstaðahverfi. Festarboltinn á Bindiskeri er enn á sínum stað. Í lýsingu Brynjúlfs Jónssonar frá 1903 segir „að skipin hafi verið bundin á þrjá vegu við járnbolta, sem festir voru í klappir. Tveir af þeim voru í Húsatóptalandi, en einn í Staðarlandi. Jón bóndi Sæmundsson á Húsatóptum lét, nálægt 1850, taka upp báða þá boltana, sem í hans landi voru og færa heim til bæjar. Var annar hafður sem hestasteinn“.

Húsatóftir

Brunnur við Húsatóftir – Erling og Helgi Gam.

Búðarhella er upp af Kóngshellu. Næstur er Búðasandur er tekur við af Garðsfjöru allt frá Tóptarvör. Danska verslunarhúsið stóð á litlum hól, u.þ.b. 80 m upp af Tóptarvör. Ennþá sést móta fyrir grunni þess. Í sóknarlýsingu1840 segir: „Stóðu höndlunarhúsin niður við sjó nálægt Hvirflunum, en kaupmenn bjuggu heima á Húsatóptum.“ Á innri klöppinni (ofan við Kónshellu), sem er mun hærri, hafði krambúðin síaðst staðið. Þar stóð enn fisksöltunarhús Húsatóptarmanna er þar var róið 1865 og 1866. Þar á klöppini var aflanum skipt eftir róðra og gjört að fiskinum. Líklega er hóllinn, sem talað er um hóll sá, sem sumarbústaðurinn Staðarhóll stendur nú. Fast sunnan við hann er Búðasandur.

Verslun var í Grindavík áður, en hætt var við hana snemma á 18. öld. Höfnin var rétt við prestsetrið Stað, við hólma, sem hjallur var á.

Húsatóftir

Minjar dönsku einokunarverslunarinnar á Húsatóftum.

Skipin lágu milli hans og Barlestarskers. Verslunarhúsin stóðu á Búðartanga, en nú er tanginn að mestu brotinn af brimi. Þegar grafið var þar fyrir löngu fannst þar lóð, 100 pund að þyngd, sem bar merki Kónsghöndlunar. Þar finnast enn krítarpípur ef vel er leitað. Búðin var byggð 1779, einnig eldhús með múraðri eldstó og Gamla pakkhúsið (sennilega eldri verslunarbúð). Verslun var tekin upp á ný í Grindavík árið 1664, en hafði fram til 1639 verið í Járngerðarstaðalandi. Kaupmenn „fluttu sig um set vestur í Arfadal í landi Húsatópta. Þar var ráðist í umtalsverðar framkvæmdir og á uppdrætti, sem Kristófer Klog gerði af Grindarvíkurhöfn árið 1751 má sjá verslunarhús niðri við ströndina. Þau stóðu skammt frá svonefndum Hvirflum, sem heita Búðarsandur…“, segir í Sögu Grindavíkur. Á uppdrættinum sést tvílyft hús, talið vera krambúðin, sem reist var 1731, og minna hús sambyggt við austurendann. Þetta hús mun hafa staðið fram undir lok 18. aldar, en 1779 hafði ný krambúð verið byggð.
Kaupsigling var í Staðarvík til 1745, en eftir það var aðeins siglt til Básenda, þó ennþá væri verslað í húsunum í grindavík. Árni Jónsson keypti húsin á Búðasandi 1789, krambúð, eldhús og „gamla pakkhús“, en hann varð gjaldþrota 1796 og lagðist þá verslun alveg af í Grindavík. Verslunarhúsin voru rifin 1806.

Prestastígur

Prestastígur.

Í Arfadal, neðan við túnið á Húsatóptum, eru Pípuklettar. Neðan þeirra, með sjávargötu frá Húsatóptum, er lítill klettur (gróinn hóll), sem Pústi heitir. Þar hvíldu menn sig gjarnan, er sjófang var borið heim. Nú er Pústi í golfvellinum.
Út undir Hvirflum eru klettar, sem heita Háavíti og Lágavíti. Í þeim eru mörg grjótbyrgi, og var fiskur þurrkaður a þeim, áður en söltun kom til. Í hrauninu fast norðan við þjóðveginn eru margir greinilegir grjóthlaðnir hleðslugarðar. „Þá notuðu m.a. Skálholtsmenn til að herða fisk sinn“, segir Þorvaldur Thoroddsen í Ferðabók sinni.
Vestur af Húsatóptum er landið nokkuð hærra og heita Hæðir suðvestur af bænum. Á þeim eru Nónvörður, eyktarmark frá Húsatóptum. Vörðurnar eru tvær og standa á hárri ógróinni hraunbungu norðan við þjóðveginn. Fremri varðan sést greinilega frá veginum.

Húsatóftir

Húsatóftir – ein Nónvarðan.

Sagan segir að „þegar Tyrkir komu til Grindavíkur 1627, lentu þeir skipi sínu við Ræningjasker í landi Staðar. Gekk þá Staðarprestur upp á efstu brún Hæðanna, hlóð þar þrjár vörður og mælti svo fyrir um, að Grindavík skyldi ekki verða rænd, á meðan í þeim stæði steinn yfir steini.“ Hefur það orðið að áhrínisorðum, enda standa Nónvörður enn, auk vörðunnar á Nónhól skammt vestar, í Staðarlandi.
Árnastígur er sunnan við Klifgjá, vestast í jarði hennar, austan við túnið á Húsatóptum, vel rudd braut um apalhraun. Gamli vegurinn milli Staðarhverfis og Keflavíkur lá um Árnastíg og Klifgjá, þar norð-austur af er Þórðarfell. Um gjána lá svokallað Klif, snarbratt niður í hana. Er það hálfgert einstigi og illt yfirferðar með klyfjahesta, segir í örnefnaskrá. Syðsti hlutinn var bæði kallaður Staðar- og Tóptarvegur. Norðan Stapafells, kom gatan inn á svonefndan Járngerðarstaðaveg á landamerkjum Njarð- og Grindvíkinga. Leiðin er um 16 km löng.

Húsatóptir

Fuglaþúfa ofan við Húsatóptir.

Prestastígur er gömul þjóðleið milli Húsatópta og Hafna. Hrafnagjá er vestur af Grýtugjá undir jaðri Eldborgarhrauns. Yfir gjána er hlaðin brú þar sem hún er um 2 m á dýpt. Hleðslan er úr hraungrýti og mjög heilleg, um 2 m breið og um 4 m löng. Frá Hrafnagjá er einstigi um hraunið frá Sauðabæli út í Óbrennishóla.
Líklega er þar að finna svonefndan Hamrabóndahelli, sem mikið er búið að leita að. Troðningur þessi er fær öllum þótt slæmur sé, segir í örnefnaskrá. Gatan liggur í norðvestur upp frá vestanverðu túninu á Húsatóptum. Nú er upphaf götunnar sett við þjóðveginn austan Húsatópta, en golfvöllurinn hefur verið lagður yfir hana næst bænum.
Frá túninu túninu á Húsatóptum að Eldvörpum liggur gatan um mosagróið hraun, mjög úfið á köflum. Norðan Eldvarpa er landið sléttara, grónara og auðveldara yfirferðar. Leiðin er vörðuð svo til alla leiðina og eru flestar vörðurnar miklar og breiðar og vel uppistandandi. Hún er um 12 km.

Húsatóttir

Refagildra við Húsatóttir.

Skothóll, allhár og gróinn með fuglaþúfi í toppinn, áberandi í landslaginu. Hann er vestast í Tóptarkrókum. Hóllinn er á mörkum Húsatópta og Staðar. Skothólsgjá liggur eftir endilöngum hólnum (um 1 m djúp). Á Skothól hefur líklega verið legið fyrir tófu.
Útilegumannabyrgi eru í sunnanverðu Sundvörðuhrauni. Um þau er fjallað sérstaklega í annarri FERLIRslýsingu.
Byrgjahólar eru vestan við Tóptartúnið. Eru þar mörg hlaðin byrgi frá þeim tímum er allur fiskur var hertur. Byrgin, sum heilleg, eru ofan við Hjálmagjá. Þau eru yfirleitt kringlótt og hlaðin í topp. Á þeim voru lágar dyr, vafalaust til að stórgripir kæmust ekki inn í þau. Byrgin voru hlaðin úr stórgrýti og blés vel í gegnum þau. Fiskurinn var hengdur upp á slár inni í byrgjunum. Aðeins eitt byrgjanna er enn vel heillegt og uppistandandi að hluta.

Húsatóptir

Fiskbyrgi ofan Húsatópta.

Baðstofa er norðaustur af Tóptartúni, mikil gjá, 18 faðma djúp, þar af er dýpt vatnsins í botni hennar um 9 faðmar, segir í örnefnaslýsingu. Baðstofa er um 300 m austur af bæjarhólnum. Í gjána var oft sótt vatn, er brunnar spilltust í stórflóðum. Þótti vatn þar mjög gott.

Húsatóftir

Refagildra við Húsatóftir.

Svo sagði Lárus Pálsson hómapat, að hann tæki hvergi vatn í meðul annars staðar en í Baðstofu. Sögn er um, að Staðarprestur hafi fengið að sækja vatn í Baðstofu gegn því, að Húsatóptarbændur fengju að taka söl í landi Staðar. Gjáin er mjög djúp niður á vatnsborðið, en ekki nema um 3 m breið. Mikill gróður er í henni víða. Brú liggur yfir gjána þar sem vatni er dælt úr henni, en vatnið er bæði notað til vökvunar á golfvellinum og í fiskeldinu sunnan vegarins. Gegnumstreymi er á vatninu í gjánni. Skammt ofan gjárinnar er hlaðin refagildra.

Hjálmagjá er norðvestast (efst) í túni Húsatópta, grasi gróin í botninn. Haft var eftir gömlu fólki, að það hefði oft séð hamrana upplýsa með dýrlegum ljóshjálmum, sem bárum mjög af lýsiskolum í mannheimi. Sást þá oft huldufólkið úr Hjálmagjá leika listir sínar á skautum í tungsljósinu (.þe.a.s. í lægð í Húsatóptatúni, sem kallast Dans, og þar mynduðust góð svell í frosthörkum á vetrum), segir í örnefnaskrá.

Húsatóftir

Húsatóftir – minjar og örnefni – ÓSÁ.

Sunnan við Dans (sem er norðaustast í túninu) er Kvíalág og Fjósskák sunnan hennar. Næst er Harðhaus. Hann er ósleginn túnpartur um 120 m norður af bænum, fast utan golfvallarins. Þar hraktist aldrei hey. Í óþurrkatíð var Harðhaus sleginn til að fá þurrkt. Fjósaskák og Harðhaus náðu alveg heim að gamla bænum.

Þangggarðar voru suðaustan við bæjarhlaðið þar sem nú eru gamlar veggtóftir. Þar var þurrt þang geymt til vetrarins. Var því hlaðið þar upp og tyrft yfir það eins og hey. Á veturna var það svo notað til eldiviðar. Þangið var skorið í fjörunni, helst þegar stórstreymt var, og reitt á hestum upp á sjávarbakkann til verkunar. Þegar sterkur álandsvindur var, þá var þang of skorið „undir straum“, vafið um það gömlum netariðli ogmeð flóði fleytt í efsta flóðfar og þaðan reitt á hestum á þurrkvöll. Þá var breitt úr þanginu eins og heyi til þurrkunar. Nú var nauðsynlegt að rigndi vel á þangið, svo úr færi selta. Næst var þangið þurrkað vel, bundið í bagga eins og hey og flutt í geymslur til vetrarins. Oftast var þungu þangi hlaðið í bing í eldhúsinu og brennt á hlóðum. Vel þurrt þang logaði vel, með snarki og neistarflugi, en heldur þótti það léttur eldiviður. Kom sér þá vel að hafa „rekaspýtu í augað“.
Skipadalur er neðst í túninu. Þangað munu vertíðarskipin til forna hafa verið sett í vertíðarlok. Golfskálinn stendur í raun í Skipadal. Þar er nú sléttað malarplan. Skammt vestar er Húsatóptarbrunnurinn, sem enn sést móta fyrir.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Heimildir m.a.:
-Saga Grindavíkur
-Fornleifaskráning 2002 – FÍ
-Örnefnalýsing fyrir Húsatóftir

Húsatóptir

Refagildra ofan Húsatópta.