Tag Archive for: Grindavík

Krýsuvík

Í Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2005-2025 fyrir Krýsuvík segir m.a.:
Krysuvik-8„Krýsuvík var heil kirkjusókn og eitt mesta höfuðból landsins með mörgum hjáleigum. Munnmæli herma að byggðin hafi upphaflega verið í Húshólma, óbrennishólma í sunnan verðu Ögmundarhrauni. Þar er mjög fornt bæjarstæði sem kallað er Hólmastaður í eldri heimildum. Hjáleigur voru að jafnaði fimm til átta talsins en í gömlum heimildum er getið um 13 býli. Á heimajörðinni voru Suðurkot, Norðurkot, Snorrakot, Stóri-Nýibær, Litli-Nýibær, Arnarfell og nýbýlið Lækur. Fjær voru kotin Vigdísarvellir, Bali, Fitjar og Fell. Kaldrani stóð við suðvesturenda Kleifarvatns og Gestsstaðir sunnan Krýsuvíkurskóla.
Krýsuvíkurkirkja
KrysuvikurkirkjaKrýsuvíkurkirkju er fyrst getið í kirkjuskrá Páls Jónssonar Skálholtsbiskups um 1200. Margt bendir til að kirkja hafi risið í Krýsuvík á fyrstu áratugum kristni, en núverandi kirkju byggði Beinteinn Stefánsson á Arnarfelli 1857. Þetta er lítið guðshús einfaldrar gerðar, án turns, og eina húsið sem enn stendur á bæjarhólnum. Kirkjan var aflögð sem helgidómur og rúin öllum verðmætum 1929. Eftir það notaði einbúinn Magnús Ólafsson, síðasti íbúi Krýsuvíkur, hana sem íbúðarhús til 1945. Endurbygging kirkjunnar hófst 1957 og var hún endurvígð 31. maí 1964 og færð Þjóðminjasafninu til eignar. Árið 1997 var Sveinn Björnsson listmálari jarðsettur í kirkjugarðinum en þá voru liðin 80 ár frá síðustu greftrun þar. Á vorin er haldin messa í kirkjunni og altaristafla eftir Svein hengd þar upp, en tekin niður við messu á haustin og færð til vetrarvistar í Hafnarfjarðarkirkju.

Krýsuvík kemst í eigu Hafnarfjarðarbæjar
Magnus olafssonUm 1930 var erfitt að stunda búskap í kringum Hafnarfjörð, bæjarbúar voru sjálfum sér ekki nógir um neyslumjólk og beitiland vantaði fyrir sauðfé. Ekki fékkst aukið ræktarland úr Garðakirkjulandi og var þá farið að svipast um eftir öðrum jörðum nærri bænum. Krýsuvík þótti álitlegust og ritaði bæjarstjórn Hafnarfjarðar Einari Benediktssyni bréf í janúar 1933 og spurðist fyrir um hvort jarðeignir hans í Krýsuvík eða Herdísarvík væru fáanlegar til kaups. Tveimur árum síðar átti bærinn kost á að kaupa Krýsuvík fyrir 50.000 krónur og tók jörðina á leigu á fardögum 1935 til eins árs, með það í huga að kaupa hana síðan með gögnum og gæðum. Með lögum nr. 11, 1. febrúar 1936 var ríkissjóði heimilað að taka eignarnámi lönd í lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar og lönd sem liggja að Hafnarfirði. Eftir það upphófst mikið málaþras um væntanleg kaup bæjarins á jörðum Krýsuvíkur og Stóra-Nýjabæjar og afnotaréttinn. Gekk á þessu í nokkur ár þar til lögunum var breytt og tóku lög nr. 101, gildi 14. maí
1940.
Krysuvik-2Þar sagði að Gullbringusýsla skyldi fá í sinn hlut lítt ræktanlegt beitiland jarðanna Krýsuvíkur og Stóra-Nýjabæjar til sumarbeitar fyrir sauðfé samkvæmt skiptagerð frá 1. maí 1939, en Hafnarfjarðarkaupstaður fengi jarðirnar að öðru leyti með öllum gögnum og hlunnindum, sem þeim fylgdu og fylgja bæri, að undanteknum námuréttindum. Hinn 20. febrúar 1941 gaf Dóms- og kirkjumálaráðuneytið út afsal fyrir Krýsuvík til Hafnarfjarðar.

Framkvæmdir og rekstur
KrysuvikÁrið 1935 var ákveðið að leggja Suðurlandsbraut um Krýsuvík til að fá snjóléttan vetrarveg milli Árnessýslu og Reykjavíkur. Árið 1945 var lagningu vegar fyrir Kleifarvatn lokið og árið eftir hófst borun eftir jarðhita í Krýsuvík.
Gróðurhús voru reist og tekin í notkun í mars 1949 ásamt húsi fyrir starfsfólk. Tveimur árum síðar hófst bygging bústjórahúss og 130 gripa fjóss sem aldrei var lokið því 1950 var framkvæmdafé á þrotum. Þá hafði ræst úr mjólkurskorti bæjarbúa með bættum samgöngum við Suðurland. Framkvæmdir hófust að nýju í Krýsuvík 1954 er 15 hektarar voru teknir í fulla ræktun. Keypt voru 100 gimbralömb og flest varð féð um 650 áður en þessum rekstri var hætt nokkrum árum síðar. Gróðrarstöðin og búskapurinn gengu ekki vel og illa hélst á starfsfólki. Var búrekstri af hálfu bæjarins hætt í Krýsuvík 1960. Eftir það voru húsin leigð til einstaklinga sem ráku þar ýmiskonar starfsemi, þar á meðal gróðurhús, svínabú og refabú svo fátt eitt sé talið.

Vinnuskóli
VinnuskolinnÁrið 1953 kom Hafnarfjarðarbær á fót vinnuskóla í Krýsuvík fyrir drengi á aldrinum 10-13 ára. Dvöldust um 40-50 drengir í Krýsuvík frá júníbyrjun til ágústloka, en komu heim til sín aðra hverja helgi. Bjuggu þeir í íbúðarhúsi því sem reist hafði verið fyrir starfsfólk gróðrarstöðvarinnar. Drengirnir stunduðu ýmis störf meðan á sumardvölinni stóð, fóru í leiki, stunduðu íþróttir og fóru í gönguferðir um nágrennið. Árið 1960 var tekið við drengjum frá 8-12 ára og dvölinni skipt upp í tvö fimm vikna holl. Voru rúmlega 50 piltar í hvoru holli og var nú meiri áhersla lögð á léttari störf og leiki ýmiskonar. Lauk þessari starfsemi árið 1964.

Bústjórahúsið verður Sveinshús
Bústjórahúsið var reist árið 1948 fyrir Jens Hólmgeirsson sem átti að stjórna kúabúinu í Krýsuvík. Hann flutti aldrei í húsið og aldrei kom til þess að kýr yrðu bundnar á bása í fjósinu. Árið 1952 sagði Jens stöðu sinni lausri og eftir það var húsið notað í stuttan tíma fyrir stjórnendur vinnuskólans í Krýsuvík. Árin liðu, húsið grotnaði niður og var mjög illa farið þegar Sveinn Björnsson listmálari fékk það til afnota 1974. Hann gerði húsið upp, flutti þangað málaratrönur, pensla, liti og húsbúnað og kom sér upp vistlegri vinnustofu.
SveinssafnSveinn hafði tekið þátt í að reisa þaksperrurnar á fjósinu í Krýsuvík á sínum tíma og þekkti því staðhætti. Þarna starfaði hann að list sinni þar til hann lést 1997. Húsið ber þess merki að þar hefur listamaður verið að störfum. Sveinn skreytti loft, veggi og hurðir hússins og lagði tröppurnar litskrúðugum teppabútum. Nú kallast bláa húsið með rauða þakinu ekki lengur Bústjórahúsið heldur Sveinshús eftir listmálaranum og rannsóknarlögreglumanninum Sveini Björnssyni,
sem sá til þess að húsið endaði ekki sem gapandi tóft, heldur öðlaðist virðulegan sess sem listasetur.

Skátar
Skátar í Hraunbúum reistu skátaskála við Hverahlíð við suðurenda Kleifarvatns 1945-46. Þennan skála nýttu skátar á sumrin og veturna um langt árabil. Á áttunda áratugnum fengu skátarnir afnot af hluta heimatúns Krýsuvíkurjarðarinnar og komu sér þar upp aðstöðu. Reistu þeir lítinn skála í gömlu fjárhústóftinni og sléttuðu túnið. Á þessum stað halda Hraunbúar árlegt vormót sitt á hvítasunnunni.

Krýsuvíkurskóli
KrysuvikurskoliUm miðjan áttunda áratuginn hófust miklar byggingaframkvæmdir á mel sunnan Gestsstaðavatns, en þar var ætlunin að reisa skóla fyrir unglinga sem þyrftu á sérúrræðum að halda. Áður en byggingunni var lokið var fallið frá hugmyndinni og stóð húsið autt um margra ára skeið eða þar til Krýsuvíkursamtökin fengu það til afnota 1986. Hafa þau rekið þar meðferðarheimili, uppeldis- og fræðslustofnun fyrir fíkniefnaneytendur. Á heimilinu dvelja að jafnaði 20 Íslendingar og Svíar í einu og eru þar frá sex mánuðum upp í tvö og hálft ár. Máttur náttúrunnar er augljós í Krýsuvík og styður við hugmyndfræðina sem notuð er við meðferðina.“

Heimild:
-Aðalskipulag Hafnarfjarðar 2005-2025 fyrir Krýsuvík, 20. janúar 2006, lagfært 20. mars 2006, greinargerð 2.

Krýsuvík

Fjósið í Krýsuvík.

Arnarvatn

Gengið var á Miðdegishnúk, besta útsýnisstaðinn á Sveifluhálsi (394 m.y.s.). Frá hnúknum má berja augum bæði mikla formfegurð og sérstakar náttúruandstæður.
MiðdegishnúkurÍ suðri er Arnarvatn, Kleifarvatn í austri með bakgrunn Brennisteinsfjalla, Folaldadalir í norðri og Djúpavatn og Trölladyngja í vestri. Og höfuðborgarsvæðið nýtur sín vel í landnorðri. Þá var ætlunin að ganga norður á hálsinum áleiðis að Stapatindum og jafnvel Hellutindum. Ofan við Huldur, sunnan við Huldur, er gamall járnkross til minningar um flugslys er þar varð árið 1944. Átta manns fórust í slysinu. Enn má sjá brak úr flugvélinni efst og ofan við gilmyndunina.
Lagt var upp frá Hofmannaflöt við Djúpavatnsleið. Örnefnið hefur löngum verið fólki ráðgáta, en slík eru fleiri en eitt hér á landi. Hofmannaflöt er t.d. rennisléttur völlur austan Ármannsfells og norðan Þingvalla. Hún er kringd fjöllum á þrjá vegu og opin móti suðri. Austan hennar er Mjóafell og norðan þess Goðaskarð. Norðan flatarinnar er allsérstætt Útsýni á Sveifluhálsi - að Arnarvatni og Hettufell, sem lítur út eins og sæti og ber nafn með rentu, Meyjarsæti (237m). Beggja vegna þess eru Sandkluftir, þröng skörð, sem hafa bæði borið umferðina milli Sandkluftavatns og Hofmannaflatar öldum saman.
Fyrrum lá bílvegurinn um eystra skarðið en síðustu áratugina hefur vestara skarðið verið notað. Aðalástæða þess er, að sandskaflar lokuðu oft veginum austan Sandkluftavatns, sem gerist tæpast vestan þess. Gömul, friðlýst veghleðsla upp í eystra skarðið sunnanvert sést enn þá greinilega.
Flötin sjálf var löngum ræktuð og slegin fyrr á tímum og þar var kærkominn áningarstaður ferðamanna, sem komu langa leið um Kaldadal. Ármannssaga segir frá leikum, sem fóru fram á Hofmannaflöt, þegar helztu tröll landsins hittust þar.
Þá segir í örnefnaskrá að “norðan Hestabrekkuhæðar er Hofmannaflöt (-flatir) sem að líkindum er gamall áningastaður enda liggja gamlar götur þaðan í Almannadal, þetta dalverpi norðan Þingvallavegar Stapatindarer nú ekki svipur hjá sjón, blásið upp að mestu.”
Í þjóðsögunni um Eyfirðingana Guðmund og Þorstein er örnefnisins getið: „En áður en karl kvaddi þá Guðmund bað hann þá að selja sér fisk þann er þeir öfluðu að vetrinum, því hann sagði sér vera farið að leiðast hangikjötið; bað hann þá að flytja fiskinn á vertíðarlokum upp á Hofmannaflöt, kvaðst hann þá skyldi verða þar fyrir og klyfja hesta þeirra aftur með ull og tólg. Þeir játuðu þessu og skildust síðan með blíðu.
Síðan héldu þeir leiðar sinnar og bar ekki fleira til tíðinda; komu þeir suður á undan öllum öðrum Norðlingum og fengu góð skiprúm og öfluðu vel. Um vorið fluttu þeir fisk sinn á átta hestum upp á Hofmannaflöt og var þar karl fyrir með jafnmarga hesta klyfjaða með ull og tólg, og höfðu býttin eins og ákveðið var. RiddarinnVarð þeim þetta hinn mesti gróðavegur.“
Þá er Hofmannaflöt innst í Ölfusdal ofan Hveragerðis.
Hofmannaflötin undir vestanverðum Sveifluhálsi er sambærileg nöfnum hennar annars staðar á landinu; slétt gróin flöt. Lækur rennur um flötina á vorin. Einhverjir hafa viljað tengja örnefnið við hefðarfólk, en líklegra er að það bendi til áningastaðar. Ekki hefur verið gerð skipuleg leit að hugsanlegum tóftum við flötuna, en ein slík er á Hofmannaflötinni við Þingvelli. Þá má leiða líkur að því að þarna hafi fyrrum verið greiðasta leiðin með hesta inn á og yfir Sveifluháls. A.m.k. er hvergi betra og auðveldara að ganga á hálsinn en einmitt þarna.
Þegar grónum bökkum uppþornaðs lækjarfarvegs var fylgt upp aflíðandi og mjög aðgengilegt gil var komið í ofanverða gilskál, sem jafnan hefur verið orðuð við riddara. Nafngiftin er augljós; móbergsstandur í henni ofanverðri að norðanverðu er einstaklega líkur riddara á taflborði. Heilsað verður upp á hann síðar í göngunni.
Þegar upp í skálina var komið var stefnan tekin til suðurs og gamalli götu fylgt upp áframhaldandi ávala hlíðina. Nú hafa ökumenn torfærutækja ekið eftir götunni og dýpkað hana til mikilla muna. Þegar FERLIR fór eftir endilöngum Sveifluhálsinum árið 2000 sáust engin för eftir slík tæki á þessum slóðum. Af ummerkjunum að dæma þá virtist augljóst að þarna hefðu kunnugir farið með hesta því þessi leið er sú greiðfærasta ef farið var til/frá Krýsuvík, hvort sem var um Ketilsstíg eða Hettustíg. Í ljósi þessa er örnefnið líka vel skiljanlegt.
Þegar upp á veðurbarinn ofanverðan ás var komið birtist Miðdegishnúkurinn framundan, formfagur, en óárennilegur. FERLIR leit ekki beinlínis á hann sem áskorun, líkt og margir aðrir, heldur var stefnan tekin suður með honum Krossinn ofan við Huldurvestanverðum og á mosagróna hæð, sem virðist úrleiðis, en er öllum fagurkerum á landslag ómetanleg.
Á hæðinni eru allnokkri skessukatlar, en þegar yfir hana er komið birtast herlegheitin; eitt hið stórbrotnasta útsýni á Reykjanesskaganum og þótt víða væri leitað. Sanddalur umgirtur móbergshömrum (sem FELRLIR nefni „Fyrstudeildardal“ á umræddri ferð sinni árið 2000) með útsýni alla leið yfir að Arnarvatni, Stapatind, Hnakk og Hettu. Í tilefni útsýnisins var þrífótum stillt upp innanvið dásemdina, myndavélar festar á skúfur og síðan „panaoramamyndir“ teknar í gríð og erg. Eflaust eiga þær eftir að birtast á einhverjum mikilsvirtum landslagsmyndasíðum á næstunni.
Þá var stefnan tekin á Miðdegishnúk. Gengið var upp á hann suðaustanverðan. Þegar upp var komið birtist til stórbrotnasta útsýni, sem hugurinn um getur – og jafnvel betur. Þeir landsmenn, sem hafa lagt á sig ómælt  ferðalag og mikið erfiði til að komast á Mont Blanc eða Kilimanjaro, myndu öfunda þá mikið er notið hafa þessa útsýnis – á innan við klukkustund.
Brak úr flugvélinniÁ næstefstu brún (einungis Stapatindur er hærri (395 m.y.s.) og Arnarnýpa (396 m.y.s.)var tilefni til að huga að tilurð uppefnismassans. Sveifluháls er móbergshryggur sem myndast hefur við gos undir íshellu á kuldaskeiði. Sprungugosin, sem áttu
sér stað á jökulskeiðum og mynduðu móbergshryggina Sveifluháls og Núpshlíðarháls, hefðu eflaust myndað dyngjur ef landið hefði verið íslaust. Þess í stað mynduðust þessu miklu langstapar.
Kleifarvatn er undirliggjandi að austanverðu. Vatnið er stærsta vatnið á Reykjanesskaga og liggur á milli Sveifluháls og Vatnshlíðar. Það er þriðja stærsta vatnið á Suðurlandi, 9,1 km², og eitt af dýpstu vötnum landsins, 97m. Það hefur lítið aðrennsli en ekkert frárennsli. Handans vatnsins, að austanverðu, er Gullbringa er öll sýslan dregur nafn sitt af. Milli þess og hálsins er Krýsuvíkurvegurinn. Hann var lagður á árunum 1935-1945.
Leifar fæugvélarinnarÞá var haldið niður á „láglendi“ Sveifluhálsins. FERLIR hafði, sem fyrr segir, gengið eftir Sveifluhálsinum endilöngum. Hægt er að velja tvær leiðir; þá auðveldu eða þá erfiðu. Fyrir venjulegt fólk er auðveldari leiðin jafnan valin, en hún er mun fallegri en sú síðarnefnda. Að vísu er hún svolítið lengri, en aldrei er teflt í tvísýnu á þeirri leið. Ýmist má sjá á henni austanverða hálslínuna eða þá vestanverðu. Sanddaldir, s.s. Folaldadalir og „Fyrstudeildardalur“ eru þræddir af öryggi, alveg að Arnarvatni þar sem sem velja má á milli tveggja öruggra leið eða bara þá auðveldustu; að fylgja vesturhlíð Sveifluhálsins alveg til enda við Krýsuvíkur-Mælifell. Á þeim leiðarhluta eru einnig ákveðnar náttúrugersemar, sem ekki verður getið hér.
Erfiðari leiðin liggur bæði um efstu brúnir sem og tækifærismöguleikana undir þeim. Fyrir ólofthrædda er þessi leið greið; t.d. er gengið utan í hábrúnum í vestanverðum nyrstu Stapatindunum og yfir háhrygg efstu eggja uns komið Rallýbónusinner að gilsskorningi sunnan næstsyðstu Stapatindanna. Þá þarf að sæta lagi, en eftir það er leiðin greið að Miðdegishnúk. Ef lofthræddir eru með í för, er miklu mun betra að velja auðveldari leiðina.
Auðveldari leiðin var þrædd til baka að hnúkunum ofan við Huldur. Þar er ryðgaður málmkross til minningar um þá, sem létust þar í flugslysi efstu brúnum Sveifluhálsins. Brak má enn sjá niðri í hlíðinni austanverðri, uppi á hálsinum og einnig sunnar á hondum.
Kanadískur flugbátur, svonefndur „Canso“ (systur Catalinaflugbátsins), fórst í Stapatindum á Sveifluhálsi þann 19. desember 1944 á leið til lendingar á Reykjavíkurflugvelli. Átta manna áhöfn flugvélarinnar beið bana þarna á hálsinum þennan örlagaríka dag.
FolaldadalirFlugvélin var úr 162. flugsveit Hins konungslega kanadíska flughers, RCAF. Einkennisnúmer hennar var 11061 „L“ Vélin var að koma úr eftirlitsflugi og áhöfnin var að búa sig undir lendingu á Reykjavíkurflugvelli þegar slysið varð. Talið var að flugvélin hafi lent í niðurstreymi við Fjallgarðinn. Flakið fannst dreift yfir snarbratta fjallshlíðina. Hafði vélin rekist utan í fjallið um það bil 80 metra frá fjallsbrúninni. Höggið var svo mikið að djúpsprengjurnar og eldsneytið hafði sprungið og brunnið og áhöfnin látist samstundis. Leitarflokkur fann lík áhafnarinnar, sem voru jarðsett með hernaðarlegri viðhöfn í Fossvogskirkjugarði.
Flugvélaskrokkurinn var síðar dregin á snjóbíl að vetrarlagi niður vestanverðan hálsinn, niður Hrútadyngjuhraun og alla leið til Hafnarfjarðar. Þar var m.a. álið notað til að stansa út þurfahluti. Á leiðinni duttu hluti af skrokknum. Neyðarútgönguhurð töpuðst t.a.m. í Hrútadyngjuhrauni. Þegar þær fundust síðar í myndarlegri hraunrás var rásin að sjálfsögðu nefnd „Neyðarútgönguhurðarhellir“. (Sjá meira hér).
Hið smávægilega skiptir máliÞátttakendur í göngunni fengu óvæntan ánægjuauka; 28. Reykjavíkurrallýið, sem þá fór fram á Djúpavatnsvegi. Frá mosavöxnum austurbrúnum hálsins var hægt að setjast niður og þá var hvergi betri yfirsýn yfir keppnina – alveg frá Norðlingahálsi í norðri og suður fyrir Djúpavatn. Rykkófið spratt í afturfar ökutækjanna, hljóðin í skiptingunum bergmálaði um hlíðina og sprengingar frá hreyflunum gáfu heillegheitin til kynna. Ekki komust þó allir ökumennirnir á leiðarenda.
Niðurgangan um hinn uppþornaða lækjarfarveg ofan Hofsmannsflatar gaf tilefni til eftirfarandi íhugunnar; jafnan hafa verið tilgreindar tilteknar götur eða leiðir, jafnvel nafngreindar, milli áfangastaða. Gæti verið að hér sé að nokkru leyti um hugarsmíð höfundanna að ræða? Tilgreind nöfn á elstu leiðum, götum eða stígum á þessu svæði sem og öðrum virðast hvergi til í skriflegum lýsingum. Einungis hefur þeim nýrri verið lýst og þá af ónákvæmni.  Álitlegra væri að draga einhverjar ályktanir úr frá fyrirliggjandi verksummerkjum, kennileitum og aðgengilegheitum þegar farið var á millum staða fyrrum.
Þessi stutta gönguleið er líklega sú fjölbreytilegasta og fegursta á öllum Reykjanesskaganum.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Miðdegishnúkur

Miðdegishnúkur.

 

Snorri

„MEGAflott“ varð fulltrúa Hellarannsóknarfélags Íslands að orði eftir að hafa skoðað skoðað Snorra. Meira um það á eftir.

Snorri

Björn Hróarsson við Snorra.

Stefnan var tekin á Slóðaketil og Snorra. Rúmlega fimm metra langur stigi var með í för. Lögreglunni í Reykjavík er þökkuð afnotin því án stigans hefði hrikaleiki undirheimana ekki verið uppgötvaður að þessu sinni.
Til þess að komast niður í Slóðaketil þurfti á öllum fimm metrunum að halda. Í hraunbólu er ketill. Rás liggur upp úr honum á efri hæðinnim þrengist, en víttkar aftur uns hún lokast alveg. Mjó rás, sem sjá má á meðfylgjandi mynd, liggur niður í sléttbotna rás, sem enn er ókönnuð. Þar þarf einhvern mjósleginn til að skríða aftur á bak niður og skoða rásina. Aldrei að vita hvað þar kannn að leynast. Niður í katlinum liggur rás niður á við og beygir til hægri. Þar lokast hún. Í heildina er kannaður hluti Slóðaketils u.þ.b. 30 metrar.

Snorri

Klifrað upp í Snorra.

Þegar komið var að Snorra blasir við geysistórt jarðfall. Niður í því eru mjög stórar rásir. Efri rásin er hruninn skammt eftir að inn er komið. Neðri rásin er stórgrýtt, beygir og þrengist eftir u.þ.b. 15 metra uns hún lokast alveg. Snorri fannst eftir ábendingu frá Snorra Þórarinssyni frá Vogsósum, en hann hafði einhverju sinni átt leið þarna um í smalamennsku og þá gengið fram á jarðfallið. Síðan gerði FERLIR þrjár tilraunir til að finna jarðfallið og fannst það að lokum í svartaþoku með aðstoð GPS-tækis, sem notað hafði verið til að skanna svæðið þvers og kruss.

Snorri

Snorri – þrívíddarmynd.

Undir efri rásinni í Snorra er stór skálalaga kjallari, u.þ.b. 10 metra hár. Hann fannst eftir að aðframkomnir FERLIRsfélagar, sem fundið höfðu jarðfallið, neituðu að gefast upp við svo búið. Eftir að hafa fært til steina í jarðfallinu með miklu erfiði var hægt er að komast niður í kjallarann með því að færa til stóra steina. Efst á vegg í kjallaranum er op, ca. tveir metrar að ummáli í nálægt sex metra hæð. Út um opið virðist koma storknaður þunnfljótandi hraunfoss, en nú sást að allur veggur kjallarans er þannig. Stiginn var dreginn niður í kjallarann og reistur við vegginn. Fulltrúi HERFÍs klifraði upp – og hvarf. Hann kom ekki aftur fyrr en eftir rúmlega hálfa klukkustund. MEGAflott sagði hann bara þegar hann var spurður hvernig þetta væri þarna uppi – og brosti sínu breiðasta. FERLIRsfélagar héldu við stigann á meðan, en ef vel á að vera þarf þarna nálægt átta metra langan stiga til að komast bæði upp og niður með góðu móti. Einn félaginn stalst reyndar til að klifra upp og kíkja inn fyrir. Þessi rás liggur inn fyrir stóra jarðfallið í meginrásinni. Þá tekur við u.þ.b. 5 metra hár og 10 metra breiður sléttbotna hellir, um 300 metra langur. Í honum eru dropasteinar og annað er prýtt getur fallegan hraunhelli. HERFÍsfulltrúinn gaf hellinum einkunina 8 af 10 mögulegum. Það segir jú sína sögu.

Snorri

Leiðangur kominn að Snorra.

Þarna bættist enn ein perlan í safn HERFÍs, ekki langt frá fyrirhuguðu vegstæði svonefnds Suðurstrandarvegar. FERLIRsfélagar er ánægðir með að hafa fengið að taka þátt í uppljóstran þessara gersema Íslands. Ætlunin er að fara fljótlega aftur á staðinn með fulltrúum HERFÍs og skoða, mynda og mæla hellinn. Aldrei er að vita hvað þá kann að finnast.
Snorri er sem sagt ekki fullkannaður. Hellirinn er bæði vandfundinn og aðkoman torfarin – þrátt fyrir stærðina.

Veður var frábært – logn og sól.

Snorri

Unnið að inngöngu í Snorra.

Hraunssel

Haldið var upp með austanverðum Höfða frá Méltunnuklifi, vestan Leggjabrjótshrauns, Skolahrauns og Grákvíguhrauns. Ofarlega í Höfða eru gígaraðir frá mismunandi tímum. Stærsti gígurinn er formlega löguð eldstöð. Úr honum hefur gosið síðast og þá myndað stórbrotna og langa hrauntröð.

Hraunssel

Hraunsselsstígur.

Á móts við mitt Sandfell liggur Hraunsselstígurinn inn á slétt helluhraun Grákvíguhrauns. Ofar (norðar) er Stórahraun er nær frá vestanverðum Selsvöllum og langleiðina til Hafnarfjarðar. Selstígurinn, sem að þessum stað, er einnig gata að Selsvallaseljunum skammt norðar undir Núpshlíðarhálsi. Gatan liggur upp með Einihlíðum, beygir til austurs í Einihlíðakrika að sunnanverðu Sandfelli og áfram til norðurs með því austanverðu. Hraunsselsstígurinn yfir hraunið er grópaður á köflum i mjúka hraunhelluna og sums staðar hefur verið kastað upp úr stígnum.

Hraunssel

Hraunssel.

Hraunsselið eru fjórar tóftir, auk eldri seltófta, stekkja og kvíar. Eldri tóftirnar eru vestar á nokkuð sléttum grónum bletti undir hlíð Núpshlíðarhálsins. Þar mótar óljóslega fyrir húsaskipan. Nýrri tóftirnar eru tvær selstöður. Önnur er samliggjandi þrjú rými; baðstofa, búr og eldhús. Hin er tvískipt; baðstofa og eldhús annars vegar og búr stakt. Að baki þeim er gróinn stekkur. Hlaðinn stekkur er norðvestan við tóftirnar sem og hlaðin kví utan í moshól. Síðast var haft í seli í Hraunsseli um 1914, en það kun hafa verið síðasta selstaðan sem lagðist af á Reykjanesskaganum, enda eru tóftirnar mjög heillegar að sjá.

Hraunssel

Hraunssel – stekkur.

Eftir að hafa rissað upp og ljósmyndað minjarnar var haldið vestur yfir hraunið eftir jeppaslóða að norðanverðu Sandfelli og litið yfir nýtt hraunflæðið í Meradal, þar sem gos hafði komið upp. Staðnæmst var við „skarðið“ þar sem hraunflæði hafði nánast fyllt dalinn og var að myndast við að flæða þar yfir.
Gengið var niður með austanverðu Fagradalsfjalli, niður um Einihlíðakrika, um Hrútadal og áfram niður með Einihlíðum og Höfðahrauni á vinstri hönd uns komið var til móts við gamla Krýsuvíkurveginn (vagnveginn ofan Skála-Mælifells. Þar var gróið hraun skágengið niður að bílnum, sem beið þolinmóður niður við Krýsuvíkurveg neðan Meltunnuklifs.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Hraunssel

Hraunssel – uppdráttur ÓSÁ.

Fagradals-Vatnsfell

Gengið var frá Háabjalla að Snorrastaðatjörnum og þar að Snorrastaðatjarnaseli norðan við tjarnirnar. Þar mun hafa verið kúasel.

Oddshellir

Oddshellir.

Gengið var suður fyrir vatnið og inn á Skógfellagötuna austan þess. Götunni var fylgt upp yfir Litlu-Aragjá og áfram yfir Stóru-Aragjá þar sem er Brandsgjá, yfir hraunið norðan Mosadals, niður vestari Mosadalsgjá og yfir Mosana. Farið var út af þeim að austanverðu og haldið áfram upp á milli þeirra og Kálffells. Ekki var komið við í Kálffelli að þessu sinni, en bent var á staðsetningu Oddsshellis og haldið áfram áleiðis upp í Dalsel. Á leiðinni var komið við í fallegum hraunkötlum. Í einum þeirra (miðsvæðis) var gömul fyrirhleðsla. Gengið var upp með hæðunum norðan Fagradals og komið niður af þeim í Dalssel. Í selinu, sem er á lækjarbakka austan Nauthólaflata, er stekkur, kví og tóttir tveggja húsa. Selið er á fallegum stað. Notað var tækifærið og selið rissað upp.

Dalssel

Dalssel í Fagradal.

Frá Dalsseli var gengið upp með Fagradals-Vatnsfelli og upp á það að sunnanverðu. Þar er svonefndir Vatnskatlar, falleg vatnsstæði í gígum. Eystra vatnsstæðið var tómt, en nóg vatn í því vestara. Í suðri blöstu við Litli-Hrútur og Kistufell, auk Sandfells sunnar.
Haldið var til austurs sunnan Fagradals-Hagafells og áfram á milli Þráinnskjaldar og Fagradalsfjalls. Gengið var norðan Litla-Hrúts og að norðanverðu Hraunssels-Vatnsfelli (nyrðra). Á því er myndarleg varða, hlaðin af Ísólfi á Skála. Austan við vörðuna er stórt vatnsstæði. Greinilegur stígur liggur niður hlíðar fellsins að austanverðu og áfram í gegnum Skolahraun að Selsvallaseljunum.

Skógfellavegur

Skógfellavegur.

Stígnum var fylgt í gegnum hraunið. Stígurinn er gersemi; djúp för í hann á nokkrum köflum, breiður á öðrum og greinilega mikið farinn. Hann kemur að seljunum skammt norðan þeirra og gæti legið suður með austanverðu Hraunssels-Vatnsfelli áleiðis til Grindavíkur. Ef svo væri, er þarna um gömlu selleiðina að ræða. Þarf að skoðast betur síðar.
Selin á Selsvöllum voru skoðuð, bæði selin á vestanverðum völlunum sem og eldri selin á þeim austanverðum. Sel þessi voru frá Grindavík. Nokkrar tóttir eru að vestanverðu, auk stekkja og réttar, Vogaréttar. Að austanverðu eru einnig tóttir nokkurra selja, mun eldri en þau að vestanverðu. Gengið var áfram austur vellina og komið að Sogagíg þar sem fyrir eru Sogaselin, sel frá Kálfatjörn. Tóttir eru á þremur stöðum, auk þriggja stekkja. Sá stærsti er með norðanverðum gígbarminum.
Gangan tók rúmlega 7 klst. með hléum. Vegalengdin var rúmlega 20 km og þar var þetta lengsta FERLIRsgangan fram að þessu. Þessi ferð verður væntanlega aldrei afturgengin því um mjög óvenjulega leið var að ræða, sem að öllum líkindum mjög fáir hafa farið áður, en verður þátttakendum vonandi lengi í mynni.
Veður var frábært – þægileg gjóla og sól. Gangan tók 8 klst og 8 mín.

Kálffell

Kálffell – fjárskjól.

Skipsstígur

Fræðingar fetuðu sig hægt og rólega að Gíslhelli, brögðuðu á jarðveginum, lyktuðu af berginu og mátu sólstöðuna. Þegjandi skoðuðu þeir hellinn og nágrenni, mældu, skráðu hjá sér, litu hver á annan, kinkuðu kolli og röltu síðan sólbakaða bakaleiðina í hægðum sínum. Skyldi hellirinn hafa geta hýst a.m.k. 160 menn samtímis? Hvernig geta útilegumenn hafa hafst við svo nálægt götu að ekki vitnaðist? Gæti miðhlutinn hafa verið reftur, en þakið fallið niður? Hvað segir undirlægt hrossataðið um notkun? Niðurstöðu er að vænta fljótlega.

Gíslhellir

Í Gíslhelli.

Ýmsar tillögur og getgátur hafa komið fram um Gíslhelli. Hér eru nokkrar þeirra:
a. Gæti hugsanlega hafa tengst einhverjum atburði svæðisins. Til er t.a.m. sögn af ræningjum í Þjófagjá á Þorbjarnarfelli.
b. Gæti hafa verið nátthagi frá Innra-Njarðvíkurseli (hellirinn athvarf smala og Lágirnar nátthagi).
c. Gæti hafa tengst fyrirhuguðum vegaumbótum á Skipsstígnum (atvinnubótavinna ca. 1909), en sjá má upphaf þeirra undir Lágafelli (hleðslurnar virðast unnar af kunnáttumönnum í hleðslu).
d. Gæti hafa verið hluti af búðum vegavinnumanna er byggðu Grindarvíkurveginn á árunum 1914-1918. Hlóðu mikið á mörgum stöðum. Voru m.a. í Innra-Njarðvíkurseli um tíma.
e. Gæti hafa verið skjól fyrir Tyrkjunum 1627.
f. Gæti hafa verið skjól eða tímabundinn felustaður, t.d. útilegumanna, er herjuðu á vegfarendur um tíma, líkt og við Selsvelli.
g. Gæti hafa verið samkomustaður þeirra er tóku þátt í Grindarvíkurstríðinu 1532 (söfnuðust saman við Þórðarfell).
h. Gæti hafa verið athvarf refaskyttna.
i. Gæti hafa verið áningarstaður á milli Grindavíkur og Njarðvíkur (vantar þá auðkennið).
j. Gæti hafa verið til fleiri en einna nota í gegnum tíðina.

Fleiri ágætar hugmyndir hafa komið fram. Eitt er þó víst og skiptir mestu; staðurinn er fallegur og allar minjar skipta jafn miklu máli – án tillits til aldurs eða notagildis – hver svo sem niðurstaðan kemur til með að verða.

Gíslhellir

Gíslhellir.

Ögmundarhraun

Nýlega fannst lítið op á stórum helli í Hrútagjárdyngjuhrauni, undir nýlegra hrauni frá 1151 (sem nú er þekkt sem Ögmundarhrauns-, Afstapa- og Kapelluhraunsmyndunin).
GöngusvæðiðÆtlunin var að fara niður í hyldýpið og skoða undirlendið með aðstoð kaðals og stiga. Líklega var þarna um að ræða stað, sem enginn maður á jarðkringlunni hefur nokkru sinni áður stigið niður fæti. Á leiðinni var staldrað við og forsagan m.a. rifjuð upp að hluta.
Norður-Atlantshaf er talið hafa opnast fyrir um 65-75 milljónum árum síðan og myndaðist þá Mið-Atlantshafshryggurinn. Talið er að rekið um hann sé að meðaltali 1cm á ári í sitthvora átt (þ.e. 2 cm í heildina). Reykjanesskaginn er framhald af Mið-Atlantshafshryggnum samanber myndina hér að ofan. Hryggurinn og gosbeltið marka skilin á milli Norður-Ameríkuplötunnar og Evrasíuplötunnar. Fjögur eldstöðvakerfi eru á Reykjanesskaga. Þau eru kennd við Reykjanes, Krísuvík, Brennnisteinsfjöll og Hengil. Á myndinni má sjá að þau eru með stefnuna NA-SV og markar sú stefna allt landslag á Reykjanesskaganum. Hraunin í kringum Hafnarfjörð eru ýmist komin frá Krýsuvíkurkerfinu eða Brennisteinsfjallakerfinu.
Opið og nágrenniEitt af stærstu hraununum í kringum Hafnarfjörð er komið úr Hrútagjárdyngju. Upptök þess eru nyrst í Móhálsdal. Á gígsvæðinu er allmikil gjá sem heitir Hrútagjá og við hana er dyngjan kennd. Hraunið hefur að mestu runnið til norðurs og til sjávar og hefur myndað ströndina milli Vatnleysuvíkur og Straumsvíkur. Í daglegu tali gengur stærsti hluti hraunsins undir nafninu Almenningur. Öskulög í jarðvegi ofan á hrauninu benda til að hún hafi myndast fyrir 5000 árum.
Reykjanesskaginn er allur mjög sprunginn. Á liðnum öldum hafa miklar jarðskorpuhreyfingar átt sér stað á skaganum. Þessar hreyfingar eiga sér enn stað og munu einnig eiga sér stað í framtíðinni. Mikið er um misgengi og gjár í hraununum í kringum Hafnarfjörð.
Stöðug og hæg hreyfing í jarðskorpunni veldur spennu í bergi. Spennan getur orðið svo mikil að bergið þolir hana ekki lengur og berglögin bresta og þá verða jarðskjálftar.
SSprungan neðanverð til norðursprungubarmarnir sem koma fram við hreyfinguna kippast þá yfirleitt til í gagnstæðar áttir og standa mishátt. Sprungur sem myndast á þennan hátt nefnast misgengi. Á Íslandi eru misgengi og gjár með SV-NA stefnu algengastar sunnanlands en hins vegar er S-N stefna ríkjandi norðanlands.
Í Hjöllum í Heiðmörk eru mörg misgengisþrep sem liggja hvert upp af öðru. Hjallamisgengið er um 5 kílómetra langt og hæst er það um 65 metra hátt. Brúnin myndar nokkrar stórar og dálítið óreglulegar brotalínur. Fyrir austan meginbrotalínuna hefur landið sigið og margbrotnað upp. Þessi brot hafa myndast bæði áður og eftir að Búrfellshraunið rann. Hreyfingar eru stöðugt á þessu svæði og benda mælingar til þess að höggunin nemi að jafnaði um 2,8 millimetrar á ári.
Annað mikilvægt misgengi er Helgadalsmisgengið sem klýfur Búrfell og sér til þess að Kaldá kemur upp á yfirborðið. Lóðrétt misgengi hefur orðið um margar þeirra þannig að norðvestur barmur sprungunnar rís hærra en suðvestur barmurinn, og þannig er það með sprunguna sem fer í gegnum Búrfell. Misgengið um hana kemur vel fram í Helgadal við suðurrætur Búrfells. Það nær langt í báðar áttir frá gígnum og sumum stöðum klýfur það eldra berg, ýmist grágrýti eða móberg.
Um var að ræða forkönnunarleiðangur niður um hið nýfundna op í Hrútagjárdyngjuhrauni. Reyndar er það hraun undir nýrra hrauni, sem runnið hefur á sögulegum tíma, en vegna lítillar athygli, sem nýja hraunið hefur fengið hefur það aldrei hlotið nafn. Það er þó sammæðra bæði Ögmundarhrauni, Afstapahrauni (yngra) og Nýjahrauni (Kapelluhrauni) og engu ófegurra ásýndum en þau. Vel færi að nefna hraunhluta þennan Sléttuhraun því um hann liggur m.a. greiðfærasti hluti Hrauntungustígsins, auk ónafngreinds stígs (og ekki minna farinn fyrrum) niður með vestanverðum syðsta hluta Hrútagjár. Sá greiðfæri stígur, er liggur af Dalaleiðinni, sameinast Hrauntungustígnum við norðanverðan Hrúthólma.
Þegar komið var að opinu eftir u.þ.b. 22 mínútur á göngu í sléttu mosahrauninu var reipið tekið fram og það notað til að komast af öryggi inn og niður um opið. Þar var grannur stallur, sem hægt var að staðnæmast á og berja dýrðina augum. Um var að ræða stóra hraunsprungu, sem ofanverð gígaröðin hafði fyllt að ofan með nýrra hrauni. Sprungan gat bæði verið eldri og yngri en nýja hraunmyndunin. Einmitt þess vegna varð staðurinn einstaklega áhugaverður – jarðfræðilega séð. Af stallinum voru 3-4 lóðréttir metrar niður á sprungugólfið. Hún endaði annars vegar þarna að sunnanverðu, en hélt hins vegar áfram inn undir hraunið til norðurs.

Köldunámur

Köldunámur.

Stiginn, sem tekinn hafði verið með til málamynda og átti að duga til að komast alveg niður á botn, reyndist of stuttur.
Sennilega er þetta áhugavert jarðfræðifyrirbæri og því ástæðulaust að láta það óskoðað. Ljóst er að fyrirbærið er sprunga, eða hluti sprungu. Hún liggur áfram til norðurs, undir nýrri klepragíg (í ca. 6 metra fjarlægð). Hvað þar gæti verið hefur enn ekki verið kannað. Til að fara að engu óðslega eða tefla í tvísýnu var ákveðið að láta staðar numið að sinni.

Köldunámur

Köldunámur.

Umhverfið er stórbrotið, a.m.k. í tvennum skilningi, en þriðji skilningurinn og sá auðsýnilegasti, er hins vegar þversögn. Ofan við opið er misgengi, eitt hið fallegasta á Reykjanesskaganum sem og á öllum landflekamótum Evrasíu og Ameríku, auk þess sem hraungambrinn er óvíða fegurri og litumskiptanlegri í þurrka- (grár) og vætutíð (grænn) en einmitt þarna. Í þversögninni felst sú ófegurð, sem hjól torfærutækjanna hefur markað nýlega í annars ósnertan hraungambrann – þvert á milli Hrauntungustígs og þess ónafngreinda er liggur með Hrútagjánni að Hrúthólma. Hvar er allt það sýnilega eftirlit lögreglu, sem svo margþvælt hefur verið um að undanförnu. Getur verið að áherslan hafi bara verið lögð á föruna en fjöllin orðið afskipt?
Þegar til baka var komið varð ekki hjá komist að bjóða jarðfræðingi Íslands nr.1, Kristjáni Sæmundssyni, í lokaleiðangurinn (Ellefuhundruðogfimmtíu II). Í framhaldi af ferðinni var honum send eftirfarandi tölvupósboð: „Vorum að ferli í hrauninu vestan Hrútagjár fyrir skömmu. Fundum jarðfall og niðriundir sprungu í Hrútagjárhrauni, undir nýrra hrauni, sem komið hefur úr gígaröð ofan hennar. Sprungan liggur undir einn gíginn. Hún hefur ekki verið könnuð því til þess þarf bæði reipi og stiga. Ætlunin er að fara þangað, með reipi og stiga, síðdegis í næstu viku. Gaman væri ef þú gætir slegist með í för. Um er að ræða um 20 mín. göngu að opinu um slétt mosahraun.“
Næst þegar farið verður á staðinn verður bæði reipið og hæfilega langur stigi með í för. Þá verður að öllum líkindum hægt að fullkanna fyrirbærið (sjá Ellefuhundruðogfimmtíu II).
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og
2 mínútur.

Heimildir m.a.:
-http://www.flensborg.is/sisi/hafnarfj/listi.htm.htm

Hrútargjárdyngja

Hrútargjárdyngja – hraunið er varð undirstaða Hraunabæjanna.

 

Skipsstígur

Haft var samband við Varnarmálastofnun og leitað eftir heimild til að fá að skoða svæðið innan afgirtrar loftskeytastöðvarinnar undir Lágafelli ofan (norðan) Grindavíkur með það fyrir augum að leita og skoða Skipsstíg, hluta hinnar fornu þjóðleiðar milli Grindavíkur og Njarðvíkur. Vegna starfseminnar hefur svæðið ekki verið aðgengilegt síðustu áratugina. Bent var á Kögun [nú Advania], sem rekur loftskeytastöðina. Þar var leyfi góðfúslega veitt til könnunarleiðangurs um svæðið.

Títublaðavarða

Loftskeytastöðin var eign og undir stjórn bandaríska flotans, en eftir að Varnarmálastofnun Íslands tók til starfa árið 2008 varð eitt af meginhlutverkum hennar að sinna eftirliti með lofthelgi og flugumsjónarsvæði Íslands. Það gerir Varnarmálastofnun með rekstri ratsjárstöðvanna fjögurra í kringum landið sem Bandaríkin ráku áður, en íslenskir sérfræðingar hafa nú tekið við. Samhliða því hefur íslenska lofteftirlitskerfið nú verið tengt inn í ratsjárkerfi Evrópuhluta NATO. Þannig hefur Ísland færst nær meginlandi Evrópu í öryggismálum og er stefnt að því að Evrópukerfi NATO muni einnig tengjast loftvarnarkerfi Bandaríkjanna og Kanada.
Skipsstígur innan girðingarKögun hf. gerði samning um rekstur fjarskiptastöðvar Bandaríska flotans í Grindavík árið 2006. Fjarskiptastöð bandarískra flotans í Grindavík hefur verið rekin af flotanum frá því á sjöunda áratug síðustu aldar og verið mönnuð bandarískum hermönnum að langmestum hluta. Það varð hinsvegar ljóst fyrr í sumar að þessi stöð yrði rekin áfram hér á landi og var því reksturinn boðinn út. Fjarskiptastöðin í Grindavík er hluti af víðfeðmu neti samskonar stöðva sem saman mynda fjarskiptanet flotans og annast m.a. lágtíðnisamskipti við skip og kafbáta á hafi úti – allt suður til Azoreyja.
Kögun hf. hefur annast rekstur og viðhald íslenska loftvarnarkerfisins allt frá árinu 1997 þegar kerfið var formlega tekið í notkun. Fyrir þann tíma höfðu starfsmenn Kögunar unnið í Bandaríkjunum og á Íslandi við þróun og smíði kerfisins allt frá árinu 1989.
Loftskeytasvæðið er afgirt með hárri girðingu og vel fylgst með að óviðkomandi villist ekki inn fyrir hana.  Viðvörunarmerki eru á girðingunni þessa efnis. Svæðið er ekki girt af að ástæðulausu því hættulegt er fyrir ókunnuga að fara um það vegna rafmagnsstrauma nálægt fjarskiptamöstrunum. Strangar umgengisreglur gilda því þarna.
Þegar götur voru raktar innan girðingarinnar var byrjað að sunnanverðu, við Títublaðavörðuna. VarðaÞar sést gatan glögglega. Varða er við hana áður en gatan fer inn á raskað svæði (mastur). Gatan sést við strýtulagaðan hraunhól suðvestast í Eldvörpum, en svo heita gígaþyrping á suðausturhorni svæðisins. Vestan hennar liggur svo til bein gata áleiðis upp heiðina, samhliða gömlu hlykkjóttu götunni. Þarna er um að ræða hestvagnagatan, sem sést svo glögglega vestan í Lágafellinu, áfram um Lágar og upp í Blettahraunið, þar sem hætt hefur verið við endurbæturnar á gamla Skipsstígnum.

Skipsstígur

Varða er við götuna suðvestan húsa loftskeytastöðvarinnar. Þá hverfur gatan vegna fyrrum framkvæmda, en kemur síðan í ljós að nýju skammt norðar. Þar er varða á grónum strýtumynduðum hraunhól, Helghól. Sú trú var manna fyrrum að þar væri álfakirkja. Helghólslág eða Helghólslautir, grasi grónar, eru umhverfis hólinn. Frá honum liggur gatan upp með aflöngum berangurslegum hraunhól að austanverðu og beygir síðan til vinstri upp gróninga áleiðis að vörðu innst á honum (handan girðingarinnar). Hestvagnagatan liggur að sömu vörðu, en vestan í aflanga hraunhólnum (í beina línu). Þarna eru og gatnamót því önnur gata liggur frá vörðunni til suðausturs. Gatan sést skammt austar, hverfur síðan vegna framkvæmda (mastur), en kemur síðan aftur í ljós þar sem hún her yfir óraskað hæðardrag. Þar er varða. Frá henni liðast gatan niður hæðardragið að handan, hverfur í rask, en kemur síðan aftur í ljós á órsökuðu svæði (móa) austast á svæðinu. Þar eru tvö vörðubrot með stuttu millibili. Þarna fer gatan síðan undir girðinguna og er allgreinileg þar sem hún liðast áleiðis upp á hraunhaft á leið hennar í Kúadal (við innkomuna á þjóðveginum til Grindavíkur).
Sjá má legu gatnanna innan loftskeytastöðvarinnar á loftmyndinni hér að neðan.
Starfsmönnum loftskeytastöðvarinnar er þökkuð jákvæð viðbrögð og góða aðstoð við verkefnið.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Götur innan loftskeytastöðvarinnar ofan Grindavík

Grindavík

„Þessi mynd er tekin þar sem nú er innsiglingin í Grindavíkurhöfn.
Því myndu fáir trúa að nú sigla þarna um 2000 lesta skip. Grindavik-os-1Myndin er tekin árið 1939 af Einari Einarssyni og sýnir hvernig byrjað var að grafa rennuna inn í Hópið. Um þetta segir Tómas Þorvaldsson á þessa leið í Sveitastjórnarmálum: „Sumarið 1939 var verið að vinna fyrir fjárveitingu, sem fékkst til lendingarbóta á Járngerðarstaðavík. Verkið varð dýrara en ætlað var, og m.a. kom þar til svokallað sexauramál, sem var vísitöluuppbót á kaup. Yfirverkstjórinn var úr Reykjavík, en honum til aðstoðar var faðir minn, Þorvaldur Klemensson, og kom það stundum í hans hlut að fara með flokkinn til vinnu. Dag einn, þegar verkstjórinn var forfallaður, fór flokkurinn á stórstraumsfjöru með þau verkfæri, sem menn höfðu í höndum, og byrjuðu að grafa í kambinn. Grafið var, þar sem malarkamburinn milli Hópsins og sjávar var lægstur, og hét þar Barnaós. Verkfærin voru haki og skófla, og öllu efni, sem upp kom, var ekið á hjólbörum eftir sliskjum upp á kambinn. Undir malarkambinum var moldarbakki, og unnu þá tveir menn með sömu skóflunni, með þeim hætti, að annar stakk, en hinn dró upp með bandi, sem fest var niður við skóflublaðið. Þá var notuð spiss-skófla með löngu skafti. Eftir sumarið gátu bátarnir flotið inn um hálffallinn sjó, og varð þá úr sögunni hin erfiða setning bátanna upp í naustin, því að þeir fóru að lokinni affermingu inn í Hópið og lágu þar inni til næsta róðurs.“ — Af hverju stafaði nafnið Barnaós? „Sagan hermir, að á 17. öld hafi bændur í Járngerðarstaðahverfi grafið þarna inn rennu fyrir lausakaupmenn.

grindavik-os-3Árið 1702 er sagt, að maður nokkur hafi farið með tvö börn til þangskurðar á svæði, sem lá milli tveggja útfallanna, vestri og eystri óss. Þegar flæddi, lokuðust þau inni, börnin drukknuðu, en maðurinn bjargaðist á hripi. Sagan segir, að upp úr þessu hafi verið gerð fyrirhleðsla við annan ósinn, og víst er um það, að þegar við grófum þarna á árinu 1939, komum við niður á hlaðinn vegg, sem tók manni í mitt læri. Bendir það til, að saga þessi sé sönn. Einnig mun fé hafa flætt þarna.
Grandinn mun hafa verið gömul kirkjuleið úr Þórkötlustaðahverfi út í Staðarhverfi, þar sem var kirkja til ársins 1909.“

Heimild:
-Sjómannadagsblaðið, 39. árg. 1976, 11. tbl. bls. 11.

Grindavík

Grindavík.

Selatangar

„Atvinnuvegirnir [í Krýsuvík] er eins og áður er sagt landbúnaður, eggja- og fuglatekja, auk þess sjávarafli nokkur. Þá var útræði á Selatöngum. Gekk þá eitt — áttróið — „skip þar úr Krýsuvík, og var á þvi skipi formaður Einar frá Stóra-Nýjabæ, og mun það síðasta skip, er þaðan hefir gengið, en sú sögn fylgir, að útræði frá Selatöngum hafi lagst niður vegna reimleika.

selatangar-992

Einhvers staðar í gömlum fræðum, að í Selatöngum sé „brimhöfn mikil.“ Þarna var þó um langt skeið allmikil verstöð og sóttur sjór á árabátum fram undir síðustu aldamót eða nánar tiltekið til 1880 eða þar um bil. Verbúðalíf og sjósókn í Selatöngum hefur fráleitt verið neitt sældarbrauð, maður þarf ekki annað en koma á staðinn, ganga þar dálítið um og virða fyrir sér búðartóttirnar, lendinguna og skerjaklasann úti fyrir ströndinni, til að sannfærast um það.“

„Krýsuvík var fyrst byggð niður við sjó fyrir utan Krýsuvíkurberg, en lagðist svo af að eldur kom upp í fjöllunum þar norður frá og runnu hraunkvísl ar hér og þar fram milli hálsanna. Hin austasta var einna mest. Smalamaður frá Krýsuvík var kippkorn frá bænum með féð. Hann sá glóandi hraunleðjuna brjótast með feikna hraða ofan úr skarðinu upp frá bænum og fleygjast út yfir láglendið. Hann sá sér enga von til undankomu og beið með fjárhópinn þess er að höndum kæmi og fal sig guði; því hefir þetta skeð í kristni. Eldflóðið fór allt í kringum hann og sakaði hvorki hann né féð nema eina á, segja sumir. Það heitir síðan óbrennishólmi er hann var. Hraunið hljóp um allt láglendið og fram í sjó, en túnið í Krýsuvík stóð óskaddað og bærinn, en nálega var ófært þangað þegar hraun ið var storknað. Þá var bærinn fluttur þangað sem Krýsuvík er nú, það er ofar og austnorðar. Þegar eldgangurinn var afstaðinn og hraunin storknuð fóru menn að leggja veg til Grindavíkur yfír þau, og urðu öll rudd að þessu austasta fráteknu. Það var svo stórgert og hart að það var óvinnandi og varð ekki veginum komið á.“ Eins og kemur fram í þessari skemmtilegu munnmælasögu var bærinn byggður á nýjum stað eftir gosið, þar sem hann stóð til skamms tíma eða þangað til Krýsuvík fór í eyði, sömuleiðis kirkjan.
Leiðin úr Krýsuvík til Grindavíkur og í Selatanga var heldur ógreiðfær eftir gosið, ekki sízt með hesta. Í kvæði frá 15. öld er þess getið, að karl einn fór yfir Ögmundarhraun og missti kapal sinn í hraungjá, hann varð fastur og gekk af einn hófurinn, en karl hét á hinn helga kross í Kaldaðarnesi, sem þá var til margra hluta nytsamlegur. Við það losnaði kapallinn og hófurinn greri aftur við.
ogmundarstigur-991Til er saga um hvernig vegur var ruddur yfir Ögmundarhraun. Sú saga minnir nokkuð á söguna í Eyrbyggju um Berserkjagötu, nema hvað berserk urinn í þessari sögu heitir Ögmundur, og af því á nafnið á hrauninu að vera dregið.
En víkjum nú aftur að Selatöngum og verbúðalífinu og sjósókninni þar. Selatangar eru í Krýsuvíkurlandi, vestast í Ögmundarhrauni og veiðistöðin þar talin á vegum ábúandans í Krýsuvík. Sjálfsagt hafa þó ýmsir aðrir en Krýsvíkingar róið þaðan, hvernig svo sem samningum um það hefur verið háttað. T.d. er getið um, að þaðan hafi gengið biskupsskip frá Skálholti. Líkur eru til, að þaðan hafi verið róið þegar snemma á öldum, þótt af því fari ekki miklar sögur.
Í gömlum sóknarlýsingum er þess getið, að árið 1780 hafi róið þaðan 1 áttæringur, 1 sexæringur og 2 feræringar, og réru á þeim 13 heimamenn úr Krýsuvík og 16 austanmenn. Var veiði þeirra samanlagt 4580 fiskar. En oft hafa þó útróðramennirnir í Selatöngum sjálfsagt verið fleiri. Til þess bendir m.a. sjómannavísa úr Selatöngum, sem sá merki fræðasafnari, sr. Jón Thorarensen, birti í Rauðskinnu á sínum tíma, en hann hefur leit að uppi og haldið til haga ýmsum fróðleik um verstöðina í Selatöngum. Vísunni fylgir sú saga, að ungur strákur hafi krækt sér í skipsrúm í Selatöngum með því að taka að sér að koma fyrir öllum nöfnum sjómannanna í einni vísu eða þulu.
Mér telst svo til, að nöfn 82 sjómanna selatangar-993komi fyrir í vísunni, og þar af eru hvorki meira né minna en 23 Jónar, og má mikið vera ef þar hefur ekki einhvern tíma verið ruglazt á mönnum.

Mikið er af gömlum búðartótt um í Selatöngum. Það eru vistar verur þeirra sem þarna höfðust við, þakið er að vísu af þeim og hurðirnar týndar og tröllum gefnar, en að öðru leyti eru þær hinar stæðilegustu, enda vel hlaðnar. En heldur virðast þetta hafa verið kaldranalagar og þröngar vistarverur, veggirnir úr hraungrjóti, einungis grjótbálkar til að liggja á, gólfpláss ekki teljandi og upphitun að sjálfsögðu engin. Og öðrum þægindum hefur ekki heldur verið til að dreifa. Sums staðar var hlaðið fyrir op á hellum eða hraunskútum og plássið notað til ýmissa þarfa, svo sem smíða eða mölunar og kallað samkvæmt þvi: Mölunarkór, Sögunarkór o.s.frv. Þá er þarna á töngunum mikið af görðum og fiskbyrgjum, þar sem fiskur var hertur eða verkaður á annan hátt. Talsverður trjáreki er þarna og notuðu vermenn rekaviðinn óspart til smíða í landlegum, sem munu hafa verið nokkuð algengar, vegna þess hvað brimasamt er við lendingarstaðinn. En fjaran og trjárekinn er líka mikið dundursefni flestum þeim sem nú heimsækja staðinn. Þarna rekst maður stundum á allt upp í tíu fimmtán álna tré, að maður nú ekki tali um rótarhnyðjurnar, sem margur kannski fær ágirnd á, kippir upp af götu sinni, og hefur heim með sér, enda missir víst enginn æruna fyrir slíkt nú orðið.“
Minjarnar, sem nú sjást á Selatöngum eru frá 19. öld því stórflóð og óveður í janúar 1799 eyddi verbúðunum, sem þar voru fyrir. Síðast var róið frá Selatöngum í byrjun 20. aldar og þá frá Ísólfsskála. Tangarnir voru eftir það nytjaðir frá sama bæ, bæði til þaratöku og reka.

Heimild:
-Morgunblaðið 16. maí 1970, bls. 8-9.
-Alþýðublaðið 7. apríl 1935, bls. 3.

Selatangar

Gengið um Selatanga.