Tag Archive for: Grindavík

Hraunssel
Haldið var inn (austur Drykkjarsteinsdal frá Hatti utan í vestanverðri Slögu ofan Ísólfsskála, beygt um Brattháls norður með austanverðum Lyngbrekkum og áfram inn með austanverðum Einihlíðum uns staðnæmst var við sunnanvert Sandfell. Þaðan var gengið til austurs sunnan við fellið og síðan til norðurs með því austanverðu.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – Hattur.

Ætlunin var m.a. að skoða hvort enn mætti greina spor hinnar fornu leiðar Grindvíkinga áleiðis inn á Selsvelli. Spurning var hvort líklegra var að leiðin hafi legið norður með vestanverðu Sandfelli eða því austanverðu. Báðar leiðirnar gætu hafa verið farnar, allt eftir því hvort leiðin lá í Hraunssel eða á Selsvelli. Austari leiðin var líklegri á fyrrnefnda staðinn. Þaðan liggur leiðin yfir slétt Skolahraun (helluhraun) að Þrengslum undir vestanverðum Núpshlíðarhálsi (Vesturhálsi). Sunnar er Leggjabrjótshraun (apalhraun), erfiðara yfirferðar. Þó lá þar yfir ruddur, varðaður, vegur allnokkru sunnar. Sá vegur var endurgerður, lagfærður og breikkaður, með svonefndum „Hlínarvegi“ skömmu eftir 1930 er hann var gerður akfær til Krýsuvíkur með það að markmiði að flytja útvegsbændum í Grindvík nýslegna töðu, að sjálfsögðu gegn gjaldi. Vegagerðin frá Ísólfsskála (Drykkjarsteinsdal) til Krýsuvíkur kostaði þá um 500 krónur og tók það fjóra menn ásamt kúsk lungann úr sumrinu að framkvæma verkið. Hlín Johnsen, þá sérstakur verndari og umönnunarstýra þjóðskáldsins Einars Benediktssonar, greiddi fram vinnulaun að verki loknu, en Einar átti þá bæði Krýsuvík og Herdísarvík. Einar sjálfur, þótt stór væri, var þá lítill fyrir mann að sjá, enda ofsóttur jafnt í rökkri og myrkri, bæði af Þistilfjarðar Sólborgu og öðrum sektarkenndum.
Gengið var yfir Skolahraun. Slétt helluhraunið er að öllum líkindum úr Þránsskildi, en ofan á því er mjó apalræma til suðurs, líklega úr gosinu 1151.

Hraunssel

Hraunssel.

Slóðar liggja yfir slétt hraunið og hefur mosinn farið illa af utanvegaakstri. Komið var að norðanverðu Hraunsseli. Augljóst er að þarna hafa verið tvær selstöður. Í selinu eru bæði tóftir nýrri og eldri selja. Nýrri selin eru undir Núpshlíðarhálsinum, en þau eldri bæði norðan við nýrri selin undir hlíðinni og einnig vestar, nálægt grónum hraunkanti. Þær eru nær jarðlægar. Vestan þeirra tófta er tvískiptur hlaðinn stekkur. Norðan hans er hlaðinn ferköntuð tóft undir hraunbakka, hugsanlega kví. Grösug skál er í hlíðinni ofan við selið. Þar má m.a. sjá leifar hverasvæðis, sem ekki er langt um liðið síðan kulnaði.

Nyrðra nýrra selið er eins stök tóft og síðan önnur með tveimur rýmum. Hitt er heilstæð tóft með þremur samliggjandi rýmum. Elsta tóftin (vestar) virðist hafa verið með tveimur rýmum og því þriðja fasttengdu. Þerrivatn er í grunnum gilskorningi sunnan við selið, en búast má við að þarna neðarlega á grasvöllunum hafi fyrrum verið brunnur, þótt ekki móti fyrir honum nú.
Þetta eru sennilega rústir hins síðasta umbúna sels á Reykjanesskaganum, er talið er að hafi lagst af um 1914, með efasemdum þó, því sel voru almennt að leggjast niður á þessu landssvæði á seinni hluta 19. aldar. Þeim hafði þá verið viðhaldið, með tilfærslum, hléum og margfaldlegri endurgerð, allt frá landnámi no

Hraunssel

Hraunsselsstígur.

rrænna manna hér á landi (871 +/- 2). Selstöður virtust hafa verið mikilvægur þáttur í búsetusögu svæðisins um langan tíma. FERLIR hefur þegar skoðað rúmlega 255 selstöður í landnámi Ingólfs, sem enn eru sýnilegar minjar um, og eru þó allnokkur enn óskoðuð, s.s. norðan Esjufjalla að Botnsá. Þótt margt sé líkt með rústunum er einnig nokkuð ólíkt með þeim. Það verður allt betur rakið með umfjöllun síðar.
Í landamerkjabréfi fyrir Hraun segir m.a. að merkin hafi verið „frá Vatnskötlum fyrir norðan Fagradalsfjall, þaðan til austurs á Selsvallarfjall upp af Sogaselsdal.” Í fyrsta lagi heita Vatnskatlarnir nú á landakortum Fagradals-Vatnsfell og Hraun lýsir merkjum í Selsvallarfjall.Â
Samkvæmt heimild úr Jarðabók ÁM 1703 á Kálfatjörn á Vatnsleysuströnd selstöðu í Sogaseli er það sagt í Stóru Vatnsleysulandi. Selið hins vegar, sem lá undir Hraun (Hraunssel), er fyrir sunnan Þrengslin og þannig innan merkja Hrauns samkvæmt þessari skilgreiningu. Þá má að lokum benda á að fyrir norðan þessa línu og almennt á Selsvöllunum var almenningsselstaða frá Grindavík og ennfremur frá Vatnsleysuströnd“. Hafa ber þó í huga að landamerki Þórkötlustaða stangast verulega á við landamerkjalýsingu Hrauns þar sem m.a. Dalsselið vestan Langhóls er innan landamerkja þeirra. Ef rétt er þá er Dalsselið í landi Þórkötlustaða, en Vogabændur og Grindvíkingar hafa jafnan deilt um tilveru þess inna þeirra marka – hvors um sig.
Í örnefnaskrá fyrir Ísólfsskála segir m.a. um merkin: „Allmiklu skakkar hér um landlýsingu þeirra nágrannanna [Hrauns]. En merkjabókin segir merki Ísólfsskála þannig: Úr fjöru við Festargnípu vestan við svonefndan Skálasand til norðurs að merktum kletti við götuna á Móklettum, svo til austurs í miðja suðuröxl á Borgarfjalli.
Samkvæmt þessu ætti Hraunssel að hafa verið í landi Ísólfsskála og gert út þaðan. Þeir nágrannar gætu þó hafa komið sér saman um selstöðu undir hálsinum og verið þar með sitthvort selið. Það myndi a.m.k. skýra seltóftirnar. Ef svo er þá eru fundið selið frá Ísólfsskála, sem og selið frá Þórkötlustöðum, þ.e. Dalsselið.

Hraunssel

Hraunssel – stekkur.

Járngerðarstaðir og Staður hafa síðan haft selstöður á Baðsvöllum og síðar á Selsvöllum.
Ritari, sem reyndar er hlutdrægur, hefur reyndar talið langlíklegast að Dalselið hafi verið frá Þórkötlustaðabæjunum fyrrum.
Í örnefnalýsingum þaðan, segir að „úr Stóra-Skógfelli [á að vera Litla-Skógfelli til samræmis við aðrar lýsingar] liggur markalínan í gjána í Kálffelli en það er lágt fell eða bunga sem er framarlega í Kálffellsheiði . Frá Kálffelli liggja landamerkin í vatnskatla í Fagradals-Hagafelli og þaðan í Innstuhæð á Vatnsheiði eins og áður segir. Samkv. þessu er Sandhóll, sem er vestur af Kasti, og Fagridalur, sem er kvos inn í Fagradalsfjall austan við Aura, í landi Þórkötlustaða. Fagradals-Vatnsfell,sem er norðvesturöxl Fagradalsfjalls er sömuleiðis í landi Þórkötlustaða. Aurar heita melar innan við og austan Dalahraun og þar norður af eru grasflatir sem heita Nauthólaflatir. Þar var heyjað af bændum á Þórkötlustöðum.“

Í Jarðabókinni 1703 er dómkirkjan í Skálholti eigandi bæði Krýsuvíkur og Hrauns, auk Ísólfsskála, Þórkötlustaða, Hóps og Járngerðarstaða. Ekki er sagt frá selstöðu frá Krýsuvík, en þó má telja öruggt að hún hafi verið þá til staðar. Ekki er heldur sagt frá selstöðu frá Hrauni eða Þórkötlustöðum, en ein hjáleigan, Buðlunga,

Núpshlíðarháls

Núpshlíðarháls.

„brúkar selstöðu og hefur lengi brúkað í Krýsuvíkurlandi, þar sem heitir á Vigdísarvöllum, segja menn að selstaðan sje ljeð frá Krýsuvík, en Krýsuvík aftur ljeð skipstaða fyrir Þorkötlustðalandi. Er selstaðan að sönnun góð, en mikilega lángt og erfitt að sækja“. Hóp þarf að kaupa út selstöðu, en Járngerðarstaðir „brúkar selstöðu enn nú þar sem heita Baðsvellir, og kvarta menn um að þar sjeu hagar oflitlir og þröngvir. Item sje þar stórt mein af vatnsleysi, þá þerrar eru, og fyrir þessa lseti selstöðunnar segja menn fulla nauðsyn til að kaupa selstöðu annarsstaðar. Þessa brúkar bóndinn aleina“. Þarna gæti verið komið tilefni til þess að ætla að Selsvallaselstaðan, sem Járngerðarstaðabændur nýttu síðar, hafi fengist framseld frá Stað. Í Jarðabókinni 1703 segir að selstaða Staðar „sé góð til haga, en lángt og erfitt til að sækja, hefur þó hjeðan frá staðnum brúkuð verið lxxx ár á Selsvöllum“.
Eftir að hafa skoðað minjar seljanna (því þau eru fleiri en eitt frá mismunandi tímum), var gengið norðvestur eftir áberandi götu yfir Skolahraunið með stefnu milli Hraunssels-Vatnsfellanna. Mikil umferð hefur verið þarna. Gatan liggur yfir hið mjóa apalhaft. Hún gefur vísbendinu uma ð nokkur umferð hafi verið inn að Hraunsseli neðan úr Vogum eða Vatnsleysuströnd svo ekki er með öllu hægt að útiloka að selstaðan hafi um tíma verið sótt þaðan.
VatnsstæðiÞegar komið var yfir í Meradalahlíðar var ákveðið að halda áfram til vesturs austan Kisturfells (335 m.y.s.). Kistufell og Keilir, með Litla-Keili og Litlahrút á millum býður upp á skemmtilegt sjónarhorn inn á efstu brún Þráinsskjaldar, hinnar miklu og tilkomuríku dyngjudrottningu Reykjanesskagans. Þaðan er hægt að ganga að einum fallegasta gíg Skagans, nyrst í Fagradalsfjalli (Langhól). Gígurinn, sem er um 70 metra hár, er þverskorinn, þ.e. það sést inn í hann úr norðri og því auðvelt á áætla hvernig gígopið hafi litið út áður en roföflin tóku yfirhöndina.

Hér er í rauninni um að ræða einn tilkomumesta og fallegasta, en um leið úrleiðarlegasta gíg Reykjanesskagans. Vonandi fær Hitaveita Suðurnesja aldrei áhuga á honum – því þá er voðinn vís.
Þegar staðið er þarna má í rauninni sjá nokkra „keilira“, því auk Keilis er Sandfell í suðaustri, Stórihrútur í suðri og Litlihrútur í norðvestri öll með sömu lögun. Keilir nýtur hins vegar þeirrar sérstöðu sinnar að standa stakur og því meira áberandi fyrir þá, sem ekki hafa nennu til að stíga svolítið afsíðis frá malbikinu.
Gengið var til suðurs niður í Meradali. Hér er um einstaklega stórt, sléttbotna og myndarlegt landssvæði að ræða, skjólgott með „safaríkum“ blettum. Ef einhvers staðar ætti að planta skógi á Reykjanesskagann – þá væri það þarna, undir hlíðum Meradals. Og þá skemmir litadýrðin ekki fyrir; fjólublátt Fagradalsfjalli, bláleitt Kistufelli, brúnleitar Meradalahlíðarnar og svarleitur Stórihrútur.
Haldið var að upphafsstað með því að ganga til austurs upp úr Meradal milli Stórahrúts og Hraunssels-Vatnssfells syðra um Einihlíðasand. Ljóst er að vorblómin hafa vaknað seint þetta árið. Blóðbergið og lambagrasið eru þó að koma til, en vetrarblómið virðist hafa ákveðið að kúra frameftir. Smá vætuíbleyta og hlýindi í par daga myndu nægja til að vekja það snemmendis.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimildir m.a.:
-Jarðabókin 1703.
-Örnefnalýsinar og landamerkjaskrár Grindavíkurbæjanna.

Dalssel

Dalssel.

 

Stórhöfðastígur

Stórhöfðastígur greinist í tvær leiðir.
Ætlunin var að skoða syðri leið Stórhöfðastígs frá Hraunhólum, Storhofdastigur-7yfir Mosana áleiðis að Hrúthólma. Í leiðinni var ætlunin og að reyna að staðsetja Moshella og Sauðahelli er Gísli Sigurðsson nefnir í örnefnalýsingunni sinni fyrir Krýsuvík. Í lýsingunni segir hann m.a. að „[Stórhöfðastígur] nyrðri liggur norðan Hraunhólanna og Fjallsins eina, vestur um Mosana, sem er mosagróið hraun og þar eru Moshellarnir. Síðan liggur slóðin með frá Hrútagjárhrauni allt vestur að Hrúthólma“. Einnig að „[V]egurinn liggur allt innundir Sandfellsklofa, en beygir þar til norðurs og þar fyrir múla nafnlausan og þétt með hlíðinni vestur á sandflæmi, sem þar er og nefnist Norðlingasandur. Uppi hér á hálsinum er eldvarp. Þar rétt hjá er hellir, nefnist Sauðahellir. Þangað leituðu oft sauðir Hraunamanna“.
HraunhólarÍ nefndri örnefnalýsing Gísla segir m.a. um leiðir vestan við Vatnsskarð: „L.M. línan liggur úr Markrakagili yfir Nýjahraun og um Hraunhóla gíga á Fjallstagli Fjallsins eina, þaðan út á svonefnd Slitur, sem nefnd eru í gömlum skjölum, þar sem minnst er á landamerki Krýsuvíkur. Hjá hraunhólum þessum skiftist Stórhöfðastígur. Liggur sá nyrðri norðan Hraunhólanna og Fjallsins eina, vestur um Mosana, sem er mosagróið hraun og þar eru Moshellarnir. Síðan liggur slóðin með frá Hrútagjárhrauni allt vestur að Hrúthólma. Syðri stígurinn lá sunnan Fjallsins eina og í Grænklofa milli Sandfells og Hrútagjárhorns um Grenklofa sem Grænklofi er einnig kallaður og undir Hrútagjárhraunbarmi) síðan frá Hrútagjárhorninu syðra upp á Krýsuvíkur- eða Ketilstíg. Hrútagjárhraun eða Hrútahraun hefur runnið úr gígum áður nefndum í Sveifluhálsi. Norðurbarmurinn er allur sprunginn og brattur. 

Hraunhólar-2

Þar er Hrútagjá stórgrýtt í botninn og ill umferðar. Syðst liggur stígur af gjánni yfir í Hrúthaga, Hrútagjárstígur. Stígurinn heldur síðan áfram vestur um Dalinn, Móhálsadalinn um sléttar og mosavaxnar klappir allt að Hrútafelli og sunnan þess í Ketilstíg.
Af Slitrum liggur L.M. línan í Markhelluhól.“
Um Undirhlíðaveg og Vatnsskarðsskarðsstíg segir Gísli m.a.: „
L.M. línan af Undirhlíðum liggur um Markrakagil, sem einnig ber ýms önnur nöfn, svo sem: Mar-krakagil, Marrakagil, Melrakkagil, Markrakkagil. Gil þetta á að vera fjórða gil í Undirhlíðum frá Vatnsskarði að telja, en öll eru þau nafnlaus.
Niður undan Undirhlíðum Mosarliggur Undirhlíðavegur eða Krýsuvíkurvegur gamli, sem lá frá Hafnarfirði upp í Námur og Krýsuvík. Undan öðru gili er lítil flöt, nefnist Ráðherraflöt. Svo segir að eitt sinn á búskaparárum Jóns Magnússonar í Krýsuvík 1900–1912 þá hittust þeir þarna á flötinni Jón bóndi og Hannes Hafstein ráðherra. Þar af kom nafnið. Hér spölkorn vestar var komið að miklum gíg, sem nú er horfinn. Nefndist hann Hálsgígur. Vegurinn lá sunnan undir honum að Vatnsskarðshálsi hrygg lágum, sem lá út úr Undirhlíðum eða Undirhlíðarhorni. Vegurinn lá upp á hálsinn og niður af honum og sveigir þá inn undir Vatnsskarð. Hér á hrauninu rétt við voru tveir gígar, gjallhaugar miklir, er nefndust Rauðhólar, Rauðhóll eystri og Rauðhóll vestri. Milli þeirra lá Vatnsskarðsstígur út að Fjallinu eina.
Við Moshellar-2stíginn sagði Guðmundur Tjörvi bóndi í Straumi 1895–1925, að væri greni það sem við hefði átt að miða þegar landamerkin voru gerð 1890, því Vatnsskarð væri hið eiginlega Melrakkaskarð. Vatnsskarðsgreni er því þarna á hrauninu og Vatnsskarðsflöt neðanundir skarðinu. Frá Sandfellsklofagígum, Rauðhólum og Hálsgíg er runnið hraun það sem kallað er Nýjahraun og er nokkuð af því hér og heyrir því Krýsuvík til. Vegurinn liggur upp frá flötinni í norður og fyrir múla nafnlausan og síðan inn með honum. Hálsinn á aðra hönd, vinstri en á hægri hraunið. Í þessu hrauni er Sandklofahellir og Sandklofatraðir eða Hrauntraðir þaðan og langt niður á hraun, þar sem aðrar traðir koma inn á þessar. Vegurinn liggur allt innundir Sandfellsklofa, en beygir þar til norðurs og þar fyrir múla nafnlausan og þétt með hlíðinni vestur á sandflæmi, sem þar er og nefnist Norðlingasandur. Uppi hér á hálsinum er eldvarp. Þar rétt hjá er hellir, nefnist Sauðahellir. Þangað leituðu oft sauðir Hraunamanna.
Storhofdastigur nyrdriÞá kemur Norðlingaháls liggur fram og norður út hálsinum. Vegurinn liggur upp hann og niður af honum á svo nefndar Stórusteinaflatir. Stóri steinar hafa hrunið hér niður ofan úr klettabelti í hálsinum. Hér eru Köldunámur. Löngu kulnaður jarðhiti eða hver. Upp frá Köldunámum er gengið í Folaldadali — miðdalinn. Nú er langur kafli, örnefnalaus. Þá er komið að Ketilstígssteini kletti allmiklum og liggur vegurinn frá honum upp á hálsinn og er þá komið að Katlinum og í hinn eiginlega Ketilstíg, sem liggur um austurhlíð og suðurhlíð Ketilsins og þar upp á brún, síðan áfram framhjá Arnarvatni niður með efsta hluta Seltúnsgils yfir á stall ofan Seltúns og niður Seltúnsbrekkuna í Seltúnshvamm. Stundum var öll leiðin frá Hafnarfirði í Seltún og að Krýsuvík kölluð Ketilstígur. Að fara Ketilstíg.“
Því miður er framangreind Ráherraflöt kominn undir Vatnsskarðsnámusvæðið.
Um Stórhöfðastíginn nyrðri segir Gísli: „
Landamerkjalínan milli Krýsuvíkurlands og upprekstrarlands Álftaneshrepps hins forna liggur um vestanverðar Undirhlíðar, rétt um Háuhnúka eða Rakka. Vatnsskarð skiptir nöfnum á þessum móbergshálsum og heitir Sveifluháls fyrir vestan. Um skarðið lá Vatnsskarðsstígur og má enn sjá móta fyrir honum á melum vestan vert við Krýsuvíkurveginn. Eru nú engin örnefni fyrr en komið er nokkuð vestur á Hálsinn. Hellutindar eða Skriðutindar eru fyrstir fyrir. Þá Stapatindur eystri og þá Stapatindur vestri og milli þessara tinda eru svo Tindaskörðin.

Storhofdastigur nyrdri - 2

Þá er komið í Ólafsskarð, en um það liggur Ólafsstígur. Örnefnin eru kennd við Ólaf trésmið Magnússon, en hann fór hér oft um þegar hann heimsótti föður sinn Magnús Ólafsson í K-vík. Há rís upp hér á hálsinum hæsti hnúkurinn, Miðdegishnúkur. Mun heita svo af því hann er eyktamark úr Hraunum. Hér vestar nokkurn spöl er Arnarnýpa, og þar á Arnarhreiður. Sér nýpuna víða að. Til hliðar, norðan við tindana er hálsinn sprunginn að endilöngu. Austast er Sandfellsklofi. Þar eru eldvörp og eins upp á hálsinum. Vestar taka við Folaldadalir. Foladadalur eystri með Folaldadalstjörn. Þá er Mið-Folaldadalur og Folaldadalur vestri og er þar Folaldadalstjörn vestri. Tjarnir þessar þrjóta venjulega á sumrin. Þá er komið á Ketilstíg þar sem hann kemur upp úr Katlinum og liggur framhjá Arnarvatn.“
Storhofdastigur nyrdri - 3Í viðleitninni að rekja Stórhöfðastíginn nyrðri var lagt af stað við neðsta hraunhólinn í Hraunhólum og síðan gengið upp með þeim áleiðis að Fjallinu eina, þ.e. syðri leiðina, í von um að hún gæfi færi á kennileitum v/hinn fyrrnefnda. Þegar komið var upp undir fjallstöglin var stefnan tekin inn undir brúnum áleiðis að Mosum. Þeir voru síðan fetaðir upp í Moshella. Hellarnir eru greinileg fjárskjól. Gróin varða er á einum þeirra. Einhverra hluta vegna hefur þeirra verið getið sem „Sauðabrekkukjól“. Nefnt skjól er hins vegar í norðanverðum Sauðabrekkum. Það er skjól fyrir smala eða þann/þá er áttu leið um Hrauntungustíg.
Storhofdastigur-4Þegar komið var upp að gatnamótum Stórhöfðastígs og Hrauntungustígs austan Hrúthólma var auðvelt að fylgja fyrrnefnda stígnum yfir mjóa apalhraunstungu áleiðis að Hrútargjárdyngjubrúninni. Reykjavegurinn hefur af einhverjum ástæðum verið lagður þarna til hliðar við hina fornu götu og yfir aðalhraunið á miklu mun óaðgengilegri stað en gamli stígurinn.
Stígnum var fylgt að grónum rauðamelshól. Á honum var varða. Síðan var stígnum fylgt eðlilegustu leið niður annars greiðfært hraunið, niður að fallegri sprungureinagígaröð, miklu mun yngri en dyngjuhraunið, og niður að annarri slíkri þar sem hann beygði með neðstu brúninni áleiðis að Hraunhólum. Einungis ein varða var við ofanverða leiðina, sem verður að teljast svolítið Tvi-Drangarsérstakt.
Þegar komið var niður á Mosana var stígnum fylgt eðlilegustu leið milli gjáa. Leiðin liggur síðan með lágum hæðum á hægri hönd, í svo til beina stefnu á Stórhöfða. Þegar kemur fram á brúnirnar og séð verður niður á syðri Stórhöfðastíginn liggur leiðin með grónum hraunhólum niður í stóra lægð í hrauninu með svo til beina stefnu á Tví-Dranga, tvo samliggjandi klettadranga við Stórhöfðastíginn. Þar virðist hafa verið áningarstaður og þar við eru gatnamótin.
Nyrðri leið Stórhöfðastígar virðist gleymd og tröllum gefin, en hefur engu að síður bæði verið greiðfær og einna sú beinasta millum Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar (Stórhöfða) fyrrum.
Frábært veður. Gangan tók 6 klst og 6 mín.

Heimidlir m.a.:
-Örnefnalýsing Krýsuvíkur – Gísli Sigurðsson.

Moshellar

Leiðarendi

Hellaferð í Leiðarenda er spennandi ferð fyrir ævintýraþyrsta hópa. Hentar vel eftir vinnu eða sem hluti af lengri ferð. Hellirinn er aðeins í u.þ.b. 10 km fjarlægð frá höfuðborgarsvæðinu.
Skilti í LeiðarendaEinn slíkur, samsettur af fólki á öllum aldri, fór í Leiðarenda nú eitt síðdegið. Í ljós kom að Árni Stefánsson er kominn langt með að ganga þannig frá varnargirðingum og merkingum að draga megi úr líkum á að dropsteinum og öðrum listaverkum náttúrunnar verði raskað af gáleysi. Hins vegar er hægt að skemma alla hluti, ef vilji er til slíks. Hafa ber þó í huga að dropsteinar í hellum njóta verndunarákvæða skv. gildandi reglum um friðlýsingu dropsteina.
Hraunbreiður Íslands geyma steingerða ævintýraheima þar sem glóandi hraunelvur hafa runnið neðanjarðar og skilið eftir sig ranghala og hvelfingar. Í hraunhellum er að finna einstakar jarðmyndanir, s.s. dropasteina, hraunspena, straumfægða veggi og litríkar útfellingar.
Allt þetta hefur Leiðarendi í Tvíbollahrauni upp á að bjóða. Í nýju Hellahandbók Björns Hróarssonar segir að hellirinn sé um 180 metra frá Bláfjallavegi, í Stórabollahrauni. Tvíbollahraunið er ofan á því. Alls er hellirinn er um 900 m langur, greiðfær og aðgengilegur.
Stórabollahraun er u.þ.b. 2000 ára gamalt og hafa dropsteinar og aðrar myndanir lítið breyst allan þann tíma. Brýnt var því sérstaklega fyrir þátttakendum að raska engu og taka ekkert nema myndir.
Áður en Árni hóf störf sín í hellinum fór hann þangað með stjórn Reykjanesfólkvangs. Nota átti tækifærið að skoða hellinn og ræða um leið ástand og aðgerðir við hraunhella í fólkvanginum. Árni var einn þeirra, sem fyrstur kannaði Leiðarenda árið 1991. Þá var hellirinn algerlega ósnortinn, en þótt ekki séu liðin mörg ár hafa ýmsar dásemdir hans verið eyðilagar og jafnvel fjarlægðar, s.s. langir dropsteinar.
Árni sagðist sjá verulegan mun á hellinum frá því sem var. Margir háir og fallegir dropsteinar hafa verið brotnir, sömuleiðis hraunstrá, hraundellur og -rósir. Þá hefur verið þreifað á viðkvæmum bakteríumyndunum á veggjum. Hann sagði þó enn vera mikið heillegt til að varðveita fyrir áhugasamt hellafólk. Hafði hann þegar lagt drög að áætlunum um tilteknar ráðstafanir inni í hellinum sjálfum svo draga megi úr líkum á frekari skemmdum – og um leið auka áhuga og aðgengi að hellinum. Í þær framkvæmdir réðist hann svo í s.l. vetur og vor.

Verndargirðing í Leiðarenda

Árni hefur komið fyrir skiltum og gert ýmsar varnaraðgerðir inni í hellinum og sett upp eftirmyndir tveggja stórra dropasteina, sem nú eru horfnir, á þeim stöðum þar sem þeir voru. Á annarri eftirmyndinni af hinum stóru dropsteinum, sem fjarlægðir hafa verið úr hellinum, stendur þetta: „Brotinn 02.04.-23.06.2007“.
Þá hefur Árni límt upp þá dropsteina, sem brotnir hafa verið, en brotin skilin eftir á staðnum. Upplýst skal hér að dropsteinar eru einungis fallegir þar sem þeir eru fæddir á eða undir hellisþakinu. Um leið og búið er að bera þá út úr hellinum breytist mikilfengleiki þeirra í eftirsjá. Skyldu framangreindir dropsteinar t.d. nú vera notaðir einhvers staðar sem stofustáss? Áreiðanlega ekki. Líklega hefur gerandanum þegar hefndst fyrir því skv. þjóðsögunni hvílir bölvun á hverjum þeim er raskar minjum, þ.m.t. náttúruminjum, auk þess sem líkt er refsivert skv. lögum mannanna.
Hafa ber í huga að vitleysingjar hafa alltaf verið til og þeir munu verða til. Spurningin er hvort girðingar munu duga til að hindra skemmdarfíkn þeirra? Langflestir hellagestir ganga þó vel um og þannig á það líka að vera!
Til dropsteinamyndana teljast bæði dropsteinsdrönglar sem hanga niður úr hellisþökum og standa upp úr gólfum. Með auglýsingu nr. 120/1974 voru dropsteinar í öllum hellum landsins friðlýstir. Bannað er að brjóta eða skemma á annan hátt umræddar dropsteinsmyndanir.
Auglýsingin um friðlýsingu dropsteina hljóðar svo: „Samkvæmt heimild í 23. gr. laga nr. 47/1971 um náttúruvernd hefur [Umhverfisstofnun] ákveðið, fyrir sitt leyti, að lýsa dropsteina í hellum landsins náttúruvætti.  Tekur friðlýsing þessi til allra hella landsins.
Til dropsteinsmyndana teljast bæði dropsteinsdrönglar, sem hanga niður úr hellisþökum og niður með hellisveggjum, svo og dropsteinskerti, sem standa á hellisgólfum og syllum hellisveggja.

Hraunrós girt af

Bannað er að brjóta eða skemma á annan hátt umræddar dropsteinsmyndanir. Um viðurlög vegna brota á reglum þessum fer eftir ákvæðum náttúruverndarlaga.  Felld eru úr gildi eldri ákvæði um vernd dropsteina.
Ráðuneytið er samþykkt friðlýsingunni og birtist hún hér með skírskotun til 32. og 33. gr. laga nr. 47/1971, um náttúruvernd, og tekur friðlýsingin gildi við birtingu þessarar auglýsingar í Stjórnartíðindum.
Í menntamálaráðuneytinu, 3. apríl 1974.“
Í bæklingi, sem Slysavarnarfélagsið Landsbjörg gaf út í samvinnu við Hellarannsóknarfélagið, HELLASKOÐUN – FORVARNIR OG UPPLÝSINGAR, segir m.a. um umgengni um hellana o.fl.:
Hellaskoðun – Að skoða hella er áhugaverður kostur fyrir útivistarfólk og gefur alveg nýja sýn á íslenska náttúru. Til að fá sem mest út úr hellaskoðun þarf að Lagfærður dropsteinn í Leiðarendaundirbúa ferðirnar vel, vera með réttan búnað og rétt hugarfar. Ef undirbúningurinn er ekki góður þarf ekki mikið til þess að eitthvað fari úrskeiðis og ekki auðveldar það aðstæðurnar ef maður er fastur ofan í helli.
Ferðaáætlun – Hellar eru oftar en ekki í afskekktum hraunum þar sem fáir eru á ferli og fáir þekkja til. Ef eitthvað kemur upp á þarf að vera hægt að finna viðkomandi og spilar ferðaáætlunin þar stórt hlutverk. Hana þarf alltaf að skilja eftir hjá nánustu aðstandendum.
Búnaður – Mjög mikilvægt er að hafa með sér réttan búnað þegar skoða á hella en hann getur tryggt að við komum heil heim. Þegar farið er ofan í helli er góð regla að skilja eitthvað með áberandi lit eftir uppi á yfirborðinu. Það getur flýtt verulega fyrir ef leita þarf að fólki. Ef um óþekktan helli er að ræða er þetta enn mikilvægara.
Hjálmur – Mikilvægt er að hafa hjálm við hellaskoðun. Í hellum er svo til engin veðrun og grjótið getur verið oddhvasst.
Skór – Góðir gönguskór eru mikilvægir. Yfirleitt er ferðin að hellinum yfir ójafnt hraun og ofan í hellum er oft stórgrýti sem klöngrast þarf yfir. Stífir gönguskór sem styðja vel við ökkla koma í veg fyrir óþarfa slys.
Ljós – Í hellum er algert myrkur. Eina ljósið sem þangað kemur er það sem gestir hafa með sér. Ekki þarf mikið til að pera í vasaljósi skemmist og svo er alltaf hætta á að rafhlöður tæmist. Hver hellafari ætti því að hafa minnst tvö ljós, auka rafhlöður og perur. Mjög gott er að hafa ljós á hjálminum til að hafa hendur frjálsar til að geta stutt sig við gólf eða veggi við erfiðar aðstæður. Kerti og kyndlar eru ekki æskilegir ljósgjafar í hellum, auk þess sem þeim fylgir óþrifnaður.
Fatnaður – Hitastig í hellum er í flestum tilvikum 1-4°C, sama hvaða árstími er. Þótt úti sé sólríkur sumardagur þarf að gera ráð fyrir köldu og röku loftslagi hellisins. Ofan í hellum er síðan oft aur, bleyta og hvasst grjót og jafnvel þótt ekkert hafi rignt undanfarna daga getur dropað mikið úr loftinu þannig að auðvelt er að blotna í gegn. Hlífðarfatnaður getur því verið mjög gagnlegur.
Lambið í Leiðarenda verndaðHanskar – Gott er að hafa góða hanska til að verja hendur fyrir hvössu grjóti.
Fjarskipti – Ekkert fjarskiptasamband er í hellum. Mikilvægt er að hafa það í huga þar sem ekki er hægt að treysta á neinn nema góðan ferðafélaga ef eitthvað kemur upp á.
Hættur – Hellar geta verið mjög hættulegir yfirferðar ef ekki er farið gætilega og rétt að hlutunum.
Ís í hellum – Á veturna og vorin geta hellar verið algjörlega ófærir vegna íss. Þetta á sérstaklega við um þá hella þar sem mikið vatn dropar úr lofti.
Grjóthrun – Hrun í hellum á meðan á heimsókn stendur er sjaldgæft. Það hrun sem fólk sér í hellum er yfirleitt frá því að hellirinn myndaðist og hraunið var að kólna. Jarðskjálftar eiga einhvern þátt í hruni en það er einnig sjaldgæft. Líklegast er að hrun geti verið við hellismunna eða rétt fyrir innan hann þar sem áhrifa frosts og þíðu gætir helst.
Laust grjót – Þegar farið er um hella er oft lauslegt grjót sem hangir í lofti eða í og við veggi. Þetta grjót ætti að láta alveg í friði. Ef hreyft er mikið við grjóti, sérstaklega í lofti, er auðvelt að koma af stað hruni.
Eftirmynd dropsteins, sem fjarlægður varUmgengni – Að heimsækja hella krefst bæði aga og virðingar fyrir náttúrunni. Mörg dæmi eru um að fallegir hellar hafi verið skemmdir í gegnum tíðina en þar hefur rangt hugarfar oftast stjórnað gjörðum fólks.
Viðkvæmar hraunmyndanir – Dropsteina er að finna í mörgum íslenskum hellum. Þeir standa á gólfi og syllum og geta verið í öllum stærðum og gerðum. Dropsteinar eru viðkvæmir og geta auðveldlega brotnað séu þeir snertir og ber því að forðast það. Brotna dropsteina má alls ekki fjarlægja úr hellum. Hraunstrá er einnig hægt að finna
í mörgum hellum. Þau hanga niður úr loftinu, eru hol að innan og þola alls ekki snertingu. Ýmsar aðrar viðkvæmar myndanir er líka að finna í hellum. Oft myndast bekkir þar sem hraun hefur runnið lengi. Þeir eru oft þunnir og það má alls ekki setjast eða stíga á þá. Þunnur glerungur myndast stundum á gólfum og molnar auðveldlega undan skóm. Reynið að ganga til hliðar við þess konar svæði.
Rusl – Því miður hefur safnast mikið rusl í marga þekktari hella landsins í gegnum tíðina. Takið allt rusl með ykkur út úr hellinum sem þið eruð að skoða og ef þið sjáið rusl eftir aðra, vinsamlegast takið það líka með.
Kerti og kyndlar – Kerti og kyndlar eiga ekkert erindi inn í hella. Kertin skilja eftir mikinn sóðaskap þegar vax slettist niður og kyndlar geta bæði skemmt hella og verið hættulegir fólki. Þegar kyndlar brenna kemur af þeim bæði reykur og sót. Sótið sest á myndanir hellisins og reykurinn getur verið fólki hættulegur, sérstaklega innarlega í hellum þar sem loftstreymi er lítið.“
Á skiltum inni í Leiðarenda má m.a. lesa eftirfarandi: 1. Hellirinn myndaðist við eldgos fyrir um 2000 árum. Minjar hellisins hafa gildi fornminja. 2. Gefið ykkur tíma til að aðlagast myrkrinu. 3. Notið góð ljós, helst höfuðljós. 4. Flýtið ykkur hægt, sýnið aðgát. 5. Horfið og njótið. 6 Ekki snerta og ekki taka myndanir, hvorki brotnar eða óbrotnar. 7. Leyfið beinum lambsins að hvíla í friði. 8. Ekki snerta slím á veggjum í efri enda hellisins. 9. Ekki snerta loft þar sem hrunið hefur úr. Lifið heil.
Stjórn Reykjanesfólkvangs og Hafnarfjarðarbær styrktu framkvæmdina.
Þegar út var komið hafði unga fólkið lært a.m.k. eitt; hvorki má snerta né fjarlægja hellamyndanir. Það er margt hægt að kenna litlu fólki á skömmum tíma.
Frábært veður (skiptir reyndar ekki máli þegar inn er komið). Ferðin tók 1 klst og 1 mín.

Heimild m.a.:
-www.ust.is

Innst í Leiðarenda

Kálfadalir

Gengið var frá Stóra-Nýjabæ yfir í Kálfadali, upp Víti og inn að eldborgunum norðan Æsubúða. Kíkt var  eftir hugsanlegum hellisopum á leiðinni. Þaðan var haldið til suðurs að Æsubúðum og um Hvítskeggshvamm niður að Deildarhálsi ofan við Stóru-Eldborg. Gamla þjóðleiðin til Krýsuvíkur var síðan rakin að upphafsstað.
Víti framundanÍ dag er venjulega talað um að landamerki Árnessýslu og Gullbringusýslu hafi legið úr Seljabót um Sýslustein í Kóngsfell. Í öðrum heimildum er getið um að landamerki Árnessýslu og Gullbringusýslu hafi legið um Hvítskeggshvamm. Undir honum hittust, a.m.k. samkvæmt þjóðsögunni, þær Herdís og Krýsa á sínum tíma til að skera úr um landamerki bæja þeirra. Afleiðinguna má sjá á dysjum þeirra kerlinga skammt austar, í Kerlingadal (Kerlingahvammi).
Í dómi Hæstaréttar 1996/2849 segir að „takmörk Ölfushrepps í vestri eru í sjó við Seljarótarnef, þaðan í Sýslustein undir Geitahlíð, þaðan eftir þinglýstri landamerkjalínu í Litla Kóngsfell.“ Hér er rétt að taka eftir heitinu „Litla-Kóngsfell“.
Þegar lagt var af stað frá Stóra-Nýjabæ áleiðis í Kálfadali var ljóst að fá örnefni hafa varðveist á því svæði þrátt fyrir fjölmörg sérkenni og kennileiti. Utan Vegghamra, hamrastandar sem blasa við vestan Geitafells, eru Kálfadalir er liggja upp frá Vegghömrum til norðurs, allt að Gullbringu austan Kleifarvatns, einu örnefnin. Víti er þó í syðri Kálfadal, en svo er nefndur mikill hraunfoss er runnið hefur og storknað í austanverðum Kálfadalahlíðum.
VítiBer og sandorpin hæðardrög liggja þarna samátta öðrum sprungureinamyndunum Reykjanesskagans. Móbergshryggirnir eru táknrænir fyrir eldri bergmyndanir, en millum þeirra má sjá yngri hraungígamyndanir. Litadýrðin er fáu lík; ljósbrún móberg, rauðleitt gjall, grágrýti og berg og öskumyndanir með skörpum skilum. Ofan á þessu trjóna litlar grágrýtisborgir er skotið hafa kolli sínum upp úr íshellu síðasta ísaldarskeiðs. Á kafla er landslagið líkt og ímynda mætti sér að það væri á Tunglinu, enda komu verðandi og einu tunglfarar Bandaríkjamanna á þetta svæði til æfinga áður en haldið var út í geiminn.
Á þessu svæði var einnig tekin fyrsta leikna íslenska stuttmyndin árið 1954, en hluti hennar átti einmitt að gerðast á Tunglinu. Móbergshellar í formynduðum veggjum gefa hugmyndarfluginu lausan taum á stað sem þessum.

Sunnanverð Brennisteinsfjöll

Eitt kennileiti á þessu svæði er hár og breiður grágrýtisstandur; Borgin. Aðrar smærri eru í nágrenni hennar; Smáborgir.  Ein þeirra er tákngervingur jarðskjálfta. Fyrir skömmu stóð þar fallegur grágrýtisstandur, lítill, en eftir jarðskjálftana miklu 17. júní 2000 breyttist hann á örskömmri stundu í óformaða skriðu. Þannig er „standurinn“ nú. Minnir það á sögu þá er Jón Guðmundsson frá Ísólfsskála sagði eitt sinn er hann og félagar hans úr Grindavík voru að reka fé að Vigdísarvallaréttinni. Þetta var um miðjan fjórða áratug síðustu aldar. Skyndilega reið yfir svo mikill jarðskjálfti að réttarveggirnir hrundu og flöttust hreinlega út. Féð þusti í allar átti svo ekki var annað að gera en að halda heim á leið. Þórkötlungar höfðu þá forgöngu um að byggja nýja rétt í Borgarhrauni (1935), sem enn stendur. Réttin við Vigdísarvelli var lagfærð, en ekki notuð aftur í sama mæli og var. Af þessu tilefni vildi Jón undirstrika að Vigdísarvallaréttin er nú þar sem var bærinn Bali, en Vigdísarvallabærinn sjálfur hafi staðið austar á túninu, líkt og sjá má. Afi Jón bjó á Vigdísarvöllum til síðari hluta aldarinnar, en fluttist þá að Ísólfsskála.

Brennisteinsfjöll sunnanverð - Eldborg efst

Á vesturbrún Kálfadala má sjá hvar fyrrnefndur hraunfoss hefur steypst niður austurhlíðina og síðan runnið til beggja átta í dalnum. Hraunfóðrið entist ekki til að fylla dalina og því er það þarna sem nokkurs konar sýnishorn af því sem verða vildi.
Haldið var yfir hrauntunguna í suðurdalnum eftir fjölfarinni fjárgötu og síðan upp (austur) með henni. Hraunkantinum var fylgt að Geitahlíð norðanverðri. A.m.k. tvö greni voru á leiðinni, auk ops og rásar, sem ókönnuð er. Tekin voru hnit af opinu. Rásin er í sléttu og eldra helluhrauni undir hinu úfna apalhrauni er myndað hefur Víti. Upptök þess áttu eftir að koma í ljós.
Þegar upp á hábrún hraunsins var komið, þar sem hraunið hafði runnið hæst upp að hlíð Geitafells, var haldið eftir fjárgötu austur yfir það og síðan vent til suðurs, áleiðis upp á fellið. Þegar upp var komið blasti dýrðin við.
GeitafellsgigurinnBrennisteinsfjöll eru í einum af fjórum megin eldstöðvakerfum á Reykjanesi og er það kennt við fjöllin. Nær það allt frá Krýsuvíkurbjargi í suðvestri og inn á Mosfellsheiðina í norðaustri. Virknimiðjan í kerfinu er hins vegar í kringum Brennisteinsfjöllin og að Bláfjöllunum, en hvað mest eldvirkni hefur verið í Brennisteinsfjöllunum sjálfum. Eldborg undir Geitahlíð og Eldborgir í Leitarhrauni marka syðri og nyrðri mörk eldstöðva í kerfinu. Síðast er vitað til þess að gosið hafi í Brennisteinsfjöllum laust eftir landnám.
Jón Ólafsson úr Grunnavík taldi að nafnið Gullbringa nærri Geitahlíð væri frá Dönum komið sem hafi talið það fallegt og viðeigandi þar sem staðurinn lá nærri sýslumörkum við Árnessýslu. (Kristian Kålund: Íslenzkir sögustaðir ÆsubúðirI:51). Álitið er að staðurinn hafi fyrrum verið blómlegri en síðar hefur orðið vegna uppblásturs.
Æsubúðir er grágrýtisdyngja í 386 m.y.s. Gígurinn er austan háhæðarinnar. Frá Æsubúðum er stórbrotið útsýni til norðausturs að sunnanverðum Brennisteinsfjöllum þar sem Eldborgin trjónir efst á gígaröðinni, til austurs yfir ofanvert Herdísarvíkurfjall þar sem hrauntaumarnir ofanverðir leika aðalhlutverkið, til Vestmannaeyja í suðvestri, yfir Klofninganna í suðri og Grindavík, Reykjanes og Eldey í vestri. Hálsarnir í norðvesti liggja þarna flatir sem og höfuðborgin í gegnum Vatnsskað (hið gamla) í norðri. Neðanverðir eru Kálfadalirnir með hraunbreiðunum fyrrnefndu.
Gengið var skáhallt niður af Æsubúðum að ofanverðum Hvítskeggshvammi. Frá honum sést vel yfir Elborgarhraunin. Elborgirnar, Litla- og Stóra-Eldborg, eru friðlýstar. „Samkvæmt heimild í 22. gr laga nr. 47/1971, um náttúruvernd, hafa [Umhverfisstofnunar] og náttúruverndarnefnd Grindavíkur ákveðið að friðlýsa sem náttúruvætti Stóru – Eldborg og Litlu – Eldborg undir Geitahlíð, Grindavík, ásamt næsta nágrenni.
Mörk hins friðlýsta svæðis eru eftirfarandi:
HvítskeggshvammurAð norðan fylgja þau mörkum hrauns og hlíðar, 200 m austur fyrir nyrstu gíga í gígaröð Litlu – Eldborgar. Þaðan hugsast bein lína í austurhorn hrauntraðar frá Litlu – Eldborg um 225 m sunnan borgarinnar. Síðan bein lína í vestnorðvestur að þjóðvegi, eftir honum að vesturjaðri hraunsins frá Stóru – Eldborg. Að vestan fylgja mörkin hraunjaðrinum.
Eftirfarandi reglur gilda um svæðið:
1. Gjalltaka og mannvirkjagerð er óheimil, svo og hvers konar jarðrask, sem breytir eða veldur skemmdum á
útliti gíganna.
2. Skylt er vegfarendum að sýna varúð, svo að ekki spillist gróður eða aðrar minjar á hinu friðlýsta svæði
umhverfis eldstöðvarnar.
3. Akstur utan vega og merktra slóða er óheimill.
4. Beitarréttindi skulu haldast svo sem verið hefur.
Til undanþágu frá reglum þessum þar leyfi [Umhverfisstofnunar] og náttúruverndarnefndar Grindavíkur. Um viðurlög vegna brota á reglum þessum fer eftir ákvæðum náttúruverndarlaga.“
Stóra-EldborgGengið var niður ofanverðan Hvítskeggshvamm, allt niður á hina gömlu götu, milli Krýsuvíkur og Herdísarvíkur, um Deildarháls.
Ein þjóðsagan segir: „Krýsuvík er austastur bær í Gullbringusýslu með sjávarsíðunni, en Herdísarvík er vestastur bær í Árnessýslu. Þetta eru næstu bæir sinn hvoru megin við sýslumótin; hvort tveggja er landnámsjörð og svo að ráða sem sín konan hafi gefið hvorri nafn er þar bjuggu lengi, og hét sú Krýs er byggði Krýsuvík, en Herdís sú er setti bú í Herdísarvík.
Jarðir þessar hafa alla tíð verið taldar með beztu bólstöðum hér á landi og er það ekki að undra, því báðum fylgir útræði, fuglaberg mikið og trjáreki nógur. Á landi áttu báðar jarðirnar veiðivötn ágæt: Krýsuvík mörg í suður og austur frá bænum þar sem hann er nú, en Herdísarvík litla tjörn eina í heimatúni milli sjós og bæjar. Rétt hjá veiðivötnunum átti Krýsuvík starengi mikið og fagurt. Herdísarvík átti aftur á móti ekkert engi, en beitiland svo miklu betra fyrir sauði en Krýsuvík að nálega Útsýni frá Deildarhálsi að Trygghólumtekur aldrei fyrir haga í Herdísarvíkurhrauni; er þar bæði skjólasamt af fjallshlíð þeirri er gengur með endilangri norðurbrún hraunsins og kölluð er Geitahlíð og skógur mikill. Þótt fjarskalöng bæjarleið, hér um bil hálf þingmannaleið, sé milli þessara bæja voru þær Krýs og Herdís grannkonur og var nábúakritur megn á milli þeirra; því hvor öfundaði aðra af landgæðum þeim er hin þóttist ekki hafa, Krýs Herdísi af beitilandinu, en Herdís Krýs aftur af enginu. Svo hafði lengi gengið að hvor veitti annari þungar búsifjar; rak Krýs sauðfénað sinn í land Herdísar, en Herdís vildi aftur ná í engið, og beittust svo þessu á víxl með því landamerki virðast annaðhvort hafa verið óglögg eða engin í það mund.
Þegar þær grannkonurnar eltust meir fóru þær síður að hafa fylgi á framkvæmdum til að ásælast hvor aðra, en ekki var skap þeirra að minna eða vægara fyrir það. Bar þá svo við einhverju sinni að Herdís hafði gengið út í hraun og síðan út með Geitahlíð svo sem leið liggur út í Krýsuvík. En utarlega undir hlíðinni ganga úr henni hæðir Stóra Eldborg og gamla þjóðleiðinnokkrar fram að hrauninu og eru þær kallaðar Eldborgir. Yfir þessar hæðir liggur vegurinn. Þann sama dag er Herdís tókst þessa göngu á hendur fór og Krýs að heiman. Í suður frá Krýsuvík er slétt melgata; er hún nokkuð langur skeiðsprettur suður undir hornið á Geitahlíð, en þegar komið er fyrir það horn blasa Eldborgir við sunnar með hlíðinni og er allskammt þangað undan hlíðarhorninu.
Nú segir ekki af ferðum þeirra grannkvennanna fyrr en Krýs kemur þar á götunni sem hún liggur yfir hina nyrztu Eldborgina, þá kemur Herdís í flasið á henni að sunnan. Þegar þær hittust varð fátt af kveðjum, en því fleira af illyrðum á milli þeirra er hvor um sig þóttist eiga land það er þær stóðu á. Ekki er þess að vísu getið hvernig hvorri um sig hafi farizt orð, en svo lauk að hvor hézt við aðra vegna landadeildarinnar. Lagði þá Krýs það á Herdísi að allur ætur silungur skyldi hverfa úr veiðitjörn hennar, en verða aftur full af loðsilungi, sumir segja öfugugga. En Herdís lagði það aftur á Krýs að allur silungur í veiðivötnum hennar skyldi verða að hornsílum. Enn lagði Krýs það á Herdísarvík að þaðan skyldi týnast tvær Útsýni frá Geitafelli til norðvesturseða þrjár skipshafnir. Herdís mælti aftur það um fyrir Krýsuvík að starengið þar skyldi smásökkva á hverjum 20 árum, en koma upp á jafnlöngum tíma. Eftir þessi ummæli sprungu þær báðar þar sem þær stóðu og eru þær dysjaðar báðar til vinstri handar við götuna þegar riðið er út í Krýsuvík norðan til á Eldborginni nyrztu, og sér dysirnar þar enn; dys Krýsar er það sem nær er Krýsuvík, en Herdísar hitt sem fjær er. Meðan þær voru að mæla hvor um fyrir annari kom að þeim smalinn úr Krýsuvík, en svo brá honum við heitingar þeirra að hann féll þegar dauður niður og er hann dysjaður hægra megin við götuna þar upp undan sem þeirra dys er niður undan svo ekki skilur nema gatan ein. Dys þeirra grannkonanna eru enn kölluð Krýs og Herdís og þar með eru þau kölluð sýsluskil Gullbringusýslu og Árnessýslu, svo eru þau og talin landamerki milli Krýsuvíkur og Herdísarvíkur.“
Í annarri þjóðsögu segir: „
Þórir haustmyrkur nam Selvog og Krýsuvík. Það hefir verið seint á landnámstíð, því fjölbyggt hefir verið orðið syðra eftir þeirri sögn að fátækt fólk hafi flakkað í Selvog bæði utan með sjó og sunnan yfir fjall.
Útsýni að KrýsuvíkurhúsunumÞað þótti Þóri illt og setti því grindarhlið læst í Grindaskarð, en annað í skarð það sem farið er úr Grindavík upp á Siglubergsháls. Þar af skulu þessi örnefni vera dregin: Grindaskarð og Grindavík.
Það er naumast annað en getgáta að Krýsa og Herdís hafi verið dætur Þóris haustmyrkurs; þó hefir það verið sagt.
Krýsa bjó í Krýsuvík, en Herdís á Herdísarvík. Þær deildu um landamerki milli sín. Vildi Krýsa eiga Geitahlíð alla og væru landamerki í stóran stein er stendur í hrauninu fyrir austan hlíðarhornið. Herdís vildi eiga út á Deildarháls. Hann er nokkuð vestar en undir miðri Geitahlíð og hefir spúð eldi því í honum er gígur ekki alllítill, og úr honum hefir runnið hraun það er Klofningur heitir eða Klofningar.
Þar hittust þær og deildu þar til báðar heittust, og eru dysjar þeirra á hrygg nokkrum undir hlíðinni skammt fyrir austan hálsinn. Má geta til að Herdís hafi gengið þangað undan, því henni veitti miður þó hvorug hefði vel.
KrýsuvíkÞangað til hafði veiði mikil verið í Kleifarvatni í Krýsuvíkurlandi og tjörnin í Herdísarvík stararflóð og silungapollur í miðjunni.
Herdís mælti svo um að allur silungur í Kleifarvatni skyldi verða loðsilungur óætur.
Þá lagði Krýsa það á að tjörnin í Herdísarvík skyldi éta sig út og eyða úr sér störinni og brjóta bæinn, en allur silungur skyldi verða að hornsílum. Það skyldi og fylgja að tvær skipshafnir skyldu í henni drukkna.
Þetta gekk allt eftir. Bærinn Herdísarvík stóð áður undir Búrkletti, en tjörnin gróf undan honum grundvöllinn svo hann varð að flytja úr stað og einn vetur sem oftar var tjörnin lögð með ís, þá komu sjómenn frá skipum (þau voru tvö) og gengu tjörnina, en ísinn brast og allir drukknuðu. Og enn er varazt að ganga hana þó hún sé lögð. Svo fór um landamerkin sem Krýsa vildi og heitir nú kletturinn Sýslusteinn.
Skammt fyrir austan Kerlingar (dys Krýsu og Herdísar) eru tveir steinar sem líka hafa verið nefndir Sýslusteinar, en eru auðsjáanlega hrapaðir úr hlíðinni á seinni tímum.“Krýsuvíkurkirkja
Í enn einni þjóðsögunni segir: „
Herdís og Krýs hétu konur tvær í fyrri daga; þær bjuggu í víkum þeim í Gullbringusýslu sem við þær eru kenndar síðan, Krýs í Krýsuvík, en Herdís í Herdísarvík.
Þar er vatn eitt uppi á heiðunum sem þá var veiði í. Þóktust báðar kerlingarnar eiga veiðina í vatninu og notuðu hana hvor um sig eftir megni.
Einu sinni mættust þær á leiðinni til vatnsins í hrauninu milli víkanna; þar deildu þær út af veiðinni og heituðust og urðu loks sín að hvorum steini. Standa þar steinarnir sinn hvorumegin við götuna í hrauninu, og heitir hinn syðri Herdís en hinn nyrðri Krýs.“
Í Hvítskeggshvammi má finna
sjaldgæfari tegundir ýmssa blómplantna, t.d. fjalldalafífil. skógfjólu, geithvönn og jarðaberjalyng.
Þjóðsagan segir og að „o
far Eldborgar er Hvítskeggshvammur þar sem sagt er að skipið Hvítskeggur hafi verið bundið við festar í bjarginu.“ Í örnefnalýsingu Ara Gíslasonar segir: „Beint upp af Stóru-Eldborg er hvammur, sem Krýsvíkingar kalla Hvítskeggshvamm, en annarstaðar heitir Hvítserkshvammur eða jafnvel Hvítskeifuhvammur. Hvítskeggshvammur er hann nefndur í Landfr. s. Ísl II, 312, þar sem sagt er frá því, að þar hafi fundizt fleiri lækningajurtir en á nokkrum öðrum stað.“
Þegar skoðaðar eru heimildir um landamerki á þessum stað má t.a.m. sjá að í
lýsingu lögréttumannsins Hálfdanar Jónssonar á Ölfushreppi frá 1703 er að finna eftirfarandi upplýsingar um sýslumörk: „Þessi eru haldin sýslumót milli Árnessýslu og Kjalarnesþings, fyrst er Vilborgarkelda, er liggur á Mosfellsheiði, fyrir vestan Heiðarbæ. Þaðan ræður Laufdælingastígur, í vestur liggjandi eftir heiðinni, allt í nyrðri Lyklafellsenda. Síðan í þann einstaka stein, er stendur við Hellirsheiðarveginn á melnum fyrir sunnan Lyklafell, er kallast Sýslusteinn. Þaðan í það stóra bjarg, er liggur við veginn í Ólafsskarði. Síðan sjónhending í Hvítskeggshvamm, fyrir sunnan Geitahlíð, milli Herdísarvíkur og Krýsivíkur.“
Krýsuvík 1810n Vestmann, prestur í Vogsósum, lýsir takmörkum Strandarsóknar á eftirfarandi hátt árið 1840: „Takmörk Strandarkirkjusóknar í Selvogi að austanverðu er Viðarhellir við sjó, sem er suðurhafið. Þaðan upp eftir Selvogsheiði, sem er hólvaxin, breið um sig, klettalaus, með góðum högum í lágum og brekkum, en mosavaxin á hæðum. Þaðan upp í Geitafell, sem stendur upp úr aðalfjallgarðinum, er liggur einlægur strandlengis ofan frá jöklum og vestur fyrir Krýsuvík. Geitafell er hátt, ílanghnöttótt, óbrunnið, með skörpum brúnarklettum, blásið að norðan og austan, en skriðurunnið að sunnan og vestan. Þaðan eru téð takmörk upp í Heiðina háu, sem er afréttur Selvogssveitar, Þórlákshafnar og vestustu bæja í Hjallasókn. Þessi heiði er hátt, breitt, ávalt fjall, gnæfir upp úr fjallgarðinum, blásið í grjót og berg að norðan, en sunnanvert með góðum fjallhögum í lágum og brekkum, en mosabörð með standklettum, hKrýsuvík 1886álfeldbrunnum, þar á milli. Þaðan er takmark þvert vestur í Kóngsfell, sem hefur nafn af því, að fjallkóngur í Selvogi skipti þar á haustum fólki í fjárleitir. Þaðan sjónhendingu vestur til Brennusteinsfjalla. Þau eru langur og hár fjallsás upp úr aðalfjallgarðinum. Á þeim er Kistufell, tilsýndar sem kista. … Takmark Strandarsóknar til vesturs er stefna úr téðum fjöllum suður á fjallsbrún vestanvert við Lyngskjöld, sem er óbrunninn blettur yst í Herdísarvíkurfjalli. Þaðan stefnu fram í Sýslustein við alfaraveg. Þaðan fram á Seljanef við sjó. Eru þetta og svo takmörk Gullbringusýslu og Krýsuvíkursóknar að austanverðu. Hennar takmörk að norðan: Vestari partur
Brennusteinsfjalla allt vestur í Kleifar, norðan til við Kleifarvatn. Þaðan til útsuðurs fram eftir Vigdísarhálsi fram á Núphlíð, sem hvervetna eru blásin að norðvestanverðu, en grösugri móti suðaustri, þó mikið skriðurunnin, samt með góðum högum. Loksins liggur takmark Krýsuvíkursókna til sjávar á Selatöngum, útveri frá Krýsuvík.“
Frá Deildarhálsi var gömlu götuni fylgt vestur með sunnanverðri Geitahlíð. Hún sést þana mjög vel og víða eru vegkantar lagaðir. Líklegt má telja að þarna hafi verið fyrsti akvegur sjálfrennireiðarinnar millum Krýsuvíkur og Herdísarvíkur og að gamla þjóðleiðin hafi verið löguð til þess at arna.Vegurinn hefur verið lagaður fyrir 1943 er jarðýtur voru notaðar til að gera vegstæði núverandi þjóðvegar, endurbættan. Hann getur því ekki talist til fornleifa, en vel má lögjafna hann til þess ígildis – til framtíðar litið.
Vormót Hraunbúa í Krýsuvík - 2007. Guðni Gíslason í forgrunniVegurinn hverfur á kafla, e
n birtist síðan að nýju skammt norðaustan núverandi þjóðvegar. Suðvestan hans hefur vegurinn verið eyðilagður vegna vangár starfsfólks Fornleifaverndar ríkisins. Skammt vestan þeirrar vangár sést hann enn á ný og nú með stefnu að Krýsuvíkurbæjunum.
Vormót Hraunbúa var í fullum gangi undir austanverðu Bæjarfelli þegar FERLIR bar að garði. Guðni Gíslason, mótsstjóri, tók fagnandi á móti þátttakendum.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Heimildir m.a.:
-Hálfdan Jónsson, “Descriptio Ölveshrepps anno MDCCIII.” Árnessýsla. Sýslu- og sóknalýsingar. Reykjavík. 1979, s. 250.
-Jón Vestmann, “Selvogsþing (Strandar- og Krýsuvíkursóknir).” Árnessýsla. Sýslu- og sóknalýsingar. Reykjavík. 1979, s. 211.
-Friðlýsing – Stj.tíð. B, nr. 622/1987. Menntamálaráðuneytið, 10. desember 1987.
-Jón Árnason I – 459.
-Þjósagnasafn Jóns Árnasonar.

Víti

Víti framundan.

 

 

Leynihver

Haldið var í Hrútargjárdyngjuhraun í leit að Leynihver. Þótt hverinn komi upp úr u.þ.b. 5400 ára gömlu hrauninu hefur nýrra hraun, ca. 2200 ára, runnið yfir það og fyllt með þunnu lagi upp í lægðir og gjár. Upp úr því hrauni gægist augað, sem myndað hefur Leynihver, stakan gufuhver.
KöldunámurVindur blés ljúflega undan sól í suðri svo gengið var af stað heldur norðar en ætlunin var að leita, enda eins gott því hverinn fannst á lyktinni. Erfitt væri að finna hann ella. Hverinn kúrir undir háum apalhraunvegg. Lítil varða er ofan við hveraaugað. Á nokkrum stöðum má sjá gufu streyma upp um lítil op og sumsstaðar má sjá gulan brennisteininn.
Í Landfræðissögu Íslands, bindi II, bls. 84-94, fjallar Þorvaldur Thoroddsen um Gísla Magnússon sýslumann Rangvellinga frá 1659. Gísli var einnig nefndur Vísi-Gísli sökum kunnáttu sinnar. Hann var hinn fyrsti lærði náttúrufræðingur á Íslandi og fór vítt um landið til þess að rannsaka steina og málma. Árið 1647 fékk Gísli á alþingi einkaleyfi til brennisteinsnáms. Á bls. 87-88 í bókinni segir „ Í bréfi dagsettu á Bessastöðum 4. sept. 1619 (það ár getur reyndar ekki staðiðst þar sem Gísli var ekki fæddur fyrr enn 1621, ártalið hlýtur að vera einhverntíma í kringum 1650) ritar Gísli Magnússon Birni syni sínum, er þá var við nám í Kaupmannahöfn, á þessa leið: „Þann brennistein, sem hér er að fá, hefi ég látið upptaka í sumar, sem er fáeinar lestir, svo sem fyrir lítið skip barlestarkorn; ég hefi látið leita í öllum Suðurfjöllum, ég hefi látið leita hjá Keilir og Móhálsum og var þar ei nema á 12 hesta að fá, item hefi ég látið leita á Reykjum í þeim öllum fjöllum, einnig í Henglafjöllum …“

Leynihver

Miðað við lýsinguna hefur Gísli væntanlega sótt brennistein í Hverinn eina neðan við Sogin, undir Núpshlíðarhálsi. Þá gæti hann einnig hafa skoðað Köldunámur í Sveifluhálsi sem og Leynihver í hrauninu þar skammt vestar. Sá hver er á fárra vitorði, en myndar enn brennisteinsútfellingar því jarðhiti er þar meiri en í hinum hverunum tveimur.
Í umsögn Náttúrufræðistofu vegna rannsóknarleyfis fyrir Hitaveitu Suðurnesja í Krýsuvík 2006 er m.a. minnst á Leynihver, sbr.: „Í skýrslu ÍSOR eru nefnd þrjú borsvæði á Krýsuvíkurrein. Austurengjahver, Köldunámur og Hveradalir en einnig er merktur 15 km2 reitur „… ef einhvers staðar innan hans skyldi finnast vinnsluhæfur jarðhiti. Á þessum reit er mestallur jarðhiti í Krýsuvík….“ Ekki er ljóst af hverju þessi reitur er tekinn fram, en innan hans eru Austurengjahver og Hveradalir. Ef ætlunin er að hafa „frjálsar hendur“ með boranir innan þessa reits verður það að teljast fullkomlega óeðlilegt. Krýsuvík er mjög fjölsóttur ferðamannastaður og svæðið nýtt til útivistar. Ennfremur eru þarna staðir sem eru verndaðir skv. náttúruverndarlögum og nokkrir eru á náttúruminjaskrá.“

Gná yfir Leynihver

Skýrslan er í raun dæmigerð fyrir umsagnaraðila varðandi fyrirhugaðar jarðhitarannsóknir í Krýsuvík. Allt svæðið er lagt undir og væntanlega á litlu sem engu að þyrma þegar upp verður staðið.
Í MBL í september 2007 segir t.d. um fyrirhugaðar rannsóknarboranir: „Hitaveita Suðurnesja hefur átt fund með Skipulagsstofnun þar sem kynnt voru alls sex svæði á Reykjanesskaga þar sem HS fyrirhugar borun rannsóknarholna. Svæðin eru við Trölladyngju, Köldunámur, Austurengjahver, Hveradali í Krísuvík, Sandfell og Eldvörp.“ Öll þekkja jú umgengni HS í Sogunum. Og fyrrnefnd umsögn um virkjunarkostina ætti enn að auka áhyggju fólks af því sem koma skal – ef virkjunarsinnar fá einhverju ráðið.
Í skýrslu um jarðhitakosti, Rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma, hér á landi segir Kristján Sæmundasson m.a. um Leynihver: „Í Köldunámur heita vestan í Sveifluhálsi langt norður frá jarðhitanum í Krýsuvík. Þar skammt vestur af eru gufuaugu í hraunbolla og nokkur brennisteinn (Leynihver), en í hlíðinni [Köldunámur] köld jarðhitaskella. Gipsmulningur sést sem bendir til að þar hafi einhvern tíma verið brennisteinshverir.“
Köldunámur virðast kólnaðar við fyrstu sýn, en þegar komið er upp í námusvæðið er augljóst að undir niðri kúrir hiti, enda má bæði heyra og finna hann á lyktinni – þrátt fyrir gnauðið í Gná.
Frábært veður gangan tók 1 klst og 1 mín.

Heimild m.a.:
-Kristján Sæmundsson.

Í Leynihver

Krýsuvík

Í tilefni af 150 ára afmæli Krýsuvíkurkirkju var haldin messa í kirkjunni á hvítasunnudag 27. maí 2007. Prestur var Gunnþór Ingason. Jafnframt var minnst 10. dánarártíðar Sveins Björnssonar, fyrrv. yfirlögregluþjóns í Hafnarfirði, sem síðastur manna var jarðsettur í kirkjugarðinum í Krýsuvík.
Krýsuvíkurkirkja 27. maí 2007Jónatan Garðason og Þór Magnússon tóku saman ágrip af sögu Krýsuvíkurkirkju. Birtist það í bæklingi, sem gefinn var út í tilefni tímamótanna. Í honum er saga kirkna í Krýsuvík m.a. rakin: „Talið er að bændakirkja hafi risið í Krýsuvík á fyrstu áratugum eftir kristnitöku. Örnefnið Kirkjulág í Húshólma og munnmæli gefa vísbendingu um að þar hafi staðið kirkja áður en Ögmundarhraun rann um miðja 12. öld. Krýsuvíkurkirkju er getið í kirknaskrá Páls biskups Jónssonar um 1200, en hún kemur einnig fyrir í broti úr máldaga sem varðveist hefur frá 1275. Þá var kirkjan helguð Maríu mey. Árnaannáll sem Árni Helgason biskup setti 1307 er efnislega samhljóða hinum fyrri um eignarhald og ítök í hlunnindum en lausafjár kikrjunnar er að engu getið. Krýsuvík var sérstakt prestakall og kirkjulén og var hálfkirkjunni í Herdísarvík þjónað þaðan. Krýsuvíkurkirklja átti í löndum alla heimajörðina Krýsuvík, alla Herdísarvík, níu mæla land á Þórkötlustöðum í Grindavík og fjórðung jarðarinnar Vatnsleysu á Vatnsleysuströnd. Hún átti umtalsverð ítök í hvalreka og viðreka í Selvogi, auk búfénaðar.
Krýsuvík var beneficium fram til 1563 er prestakallið var lagt niður þó prestar og kapellánar sætu staðinn lengieftir það. Selvogsprestar áttu um langan veg að fara til messu í Krýsuvík því milli Strandarkirkju og Krýsuvíkur er hálf þingmannaleið. Messað var þriðja hvern sunnudag á sumrin, en fjórða hvern á veturna, samkvæmt sýslu- og sóknarlýsingu séra Jóns Vestmann frá 1843. Krýsuvík var höfuðból í kaþólskri tíð og hagur staðarins fór þverrandi eftir siðarskipti, einkum eftir að jörðin komst í bændaeign 1787.

Krýsuvíkurkirkja 1810

Skoski vísindamaðurinn Scott McKenzie kom til Krýsuvíkur 1810 ásamt Richard og Henru Holland, sem lýstu staðháttum í dagbók sinni: „Þetta er ömurlegur staður, sex eða átta kofar standa þar á víð og dreif á ósléttu svæði við rætur á starkri hæð. Stolt og prjál staðarins er timburkirkja…“. Þegar inn í kirkjuna kom barst þeim óþefur af hertum fiski og eftirfarandi sjón: „Gólfið var svo óslétt, að við hefðum naumast getað skorðað tjaldsængina okkar þar, og ofan á allt annað var svo hið litla gólfrými fyllt með kössum, timbri og alls konar skrani. Predrikunarstóllinn í þessari einstöku byggingu Krýsuvíkurkirkja 1887stendur undir annarri hliðinni, og snýr gegnt kirkjudyrum. En svo lágt er undir loftið yfir honum, að presturinn verður annaðhvort að sitja eða krjúpa eða vera kengboginn, meðan hann flytur ræðu sína.“ [Mynd, sem dregin var upp af Krýsuvíkurkirkju og nágrenni þetta sama á, sýnir afstöðu hennar og bæjarins. Fremst á myndinni er Ræningjadysin, sem síðar fór undir þjóðvegsstæðið].
Hálfri öld síðar var kirkjan úr sér gengin og ákveðið að byggja nýtt guðshús. Beinteini Stefánssyni hjáleigubónda í Krýsuvík var falið að annast smíðina. Hann hófst strax handa við að safna veglegum rekatrjám og vinna þau í stoðir og borðvið. Hann vandaði til verksins og byggði nýja kirkju af slíkum hagleik að hún stendur enn 150 árum eftir að hún var vígð. Kirkjan hefur að vísu verið endurbyggða að stórum hluta, en burðarvirkið og lögun hússins er verk Beinteins. Krýsuvíkurkirkja þjónaði söfnuðinum til 1929 en þá var hún aflögð sem helgidómur og rúin öllum verðmætum.
Krýsuvíkurkirkja 1887Nokkru eftir afhelgunina fékk Magnús Ólafsson fjárbóndi í Krýsuvík mág sinn til að breyta kirkjunni í gripa- og íbúðarhús. Magnús bjó í kirkjunni til 1945 er hann flutti til fjölskyldu sinnar í Hafnarfirði vegna heilsuleysir. [Loftur Jónsson í Grindavík var einn þeirra manna er heimsótti Magnús í kirkjuna. Sagðist hann vel muna að rúmfletinu í suðaustuhorninu]. Fljótlega eftir að síðasti íbúi gömlu byggðarinnar undir Bæjarfelli flutti burt grotnaði húsið niður. Björm Jóhannesson, forseti bæjarstjórnar og formaður Krýsuvíkurnefndar, vildi byggja kirkjuna upp á eigin kostnað og réð Sigurbent Gíslason til að stjórna endursmíðinni. Sigurbent var dóttursonur Beinteins kirkjusmiðs og nánast sjálfkjörinn til verksins. Björn vildi tryggja verndun kirkjunnar til frambúðar og fékk samþykki bæjarstjórnar til að fela þjóðminjaverði umsjón hennar.
Krýsuvíkurkirkja 1964Herra Sigurbjörn Einarsson biskup og séra Garðar Þorsteinsson sóknarprestur í Hafnarfirði önnuðust endurvígslu Krýsuvíkurkirkju 31. maí 1964 og við sama tækifæri var hún færð Þjóðminjasafninu til varðveislu. Gömul altaristafla frá Þjóðminjasafninu var hengd upp fyrir athöfnina, kirkjan fékk kirkjuklukku og tvo altaristjaka að gjöf sem steyptir voru eftir gömlum stjökum. Ljósahjálmur og vegglampar sem Sigurbent Gíslason gaf kirkjunni voru einnig hengdir upp. Björn hafði lokið ætlunarverki sínu er hann andaðist 22. nóv. 1964 sáttur við guð og menn. Nokkru seinna hurfu kirkjugripirnir en altaristöflunni var komið fyrir í geymslu. (Skv. óstaðfestum upplýsingum munu áhafnameðlimir á Suðurnesjabát hafa tekið gripina í brýaríi og tekið þá með sér í siglingu til Þýskland þar sem gripirnir voru seldir lægstbjóðanda. Þessir menn eru enn á lífi svo ekki er of seint fyrir þá að iðrast og bæta fyrir gjörðir sínar – enda hafa þeir vel efni á því).
Kirkjan  var látin afskiptalaus um árabil en þegar kom fram á miðjan níunda áratug 20. aldar var ástand hennar mjög bágborðið. [Hér ber að hafa í huga að forstöðumenn og vinnuskólanemar í Krýsuvík á sjöunda áratugnum gættu Á 150 ára afmæli Krýsuvíkurkirkju - Þór Magnússon. f.v. þjóðminjavörður fremstkirkjunnar mjög  vel og fóru m.a. reglulega að henni til að sjá til þess að þar væru engu raskað. Auk þess fylgdust Hafnarfjarðarskátar reglulega með kirkjunni og hlúðu að henni eftir föngum]. Gluggar voru [síðar] brotnir, hurðin ónýt og veruleg hætta á að kirkjan yrði eyðileggingu að bráð. Sveinn Björnsson listmálari hafði um árabil haft vinnustofu í bústjórahúsinu í Krýsuvík. Hann kom reglulega við í Krýsuvíkurkirkju og rann til rifja ástand hússins. Fyrir hans tilstilli var hafist handa við að mæla kirkjuna upp og undirbúa endurbætur á henni.“
Hér ber að bæta við að hvorki Þjóðminjasafnið né Hafnarfjarðarbær hafa sýnt Krýsuvíkurkirkju viðhlítandi skilning. Einstaklingar hafa jafnan gætt kirkjunnar og staðið vörð um heill hennar. Peningar og hagræðing hafa verið hennar helsti óvinur í gegnum aldirnar – líkt og verið hefur undanfarna áratugi.
Fumkennd viðbrögð við ástæðulausum hættum hafa jafnan skemmt heildarmynd kirjunnar. Svo mun einnig verða um sinn. Krýsuvíkurkirkja er hins vegar miðlægt tákn um kjarnabyggð í íslensku samfélagi, líkt og verið hefur allt frá upphafi búsetu hér á landi – að vísu í annarri mynd fyrstu aldirnar, en síðan óraskað í u.þ.b. 1007 ár. Er það ekki a.m.k. einnar viðurkenningar virði? Kirkjan, í sínu náttúrulegasta umhverfi, hefur verið mörgum mikilvægt skjól – einnig þegar hún hafði verið afhelguð. Háreistar kirkjubyggingar og skrauti hlaðnar virðast ekki ná slíkri skírskotun til fólks sem einfaldleiki lágreisnarinnar í Krýsuvík. Hvar var kirkjumálaráðherrann á þessum þjóðlegu tímamótum?“
Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja.

 

Eldvörp

Eftirfarandi eru opinberar umfjallanir um svonefnd „Tyrkjabyrgi“ í Sundvörðuhrauni ofan Grindavíkur:

Tyrk-9Ferðir á Suðurlandi sumarið 1883 eptir Þorvald Throddsen.
„Af Reykjanesi fórum við í Grindavík, eru eintóm hraun á leiðinni. Úr Grindavík fór jeg upp í Eldvarpahraun, í því skoðuðum við á einum stað gamlar mosivaxnar rústir, pær er mjög illt að finna á afskekktum stað í versta brunahrauni, hafa þær líklega einhvern tíma fyrir löngu verið einhverjum til athvarfs, sem einhverra orsaka vegna hefir orðið að flýja úr byggðinni.“

Heimild:
-Fróði, 4. árg 1883, 119. tbl., bls 345

Ferðir á suðurlandi sumarið 1883 eptir þorvald Thoroddsen.

Tyrk-8

„Frá Járngerðarstöðum í Grindavík fórum við upp í Eldvarpa-hraun; það er mjög nýlegt, og fjarska-illt yfirferðar ; hesti er ómögulegt að koma við og illfært gangandi manni. Í því skoðaði jeg á einum stað gamlar, mosavaxnar rústir; þær er mjög illt að finna: á afskekktum stað í versta brunahrauni. Þar hefir líklega einhvern tíma í fyrndinni verið athvarf manns, sem oinhverra orsaka vegna hefir orðið að flýja úr byggðinni. Ekki er hægt að sjá þessar rústir fyr en maður er rjett kominn að þeim; standa þær í kvos, á flötum hraunbletti, og há hraun allt í kring. Fram á miðjum fletinum eru 3 kofar, allir hlaðnir úr hraunhellum og hleðslan víðast einföld; gjört hefir verið yfir byrgi þessi með stórum hraunhellum.

Eldvörp

Eldvörp – byrgi.

Allir eru kofar þessir smáir, 15 — 18 fet á lengd. Stærsti kofinn er inn í hraunviki; hafa hraunbrúnirnar verið notaðar fyrir veggi. Bak við þennan kofa var hlaðin tótt, djúp eins og brunnur; þar fundum við hálflúna tiltelgda spýtu undir mörgum hraunhellum og mosa. Önnur hringmynduð rúst var þar í nánd. Uppi á hæstu hraunbrúninni fyrir ofan var enn eitt byrgi, alveg eins og það hefði verið notað til þess að skyggnast um. Allar eru rústir þessar mjög gamlar, því á þeim var nærri eins þykkt mosalag eins og á hrauninu sjálfu. Enginn veit neitt um þessa kofa; þeir fundust af tilviljun fyrir nokkrum árum.

Heimild:
-Andvari, 10. árg. 1884, 1. tbl., bls. 46

Brynjúlfur Jónsson, rannsókn í Gullbringusýslu- Árbókin 1903.
Tyrk-7„Útilegumannabæli hafa menn álitið rústir nokkrar í hrauninu fyrir ofan Húsatóftir, svo sem 1 1/2 kl.tíma þaðan ef mannavegur væri. En líttfært er að komast þangað nema á einn veg, með því að fara langan krók og þó mjög vandfarið. Má nærri geta, að þar er lítið um mannaferðir, þar eð enginn vissi af rústum þessum fyr en þær fundust af tilviljun litlu eftir 1870. Mér þótti einsætt að koma á þennan stað, en gat ekki uppspurt neinn, er hefði komið þar, utan Sæmund bónda Jónsson á Járngerðarstöðum. Hann hafði tvisvar komið þar.

Eldvörp

Eldvöro – byrgi.

Í síðara skiftið fylgdi hann Dr. Þorvaldi Thoroddsen þangað. En Sæmundur er nú orðinn sjónlaus. Fékk eg því með mér tvo aðra hina líklegustu. Leituðum við nær heilan dag, en fundum ekki. Leitaði eg þá til Sæmundar. Hann gat lýst afstöðu staðarins svo nákvæmlega, að eftir þeirri lýsingu fundum við Einar hreppstjóri Jónsson á Húsatóftum staðinn daginn eftir. Hraunið þar um kring lítur út fyrir að vera eitthvert yngsta hraunið á Reykjanesskaga, — þar má víða sjá, hvernig hraunflóðin liggja hvert ofan á öðru, — og er þetta hraun eitthvert hið hrikalegasta og órennilegasta sem eg minnist að hafa séð; eintómir standar og snagar, gjár og glufur.

Tyrk-6

Þar er ekkert grasstrá á stóru svæði, en aðeins grámosi. Gangandi menn geta með lagi komist um það, og er þó hætta. Enda eiga menn þangað ekki erindi og fýsast þangað ekki heldur. Aðrar skepnur fara þar ekki um, nema »fuglinn fljúgandi«. Rústirnar eru í kvos, þar sem hraunið hefir klofnað Og sinn hraunrimi oltið fram hvorumegin, eftir flötu hrauni, sem áður hefir verið storknað. Sér að eins á einn veg út úr kvosinni, og á þeim stað er það, sem koma má þangað hesti, ef gætilega er farið. Við fundum þar 7 tóftir og var hver laus við aðra. Tvær eru afsíðis, suður með austurbrúninni, þær eru litlar og huldar mosa. Inni í kvosinni eru 3 tóftir, sem mynda röð yfirum hana þvera. Hin stærsta þeirra er við vestrbrúnina, nálægt 6 al. löng. 2 fðm. austar er önnur 5 al. löng, og þá 7 fðm. austar hin þriðja, 4 al. löng, og er hún við austurbrúnina. Allar eru þær jafnvíðar: rúml. 2 al.; þær eru bygðar af smáum braunhellum og aðrar stærri hafa myndað þak, en eru nú fallnar ofan í. Veggirnir standa lítt haggaðir: eru gaflar hæstir og dyr á hliðinni við annan gaflinn, eins á öllum.

Tyrk-5

Vindaugu eru á veggjum og göflum. Eigi snúa þær göflum saman og eigi heldur hliðum, en horfa skáum hver við annari. Ekki virtust okkur þær líklegar til íbúðar, en hefðu getað verið geymsluhjallar, t. a. m. fyrir þurkað kjöt. Í kvosarbotninum er hringmynduð tóft, svo lág, að veggirnir eru mosa huldir. Það gæti verið niður hrunin fjárrétt. En eigi bendir það þó til þess, er Sæmundur sagði: að í henni hefði hann fundið ösku og skörung úr járni. Inn frá stærstu tóftinni er í hraunbrúninni glufa milli kletta. Sú glufa hefir verið notuð fyrir tóft; hlaðið í skörð og svo reft yfir með breiðum hraunhellum. Þær eru nú fallnar ofan í og hleðslan að nokkru leyti líka. Þetta kynni helzt að hafa verið íveruhúsið. Þar er skjól gott og fylgsni gott. En ólíklegt er, að menn hafi getað dvalið til lengdar á þessum stað.

Tyrk-3

Þar hefir víst verið »á flestu góðu mesta óhægð«. Þar hefir ekkert verið til eldiviðar, því þá hefir mosinn ekki verið kominn. En gerum ráð fyrir, að íbúar hafi eigi kært sig um eld, hafi eigi viljað láta reyk sjást eða reykjarlykt finnast frá hýbýlum sínum. En þá er einn gallinn þó verstur. Þar fæst ekkert vatn nema regnvatn, eða snjór á vetrum. Var því ekki hægt að vera þar lengi í einu. Ekki er hægt að skilja, til hvers litlu tóftirnar, sem fyrst getur, hafa átt að vera. Þær eru svo smáar, að það er eins og börn hafi bygt þær að gamni.

Eldvörp

Eldvörp – byrgi.

Og trúa mundi eg, að þetta væri alt saman eftir stálpuð börn t. a. m. 10—14 ára gamla drengi ef líklegt væri, að þeir hefði komið á þenna stað. En það sýnist mér ekki vera. Á vorum dögum mundu flestir drengir kjósa annað til skemtunar, en að leita leiksviðs í ófæru hrauni Og fyrrum hefir hraunið þó verið enn verra yfirferðar, er það var mosalaust og lítt samansigið. Hafi drengir fyrri alda haft slíkar glæfraferðir fyrir barnleiki, og séu þessar menjar eftir þá, þá eru þær merkilegar fyrir þroskunarsögu vora. Og þó þær séu eftir útilegumenn, eru þær merkilegar. Auk þess sem þær sýna eymdarstöðu slíkra manna og það þrek, sem þurfti til að lifa í henni, þá sýna þær einnig það áræði, sem, þrátt fyrir hættuna, horfði ekki í að vera svo nærri mannabygðum. »Karlmennsku hugurinn harði« lýsir sér á sinn hátt í hvoru tilfellinu sem er.“

Heimild:
-Andvari, 10. árg. 1884, 1. tbl., bls. 46

Björn Þorsteinsson:
Rústirnar í Grindavíkur-hrauni
Undarleg mannvirki
Tyrk-4„Á síðara hluta síðustu aldar fundu menn óvænt mannvirki inni í miðju Grindavíkurhrauni og ollu þau ýmsum nokkrum heilabrotum. Brynjólfur Jónsson frá Minna-Núpi og Þorvaldur Thoroddsen  athuguðu þau báðir, og skrifuðu um þau, annar í Árbók fornleifafélagsins 1903, en hinn í Andvara, en síðan hafa menn ekki veitt þessum fornleifum frekari eftirtekt, þangað til síðastliðið vor. Eins og kunnugt er ritaði Halldór Kiljan Laxness „Litla samantekt um útilegumenn“ í Tímarit máls og menningar 1949 og komst að þeirri niðurstöðu, að útilegumenn hefðu sennilega aldrei verið til á Íslandi að Fjalla-Eyvindi undanskildum. Unnendun útilegumanna fannst Kiljan gerast ærið stórhöggur í þessari grein og tala gálauslega um viðkvæmt málefni. Útilegumenn hafa þess vegna komizt aftur á dagkrá, og á næstu árum mun verða úr því skorið, hverju menn eiga að trúa í þessu efni.
Tyrk-2Síðastliðið vor tóku nokkrir menn sig til og leituðu rústanna, sem Brynjólfur og Þorvaldur geta um, að séu í Grindavíkurhrauni, ef vera kynni að þar leyndust „augljós merki um útilegumanna-byggð. Eftir árangurslausa ferð fundu þeir rústirnar að tilvísan oddvitans í Grindavík, og nú kom í ljós, að sízt hafði verið frá þeim logið. Þessar tættur eru þær langmerkustu sinnar tegundar, sem fundizt hafa, og sumar þeirra svo kyndugar, að engum getum er hægt að leiða að því, til hvers þær hafa verið notaðar. Eitt af þessum furðuverkum er rúst, sem minnir einna helzt á skýlin á áfangastöðum strætisvagnanna. Þetta eru þrjár skeifulaga tættur, sem snúa göflunum saman, en um 120 gráða horn myndast milli opanna. Uppi á hraunbrúninni er rúst af hringlöguðum hrauk, ummál 75 sm. á lengd og 60 sm. á breidd, mesta hæð 122 sm. Þetta eru aðeins tvö af þeim tíu undarlegu mannvirkjum, sem þarna getur að líta, og munu margir spyrja, hvers konar fólk hafi verið hér að verki.
Varnir gegst Tyrkjum?

Tyrk-1

Í  Ferðabók Þ. Thoroddsens, I. b. Khöfn 1913, bls. 174—’75 segir Þorvaldur frá þessum fundi sínum: „Frá Járngerðarstöðum í Grindavík fórum við upp í Eldvarpahraun. Það er mjög nýlegt og fjarska illt -yfirferðar. Hesti er ómögulegt að koma við og illfært gangandi manni. Hraunið er grátt af gamburmosa, en mjög lítill jurtagróður er þar annar. Í því skoðaði ég á einum stað gamlar mosavaxnar rústir. Þær er mjög illt að finna: á afskekktum stað í versta brunahrauni. Þar hefur líklega einhvern tíma í fyrndinni verið athvarf manns, sem einhverra orsaka vegna hefur orðið að flýja úr byggðinni. Ekki er hægt að sjá þessar rústir fyrr en maður er rétt kominn að þeim. Standa þær í kvos á flötum hraunbletti og há hraun allt í kring.

Eldvörp

Eldvörp – byrgi.

Fram á miðjum fletinum eru þrír kofar, allir hlaðnir úr hraunhellum og hleðslan viðast einföld. Gjört hefur verið yfir byrgi þessi með stórum hraunhellum. Allir eru kofar þessir smáir, 15—18 fet á lengd, og snúa dyrnar til norðurs. Stærsti kofinn er inni í hraunviki. Hafa hraunbrúnirnar verið notaðar fyrir veggi. Bak við þennan kofa er hlaðin tóft djúp eins og brunnur. Þar fundum við hálffúna tiltelgda spýtu undir mörgum hraunhellum og mosa. Önnur hringmynduð rúst var þar í nánd. Uppi á hæstu hraun brúninni fyrir ofan var enn eitt byrgi alveg eins og það hefði verið notað til þess að skyggnast um. Allar- eru rústir þessar mjög gamlar, því að á þeim var nærri eins þykkt mosalag og hrauninu sjálfu.
Enginn veit neitt um þessa kofa. Þeir fundust af tilviljun 1872. Það er mjög ólíklegt, að hér hafi – verið mannabyggð að staðaldri; líklegra er, að kofum þessum hafi verið hróflað upp til bráðabirgða á ófriðartímum, og að menn hafi flúið í hraunið úr Grindavík. Þar hefur oft verið agasamt.
Tyrk-10Englendingar og Þjóðverjar borðust þar 1532, og 1627 herjuðu Tyrkir á byggðina. Gamlar sagnir geta um stigamenn eða útilegumenn á Baðvöllum einhvers staðar nálægt Grindavík, en hvort rústirnar standa í nokkru sambandi við þá illvirkja er efasamt.“
Barnagarðar?
Þorvaldur veit auðsæilega ekki hvað hann á að halda um þessi mannvirki, og sömu sögu er að segja um Brynjólf frá Minna-Núpi. Þegar hann fór að leita rústanna var Sæmundur bóndi Jónsson á Járngerðarstöðum, sá sem fylgdi Þorvaldi Thoroddsen um Grindav.hraun orðinn blindur. Fékk hann þá með sér tvo kunnuga menn, og leituðu þeir „nær heilan dag, en fundu ekki“. Með tilvísan hins blinda manns tókst þeim þó að finna rústirnar í annarri atrennu. Í Árbók fornleifafélagsins heldur Brynjólfur helzt, að tætturnar 3 í kvosinni hefðu getað verið geymsluhjallar, t.a. m. fyrir þurrkað kjöt. Í kvosarbotninum er hringmynduð tóft svo lág, að veggirnir eru að mestu mosa huldir.
Það gæti verið tyrk-11niðurhrunin fjárrétt, en eigi bendir það þó til þess er Sæmundur sagði; að í henni hefði hann fundið ösku og skörung úr járni“. Brynjólfur fellst á, að þarna hafi verið gott fylgsni, en ólíklegt er, að menn hafi getað dvalizt til lengdar á þessum stað. Þar hefur víst verið á flestu góðu mesta óhægð“,“ og bendir á, að þar hafi hvorki verið vatn né eldivið að fá. Kunnugir menn í Grindavík segja, að vatnsból sé sæmilegt í djúpri gjá sunnan við Eldvarpahraun um 20—30 mín. gang frá rústunum, en eldiviður hefur auðvitað verið enginn nema mosi.
Brynjólfur bendir á, að sumar af tóftum þessum eru svo smáar, „að það er eins og börn hafi byggt þær að gamni, og trúa mundi ég, að þetta væri allt saman eftir stálpuð börn, t.a.m. 10—14 ára gamla drengi, ef líklegt væri að þeir hefðu komið á þennan stað, en það sýnist mér ekki vera. Á vorum dögum mundu flestir drengir kjósa annað til skemmtunar en að leita leiksviðs í ófæru hrauni, og fyrrum hefur hraunið þó verið enn verra yfirferðar, er það var mosalaust og lítt saman sigið.
tyrk-12Hafi drengir fyrri alda haft slíkar smáglæfraferðir fyrir barnaleiki og séu þessar menjar eftir þá, þá eru þær merkilegar fyrir þroskunarsögu vora, og þó þær séu eftir útilegumenn eru þær merkilegar, auk þess 
sem þær sýna eymdarstöðu slíkra manna og það þrek sem þurfti til að lifa í henni; þá sýna þær einnig það áræði, sem þrátt fyrir hættuna horfði ekkj í að vera svo nærri mannabyggðum. „Karlmennskuhugurinn harði“ lýsir sér á sinn hátt í hvoru tilfellinu sem er.“

Junkerarnir í Grindavík

Gerðavellir

Gerðavellir; Junkaragerði – uppdráttur ÓSÁ.

Þorvaldur og Brynjólfur vilja ekkert fullyrða um það, hverjir hafi staðið að húsagerðinni í Grindavíkurhrauni, en rústirnar benda ótvírætt til þess, að einhvern tíma í fyrndinni hafi menn hafzt þar við. Skammt frá sjálfum tóftunum sér móta fyrir aðhaldi og lítilli  rétt, en hverjir áttu að smala á þessum slóðum? Ef einhverjir óbótamenn hafa búið þarna, er harla ólíklegt, að einhver sögn um þá hefði ekki varðveizt, og nú vill svo vel til, að meðal Grindvíkinga hefur varðveizt saga um „útilegumenn“ á Reykjanessskaga. Brynjólfur frá Minna-Núpi skrásetur þessa sögu, og er hún prentuð í Huld, H. b., útg. 1892, bls. 58—60.
Einhvem tíma í fyrri daga höfðu nokkrir menn — tólf eða átján — hafzt við í óbyggðinnl
milli Grindavíkur, Hafna og Njarðvíka.
Tyrk-13Áttu þeir sitt skip í hverri þessari veiðistöð og höfðu þar rammgjört gerði til að geyma skipið og það, er til þess heyrði. Enn heitir bær einn í Höfnum Junkaragerði, og gömul girðing, er leifar sjást af á Gerðavöllum milli Járngerðarstaða og Húsatófta í Grindavík, er líka kölluð Junkaragerði. Eiga þeir að hafa haldið sig  þar, er þeir voru í Grindavík, og róið út úr Stóru-Bót, sem þar er hjá. Þar er að vísu ekki ræði, nema brimlaust sé, og vindur standi af landi. En junkarar reru heldur aldrei nema þar sem vindur stóð af landi, og þá er svo var hvasst að aðrir reru ekki. Þá er logn var, voru þeir í landi, komu þá til bæja og réðu einir öllu hjá konum, meðan karlmenn voru á sjó. Höfðu menn því illan hug á þeim, en þorðu ekki á þá að ráða, því að þeir voru mestu garpar. Og þó að að menn kæmist í gerði þeirra, þá er þeir voru ekki við, þorðu menn eigi að láta junkara sjá þess merki, þá var við hefnd að búast. Menn vildu samt fyrir hvern mun ráða þá af dögum og leituðu ýmissa bragða til þess. Einu sinni boruðu menn göt á skip þeirra upp við hástokk, þar sem ekkert bar á, fyrr en skipið var orðið  hlaðið. Þá rann sjór inn um götin; en junkarar flöttu þá fisk og lögðu fyrir þau og björguðust svo til lands. Í annað sinn voru dregnir af keiparnir, keipanaglarnir sagaðir sundur til hálfs og keiparnir svo reknir á aftur. Naglarnir brustu, þá er í land skyldi róa, því að þá var mótvindi. Þá reru junkarar við hné sér til lands. Í þriðja  sinn voru skautarnir dregnir af árum þeirra, árastokkarnir svo sagaðir sundur til hálfs eða meira, skautarnir síðan negldir á aftur, svo að ekki bar neitt á neinu. Nú reru junkarar, er vindur stóð af landi, en í það sinni komu þeir ekki að landi aftur. Sagt er; að hverjir fyrir sig: Grindvíkingar, Hafnamenn og Njarðvíkingar hafi lengi eignað sér það, að þar hafi junkarar verið af dögum ráðnir.
Tyrk-14Þessari sögu fylgir skýringarklausa frá Brynjólfi á Minna-Núpi: Þessi munnmæli voru mér sögð í Grindavík 1861. En seinna hefur mér dottið í hug, að þessi sögn kunni að standa í sambandi við tóftarústir þær, er sjómenn frá Húsatóftum í Grindavík – einn af þeim var Guðmundur, bróðir minn — fundu veturinn 1872 norðan í Sundvörðu-hrauninu, þar sem á stóru svæði er hvergi stingandi strá, og engin umferð af mönnum ná skepnum enda hafði þá enginn heyrt þeirra rústa getið áður. Þorvaldur Thoroddsen fann þær líka er hann rannsakaði Reykjanesskagann, og áleit eins og hinir, að þar hafi verið mannahýbýli.

Vafasamt junkaragerði

Eldvörp

Eldvörp – órannsakað byrgi.

Þetta er eina sögnin, sem hægt er að tengja við tóftirnar í Sundvörðuhrauni, en hún hefur á sér ýmis einkenni góðrar þjóðsögu. Junkararnir eru 12 eða 18, en talan 13 er algeng í þjóðsögum um líkt efni. Í Grindavík lifði einnig saga um 15 þjófa í Þjófagjá í Þorbjarnarfelli en hún er farandsögn, sem ekkert á skylt við þessar rústir. Þrjár tilraunir eru gerðar til að ráða junkarana af dögum, og heppnast síðasta tilraunin,- en slík efnisatriði eru einkenni allra góðra þjóðsagna. Sannfræði þessarar sögu er því býsna vafasöm, en engu að síður standa rústirnar í Sundvörðuhrauni sem óbrotgjarnt vitni þess, að þar hafa menn verið að verki og sennilega dvalizt einhvern tíma.

Tyrk-15

Ef bófaflokkur hefur haft þar bækistöð sína ætti að finnast einhver urmull af beinum eða öðrum úrgangi þar í grendinni, en þess sér engin merki. Útilegumanna-dýrkendur benda þó réttilega á, að tætturnar séu mjög gamlar, því að þær eru huldar þykku mosalagi. Fangamark útilegumanna getur því birzt einn góðan veðurdag undir mosalaginu.
Það er eftirtektarvert við rústirnar, að byggingarlag þeirra bendir til þess, að það sé miðað við þá möguleika, sem hraunhellurnar í nágrenninu skópu byggingameisturunum. Stærstu hraunhellurnar eru um 90 sm. á lengd, en tætturnar eru frá því um 50 sm til 80 sm. á breidd nema ein. Hún er um 150 sm., þar sem hún er breiðust. Þar hefur þó verið hlaðinn milliveggur, svo að þakhellurnar hafa ekki þurft að vera nema um 80 sm. til þess að ná milli veggja. Ef hér er um mannabústaði að ræða, þá er enginn öfundsverður af því að hafa hafzt þarna við. Mér er ókunnugt, að orðið junkari komi fyrir annars staðar í þjóðsögum. Orðið kemur inn í íslenzkuna á ofanverðum miðöldum og er þá oft skrifað jungkæri, og bæjarnafnið Junkaragerði er skrifað Junkæragerði í Jarðabók Árna Magnússonar. Orðið jungkæri var notað um yngissveina af tignum ættum, en hefur festst t.a.m. í Þýzkalandi við landeigendaaðalinn.
Inn í íslenzkuna er orðið auðvitað komið úr þýzku eða dönsku, en Þjóðverjar höfðu miklar bækistöðvar á þessum slóðum á 16. öld. Það er álítið kátbroslegt, að tignarheiti einnar illræmdustu landeigenda stéttar Evrópu skuli tengt við kot eitt suður í Höfnum og þjóðsögn um kvennagull, sem eiga að hafa búið á óbyggðum Reykjanesskaga.“

Bréf sem varðveitt er í skjalasafni Þjóðminjasafns Íslands skrifað af Jóhanni Briem 17. apríl 1950 daginn eftir að hann skoðaði byrgin.
Útilegmannabæli í Grindarvíkurhrauni.
Brynj. Jónss. Árb. Fornleifafél 1903, bls. 45-46
Sami Huld ( annað heftir) 1892, bls. 59-60
Þorv. Thor. Ferðabók I. Bls 174-175

eldvorp-tyrkjabyrgi-551

Engin þessara heimilda getur um afstöðu rústanna, þannig að hægt sé að finna þær eftir því. En rústirnar eru vel faldar langt inni í stórum hraunfláka, sem hallar lítið eitt til suðurs.
Afstöðunni er hægt að lýsa þannig. Rústirnar eru sunnan við Eldvörpin um 1 km nokkuð austar en hásuður frá því eldvarpinu sem næst þeim er, en það er eina eldvarpið sem jarðhiti er í og sést stundum úr því gufa. Frá rústunum ber Sundvörðuna næstum í toppinn á Þorbirni. Sundvarðan er örnefni á austurhorni hraunsins, þar sem gatan liggur frá Húsatóftum norður í Njarðvíkur. Varðan sést langt til og er auðkennd á kortum. ( Greinilegustu á herforingjaráðskortunum 1:50 000) 1000 metra austur frá Sundavörðunni og sé fylgt línunni, að vörðunni ber í toppinn á Þorbirni, lendir maður á suðurbrún hvammsins, sem rústirnar eru í. Þar er lítil varða uppi á brúninni. En sú leið er mjög ill. Hraunið er þar eins ógreitt, eins og gamalt, mosavaxið hraun getur frekast orðið. – Sæmilega leið, en miklu lengri, má fá með því að fara frá Húsatóftum götuna sem liggur i Hafnir, allt upp að Eldvörpum. En þá fyrst stór eldgígaklasi austan við götuna og fer maður sunnan undir honum og stefnir á næsta eldvarp.

Eldvörp

Eldvörp – gígur.

Greiðast er að ganga norðan við það. Svo sunnan við það þriðja. Þegar komið er fram hjá því, sjást greiðafærar hraunbreiður liggja í suðaustur í hrauninu. Fer maður eftir þeim til S.A. þangað til komið er svo sem 1 km. Suður fyrir Eldvarparöðina. Er maður þá komin á næstu slóðir við rústirnar og verður nú að hafa stuðning af miðinu (Strandarvarða- Þorbjörn). Hraunbrúninni sem rústirnar eru í er ekki regluleg, þannig að setja megi hana á löngu svæði. Brúnin er hæst fyrir botni rústar krikans en lækkar svo til beggja hliða og víkkar hvammurinn um leið. Hann opnast móti vestri. Nokkuð má hafa það til marks, að austan rústanna eru mjög ógreiðfær hraun en miklu greiðfærari vestur frá þeim. Þó er mjótt belti af mjög ógreiðu hrauni rétt vestan við rústirnar og er ýmist hærra eða lægra en hraunið í kring. Löng lægð liggur niður eftir hraununum skammt vestan við rústirnar. Br. J. Segir í „ Huld“ að rústirnar séu norðan í Sandvörðu hrauninu ( misprentað fyrir Sundvörðu).
eldvorp-tyrkjabyrgi-vardaÞetta er mjög villandi enda skrifaði Br. J. Þessa lýsingu eftir tilsögn áður en hann kom sjálfur á staðinn. Rústirnar eru langt inni í hrauninu og hallar því þar til suðurs. Þ.TH segir ( Ferðabók I. Bls. 174): Fram á miðjum fletinum eru 3 kofar, allir hlaðnir úr hraunhellum og hleðslan virðist einföld. Þetta er misskilningur. Aðeins nyrsta tóftin er þannig hlaðin og hefur auk þess „ glugga“  á öllum hliðum og er augljóslega þurrkunarhjallur til a þurrka í fisk eða kjöt. Hinar tóftirnar hafa þykka veggi, vel hlaðna, þótt grjót hafi fallið úr þeim sumstaðar.

Sundvarða í Sundvörðuhrauni

Sundvarðan í Sundvörðuhrauni.

Spölkorn þar vestur frá eru tvær litlar tóftir saman mjög mosavaxnar og stendur hellan enn yfir dyrunum á annarri. Þessar tóftir getur Br. J um, en Þorv.Th hefur  ekki séð þær. En aftur á móti getur Þ.TH um tóft uppi á hábrúninni. Þá tóft nefnir B.J ekki og við gátum ekki fundið hana  þrátt fyrir nokkra leit. En eina mjög litla tóft fundum við, sem hvorugur (BRJ eða Þ.Th) nefnir. Hún er niðri í kvosinni við suðausturbrúnina sem svo mitt á milli rústarinnar í kvosarbotninum og þeirra þriggja sem liggja yfir um lægðina. Ef einn kofi er svo uppi á brúninni ( eins og Þ.TH segir) eru kofarnir alls 9 að tölu og allir lausir hvor við annan. Á nýju herforingjaráðskortunum ( mælikvarði 1:100 000) ættu rústirnar að vera mjög nálægt „d“ inu í orðinu „Sundvarða“.
Skrifað 17. apríl 1950 daginn eftir að ég skoðaði þennan stað.  -Jóhann Briem
Ath. „Sundvarðan“ er náttúrulegur klettur með vörðubroti á toppinum.“

Heimild:
-Fróði, 4. árg 1883, 119. tbl., bls 345
-Andvari, 10. árg. 1884, 1. tbl., bls. 46
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags árið 1903
-Nýi tíminn, 9. árg 1950, 30. tbl. bls. 3 og 6 og sama frásögn í Þjóðviljinn 3. september 1950, bls. 5 og 7.

Eldvörp

Óþekkt byrgi í Eldvarpahrauni.

Gráhella

Gráhelluhraun.
GrahelluhraunGráhelluhraun kom úr Búrfelli. Samkvæmt aldursákvörðun á mó sem kom í ljós hjá Bala á Álftanesi er Búrfell um 7240±130 ára. Í heild sinni eru öll hraunin þaðan  Búrfellshraun, en í dag bera ýmsir hlutar þess sérstök nöfn. Fyrst rann taumur niður í Straumsvík – en hann er nú grafinn undir yngri hraunum (Stórabolla- og Tvíbollahrauni, Óbrinnishólahrauni og Kapelluhrauni) utan smáskækils sem stendur þar upp úr og nefnist Selhraun. Næst rann taumurinn sem nú heitir Gráhelluhraun til sjávar í Hafnarfirði. Þú stendur nú við norðaustanverðan hraunjaðarinn. Nafnið er dregið af aflöngum hraundranga skammt suðvestar. Undir honum eru tóftir fjárskjóls frá Setbergi.
Tveir megin hraunstraumar komu frá Búrfelli. Hraunið gengur undir ýmsum nöfnum eftir því hvar það er. Sá hraunstraumur sem er Hafnarfjarðarmegin hefur eftirfarandi nöfn: Næst Búrfelli er Smyrlabúðahraun, Gráhelluhraun, Lækjarbotnahraun, Stekkjarhraun, Sjávarhraun, Arnarhraun og vestar heitir það Flatarhraun. Garðabæjarmegin er fyrst Urriðakotshraun, Svínahraun, Vífilstaðahraun, Hafnarfjarðarhraun, Hraunholtshraun, Flatahraun, Garðahraun, Gálgahraun og Balahraun.

Kjóadalur.
KjoadalurHafnarfjörður hefur jafnan verið nefndur „bærinn í hrauninu“. Í og við bæinn má þó víða finna frjóan jarðveg sem bæjarbúar hafa löngum notað sér til ræktunar. Kartöflur eru upprunnar í Suður-Ameríku. Þær bárust til Evrópu um miðja 16. öld. Garðyrkja átti ekki upp á pallborðið hjá Íslendingum sem byggðu afkomu sína á bústofni. Einhverjir kálgarðar voru í rækt á Íslandi á 17. öld en ekkert var ræktað að ráði fyrr en eftir miðja 18. öld. Árið 1754 sendi Friðrik V. boð til Íslands um að bændur ættu að láta sér annt um að útbúa kálgarða þar sem matjurtir gætu þrifist. Þrátt fyrir boð yfirvalda var það ekki fyrr en í upphafi 19. aldar að garðyrkja, og þar með talin kartöflurækt, varð almenn í landinu. Íslenskum bændum var illa við að stinga upp tún sín til að rýma fyrir matjurtagörðum. Á tíu ára tímabili, frá árinu 1801 til 1810, fjölgaði matjurtagörðum í landinu. Síðan hefur landanum smám saman lært að meta næringargildi kartöflunnar.

Í austanverðum Kjóadal sjást leifar kartöflugarða Hafnfirðinga, en í dag er dalurinn notaður til hrossabeitar.

Stekkjarhraun.
tekkjarhraunStekkjahraun var friðlýst árið 2009. Ástæðan var ekki síst stekkurinn, sem þú stendur nú í. Markmið með friðlýsingu svæðisins er að vernda útivistar­svæði í fögru hraunumhverfi þar sem jafnframt er athyglisvert gróðurlendi og sérstakar menningarminjar í miðri íbúðabyggð. Stekkjarhraun er hluti af hraunum sem runnu í Búrfellseldunum fyrir rúmlega 7000 árum. Stekkjarhraun er í beinu framhaldi af Gráhelluhrauni og hefur hraunið runnið um þröngan farveg milli Setbergshlíðar og Mosahlíðar. Aðgengi að svæðinu er gott og er það því ákjósanlegt til fræðslu og útikennslu. Með friðlýsingunni er einnig verið að vernda votlendisbletti við Lækinn þar sem hann rennur með Stekkjarhrauni, en þar vaxa m.a. horblaðka og starir sem eru fágætar tegundir í þéttbýli.

Lambagjá.
HelgadalurLambagjáin, sem reyndar er hrauntröð, er bæði löng og breið. Til marks um mikilfengleik hennar má geta þess að hún er nú friðlýst sem náttúruvætti. Áberandi mannvirki liggur þvert á Lambagjá vestarlega – há steinhleðsla. Þetta eru leifar af undirhleðslu fyrsta vatnsstokksins sem var lagður úr Kaldárbotnum um 1918. Vatninu var fleytt í opnum tréstokk að suðurenda Sléttuhlíðar þar sem það rann fram af brúninni og hripaði ofan í hraunið en kom upp í Lækjarbotnum. Þú ert núna við eina „gegnumganginn“ í gjánni; svonefnda Steinbrú. Yfir hann liggur gömul fjárgata. Önnur brú yfir gjánna er skammt austar.

Helgadalur.

Helgadalur

Helgadalur.

Um Helgadal gengur sveimsprunga. Sprungukerfið er í misgengi, sem eru  mörg á svæðinu. Má þar nefna Hjallamisgengið.  Vatnsstreymið í gegnum hraunin ofan dalsins staðnæmast við sprungurnar og vatn safnast saman í gjánum. Á vatnasviðinu er Kaldárbotnar, er tengist væntanlega m.a.  Vatnsgjánni sem er í Búrfellsgjá. Frá þessu vatnasviði fá Hafnfirðingar og fleiri hið daglega neysluvatn sitt – hið sjálfsagða, en jafnframt eina dýrmætustu lífsnauðsyn samtímans.

Kringlóttagjá.
KringlottagjaKringlóttagjá er fornt hrauntjarnarstæði  frá afrennsli Búrfells. Hún líkist Gjánum norðvestan við Kaldársel – enda varð hún til í sömu goshrinu. (Búrfell). Barmarnir eru 5-10 metra háir og mynda óreglulega skál sem er um 200-300 metrar að ummáli með formfagra klettadranga á stangli. Glóandi kvikan rann neðanjarðar frá hrauntjörninni áður en botninn storknaði og myndaði skálina. Þeir/þær/þau er geta fundið afrennslið, sem væntanlega er þá í formi hraunhellis, líkt og Hundraðmetrahellirinn í Helgadal, eru beðin um að tilkynna það Fjarðarpóstinum.

Víghóll.
VighollÖrnefnið „Víghóll“ er og hefur verið torræðni. Það er víðar til, en kunnugt um fjóra aðra Víghóla á Suðvesturlandi: einn í Selvogi, tvo í Garðabæ og einn í Mosfellssveit, auk fleiri á landinu öllu. Engra þessara nafna er getið í fornum heimildum. Í örnefnaskrá óbyggðarinnar suður frá Hafnarfirði segir, að Víghóll heiti norðan við Mygludali milli Valahnúka og Húsfells. Selvogsgata eða Grindaskarðavegur liggur milli Valahnúka og Víghóls. Getgátur hafa verið um að nefndir „Víghólar“ hafi áður haft örnefnin „Veghólar“, enda virðast þeir nánast allir í nálægt við þekktar alfaraleiðir. Ef rétt er til getið, má Víghóllinn hafa verið vegvísir á hinni gömlu vermannaleið og er þá jafnframt minnismerki um hana. Á Víghól er varða.

Valahnúkar.

Valahnúkar

Tröllin á Valahnúkum.

Valahnúkar eru móbergshryggir mynduðust fyrir um 120 þúsund árum. Víða er þar úfið og afrúnað og efst á þeim eru drangar miklir sem sumir telja vera tröll sem þar hafi steinrunnið við sólarupprás, en aðrir segja að séu valirnir sem hnúkarnir beri nafn sitt af.  Valahnúkar urðu til við gos undir jökli á síðustu ísöld líkt og Helgafell, Húsfell og Víghóll sem eru í næsta nágrenni. Strýturnar þrjár, sem líkjast steinrunnum tröllum eða jafnvel ránfuglum. eru afurðir langtíma móbergsveðrunar þar sem vatn, vindur og regnið hafa leikið sér að því að móta landslagið.  Í Valahnúkum er hrafnslaupur.

Sel(hrauns)hóll.
SelhraunshollSunnan við Hvaleyrarvatn eru m.a. leifar stekkjar. Skammt sunnan hans er stakt klofið hraunhveli í annars sléttu Hellnahrauninu (Selhrauninu). Sunnan í hólnum eru tvö op; tófugreni.
Hraunhveli myndast vegna þrýstingsáhrifa sem verða sökum mismunandi rennslishraða á milli hálfstorknaðs yfirborðs og hraunkviku undir. Hólar og hæðir í helluhraunum geta líka stafað af því að djúpir hraunstraumar kaffærðu hóla og hæðir sem fyrir voru í landslaginu. Mishæðirnar koma svo aftur í ljós þegar kvikan rennur undan storknaðri hraunskáninni í lok gossins og storkin kvikan sígur og sprungur myndast í skorpunni.

Hamranes.

Hamranes

Hamranes.

Hamranes er ein nokkurra úthæða (lágra hamra) Ásfjalls ofan Hafnarfjarðar.  Grísanes er ein þeirra, skammt norðvestar. Norðan í Hamranesinu, þ.e. þeirri hlið er snýr að Dalnum, má sjá hvernig ísaldarjökullinn hefur sorfið ofan af hamrinum og jafnframt brotið  niður brúnirnar með öllum sínum þunga svo eftir stendur mulningurinn, gríðarstórir aldarskófsmálaðir hnullungar frá náttúrunnar hendi. Grjótið hefur verið eftirsótt í garða bæjarbúa, en reynt hefur verið að hamla við efnistökunni með því að takmarka aðgengi vinnuvéla að því, enda um einstakar náttúrumyndir að ræða – nánast í miðri byggð.

Hrauntungur.

Hrauntungustígur

Hrauntungustígur.

Hrauntunga (Hrauntungur) er geil inn í Brunann (Nýja Hraun – Kapelluhraun), sem nánast hafði tekist að króa af vinina og útrýma henni. Hraunið í tungunni er frá Hrútargjárdyngju og því árþúsundum eldra, enda stangast þétt birkið og fjölbreyttur gróðurinn þar við gráleitan hraungambran í nýja hrauninu. Áhugavert er að standa í botngróinni sprungu við hraunskilin og berja augsýnilegan muninn með eigin augum. Um Hrauntungur liggur Hrauntungustígur, gömul þjóðleið milli Ketilsstígs og Áss.

Snókalönd.

SnokalondSnókalöndin, sem eru tveir grónir óbrennishólmar inni í Brunanum (Nýjahraun/-Háabruna), sem nú heitir Kapelluhraun og rann árið 1151.
Gömul gata liggur inn í Snókalöndin frá Stórhöfðastíg skammt sunnan Brunabrúnarinnar, milli hlaðins garðs á henni og hlaðins gerðis utan í hraunsnefi skammt sunnar. Varða, við götuna þar sem hún liggur inn á Brunann, vísar leiðina. Frá henni er gatan augljós yfir nýja hraunið og inn í vestari Snókalöndin. Snókalöndin eru þakin kjarri og lyngi. Þau eru hvað fegurst á haustin þegar litadýrðin er hvað mest.

Ólafur Þorvaldsson segir frá Snókalöndunum í grein sinni um „Fornar leiðir…“ í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1943-48: „Hvað liggur til grundvallar þessu nafni veit víst enginn lengur en á tvennt mætti benda. Í fyrra lagi að þarna hafi vaxið villihvönn, snókahvönn – geitla. Í öðru lagi að blettir þessir, sem hafa verið miklu gróðurríkari en umhverfið, hafi fengið nafnið land af töngum þeim og hornum sem hinn ójafni brunakantur myndar þarna í grennd og gæti því þýtt „Krókalönd“.  Í orðabók Blöndals segir að snókur sé angi eða útskiki út frá öðru stærra.
„Snókur“ táknar einfaldlega eitthvað stakt eða einstakt.

Óbrinnishólaker.

ObrinnisholakerÓbrinnishólakerið er í Óbrinnishólum – röð gígaraða í hæð sem stendur upp úr hraunhafinu vestan við Undirhlíðar. Þeir tilheyra Krýsuvíkureldstöðvakerfinu. Talið er að um tvö gos hafi verið að ræða. Um fyrra gosið í Óbrinnis­hólum er lítið vitað eða hvenær það gaus, en frá því eru a.m.k. 3 gígir og virðist gosið hafa verið á sama stað þá og í því síðara. Síðara gosið hófst fyrir 1800 árum í og voru nyrstu gosstöðvarnar í Óbrinnishólum.
Í kerinu er Óbrinnishólahellir. Hellirinn er í gjárbarminum að sunnanverðu, sunnan syðri Óbrinnishólanna. Hlaðið er gerði fyrir framan munnan, en rásin er opin inn að öðru leyti. Hún er um 15 metrar, björt og rúmgóð. Gólfið er flórað fremst, en innanvert gólfið er nokkuð slétt. Hellirinn rúmaði nokkra tugi fjár og var notað af Hvaleyrarbændum, sem nýttu sér vetrarbeitina utan í Stak og Undirhlíðum öldum saman.

Gullkistugjá.

GullkistugjaGullkistugjá er löng, en aðgengileg, sprungurein sem fer m.a. í gegnum suðausturhluta Helgafells og suður um Skúlatúnshraun þar sem hún „deyr út“ áður en kemur að Undirhlíðum. Sprungan er dæmigerð á Reykjanesskaganum, liggur í NA/SV. Séra Friðrik Friðriksson, stofnandi sumarbúða KFUM og K í Kaldárseli, gaf sprungureininni nafnið Gullkistugjá. Að öllum líkindum er nafngiftin vísan til ótal þjóðsagna um sama efni.

Selgjá – Búrfellsgjá.
Svæðið umhverfis Helgafell, Húsfell og Búfell er þakið hraunum sem eru á þekktri gosrein og þar er  misgengislægð sem nefnist Hjallamisgengið. Það er greinilegast í Heiðmörk milli Elliðavatns og Vífilsstaðahlíðar, en nær töluvert lengra til suðvesturs, allt að Kaldá. Við Búrfell eru einnig mikil misgengi og saman myndar þetta misgengja- og sprungukerfi sigdal með stefnu NA-SV sem teygir sig frá Krýsuvík og upp í Úlfarsfell.
Reykjanesskaginn er í raun allur mjög sprunginn. Á liðnum öldum hafa miklar jarðskorpuhreyfingar átt sér stað á skaganum. Þessar hreyfingar eiga sér enn stað og munu einnig eiga sér stað í framtíðinni. Mikið er um misgengi og gjár í hraununum í kringum Hafnarfjörð.
Stöðug og hæg hreyfing í jarðskorpunni veldur spennu í bergi. Spennan getur orðið svo mikil að bergið þolir hana ekki lengur og berglögin bresta. Sprungubarmarnir sem koma fram við hreyfinguna kippast þá yfirleitt til í gagnstæðar áttir og standa mishátt. Sprungur sem myndast á þennan hátt nefnast misgengi.

Strandartorfur.
StrandartorfurStrandartorfur eru tvær. Þær eru ílangar tóur undir aflöngum klettaborgum. Allt umleikis eru nýrri hraun. Selvogsgatan forna liggur skammt austan við þær.  Augljóst er að þarna hafa verið áningarstaðir fyrrum – sem og hrístaka. Neðri Strandartorfan hefur stundum  verið nefnd Kaplatór á kortum. Selvogsgatan jafnan nefnd Suðurfararvegur meðal Selvogsbúa – og gerir enn.
Kaplatóur (Strandartorfur/-Strandartóur) eru innan umdæmis Hafnarfjarðar. Í ritinu Örnefni og leiðir í landi Garðabæjar segir svo (bls. 56): „Sunnan við Mygludali og Valahnúka er farið yfir norður og austurendann á melöldu og þar telja þeir Þorkell og Óttar að Strandartorfa neðri [Kaplatór] sé en skammt sunnan við sé Strandartorfa efri (Strandartorfu efri)“. Í raun kemur Garðabæ þetta ekkert við, hvorki hvar eða hver eru nöfn einstakra tóa því þær eru allar innan umdæmismarka Hafnarfjarðar. Áningarstaðurinn stendur þó enn fyrir sínu. Ofan Strandartóu er áberandi varða.

Leynir.

LeynidalirLeynir er í Leynidölum. Örnefnið er algengt, oftast gefið þeim stöðum eru voru í hvarfi frá bæ eða alfaraleið. Landamerki Hvaleyrar og Stóra Lambhaga (nú að mestu horfið undir álverið) má sjá í Leynidölum; merkin má sjá í óskráðum vörðum, sem liggja um dalina. Ofarlega í dölum er hraunhóll og á honum hlaðið byrgi. Svæðinu hefur nú verið meira og minna raskað vegna vegagerðar og lóða. Byrgið hefur væntanlega verið skjól fyrir refaskyttu, sem beðið hefur lágfótu á ferð hennar með háum hraunkantinum. Af því er örnefnið væntanlega sprottið.

Bruninn.

Kapelluhraun

Tóur í Kapelluhrauni (Brunanum).

Megineldgígarnir sem Nýjahraun rann frá árið 1151 voru sitthvoru megin við Krýsuvíkurveginn skammt frá Vatnsskarði, s.n. Rauðhólar. Eldarnir voru hluti af Ögmundarhraunseldgígaröðinni er náði frá strönd Reykjanesskagans í suðri að Helgafelli í norðri. Hinum tilkomumiklu Rauðhólagígum hefur nú verið eytt að mestu með efnistöku, en mikilfenglega hrauntröðin, sem stærstur hluti Nýjahrauns rann frá, er enn ágætlega varðveitt ofan Bláfjallavegs. Þegar staðið er þarna á brún hrauntraðarinnar má vel gera sér í hugarlund hið mikla efnismagn, sem þarna hefur streymt fram um skeið,allt  áleiðis til sjávar austan Straumsvíkur. Tröðin, sem og hraunið, eru þakin hraungambra. Í þurrkatíð tekur hann á sig gráleitt yfirbragð, en grænt í vætutíð.

Gamla Afstapahraun.

Gamla-AfstapahraunGamla Afstapahraun rann frá eldvörpunum norðan Trölladyngju, alla leið niður að Selhrauni ofan Þorbjarnarstaða. Að vísu hefur verið talsverður ruglingur á þessu öllu saman í gegnum tíðina því svonefnt Afstapahraun, sem við þekkjum, var talið hafa verið eitt hraunanna er rann frá eldunum miklu árið 1151 – og þá frá nú eyðilagðri Eldborginni undir Trölladyngjunni. Síðan hefur komið  í ljós að áður hafði komið upp hraunlæna frá eldstöðvunum  í  Trölladyngjurana. Víða í þessu hrauni, sem rann um langan veg, má sjá myndræna hraundranga.

Skálin – Smalaskálaker.
SmalaskalaskalÍ Smalaskálahæð er „Skálin“ (Smalaskálaker), skjólgóður rauðamalarhóll í einu af fjölmörgum hraunbollum Hrútagjárhrauns.  Árið 1974 var þarna komið fyrir „listaverki“;  „Húsbyggingin“ (Das Haus Projekt) eftir Hrein Friðfinnsson. „Húsbyggingin“ byggði á sannri sögu eftir Þórberg Þórðarson, Íslenskum aðli, um sérvitring sem afræður að byggja hús þar sem innihliðin snýr út. Hreinn ákvað að taka þessa hugmynd upp og byggði húsið þannig að veggfóður þess og gardínur lágu utan á – s.s. á röngunni.

Með tímanum varð Slunkaríki að braki á víð og dreif um Smalaskálakerið. Í framhaldinu var komið þar fyrir „grind“ af listaverkinu til minningar um það – er sést enn.
Rauðhóllinn í Smalaskálakeri er merkilegastur fyrir það að þessi „litli“ rauðamelshóll skuli hafa áorkaði að stöðva framrás hrikaleika Hrútagjárdyngjuhraunsins á þessu svæði – gagnvart honum sjálfum. Þrátt fyrir álagið hefur rauðhóllinn staðið fyrir sínu og ekki látið hið mikla hraunálag yfir sig ganga.

Litli-Rauðamelur.
Rauðmalarhólar myndast þegar hraun renna út í stöðuvötn eða mýrlend – eða gos verður í sjó Litli-Rauðamelureða vatni. Nánast allir rauðhólar í nágrenni byggðarinnar eru nú horfnir því afrakstur þeirra hefur verið verið notaður í húsbyggingar og vegagerð. Á þessum stað voru Stóri- og Litli-Rauðamelur, en sá fyrrnefndi hvarf vegna námuvinnslu þegar sækja þurfti efni í vegi og húsgrunna. Eftir stendur óálitlegt djúpt ker með grunnvatni.Jarðmyndunum á Reykjanesskaga má skipta í fjóra flokka eftir gerð og aldri: 1) Elstu jarðmyndanir á yfirborði skagans eru grágrýtishraun mynduð á hlýskeiðum ísaldar eða íslausum svæðum á jökulskeiðum, yngri en 780 þúsund ára. Elsta bergið á skaganum er raunar mun yngra, en það er talið um 500 þúsund ára gamalt. Grágrýtið er að mestu leyti myndað við dyngjugos og er einkum á þremur svæðum, þ.e. á Rosmhvalanesi og Vogaheiði, Krýsuvíkurheiði og svæðinu milli Lönguhlíðar og Undirhlíða. 2) Móberg myndað á jökulskeiðum ísaldar myndar nærri allt hálendi skagans og er eins og grágrýtið yngra en 780 þúsund ára. Mest er af því í Sveifluhálsi og sunnan Kleifarvatns, í Núpshlíðarhálsi, sunnarlega í Brennisteinsfjöllum og Lönguhlíð, Bláfjöllum og Fagradalsfjalli, en einnig standa stöku móbergsfell upp úr yngri hraunum vestar á nesinu, t.d. Þorbjarnarfell, Þórðarfell og Stapafell.

Móbergið er að mestu myndað við gos undir jökli á jökulskeiðum, en móbergsfellin vestast og syðst gætu þó verið mynduð við gos í sjó.  3) Hraun frá lokum síðasta jökulskeiðs og nútíma þekja mestan hluta skagans. Þeim hefur verið skipt í þrjá flokka eftir gerð og aldri. Elstar eru frekar litlar dyngjur, en þær eru taldar 11.000-13.000 ára, þá eru stórar dyngjur, taldar 8.000-10.000 ára, og yngst eru sprunguhraun yngri en 8.000 ára og sprungureinagosin frá því fyrir ca. 3000 árum. Litli-Rauðamelur, þótt lítill hafi verið, er nánast eina ummerkið eftir hina fornu „rauðameli“ á Reykjanesskaganum. Fyrirhugað er að leggja hluta hinnar nýju Reykjanesbrautar yfir hann.

Þorbjarnarstaðaker.
ThorbjarnarstaðakerÍ örnefnalýsingu Þorbjarnarstaða segir: „Rétt sunnan við „Skarðið“ var vik í „Brunann“. Hér vestur af eru klettaborgir miklar; í lægð milli þeirra er Þorbjarnarstaðaker, djúpt jarðfall, og var þar hætta fyrir fé. Það komst ekki upp úr. Þorkell Árnason bóndi á Þorbjarnarstöðum hlóð tröppur upp, og eftir það var fé engin hætta búin.“
Þorbjarnarstaðakerið, sem er dæmigert jarðfall, þótt lítið sé, er vandfundið, líkt og önnur mannvirki í Hraununum. Það er þó þarna. Hleðslan er áþreifanlegur minnisvarði um Þorkel bónda – og burkninn, sem þar vex nú, er hinn ágætasti minnisvarði um þann ágæta mann. Þorkell, sem var frá Guðnabæ í Selvogi, og Ingveldur, dóttir Jóns Guðmundssonar hreppsstjóra á Setbergi (Guðmundar Jónssonar hins fjárglögga úr Tungunum), einnig þá í Garðahreppi, áttu 11 börn. Þorkell var löngum við róðra eða vinnumennsku annars staðar, en Ingveldur annaðist bæði uppeldi barnanna og búreksturinn. Segja má því með sönnu að Ingveldur Jónsdóttir hafi verið dæmigerð móðir, dugnaðarkona og því verðug að minnast – ekki síst í ljósi síðari tíma krafna um jafnrétti versus ábyrgð og skyldur.
Sá einn sem fær tækifæri til að standa á barmi Þorbjarnarstaðakersins, staldra við og horfa niður á hleðslurnar og gróðurinn, veit hvaða mikilvægi fortíðin hefur fyrir nútíðina. Hleðsla Þorkels sést enn og er táknræn – henni var ætlað fyrir fé er rataði óvart niður í kerið í snjóum, en hefði ella orðið þar til. Fyrir tilstuðlan hleðslunnar komst það upp úr jarðfallinu – og lifði.

Vatnsskarð.
VatnsskardBerggangar eru sprungufyllingar, aðfærslukerfi bergkviku frá eldstöð upp á yfirborðið.  Með segulmælingum á gömlum göngum má stundum ákvarða hvort kvikan hafi streymt lárétt eða lóðrétt. Berggangar eru því alltaf yngri en bergið í kring. Einn slíkur sveimur er áberandi í Vatnsskarði.  Um er að ræða bæði aðgengilegan og dæmigerðan berggang. Við óvarfærnar lagningu rafmagnsjarðstrengs á síðasta ári var berggangurinn því miður skemmdur að hluta – og liggur brotið neðan við hann. Ef vel er að gáð má sjá borför í bergganginum. Vísindamenn voru þarna á ferð til að afla jarðvegssýnishorna varðandi breytilega segulvísun bergsins.

Hrútagjá.

Hrútagjá

Hrútagjá.

Hrútagjá umleikur Hrútagjárdyngju. Líklega er gjáin í heild.þ.b. 5 km löng – og  hrikaleg á köflum. Öskulög í jarðvegi ofan á hrauninu benda til að hraunið hafi myndast fyrir u.þ.b.  5000 árum.  Áður en dyngjan sjálf gaus myndaðist gífurlegur undirþrýstingur svo yfirborðið lyftist smám saman og myndaði loks háa bergveggi allt umhverfis  – með tilheyrandi sprungu – og gjármyndunum. Hraunsskjöldurinn hlóðst  upp og gígbarmarnir risu yfir umhverfið. Gos hófst og gríðarstór hrauntjörn myndaðist – og tæmist.
Ógurlegur þrýstingur frá innskotinu myndaðist undir kvikuhólfinu. Storknað yfirborðið hefur verið tiltölulega þunnt svo landið reis enn meira en ella. Við það lyftist svæðið um 10-15 metra og myndaði nokkurs konar skál, sem fyrr er lýst. Upplyftingin sést allt umleikis.

Hrútagjárdyngja.
Hrútagjárdyngjugosið gaf af sér stærstu hraunmyndunina vestan Hafnarfjarðar. Annað Hrutagjardyngjasambærilegt dyngjugos eru Þráinsskjöldur. Hraunið hefur að mestu runnið til norðurs og til sjávar og hefur myndað ströndina milli Vatnleysuvíkur og Straumsvíkur. Í daglegu tali gengur stærsti hluti hraunsins undir nafninu Almenningur. Hraunin ná yfir 80 km2 svæði.
Ljóst er, þegar gengið er um Dyngjuna og umhverfis hana, að hér hefur ekki verið um eina goshrinu að ræða heldur a.m.k. tvær eða fleiri – þrátt fyrir álit jarðfræðinga. Nýjustu ummerkin sjást hvað best suðaustast í Hrútagjárdyngjunni. Þar er gígur og hrauntröð. HrutagjaVerksummerki eftir miðkaflann sjást hins vegar gleggst vestan við mikla hrauntjörn sunnarlega á dyngjusvæðinu og í hrauntröð út frá henni til norðurs. Þar hefur glóandi hraunkvikan leitað sér leiðar út úr gamla dyngjusvæðinu nyrst í henni. Á leiðinni hefur kvikan smurt eldra hraunið upp í u.þ.b. 3 metra hæð.

Hrútagjárbróðir. 

Hrútagjá

Hrútagjá.

Allt umleikis Hrútagjárdyngju eru mikilfenglegar gjár og sprungur, engu ómerkilegri en gerist á Þingvöllum. Ef gjánni er fylgt má sjá hvar hún klofnar, dregst saman og breiðir úr sér með stórkostlegum bergmyndunum. Viðkomandi er bent á að fara varlega við hvert fótmál.

Hrútagjár-dyngjuskjól.
HrutagjarskjolÁ Reykjanesskaganum eru þekktir yfir 600 hellar og skjól. Rúmlega fjórðungur þeirra með einhverjum mannvistarleifum, enda náttúrulegir skútar og skjól jafnan verið notuð undir fé eða annað frá upphafi byggðar hér á landi. Einnig má finna í hellum bæli, hleðslur og annað, sem telja má mannanna verka.

Mörg skjólanna hafa hins vegar aldrei verið skráð sem fornleifar þrátt fyrir skilgreiningu í Þjóðminjalögum, þar sem segir að „til fornleifa teljast hvers kyns leifar fornra mannvirkja og annarra staðbundinna minja sem menn hafa gert eða mannaverk eru á, svo sem byggðaleifar í hellum og skútum, staðir með þjóðsagnahefð og áletranir, myndir eða önnur verksummerki af manna völdum í hellum eða skútum.“
Þetta óþekkta skjól er með mannvistarleifum, þ.e. hleðslu fyrir munna og annarrar fallinnar fyrir endaopi. Líklega er um að ræða skjól manna á refa-, rjúpna- eða hreindýraveiðum fyrrum.

Burfell

Austurengjahver

Ætlunin var að skoða umhverfi Austur-Engjahvers (Nýjahvers / Engjahvers), sem birtist skyndilega með eftirminnilegum látum nótt eina árið 1924 – og er enn að. Svo mikil var krafturinn í nýmynduninni að stór stór steinn, sem staðið hafði syðst í Austur-Engjum, tókst á loft og kom ekki niður fyrr en allnokkru sunnar.

Leirhver við Austurengjahver

Um er að ræða eitt virkasta hverasvæði landsins. Áhugi hefur verið að virkja svæðið til raforkuframleiðslu. Við Austurengjar er örnefnið Seljamýri, líkt og í Seltúni og sunnan Hvammahryggs er Litla-Nýjabæjarhvammur. Um hann segir svo; „Seljarúst er þarna og talið, að sel hafi þarna verið í eina tíð“. Skv. lýsingum af svæðinu munu vera leifar selja á a.m.k. þremur stöðum. Þarna eru og ummerki eftir Austurengjagötuna og Vesturengjastíginn.
Eftir að hafa skoðað selrústina í Seltúni var gengið var upp frá Grænavatni, sem er sprengigígur. Aðrir minni slíkir sjást sunnan við vatnið, svonefndir Stampar. Framundan var Tindhóll. Við hann komu Engjagöturnar saman. Vaðlalækur kemur úr hlíðinni norðan Tindhóls. Haldið var yfir Vesturengjahæð og upp á Öldur. Þá sást að Austurengjahver og yfir Austur-Engin. Mikil gróðureyðing hefur orðið þarna á seinustu áratugum, einkum syðst á Engjunum og í hlíðum.
Eftir að hafa skoða hverasvæðið var sest niður og fyrirliggjandi heimildir um hann sem og nágrennið skoðaðar.

Við AusturengjahverÍ örnefnalýsingu Ara Gíslasonar segir m.a. um göngusvæðið: „
Norður frá Nýjabæ, austan nýja vegar, er vatn það, sem heitir Grænavatn. Norðan þess tekur svo við láglendi og graslendi norður að Kleifarvatni, sem er allstórt vatn með allmerka sögu, en ekki fullrannsakaða og því ekki til umræðu hér. Svæðið þarna á milli má segja, að sé engjar og þá með ýmsum nöfnum. Fyrst má þá segja, að upp af þessum bæjum gengur hæðarrani fram í graslendið, sem skiptir engjunum í Vestur-Engjar og Austur-Engjar. Hæðarrani þessi heitir Litla-Lambafell nyrzt, og aðskilið af smálægð er þar norðar Stóra-Lambafell. Bezt er, áður en farið er lengra, að setja númer á það, sem varð eftir heima í Krýsuvík.“
Þá segir: „
Nokkuð norðaustur frá Grænavatni, uppi í hæðinni, er svonefndur Austur-Engjahver. Var þar lítill vatnshver, en 1924 myndaðist þar stór leirhver, sem svo heldur nafninu. Austan við þennan hver heita Ásar.
Á engjunum er þá fyrst næst Stóra-Nýjabæ, Giltungur (líklega er það, áður en komið er á engjarnar). Þá er Höfði og Höfðamýri og Kringlumýri. Allt er þetta á Austurengjunum, sem fyrr eru nefndar.

Við Austurengjahver

Sá hluti engjanna, sem næst liggur vatninu að sunnan, heitir Nýjaland, og skiptist það í Innra-Nýjaland og Fremra-Nýjaland. Misvöxtur vatnsins veldur því, að engjastykki þessi liggja stundum undir vatni, svo árum skiptir. Það, sem skiptir þeim í Fremra- og Innra-Nýjaland, er malarhryggur mjór, sem liggur til vesturs frá norðurenda Hvammholts. En holt það er við suðurenda vatns austanverðan. Meðfram vatninu vestan holtsins eru svo Hvammar, engjastykki. Fremra-landið er miklu lengur slægt en hitt.“
Annars er örnefnalýsing þessi ótrúlega nákvæm. Það átti eftir að koma í ljós eftir að svæðið hafði verið gengið. Auk þessa var örnefnalýsing Gísla Sigurðssonar af svæðinu höfð til hliðsjónar. Saman gáfu þær mjög heilstæða mynd af, að því er virtist, annars nafnvana svæði. Með því að nota örnefnalýsingarnar og fylgja þeim í hvívetna fæddust ótrúlega margar nefnur á leiðinni, hvort sem um var að ræða hóla, lægðir gil, læki, flatir eða minjar.
Í örnefnalýsingu Gísla segir m.a.: „
Austur frá Stóra-Nýjabæ eða nánar tiltekið austur frá Dýjakrókum eru Ásarnir. Þar upp af er Dagmálavarðan.
Við AusturengjahverAustur og upp frá Stóra-Nýjabæ lá Austurengjagatan meðfram Dýjakrókum og vestan til við Tindhólsgil um Tindhólsbrekku sunnan undir Tindhól móbergshól nokkrum strýtum. Héðan lá leiðin um Öldurnar sunnanhalt við Austurengjahver, Engjahver eða Nýjahver eins og hann var kallaður 1924, er hann kom upp eftir jarðskjálfta í Krýsuvík. Þá tóku við Austurengjarnar, sem munu hafa tilheyrt Nýjabæjunum að mestu eða öllu. Þar voru Nýjabæjarengjar. Þrætustykki. Kringlumýrar tvær, Kringlumýrin efri og Kringlumýrin neðri og þá Seljamýri. Suður frá Engjunum var Litla-Fell. Hveralækurinn eða Austurengjalækur rann norðan mýranna með Litla-Lambafelli og niður milli þess og Stóra-Lambafells um Grófirnar og nefndist þá Grófarlækur.
Þegar Krýsuvíkurgatan kemur austur um Réttarholtið og reyndar alveg að heiman frá Krýsuvíkurbæ, nefnist hún Vesturengjavegur eða Vesturengjastígur. Liggur hér áfram upp lágt holt milli þriggja tjarna lítilla, sem nefnast Augu (308). Þjóðvegurinn liggur nú milli tveggja. Hér litlu ofar og austar er komið að Grænavatni. Kring um það að norðan, vestan og sunnan eru Grænavatnsmelar. Að því liggja Grænavatnsbakkar klettastallar. Suður frá Grænavatni eru alldjúpir bollar, nefnast Stampar. Stóri Stampur og Litli Stampur grösugir og þar hafði fólk í Krýsuvíkurhverfi trú á að yxu lifgrös betri, en annarsstaðar. Á austurbakka Grænavatns er skarð, þar fellur inn lækur vatnslítill, nefnist Flóðalækur. Hann kemur úr Flóðunum, sem eru vestasti hluti Vesturengjasvæðisins, sem liggur milli Lambafellanna og Hálsins að norðan. Austasti hluti flóðanna nefnist Teitsflóð. Sunnan flóðanna upp undir holtinu og Lambafelli Litla voru engjasvæði, nefndust Teigarnir, Álfsteigur neðri með holtinu, og Álfsteigur efri norðan í fellinu. Þá er Grófarteigur  vestan Grófarlækjar. En austan Grófarlækjar voru Gullteigur neðri og Gullteigur efri og liggja vestan í Stóra-Lambafelli. En Grófarlækurinn fellur austur undir hlíðum fellsins. Af Grænavatnsmelnum liggur Vesturengjastígurinn upp nokkuð og austur. Þar er komið að svo kölluðum Vöðlum og lækur kemur ofan úr dölunum og nefnist Vaðlalækur og rennur niður í Flóðin.

Við Austurengjahver

Þegar yfir Vaðlana kemur tekur við Vesturengjahæð með Vesturengjamóa eða Engjamóa og nær þetta svæði allt að Fúlapolli eða Leirpolli. Þá er komið í Seltún, Seltúnslækur skiptir Seltúni. Vestan við hann eru Seltúnsbörð. Á Seltúnslækjarbakka vestari stóð í eina tíð Námahúsið. Frá Fúlapolli rennur vatn lítill lækur, nefnist Svuntulækur. Neðarlega á engjunum tengist hann, rennur hann saman við Seltúnslæk. Myndast þarna engjateigur, sem nefnist Svunta. Neðan við þetta engjasvæði er Suðurkotsnes og Gvendarrimi. Austan við Seltúnslæk, sem einnig er kallaður Engjalækur, er Vesturengjalækur, er engi, er nefnist Flatengi og liggur niður með læknum. Þar neðst er svo Norðurkotsnes. Lengra niður með læknum er mikið land sem fer undir vatn þegar vex í Kleifarvatni, en kemur undan því er út fjarar, og var þarna oft gott slægjuland. Svæði þetta var nefnt Nýjaland. Að austan takmarkast það af Rifinu lágu sandrifi, sem þó fór ekki í kaf er flæddi. Við syðri hluta Rifsins var Refanes. Suður og upp frá Nýjalandi voru svo Hvammarnir, Stórihvammur, með Laugina, öðru nafni Hvammalaug og Hvammagil.

Við Austurengjahver

Hér í hvamminum hafa skátar frá Hafnarfirði byggt sér Skátaskála. Hvammahryggur liggur ofan skálans. En sunnan við hann er Litla-Nýjabæjarhvammur. Seljarúst er þarna og talið, að sel hafi þarna verið í eina tíð frá Kaldrana, sem var eitt býli í Krýsuvíkurlandi. Selgil kemur ofan úr Selásum eða Selhæðum og Selgilslækur nefnist hann.“
Þar sem horft var yfir Austurengjahverasvæðið þótti við hæfi að draga eftirfarandi upplýsingar fram í sólarljósið:
Skipulagsstofnun gaf fyrir stuttu úrskurð um fyrirhugaða Bitruvirkjun á Ölkelduhálsi. Í raun gildir framangreindur úrskurður um öll lítt eða óröskuð svæði Reykjanesskagans. Við sérhvert þeirra eru bæði landslagsheildir sem og/eða friðuð nútímahraun. Og á hvaða svæði skagans myndi slík virkjun ekki hafa „verulega neikvæð og óafturkræf áhrif á landslag, útivist og ferðaþjónustu, þar sem um er að ræða lítt snortið, fjölsótt útivistarsvæði í nágrenni þéttbýlis/höfuðborgarsvæðisins“?
Austurengjahverasvæðið í Krýsuvík er ágætt dæmi um óraskað hverasvæði hér á landi, í nánd við þéttbýli.
Um er að ræða háhitasvæði. Vestan við svæðið eru nokkrir hverasprengigígar, sem reyndar eru algengir á háhitasvæðum. Þeir verða til þegar vatn hvellsýður á litlu dýpi.
Hverabollarnir eru fáeinir metrar á dýpt og 30 til vel yfir 50 m í þvermál þeir stærstu. Nokkur nýleg dæmi eru um hverasprengingar,  sem allar hafa orðið í tengslum við jarðskjálfta, s.s. nefndur Austurengjahver í Krýsuvík) og þá á upptaka-sprungunum.
„Á Austurengjum er jarðhitinn aðallega á einni rák sem nær frá Austurengjahver norður í Kleifarvatn. Töluverð ummyndun sést í bergi alllangt út frá beggja megin. Auk jarðhitans eru á þessari hitarák nokkrir sprengigígar sem gosið hafa gjalli og smáhraunum með úrkastinu. Sá stærsti er um 100 m í þvermál skammt norðaustur af Stóra-Lambafelli og mikil gjalldreif austur frá honum. Gígar þessir eru frá því snemma á nútíma. Ein 600 m djúp borhola er við Kleifarvatn um 150 m vestan við hverarákina. Hæstur hiti í henni er um 160°C.

Við Austurengjahver

Síðsumars 1924 lifnaði Austurengjahver við jarðskjálfta, var áður lítilfjörlegur. Stórir hverasprengigígar eru norðurfrá honum en eldri, sem bendir til að grunnt sé á jarðhitakerfi nærri suðu líkt og í Krýsuvík.“
Við Austur-Engjar er mikil litadýrð og hveraummyndanir. Þar er votlendisvæði sem er hallamýri. Grófarlækurinn, sem rennur langsum eftir miðju engjasvæðinu hefur í raun ræst engin fram . Vestur-Engjar eru samfellt votlendi sem ekki hefur verið ræst fram, enda flatmýri.
Við Austur-Engjar er leirhver, gufuhver,  vatnshver, brennisteinsútfellingar, heit jörð og gufuaugu,  jarðhitagróður og hveramýri norðar með Grófarlæknum.
Hverinn myndar allstóra hveratjörn upp í hæðinni austan við Litla–Lambafell. Jarðhitinn er að mestu bundinn við tiltölulega afmarkað umhverfis hverinn. Stór vatnshver er í vestur jaðri tjarnarinnar en einnig eru leirhverir og gufuaugu til staðar.
Á svæðinu er mikið um hveraleir og ummyndanir. Hitinn í vatnshvernum mældist um 50°C og er vatnið súrt (pH 2.5). Við gufuaugu á vatnsbakkanum var hiti við suðumark og eru víða brennisteinsútfellingar við þau. Þegar svæðið var skoðað var vatnsborð óvenju lágt og því sáust leirhverir sem höfðu verið undir vatni. Afrennsli úr hveratjörninni rennur til norðurs. Ekkert var sjáanlegt rask af mannavöldum.

Tóft suðvestan við Engjasvæðin

Haldið var áfram niður með Austurengjalæk (Grófarlæk) og stefnan tekin að Nýjabæjarhvammi. Þarna raða engjateigarnir sér undir Ásunum; Nýjabæjarengjar, Kringlumýri, Seljamýri, Nýjabæjarengjar og Gullteigar. Engja seljarúst var að sjá við Seljamýrina. Ekki heldur í Nýjabæjarhvammi. Ef rúst hefur verið í Seljamýri gæti lækurinn hafa grafið undan henni eða lækur úr gili ofan mýrarinnar fært hana í kaf með framburði sínum, en hann virðist hafa verið iðinn við að draga mold ofan úr hlíðinni. Varðandi selrústina við Nýjabæjarhvamm, nokkru norðar, er sennilega um prentvillu að ræða í örnefnalýsingunni því slíka rúst er að finna „norðan“ við Hvammahrygg, eins og honum hefur verið lýst.
Í bakaleiðinni var Austurengjagötunni fylgt með Tindhól niður að Stóra-Nýjabæ. Nefndri Dagmálavörðu austan við bæinn var ekki fyrir að fara lengur – nema hún hafi verið uppréttur stór steinn á holtinu. Uppi á honum vatr steinn og aðrir fallnir lágu hjá. Lokst var skoðuð rúst í gróinni lægð sunnan við Stampa. Hugsanlegt er að þar hafi verið hjáleigan Fell.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsingar fyrir Krýsuvík.
-Kristján Sæmundsson.

Við Austurengjalæk (Grófarlæk) - Stóra-Lambafell fjær

Ísólfsskáli
FERLIR bregst jafnan skjótlega við berist tilkynningar um áhugaverð og aðkallandi efni. Einn félaganna hafði haft spurnir að því að hellir hefði opnast við framkvæmdir við svonefndan Suðurstrandarveg austan Grindavíkur. Upplýsingarnar bárust svo til í beinu framhaldi af opinberuninni.
ÍsólfsskáliVegaframkvæmdir stóðu yfir á Suðurstrandarveginum ofan Grindavíkur, milli Hrauns og Ísólfsskála orið 2006. Þegar Arnar Helgason, stjórnandi stórrar (65 tonna) gröfu verktakans Háfells var [23. maí 2006] að grafa í Bjallarbrúnina vestan við Bólið, fyrrum fjárskjól frá Ísólfsskála, þar sem vegurinn á að liggja niður hann samhliða og austan núverandi vegstæðis, greip skóflan skyndilega í tómt. Í ljós kom að hún hafði verið rekin niður í geysistórt holrúm og stóð grafan uppi á miðju hvolfþakinu. Arnari brá skiljanlega í brún, dró þó andann djúpt og færði gröfuna varlega á örugga undirstöðu. Þarna hefði getað farið illa.
Verktakinn tilkynnti atvikið til jarðfræðings Vegagerðarinnar, sem á eftir að skoða fyrirbærið. Vegfarandi, sem leið átti þarna hjá um það leyti er jörðin opnaðist undan gröfukjaftinum, hafði þegar samband við þá er einna mestan áhuga hafa sýnt á svæðinu.
Þegar Björn Hróarsson, jarð- og hellafræðingur, og einn FERLIRsfélaganna, áhugamaður um útivist, minjar og náttúru- og jarðfræðifyrirbæri á Reykjanesskaganum, komu á vettvang skömmu eftir atvikið, blasti gímaldið við, 12-15 metra djúpt. Angar virtust liggja til norðurs og suðurs, m.a. undir núverandi vegstæði.
Gímaldið hefur myndast sem holrúm í blöndu af gjósku, jökulruðningi og sjávarmöl. Það er í jaðri móberghryggs ofan við Bjallann. Giskað er á að það hafi myndast er gos varð undir jökli er myndaði Slöguna. Risastórt klakastykki hefur þá brotnað úr jöklinum og jarðefni safnast umhverfis það. Ísstykkið hefur síðan bráðnað hægt og skilið þetta mikla holrúm eftir. Sjávarstaðan hefur þá verið þarna í brúninni. Vegna ísfargsins hefur landið legið mun lægra en nú er, en það síðan lyft sér við bráðnun jökulsins.  Einnig gæti verið um gamlan sjávarhelli að ræða, en það mun væntanlega upplýsast við nánari skoðun. Reynt var að nota arm og skóflu gröfunnar til Ísólfsskáliað koma manni til botns, en þrátt fyrir lengd hans náði hann einungis hálfa leið að botni.
Hér er að öllum líkindum um mjög sérstakt jarðfræðifyrirbæri að ræða, sennilega einstakt, jafnvel á heimsvísu. Það mun þó koma í ljós við nánari skoðun, sem væntanlega mun fara fram fljótlega. Þá þarf að taka ákvörðun um afdrif þess því það er í núverandi vegstæði.
Ekki ósvipuð myndun er á Höfðabrekkuafrétti við veginn upp í Lambaskarðshóla.
Benda má á að viðundirbúning Suðurstrandarvegar bentu félagar í Hellarannsóknarfélaginu m.a. á mikilvægi þess að vegstæðið yrði gaumgæft m.t.t. hella á svæðinu, því öruggt mætti telja að á því væru margir hellar og fleiri til viðbótar myndu koma í ljós þegar farið yrði að grafa fyrir veginum. Má segja að opinberun þessi séu sönnun þeirra orða og reyndar ekki sú fyrsta. Enn er verkið skammt á veg komið. Aðilar eru þó sammála um að vilja eiga með sér gott samstarf ef og þegar ástæða verður til eða gaumgæfa þarf eitthvað er finnst, líkt og í þessu tilviki.
Í örnefnaskrá fyrir Ísólfsskála, skráða af Ara Gíslasyni eftir heimildarmanninum Guðmundi Guðmundssyni, þáverandi bónda á Ísólfsskála, kemur m.a. eftirfrandi fram um þetta svæði og næsta nágrenni:
„Bjallinn er ofan við Ísólfsskála. Hjálmarsbjalli er fremstur. Rétt innan við bæinn skagar klapparnef fram úr Slögunni, sem heitir Skollanef. Skollahraun er suður af því. Niður af, austur af túni, út í hrauni, er klettur, sem sker sig úr að lögun og heitir Kista. [Kistan sést vel úti í Skollahrauni þegar komið er að Bjallnum eftir Ísólfsskálavegi úr vestri]. Fremst í Slögunni, rétt við túnið innanvert, er Fjárból, við alllangan hamravegg.
Vestur af Slögunni er gróðurlítið svæði, sem nefnt er Melar. Vestan við þá heitir Lágar. [Lágar eru ofan við Bjallan]. Þær eru vestan við veginn og langur grjótgarður hlaðinn þeim til varnar. Er mikið Ísólfsskálihér af slíkum görðum og víða með mjög fallegu handbragði.“
Loftur Jónsson skráði einnig örnefi á og við Ísólfsskála. Um þetta svæði segir hann: „Bjallinn er klettastallur og nær frá Hjálmarsbjalla og inn í Ból sem er undir fellinu Slögu vestast. Hæðarbunga vestan undir Slögu heitir Slögubringur. Stór klettur er þar sem Hattur heitir en er skráður á kort Grettistak.
Austan við Bólið eru smálautir sem heita Bólkvosir. Lengra austur með Slögu að sunnan, ofan við skriður, er bergstallur sem heitir Hrafnshreiður. Stórusteinar er stórgrýti sem fallið hefur hæst úr Slögu. Þar innan við er Langakvos. Upp af Löngukvos er móklettur sem kallaður er Móklettur. Fyrir austan Löngukvos er Skollanef og er nokkurs konar öxl eða klapparnef fram úr Slögu. Skollahraun er þar suður af. Í hrauninu austan við túnið er sérstæður klettur sem heitir Kista.“ Og þá erum við komin hringinn um nærsvæðið þar sem vegurinn kemur niður Bjallann vestan við Bólið.
Hér eru jafnframt tilfærð svör Ísólfs Guðmundssonar, Ísólfsskála, Grindavíkurhreppi, sem hann veitti við fyrirspurnum (ódagsettum) Örnefnastofnunar og dagsetti 20. apríl 1983 í Grindavík. Við spurningunni „Hvernig er Ból?“ svarar hann: „Hellisskúti þar sem fé var geymt í.“ Meðfylgjandi mynd er úr fjárskjólinu Ból undir Bjallnum.
Forvitnilegt verður að fylgjast með sérfræðingum er rannsaka munu gýmaldið nýopinberaða og skýringum þeirra á tilurð þess. Það mun þó kýrskýrt að þarna er um að ræða enn eina „dularperlu“ Grindavíkur, en sannlega má segja að fleiri slíkar séu enn óopinberaðar í umdæmi hennar.
[Nokkrum dögum síðar var gýmaldið fyllt og þannig gert að engu. Líkast til var það óhjákvæmilegt, bæði vegna þess að ekki var um annað vegstæði að ræða á þessum stað og auk þess var um talsvert grjóthrun að ræða úr opi þess. Því var vettvangurinn varhugaverður og beinlínis hættulegur fyrir óvana].
Framangreint efni varð einungis til vegna glöggskyggni FERLIRsfélaga og markvissra viðbragða hans – þökk sé honum. Í raun er fyrirbærið dæmigert fyrir hellamyndanir á móbergssvæðum, s.s. á Suðurlandi þar sem margir „manngerðir“ hellar ku vera.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli.