Tag Archive for: Grindavík

Járngerðarstaðir
Í Landnámu (Sturlubók) er þess getið að Molda-Gnúpur Hróflsson hafi numið Grindavík, líkleg aum 934, og Þórir haustmyrkur Vígbóðsson nam Selvog og Krýsuvík
Synir Molda-Gnúps voru Gnúpur, Björn, Þorsteinn og Þórður. Einkona Gnúps var Arnbjörg Ráðormsdóttir og Björn giftist Jórunni dóttur Arnbjargar og Svertings Hrolleifssonar (á Hrauni). Í annarri útgáfu Landnámu (Hauksbók) segir að Gnúpur hafi fallið ásamt 2 sonum sínum í átökum við Kaplagarða um veturinn. Hinir synirnir; Björn, Þórður og Þorsteinn, hafi hins vegar numið land í Grindavík.

Herósdes

Heródes- letursteinn.

Lítið er vitað um byggð í Grindavík fyrstu 300 árin. Má það teljast eðlilegt því á ofanverðum þeim tíma hefur byggðin líklega tæmst um tíma. Um 1150 byrjaði að gjósa austan við Grindavík og aftur um 1188. Mikið hraun rann. Um svipað leyti byrjaði að gjósa að austanverðu. Um 1211 færist goshrinan nær (Eldvörpin) og enn 1226 þegar Illahraun og Afstapahraun ógna byggðinni. Ekki er ólíklegt að fólk hafi þá verið búið að fá nóg og því flutt sig til öruggari staða, a.m.k. um tíma.
Líklegt má telja að Molda-Gnúpur Hrólfsson, eða synir hans, hafi sest að þar sem nú er Hóp (aðrir nefna Þórkötlustaði). Fyrrnefnda nafnið bendir til þess þar sem bæ sinn í Álftaveri þar veturinn áður hafði hann nefnt Hof er gæti hafa breyst í Hóp eftir að kristni var innleidd. Önnur vísbending eru aðstæður þær, sem verið hafa þar á þeim tíma. Ferskt vatn rann undan klöppunum, en það er óvíða að fá á þessu svæði, nema ef vera skyldi í Gerðisvallabrunnum vestan við Járngerðarstaði. Fjörubeit hefur verið góð, auk þess sem skipalagi hefur hvergi verið betra en í Hópinu.

Grindavík

Grindavík – Grafið inn í Hópið 1939.

Áður en opnað var inn í Hópið var þar fyrir ós, sem hægt var að komast um á flæði. Grasbleðill hefur og verið þarna við ströndina og tiltölulega greiðfært til fjalla þar sem nýleg hraun voru ofar. Ströndin, bæði að austanverðu og vestanverðu hafa verið allt annars eðlis og legið miklu mun lengra inn í skagann. Há björg hafa einkennt austurströndina, en litlar grónar víkur verið á milli Ísólfsskála og Krýsuvíkurbjargs. Gróið hefur verið í hlíðum Þorbjarnarfells (elsta fellið á svæðinu) og því vænlegt til selstöðu.

Hóp

Hóp – tóftir gamla bæjarins.

Synirnir voru fullvaxta er hér var komið sögu. Gnúpur hefur væntanlega fyrst tekið sér kvonfang og þurft búsílag. Hinn veraldarvani Molda-Gnúpur, sem fengið hafði viðurnefni (virðingarheiti) sitt frá fæðingarstað hans í Moldartúni á Norðmæri í Norðmæri í Noregi, hefur væntanlega viljað tryggja land sitt að austan, þar sem búið var í Hlíð við Hlíðarvatn í Selvogi. Hann hefur því væntanlega fengið syni sínum land þar sem áður var við Krýsuvík, á ystu mörkum þess tíma. Ofar er Gnúpshlíðarháls og Gnúpshlíðarhorn syðst. Ögmundarhraun rann síðar yfir byggðina um 1151, en hlífði austasta hluta hennar að hluta. Byggðin þar hafði þá náð að þróast í u.þ.b. 211 ár. Líklega hefur Þórir haustmyrkur og hans afkomendur lagt einhverju af sínu fólki til land vestast á landssvæði sínu, til mótvægis við byggð Grindarvíkurbóndans. Þær minjar, sem nú sjást í Húshólma og Óbrennishólma, gætu verið leifar þeirrar byggðar. Byggðin hefur legið vel við sjósókn, fuglar í björgum og greiðfært hefur verið til upplandsins til hrísöflunar eftir hálsunum.

Hóp

Hóp – gamli bærinn.

Venjan var sú að elsti sonurinn tæki bú eftir föður sinn. Björn hefur því væntanlega verið elstur því ýmislegt bendir til þess að hann hafi tekið við búinu að Hópi eða flust þangað sem nú eru Járngerðarstaðir. Ekki er ósennilegt að í heiðni hafi Björn fengið viðurnefnið Þór, þ.e. elstur og æðstur bræðranna, en með kristninni hafi Hafurs-viðurnefnið orðið ofan á, sbr. draumasögnina um bergbúann og geithafurinn er kom í framhaldi af því til hjarðar Björns. Sagt var að landvættir allir hafi fylgt honum og bræðrum hans til þings og veiða. Fellið Þorbjörn ofan við Grindavík (Hóp) mun heita eftir Hafur-Birni.
Líklegt er að Þórði hafi verið fengið land á austurmörkum hins byggilega hluta landnámsins, þ.e. í Staðahverfi. Þórðarfellið ofan við Staðahverfi gæti bent til þess, en sagt er að fellið hafi verið nefnt eftir honum.

Hóp

Hóp – loftmynd.

Þá er Þorsteinn einn eftir. Þar sem mest land við sjó, þar sem fiskur, fugl, reki, þang og þari þóttu hlunnindi, var að mestu frátekið þegar lengra var litið, var ekki um annað að ræða en líta nær eftir landkostum. Þá komu annað hvort núverandi Járngerðarstaðir eða Þórkötlustaðir til greina. Rannsókn sem gerð var við byggingu hlöðu við Vesturbæ í Þórkötlustaðahverfi, bentu til þess að þar hafi komið upp tóft landnámsskála (Brynjúlfur Jónsson).

Skír skírskotun til sagna, sbr. heiðnar dysjar Járngerðar og Þórkötlu, benda til fornra bæjarstæða á hvorum staðnum fyrir sig. Á báðum þessara staða hafa sjósóknarskilyrði verið góð, en þó mun betri á Þórkötlustöðum. Bæði hefur þar verið afmarkaðra land frá Hópi og nærtækara að sækja búbjörg í björgin þar austan við.

Hóp

Hóp – minjar gamla bæjarins, þ.á.m. hofstóft.

Fiskimiðin leggja og betur við og rekamöguleikar þar hafa verið umtalsverðir. Húsafjall og Fiskidalsfjall ofan við Þórkötlustaði (Hraun), benda einnig til ákjósanlegrar búsetu á því svæði.
Hinar fornu þjóðleiðir, sem sjá má djúpt markaðar í bergið, jafnt frá Hópi, Járngerðarstöðum og Staðahverfi, benda til mikillar umferðar til og að þessum stöðum lengi og alllöngum í gegnum aldirnar. Skógfellahraunið, sem Skógfellastígur ofan við Hóp, liggur um, er einna mest markaður, enda hraunið mun eldra en landnámið.

Þórkötlustaðir

Þórkötlustaðir – flugmynd. Fornaldarskáli er á milli húsanna.

Þórkötlustaðahverfið freistaði Skálholtsstóls þegar á 12. öld. Þar þar var ein mesta útgerð stólsins þegar á 14. öld og í raun undirstaða útflutningsverslunar hans fram eftir öldum.
Járngerðarstaðahverfið byggðist síðast upp fyrir alvöru af hinum þremur hverfum er mynda Grindavík í dag. Ljóst er þó að þar hefur verið orðið mannmargt þegar verslun Þjóðverja og Englendinga stóð sem hæst á 15. og 16. öld. Það var skreiðin, sem í rauninni var bitist um. Hún var svo verðmæt, að Englendingar telja skreiðarfarm geta numið allt að fjórum fimmtu hlutum af verði skips, öllum úthaldskostani þess í Íslandssiglingum og vörufarmi, er það flytur til Íslands.

Strýthólahraun

Strýthólahraun – fiskibyrgi.

Af þessu má sjá að það var til mikil að vinna, bæði hvað snerti verslun og fiskvinnslu. Þar gegndi Grindavík lykilhlutverki lengi vel. Minjar fiskverkunarinnar má sjá á nokkrum stöðum við Grindavík, s.s. á Selatöngum vestan gömlu Krýsuvíkur, Í Skollahrauni austan Ísólfsskála, í Slokahrauni austan Þórkötlustaðahverfis, í Strýthólahrauni á Þórkötlustaðanesi og ofan við Staðarhverfi.
Á Járngerðarstöðum hefur „Tyrkjunum“ þótt vænlegt að lenda árið 1627 og þar hóf Einar Einarsson í Garðhúsum verslun sína fyrir 1890, en rekja má upphaf kaupstaðarins til þeirrar verslunar og athafnalífsins í kringum hana. Lengi vel voru aðeins tveir „kaupstaðir“ á Reykjanesskaganum, Grindavík og Hafnarfjörður. Tilkoma hafnarinnar í Hópinu árið 1939 hleypti lífi í þorpið og stækkun hafnarinnar þar upp úr 1950 lífi í athafnalífið, en fólksfjölgun og virkt athafnalíf hefur jafnan farið saman í Grindavík í gegnum aldirnar.
Grindavík flaggaði 30 ára kaupstaðarafmæli árið 2004, en bærinn er sá staður á landinu, sem hvað mest ógn hefur staðið af landinu, en getur að sama skapi þakkað farsæld sína hafinu. Nú er bæjarfélagið hins vegar á þeim tímamótum að geta einnig gert innlandið að verðmætum, þ.e. jarðorkuna, náttúruna og hið nýmótaða umhverfi þess. Og ekki má geyma möguleikum ferðaþjónustunnar, en það er sú atvinnugrein, sem er í hvað mestum vexti hér á landi. Útgerðin er ekki síst uppruninn, þ.e. landnámið og sögulegar minjar. Af þeim er Grindavík æði rík.

Hóp

Hóp – uppdráttur ÓSÁ.

Þyrnir

9. Grindavík – bæjarferð

1. Talið er að byggð hafi hafist í Grindavík mjög snemma. Í landnámsbók er talað um tveir landnámsmenn hafi komið til Grindavíkur kringum árið 934 voru það þeir Molda-Núpur Hrólfsson sem nam Grindavik og Þórir haustmyrkur Vígbjóðsson en hann nam Selvog og Krísuvík. Synir Moldanúps settust að í þeim þremur hverfum sem auðkenna Grindavík enn þann dag í dag. Voru það Björn eða Hafur-Björn, Þorsteinn og Þórður. Grindavíkurhverfin nefnast austast er Þórkötlustaðarhverfi, svo Járngerðarstaðarhverfi sem er aðalhverfið í dag, en vestast er Staðarhverfi

2. Grindvíkingar hafa ekki verið duglegir í viðhaldi gamalla húsa, en þó má sjá nokkur þeirra. Garðhús var t.d. gert upp 1912. Flaggstangarhúsið, sem þjónaði því mikilvæga hlutverki að aðstoða sjómenn við að sigla til hafnar þegar brimaði snögglega, gengur nú í endurnýjun lífdaga. Á því voru þá dregin upp á stöng viðvörunar merki sem sjómenn skildu. Gesthús er líka með elstu húsum í Grindavík en þar eru Grindvískar konur með handverk ýmiskonar til sölu þar.
Ýmsar menjar má finna í Grindavík t.d. í Hópsnesinu, Hella úti í hrauni, göngustíga, menjar mannvista, sela, skipsskaða, og svo mætti lengi telja.

3. Einnig eru sögulegir atburðir eins og Grindavikurstríðiö árið 1532 og hefur stundum verið nefnt 5 þorskastríðið. Tyrkjaránið 1627 en þá var 12 Grindvíkingum rænt af Alsírmönnum.

4. Upphaf kaupstaðarins sem nú stendur má rekja til til Einars Einarssonar frá Garðhúsum en hann setti upp verslun í húsi sem hann byggði 1897 í Járngerðarstaðarhverfi.

5. Árið 1939 var grafið skipalægi inn í Hópið en fyrir þann tíma voru notaðar svokallaðar varir, en upp úr 1950 hófst alvöru hafnargerð. Grindavík fékk kaupstaðarréttindi 1974. Um aldamótin 1900 voru íbúar 357 talsins en eru núna nálægt 2500. Grindavík er fallegt bæjarstæði við rætur Þorbjarnarfells, nálægt góðum fiskimiðum, ferðamannastaður og heilsulind eins og Bláa lónið. Öflugt íþróttastarf með ungu fólki. Allt þetta hjálpast að við að skapa gott mannlíf í framsæknu bæjarfélagi. Hér má einnig geta þess að í Grindavík hefur verið reist stórt og mikið menningarsetur Saltfisksetur Íslands sem notað verður í þágu Grindvíkinga jafnt og allra Íslendinga.

6. Atvinnulíf í Grindavík hefur lengi verið í miklum blóma. Hefur Grindavík verið einn öflugasti útgerðarbær landsins með fjölda báta og togara og sterkum sjávarútvegsfyrirtækjum. Meðal þeirra stæstu má telja Þorbjörn Fiskanes hf, Stakkavík, Vísir, Samherja/Fiskimjöl og Lýsi. Grindavíkurhöfn hefur lengi verið ein af 4-5 höfnum á landinu sem hvað mestum afla hafa skilað á land á ári hverju. Í Grindavík er alla helstu þjónustu hægt að fá læknis, verslana, löggæslu, og margt fleira

7. Margir merkismenn hafa upp vaxið og /eða starfað í Grindavík má þar nefna.

Kristján Eldjarn Þórarinnsson sem var klerkur á Stað (1871-1878),
Oddur V Gíslason frumherji slysavarna á Íslandi á Stað (1878-1894),
Dr Bjarni Sæmundsson sem fæddur var á Járngerðarstöðum (1868), kennari, fiskifræðingur forstöðumaður Nátúrugripasafnsins. Bjarni samdi merk fræðirit Lýsingu Íslands. Sjó og Loft Íslensk dýr 1-3. Hann var ömmubróðir Guðlaugs Þorvaldssonar háskólarektors, og ríkissáttasemjara einnig fæddur að Járngerðarstöðum,
Sigvaldi Kaldalóns tónskáld héraðslæknir í Kef héraði (1929-1941),
Kristinn Reyr (1914),
Guðbergur Bergsson (1932); Músin sem læðist,
Einar G. Einarsson kaupmaður setti upp verslun 1897,
Sira Brynjólfur Magnússon flutningur kirkjunnar 1909 til Þórkötlustaðarhverfi.
Halldór Killjan Laxnes bjó í Krosshúsum þegar hann samdi Sölku Völku.
Og svo Kalli Bjarni sem varð Idol stjarna 1994.

-Baðsvellir
Sel Grindvíkinga áður en þau fluttust yfir á Selsvelli – tóftirnar eru í vestanverðum hraunkantinum og norðan við skóginn. Á Baðsvöllum er einnig frumraun Kvenfélags Grindavíkur til skógræktar. Vellirnir tengjast og sögunni af þjófunum i Þjófagjá í Þorbirni, handtöku þeirra og aftöku í Gálgaklettum skammt austar.

-Hópssel
Tóftir vinstra megin við veginn, skammt áður en ekið e rupp á Selshálsinn (þann sem vatnsgeymirinn er á).

-Hagafell
Hluti af Sundhnúkagígaröðinni – 4200 ára.

-Hesthúsabrekka – vegagerð 1913-1918.

-Járngerðarstaðahverfi
Lítið sem ekkert er vitað um byggðina næstu þrjár aldirnar eftir landnám. Ekki er vitað nákvæmlega hvar landnámsmennirnir byggðu sér bú. Þó er líklegt að það hafi verið í námunda við Hópið en síðar risu þar bæirnir Hóp, Þórkötlustaðir og Járngerðarstaðir. Það má jafnvel ímynda sér að þetta hafi verið höfuðból og bæjarkjarni myndast utanum þó sem síðar urðu hverfin þrjú. Þessi hverfi er eitt af því sem einkenndi gerð og þróun byggðar í Grindavík fram á þessa öld. Þessi hverfi heita Þórkötlustaðahverfi sem er austast, Járngerðarstaðarhverfi í miðið og Staðarhverfi vestast.
Ekki er vitað um aldur og upphaf hverfanna þriggja og heldur ekki afhverju þau byggðust nákvæmlega þarna. En gera má ráð fyrir því að þau hafi byrjað að myndast á 10. eða 11. öld Ekki er ólíklegt að staðsetning hverfanna hafi ráðist af graslendi á þessum stöðum. En það sem hefur líka haft mikið að segja er aðstaða til sjósóknar. Flest bendir til þess að skömmu eftir 1200 hafi byggðin verið búin að taka á sig þá mynd sem bar allt fram á öndverða 20. öld.
Þegar 19. öldin gekk í garð var byggðin í Grindavík svipuð og hún hafði verið fyrr á öldum. Flestir bjuggu í hverfunum þremur og bjuggu flestir í Járngerðarstaðarhverfi 59 manns en mun færri í hinum hverfunum. Á árunum 1840 og 1841 voru aðeins 7 aðalbýli í sókninni og 13 hjáleigur. Aðalbýlin voru þessi, talin vestan frá; Staður, Húsatóftir, Járngerðarstaðir, Hóp, Þórkötlustaðir, Hraun og Ísólfsskáli. Strax um aldamótin 1800 var þegar kominn vísir að þéttbýli í Járngerðarstaðahverfi. Það samanstóð af tveimur býlum sem þar voru auk hjáleiganna sem byggðar voru í landi jarðarinnar.
Á 19. öld hélt byggðin áfram að vaxa í Járngerðarstaðahverfi og varð miðstöð byggðar í Grindavík. Líklegt má telja að ef kirkja hefði verið í Járngerðarstaðahverfi á þessum tíma hefði byggðin jafnvel verið mun þéttari, en kirkjan og kirkjugarðurinn var í Staðarhverfi. En þann 26. September 1909 var vígð ný kirkja í Járngerðarstaðahverfi og kostaði hún 4.475 krónum.
Byggð í Staðarhverfi var nokkuð stöðug á árunum 1801 – 1920 en lagðist svo alveg af fljótlega eftir 1920. Byggð í Þórkötlustaðahverfi og Járngerðarstaðahverfi var nokkuð jöfn fram til ársins 1910. Hverfin héldust nokkuð í hendur varðandi fólksfjölda en á fyrri hluta 20. aldarinnar dróst þó nokkuð í sundur með hverfunum. Að lokum var svo komið að Þórkötlustaðahverfi var orðið nokkurs konar úthverfi við hlið meginbyggðarinnar.

-Landnámsmenn
Landnámabók greinir frá því að landnámsmenn hafi komið til Grindavíkur í kringum árið 934. Landnámsmenn voru tveir. Þeir hétu Molda-Gnúpur Hrólfsson sem nam Grindavík og Þórir haustmyrkur Vígbjóðsson sem nam Selvog og Krýsuvík. En allt fram til 1946 náði Grindavíkurhreppur yfir tvær sóknir Staðarsókn og Krýsuvíkursókn. Synir Moldar-Gnúps settust að á þrem höfuðbólum sem hin 3 hverfi Grindavíkur heita eftir. Austast er Þórkötlustaðahverfi, þá Járngerðarstaðarhverfi, þar sem megin byggðin er í dag, en Staðarhverfi heitir vestast.

Gnúpur fór til Íslands fyrir víga sakir þeirra bræðra og nam land milli Kúðafljóts og Eyjarár, Álftaver allt; þar var þá vatn mikið og álftveiðar á.
Molda-Gnúpur seldi mörgum mönnum af landnámi sínu, og gerðist þar fjölbyggt, áður jarðeldur rann þar ofan, en þá flýðu þeir vestur til Höfðabrekku og gerðu þar tjaldbúðir, er heitir á Tjaldavelli. En Vémundur, son Sigmundar kleykis, leyfði þeim eigi þar vist. Þá fóru þeir í Hrossagarð og gerðu þar skála og sátu þar um veturinn, og gerðist þar ófriður með þeim og vígafar.
En um vorið eftir fóru þeir Molda-Gnúpur vestur í Grindavík og staðfestist þar; þeir höfðu fátt kvikfjár. Þeir voru þá fulltíða synir Molda-Gnúps, Björn og Gnúpur, Þorsteinn hrungnir og Þórður leggjaldi.
Björn dreymdi um nótt, að bergbúi kæmi að honum og bauð að gera félag við hann, en hann þóttist játa því. Eftir það kom hafur til geita hans, og tímgaðist þá svo skjótt fé hans, að hann varð skjótt vellauðigur; síðan var hann Hafur-Björn kallaður. Það sá ófreskir menn, að landvættir allar fylgdu Hafur-Birni til þings, en þeim Þorsteini og Þórði til veiða og fiskjar.
Hafur-Björn átti (Jórunni, stjúpdóttur Gnúps bróður síns). Þeirra son var Svertingur, er átti Húngerði, dóttur Þórodds Tungu-Oddssonar og Jófríðar Gunnarsdóttur, þeirra dóttir Þorbjörg móðir Sveinbjarnar, föður Bótólfs, föður Þórdísar, móður Helgu, móður Guðnýjar, móður Sturlusona. Gnúpur Molda-Gnúpsson átti Arnbjörgu Ráðormsdóttur, sem fyrr er ritað. Iðunn var dóttir Molda-Gnúps, er átti Þjóstar á Álftanesi. Þormóður var son þeirra.

-Þjóðsagan af Járngerði
Þorkatla bjó á Þorkötlustöðum í Grindavík, en Járngerður á Járngerðarstöðum. Báðar voru þær giftar.
Einu sinni sem oftar voru karlarnir þeirra báðir á sjó. Nú gjörði mikið brim og héldu báðir til lands. Þorkötlu karl fekk gott lag á Þorkötlustaðasundi og komst af. Þá varð Þorkatla fegin og mælti hún svo fyrir að á því sundi rétt förnu skyldi aldrei skip farast ef formann þess brysti hvorki hug né dug, og menn vita ekki til að þar hafi farizt skip á réttu sundi.
Það er að segja frá Járngerðar karli að hann drukknaði á Járngerðarstaðasundi. Þá varð Járngerður afar grimm og mælti svo um að þar skyldu síðan farast tuttugu skip á réttu sundi. Segja menn að nú sé fyrir víst nítján drukknuð, en þá er eitt eftir og má búast við að það farist þá og þá. Á götu þeirri sem til skips var gengin frá Járngerðarstöðum er leiði Járngerðar.

-Íbúafjöldi
2600 manns í byrjun 2005.

-Á hverju fólkið lifir.
Sjósókn, þjónustu, verslun og stjórnsýslu. Kvótakóngar og útgerðarjarlar.

-Íþróttalíf í bænum og öðru sem fólki þykir gaman að gera í bænum.
Körfuboltaliðið – frábært – Knattspyrnufélagið – lakt.

-Höfnin, innsiglingin, ólíkar tegundir báta
Eins og mörgum stöðum sem lágu að sjó umhverfis landið, voru búskapur og sjómennska aðal atvinnugreinar Grindvíkinga. Eins og með margt annað í Grindavík eru frekar litlar heimildir um búskap í hreppnum fyrst eftir landnám. Það má þó telja öruggt að ekki hefur verið auðvelt að stunda búskap á þessum tíma því mikil jarðvegseyðing var og fylgdi henni mikið sandfok. Einnig hrjáði mikill vatnsskortur bændur. Sumstaðar voru tún svo nálægt sjó að þegar flóð var flæddi yfir túnin.

„Tún voru hvarvetna lítil, mörg illa farin og lítt grasgefin sökum þurrka og ágangs sands og sjávar. Til að fóðra búpening sinn urðu bændur því að grípa til fleiri ráða en heyskaparins eins og var þá einkum um tvennt að ræða: seljabúskap á sumrum og fjörubeit.Þó hafa bændur væntanlega reynt að rækta einhver tún og verið svo með sauðfé í seli yfir sumarið og sett það í fjöru“(S.G, II,163).

Fjörubeitin reyndist góð en þó var oft hætta á flóði. Flestir bændur voru bæði með kýr og kindur. Bændur gáfu kúnum líka söl og gátu með þessu bætt sér að einhverju leyti upp grasleysi og skort á góðum bithögum . Kindur og hestar voru á útigangi allt árið, en reist voru fjós undir kýrnar. Margir Grindvíkingar voru með kýr allt fram á þessa öld og fór ekki að draga verulega úr kúabúskapnum fyrr en um 1940. Enn í dag er fjárbúskapur í Grindavík þó það sé í mjög litlu mæli. Og er það þá eingöngu það sem við köllum hobbýbændur.

-Sjávarútvegur og fiskvinnsla
Í Landnámu er sagt frá því að landvættir allar hefðu fylgt þeim Þorsteini hrugni og Þórði leggjalda, Molda-Gnúpssonum, þá þeir reru til fiskjar. (S.G.I,185) Á þessu má sjá að hinir fyrstu Grindvíkingar hafi aflað sér matar með sjósókn. Ekki kemur þó neins staðar fram að þeir hafi komið sjóleiðina til Grindavíkur. Má ætla að þeir hafi þá smíðað sér bát eftir að þeir komu á staðinn og þá að öllum líkindum úr rekavið, en það hefur örugglega verið nóg að honum í fjörunum við Grindavík.

„Fiskislóðir Grindvíkinga hafa flestar verið í Grindavíkursjó. Miðin voru flest miðuð við kennileiti í landi og voru öll nálægt ströndinni. Í miðaskrá Gísla og Magnúsar á Hrauni voru miðin talin frá vestri til austurs. Fyrsta og vestasta, djúpmiðið, sem þeir nefndu, hét Sílfell(liggur í svo nefndu Sílfellshrauni, norðaustur af Reykjanesvita).Sílfell um Staðarberg(milli Reykjaness og prestsetursins Staður í Grindavík)“. (S.G.I,188).

Fyrstu grindvísku bátarnir hafa sjálfsagt verið mjög litlir. Jafnvel aðeins fyrir tvo til fjóra enda ekki ætlunin að veiða mjög mikið heldur aðeins í soðið. Skipin hafa verið smátt og smátt að stækka og talið er að um miðbik 14.aldar hafi tólfæringar verið mjög algengir í Grindavík. Strax á 15 öld sóttust erlendir menn mjög eftir fiski í Grindavík og lögðu útvegsmenn mikið kapp á að auka útgerð sína. Mikið var um að bændur í öðrum landshlutum sendu vinnumenn sína í verið á Suður-og Vesturlandi á vetrarvertíð. Þar voru þá settar upp einhverskonar verbúðir. Í verbúðum í Grindavík voru þekkt embætti ljósameistara og kjásarhaldara. Ljósameistara bar að sjá um lampann, sem yfirleitt var aðeins einn í hverri verbúð. Kjásarhaldari sá um að tæma og þrífa kjásarhaldið, en svo nefndist kerald, sem yfirleitt tók um 20 potta og var næturgagn.

Margs konar hjátrú var tengd sjóferðum. Það þótti t.d. ekki boða gott ef menn mættu kvenmanni á leið til sjávar. Þegar skipshöfn gekk saman sjávargötuna átti formaður að vera fremstur og ef hann stoppaði af einhverjum ástæðum áttu allir hinir að stoppa líka. Það var talið merki um óhapp ef það var ekki gert.

Fiskur var allur þurrkaður og ef ekki viðraði til að þurrka var fiskurinn settur í kös og var þá fiskinum staflað á ákveðinn hátt.

Árið 1780 gengu til veiða úr Grindavík á vetrarvertíð 27 heimabátar, 8 áttæringar, 13 sexæringar og 6 feræringar. Aflinn hjá þessum bátum voru 105.280 fiskar. Upp úr 1860 fór bátum að fjölga verulega í Grindavík og sést það á að 1871 voru 18 bátar í Grindavík, en árið 1898 voru þeir orðnir 62. Eftir 1900 voru menn farnir að veiða í net og jókst aflinn til mikilla muna. Ekki eru netin aðalástæðan fyrir auknum afla, heldur er talið að óvenjumikill þorskur hafi verið á miðum Grindvíkinga á árunum 1912- 1927.

Vélbátaútgerð hófst í Grindavík árið 1924 og er það langt á eftir öðrum. Ástæðan fyrir því að Grindvíkingar tóku ekki vélbáta fram yfir árabátana fyrr, var sú að lendingarskilyrði voru mjög slæm. Fyrstu vélbátarnir voru áttæringar sem breytt var og vél sett í. Það hefur verið gífurleg bylting fyrir sjómenn að komast á vélbát og losna við allann róðurinn.

Árið 1928 var síðasta árið þar sem árabátar voru notaðir við veiðar í Grindavík og nú voru vélbátar eingöngu við líði og aflabrögð voru mjög góð.

En eitt skyggði þó á og það var hafnleysið. Oft var rætt um að byggja þyrfti höfn. Það var þó ekki fyrr en 1929 sem gerð var teikning af bryggju við varirnar í Járngerðarstaðahverfi. Var teikningin send Alþingi með beiðni um fjárstyrk. Á fjárlögum ársins 1931 var veitt 6 þúsund krónum til bryggjusmíði í Járngerðarstaðavör og var það einn þriðji af kostnaðaráætlun. Tvo þriðju áttu heimamenn að greiða. Byrjað var á bryggjunni sumarið 1931. Einnig voru gerðar bryggjur í hinum hverfunum. En þetta dugði skammt, því bryggjurnar voru aðeins löndunarbryggjur og áfram þurfti að setja bátana í naust að kvöldi. Greinilegt var að ef ný bryggja yrði byggð yrði hún að vera í Hópinu. Sumarið 1939 var svo hafist handa við að grafa í sundur Rifið í ósnum. Það er með ólíkindum að þetta hafi tekist þar sem allt var grafið með handverkfærum. Framkvæmdin gekk svo vel að um haustið gátu bátar flotið inn á hálfföllnu. Árið 1945 var byrjað á dýpkun óssins og eins var stækkuð bryggjan.

Með öllum þessum framkvæmdum gjörbreyttust aðstæður til útgerðar í Grindavík og nú risu upp fyrirtæki sem keyptu og ráku stóra báta. Hafist var handa við að byggja Hraðfrystihús Grindavíkur og var fyrsta verkefni þess frysting beitusíldar. Nokkrum árum síðar var svo stofnað hraðfrystihús í Þórkötlustaðahverfi. En með auknum fiski að landi fylgdi meiri úrgangur og eitthvað varð að gera við hann. Þörfin jókst til muna þegar var farið að salta síld í Grindavík, en fyrsta síldin var söltuð þar hinn 19 september 1945. Úr varð að byggð var beinavinnslu og lýsisbræðsla sem hlaut nafnið Fiskimjöl og Lýsi og var það almenningshlutafélag.

Miklar framkvæmdir urðu í hafnargerð á næstu árum. Sumarið 1957 var byggð 80 metra bryggja. Var hún hugsuð sem viðlegukantur fyrir báta sem þegar hafði verið landað úr. Hafnargarðurinn var líka lengdur um fimmtíu metra árið 1958. Þetta hélt svo áfram smátt og smátt. Haldið var áfram við bryggjusmíði og eins við gerð skjólgarða. Árið 1969 var viðlegu bakkinn orðinn 276 metrar samtals og bryggjurými í höfninni 560 metrar. Í janúar 1973 þurfti að finna Eyjaflotanum höfn í kjölfar eldgoss á Heimaey og varð Grindavík fyrir valinu. Árið 1973 var gerð viðlegubryggja og árið 1974 var svo gerð bryggja við svonefndan Eyjabakka. Eftir allar þessar framkvæmdir á fimmta áratugnum var orðið mögulegt að koma stærri bátum inn í höfnina. Öll helstu útgerðarfyrirtæki á Grindavík ráku síldveiðar og söltun. Einnig lögðu aðkomubátar upp afla sinn í Grindavík. Þegar mest var lönduðu yfir hundrað bátar í Grindavík á degi hverjum. Á árunum 1975 – 1988 voru Grindvíkingar meðal umsvifamestu síldarsaltenda sunnanlands.

En það var ekki bara síld sem barst til lands í Grindavík. Mikið var um loðnuveiði og þegar humarveiðar hófust voru Grindvíkingar fljótir að senda báta á vettvang. Allt þetta gerði það að verkum að Grindavík breyttist úr litlu fátæku svávarplássi í ört vaxandi útgerðarbæ. Lítið hefur breyst í bryggjumálum í Grindavík síðan 1974. Síðustu fimm til sex ár hafa dýpkunarframkvæmdir staðið yfir í höfninni og innsiglingunni og unnið að því að gera innsiglinguna öruggari. Þegar dýpkunarframkvæmdum lýkur verður hafist handa við að gera öflugri varnargarða.

Leiðsögumaður má leiðbeina bílstjóranum að fara um ákveðnar götur. Annars reiknum við með að aka beinustu leið niður að höfn.

-Atlantshafið
Úfið og ægilegt, en spegilslétt og fagurt þar ámilli.

-Sjóvarnargarður
Nýjasti og jafnframt stærsti sjóvarnargaður Grindavíkinga var reistur árið 2004. Hann á að koma í veg fyrir óróa inni í höfninni.

-Saltfisksetrið
Þegar leið á 18. öldina, og þilskip tóku að leysa áraskipin af hólmi, varð saltfiskur aðalútflutningsvara Íslendinga. Fram að því höfðu vaðmál og skreið verið undirstaða utanríkisverslunar. Með tilkomu togaranna varð saltfiskverkun í raun að stóriðju og saltfiskur hefur æ síðan skipt verulegu máli fyrir afkomu þjóðarbúsins. Grindvíkingar hafa löngum verið drjúgir við að vinna saltfiskinn og sýning um sögu verkunar og sölu á salfiski og þýðingu hans fyrir þjóðarbúið í gegn um tíðina á því vel heima í þessu ágæta sjávarplássi við suðurströndina.
Sýningin er forvitnileg fyrir erlenda ferðamenn, fróðleg fyrir skólafólk, sem getur hér kynnt sér mikilvægasta atvinnuveginn, og ánægjuleg fyrir hinn almenna Íslending sem fer í helgarbíltúr með fjölskylduna. Hún er liður í að draga upp og efla sjálfsmynd bæjarins og fólksins sem þar býr.
Aðstæður hafa hagað því þannig að ekkert byggðasafn er staðsett í Grindavík. Saltfisksetrið kemur því í stað slíks safns og er nú miðpunktur margvíslegrar menningarstarfsemi heimamanna og að auki aðdráttarafl og upplýsingarmiðstöð fyrir ferðamenn sem sækja staðinn heim.

Opnunartími er 11:00 – 18:00 alla daga vikunnar

-Grindarvíkurkirkja
Grindavíkurkirkja er í Grindavíkurprestakalli í Kjalarnesprófastsdæmi. Frá fornu fari var kirkjustaður á Stað vestan við Járngerðarstaðahverfi. Árið 1909 var kirkja reist í Járngerðastaðahverfi og vígð 26. september. Hún var notuð allt þar til ný kirkja var vígð á horni Austurvegar og Ránargötu 26. september 1982. Undirbúningur að smíði nýju kirkjunnar hófst 1966 og var Ragnar Emilsson, arkitekt, fenginn til þess að teikna kirkjuna.

Fyrsta skóflustungan var tekin 1972. Kirkjan er byggð úr steinsteypu. Byggingameistari var Guðmundur Ívarsson en formaður byggingarnefndar Ólafur Sigurðsson, múrarameistari. Kirkjan er að grunnfleti 538 fermetrar og að auki er 49 fermetra kjallari. Kirkjuskipið sjálft er 255 fermetrar. Í kirkjuskipi eru þrjátíu bekkir úr oregonfuru og rúmast þar 240 manns. Í norðausturhorni kirkjunnar er skrúðhús. Safnaðarheimilið, 112 fermetrar að grunnfleti, kemur hornrétt á kirkjuna út úr suðurhlið hennar, þar geta kirkjugestir setið við fjölmennar athafnir.

-Skipaskaðar
Sjá Hópsnesið…
Hér fyrr á öldum gátu sjómennirnir, sem fóru í róður að morgni, aldrei verið vissir um að komast heilir og höldnu að landi að kveldi. Enda eru mörg dæmi þessa. Sem betur fer eru einnig mörg dæmi og merkar sagnir um mannbjörg eftir ófarir manna á hafi úti. Veður gátu skipt um snögglega og þótt ekki hafi verið róið langt gat róðurinn að landi bæði tekið langan tíma og verið erfiður. Stundum urðu sjómenn að bregða á það ráð að leita annað en ætlunin var. Þannig gátu sjómenn frá Járngerðarstöðum oft treyst á var í Þórkötlustaðasbótinni þegar þannig skipaðist veður í lofti. þann 24. mars 1916 fóru t.d. 24 árabátar í róður frá Grindavík að morgni. Óveður skall skyndilega á og komust bátsverjar fjögurra báta ekki að landi. Þeim var hins vegar öllum bjargað, 38 mönnum, af áhöfn kúttersins Esterar frá Reykjavík. Þegar komið var með skipverja að landi þremur dögum síðar urðu miklir fagnaðarfundir í plássinu. Sumir segja það hafi verið sá mesti gleðidagur, sem Grindvíkingar hafi upplifað.
Um árið 1940 lenti Aldan frá Vestmannaeyjum upp á skerjum á Hellinum, en svo nefnist klettahlein, sem gengur fram úr kampinum, skammt austanvið Hópsvörina, og út í sjó. Mannbjörg varð, og báturinn náðist út aftur. Þótti öllum, sem fylgdust með siglingu bátsins, það með ólíkindum. Sigling inn í sundin var vandasöm, og fyrr á tímum fóru sjómenn eftir framangreindum sundvörðum og öðrum leiðarmerkjum á leið sinni inn á þau. En erfitt gat verið að stýra bátum inn þau því mikla þekkingu og reynslu þurfti til þess í vondum veðrum. Dæmi eru um að ekki hafi verið við neitt ráðið og að Ægir hafi annað hvort kastað bátunum upp á sker og strönd eða hreinlega fært þá á kaf. Þannig fylgdust t.d. íbúar Grindavíkur angistafullir og hjálparvana á sjötta áratugnum með því af ströndinni er lítill bátur með þremur mönnum innanborðs á leið inn í Hópið var skyndilega færður í kaf og sjómennirnir drukknuðu svo til fyrir framan nefið á þeim, án þess að það gæti fengið rönd við reist.
Rétt fyrir utan lendinguna á Járngerðarstöðum eru miklir þarar og grynningar, Rif kölluð. Á þeim hafa mörg skip af þeim beðið meira eða minna tjón og margur maður við þau látið lífið. Fyrrum var hættan mikil á leið inn Járngerðarstaðasundið er Svíravarða bar í Stamphólsvörðu. Þá voru þrengslin mest. Þá eru á stjórnborða Manntapaflúð, en Sundboði á bakborða. Aðstæðurnar urðu kannsi ekki síst til þess að álög Járngerðar á sundið, sem lýst er í þjóðsögunni, gengu eftir, en skv. henni áttu tuttugu bátar að farast þar eftir að hún hafði séð á eftir eiginmanni sínum og áhöfn hans í öldurótið.
Austan við Helli eru tveir básar; Heimri-Bás og Syðri-Bás og þar fyrir utan Sölvaklappir, en þar mun hafa verið sölvataka frá Hópi. Fram af klöppunum er klettur, sem Bóla heitir, og upp af honum, uppi á kampinum, var varða, sem kölluð var Sigga og var mið af sjó. Grjótið úr henni var tekið í hafnargarðinn er hann var byggður. Sigga var síðar endurhlaðin af Lionsmönnum í Grindavík, en sjórinn hefur nú fært grjótið úr henni að mestu í lárétta stöðu á ný.
Þegar gengið er austur með Nesinu má sjá nokkur upplýsingaspjöld um strönd á síðustu öld. Áður en komið er að fyrsta spjaldinu verður fyrir hluti braksins úr Hrafni Sveinbjarnarsyni, sem strandaði þarna utan við 1988. Sagt er að stýrimaðurinn hafi sofnað á leið til lands svo báturinn stýmdi beint upp á ströndina utan við Hellinn, austan við innsiglinguna. Mannbjörg varð, en þegar reyna átti að ná bátunum út gerði vonsku veður með þeim afleiðingum að bátinn tók í tvennt og Ægis spýtti leifunum síðan langt upp á land þar sem þær eru nú. Afl hamsjávarins sést vel á brakinu, þ.e. hvernig hann hefur hnoðað járnið og rifið það í sundur og fært hluta þess langt upp á land, upp fyrir háan malarkampinn.
Fyrsta spjaldið um skipsskaðana er um Gjafar VE 300. Báturinn fórs þarna fyrir utan 27. febrúar árið 1973. Tólf manna áhöfnin var bjargað frá borði með aðstoð björgunarsveitarinnar Þorbjörns, en saga sveitarinnar gæti verið og verður umfjöllunarefni út af fyrir sig. Fáar sjóbjörgunarsveitir á landinu hafa bjargað jafn mörgum sjómannslífum og sveitin sú.
Næst er skilti um flutningaskipið Mariane Danielsen er fór þarna upp á ströndina í vonsku veðri eftir að hafa siglt út úr Grindavíkurhöfn þann 20. janúar 1989. Átta mönnum úr áhöfninni var bjargað í land með aðstoð þyrlu, en yfirmennirnir neituðu að yfirgefa skipið. Þeir voru síðan dregnir í land með aðstoð björgunarstóls daginn eftir.
Vélbáturinn Grindvíkingur GK 39 fórst þarna utan við 18. janúar 1952. Fimm menn fórust. Lík fjögurra fundust daginn eftir, en lík þess fimmta fanns þar skammt frá daginn eftir. Neðan við kampinn, þar sem báturinn fórst, er langur skerjatangi út í sjó, svonefnd Nestá. Hún fer á kaf í flóðum.
Eldhamar GK 13 lenti uppi í grynningunum þann 22. nóvember 1991. Sjórinn kastaði skipinu fram og til baka uns það steyptist með stefnið niður í djúpa gjá. Af sex skipverjum um borð komst einn lífs af. Þetta óhapp varð neðan við vitann á Nesinu.
Varðandi strand franska togarans Cap Fagnet, þá strandaði hann 24. mars 1931 við Skarfatanga við Hraun. Allri áhöfninni var bjargað, 38 manns, með fluglínutækjum sem þá voru tiltölulega nýkominn hingað til lands fyrir tilstuðlan Slysavarnafélags Íslands. Var þetta í fyrsta skipti á Íslandi sem fluglínutækin voru notuð hér við land til björgunar. Þarna eru enn ketillinn úr skipinu ásamt tveimur akkerum. Skrúfan af skipinu fyrir utan björgunarsveitarhúsið í Grindavík, minnisvarði um þessa fræknu björgun.
Annar tilgangur göngunnar var að skoða þurrkbyrgin í Strýthólahrauni.
Neðan við Vitann heitir Látur. Þarna var selalátur. Fleiri selanöfn eru á þessum svæði, s.s. Hópslátur og Kotalátur
Suðaustur af vitanum er grasflöt niður við kampinn; Stóra-Látraflöt. Kampurinn hefur nú að mestu þakið hana grjóti. Austur af vitanum er grasi vaxinn hóll; Tófuflatarhóll. Þar var tófugreni. Annað greni má sjá í hrauninu ofan við vestari hlutann af Hrafni Sveinbjarnarsyni. FERLIR merkti það áður en áfram var haldið.
Austan við Tófuflatarhól eru Strýthólar, þ.e. Vestri-Strýthóll, með tveimur þúfum, en Eystri-Strýthóll er skammt austar niður við Kampinn. Austar er Þórkötlustaðabótin. Í henni hafa nokkrir bátar strandað, t.d. frönsk skúta um miðja 19. öld. Áhöfnin gat gengið í land og heim að Einlandi þar sem hún knúði dyra eftir að skipstjórinn hafði fallið í hlandforina framan við bæinn. Flest skipanna, sem þarna hafa strandað, hafa orðið þar til í fjörunni, en sjórinn hefur tekið það til sín, sem skilið hafði verið eftir. Austast, utan við Klöpp, varð eitt af stærstu sjóslysunum. Það var nóttina áður en Aldan rak upp í Nesið að vestanverðu að annan vélbát rak frá Vestmannaeyjum, Þuríði formann, sem einnig varð fyrir vélarbilun í sama veðrinu og rak þarna upp. En þar tóku höfuðskepnurnar öðruvísi á hlutunum. Þegar fólk kom á fætur á Þórkötlustöðum, varð það vart við óeðlilega mikið brak í fjörunni, og þótti all væri mjög maskað niður. Sást þó, að þarna hafði Þuríður formaður rekið upp og hún farist með allri áhöfn.
Hinn 8. desember 1923 gerðist það í austan veðri og snjókomu, að þýskur togari strandaði utan við Grindavík. Áhöfnin komst í björgunarbáta og bjargðaist í Blásíðubás. Þórkötlustaðanesmenn töldu, að eftir strand þetta hafi komist festa á veiðarfæri þeirra, sem ekki hefði verið þar áður, á leirbotni skammt út af víkinni, og veiðarfærin oft ryðlituð, er þau komu upp.
Strýthólahraun, stundum nefnt Strútuhóalhraun, er nefnt eftir Strýtuhól vestari og Strýtuhól eystri, sem sjá má þarna inn í hrauninu. Í hrauninu eru fjölmörg hlaðin fiskbyrgi og þurrkgarðar. Ná þau svo til frá veginum niður að Leiftrunarhól, sem stendur á sjávarkambinum. Þessi byrgi eru fáum kunn, enda falla þau mjög vel inn í hraunið. Þegar hins vegar er staðið við byrgin sjást þau hvert sem litið er. Þegar staðið var á einum hraunhólnum mátti t.d. telja a.m.k. 14 sýnileg byrgi í hrauninu. Ekki er gott að segja hversu mörg þau eru í heildina. Norðan vegarins eru hlaðnir þurrkgarðar. Á þessu svæði má auk þess sjá standa undir vindmyllur, heimtraðir, veglegar sundvörður o.fl. o. fl. Þá má sjá, ef grannt er skoðað, mjög gamlar minjar sunnan og vestan við Flæðitjörnina.
Þórkötlustaðanesið er einstaklega áhugavert til útivistar og ekki síður út frá sögulegum forsendum. Þurrkbyrgin í Strýthólahrauni eru t.d. engu ómerkilegri en þurrkbyrgin á Selatöngum og e.t.v. ekki yngri en byrgin, sem þar eru. Bændur og sjómenn frá Hrauni réru frá Þórkötlustaðanesinu og eflaust eru byrgi þessi minjar eftir þá. Þau gætu þess vegna, sum a.m.k., verið allt frá þeim tíma er Skálholtsbiskupsstóll gerði út frá sjávarbæjunum við Grindavík, en svæðið var eitt mesta og besta matarforðabúr stólsins um alllangt skeið og ein helsta undirstaðan undir fiskútflutningi hans.
Fleiri lýsingar af Þórkötlunesinu, t.a.m. svæðinu austan Strýthólahrauns, má sjá á vefsíðunni undir Fróðleikur (Þórkötlustaðanes) þar sem Pétur Guðjónsson, skipstjóri lýsir því, en hann ólst upp í Höfn, einu af þremur húsunum í Þórkötlustaðanesi.
Tvískipt heitið á Nesinu eru líkt og dæmi eru um ýmis fleiri en eitt örnefni á kortum Landmælinga yfir sama stað, kennileiti eða náttúrufyrirbæri. Þannig er Grímmannsfell vestast á Mosfellsheiði jafnframt nefnt Grímarsfell á korti Landmælinga. Nafnaskiptingin kom við sögu dómsmáls á meðal bænda í Mývatnssveit, Hverfell versus Hverfjall, árið 1999, en í honum kemur fram að annað dæmi megi nefna um Hópsnes við Grindavík sem einnig er nefnt Þórkötlustaðanes á korti Landmælinga.
Reykjanesskaginn býður upp á meira en fagra náttúru og útiveru. Þess má vel geta hér að gangan frá Saltfisksetrinu austur að Herdísarvík skammt austan gömlu bryggjunnar á Þórkötlustaðanesi tekur u.þ.b. 30 mínútur. Farið er um stórbrotið hraunsvæði á vinstri hönd og minjar skipsskaðanna á þá hægri. Þessi leið er, ef vel er á haldið sögulega séð, ein sú magnaðasta á gjörvöllu Reykjanesinu. Og til að skynja áhrifamátt hafsins og smæð mannsins er nóg að stíga upp á kampinn og þenja skynfærin.

-Grindavíkurstríðið
Eins og kunnugt er lauk “Ensku öldinni” með bardaganum og drápi Englendinga í virki Jóhanns breiða ofan við Stórubót í Grindavík í júní 1532. Þar má enn sjá leifar virkisins sem og „Enskulágar“ þar sem hinir ólánssömu Englendingar voru grafnir. En sá bardagi átti sér langan aðdraganda. Árið 1518 varð t.d. stórbardagi í Hafnarfirði milli þýskra og enskra kaupmanna, sem lutu í lægra haldi eftir mjög mannskæða viðureign. Hrökkluðust þeir við svo búið úr bækistöðvum við Hafnarfjörð.
Englendingarnir höfðu sest að í Fornubúðum við Hafnarfjörð og voru með fjölmenni á stóru skipi. Hamborgarar, sem ekki vildu una því, að ensku kaupmennirnir hefðu höfnina, söfnuðu liði meðal Þjóðverja á Vatnsleysuströnd, í Keflavík, Básendum og Þórshöfn (við Ósa) og fengu þaðan fjörutíu og átta menn til liðs við sig.
Hamborgarar klæddu síðan skip sín sængum í sjó niður og sigldu þannig búnir inn fjörðinn í útrænu. Elda kyntu þeir og á skipum sínum, svo að reykinn legði inn yfir Englendinga.
Þarna varð hinn grimmasti bardagi, og er til marks um mannfallið, að ekki komust heilir úr slagnum nema átta þeirra Þjóðverja, sem gengið höfðu í liðið á Suðurnesjum. Eigi að síður unnu Hamborgarar sigur á Englendingum, er nú eiga sér ekki lengur griðland annars staðar á Reykjanesskaga en í Grindavík.
Vorið 1532 sneru þýskir kaupmenn og skipstjórar sér til ráðsins í Hamborg og báðu það senda sér liðsauka, þar er þeir hefðu einsett sér að fara að Englendingum í Grindavík.
Það er skreiðin, sem í rauninni er bitist um. Hún er svo verðmæt, að Englendingar telja skreiðarfarm geta numið allt að fjórum fimmtu hlutum af verði skips, öllum úthaldskostnaði þess í Íslandssiglingu og vörufarmi, er það flytur til Íslands.

Um 1500 voru í raun tveir “kaupstaðir” á Íslandi; Hafnarfjörður og Grindavík. Síðarnefndi staðurinn stóð betur að vígi því hann var aðalhöfn Skálholtssbiskups, sem hafði skip í förum. Bændur greiddu m.a. skatt sinn í osti, sem seldur var í Evrópu, en korn o.fl. flutt til landsins í staðinn. Grindavík var því mikil höfn um langan tíma og það löngu eftir að “Grindavíkurstríðinu” lauk. Enn má sjá minjar veru, sjósóknar og verslunar útlendra ofan við Stóru-Bót. Þar er hóll sem sagður er hafa verið virki Jóhanns breiða og manna hans og Engelska lág er þar undir hólnum þar sem enskir eru sagðir hafa verið grafnir af eftirlifandi félögum sínum. Vestar má sjá móta fyrir görðum Junkaragerðis. Á Kóngsklöppinni í Staðarhverfi, litlu vestar á nesinu, ráku Danir verslun eftir að þeir komu til landsins og tóku við af Þjóðverjum. Þar má enn sjá talsverðar minjar eftir þá verslun, m.a. tóftir húsa”.

-Tyrkjaránið – blóðþyrnir
Tyrkirnir komu hingað til lands í júní 1627. Þeir voru sjóræningar frá Algeirsborg í Norður-Afríku. Á sama tíma sátu Englendingar um La Rochelle í Frakklandi, þann bæ sem flestir frönsku sjómannanna voru frá er voru við veiðar hér við land síðar á öldum.
Tyrkirnir héldu á brott eftir miðjan júlí sama ár. En í millitíðinni gerðu þeir víða strandhögg og rændu fólki og drápu annað. Þrjú svæði urðu aðallega fyrir barðinu á þeim.

Tvö skipanna fóru austur með landi. Þau komu þangað 4. júní. Ræningjarnir fóru í land í Berufirði, á Djúpavogi og víðar. Alls munu þeir hafa hertekið rúmlega 100 manns á Austfjörðum, þ.a. 62 á Berufjarðarströnd og 13 frá Hamri í Hamarsfirði.

Komu hingað á 5 skipum. Urðu viðskila sunnan við land vegna veðurs. Tvö skip héldu til Grindavíkur ogkomu þangað 20. júní. Þar rændu þeir 15 þorpsbúum og nokkrum Dönum. Þau skip héldu vestur með landi, annað strandaði á Seylunni við Bessastaði, en hirðstjórinn, Holgeir Rósenkranz, þorði ekki að sækja að þeim. Vildi verjast. Tyrkirnir héldu áleiðis til Vestfjarða, en fréttu af enskum herskipum og snéri við.

Sjóræningjarnir rændu sjómönnum, sem á leið þeirra urðu.

Austfjarðarskipin munu hafa hitt það þriðja, sem var í villum suður af landi og stefnu þau saman til Vestmannaeyja. Þegar þangað kom fóru sjóræningjarnir hamförum. Þeir höfðu orðið varir við mótspyrnu. Þeir hertóku fólk, lögðu eld að húsum og drápu gamalmenni. Alls rændu þeir 242 manneskjum í Eyjum og drápu tæplega 40 þar sem fólkið hafði falið sig í klettum og skútum víðs vegar á eyjunnni. Um 200 manns komust undan, þar með kaupmaðurinn danski ásamt fjölskyldu sinni. Hann náði að róa til lands.

Fólkið var flutt í fjötrum til Algeirsborgar þar sem það var selt mansali. Tæpum 10 árum eftir ránið voru um 35 fangar leystir út og komust 27 þeirra til Kaupmannahafnar. Þar á meðal var Guðríður Símonardóttir er síðar tengdist prestinum, sem tók á móti fólkinu við komuna til Hafnar, Hallgrími Péturssyni.

Atburðurinn hafði mikil áhrif á íslenskt samfélag, ekki bara vegna mannskaðans heldur og vegna óttans og óöryggisins, sem fylgdi í kjölfarið. Sá uggur náði margar aldir fram í tímann. Enn í dag hötum við hundtyrkjann.
Það er alkunnugt að þegar Tyrkjar ræntu hér á landi 1627 gjörðu þeir landgöngu í Grindavík. Segja menn þeir hafi komið upp á Járngerðarstöðum og söfnuðust menn saman og gengu móti þeim og varð bardagi í fiskigörðunum fyrir ofan varirnar.
Þá bjó karl gamall á Ísólfsskála. Hann átti stálpaðan son; rauða meri átti hann líka. Karlsson heyrði talað um að Tyrkjar væru í Grindavík. Hann bað föður sinn lofa sér að fara þangað til að sjá þá. Karl var tregur til þess, en sonurinn sókti fast eftir.
Karl lét það þá eftir og setti hann á bak Rauðku og bað hann ríða hægt þangað til hann sæi Tyrkja og snúa þá aftur og flýta sér sem mest. Hann fór nú og segir ekki af honum fyrr en hann sá Tyrkja þar sem þeir börðust við landsmenn. Þá stukku tveir strax og ætluðu að taka hann. Hann varð dauðhræddur, reið undan og barði á báða bóga, en Rauðka var ekki viljugri en svo að Tyrkjar voru alltaf í nánd við hana. Þó dróst svo austur á Hraunssand að þeir náðu henni ekki. Ofan til á miðjum sandi náðu báðir undir eins í taglið á henni, en hún sló aftur undan sér og setti sinn hóf fyrir brjóst hvorum Tyrkja svo þeir féllu niður dauðir, en Rauðka hljóp nú svo hart að karlssyni þótti nóg um og kom hann heill heim á Skála.
Leiði Tyrkjanna sést enn á Hraunssandi, hlaðið úr grjóti og lítið grasi vaxið ofan, næstum kringlótt, nálega einn faðm á hvurn veg. Slétt er fram á það því sandinum hallar, en undan brekkunni er það nálega tveggja feta hátt. Sumir kalla það Kapellu.
Í bardaganum veitti landsmönnum miður. Særðu Tyrkjar suma, en tóku suma; þó féllu margir af Tyrkjum.
Helgi hét maður; hann barðist með kvíslarfæti og drap fimmtán Tyrkja, en var síðan tekinn. Hann var keyptur út löngu seinna og er sú sögn eftir honum höfð, að hann hafi drepið tvo eigendur sína, hvorn eftir annan, þá hann hlóð múrvegg, en þeir fundu að verkinu, og hafi hann hlaðið þeim í vegginn svo þeir fundust ekki og engan grunaði að Helgi hefði ollað hvarfi þeirra.
Engin dys sjást þar sem bardaginn var eða þar nálægt. En svo segja Grindvíkingar og fleiri að þar vaxi þyrnir síðan þar kom saman kristið blóð og heiðið, en það er raunar þistill, en ekki þyrnir.

Gunnuhver

5. Reykjanesviti – Gunnuhver

-Karlinn

Reykjanes

Reykjanes – Karlinn.

Sést utan við Reykjanesið. Gígtappi úr einum gíga gígaraðarinnar í Stömpunum, sá syðsti (frá Stampagosinu hinu Yngra). Karlinn um 50 metra hár og þétt setinn fugli.

-Kerlingin
Horfin, var einnig einn gígtappinn í gígaröðinni vestan við Karlsgígaröðina. Annars eru raðirnar fjórar frá mismundandi tímum. Hörslin eru elst og austast, þá kemur gígaröð milli Stampa og Hörsla, ein vestastan þeirra og síðan Stamparnir. Raða sér á misgengissvæðin frá SV-NA.
Segja má að þar rísi Atlanshafshryggurinn úr hafi og gengur á land með stórum sprungum sem og úfnu hrauni alsettu smágígum. Síðasta gosið á þessum slóðum var árið 1268.

-Atlantshafshryggurinn
Jarðvirkni á Íslandi er mikil og landmótun hröð. Þetta má helst skýra með legu landsins á Atlantshafshryggnum sem teygir sig úr Norður-Íshafinu suður fyrir Afríku. Á hryggnum er hár hiti úr jörðu sem stýrir eldvirkninni og nefnist þetta svæði á Íslandi virka gosbeltið einnig kallað eldvirka beltið. Atlantshafshryggurinn liggur á mörkun tveggja fleka (sjá landrekskenninguna) sem rekur í sundur til vesturs og austurs. Þessar plötur eru nefndar Evrópuplatan og Norður-Ameríkuplatan. Plöturnar eru um 100-200 km þykkar og mörg þúsund kílómetar að breidd. Jarðvirkni á Íslandi, svo sem eldgos og jarðskjálftar, er afleiðing þessa landreks.

Flekaskil

Flekaskil Norður-Atlantshafshryggjarins.

Sums staðar á hryggnum, á svokölluðum heitum reitum, eru mikið uppstreymi kviku og jarðvarmi mikill. Fræðimenn hallast að þeirri kenningu að undir reitunum myndist möttulstrókar vegna mikils varmaflæðis frá kjarnanum til jarðskorpunnar. Heitur reitur liggur undir Íslandi en talið er að um 20-30 heitir reitir séu dreifðir um jörðina, óháð flekamörkum. Eldvirkni á heitum reitum er oftast meiri en umhverfis hann og því liggur Ísland 2000 metrum ofansjávar meðan hryggurinn rétt hjá er á 2000-3000 metra dýpi. Ísland væri allt öðruvísi í lögun ef heiti reiturinn einn hefði valdið gosum, Ísland myndi þá líkjast meira Hawaii. Ísland hefði að sama skapi sjálfsagt ekki myndast ef einungis hefði verið um að ræða gos vegna plötureks. Ísland er einsdæmi á Atlantshafshryggnum að því leyti að saman fara plötuskil og heitur reitur sem bætir við efni þannig að landið er ofansjávar. Til eru eyjar nálægt úthafshryggjum en engin er nákvæmlega á honum miðjum, líkt og Ísland er eða jafnstór.

-Eldey

Eldey

Eldey.

Eldey er sérkennileg 77 m há þverhnípt klettsey sem liggur tæpa 15 km frá landi og er talin m.a. vera mesta Súlubyggð Evrópu (alfriðuð). Milli Eldeyjar og Reykjaness er Húllið – fjölfarin siglingaleið. Vegarslóði (6,7) á hægri hönd liggur niður í Stóru-Sandvík og að gamla Reykjanessveginum þar sem heitir Skjótastaðir en það er hár höfði norðan við víkina en þar mun hafa verið byggð fyrr á öldum. Annar vegarslóði liggur í Stóru-Sandvík niðri í dalverpinu framundan. Frá útskoti (7,0) við enda beygjunnar til austurs sést ofan í Stóru-Sandvík vaxna melgresi. Handan hennar í suðri tekur við talsvert hraun, kolsvart og sviðið með foksand í flákum.

Stampar

Gígar í Yngra- Stampahrauni.

Stamparnir þrír, sem blasa við framundan handan víkurinnar, eru sérkennilegir eldgígar og eftir þeim nefnist hraunið Stampahraun og nær fram í sjó. Eldgígarnir tveir sem sjást suðvestar, lengra til hægri og utar á nesinu, nefnast Eldborgir. Eins og við er að búast eru þessir upptippingar notaðir sem mið til staðsetningar fiskiskipa úti á Eldeyjarbanka. Sú Eldborganna sem sést af grynnra vatni nefnist Eldborg grynnri og stendur sunnar og nær sjó. Eldborg dýpri nefnist sú sem sést af dýpra vatni. Er hún stærri og stendur vestar. Þar heitir Eldborgahraun. Fjær til norðausturs eru mikil ummerki eldsumbrota. Eru það nefnd Eldvörp. Hafnamenn nefna það einnig í daglegu tali Hörzl, þ.e. ójöfnur. Stamparnir, Eldborgirnar og aðrar eldstöðvar eru eins og misstórir hnútar á svörtu bandi í landslaginu og setja ógnþrunginn svip á umhverfið, jafnvel svo að sumt fólk verður hrætt og þorir ekki að dvelja lengi á svæðinu af ótta við eldgos – enda er hér eldur undir, sem sést m.a. á hverasvæðinu og blásandi borholum austan Reykjanessvita.

Þverhnípt klettaeyja (77 m.y.s) 8 sjómílur suður af Reykjanesi. Eldey er mynduð úr móbergi og er 0,03 km2. Hún er innsta skerið í skerjaklasa miklum sem stendur á einni grynningu og nær 45 sjómílur frá landi. Kallast hann Fuglasker eða Eldeyjar. Eitt þessara skerja var Geirfuglasker þar sem síðustu höfuðstöðvar geirfuglsins en það sökk að mestu í
eldsumbrotum 1830.
Í Eldey er mesta súlubyggð sem þekkist í heiminum og er eyjan jafnan þakin súlu. Við talningu, sem gerð var 1949 var fjöldi súlna þar talin um 70 þúsund.
Eldey er rúmir 70 metrar á hæð og þar 38er ein stærsta súlnabyggð í heimi. Eldey hefur veriðfriðuð frá 1940 en hefur aðeins einu sinni verið klif-in eftir það. Hundrað árum áður eða 1844 voru síðustu Geirfuglarnir teknir við Eldey.

-Reykjanesviti

Reykjanesviti

Reykjanesviti.

Ekið er um hlað vitavarðarhússins (þar er snyrtiaðstaða fyrir ferðafólk) og áfram út að Valahnjúki. Við strönd Reykjaness og báðu megin nessins hafa orðið mörg og mikil sjóslys á þessari öld. (Greinarhöfundur hefur skrifað sögu Björgunarsveitarinnar Eldeyjar í Höfnum. Þar er m.a. fjallað nokkuð ítarlega um stærri sjóslys á þessu svæði. Greinin er einnig birt á þessari vefsíðu). Við Reykjanes strandaði m.a. eitt af stærstu skipum sem strandað hefur við Ísland, olíuskipið Clam. Það var 28. febrúar 1950. Skipið vari vélarvana eftir að hafa rekið upp í fjöru í Reykjavík og á leið til útlanda dregið af dráttarbáti, sem það slitnaði frá í ofsaveðri. Um borð voru 50 skipverjar. (Hvers vegna 50 manns voru um borð í vélarvana skipi sem draga átti til útlanda af dráttarbáti bíður sagnfræðinga að rannsaka). Þarna fórust 27 manns en 23 tókst að bjarga.

Fyrsti ljósviti á Íslandi var reistur á Valahnjúki 1878. Í miklum jarðskjálftum 8-9 árum síðar hrundi úr hnjúknum og sprungur mynduðust ofan á honum. Var þá talið að reisa yrði vitann á öruggari stað og var þá núverandi viti á Vatnsfelli (nefnt eftir litlu vatni/uppsprettu sem er norðan þess – reyndar eru þeir til sem fullyrða að heitið Vatnsfell sé dregið af eimingartækjum sem þar voru sett upp og áttu að sjá vitavarðarhúsinu fyrir drykkjarvatni en sem ekki reyndist svo þörf fyrir) byggður og tekinn í notkun 1908. Annar viti, minni, var reistur sunnar á sk. Austurnefi og er ástæðan sú að lítið fell, sem nefnist Skálarfell, skyggir á ljósið frá stóra vitanum á nokkru svæði þegar siglt er úr suðri. Hóllinn sem er á móti Vatnsfelli og er á vinstri hönd þegar ekið er fram hjá vitavarðarhúsinu á leið út að Valahjúk nefnist Bæjarfell.

Skálafell

Skálafell.

Suður og austur frá bænum er hraundyngja allmikil, sem nefnd er Skálarfell. Kvað vera skál ofan í hana miðja. Það er merkilegast við þessa dyngju, að hún rýkur öll, eins og kolabyngur, sem kastað hefur verið ofan á glæður. Það eru hveragufur, sem alstaðar leggur út úr henni, hátt og lágt. Norðan undir henni eru hverirnir, sem nesið dregur nafn af.
Vestan undir dyngjunni er gjá mikil, og gengur hún allt í sjó fram. Gjáveggurinn eystri er nokkuð hærri en hinn og báðir barmar mjög klofnir og sprungnir. Hveragufur leggur alstaðar upp um glufurnar. Vestur af bænum eru leifar af gömlum gígum eða móbergshnúðum, sem sjórinn er nú að brjóta upp. Enginn veit, hve margir þeirra eru horfnir í brimið. Leifarnar af einum þessum hnúð standa fyrir framan fjöruborðið. Er það drangur mikill og heitir Karlinn. Aðrar leifar, og þær allra mestar, standa úti í reginhafi fram undan nesinu. Er það drangur hár og digur, sem nefnist Eldey. Þessi gígaröð nær langt út í hafið. Eitt hnúkbrotið frammi við sjóinn, sem nú stendur líklega tæpur helmingur eftir af, heitir Litli-Valahnúkur. Þar
stóð vitinn áður, og mátti víst ekki seinna vera, að hann væri fluttur. Vitaturninn gamli var sprengdur sundur með púðurskotum, svo að ekki skyldi hann skyggja á nýja vitann, og liggja brotin úr honum þar uppi á hólnum.

Á Reykjanesi var fyrsti vitinn á Íslandi byggður árið 1878. Hann laskaðist í jarðskjálftum 1887 og var síðar felldur. Nú hefur þessum rústum verið bjargað niður af Valahnúk þar sem hætta var á aðþær féllu í sjóinn vegna hruns úr hnúknum. Tilstendur að endurhlaða vitann á næstu árum. Nýr viti var byggður á Bæjarfelli (áður Grasfell eða/og Vatnsfell) árið 1907-08.

-Valahnúkur

Reykjanesvit

Reykjanesviti 1878.

Þann 1. desember 1998 voru 120 ár liðin frá því að fyrsti viti í eigu hins opinbera, Reykjanesviti, var formlega tekinn í notkun. Í yfir þúsund ár fóru siglingar fram milli Evrópu, Grænlands, Vínlands og Íslands, án þess að nokkrar leiðbeiningar væru gefnar til sjómanna frá landi. Tilkoma Reykjanesvita og uppbygging vitakerfisins í kjölfarið var því mjög þýðingarmikill þáttur í sögu eyþjóðar. Vitarnir gerðu sjófarendum kleift að sækja sjóinn utan bjartasta tíma ársins. Á 6. áratugnum lauk uppbyggingu vitakerfisins að mestu en þá hafði ljósvitahringnum verið lokað. Í dag eru 104 landsvitar við strendur landsins og annast Siglingastofnun Íslands uppbyggingu og rekstur á þeim vitum, ásamt því að hafa umsjón og eftirlit með uppbyggingu og rekstri hafnarvita og innsiglingarmerkja.
Reykjanesviti var löngum talinn aðalviti landsins. Vitinn var byggður á Valahnjúk, fram við sjávarbrún, þar sem bjargið stendur þverhnípt. Fyrsti vitavörðurinn var Arnbjörn Ólafsson. Vitinn var endurnýjaður árið 1897 en hann hafði skemmst í jarðskjálftum. Nýr viti var byggður á árunum 1907-1908 á Bæjarfelli. Þann 20. mars 1908 var kveikt á núverandi Reykjanesvita, sem er 73 m. yfir sjávarmáli.

-Kríuvarp

Kría

Kría.

Krían er einn best þekkti fugl landsins. Hún er sjófugl sem kemur til landsins um mánaðamótin apríl maí. Síðsumars fara þær svo að tygja sig til brottfarar en þá eiga þær fyrir höndum, eða vængjum, eitthvert mest ferðalag sem nokkurt dýr leggur í á jörðinni. Þær fljúga suður eftir öllu Atlantshafi að Suðurskautslandinu og er jafnvel talið að þær fari umhverfis Suðurskautslandið áður en þær leggja aftur í norðurátt næsta vor. Á farfluginu fljúga þær á 45–60 km hraða á klukkustund í 6–7 tíma daglega og fara þannig um 300 km á hverjum degi. Allt ferðalagið aðra leiðina tekur því um einn og hálfan mánuð, hreint ótrúlegt afrek fyrir fugl sem ekki vegur nema rúm 100 g. Kríurnar verpa hér í þéttum byggðum um allt land jafnvel uppi á hálendinu. Íslenskar kríur skipta hundruðum þúsunda og virðist stofnstærðin sveiflast talsvert. Oft sjá menn að mikill viðkomubrestur verður í kríuvörpum vegna veðurfars eða fæðuskorts. Krían er afbragðs flugfugl sem andæfir yfir vatni og steypir sér síðan eldsnöggt niður eftir sílum sem eru aðalfæða þeirra, ásamt smákrabbadýrum og skordýrum. Hún er einnig þekkt fyrir árásargirni við varplönd sín og njóta aðrir fuglar þar verndar hennar. Sum kríuvörp eru geysistór, það stærsta er í Hrísey með yfir 20.000 varppör en stór vörp eru líka á Snæfellsnesi. Hreiðrið er smálaut oftast án nokkurra hreiðurefna og eggin oftast tvö eða þrjú. Aðalvarptíðin er í júní. Kríur eru friðaðar.
Á Reykjanesi er eitt mesta kríuvarp á landinu. Aðgát sk

al höfð þegar fólk ferðast um Reykjanesið á varptíma því þá er krían mjög aðgangshörð. Hún á sér hreiður allt í kringum vitann og um hverasvæðið.

-Gunnuhver (jarðhiti) og sagan af Gunnu. Varað er við hættum á jarðhitasvæðum.

„Fyrrum bjó maður einn á Kirkjubóli á Suðurnesjum, er Vilhjálmur hét. Á dögum hans skyldi hafa verið þar í koti hjá kona sú er Guðrún hét og var Önundardóttir. Hún átti að gjalda Vilhjálmi skuld að Kirkjubóli, en hafði það ekki, er gjalda skyldi. Er þá sagt, að Vilhjálmur hafi tekið pottinn hennar í skuldina. Litlu síðar kom Gunna heim að Kirkjubóli og bað um að drekka. Fólk sá, að henni var brugðið, og var henni fært helgað messuvín. Hún spyr, hvern þremilinn hún eigi að gjöra við þetta. Dembdi hún því niður, en greip vatnsfötu og slokaði svo mikið, að fólk undraðist stórum. Gekk hún síðan heim. Maður sá, er hjá henni var, hafði róið þennan dag. En er hann kom heim, var Gunna dauð í bæli sínu. Var þá smíðað utan um hana og líkið fært til Útskálakirkju. En er þeir, sem báru líkið, komu miðja leið, þótti þeim kistan furðulétt. Þó var ekki athugað um það meira. En þegar verið var að taka gröfina, er sagt, að Gunna hafi sézt á milli þangkastanna á Útskálum og sagt: „Ekki þarf djúpt að grafa, ekki á lengi að liggja.“ Eftir þetta lagðist sá orðrómur á, að mjög reimt væri á Skaganum.

Hoyer

Hús Hoyers við Gunnuhver.

Nokkru síðar var Vilhjálmur við samkvæmi á Útskálum. Var hann þar fram eftir kvöldinu og vildi þá heim. En þar eð þessi orðrómur lá á, var honum boðin fylgd. En hann var hugmaður og þá kenndur nokkuð og þá því ekki fylgdina, en kom ekki heim um kvöldið. Daginn eftir fannst hann í Hrossalág, illa útleikinn. Var hann fluttur í bænahús á Kirkjubóli og fengnir tveir menn til að vaka yfir honum. Nær miðri nóttu komu þeir inn og fengust ekki til að fara út aftur. Aðra nótt voru aðrir tveir fengnir. Þeir vöktu að vísu þá nótt út, en fengust ekki til þess lengur. Var þá fenginn til þess presturinn frá Útskálum, og hafi hann sagt það þá örðugustu nótt, sem hann hefði lifað. Síðan var líkið Vilhjálms jarðað, og bar þá ekki á neinu. En reimleikinn ágerðist eftir það, og sáu allir Gunnu bersýnilega. Reið hún húsum og fældi fénað. Síðan voru fengnir tveir menn hinir ötulustu og sendir til síra Eiríks í Vogsósum og hann beðinn hjálpar. Hann tók þeim stutt og veitti afsvör, unz þeir fengu honum átta potta kút af brennivíni, er þeir höfðu með sér. Hýrnaði hann þá í svari og fékk þeim síðan hnýti og seðil með tveimur hnútum og bað fá Gunnu. Þeir gerðu sem fyrir þá var lagt, og tók Gunna við og leysti af hnútana og leit á. Er sagt, að henni hafi orðið þetta að orði: „Á andskotanum átti ég von, en ekki á Vogsósakarlinum. En ekki tjáir við að standa.“ Hafi hún látið hnýtið renna fyrir, en elt það, þar til hún kom að hver, sem er á Reykjanesi. Hafi hún hlaupið þar sífellt í kring, uns hnýtið var endað, og þá stungizt ofan í hverinn, og heitir þar síðan Gunnuhver.“

Gunnuhver

Við Gunnuhver.

Bláa lónið

8. Bláa lónið – Grindavík

-Bláa lónið
Bláa lónið (gamla) myndaðist vegna frárennslis frá orkuverinu í Svartsengi og var einn fjölsóttasti ferðamannastaður landsins. Ný þjónustumiðstöð, stærri og betri var tekin í notkun í júní 1999. Nokkur hundruð þúsunda gesta heimsækja það árlega og vegna sérstöðu sinnar nýtur það mikillar hylli fjölmiðlafólks um allan heim. Fljótlega eftir að fólk fór að sækja í Bláa Lónið kom í ljós, að vatnið í því virkar mjög vel til að lina þjáningar þeirra, sem þjást af húðsjúkdómum (psoriasis) og þar er sérstök aðstaða fyrir þá. Sjúklingarnir koma víða að úr heiminum til að njóta lækningarmáttar lónsins. Góð þjónusta er við ferðamenn við Bláa lónið og er þar gott hótel og veitingahús ásamt miðstöð upplýsinga og minjagripasölu.

Bláa Lónið hefur á örfáum árum þróast úr því aðvera tilfundinn baðstaður í það að vera einn af fjöl-sóttustu ferðamannastöðum landsins. Yfir 300 þús-und manns koma í Lónið ár hvert.Bláa Lónið er til komið sem affallsvatn frá orku-verinu í Svartsengi, sem verðugt er að skoða.Fljótlega kom í ljós lækningamáttur vatnsinsþegar fólk með psoriasis fór að lauga sig í lóni þvísem myndast hafði. Ný og glæsilega aðstaða hefurverið byggð á nýjum stað fyrir Bláa Lónið með veit-ingasölu og gjafavöruverslun. Í nágrenni Bláa Lónsins er að finna gott hótel og veitingahús. Bláa Lónið er kjörinn hvíldarstaður eftir góða skoðunarferð um Reykjanes áður en haldið er á gististað.

-Hitaveita Suðurnesja
Hitaveita Suðurnesja hf. er sameignarfyrirtæki sveitarfélaganna á Suðurnesjum, Hafnarfjarðarbæjar og ríkissjóðs. Tilgangur Hitaveitu Suðurnesja hf. er vinnsla og nýting jarðvarma og hvers konar annarra orkuauðlinda, dreifing og sala raforku, orkugjafa og annarra afurða félagsins ásamt hverri þeirri starfsemi annarri sem nýtt getur rannsóknir, þekkingu eða búnað félagsins. Einnig iðnþróun og nýsköpun af hverju tagi sem er ásamt annarri viðskipta- og fjármálastarfsemi samkvæmt ákvörðun stjórnar hverju sinni.

Hitaveita Suðurnesja rekur orkuver í Svartsengi sem nýtir um 240 °C heitan jarðhitavökva, sem fenginn er úr borholum allt að 2000 metra djúpum. Jarðhitavökvann er ekki unnt að nota til beinnar upphitunar vegna seltu hans og því hversu ríkur hann er af uppleystum steinefnum. Vökvinn er því notaður til upphitunar á ferskvatni og til framleiðslu á rafmagni. Jarðhitavökvi um 80 °C heitur sem ekki er nýttur í orkuverinu er hleypt út á hraunbreiðuna. Jarðhitavökvi blandaður þéttivatni háhitagufunnar myndar Bláa lónið. Einstakt lífríki ásamt miklu magni af náttúrulegum steinefnum, kísl og sérstökum blágrænum þörungi mynda mjúkan hvítan leirinn í lóninu og gefa því sinn sérstaka bláa lit. Bláa Lónið hf. rekur baðstaðinn við Bláa lónið, göngudeild fyrir psoriasis sjúklinga og framleiðir húðverndarvörur undir merkinu Blue Lagoon.

-Tilurð lónsins og sérstaða
…svo sem – spa, nudd, vatnið í lóninu, efni í því, hitastig, kísill, minjagripir, veitingar, leigð handklæði og sundföt…

-Illahraun – aldur, gerð og fleira.
Illahraun er frá sögulegum tíma, sennilega frá 13. öld (1226).

-Hitaveita Suðurnesja
Hitaveita Suðurnesja hf. er sameignarfyrirtæki sveitarfélaganna á Suðurnesjum, Hafnarfjarðarbæjar og ríkissjóðs. Tilgangur Hitaveitu Suðurnesja hf. er vinnsla og nýting jarðvarma og hvers konar annarra orkuauðlinda, dreifing og sala raforku, orkugjafa og annarra afurða félagsins ásamt hverri þeirri starfsemi annarri sem nýtt getur rannsóknir, þekkingu eða búnað félagsins. Einnig iðnþróun og nýsköpun af hverju tagi sem er ásamt annarri viðskipta- og fjármálastarfsemi samkvæmt ákvörðun stjórnar hverju sinni.

Hitaveita Suðurnesja rekur orkuver í Svartsengi sem nýtir um 240 °C heitan jarðhitavökva, sem fenginn er úr borholum allt að 2000 metra djúpum. Jarðhitavökvann er ekki unnt að nota til beinnar upphitunar vegna seltu hans og því hversu ríkur hann er af uppleystum steinefnum. Vökvinn er því notaður til upphitunar á ferskvatni og til framleiðslu á rafmagni. Jarðhitavökvi um 80 °C heitur sem ekki er nýttur í orkuverinu er hleypt út á hraunbreiðuna. Jarðhitavökvi blandaður þéttivatni háhitagufunnar myndar Bláa lónið. Einstakt lífríki ásamt miklu magni af náttúrulegum steinefnum, kísl og sérstökum blágrænum þörungi mynda mjúkan hvítan leirinn í lóninu og gefa því sinn sérstaka bláa lit. Bláa Lónið hf. rekur baðstaðinn við Bláa lónið, göngudeild fyrir psoriasis sjúklinga og framleiðir húðverndarvörur undir merkinu Blue Lagoon. Nú er verið að opna þar sérstaka Húðlækningamiðstöð þar sem fyrir er hótelaðstaða fyrir 30 manns. Ætlunin er m.a. að bjóða þeim að nýta sér hið margbreytilega umhverfi Bláa lónsins.

-Sýlingarfell – Svartsengisfjall – Svertingsfell
Gígur uppi á fellinu.

-Gjáin
Í „Gjánni“ hefur verið komið upp sýningu um jarðfræði, jarðhita og vinnslu orku úr iðrum jarðar. Tæknibúnaður þar er mjög fullkominn og gjáin hljóðdeyfð þannig að unnt er sýna margar myndir og spila mismunandi hljóð samtímis. Myndskjáir eru 42″ plasmaskjáir í stærðarhlutfallinu 16:9 sem er hið nýja form fyrir sjónvarpsmyndir. Á myndskjánum eru sýndar tölvumyndir og kvikmyndir. Víðóms hljóðflutningur er með hverri mynd. Þar sem er þulartexti er hann bæði á íslensku og ensku.
Hljóðkerfi með stafrænum mögnurum er einnig í sjálfri gjánni og nýtist það m.a. fyrir ýmis hljóð sem tengjast gossprungu og jarðskjálftalíkani sem þar er komið fyrir. Þessi hljóð, auk annarra íslenskra náttúruhljóða, eru geymd á stafrænum hljóðspilurum sem stýrt er í samræmi við það sem er að gerast í gjánni á hverjum tíma.

Gjáin er opin almenningi alla virka daga og stundum um helgar.

-Þorbjörn
Skammt fyrir ofan byggðina í Grindavík er fjall, sem heitir Þorbjarnarfell, – oftast nefnt Þorbjörn. Í toppi þess er hamragjá, sem heitir Þjófagjá.
Er svo sagt, að þar hafi einu sinni hafst við fimmtán þjófar, sem lögðust á fé Grindvíkinga. Eigi sáu byggðarmenn færi á að vinna þá fyrr, en bóndason frá Hópi tókst á hendur að svíkja þá. Hann fór til þeirra, sór þeim trúnaðareið og var með þeim um hríð. Hann varð þess vís, að þeir fóru hvern laugardag í bað í laug þeirri, sem er á Baðsvöllum norðan undir fjallinu.

Einn gætti klæða þeirra, meðan þeir voru í baðinu, og gerðu þeir það til skiptis. Svo kom, að þeir trúðu bóndasyni fyrir að geyma föt sín. Þá sneri hann um annarri skyrtuerminni og annarri brókarskálminni hjá þeim öllum og hljóp síðan, sem fætur toguðu, til bæja. Það fór eins og hann ætlaðist til; þjófunum varð tafsamt að komast í föt sín, og ekki fóru þeir nema í nærklæðin og eltu hann síðan, en náðu honum ekki. Urðu þeir mjög sárfættir í grjótinu.

Nú þustu byggðarmenn að þeim, og gátu þeir ekki komist undan. Voru þeir allir teknir höndum og hengdir þar, sem síðan heita Gálgaklettar. Bóndasonurinn varð ólánsmaður, en eigi er getið, hvað fyrir hann kom

-Örlítið um Grindavík áður en komið er þangað
Grindavík er í dag 2800 manna bær og einn öflugasti útgerðarstaður landsins. Þar er grósku mikilútgerð og fjöldi báta. Þótt sjávarsókn brauðfæðiGrindavík er ferðaþjónusta mjög áberandi og örtvaxandi. Fjöldi veitingahúsa og nokkur gistihús eru í Grindavík og gott tjaldsvæði. Í Grindavík er einnigbílaleiga og hestaleiga. Byggð hefur verið ný kirkja í Grindavík þar sem sú er flutt var frá Stað var löngu orðin of lítil. Staðarkirkjan hefur nú fengið nýtt og sérstakt hlutverk – hún er nú barnaheimili. Grindavíkur er vel getið í sögu erlendra kaupmanna á Ís-Búrfellstraðir landi og oft vegna ófriðsamlegra aðgerða eins og 1532 þegar Íslendingar, Danir og Þjóðverjar sameinuðust gegn Englendingum. Tyrkir gerðu sigeinnig heimakomna í Grindavík öld síðar. Vert er að veita skrúðgarðinum Sólarvé sérstaka athygli en hann er við sundlaugina. Sólarvé er skipulag og hlaðið í fornum stíl og vitnar til horfinnar menningar landsins.

Grindavík

7. Grindavík – Bláa lónið

-Ekið eftir nýja veginum frá Grindavík til Bláa lónsins.

-Stutt kynning á Grindavík
Hvern hlakkar ekki til að koma til Grindavíkur. Fróðleikur, sem á eftir fylgir, mun gera heimsóknina enn áhugaverðari en ella hefði verið.

Grindavík er einn öflugasti útgerðarstaður landsins. Þar er mikil gróska í útgerð og fiskvinnslu sem veita íbúum og fjölda aðkomumanna atvinnu. Ferðaþjónusta er í örum vexti og verslun og léttari iðnaður þrífast vel. Í Grindavík er skrúðgarðurinn Sólarvé, rétt við sundlaugina, en hann er hlaðinn í fornum stíl og ber vitni horfinni menningu landsins. Strandhögg Tyrkja í Grindavík 1627 er vel þekkt meðal þjóðarinnar en áður kom oft til ófriðsamlegara aðgerða eins og þegar Íslendingar, Danir og Þjóðverjar sameinuðust gegn Englendingum árið 1532.

Landnámabók greinir frá því að landnámsmenn hafi komið til Grindavíkur í kringum árið 934. Landnámsmenn voru tveir. Þeir hétu Molda-Gnúpur Hrólfsson sem nam Grindavík og Þórir haustmyrkur Vígbjóðsson sem nam Selvog og Krýsuvík. En allt fram til 1946 náði Grindavíkurhreppur yfir tvær sóknir Staðarsókn og Krýsuvíkursókn. Synir Moldar-Gnúps settust að á þrem höfuðbólum sem hin 3 hverfi Grindavíkur heita eftir. Austast er Þórkötlustaðahverfi, þá Járngerðarstaðarhverfi, þar sem megin byggðin er í dag, en Staðarhverfi heitir vestast.
Upphaf kaupstaðarins sem nú stendur má rekja til þess að Einar Einarsson í Garðhúsum hóf verslun í húsi sem hann byggði árið 1897 í Járngerðarstaðarhverfi. 1939 var grafið skipalægi inn í Hópið og upp úr 1950 hófst alvöru hafnargerð. Grindavík fékk kaupstaðarréttindi 1974. Um aldamótin síðustu voru íbúar 357 talsins. Grindavík er öflugt sveitarfélag á suðurströnd Reykjanesskaga um 50 km frá Reykjavík. Íbúar voru 2.382 þann 1. desember sl. Fallegt bæjarstæði við rætur Þorbjarnarfells, nálægð við gjöful fiskimið, ferðamannastaður og heilsulind eins og Bláalónið sem og öflugt íþróttastarf með ungu fólki, allt þetta hjálpast að við að skapa gott mannlíf í framsæknu bæjarfélagi. Nú höfum við bætt við menningu okkar hérna í Grindavík og reist Saltfisksetur Íslands í Grindavík þar höfum við eignast stórt og mikið menningarsetur sem notað verður í þágu Grindvíkinga jafnt sem Íslendinga.

Meðal stærstu fyrirtækjanna má telja Þorbjörn-Fiskanes hf, Stakkavík,Vísir og Samherji/Fiskimjöl og Lýsi. Grindavíkurhöfn hefur lengi verið í hópi þeirra 4 – 5 hafna sem mestum afla skila á land á hverju ári. Þótt Grindavík hafi lengst af byggt afkomu sína á sjávarútvegi hefur á síðustu árum orðið verulegur samdráttur í vinnu landverkafólks og það ýtt undir leit að nýjum atvinnutækifærum. Aukin vinna við þjónustu kom með byggingu glæsilegrar langlegudeildar í Víðihlíð, dvalarheimili aldraðra í Grindavík. Deildin tilheyrir Sjúkrastofnun Suðurnesja í Keflavík. Þá varð mikill uppgangur í þjónustu við ferðamenn með uppbyggingunni við Bláalónið og tilkomu Saltfiskseturs Íslands í Grindavík. Þar er verið að byggja hótel og meðferðaraðstöðu við Lónið á nýjum stað þar sem baðgestir eru alveg öruggir og öll aðstaða verður eins og best verður á kosið. Nú er hótel við Bláalónið, veitingastaður og einnig fer þar fram vinnsla á heilsuvörum sem unnar eru úr efnum úr Lóninu. Í bænum er öll nauðsynleg þjónusta heilsugæsla, tannlæknir, verslanir, löggæsla, skrifstofa Sýslumanns.

Grindavík er í dag 2600 manna bær og einn öflugasti útgerðarstaður landsins. Þar er grósku mikilútgerð og fjöldi báta. Þótt sjávarsókn brauðfæðiGrindavík er ferðaþjónusta mjög áberandi og örtvaxandi. Fjöldi veitingahúsa og nokkur gistihús eruí Grindavík og gott tjaldsvæði. Í Grindavík er einnigbílaleiga og hestaleiga. Byggð hefur verið ný kirkja í Grindavík þar sem sú er flutt var frá Stað var löngu orðin of lítil. Staðarkirkjan hefur nú fengið nýtt ogsérstakt hlutverk – hún er nú barnaheimili. Grindavíkur er vel getið í sögu erlendra kaupmanna á Ís-Búrfellstraðir landi og oft vegna ófriðsamlegra aðgerða eins og 1532 þegar Íslendingar, Danir og Þjóðverjar sam-einuðust gegn Englendingum. Tyrkir gerðu sigeinnig heimakomna í Grindavík öld síðar.Vert er að veita skrúðgarðinum Sólarvé sérstaka athygli en hann er við sundlaugina. Sólarvé erskipulag og hlaðið í fornum stíl og vitnar til horfinnar menningar landsins.

Landnámsmenn í Grindavíkurhreppi voru tveir: Molda-Gnúpur Hrólfsson, er nam Grindavík og Þórir haustmyrkur Vígbjóðsson er nam Selvog og Krýsuvík. Í Landnámabók segir svo frá Moldar-Gnúpi að hann hafi verið sonur Hrólfs höggvandi, sem bjó í Moldartúni á Norðmæri í Noregi. Þeir Gnúpur og Vémundur bróðir hans voru vígamenn miklir og vegna drápa þeirra fór Gnúpur til Íslands. Hann nam land á milli Kúðafljóts og Eyjarár og allt Álftaver. Þar bjó hann uns byggðin spilltist af hraunstraumi en þá hélt hann vestur til Höfðabrekku og reisti sér skála, þar sem nú heita Kaplagarðar og dvaldist þar um veturinn. Þar lenti hann enn í ófriði og hélt um vorið ásamt sonum sínum vestur til Grindavíkur og tóku þeir sér þar bólfestu.
(Þessi saga er rituð í Sturlungabók, en í annarri gerð Landnámu, Hauksbók, segir að Gnúpur hafi fallið ásamt 2 sonum sínum í átökum við Kaplagarða um veturinn. Hinir synirnir, Björn, Þórður og Þorsteinn, hafi hins vegar numið land í Grindavík. Sérfræðingar geta ekki fullyrt hvort er rétt en telja meiri líkur á að Molda-Gnúpur hafi komist alla leið.)
Erfitt er að tímasetja landnámið nákvæmlega. Nýlegar rannsóknir jarðfræðinga sýna að hraun hefur runnið yfir Álftaver og þau svæði sem Moldar-Gnúpur settist fyrst að á um og eftir 934. Þessu ártali kann að skeika um 1 eða 2 ár til eða frá, en ef það er notað til viðmiðunar hefur Moldar-Gnúpur og fólks hans komið til Grindavíkur um og eftir árið 940.
Fólkinu virðist hafa gengið vel að koma sér fyrir eins og fram kemur í hinni frægu sögu um Hafur-Björn: “Björn hafði nær ekki kvikfé; hann dreymdi að bergbúi kæmi at honum og byði að gera félag við hann, en hann játti. Þá kom hafr til geita hans litlu síðar; því var hann Hafr-Björn kallaðr. Hann gerðist bæði ríkr og stórauðigr. Þat sá ófresk kona, at allar landvættir fylgdu Hafr-Birni þá er hann fór til þings en Þorsteinn ok Þórði bræðrum hans þá þeir fiskuðu”.

Vitneskja okkar um upphaf byggðar í Grindavík takmarkast við frásögn Landnámu af Moldar-Gnúpi og sonum hans og ekkert er vitað með vissu um byggðina og sögu hennar næstu 300 árin eftir landnám. Engu að síður verður að telja líklegt að flestar bújarðirnar hafi byggst þegar á 10. og 11. öld og með því að gefa hugarfluginu lausan tauminn til þess að reyna að lesa milli línanna í Landnámu og þætta saman frásögn hennar og alþekktrar þjóðsögu má geta sér til hvernig hin fyrsta byggð í Grindavík hefur risið.
Hvergi kemur fram hve margt fólk fylgdi Moldar-Gnúpi á ferð hans austan úr Álftaveri, en varla hafa það verið færri en 20-30 manns, fjölskylda og fylgdarlið.
Þegar landnemarnir voru komnir á áfangastað hafa þeir vafalaust byrjað á því að velja sér stað til vetursetu og reist þar skála. Sá staður hefur að öllum líkindum verið í námunda við Hópið, trúlega á einhverjum þeirra staða sem síðar risu bæirnir Húsatóftir, Hóp og Járngerðarstaðir. Hópið var ákjósanlegur staður til að setjast að og reisa skála. Þar var öruggt vatnsból, stutt sjávargata, góð lending fyrir báta og mikil fjörugæði. Hinn fyrsta vetur hafa landnemarnir vafalítið notað til að kanna landkosti í nýjum heimkynnum og ekkert var eðlilegra en þeir Molda-Gnúpssynir tækju að svipast um eftir löndum fyrir sjálfan sig. Að sögn Landnámu voru þeir allir fullorðnir er hér var komið sögu og frumbyggjasamfélagið krafðist þess að menn staðfestu ráð sitt og hæfu búskap eins fljótt og auðið var.
Við vitum ekki í hvaða röð þeir bræður giftust né hvar hver þeirra reisti sér bú. Við vitum að bræðurnir fjórir; Gnúpur, Björn (Hafr-Björn), Þorsteinn hrungnir og Þórður leggjandi. Við vitum líka að Gnúpur (yngri) giftist Arnbjörgu Ráðormsdóttur og að Hafr-Björn giftist Jórunni dóttur Arnbjargar og Svertings Hrollleifssonar. Björn og Jórunn bjuggu í Grindavík, en óvíst er hvort Gnúpur og Arnbjörg hafi gert það líka.

Flestir kannast við þjóðsöguna um þær Járngerði og Þórkötlu, sem bjuggu á Járngerðarstöðum og Þórkötlustöðum. Þjóðsögur geyma oft löngu gleymda vitneskju. Það er því ekki ólíklegt að konur með þessum nöfnum hafi í fyrndinni búið í Grindavík á þessum tveimur jörðum og jarðirnar dragi nöfn sín af þeim. Er þá ekki hugsanlegt að þær hafi verið tengdardætur Molda-Gnúps, giftast Þorsteini hrugni og Þórði leggjanda, og þá fyrstu húsfreyjur á Járngerðarstöðum og Þórkötlustöðum. Hafi svo verið hafa þeir bræður verið fyrstir til að búa á þessum tveim bæjum og á sama hátt getum við hugsað okkur Moldar-Gnúpur hafi búið á Hópi (Hofi), en Gnúpur eða Björn á Stað og hinn á Húsatóftum.
Þetta er aðeins tilgáta en skemmtilegt að velta þessu fyrri okkur. Það er staðreynd að allar stærstu jarðirnar í sveitinni hafa byggst strax á landnámsöld og hverfin 3 vaxið út frá höfðubólunum.
Í Krýsuvík er landnámsmaður talinn Þórir haustmyrkur. Hann hafi búið í á bæ, sem Hlíð hét og lagt veg yfir svonefnd Grindarskörð. Þar átti þá að hafa verið svo mikill skógur að hann hafi tekið börkinn af nokkrum trjám og búið til grind og sett á skarðsbrúnina vestanverða til að merkja hvar fara ætti þegar ferð lá yfir fjallið. Er ekki ósennilegt að sú skýring að örnefninu Grindavík og Grindarskörð séu dregin af veggrindum á fjöllum uppi eigi rætur að rekja til þessarar sögu.

Hér á eftir er fjallað um nokkur áhugaverð atriði er varða Grindavík. Fólk á leið í og um bæinn gæti nýtt sér þennan fróðleik til að upplifa hluta af sögu hans því flest það, sem minnst er á má sjá með berum augum ef vel er að gáð.
1. Það er alltaf sól í Grindavík – stundum að vísu á bak við skýin. Hér er súrefnið hvað ferskast og svo til ónotað er það kemur með vindum og golfstraumnum sunnan úr höfum. FERLIR hefur farið um 750 ferðir um Reykjanesskagann, en einungis þrisvar fengið kærkomna rigningu á þeim ferðum. Reykjanesskaginn er sennilega ónýttasta útivistarsvæði landsins – í nálægð við u.þ.b. 200.000 neytendur, auk annarra áhugasamra Íslendinga, að ekki sé talað um nýtingu skammstoppandi útlendingum til handa. Svæðið hefur upp á allt að bjóða, sem önnur fjarlægari svæði gætu boðið upp á – jarðfræðina, náttúruna, fegurðina, fjölbreytina, minjarnar, söguna og þjóðtrúna, eitt helsta sérkenni okkar Íslendinga.
2. Mikilvægt er fyrir leiðfarendur að vera jákvæða og uppbyggjandi – vera innblásturshvetjandi, frumlega og leitandi að einhverju áður ókunnu. Nægan eldivið fyrir slíkt er að finna í Grindavík og nágrenni.
3. Mörk Grindavíkur að norðanverðu – Í Arnarklett við Snorrastaðatjarnir og þaðan yfir í Seltjörn (Selvatn) – í Þórðarfell og áfram niður í Valahnúkamalir við Reykjanestá. Austurmörkin eru í Seljabót þannig að landið, og ekki síst ströndin, er víðfeðmt.

-Fjarskiptamöstrin – til hvers eru þau notuð?
Möstrin voru reist fyrir hlustunarstöð fyrir Bandaríkjaher á Keflavíkurflugvelli. Sendistöðin var við Rockwille á Miðnesheiði, en móttökumerkin eru hér. Önnur svipuð stöð var austur á Hraunssandi, en var rifin á sjöunda áratugnum. Þessi stöð er enn í notkun. Hún þjónar hluta til Landssímanum.

-Þorbjörn – þjófagjá – Gálgaklettar
Skammt fyrir ofan byggðina í Grindavík er fjall, sem heitir Þorbjarnarfell, – oftast nefnt Þorbjörn. Í toppi þess er hamragjá, sem heitir Þjófagjá.
Er svo sagt, að þar hafi einu sinni hafst við fimmtán þjófar, sem lögðust á fé Grindvíkinga. Eigi sáu byggðarmenn færi á að vinna þá fyrr, en bóndason frá Hópi tókst á hendur að svíkja þá. Hann fór til þeirra, sór þeim trúnaðareið og var með þeim um hríð. Hann varð þess vís, að þeir fóru hvern laugardag í bað í laug þeirri, sem er á Baðsvöllum norðan undir fjallinu.

Einn gætti klæða þeirra, meðan þeir voru í baðinu, og gerðu þeir það til skiptis. Svo kom, að þeir trúðu bóndasyni fyrir að geyma föt sín. Þá sneri hann um annarri skyrtuerminni og annarri brókarskálminni hjá þeim öllum og hljóp síðan, sem fætur toguðu, til bæja. Það fór eins og hann ætlaðist til; þjófunum varð tafsamt að komast í föt sín, og ekki fóru þeir nema í nærklæðin og eltu hann síðan, en náðu honum ekki. Urðu þeir mjög sárfættir í grjótinu.

Nú þustu byggðarmenn að þeim, og gátu þeir ekki komist undan. Voru þeir allir teknir höndum og hengdir þar, sem síðan heita Gálgaklettar. Bóndasonurinn varð ólánsmaður, en eigi er getið, hvað fyrir hann kom

-Illahraun
Illahraun er frá sögulegum tíma, sennilega frá 13. öld (1226).

-Skipsstígur
Frá Fitjum í Njarðvík liggur forna þjóðleiðin Skipsstígur til Grindavíkur. Vörður hafa fallið á fyrrihluta leiðarinnar en eru mjög greinilegar frá Stapðafelli til Grindavíkur og Húsatófta (Árnastígur). Áætlaður göngutími er u.þ.b. 5 klst.

-Sundvörðuhraunsbyrgin
Aðeins um það bil 1 km austur/suðaustur af þessum helli eru húsarústir í Sundvörðuhrauni sem vert er að leggja leið sína að. Þær eru skammt vestur af Sundvörðunni, vel faldar í dálítilli hraunkvos. Þetta eru 10 tóftir, flestar vestanundir hraunbrún en tvær þeirra eru uppi á henni. Þetta eru allmikil mannvirki, misstórar en sú stærsta þeirra er um það bil 4 x 1,5 m á stærð.
Engar heimildir hafa fundist um þessar rústir og hafa því verið uppi getgátur um tilvist þeirra. Þær fundust fyrir tilviljun veturinn 1872 og elstu lýsingu á þeim er að finna í Ferðabók Þorvaldar Thoroddsen en hann skoðaði þær árið 1883.

-Gyltustígur
Misengi í vestanverðum Þorbirni. Klifhólahraun sunnan fellsins.

-Svartsengi
Grasfletir norður frá Grindavík. Þar hafa verið haldnar sumarsamkomur Grindvíkinga. Sunnan við það er svartsengisfell. Mikið háhitasvæði er við Svartsengi. Er hitaveita leidd þaðan til allra Suðurnesja. Affallsvatn af orkuverinu sem þar er myndar Bláa Lónið.

-Bláa lónið

Bláa lónið gamla myndaðist vegna frárennslis frá orkuverinu í Svartsengi og var einn fjölsóttasti ferðamannastaður landsins. Ný þjónustumiðstöð, stærri og betri var tekin í notkun í júní 1999. Nokkur hundruð þúsunda gesta heimsækja það árlega og vegna sérstöðu sinnar nýtur það mikillar hylli fjölmiðlafólks um allan heim. Fljótlega eftir að fólk fór að sækja í Bláa Lónið kom í ljós, að vatnið í því virkar mjög vel til að lina þjáningar þeirra, sem þjást af húðsjúkdómum (psoriasis) og þar er sérstök aðstaða fyrir þá. Sjúklingarnir koma víða að úr heiminum til að njóta lækningarmáttar lónsins. Góð þjónusta er við ferðamenn við Bláa lónið og er þar gott hótel og veitingahús ásamt miðstöð upplýsinga og minjagripasölu.

Bláa Lónið hefur á örfáum árum þróast úr því aðvera tilfundinn baðstaður í það að vera einn af fjöl-sóttustu ferðamannastöðum landsins. Yfir 300 þús-und manns koma í Lónið ár hvert.Bláa Lónið er til komið sem affallsvatn frá orku-verinu í Svartsengi, sem verðugt er að skoða.Fljótlega kom í ljós lækningamáttur vatnsinsþegar fólk með psoriasis fór að lauga sig í lóni þvísem myndast hafði. Ný og glæsilega aðstaða hefurverið byggð á nýjum stað fyrir Bláa Lónið með veit-ingasölu og gjafavöruverslun. Í nágrenni Bláa Lónsins er að finna gott hótel og veitingahús. Bláa Lónið er kjörinn hvíldarstaður eftir góða skoðunarferð um Reykjanes áður en haldið er á gististað.

-Hitaveita Suðurnesja
Hitaveita Suðurnesja hf. er sameignarfyrirtæki sveitarfélaganna á Suðurnesjum, Hafnarfjarðarbæjar og ríkissjóðs. Tilgangur Hitaveitu Suðurnesja hf. er vinnsla og nýting jarðvarma og hvers konar annarra orkuauðlinda, dreifing og sala raforku, orkugjafa og annarra afurða félagsins ásamt hverri þeirri starfsemi annarri sem nýtt getur rannsóknir, þekkingu eða búnað félagsins. Einnig iðnþróun og nýsköpun af hverju tagi sem er ásamt annarri viðskipta- og fjármálastarfsemi samkvæmt ákvörðun stjórnar hverju sinni.

Hitaveita Suðurnesja rekur orkuver í Svartsengi sem nýtir um 240 °C heitan jarðhitavökva, sem fenginn er úr borholum allt að 2000 metra djúpum. Jarðhitavökvann er ekki unnt að nota til beinnar upphitunar vegna seltu hans og því hversu ríkur hann er af uppleystum steinefnum. Vökvinn er því notaður til upphitunar á ferskvatni og til framleiðslu á rafmagni. Jarðhitavökvi um 80 °C heitur sem ekki er nýttur í orkuverinu er hleypt út á hraunbreiðuna. Jarðhitavökvi blandaður þéttivatni háhitagufunnar myndar Bláa lónið. Einstakt lífríki ásamt miklu magni af náttúrulegum steinefnum, kísl og sérstökum blágrænum þörungi mynda mjúkan hvítan leirinn í lóninu og gefa því sinn sérstaka bláa lit. Bláa Lónið hf. rekur baðstaðinn við Bláa lónið, göngudeild fyrir psoriasis sjúklinga og framleiðir húðverndarvörur undir merkinu Blue Lagoon.

-Sýlingarfell – Svartsengisfjall – Svertingsfell

-GjáinÍ „Gjánni“ hefur verið komið upp sýningu um jarðfræði, jarðhita og vinnslu orku úr iðrum jarðar. Tæknibúnaður þar er mjög fullkominn og gjáin hljóðdeyfð þannig að unnt er sýna margar myndir og spila mismunandi hljóð samtímis. Myndskjáir eru 42″ plasmaskjáir í stærðarhlutfallinu 16:9 sem er hið nýja form fyrir sjónvarpsmyndir. Á myndskjánum eru sýndar tölvumyndir og kvikmyndir. Víðóms hljóðflutningur er með hverri mynd. Þar sem er þulartexti er hann bæði á íslensku og ensku.
Hljóðkerfi með stafrænum mögnurum er einnig í sjálfri gjánni og nýtist það m.a. fyrir ýmis hljóð sem tengjast gossprungu og jarðskjálftalíkani sem þar er komið fyrir. Þessi hljóð, auk annarra íslenskra náttúruhljóða, eru geymd á stafrænum hljóðspilurum sem stýrt er í samræmi við það sem er að gerast í gjánni á hverjum tíma.

-Tilurð lónsins og sérstæða – upplýsingar sem þið teljið muni nýtast gestum ykkar áður en farið er í bað, svo sem – spa, nudd, vatnið í lóninu, efni í því, hitastig, kísill, minjagripir, veitingar, leigð handklæði og sundföt…

Brimketill

6. Gunnuhver – Grindavík

-Gufa sem stígur upp frá jörðu
Austan Reykjanessvita er mikið hverasvæði. Liggur troðningur að því frá vitaveginum. Af mörgum hverum á svæðinu er einn áberandi stærstur. Sá nefnist Gunna eða Gunnuhver og er í kísilhóli sunnarlega á svæðinu. Þjóðsaga er um nafn hversins: Guðrún hét grimm fordæða sem gekk aftur og ,,lék menn grátt, reið húsum og fældi fénað“. Þar kom að leitað var til kunnáttusams prests til að koma draugnum fyrir. Hann fékk draugnum bandhnykil og lét hann halda í endann á bandinu. Þegar hnykillinn rann neyddist draugsi til að elta því hann gat ekki sleppt. Hnykillinn rann í hverinn og draugurinn Gunna á eftir. Síðan hefur ekki orðið vart við Gunnu. Þjóðsagan segir að presturinn hafi verið Sr. Eiríkur Magnússon í Vogsósum (1638-1716) uppnefndur Vogsósagráni og sagður fjölkunnugur.

Gunnuhver

Við Gunnuhver á Reykjanesi.

Jarðhitasvæðið á Reykjanesi er á Reykjanestá, ekki langt frá Reykjanesvita. Staðsetning (hjá bílastæði) er N 63°49.150′, V 022°40.932′. Svæðið er aðgengilegt ferðafólki og til að komast að svæðinu keyrir maður eftir afleggjara sem liggur útfrá veginum að Reykjanesvita. Afleggjarinn er merktur með skilti sem á stendur Gunnuhver, eftir frægasta hvernum á svæðinu sem nú er kulnaður. Hverasvæðið sjálft er aðeins um einn ferkílómetri að flatarmáli og nær aðeins yfir hluta af háhitasvæðinu. Á hverasvæðinu eru margir leir- og gufuhverir og gufu leggur um allt svæðið. Fallegar útfellingar eftir brennistein er að finna á svæðinu og er litadýrð svæðisins mikil. Hverasvæðið sjálft er síbreytilegt og leirhverir og gufuhverir koma og fara. Þekktustu hverirnir á hverasvæðinu voru hverinn 1918 og Gunnuhver. Þessir tveir hverir eru nú þurrir.

Jarðhiti á yfirborði myndast þegar vatn kemst niður á nokkur hundruð til nokkur þúsund metra dýpi. Þetta getur bæði verið grunnvatn eða leysinga-og úrkomuvatn sem rennur niður í berggrunninn. Vegna þess hve jarðlögin undir Íslandi eru heit, hitnar vatnið. Varminn sem hitar grunnvatnið kemur frá kviku eða heitu bergi í efstu 2-4 km jarðskorpunnar. Varminn er hæstur næst gosbeltunum en þar er jarðskorpan þynnst og bara 10 km niður á bráðið berg. Hitastigið eykst um 80-120° við hverja 1000 metra niður í jörðina. Jarðskorpan þykknar svo og varmaflæðið minnkar eftir því sem fjær dregur gosbeltunum (Axel Björnsson, 1990).
Hitastigið eykst 2-4 sinnum hraðar með dýpi á Íslandi en löndunum í kringum okkur, Skandinavíu og Kanada. Bergrunnur Ísland er auk þess mun sprungnari en berggrunnur þessarra svæða. Þetta skýrir líka þann mikla jarðhita sem er að finna á Íslandi (Ari Trausti Guðmundsson,1982).
Nái vatnið aftur upp á yfirborðið myndast jarðhita- og hverasvæði en stærstur hluti hvers jarðhitasvæðis er þó neðanjarðar. Jarðhiti finnst um allt Ísland en þó síst á Austfjörðum. Jarðhitasvæðum er venjulega skipt í tvo flokka, háhitasvæði og lághitasvæði. Þessi skipting miðast af mismun í hitastigi og mismunandi staðsetningu (Ari Trausti Guðmundsson, 1982).

Í seinni tíð hafa náttúru- og umhverfisverndarsjónarmið verið að ryðja sér til rúms innan raða þeirra sem taka þátt í virkjun jarðvarma. Lengst af hafa slík sjónarmið ekki verið reifuð sérstaklega en nýtingin hefur reyndar ekki verið umfangsmikil fram á síðustu áratugi. Eyðilegging hvera hefur þó átt sér stað bæði vegna nýtingar eða af öðrum ástæðum. Í Náttúruverndarkönnun árið 1979-1980 í Borgarfirði reyndust nærri helmingur hvera hafa verið eyðilagður og var þó heitt vatn langt umfram þarfir íbúa á svæðinu (Tryggvi Þórðarson 1981). Nýting vatnsins var algengasta orsökin fyrir eyðileggingunni, sem fólst oftast í því að steypt hafði verið yfir hverina. Mjög algengt var einnig að náttúrulegar laugar og volgrur höfðu verið eyðilagðar með skurðgreftri og framræslu. Sú nýting jarðhitasvæða sem nú er ráðgerð í landinu er talsvert umfangsmeiri en sú sem stunduð var í Borgarfirði og því er mun nauðsynlegra að náttúru- og umhverfisvernd séu höfð að leiðarljósi við alla áætlunargerð og framkvæmdir. Ljóst er þó að þekkingn á nýtingu jarðhitans er orðin miklu meiri en þekkingin á verndarmöguleikum og umhverfisáhrifum slíkra framkvæmda. Ástæðan er sú að miklu fé hefur verið varið í undirbúning jarðorkunýtingar en tiltölulega litlu í rannsóknir á umhverfisáhrifum á hverina og lífríki þeirra.
Jarðhitasvæðið á Reykjanesi er um það bil 1 km2 að stærð sé einungis miðað við hverina og önnur sýnileg
jarðhitamerki. Viðnámsmælingar benda til að það sé a.m.k. fjórfalt stærra og teygist auk þess út í sjó til suðvesturs. Jarðhitasvæðið er að mestu þakið hraunum, en móbergs- og bólstrabergshryggir standa upp úr.
Einn þeirra, Rauðhólar, nær inn á jarðhitasvæðið. Þar voru fyrstu vel heppnuðu vinnsluholurnar boraðar.
Hraun
Tvær gosreinar liggja yfir “hælinn” á Reykjanesi og er jarðhitinn á þeirri eystri milli Skálafells og Litla-Vatnsfells.
Vestar er Stampareinin með yngstu hraununum. Á henni er ekki jarðhiti, en viðnámsmælingar gefa til kynna að jarðhitakerfið nái einnig til hennar.
Landslag er ekki frítt á Reykjanesi, en þar er þó að finna skoðunarverð fyrirbæri. Þar ber af öskugíg með berggöngum þar sem Stampa-gígarnir ganga fram í sjó. Á jarðhitasvæðinu hafa goshverir komið upp endrum og eins, raunar tvisvar á síðustu öld í tengslum við jarðskjálftahrinur. Þeir gjósa jarðsjó, en hafa reynst skammlífir.
Langlífari hefur verið goshver í s.k. Kísilhól sem nú er óvirkur. Hann er úr móbergi með metersþykku kísilhrúðri ofan á. Þar má einnig sjá sprungu sem reif sig upp í skjálftahrinu fyrir 35 árum og sýnist enn fersk þar sem hún liggur norðaustur frá Gunnuhver. Það sem gefur Reykjanessvæðinu mest gildi er vitundin um að þar koma plötuskil Reykjaneshryggjarins á land. Ferðamenn sem fara út á Reykjanes staldra hjá Valahnúkum til að skoða brimið og hjá Gunnuhver, sem er leirpyttaklasi norðan undir Kísilhólnum.
Búseta á Reykjanesi hefur skilið eftir sig ummerki (bú vitavarðar og nýbýlið Hveravellir). Garðrækt hefur lengi verið stunduð, efnistaka í vegi, boranir og verksmiðjurekstur og því hróflað við mörgu. Ný fyrirbæri hafa skapast. Merkast af þeim eru kísilpaldrarnir vestan undir Rauðhólum í afrennslinu frá saltverksmiðjunni.
Reykjanessvæðið er eitt best rannsakaða háhitasvæði landsins. Grunnurinn að þeim rannsóknum var lagður á árunum fyrir 1970. Þá var nýafstaðin öflug skjálftahrina og við hana færðist líf í hveri. Síðan hefur virknin dvínað töluvert.
Reykjanessvæðið er með þeim heitustu sem nýtt eru hér á landi. 30 ára vinnsla hefur ekki haft nein merkjanleg áhrif á forðann í jarðhitakerfinu. Efnainnihald í jarðsjónum skapar vanda við nýtingu, en jafnframt seljanlega vöru.

-Hraunið og gróður (gróðurleysi)
Að minnsta kosti 12 hraun hafa runnið á Reykjanessskaga síðan land byggðist. Nýjasta er sennilega á 14. öld. Eftir að jökul leysti af skaganum fyrir um 12-15 þúsund árum hafa um 200 eldstöðvar á fjórum eldstöðvarkerum verið virkar á svæðinu og úr þeim runnið um 42 rúmkílómetrar af hrauni sem þekur yfir 1000 ferkílómetra landssvæði. Þar má finna helstu gerðir íslenskra eldstöðva eins og hraunskildir(dyngjur), gígaraðir, gígahópar og sprengigígir t.d. Grænavatn. Auk þess má sjá sigkatla t.d. Hvirfill og Kistufell.
Sjálfur Reykjanesfjallgarðurinn er afar merkilegur því hann hvílir á sjálfu virka gosbeltinu sem partur af hinum mikla Atlandshafshrygg sem liggur þvert yfir Ísland. Lítið er um stöðuvötn og læki á Reykjanesi en Kleifarvatn sem er mest allra vatna á Reykjanesskaganum er á sjálfu gosbeltinu. Það er ekki hægt að skoða þetta framhald af hinum stóra Atlandshafshrygg ofansjávar nema á Reykjanesskaganum. Hann er því einstakur en með duldar hættur. (Jón Jónsson, Árbók Ferðafélagsins, 1984, bls.51-113) (Gunnar H.Hjálmarsson, Útivist 2.tbl. 1.árg 2002

Að minnsta kosti 12 hraun hafa runnið á Reykjanessskaga síðan land byggðist. Nýjasta er sennilega á 14. öld.
Eftir að jökul leysti af skaganum fyrir um 12-15 þúsund árum hafa um 200 eldstöðvar á fjórum eldstöðvarkerum verið virkar á svæðinu og úr þeim runnið um 42 rúmkílómetrar af hrauni sem þekur yfir 1000 ferkílómetra landssvæði.
Þar má finna helstu gerðir íslenskra eldstöðva eins og hraunskildi(dyngjur), gígaraðir, gígahópa og sprengigíga t.d. Grænavatn. Auk þess má sjá sigkatla eins og til dæmis Hvirfill og Kistufell.
Sjálfur Reykjanesfjallgarðurinn er afar merkilegur því hann hvílir á sjálfu virka gosbeltinu sem partur af hinum mikla Atlandshafshrygg sem liggur þvert yfir Ísland. Lítið er um stöðuvötn og læki á Reykjanesi en Kleifarvatn sem er mest allra vatna á Reykjanesskaganum er á sjálfu gosbeltinu. Það er ekki hægt að skoða þetta framhald af hinum stóra Atlandshafshrygg ofansjávar nema á Reykjanesskaganum. Hann er því einstakur en með duldar hættur.

Reykjanesviti

Reykjanesviti á Valahnúk.

Á einum eldgígnum stendur nú vitinn. Það er keilumyndaður hóll, nokkuð hár og ofurlitlar grastór utan í hlíðunum á honum, og hefur hann verið nefndur Valahnúkur, [Sennilega er þarna rangt með örnefni farið, því í Öldinni okkar er birt meðfylgjandi mynd af Reykjanesvita í byggingu á svonefndu Bæjarfelli árið 1907] þó að engan veginn eigi hann hnúks-nafnið skilið. Hann er upphár, eldgamall gjallhaugur og ekkert annað, og guð má vita, hvort hann fer ekki að gjósa undir vitanum; ég hefði að minsta kosti ekki viljað treysta honum. Sunnan undir hólnum stendur bærinn, eða réttara sagt hús vitavarðarins, bygt á landssjóðs kostnað. Ofurlítill túnskækill er græddur upp í brekkunni kringum bæinn. Þá mega heita upptaldar grasnytjar þær, sem vitavörðurinn hefir.

Byggðin á Reykjanesi þróaðist í upphafi með ströndinni, enda sjósókn aðalatvinnuvegur íbúanna og verstöðvar og útræði frá nær hverjum bæ.
Þegar Hafnabergi sleppir taka Sandvíkur við. Sandvíkur er heillandi landsvæði með langri og og skemmtilegri sandströnd. Sandurinn hefur verið að hluta til bundinn með melgresi og gefur það fallegan gulan og grænan lit sem fer vel við svartan sandinn. Sandvíkurnareiga sér litla tjörn þar sem fjölskrúðugt fuglalíf bervitni um ríkt náttúrufar.Á Reykjanesi mætast nýji og gamli heimurinn, Evrópa og Ameríka – jarðfræðilega og tæknilega umKeflavíkurflugvöll. Við Kinn eða suður enda Hafnabergs rétt ofan vegar hefur verið byggð brú yfirsprungu þar sem fólk getur upplifað „göngu” milli Evro-asíuflekans og Ameríkuflekans.Landsvæðið sunnan Hafnabergs ber greinilegmerki um mikið jarðfræðilegt umrót. Eldgos, jarð-skjálftar, hverir, hraun og björg sorfin af stórátökum við öflugar öldur og brim. Af Valahnúk er gott útsýni yfir Reykjanes og út í Eldey 8 sjómílur fráströndinni Nær landiskammt undan Önglabrjótsnefi er kletturinn 1908. Hverasvæðið hefur mikið breyst frá þvísem áður var vegna jarðhræðinga og virkjana og er Gunnuhver í dag rétt svipur hjá sjón. Reykjavegur er ný gönguleið sem hefur verið merkt frá Reykjanesvita til Nesjavalla. Sérstaklega áhugaverð leið sem byggir tilveru sína á jarðfræði Íslands. Segja má að gengið sé eftir gossögunni og fylgt s-vestur n-austur sprunguleiðinni. Áætla má 6 daga í alla leiðina en henni er áfangaskipt með áningastöðum á hæfilegu millibili.

-Jarðfræði
Jarðsaga Reykjanesskaga er tiltölulega vel þekkt og hefur verið rakin nokkur hundruð þúsund ár aftur í tímann.

Elsta bergið á skaganum er í grennd við Reykjavík og er talið vera um 500 þúsund ára gamalt. Mest af jarðlögum á skaganum eru hins vegar innan við 100 þúsund ára gömul. Á þessum tíma hefur loftslag verið mjög breytilegt og óstöðugt. Á vissum tímabilum var Ísland hulið mikilli íshellu. Á milli voru tímabil með svipuðu loftslagi og nú er. Kuldatímabilin eru nefnd jökulskeið og hlýrri tímabilin eru nefnd hlýskeið. Við lifum á hlýskeiði.
Þau hraun sem runnið hafa síðan síðasta jökulskeiði lauk eru ekki slípuð af jöklum.
Á jökulskeiðum áttu sér stað gos undir jökli, og móbergsfjöll mynduðust í geilum sem gosin bræddu upp í ísinn. Þegar jöklarnir hopuðu stóðu eftir óregluleg móbergsfjöll. Á hlýskeiðum runnu hraun svipað og nú þ.e.a.s. frá gosstöðvum undan halla og oft til sjávar. Kappelluhraun og Ögmundarhraun eru dæmi um slík hraun.
Allt gosberg á Reykjanesskaganum er basalt (gosberg með lágt kísilsýrumagn).

-Skálafell

Skálafell

Skálafell.

Flest eldgos á Reykjanesskaga, og raunar á Íslandi öllu, verða þannig að fyrst opnast sprunga og gýs hún öll í byrjun. Síðan takmarkast eldvirknin við einstaka staði þar sem gígbarmar hlaðast smám saman upp. Goskeilurnar deyja síðan hver af annarri þar til gosi lýkur og gígaröðin stendur ein eftir. Gos getur varað allt frá nokkrum klukkustundum upp í nokkrar vikur.

Í blandgosum, þar sem háir kvikustrókar þeyta kvikuslettum hátt í loft upp, hrúgast upp háir og reisulegir gjall- og klepragígar. Þeir eru með skarð í gígveggnum þar sem apalhraun hefur runnið út. Apalhraun er gert úr kviku sem rennur eins og seigfljótandi síróp. Hraunstraumurinn skríður eða veltur hægt fram og er jaðarinn jafnan mjög brattur. Yfirborð hraunanna er mjög úfið og þekkjast þau því auðveldlega.
Í flæðigosum verða engir kvikustrókar. Í þeim flæðir þunnfljótandi kvikan líkt og lækur undan halla og myndar hraun, gert úr mörgum þunnum lögum. Slík hraun hafa slétt yfirborð líkt gangstéttarhellum. Ofan á þeim eru hraunreipi sem myndast líkt og hrukkur í súpuskán. Gígar, sem myndast þegar helluhraun rennur, kallast eldborg eða dyngja eftir því hve lengi gosið hefur staðið. Báðar eru lágir og víðáttumiklir hraunskildir sem oftar en ekki er erfitt að greina í landslaginu. Kvika helluhraunanna kraumar oftast í kvikutjörn í gígnum. Kvikusletturnar hlaða upp kringlóttan, þunnan og lágan gígvegg sem hvergi er skarð í. Kvikan rennur nefnilega úr gígnum um göng undir storknu yfirborði hraunsins sem rann í byrjun gossins. Þegar gosinu lýkur tæmast göngin og mynda langa hraunhella. Allir stærstu hellar landsins hafa orðið til með þessum hætti.

-Háleyjabunga
Dyngja myndast við flæðigos og er gosopið yfirleitt kringlótt. Dyngjur gjósa oftar en einu sinni, yfirleitt renna mörg þunn hraunlög sem í heild geta verið mjög þykk (beltuð hraun) en engin laus gosefni. Frá dyngjum renna helluhraun, sem oft geta þakið stór landsvæði. Hér á landi eru um 20-30 dyngjur myndaðar á nútíma (yngri en 10 þúsund ára). Dyngjur eru sjaldgæfar erlendis nema á Hawaii: Mauna Loa og Mauna Kea. Dæmi: Skjaldbreiður, Trölladyngja, Selvogsheiði.

-Sandfellshæð
Á toppi Sandfellshæðar er gríðarlega stór gígur sem er um 450 m í þvermál og að minnsta kosti 20 m djúpur og vel þess virði að ganga upp á hæðina. Þótt Sandfellshæð sé ekki nema um 90 m y.s. er gríðarlega víðsýnt af henni.

-Eldvörp
Eldvörp eru um 10 km löng gígaröð í stefnu suðvestur – norðaustur. Talið er að síðast hafi gosið þar fyrir meira en 2000 árum. Jarðhiti er í Eldvörpum og voru þar fyrrum stundum bökuð brauð sem vafalítið hefur komið sér vel í eldiviðarskorti. Örstutt vestan við borholuna er hellir í hrauninu. Þegar Hitaveita Suðurnesja lét bora eftir gufu þarna sumarið 1982 brotnaði hraunið undan jarðýtu sem vann við frágang í kringum holuna. Í ljós kom hellir með geinilegum mannvistarleifum, beinum og hleðslum. Ekki er vitað hver eða hverjir höfðust þarna við. Hellirinn er alllangur eða 25-30 m en hvergi hærri en 1,5 m og víðast hvar mun lægri eða 40-50 sentímetrar.

-Brimketill (Oddnýjarlaug)

Brimketill

Brimketill.

Við ströndina – merktur – vestarlega í Staðarbergi – merkilegt náttúrfyrirbæri. Til er saga um tröllkonuna Oddnýju er baðaði sig jafnan í lauginni.

-Rekaviður
Mikið af rekavið í Sandvík – slóði niður að ströndinni

-Ströndin, sjórinn og fuglalíf
Mikið fuglalíf með berginu beggja vegna – Staðarbergi og Krossavíkurbjargi.
Víða við sjóinn eru skemmtilegar bergmyndanir sem hafaldan hefur sorfið til og mótað. Komið er í Staðarhverfi. Hér var áður vel byggt og kirkjustaður. Eftir miklar hafnarbætur í Grindavík fluttist byggðin þangað og síðar var kirkjan einnig flutt. Á leiðinni frá Staðarhverfi til Grindavíkur er ekið um Húsatóftir. Frá Húsatóftum liggur Prestastígur, forn þjóðleið sem er vel vörðuð og skemmtileg gönguleið til Kalmannstjarnar í Höfnum. Árnastígur liggur einnig frá Húsatóftum til Njarðvíkur. 9 holu golfvöllur Golfklúbbs Grindavíkur er að Húsatóftum. Þessi golfvöllur er mjög vel sóttur enda skemmtilegur fyrir margra hluta sakir. Staðsetning og landslag á stóran þátt í því.

-Grænabergsgjá

Grænabergsgjá

Grænabergsgjá.

Misgengissprunga, líkt og margar aðrar á svæðinu, sbr. Silfra, Bjarnagjá og Hrafnagjá. Ferskvatn – álar.

-Laxeldi – Íslandslax
Fiskeldisstöð Íslandslax hf. (kt: 430894-2349) er staðsett á sunnanverðum Reykjanesskaga um 8 km vestur af Grindavíkurbæ, á jörðinni Stað við Grindavík. Stöðin er af svo nefndri strandstöðva gerð, þ.e. sjó er dælt í ker á landi. Stöðin var byggð á árunum 1984-1985 og hefur verið í samfeldum rekstri síðan. Eldisrými er 26.000 m3 brúttó. Eldisfiskur er lax og bleikja, og nær starfsemin yfir eldi bæði á matfiski og seiðum þessarra tegunda. Stöðvarstjóri er Hjalti Bogason. Brúttó framleiðsla árið 2003 var 1.450 tonn af fiski, 1.128 tonn af matfiski af laxi og um 60 tonn af matfisk af bleikju, og um 50 tonn af laxaseiðum sem fóru í sjókvíar. Fjöldi starfsmanna eru 10.

-Tyrkjavarða – Gíslavarða
Skammt fyrir austan Staðarberg í Grindavík er sker eitt hér um bil landfast sem heitir Ræningjasker. Nafnið á það að hafa fengið af því að einhvern tíma á 17. öld kom ræningjaskip að landi í Grindavík og lentu ræningjarnir í skerinu og gengu þaðan á land. Þá var prestur á Stað er Gísli var nefndur og var talinn fjölkunnugur. Þá er byggðarmenn urðu varir við ferð ræningjanna, fóru þeir sem skjótast á fund prests og sögðu honum tíðindin. Brá prestur skjótt við og fór á móti ræningjunum og stökkti þeim á flótta þó að sagan segir ekki með hverjum hætti. Hlóð hann síðan vörðu til minja um þennan atburð spölkorn fyrir ofan prestssetrið og lét svo um mælt að meðan nokkur steinn væri óhruninn í vörðunni, skyldu ræningjar ekki granda Grindavík. Varðan nefndist Gíslavarða.

-Staður – kirkjugarður – brunnur

Staðarhverfi

Stóra-Gerði í Staðarhverfi.

Eyðibýli skammt utan við kaupstaðinn í Grindavík. Prestssetur og kirkjustaður frá fornu fari og allt fram á síðustu öld. Þar var kirkja helguð með guði Maríu guðsmóður, Jóhannesi postula, heilögum Stefáni, Ólafi konungi, Blasíusi biskupi, Þorláki biskupi og heilagri Katrínu mey. Staðarkirkja var flutt inn í Járngerðarstaðahverfi árið 1909 og nefnd Grindavíkurkirkja.

-Húsatóftir – Arfadalsvík – Kóngshella – konungsútgerð – Anlaby – Skúli fógeti – Anna frá Töfte

Húsatóftir

Húsatóftir – minjar og örnefni – ÓSÁ.

Presturinn bjó að stað og hreppsstjórinn að Húsatóftum. Sagan af viðskiptum Þorsteins í Hamri og hreppstjóra er endaði með því að Þorsteinn rauk með fé sitt upp í hraunið og fóðraði það þar um veturinn; Hamrabóndahellir.

-Grindavíkurstríðið – undanfari
Eins og kunnugt er lauk “Ensku öldinni” með bardaganum og drápi Englendinga í virki Jóhanns breiða ofan við Stórubót í Grindavík í júní 1532. Þar má enn sjá leifar virkisins sem og „Enskulágar“ þar sem hinir ólánssömu Englendingar voru grafnir. En sá bardagi átti sér langan aðdraganda. Árið 1518 varð t.d. stórbardagi í Hafnarfirði milli þýskra og enskra kaupmanna, sem lutu í lægra haldi eftir mjög mannskæða viðureign. Hrökkluðust þeir við svo búið úr bækistöðvum við Hafnarfjörð.
Englendingarnir höfðu sest að í Fornubúðum við Hafnarfjörð og voru með fjölmenni á stóru skipi. Hamborgarar, sem ekki vildu una því, að ensku kaupmennirnir hefðu höfnina, söfnuðu liði meðal Þjóðverja á Vatnsleysuströnd, í Keflavík, Básendum og Þórshöfn (við Ósa) og fengu þaðan fjörutíu og átta menn til liðs við sig.
Hamborgarar klæddu síðan skip sín sængum í sjó niður og sigldu þannig búnir inn fjörðinn í útrænu. Elda kynntu þeir og á skipum sínum, svo að reykinn legði inn yfir Englendinga.
Þarna varð hinn grimmasti bardagi, og er til marks um mannfallið, að ekki komust heilir úr slagnum nema átta þeirra Þjóðverja, sem gengið höfðu í liðið á Suðurnesjum. Eigi að síður unnu Hamborgarar sigur á Englendingum, er nú eiga sér ekki lengur griðland annars staðar á Reykjanesskaga en í Grindavík.
Vorið 1532 sneru þýskir kaupmenn og skipstjórar sér til ráðsins í Hamborg og báðu það senda sér liðsauka, þar er þeir hefðu einsett sér að fara að Englendingum í Grindavík.
Það er skreiðin, sem í rauninni er bitist um. Hún er svo verðmæt, að Englendingar telja skreiðarfarm geta numið allt að fjórum fimmtu hlutum af verði skips, öllum úthaldskostnaði þess í Íslandssiglingu og vörufarmi, er það flytur til Íslands.

Staðarhverfi

Staðarhverfi – uppdráttur ÓSÁ.

Um 1500 voru í raun tveir “kaupstaðir” á Íslandi; Hafnarfjörður og Grindavík. Síðarnefndi staðurinn stóð betur að vígi því hann var aðalhöfn Skálholtssbiskups, sem hafði skip í förum. Bændur greiddu m.a. skatt sinn í osti, sem seldur var í Evrópu, en korn o.fl. flutt til landsins í staðinn. Grindavík var því mikil höfn um langan tíma og það löngu eftir að “Grindavíkurstríðinu” lauk. Enn má sjá minjar veru, sjósóknar og verslunar útlendra ofan við Stóru-Bót. Þar er hóll sem sagður er hafa verið virki Jóhanns breiða og manna hans og Engelska lág er þar undir hólnum þar sem enskir eru sagðir hafa verið grafnir af eftirlifandi félögum sínum. Vestar má sjá móta fyrir görðum Junkaragerðis. Á Kóngsklöppinni í Staðarhverfi, litlu vestar á nesinu, ráku Danir verslun eftir að þeir komu til landsins og tóku við af Þjóðverjum. Þar má enn sjá talsverðar minjar eftir þá verslun, m.a. tóftir húsa”.

Staðarvör

Staðarvör.

Hraun
10. Grindavík – Festarfjall – Ögmundarhraun
-Haldið frá Grindavík

-Þórkatla – þjóðsaga
Þorkatla bjó á Þorkötlustöðum í Grindavík, en Járngerður á Járngerðarstöðum. Báðar voru þær giftar.
Einu sinni sem oftar voru karlarnir þeirra báðir á sjó. Nú gjörði mikið brim og héldu báðir til lands. Þorkötlu karl fekk gott lag á Þorkötlustaðasundi og komst af. Þá varð Þorkatla fegin og mælti hún svo fyrir að á því sundi rétt förnu skyldi aldrei skip farast ef formann þess brysti hvorki hug né dug, og menn vita ekki til að þar hafi farizt skip á réttu sundi.
Það er að segja frá Járngerðar karli að hann drukknaði á Járngerðarstaðasundi. Þá varð Járngerður afar grimm og mælti svo um að þar skyldu síðan farast tuttugu skip á réttu sundi. Segja menn að nú sé fyrir víst nítján drukknuð, en þá er eitt eftir og má búast við að það farist þá og þá. Á götu þeirri sem til skips var gengin frá Járngerðarstöðum er leiði Járngerðar.

-Þórkötlustaðanesið – björgun – útgerð
Svo heitir að vestanverðu nesið milli Hraunsvíkur og Járngerðarstaðavíkur við Grindavík. Að austanverðu heitir það Þorkötlustaðanes. Á Hópsnesi er viti, reistur 1928.
Hér fyrr á öldum gátu sjómennirnir, sem fóru í róður að morgni, aldrei verið vissir um að komast heilir og höldnu að landi að kveldi. Enda eru mörg dæmi þessa. Sem betur fer eru einnig mörg dæmi og merkar sagnir um mannbjörg eftir ófarir manna á hafi úti. Veður gátu skipt um snögglega og þótt ekki hafi verið róið langt gat róðurinn að landi bæði tekið langan tíma og verið erfiður. Stundum urðu sjómenn að bregða á það ráð að leita annað en ætlunin var. Þannig gátu sjómenn frá Járngerðarstöðum oft treyst á var í Þórkötlustaðasbótinni þegar þannig skipaðist veður í lofti. þann 24. mars 1916 fóru t.d. 24 árabátar í róður frá Grindavík að morgni. Óveður skall skyndilega á og komust bátsverjar fjögurra báta ekki að landi. Þeim var hins vegar öllum bjargað, 38 mönnum, af áhöfn kúttersins Esterar frá Reykjavík. Þegar komið var með skipverja að landi þremur dögum síðar urðu miklir fagnaðarfundir í plássinu. Sumir segja það hafi verið sá mesti gleðidagur, sem Grindvíkingar hafi upplifað.
Um árið 1940 lenti Aldan frá Vestmannaeyjum upp á skerjum á Hellinum, en svo nefnist klettahlein, sem gengur fram úr kampinum, skammt austanvið Hópsvörina, og út í sjó. Mannbjörg varð, og báturinn náðist út aftur. Þótti öllum, sem fylgdust með siglingu bátsins, það með ólíkindum. Sigling inn í sundin var vandasöm, og fyrr á tímum fóru sjómenn eftir framangreindum sundvörðum og öðrum leiðarmerkjum á leið sinni inn á þau. En erfitt gat verið að stýra bátum inn þau því mikla þekkingu og reynslu þurfti til þess í vondum veðrum. Dæmi eru um að ekki hafi verið við neitt ráðið og að Ægir hafi annað hvort kastað bátunum upp á sker og strönd eða hreinlega fært þá á kaf. Þannig fylgdust t.d. íbúar Grindavíkur angistafullir og hjálparvana á sjötta áratugnum með því af ströndinni er lítill bátur með þremur mönnum innanborðs á leið inn í Hópið var skyndilega færður í kaf og sjómennirnir drukknuðu svo til fyrir framan nefið á þeim, án þess að það gæti fengið rönd við reist.
Rétt fyrir utan lendinguna á Járngerðarstöðum eru miklir þarar og grynningar, Rif kölluð. Á þeim hafa mörg skip af þeim beðið meira eða minna tjón og margur maður við þau látið lífið. Fyrrum var hættan mikil á leið inn Járngerðarstaðasundið er Svíravarða bar í Stamphólsvörðu. Þá voru þrengslin mest. Þá eru á stjórnborða Manntapaflúð, en Sundboði á bakborða. Aðstæðurnar urðu kannsi ekki síst til þess að álög Járngerðar á sundið, sem lýst er í þjóðsögunni, gengu eftir, en skv. henni áttu tuttugu bátar að farast þar eftir að hún hafði séð á eftir eiginmanni sínum og áhöfn hans í öldurótið.
Austan við Helli eru tveir básar; Heimri-Bás og Syðri-Bás og þar fyrir utan Sölvaklappir, en þar mun hafa verið sölvataka frá Hópi. Fram af klöppunum er klettur, sem Bóla heitir, og upp af honum, uppi á kampinum, var varða, sem kölluð var Sigga og var mið af sjó. Grjótið úr henni var tekið í hafnargarðinn er hann var byggður. Sigga var síðar endurhlaðin af Lionsmönnum í Grindavík, en sjórinn hefur nú fært grjótið úr henni að mestu í lárétta stöðu á ný.
Þegar gengið er austur með Nesinu má sjá nokkur upplýsingaspjöld um strönd á síðustu öld. Áður en komið er að fyrsta spjaldinu verður fyrir hluti braksins úr Hrafni Sveinbjarnarsyni, sem strandaði þarna utan við 1988. Sagt er að stýrimaðurinn hafi sofnað á leið til lands svo báturinn stýmdi beint upp á ströndina utan við Hellinn, austan við innsiglinguna. Mannbjörg varð, en þegar reyna átti að ná bátunum út gerði vonsku veður með þeim afleiðingum að bátinn tók í tvennt og Ægis spýtti leifunum síðan langt upp á land þar sem þær eru nú. Afl hamsjávarins sést vel á brakinu, þ.e. hvernig hann hefur hnoðað járnið og rifið það í sundur og fært hluta þess langt upp á land, upp fyrir háan malarkampinn.
Fyrsta spjaldið um skipsskaðana er um Gjafar VE 300. Báturinn fórs þarna fyrir utan 27. febrúar árið 1973. Tólf manna áhöfnin var bjargað frá borði með aðstoð björgunarsveitarinnar Þorbjörns, en saga sveitarinnar gæti verið og verður umfjöllunarefni út af fyrir sig. Fáar sjóbjörgunarsveitir á landinu hafa bjargað jafn mörgum sjómannslífum og sveitin sú.
Næst er skilti um flutningaskipið Mariane Danielsen er fór þarna upp á ströndina í vonsku veðri eftir að hafa siglt út úr Grindavíkurhöfn þann 20. janúar 1989. Átta mönnum úr áhöfninni var bjargað í land með aðstoð þyrlu, en yfirmennirnir neituðu að yfirgefa skipið. Þeir voru síðan dregnir í land með aðstoð björgunarstóls daginn eftir.
Vélbáturinn Grindvíkingur GK 39 fórst þarna utan við 18. janúar 1952. Fimm menn fórust. Lík fjögurra fundust daginn eftir, en lík þess fimmta fanns þar skammt frá daginn eftir. Neðan við kampinn, þar sem báturinn fórst, er langur skerjatangi út í sjó, svonefnd Nestá. Hún fer á kaf í flóðum.
Eldhamar GK 13 lenti uppi í grynningunum þann 22. nóvember 1991. Sjórinn kastaði skipinu fram og til baka uns það steyptist með stefnið niður í djúpa gjá. Af sex skipverjum um borð komst einn lífs af. Þetta óhapp varð neðan við vitann á Nesinu.
Varðandi strand franska togarans Cap Fagnet, þá strandaði hann 24. mars 1931 við Skarfatanga við Hraun. Allri áhöfninni var bjargað, 38 manns, með fluglínutækjum sem þá voru tiltölulega nýkominn hingað til lands fyrir tilstuðlan Slysavarnafélags Íslands. Var þetta í fyrsta skipti á Íslandi sem fluglínutækin voru notuð hér við land til björgunar. Þarna eru enn ketillinn úr skipinu ásamt tveimur akkerum. Skrúfan af skipinu fyrir utan björgunarsveitarhúsið í Grindavík, minnisvarði um þessa fræknu björgun.
Annar tilgangur göngunnar var að skoða þurrkbyrgin í Strýthólahrauni.
Neðan við Vitann heitir Látur. Þarna var selalátur. Fleiri selanöfn eru á þessum svæði, s.s. Hópslátur og Kotalátur
Suðaustur af vitanum er grasflöt niður við kampinn; Stóra-Látraflöt. Kampurinn hefur nú að mestu þakið hana grjóti. Austur af vitanum er grasi vaxinn hóll; Tófuflatarhóll. Þar var tófugreni. Annað greni má sjá í hrauninu ofan við vestari hlutann af Hrafni Sveinbjarnarsyni. FERLIR merkti það áður en áfram var haldið.
Austan við Tófuflatarhól eru Strýthólar, þ.e. Vestri-Strýthóll, með tveimur þúfum, en Eystri-Strýthóll er skammt austar niður við Kampinn. Austar er Þórkötlustaðabótin. Í henni hafa nokkrir bátar strandað, t.d. frönsk skúta um miðja 19. öld. Áhöfnin gat gengið í land og heim að Einlandi þar sem hún knúði dyra eftir að skipstjórinn hafði fallið í hlandforina framan við bæinn. Flest skipanna, sem þarna hafa strandað, hafa orðið þar til í fjörunni, en sjórinn hefur tekið það til sín, sem skilið hafði verið eftir. Austast, utan við Klöpp, varð eitt af stærstu sjóslysunum. Það var nóttina áður en Aldan rak upp í Nesið að vestanverðu að annan vélbát rak frá Vestmannaeyjum, Þuríði formann, sem einnig varð fyrir vélarbilun í sama veðrinu og rak þarna upp. En þar tóku höfuðskepnurnar öðruvísi á hlutunum. Þegar fólk kom á fætur á Þórkötlustöðum, varð það vart við óeðlilega mikið brak í fjörunni, og þótti all væri mjög maskað niður. Sást þó, að þarna hafði Þuríður formaður rekið upp og hún farist með allri áhöfn.
Hinn 8. desember 1923 gerðist það í austan veðri og snjókomu, að þýskur togari strandaði utan við Grindavík. Áhöfnin komst í björgunarbáta og bjargðaist í Blásíðubás. Þórkötlustaðanesmenn töldu, að eftir strand þetta hafi komist festa á veiðarfæri þeirra, sem ekki hefði verið þar áður, á leirbotni skammt út af víkinni, og veiðarfærin oft ryðlituð, er þau komu upp.
Strýthólahraun, stundum nefnt Strútuhóalhraun, er nefnt eftir Strýtuhól vestari og Strýtuhól eystri, sem sjá má þarna inn í hrauninu. Í hrauninu eru fjölmörg hlaðin fiskbyrgi og þurrkgarðar. Ná þau svo til frá veginum niður að Leiftrunarhól, sem stendur á sjávarkambinum. Þessi byrgi eru fáum kunn, enda falla þau mjög vel inn í hraunið. Þegar hins vegar er staðið við byrgin sjást þau hvert sem litið er. Þegar staðið var á einum hraunhólnum mátti t.d. telja a.m.k. 14 sýnileg byrgi í hrauninu. Ekki er gott að segja hversu mörg þau eru í heildina. Norðan vegarins eru hlaðnir þurrkgarðar. Á þessu svæði má auk þess sjá standa undir vindmyllur, heimtraðir, veglegar sundvörður o.fl. o. fl. Þá má sjá, ef grannt er skoðað, mjög gamlar minjar sunnan og vestan við Flæðitjörnina.
Þórkötlustaðanesið er einstaklega áhugavert til útivistar og ekki síður út frá sögulegum forsendum. Þurrkbyrgin í Strýthólahrauni eru t.d. engu ómerkilegri en þurrkbyrgin á Selatöngum og e.t.v. ekki yngri en byrgin, sem þar eru. Bændur og sjómenn frá Hrauni réru frá Þórkötlustaðanesinu og eflaust eru byrgi þessi minjar eftir þá. Þau gætu þess vegna, sum a.m.k., verið allt frá þeim tíma er Skálholtsbiskupsstóll gerði út frá sjávarbæjunum við Grindavík, en svæðið var eitt mesta og besta matarforðabúr stólsins um alllangt skeið og ein helsta undirstaðan undir fiskútflutningi hans.
Fleiri lýsingar af Þórkötlunesinu, t.a.m. svæðinu austan Strýthólahrauns, má sjá á vefsíðunni undir Fróðleikur (Þórkötlustaðanes) þar sem Pétur Guðjónsson, skipstjóri lýsir því, en hann ólst upp í Höfn, einu af þremur húsunum í Þórkötlustaðanesi.
Tvískipt heitið á Nesinu eru líkt og dæmi eru um ýmis fleiri en eitt örnefni á kortum Landmælinga yfir sama stað, kennileiti eða náttúrufyrirbæri. Þannig er Grímmannsfell vestast á Mosfellsheiði jafnframt nefnt Grímarsfell á korti Landmælinga. Nafnaskiptingin kom við sögu dómsmáls á meðal bænda í Mývatnssveit, Hverfell versus Hverfjall, árið 1999, en í honum kemur fram að annað dæmi megi nefna um Hópsnes við Grindavík sem einnig er nefnt Þórkötlustaðanes á korti Landmælinga.
Reykjanesskaginn býður upp á meira en fagra náttúru og útiveru. Þess má vel geta hér að gangan frá Saltfisksetrinu austur að Herdísarvík skammt austan gömlu bryggjunnar á Þórkötlustaðanesi tekur u.þ.b. 30 mínútur. Farið er um stórbrotið hraunsvæði á vinstri hönd og minjar skipsskaðanna á þá hægri. Þessi leið er, ef vel er á haldið sögulega séð, ein sú magnaðasta á gjörvöllu Reykjanesinu. Og til að skynja áhrifamátt hafsins og smæð mannsins er nóg að stíga upp á kampinn og þenja skynfærin.

-Strýthólahraun – byrgi
Hlaðin byrgi frá því á 17. Öld. Hugsanlega útilegumanna – fundust seint á 19. öld.

-Slokahraun – byrgi
Svipað og í Strýthólahrauni – garðar.
-Hraun – Tyrkir – dys – hellir

-Kapella
Frá 15. öld – grafin upp um 1950.

-Landnámsmenn
Landnámabók greinir frá því að landnámsmenn hafi komið til Grindavíkur í kringum árið 934. Landnámsmenn voru tveir. Þeir hétu Molda-Gnúpur Hrólfsson sem nam Grindavík og Þórir haustmyrkur Vígbjóðsson sem nam Selvog og Krýsuvík. En allt fram til 1946 náði Grindavíkurhreppur yfir tvær sóknir Staðarsókn og Krýsuvíkursókn. Synir Moldar-Gnúps settust að á þrem höfuðbólum sem hin 3 hverfi Grindavíkur heita eftir. Austast er Þórkötlustaðahverfi, þá Járngerðarstaðarhverfi, þar sem megin byggðin er í dag, en Staðarhverfi heitir vestast.

Gnúpur fór til Íslands fyrir víga sakir þeirra bræðra og nam land milli Kúðafljóts og Eyjarár, Álftaver allt; þar var þá vatn mikið og álftveiðar á.
Molda-Gnúpur seldi mörgum mönnum af landnámi sínu, og gerðist þar fjölbyggt, áður jarðeldur rann þar ofan, en þá flýðu þeir vestur til Höfðabrekku og gerðu þar tjaldbúðir, er heitir á Tjaldavelli. En Vémundur, son Sigmundar kleykis, leyfði þeim eigi þar vist. Þá fóru þeir í Hrossagarð og gerðu þar skála og sátu þar um veturinn, og gerðist þar ófriður með þeim og vígafar.
En um vorið eftir fóru þeir Molda-Gnúpur vestur í Grindavík og staðfestist þar; þeir höfðu fátt kvikfjár. Þeir voru þá fulltíða synir Molda-Gnúps, Björn og Gnúpur, Þorsteinn hrungnir og Þórður leggjaldi.
Björn dreymdi um nótt, að bergbúi kæmi að honum og bauð að gera félag við hann, en hann þóttist játa því. Eftir það kom hafur til geita hans, og tímgaðist þá svo skjótt fé hans, að hann varð skjótt vellauðigur; síðan var hann Hafur-Björn kallaður. Það sá ófreskir menn, að landvættir allar fylgdu Hafur-Birni til þings, en þeim Þorsteini og Þórði til veiða og fiskjar.
Hafur-Björn átti (Jórunni, stjúpdóttur Gnúps bróður síns). Þeirra son var Svertingur, er átti Húngerði, dóttur Þórodds Tungu-Oddssonar og Jófríðar Gunnarsdóttur, þeirra dóttir Þorbjörg móðir Sveinbjarnar, föður Bótólfs, föður Þórdísar, móður Helgu, móður Guðnýjar, móður Sturlusona. Gnúpur Molda-Gnúpsson átti Arnbjörgu Ráðormsdóttur, sem fyrr er ritað. Iðunn var dóttir Molda-Gnúps, er átti Þjóstar á Álftanesi. Þormóður var son þeirra.

-Fiskveiðar
Þriðji stærsti útgerðarbær á landinu.

-Tyrkjaránið -segja nafni fjallsins (festin),
Það er alkunnugt að þegar Tyrkjar ræntu hér á landi 1627 gjörðu þeir landgöngu í Grindavík. Segja menn þeir hafi komið upp á Járngerðarstöðum og söfnuðust menn saman og gengu móti þeim og varð bardagi í fiskigörðunum fyrir ofan varirnar.
Þá bjó karl gamall á Ísólfsskála. Hann átti stálpaðan son; rauða meri átti hann líka. Karlsson heyrði talað um að Tyrkjar væru í Grindavík. Hann bað föður sinn lofa sér að fara þangað til að sjá þá. Karl var tregur til þess, en sonurinn sókti fast eftir.
Karl lét það þá eftir og setti hann á bak Rauðku og bað hann ríða hægt þangað til hann sæi Tyrkja og snúa þá aftur og flýta sér sem mest. Hann fór nú og segir ekki af honum fyrr en hann sá Tyrkja þar sem þeir börðust við landsmenn. Þá stukku tveir strax og ætluðu að taka hann. Hann varð dauðhræddur, reið undan og barði á báða bóga, en Rauðka var ekki viljugri en svo að Tyrkjar voru alltaf í nánd við hana. Þó dróst svo austur á Hraunssand að þeir náðu henni ekki. Ofan til á miðjum sandi náðu báðir undir eins í taglið á henni, en hún sló aftur undan sér og setti sinn hóf fyrir brjóst hvorum Tyrkja svo þeir féllu niður dauðir, en Rauðka hljóp nú svo hart að karlssyni þótti nóg um og kom hann heill heim á Skála.
Leiði Tyrkjanna sést enn á Hraunssandi, hlaðið úr grjóti og lítið grasi vaxið ofan, næstum kringlótt, nálega einn faðm á hvurn veg. Slétt er fram á það því sandinum hallar, en undan brekkunni er það nálega tveggja feta hátt. Sumir kalla það Kapellu.
Í bardaganum veitti landsmönnum miður. Særðu Tyrkjar suma, en tóku suma; þó féllu margir af Tyrkjum.
Helgi hét maður; hann barðist með kvíslarfæti og drap fimmtán Tyrkja, en var síðan tekinn. Hann var keyptur út löngu seinna og er sú sögn eftir honum höfð, að hann hafi drepið tvo eigendur sína, hvorn eftir annan, þá hann hlóð múrvegg, en þeir fundu að verkinu, og hafi hann hlaðið þeim í vegginn svo þeir fundust ekki og engan grunaði að Helgi hefði ollað hvarfi þeirra.
Engin dys sjást þar sem bardaginn var eða þar nálægt. En svo segja Grindvíkingar og fleiri að þar vaxi þyrnir síðan þar kom saman kristið blóð og heiðið, en það er raunar þistill, en ekki þyrnir.

-Festarfjall – Dúnknahellir – jarðfræði – saga
Austarlega í Grindavík, hér um bil miðja vegu milli bæjanna Hrauns og Ísólfsskála, er þverhnípt fell fram við sjóinn, sem heitir Festarfjall (190 m.y.s). Neðan undir felli þessu er hátt blágrýtisstandberg og ægisandur undir sem ganga má þurrum fótum með lágum sjó. Frá Hrauni blasir við í miðju berginu grá rák sem gengur þráðbeint upp í gegnum bergið og nefnist Festin.
Sagan segir að rák þessi sé silfurfesti sem tröllkona ein hafi einhvern tíma í fyrndinni hengt fram af berginu með þeim ummælum að þá er dóttir bóndans á Hrauni, sú sem bæri nafn hennar, gengi þar neðan undir þá skyldi festin detta niður og verða eign stúlkunnar. Því miður lét tröllkonan ekki nafns síns getið svo að ekki hefir verið auðvelt að láta heita eftir henni, enda hangir festin óhreyfð enn í dag.

-Fuglar
Fuglar í og við Festarfjall eru að mestu fýll, rita, teista og lundi.

-Jarðfræði
Festarfjall, sem og Húsafjall (174 m.y.s.) og Fiskidalsfjall, auka Lyngfells og Lambafells, eru að mestu úr bólstabergi. Einnig eru í því móberg, brotaberg og grágrýtisberggangar. Tveir slíkir mynda “festina” er fjallið dregur nafn sitt af. Í berginu, einkum ofan við Hraunsvíkina, má auk þessa sjá rauðleit gjalllög, sem eru eins og “krem” á milli harðari kökubotna. Sjónn grefur þessi grófu hraunlög út undan þeim harðari og brýtur þau síðan smám saman niður. Þannig sjáið þið nú inn í mitt Festarfjallið. Það varð til fyrir u.þ.b. 12-16 þúsund árum síðan þegar jökull lá yfir landinu. Síðan sáu jökullinn, vatn, vindar og frost um að móta landslagið eins og þið sjáið það nú.
Fagurt útsýni norður efttir Hraunsvíkinni.

-Malarnám
Malarnámið hægra megin er frá því á 6. áratug 20. Aldar. Fyrirtækið hét Ægissandur. Ekið var með stóru sjálfmokandi tæki niður í sandfjöruna, það fyllt og efnið flutt upp í námuna. Þar var það sigtað, sandur annars vegar og sjávargrjót hins vegar. Úr efninu voru hin steinsteyptu hús byggð. Þegar alkaliskemmdir fóru að koma í ljós undan söltum sandinum var farið að taka sandinn á þurru landi.
Gísli á Hrauni er með malarnámið í Fiskidalsfjalli, en auk þess er nú farið að hirða sandinn í Húsafjalli, en svæðið var áður hluti af varnarsvæðinu, sbr. frásögnina af hlustunarstöðvunum við Grindavík.

-Rallývegur
Þessi vegur, Hraunsvegur eða Ísólfsskálavegur, er tengast síðar Krýsuvíkurvegi, hefur verið vinsæll á meðal rallýökumanna vegna þess hversu hlykkjóttur og holóttur hann er öllu jafnan. Þá er þetta einn af fáum malarvegum, sem eftir er á Reykjanesi. Annar vinsæll kafli er vegurinn milli Grindavíkur og Reykjanesvita.

-ÍsólfsskáliÍsólfur bjó á Skála. Gömul sögn segir að hann sé dysjaður í Geldingadal hér uppi í Fagradalsfjalli því “hann vildi láta heygja sig þar sem sauðir hans undur hag sínum svo vel.”
Guðmundur Hannesson var annar frægur bóndi á Skála. Hann kom frá Vigdísarvöllum hér austan við Núpshlíðarháls um aldamótin 1900. Fjórði ættliður hans á nú aðstöðuna og eignirnar á Ísólfsskála. Guðmundur er frægastur fyrir að hafa eignast um 20 börn á lífsleiðinni, auk þess sem hann var mikill veiðimaður og var víðförull þar sem hann fór um.

-Drykkjarsteinn – saga – ljóð –
Símon Dalaskáld
Alfaravegur lestamanna og vermanna að austan er sóttu fiskifang til verstöðvanna á Suðurnesjum haust og vor fyrr á tímum lá með suðurströndinni um Þorlákshöfn, Selvog, Herdísarvík og Krýsuvík til Grindavíkur og þaðan til Hafna. Milli Krýsuvíkur og Grindavíkur, og þó miklu nær Grindavík, í landi Ísólfsskála, greindist vegur þessi í tvær áttir. Lá annar vegurinn áfram til Grindavíkur en hinn yfir fjallgarðinn til Vogastapa.
Þar sem vegirnir skiptast er steinn sá er Drykkjarsteinn nefnist. Er hann mikill um sig, en ekki allhár eða svo sem hálfönnur mannhæð þar sem hann er hæstur. Nafn sitt dregur steinninn af því að í honum eru holur nokkurar þar sem vatn safnast fyrir. Svo var sagt að í hinni stærstu þeirra þrjóti ekki drykkjarvatn nema í langvinnustu þerrum. Hefir þetta komið sér harla vel fyrir ferðamenn er þarna áttu leið um, þar sem hvergi var vatn að fá á þessum vegi á löngu svæði og menn og hestar voru því örmæddir af þorsta er að Drykkjarsteini kom og svaladrykknum sárlega fegnir. Varð steinninn þannig langþráður áfangastaður ferðamönnum og var ekki laust við að á honum hvíldi helgi nokkur, þar eð varla þótti einleikið hversu haldsamur hann var á drykkjarvatn, jafnvel í mestu langviðrum.
Þó gat það við borið að vatnið þryti í steininum eins og þessi saga sýnir. Einhverju sinni bar svo við sem oftar að ferðamenn voru á suðurleið um veg þennan. Þurrkar höfðu miklir á undan gengið svo að hvergi var vatn að fá á leiðinni. Voru mennirnir því mæddir af þorsta og hugðu því gott til að fá sér nægan svaladrykk er þeir kæmu að Drykkjarsteini. En er þangað kom bar nýrra við því að allar holurnar voru tómar og engan dropa þar að fá. Urðu mennirnir vonsviknir mjög eins og vænta mátti. Í gremju sinni tók þá einn þeirra til þess klækibragðs að hann ósæmdi í stærstu holuna. Segja sumir, að hann hafi migið í hana, en aðrir, að hanna hafi gengið þar örna sinna. Eftir þetta brá svo við að holan var jafnan þurr og það engu að síður þótt rigningum gengi.
Liðu svo nokkur ár að ekki bar til tíðinda. Átti þá þessi sami maður enn leið um veg þennan og var ferðinni heitið til Grindavíkur. Vissu menn það síðast til ferða hans er hann lagði upp frá Krýsuvík. En fáum dögum síðar er farið var um veginn fannst hann dauður undir Drykkjarsteini og kunni það enginn að segja hvað honum hefði að bana orðið. En eftir þetta brá Drykkjarsteinn til sinnar fyrri náttúru, og hefir vatn eigi þrotið í honum síðan.

-Siglubergsháls – saga – grindur
Sagan af Hafur-Birni og grindverkagerð, sbr. Grindarskörð.

-Skökugil
Saga af smérkökunni, sem datt af hesti, sbr. Méltunnuklif.

-Móklettar
Landamerki – 1880.

-Fagradalsfjall – Geldingadalur – Ísleifur

-Sandakravegur
Tengis Skógfellavegi við Stóra-Skógfell – aðrir segja við Mosa ofan við Grindavíurgjá.

-Lyngfell
Fjallið austan Festarfjalls.

-Litli-háls
Ekið eftir hann austan Lyngfells. Norðar er Borgarhraun. Í því er Borgarhraunsborgin, auk Borgarhraunsréttarinnar.

-Drykkjarsteinsdalur – Drykkjarsteinn – saga
Alfaravegur lestamanna og vermanna að austan er sóttu fiskifang til verstöðvanna á Suðurnesjum haust og vor fyrr á tímum lá með suðurströndinni um Þorlákshöfn, Selvog, Herdísarvík og Krýsuvík til Grindavíkur og þaðan til Hafna. Milli Krýsuvíkur og Grindavíkur, og þó miklu nær Grindavík, í landi Ísólfsskála, greindist vegur þessi í tvær áttir. Lá annar vegurinn áfram til Grindavíkur en hinn yfir fjallgarðinn til Vogastapa.
Þar sem vegirnir skiptast er steinn sá er Drykkjarsteinn nefnist. Er hann mikill um sig, en ekki allhár eða svo sem hálfönnur mannhæð þar sem hann er hæstur. Nafn sitt dregur steinninn af því að í honum eru holur nokkurar þar sem vatn safnast fyrir. Svo var sagt að í hinni stærstu þeirra þrjóti ekki drykkjarvatn nema í langvinnustu þerrum. Hefir þetta komið sér harla vel fyrir ferðamenn er þarna áttu leið um, þar sem hvergi var vatn að fá á þessum vegi á löngu svæði og menn og hestar voru því örmæddir af þorsta er að Drykkjarsteini kom og svaladrykknum sárlega fegnir. Varð steinninn þannig langþráður áfangastaður ferðamönnum og var ekki laust við að á honum hvíldi helgi nokkur, þar eð varla þótti einleikið hversu haldsamur hann var á drykkjarvatn, jafnvel í mestu langviðrum.
Þó gat það við borið að vatnið þryti í steininum eins og þessi saga sýnir. Einhverju sinni bar svo við sem oftar að ferðamenn voru á suðurleið um veg þennan. Þurrkar höfðu miklir á undan gengið svo að hvergi var vatn að fá á leiðinni. Voru mennirnir því mæddir af þorsta og hugðu því gott til að fá sér nægan svaladrykk er þeir kæmu að Drykkjarsteini. En er þangað kom bar nýrra við því að allar holurnar voru tómar og engan dropa þar að fá. Urðu mennirnir vonsviknir mjög eins og vænta mátti. Í gremju sinni tók þá einn þeirra til þess klækibragðs að hann ósæmdi í stærstu holuna. Segja sumir, að hann hafi migið í hana, en aðrir, að hanna hafi gengið þar örna sinna. Eftir þetta brá svo við að holan var jafnan þurr og það engu að síður þótt rigningum gengi.
Liðu svo nokkur ár að ekki bar til tíðinda. Átti þá þessi sami maður enn leið um veg þennan og var ferðinni heitið til Grindavíkur. Vissu menn það síðast til ferða hans er hann lagði upp frá Krýsuvík. En fáum dögum síðar er farið var um veginn fannst hann dauður undir Drykkjarsteini og kunni það enginn að segja hvað honum hefði að bana orðið. En eftir þetta brá Drykkjarsteinn til sinnar fyrri náttúru, og hefir vatn eigi þrotið í honum síðan.

-Borgarhraunsborg
Frá Viðeyjarklaustri.

-Borgarhraunsrétt
Undir hraunkantinum í norðanverðu hrauninu.

-Hlínarvegur 1932
Fimm menn lögðu veginn að beiðni Hlínar Johnsen í Krýsuvík, síðar Herdísarvík, árið 1932. Fengu 100 kr. fyrir hver. Allir frá Skála, nema einn. Hann var að Vestan.


-Grettistak
Hattur – nendur vegna hins hattlaga forms.

-Nótarhóll – byrgi – þurrkgarðar.

-Kista
Kistulaga steinn út í Skollahrauni.

Skollahraun
2000-3000 ára gamalt.

-Slaga – bergsaga.
Jón Jónsson, jarðfræðingur, segir að Slaga hafi breytt afstöðu hans til aldurs bergsins á sunnanverðum Reykjanesskagagnum. Jökulrispaðar klappir í neðri lögum, sem benda til hærri aldurs en áður var talið. Fýll verpir í berginu. Gamlir sjávarhamrar áður en Skollahraun (Höfðahraun) rann fyrir um 2000-3000 árum síðan. Austar er Katlahraun.

-Vörður
Hlaðnar af Bergi og vinnumanni á Ísólfsskála um 1920.

Kastið

Gengið var á Fagradalsfjall um Görnina með stefnu upp á Kastið. Í sunnanverðri Görninni er flugvélabrak, m.a. leyfar af hreyfli.
Gornin-1Í hlíðinni efst í vestanverðu Kastinu, handan við háhrygginn, er brak úr B-24 sprengiflugvél er fórst þar mánudaginn 3. maí árið 1943. Efst eru hlutar flugvélarinnar á víð og dreif. Neðar í fjallshlíðinni eru t.d. hluti hjólastells o.fl. Þarna má sjá ýmsa vélarhluta. Einnig hvar álið hefur bráðnað utan um steina úr hlíðinni. Um borð í vel þessari var m.a. hershöfðing Evrópuherafla Bandaríkjanna, Frank Andrews. Hann fórst þarna ásamt ásamt þrettán öðrum félögum sínum. Um var að ræða mesta flugslys hér á landi á þeim tíma. Hreyfillinn í Görninn hafði greinilega kastast yfir brúnina þegar flugvélin lenti þarna efst í brattri hlíðinni. Tóm 42′ skothylki lágu á víð og dreif. 

Frank M. Andrews hershöfðingi, gekk undir gælunafninu Andy. Hann fæddist í Nashville, Tennessee, í Bandaríkjunum, 3. febrúar árið 1884 og lést á Fagradalsfjalli, Íslandi, þann 3. maí 1943.
Andrews-2Andrews var einn af stofnendum Flughers Bandaríkjanna (United States Air Force). Í forystustörfum innan hersins Air Corps náði hann góðum árangri þar sem öðrum hafði mistekist. Andrews var fyrsti yfirmaður í miðlæga ameríska flughernum (Central Air force) og fyrsti loftliðsforinginn  til að gegna störfum hjá landhernum (Army). Í byrjun 1943 tók hann sæti Dwight D. Eisenhower sem yfirmaður allra US hermanna í Evrópu í innrásaráætlun bandamanna.
Hann beið bana í flugslysi á Íslandi árið 1943, sem fyrr sagði. Hann var þá sá hæstráðandi í her Bandaríkjanna er látið hafði lífið í stríðinu á þeim tíma. Andrews herflugvöllurinn í Maryland er nefndur eftir honum, líkt og Andrewsherskólinn í Berlín, Þýskalandi), alþjóðlegur Andrews-flugvöllurinn í Santo Domingo (nú rifinn) og Andrews Avenue í Pasay City, Philipseyjum.

Andrews-3Andrews var barnabarn á riddaraliðshermanns sem barðist við hlið Nathan Bedford Forrest og barna-barnabarn tveggja Tennessee landshöfðingja, John C. Brown og Neill S. Brown. Hann útskrifaðist úr borginni Montgomery Bell Academy árið 1901 og gekk í Military Academy í West Point í júlí 1902. Hann gekk til liðs við United States Army við útskriftina árið 1906.  Starfaði hann m.a. sem liðsforingi á Filippseyjum og Hawaii. Eftir að hann giftist dóttur hershöfðingjans Henry Tureman Allen árið 1914, var Andrews meðtekinn í félagslega hringinn í Washington og innan hersins.

Allen hershöfðingi gerði sér ákveðnar vonir um framtíð tengdarsonar síns, t.d. með því að lýsa yfir að dóttir hans vildi ekki giftast flugmanni. Þess vegna fékk hann stöðu hjá Army Signal Corps í febrúar 1914, en ekki hjá Air force.

Andrews-1

Innan mánaðar eftir að Bandaríkin blönduðust inn í Fyrri heimsstyrjöldina var Andrew fluttur í apríl 1917, þrátt fyrir andmæli yfirmanna hans, yfir í Aviation Section, US Signal Corps.
Eftir skamma stund í Washington, DC, fór Andrews til Rockwell Field, California, í apríl 1918. Þar lauk hann Aviatorþálfun, þá 34 ára.  Andrews fór aldrei erlendis í stríðinu sem félagi af the Air Service. Í staðinn, hann bauð ýmsum flugvöllum um Bandaríkin og í Army General Staff í Washington, DC eftir stríðið. Þá var hann fluttur til starfa í Þýskalandi þar sem tengdafaðir hans, Allen hershöfðingja, hafði verið boðin staða.

Eftir að hafa farið til Bandaríkjanna árið 1923, réð Andrews fyrir stjórn Kelly Field, Texas, og hann varð fyrstur stjórnandi háþróaðs flugskóla þar. Árið 1927 flutti hann til að Air Corps taktísk School í Langley Field, Virginíu, og árið eftir fór hann sem stjórnandi  General Staff School í Fort Leavenworth, Kansas. Andrews gegndi æðstu her Air Corpsþjálfun og -rekstrarsviðs á árunum 1930-1931. Hann fór síðan 1. Pursuit Group á Selfridge Field, Michigan. Eftir útskrift úr hernum War College árið 1933, fór Andrews aftur til General Staff árið 1934. Í mars 1935 var Andrews skipaður í herráð Douglas MacArthur í nýstofnaða Almennar Headquarters (GHQ) Air Force, sem hafði það m.a. að markmiði að styrkja Army Air Corps eininga undir einn foringja. Undir stjórn hans, hóf GHQ Air Force þróun aðferða til að ná ydirburðum í loftinu sem síðar varð ríkur þáttur US Army Air Force.

Kastid-2

Andrew var talsmaður fjögurra hreyfla þungra sprengjuvéla, s.s. B-17 (Fljúgandi virkið).  MacArthur átti hins vegar undir högg að sækja þars em fyrir var hershöfðinginn Malin Craig, en hann andvígur hvers kyns verkefnum fyrir Air Corps nema að styðja herafla á jörðu niðri. Craig var ósammála Andrews um yfirburði B-17 á allar aðrar tegundir. Í stað þess að styðja fyrirhuguð kaup á B-17 var ákveðið að kaupa minni en ódýrari léttar og meðalstór sprengjuflugvélar, eins og Douglas B-18. Honum tókst þó að sannfæra menn um að kaupa nóg af B-17 til að halda áætluninni á lífi. Stríðið í Evrópu varð til að undirsstrika það að Andrews hafði rétt fyrir sér.

Kastid-3Andrews var skipaður framkvæmdastjóri Air Corps í kjölfar dauða hershöfðingja Oscar Westover í september 1938, fyrst og fremst vegna stuðnings síns fyrir loftárásaráætluninni. Hann varð loftráðgjafi George C. Marshall, nýlega ráðinn sem aðstoðarforstjóri „Æðstu starfsmanna hersins“ árið 1938.

Í janúar 1939, í ræðu á National Aeronautic Association, lýsti Andrews Bandaríkin sem „sjötta mesta loftherveldið“. Í lok fjögurra ára ferils síns sem framkvæmdastjóri GHQAF fór hann aftur í fasta stöðu sem ofursti úr tímabundinni stöðu sinni fyrir áttunda Corpssvæði í San Antonio. Hann var kallaður til Washington einungis fjórum mánuðum síðar.

Kastid-4Árið 1940, Andrews ráð fyrir stjórna af the Air Corps Panama Canal Air Force , og árið 1941 varð hann yfirmaður the Caribbean Defense Command, sem hafði mikilvæga skyldu í Seinni heimsstyrjöldinni að verja Suðursvæði Bandaríkjanna, þar á meðal hinn mikilvæga Panamaskurð. Árið 1942 fór Andrews til Norður-Afríku þar sem hann var þriggja mánaða í stjórn allra United States herafla í Mið-Austurlöndum frá bækistöðvum í Kaíró.

Hershöfðingja Andrews var síðan skipaður yfirmaður allra United States herafla í Evrópu. Í ævisögu sinni, hershöfðingja Henry H. Arnold, yfirmaður í hernum Air Forces í World War II, gefið þeirri trú að Andrews hefði verið gefin skipun bandamanna innrás í Evrópu – stöðu sem á endanum gekk til hershöfðingja Eisenhower. Marshall myndi segja seint í lífinu, því að Andrews var eina almenna hann fengið tækifæri til að brúðgumanum hugsanleg Supreme Allied Command síðar í stríðinu.

Kastid-5

Hershöfðingja Andrews beið bana í flugslysi í B-24D-1-CO, Frelsari , 41-23728, á 8. Air Force úr RAF Bovingdon, England, á Fagradalsfjalli á Reykjanesskaga eftir að hafa þurft frá að hverfa við lendingu á Kaldaðanesflugvelli.  Fagradalsfjall á Reykjanesi eftir aflýst reyna að lenda á Royal Air Force Station í Kaldadarnes, Íslandi. Andrews og þrettán aðra létust í flugslysinu; aðeins slétskyttan, S/Sgt. George A. Eisel, lifði slysið af. Aðrir KWF, þar með talinn flugmaðurinn kapteinn Robert H. Shannon, 330 BS, 93 BG; og sex starfsmenn Andrews, þ.mt Maj. Ted Trotman, B/Gen. Charlie Barth, Col. Marlow Krum, and aðstoðarmaður hershöfðingjans, Maj. Fred A. Chapman; and Capt. JH Gott, navigator. Charlie Barth, Col. Marlow Krum og aide almenn’s Maj. Fred A. Chapman, og kapteinn JH Gott. Andrews er grafinn í Arlington National Cemetery.

„Slysið var um það bil kl. 15:30 að Greenwichtíma, þann maí 3, 1943, B-24D (41-23.728) í staðsetningu 22°19’30“ vestur – 63°54′ norður á Íslandi og eyðilagðist vélin.“.

Kastid-6

B-24 var úthlutað til 8. Air Force á Bovington, Englandi. Sendinefndin var áætlað yfir landið flugi frá Bretlandi til Meeks Field, Iceland, til að fara yfir Prestwick í Skotlandi. Flugvélin nálgaðist Íslandi frá suðaustur og hafa samband við var gerður við landið sjö kílómetra austan Alviðruhamrars-vitann um 01:49 GMT. Flugvélin miðaði áfram vestur fjörur í hæð um 200 fet, sem eftir eru undir skýjum. Um 02:38 GMT flugvélarinnar hringur the Royal Air Force airdrome á Kaldaðarnes fimm sinnum á um 500 fet. Fjarskiptasamband náðist ekki við flugvélina. B-24 flaug lágt yfir flugbrautinni, en flugmaðurinn gerði ekki tilraun til lendingar. Þess í stað flaug hann áfram vestur fjörur í 60 feta hæð.

Andrews-4

Á Reykjanesi var flugvélinni snúið til norðurs og síðan á ströndina í um 10 mílur svo til beint vestur af Meeks Field. Tíminn var nú 2:53 klst GMT. Vandræði var með fjarskiptasam-band. Flugvélin sneri austur og flugmaðurinn reyndi sjónflug að Meeks Field, en lágmark skyggni og rigning kom í veg fyrir að það tækist. Flugmaðurinn ákvað að fara til baka til Kaldaðarnesflugvelli. Kapteinn Shannon reyndi að fylgja strandlengjunni með því að snúa bratt í austurátt.

Skyggni var svo til ekkert vegna skýj, rigningar og minnkandi útsýnis. Flugvélin var ekki búin að loftsamskipta, en flugmaðurinn reyndi að halda sjónrænum tengslum við landið með því að fljúga undir skýjum. Á 22°19’30 „vestur – 63°54′ norður, flaug hann í 1100 feta hæð, 150 fet að ofan, en á norðaustur sjálfsögðu á hraða minnsta kosti 160 mph. Annar vængur B-24 vélarinnar lenti í brattri hlíðinni, í 45° halla.

Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimildir m.a.:
-wikipedia.com

Kastið

B-24 – minnismerki um flugslysið í Kastinu.

 

Fjallið eina

 Ætlunin var að ganga um Hrútagjárdyngju, skoða hana og reyna að glöggvast á tilurð hennar. Þá var tilgangurinn að halda niður fyrir dyngjusvæðið og skoða nokkra hraunhella norðan hennar, s.s. Steinbogahelli, Maístjörnuna, Húshelli, Snagann, Híðið sem og fleiri hella.

Reykjanesskaginn fyrir u.þ.b. 11.000 árum

Eitt af stærstu hraununum í kringum Hafnarfjörð er komið úr Hrútagjárdyngju. Upptök þess eru nyrst í Móháls[a]dal. Á gígsvæðinu er allmikil gjá sem heitir Hrútagjá og við hana er dyngjan kennd. Hraunið hefur að mestu runnið til norðurs og til sjávar og hefur myndað ströndina milli Vatnleysuvíkur og Straumsvíkur. Í daglegu tali gengur stærsti hluti hraunsins undir nafninu Almenningur. Öskulög í jarðvegi ofan á hrauninu benda til að hún hafi myndast fyrir 4000- 5000 árum (leiðréttur aldur ~ 4500). Hraunin ná yfir 80 km2 svæði.
Ljóst er þó, þegar gengið er um Dyngjuna og umhverfis hana, að hér hefur ekki verið um eina goshrinu að ræða heldur a.m.k. tvær eða fleiri. Nýjustu ummerkin sjást hvað best suðaustast í Hrútagjárdyngjunni. Þar er gígur og hrauntröð. Verksummerki eftir miðkaflan sjást hins vegar gleggst vestan við mikla hrauntjörn sunnanlega á dyngjusvæðinu og í hrauntröð út frá henni til norðurs. Þar hefur glóandi hraunkvikan leitað sér leiðar út úr gamla dyngjusvæðinu nyrst í henni. Á leiðinni hefur kvikan smurt eldra hraunið upp í u.þ.b. 3 metra hæð.
Í HrútagjárdyngjuSvo virðist sem mótunarsagan hafi verið eitthvað á þessa leið: Mikið dyngjugos hefur orðið vestan undir Sveifluhálsi, efst í brúnum þar sem hallar til vesturs og norðurs. Í jarðfræðibókum segir að dyngja sé  eldfjall sem myndast í löngu flæðigosi á hringlaga gosopi. Geysimikið hraun hefur runnið frá gígnum á löngum tíma, hugsanlega tugum ára, og stækkað innanverðan Reykjanesskagann verulega.
„Dyngjur myndast við eitt flæðigos upp um pípulaga eldrás. Talið er að gosin standi mánuðum og jafnvel árum saman. Gígurinn er í dyngjuhvirflinum og kraumar þar þunn kvikan meðan á gosinu stendur. Við og við vellur hún út yfir gígbarmana og sendir þunnar hraunspýjur niður hlíðarnar eða finnur sér leið úr gígnum um hraungöng sem opnast neðar í hlíðum fjallsins. Þannig myndar kvikan þunnar hraunspýjur sem runnið geta langar leiðir og leggjast hver ofan á aðra þannig að hraunið verður lagskipt en þó án millilaga úr gjalli eða jarðvegslögum. Gott dæmi um slíka lagskiptingu má sjá í vegg Almannagjár.“ Dæmi þessa má einnig sjá í misgengisvegg Sauðabrekkugjár sem og í jaðargjám dyngjunnar.

Gamla og nýja Hrútagjárdyngjuhraunin

Á þennan hátt hlaðast upp hraunskildir úr helluhraunslögum og eru hlíðarnar yfirleitt með 6° til 8° halla. Gígbarmarnir rísa ekki yfir umhverfið en fyrir kemur að hraundrýli rísi meðfram gígbörmunum eins og sjá má á Selvogsheið. Í hraundrýlunum og í nágrenni þeirra má oft sjá pípulaga bergmola sem myndast þegar gas brýtur sér leið í gegnum hálfstorknaða kvikuna. Algengt er einnig að hrauntjarnirnar tæmist og myndast þá oft djúpur ketill með bröttum veggjum.
Engar dyngjur hafa gosið á Íslandi síðustu 2000 árin ef frá er talinn hraunskjöldur Surtseyjar, sem er á mörkum eldborgar og dyngju.“
Gamli gígurinn í Hrútagjárdyngju, sem gaf af sér hina miklu kviku, sést enn, en hefur nánast fyllst af nýrra hrauni. Þegar innskot þrýsti afmörkuðu svæði upp og myndaði veggina fyrrnefndu sat massívur gígtappinn eftir og myndaði stóra skál. Mjög þunnfljótandi hraun úr öðru gosi, líklega fyrir u.þ.b. 3000-2000 árum, hefur svo komið upp úr stuttri  og staðbundinni gígaröð nálægt gamla gígnum. Líklega hefur þar verið um að ræða nokkurs konar blandgos með miklum undirþrýstingi áður en kvikan náði yfirborðinu. Ógurlegur þrýstingur frá innskotinu hefur myndast á afmörkuðu svæði undir kvikuhólfinu. Storknað yfirborðið hefur verið tiltölulega þunnt svo landið bæði reis hægt og rólega auk þess sem þrýstingur myndaðist út frá miðjustróknum. Við það lyftist svæðið um 10-15 metra og myndaði nokkurs konar skál, sem fyrr er lýst. Þegar glóandi þunnfljótandi kvikan komst loks upp á yfirborðið og nánast barmafyllti skálina. Kvika rann yfir barmana að norðaustanverðu og til suðurs. Mikil hrauntjörn myndaðist austan við gígana. Kvikan hefur loks náð að bræða sér leið út úr henni til norðurs, sem fyrr sagði. Glóandi hrauneðjan streymdi niður hlíðina suðaustan við fjallið eina og út með skálbörmunum beggja vegna. Vel má sjá hvernig nýrra hraunið hefur staðnæmst í kvos milli barmanna að norðaustanverðu og Sandfells. Þar má og sjá hvernig „gólfið“ á eldra Hrútagjárdyngjuhrauninu (5-7 þúsund ára) hefur risið upp við þrýstinginn og á köflum myndað nánast lóðréttan vegg.
Allan hringinn í Í Steinbogahellikringum skálina eru hrikalegar brotagjár er gefa til kynna þvílíkir ógnakraftar hafa verið að verki þegar landið reis. Þetta gos hefur að öllum líkindum verið skammvinnt. Bæði sést þá á því hversu hraunið er slétt og óbrotið. Það er mjög þunnt og gróður á því er einungis hraungambri. Í gamla Hrútagjárdyngjuhrauninu eru nánast allar gerðir jurta og í hluta þess var tekið hrís til eldiviðar eftir landnám og langt fram á 19. öld. Eftir gosið hefur dyngjusvæðið sigið á ný, en ekki nánast eins mikið og það hafði áður risið. Sprunguhlutar inni á dyngusvæðinu gefa þykkt nýja hraunsins glögglega til kynna. Þær hafa orðið til við landrek, þ.e. þegar meginflekar Evrópu og Ameríku hafa verið að leita hvor frá öðrum.
Ekki er ólíklegt að jarðhræringarnar hafi orðið í sömu goshrinu og sjá má afleiðingarnar af á börmum Sauðabrekkugjár. Þar hefur land bæði reisið og sigið, en jafnframt gefið af sér mjög þunnfljótandi hraun á afmarkaðri sprungurein, sem runnið hefur um stuttan tíma, öðru hvoru megin við gosið 1151.
Um og í kringum sögulegan tíma hefur orðið enn eitt gosið í Hrútagjárdyngju, eða hluta hennar. Gosið hefur á óreglulegri sprungurein. Hluti hennar hefur legið austarlega í dyngjunni, en einungis gefið af sér mjög staðbundið hraun, einkum gjall.
Opið á MaístjörnunniGengið var eftir hrauntröðinni til norðurs. Glögglega mátti sjá að hér hefur verið um sprungu að ræða er myndast hafði þegar dyngjusvæðið reis seinna sinnið. Hraunkvikan hefur leitað sér þarna leið út úr hrauntjörninni. Í gjánni er lítil rás niður á við. Líklega hefur kvikan náð að bræða sér leið þar niður og hluti hennar leitað þar um niðurfall því gjáin hækkar norðan þess. Ef kvikan hefði ekki náð að renna þarna niður væri botn gjárinnar miklu mun sléttari í dag.
Komið var við í Steinbogahelli, Húshelli og Maístjörnunni. Síðastnefndi hellirinn var ekki skoðaður að þessu sinni, enda bæði viðkvæmur og vandmeðfarinn. Litið var á op Híðisins, Aðventu og Snagans (sjá HÉR), auk nokkurra annarra hraunhella á svæðinu. Sumir þeirra eru 200-500 metra langir. Allir hellarnir eiga það þó sammerkt að þeir eru á tiltölulega afmörkuðu svæði, þar sem hallinn er einna mestur eftir að hraunkvikan kom út frá dyngjunni. Hluti þeirra er í gamla hrauninu, en einnig má sjá hella í nýrra hrauninu. Þeir eru þó minni og styttri. Sjá meira HÉR.
Húshellir dregur nafn sitt af hlöðnu húsi inni í hellinum. Tengist tilgáta um uppruna þess veru útilegumanna á svæðinu (sjá meira HÉR).
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimildir m.a.:
-Jarðfræðiglósur GK –  http://www.mr.is

Í Húshelli

Katlahraun

Í Dagblaðinu Vísir, helgarblaði árið 1983 er fjallað um Ögmundar- og Katlahraun undir fyrirsögninni „Aðrar dimmuborgir“ og undirsögninni „svipast um á skrítnum slóðum í Ögmundarhrauni við Grindavík„.

„Suðurhluti Reykjanesskaga er ekki í alfaraleið. Þjóðbrautin liggur tugi kílómetra frá, og því hefur svo verið lengi að fáir ferðamenn hafa lagt leið sína til þessa landshluta. Það verður að teljast miður, ef höfð er í huga sú merkilega en jafnframt hrikalega náttúrufegurð sem þar gefst að skoða.

Í Katlahrauni
Katlahraun
Einhver sérstæðasti staður suðurstrandar Reykjanesskagans er án efa Ögmundarhraun. Það liggur milli Grindavíkur og Krýsuvíkur — á láglendinu milli fjalls og fjöru — og þekur um sextán ferkílómetra í það heila.
Í hrauninu er að finna marga sérkennilega staði. Einn þeirra er þar sem heitir í Katlahrauni. Hann er nánast inni í miðju Ögmundarhrauni og er harla vandfundinn enda hafa fáir Íslendingar séð hann. Staðurinn er eiginleg sigdæld og markast af háum hraunveggjum allt í kring.
Katlahraun
Þegar gengið er fram á brún sigdældarinnar er sem yfir víðfeðman íþróttaleikvang að líta, slík er lögun hennar. Niðri í þessari hraunborg er yfir illfært og gróft helluhraun að fara, sem er víða sprungið, og því hættulegt yfirferðar en fjölbreytnin í landslaginu þarna er töfrandi og svo til endalaus. Háa hraunstapa er að finna niðri í dældinni svo og ýmsar aðrar sérstæðar hraunmyndanir, svo sem þar sem helluhrauniö hefur brotnað í hluta og staflast upp í þyrpingar og myndað allskyns hella og skúmaskot.

Hellar og skútar
Katlahraun
Í veggjunum eða hraunfjöllunum sem afmarka sigdældina eru margir hellar, misstórir eins og gengur, en þeir stærstu eru allt að tíu metra langir og álíka háir. Litlir bergskútar eru um allt í veggjunum og á einum stað er eins og þeir myndi eins konar hillusamstæðu í hraunfjallinu.
Á öðrum stað má skoða einhverja sérkennilegustu hraunmyndun sigdældarinnar. Þar jafnast lögun bergsins á við kirkjuhurð! „Ef huldufólk er á annað borð til, þá býr það þarna,” lét einhver hafa eftir sér sem leið átti um. Þessi náttúrlega hurð sést á einni ljósmyndinni sem fylgir þessum texta og er rétt að geta að hún er um tveir metrar á hæð en breiddin um hálfur annar metri. Í heild sinni minnir þessi hraunborg í Ögmundarhrauni — sigdældin og hraunveggirnir í kringum hana — mjög á Dimmuborgir í Mývatnssveit.
Katlahraun
Gróðurinn er þó ekki eins mikill og nyrðra en kynjamyndirnar og sérkennileg lögun hraunsins er allt eins mikil. Og fyrst minnst er á gróður þá er vert að geta þess að fyrir utan mosann vex í þessari hraunborg um eins metra hár burkni um hásumartímann, og segja þeir sem komið hafa á staðinn á þeim tíma að hvergi annars staðar í landinu hafi þeir séð svo merkilegt blómskrúð sem þennan burknagróður inni í stórbrotnu helluhrauninu.

Ögmundur og vegurinn

Ögmundarhraun

Hin forna gata um Ögmundarhraun, áður en vagnvegurinn var lagður.

Nafn sitt dregur Ögmundarhraun af manni þeim sem fyrstur er álitinn hafa rutt vegslóða yfir þetta illfæra svæði. Er sagt frá því í heimildum frá átjándu öld að Ögmundur nokkur hafi rutt veg um hraunið og verið myrtur að launum austan við það, þar sem dys hans sé. Á nítjándu öldinni voru svo skráðar ítarlegri sagnir um Ögmund þennan. Jón Vestmann prestur í Selvogi skráir sögu um Ögmund og Ögmundarhraun tvisvar á fyrri hluta nítjándu aldar. Hjá honum er sagan lík um Ögmund, nema þar vinnur hann við vegagerðina gagngert til að fá dóttur bónda nokkurs í héraðinu sér til handa, en bóndi drepur hann sofandi áður en hann fær hennar.
Brynjólfur frá Minna-Núpi skráði einnig sögu um Ögmund og þetta hraun sem við hann er kennt á síðari hluta nítjándu aldar. Þar er sagan svipuð hinum fyrri en vegurinn um Ögmundarhraun fær þessa einkunn:

Eru í hrauni Ögmundar
ótal margir þröskuldar
fáka meiða fæturnar
og fyrir oss brjóta skeifurnar.

Deilt um aldur
Katlahraun
Annars hefur mikið veriö skrifaö um ögmundarhraun sem slíkt. Einkum og sér í lagi hefur mikið verið fjallað um hugsanlegan aldur þess — og eru menn ekki á eitt sáttir um hvenær þetta hraun hafi flætt yfir. Þó er vitað með vissu að það hafi gerst eftir að landnám hófst. Er Ögmundarhraun samkvæmt því yngsta hraunið á Reykjanesskaga.
Katlahraun
En hvenær í sögu Íslandsbyggðar hraunið rann eru menn ekki vissir um og um getgátur eru menn ekki sammála, sem fyrr segir. Hafa menn reyndar skipst í tvo nokkuð vel afmarkaða hópa í þessum efnum. Vill annar ætla að hraunið hafi runnið á fyrri hluta elleftu aldar, nánar tiltekið árið 1010, og byggir hann þá ágiskun sína á geislakolsaðferðinni svokölluðu, þar sem tekin eru sýni víða úr hrauninu og þau aldursgreind á rannsóknarstofu.
Hinn hópurinn rýnir fremur í ritheimildir en jarðsýni og telur þær gefa eðlilegri og raunhæfari vísbendingu um aldur hraunsins. Er bent á að ekki sé getið hraungosa á Reykjanesskaga í heimildum fyrr en komi fram á sexlándu öld. Um sama leyti hafi kirkjustaðurinn Krýsuvík verið lagður niður sem slíkur og telur hópurinn orsökina vera hraunrennslið. Af þessu, svo og mörgu öðru, megi draga þá ályktun að Ögmundarhraun hafi runnið seint á árabilinu 1558 til 1563.

Hver maður hrífst af

Ögmundardys

Ögmundardys austast við Ögmundarstíg.

Hvað sem aldri Ögmundarhrauns líður, þá er það að finna í öllu sínu veldi við suðurströnd Reykjanesskaga — og þeir sextán ferkílómetrar sem það þekur eru mikilfengleg náttúruundur sem hver maður hrífst af. Til vitnisburðar um það eru myndirnar sem hér birtast á síðunni, en þær eru teknar í þeirri merkilegu sigdæld sem er að finna inni í miðju Ögmundarhrauni og áður var minnst á.“ – SER

Heimild:
-Dagblaðið Vísir, 131, tbl., helgarblað 11.06.1983, Aðrar dimmuborgir, bls. 16-17.

Katlahraun

Kaltlahraun – Selatangar fjær.