Tag Archive for: Grindavík

Háleyjar

Gerð var þriðja tilraunin til að ná “Íslandsklukku” þeirri er Helgi Gamalíasson frá Stað hafði sagst hafa séð í fjörunni neðan við Háleyjabungu fyrir alllöngu síðan er hann var þar við minkaveiðar. Helgi vissi sjálfur til þess að gripurinn hafi verið þarna í fjörunni í tugi ára.

Háleyjar

Háleyjar – spilakoppur.

Nú voru þátttakendur orðnir betur undirbúnir en áður, höfðu reynslu af svæðinu, voru vel gallaðir og tilbúnir að bjóða náttúruöflunum byrginn, en í fyrri tilraunum höfðu þau látið öllum illum látum á meðan á leitum stóð.
Þrátt fyrir stilltan sjó með ströndinni brimaði talsvert neðan við Bunguna. Sjór gekk þó ekki yfir hleinina. Á meðan aðrir leituðu af sér allan grun beggja vegna sjávarmarka fór einn þátttakenda út á Háleyjahleinina svona til að draga athygli aflanna að sér, ef á þyrfti að halda. Enda kom það síðar á daginn að honum tókst það með ágætum.

Háleyjar

Háleyjahlein – brimið.

Leitað var í klofstígvélum eins langt frá landi og mögulegt var og skoðað var undir hvern stein ofan sjávarmarka. Eftir allnokkra leit fram og til baka, án þess að nokkrum kæmi til hugar að gefast upp, var eins og kippt hefði verið í einn þátttakandann í fjörunni. Hann féll við og viti menn; þarna var “klukkan” skorðuð á milli stórra steina. Gengið hafði verið nokkrum sinnum framhjá henni, án þess að hún gæfi kost á sýnileika.
Skyndilega gekk sjórinn yfir hleinina með miklum látum. Það var sem Ægir hafi verið vakinn og hann risið upp til að fylgjast með hvað væri nú um að vera. Ofurhuginn hvarf í holskefluna, en barðist við Ægi og ekki síst fyrir því að halda sér við hleinina. Hefði sjórinn náð að skola honum yfir hana og yfir í víkina milli hennar og lands hefði mátt spyrja að leikslokum.

Háleyjarbunga

Háleyjarbunga.

Útsogið úr víkinni var mikið og ofurhuginn hefði sennilega skolast á haf út án þess að geta haft nokkuð um það ráðið. Önnur holskefla gekk ufir hleinina, en maðurinn gat þokað sér nær landi með því að halda sér föstum í FERLIRshúfuderið með annarri hendi og þreifa sig áfram með hinni.

Á meðan var grafið hratt frá gripnum með járnkarli og hann losaður. Einn FERLIRsfélaganna, tók hann síðan í fangið og bar áleiðis á land. Í þá mund komst ofurhuginn heill og höldnu til lands, blautur og hrakinn. Ef hann hefði ekki haft húfuna er ekki að vita hvert hann hefði farið eða endað.

Saltfiskssetur Íslands

Saltfiskssetur Íslands.

“Klukkunni” var komið fyrir utan við aðaldyr Saltfiskseturs Íslands í Grindavík, eins og um var talað. Að því búnu var þátttakendum boðið í kaffi þar innan dyra.
Sú sögn er um Háleyjahlein að þar hafi brak úr þilfarsbát (Helga) frá Vestmannaeyjum rekið á land eftir að eldur kom upp í honum utan við ströndina. Ekki er ólíklegt að gripurinn gæti hafa verið úr þeim bát.
Þeir, sem eiga leið um Saltfisksetrið, geta barið klukkulaga ryðgaðan gripinn augum, þar sem hann stendur á stéttinni við aðaldyrnar að safninu.

Háleyjabunga

Háleyjabunga – gígur.

Þórkötlustaðir

Morð og manndráp eru engin nútímauppfinning, ekki einu sinni í fámennari byggðum landsins. Í „Sextándu öldinni“ er m.a. fjallað um morð, sem var framið á Þórkötlustöðum og aldarfjórðungi síðar á Stað: 

Staður

Staður fyrrum.

„Maður var veginn á Þórkötlustöðum í Grindavík [1562], Guðmundur Sigurðsson að nafni, og voru fjórir atvistarmenn. Bóndinn Ketill Ketilsson, kom út úr bæ sínum með atgeir á lofti, er menn hans komu skinnklæddir af sjó og lét kasta til þeirra vopnum. Hjó einn sjómanna til Guðmundar, en annar rotaði hann með steini. Fóru svo leikar að þeir gengu af Guðmundi dauðum.“
Um morð við kirkjugarðshliðið á Stað í Grindavík segir: „Maður var veginn að Stað í Grindavík í haust [1587]. Vegendur voru tveir, og hefur annar þeirra, Björn Sturluson, smiður á Þórkötlustöðum, verið dæmdur útlægur, nema konungur geri þar miskunn á. Þetta gerðist með þeim hætti, að maður nokkur, Ingimundur Hákonarson, kom inn í kirkjuna, þar sem Helgi Úlfhéðinsson var einn með prestinum á Stað, og manaði hann að koma út.

Þórkötlustaðir

Þreif Ingimundur síðan korða sinn, er hann geymdi við kirkjugarðshliðið, og hjó til Helga þrjú högg. Helgi náði þó af honum korðanum og hjó í höfuð hans, svo að hann seig á hnén. Tengdasonur Helga, Björn Sturluson, kom þá innan úr bænum og veitti Ingimundi fleiri sár. Hann lifði síðan tvær nætur eða þrjár, en Helgi var mjög örkumlaður, og var þýskur bartskeri sóttur til að gera að sárum hans. Samningar hafa tekist um vígabætur við erfingja Ingimundar. Helgi var sýknaður með dómi, þótt hann lýsti víginu á hendur sér, en sök felld á Björn.“
Fjórum áður höfðu orðið miklir mannskaðar austan Grindavíkur: „
Tuttugu og fimm menn af tveimur skipum drukknuðu við Þórkötlustaði í Grindavík árið 1583. Þetta bar svo til, að öðru skipinu hlekktist á, og ætluðu þá þeir, er á hinu voru, að fara til hjálpar, en fórust einnig.“

Fimmtán árum síðar, eða 1598, drukknuðu tíu menn er skiptapi varð á Hópi í Grindavík.
Aðrar frásagnir af atburðum eru til frá þessum tímum. Maður skaðbrennist af tjörueldi í Grindavík árið 1601. „Bóndinn á Járngerðarstöðum í Grindavík, Jón Teitsson, var að bræða skiptjöru á dögunum. Kynnti hann eld undir tjörukeri. Svo slysalega tókst til, að eldurinn komst í tjöruna og læsti sig í föt bóndans, svo að hann logaði allur. Hlaut hann við þetta svo mikil brunasár, að hann lifði ekki nema tvær nætur.“
Árið
1634 var hart í ári: „Vetur hefur verið allgóður sums staðar,en vorið hart. Hinn mikli fénaðarfellir í fyrra hefur dregið dilk á eftir sér, því að víða hefur fallið snautt fólk, er komið var á vergang. Í Grindavík dóu fjörutíu og í Útskálasókn og Hvalsnessókn tvö hundruð.“
 SjórEn ekki var allt svartnætti í Grindavík fyrrum. Í maí 1779 voru Grindavíkurbændur heiðraðir: „
Margir bændur í Grindavík hafa lagt stund á garðyrkju undanfarin ár, og sendi konungur þeim tíu ríkisdali að gjöf í vor. Þessari gjöf skipti Grindavíkurprestur á milli fjórtán bænda nú á dögum í viðurvist Skúla fógeta Magnússonar.“
Hinn 19. janúar 1925 er elstu Grindvíkingum enn í fersku minni því þá braut s
tórflóð hús og báta í Grindavík, auk þess það tók 12 saltskúra. „Í dag var brimið í Grindavík svo afskaplegt, að sjó gekk á land 150 metra upp fyrir venjulegt stórstaumsfjöruborð. Sjór tók marga báta, braut suma í spón en stórskemndi aðra. Sjór kom í kjallara margra húsa og tók burt 12 saltskúra og mikið salt. Fjöldi fjár drukknaði einnig í fjárhúsum við sjóinn og í fjörunni. Manntjón varð þó ekki.“
Þekkt er sagan af rymjandi þarfanautinu, sem flaut um á bás sínum eftir að sjórinn hafði brotið fjósið og flutt það um nálægar grundir.

Heimildir:
-Öldin sextánda.
-Öldin sautjánda.
-Öldin átjánda.
-Öldin okkar.
-www.svg.is

Þórkötlustaðir

Þórkötlustaðir – flugmynd.

Jón Baldvinsson

Í Fálkanum 1955 er eftirfarandi frásögn af strandi togarand Jóns Baldvinssonar við Hrafnkelsstaðabergi á Reykjanesi:

Jon Bald

„Aðfaranótt fimmtudagsins 31. mars [1955] strandaði togarinn Jón Baldvinsson við Reykjanes og gjöreyðilagðist. Björgunarsveit slysavarnardeildarinnar „Þorbjörns“ í Grindavík bjargaði allri áhöfn skipsins, 42 mönnum. Með þessu er enn á ný höggvið skarð í hinn íslenska togaraflota á þessum vetri, þó að svo giftusamlega tækist til, að manntjón yrði ekkert við skipsskaða þennan. Togarinn var að koma af Selvogsbanka með talsvert af saltfiski innanborðs og ætlaði að fara vestur á Eldeyjarbanka eða vestur undir Jökul.

Nokkru fyrir klukkan fjögur um nóttina strandaði togarinn og sendi út neyðarskeyti. Var björgunarsveit Slysavarnadeildarinnar „Þorbjörns“ í Grindavík kvödd á vettvang, en á strandstaðinn er 10—15 kílómetra leið, sem víða er mjög seinfarin. Vitavörðurinn á Reykjanesi, Sigurjón Ólafsson, hafði séð neyðarblys frá skipinu, og varð hann fyrstur á strandstaðinn. Togarinn hafði siglt upp í brimgarðinn undir Hrafnkelsstaðabergi, rétt hjá litla vitanum á Reykjanesi, en skammt þar frá strandaði olíuskipið Clam, eins og mönnum er ennþá í fersku minni.
áhöfninNokkru fyrir klukkan 7 um morguninn var björgunarsveitin komin á strandstaðinn, og kl. 20 mín. fyrir 9 var búið að bjarga allri áhöfninni í land. Skipstjórinn, Þórður Hjörleifsson, fór síðastur frá borði. Björgunarstarfið gekk mjög greiðlega og áfallalaust, enda er sveitin skipuð vönum björgunarmönnum. Formaður hennar er Tómas Þorvaldsson, en Sigurður Þorleifsson er formaður Slysavarnadeildarinnar „Þorbjörns“.
Skipbrotsmenn nutu hinnar bestu aðhlynningar hjá vitavarðarhjónunum á Reykjanesi, og þegar til Grindavíkur kom, bauð kvenfélagið á staðnum öllum til hádegisverðar. Að því búnu héldu skipbrotsmennirnir til Reykjavíkur.
Þegar þetta er ritað, standa sjópróf enn yfir, svo að ekki er fullvíst um orsök slyssins.“

Heimild:
-Fálkinn, 28. árg.,14. tbl. (08.04.1955).

Jón Baldvinsson

Jón Baldvinsson – björgunarhringur.

Þórshamar

Jóhann Pétursson bjó um tíma í Þórshamri á Þórkötlustaðanesi. Að sögn heimamanna, sem muna þá tíma, virtist hann rammur að afli, en undarlegur í háttum. Orðrómur gekk m.a. um að hann hafi sést standa ofan sjávarkambsins mót strekkingsvindi og hvitfyssandi ölduróti, baðandi formælandi út öllum öngum. Í bók Pjeturs Hafsteins Lárussonar „Frá liðnum tímum og líðandi“ er áhugavert viðtal við Jóhann þar sem hann minnist m.a. veru sinnar á Nesinu.

Jóhann Pétursson

Jóhann var bókasafnari og lengi vitavörður í Hornbjargsvita. Hann hafði óslökkvandi ást á bókum, enda ber viðtalið yfirskriftina „Ég vil að góðar bækur séu vel klæddar, eins og konur, sem ég elska“. Jóhann fæddist í Stykkishólmi árið sem Katla gaus, frostaveturinn mikla árið 1918, og ólst upp í Öxney á Breiðafirði. Hann hélt suður 1946 eða 1947, að eigin sögn, til að höndla með bækur. Þá skrifaði hann og bækur, auk þess sem hann keypti fornbókaverslun og hafði það fyrir atvinnu fram til 1960. Þá hélt hann sem vitavörður norður á Hornbjarg, þó með viðkomu í Grindavík, þar sem hann var næstu 25 árin. Hér verður gripið niður í viðtalið þar sem segir frá sögufrægu viðstaldri hans í Grindavík.
„En áður en leið þín lá vestur, varstu um tíma í Grindavík. Varð þá ekki skipsskaði á Reykjanesi, sá hinn sami og Hannes Sigfússon skrifaði síðar um skáldsöguna „Strandið“. Og varst þú ekki þar?
-Jú, það er rétt, þá var ég í Grindavík. Strandið varð á Reykjanestá, mig minnir að þetta hafi gest árið 1949. Ég fór þangað ásamt fleirum, til að taka þátt í björguninni. Skipið sem strandaði, var u.þ.b. 10.000 olíuskip. Það hét Clam. Vélin í því hafði bilað og dráttarbátur sótti það til Reyjavíkur, því ætlunin var, að sögn, að draga það til útlanda. En þegar skipið og dráttarbáturinn voru út af Reykjanei, þá slitnaði dráttartaugin. Það var ekki hvassviðri, þannig að hugsanlega hafa menn verið ákveðnir í því að láta skipið stranda. Hvað um það, skipið rak upp að klettum, þar sem var svo aðdjúpt, að maður gat gengið út á skipið á planka. Ég var fyrstur til að fara út í skipið.
Það var merkileg reynsla á margan hátt. Ég man eftir því, að fjandi margir hásetar fórust þarna. Það var ekki veðrinu að kenna. Skipstjórinn lét Clam á strandsstað utan við Reykjanessetja út bátana, en þeir brotnuðu meira og minna, ýmist uppi við skipssíðuna eða í brimgarðinum. Við vorum að reyna að draga mennina upp, einn og einn, sem komst lifandi að klettunum. Hannes vinur minn skáld, Sigfússon, náði í hárið á einum, en var svo hræddu um, að hann drægi sig niður í sjóinn, að hann sleppti honum. Þar með var sá dauður, en Hannes hljóp burt. Ég man ekki hverrar þjóðar yfirmennirnir á þessu skipi voru, en Evrópumenn voru þeir alla vega ekki, sennilega Bretar. Hásetarnir voru hins vegar Kínverjar.
Það rak mikil verðmæti úr skipsflakinu. Júlli Dan. í Grindavík var fenginn frá tryggingarfélaginu, til að hirða allt og keyra það suður. Meðal annars rak frystiklefa, fullan af dýrmætum matvælum fyrir sextíu manna áhöfn. Þessu var öllu stolið og flestu öðru, sem bjargað varð. Þetta atvik var sambland af harmleik og skepnuskap.
ÞórshamarSumir vilja meina, að þú hafir bjargað líkamsleifum drukknaðra sjómanna og að eitthvað hafi dregist að koma þeim til greftrunar. Hvað er hæft í því?
-Já, það er nokkuð til í þessu. Það rak þó nokkuð af líkum Kínverja fyrir höfðann, þar sem þau höfnuðu í vík, að sunnanverðu við nesið. Víkin er svolítið klettótt og því var erfitt að draga líkin á land. Ég man eftir því, að Hannes hafði náð taki á einu líki en missti það. Þegar það skall í sjóinn, snerist það við og andlitið blasti við mér. Þetta var dálítið óhugnanlegt, allt saman. Ég fór með líkin niður í Grindavík og vildi láta grafa þau. En því var eiginlega neitað að koma þessum dýrum í gröfina. Þó var nú endanleg útkoma sú, að þarna voru mennirnir grafnir.
Varðst þú þá að geyma líkin, meðan stóð í stappi að fá þá grafna?
-Nei, ég fór með þau í frystihúsið og þar voru þau látin vera á borðum í ákveðnu herbergi. Nú, en þarna í frystihúsinu var frystiklefi, þar sem mikið var fryst af matvælum fyrir þorpsbúa.
Sú saga komst á kreik, að ég hefði geymt líkin í Þórshamar í dagþessum klefa, innan um matvælin. Og þær voru fleiri, sögurnar, sem gengu af þessu tilefni. Ein var sú, að draugagangur hefði verið í húsinu hjá mér. Samkvæmt þessari kjaftasögu átti ég að trúa því, að draugar fældust lík. Þess vegna hefði ég tekið hauslausan Kinverja og komið honum fyrir heima hjá mér, sem draugafælu. Nei, það vatnar ekki skáldagáfuna í fólk, þegar Gróa á Leiti gengur lausum hala.
En hvað varst þú að gera í Grindavík, þegar þessir atburðir urðu?
-Það var þannig, að ég hafði keypt hús þarna í Grindavík, Þórshamar hét það. Sannleikurinn er sá, að ég fór þangað til að gera upp áhrif móður minnar á mig, en þau voru mikil. Hún var mikil trúkona, en ég efaðist í þeim efnum. Að minnsta kosti var mín trú ekki jafnstaðföst og hennar. Þettavar því ekki aðeins uppgjör við móður mína, heldur einnig við sjálft almættið. Og það gekk svo mikið á í þessu uppgjöri, að stundum æddi ég um gólf, steytti hnefa til himins og bókstaflega öskraði á Guð.
Svona haga sér nú varla aðrir en trúmenn, eða hvað?
Þórkötlustaðahverfi og Bótinn og Þórkötlustaðanes fjær-Þetta er fjandi lúmsk spurning, segir Jóhann og verður nokkuð hugsi, áður en hann heldur áfram. – Trúmaður og trúmaður. Trúa á hvern andskotann? Já, eins og ég sagði, móðir mín var ákaflega mikil trúmanneskja og hafði eflaust mikil áhrif á mig sem barn. Og einhvern veginn mótaði þetta mig. En svo mikið er víst, að þegar ég keypti húsið þarna í Grindavík og bjó þar um tíma, þá háði ég baráttu um þetta upp á líf og dauða. Eiginlega kom ég mikið heilli maður út úr þessu. En þetta var mikil tilfinningaleg og sálræn barátta.
Lendir nokkur maður í slíkri baráttu, nema trú hans sé nokkuð sterk?
-Nei, nei, svarar Jóhann. – Það er einfalt mál. Samt er þetta, að trúa sterkt, nokkuð tvírætt. Móðir mín mótaði mína trú og þessi trú varð dálítið mögnuð fyrir áhrif frá henni. En hvort trú mín var sterk út frá þeirri forsendu einni eða hinu, að hún væri algjörlega meðfædd sannfæring, það er ég ekki viss um.
Varð ekki nokkuð sögulegur endir á búsetu þinni í Grindavík?Innsiglingamerki við Þórshamar - skammt frá reykhúsinu (mynd af því mun birtast hér innan skamms)
-Jú, það er víst alveg óhætt að segja það. Þetta hús, sem ég keypti þarna, Þórshamar, var steinhús. Það var þannig, að eitt haustið ætlaði ég að breyta því. Það var veggur á milli stofunnar og eldhússins. Og á miðjum þessum vegg var skorsteinn. Ég ætlaði að stækka stofuna, með því að brjóta niður þennan vegg. En þegar ég hafði brotið hann öðrum megin við skorsteininn og var rétt byrjaður hinum megin, þá sá ég, að veggurinn féll. Í einhverju ofboði gat ég kastað mér áfram, í átt að útvegg. Í stökkinu skall veggurinn á mér, en það sem bjargaði mér, var það, að á miðju gólfinu var stór steinhrúga. Veggurinn brotnaði á þessari hlrúgu, og það mildaði höggið á mig. Engu að síður hryggbrotnaði ég og fótbrotnaði.
Þarna lá ég eins og djöfulsins aumingi. Þó gat ég skriðið út að holu, sem var uppi við reykhús, sem fylgdi húsinu. Það er nú svona útúrdúr, en ég var stundum að reykja fyrir kerlingar þarna, bæði kjöt og fisk. En ég kunni ekkert með þetta að fara og eyðilagði allan mat fyrir þeim. Nú, nú, en hvað með það, þarna í holunni lá ég í hálfan annan sólarhring í snjókomu og frosti. Ástandið var meira að segja svo bölvað, að í holunni var pollur með ófrosinni vatnsdrullu. Og ofan í þessum polli lá ég með mölbrotna ristina, sem fossblæddi úr.
Sá, sem fann mig, var hundur. Ég var næstum meðvitundarlaus, þegar ég raknaði úr rotinu við það, að hann sleikti á mér andlitið. Ég heyrði, að karl einn var að kalla í hundinn. Mér tókst að gefa frá mér hljóð, þannig að karlinn kom. Ég man bara, að hann ákallaði Guð. Síðan man ég ekki annað en það, að ég var borinn inn á spítala. Ég átti lengi í þessu og enn þann dag í dag er hryggurinn á mér eins og hálfgert S í laginu. Já, það er margt, sem maður hefur orðið að skríða upp úr um dagana, segir Jóhann Pétursson.
Nú er Grindavík ekki ýkja langt frá Reykjavík, vildi það ekki brenna við, að ungskáld þess tíma litu við hjá þér?
-Jú, heldur betur. En það er ástæðulaust að fjalla sérstaklega um það. Þó sakar ekki að geta þess, að Stefán Hörður, sá öðlingsmaður, dvaldi hjá mér. Og fyrstu nútímaljóðabók sína, „Svartálfadans“, skrifaði hann nær alveg þarna suður frá hjá mér.“ Þórkötlustaðanesviti
Síðar, þar sem sagt er frá samveru þeirra við að gæta fornbókaverslunarinnar Bókavörðunnar fyrir Braga Kristjónsson við Vesturgötu, berst samtalið aftur að dvölinni í Grindavík: „Ég hafði orð á því við Jóhann, að mér hafi þótt lýsingar hans á uppgjörinu við Guð almáttugan, suður í Grindavík, heldur í stórbrotnara lagi. Hann skilur það.
-En svona er nú lífið, segir hann. – Ég veit svei mér þá ekki, hvort mér var alveg sjálfrátt, þarna suður í Grindavík.
Það er þá ef til vill eitthvað til í því, sem sumir segja, að þú sér ekki með öllu mjalla? spyr ég hreint út, enda þætti víst sumum tilefni til, vegna soddan lýsingar á samskiptum við æðri máttarvöld.
-Ég hef aldrei verið það, svarar Jóhann að bragði. – Það er ósköp einfalt mál. Og ég er orðinn svo gamall, að það breytist ekkert úr því sem komið er. Ég lifi og starfa við sama fábjánaháttinn og ég hef alltaf gert.
Heldurðu að þetta sé þér áskapað, eða hefurðu stuðlað að þessu sjálfur?
-Það er hvort tveggja í senn. Mér er að vissu leyti áskapað þetta, en svo hef ég stuðlað að því sjálfur, að svo miklu leyti, sem mér hefur verið það kleift. Enda vill svo til, að þetta mannlega líf er bjánaskapur frá upphafi til enda, 98% er vitleysa og afgangurinn bull.
Þú ert sem sagt ekki hrifinn af því, sem fínt þykir í dag og sumir kalla „normalitet“?
-Svarið lætur ekki á sér standa. – Nei, en ég hef svo sem hvergi rekist á það. Ég rekst aðallega á menn, sem virðast yfirmáta gáfaðir en reynast svo algjörir fábjánar. Og mér líkar það vel, enda er ég hvort tveggja sjálfur.“
Í minni fólks hefur Jóhann jafnan verið tengdur Þórkötlustaðanesvitanum (Hópsnesvitanum) þar sem hann á að hafa verið vitavörður. Ekki er ólíklegt að ætla að svo hafi verið um skeið því sá v
iti var byggður árið 1928 og þarfnaðist umsjónar. Í framangreindu viðtali við Jóhann er ekki að sjá að hann hafi þjónustað vitann, en einmitt af þeirri sjálfsögu ástæðu gæti hafa gleymst að geta þess!

Við framangreinda frásögn vildi Loftur Lónsson í Grindavík bæta eftirfarandi: „Í bókinni  er ekki farið alveg rétt með staðreyndir, Þarna er sagt, að olíuskipið Clam hafi strandað 1949. Hið rétta er að það strandaði 28. febr. 1950 samkv. Morgunblaðinu 1. mars sama ár.  Ennfremur er rétt að geta þess að Jóhann Pétursson var aldrei vitavörður við Hópsnesvita. Á þeim tíma, sem hann var í Þórshamri, er líklegt að vitavörður hafi verið Guðmundur Benónýsson, Þórkötlustöðum.  Allavega var hann fyrsti vitavörður við vitann og Árni Magnússon, Túni (Víkurbraut 32) tók við af honum. Ég efast um að rétt sé, að lík þeirra sem drukknuðu hafi verið geymd í Hraðfr.húsi Grindavíkur. Þau voru örugglega flutt beint inn í Fossvogskapellu. Jón Guðlaugsson frá Skálholti var þá vörubílsstjóri hjá Verslun Einars í Garðhúsum. Hann hefur sagt mér, að eitt sinn þegar hann fór með lík á pallinum inn í Fossvog, að þá stoppaði hann við bensínsölu, sem var efst á Kópavogshálsinum til að taka bensín. Þá kom þar að fullorðinn Kópavogsbúi. Hann ávarpaði Jón og spurði hvaða ferðalag væri á honum. Jón sagðist koma frá Grindavík. „Jæja, eru þeir ekki að fiska vel í Grindavík eins og venjulega“. Hann steig því næst upp á dekk bílsins og kíkti undir seglið, sem var kyrfilega bundið yfir pallinn. Aumingja manninum varð svo mikið um, þegar hann sá hvað var undir seglinu að hann hröklaðist öfugur frá bílnum, spurði einskis frekar og fór þegjandi í burtu.
Þess má geta í lokin, að talið er að flestir þeirra sem dóu við strandið hafi kafnað við það, að svartolía, sem dráttarbáturinn dældi í sjóinn, hafi fyllt vit þeirra sem lentu í sjónum. Það var þykkur, stór flekkur af svartolíu við skipið.“

Heimild:
-Pjetur Hafstein Lárusson – Frá liðnum tímum og líðandi – 2002, bls. 55-82.

Öldurót utar á Bótinni utan við Þórshamar - Ísólfsskáli fjær

Gerðavellir

Í bókinni „Frjálsa glaða líf“ lýsir Guðmundur Bjarnason fyrrum bóndi í Innri-Lambadal í Dýrafirði, vertíðum í Grindavík, nánar tiltekið á Þórkötlustaðanesi. Hér er útdráttur úr frásögn hans:
Grindavík„Eftir áramótin 1933-1934 fór ég suður í atvinnuleit…“ Í Reykjavík hitti hann Guðjón Jónsson [í Höfn, faðir Péturs] frá Grindavík. Hann réði Guðmund sem vertíðarmann. Fjórar vertíðir hjá Guðjóni fylgdu í kjölfarið.
„Í Grindavík vóru allir menn ráðnir upp á kaup en ekki aflahlut. Kaupið var þrjú til fjögur hundruð krónur yfir vertíðina og frítt fæði og húsnæði. Vertíðin stóð frá 1. febrúar til 11. maí, það er að segja um 100 daga.
Við fórum suður til Grindavíkur seinni part næsta dags. Að Höfn í Grindavík komum við í myrkri um kvöldið. Byggðin var þá í þremur hverfum; Þórkötlustaða-, Járngerðarstaða- og Staðarhverfi og í raun var hvert hverfi sjálfstæð verstöð. Guðjón átti heima í Þórkötlustaðahverfi, það er austasta hverfið, næst fjallinu Festi.
Brimasamt var í Grindavík og innsiglingin að Þórkötlustöðum um þröng sund á milli boða. Þegar sundið var tekið, var farið eftir innsiglingarvörðum, en þegar braut yfir sundið frá landi að sjá, var „flaggað frá“. Því starfi gegndi fullorðinn maður og fyrrum sjósóknari sem allir báru traust til. Þegar innfyrir var komið var landtakan eftir og þurfti að hafa gát á, sérstaklega ef vont var í sjó.
Bátarnir í Nesinu

Allur fiskur var þá seilaður upp á færi og látinn útbyrðis jafnóðum, þar til báturinn var tómur. Þá var lendingin tekin og bátnum bjargað undan sjó. Því næst vóru seilurnar dregnar að landi og aflinn borinn upp úr fjörunni. Kom þá hver maður með sína seilaól. Var hún tengd við enda færisins og hæfilega mörgum fiskum rennt af færinu yfir á seilaólina og fór magnið eftir því hver bera átti. Lyftu menn síðan byrðunum hver á annars bak og lá seilaólin yfir öxlina þannig að borið var í bak og fyrir.
Seilað

Við þórkötlustaðahverfi þótti landtaka öllu betri en við Járngerðarstaðahverfi. Sagt var að aldrei hefði farist bátur á Þórkötlustaðasundi en nítján á Járngerðarstaðasundi og ætti enn einn eftir að farast þar.
Fyrsta morguninn minn í Grindavík vaknaði ég snemma og við sjávarhljóð. Nálægðin við hafið fór vel í mig.
Eftir hádegi þennan fyrsta dag minn í Grindavík fór að snjóa. Ekki hafði áður á þessum vetri fest snjó í Grindavík, þótt vestur í Dýrafirði væri búið að ganga á með hríðarbyljum. Þða var eins og snjókoman væri Grindvíkingum einhver himnasending. Menn þustu að ofan úr hverfi og tóku til við að velta snjóboltum hver um annan þveran. Mikið kapphlaup var um stærstu sléttu blettina í hrauninu.
Ískofi

Þegar ég var genginn í bardagann rann smám saman upp fyrir mér hvað um var að vera. Þarna í hrauninu vóru einir tíu kofar, næstum ósýnilegir og að töluverðu leyti niðri í hraungjótum faldir með torfsneplum sem hvíldu á bárujárni. Inn í þessa kofa báru menn snjóboltana, ýmist í fanginu eða á handbörum. Þetta stóð yfir í á þriðja klukkutíma, þá hættia ð snjóa og var snjórinn fljótur að bráðna niður í hraunið, þar sem sjórinn var skammt undir og gaf því yl. Kofarnir tíu, vóru íshús þeirra 11 skipa sem réru úr hverfinu. Tveir bátar vóru saman um einn kofann og var hann helmingi stærri en heinir. Það var kofi þeirra Einlandsfeðga. Í kofunum var beitan geymd og svo einnig lóðabalarnir eftir að búið var að beita til næstu sjóferðar.
Snógeymslan var í öðrum enda kofans en í hinum endanum fór frystingin fram. Þar hafði verið smíðaður stór kassi og svo annar minni úr blikkplötum sem var látinn standa innan í þeim stærri og í hann sett það er frysta átti. Var þá um fimm tommu rými á milli kassanna allt í kring.

Þórkötlustaðabót

Hrært var saman snjó og dálitlu af salti og bilið á milli kassanna fyllt með því. Hljóp að allt í gadd og gat þetta verið afbragðs frystigeymsla, ef þess var gætt að endurnýja frostið þegar með þurfti. Alltaf var notað úrsalt við ísgerðina.
Mér þótti eftirtektarvert hvað margir eldri Grindvíkinga töluðu með mikilli virðingu um bátana og nefndu þá jafnan skipin, svo sem Hraunsskipið, Einlandsskipið, Klapparskipið, Vesturbæjarskipið, Austurbæjarskipið, Miðbæjarskipið, Þórkötlustaðaskipið, Buðlunguskipið og svo framvegis.
Spilið

Bátur Guðjóns hét Stígandi, en Einlandsbáturinn Sæfari. Á línuvertíðinni vóru fjórir landmenn og fimm á sjónum á hvorum báti. Alls vóru því átján sjómenn á báðum bátunum. Aðeins á tveim dögum á vertíðinni mátti ekki róa. Það var á föstudaginn langa og páskadag. Oft var ekki sofið nema tvo til þrjá tíma á sólarhring þegar gæftir vóru. ég heyri oft talað um páskahrotur, fiskihlaup komið upp í landsteina og þá landburð af fiski sem stæði í nokkra daga og þá oftast rétt fyrir eða alveg um páskana. Alltaf var róið þegar gaf á sjó þrátt fyrir tregfiski en brátt leið að páskavikunni og þá kom hlaupið. Línan var dregin uns fullhlaðið var og enn var borð fyrir báru. Allir gengu í að landa aflanum og var eins og kapp færðist í hvern mann þegar aflahrotan var komin. Mikilvægt var að eiga nóg beitt í næstu lögn áður en farið var að gera að aflanum. Ekki var lagst til svefns fyrr en allur fiskur var kominn í salt.
Veðurblíðan hélst alla páskavikuna. Það var eins og sjórinn væri fullur af fiski, alveg upp í landsteina. Á annan í páskum drógu menn hins vegar dauða línu. Fiskhlaupið var gengið hjá.

Höfn

Á þriðja í páskum var enn róið en þá þóttu líkur að hann væri að breyta veðri. Birtingin var undarleg þennan dag. Meðan enn var dimmt ljómaði austurloftið og Eyjafjallajökull stóð uppljómaður í hillingum og nálægur eins og hann væri aðeins smáspöl í burtu. „Nú er hann heldur betur að ganga í landátt“, sagði innfæddur Grindvíkingur. Það varð orð að sönnu, því framundan var hálfs mánaðar landlega.
Svo kom smá hrota rétt fyrir lokin, sem Grindvíkingar kölluðu lokahrotuna.
Í lok vetrarvertíðar réði ég mig sem vormaður fyrir orð Guðjóns. Gott þótti mér að vera í Grindavík þetta vor. Ég gekk á fjallið Festi með nokkrum vinum mínum á Jónsmessunótt. Daginn eftir fór ég heim í Dýrafjörð með 600 krónur í vasanum, en það þótti nokkuð mikill peningur í þá daga þegar kreppan var í hámarki.
Og ég hélt áfram að fara suður á netavertíð næstu árin. Eitt sinn hafði brimað upp en lognbrim var og enginn bátur fór á sjó.
VörinÁ þriðja degi var ennþá brim. Þá var ákveðið að manna út annan bátinn og reyna að ná netarossunum frá bátum 
bátunum. Harðar hendur voru hafðar við að draga netin. Töluvert bætti í brimið á meðan. Þegar komið var aftur að sundinu var um það bil orðið ófært.
Sundið var tekið eftir að búið var að bíða stund fyrir utan eftir lagi. Sjórinn saup upp með skutnum eins og gos þars em báran var við það að mynda hvolf. Smástund leið, aðeins brot úr mínútu og báturinn var kominn inn á sundið áður en aldan fellur. Skipstjórinn glottir við tönn. Sjá var sem skaflinn sæti á herðum hans á leiðinni inn sundið. Í fjörunni voru ótal hendur tilbúnar með spilstrengi til þess að hífa skipið upp. Það var allþungt þar sem mikið af farminum var í því og tíma tók að tæma það af sjó.
Litlu áður en ég fór til róðra í Grindavík, var uppsátrið flutt fram í nesið og byggð þar bryggja, eða réttara sagt byrjun á bryggju, því hún stóð á þurru um stærstu fjörur. Áður hafði lendingin verið heima í hverfinu í Buðlungavör sem er klettaskora þar sem klappir liggja að. Þar er aðdjúpt og stuttur setningur. Allur fiskur var þar seilaður út og borinn á bakinu upp klappirnar.
Austasta jörðin í Grindavík heitir Hraun. Þar bjuggu bræður tveir, Gísli og Magnús Hafliðasynir. Þeir gerðu út bát er ávallt var nefndur Hraunsskipið.
ÞórkötlustaðagataLöng sjávargata er frá Hrauni og fram í Nes. Gísli var töluvert farinn að reskjast en Magnús til muna yngri og formaðurinn á bátnum. Mjög vóru þeir bræður samrýmdir og á göngunni milli skips og bæjar gekk Magnús ávallt á undan en Gísli fast á hæla hans.  Alltaf vóru þeir bræður í hrókasamræðum en aldrei sammála. Fræg er sagan um riflildi þeirra um sporðinn og þunnildið.
Hraunsskipið var minnsti báturinn í Grindavík en Magnús sullaðist alltaf á sjó, ekki síður en aðrir ef fært var. Stundum sullaðist sjórinn upp úr stígvélum Magnúsar eftir að hafa haldiðs kipinu frá landi, jafnvel í tólf til fimmtáns tiga frosi. Ég spurði Magnús einu sinni hvort honum væri ekki kalt á fótunum þegar hann færi stígvélafullur á sjóinn. „Nei“, sagði Magnús, „það er bara um að gera að hafa alltaf ferskan sjó í stígvélunum.“

Heimild:
-Guðmundur Bjarnason, Frjása glaða líf, Reykjavík 1993, bls. 88 – 102.

Veðrabrigði

Snorri
Skýringin á yfirskriftinnni III við Snorra er sú að um er að ræða þriðju ferðina í hellinn eftir að hann fannst árið 2003.

Áður höfðu nokkrar ferðir verið farnar um hraunssvæðið við leit að hellinum (jarðfallinu) uns hann fannst loks í einni þeirra. Nú hefur hellirinn verið kortlagður með „nýmóðins“ mælitækjum útlendinga. Það, að það þurfi tækjabúnað útlendinga til að mæla helli hér á landi, ætti að segja nokkuð til um stuðning hlutaðeigandi aðila við slíkar mælingar sem og rannsóknir á „hellaríkasta“ svæði veraldar. Með líkindareikningum má áætla að einungis 1/10 hluti hella hér á landi sé mönnum kunnir. Hérlend stjórnvöld hafa hins vegar verið afar værukær við að styðja leit að hellum – eins merkileg og eftirtektarverð jarðfræðifyrirbrigði og þau annars eru. T.a.m. fannst nýlega einn stærsti hraunhellir landsins, einungis fyrir þrautseigju og viljafestu nokkurra manna, og það í örskotsfjarlægð frá höfuðborgarsvæðinu. En hvers vegna og til hvers ætti að upplýsa aðra um návist hans?
Lagt var upp frá Sýslusteini á suðurmörkum Árnessýslu og Gullbringusýslu. Í örnefnalýsingu fyrir Herdísarvík segir m.a.: „Á Seljabót eru landa- og sýslumörk. Landamörk milli Herdísarvíkur og Krísuvíkur og sýslumörk milli Gullbringusýslu og Árnessýslu. Seljabótarnef er þessi staður nefndur. Þarna má sjá selrústir gamlar…“

Sýslusteinn

Sýslusteinn.

Sýslusteinar eru víðar á landinu, s.s. á sýslumörkum við Núpshlíðarveg, sýslumörkum við Þvottárveg í Krossanesi og sýslumörk við Gígju. Í sögunni um Herdísi og Krýsu og landamerkjadeilur þeirra segir um lokin að „svo fór um landamerkin sem Krýsa vildi og heitir nú kletturinn Sýslusteinn.“
Um landamerki Kópavogs segir m.a. að „svo upp eftir farvegi Lyklafellsárinnar að sýslumörkum Árnessýslu, en sýslumörk fara þarna eftir beinni línu úr Sýsluþúfu á Mosfellsheiði í Sýslustein. Sýslusteinn er nú talinn vera steinn, ekki mjög stór, á holtinu skammt sunnan Lyklafellsár um 30 m frá árbakkanum á móts við ármót Engjadalskvíslar og kvíslar sem kemur norðaustan af Mosfellsheiði um 1,5 km suðaustan Lyklafells. (Sbr. samning og landamerkjabréf dags. hinn 23. janúar 1991.)“.
Smalinn Snorri á Vogsósum benti FERLIR á að stórt jarðfall væri í hrauninu ofan við Geitahlíð. Hann hafði séð það eitt sinn er hann hafði gengið frá Vörðufelli í gegnum mosahraun, komið að grasbrekkum neðan við Melhóla og haldið áfram til suðvesturs að geilinni á Geitahlíð ofan við Sláttudal. Austan Geitahlíðar eru allnokkrir eldgígar og eldborgir. Vestara hraunið hefur runnið til vesturs og niður í Kálfadali, en eystra hraunið hefur runnið til austurs og niður með austanverðri Geitahlíð vestan Sláttudals. Um er að ræða mikil hraun. Smalinn hafði á leið sinni gengið fram á jarðfallið, sem birtist fyrirvaralaust framundan í hrauninu. Yfir jarðfallið átti að vera falleg steinbrú.
Þegar FERLIR kom loks að jarðfallinu hafði steinboginn fallið niður í það, en hann hefur að öllum líkindum verið nokkuð stór. Gríðarlegt gat er inn í jarðfallið til vesturs. Þar hefur runnið mikið hraunmagn. Veggir eru sléttir og virtist rásin vera nær hringlaga. Fallið hefur úr loftinu, svo mikið að lokast hefur fyrir rásina rétt fyrir innan opið. Á milli steina fremst í rásinni sást þó niður í dimman “kjallara”. Með nokkrum tilfæringum var hægt að forfæra grjót og var þá hægt að láta sig síga niður um gat. Um mannhæðar hátt er niður á fast, en þar í frá lækkar hvelfingin, sem þar er undir, inn til miðjunnar. Hún er mikil um sig og er undir stóru hraunrásinni. Inni í enda hennar er lítið gat í um tíu metra hæð. Stiga þarf til að komast upp í hana. Út um gatið hefur seitlað þunnfljótandi hraun og myndar það fallegan storknaðan foss svo til beint niður úr gatinu.
Eystri rásin í jarðfallinu liggur fyrst til suðurs og beygir síðan til austurs. Mikið hrun er í henni. Var rásinni fylgt í um 20 metra, en þá lokaðist hún nær alveg í hruni. Loftið virtist ótryggt.
Í apríl 2004 hélt hópur FERLIRs og HRFÍ félaga í Snorra. Tilgangur ferðarinnar var að skoða djásnið og kortleggja, en helgina áður hafði Björn Hróarsson orðið fyrstur til að skoða hellinn. Hann fór þangað með aðstoð hálfstiga og klifraði upp í rásina. Samkvæmt kortlagningu er mjög líklegt að yfirborðsrásin hafi á einhverjum tímapunkti tengst meginrás hellisins (Hellirinn er nokkuð heillegur og aðeins eru nokkur meiriháttar hrun. Hellirinn lokast með hruni, og var reynt án árangurs að komast fram hjá því. Heildarlengd hellisins gæti verið um 300 metrar en rásin innan við hraunfossinn er um 200 metra löng og meðalþvermál hennar um fjórir metrar.

Snorri

Í Snorra.

Þegar Snorri hafði verið skoðaður fyrsta sinni af fagfólki varð fulltrúa HERFÍs að orði; „MEGAflott“. Síðan hefur ekki dregið úr flottheitunum, nema síður sé.
Nú var stefnan enn og aftur tekin á Snorra. Rúmlega tólf metra langur stigi, að jafnaði nýttur í Grindavík, var með í för, sá hinn sami og kom við sögu er Snorri var sigraður fyrsta sinni. Án hans urðu kynnin við þargreinda undirheima ekki endurnýjuð. Þoka var í fjöllunum og mosahraunið alls ekki auðratað.
Þegar komið var að Snorra þessu sinni blasti við geysistórt jarðfallið, sem fyrr segir. Niður í því eru mjög stórar rásir. Efri rásin er hrunin skammt eftir að inn er komið. Neðri rásin er stórgrýtt, beygir og þrengist eftir u.þ.b. 15 metra, uns hún lokast alveg. Loftið þar er mjög laust í sér.
Í jarðfallinu var allnokkur snjór, en enginn þar sem opið er niður í kjallarann.
Undir efri rásinni í Snorra er stór skálalaga kjallari, u.þ.b. 10 metra hár. Hann fannst eftir að aðframkomnir FERLIRsfélagar, sem fundið höfðu jarðfallið, neituðu að gefast upp við svo búið. Eftir að hafa fært til steina í jarðfallinu með miklu erfiði var hægt er að komast niður í kjallarann. Efst á vegg í kjallaranum er op, ca. tveir metrar að ummáli í hátt í tíu metra hæð. Út um opið virðist koma storknaður þunnfljótandi hraunfoss, en annars eru veggir kjallarans alþaktir glerkenndum smáhraungúlpum.
Enn og aftur var stiginn dreginn niður í kjallarann og reistur við vegginn. Þegar upp í gatið er komið sést hraunfossinn. Haldið var upp eftir rásinni, sem liggur að mestu upp á við. Mestu þrengslin eru fremst, en eftir það er leiðin allgreiðfær. Við tekur stór og mikil rás. Að þessu sinni náði þokan inn í rásina. Nokkur hrun eru á gólfi, sem fyrr segir, en víðast hvar er botninn sléttur. Dropsteinar er með veggjum og sumir allt að 30 cm háir. Hraunshrá liggja niður úr loftinu, sum nokkuð löng. Á einum stað má sjá „gullsalla“ í loftsprungu.
Líklegt má telja að þakið sé ekki mjög þykkt eftir að upp í meginrásina er komið. Nokkuð draup úr því eftir rigningu næturinnar.
Aðkoman að Snorra, erfiðleikarnir við að komast upp í rásina og ferðalagið í gegnum hana er eftirmynnilegt. Þar eiga dropsteinar og hraunstrá ekki síst hluta að máli.
Með í þessari för var Snorri Þórarinsson, bóndi á Vogsósum, sá er hafði sagt FERLIRsfélögum frá jarðfallinu á sínum tíma. Ekki var annað að sjá en Snorri væri bara stoltur af nafna sínum.

Snorri

Unnið að inngöngu í Snorra.

Húshólmi

Ætlunin var að finna og skoða Mælifellsgrenin og Arnarsetursgrenin í Ögmundarhrauni.

Húshólmi

Húshólmi – uppdráttur ÓSÁ.

Gengið var suður með austurkanti Ögmundarhrauns uns komið var að grónu gerði utan í hraunkantinum. Uppi á hraunbrúninni skammt sunnar er há varða. Frá henni liggur stígur vestur í mosahraunið, að stórri vörðu, sem þar er. Þegar komið var að þeirri vörðu var aðara að sjá skammt vestar. Við hana eru Mælifellsgrenin, þrjú að tölu. Við eitt þeirra er hlaðið u.þ.b. metershár veggur fyrir lítinn skúta. Þar er greinilegt bæli refskyttu. Einnig mátti sjá aðrar hleðslur við grenin. Til suðvesturs liggur óljós stígur niður í hraunið. Eftir u.þ.b. kílómeter var komið að Arnarsetursgrenjunum. Við þau eru einnig hleðslur, en minni. Frá þessu greni mátti sjá Brúnavörðurnar í suðvestri, en handan þeirra eru Miðrekagrenin. Ekki var farið í þau að þessu sinni.
Annars er Ögmundarhraun ágætt dæmi um nútímahraun.

Mælifell

Skála-Mælifell.

Ögmundarhraun er undir Núpshlíðarhálsi, milli Krýsuvíkur og Ísólfsskála. Vesturhluti þess er af öðrum uppruna en austurhlutinn. Hraunið er rakið til gígaraðar austan í hálsinum, þar sem meginhraunið rann á milli Latsfjalls og Mælifells í Krýsuvík alla leið í sjó fram og langleiðina austur að Krýsuvíkurbergi. Líklega rann þetta hraun á 11. öld eða svipuðum tíma og Kapelluhraunið.
Bæjarrústirnar í Húshólma eru að hluta þaktar hrauni en þar sér líka fyrir túngörðum, sem enda undir hrauni. Efst í Húshólmanum er eldri hraunbreiða frá gígaröð suðaustan Mælifells.
Frábært veður – og ágætur síðdegisgöngutúr (1 klst og 11 mín).

Mælifellsgreni

Skjól refaskyttu við Mælifellsgreni.

Hraun

Hér verður fjallað um „Landnám á Reykjanessskaga“ út frá upplýsingum teknum saman af Óbyggðanefnd árið 2004 vegna úrskurðar nefndarinnar í málum Grindavíkur og Vatnsleysustrandar.

Landnáma

Landnáma – endurgerð.

Landnámabók getur ýmissa manna, sem námu land á þessu svæði. Fyrstur landnámsmanna var Ingólfur Arnarson: „En Ingólfr nam land milli Ölfusár ok Hvalfjarðar fyrir útan Brynjudalsá, milli ok Öxarár, ok öll nes út“.
Um landnám á því svæði, sem Grindavíkurhreppur náði yfir, ber Landnámugerðum ekki saman að öllu leyti: „Þórir haustmyrkr nam Selvág ok Krýsuvík, en Heggr son hans bjó at Vági.
En um várit eptir fóru þeir Molda-Gnúpr vestr í Grindavík ok staðfestisk þar; … Björn [Molda-Gnúpsson] fór í Grindavík ok staðfestisk þar“.
Þórir haustmyrkur nemur því austasta hlutann af því svæði sem hér er til umfjöllunar.

Hóp

Hóp; fornar minjar – uppdráttur ÓSÁ.

Molda-Gnúpr hafði numið Álftaver en hrakist þaðan undan jarðeldum vestur til Höfðabrekku og lent þar í ófriði og vígaferlum. Sturlubók segir Molda-Gnúp hafa flutt til Grindavíkur með sonum sínum, en samkvæmt Hauksbók féll Molda-Gnúpur ásamt sonum sínum tveimur, en Björn sonur hans hafi hefnt föður síns og bræðra og farið síðan í Grindavík.
Mörk landnáma Þóris haustmyrkurs og Molda-Gnúpssona eru ekki nefnd í Landnámu. Því segir Haraldur Matthíasson, að um vesturmörk landnáms Þóris sé það eitt vitað að þau séu fyrir utan Krýsuvík. Á þessu svæði hafa orðið miklar landbreytingar vegna eldgosa og gróðureyðingar. Athugandi er að landamerki Krýsuvíkur og Ísólfsskála eru vestan við Ögmundarhraun, sem Jón Jónsson jarðfræðingur telur hafa runnið um 1040 en Haukur Jóhannesson jarðfræðingur telur frá árinu 1151.

Gufuskálar

Gufuskálar – óskilgreindar tóftir á hól.

Landnám Molda-Gnúpssona er talið hafa náð til Reykjaness, en þar tók við landnám Herjólfs Báðarsonar frænda og fóstbróður Ingólfs Arnarsonar.
Landnámabók getur tveggja manna sem námu Vatnsleysuströnd [?], Steinunnar gömlu, frændkonu Ingólfs Arnarsonar, og Eyvindar frænda og fóstra Steinunnar: „Steinuðr en gamla frændkona Ingólfs, fór til Íslands ok var með Ingólfi enn fyrsta vetr. Hann bauð at gefa henni Rosmhvalanes allt fyrir útan Hvassahraun, en hon gaf fyrir heklu flekkótta ok vildi kaup kalla; henni þótti þat óhættara við riptingum“.
Steinunnr hin gamla, frændkona Ingólfs, fór til Íslands ok var með honum hinn fyrsta vetr. Hann bauð at gefa henni Rosmhvalanes allt fyrir útan Hvassahraun, en hon <gaf fyrir> heklu flekkótta enska ok vildi kaup kalla; henni þótt þat óhættara við riptingum.

Hvassahraun

Hvassahraun – uppdráttur ÓSÁ.

Eyvindr hét maðr, frændi Steinunnar og fóstri; honum gaf hon land milli Kvíguvágabjarga og Hvassahrauns. Eyvindur var síðar neyddur til landaskipta við Hrolleif Einarsson, Ölvissonar barnakarls, en landnámsmörk virðast hafa haldist. Kvíguvágar nefnast nú Vogar og Kvíguvágabjörg Vogastapi. Landnám Eyvindar er talið ná inn til Hvassahrauns, en Hvassahraunsbærinn tilheyrir Vatnsleysustrandarhreppi, en næsta landnám er frá Hvassahrauni: „Ásbjörn Özurarson, bróðurson Ingólfs, nam land milli Hraunholtslækjar ok Hvassahrauns, Álptanes allt, ok bjó á Skúlastöðum“.

Grindavíkurhreppur – Lýsing Grindavíkursóknar

Framfell

Framfell – forn varða. Selvellir fjær.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns er lýsing á landkostum í Grindavík: „Um alla þessa sveit er það að nótera að með því hjer er so víða neyðarlegur grasbrestur á túnum og haga, þá fæðist hjer kvikfjenaður, bæði naut og sauðir, mikinn part á fjöru, sölvum og murukjarna. Þar með kappkostar fólk að draga til sín á haustin ofan úr heiðum hrís og lýng so mikið sem hvör megnar, og á þessu helst peníngurinn við lífið og gjörir gagn, þó heybjörg sé lítil, og er ekki kvikfjenaðurinn á þenna framflutníng settur í þessari jarðabók“.

Vesturfell

Vesturfell frá Vigdísarvöllum.

Í „Lýsingu Grindavíkursóknar 1840 – 1841“ eftir Geir Bachmann, sem skráð er í verki Landnám Ingólfs, stendur eftirfarandi um sóknarmörkin: „Að norðanverðu við núnefnda markalínu (þ.e. úr Stapafelli í Fagradalshagafell), eiga Njarðvíkingar og Vogamenn land móts við Grindvíkinga að sunnan. Enn eru takmörk sóknarinnar sjónhending fjallasýn úr Fagradalshagafelli til austurs landsuðurs í enn eitt fell, Hraunsselsvatnsfell, aftur í sömu átt þaðan í Framfell, en á Vigdísarvöllum Vesturfell kallað, og er þá að norðan og landnorðanverðu Strandarmanna land og hinn svo nefndi Almenningur. Úr Vesturfelli beygjast mörk sóknarinnar til suðurs réttsuðurs, niður í Hamradal kallaðan, og þaðan beint í Núphlíð, hvaðan þau eru sjónhending yfir ófæruhraun á Selatanga. – Vegalengdin úr Vesturfelli suður á Selatanga er á að gizka 2 mílur, ef beint yrði farið. Á móts við Grindvíkinga að vestan eiga Krýsuvíkingar land að austanverðu við síðst nefnd mörk úr Framfelli. Á Selatöngum er drangi eða klettur í fjörunni, Dagon kallaður, og skilur hann bæði land og reka Krýsu- og Grindavíkur“.

Hraun

Hraun

Hraun – forn signingafontur frá fv. kirkju nær.

Hrauns er fyrst getið í rekaskrá Skálholtsstaðar frá því um 1270.
Máldagi Viðeyjarklausturs frá því um 1284 sem greinir frá ítökum í annarra manna jarðir er varðveittur í þremur gerðum. Í b-gerðinni stendur: „Savda hofnn j hravnslandi j grindavik. j c. gielldings. hvsrvm fiarmanni vit þridia mann þott þurfi. kietil ok elldivid og blondv leigvlaust. … Samvidvnnar skog j hravnvm vt fra hvaleyri. jtem skogar toptt j selvikar skogvm“.
Í c-gerðinni segir: „Saudhøfnn j hrauns land j Grindavijk hundrad Gielldingz. hüsrüm farmonnum vid þridia mann þo þurfe. kietil ok elldevid og blöndv leigulaust. … Samvidunar skog j hraunum ut fra Hvaleyri. jtem Skogartuptt j Selvikar skogie“.

Hraunssel

Hraunssel.

Samkvæmt Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns, sem gerð var árið 1703 fyrir Grindavíkurhrepp, má ætla að Hraun hafi átt selstöðu í eigin landi: „Selstaða lángt í frá og þó sæmilega góð“.
Í ritinu Jarðatal á Íslandi, eftir J. Johnsen, kemur fram að stólsjörðin Hraun hafi verið seld 8. ágúst 1787.
Í kaflanum um Hraun í Jarðamati 1849-1850 stendur m.a.: „Landrymi mikið, en landið uppblásið. Sumarbeit góð í seli upp til fjalla. Vetrarhagar lángt frá og rírir“…

Selsvallafjall

Selsvallafjall.

Landamerkjabréf Hrauns var samið 12. október 1889 og þinglesið 20. júní 1890: „Í miðjum „marka-bás“í fjöru er mark á klöpp, er aðskilur land jarðarinnar frá landi jarðarinnar Þorkötlustaða, þaðan liggja mörkin til heiðar vestan til við „Húsafell“ og yfir „Vatnsheiði“, þaðan sem sjónhending ræður að Vatnskötlum, fyrir norðan Fagradals-fjall, þaðan til austurs á Selsvallafjall, uppaf „Sogasels-dal“, þá eptir Selsvalla-fjalli, til suðurs, samhliða landamerkjum jarðarinnar „Krýsuvíkur“ þar til að mið suður-öxl á Borgarfjalli ber í merktan klett við götuna á „móklettum“, skal sú sjónhending ráða merkjum frá landi jarðarinnar „Ísólfsskála“, þaðan til suðurs fram yfir festargnípu í fjöru. Einkennismark marksteinanna er L.M. er þýðir landamerki. Lýsing þessi var samþykkt af eigendum og umráðamönnum Ísólfsskála, Klappar, hálfs vesturbæjarins og miðbæjarins á Þorkötlustöðum, Kálfatjarnarkirkjulands og óstaðsetts vesturbæjar“. [líklega er átt við vesturbæ á Þorkötlustöðum].

Selsvellir

Sel á vestanverðum Selsvöllum.

Fyrir neðan ofannefndar undirskriftir stendur eftirfarandi: „Hinsvegar tilgreind landamerki jarðarinnar Hrauns í Grindavík samþykkjast hjermeð að því leyti sem þau ekki koma í bága við landamerkjalýsingu Krýsuvíkur, sem naumast getur hugsast, þar sem allir þrír eigendur Hrauns hafa samþykkt og undirskrifað hana óbreytta“. Undir þennan texta skrifar Á. Gíslason, Krýsuvík 17. júní 1890.
Á manntalsþingi fyrir Grindavíkurhrepp sem haldið var 1. júní árið 1900 var þinglesið skjal frá eigendum og ábúendum jarðarinnar Hrauns. Í skjalinu kom fram að fyrrnefndir aðilar hefðu ákveðið að banna allskonar landrif í landareign jarðarinnar, að undanskildum mosa. Bannið skyldi taka gildi sama dag og skjalið var þinglesið þ.e. 1. júní.

Sloki

Slokahraun – Slokatá fremst t.h. og fornir fiskigarðar nær. Hraun að handan.

Í greinargerð í fasteignamati Gullbringusýslu 1916 – 1918 er greint frá landamerkjum jarðarinnar Hrauns: „Landamerki að vestanverðu, svonefndur markabás á Slokatá þaðan beina línu vestan í vatnsheiði [fell yfirstrikað] í Kálffell, þaðan í vatnskatla (steinker) fyrir norðan Fagradalsfjall, þaðan að Sogaseli fyrir norðan Selsvelli í Selsvalla fjalli, þaðan til suður eftir háfjallinu í göngumannaskarð á Núphlíd, þaðan í götuna hjá móklettum, þaðan yfir há – Festarfjall á sjó út. Þar kemur einnig fram að útengi sé ekkert og að útbeit sé fjalllendi“.
Í maí 1920 gáfu umráðamenn eftirtalinna jarða á Vatnsleysuströnd yfirlýsingu um afnot á landi ofan jarðanna:

Eldborgargren

Eldborgargreni.

„Vjer undirritaðir eigendur og ábúendur jarðanna: Knarrarnes, Breiðagerði, Auðnar, Landakot, Þórustaðir og Kálfatjörn, allar í Vatnsleysustrandarhreppi í Gullbringusýslu, lýsum því yfir með skjali þessu að vjer í samráði við hreppsnefnd Vatnsleysustrandarhrepps, fyrirbjóðum innbyggendum Grindavíkurhrepps, innan Gullbringusýslu, öll afnot af landi því, er, samkvæmt landamerkjalýsing fyrir Knarranesi, þinglesin á manntalsþingi Vatnsleysustrandar- og Grindavíkurhrepps 1887, sem eru: „Þaðan sunnan til við svonefnda digruvörðu fyrir sunnan Hellur (bæinn) beint í Knarrarnessholt sunnanhalt, þaðan í Eldborgargren, þaðan beint í Krýsuvíkurland. Hversu sunnahöll við markalínuna að Digurvarða og Knarranessholt eru, sjest, þegar bein lína er dregin frá klöppinni (í fjörunni) í Eldborgargren“….
Allt það land sem fyrir innan þessa línu er, eða er milli hennar og Krýsivíkurlands, teljum vjer eign áðurnefndra jarða sbr. landamerkjalýsingar fyrir öllum áðurnefndum jörðum, þinglesnar á báðum stöðunum 1886 og 1887 og undirskrifaðar af Árna sál. Gíslasyni í Krýsuvík 1891“.

Kálffell

Í Kálffelli.

Þann 31. maí 1920 var haldið manntalsþing í Grindavíkurhreppi. Á því þingi mótmælti Hafliði Magnússon, bóndi á Hrauni, landamerkjalýsingu fyrir Auðnahverfi í Vatnsleysustrandarhreppi, dagsettri 12. júní 1886, og yfirlýsingunni um landamerki fyrir jarðirnar Knarrarnes, Breiðagerði, Auðna, Landakot, Þórustaði og Kálfatjörn sem gefin var út í maí 1920, en þessi skjöl voru þinglesin á manntalsþinginu. Hafliði greindi einnig frá því hver hann teldi landamerki Hrauns og Þórkötlustaða þar sem þau liggja að landi Strandahrepps eiga að vera: „Lína tekin úr Sogaselsdal beint vestur í Kálffell og þaðan beina línu í þúfuna á Litla Skógfelli“.
Fram kom í máli Hafliða að þessum landamerkjum hefði áður verið lýst á manntalsþingi í Grindavík hinn 12. október 1889.
Í þeim hluta fasteignamatsins 1932 sem fjallar um jörðina Hraun stendur m.a. að beitiland hennar sé víðlent og skjólsælt. Deilur séu um landamerki milli eiganda og Vatnsleysustrandarhrepps.

Heimild:
Úrskurður Óbyggðanefndar 2004 – Grindavík og Vatnsleysuströnd.

Hraun

Hraun.

Krýsuvík

Hér verður fjallað um „Krýsuvík“ út frá samantekt Óbyggðanefndar frá árinu 2004 um úrskurð vegna Grindavíkur og Vatnsleysustrandar. Samantektin felur í sér gagnlegar heimildir um búsetu í Krýsuvík sem og mörk jarðarinnar.

Í kirknaskrá frá árinu 1200 kemur fram að kirkja sé í Krýsuvík.

Krýsuvík

Krýsuvík 1810.

Í máldaga Krýsuvíkur frá því um 1275 segir að kirkjan eigi: „…heimaland alltt. Herdijsarvijk. ix. mæla land a þorkotlustödum“.
Í máldaga Krýsuvíkur frá því um 1307 segir að kirkjan eigi: „…heimaland allt. Herdysarvijk. ix. mæla land aa þorkotlustodum“.
Máldagi frá 1367 er samhljóða, sbr. Íslenzkt fornbréfasafn, III. b. s. 222.
Í máldaga Krýsuvíkurkirkju frá 1375 kemur fram að henni hafi verið ánafnaður fjórðungspartur í jörðinni Vatnsleysu [ekki kemur fram við hvaða Vatnsleysu er átt en ljóst er af öðrum heimildum að það er sú á Vatnsleysuströnd].

Í visitasíu sem gerð var í Krýsuvík árið 1395 stendur eftirfarandi: „… Reiknadist svo micid goss kirkiunnar j Krýsuvijk ad auk fornra maldaga vc. portio vmm .ij. är hälf .xiiij. alin“ …
Máldagi frá því um 1477 er samhljóða máldagnum frá 1375, sbr. Íslenzkt fornbréfasafn, VI. b. s. 124.

Krýsuvík

Krýsuvík 1887.

Þann 28. apríl 1479 vottuðu tveir aðilar skriflega að þeir, ásamt öðrum, hefðu heyrt eiginkonu fyrrum eiganda jarðarinnar Vatnsleysu lýsa því yfir að: „… kirkian kryssvvik ætti þar j xc“ …
Árið 1525 ákvað Ögmundur Pálsson, biskup í Skálholti, að Krýsuvíkurkirkja skyldi selja eignarhlut sinn í Vatnsleysulandi til Viðeyjarklausturs.
Máldagi frá 1553-54 var samhljóða þeim fyrrum, sbr. Íslenzkt, XII. b. s. 662.
Þann 27. september 1563 á Bessastöðum var sóknarkirkja í Krýsuvík lögð niður að beiðni Gísla biskups Jónssonar.
Í Gíslamáldögum frá 1570 og síðar segir að kirkjan í Krýsuvík eigi: „…heimaland alltt. Herdijsarvijk. ix mælaland ä Thorkøtlustödum.”

Fjallið eina

Fjallið eina.

Í kjölfar þess að ágreiningur reis um landamerki Krýsuvíkur í upphafi 17. aldar vitnuðu nokkrir aðilar um merkin síðla árs 1603 og snemma árs 1604. Tvö vitni gáfu samhljóða lýsingu á landamerkjum Krýsuvíkur sem byggð var á vitnisburði þriðja manns53 26. desember 1603. Lýsing vitnanna var svohljóðandi: „… Krýsuvík ætti austur frá sér allt land að Skildi og þaðan sjónhending suður í sjó í þann stein sem stendur fyrir vestan þann hellir sem er framan í berginu við vatnsstæði eður leirtjörn, hvör leirtjörn þó uppþornar stundum, og aftur sjónhending úr Skildi í miðjan Breiðdal og vestur í Markrakkagil. Úr Markrakkagili og vestur yfir Sliturin fyrir norðan Fjallið eina. Þaðan sjónhending og í Dyngju, úr Dyngju og fram eftir miðjum Selsvallahálsi, úr hálsinum og suður í Raufarklett við Selatanga“. Tveir menn gáfu nánast samhljóða vitnisburð. Sá vitnisburður var efnislega á þessa leið: „Krýsuvík á land allt að steini þeim sem stendur uppá fjallinu hjá Skildi og sjónhending þaðan suður í sjó. Síðan sjónhending úr Skildi og í miðjan Breiðdal, úr Breiðdal og vestur í Markrakkagil, úr Markrakkagili og vestur yfir Sliturin fyrir norðan Fjallið eina.

Trölladyngja

Trölladyngja og Sogaselsgígur nær.

Þaðan sjónhending og í Dyngju, úr Dyngju og fram eftir Selsvallarhálsi [annar aðilinn segir Selsvallarhálsi en hinn segir Selsvallakálfi] og suður í Raufarklett sem stendur við Seltanga“.
Samkvæmt einu vitnanna: „á Krýsuvík austur frá sér land allt að Skildi og þaðan sjónhending suður í sjó“. Sem staðfestingu á framburði sínum greindi vitnið frá því að það hefði eitt sitt heyrt menn segja að: „… Krýsuvík ætti land allt austur yfir haan54 hraun hvert hraun að liggur fyrir austan Geitahlíð“.
Sjötta vitnið greindi frá því að það kannaðist ekki við annað en að: „Krýsuvík ætti land allt austur á eystri hraunsbrún á hrauni því sem liggur fyrir austan Hlíðarhorn“. Til þess að styrkja frásögn sína greindi vitnið frá því að það hefði heyrt að á þeim tíma sem séra Guðmundur hélt Krýsuvíkurstað hefði það verið almæli allra manna að hraunið væri Krýsuvíkureign með réttu.
Að sögn sjöunda vitnisins átti Krýsuvík: „… land allt að steini þeim sem stendur uppá fjallinu hjá Skildi og þaðan sjónhending suður í sjó“.

Sýslusteinn

Sýslusteinn (Steinninn).

Vitnið kvaðst einnig hafa heyrt að: „… Krýsuvík ætti land allt að Skildi og sjónhending suður í sjó í þann stein sem stendur fyrir vestan þann hellir sem er framan í berginu við vatnsstæði, hvert vatnsstæði, eður leirtjörn þó upp þornar á sumarið, og ættu þessir sömu steinar að standast á“.
Einnig hafði vitnið heyrt að: „… það hefði ætíð verið almæli allra manna, að selstaða ætti að leggjast frá Krísivík til Herdísarvíkur en frá Herdísarvík skyldi koma skipstaða“.
Árið 1629 er vottað, að árið 1621 hafi Skálholtsbiskupi verið afhentir vitnisburðir þriggja vitna. Eru þeir meðal kirkjuskjala Staðar í Grindavík og hljóða svo: „… að Krísivík … ætti austur frá sér land allt að Skildi og þaðan sjónhending austur í sjó í þann stein sem stendur fyrir vestan þann hellir sem er framan í berginu við vatnsstæði eður leirtjörn, hvör leirtjörn þó uppþornar stundum. Og aftur sjónhending úr Skildi í miðjan Leirdal vestur í Markagil, úr Markagili vestur yfir Slitrin fyrir norðan Fjallið eina, þaðan sjónhending og í Dyngju, úr Dyngju þeirri og frameftir miðjum Selsvallahálsi, úr hálsinum og suður í Raufarklett við Selatanga“.

Krýsuvík

Krýsuvík 1910.

Í tíð Brynjólfs Sveinssonar Skálholtsbiskups, nánar tiltekið árið 1642, var jörðin Krýsuvík vísiteruð. Hluti skýrslunnar sem unnin var eftir vísitasíuna fer hér á eftir: „Mariukyrkia ad Krÿsivÿk ä ad mäldógum heimaland allt Herdïsar vÿk 9 mæla land ad Þorkótlustodum … För þetta alltt framm i Krÿsivÿk Anno 1642“. (Undir þetta rita Þorsteinn Erlingsson, Hallur Árnason, Pétur Gissursson og Stefán Ólafsson).
Þrjátíu og sex árum eftir að Brynjólfur Sveinsson stóð fyrir vísitasíu í Krýsuvík var kirkjan vísiteruð af nýjum biskupi. Þá var Þórður Þorláksson biskup í Skálholti. Í vísitasíunni, sem fór fram 28. ágúst 1678, kom eftirfarandi fram: „… Mariæ kkia ad Krysivÿk hefur att ad fomngilldu … heima land allt Herdÿsarvyk …et, Enn er nu eigninn óll kominn undir Skalhollts domkkiu og henni til dæmd af hófudzmannj Pälj Stïgssyni og hr. Gisla Jonssyni med tilftardömi, huad þessi kyrkia hefur framar átt i rekum og i sókum utvysa maldagar sem eru i Skalholltj“. (Undir þetta rita Bjarni Jónsson, Eiríkur Magnússon, Bjarni Sigurðsson, Jón Jónsson og Árni Gíslason).
Jörðin Krýsuvík var metin árið 1703. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns kemur fram að Krýsuvík eigi hjáleigurnar Nýjabæ, Litla – Nýjabæ, Norðurhjáleigu, Suðurhjáleigu og Austurhús. Þar stendur einnig eftirfarandi: „Skógur lítill þó til kolagjörðar fyrir ábúendur og líka að nokkru leyti til eldiviðar. Afrjett fyrir jaðarinnar pening nægileg, en er þó öngvum burtu ljeð“.

Krýsuvíkursel

Krýsuvíkursel við Selöldu.

Í kaflanum um Austurhús kemur eftirfarandi fram: „Selstöður tvær á jörðin, aðra til fjalls en aðra nálægt sjó, báðar merkilega góðar. Og mega þær nýta hjáleigumenn og bóndi“.
Í Jarðabók Árna og Páls stendur eftirfarandi um Þórkötlustaði: „Selstöðu brúkar jörðin og hefur lengi brúkað í Krýsivíkurlandi, þar sem heitir á Vigdísarvöllum, segja menn að selstaðan sje ljeð frá Krýsivík, en Krýsivík aftur ljeð skipstaða fyrir Þorkötlustaða landi. Er selstaðan að sönnu góð, en miklega lángt og erfitt til að sækja“.
Á tíma Jóns Vídalíns Skálholtsbiskups var Krýsuvík vísiteruð á nýjan leik 18. ágúst 1703. Í vísitasíubókinni er ekki að finna neinar gagnlegar upplýsingar.

Herdísarvík

Herdísarvík.

Jón Árnason Skálholtsbiskup vísiteraði Krýsuvík þann 8. maí 1723. Í vísitasíunni er staðfest það sem fram kom í vísitasíunni árið 1642 um jarðeignir Krýsuvíkur: „Anno ut supra þann 8. Maji var visiterud kirkiann ad Krysuvik. Hún ä epter visitatiu herra Gisla Jónssonar heimaland allt, Herdysarvik, ix mäla land ä Þorkótlustódum“ … (Undir þetta rita Halldór Einarsson, Arngrímur Bjarnason, Jón Magnússon, Ólafur Gissursson og Jón Bjarnason).
Rúmum 28 árum síðar, nánar tiltekið þann 10. júní árið 1751, var Krýsuvík vísiteruð af Ólafi Gíslasyni biskupi í Skálholti. Í visitazíunni er minnst á jarðeignir sem voru einnig í eigu Krýsuvíkur er vísitasíur voru gerðar þar árin 1642 og 1723 þ.e.: „… heimaland allt, Herdysarvÿk, 9 mæla land ad Þorkótlustodum“ … (Undir þetta rita Ólafur Gíslason, Sigurður Sigurðsson, Sigurður Ólafsson, Magnús Jónsson, Jón Sigmundsson).
Þann 28. maí 1758 var Krýsuvík vísiteruð af .Finni Jónssyni Skálholtsbiskupi Í vísitasíubókinni stendur eftirfarandi: „… visiterud kkian að Krysuvik Hun á efter þeim gomlu maldogium heimaland allt enn nu orden stols Jord. Efter Vilchins maldaga a hun, alla Herdysarvyk, ix mæla lands a Þorkotlustódum … Enn efter maldaga Gísla bps. á hun Herdysarvyk og ix mäla land á Þorkotlustodum …” (Undir þetta rita Finnur Jónsson, Jón Magnússon, Jón Sigmundsson og Sigurður Sæmundsson).

Mígandagróf

Mígandagröf.

J. Johnsen minnist á það í bók sinni, Jarðatal á Íslandi, að stólsjörðin Krýsuvík hafi verið seld þann 8. ágúst 1787. Þann 26. júní 1790 er gefinn vitnisburður um landamerki Krýsuvíkur. Þar greinir sá sem skrifar undir lýsinguna frá því að hann hafi: „… heyrt af vissum mönnum, sem hér í Krísivík hafa verið, um landamerki þau, sem heyrt hafa henni, Krísivík, til, eru svoleiðis: Úr Raufarklett á Selatöngum og í Trölladyngju, úr Trölladyngju og í Gráhellu, úr Gráhellu og í Markrakkagil, úr Markrakkagili og Mígandagröf á fjalli, úr Mígandagröf á fjalli og í stein á Herdísarvíkurfjalli, úr þeim steini og á Seljabótarnef við sjó“. Landamerkjalýsing þessi er staðfest af tveimur mönnum.
Um mitt ár 1800, en þá var Geir Vídalín biskup, var Krýsuvík vísiteruð. Í greinargerðinni sem samin var vegna þessarar eftirlitsferðar kemur eftirfarandi fram: „Anno 1800 þann 1sta Julii, visiteradi Biskupinn Geir Vidalin Kirkiuna ad Krysevík; hun hefur ad fornu átt heimaland allt, sídann var hun i meir enn 200 ár, Skálhollts Biskupsstolls, égn, og er nu loks, asamt ödrum Biskupstólsins fastégnum, ásamt jördinni, af Kongl. Hátign burtuseld, svo hun er nu bónda egn – hún á alla Herdisarvik, ix Mælira lands á Þorkötlustodum“ … (Undir skrifa: Arne Nathanaelss., Geir Vidalin, B. Sveinson, Gudmundur Þorsteinsson).

Krýsuvík

Krýsuvík seinni tíma – uppdráttur ÓSÁ.

Í kaflanum um Krýsuvík með hjáleigunum Suðurkoti, Norðurkoti, Stóra–Nýjabæ og Litla–Nýjabæ í jarðamati 1804 stendur að: „Jorden har god Udegang for Faar og Heste, af de sidste indtages nogle fra Fremmede mod Betaling 1 rdlr. aarlig. Tillige ejer den Sætter til Fiælds, hvoraf for nærværende, ogsaa 2 andre Jorde betjene sig, mod Betaling 20 al. aarlig af hver. Endelig findes her en god Svovelmine som dog ej benyttes, da ureenset Svovel ikke finder Afsætning, og kan dette derfore ikke evalueres“.
Í athugasemdum um Krýsuvík segir, sem gilda mun um sýsluna í heild: „Paa Grund af at Udegang for Beder i Almindelighed her i Sysselet saa god, at disse Kreature, de fleste Vintere (undertiden endog Faar og Lam) blot eller da for det meste leve ved at gaae ude, haves desuden de færreste Stæder i nogen betydelig Mængde, uden hvor Udegangen er fortrinlig god, saa formeenes Nedsættelse af denne Herlighed ikke fornöden, uden i Fölge særdeles Omstændigheder, der da paa vedkommende Stæder skal blive anmærket“.

Vigdísarvellir

Vigdísarvellir.

Þann 12. ágúst 1838 seldi Erlendur Jónsson á Brunnastöðum P.C. Knudtzon jörðina Krýsuvík. Henni fylgdu hjáleigurnar Stóri – Nýibær, Litli – Nýibær, Norðurkot, Suðurkot, Austurhús og Vesturhús og tvær nýlendur; Vigdísarvellir og Garðshorn.
Árið 1839 settist Einar Þórðarson að á nýbýlinu Bala sem var nálægt bænum Vigdísarvöllum en þar bjó bóndinn Jón Þorsteinsson. Hann var ósáttur við veru Einars á Bala og þann 20. maí 1840 samdist þeim Einari um að sá síðarnefndi myndi flytja frá Bala á næstu fardögum.
Bali er þó talinn meðal hjáleigna Krýsuvíkur í Jarðatali Johnsens og Nýrri jarðabók eins og síðar verður nefnt en ekki hefur verið kannað í sóknarmannatölum hvernig búsetu var háttað þar.
Í sýslu- og sóknarlýsingum Árnessýslu er að finna lýsingu Páls Melsted, frá árinu 1842, á mörkum Árnessýslu annarsvegar og Gullbringu- og Kjósasýslu hinsvegar: „Sá syðsti punktur takmarkanna millum Árness- og Gullbringusýslu eru þeir svonefndu Sýsl[u]steinar undir Geitahlíð millum bæjanna Herdísarvíkur, sem heyrir til Árnessýslu og Krýsivíkur, sem tilheyrir Gullbringusýslu. Frá Sýslusteinum ganga sýslutakmörkin beina stefnu yfir fjallið nálægt Vífilfelli til ens stóra steins austan undir Lyklafelli, sem nefnist Sýslusteinn; þaðan beina stefnu í Borgarhóla á Mosfellsheiði; þaðan í Syðri – Moldbrekkur; þaðan í Rjúpnagil millum bæjanna Stardals í Kjósar- og Stíflisdals í Árnessýslu: þaðan í vörðu, sem hlaðin er á Stóra – Sauðafelli; þaðan í Sýsluhólma í Stóru – Laxá; þaðan í Steinkirkju; þaðan í Súlur“.

Garðar

Garðar um 1900.

Í lýsingu Garðaprestakalls í ritinu Landnám Ingólfs, Sýslulýsingar og sóknalýsingar, stendur eftirfarandi: Hverjir bæir eiga selstöður etc? Svar: Ég veit ekki nema það, að Garðar eiga selstöðu í því svokallaða Kirkjulandi, sem liggur fyrir ofan byggðina, frá Elliðavatns- og Vatnsendalandi, suður að Krýsuvíkurlandi og upp undir fjöllin. Hitt veit ég og, að nú brúkar enginn hér selstöður og séu Garðar undanteknir, sem höfðu pening í seli til 1832, hafa ei selstöður héðan verið brúkaðar í næstliðin 50 til 60 ár.
Samkvæmt bókinni Jarðatal á Íslandi, sem gefin var út 1847, fylgja Krýsuvík sjö hjáleigur Suðurkot, Norðurkot, Stóri – og Litli – Nýibær, Vigdísarvellir, Bali og Lækur.
Í Jarðamati 1849–1850 er kafli um Krýsuvík og hjáleigurnar, Suðurkot, Norðurkot, Stóra – Nýjabæ, Litla – Nýjabæ, Vigdísarvelli, Bala, Læk og Fitjar. Þar stendur m.a.: „Landrými mjög mikið. … Skógarló. Talsverður brennusteinn. … Jörðin að flestum ínytjum mjög örðug og fólksfrek, þareð þær liggja langt frá og eru sumar sameinaðar lífshættu“.
Í afsals- og veðmálabók Gullbringu- og Kjósarsýslu frá árunum 1848 – 1862 kemur fram að eigandi hálfrar Krýsuvíkur hafi leigt Jóni Hjaltalín námarétt og gefið byggingarleyfi þann 13. september 1851. Þar kemur einnig fram að þann 30. september 1858 selja eigendur Krýsuvíkur Joseph William Busby esq.brennisteinsnámur í landi Krýsuvíkurtorfu og Herdísarvíkur og að eigandi hálfrar Krýsuvíkur og Herdísarvíkur hafi heitið því þann 4. september 1858 að selja Jóni Hjaltalín námuréttindi.

Krýsuvík

Krýsuvík – brennisteinsnámur; Nicholas Pocock 1791.

Manntalsþing var haldið í Innri – Njarðvík þann 20. júní árið 1859. Þar var auglýst samningi sem Sverrir Eiríksson í Krýsuvík hafði gert við dr. Jón Hjaltalín þann 4. september 1858 um að Sverrir seldi Jóni sinn helming úr Krýsuvíkurtorfunni ef leyfi fengist ekki til þess að selja sérstaklega undan jörðinni brennisteinsnámur þær sem þar voru.
Á manntalsþinginu var einnig þinglýst afsalsbréfum sem eigendur Krýsuvíkur, S. Sivertsen og Sverrir Eiríksson, gáfu út síðla árs 1858. Í þeim kemur fram að þeir selji Joseph William Busby Esq. allar námur í Krýsuvíkurlandi.
Í bókinni „Ný jarðabók fyrir Ísland” frá árinu 1861 kemur fram að Krýsuvík fylgi átta hjáleigur; Suðurkot, Norðurkot, Stóri- og Litli – Nýibær, Vigdísarvellir, Bali, Lækur og Fitjar.

Krýsuvík

Krýsuvík – brennisteinsnámur; Nicholas Pocock 1791.

Í byrjun janúar 1870 sendi sýslumaðurinn í Gullbringu- og Kjósarsýslu hreppstjóra Vatnsleysustrandarhrepps fyrirspurn um það hvort að tiltekin maður, sem sýslumaðurinn taldi búsettan á Vigdísarvöllum, væri heimilisfastur í Vatnsleysustrandarhreppi. Ástæða fyrirspurnarinnar var sú að téður maður hafði neitað að greiða tíund í Grindavík á þeirri forsendu að hann hefði greitt hana í Vatnsleysustrandarhreppi. Í svarbréfi til sýslumannsins greindi hreppstjórinn frá því að hann teldi manninn heimilisfastan á Vatnsleysuströnd, þó hann flytti sig og fé sitt um sumartímann á Vigdísarvelli, líkt og þegar Grindavíkurmenn hefðu í seli á Selsvöllum.

Stóribolli

Kóngsfell / Konungsfell / Stóri-Bolli.

Í byrjun 8. áratugar 19. aldar reis upp ágreiningur milli Þorkels Bjarnasonar á Mosfelli, vegna Mosfellskirkju, og Ófeigs Vigfússonar á Nesjum í Grafningi um landamerki þessara tveggja jarða á Mosfellsheiðinni. Málið fór fyrir dóm og voru þar lögð fram margvísleg gögn. Þann 22. september 1873 var vitnisburður Árna Björnssonar, frá 9. september 1869, um sýslumörk milli Gullbringu- og Kjósarsýslu samhliða Borgarfjarðarsýslu annars vegar og Árnessýslu hins vegar lagður fram: „Sýslusteinn í Krýsuvíkurbergi. Þaðan fjöll norður í hæst Vífilfell, þá yfir Lyklafell, Borgarhóla og í Rjúpnagil,“ …

Sýslusteinn

Sýslusteinn suðaustan Lyklafells.

Þá voru einnig lagðir fram vitnisburðir Ingimundar Gíslasonar, frá 29. júlí 1869, og Guðmundar Jakobssonar, frá 26. apríl 1871, um mörk Árnes- og Gullbringusýslu (og Kjósarsýslu).
Í vitnisburði Ingimundar stóð eftirfarandi: „Sýslusteinn í Krýsuvíkurbergi. Þaðan fjöll norður í Kóngs fell. Þá yfir Likla fell, (hvar stór steinn stendur norðanvert við fellið sem þeir kölluðu alt til sýslustein.)“ …
Í vitnisburði Guðmundar kom eftirfarandi fram: … endamork, að sunnan, væri i svo kallaðan sislu stein, undir geitahlið, og beina stefnu eftir há fiöllum til Norðurs, sem þá væri um hærst Vifil fell …
Samningur milli eigenda Krýsuvíkur og Herdísarvíkur og Patersons um námur frá 2. desember 1871 var þinglesinn þann 20. júní 1877.

Seljabót

Seljabót undir Seljabótarnefi.

Þann 20. nóvember 1886 var skrifað undir landamerkjalýsingu jarðarinnar Herdísarvíkur. Lýsingunni var þinglýst 3. júní 1889: „Maríu kirkja í Krýsuvík á í Arnessýslu samkvæmt máldögum jörðina Herdísarvík“.
Landamerki Herdísarvíkur eru þau er nú skal greina: … að vestanverðu, milli Herdísarvíkur og Krýsuvíkur ræður mörkum stefnulína frá áður nefndu Kongsfelli í Seljabótarnef lágan hraunhnúk, vestast í Seljabót, við sjó fram. –
Kirkjan á … sömuleiðis allar landsnytjar innan hjer taldra ummerkja, með þeim takmörkunum, er síðar greinir (sbr. No 2). …
Landamerkjabréf Krýsuvíkur var undirritað 14. maí 1890 og þinglesið 20. júní s.á.:

Dágon

Dágon á Selatöngum.

1. að vestan: sjónhending úr Dagon (= Raufarkletti), sem er klettur við flæðarmál á Selatöngum í Trölladyngjufjallsrætur að vestan, sem er útbrunnið eldfjall norðanvert í Vesturhálsi; þaðan bein stefna í Markhelluhól háan steindranga við Búðarvatnsstæði.
2. að norðan: úr Markhelluhól sjónhending, norðanvert við Fjallið Eina, í Melrakkagil (= Markrakkagil) í Undirhlíðum og þaðan sama sjónhending að vesturmörkum Herdísarvíkur, eða sýslumörkum Gullbringu- og Árnessýslu.
3. að austan: samþykkt og þinglýst vesturmörk Herdísarvíkur, s: [þ.e.] sjónhending úr Kongsfelli sem er lág mosavaxin eldborg umhverfis djúpan gíg, á hægri hönd við þjóðveginn úr Selvogi til Hafnarfjarðar, örskammt frá veginum, í Seljabótarnef, klett við sjó fram.
4. að sunnan nær landið allt að sjó.

Sogasel

Sogasel.

Í landamerkjabréfinu kemur einnig fram hver hafi verið ítök kirkjunnar. Einnig er greint frá því í landamerkjabréfinu að Strandarkirkja og Kálfatjarnarkirkja eigi ítök í landi kirkjunnar, þar á meðal mánaðarselsátur í Sogum, sunnanvert við Trölladyngju, samkvæmt munnmælum og vitnisburði kunnugra manna, eign Kálfatjarnarkirkju, og að allar brennisteinsnámur á Krýsuvíkur- og Herdísarvíkurlandi séu í eigu útlendinga. Þar stendur einnig: „Þess skal hjer getið, að ýmsir eigna kirkjunni talsvert meira land, sem jeg ekki finn ástæðu til að taka til greina, geti hlutaðeigendur orðið ásáttir um landamerki þau, sem hjer eru talin“.
Landamerkjabréfið er samþykkt af eigendum Ísólfsskála, Hrauns og Vatnsleysulands, eigendum og umboðsmönnum Knarrarnesja og Ásláksstaða, eigendum og umráðamönnum Brunnastaðatorfu, eiganda Þórustaða og Landakots og eiganda og umboðsmanni Auðnahverfis og 1/3 Breiðagerðis auk umboðsmanns skólasjóðsins. Það er einnig samþykkt af forráðamönnum Óttarsstaða og Strandarkirkju og umboðsmanni Hlöðunesstorfu svo og Garðapresti. Nokkrir þeirra sem skrifuðu undir gerðu athugasemdir við landamerkjabréfið. Umboðsmaður jarðanna Staðar og Húsatópta skrifaði: „Hinsvegar skráðum landamerkjum Krýsuvíkur verð jeg að mótmæla hvað 1. tölulið snertir um sjónhending úr Dagon í Trölladyngju fjallsrætur að vestan þar jeg hefi aldrei annað heyrt frekar, en Krýsuvík ætti land úr Dagon, eptir Núpshlíð og vesturfjallgarði áfram N – austur eptir, en að öðru leyti hefi jeg ekki að athuga nema óráðið mun um rjetta þekkingu á „Markhellu” að vestanverðu“.

Markhelluhóll

Markhelluhóll við Búðarvatnsstæðið.

Eftirfarandi athugasemd kom frá eigendum og umboðsmönnum Hvassahrauns: „Sem eigendur og umboðsmenn Hvassahraunshverfis leyfum við oss að gjöra þá athugasemd við framanskráð landamerki að í staðinn fyrir „Markhellu” sje settur „Markhelluhóll”. Að öðru leyti samþykkt“.
Fjárráðandi Kálfatjarnarkirkjulands lét líka skrá niður athugasemd: „Framanskráðu landamerkjaskjali er jeg samþykkur sem fjárráðandi Kálfatjarnarkirkjulands, að undanskildum tölulið 2. í ítökum Kirkjunnar þ.e. Krýsuvíkurkirkju, þar eð Kálfatjarnarkirkju er í máldögum eignaður allur reki á Selatöngum; mótmæli eg þessvegna nefndum tölulið 2“.
Í lok landamerkjabréfsins er eftirfarandi athugasemd: „Af ókunnugleik mínum hef jeg látið sýna landamerkjalýsingu þessa sumum, sem engan eignarrjett hafa yfir landi við landamerkin að vestan (jeg vildi vera viss um að engum yrði sleppt, sem land ætti að), t.d. Grindavíkurpresti, eigendum Brunnastaðatorfunnar o.fl., svo ekki verður af undirskriptunum einum ráðið, að hinir undirskrifaðir eigi allir land að landamerkjum Krýsuvíkur, og verður það bezt sjeð á merkjalýsingum þeirra þegar þær koma í ljós, svo hinar óþörfu undirskriptir þurfa engan vafa eða misskilning að gjöra. Á. Gíslason.

Markhelluhóll

Markhella.

Landamerkjabréf fyrir Garða var undirritað 7. júní 1890 og þinglýst tveimur dögum síðar. Í því kemur eftirfarandi fram: „þaðan til austurs landsuðurs í miðt Húsfell, úr miðju Húsfelli beint til suðurs í efri Strandartorfu, þaðan beint í (suður) Markraka í Dauðadölum, þaðan til vesturs í Melrakkaskarð (Vatnsskarð, Markrakagil) í Undirhlíðum, sem er norðanvert við Fjallið Eina, þaðan til norðurs ofanvert við Hvaleyrar- og Áslönd í Steinhús“.
Á hreppsnefndarfundi Grindavíkurhrepps, sem haldinn var 9. mars 1895, var ákveðið að hafna kröfu eiganda og ábúanda Krýsuvíkur um að hrossa- og sauðfjáreigendur í Grindavík greiddu sér hagatoll fyrir sumarbeit í Krýsuvíkurlandareign. Rökin fyrir þessari ákvörðun voru þau að sárafátt fé Grindvíkinga hefði beit í Krýsuvíkurlandi enda hefðu þeir nóg upprekstarland.
Árið 1911 sendu ábúendur Krýsuvíkur hreppsnefnd Grindavíkur bréf þar sem þeir kröfðust greiðslu fyrir sumarbeit í Krýsuvíkurlandi. Þann 25. júní 1911 tók hreppsnefnd Grindavíkur þetta bréf fyrir. Á fundinum kom fram óánægja með kröfuna því að Grindvíkingar hefðu í mörg ár hjálpað Krýsuvíkingum við smölun vor og haust og sú aðstoð hlyti að teljast nægileg greiðsla fyrir sumarbeitina. Eftir að hafa rætt málið komust nefndarmenn að þeirri niðurstöðu að þeir væru tilbúnir að greiða fyrir beitina en þá myndi hreppurinn líka draga úr þjónustu sinni. Hreppsnefndarmenn voru tilbúnir að greiða ábúendum Krýsuvíkur 50 kr, en þá myndi falla niður hjálp við haustsmölun, eða 30 kr auk aðstoðar við smölun á Vigdísarvöllum.

Krýsuvík

Stóri Nýibær í Krýsuvík.

Í fylgiskjali nr. 8. b. með hreppsreikningi 1910 – 1911 kemur fram greiðsla fyrir sumarbeit í Krýsuvík, 50 kr.
Í þeim hluta fasteignamats Gullbringu- og Kjósarsýslu 1916 – 1918 sem fjallar um jörðina Krýsuvík kemur fram að útbeit sé heiðarland og hraun og að jörðinni fylgi hjáleigan Stóri – Nýibær.
Fasteignabók 1921 minnist ekki á að Krýsuvík fylgi nein hjáleiga þótt enn hafi verið búið í Stóra-Nýjabæ.
Í kaflanum um Krýsuvík í fasteignamati árið 1932 kemur m.a. fram að þar sé ekkert beitarland nema heimaland jarðarinnar. Þar segir einnig að á jörðinni sé góð mótekja og að þar séu hverir og jarðhiti. Einnig kemur þar fram að landamerki séu ágreiningslaus.
Í fasteignamati 1932 er sérkafli um jörðina Stóra–Nýjabæ sem er hjáleiga frá Krýsuvík. Meðal þess sem þar er greint frá er að býlið hafi ekkert upprekstrarland enda hafi jörðin næg beitilönd. Þar kemur einnig fram að býlið hafi mótak og að hverir séu í landi jarðarinnar. Síðan segir að býlið hafi eggjatekju og fuglaveiði á litlum parti í Krýsuvíkurbjargi. Í kaflanum er einnig greint frá því að býlið hafi óskipt beitiland við Krýsuvík og að merki séu glögg á engjum og túnum. Stóri–Nýibær hefur engin ítök og landamerki býlisins eru óumdeild.

Seltún

Seltún 1977.

Íslenska ríkinu var heimilað með lögum nr. 11 1936 að taka jarðirnar Krýsuvík og Stóra-Nýjabæ eignarnámi. Var skipuð sérstök matsnefnd til þess að ákvarða bætur. Skilaði nefndin matsgerð dagsettri 4. nóvember 1936. Í matsgerðinni er litið til landamerkjaskrár 14. maí 1890 og segir nefndin landamerkin virðast ágreiningslaus.
Um jörðina segir nefndin: „Jörðinni Krýsuvík hafa fyrrum fylgt 7 hjáleigur (sbr. Jarðatal Johnsens bls. 84), en allar hafa þær verið lagðar undir aðaljörðina, nema Stóri-Nýjabær, sem verið hefur í sjálfstæðri byggingu fram á síðustu ár, en er nú í eyði, eins og segja má, að sjálft aðalbólið, Krýsuvík, sé líka.

Austurengjar

Stöðull á Austurengjum.

Um óræktanlegt land Krýsuvíkur segir: „Það er, sem fyrr er sagt, að miklu leyti fjöll, hraun og sandar“. [Áður sagt í matsgerðinni að það yrði aðeins notað sem afréttarland]. En það er þó víða dágott sauðland, enda hafa ábúendur á jörðum þessum verið sauðmargir löngum, miðað við það, sem hér á landi hefur tíðkazt. En auk fjár ábúenda Krýsuvíkurtorfunnar hafa víst ýms eða flest byggðarlög þar syðra haft not landsins til sumarhaga fyrir sauðfé sitt, enda er svo látið um mælt í 1. málsgr. 2. gr. laga nr. 11/1936, að afhenda skuli Gullbringusýslu lítt ræktanlegt beitiland jarðanna sem afréttarland fyrir sauðfé, þegar ríkið hafi tekið lönd þessi eignarnámi. Óræktanlega eða lítt ræktanlega land jarðanna er því vitanlega nokkurs virði. Það, sem næst Krýsuvík og Stóra-Nýjabæ liggur, en það virðist vera gott sauðland víða, mundi að sjálfsögðu verða notað til vetrar- vor- og hausthaga fé því, er nytjendur þeirrar byggðar, sem þar mundi rísa upp, kynnu að hafa. En það af landi þessu, sem fjær liggur, til upprekstrarlands fyrir sauðfé ýmsra hreppa Gullbringusýslu. Það er um þenna hluta lands Krýsuvíkurtorfunnar sem önnur gögn hennar, að erfitt er að ákveða verð þess. En kunnugt er það, að upprekstrarlönd hafa verið seld hér á landi fyrir meðaljarðir eftir því, sem þá tíðkaðist, og þekkir einn okkar undirritaðra slíkt dæmi. Þess skal getið, að Vigdísarvellir eru hér með taldir. Er þar að vísu gamalt túnstæði, talið 5 ha., en annars er þar ekki eða lítt ræktunarhæft land. Óræktanlega eða lítt ræktanlega landið þykir mega áætla 5000,00 -fimm þúsund- króna virði. Matsnefndin ákvað landamerki land þess, sem selja skyldi Hafnarfjarðarbæjar, á fundi 1. maí 1939 og var það selt samkvæmt þeim mörkum árið 1941.

Vesturengjar

Vesturengjar.

Þann 15. maí árið 1939 hafnaði sýslunefnd Gullbringusýslu beiðni Ingólfs Sigurjónssonar á Jófríðarstöðum um að fá að leigja land á gamla túninu á Vigdísarvöllum undir nýbýli. Rök sýslunefndarinnar voru þau að ekki væri hægt að minnka landið sem sýslunni væri ætlað til sauðfjárbeitar úr Krýsuvíkur- og Nýjabæjarlandi.
Þann 20. febrúar 1941 seldi ríkissjóður Hafnarfjarðarkaupstað hluta af landi jarðarinnar Krýsuvíkur og Stóra–Nýjabæjar (Krýsuvíkurtorfunni). Hið selda land afmarkaðist af eftirfarandi landamerkjum: „Að vestan, beina stefnu í norður úr Hælsvík í Borgarhól, þar sem hann er hæstur, úr Borgarhóli eftir Sveifluhálsi í vestustu vík Kleifarvatns, að ber í ysta odda Hvammholtstanga. Að norðan ræður Kleifarvatn, í syðsta odda víkur þeirrar, er gengur úr vatninu vestan við Geithöfða og að austan þaðan beina stefnu í rjettvísandi suður til sjávar, í Keflavík. Að sunnan ræður sjór þó þannig, að óhindraður umferðarrréttur áskilst Gullbringusýslu fyrir búpening og til annarar umferðar, um svæði upp frá sjó, er sé a.m.k. 60 metrar á breidd, enda séu engar girðingar eða umferðarhindranir á þeirri leið. Hafnarfjarðarkaupstaður fékk einnig eignarráð yfir hitaveituréttindum í allri Krýsuvíkurtorfunni og aðstöðu til að notfæra sér þau, líka afnot af Kleifarvatni, svo og allan veiðirétt í vatninu. Hann mátti þó ekki setja girðingar meðfram vatninu nema fyrir sínu landi“.

Krýsuvík

Krýsuvík – tóftir brennisteinsnámsins í Hveradal.

Einnig fékk Hafnarfjörður í hendur þau réttindi og skyldur sem fylgdu ítökum Krýsuvíkurtorfunnar í annarra manna löndum og ítökum annarra í löndum Krýsuvíkurtorfunnar. Þessu ákvæði fylgdi sú undantekning að eigandi námuréttinda á landssvæðinu hélt sinni eign og átti hann samkvæmt afsalsbréfinu að hafa óhindraðan umferðar- og afnotarétt af hinu afmarkaða svæði Hafnarfjarðarkaupstaðar. Í afsalsbréfinu kemur einnig fram að ríkissjóður skyldi hafa rétt til að kaupa síðar þau hitaréttindi, sem hann kynni að þurfa í sambandi við námurekstur eða annað, og Hafnarfjarðarkaupstaður þyrfti ekki á að halda til sinna þarfa.
Landbúnaðarráðherra skrifaði þann 29. september 1941 undir afsalsbréf þar sem hann, fyrir hönd ríkisins, seldi sýslusjóði Gullbringusýslu allt lítt ræktanlegt beitiland jarðanna Krýsuvíkur og Stóra – Nýjabæjar (Krýsuvíkurtorfan) til sumarbeitar fyrir sauðfé. Undanskilið sölunni var land það sem ríkið hafi selt Hafnarfjarðarkaupstað þann 20. febrúar sama ár.
Kaupunum fylgdu heldur ekki önnur afnot af svæðinu, ítök og hlunnindi. Þeir sem áttu þau gæði höfðu samkvæmt afsalsbréfinu rétt á óhindruðum umferðarrétti á svæðinu og aðstöðu til að notfæra sér þau.

Markrakagil

Markrakagil.

Í Fasteignabók 1942-1943 er Krýsuvík með Stóra-Nýjabæ sögð í eign og ábúð eign Hafnarfjarðarbæjar, en beitilandið eign sýslunnar [þ. e. Gullbringusýslu].
Í lögum nr. 31 1959 um breytingu á lögum nr. 33 1929 um bæjarstjórn í Hafnarfirði. Í 1. grein er lýst takmörkum kaupstaðarsvæðisins: … 10. Þá lína í markaþúfu við gömlu sandgryfjurnar. 11. Þaðan í Lækjarbotna. 12. Þá í Gráhellu. 13. Þaðan í miðjan Ketshelli. 14. Eftir Selvogsmanna- eða Grindaskarðavegi í Kaplatór (Strandartorfur). 15. Þaðan bein lína í Markraka. 16. Þaðan bein lína um Melrakkagil (Markrakagil) að Krýsuvíkurvegi. 17. Meðfram Krýsuvíkurvegi, þar til kemur að norðurbrún Kapelluhrauns. …
Á sjöunda áratug síðustu aldar reis upp ágreiningur um norðurmörk Krýsuvíkurlands og suðurmörk Hafnafjarðarbæjar. Í þessu máli tókust á annars vegar Jarðeignadeild ríkisins og Gullbringusýsla og hins vegar Hafnarfjarðarbær. Deila þessi fór fyrir landamerkjadóm Gullbringu- og Kjósarsýslu sem kvað upp dóm sinn 14. desember 1971. Niðurstaða dómsins var eftirfarandi:

Kóngsfell

Litla-Kóngsfell nær, Miðbolli fjær.

Norðurmörk jarðarinnar Krýsuvíkur í Grindavíkurhreppi skulu vera þessi: „Bein lína frá vörðu á Markhelluhól …. um punktinn M á uppdrætti af landinu, sem fylgir dómnum [fylgir ekki með], … að vesturmörkum Herdísarvíkur eða sýslumörkum Gullbringu- og Árnessýslu.
Suðurmörk lands Hafnarfjarðarkaupstaðar skulu vera þessi: Bein lína frá punkti D á meðfylgjandi uppdrætti af landinu [fylgir ekki með], … í punktinn M … og fylgja mörkin þaðan markalínu Krýsuvíkur að Krýsuvíkurvegi. …”
Í greinargerð sem samin var af sýslumanninum í Keflavík þann 25. júní 1979 kemur fram að svokallað Seljabótarnef á sunnanverðu Reykjanesinu er ekki þar sem menn höfðu talið. Þessi uppgötvun gerir það að verkum að fjörumörk Gullbringu- og Árnessýslu og jarðanna Krýsuvíkur og Herdísarvíkur færast til en þau voru bæði miðuð við Seljabótarnefið í landamerkjalýsingum. Í greinargerðinni kom einnig fram að árið 1832 ákváðu sýslumenn Árnes- og Gullbringusýslna að svokallaður Sýslusteinn væri merki milli sýslanna tveggja.

Markhella

Markhelluhóll – áletrun.

Þann 25. janúar 1980 var útbúið landamerkjabréf þar sem skráð voru mörk Árnessýslu og Grindavíkur. Mörk jarðanna Krýsuvík og Herdísarvík falla saman við þessi mörk. Samkvæmt bréfinu eru landamerkin eftirfarandi: „Mörk milli Árnessýslu og lögsagnarumdæmis Grindavíkurkaupstaðar eru bein lína úr hápunkti Litla Kóngsfells sunnan við Grindaskörð í Sýslustein undir Geitahlíðum og önnur bein lína úr Sýslusteini til sjávar um hraunstrýtu á Seljabótarnefi“.
Athugasemdir hafa verið gerðar um svokallaða Markhellu/Markhelluhól sem minnst er á í landamerkjabréfum Krýsuvíkur, Hvassahrauns og Óttarsstaða frá árinu 1890: „Sem eigendur og umboðsmenn Hvassahraunshverfisins leyfum við oss að gjöra þá athugasemd við framanskráð landamerki að í staðinn fyrir „Markhellu” sjé settur Markhelluhóll. Að öðru leyti samþykkt“. Þetta undirskrifa Einar Þorláksson og Sigurmundur Sigurðsson.
Setninguna „… Markhelluhól, háan steindranga við Búðarvatnsstæði.” Ca. km fyrir ofan vatnsstæðið er trúlega hinn eini sanni

Markhelluhóll

Búðarvatnsstæði og Markhelluhóll. Á honum er mosavaxin varða.

Markhelluhóll og á landakortum síðustu ára eru mörkin um hann. Á hólnum er varða og stendur hann rétt ofan við djúpa en þrönga gjá og eru stafirnir sem getið er um í landamerkjabréfi Óttastaða – Hvassahrauns meitlaðir stórum stöfum á hólklöppina sem snýr til norðausturs. Það er merkilegt hvað stafirnir eru greinilegir ennþá og vel getur verið að þeir hafi verið skýrðir upp einhverntíman á þessari öld.
Steindranginn sem nefndur er í lýsingunni er til þarna í nágrenninu og er hann spöl neðan og vestan við hólinn út í illfæru og grófu apalhrauni. Rétt við steindranginn er gömul mosagróin varða, há og mikil um sig, hlaðin úr stórum hraunhellum. Í lýsingunni hefur því verið blandað saman í eitt mark, hólnum og drangnum og eins gæti hugsast, að mörkin hafi einhverntímann legið neðar, þe.a.s um drangann en ekki hólinn. Hvassahraunsbændur gerðu sér grein fyrir því, við undirskrift bréfsins) að hægt var að ruglast á þessu tvennu og lögðu áheyrslu á örnefnið Markhelluhól sem er drjúgum ofar….

Heimild:
Úrskurður Óbyggðanefndar 2004 – Grindavík og Vatnsleysuströnd.

Krýsuvík

Krýsuvík 2020.

Sogin

Í Trölladyngju eru hverir og ummyndun á skák sem nær austan frá Djúpavatni vestur á Oddafell. Hveravirknin fer minnkandi, en í Sogunum má enn sjá virka hveri. Sprengigígar og miklir gjallgígar eru í gossprungum þar sem þær liggja yfir ofannefnda skák.

Sogin

Í Sogum.

Ummyndun er mest í Sogunum þar sem stórt svæði er ummyndað af klessuleir. Vestan í hálsinum frá Sogunum suður á móts við Hverinn eina er móbergið einnig ummyndað en hvergi nærri eins og í Sogunum. Þar eru stórir sprengigígar frá ísöld og vatn í sumum. Djúpavatn er myndað á sama hátt. Kalkhrúður finnst á tveimur stöðum. Hitarák með gufuhverum liggur frá Trölladyngju um Eldborg norður í Lambafell, bundin nánast við eina sprungu.
Í Trölladyngju eru tvær borholur, önnur við hverasprunguna norðan undir henni, hin á hverasvæðinu vestan undir hálsinum. Báðar sjá um 260 °C hita ofarlega, síðan hitalækkun, en dýpri holan endar í 320 °C hita á rúmlega tveggja km dýpi.

Sog

Í Sogum.

Í skýrslu Skipulagsstofnunar um háhitasvæðið við Trölladyngju frá því mars 2003 segir m.a. að rannsóknarborholur séu staðsettar innan friðlýsts svæðis, Reykjanesfólkvangi, auk þess sem Keilis- og Höskuldarvallasvæðið er á náttúruminjaskrá. „Um viðkvæm verndarsvæði er að ræða og hætta er á að hverskonar framkvæmdir og rask muni rýra verndargildi þess og skerða notagildi þess til útivistar og náttúruskoðunar“, segir jafnframt í skýrslunni.
Skipulagsstofnun bendir á að ýmsar athuganir, sem gerðar hafi verið, séu ófullnægjandi og auk þess hafi ekki verið tekið mið af ýmsum fyrirliggjandi upplýsingum. Fornleifafræðingur hafi ekki gaumgæft svæðið m.t.t. fornminja og gildi svæðisins hafi ekki verið metið með hliðsjón af útivist og náttúrufegurð. Vonandi er framangreint ekki dæmigert fyrir vinnubrögð Hitaveitu Suðurnesja, sem jafnan hefur tengt nafn sitt við slagorðið „Í sátt við umhverfið“.
Sogasvæðið er með fallegri útivistarsvæðum landsins.

Heimild m.a.:
-Bréf Stefáns Thors og Hólmfríðar Sigurðardóttur f.h. Skipulagstofnunar til Hitaveitu Suðurnesja dags. 16. maí 2003.

Sogin

Sogin. Grænadyngja fjær.