Birgir Kjaran skrifaði þrjár greinar í Lesbók MBl árið 1960 um Suðurnes, einkum þó Grindavík og nágrenni. Fyrsta greinin birtist í apríl. Í grein III segir m.a.:
„Við göngum upp á hæð fyrir ofan bæinn og horfum til hafs. Það brimar fyrir Stað þótt logn sé undan Grindavík. – Við okkur blasir nokkurra kílómetra löng strandlengja, suðurströnd Reykjanesskagans. Enginn jafn skammur spölur Íslandsstranda getur sagt sögu jafn margra skipsskaða og geymir slíkan ógnafjölda minninga átakanlegra atburða, og þó sem betur fer einnig frábærra afreka við björgun úr sjávarháska. Þarna innst er Selvogurinn og Strandarkirkja, Krýsuvíkurbergið, Hraunsvíkin, Þorkötlustaðahverfið, Hópið við Grindavík, Gerðistangar, Staðarmalir, Víkurnar, Háleyjar, Hrafnkelsstaðarbergið og Skarfasetur yzt á suðurtánni.
Allt sjáum við þetta nú, að vísu ekki í sömu andránni, en við erum að leggja upp í leiðangur eftir tröllaveginum út að vita, og á leiðinni kemur þetta smám saman í ljós.
Áður en við höldum af Stað, verður okkur enn skrafdrjugt, því Manni kann frá mörgu forvitnilegu að segja og hefur ákveðnar meiningar um hlutina. – Ég varpa t.d. fram spurningu um það, hvað hald hans sé um göngin hans Eggerts Ólafssonar, göngin undir Reykjanesið. – Vegna þeirra, sem ekki þekkja þetta mál, felli ég hér inn í, það sem Eggert segir í Ferðabók sinni um Reykjanesgöngin: „Annars er það algeng sögn, að undir skaga þann hinn mikla, sem er meginhluti Gullbringusýslu, liggi göng, og sérstaklega séu göngin víð milli Grindavíkur og Vogastapa, og á fiskur að ganga í gegnum þau. – Sögn þessi er í sjálfu sér alls ekki fráleit, því að vér vitum, að landið er hér allt umbylt af jarðeldi bæði á yfirborði og niðri í djúpinu og hvarvetna í því gjár. Þar hljóta einnig að vera neðanjarðarvatnsföll, sem falla út í Reykjanesröst.“ – Þannig fórust Eggerti orð fyrir um það bil tvö hundruð árum, og nú legg ég spursmálið fyrir Staðarbóndann og honum verður hvergi svarfátt. Hann segist trúa því, að á renni neðanjarðar undir nesið. – „Það er alveg víst eftir gömlum sögum og meira að segja veit ég það eftir pabba sáluga, að þegar þeir reru í Höfnum, þá sögðust þeir hafa náð í ósalt vatn, eitthvað blandað náttúrlega, en daufara en sjó, út af Skarfasetri. – Pabbi sagði, að það væri alveg sjúrt, að hægt væri að fá sér þarna að drekk í barning. Þeir höfðu fengið sér þarna vatn á kútinn. Það rennur þarna út í Röstina – það er sko alveg sjúrt“, segir minn góði leiðsögumaður ákveðið, því að þegar Gamalíel á Stað segir eitthvað „sjúrt“ meinar hann að það sé enginn vafi um þá hluti.
En að fiskur gangi eftir þessum göngum eða þessari á? Það er ekki eins víst. – „Ja, maður veit ekkert um fiskana“, segir hann, „en hérna í Bjarnargjá milli Járngerðarstaða og Staðahverfis hafa þeir oft og iðulega séð ufsa, svo að hvað veit maður svo sem nema hann gangi lengra?“
Erindið hingað var meðal annars að kanna veginn út að vita, og jafnframt að njóta leiðsögu hins örnefnafróða Staðarbónda, sem jafnframt kann öðrum fermur að segja sögu sjóslysanna hér um slóðir, því hann hefur um áratugi verið ekki aðeins áhorfandi harmleikanna, heldur líka og oftar virkur þátttakandi í barátunni milli manns og hafs um líf einstaklinganna. Manni er nefnilega fæddur í Reykjanesvita sama árið, sem kveikt var á nýja vitanum. Það mun hafa verið árið 1908. Faðir hans var þriðji vitavörðurinn á Reykjanesi og gegndi þeim starfa um tuttugu ár. Á þessari strönd sleit Manni barnsskónum og stælti mandómsþrek sitt. Og mér dettur í hug brimið, já, brimið, ætli hann hafi ekki vanizt á að hlæja svona hátt til þess að yfirgnæfa brimgnýinn?
Þorvaldur Thoroddsen var á ferð hér á þessum slóðum árið 1883, og segir hanní ferðabók sinni: „Af Reykjanesi fórum við 11. ágúst inn í Grindavík. Þar er enginn vegur, ein eintóm hraun yfir að fara. Alls staðar liggur hér mesti urmull af rekatrjám í fjörunni, og heyrir það allt undir kirkjuna að Stað í Grindavík.“ Síðan eru liðnir röskir þrír aldarfjórðungar, og hálfgerð vegleysa er þetta enn.
Það hefur líka fyrr og síðar ýmsu öðru en rekatrjám skolað á Staðarfjörurnar. Hann tjáir okkur það, Staðarbóndinn, að hún hafi stundum verið óhugnanleg aðkoman á þessari víðsjálu strönd. Þegar Ægir hefur látið brimrótið skila feng sínu upp í fjörugrjótið. – „Það var verst með það fyrsta“, segir hann. „Það var gamall, reyndur maður, sem var með okkur og gekk fyrstur. Það bjargaði okkur og tók af okkur versta stuðið.
Síðar bregður manni minna. – Einkennilegast var það, þegar ég fann sjórekna manninn undir Háleyjarbergi. Það skil ég aldrei, segi alltaf, að hann hafi hjálpað mér til þess að koma sér upp. Við vorum tveir bræðurnir, Helgi heitinn og ég, sem fundum hann. – Við sáum, hvar tvær ritur sátu á steini í stórstraumsfjöru. Þetta var í há-átt. Ég fór fram eftir, og þar lá hann undir steininum. Við lögðum líkið í poka og bárum það milli okkar upp að berginu tveir einir, en sjö tíma vorum við að koma því austur með berginu, og veittist þó fullerfitt að koma því alveg austur úr. – Ég skil það aldrei, hvernig við tveir einir skyldum koma því upp allt strórgrýtið og það án þess að blása úr nös. – Ég er viss um, að hann hefur hjálpað til við það sjálfur.“
Þessi frásögn getur eðlilega af sér stuttlegt samtal um myrkfælni, sem mun hafa hljóðað eithvað á þessa leiðina:
-Eru einhverjir þeirra jarðaðir í krikjugarðinum að Stað?
-Jú, hér er eitt lík austan af Selatöngum, af enskum, og fleiri munu hvíla hér, sem rak af hafinu.
-Finnst þér ekki lakara að hafa kirkjugarðinn svona rétt við bæjarhúsin?
-Nei, ég finn ekki til þess.
-Þú ert þá ekkert myrkfælinn?
-Nei, ég var myrkfælinn þangað til ég fluttist hingað í nábýlið við kirkjugarðinn, -en þá fór hún af mér.
-Og þið verðið aldrei vör við neitt?
-Það getur ekki heitið. Það er þá helzt, þegar von er á þeim hingað í garðinn. – Þeir láta oft vita af sér, um leið og þeir skilja við þetta jarðneska hérna.
-Meinarðu, að menn geri vart við sig hérna í þann mund, sem þeir gefa upp öndina?
-Já, reyndar, mennirnir, Grindvíkingar, þeir koma og banka og ganga um rétt eftir að þeir eru búnir að skilja við.
-Hefur þú orðið var við það?
-Já og já, ég held nú það.
-En aldrei séð neitt?
-Nei, nei, en ég hef oft orðið var við það.
Vegalengdin frá Grindavík út á Reykjanes, að vita, mun vera um 10 kílómetrar. Frá Stað til Reykjaness er í sæmilegu gangfæri tveggja tíma gangur. Sá, sem gerði þann veg, sem nú er notazt við, var Ólafur Sveinsson, vitavörður á Reykjanesi. Var það á árunum 1926-´28. Bar hann að mestu grjótið í veginn. Ólafur er sagður hafa verið mikill atorkumaður. Veginn lagði hann til þess að komast með hestvagn til Grindavíkur og auðvelda sér þannig aðdrættina. Það mun hafa verið haustið 1928, sem fyrsti bílinn fór út í Mölvík. Lengra komst hann ekki. „Vitasjóður lagði svo eitthvað í veginn á hverju hausti, en þetta var svo lítið, að það var svona viku tíma á ári, sem unnið var fyrir tillag hans“, bætir Staðarbóndinn við.
Áður en við stigum upp í bílinn bendir Manni okkur út á Staðarbótina og segir: „…Það var þarna út á Staðarsundið, sem sagt er, að séra Oddur hafi farið með menn til þess að kenna þeim björgunartilraunir, kenna þeim að synda og nota bárufleyginn, sem hann fann upp. Hann fermdi pabba hérna á Stað. Það eru til margar sögur og sagnir af honum. Hún heitir Silfra gjáin, sem þú varts að spyrja um og álarnir eru núna í. Í hana missti hann tösku með 60 spesíum. Hann var að sækja konuarfinn. Hún er þar enn taskan, segja þeir.“
Þessari síðustu athugasemd Staðarbóndans fylgir hláturm sem sóttur er hreint niður á neðstu tasíu og endar beinlínis eins og veltandi öldurót við ströndina, brimhljóðinu, sem berst frá Staðarberginu.
Lagt er í torleiðið á tveggja drifa bíl, og við höldum áfram að spyrja hann um veginn, hvort nokkurn tíma hlaði snjó á hann að ráði. Ekki er það talið vera og oftast hægt að komast hann, þótt fenni. Umbætur á veginum eru Staðarbónda hjartans mál.
-Heldur þú að það hefði getað munað mannslífum, ef þessi vegur hefði verið lagfærður fyrr?
Brosmilt andlit Staðarbóndans verður mjög alvörugefið, og það kemur djúp hrukka milli augnanna og aðrar skáhallt upp af hvou auga, er hann segir með þunga: „Já, það er ábyggilegt, að ef það hefði verið brim, þegar Jón Baldvinsson fórst, þá hefði það getað munað miklu að vera kominn hálftíma eða klukkutíma fyrr út eftir. Í stað þess að við vorum, ég man ekki með vissu, víst eitthvað á þriðja klukkutíma á vöruníl. Hann sagði það skipstjórinn á Jóni Baldvinssyni, að það hefði verið langur tími, fannst honum, frá því hann sendi skeytið og þangað til hann sá okkur. Það var ábyggilega tími, sem var lengi að líða. En hvað hefði það verið lengi að líða, ef það hefði verið brim og vegurinn svona?“
Hann bætti við: „Eins var það með Clam, þá urðum við líka að aka þessa vegleysu með fullan bíl af fólki. Vörubílarnir urðu að taka ytri barðana af sér til þess að komast áfram. Allt tafði þetta. Við urðum líka að bíða til þess að hafa nógan liðsafla, ef ýta þyrfti bílunum. Ég er alveg viss um, að þetta hefur allt tekið eina þrjá klukkutíma. Það hefði verið munur að geta stokkið strax, nokkrir menn, með slysavarnartækin og skotizt út eftir á góðum vegi. Þeir fórust 27 á Clam eins og þú veizt“, bætir hann við.
„Já. Ég gæti sagt þér eitt og annað af sjóslysunum hérna fyrr og síðar. Það hefur oft munað mjóu, og þó ekki alltaf nógu. Fyrsta sjóslysið, sem ég man eftir, var 1916. Þeim hafði borizt á í Katrínarvíkinni. „Resolut“ hét það víst skipið. Einn synti í land með spotta, og hinir voru dregnir á eftir. – Þrímöstruð skúta, saltskip, strandaði skömmu síðar við Þorkötlustaðanesið. – Svo var það franski togarinn Cap Fagnet, sem fóst upp á Hraunsfjörum í marz 1931, og þá var í fyrsta sinn skotið af línubyssu við bjögunarstarf. Hann hét Guðmundur Erlendsson, sem skaut. Sjálfur drukknaði hann fáum árum síðar í róðri á trilli, en þarna björguðust 38 menn af franska togarum. Svo strandaði Skúli fógeti hér á Staðarmölum. Þú sérð þarna, beint út af. Það var svona klukkan að ganga sex um nóttina, sem við vissum um það. Það komu að austan tveir menn og létu okkur vita. Karl heitinn Guðmundsson fór niður um nóttina og var að hlusta á veðrið frá Vestmannaeyjum, og þá heyrir hann, að það var kallað út, að Skúli fógeti væri strandaður.
Það var stöðin í Vestmannaeyjum, sem kallaði þetta út með verðinu. Hann vakti mennina og fór að leita, og svo ræstu þeir okkur. Við höfðum komið heim að Stað um nóttina kl. tvö frá aðgerð. Það var mikið brim, og það var langt að skjóta út í Skúla. Línan var 97 faðmar. – Já, það það mátti ekki miklu muna. Það var síðasta línan, sem náðist í. Við áttum ekki fleiri. Það var seinasta skotið, sem hægt var að skjóta. Við voru svo heppnir, að vindurinn bar línuna upp að mastrinu, þar sem þeir sátu á hvalbaknum, og einn gat teygt sig í hana. Þeir voru sumir mjög þrekaðir, skipsbortsmennirnir, en einn var þó ótrúlegt hraustmenni, og var hann ekki nema 16 ára gamall. Hann hljóp eins og krakki þegan hann kom upp á kambinn, hreint eins og ekkert hefði í skorist. Það var mikið tekið eftir því. Það var Sæmundur Auðunsson, sem síðar varð skipstjóri á Akureyrartogurunum.
Þeir fórust 14 á Skúla, en 24 var bjargar, svo ver hefði getað farið þar, ef síðasta línan hefði brugðizt. – Eitt árið strandaði færeysk skúta á Ræningjaskeri framan við endann á Staðarhrauni og öll áhöfnin fórst. Þá var það Clamslysið. Það var hinum megin á nesinu, rétt innan við litla vitann. Ég kom með þeim fyrstu þarna að. Skipið hefur ekki verið nema svona 30 faðma frá landi. Hann var suðlægur, nokkurt brim. Þeir fóru í bátana, svo liggur hann niðri og svo slepptu þeir og ætluðu að róa upp að landinu, en þá er straumur þarna í röstinni svo mikill, að hann kastaði þeim og bara hvolfdi bátunum strax. Við sáum það, þegar við vorum að koma að, við Björn heitinn, sem var skipstjóri á Grindvíkinni, hann fór með mér. Það var komið fljótlega með tvo skipbrotsmenn á jeppa. Ég fór að Reykjanesi til þess að hjálpa konu vitavarðarins með þá. Bar þá inn og skar utan af þeim fötin. Það var svo mikil bakkerolía í þeim, að þau voru alveg límd við skrokkana. Þetta voru Kínverjar. Þegar ég kom með hnífinn og risti utan af, greip hann ofsahræðsla, og hann veinaði upp, því að hann hefur víst haldið, að ég ætlaði að gera á sér kviðristu.
Bóndinn á Stað hefur ótal sinnum séð strönduð skip í brimgarðinum. Hann hefur gengið fjöru og fundið líkin. Suma þekkti hann, aðra ekki. Það var hann, sem bar heim lík óþekkta sjómannsins, sem fannst undir Háleyjarbjargi, og nú hvílir undir merki vitans í Fossvogskirkjugarði. Hann sagði, að það væri glæpur að leggja ekki þenna veg, því að á liðnum 30 árum hefðu að minnsta kosti 20 skiptapar orðið á ströndinni frá Stafnesi til Krýsuvíkurbergs og í þeim hefðu um sextíu menn farizt.
Við skulum nefna þenna veg, sem lagður verður frá Oddsvita að Reykjanesvita, og fyrst og fremst á að hafa þann tilgang að bjarga mönnum úr sjávarháska; „Oddsbraut“, í minningu hins mikla brautryðjanda slysavarnanna á Íslandi, séra Odds Gíslasonar að Stað í Grindavík.“
Heimild:
-Birgir Kjaran – Svipast um á Suðurnesjum III – Lesbók Morgunblaðsins 8. maí 1960, bls. 245 – 249.