Tag Archive for: Hafnarfjörður

Kaldársel

Garðakirkja átti selför í Kaldársel, en þótti langt. Þórunn Sigurðardóttir, húsfreyja á Hvaleyri, hafði síðast í seli þar árið 1871. Jón Jónsson bjó þarna með konu sinni 1868-1870 og 1873 fluttist Þorsteinn Þorsteinsson þangað með ráðskonu og bjó þar síðastur manna til 1887.

Kaldársel

Kaldársel – fyrsta húsi K.F.U.M. Selið sést að baki hússins.

Á síðustu öld reisti K.F.U.M. skála þarna fyrir drengi á sumrin.

Í Lesbók Morgunblaðsins 1993 er ljóð eftir Úlf Ragnarsson, lækni, sem ber heitið „Haust í Kaldárseli“.

Haustið er komið í Kaldársel.
Það kólnar í gagnsærri stillu
og litirnir brenna á laufi svo vel
að líklega spáir það illu.

Hún kaldá úr Botnunum læðist á laun
og ljóðar af gömlum vana
en týnist svo ofaní helluhraun.
Hvað verður svo um hana?

Kaldársel

Kaldársel um 1930.

Það greinir víst enginn þann undirstraum
sem endar í blikandi sænum.
Hjá Fjallinu eina minn innstra draum
anda ég heyri í blænum.

Og blítt lætur eilífðin alla tíð
uppi á Helgafelli.
En letileg teygir sig Langahlíð
lúin og grá af elli.

Kaldársel

Kaldársel um 1930.

Hún var þó áður svo árdegisblá
sem æskunnar falslausa gaman.
Blóðrauð á vörunum Búrfellsgjá
brosir að öllu saman.

Og víst var þó gangan helsár og hörð
umhraunin á sultarvorum.
Göturnar fornu á Grindarskörð
greina frá þungum sporum.

En himinsins bláskál hvelfir sig
yfir Húsfellsins bunguþaki.
– Hjá Valahnjúkunum var þig
á vængjanna hraða blaki!

Þörf er hafa hraðann á
– hérna er margt að ugga.
Burknarnir fögru í Gullkistugjá
glitra í dauðans skugga.

ÁletrunÍ Ferðabók Þorvaldar Thoroddsens er m.a. getið um komu hans í Kaldársel. „Við Kaldársel lágum við nokkra daga. Það þar er bæði gras og vatn fyrir hesta, en hvort tveggja er annars torfengið í þessum héruðum. Kaldá kemur undan móbergshálsum rétt fyrir neðan Helgafell. Eru þar lón eða augu, og kemur vatnið fram víða í bökkum. Og á botni sést sums staðar, að smásandur dansar upp og niður af vatninu, er streymir upp um holurnar. Áin rennur svo spölkorn eftir hrauninu niður hjá Kaldárseli og hverfur dálitlu neðar undir hraunið, sogast þar niður í sprungur og katla. Neðar er sagt, að rennandi vatn sjáist sums staðar í hraunsprungum.
KaldárselMargar munnmælasögur eru um Kaldá. Segja sumir, að hún renni undir hraunum út allt nes, komi svo upp í sjónum fyrir utan vita og af straumi hennar verði svo Reykjanesröst, en þetta er fjarri öllu sanni. Víða kemur dálítið vatn í sjóinn undan hraunum, en vatnsmagnið í Kaldá er svo lítið, að hún getur eigi komið neinum verulegum straumi til leiðar. Sumir segja máli sínu til sönnunar, að taka megi ferskt vatn ofan á sjónum í Reykjanesröst, en nákunnugir menn hafa sagt mér, að það sé ekki satt. Munnmælin segja líka, að Kaldá hafi fyrr runnið ofanjarðar eftir hinum löngu hraunsprungum, er ganga út Reykjanes, en fyrir því er enginn fótur. Kaldá rennur líklega til sjóar í Hraunum fyrir sunnan Hafnarfjörð. Þar koma margar uppsprettur undan hraunum í fjörunni.

Kaldársel

Í Kaldárseli 1934.

Kaldá hefir nafn sitt af því, að vatnið í henni er eins og annað uppsprettu- eða lindarvatn, aðþað hefir alltaf hér um bil sama hita árið um kring, og finnst þvói vera mjög kalt á sumrum, þegar lofthitinn er miklu meiri. Hiti Kaldár var 21. júlí 5°C, en lofthitinn samtímis 10 1/2°. Við Kaldá var áður sel frá Hvaleyri, sem kallað var Kaldársel, og þar eru víða á hraununum í kring rústir af mörgum fjárbyrgjum. Sumarið 1883 bjó þar gamall, sérvitur einsetukarl, Þorsteinn Þorsteinsson (d. 14. júlí 1887), sem áður hafði verið í Lækjarbotnum. Hann þekkti allvel fjöll og örnefni á þessum slóðum og fylgdi mér um nágrennið.“ Þá er getið um ferðir Þorvaldar og félaga út frá Kaldárseli um Undirhlíðar, Grindarskörð og Bláfjöll.

Í Minningarbók um Þorvald Thoroddsen frá 1923 er auk þessa getið nánar um nefndan Þorstein. „Við lágum um tíma í tjaldi hjá Kaldárseli og fórum þaðan um nálæg fjöll, þar bjó þá skrítinn og sjervitur einsetukarl, Þorsteinn Þorsteinsson; hann kom oft á morgnana í tjaldið til þess að biðja um staup, og eitt sinn gaf annar fylgdarmaður minn honum fullan bolla af lampaspiritus, karlinn tæmdi bollann í botn og sagði: „Þetta var hressandi, það er þó eitthvað annað en bannsett Hafnarfjarðarbrennivínið.“

Kaldársel

Kaldársel – tilgáta ÓSÁ.

Í bókinni „Íslenskt þjóðlíf í þúsund ár“ fjallar Daniel Bruun um ferðir hans um Ísland. Þar segir hann m.a. um Kaldársel: „Enda þótt byggingarefni íslenskra bæja væri oftast torf og grjót, eða torf eingöngu, þar sem stafnar voru þó oftast úr timbri, þá notuðu menn að sjálfsögðu betra efni, ef það var fáanlegt.

Kaldársel

Teikning Daniels Bruun af inngangi baðstofunnar í Kaldárseli 1882.

Sunnan við Hafnarfjörð eru víðáttumikil hraun, þar er víða að finna þunnar hraunhellur, sem þekja holrúm, loftbólur undir yfirborði hraunsins. Létt er að brjóta þessar hellur, og víða hafa þær brotnað og fallið niður í hraungjótur. Slíkar hraunhellur hafa með góðum árangri verið nýttar til húsagerðar á bæ einum, sem nú er að vísu í eyði, en var í byggð ekki alls fyrir löngu.
Býlið heitir Kaldársel og er góð sauðjörð. Nafnið sel bendir til, að þar hafi verið selstaða fyrir löngu. Þar eru nokkrar tóttir bæði af bæjar- og útihúsum, og nokkur fjárskýli bæði opin og lokuð. Sérstaklega ber að geta þar um tvær fjárborgir, einnig eru þar fjárréttir og loks fjárskjól í hellum í hrauninu. Hjá bæjarhúsunum er fjárhús og hesthús en ekkert fjós.“
KaldárselMeðfylgjandi er svo uppdráttur ef selstöðunni, þ.e. helluhlöðnu húsunum í Kaldárseli. Þau voru rifin þegar hús K.F.U.M. voru reist þar á fyrri hluta 20. aldar. Ef einhver, þótt ekki væri nema einn, hefði þá barist fyrir því að fá aðra til að láta tóttirnar ósnertar, ættu Hafnfirðingar nú einstakar minjar um sérstaka mannvirkjagerð frá fyrri tímum. En því miður – enginn hafði þá hugsun þá, líkt og nú.
Hér verður ekki fjallað um fornaldarbæ þann, sem Bynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi, taldi vera Í Helgadal. Sumir vilja tengja þær tóftir við Hinn heilaga „Gral“, sem jafnan hefur skotið upp í umfjöllun kristinna. Telja þeir hinir sömu að örnefni Helgadalur og Helgafell séu þaðan frá komin.
Í göngu um Kaldársel voru framangreindur fróðleikur hafður til hliðsjónar. Hann er þó langt í frá að vera endanlegur.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Heimildir m.a.:
-Minningabók Þorvalds Thoroddsen, 2. bindi, bls. 94, Safn fræðafélagsins II, Kaupmannahöfn 1923.
-Þorvaldur Thoroddsen, Ferðabók 1913-1915, I. bindi, Reykjavík 1958, bls. 154-159.
-Daniel Bruun, Íslenskt þjóðlíf í þúsund ár, Steindór Steindórsson þýddi, 1987, bls. 325-326.
-Lesbók Mbl., 36. tölubl., 16. okt. 1993, bls. 10 – „Haust við Kaldársel“ eftir Úlf Ragnarsson, lækni.
-Sunnudagsblað Þjóðviljans 1965, viðtal við Gísla Sigurðsson um örnefnasöfnun.

Kaldársel

Kaldársel – minjar; ÓSÁ.

Hraunin

„Tólf bæir, lögbýli, hjáleigur og þurrabúðir stóðu á ströndinni frá Straumsvík suður að Lónakoti.

Straumur

Straumur.

Þar var kallað í Hraunum og heitir svo enn þó að nú sjáist þar aðeins garðar, tóftir og nokkrir sumarbústaðir. Þarna er unaðsreitur fegurðar, samt minna þekktur en vert væri. Hér verður í þremur greinum rifjað upp ýmislegt um sögu byggðarinnar, búskap, náttúrugæði og landmótun í Hraunum.

Komin er sólin Keili á og kotið Lóna,
Hraunamennirnir gapa og góna,
Garðhverfinga sjá þeir róna.

Þessi gamli húsgangur um nágrannana í Garðahverfi og Hraunum segir sína sögu um kappsfulla sjósóknara sem réru á bátskeljunum sínum frá vörum í Hraunum og frá Dysjum í Garðahverfi.

Straumur

Hróf ofan Straumsvarar.

Sjóróðrar voru snar þáttur í lífsbaráttunni, ekki sízt á Hraunabæjunum þar sem landkostir voru litlir og landþrengsli mikil. Þá hefur munað um sjávarfangið, en ekki hefur alltaf verið heiglum hent að lenda í Óttarsstaðavör þegar norðanáttin rekur ölduna beint á hraunbrúnirnar sem skaga út í fjöruna. Það hefur á hinn bóginn ekki verið talið gott til afspurnar að híma í vomum þegar sólin var komin „Keili á og kotið Lóna“ og Garðhverfingar byrjaðir að lemja sjóinn. Fyrir utan Óttarsstaðavör ýttu menn á flot úr Eyðikotsvör og nokkrum vörum við Straumsvíkina: Péturskotsvör, Jónsbúðarvör, tvær varir voru við Þýzkubúð og ein vör var kennd við Straum.

Meðalbú 18-20 kindur og 1-3 kýr

Brennisel

Brennisel – kolasel frá Óttarsstöðum.

Annar bjargræðisvegur á Hraunabæjunum var sauðfjárbúskapur, sem hefur þó verið í smáum mæli hjá flestum vegna þess að túnin voru varla annað en smáblettir og engjar ekki til. Hinsvegar var treyst á kvistbeit í hraununum og ekki tíðkaðist að taka sauði á hús. Þeir voru harðgerðar skepnur; leituðu sér skjóls í hraunskútum í aftökum, en gengu hrikalega nærri beitarlandinu.
Á heimildum eins og Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín má sjá að algeng búfjáreign á Hraunabæjunum í upphafi 18. aldar hefur verið 1-3 kýr og aðeins 18-20 kindur.

Síðar á sömu öld snarfækkaði fé af völdum fjárkláðans sem átti upptök sín skammt frá, á Elliðavatni.

Þorbjarnarstaðir

Gránuskúti – fjárskjól ofan Þorbjarnarstaða.

Búfé í Hraunum fjölgaði á 19. öld og fram á þá 20. Þá var algengt að 80-100 fjár væri þar á bæjunum, svo og tvær mjólkandi kýr og ef til vill ein kvíga að auki. Á stærri jörðunum áttu menn tvo hesta en smákotin stóðu ekki undir hrossaeign.

Af manntölum má sjá að víða hefur verið mannmargt á kotunum og stórir barnahópar komust þar upp. Það er nútímafólki gersamlega óskiljanlegt hvernig fjölskyldur gátu framfleytt sér á landlausum hjáleigum, þar sem bústofninn var nokkrar kindur . Líklega hefur munað mest um sjávarfangið.

Þýskabúð

Útihús við Þýskubúð.

Byggðin í Hraunum náði frá Straumsvík og vestur með ströndinni. Lónakot er vestast og nokkuð afskekkt; þangað eru 2-3 km frá megin byggðarkjarnanum, en Hvassahraun er á Vatnsleysuströnd og var ekki talið með Hraunabæjunum. Þorbjarnarstaðir, snertuspöl sunnan Keflavíkurvegarins, Lónakot, Óttarsstaðabæirnir, Straumur og Stóri-Lambhagi voru landstórar jarðir, en jafnframt var allt þeirra land í hraunum. Fyrir utan þessar stærstu jarðir í Hraunum voru nokkur smábýli, hjáleigur og þurrabúðir. Þar á meðal voru Gerði, Litli-Lambhagi og Péturskot við Straumsvíkina, en Þýzkubúð lítið eitt út með víkinni og Jónsbúð enn utar, Eyðikot, sem var hjáleiga frá Óttarsstöðum eystri, Kolbeinskot og Óttarsstaðagerði.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir efri (vestari) og neðri (austari).

Umhverfis Óttarsstaðabæina er eina umtalsverða og samfellda graslendið í Hraunum, enda var byggðin þéttust þar. Bílfær vegur liggur frá Straumi, þar sem nú er Listamiðstöð Hafnarfjarðar, vestur að Eyðikoti, en merktur göngustígur er þaðan framhjá Óttarsstaðabæjunum og síðan með ströndinni að Lónakoti. Frá Lónakoti er síðan hægt að ganga ruddan slóða, um 2 km leið, austur á Keflavíkurveg.

Frábært útivistar- og göngusvæði

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir eystri.

Sem útivistar- og göngusvæði búa Hraunin yfir sérstökum töfrum. Stæðilegir og vel hlaðnir grjótgarðar standa sumstaðar ennþá, aðrir hafa hrunið. Í klofnum hraunhóli vestan við Óttarsstaðavör hefur hraunsprunga nýtzt sem veggir fyrir einhverskonar hús og aðeins þurft að hlaða fyrir endana og refta yfir. Þarna gæti hafa verið sjóbúð, þó er það ekki víst.
Það er alltaf tilbreytingarríkt að skoða grýtta ströndina í nánd við Óttarsstaðavör, allt frá Vatnsskersklöpp og Kisukletti að Snoppu og út eftir Langabakka að Arnarkletti og Hrúðrinum, þar sem „brimið þvær hin skreipu sker“.

Þorbjarnarstaðaborg

Þorbjarnarstaðaborg.

Á öðrum stöðum eru minjar um þurrabúðir, fiskreiti, gerði og uppsátur þar sem kjalförin sjást enn á grjótinu.

Sunnar í hrauninu sjást aftur á móti minjar um sauðfjárbúskapinn. Þar eru nátthagar, kvíaból og fjárskútar, fallega hlaðin fjárborg og réttir. Skammt sunnan Keflavíkurvegarins stendur Þorbjarnarstaðarétt, lítt hrunin, önnur rétt er við Lónakot og sú þriðja við Straum.

Í Almenningi, sem svo eru nefndur suður í hrauni, eru fimm selstöður: Lónakotssel, Óttarsstaðasel, Straumsel, Gjásel og Fornasel. Þar var haft í seli og þar bjó fólk og starfaði sumarlangt.

Þurrabúðarmenn og inntökuskip

Óttarsstaðir

Óttarsstaðarétt.

En til hvers er verið að gaumgæfa þetta og velta fyrir sér minjum um harða lífsbaráttu á þessari strönd við yzta haf? Hvern varðar um þurrabúðarmenn? Er ekki nóg að njóta þess sem náttúran býður; sjá hvað hraunhólarnir geta verið myndrænir og ströndin falleg þar sem lábarið grjót tekur við af hraunklöppunum og skipskrokkur sem stóð uppi í fjörunni fyrir aldarfjórðungi er orðinn að einskonar beinagrind úr risaeðlu, umvafinn grasi? Það sem eftir er af stefni skipsins stendur hinsvegar upp á endann í fjörunni og gefur engum nútíma skúlptúr eftir.
Vissulega er hægt að njóta náttúrunnar þó að maður viti ekkert um hana og þó að maður þekki ekkert til sögunnar og þess mannlífs sem einhverntíma áður var á staðnum.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir – örnefni (ÓSÁ).

En það gerir þessa náttúruupplifun dýpri og minnisstæðari að vita að þarna bjó fólk með gleði sína og sorgir fram á miðja 20. öld og lifði nánast á engu eftir því sem okkur finnst nú.

Hraunabæir áttu kirkjusókn að Görðum í Garðahreppi, sem er talsvert löng leið fyrir gangandi fólk. En það var engum vorkennt að ganga þessa leið til kirkju; heldur ekki börnunum sem á fyrstu áratugum 20. aldarinnar gengu alla þessa leið til þess að komast í skóla. Síðar fengu þau skólastofu í húsinu á Óttarstöðum eystri.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir vestri – baðstofuglugginn.

Í Hraunum var ekki venjuleg, íslenzk sveit eða dreifbýli með talsvert langar bæjarleiðir, heldur einskonar þéttbýli með bæjum, smákotum og þurrabúðum, sem voru nefndar svo. Það voru landlaus eða landlítil býli við sjávarsíðuna, sem höfðu ekki grasnytjar. Þurrabúðarmenn stunduðu tilfallandi vinnu; réðu sig í kaupavinnu á sumrin og voru á sjó á vertíðum. Á nokkrum Hraunabæjum var svokallað heimaræði, það er útræði frá þeim jörðum sem áttu land að sjó. Bændur sem bjuggu fjær sjó fengu hinsvegar stundum leyfi sjávarbænda til þess að nýta lendingaraðstöðu og hafa þar mannskap á vertíðum. Það var kallað að hafa inntökuskip á jörðinni.

Landmótun í Hraunum

Óttarsstaðaborg

Óttarsstaðaborg.

Við upphaf nútíma fyrir um 10 þúsund árum var öðruvísi um að litast en nú á ströndinni frá Straumsvík vestur að Kúagerði. Raunar var það fagra land, þar sem Hraunabæirnir stóðu, alls ekki til. Ströndin var þá 2-3 km innar, en í goshrinum á Reykjanesskaga, sem einkum hafa orðið á 1000 ára fresti, rann hvert hraunlagið yfir annað og færði ströndina utar. Ein slík hrina varð fyrir um 2000 árum, önnur fyrir um 1000 árum og samkvæmt því ætti að vera kominn tími á næstu hrinu.
Á síðasta jökulskeiði lá jökulfargið meira og minna yfir Reykjanesskaga, en hafði að því er virðist ekki áhrif á gosvirknina. Stundum náðu hraunin að dreifa úr sér þegar íslaust var, en stundum gaus undir ísnum og gosefnin hlóðust upp í geilinni sem þau bræddu, hörðnuðu þar og urðu að móbergi.

Hraunin

Hraunin – jarðfræðikort ÍSOR.

Sum hraun sem náðu að renna og dreifast hurfu alveg undir önnur nýrri. Það elzta sem sést á yfirborði í námunda við þetta svæði er Búrfellshraun, sem rann fyrir um 7.300 árum og Norðurbærinn í Hafnarfirði er byggður á.

Fyrir um 5000 árum varð mikið gos í Hrútagjá, nyrst í Móhálsadal, milli Sveifluháls og Núpshlíðarháls. Hraunið, sem kennt er við Hrútagjárdyngju, rann til sjávar og myndaði svæðið vestan við Straumsvík þar sem Hraunabæirnir voru byggðir, nærri 4000 árum síðar.

Hrútargjárdyngja

Hrútagjárdyngja.

Hrútagjárdyngja er örnefni sem gamlir Hraunamenn hefðu ekki kannast við, enda er það síðari tíma nafngift frá hendi jarðfræðinga. Fyrir utan hraunið úr Hrútagjá hafa tvær aðrar dyngjur átt mikinn þátt í að móta ásýnd Reykjanesskagans vestantil. Þó það komi Hraunabæjunum ekki við má geta þess hér til fróðleiks að flæmi hrauna úr dyngjunni Þráinsskildi þekja svæðið frá Kúagerði að Vogastapa og enn vestar er dyngjan Sandfellshæð; hraun úr henni dreifðust allar götur vestur í Hafnir.

Straumur

Straumur.

Síðar hafa yngri hraun fyllt upp í lægðir og stundum náð til sjávar. Nærtækt er að benda á snarbratta brún Afstapahrauns við Kúagerði. Það er síðari tíma hraun eins og Kapelluhraunið austar. Hraunið undir landi Hraunabæjanna hafði góðan tíma til að gróa upp áður en nokkur lifandi skepna gekk um það og myndaðist víða kjarr í því, eða skógur, sem eyddist af rányrkju á öldum fátæktarinnar. Stærsti hluti þessa hraunflæmis heitir Almenningar og bendir til að þar hafi verið óskipt beitiland.

Stóribolli

Stóribolli – gígurinn.

Hin áreiðanlega vekjaraklukka gosvirkninnar vakti gosstöðvar að nýju fyrir um 2000 árum. Þá varð enn mikil goshrina og frá einni eldstöðinni, Stórabolla í Grindaskörðum, rann mikið hraun í átt til Straumsvíkur og myndaði nýja strönd milli Straumsvíkur og Hvaleyrar. Dálítil óregla í þessari þúsund ára reglusemi kom upp fyrir 1800 árum þegar gaus nyrst í Krýsuvíkurrein, þar sem heita Óbrinnishólar við Bláfjallaveg. Hraunið, sem nefnt hefur verið Óbrinnishólabruni, rann í mjóum taumi niður undir Straumsvík. Þetta gos hafði þó ekki áhrif á land í Hraunum.

Tvíbolli

Tvíbolli (Miðbolli).

Hin reglubundna dagskrá fór hinsvegar í gang fyrir um 1000 árum; Ísland þá búið að vera numið á aðra öld og ef til vill enn lengur. Þá rann Hellnahraunið yngra, sem svo er nefnt, frá Tvíbollum í Grindaskörðum og náði einn hraunstraumurinn langleiðina til Straumsvíkur, en óvíst er að nokkur bær hafi þá verið í Hraununum; elztu heimildir um byggð þar eru frá því um 1200.

Hálfri öld áður rann Kapelluhraun til sjávar í Straumsvík og hafði áhrif á landmótun þar; yngsta hraunið á þessu svæði. Þó líklegt sé og raunar fullvíst að sagan endurtaki sig létu menn þetta ekki á sig fá þegar álverinu var valinn staður einmitt þar sem Kapelluhraun rann, enda líklegast að margoft væri búið að afskrifa álverið, miðað við venjulega endingu, áður en hraun rennur þar að nýju..

Leiðin suður með sjó og leiðir suður yfir skagann

Jónsbúð

Jónsbúð – tilgáta ÓSÁ.

Frá fornu fari hafði ábúendum og öðru fólki á Reykjanesskaga verið skipt í útnesjamenn, sem bjuggu utan við Kúagerði, og innnesjamenn sem til að mynda bjuggu í Hraunum og á Álftanesi.

Alfaraleiðin

Alfaraleiðin millum Hafnarfjarðar og Voga.

Fram á 20. öld var mikil umferð ríðandi, en mun oftar þó gangandi manna suður með sjó og þaðan „inn“ í Hafnarfjörð og Reykjavík. Menn fóru í verið til Suðurnesja og svo þurfti að ná í blessaða þorskhausana og reiða þá austur í sveitir á baggahestum. Þorskhausalestir voru dagleg sjón á vorin. Enginn var vegurinn, aðeins götur sem fótspor hesta og manna höfðu markað og þær lágu í krókum og krákustígum eftir því hvar skást var að komast yfir hraunin.

Alfaraleiðin suður með sjó lá ekki um hlöðin á Hraunabæjunum, heldur lítið eitt sunnar, raunar sunnan við Keflavíkurveginn eins og hann er nú. Þessar götur eru nú löngu upp grónar, en samt sést vel móta fyrir þeim. Frá Lónakoti lá stígur suður í Lónakotssel og frá Óttarsstöðum lá Rauðamelsstígur, einnig nefndur Skógargata, suður í Óttarsstaðasel, en þaðan yfir Mosa og Eldborgarhraun um Höskuldarvelli að Trölladyngju. Eftir þessum götuslóðum var annarsvegar hægt að ganga til Krýsuvíkur og hinsvegar til Grindavíkur.

Förnugötur

Straumsselsstígur/Fornugötur.

Frá Straumsvík lá Straumselsstígur nokkurnveginn samhliða suður á bóginn, við túnfót Þorbjarnarstaða, og um Selhraun að Straumseli suður í Almenningi. Stígurinn lá síðan áfram til suðurs og og heitir Ketilstígur þar sem hann liggur yfir Sveifluhálsinn; þetta var gönguleið til Krýsuvíkur.

Sunnarlega í Almenningi voru gatnamót þar sem Hrauntungustígur liggur yfir stígana þrjá og stefnir á Hafnarfjörð. Enn sunnar er komið á Stórhöfðastíg; hann stefnir einnig til Hafnarfjarðar og sameinast Hrauntungustíg vestur undir Ásfjalli. Þetta samgöngukerfi fortíðarinnar er flestum týnt, grafið og gleymt, en Umhverfis- og útivistarfélag Hafnarfjarðar hefur dustað af því rykið, ef svo mætti segja, og merkt stígana í Hraununum með skiltum.

Hvað verður um Hraunin?

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir vestri og eystri.

Lengst af voru Hraunabæirnir í Álftaneshreppi, en þegar Álftaneshreppi var skipt í Bessastaða- og Garðahrepp 1878, var talið að Hraunin væru hluti Garðahrepps eins og Hafnarfjörður. Eftir að Hafnarfjörður fékk kaupstaðarréttindi 1908 voru Hraunin áfram talin tilheyra Garðahreppi, en þau komu í hlut Hafnfirðinga árið 1967 þegar gerður var makaskiptasamningur við Garðabæ.

Óttarsstaðir

Útihús við Óttarsstaði.

Nú má spyrja hvers virði Hraunajarðirnar séu þegar búskapur þar hefur lagzt niður. Án efa eru Hraunin mikils virði, þó ekki væri vegna annars en þess að þau eru rétt við þröskuldinn á höfuðborgarsvæðinu. Mörgum þætti ugglaust freistandi að byggja þar og má minna á, að í tímaritinu Arkitektúr verktækni og skipulag frá 1999, viðrar Gestur Ólafsson arkitekt hugmynd um samfellda borgarbyggð frá Keflavík til Hafnarfjarðar. Með öðrum orðum: Höfuðborgarsvæðið verði í framtíðinni byggt á þann veginn í stað þess að teygja það upp á Kjalarnes.

Magnús Jónsson

Magnús Jónsson.

Í næstu framtíð má telja víst að Hraunin verði útivistarsvæði. Eins og sakir standa eru þó annmarkar á því. Enda þótt merktur göngustígur liggi frá Eyðikoti til Lónakots er yfir girðingar að fara og einkalönd. Stundum eru hross þar í girðingum og þá er áríðandi að hliðum sé lokað, en ekki er víst að allir hirði um það. Æskilegast væri að friðlýsa Hraunin, sem yrðu þá útivistarsvæði í umsjá Hafnfirðinga. Til þess að svo geti orðið þyrfti að kaupa það sem eftir er í einkaeign og sumarbústaðir og girðingar ættu þá ekki að vera þar framar.“ -Magnús Jónsson, fv. minjavörðu, Hafnarfirði.

Framangreind umfjöllun Magnúsar minjavarðar birtist áður á annarri vefsíðu, sem nú er, líkt og svo margar sambærilegar vefsíður, horfin á vit algleymisins. Þessu má öfugt líkja annars vegar við gamlar ljósmyndir á pappír og hins vegar þær, sem síðar urðu til með tilkomu hinnar stafrænu tækni. Hinar síðarnefndu munu einnig með tímanum hverfa út í „cosmósið“…

Hraunkarl

Hraunkona í Hraunum.

Þorbjarnarstaðir

Gengið var um Þorbjarnarstaði í Hraunum. Veður var frábært – sól og logn. Tjörnin milli Þorbjarnarstaða og Gerðis, Brunntjörn, var spegilslétt. Norðvestar er Fagurgerði umgirt.

Þegar komið er að Þorbjarnarstöðum frá gamla Keflavíkurveginum er fyrst komið að Þorbjarnarstaðaréttinni (Hraunaréttinni), sem mun hafa verið allfjörug á meðan var. Réttin stendur vel heilleg austan undan Sölvhól.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – Þorbjarnarstaðastekkur/Himnaríki.

Byrjað var á því að ganga austan með hleðslugarði bæjarins, en heimatúnið er girt hringinn með slíkum garði – reyndar tvöföldum. Sunnan undir hraunhól skammt sunnar er tótt og gerði framan og til hliðar við hana. Skammt sunnan þess er önnur heilleg tótt og hlaðinn garður sunnan hennar. Þar virðist hafa veriðum matjurtargarð að ræða. Vestan garðsins er gamalt gerði og tótt sunnan í því. Framundan er Tjörnin. Í henni gæti sjávarfalla, en tjörnin er ekki síst merkileg vegna þess að ferkst vatn kemur í hana undan hrauninu þegar fjarar út. Suðvestast í henni eru mannvirki – hlaðinn bryggja út í tjörnina. Ef vel er að gáð má einnig sjá hlaðna brú út í hólma, sem þarna er og aðra hlaðna bryggju frá honum út í tjörnina. Í hólmanum mótar fyrir tótt. Þarna var m.a. ullin þveginn sem og annar fatnaður á árum fyrrum.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir.

Stígur (þvottastígur) liggur frá aðstöðunni við tjörnina upp á heimtröðina. Þegar honum er fylgt sést skeifulaga lægð á vinstri hönd. Í henni er skúti. Á hægri hönd er hringlaga lægð. Í henni er einnig skúti. Tótt er vestan við lægðina. Efsti hluti heimtraðarinnar er hlaðinn beggja vegna. Þegar komið er að bæjarhúsunum má sjá tveggja rýma hús á vinstri hönd og fjölrýma hús á þá hægri.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – uppdráttur ÓSÁ.

Þetta voru bæjarhúsin á Þorbjarnarstöðum. Stutt er síðan þakið féll af syðri húsunum. Greinilegt er að tréþiljað hefur verið að framan á nyrðri húsunum og er fallegur gangur þar framan við. Vestan og sunnan við bæinn er hlaðinn garður. Frá bænum sést Miðmundarvarða á Miðmundarhól vel, fallega hlaðinn á sprungubarmi. Hún var eitt eyktarmarkanna frá Þorbjarnastöðum.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – brunnur í Brunntjörn.

Tótt er syðst á túninu. Þegar komið var yfir suðurveggina sást móta fyrir gamalli hleðslu neðan ytri veggjarins skammt austar. Vestan við hleðsluna er laut og sunnan hennar fótur af gamalli vörðu. Norðan hennar liðast Alfaraleiðin gamla úr vestri til austurs. Alfaraleiðin var aðalgatan út á Útnesin. Önnur varða sést við götuna skammt vestar.
Beint framundan til suðurs sjást hraunbakkar. Undir þeim er gömul hlaðin rétt. Inni í henni er hlaðinn dilkur og tveir aðrir vestan í henni. Réttin stendur enn mjög vel, enda hefur hún upphaflega verið vel gerð.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – flugmynd.

Þegar gengið er norður með vestanverðum heimatúnsgarðinum sést vel hversu mikið mannvirki hann hefur verið. Við norðvesturhorn hans er nokkurs konar dalur í hrauninu. Þar gæti hafa verið nátthagi. Innan og norðanundir garðinum er minni dalur. Innst í honum er skúti. Vestan við hraunhólinn, sem myndar dalinn, er enn ein tóttin. Auðvelt er að greina húsaskipan af tóftum Þorbjarnarstaðabæjarins, sem fór í eyði um 1930.

Þorbjarnastaðaborgin er upp í Brunntorfum, en henni eru gerð góð skil í öðrum FERLIRslýsingum, s.s. HÉR og HÉR.

Þorbjarnarstaðaborg

Þorbjarnarstaðaborg.

Á Þorbjarnastöðum bjó hið ágætasta fólk og eru afkomendur þess m.a. margir mætir Hafnfirðingar.
Gangan tók u.þ.b. klukkustund. Gerður var uppdráttur af svæðinu.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðastekkur.

Hamarinn

Margt fróðlegt hefur verið sagt um Hamarinn í Hafnarfirði, enda einn af hornsteinum bæjarins  – í bókstaflegum skilningi þess orðs.
Örn Arnarsson hefur lítið ort um merkilega staði, eða náttúrufræðileg fyrirbrigði, sem löngum hafa þó seitt fram ljóð á tungu skáldanna. Til þess stendur hann of föstum fótum i mannlifinu. Og þegar hann yrkir um Hamarinn í Hafnarfirði, gerir hann þessa hamraborg að tákni, sem tjáir honum sérstaka sögu og gefur honum tilefni til að koma að því efni, sem jafnan er honum hugstæðast:

Hamarskot

Hamarskot – tilgáta.

Hamarinn í Hafnarfirði
horfir yfir þétta byggð,
fólk að starfi, fley sem plœgja
fjarðardjúpin logni skyggð.
Hamarinn á sína sögu,
sem er skráð í klett og bjarg.
Stóð hann af sér storm og skruggu,
strauma, haf og jökulfarg.
Hamarinn í Hafnarfirði
horfði fyrr á kotin snauð,
beygt af oki kóngs og kirkju
klæðlaust fólk, sem skorti brauð,
sá það vaxa að viljaþreki
von og þekking nýrri hresst,
rétta bak og hefja höfuð
hætt að óttast kóng og prest.
Hamarinn í Hafnarfirði
horfir fram mót nýrri öld.
Hann mun sjá, að framtið færir
fegra líf og betri völd.
Þögult tákn um þroska lýðsins:
Þar er hæð, sem fyrr var lægð,
jökulhefluð hamrasteypa,
hafi sorfin, stormi fægð.

Hvergi hefur Örn túlkað betur ást sína á alþýðunni en i þessu stílhreina kvæði.

Þóroddur Guðmundsson

Þóroddur Guðmundsson.

Þóroddur Guðmundsson frá Sandi fjallar um Hamarinn í Alþýublaði Hafnarfjarðar árið 1962 undir fyrirsögninni „Hugleiðingar um Hamarinn“. Þar skrifar hann m.a.:
„Á nöktum klöppunum Hamarsins sjást rákir, sem allar stefna í sömu átt, frá suðaustri til norðvesturs, og bera vitni um ísaldarjökulínn, sem gekk þar yfir á sínum tíma, en úrkomur og vindar hafa síðan jafnað yfir allt. Auðvitað vantar margt og mikið í þessa sögu, svo sem upphaf hennar og svo náttúrlega það, sem gerzt hefur á þeim stutta tíma, sem liðinn er.
Um forsögu Hamarsins verð ég fáorður, enda ekki allt of margvís um hana. Þess má þó geta, að hann er myndaður úr svo nefndu grágrýti, og gerðu það „Guð og eldur“, eins og Jónas Hallgrímsson komst að orði um náttúruundrin við Þingvöll, hraunið, björgin og gjárnar, en þó miklu fyrr, því að grágrýtið hefur, eins og merkin sýna, myndazt löngu áður en Þingvallar- og Hafnarfjarðarhraun runnu, sem gerðist ekki fyrr en eftir jökultíma, og þó löngu áður en Ásbjörn Özurarson nam land milli Hraunsholts og Hvassahrauns, sem í Landnámu segir frá.

Hamarinn

Á Hamrinum.

Saga Hamarsins þau rösku þúsund ár, sem liðin eru síðan, skal ekki heldur rakin. Aðeins vil ég minna á, að bærinn Hamarskot mun lengi hafa staðið, þar sem Flensborgarskólinn stendur nú. Og eftir að Hamarskot var rifið, stóð um árabil fjós, þar sem suðurálman er. Mætti friðsæld sú, ró og öryggi, sem jafnan fylgir kúnum, gefa vistmönnum skólans eitthvað af blessun sinni, auk mjólkurinnar sem þar er neytt dags daglega.
Þegar sá, er þetta ritar, í fyrsta sinn kom til Hafnarfjarðar og gekk upp á „Hamarinn, sem hæst af öllum ber,“ eins og ég heyrði þá um hann sagt, stóð sunnan í honum áður nefnt fjós eða rúst af því, man ekki hvort heldur var. Síðar hefur mér veríð sagt, að eigandi fjóssins hafi verið merkiskonan Valgerður Jensdóttir, systir þeirra Bjarna bónda í Ásgarði í Dölum og Friðjóns læknis á Akureyri.

Hamarinn

Útsýni af Hamrinum yfir Austurgötu.

Hamarinn minnti mig þá þegar og minnir enn á hæðir þær erlendis, til að mynda í Bretlandseyjum, sem kastalar voru reistir á til varnar árásum óvina. Hins vegar getur naumast ólíkari manna verk en vopnavígi og virkiskastala gagnvart fjósi Valgerðar Jensdóttur og húsi Flensborgarskóla. Hefðu Íslendingar áður fyrr átt í styrjöldum við aðrar þjóðir, mundu þeir án efa hafa reist á Hamrinum hervirki. Og hvers virði hefði það verið, hjá beztu höín suðvestan lands? í stað þess byggðu þeir þar friðsaman bóndabæ, síðar fjós og loks ungmennaskóla. Mér finnst þetta táknrænt fyrir íslenzkan friðarvilja, sjálfsbjargarhvöt og menningarviðleitni.

Hamarinn

Hamarinn – Flensborgarskóli.

Víkjum því næst að síðasta tímabilinu í sögu Hamarsins, og þá um leið hlutdeild hans í menningarbaráttu Hafnfirðinga, með því að hann um aldarfjórðungs skeið hefur nú verið grunnur Flensborgarskóla, eins helzta menntaseturs bæjarins og þótt víðar sé leitað. Má því með sanni segja, að núverandi hús skólans hafi verið grundvallað á bjargi. En slíkt var af meistaranum frá Nasaret forðum talið viturlega gert.

Hamarinn

Markaðar klappir á Hamrinum.

Ég hef að vísu heyrt gamla Flensborgara hneykslast á því, að skólinn skyldi vera fluttur neðan frá sjó og upp á Hamar. Um slíkt geta eðlílega verið skiptar skoðanir. En hitt orkar ekki tvímælis, að góður skóli er þjóðþrifastofnun, hvort sem hann er byggður á bjargi eða sandi, hlutrænt skoðað, því að hinn andlegi grundvöllur skólans skiptir mestu máli: að hann sé bjarg þekkingar, trúmennsku, víðsýni og skilnings. Frá hendi Guðs og glóðum elds er Hamarinn meistaraverk og bæjarprýði eigi síður en aðrir bergkastalar lands vors. Og hann hefur sérstöðu meðal hamraborga: stendur í miðdepli f jölmenns kaupstaðar og er grundvöllur elztu menntastofnunar hans.

Hamarinn

Hamarinn – horft frá Austurgötu.

Hár er hann ekki, Hamarinn í Hafnarfirði, í metrum talið. Þó er hægt að beinbrjóta sig í brekkum hans, ef hált er og ógætilega farið.
Eflaust gengur margt ungmennið upp á þennan og fleiri hamra og þykist hafa hamingjuna í hendi sér, en missir hana. Sporin af jafnsléttu barnæskunnar upp á setberg unglingsáranna eru ýmsum erfið, jafnvel nauðug, þrátt fyrir það að þau eru óhjákvæmileg.
Enn þá grænkar Hamarskotstúnið á vorin. Veturlangt og daglega ár eftir ár leggja mörg hundruð ungmenni leið sína upp á þennan Hamar í leit að fróðleik og þroska, óafvitandi eða vitandi vits, með namingjuvonina í brjósti og lýsigull eftirvæntingar í hendi sér, og um tveir tugir leiðsögumanna styðja þau í þessari leit. Hvern árangur skyldi hún bera?“

Hamarinn

Jón Símon Jóhannsson á Hamrinum.

Jón Símon Jóhannsson fjallar um álfana í Hamrinum í Degi árið 1998 undir fyrirsögninni „Baráttukveðjur frá álfunum“:

Hamarinn

Hamarinn – álfasteinn.

Í Hafnarfirði er heilt konungsveldi – álfa. Í Hamrinum býr kóngafólkið og börnin þar tala þýsku.

„Það eru aðallega íbúar í húsunum við Hamarinn sem verða varir við álfana og geta sagt frá samskiptum sínum við þá. Sjáendur segja að þeir séu vel klæddir og vel efnum búnir. Sumir hafa sagt að þessir álfar séu af konungakyni. Þetta séu höfðingjar meðal álfa. Svo er það fólkið sem hefur búið kringum Hamarinn. Þeir segja frá því að hlutir hafi horfið og hafa staðið í þeirri trú að álfarnir hafi tekið hlutina,“ segir Símon Jón Jóhannsson þjóðfræðingur.

Engin hætta fyrir börn

Hamarinn

Hamarinn – útsýni.

Símon Jón er kennari í Flensborgarskóla í Hafnarfirði og hefur meðfram starfi sínu þar kannað þjóðsögur úr Hafnarfirði með það að markmiði að gefa út bækling eða litla bók. Hann segist lítið hafa fundið af beinum þjóðsögum tengt álfatrúnni og álfabyggðinni í Hafnarfirði enda ekki rétt að blanda þeim við það sem sjáendur segja. Í þjóðsögunum sé frekar fjallað um þá staði sem álfatrúin sé tengd við.

Hamarinn

Hamarinn – hamraborg.

Hann segir að af öllum stöðum loði álfatrúin mest við Hamarinn, klettinn við Flensborg. Álfatrúin komi helst fram í samtölum við fólk, nágranna álfanna.
„Það orð fer af Hamrinum að þar sé börnum engin hætta búin. Talsvert er um að börn séu að leika sér þar og menn fullyrða að þar hafi ekki orðið slys þó að klettarnir séu háir. Börn, sem leika sér þar, meiða sig ekki,“ segir Símon Jón sem sjálfur hefur verið nágranni álfanna í Hamrinum en hann bjó í einu af húsunum undir Hamrinum um nokkurt skeið.
Hann segist sjálfur ekki hafa séð álfa eða orðið var við þá en hafa fundið það vel á mannfólkinu grönnum sínum í húsunum í kring, fólki sem hafði búið þar lengi, að það gekk út frá því að álfar byggju í Hamrinum.

Vildu ekki barnaheimilið

Flensborg

Flensborg á Hamrinum.

„Fyrir tiltölulega fáum árum stóð til að byggja barnaheimili nærri Flensborg sem jafnframt hefði orðið í grennd við Hamarinn. Það voru átök í bæjarsamfélaginu vegna þessarar byggingar. Þá hafði samband við Kristján Bersa Ólafsson, skólameistara í Flensborg, miðill sem sagði að álfar hefðu haft samband við sig og beðið sig um að koma á framfæri baráttukveðjum til Kristjáns. Þeir vildu ekki barnaheimili við Hamarinn. Síðar var hætt við að byggja barnaheimilið á þessum stað en það var ekki vegna álfanna,“ segir Símon Jón. Hann bendir jafnframt á að sjáendur hafi greint frá því fyrir nokkrum árum að álfabörnin leiki sér mikið á svæðinu kringum Flensborg og að þau tali þýsku.

Hamarinn

Hamarinn – útsýni yfir miðbæ Hafnarfjarðar.

Flensborg sé náttúrlega þýsk borg auk þess að vera framhaldsskóli í Hafnarfirði. Þýskustofurnar í skólanum snúi út að Hamrinum og hann rifjar upp að kennararnir hafi gantast með það fyrir nokkrum árum að það sé laglegt ef þeir séu með mun fleiri í þýskutímunum en virðist við fyrstu sýn. Kannski ágætis ábending í kjarabaráttu…
„Mér skilst á fólki, sem hefur búið lengi á þessu svæði, að það reikni með því að það sé álfabyggð í Hamrinum,“ segir hann.

Sjá meira um Hamarinn HÉR, HÉR og HÉR.

Heimildir:
-Skinfaxi, 1. okt. 1948, Stefán Júlíusson – Um skáldskap Arnars Arnarssonar, bls. 86
-Alþýðublað Hafnarfjarðar, 15. des. 1962, Þóroddur Guðmundsson frá Sandi – Hugleiðingar um Hamarinn, bls. 4-5.
-Dagur, Lífið í landinu, 2. april 1998, Símon Jón Jóhannsson – Baráttukveðjur frá álfunum, bls. 1.

Hamarinn

Hamarinn.

Lambhagi

Eftirfarandi grein eftir Gísla Sigurðsson um Hraunabæina, „Suður í Hraunum„, birtist í Lesbók Morgunblaðsins árið 1978:

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnastaðir í Hraunum – tilgáta.

„Hraunamennirnir gapa hvorki né góna lengur, því þeir eru engir til utan einn maður. Skilyrði til nútíma búskapar eru þar naumast fyrir hendi, en unaðslegt er að ganga þar um í góðu veðri.
Suður í Hraunum er mikill unaðsreitur, sem fáir vita þó um. Þar eru djúpir grasbollar og háir hraunhólar.
Komin er sólin Keili á og kotið Lóna, Hraunamennirnir gapa og góna, Garðhverfinga sjá þeir róna. Þær byggðir, sem við taka á Reykjanesskaga sunnan Hafnarfjarðar, voru fyrr meir kallaðar einu nafni „suður með sjó“. Færi einhver að ná sér í skreið eða annað sjómeti „suður með sjó“ þurfti ekki að skýra þaö nánar. Þessar byggðir voru ekki búsældarlegar; sjórinn var gjöfulli en landið. Fátæktin var einatt förunautur þeirra, sem bjuggu á kotunum suður með sjó, hvort heldur það var allar götur vestur í Leiru, í Höfnum, á Vatnsleysuströnd eða suður í Hraunum.
Straumur-800Nú er byggðin í Hraunum nánast að engu orðin. Eftir standa fáein hús, sem sumpart eru auð og mannlaus og sumpart hefur verið breytt í sumarbústaði. Enda þótt þessi gamla byggð sé í næsta nágrenni við þéttbýli Reykjavíkursvæðisins, munu þó næsta fáir, sem vita um tilvist hennar eða þangað hafa komið. Þeim sem óljósar hugmyndir hafa um Hraunin, skal bent á, að sú byggð hefst þegar komiö er framhjá Álverinu í Straumsvík á leið til Keflavíkur. Sveigt er út á malarveg hjá Straumi, sem dregur trúlega nafn sitt af fallegum lindum með bergvatnsstraumi, og líður undan hrauninu og myndar fallegar tjarnir á leið sinni út í víkina.
Leiðin liggur um hlaðið í Straumi, þar sem stendur þrístafna timburhús í herragarðsstíl og er þó í eyði. Þetta glæsilega íbúðarhús byggði Bjarni Bjarnason, sem síðar varð landskunnur maður sem skólastjóri á Laugarvatni.
Ottarsstadir eystri-800Hann var þá kennari og skólastjóri í Hafnarfirði, en hafði fjárbú og ráðsmann í Straumi og var þá kominn í kynni viö Jónas frá Hriflu. Þaðan og frá Guðjóni Samúelssyni komu áhrifin, sem leiddu til burstabæjarins í Straumi og síðar var þessi stíll endurtekinn í byggingu héraðsskólans á Laugarvatni. Húsið í Straumi var byggt 1927.

Stóri-Lambhagi

Tóftir Stóra-Lambhaga.

Þegar ekið er inn á bílastæði álversins, verða tóftir þar sem hallar niður í fjöruna og standa vel uppi. Þar stóð bærinn Stóri-Lambhagi og á hraunhrygg, sem skagar út í Straumsvíkina, stóð Litli Lambhagi. Báðir þessir bæir fóru í eyði fyrir löngu. Annað bæjarstæði, sem ekki sést af veginum, er á vinstri hönd, þegar farið er suðurúr. Þar hétu Þorbjarnarstaðir og standa þar uppi túngarður og traðir ásamt með rústum af bænum. Þar var hætt búskap um 1930. Þurrabúð eða hjáleiga frá Þorbjarnarstöðum var nær veginum, þar sem nú stendur sumarbústaður undir fallegri brekku. Þar hét í Gerði.
Sé farið um hlaðið í Straumi, liggur malarvegur áfram til norðurs og vesturs yfir hraunhryggi og gjótur, sem því miður hafa of oft orðið athvarf fyrir bílhræ og er til mikilla lýta.

Þýskabúð

Þýskabúð.

Út með víkinni stendur Þýzkabúð ennþá uppi og utar í hvarfi stóð Jónsbúð. Þýzkabúð fór í eyði fyrir 1950 og telur Gísli fræðimaður Sigurðsson í Hafnarfirði, aö nafnið sé dregið af því, að Þjóðverjar hafi verzlað þarna fyrir margt löngu.
Á graskraga, sem verður á hraunjaðrinum vestur með ströndinni, hefur verið einna búsældarlegast í Hraunum og raunar er þar eini grasbletturinn, sem máli skiptir. Þar stóðu bæirnir Eystri og Vestari Óttarsstaðir og bærinn á Vestari Óttarsstöðum stendur enn meö þeim glæsibrag, að ástæða væri til að varðveita hann.
ottarsstadir vestri-800Heiðurinn af því eiga systur, sem þar ólust upp og eignuðust síðan jörðina og búa þar á sumrum. Þar er ævintýri líkast aö koma; svo vel er allt varðveitt og bærinn snýr hvítmáluðum bárujárnsþiljum til suðurs.
Á Eystri Óttarsstööum stendur timburhús, sem ekki er haldið við, en Guðmundur bátasmiður, sem þar er upprunninn, hefur byggt sér íbúðarhús lítið eitt austar og skýli yfir bátasmíðina. Þar stendur uppi
í fjörunni flak af timburskipi, sem hefur orðið málurum yrkisefni og fallegt á sinn hátt, enda þótt það hafi lokið hlutverki sínu. Guðmundur bátasmiður hafði á orði við okkur Helga Sæmundsson að dregist hefði úr hömlu að bera eld að því, en við báðum hann lengstra orða að þyrma flakinu.
Hus GudmundarStundum er mönnum svo mikið í mun að eyða því, sem ónýtt er talið, að þeir gá ekki að því að það geti haft neitt annað gildi. Í nánd við Hafnarfjörð stóðu ekki alls fyrir löngu nokkur falleg flök af timburskipum, sem ævinlega voru augnayndi. Mikið kapp var lagt á að fjarlægja þau með krafti stórvirkra véla og heföi verið nær að beina orkunni gegn mengun frá fiskimjölsverksmiðjunni ellegar smekkleysi Olíufélagsins, sem blasir við meira en flest annað í Hafnarfirði.
Á bæjunum í Hraunum var nálega einvörðungu stundaður fjárbúskapur og stílað uppá beit. Þar er snjólétt, en heyfengur hefur líka verið næsta lítill. Útræði var úr Óttarsstaðavör og Straumsvík.
Sumarbústaðir hafa risið þarna í lautum, en ekki ber mikið á þeim og þurrabúðin Eyðikot frá Óttarsstöðum hefur verið byggð upp og er nú glæsilegur sumarbústaður.
Gudmundur batasmidurVestan við Óttarsstaði þrýtur
graslendi og verður úfið hraun, sem runnið hefur fram í sjó. Er þar spölkorn, sem aldrei hefur byggzt, unz kemur að Lónakoti. Þar stendur íbúðarhúsið uppi að nokkru leyti, en ekki hefur verið búið þar síðan Lónakot fór í eyði eftir 1950. Síðasti bóndi þar var Sæmundur Þórðarson frá Vogsósum en nú á Kornelíus kaupmaður Lónakotið og hefur þar kindur. Beit þótti góð í Lónakoti, en túnið var aðeins örlítill bleðill og lá sífellt undir skemmtum af ágangi sjávar. Ekki voru skilyrði til lendingar viö Lónakot og því ekkert útræöi þaðan. En við Óttarsstaðavör hafa þeir staðið gallvaskir og skinnklæddir við sólarupprás og horft á Garðhverfinga róna eins og segir í vísunni.“

Lambhagi

Litli-Lambhagi; eldhúsið.

Gísli skrifaði einnig eftirfarandi grein um Hraunabæina í Lesbók Morgunblaðsins árið 2000:
NÚTÍMINN fór að mestu leyti hjá garði í Hraununum, en hann sést tilsýndar þaðan. Álverið gnæfir yfir í næsta nágrenni og skammt fyrir sunnan, á Keflavíkurveginum, æðir umferðin viðstöðulaust fram og til baka. Ef til vill er það þversagnarkennt, en nú er hægt að njóta þessa umhverfis einmitt vegna þess að nútímanum þóknaðist að koma ekki við í þessari horfnu byggð. Annars væri búið að setja jarðýtur á alla þessa grjótgarða sem falla svo vel að landinu; það væri búið að moka hólunum ofaní lautirnar, mylja hraunið til að ýta upp vegum og síðan væru athafnaskáldin búin að byggja eitthvað flott úr steinsteypu. En fyrir einhverja guðslukku fóru framfarirnar þarna hjá garði. Og Hraunamennirnir höfðu ekki bolmagn til þess að bylta umhverfinu. Það mesta sem vélaöldin hefur skilið eftir sig eru nokkur bílhræ.
Eydikot-800Svo að segja beint suður af Straumsvík, snertuspöl handan við Keflavíkurveginn, eru rústir bæjarins á Þorbjarnarstöðum. Ekki ber mikið á þeim; grasbeðjan miskunnar sig yfir þessi fátæklegu mannanna verk. Um búskap og mannlíf á Þorbjarnarstöðum er næsta lítið að finna í rituðum heimildum, en búsetu þar lauk eftir 1930. Svo er að sjá af tóftunum að þarna hafi alla tíð verið torfbær. Í kring er talsvert graslendi sem verið hefur tún. Hlaðnir túngarðar standa enn uppi, svo og Þorbjarnarstaðarétt. Einn af morgum fallegum blettum í landi Þorbjarnarstaða, sem nú er í eigu Hafnarfjarðar, er við tjarnirnar sem verða inn af Straumsvík. Þar eru silfurtærar upppsprettur undan hraumnu, vatnsból sem  ekki hefur brugðist.
Þyzkabud-800Steinsteypuöldin náði ekki til Hraunabæjanna svo teljandi væri; þó á að heita svo að standi uppi íbúðarhúsið Þýzkubúð. Hvort þessi hjáleiga frá Straumi hefur einhverntíma verið nefnd Þýzkabúð er ekki vitað.
En samkvæmt talshætti í Hraununum heitir húsið Þýzkubúð og er nafnið rakið til þess að Straumsvík var verzlunarstaður frá árinu 1400 og fram yfir 1600, en þá vöndu þýzkir og enskir kaupmenn komur sínar til landsins.

 

Straumur

Hróf ofan Straumsvarar.

Þá voru verzlunarbúðir þýzkra höndlara settar upp við varir út með Straumsvíkinni og þótt aldir hafi liðið eru nöfnin enn við lýði: Þýzkubúð og Þýzkubúðarvarir syðri og nyrðri. Nú stendur íbúðarhúsið í Þýzkubúð eitt til minningar um verzlunarstaðinn og hjáleiguna sem síðan reis þar. Húsið er af sér gengið, opið fyrir veðrum og vindi, hryggðarmynd. Samt var þetta steinsteypt hús, en hvenær það reis virðist enginn vita með vissu; það var snemma á öldinni. Síðar var byggt við það einhverskonar bíslag sem hangir uppi. Á barnsaldri átti Eiríkur Smith listmálari heima um tíma í Þýzkubúð.
ottarsstadir eystri-801Lítið eitt utar með víkinni og örskammt frá sjávarkambinum og Jónsbúðartjörn var þurrabúðin eða hjáleigan Jónsbúð á örlitlum túnbletti. Grjótgarður í kring, hraunhólar og grasigrónir bollar.
Jónsbúðarvör er beint niður af bænum og skaga Skötuklettar út í Straumsvíkina sunnan við víkina. Tvær samliggjandi tóftir sýna hvernig bærinn hefur verið, en Umhverfis- og útivistarfélag Hafnarfjarðar lét kanna Jónsbúð með prufuholugreftri og Fornleifafræðistofan hefur staðið að samantekt þar sem sjá má niðurstöður Bjarna F. Einarssonar fornleifafræðings. Líklega var ekki eftir neinu stórkostlegu að slægjast, enda fátt markvert sem kom í ljós. Þó voru rústir bæjanns nær óspilltar; ekkert jarðrask hafði átt sér stað þar.

Ástæða er til þess að vekja athygli á þessum stað vegna þess að að minjar af þessu tagi eru hvergi sýnilegar lengur á höfuðborgarsvæðinu.

Jónsbúð

Jónsbúð – tilgáta ÓSÁ.

Staðurinn geymir allar þær minjar sem við má búast að sjáist eftir þurrabúð eða hjáleigu; þar á meðal bæjarhús, túngarð, skepnuhús, vör, vörslugarð, hjall, sólþurrkunarreit og vatnsból. Tvær prufuholur sem grafnar voru í gólf bæjarhúsanna leiddu í ljós brennd og óbrennd bein fiska, fugla og spendýra. Kindakjöt, fiskur og fugl hefur venð á borðum í Jónsbúð og svartfugl gæti hafa verið veiddur til matar. Þrátt fyrir túna- og slægjuleysi hefur einhvern veginn verið aflað heyja handa einni kú. Önnur tóftin leiðir í ljós að þar hefur verið hálfþil og bæjardyr, en jafnframt fjós, og sást það á flórnum. Úr fjósinu hefur síðan verið gengið lítið eitt upp í baðstofuna, enda var sú skipan vel þekkt og hugsuð til að nýta hitann frá þlessuðum skepnunum.
Á baðstofunni hefur verið hálfþil og gluggi. ottarsstadir eystri-803Það er þurrabúðargerð hin yngri, sem svo er nefnd, en eldn gerðin var alveg án þilja, glugga og bursta; þesskonar bæir urðu nánast eins og hverjir aðrir grasi grónir hólar í landslaginu. Ekki er vitað um upphaf Jónsbúðar en búið var þar á 19. öldinni og eitthvað fram á þá 20. Tvö steinhlaðin mannvirki vekja athygli þegar ekið er eftir vegarspottanum vestur frá Straumi. Annarsvegar er mannhæðarhá tóft úr tilhöggnu og steinlímdu grjóti. Hún heitir Gíslatóft og var í henni útieldhús frá Óttarsstöðum eystri. Vestar er Eyðikot, sem nú er sumarbústaður í burstabæjarstíl og með fagurlega hlöðnum veggum úr hraungrjóti og veruleg prýði er að grjótgarði framan við húsin.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir eystri – eldhús.

Þarna stóð áður hjáleiga með sama nafni; einnig nefnd Óttarsstaðagerði. Umhverfi Óttarsstaðabæjanna er búsældarlegt á móti því sem menn hafa þurft að búa við á öðrum Hraunabæjum. Þarna eru grasgefin og ræktarleg tún sem hestamenn virðast nýta til beitar.
Í Jarðabókinni frá því skömmu eftir 1700 er einungis nefnd ein jörð sem heitir Óttarstaðir, en að auki þrjár hjáleigur; Eyðikotið var eitt af þeim. Jarðardýrleikinn er óviss, segir Jarðabókin og jafn óvisst er hvort átt sé við báðar Óttarsstaðajarðirnar, en kóngurinn á slotið og leigur betalast í smjöri heim til Bessastaða.
lonakot-800Auk þess eru kvaðir um mannlán á vertíð, „item tveir hríshestar“ sem taka á í Almenningi og „leverast in natura“ heim til Bessastaða.
En það er sama sagan og í Lónakoti og áður var nefnt: Ábúandinn kvartar yfir því við Bessastaðavaldið „að ærið bágt sé orðið hrís að útvega og meinar sér léttara vera fyrir þessa tvo hríshesta að betala tíu físka, þá guð gefur fiskinn af sjónum“.
Fimm kýrfóður á túnið að gefa af sér og hefur þótt ekki lítil búsæld í Hraunum. Af hlunnindum nefnir Jarðabókin útigang „þá mestu hörkuvetur ei inn faiia“, hrognkelsatekja er í lónum þegar fjarar, heimræði er árið um kring, lending í meðallagi, en lítil rekavon.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir – skipasmíðastöð við Óttarsstaðavör.

Gallar jarðarinnar eru hinsvegar að engjar eru ekki til, að gripir farast stundum í gjám þegar snjóar yfir liggja og afleitt er það líka að torfstunga, þ.e. torfrista, er nánast engin. Vatn var sótt í djúpan brunn í túninu á aðfallnu, en vatnið í honum var alltaf ferskt. Þar gilti sama lögmál og í lónunum sem áður voru nefnd. Þessi brunnur er með grjóthleðslu að innanverðu, en því miður hálffullur af plasti og öðru sem fokið hefur í hann.
Gamalt íbúðarhús er á Óttarsstöðum eystri, en það er ónýtt vegna hirðuleysis. Í gegnum brotna glugga og opnar dyr eiga snjór, regn og vindar greiða leið, en á hlaðinu skartar vörubílshræ.
ottarsstadir vestri-802Annað bílhræ er í fallega hlaðinni tóft lítið eitt sunnar. Óttarsstaðahúsið er samt sögulega merkilegt. Upphaf þess má rekja til skipsstrands sem varð við Þórshöfn, skammt sunnan við Stafnes árið 1881. Þá rak kaupfarið Jamestown mannlaust að landi og var bjargað úr því góðum feng af dýrindis húsaviði, um 100 þúsund plönkum. Þótti þetta mikil himnasending í timburskortinum og risu af þessum viðum mörg ný hús suður með sjó og þetta eina hús í Hraununum, á Óttarstöðum eystri. Húsið var síðar bárujárnsklætt.

Áður hafði bærinn á Óttarsstöðum eystri verið vestar, uppi í brekkunni hjá vesturbænum. Fátt er þar til minja um hann annað en hlöðuveggir sem hafa verið fágætlega vel hlaðnir og standa enn.

Óttarsstaðir

Hesthúsið að Óttarsstöðum eystri. í gamla bæjarstæðinu.

Síðustu ábúendur á jörðinni, hjónin Guðrún Bergsteinsdóttir og Sigurður Kristinn Sigurðsson hættu búskap þar 1952. Síðasti maður sem hafði fasta búsetu í Hraunum var hinsvegar Guðmundur sonur þeirra. Hann var bátasmiður og byggði sér hús niðri við fjörukambinn, en það er nú horfið. Guðmundur bátasmiður lézt 1985. Þennan jarðarpart, sem talinn var 5 ha, á fjölskyldan þó ekki lengur. Guðni Ívar Oddsson keypti hann 1979 og flutti síðan til Ameríku. Hann er dáinn en sonur hans, Paul I. Oddsson, erfði jörðina og hefur hann aldrei til Íslands komið.
Þyskabud-803Spölkorni vestar og uppi á hæð stendur bærinn á Óttarsstöðum vestri, fallega varðveittur timburbær, bárujárnsklæddur, og gefur góða hugmynd um útlit bæja snemma á öldinni áður en steinsteypuöld hófst. Þarna er fallegt bæjarstæði og líklega það elzta í Hraunum, einkum er víðsýnt út yfir Norðurtúnið, Langabakka og flóann til norðurs. Til suðurs sést minna en ætla mætti, því hraunbrúnin þar er há. Vestur af bænum hefur myndast hryggur tignarlegra hraunhóla og eftir honum endilöngum er frábærlega fallega hlaðinn grjótgarður. Austan við bæinn, þar sem eru grasi grónar lautir, er merkilegur hraunhóll í einni lautinni. Hann er svo sprunginn að hann er ekki kallaður hóll, heldur Hrafnagjá, enda hægt að ganga á jafnsléttu í gegnum hann á ýmsa vegu. Munnmæli herma að kirkjugarður hafi verið hjá Óttarsstöðum og hefur verið talið að enn móti fyrir honum. Þar eru og leifar af bænahúsi.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir vestri.

Á Óttarsstöðum vestri var búið til 1966, en bænum hefur verið vel við haldið. Síðustu ábúendur á Óttarsstöðum vestri voru Ragnheiður Hannesdóttir, húsfreyja á Óttarsstöðum vestri, og Guðmundur Sigurðsson, bátasmiður á Óttarsstöðum, síðasti maður sem átti heima í Hraunum.
Síðustu ábúendur á Óttarsstoðum eystri voru hjónin Áslaug Jónsdóttir og Guðmundur Ingvarsson frá Ketilvöllum í Laugardal. Þau hófu búskap þar 1918, keyptu jörðina þá og bjuggu þar til 1966, en dóu þá með þriggja vikna millibili.
ottarsstadir eystri-805Þau Óttarsstaðahjón áttu tvær dætur, Jónínu og Ragnheiði, sem er 84 ára og lét greinarhöfundi ýmislegt gagnlegt í té. Hún minnist þess úr föðurhúsum að faðir hennar sló allt túnið með orfi og ljá, enda var það ekki véltækt. Bústofninn var um 100 kindur þegar mest var, einn hestur og tvær kýr. Síðustu fimm árin bjuggu þau aðeins með kindur. Ragnheiður minnist þess að fénu var haldið að fjörubeit og þá staðið yfir því, en langmest var þó beitt á hraunið. Faðir hennar og Sigurður bóndi á Óttarsstöðum eystri reru saman til fiskjar þegar gaf á sjó, en þeir fóru aðeins skammt út fyrir og aldrei var vél í bátnum. Vestur með sjónum voru fiskbyrgi, sem enn sjást. Þar var fiskurinn þurrkaður. Börn Ragnheiðar og Jónínu eru núverandi eigendur jarðarinnar og þau eiga heiðurinn af
því að halda bænum í góðu horfi.
Vestur frá Óttarsstaðavör er malarkamburinn næstum þakinn lábörðum steinum, sem einu sinni voru hraunklappir og hafrótið braut upp. Það kom í ljós í Surtsey að brimið við ströndina þurfti ekki ýkja langan tíma til þess að gera lábarinn hnullung úr hrjúfum hraunsteini. En vörin hefur myndazt með því að hraunrani, sem oft flæðir yfir, girðir fyrir að norðanverðu. Þar fyrir utan snardýpkar skyndlega, sögðu mér kafarar sem voru að skoða sig um á botninum. En nú ýtir enginn lengur úr Óttarsstaðavör.“

Óttarsstaðir

Óttarsstaðavör.

Eftirfarandi grein birtist í Vísi árið 1969 um síðasta bóndann við Straumsvík:
Hin mikilfenglegu mannvirki, sem rísa upp norðan Straumsvíkur, vekja athygli þeirra vegfarenda, sem ekki eru þar daglega á ferð. En sjálfsagt verður það með þau eins og margt annað, að vaninn slævir eftirtektina og hin því nær kílómetralanga verksmiðjubygging hættir að vekja sérstæð viðbrögð augans.
Hraunið, sem nú hefur verið brotið niður, bjó yfir dulrænni fegurð í litbrigðum ljóss og skugga. Á því var aldrei hinn óumbreytanlegi kuldasvipur steinmúranna. Lifandi mosafeldur brosti við skapara sínum eins og önnur jarðarinnar börn.
ottarsstadir vestri-805Árið 1891 bjuggu í Stóra-Lambhaga i Hraunum, Guðjón Gíslason og Kristbjörg Steingrímsdóttir. Þann 21. september það ár fæddist sonur þeirra Magnús. Þá var fjölbýlt í Hraunahverfinu, enda fólkið margt, búskapur nokkur og áraskipaútgerð. Guðjón var útvegsbóndi, hélt út og stjórnaði sjálfur sex rónu skipi, varð honum gott til manna, því hann var ötull sjósóknari og aflasæll. Þótt oft væri snöggslægt Lambhagatúnið eftir langvarandi þurrka, tókst honum oftast að hafa tvær kýr og rúmlega eitt hundrað sauðfjár. En sum ár varð hann að sækja nokkurn heyskap inn á Álftanes. Á þessum tíma voru eftirtalin býli og hjáleigukot í Garðahreppi sunnan Hvaleyrar: Stóri-Lambhagi, Litli-Lambhagi, Gerði Þorbjarnarstaðir, Péturskot, Straumur, Þýzkabúð, Jónsbúð, Kolbeinskot, Eyðukot, Óttarsstaði og Lónakot. Það var yzti bær í Garðahreppi hinum forna.
Eins og fyrr er sagt, var mikil sjósókn frá þessum bæjum meðan ennþá var öld áraskipanna. Oftast var stutt róið. Aðalmiðin voru Lóndjúpið, Brúnin eða vestur á Svið. Til bar það, að farið var út í Garðssjó væri ördeyða á innmiðum, en þangað var að eins farið á velbúnum skipum að forviði, veiðarfærum og mann afla.
Eydikot-802Venjulega var aflavon þangað til togararnir fóru að skafa botn inn meðfram ströndinni, þá skipti sköpum. Ýmsir útvegsbændur voru brúnaþungir þegar þeir sáu aðfarirnar. Fullir pokar voru dregnir upp. Koli og lúða var hirt en öðrum fiski var hent og flaut hann dauður um allan sjó. Þetta varð til þess að sumir fóru að sækja í togara. Aðrir voru svo stórir af sjálfum sér að þeir höfðu ekki skap til en sátu í landi með sárt ennið, og bölvuðu ástandinu án þess að fá nokkuð að gert. Á vertíðinni var oft margt að komumanna, sem reru á útvegi heimabænda. Lending var fremur góð umhverfis Straumsvíkina bæði í Stóra-Lambhaga og þó sérstaklega við Straum eða í Straumsós en inn á hann varð aðeins komizt á flóði og þarna er mikill munur flóðs og fjöru.
Á þessari öld, þegar ýmiss konar skoðanakannanir virðast vera mjög ofarlega á dagskrá, er það ekki óalgengt, að þeir sem fræðast vilja taki upp símann, velji númer og spyrji um álit manna, sem þeir aldrei áður hafa átt nein samskipti við. Vel má vera að með svona hátta lagi þyki sumum sér nóg boðið, jafnvel þótt orðnir séu aldurhnignir og hafi á langri leið ýmsu kynnzt og mörgu vanizt.

Straumur

Straumur 1935.

Bifreiðin undir stjórn Magnúsar Guðjónssonar rennur mjúklega suður Hafnarfjarðarveginn. Hann er kunnugur þessari leið gamli maðurinn, því frá árinu 1916, að hann tók bifreiðastjórapróf hjá Agli Vilhjálmssyni, hefur hann oft setið undir stýri og lengst af milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur. Hann vildi gjarnan láta fólkinu í sín um heimabæ góða þjónustu í té og auðvelda því ferð til höfuðstaðarins. Árið 1922 fékk hann Kristján vagnasmið til þess að byggja fyrir sig farþegahús á vörubíl. Það rúmaði 13 manns. Þá varð Steindór Einarsson reiður og sagði að með þessu væri Magnús að stofna til harð vítugrar samkeppni við sína dýru og fullkomnu fólksbíla, en hann hafði þá keypt eina tuttugu slíka.

Gudmundur batasmidur-2

En Magnús lét sig ekki og hélt sínu striki, sagði aðeins: „Stærri bifreiðar til fólksflutninga er það sem koma skal“, og sú varð raunin á. Það sá Steindór síðar.
– Sjáðu, hérna, þar sem við ökum meðfram höfninni í Hafnarfirði var áður sjór. Þetta er nýtt land giört af mönnum. Þar sem vegurinn liggur framan undir hamrinum var áður hyldýpi. Í Ásbúðum bjó Andrés Jónsson. Ásbúðir, það er litli bærinn með fánalitunum þarna undir brekkunni Andrés safnaði fornminjum. Ég starfaði að þessu með honum af og til í fimmtíu ár, ók út um sveitir og sótti muni. Nú er sérstök deild í Þjóðminjasafninu, sem varðveitir þessar minjar, — Ásbúðasafnið.
— Hér er Óseyrin, þar var áður býli og oftast vel búið. Einu sinni átti þar heima Ísak í Fífuhvammi. Einar Þorgilsson útgerðarmaður þurrkaði fisk á grandanum framan við eyrina. Þarna syðst er svo Hvaleyrin. Sú jörð átti landamerki móti Stóra-Lambhaga. Í Óseyrarog Hvaleyrartjörnum var fyrrum; -mikil rauðsprettuveiði.
-Já, ég man vel aðra mynd af Hafnarfirði en þá sem nú er sýnileg þeim sem um veginn fara.
Nú erum við komnir móts við hið mikla mannvirki — Álbræðsluna — sem reist hefur verið á landi Stóra-Lambhaga.

Lambhagi

Lambhagi – grunnur íbúðarhúss. Eldhúsið fjær.

— Hér er orðin breytt síðan ég var að smala hraunin og ára skipum var hrundið á flot og ráð ið til hlunns í Straumsvíkur- og Lambhagavörum. Fyrstu sjóferðina fór ég 9 ára gamall. Ekki mun þá hafa verið til mikillar liðveizlu ætlazt enda var pilturinn lítt til stórræða, því sjóveikin þjakaði mig mjög og var svo jafnan, enda þótt ekki þýddi að láta slíkt á sig fá. Uppeldissystur minni, Margréti Magnúsdóttur, var öðruvísi farið. Hún var bæði kjarkmikil og sjósterk, enda reri hún sem dugandi karlmaður væri og þótti engu síður hlutgeng. Ekki sjaldan kom það fyrir, að hún fór á sjóinn þegar verra var veður og ég kaus heldur að hirða fé föður míns.

Stóri-Lambhagi

Tóftir Stóra-Lambahaga við Straumsvík.

Einu minjarnar um hina fornu byggð í Stóra-Lambhaga er vörina, sem lent var og þetta gamla fjárhús við sjóinn. Í Straumi bjó lengi Guðmundur Símonarson. Hann hafði stórt bú. Þó sérstaklega sonur hans, Guðmundur Tjörfi, hann hafði mikinn fénað. Hjá honum var „Stjáni blái“ oft á veturna áður en vertíð hófst. Stjáni ólst upp hjá séra Þórarni í Görðum, kom þangað 7 ára gamall frá Klöpp í Reykjavík. Séra Þórarinn keypti áraskip handa honum og Óla Garða. Stjáni var mikill sjómaður, ég þekkti hann vel. Þegar hann fór sína síðustu för var ég á bryggjunni í Hafnarfirði. Stjáni var örlítið ör og þegar ég hafði orð á því að honum lægi ekkert, á úteftir, leit hann til mín þeim augum, sem gáfu greinilega til kynna, að það væri hann en ekki ég, er réði þar ferðinni. Mun ég sennilega hafa verið einn þeirra síðustu, sem rétti honum höndina til kveðju.

ottarsstadir eystri-807

Svo „strengdi Stjáni klóna“, settist við stjórn og tók stefnu fyrir Keilisnes. Hann var þá búsettur í Keflavík. Hið snjalla kvæði, sem Örn Arnarson kvað, mun gefa nokkuð sanna hugmynd um þessa síðustu siglingu og einnig um manninn sjálfan, Meðan Stjáni var formaður fyrir séra Þórarin í Görðum reri hann venjulega úr Garðavör og sótti oftast út á Svið.
— í Straumi bjó síðar Bjarni Bjarnason, sem lengi var skólastjóri héraðsskólans á Laugarvatni. Hann var þá kennari í Hafnarfirði. Nú eru því nær öll hraunabýlin í eyði fallin. Að vísu hefur verið rekið svínabú í Straumi, en heyrt hef ég á orði haft, að þeim rekstri mundi senn lokið.

Straumur

Straumur 1930.

Á Óttarsstöðum eru heimilisföst roskin hjón. Húsbóndinn stundar smíðar og auk þess hafa þau nokkur hænsni. Öll þau ár, sem ég var heima í Stóra-Lambhaga, voru í Eyðikoti þrjú systkini – bræðurnir Sveinn og Guðmundur og systirin Steinunn Bergsteinsbörn. Sveinn var sjómaður en Guðmundur var sjálfmenntaður járn
smiður. Hann smíðaði mikið af skónálum og brennimörkum. Smiðjuhurðin bar glögg merki þeirrar iðju. Eins og ég drap á áðan, þá höfðu bændur hér í hverfinu talsverðan búpening. Enda þótt heyfengur væri venjulega rýr, þá kom þar á móti, að sauðfé var mjög létt á fóðrum. Marga vetur kom það aldrei í hús, nema lömbin fyrsta veturinn.
Þegar Thorbjarnastaðarrett-800verri voru veður lá féð í hellisskútum hér og þar í hrauninu. Ef tað safnaðist í þá voru þeir þrifnir og stungið út úr þeim, mátti segja að hér væri um að ræða nokkurs konar fjárhús. Þrátt fyrir það, að hraunið virðist gróðurvana yfir að sjá, þá þreifst féð vel bæði vetur og sumar, en hirðingin var erilsöm, sérstaklega á vorin, því víða eru jarðföll og holur, sem hættuleg eru nýfæddum lömbum og þungfærum ám. Yfir þessu þurfti að hafa vakandi auga.
Það féll oft í minn hlut að sinna þessu starfi meðan ég var drengur heima í Lambhaga, og kunni ég því vel.

Lambhagi

Litli-Lambhagi; útihús og eldhús.

Þó hér sé ekki sprottið til lands að líta er víðáttan fögur og heillandi, sérstaklega á vorin, og hraunið býr yfir meiri og fjöíbreyttari náttúruöflum en ætla mætti þegar menn líta yfir það sem
hraðfara vegfarendur. Það er margur fagur reitur falinn í skjóli hraunborganna. Þeir voru engir smákarlar sumir bændurnir hérna á ströndinni í gamla daga. Guðmundur á Auðnum, Guðmundur í Landakoti, Guðmundur í Flekkuvík og Sæmundur á Vatnsleysu. Þeim Guðmundi á Auðnum og Sæmundi þótti nú sopinn góður og komið gat fyrir að kaupstaðarferðin til Reykjavíkur tæki þá upp undir hálfan mánuð. Þá var komið við á bæjunum, þeginn og veittur beini, sem orsakað gat næturdvöl. En þetta voru dugnaðarmenn, aflasælir og sjálfum sér nógir.

Ottarsstadavor-800

Ég hef svo sem fengizt við ýmislegt fleira en aksturinn, enda þótt ég telji hann hafa verið mitt aðalstarf um ævina. Í tíu ár fékkst ég við útgerð og átti um sjö ára skeið elzta skipið í íslenzka veiðiflotanum, m.b. Njál, 38 lestir að stærð. Nokkuð kom ég einnig við verzlunarsöguna bæði sem
sjálfstæður aðili og nú síðustu átta árin verið innheimtumaður hjá firmanu Nathan & Ólsen.
— Jú, ég kvæntist árið 1913.
Konan mín hét Herdís Níelsdóttir, ættuð úr Hafnarfirði. Við bjuggum saman í 33 ár, þá lézt hún. Við vorum barnlaus og nú er ég einn míns liðs.
— Okkur liggur ekkert á, ég er minn eigin herra í dag.

Straumsvík

Álverið í Straumsvík. Stói- og Litli-Lambhagi nær.

— Aka, jú, ég sé vel til að aka þótt ég sé senn 79 ára gamall. Ennþá les ég gleraugnalaust. Ég hef aldrei ekið hratt ónei, og komizt leiðar minnar þrátt fyrir það.
Sérðu hvernig þeir hafa brotið niður hraunið. Á gömlum fjárgötum fortíðarinnar, hrófum áraskipanna, harðbalatúnum og húsatóftum fornra mannabyggða hafa þeir reist þetta verksmiðjuhús.
— Hvort munu þeir, sem þar ráða ríkjum svara betur kalli sinnar samtíðar en hinir, er áður lifðu þar lífi íslenzkra útvegsbænda?“

Heimildir:
-Lesbók Morgunblaðsins 7. maí 1978, Suður í Hraunum, Gísli Sigurðsson, bls. 8-9 og bls. 13.
-Lesbók Morgunblaðsins 25. mars 2000, Byggð og náttúra í Hraunum – Nútíminn fór hjá garði, Gísli Sigurðsson, bls. 4-6.
-Vísir 19. júní 1969, Bóndinn í Straumsvík, bls. 9-10.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir vestri og eystri.

Hafnarfjörður

Í Morgunblaðinu 1964 er m.a. fjallað um makaskipti á jörðum í Hafnarfirði og Garðahreppi undir fyrirsögninni „Garðahreppur og Hafnarfjörður skipta á jörðum“: „Matthías Á. Mathiesen hafði framsögu á Alþingi í gær fyrir frumvarpi til laga um lögsagnar umdæmi Hafnarfjarðar-kaupstaðar. Þar er lagt til, að kaupstaðurinn og Garðahreppur skipti á löndum. Flutningsmenn frumvarpsins eru Matthías Á. Mathiesen, Geir Gunnarsson, Jón Skaftason og Birgir Finnsson. Frv. hljóðar svo ásamt greinargerð:

Balavarða

Landamerkjavarða við Bala.

1. gr. Hafnarfjörður skal vera lögsagnarumdæmi út af fyrir sig með kaupstaðarréttindum. Takmörk kaupstaðarsvæðisins eru þessi:
A. 1. Bein lína úr „Balaklöpp: við vesturenda Skerseyrarmalar í vörðu við veginn frá Hafnarfirði til Reykjavíkur, þar sem hann fer lækkandi ofan af norðurbrún hraunsins.
2. Þaðan bein lína í Hádegishól, sem er gamalt hádegismark frá Hraunsholti, nálægt í hásuður frá bænum, spölkorn frá hraunjaðrinum.
3. Þaðan bein lína í Miðaftanshól, sem er gamalt miðaftansmark frá Vífilsstöðum.
4. Þaðan í vörðu í Stórakrók.
5. Þaðan í vörðu í neðstu jarðbrú í Kaplakrika.

Engidalsvarða

Engidalsvarðan.

6. Eftir Kaplalæk í vörðu við hraun jaðarinn, beint vestur af stað þeim, þar sem Kaplalæk er veitt úr eldri farvegi sínum, rétt norðan við Baggalár, vestur af Setbergslandi.
7. Þaðan bein lína í stíflugarð rafstöðvarinnar.
8. Eftir stíflugarðinum, yfir tjörnina.
9. Upp með rafstöðvartjörninni að sunnan, þar til kemur að nýju Reykjanesbrautinni.
10. Meðfram norðurbrún nýju Reykjanesbrautarinnar, þar til hún sker eignar markalínu Setbergs og Hafnarfjarðar, sem er úr stíflugarðinum í markaþúfu við gömlu sand gryfjurnar, þ.e. um miðja lóðina nr. 3 við Stekkjarkinn.
11. Þá lína í markaþúfu við gömlu sandgryfjurnar.
12. Þaðan í Lækjarbotna.
13. Þá í Gráhellu.
14. Þaðan í miðjan Ketshelli.

Hádegishóll

Varða á Hádegishól.

15. Eftir Selvogsmanna- eða Grindaskarðsvegi í Kaplatór (Strandartorfur).
16. Þaðan bein lína í Markraka.
17. Þaðan bein lína um Melrakka gil (Markrakagil) að Krýsuvíkurvegi.
18. Þaðan bein lína í Markhelluhól.
19. Þaðan í Hraunkrossstapa.
20. Þá í Miðkrossstapa.
21. Þá í Hólbrunnshæð.
22. Þá í Stóra-Grænhól.
23. Þá í Skógarhól.
24. Og í Markaklett við Hraunsnes.

Langeyri

Landamerkjavarða við Hvíluhól v/Hrafnistu.

B. Sá hluti jarðanna Krýsuvíkur og Stóra-Nýjabæjar, sem Hafnarfjarðar-kaupstaður á. Allt land innan ofangreindra takmarka telst til lögsagnar-umdæmisins. Kaupstaðurinn skal setja nægilega mörg varanleg merki, er sýni greinilega takmörk landsins, og halda þeim við.
Sýslumaðurinn í Gullbringu- og Kjósarsýslu skal jafnframt vera bæjarfógeti kaupstaðarins.
2. gr. Með lögum þessum eru úr gildi felld lög nr. 33/1929, ásamt breytingu á þeim lögum, nr. 31/1959, um bæjarstjórn í Hafnarfirði, s
vo og 3. tl. 1. gr. laga nr. 11/1936.

3. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

 

Middegisholl-varda

Varða á Miðdegishól.

Bæjarstjórnin í Hafnarfirði og sveitarstjórnin í Garðahreppi hafa með bréfi, dags. 27/4 1964, sem prentað er sem fylgiskjal hér á eftir óskað eftir því, að frumvarp til laga um breytingu á lögsagnarumdæmi þessara sveitarfélaga verði flutt og samþykkt á yfirstandandi þingi.
Eins og fram kemur í bréfinu, er hér náð endanlegu samkomulagi um þessi mál, en á undanförnum árum hefur mál þetta verið á dagskrá þessara sveitarfélaga.

Fylgiskjal.
Hafnarfirði, 27. apríl 1964.
Hr. alþingismaður,
Matthías Á. Mathiesen,
Hafnarfirði.
Að undanförnu hafa farið fram viðræður á milli fulltrúa frá Hafnarfjarðarkaupstað og Garðahreppi um breytingu á lög sagnarumdæmismörkum milli sveitarfélaganna, svo og eftirgjöf á réttindum þeim yfir landi úr fornu Garðatorfunni í Garðahreppi, Gullbringusýslu, er Hafnarfjarðarkaupstaður öðlaðist með leigusamningi við landbúnaðarráðherra f.h. jarðeignadeildar ríkisins, dags. 14. nóv. 1940.

Markhella-222

Markhella.

Niðurstöður þessara viðræðna hafa orðið þær, að samkomulag hefur náðst, sem staðfest hefur verið af hreppsnefnd Garðahrepps á fundi hennar þann 1. apríl sl. með eftirfarandi samþykkt: „Hreppsnefnd Garðahrepps samþykkir fyrir sitt leyti, að lögagnar-umdæmismörkum Hafnarfjarðar-kaupstaðar verði breytt þannig, að það land, sem nú er sunnan Hafnarfjarðar og innan lögsagnarumdæmis Garðahrepps, þ.e. svokallaðar hraunajarðir, verði framvegis innan lögsagnar umdæmis Hafnarfjarðar.
Samþykkt þessi er bundin því skilyrði, að Hafnarfjarðarbær afsali til Garðahrepps þeim landsspildum, sem bærinn hefur á leigu frá jarðeignadeild ríkisins og eru innan lögsagnarumdæmis Garðahrepps. Jafnframt verði tryggt, að Garðahreppur fái fullan umráða rétt yfir þessum landsspildum, með leigusamningi við jarðeignadeild ríkisins, enda verði þau ákvæði laga nr. 11/1936, sem varða umræddar landsspildur felld úr gildi“.

hafnarfjardarkirkja-222

Hafnarfjarðarkirkja.

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar gerði á fundi sínum þann 21. þ. m. um málið svo hljóðandi ályktun: „Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkir fyrir sitt leyti, að lögsagnar-umdæmismörkum milli Hafnarfjarðar-kaupstaðar og Garðahrepps verði breytt á þá lund, að hluti Garðahrepps, sem liggur sunnan við Hafnarfjörð, verði framvegis innan lögsagnar umdæmis Hafnarfjarðar. Jafnframt lýsir bæjarstjórn því yfir, að hún er reiðubúin til þess að falla frá leigurétti sínum að ræktunarspildum úr landi jarðeignadeildar ríkisins á Hraunsholti og við Arnarnesveg skv. leigusamningi, dags. 14. — 11. — 1840, þegar er framangreind breyting á lögsagnarumdæmismörkunum hefur átt sér stað. Leigusamningar við einstaka aðila, sem stað eiga í greindum samningi, skulu þó áfram vera í gildi.
Samþykkt þessi er gerð með því skilyrði, að Garðahreppur falli frá öllum kröfum, er hann kann að eiga til bóta fyrir lögsagnarumdæmis-breytinguna“. Með hliðsjón af ofangreindu samkomulagi leyfum vér oss að fara þess á leit við yður, herra alþingismaður, að þér hlutizt til um, að flutt verði á Alþingi því, er nú situr, frumvarp til laga um breytingu lögsagnarumdæmis þessara sveitarfélaga, er samrýmist ofangreindum samþykktum sveitarfélaganna.

Virðingarfyllst, Ólafur G. Einarsson.
Sveitarstjórinn í Garðahreppi.
Hafsteinn Baldvinsson.“

Heimild:
-Morgunblaðið 6. maí 1964, bls. 8.

Setbergssel

Markavarðan í Setbergsseli.

Hafnarfjörður

Hér segir Gísli Sigurðsson lögregluþjónn nokkuð frá gömlu hafnfirzku kotunum, byggðahverfunum og gömlum örnefnum. En hann segir líka frá riddaranum og þurrkvínni hans, svo og kóngsins böðli og Bessastaðavaldinu, en fáa staði landsins hefur erlent vald leikið jafn grátt og byggðina á Suðurnesjum, bæði fyrr og síðar, og engir Íslendingar heldur lengur borið menjar erlendrar yfirdrottnunar en fólkið þar.

Gísli Sigurdsson-221Gísli Sigurðsson lögregluþjónn í Hafnarfirði hefur ekki aðeins safnað heimildum er komnar hafa verið að því að glatast, heldur hefur hann einnig grafið upp þræði úr sögu Hafnarfjarðar um hálfa fjórðu öld aftur í tímann. Í fyrri hluta spjallsins við hann vorum við komin að því að ræða um einstaka bæi og örnefni.
— Með fyrstu bæjarnöfnunum sem heimildir eru um hér í Hafnarfirði, segir Gísli, er Brúarhraun. Það var byggt um 1770, en líklega mun hafa verið þar sjóbúðarnefna á 17. öldinni.
Klofi var byggður 1775 og Gestshús um 1790. Fram af Gestshúsum var á sínum tíma byggð fyrsta hafskipabryggja í Hafnarfirði og Bæjarútgerðarhúsin standa á Klofalóðinni. Nýjahraun, (nú 27 við Strandgötu) var byggt 1806. Garður eða Sigþrúðarbær stóð þar sem byggt var hús Einars Þorgilssonar (nr. 25 við Strandgötu). Markúsarbær (Markús þessi var forfaðir Brynjólf Jóhannessonar leikara) stóð þar sem nú er Sjálfstæðishúsið (nr. 29 við Strandgötu).
HafnarfjörðurFyrsti bær við Lækinn var Weldingshús, byggt um 1784 og kennt við Kristján Welding, steinsmið og assistent við verzlanir hér. Frá honum er mikil ætt komin. Lækjarkotsnafnið kemur fyrst fram um 1830, en það er ekki það Lækjarkot sem síðar var kunnugt móti Dverg.
Bæirnir voru eins oft kenndir við konur, t.d. Kolfinubær, — sem einnig var nefndur Tutlukot. Á Hamrinum var Hamarsbærinn, sem Bjarni Oddsson verzlunarmaður hjá aranum og þurrkvínni hans, svo og kóngsins böðli og Bessastaðavaldinu, en fáa staði landsins hefur erlent vald leikið jafn grátt og byggðina á Suðurnesjum, bæði fyrr og síðar, og engir Íslendingar heldur l
engur borið menjar erlendrar yfirdrottnunar en fólkið þar.

Hafnarfjordur-222Linnet byggði á öldinni sem leið. Sjóbúð var þar nokkru sunnar. Hamarsbæjarnafnið færðist svo yfir á annan bæ, sem nú er Hellubraut 9, en upphaflegi Hamarsbærinn var svo kallaður Bjarnabær, og er nafnið í góðu gildi enn, Hella er byggð um 1870, og heitir þar svo enn. — Þá kemur næst suður í Flensborgar- eða Skuldarhverfið. Þar verður fyrst fyrir Guðrúnarkot. Nafn þetta lifir fram yfir 1860. Þar umhverfis rís svo heil bæjarþyrping, kölluð Skuldarhverfi. Hvernig nafnið er til komið er óvíst, en líklegt má telja að bæirnir hafi verið í skuld við Flensborgarverzlunina; það voru fátæklingar sem þarna bjuggu.
Óseyri verður til 1770-1774 og Ásbúð um svipað leyti og Melurinn. Brandsbær heitir svo eftir fyrsta Hafnarfjordur-223búanda þar, Guðbrandi að nafni.
Í Vesturbænum var t.d. Skamagerens Hus, er fyrst hét svo, en síðar aldrei kallað annað en Skóbót. Skerseyrar og Bala er beggja getið í jarðabók Árna Magnússonar. Þar vestur frá var líka bær sem kallaður var Sönghóll, og hefur sennilega einhverntíma verið glatt á hjalla þar.
Fyrst framan af virðist Hafnarfjarðarnafnið aðeins hafa náð yfir byggðina norðan Lækjarins. Byggðin í hrauninu skiptist í Lækjarþorpið, það náði frá Gerðinu (hjá Barnaskólanum) og inn að Gunnarssu
ndi. Brúarhraunshverfið náði frá Guðarssundi að Linnetsstíg — og suður að Læk við Ósinn. Frá Linnetsstíg tók við Skemmuþorpið vestur að Rvíkurvegi. Stofuþorpið eða Akurgerði var þaðan vestur að Merkúrgötu eða Klofa og Gestshúsum.

hafnarfjordur-224

Frá læknum og suður að Hamri var stundum nefnt Miðfjörður, nokkru seinna er öll byggðin suður að Hamri nefnd Hafnarfjörður. Bærinn Jófríðarstaðir suður á Hamrinum hét áður Ófriðarstaðir, nefndur í heimildum frá 1595 sem sérstakur bær — og var þá konungsjörð. Árið 1816 er þetta land, allt sunnan frá Bruna (Hafnarfjarðarmegin við Straum) og allt vestur að Fiskakletti í Hafnarfirði komið í eigu Bjarna riddara Sivertsens.
— Bjarni riddari var víst einn umsvifamesti Hafnfirðingur, fyrr og síðar.
— Já, og þegar hann fór að stofna til skipasmíða byggði hann m.a. þurrkví fyrir 3 skip við Skipaklett. Hún var til fram að 1882 eða 1884, ég talaði við fólk sem
 mundi hana þar. Í sóknarlýsingu sr. Árna Helgasonar prófasts í Görðum er ágæt lýsing á henni. Sr. Árni segir þar:

Hafnarfjordur-226

„Í Hafnarfirði er grafin gröf inn í malarkambinn í hléi við klettasnös sem gengur fram í fjörðinn til suðurs skammt fyrir vestan það elzta höndlunarhús. Í þessa gröf gengur sjór með hverju aðfalli, en um fjöruna er hún þurr. Fyrir framan er hurð og sterkt plankaverk með grjóthleðslu fyrir innan, nema þar sem hurðin er. Hingað eru á haustin, með stórstraumsflóði, leidd 3 þilskip.
Fleiri rúmast þar ekki, en eigi veit ég hvort þetta má heita hróf. Flest þilskip standa allan veturinn í fjörum hinu megin fjarðarins, sunnan til við Óseyrartanga, bæði þau sem hér eiga heima og eins nokkur annarstaðar frá“. Á Skipakletti er nú risin aðalbygging Hraðfrystihúss Bæjarútgerðar Hafnarfjarðar.
— Voru ekki fleiri „klettarnir“ — og hefur þú ekki safnað örnefnum a!mennt?
— Jú, ég hef safnað töluverðu af gömlum örnefnum, „bæði eftir munnegri geymd og skráðum heimildum og reynt að rekja sögu þeirra.
Hafnarfjordur-228„Klettarnir“ voru t.d. Brúarhraunsklettur, „Fjósaklettur“, Skipaklettur (stundum nefndur jagtaklettur) — hann er sem fyrr segir horfinn undir Bæjarútgerðina, og loks var Fiskaklettur. Hann var þar sem nú er Vesturgata 32; var fjórklofinn. Hann hét svo vegna þess að af þessum kletti var hægt að fiska úr landi áður fyrr. Það var strax dýpi fyrir utan og þar á leirnum var oft mikill fiskur fyrrum. Vesturhamarinn gekk líka stundum undir nöfnunum Sjávarhamar og Skiphamar, en Vesturhamarsnafnið hefur alltaf borið sigur af hólmi. Allir þessir „klettar“ eru fyrir löngu horfnir nema eitthvað mun enn sjást af Fiskakletti. Fyrir sunnan fjörðinn var Grandinn með Skiphól, Kringlu og Háagranda. Þar fyrir sunnan tekur Hvaleyrin við. Á Hvaleyri hafa sennilega verið einhver reisulegustu bæjarhús á landinu, bæði á 19. og 20. öld. Þorsteinn Jónsson bjó þar á 19. öld og 1850—1870 bjuggu þar Jón Hjartarson og Þórunn Sigurðardóttir. Ég hef lýsingu á bæ þeirra; það var mjög myndarlegur bær. Hjáleigur á Hvaleyri voru allt að því 6, og hétu þær eftir körlunum sem á þeim bjuggu. Sveinskot fær nafn af Sveini Eiríkssyni er býr þar frá. 1840—1855. Halldórskot eftir Halldóri búanda þar 1847—1877. Hjartarkot eftir Hirti er bjó þar 1868—1872. Vesturkot mun lengst af hafa verið kallað því nafni af því það var vestast, en það var líka nefnt Drundurinn af því það var yzta totan á eyrinni. Ennfremur voru á Hvaleyri Þórðarkot og Tjarnarkot. Þegar
 mest var byggt voru t a r sex hjáleigur samtímis, og húsmenn að auki, bæði á aðalbænum og hjáleigunum.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – herforingjaráðsuppdrátturinn 1903.

Í sambandi við þessa könnun mína á nöfnum hef ég fengið lýsingar af bæjunum í bæjum hjá mörgu ágætu fólki og hef getað borið lýsingar þess saman. Þá fór ég einnig að grafa upp hvaðan fólkið var komið, og er langt kominn með það en það er tafsamt verk. Heimildarbækurnar eru orðnar um hundrað, manntöl og kirkjubækur norður til Eyjafjarðar og og austur í1 Skaftafellssýslu, því fólkið var komið hingað og þangað að. Þá hef ég einnig kannað dómbækur í þessu sambandi. Árið 1603 býr á Hvaleyri Guðlaugur nokkur Guðlaugsson.
Í Alþingisbók frá Kópavogsþingi er hans getið það ár. Þeir voru teknir fjórir saman fyrir þjófnað, en svo virðist sem hann hafi tekið á sig sökina, því Jónar tveir sluppu og einnig Ólafur nokkur Pétursson er var „borgaður út fyrir góðra manna bænarstað og sakir ætternis, og svo vegna neyðar konu sinnar og barna og erfiðleika í búskap“.. Ekkert slíkt hlífir Guðlaugi og um hann segir svo:
Bjarni Sivertssen,,Um Guðlaug Guðlaugsson þá ályktast svo og fullnaðist að áðurskrifaður Guðlaugur undirbjó og lofaði með fullnaðarhandsölum sjálfviljuglega konunginum og hans umboðsmönnum að þjóna sína lífstíð, og refsa það honum verður skipað eftir lögmáli, það gjöra að þvi tilskyldu að hann hefði nokkurt auðkenni það hann mætti bera alla sína daga fyrir vondan glæp og tilverknað, og til merkis ef hann kann aftur um að hlaupast, en steli hann aftur eða sýni hann aðra nokkra óhlutvendni, þá sé hann réttfangaður og dræpur“.
Hvaleyrarbóndi þessi er þannig brennimerktur og gerist Bessastaðaböðull til þess að bjarga eigin lífi og félaga sinna, annarra en þess sem var „borgaður út fyrir góðra manna bænarsíað og sakir ætternis“. Sonur Guðlaugs, Jón að nafni, bjó í Hamarskoti og giftist dóttur lögréttumanns á Vatnsleysuströnd. Ormur Jónsson býr á Hvaleyri 16S6—1714. Hann var leiguliði konu
ngs. Ábúðarkjör hans eru þessi:

Hús Bjarna riddara

Hús Bjarna riddara 1973.

„Kvaðir eru; Mannlán um vertíð, tveir hríshestar heim til Bessastaða með skyldu, en margoft þar fyrir utan einn hríshestur, tveir eða þrír á ári fyrir bón, og einu sinni í tíð Heidemanns sjo um árið og tveimur áskyldum. Hér að auki tveir dagslættir árlega heim til Bessastaða og fæði bóndinn verkamennina sjálfur. Ennþá hér á ofan skipaferðir hvenær sem umboðsmaðurinn á Bessastöðum kallar, vetur eða sumar, og er óvíst hve margar verði, fæðir bóndinn mann þann ávallt sjálfur, hvort sem reisan varir lengur eða skemur“. Auk þess þegar upptalda er svo lambsfóður án endurgjalds.

Hafnarfjörður

Hvaleyri um 1950.

Í þessu sambandi er vert að minnast þess að Hvaleyrarbóndinn hafði marga hjáleigubændur og hefur hann vafalaust reynt að koma sem mestu af þessum kvöðum yfir á þá, svo þá sem endranær hafa byrðarnar komið þyngst niður á þeim fátækustu.
Gísli hefur frá mjög mörgu fleiru að segja, en þetta verður að nægja að sinni. Við sleppum þvi að ræða nú um veru Englendinga og Þjóðverja á Hvaleyri, sem báðir höfðu þar aðsetur og þá sinn hvoru megin við Ósinn, og var ærið róstusamt stundum.
Gömlu skipanaustin, sem þó voru enn við lýði fyrir ekki löngu árabili, munu nú horfin.

Sivertssenshus-1Sívertsenshúsið mun vera elzta hús í Hafnarfirði. Það var reist á árunum 1776 til 1778 á Langeyrarmölum á vegum konungs-verzlunarinnar. Árið 1791 tók Knud Dyrekjaer faktor húsið á leigu og 1793 kaupir hann það af konungi fyrir 15 dali og fjóra skildina. Bjarni riddari Síversen kaupir svo húsið af honum 1804 og flytur það inn í Akurgerði. Kaupverðið var þá 164 dalir og 32 skildingar. Árið 1899 varð húsið barnaskóli, síðan hafði Hafnarfjarðarbær þar skrifstofur sínar um langt árabil og um skeið voru þar skrifstofur verkamannafélagsins Hlífar og Sjómannafélags Hafnarfjarðar.“

Heimild:
-Þjóðviljinn, 26. apríl 1960, bls. 6-7 og 10.Hafnarfjordur-221

Hvatshellir

„Kershellir er rétt norðan við Sléttuhlíðarhorn í jarðfalli sem er stutt frá hinni fornu þjóðleið Selvogsgötu, eða Selvogsvegi eins og leiðin var kölluð í upphafi 20. aldar [Selvogsbúar nefndu hana jafnan Suðurferðaveg].

Kershellir

Kershellir – loftmynd.

Hellirinn er í hrauntröð frá þeim tíma er gaus í Búrfells eldstöðinni fyrir um 7000 árum. Þak hrauntraðarinnar hefur hrunið á nokkrum stöðum og opnað leið inn í hellakerfi sem auðvelt er að skoða. Austast er Kershellir og norður af honum er Hvatshellir, en það er ekki auðvelt að komast að honum. Nokkrum tugum metrum neðar, þar sem hraunrausin er fallin saman að hluta, er skjólsæll slakki og niður af honum er Selhellir. Hann er opinn í báða enda og nefnist syðri hlutinn Selhellir en nyrðri hlutinn var nefndur Kethellir í Jarðarbók Árna Magnússonar og Bjarna Vídalín.

Setbergssel

Hleðsla í Selshelli/Ketshelli.

Hleðsla í miðjum hellinum náði áður fyrr upp í loft, en er núna fallin að stórum hluta. Neðstur og nyrstur er svonefndur Sauðahellir, sem var notaður um tíma fyrir sauðfé, en þótti ekki alveg nógu góður til slíkra nota. Skammt frá honum er vallgróinn stekkur og austan hans er nátthaginn í jarðfalli. Þessir hellar voru í eina tíð nefndir einu nafni Kershellar, en einnig sundurgreindir með mismunandi nöfnum eftir því hverskonar not voru höfð af þeim í gegnum tíðina.

Hellarnir voru hluti af búskaparsamfélaginu um aldir og m.a. nýttir sem fjárskjól og áningastaðir ferðalanga sem áttu leið um Selvogsgötuna.

Setbergssel

Selsvarðan á mörkum.

Selhellirinn, sem er á landamerkjum Setbergs og Garðakirkjulands, var eins og nafnið gefur til kynna hluti af seljum Setbergs og Hamarskots um aldir. Enginn veit nákvæmlega hvernig Kershellir var notaður en ekki er ólíklegt að hann hafi verið einhverskonar mannabústaður í skamman tíma þó líklegra sé að hann hafi nýst sem geymsluhellir. Í honum er hlaðinn garður sem myndar hálfboga en það er með öllu óljóst til hvers þessi grjótveggur var gerður á sínum tíma.

Hvatspiltar vekja athygli á hellunum

Kershellir

Kershellir á herforingjaráðskorti frá 1903.

Sumarið 1906 komu fjórir ungir piltar úr Reykjavík suður að Sléttuhlíðarhorni eftir þriggja tíma göngu og glöddust mjög þegar þeir fundu helli í jarðfalli, sem reyndist ágætlega stór. Þetta voru Sigurjón Þorkelsson, seinna kaupmaður í versluninni Vísi, Helgi Jónasson frá Brennu og Matthías Þorsteinsson, en þeir unnu allir saman í Edinborgarverslun. Fjórði pilturinn var Skafti Davíðsson trésmiður. Þeir höfðu stofnað fótgöngufélagið Hvat, en nafnið gaf til kynna að þeir einsettu sér að ganga hvatlega og skoða sitt nánasta umhverfi um helgar þegar þeir áttu frí frá vinnu.

Setbergssel

Setbergssel – uppdráttur ÓSÁ.

Þeir höfðu áður skunað á Þingvöll og skoðað þar hella í hrauninu og töldu sig hafa fundið nýjan og áður óþekktan helli við Selvogsveginn og létu þá fregn berast um bæinn. Þann 1. júlí 1906 birtist stutt grein í Æskunni þar sem sagt var frá því að Hvatsfélagar hefðu fundið stóran helli suður af Hafnarfirði einn sunnudag er þeir voru þar á göngu fyrr um sumarið. Hvatspiltar fóru aftur suður í Sléttuhlíð sunnudaginn 2. september með ljós og mælivað til að mæla og rannsaka hellinn gaumgæfilega. Komust þeir að því að út frá honum voru afhellar mismunandi stórir.

Þessi fundur hleypti mörgum kappi í kinn og héldu ýmsir áhugamenn um hella af stað til að rannsaka þetta fyrirbæri. Hvatsfélagareignuðu sér hellinn og máluðu meira að segja nafn hellisins með bronsmálningu á einn hraunvegginn í stóra afhellinum. Meðal þeirra sem slógust í för með Hvatspiltum var séra Friðrik Friðriksson, upphafsmaður Kristilegs félags ungra manna í Reykjavík. Ritaði hann tvær greinar um hellinn og birtist önnur þeirra í Fjallkonunni 7. september 1906. Þar lýsti Friðrik hellinum og byggði á frásögn piltanna:

Skrif séra Friðriks Friðrikssonar

Friðrik Friðriksson

Sr. Friðrik Friðriksson er þekktastur fyrir að stofna annars vegar knattspyrnufélagið Val og KFUM og K, þar sem honum er eðlilega gert hátt undir höfði. 
Sögu Friðriks þekkja margir en hann fæddist vorið 1868 í Svarfaðardalnum fyrir norðan, hann missti föður sinn ungur og lifði í fátækt framan af en náði að brjótast til mennta og gekk í Latínuskólann í Reykjavík. Eftir nám fór hann til Danmerkur þar sem hann kynntist starfi KFUM (Kristilegu félagi ungra manna) og í ársbyrjun 1899 stofnaði hann svo KFUM deild heima á Íslandi, fáeinum mánuðum síðar stofnaði hann einnig kvennadeild – KFUK, og gegndi forstöðu félagsins. Innan starfsins stofnaði hann svo knattspyrnufélögin Val í Reykjavík og Hauka í Hafnarfirði auk þess að koma á fót bókasafni, kvöldskóla, bindindisfélagi, skátafélagi, sumarbúðum í Vatnaskógi og fleira. 
Sr. Friðrik helgaði sig starfi KFUM og K alla tíð og var hann heiðraður með ýmsum hætti fyrir starf sitt meðan hann lifði og minningu hans og starfi hefur einnig verið haldið á lofti eftir að hann lést vorið 1961 rétta tæplega níutíu og þriggja ára gamall.

„Hann er 152 fet á lengd, 40 fet á breidd, þar sem hún er mest, og á að giska 6-7 álnir á hæð, þar sem hæst er, allsstaðar má ganga uppréttur. Grjótgarður er hlaðinn 59 fet inn af munnanum, sá garður liggur þvert yfir hellinn og á parti í boga fyrir munna á afhelli nokkru vinstra megin; er hann eins og bás, höggvinn út í bergið, og er 27 fet að lengd og 1 ½ alin á hæð, þar sem hann er hæstur. Ekki var unnt að sjá, að fé hefði verið geymt þar inni.

Hinir ungu menn könnuðu nú vandlega hellisveggina, og urðu þeir þá varir við smugu mjóa, er lá inn í vegginn hægramegin, nálægt hellismunnanum. Er þeir lýstu inn í hana, þótti þeim sem rúm mundi vera þar fyrir innan og skriðu því inn gegnum glufuna og komu þá inn í lítinn afhelli, vel mannhæðar háan, og var heldur stórgrýtt gólfið. Inn úr honum lá svo önnur glufa, er skríða þurfti í gegn á fjórum fótum. Fyrir innan hana varð fyrir þeim hellir, nær kringlóttur að lögun eða sporöskjulagaður. Hann er 10 fet á hæð þar sem mest er, og breiddin 20 fet, en lengdin nokkru meiri. Eftir gólfinu er hraunbálkur all mikill og lægðir báðu megin.

Hægra megin varð enn fyrir þeim lítil glufa niður við gólfið, og fóru tveir þar inn og fundu þá, að þeir voru komnir í stóran helli og langan, en eigi gátu þeir vel glöggvað sig á honum, því ljósfæri þeirra brást. Leituðu þeir nú síðan til útgöngu og þótti þeim skemmtiferð sín góð orðin.“

Séra Friðrik rannsakaði hellinn sjálfur
Séra Friðrik fór ásamt Hvatspiltum suður að Sléttuhlíðarhorni til að kanna innsta hellinn nokkru seinna . Höfðu þeir meðferðis ljósker ásamt stuttum og digrum 8 aura kertum frá Zimsen. Þeir voru ennfremur með mælivað og 60 faðma snæri. Mældu þeir innsta hellinn sem reyndist vera 61 fet á lengd og allur nokkuð jafnbreiður 8-10 fet. Síðan kemur lýsing séra Friðriks:

„Hæðin var um 4 fet minnst og liðugt 5 fet mest. Innst inni er hann íhvolfur og er hvelfing yfir honum öllum, skreytt dropasteins útflúri. Hellirinn er ekki ósvipaður hvelfdum gangi í kjallarakirkju, gólfið er slétt og fast og lítð sem ekkert þar lausagrjót inni. Svo er hann fallegur, að erfiðleikarnir við inngönguna í gegnum 3 glufurnar og stórgrýtið í framhellunum gleymist þegar inn er komið. Lengd alls hellisins frá botni þess innsta og aftast í þann fremsta er rétt að segja 300 fet. Í innri hellunum eru engin merki þess að menn hafi þar fyrr inn komið.

Hvatshellir

Hvatshellir.

Við vorum hálfan annan tíma að skoða hellana og var sá tími helst of stuttur til þess að geta séð allt til hlítar. Hellinn kallaði ég Hvatshelli eftir félaginu, er fann hann, og þykir mér félagið eiga þá sæmd skilið fyrir göngudugnað sinn og eftirtekt.

Séra Friðrik nefndi innsta afhellinn Hvatshelli, þann sem honum fannst líkjast kjallarakirkju, enda segir munnmælasaga að hann hafi stundum haldið látlausa helgistund í hellinum næstu árin. Allavega fór það svo að ungu mennirnir sem töldu sig hafa fundið afhellana máluðu nafnið Hvatshellir í innstu hvelfingunni. Vel má vera að þeir hafi fyrstir manna komið inn í þessa afhella, en Kershellirinn sem er fremstur var fyrir löngu þekktur eins og hleðslurnar sem þeir fundu í honum gefa glögglega til kynna.

Hvatshellir

Hvatshellir.

Þessi fundur þótti allmerkilegur í ljósi þess að erlendir menn höfðu farið um landið og leitað að hellum sem þeir töldu sig síðan finna, þó svo að heimamenn á hverjum stað hefði greinilega vísað þeim á þá. Séra Friðrik hvatti ungt fólk til að gera sér ferð til að skoða hellana og lýsti leiðinni suður í Sléttuhlíðina með eftirfarandi hætti: Hvatshellir liggur nálægt Selvogsvegi, upp með Setbergshlíðinni skammt frá vörðu þeirri sem er mælingamenn Herforingjaráðsins hafa hlaðið og merkt er tölunni 27. Sú varða er á vinstri hönd, er upp eftir veginum dregur, og spölkorn þar fyrir ofan er til hægri handar fallegur grasgróinn hvammur. Í honum er hellismunninn.

Mjög falleg og greiðfær leið þangað er að ganga upp frá Kópavogi, og framhjá Vífilsstöðum, þar upp með hinni fögru hlíð, er meðfram hrauninu liggur, síðan yfir hraunið og Setbergsásinn, þar til er komið á Selvogsveg. Mundi það vera 3 tíma gangur frá Reykjavík.“

Aðrir fara af stað til að skoða fundinn

Setbergssel

Setbergssel – varða nr. 27 ofan við selið.

Leiðalýsing séra Friðriks kom Reykvíkingum sérkennilega fyrir sjónir eins og greint var frá í blaðinu Reykjavík. Göngumaður sem skrifaði undir leyninafninu Gangleri gerði sér ferð suðureftir til að skoða hellinn ásamt félögum sínum. Þeir villtust á leiðinni og fóru allmarga aukakróka áður en þeir komust á Selvogsveginn. Seint og um síðir komu þeir að hellunum norðan Sléttuhlíðarhorns og hittu þar þrjá sveitamenn, eins og Gangleri kallaði þá í grein sinni. Þeir spurðu sveitamennina um nýja hellinn og sögðu þremenningarnir að þarna væri ekki nýr hellir heldur þrír hellar þétt við gömlu götuna og hver framundan öðrum.

Kershellir

Kershellir.

Þeir hefðu, áður en þessir landkönnunarmenn úr Reykjavík komu til sögunnar, verið kallaðir einu nafni Kershellar. Þeir hétu svo af því að það var engu líka en að ker eða skálar væru niður í jarðveginn, sem hellismunnarnir lægju úr og það væri einna gleggst á þessum nýskírða helli. Því til sönnunar að þessir hellar væru fullkunnir áður, væri það að þeir væru taldir ráða landamerkjum milli Setbergslands og Garðakirkju.

Nafngiftin gagnrýnd, enda hellirinn löngu þekktur

Kershellir

Í Kershelli.

Margir fundu sig knúna til að leggja orð í belg eftir að séra Friðrik gaf innhellinum nafnið Hvatshellir, en svo virðist sem fæstir þeirra sem gerðu sér ferð að hellunum hafi fundið afhellana. Nokkur brögð voru að því að fólk skoðaði einvörðungu Selhellinn og fannst lítið til hans koma enda hafði hann verið notaður sem fjárhellir eftir að hætt var að hafa þar í seli seint á 19. öld og fullur af sauðataði. Botn hellisins er núna þakinn leirkenndri mold sem verður leðjukennd þegar hún blotnar. Jón Þorkelsson var einn þeirra sem ritaði greinarkorn í Fjallkonuna um hellafundinn og taldi hann augljóslega að um Selhellinn væri að ræða.

Kershellir

Í Kershelli.

„Hellir sá í Garðahrauni [hellirinn er í efsta hluta Gráhelluhrauns], er félagar úr göngumannafélagsins „Hvats“ komu í hér í sumar, hefur orðið að blaðamáli. Kölluðust félagar þessir hafa fundið hér nýjan helli og skírðu hann „Hvatshelli“. Síðan hefur „Reykjavíkin“ skýrt frá því eftir kunngum manni, að hellir þessi hafi verið kunnur nú í manna minni, hafi verið haldinn landamerki milli Garða og Setbergs og verið kallaður Kershellir. Þar við bætir og ritstjóri „Reykjavíkur“ því að hann hafi þekkt þennan helli fram undir mannsaldur. En hér mun vera óhætt að bæta því við að hellir þessi hefur verið þekktur um frá ómuna tíð og hefur að vísu um 350 árin síðustu verið haldinn landamerki milli Setbergs og Garða.

Setbergssel

Setbergssel – landamerkjavarðan.

Er til enn vitnisburður um landamerki þessi frá 2. janúar 1625, úgefinn af Þorvaldi Jónssyni og samþykktur og staðfestur af Magnúsi Þórarinssyni og Sveini Ögmundssyni. Segir Þorvaldur þar svo frá: „að minn faðir Jón Jónsson bjó 15 ár á þráttnefndri jörðu (Setbergi); byggði þá mínum föður jörðina Setberg þann sálugi mann Ormur bóndi Jónsson, hvar eð sat í Reykjavík og tilgreindi bóndinn Ormur þessi takmörk úr miðjum Flóðum, og upp miðjan Flóðhálsinn; sjóndeiling úr miðjum fyrirsögðum hálsi og í hvíta steininn, sá er stendur í Tjarnholtunum og þaðan sjóndeiling í miðjan Ketshellir.

Setbergssel

Op Ketshellis.

Úr Ketshellir og í mitt hraunið og þaðan úr miðju hrauni og ofan í Gráhellu og ofan í Lækjarbotna. Innan þessara takmarka bauð og bífalaði bóndinn Ormur mínum föður allt að yrkja og sér í nyt að færa og aldrei hefi ég þar nokkra efan á heyrt. Og var ég á fyrrsagðir jörðu minni ómagavist hjá mínum föður í 15 ár hann þar bjó; en ég hefi nú áttatíu vetur og einn, er þessi vitnisburður var útgefinn ‚, eftir hverjum ég má sverja með góðri samvisku.

Af þessu mætti það verða augljóst, að þessi nýfundni „Hvatshellir“ hefur verið mönnum kunnur í mörg hundruð ár, og heitir réttu nafni Ketshellir.

Lýsing Ólafs Þorvaldssonar

Ólafur Þorvaldsson

Ólafur Þorvaldsson.

Við þetta má síðan bæta því að Ólafur Þorvaldsson, sem fæddist á Ási við Hafnarfjörð og var bóndi í Herdísarvík um tíma þar til Einar Benediktsson tók við jörðinni, ritaði ágætar leiðalýsingar um þjóðleiðir í námunda Hafnarfjarðar, sem birtust í Árbók hins íslenska fornleifafélags 1943-48, sem kom út 1949. Í leiðarlýsingu hans á Grindarskarðavegi (Selvogsleið) ritar hann: „Ofarlega í hraunbelti því sem áður getur og yfir er farið áður en upp á móts við Klifsholt kemur er hellir allstór, Kershellir, og var hann notaður sem fjárból frá Setbergi meðan fjárbúskapur var rekinn þar og útbeit mest stunduð. Langur gangur er til aðalhellisins og nokkuð niðurgegnt, og vildi gólfið blotna þegar fé kom brynjað inn. Laust eftir síðustu aldamót [1900] fundu menn úr félagi, sem nefndi sig „Hvat“ og í voru nokkrir ungir fjallgöngu- og landkönnunarmenn í Reykjavík, helli skammt ofar og norðar [hann er austar, en einnig máf inna lítinn hellir norðan við fjárhellinn]en Kershelli.

Hvatshellir

Í Hvatshelli.

Op þessa hellis er mjög lítið en drjúgur spölur, þröngur og krókóttur, þar til í aðalhellinn kemur og er ekki farandi ljóslaust. Aðalhellirinn er hvelfing, bogmynduð, nokkru meira en manngengt í miðju, en gólfið slétt hellugólf. Þeir, sem námu helli þennan, svo að sögur fari af, nefndu hann eftir félagi þeirra og kölluðu Hvatshelli. Nafnið máluðu þeir svo með gullnum stöfum á innanverða hvelfingu eða gólf (ég man ekki hvort heldur).“

Hellaskoðun

Hamarkotshellir

Hamarskotshellir – op.

Kershellir er augljóslega sá hinn sami og er nú merktur með myndarlegri vörðu sem stendur skammt vestan við jarðfall við gömlu Selvogsgötuna. Kerið er allmyndarlegt og virðist eingöngu um litla skúta að ræða til sitthvorrar handar. Annar skútin, sem er frekar lítill er í austurbarmi kersins, en í vesturbarminum er op sem er öllu áhugaverðara. Þegar komið er innfyrir hellismunnann opnast stór hellir og í honum er hleðslan sem fyrr er getið. Vinstra megin við hana er einskonar bás eða útskot.

Kershellir

Kershellir – varðan ofan við opið.

Hellirinn er nokkuð langur og flestir láta sér nægja að skoða þennan hluta og halda síðan út í birtuna. Um leið og komið er inn í hellinn er hægt að greina þrönga rás hægra megin niður við gólf hellisins og þarf að skríða á maganum inneftir henni til aðkomast í fyrsta afhellinn. Hann er frekar lítill og gólfið er frekar grýtt. Úr þessum helli liggur önnur rás þar sem skríða þarf á fjórum fótum eða jafnvel á maganum. Opnast þá nokkuð stór hellishvelfing. Þar með er ekki allt upp talið því enn má finna þrönga rás og innan við hana er stærsti hellirinn, sá hinn sami og fékk nafnið Hvatshellir fyrir rúmlega 100 árum síðan.

Þeir sem hyggjast skoða Kershelli og afhellana þurfa að hafa mjög gott ljós meðferðis. “ – Jónatan Garðarsson

Sjá meira um Kers- og Hvatshelli HÉR, HÉR, HÉR, HÉR og HÉR.

Hvatshellir

Í Hvatshelli.

 

Hvaleyrarlón

Fimm svæði innan marka Hafnarfjarðar voru nýlega friðlýst. Svæðin bætast við áður friðlýst svæði í umdæmi bæjarins, þ.e. Reykjanesfólkvang, Hamarinn og Ásfjall.
ReykjanesfólkvangurFormleg friðlýsing skv. náttúruverndarlögum er eina leiðin til þess að tryggja varðveislu svæða til ótímabundinnar framtíðar. Oft halda önnur úrræði ekki nema út eitt til tvö kjörtímabil viðkomandi sveitarstjórna. Með formlegri friðlýsingu er svæðinu tryggð framtíð og um leið tryggt aðgengi almennings í samræmi við almennar reglur þar að lútandi.
Mikið er um jarðhitasvæði og margskonar náttúruminjar innan Reykjanesfólkvangs. Eldfjöll eru mörg, einkum lágar hraundyngjur og gossprungur. Móbergs- fjöll og stapar í óteljandi myndum er einkennandi fyrir landslag á svæðinu (friðlýstur 1975). 

Hamarinn

Hamarinn – mörk friðlýsingar.

Á Hamrinum eru jökulminjar. Hann setur mikinn svip á miðbæ Hafnarfjarðar og nýtur vinsælda sem útivistarsvæði. Hamrinum tengjast sögur um álfa og huldufólk (friðlýstur 1984).
Ásfjall í Hafnarfirði er umlukinn fólkvangi. Hann umlykur svo friðland Ástjarnar. Útsýni af fjallinu er gott og sérstaklega áhugavert fyrir áhugafólk um jarðfræði og sögu höfuðborgarsvæðisins. Á Ásfjalli eru menjar um hersetu fyrr á öldinni (friðlýst 1996).
Kolbrún Halldórsdóttir umhverfisráðherra undirritaði friðlýsingarnar fimm við athöfn að Hleinum á Langeyrarmölum.
Fulltrúi bæjarins staðfesti friðlýsinguna.
LitluborgirÞrír fólkvangar og tvö náttúruvætti voru friðlýst til útivistar og verndunar á lífríki og raunmyndunum. Fólkvangar voru stofnaðir við Hvaleyrarlón, Hleina og í Stekkjahrauni. Litluborgir og hluti af Kaldárhrauni voru friðlýst sem náttúruvætti.

Litluborgir við Helgafell voru friðlýstar sem náttúruvætti til að vernda sérstæðar jarðmyndanir. Litluborgir eru hraunborgir og gervigígar sem myndast hafa við það að hraun hefur runnið yfir stöðuvatn. Aðrar merkar og áhugaverðar myndanir á svæðinu eru dropsteinar og kísilgúr. Í friðlýsingarskjali segir m.a. að „almenningi er heimil för um náttúruvættið, enda sé gætt góðrar umgengni. Í samræmi við samþykkt um hundahald er óheimilt að hafa hunda í náttúruvættinu án fylgdar og tryggrar stjórnar. Umferð vélknúinna farartækja, þ.m.t. vélsleða, er óheimil í náttúruvættinu“. 

KaldárhraunKaldárhraun og Gjárnar, þ.e. Norðurgjá, Suðurgjá og Lambagjá, voru friðlýst sem náttúruvætti til að vernda helluhraunsmyndun og fagrar klettamyndanir í vestari hrauntröðinni frá hinni kunnu eldstöð Búrfelli. Kaldárhraun er heillegt og óraskað helluhraun á vinsælu útivistarsvæði við Helgafell, en upptök hraunsins eru í gígum austan við norðurenda Gvendarselshæðar. Kaldárhraun er eitt síðasta dæmið um heillegt og óraskað helluhraun í landi Hafnarfjarðar og er fræðslu- og útivistargildi svæðisins metið hátt. Á svæðinu eru fornminjar sem tengjast selbúskap, m.a. gömul gata, Kaldárstígur. Í friðlýsingunni segir m.a. að „óheimilt er að hrófla við eða skemma á annan hátt jarðmyndanir í náttúruvættinu. Einnig er þar óheimilt að spilla gróðri og trufla dýralíf og eru skotveiðar bannaðar. Óheimilt er að hrófla við eða skemma á annan hátt menningarminjar á hinu friðlýsta svæði“. 

HleinarFólkvangur var stofnaður á Hleinum að Langeyrarmölum til að vernda fjöru og útivistarsvæði í fögru hraunumhverfi sem vaxið er náttúrulegum gróðri svo sem mosa- og lynggróðri. Jafnframt er það markmið friðlýsingarinnar að vernda búsetulandslag og menningarminjar, en á svæðinu eru tóftir, fiskreitir, grjóthleðslur, gerði, garðar og vagnslóðar. Aðgengi að svæðinu er gott og það er því ákjósanlegt til fræðslu og útikennslu. Svæðið er hluti af friðlýsingu búsvæða fugla við Álftanes og Skerjafjörð í samræmi við náttúruverndaráætlun 2004-2008. Í friðlýsingunnis egir m.a.: „Umsjón og rekstur fólkvangsins skal vera í höndum umhverfisnefndar
Hafnarfjarðarbæjar, samkvæmt samningi milli Umhverfisstofnunar og Hafnarfjarðarbæjar sem umhverfisráðherra staðfestir. Umhverfisstofnun skal sjá um gerð verndaráætlunar fyrir fólkvanginn í samráði við Hafnarfjarðarbæ“. 

HvaleyriHvaleyrarlón og Hvaleyrarhöfði voru friðlýst sem fólkvangur til að vernda lífríki og leirur svæðisins sem eru m.a. mikilvægt búsvæði fugla og til að tryggja útivistar- og fræðslusvæði til útiveru og fuglaskoðunar. Dýralíf í leiru er allauðugt og er fuglalíf sérlega auðugt á svæðinu. Aðgengi fyrir íbúa er gott og einnig eru grunnskóli og leikskóli í nágrenninu og svæðið því tilvalið til útikennslu. Svæðið hefur lengi verið vinsælt til útivistar og er ákjósanlegt til fuglaskoðunar allt árið, en oft má sjá á svæðinu sjaldséða gesti eins og t.d. gráhegra. Í friðlýsingunni segir m.a: „Umhverfisráðherra getur, að fenginni umsögn Umhverfisstofnunar og umhverfisnefndar Hafnarfjarðarbæjar, veitt heimild til þess að vikið verði frá reglum þessum í einstökum tilfellum gangi það ekki gegn markmiðum friðlýsingarinnar“. 

StekkjarhraunStekkjarhraun var friðlýst sem fólkvangur er að vernda útivistarsvæði í fögru hraunumhverfi þar sem jafnframt er athyglisvert gróðurlendi og sérstakar menningarminjar. Stekkjarhraun er hluti af hraunum sem runnu í Búrfellseldum fyrir um 7000 árum. Hraunið er í beinu framhaldi af Gráhelluhrauni og hefur hraunið runnið um þröngan farveg milli Setbergshlíðar og Mosahlíðar. Aðgengi að svæðinu er gott og er það því ákjósanlegt til fræðslu og útikennslu. Með friðlýsingunni er einnig verið að vernda votlendisbletti við Lækinn þar sem hann rennur með Stekkjarhrauni, en þar vaxa m.a horblaðka og starir sem eru fágætar tegundir í þéttbýli. Í friðýsingunni segir m.a.: „Brot gegn friðlýsingu þessari varðar sektum eða fangelsi allt að tveimur árum“.

Ástjörn

Friðland við Ástjörn.

Þrátt fyrir að einstök svæðin gefi einungis takmarkaða mynd af raunverulega minjagildi verður að taka viljan fyrir verkið. Sumum svæðunum hefur verið spillt vegna framkvæmda. Því má segja með nokkrum sanni að með friðlýsingunni eru aðilar að friðþægja slæma samvisku, sem er í rauninni ekki svo lítil fyrirgefning landssvæðunum til handa. T.d. munaði ekki nema hársbreidd að línuvegur yrði lagður yfir Litluborgir á sínum tíma. Það var einungis fyrir snarræði þáverandi nefndarmanns hjá Hafnarfjarðarbæ að vegurinn var færður þangað sem hann er nú. Samt sem áður liggur vegurinn að hluta til á náttúruminjasvæði Litluborga því hliðstæð jarðfræðifyrirbæri eru undir honum.

Heimild:
-http://www.umhverfisraduneyti.is
-www.ust.is

Litluborgir

Í Litluborgum.

Kapella

Kristján Eldjárn skrifaði um fornleifarannsóknir í Kapelluhrauni vestan Hafnarfjarðar og Kapellulág austan Grindavíkur í „Árbók hins íslenska fornleifafélags“ árið 1955:

Kristján Eldjárn

Kristján Eldjárn.

„Á tveimur stöðum á Reykjanesskaga eru örnefni dregin af kapellu. Þau eru Kapelluhraun í landi Lambhaga í Garðahreppi og Kapellulág hjá Hrauni í Grindavík. Báðum örnefnunum eru tengdar sagnir, sem snúast um mannvirki á stöðunum. Verður hér skýrt frá árangri rannsókna, sem gerðar hafa verið á þessum fyrirferðarlitlu en forvitnilegu mannaverkum.

Kapellan í Kapelluhrauni við Hafnarfjörð (fornleifarannsókn 1950)
Fyrir sunnan Hafnarfjörð er hraunfláki mikill, sem upptök á í gígaröð meðfram Undirhlíðum og hefur runnið þaðan allt norður í sjó. Hraun þetta heitir nú í daglegu tali Bruninn, nema neðsti eða nyrzti hluti þess heitir Kapelluhraun. Það er mjög úfið og lítt gróið apalhraun, og eru jarðfræðingar á einu máli um, að það hafi runnið eftir að land byggðist. Ráða þeir það af útliti og ástandi hraunsins, en auk þess er talið víst, að þetta sé hraun það, sem í gömlum heimildum er nefnt Nýjahraun.

Kapelluhraun

Kapellan í Kapelluhrauni – herforingjaráðskort 1903.

Í landamerkjaskrám er sagt, að mörkin milli Hvaleyrar og Straums séu í norðurbrún Nýjahrauns. Kjalnesinga saga, sem talin er rituð á 14. öld, nefnir og Nýjahraun, og í annálum er þess getið, að skip, er lét út úr Hvalfirði, hafi brotið við Nýjahraun fyrir utan Hafnarfjörð, og á þetta að hafa gerzt árið 1343. Nafnið Nýjahraun sýnir ótvírætt, að hraunið hefur runnið eftir landnámsöld, en heimildirnar, að það sé eldra en frá 1343.
Þegar Nýjahraun rann, hefur það orðið ófær farartálmi á leiðinni suður með sjó. Hefur eflaust þá þegar verið ruddur um það vegur sá, sem síðan var notaður, unz bílvegur var gerður.

Keflavíkurvegur

Hleðslur við gamla Suðurnesjaveginn gegnt Gerði ofan Péturskots, skammt vestan kapellunnar.

Gamli vegurinn var mikið mannvirki. Hann liggur þar sem skemmst er yfir hraunið (á ská yfir akveginn, sem nú er, 1955), mjög krókóttur, eins og slíkir hraunvegir eru, sem þurfa að þræða milli hárra hraunhóla og djúpra katla, en nóg er af hvoru tveggja í Kapelluhrauni. En vegurinn er sæmilega sléttur og breiður, enda mátti skeiðríða hann. Fast við veginn sjávarmegin, um miðju vegu milli hraunjaðra, er mannvirki, sem kallað er Kapellan, og dregur neðsti hluti hins gamla Nýjahrauns nafn af henni á síðustu tímum.

Kapellan

Kapellan – sjá má leifar Alfaraleiðarinnar, sem lá framhjá henni áður en Suðurnesjavegurinn kom til.

Ekki er mér kunnug eldri heimild um Kapelluna en sóknarlýsing séra Árna Helgasonar um Garðaprestakall frá 1842. Séra Árni segir svo: „Nálægt í miðju þessu hrauni er upphlaðin grjóthrúga rétt við veginn, sem fólk kallar Kapellu og segir þar séu dysjaðir þeir menn frá Bessastöðum, sem drepnir hafi verið í hefnd eftir Jón biskup Arason 1551, er ólíklegt þykir satt geti verið“.

Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar er stutt frásögn um Kapelluhraun og Kapelluna, og er henni lýst þannig: „Hún er að norðanverðu við veginn, hlaðin upp af hellugrjóti í lögun eins og borg.
KapellaDyrnar hafa snúið móti suðri, en nú eru þær fullar af mold og mosa. Kapellan er og hærri að norðan en sunnan. Sagt er, að í Kapellunni sé grafinn einn af umboðsmönnum þeim, sem áður voru á Bessastöðum. Var honum gert umsátur þarna í hrauninu, drepinn þar og grafinn“. Þessi frásaga mun eiga rætur að rekja til séra Jóns Þórðarsonar á Auðkúlu.
Brynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi segir þannig frá Kapellunni: „Kapellutóftin í Kapelluhrauni, þar sem sagt er, að lík Kristjáns skrifara hafi verið náttsett, stendur enn að mestu. Raunar er hún nokkuð hrunin utan, einkum vesturgaflinn, og eru dyrnar hrundar saman. Innan er tóftin að öðru leyti hér um bil heil. Er hún hlaðin úr smáum, flötum hraunhellum. Hún er nálægt jöfn á lengd og breidd, ekki fullar fjórar álnir. Þakið er dottið ofan í tóftina. Það mun hafa verið hlaðið saman í topp, einnig úr hraunhellum“.
KapellaLoks má geta þess, að Bjarni Sæmundsson hermir þau munnmæli að í Kapellunni hafi verið dysjaður einn af mönnum Kristjáns skrifara. Kallar Bjarni mannvirkið grjótdys.

Hinn 21. maí 1950 var Kapellan rannsökuð, eftir því sem kostur var á. Auk mín unnu að rannsókninni Gísli Gestsson safnvörður, Jóhann Briem listmálari og dr. Jón Jóhannesson. Þegar við hófum rannsóknina, var húslag rústarinnar svo skýrt, að engum gat blandazt hugur um, að þarna hefði staðið hús og ekkert annað. Hið sama kemur berlega fram í lýsingum Brynjúlfs Jónssonar og þjóðsagnanna. Séra Árni Helgason kallar rústina hins vegar „upphlaðna grjóthrúgu“, og bendir það orðalag til þess, að hún hafi litið öðruvísi út á hans dögum, verið líkari hrúgu en hústóft.
KapellaHúslagið hefði eftir þessu átt að koma fram seinna við það, að einhver hefði rifið upp grjót innan úr tóftinni, enda þóttumst við sjá þess ótvíræð merki, að tekið hefði verið mikið grjót við austurgafl, bæði stærri steinar, sem oltið höfðu úr veggjum, og smásteinar úr gólfi, og hafði þessu grjóti verið varpað yfir í vesturendann. Lá þar dyngja mikil, og sá ekki fyrir dyrum eða dyrakömpum að vestan. Einhver hefur þannig grafið niður með austurgafli og alveg niður á gólf eða jafnvel niður úr gólfi, og líklega hefur þetta gerzt um miðja 19. öld, ef marka má orðalagsmun höfundanna, sem til var vitnað hér að framan. Við tíndum það sem eftir var af grjóti út úr tóftinni, og kom þá lögun hennar skýrt fram.

Jóhann Briem

Jóhann Briem.

Kapellutóftin snýr austur-vestur, þó ekki alveg eftir áttavita, heldur veit framstafninn ögn til suðvesturs. Hann er þó kallaður vesturhlið hér og aðrar hliðar eftir því. Tóftin er öll lögulega hlaðin úr hraunsteinum, og halda veggir sér furðu vel, einkum að innan. Lengdin er 2,40 m, breidd við vesturgafl 2,20 m, en við austurgafl 2,10, og má það í rauninni heita sama breidd austast og vestast. Hæð veggja að innan er 1,80 m við austurgafl, 1,20 í norðausturhorni, 1,35 í suðausturhorni, 0,95 í norðvesturhorni og 1,0 í suðvesturhorni.

Gísli Gestsson

Gísli Gestsson, safnvörður. tók fjölmargar myndir, en fáar eru tila f honum sjálfum. Hér er hann við kumlarannsóknir í Þjórsárdal.

Þar sem hægt er að mæla veggþykkt, er hún um 1,0 m. Á vesturgafli eru dyrnar, og eru dyrakampar meira hrundir en aðrir veggir, einkum þó syðri dyrakampur, en þó eru þeir mjög skýrir. Ekki grófum við alveg út úr dyrum, og var það gert í því skyni, að auðveldara væri að koma rústinni í samt lag eftir rannsóknina. Inn úr dyrum hússins voru flatar hraunhellur í gólfi, enda einnig lítils háttar í suðausturhorni, og virðist svo sem allt hafi gólfið verið flórað, en hellur að miklu leyti rifnar upp, þegar gert var rask það, er að framan getur. Á gólfinu sást töluvert af rauðbleikri ösku og viðarkolabútar í, einkum neðst. Miklu meira bar þó á öskunni en kolamolunum. Langmest var af öskunni í suðvesturhorni tóftarinnar. Í öskunni voru naglarnir og leirkerabrotin, sem talin verða hér á eftir, en þó strjálingur þessara hiuta um gólfið allt.

Kappella

Kapellan í Kapelluhrauni endurgerð.

Ekki tel ég auðið úr því að skera nú, hvort hús þetta hefur verið borghlaðið, eins og Brynjúlfur Jónsson telur. Fremur þykir mér það ólíklegt. Hornin eru að vísu bogadregin, en þó verður húsið að kallast greinilega ferhyrnt að lögun. Hins vegar hafa veggir allir verið hiaðnir í fullri hæð úr hraungrýti, einnig gaflar alveg upp úr, a. m. k. austurgafl með vissu og sennilega einnig vesturgafl. Þakið sjálft tel ég líklegt, að hafi verið uppreft og tyrft, þó að hugsanlegt sé, að það hafi að einhverju leyti verið gert af hraunhellum án þess að vera borghlaðið.

Kapella

Kapellan með friðlýsingaskilti framan við.

Eftir rannsóknina var reynt að ganga frá tóftinni sem líkastri því, sem hún var áður. Ég kom aftur að Kapellunni 26. nóv. 1955. Hún hafði farið vel að stöfnum eftir rannsóknina, ekki hrunið, en klæðzt mosa eðlilega. Hins vegar hefur umhverfi hennar stórum verið spillt við stórkostlega töku hraunsalla í vegi og húsgrunna. Hafnarfjarðarbær hefur keypt þennan hluta hraunsins. Á því friðlýsingarskjal Kapellunnar að vera í hans vörzlu, og hafa ráðstafanir verið gerðar til að koma því í rétt horf.
[Lambhagi (181125 167). Kapellutóft (181125 167-1) forn úr grjóti í Kapelluhrauni. Sbr. Árb. 1903: 34. Skjal undirritað af MÞ 25.10.1930. Þinglýst 15.11.1938.]

KapellaÍ Kapellunni reyndust vera fjölskrúðugri mannvistarleifar en búizt var við að órannsökuðu máli. M.a. fannst mynd af heilagri Barböru, telgd úr grágulum leirsteini, aðeins efri hluti eða vel niður fyrir mitti, fannst í þremur hlutum, sem auðvelt var að fella saman. Myndin eða líkneskið er nú aðeins 3,3 sm á hæð, en hefur líklega verið um 5,5 sm heilt. Það er haglega telgt, andlitið nokkuð máð, hár mikið og hrokkið og nær niður á herðar og sveigur um yfir ennið. Barbara er í flegnum kjól, aðskornum í mitti, barmurinn hvelfdur, kjóllinn í miklum fellingum neðan beltis. Hún grípur hægri hendi i kjólinn, og sést, að hann er ermalangur. Skikkju slegna hefur hún yfir um axlir, og fellur hún með stórum, mjúkum fellingum á baki.

Kapella

Endurgerð stytta af heilagri Barböru í kapellunni.

Í vinstri hendi heldur Barbara á einkunn sinni, turninum, og hvílir hann við vinstri öxl og upp með vinstri vanga hennar. Turninn er ferstrendur með undirstöðu neðst, síðan nokkru grennri bol, þar sem tveir gluggar sjást, sinn á hvorri hlið, slær sér síðan aftur út líkt og neðst, en upp úr hefur loks verið toppur, sem nú er að miklu leyti brotinn af. Sýnilegt er, að einhvern tima hefur verið brugðið knífi á líkneskinu, sennilega til að kanna efnivið þess, eins og menn gera oft fyrir forvitni sakir. — Lítið brot úr sams konar eða mjög líkum steini fannst einnig í tóftinni skammt frá Barbörulíkneskinu. Það er tiltelgt og mætti vel vera úr neðri hluta myndarinnar, þótt ekki sé hægt að koma því í samhengi nú.

Kapellan

Kapellan – líklenski heilagrar Barböru endurgert.

Ekki virðist ástæða til að efa, að Barbörulíkneskið sé frá kaþólskum tíma, en ekki treysti ég mér til að tímasetja það nánar. Líkneskið sýnir þá, að húsrúst þessi mun vera síðan fyrir siðaskipti, því að óhugsandi virðist með öllu, að það hafi borizt í rústina á seinni öldum. Þá bendir og líkneskið eindregið til þess, að nafn rústarinnar segi rétt til um upphaflega notkun hússins. Það hefur að líkindum verið kapella, þar sem vegfarendur gátu staðnæmzt til að gera bæn sína.
Húsið hefur verið alveg við gamla veginn og vitað við áttum eins og kirkja. Mætti hugsa sér, að kapellan hafi verið reist þarna um leið og vegurinn var gerður yfir nýja hraunið, sem þvergirti fyrir leið manna suður með sjó. Eflaust hafa þau tíðindi þótt mikil og ill og ekki hættulaust að ryðja veginn og fara hraunið, meðan það var nýrunnið. Gat hætta sú og óhugnaður, sem hrauninu fylgdi, verið ástæða þess, að kapella var reist einmitt þarna. Stoðar þó að vísu lítt að gizka á slíkt, en hitt má vera því nær víst, að hús þetta hafi í raun og veru verið kapella, eins og nafn þess bendir til.

Kapella

Kapellan – misvísandi skilti frá mismunandi aðilum…

Líkneski Barböru er af þeirri tegund smálíkneskja, sem menn báru á sér sem verndargripi. Dýrkun heilagrar Barböru meyjar hefur sjálfsagt verið allmikil hér á landi eins og annars staðar. Þó var hún ekki nafndýrlingur neinnar kirkju hér á landi, en meðal verndardýrlinga tveggja, kirknanna í Reykholti og Haukadal. Barbörulíkneski áttu að minnsta kosti fjórar kirkjur, í Reykholti, Vestmannaeyjum, Holti í Saurbæ (Stórholti) og Möðruvöllum í Eyjafirði.
Myndir af Barböru hafa auk þessa auðvitað verið á mörgum kirkjugripum, svo sem altaristöflum og skrúða, og má nefna sem dæmi þess saumaða mynd á kórkápu Jóns Arasonar, Barbörumyndir á útskornum altaristöflum frá Reykholti og Síðumúla og á sjálfri stóru altaristöflunni í Hólakirkju, en fleira mætti sjálfsagt nefna. Barbörumyndin í Kapellunni er vitanlega ekki full sönnun þess, að rúst þessi hafi í raun og veru verið kapella á kaþólskum tíma. En hún bendir þó til þess, að menn hafi haft þar tilbeiðslu um hönd öðrum stöðum fremur.

kapella

Leirkersbrot, nagla og skeifubrot treysti ég mér ekki til að tímasetja, en ekkert er óeðlilegt að rekast á þetta dót þarna, þó aldrei nema húsið hafi verið kapella í pápísku. Líklega hefur það verið eins konar sæluhús öðrum þræði, menn hafa farið þar inn til að gera bæn sína, en einnig til þess að hvílast eða leita skjóls í vondu veðri, jafnvel til að matast. Þetta kann að hafa verið frá upphafi ellegar ekki fyrr en eftir siðaskipti, því að sennilega hefur húsið staðið a.m.k. fram á 17. öld. Krítarpípuleggurinn sýnir það. Þarna hafa menn verið á ferð eftir að tóbak komst í notkun hér á landi. Og eldur hefur verið gerður á gólfi til þess að orna sér við, sjóða mat eða hvort tveggja. En ekkert af þessu þarf að mæla því í gegn, að húsið hafi upprunalega verið bænahús vegfarenda á óhugnanlegum stað.

Kapella

Kapella á Helgafelli á Snæfellsnesi.

Í ýmsum kristnum löndum eru enn til smákapellur, sem reistar hafa verið við vegi á miðöldum, ætlaðar vegfarendum til bænagerðar. Þá voru og stundum reistir krossar úti á víðavangi í sama skyni. Slíkur hefur verið krossinn, sem lengi stóð við hættuleiðina í Njarðvíkurskriðum, milli Njarðvíka og Borgarfjarðar eystra. Við hann áttu menn að lesa faðirvor. Af slíkum krossum kunna og að vera dregin sum örnefni af krossi eða krossum. Nefna má og í þessu sambandi hústóft litla úr grjóti, sem er uppi á Helgafelli á Snæfellsnesi og kölluð er „kapellan“. Víst mun hún hafa verið bænahús í kaþólskum sið. Hana má bera saman við Kapelluna í Kapelluhrauni, þótt ekki standi hún við veg. Fleiri sambærilegar menjar er mér ekki kunnugt um hér á landi, úr því að rústin í Kapellulág verður að dæmast úr leik, svo sem fram kemur hér að aftan.

Kapellulág hjá Hrauni í Grindavík (fornleifarannsókn 1954)

Kapella

Hraunssandur og nágrenni – herforingjaráðskort 1903.

Austur frá Hrauni í Grindavík og allt til Festarfjalls heitir Hraunssandur, enda er þar mjög blásið og sér lítinn sem engan gróður á heilum flákum. Þó sagði Gísli Hafliðason, gamall bóndi á Hrauni og átti þar heima alla ævi (d. 1956), að allt sé þarna heldur að gróa upp, sandurinn sé að festast, og mun það eflaust rétt athugað.
Um Hraunssand hefur frá fornu fari legið vegur, og var um hann áður fyrri mikil umferð af mönnum austan úr sýslum, lestamönnum haust og vor og vermönnum um vetur.

Kapella

Kapellan á Hraunssandi 2023.

Frumstæður bílvegur liggur nú mjög þar sem gamli vegurinn var áður. Um það bil 1 km fyrir austan bæinn á Hrauni er lægðardrag allmikið í sandinum, hefst í hæðunum hið efra og nær niður að sjó, víkkar niður eftir og virðist myndað af rennandi vatni, þó að nú sé hvergi vatn á þessum slóðum. Lægð þessi heitir Kapellulág. Rétt neðan við bílveginn, sem nú liggur þvert yfir lægðina á sama stað og gamli vegurinn lá fyrrum, er töluvert áberandi þúst eða grjóthrúga, auðþekkt mannaverk í sandauðninni.

Kapella

Kapellan í Kapellulág 2000.

Þessi grjóthrúga er í daglegu tali kölluð Dysin, og hermir Brynjúlfur Jónsson um hana eftirfarandi sögu: „Þá er Tyrkir rændu í Grindavík (1627), flýði drengur einn undan þeim, ríðandi á rauðri meri, og hleypti upp veg. Einn af Tyrkjum elti hann og var svo fljótur á fæti, að hann náði honum í Kapeliulág. Þreif hann þá í tagl merarinnar. En hún sló báðum afturfótum fyrir brjóst honum svo hart, að hann lá dauður eftir. Var hann þar dysjaður, og á rústin að vera dys hans“.
Á sjávarbakkanum um 200 m suðaustur frá dysinni er grasi gróinn hóll, sem heitir Hvalhóll. Menn taka mið af þessum hól, þegar hann ber í dysina frá sjónum séð, og heitir þetta mið Húsið. Í því nafni felst sjálfsagt réttari bending um uppruna þessa mannvirkis en í munnmælasögunni.

Festarfjall

Festarfjall frá sunnanverðum Hvalhól.

Fleira er eftirtektarvert í umhverfi dysjarinnar. Fyrir austan hana er allmikil hæð, og af henni er skammt austur að sjó, þar sem Hraunsvík nær lengst inn undir Festarfjall. Þar er mjög hár sjávarbakki, og grefur sjór hella inn í móbergið. Þar var hellir, sem nú er mjög lítið eftir af, og hét Dúnknhellir. Þannig bar Gísli á Hrauni þetta fram mjög greinilega. Magnús bróðir hans sagði Dúknhellir, en Jón Engilbertsson á Hrauni sagði Dúnkshellir. Á korti herforingjaráðsins stendur Dúknahellir. Þannig skrifar einnig séra Geir Bachmann í sóknarlýsingu Grindavíkur 1840— 41 (Landnám Ingólfs III, bls. 142).

Hraunsvík

Hraunsvík – Dúknahellir.

Á skerjum nokkrum undir Festi segja þeir á Hrauni, að áður hafi verið járnhringar til þess að festa skip, og hafi írar fest þar skip sín. Þessir járnhringar munu ekki sjást lengur, og enginn þeirra á Hrauni hafði sjálfur séð þá, en þeir þóttust þó vita fyrir víst, að þessir hringar hefðu verið þarna. (Sbr. og Jón Þorkelsson, Þjóðsögur og munnmæli, Reykjavík 1899, bls. 1.)
Dysin í Kapellulág var rannsökuð dagana 13. og 14. maí 1954. Auk mín unnu við rannsóknina Gísli Gestsson safnvörður og Jóhann Briem listmálari fyrri daginn, en Gísli og Guðmundur Þorsteinsson frá Lundi seinni daginn). Báða dagana nutum við gestrisni Gísla Hafliðasonar á Hrauni og konu hans. Veður var gott báða dagana, skúrir þó seinni daginn, en vinnufriður sæmilegur.
KapellaBrynjúlfur Jónsson lýsir dysinni svo árið 1903, að hún sé „dálítil grjótrúst, nokkuð grasgróin, svo sem 3 al. í þvermál að ofan, en fláir utan og virðist vera nokkuð hrunin. Naumast er hún yfir 1 al. á hæð“. Þessi lýsing á sæmilega við dysina, eins og hún leit út, áður en við byrjuðum að grafa í hana. Hún var að sjá eins og hver annar blásinn hóli, steinar oltnir út úr á allar hliðar, en nokkuð gróið á milli. Einkum var kollurinn vel gróinn, og vottaði þar ekki fyrir neinni laut eða lægð. Að ógröfnu mátti þó aðeins greina steinaraðir, sem stóðu upp úr þessum gróna kolli og virtust sýna innri brúnir veggja í litlu húsi.
[Hraun (181010 10). Lítil rúst í Kapellulág (181010 10-1), við veginn upp á Siglubergsháls. Sbr. Árb. 1903: 46-47. Skjal undirritað af MÞ 25.10.1930. Þinglýst 15.11.1938.]

kapellaÞegar við vorum búnir að mynda dysina, fórum við að grafa innan úr henni, eftir því sem þessar steinaraðir eða veggbrúnir sögðu til. Mold létum við sér og grashnausa sér til þess að geta komið öllu í sama fallega lagið aftur, þegar rannsókninni væri lokið. Efsta rekustungan eða vel það var eingöngu foksandur moldarblandinn. Í honum voru nokkur stórgripabein og fuglabein nýleg. Á hér um bil 50 sm dýpi varð vart við fyrstu mannvistarleifar, koladrefjar, sem ekki voru tilkomumeiri en það, að þær héngu ekki saman svo að lag myndaðist. Við hreinsuðum upp alla tóftina við þetta lag, gerðum uppdrátt og tókum myndir. Niðri við lagið eða um 45 sm frá yfirborði. Inni undir húsgafli (þ. e. austurgafli), fundum við eina stappaða látúnsþynnu.
KapellaNú skal lýsa húskofa þessum, eins og hann kemur fyrir sjónir uppgrafinn. Það varð þegar í stað ljóst við rannsóknina, að við höfðum fyrir okkur lítið hús eða hústóft, sem var barmafull af mold, sandi og grjóti, innveggir lítið sem ekki hrundir, en útveggir mjög hrundir og steinar úr þeim skriðnir út á alla vegu. Af því skapaðist dysjarútlitið og þá einnig nafnið og loks munnmælasagan um Tyrkjann. Í miðnafninu Húsið hefur hins vegar geymzt minning um, að þetta hafði í upphafi verið hús. Það hefur verið ótrúlega lítið, 2,20 m að lengd og 1,20 m að breidd. Veggirnir eru hlaðnir úr grjóti í 1 m hæð og standa vel að innan, lítið eitt fláandi upp eftir, þ.e. hallast út.

Grindavík

Grindavík – dys við Hraun. Kristján Elján hafði meiri áhuga á þessum manngerða hól, en entist ekki aldur til.

Ekkert bendir til þess, að hús þetta hafi verið kapella, annað en nafnið Kapellulág. Rústin sjálf var ekki kölluð Kapella, heldur Dysin. Miðnafnið Húsið er fremur bending um, að hús þetta hafi ekki verið kapella. Ekki er þarna heldur neinn svo hættulegur staður, að eðlilegt væri að hafa þar bænhús fyrir vegfarendur, enda örstutt að Hrauni, þar sem áður var kirkja. Þrátt fyrir þetta hefðu þó getað verið einhverjar ástæður til þess að þarna væri reist kapella, en heimildir eða staðhættir mæla ekki sérstaklega með því, og fornleifafundurinn mælir því mikið heldur í gegn, þótt hann afsanni það ekki að fullu. Til dæmis snýr húsið í vestur án þess að sjáist, hvernig á því stendur, jafnvel snýr það dálítið skakkt upp á móti brekku, eins og nokkuð hafi þótt við liggja, að það snéri einmitt þannig. En ekki er þetta nógu veigamikið til þess að halda megi fram þess vegna, að húsið hafi verið bænhús.

Hraun

Signingasteinn (skírnarsteinn) við Hraun. „Sigurðarhús“ h.m.

Þegar hinir mörgu smáhlutir komu fram á svo litlum bletti og loks enskur peningur í þokkabót, hvarflaði hugurinn óneitanlega að verzlun Englendinga hér á miðöldum. Eins og kunnugt er, var Grindavík einmitt einn sá staður, þar sem þeir stóðu hvað föstustum fótum. Gat það verið, að þarna væri beinlínis fundin svolítil ensk búðarhola, þar sem einkum hefði verið verzlað með kvenlegan glysvarning? Hugmyndin virtist góð í fyrstu, en ekki get ég þó haldið þessari skýringu til streitu.
Að öllu athuguðu held ég helzt, að hús þetta hafi verið verkstofa málmsmiðs. Því til sönnunar tel ég fyrst og fremst það, að sumir smáhlutirnir virðast greinilega ekki fullgerðir. Afklippur úr látúni og tini benda og í sömu átt. Skylt er þó að vekja athygli á, að ekki fundust nein merki um, að bræddur hefði verið málmur á þessum stað, hvorki málmdropar né gjall, deiglubrot eða þess háttar. En ekki afsannar það, að þarna hafi hafzt við maður, sem hafði að atvinnu að smíða hluti þá ýmsa, sem þarna fundust.

Kapella

Kapellan á Hraunssandi í dag (2024).

Einkennilegast er staðarvalið. Að vísu er ekki ljóst, hvernig umhverfi hússins hefur verið á miðöldum, þó að trúlegt sé, að þá þegar hafi það verið mjög blásið, og hefði það þó ekki þurft að gera smiðnum neitt til. Hitt er torskýrðara, hversu einangrað þetta hús er og snautt að öllum mannvistarleifum öðrum.“

Heimild:
-Árbók Hins íslenzka fornleifafélags – 01.01.1955, Kapelluhraun og Kapellulág; fornleifarannsókn 1950 og 1954, Kristján Eldjárn, bls. 5-34.

Kapella

Kapellan á Hraunssandi.