Tag Archive for: Hafnarfjörður

Flókaklöpp

Litið var á rúnasteinana á Hvaleyrartanga. Rúnir eru vel sýnilegar á a.m.k. þremur steinanna. Fundist hafa nokkrar gamlar umsagnir um steinana og áletranirnar, sem margar hverjar virðast mjög gamlar. Jónas Hallgrímsson gengur svo langt að segja að innan um þær séu fangamerki áhafnar Hrafna-Flóka, sem kom við á Hvaleyrinni (Herjólfshöfn) á leið sinni út. Nefnir hann steininn þann Flókaklöpp.

Flókaklöpp

Flókaklöpp.

Aðrir hafa bent á að fátt sé því til stuðnings að þarna megi merkja áletranir nefndrar skipshafnar. Bæði sýna dæmin að letur á klöppum endist ekki nema tímabundið. Þannig hafa ekki fundist eldri letursteinar á Reykjanesskaganum en frá því um 1500. Steinninn eyðist smám saman vegna veðrunar (vatn, frost og vindur) og letrið afmáist því óhjákvæmilega. Á steinunum eru hins vegar margar áletranir, sumar eldri en aðrar. Breski herinn var með aðstöðu þarna á stríðsárunum og ljóst er að einhverjir hermannanna hafa bætt við fyrri skrif. Þeir notuðu m.a. einn steinninn sem pall til að að hræra steinsteypu. Ber hann þess enn merki.
Ýmis ártöl má lesa af steinunum og sumir stafirnir líkjast rúnum.

Flókaklöpp

Áletrun á Flókaklöpp.

Hvað sem öllu tali og vangaveltum um að áhöfn Hrafna-Flóka hafi klappað fangamörk sín á steinana, sem alls ekki er með öllu útilokað, er greinilegt letur á þeim og sumt af því eldra en annað.
Brynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi minnist ekki á Flókaklöppina í skrifum sínum um Hvaleyri í Árbók hins íslenska fornleifafélags árið 1903 – Rannsókn í Gullbringusýslu og Árnessýslu sumarið 1902. Þar segir hann m.a. með vísan í Landnámu: „Flóki kom í Hafnarfjörð. Þeir fundu hval á eyri einni út frá firðinum ok kölluðu þar Hvaleyri“. Síðan segir hann: „Þar hefir Herjólfur leitað lendingar og svo kennt höfnina við nafn hans: Herjólfshöfn. Á Hvaleyri er að sjá að kirkja hafi verið 1650, því á 2 ljósastökum, sem Krýsuvíkurkirkja á, stendur, að það ár hafi Helmer Dirichsen Roode, undirkaupmaður í Hafnarfirði, gefið þá Hvaleyrarkirkju.“

Flókaklöpp

Flókaklöppin í dag.

 

 

Krýsuvíkurhellir

Gengið var frá Sýslusteini að Herdísarvíkurseli og þaðan í Seljabót. Síðan var gengið vestur með ströndinni. Um er að ræða magnaða leið.

Krýsuvíkurbjarg

Krýsuvíkurbjarg.

Fjölbreytilegt ber fyrir augu, hvort sem um er að ræða stórbrotið útsýni eða merkileg náttúrfyrirbæri. Leitað var að Skyggnisþúfu. Hún fannst nokkurn veginn miðja vegu á milli Seljabótar og Keflavíkur. Á henni er varða og í vörðunni er hólf sem skilaboð á milli bæja voru látin í. Skammt vestan hennar er stórbrotinn djúpur svelgur ofan í jörðina og sér út á hafið í gegnum stórt gat á honum. Nokkru vestan var gengið ofan í Keflavík eftir stíg. Þar er gróið undir bjarginu, en framar eru lábarðir steinar. Af þeim, horft til austurs með berginu, er hár og fallegur gatklettur út í sjó – stórbrotið útsýni.

Keflavík

Keflavík í Krýsuvík – einnig nefnd Kirkjufjara. Þangað áttu kirkjur norðan Reykjanesskaga rekaítök fyrrum.

Vestan Keflavíkur eru leyfarnar af gamla Krýsuvíkurbjarginu, en hraun hefur síðan runnið allt um kring og út í sjó. Sjá má gömlu hamrana standa tígurlega upp úr á smá kafla. Á þeim eru svonefndir Geldingasteinar, mosavaxnir gulbrúnir steinar, en grasi gróið í kringum þá. Liggur rekagata vestur með ströndinni frá þeim, neðan gamla bergsins, sem nýtt hraun hefur runnið fram af og framlengt ströndina sunnan þeirra.

Krýsuvíkurhellir

Krýsuvíkurhellir.

Gengið var ofan gömlu hamrana, yfir mosahraun og var þá komið að helli er gæti verið hinn týndi Krýsuvíkurhellir. Snjór var framan við opið og var að sjá hleðslur ofan þess. Tekinn var punktur og verður hellirinn skoðaður betur við tækifæri. Neðan hellisins er nýja bergið og liggur gömul gata efst á því. Honum var fylgt til vesturs og opnaðist þá stórkostlega sýn vestur Krýsvíkurbjargið, hátt og tignarlegt. Fram af því steyptist Eystri-lækur og hefur hann varla í annan tíma sést jafn vel og núna. Frábært myndefni – með hæstu fossum á landinu.

Eystri-Bergsendi

Horft vestur yfir krýsuvíkurbjarg frá Eystri-Bergsenda.

Þegar komið var út á Bergsenda var strikið tekið að Sundvörðunni ofan við bjargbrúnina skammt vestar, síðan upp í fjárhellir í Litlahrauni og loks komið við í réttinni og fjárhústóttinni ofan hans áður en haldið var að Krýsuvíkurrétt undir Eldborgum.
Þessi gönguleið er ein sú stórbrotnasta, sem hægt er að fara á Reykjanesi og ættu sem flestir að nýta sér það tækifæri í góðu veðri.

Keflavík

Keflavík.

Óbrennishólmi

FERLIR leitaði tófta næstelsta upplandsbæjar Krýsuvíkur, Gestsstaða. Elsti bærinn mun vera, að því er talið er, Kaldrani við suðvesturhorn Kleifarvatns.

Gestsstaðir

Tóftir Gestsstaða í Krýsuvík – austan hálsa…

Þrjár heimildir eru um hvar tóttir Gestsstaða kunni að vera að finna. Sú yngsta segir að bærinn hafi verið undir Píningsbrekkum norðaustur af gróðurhúsunum sunnan Hettu, en engin ummerki eru á þeim slóðum. Hinum eldri heimildum tveimur ber saman, þótt orðaðar séu á mismunandi vegu. Þær kveða á um að bærinn hafi verið sunnan undir brekkunum sunnan Gestsstaðavatns, nálægt núverandi skólahúsi. Mikið landrof hefur orðið á svæðinu, en undir brekkunum eru tóftir bæjarins, á a.m.k. þremur stöðum. Megintóftirnar eru neðan við brekkurnar og er merki um Friðlýsar fornminjar í annarri þeirra. Þriðja tóftarsvæðið er uppi í Sveifluhálsi ekki langt frá. Þar er stök tóft og hleðslur ekki fjarri. Vel má sjá móta fyrir húsunum undir Gestsstaðavatnsbrekkunum. Þarna hafa verið nokkuð stór hús, en óvíst er um aldur þeirra.

Sængurkonuhellir

Sængurkonurhellir sunnan Lats.

Tilgangur ferðarinnar var einnig að skoða minjar í Óbrennishólma í Ögmundarhrauni í landi Grindavíkur. Á leiðinni var komið við í hlöðnu sæluhúsi undir Lat. Steinhella, sem notuð hefur verið sem hurð, var enn á sínum stað – til hliðar við dyraopið.
Í svo til beina stefnu á húsið eru merki um tillöguna að svonefndum Suðurstrandavegi í gegnum hraunið. Ef sú tillaga (sem fyrir liggur er þetta er skrifað) verður að veruleika mun vegurinn fara yfir húsið.

Gestsstaðir

Gestsstaðir – tóft utan í Sveifluhálsi.

Í Óbrennishólma var hinn forni garður skoðaður, stóra fjárborgin, sem hefur verið sú stærsta á Reykjanesi, minni fjárborgin skammt austar og ofar nýlegrar kvíar í hraunkantinum sem og forna garðhleðslan, sem hraunið hefur stöðvast við á leið sinni til sjávar. Óbrennishólmi auk Húshólma þarna skammt austar eru sennilega merkustu fornminjasvæði á landinu og jafnvel kunna að leynast þar fornminjar, sem breytt geta vitneskju manna um landnám á þessu landi, sem síðar var nefnt Ísland. Fyrirhugað er nú (gæti breyst) að leggja breiða hraðbraut í gegnum Hólmana með ófyrirséðum afleiðingum því svæðin hafa þrátt fyrir allt verið mjög lítið rannsökuð. Til að mynda er hvergi til vitneskja á einum stað um allar minjarnar, sem vitað er um í hólmunum.

Norðurkot

Norðurkot í Krýsuvík.

Í Húshólma, sem síðar verður skoðaður nánar, er þó vitað um fornu kirkjuna, sem talið er að hafi verið notuð eftir að Ögmundarhraun rann árið 1151, forna skálann, reyndar tvo eða þrjá, sem hraunið umlukti og enn má sjá leifar af, Kirkjuflötina, sem talið er að sé forn grafreitur, Kirkjulágina og forna garðinn, sem liggur á ská í gegnum hólmann, þvergarðinn og fjárborgina í honum ofanverðum – svo til í vegastæði fyrirhugaðs Suðurstrandavegar. Hins vegar liggur ekki fyrir vitneskja um tóttir syðst í hólmanum, sennilega tengt útræði á Seltöngum, en svo eru tangarnir nefndir utan hans við Hólmasundið.

Norðurkot

Norðurkot í Krýsuvík 1892.

Selatangar eru vestar á ströndinni þar sem verið hefur verstöð undir Katlahrauni og enn má sjá miklar leifar af. Þá liggur hvorki fyrir vitneskja um sýnilegar tóttir sels (stekks) efst í Húshólma né hringlaga garðlags austan undir Ögmundarhrauni þar sem Húshólmastígur liggur inn í Hraunið. Einnig mótar fyrir sporöskjulaga gerði í Kirkjuflötinni, sem gæti verið tóft, jafnvel kirkjunnar, sem menn hafa gefið sér að sé innar í hrauninu og fyrr var nefnd. Annars staðar í hrauninu má einnig sjá hleðslur fornra garða. Og án efa, ef svæðið yrði rannsakað betur, kæmu í ljós mun fleiri minjar, en þegar er vitað um að þar kunni að leynast.
Húshólmi og Óbrennishólmi eru því án efa einir af áhugaverðustu stöðum með tilliti til fornminja og sögu landsins.
Frábært veður.

Óbrennishólmi

Tóft í Óbrennishólma.

/https://ferlir.is/husholmi-ogmundarhraun/

Hellisgerði

Leitað var Fjarðarhellis í miðbæ Hafnarfjarðar. Hann fannst eftir stuttan umgang, en hellir þessi var notaður sem fjárhellir áður en byggð fór að þrengja að honum.

Hellisgerði

Fjarðarhellir í Hellisgerði.

„Landslag í Hafnarfirði er víða mjög sérkennilegt. Hraunið setti áður fyrr mestan svip á bæinn, enda stendur hann í hraunbrekku, sem hallar niður að flæðamáli. Hraunið var mjög óslétt og mishæðótt, klettar margir og furðurlega lagaðir. Eftir því sem byggðin jókst í Hafnarfirði og færðist út, hurfu ýmiss sérkenni landslagsins. Hamrar voru sprengdir og sléttað yfir gjár. Árið 1922 var lagt til að Málfundafélagið Magni kæmu upp blómagarði og skemmtigarði, þar sem sérkenni landslagsins, hraunborganna og gjánna, fengju að halda sér, en gróðurinn væri aukinn af prýði og yndi. Nefnd, sem sett var í málið, leyst vel á svæði það, sem nú er Hellisgerði, en þar var þá nokkur vísir af trjágróðri. Knud Zimsen, borgarstjóri í Reykjavík, segir í endurminningum sínum, að móðir hans hafi fylgst með gróðrinum í nánd við Fjarðarhelli af miklum áhuga og innileik. Faðir Knuds lét girða og friða allstórt svæði í kringum hellinn, og hlaut það nafnið Hellisgerði. Síðar var svæðið stækkað og aukið. Helstu samkomur Hafnfirðinga voru þar um allnokkurt skeið.“

Heimild m.a.:
-Saga Hafnarfjarðar 1908-1983.

Hellisgerði

Fjarðarhellir.

Kaldársel

Farið var með Þórarni Björnssyni um Kaldársel, en hann er að vinna drög að bók um sögu staðarins. Þórarinn sýndi þátttakendum það sem hann hafði grafið upp um staðinn og FERLIRsfólk sýndi honum annað, s.s. Gvendarsel undir Gvendarselshæð, fjárhellana norðan við Borgarstand, Nátthagann í Nátthaga, Þorsteinshelli vestan Selgjár o.fl.

Kaldársel

Kaldársel – áletrun.

Þórarinn benti m.a. á letursteinana við Kaldá, en á nokkra þeirra eru klappaðar sálmatilvitnanir. Á einu er vísað í Davíðssálma þar sem segir að það tré, sem gróðursett er við lind og fær næga næringu, dafnar vel. Þetta mun hafa verið sett á steinana á 5. áratug 20. aldar af aðstandendum KFUMogK í Kaldárseli.
Kaðalhellir er þarna skammt norðvestar sem og Hreiðrið. Gamla gatan frá Kaldárseli til Hafnarfjarðar er mörkuð í klöppina á kafla sem og gamla gatan frá Kaldárseli til Krýsuvíkur.
Þetta var róleg ferð, en fróðleg. Nokkrir aðrir áhugasamir slógust í hópinn. Veður var frábært.

Kaldársel

Kaldársel – uppdráttur ÓSÁ.

Straumssel

Eftirfarandi er byggt á lýsingu Gísla Sigurðssonar um Straumssel:
“Gengið var í Straumssel frá Þorbjarnarstaða-Rauðamel, en þaðan er styst í selið, u.þ.b. 20 mínútna ganga. Straumsselsstígurinn austari liggur upp með Þorbjarnarstöðum Straumssel-222að austanverðu, suður á milli Stekkjarhólanna, um skarð í Jónasarhól, yfir Seljahraunið og upp í Toppukletta. Þar taka lárnar við allt upp undir Jónshöfða, yfir úfið hraun, Katlana, og á Straumsselshöfða. Þá sést að Straumsseli.
En að þessu sinni var gengið upp fyrir Rauðamelsgryfjurnar, upp með hraunkantinum og yfir tiltölulega slétt gróið hraun þangað til komið var inn á Gjáarselsstíg. Honum var fylgt að hraunkanti uns hann beygir til suðausturs. Þar hægra megin við stíginn er lítil varða. Farið var út af stígnum við vörðuna og beygt eftir stíg til

Straumssel

Straumssel – tilgáta.

suðurs. Stígurinn er vel greinilegur ef vel er að gáð, en litlar vörður á hólum hingað og þangað geta auðveldlega afvegaleitt fólk á þessari leið. Stígurinn liggur bestu leiðina upp og í gegnum hraunið. Hún er mjög greiðfær, en auðvelt er að láta glepjast af leið. Stígurinn liggur svo til beint að Straumsseli, en skömmu áður en komið er að því beygir hann til suðausturs og síðan til suðurs þannig að komið er að selinu úr norðaustri. Að þessu sinni skein sólin á tóttirnar og garðana í kring þegar komið var að því. Keilir reis tignarlegur í bakgrunni.

Straumssel-223

Op með fyrirhleðslu ofan við Neðri-Straumsselsfjárhella.

Straumssel er merkur staður. Það hefur upphaflega verið sel frá Straumi, en selið síðan þróast í bæ. Ber það þess merki. Þær eru stærri og rúmbetri en í öðrum seljum á Reykjanesi. Garðar eru allt í kringum túnin og er fallega hlaðinn stekkur sunnan við tóttirnar. Vatnsstæði er í skúta norðan við þær. Í Straumsseli var búið stundum á 19. öldi. Síðast á árunum 1890-1895.
Guðmundur Guðmundsson keypti Straumsjörðina af Páli Árnasyni sem hafði keypt hana 1839 af konungssjóði. Leigði hann heimajörðina en stofnaði sjálfur nýtt lögbýli. Guðmundur var gerður að skógarverði í Almenningi og settist að í Straumsseli um 1847. Hjá honum var faðir hans Guðmundur Bjarnason, oft nefndur Krýsuvíkur-Gvendur. Hann andaðist aldraður maður í Lambhaga vorið 1848, en Guðmundur skógarvörður andaðist fimm árum síðar í selinu, nánar tiltekið 1853. Þegar hann gerði Straumssel að bústað sínum klagaði leiguliði hans í Straumi búsetuna til sýslumanns.

Straumssel

Straumsselið gamla.

Leiguliðinn var Bjarni Einarsson útvegsbóndi sem hafði búið þar allt frá því jörðin var í konungseigu. Honum þótti það vera skerðing á fornum rétti landseta að skipta jörðinni upp með þessum hætti. Guðmundur lofaði að fjölga ekki býlum í Straumslandi meðan Bjarni byggi þar. Bjarni gekk að sáttinni að því tilskyldu að bygging hins gamla Straumssels væri sér með öllu óviðkomandi, skyldu yfirvöld kæra búsetuna. Föst búseta var í Straumsseli í ein 40 ár með hléum, enda vatnsstæði lélegt og erfið búsetuskilyrði. Meðal ábúenda í selinu voru hjónin Kolfinna Jónsdóttir og Siguður Halldórsson sem bjuggu þar á tímabilinu 1853-1863. Bæjarhúsin eyddust af bruna og hefur ekki verið búið þar síðan.

Efri-Straumsselshellar

Efri-Straumsselshellar.

Í suðri sést í Hafurbjarnaholt, kennt við Björn Gnúps-Bárðarson, Hafur-Björn, sem samninginn gerði við bergbúann forðum. Gerðu þeir helmingaskipti í fjáreign. Segir sagan að þá hafi komið hafur og hrútur í féð og var þá sem tvö höfuð væru á hverri skepnu. Gerðist Björn þá fjárríkasti bóndi á Suðurnesjum”.

Almenningur

Neðri-Straumsselshellar.

Eftir stutta dvöl í Straumsseli var haldið áfram til suðausturs upp frá selinu. Eftir um sjö mínútna gang var komið í Straumsselshella- neðri. Þetta er rúmgóður fjárhellir utan í holti og snýr opið til vesturs. Hlaðið er framan við munnann. [Skammt sunnan við opið mótar vel fyrir miklum hleðslum við op. Hleðslurnar eru fallnar og hafa lokað fyrir opið. Þarna mun vera op á öðrum fjárhelli, sem langur gangur átti að hafa verið inn í]. Áfram var haldið upp hraunið til suðausturs. Þegar komið var upp á brúnina eftir um fimm mínútna gang var komið í Straumselshella-efri. Þeir eru rúmgóður fjárhellir og vel manngengur. Hlaðið er fyrir munnan, en hellisopið er innan við fallega hlaðið gerði í hraunbala. Ofan við gerðið að norðanverðu er hlaðið byrgi. Í suðri blasir Gamlaþúfa við. Deilt hefur verið um hvort hún eða Markhelluhóll, sem er allnokkru sunnar, eigi að marka lendur aðliggjandi jarða.
Gengið var allt í kringum Straumsselið og umhverfi þess skoðað. Síðan var haldið til baka eftir vestari selsstígnum.
Frábært veður. Gangan tók um 1 og ½ klst.

Straumssel

Straumssel – uppdráttur ÓSÁ.

 

Æsubúðir

Gengið var upp hraunána að Stóru-Eldborg, yfir gömlu þjóðleiðina milli Herdísarvíkur og Krýsuvíkur um Deildarháls, áfram upp Hvítskeggshvamm og upp að gígnum á Geitahlíð. Þarna eru heimkynni þokunnar.

Stóra-Eldborg

Stóra-Eldborg.

Eftir stutta dvöl á gígbarminum, brá hún sér af bæ svo hið mikla og kyngimagnaða útsýni birtist þátttakendum í allri sinni dýrð. Í norðri birtust eldborgirnar fallegu austan við Kálfadalahlíðar, úfið mosahraunið, Vörðufell og Sveifluhálsinn.

Kleifarvatnið setti skarpan lit í landslagið. Sunnar lágu Klofningar, Litlahraun og Krýsuvíkurheiðin við augum, svo langt sem þau entust.

Hvítskeggshvammur

Hvítskeggshvammur. Stóra-Eldborg neðar.

Haldið var áfram upp að Æsubúðum í 382 metra hæð y.s. Í gömlum sögum er því haldið fram að Æsubúðir hafi verið gamall verslunarstaður jötna þá og þegar sjórinn náð upp að Geitahlíð og hægt var að leggja skipum við Hvítskegsshvamm. Í honum átti að vera járnkengur sem skipafesti, en lítið virðist vera á honum nú. Landslagið gaf ekki annað til kynna.
Af tindinum er eitt fegursta útsýni hér á landi yfir suðurströndina, fjöllin ofan Herdísarvíkurfjalls, Kleifarvatn, Sveifluháls, Krýsuvík og svæðið ofan Krýsuvíkurbjargs. Gengið var norður með Æsubúðum og síðan í hálfhring niður að brún Geitahlíðar ofan við Stóru-Eldborg.

Æsubúðir

Æsubúðir og nágrenni.

Þaðan sjást vel hinir þrír gígar borgarinnar, einnum þó sýnum stærstur, þ.e. Eldborgin sjálf. Geitahlíðin var skáskorin niður að Eldborginni og hún síðan skoðuð betur í nálægð. Auðvelt var að ganga niður gróna hrauntröðina að upphafsstað.
Huga þarf að umgengni við Eldborgina. Ferðamenn hafa sjálfir verið látnir um að að marka stíg upp um hlíðar hennar, en eðlilegast og án minnstu skemmda væri að ganga upp á hana frá gömlu þjóðleiðinni. Þaðan er stutt upp á brúnina og minnsta umhverfisraskið – just að proposal, eins og Norðmaðurinn sagði.
Frábært veður – Gangan tók 1 klst. og 40 mínútur.

Æsubúðir

Æsubúðir efst á Geitahlíð.

Kerlingarskarð

Gengið var upp á Lönguhlíðar (512 m.y.s.) um Kerlingargil og ofan hlíðanna til suðurs að Mígandagróf.

Mígandagróf

Mígandagróf.

Grófin, sem framdalur ofan við brúnina, var tóm vegna undanfarandi þurrka, en litadýrðin var söm við sig. Grænni litur er óvíða til hér á landi í bland við brúnan. Grófin er verðandi skál líkt og sjá má í Vestfjarðarfjöllunum. Þunnt lækkandi haft skilur hana frá hlíðinni. Vatn safnast saman í hana og myndar vænan poll. Þegar blár liturinn fer saman við þann fagurgræna verður til fegurð, sem hvorki sá guli né rauði ná að brjóta upp. Stutt stjórnmálalíking.
Grófin er stundum nefnd Mýgald og hún þá Mýgaldagróf.

Lönguhlíð

Varða á Lönguhlíð vestan Mígandagrófar.

Frá grófinni var haldið að reisulegri útsýnisvörðu fremst á Lönguhlíðum. Útsýni þaðan yfir láglendið og til vesturs með Sveifluhálsi, Núpshlíðarhálsi og Keili er stórbrotið. Í austri blasi Hvirfill við (602 m.y.s.), þá Kistufell, Eldborg og Vörðufell og í suðri bar Æsubúðir við haf og himin.
Haldið var niður hraunfossinn í Fagradalshlíðum, niður í gróinn dalinn og síðan gengið með neðanverðum Lönguhlíðum til baka.
Veður var bjart, stilla og sólskin. Gangan tók 3 og 1/2 klst.

Mígandagróf

Mígandagróf.

Brennisteinsfjöll

Haldið var upp á Lönguhlíðar um Kerlingarskarð og þaðan upp í Kistudal. Dalurinn skartaði sínu fegursta svo stuðlabergið naut sín vel.

Námuhvammur

Tóftin í Námuhvammi oafn við brennisteinsnámurnar.

Skoðaðar voru brennisteinsnámurnar í Brennisteinsfjöllum og þátttakendur fundu það sem leitað var að – minjar um bústaði námumanna. Minjarnjar eru í gili undir hlíðum fjallana og mjög heillegar þrátt fyrir að hafa verið yfirgefnar í um 140 ár.
Gengið var um Grindarskörð á bakaleiðinni. Á leiðinni mátti sjá norðurljósin í sinni fegurstu mynd. Þau eru hvergi fallegri en þar sem engra ljósa frá byggð nýtur við.
Norðurljósin munu verða til vegna þess að frá sólinni berst í sífellu svonefndur sólvindur sem er straumur rafhlaðinna agna. Þegar vindurinn nálgast jörðina hrindir segulsvið jarðarinnar honum frá sér nema í kringum segulpólana. Þar sleppur eitthvað af ögnunum inn í segulsviðið.

Norðurljós

Norðurljós.

Þegar eindirnar rekast á lofthjúp jarðar, í um 100-250 km hæð örvast sameindir og frumeindir í hjúpnum og þær senda frá sér sýnilegt ljós sem við köllum norður- eða suðurljós.Margir af litum norðurljósanna myndast við svokallaðar forboðnar færslur eða ummyndanir milli orkustiga í sameindum og frumeindum í ystu lögum lofthjúpsins.
Sjaldgæf rauð norðurljós eru komin frá súrefni í mikilli hæð, yfir 200 km. Súrefni í um 100 km hæð myndar skæran gulan og grænan lit sem er bjartasti og algengasti liturinn í norðurljósum. Blár og fjólublár litur kemur frá jónuðum nitursameindum en óhlaðið nitur gefur rauðan lit. Purpurarauður litur við neðri rönd og gáraða jaðra á norðurljósum kemur einnig frá nitursameindum.
Veðrið var í einu orði sagt frábært.

Heimildir m.a.
http://visindavefur.hi.is/svar.asp?id=1512

Kerlingarskarð

Kerlingargil.

Krýsuvíkurkirkja

Vegurinn var góður og umhverfið fagurt. Leiðin lá til Krýsuvíkur á einum af þessum björtu dögum í septembermánuði. Árið var 1995.

Sveinn Björnsson

Sveinn Björnsson. Myndin er tekin í Krýsuvík.

Ætlunin var að heimsækja Svein Björnsson, listmálara og fyrrverandi yfirlögregluþjón í Hafnarfirði, sem var búinn að koma sér fyrir í gamla bústjórahúsinu. Að öðrum ólöstuðum má segja að Sveinn hafi þá verið með litríkari einstaklingum samtímans, bæði til orðs og æðis.
„Það var mikið að þú lést sjá þig. Ég hélt að eitthvað hefði komið fyrir á leiðinni. Komdu inn. Það er að vísu enginn hiti í húsinu. Leiðslan bilaði einhvers staðar á leiðinni, en það er alveg sama. Gakktu inn fyrir“. Svenni stóð á inniskónum í dyrunum á blámálaða húsinu þegar rennt var í hlað. Hann hélt á járnspaða í annarri hendi og benti mér með hinni, án frekari orða, að fylgja sér innfyrir.

Sveinn Björnsson

Sveinn Björnsson – Jófríðastaðir.

Sveinn Björnsson listmálari og fyrrverandi yfirlögregluþjónn í rannsóknarlögreglunni í Hafnarfirði var greinilega glaðklakkanlegur þennan dag. Hann hafði strax boðist til að taka á móti mér þarna þegar ég óskaði eftir viðtali. Húsið, sem er í eigu bæjarins, hafði hann haft til afnota síðan árið 1974. Sjálfur hafði hann haldið því við eftir það, holufyllt, málað og látið skipta um glugga, en nú þurfti nauðsynlega að bæta um betur, skipta um járnið á þakinu, laga hitalögnina og múra í nokkrar frostsprungur. Sjálfur leit Sveinn hins vegar mjög vel út og var eldhress að vanda. Það var ekki að sjá að maðurinn væri orðinn sjötugur.

Sveinn Björnsson

Sveinn Björnsson – sjálfsmynd.

Sveinn var rjóður í kinnum. Það lá vel á honum. Hann hafði verið við veiðar í Hlíðarvatni um morguninn og veitt 7 punda bleikju, 64 sentimetra langa. Hann sýndi mér fiskinn.
„Þetta er flottur fiskur, finnst þér það ekki“, spurði Sveinn mig, potaði í hann og stoltið leyndi sér ekki. „Þeir veiðast ekki stærri í Hlíðarvatni. Heyrðu annars. Ég var búinn að tala um það við Ingvar bæjarstjóra að koma hingað upp eftir og líta á húsið. Heldurðu að það verði nokkuð mál að fá hann til að samþykkja svolítið viðhald. Kannski ekki mikið, en svona það allra nauðsynlegasta?“ Hann beið ekki eftir svari. Hann var búinn að koma því á framfæri, sem hann ætlaði sér. Viðbrögðin áttu greinilega að vera undir mér komin – gagnvart öðrum en honum.

Ég fylgdi Sveini um húsið. Niðri voru vinnustofur. Rafmagnshitaofn var í gangi. Það var svolítið svalt í húsinu.

Sveinshús

Sveinshús.

Uppi var eldhúsaðstaða, bað, stofa og herbergi. Alls staðar var snyrtimennskan í fyrirrúmi. Fagurt útsýni var til allra átta – Gestsstaðavatnið fyrir aftan húsið, Grænavatn, Bæjarfell, Arnarfell, Geitahlíð, Stórihver eða Austurengjahver öðru nafni, Kleifarvatn, Hetta, Hnakkur og svona mætti lengi telja. Gamla fjósið blasti við í austri og nýja skólahúsið, sem nú er í umsjá Krísuvíkursamtakanna, í suðri. Í vestri lá gamli Sveifluvegurinn upp hálsinn, en hann var þar ósýnilegur öðrum en sem til þekktu. Þannig er það líka um svo margt.

Sveinn björnsson

Sveinn Björnsson við Indíánann í Kleifarvatni.

Eftir að Sveinn hafði sýnt mér nokkrar mynda sinna, bað hann mig um að doka svolítið við – þyrfti að ljúka við mynd, sem hann var að vinna að. Hann tók spaðann, sem hann hélt enn á, brá honum á tréspjaldið, hrærði saman nokkrum litum og renndi síðan yfir auðan blett á striganum. “Þetta er miklu fljótvirkara svona”, sagði hann, leit á mig og glotti. “Ég er alveg kominn yfir í þetta form. Hættur öðru”, bætti hann við, stóð kyrr og velti myndinni fyrir sér smástund. Síðan, snéri hann sér að mér aftur og bauð mér til stofu, hellti upp á kaffi og bar fram hjóna-bandssælu.
„Ég hef orðið fyrir miklum áhrifum af þessu landslagi skal ég segja þér og hef málað það mikið“, sagði Sveinn þegar hann sá að ég hafði verið að virða fyrir mér útsýnið.

Sveinn Björnsson

Sveinn Björnsson – sjálfsmynd.

„Ég var með hesta í Krýsuvík í gamla daga og þá kynntist ég landslaginu hérna fyrir alvöru. Síðar vann ég við að setja þakið á fjósið þarna. Það var ’51. Bærinn lét byggja þessi hús. Jón Hólmgeirsson ætlaði að hafa 200 rauðar beljur í fjósinu. Rauðar, já sjáðu, ég segi rauðar vegna þess að kratarnir stjórnuðu bænum. Þá var mjólkurhallæri. Þetta breyttist hins vegar allt í einni svipan þegar mjólkur-búinu var komið á laggirnar á Selfossi. Það gat auðvitað enginn séð fyrir.
Ég ætlaði að byggja vinnustofu við húsið mitt í Köldukinninni. Lét meira segja teikna aðstöðina og allt, en fékk ekki tilskilin leyfi. Hún þótti helst til of stór – bílskúr undir sjáðu til. Þeir héldu líklega að stofan yrði notuð undir verkstæði eftir minn dag. Kannski var þetta mér til góðs. Ég fékk augastað á bústjórahúsinu. Það átti að láta jarðýtu jafna það við jörðu á sínum tíma, en ég kom í veg fyrir það. Þegar ég fékk afnot af húsinu þurfti ég að byrja á því að moka út kindaskít og öðrum viðbjóði. Nú er þetta allt annað mál, sjáðu bara“, hélt Sveinn áfram og benti á þrifalega aðstöðuna.

Sveinn Björnsson

Við vettvangsstörf.

„Hér hef ég dvalið eins oft og ég hef getað. Mér líkar vel við vini mína og nágranna í skólahúsinu og það þótt þeir séu eiturlyfjasjúklingar. Þeir hafa ekkert gert mér og ég hef ekkert gert þeim. Maður má ekki líta niður á svona fólk. Allt of margir tala niður til þess. Það má ekki.
Þú spyrð að því hvenær ég fæddist. Það er nú langt síðan skal ég segja þér“, svaraði Sveinn hugsandi, dró fram eina pípuna og stakk henni upp í sig án þess að kveikja í. „Ég fæddist á Skálum á Langanesi 19. febrúar 1925. Móðir mín hét Sigurveig Sveinsdóttir og faðir minn Björn Sæmundarson. Þau skildu þegar ég var fimm ára. Við vorum þá fimm systkynin, ég næstelstur. Systir mín var eldri. Það er ástæðulaust að segja frá þessu öllu. Jæja, látum það flakka. Sjö og hálfsárs fluttumst við til Vestmannaeyja. Þar gekk ég í skóla. Fjórtán ára fór ég á vertíð til að létta undir með móður minni. Sextán ára réði ég mig á Skaftfelling svo ég gæti náð mér í tíma til að komast í Sjómannaskólann, fyrst sem kokkur og síðan sem háseti. Þetta var ekkert sældarlíf á þeim árum skal ég segja þér. Ungt fólk í dag hefði gott af að kynnast svolítið hvernig er að vinna við þær aðstæður.

Sveinn Björnsson

Sveinn með starfsfélögum sínum, Edda og Jóhannesi.

Árið 1947 kom ég fyrst til Hafnarfjarðar. Ég var þá í Sjómannaskólanum, en heimsótti stundum tvo bræður mína, sem voru við nám í Flensborgarskólanum. Ég kvæntist Sólveigu Erlendsdóttur og fluttist í bæinn. Fyrst bjuggum við að Hverfisgötu 47. Það var bara stutt. Ekkert vera að segja frá því. Síðan bjuggum við hjá Hákoni kennara að Sunnuvegi 6. Ég kláraði Sjómannaskólann þetta ár, fór beint út, sótti Faxaborgina og sigldi henni heim til Hafnarfjarðar. Þá reyndi á þekkinguna úr skólanum. Við eignuðumst þrjá syni, Erlend, Svein og Þórð. Sólveig lést fyrir nokkrum árum.
Ég ætlaði að verða skipstjóri – búinn að vera til sjós frá 14 ára aldri. En umskiptin urðu þegar ég var á Halamiðum 1948 og sá ísjakana. Þá byrjaði ég að teikna og mála. Þegar við komum í land eða þurftum að leita vars í fjörðunum fyrir Vestan dundaði ég mér við að teikna umhverfið. Þar er víða fallegt landslag. Úti á sjó var ég oftast í brúnni sem annar eða fyrsti stýrimaður og þá teiknaði ég karlana við störf á dekkinu á dýptamælispappírinn. Þess vegna eru margar mynda minna frá þessum tíma þannig að ég horfi yfir dekkið. Eitthvað af pappírnum endaði seinna á Akademíunni í Kaupmannahöfn.

Sveinn Björnsson

Sveinn Björnsson.

Gunnlaugur Scheving málari bjó þá að Sunnuvegi 5. Ekki minnkaði áhugi minn á myndlistinni við að kynnast honum. Eitt sinn þegar ég var úti á sjó sá hann nokkra mynda minna heima hjá konunni. Hann rammaði þær inn og sendi á sýningu í Noregi. Þar hlutu þær bara ágæta dóma. Þetta hvatti mig til dáða. Þegar ég var á Júlí var oft siglt með aflann. Í landlegum, sem urðu yfirleitt um tíu dagar, notaði ég tímann og málaði. Ég fór þá á milli á reiðhjóli, m.a. út á Hvaleyrina.

Ég var á sjónum til 1952. Þá sá ég að þetta gekk ekki lengur. Það þurfti einhvern veginn að kosta börnin í skóla. Þegar ég frétti af góðum vöktum í lögreglunni sá ég fram á að ef ég kæmist í liðið gæti ég málað á daginn. Fyrst fór ég þó sem sekjúrití upp á Keflavíkurflugvöll. Þar var starfið helst fólgið í að reka á brott kvenfólk. Þú mátt ekki skrifa um það. Árið 1954, árið sem þú fæddist, sótti ég um í lögregluna í Hafnarfirði ásamt öðrum. Við nefnum engin nöfn. Báðir fengum við inngöngu og áttum að verða nr. 6 og 7. Mig langaði að verða nr. 6, en varð nr. 7. Síðan hefur sú tala ávallt reynst mér vel.

Sveinn Björnsson

Eitt verka Sveins.

Mér líkaði strax vel í löggunni – gat málað á daginn, bæði fyrir og eftir næturvaktir. Þá vorum við 10 í liðinu. Jón Guðmundsson var yfirlögregluþjónn. Síðan tók Kristinn Hákonarson við af honum. Tíminn leið og ég var allt í einu orðinn nr. 1. Kristinn sá að einhvern lögregluþjón þyrfti til að taka skýrslur og benti á mig. Ég byrjaði 6 á morgnanna og var að til klukkan eitt. Þetta líkaði mér vel því ég hafði allan eftirmiðdaginn til að mála. Þá var engin aukavinna. Vinnan var fólgin í að skoða innbrotsstaði, yfirheyra þjófa og fá þá til að játa.

Sveinn Björnsson

Verk Sveins.

Síðar jókst umfangið. Kristinn lagði til að stofnuð yrði Rannsóknarlögregla Gullbringu- og Kjósarsýslu. Svæðið var frá Hafnarfirði upp í Botn í Hvalfirði, Seltjarnarnes, Grindavík og Njarðvík. Þegar Jóhannes kom til starfa með mér fórum við að vinna frá átta til fimm. Þetta var tími breytinga. Björn Sveinbjörnsson, settur sýslumaður fyrir Guðmund I. hafði góðan skilning á málefnum löggæslunnar á þessum árum. Þegar þriðji maðurinn, Eðvarð Ólafs., var ráðinn fór þetta fyrst að ganga. Bunkarnir voru teknir úr gluggakistunum og farið var að vinna í málunum. Þú mátt ekki hafa þetta eftir mér.

Hvaleyri

Hvaleyri – málverk Sveins Björnssonar.

Svo fengum við bíla til afnota. Stefán Gunnlaugsson, bæjarstjóri, var ansi skilningsríkur á störf lögreglunnar. Löggan var þá undir sveitarfélögunum sjáðu. Húsplássið, sem við vorum í við Suðurgötuna varð fljótt of lítið. Þegar ég byrjaði hafði verið útbúið herbergi sem áður hafði verið notað sem bað fyrir fangana og aðra sem vildu. Síðar fengum við afnot af sýslumannshúsinu við hliðina. Loks fluttum við upp á loft í því húsi. Það var gott að vera á loftinu. Bifreiðaeftirlitið var þá í suðurendanum niðri.
Hafnarfjörður
Ég fann mig ágætlega í rannsóknarlögreglunni. Mér fannst starfið spennandi. Þegar mikið var að gera lagði ég málaravinnuna á hilluna um tíma. Þá höfðum við öll hegningalögin, öll mannslát o.s.frv.

Sveinn Björnsson

Forstofan í Sveinshúsi.

Þau voru mörg málin sem við réðum til lykta á þessum árum. Og ég held að þau hafi ekki verið nema tvö sem við áttum eftir óleyst þegar ég hætti. Annað var sprengingin í hylnum í Botnsá og hitt var innbrotið í Golfskálann í Hafnarfirði. Ég þyrfti að ná í þá sem sprengdu hylinn. Í Golfskálanum stálu þjófarnir 20-30 flöskum af Ronrico víni og skemmdu heil ósköp. Ég reyndi mikið að upplýsa málið. Hafði njósnara út um allan bæ. Meira að segja Siggi sjaplín og Fiddi gátu ekki þefað góssið uppi. Fyrst þeir gátu það ekki er ég helst á því að þetta hafi verið einhverjir kunnugir sem hafi síðan sest einir að veigunum.

Krýsuvík

Bústjórahúsið (Sveinssafn).

Ég hef alltaf haldið því fram að það er ekki allra að verða góðir rannsóknarlögreglumenn. Það á bara ekki fyrir öllum að liggja. Áhugi og trúin að geta upplýst mál þurfa að vera til staðar. Hið sama á við um aðra lögreglumenn. Áður fyrr var mun betra samstarf með rannsóknarögreglumönnum og öðrum lögreglumönnum. Það skilaði líka meiri árangri. Ég tel að það sé betra að hafa fáa og samhenta menn við þessi störf en marga og sundurleita.
Ég náði fram bakvaktarálagi fyrir okkur rannsóknarlögreglumennina og það líkaði mér vel. Fulltrúarnir okkar stóðu jafnan með mér. Það var mikils virði. Þeir treystu mér – báðu ekki einu sinni um skýrslur. Við settum heldur menn aldrei inn nema að hafa rökstuddan grun. Þá beittum við reyndar svolítið öðrum vinnubrögðum. Nú má ekkert. Ég upplýsti mörg mál með aðferðum sem núna teljast til óhefðbundinna vinnubragða. Nú er búið að vernda afbrotamenn-ina.

Sveinn Björnsson

Sveinn í vinnunni.

Ég man eftir innbroti í Frostver. Þar var stolið einum 150 kjötskrokkum og 200 kg af smjöri. Þetta er til í skýrslum. Engin fingraför fundust skiljanlega í frystigeymslunum. Ég fékk lista yfir fyrrverandi starfsfólk og grunaði strax einn. Ég tók hann til yfirheyrslu og sá að hann var að ljúga. Ég hafði eitthvert sjötta skilningarvit sem hjálpaði mér oft að ráða mál farsællega til lykta.
Við boðuðum menn með reglulegu millibili í Stapann. Þar yfirheyrðum við þá eins og vitlausir menn og fórum svo. Þannig gekk þetta fyrir sig í þá daga.
Eitt skemmtilegt innbrot átti sér einu sinni stað í Njarðvíkum. Öllum launaumslögum hafði verið stolið þar frá Skipasmíðastöðinni. Jóhannes var þá nýbyrjaður. Hann fór með mér á staðinn. Rúða var brotin í útihurðinni. Það var eins og þjófurinn hefði verið með lopavettlinga. Inni fann ég einkennilegan leir undan skóm. Ég fór um allt þorpið að leita að samskonar leir, en fann engan. Við fórum heim. Síðar um daginn frétti ég af mönnum við vinnu uppi í heiði. Fór á staðinn og viti menn – þar var leirinn í skurði og sex menn að moka. Einn var með loðna sjóvettlinga. Hann þrætti. Ég dró hann upp á Keflavíkurflugvöll og stakk honum inn í geymslu. Síðan fór ég í kaffi.

Hafnarfjörður

Lögreglan í Hafnarfirði 1974.

Þegar ég tók manninn til yfirheyrslu byrjaði hann að svitna undir höndunum, en þrætti og þrætti. Ég hótaði að fara með hann í fangelsið í Hafnarfirði. Á Stapanum játaði maðurinn. Ég var þó orðinn svo þreyttur á honum að ég lét mig hafa það að fara með hann alla leið í Hafnarfjörð. Peningarnir fundust í eldhússkúffunum heima hjá manninum. Þetta sýnir að það er ekki öllum gefið að vinna með svona mál. Ég hitti þennan mann mörgum árum seinna þegar hann klappaði á öxlina á mér úti á götu. Hann sagðist aldrei hafa stolið eftir þetta.

Sveinn Björnsson

Sveinn með sportsfélögunum.

Árið 1974 kom upp stórt mál – smygl á 30 sjónvarpstækjum. Ég og Magnús Magnússon rslm í Reykjavík voru sendir til New York. Tilgangur ferðarinnar var að finna loftskeytamann á Dettifossi sem átti að vera þar. Hann var talinn eiga lista yfir þá sem keyptu sjónvörpin hér á landi. Þegar komið var til N.Y. var sagt að skipið væri í Norfolk. Við flugum til Washington. Á leiðinni var brjálað veður. Magnús varð hvítur í framan. Þegar ég sá það hallaði ég mér að honum og sagði honum að vera alveg óhræddur. Mér hefði verið spáð að ég yrði a.m.k. 95 ára og því væru engar líkur á að þessi flugvél færi niður. Ég held bara að Magnúsi hafi bara létt við þessar fréttir.

Sveinn Björnsson

Málverk Sveins.

Í Washington tóku á móti okkur þarlendir rannsóknarlögreglumenn. Athygli mína vakti að þeir fengu enga yfirvinnu greidda, en fengu frí á móti. Það kerfi hefði ég viljað sjá hérna. Jæja, í Norfolk fengum við ekki að fara um borð í Dettifoss heldur fór lögreglumenn um borð í skipið með alvæpni og komu til baka með loftskeytamanninn. Við yfirheyrðum hann í tvo tíma og sendum skeyti heim. Skipstjóranum hafði verið stungið inn heima og átti að losna þar eftir tvo tíma, en var haldið lengur eftir að skeytið barst frá okkur. Á heimleiðinni dró ég Magnús með mér á listasöfn í N.Y.

Sveinshús

Eitt listaverka Sveins Björnssonar.

Þegar heim kom hófst puðið. Ég fyllti fangelsið í Hafnarfirði og Magnús stakk einhverjum inn í Reykjavík. Þetta voru allt vel efnaðir menn – forstjórar, framkvæmdastjórar og skipstjórar. Við fundum öll sjónvörpin eftir listanum. Sum voru geymd uppi á háalofti hingað og þangað. Ekki búið að setja þau í samband, sennilega vegna hræðslu. Á listanum voru númerin á sjónvarpstækjunum – allt Normandí. Þegar ég var að setja eitt tækið inn í Vauxhall Vivu, sem við höfðum, sparkaði eigandinn í tækið af einskærri reiði. Ég brást líka reiður við og spurði hvort hann ætlaði virkilega að valda skemmdum á eigum hins opinberra. Maðurinn varð klumsa og hætti.

Sveinn Björnsson

Málverk Sveins Björnssonar.

Árið áður hafði miklum verðmætum verið stolið frá Ulrich Falkner, gullsmið í Reykjavík. Við upplýstum málið þremur árum seinna og 24 önnur innbrot að auki – 14 í höfuðborginni, eitt hjá sýslumannsskrifstofuna á Seltjarnarnesi og hin í Hafnarfirði. Í innbrotinu hjá lögreglunni á Seltjarnarnesi var m.a. stolið skammbyssu og riffli. Þjófarnir höfðu tekið þjófavarnarkerfið úr sambandi. Við fórum að leita. Athygli okkar beindust að strákum sem voru að rúnta á nóttunni. Fundum kúbein hjá einum þeirra. Það passaði við skápana, sem brotnir höfðu verið upp á stöðinni. Fimm voru handteknir. Tveir voru aðalmennirnir, en hinir meðreiðarsveinar. Mikil vinna var að fá þá til að játa innbrotið og rekja mörg önnur mál, sem komu smám saman fram og tengdust málinu, þ.á.m. gullþjófnaðurinn. Í ljós kom að piltarnir höfðu m.a. stolið 5 milljónum frá Olíufélagi Íslands í Hafnarstræti. Peningana höfðu þeir lagt inn á bankabók í Landsbankanum. Ég fann bækurnar heima hjá öðrum þeirra.

Sveinn Björnsson

Vinnustofan í Krýsuvík.

Hefurðu ekki bankahólf, spurði ég. Jú, það var. Ég fékk leyfi hjá sýslumanni til að brjóta upp hólfið þar sem þjófurinn sagðist hafa týnt lyklinum. Fjöldi manns fylgdist með. Þegar hólfið opnaðist blöstu við gullstangir og skartgripir upp á 7 milljóna króna. Falkner hrópaði ég. Menn héldu að ég væri að verða vitlaus. Rannsóknarlögreglan í Reykjavík vildi fá málið, en ég fór með allt í Hafnarfjörð. Falkner var svo ánægður því hann hafði verið grunaður um að hafa stolið þessu sjálfur. Hann gaf okkur sitthvort gullúrið. Ég tók þó ekki við því fyrr en ég hafði borið málið undir sýslumann.

Sveinn Björnsson

Sveinn að störfum við Kleifarvatn.

Að þessu sinni upplýstist einnig innbrot í sprengiefnageymslur Reykjavíkurborgar. Sprengiefnið og hvelletturnar fundust undir háspennulínunni við Straumsvík. Skammbyssan fannst undir mosa í Hafnarfjarðarhrauni. Piltarnir höfðu sprengt eina túpu á Seltjarnarnesi til að stríða Bjarka. Þú mátt ekki hafa það eftir mér. Að öðru leyti höfðu þeir ekki gert sér grein fyrir hvað þeir ætluðu að gera með sprengiefnið. Þá höfðu þeir útbúið sérstaka sög til að saga peningaskápa. Það var reyndar eins gott að þeir notuðu hana ekki því þeir hefðu eflaust drepið sig á því.

Sveinn Björnsson

Sveinn Björnsson – sjálfsmynd.

Rannsóknarlögreglan í Hafnarfirði var tekin úr leik með lögum nr. 108/1977. Með þeim var kippt undan okkur fótunum. Fulltrúarnir reyndu að gera okkur hluta að RLR, en það var ekki tekið í mál. Ég var sendur með bréf til Hallvarðs ríkisrannsóknar-lögreglustjóra, en hann varð bara rauðari og rauðari eftir því sem hann las meira í bréfinu. Þegar ég sá hvert stefndi sá ég mitt óvænna og hvarf á braut. Síðan höfum við verið í dótaríi. Við fengum að vísu aftur bílslysin og sjóréttarmál, en hvað er það? Kosturinn var hins vegar sá að nú gat ég snúið mér meira að málaralistinni. Starfið varð hundleiðinlegt eftir breytinguna. Ég hékk þó í þessu, en það var lítið spennandi. Ég hætti 19. febrúar s.l. þegar ég varð sjötugur. Mig langaði að hætta fyrr, en fékk mig ekki til þess bara til að stríða dómsmálaráðuneytinu svolítið.

Sveinn Björnsson

Erlendur Sveinsson með eitt verka föður síns.

Eitt sinn þegar ég var á mínum síðasta yfirlögregluþjónafundi kom slompaður deildarstjóri í ráðuneytinu til mín og spurði hvenær ég ætlaði að hætta. „Varstu beðinn um að spyrja að því“, spurði ég. “
„Já“, svaraði hann.
„Segðu að þú hafir ekki fengið að vita það“, sagði ég þá. Ég held bara að hann hafi skilið sneiðina.
Eitt sinn þegar Þórður sonur minn var að útskrifast úr lögfræðinni notaði ég tækifærið og hélt stutta ræðu. Ég sagðist ætla að vona að hann Þórður minn yrði aldrei lærður lygari. Það sló þögn á hópinn, þar á meðal nokkra viðstadda lögfræðinga. Þórður var ekki par ánægður, en ég er vanur að segja það sem mér finnst.

Sveinn Björnsson

Í Sveinshúsi.

Mér líkar ekki allskostar við dómsmálin í dag. Mér líkar ekki að lögreglumennirnir þurfi alltaf að vera með sömu afbrotamennina í höndunum. Þeir fá að safna innbrotum og fá enga dóma. Ég er svektur yfir þessari þróun mála í dómskerfinu. Það vantar unga menn sem þekkja lífið í dag og það þarf að taka meira mark á lögreglumönnum en gert hefur verið. Ef eiturlyfjasalarnir hefðu strax fengið stranga dóma væri ástandið annað og betra en það er í dag. Þá hefðu þeir skilið alvöruna. Allt snýst orðið um peninga á Íslandi. Enginn má segja sannleikann. Sá sem það gerir er bannfærður. Lögreglan er svelt og afleiðingarnar eru eftir því. Þetta er hryllingur og ég vorkenni lögreglumönnum sem þurfa að standa í þessu.

Sveinn Björnsson

Úr eldhúsi Sveins í Krýsuvík.

Ég álít að þessi lög nr. 108 hafi verið mjög slæm. Þau tóku verkefni frá ýmsum rannsóknarlögreglumönnum út um allt land, áhugi þeirra minnkaði og gert var lítið úr þeim óbeint. Ég hef alltaf haldið því fram að þetta hafi verið vond lög, enda skilst mér að þeim verði nú loks breytt – hegningarlögin fari heim í hérað aftur.

Sveinn Björnsson

Málverk Sveins.

Mér finnst að yfirvöld hafi ekki staðið sig nógu vel í stykkinu upp á síðkastið. Fólk ber ekki lengur respekt fyrir lögunum. Því miður – svona er þetta bara orðið. Skilaðu samt góðri kveðju til félaganna og segðu að ég biðji að heilsa“.
Það var liðið á kvöldið þegar ég kvaddi Svein utan við bústjórabústaðinn í Krýsuvík. Honum var greinilega ekki eins leitt og hann lét – enda maðurinn með bjartsýnni mönnum landsins.
Sveinn Björnsson lést 28. apríl 1997, sjötíu og tveggja ára að aldri. Þann 1. júlí það ár tóku gildi ný lögreglulög, sem færðu rannsóknir allflestra afbrota “heim í héruð”.

Birtist í Lögreglumanninum, 3. tbl. 1995.
-Viðtalið tók Ómar Smári Ármannsson.

Bústjórahúsið

Sveinshús í Krýsuvík (bláa húsið).