Tag Archive for: Hafnarfjörður

Arnarfell
Gengið var til austurs frá bílastæðinu við skátasvæðið neðan við Skýjaborgir undir Bæjarfelli, suðvestan við Krýsuvíkurkirkju, meðfram Ræningjahjól, um tún Suðurkots og síðan var gamla túngarðinum fylgt sem lá lá í áttina að Arnarfelli.
Ræningjahóll er þar sem hæst ber, en skammt austan undir honum er Ræningjadys eða Ræningjaþúfur. Sagan segir að Tyrkir hafi komið að Heiðnabergi við Hælsvík. Gengu þeir upp þar sem síðan heitir Ræningjastígur. Þá var sel hjá Selöldu og fóru Tyrkjar þangað, drápu matseljuna, en eltu smalann heim að Krýsuvík.

Arnarfell

Arnarfell – tilgáta.

Það var sunnudagur og var Eiríkur prestur að messa í Krýsuvíkurkirkju. Segja sumir að hann væri fyrir altarinu, en hitt mun sannara að hann væri í ræðustól er smalinn kom hlaupandi í kirkjuna og mælti hátt:
„Tyrkjar komu og drápu matseljuna og eltu mig hingað.“
Prestur mælti: „Viljið ekki lofa mér að ganga fram í dyrnar góðir menn?“
Menn játtu því. Eiríkur gengur fram í dyr og lítur út og sér Tyrkja koma á túninu. Hann mælti til þeirra:
„Farið nú ekki lengra! Drepið þarna hvur annan! Væri annar dagur eða ég öðruvísi búinn, mundu þið éta hvur annan.“
Þar börðust þeir og drápust niður. Heitir þar síðan Orrustuhóll eða Ræningjahóll er þeir börðust, en Ræningjaþúfur þar þeir eru dysjaðir. Þar eftir hlóð Eiríkur vörðu á Arnarfelli og mælti fyrir henni sem hinni að meðan hún stæði skyldu Tyrkjar aldrei granda Krýsuvík.

Arnarfell

Arnarfell – varða.

Vörslugarðarnir umhverfis Krýsuvíkurbæina eru bæði úr grjóti og úr torfi. Grjóthleðslur eru við endana, þar sem þeir koma að fellunum beggja vegna, en á milli þeirra eru þeir úr torfi. Garðar þessi voru endurhlaðnir á 19. öld. Áður en komið var að Arnarfelli þurfti að fara yfir lítinn læk. Á honum eru leifar að hlaðinni brú þar sem garðurinn hefur legið. Skammt þar norður af, í mýrinni eru leifar húss eða stekks.
Undir suðurhlíð fellsins eru tóftir Arnarfellskotsins. Býlið er á 80x150m stóru svæði innan túngarðsins. Veggir eru úr torfi og grjóti. Sennilega eru 6 hólf í rústinni. Safnþró er framan við hana, líkt og fyrir framan Fitjabæinn undir Selöldu.

Krýsuvík

Krýsuvík – garður frá Bæjarfelli yfir að Arnarfelli.

Traðir eru undir fellinu, í grasi grónum hlíðum þess. Þær eru óljósar, en virðast hafa legið frá suðsuðvesturhorni bæjarins niður hlíðina og stefna síðan að Bæjarfellinu austan við túngarðinn. Beggja vegna traðanna má sjá grilla í lága garða sinn hvoru megin við þær. Traðirnar eru vel grónar. Beinteinn Sveinsson bjó síðastur að Arnarfelli, hagur maður á tré og járn. Hann byggði m.a. Krýsuvíkurkirkju árið 1857, en hún hefur þó síðan nokkrum sinnum gengið í gegnum endurnýjun lífdaga.
Fræg er viðureign Beinsteins við Tanga-Tómas, drauginn á selatöngum. Á síðara hluta 19. aldar bjó í Stóra-Nýjabæ í Krýsuvík maður sá, er Einar hét. Hann átti mörg börn, og er saga þessi höfð eftir tveim sonum hans, Einari og Guðmundi. Einar, faðir þeirra, var allt að 30 vertíðum formaður á Selatöngum. Var í mæli, að reimt hefði verið á Selatöngum, og var draugsi sá í daglegu tali nefndur Tanga-Tómas. Hann gerði búðarmönnum ýmsar smáglettur, en var þó ekki mjög hamramur. Þá bjó Beinteinn á Arnarfelli í Krýsuvík. Var talið að Tómas væri einna fylgispakastur við hann. Var Beinteinn þessi fullhugi mikill, smiður góður og skytta og hræddist fátt. Var þetta orðtak hans:

Arnarfell

Arnarfell – Í Guðbjargarhelli.

„Þá voru hendur fyrir á gamla Beinteini“.
Einu sinni varð Beinteinn heylítill, og flutti hann sig þá niður á Selatanga með fé sitt til fjörubeitar. Var hann þarna um tíma og hafðist við í sjóbúð, er notuð var á vetrum. Kvöld eitt er Beinteinn kemur frá fénu, kveikir hann ljós og tekur tóbak og sker sér í nefið.
Tík ein fylgdi honum jafnan við féð og var hún inni hjá honum. Veit Beinteinn þá ekki fyrr en ljósið er slökkt og tíkinni hent framan í hann. Þreif hann þá byssuna og skaut út úr dyrunum. Sótti draugsi þá svo mjög að Beinteini að hann hélzt loks ekki við í sjóbúðinni og varð að hröklast út í illviðrið og fara heim til sín um nóttina. Hafði Beinteinn skaröxi í hendi og hvar sem gatan var þröng á leiðinni heim um nóttina, þá kom draugsi þar á móti honum og reyndi að hefta för hans, en undir morgun komst Beinteinn heim og var þá mjög þrekaður. Lá hann rúmfastur næstu daga.

Arnarfell

Arnarfell – bæjarbrunnurinn.

Bæjarbrunnurinn er utan garðs, fallega hlaðinn. Fallin varða er við forna götu skammt frá honum.
Þegar búið var að skoða svæðið innan heimagarðsins, bæjartóftirnar og umhverfi þeirra, var haldið rangsælis umhverfis fellið eftir gamalli götu er lá áfram til austurs, yfir að Jónsbúð, sauðakofa austarlega á Krýsuvíkurheiði. Varða er við götuna ofan við Arnarfellsvatn (Bleiksmýrartjörn). Þaðan var ágætt útsýni yfir Bleiksmýrina, sem ræst var út um miðja 20. öldina. Vestan við vatnið eru gamlar rústir. Sunnan þess var fyrrum áningarstaður skreiðarflutningamanna á leið þeirra frá verstöðvunum við sunnanverðan Reykjanesskaga austur í sveitir. Einnig mátti vel sjá fyrir sér og hugsa til þeirra mörg hundruð vermanna sem tjölduðu í mýrinni á leið sinni til og frá veri. Neðar eru Trygghólar. U.þ.b. miðja vegu milli þeirra og Arnarfells, skammt vestar, er Arnarfellsréttin, nokkuð heilleg fjárrétt í lægð.

Krýsuvík

Bærinn Arnarfell í Krýsuvík.

Suðaustan við Arnarfell er fyrrum gróðurvana svæði, sem komið er vel á veg að gróa upp. Blóðberg, lambagras, geldingahnappur ásamt lyngi eru nú á góðri leið með að þekja fokjarðveginn.
Við austurhorn Arnarfell er stekkur, á grasi gróinni rein við fjallsræturnar, vestan megin við uppþornaðan lækjarfarveg. Hann er 5x5m. Veggir eru úr grjóti.
Gengið var austur og norður með fellinu. Við norðurhorn þess er stekkur undir steini. Stínuskúti er í fellinu skammt austar og ofar í því. Ekki er vitað um tilurð nafnsins, en þó er ekki ólíklegt að það sé til komið líkt og Guðbjargarhellir á Hrauni við Grindavík, þ.e. tímabundið skjól þeirra, sem það var nefnt eftir, líklega frá amstri dagsins.

Arnarfell

Arnarfell – Stínuskúti.

Um er að ræða mjög fallegan skúta, tvískiptan. Hægt er að ganga inn í hann að austanverðu, en að vestanverðu er líklegt að fé hafi legið. Svo virðist sem skútinn hafi myndast að tilstuðlan vatns, en það er hvergi að finna nú. Því virðist hér um nokkuð merkilegt jarðfræðifyrirbæri að ræða. Falleg, viðkvæm, móbergssúla skilur af hluta skútans.
Arnarfellið er í u.þ.b. 100 m hæð. Sjálft fellið er tæplega 100 metra hátt (93 m). Þegar gengið er upp gróna norðvesturhlíð þess sjást vel útihúsin frá bænum. Þar er rúst, stekkur og skúti ofan hans. Rústin er 4,5x7m. Veggir eru úr torfi og grjóti. Mjög stórir steinar eru í veggjum, sumir jarðfastir. Tvö hólf eru í rústinni og eru dyr á báðum. Stekkurinn er 5x10m. veggir eru úr grjóti og torfi. Tvö hólf eru í stekknum, líkt og almennt gerist með slík mannvirki á Reykjanesskaganum. Dyr eru ábáðum hólfum. Skútinn er 1,5x4m og 1,5m hár. Hann liggur skáhalt inn í áberandi hamar í fjallinu, nánast beint ofan við rústina og stekkinn.

Arnarfell

Arnarfell – Eiríksvarða.

Vestan við Arnarfell sést vel yfir að Læk þar sem Arngrímur bjó um tíma fyrir og eftir aldamótin 1700. Þekkt er þjóðsagan af Grákollu er tengdist honum og fjárhelli hans í Klofningum, sem eru í Krýsuvíkurhrauni þarna skammt austar.
Þegar upp á Arnarfell er komið blasir Eiríksvarða við á vestari toppi þess, en hún er kennd við Eirík prest (Magnússon) í Vogsósum sem þekktur er úr þjóðsögum fyrir fjölkyngi sína. Hann dó árið 1716. Hann þótti skrýtinn í ýmsu, eins og segir í örnefnalýsingu. Fellið er tiltölulega auðvelt uppgöngu að vestanverðu og þaðan er útsýni yfir Krýsuvíkurheiði og næsta nágrenni.

Arnarfell

Krýsuvíkurkirkja – horft af Arnarfelli.

Ef vel viðrar er hægt að sjá hvar Eldey rís úr hafi við sjóndeildarhring í vestri. Þegar horft er inn til landsins sést hvar Sveifluhálsinn teygir sig einn eftir Reykjanesinu með misháum móbergshnúkum sínum. Til norðurs er horft í áttina að Kleifarvatni og Vatnshlíð, en ofan hennar rísa Brennisteinsfjöll við himinn. Til norðausturs sér til Geitahlíðar og Eldborganna ásamt Selvogsheiðinni enn austar og suðurlands.
Á eystri toppi Arnarfells er fornt arnarsetur, enda dregur fellið nafn sitt af því. Hreiðrið er vel gróið og því ljóst að ernir hafa haft þar hreiðurstæði um langan tíma áður en þeir voru gerðir útlægir af svæðinu, enda þóttur þeir hinir mestu vágestir. Margar sagnir eru til af atferli þeirra, sumar reyndar verulega ýktar. Annað fornt arnarhreiður er þarna skammt frá, í austanverðu Ögmundarhrauni.

Arnarfellstjörn

Arnarfellsvatn.

Af fellinu sést vel yfir Arnarfellsvatn í suðaustri og mógrafir Krýsuvíkurbænda í norðri. Grafirnar, sem eru í mýri, eru a.m.k. fjórar talsins og misstórar, 3×4 til 6x8m. Allar eru þær fullar af vatni og hugsanlega eru eldri samanfallnar grafir allt í kring í kvosum og lægðum í næsta nágrenni. Þannig er líklegt að einungis yngstu mógrafirnar sjáist með berum augum, en þær eldri orðnar jarðlægar.
Þegar horft er til norðausturs sjást Vegghamrarnir vel. Ofan þeirra eru Kálfadalirnir. Niður í þann syðri rann hrauná, sem kallast Víti. Stórkostlegt er að standa ofan við strauminn, sjá hvernig hraunið hefur fossað niður hlíðina og storknað þar á leið sinni.

Kálfadalir

Kálfadalir – sviðmynd fyrstu leiknu íslenskrar kvikmyndar.

Skammt norðar er leiksvið einnar af fyrstu leiknu kvikmyndunum á Íslandi. Hluti hennar átti að hafa gerst á tunglinu og er landlagið ekki ólíkt því sem þar má ímynda sér. Geimfarar þeir, sem fyrstir stigu fæti sínum tunglið, skv. bestu heimildum, komu m.a. þangað til að aðlagast því sem við mátti búast. Svæðið er torfundið, en er ein af mestu náttúrperlum landsins.
Vakin er athygli á því að myndirnar, sem fylgja þessari vefsíðu, eru af minjum, sem hvergi er minnst á í fornleifaskráningu af svæðinu frá árinu 1998 og Fornleifavernd ríkisins hefur stuðst við í umsögn sinni um fyrirhugaða kvikmyndatöku við Arnarfell, en þó er síðasta myndin (af Eiríksvörðu) undanskilin. Þá hefur hvorki Landgræðsla ríkisins né Umhverfisstofnun tekið tillit til Arnarfellsins sjálfs þegar umsögn var gefin, einungis umhverfis þess. Í nefnda skráningu vantar a.m.k. 12 minjar, sem vitað er um á og við fellið.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Arnarfellsrétt

Arnarfellsrétt í Krýsuvík.

Smalaskúti

Svavar Sigmundsson skrifaði um örnefnin „Smalaskáli“ og „Smalabyrgi“ á vef Árnastofnunar árið 2018 (birtist upphaflega árið 2008):

Svavar Sigmundsson

Svavar Sigmundsson.

„Á Íslandi eru mörg örnefni sem eiga rætur að rekja til fyrri tíðar búskaparhátta sem nú eru horfnir. Eitt þeirra örnefna er Smalaskáli sem þekkt er sérstaklega um Suðurland og Suðvesturland (Árnessýslu, Rangárvallasýslu og Gullbringu- og Kjósarsýslu) en er þó til víðar á landinu. Þetta er oftast nafn á holtum, hólum eða hæðum og eru sumstaðar leifar af rústum eða tóftum í þeim en hvergi nærri allstaðar. Margir smalar í hjásetunni munu hafa haft svonefnda smalakofa til að skýla sér. Smalinn gerði sér þannig eitthvert skýli, þar sem landslagi var svo háttað að ekki var skjól frá náttúrunnar hendi. Þar hefur verið ákjósanlegur staður fyrir smalann að geyma mal sinn og á stað þar sem sást vel yfir þar sem ánum var haldið til haga. Oft eru þessi örnefni nærri landamerkjum eða beinlínis á landamerkjum, t.d. hóll sem hornmark fleiri jarða á svonefndum Sorta í Flóa. Á Norðurlandi var slíkt skýli fremur nefnt Smalabyrgi.

Efri-Straumsselshellar

Straumselshellar syðri. Smalabyrgi neðst fyrir miðju.

Í örnefnaskrám í örnefnasafni Stofnunar Árna Magnússonar eru þessi dæmi um lýsingu á örnefninu Smalaskáli: hóll, klettur, strýta, rimi, holt, grjótholt, skerhóll, klapparhóll, ás, hæð, þúfa, heiðarhryggur, klapparhryggur, en einnig hvammur. Sumstaðar er haft orðið ‘tóftarbrot‘.

Ég nefni nokkur einstök dæmi um Smalaskála úr Árnessýslu:

Smalaskjól

Smalaskjól á Reykjanesskaga.

Smalaskáli er strýta í hraunbrún … Sunnan undir henni er lítil öskjulaga tóft, smalaskálinn. (Þjórsárholt)
Hóll með tóftum af gömlum fjárhúsum og tveim minni kofum, sem nefnist Smalaskáli. (Baugsstaðir)
Smalaskáli: Grjótholt í Laxárdal. [Strákar í yfirsetu höfðu hlaðið skýli þar.] (Villingavatn)
Elsta dæmi um orðið smalaskáli er frá 1664 úr hdr. AM 277 fol., skv. ritmálsskrá Orðabókar Háskólans: „þadann J smalaskalann, sem er austann til a Hnukaheidi“ (101r).

Smalavarða

Smalavarða við Þorlákshöfn.

Samheiti við smalaskála er smalahreysi (þýðing úr latínu attegiæ) úr orðabók frá 18. öld (Nucleus, bls. 349), en sem þýðing er einnig gefið orðið graskofar. Í sömu orðabók er einnig orðið smalakofi, sem þýðing á latínu habitus pastoralis, tectum pastorale en þar er einnig gefið orðið hitta (= hytte). Orðið smalakofi er einnig gefið sem þýðing á latínu tugurium og samheiti við það hreysi. Þá er latneska orðið mapalia þýtt með smalakofar eða smalahíbýli.

Í orðabók Björns Halldórssonar, sem Rasmus Chr. Rask gekk frá til útgáfu 1814, er orðið smalamannskofi og það þýtt með „attigiæ, en Hytte for faarehyrder“. Seint á 19. öld kemur fyrst fram í heimildum orðið smalabyrgi: „selhreysi og smalabyrgi“ (Ísafold 1890, 230).

Smalaskjól

Smalaskjól ofan Straums.

Eftirfarandi svör við spurningaskrám Þjóðminjasafns um fráfærur nefna smalaskála:

Nr. 497 (Fráfærur)

Smalabyrgi

Smalabyrgi við Flekkuvík.

Víða er til örnefnið Smalaskáli, sem mun vera frá þeim tíma að setið var yfir ám. Ærnar voru reknar í haga af stöðli og úr haga á stöðul, þar sem ég þekkti til, en haft vakandi auga með þeim að deginum, einkum í þurrkatíð, norðanátt, þá vildu ærnar rása í vindinn, jafnvel strjúka til fjalla.

Nr. 554: (Fráfærur)

Smalaskálaskúti

Smalaskálaskúti.

Sér til skemmtunar í tómstundum las smalinn, byggði byrgi, hlóð vörður, hitti oft smala á næstu bæjum, og fór þá við þá í leiki, m.a. blámannaleik. Smalinn átti skýli, oft nefnt smalaskáli. Nesti smalans var hverskonar búrmatur. … Mislengi var setið hjá kvífé, af ýmsum ástæðum. Smalað þegar leið að hausti.

Smalaskáli er gott dæmi um það hvernig löngu aflagt fyrirbæri lifir í örnefnunum.“

Smalaskáli og Smalaskálahæð eru örnefni í landi Óttarsstaða. Hæðin kom við sögu manndrápsmáls árið 2004, sjá HÉR. Smalabyrgi er til við Flekkuvík og Smalavarða stendur enn ofan Þorbjarnarstaða. Smalaörnefnin eru því víða á Reykjanesskaganum.

Heimild:
-https://www.arnastofnun.is/is/greinar/smalaskali-og-smalabyrgi

Smalaskjól

Smalaskjól við Smalaskálahæð.

Krýsuvíkurkirkja

Kristján Eldjárn skrifaði eftirfarandi í Kirkjuritið  1953 um Björn Jóhannesson og endurreisn Krýsuvíkurkirkju:
Bjorn johannessin-1„Hinn 22. nóv. 1964, andaðist Björn Jóhannesson fyrrv. forseti bæjarstjórnar Hafnarfjarðar, tæplega sjötugur að aldri. Allmörg undanfarin ár bafði hann dregið sig í hlé frá þeim félagsmálastörfum, sem setja svip sinn mest á ævidag hans, og olli því sjúkdómur sá, er nú hefur snögglega dregið hann til dauða. En Björn sat þó ekki auðum höndum þessi síðustu ár sín. Hann átti sér merkilegt hugðarmál, sem honum auðnaðist að koma heilu í höfn, áður en var allur allur, og sá minnisvarði mun að öllu skaplegu lengi standa brautu nær og lofa sinn mann. Meðal þeirra stórbýla landsins, sem breyttir þjóðfélagshættir hafa dæmt úr leik og dregizt hafa upp fyrir augunum á þessari kynslóð, er Krýsuvík í Gullbringusýslu. Húsin féllu hvert á fætur öðru og lífið fjaraði út, uns ekkert stóð nema gamla kirkjan og í henni hírðist lengi gamall maður, síðasti Krýsuvíkingurinn, og þrjózkaðist við að hlýða tímans kalli, unz þar kom, hann var ekki að spurður. Lauk þar með langri sögu, en eftir stóð kirkjan ein, opin og öndverð, illa til reika en traust að stofni til, og umhverfis hana lágar þústir yfir gröfum þeirra, sem í kirkjugarðinum hvíla. Fór þá eins og oft vill verða, að margir hneyksluðust og létu þung orð falla um niðurníðslu kirkjunnar, en sá var einn, sem sá og skildi, að lítið stoðar að tala og skrifa og ætla öðrum. Það var Björn Jóhannesson. Hann tók málið í sínar hendur og gerði það ekki endasleppt.
Hinn 18. maí 1954 skrifaði Björn bæjarráði Hafnarfjarðar og gerði grein fyrir, hvernig komið væri hag gömlu kirkjunnar í Krýsuvík, benti á hve illa þetta lágreista guðshús væri nú leikið, en sýndi um leið fram á, að það væri þó ekki ver farið en svo, að með dálitlu átaki mætti færa það í sitt upphaflega lag. Í bréfi sínu segir Björn meðal annars: „Það mun margur álíta, að rétt væri að rífa þetta gamla kirkjuskrifli og slétta kirkjugarðinn, en ég tel, að það væri mjög misráðið. Þetta eru þær einu minjar, sem eftir eru af gömlu Krýsuvík, og þá um leið þær merkustu, og ég tel, að komandi kynslóðir hefðu gott af því að fá innsýn í hina lágreistu sali fortíðarinnar og sjá, hvað forfeðurnir urðu að gera sér að góðu og urðu að mætum og dugandi mönnum samt. Eg álít, að við Íslendingar höfum verið allt of kærulausir með að viðhalda ýmsum gömlum minjum, og eftir því sem þeim fækkar, þurfum við að vera fastheldnari með þær og sjá um, að þær fari ekki forgörðum, venjulegast fyrir trassaskap og sinnuleysi. Hvað vildum við ekki nú gefa fyrir ýmislegt, sem eyðilagzt hefur af þessum sökum?
Krysuvikurkirkja 1964-21En um það tjáir ekki að tala, heldur að reyna að bjarga því, sem bjargað verður“. Síðan biður Björn um, að sér verði leyft að hefjast handa um viðgerð kirkjunnar og að eigandi Krýsuvíkur, Hafnarfjarðarbær, veiti sér umráðarétt yfir henni og kirkjugarðinum að minnsta kosti tíu ár, sem hann kveðst vilja nota til að gera við kirkjuna, bænum að kostnaðarlausu, en síðan muni hann afhenda bænum hana aftur eða fyrr, ef þannig semdist. Bæjarstjórn Hafnarfjarðar brást vel og viturlega við þessari málaleitan Björns og lét allt vera svo sem hann vildi. Tók hann þá til óspilltra málanna um endurbyggingu kirkjunnar og vann að því ötullega á næstu árum. Kostnaðinn af því bar hann að langmestu leyti sjálfur, en naut þó góðrar fyrirgreiðslu nokkurra manna, og ber þar um fram allt að nefna Sigurbent Gíslason í Hafnarfirði, sem tók að sér að gera við kirkjuna sjálfa. Sagði Björn, að án liðlegheita og ósérplægni Sigurbents hefði sér orðið óhægt um að koma viðgerð kirkjunnar í kring. Skal það sízt efað, svo erfitt sem það er á vorum veltitímum að fá nokkurn mann til þess að vinna að dútli eins og þessu.
síðastliðnu sumri, hinn 31. maí var svo Krýsuvíkurkirkja vígð af biskupi landsins að viðstöddum þeim mannfjölda, sem rúmast getur í hinu litla guðshúsi. Þetta var sérkennileg stund, kirkjuvígsla á eyðistað, en Björn Jóhannesson hafði þá trú, að kirkjan yrði ekki aðeins minjagripur, þegar fram líða stundir, heldur yrði hún aftur sóknarkirkja þeirra manna, sem í framtíðinni myndu setjast að í Krýsuvík, þegar aftur verða not fyrir þau náttúrugæði staðarins, sem enginn verður um sinn til að nytja. En hvað sem menn kunna að halda um þessa trú Björns, munu þó allir þeir, sem staddir voru í Krýsuvík þennan sumardag hafa verið sammála um, að hér var gott málefni til lykta leitt.
krysuvikurkirkja 1940-21Krýsuvíkurkirkja er ekki stór eða vegleg, enda byggð fyrr fámennan söfnuð í afskekktri sveit, og ekki er hún heldur mjög gömul, smíðuð 1857, vafalítið af Beinteini Stefánssyni, smið í Arnarfelli, afa Sigurbents Gíslasonar, en hún er eigi að síður sögulegur minnisvarði og þokkaleg í öllu sínu látleysi. Víst mun einhverjum hafa fundizt fátt um, þegar Björn fór að láta hressa við hið vanrækta hús á eyðistað. Það er gamla sagan. Þegar verkinu er lokið, gleymast úrtöluraddirnar og allir verða ánægðir. Þessi varð reynsla Björns Jóhannessonar. Hann hafði sett sér mark, að gera við Krýsuvíkurkirkju og búa hana um nauðsynjum á tíu árum. Nú var sá tími liðinn, enda var kirkjan hér, risin upp úr sinni niðurlægingu, og allir kepptust um að votta Birni virðingu sína og þakka framtak hans. Vígsludagur kirkjunnar var sigurdagur í lífi hans.
Endurreisn Krýsuvíkurkirkju var langt komið, þegar Björn Jóhannesson kom fyrst að máli við mig um málefni hennar fyrir nokkrum árum. Eftir það höfðum við töluvert samband okkar á milli, og ég fór alloft með honum til Krýsuvíkur. Sú var hugmynd hans, að réttast væri að fela Þjóðminjasafni Íslands framtíðarforsjá kirkjunnar, og  hreyfði hann því máli við bæjarstjórn Hafnarfjarðar. Kom þar, að bæjarstjórnin ákvað að fela safninu kirkjuna ásamt vænni landspildu umhverfis hana, en Björn gaf allt sem hann hafði til hennar lagt. Er gjafabréf bæjarstjórnar dagsett í Hafnarfirði hinn 18. september 1964, og síðan er Krýsuvíkurkirkja á  fornleifaskrá og eitt þeirra húsa, sem vernduð verða á vegum hins  opinbera sem menningarsögulegar byggingar.
Á fögrum haustdegi, hinn 19. september, vorum við Björn í síðasta sinni saman í Krýsuvík. Gerðum við þá úttekt á öllu, sem í kirkjunni er, en Björn afhenti mér skrá þar sem nákvæmlega er tilgreint hvað hver og einn hafði til hennar gefið, en flest af því er að vísu frá honum  sjálfum. Þarna var ekkert hálfverk á, og mikil var gleði Björns að sjá þetta mikla áhugamál sitt komið heilt í þá höfn, sem hann hafði dreymt um. Honum var það mikið gleðiefni að verða þess var, hve margir lögðu leið sína heim að kirkjunni, eftir að opnaður var hinn nýi Grindavíkurvegur, sem liggur hjá garði í Krýsuvík. Þótti honum það sem staðfesting þess, að kirkjan sem hann hafði reist úr rúst, ætti enn erindi við lífið og hann hefði barizt fyrir réttum mál stað. Hugði hann gott til að fylgjast með mannaferðum heim að Krýsuvík á komandi árum, ef þess yrði auðið. En hann vissi líka, að kallið gat komið snögglega, eins og nú er komið á daginn, og það var honum því fró og fullnæging að honum hafði auðnazt að ná settu marki, og hann var þakklátur öllum, sem höfðu stutt hann til þess á einhvern hátt.
Ókunnugt er mér hvað upphaflega kveikti áhuga Björns fyrir málstað Krýsuvíkurkirkju, því að ekki var hann bundinn staðnum tryggðaböndum ættar og uppruna. En fágætur var sá áhugi, sem hann sýndi þessu málefni, og sá kærleikur, sem hann lagði þar í hvert handtak, og af dæmi hans mætti mikinn lærdóm draga. En efst er mér í huga þakklæti til Björns fyrir hið merkilega framtak. Hann var í fyllsta skilningi björgunarmaður Krýsuvíkurkirkju, og það er honum að þakka, að land vort er þannig einu menningarsögulegu húsi ríkara. Þau eru fá, mannaverkin á hinni nýju Grindavíkurleið. Þeirra merkast er hin gamla kirkjan, og minning Björns mun lifa með henni.“

Eftirfarandi viðtal við Björn Jóhannesson um endurreisn Krýsuvíkurkirkju birtist í Vísi 1964:

Krýsuvíkurkirkja endurreist.
Bjorn johannesson-22Fyrir nokkrum dögum birtum við fregn um það, að maður nokkur hér í borg að nafni Björn Jóhannesson hefði ráðizt í það að endursmíða og endurreisa kirkjan í Krýsuvík. Menn spurðu hvað vekti fyrir honum með þessu. Verk hans var lofsamlegt, það geta þeir bezt borið um, sem komið hafa suður í Krýsuvík á sfðustu áratugum og séð, hvernig hið gamla kirkjuhús þar var útleikið, Í stuttu máli í hinni verstu niðurníðslu. En hins vegar finnst þar enginn söfnuður, til skamms tíma var þar allt í eyði, nú vinna þar örfáir Hafnfirðingar við gróðurhúsarækt.
Við skulum lofa honum sjálfum að svara þessu, eins og hann orðaði það við fréttamann Vísis er heimsótti hann að heimili hans, Snorrabraut 83.
— Ég vildi endurreisa Krýsuvíkurkirkju fyrir framtíðina sagði hann. Það má vera, að mönnum finnist einkennilegt að byrja á kirkjunni áður en söfnuðurinn er til. En Krýsuvík er framtíðarstaður, einn mesti framtíðarstaður á landinu. Að hinu væri fremur að finna, að áður en áratugur er liðinn verður þessi kirkja orðin of lítil fyrir söfnuðinn. Helzt hefði þurft að stækka hana um leið og hún var endurreist. Framtíðarmöguleikarnir í Krýsuvík eru geysilegir, bæði í jarðrækt og jarðhita.
— En hverjar voru hvatirnar til að takast þetta verk á hendur upp á eigin spýtur? — Ætterni? — Uppruni?
— Nei, ég er ekki ættaður úr Krýsuvík, heldur húnvetnskur, en fluttist kornungur til Hafnarfjarðar með foreldrum mínum. Faðir minn var Jóhannes Sveinsson, sem lengi var ökumaður, var með hestvagn í flutningum í Hafnarfirði og til Reykjavíkur. Ég var líka í slíkum flutningum fyrst í stað, síðan fór ég út í ýmislegt annað, meðal annars útgerð, starfaði lengi með Ásgeiri Stefánssyni. Einnig var ég kosinn í bæjarstjórn Hafnarfjarðar og þannig kynntist ég Krýsuvík, þegar Hafnarfjarðarbær keypti jörðina af Einari Benediktssyni. Hann var með jörðina á vegum einhvers ensks fyrirtækis, sem vann þar brennistein. Sjálfur hélt hann eftir Herdísarvík fyrir sig eins og allir þekkja.
— En nú eruð þér fluttur til Reykjavíkur
— Já, ég veiktist, og varð að draga mig út úr flestu, en þá fékk ég áhuga á Krýsuvíkurkirkju. Ég hafði engar sérstakar taugar til staðarins, en þegar ég kom í Krýsuvík og sá niðurlægingu þessa húss, sem áður hafði verið guðshús, sveið mér það og mig greip löngun til að bæta úr því. Ég skrifaði vinum mínum í bæjarstjórn Hafnarfjarðar og beiddist leyfis til að mega gera kirkjuna upp og það leyfi var auðfengið.

Gamalt höfuðból.
Krysuvik 1810-22Við sitjum inni í bókaherbergi Björns á Snorrabrautinni.
Hér eru raðir bóka með sögnum og þjóðlegum fróðleik með veggjum, sýnilegt að húsráðandi hér hefur hugleitt liðna tíma, starf og ættir forfeðranna lítur í gráa forneskju. Og hér nefur hann kynnt sér sögu Krýsuvíkur af ýmsum ritum. Talið berst fljótlega að fyrri tímabilum blómlegrar byggðar, þegar þar var höfuðbólið Krýsuvík og fjöldi minni bæja og kota, sumir bændurnir bláfátækir, aðrir gátu með gætni og hyggindum orðið bjargálna. Hér er lifað á fjárrækt, Krýsuvík var meðal stærstu og beztu sauðjarða á landinu, fjárgæzla þó erfið. Í Krýsuvíkurbjargi var jafnan auðug eggjataka og margir æfðir sigmenn í byggðarlaginu. Og svo var sjórinn stundaður frá Herdísarvík, sem tilheyrði Krýsuvík.
Síðasti stórbóndinn í Krýsuvík var Árni Gíslason áður sýslumaður á Kirkjubæjarklaustri, bróðir séra Skúla þjóðsagnasafnarans fræga á Breiðabólstað. Árni flutti til Krýsuvíkur úr Skaftafellssýslu og flutti þá með sér á annað þúsund fjár. Hann varð fyrir miklum skakkaföllum í byrjun búskapar í Krýsuvík, en náði sér þó aftur á strik. Hann andaðist rétt fyrir aldamótin. Þá voru mjög erfiðir tímar fyrir landbúnaðinn, fjársalan til Bretlands hætt og almennur vinnufólksflótti að sjávarsíðunni. Eftir það bar Krýsuvík aldrei sitt barr og niðurlæging staðarins hófst nokkru síðar, kringum 1930 lagðist hann að mestu í eyði, einangrunin hafin, enginn þjóðvegur fyrr en seinna, — þegar Krýsuvíkurvegur var lagður var það orðið of seint, allt komið í eyði. Síðast bjó einsetumaður í Krýsuvík, Magnús Ólafsson. Og híbýli hans voru einmitt gamla kirkjan. Þá var búið að rífa úr henni allt. kirkjubekki, predikunarstól, altari, sumir kirkjumunir teknir til geymslu, annað glatað.

Reist upphaflega fyrir 107 árum.
krysuvik 1910-22Og svo snýst talið að sjálfri kirkjunni. Í Krýsuvík hefur verið kirkja frá því um 1200. En þessi kirkjubygging er frá 1857 Þá voru um 70 manns í sókninni. Hún var þá útkirkja frá Selvogi. Hún var reist ur rekaviði, en jafnan hefur verið nokkur reki á Krýsuvíkurfjörum. Það var vandað til hennar. Við komumst að því segir Björn, að viðir hennar voru enn sterkir og ófúnir, gólfið var verst farið, grautfúið.
Þá er það hvaða prestar þjónuðu þessari kirkju, en hún var ýmist útkirkja frá Selvogi eða Grindavík. Fyrst er að telja Lárus Scheving í Selvogi 1800-70. Þá koma Grindavíkurprestar Kristján Eldjárn Þórarinsson 1871-1878 og Oddur Gíslason 1878-1880. Þá koma aftur Selvogsprestar Ólafur Ólafsson voru á næsta tímabili Brynjólfur Gunnarsson 1908-1910 og Brynjólfur Magnússon 1910 og þar til kirkjan var lögð niður í Krýsuvík 1929, enda allt að komast í auðn.

Í niðurníðslu.
Krysuvik 1923-22Síðast bjó einsetumaðurinn Magnús Ólafsson sem fyrr segir í gömlu kirkjunni. Þegar hann veiktist og var fluttur burt kringum stríðsbyrjun lá Krýsuvík eftir mannlaus. Þá varð niðurlæging kirkjunnar mest. Var þá ömurlegt að skoða hana, gluggar brotnuðu úr henni, dyrnar opnuðust og stórgripir leituðu sér skjóls inni í henni. Þannig stóð í nærri tvo áratugi. Hvarvetna hef ég mætt áhuga og góðvild til þessa starfs og rekizt á margar skemmtilegar tilviljanir. Bezt af öllu var að ég fékk í lið með mér afbragðs smið, Sigurbent Gíslason í Hafnarfirði. Svo skemmtilega vildi til að hann er einmitt dóttursonur smiðsins sem reisti kirkjuna 1857. Afi hans smiðurinn var Beinteinn Stefánsson, sem bjó undir Arnarfelli í Krýsuvík. Dóttir hans var Sigríður móðir Sigurbents.

Gamlir kirkjugripir.
Svo voru til nokkrir gamlir kirkjugripir Krýsuvíkurkirkju, sem teknir höfðu verið til varðveizlu 1929 og settir á Þjððminjasafnið þegar kirkjan var lögð niður. Þá er að nefna kirkjuklukkuna. Hún hafði verið flutt til Grindavíkur og var í kirkjunni þar. Ég var að vísu hálf kvíðinn að fara að nefna það við sóknarprestinn, en sá kvíði var ástæðulaus. Hann skildi það fullkomlega að  Krýsuvíkurkirkja ætti að fá sína gömlu klukku, því að rétt skal vera rétt. Svo fór ég til Grindavíkur og klukkan var tekin niður. Nú klingir hún yfir eyðibyggðinni í Krýsuvík. Aðra klukku fékk ég að gjöf hjá Fríkirkjusöfnuðinum í Hafnarfirði. Það var minni klukka, sem hafði verið skipsklukka og á henni stóð grafið heitið Enganes. Hún lá ónotuð hjá fríkirkjusöfnuðinum og þeir vissu ekki hvaðan hún var komin.

Enganes-klukkan.
En ég komst líka að því fyrir tilviljun. Ég var að endurlesa æviminningar Thor Jensen, sem Valtýr skrifaði og þar blasir þá við mér öll saga litlu klukkunnar, botnvörpuskipsins Enganess, sem kom frá Englandi til Vídalíns-útgerðar í Hafnarfirði, en enski klukkusmiðurinn hafði misritað nafnið Enganes. Síðast strandaði Enganes í Grindavík haustið 1898. Og nú verður samhringt með Enganesklukkunni í Krýsuvík.
Þá hafði Krýsuvíkurkirkja átt gamla og mjög sérkennilega og fallega ljðsastjaka úr tini, sem munu vera frá miðri 17. öld. Þeir voru komnir á Þjóðminjasafnið, svo að ég lét gera afsteypu af þeim í kopar. Hins vegar lagði Þjóðminjasafnið til gamla altaristöflu af útlendri gerð af Kvöldmáltíðinni.
Þannig hefur Krýsuvíkurkirkja verið endurreist. Það var byrjað á kirkjunni, en ég er í engum vafa um það, að söfnuðurinn kemur á eftir, sagði Björn Jóhannesson að lokum.“

Heimild:
-Kirkjuritið, Kristján Eldjárn, Björn Jóhannesson og Krýsuvíkurkirkja, 31. árg. 1953, 1. tbl.,bls. 49-53.
-Vísir, 24. júní 1964, bls. 9 og 13.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja var einföld timburkirkja í Krýsuvík. Hún var byggð árið 1857, endurbyggð árið 1964 og fór þá í vörslu þjóðminjavarðar og komst við það á lista yfir friðuð hús. Altaristafla kirkjunar var málverk eftir Svein Björnsson, listmálara.
Krýsuvíkurkirkja var notuð sem sóknarkirkja allt fram undir 1910. Hún var aflögð 1917 og notuð til íbúðar frá 1929, en síðan aftur breytt í kirkju 1963-64 fyrir tilstuðlan Björns Jóhannessonar, fyrrverandi forseta bæjarstjórnar í Hafnarfirði, en Hafnarfjarðarbær færði Þjóðminjasafninu húsið til varðveislu haustið 1964.
Kirkja mun hafa risið í Krýsuvík í upphafi kristni hér á landi í Kirkjulág í Húshólma áður en Ögmundarhaun rann um miðja 12. öld. Eftir þann atburð var kirkjan færð ofar í landið. Kirkjuna sem brann smíðaði Beinteinn Stefánsson hjáleigubóndi í Krýsuvík úr rekatrjám 1857. Byggð lagðist af í Krýsuvík í byrjun síðustu aldar og 1929 var Krýsuvíkurkirkja aflögð sem helgidómur. 

Brúsastaðir

Magnús Jónsson skrifaði um „Bæi í bænum“ í Alþýðublað Hafnarfjarðar árið 1962:

Magnús Jónsson

Magnús Jónsson.

„Í flestum eða öllum tungumálum veraldar munu finnast dæmi þess að sama orðið geti haft fleiri en eina merkingu. Sem kunnugt er, er þessu þannig farið hjá okkur með orðið bœr. Getur það t.d. merkt bæði kaupstað og sveitabýli.
Einnig er þetta orð notað af eldri og — mig langar til að segja — rökréttar hugsandi kynslóðinni, í sumum tilfellum þar sem aðrir nota orðið hús. Þessi skilgreining milli notkunar orðanna bær og hús, mun vera öllu meira á reiki í sveitunum.
Þar er, eins og áður er drepið á, hægt að nota orðið bær um býlið eða jörðina í heild, þótt engin bygging þar hafi hið raunverulega bæjarlag. En bæjarlag hefur sú bygging, sem er svo veggjalág, að hún er öll undir súð og ekki er um um glugga að ræða, nema á göflunum. En til þess þá þó að drýgja húsrýmið lítið eitt, er venjulega inngönguskúr áfastur bænum. Annars væri varla um annað að ræða en að hafa dyr á öðrum hvorum gaflinum.
Í Reykjavík eru til nokkrir steinbæir. Veggir þeirra eru þykkir og steyptir, eða oftar hlaðnir úr meira eða minna tilhöggnu grjóti, lögðu í bindiefni. Oftast er þó efri hluti gaflanna úr timbri. Stundum var látið nægja að sletta aðeins steypu í hleðsluna á eftir. Er góð lýsing og teikning af steinbæjum í kaflanum um húsbyggingar í Iðnsögu Íslands.

Hvaleyri

Hvaleyri 1925 – málverk.

Hér, í þéttbýli Hafnarfjarðar, eru engir steinbæir, heldur eru þeir, eins og flestar byggingar hér frá fyrri hluta aldarinnar, úr timbri og nú klæddir bárujárni. En íbúðarbyggingin í Hjörtskoti á Hvaleyri minnir nokkuð á steinbæ og svo tveir bæir sem síðast verður getið. Vafasamt er að hve miklu leyti má segja að þetta byggingarlag sé einkennandi fyrir Ísland. En þótt íbúar hinna Norðurlandanna láti sér nægja fornfáleg húsakynni, þá er svo mikið víst, að hið eiginlega bæjarlag, sem hér er um að ræða, ersjaldgæft í nágrannalöndum okkar.
Ásbúð
Ef farið væri í eins konar húsvitjun í umrædda bæi og byrjað syðst, þá yrði fyrst fyrir okkur Ásbúð, þ.e. Ásbúðartröð 1, hjá Andrési Johnson rakara. Tæplega er þó þessi bygging í hinum hreinræktaða hafnfirzka bæjarstíl frá aldamótunum, með því að inngangurinn er á annari hliðinni miðri. Þar er einnig gluggi, sem Andrés þó telur vissara að hafa hlera fyrir, vegna margvíslegra verðmæta innan dyra. En þegar inn er komið, dylst engum að hér er um raunverulegan bæ að ræða, og að sumu leyti í enn eldri stíl en hér er til umræðu, m. a. að því leyti að hér eru eins konar bæjargöng. Til hægri úr þeim er gengið inn í eldhúsið, en til vinstri inn í safnherbergi. Hér er ekki ætlunin að ræða um hið víðtæka og víðkunna söfnunarstarf Andrésar. En þótt þetta sé nefnt safnherbergi, þá var réttilega að orði komist hjá þjóðminjaverði í afmælisgrein um Andrés sjötugan, að takmörkin milli safns hans og heimilis væru raunverulega horfin. Fyrir enda bæjarganganna er lítið herbergi sem gengið er úr til vinstri inn í baðstofuna. Þetta, sem hér hefur verið talið, er undir sama risi, annað en eldhúsið. Þessi mannvirki telur Andrés vera að stofni til allt frá árinu 1806. Árið 1931 keypti hann þau, eftir lát Halldórs Helgasonar, sem þar hafði búið alla sína búskapartíð. Þá var allstórt útihús vestan við bæinn, en það lét Andrés rífa og byggja í þess stað skemmu í stíl við baðstofuna. Stendur hún aftast húsa. Þótt öll séu þessi húsakynni lágreist, þá er grunnflöturinn ekki svo lítill. Framhliðin er 9,25 m og stafnarnir samanlagt nokkru meira. Þess má að lokum geta, að Andrés hefur ætíð lagt áherzlu á viðhald bæjarins og málað hann að utan í sterkum litum.

Asbúð

Hafnarfjörður um 1900.

Næst verður fyrir okkur bærinn Suðurgata 87. Reyndar er á gaflinum númeraskiltið 85, en hitt mun vera réttara. Samræmi er milli bæjarins og nánasta umhverfis hans, — ræktaðs grasbletts, kálgarðs og lækjarsytru. Bærinn mun hafa verið byggður 1908, af Stefáni Grímssyni sem þá hóf þar búskap með konu sinni, Maríu S. Sveinsdóttur. Tvær dætur þeirra eru nú búsettar í Keflavík. Nágranni Stefáns, Steindór í Brandsbæ, mátti teljast yfirsmiðurinn. Iðulega voru leigjendur í þessum bæ, jafnvel heilar fjölskyldur. Á öðrum tug aldarinnar leigði þar t.d. Agnar Þorláksson, bróðir Sigurðar trésmiðs og Kristmundar frá Stakkavík, með fjölskyldu sína. Bærinn er að vísu lítið eitt stærri en t.d. sá sem getið verður um hér næst á eftir, og hefur hann tvo glugga á hvorum gafli. Hann er 6,35 m. á lengd og rúmir 4 m á breidd og kjallari undir honum. Nú býr þarna Ármann Kristjánsson með fjölskyldu sína. En svo að vikið sé aftur að fyrri íbúum, þá andaðist Stefán árið 1918, en María ekki fyrr en 1958. Hún yfirgaf ekki bæinn fyrr en sem sjúklingur, er ekki á afturkvæmt.
MýrinTæplega var talað um bæinn Mýri eða í Mýrinni sérstaklega, heldur var þetta „bærinn hennar Maríu í Mýrinni“ (I). Og hvað Maríu snertir, þá var hún yfirleitt ekki kennd við föður sinn, heldur eins og hér er gert, innan tilvitnunarmerkjanna. Svo náið getur sambandið verið milli manns og moldar. Bær nokkur stendur að segja má í skugga st. Jósepsspítalans. Hann er talinn við Hlíðarbraut. Þessi bær hefur einna hreinræktaðasta hafnfirzka bæjarbyggingarlagið og er næstum alveg óbreyttur frá fyrstu tíð. Fæstir þessara bæja voru þó járnklæddir upphaflega. En kaþólska trúboðið á þakkir skilið fyrir að láta bæinn standa og að lúta að svo litlu að nota hann. Vonandi fær hann að standa lengi enn. Bær þessi er byggður af Jóni Ólafssyni frá Hliði á Álftanesi (Gamla-Hliði), um 1904. Fyrst eftir að hann kom til Hafnarfjarðar, með konu sinni, Þóru Þorsteinsdóttur, voru þau í Holti. Það var næstum þar sem nú er húsið Hringbraut 64. Eins og áður hefur verið getið í þessu blaði, eignuðust þessi hjón eina dóttur, en hún dó um fermingaraldur.
HoltÝmislegt er hliðstætt um þær Maríu í Mýrinni og Þóru í Holti. Þóra var í mörg ár ekkja, því að J. hún missti mann sinn 1915, en lifði sjálf til 1954 og var í bænum svo lengi sem hún gat. Svipað er líka að segja um nafngiftina, því að eiginlega er vafasamt hvort nafnið Holt fluttist á bæinn, eða að þetta er aðeins „bærinn hennar Þóru í Holti“. Umhverfis bæinn er ræktuð lóð, sem má teljast stór, og undir honum er lágur kjallari, sem gengið er í á miðri norðurhlið. Sú hlið er að utan klædd láréttum plægðum borðum, en ekki bárujárni. Bærinn er eitt herbergi og eldhús, og að sjálfsögðu með inngönguskúr, eins og myndin ber með sér. Lengd bæjarins er aðeins 5,75 m, en breiddin um 4 m. Rafmagn er lagt í bæinn, en ekki vatn. Er enn brunnur rétt hjá honum, byrgður og með heilnæmu vatni, sem aldrei þrýtur. Meinið er að brunnar eru mannvirki, sem ekki verða flutt á byggðasöfn! Eins og áður er sagt, hefur kaþólska trúboðið nú bæinn og lóðina.

Krosseyrarvegur

Krosseyrarvegur 5 t.v.

Árið 1908 komu til Hafnarfjarðar hjónin Halldór Sigurðsson frá Merkinesi í Höfnum og Pálína Pálsdóttir. Bjuggu þau fyrst í Gesthúsum. En þau vildu, eins og aðrir, búa undir eigin þaki og létu nægja lágreist bæjarlag á þeirri byggingu, þótt þá væri komið árið 1919. Gata var lögð framhjá bænum þrem árum síðar og þá lögð í hann vatnsleiðsla. Jafnframt hlaut hann númerið Krosseyrarvegur 5. Halldór dó árið 1920, en kona hans fimm árum síðar. Fóstursonur þeirra, Janus Gíslason, bjó áfram í bænum, ásamt dótturdóttur þeirra hjóna, Pálínu Arnadóttur. Hún giftist Hallbergi Péturssyni, og bjuggu þau í þessum bæ allt til ársins 1953. Þá var hann seldur Ottó W. Björnssyni og fluttur burt og stendur nú í góðu yfirlæti sem Brattakinn 29. Jafnframt var inngönguskúrinn lengdur, svo að nú er hann sem viðbygging jafnlöng bænum. Kjallarinn varð einnig allur ofanjarðar. Lengd bæjarins er 5,8 m, en breidd hans hefur upphaflega verið um 3,8 m. Með viðbyggingunni er hún orðin yfir 5 m. Hjá bænum hefur Ottó byggt útihús vegna atvinnu sinnar.

Hellisgerði

Hellisgerði 1923.

Í Hellisgerði, þessu stolti og prýði Hafnarfjarðar, stendur bær. Áður voru þeir fleiri, en árið 1958 var sá næst-síðasti rifinn. Á honum var þó „typiskara“ bæjarlag en þeim sem enn stendur, og ekki var heldur um vegarlagningu að ræða á þessum stað, svo að bærinn þyrfti að víkja þess vegna. í þessu tilefni niætti rita langt mál um samband og samræmi milli verka mannsins og verka náttúrunnar og hvenær varðveizla hvors um sig á við. En það verður alltaf nokkurt tilfinningamál og smekksatriði, og ekki þýðir heldur að sakast um orðinn hlut. Yngri bærinn stendur nokkru ofar í Gerðinu, lítið eitt lengra frá Reykjavíkurveginum og er talinn Reykjavíkurvegur 15 B. Hann mun vera yngstur bæjanna í Hafnarfirði, byggður 1924, af Þorgrími Jónssyni. Þorgrímur missti konu sína, Guðrúnu Guðbrandsdóttur, árið 1939, og skömmu síðar fór hann úr bænum til fóstursonar síns, Helga Vilhjálmssonar. Settust þá að í bænum yngri hjón, Jón S. Jónsson, sonur Jóns Sölvasonar, sem síðastur bjó í eldri bænum áðurnefnda, og hona hans, Ingileif Brynjólfsdóttir. Bjuggu þessi hjón í bænum fram undir árslok 1950, og fæddust þeim þar átta börn. Þröngt mega sáttir sitja. Bærinn er 5,65 m á lengd og 3.8 m á breidd, en gerð glugganna og hátt ris sýnir að hann er ekki ýkja gamall. Undir bænum er kjallari með steyptum hliðarveggjum.
OddrúnarbærSamdægurs sem Jón fluttist úr bænum, kom þangað Oddrún Oddsdóttir og býr þar nú. Eins og áður er sagt, var bærinn sem nú er eign Ottós W. Björnssonar byggður af Halldóri frá Merkinesi. í byrjun aldarinnar hafði önnur fámenn fjölskylda sunnan úr Höfnum setzt að í Hafnarfirði. Voru það þau hjónin Erlendur Marteinsson og Sigurveig Einarsdóttir, með dóttur sína, Sigríði. Þessa fjölskyldu mun ekki þurfa að kynna Hafnfirðingum í löngu máli, og allra sízt lesendum Alþýðublaðsins. Bærinn Kirkjuvegur 10 hefur nú verið aðalbækistöð þess blaðs hér í 37 ár. Þennan bæ byggði Erlendur handa sér og sínum árið 1902. Hefði því þessa átt að vera getið í fyrri skrifum um Hafnarfjörð hér í blaðinu, en svo er ekki.
Á þessum árum var Augúst Flygenring að hefja þilskipaútgerð sína og veitti nokkrum sjómönnum byggingarlán. Fengu þeir þannig eigin húsakynni, en hann fékk tryggðan vinnukraft. Voru Erlendi lánaðar 494 kr. og 10 aurar, og var það greitt upp samkvæmt samningi á fjórum árum. Algengast var í þessum bæjum að skilrúm væri þvert yfir, nær öðrum enda. Var þá styttri hlutinn annað hvort hólfaður sundur í eldhús og mjög lítið herbergi, eða að hann var eldhús eingöngu. Í þessum bæ var styttri endinn hólfaður í tvennt, en samt var þar ekkert sérstakt eldhús í fyrstunni. Annað herbergið varð sem eins konar innbyggð forstofa, því að inngönguskúr var enginn. Aðeins varð sem kvistur á þakinu, vegna dyranna. Bærinn er um það bil 6.2 m á lengd og 3.8 m á breidd. Og svo ótrúlegt sem það er nú, þá var litla herbergið í norðurhorninu leigt út. Þar leigði Valgerður Ólafsdóttir frá Hliðsnesi, sem síðar bjó með Bjarna Narfasyni. Þegar áðurnefnd fjögur ár voru liðin og skuldin greidd, var ráð á að járnklæða þakið og síðan fengu veggirnir járn yfir pappann smátt og smátt. Lítill inngönguskúr var byggður og eldhús tekið í notkun. Skúrinn var stækkaður um 1915 og um það leyti byggt útihús. Kom það í góðar þarfir, þar sem bærinn er kjallaralaus, og stendur það enn. Þótt þessi bær sé sá elzti, næst Ásbúðarbænum, er hann sá eini þar sem sama fólkið býr ennþá, þ. e. mæðgurnar Sigurveig og Sigríður. Erlendur dó árið 1935. En bærinn er líka sá eini þeirra sem þarf að færast vegna skipulagsins, a.m.k. áður en mjög langt um líður.
SiggubærTeikningar af öllum byggingum kaupstaðarins eiga að finnast á einum stað, þ. e. á skrifstofu bæjarverkfræðings. Þar er þó ekki feitan gölt að flá, hvað þetta efni snertir sem hér um ræðir. Þó má draga upp úr gulu umslagi, sem á stendur Langeyrarvegur 8 B, teikningu nokkra. Plagg þetta hefur það einnig fram yfir mörg önnur af þeim eldri í þeirri hirzlu, að á því er lítið eitt meira en sjálf teikningin. Þar stendur orðrétt: „íbúðarhús Lárusar Bjarnasonar við Booklessstíg. Byggt úr timbri, þak pappavarið, grunnur hlaðinn úr hraungrjóti. Hafnarfirði, 20. 9. 1920: Ásgeir G. Stefánsson“.
Nú er bærinn járnklæddur, eins og þeir eru allir. Lárus og kona hans, Elísabet Jónasdóttir, eignuðust fimm börn, og munu tvö þau yngstu hafa fæðzt í þessum bæ. Árið 1932 keypti Sesselja Sigvaldadóttir bæinn og býr þar enn, en Lárus fluttist til Reykjavíkur. Ekki er stórri lóð fyrir að fara í kringum þennan bæ, en innan húss ber allt vott um lireinlæti og snyrtimennsku. Bærinn er að ytri gerð mjög svipaður bænum í Hellisgerði og í þeim báðum er styttri endinn hólfaður í tvennt. Þessi bær er 6.4 m á lengd og 3.9 á breidd. Kjallarinn er að nokkru leyti í jörð, en sá hluti veggjanna sem sést, er æði ósléttur. Um Booklessstíg skal þess eins getið, að fæstir munu nokkru sinni liafa heyrt hann nefndan.
EyrarhraunÍ byrjun þessarar aldar, eða um það leyti sem Augúst Flygenring hóf fiskverkun á Langeyrarmölum, fór í eyði lítill bær í hraunkvos norðan við það athafnasvæði. Það var nefnt á Flötunum. En skömmu síðar, þ.e. árið 1904, var byggður bær lítið eitt ofar í hrauninu og nefndur Eyrarhraun. Hann kostaði 600 krónur, enda hafði eigandinn, Sigurjón Sigurðsson, leyft sér þann íburð að klæða hann allan með panil að innan, og það sem meira var, að mála þennan panil. Með ráðskonu sinni átti Sigurjón tvö börn, Kristínu, sem dó ung, og Engiljón, nú vélaeftirlitsmann í frystihúsi Bæjarútgerðarinnar. Árið 1919 keypti Gísli Guðmundsson frá Saurbæ í Ölfusi bæinn. Fluttist hann þangað með konu sína, Valgerði Jónsdóttur, og börnin tvö, Guðjón og Sigríði. Þau eru bæði búsett hér í Hafnarfirði. Gísli seldi Júlíusi Jónssyni bæinn árið 1923. Kona hans var Helga Guðmundsdóttir, héðan úr Firðinum. Barnahópurinn varð stór, en furðu sjaldan heyrðust þar frekjuorg, þótt lítið væri leikrýmið innan húss. Þessa er ekki getið til að þóknast ritstjóra þessa blaðs, enda eru heimildirnar aðrar.
Jón Pétursson vélsmiður keypti bæinn árið 1943, og býr þar nú með fjölskyldu sinni. Reyndar býr hann í meira en bænum, svo lítill hluti sem hann er nú af byggingunni á þessum stað, eins og myndin ber með sér. (Það er að sjálfsögðu á bænum sem glugginn með krosspóstinum er.) Í rauninni er umdeilanlegt hvort hann getur talizt sem sjálfstæð bygging lengur, og hvort þá hefði yfirleitt átt að geta hans hér. Stærð hans mun upphaflega hafa verið um 3.8×6 m, en áður en Jón keypti hann var búið að lengja hann. Undir bænum er kjallari.
FagrihvammurÍ undanfarandi kafla var ráðskonu Sigurjóns á Eyrarhrauni ekki getið með nafni. Hún hét Engilráð Kristjánsdóttir. Árið 1919 lét hún byggja bæ, álíka langt frá sjó og Eyrarhraun og um 200 m fjær megin byggð Hafnarfjarðar. Þar átti hún síðan heima í 17 ár, fyrst ásamt syni sínum, Engiljóni, en síðar oftast einsömul. Skömmu fyrir lát sitt, árið 1936, seldi hún bæinn Ingimundi Stefánssyni, sem þá kom heim til Íslands eftir 26 ára dvöl í Þýzkalandi, ásamt þarlendri konu sinni, Margrethe. Hún er á lífi, en fluttist úr þessum bæ við lát manns síns, árið 1957. Nú býr í bænum Valdimar Ingimarsson frá Vestmannaeyjum með fjölskyldu sína. Engilráð vann iðnum höndum á gamla vísu, hafði nokkrar kindur og kom hinu mishæðótta landi kringum bæinn í rækt. Hins vegar lagði hún ekki áherzlu á að hann hlyti neitt sérstakt nafn. En Ingimundur kunni að meta þessa breytingu hrjóstrugs hrauns í grænan gróðurreit og nefndi býlið Fagrahvamm. Hefur það haldizt síðan. Þótt breyting húsakynnanna sé ekki eins mikil og á Eyrarhrauni, þá eru þau nú allmiklu meiri en í fyrstu. T.d. er eldhúsið ekki í hinum upphaflega bæ. Hann var eitt herbergi og eldhús og var það tvennt að utanmáli 3,6×4,5 m. Svo er skemma, jafnlöng bænum en nokkru mjórri, eða um 3 m. Hliðarveggir þessa bæjar og neðri hluti gaflanna eru steyptir. Skemman er með lofti, en kjallari er enginn. Vegna síðari tíma breytinga, er vafi á um fleiri bæi en Eyrarhraun, hvort þeir eigi að teljast hér með.
Brúsastaðir
Varla má þó láta hjá líða að minnast á Brúsastaði, þó að stækkun frá því um 1925 hafi breytt útliti bæjarins mjög. Þessi bær var byggður árið 1914 af Eyjólfi Kristjánssyni, bróður Engilráðar. Hann hafði byrjað búskap með konu sinni, Ingveldi Jónsdóttur, á hinu gamla býli Langeyri, en síðar byggðu þau nýbýlið Hraunhvamm. Þau eignuðust mörg börn, sem flest eru á lífi. Það elzta þeirra, Þórður, hefur búið á Brúsastöðum, ásamt konu sinni, Salome Salómonsdóttur, frá því að foreldrar hans fluttust í þéttbýli kaupstaðarins árið 1932. Brúsastaðabærinn er gott dæmi um steinbæ. Hliðar og neðri hluti gafla er hlaðið og „kastað í“. Hann er um 7 m langur og yfir 5 m breiður. En innanmál er miklu minna, því að þessir hlöðnu veggir eru mjög þykkir. Auk áðurnefndrar viðbyggingar, sem öll er steypt, hefur verið byggt við innganginn á svipaðan hátt og í Fagrahvammi, Jxótt ekki sé Jxað notað sem eldhús. Þeim megin við bæinn er útihús, nokkru yngra en hann, en hefur þó fengið á sig virðulegan elliblæ, ef svo mætti segja.

Brattakinn

Brattakinn 19.

Ekki þarf orðum að því að eyða, að enn eru ónefndar nokkrar byggingar sem liggja á mörkum þess að þeirra sé getið. Í bænum á Steinum býr enginn, enda er hann ekki hæfur til þeirra hluta lengur, en mynd af honum hefur birzt hér í blaðinu.
Á húsinu Suðurgötu 35 B hefur frá upphafi verið kvistur, sem tekur af því bæjarsvipinn. Og Brattakinn 19, sem upphaflega var sumarbústaður Jóns Mathiesen, getur varla talist til bæja.
Dalbær, sem Sumarliði Einarsson flutti vestur að mörkum Hafnarfjarðar og Garðahrepps, er orðinn óþekkjanlegur sem bær og Hraunhvammur er hinum megin við mörkin.
Að þessu athuguðu læt ég því staðar numið. Mér er ljóst að þessu verki er í mörgu ábótavant, meðal annars er mjög misjafnt hve ýtarlega er greint frá íbúum bæjanna. En þakka vil ég öllum þeim sem hafa veitt mér upplýsingar og bið svo lesendur að dæma villurnar vægt.“

Heimild:
-Alþýðublað Hafnarfjarðar, 21. árg. 15.12.1962, Bæir í bænum – Magnús Jónsson, bls. 16-18.

Fagrihvammur

Fagrihvammur.

Flórgoði

Flórgoðinn er fallegur fugl. Hann mætir á vötnin ofan höfuðborgarsvæðisins; Hvaleyrarvatn, Ástjörn, Urriðavatn, Vífilsstaðavatn, Rauðavatn o.fl., í kringum 15.-20. apríl eftir vetrardvöl s.s. við strendur Islands, Noregs og Skotlands, verpir um miðjan maí og liggur á 3-6 eggjum í u.þ.b. 21-25 daga. Ef varpið misferst getur hann verpt aftur og aftur uns allt um þrýtur. Á síðustu árum hefur flórgoðapörum fjölgað mjög á Reykjanesskaganum og er það vel.

Í Tímanum árið 1991 segir um flórgoðann:

Flórgoði

Flórgoðapar.

„Flórgoði (Podiceps auritus) er andarættar og heldur sig við tjarnir og síki. Höfuðið er gljásvart, fiðurmikið og úfið. Nefið er stutt, rýtingslaga og stélið er örstutt. Fæturnir eru með sundblöðkur á tánum.

Flórgoði

Flórgoði.

Frá höfði um aftanverðan háls, bak og vængi er fjaðurhamur svartur en á flugi koma fram áberandi hvítir vængspeglar. Flórgoðinn er hálsgrannur og búkurinn kubbslegur. Hann fellir fjaðurskúfa að vetri og litauðugt fiðrið tekur á sig dökkan lit. Röddin er lík væli nema á mökunar- og varptíma, þá er hún margvísleg. Flórgoðinn verpir 3-6 eggjum í flothreiður við sefgrónar grynningar. Á veturna dvelur hann á sjávarvogum.“

Í Morgunblaðinu árið 1993 fjallar Guðmundur Guðjónsson um flórgoðann undir fyrirsögninni „Flórgoðinn á „hættulistann““ (kynning á tegundinni í Bæjarbíói og á Ástjörn).

Flórgoði

Flórgoði með unga.

„Flórgoði, eða sefönd, heitir einn af fallegustu og sérstæðustu varpfuglum landsins. Hvergi hefur fugl þessi verið áberandi utan á Mývatni og svo ef til vill á einhverjum einstökum vötnum hér og þar án þess þó að magnið hafi verið mikið. Nú hefur brugðið svo við, að flórgoða hefur snarfækkað síðustu tvo áratugi. Ævar Petersen fuglafræðingur segir að flórgoðinn sé einn af þeim fuglum sem visindamenn hérlendis hafi sett á hættulistann.
Flórgoðinn er tiltakanlega algengur, það hafa verið þetta 300 til 400 pör og rúmlega helmingur þeirra á Mývatni en afgangurinn dreifður um landið.
Ástjörn er eini staðurinn á landinu að Mývatni undanskildu þar sem talandi er um flórgoðabyggð. Þó eru nú aðeins 6 til 8 pör á tjörninni sem er með mesta móti.

Ýmsar orsakir…

Flórgoðar

Flórgoðar á Hvaleyrarvatni.

Ástæður fyrir svo mikilli fækkun flórgoða geta verið ýmsar og þeir aðilar sem rætt var við töldu að samspilandi þættir væru hér á ferðinni. Flórgoðinn þarf mjög sérstætt umhverfi. Einungis grunn og gróskumikil vötn með starargróðri henta honum. „Allur fjandinn“ hefur verið gerður við slík vötn hér á landi eins og menn sögðu. Minkur hefur lengi verið skaðvaldur í fuglaríkinu og vitað er að flórgoðinn er ein þeirra tegunda sem á sérstaklega erfítt með að varast minkinn og veldur því sameiginlegt kjörlendi og hættir fuglsins. Aðrir þættir geta og spilað inn í, þannig benti Ævar Pedersen á, að menn vissu lítið um vetrarheimkynni flórgoða. Þau væru talin vera um norðanverðar Bretlandseyjar, Írland, Suðureyjar og Shetlandseyjar. Eitthvað er auk þess af flórgoða við strendur landsins á veturna, að minnsta kosti kemur hann oftast fram í árlegri fuglatalningu sem fram fer nærri áramótum. Aðeins fimm sinnum hafa íslensk merki fundist á dauðum flórgoðum og eru allar heimturnar frá þessum slóðum. Hvernig fuglinum reiðir af á vetrarstöðvunum er lítið vitað og aldrei að vita nema að einhverja fækkunarorsökina sé að finna þar.

Flórgoðar

Flórgoðar á Hvaleyrarvatni.

Flórgoði hefur mikla sérstöðu í íslenska fuglaríkinu. Nægir þar að benda á skrautlegt og óvenjulegt útlit fuglsins, en margur álítur hann með fegurstu fuglum þessa lands. Þá er hann eina varptegundin af svokallaðri goðaætt, en goðarnir eru náskyldir svokölluðum brúsum, en himbrimi og lómur eru þekktastir þeirra og þekktir varpfuglar á Íslandi. En fleira er sérstætt en útlit fuglsins. Hann er eina íslenska tegundin sem gerir sér flothreiður. Hreiðurstaðurinn er í stör og öðrum vatnagróðri og hreiðurefnið nærtækur vatnagróður sem fuglinn hleður upp í dyngju. Eggin eru 3 til 5 og tekur útungun um 25 daga, en varptíminn hefst oftast í lok maí eða í byrjun júní og fer það eftir árferði. Kemur þá inn í myndina hvort varpstaðurinn er sunnanlands eða norðan. Þar sem flórgoðar eru á annað borð eru þeir mjög áberandi framan af sumri og er svo fyrir að þakka útliti þeirra og látbragði. Þá þykir mörgum falleg sjón að sjá ný- og nýlega klakta flórgoðaunga sitja á baki móður sinnar. Og það hefur sína kosti að notast við flothreiður þó svo að meinbugir séu þar einnig á. Þannig eru goðarnir næmir á veðurbreytingar eins og önnur dýr og til þeirra hefur sést „leysa landfestar“ og draga hreiðrin á nýja bletti. Hefur þá ekki brugðist að vind hefur hert og nýi bústaðurinn til muna öruggari en sá fyrri.
Það væri sjónarsviptir af flórgoðanum úr íslensku fuglaríki og það er segin saga, að fuglastofn sem er strjáll fyrir þolir illa þegar samverkandi þættir ógna honum.

Flórgoði

Flórgoði – dans tilhugalífsins.

Flórgoðinn hefur aldrei verið áberandi fugl ef Mývatn er undanskilið, en nú fækkar honum þar ár frá ári. Fleiri fuglategundir á Íslandi stefna niður á við þótt almenningur verði ekki var við það þar sem stofnarnir eru enn stórir.
Áður hefur verið getið í fréttum Morgunblaðsins um fækkun steindepils og maríuerlu. Það sama gildir um hávellu og óðinshana. Þeim fækkar stöðugt og sérfræðinga okkar bíða þau verkefni að finna út hver vandinn er og stöðva hina óheillavænlegu þróun.“ – Guðmundur Guðjónsson

Í Morgunblaðinu árið 2013 fjallar Ásgeir Ingi Jónsson um flórgoðan; „Saman á sumrin en óháð að vetri„:

Flórgoði

Úr skýrslu um fugla í Garðabæ 2018.

„Flórgoðar af sama vatninu, pör eða nágrannar sem höfðu búið sumarlangt hlið við hlið, eiga sér vetrarstöðvar hvorir á sínum stað. Þannig kom t.d. í ljós að pör fóru hvort í sína áttina að hausti og dvaldist annar fuglinn í Noregi og hinn við Skotlandsstrendur yfir veturinn. Svo komu þau aftur heim að vori, strengdu sín heit að nýju, gerðu sér hreiður á sama stað og ólu upp unga.“
Þannig greinir Þorkell Lindberg Þórarinsson, líffræðingur og forstöðumaður Náttúrustofu Norðausturlands, frá merkum niðurstöðum rannsóknar starfsmanna stofnunarinnar á vetrarstöðvum íslenskra flórgoða, en þær voru að mestu óþekktar. Niðurstöðurnar hafa nú þegar aukið þekkingu varðandi farhætti og vetrarstöðvar flórgoða.
Þorkell segir að það hafi til að mynda komið verulega á óvart hversu óháðir sambýlisfuglar eru hver öðrum í vetrarorlofinu. Við rannsóknina eru svokallaðir dægurritar (e. geolocator) festir á fætur fuglanna til þess að rannsaka farhætti og vetrarstöðvar. Verkefnið hófst árið 2009 og hafa nokkrir flórgoðar verið merktir á hverju ári.
Alls hafa 46 fuglar nú verið merktir með dægurritum, þar af tíu í fyrrasumar, og hafa 15 merki endurheimst nú þegar.

Nokkuð tryggir varpstaðnum
Flórgoðinn
Dægurritar safna upplýsingum um birtutíma. Út frá þeim er hægt að reikna staðsetningu á hverjum tíma, náist merkið aftur. Þessi tækni hefur einnig verið notuð til að skrá ferðir ritu, skúms og skrofu hér á landi. Fuglarnir voru veiddir og merktir á hreiðrum og er byggt á að þeir komi aftur á sama stað ári síðar. Þorkell segir að flórgoðinn virðist vera nokkuð tryggur varpstaðnum.
Niðurstöður rannsókna Náttúrustofunnar staðfesta vetrarstöðvar við Bretlandseyjar, Noreg og Ísland. Hér sjást flórgoðar í litlum mæli að vetrarlagi á suðvesturhorni landsins og á Austfjörðum.
Út frá upplýsingum sem fengust úr dægurritum má líka sjá hversu lengi flórgoðarnir voru að ferðast til og frá vetrarstöðvum. „Flórgoði hefur ekki þótt sérlega flinkur flugfugl,“ segir Þorkell. „Hann er vatnafugl af guðs náð og hálfankannalegur á flugi, stéllaus, með lappirnar aftur úr búknum. Það vafðist þó ekki fyrir honum að fljúga heim frá Skotlandi á aðeins einum sólarhring. Það finnst okkur vel af sér vikið.“

Fjölgað hratt á síðustu árum

Flórgoði

Flórgoði á flotdyngju.

Flórgoði er eini fulltrúi sinnar ættar, goðaættarinnar, sem verpir hér á landi en tegundin finnst víða á norðurhveli. Eins og aðrir goðar er hann sérstæður að byggingu og sérhæfður að vatnalífi. Hann fer aldrei á land, ekki einu sinni til þess að verpa, því hann byggir sér flothreiður á vötnum sem hann festir yfirleitt uppi í stör eða víðibrúskum sem slúta út í vötn af bökkum.

Flórgoði

Flórgoði.

Nú er talið að um þúsund pör séu í íslenska flórgoðastofninum.“

Heimildir:
-Tíminn, 16.02.1991, bls. 12.
-Morgunblaðið, 146. tbl., 02.07.1993, Flórgoðinn á „hættulistann“ – Guðm. Guðjónsson, bls. 26.
-Morgunblaðið, 59. tbl. 12.03.2013, Saman á sumrin en óháð að vetri – Ásgeir Ingi Jónsson, bls. 16.

Flórgoði

Flórgoði með unga.

Seltún undir Hveradal í Krýsuvík er einn fjölfarnasti ferðamannastaður landsins.
Sveitarfélög og stjórn Reykjanesfólkvangs hafa lagt vinnu í að setja upp skilti gestum til fróðleiks, smíða göngupalla Slóðtil að minnka líkur á slysum á hverasvæðunum, lagfært bílastæðið, komið fyrir kömrum og komið fyrir aðvörunarskiltum til að auka enn á öryggið. Áður fyrr var lítill veitingastaður og sölubúð við Seltúnið, en þegar hverinn Víti sprakk fyrir nokkrum árum hvarf skúrinn, sem hýsti hvorutveggja, svo til alveg. Eftir það fór Víti snarminnkandi og er nú varla svipur hjá sjón.
Nýlega hafa svo einhverjir vanþakklátir vitleysingar komið þarna að, skemmt kamrana, rifið eitt aðvörunarskiltið við innganginn á pallana upp með steypurótum og dregið það yfir í Víti og haft fyrir því að drössla skiltinu í hverinn – til lítillar prýði á þessum fjölfarna ferðamannastað.
Seltún er í umdæmi Hafnarfjarðar svo það mun vera Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sem mun væntanlega rannsaka málið og upplýsa hver eða hverjir voru þarna að verki. Þótt refsing liggi við slíkum eignarspjöllum er meira um vert að reyna að hafa uppi á vitleysingunum sem þarna voru að verki svo koma megi þeim til aðstoðar – því erfitt hljóta þeir að eiga innra með sér.

Seltún

Seltún.

 

Gjár

Ratleikur Hafnarfjarðar er nú haldinn í 12. sinn. Fróðleiksmolunum er ætlað að auðvelda leitina og veita nánari upplýsingar um viðkomandi staði, þátttakendum til ánægju og yndisauka. Leitarstaðirnir eru nú, líkt og fyrrum, 27 talsins, og skiptast þeir jafnt niður á þrjá misþunga lausnarmöguleika.

Spjald við fyrsta tré sem plantað var í Gráhelluhraunsskógi1.  Skógrækt hófst í Gráhelluhrauni 27. maí 1947 en þar hafði verið girt af 7 ha spilda. Ingvar Gunnarsson þáverandi formaður Skógræktarfélags Hafnarfjarðar plantaði fyrstu plöntunni og stendur sú björk ennþá og hefur þar verið settur upp minningarskjöldur. Á spjaldi við hið háa tré stendur: „Fyrsta róðursetning Skógræktarfélags Hafnarfjarðar 27. maí 1947″. Spjaldið stendur undir grenitrénu, sem þá var plantað. Umleikis eru tvíburabræður þess og -systur. Skammt austar er húslaga steinn norðan við göngustíg. Á steininum er koparskjöldur að austanverðu. Á honum stendur: Guðmundarlundur – Guðmundur Þórarinsson kennari gróðursetti furulundinn“, en Guðmundur var einn ötulasti skógræktarmaður þess tíma og ber lundurinn honum fagurt vitni. Lausnarskiltið er örstutt frá.

Stóri-Skógarhvammur

Stóri-Skógarhvammur.

2.  Á 50 ára afmæli Skógræktarfélags Hafnarfjarðar var vígður nýr trjásýnislundur. Þessi lundur hefur stækkað til muna og geymir nú ýmsar fágætar trjáplöntur sem jafnvel finnast ekki annars staðar á landinu. Sumar hafa verið gefnar og aðrar hafa verið ræktaðar upp af fræjum fengnum á fræðsluferðum erlendis. Þar má m.a. finna baunatré.

3.  Efst á Beitarhúsahálsi, á svæði Skógræktarfélagsins eru leifar af kví (stekk) sem síðast var notuð frá bænum Ási en líklega áður frá Ófriðarstöðum (Jófríðarstöðum).
Kví (stekkur) í HúshöfðaÍ kvíum voru fráfæruær mjaltaðar fram á miðja 19. öld er slíku var að mestu hætt á Reykjanes[skaganum]. Kvíin er fremur lítil, en hleðslurnar sjást vel frá göngustíg um skógræktarsvæðið. Skammt austar undir Húshöfða eru einnig tóftir beitarhúss frá sama búsetutímabili. Austanvert við Hvaleyrarvatn eru svo leifar af selstöðum frá Ási (norðar) og Hvaleyri. Sunnan við vatnið er stekkur og uppi á Selhöfða eru leifar fjárborgar. Fleiri minjar má sjá á þessu svæði – ef að er gáð. (Þegar komið er inn á svæði áhugavert „á annað borð“ er ástæðulaust að flýta sér á brott).

Bláberjahryggur

Lóuhreiður á Bláberjahrygg.

4.  Norðan Vatnshlíðar og suðaustan Ásfjalls er misgengi sem nefnist Bláberjahryggur og sagt er að hryggurinn hafi verið blár af berjum á haustin. Byggðin teygir sig nú nálægt hryggnum og lúpína hylur stóran hluta hans. Væntanlegur Ofanbyggðavegur mun liggja á þessum slóðum og þar eru nú tvær háspennulínur.

5.  Vatnshlíð er ofan Hvaleyrarvatns, að miklu leyti vaxin lúpínu og kjarri. Þar er útsýni fagurt og verðugt að virða fyrir sér framkvæmdir í og austan við Dalinn vestan hlíðarinnar. Fyrstu lúpínunum í landi Hafnarfjarðar var plantað í hlíðum Vatnshlíðar, norðan Hvaleyrarvatns, um 1960 og þar uxu upp bláar blómabreiður sem nú má sjá svo víða í bæjarlandinu.

Trönur

Trönur – fiskþurrkun.

6.  Fiskþurrkun á trönum er enn stunduð í hraununum snemmsumars. Margar af eldri trönunum eru nú óðum að verða fúa að bráð, en einnig má sjá aðrar nýlega upp settar. Nú er mest þurrkað af hausum og beinagörðum fiska sem hafa verið flakaðir en í þeim leynast enn mikil næringarefni. Í Hafnarfirði var fiskur áður þurrkaður á fiskreitum, þá að jafnaði útflattur. Á fisktrönum var fiskurinn hengdur upp og búin til skreið sem var eftirsótt, sérstaklega í ýmsum Afríkuríkjum.

Gjár7.  Árið 1980 var fyrstu landnemaspildunum úthlutað til skógræktarfólks, fyrst til skólanna og ýmissa hópa en síðan til einstaklinga. Margar ára vinna fór í súginn í norðanverðu Langholti nærri Selhöfða er kveikt var í sinu í vor sem breiddist hratt út. Víða er að vaxa upp fallegur skógur og eftir ákveðinn tíma láta landnemarnir spildurnar af hendi og fagna góðu verki sem komandi kynslóðir njóta góðs af.

Gjár

Kaldárhraun og Gjár – friðlýsing.

8. Gjárnar nefnist sérstætt svæði vestan Kaldársels með fjölbreytilegu hraunlandslagi sem er friðað náttúruverndarsvæði. Uppruni hraunsins er í Búrfellsgíg sem er í 1-2 km fjarlægð en það er talið vera í kringum 7200 ára gamalt. Frá gígnum rann mikil hraunbreiða niður í Hafnarfjörð og Skerjafjörð og er heildarflatarmálið u.þ.b. 18 ferkílómetrar. Í einum krika Gjánna var sumarbústaður, sem nú sjást einungis leifarnar af. Hleðslur eru við enda krikans. Inni í honum er eldri stekkur undir klettavegg.

9.  Í eldgosi, sem líklega varð á tólftu öld, rann hraunspýja með Kaldárbotnum og nam staðar neðan Kaldársels.
Hraunið sem var þunnfljótandi fyllti í allar lægðir á leið sinni og storkanði án þess að í því myndaðist kólnunarsprungur og gjótur.
KaldáÞegar grunnvatnsborð í Kaldárbotnum lækkar niður fyrir efri brún hraunsins hverfur Kaldá. Þegar mest er í ánni rennur hún að hraunbrúninni skammt vestan Kaldársels þar sem hún fer hindrunarlaust undir það á tveimur stöðum – og kemur aftur undan því við Straumsvík.

10. Milli Syðra- og Nyrðra Klifholts eru nokkrar landnemaspildur í umsjá félagahópa, þ.m.t. Rótatýklúbbs Hafnarfjarðar þar sem félagar klúbbsins ásamt Innerwheel konum hafa plantað árlega í rúma tvo áratugi. Þar eru borð og bekkir til áningar og unnið er að gerð göngustíga. Nýlega var settur upp minningarsteinn í skógarlundi um látna félaga.

Kerið

Kerið – gígur.

11. Kerin eru falleg náttúrufyrirbæri, hluti af gígaröð. Hægt er að ganga niður í nyrðri gíginn og um gat upp í þann syðri. Hann er kjörinn áningarstaður, enda skjólgóður með afbrigðum. Ofan við barma hans vex ein stærsta villta birkihrísla á Reykjanesskaganum, um 5-6 m há. Hið ágætasta útsýni er frá Kerunum suðvestur að Keili og Grænudyngju með Fjallið eina í forgrunni.

Stórhöfðastígur

12. Stórhöfðastígur liggur frá suðurhorni Stórhöfða, með norðanverðum hraunkanti Óbrinnishólabruna og til suðurs í gegnum Selhraun og áleiðis upp í Almenning austan við Brundtorfur. Þaðan virðist stígurinn óljós en með gaumgæfni má lesa sig eftir honum að Hraunhól norðan Fjallsins eina – og áfram upp með augljósu misgengi. Stígurinn liggur yfir það og síðan áfram upp með austanverðu fjallinu, upp á brúnir vestan Sandfells, milli Hrúfells og Hrútagjárdyngju og að gatnamótum Undirhlíðarvegar ofan Sandklofa. Stígurinn hefur nú verið stikaður svo auðvelt er að fylgja honum alla leiðina.

Gjásel13. Gjásel er við svonefndar Gjár. Stekkur er norðan undir hraunhól sem selið stendur á og vatnsstæðið er í grónum hólnum vetsan við seltóftirnar. Líklega er þetta fornt sel frá Þorbjarnarstöðum. Um er að ræða dæmigerða selstöðu á Reykjanesskaganum, sem eru um 250 talsins; baðstofa og búr með utanáliggjandi eldhúsi. Við selin eru jafnan stekkur, vatnsból og nátthagi auk fjárskjóls. Gránuskúti er svolítið vestan við selið, með fallegum niðurhleðslum við ganginn.

Rauðamelsrétt

Rauðamelsrétt.

14. Skammt vestan við Rauðamelskletta er víð hraunsprunga, gróin í botninn. Í henni er heilleg há fyrirhleðsla. Þarna hefur annað hvort verið nátthagi eð gerði. Skammt suðaustan sprungunnar er fallegt, nokkuð stórt skjól með op mót norðvestri. Skammt suður þaðan í Brunabrúninni var Þorbjarnarstaðarétt eða Vorréttin, einnig nefnd Rauðamelsrétt, þótt hún væri drúgan spöl frá melnum. Í réttinni eru tveir dilkar auk almennings.

Gvendarbrunnur15.  Gvendarbrunnur er á mörkum landa Straums og Óttarsstaða við Alfaraleið, hina gömlu þjóðleið milli Innnesja og Útnesja. Líklega hefur brunnurinn verið klappaður í slétta hraunhelluna vegna þess að þar er ekkert annað vatn að hafa í hraununum. Vatnið úr Gvendarbrunnum var talið sérstaklega heilsusamlegt.

16. Óttarsstaðafjárborgin er heilleg. Hún hefur einnig verið nefn Kristrúnarborg eftir samnefndri konu sem var Sveinsdóttir og bjó á Óttarsstöðum á seinni hluta 19. aldar. Kristrún mun hafa haft forgöngu um að láta hlaða fjárborgina um 1870 eftir að fé var skorið niður víða um land. Önnur heilleg fjárborg, Borgin (Þorbjarnarstaðaborgin) er ekki mjög langt frá. Fjárborgir voru algeng skjól fyrr á öldum. Enn má sjá leifar af a.m.k. 70 slíkum á Reykjanesskaganum.

Lónakot

Lónakot.

17. Í Örnefnalýsingu fyrir Lónakot segir: „Eins og segir í landamerkjalýsingu Lónakost og Óttarsstaða, liggur landamerkjalínan úr Sjónarhól í Vörðu eða Klett austan til við Lónakotssel. Þar höfðu í seli auk Lónakotsbónda hjáleigumenn frá Óttarsstöðum. Enda eru þarna þrjár seljatættur. Selið liggur rétt austan við Skorás, sem af þessum ástæðum er nefndur Lónakotsselshæð.“ Tætturnar eru reyndar fjórar. Við selið má finna dæmigerð mannvirki selstöðunnar allt frá landnámi til vorra fyrrum upphafsára; stekki, fjárskjól, brunn og nátthaga.

Langeyri

Leifar lifrabræðslu vestan Gönguhóls.

18. Malir er samnefni malarkampanna sem voru víða milli hraunkletta við norðanverðan Hafnarfjörð. Krosseyri var við gamla hafnargarðinn en utar sjást Langeyrarmalir og Litlu-Langeyrarmalir undan Brúsastöðum. Skerseyrarmalir liggja milli Brúsastaða og Balaklappar en Skerseyri var hjáleiga og tilheyrði kirkjustaðnum Görðum sem átti þar eldiviðarítak. Landamerkjavarða er ofan Skerseyrar, nú að mestu fallin. Merkið er stutt frá vörðunni.

Stifnishólar

19. Stifnishólar. Gamli Brúastaðabærinn nefndist upphaflega Litla-Langeyri og ofar í landinu stendur nýbýlið Brúsastaðir 2. Búið er að endurbyggja og stækka gamla bæinn við Litlu-Langeyrarmalir, en neðan hans ganga hraundrangar í sjó fram, sem sjórinn hefur brotið á síðsutu áratugum. Nefnast þeir Stifnishólar og segir sagan að þar hafi verið kveðinn niður draugur um 1800.

20. Þvottaklettar eru í fjörunni utan við golfvöllinn í Hvaleyrarhrauni. Undan klettunum rennur tært vatn sem notað var til þvotta á meðan búið var á Hvaleyri. Meðfram fjörunni er göngustígur og þarna má sjá brimskafla berja klettana, sennilega eitt fallegasta brimsvæði á Stór-Hafnarfjarðarsvæðinu.

Lambagjá21. Lambagjáin, sem reyndar er hrauntröð, er bæði löng og breið. Til marks um mikilfengleik hennar má geta þess að hún er nú friðlýst sem náttúruvætti. Áberandi mannvirki liggur þvert á Lambagjá vestarlega og er allnokkuð hátt. Þetta eru leifar af undirhleðslu fyrsta vatnsstokksins sem var lagður úr Kaldárbotnum um 1918. Vatninu var fleytt í opnum tréstokk að suðurenda Sléttuhlíðar þar sem það rann fram af brúninni og hripaði ofan í hraunið en kom upp í Lækjarbotnum.

Valaból

Valaból.

22. Í Valabóli hafa Farfuglar helgað sér stað. Þar hafa þeir hlúð að gróðri, sáð grasfræi og gróðursett tré. Innan girðingarinnar er Músarhellir, gamall næturstaður gangamanna, rjúpnaskyttna og ferðamanna fyrr á tímum. Á seinni árum hafa skátar nýtt sér athvarfið. Farfuglarnir höfðu sett hurð fyrir hellinn og lagfært margt þar inni, enda hafa þeir oft gist þar í hópferðum sínum. Nú er hurðin horfin, en hellirinn er enn sem fyrr ferðalöngum gott skjól. Merkið er innan girðingar.

Valahnúkur23. Valahnúkar eru móbergshryggir norðan Helgafells sem líklega mynduðust við gos í sjó fyrir um 120 þúsund árum. Víða er þar úfið og efst á þeim eru drangar miklir sem sumir telja vera tröll sem þar hafi steinrunnið við sólarupprás, en aðrir segja að séu valirnir sem hnúkarnir beri nafn sitt af.

24. Riddari nefnist klettur ofarlega suðaustan í Helgarfelli en norðaustan hans má sjá gatklett hátt upp í hlíðinni.

Helgafell

Riddarinn á Helgafelli.

Riddari átti sér tvo bræður, hraunkletta við Stóra-Lambhaga sem voru mið af sjó, á austanverðri Brunabrúninni skammt ofan við Straumsvík en þeir hafa verið eyðilagðir. Merkið er hins vegar austan við Helgafelli, ofan við nokkra stóra móbergssteina.

Slysadalur

Slysadalur.

25. Slysadalir. Útlendur ferðamaður var að koma frá Krýsuvík á 19. öldinni, hafði farið um Hvammahraun og Fagradal að vetrarlagi. Hin leiðin var um Helluna þarna vestan af, í austanverðum hlíðum Sveifluhálsins ofan við Kleifarvatn, en það mun hafa verið óvegur og ekki fyrir hesta. Vilpur voru í dalnum og voru þær ísi lagðar. Fór svo að maðurinn missti tvo hesta sinna niður um ísinn, en mannskaði varð enginn.

Gvendarselshæð

26. Gvendarsel. Gömul gata liggur frá Kaldárseli um Kúadal og Kýrskarð, upp með norðanverðri Gvendarselshæð og áfram til suðurs með henni austanverðri, um Slysadal, Leirdal og Fagradal. Selið er vestan í hæðinni, undir háum Klettavegg þar sem hann er hæstur. Klettur slútir þar fram og myndar þar á eina tóftina. Önnur tóft er skammt ofar undir veggnum. Á bak við og inn á milli er skarð í klettana og er hleðsla í enda þess. Vestan við selið er hlaðinn stekkur að hluta.

Stakur

27. Óbrinnishólahraun (-bruni) er með yngstu hraunum í Hafnarfirði og er að miklum hluta útfið kargahraun með samfelldri ráðandi mosaþembu. Óbrinnishólabruni á að hafa runnið 190 f.Kr. Í hrauninu er Stakur, blásinn malarhóll sem er vaxinn kjarri í hlíðum og allgróinn. Smalakofi frá Hvaleyrarbændum var á Stak og má sjá móta fyrir tóft hans enn í dag. [Í Lausnarblaði ratleiksins kemur fram að spjaldið sé „NA við hæðina“, en merkið er sýnt SA við hana, sem mun vera rétt staðsetning.]

GÓÐA FERÐ (munið að lausnin er yfirleitt nær en fjær).

Óttarsstaðaborg

Óttarsstaðaborg í Hraunum.

Ásfjall

Ásfjall ofan við Hafnarfjörð er hæst 127 m.y.s. Ásfjall er í raun grágrýtishæð. Þar fyrir neðan er Ástjörn. Hvorutveggja ber nafn af bænum Ási, sem stóð undir fjallinu. Fjallið er víðast hulið lausum jarðlögum, en allvel gróið mosa og lyngi.  Efst á því er Dagmálavarðan, sem nú hefur verið endurhlaðin. Útsýni af fjallinu er gott og sérstaklega áhugavert fyrir áhugafólk um jarðfræði og sögu höfuðborgarsvæðisins.
Á Ásfjalli eru menjar um hersetu fyrr á öldinni. Svæðið var friðlýst 1996, sbr.: „Auglýsing nr. 658 um stofnun fólkvangs við Ástjörn og Ásfjall.Byrgi Ásfjalli – Að tillögu umhverfisnefndar Hafnarfjarðar og að fengnu samþykki bæjarstjórnar Hafnarfjarðar hefur [Umhverfisstofnun] ákveðið að landsvæði umhverfis friðlandið við Ástjörn og Ásfjall verði lýst fólkvangur, með skírskotun til 26. gr. laga nr. 47/1971, um náttúruvernd. Mörk svæðisins eru: að vestan: Íþrótta- og útivistarsvæði Knattspyrnufélagsins Hauka, að norðan: Stekkur og framtíðaríbúðarbyggð, að austan: Austurhlíð Ásfjalls, og að sunnan: Grísanes.“ Ástæður friðunar og gildi hennar er mikilvæg fyrir núverandi og komandi kynslóðir. Allnokkrar menningarminjar  eru innan friðlýsta svæðisins, s.s. fjárborgir, vörður, landamerki, gömul bæjarstæði og minjar frá stríðsárunum. Dagmálavarðan var fyrst og fremst leiðarmerki á fiskimið, sbr.: „Með hvarfi vörðunnar á Ásfjalli hefði líka horfið eitt ágætt fiskimið. Í endurminningum Erlends Björnssonar á Breiðabólsstöðum kemur fram að Ásvörðuslóð er eitt að þeim miðum sem mest voru sótt fram á Sviði. Önnur mið á Sviðinu heita Sandhali, Marfló, Klettslóð, Bollaslóð og Riddararnir saman. Reyndar talar Erlendur um vörður í Ásfjalli og því virðast þær hafa verið fleiri um aldamótin 1900. En miðið Ásvörðuslóð er þegar Valahnjúkarnir eru um vörður á Ásfjalli.“ Reyndar var önnur stór varða norðvestar á Ásfjallsöxlinni nyrðri. Nú er komin þar byggð. Varða, sem hlaðin hefur verið í einu hringtorginu mun ekki hafa verið svo langt frá þeim stað, sem sú gamla stóð.
Leifar skotgrafar og byrgja undir DagmálavörðuEkki eru svo mörg ár síðan að Ásfjallsöxlin nyrðri var þéttsetin kríuvarpi. Þegar leyfðir voru matjurtargarðar þar færði krían sig ofar á öxlina, en með auknum ágangi hvarf hún þaðan að mestu, skömmu áður en svæðið var skipulagt sem íbúðarbyggð.
Yfir Ásfjallsöxlina syðri (Ásfjallsrana) lá gamla leiðin frá Ási áleiðis í Hrauntungur, framhjá stekk, og upp Dalinn þar sem enn má sjá leifar fjárhellis í gróinni kvos. Inngangurinn var hlaðinn, en þak hellisins er að hluta til fallið niður. Gatan lá síðan áfram upp á Stórhöfðastíg eða upp í Kaldársel.
Vestan í Ásfjalli er hlaðið byrgi eftir Bretana. Einnig undir Dagmálavörðunni. Þá eru leifar fimm annarra byrgja suðaustar í fjallinu. Bretar virðast hafa hróflað upp görðum, líkt og á Flóðahjalla, en Íslendingar hlóðu þá gjarnan vel og vandlega skv. gömlu handbragði og venjum. Enn eitt byrgið er norðaustan í fjallinu, fjárborg er suðvestan og efst í syðri Ásfjallsöxlinni og önnur slík norðan fellsins, ofan hús nr. 8-10 við Brekkuás, er skráð fjárborg í Fornleifaskráningu Hafnarfjarðar, en sú eru leifar herminja, þ.e. hringlaga skotbyrgi með innbyggðum skjólum líkt og sjá má á Flóðahjalla.
Minjarnar næst Dagmálavörðunni eru fyrst og fremst herminjar frá 1941. Þarna voru varðskýli og skotgrafir á milli þeirra. Hleðslurnar sjást enn. Svo kalt var á fjallinu um veturinn að hermenn kól á póstunum og þurfti að setja saman lið til að sækja þá og bjarga öðrum niður af fjallinu.
Árni Helgason getur þess í lýsingu Garðaprestakalls 1842 að þeir bæir sóknarinnar sem liggi í hrauninu nefnist Hraunabæir. Hann heldur áfram og segir: Þessi hraun hafa ýmisleg nöfn. Hraunið fyrir sunnan Ásfjall heitir Brunahraun eða Bruni. Þar niður undan, allt fram í sjó Hvaleyrarhraun, þar fyrir sunnan Kapelluhraun og svo Almenningur allt suður af Hvassahrauni.
Útsýnisskífa á Ásfjalli tíundar flest fjöllin í fjallahringnum frá þessum ágæta, en jafnframt nálæga, útsýnisstað.
Frábært veður. Gangan tók 22 mín.
Útsýni yfir Ástjörn

Stórkonusteinar

Gengið var spölkorn eftir Selvogsgötunni áleiði supp í Kerlingarskarð. Áður en síga tók í var vent til hægri, niður slóða til vesturs undir Lönguhlíðum. Komið var m.a. við hjá Stórkonusteinum, gengið um Stórahvamm, framhjá Leirhöfðaatnsstæðinu, upp á Móskarðshnúka norðan Háuhnúka, niður Markrakagil og síðan til norðurs með Undirhlíðum, um Stóra-Skógarhvamm og að Gígbrekkum við Bláfjallaveg.

Stórkonusteinar

Stórkonusteinar framundan.

Selvogsgatan var þjóðleið milli Hafnarfjarðar og Selvogs í Ölfusi, um dagleið þegar hún var farin í einum áfanga. Eftir að komið var upp úr Mosunum í Þríhnúkahrauni ofan við Strandatorfur greindist leiðin, annars vegar upp Kerlingarskarð og hins vegar upp Grindarskörð. Ef haldið var um Kerlingarskarð var staðnæmst við vatnsstæði skammt ofan við skarðið. Svolítið vatn var þó einnig fáanlegt í drykkjarsteinum efst í skarðinu. Við vatnsstæðið er hlaðið í götuna. skammt frá því greinist gatan í tvennt; annars vegar niður Hlíðarveg, vel varðaða áleiðis niður að Hlíðarskarði ofan við Hlíð við Hlíðarvatn, og hins vegar til austurs yfir á Selvogsgötuna, sem kom þar ofan frá Grindarskörðum. Skammt austar var svo Heiðarvegurinn um Heiðina há niður í austanverðan Selvog. Selvogsgatan lá með gjám (m.a. Stórkonugjá) gígum og hlíðum niður að Hvalsskarði. Neðan þess tóku við Strandardalur og Hlíðardalur þar sem Sælubuna var kærkomin áningarstaður. Þaðan lá gatan áfram niður heiðina, um Strandarhæð og niður í Selvog. Vörðurnar við gömlu Selvogsgötuna, eru flestar fallnar. Þar sem gatan liggur um Þríhnúkahraun hafa vörður þó verið endurhlaðnar.
Stórkonusteinar nefnast nokkur móbergsbjörg í Lönguhlíðarkróki, heldur nær Kerlingarskarði en Kerlingagili. Samkvæmt gamalli munnmælasögu velti tröllskessa í Stórkonugjá björgunum niður af Lönguhlíðarfjalli þegar eftirreiðarmenn reyndu að fanga hana.
Moskardsnukar Stórihvammur eða Lönguhlíðarhvammur austan Lönguhlíðarhorns var mjög grösugur í eina tíð og gott beitiland, en sandburður hefur spillt undirlendinu. Þó má enn sjá gróin valllendi milli hrauns og hlíða. Hraunið er úr Bollunum í Skörðunum fyrrnefndu. Stóribolli er einn formfegursti gígur landsins og enn nær óraskaður. Ofan hvammsins eru tvö gil og upp af því vestara áberandi móbergsklettur, sem nefnist Stórahvamms-Stapi. Beggja vegna eru einnig háir móbergsveggir.
Lönguhlíðarhorn skagar út úr hlíðinni líkt og Vatnshlíðarhornið norðan Lambhagatjarnar, Í því sunnanverðu er Kerlingagil, ágæt gönguleið og greiðfær upp á Lönguhlíðar.
Haldið var um Leirdali. Dalirnir eru í lægðarslakka, sem fyllast af vatni á veturna, með gróðurtorfum á milli. Álftanesskógar voru á þessum slóðum til forna, en nú finnast eingöngu stakir víði- og birkirunnar og einibrúskar hér og þar. Tvö vatnsstæði eru í Leirdölum, það syðra líkara vatni. Líklega hefur það verið ástæðan fyrir tóftunum í Fagradal, skammt sunnan þess.
Sunnan Leirdalshöfðavatnsstæðis liggur forn þjóðleið, Leirdalshöfðaleið.
Leirdalshöfðaleið liggur eins og Dalaleið frá Kaldárseli að Leirhöfða. Hún þræðir sig suður með höfðanum og fylgir suðurhlíðum hans að Leirhöfðavatnsstæði. Þar er stefnan tekin á Fagradalsmúla og Fagradal, eða um Breiðdal að Blesaflöt og fylgir síðan Vatnaleiðinni til Krýsuvíkur. Rjúpnaveiðimenn héldu gjarnan inn í Fagradal og fylgdu bröttum slóða, sem liggur frá dalbotni upp á brún Lönguhlíðarfjalls. Þegar upp er komið er hægt að velja ýmsar leiðir, en gömul þjóðleið liggur í áttina að Hvannahrauni (Hvammahrauni) og Gullbringu, hjá Geithöfða, um Hvamma og fram með Lambafellum að Krýsuvík.
Undirhlidar Gengið var á Móskarðshnúka um ás milli Breiðhdals og Slysadala.
Háuhnúkar eru hæstu ásar Undirhlíða suðvestan Markagils (Markrakagils) og skammt frá Vatnsskarði, vestan (sunnan) við Móskarðshnúka. Þeir eru allt að 263 m. háir. Á milli hnúkanna eru grónir hvammar og víða standa móbergskollar upp úr ásunum sem vatn og vindar hafa sorfið og mótað í aldanna rás. Þessi syðsti hluti Undirhlíðanna hefur af sumum verið nefndur Undurhlíðaendi því í Vatnsskarðinu (sem aðrir telja reyndar að hafi verið skarðið vestan Vatnshlíðarenda þar sem menn sjá fyrst niður að Kleifarvatni ofan Blesaflatar) tekur Sveifluhálsinn við. Móskarðshnúkarnir eru hins vegar heimur út af fyrir sig. Hæstur er syðsti hnúkurinn. Þegar horft er á hann úr vestri má sjá andlit horfa efst úr honum til norðurs. Norðan hans er hnúkaþyrping. Norðvestast í henni er falleg lítill móbergsskál, sem vindar og vatn hafa leikið sér að móta svo um munar. Skálin er bæði skjólsæl og einstaklega falleg. Skessukatlar eru við hana vestanverða. Á Undirhlíðum, skammt norðan við Móskarðshnúka, virðist vera gerð tilraun til melræktunar með neti, sem lagt hefurverið á jörðina, þ.e. að láta netið mynda skjól fyrir lággróðurinn.
Móskarðsgil, á milli Móskarðshnúka og Stóraskógarhvamms, þykir fremur torfarið og svo er reyndar um öll gilin fjögur á vestanverðum Undirhlíðum milli Krýsuvíkurvegar og Bláfjallavegar, nema Markagil (Markrakagil). Mörk Hafnarfjarðar liggja um gilið og þar mætast og mörk Garðabæjar og Grindavíkur í sneiðing með Lönguhlíðarhorninu.
Undirhlidarvegur Markagil virðist torvelt uppgöngu, en ofan frá séð er engum torfærum fyrir að vara. Neðst í gilinu eru fallegur smágerður stuðlabergshamar. Ystagil er skammt sunnar og Sneiðingur nyrst þessarra gilja.
Norðan Móskarðsgils er gróskumikill furuskógur, sem unglingspiltar í Vinnuskólanum í Krýsuvík plöntuðu út 1959 til 1964, m.a. sá sem þetta skrifar, í samstarfi við félagsmenn í Skógræktarfélagi Hafnarfjarðar.
Sumir hafa viljað Markagil þar sem nú er Vatnsskarð. Aðrir hafa fært það að næsta gili að norðan, en á kortum er gilið á fyrrnefndum stað. Á milli þess og Stóra-Skógarhvamms er Höfðinn, stundum nefndur Út-Höfði til aðgreiningar frá Inn-Höfða, sem er sunnan þess.
Brunahryggur nefnist hraunbrún í Nýjabruna norðvestan Undirhlíða. Í skjólsælum hvammi sunnan hraunbrúnarinnar hafa birkitré fest rætur og fengið frið til að vaxa. Þessi sérkennilegi blettur í mosagrónu hrauni er utan alfaraleiðar og fáir venja þangað komu sínar.
Undirhlíðaleið hófst við Kaldársel og lá norðan Undirhlíða yfir núverandi Bláfjallaveg að Vatnsskarði. Þar var haldið áfram yfir núverandi Krýsuvíkurveg og gengið með Sveifluhálsi um Norðlingasand og Sandfellsklofa upp að Hrútagjárhrauni, yfir Norðlingaháls um Stórusteinabrekku, framhjá Köldunámum, um Hofmannaflöt í áttina að Katlinum. Þar tók Ketilsstígur við og lá yfir Sveifluháls framhjá Arnarvatni, að Seltúni þar sem heimalönd Krýsuvíkur tóku við.
Nú er búið að stika Undirhlíðaleiðina. Á a.m.k. einum stað á þessum kafla má vel sjá móta fyrir hinni gömlu götu, þar sem hún er mörkuð í slétta hraunhelluna, en annars hefur slóði verið lagður yfir hana að hluta.
Gangan tók 1 klst og 11 mín. Frábært veður – skin og skúrir.

Heimildir m.a.:
-Raleikur Hafnarfjarðar 2006.
-Þorkell Árnason.

 Grindarskörð

Grindarskörð.

 

Fornasel
Gengið var í gegnum trjáræktarsvæði Skógrækar ríksins sunnan við Hrauntungur með beina stefnu að Laufhöfðavörðu ofan við Laufhöfða, norðvestan Gjásels. Vörður greina Hrauntungustíginn þarna í gegnum norðaustanverðan Almenning, sem nú hefur náð að ala af sér birkikjarr að nýju.
Þá var gengið upp í Gjásel og síðan að

Laufhöfðavarða

FERLIR við Laufhöfðavörðu.

Steininum sunnan Hafurbjarnarholts, Klofaklettsvörðu, Fjallgrensvörðu, síðan niður í Fornasel og að Þorbjarnarstaðaborginni utan í Háabruna norðvestan við Brunntorfur.
Laufhöfðavarða stendur á klettasnös og vísar leiðina milli Þorbjarnastaða og Gjásels, Fornasels og Fjárborgarinnar (Þorbjarnarstaðaborgar). Vestan vörðunnar eru þrjár smávörður, sem vísa á Illuholu, jarðfall sem gat reynst hættulegt mönnum og búfénaði, sérstaklega að vetrarlagi.
Stígur liggur upp með Laufhöfða frá Alfaraleið sunnan Þorbjarnastaða, svonefndur Straumsselsstígur. Á kafla markar stígurinn djúp för í harða hraunhelluna, sem ber vitni um mikla umferð í langan tíma. „Af honum“ neðan Laufhöfða liggur síðan stígur upp í gegnum Gjásel og áfram upp í Fornasel. Þar heldur stígurinn áfram upp í Brunntorfur. Samkvæmt Jarðabókinni 1703 áttu Þorbjarnarstaðabændur selstöðu í Gjáseli; „Selstöðu á jörðin þar sem kallað er Gjásel, en þar eru hagar góðir, en vatn slæmt“, en óljósara er með Staðarhaldara í Fornaseli. Stígurinn liggur hins vegar, varðaður, svo til beint upp í fjárskjól Þorbjarnarstaðabóndans í Brunntorfum. Í Jarðabókinni 1703 segir að Lambhagabændur hafi „brúkað selstöðu ásamt Þorbjarnarstöðum þar sem heitir Gjásel…“. Hið vandkvæða er, og mun síðar verða útskýrt, hvers vegna er einungis ein selstaða í Gjáseli, en tvær í Fornaseli, þar skammt ofar. Gætu nöfnin hafa víxlast?

Steinninn

Steinninn.

Annar stígur, og mun greiðfærari, frá Straumi liggur upp í Straumssel, um gróið hraun vestan Draughólahrauns. Hann er enn vel greinilegur. Draughóll er kjarri vaxin hæð í miðju kargahrauni norðvestan Straumselshöfða. Villuráfandi sauðir áttu það til að gera fjármönnum lífið leitt er þeir sóttu í kjarrlendið í Draughólahrauni. Smalar reyndu þá að lokka sauðina úr hrauninu frekar en elta þá uppi, enda hraunið sjálft erfitt yfirferðar.
Gjásel er dæmigert sel á Reykjanesskaganum, þrískipt seltóft, stekkur (norðvestan við hraunholtið, sem selið er á) og vatnsstæði (vestan tóftanna). Víðsýnt er frá Gjáseli yfir Hrauntungur og Nýjahraun (Kapelluhraun).
Eftir að hafa skoðað Gjásel var stefnan tekin á Steininn um Hrauntungustíg.
Hrauntungustígur liggur frá Áslandi um Hádegisskarð með Hamranesi og suður yfir Háabruna að Hrauntungum í Almenningi. Þaðan liggur leiðin milli Gjásels og Fornasels, hjá Hafurbjarnarholti upp í hæsta hluta Almennings að Sauðabrekkum. Farið er yfir Sauðabrekkugjá um Mosa vestur fyrir Fjallið eina að Hrútagjárdyngju. Stefnt er á Hrúthólma og farið um helluhraun að Hrútafelli og þá er stutt í Ketilstíginn, sem liggur yfir hálsinn til Krýsuvíkur (Seltúns). Hrauntungustígur sést enn við Krýsuvíkurveginn, einkum milli hans og malarnámu, sem þar er. Malarnámið hefur síðan tekið stíginn í sundur, en hann sést síðan aftur sunnan þess. Þar má rekja sig eftir stígnum í gegnum Hrauntungurnar, framhjá Hrauntunguskjóli og áfram upp með Gjáseli.

Straumssel

Straumsselsvarða.

Þegar skoðað er „vörðukort“ af þessu svæði Almennings má sjá að hinar gömlu leiðir hafa eitthvað „misfarist“ á kortum, a.m.k. Hrauntungustígurinn sem og Stórhöfðastígurinn. Þessar leiðir voru jafnan varðaðar. Skv. kortinu, ef vörðunum væri fylgt, ætti Hrauntungustígurinn að liggja í gegnum Fornasel og Stórhöfðastígurinn nokkuð vestar en hann er nú merktur inn á kort.
Steinninn er margsprunginn hraunhæð, sem er á landamerkjum Þorbjarnastaða og Straums. Umhverfis hæðina var gott beitiland, en mosi og lynggróður hafa náð að breyta ásýnd landsins frá því sem áður var. Fuglaþúfa á Steininum vekur athygli þegar horft er á hann frá réttu sjónarhorni. Í raun er Steinninn í austanverðri sprungu hæðarinnar og sést ekki fyrr en komið er að honum. Helsta leiðarmerkið eru tvær vörður á hæðinni. Sú vestari er steinn, sem stendur upp á endann, en skammt frá sprungunni er mjó varða með þremur eða fjórum steinum. Hún sést ágætlega úr fjarlægð, en á flestum hólum á þessu svæði eru litlar vörður er gætu villt fyrir fólki.
Steinninn, eða hraunhóllinn sem hann er í, er nokkurn veginn í suður af landamerkjastöplinum á Hafurbjarnarholti. Stöpullinn sést vel af hólnum. Frá honum sést einnig vel til Klofningskletts í vestri.
Þegar sólin dansar við skýin gleðjast mennirnir. Geislar hennar leika þá við valin svæði. Það sjónarspil er einka fallegt í Almenningi þar sem hver hraunhóllinn, ýmist mosavaxinn eða kjarrivaxinn, skipta litum á víxl eftir gróðrinum. Það gefur regnbogadansi sólarinnar lítið eftir.
Fornaselsvarða

Fornaselsvarða.

Klofaklettsvarða er toppmjó landamerkjavarða á klofnum hraunkletti efst í hraunbrekkum, sem nefnast Bringur (nokkru vestar). Varðan sést ágætlega frá Steininum. Einnig Gamla Þúfa þar skammt norðnorðvestar. Frá Steininum ber vel á klettinum og varðan er auðþekkjanleg á löguninni. Svæðið ofan Klofakletts er kallað Mosar – líkt og svo mörg önnur í eða við Almenning. „Greinilegustu“ Mosarnir eru þó vestan við Skógarnefið þar sem Mosastígur liggur upp með norðanverðu Lambafelli. Í því fallegur klofningshóll þar sem þunnfljótandi hraunið hefur náð að smyrja „klofið“ mælt upp yfir handarkrika hærri manna.
Norðan við Litlu-Sauðabrekku og Sauðabrekkugíga er áberandi landamerkjavarða á mörkum Straumslands og Óttarsstaðalands, sem nefnist Fjallgrensvarða og skiptir hinum mosavöxnu Fjallgrensbölum á milli jarðanna, en þar voru áður grösugir hagar. Ofan vörðunnar tekur við nokkuð sléttir mosar á helluhrauni. Grenin eru merkt með dæmigerðum steinum á þremur stöðum og hlaðin skotbyrgi grenjaskyttnanna er þar skammt frá. Á norðurbrúninni verða umskipti; annars vegar er að baki hið daglega amstur, fagurt útsýni er yfir hraunsvæðin norðan Almennings og hin sjálfsagða nálægð við mennina, og hins vegar er framundan hið sérstaka, áskorunin og vonin um sigur á sljóttugri veiðibráð – tófunni. Brúnin hefði þess vegna mátt heiða „Umskiptabrún“.

Fjallsgrensvarða

Fjallsgrensvarða.

Þegar gengið var til baka áleiðis niður að Fornaseli mátti víða sjá fugla fljúga af hreiðrum eða með mat í goggi. Ungar voru greinilega að komast þarna til fugls.
Fornaselsvarða er tignarlega hlaðin og stendur austan við selið. Sá, sem sett hefur stærsta steininn í hana, hefurverið rammir að afli. Nema það hafi verið kona. Varðan vísar á selið (skammt norðvestar) og, að sögn, Hrauntungustíg, forna þjóðleið sem liggur um selshlaðið.
Fornleifarannsókn, sem gerð var 2000-2001 leiddi í ljós að selstaða mun hafa verið í Fornaseli frá u.þ.b. 1550 fram á miðja 19. öld. Grafið var í eldhústóftina sunnan seltóftanna tveggja, sem þarna eru. Þær eru báðar tvískiptar svo þarna hafa verið tvær selstöður, búr og baðstofa í hvoru um sig.
Gott vatnsstæði er við Fornasel. Líklegt má því telja að það hafi jafnan verið nýtt. Landið tilheyrir Þorbjarnarstöðum svo spurningin er hvort nöfn Gjásels og Fornasels hafi víxlast á einhverju tímabili. Það sem einkum styður þessar vangaveltur er það að í Fornaseli eru tvær selstöður, en einungis ein í Gjáseli. Samt áttu bæði Þorbjarnarstaðir og Lambhagi að hafa haft þar selstöðu. Hins vegar er einungis að sjá þar eitt eldhús, sem styrkir líkur á framkominni lýsingu á samnýtingu. Mögulegt er að Lambhagi, eða annar bær í Hraunum, hafi síðar nýtt sér selstöðuna, sem nú er nefnd Gjásel.

Gjáselsvarða

Sagt hefur verið að milli Gjásels og Fornasels liggi stígur um háhrygg Almennings, yfir Brunnhólagjá á jarðbrú, sem tvær smávörður vísa á. Þegar komið er yfir gjána er stefnan tekin á Fjallið eina og þar tekur Hrauntungustígur við. Austan Brunnhólagjár var gjöfult beitiland, svonefndir Brunnhólar, en líka kallaðir Sauðahólar. Trúlega er hér um eina leið af mörgum að ræða um þetta hraunssvæði. Þegar komið er ofan frá Hrúthólma og ætlunin er að feta mögulega leið niður um austanverðan Almenning verða ávallt nokkrir möguleikar úr um að velja. Þegar „vörðukort“ er skoðað að svæðinu gefur það tilefni til að ætla að leiðirnar hafi verið fleiri en ein og fleiri en tvær. Og ekki er endilega víst að hver um sig hafi heitið eitthvað umfram annað. Fólk, sem þurfti að fara þarna um tók bara mið af greinilegum kennileitum og hélt sinni stefnu um þetta annars greiðfæra hraunsvæði. Víðast hvar eru góð skjól til áninga og jafnvel má finna þar vatn til að brynna skeppnum. Ágætt dæmi er um slíkt í „afbrigðilegum útidúr“ frá Hrauntungustíg. Ef vikið er spölkorn af honum til austurs nokkuð sunnan Sauðabrekkuskjóla má finna þar hið ágætasta vatnsstæði. Að því liggur stígur og síðan áfram inn á hinn fyrrnefna aftur skammt sunnar. Kunnugir hafa að öllum líkindum getað fetað aðrar leiðir en þeir sem minna þekktu til.
 Ofar er Stórhöfðastígur. Hann liggur einnig frá Ástjörn um Hádegisskarð og Ásflatir, sniðhallt yfir Bleiksteinsháls að Hamranesflugvelli og út á Selhraun. Gengið er suður með vestanverðum Stórhöfða þar til komið að suðurhorni hans. Þar sést stígurinn liðast inn á hraunið til suðurs, hlykkjast á hraunhrygg að Bruna og í áttina að Snókalöndum. Þegar þangað er komið er farið yfir Krýsuvíkurveg í áttina að Brunntorfum og Þrísteinavörðum fylgt að Fjallgjá. Gengið er með misgenginu að Fjallinu eina og austanverðum eða vestanverðum (báðar leiðir farnar) fjallsrótum þess fylgt að Hrútargjárdyngju. Þegar farið er að austanverðu kemur að því að mætast Stórhöfðastígur og Undirhlíðavegur, sem fylgja norðanverðum Sveifluhálsi að Ketilsstíg. Þegar farið er að vestanverðu er gengið með norðanverðum Dyngjubökkum um Hrúthólma, framhjá Hrútafelli og inn á Ketilsstíg. Stórhöfðastígur og Hrauntungustígur sameinast Rauðamelsstíg, sem liggur upp frá Óttarsstaðaseli, við Hrúthólma.
Fornasel

Fornasel – vatnsstæði.

Á leiðinni til baka niður að Þorbjarnarstaðaborg sýndu rjúpur þátttakendum sérkennilegt háttarlag. Í stað þess að fljúga frá viðkomandi flugu þær að þeim. Það gat einungis gefið eitt til kynna – jarðfætlingarnir voru of nálægt hreiðinu. Ekki var staðnæmst til að skoða hreiðrið, enda keppikeflið að raska sem minnst ró heimabúandi á svæðinu.
Þorbjarnarstaðaborgin var hlaðin af nokkrum barnanna ellefu á Þorbjarnarstöðum um aldamótin 1900. Hleðslulagi hennar og væntanlegu byggingarlagi hefur verið lýst í öðrum FERLIRslýsingum. Hið áhugaverða að þessu sinni var vörðuð leið er frá henni að skúta ofan við Brunntorfur. Vörður liggja þétt yfir hálsinn að hlöðnu fjárskjóli í Brunntorfum, þar sem nú er skógræktarsvæði. Það er há og löng hleðsla fyrir innskot undir háum hraunbakka með op til norðurs. Allt hefur þetta, vörður og aðrar mannvistarleifar, jú ákveðinn tilgang, sem óþarfi er að horfa framhjá.
Gangan tók 4 klst og 4 mín. Frábært veður – mikið fuglalíf er nú í Almenningi.

Heimildir m.a.:
-Ratleikur Hafnarfjarðar 2006.
-Gísli Sigurðsson.
-Ásbjörn (kort).

Steinninn

Steinninn.