Tag Archive for: Hafnarfjörður

Óbrinnishólabruni

Kapellu- og Óbrinnishólahraun (-bruni) eru með þeim yngstu í Hafnarfirði og skilja sig frá öðrum, reyndar með ólíkum hætti því hið fyrrnefna er að miklum hluta úfið kargahraun en hið síðarnefnda slétt helluhraun næst upptökunum, bæði þó  með samfelldri Stakurráðandi mosaþembu.
Óbrinnishólabruni á (skv. fyrri rannsóknum) að hafa runnið 190 f. Kr. og Kapelluhraun (Nýjahraun/Bruninn) árið 1151 e.Kr. Um 1340 ára aldursmunur mun því vera á hraununum, en þess virðist þó fljótt á litið ekki sjást glögg merki, hvorki gróðurlega né jarðfræðilega. Mun líklegra er að Óbrinnishólahraunið hafi runnið í sömu goshrinu og Bruninn og þá einungis skömmu áður á jarðfræðilegan mælikvarða (á innan við 300 ára tímabili).
Þegar gengið var um Óbrinnishólabruna í byrjun sumar [2008] vakti stök burnirót, stakt lambagras og grasnýmyndun sérstaka athygli – landnámsplöntur í hraungambra eftir tæplega 2000 ára þrautseigju.
Guðmundur Kjartansson (1954) varð fyrstur jarðfræðinga til að kanna Kapelluhraun og Óbrinnishólabruna svo nokkru næmi. Jón Jónsson hefur nokkrum sinnum ritað um hraun á svæðinu. Hann taldi á grundvelli geislakolsákvarðana að Óbrinnihólar væru liðlega 2100 ára gamlir og að Kapelluhraun hefðu runnið í byrjun elleftu aldar.

Gvendarselshæðargígar

Nyrstu Gvendarselshæðargígarnir norðvestan Helgafells.

Úr gígum nyrst í Undirhlíðum hefur runnið hraun sem Jón Jónsson (1978a, 1983) nefnir Gvendarselshraun. Undir því hefur hann fundið Landnámslagið og út frá aldursgreiningu með geislakolsaðferð telur Jón hraunið runnið á elleftu öld. Hér ber að hafa í huga að báðar niðurstöðurnar eru rangar í ljósi nýjustu rannsókna – þrátt fyrir að virðingarverðir jarðfræðingar hafi verið þarna að verki. Segja má því með nokkrum sanni að sannleikurinn þarf ekki endilega að vera endanlegur þótt sennilegustu rannsóknir bendi til að svo sé – á þeim tíma. Gildir það enn þann dag í dag – og mun væntanlega gilda á morgun. Þessa eru fornleifafræðingar vel meðvitaðir. Áreiðanleika rannsókna hefur fleygt svo vel fram síðustu áratugi að efasemdir hafa vaknað við hvert fet sem stigið hefur verið hingað til.
Stakur er er áberandi ílöng hæð (reyndar sú eina) milli Óbrinnishólanna og Undirhlíða. Hann er birkigróinn í jarðrana. Grastorfur eru vestan við hann og vatnsstæði suðvestar. Uppi á honum miðjum, í skjóli fyrir austanáttinni, er minjar um yfirsetu smalanna frá Ási, en skammt norðar, undir nyrðri Óbrinnishólum, er fjárskjól þeirra.

Óbrinnishólar

Óbrinnishólar eru nú nánast óþekkjanlegri frá fyrri tíð vegna gífulegrar efnistöku.

Óbrinnishólar er röð gígaraða í hæð sem stendur upp úr hraunhafinu, um 700 metra vestan við Undirhlíðar, og tæpum 2 km sunnan við Kaldársel. Hólaröðin sjálf er um 900 metrar á lengd. Hæsti gígurinn er um 44 metra hár yfir næsta umhverfi og 124 metrar yfir sjó. Óbrinnishólar tilheyra Krísuvíkureldstöðvakerfinu, sem var virkt á u.þ.b. 25 km langri sprungurein frá Gvendarselsgígum við norðurenda Undirhlíða að Ögmundarhraunsgígunum suðaustan í Núpshlíð í suðri.
Talið er að um tvö gos hafi verið að ræða sem sést af gróðurleifum sem fundust milli gosmyndanna. Um fyrra gosið í Óbrinnishólum er lítið vitað eða hvenær það gaus, en frá því eru a.m.k. 3 gígir og virðist gosið hafa verið á sama stað þá og í því síðara. Hraun frá þessu gosi er nú hulið yngri gosmyndun. Það er aðeins á einum stað sem fundist hefur hraun frá fyrra hosinu og var það í sjálfum gíghólnum. Þetta hraun er frábrugðið hinu hrauninu að það inniheldur verulega meira ólivín.
Leifar smalaskjólsins á StakSíðara gosið hófst fyrir 1800 árum í og voru nyrstu gosstöðvarnar í Óbrinnishólum. Hæðin sem Óbrinnishólar eru á er að mestu úr bólstrabergi og grágrýti. Eftir endilangri hæðinni er um 50 metra breiður sigdalur. Að vestan takmarkast hann af 4-6 m háu misgengi. Rétt austan við sigdalinn rísa gígirnir og stefnir röðin eins og dalurinn. Óbrinnishólahraun er undir Kapelluhrauni við Straumsvík. Í hrauntröð sunnan við hólana er fyrrnefnt fjárskjól.
Í greinargerð Náttúruverndarráðs um þetta svæði segir m.a.: „Efnistaka úr eldvörpum og gervigígum hefur á undanförnum árum að mestu leyti verið bundin við eldvörp í nágrenni þéttbýlis. Stærstu námurnar á Suðurlandi hafa verið í gígþyrpingum á Reykjanesskaga (Arnarsetur við Grindavík, Óbrynnishólar við Hafnarfjörð, Rauð hólarnir við Reykjavík) og í Grímsnesi (Seyðishólar). Einnig hefur gjall verið unnið úr stökum eldvörpum á þessu svæði, svo sem úr Litlu-Eldborg undir Geitahlíð og nú síðast Eldborg við Trölladyngju.

Óbrinnishólar nyrðri - nú eyðilagðir af námuvinnslu

Á síðastliðnum árum hefur ferðamannaþjónusta verið einn helsti vaxtarbroddur í íslensku atvinnulífi og hafa stjórnvöld bent á ferðamannaþjónustu sem vænlegustu leið okkar til ný sköpunar. Eldfjöllin draga til sín erlenda ferðamenn sem koma til þess að njóta ósnortinnar náttúru og fræðast um jarðfræðilega þróun landsins. Að ,,gera út á„ íslenska náttúru er meira í anda sjálfbærrar þróunar en að selja eldvörp í erlenda vegi.
Fjölbreytileiki íslenskra eldvarpa er eitt af einkennum landsins. Eldfjallaeyjan Ísland á engan sinn líka hvað varðar landslag, gosmyndanir og bergfræði. Þrátt fyrir ungan jarðfræðilegan aldur og tíða eldvirkni eru margar jarðmyndanir hérlendis mjög fágætar, einnig á alþjóðlegan mælikvarða. Og þó Íslendingar telji sig ríka rík af þeim eldvörpum sem skópu landið í aldanna rás þá er vert að minnast þess að margar þessar jarðmyndanir eru afar sjaldgæfar og jafnvel einstakar, svo sem Eldborg í undir Geitahlíð. 

Í Óbrinnishólum syðri

Samkvæmt upplýsingum frá Hauki Jóhannessyni hjá Náttúrufræðistofnun verða goshrinur á Reykjanesskaga á um þúsund ára fresti. Í hverri hrinu verða gos í flestum gosreinum á skaganum og hrinan varir í um 200-300 ár. Síðasta goshrinan gekk yfir á árunum 950-1240 en síðast runnu hraun á Reykjanesskaga árið 1226, þar má nefna Arnarseturshraun, Leitahraun og Eldvarpahraun.
Í umsögn Stofnunar Árna Magnússonar segir svo um nafngiftina: „Óbrinnishólar; réttara en Óbrynnishólar, sbr. so. brinna í fornu máli“.
Þegar gengið er um Óbrinnishólahraun leynist engum hugsandi ferðalangi að þar er um að ræða annað og „geðslegra“ hraun en sjá má í Brunanum/Nýjahrauni/Kapelluhrauni (sett svo fram svo finna megi á leitarstreng). Þó fer ekki á milli mála, jafnvel meðal leikmanna, að ekki getur verið svo mikill aldursmunur á þessum hraunum.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Heimild m.a.:
-flensborg.is
-Jón Jónsson. Óbrinnishólar. Náttúrufræðingurinn, 42.-45. árgangur. Rkv. 1974a.
-Stofun Árna Magnússonar.

Í Óbrinnishólahrauni

Krýsuvíkurkirkja

Timburkirkja á grunni torfkirkjunnar frá því á 12. öld í Krýsuvík var byggð 1857 og var hún sóknarkirkja allt fram undir 1910, en aflögð 1917.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja fyrrum – tilgáta.

Fyrir altari var „fornfáleg altaristafla“. Kirkjuhúsið var í framhaldinu m.a. notuð til íbúðar frá 1929 uns hún var endurbyggð 1964 og endurvígð þann 31. maí það ár af biskupi landsins. Viðgerðir við kirkjuna hófust svo á ný 1986 og var kirkjan þá færð til upprunalegri gerðar. Hún brann til grunna aðfaranótt 2. janúar 2010, en var byggð að nýju skv. upphaflegu fyrirmyndinni og komið á kirkjustaðinn þann 10. okt. 2020.

Ný endurgerð Krýsuvíkurkirkja var vígð hvítasunnudaginn 5. júní s.l. Af því tilefni var gefinn út bæklingur um sögu endurbyggingarinnar, flutninginn á vettvang í Krýsuvík, afhendinu og kirkjuvígsluna. Í honum er m.a. að finna yfirlit um þátttakendur í endurreisninni, sbr. meðfylgjandi upplýsingamynd.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja – altaristaflan borin til kirkja á vígsluathöfninni. (Ljósm. Árni Sæberg)

Krýsuvíkurkirkja brann til grunna aðfaranótt 2. janúar 2010 en kirkjan var byggð árið 1857, gerð upp og endurbyggð 1964 og síðar færð sem næst í upprunalegt horf með vinnu sem hófst 1986. Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi svo rúmlega tvítugan mann í eins árs fangelsi, skilorðsbundið til tveggja ára, fyrir að leggja eld að Krýsuvíkurkirkju.
Kirkjan stóð við hlið Krýsuvíkurbæjarins en það sem eftir var af honum var jafnað við jörðu með jarðýtu um 1960 ásamt fleiri minjum.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja – kirkjugestir við vígsluna. (Ljósm. Árni Sæberg)

Þann 25. febrúar 1964 samþykkti bæjarstjórn Hafnarfjarðar að afhenda Krýsuvíkurkirkju ásamt kirkjugarði og öðrum mannvirkjum tilheyrandi staðnum Hafnarfjarðarsókn til fullrar eignar og varðveislu, ásamt landspildu umhverfis kirkjuna, samtals 7.096 m² að stærð.

Krýsuvíkurkirkja

Endurnýjað og uppfært upplýsingaskilti við Krýsuvíkurkirkju.

Áfallið varð mikið þegar gamla kirkjan í Krýsuvík var brennd í ársbyrjun 2010. Endurgerð hennar í framhaldinu, sem fór fram undir handleiðslu kennara og nemenda Iðnskólans í Hafnarfirði, síðar Tækniskólans, lauk áratug síðar. Þann 9. október 2020 var kirkjan flutt á grunn gömlu kirkjunnar í Krýsuvík. Formleg afhending fór fram á vettvangi 22. júní 2020. Þá var kirkjan afhent Þjóðminjasafni Íslands, eiganda kirkjunnar frá árinu 1857, sem síðan fól hana Hafnarfjarðarkirkju til varðveislu.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja – Kristján Valur Ingólfsson, vígslubiskup, annaðist vígsluna. (Ljósm. Árni Sæberg)

Formleg vígslan tafðist hins vegar vegna heimsfaraldurs þar til s.l. hvítasunnudag, árið 2022. Fyrrum vígslubiskup í Skálholti, séra Kristján Valur Ingólfsson, annaðist vígsluna og flutti bæn að því tilefni.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja – altaristaflan komin á sinn stað ásamt öðrum kirkjumunum.

Meðal annarra dagskrárliða voru innganga og upphenging altaristöflu Sveins Björnssonar, upphafsorð Jónatans Garðarssonar, formanns Vinafélags Krýsuvíkurkirkju, ritningarorð Hildar Ingvarsdóttur, skólameistara Tækniskólans, „Upp er risin Krýsuvíkurkirkja; ljóð ort og flutt af sr. Gunnþóri Ingasyni í tilefni af vígslu kirkjunnar og kirkjubæn sr. Jónínu Ólafsdóttur.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja – Þorkell Marinósson, yfirsmiður.

Að lokaorðum Magnúsar Gunnarssonar, formanns sóknarnefndar Hafnarfjarðarkirkju, loknum var messuvíni dreypt á gröf Sveins Björnssonar utan við kirkjuna. En hvers mátti fyrrum sýslumaðurinn Árni Gíslason í Krýsuvík að gjalda? Hann var sýslumaður í Skaftafellssýslum 1852-1879 en bjó síðast í Krýsuvík 1880 til dauðadags 26. júní 1898. Hafði um tíma hæsta lausafjártíund allra búandi manna á Íslandi. Talinn dugandi embættismaður og vinsæll í héraði, einkennilegur í lund og háttum, gamansamur og hagmæltur. (Ísl. æviskrár I, bls. 44.). Hann var jarðsettur aftan við kirkjuna og er legsteinn hans þar enn í dag.

Hryssingslegt veður var í Krýsuvíkinni á vígsludaginn; suðaustan rigning og þokusúld – dæmigert. Hið jákvæða var að kirkjuhúsið hélt vatni og veitti skjól. Að vígslu lokinni var kirkjugestum boðið til stofu í Sveinssafni.

Hrafnkell Marinósson, kennari við Iðnskólann, átti ekki minnstan þátt í nýsmíðinni. Aðspurður eftir vígsluathöfnina í Krýsuvík hvað væri honum minnistæðast í tíu ára byggingarsögu kirkjunnar á lóð Iðnskólans í Hafnarfirði (síðar Tækniskólans) svaraði hann án umhugsunar: „Félagi, það er samvinna og trú“.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja – Þátttakendur í endurreisn Krýsuvíkurkirkju.

Óttarsstaðasel
Gengið var suður eftir Óttarsstaðaselsstíg (Rauðamelsstíg) frá Smalaskálahæðum upp í Óttarsstaðasel. Í leiðinni var litið á Meitlaskjól og síðan á Óttarsstaðaselsskúta syðri og Tóhólaskúta ofan við selið.

Bekkjaskúti

Bekkjaskúti.

Selstígurinn hefur einnig verið nefndur Rauðamelsstígur. Rauðamelsstígur er nafnið á leiðinni milli Dyngjuranans við enda Trölla- og Grænudyngju og Rauðamelanna (Stóra- og Litla Rauðamels) sem voru þar sem núna er Rauðamelstjörn í Rauðamelsnámu. Þessir tveir Rauðamelir voru mjög áberandi kennileiti sérstaklega þegar komið var að sunnan, annaðhvort frá Grindavík, Selatöngum eða Krýsuvík og tóku menn stefnu á Stóra-Rauðamel sem var með vörðu upp á.

Óttarsstaðaselsstígur

Óttarsstaðaselsstígur – gatnamót Skógargötu/Rauðamelsstígs.

Það var allt eins hægt að tala um Rauðamelsstíg þegar farið var frá Rauðamel, yfir Alfaraleiðina suður í selið, eða rétt norðvestan þess. Þaðan liggur vörðuð leið vestan Tóhóla í áttina að Rauðhól. Síðan liggur leiðin vestan við Einihól og Merardali yfir í Skógarnefið og þaðan um Mosastíg í Mosum, vestan við Einihlíðar að Lambafellunum (Stóra- og Litla-Lambafell, eða Eystra- og Vestara Lambafell). Þar kvíslaðist leiðin annarsvegar í Hálsagötur, sem liggja með Núpshlíðarhálsi um Selsvelli að Vigdísarvöllum, Selatöngum eða Grindavík, og hinsvegar liggur leiðin yfir Dyngjurana í áttina að Ketilsstíg og Krýsuvík (reyndar hægt að fylgja Móhálsadalsleið að Vigdísarvöllum eða að Selatöngum). Drumbsstígur lá síðan uppfrá Bleikingsvöllum yfir Sveifluhálsinn til Krýsuvíkurbæjanna.
Menn hafa jafnvel notað Rauðamelsstígs-nafnið yfir alla leiðina frá Óttarsstöðum að Ketilstíg þegar svo bar við, þó það sjáist varla alla leið norður að Rauðamelunum fyrr en menn voru komnir upp á Dyngjuhálsinn, austan úr Krýsuvík.

Sveinsskúti

Sveinsskúti.

Þó svo að þessi leið heiti í heildina Rauðamelsstígur hafa einstakir kaflar hennar mörg og misjöfn nöfn eins og venjan var um svo langar leiðir sem nýttust á köflum í tengslum við hrísrif, skógartöku, mosatöku, vetrarbeit, selfarir eða eitthvað annað. Til dæmis var leiðin á milli Óttarsstaðasels og bæjanna við ströndina ætíð nefnd Óttarsstaðaselsstígur af þeim sem bjuggu í Hraunum, en einnig Skógargata þegar menn fóru til skógarhöggs og kolagerðar. Stundum fóru þeir alla leið upp í Bringur eða Skógarnefið eða Búðarvatnsstæðið, en stundum ekki lengra en í Brenniselið, sem er nærri Bekkjarskúta og Álfakirkju.

Álfakirkja

Álfakirkja.

Þar var aldrei sel í beinum skilningi þess orðs heldur geymslugerði fyrir hrís og kol því þar lágu menn í skútum þegar þeir útbjugu brenni eða gerðu til kola á haustin. Það má líka vera að menn hafi geymt rjúpnafenginn fyrir jólin í þessu gerði sbr. Loftsskútann í Grændölum, Hvassahraunsmegin landamerkjanna.
Sá hluti leiðarinnar sem telst vera Skógargatan liggur upp í Bringurnar. Mosastígur liggur frá Óttarsstaðarselsstíg norðan við Bekkina (tvær fallnar vörður við stíginn) og liðast til suðvesturs upp hraunið, áleiðis að Skógarnefi. Hann er varðaður að hluta. Þessa leið munu Hraunamenn hafa farið þegar þeir sóttu sér mosa til eldsneytis. Fleiri nöfn hafa verið nefnd til sögunnar á þessum stígum eða götum í gegnum ofanverð hraunin.

Óttarsstaðasel

Meitlaskjól.

Annar Mosastígur er um Mosana við Böggukletta, áleiðis niður að Hvassahrauni.
Sjálfur Rauðamelur eða melirnir tveir, voru endanlega eyðilagðir í tengslum við efnisnám þegar Keflavíkurflugvöllur var byggður upp. Hluti af efninu úr Litla-Rauðamel hafði reyndar verið notað um aldamótin 1900 þegar Suðurvegurinn var lagður (Keflavíkurvegurinn elsti) og einnig nokkru fyrr þegar unnið var við lagfæringar á gamla Sýsluveginum. Það var vörubílstjóri, sem var jafnan kallaður Hrauna-Berti, afi Lovísu Ásbjarnardóttur, einn af eigendum Óttarsstaðalandsins, sem var stórtækastur í efnistökunni í Rauðamelsnámunni á sínum tíma, enda átti hann þetta land og gat nýtt það á hvern þann hátt sem honum hentaði. Það er enn hægt að sjá hluta af selstígnum (Rauðamelsstíg) norðan við námuna þar sem hann liggur niður á bæjunum.

Óttarstaðasel

Rauðhólshellir.

Meitlilshellir er í Stóra-Meitli við Rauðameslsstíg. Gróið er í kringum hann og hleðslur við opið. Þegar verið var að voma í kringum Meitlana stökk ljósgráflekkótt tófa upp á einn hraunhólinn, skimaði í kringum sig, en lét sig síðan hverfa. Mikið af lóuhreiðrum voru í móanum, auk hreiðurs skógarþrastar og þúfutittlings. Ekk voru í öllum hreiðrum, sem skoðuð voru.
Norðvestan undan seltóftunum er lægð í hrauninu. Þar undir vesturveggnum skammt neðan við selið er skúti, opinn mót austri. Í honum eru heillegar hleðslur. Væntanlega hefur verið þarna kví í skjóli.

Óttarsstaðasel

Fjárskjól við Óttarsstaðasel.

Tóftir Óttarsstaðarsels eru áberandi þegar komið er að þeim. Norðvestan við þær er vatnsstæðið, en stekkir bæði austan og norðan við þær. Gengið var áfram upp í Óttarsstaðahelli, sem stundum hefur verið nefndur Fjárskjólið mikla eða Rauðhólsskúti þótt Rauðhóllinn sé nokkru ofan við hann.
Óttarsstaðaselsskúti syðri er með nokkuð áberandi fyrirhleðslu sem blasir við þegar komið er í námunda við hann. Fleiri skútar tilheyra selinu og eru þeir flestir með svipuðu sniði. Þeir voru nýttir sem fjárskjól, en ekki síður sem förumannskýli.

Tóhólaskúti

Tóhólaskúti.

Tóhólaskúti er í Tóhólatagli spölkorn vestur af Tóhólum. Tóhólaþyrpingin, sem stendur dreift, er nærri Rauðamelsstíg ofan (sunnan) við selið. Spottakorn sunnar eru Merarhólar. Þar voru sumarhagar þeirra fáu hrossa sem Hraunamenn áttu að jafnaði. Vestan Óttarsstaðasels er Þúfhólsskúti.
Þegar sest er niður ofan við Óttarsstaðarsel í kvöldkyrrðinni og horft yfir tóftirnar má vel ímynda sér hvernig þar hefur verið umhorfs fyrr á öldum. Selsmatsseljan á ferð um selsstöðuna skipandi smalanum um að gæta að fénu, hann hlaupandi um hjörðina, hún með mjókurfötuna í hendi, kemur sér fyrir í kvínni, hann færandi henni hverja ána á fætur annarri uns allar hafa veri mjólkaðar, hún á ferð með mjókina í strokkinn eða flatbyttuna, hann strokkar, hún fylgist með og hleypir undan, grysjað og síað, bóndinn sést nálgast selið ríðandi með annan í taumi, kostir og gallar; forði og kröfur, bóndinn tekur af vistir, biður um afurðir, selsmatsseljan færir þær út úr geymsluvistinni í viðhlítandi umbúnaði.

Óttarsstaðasel

Nátthagi í Óttarsstaðaseli.

Bóndinn færir á klifbera, brosir og virðist ánægður, smalinn situr álengdar og fylgist með (hans bíður yfirseta, svefnleysi og kuldahrollur), bóndinn kyssir á kinn, skreiðist á bak og heldur til baka með reiðingshestinn eftir selsstígnum, selsmatseljan færir kostinn inn í búrið, bætir sprekum á eldinn í eldhúsinu, sem stendur til hliðar við svefnaðstöðuna og búrið og fer síðan inn í lágreista vistarveruna, sest á flet sitt og nagar harðfisk. Kvöldverkin eru framundan og mjaltir undir morgun. Svona var lífið í þá daga uppi í heiðinni.
Í bakaleiðinni var gengið niður Mosastíg vestan Óttarsstaðarsels, vel varðaða leið, og þá komið við í Sveinsskúta vestan Óttarsstaðarselsstígs, í Bekkjaskúta og síðan Brenniseli áður en haldið var yfir Alfaraleiðina sunnan Smalaskálahæða og að Óttarsstaðarborg.
Frábært veður – eins og ávallt í Hraununum.

Óttarsstaðasel

Óttarsstaðasel.

Flóki

Gengið var frá Bláfjallavegi norður Tvíbollahraun ofan við Markraka. Stefnan var tekin á Markarakahelli norðan Markraka og Dauðadalahella þar skammt vestar.

Dauðadalahellar

Í Dauðadalahellum.

Stuttur gangur er frá bílastæði við veginn niður að austanverðum Markraka, veðurbörðum melhæðum er standa upp úr hrauninu, eða hraununum réttara sagt, því þarna umhverfis eru nokkur hraun auk Tvíbollahrauns, s.s. Hellnahraun eldra og yngra og Þríhnúkahraun. Vestan við Markraka heita hraunin Skúlatúnshraun, en Tvíbollahraun og Þríhnúkahraun að austan og norðanverðu.
Jón Jónsson, jarðfræðingur (1983) segir aldur Tvíbollahrauns vera frá því um 875 eða þar um kring. Tvíbollahraun gæti því verið fyrsta hraunið sem rann á Íslandi eftir að búseta hófst og hellar þess þá fyrstu hellar sem mynduðust hér á landi á sögulegum tíma.

Dauðadalahellar

Í Dauðadalahellum.

Hellarás Dauðadalahellanna svonefndu er í einni hrauntröðinni, u.þ.b. 500 metra langri. Lengstu hellisbútarnir eru nokkrir tugir metrar, en í nokkrum þeirra er hátt til lofts. Einnig er litadýrð nokkur á köflum. Ekki er fært í alla hellisbútana án þess að síga og eru sumir þeirra lítt eða ekkert kannaðir. Hellarnir eru flestir litlir fyrir utan Flóka og Hjartartröð, sem er nokkru vestar.
Markrakahellir er efsti hluti hraunrásarinnar. Haldið var inn eftir hellinum, en hann lokast fljótlega. Falleg hraunbrigði eru í hellinum.
Dauðadalahellar eru skammt vestar. Meginhellirinn er innan við tiltölulega lítið op er opnast út í lágt, gróið, jarðfall. Fallegir brúnir litir prýða hellinn sem og rennilegir hraunbekkir. Raunar liggja rásirnar hingað og þangað og þyrfti góðan tíma til að skoða þær allar.

Dauðadalahellar

Í Dauðadalahellum.

Dauðadalahellar mynduðust eftir að hraun rann frá Grindarskörðum vestur að Skúlatúni. Hellarnir áttu það til að reynast villugjarnir fyrir sauðfé sem leitaði þar skjóls en komst ekki aftur út eins og nafn Dauðadala gefur til kynna.
Flóki er langstærsti hellir, sem fundist hefur í Dauðadölum. Heildarlengd hans er um 900 metrar og er hann einn sérkennilegasti og margflóknasti hraunhellir hér á landi. Flóki teygir ganga sína víða og lengd meginrásarinnar því aðeins um einn þriðji af heildarlengd hellsins. Op á hellinum eru fjölmörg og er hann hið skemmtilegasta völundarhús. Flóki er einn örfárra hella á landinu sem hægt er að villast í.
Bakaleiðin var gengin um Dauðadalastíg. Hann liggur á milli Kaldársels og Kerlingaskarðs um Dauðadali, um vestanverðan lághrygg Markraka og áfram yfir Bláfjallaveg, um nokkuð slétt mosavaxið helluhraunið.
Á Markraka eru landamerki Garðabæjar, Hafnarfjarðar og Grindavíkur.
Gangan tók 1 klst og 11 mín. Frábært veður.

Heimildir m.a.:
-Hraunhellar á Íslandi – Björn Hróarsson 1990.

Daudadalahellar-21

Í Dauðadalahellum.

Draughólshraun

Gengið var um Brunann, öðru nafni Nýibruni, Nýjahraun eða Kapelluhraun.
Bruninn - Óbrinnishólar og Helgafell fjærKapelluhraun myndaðist úr gíg[um] á 25 metra langri sprungu sem opnaðist í eldgosahrinu er hóft 1151 og hraun rann til sjávar bæði norðan og sunnan megin við Reykjanesskagann. Á síðustu árum hefur mikið efni verið tekið úr hrauninu til uppfyllingar við álverið [sem og úr Rauðamel] og í húsgrunna og götur á Stór- Reykjavíkursvæðinu og það sléttað.
Álverið við Straumsvík stendur á Nýjahrauni/Kapelluhrauni og er allra yngsta hraunið á svæðinu í kringum Hafnarfjörð. Í umræðum meðal Hraunafólksins var hraunið jafnan nefnt Bruninn og brúnir hans Brunabrúnir vestri og eystri. Hann á upptök undir Undirhlíðum og hefur komið úr gígaröðum, sem virðast vera tengdar misgengissprungum. Kapelluhraun er hluti af hraunum sem runnu hjá Krýsuvíkurkerfinu fyrstnefnda.
Kapelluhraun er ákaflega fallegt [þ.e.a.s. sá hluti þess sem enn er óraskaður], úfið og mosagróið apalhraun. Hraunið er fínkornótt með einstaka tiltölulega stórum dílum. Dílarnir eru oftast plagioklas, pyroxen og einstaka ólivín. Stærð hraunsins er 11,6 km2 – 13.7 km2. Eitt sinni var rudd braut í gegnum hraunið en hún hefur að mestu verið eyðilögð að undanskildum um 10 metra kafla við litla endurgerða rúst í hrauninu, sem er nefnd Kapellan.

Hraunkarl í Brunanum

Árið 1950 rannsakaði Kristján Eldjárn þessa kapellu og fannst þar m.a. lítið líkneski af heilagri Barböru sem er  verndardýrlingur ferðamanna. Hún var góð til áheita gegn hvers konar eldsgangi.
Af þessum rannsóknum má m. a. ráða, að líkur séu á að þunnfljótandi hraunstraumar geti runnið í sjó fram frá gosstöðvum vestan Undirhlíða og víðar yfir það svæði.
Sem dæmi má nefna eftirfarandi úr grein Hauks Jóhannessonar og Sigmundar Einarssonar 1998, s. 175, sjá nr. 5 hér að ofan.:
„Kapelluhraun.
Yngsta hraunið á svæðinu er oftast nefnt einu nafni Kapelluhraun, þó svo að það heiti eigi í raun aðeins við nyrsta hluta þess. Syðri hluti hraunsins hefur gengið undir heitinu Nýibruni. Kapelluhraun er hluti af hraunum sem runnu í Krísuvíkurrein árið 1151 (Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson 1989). Þá opnaðist gossprunga sem er alls um 25 km löng en þó slitin í miðjunni.

Hraungambri í Brunanum

Sunnan á skaganum rann Ögmundarhraun í sjó fram og tók það af gamla Krýsuvíkurbæinn. Norðan á skaganum rann Kapelluhraun, aðallega frá gígum við Vatnsskarð [Rauðhól] sem nú heyra sögunni til vegna gjallvinnslu. Hraunið rann til sjávar í Straumsvík … Álverið í Straumsvík stendur á hrauninu“
Í niðurlagi greinarinnar segja höfundar auk þess:
„Eldgos á Rekjanessskaganum virðast koma í hrinum og á milli er minni virkni. Hrinurnar verða á um þúsund ára fresti og hver hrina stendur yfir í nokkur hundruð ár. Síðasta hrinan hófst upp úr miðri tíundu öld og endaði um 1240. Í hverri hrinu verða umbrot í öllum eldstöðvareinunum á skaganum og í síðustu hrinu færðist virknin frá austri til vesturs. Einnig er nokkuð víst að verði eldgos í Brennisteinsfjöllum og í norðanverðum Móhálsadal munu hraun þaðan renna niður til strandar milli Hrútagjárdyngjunnar og Hvaleyrarholts, sömu leið og Hellnahraun eldra og yngra og Kapelluhraun.
Í Brunanum - Fjallið eina og Sandfell fjærAf ofansögðu er ljóst að hraun geta runnið til Straumsvíkur bæði frá Brennisteinsfjallarein, en þar gaus síðast á 10. öld, og frá Krísuvíkurein þar sem síðast gaus um miðja tólftu öld. Síðast urðu með vissu eldsumbrot á Reykjanesskaga á fyrri hluta 13. aldar í Reykjanesrein. Nær útilokað er að hraun frá gosum í þeirri rein geti runnið til Straumsvíkur en hins vegar gæti þar hugsanlega orðið vart landsigs vegna meðfylgjandi gliðnunar í reininni.“
Í grein sinni um náttúruvár á Straumsvíkursvæðinu (sjá nr. 6 hér að ofan, s. 271) segir Páll Imsland m. a.:
„Eftir Krísuvíkurelda á 13. öld hafa ekki komið upp hraun í nágrenni Straumsvíkursvæðisins. Landslagi er þannig háttað að hraun sem koma upp vestanundir Undirhlíðum eiga ekki annarra kosta völ en að renna út á hraunflákana til vesturs og norðurs og leita undan halla og þrýstingi frá kvikunni sem flæðir úr gígunum í átt til strandar, í átt að Straumsvík. Áður en að álverinu sjálfu kemur eru raflagnir, spennuvirki, þjóðvegur og fleira slíkt í rennslisleiðum hrauna; mannvirki sem skipta verulegu máli, bæði fyrir starfrækslu álversins og alla byggð sunnar á skaganum. Það er því ljóst að hraunflóðahætta er þarna til staðar, en ekkert er þekkt sem bendir til yfirvofandi hættu. Náttúran á svæðinu hefur ekki sýnt nein þekkjanleg merki þess að þarna séu eldgos í uppsiglingu. Á hitt ber samt að líta að þetta er afkastamikið, virkt eldgosasvæði þar sem ekki hefur gosið í um 850 ár, og til eru vísbendingar um að virknin á Reykjanesskaganum gangi í hrinum með nokkurra alda aðgerðarlitlum hléum. Hrinur þessar einkennast af jarðskjálftum, sprungumyndun og eldgosum.“
Í greininni „Hamfarir á höfuðborgarsvæðinu“eftir Þórdísi Lilju Gunnarsdóttur, sem birtist í tímaritinu Ský, 6 2001-2002, s. 36, má lesa eftirfarandi:
„Í Kröflueldum í september 1984 rann glóandi hraunáin um tíu metra vegalengd á sekúndu. Það gera 36 kílómetrar á klukkustund. Að mati jarðfræðinganna Páls Imslands og Karls Grönvolds er það álíka hraði og væri á nýju hrauni við höfuðborgina í dag. Því myndi hraunelfan geta náð efstu byggðum borgarinnar á fáum klukkustundum … Ef eldgos brytist út í Húsfelli, Búrfelli eða Trölladyngju gæti hraun runnið niður Kúagerði og yfir Reykjanesbraut, yfir álverið í Straumsvík, rafstöðina við Hamranes og nýjustu byggð Hafnfirðinga sunnan við Reykjanesbraut sökum þess hve Reykjanesskaginn er mjór sunnan við Hafnarfjörð. Í miklum hamförum á þessum slóðum gæti hraun einnig náð til byggðar í Garðabæ og yfir Álftanesið.“

Gata í Brunanum

Gengið var um Kapelluhraun sunnan Hafnarfjarðar. Í göngunni var höfð hliðsjón af skrifum Sigmundar Einarssonar, Hauks Jóhannessonar og Árnýjar Erlu Sveinbjörnsdóttur um Krýsuvíkurelda II – Kapelluhraun og gátan um aldur Hellnahrauns, er birtust í Jökli nr. 41 1991.
Gangan hófst við Gerði ofan við Straum, nyrst í vesturjaðri Kapelluhrauns. “Samkvæmt annálum urðu eldgos í Trölladyngjum á Reykjanesskaga árin 1151 og 1188. Líkur benda til að 1151 hafi Ögmundarhraun í Krýsuvík og Kapelluhraun sunnan Hafnarfjarðar runnið er umbrotahrina varð í eldstöðvarkerfi Trölladyngju. Hrinunni lauk líklega 1188 með myndun Mávahlíðahrauns. Umbrotahrinan í heild er nefnd Krýsuvíkureldar. Gossprungan er ekki samfelld en milli enda hennar eru um 25 km. Flatamál hraunanna er 36.5 km2 og rúmmálið er áætlað um 0.22 km3. Vegið meðaltal fimm geislakolsgreininga gefur 68.3% líkur á að hraunin hafi runnið á tímabilinu frá 1026-1153.
Í Konungsannál, Oddverjaannál og Annál Flaeyjarbókar 1151 segir frá eldum í Trölladyngjum. Einnig í Skálholtsannál 1188. Ekki er ljóst hvers vegna annálarnir kenna gosin við Trölladyngjur en svo virðist sem þær hafi verið alþekkt örnefni á þessum tíma. Líklegast er að eldgosið 1188 hafi verið lokaþáttur umbrotahrinunnar.
Auk þessara frásagna í annálum eru óbeinar heimildir um hraunrennsli á norðanverðum Reykjanesskaga eftir landnám. Kapelluhraun heitir einnig Bruninn í daglegu tali og það eitt bendir til að menn hafi séð hraunið renna. Yfirleitt er talið að Kapelluhraun hafi áður heitið Nýjahraun og Ólafur Þorvaldsson (1949) segir nafnið Nýjahraun sé enn þekkt um hluta þess. Þessi gögn benda eindregið til að hraunið hafi runnið eftir að land byggðist.
Snókalönd í Brunanum - Stórhöfði fjærElstu heimildir um nafnið Nýjahraun er annars vegar í annálum og hins vegar í Kjalnesingasögu. Annálar greina frá skiptapa við Hafnarfjörð árið 1343 og fórust með skipinu 23 eða 24 menn. Annálar segja þannig frá slysinu: “Braut Katrínarsúðina við Nýja hraun.” (Annáll Flateyjarbókar). Í Gottskálksannál, bls. 352 segir: “Braut Katrínar súðina fyrir Hvaleyri, drukknuðu þar iiij menn ogg xx.”
Í Kjalnesingasögu (1959) er tvívegis minnst á Nýjahraun. Þar segir senmma í sögunni að Þorgrímur Helgason hafi reist bú að Hofi (á Kjalarnesi) og “hafði hann mannforráð allt il Nýjahrauns og kallað er Brunndælagoðorð”. Undir lok sögunnar segir svo frá því er Búi Andríðsson tók við mannaforræði eftir Þorgrím og “hafði hann allt út á Nýjahrauni og inn til Botnsár”.
Kjalnesingasaga gerist á landnámsöld en er talin skrifuð skömmu eftir 1300. Athyglisvert er að höfundurinn skuli nota Nýjahraun til að takmarka Brunndælagoðorð. Notkun örnefnisins Nýjahraun í Kjalnesingasögu bendir til að hraunið sé runnið einhvern tíma á tímabilinu 870-1250.
Ótrúlega fáir, þrátt fyrir framangreint, hafa gert tilraun til að kanna Brunann/Kapelluhraun, upptök þess, útbreiðslu og raunverulegan aldur. Þorvaldur Thoroddsen (1913) reið á vaðið er hann kannaði Kapelluhraun lauslega 1883. Guðmundur Kjartansson (1954) varð fyrstur jarðfræðinga til að kanna Kapelluhraun og Óbrinnishólabruna svo nokkru næmi. Jón Jónsson hefur nokkrum sinnum ritað um hraun á svæðinu. Hann taldi á grundvelli geislakolsákvarðana að Óbrinnihólar væru liðlega 2100 ára gamlir og að Kapelluhraun hefðu runnið í byrjun elleftu aldar.
Úr gígum nyrst í Undirhlíðum hefur runnið hraun sem Jón Jónsson (1978a, 1983) nefnir Gvendarselshraun. Undir því hefur hann fundið Landnámslagið og út frá aldursgreiningu með geislakolsaðferð telur Jón hraunið runnið á elleftu öld.

Hlaðið undir horfna girðingu í Brunanum

Í framhaldi af þessum niðurstöðum hefur Jón stungið upp á því að Ögmundarhraun, Kapelluhraun og Gvendarselshraun hafi öll orðið til í einni goshrinu á fyrri hluta elleftu aldar (Jón Jónsson 1982,1983).
Gossprungan, 25 km löng, er frá norðanverðri Gvendarselshæð og suður fyrir Núpshlíðarháls. Á henni er um 8 km löng eyða, þannig að alls hefur gosið á um 17 km langri sprungu. Syðri hlutinn er um 10,5 km að lengd og nyrðri hlutinn um 6.5 km.
Í Krýsuvíkureldum mynduðust fjórir aðskildir hraunflákar. Syðst er Ögmundarhraun sem nær frá Djúpavatni í Móhálsadal suður í sjó. Næst norðan við það er lítið hraun sem runnið hefur út á Lækjarvelli og er það langminnst þessara hrauna. Þriðja hraunið er við Mávahlíðar, norðaustur af Trölladyngju, og liggur til hliðar við megingossprunguna. Nyrst er svo Kapelluhraun sem runnið hefur frá Undirhlíðum til sjávar.
Hraunið sem rann frá syðsta hluta gossprungunar fyllti allan Móhálsadal sunnan Djúpavatns og fyllti allstóra vík sem að líkindum hefur verið hin forna Krýsuvík. Hraunflákinn gæti hafa myndast í tveimur [eða fleiri] gosum (en þó í sömu goshrinu).
Skammt norðan við Bláfjallaveg eru litlir og snotrir gígar er nefnast Kerin. Frá þeim hefur runnið lítið hraun til vesturs og norðurs. Norðan við gíganna er hraunið á nokkrum kafla svo rennislétt að furðu sætir. Hraunin frá Gvendarselsgígum og Kerjum verða ekki talin sérstök hraun, heldur hluti af Kapelluhrauni, enda um einn samfelldan hraunfláka að ræða. Alls þekur Kapelluhraun 13.7 km2. Ef meðalþykktin er um 5 metrar er rúmmál þess um 0.07 km3.
Líkur hafa verið leiddar að því að Ögmundarhraun hafi runnið 1151 og er þar jöfnum höndum stuðst við frásagnir annála, geislakolsaldur og rannsóknir á öskulögum. Bruninn/Nýibruni/Nýjahraun/Kapelluhraun er frá svipuðum tíma.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Heimild:
-Krýsuvíkureldar II – Kapelluhraun og gátan um aldur Hellnahrauns – Sigmundur Einarsson, Haukur Jóhannesson og Árný Erla Sveinbjörnsdóttir – Jökull nr. 41, 1991.
-Guðmundur Kjartansson 1973. Aldur Búrfellshrauns við Hafnarfjörð. Náttúrufræðingurinn 42. 159-183.
-Jón Jónsson 1978: Jarðfræðikort af Reykjanesskaga. Orkustofnun OS-JHD 7831. 303 bls. + kortamappa.
-Haukur Jóhannesson & Sigmundur Einarsson 1989. Krísuvíkureldar I. Aldur Ögmundarhrauns og Miðaldalagsins. Jökull 38. 71-87.
-Sigmundur Einarsson, Haukur Jóhannesson & Árný Erla Sveinbjörnsdóttir 1991. Krísuvíkureldar II. Kapelluhraun og gátan um aldur Hellnahrauns yngra. Jökull 41. 61-80.
-Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson 1998. Hraun í nágrenni Straumsvíkur. Náttúrufræðingurinn 67. 171-177.
-Páll Imsland 1998. Um náttúruvár á Straumsvíkursvæðinu. Náttúrufræðingurinn 67. 263-273.

Bruninn - Undirhlíðar og Helgafell fjær

Bögguklettar

1. Grísanes
Umhverfis Ástjörn eru nokkrar grónar tóftir frá fyrri tíð. Gatan frá Ási að Ásseli við Hvaleyrarvatn lá um Skarðið. Norðan við það, vestan götunnar er grjóthlaðinn stekkur.

2. Lækjarbotnar
LækjarbotnarÞegar gengið er upp með læknum er kemur úr Lækjarbotnum má sjá hvar hann liðast með norðurjaðri Stekkjarhrauns og Gráhelluhrauns (Lækjarbotnahrauns). Við upptökin eru hleðslur undan timburhúsi, sem þar stóð um tíma á vatnsþró. Frá húsinu lá trépípa niður til bæjarins. Sjá má leifar hennar neðan við hleðslurnar. Skammt neðar er stíflumannvirki, steypt og hlaðið

3. Frakkastígur
Yfir Selvogsgötuna liggur slóði, Frakkastígur. Um er að ræða línuveg, nefndur eftir verkamönnunum er reistu háspennumöstrin óálitlegu.

4. Kershellir

Kershellir

Kershellir.

Sunnan Suðurhlíðar milli Setbergshlíðar og Slétturhlíðar og er stór varða á vesturbrún kershellis. Um töluverða hvelfingur er að ræða, um 40 metra langa, 10 metra breiða og um tveggja metra háa. Eftir að komið er niður í hellinn sjást göng upp með niðurfallinu. Þar er afhellir [Hvatshellir] álíka langur og aðalhellirinn, en þrengri. Heildarleng hellisins er um 100 metrar. Hellirinn fannst sumarið 1906

5. Valaból
ValabólEina opinbera staðfestingin á landnámi Farfugla í Valabóli er að finna í fundargerðarbók Bæjarráðs Hafnarfjarðar frá 13. júlí 1942 og er hún þannig: Farfugladeild Reykjavíkur fer fram á leyfi til þess að mega innrétta og hlaða fyrir hellisskúta norðanvert í Valahnjúkum. Bæjarráð leggur til að þetta leyfi verði veitt meðan ekki kemur í bága við annað sem talið er nauðsynlegra. Frá upphafi átti Valaból að gegna tvíþættu hlutverki. Í fyrsta lagi að verða áninga- og gististaður Farfugla og annars útivistarfólks, Farfuglahreiður. Í öðru lagi var hugmyndin að lagfæra og fegra umhverfi hellisins og gróðursetja blóm og tré.

6. Þríhnúkahraun

Strandartorfur

Varða ofan við Strandartorfur.

Strandartorfur eru tvær. Þær eru ílangar tóur undir aflöngum klettaborgum. Allt umleikis eru nýrri hraun. Selvogsgatan forna liggur skammt austan við þær.  Augljóst er að þarna hafa verið áningarstaðir fyrrum sem og hrístaka. Neðri Strandartorfan hefur stundum  verið nefnd Kaplatór á kortum. Selvogsgatan jafnan nefnd Suðurfararvegur meðal Selvogsbúa – og gerir enn.

7. Vatnshlíðarhnúkur
VatnshlíðarhnúkurRétt austan við jarðavegstipp í vestanverðri Vatnshlíðinni er merkjavarða milli Áss og Hvaleyrar. Henni hefur verið hlíft við annars miklu raski á svæðinu. Varðan er við stíginn frá Ási að Ásseli við Hvaleyrarvatn.

8. Hellnahraun
Stórhöfðastígurinn liggur frá Stórhöfða, upp með Fjallinu eina og upp á Undirhlíðarveg. Stígurinn sést einna gleggst á kafla þar sem línuvegur sker hann. Á þeim kafla hefur stígurinn verið unninn fyrir vagnaumferð, sem slíka kafla má víða sjá á hinum fjölfarnari götum frá fyrri tíð.

9. Brunntorfur

Brunntorfur

Hrauntungustígur um Brunntorfur.

Ofan við Brunntorfur liggur Stórhöfðastígur um gróið Hrútagjárdyngjuhraun (~5000 ára gamalt) með hraunjaðri Nýjahrauns/Brunans, nú nefnt Kapelluhraun, sem rann 1151.

10. Fjallið eina
Fjallið eina er móbergshnúkur (223 mys). Það varð til undir ísbreiðu, en efsti hluti þess, grágrýtiskollurinn, náði upp úr henni, eins og sjá má.

11. Kýrskarð
KýrskarðDalaleiðin frá Kaldársseli lá um Kýrskarð og út með Bakhlíðum (Gvendarselshlíð). Ofarlega í auðgengu skarðinu er gróin hrauntröð.

12. Ker

Kerin

Kerin.

Kerin eru tveir fallegir gígar utan í Undirhlíðum. Sjá má slétt helluhraun framundan, en það mun hafa komið úr gígum þessum. Ofan við vestari gíginn er birkitré, að sögn kunnugra, eitt það stærsta villta hér á Reykjanesskaganum.

13. Bakhlíðar

Gvendarsel

Gvendarsel í Bakhlíðum.

Gvendaselsgígar kallast hraungígar á stuttri gossprungu í bakhlíðum Undirhlíða milli Kaldárbotna og Gvendarselshæðar. Talið er að gosið hafi um miðja 12 öld. Hraunið rann annarsvegar á milli Helgafells og Undirhlíða og niður með Kaldá en hinsvegar í hraunfossi norður yfir Undirhlíðar þar sem þær liggja lægst.

14. Dalaleið
Dalaleiðin lá um Slysadal og Breiðdal. Suðaustan þeirra er vatnsstæði, lítil tjörn, sem nýtt var frá selstöðu í Fagradal.

15. Hrauntunguskúti
HrauntunguskjólHrauntunguskúti er einn af fjölmörgum fjárskjólum í Hraununum. Myndarlegar hleðslur eru beggja vegna opsins, sem á sumrum er falið á bakvið mikið og þétt birkitré.

16. Fornasel
Vatnsstæði, sem aldrei þornar, er við selið, sem verið hefur með tvískiptum húsakosti, sem verður að teljast sjaldgæft í þeim 400 selstöðum er enn má greina á Reykjanesskaganum. Eldhúsið stendur skammt vestan við baðstofuna og búrið. Vestar er stekkurinn og kvíin. Nátthagi er þar skammt vestar. Bjarni Einarsson, fornleifafræðingur, gróf í tóftirnar sumarið 2002 og kom þá í ljós að þær virtust vera frá því um 1400-1500.

17. Sjónarhólsskúti

Sjónarhólshellir

Sjónarhólshellir.

Landamerki Lónakots og Óttarsstaða liggur frá sjó suðsuðaustur í Sjónarhól. Á honum er Sjónarhólsvarða, en suður frá honum er Sjónarhólshellir/-skúti, fjárhellir stór inni í krika. Hann var áður yfirreftur, en nú er það dottið mikið niður. Skammt austur af Sjónarhól er stór hæð, sem er kölluð Vatnsstæðishæð. Rétt norður af Sjónarhól eru tvær háar vörður, er hétu Ingveldur og stóðu á Ingveldarhæð.

18. Stígamót
AlfaraleiðVið Alfaraleiðina milli Hafnarfjarðar og Hvassahrauns er mjög sérkennilegur, stakur klettahóll sem er eins og hetta í laginu. Þessi hóll er mjög áberandi þó hann sé ekki stór. Við hann sjást lítil og fá vörðubrot við götuna. Við hólinn liggur Lónakotsselsstígur áleiðis upp í Lónakotssel.

19. Gvendarbrunnshæðarskjól

Gvenndarbrunnshæðaskjól

Gvendarbrunnshæðarskjól.

Gvendarbrunnshæðarskjól er fjárskjól í Óttarsstaðalandi. Það er með hleðslum við op og er hellirinn í hæðinni við Alfaraleiðina. Fast austan við fjárskjólið er svo Gvendarbrunnurinn, gott vatnsból í klöpp en um brunninn þveran liggur gömul fjárgirðing, landamerki Straums og Óttarsstaða.

20. Sveinshellir
SveinshellirSveinshellir er fjárhellir með fyrirhleðslum í yfirborðsæð í gróinni jarðlægð vestan við Óttarsstaðaselstíginn (Rauðamelsstíginn-/Skógargötuna) milli Bekkja og Meitla áleiðis upp í Óttarsstaðasel. Áberandi kennileiti er varða, Sveinsvarða, við opið. Ekki er vitað um tilefni nafnsins. Hellirinn er feiknastór, en sést ekki, fyrr en að er komið, því að opin er svo þröngt. Fyrir munnann er vaxin birkihrísla. Hellirinn er hvergi manngengur, og fé fór ekki inn í hann nema rétt inn fyrir opið.

21. Fjallgrensvarða

Fjallgrensvarða

Norðan við Litlu-Sauðabrekku og Sauðabrekkugíga er áberandi landamerkjavarða á mörkum Straumslands og Óttarsstaðalands, sem nefnist Fjallgrensvarða og skiptir hinum mosavöxnu Fjallgrensbölum á milli jarðanna, en þar voru áður grösugir hagar. Ofan vörðunnar tekur við nokkuð sléttir mosar á helluhrauni. Grenin eru merkt með dæmigerðum steinum á þremur stöðum og hlaðin skotbyrgi grenjaskyttnanna er þar skammt frá.

22. Bögguklettur
BöggukletturKletturinn hefur nafnið Bögguklettur. Klofinn er um 100 metra langur og allbreiður. Hann hefur staðið þarna nokkuð hár fyrrum, en slétta helluhraunið umhverfis hefur síðan runnið allt um kring og í gegnum klofann. Á leið sinni hefur það smurt klettaveggina beggja vegna. Þegar hraunið hjaðnaði skildi það eftir u.þ.b tveggja metra háan hraunvegg utan á klettunum. Ljóst er að hraunstraumurinn hefur komið með allnokkrum hraða að austuropinu, runnið upp á klettana, sen síðan runnið rólegar niður í gegnum klofann og klettana allt um kring. Bögguklettar eru bæði falleg og stórbrotin náttúrusmíð. Sú saga var sögð um nafngiftina að klettarnir hétu eftir Böggu gömlu frá Vigdísarvöllum eða öðrum bæ þar í sveit. Synir hennar tveir hafi haldið að Hvasshrauni um Mosastíg til róðra, en gleymt sjóklæðunum. Þegar það uppgötvaðist hafi móðir þeirra, Bagga, bundið þau á bak sér og haldið í humátt á eftir sonum sínum. Hún ætlaði sér þó um of á langri leið, hreppti vont veður og leitaði skjóls í klettunum, sem eru örskammt frá Mosastígnum. Við vesturenda þeirra er lítil skúti. Þar leitaði Bagga skjóls, en varð úti. Þegar hún fannst hélt hún fast um sjóklæðin því þeim skyldi þó komið til réttra eigenda, hvað svo sem um hana yrði. Hvort þarna hafi verið sagt satt skal ósagt látið.

23. Tobburétt austari
StraumsselsstíguVið Straumsselsstíg er Tobburétt austari (Litla Tobburétt) í Tobbuklettum. Fyrirhleðsla er í stórri hraunsprungu, en ef vel er að gáð má sjá að hlaðinn bogadreginn veggur hefur verið framan við hana. Hann hefur verið leiðigarður fyrir fé, sem rekið var að réttinni að ofanverðu. Stígurinn liggur nú í gegnum garðinn. Þegar horft var á þverklett sprungunnar mátti vel sjá móta fyrir andliti í honum. Ekki er ólíklegt að ætla að álfarnir hafi viljað með því láta vita af tilvist sinni á svæðinu með þeim skilaboðum að fólki gæti þar varfærni. Vestari Tobburétt (Stóra Tobburétt) er skammt vestar.

24. Straumsselshellar nyrðri

Efri-Straumsselshellar

Efri-Straumsselshellar.

Í Nyrðri/neðri-Straumsselshellum eru fallegar hleðslur fyrir þremur opum þeirra. Þeir eru frekar lágir innvortis, en í þeim má sjá stuttar hleðslur út frá veggjum. Skammt norðan hellanna er hið ágætasta vatnsstæði.

25. Straumsselshellar syðri
Guðmundur Guðmundsson sem keypti jörðina Straum af Páli Árnasyni setti byggð í Straumsseli 1849, en hafði þá búið þar í tvö ár. Fyrsta árið  bjó hann í selinu ásamt föður sínum, Guðmundi Bjarnasyni, sem var oft nefndur Krýsuvíkur-Gvendur. Hann skyldi eftir sig miklar hleðslur víða, m.a. þessar í Efri-Straumsselshelli.

26. Gamla þúfa

Gamla Þúfa

Gamla Þúfa.

Svo nefnist hæsta hæðin í Almenningi, ágætt kennileiti. Um er að ræða gróna þúfu efst á þversprungnum hraunkletti í u.þ.b. 110 m hæð yfir sjó. Hún sést vel frá Straumsseli og áður fyrr var hún þekkt kennileiti á Straumsselsstíg áleiðis að Fjallinu eina. Skammt vestan við „þúfuna“ er hlaðin varða.

27. Hrútagjárdyngja
HrútagjáHrútagjá umleikur Hrútagjárdyngju. Líklega er gjáin í heild.þ.b. 5 km löng – og hrikaleg á köflum. Öskulög í jarðvegi ofan á hrauninu benda til að hraunið hafi myndast fyrir u.þ.b.  5000 árum.  Áður en dyngjan sjálf gaus myndaðist gífurlegur undirþrýstingur svo yfirborðið lyftist smám saman og myndaði loks háa bergveggi allt umhverfis  – með tilheyrandi sprungu – og gjármyndunum. Hraunsskjöldurinn hlóðst  upp og gígbarmarnir risu yfir umhverfið. Gos hófst og gríðarstór hrauntjörn myndaðist – og tæmist. Ógurlegur þrýstingur frá innskotinu myndaðist undir kvikuhólfinu. Storknað yfirborðið hefur verið tiltölulega þunnt svo landið reis enn meira en ella. Við það lyftist svæðið um 10-15 metra og myndaði nokkurs konar skál, sem fyrr er lýst. Upplyftingin sést allt umleikis.Straumssel

Urriðakotshraun

Gengið var um Urriðakotshraun með  það fyrir augum að skoða nokkrrar klettamyndanir sem þar eru. Sumir klettanna hafa verið nefndir, s.s. Grásteinn og Einbúi, en aðrir bíða skírnar. Urriðakotshraun er hluti Búrfellshrauns.
Urridakotshraun-22„Búrfellshraun er með elstu hraunum sem vitað er um á Heiðmerkursvæðinu. Það kom frá Búrfelli, sem er stakur gígur á hinu mikla sprungu- og misgengjasvæði sem teygir sig allt sunnan frá Krýsuvík, um Heiðmörk og norður fyrir Rauðavatn. Nafnið Búrfellshraun er samheiti yfir allt hraunið en einstakir hlutar þess heita sínum nöfnum, s.s. Smyrlabúðarhraun, Gráhelluhraun, Stekkjarhraun, Lækjarbotnahraun, Urriðakotshraun, Svínahraun, Vífilsstaðahraun, Flatahraun, Hafnarfjarðarhraun, Garðahraun og Gálgahraun. Hraunið rann í tveimur meginkvíslum frá Búrfelli norðvestur á milli grágrýtisholtanna og allt í sjó í Hafnarfirði og Skerjafirði. Sjór stóð mun lægra við ströndina þá en hann gerir nú svo ystu tungur hraunsins teygja sig út fyrir ströndina.

Urridakotshraun-23

Búrfellshraun er miðlungshraun að stærð. Það er 18 km2 að flatarmáli, meðalþykktin hefur verið áætluð um 16 m og rúmmálið því um 0,3 km3 (Guðmundur Kjartansson 1972). Þykkt hraunsins norður af vatninu er samkvæmt svarfgreiningu í borholum sem þar hafa verið boraðar 6-11 m. Guðmundur Kjartansson, jarðfræðingur, birti aldursgreiningar af því árið 1972.  Eitt af sýnunum er af birkilurki ofan á hrauninu við Balaklett í Hafnarfirði, annað af fjörumó rétt undir hrauninu við Balaklett og það þriðja er úr neðstu jurtaleifum í sniði við Balaklett. Aldur hraunsins ætti að vera lítið eitt yngri en aldur fjörumósins. Það er því um 8000 ára og hefur runnið um 6000 f.Kr. Sprungur og misgengi í hrauninu sýna hvar jörð hefur hreyfst og brotnað á síðastliðnum 8000 árum, þ.e. frá því hraunið rann. Sprungusvæðin eru nær eingöngu í þeim hluta hraunsins sem nefnist Smyrlabúðarhraun, þ.e. grennd við gíginn sjálfan og við Kaldárbotna. Ekki er vitað um neinar sprungur eða brot í hrauninu á láglendi eða nærri byggð.“

„Búrfell tilheyrir eldstöðvakerfi kennt við Krýsuvík. Búrfellsgígurinn er 179 metrar yfir sjó þar sem hann er hæstur og 140 metrar að þvermáli milli barmanna. Dýptin hefur mælst 58 metrar frá hæsta og 26 metrar frá lægsta barmi. Mismunurinn á barmi gígsins stafar af misgengi sem átti sér stað eftir að eldvarpið hlóðst upp.
Urridakotshraun-24Búrfell gaus einu sinni, það var flæðigos og framleiðslan var fyrst og fremst Búrfellshraun. Meginuppistaðan í eldvarpinu eru kleprar, þeir eru lagskiptir og hallar lögunum bratt niður í gíginn. Rofist hefur ofan og utan úr Búrfelli og hefur myndast hvasst egg á toppi fjallsins sem er úr lausri gosmöl.
Búrfellshraun er innan marka Garðabæjar og Hafnarfjarðarbæjar. Tveir megin hraunstraumar hafa komið frá Búrfelli. Það sem aðgreinir þessar kvíslir er Helgadalshraun. Búrfellshraunið gengur undir ýmsum nöfnum sem fyrr er getið, eftir því hvar það er. Sá hraunstraumur sem er Hafnarfjarðarmegin hefur eftirfarandi nöfn: Næst Búrfelli er Smyrlabúðahraun (kennt við fuglinn smyril sem gerði sér hreiður þarna), Gráhelluhraun, Lækjarbotnahraun, Stekkjarhraun, Sjávarhraun, Arnarhraun og vestar heitir það Flatarhraun.

Urridakotshraun-25

Garðabæjarmegin er fyrst Garðahraun, Urriðakotshraun, Vífilstaðahraun, Hraunholtshraun, Gálgahraun og Balahraun. Hraunið er stórbrotið apalhraun og meðalþykkt þess er ekki undir 20 metrum. Samkvæmt aldursákvörðun á mó sem kom í ljós hjá Bala á Álftanesi er það um 7240±130 C14 ára. Hraunið er ólivínbasalt og stærð þess er 18 km2. Grunnmassinn er fremur fínkornóttur og samanstendur af plagióklas, pyroxen, olivín, ilmenít og seguljárni (magnetíti). Búrfellshraun er ólivíndílótt og eru dílarnir 5-8mm í þvermál og stundum stærri.
Sá hraunstraumur sem runnið hefur í Heiðmörk og niður í Garðabæ hefur runnið eftir fallegri hrauntröð sem nefnist Búrfellsgjá. Búrfellsgjá þykir með fallegri hrauntröðum landsins. Gjáin er 3,5 km á lengd með meginstefnu í norðvestur.
Búrfellsgjá er mjóst upp við gíginn eða um 20-30 Urridakotshraun-26metrar milli barma en breikkar þegar lengra dregur og verður mest 300 metrar. Í hrauninu út með Vífilsstaðahlíð grynnkar hrauntröðin og hverfur, sá endi Búrfellsgjár nefnist Selgjá. Á köflum eru gjárveggirnir þverhníptir og mynda sums staðar grunna hellisskúta sem eru með snarhöllu þaki. Barmar, veggir og botn hrauntraðarinnar er allt úr Búrfellshrauni. Niðri í gjánni stendur fjárrétt sem nú er friðlýst.“
Hin ýmsu nafnkenndu hraun Búrfelsshrauns eru bæði lík og ólík. Í flestum þeirra rísa miklir klettadrangar, s.s. Gálgaklettar í Gálgahrauni, Gráhella í Gráhelluhrauni, Einstakihóll í Urriðakotshrauni, Miðdegishóll í Flatahraunu o.s.frv. Urriðakotshraun er hins vegar óvenjuríkt af stökum klettamyndunum eins og meðfylgjandi myndir sýna.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimildir m.a.:
-Árni Hjartarson – Vatnafar við Urriðakotsvatn – Vatnafarsrannsóknir 2005.
-Verkefni í Jarðfræði 303 – Hildur Einarsdóttir og Þóra Helgadóttir – Flensborgarskólanum vorönn 2000.

Gálgaklettar

Við Gálgakletta.

Brunntorfuskjól

Hrauntungustíg var fylgt suður Selhraun frá Krýsuvíkurvegi, inn í malargryfjur sunnan Brennu og síðan handan þeirra inn í Hrauntungu. Þar var litið á fyrirhlaðið skjól, en síðan gengið áfram til suðurs um Háabruna upp að Þorbjarnarstaðarfjárborginni norðan við Brunntorfur (Brundtorfur – tilhleypingastaður).

Hrauntungur

Hraunkarl við Hrauntungu.

Hrauntungustígur sést vel í sléttu helluhrauninu vestan Krýsuvíkurvegar. Varða er á hraunhól við jaðar malargryfjunnar. Stígurinn hefur verið fjarlægður í gryfjunum, en við suðurjaðar þeirra má sjá vörðu. Frá henni liggur stígurinn áfram inn í Hrauntungu, kjarri vaxinn hólma inni í vesturjarðri Kapelluhrauns. Tungan, sem er á milli Efri-hellra og Þorbjarnarstaðarborgarinnar, hefur verið skjólgóð og beitarvæn. Inni í henni austanverðri er fyrirhleðsla fyrir skúta. Erfitt er að koma auga á opið vegna þess að birkihríslur hylja það að mestu. Lítil varða er á hólnum ofan við opið. Skjólið, sem var smalaskjól, nefnist Hrauntunguhellir og er í hraunhól skammt norðan við nyrstu hrauntunguna úr Brunanum, en svæðið er nefnt eftir tveimur slíkum tungum vestur út frá meginhrauninu.

Hrauntungustígur

Hrauntungustígur.

Hrauntungustígur liggur frá Áslandi um Hádegisskarð með Hamranesi og suður yfir Brunann að Hrauntungum. Þaðan liggur leiðin milli Gjásels og Fornasels, hjá Hafurbjarnarholti upp í hæsta hluta Almennings og að Sauðabrekkum.
Brunanum var fylgt áfram til suðurs. Hver hraunkynjamyndin tók við af annarri.
Þorbjarnarstaðarborgin er efst í Háabrunanum. Hún er heilleg og fallega hlaðin. Það munu hafa verið börn hjónanna á Þorbjarnarstöðum í Hraunum, sem hlóðu hana um aldarmótin 1900. Börnin voru 11, samhent og dugleg til allra verka. Svo virðist sem ætlunin hafi verið að topphlaða borgina, líkt og Djúpudalaborgina í Selvogi, en hætt hafi verið við það.

Þorkell Árnason, bóndi á Þorbjarnastöðum hefur þekkt til byggingarlags hennar því hann var ættaður frá Guðnabæ í Selvogi. Kona kans var Ingibjörg Jónsdóttir, dóttir Jóns Guðmundssonar, hreppsstjóra á Setbergi.

Hrauntunguskjól

Hrauntunguskjól.

Ofarlega í Brundtorfum eru Brundtorfuhellar (Brunntorfuhellir), lágreistir, en þóttu hæfa vel til að hýsa hrúta Hraunamanna og Hvaleyeringa um fengitímann þegar hleypt var til ánna.
Gengið var til baka norður brunann skammt austar. Fylgt var refaslóð þar sem hún lá í gegnum mosahraunið áleiðis að fiskitrönunum austan Krýsuvíkurvegar. Rebbi hefur greinilega fetað slóðina þarna lengi.
Þegar komið var norður fyrir Rallykrossbrautina virtist gamall maður sitja þar á steini. Þegar komið var nær sást hversu steinrunninn hann var.
Kapelluhraunið er talið hafa runnið um 1151, á sama tíma og Ögmundarhraun og Afstapahraun. Öll hraunin eru talin hafa komið úr sömu gossprungunni, u.þ.b. 50 km langri, er náði frá suðurströndinni austan Ísólfsskála að Helgafelli ofan við Hafnarfjörð.

Brunntorfuskjól

Brunntorfuskjól.

Grindarskörð

Ætlunin var að ganga frá Strandarhæð ofan Selvogs og fylgja Selvogsgötunni, Eystri leið, til norðurs, allt niður fyrir Grindarskörð.
Bergmyndin í HerdísarvíkurfjalliVið Strandarhæð er Útvogsskáli (Skálavarða) og Dalhólar austar. Á þeim er Árnavarða. Fornugötur liggja niður að Digruvörðu (götur, sem FERLIR hefur áður fetað um Selvogsheiði). Halda átti áfram framhjá Kökuhól og yfir Katlahraun, um Strandardal framhjá Sælubunu og upp í Hlíðardal þar sem bær Indriða lögmanns átti að hafa staðið á fyrri hluta 17. aldar. Ekki var talið með öllu útilokað að enn mætti sjá móta fyrir tóftum þar, ef vel væri gáð.
Þá var ætlunin að rekja götuna um Litla-Leirdal, framhjá Rituvatnsstæðinu, um Hvalskarð, Stóra-Leirdal, um Grafninga og niður Grindarskörð þar sem gangan endaði ofan við Mosa.
Á leiðinni að upphafsstað ráku þátttakendur augun í sérkennilega risastóra bergmynd í veggjum Herdísarvíkurfjalls; kindarhaus, líkt og Surtla heitin hefði rekið þarna hausinn út úr hamrinum (sjá meira HÉR og HÉR). Margt býr í berginu…
Áður en lagt var stað var farið yfir lýsingu af Suðurfararveginum (Selvogsgötunni).
Eftirfarandi er hluti lýsingar Konráðs Bjarnasonar af kaupstaðaleið Selvogsmanna frá Torfabæjarhliði um Grindarskörð til Hafnarfjarðar, sem hann tók saman árið 1993.
Selvogsgata - kort“Þetta var gamla lestamannaleiðin um aldir og allt fram undir 1940 á meðan henni var haldið við ruðningi sem sýsluvegi.
Vorsmalamennsku og rúningi var lokið og ull fullverkuð, þurrkuð, sekkjuð og bundin til klakks, sem hestaburður á mörgum hestum. Góðveðursdagur var valinn, hestar heima við vel járnaðir og lagt af stað í fulla dagleið klukkan sjö að morgni.
Þorkelsgerði var um aldir ein jörð; lögbýli með bændakirkju á 15. og 16 öld og varð um skeið eign höfðingjanna á höfuðbólinu Strönd, en deildist síðar, einkum milli fjögurra búsetumanna, undir heitunum Austurbær, Miðbær, Vesturbær og Torfabær, eftir að Torfi Erlendsson, sýslumaður, náði þar búsetu ásamt Stafnesi. Hann kom þangað um 1656 og dó þar. Hin fjórskipta búseta á Þorkelsgerðisjörðinni er bókfest: 1681, 1703 (Jarðabók Á.M. og P.V.), 1706, 129 og 1735. Eftir 1760 varð samruni í Austurbæ og Miðbæ til bújarðarinnar Þorkelsgerðis I og æ síðan. Þá kemur fram í þinglesinni landamerkjaskrá 12.06.1890, að hún er gildandi fyrir Þorkelsgerði I, Vesturbæ og Torfabæ.
Hestalest Þorkelsgerðismanna lagði upp frá heimtröðinni austur í Moldu og þar norður og vestur með túngörðum, uns hún beygði á götuna upp Flögin á móts við áðurnefnt hlið. Gatan var vel rudd og eftir tæpan stundarfjórðung er lestin komin móts við Útvogsvörðu á hægri hönd. Mikil varða, þykk, ferköntuð með strýtu upp úr miðju og þar upp úr sundmerki, af tré í þríkant, enda mikilvægt tákn, vegna Stokksvíkurssunds til Þorkelsgerðislendingarvara.
Þá liggur gatan nokkuð greið eftir sandeyðingum, þar til hún nær grasflötum neðan Dalhólalágar. Rétt áður á vinstri hönd fórum við framhjá vörðubroti á lágum hól, Hrossabeinavörðu. Þar sá ég á æskudögum hvíttærð hrossabein þeirra er fallið höfðu í harðræði. Þar skammt ofar á vinstri hönd er Dauðhóll, einn vitnisburður um búgripafelli.
Nú erum við komin upp í Dalhólalágina, gróna vallendis snögggróðri. Austan við hana lá Bjarnastaðavegur í átt til sýsluvegar upp Selvogsheiði til Ölfuss.
Lestargatan úr Útvogi, er við fylgjum upp úr Dalhólalág, liggur fast að Útvogsskála, þykkhlaðinni ferkantaðri vörðu með strút efst og var allvíðsýnt frá henni, einkum inn í vesturheiði, allt til Hlíðarvatns og fjallgarðsins þar upp af. Við Skálavörðuna var fyrrum stekkur, er vel sást fyrir í umdæmi mínu.

Útvogsskáli

Austur af Útvogsskála voru Dalhólar og á einum stóð Árnavarða. Í norðaustur af henni sést til Bjargarhellis með vörðu á grónum hellishól. All nokkur austar af Bjargarhelli, eru sandkenndar grasflatir, er tóku við í suðvestur af Hásteinaflagi og sveigjast til suðvesturs, sem snögggróið valllendi vestan við hið mikla sandflæmi til austurs. Þar í sandjarðri eru Fornugötur, er liggja niður að Digruvörðu og framhjá henni til Nes og túngarðshliða Bjarnastaða.
Frá Útvogsskála lá lestargatan eftir snögggrónum vallargróðri, er náði inn að Kökuhól, en vestan við hann lá gatan inn á Rof með stefnu á Katlahraun, vestan Urðarfella. Ekki var löng leið frá Útvogsskálavörðu að Kökuhól, en rétt áður en við höfum náð til hans förum við yfir þjóðleiðina fornu úr Ölfusi framhjá Vogsósum til Útnesja.
Kökuhóll er vestasti hluti lágheiðararms þess, er liggur til vesturs frá suðurhluta Standarhæðar. Nokkru austar af honum fast við þjóðleiðina er fjárhellirinn Gapi. Framan við hann var fjárrétt vel hlaðin og stendur hún enn með lágum veggjum vegna þess hvað gróinn jarðvegur hefur hækkað innan hennar, svo og í hellinum, sem var fyrr hár til lofts og rúmgóður. Sagt var í honum hefðu fyrr á tímum hafst við næturlangt langferðamenn til Útnesja. Suður af honum var smáhellir með vörðubroti, en nú með gleymdu nafni. Nokkru austar og norður af Gapa, er allvíð hæð er ber hátt yfir umhverfi sitt og allvel gróið lyngi áður fyrr. Þar var venja að svipast um í hestaleit miðheiðar. Á hábungu hæðarinnar er hringlaga jarðfall, grasi gróið í botni ogmeð góðum niðurgangi fyrir menn og skepnur. Þetta er Kerið á Strandarhæð með stórhelli einkum í norður, er hýsti um 200 fjár. Strandarhellir, sem er sögulegur og verður því ekki komist hjá því að staðfesta það frekar:
Þorvarður og sonur hans Erlendur, lögmenn sunnan og austan sátu höfuðbólið Strönd í Selvogi á 15. og 16 öld og náðu undir það í krafti stórveldis síns, nærliggjandi jörðum. Erlendur fór að vísu offari og tapaði stóreign sinni til Konungs um 5 ára skeið, en fékk svo aftur 1558 og varð þá stórbú hans mest, allt til æviloka 1576, þá um áttrætt.
Sú saga er sögð og fyrir löngu skráð, að Erlendur átti 600 ásauði og af þeim gengu 200 með sjó á vetrum og höfðu þar Strandarhellirfjárborg, og geymdi þeirra einn maður. Önnur 200 gengu upp á völlunum við Strandarborgir (Borgirnar þrjár) og geymdi þeirra annar maður. Þriðju 200 gengu á Strandarhæð við Strandarhellir, og geymdi þeirra hinn þriðji maður.
Sú saga er sögð af fjárgæslumanni Erlendar við Strandarhelli, sem hafði ströng fyrirmæli frá Erlendi, sem og hinir, að týna engri kind úr hjörðinni og að líf smalamanns gæti legið við. Þá bar það til einn vetur, að fjármaður við Hlíðarendahelli í Ölfusi (um 12 km fjarlægð) fann 2 kindur með marki Erlendar á Strönd í fjárbyrgi sínu og voru Erlendi send boð þar um. Erlendur kallaði þá fjárgæslumann inn við Strandarhelli fyrir sig og var þungbúinn mjög og sagði að upp væri komið, að hann hefði týnt úr hjörð sinni og hverju hann svaraði til. Sauðfjámaður harðneitaði að hafa týnt úr hjörð sinni og sagði að kindur þessar hefðu geta komist neðanjarðar í Hlíðarendahelli, því enginn hafði komist svo langt inn í Strandar- eða Hlíðarendahelli að endir hafi fundist. Við þessu átti Erlendur engan mótleik og lét kyrrt liggja, því hann var mikill lögmaður og mat að verðleikum réttmæt gagnrök og viðurkenndi eigin rökþrot.
Útvogsskáli (Skálavarða)Við erum nú komin drjúgan spöl framhjá Kökuhól in á heiðina og áfram eftir hinu fjölgróna Katlahrauni, sem kemur niður austanvert af Hlíðarfjallsbrekkum og verður að Katlabrekkum í halla sínum. En þar sem lestargatan liggur yfir það í átt til Hlíðardals, er það milt og vinalegt í fjöljurtagróðri sínum. Austur af eru Svörtubjörg. Þar stendur Eiríksvarða í fullri reisn sinni svo tæpt á bjargsbrún að ekki fýsir menn að ganga framan við hana. Í munnlegri geymd er talið fullvíst að séra Eírikur Magnússon, hinn fjölfróði, hafi staðið fyrir byggingu vörunnar og valið henni stað. Tilgangur vörðubyggingarinnar hefu vafalaust verið slá að slá á þann stöðuga ótta er fólkið á úthafsströndinni bjó við, einkum frá landgöngu víkinganna voðalegu frá Algeirsborg, er gengu á land í Grindavík 20. júní 1627, nokkru vestar á sömu úthafsströnd.
Nú er lestin komin langleiðina yfir Katlahraun. Nú blasa við augum á hægri hönd Strandardalabrekkur allbrattar og vel grösugar að efstu brún. Kálfsgil, er liggur frá Stakafelli, klífur Strandardalinn nær miðju og endar innri hluti hans í hvammi undir bergvegg, sem gengur út í Katlahraun og verður að öxl þeirri er skilur að Strandar- og Hlíðardal. Úr bergöxl þessari sprettur silfurtær vatnslind, Sælubuna, sem er ómetanleg fyrir heyskapafólk í nefndum dölum.

Selvogsgatan við Kökuhól - vörðubrot fremst

Nú erum við lestarmenn í nokkrum halla á fótinn að komast framhjá bergöxlinni með sælubuninni sinni og þar með erum við komin á undirlendi Hlíðardals. Hann stendur Strandardal ofar mót hækkandi heiðlendi. Hann er hvammslaga og vel grösugur upp á brún. Efst í dalnum stóð eitt sinn bær Indriða lögréttumanns, Jónssonar. Hann var þar á fyrri hluta 17. aldar, merkur maður, góður skrifari og smiður.
Lestargatan frá Urðarfellum til Litla-Leirdals liggur yfir einskonar hraunmóa, ávallt vel rudd á tímum lestarmanaferða. Nú fara að koma í ljós þokkafullir hraunhólar á hægri hönd með nokkrum brekkuhalla frá þeim niður í dæld þar sem stargresi vex út í snoturt vatnsstæði, Rituvatnsstæðið, sem kom sér vel fyrir sauðféð í sumarhögum og heyskapamenn á fjalli. Ofan við vatnsstæðið beygði gatan í norðaustur upp grasbrekkuhalla. Þegar upp var komið blasti Litli-Leirdalur við, alllangur í sömu átt. Í suðausturhorni hans, nú á hægri hönd, er fallegur hraunhelluhóll með fallegri grasflöt er leggst upp að honum vestanverðum. Dalur þessi var allvel grösugur fyrr og sleginn ásamt brekkum og grasgeirum austan og innan við hann.
Gatan upp úr dalnum liggur eftir lágbrekkuhalla og sveigist brátt í norðvestur yfir hraunmóa með grasdrögum hér og þar, einnig með klifum sem voru á tímum lestarferðanna þannig gerðar að þær yrðu hestum sem best færar. Hinir mörgu svigar á vegferð þessari voru vegna hraunhólanna þar til komið var upp að Hvalskarðsbrekkum. Þá liggur gatan eftir mjúkri moldargötu neðanvert brekkum þessum þar til komið er að Hvalskarði, sem er allskörp klauf milli Hvalshnúks Eystri og Vestri. Sá Eystri verður því á hægri hönd og sveigist allhátt til norðurs, en sá Vestri á vinstri hönd upp skarðið og er alllangur í vestur, fer hækkandi frá Hvalskarði uns hann hækkar nokkuð við vesturhluta sinn. Þegar kaupstaðalestin kemur að Hvalskarði blasir lestargatan við sem afbragðslestargata, sneiðskorin austan í rauðamelsskriðu Hvalshnúks Vestri og endar í rúmri góðgötu á hálsinum upp af skarðsgilinu og liggur þaðan örstutta leið ofan í suðurhluta Stóra-Leirdals, sem liggur fast upp að Hvalhnúk Eystri. Graslendi hans er breiðast og best syðst. Þar mátti sjá á sumardögum á beit 50-100 sauðfjár, en að þar haf verið heyjaðir hundruð hestburðar verður að teljast vafasamt.
Selvogsgata - loftmyndHestar lestarinnar verða léttari í spori niður á grasvöll dalsins, enda hefðarlöggiltur áningastaður á hinni löngu lestarleið yfir Grindarskörð. Hér eru hestburðir ofan teknir og hestar leystir úr lestarbandi og þeim leyft að grípa niður með reiðing sínum og beisli um háls. Þar spenntu lestarmenn töskur sínar frá hnakki og tóku fram nesti sitt. Klukkan var um 11 f.h. og hafði því lestargangur í Stóra-Leirdal verið 4 klukkustundir á fótinn.
Á heimleið úr kaupstað var hér gjarnan tekinn tappi úr flösku sem gekk milli manna og dreypt var á af háttvísi. Því fylgdi eftir ættjarðarsöngur sem fór vel í fjallasal þessum.
Var nú haldið norður eftir dalnum og um sinn eftir leirflagi (sístækkandi) framhjá hraunbrún hins víðáttumikla Skarðahrauns á vinstri hönd. Við norðurenda dalsins var farið framhjá lágbungu þeirri er tengist Hvalhnúk Eystri og þá á hægri hönd. Þarna gæti verið Sæmundarmelur sá er sumir nefna.  Norðan við lágbungu Hvalhnúks Eystri tók við vesturjarðar Heiðarinnar háu sem verður með lágbrekkusniði á hægri hönd milli skarða. Að götunni vestan megin liggur hið mikla Skarðahraun fast upp að götunni og sumsstaðar yfir hana en það liggur fast að Hvalhnúk Vestri í suðri og til Draugahlíðar og Kerlingarskarðs í norðri en í vestur allt til Brennisteinsfjalla.
Lestargatan milli skarða var allgóður lestarvegur með árlegu viðhaldi í ruðningi á árum áður, einnig í skorningunum milli hrauns og hlíðar er Grafningar nefndust. Sumsstaðar var sýnt að gamalt hraun ofan af heiðinni hafði hnigið undir vegferð lestargötunnar. Þarna gæti veri það sem kallað hefur verið Hrauntraðir. Ferð lestarinnar milli skarða miðar vel og er komin um hálftíma ferð frá Stóra-Leirdal norður úr Grafningum og að beygja sunnan við Litla-Kóngsfell. Með beygju þessari mildast vegferðin með snögggrónum lautum, ásamt pollum í dældum. Hér verður þessari vegferð lestarinnar í vesturátt til Grindarskarða en hið einkarfallega hringlaga fell Litla-Kóngsfell á hægri hönd. Það er borglaga gígsfell hæst á suðurbarmi og með grasgeira neðantil. Norðaustur af því er gjá mikil, Stórkonugjá. Það er talið að fjall þetta sá á markalínu Gullbringu- og Árnessýslna með stefnu á Vílfilsfell, enda var Jósepsdalir sunnan þess smalaðar á haustdögum sem afréttarland Selvogshrepps um aldir.

Selvogsgatan

Ekki var nú lestarferð löng vestur að uppgöngu austanmegin Kerlingarskarðs. En rétt austan við uppgönguna fórum við yfir örmjóa apalhrauntungu er runnið hefur niður Skarðahraun. Þar standa Tvívörður við vegferð og frá þeim í beinlínu eru hinar vel hlöðnu vetravegsvörður í stefnu á vesturenda Hvalhnúks Vestri. Þær höfðu þann kost að út úr sérhverri þeirra stóð steinn í átt þeirrar næstu sem var mikið öryggi þegar hin svarta þoka lá yfir Skarðahrauni sem oft var. Nefndust steinar þessir Vegvísir.
Vestan við apalhrauntunguna lá vegurinn upp á Kerlingarskarð í allsnörpum halla, vel ruddur á tímum lestarferðanna sem og vegurinn yfir nefnda hrauntungu. Þá verður að taka fram að girðing sú sem títt er nefnd í nútíma var enn í þekkt á tímum lestarferðanna því hún var uppsett vegna mæðiveikivarna á stríðsáratugnum. Þá verður að minnast þess að hér skárust saman í sömu uppgöngu á Kerlingarskarð, Eystri leið eftir Katlahrauni og Vestri leið upp Selsstíg frá Herdísarvík og Stakkavík. En rétt áður en við beygðum upp á Skarðið blöstu við á vinstri hönd Draugahlíð og framhjá þeim í vestur sér til Eldborgar. En nær nefndri hlíð er að finna leifar af brennisteinsvinnslu Breta á púðurskots- og hernaðarárum þeirra.
Þegar lest okkar er komin á norðurbrún Grindarskarða rétt ofan við Kerlingarskarð blasir við augum víð og fögur sýn allt til þéttbýliskjarna á strönd hins fagurbláa Faxaflóa og til Akrafjalls og Esju í norðri, nær okkur Helgafell og Húsfell. Og enn nær okkur hið mikla helluhraun sem verður illþyrmislega úfið neðan undir Kerlingarskarði. Það er í fyrsta sinn sem nú við 12 ára aldur lít augum hina kvöldfögru strandbyggð Faxaflóans og óraði ekki fyrir því að þar myndi um hálfraraldar skeið æfi minnar renna. Á háskarði höfðum við verið um 5 klukkustundir á ferð úr heimabyggð.
Fyrir niðurgöngu Kerlingarskarðs er litið eftir klyfburði á hestum og gjarðir enn hertar. Við niðurgöngu var sýnt að gatan var vel valin í sveigum og nú vel rudd og vel tókst hinum vönu burðarhestum að spyrna framfótum sínum til móts við aðstæður.  Lestinni farnaðist því vel niður aðalbrattann. En þá tók við úfnasti hlutu Hellnanna. Líklega það sem kallað var Flár. Hér er víðsjál vegferð með bröttum klifum niður í svonefnda Mosa, einnig ótrygg vegferð, þar til mesti hallinn er að baki og við taka sjálfar Hellurnar með vel ruddri og varðaðri hestagötu í beinstefnu á Strandartorfur. Þegar komið var niður Hellurnar sást vel til hinna grösugu Kristjánsdala er liggja norðan undir fjallshlíðum þeim er sveigjast í norðaustur frá Kerlingarskarði í átt að Vífilsfelli.
Selvogsgatan í GrafningumVel gekk lestarferðin niður Hellurnar og við taka lágholt eða hrantungur með grasgeirum og moldarrofum. Hér eru því bithagar og væntanlega þess vegna kallaðir Kaplatótur (þunnar torfur). Af landslagi þessu taka við Strandartorfur sem taldar eru hafa tengst ítökum þeirra höfðingja er sátu Strönd í Selvogi fyrr á öldum.
Lestragatan liggur nú bugðótt yfri allvel gróið, gamalt helluhraun með Húsfellið reista á hægri hönd ó norðausturátt. Austanmegin þess liggur úfið, þykk hraunbreiða og sveigist suður fyrir fellið allt niður undir Mygludali þar sem það 
stöðvast í húm hraunkambi.
Nú er kausptaðalestin komin niður úr gamalgróna hrauninu og niður í hina grösugu Mygludali er teygjast á átt til Búrfellsgjár. Þeir einkennast af nær sokknum hraunhólum niður í grassvörðinn. Hér var gjarnan áð á austurleið og klyfjar stundum teknar ofan en nú talin tímaeyðsla þar sem skammt var til ferðaloka. Þess vegna hélt lestin rakleitt áfram yfir dalina út á rauðamelinn slétta í átt til Valahnúka.
Valahnúkar eru norðaustur af Helgafelli og eru gróðurlausar svartmelhæðir með bergstrýtum uppúr. Norðan þeirra hefur fyrr verið gróið land í átt til Mygludala en er nú uppblásið. Norðan í vestasta Valahnúknum er vinalegur grashvammur er nær upp að helli inn í móberg og nefnist Músarhellir.

Selvogsgatan í Grafningum

Kaupstaðalestin er nú kominm framhjá Valabóli og eftir nokkra hlykki á hestagötunni er hún komin á lágan melás er liggur til norðurs með grösugum brekkuhalla að sunnan sem endar niður í djúpum sérkennilegum dal. Þetta er Helgadalur með vinalegri tjörn vestast er nær upp að gjáarbergvegg. Hestagatan liggur niður brekkuna nyrst ú dalnum og kemur að nefndum bergveggofan við tjörnina. Þar liggur gatan upp hið illfæra klif upp á gjáarbergsbarminn. Þegar upp er komið tekur við slétt greiðfært helluhraun, Slétthraun.
Innan við stundarfjóðung var burðarlestin að komast yfir Séttuhraun sem markaðist vestanvert af Folaldagjá, ljótri sprungu í misháum gjáarvegg er lá í átt til Gjáarréttar í norðaustri. Þar allnokkru norðar Selogslestargötu reis upp allhár bergkambur vestan við gjána og ber nafnið Smyrlabúðir. Þar verptu smyrlar í áraraðir. Þegar burðarlestin var komin norðvestur yfir Folaldagjá tóku við uppblásin melholt og vel grónir lágmóar sunnan þeirra, ásamt kjarrbreiðum og nær bithagi þessi fram í átt til háhæðar Sléttuhlíðar.

Brátt fer hið úfna apalhraun á hægri hönd að láta meira til sín taka en hestagatan fær möguleika til þess að liðast eftir vinalegum grasgeirum sunnan undir hrikalegum hraunjarðrinum á hægri hönd. Endaði þessi sérkennilega vegferð í þríhyrndi grasflöt er teygðist suður á vestrubrún Sléttuhlíðar. Þar lá gatan yfir allgróið hraun í átt til austurenda Setbergshlíðar og lá í hallanum niður að hlíðinni fast að Kershelli. Kershellir opnast til suðurs í er bolli með botngróðri er nær upp að lestargötu þeirra Selvogsmanna. Þar var talið að hraktir vegfarendur hafi leitað skjóls fyrr á tímum, sem og í Músarhelli Valabóla.
Fleiri sigbollar með smáhellum eru sýnilegir á vinstri hönd á leið niður hallan frá Kershelli uns komið er niður á jafnlendið móts við austasta hluta Setbergshlíðar. Þar með hefst síðasti áfangi leiðarinnar eftir vel ruddri hestagötu milli hinar fögru kjarrivöxnu Setbergshlíðar á hægri hönd og Gráhelluhrauns á vinstri hönd en það er gamalgróið hraun, lungi og kjarri vaxið og geymir ótal hraunbolla grasi og skógi vaxna. Þar er einnig að finna minjar um sauðfjárbúskap Setbergsbænda.
Gráhelluhraun nær frá Setbergshlíð suður ap norðausturhlíðum Ásfjalls en það mjókkar og dulúð þess magnast er nær Selvogsgatan ofan Mosadregur byggð og á sín endimörk nyrst undir Hádegisholti (eyktamörk frá Setbergi).
Kaupstaðalestin úr Selvogi hefur nú að baki götuna ljúfu undir hinni fögru Setbergshlíð og slakkan norðvestan hennar og er nú undir nyrsta hluta Hádegisholts.
Þar má sjá hinar tæru bergvatns-uppsprettur sem streyma fram undan nyrsta hluta Gráhelluhrauns og verða að straumhörðum læk er hlykkjast milli hrauntungu og láglendis suðaustur af Setbergstúnjarðri uns hann mætir læk þeim sem rennur úr Urriðakotsvatni og fer síðan niður austan við Kaplakrika til suðausturs. Sameinaðir verða þeir að Hamarskotslæk er rennur til sjávar gegnum Hafnarfjarðarbyggð vestan Hamarsins.
Vegferð lestarinnar liggur frá Lækjarbotunum í átt til Mosahlíðar á vinstri hönd og fram hjá Hvíldarbörðum sem svo voru kölluð vegna þess að fyrri tíma Hafnfirðingar settust þar niður á göngu sinni með hrísbagga sína er ætlaðir voru til eldneytis. Síðar varð þarna hinn endanlegi hvíldarstaður þeirra, Kirkjugarður Hafnafjarðar. Þar rétt neðar komum við að Selvogsgötu sem svo er nefnd vegna hinna fastmótuðu lestarferða Selvogsmanna vor og haust um aldir.
Nú er ljóst að við höfum verið rúma fjóra tíma á leið okkar úr Kerlingarskarði og þar með á tíunda klukkutíma úr Selvogi, að frádreginni áningu í Stóra-Leirdal.“
Enn sést móta fyrir stekknum vestan við Útvogsskálavörðuna. Gatan liggur niður með stekknum og verður æ greinilegri eftir því sem húm fjarlægist gróningana á hæðinni.Í lýsingunni sleppir Konráð hins vegar Skarðsvatnsstæðinu, stuttu áður en komið er að Kerlingarskarði.
Fallnar vörður og vörðubrot eru við þennan kafla Selvogsgötunnar svo til alla leiðina, frá Útvogsskála á Strandarhæð að Mosum undir Grindarskörðum. Upplýsing um tóftir bæjar Indriða lögréttumanns Jónssonar í Hlíðardal er og verður tilefni sérstakra skrifa á vefsíðuna (sjá HÉR).
Frábært veður. Gangan tók 6 klst og 6 mín.
Sjá MYNDIR.
Heimild:
-Konráði Bjarnasyni – 1993.

Lambagras

Krossstapar

 

  1. Markraki er óbrennihólmi  í Stóra-Bolla- og Tvíbollahrauni.
    Markraki - varða

    Varða á Markraka.

    Norðaustast  á honum er hornlandamarkavarða á mörkum Hafnarfjarðar og Garðabæjar.Þaðan liggur markalínan til norðurs um vörðu efst á Húsfelli.

  2. Markrakagil er gil í Undirhlíðum norðaustan Vatnsskarðs. Um það liggja landamerki Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur. Áður höfðu mörkin legið um Vatnsskarð frá vörðu efst á Fjallinu eina. Markarki er eitt margra heita á ref.
  3. Húsfell er hæst 287 m.y.s. Um það liggja mörk Hafnarfjarðar og Garðabæjar. Frá því liggur línan áfram til norðurs um vörðu á Kolhól og áfram til norðurs um vörðu skammt ofan við Arnabæli á Hjöllum.
  4. Á Þormóðshöfða er varða; landamerki Hvaleyrar og Áss. Höfðarnir ofan Hvaleyrarvatns heita auk Húshöfða, Selhöfði, Stórhöfði, Þormóðshöfði (Langholt), Miðhöfði og Efstihöfði sem var allt eins nefndur Fremstihöfði.
  5. Landamerki Hvaleyrar voru um Fuglastapaþúfu[r]: úr  hinum stóra steini í Hvaleyrartjörn, sunnanvert við Skiphól uppí Fuglastapaþúfur;  uppeptir þaðan í Bleikistein, sem er í norðanverðum Bleikisteinshálsi, þaðan um Hvaleyrarselshöfða, Þormóðshöfða og Fremstahöfða upp í Steinhús.
    Þormóðshöfði - varða

    Varða á Bleiksteinshálsi.

    Að ofanverðu (austanverðu): úr Steinhúsi suður í Melrakkagil (sem sumir nefna Markrakagil).

  6. Á Bleikisteini er markavarða Hvaleyrar og Áss. Ofar, á Bleikisteinshálsi, er markavarða í línu að Þormóðshöfða. Þessi varða er nokkrum metrum ofan við endimörk mikils jarðrasks utan í hálsinum.
  7. Á Fremstahöfða er varða, mark á landamerkjum Straums og Garðakirkjulands. Landamerkjabréf fyrir Hvaleyri var undirritað 7. júní 1890 og þinglýst tveimur dögum síðar. Samkvæmt því eru landamerkin svohljóðandi: Að norðanverðu: úr hinum stóra steini í Hvaleyrartjörn, sunnanvert við Skiphól upp í Fuglastapaþúfur; þær bera hvor í aðra; þaðan beina stefnu rjett fyrir sunnan Ásstekk; uppeptir þaðan í Bleikistein, sem er í norðanverðum Bleikisteinshálsi, þaðan um Hvaleyrarselshöfða, Þormóðshöfða og Fremstahöfða upp í Steinhús.
  8. Efst á Fjallinu eina er gömul markavarða milli Garðalands og Krýsuvíkur. Síðar var línunni breytt og færð svolítið norðar; dregin frá Markhelluhól í Markrakagil,  þannig að fjallið féll þá innan marka Krýsuvíkur.
  9. Hádegishóll er eyktarmark frá Hraunsholti. Hann er nú á mörkum Hafnarfjarðar og Garðabæjar.
    Hádegishóll - varða

    Varða á Hádegishól.

    Þann 30. ágúst 1913 seldi landssjóður Hafnarfjarðarkaupstað eign Garðakirkju á kaupstaðasvæðinu og nokkurn hluta af öðru landi hennar; bein lína úr Balaklöpp við vesturnda Skerseyrar í veginn frá Hafnarfirði til Reykjavíkur (Engidal), um Hádegishól frá Hraunsholti. Sunnan undir hólnum var selstaða frá bænum.

  10. Miðaftanshóll  er gamalt eyktarmark frá Vífilsstöðum, einnig nefndur Hagakotshóll.
    Miðaftanshóll - varða

    Varða á Miðaftanshól.

    Á hólnum er varða, núverandi landamerki Hafnarfjarðar og Garðabæjar. Sunnan undir Miðaftanshól eru hleðslur undir fyrirhugaða járnbraut, sem unnar voru í atvinnubótavinnu og til stóð að leggja frá Hafnarfirði og yfir hraunið árið 1918. Brautin er svo til bein í gegnum hraunið, rétt áður en komið er yfir austurbrún þess.

  11. Um Markahól liggur markalínan milli Straums og Óttarsstaða skv. landamerkjabréfi fyrir Straum, sem  var undirritað 31. maí 1890 og þinglýst 9. júní sama ár.
    Markhelluhóll

    Markhelluhóll.

    Samkvæmt því eru landamerkin svohljóðandi: Landamerki milli Straums og Óttarstaða, byrja við sjó á Vatnaskersklöpp, yfir miðjan Markhól og þaðan beint í Stóra – Nónhól; frá Nónhól, í Gvendarbrunn;….

  12. Stóri-Nónhóll er eyktarmark frá Straumi (kl. 15:00). Hann er jafnframt á landamerkum Straums og Óttarsstaða.
  13. Klofaklettur er á mörkum Straums og Óttarsstaða. Skv. Gömlum heimildum átti að vera klappað á hólinn stafirnir „Ótta.“, „Str.“ og „varða hlaðin hjá. Ekki er hægt að greina þessa áletrun lengur, en varðan sést enn skammt frá klettinum.
  14. Markhelluhóll (einnig nefndur Markhóll í heimildum) er á mörkum Straums, Krýsuvíkur og Óttarsstaða. Á helluna eru klappaðir stafirnir „ÓTTA“, „STR“, „KRYSU“.
  15. Steinhús  (einning nefnt Steinhes) er náttúrulegt „hús“ á landamerkjum Hvaleyrar og Garða.
    Steinhús

    Steinhús.

    Í eiginhandarbréfi séra Árna Helgasonar í Görðum til sýslumanns, dags. í Görðum 1848, segir m.a. um mörkin: „Á sydri hraunbrúnina hjá Nordurhellrum og so sudur eptir Smillubúdar hraunsjadri og I midjan Kjötshellir og so hraunid allt fram ad Steinhusinu, og so beint ur steinhusinu og upp sydri Kaldárbotna; þadan, og allt Helgafell, I Markraka, úr Markraka og í Daudadali úr Daudadölum og í Strandartorfu, úr Strandartorfu rettsýnis í Húsfell, so úr Husfelli og I Hnífhól úr Hnífhól og heim í Arnarbæli“.

  16. Um Moldarkrika liggja gömul hornmörk Hvaleyrar og Jófríðastaðar (Ófriðarstaðar) og Hamarskots (Garðakirkjulands). Hamarskot nýtti sér um tíma hrístöku í Gráhelluhrauni í óþökk Garðaprests, auk selstöðu efst í hrauninu.
  17. Varða (Markavarða) á Balaklöpp er landamerki Hafnarfjarðar og Garða frá árinu 1913 er landssjóður seldi Hafnarfjarðarkaupstað hluta kirkjujarðarinnar.
    Bali - varða

    Balavarða.

    Úr vörðunni er sjónhending í vörðu aftan (suðvestan) við Hrafnistu. Björn Árnason, bæjarverkfræðingur, fékk verkamenn til að ganga á allar markavörðurnar utan og ofan Hafnarfjarðar árið 1960 og steypa á milli steinanna svo þær varðveittust betur. Þetta var fyrir tíma GPS-tækninnar.

  18. Selshellir er tvískiptur; annars vegar er Setbergsfjárhellir og hins vegar Hamarskotsfjárhellir. Landamerkin liggja um miðjan hellinn, eins og sjá má á landamerkjavörðunni ofan og skammt austan hans. Fyrirhleðsla í miðjum hellinum aðskilur selstöðurnar. Stekkur Hamarkotssels er rétt sunnan við hrauntröðina, sem hellirinn er í, og stekkur Setbergssels er norðan við hana. Hér er greinilega um dæmigerðar heimaselstöður að ræða, þ.e. þær eru tiltölulega skammt frá bæjunum.
  19. Einn krosstapanna ofan við Lónakotssel er í heimildum nefndur Hraunkrosstapi. Um hann liggja landamerki Lónakots og Óttarsstaða;  þ.e. l andamerki að sunnan, talið frá Óttarsstöðum; úr Markaviki að fyrir innan Grunnfót, þaðan beina línu um stein og upp í Krossstapa þaðan að Krýsuvíkurlandi um Mark[hellu]hól.
  20. Hádegishóll er eyktarmark frá Vífilsstöðum. Í örnefnaskrá fyrir Urriðakot er hann nefndur Dyngjuhóll. Urriðakotsfjárhellar (Maríuhellar) og Vífilsstaðafjárhellir eru skammt norðan við hólinn.
  21. Stórikrókur er neðan við Stórakrókshól (hraunhóll).
    Stórakrókshóll

    Stórakrókshóll.

    Hóllinn var landamerki milli Setbergs og Urriðakots. Um krókinn lá Stórakróksstígur [-gata]. Um hann fór Urriðakotsfólkið um Hafnarfjarðarhraun að Garðakirkju.

  22. Um Miðkrosstapa liggja mörk Óttarsstaða og Hvassahrauns. Þangað náðu einnig norðausturmörk Lónakots. Krossstaparnir eru tilkomumikil náttúrusmíð.
  23. Sjónarhóll (Stóri Grænhóll) eru á mörkum Lónakots og Hvassahrauns. Landamerki milli Óttarstaða og Lónakots – Landamerkjabréf fyrir Lónakot var undirritað 7. júní 1890 og því þinglýst 9. júní sama ár. Samkvæmt því eru landamerkin svohljóðandi:  Að vestanverðu, milli Lónakots og Hvassahrauns eru landamerki sem hjer segir:
    Hádegisholt - varða

    Varða á Hádegisholti.

    Landamerki þau byrja við sjó í svonefndum Markakletti, austanvert við Hraunsnes, úr honum í Skógarhól, úr Skógarhól í Stóra – Grænhól, úr Stóra – Grænhól í Hólbrunnsvörðu; úr Hólbrunnsvörðu í Skorásvörðu; úr Skorásvörðu í mið – Krossstapa, sem er hornmark á Lónakotslandi.

  24. Á Hádegisholti, einnig nefnt Flóðahjalli og Flóðaháls, er varða, Hádegisvarða; eyktarmark frá Urriðakoti.
  25. Markasteinn (Markaklettur, Merkjasteinn) er neðarlega í suðaustast í Syðsta-Tjarnholti. Hann er stór klettur með grasþúfu upp á.
    Steinninn er á mörkum Urriðakots, Garðakirkjulands og Setbergs.

    Markasteinn

    Markasteinn.

    Í Markasteini átti að búa huldufólk.

  26. Miðmundarvarða er á Miðmundarhæð. Hún á skv. örnefnalýsingu að vera eyktarmark frá Þorbjarnarstöðum. Um vörðuna liggja mörk Straums og Þorbjarnarstaða fyrrum. Líklegra er þó að varðan hafi verið eyktarmark frá Straumi, ef örnefnið á að vera rétt. Af stefnunni að dæma frá Þorbjarnarstöðum væri réttnefni á henni „Miðdagsvarða“ og hæðin ætti þá að heita „Miðdagshæð“...
  27. Sílingarhella hefur einnig verið nefnd Silungahella.
    Sílingarhella

    Sílingarhella.

    Hádegishóll / Dyngjuhóll

    Dyngjuhóll (Hádegishóll).

    Hún er á vesturmörkum Urriðakots gagnvart Setbergslandi. Ofan hennar er hár stakur hraunstandur. Skammt austan við mörkin er gömul rétt frá Urriðakoti, enda tanginn oft nefndur Réttartangi og einnig Mjöltangi.Þema Ratleiks Hafnarfjarðar að þessu sinni eru landamerki og eyktarmörk.