Tag Archive for: Hafnarfjörður

Íslandskort 1590

Magnús Már Lárusson skrifar um Hafnarfjörð í jólablað Alþýðublaðs Hafnarfjarðar 1957 undir fyrirsögninni „Sitthvað um Fjörðinn„.:

Magnús Már Lárusson

Magnús Már Lárusson.

Fyrstur manna, sem notað hafa höfnina í Hafnarfirði, er Flóki Vilgerðarson, sem öllum er kunnur undir heitinu Hrafna-Flóki. Segir Landnáma frá því, eins og textinn er í Hauksbók og Þórðarbók, en Hauksbók, sem eldri er, var rituð fyrir Hauk Erlendsson, er dó 1334. Jafnframt er frá því skýrt, að þeir Hrafna-Flóki og félagar hans fundu hval á eyri út frá firðinum og kölluðu Hvaleyri. Hvaleyri er því eitt með elztu örnefnum á þessu landi. Ekki er unnt að nefna Hafnarfjörð mikinn fjörð. Miklu fremur er um vog að ræða eða vík. Þetta er samt svo til komið, að skorningurinn er nokkuð þröngur, þótt eigi sé hann langur, en í honum myndazt að sunnanverðu hið ákjósanlegasta afdrep fyrir smærri skip, eða hafskip landnámsmanna. Það getur vart leikið vafi á, að heitið sé upprunalegt og fornt mjög, m. a. má benda á, að það kemur fyrir í Kirknatali Páls biskups Jónssonar í Skálholti, og var það tekið saman um 1200. Að vísu þekkist það ekki í svo gömlu handriti, heldur eingöngu frá því um 1500 og nokkru yngra. Í Íslendingasögum getur heitisins aldrei, né heldur í Biskupasögum og Sturlungu, en í fjarðatali einu frá því um 1312. Það virðist sem svo, að hin ákjósanlega höfn hafi ekki verið notuð, enda voru ef til vill aðrir staðir hentugri, þegar á stærð skipa og samgöngur innanlands er litið. Það þurfti ekki svo stóra smugu til þess að geyma skip 10.—13. aldar.

Garðar

Garðar um 1900.

Nokkuð var Hafnarfjörður úrleiðis miðað við flutningaþörf almennt. Að vísu var stórbýli í grennd, þar sem Garðar á Álftanesi voru, auk annarra mikilla bújarða, en fiskverzlun var reyndar ekki orðinn enn eins snar þáttur í verzlunarmálum Íslendinga og seinna varð. Þótt stórbýlin væru í grennd, þá voru einnig góðar smáhafnir mýmargar við Faxaflóa aðrar en Hafnarfjörður. Eins og samgöngumálum var háttað innanlands, gat Hafnarfjörður ekki fengið neina verulega þýðingu í bili. Hin mikla útgerð, sem var á 10.—13. öld, var ekki staðsett á Hvaleyri eða Álftanesi. Hún var suður á Reykjanesi og yzt á Snæfellsnesi, að ótöldum Vestfjörðum. Að vísu má leiða allgóð rök að því, að Garðar, hin týnda landnámsjörð Skúlastaðir, hafi snemma klofnað upp í fleiri smærri einingar og ekki sízt vegna afstöðunnar til útvegs, en veitt er fyrir heimamarkaðinn, og þegar um 1200 eignaðist Skálholtskirkja þó nokkrar minni jarðanna. Fiskur af þessum slóðum hefur sennilega farið mikið til austur fyrir fjall, sá sem ekki var neyttur heima.

Jófríðarstaðir

Jófríðarstaðor á fyrri hluta 20. aldar.

Það er og eftirtektarvert, að ekkert býli fær nafnið Höfn eða Hafnarfjörður eða bara Fjörður. Þar eru önnur nöfn, svo sem Hvaleyri og Ófriðarstaðir. Þetta bendir til þess, að á þeim tíma, sem nafngiftin er áköfust, viðurkenna menn að vísu ágæti hafnarinnar, en hins vegar hefur hún ekki það mikla þýðingu, að hún hafi áhrif á nafngjöfina.
Fram á seinni hluta 13. aldar voru hafskipin ekki svo ýkjastór, og lesi menn Grágás eða Jónsbók, hinar fornu lögbækur, þá munu menn finna ýtarleg ákvæði um skipadrátt og annað, sem lýtur að því að setja skipin upp í naust yfir vetrartímann. Það er þá eðlilegt, að gullaldarritin skulu ekki geta Hafnarfjarðar að Kirknatali og Landnámu slepptum. Eins þegja og annálarnir lengi framan af. Það styður og ofangreinda skoðun. Samgöngur voru ekki svo litlar milli landa, að það eitt var nægilegt til þess að skapa þögnina um Hafnarfjörð.

Skip

Skip á 18. öld.

En í lok 13. aldar er áhrifa krossferðanna verulega farið að gæta í Norður-Evrópu. Krossferðirnar höfðu aukið þekkingu Evrópumanna á margan hátt; menn kynntust aftur verzlunarleiðum og verzlunaraðferðum, sem voru hálfgleymdar síðan á velgengnisdögum Rómaveldis. Í Evrópu rísa aftur upp borgir, sem legið höfðu niðri um skeið. Borgirnar framleiddu ekki nóg handa sjálfum sér, heldur varð að afla bjarga með verzlun. Iðnaður borganna og viðskipti gerðu borgarbúanum kleift að afla sér matar á annan hátt en að framleiða hann. Jafnframt varð dirfskan meiri við að búa stór skip, mun stærri en eldri skipin í Norður-Evrópu og á Norðurlöndum. Að vísu voru þau varla betur sjóhæf, en þau báru meira og það fór smám saman að tíðkast að setja á þau þilför. Er skipin stækkuðu, urðu kröfurnar til hafnanna aðrar og meiri en áður. Jafnframt því fóru Englendingar og Þjóðverjar að stunda eigin siglingar í ríkara mæli en áður. Þeir sóttu til Noregs ýmsar mikilvægar afurðir, meðal annars skreið. Og samfara þessum breyttu verzlunarháttum, virðist allmikil veðurfarsbreyting hafa átt sér stað. Hér á landi þvingaði hún fram nokkra breytingu á atvinnuháttum. Í stað þess að leggja aðaláherzlu á landbúnaðinn og hafa mikinn nautpening og stunda einhverja kornrækt, eru menn tilneyddir að stunda sjóinn meir en áður. Ennfremur rak á eftir fýki útlendra í skreið, vöru, sem var auðgeymd og flytja mátti um langar leiðir. Hér héldust í hendur innlendir og erlendir hagsmunir.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður 1720.

Þessi breyting er um það bil fullgengin um garð um 1330—1340. Þá sjá menn, hvernig munkarnir á Helgafelli hafa notað aðstöðu og tækifæri til þess að leggja undir klaustrið allar helztu útvegsjarðirnar á Snæfellsnesi á örfáum áratugum. En skipin eiga enn eftir að stækka. Þegar komið er fram á þennan tíma um miðja 14. öld, getum vér átt von á því að finna Hafnarfjarðar getið í heimildum. Enda fer að vonum, því í annálum er þess getið, að 1391 kom skip af Noregi til Hafnarfjarðar, og 1394 er þess getið, að skip hafi lagt í haf frá Hafnarfirði. Og nú er skammt að vænta þess, að Fjarðarins sé getið, svo að sjá megi, hversu þýðingarmikil höfn hann er.
Árið 1412 er merkisár í sögu landsins. Það er samt ekki innlend saga eða innlendir viðburðir, er gera árið svo merkilegt, heldur hitt, að þá getur fyrst Englendinga hér við land samkvæmt heimildum, er nú eru til. Þá skýrir Nýi annáll frá því, að skip af Englandi hafi komið austur fyrir Dyrhólmaey. Var róið til þeirra úr landi og í ljós kom, að á voru fiskimenn. Og sama haust urðu fimm Englendingar viðskila við lögunauta sína; gengu á land austur við Horn og sögðust hafa soltið í bátnum marga daga og vildu kaupa sér vistir. Voru þeir svo staddir hér um veturinn, því báturinn hvarf á meðan þeir voru burtu og mennirnir, er þar voru í. Vistuðust þessir fimm fyrir austan um veturinn. Jafnframt er þess getið, eins og reyndar áður, að engin frétt hafi komið af Noregi til Íslands, sem bendir til, að samgöngur við það land hafi verið stopular, enda utanríkisverzlun Norðmanna þá að mestu komin í hendur erlendra manna.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður 1903.

Næsta ár eða 1413 kom kaupskip af Englandi til Íslands. Fyrirliðinn hét Ríkarður. Segir Nýi annáll glöggt frá athöfnum hans hér á landi. Hann gekk á land austur við Horn, reið þaðan til Skálholts og þaðan aftur austur undir Eyjafjöll og sté þar á skip sitt og sigldi því til Hafnarfjarðar. Svo segir annállinn, að árinu áður hafi honum verið skipuð höfn á Eyrarbakka, en þar vildi hann ekki lenda. Allt hátterni hans bendir til, að honum hafi fyrirfram verið kunnugt um ástæður hér heima. Og nokkur von virðist, að honum hafi litizt miður vel á Eyrarbakka sem höfn. Hér syðra er sagt, að hann hafi haft kaupskap við Sundin og hafi margir af honum keypt; öðrum leizt miður vel á þetta og tekið fram um þá, að þeir hafi verið „vitrir“. Sigldi hann svo burt litlu síðar og þeir fimmmenningarnir, er höfðu verið hér um veturinn. En áður en í burt fór, tók hirðstjórinn, æðsti maður landsins, Vigfús Ívarsson Hólmur, af honum trúnaðareiða, að hann skyldi hollur og trúr landinu. Ennfremur var tekið fram, að Ríkarður þessi hafi haft „Noregskonungsbréf til þess að sigla í hans ríki með sinn kaupsskap frjálsliga.“ Að vísu munu sumir hafa efazt um, að það fái staðizt, en heimildin í Nýja annál er afdráttarlaus. Enda kom fyrir, að veitt voru afbrigði frá gildandi reglum, ef svo þótti henta.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður 1880-1885.

Meginreglan átti að vera sú, að engir nema norskir kaupmenn máttu sigla með kaupskap norður fyrir Björgvin eða til norskra skattlanda, eyjanna. Hins vegar sést á mýmörgum heimildum, að siglingu Norðmanna sjálfra stórhrakaði á 14. öld, og kann vel að vera, að hinn mikli mannfellir í svartadauðanum þar um miðja öldina eigi sinn þátt í því. Í íslenzkum heimildum eru tveir athyglisverðir dómar frá 1409, þar sem í ljós kemur glögglega, að konungsvaldinu veitist miður auðvelt að fá sinn varning fluttan af landinu til Noregs og jafnvel öfugt, erfiðlega hefur á þeim árum gengið að fullnægja Gamla sáttmála. Við báða dómana er nafngreindra norskra kaupmanna getið og eru tveir af þeim ráðamenn í Björgvin. Svo eitthvað hefur verið til af þeim enn; þó er vitað, að þýzkir kaupmenn voru þá í þann veginn að taka Björgvinjarverzlunina í sínar hendur. En allt þetta mál og vandræði stuðla að uppgangi Hafnarfjarðar sem verzlunarhöfn. Englendingar voru búnir að koma auga á hin ágætu hafnarskilyrði og heimildirnar sýna, að þeir halda siglingum áfram til Hafnarfjarðar. Og fiskveiðar þeirra hér við land stóraukast.

Skálholt

Skálholt.

Nýi annáll segir frá því, að árið 1413 hafi komið hingað við land 30 enskar fiskiduggur eða meir, og fyrir norðan og austan land eiga Englendingar að hafa farið með rán og yfirgang. Þó er skýrt frá því, að fyrir norðan hafi þeir lagt peninga í staðinn fyrir naut, er þeir tóku. Sennilega hafa menn verið hálfhræddir um að hrjóta lög og settar reglur og Englendingar því neyðst til að taka sér réttinn sjálfir. Fimm ensk skip komu til Vestmannaeyja og fluttu bréf Englandskonungs, að kaupskapur væri leyfður við hans menn, sérlega í það skip, sem honum tilheyrði. Og keypti svo hver sem orkaði eftir efnum. Hins vegar kom einnig til bréf Eiríks konungs, er bannaði öll kaup við útlenda menn, þá sem eigi var vanalegt að kaupslaga með. En sama árið dó og Jón biskup í Skálholti, er Ríkarður hinn enski heimsótti. Hann hafði áður verið ábóti í Múnklífi,klaustrinu við Björgvin.
Nú getur næst Hafnarfjarðar, er eftirmaður hans, Árni Ólafsson hinn mildi, kom út á knerri þeint, sem hanri sjálfur lét gera. Hann var þá voldugasti maður á Íslandi: Skálholtsbiskup, hirðstjóri konungs, umboðsmaður Hólabiskups og tilsjónarmaður erkibiskups í Þrándheimi. Ennfremur hafði hann umboð Múnklífisklausturs yfir Vestmannaeyjum og skuldheimtu fyrir marga kaupmenn í Björgvin. Sjálfur gekk hann á land við Þvottá í Austfjörðum, en knerrinum var siglt til Hafnarfjarðar. En auk knarrarins lágu það sumar sex skip ensk í Hafnarfirði, og er eitt þeirra sagt hafa rænt skreið á Reykjanesi og í Vestmannaeyjum.

Hinrik V

Hinrik V.

Hinu er einnig frá skýrt, að fráfarandi hirðstjóri Vigfús Ívarsson hafi tekið sér far með einu þeirra til Englands og haft með sér eigi minna en sextíu lestir skreiðar og mikið brennt silfur. Ein afleiðingin af þeirri ferð er sú, að hinn 7. okt. þetta samt ár 1445 gefur dómkirkjukapítulinn í Kantaraborg út bréf, þar sem lýst er yfir því, að Vigfús Ívarsson, móðir hans, kona og börn eru tekin undir bænahald heilags Tómasar biskups og píslarvotts. Hins vegar eru og önnur bréf gefin út í Englandi nokkru síðar, þar sem fram kemur, að Jakob Oslóarbiskup og Andrés riddari frá Losnu hafi kvartað undan yfirgangi og óskunda, er nokkrir enskir þegnar hafa gert á nokkrum eyjum Noregskonungs, einkum Íslandi. Því bannar hertoginn af Bedford, bróðir Englandskonnngs, í fjarveru bróður síns, að enskir þegnar fari um eins árs bil til fiskveiða við Ísland, og ítrekar Hinrik konungur V. bannið stuttu síðar, er hann ritar forráðamönnum ýmsra borga og verzlunarstaða og bannar þegnum sínum að fara hingað til lands til fiskveiða eða annarra erindagerða öðruvísi en áður hafði verið forn vani.

1419 er frá því skýrt, að gerði hríð á „skírdag svo hörð með snjó, að víða kringum landið hafði brotið ensk skip, eigi færri en hálfur þriðji tugur. Fórust menn allir, en gózið og skipsflökin keyrði upp hvarvetna.“ Og frá sama tíma er enn merkari heimild, þar sem er hyllingarbréf Íslendinga til Eiríks konungs af Pommern. Að vísu gæti manni virzt sem það væri nokkuð seint, þar sem Margrét drottning andaðist 1412.

Eiríkur af Pommern

Eiríkur af Pommern.

Þetta hyllingarbréf er árétting til konungsvaldsins, þar sem vitnað er glöggt til Gamla sáttmála og landsréttinda. Segir þar: „Kom yðart bréf hingað í landið til vor, í hverju þér bannið oss að kaupslaga með nokkra útlenzka menn. En vorar réttarbætur gera svo ráð fyrir, að oss skyldi koma sex skip af Noregi árlega, hvað sem ei hefur komið í langan tíma; hvar af yðar náð og þetta fátæka land hefur tekið grófan skaða. Því — upp á Guðs náð og yðart traust — höfum vér orðið að kaupslaga með útlenzka menn, sem með frið hafa farið og réttum kaupningsskap og til hafa siglt. En þeir duggarar og fiskarar, sem reyfað hafa og ófrið gert, höfum vér refsa látið“. Það virðist óneitanlega sem svo, að Íslendingar reki sína eigin utnríkispólitík um þessar mundir. Og Arnfinnur Þorsteinsson á Urðum, sem þá er orðinn hirðstjóri og undirritar hyllingarbréfið — Arnfinnur Þorsteinsson, yðra foreldra hirðmann, veitir þrettán dögum síðar tveim kaupmönnum verzlunarleyfi um allt land og leyfi til útgerðar úr landi. Er bréfið gefið út í Hafnarfirði og þar liggur skip þeirra, Kristaforus að nafni og er enskt. Báðir hirðstjóranir, Vigfús Hólmur yngri og Arnfinnur á Urðum, ganga í berhögg við konungsvaldið, landinu til góða. För Vigfúsar til Englands sýnir glöggt að annað og meira hefur búið undir en það eitt að vera tekinn í bænahald klerka í Kantaraborgardómkirkju, og var þó norskrar ættar. Hins vegar er Eiríkur af Pommern á margan hátt betri maður en ágripin gera hann, þótt hagsmunir hans rækjust á hagsmuni Íslendinga. Hann vildi markvisst efla innanlandsverzlunina í sínu víðlenda ríki, þar sem hann var konungur Norðurlanda allra, en skorti mýkt sinnar miklu fósturmóður til þess að fá menn á sitt band. Það er reyndar ekki svo óskennntilegt að hugsa til þess, að Hafnarfjörður hafi þegar komið við sögu á þenna hátt í sjálfstæðisviðleitninni á liðnum öldum.
Englendingar voru orðnir þess vísir fyrir löngu, að fiskimiðin hér voru hið þýðingarmesta forðabúr, og létu ekki hrekja sig í burtu. Nú fengu þeir að auki nokkrum árum síðar voldugan stuðningsmann, þar sem var biskupinn á Hólum, Jón Vilhjámsson Craxton, og Englendingur sjálfur. Að vísu hafa sumir haldið, að hann hafi verið norsk—enskur eða jafnvel sænskur og hafa sem rök, að Ragna nokkur Gautadóttir er nefnd frændkona hans í bréfi einu. Hún kann hins vegar að hafa verið systir Eiríks nokkurs Gautasonar Upplendings, er getur og í bréfum Jóns biskups. Frændkona merkir hér ekki annað en friðla, skv. málvenju almennri um alla Evrópu á þeim tíma. Í okkar heimildum kemur jafnvel fram, að laundóttir er nefnd frændkona og sonur frændi. Þessi nýi Hólabiskup kom út með enskum í Hafnarfirði.

Kristján IV

Kristján IV.

Hér á landi virtist hann reynast vel. Af bréfabók hans, sem er sú elzta, er varðveitzt hefur, verður ekki annað séð en að hann hafi verið hinn dugmesti og gegnt embætti sínu með alúð. Hins vegar sést svo og, að hann hafi dregið taum landa sinna, þegar við mátti koma. Nokkru síðar kom út annar biskup, Jón Gerreksson til Skálholts, og er frægur að endemum. Hann er sagður hafa komið hingað með Englendingum í Hafnarfjörð, en hafði veturinn áður setið í Englandi. Milli Englendinga og Þjóðverja er svo hörð samkeppni um verzlunina og fiskinn við Ísland, og kom til átaka milli þeirra á sjó og landi, meðal annars hér í Hafnarfirði, og kann að vera, að heitið Ófriðarstaðir stafi frá því, er róstusamt var í Hafnarfirði undir lok 15. aldar. Svo fór, að Englendingar voru hraktir burt af Þjóðverjum nálægt 1518 að sögn síra Jóns Egilssonar í Biskupaannálum.
Bækistöð sína í Hafnarfirði höfðu Englendingar við Fornubúðir svonefndu, en eigi verður vísað nákvæmlega á þann stað. Þjóðverjar settust að sunnan fjarðar vestan við Óseyri, sennilega á sama stað og Englendingar höfðu setið á áður, enda sá hentugasti staður. Voru það Hamborgarmenn, sem tóku sér bólfestu þar. Brátt virðist komið þar hverfi nokkurt, hafi það ekki verið áður. Þar getur timburhúsa og jafnvel kirkju þýzkrar; og eru þrír prestanna nafngreindir og hafa vafalaust verið mótmælendur, þar eð þess elzta getur fyrst 1538. Fyrir siðaskiptin hafa þessir ekki verið með öllu þýðingarlausir.

Fornubúðir

Fornubúðir.

Eigi er vitað, hvar kirkja sú stóð, en komi upp mannabein við húsbyggingar nútímans sunnan fjarðar, mun sennilega vera fundinn kirkjugarður sá, sem ugglaust hefur fylgt þeirri kirkju. Hún hefur sennilega verið öll úr timbri og af einni heimild má sjá, að hún hefur verið með koparþaki. Í Hafnarfirði hafa Hamborgarar haft sína aðalbækistöð hér við land, rétt eins og Englendingar. Hér var í rauninni höfuðstaður landsins. En hitt er ekki einkennilegt, að ekki skuli vera til lýsing á kirkjunni, svo að dæmi sé tekið. Hún var íslenzkum kirkjuyfirvöldhm óviðkomandi. Hitt sést, að safnað er til viðhalds hennar í Hamborg allt til ársins 1603, en þá eru þeir Hamborgarar þegar úr sögunni. Og 1608 skipar Kristján IV. konungur svo fyrir að rífa skyldi allar byggingar þýzkra í Firðinum. Konungsvaldinu var nokkur vorkun. Í þeim byggingum höfðu ýmsir þeir hlutir gerzt, sem vel gat sviðið undan að minnast, hvernig umboðsmaður konungs var tekinn til fanga og hafður í haldi og svo framvegis. Það er líka yfirlýsing konungs, að nú skuli í staðinn koma verzlun, sem eigi að lyfta undir aðalverzlunarborgir Dana og þá einkum Kaupmannahöfn.

Friðrik II

Friðrik II.

Faðir konungs, Friðrik II., hafði að vísu riðið á vaðið með því að veita hinum duglegasta og athafnasamasta danska kaupmanni, Markúsi Hess, borgarstjóra Kaupmannahafnar, verzlunarleyfi í Hafnarfirði 1576, en verzlunarhættir hans virðast hafa fallið Íslendingum svo illa í geð, að þegar eftir vorsiglinguna það ár senda þeir bænarskrá til konungs og kvarta. Samkeppnin, sem ríkti á 16. öld milli enskra og þýzkra leiddi af sér vöruvöndun og hagstætt verð, en Dönum lá á að græða sem mest á stuttum tíma, enda nauðulega staddir sjálfir. Þessi leigumáli féll niður 1579, og fékk þá höfuðsmaður, Jóhann Bockholt, leyfið og hélt um tíma í samkeppni við Hamborgara.
Sitt af hverju kom fyrir í Hafnarfirði, bæði á tímum Englendinga og eins á tímum Hamborgara og Dana. Stúlkurnar lentu í ástandi þá eins og nú. Að minnsta kosti er ekki annað að sjá af kvæðum síðmiðalda, menn stálu, drukku og slógust, rétt eins og nú. Og menn vorkenna manninum, sem stelur vegna neyðar sinnar kvinnu og fátækra barna, og lögréttumenn ganga í ábyrgð fyrir hann. Svo má lengi tína til.
Hin eiginlegu umskipti verða, er verzlunin er einokuð 1602. Þá fá borgararnir í Kaupmannahöfn, Helsingjaeyri og Málmey einkarétt á verzlunarstöðum hér á landi og er þeim skipt milli þeirra gegn 16 gamalla dala gjaldi af hverjum! Þá eru nafngreindir hinir nýju kaupmenn í Hafnarfirði. Fyrstur er Mikkel Vibe, hinn mikilhæfasti maður, er verður borgarstjóri í Kaupmannahöfn. Annar er Hermann Wöst, sem og var merkur og stórauðugur maður. Þriðii er nafngreindur Böill Sören Islænders, sem gefur tilefni til margskonar hugarbrota. Er hann íslenzkrar ættar, sonur Sörens Íslendings? Og gæti heitið verið afbakað fyrir Egill? Fjórði aðilinn er kona, er heitir Kristen, líklegast ekkja beykis nokkurs, Sören að nafni, þar sem hún er skilgreind Sören Böckerss. Það er auðséð, að Hafnarfjörður er álitinn vera einn aðalstaður landsins, þar sem auðugustu og valdamestu dönsku kaupmennirnir taka staðinn á leigu, menn, sem leggja fram rúmlega 1/3 hluta rekstrarfjár kompaníisins, sællar minningar, 1620.

Hans Nansen

Hans Nansen.

Af þeim kaupmönnum, sem svo síðar á öldinni er getið í sambandi við Hafnarfjörð, skal aðeins nefna hér Hans Nansen, einhvers mikilhæfasta Danann, sem uppi var á 17. öld. Hann gerðist borgarstjóri í Kaupmannahöfn 1644 og hægri hönd Friðriks III. í vörn Kaupmannahafnar móti Svíum, er Karl X. Gustav var búin að hertaka alla Danmörku, að slepptum smáskika þeim, er hin gamla Kaupmannahöfn nam. Hann var forsvarsmaður borgarastéttarinnar á móti aðlinum og veitti Friðriki ómetanlegan stuðning í því að koma aðlinum á kné með stofnun einveldisins. Hafnarfjörður hefur því enn á hans dögum verið talinn álitlegur athafnastaður, sem og sést á því, að sonur hans tók við verzluninni í Firðinum að föður sínum látnum. Á hans dögum var gerð ein mikilvæg breyting. Verzlunarstaðurinn hafði verið sunnan fjarðar frá fornu fari, á 17. öld á Hvaleyrargranda, en Hans Nansen yngri nær eignarhaldi á Akurgerði, og þá flyzt staðurinn norður fyrir fjörð, líklega skömmu eftir 1677. Margt sögulegt gerðist enn. Nú var mönnum bannað að leita út fyrir tiltekin verzlunarumdæmi, og er alkunnugt, hver meðferðin varð á Hólmfasti Guðmundssyni 1699 fyrir að selja nokkra fiska í Keflavík og fékk 16 vandarhögg fyrir. Þótt eymdin væri orðin mikil og ríki kaupmanna svo mikið, að jafnvel sjálfur Garðaprestur hafði ekki lengur í fullu tré við þá, þá var Hafnarfjörður samt aðalmiðstöð landsins. Þangað komu dönsku herskipin, þar söfnuðust kaupskipin saman til þess að hafa samflot heim til Danmerkur, þangað var rekið sláturfé af öllu Suðurlandi, því þar var eina brúklega og örugga höfnin. Það er því undarleg tilviljun örlaganna, sem réð því, að Hafnarfjörður skyldi ekki verða höfuðstaður landsins, Hafnarfjörður, sem átti svo ríkan þátt í að byggja upp borg hinna fögru turna við Sundið, sjálfa Kaupmannahöfn.

Skúli Magnússon

Skúli Magnússon.

Viðleitni Skúla Magnússonar til þess að skapa iðnað innanlands með stofnun innréttinganna var hin lofsamlegasta. Og Hvaleyri var lögð til innréttinganna og Fjörðurinn gerður að höfn fyrir fiskiduggurnar, sem áttu að rétta fiskíríið við, en það stóð skamman aldur. Fjörðurinn var of fjærri innréttingunum sjálfum og þá líka Skúla fógeta í Viðey. Og árið 1757 lagði hann til, að Hafnarfjörður yrði lagður niður sem verzlunarstaður og þá til þess að lyfta undir Reykjavík. Síðan hefur óneitanlega staðið nokkur togstreita unt það, hvort Hafnarfjörður fái að lifa. En er Bjarni riddari Sívertsen réðst í hinar miklu framkvæmdir sínar, sem voru fullt eins traustar og Skúla fógeta, og keypti Ófriðarstaði og Hvaleyri, auk verzlunarhúsanna í Akurgerði, og stofnsetti jafn þarflegt fyrirtæki og skipasmíðastöð, þá sýndi hann í verki, að Hafnarfjörður væri hinn ákjósanlegasti staður til athafna. Er hann því með réttu talinn höfundur kaupstaðarins. En staður þessi byggir enn á hinu sama og Englendingar ráku augun í um 1400.

Bjarni Sívertsen

Bjarni Sívertsen.

Undirstaðan er höfnin. Það er hún, sem skapar aðstöðuna, hin ágæta höfn, sem er hin bezta við Faxaflóa enn, sem komið er. Og það er undarlegt, að hún skuli ekki vera meira notuð nú á síðustu árum til þess að létta á Reykjavíkurhöfn, sem hefur alls ekki samboðið athafnasvæði í landi miðað við þýðingu og stærð, þar sem geymslupláss er sáralítið og umferðarskilyrði ein hin lökustu, sem sjá má í borg af svipaðri stærð. Hvað sem því líður, hefur Hafnarfjörður hin ákjósanlegustu skilyrði fyrir framtíðina, og þá ekki síst með kaupum sínum á Krýsuvík, þar sem finna má hin verðmætustu auðæfi náttúrunnar hér nærsveitis og verða munu til Þess að margfalda möguleika Hafnfirðinga framtíðarinnar til afkastamikils athafnalífs og aukinna nota hinnar ágætu hafnar.“ – Magnús Már Lárusson.

Framhald er undir fyrirsögninni „Enn úr firðinum„.

Heimild:
-Alþýðublað Hafnarfjarðar, jólablað 17.12.1957, „Sitthvað um Fjörðinn“ – Magnús Már Lárusson, bls. 4-6.
Hafnarfjörður 1890

Straumssel

Víða í hraununum sunnan, austan og vestan Hafnarfjarðar eru tóftir sem minna á horfna búskaparhætti. Hlaðnar réttir, fyrirhleðslur við skúta, kvíar, fjárhellar og vörður eru hluti af þeim minjum sem mest er af í Almenningi, en svo nefnist hraunið ofan Straumsvíkur. Þar eru líka tóftir frá þeirri tíð þegar haft var í seli á nær hverjum einasta bæ og koti á landinu. Eitt þessara selja var Straumssel og þar eru myndarleg tóftarbrot.

Selin framlenging á heimajörðunum
Straumssel-221Selin höfðu stóru hlutverki að gegna í Hraunum sem annarsstaðar. Þau liggja nánast í beinni línu frá býlunum á miðjum Reykjanesskaga um 3-4 km sunnan við bæina í svonefndum Almenningi, suður af Flám og Seljahrauni. Meðal þeirra voru Lónakotssel, Óttarsstaðasel, Straumssel, Gjásel og Fornasel. Að þessum selum lágu slóðir sem hétu ýmsum nöfnum s.s. Straumselsstígur, Hraungata og Skógarstígur. Um sauðburðinn var lambfé fyrst í stað haldið í heimatúninu, en lömbum í stekk svo þau gætu ekki sogið mæður sínar.  Síðan var féð rekið inn í stekkinn á kvöldin, lömbunum komið fyrir í lambakofa í stekknum og féð mjólkað að morgni. Gekk þetta svona til framyfir Jónsmessu, en þá voru ærnar rúnar áður en þær voru reknar í selið. Lömbum var haldið heima nokkru lengur, þar til þau voru rekin á afréttinn. Selráðskona eða matselja flutti sig um set í selið og hafði hún það hlutverk að mjólka féð og vinna matvöru úr mjólkinni.
Raudamelsrett-221Úr ærmjólkinn var framleitt smjör, ostur og skyr. Selráðskonan hafði með sér eina eða tvær unglingsstúlkur og smala, sem sat yfir ánum, daga og nætur. Hann hafði oft það hlutverk að strokka smjör á meðan hann sat yfir ánum og stundum var strokkurinn bundinn við bak hans og hann látinn eltast við féð á meðan smjörið strokkaðist Bóndinn kom síðan á þriggja daga fresti til að sækja smjör, skyr og annað sem framleitt var í selinu og færði heim á bæinn. Við selin eru stekkir eða kvíar og jafnvel náttból þar sem fénu var haldið yfir nóttina og gat þá smalinn sofið rólegur í selinu, eða fjárskúta sínum. Í Hraunum eru húsakynni selanna eins; þrjú áföst hús, mjólkurhús, baðstofa og eldhús. Stundum var fénu haldið langt fram á haust í seli og jafnvel allan veturinn þegar snjólétt var, en annars var það flutt heim eftir réttir og beitt á fjörur.

Búseta í Straumsseli
straumsselsstigur-221Almennt var hætt að hafa í seli um miðja 19. öldina víðast hvar á landinu og lagðist sá siður því af. Þó hélt einn og einn bóndi því áfram og eru heimildir fyrir því að Hvaleyrarbóndi hafi haft í seli við Hvaleyrarvatn lengst allra sem bjuggu í nágrenni Hafnarfjarðar. Oft voru selin ágætlega húsuð og því kjörið að nýta húsakostinn eftir að selstöður lögðust almennt af. Þegar Guðmundur Guðmundsson hafði keypt Straumsjörðina af Páli Árnasyni sem hafði keypt hana 1839 af konungssjóði. Guðmundur var gerður að skógarverði í Almenningi og settist þá að í Straumsseli. Þetta mun hafa verið um 1847. Hjá honum var faðir hans Guðmundur Bjarnason, oft nefndur Krýsuvíkur-Gvendur. Hann andaðist aldraður maður í Lambhaga vorið 1848, en Guðmundur skógarvörður andaðist fimm árum síðar í selinu, nánar tiltekið 1853. Þegar hann gerði Straumssel að bústað sínum klagaði leiguliði hans í Straumi búsetuna til sýslumanns.

Straumssel

Straumssel – bær skógavarðarins.

Leiguliðinn var Bjarni Einarsson en honum þótti það vera skerðing á fornum rétti landseta að skipta jörðinni upp með þessum hætti. Guðmundur lofaði að fjölga ekki býlum í Straumslandi meðan Bjarni byggi þar. Bjarni gekk að sáttinni að því tilskyldu að bygging hins gamla Straumssels væri sér með öllu óviðkomandi, skyldu yfirvöld kæra. Föst búseta var í Straumsseli í ein 40 á með hléum, enda vatnsstæði lélegt og erfið búsetuskilyrði. Meðal ábúenda í selinu voru hjónin Kolfinna Jónsdóttir og Siguður Halldórsson sem bjuggu þar á tímabilinu 1853-1863. Eftir það fluttu þau í Hafnarfjörð og bjuggu í Kolfinnubæ sem stóð þar sem nú er Strandgata nr. 41. Farnaðist þeim vel í selinu þó kjörin væru kröpp. Bjarni sonur þeirra fæddist í Straumsseli 1857. Talið er að síðast hafi verið búið í Straumsseli 1890-1895. Guðmundur lét reisa myndarlegt bæjarhús í Straumsseli sem stóð fram undir aldamótin 1900 en þá mun það hafa brunnið. Selið fór eftir það í eyði en bæjartóftirnar eru all myndarlegar.

Fjárskilaréttir

Búrfellsrétt

Búrfellsrétt. Gerðið fjær.

Á haustin voru leitir því geldfé sem gengið hafði á fjörubeit um veturinn var sleppt á vorin í úthaga, bæði sauðum og gemlingum. Einnig voru lömb látin ganga sjálfala í afrétti allt sumarið og þeim þurfti að koma heim á haustin til slátrunar. Var Gjárétt í Búrfellsgjá fjallskilarétt Álftnesinga lengi vel.

Lambhagarétt

Lambhagarétt við Kleifarvatn.

Áttu allir fjáreigendur hreppsins hvort heldur voru búendur eða þurrabúðarmenn að gera fjallskil til Gjáréttar. Hraunamenn, Hafnfirðingar sunnan lækjar og Ásbóndinn fóru í svokallaða suðurleit, og höfðu náttstað í hellum við Kleifarvatn í Lambhaga.  Garðhverfingar, uppbæjarmenn, Hafnfirðingar norðan lækjar og Álftnesingar fóru í norðurleit og höfðu náttstað í Músarhelli við Valaból. Síðustu árin meðan byggð hélst í Hraunum var Guðjón Gíslason bóndi á Stóra-Lambhaga í Hraunum fjallkóngur suðurleitamanna. Þegar rétta þurfti í Hraunum var Þorbjarnarstaðarétt haustrétt fyrir Innhraunin eða Austur-Hraunbæina Litla- og Stóra Lambhaga, Gerði, Þorbjarnarstaði og Péturskot.   Rauðamelssrétt var vorrétt Hraunamanna og kallast þessu nafni þó hún hafi legið nokkuð frá melnum, en hún var skammt frá Réttargjá og voru réttir þessar aðallega notaðar til rúninga áður sem fóru oftast fram um fardagaleytið.

Hlunnindi og kvaðir
einir-221Ekki voru Hraunajarðirnar miklar hlunnindajarðir. Þó hefur kjarrskógur í Almenningi, eða Hraunaskógur, lengi talist til mestu hlunninda þessara jarða. Þar var hægt að gera kol til eldunar og stundum mátti fá þar stórvið. Kvaðir voru á jörðunum að færa nokkra hríshesta heim til Bessastaða ár hvert og jafnvel stórvið. Þessar kvaðir hafa íþyngt ábúendum jarðanna því árið 1703 kvartar Sigurður Oddleifsson ábúandi í Lónakoti við Árna Magnússon og Pál Vídalín ,,um að skógurinn í almenningum væri svo foreyddur að hann ei til treystist þar að safna kolviði til landskuldargjaldsins” til Bessastaða. Þegar birkihrís og einir eyddist voru bændur látnir rífa lyng og koma til Bessastaða. Var sortulyngið aðallega rifið því ekki mátti skerða krækiberjalyng eða bláberjalyng og enn síður beitilyngið þar eð sauðféð nærðist á því. Bændur áttu einnig að greiða afgjald til Bessastaða í dagsláttu, smjöri, fiskum, vaðmáli og mannsláni um vertíð og þurftu að fæða verkamennina að auki. Torfrista var engin, engjar voru ekki fyrir hendi og rekavon var lítil sem engin. Helstu hlunnindi voru fjörugrastekja, sölvafjara, hrognkelsatekja í lónum, selbitinn fiskur, skelfisksfjara til beitu og berjalestur.

-Jónatan Garðarsson.

Gjásel

Gjásel.

 

Tobba
Gengið var upp að Óttarsstaðaborg og um Smalaskálahæðir áleiðis upp í Brennisel. Á leiðinni var litið á Alfaraleiðina, skoðaðar leifar, sennilega kolasels, skammt norðvestan Brennisels og síðan haldið upp að Álfakirkju og skoðað fjárskjól þar undir kirkjunni; klofnum hraunkletti.
Óttarsstaðafjárborgin er heilleg. Hún hefur einnig verið nefnd Kristrúnarborg eftir samnefndri konu Sveinsdóttur frá Óttarsstöðum, sem hafði forgöngu um byggingu hennar um 1870.

Óttarsstaðaborg

Óttarsstaðaborg (Kristrúnarborg).

Í Smalaskálahæðum eru sprungur. Ein þeirra kom við sögu í nýlegu sakamáli. Í hæðunum er falleg hraunskál með rauðamölshæð. Á henni var listaverk, sem nú er að mestu skemmt; Slunkaríki.
Tólf bæir, lögbýli, hjáleigur og þurrabúðir stóðu á ströndinni frá Straumsvík að Lónakoti. Þar var kallað í Hraunum og heitir svo enn þó að nú sjáist þar aðeins garðar, tóftir og nokkrir sumarbústaðir. Sjóróðrar voru snar þáttur í lífsbaráttunni, ekki sízt á Hraunabæjunum þar sem landkostir voru litlir og landþrengsli mikil. Þá hefur munað um sjávarfangið. Annar bjargræðisvegur á Hraunabæjunum var sauðfjárbúskapur, sem hefur þó verið í smáum mæli hjá flestum vegna þess að túnin voru varla annað en smáblettir og engjar ekki til. Hinsvegar var treyst á kvistbeit í hraununum og ekki tíðkaðist að taka sauði á hús. Þeir voru harðgerðar skepnur; leituðu sér skjóls í hraunskútum í aftökum, en gengu hrikalega nærri beitarlandinu.

Óttarsstaðaborg

Óttarsstaðaborg (Kristrúnarborg).

Á heimildum eins og Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín má sjá að algeng búfjáreign á Hraunabæjunum í upphafi 18. aldar hefur verið 1-3 kýr og aðeins 18-20 kindur. Síðar á sömu öld snarfækkaði fé af völdum fjárkláðans sem átti upptök sín skammt frá, á Elliðavatni. Búfé í Hraunum fjölgaði á 19. öld og fram á þá 20. Þá var algengt að 80-100 fjár væri þar á bæjunum, svo og tvær mjólkandi kýr og ef til vill ein kvíga að auki. Á stærri jörðunum áttu menn tvo hesta en smákotin stóðu ekki undir hrossaeign. Af manntölum má sjá að víða hefur verið mannmargt á kotunum og stórir barnahópar komust þar upp. Það er nútímafólki gersamlega óskiljanlegt hvernig fjölskyldur gátu framfleytt sér á landlausum hjáleigum, þar sem bústofninn var nokkrar kindur . Líklega hefur munað mest um sjávarfangið.
Þarna bjó fólk fram á miðja 20. öld og lifði nánast á engu eftir því sem okkur finnst nú.
Hraunabæir áttu kirkjusókn að Görðum í Garðahreppi, sem er talsvert löng leið fyrir gangandi fólk. En það var engum vorkennt að ganga þessa leið til kirkju; heldur ekki börnunum sem á fyrstu áratugum 20. aldarinnar gengu alla þessa leið til þess að komast í skóla. Síðar fengu þau skólastofu í húsinu á Óttarstöðum eystri.

Brennisel

Brennisel – kolagröf fremst.

Umhverfis Óttarsstaðabæina er eina umtalsverða og samfellda graslendið í Hraunum, enda var byggðin þéttust þar. Í hrauninu sjást minjar um sauðfjárbúskapinn. Þar eru nátthagar, kvíaból og fjárskútar, fallega hlaðin fjárborgin og réttir. Í Almenningi eru fimm selstöður: Lónakotssel, Óttarsstaðasel, Straumsel, Gjásel og Fornasel. Þar var haft í seli og þar bjó fólk og starfaði sumarlangt, frá 6. til 16. viku sumars.
Við upphaf nútíma fyrir um 10 þúsund árum var öðruvísi um að litast en nú á ströndinni frá Straumsvík vestur að Kúagerði. Raunar var það fagra land, þar sem Hraunabæirnir stóðu, alls ekki til. Ströndin var þá 2-3 km innar, en í goshrinum á Reykjanesskaga, sem einkum hafa orðið á 1000 ára fresti, rann hvert hraunlagið yfir annað og færði ströndina utar. Ein slík hrina varð fyrir um 2000 árum, önnur fyrir um 1000 árum og samkvæmt því ætti að vera kominn tími á næstu hrinu.

Búrfellshraun

Búrfellshraun – kort. Hér má sjá hverning hraunið mótaði umhverfi Hafnarfjarðar fyrir 5000 árum.

Á síðasta jökulskeiði lá jökulfargið meira og minna yfir Reykjanesskaga, en hafði að því er virðist ekki áhrif á gosvirknina. Stundum náðu hraunin að dreifa úr sér þegar íslaust var, en stundum gaus undir ísnum og gosefnin hlóðust upp í geilinni sem þau bræddu, hörðnuðu þar og urðu að móbergi. Sum hraun sem náðu að renna og dreifast hurfu alveg undir önnur nýrri. Það elzta sem sést á yfirborði í námunda við þetta svæði er Búrfellshraun, sem rann fyrir um 7.300 árum og Norðurbærinn í Hafnarfirði er byggður á.
Fyrir um 5000 árum varð mikið gos í Hrútagjá, nyrst í Móhálsadal, milli Sveifluháls og Núpshlíðarháls. Hraunið, sem kennt er við Hrútagjárdyngju, rann til sjávar og myndaði svæðið vestan við Straumsvík þar sem Hraunabæirnir voru byggðir, nærri 4000 árum síðar.

Hellnahraun

Hraun í nágrenni Hafnarfjarðar.

Fyrir utan hraunið úr Hrútagjá hafa tvær aðrar dyngjur átt mikinn þátt í að móta ásýnd Reykjanesskagans vestantil. Þó það komi Hraunabæjunum ekki við má geta þess hér til fróðleiks að flæmi hrauna úr dyngjunni Þráinsskildi þekja svæðið frá Kúagerði að Vogastapa og enn vestar er dyngjan Sandfellshæð; hraun úr henni dreifðust allar götur vestur í Hafnir.
Síðar hafa yngri hraun fyllt upp í lægðir og stundum náð til sjávar. Nærtækt er að benda á snarbratta brún Afstapahrauns við Kúagerði. Það er síðari tíma hraun eins og Kapelluhraunið austar. Hraunið undir landi Hraunabæjanna hafði góðan tíma til að gróa upp áður en nokkur lifandi skepna gekk um það og myndaðist víða kjarr í því, eða skógur, sem eyddist af rányrkju á öldum fátæktarinnar. Stærsti hluti þessa hraunflæmis heitir Almenningar og bendir til að þar hafi verið óskipt beitiland.

Tvíbollahraun

Tvíbollahraun.

Hin reglubundna dagskrá fór í gang á ný fyrir um 1000 árum; Ísland þá búið að vera numið á aðra öld og ef til vill enn lengur. Þá rann Hellnahraunið yngra, sem svo er nefnt, frá Tvíbollum í Grindaskörðum og náði einn hraunstraumurinn langleiðina til Straumsvíkur, en óvíst er að nokkur bær hafi þá verið í Hraununum; elztu heimildir um byggð þar eru frá því um 1200.
Frá fornu fari hafði ábúendum og öðru fólki á Reykjanesskaga verið skipt í útnesjamenn, sem bjuggu utan við Kúagerði, og innnesjamenn sem til að mynda bjuggu í Hraunum og á Álftanesi. Fram á 20. öld var mikil umferð ríðandi, en mun oftar þó gangandi manna suður með sjó og þaðan „inn“ í Hafnarfjörð og Reykjavík. Menn fóru í verið til Suðurnesja og svo þurfti að ná í blessaða þorskhausana og reiða þá austur í sveitir á baggahestum.

Brennisel

Brennisel – skjól.

Þorskhausalestir voru dagleg sjón á vorin. Enginn var vegurinn, aðeins götur sem fótspor hesta og manna höfðu markað og þær lágu í krókum og krákustígum eftir því hvar skást var að komast yfir hraunin.
Alfaraleiðin suður með sjó lá ekki um hlöðin á Hraunabæjunum, heldur lítið eitt sunnar, raunar sunnan við Keflavíkurveginn eins og hann er nú. Þessar götur eru nú löngu upp grónar, en samt sést vel móta fyrir þeim.
Lengst af voru Hraunabæirnir í Álftaneshreppi, en þegar Álftaneshreppi var skipt í Bessastaða- og Garðahrepp 1878, var talið að Hraunin væru hluti Garðahrepps eins og Hafnarfjörður. Eftir að Hafnarfjörður fékk kaupstaðarréttindi 1908 voru Hraunin áfram talin tilheyra Garðahreppi, en þau komu í hlut Hafnfirðinga árið 1967 þegar gerður var makaskiptasamningur við Garðabæ.

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnastaðir – tilgáta.

Nú má spyrja hvers virði Hraunajarðirnar séu þegar búskapur þar hefur lagzt niður. Án efa eru Hraunin mikils virði, þó ekki væri vegna annars en þess að þau eru rétt við þröskuldinn á höfuðborgarsvæðinu. Mörgum þætti ugglaust freistandi að byggja þar og má minna á, að í tímaritinu Arkitektúr verktækni og skipulag frá 1999, viðrar Gestur Ólafsson arkitekt hugmynd um samfellda borgarbyggð frá Keflavík til Hafnarfjarðar. Með öðrum orðum: Höfuðborgarsvæðið verði í framtíðinni byggt á þann veginn í stað þess að teygja það upp á Kjalarnes.
Í landi Hafnarfjarðar er að finna mikla arfleifð gamalla bygginga og mannvistarleifa sem segja sögu bæjarins. Þessar minjar ber að varðveita fyrir komandi kynslóðir.

Álfakirkja

Fjárskjól undir Álfakirkju.

Upphaf náttúruverndar í Hafnarfirði má rekja til þess er málfundafélagið Magni fékk Hellisgerði til afnota árið 1922 og var tilgangur félagsins að koma í veg fyrir að sérkenni og tilbreytni frá náttúrunnar hendi hyrfi úr umhverfi byggðarinnar við mannvirkjagerð. Einnig var það markmið fyrstu skipulagsáætlunarinnar í bænum sem staðfest var árið 1933, að helstu einkennum hraunsins og fegurstu hraunborgunum skyldi lofað að standa án skemmda.
Mikið er af minjum í landi Hafnarfjarðar, rústum ýmis konar, gamlar alfaraleiðir, þurrabúðir, skreiðarklappir o.fl. Til þess að vernda þessar minjar þarf að hafa góða heildarsýn, hverju á að halda og hverju á að sleppa. Samkvæmt lögum teljast fornleifar hvers kyns leifar fornra mannvirkja og annarra staðbundinna minja sem menn hafa gert eða mannaverk eru á. Friðlýstar fornminjar í bæjarlandinu eru 16. Fornleifastofnun Íslands hefur útbúið skrá yfir fornleifar í lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar og fyrsti hluti þeirrar vinnu kom út árið 1998.

Straumssel

Straumssel.

Til þess að minjar í Hafnarfirði öðlist gildi fyrir almenning er nauðsynlegt að auka fræðslu og upplýsingar um einstaka staði og hluti af verndunarstarfi að kynna og fræða. Því er þörf á átaki í minjaskiltum, merkingu svæða og stikun þeirra. Sérstaklega á þetta við innan bæjarmarkana, því þar eru rústir víða án vitneskju bæjarbúa. Í dag er eitt minjaskilti í landi Hafnarfjarðar og er það við Krýsuvíkurkirkju.
Svonefnt Brennisel virðist hafa verið aðstaða til kolagerðar. Slík aðstaða hlýtur að hafa verið víða frá Hraunbæjunum því mikil hrístekja og skógarhögg hefur átt sér stað í grónum hraununum og uppi í Almenningum. Norðvestan við Brenniselið má slá leifar af annarri svipaðri aðstöðu. Í hraunbollanum þar sem selið er, er tóft, nú þakin runnum. Skammt utar, í norðaustur, er hlaðið fyrir skúta; gæti verið fjárskjól.

Álfakirkja

Álfakirkja.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns, sem saman var tekin 1703, eru talin upp hlunnindi jarða, þar á meðal skógarhögg til kolagerðar. Við lauslega athugun teljast sjötíu og sjö jarðir í sýslunni eiga skógarhögg á Almenningum. Skiptin er þannig eftir hreppum: „Grindavíkurhreppur 7 jarðir, Rosmhvalaneshreppur 24 jarðir, Vatnsleysustrandarhreppur 20 jarðir, Álftaneshreppur 21 jörð og Seltjarnarneshreppur 5 jarðir.
Ekki liggur ljóst fyrir hvar þessir almenningar hafa verið. Þó er örnefnið til á milli Kapelluhrauns og Afstapahrauns. Af orðalagi má þó ráða, að með Almenningum sé stundum átt við uppland, þar sem landamerkjum jarða sleppir. Nokkrar jarðir hafa ennþá haft skógarhögg á heimajörð og eru þessar nefndar.

Almenningur

Gengið um Almenning í Hraunum.

Krýsuvík, heimaskógur lítill, Hvassahraun, hrísrif á heimalandi og einnig notað í heyskorti. Lónakot á Álftanesi, skógur að mestu eyddur, en notaður jafnvel fyrir nautpening. Hvaleyri, að mestu eytt. Setberg, hefur átt skóga til forna. Garðar á Álftanesi á skóg og tekur mjög að eyðast. Vífilsstaðir, skóg hefur jörðin átt og er hann nú eyddur svo mjög að kolagerð minnkaði um fjórar tunnur. Hólmur, skóg hefur jörðin átt, sem nú er aldeilis eyddur. Jörðin Reykjavík átti þá sel undir Undirhlíðum norðan við Kleifarvatn, þar var hrísrif til nota fyrir selið.“
Í Álftanes- og Seltjarnarneshreppi er talað um einn eða tvo hríshesta (hestburði) á hverja jörð, en sunnar á Reykjanesinu er ekki talað um slíkar takmarkanir.
Í gegnum þessi skrif má lesa, að menn hafa gert sér grein fyrir því, að skógarnir eyddust, en annað var ekki tiltækt til kolagerðar og eldiviðar.
Gengið var upp að Álfakirkju. “Kirkjan” er klofinn hraunhóll. Undir honum er fjárskjól. Hlaðið er upp í lárétta sprungu í hólnum. Inni er rúmgott skjól, sem virðist hafa verið mikið notað. Páfakjör kaþólikka fór fram um svipað leyti og gangan. Minnti hraunhóllinn óneitanlega á Sixtusarkapelluna í Róm þótt enginn væri reykurinn.

Smalaskjól

Smalaskjól við Smalaskálahæð.

Ekki er vitað með vissu hvenær búskapur hófst í Hraunum. Þó er talið, útfrá fornum rústum og skipan þeirra, að búskapur hafi verið við Óttarsstaðir í kringum árið 1200.
Sunnan Reykjanesbrautar í Almenningi eru selin í 3 – 4 km fjarlægð frá bæjunum. Selin voru einskonar framlenging á búskap jarðanna. Snemma á sumrin flutti vinnufólk sig upp í selin með kindur og kýr og stundaði þar búskap til haustsins. Á þessum tíma var aflað matar og afurðir unnar fyrir komandi vetur.
Við helstu götur og við sum selin eru náttúrlegir brunnar í klöppum sem geymdu rigningarvatn fyrir ferðalanga, fjársmala, matselju og þá sem leið áttu hjá. Þá má ennfremur sjá nátthaga, fjárskjól og smalaskúta við selin. Í Straumsseli og Óttarsstaðaseli voru brunnar.
Sauðfjárbúskapur var aðalbúgreinin í Hraunum. Sauðfé var haft á útigangi í Almenningi eða á fjörubeit. Sauðir voru ekki teknir á hús og leituðu sjálfir í skjól eða skúta í illviðrum. Fjárskjól leynast víða í Hraunum. Sauðamenn eða smalar fylgdu sauðum sínum og unnu oft einmanalegt og erfitt starf.
Búskapur lagðist af að mestu á kreppuárunum eða um 1930. Búið var í Óttarsstöðum eystri til ársins 1952 og í þeim vestri til 1965. Síðasti ábúandi Hraunanna var Guðmundur Sigurðsson bátasmiður, sem lést árið 1986.

Heimildir m.a.:
-http://www.simnet.is/annalar/hvassahraun/temp5-gudmundur-hvassahraun.htm
-http://www.hafnarfjordur.is/hafnarfjordur/skipulag_og_framkvaemdir/stadardagskra/

Bekkjaskúti

Bekkjaskúti.

Hafnarfjörður

Í jólablaði Alþýðublaðs Hafnarfjarðar 1957 fjallar Gísli Sigurðsson um „Lækinn okkar„:

„Hafnarfjarðarlækur eða Hamarskotslækur eins og hann heitir réttu nafni, — er stærstur lækja þeirra og merkastur, er renna til sjávar í Hafnarfjörð. Upptök sín á hann aðallega í Urriðakotsvatni, en vatnasvæði hans er nokkru stærra, og er ekki úr vegi að athuga það nokkuð. Í suð-vesturhorn vatnsins rennur lítill lækur, er kemur úr Oddsmýri og Oddsmýrardal, dalkvos milli Svínholts og Setbergshlíðar, og heitir Oddsmýrarlækur. Í mýrinni undir Flóðahjalla (Hádegisholti) eru nokkrar minni uppsprettur, og heita þær: Dýjakrókur, Dýjamýri, Svaðadý og Brunnrás. Í Vatnsvikið kemur lækjarspræna úr Vesturmýrinni, og svo eru eigi allfáar uppsprettur í vatninu sjálfu og kaldavermsl, aðallega syðst.

Gísli Sigurðsson

Gísli Sigurðsson.

Urriðakotsvatn er ekki stórt og svo grunnt, að það er alls staðar vætt. Vex í því fergin, og hefur allt fram til þessa verið nytjað frá Urriðakoti og Setbergi, en lönd þessara jarða liggja að vatninu. Í norðurhorni vatnsins er vik og er þar vatnsósinn. Er lækurinn frá ósnum allt niður í Kaplakrika nefndur Urriðakotslækur. Í Kaplakrika beygir hann í hálfhring og stefnir þá í suður og heitir nú Kaplakrikalækur. Fyrrmeir rann lækurinn frá Kaplakrika niður móts við Setbergshamar í mörgum fagurlega formuðum bugðum, skiptust þar á í farveginum sandgrynningar og hyljir, og mynduðust víða hringiður í hyljunum. Setbergslækur er hann kallaður, þar sem hann rennur undir Setbergshamri og niður við Setbergstúnið. Milli lækjarins og Sjávarhrauns hafa myndazt margar tjarnir og syðst nokkur uppistaða, þar sem hann rennur þvert fram yfir hraunið.
Í Lækjarbotnum á upptök sín lítill lækur. Rennur hann fyrst undir Svínholti við Stekkjarhraunsjaðarinn norður til vaðs, sem þar er kallað Norðlingavað, undir Norðlingahálsi, hvilftinni milli Svínholts og Setbergs. Frá vaðinu (Hlébergi) rennur lækurinn fram á mýrarflóa lítinn og eftir honum í fyrrnefnda uppistöðu, en ofan frá Setbergsholti koma lækjarsytrur úr dýjaveitum. Botnalæk köllum við þennan læk.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – Lækurinn.

Þverlækur heitir þar sem lækurinn brýzt fram í vestur yfir hrauntunguna. Er þar sunnan við lækinn örnefnið Silungahella. Heitir Stekkjarhraun sunnan lækjarins, en Sjávarhraun norðan hans. Vestan hraunsins bætist honum enn lítill lækur, Arnkeldnalækur. Á hann upptök í Arnkeldunum nyrðri og syðri og í slakkanum milli Stekkjarhrauns og Mosahlíðar. Frá Þverlæk allt til ósa heitir svo þessi lækur Hamarslækur, en í seinni tíð nefna margir hann Hafnarfjarðarlæk, og verður það nafn notað hér á eftir. Rennur hann fyrst í norður með vesturbrún Sjávarhrauns, allt niður á Hörðuvelli.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður 1958 – Lækurinn fyrir miðju og Hörðuvellir neðst t.h.

Fram til 1914 rann hann syðst á völlunum og í nokkrum bugðum og átti hann þar nokkra fagra hylji með fagurfægða möl í botni. Rétt þar við, sem Hörðuvallahúsið stendur, tók hann stefnu í vestur á Hamarinn, milli Hamarskotsmýrar og votlendsrima, er lá í vestur frá Hörðuvöllum. Inn með þessum rima kom svo Hörðuvallatjörnin, milli hans og hraunsins. Hafnarfjarðarlækur rann nú með hraunjaðrinum. Tók þá landinu að halla nokkru meir, er komið var framhjá Hraungerði, en móts við Hól voru flúðir í læknum og breikkuðu þar til lækurinn skiptist við hólma, er var þar rétt ofan til við Moldarflötina. Af Moldarflötinni rann lækurinn milli hraunjaðarsins og Hamarskotsmalar norður að Brúarhraunskletti og þar út í höfnina, segja sumir ýmist milli klettsins og skersins eða sunnan þess.
Þó Hafnarfjarðarlækur sé ekki vatnsmikill að jafnaði og vatnasvæðið ekki stórt, hefur hann þó komið nokkuð við sögu jarðmyndunar á leið sinni til sjávar. Hefur hann í leysingum flutt með sér allmikið af framburði í kvosir og bolla í hrauninu. Er þar fyrst að nefna Stóra-Krika skammt frá vatnsósnum, þá Kaplakrika, en þar er landið undir hrauninu nokkru lægra farveginum, hefur hann því er hann flóði yfir bakka sína borið út í hraunið allmikinn jarðveg.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður 1975 – Lækurinn; Hörðuvellir fjær.

Frá Kaplakrika niður að Þverlæk hefur hann verið mjög athafnasamur, hefur hann fyllt þar allar kvosir og lautir, og myndað tjarnir er svo heita: Kálfatjarnir, Fjósatjarnir og Setbergstjarnir, og þar er Baggalá, sem Sveinbjörn Egilsson ritstjóri segir vera nafngift frá Spánverjum, er hér voru á ferðinni í eina tíð. Þá eru Hörðuvellir myndaðir einvörðungu af framburði lækjarins. Enda hefur hann oft fært vellina í kaf og runnið út í hraunið hjá Grænhólum, sem nú eru komnir undir Tjarnargötuna og húsin frá Mánabraut inn í Vallarkrika. Frá Hörðuvöllum allt niður að Hól hefur hann fyllt upp í hverja kvos, en þeirra mest er Hraungerði. Má nokkuð marka framburðinn af greftrinum, þegar Barnaskólinn var byggður, sem var langt í þrjá metra. Enda munum við það, eldri Hafnfirðingar, að Hraungerði allt var undir vatni, þegar mestar voru leysingar. Þá er nokkur hluti Moldarflatarinnar myndaður af framburði lækjarins. Var eitt sinn grafið niður úr moldar- og leirlaginu og var á annan metra þykkt. Ærin væru þessi afskipti lækarins af jarðmyndun til að halda á lofti nafni hans. Og þar á hann lengsta sögu. En hér kemur margt annað til. Frá upphafi byggðar í Hafnarfirði hefur hann verið vatnsból. Þangað fóru húsfreyjurnar með þvottinn sinn.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður  1978 – Lækurinn.

Kona nokkur sagði svo: „Ég sofnaði við létta, ljúfa niðinn hans og ég vaknaði við hann á morgnana. Hann leið fram hjá glugga mínum, oftast ljúfur og skær, en stundum hrjúfur og bar fangið fullt af mold og aur. Ég mun lengi minnast hans, þessa góðvinar míns frá æskuárunum.“
Lækurinn var líka leikvöllur og leikfélagi ungra sem gamalla, allt frá ósum til upptaka. Moldarflötin var tugi ára aðalsamkomustaður Fjarðarbúa. Þar var farið á leggjum og skautum eftir að þeir fóru að flytjast inn. Þá var oft glatt á hjalla á Hörðuvallatjörn, Baggalá, Setbergstjörnum og Urriðakotsvatni, þegar allt ungt fólk safnaðist þar saman til svo hollrar iðju, sem skautaferðir eru. Þegar siglt var til Hafnarfjarðar í björtu veðri voru flúðirnar undir Hólnum siglingamerki, er þær bar í Setbergslækinn. Sjóbirtingurinn og urriðinn gengu upp í lækinn, og allt upp í Urriðakotsvatn. Unglingarnir tóku silunginn í bollum niður við sjó og veiddu hann í hyljum og undir bökkum allt upp í vatn. Á sumrum fóru unglingarnir í bað í hyljum hans og þar iðkuðu okkar fyrstu sundgarpar sundlistir sínar.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – Lækurinn 1966.

Við lækinn byrjaði margur piltururinn sjómannsferil sinn og fékk nokkra svölun útþrá sinni, með því að sigla þar skipum sínum úr bréfi, pappa og spýtu. Lækurinn getur líka sagt sorgarsögu af lítilli stúlku, sem drukknaði í einum hylnum, en það er undantekning, því hann átti aðeins í fórum sínum hið ljúfa og létta, káta og gáskafulla eins og æskan.
Hér hefur stuttaralega verið farið yfir langa sögu og merkilega, einnig hugljúfa og þekka, sem gerir þennan læk að einum bezta vini okkar. Hann er þó frægastur fyrir eitt, sem enn er ótalið, en það er gagnsemi hans. Tel ég, að þessi litli lækur okkar, Hafnarfjarðarlækur, hafi verið meira virkjaður en nokkur annar lækur á Íslandi og jafnvel þó víðar væri leitað. Skal nú lítillega á þá sögu drepið.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður 1918-1920 – Linnetsbryggja.

Um miðja öldina sem leið hugðist Linnet kaupmaður virkja lækinn og setja þar niður myllu til kornmölunar. Byggði hann myllukofa neðanvert við flúðirnar, ofanvert við Lækjarkot. Hvort mylla þessi var nokkurn tíma rekin með vatnsafli, veit ég ekki, en aftur á móti var þarna vindmylla og stóð lengi. Mundi Gísli heitinn bakari eftir henni og að stórir voru vængirnir. Mun vindmylla þessi hafa verið í notkun fram um 1870 til 1880.

Virkjun 2.

Jóhannes Reykdal

Minnismerki um fyrstu rafstöðina við Austurgötu.

1902 nam Jóhannes Reykdal land í hólnum í læknum og 1903 reisti hann timburverksmiðju sína (nú trésmíðaverksmiðjan Dvergur), og voru allar vélar reknar af vatnsafli. Var þá fyrirhleðsla byggð um 80 til 100 metra frá verksmiðjunni og vatnið leitt í opnum stokk að verksmiðjuhúsinu. Voru þá varnargarðar byggðir í hraunbrúninni upp með læknum, til að vatnið hyrfi ekki út í hraunið. Má enn sjá nokkrar þúfur í læknum upp með Tjarnarbrautinni og eru það eftirstöðvar varnargarðanna.

Virkjun 3.
Jóhannes Reykdal
1905 jók Jóhannes Reykdal virkjun sína. Setti hann upp rafljósavél og hófst þá rafmagnsöld á Íslandi.

Virkjun 4.

Reykdalsvirkjunin

Reykdalsvikjunin,

1908 var enn efnt til virkjunar við lækinn til rafmagnsframleiðslu. Var stíflugarður mikill hlaðinn upp og steyptur við ofanverða Hamarskotsmýri, um 200 metra neðan við Þverlæk. Var þarna uppistaða, en vatnið leitt í lokuðum stokki niður að stöðvarhúsinu syðst á Hörðuvöllum. Var í húsi þessu bæði rafljósavélin og íbúð stöðvarstjóra. Titraði húsið og lék allt á reiðiskjálfti, þegar vatninu var hleypt á. 1914 féll nokkur hluti stokksins niður. Var þá byggt rafstöðvarhús 80 metrum ofar.

Jóhannes Reykdal

Stytta af Jóhannesi Reykdal við stífluna ofan Hörðuvalla.

Jóhannes Reykdal byggði þessa rafstöð eins og þá fyrri, en bærinn keypti síðar og rak fram til ársins 1926. Tók Jóhannes þá við henni aftur og rak fram undir 1940, en þá var hún lögð niður með öllu, nema hvað stöðvarhúsið stendur enn.

Virkjun 5.

Lækjarbotnar

Lækjarbotnar – leifar af vatnsleiðslunni.

1909 voru Lækjarbotnar virkjaðir með þeim hætti, að hús var byggt yfir stærsta uppsprettuaugað og vatn í pípum leitt niður til bæjarins. Var hér stórt spor stigið í heilbrigðismálum hins unga bæjarfélags.

Virkjun 6.

Hafnarfjörður

Lækjarbotnar – stífla.

1916 eða 1917, þegar Jóhannes Reykdal hafði búið nokkur ár á Setbergi, varð honum vant ljósa til heimilis síns. Réðst hann þá enn í virkjun. Lét hann hlaða stíflu í Botnalækinn upp undir Lækjarbotnum og leiddi síðan vatnið í rörum niður með holtunum allt niður í tún, þar sem hann hafði byggt rafstöðvarhús með lítilli rafvél. Hafði hann um nokkur ár nægilegt afl til að lýsa upp íbúðarhús sitt og fjós.

Virkjun 7.

Jóhannes reykdal

Jóhannes Reykdal.

Þá mun Jóhannes hafa reynt að virkja Botnalækinn niður við Hléberg, en ekki mun sú virkjun hafa staðið nema stuttan tíma.

Virkjun 8.

1920 eða þar í kring setti Jóhannes upp trésmíðaverksmiðju við Þverlæk ofanverðan. Gerði hann stíflu og leiddi vatnið í stokk að verksmiðjuhúsinu og hafði yfirfallsvatnshjól við húsið og rak með þeim hætti vélarnar um nokkurra ára bil.

Virkjun 9.
Um svipað leyti gerði Jóhannes fyrirhleðslu við ós Urriðakotsvatns. Var fyrirhleðsla þessi ætluð til vatnsjöfnunar; er þarna nú brú og vegur yfir heim að Urriðakoti.

Virkjun 10.

Hafnarfjörður

Jóhannes Reykdal; stífla.

Þegar Austurgatan var tengd við Lækjargötuna, var uppistaðan færð niður að Austurgötubrúnni. Var opni stokkurinn þá lagður niður, en vatnið leitt í rörum til verksmiðjunnar Dvergs, og má þetta heita enn ein virkjunin við Hafnarfjarðarlæk.

Af því sem hér hefur verið talið, má nokkuð marka, hverja þýðingu lækurinn hefur haft fyrir okkur hér í Hafnarfirði. Hann hefur verið okkur yndisgjafi, ljós- og aflgjafi, leikvöllur barna og fullorðinna. Það er því ekki undarlegt, þótt við dáum hann og unnum honum mikið.

Heimild:
-Alþýðublað Hafnarfjarðar, jólablað 1957, Lækurinn okkar – Gísli Sigurðsson, bls. 15-16.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – Brekkugata 2; hús JR, brann 1929.

Hraun

Ólafur Þ. Kristjánsson skrifaði um „Kapelluna í hrauninu og heilaga Barböru“ í jólablað Alþýðublaðs hafnarfjarðar árið 1961:

„Sunnan Hafnarfjarðar er land hrjóstugt og hraunótt. Það er ekki aðeins, að þar sé hraun við hraun, heldur liggur þar víða hraun á hrauni. Mjög eru þessi hraun misgömul, en flest eru þau miklu eldri en mannabyggð á landi hér.
Ólafur Þ. KristjánssonEitt þessara hrauna er svonefndur Bruni, úfið hraun, lítt gróið og illt yfirferðar. Eru hæg heimatökin hjá Hafnfirðingum að kynna sér útlit og yfirborð hraunsins sjálfir, eins og margir þeirra hafa raunar gert, en til fróðleiks og samanburðar skal hér sýnt, hvernig þetta hraun kom útlendum mönnum fyrir sjónir 5. september 1772, en þann dag var hinn nafnkunni Englendingur, Sir Joseph Banks, þar á ferð, og segir hann frá á þennan veg (þýðing dr. Jakobs Benediktssonar í Skírni 1950, bls. 218-219): „Herra Troil og ég gengum í dag framhjá stað sem á kortinu er kallaður Hvaleyri og rákumst þar af tilviljun á hraunstraum sem virtist geysi-viðáttumikill og þakti allt landið eins langt og augað eygði og fyllti hvern dal á hvora hlið sem var meðfram rennsli sínu. Frá jaðrinum og hér um bil hálfa mílu í áttina að miðjunni var hann eintómar smáhæðir, og yfirborð þeirra var yfirleitt fremur slétt, en gárótt alveg eins og málmur eftir bræðslu, þegar gjallið fer að harðna ofan á honum. Þessar gárur höfðu fengið á sig þúsundir ólíkra myndana, líklega eftir því sem vindur eða aðrar orsakir höfðu haft áhrif á hið bráðna efni. Inni í hrauninu var staður sem hægara er að ímynda sér en lýsa. Hraunstraumurinn hafði hér verið hraður og stöðugt brotið flögur af yfirborði sínu jafnóðum og það storknaði. Þessar flögur hafði hann borið með sér, oft á rönd, og hlaðið upp hólum sem voru aðallega úr steinhellum, oft mjög stórum, sem stóðu á rönd. Óþolandi var að ganga á þeim og auganu voru þær sundurtættari en nokkur hlutur sem ég hef áður séð. Þetta svæði var nærri tvær mílur á breidd, en hinum megin var flatlendi, þakið sléttu hrauni eins og áður var lýst, eins langt og augað eygði, sennilega allt frá rótum næstu fjalla, hér um bil tíu mílur frá okkur. Fyrir neðan okkur var sjórinn, en í hann hafði þessi gífurlegi eldstraumur runnið.“

Kapeluhraun

Kapelluhraun – jarðfræðikort.

Hraun þetta, Bruninn, helur komið úr gígaröðum uppi við Undirhlíðar og fallið í sjó fram. Telja jarðfræðingar, að það hafi verið eftir að land byggðist, en þó á fyrstu öldum byggðarinnar. Má telja víst, að það sé þetta hraun, sem í annálum er kallað Nýjahraun fyrir utan Hafnarfjörð. Svo Ber og að orði komizt í landamerkjaskrám, að mörkin milli Hvaleyrar og Straums séu í norðurbrún Nýjahrauns.
Ekki er að efa, að ferðalög á landi hafa verið töluverð suður með sjó þegar á fyrstu öldum Íslandsbyggðar, og vegurinn sennilega legið suður frá Hafnarfirði á svipuðum slóðum og hann liggur enn. Þegar svo hraunið rann, hefur sú leið teppzt með öllu, og hefur þá orðið að krækja upp á Undirhlíðar, ef á landi átti að fara. Má nærri geta, hve þægilegt það hefur verið, eins og land á skaganum er yfirferðar. Það hefur þess vegna efalaust verið reynt að ryðja veg yfir hið nýrunna hraun eins fljótt og lært hefur þótt. Sjálfsagt hefur það verið gert, meðan hraunið var enn volgt eða jafnvel heitt undir niðri, þótt ylirborðið væri orðið storkið. Mætti ætla, að ýmsum hafi þótt þetta dirfskuverk mikið og ekki hættulaust.

Kapella

Kapellan og Alfaraleiðin t.h.

Vegurinn hefur legið yfir hraunið öldum saman á sama stað og hann var lagður í öndverðu, því að engar minjar sjást um reiðgötu yfir það nema þar. Var sá vegur notaður þar til akvegur var lagður yfir hraunið nokkru ofar. Gamli vegurinn var sléttur og vel ruddur, hvort sem svo vandlega hefur verið frá honum gengið í byrjun eða bætt um síðar. En krókótt hefur hann legið, eins og vænta mátti, þar sem reynt var að rekja sléttustu leiðina og sneiða hjá mishæðum.

Árni Helgason

Árni Helgason.

Rétt neðan við veginn svo sem miðja vega í hrauninu stendur rúst eða tóft hlaðin úr grjóti. Hún hefur lengi gengið undir nafninu Kapella, og hefur neðsti hluti hraunsins tekið nafn af henni og nefnist Kapelluhraun.
Séra Árni Helgason í Görðum nefnir Kapelluna í sóknarlýsingu 1842 og getur þess, að fólk segi, að „þar séu dysjaðir þeir menn frá Bessastöðum, sem drepnir hafi verið í hefnd eftir Jón biskup Arason 1551, er ólíklegt þykir satt geti verið.“ — Það er víst óþarfi að taka það fram, að þarna liafa aldrei neinir menn verið dysjaðir.
Önnur sögn hermir, að eftir að Norðlendingar höfðu drepið Kristján skrifara suður á Kirkjubóli á Miðnesi seint í janúar 1551, hafi lík hans verið flutt landleið til Bessastaða til greftrunar. Hafi dagur ekki enzt til fararinnar og Kapellan svonefnda þá verið hlaðin til þess að geyma líkið í til næsta dags.

Joseph Banks

Joseph Banks – 1743-1820.

Þessi saga nær auðvitað engri átt. Það hefur verið miklu meira verk að hlaða Kapelluveggina en flytja líkið inn á Hvaleyri, en þar var þá byggð, svo að hægt hefði verið að setja það inn í hús. Hitt gæti frekar átt sér stað, ef færð hefur verið slæm og flutningsmenn orðið dagþrota í Kapelluhrauni, að lík Kristjáns hafi verið geymt náttlangt í Kapellunni, hafi hún staðið þar fyrir, eins og líklegt má þykja, að verið hafi. Brynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi segir heldur ekki annað í grein sinni um Kapelluna í Árbók Fornleifafélagsins 1903 (bls. 34) en að þar sé sagt „að lík Kristjáns skrifara hafi verið náttsett“.
Ekki virðist það ólíklegt, sem menn hafa gizkað á, að Kapellan hafi verið reist í hrauninu miðju, þegar vegurinn var ruddur yfir það nýrunnið, og hafi hún verið raunveruleg kapella eða bænhús, ætlað til þess að menn bæðust þar fyrir, ekki einungis þeir menn, sem lokið höfðu hinu háskasamlega verki, vegarruðningu í heitu hrauni, heldur og aðrir ferðamenn, er leið ættu hér um. Var þetta allvíða gert í kaþólskum löndum, að reisa lítil bænhús við vegi, ekki sízt þar sem vandfarið var eða hættulegt.

Uno von Troil

Uno von Troil – 1746-1803.

Vorið 1950 rannsakaði dr. Kristján Eldjárn þjóðminjavörður Kapelluna ásamt fleiri mönnum. Hefur hann ritað glögga skýrslu um þá rannsókn í Árbók Fornleifafélagsins 1955—1956, bls. 5—15. Er hér farið eftir þeirri frásögn um allt, er Kapelluna varðar og þá gripi, sem í henni fundust, en miklu ýtarlegri er þó skýrsla fornminjavarðar, og verður að vísa þeim til hennar, er meira vilja vita um þetta efni.
Kapellan snýr nokkurn veginn frá austri til vesturs, og hafa dyrnar verið á vesturgafli, eins og tíðkast hefur á guðshúsum. Hún er 2,40 m á lengd að innan, en breiddin er 2,20 m við vesturgaflinn, en 2,10 m við austurgafl. Veggirnir hafa verið hlaðnir úr hraunhellum og vel og vandlega frá hleðslunni gengið. Þykktin hefur verið um einn metri.

Kristján Eldjárn

Kristján Eldjárn.

Ekki er vitað, hvernig þakið hefur verið. Ætlar þjóðminjavörður helzt, að það hafi verið uppreft og hvílt á mæniás. Hefur húsið verið vel manngengt, að minnsta kosti í miðjunni. Allt telur þjóðminjavörður benda til þess, að hús þetta hafi verið kapella, enda mæli ekkert á móti. Segir þá nafnið á rústinni rétt til um upphaflega notkun hennar. Dýrlingslíkneski lítið, er þar fannst, bendir og til hins sama.
Það er langt frá Kapelluhrauni til Litlu-Asíu, en þó víkur nú sögunni þangað, til borgar þeirrar, er Nikomedia hét og stóð í miklum blóma á öldunum fyrir og eftir Krists fæðingu, þrátt fyrir jarðskjálfta og árásir óvina.
Snemma á 3. öld eftir Krist var í borg þessari heldri maður, sem átti dóttur forkunnarfríða, sem Barbara hét. Var hann svo gagntekinn af fegurð dóttur sinnar, að hann tímdi engum manni að gefa hana og læsti hana inni í rammgerðum turni, til þess að gárungarnir gleptu hana ekki. Þó lánaðist einum af hinum vísu kirkjufeðrum, þeim er Origenes hét, að komast inn til hennar, og kenndi hann henni kristna trú með þeim árangri, að hún lét skírast. Af þeim sökum lét hún gera þrjá glugga á baðherbergi sitt, þar sem ekki áttu að vera nema tveir, og gerði hún það til að minna á heilaga þrenningu. Jafnframt lét hún gera krossmark í vegginn. Líkaði föður hennar illa, er hann komst að þessu, því að hann var trúmaður mikill í gömlum stíl. Segja sumir, að nú hafi hann gjarnan viljað gifta hana, en hún neitað öllum biðlum og sagzt vera brúður Krists og engum dauðlegum manni gefast. Hitt ber öllum saman um, að faðir hennar reiddist svo þrákelkni hennar, því að hún vildi með engu móti leggja niður kristinn sið, að hann seldi hana í hendur yfirvöldum borgarinnar. Höfðu þau við hana hvers konar fortölur, en hún lét ekki skipast við þær. Var hún þá beitt margvíslegum harðræðum, en allt kom fyrir ekki, hún var staðföst í kristinni trú. Var hún þá að lokum hálshöggvin, en elding af himni laust jafnskjótt böðul hennar til bana.
Heilög BarbaraEnginn veit með vissu, hve mikill sannleikur felst í þessari fornu frásögn. Hitt er víst, að Barbara var snemma tekin í helgra manna tölu, og er með vissu vitað, að hún var dýrkuð á 7. öld. Seinna var hún talin ein af fjórum fremstu kvendýrlingum kirkjunnar, en hinir voru þær Katrín helga, Margrét helga og Dórótea helga.
Gott þótti að heita á Barböru helgu í þrumuveðri og hvers kyns óveðri og einnig til varnar gegn húsbruna. Þá varð hún og verndardýrlingur þeirra manna, sem að sprengingum störfuðu, svo sem námumanna og stórskotaliðsmanna. Púðurgeymslur í frönskum og spænskum herskipum voru kallaðar nafni hennar (Saint Barbre og Santa Barbara). — Enn þótti gott að heita á hana, þegar búast mátti við bráðum bana.
Ekki er vitað með vissu, hvort tilbeiðsla heilagrar Barböru hefur verið meiri eða minni hér á landi. Sennilega hefur hún verið allmikil eins og annars staðar. Engin kirkja hér á landi var þó helguð henni fyrst og fremst, en hún var meðal verndardýrlinga tveggja: Reykholtskirkju í Borgarfirði og Haukadalskirkju í Biskupstungum. Getið er um líkneki af henni í kirkjum. Myndir af henni voru á ýmsum altaristöflum, sem enn eru til, og einnig voru þær saumaðir í prestsskrúða, til dæmis að taka í kórkápu Jóns biskups Arasonar. Sagan um hana var snemma þýdd á norrænt mál, og um hana var ort kvæði (Barbárudiktur).

Barbara

Heilög Barbara – altaristafla í Varsjá í Póllandi.

Barbara hefur aldrei orðið algengt kvenmannsnafn hér á landi. Þó hafa nokkrar konur borið það nafn bæði fyrr og síðar. Á myndum er Barbara iðulega látin standa á turni, sem oft er með þremur gluggum. Stundum er fallbyssum komið fyrir hjá turninum. Það ber og við, að mærin heldur á turninum í fangi sér.
Þegar rústin í Kapelluhrauni var rannsökuð 1950, fundust þar ýmsir smáhlutir, þar á meðal brot úr rafperlu, 3 leirkersbrot rauðleit, krítarpípuleggur og 3 skeifubrot. En miklu merkast af því, sem þar fannst, var líkneski heilagrar Barböru. Lýsir dr. Kristján Eldjárn þjóðminjavörður því á þennan veg í áðurnefndri ritgerð í Árbók Fornleifafélagsins: „Mynd af heilagri Barböru, telgd úr grágulum leirsteini, aðeins efri hluti eða vef niður fyrir mitti, fannst í þremur hlutum, sem auðvelt var að fella saman.
Kapella
Myndin eða líkneskið er nú aðeins 3,3 sm á hæð, en hefur líklega verið um 5,5 sm heilt. Það er haglega telgt, andlitið nokkuð máð, hár mikið og hrokkið og nær niður á herðar og sveigur um yfir ennið. Barbara er í flegnum kjól, aðskornum í mitti, barmurinn hvelfdur, kjóllinn í miklum fellingum neðan beltis. Hún grípur hægri hendi í kjólinn, og sést, að hann er ermalangur. Skikkju slegna hefur hún yfir um axlir, og fellur hún með stórum, mjúkum fellingum á baki. Í vinstri hendi heldur Barbara á einkunn sinni, turninum, og hvílir hann við vinstri öxl og upp með vinstri vanga hennar. Turninn er ferstrendur með undirstöðu neðst, síðan nokkru grennri bol, þar sem tveir gluggár sjást, sinn á hvorri hlið, slær sér síðan aftur út líkt og neðst, en upp úr hefur loks verið toppur, sem nú er að miklu leyti brotinn af. Sýnilegt er, að einhvern tíma hefur verið brugðið knífi á líkneskinu, sennilega til að kanna efnivið þess, eins og menn gera oft fyrir forvitni sakir. — Lítið brot úr samskonar eða mjög líkum steini fannst einnig í tóftinni skammt frá Barbörulíkneskinu. Það er tiltelgt og mætti vel vera úr neðri hluta myndarinnar, þótt ekki sé hægt að koma því í samhengi nú.“ Við þessa lýsingu þjóðminjavarðar er engu að bæta öðru en því, að líkneskið skipar nú virðulegt sæti í sýningarsal Þjóðminjasafns.
Kapella
Það er augljóst af stærð líkneskisins, að það hefur verið ætlað til þess að menn bæru það á sér sem verndargrip og tækju það gjarnan upp og gerðu til þess bæn sína, þegar þeim þótti mikils við þurfa á ferðalögum eða við aðrar aðstæður.
En hvernig var þetta líkneski komið í kapelluna í Nýjahrauni? Gæti hugsazt, að það hafi verið sett upp í kapellunni, þegar hún var nýreist, og kapellan gerð, þegar vegurinn var ruddur yfir Nýjahraun? Kristján Eldjárn minnir á, að gott þótti að heita á Barböru í háska af eldi, húsbruna og sprengingum, og segir síðan: „Mundi hún þá ekki einnig hafa dugað vel gegn háska af völdum jarðelds og hraunbruna? Ef rennsli Nýjahrauns og háski þess á einhvern þátt í upphafi kapellu á þessum stað, er máske Barbara mær sá meðal helgra manna, sem eðlilegast er að hitta þar fyrir, úr því á annað borð svo ótrúlega heppilega vildi til, að nokkur dýrlingsmynd fannst.“
En það gæti líka hugsazt, að ferðamaður hefði gleymt líkneskinu þarna eða týnt því. Kannske það hafi verið unglingur, sem í fyrsta sinn fór í verið til Suðurnesja og hafði fengið líkneskið að gjöf sér til verndar, þegar hann kvaddi móður sína fyrir norðan eða kannske ömmu sína, og tók nú líkneskið upp, þegar hingað kom, til þess að biðja hina helgu mey verndar í ókomnum háska?

Kapella

Kapellan í Kapelluhrauni endurgerð.

Kannske það hafi líka verið aldurhniginn maður, sem marga bratta báru hafði séð og aldrei látið undir höfuð leggjast að biðja Barböru að vernda sig á vertíðinni? Og vissi það á eitthvað, að líkneskið týndist? Boðaði það feigð? Eða átti það kannske öldungur, sem fór frá sjó í síðasta sinn og tók það upp til þess að þakka Barböru helgu fyrir vernd og varðveizlu á langri ævi? Skyldi hann það kannske eftir vísvitandi þarna í kapellunni? Var það þá gert í þakkarskyni? Eða var kominn nýr siður í land, svo að öruggast væri að láta ekki líkneski heilagra manna finnast í fórum sínum?
Við getum spurt og spurt. En heilög Barbara, gerð úr tálgusteini, horfir með heiðum svip og óræðum augum fram undan sér og svarar engu. Þó flytur hún, þar sem hún situr í skáp sínum í Þjóðminjasafni, með sér andblæ frá þjóðlífi, sem var, en er ekki lengur.“

Heimild:
-Alþýðublað Hafnarfjarðar, jólablað 16.12.1961, Kapellan í hrauninu og heilög Barbara – Ólafur þ. Kristjánsson, bls. 4-5 og 12.

Kapella

Kapellan 2022.

Öskjuholtsskjól

Gengið var með Jónatani Garðarssyni um nokkra skúta í landi Hvassahrauns, Straums og Þorbjarnarstaða. Byrjað var á að rölta upp í skúta í Öskjuholti með viðkomu í Virkinu undir Virkishólum, þaðan var haldið í skúta í Smalaskála, þaðan eftir Alfaraleiðinni yfir að Þorbjarnarstöðum, að Loftskúta (Grænudalaskúta) og stefnan tekin á Gránuskúta og síðan Kápuskjól og Kápuhelli í Jónshöfða með viðkomu í stóru Tobburétt (Grenigjárrétt) og litlu Tobburétt.

Þorbjarnarstaðir

Gránuskúti – fjárskjól ofan Þorbjarnarstaða.

Virkið var nota til tilhleypinga í brundtíð.
Sunnan undir Öskjuholti, klofnum ílöngum hraunhól skammt ofan línuvegarins um Hvassahraun, er gat. Hleðsla er um gatið. Þegar inn var komið sást vel hvar hlaðið hafði verið efst fyrir skútann, en að utan er vel gróið yfir hleðsluna. Um er að ræða lágt, en rúmgott fjárskjól. Innst undir hlöðnum veggnum voru nokkur bein. Erfitt er að koma auga á opið, nema komið sé að holtinu úr suðri.
Á Smalaskálahæð er varða. Önnur er norðar og sú þriðja skammt austar. Sunnan undir holtinu, sem þar er miðsvæðis er gat. Hleðsla er um gatið. Þegar inn var komið blasti við rúmgott fjárskjól. Fyrirhleðsla er innar í því til að varna fé áframhaldandi för inn eftir hvolfinu. Skjólið er nokkuð þurrt. Nokkrir smalaskálar eru í hraununum. Yfirleitt var nafnið notað um skála eða skjól, en það virðist ekki eiga við á Reykjanesskaganum. Þar virðist heitið hafa verið notað um hæðir, nema nöfnin hafi verið tengd hæðum með skjólum í, líkt og þarna.
Skoðaðar voru landamerkjavörður milli Hvassahrauns og Lónakots sem og leiðarvörður við Alfaraleiðina og komið við í Loftskúta, fallegu fjárskjóli. Þar eru og sagnir um að menn frá Hvassahrauni hafi geymt rjúpnafeng sinn er þeir voru við veiðar í hrauninu.
Nokkur leit hefur verið gerð að Gránuskúta, Kápuskjóli og Kápuhelli, en tveimur þeirra er lýst í örnefnaslýsingu fyrir Þorbjarnastaði.

Kápuskjól

Kápuskjól (Kápuhellir).

Gengið var um heimatún Þorbjarnastaða, rústir síðasta torfbæjarins í landi Hafnarfjarðar. Búið var að Þorbjarnastöðum fram undir seinna stríð (1940). Þar bjuggu síðast Ingveldur Jónsdóttir, dóttir Guðmundssonar á Setbergi, og Þorkell Árnason frá Guðnabæ í Selvogi. Þau eignuðust 11 börn – og það þótt húsbóndinn hafi yfirleitt verið fjari bæ til að afla lífsviðurværis. Það færi vel að gera bæinn upp og hafa hann til sýnis sem dæmi um slíka bæi er voru víða í umdæminu. Hann hefur allt til að bera; heimagarð, vörlsugarð, heimtröð, brunn, selstíg, stekk og fjárskjól.
Gránuskúti er ekki auðfundinn. Hann er sunnan við Þorbjarnastaði, austan Miðmundarhæðrar. Falleg hleðsla er um munnann, en þegar inn er komið tekur við flórað gólf að hluta og fyrirhleðslur. Skjólið er mjög rúmgott og hefur verið vel lagfært. Þá er það óvenjuþurrt. Grána gæti verið nafn á á frá Þorbjarnarstöðum, líkt og Grákolla í frásögninni af Arngrímshelli í Klofningum, þeirri er allt fé Krýsuvíkurbænda átti að hafa verið komið frá.
Haldið var upp í gegnum Selhraun og upp í stóru Tobburétt í Grenigjá. Um er að ræða fallegar hleðslur í og um gjána. Greni er skammt norðan við hana. Steintröll vakir yfir gjánum. Svæðið er allvel gróið. Austar er litla Tobburétt. Gengið var að henni í bakaleiðinni.

Tobburétt

Tobba við Tobburétt.

Straumsselsstígnum var fylgt upp í Jónshöfða. Þar í Laufhrauni komu bæði Kápuskjól og Kápuhellir í ljós. Þessa skúta er einnig erfitt að finna. Lítil varða er á höfðanum ofan við skjólin. Hún er á landamerkum Þorbjarnarstaða og Straums. Skjólið er í landi Straums, en hellirinn í landi Þorbjarnastaða. Fallegar fyrirhleðslur er fyrir þeim báðum. Hellirinn er heldur stærri. Fjárkyn Þorkels á Þorbjarnastöðum var sagt kápótt og þótti allsérstakt. Þá var það ferhyrnt og snúið upp á hornin, sem einnig þótti sérstakt.
Straumsselsstíg var fylgt niður að litlu Tobburétt í Tobbuklettum. Fyrirhleðsla er í stórri hraunsprungu, en ef vel er að gáð má sjá að hlaðinn bogadreginn veggur hefur verið framan við hana. Hann hefur verið leiðigarður fyrir fé, sem rekið var að réttinni að ofanverðu. Stígurinn liggur nú í gegnum garðinn. Þegar horft var á þverklett sprungunnar mátti vel sjá móta fyrir andliti í honum. Ekki er ólíklegt að ætla að álfarnir hafi viljað með því láta vita af tilvist sinni á svæðinu með þeim skilaboðum að fólki gæti þar varfærni.
Annars eru álfa- og huldufólksáminningar víða í hraununum. Þeir, sem gaumgæfa og kunna að lesa landið vita og þekkja skilaboðin. Þegar farið er eftir þeim er engin hætta búin, en ef einhver gleymir sér að er ólæs á landið – guð hjálpi honum.
Gengið var til baka eftir Straumsselsstíg í gegnum Selhraunið og niður að Þorbjarnastöðum.

Öskjuholtsskúti

Í Öskjuholtsskúta.

Hafnarfjörður

Alþýðublað Hafnarfjarðar, jólablað 1966, „Við veginn“ – Magnús Jónsson, bls. 21:

„Ein af mestu umferðaræðum landsins er sem kunnugt er vegurinn milli Reykjavíkur og Keflavíkur. Verður í þessu greinarkorni rabbað um eitt og annað, sem í hugann kemur á hluta af þeirri leið, þótt lesandinn megi ekki búast við að verða að miklum mun fróðari eftir lesturinn en áður.

Magnús Jónsson

Magnús Jónsson.

Nú liggur þar steyptur vegur, en á fyrsta tugi aldarinnar og lengur stóð þar yfir vegarlagning sem leysti reiðgötuna af hólmi, því að um eiginlega lagða vegi var ekki að ræða hér á landi áður fyrr, heldur troðninga, sem ekki voru mótaðir af mannshöndinni, nema e.t.v. nokkrum steinum rutt frá. Þó varð ekki komizt hjá víðtækara verki, þar sem brunahraun þöktu stór landsvæði. En þar hafa menn lyft huganum frá bakraun og tilbreytingarlausum átökum við hnullunga og eggjagrjót með myndum þjóðsagna: Ósk um að berserkir — sem tæpast voru mannlegar verur — fengju rutt vegi um þessa farartálma á svipstundu svo að segja. Samkvæmt þjóðtrúnni gerðist slíkt bæði í Berskerkjahrauni á Snæfellsnesi og í Ögmundarhrauni, sem snemma í byggðarsögu landsins rann í sjó fram milli Krýsuvíkur og Grindavíkur. Er þar auðséð, hvar hægt en óstöðvandi hraunrennslið hefur umkringt mannvirki, — en það er önnur saga.
En hvað sem líður fyrstu myndun lestaveganna í hraununum, þá voru þeir „framtíðarvegir‘, sem fullnægðu kröfum kynslóðanna, sem ekki þekktu annað betra. Öðru máli var að gegna með mýrarkenndan jarðveg. Verið gæti, að margur lestarmaður hafi með nokkurri furðu hugleitt þá tilhögun skaparans, að nautgripunum skyldi veitast svo furðu auðvelt að ösla um þau fen og foræði, sem klyfjahestarnir hans urðu að krækja fyrir, já, oft um langan veg, þótt ekki bæru þeir alltaf þunga úttekt úr kaupstaðnum. „Betri er krókur en kelda“, segir máltækið. Og því er það, að einhverjir fyrstu lagðir vegir voru hinar svonefndu brýr, sem lagðar voru stytztu leið yfir mýrarfláka víða um land. Er eitt slíkt örnefni til hér í nágrenni Hafnarfjarðar, sem er „Dysjabrú’. Er það vegarkaflinn þaðan sem hrauninu sleppir og að Garðaholti. Þetta mannvirki er að sjálfsögðu kennt við Dysjar, eitt þekktasta býli Garðahrepps.

Í þéttbýlinu

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður 1903.

Þegar halda skyldi t. d. frá Reykjavík til Suðurnesja, var farið um Hafnarfjörð með sjónum. Við Arahús — nánast þar sem nú er Strandgata 21 — var æði stutt bilið á milli sjávarmálsins og hins byggða bóls. Þegar suður fyrir lækinn kom tók við samfelld möl, allt að Hamrinum syðri. Þótt sjávarmöl sé þreytandi manna- og hestafótum, hefur hún ýmsa kosti. Leikvöllur barnaskólans frá 1902 var t. d. þakinn þykku lagi af henni. Varð sársaukinn hverfandi lítill, þótt dottið væri á hnéð í áflogum, þar sem hver steinn var svo afsleppur að hann ýttist frá. Fátt er líka heppilegra til að drýgja með steinsteypu en hrein möl úr fjörunni. En nú er velmegunin svo mikil, að sjaldan er talað um að drýgja nokkurn skapaðan hlut í þeirri merkingu. Gatan sveigði fljótlega upp á við, þar sem enn er farið að Ásmundarbakaríi og Prentsmiðju Hafnarfjarðar, því næst þar sem er Suðurgata 24, en síðan skáhallt upp hallann í átt til sjávar. Fljótlega hallaði því undan fæti aftur og var þá komið á Flensborgarmöl.
Algengt vegarstæði er „milli hrauns og hlíða“, t.d. upp í Kaldársel, en hér hefur það sennilega verið bezt „milli mýrar og malar“, ef svo mætti segja. Síðan lá leiðin með sjónum, líkt og þegar nú er farið að verksmiðjunni Lýsi og mjöl, og reyndar alveg suður að Hvaleyri. Var svo farið beint af augum framhjá Hjörtskoti og komið niður þar, sem síðar var sandnámið verðmæta og umdeilda.

Byggðin að baki

Kapellan

Kapellan – sjá má leifar Alfaraleiðarinnar, sem lá framhjá henni.

Þá tekur hraunið við. Það er með ávölum klettabungum og gróðri sízt minni en í Hafnarfjarðarhrauni. Er m. a. athyglisvert að skoða, hve langir geta orðið leggir blómanna, sem vaxa í klettasprungunum og teygja sig í birtuna. — Nokkurn veginn sézt hvar lestavegurinn liggur, allmiklu nær sjónum en hinir, og hafa hófar og mannsfætur jafnvel unnið nokkuð á sléttum klöppunum. Þó er vegna gróðurs hraunsins ekki eins auðvelt að fylgja þessari slóð í Hellnahrauninu eins og var til skamms tíma, þegar í Kapelluhraunið kom. Það er miklu yngra, sennilega runnið á 12. öld að áliti jarðfræðinga, ólíkt hinu fyrra að allri gerð og liggur ofan á því. Í annálum er hraunbreiðan öll nefnd Nýjahraun. Í því er lítill gróður annar en mosi, og þess vegna var það, að elzta leiðin um það sást svo vel. Hún þaktist öll grasi og öðrum lággróðri eins og græn rönd um gráan mosann, frá norðri til suðurs, sundurslitin af nýrri veginum sunnan til í hrauninu, — lá þar upp fyrir hann.

Selsvellir

Alfaraleiðin.

Flest sagnorð um þann hluta þessarar hraunbreiðu, sem hér er átt við, mætti hafa í þátíð. Hraunið er þar tæpast lengur til, en hefur verið rutt, flutt og sléttað með stórvirkum vélum. Enn hefur þó verið þyrmt mannvirkinu gamla, Kapellunni, sem hraunið næst sjónum dregur nafn af. Í Jólablaði Alþýðublaðs Hafnarfjarðar árið 1961 er ýtarleg grein um mannvirki þetta eftir Ólaf Þ. Kristjánsson skólastjóra. Það var vorið 1950 að lítið líkneski fannst þar af einum dýrlinga kaþólsku kirkjunnar, heilagri Barböru. Þótti hún góð til áheita gegn hvers konar eldsvoða, sprengingum og þvíumlíku. Þar sem, eins og áður er sagt, að hraunið rann eftir landnámstíð, verður manni ósjálfrátt að tengja þennan dýrling einnig bæn gegn eldgosum og hraunrennsli.

Suðurnesjavegur

Suðurnesjavegurinn vestan Straums.

Vart er hægt að hugsa sér meiri andstæður en hljóðlátt bænarandarp innan veggja þessa litla frumstæða húss og svo þau gífurlegu umsvif nútímans, sem fyrirhuguð eru svo að segja á þessum stað, þar sem er álverksmiðjan. Er þá að engu orðin hin kyrrláta fegurð byggðarlagsins í Hraununum, sem svo er nefnt. Hraunin taka við þar sem Kapelluhrauni sleppir. Kapellan lá alveg við elzta veginn — reiðgötuna, — nýrri vegurinn var ofan við hana, en sá nýjasti — steypti — er fáa metra neðan við.
Í Hraununum voru allmargir bæir, en þó aldrei kirkjustaður. Er nú aðeins Straumur í byggð og Óttarsstaðir tveir. Bærinn í Þýzkubúð stendur enn, og ber hann og nánasta umhverfið vitni um hinn hverfandi eiginleika, nægjusemi. Ofar, þar sem vegirnir liggja nú, voru m. a. Stóri- og Litli-Lambhagi og Þorbjarnarstaðir.

Gvendarbrunnur

Gvendarbrunnur við Alfaraleið.

Efst liggur reiðgatan gamla, en nú verður aftur erfiðara um vik að fylgja henni. Hraunið, sem við nú erum komin í, er ein af stærri hraunbreiðunum og nefnist Almenningur. Er það álíka gróið og Hellnahraun, en líkist enn meira Hafnarfjarðarhrauni. Elzti vegurinn liggur þar fjærst sjónum eins og áður er sagt, en nýrri vegurinn hjá rauðamelsnámunum og síðan klettaborginni Smalaskála. Steypti vegurinn er enn neðar. Við elzta veginn, nokkru nær Hafnarfirði en rauðamelurinn er tekinn, er vatnsbólið Gvendarbrunnur. Þar var tilvalinn áningarstaður, alltaf vatn og svo grasi gróið sléttlendi umhverfis.
Er slíkt óvíða að finna á Reykjanesskaga, og bendir m.a. til þess hið langa nafn hreppsins, sem við nú nálgumst, Vatnsleysustrandarhrepps. En hér hvílumst við (til næstu jóla?) Hér hefur líka Guðmundur biskup Arason hvílt lúin bein, eftir að hafa vígt vatnslind þessa, öldum og óbornum til blessunar. Og hér umhverfis vatnsbólið sat einn bekkur úr Barnaskóla Hafnarfjarðar fyrir 30 árum, ásamt kennaranum, Friðrik Bjarnasyni. Fölleitur, brúneygur drengur úr þeim hópi hefur stundum farið þangað síðan.“

Heimild:
-Alþýðublað Hafnarfjarðar, jólablað 24.12.1966, Við veginn – Magnús Jónsson, bls. 21.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – Gamli barnaskólinn fyrir miðju.

Grindarskörð

Eftirfarandi upphafslýsing á ferð upp Grindarskörð birtist í Mbl. árið 1980. Lýsingin er betri en margar aðrar, sem birst hafa um þetta stórbrotna svæði í seinni tíð. Af frásögnum fólks virðist flest það, sem ætlaði að ganga hina sögufrægu Selvogsgötu, aldrei hafa ratað inn á hana, en samt talið sig hafa elt hana að Hlíð í Selvogi. Loks, í lok fróðleiksmolanna, er rifjað upp þjóðsögulegt örnefnaskýringarívaf og önnur skyld endurrituð úr  „safni alþýðlegra fræða íslenskra – Huld, 1890-1898.

Gata í Grindarskörðum

„Fyrr á tímum lá aðalleiðin milli Hafnarfjarðar og Selvogs, fyrir norðan Valahnúka, um Grindaskörð, Hvalskarð og þaðan til byggða í Selvogi. Í daglegu tali er þessi leið nefnd Selvogsgata. Hún er á ýmsan hátt torsótt. Meðfram henni er lítið sem ekkert vatn að finna, hún liggur að mestu um gróðurlaus brunahraun og í Grindaskörðum kemst hún í 400 m y.s. Með breyttum samgönguháttum lagðist umferð um Selvogsgötuna niður að mestu og hin síðari ár hefur verið lítið um mannaferðir í Grindaskörðum. Þó munu gangnamenn eiga þar leið um vor og haust, rjúpnaskyttum bregður fyrir á haustin í leit að bráð og svo kemur fyrir að einstaka göngumaður sé þar á flakki sér til gagns og ánægju.
Eins og sjá má á korti eru Grindaskörðin milli Lönguhlíðar og Kristjánsdalahorns. Þar eru þrír hnúkar sem heita Stóribolli, Tvíbollar (á kortinu nefndir Miðbollar) og Syðstubollar. Á þessu svæði öllu hefur verið mikil eldvirkni áður fyrr og eru Stóribolli og Tvíbollar gamlir gígar, sem hafa lagt til megnið af því hrauni, sem þekur svæðið fyrir norðan og vestan skörðin. Fyrir ferðamanninn eru Tvíbollar einna forvitnilegastir og þangð tökum við stefnuna. Þegar komið er upp á gígbarminn kemur í ljós að gígskálarnar eru tvær. Unnt er að ganga brúnirnar allan hringinn, en þó er nokkuð laust undir fæti á stöku stað.
Enginn hefur rannsakað þetta svæði betur er Jón Jónsson jarðfræðingur. Álit hans er að meginhluti þeirra hrauna, sem Í Völundarhúsinuþekja svæðið frá Grindaskörðum og norður að Undirhlíðum og Helgafelli, sé komið frá Stórabolla og Tvíbollum. Hann segir Stórabollahraunið eldra og liggi það víða undir Tvíbollahrauninu. Samkvæmt mælingum munu þessi hraun vera nokkurn veginn jafnstór, þekja um 18 ferkm. Hvort og vera um 0.36-0.37 km að rúmmáli. En þegar farið er að athuga aldur Tvíbollahrauns nokkru nánar, koma fram sterkar líkur til þess, að það hafi runnið eftir landnám norrænna manna hér á landi, því undir því hefur fundist á einum stað hið svokallaða landnámslag, en það er öskulag, sem talið er að sé frá því um 900.
Útsýnið af Bollunum er frábært í einu orði sagt. Hraunbreiðurnar til norðurs blasa við fyrir fótum manns, og gamla Selvogsgatan hlykkjast milli hraunhólanna í áttina að Valahnúkum. Og í einni sjónhending greinir maður byggðina á Innnesjunum, allt frá Hafnarfirði til Kjalarness. Og ekki spillir fjallasýnin með Snæfellsjökul sem útvörð í vesturátt. Þótt útsýnið til suðurs sé ekki eins tilkomumikið, hefur það samt glögga mynd af hinu gífurlega hraunhafi sem þekur þennan hluta Reykjanesskagans, enda telur Jón Jónsson að á sama tíma og Tvíbollahraunið rann, hafi á annan tug gíga við Grindaskörð og þar fyrir suðvestan, verið virkir.

Miðbolli

Þótt við höfum ekki farið lengra en upp í Grindaskörðin, er margt annað að sjá og skoða, sem athyglisvert er, þótt ekki hafi verið minnst á það hér. T.d. er margir fallegir og sérkennilegir hellar í hraununum fyrir norðan skörðin og má það nefna hellana í Dauðadölum og Kristjánsdölum.
Við höldum til baka sömu leið að bílnum. Það hallar undan fæti og leiðin sækist greitt. Og þá er gott að rifja upp stutta sögn úr Þjóðsögum Jóns Árnasonar: “Þórir haustmyrkur nam Selvog og Krýsuvík. Það hefur verið seint á Landnámstíð, því fjölbyggt hefur verið orðið syðra eftir þeirri sögn, að fátækt fólk hafi flakkað í Selvog bæði utan með sjó og sunnan yfir fjall. Það þótti Þóri illt og setti því grindarhlið læst í Grindaskarð, en annað í það skarð, sem farið er úr Grindavík og upp á Siglubergsháls. Þar af skulu þessi örnefni vera dregin: Grindaskarð og Grindavík”.
Þjóðsagan um Þóri haustmyrkur og örnefnið Grindarskörð birtist í Huld I, „skráð eptir sóknarlýsingu Jóns Vestmanns Drykkjarsteinn efst í Kerlingarskarðiá Vogsósum 1840″.
„Í mæli er að Þórir haustmyrkur, landnámsmaður í Selvogi og bóndi í Hlíð, hafi lagt veg yfir Grindarskörð; hafi þá verið svo mikill skógur yfir allt, að hann hafi sett raftagrind afberkta á skarðsbrúnina að vestanverðu, sem horfir til Hafnarfjarðar, til þess að fá rétt hitt á Skarðið, þegar ferð lá yfir fjallið. Skyldi því vegurinn og skarðið hafa fengið nafn af þessari grind. Rétt vestan við veginn er hnöttótt blásið fell, sem er nafn gefið, svo eg viti, en fyrir vestan fell þetta er Kerlingarskarð (sjá HÉR), líklega nefnt svo af skessu þeirri, sem mælt er að hafi búið í Stórkonugjá; er hún spölkorn fyrir austan vegin n, þegar komið er upp á Grindarskarða veg. Gjá þessi er víð og löng, víst yfir 200 faðma löng, en um dýpt hennar [er óvíst], því undir slátt eður miðsumar er hún ætíð barmafull af snjó. Annars er pláss þetta, eins og allur fjallgarðurinn vestanverður, efstu og fjærstu afréttarpláss Árnesinga.
Enn er sagt að Þórir haustmyrkur hafi eitt sinn gengið að geldingum sínum og séð til ferðar téðrar kerlingar, elti hana og náði [henni] á hæsta fjalla kjöl; bar hún þá fullbyrði af hval. Hann þóttist eiga hvalinn og vildi drepa hana, en hún beiddi sér griða, líklega óviðbúin, og keypti sig í frið við hann með því að lofa honum að láta sauði hans ekki renna vestur af fjalli, heldur halda þeim í hans eiginbyggðar högum. Heitir þar Hvalshnúkur, sem þau fundust, hár, ávalur [og] blásinn í sand og grjót. Liggur Grindarskarða vegur í skarðinu hjá þessum hnúk [og er það síðan nefnt] Hvalskarð.“

Vatnsból ofan Skarðanna

Fáir fara í dag um nefnd Grindarskörð. Selvogsgatan er í dag gengin, jafnvel undir leiðsögn, um fyrrnefnt Kerlingarskarð. Beggja vegna Grindaskarða eru tóftir, fyrrum skýli rjúpnaskytta. Undir Kerlingarskarði má sjá leifar af birgðastöð brennisteinsvinnslumanna í Brennisteinsfjöllum. Efst í skarðinu eru tveir drykkjarsteinar. Neðan þess eru nokkrir hellar – sumir allmyndarlegir.
Þótt færri fari nú um Grindarskörð er þar auðgegnari uppganga á suðurleið [austurleið] en um Kerlingarskarð (munar u.þ.b. 15 mín). Þéttar vörður ofan og vestan skarðsins leiða fólk ósjálfrátt inn á Hlíðarveg að Hlíðarskarði. Selvogsgatan er hins vegar austar. Gatnamót eru við vatnsból ofan skarðanna. Liggur gatan með hlíðum að Hvalskarði, um Hlíðardal og Strandardal að Strönd í Selvogi. Gatnamót eru undir brúnum Strandardals, vestan Svörtubjarga. Þaðan liggur Hlíðargata að hinu forna höfuðbóli Hlíð, bústað Þóris haustmyrkurs.
Sjá MYNDIR.

Heimildir m.a.:
-Mbl, júlí, 1980.
-Huld I, bls. 74-75.

Grindarskörð (t.v.), Stóribolli og Kerlingarskarð (t.h.)

Skógrækt

„Síðasta dag sumars árið 1946, nánar tiltekið þann 25. október, mætti 21 Hafnfirðingur til fundar þar sem ákveðið var að stofna Skógræktarfélag Hafnarfjarðar.
smalahvammur-222Mætingin var nokkuð lakari en fundarboðendur reiknuðu með því þá þegar höfðu 100 Hafnfirðingar gerst félagar í Skógræktarfélagi Íslands sem var stofnað á Alþingishátíðinni á Þingvöllum. Skógræktarfélag Íslands hafði sinnt ræktunarstörfum á suðvesturhorni landsins frá stofnun félagsins en vorið 1946 var ákveðið að stofna sérstök félög í Reykjavík og Hafnarfirði í anda þeirra héraðsfélaga sem störfuðu víða um landið. Markmiðin sem lögð voru til grundvallar stofnun nýja skógræktarfélagsins voru háleit eins og kom fram í lögum þess:
Tilgangur Skógræktar-félags Hafnarfjarðar er að vinna að trjárækt og skógrækt í Hafnarfirði og nágrenni og auka skilning og áhuga Hafnfirðinga á þeim málum.
Tilgangi sínum ætlar félagið að ná með því að veita félagsmönnum fræðslu um skógrækt og trjárækt, með útbreiðslu ársrits Skógræktar-félags Íslands, fyrirlestrum, myndasýningum og öðrum leiðbeiningum. Félagið ætlar að greiða fyrir útvegun ýmissa frætegunda og trjáplantna handa félagsmönnum.
Á stofnfundinum var ákveðið að allir hafnfirskir ársfélagar og ævifélagar í Skógræktar-félagi Íslands, skyldu teljast félagsmenn í Skógræktar-félagi Hafnarfjarðar, frá og með 1. janúar 1947.
Helmingur þeirra sem sátu stofnfundinn voru kosnir í embætti á vegum félagsins. Þar á meðal voru Jón Magnússon (1902-2002) frá Skuld í Hafnarfirði sem tók að sér starf gjaldkera og sinnti því árum saman. Þorvaldur Árnason skattstjóri var meðstjórnandi til að byrja með en tók við formennskunni af Ingvari Gunnarssyni árið 1948 og gegndi embættinu til ársins 1954. Jón Gestur Vigfússon bókari var fyrsti ritari félagsins og tók síðan við formennskunni af Þorvaldi árið 1954 og sinnti því starfi til 1958, þegar séra Garðar Þorsteinsson tók við formanns embættinu. Hann var formaður til ársins 1965. Þessir fjórir menn lyftu grettistaki og fóru fyrir áhugasömu skógræktarfólki á fyrstu árum félagsins, þegar mest á reyndi að sýna og sanna að skógrækt væri möguleg í upplandi Hafnarfjarðar.
smalahvammur-223Staðreyndin var sú að ekki höfðu allir bæjarbúar trú á að skógræktar-áhuginn ætti eftir að endast lengi. Það blés ekki byrlega til að byrja með og reyndi verulega á þrautsegju og þolgæði þeirra sem stýrðu málum af hálfu Skógræktar-félagsins. Þar munaði miklu um þekkingu og dugnað frumkvöðlanna sem létu ekki deigan síga þó svo að á móti blési. Gunnlaugur Kristmundsson sandgræðslustjóri átti sæti í stjórn félagsins fyrstu fjögur árin. Hann var kunnur af störfum sínum við uppgræðslu landsins og þekkti betur til en flestir aðrir. Að ráði hans var leitað til bæjaryfirvalda og óskað eftir landi til ræktunar við Hvaleyrarvatn, í svonefndum Vatnsenda neðan við Beitarhúsaháls og Húshöfða. Þegar til átti að taka vorið 1947 var mikil kuldatíð og útlitið við Hvaleyrarvatn allst ekki nógu gott. Gunnlaugur stakk þá upp á því að reynt yrði að fá leyfi til að girða af nokkra hektara nyrst í Gráhelluhrauni, skammt frá Lækjarbotnum. Hann taldi að þar yrði vænlegt að planta út trjám, þrátt fyrir kuldann, og hann hafði rétt fyrir sér. Jón Magnússon frá Skuld í Hafnarfirði var hörkudulegur og vanur að taka til hendinni. Jón hafði fengið úthlutað landi í Smalaskálahvammi í Klifsholti árið 1945 sem hann girti og hófst handa við að stinga niður rofabörð og bera á þann gróður sem fyrir var. Hann breytti á nokkrum árum grýttu holti í ræktanlegt land og plantaði út furu, greni, birkitrjám og fleiri tegundum sem hann komst yfir. Jón breytti þessum ofbeitta hvammi í sannkallaðan sælureit á nokkrum áratugum og sýndi fram á að þetta var kjörið land til ræktunar. Smalaskáli ber Jóni og fjölskyldu hans gott vitni og það er ljóst að hann og ættmenni hans eru með græna fingur, eins og frægt er. Nægir að nefna gróðrastöðina Skuld sem Jón stofnsetti árið 1952. Gróðrarstöðin útvegaði Hafnfirðingum og íbúum helstu nágranna byggðarlaga fjölbreyttan trjágróður um langt árabil og þar ræktað Jón m.a. beinstofna birkitré sem sett hafa svip á garða um allan bæinn.
Í trjálundinum í Smalahvammi er m.a minningarsteinn um eiginkonu Jóns, Elínu Björnsdóttur (1903-1988).
Jón í Skuld tók að sér að annast girðingavinnuna í Gráhelluhrauni og fékk til liðs við sig þrjá unga menn sem girtu 7 smalahvammur-224hektara spildu vorið 1947. Gunnlaugur sandgræðslustjóri útvegaði girðingaefnið, en á þessum tíma var afar erfitt að fá girðingarefni nema til að girða lönd bænda, enda voru höft á öllum innfluttum vörum.
Fyrsta gróðursetninga-ferðin í Gráhelluhraun var farin 27. maí 1957. Bæjarbúar fjölmenntu og meðal þeirra sem tóku þátt í þessari fyrstu gróðursetningu í hrauninu voru kennarar, prestar, læknar, embættismenn, fiskverkafólk, sjómenn, húsmæður og börn. Flestir voru í sínu fínasta pússi enda um helgidag að ræða. Fjölmargir vildu leggja sitt af mörkum til að klæða landið skógi og fyrsta sumarið voru 2.300 trjáplöntur settar niður í hraunið. Þetta var erfitt starf og þurfti að útbúa sérstaka haka til að koma plöntunum niður í hrjóstrugt hraunið.
Lautirnar í Gráhelluhrauni reyndust skjólgóðar og vel lagaðar fyrir skógrækt eins og Gunnlaugur sá fyrir. Fyrirkomulag útplöntunarinnar var með þeim hætti að þarna áttu að vera falleg rjóðrur umkringd trjágróðri sem gæti brotið vindinn og skapað skjólsæla unaðsreiti fyrir íbúa bæjarins og aðra sem vildu njóta þess sem skógurinn hefði upp á að bjóða. Vissulega stórfenglegt markmið og þetta vor var sá grunnur lagður að ræktun sem hefur skilað gjörbreyttri ásýnd þessa hluta bæjarlandsins.
Stjórnarmennirnir Þorvaldur Árnason, Jón Gestur Vigfússon og Jón Magnússon voru dugmiklir félagsmenn á upphafsárunum og unnu af miklum krafti að ræktuninni og öflun styrkja frá fyrirtækjum og bæjaryfirvöldum. Þegar Ingvar Gunnarsson ákvað að hætta sem formaður vorið 1949 varð Þorvaldur Árnason sjálfkrafa formaður félagsins. Stjórnarfundir voru haldnir á skrifstofu Þorvaldar á Skattstofunni frá upphafi. Fyrsta verk nýja formannsins var að fá aukið land í Gráhelluhrauni til útplöntunar. Girðingin var stækkuð og náði austur að Hraunsrétt sumarið 1949.
Framkvæmdagleðin var mikil í þessu litla félagi og afar brýnt að halda vel utan um fjármálin. Jón Magnússon í Skuld stóð sig með stakri prýði og var  manna duglegastur við að afla nýrra félaga. Á þessum tíma gerði hann út strætisvagna sem gengu milli Hafnarfjarðar og Rsmalahvammur-225eykjavíkur.
Sú saga gekk um bæinn að það fengi enginn far með strætó nema vera í Skógræktar-félaginu. Jón gerði lítið úr þessari sögu, enda orðum aukin, en honum fannst sagan góð engu að síður.
Jón í Skuld hélt tryggð við félagið alla tíð og sat í stjórn þess í 40 ár. Hann átti mikinn þátt í að félagið gat útbúið eigin græðireiti í Höfðaskógi sem var  mikilvægt framfaraskref. Hann var gerður að heiðursfélaga á 40 ára afmæli Skógræktar-félagsins árið 1986 og var sá fyrsti sem hlaut þann heiður.
Vorið 1954 urðu formannaskipti þegar Jón Gestur Vigfússon tók við af Þorvaldi Árnasyni. Jón Gestur var þekktur ræktunarmaður og hafði stundað landbætur og trjárækt í Sléttuhlíð frá sumrinu 1925. Á aðalfundinum var ákveðið að fjölga í stjórninni úr fimm í sjö manns, því það þurfti að fá fleiri til að sinna starfinu enda stækkaði félagið stöðugt. Árið eftir gat félagið ráðið til sín sumarstarfsmann á launum. Sumarið 1956 voru sumarmennirnir tveir og veitti ekki af enda ætlunin að hefja girðingavinnu við Hvaleyrarvatn árið eftir.
Þegar 32 ha spilda við Hvaleyrarvatn hafði verið girt vorið 1958 hófst gróðursetning með aðstoð félagsmanna Rótarýklúbbs Hafnarfjarðar, sem gróðursettu 7000 plöntur. Almennir félagsmenn gróðursettu annað eins þetta sumar og starfið var blómlegt.
Vorið 1958 óskaði Jón Gestur eftir því að hætta formennskunni og var séra Garðar Þorsteinsson kjörinn í hans stað. Garðar var áhugamaður um trjárækt og hafði m.a. komið sér upp glæsilegum gróðurreit í hvammi ofan við Grænugrófarlæk, sunnan Jófríðarstaða. Þegar hér var komið sögu hætti Jón í Skuld sem gjaldkeri, en Haukur Helgason kennari tók við af honum. Haukur var starfsmaður félagsins sumarið áður og vann við að planta út í Gráhelluhrauni. Hann átti eftir að koma mikið við sögu félagsins næstu árin.

smalahvammur-227

Séra Garðari fylgdu nýjar áherslur í starfinu. Ráðist var í að grisja rauðgrenið í Gráhelluhrauni fyrir jólin 1958 og bæjarbúum boðið að kaupa hafnfirsk jólatré. Garðar kom því til leiðar að félagi fékk úthlutað 56 hektara landsvæði við Stóra-Skógarhvamm í Undirhlíðum. Næstu sumur unnu drengirnir í sumarbúðunum í Krýsuvík að útplöntun í Stóra-Skógarhvammi undir stjórn Hauks Helgasonar.
Árið 1961 fékkst samþykki bæjaryfirvalda fyrir því að endurnýja girðingarnar við Skólalund í Litla-Skógarhvammi í Undirhlíðum. Ræktunarsvæðið var á sama tíma stækkað um 30 hektara með Kúadalagirðingunni, sem náði langleiðina að Kaldárbotnum. Segja má að ræktunarsvæði í umsjón Skógræktar-félagsins hafi vaxið úr 7 hekturum vorið 1947 í 200 hektara vorið 1961, sem var vonum framar.
Séra Garðar var formaður félagsins til vorsins 1965 en þá tók Ólafur Vilhjálmsson við og sinnti því hlutverki lengst allra, eða næstu tvo áratugina.
Minningarsteinar á vegum félagsins eru orðnir þó nokkuð margir og eru á víð og dreif um ræktunarsvæðin. Það á vel við að minnast þessara fjögurra frumkvöðla í saman enda komu þeir allir að starfinu á umbrotatímum í sögu þjóðarinna. Með áræðni, bjartsýni go umfram allt skýrri framtíðarsýn áttu þeir hver á sinn hátt stóran þátt í að Skógræktar-félag Hafnarfjarðar varð öflug fjöldahreyfing á upphafsárunum og er enn í  dag eitt fjölmennasta skógræktarfélag landsins.
Þessir menn stóðu ekki einir, því þeir áttu maka, börn, ættingja og vini sem skiluðu ekki síður miklu og merku starfi smalahvammur-226til eflingar skógræktar í bæjarlandinu. Fjöldkyldur þeirra stóðu heilshugar að baki þeim og studdu þá til góðra verka. Minningarsteinar Skógræktarfélags Hafnarfjarðar eru virðingarvottur við allt það merka fólk sem hefur lagt sig fram um að bæta landið með hag komandi kynslóða fyrir brjósti.“

Heimild:
-http://www.skoghf.is/greinar/84-minningarskjoeldur-4-brautryejenda-a-grahellufloet

Gráhelluhraun

Gráhelluhraun – minningarskjöldur.

Hafnarfjörður

Í „Alþýðublaði Hafnarfjarðar, jólablaði“ árið 1965 er birtur uppdráttur dönsku mælingarmannanna af bænum frá árinu 1903 og farið um hann af nokkrum fróðleik:

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður 1903.

Hér birtist kort af Hafnarfirði, eins og hann leit út um og eftir síðustu aldamót. Er þar allmikinn fróðleik að finna, fyrir þá sem vilja setja sig niður til þeirra hluta, frá erli líðandi stundar. Eru bæði sýnd túnin í suðurbænum og svo matjurtagarðar, sem sýndir eru skástrikaðir. — Einna stærsti kálgarðurinn er sá sem „klúbburinn“ svonefndi stóð í, þar sem nú er húsið Suðurgata 15. Skólinn þar rétt hjá er að sjálfsögðu gamla barnaskólahúsið, sem þá var nýbyggt. Góðtemplarahúsið og sýslumannshúsið eru komin. — Hinum megin við klúbbinn sést Undirhamarsbærinn og syðst í því túni er Stefánshús, þá með kálgarði fyrir framan. Sjávarmegin vegarins sjást m. a. þrjú hús sem enn standa, en fyrir framan þau liggur nú Strandgatan. Vegurinn í gegnum bæinn snarbeygði nálægt þar sem nú er húsið Bristol (Suðurgata 24) og var farið skáhallt upp á suður- eða vesturhamarinn og komið niður á Flensborgarmöl. Verksmiðjan, sem nefnd er, er Gosdrykkjagerðin Kaldá, sem stofnuð var árið 1898 og starfrækt þangað til um 1910.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – Hellisgata 1905.

Sé farið norðureftir aftur, sést að á meðan lækurinn rann óáreittur af mannshöndinni, var ósinn allmiklu norðar en nú, og brúin nálægt þar sem nú er apótekið. Austan Gunnarssundsins voru stórir kálgarðar, og eru þeir á kortinu skáskornir af götuslóða. Lá hann þaðan sem nú er efnalaugin og upp þangað sem nú eru húsin Austurgata 27 B og 29 B.
Þar sem nú mætast Linnetstígur og Strandgata hefur bærinn breytzt æði mikið, en sé farið enn vestar, sést að leiðin til Beykjavíkur lá á sama stað og nú, og einnig sést hvar hinn þá nýlagði Kirkjuvegur hlykkjast skáhallt upp hraunið. Það var leiðin áleiðis að kirkjustaðnum, Görðum.
Hús, sem sjást vestan Reykjavíkurvegar og enn standa, eru m. a. verzlunin Ásbúð, hús Bjárna riddara Sívertsens og stóra pakkhúsið þar fyrir vestan. Einnig standa enn í miðbænum 3—4 íbúðarhús sem sjást á kortinu, en ekki eins greinilega.
Hugleiðingar út frá þessu korti gætu verið miklu lengri, en vonandi er að þeir sem þarna koma auga á bernskuheimili sitt sem lítinn punkt, misvirði ekki þótt hér verði staðar numið. Þeim til fróðleiks má benda á það sem skrifað hefur verið í jólablaðið um þetta efni á undanförnum árum.
Um áttaheiti hefur verið fylgt hinum reikulu hafnfirzku málvenjum.“

Heimild:
-Alþýðublað Hafnarfjarðar, jólablað 21.12.1965, Hafnarfjörður 1903, bls. 25.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður 1903 – í lit.