Tag Archive for: Hafnarfjörður

Stekkjarhraun

Ætlunin var að skoða Stekkjarhraunið (nú á millum Berga og Hlíðar í Setbergshverfi) og leita uppi nokkur örnefni og minjar, sem þar er að finna. Þá átti að ganga upp á Setbergshlíð og skoða svonefna Nónkletta, sem þar eru, eyktarmark frá Urriðakoti.

Stekkur

Búrfellshraun kemur úr gígnum Búrfelli sem er um það bil 7 km austan við Hafnarfjörð. Sjá á korti litað grænt, merkt H 105. Búrfell tilheyrir eldstöðvakerfi kennt við Krýsuvík. Búrfell er hringlaga gígur úr hraunkleprum. Gígurinn er 179 metrar yfir sjó þar sem hann er hæstur og 140 metrar að þvermáli milli barmanna. Dýptin hefur mælst 58 metrar frá hæsta og 26 metrar frá lægsta barmi. Mismunurinn á barmi gígsins stafar af misgengi sem átti sér stað eftir að eldvarpið hlóðst upp.
Búrfell gaus einu sinni, það var flæðigos og framleiðslan var fyrst og fremst Búrfellshraun. Meginuppistaðan í eldvarpinu eru kleprar, þeir eru lagskiptir og hallar lögunum bratt niður í gíginn. Rofist hefur ofan og utan úr Búrfelli og hefur myndast hvasst egg á toppi fjallsins sem er úr lausri gosmöl.
StekkurBúrfellshraun er innan marka Garðabæjar og Hafnarfjarðarbæjar. Tveir megin hraunstraumar hafa komið frá Búrfelli. Það sem aðgreinir þessar kvíslir er Helgadalshraun. Búrfellið gengur undir ýmsum nöfnum eftir því hvar það er. Sá hraunstraumur sem er Hafnarfjarðarmegin hefur eftirfarandi nöfn: Næst Búrfelli er Smyrlabúðahraun (kennt við fuglinn smyril sem gerði sér hreiður þarna), Gráhelluhraun, Lækjarbotnahraun, Stekkjarhraun, Sjávarhraun, Arnarhraun og vestar heitir það Flatarhraun. Garðabæjarmegin er fyrst Garðahraun, Urriðakotshraun, Vífilstaðahraun, Hraunholtshraun, Gálgahraun og Balahraun. Hraunið er stórbrotið apalhraun og meðalþykkt þess er ekki undir 20 metrum. Samkvæmt aldursákvörðun á mó sem kom í ljós hjá Bala á Álftanesi er það um 7240±130 C14 ára. Stærð hraunsins er um 18 km2.
StekkurSá hraunstraumur sem  runnið hefur í Heiðmörk og niður í Garðabæ hefur runnið eftir fallegri hrauntröð sem nefnist Búrfellsgjá. Búrfellsgjá þykir með fallegri hrauntröðum landsins. Gjáin er 3,5 km á lengd með meginstefnu í norðvestur. Búrfellsgjá er mjóst upp við gíginn eða um 20-30 metrar milli barma en breikkar þegar lengra dregur og verður mest 300 metrar. Í hrauninu út með Vífilsstaðahlíð grynnkar hrauntröðin og hverfur, sá endi Búrfellsgjár nefnist Selgjá. Á köflum eru gjárveggirnir Atkeldaþverhníptir og mynda sums staðar grunna hellisskúta sem eru með snarhöllu þaki. Barmar, veggir og botn hrauntraðarinnar er allt úr Búrfellshrauni.“
Stekkjarhraun er nú friðlýst sem fólkvangur. Tilgangurinn er að vernda útivistarsvæði í fögru hraunumhverfi þar sem jafnframt er athyglisvert gróðurlendi og sérstakar menningarminjar. Stekkjarhraun er hluti af fyrrnefndum hraunum sem runnu í Búrfellseldum fyrir um 8000 árum. Hraunið er í beinu framhaldi af Gráhelluhrauni og hefur hraunið runnið um þröngan farveg milli Setbergshlíðar og Mosahlíðar. Aðgengi að svæðinu er gott og er það því ákjósanlegt til fræðslu og útikennslu. Með friðlýsingunni er einnig verið að vernda votlendisbletti við Lækinn þar sem hann rennur með Stekkjarhrauni, en þar vaxa m.a horblaðka og starir sem eru fágætar tegundir í þéttbýli. Hraunið dregur nafn sitt af stekk eða stekkjum frá Hamarskoti og Görðum, sem enn má sjá leifar af.
Þverlækur„Stekkurinn“ er reyndar þrír slíkir í Stekkja[r]hrauni; einn frá Hamarskoti, annar frá Görðum og sá þriðji frá Setbergi, austan markanna. Línan lá um Lambadrykk í Sýlingahellu. Líklega hefur nafnið þótt eftirbreytanlegt því sama örnefni er á hrauntanga vestan Urriðakotsvatns, sbr.: „Mjóitangi er ystur og þar um liggur landamerkjalínan. Rétt innan við, yst á tanganum, er svonefndur Kriki og líið eitt norðar eru Kvíar og Kvíanef. Hér liggur Lambhagagarður þvert yfir tangann. Þá er nokkur norðar Sýlingahella og liggur þar um landamerkjalínan og úr henni Klofavörðusteinn og þaðan í Stórakrók. „

SýlingahellaÞá segir í örnefnalýsingum fyrir Setberg. „Hér vestur af og neðan hraunsins rann Hamarskotslækur. Þar var rafveitustíflan og rafveitutjörnin þar ofan við. Þegar læknum er fylgt um Setbergsengjarnar, mætir hann svo Botnalæk og tekur hann þá þverstefnu og nefnist þá Þverlækur. Þar var Þverlækjarstíflan og Þverlækjarlónið um 1917 til 1930, en fyrr meir voru hér Þverlækjarstiklur og Þverlækjarbrú, sem farið var um, þegar syðri Setbergsstígurinn var farinn til Hafnarfjarðar.
Hraunið vestur af Setbergsholti heitir Stekkjarhraun. Milli hraunsins og holtsins rennur lítill lækur úr suðri, Lækjarbotnalækur. Við engjarnar, sem voru neðan við túnið, kom LeifarLækjarbotnalækurinn saman við læk, sem kemur úr gagnstæðri átt og á upptök í Urriðakotsvatni, sem er á mörkum Setbergs og Urriðakots. Eftir að lækirnir koma saman rennur lækurinn, sem þeir mynda og þá fær nafnið Þverlækur, vestur í hraunið og til sjávar í Hafnarfirði og hét þar Hamarskotslækur.
Landamerkjalínan mun fyrrum hafa legið með læknum og hér suður fyrir í kletta, sem nefndust Sýlingahella. Héðan lá svo línan suður yfir Stekkjarhraun upp í Markaþúfu á holtinu austan Aldanna og þaðan í Lækjarbotna. Nánar tiltekið lá landamerkjalínan í garðsenda og síðan í fyrrnefnda Sýlingahellu.
Sunnan við suðurtúngarðinn er upp undir holtinu Setbergskot eða Austurkot; þar sér enn rústir eftir [nú horfnar]. En neðan kotsins er Kotamýri. Út á Stekkjarhrauni er Stekkurinn. Í bréfi frá 1670-80 segir, að Hamarskot og Garðar hafi haft þarna stekk. Rétt hjá er vatnsból, nefnist Lambadrykkur. Vestan undir hrauninu eru hvammar tveir. Nefnast þeir Atkeldan nyrðri og Atkeldan syðri, en frá þeim rennur Atkeldnalækur. At til litunar var tekið í þessum stöðum. Botnalækur kemur í Lækjarbotnum.“
Í örnefnaskrám fyrir Setberg er getið um Nónkletta: „Setbergsholt er allt holtið kallað vestan frá hömrunum og austur eða suður um. Upp frá fjárhúsinu var Fjárhúsholt og þar efst á holtinu Nónklettar, en þeir voru eyktamörk frá Urriðakoti.“  Í dag eru Nónklettar einungis „stekkur“ því flestir þeirra hafa verið fjarlægðir og notaðir í garða bæjarbúa líkt og svo margt annað er tilheyra liðinni sögu Hafnarfjarðar, sbr. Hraunaréttinn, sem „hvarf“. Allt hefur það verið athugasemdalaust til þessa dags.
NónklettarÍ raun eru miklu mun fleiri minjar á þessu svæði en skráðar hafa verið. Má þar nefna brúarhleðslur á gömlu leiðum, vatnsveituminjar frá fyrstu tíð rafvæðingar í Firðinum, búsetuminjar frá fyrri öldum og eyktarmörk svo eitthvað sé nefnt. Fátt af þessu hefur verið skráð, en fjölmörgu spillt vegna áhugaleysis – a.m.k. fram til þessa.
Við friðlýsingu Stekkjarhrauns var þess gætt að friðlýsa allt hraunssvæðið, en engar áætlanir hafa verið gerðar að merkja sýnilegar minjar eða merkileg jarðfræðifyrirbæri á svæðinu, áhugasömum bæjarbúum til upplýsingar og fróðleiks.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Heimild m.a.:
-Örnefnalýsing fyrir Setberg.
-Örnefnalýsing fyrir Urriðakot.

 

Stekkjarhraun

Stekkjarhraun – kort.

Seltún

Hverasvæðið við Seltún í Krýsuvík er einn fjölsóttasti ferðamannastaðurinn hér á landi – og ekki af ástæðulausu.
Óvíða á landinu er litadýrðin meiri á háhitasvæðum en einmitt þarna; margir hverir, Til Seltúnsbæði leir- og gufuhverir. Upplýsingaskilti er (árið 2009) við bílastæðið, en það er lítið meira en lýti á einstakri náttúrperlu. Upplýsingarnar segja í rauninni ekkert um hverasvæðið og nágrenni þess, myndun jarðhitans, tilurð hans og birtingarform. Með hóflegri gagnrýni má þó segja að upplýsingamiðlun á Seltúnssvæðinu sé stórlega vanrækt. Á staðnum kemur fram að hverasvæðið er á einum háhitasveimi af fimm á Reykjanesskaganum (but who cares). Margvísleg brennisteinssambönd eru í hverunum og gufunni, en allt hjálpast það að því að gera jarðveginn ófrjóan. Töluverð brennisteinsútfelling er frá hverunum á svæðinu, en þrýstingsmyndunun hefur gefið því einstaka litadýrð (og það er það sem skiptir máli, þ.e. það sem stendur auganu næst).
LeifarJarðhitarannsóknir fóru fram á Seltúnssvæðinu á fimmta ártatug síðustu aldar. Í Sögu Hafnarfjarðar kemur fram að „enginn vafli leikur á því að langverðmætustu hlunnindin í Krýsuvík er hitinn, sem þar er í jörðu. Á árunum 1935 og 1936 athugaði svissneskur prófessor, sem hét Sonder, stóra gufuhverinn [Austurengjahver/Stórahver] í Krýsuvík, og reyndist hann vera 116° heitur á yfirborðinu. Prófessorinn taldi, að í hvernum væri ekki yfirborðsvatn, heldur gufa úr iðrum jarðar, þannig að unnt ætti að vera að auka vatnsmagnið og hitastigið með borunum. Hann lagði til, að hitastigið yrði aukið upp í 150-160°heita gufu og vatnið í Kleifarvatni hitað upp með henni og það síðan leitt þaðan 13-140° heitt til Hafnarfjarðar og Reykjavíkur. Ekki varð úr þessum framkvæmdum.

Í Seltúni

Nú beindust augu ráðamanna Hafnarfjarðar að þeim möguleika að hagnýta jarðhitann í Krýsuvík til raforkuframleiðlsu. Tilraunaboranir í því skyni hófust árið 1941 og í árslok 1951 lauk þessum þætti í sögu Krýsuvíkur án þess að bera tilætlaðan árangur. Eftir standa borholustæðin, utan eins, sem sprakk í loft upp.
Fimmtudaginn 25. október 1999 varð mikil gufusprenging á hverasvæðinu við Seltún. Svartur gufubólstur steig til himins og stór gígur myndaðist þar sem sprengingin hafði orðið. Grjót og drulla dreifðust fleiri hundruð metra frá gígnum. Kaffiskúr sem stóð í um 100 metra fjarlægð frá gígnum eyðilagðist í sprengingunni, rúður brotnuðu og stór steinn féll niður í gegnum þakið á skúrnum. Gígurinn mældist um 43 metrar í þvermáli en drullan dreifðist 700 metra til norðurs frá holunni.

Leifar

Ástæðu sprengingarinnar má rekja til rannsóknarholunnar sem Rafveita Hafnarfjarðar lét bora árið 1949. Þegar borað hafði verið niður á 229 metra dýpi þeyttist bormeitillinn og borvírinn upp úr holunni. Þá var lokað fyrir holuna en haldið var áfram að mæla afl og afköst holunnar. Gufan úr rannsóknarholunni var talin nægja til 3 MW raforkuframleiðslu en raforkuvinnslan varð aldrei að veruleika. Holan hefur blásið líkt og hver upp í gegnum steypta pallinn í kringum holuna síðustu 20 árin. Í október 1999 var talið að holan hefði sofnað en líklegra er að hún hafi stíflast af útfellingum. Töluverður þrýstingur hefur þá byggst upp og er talið að þrýstingurinn hafi náð 10-20 bör. Eftir sprenginguna hætti öll gufuvirkni í gígnum en ekki er ólíklegt að virknin komi upp á nýjan leik seinna meir.

Á Seltúnssvæðinu

Barth (1950) segir að einn hveranna þar hafi gosið 3-4 metra háum gosum af leirkenndu vatni árið 1936. Hann segir flesta hverina vera súra með pH gildi um 4.  Þó séu þar einhverjir basískir hverir sem streyma út í lækinn sem rennur út í Kleifarvatn.
Austurengjahver, áður nefndur Nýihver, er syðstur svokallaðra Austurengjahvera. Sonder (1941) mældi 118°C í hvernum sem fyrr sagði, sem á þeim tíma var gufuhver en telst í dag vatnshver (Barth 1950). Austurengjahver er talin hafa myndast í jarðskjálftum árið 1924. Rennsli er ekki mikið frá hvernum og mest gufa sem stígur upp frá honum. Aðrir þekktir hverir við Seltún er Pínir og Svunta. Pínir var öflugur gufuhver þar til fyrir nokkrum árum síðan að hann breyttist í hitaskellu. Hann var hægra megin þar sem fyrst er gengið inn á hverasvæðið frá bílastæðinu. Svunta er ofar í gilinu, skammt norðan við tréhringpall.

Leifar

J. Wright, einn leiðangursmanna í Íslandsleiðangri Stanleys árið 1789, segir þetta um hverina í Krýsuvík: „Við komum að hverunum kl. 7. Í fimm eða sex þeirra var dökkblár grautur mismunandi þykkur, og spýttu þeir honum upp í verulega hæð. Hinn stærsti þeirra er ein hin ljótasta og ægilegasta sjón, sem maður fær augum litið. Þetta er stór, ef til vill botnlaus ketill meira en 30 feta langur og 20 feta breiður, bókstaflega barmafullur af sjóðandi brennisteini, sem kastast upp í 10-12 feta hæð við suðuna. Auk þess hávaða, sem suðan veldur, heyrðist annað hljóð, sem virtist koma neðan úr jörðinni, líkast þungum fossnið. Það eykur á óhugnað þessa staðar, að geysilegir hvítir gufumekkir streyma sífellt fram og líkt og veltast yfir klettana sem liggja að baki og allir eru tættir í sundur. Eins og við hverina, sem við skoðuðum í gær, er hér gnótt af hreinum, kristölluðum brennisteini.“

Seltúnshverasvæðið

Trépallar og -stígar hafa verið lagðir um Seltúnshverasvæði fyrir ferðamenn. Þar sem svæðið er í raun miklu mun stærra en gefið er í skyn þyrfti að lengja stígana, bæði upp fyrir hæðirnar, inn fyrir Seltúnshöfða og niður með hverasvæðinu norðan við Hnakk þar sem hægt væri að tengja það Svuntuhverasvæðinu. Með því yrði ferðamönnum sköpuð ný sýn á hverasvæðið í heild sinni og nýting þess sem slík myndi margfaldast því fallegasti og tilkomumesti hluti þess er einmitt norðan við Hnakk (nú utan seilingar). (Sjá meira um ofanvert Seltúnssvæðið HÉR).
Sjá einnig efni um brennisteinsvinnslu í Krýsuvík HÉR. Og fleiri myndir af Seltúnssvæðinu HÉR.
Sjá MYNDIR.

Heimildir m.a.:
-Barth, Tom. F. W., 1950: Volcanic Geology: Hot Springs and Geysers of Iceland. Washington, Carnegie Institution of Washington, 174 bls.
-Björn Hróarsson og Sigurður Sveinn Jónsson, 1991: Hverir á Íslandi. Reykjavík, Mál og menning, 160 bls.
-Íslandsleiðangur Stanleys 1789: Ferðabók, 1979. Steindór Steindórsson frá Hlöðum íslenskaði, Örn og Örlygur, 352 bls.
-Vefur orkustofnunar: www.os.is/krysuvik/
-Saga Hafnarfjarðar II, bls. 35 -54

Seltún

Hverasvæðið við Seltún.

Setbergshellir

Gengið var frá Mosum sunnan Smyrlabúða og haldið norður Selvogsgötu. Ætlunin var að ganga um Gráhelluhraun, niður um Lækjarbotna og enda við stekkinn í Stekkjarhrauni.
Þegar komið var að Smyrlabúðarhrauni var gengið norður með vesturjaðri þess svo sem Selvogsgatan liggur. Ekki leið á löngu þangað til komið var að því er virtist hlöðnu gerði utan í grónum hraunbolla. Áður hafði jafnvel verið talið að þarna gæti hafa verið um hraunskrið úr hlíðinni andspænis að ræða, en við nánari skoðun virðist þarna vera um fyrrum hlaðinn vegg að ræða. Grjótið hefur verið tekið úr hlíðinni, enda handhægt, og raðað reglulega í bogadreginn vegg. Veggurinn virðist hafa verið hlaðinn til að loka af bollanum. Ekki er ólíklegt að þar fyrir innan hafi hestar eða fé verið geymt á ferðum Selvogsmanna í Fjörðinn. Þarna gæti jafnvel verið tilkomið búðarnafnið á Hraunið. Staðurinn er kjörinn áningarstaður áður en haldið hefur verið síðasta áfangann niður í þorpið. Hann er skjólgóður og ágæt beit við hendina.

Búrfellshraun

Búrfellshraunin.

Annars eru framangrein hraun eitt og hið sama; Búrfellshraun. Það er talið hafa runnið um 5300 f. Kr.. Annar angi þess rann til norðurs og kom niður á Álftanesi, beggja vegna. Hraunið ber t.d. nöfnin Urriðavatnshraun (Urriðakotshraun), Svínahraun, Vífilsstaðahraun, Garðahraun, Flatahraun og Gálgahraun.
Hinn angi þess rann til norðvesturs. Í honum eru Smyrlabúðarhraun, Gráhelluhraun og Stekkjarhraun.
Gengin var gatan framhjá Kershelli og haldið niður að Setbergshelli, gömlum fjárhelli Setbergsbænda og að hluta til Hamarskotsbænda. Gamla Selvogsgatan lá svo að segja í gegnum aðstöðuna, eða með austurjarðri hennar, skammt ofan við rétt eða stekk í gróinni laut.

Setbergshellir

Setbergsfjárhellir.

Hellirinn er með myndarlegri hleðslu Setbergshellismegin, auk þverhleðslu er aðskilur hann frá Hamarskotsbóndahlutanum. Í hellinnum vour síðast hafðar geitur, en Setbergsbóndi færði fé sitt úr hellinum, sem einnig var notaður sem selstaða um tíma, enda ber umhverfið þess glögg merki, upp á Setbergshlíðina norðan Þverhlíðar. Þar má sjá rústir hlaðins fjárhúss ofan við fallega hlaðna vörðu. Önnur fallega hlaðin varða er nokkur sunnar á hlíðinni, gegnt selinu.

Í stað þess að fylga Selvogsgötunni var gengi þvert á Gráhelluhraun og síðan haldið eftir því til norðurs, að Gráhellu.

Gráhella

Gráhella.

Gráhella er ílöng klettaborg í austanverðu hrauninu. Norðan undir henni eru hlaðnar rústir gerðist og húss. Þau mannvirki munu Setbergsbændur hafa nýtt sér fyrir fjárhald sitt, en Jón Guðmundsson, bóndi á Setbergi um og fyrir aldamótin 1900 var einn fjármesti bóndi landsvæðsins og jafnvel þótt lengra væri leitað. Faðir hans var um tíma bóndi á Geysi í Haukadal, en ættaður frá Álfsstöðum á Skeiðum. Var hann jafnan nefndur „hinn fjárglöggi“ því hann kunni skil á öllum fjármörkum sem kunna þurfti skil á. Dóttir Jóns á Setbergi bjó m.a. á Þorbjarnarstöðum í Hraunum og önnur á Urriðakoti, svo nærtæk dæmi séu nefnd.

Lækjarbotnar

Lækjarbotnar – skilti.

Þegar komið var niður í Lækjarbotna var strax tekið eftir því að þar hafði nýlega verið sett upp upplýsingaskilti um vatnsveituna, sem þar var, en vatnsveita í Hafnarfirði átti aldarafmæli árið 2004. Skiltið stendur við hlaðnar undirstöður undir fyrrum lindarhús. Á því stendur eftirfarandi:
“Fram til 1904 var engin vatnsveita í hafnarfirði, en þða ár stofnuðu nokkrir Hafnfirðingar Vatnsveitufélag Hafnarfjarðar. Félagið stóð meðal annars að því að grafnir vour brunnar á Jófríðarstaðarholtinu og þaðan lagðar vatnspípur vestur eftir bænum. Nokkur hús voru þá þegar tengd veitunni, en auk þess voru settir upp vatnspóstar víða um bæinn, þangað sem bæjarbúar sóttur sitt neysluvatn. Þessi vatnsveita varð þó snemma ófullnægjandi auk þess sem hún náði aldrei til alls þorpsins og því þurfti að grípa til frekari aðgerða.
Eftir að ljóst var að Vatnsveitan annaði ekki sívaxandi bæ ákvað bæjarstjórn Hafnarfjarðar árið 1909 að kaupa eignir hennar og leggja nýja vatnsveitu ofan úr Lækjarbotnum. Þessi ákvörðun var tekin eftir athugun Erlends Zakaríassonar og Th. Krabbe landsverkfræðings, en það þótti mjög hentugur kostur að leiða vatnið héðan vegna þess hæðarmismunar sem er héðan og niður að bænum. Byggð var vatnsþró í Lækjarbotnum og þaðan lögð þriggja tommu aðfærsluæð til bæjarins. Vatnsveita þessi dugði vel í nokkur ár, en þó þurfti oftar en einu sinni að víkka leiðslurnar til að auka flutningsgetuna.

Lækjarbotnar

Lækjarbotnar.

Árið 1916 var svo komið að uppsprettan í Lækjarbotnum var ekki nægilega vatnsmikil fyrir bæinn. Árið eftir var brugðið á það ráð, samkvæmt tillögu Jóns Ísleifssonar verfræðings, að veita vatni úr Kaldá yfir á aðfrennslusvæði Lækjarbotna. Var þá byggður 1.600 metra langur stokkur þar sem vatni var veitt úr Kaldá og sleppt niður í hraunið við suðurenda Setbergshlíðar, um þremur kílómetrum sunnan lindarinnar. Vonuðust menn til að vatnsheld jarðlög undir hrauninu skiluðu vatninu í Lækjarbotna og varð það úr.
Þessi lausn dugði um tíma, en þó kom að því að betur þurfti að gera og hófust framkvæmdir á vatnsveitu frá Kaldárbotnum 1949, en vatnsmagnið þar er talið nægja bænum um ófyrirsjánlega framtíð. Lauk því verki í júní 1951”.

Lækjarbotnar

Lækjarbotnar – stífla.

Skammt neðar er hlaðin stífla, tengd vatnsveitunni í Lækjarbotnum. Ofurlítið norðar er áberandi grágrýtissteinn; eyktarmark frá Setbergi. Af útlitinu mætti vel ætla að í honum byggi huldufólk, eða a.m.k. álfar.
Læknum var fylgt niður að Stekkjarhrauni. Gengið var þvert á hraunið uns komið var að stekknum, sem hraunið dregur nafn sitt af. Hann er í náttúrlegri hraunkvos með klettaveggi á þrjá vegu. Framst er hlaðin fyrirstaða. Skammt suðvestar er hlaðið gerði í einni lautinni.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 10 mín.

Stekkjarhraun

Stekkur í Stekkjarhrauni.

Selvogsgata

„Þetta var æði”. Svona hljómaði ein lýsingin á ferðinni að henni lokinni.

Selvogsgata

Gengið var inn á Selvogsgötu við Bláfjallaveg, en beygt út af henni til austurs skömmu síðar. Ætlunin var að feta Grindarskarðsgötuna upp að Stórabolla og síðan áfram áleiðis til suðurs. Venjan er að ganga Selvogsgötuna upp Kerlingarskarð og síðan áfram hana með Draugahlíðum, niður með Austurásum og síðan niður Hlíðarskarð. Þetta var ekki ferð um hefðbundna leið. Þetta var ferð um gömlu Selvogsgötuna eða Suðurfararleiðina eins og Selvogsbúar nefndur hana, en hún er liggur austar en Selvogsgata sú (stundum nefnd Hlíðarvegur, en var vetrarvegur (KB)) er kemur upp úr Kerlingarskarði og liggur niður með Draugahlíðum, að Hlíðarskarði.
Þegar komið var að jeppaslóðinni neðst í Grindarskörðum sást hvar hann liggur á gömlu götunni að hluta. Þegar komið var u.þ.b. þriðjung upp hlíðina beygði gamla gatan til hægri og síðan í hlykki upp hana. Auðvelt var að fylgja henni í hlíðinni því hún var mjög greinileg á köflum. Auðsýnt var að um hestagötu var að ræða. Gatan liggur að vörðu á hraunöxl svo til í miðri hlíðinni og síðan liðast hún áfram upp hana. Gatan hverfur þar sem vatn hefur lekið niður hlíðina og rutt með sér möl og grjóti, en kemur síðan í ljós í næst efstu brekkunni undir Stórabolla. Skammt neðar er varða. Þar liggur hún á ská upp hana og hefur greinilega verið lögið til. Efst við rætur Stórabolla er skarð í klöppina þar sem gatan liggur í gegn. Við skarðið er varða. Gangan upp í skarðið var auðveld, tók u.þ.b. 35 mín. í stað 50 mín. upp Kerlingarskarðið. Þaðan liggur gatan með gígnum að austanverðu og beygir með honum að sunnanverðu. Þar liggur hún til vesturs um gróna velli. Leifar gamallar girðingar er sunnan við Stórabolla. Hún liggur til vesturs og hefur verið hlaðið undir hana á kafla. Skömmu síðar var komið að gatnamótum.
Selvogsgata Vörðuð leið lá til suðausturs að Stórkonugjá og önnur til suðurs. Eystri gatan er að öllum líkindum Heiðarvegurinn er liggur þaðan um Heiðina há og yfir á Ólafsskarðsveg. Vestari götunni var fylgt yfir slétt helluhraunið áleiðis að Litla-Kóngsfelli.
Veður hafði hangið þurrt þangað til komið var suður fyrir Stórabolla. Þá léku litlir regndropar sér að því að falla ofurvarlega lóðrétt til jarðar. Golan virtist hafa gufað upp. Stillilogn og bráðfallegt veður. Miðbolli og Kóngsfellið böðuðu sig í heiðskírunni og dulrænum bjarma sló á Draugahlíðarnar. Spóavellingur fyllti loftið. Kistufellið vildi greinilega ekki láta sitt eftir liggja til að gera þennan dag ógleymanlegan. Hvítur snjókollurinn reis hæst upp úr nágrannahlíðunum, eins og hann vildi að eftir honum væri tekið. Svona eiga háir tindar að haga sér.

Hlíðarborg

Komið var að hárri vörðu. Við hana voru greinileg gatnamót. Gata lá við hana frá Selvogsgötunni og áleiðis yfir á Heiðarveginn.
Grindarskarðsgatan hélt áfram frá henni til suðurs. Hún var æ meir áberandi. Kastað hafði verið úr götunni á köflum – greinilega hesta- og lestargata. Hún lá niður með Litla-Kóngsfelli. Suðvestan við fellið, þar sem suðurgígur þess opnast, var komið að mótum þriggja gatna. Þrjár vörður voru við þau. Ein gatan lá áleiðis til norðvesturs að Selvogsgötu þar sem hún liggur efst við Draugahlíðar, önnur lá til suðausturs og sú þriðja til suðurs. Síðastnefnda gatan var greinilega framhalda af þeirri, sem fylgt hafði verið ofan frá Grindarskörðum. Hún var mjög áberandi og greinilega mikið notuð fyrrum. Kastað hafði verið upp úr götunni svo djúp för höfðu myndast. Tekið hafði verið úr hraunhöftum og gatan greinilega gerð eins greiðfært og unnt var. Henni var fylgt niður með hraunkanti sunnan Litla-Kóngsfells. Komið var að talsvert miklu gili í hlíðinni á vinstri hönd, sem vatn hafði mótað. Lækjarfarvegurinn var nú þurr, en einhvern tímann hefur verið þarna mikill lækur er streymt hafði niður með austanverðu apalhrauni, sem þarna er á hægri hönd. Loks hefur vatnið staðnæmst í krika og væntanlega myndað þar talsverða tjörn. Moldarbotn benti til þess að þarna hafi verið allnokkurt vatn fyrir ekki svo löngu síðan. Á kortum heitir þarna Stóri-Leirdalur. Gatan lá niður með lækjarfarveginum.
Nokkru neðan við gilið skiptist hún í tvennt. Stígur lá til vesturs í gengum apalhraunið þar sem það var mjóst og yfir á Selvogsgötuna (Hlíðarveg) þar sem hún krækir fyrir nef hrauns er runnið hefur úr Draugahlíðargígnum skammt þar fyrir ofan.
Varða er við hraunið þar sem stígurinn kemur út úr því. Hestagatan lá hins vegar áfram niður með hraunkantinum, fyrir hraunrana og síðan skiptist hún í tvennt; annars vegar liggur hún vestur og niður með Hvalhnúk og Austurásum og hins vegar áfram um Hvalskarð, í fallegum sneiðingi niður Litla-Leirdal, niður í Hlíðardal, um Strandardal, framhjá Kökuhól og áfram áleiðis niður í Selvog.
Fyrrnefnda gatan kom inn á Selvogsgötuna (Hlíðarveg – vetrarveginn) efst við vestanverða Austurása. Tvær vörður eru þar sem göturnar koma saman. Þaðan í frá liggur Selvogsgatan niður heiðina, áleiðis niður að Hlíðarskarði, vel vörðuð. Svo er að sjá sem Selvogsgata, eins og hún er vörðuð í dag, sé önnur og nær Draugahlíðum en sú, sem sýnd er á gömlum uppdráttum. Sú mynd, sem þeir sýna, fellur betur að þeirri götu, sem lýst er hér að framan. Áður en komið er niður brekkuna vestan Austurása liggur gata þar til vesturs. Þrjár vörður eru þar við og ein þeirra fallin. Þarna gæti verið um að ræða Stakkavíkurselstíginn er liggur væntanlega út með Vesturásum sunnanverðum og síðan til suðurs að Selsstíg ofan við Höfða norðvestan við Hlíðarvatn.
Í stað þess að fylgja Selvogsgötunni (Hlíðarvegi) áleiðis niður að Hlíðarskarði var gömlu hestagötunni fylgt niður Hvalskarð og áfram niður í Strandardal. Lítið er um vörður á þeirri leið, en hins vegar liggur gatan nokkuð vel við landslaginu. T.d. er um gróna velli er að fara í Litla-Leirdal. Suðvestur af Hvalskarði er Hvalhnúkur, mjór og allhár. Ólafur Þorvaldsson segir þjóðsöguna kveða á um að tröllkona norðan af fjalli hafi farið til fanga í Selvog og komið þar á hvalfjöru og haft þaðan með sér það, sem hún treysti sér til að komast með, en til hennar sást og hún elt. Varð henni allerfið undankoman, og náðist hún í skarði því, sem síðan er nefnt Hvalskarð og hnúkurinn þar suður af Hvalhnúkur. Undir hraunklettum vestan við götuna er komið er niður í Strandardal er Stínurétt. Slóði liggur upp í Strandardal, en gatan er liggur niður úr dalnum skammt vestan hans. Þar liggur hann áfram áleiðis niður að Strandarheiði, en girt hefur verið þvert fyrir hann.
Í fyrri FERLIRsferðum, þar sem gatan var rakin neðan frá Selvogi og áleiðis upp að dalnum, sést hún vel þar sem hún liggur upp heiðina. Við hana á einum stað er tóft, sem ekki er vitað hvaða tilgangi hefur þjónað.
Gengið var til vesturs með girðingunni þegar niður úr dalnum var komið. Valgarðsborg er innan girðingar svo hún var ekki “heimsótt” að þessu sinni. Hlíðarborg er hinsvegar “réttu megin” girðingar svo hún var barin augum. Frá borginni liggur gata. Við hana eru litlar gamlar vörður, sumar fallnar. Gatan sést vel af og til þars em hún liggur til vesturs niður heiðina, áleiðis að Hlíð. Henni var fylgt, m.a. framhjá hellinum Ána. Talsverðar hleðslur eru umhverfis opið. Einnig eru hleðslur sunnan við opið og norðan. Ekki er vitað annað en að hlaðið var um opið til þess að varna því að fé leitaði skjóls niður í hellinum.
Gatan liggur áleiðis að borginni undir Borgarskörðum, svonefnd Hlíðargata skv. örnefnalýsingu. Hún hefur verið vegleg Ániá sínum tíma. Bæði hún og Hlíðarborgin eru hlaðnar vestan undir hraunkletta í heiðinni. Neðan borgarinnar undir Borgarskörðum eru tóftir tveggja húsa utan í klettum, sennilega beitarhúsa frá Hlíð.
Gangan endaði síðan við einn bæjarhól bæjarins að Hlíð. Eldri tóftir eru norðan við þjóðveginn sem og á tanga sunnan við veiðihús SVFH, en útihús eru vestar með vatninu og hafa þau sennilega tilheyrt bænum, sem var við núverandi veiðihús. Í örnefnalýsingu segir að Hlíð hafi verið fyrr góðbýli og landnámsjörð í Selvogi. Var hún um aldaraðir eign Strandakirkju og er það enn. Jörðin hefur verið í eyði nú um 60 ára skeið. Þar eru nú rústir einar. Gamli bærinn stóð á Bæjarhól eða lágum hrygg, er lá fram í Hlíðarvatn.
Þessi ganga var á Jónsmessunni. Þjóðtrúin kveður á um um ýmsa dytti henni samfara. Án þess að ætla að fjalla í löngum texta um álfa og huldufólks, ekki sést á nefndu kvöldi, er rétt að geta þess, að sá sem ekki trúði á álfa og huldufólk áður en hann lagði af stað í þessa ferð, gerir það núna. Borgarskörð draga ekki nafn sitt af fjárborginni undir Skörðunum heldur háum og virðulegum klettastandi skammt ofan við skörðin. Hann sést vel þegar gengið er að skörðunum ofan frá, en gæta þarf þess vel að fylgja kennileitum því annars…
SelvogsgataÍ lýsingu einni um þennan áfanga Selvogsgötunnar kemur eftirfarandi m.a. fram til frekari glöggvunar:
Selvogsgatan er gömul leið á milli Hafnarfjarðar og Selvogs og hefur líklega verið farin frá því að menn settust að í Selvogi. Þetta er skemmtileg leið um áhugavert landsvæði og hollt er að leiða hugann að þeim aðstæðum sem forfeður okkar þurftu að takast á við til þess að draga björg í bú.
Áfram er haldið um skýra götu sem hófar hestanna hafa markað í tímans rás. Framundan eru Lönguhlíðar og Grindaskörð. Stóribolli og fleiri bollar blasa við en þeir hafa verið notaðir sem mið af sjó. Þegar í Grindaskörð kemur er gott að líta til baka og horfa yfir leiðina sem lögð hefur verið að baki og sjá hvað gatan er mörkuð í mosann og klöppina.
Frá Grindaskörðum er stefnt að litlu fjalli með stórt nafn, Kóngsfell, en það mun bera nafn af fjallkóngi þeirra í Selvogi. Þarna greinist leiðin og kallast vestari leiðin Hlíðarvegur sem skiptist síðar í Stakkavíkurveg. Haldið verður austustu leiðina sem er hin eiginlega Selvogsgata eftir greinilegum götum um Grafning og Stóra-Leirdal þar sem menn áðu ávallt þegar þeir áttu þarna leið um og fengu sér nesti og kannski smá brjóstbirtu. Síðan verður gengið upp í Hvalskarð eftir Hvalskarðsbrekkum með Urðarfelli að Hlíðarvatni. Tröllkona ein nappaði sér hval í Selvogi en til ferða hennar sást. Hún var elt og náðist þarna í skarðinu. Af fjallinu fyrir ofan Hlíðarvatn er fagurt útsýni. Þaðan sér yfir þessa afskekktu byggð Selvoginn, til Strandarkirkju og vitans. En það sem fangar augað er djúpblátt og óravítt hafið (Úr leiðarlýsingu Útivistar).
Við leiðarlýsinguna er rétt að bæta við ferðum námumanna í Brennisteinsfjöllum. Þeir munu hafa farið um Grindarskörðin með hestalestir sínar. Leiðir liggja frá námunum, bæði ofan við Draugahlíðar og neðan.
Sjá MYNDIR.

Frábært veður. Gangan tók 5 klst og 5 mín.

Grindarskörð

Krýsuvíkurkirkja

Í tilefni af 150 ára afmæli Krýsuvíkurkirkju var haldin messa í kirkjunni á hvítasunnudag 27. maí 2007. Prestur var Gunnþór Ingason. Jafnframt var minnst 10. dánarártíðar Sveins Björnssonar, fyrrv. yfirlögregluþjóns í Hafnarfirði, sem síðastur manna var jarðsettur í kirkjugarðinum í Krýsuvík.
Krýsuvíkurkirkja 27. maí 2007Jónatan Garðason og Þór Magnússon tóku saman ágrip af sögu Krýsuvíkurkirkju. Birtist það í bæklingi, sem gefinn var út í tilefni tímamótanna. Í honum er saga kirkna í Krýsuvík m.a. rakin: „Talið er að bændakirkja hafi risið í Krýsuvík á fyrstu áratugum eftir kristnitöku. Örnefnið Kirkjulág í Húshólma og munnmæli gefa vísbendingu um að þar hafi staðið kirkja áður en Ögmundarhraun rann um miðja 12. öld. Krýsuvíkurkirkju er getið í kirknaskrá Páls biskups Jónssonar um 1200, en hún kemur einnig fyrir í broti úr máldaga sem varðveist hefur frá 1275. Þá var kirkjan helguð Maríu mey. Árnaannáll sem Árni Helgason biskup setti 1307 er efnislega samhljóða hinum fyrri um eignarhald og ítök í hlunnindum en lausafjár kikrjunnar er að engu getið. Krýsuvík var sérstakt prestakall og kirkjulén og var hálfkirkjunni í Herdísarvík þjónað þaðan. Krýsuvíkurkirklja átti í löndum alla heimajörðina Krýsuvík, alla Herdísarvík, níu mæla land á Þórkötlustöðum í Grindavík og fjórðung jarðarinnar Vatnsleysu á Vatnsleysuströnd. Hún átti umtalsverð ítök í hvalreka og viðreka í Selvogi, auk búfénaðar.
Krýsuvík var beneficium fram til 1563 er prestakallið var lagt niður þó prestar og kapellánar sætu staðinn lengieftir það. Selvogsprestar áttu um langan veg að fara til messu í Krýsuvík því milli Strandarkirkju og Krýsuvíkur er hálf þingmannaleið. Messað var þriðja hvern sunnudag á sumrin, en fjórða hvern á veturna, samkvæmt sýslu- og sóknarlýsingu séra Jóns Vestmann frá 1843. Krýsuvík var höfuðból í kaþólskri tíð og hagur staðarins fór þverrandi eftir siðarskipti, einkum eftir að jörðin komst í bændaeign 1787.

Krýsuvíkurkirkja 1810

Skoski vísindamaðurinn Sir George Steuart Mackenzle kom til Krýsuvíkur 1810 ásamt Richard Bright og Henry Holland, sem lýstu staðháttum í dagbók sinni: „Þetta er ömurlegur staður, sex eða átta kofar standa þar á víð og dreif á ósléttu svæði við rætur á starkri hæð. Stolt og prjál staðarins er timburkirkja…“. Þegar inn í kirkjuna kom barst þeim óþefur af hertum fiski og eftirfarandi sjón: „Gólfið var svo óslétt, að við hefðum naumast getað skorðað tjaldsængina okkar þar, og ofan á allt annað var svo hið litla gólfrými fyllt með kössum, timbri og alls konar skrani. Predrikunarstóllinn í þessari einstöku byggingu stendur undir annarri hliðinni, og snýr gegnt kirkjudyrum. En svo lágt er undir loftið yfir honum, að presturinn verður annaðhvort að sitja eða krjúpa eða vera kengboginn, meðan hann flytur ræðu sína.“

Krýsuvíkurkirkja 1887

[Mynd, sem dregin var upp af Krýsuvíkurkirkju og nágrenni þetta sama á, sýnir afstöðu hennar og bæjarins. Fremst á myndinni er Ræningjadysin, sem síðar fór undir þjóðvegsstæðið].
Hálfri öld síðar var kirkjan úr sér gengin og ákveðið að byggja nýtt guðshús. Beinteini Stefánssyni hjáleigubónda í Krýsuvík var falið að annast smíðina. Hann hófst strax handa við að safna veglegum rekatrjám og vinna þau í stoðir og borðvið. Hann vandaði til verksins og byggði nýja kirkju af slíkum hagleik að hún stendur enn 150 árum eftir að hún var vígð. Kirkjan hefur að vísu verið endurbyggða að stórum hluta, en burðarvirkið og lögun hússins er verk Beinteins. Krýsuvíkurkirkja þjónaði söfnuðinum til 1929 en þá var hún aflögð sem helgidómur og rúin öllum verðmætum.

Krýsuvíkurkirkja 1887Nokkru eftir afhelgunina fékk Magnús Ólafsson fjárbóndi í Krýsuvík mág sinn til að breyta kirkjunni í gripa- og íbúðarhús. Magnús bjó í kirkjunni til 1945 er hann flutti til fjölskyldu sinnar í Hafnarfirði vegna heilsuleysir. [Loftur Jónsson í Grindavík var einn þeirra manna er heimsótti Magnús í kirkjuna. Sagðist hann vel muna að rúmfletinu í suðaustuhorninu]. Fljótlega eftir að síðasti íbúi gömlu byggðarinnar undir Bæjarfelli flutti burt grotnaði húsið niður. Björm Jóhannesson, forseti bæjarstjórnar og formaður Krýsuvíkurnefndar, vildi byggja kirkjuna upp á eigin kostnað og réð Sigurbent Gíslason til að stjórna endursmíðinni. Sigurbent var dóttursonur Beinteins kirkjusmiðs og nánast sjálfkjörinn til verksins. Björn vildi tryggja verndun kirkjunnar til frambúðar og fékk samþykki bæjarstjórnar til að fela þjóðminjaverði umsjón hennar.
Krýsuvíkurkirkja 1964Herra Sigurbjörn Einarsson biskup og séra Garðar Þorsteinsson sóknarprestur í Hafnarfirði önnuðust endurvígslu Krýsuvíkurkirkju 31. maí 1964 og við sama tækifæri var hún færð Þjóðminjasafninu til varðveislu. Gömul altaristafla frá Þjóðminjasafninu var hengd upp fyrir athöfnina, kirkjan fékk kirkjuklukku og tvo altaristjaka að gjöf sem steyptir voru eftir gömlum stjökum. Ljósahjálmur og vegglampar sem Sigurbent Gíslason gaf kirkjunni voru einnig hengdir upp. Björn hafði lokið ætlunarverki sínu er hann andaðist 22. nóv. 1964 sáttur við guð og menn. Nokkru seinna hurfu kirkjugripirnir en altaristöflunni var komið fyrir í geymslu. (Skv. óstaðfestum upplýsingum munu áhafnameðlimir á Suðurnesjabát hafa tekið gripina í brýaríi og tekið þá með sér í siglingu til Þýskland þar sem gripirnir voru seldir lægstbjóðanda. Þessir menn eru enn á lífi svo ekki er of seint fyrir þá að iðrast og bæta fyrir gjörðir sínar – enda hafa þeir vel efni á því).
Kirkjan  var látin afskiptalaus um árabil en þegar kom fram á miðjan níunda áratug 20. aldar var ástand hennar mjög bágborðið. [Hér ber að hafa í huga að forstöðumenn og vinnuskólanemar í Krýsuvík á sjöunda áratugnum gættu kirkjunnar mjög  vel og fóru m.a. reglulega að henni til að sjá til þess að þar væru engu raskað. Auk þess fylgdust Hafnarfjarðarskátar reglulega með kirkjunni og hlúðu að henni eftir föngum]. Gluggar voru [síðar] brotnir, hurðin ónýt og veruleg hætta á að kirkjan yrði eyðileggingu að bráð. Sveinn Björnsson listmálari hafði um árabil haft vinnustofu í bústjórahúsinu í Krýsuvík. Hann kom reglulega við í Krýsuvíkurkirkju og rann til rifja ástand hússins. Fyrir hans tilstilli var hafist handa við að mæla kirkjuna upp og undirbúa endurbætur á henni.“

Á 150 ára afmæli Krýsuvíkurkirkju - Þór Magnússon. f.v. þjóðminjavörður fremst

Hér ber að bæta við að hvorki Þjóðminjasafnið né Hafnarfjarðarbær hafa sýnt Krýsuvíkurkirkju viðhlítandi skilning. Einstaklingar hafa jafnan gætt kirkjunnar og staðið vörð um heill hennar. Peningar og hagræðing hafa verið hennar helsti óvinur í gegnum aldirnar – líkt og verið hefur undanfarna áratugi.
Fumkennd viðbrögð við ástæðulausum hættum hafa jafnan skemmt heildarmynd kirjunnar. Svo mun einnig verða um sinn. Krýsuvíkurkirkja er hins vegar miðlægt tákn um kjarnabyggð í íslensku samfélagi, líkt og verið hefur allt frá upphafi búsetu hér á landi – að vísu í annarri mynd fyrstu aldirnar, en síðan óraskað í u.þ.b. 1007 ár. Er það ekki a.m.k. einnar viðurkenningar virði? Kirkjan, í sínu náttúrulegasta umhverfi, hefur verið mörgum mikilvægt skjól – einnig þegar hún hafði verið afhelguð. Háreistar kirkjubyggingar og skrauti hlaðnar virðast ekki ná slíkri skírskotun til fólks sem einfaldleiki lágreisnarinnar í Krýsuvík. Hvar var kirkjumálaráðherrann á þessum þjóðlegu tímamótum?“

Krýsuvíkurkirkja

Ný Krýsuvíkurkirkja sett á grunninn 2022.

 

Krýsuvíkurkirkja

Gengið var um svæðið í kringum Krýsuvíkurkirkju og tóftir bæjanna Snorrakots, Norðurkots, Lækjar, Suðurkots og Hnausa skoðaðar. Krýsuvíkurkirkja á sér langa sögu. Athyglinni var því einkum beint að kirkjunni að þessu sinni, sögu hennar að fornu og nýju. Til hliðsjónar var lýsing Ólafs Þorvaldssonar er hann ritaði í jólablað Alþýðublaðs Hafnarfjarðar árið 1961. Í henni segir hann m.a.

Ólafur Þorvaldsson

Ólafur Þorvaldsson.

“Eftir öllum líkum mun óhætt að segja, að kirkja hafi verið í Krýsuvík í átta til níu aldir. Ég held, að sögu Krýsuvíkurkirkju sé þannig farið, að erfitt sé að rekja hana, í það minnsta fyrstu aldirnar, svo öruggt samhengi fáist. Ég held, að margur myndi hnjóta um það spursmál, hvar fyrsta kirkja Krýsuvíkur hafi verið reist, hvenær, og hver hana lét gera. Við þessum spurningum höfum við hvergi getað fengið fullnægjandi svar.
Í Landnámabók Ara Þorgilssonar segir svo: “Þórir haustmyrkur nam Selvog og Krýsuvík.” Einar Arnórsson prófessor telur líklegt, að Þórir haustmyrkur hafi komið nokkuð seint út. Fyrir þessu færir hann þau helst rökum að “Súgandi”, þriðji maður frá Þóri, ætti að vera uppi um 1000.
Landnám Þóris er því að nokkru í Gullbringusýslu, en sýslumörkin telja, að kirkjan hafi ekki löngu eftir kristnitöku verið byggð í Krýsuvík. Yfir hinu mun hvíla algjör óvissa, svo sem fyrr er á minnst, hvar og af hverjum sú kirkja var byggð.
Elsta heimild, sem mér er kunn um kirkju í Krýsuvík er, að um 1200 er hennar getið í kirknaskrá Páls biskups. Kirkjan er talin Maríukirkja, og á heimaland allt, ásamt Herdísarvík og níu mæla lands á Þorkötlustöðum, auk ítaka.
Eftir það er Krýsuvíkurkirkju getið í ýmsum máldögum allt fram undir 1600. Flestir máldagarnir fjalla um eignir kirkjunnar fastar og lausar, ítök o.fl., og ber víðast fátt á milli, utan þá orðalag. Á tíma þeim, sem máldagarnir ná yfir, hefur lausafé kirkjunnar ekki ávallt verið það sama, munir gengið úr sér, og stundum aðrir komið í þeirra stað, lifandi peningi fækkað, þar til horfinn var með öllu, og segja má, að svo hafi farið um flesta muni kirkjunnar.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja.

Allt bendir til, að Krýsuvíkurkirkja hafi aldrei rík verið af lausafé. Hitt mun helur mega telja, að fram eftir öldum hafi hún eftir öllum bréfum að dæma mátt teljast allveg á vegi stödd í föstum eignum, þar sem hún hefur átt allt land sóknarinnar, byggt og óbyggt, og meira þó, það er hún átti einnig Herdísarvíkina, bestu verstöð í Selvogi, landríka vildisjörð, og lágu lönd saman. Auk þessa ýmis ítök.
Hitt er ljóst, bæði af íslenskum heimildum svo og ferðabókum erlendra, sem um landið reistu og til Krýsuvíkur fóru, flestir til athugunar jarðhita og brennisteini, að meðal sóknarmanna hafi þar oftar ríkt fátækt en auður, jafnvel svo, að til landauðnar dró á tímabili. Ég skal nefna hér eitt dæmi þessu til stuðnings. Árið 1553-’54 telur Marteinn biskup “kirkju þar góða, – en enginn bær er þá í sókninni”. Eitthvað hefur þetta ömurlega hlutskipti þess byggðarlags varðað, því að með bréfi 27. sept. 1563 leggur Páll Stígsson hirðstjóri, í samráði við Gísla Jónsson biskup í Skálholti, niður sóknarkirkju í Krýsuvík, og leggist hún og eitt kot “sem þar er hjá”, til Strandarkirkju í Selvogi. Þó skal í Krýsuvík standa lítið húskorn, Guðs vegna og þess heimilisfólks, sem þar kann að vera sjúkt eða gamalt. “Og herra Gísli skyldi nokkur kúgildi til leggja, svo að Guðs orðs þénari mætti þar hvíld nætursakir hafa, þá hann þar kæmi eða þyrfti þar að koma guðlegrar hjarðar að vitja.”
Krýsuvíkurkirkja virðist þó standa eftir sem áður. Árni Magnússon telur hana útkirkju frá Strönd. Svo er og í kirkjuskrá 1748, og enn í prestakallaskipunarlögum frá 1880.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja.

Með prestakallalögum 1907 er Krýsuvíkursókn lögð ti Staðarprestakalls í Grindavík. Loks er með stjórnarráðsbréfi 21. október 1929 Krýsuvíkurkirkja lögð niður og sóknin sameinuð Grindavík (Stjt. 1929 B. 305).
Með þessari síðustu ráðstöfun mætti ætla, að lokið væri sögu Krýsuvíkurkirkju hinnar fornu. Þó má segja enn sem fyrr, að kirkjan stendur eftir sem áður, – en mennirnir viðurkenna hana ekki lengur. – Ég fæ ekki betur séð en við þetta yfirgefna hús, sem einu sinni var guði vígt, hafi komið fram hinn sami “huldi verndarkraftur”, sem Jónas kveður um í Gunnarshólma, um “hólmann, þar sem Gunnar sneri aftur”, og forðaði því frá að afmást með öllu, svo enginn sæi þess lengur stað.
Það má segja, að frá 1563-1929 hafi Krýsuvíkurkirkjusókn verið í útlegð, eða í 366 ár. Í 344 ár var hún á vist hjá Strandarkirkju í Árnessýslu og í tuttugu og tvö ár hjá Staðarkirkju í Grindavík, þ.e. frá 1907-1929. Það ár er kirkja lögð niður í Krýsuvík. Eftir það eiga Krýsvíkingar kirkjusókn til Grindavíkur. Löng kirkjugata það.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja.

Árið 1929, þegar kirkjan var lögð niður, eru þrjár fjölskyldur í sókninni, ein mannmörg, tvær miðlungi stórar. Þá mun hafa verið búið að ákveða vegarlagningu um Krýsuvík, ef hún hefur ekki þegar verið hafin.
Og vegurinn kom. Með veginum kom fólkið og nokkrar framkvæmdir, þótt eitthvað af þeim hafi farið nokkuð á annan veg en skyldi, – en þetta kemur í hendi, sagði karlinn.
Svo fóru gömlu Krýsvíkingarnir alfarnir. Flestir fóru þeir eftir hinum aldagömlu slóðum, sem þeir höfðu farið margir alla ævina, aðrir skemur. Svo kom nýtt fólk eftir nýja veginum, sumir til búsetu, aðrir sem farfuglar. Það var því enn komið fólk í hina fornu Krýsuvíkursókn, – en “kirkja fyrirfinnst engin á staðnum”.
Eftir að síðasti ábúandinn var fluttur veikur burt frá Krýsuvík og átti þangað ekki afturkvæmt, var lokið allri umhirðu um hina fornu kirkju, er hann hafði búið í mörg síðustu árin þar. Það beið heldur ekki lengi, þar til þar fyrirfannst hvorki gluggi né hurð. Hurðarleysið kom sér líka betur fyrir þá hjörð, sem þá tók að sækja þetta forna guðshús. Þar inni fann skjól í hrakviðrum fjöldi nautgripa og hesta, er þarna voru til hagagöngu á sumrin.
Flestir, sem þarna voru kunnugir, töldu víst, að um þetta forna, vanhirta hús færi þá og þá sömu leiðina sem önnur hús staðarins, það hryndi í rúst eða fyki burt. Nei, hin forna, yfirgefna kirkja fauk hvorki né hrundi. Hún stóð af sér öll stórvirði og alla “hverakippi”.

Magnús Ólafsson

Magnús Ólafsson.

Hún bara beið, beið eftir sveini, er leysti hana úr böndum. Og sveinninn kom. Fyrir hans tilverknað stendur í dag á hlaði hinnar fornu stórjarðar fegurra hús en þar hefur áður staðið og bíður þess að vígjast í kirkju eða kapellu Krýsuvíkursóknar.
Vonandi bíður þess húss aldrei önnur eins niðurlæging sem hinnar síðustu kirkju staðarins.
Þessi síðasta Krýsuvíkurkirkja, sem hér um ræðir, mun að öllum líkindum vera fyrsta kirkja þar, er byggð var úr timbri einu saman. Þessi kirkja var byggð 1857. Síðan er henni getið í mörgum prófastavisitasíum og ávallt nefnd “timburhús”. Í biskupsvísitasíu árið 1875 er Krýsuvíkurkirkju lýst allnákvæmlega. Þar kvartar biskup yfir, að ekki hafi þá verið gert við galla þá, sem á kirkjunni hafi verið við síðustu vísitasíu hans. Sér í lagi er það ytri klæðning á þaki, sem sé orðin léleg og þurfi endurnýjunar við. Telja má fullvíst að aðalsmiður hafi verið Beinteinn Stefánsson bóndi að Arnarfelli í Krýsuvík, og má heita skemmtileg tilviljun, að dóttursonur hans var til þess að gera nú upp hina gömlu kirkju af nákvæmni og hagleik, sem þeim frændum hefur báðum verið í blóð borinn.”
Staldrað var við hjá leiði Sveins Björnssonar, málara og yfirlögregluþjóns í Hafnarfirði, en hann var síðastur grafinn í kirkjugarðinum í Krýsuvík.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja.

Selvogsheiði

Ætlunin var að ganga um Selvogsgötu frá Strandamannahliði neðan Strandardals, efst í Selvogsheiði, um Vörðufellsmóa og Stóraflag niður að gatnamótum Fornugötu og Útvogsgötu ofan Skálavörðu vestan Strandarhæðar. Ólafur Þorvaldsson lýsir leiðinni í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1943-1948, 49. árgangi.
Selvogsgata-552„Leiðin milli Hafnarfjarðar og Selvogshrepps í Árnessýslu gekk venjulega undir nafninu Grindaskarða- eða Kerlingarskarðsvegur. Leið þessi mun vera jafngömul fyrstu byggð í Selvogi, enda aðallega af Selvogsmönnum farin, þar eð lega hreppsins er þannig, að fáir aðrir áttu þar leið um. Að vísu gat það hent, að Selvogsmenn færu um Krýsuvík, varla þó nema lausríðandi, og þá annaðhvort af því, að snjór var svo mikill á fjallinu, að ófært var talið, eða þeir áttu sérstakt erindi við Krýsvíkinga. Þessari aðalleið Selvogsmanna, Grindaskarðaleið, skal nú lýst hér, eftir því sem föng eru á, svo og getið þeirra örnefna, sem nálægt henni eru, og nokkurra fleiri, þótt fjær liggi. Legg ég svo upp frá Hafnarfirði.“
Selvogsgata-553Hér er hlaupið yfir lýsingu leiðarinnar frá Hafnarfirði að Strandardal ofan Selvogsheiðar því einungis er ætlunin að feta götuna þaðan niður og áleiðis að Skálavörðu á Strandarhæð þar hún mætir Útvogsgötu. Þar eru suðurmörk Selvogsheiðar (Þórður Bjarnason frá Bjargi í Selvogi). Gatnamótin eru skammt norðan Skálavörðu, þar sem Fornugötur mæta fyrrnefndu götunum. Skal því drepið niður í lýsingu Ólafs þar sem hann er að koma niður í strandardal.
„Litlu austar, þegar brekkunum sleppir, eða þær lækka svo, að útsýn opnast til norðausturs, blasir við í þeirri átt allstórt fell, Urðarfell. Norðaustur af því eru grasbrekkur og lautir, Fornutorfur, var þar oft slegið frá Hlíð og Vogsósum allmikið af finnungi.
Nokkru austan Þorvaldsháls er komið í Litla-Leirdal. Þaðan er smáspölur þar til talið er, að komið sé ofan af fjallinu. Þá er komið ofan í Katlabrekkur, og er þá Hlíðarfjall til vesturs, en Svörtubjörg til austurs. Þar uppi er Eiríksvarða, og á Eiríkur á Vogsósum að hafa hlaðið hana til verndar Selvogi fyrir sjóránsmönnum, svo sem Tyrkjum.“
Selvogsgata-554Hér er Ólafur kominn að Strandarmannahliði á fjárgirðingunni undir fjöllunum, efst í heiðinni. Þaðan er ætlunin að ganga að þessu sinni og fylgja þá Selvogsgötunni, eins og fyrr segir, um Vörðufellsmóa og Stóraflag þar sem gæta þarf vel að því að fara ekki út úr götunni sökum landeyðingar.

„Kippkorn vestur með Hlíðarfjalli skagar smáháls fram úr fjallinu, Sjónarháls. Af honum er stutt heim að Hlíð, sem nú er í eyði og hefur verið um 40 ár. Hlíð er við austurenda Hlíðarvatns, og er þar dágóð silungsveiði. Rið ágætt á svonefndri Bunu. Beljar þar vatn undan fjallinu, en hæfilega stór möl í botni sem hrygningarstaður.
Selvogsgata-563Að Hlíð bjó Þórir haustmyrkur, sá er nam Selvog og Krýsuvík, sem fyrr segir.
Vogsósar standa á sléttum völlum sunnar með vatninu. Úr Katlabrekkum sér til Selvogsbyggðar, nema útbæjanna, Stakkavíkur og Herdísarvíkur. Liggur nú leiðin til suðurs eða suðausturs, niður vestur- og suðvesturdrög Selvogsheiðar. Þegar nokkuð niður í heiðina kemur, er farið í gegnum svonefnd Rof. Litlu neðar er farið vestan undir smáhraunhæð, sem Vörðufell heitir. Við Vörðufell stóð nokkuð fram yfir síðustu aldamót lögrétt Selvogsmanna, Vörðufellsrétt. Nú eru réttir þeirra norðaustur af Svörtubjörgum.

Selvogsgata-555

Ég get ekki gengið fram hjá að drepa á eins konar helgisögn í sambandi við Vörðufell, og er átrúnaður þessi, eða hvað sem menn vilja kalla það, efalaust runninn frá Eiríki á Vogsósum, en sögnin er í fám orðum þessi: Selvogsheiði er, sem kallað er á smalamáli, mjög leitótt, og tefst því oft fyrir mönnum að finna gripi, sem að er leitað, þoka gerir leitina stundum erfiða. Ef leitarmann ber nú að Vörðufelli, þá skal hann ganga á fellið, leggja þar einn stein í vörðu eða undirstöðu að annarri, ef þær sem fyrir eru, eru nógu háar orðnar, og mun hann þá bráðlega finna það, sem eftir er leitað. Ekki get ég af eigin reynslu sagt neitt um áhrif þessara verka, en það get ég sagt, að Vörðufell er að ofan alþakið vörðum, stærri og smærri, og jafnvel er þessu eitthvað haldið við enn, eftir því sem greinagóður maður hefur tjáð mér nýlega. Ekki hefur mér tekizt að fá nógu áreiðanlegar sagnir um það, hvað liggi hér til grundvallar, hvaða fórn hér sé verið að færa fellinu eða hverjum; en talið er vafalaust, að ummæli Eiríks á Vogsósum, þess spaka manns, liggi hér á bak við og séu enn í góðu gildi.“

Selvogsgata-556

Hér sleppir Ólafur tóftum selstöðu í heiðinni, en Selvogsgatan liggur niður með þeim að austannverðu. Þetta eru grónar tóftir, en þó sést móta fyrir í þeim þremur rýmum. Suðaustan við tóftirnar er grafinn brunnur og skammt vestsuðvestan við hann má sjá mosagrónar hleðslur stekks. Ekki hefur verið hægt að tengja þessar minjar við neina heimild um sel í heiðinni, en telja má líklegt að það hafi verið frá einhverri hjáleigu Strandar því þær voru nokkrar og enn sést móta fyrir ofan og austan við kirkjuna í Selvogi. Strandarselið er hins vegar upp undir Svörtubjörgum og hefur bæði verið þar um langan tíma og ríkmannlegt. Þetta sel við Selvogsgötuna virðist hafa verið þarna í tiltölulega skamman tíma, sennilega seint á 18. eða byrjun 19. aldar (eftir að jarðabók ÁM var rituð).
Í dag (2012) gæti óvönum þótt erfitt að fylgja götunni þar sem vatn hefur á þessum kafla heiðarinnar grafið hana í sundur auk þess sem gróðureyðingin er þar umtalsverð. Vanir menn ættu hins vegar ekki að eiga í erfiðleikum að fylgja götunni þrátt fyrir þetta.
Selvogsgata-557„Nokkru suðaustur frá Vörðufelli er Strandarhæð. Suðvestur í henni er stór hellir, Strandarhellir. Framan til er hann hár og falleg boghvelfing yfir, en sandur er í botni, og getur þar verið inni fé, svo að hundruðum skiptir, án þrengsla. Suður af hellinum eru sléttar grasdældir, Dalalágar.“
Skv. upplýsingum Þórðar Bjarnasonar heita Vellir austan Skálavörðu. Norðaustar er Strandarhæð. Efst í henni er hóll og gerði norðvestanundir honum. Þar var ætlunin að rækta upp gerði um aldarmótin 1900, en ekkert varð af því.
„Þegar hér er komið, er steinsnar til bæja í Selvogi, og þá venjulega komið að túnhliði, ýmist frá Bjarnastöðum eða Nesi, eftir því sem hverjum hentar, eða þá að utustu bæjum í hverfinu, Þorkelsgerði eða Torfabæ [Útvogsgata].
Á vetrum, þegar Selvogsmenn fóru gangandi vestur yfir fjall, styttu þeir sér oft leið með því að fara Hlíðarskarð í Hlíðarfjalli, vestur með Langhólum í Austur-Ásum, á veginn sunnan undir Hvalhnjúk, Stakkavíkurveginn.
Er nú lýst leiðum Selvogsmanna til Hafnarfjarðar.

Eftirmáli

Selvogsgata-558

Á Grindaskarðaleið var það, að fundum mínum og Selvogsmanna bar fyrst saman, og eru margir þeirra funda, þótt oftast væru stuttir, mér að mörgu leyti minnistæðir. Tildrög voru sem hér segir: Kringum síðustu aldamót var ég oft á ferð um fjöllin vestan Grindaskarða. Kom það þá nokkrum sinnum fyrir, að ég reið fram á eða mætti einum eða fleiri mönnum, sem voru með hesta undir klyfjum, stundum bar mig þar að, sem þeir voru að æja, — voru að hvíla sig og hesta sína. Þetta voru Selvogsmenn. Það gátu ekki aðrir verið, svo fremi að það væru ekki útilegumenn, en ég mun þá hafa verið hættur að trúa á tilveru þeirra, og var því ótti minn við þá alveg horfinn. Þó komu mér ósjálfrátt í hug sagnir um útilegumenn, þegar ég komst fyrst í kynni við Selvogsmenn þarna í fjöllunum. Ekki var það samt af því, að þeir væru svo ógnarlegir, nei, síður en svo, þeir voru bara eins og fólk er flest.

Selvogsgata-559

Það, sem mér fannst einkennilegast við þessa menn og ferðalög þeirra, var víst aðallega það, að þeir voru þarna á ferð, þar sem mjög lítil von var mannaferða, og voru ýmist að koma ofan af fjöllunum eða fara til fjalla. Oft fylgdist ég með þeim nokkurn spöl eða staldraði við hjá þeim, þegar þeir voru í áningarstað. Þjóðlegir voru þeir og viðræðugóðir. Engir voru þeir yfirborðsmenn — en voru það sem þeir sýndust og oftast vel það. Ég var forvitinn og spurði margs, spurði um daginn og veginn, spurði hvernig væri hinum megin við fjöllin, hvernig sveitin þeirra liti út, um það langaði mig eitthvað að vita, því að ég vissi þá, að ég var fjórði maður frá Jóni Halldórssyni lögréttumanni að Nesi í Selvogi og Rannveigu Filippusdóttur, fyrri konu Bjarna riddara, sem fæddur var að Nesi 6. apríl 1763. Og ég spurði og spurði, og þeir svöruðu víst oft betur en spurt var. Eitt var það, sem ég tók eftir í farangri þessara manna, sem var öðruvísi en ég hafði séð hjá öðrum ferðamönnum. Það voru reiðingarnir á hestunum. Þetta voru ekki torfreiðingar, heldur voru þeir gerðir af rótum eða flækjum. Þeir voru léttir og lausir við mold og leir.

Selvogsgata-560

Og ég spurði enn. „Já, þetta eru melreiðingar, lagsmaður,“ var svarið. Stundum sá ég þá flytja í kaupstað ýmsa einkennilega hluti, sem stundum voru ofan á milli bagga eða í böggum. Þetta voru ýmsir munir úr skipum, sem strandað höfðu í Selvogi. Mér fannst skrítið að sjá þessa muni, sem tilheyrt höfðu útlendum skipum, vera nú bundna með ullarböggum sveitamanna, því að þá leit ég á Selvogsmenn sem eingöngu sveitamenn, en skýringin á öllu þessu var sú, að þeirra sveit lá bæði til sjávar og lands og Selvogsmenn voru og eru „synir landvers og skers.“ Ég komst líka að því, að bændur í Selvogi áttu allmargt fé og margir fjölda sauða og fallega, og það þótti mér nú ekki alveg ónýtt. Allt fannst mér þetta vera líkt einhverju ævintýri, og á sveit þeirra leit ég í huganum sem ævintýraland, og ekki grunaði mig þá, að ég ætti eftir að eiga heima í þessari sveit, en vel gæti ég trúað, að ég hafi einhvern tíma óskað þess, þó að ég muni það ekki nú.

Selvogsgata-561

Það má nú ef til vill segja, að þessi saga komi ekki við lýsingu þeirra fornu slóða, sem aðallega eru hér skráðar, ef verða mætti til þess að forða því, að þær féllu alveg í gleymsku og týndust og enginn vissi síðar meir, hverjir hefðu þær aðallega notað. Ég gat ekki skilið svo við þetta efni, að ég minntist ekki lítillega þeirra manna, sem markað hafa þennan veg, og þeirra litlu og afskekktu sveitar, Selvogsins.
Oft hljóta Selvogsmenn að hafa farið þessa leið með hesta sína, því að fáir fóru þar um aðrir en þeir. Sanna það bezt hinar djúpt mótuðu götur í hart grjótið á þessum fornu slóðum. Nú hefur þessi aldna leið Selvogsmanna lokið sínu ætlunarverki, og mun nú fá að „gróa yfir götur“, þar sem svo hagar landi, en langt verður þar til „hölknin gróa“ svo á leið þessari, að eigi sjáist merki mikillar umferðar.

Selvogsgata-564

Nú eru flestir þessir Selvogsmenn, sem ég fyrst kynntist, gengnir veg allrar veraldar. Nokkrir afkomendur þeirra lifa þar enn. Fáir hafa flutzt inn í sveitina. Fyrir 250 árum voru um 200 manns í Selvogi, — en nú munu vera þar um 60 manns, svo mjög hefur þessi sveit gengið saman, og er það af ýmsum orsökum, sem ekki verða raktar hér. Kynni mín af Selvogsmönnum á síðari árum hafa verið góð og engri rýrð kastað á þá eða sveit þeirra, frá því að ég fyrst átti samleið með þeim í fjöllunum, fyrir 40—50 árum. Hér brestur bæði rúm og getu til að lýsa Selvogshreppi, svo að gagn eða gaman væri að. Þó vil ég aðeins drepa á tvennt, sem þessi fámenna og afskekkta sveit hefur átt og á, sem enginn getur frá henni tekið, og það er Strandarkirkja og minningin um Eirík Magnússon, prest að Vogsósum, sem vígðist að Strönd árið 1667 og þjónaði þar í 39 ár. 

Fornagata-551

Kirkjan hefur svo að öldum skiptir staðið ein húsa á hinu forna höfuðbóli, Strönd, sem sandur og uppblástur eyddu ásamt fleiri jörðum í Selvogi. Munnmæli herma, að þegar Erlendur lögmaður Þorvarðarson bjó að Strönd á fyrri hluta og fram yfir miðja 16. öld og allt var þar með blóma, hafi það eitt sinn borið við, er smalamaður Erlends kom heim, að hann hafi stungið spjóti sínu niður, og komið sandur upp á því. Segir þá smalamaður: „Hér mun uppblástur verða.“ Hjó Erlendur hann þá banahögg og kvað hann ekki skyldi spá fleiri hrakspám. Spá smalamannsins hefur illu heilli rætzt. Strandarkirkja er löngu þjóðkunn fyrir það, hve vel hún „verður við“, þegar fólk leitar til hennar með áheit í ýmsum áhugamálum sínum.

 

Fornagata-552

Um Eirík á Vogsósum skal ekki fjölyrt hér. Sagnir af honum og kunnáttu hans er víða að finna og flestar í þjóðsagnastíl og hafa því víða flogið. Sennilegast er, að Selvogsmenn hafi á sínum tíma litið til Eiríks á Vogsósum með ótta og lotningu fyrir orð hans og athafnir, og er mér ekki grunlaust um, að eitthvað eimi eftir enn af trú á verk hans og ummæli, sem honum eru eignuð, svo sem um vörðurnar á Vörðufelli, sem áður er á minnzt, og segi ég ekki þetta Selvogsmönnum til lítilsvirðingar.“
Göngunni lauk, sem fyrr sagði á Strandarhæð þaðan sem Fornugötunni efri var síðan fylgt til vesturs inn í Vogsósaland. Fyrrum hefur verið myndarleg varða við gatnamótin, en nú er hún einungis svipur hjá sjón. Fornagatan efri er vel greinileg. Áður hafði FERLIR fylgt götunni til austurs áleiðis að Hlíðarenda í Ölfusi.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.
Sjá MYNDIR.

Heimild:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, Ólafur Þorvaldsson, 49. árg. 1943-1948, bls. 96-107.

Selvogsgata

Genginn Grindaskarðsvegurinn.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja var reist árið 1857, en lögð af sem sóknarkirkja 1929, notuð till íbúðar, endurbyggð og síðan endurvígð 1964. Hún tilheyrir nú Hafnarfjarðarprestakalli í Kjalarnesprófastsdæmi.

Krýsuvík

Krýsuvík 1887.

Kirkjan er varðveitt af þjóðminjaverði. Þegar Krýsuvíkurbærinn, hið merka stórbýli um aldir, var orðinn svo hrörlegur á fyrri hluta 20. aldar að ekki var lengur hægt að hafast við í honum, flutti ábúandinn í kirkjuna. Hún var afhelguð og notuð sem bústaður um tíma. Þangað komu margir á ferðum sínum um Krýsuvík og nutu skjólsins þótt stundum væri vistin köld á vetrum. Ofn var þá í kirkjunni og var hann kyntur duglega, en kulnaði á milli. Kirkjan er dæmi um einfalda sveitakirkju frá síðari hluta 19. aldar. Krýsuvík er nú í eigu Hafnarfjarðarbæjar. Krýsuvík fór endanlega í eyði eftir 1950. Stórbýlið Krýsuvík hafði um tíma 14 hjáleigur, enda jarðgæði mikil áður en uppblástur tók að herja. Víða í Krýsuvík má sjá búsetuminjar, allt frá Selöldu í suðri að Kleifarvatni í norðri, Seljabót í austri og Selatöngum í vestri. Sveinn Björnsson, listamaður og lögreglumaður, hafði vinnustofu í Krýsuvík. Þegar hann andaðist 28.04.1997, sjötíu og tveggja ára, var hann jarðaður í Krýsuvíkurkirkjugarði 9. maí. Þá hafði ekki verið jarðsett í garðinum síðan 1917.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja var einföld timburkirkja í Krýsuvík. Hún var byggð árið 1857, endurbyggð árið 1964 og fór þá í vörslu þjóðminjavarðar og komst við það á lista yfir friðuð hús. Altaristafla kirkjunar var málverk eftir Svein Björnsson, listmálara.
Krýsuvíkurkirkja var notuð sem sóknarkirkja allt fram undir 1910. Hún var aflögð 1917 og notuð til íbúðar frá 1929, en síðan aftur breytt í kirkju 1963-64 fyrir tilstuðlan Björns Jóhannessonar, fyrrverandi forseta bæjarstjórnar í Hafnarfirði, en Hafnarfjarðarbær færði Þjóðminjasafninu húsið til varðveislu haustið 1964.
Kirkja mun hafa risið í Krýsuvík í upphafi kristni hér á landi í Kirkjulág í Húshólma áður en Ögmundarhaun rann um miðja 12. öld.

Alfaraleiðin

Ætlunin var að ganga stuttan spöl eftir Alfaraleiðinni norðan Virkishóla að Hvassahrauni. Leiðinni, sem er hin gamla þjóðleið milli Innnesja og Útnesja, frá Gerði og Þorbjarnastöðum hefur áður verið lýst hér á vefsíðunni.

Alfaraleiðin

Alfaraleiðin frá Hafnarfirði að Þorbjarnastöðum.

Alfaraleiðin á þessum kafla er vel greinileg. Þegar ný misæg gatnamót voru gerð á tvöfaldri Reykjanesbraut var meira brotið af leiðinni en áður hafði verið gert. Hún hverfur á nýgatnasvæðinu, en kemur í ljós suðvestan þeirra. Þaðan er hægt að fylgja götunni til vesturs sunnan Skyggnis og niður að trérimlaréttarstæðinu norðaustan við Hvassahraun, sunnan gamla Keflavíkurvegarins. Þar hverfur gatan í útsléttu, en kemur aftur í ljós norðan Hjallhóla. Þar fylgir gatan hraunhólum uns hún hverfur á ný undir gamla Keflavíkurveginn. Hún sést síðan ekki aftur fyrr en vestan við Kúagerði þar sem nafnið breytist í Almenningsveg.
Þar sem staldrað var við Hjallhóla var ekki úr vegi að rifja upp helstu örnefni í nágrenninu. Eftirfarandi upplýsingar eru úr örnefnalýsingum fyrir Hvassahraun.
„Jörðin Hvassahraun er allmikil jörð að landrými og er meirihluti þess eldbrunnið land, bærinn sjálfur er nærri sjó, norðan þjóðvegarins sem liggur um Suðurnesin. Rétt er þar austan við bæ, er allhár hóll norðan við veg þar sem vegurinn liggur milli þess hóls og annarra sunnan vegar. Þessi hái hóll heitir Skyggnir, þetta er stór hraunhóll, sundursprunginn með vörðu á. Þaðan sést vítt um landið og er gott að svipast þaðan til örnefna en upphaflega hefur hann fengið nafn sitt af að þaðan var gott að skyggnast eftir kindum og öðrum búfénaði. Á veginum rétt þegar komið er inn í Hvassahraunsland að austan er hraunlendi nokkuð greiðfært og slétt af hrauni að vera, þar heitir Sprengilendi, nær alllangt niður fyrir veginn. Upp við veg og um veg er Sprengilendið, það er hæð ofan vegar, er þar nafnlaus lægð.
Nú færðum við okkur heim í tún. Hvassahraunsbær stóð á klapparrana. Þar var oftast í fyrri daga tvíbýli, Austurbær og Vesturbær. Hellur eru ofan vegar og ná þær niður í tún, slétt land, er þetta þar vestar. Ofan [við] veg er svo Hjallahóll er síðar getur. Stærsti hóllinn og efsti á því er stór hóll sem heitir Sönghóll. Á honum var eitt sinn býli, þar bjó kona er Margrét hét er átti 10 börn. Norður af Sönghól er lægð sem heitir Leynir, suður af Sönghól milli Traðarinnar sem var en er nú horfin, hét þar Rófa nær vegi. Svo er þar nær bæ Beinateigur, er svo laut þar norður af, var einnig meðfram heimreiðinni.

Leynir

Skjól í Leyni.

Vestur af Leyni er svo Langhóll, sprunginn hraunhóll áfastur við Sönghól og norðan undir honum er smádalur sem heitir Þjófagerði. Svo er annað gerði þar vestur af sem heitir Kotagerði. Þar er klöpp og stór hóll á bak við það og heitir það Miðmorgunshella. Svo eru þar norður af Hvassahraunskot, þar bjuggu áður fyrr fjórir menn og þar eru balar sem heita Kotatún. Vestur af Langhól heitir svo Norðurvöllur og þar næst er svo hóll sem heitir Kirkjuhóll rétt við húsið. Austur af honum er annar klettur grasivaxinn að ofan og heitir hann Einbúi, það er álfakirkja. Geta réttsýnir menn séð álfana þyrpast þangað til messuhalds á helgum dögum og þar er ekki messufall. Eitt sinn sá maður nokkur líkfylgd frá Miðmorgunshellu að Einbúa.
Upp af bænum, fast ofan við veginn, eru hólar sem heita Hjallhólar. Þetta eru allfyrirferðarmiklir hraunhólar með sprungum og undir þeim sem er næst vegi er Hjallhólsskúti, er fjárhellir. Vatnsgatan lá heiman frá bæ suðvestur í Vatnsgjárnar sunnan þjóðvegarins. Vatnsgatan var einnig kölluð Suðurtraðir. Vatnsgatan liggur í Lágarnar. Í þeim eru Vatnsgjárnar. Næst veginum er Helguhola. Þá er Þvottagjá og fjærst Ullargjá. Þar var þvegin ull.Sjávargatan lá heiman frá bæ niður í Víkina. Heiman úr Tröðum liggur troðningur suður um Hellur, suður á hraunið. Það er Hvassahraunsselsstígur eða Selsstígur. Stígur þessi lá áfram suður hraun allt til Krýsuvíkur.“
Heimalandi Hvassahrauns er lýst af nákvæmni annars staðar á vefsíðunni.
Frábært veður. Gangan tók 33 mín.

Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsingar fyrir Hvassahraun.

Leynir

Byrgi í Leyni.

Hvaleyrarsel

„…Selhöfði eða Hvaleyrarselhöfði er sunnan við Hvaleyrarvatn, en það er allt í Áslandi.
Sunnan undir höfðanum eru miklar rústir eftir Hvaleyrarsel. Vestan við Selhöfðann er svo alldjúpur dalur, sem heitir Seldalur, sem að vestan myndast af hæstu hæðinni á þessum slóðum, sem heitir Stórhöfði.
Selhraun - rettHraunið milli Hamraness og Stórhöfða og frá Hvaleyrarvatni að austan og vestur á brún, þar sem landið hækkar, heitir Selhraun. Niðri í því er réttarhleðsla. Efri hluti Kapelluhrauns er nefndur Bruni, og nær það nokkuð suður á móts við Stórhöfðann. Sunnan og neðan við Stórhöfða er hraunið nefnt Stórhöfðahraun, upp með Brunanum fyrrnefnda.“

Hvaleyrarsel

Hvaleyrarsel – stekkur.

Framangreind selsrúst „sunnan“ undir Selhöfða hefur löngum verið talið beitarhús, en við nánari skoðun virðst hún fremur vera leifar selstöðu. Rýmið er tvískipt; baðstofa og búr, en ekki mótar með góðu móti fyrir eldhúsi. Mikið graslendi er bæði norðan og vestan við rústina.
Réttin framangreinda stendur enn í Selhrauninu, mjög heilleg og svo er að sjá að þangað hefur enginn komið um langa tíð.“

Umfjöllun um Hvaleyrasel og nágrenni þess má sjá víða á vefsíðunni.

Heimild:
-Örnefnalýsing fyrir Hvaleyri – Ari Gíslason – ÖÍ.

Hvaleyrarvatn

Hvaleyrarvatn og nágrenni – minjar (ÓSÁ).