Tag Archive for: Hafnarfjörður

Kristrúnarborg

Gengið var um svonefnda Skógargötu frá Óttarsstöðum, um Eystraklif og upp á Alfaraleið ofan við Löngubrekkur.
OttarsstadagoturGatan liggur áleiðis upp í Óttarsstaðasel. Önnur gata, oft nefnd Skógargata, liggur vestar (Óttarsstaða-selsstígur). Þær sameinast skammt norðan Alfaraleiðar. Milli Bekkja og Meitla eru aftur gatnamót þar sem Skógargatan beygir til suðvesturs áleiðis að Skógarnefi en Óttarsstaða-selsstígurinn liggur upp í selið, sem er þar skammt ofar í Almenningi. Leiðin liggur um tiltölulega slétt helluhraun; Hrútagjárdyngju-hraun. Þessi gata (götur) hefur einnig verið nefnd Rauðamelsstígur, en hún liggur yfir Litla-Rauðamel ofan Nónhæða.
Næst Óttarsstöðum (Eyðikoti) greinast göturnar fyrst skammt ofan Hrafnagjár. Báðar mætast þær þó á Kotaklifi við Kotaklifsvörðu þar sem hún liggur um Eystraklif þar sem þær greinast enn á ný. Skógargatan fer um einstigi syðst á klifinu, en selsstígurinn liggur til suðsuðvesturs upp á klapparrana þar sem hann greinist en kemur saman aftur skammt sunnar. Á þessum leiðum má sjá brýr á sprungum.
Önnur gata liggur frá Stekknum undir Miðmundarhæð og liðast áleiðis upp að Smálaskálahæð um Jakobsvörðuhæð að Kristrúnarborg (Óttarsstaðaborg) vestan við Smalaskála.
Ætlunin var að reyna að fylgja þessum götum upp fyrir hæðirnar og til baka með viðkomu í Gvendarbrunnshelli, Borginni, Smalaskálaskjóli og fiskbyrginu í Hrafnagjá.
Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Óttarsstaði segir m.a. um þetta:
„Svonefnd Skógargata lá frá Eyðikotshliði upp að Óttarsstaðaseli. Þar sem hún lá yfir hæðirnar, var kallað Kotaklif. Skammt austur af því, á sömu hæðinni, er Eystraklif. Þar lá gatan frá Eyðikotinu upp í hraunið. Önnur gata lá yfir Eystraklifið upp í Nónhóla. Hún lá út af Skógargötunni rétt austan við Hrafnagjá, sem brátt verður nefnd.
KotaklifsvardaSunnan við túnið á Vesturbænum er Hádegishæð, eyktamark. Á henni var Hádegishæðarvarða). Hæðin var mjög sprungin og miklar gjár í henni. Suðaustar svolítið er feiknamikil hæð með sprungu, sem nefnist Hrafnagjá. Í henni var Fiskabyrgið. Þar var geymdur fiskur harður og geymdist vel. Sést fyrir byrginu enn þann dag í dag.
Vestur af Hrafnagjá er Miðmundahæð. Vestast á henni er stór varða, sem heitir Miðmundavarða, en vestan við hæðina er lægð, sem heitir Miðmundaskarð. Stígurinn frá Óttarsstöðum liggur upp úr því. Stóra réttin, sem fyrr var nefnd, var inni í krika vestan undir hæðinni. Þar er skúti stór með miklum hleðslum og þröngum dyrum. Hefur hann sennilega verið notaður sem fjárhús einhvern tíma í gamla daga.
Skogargatan-22Austur af Ingveldi er Jakobsvörðuhæð og á henni Jakobsvarða. Norðan undir hæðinni var eins og ævagamall stekkur eða rétt. Hæðin er suður af Klofa fyrrnefndum, við götuslóða, sem lá neðan frá Óttarsstöðum upp að fjárborg, sem er þarna miklu ofar.
Á háhæðinni á Kotaklifinu, við Skógargötuna, er Kotaklifsvarða. Þaðan liggur Skógargatan suður um hraunið.
Sunnan undir Miðmundahæð er klapparskarð, sem heitir Djúpaskarð. Skammt ofan við Kotaklifið er djúpt, sporöskjulaga jarðfall við götuna. Er það kallað Hlandkoppsgjörð. Þaðan liggur stígurinn um einstigi, og blasir þá við klapparhóll með þúfu uppi á, nefndur Spói. Er þá komið upp að Reykjanesbraut. Frá Stóra-Nónhól vestur að Spóa eru kallaðir Nónhólar.
Frá Spóa hlykkjar Skógargatan sig eftir lægðum upp að Reykjanesbraut og suður fyrir hana.
Langt vestur af Stóra-Nónhól er hóll, sem heitir Goltrahóll. Á honum var Goltravarða, nú fallin.
Raudamelur litliSkógargatan liggur áfram suður yfir Rauðamel litla og austan við Rauðamel stóra, en Suðurnesjavegurinn lá milli Rauðamelanna. Rauðimelur litli var lágur melhóll. Rauðimelur stóri var sunnar. Hann var feiknastór, og var varða á honum í gamla daga. Vestast á honum var rofabarð með hríslum. Nú eru melar þessir horfnir vegna flugvallargerðar og komin tjörn, þar sem sá syðri var. Austan við Rauðamel stóra er Gvendarbrunnshæð og þar um liggur landamerkjalínan í Gvendarbrunn, sem er stór hola í klöpp við elzta veginn. Í Gvendarbrunnshæð vestanverðri er fjárhellir, kallaður Gvendarbrunnshellir.
Gvendarbrunnur-22Vestan við Rauðamel stóra er mikil klapparhæð, sem nefnist Smalaskáli. Uppi á hæðinni er skotbyrgi. Syðst í hæðinni er Smalaskálaker, sporöskjulaga jarðfall með rauðamelshól í botni. Norðvestan undir hæðinni er Smalaskálaskúti, hellir, sem fé lá inni í. Þar var skógarhrísla stór, sem óx fyrir hellismunnann. Suðvestur af Smalaskála er fjárborgin gamla, frá því fyrir aldamót. Kona, er Kristrún hét og bjó á Óttarsstöðum, hlóð hana ásamt vinnumanni sínum.
Sunnan við Smalaskálakerið er mikil klapparhæð og sprungin. Sunnan í henni eru lyngbrekkur, sem nefnast Löngubrekkur. Gjá mikil var eftir allri brúninni, nefnd Löngubrekkugjá. Í norðurbarmi gjárinnar verpti hrafninn alltaf á hverju vori.
Frá Gvendarbrunni liggur gamla hestaslóðin (fyrsti Keflavíkurvegurinn) vestur framan við Gvendarbrunnshæð og áfram suður með Löngubrekkum. Vegurinn er nú uppgróinn fyrir löngu, en þó sést víða móta fyrir honum. Víða voru hlaðnar vörður á klapparhólum með veginum, og standa sumar þeirra enn.“
Frábært veður. Gangan tók 5 klst og 5 mín.

Heimild:
-Örnefnalýsing Gísla Sigurðssonar fyrir Óttarsstaði.

Hraunin

Alfaraleiðin um Draugadali.

Glaumbær

Eftir að baráttan við berklaveikina fór að bera árangur og staða berklasjúklinga í þjóðfélaginu að batna, beindist líknarstaf Kvenfélagsins Hringsins inn á nýjar brautir. Þá fór félagið að styrkja fátæk og veikluð börn úr Hafnarfirði til sumardvalar í sveit. Barnaverndarfélag Hafnarfjaðar átti mikinn þátt í, að barnaheimilið Glaumbær var stofnað 1957 og lagði því talsvert fé.
Bátur á þurru landi við GlaumbæGlaumbær er í Óttarsstaðalandi. Tildrög þess að sumardvalarheimili tók þar til starfa árið 1957 voru þau að barnaverndarnefnd Hafnarfjarðar hafði oft rætt á fundum sínum um nauðsyn þess að koma á fót sumardvalarheimili fyrir börn á aldrinum 6-8 ára. Mjög erfitt hafði reynst fyrir foreldra að koma börnum á þessum aldri í sveit á sumrin og Hafnfirðingar höfðu aldrei átt barnaheimili fyrir þennan aldursflokk. KFUM í Kaldárseli hafði öðru hverju bætt úr mestu vandræðum fólks og tekið börn til dvalar stuttan tíma í einu, en aldrei sumarlangt. Rauði krossinn hafði einnig unnið gott starf á þessu sviði, og, og Kvenfélagið Hringurinn hafði árum saman styrkt hafnfirsk börn til sumardvalar í sveit.

Hleðslur í einni hamraborginni - sennilega eftir Theodór

Snemma árs 1957 var ljóst, að Kvenfélagið Hringurinn fengi ekki inni fyrir börn úr Hafnarfirði á sumardvalarheimilum Rauða krossins á Hörðuvöllum. Dagheimili Verkakvennafélagsins Framtíðarinnar á Hörðuvöllum var ætlað börnum á aldrinum 2-6 ára, og í vinnuskólann í Krýsuvík komust aðeins drengir á aldrinum 8-12 ára. Barnaverndarnefnd var ljóst, að nauðsynlegt var að reyna að brúa þetta bil, t.d. á þann hátt að koma á fót sumardvalarheimilli. Snemma árs 1957 komst nefndin á snoðir um, að sumarbústaður Theodórs heitins Mathiesens læknis suður í Hraunum væri til sölu, Hún skrifaði bæjarráði og óskaði eftir fyrirgreiðslu þess í sambandi við kaup á húsinu. Bæjarráð tók málaleitan nefndarinnar vel og lofaði ábyrgð bæjarins, ef nefndinni tækist að útvega lán til kaupanna. Enn fremur skrifaði barnaverndarnefnd þeim félögum í bænum, sem höfðu barnavernd og líknarstarfsemi fyrir börn á stefnuskrá sinni og óskaði eftir samvinnu þeirra um lausn málsins. Þetta bréf var dagsett 18. marz 1957.
Undirtekir voru mjög góðar. Tvö þeirra, Barnaverndarfélagið og Rauðakrossdeildin, tæmdu þegar sjóði sína. Þau gáfu 10.000 kr. hvert, og síðan jók Barnaverndarfélagið framlag sitt um 15.000 kr. og Rauðakrossdeildin bætti 20.000 kr. við framlag sitt. Barnaverndarnefnd útvegaði með aðstoð Axels Kristjánssonar í Rafha 40.000 kr. lán hjá Iðnaðarbankanum. Fleiri lögðu hönd á plóginn.
Klettaborgir GlaumbæjarÁ sumardaginn fyrsta þetta ár var Barnaheimilissjóður Hafnarfjarðar stofnaður. Tilgangur sjóðsins var að kaupa og reka barnaheimili fyrir hafnfirsk börn. Sjóðurinn keypti síðan sumarbústað Theodórs, er nefndist Glaumbær, 16. maí 1957 fyrir 80.000 kr. Glaumbær var á kyrrlátum stað skammt frá Hafnarfirði, stutt frá þjóðvegi, en þó úr alfaraleið. Húsið stóð á fögrum stað í skemmtilegu umhverfi, í snyrtilegum og vel ræktuðum lautarbolla, og klettaborgir gnæfðu við himinn allt um kring.
Hinn 16. júní 1957 hófust framkvæmdir í Glaumbæ. Húsið var lengt með viðbyggingu og fékkst þar mjög gott svefnloft fyrir 24 börn. Niðri var svefnstofa fyrir stúlkur, snyrtiherbergi með salerni og steypibaði, svo og rúmgóður gangur og pláss fyrir miðstöðvarketil. Einnig var byggt rafstöðvarhús og rotþró og unnið að ýmsum fleiri framkvæmdum.

Glaumbær

Sumardvalarheimlið í Glaumbæ tók til starfa 10. júlí 1957, og dvöldust þar 24 börn til 20. ágúst. Starfsemin gekk ágætlega, og þrifust börnin vel á heimilinu. Þau þyngdust að jafnaði um 4 kíló hvert, meðan á dvölinni þar stóð. Heimilinu veittu forstöðu hjónin Guðjón Sigurjónsson íþróttakennari og Steinunn Jónsdóttir. Þeim til aðstoðar var Ólöf Kristjánsdóttir. Þegar stafi heimilisins lauk í ágúst, var barnaheimilissjóðurinn orðinn mjög skuldugur, enda var starfsemin í Glaumbæ kostnaðarsöm. Sjóðurinn tók lán hjá Sparisjóði Hafnarfjarðar, og fjársöfnun meðal bæjarbúa var haldið áfram. Var því unnt að hefja starfsemi barnaheimilisins á ný sumarið 1958.
Barnaheimilið í Glaumbæ var starfrækt með líku sniði á hverju sumri frá 1957-68, en þá var starfseminni þar hætt, m.a. vegna hugsanlegrar mengunarhættu frá Álverinu í Straumsvík, sem var að hefja starsfemi sína um þær mundir.

Glaumbær

Glaumbær sem sumarhús.

Húsið stóð lengi autt uns það brann, líkt og nafni þess í Reykjavík nokkrum árum síðar. Enn má sjá klettaborgirnar sem og aðrar minjar um veru barnanna í Glaumbæ á framangreindu tímabili.
Óttarsstaðir var hof- og kirkjustaður fyrr á öldum. Þar er grafreitur, jafnvel á fleiri en einum stað. Heimild er fryrir því að árið 1379 votta þeir Kári Þorgilsson, Jón Oddsson og Ólafur Koðráðsson að hafa heyrt máldaga kirkjunnar í Viðey lesinn og að Ólafur hafi lesið hann sjálfur áður en kirkjan brann. Þann 9. september 1447 höfðu þeir Einar Þorleifsson og Steinmóður Viðeyjarábóti með sér jarðaskipti. Meðal þeirra jarða sem komu í hlut klaustursins voru 10 hundruð í Ottastöðum í Kálfatjarnarkirkjusókn. Óttarsstöðum bregður fyrir í fógetareikningunum 1547-1552 og eru þá líkt og aðrar Viðeyjarklaustursjarðir komnir í konungs eigu.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir.

Óttarsstaðir eru meðal svokallaðra Hraunajarða. Á árunum 1825–1874 áttu sér stað ýmsir atburðir er snérust um tengsl Hraunajarða og almenningslands Álftnesinga á Reykjanesi. Óttarsstaðir voru seldir úr konungseigu þann 28. ágúst 1839. Í Jarðatali Johnsens frá 1847 er getið bæði Óttarsstaða og Óttarsstaðakots þrátt fyrir að hvorki prestur né sýslumaður geti hjáleigunnar. Ástæða þess er að nokkru leyti ábúendatalan sem sýslumaður gaf upp á öllum Óttarsstöðum en að auki var hún byggð 1803. Í jarðamatinu 1849 er kafli um jörðina Óttarsstaði með hjáleigunum Óttarsstaðakoti og Nýjakoti.
Þrjú landamerkjabréf fyrir Óttarsstaði voru undirrituð 26. maí 1890 og þeim öllum þinglýst 9. júní sama ár. Fyrsta bréfið fjallaði um landamerki milli Óttarsstaða og Hvassahrauns. Í fasteignamatinu 1932 er að finna lýsingar á eftirfarandi jörðum í Óttarsstaðahverfi: Óttarsstaðir I og II og Óttarsstaðagerði.

Glaumbær

Glaumbær sem barnaheimili. Á meðfylgjandi mynd af Glaumbæ má húsið eftir að það var lengt sem og stíginn heim að húsinu. Í dag sést grunnur hússins enn sem og stígurinn.

Klettaborgirnar ofan við Glaumbæ gefa tilefni til að rifja upp gamla deilu um landamerki Óttarsstaða, Hvassahrauns og Krýsuvíkur þar sem segir „… að öðru leyti hefi jeg ekki að athuga [við landamerkjabréf Krýsuvíkur] nema óráðið mun um rjetta þekkingu á „Markhellu“ að vestanverðu.“ Undir þetta skrifaði Oddur V. Gíslason prestur á Stað í Grindavík … Önnur athugasemd var gerð og var hún svohljóðandi: „Sem eigendur og umboðsmenn Hvassahraunshverfisins leyfum við oss að gjöra þá athugasemd við framanskráð landamerki að í staðinn fyrir „Markhellu“ sjé settur „Markhelluhóll.Að öðru leyti samþykkt.“ Þetta undirskrifa Einar Þorláksson og Sigurmundur Sigurðsson. Athugasemdin um Markhelluhól hefur verið tekin til greina því skjalinu er þinglýst með því nafni. Nefnd Markhella er allnokuð austan við Búðarvatnsstæðið og Markhelluhól.

Markhelluhóll

Búðarvatnsstæði og Markhelluhóll. Á honum er mosavaxin varða. Markhellan er allnokkuð austar.

Setninguna „… Markhelluhól, háan steindranga við Búðarvatnsstæði“ er vert að athuga nánar. Ca. km fyrir ofan vatnsstæðið er trúlega hinn eina sanna Markhella og á landakortum síðustu ára eru mörkin um hana. Á hólnum er lítil varða og stendur hann rétt ofan við djúpa en þrönga gjá og eru stafirnir sem getið er um í landamerkjabréfi Óttastaða – Hvassahrauns meitlaðir stórum stöfum á hólklöppina sem snýr til norðausturs. Það er merkilegt hvað stafirnir eru greinilegir ennþá og vel getur verið að þeir hafi verið skýrðir upp einhverntíman á síðustu öld. Steindranginn, sem nefndur er í lýsingunni, er til þarna í nágrenninu og er hann spöl neðan og vestan við helluna út í illfæru og grófu apalhrauni. Rétt við steindranginn er gömul mosagróin varða, há og mikil um sig, hlaðin úr stórum hraunhellum. Í lýsingunni hefur því verið blandað saman í eitt mark, hólnum og drangnum og eins gæti hugsast, að mörkin hafi einhvern tímann legið neðar, þe.a.s um drangann en ekki hólinn. Hvassahraunsbændur gerðu sér grein fyrir þessu við undirskrift bréfsins og að hægt var að ruglast á stöðunum vegna líkra nafngifta.

Heimild m.a.:
-Saga Hafnarfjarðar, Ásgeir Guðmundsson, 1983.
-Íslenzkt fornbréfasafn, IV. b. Kaupmannahöfn. 1895-1897, s. 707-708.
Glaumbær

Alfaraleiðin

Alfaraleiðin er elsta kunna samgönguleiðin milli Útnesja og Innnesja Reykjanesskagans.
Um Alafaraleiðina fóru Alfaraleidin-27allir fólks- og vöruflutningar fyrr á öldum. Vermenn sem fóru um norðanverðan skagann fylgdu þessari götu á ferðum sínum í og úr verinu. Bændur og kaupmenn, ferðamenn og vinnuhjú fylgdu þessum fjölfarna götuslóða allt þar til Gamlivegur, fyrsti vagnfæri Suðurnesjavegurinn var lagður um 1900. Þá lagðist Alfaraleiðin af. Allflestar aðgengilegar vörður voru rifnar niður af vegagerðarmönnum og leiðin gleymdist smám saman. Hluti leiðarinnar hefur orðið nútímanum að bráð, farið  undir golfvöll, lent undir Reykjanesbrautinni á stöku stað og horfið að hluta þegar mikil efnistaka átti sér stað í Kapelluhrauni á sjötta og sjöunda áratug 20. aldar. Víða er þessi leið að gróa upp og hverfa en þó getur glöggt fólk auðveldlega fetað sig eftir Alfaraleiðinni með því að leggja sig örlítið fram og fylgja þeim vörðum sem enn standa og skýrum kennileitum.

Sudurgata-221

Leiðin lá frá botni Hafnarfjarðar þar sem Hafnarfjarðarkirkja sem stendur á Hamarskotsmöl. Þar eru ekki lengur nein merki um þessa fornu leið. Mannvirki, gatnagerð og umbreytingar sem fylgt hafa uppbyggingu bæjarins hafa fyrir löngu eytt öllum minjum um hana. Það eina sem er eftir er nafnið Suðurgata sem minnir á forna tíma. Þessi sama gata nefndist áður fyrr Suðurvegur. Þegar komið er upp steyptar tröppur, þar sem áður var Illabrekka, er brún Vesturhamars og þar liggur Suðurgatan að mestu á sama stað og gamli Suðurvegurinn var. Gamla leiðin lá sniðhalt framhjá Kaldárbrunni áleiðis að gömlu Flensborg við Ásbúðarlæk.

Alfaraleidin-25

Þessi leið er ekki lengur fær en hægt er að fara niður af Suðurgötunni um Flensborgarstíg, mjóan og beinan stíg sem liggur að Íshúsi Hafnarfjarðar. Farið er yfir Strandgötuna og stefnt á Hvaleyrabraut og henni fylgt að Hvaleyri. Gamla leiðin lá yfir Ásbúðarlæk á vaði, framhjá Ásbúð, gamalli verbúð frá Ási sem var í landi Ófriðarstaða. Stefnt var yfir ásinn ofan Óseyrartúngarðs að Skiphóli, sem var áberandi kennileiti á móts við þann stað þar sem seinna var Lýsi og mjöl. Norður frá Skiphól lá eyrarsker þar sem Eyrarskersgarður eða syðri hafnargarðurinn var lagður eftir seinni heimstyrjöld.

Alfaraleidin-26

Fylgt er Hvaleyrarbraut og farið vestur með Hvaleyrarlóni eða Hvaleyrartjörn og stefnt á bátaskýlin neðan undir Sandskörðum við lónið. Þar er hægt að fara gömlu leiðina upp Sandbrekkur, slakkann milli Hvaleyrarholts og Suðurtúngarðs en svo nefndist vörslugarður Hvaleyrartúnsins sem enn sést. Þegar komið er efst í Sandskörðin blasir Flókavarða við á vinstri hönd, eftirlíking norsku Flókavörðunnar í Smjörsundi, en þaðan lagði Hrafna-Flóki upp í för sína til Íslands. Farið er framhjá golfskála Keilis, niður í Stóru Sandvík, þar sem Sædýrasafnið var til húsa. Norðarlega í fjörunni eru Hvaleyrarklettar, en vestar eru Þvottaklettar þar sem Hvaleyrakonur skoluðu léreft sín í ómenguðu jarðvatni sem rennur úr Kaldárbotnum í sjó fram, og þurrkuðu þvottinn á klettunum. Þarna er nú golfvöllur en hægt að fylgja göngustíg nærri fjörunni. Vestan Þvottakletta var Litla Sandvík og ofan klettanna var Hvaleyrarsandur eða Sandurinn sem er alveg horfinn vegna æfingasvæðis golfara. Þarna var mikill fjörusandur sem seldur var sem pússningasandur þegar Hafnarfjarðarbær byggðist sem hraðast uppúr miðri 20. öldinni. Mjög gekk á þennan sand og var lítið eftir af honum þegar Sædýrasafnið var sett þarna á laggirnar í lok sjöunda áratugar 20. aldar.
Alfaraleiðin liggur fram hjá byggingum sem hýstu hluta Sædýrasafnsins en tilheyra nú golfklúbbnum Alfaraleidin-34Keili. Framundan blasir strítumynduð varða [landamerki] við sjónum í vesturátt. Stendur hún á áberandi hraunklöpp um miðbik nýjasta áfanga golfvallar Keilis sem tekinn í notkun 1996. Leiðin lá skáhalt yfir völlinn og stefndi í næstu vörðu sem er suðvestar og nær Reykjanesbraut. Vörður þessar vísa veginn og þegar komið er yfir golfvöllinn er slóðinni fylgt þar sem hún stefnir til suðvesturs undir Reykjanesbrautina. Handan brautarinnar stendur þriðja varðan nærri austurjaðri Nýjahrauns eða Brunans, en nyrsti hlutinn nefnist Kapelluhraun. Þar sem farið var upp á Kapelluhraunið var Stóravarða eystri sem vísaði á Brunaskarð eystra, austurmörk slóðans í gegnum þetta illvíga hraun sem eitt sinn var.

Alfaraleidin-28

Gatan sést ekki lengur í Kapelluhrauni nema á u.þ.b. 10 m kafla við kapelluna því stórvirkar vinnuvélar hafa eytt þeirri merku vegaframkvæmd sem þarna var unnin fyrir margt löngu. Ekki er vitað hvenær gatan í gegnum Nýjahraun var rudd, en það hefur trúlega átt sér stað seint á 12. öld eða snemma á 13. öld. Nýjahraun rann í miklum eldsumbrotum sem áttu sér stað 1151 úr gígaröð í Undirhlíðum. Hefur hraunið tálmað för manna í útverin á Vatnsleysuströnd og Suðurnesjum, sem voru flest í eigum biskupsstólsins í Skálholti, kirkna og klaustra. Viðeyjarklaustur átti Hvaleyri og er hægt að ímynda sér að leiguliðar klaustursins sem byggðu Hvaleyri fyrir 7 öldum hafi verið skikkaðir til að ryðja braut í gegnum eldhraunið  og opna leiðina milli verstöðvanna og Innnesjanna. Það eina sem vitnar um þessa miklu framkvæmd er kapelluhóllinn sem stendur eins og illa gerður hlutur í sköfnu og sléttuðu hrauninu. Á þessum hól stendur húslaga rúst sem er um 2m x 2,2m í ummál og opnast til vesturs eins og kirkja. Þetta eru taldar vera leifar kapellu heilagrar Barböru. Kristján Eldjárn þjóðminjavörður fann lítið leirlíkneski heilagrar Barböru við fornleifauppgröft í kapellunni árið 1950 og hefur hún verið friðlýst síðan 1955.
Alfaraleidin-29Frá kapellunni lá slóðin til suðvesturs nokkru sunnan við skúrbyggingu sem er nærri vesturbrún Kapelluhrauns. Farið er sunnan við hrauntappa sem enn stendur uppúr berangrinu og niður af Brunanum um Brunaskarð vestra, sem ekki sést móta fyrir lengur, en þar birtist Alfararleiðin á nýjan leik sunnan við Gerðið. Liggur nú leiðin að suðurenda Gerðis- og Þorbjarnarstaðatjarna. Syðst í Þorbjarnarstaðatjörn er fallega hlaðinn hringlaga brunnur þar sem íbúar Þorbjarnarstaða sóttu  drykkjarvatn um aldir. Út í tjörnina liggur upphlaðið spor í framhaldi af Brunngötunni sem hefst við traðarhlið Þorbjarnarstaða. Á þessum stað er tjörnin réttilega kölluð Brunntjörn, ein margra slíkra sem finna má í Hraunum og allar með samskonar nafn. Fram undan hrauninu seytlar fram ferskvatn í suðurjaðri tjarnarinnar þar sem brunnurinn er. Mun vatnið eiga upptök sín í Undihlíðum og Kaldárbotnum.
Alfaraleidin-30Alfaraleiðin liggur sunnan tjarnarinnar framhjá myndarlegum hraunhólum sem nefnast Hólar. Þar sem fyrrum stóð varða, en hún var rifin í byrjun 20. aldar. Farið er yfir Stekkagötuna sem liggur með austurtúngarð Þorbjarnarstaða í áttina að Stekknum undir Stekkahæðinni eystri, einnig nefnd Hádegishæð enda eyktarmarki frá Gerðinu, en þar var Hádegisvarða.
Liggur Stekkagatan framhjá Stekknum og Stekkahæð vestri, suður með Hólunum yfir í Selhraun og áfram suður í Straumssel. Alfararleiðin er mjög greinileg þar sem farið er yfir Stekkagötuna og stefnan tekin á Miðmundarhæðarvörðu sem stendur á háum klapparhól Miðmundarhæð. Vestan hæðarinnar er þvergata sem nefnist Hraungata eða Hraunavegur, sem er ennfremur hluti Straumsgötu sem liggur frá Hraunabæjunum um skarð áleiðis að Skotbyrginu sunnan þess, áfram suður í Grenigjár og þaðan suður í Katla og Straumssel. Hraungatan liggur um skarð sem blasir við á vinstri hönd í suðurátt. Vestan skarðsins er lítil varða og vörðulagaður steinn austan þess.
Alfaraleidin-36Enn vestar er önnur varða, nokkuð stærri sem vísar á Mosastíginn. Alfaraleiðinni er fylgt til vestur en hún er mjög greinileg á þessum slóðum. Þegar lengra er komið verður gatan krókótt þar sem hún þræðist um skorninga á milli hraunstrauma. Þessi kafli nefnist Draugadalir og vestar eru Þrengslin. Á móts við miðja Draugadali er áberandi varða á vinstri hönd.  Þegar komið er vestur úr Þrengslum ber þriðju vörðuna við himinn. Framundan er Gvendarbrunnshæð og er stefnan tekin á hana. Slóðanum er fylgt, þar sem hann liggur um þrjá metra frá hæðinni, þar til komið er að sléttri grasi gróinni klöpp með holu í miðjunni. Þetta er Gvendarbrunnur sem aldrei þrýtur. Brunnurinn er á mörkum tveggja jarða, því um hann miðjan eru landamerki milli Óttarsstaða og Straums. Hér er gott að staldra við um stund og hvílast rétt eins og gert hefur verið öldum saman. Gott skjól er í nálægu fjárskjóli, Óttarsstaðahelli, fyrir flestum veðrum ef á þarf að halda.

Alfaraleidin-32

Þegar förinni er haldið áfram eftir slóðinni til vesturs er innan skamms komið að enn einni hliðargötunni sem sker Alfaraleiðina. Litlar vörður á sitthvora hönd sem vísa á Skógargötuna eða Rauðamelsstíg sem lá frá bænum Óttarsstöðum í norðri, milli Rauðamelanna sem nú eru horfnir. Þar sem þessi áberandi kennileiti voru áður er djúpur gígur í jörðina sem sker gamla Keflavíkurveginn í sundur. Hefur jarðvatn náð að mynda tjörn í botni námunnar sem nefnist Rauðamelstjörn. Skógargatan hét áður Óttarsstaðaselsstígur því hún liggur yfir Seljahraun og Mjósund um hlaðið á Óttarsstaðaseli og þaðan áfram suður að Hrúthólma yfir á Krýsuvíkurleið nærri Sveifluhálsi.
Alfaraleiðin er skýrt mörkuð í hraunið og stefnt er á krókóttar hrauntraðir, sem eru minni í sniðum en Draugadalir. Þegar komið er út úr þeim  blasa Löngubrekkur við á hægri hönd, grasi og kjarri vaxnar brekkur sem eru syðst í allmikilli hraunhæð, Smalaskálahæð. Brekkurnar eru áberandi í landslaginu og mynda hraunvegg. Efst í suðurhluta hæðarinnar Alfaraleidin-33er löng og mikil sprunga, Löngubrekkugjá einnig nefnd Hrafnagjá því þar verpur hrafninn jafnan á vorin. Þegar komið er vestur fyrir þessa hæð liggur hliðarleið til norðurs í áttina að Kristrúnarborg eða Óttarsstaðaborg sem blasir við við á hægri hönd. Þetta er falleg lítil fjárborg sem Kristrún Sveinsdóttir húsfreyja á Óttarsstöðum hlóð ásamt vinnumanni sínum um 1865-70. Vert er að staldra við og skoða Smalaskálahæð nánar. Ástæðan fyrir hinni miklu Löngubrekkugjá skýrist þegar gengið er fram á djúpt jarðfall vestast í hæðinn, sem nefnist Smalaskálaker. Á botni þess er gjallhaugur þar sem myndlistarmaðurinn Hreinn Friðfinnsson, félagi í SÚM hópnum, reisti lítið hús árið 1974, sem nú er horfið. Húsið kallaðist Slunkaríki og tengist Sóloni sem bjó á Ísafirði snemma á 20. öld. Hann var sérkennilegur fyrir margra hluta sakir, en einkum vegna þess að hann byggði hús á röngunni. Sólon lét bárujárnið snúa inn og veggfóðrið út eins Þorbergur Þórðarson lýsir í bók sinni Íslenskum aðli. 

Gvendarbrunnur-21

Ef Alfaraleiðinni er fylgt áfram þar sem vikið var af henni við Smalaskálahæð, þá er framundan stakur hraunhóll sem minnir á höfuðfat. Farið er framhjá þessum hól á nokkuð greinilegum slóða og má sjá vörðubrot á stöku stað. Leiðin verður brátt óglögg vegna gróðurs og þessvegna getur verið erfitt að fylgja henni, enda sjást ekki mörg kennileiti sem hægt er að styðjast við. Haldið er áfram þar til fer að halla til vestnorðvesturs og lækkar þá landið smám saman. Á vinstri hönd má sjá Taglhæð, nokkuð sérstakan hraunhól, síðan er tiltölulega slétt hraun sem nefnist Sprengilendi.

Alfaraleid-4

Framundan er hæðótt hraunlandslag með einstökum vörðum sem hverfa síðan alveg þegar nær dregur Reykjanesbrautinni. Virkishólar eru sunnan Alfaraleiðarinnar sem stefnir nú að Hvassahrauni. Gatan sést mjög vel áður en komið er að undirgöngunum. Skynsamlegt er að fara í gegnum göngin undir Reykjanesbraut og stefna eftir gamla Keflavíkurveginum að Hvassahraunsrétt. Ofan hennar sést gatan enn mjög vel. Þegar þangað er komið hættir þessi þjóðleið að kallast Alfararleið og heitir eftir það Almenningsleið. Þeirri leið verður ekki lýst nánar, en hún liggur nærri sjónum framhjá Kúagerði, nokkurn vegin með veginum út á Vatnsleysuströnd, um Voga og Vogastapa og Innri Njarðvik, Fitjar, Ytri Njarðvík til Keflavíkur og þaðan suður í Sandgerði.
Kaflinn frá Hamarskotslæk í Hafnarfirði að Stekknum ofan Þorbjarnarstaða er 6.2 km.
Gangan tók 2 klst og 2 mín. Frábært veður.

Heimildir m.a.:
-hraunavinir.net

Hvaleyri

Hvaleyri við Hafnarfjörð.

Rauðshellir

Árni Óla skrifaði í Lesbók Morgunblaðsins árið 1946 „Um hraun og hálsa“:

Árni Óla

Árni Óla.

„Fyrir sunnan og austan Hafnarfjörð oru nokkrir dolerításar með stefnu frá norðvestri til suðausturs og dalir á milli. Í grjótinu í ásum þessum er mikið af „olivirí“, gulum krystöllum, og heldu útlendingar lengi vel, að hjer væri um sjerstaka tegund af grjóti að ræða, og kendu hana við Hafnarfjörð og kölluðu „Havnefjordit“.
Vestasti ásinn nær frá Hvaleyri og hamrinum við Hafnarfjörð fram á móts við Undirhlíðar. Aðskilur hann Hafnarfjarðarhraun og Kapelluhraun. Um uppruna nafnsins Kappelluhraun er svo sagt: Yfir Kapelluhraun er vegur svo vel lagður, að hann má skeiðríða. (Var það áður en bílvegurinn kom). En enginn veit af hverjum eða hvenær hann hefir verið lagður. Nálægt í miðju þessu hrauni er upphlaðin grjóthrúga rjett við veginn, sem fólk kallar Kapellu og segir, að þar sjeu dysjaðir þeir menn frá Bessastöðum, sem drepnir voru í hefnd eftir Jón biskup Arason 1551. En ólíklegt er að það muni satt vera.
Skammt fyrir sunnan Hafnarfjörð er Ásfjall og er það hæsti hnúkurinn á þessum ásum. Fyrir sunnan það heitir hraunið Brunahraun eða Bruni. Þar er vegur til Kaldársels og var kallaður Stórhöfðavegur.

Selvogsgata

Selvogsgata undir Setbergshlíð.

Næsti ásinn er nefndur Setbergshlíð, og sá þriðji Vífilstaðahlíð, en Vífilstaðaháls er austur frá Vífilstöðum frá suðri til norðurs og þá Arnarnesháls. Frá Setbergi og fram undir Kaldársel gengur daldrag, sem gjarna mætti kalla Kaldárdal, því sennilega hefir Kaldá runnið um hann áður en hraunflóðið kom, sem fallið hefir um dalinn niður að Hafnarfirði og þaðan fram á Álftanes og er fyrst kallað Gráhelluhraun og suður að Kaldárseli meðfram vesturbrún hraunsins. Er hraunið víða úfið og brotið, hefir sporðreist og hlaðist upp á sumum stöðum, en sums staðar með djúpum skvompum og skorum.
Heiðin að sunnan heitir vestast Sljettahlíð. Er hún kjarri vaxin og graslendisræma milli hennar og hraunsins. Þarna hafa Hafnfirðingar reist sumarbústaðahverfi, og eru þar nú milli 20 og 30 snotrir sumarbústaðir í röð undir hlíðinni. Er þarna viðkunnanlegt og verður með tímanum mjög fagurt, því að hver maður er að rækta hlíðina upp frá sínum bústað og gróðursetja þar blóm og trje.

Selvogsgata

Selvogsgata vestan Setbergshlíðar.

Milli Setbergshlíðar og Vífilstaða hlíðar er annar dalur, og eftir honum hefir runnið önnur kvísl af Hafnarfjarðarhrauni og dreifir úr sjer á sljettunni fyrir vestan Vífilstaði. Liggja traðir úr Vífilstaðahlaði þar þvert yfir hraunið, og víða meðfram þeim eru bekkir fyrir sjúklinga hælisins. Er hraunið þarna gróið og kjarri vaxið og eru þar margir yndisfagrir staðir, sem sjúklingar munu áreiðanlega lengi minnast af hlýum huga, því að þessir staðir hafa sjálfsagt veitt þeim hugfró og unað í mótlæti þeirra.

Selvogsgata

Selvogsgata – örnefni.

Dalurinn þarna fram af er svipaður hinum, nema hvað hraunið er öllu stórbrotnara og þegar vestur úr dalnum kemur og það nálgast upptök sín verður það æ hrikalegra og þó fegurra, með mörgum gjám og kötlum. Er víða mikill gróður þarna innan um hinar furðulegustu klettaborgir. Fyrir mynni dalsins er lágt fell, sem Smalafell nefnist. Af því er góð útsýn yfir hraunið og lægðina þar fyrir sunnan, þar sem mikið landsig hefir orðið einhvern tíma.
Rjett fyrir vestan Smalafell liggur gamli vegurinn frá Hafnarfirði til Selvogs. Heitir hann Grindaskarðavegur. Göturnar eru nú horfnar og gleymdar, þótt þetta væri áður alfaraleið, en vegurinn segir þó til sín. Hafa verið sett ýmis merki við hann, svo sem smávörður, trjestaurar, eða járnhælar. sem reknir hafa verið niður með stuttu millibili. Og svo hefir á löngum köflum verið raðað steini við stein meðfram götunni. Kemur þessi langa steinaröð, hjer í óbygðum, ókunnugum einkennilega fyrir sjónir, því að hún líkist mest gangstjett. Liggur hún þvert suður yfir jarðfallið með stefnu á eldgíg nokkurn fyrir austan Valafell. Er þetta víst eina færa leiðin með hesta þarna þvert yfir, til þess að komast fram hjá tveimur hrikalegum gjám, sem eru sinn hvoru megin við jarðfallið.

Kaldá

Kaldá.

Þegar komið er upp undir hlíðarnar að sunnan beygir vegurinn vestur að Kaldárseli. Einu sinni var bygð í Kaldárseli. Bjó þar seinast einsetumaður og dó þar, svo að engin vissi fyr en nokkuð seinna að einhverja menn bar þar að garði. Eftir það fór kotið í eyði. En fyrir nokkrum árum reistu skátar þarna skála og höfðu þar bækistöð sína. Í fyrra var skálinn stækkaður um helming, og í sumar hafa Hafnfirðingar haft þar barnaheimili með 27 börnum. Er viðkunnanlegt þarna og hafa börnin unað sjer vel, enda frjálst um svo fjarri mannabygð og í návist fjallanáttúrunnar.

Helgafell

Helgafell – móbergsfjall.

Yfir Kaldárseli gnæfir Helgafell. Það er nokkuð hátt og illt uppgöngu nema að austan. Af því er ágætt útsýni yfir hraunin og gosstöðvarnar þar um kring.
Undir Helgafelli eru Kaldárbotnar í kvos nokkurri. Eru þar margar uppsprettur og mynda fyrst dálítið lón. Þangað sækir Hafnarfjarðarbær vatn sitt, og er sú vatnsleiðsla eldri en vatnsveita Reykjavíkur. Stíflugarður hefir verið hlaðinn fyrir lónið og frá honum liggur opinn timburstokkur norður yfir sljetta hraunið og Gullkistugjá, fyrir norðan Kaldársel. Hefir orðið að hlaða geisimikinn og háan steinvegg þvert yfir gjána undir stokkinn. Þar skamt frá er svo vatnið tekið í pípur og leitt til Hafnarfjarðar. En það er nú orðið viðsjárvert að hafa þennan langa opna stokk, og uppspretturnar ógirtar.

Vatnsveitan

Vatnsveitan yfir Lambagjá.

Stokkurinn er víða farinn að gefa sig og lekur drjúgum. Er einkennilegt að sjá það efst, að vatnið, sem niður lekur rennur í þveröfuga átt við rennslið í stokknum, og sameinast Kaldá. Rennur hún svo niður hjá Kaldárseli og þar í hálfhring, eins og hún sje að villast, en steypir sjer svo á kaf niður í hraunið og sjest ekki meir. Jörðin gleypir hana með öllu. Hefir mörgum þótt þetta furðulegt, og hefir þjóðtrúin spunnið út af því hinar furðulegustu sögur. Getur Eggert Ólafsson þess í ferðabók sinni, að menn haldi að Kaldá renni neðanjarðar alla leið vestur á Reykjanestá og þar til hafs, en af straumi hennar myndist Reykjanesröst. Getur hann þess einnig, að í samræmi við þessa tilgátu manna sje farvegur hennar þannig sýndur á hinu nýasta Íslandskorti, sem gert var á konungs kostnað.

Kaldárbotnar

Kaldárbotnar – stífla.

Brynjúlfur Jónsson á Minna-Núpi segir, að það sje almælt, að á fyrri öldum hafi á sú runnið úr Þingvallavatni, er Kaldá er nefnd, eitthvert hið mesta vatnsfall á Íslandi. Hún á að hafa runnið norðan við Hengil og ofan þar sem nú eru Fóelluvötn og svo suður með hlíðum og í sjó á Reykjanesi. Sje sagt að hún komi upp í Reykjanesröst og að Kaldá hjá Helgafelli sjé úr henni. Er það haft til sannindamerkis, að hinir svonefndu Vesturvellir ofan frá Hengli til Litlafells, Fóelluvötn og þaðan niður undir Hólm líkist gömlum árfarvegi. En svo þurfti að fá skýringu á því, hvernig á því stóð, að þetta mikla vatnsfall skyldi hverfa, og eru um það ýmsar sögur. Ein er sú, að karl nokkur, sem var kraftaskáld, misti í hana tvo sonu sína, og kvað hana því niður. Önnur sögn, og öllu vísindalegri er sú, að Kaldá hafi horfið eitt sinn er suðurfjöll brunnu, svo einn var eldur ofan úr Hengli og út í sjó á Reykjanesi og hafi þá jörðin gengið upp fyrir sunnan Elliðavatn.

Helgadalur

Helgadalur.

Skammt fyrir austan Kaldársel er Helgadalur, djúp hvos með dálítilli tjörn. Er þráðbeint hamrabelti að norðan en grösugar hlíðar á tvo vegu. Er þarna tilvalinn og skemtilegur áfangastaður fyrir þá, sem kanna vildu fjallaslóðir þar um kring. Þaðan má fara t.d. Grindaskarðaveg upp undir fjöllin og síðan austur á við milli hrauns og hlíða um svonefnda Kristjánsdali.
Þar er ekkert vatn, en mjög grösugt. Þar voru áður geymdir hestar lestamanna þeirra, er sóttu brennistein í Brennisteinsfjöll, og var þá bygður kofi þar. Er svo haldið austur með yfir hraunfossana, og niður með Vífilfelli á Suðurlandsbraut.

Brennisteinsfjöll

Kistufellsgígur.

Þá er og skemmtilegt að fara Grindaskarðaveg, yfir Heiðina há. Það er geisimikil elddyngja, lík í lögun og Skjaldbreiður, og um 700 metrar á hæð. Útsýn er þar víð og fögur í góðu veðri, sjer yfir alt Suðurlandsundirlendið að Eyjafjöllum, inn til jökla og vestur á Snæfellsnes. Vegurinn suður af liggur niður í Selvog, og er þar á brúninni fyrst komið að vörðu þeirri, er hinn alkunni galdramaður, síra Eiríkur í Vogsósum hlóð á sínum tíma.
Frá Kaldárseli er hæfileg gönguför upp í Brennisteinsfjöll. Er það aflangur fjallahryggur uppi á Lönguhlíð. Í austurhlíð þeirra eru óteljandi gígar og standa mjög þjett, og frá þeim hafa hraunfossar steypst niður hlíðina. Breiða hraunin síðan úr sjer yfir mikla sljettu, sem er þar á milli og Bláfjalla og Heiðarinnar há, en sljettu þessari hallar suður að brúnum fyrir ofan Stakkavík í Selvogi og Herdísarvík, og halda menn að hraunfossarnir sem steypst hafa þar fram af hengifluginu, sjeu komnir úr gígunum í Brennisteinsfjöllum. Mundi það hafa verið hrikaleg sjón, ef einhver hefði verið til að horfa á, er glóandi hraunið kastaðist í stórum fossum fram af bjargabrún.

Brennisteinsfjöll

Brennisteinsfjöll – náma.

Upp úr hrauninu í austurhlíð Brennisteinsfjalla, koma gufur sums staðar og litlir brennisteinsblettir eru utan í rönd þess. Á því hafa menn þóst vita að þarna væri brennisteinsnámur og hafa svo gefið fjöllunum nafn af því.
Sumarið 1851 ferðaðist Jón Hjaltalín landlæknir nokkuð hjer um land til að rannsaka brennisteinsnámur, þar á meðal námurnar í Krýsuvík. Frjetti hann þá um þessar námur uppi í Brennisteinsfjöllum, og fór að spyrjast fyrir um það hvar þau væri, en svörin voru mjög sitt á hvað, sagði einn þetta annar hitt. Var það ekki fyr en að áliðnu sumri, að hann fann mann úr Selvogi, sem kvaðst þekkja fjöll þessi. Bauðst hann til að fylgja Jóni þangað, og lögðu þeir á stað í það ferðalag skömmu fyrir veturnætur. Fann Jón þarna fjórar námur og leist mjög vel á 3 þeirra. Þær eru í Krýsuvíkurlandi.

Brennisteinsfjöll

Brennisteinsfjöll – námumannahús.

Sjö árum seinna (1858) keypti Englendingur nokkur, J.W. Busby að nafni þessar námur og Krýsuvíkurnámurnar fyrir milligöngu dr. Jóns Hjaltalíns. Eftir kaupbrjefinu máttu Englendingar taka allan brennistein í Herdísarvíkur og Krýsuvíkur landareignum svo og allar málmtegundir, er þar kynni að finnast, og ýmis önnur rjettindi voru þeim áskilin. Seljendur voru þeir síra Sig. B. Sivertsen á Útskálum og Sveinn Eiríksson í Krýsuvík og var söluverðið 1400 dalir.
Var nú stofnað námuhlutafjelag í Englandi og hafið brennisteinsnám. En fjelagið tapaði og gengu hlutabrjefin kaupum og sölum, og óvíst hvar þau eru nú niður komin.

Selvogsgata

Kerlingarskarð framundan.

En í Brennisteinsfjöllum má enn sjá verksummerki eftir brennisteinsnámið. Á dálítilli grasflöt við læk eru rústir húsanna, sem Englendingar reistu og skammt þar fyrir sunnan eru námurnar. Hefir ekki verið neinn hægðarleikur að vinna þær, því að þær eru undir hrauninu. Hafa Englendingar brotið þar stórar skvompur í hraunið, urðu að brjóta um tveggja mannhæða þykkt blágrýtishraunið til þess að komast að brennisteininum, því að hann hefir sest í glufur og hraunholur niður undir jörð. Hitinn í gufuholunum þarna er talinn vera 26—78 gráður. Hefir gufan soðið og etið hraunið í sundur allavega og umbreytt því, svo að þar hafa myndast krystallar og marglitir steinar, sem gaman er að eiga.
Leiðin frá Kaldárseli upp í Brennisteinsfjöll liggur um Kerlingarskarð, sem er rjett fyrir sunnan Grindaskarðaveginn. Eru þar á brúninni margir gígar og úr þeim hafa komið hraunin fyrir neðan Langahlíð. Einn af stærstu gígunum á þessum slóðum er Kistufell. Er af því víð og mikil útsýn. Gígurinn er mikill um sig og um 70 metra á dýpt. Vestan við Kistufell er viðsjált hraun. Eru þar sums staðar hringlaga gígop, þverhnýpt niður og svo djúp, að jökull er í botni þeirra.

Gullkistugjá

Gullkistugjá.

Óteljandi gjár og hellar eru í hraununum á öllu þessu svæði, er nú hefir verið lýst, alt frá sjó og upp á Heiðina há. Kann jeg ekki nöfn á þeim, enda yrði það of löng upptalning, eigi heldur allar gjár skírðar, nje allir hellar fundnir enn.
Þegar Árni prófastur Helgason var í Görðum á Álftanesi samdi hann sóknarlýsingu og segir í henni: „Gjár eru víða í þessum hraunum, sumar bæði langar og djúpar. Merkilegastar þekki jeg tvær, sem liggja samsíða frá austri til vesturs fyrir ofan Setbergshlíð, og er ei lengra á milli en svo sem 100 faðmar, að jeg ætla. Í vatn sjer niður í þeim og er langt niður að því; sums staðar eru þetta fremur sprungur en gjár og sums staðar vottar ekki fyrir þeim. — Svokallaðir Norðurhellar eru hjá Vífilstaðahlíð og Kjötshellir í Setbergshlíð. Rauðshellir er skamt fyrir norðan Helgafell. Í honum eru pallar sjálfgerðir er bæði má sitja á og smjúga undir, og ná þeir yfir þveran hellirinn. Margir hafa grafið nöfn sín í bergið í Rauðshelli, sem þangað hafa komið. Sum staðar er hvað skrifað ofan í annað.“

Valaból

Valaból – Músarhellir.

Eins hellis enn verður hjer að geta, ekki vegna þess að hann sje stór nje merkilegur frá náttúrunnar hendi, heldur vegna þess að Farfuglar hafa gert hann að bústað sínum. Hellir þessi er uppi í kletti nokkrum austan undir Valahnúk. Hann er rjett manngengur þar sem hann er hæstur. Þeir hafa sett fyrir hann hurð og komið fyrir tveimur gluggum, og síðan gert þar fjalagólf. Geta 8—10 menn sofið þarna á gólfinu í svefnpokum, og mun oft svo gestkvæmt þarna, bæði sumar og vetur. Umhverfis er afgirtur dálítill blettur, klettakvosir og brekka sem hefir verið ræktuð. Hafa þeir sáð þarna blómum og gróðursett trjáplöntur, og gert staðinn einkennilega fallegan og aðlaðandi. Verður þó betra seinna, því að alt er þetta svo að segja í byrjun. En alt, sem þarna hefir verið gert, lýsir smekkvísi og ást á náttúrunni, en hún er aðalsmerki allra farfugla.“

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, 28. tbl. 01.09.1946, Um hraun og hálsa – Árni Óla, bls. 349-353.

Valahnúkar

Valahnúkar – tröll.

Kapelluhraun

Sigmundur Einarsson og Haukur Jóhannesson skrifuðu grein í Jökul árið 1991 um „Kapelluhraun og gátuna um aldur Hellnahrauns„:

Sigmundur Einarsson

Sigmundur Einarsson.

„Fjórir aðskildir hraunflákar mynduðust í Krýsuvíkureldum. Syðst er Ögmundarhraun sem nær frá Djúpavatni í Móhálsadal suður í sjó. Næst norðan við það er lítið hraun sem mnnið hefur út á Lækjarvelli og er það langminnst þessara hrauna. Þriðja hraunið er við Mávahlíðar, norðaustur af Trölladyngju, og liggur til hliðar við megingossprunguna. Nyrst er svo Kapelluhraun sem runnið hefur frá Undirhlíðum til sjávar.
Hraunin eru dæmigerð fyrir apalhraunin sem koma upp í gliðnunarhrinum á Reykjanesskaga. Hraunin eru þunnfljótandi og gasrík og mynda oft þunnt frauðkennt helluhraun næst gígunum. Algeng þykkt slíkra hrauna er um einn metri á sléttu landi og eru hraunaðrarnir oft ekki nema um hálfur metri á hæð. Þegar hraunin hafa runnið nokkur hundruð metra frá gígunum hefur verulegur hluti gassins verið rokinn úr hraunkvikunni, þannig að hún verður seigari og hraunið þykknar og breytist smám saman í apalhraun sem verður þeim mun úfnara sem fjær dregur gígunum. Hæstu hraunjaðrar af þessari gerð á Reykjanesskaga eru 10-15 m.

Ögmundarhraun

Haukur Jóhannesson

Haukur Jóhannesson.

Hraunið sem rann frá syðsta hluta gossprungunnar fyllti allan Móhálsadal sunnan Djúpavatns og rann í sjó fram á um 5 km breiðu belti. Hraunið fyllti allstóra vík sem að líkindum hefur verið hin forna Krýsuvík. Þessi hraunfláki er stærstur af þeim fjórum sem mynduðust í Krýsuvíkureldum. Hann gæti hafa myndast í tveimur gosum (en þó í sömu goshrinu). Sá hluti hraunsins sem kominn er frá gígunum við Djúpavatn hefur runnið til austurs og síðan til suðurs austan Traðarfjalla. Við suðurbrún Traðarfjalla leggst yfir það yngra hraun sem runnið hefur frá þeim hluta gígaraðarinnar sem liggur í skarðinu milli Traðarfjalla og Núpshlíðarháls. Hraunið er allúfið austan Traðarfjalla, enda hefur það runnið þar í nokkrum halla.

Syðri hluti hraunsins fyllir allan Móhálsadal sunnan Traðarfjalla. Þar er hraunið víðast slétt hellhraun en í dalnum ofanverðum er það að verulegu leyti horfið undir framburð lækja, sem er afar mikill á þessum slóðum.

Krýsuvíkureldar

Krýsuvíkureldar – hraunakort.

Móbergið í hálsunum í grennd er mikið ummyndað vegna jarðhita og því auðrofið. Jafnhliða ummynduninni þéttist bergið þannig að úrkoma hripar ekki beint niður, eins og víðast á Reykjanesskaga, heldur myndar læki sem renna á yfirborði. Þeir hverfa reyndar fljótlega niður í jörðina er þeir koma út fyrir ummyndaða svæðið. Af þessum sökum er ógerningur að segja til um þykkt hraunsins í dalnum. Meginhraunið hefur komið upp í dalnum sunnanverðum. Þegar hraunið fellur suður úr dalnum breytist það að mestu í úfið apalhraun, enda búið að renna alllangan veg frá gígunum. Hraunið hefur síðan runnið allt til sjávar og fyllt hina fomu Krýsuvík. Ætla má að á flatlendi sé hraunið víðast um 5-10 m þykkt og miklu þykkara þar sem það náði út í sjó. Í Móhálsadal er það eflaust nokkru þynnra og vart meira en 3-4 m þykkt, en slík tala er þó ágiskun ein. Flatarmál hraunsins er um 18,6 km2 og ef gert er ráð fyrir 7 m meðalþykkt er rúmmálið um 0,13 km3.
Norður af Djúpavatni liggur ungleg gígaröð til norðausturs eftir Móhálsadal, í beinu framhaldi af gígum Krýsuvíkurelda.

Hellnahraun

Hellnahraun

Mannvirki í Eldra-Hellnahrauni.

Helluhraunið sunnan og vestan við Hvaleyrarholt í Hafnarfirði heitir Hellnahraun (Guðmundur Kjartansson hefur nefnt hraunið Hvaleyrarhraun þar sem hann minnist á það í sínum greinum og það nafn hefur hraunið fengið á kortum Landmælinga íslands. Flestir jarðfræðingar sem um það hafa fjallað hafa álitið hraunið mjög gamalt, án þess þó að færa fyrir því haldbær rök. Hraunið er dæmigert helluhraun, með ávölum sprungnum hraunkollum, að mestu gróðurlaust nema í gjótum og bollum og þess sjást engin merki að það hafi nokkum tíma verið gróið að marki. Allt var á huldu um aldur hraunsins þar til sumarið 1986, en þá tókst okkur að finna nothæft jarðvegssnið sem liggur inn undir hraunið, norðvestan við Stórhöfða. Þar kom í ljós að Landnámslagið liggur inn undir hraunið. Áður töldum við að Hellnahraun hefði runnið í sama gosi og Kapelluhraun og einnig að Hellnahraun og hraunið frá Óbrinnishólum væru eitt og sama hraunið (sbr. Kristján Sæmundsson og Sigmundur Einarsson 1980).

Selhóll

Selhóll í Eldra-Hellnahrauni, skammt vestan Hvaleyrarvatns.

Við nánari könnun á Óbrinnishólum sumarið 1989 kom í ljós að athuganir Jóns Jónssonar (1974) á þeim standa óhaggaðar. Þá var aðeins eftir að kanna mót Hellnahrauns og Óbrinnishólahrauns nánar, en á jarðfræðikorti Jóns Jónssonar (1978a) er Hellnahraunið talið eldra. Könnunin leiddi í ljós að vestur af Stórhöfða hefur Hellnahraunið augsýnilega runnið út yfir hraunið frá Óbrinnishólum og er því örugglega yngra. Að fenginni þessari niðurstöðu þótti ljóst að Hellnahraun hlaut að hafa komið upp nærri nyrsta hluta Undirhlíða. Þar er þó engum eldstöðvum til að dreifa nema Gvendarselsgígunum en hraunið frá þeim hefur greinilega runnið út yfir Hellnahraunið. Hægt er að ímynda sér að gígarnir hafi horfið undir Gvendarselshraun en sú skýring er ekki sennileg í ljósi þess hversu þunnt Gvendarselshraunið er. Einnig má hugsa sér að Hellnahraun hafi komið úr sjálfum Gvendarselsgígum í byrjun goss en sú skýring verður að teljast langsótt.

Hellnahraun

Eldra-Hellnahraun (svart), Yngra-Hellnahraun (grátt), Óbrinnihólabruni (ljósgrár) og Kapelluhraun (blátt). Fært inn á nútíma loftmynd.

Eftir allmiklar vangaveltur um uppruna Hellnahrauns fannst, eins og stundum vill verða, einföld og augljós skýring. Hraunið er einfaldlega ekki komið úr eldstöðvakerfi Trölladyngju, heldur eldstöðvakerfi Brennisteinsfjalla. Sunnan undir Helgafelli er allmikill helluhraunsfláki. Næst Helgafelli liggur ofan á honum tiltölulega mjór taumur af yngra helluhrauni sem hverfur inn undir Gvendarselshraun.
Jón Jónsson (1977) hefur fjallað um hraun þetta og telur það komið úr Tvíbollum í Grindaskörðum. Ekki verður annað séð en að Hellnahraun sé framhald Tvíbollahrauns til vesturs. Í Krýsuvíkureldum flæddi hraunið frá Gvendarselsgígum yfir hluta hrauntaumsins þannig að samhengið rofnaði og hefur það villt mönnum sýn. Hellnahraun er auk þess einsdæmi á Reykjanesskaga að því leyti að það hefur runnið þvert yfir eitt eldstöðvakerfi og langleiðina yfir í það næsta, þ.e.a.s. hraunið kemur upp í eldstöðvakerfi Brennisteinsfjalla, rennur þvert yfir eldstöðvakerfi Trölladyngju og þar sem það liggur næst sjó við Hvaleyrarholt er það í aðeins um 5 km fjarlægð frá austustu sprungunum sem þekktar eru í eldstöðvakerfi Reykjaness.

Hellnahraun

Yngra-Hellnahraun ofan Hafnarfjarðar.

Þegar Hellnahraunið var kannað nánar sumarið 1991 kom ýmislegt nýtt í ljós. Sem fyrr segir liggur Hellnahraunið út á hraunið frá Óbrinnishólum vestur af Stórhöfða. Við könnun á neðri hluta hraunsins reyndist aldursafstaðan þveröfug, þ.e. Óbrinnishólahraunið hefur runnið út yfir Hellnahraun. Þegar betur er að gáð reynist Hellnahraun samanstanda af tveimur hraunum sem hér á eftir verða nefnd Yngra- og Eldra-Hellnahraun. Hraunin eru ákaflega lík í ytri ásýnd og var nokkrum erfiðleikum bundið að greina þau að, en það tókst. Aldur Eldra Hellnahraunsins er ekki þekktur að öðru leyti en því að það er eldra en hraunið frá Óbrinnishólum og yngra en Búrfellshraunið. Eftir útliti að dæma er það þó vart eldra en 3000-1000 ára. Hraunið er líkt og Yngra-Hellnahraunið komið frá eldstöðvum í eldstöðvakerfi Brennisteinsfjalla og hefur runnið svipaða leið í átt til sjávar.

Aldur Yngra Hellnahraunsins

Hellnahraun

Hellnahraun – gömul þjóðleið.

Jón Jónsson (1977) fann Landnámslagið undir Tvíbollahrauni og einnig kolaðarjurtaleifar sem hann lét aldursgreina. Taldi Jón hraunið hafa runnið á fyrstu árum Íslandsbyggðar. Árið 1988 tókum við sýni af koluðum jurtaleifum á sama stað og Jón hafði tekið sín sýni, við suðvesturhorn Helgafells. Einnig var tekið sýni af koluðum jurtaleifum undan Yngra Hellnahrauninu, í rústum af gömlum gervigíg, Rauðhól, skammt frá mótum Reykjanesbrautar og Krýsuvíkurvegar.
Frá eldstöðvakerfi Brennisteinsfjalla hefur á sögulegum tíma runnið annar helluhraunstaumur, sem minnir mjög á Yngra-Hellnahraunið. Hraunið kom upp sunnan við Kistufell í Brennisteinsfjöllum, rann til norðvesturs eftir Lönguhlíðarfjöllum og síðan fram af þeim niður í Fagradal og Breiðdal við Undirhlíðar. Þetta hraun hefur Jón Jónsson (1978a) nefnt Breiðdalshraun. Aldursgreining, sem Jón lét gera, bendir sterklega til að það hafi runnið í sömu goshrinu og Yngra-Hellnahraun. Líklegast hafa öll þessi hraun runnið á sama tíma á 9. eða 10. öld.
Vegið meðaltal greininganna gefur tækjaaldurinn 1100+35 BP. Mestar líkur eru á að hraunin hafi runnið annaðhvort á árunum 894-923 eða, sem er mun líklegra samkvæmt útreikningunum, á árunum 938-983.“

Þeir félagar, Haukur og Sigmundur, skrifuðu einnig grein í Náttúrufræðinginn árið 1998; „Hraun í nágrenni Straumsvíkur„:

Óbrinnishólabruni

Óbrinnishólabruni

Óbrinnishólabruni.

Fyrir um 1800 árum varð gos í Krýsuvíkurrein og voru nyrstu gosstöðvarnar í Óbrinnishólum við Bláfjallaveg (Jón Jónsson 1974). Hraunið frá þeim, sem að hluta heitir Óbrinnishólabruni, rann í mjóum taumi langleiðina niður undir Straumsvík. Gígarnir í Óbrinnishólum eru nú aðeins svipur hjá sjón því þeir hafa verið grafnir út.

Hellnahraunið yngra

Hellnahraun

Eldra-Hellnahraun í sjó fram sunnan Hvaleyrar.

Fyrir um eitt þúsund árum hófst goshrina á Reykjanesskaga (Sigmundur Einarsson o.fl. 1991). Hrinan hófst með gosum í Brennisteinsfjallarein á tíundu öld. Þá runnu m.a. Svínahraunsbruni frá Eldborgum við Lambafell (Kristnitökuhraun), stórir hraunflákar í Húsfellsbruna komu frá Kóngsfellsgígum og Eldborg í Bláfjöllum og mikil hraun runnu frá gígaröðum í Brennisteinsfjöllum; runnu þau m.a til sjávar í Herdísarvík. Þá gaus í Tvíbollum í Grindarskörðum og rann einn hrauntaumurinn nánast sömu leið og Skúlatúnshraun í átt til Straumsvíkur. Hrauntaumurinn endaði skammt frá Sædýrasafninu sáluga og átti þá ófarna um 300 m til sjávar.

Kapelluhraun

Kapeluhraun

Kapelluhraun – jarðfræðikort.

Yngsta hraunið á svæðinu er oftast nefnt einu nafni Kapelluhraun, þó svo að það heiti eigi í raun aðeins við nyrsta hluta þess. Syðri hluti hraunsins hefur gengið undir heitinu Nýibruni. Kapelluhraun er hluti af hraunum sem runnu í Krýsuvíkurrein árið 1151 (Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson 1989). Þá opnaðist gossprunga sem er alls um 25 km löng en þó slitin í miðjunni. Sunnan á skaganum rann Ögmundarhraun í sjó fram og tók það af gamla Krýsuvíkurbæinn. Norðan á skaganum rann Kapelluhraun, aðallega frá gígum við Vatnsskarð sem nú heyra sögunni til vegna gjallvinnslu. Hraunið rann til sjávar í Straumsvík. í sama gosi rann hraun frá röð minni gíga sem liggur meðfram Undirhlíðum og norður um Gvendarselshæð. Rann það m.a. niður í Kaldárbotna.

Kapelluhraun

Kapelluhraun – hrauntröð.

Kapelluhraun er úfið apalhraun og hefur verið hinn versti farartálmi nýrunnið. Því hafa menn tekið það ráð að ryðja braut í gegnum það. Brautin hefur nú verið eyðilögð með öllu, að undanskildum um tuttugu metra kafla við svonefnda Kapellu sem er lítil rúst í hrauninu. Kristján Eldjárn rannsakaði kapellu þessa 1950 (Kristján Eldjárn 1956) og fannst þar m.a. lítið líkneski af heilagri Barböru sem er verndardýrlingur ferðamanna. Heilög Barbara var góð til áheita gegn eldsgangi hvers konar. Hún var einnig verndardýrlingur stórskotaliðsmanna, slökkviliðsmannna og námumanna og raunar einnig verkfræðinga og jarðfræðinga. Kapellutóftin er á fornminjaskrá.
Kapelluhraunið var ákaflega fallegt, úfið og mosagróið, en nú hefur karganum verið flett af yfirborði þess á stórum svæðum svo hörmung er á að líta. Álverið í
Straumsvík stendur á hrauninu.

Heimildir:
-Jökull, 1. tbl. 01.12.1991, Kapelluhraun og gátan um aldur Hellnahrauns – Sigmundur Einarsson og Haukur Jóhannesson, bls. 61-77.
-Náttúrufræðingurinn 3.-4. tbl. 01.05.1998, Hraun í nágrenni Straumsvíkur, Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson, bls. 171-177.

Kapelluhraun

Kapelluhraun – jarðfræðikort Ísor.

Hafnarfjörður

„Um aldamótin 1900 byggði framfærsla flestra sem bjuggu í námunda Hafnfijarðar á sjósókn og búskap. Allt framundir seinustu áratugi 18. aldar reru menn til fiskjar á opnum bátum, en Bjarni Sívertsen hafði gert út þilskip frá Hafnarfirði á velmektarárum sínum rétt eftir 1800 en hann lést 1833. Um 1860 bjuggu 343 menn við Hafnarfjörð og fór fjölgandi því 1884 var íbúatalan komin upp í 450 manns, þegar með voru taldir þeir sem bjuggu á bújörðum í Álftaneshreppi. Á kaupstaðarlóðunum við Hafnarfjörð bjuggu þá 200 manns sem störfuðu að mestu við verslun, enda voru reknar fimm verslanir í Hafnarfirði; fjórar innlendar og ein í eign útlends manns. Það var Knudtzons verslun.

Akurgerði

Sveitaverslun var mikil við Hafnarfjörð eins og hún hafði verið stunduð um langt árabil. Bændur og búalið austan úr Selvogi, Ölfusi og Flóanum áttu einkum viðskipti við hafnfirska kaupmenn að ógleymdum Álftnesingum. Aðal samgönguæð sveitafólksins var Selvogsgatan, sem liggur yfir Selvogsheiði við Heiðina há, um Grindaskörð, með Setbergshlíð, um Öldur og norður í fjarðarbotninn, þar sem verslanirnar fimm stóðu í röðum á malarkömpunum.

Fjárkláði geisaði á landinu um miðja 19. öld og var fé skorið niður haustið 1875 svo sauðlaust var í suðurhreppum Gullbringusýslu. Þegar aflaleysi bæt

tist við lá við miklu hallæri í Álftaneshreppi, sem annarsstaðar við Faxaflóa. Ástandið var mun betra í sveitum landsins; á Vestfjörðum, Norðurlandi og Suðurlandi. Landsstjórnin veitti lán til þeirra sem áttu allt sitt undir fisknum og 1877 var efnt til almennra samskota í öðrum héruðum og landsfjórðungum til hjálpar þeim sem bjargþrota voru.

HrísburðurÁgangur franskra fiskimanna hér á Faxaflóa þótti með öllu óþolandi þegar hallæri þetta gekk yfir eins og lesa má í Þjóðólfi 23. apríl 1877. Þar segir m.a.: „Óðar en fiskur leitar úr djúpi upp á grunnmiðin, safnast þeir með tugum skipa á sjálfa þá bletti, þar sem net vor liggja, draga netin í hnúta, hindra aflabrögðin, skemma netin eða glata þeim með öllu.”

Brennisteinn-221Í þessari ótíð kom skoski efnafræðingurinn W.G. Spence Paterson líkt og frelsandi engill, er hann hóf brennisteins-útflutning frá Hafnarfirði 1878. Bróðir hans Thomas George Paterson hafði tekið námurnar í Brennisteinsfjöllum og Krýsuvík á leigu til 50 ára og fengu margir Hafnfirðingar vinnu við námagröft og flutning brennisteinsins.  Greidd var 1 króna fyrir hestburðinn af brennisteini sem fluttur var frá Grindaskörðum að vöruhúsi bræðranna við Hamarskotsmöl. Þetta útflutningsævintýri tók skyndilegan enda 1885, þegar íslenskur brennisteinn varð að lúta í lægra haldi fyrir ó

dýrari brennisteini frá auðugum námum á Sikiley.

Á sama tíma varð fiskbrestur við Faxaflóa og allt vestur til Ísafjarðardjúps og jafnvel norðvestanlands. Hæsti hlutur yfir vetrarvertíðina gerði samtals 200 fiska, mestmegnis ýsu og smáseiði, segir í fréttum árið 1884. Betur fiskaðist sumsstaðar á Austfjörðum og tóku margir sig upp og fluttu þangað. Þótti þetta skjóta nokkuð skökku við þar sem norðlenskir, austfirskir og sunnlenskir vinnumenn og bændasynir höfðu sótt sjóróðra í vestöðvarnar við Faxaflóa um aldaskeið – en nú var öldin önnur.

vegagerd-221Í Hafnarfirði og öðrum þorpum við Faxaflóa bjuggu tómthúsmenn í þurrabúðum sínum og gátu ekki treyst á sjálfsþurftar-búskap eins og til sveita. Þeir lifðu á því sem sjórinn gaf. Atvinnan var stopul og ótrygg og leituðu margir austur eða norður í sveitirnar eftir atvinnu. Á sumrin var kaupavinnan trygg en á vetrum var haldið í verið. Um aldamótin 1900 var kaupamannskaup 12 krónur um vikuna eins og sagt var, sem greiða mátti í 2 fjórðungum smjörs, eða vættarkind, en svo kallaðist tveggja vetra sauður eða geld ær. Þegar fiskvinnu var að hafa gaf hún 12 og ½ eyri um tímann. Fátækt var landlæg í þorpinu Hafnarfirði, enda mátti segja að atvinnulaust hafi verið alla vetur, þó stundum væri hægt að snapa sér vinnu við kolauppskipun.

Það leit ekki vel út með atvinnu í Hafnarfirði í upphafi 20. aldar. Menn óttuðust frekari hallæri, fiskleysi og atvinnuskort. Á veturna stóðu menn undir göflum og höfðu lítið annað við að vera en að ræða málin eða slúðra, eins og það var kallað, á meðan konurnar sinntu heimilisstörfum og öðrum nauðsynjaverkum. Erlendum ferðamönnum sem lögðu til landsins þótti þetta sérkennilegt háttalag og til er teikning eins þeirra frá seinni hluta 18. aldar sem sýnir menn híma undir húsgafli. Á þessum tíma varð til Gaflara nafngiftin sem hefur verið haldið á lofti í Hafnarfirði.

Coot-221Það varð talsverður viðsnúningur þegar breskur maður Mr. Ward hóf að gera út botnvörpuskip til fiskveiða frá Hafnarfirði vorið 1899. Hann leigði land við strandlengjuna norðan Hafnarfjarðar til að verka aflann, en þar áttu fleiri breskir þegnar eftir að starfa að fiskverkun. Í fyrstu veiðiferð sinni, sem tók rúma tvo sólarhringa, fékk botnvörpuskip Wards ágætan afla sem samanstóð af þorski og ýsu og töldust vera 7000 fiskar samtals. Til samanburðar má rifja það upp að árið 1884 var hluturinn eftir vetrarvertíðina 200 fiskar á mann. Þetta var því margfaldur vertíðarhlutur eftir aðeins tvo sólarhringa.

Fyrsti íslenski togarinn Coot, kom til Hafnarfjarðar árið 1905. Með tilkomu mótorskipa og togskipa jókst þörfin á vandaðri hafskipabryggju í Hafnarfirði, sem smíðuð 1913 og var talin sú fyrsta á landinu, þó fyrir væri bryggja í Viðey. Þegar Hafnarfjörður fékk kaupstaðarréttindi 1. júní 1908 var atvinnulífið í örum vexti. Fyrst og fremst var byggt á fiskveiðum, fiskverkun, verslun og þjónustu við sjávarútveginn.  

Það má geta þess að Hafnfirðingar þurftu sáralítið að sækja til Reykjavíkur eða annarra byggðalaga á þessum tíma nema brýn nauðsyn bæri til. Hinsvegar áttu reykvísk ungmenni stundum leið til Hafnarfjarðar til að sækja skemmtanir í Gúttó og margir sóttu sér aukna menntun í Flensborgarskóla. Alþingi veitti gagnfræðaskólanum Flensborg fjárstyrk 1892 til að koma upp kennslumenntunarvísi, en Kennaraskólinn í Reykjavík tók við þessari kennslu haustið 1908.

thorgardsdysLeiðin milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur var löngum illfær. Fara þurfti eftir krókóttum og dimmum hraunvegi þegar komið var nær Hafnarfirði og torfærur voru ekki minni yfir Arnarnesmýri þó farið væri með sjónum. Lækir á leiðinni gátu verið erfiðir farartálmar þegar vöxtur hljóp í þá. Árið 1892 ritaði Jón Þórarinsson skólastjóri Flensborgarskóla blaðagrein og kvartaði yfir því að ekki væri komin brú á Fossvogslæk. Nokkrum árum áður hafði Kópavogslækur verið brúaður eftir að þrír unglingar drukknuðu í honum að vetrarlagi. Það kom einnig fyrir að menn urðu úti í vetrarveðrum á þessari leið því þar voru aðeins þrír bæir Kópavogur, Arnarnes og Hraunsholt. 

Þrátt fyrir einangrun Hafnarfjarðar vegna erfiðra samgangna var bærinn með nokkuð alþjóðlegu sniði. Samgöngur á sjó voru mun greiðari og danska var töluð daglega í verslunum og á sunnudögum var töluð danska eða norska á betri heimilum. Sagan segir að stundum hafi málið sem fólk í Hafnarfirði talaði verið hálfgerður blendingur. Kerling ein sem þóttist vera að tala dönsku varð mjög móðguð þegar henni var sagt að þetta væri ekki danska heldur hafnfirska.

Hafnarfjordur-221Nokkrir Hafnfirðingar kunnu hrafl í ensku og forframaðir menn sem starfað höfðu á hollenskum, þýskum, enskum og norskum kaupskipum gátu bjargað sér á fleiri málum. Erlendir útgerðarmenn gerðu út frá Hafnarfirði allt til ársins 1929 og því nauðsynlegt að kunna eitthvað fyrir sér í málum þeirra. Þegar bílaöldin gekk í garð var einangrun bæjarins endanlega rofin og hægt að skjótast yfir hálsa til Reykjavíkur þegar fólki sýndist. Þá styttist leiðin til Reykjavíkur, en þrátt fyrir miklar framfarir í vegamálum er leiðin frá Reykjavík til Hafnarfjarðar alltaf jafn löng og virðist ekkert styttast.

Þegar bærinn fékk kaupstaðarréttindi voru íbúarnir orðnir 1469 talsins og þá hófst fyrir alvöru uppbygging bæjarins í hrauninu. Útgerð stóð með miklum blóma eftir að Bæjarútgerð Hafnarfjarðar tók til starfa 1930. Fiskvinnsla og útgerð áttu mikinn þátt í vexti byggðarinnar allt þar til Bæjarútgerðin var lögð niður og skipin seld. Nokkur útgerðarfyrirtæki voru starfrækt um tíma eftir það en það fjaraði undan þeim.“

Heimild:
-Jónatan Garðarson.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður fyrrum.

Straumssel

„Víða í hraununum sunnan, austan og vestan Hafnarfjarðar eru tóftir sem minna á horfna búskaparhætti. Hlaðnar réttir, fyrirhleðslur við skúta, kvíar, fjárhellar og vörður eru hluti af þeim minjum sem mest er af í Almenningi, en svo nefnist hraunið ofan Straumsvíkur. Þar eru líka tóftir frá þeirri tíð þegar haft var í seli á nær hverjum einasta bæ og koti á landinu. Eitt þessara selja var Straumssel og þar eru myndarleg tóftarbrot sem gaman er að skoða.

Selin framlenging á heimajörðunum
StraumsselSelin höfðu stóru hlutverki að gegna í Hraunum sem annarsstaðar. Þau liggja nánast í beinni línu frá býlunum á miðjum Reykjanesskaga um 3-4 km sunnan við bæina í svonefndum Almenningi, suður af Flám og Seljahrauni. Meðal þeirra voru Lónakotssel, Óttarsstaðasel, Straumssel, Gjásel og Fornasel. Að þessum selum lágu slóðir sem hétu ýmsum nöfnum s.s. Straumselsstígur, Hraungata og Skógarstígur. Um sauðburðinn var lambfé fyrst í stað haldið í heimatúninu, en lömbum í stekk svo þau gætu ekki sogið mæður sínar.  Síðan var féð rekið inn í stekkinn á kvöldin, lömbunum komið fyrir í lambakofa í stekknum og féð mjólkað að morgni. Gekk þetta svona til framyfir Jónsmessu, en þá voru ærnar rúnar áður en þær voru reknar í selið. Lömbum var haldið heima nokkru lengur, þar til þau voru rekin á afréttinn. Selráðskona eða matselja flutti sig um set í selið og hafði hún það hlutverk að mjólka féð og vinna matvöru úr mjólkinni. Úr ærmjólkinn var framleitt smjör, ostur og skyr. Selráðskonan hafði með sér eina eða tvær unglingsstúlkur og smala, sem sat yfir ánum, daga og nætur. Hann hafði oft það hlutverk að strokka smjör á meðan hann sat yfir ánum og stundum var strokkurinn bundinn við bak hans og hann látinn eltast við féð á meðan smjörið strokkaðist.
StraumsselBóndinn kom síðan á þriggja daga fresti til að sækja smjör, skyr og annað sem framleitt var í selinu og færði heim á bæinn. Við selin eru stekkir eða kvíar og jafnvel náttból þar sem fénu var haldið yfir nóttina og gat þá smalinn sofið rólegur í selinu, eða fjárskúta sínum. Í Hraunum eru húsakynni selanna eins; þrjú áföst hús, mjólkurhús, baðstofa og eldhús. Stundum var fénu haldið langt fram á haust í seli og jafnvel allan veturinn þegar snjólétt var, en annars var það flutt heim eftir réttir og beitt á fjörur.

Búseta í Straumsseli
SelsstígurinnAlmennt var hætt að hafa í seli um miðja 19. öldina víðast hvar á landinu
og lagðist sá siður því af. Þó hélt einn og einn bóndi því áfram og eru heimildir fyrir því að Hvaleyrarbóndi hafi haft í seli við Hvaleyrarvatn lengst allra sem bjuggu í nágrenni Hafnarfjarðar. Oft voru selin ágætlega húsuð og því kjörið að nýta húsakostinn eftir að selstöður lögðust almennt af. Þegar Guðmundur Guðmundsson keypti Straumsjörðina af Páli Árnasyni sem hafði keypt hana 1839 af konungssjóði leigði hann heimajörðina en stofnaði sjálfur nýtt lögbýli. Guðmundur var gerður að skógarverði í Almenningi og settist að í Straumsseli og húsaði selið vel um 1847. Hjá honum var faðir hans Guðmundur Bjarnason, oft nefndur Krýsuvíkur-Gvendur. Hann andaðist aldraður maður í Lambhaga vorið 1848, en Guðmundur skógarvörður andaðist fimm árum síðar í selinu, nánar tiltekið 1853. Þegar hann gerði Straumssel að bústað sínum klagaði leiguliði hans í Straumi búsetuna til sýslumanns. Leiguliðinn var Bjarni Einarsson útvegsbóndi sem hafði búið þar allt frá því jörðin var í konungseigu. Honum þótti það vera skerðing á fornum rétti landseta að skipta jörðinni upp með þessum hætti. Guðmundur lofaði að fjölga ekki býlum í Straumslandi meðan Bjarni byggi þar. Bjarni gekk að sáttinni að því tilskyldu að bygging hins gamla Straumssels væri sér með öllu óviðkomandi, skyldu yfirvöld kæra búsetuna. Föst búseta var í Straumsseli í ein 40 ár með hléum, enda vatnsstæði lélegt og erfið búsetuskilyrði. Meðal ábúenda í selinu voru hjónin Kolfinna Jónsdóttir og Siguður Halldórsson sem bjuggu þar á tímabilinu 1853-1863.

Fjárskjól

Eftir það fluttu þau í Hafnarfjörð og bjuggu í Kolfinnubæ sem stóð þar sem nú er Strandgata nr. 41. Farnaðist þeim vel í selinu þó kjörin væru kröpp. Bjarni sonur þeirra fæddist í Straumsseli 1857. Talið er að síðast hafi verið búið í Straumsseli 1890-1895. Bærinn Guðmundur lét reisa í Straumsseli stóðu fram undir aldamótin 1900 eða aðeins lengur en þá mun hann hafa brunnið. Selið fór eftir það í eyði en bæjartóftirnar eru all myndarlegar og vel greinilegar ásamt hlöðnum görðum umhverfis Seltúnið.

Fjárskilaréttir
GjáarréttÁ haustin voru leitir því geldfé sem gengið hafði á fjörubeit um veturinn var sleppt á vorin í úthaga, bæði sauðum og gemlingum. Einnig voru lömb látin ganga sjálfala í afrétti allt sumarið og þeim þurfti að koma heim á haustin til slátrunar. Var Gjárétt (líka nefnd Gjáarétt) í Búrfellsgjá fjallskilarétt Álftnesinga lengi vel. Áttu allir fjáreigendur hreppsins hvort heldur voru búendur eða þurrabúðarmenn að gera fjallskil til Gjáréttar. Hraunamenn, Hafnfirðingar sunnan lækjar og Ásbóndinn fóru í svokallaða suðurleit, og höfðu náttstað í hellum við Kleifarvatn í Lambhaga.  Garðhverfingar, uppbæjarmenn, Hafnfirðingar norðan lækjar og Álftnesingar fóru í norðurleit og höfðu náttstað í Músarhelli við Valaból. Síðustu árin meðan byggð hélst í Hraunum var Guðjón Gíslason bóndi á Stóra-Lambhaga í Hraunum fjallkóngur suðurleitamanna. Þegar rétta þurfti í Hraunum var Þorbjarnarstaðarétt haustrétt fyrir Innhraunin eða Austur-Hraunbæina Litla- og Stóra Lambhaga, Gerði, Þorbjarnarstaði og Péturskot.   Rauðamelssrétt var vorrétt Hraunamanna og kallast þessu nafni þó hún hafi legið nokkuð frá melnum, en hún var skammt frá Réttargjá og voru réttir þessar aðallega notaðar til rúninga áður sem fóru oftast fram um fardagaleytið.

Hlunnindi og kvaðir
Ekki voru Hraunajarðirnar miklar hlunnindajarðir. Þó hefur kjarrskógur í Almenningi, eða Hraunaskógur, Almenningurlengi talist til mestu hlunninda þessara jarða. Þar var hægt að gera kol til eldunar og stundum mátti fá þar stórvið. Kvaðir voru á jörðunum að færa nokkra hríshesta heim til Bessastaða ár hvert og jafnvel stórvið. Þessar kvaðir hafa íþyngt ábúendum jarðanna því árið 1703 kvartar Sigurður Oddleifsson ábúandi í Lónakoti við Árna Magnússon og Pál Vídalín ,,um að skógurinn í almenningum væri svo foreyddur að hann ei til treystist þar að safna kolviði til landskuldargjaldsins” til Bessastaða. Þegar birkihrís og einir eyddist voru bændur látnir rífa lyng og koma til Bessastaða. Var sortulyngið aðallega rifið því ekki mátti skerða krækiberjalyng eða bláberjalyng og enn síður beitilyngið þar eð sauðféð nærðist á því. Bændur áttu einnig að greiða afgjald til Bessastaða í dagsláttu, smjöri, fiskum, vaðmáli og mannsláni um vertíð og þurftu að fæða verkamennina að auki. Torfrista var engin, engjar voru ekki fyrir hendi og rekavon var lítil sem engin. Helstu hlunnindi voru fjörugrastekja, sölvafjara, hrognkelsatekja í lónum, selbitinn fiskur, skelfisksfjara til beitu og berjalestur.“

Heimild:
-Jónatan Garðarsson.

Fornasels-, Gjáselsstígur.

Fornasels-, Gjáselsstígur.

Íslendingar

Magnús Már Lárusson fjallar um Hafnarfjörð í jólablaði Alþýðublaðs Hafnarfjarðar 1960 undir fyrirsögninni „Enn úr firðinum„:

Magnús Már Lárusson

Magnús Már Lárusson.

Árið 1957 skrifaði prófessor Magnús Már Lárusson grein í þetta blað, er hann nefndi „Sitthvað um Fjörðinn“. Í þessari grein komu fram athyglisverðar upplýsingar um sögu Hafnarfjarðar. Vakti greinin verðskuldaða athygli. Nú hefur þessi glöggi vísindamaður enn á ný skrifað grein fyrir þetta blað. Er hún ekki ómerkari en sú fyrri og varpar nýju ljósi á sögu Hafnarfjarðar og nágrennis. Rannsóknir og athugasemdir Magnúsar kollvarpa ýmsum fyrri hugmyndum manna og leiðréttir hann misskilning sem jafnvel fræðimenn hafa byggt á til þessa. Þá víkur prófessorinn enn að leit sinni og annarra að landnámsjörðinni Skúlastöðum, fullyrðir ekki en leggur á borðið nýjar athuganir og skýringar, sem vekja menn til umhugsunar um þetta merkilega rannsóknarefni.
Elzta saga byggðar á Reykjanesskaga er harla óljós og gloppótt. Heimildir eru fáar og stangast iðulega á. Náttúruhamfarir, eldgos og landbrot hafa geisað án þess að setja teljandi spor í heimildir. Og örnefni hafa týnzt eða breytzt.
Hér skal ekki drepið á nema örfáa þætti, sem ef til vill gætu verið til fróðleiks. Hins vegar er varla mögulegt að gera þeim full skil á þessum vettvangi. Áður hefur hér verið bent á þann möguleika, að upphaflegt heiti Ófriðarstaða, sent ranglega nefnast nú Jófríðarstaðir, hafi e.t.v. verið Unnólfsstaðir. Jörð með því nafni kemur fyrir í skrá frá Viðeyjarklaustri 1395, DI iii 597. Leiga er talin þar 3 merkur, og er það landskuld. Fyrir 1400 er almennast, að landskuld er full lögleiga eða 10% aí andvirði þess, sem leigt er. Dýrleiki Unnólfsstaða þessara er þá 12 hundruð, sem er býsna nærri dýrleika Ófriðarstaða síðar á öldum. Í sömu skrá er og Hvaleyri talin klausturjörð og er landskuld af henni talin 4 hundruð. Þá er dýrleikinn með sama reikningi og að ofan 40 hundruð.

Jófríðarstaðir

Jófríðarstaðir fyrrum – tilgáta.

Í síðari tíma heimildum er hún talin 20 hundruð. Gætu menn þá spurt, hvernig á þessum mismun standi. Hér kemur a. m. k. tvennt til greina. Annars vegar er sú einfalda staðreynd, að ein afleiðing af mannfalli Svarta dauða var sú, að jarðir fengust ekki byggðar nema með lækkaðri landskuld og er þá höluðreglan, að hún er felld til helmings eða ofan í 5%. Er það þegar staðreynd um miðja 15. öld á Norðurlandi og helzt svo þar og á Suðurlandi fram eltir öldum, þótt landskuld í Vestfjörðum og á Austurlandi víðast hvar væri 81/3%.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður á 18. öld. Hvaleyri fjær.

Klaustur- og kirkjujarðir tíunduðust yfirleitt ekki. Týndist þá hið forna hundraðsmat víða niður. En þegar farið var að gera jarðabækur fullkomnar á s.l. 17. aldar, var dýrleikinn reiknaður upp úr landskuldinni með því að tuttugfalda hana. Jarðabók Kleins fylgir sérstök tafla, sem notuð hefur verið til þess að setja dýrleikatölu á jarðir þær, sem eigi höfðu tíundazt. Á 17. öld var landskuld af Hvaleyri 1 hundrað frítt, sem samkvæmt þessum reikningi gerir 20 hundruð. Af þessu ætti þá að vera ljóst, að dýrleikinn hefur ekki valdið breytingunni, heldur er það landskuldin, sem hefur lækkað vegna fólksfæðar m. a. — Hins vegar ber að nefna eitt mjög mikilvægt atriði. Samkvæmt vitnisburði Steinmóðs ábóta í Viðey, sennilegast frá því um 1475, er kirkjan á Hvaleyri talin eiga töluverðan hluta at Hvaleyrarlandi, sjá DI iv 751. Er sá hluti það mikill, að vel hefði mátt nema hálfum dýrleikanum. En þar sem kirkjan missti í raun stöðu sína sem hálfkirkja eftir siðbót, má vera að kirkjuhlutinn í jörðinni hali gleymzt. Þess eru dæmi til. Nefna má t.d. Saxhól yzt á Snæfellsnesi.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður 1880-1890. Hér má sjá Hvaleyrarlónið, Grandann og nágrenni.

Þegar þessir tveir möguleikar eru grandskoðaðir, verður nýtt uppi á teningnum. Fyrri upphæðin er reiknuð sem 10% af 40 hundruðum, hin sem 5% af 20 hundruðum. Seinni landskuldin er helmingur þess, sem full lögleiga mundi nema, j.e. 2 hundruð. En 1395 er landskuldin helmingi meiri eða 4 hundruð. Dýrleikinn sem afgjaldsmælir er þá helmingi meiri. Þá verður spurningin sú, hvort kirkjan hafi verið reist eftir 1395 og til hennar verið lögð 20 hundruð. Það kann að vera svo, en virðist fremur ósennilegt. Kirkjan hefði þá varla fengið svo mikið af landi. Það virðist fremur vera svo, að hún hljóti að vera eldri. Dýrleikamunurinn hlýtur að stafa frá öðru, sem varla getur annað verið en rýrnun í gæðum. Og má þar fyrst benda á, að síðan á landnámsöld hefur stöðugt landbrot átt sér stað, sem einkum ætti að ganga nærri jörð eins og Hvaleyri, þar sem túnstæðið er á nesi fram í sjó. Vitað er með vissu, að verzlunarstaðinn varð að flytja um miðja 17. öld norður yfir fjörðinn í Akurgerði vegna landbrots. Það ætti að sýna hugsanlegan möguleika þess, að Hvaleyri sjált hefði þá orðið fyrir hnjaski.

Hvaleyri

Hvaleyri – túnakort 1908.

Séu fógetareikningar frá miðri 16. öld athugaðir, þá sést, að þá þegar er rýrnun þessi komin fram. Þar segir 1547—48, að með Hvaleyri standi 2 leigukýr, 6 ær og 4 kirkjukúgildi, en landskuld er kúgildi, frítt hundrað, og tunna mjöls og leigur (af 3 kúgildum) eru 6 1 jcirðungar smjörs. 1552 er greidd tunna bjórs í stað mjöls, sjá DI xii 114, 140, 154, 174 og 400. Samkvæmt kaupsetningu 1546 er mjöltunna sama virði og bjórtunna, þ. e. 30 fiska, DI xi 518-19, sbr. ix 583—4. Samkvæmt kaupabálki 6 í Jónsbók verður að telja fiskinn hér 2 álnir innanlands til útlausnar, því 3 vættir mjölvægs matar er hundrað, en í tunnu er þá 240 merkur eða 11/2 vætt og er því verðið 60 álnir. 1509 er bjór- eða mjöltunna talin 40 álnir til landskuldar í kauptíð. DI viii 268. Landskuldin er þá að álnatali 180, en sé hún reiknuð 1 /20, þá er Hvaleyri að hundraðstali 30 hundruð um þær mundir. Það er þá auðséð, að hnignunin er að eiga sér stað. Þess má geta hér, að Þorbjarnarstaðir í Hraunum eru í eyði 1395.

Hvaleyri

Hvaleyri fyrrum. Bærinn á seinni hluta 18. aldar. Varða til minningar um Flóka Valgarðsson, þess er elst er getið, í forgrunni.

Máldagi Hvaleyrarkirkju áðurnefndur nefnir Nýjahraun, en í landamerkjaskrá frá 7. júní 1890 segir skilmerkilega, að Nýjahraun nefnist Kapelluhraun neðst. Gæti verið fróðlegt að rifja upp það, sem vitað verður úr heimildum um Nýjahraun þetta. Í Flateyjarannál segir við árið 1343, að skipið Katrínarsúðina braut við Nýjahraun. Skálholtsannáll segir við sama ár, að Katrínarsúðina, er lét úr höfn í Hvalfirði, braut fyrir utan Hafnarfjörð og drukknuðu 23 menn, en Gottskálksannáll segir, að Katrínarsúðina braut fyrir Hvaleyri 1343 og drukknuðu þar 4 menn og 20. Sennilega var þetta skip Snorra nokkurs, sbr. annálsbrot og lögmannsannál, þótt Flateyjarannáll tilgreini skipstapa hans 1342. Hér er þá skip, sem ferst við Nýjahraun eða fyrir utan Hafnarfjörð eða fyrir Hvaleyri. Staðsetningin er þá allsæmileg. Skipstapinn hefur orðið út af enda Kapelluhrauns. Hins vegar má gjarnan minnast þess, að í gömlum heimildum, t. d. sóknalýsingu síra Árna í Görðum 1842, er Hafnarfjörður talinn ná milli Melshöfða að norðan og Hraunsness að sunnan. Sé það haft í huga verða heimildirnar enn skiljanlegri.

Jarðfræðikort

Jarðfræðikort af Reykjanesskaga.

Enn getur Nýjahrauns í Kjalnesinga sögu, kap. 2 og 17, og er þar talið suðurtakmark Bryndælagoðorðs, en Botnsá í Hvalfirði norðurtakmarkið. Saga þessi er frá 14. öld, en erfitt er að segja með vissu, hvort frekar eigi að setja hana til upphafs aldarinnar eða miðju hennar. Sem söguleg heimild er hún slæm. Nú verður spurningin þessi, hversu nýtt Nýjahraun er á 14. öld og ennfremur hver eru takmörk þess. Heitið sjálft ber með sér, að það hljóti að hafa runnið eftir að landið byggðist. Heiti eins og Óbrynnishólar bendir til hins sama. Um tímann er erfiðara að fullyrða. Allar líkur benda þó fremur til tíma fyrir 14. öld, og er vitað, að eldgos hafi verið mikil á Reykjanesskaganum um miðja 12. öld. Sennilegast er Nýjahraun frá þeim tíma rétt eins og Ögmundarhraun í Krýsuvík. Bezt er að skoða víðáttu þess á Jarðfræðikorti Guðmundar Kjartanssonar, blað 3. Þar sést, hvernig hraunið hefur ollið upp úr gossprungum meðfram Undirhlíðum og er það breiðast þar. Mjókkar það svo og fellur til hafs og er suðurkantur þess í Straumi. Breidd þess þar er rúml. 1/2 km. Ástæða nokkur er fyrir því að virða fyrir sér hraun þetta. Það kann að hafa runnið yfir byggt land að einhverju leyti og þá sennilegast niðri hjá Straumi. Þar kann að hafa verið eitthvert dalverpi lítilfjörlegt, og áreiðanlega hefur þar verið vatn til drykkjar rétt eins og nú.

Árni Helgason

Árni Helgason.

Í sóknarlýsingu sinni segir síra Árni í Görðum um eyðijarðir, að hann viti ekki um neina, „nema það skyldu vera Skúlastaðir, sem mælt er hafi verið jörð áður fyrr meir, og hvar af skuli finnast minjar upp í hrauni, suður frá Hvaleyri.“ Það er sorglegt að hann skuli ekki tilgreina staðsetninguna skilmerkilegar. En leyfilegt væri að láta sér detta í hug Kapelluhraun, því „suður“ er hér um slóðir oftast notað í merkingunni „útsuður“. Ennfremur má benda á Almenningana sunnan við Kapelluhraun. Af heimildum sést að margir bæir eiga þar beit, skóg o. 11., sem á verður drepið síðar. Þetta hefur upphaflega verið mjög sæmilegt land og er enn ekki verulega farið að blása. Þessir Almenningar koma samt skringilega fyrir sjónir. Það er eins og eftirstöðvar af jörð séu þar eftir, sem orðið hafa almenningseign, en ekki að þeir séu óskipt sameignarland.
Nú kynni einhver að benda á svonefnt Skúlatún, sem Brynjúlfur Jónsson túlkaði sem Skúlastaðatún í Árbók fornleifafélagsins 1903. Menn kynnu að halda, að síra Árni ætti við það. En það er varla svo, því er hann ræðir um selstöður, segist hann ekki vita nema það, að Garðar eigi selstöðu í því svokallaða Kirkjulandi, sem liggur fyrir ofan byggðina, frá Elliðavatns- og Vatnsendalandi, suður að Krýsuvíkurlandi og upp undir fjöllin, og hafði verið haft í seli þar til 1832, en aðrir í sókninni höfðu ekki notað selstöðu um hálfa öld fyrir 1842. Svæði þetta er stórt mjög, en Jarðabók Árna Magnússonar segir, að staðurinn í Görðum eigi selstöður, þar sem heitir við Kaldá, og eru þar bæði hagar og vatnsból gott. Í öllum máldögum Garða er svæði þetta nefnt: Afrétt í Múlaún, t. d. DI iv 108, vi 123, xv 638, og var síra Árna þetta kunnugt, enda er pláss þetta í Garðalandi.

Brynjúlfur Jónsson

Brynjúlfur Jónsson.

Örnefni í kringum Hafnarfjörð og í honum sjálfum hafa orðið fyrir töluverðu hnjaski innfluttra manna. Ófriðarstaðir verða Jófríðarstaðir, Steinhes verður Steinhús, Klelrakkagil verður Markrakagil, öfugt, svo örfá dæmi séu tekin. Skúlatún er vafalaust afbökun úr Múlatúni. Leitin að Skúlastöðum hefur sennilega verið áköf, meðan lærðir menn bjuggu á Álftanesi og skólinn var starfræktur á Bessastöðum. Þeir hafa vitað, að Skúlastaðir eru eingöngu nefndir í Landnámu. Þeir kunna að hafa stuðlað að nýrri nafngift. Eltirtektarvert er, að Árni Magnússon nefnir m.a. eftir sögn gamals manns, að bær hafi staðið í Lönguhlíð. Virðist bæjarheitið nefnt, því maðurinn ruglar svo sögnunni saman við skriðuhlaupið á Lönguhlíð í Hörgárdal 1389. Sbr. Ssí 2: I, 2 bls. 60.
Sé lýsing Brynjólfs frá Minna-Núpi í Árbók fornleifafélagsins 1908 athuguð, þá er hún ekki sannberandi um, að þar hafi býli verið. Enda eigi heldur lýsing Þorvalds Thoroddsen í Ferðabók I. Tilgátan, sem hér hefur verið drepið á, er eigi heldur svo sennileg – Kapelluhraun og þá Nýjahraun liggur á eldra hrauni. Eftir aðalínum að dæma hefur þó legið kvos í landsuður frá henni og myndað dalverpi rúmlega 1 km á breidd, en 3 km inn frá sjó. Pláss hefði verið þar, hefði jarðvegur verið nægur á hinu eldra hrauni. Landnámsjarðarinnar er eðlilegast að leita við sjóinn, því fiskiföng hafa laðað frumbýlinginn.

Ólafur Lárusson

Ólafur Lárusson.

Prófessor Ólafur Lárusson hefur bent á ákvæði í elzta máldaga Bessastaða, sem gæti bent til, að annað hvort Sveinbjörn Ásmundsson á 12. öld eða afi hans Sveinbjörn Ólafsson á 11. öld hafi átt Bessastaði, en þeir voru í beinan karllegg af Ásbirni Özurarsyni landnámsmanni á Skúlastöðum, en landnám hans náði frá Hraunsholtslæk suður að Hvassahrauni, þ. e. Afstapahrauni.
Sjálfur hef ég á þessum vettvangi bent á Garða. Nú má í því sambandi benda á annað. Sonur Sveinbjarnar Ásmundssonar var Styrkár, en hans getur í sambandi við Viðeyjarklaustur, sem hann gaf rekapart.
Er þess getið í máldaga, er varðveitzt hefur í afskrift frá því um 1598, er Oddur biskup Einarsson lét gera og er prentað eftir henni í DI i 507. En eins og textinn er þar lesinn og prentaður, er hann mjög villandi. Þó virðist hann eiga við Krýsuvík að nokkru. Það er í máldögum reyndar að finna orðalagið til marks við Beðstæðinga (eða Bessstæðinga), DI ii 361, sem hefur verið skilið sem Bessastaðamenn. Gæti það þá enn stuðlað að því að binda Bessastaði við ættmenn Ásbjarnar á Skúlastöðum. Og hafa menn þá í því sambandi blínt á ofarnefndan máldaga og tengt Styrkár við Bessastaði og gjört ráð fyrir, að reki Styrkárs væri sanmi og fjórðungsreki Viðeyjar í Krýsuvík.

Bessastaðir

Bessastaðir 1789.

Nú vill svo til, að textinn er ranglesinn, en aðeins eitt orð. Í máldaganum stendur og til hægðarauka fyrir lesendur fært til nútímastafsetningar: „Styrkár Sveinbjarnarson galt staðnum hvalreka meðal Hraunnesstjarna og Kolbeinsskora, hina fjórðu hverju vætt, og hval, hvort sem er meiri eða minni. En sá maður, er býr í Krýsuvík skal skyldur að festa hvalinn, svo að ei taki sær út og gera orð til Viðeyjar fyrir þriðju sól.“
Í fornbréfasafninu stendur í hval. í máldagabókinni stendur fyrir og löng z. í landamerkjaskrá Steingríms biskups Jónssonar og með hans hendi í Lbs. 112 4to bls. 166 er lesið og eins og ég geri. Að sá lestur er réttur er tiltölulega auðvelt að sýna fram á í skjölum tveim frá 1497, sem varðveitzt hafa í Bessastaðabók, skrifaðri um 1570, er að finna vitnisburði um reka Viðeyjarklausturs.

Stapinn

Stapinn – flugmynd.

Segir þar skýrt, að vitnin hafi heyrt lesinn máldaga þess efnis, að kirkja og klaustur í Viðey ætti hina fjórðu hverju vætt í öllum hvalreka utan frá Kolbeinsskor og inn að Hraunnesstjörnum eður vötnum, hvar sem á land kæmi á þessu takmarki, er liggur fyrir Strönd í Kálfatjarnarkirkjusókn. Eitt vitnið hafði verið 29 vetur í Hraunum og annað alizt þar upp; þriðja vitnið hafði verið 46 vetur í klaustursins vernd, en 15 vetur heimilisfastur í Viðey, en búið annars á klaustursins jörðu og verið formaður á skipum þess. Sjá D1 vii 337-38.
Takmark þetta er reyndar hreppsmörk Vatnsleysustrandarhrepps, Kolbeinsskorir heita nú Ytri- og Innri-Skor í Stapanum. Einkennilegt er, að reki þessi skuli ekki koma fram í skránum D ii 245-48. Texti máldagans, eins og hann liggur fyrir, er spilltur. Er ekki hægt að segja með neinni vissu, hvort Styrkár hafi gefið rekann, sem Viðeyjarklaustur átti óefanlega í Krýsuvík. En hitt liggur ljóst fyrir, að Styrkár Sveinbjarnarson hafi átt Vatnsleysuströndina alla eða a. m. k. rekann fyrir henni.

Skúlatún

Skúlatún. Helgafell fjær.

Þá er komið í annað landnám en Ásbjarnar á Skúlastöðum. Hér var landnámskona Steinunn hin gamla, er keypti Romshvalanes allt fyrir utan Hvassahraun af Ingólfi Arnarsyni, en gaf Eyvindi frænda sínum land milli Hvassahrauns og Kvíguvogabjarga, sem nú nefnast Vogastapi. Athugasemd þessi styrkir, að Styrkár Sveinbjarnarson hafi haft mikilla hagsmuna að gæta suður með sjó og gerir það líklegt, að Sveinbjörn Styrkársson af Rosmhvalanesi, er féll í Bæjarbardaga 1237, hafi getað verið sonur Styrkárs. Enn fremur styrkir hún skoðun Ólafs prófessors Lárussonar, að Hafur-Björn, sonur Styrkárs, hafi komizt að Nesi við Seltjörn með kvonlangi sínu, sjá Landnám Ingólfs, II., bls. 48-51.

Almenningur

Almenningur í Hraunum – herforingjakort 1903.

Áður er minnzt á Almenningana. Nú er ástæða til að benda á eftirtektarvert atriði í sambandi við þá. Í Jarðabók Árna Magnússonar er svo greint um þá, að „það, sem Suðurnesjamenn kalla Almenning, tekur til suður við Hvassahraunsland og Trölladyngjur. Gengur svo norður eftir fyrir ofan lönd allra Hraunbæjanna og endast svo norðan til, þar sem hann mætir Ásslandi, svo sem við taglið á Kapelluhrauni. Þá kemur Garðastaðarland og selstaða.“ Sé svo jarðabókin grandskoðuð, þá kemur í ljós, að jarðirnar í Grindavíkur-, þó ekki Krýsuvík, Rosmhvalaness- og Vatnsleysustrandarhreppum, auk Hraunabæjanna og Hvaleyrar, Áss og Ófriðarstaða
eiga hrísrif til kolagjörðar og eldiviðar í Almenningum. — Það er furða, að nokkur hrísla skuli vera eftir. — Hafnirnar eiga þar ekki ítök fremur en Krýsuvík.
Það, sem eftirtektarvert er, getur verið tilviljun. Fyrst má benda á, að meðal þessara landssvæða er hluti úr landnámi Ásbjarnar Özurarsonar, bróðursonar Ingólfs, land Steinunnar hinnar gömlu allt, frændkonu Ingólfs, og land það, er fyrsti Hafur-Björn var uppi á, en það er Grindavík.

Hafur-Bjarnastaðir

Hafur-Bjarnastaðir á Rosmhvalanesi.

Styrkár Sveinbjarnarson virðist hafa staðfestu suður með sjó, en eigi á Álftanesi og sonur hans hét Hafur-Björn. Gæti það bent til þess, að erfðir og tengdir höfðu orkað að því að tengja framangreind svæði saman að þessu leyti, er Almenningunum við kemur. Hafur-Birnir þessir tveir eru hinir einu þekktu með því nafni frá þjóðveldisöld. Enn fremur eru Hafurbjarnarstaðir á Rosmhvalanesi þeir einu með því nafni á landinu og reyndar Viðeyjarklaustursjörð 1398.
Hvernig sem þessu er varið, þá er eitt ljóst, að jarðirnar við sunnanverðan Hafnarfjörð eiga samleið með Suðurnesjum, en jarðirnar norðan við hana þar engra hagsmuna að gæta, nema Garðar, er eiga lönd með Undirhlíðum. Og liggja skilin um Hamarinn. – Magnús Már Lárusson

Framhald er undir fyrirsögninni „Sitthvað um Fjörðinn„.

Heimild:
-Alþýðublað Hafnarfjarðar, jólablað 24.12.1960, Enn úr firðinum – Magnús Már Lárusson, bls. 4-5.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – örnefnakort.

Fremstihöfði

Haldið var í Hreiðrið norðvestan Kaldársels á sumardaginn fyrsta með viðkomu í Gjánum. Í leiðinni var litið á hálfhlaðna tóft austan undir Fremstahöfða.

Hreiðrið

Í Hreiðrinu.

Opið á Hreiðrinu er á berangri og því mjög erfitt að finna það. Þórarinn Björnsson hafði sýnt FERLIR hellinn fyrir nokkrum misserum síðan, en hann er örfáum kunnur. Fara þarf niður um loftið og liggur þá rás til norðurs og suðurs. Af ummerkjum að dæma undir opinu hafði ekki verið farið þarna niður um alllangan tíma. Rásin til norðurs lokast fljótlega, en hægt er að fylgja rásinni til suðurs með því að skríða á fjórum fótum. Botninn er mjög grófur. Eftir u.þ.b. 30 metra skrið er komið að svæði þar sem sjá má víða inn undir hraunið. Á þessu svæði eru falleg og misstór hraunegg, dökkbrún að lit. Um er að ræða gasbólur, sem hafa storknað, en ekki náð að sprynga. Eggin eru misstór, allt frá títuprjónshausum upp í hænueggsstærð. Svo virðist sem þetta jarðfræðifyrirbæri sé einungis á litlu svæði. Fara þarf mjög varlega þarna um til að valda ekki skemmdum. Þegar komið var inn í Hreiðrið var auðvelt að skilja hvers vegna ástæða hefur verið til að halda staðnum leyndum.
Erfitt er að fara um Hreiðrið vegna þess hversu hrjúfur hellirinn er. Það er því betra að hafa með sér hnéhlífar og hanska þegar farið er þar niður, þ.e.a.s. ef einhver skyldi verða svo heppinn að finna opið.

Kaldársel

Kaldársel – hálfköruð fjárhústóft Kristmundar.

Ágætt ústýni er yfir Gjárnar og Nátthagann úr norðvestri með Valahnúka í austri. Þarna hefur runnið mikil hrauntröð, en þegar fjaraði undan storknu yfirborðinu hefur yfirborðið fallið niður, en eftir standa standar hér og þar.
Tóftin undir Fremstahöfða er sennilega frá tímum Kristmundar í Kaldárseli eða Þorsteins, sem bjó þar nokkru fyrr, um aldarmótin 1900. Svo virðist sem ætlunin hafi verið að hlaða hús úr sléttu hellugrjóti, en af einhveri ástæðu hefu rverið hætt við það í miðjum kliðum. Frásögn er til um útlit húsanna í Kaldárseli og sú mynd er ekki fjarri því lagi sem þessi tóft er. Hún gæti því verið síðustu leifarnar af hinum gömlu búsetuminjum í Kaldárseli, utan borgarinnar á Borgarstandi, stekksins undir honum, fjárskjólanna norðan hans og nátthagans í Gjánum.
Skammt frá tóftinni er gamla gatan að Kaldárseli, en það gæti hafa einhverju um staðarvalið. Þá er ekki langt frá henni í fjárskjólin. Skammt norðan við tóftina hafa hellur verið hreinsaðar á kafla og svo virðist sem þar hafi átt að búa til haga undir gerði.
Frábært veður. Gangan tók 1. klst. og 1. mín.

Hreiðrið

Í Hreiðrinu.

Óbrinnishólaskjól

Óbrinnishólar eru vestan við miðbik Undirhlíða og liggur Bláfjallavegurinn sem tengir Hafnarfjörð við skíðasvæðið í Bláfjöllum á milli hólanna. Óbrinnishólar voru fjórir fallega mótaðir gíghólar sem heilluðu marga. Ferðafélag Íslands og Útivist voru með reglulegar ferðir á sumrin um tíma þar sem gengið var frá Kaldárseli að Óbrinnishólum og voru þessar ferðir ofstast fljölmennar. Gísli Sigurðsson lögregluþjónn var gjarnan fararstjóri en fleir tóku að sér að leiða hópa um þessar slóðir. Óbrinnishólar urðu til í tveimur goshrynum með talsverðu millibili og rannsakaði Jón Jónsson jarðfræðingur hólana um miðjan og ritaði grein um þá sem birtist í Náttúrufræðingnum um miðjan 8. áratug 20. aldar. Hann taldi að talsvert langur tími hefði liðið milli gosanna tveggja og að eldra gosið hafi jafnvel verið um líkt leyti og gaus í Búrfelli, samkvæmt samsetningu þeirra steintegunda sem hann fann á báðum stöðum.
obrinnisholar-222Óbrinnishólar voru með þeim glæsilegustu á Reykjanesskag-anum öllum  áður en þeim var að mestu eytt með óhóflegu malarnámi. Fyrst í stað var eingöngu tekið gjall  í smáum stíl, og um líkt leyti voru gerðar þó nokkrar rannsóknir á hólunum. Var grafið að vestanverður og kom þar í ljós undir tæplega eins metra þykku lagi af gjalli 5-8 sentimetra þykkt moldarlag, en undir því var gjall. Gróðurleifar fundust efst í moldarlaginu sem voru kolaðar. Það mun hafa gerst eftir að seinna gosið hófst. Neðra gjallþykknið náði alveg niður á jökulurð og fast berg. Hólarnir eru að mestu úr bósltrabergi og grágrýti og í seinna gosinu urðu til margar hraunkúlur sem eru allt frá því að vera mjög smáar upp í það að vera eins og smáboltar að stærð og nokkuð reglulega lagaðar.
Það er fátt sem minnir á hina formfögru hóla sem þarna stóðu um aldir, svo gersamlega hefur þeim verið spillt og það er í rauninni skömm að því hvernig þarna hefur verið gengið á merkar náttúruminjar.
obrinnisholar-223Óbrinnishólar eru hluti af sprunurein sem liggur eftir endilöngum Reykjanesskaga. Víðsvegar á sprungunni eru mismunandi gamlir gígar sem hafa orðið til í mörgum goshrynum en fæstir þeirra eru stórir eða umfangsmiklir. Það er næsta auðvelt að þræða þessar gígaraðir og fylgja þeim frá Búrfelli og út á Reykjanestá eða því sem næst. Hólaröð Óbrinnishóla var einhverntíma mæld og reyndist vera 900 metra löng eða tæpur kílómetri.
Eins og nafnið gefur til kynna mynduðu hólarnir óbrennishólma sem yngri hraun hafa runnið í kringum og stóðu hólarnir eftir óbrenndir þar sem þeir voru hærra í landinu en nánasta umhverfi. Hæsti gígurinn var í 44 metra hæð yfir nærliggjandi umhverfi en miðað við hæð yfir sjó var hann í 144 metra hæð. Sigdalur eða hrauntjörn hefur myndast suðaustan við gígana við seinna gosið og gekk þessi dalur undir nafninu Óbrinnishólaslakki. Vestarlega í slakkanum er hellir sem er vel þess virði að skoða. Hlaðið hefur verið fyrir opið fyrir margt löngu en hellirinn er um 15-20 metra djúpur með bogadregnum lofti og þrengist eftir því sem innar dregur. Hann nefnist Óbrinnishellir en var líka nefndur Óbrinnishólaskúti. Þessi hellir var notaður um aldir sem fjárskjól yfir vetrartímann af bændum á Hvaleyri enda voru Óbrinnishólar í efri hluta Hvaleyrarlands. Birki- og víðihríslur uxu í vesturhluta nyrsta Óbrinnishólsins og sömuleiðis í hæðardragi skamm frá sem heitir Stakur en einna mestur var kjarrgróðurinn í sjálfum Undirhlíðum, enda heita þar Litli-Skógarhvammur og Stóri-Skógarhvammur. Þarna var kjörlendi fyrir vetrarbeit.
Óbrinnishólar eru ekki svipur hjá sjón en það má samt sem áður hafa ánægju af því að skoða hraunið umhverfis þá og þeir sem hafa gaman að því að rýna í litbrigði jarðar geta dundað sér við að skoða litina sem leynast í gígnámunum.
Óbrinnishólar eru ekki svipur hjá sjón en það má samt sem áður hafa ánægju af því að skoða hraunið umhverfis þá og þeir sem hafa gaman að því að rýna í litbrigði jarðar geta dundað sér við að skoða litina sem leynast í gígnámunum.

Heimild:
-Hraunavinir – Óbrinnishólahellir, Jónatan Garðason – http://www.hraunavinir.net/obrinnisholahellir/

Óbrinnishólaskjól

Óbrinnishólahellir.