Tag Archive for: Hafnarfjörður

Hafnarfjörður

Gísli Sigurðsson skrifaði grein í Fjarðarfréttir árið 1969 undir fyrirsögninni „Á fornum slóðum„:

„Eftir að Gvendur góði hafði um árabil verið barinn til bókarinnar, gerðist hann prestur. Hann gerðist andheitari öðrum kennimönnum og ölmusubetri, svo að fáir fóru tómhentir af hans fundi. Hann fór víða um land og vígði björg og vöð, sem hættuleg höfðu verið mönnum. Hann vígði og brunna, svo að hverjum þeim, er úr drakk, varð það að heilsulind og til margs konar blessunar. Enda þótt Gvendur væri Norðlendingur, kom hann ekki svo lítið við hér á Suður- og Inn-Nesjum og vígði hér fleiri brunna en víða annars staðar.
Skulu þeir nú taldir:

Gvendarbrunnur í Vogum

Gvendarbrunnur

Gvendarbrunnur í Vogum.

Sunnan byggðar í Vogum er tjörn lítil og norðan hennar er einn þessara brunna. Hann var um aldabil heilsulind mönnum og skepnum. Má vera að svo sé enn.

Gvendarbrunnur í Hraunum
Gvendarbrunnur í Hraunum er rétt við gamla alfaraveginn. Hann er þar í klöpp undir Gvendarbrunnshæð. Fer ekki mikið fyrir honum, en margur mun á ferð sinni eftir þeim gamla vegi hafa þáð þar svaladrykk. Ekki er vatnið gott á bragðið, svo að mér varð að orði, er ég drakk úr honum fyrir nokkrum árum, það sama og kerlingin sagði: „Beiskur ertu, drottinn minn.“

Gvendarbrunnur í Arnarnesi

Arnarnes

Arnarnes – Gvendarbrunnur.

Norðan í Arnarnesi vestanverðu, rétt spölkorn neðan gömlu alfaraleiðarinnar, er lind lítil og rennur úr henni lækur til sjávar. Upp frá honum liggur stígur, sem svo hefur verið fáfarinn um síðustu aldir, að hann er mosagróinn. En vatnið er gott og heilnæmt.

Gvendarbrunnar í Rauðhólum
Þar höfum við fjórða brunninn, sem Gvendur góði vígði. Frá honum streymir nú það lífsins vatn, sem nær allri Stór-Reykjavík er af brynnt daglega. Eiga fáar höfuðborgir jafn gott vatn íbúum sínum.
Af þessu má sjá, að Gvendur hinn góði var á undan sinni samtíð, því með vígslu staða, eins og þessara brunna, hefur hann bent okkur á hve nauðsynlegt það er, okkur mannanna börnum, að ganga með virðingu um náttúruna og vernda hana, þar sem því verður við komið, gegn allri óhelgi.
Alls staðar kringum okkur eru staðir, minni og stærri, sem okkur ber að ganga um með virðingu og beita getu okkar stöðum þessum til verndar, helga þá með virðulegri umgengni. Hér í Hafnarfirði og nágrenni er margt slíkra staða:

Varðan við Vörðustíg

Hafnarfjörður

Varða við Vörðustíg.

1887 var samningur gerður um land Akurgerðis. Landið var merkt vörðum. Nú er þessi varða ein uppistandandi af þeim. Vörðu þessa ber okkur því að vernda.
[Ákjósanlegast er að ganga að vörðunni um stíg frá Merkurgötu.]

Arnarklettarnir tveir
Við Arnarhraun eru klettar tveir með þessu nafni. Hér hefur rétt verið stefnt, því þeir eru nú verndaðir og eiga að standa eins og þeir eru.

Hellisgerði
Gerðið við Fjarðarhelli var tekið í vernd ágætis félagsskapar, félagsins Magna. Þar átti að vernda svipmót Hafnarfjarðarhrauns. Nú er staður þessi verndaður með því að þar er upp risinn einn hinn sérkennilegasti og fegursti garður á landi hér.

Fagrihvammur

Hafnarfjörður

Fagrihvammur ofan Brúsastaða. Loftmynd 1954.

Hvammur vestur í hrauni, ofan Brúsastaða, hefur, að því er ég bezt veit, verið skráður sem einn þeirra staða, er verndaður verður til framtíðar, að hann haldi og beri svipmót hraunsins.

Ástjörn

Ástjörn

Ástjörn.

Hún hefur nú verið skráð verndarsvæði og um eitt hundrað metra landspilda allt um kring tjörnina. Var þessa þörf, þar sem við tjörnina er einn gróðursælasti staður hér nærlendis, með fjölbreyttari gróðri en annars staðar er að finna. Og þar verpir í sefinu
flórgoðinn, sérkennilegur fugl.

Bæjarrústir í Setbergstúni
Ofanvert við heyhlöðu á Setbergi eru rústir gamla Setbergsbæjarins. Það er trúa mín, að þar sé að finna allar þær gerðir bæja, sem tíðkazt hafa á landi hér frá landnámstíð fram til síðustu aldamóta. Þessar rústir ber að varðveita, þar til hægt er að grafa þær upp af vísindalegri nákvæmni.

Setbergssel

Setbergssel.

Þá eru ekki selja-rústirnar fáar í nágrenninu, sem vernda ber. Fjárborgir eru margar hér í nágrenninu og ber að varðveita þær. Sumar eru reyndar komnar undir verndarvæng Þjóðminjasafns Íslands og þeirra ágætu manna, er þar starfa.
Lesari góður, vafalaust munt þú geta bent á miklu fleiri staði en hér eru nefndir. Gerðu það, og þú munt eiga í huga þér ánægjulega hugsun um gott verk, sem ekki kostaði mikið.
En umfram allt, tileinkaðu þér með ferðum um nágrennið þá unaðslegu staði, sem eru allt um kring og kalla á þig og þitt óeigingjarna starf, þína óeigingjörnu umhyggju.“

Heimild:
-Fjarðarfréttir, 4. tbl. 01.09.1969, Á fornum slóðum – Gísli Sigurðsson, bls. 3.

Kaldársel

Kaldársel – fjárborg.

Óttarsstaðir

Jónatan Garðarsson skrifar um „Hlöðnu húsin í Hraunum“ á vef Hraunavina árið 2002:

Jónatan garðarsson

Jónatan Garðarsson.

„Rétt vestan við Straumsvík var nokkuð þéttbýlt um aldir enda var búið á einum 12 smábýlum þegar mest var. Jarðirnar báru ekki mannmörg heimili en þar var engu að síður gott að búa á meðan fólk gat sinnt búskap og sjósókn jöfnum höndum. Fram undir þriðja áratug 20. aldar var byggðin í Hraunum nokkuð blómleg en þá fór fólki að fækka um leið og búskaparhættir breyttust og sjávarbyggðirnar á suðvestuhorni landsins sóttu í sig veðrið. Þeir sem settust að í Hraunum lögðu megin áherslu á sauðfjárbúskap og sjósókn enda var stutt á gjöful mið skammt undan landi. Sauðfé gekk úti árið um kring sem var nauðsynlegt þar sem túnskikar voru ekki margir eða umfangsmiklir. Helst var heyjað fyrir kýrnar á heimatúnum og grastóm í næsta nágrenni bæjarhúsana, en kúabúskapur byggði á því að hægt væri að mæta mjólkurþörf heimilismanna. Hraunajarðirnar voru lengst af í eigu kirkju og síðan konungs eftir siðaskiptin.

Jónsbúð

Jónsbúð – tilgáta ÓSÁ.

Ábúðaskipti voru tíð vegna þess að þegar illa áraði til sjósóknar þótti ekki vænlegt að búa á þessum vindasama stað og eyðilega stað við sjávarsíðuna. Leiguliðar stöldruðu þar af leiðand ekki við nema í nokkra áratugi þegar best lét. Þeir sem settust að á þessum slóðum gátu með dugnaði og útsjónarsemi komið undir sig fótunum, einkum þeir sem voru dugmiklir sjómenn. Þarna efnuðust bændur á því að gera út árabáta og leggja inn aflann í kaupstað og taka út varning í staðinn eða gera skipti við vel stæða bændur annarsstaðar á landinu.

Straumur

Straumur.

Á þriðja áratug 19. aldar voru konungsjarðirnar í Hraunum og aðrar jarðir vítt og breitt um landið boðnar til sölu til að afla tekna fyrir ríkissjóð Dana. Þannig atvikaðist það að efnaðir bændur, kaupmenn og aðrir sem höfðu einhver fjárráð eignuðust Hraunajarðirnar. Sumir fluttu á staðinn en flestar jarðirnar voru áfram hjáleigur sem gengu kaupum og sölum um árabil. Meðal þeirra sem festu kaup á jörðum í Hraunum var Guðmundur Guðmundsson sem efnaðist er hann kvæntist vel stæðri ekkju í Hafnarfirði. Hann bjó um tíma á jörði sinni Lambhaga, en keypti einnig Þorbjarnarstaði og hálfa Óttarstaði. Guðmundur breytti Straumsseli í lögbýlisjörð en lést um miðjan aldur. Ekkja hans kvæntist aftur og Guðmundur Tjörvi sonur hans tók við búskap í Straumi þegar fram liðu stundir, af stjúpföður sínum.

Óttarsstaðir vestari

Óttarsstaðir efri (vestari).

Jón Hjörtsson átti alla Óttarstaða jörðina áður en hann seldi hálflenduna til Guðmundar Guðmundssonar. Jón efnaðist vel á útgerðar umsvifum sínum á meðan hann bjó á Óttarstöðum enda dugmikill sjósóknari. Rannveig dóttir hans tók við búinu þegar móðir hennar andaðist árið 1855, en faðir hennar lifði í nokkur ár til viðbótar. Steindór Sveinsson sonur Rannveigar varð eigandi hálfra Óttarstaða að afa sínum látnum og hafði þá um skeið verið einskonar bústjóri afa síns. Steindór var ókvæntur þegar Kristrún Sveinsdóttir frá Miðfelli í Þingvallasveit réðst sem vinnukona að Óttarstöðum. Kristrún var 7 árum yngri en Steindór og felldu þau hugi saman. Gengu þau í hjónaband 9. október 1860 og eignuðust soninn Svein Steindórsson sem varð seinna bóndi í Hvassahrauni.

Óttarsstaðir

Hesthúsið að Óttarsstöðum eystri.

Sveinn var dugandi skipstjóri eins og faðir hans og afskaplega vel látinn. Steindór Sveinsson bóndi á Óttarstöðum fékk holdsveiki og var illa haldinn síðustu æviár sín. Hann lést af völdum holdsveikinnar 1870 en þá hafði Kristrún fyrir nokkru tekið við búskapnum og útgerð eiginmanns síns. Sá hún um að versla til heimilisins og annaðist alla aðdrætti. Hún var auk þess dugandi formaður og sótti sjóinn af atorku og heppni og var órög að leggja á djúpmið. Stjórnaði hún hásetum sínum af myndugleik og aflaði vel.

Óttarsstaðaborg

Óttarsstaðaborg (Kristrúnarborg).

Kristrún var óhrædd við að takast á við þau verkefni sem biðu hennar og hlóð Óttarstaða fjárborgina með bróður sínum Guðjóni Sveinssyni sem var vinnumaður hjá henni, á meðan Steindór eiginmaður hennar lá veikur heima. Það leið ekki nema ár eftir að Steindór andaðist að Kristrún giftist Kristjáni Jónssyni frá Skógarkoti í Þingvallasveit. Hann var 12 árum yngri en hún en það fór afskaplega vel á með þeim. Bjuggu þau saman á Óttarstöðum til ársins 1883 en fluttu þá að Hliðsnesi á Álftanesi og eignuðust þrjú börn.

Óttarsstaðir

Eldhúsið við Óttarsstaði eystri.

Kristrún lést 13. desember 1903 og fékk þau eftirmæli að hún hefði verið gædd mikilli atgervi til sálar og líkama, verið kona tígurleg yfirlitum og mjög einarðleg, hreinlunduð, trygg og staðföst. Hún var ráðdeildarsöm, ástrík og umhyggjusöm móðir og eiginkona. Síðustu æviárin var heilsu hennar farið að hnigna og fékk hún slag að kvöldi 4. desember 1903 og lá síðan í dái þar til hún lést. Var hún jarðsett að Görðum 22. desember við hlið fyrri eiginmanns síns og nokkurra barnabarna. Kristján gat ekki á heilum sér tekið eftir að Kristrún andaðist. Hann flutti nokkru eftir andlát hennar frá Hliðsnesi til Hafnarfjarðar og fór að versla þar. Heppnaðist það miðlungi vel gengu efni hans til þurrðar. Seldi hann verslun sína sumarið 1906 og bakaði féþurðurinn honum þungum áhyggjum. Var hann ekki með sjálfu sér eftir það og gekk í sjóinn 2. september 1906 milli Hafnarfjarðar og Garðahverfis og réð sér bana. Var hann tæpra 62 ára þegar þessi atburður átti sér stað. Svo aðgrunnt var á þessum slóðum að líkið var ekki alveg á kafi er það fannst. Var þessi atburður afar sorglegur og orti Friðrik Friðriksson eftirfarandi: Ljúfur með líkn og dáð; lengi var sveitarstoð, grandvar með góðri lund, gætinn í orði og hug.

Óttarsstaðir

Eldhúsið við Óttarsstaði vestari.

Guðmundur Jónsson og Ragnheiður Hannesdóttir keyptu jörðina af Kristrúnu og Kristjáni árið 1883 og tóku synir hennar, Guðjón og Sigurður Kristinn Sigurðsson, við búskapnum eftir þeirra dag. Guðmundur hafði ekki búið lengi á Óttarstöðum þegar hann seldi hálfa jörðina árið 1885. Kaupandinn var Friðfinnur Friðriksson skipstjóri sem átti þilskipið Lilju á móti Þorsteini Egilsen kaupmanni í Hafnarfirði. Friðfinnur hafði ekki neinn áhuga á að búa í gamla bænum, heldur keypti tvílyft timburhús sem stóð í landi Austurkots á Vatnsleysuströnd, tók það niður og flutti sjóleiðina að Óttarstöðum. Þetta hús byggði Ari Egilsson árið 1883 úr gæðatimbri sem rak á land í Höfnum eftir að barkurinn Jamestown strandaði þar. Ari og eiginkona hans fluttu til Vesturheims og þar með var húsið falt til kaups. Þetta merkilega hús stendur ennþá á eystri Óttarstöðum en er því miður afskaplega illa farið enda ekkert verið hirt um það áratugum saman.

Litli-Lambhagi

Eldhús við Litla-Lambhaga. Straumur fjær.

Guðjón Sveinsson bróðir Kristrúnar á Óttarstöðum var listagóður hleðslumaður og má sjá handbragð hans víða í Hraunabyggðinni. Óttarstaða fjárborgin er jafnan nefnd eftir Kristrúnu Sveinsdóttur sem lagði drjúga hönd á gerð hennar, en Guðjóns er sjaldnar getið. Hann bar ábyrgð á því að hlaðin vorum myndarlegir eldaskálar úr hraungrjóti í Litla-Lambhaga sem og á Óttarstöðum vestri og eystri. Standa veggir þessara skála ennþá og sýna svo ekki verður um villst hversu góður verkmaður Guðjón var. Hann hlóð aukheldur upp gömlu bæjarveggina á báðum bæjunum, en eystri bænum var breytt í hesthús eftir að timburhúsið var flutt þangað árið 1885.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir austari, byggðir að hluta úr rekavið Jamestown.

Óttarstaðahúsið er eitt það merkilegasta á landinu og það sama gildir um steinhlöðnu tóftirnar sem enn standa þrátt fyrir að þekjurnar hafi fyrir löngu fúnað og orðið veðrinu að bráð. Minjarnar bíða þess sem koma skal og ef hugmyndir um að breyta Óttarstaðalandi í geymslusvæði fyrir hafskip verða að veruleika tapast að eilífu stórmerkilegar minjar sem sýna hvernig umhorfs var á suðvesturhorni landsins áður en svokallaður nútími hóf innreið sína.“ – Jónatan Garðarsson

Heimild:
-http://www.hraunavinir.net/hlodnu-husin-i-hraunum/

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir vestari. Elshúsið lengst t.v.  Gamla hesthús eystri Óttarsstaða efst, ofan garðs.

Hellisgerði

Jónatan Garðarsson skrifaði eftirfarandi um „Hellisgerði“ á vef Hraunavina árið 2002:

Jónatan Garðarsson

Jónatan Garðarsson.

„Hellisgerði er skrúð- og skemmtigarður Hafnarfjarðar vestan Reykjavíkurvegar, norðan Hellisgötu og sunnan Skúlaskeiðs. Hellisgerði er nefnt eftir Fjarðarhelli sem er fyrir miðju garðsins. Þegar bændur úr Ölfusi og Selvogi komu í kaupstað til Hafnarfjarðar fyrr á öldum áttu þeir það til að slá upp tjöldum sínum við hellinn eða gista í honum, þó vistin þar væri þröng.

Á þessum stað voru gerðar einhverjar fyrstu tilraunir til trjáræktunar í Hafnarfirði eftir því sem næst verður komist. Kaupmaðurinn Bjarni Sivertsen var líkast til sá fyrsti, en hann flutti 500 trjáplöntur frá Skotlandi árið 1813 og gróðursetti þær víðsvegar í Hafnarfirði. Nokkar trjáplöntur setti hann niður í bakgarði Akurgerðis en líka þó nokkrar umhverfis Fjarðarhelli og við þau hús sem stóðu strjált við botn fjarðarins.

 Anna Cathinca Jürgensen Zimsen

Anna Cathinca Jürgensen Zimsen.

Síðan liðu nokkrir áratugir þar til Anna Cathinca Jürgensen Zimsen, móðir Knud Zimsen borgarstjóra í Reykjavík, fór að rækta blóm og grænmeti í vermireitum í lautunum bakvið Akurgerðishúsin og gerðinu við Fjarðarhelli. Zimsen fjölskyldan bjó í Knudtzonshúsi, en á þessum tíma gekk húsið sem Bjarni riddari Sivertsen lét reisa 1803-5 undir því nafni. Það er jafnan nefnt Sívertsenhús í dag og tilheyrir húsasafni Byggðasafns Hafnarfjaðrar. Anna Cathinca fylgdist af áhuga og innileik með gróðrinum í bakgarði sínum og í kringum Fjarðarhelli vaxa og dafna. Hún fór daglega upp að hellinum á sumrin til að grennslast fyrir um vöxtinn á gróðrinum. Knud Due Christian Zimsen verslunarstjóri Knudtzonsverslunar, sem var eiginmaður Önnu Chatincu, lét girða og friða allstórt svæðið í kringum Fjarðarhelli seint á 19. öld að hennar ósk. Reiturinn fékk nafnið Hellisgerði og umhverfis hann var hlaðinn varnargarður úr hraungrjóti en slík gerði sáust við flest kotbýlin í Hafnarfirði og umhverfis matjurtargarða íbúanna í hraungjótum um langan aldur.

Knud Due Christian Zimsen

Knud Due Christian Zimsen.

Í ævisögu Knud Zimsen „Við fjörð og vík” sem Helgafell gaf út 1948, segir á bls. 25: „Nokkrum sinnum á hverju sumri var kaffi drukkið á sunnudögum í Hellsigerði eða suður á Hvaleyri, en þar hafði faðir minn túnblett. Vestast í Hellisgerði var grashóll, er faðir minn hafði látið gera. Á hann var dúkur breiddur og kaffið drukkið þar. Hóll þessi var því ætíð kallaður Borðið. Hlóð voru einnig sett upp í Gerðinu, og fluttum við því stundum hitunaráhöld með okkur þangað. Við það fékk viðdvöl okkar þar efra nokkurn svip af útilegu, og það þótti okkur krökkunum ekki einskis virði. Þótt ekki væri langt í Hellisgerði heiman að frá okkur, þótti tilbreyting í að fara þangað upp eftir, en meira fannst okkur samt til um að komast suður á Hvaleyri.”

Knud Zimsen

Knud Zimsen.

Samkvæmt þessari frásögn má ráða að það hafi verið faktorshjónin, foreldrar Knuds Zimsen, sem lögðu grunninn að Hellisgerði. Frekari vísir að trjágarði í Hellisgerði varð til þegar Gísli Gunnarsson byggði sér hús við Reykjavíkurveginn og tók Hellisgerði á leigu. Lét hann endurhlaða grjótgarðana og ræktaði þar tún sem hann nýtti til ársins 1922. Hann gróðursetti þrjú reyniviðartré við hús sitt árið 1911 en flutti þau með sér þegar hann seldi húsið árið 1920. Voru trén þá orðin svo stór að þau rákust upp í símavírana þegar þau voru flutt á hestvagni á nýja staðinn.

Valdimar Long bóksali og Þorleifur Jónsson forstjóri, sem var afi Björgvins Halldórssonar, stóðu fyrir stofnun Málfundafélagsins Magna 2. desember 1920 og voru stofnfélagarnir 18 talsins. Á fundi sem haldinn var 15. mars 1922 hélt Guðmundur Einarsson framkvæmdastjóri trésmiðjunnar Dvergs framsöguerindi sem nefndist: Getur Magni haft áhrif á útlit Hafnarfjarðar? Guðmundur lagði til að Magnamenn beittu sér fyrir því að koma upp blóma- og skemmtigarði sem hefði líka það markmið að vernda sérkenni Hafnarfjarðarhrauns.

Hellisgata

Hafnarfjörður 1905 – Kirkjuvegur.

Bærinn stækkaði hratt á þessum árum, hraunborgir voru brotnar niður, gjótur fylltar til að útbúa beina vagnvegi og hraunið sléttað með tilheyrandi umbyltingu. Guðmundur vildi gæta þess að sérkenni hraunlandslagsins sem einkenndi umhverfi Hafnarfjarðar fengju að halda sér að einhverju leyti óskert.

Hellisgerði

Hellisgerði 2024.

Hellisgerði var ákjósanlegur staður og haustið 1922 veitti bæjarstjórn félaginu yfirráð gerðisins gegn því skilyrði að skemmtigarðurinn yrði opinn almenningi að sumarlagi. Félagsmenn Magna hófust strax handa og girtu Hellisgerði vorið 1923 og útbjuggu steinsteypt ræðupúlt við hlið Fjarðarhellis. Þetta var kostnaðarsamt fyrir fámennt félag og til að afla fjár til að kaupa plöntur var efnt til Jónsmessuhátíðar í Hellisgerði 24. júní 1923, þar sem Magnús Jónsson bæjarstjóri afhenti félaginu Hellisgerði með formlegum hætti. Skemmtunin tókst vel og varð að föstum lið og aðal fjáröflunarleið Magna um árabil, en ekki þótti ráðlegt að halda hátíðina í Hellsigerði næstu árin til að eiga ekki á hættu að viðkvæmur nýgræðingur skemmdist af átroðningi. Voru skemmtanirnar haldnar á Óseyri, Víðstöðum og í Engidal til ársins 1936 en eftir það voru þær fastur viðburður í Hellisgerði til ársins 1960.

Hellisgerði

Síðari hluta 20. aldar var tekinn upp sá siður að hefja þjóðhátíðardaginn 17. júní á samkomu og helgistund í Hellisgerði. Að þeirri stund lokinni hefur skrúðganga lagt af stað um bæinn með Lúðrasveit Hafnarfjarðar í broddi fylkingar og endað för sína á hátíðarsvæðinu á Víðistöðum. Jónsmessuskemmtanir hafa einnig verið endurvaktar að nokkru leyti í Hellisgerði en með annarskonar brag en tíðkaðist hjá Magnafélögum.

Á haustdögum 1923 var skipulagsskrá samin fyrir skemmtigarðinn og var tilgangurinn þríþættur:

Hellisgerði

Myndin er tekin af Fiskreit sem fór undir Skúlaskeið. Húsin við Skúlaskeið og Nönnustíg í aðalhlutverki. Einnig sér í Reykjavíkurveg 15b, sem hús með bæjarlagi, það yngsta sem enn stendur í Hafnarfirði.

a) Að vera skemmtistaður, þar sem bæjarbúar eiga kost á að njóta ánægju og hvíldar í tómstundum sínum.
b) Að vekja áhuga bæjarbúa á blóma- og trjárækt.
c) Að geyma óraskaðar minjar um hið sérkennilega bæjarstæði Hafnarfjarðar, þegar mannvirki framtíðarinnar hafa máð þær út annars staðar í bænum.
Fimm manna garðráð stjórnaði starfseminni og hélst sú skipan mála til 1977 þegar starfsemi Magna lagðist í dróma. Eftir það hefur umsjón Hellisgerðist verið á ábyrgð garðyrkjustjóra Hafnarfjarðar og þannig er máluð háttað í dag.

Hellisgerði

Hellisgata og Hellisgerði.

Vorið 1924 hófst skipulögð trjárækt í Hellisgerði undir stjórn Ingvars Gunnarssonar kennara, sem var fastráðinn starfsmaður og forstöðumaður Hellisgerðis til dauðadags 1962. Erfiðleikar við ræktunina fólust fyrst og fremst í því að það var grunnt á grjót í gerðinu. Bera varð mikið magn af mold í hraunbollana til að gróðursetning væri framkvæmanleg. Fyrstu árin var ekkert vatn að fá í Hellisgerði og sótti Ingvar vatn í nálæg hús og bar það í fötum svo að hægt væri að vökva plönturnar. Smám saman fjölgaði blómjurtum og trjáplöntum í Hellisgerði en einnig mátti þar finna hefðbundnar tegundir svo sem lyng, ljónslappa, blágresi og sitthvað fleira fyrstu árin eftir að ræktun hófst þar.

Hellisgerði

Myndin er tekin yfir Hellisgerði, Setbergslandið í fjarska.

Veturinn 1926-27 fékk Magni aukið landsvæði til umráða og varð garðurinn innan við hálfur hektari að stærð. Sumarið 1927 var garðurinn opnaður almenningi á sunnudögum og hélst sú skipan fyrstu áratugina en síðan var garðurinn opinn alla daga yfir sumarmánuðina. Vakti garðurinn athygli og eftirtekt og var fjölsóttur af fólki allsstaðar að af landinu. Þegar skipulagsuppdráttur bæjarins var samþykktur árið 1933 var gert ráð fyrir frekari stækkun garðsins, enda var farið að tala almennt um Hellisgerði sem mikinn dýrgrip fyrir bæinn. Garðurinn var stækkaður um umtalsvert vorið 1960 þegar svæðin umhverfis Oddrúnarbæ og meðfram Skúlaskeiði bættust við.

Hellisgerði

Hellisgerði 1946.

Veturinn 1942 var ákveðið að útbúa tjörn með gosbrunni í einni af gjótum garðsins. Útgerðarfélög í bænum greiddu stærsta hluta kostnaðarins við framkvæmdina en einnig lögðu einstaklingar til fjármuni til að auðvelda framkvæmdina. Hjónin Bjarni Snæbjörnsson læknir og Helga Jónasdóttir gáfu styttuna ,,Yngsti veiðimaðurinn” eftir Ásmund Sveinsson. Hún er af dreng sem heldur á fiski sem vatn gýs upp úr. Gosbrunnurinn var afhjúpaður á Jónsmessuhátíðinni 1942.

Hellisgerði

Í Hellisgerði – Styttan í gosbrunninum heitir Yngsti veiðimaðurinn og er eftir Ásmund Sveinsson frá Kolsstöðum.

Styttan skemmdist þegar tjörninni var breytt um 1980 og eftir það var henni komið fyrir í geymslu. Gosbrunnurinn var endursteyptur úr bronsi og komið fyrir á nýjan leik í tjörninni í júní 2008 í tilefni 100 ára afmælis Hafnarfjarðarkaupstaðar.

Hellisgerði

Minnisvarði um Bjarna Sívertsen í Hellisgerði.

Árið 1945 gáfu útgerðarfélögin Hrafna-Flóki og Vífill 25 þúsund krónur í tilefni 25 ára afmælist Magna til að gera brjóstmynd af Bjarna riddara Sivertsen, sem hefur verið nefndur Faðir Hafnarfjarðar. Ríkharður Jónsson myndhöggvari gerði brjóstmyndina sem stendur á stalli úr hraungrjóti sem flutt var úr Selvogi, þar sem Bjarni hóf verslunarstarf sitt. Styttan var afhent með formlegum hætti 10. september 1950 við hátíðlega athöfn. Adolf Björnsson fulltrúi gefenda og Helgi Hannesson bæjarstjóri héldu ræður. Kristinn J. Magnússon málarameistari og formaður Magna tók við styttunni sem Þórdís Bjarnadóttir afkomandi Bjarna Sigurðssonar afhjúpaði. Lúðrasveit Hafnarfjarðar lék við athöfnina og var ókeypis aðgangur í Hellisgerði af þessu tilefni. Lágmynd af Guðmundi Einarssyni var komið fyrir á klettavegg við Fjarðarhelli og afhjúpuð 1963. Á myndinni stendur: „Guðmundur Einarsson, frumkvöðull um vernd og ræktun Hellisgerðis 1923”.

Hellisgerði

Í Hellisgerði.

Kostnaðurinn við að koma þessum sælureit upp í hjarta bæjarins og viðhalda honum var þungur baggi á félagsmönnum Magna. Hinar árlegu Jónsmessuskemmtanir stóðu ekki undir rekstrinum svo félagið lét útbúa sérstök styrktarkort, gaf út jólakort, hélt hlutaveltur, seldi blóm og trjáplöntur og leitaði til fyrirtækja og einstaklinga í bænum um fjárstuðning. Bæjarsjóður kom einnig að rekstrinum með beinum og óbeinum hætti frá fyrstu tíð. Bæjarbúar lögðu jafnan sitt af mörkum til að fegra og viðhalda skrúðgarðinum Hellisgerði og svo er enn.

Ingvar Gunnarsson

Ingvar Gunnarsson.

Ingvar Gunnarsson var forstöðumaður Hellisgerðis í 38 ár. Eftir andlát hans 1962 varð Sigvaldi Jóhannsson garðyrkjumaður forstöðumaður, en hann varð fastur starfsmaður Hellisgerðis árið 1944. Þessir tveir einstaklingar stóðu öðrum fremur að ræktun garðsins. Svavar Kærnested garðyrkjumaður tók við af Sigvalda og annaðist garðinn til 1971. Starfsemi Magna og garðráðs Hellisgerðis var ekki mikil á þessum tíma og lét garðurinn á sjá. Undir lok áttunda áratugar 20. aldar tók Hafnarfjarðarbær við Hellisgerði og var garðurinn settur undir garðyrkjustjóra bæjarins.

Árið 1945 kom upp hugmynd um að færa Sívertsenhús í Hellisgerði og skapa þar aðstöðu í anda Árbæjarsafns. Skipuð var nefnd til að vinna að flutningi hússins en margir óttuðust að skrúðgarðinum væri stefnt í hættu og ekkert varð af þessum áformum. Ástand Sívertsenhúss versnaði stöðugt og árið 1964 lagði Bjarni Snæbjörnsson læknir til að félagar í Rótarýklúbbi Hafnarfjarðar stuðluðu að varðveislu og endurgerð þessa elsta húss bæjarins. Þeir bundust samtökum við forráðamenn íþróttahreyfingarinnar og fulltrúa annarra félaga um að ráðast í þetta verk. Ákveðið var að endurbyggja húsið á sínum upprunalega stað og fallið frá þeirri hugmynd að flytja Sívertsenhús í Hellisgerði.

Oddrúnarbær

Oddrúnarbær.

Vestan og austan við Hellisgerði stóðu lengi hús sem voru rifin um 1960 þegar garðurinn var stækkaður. Austarlega í garðinum stendur ennþá lítið kot þar sem hægt að kaupa kaffi og viðbit. Þetta er Oddrúnarbær, nefndur eftir Oddrúnu Oddsdóttur frá Snæfellsnesi sem bjó í húsinu frá 1950 til 1980. Húsið er með bæjarlagi og dæmigert fyrir litlu kotin sem byggðust við götutroðningana sem lágu víða um bæinn í hrauninu um aldamótin 1900. Oddrúnarbær var byggður1924 en talið er að það hafi verið síðasta húsið sem reist var með þessu bæjarlagi í Hafnarfirði.

Hellisgerði

Hellisgerði.

Aðalinngangur Hellisgerðis var lengst af við miðja Hellsigötu og gengið um járnhlið á rammgerðri steingirðingu. Gestur sem komu í garðinn gengu fyrst að söfnunarbauk úr bronsi sem leit út eins og mannshöfuð. Þegar öðru eyra höfuðsins var snúið rak það út úr sér tunguna. Börnum fannst spennandi að leggja smámynt á tunguna sem höfuðið gleypti um leið og eyranu var snúið til baka. Þegar Hellisgerði var stækkað til austurs um 1980 var aðalinngangur garðsins færður að Reykjavíkurvegi þar sem blómasala Magna var lengst af starfrækt. Sumarið 2001 var hlaðið gerði úr hraungrjóti við þennan inngang og fleiri lagfæringar gerðar á Hellisgerði.

Hellisgerði

Hellisgerði – ævintýraheimur.

Árið 1999 var útbúinn reitur í Hellisgerði fyrir Bonsaitré sem bænum áskotnuðust um það leyti. Trjánum er komið fyrir í garðinum á vorin en þau eru geymd innan dyra yfir vetrarmánuðina. Dvergtré eru ræktuð með sérstakri aðferð sem Japanar hafa þróað í gegnum aldirnar og er þetta nyrsti bonsaigarður í heimi eftir því sem næst verður komist.

Hellisgerði

Fjarðarhellir í Hellisgerði.

Finna má fjölbreyttan trjágróður í Hellisgerði af innlendum og erlendum uppruna. Fyrstu Bjarkirnar sem gróðursettar voru í Hellisgerði sumarið 1924 komu austan úr Þórsmörk. Þetta voru beinvaxnir nýgræðingar sem voru ekki stærri en 2-3 cm en er þau voru sett niður.

Hellisgerði

Í Hellisgerði 2024.

Þessi tré tóku strax vaxtarkipp og fimm árum eftir að Björkunum var plantað út þurfti að hefja grisjun vegna þess hversu þétt þær stóðu í upphafi. Víðiplöntur voru sóttar í Litla-Skógarhvamm í Undirhlíðum, Reynitrén komu úr gjótum í Almenningi og Aspir fengust norðan úr Fnjóskadal. Jafnframt gróðursetti Ingvar á fyrstu fimm árunum fjölda erlendra tegunda eins og Hrossleik, Blæösp, Gráösp, Ask, Álm, Hegg, Hlyn og Beyki. Barrtrén þroskuðust illa fyrstu árin en berjarunnar á borð við Rifs, Sólber, Þyrniber náðu góðum vexti. Hann gróðursetti líka Gullregn, Blóðrifs og nokkrar tegundir Rósarunna. Flest trén sem voru gróðursett náðu sér á strik og síðan hefur fjöldi tegunda bæst við.

Bjarni Snæbjörnsson

Bjarni Snæbjörnsson.

Fyrstu árin mátti Ingvar Gunnarsson sætta sig við háðsyrði margra sem höfðu enga trú á þessu ræktunarstarfi. Hann gafst ekki upp og lét úrtölufólk ekki letja á neinn hátt. Hellisgerði er ein af perlum Hafnarfjarðar og garðurinn er svo sjálfsagður hluti af umhverfinu að almenningur er fyrir löngu hættur að velta því fyrir sér hversu merkilegt brautryðendastarf frumkvöðlanna var og hversu einstakur garðurinn var á heimsvísu.“ – Jónatan Garðarsson

Heimildir:
-https://utilistaverk.hafnarborg.is/listaverk/
-http://www.hraunavinir.net/hellisgerdi-einstok-perla-i-hraunlandslagi/

Guðmundur Einarsson

Guðmundur Einarsson – lágmynd Ríkarðs Jónssonar.

Straumssel

Gengið var upp í Straumssel. Straumsselsstígnum var fylgt upp með vestanverðum Þorbjarnarstöðum, áfram yfir Selhraunið þar sem hraunhaftið er grennst, framhjá litlu-Tobburétt og áleiðis upp í Flárnar.

Fornaselsstígur

Fornasels og Gjálselsstígur.

Selsstígurinn er vel markaður í klöppina á kafla. Þegar komið var upp í Flár beygir stígurinn tl suðurs, upp úfið hraunið og liðast áleiðis að selinu. Litlar vörður marka leiðina. Skammt sunnan við selið greinist stígurinn; annars vegar norður fyrir selstöðuna og hins vegar suður fyrir hana. Norðurstígnum var fylgt til austurs. Þegar komið var að selinu var sólin lágt á lofti svo allar rústir sáust vel og greinilega. Miklar garðhleðslur umlykja selið, auk þess sem sem hlaðið gerði er við það vestanvert. Hlaðinn gerður er um matjurtargarð sunnan megintóftanna. Þær eru leifar bæjar, sem þarna var þangað til skömmu fyrir aldarmótin 1900. Straumssel er eitt örfárra selja á Reykjanesskaganum er óx í bæ. Bærinn brann og lagðist hann þá í eyði. Gamla selsstaðan sést enn skammt suðaustan við bæjarhólinn. Skammt sunnan hennar er hlaðin kví. Brunnurinn er í jarðfalli skammt norðan við bæjartóftirnar.

Straumssel

Straumssel – tilgáta.

Vel má ímynda sér hvernig lífið hefur verið í selinu fyrr á öldum. Yfirleitt voru þau í brúkun frá 6. til 16. viku sumar, þ.e.a.s. ef vatn þvarr ekki fyrr. Við Straumssel eru víða nærtæk skjól við hraunhóla og -hæðir. Hrís hefur og verið nærtækur, auk þess sem beit hefur verið þarna hin ákjósanlegust drjúgan hluta ársins. Brúkun og verkum í seli er lýst annars staðar á vefsíðunni.
Fjárhellar eru sunnan við Straumssel; Neðri-Straumsselshellar og Efri-Straumsselshellar enn ofar. Þar má enn sjá talsverðar hæeðslur, einkum í efri hellunum.

Straumsselsstígur.

Straumselsstígur vestari.

Regnbogi myndaði litríkan boga sinn yfir tóftunum. Honum fannst engin ástæða til að teygja sig lengra en upp í Almenning þar sem hann sló fallegum bjarma á kjarrivaxnar brekkurnar.

Vestari selsstígnu var fylgt úr hlaði. Hann liggur til suðurs út frá bænum og beygir síðan til vesturs og loks til norðurs. Stígurinn til vesturs yfir að Óttarsstaðarseli þverar hann vestan við selið. Stígurinnn er vel markaður í landið og er augljós uns hann mætir eystri stígnum norðan við selið.
Á leiðinni mátti sjá fallagar hraunmyndanir í kvöldsólinni. Neðst í Flánum hefur verið boruð hola til að athuga með vatnsdýpið, en Straumsselið ásamt Mygludölum er framtíðarvatnstökusvæði Hafnfirðinga.

 

Straumssel

Straumssel.

Hafnarfjörður

Í Alþýðublaði Hafnarfjarðar árið 1950 er fjallað um byggingu „Syðri hafnargarðsins“ í höfninni:

Hafnarfjörður

Hafnarfjarðarhöfn 1776-1778 skv. mælingum H.E. Minor.

„Nokkru fyrir mitt ár 1948 var hafin bygging syðri hafnargarðsins. Bygging garðsins hefir gengið mjög vel og er hann nú orðinn fullir 390 metrar að lengd, og nemur dýpi við fremsta hluta hans 7 metrum um stórstraumsfjörur.
Hafnarfjörður
Byggingu garðsins hefir nú verið hætt um sinn, þar eð hann er nú kominn á það dýpi, að ekki verður sama byggingarfyrirkomulagi komið við við framhaldsbyggingu hans og hingað til hefir dugað. Gera má ráð fyrir að veður fari að spillast og vetrarsjóar geti grandað viðbótarbyggingunni ef áfram yrði haldið í vetur. Og í þriðja lagi hefur þegar verið unnið fyrir það fé, sem til mannvirkis þessa hefur fengizt í ár.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður 1903.

Þessar eru þá þrjár megin stoðir, er gert hafa nauðsynlegt að hætta við frekari byggingu garðsins í ár. Alþýðublað Hafnarfjarðar hefir leitað sér upplýsinga um, hvernig bygging garðsins stendur nú, og fengið upplýst að frá ársbyrjun í ár og þar til síðast í marzmánuði var haldið áfram byggingu garðsins á sama hátt og áður, að grjót var sprengt úr Hvaleyrarholti og flutt í garðinn. Í marzlok hóf dýpkunarskipið Grettir að grafa innan við garðinn, og vann hann við það til 17. maí. Það af uppgreftrinum, sem nothæft þótti var notað til undirburðar og sett samhliða grjótflutningnum niður í framhaldi garðsins, þannig að myndaður var malarhaugur, er var ca. 60 m. langur í fullri hæð þ.e. undir stórstraumsfjöruborð, en botnbreidd hans var um 50 m.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – loftmynd 1954. Sjá má grjóttökunámuna h.m. neðarlega.

Garðurinn er nú kominn fram af malarhaugnum á um 7 m. dýpi miðað við stórstraumsfjöruborð. Lengd hans nemur, eins og fyrr er getið 390 m., þar af viðbót á þessu ári 80 m. Skjólveggur er 373 m. Viðbót á árinu 93 m., en lengd steyptrar plötu og fláa á úthlið nemur 382 m. Viðbót í ár var 83 m.Frá garðsendanum hefir nú verið gengið þannig, að raðað var stórgrýti fyrir hann frá fjöruborði og uppúr með svipuðum halla og hliðar garðsins.
Framan af árinu, á nokkrum kafla áður en garðurinn gekk fram á malarbinginn, bar á því að hann sigi, og einnig nokkuð nú undanfarið, eftir að kom fram á malarbingnum, og mest síðast. Hins vegar hefir sig vart orðið merkjanlegt á þeim kafla, sem garðurinn hvílir á malarbingnnum.
Að verkinu hafa að jafnaði unnið um 20 menn, auk verkstjóra. 3 bílar hafa annast grjótflutninginn. Kostnaður við byggingu garðsins í ár nemur um einni og kvart milljón króna. Á s.l. ári var við hann unnið fyrir röska milljón. Vonandi tekst að halda byggingu hans áfram á næsta ári.“

Í sama blaði árið 1951 er fjallað um „Innrásarker til Hafnarfjarðar„:
Hafnarfjörður
„Um klukkan 6 árdegis á miðvikudaginn var, kom til Hafnarfjarðar steinsteypukassi, sá fyrri af tveimur, er hafnarnefnd Hafnarfjarðar lét kaupa í Hollandi nú fyrir 2 mánuðum. Er þetta mikið mannvirki. Kassinn er 62 metrar á lengd, 9—10 m. á breidd, og álíka hár. Verður hann notaður sem togarabryggja innan við hafnargarðinn. Er ákveðið að innan við þessa togarabryggju verði skipakví um 70 m. breið, fyrir togara næst kerinu, og fyrir vélbáta þar fyrir ofan, við hafnarbakka, sem væntanlega verður byggður þar síðar. Í þeim krók, nú þegar, að geta orðið fullkomið var, á hverju sem gengur. Er mikill fengur fyrir fyrir höfnina að fá afgreiðslupláss þetta, og hina rólegu skipakví þar á bak við. Að visu mun verða að hæka steinkerið um 1—2 m. áður en það verður tekið til afnota, vegna vatnsdýpisins, þar sem það er látið, en þar er dýpi fyrir nýsköpunartogara. Er viðbúið að sú hækkun á kerinu verði að bíða næsta árs, vagna annarra framkvæmda er kalla meira að.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður og Hafnarfjarðarhöfn – loftmynd 1954.

Um miðjan næsta mánuð er svo eitt kerið væntanlegt. Það er jafnlangt, en hærra og breiðara en þetta og verður notað í hafnargarðinn sjálfan. Hollenzkur dráttarbátur dregur kerin hingað, einn sá stærsti, er Hollendingar eiga, en þeir eru, eins og kunnugt er, alþekktir fyrir dugnað sinn og leikni við að draga ýms ferlíki um heimshöfin, þvert og endilangt. Ferðin hingað gekk mjög vel, hún tók aðeins tæpa 9 daga frá Amsterdam til Hafnarfjarðar, en gert hafði verið ráð fyrir minnst 10 dögum. Fékk skipið einmuna gott veður alla leið með kassann.
Þessi ker eiga sér allfræga sögu. Þau voru notuð í styrjöldinni síðustu, þegar Englendingar og Bandaríkjamenn réðust inn í Frakkland og fluttu þessa kassa með sér í hundraðatali og gerðu úr þim höfn svo að segja á einni nóttu, án þess að Þjóðverjar vissu neitt um það áður, á opinni strönd Normandí, í Frakklandi, þar sem engum datt í hug að lent mundi verða. Innrásin í Frakkland var einn af úrslitaatburðum styrjaldarinnar og kerin þessi áttu sinn þátt í því að þessi innrás heppnaðist. Eftir styrjöldina hafa þessi ker, mörg, verið tekin upp og notuð víða um heim til hafnarframkvæmda. —
Er þess að vænta að kerin komi engu síður að gagni til friðsænlegra þarfa okkar hér útí á Íslandi en þau gerðu í Frakklandi í mestu átökum styrjaldarinnar.“

Heimild:
-Alþýðublað Hafnarfjarðar, 21. tbl. 28.10.1950, Syðri hafnargarðurinn, bls. 1 og 2.
-Alþýðublað Hafnarfjarðar, 12. tbl. 23.06.1951, Innrásarker til Hafnarfjarðar, bls. 4.

Hafnarfjörður

Hafnarfjarðarhöfn, norðurgarðurinn, 2020.

Bjarni riddari

Í Alþýðublaði Hafnarfjarðar árið 1950 er sagt frá afhjúpun á „Brjóstmynd af Bjarna riddara“ í Hellisgerði:

Bjarni riddari

Brjósmyndin af Bjarna riddara Sívertsen afhjúpuð í Hellisgerði.

„Í september 1950 var afhjúpuð í Hellisgerði brjóstmynd af Bjarna riddara Sívertsen, sem útgerðarfélögin Vífill og Hrafna-Flóki í Hafnarfirði hafa gefið Hellisgerði.

Minnismerkið var gert af Ríkharði Jónssyni, og er fyrsta minnismerkið, sem sett er upp í Hafnarfirði. Minnismerkið var afhjúpað af frú Þórunni Bjarnadóttur, sem er afkomandi Bjarna.
Stallurinn undir myndinni er hlaðinn úr fjörusteinum, sem fluttir voru austan úr Selvogi, en þaðan var Bjarni ættaður.
Mikill mannfjöldi var viðstaddur við þetta tækifæri, og ræður fluttu: Adolf Björnsson, fulltrúi, sem talaði fyrir hönd gefanda. Kristinn Magnússon, formaður Magna, sem þakkaði þessa veglegu gjöf og Helgi Hannesson, bæjarstjóri, sem minntist Hafnarfjarðar.“

Heimild:
-Alþýðublað Hafnarfjarðar, 18. tbl. 16.09.1950 – Brjóstmynd af Bjarna riddara. bls. 4.

Bjarni riddari

Brjóstmyndin í Hellisgerði.

Litluborgir

Haldið var upp í Minni-Dimmuborgir, eða Litluborgir, eins og Jón Jónsson, og sonur hans, Dagur, nefndu lítið hraunssvæði sunnan Helgafells, hraunborgir, sem þar mynduðust, líkt og Dimmuborgir við Mývatn, Hraunsnesið í Skollahrauni og Borgin (Ketillinn) í Katlahrauni. Þar eru og gervigígar, sem mynduðust þegar heitur hraunstraumur rann út í vatn er þá hefur verið þarna austan Helgafells. Hraunið stendur víða á súlum og er „þakið“ víðast hvar nokkuð heillegt. Hægt er að ganga í gegnum hraunið undir „þakinu“.

Litluborgir

Í Litluborgum.

Í fyrri FERLIRsferð kom í ljós fallegur hellir, sem ætlunin var að skoða betur. Inni í honum eru myndarlegar hraunssúlur líkt og umleikis. Lítil umferð fólk hefur verið um svæðið (sem betur fer) þrátt fyrir nýlega friðun þess og mikinn áhuga margra að berja það augum. Hafa ber í huga að svæðið er mjög viðkvæmt fyrir ágangi.
Dimmuborgir í Mývatnssveit eru sundurtættar hraunmyndanir sem vart eiga sinn líka. Talið er að þær hafi myndast í hrauntjörn sem tæmst hefur eftir að storknun hraunsins var nokkuð á veg komin. Eftir standa háir hraundrangar sem taka á sig ótrúlegustu kynjamyndir. Gatklettar og smáhellar einkenna borgirnar. Sá frægasti er líklega Kirkjan, há og mikil hvelfing, opin í báða enda. Í Minni-Dimmuborgum má sjá sömu jarðfræðifyrirbærin, en í smækkaðri og nærtækari mynd.

Litluborgir

Litluborgir – gervigígur.

Borgirnar eru í Þríhnúkahrauni í jaðri Tvíbollahrauns. Austar er Húsfellsbruninn. Allt hafa þetta verið mikil hraun. Húsfellsbruni er að mestu apalhraun, en Þríhnúkahraun og Tvíbollahraun eru helluhraun. Síðastnefnda hraunið mun hafa runnið um 950. Sjá má gígana austan við Kerlingarskarðið þarna fyrir ofan. Megi ngígurinn er einstaklega fallegur og utan í honum eru tveir minni. Mikil hrauntröð liggur niður frá gígunum og víða eru smáhellar. Vatn hefur verð þarna í dalverpi ofan við Helgafell (Helgafell er frá því fyrir meira en 12.000 árum síðan). Þegar hraunið rann þunnfljótandi niður í vatnið mynduðust borgirnar. Líkt og annars staðar þegar þunnfljótandi hraunið rennur yfir vatn mynduðust gervigígarnir.

Í Litluborgum

Gervigígar myndast þegar hraun rennur yfir vatnsósa jarðveg, til dæmis mýri, vatnsbakka eða árfarveg. Í stuttu máli gengur ferlið sem leiðir til myndunar gervigíga þannig fyrir sig: Hraunið rennur yfir vatnsósa jarðveginn, en sökum hitamismunar þess og yfirborðsvatns gufar allt yfirborðsvatn upp. Eingöngu verður eftir það vatn sem geymt er í jarðveginum því það kemst ekki í beina snertingu við hraunið.
Þegar hraunið hefur hulið jarðveginn fer það að þykkna og þá eykst þrýstingur á undirlagið (þrýstingur = þykkt x eðlisþyngd x þyngdarhröðun).
Aukinn þrýstingur pressar vatnið úr hinum vatnsósa jarðvegi sem er undir hrauninu. Við það kemst vatnið í snertingu við sjóðheitt hraunið og myndar gufu. Gufan kemst hins vegar ekki í burtu þar sem hún er föst undir hrauninu. Þegar gufuþrýstingur er orðinn hærri en sem nemur álagsþrýstingi hraunsins brýst gufan upp í gegnum hraunið með miklum sprengingum og gervigígagos hefst.

Í Litluborgum

Ef skoðað er snið í gegnum gervigíga kemur í ljós að fyrsta efnið sem kemur upp í gosinu er yfirleitt mjög ríkt af jarðvegi og undirlagsefnum. Er líða tekur á gosið verða hraunflyksur og gjallmolar hins vegar meira áberandi.
Gervigígar eru ekki í neinu frábrugðnir öðrum gígum í útliti ef þeir ná að gjósa nokkrum sinnum. Aðal munurinn á gervigígum og öðrum gígum liggur í því að þeir fyrrnefndu hafa engar rætur, það er að segja það eru engar aðfærsluæðar (gangar) að þeim eins og í öllum öðrum gígum. Því eru þeir oftast nefndir á ensku „rootless cones“.

Helgadalur

Helgadalur – tóftir.

Minni-Dimmuborgir eru nokkurs konar lagskipt hraunlög, haldið uppi af þunnum hraunsúlum. Hraunbólan er næstum hringlaga og um 100 m í þvermál. Miðsvæðis í bólunni hefur verið hrauntjörn og runnið þunnar hraunskvettur út til hliðanna. Þannig hefur bólan smám saman byggst upp. Aðfærslan að henni hefur verið frá hliðunum. Mikill hiti hefur verið í hrauninu því víða má sjá glerjung og seiglulíka hrauntauma á veggjum.
Í Dimmuborgum, Katlahrauni (sjá HÉR) og Hraunsnesi (sjá HÉR) standa eftir hraunsúlurnar, en í Minni-Dimmuborgum (Litluborgum) hefur þakið haldist vegna smæðarinnar. Súlurnar hafa líklega myndast í hrauntjörninni þar sem gufa hefur leitað upp í gegnum bráðið hraunið og kælt það.
Hellisskútinn reyndist vera þriggja sala. Þakinu er haldið uppi af súlum, hann er rúmgóður og einstaklega fallegur.
Svæðið er mjög viðkvæmt og þolir illa ágang, sem fyrr sagði. Því er mikilvægt að reyna að varðveita þessar jarðfræði- og náttúruminjar sem mest óraskaðar þangað til gerðar hafa verið ráðstafanir til að stýra umferð
fólks um það. (Sjá meira um það HÉR.)

Í bakaleiðinni var litið til með tröllunum á Valahnúk og kíkt á hinar meintu landnámsrústir í Helgadal (sjá meira HÉR). Rústirnar eru á hæðardragi suðaustan í dalnum ofan við vatnið er safnast saman ofan við misgengið. Þær eru orðnar að mestu jarðlægar og erfitt er að segja til um húsaskipan. Brynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi skoðaði rústirnar um aldarmótin 1900 og þá var hægt að sjá móta fyrir veggjum og útlínum einstaka tófta, með erfiðismunum þó. Lengi hefur verið talið að landnámsbærinn Skúlastaðir (sjá HÉR) gæti hafa verið á Görðum, Bessastöðum eða jafnvel í Tvíbollahrauni þar sem nú er Skúlatún. Líklegast og ákjósanlegast væri að beina athyglinni að þessum rústum áður en lengra væri haldið í getgátum um það efni, enda bendir nafnið Helgadalur til þess að þar hafi byggð verið um alllanga tíð.
Sjá meira um Litluborgir HÉR.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimildir m.a.:
-Jón Jónsson jarðfræðingur og Dagur, sonur hans, í Náttúrufræðingnum 62. árg., 3.-4. h. 1993 í greininni Hraunborgir og gervigígar.
-http://visindavefur.hi.is/svar.asp?id=4351
-http://www.ust.is/Frodleikur/Fridlystsvaedi//nr/1295
-http://www.hi.is/HI/Stofn/Myvatn/isl/homframe.htm

Í Litluborgum

Óttarsstaðaganga

Í Smalaskálahæð er Smalaskálaker, rauðamalarhóll í jarðfalli Hrútagjárhrauns. Árið 1974 var komið fyrir þar „listaverki„.
Hreinn Fridfinsson„Húsbyggingin“ (Das Haus Projekt) er þekkt verk eftir Hrein sem einnig varð til á 8. áratugnum. „Húsbyggingin“ byggir á sannri sögu eftir Þórberg Þórðarson, Íslenskum aðli, um sérvitring sem afræður að byggja hús þar sem innihliðin snýr út. Hreinn ákvað að taka þessa hugmynd upp og byggði húsið þannig að veggfóður þess og gardínur lágu utan á. Þegar húsinu hafði verið snúið við þurfti hið sama að gilda um heiminn fyrir utan, þ.e. öllu sem var úti fyrir þurfti nú að finna stað inni í húsinu. Sem listmunur er húsið lítils virði að mati listamannsins. Nauðsynlegt var að reisa það til þess að fullkomna þessa hugmynd, en það nægir að það sé til sem vitnisburður á ljósmyndaformi. „Mér líkar vel að uppgötva hið óvenjulega í hinu venjulega. Það er þetta sem ég fæst við, fyrst og fremst.“ Hreinn Friðfinnsson vinnur með nánast hvaða efnivið og hvaða miðla sem er, jafnt ljósmyndir, hús, fíngerðar teikningar og efnivið sem hann hefur fundið. Í þeim og með aðstoð þeirra rannsakar hann venjubundna skynjun, tilfinningar og skilning. Jafnvel smæstu verk hans og þau sem minnst ber á búa yfir mikilfenglegri hugmyndaauðgi og tilfinningu.“
Slunkariki - myndir„Hér má sjá sex af sextán myndum af Slunkaríki Hreins Friðfinnssonar sem teknar voru sumarið 1974. Myndirnar er fengnar af heimasíðu listamannsins. Hreinn setti listaverkið upp það árið í Smalaskálakeri, en það er jarðfall í Smalaskálahæð. Jarðfallið er sunnan í Smalaskálahæð í Hraunum suðvestur af Straumsvík, nánar tiltekið skammt frá Óttarstaðafjárborg, sem nefnist einnig Kristrúnarborg. Þangað liggur vegslóði af gamla Suðurnesjaveginum og Gamlavegi (eldri vegurinn), en afleggjarinn er til móts við Lónakots heimreiðina.
Myndlistarmaðurinn Hreinn Friðfinnsson tilheyrði SÚM hópnum þegar hann gerði listaverkið. Þetta var lítið hús sem var forsmíðað og síðan flutt í einingum. Þegar það var risið voru teknar af því sextán ljósmyndir úr ýmsum áttum, bæði ofan frá og neðan frá og myndaði ljósmyndasyrpan sjálft listaverkið.
Slunkariki-21Þegar þessi gjörningur var afstaðinn var hlutverki hússins sem listaverks í rauninni lokið en eftir stóð lítil bygging á röngunni, ef svo mætti segja. Hreinn vann verkið undir áhrifum frá kafla í bókinni Íslenskum aðli sem skáldið Þórbergur Þórðarson ritaði 1938 og fyrr er getið. Í einum kafla bókarinnar fjallaði Þórbergur um sérkennilegan mann sem hét Sólon og bjó rétt utan við þéttbýlið í Ísafjarðarkaupstað við Skutulsfjörð.
Sólon byggði sér einkennilegt hús og lét bárujárnið snúa inn í húsið en setti veggfóður á útveggina. Veggfóður var nýjung á þessum tíma en bárujárnið hafði verið notað um árabil. Sólon var svo hrifinn af veggfóðrinu og vildi leyfa öllum íbúum staðarins að njóta fegurðarinnar með sér. Það var því eðlilegt að hafa það utan á húsinu, sem gekk undir nafninu Slunkaríki. Samneft myndlistar gallerý hefur verið starfrækt á Ísafirði um nokkurra ára skeið og er það til minningar um þennan merka mann, sem var sennilega fyrsti íslenski konsept listamaðurinn, án þess að hafa hugmynd um það sjálfur.
Slunkariki-22Það sem eftir er af Slunkaríki er aðeins brak á víð og dreif um Smalaskálaker. Eftir að búið var að mynda húsið lét Hreinn það afskiptalaust, enda tilgangur hans aðeins að koma því á þennan stað og útbúa myndröð í anda SÚM-aranna. Gjörningnum var lokið og síðan beið hússins að ummyndast með veðrinu sem lék um það og setti mark sitt á náttúruna allt í kring. Húsið var eins og sérkennilegur hlutur á sjálfu tunglinu, bygging í miðri náttúruperlu, enda er jarðfallið afar sérstakt og fallega mótað.

Slunkariki-23Húsið stóð af sér flest veður um árabil þó svo að myndirnar létu fljótlega á sjá eins og veggfóðrið, sem flettist af veggjunum. Hurðin fauk upp einn veturinn og losnaði eftir það af hjörunum. Skotglaðir Hafnfirðingar notuðu húsið til að æfa hæfni sína, eins og þeir virðast hafa gert svo óralengi á þessum slóðum. Smám saman drukku spónaplöturnar sem mynduðu útveggina í sig regnvatnið og grotnuðu niður, en bárujárnið hélt húsinu uppi. Stoðirnar blöstu við og innan þeirra var bárujárnið heilt og óryðgað enda vel galvaniserað. Stuttu eftir 2000 sprakk húsið í vindhviðu einn veturinn og dreifðust stoðir og  járnplötur vítt og breitt um jarðfallið, en restin af húsinu varð að einni grautarhrúgu efst á gjallhaugnum. Eftir það stóð grunnurinn efst á haugnum í gjótunni ásamt spýtnadóti og öðru smálegu og má enn sjá brotin í Smalaskálakeri.
ottarsstadaborg-21Laugardaginn 17. júlí 2010 voru einhverjir á ferð í Smalaskálakeri og kveiktu í því sem eftir var af Slunkaríki. Það sem viðkomandi aðilar gerðu var ekki bara skemmdarverk á listaverki sem var að veðrast með eðlilegum hætti, því eldurinn læsti sig í trjágróður, lyng, mosa og annan lággróður sem hefur verið að sækja í sig veðrið og vaxið þarna um langa hríð. Magnaðist upp mikið bál og varð að kalla út slökkvilið sem réð ekkert við eldinn. Þyrla Landhelgisgæslunnar var þá kölluð á vettvang til að hjálpa við slökkvistarfið og fór margar með sérstakann sekk sem notaður er til að sækja vatn í sjó eða stöðuvötn þegar erfitt er að athafna sig við slökkvistarf úti í náttúrunni.“
Þrátt fyrir listaverkið og gjörning þann er að framan greinir er rauðhóllinn í Smalaskálakeri hvað merkilegastur. Þessi gamli „litli“ rauðamelshóll áorkaði að stöðva framrás hrikaleika Hrútagjárdyngju-hraunsins á þessu svæði. Augljóslega má sjá að mikil kvikusöfnun hefur átt sér stað allt umleikis og hún lyft storkuðu yfirborðinu. En þrátt fyrir álagið hefur rauðhóllinn staðið fyrir sínu og ekki látið hið mikla hraunálag yfir sig ganga. Sambærilega gjallhóla má sjá í Stóra Rauðamel og Litla Rauðamel skammt norðar.

Heimild:
-hraunavinir.net
-Morgunblaðið 23. apríl 2005.

Smalaskáli

Smalaskáli í Smalaskálahæð.

Krýsuvík

Um 1930 var erfitt að stunda búskap í kringum Hafnarfjörð, bæjarbúar voru sjálfum sér ekki nógir um neyslumjólk og beitiland vantaði fyrir sauðfé. Ekki fékkst aukið ræktarland úr Garða-kirkjulandi og var þá farið að svipast um eftir öðrum jörðum nærri bænum.
Vinnuskóladrengir við störfKrýsuvík þótti álitlegust og ritaði bæjarstjórn Hafnarfjarðar Einari Benedikts-syni bréf í janúar 1933 og spurðist fyrir um hvort jarðeignir hans í Krýsuvík eða Herdísarvík væru fáanlegar til kaups.
Tveimur árum síðar átti bærinn kost á að kaupa Krýsuvík fyrir 50.000 krónur og tók jörðina á leigu á fardögum 1935 til eins árs, með það í huga að kaupa hana síðan með gögnum og gæðum. Með lögum nr. 11, 1. febrúar 1936 var ríkissjóði heimilað að taka eignarnámi lönd í lögsagnar-umdæmi Hafnarfjarðar og lönd sem liggja að Hafnarfirði. Eftir það upphófst mikið málaþras um væntanleg kaup bæjarins á jörðum Krýsuvíkur og Stóra-Nýjabæjar og afnotaréttinn. Gekk á þessu í nokkur ár þar til lögunum var breytt og tóku lög nr. 101, gildi 14. maí 1940. Þar sagði að Gullbringusýsla skyldi fá í sinn hlut lítt ræktanlegt beitiland jarðanna Krýsuvíkur og Stóra-Nýjabæjar til sumarbeitar fyrir sauðfé samkvæmt skiptagerð frá 1. maí 1939, en Hafnarfjarðarkaupstaður fengi jarðirnar að öðru leyti með öllum gögnum og hlunnindum, sem þeim fylgdu og fylgja bæri, að undanteknum námuréttindum. Hinn 20. febrúar 1941 gaf Dóms- og kirkjumálaráðuneytið út afsal fyrir Krýsuvík til Hafnarfjarðar.
Gönguferð við SeltúnÁrið 1935 var ákveðið að leggja Suðurlandsbraut um Krýsuvík til að fá snjóléttan vetrarveg milli Árnessýslu og Reykjavíkur. Árið 1945 var lagningu vegar fyrir Kleifarvatn lokið og árið eftir hófst borun eftir jarðhita í Krýsuvík.
Gróðurhús voru reist og tekin í notkun í mars 1949 ásamt húsi fyrir starfsfólk. Tveimur árum síðar hófst bygging bústjórahúss og 130 gripa fjóss sem aldrei var lokið því 1950 var framkvæmdafé á þrotum. Þá hafði ræst úr mjólkurskorti bæjarbúa með bættum samgöngum við Suðurland. Framkvæmdir hófust að nýju í Krýsuvík 1954 er 15 hektarar voru teknir í fulla ræktun. Keypt voru 100 gimbralömb og flest varð féð um 650 áður en þessum rekstri var hætt nokkrum árum síðar. Gróðrarstöðin og búskapurinn gengu ekki vel og illa hélst á starfsfólki. Var búrekstri af hálfu bæjarins hætt í Krýsuvík 1960. Eftir það voru húsin leigð til einstaklinga sem ráku þar ýmiskonar starfsemi, þar á meðal gróðurhús, svínabú og refabú svo fátt eitt sé talið.
Bústjórahúsið var reist árið 1948 fyrir Jens Hólmgeirsson sem átti að stjórna kúabúinu í Krýsuvík. Hann flutti aldrei í húsið og aldrei kom til þess að kýr yrðu bundnar á bása í fjósinu. Árið 1952 sagði Jens stöðu sinni lausri og eftir það var húsið notað í stuttan tíma fyrir stjórnendur vinnu-skólans í Krýsuvík.
Sumarið 1953 var tekin upp sú nýbreytni, að Hafnarfjarðarbær kom á fót vinnuskóla í Krýsuvík fyrir drengi á aldrinum 10-13 ára. Milli 40 og 50 drengir dvöldust að öllu leyti í Krýsuvík frá júníbyrjun til ágústloka, en komu heim til sín aðra hverja helgi. Þeir héldu til í íbúðarhúsum Krýsuvíkurbúsins. Þessi Unnið við gerð sundlaugar á Bleikhólssandistarfsemi naut mikilla vinsælda meða almennings í Hafnarfirði, enda bætti hún úr brýnni þörf. Færri drengir komust að en vildu. Þeir lærðu ýmiss hagnýt vinnubrögð, voru undir góðum aga og var kennt að meta gildi vinnunnar. Meðal verkefna, sem drengirnir unnu á fyrstu árin, má nefna lagfæringu og snyrtingu á lóð íbúðarhúsanna, vinnu í gróðurhúsunum, ræktun kartaflna, aðstoð við ræktunarframkvæmdir og  heyskap, viðgerðrir á girðingum og margt fleira. Auk vinnunnar stunduðu þeir íþróttir og leiki og fóru í gönguferðir.
Fyrstu forstöðumenn vinnuskólans voru kennarnir Eyjólfur Guðmunundsson og Snorri Jónsson. Á árunum eftir 1960 voru drengirnir í vinnuskólanum í Krýsuvík á aldrinum 8-12 ára. Var þá lögð sérstök áhersla á leiki, og var drengjunum t.d. veitt sérstök tilsögn í knattspyrnu. Nutu þá fleiri drengir dvalar en áður, því starfað var í tveimur flokkum, og dvaldi hvor flokkur fimm vikur í Krýsuvík. rúmlega 50 drengir voru í hvorum flokki. Þeir unnu venjulega fimm til sex stundir á dag, og var vinnan sem áður fyrst og fremst í þágu búsins og gróðrarstöðvarinnar í Krýsuvík. Sumrin 1959 og 1960 unnu drengirnir í unglingavinnunni í Krýsuvík að skógrækt í skógræktargirðingunni í Undirhlíðum og settu þar niður samtals Gönguferð við Arnarvatn50.000 trjáplöntur. Þessi skógræktarstörf voru unnin í samvinnu við Skóg-ræktarfélag Hafnarfjarðar. Unglingavinnan var síðast í Krýsuvík sumarið 1964. Umsjón með starfseminni þar seinni árin höfu kennarnir Haukur Helgason og Helgi Jónasson.
Krýsuvíkursamtökin fengu síðar afnot af starfsmanna-húsinu er hýst hafði vinnuskóladrengina. Og enn liðu áin, bústjórahúsið grotnaði niður og var mjög illa farið þegar Sveinn Björnsson listmálari fékk það til afnota 1974. Hann gerði húsið upp, flutti þangað málaratrönur, pensla, liti og húsbúnað og kom sér upp vistlegri vinnustofu. Sveinn hafði tekið þátt í að reisa þaksperrurnar á fjósinu í Krýsuvík á sínum tíma og þekkti því staðhætti. Þarna starfaði hann að list sinni þar til hann lést 1997. Húsið ber þess merki að þar hefur listamaður verið að störfum. Sveinn skreytti loft, veggi og hurðir hússins og lagði tröppurnar litskrúðugum teppabútum. Nú kallast bláa húsið með rauða þakinu ekki lengur Bústjórahúsið heldur Sveinshús eftir listmálaranum og rannsóknar-lögreglumanninum Sveini Björnssyni, sem sá til þess að húsið endaði ekki sem gapandi tóft, heldur öðlaðist virðulegan sess sem listasetur.
Þegar vinnuskólinn var í Krýsuvík dvöldust drengirnir 40-50 í fimm herbergjum á fyrstu hæðinni, 8-12 saman í herbergi og undu hag sínum vel. Þá voru engin þrengsli, en ef aðstaðan er skoðuð í dag má telja ótrúlegt að hægt hafi verið að Indíáninn í Kleifarvatnikoma svo mörgum drengjum fyrir í þessum herbergjum. Tvílyftar kojur voru með veggjum, en öðrum húsgögnum var ekki til að dreifa.
Jafnan var upphafið það að mætt var á planið við Lækjarskólann. Þar komu drengirnir með föt sín fyrir dvölina, stígvéli, regngalla og önnur þarfaþing í pappakössum, í besta falli snjáðum ferðatöskum. Eftir að rútan lagði af stað var þögn fyrst um sinn því söknuðurinn var mikill, a.m.k. þegar farið var fyrsta sinni. Margir báru síðar gæfu til þess að fá að fara aftur og aftur í Krýsuvíkina og það jafnvel í bæði hollin. Þegar komið var upp fyrir Vatnsskarðið var tekið til við söng og á móts við Indíánann ráku allir upp öskur að hætti hússins. Þá var ekki aftur snúið. Við tók annar heimur. Kapphlaupið um að komast í tiltekið herbergi og jafnvel tiltekna koju hófst um leið og rútan stöðvaðist á planinu vestan við starfsmannahúsið. Að því búnu var hafist handa við að koma farangrinum fyrir og búa um rúmin. Héðan í frá þurfi hver og einn að sjá um sig, þvo af sér, þrífa, skúra o.s.frv.
Vinnudagurinn hófst með morgunkaffi. Síðan var yfirleitt unnið í flokkum hálfan daginn. Einn varð verkstjóri er hélt öðrum að vinnu og skráði hjá sér verðskulduð laun hvers og eins, allt eftir dugnaði og ástundun. Um var að ræða afkastahvetjandi launakerfi. Eftir hádegisverð var farið í langar Unnið í gróðurhúsinugönguferðir um fjöll og fyrnindi, skipulega leiki eða íþrótta-keppni haldin. Auk þess var alltaf einhver tími til stíflugerðar eða kofabygginga. Um helgar var t. a.m. gengið upp að Arnarvatni, yfir að Víti í Kálfadölum, niður að Heiðnabergi eða farið að veiða í Kleifarvatni. Leikir fólust í að rata eftir vísbendingum, ná herfangi, leysa þrautir eða bara slást þar sem líf hvers og eins hékk á einni teygju um arminn. Knattspyrnukeppnir milli herbergja voru teknar mjög alvarlega, en yfirleitt fóru drengir úr fjórðaherbergi með sigur af hólmi á þeim vettvangi.
Á kvöldin, fyrir kvöldkaffið, voru kvöldvökur eða kvikmyndasýningar á ganginum á fyrstu hæðinni. Síðasti móhíkaninn varð ógleymanlegur. Fyrir svefninn var farið með Faðirvorið. Allir áttu auðvelt með svefn eftir erfiðan dag.
Starfsfólk vinnuskólans var í einu orði sagt frábært. Það hafði utanumhald um hlutina, hélt uppi hæfilegum aga en veitti jafnfram nægan stuðning ef á þurftu að halda. Það var leiðbeinandi og gerði kröfur, en það verðlaunaði alla þá er áttu það skilið með eftirminnilegum hætti. Þannig eiga flestir þátttakendur vinnuskólans enn a.m.k. einn handunnið viðurkenningaskjal, sem þeir fengu fyrir hvaðanæva það er þeir gerðu vel – í lok hvers tímabils.
Söknuðurinn þegar haldið var til baka áleiðis til Hafnarfjarðar eftir sumardvölina var ekki minni en þegar farið var af stað úr bænum í upphafi dvalarinnar.

Heimild m.a.:
-Aðalskipulag Hafnarfjarðar – Krýsuvík.
-Saga Hafnarfjarðar.
-Myndir tók Haukur Helgason.

Krýsuvík

Krýsuvík – Vinnuskólinn.

Þorbjarnastaðir

Í bókinni „Neistar – úr 1000 ára lífsbaráttu íslenskrar alþýðu“ eru ýmsir mannlífsþættir. Einn fjallar um afleiðingar af aftöku Jóns Arasonar og tengist Straumi. Textinn er tekinn upp úr Grímstaðaannál. Jafnan hefur því verið haldið á lofti að kapellan í Kapelluhrauni hafi tengst því atviki, en þar er um misskilning að ræða.
Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar segir frá því að einn af mönnum Kristjáns skrifara hafi Mannabein verið drepinn í Kapelluhrauni og grafinn í kapellunni til hefnda eftir Jón biskup Arason og syni hans. Rannsókn Kristján Eldjárns í kapellunni árið 1950 gaf þó enga vísbendingu um slíkt. Það, sem ekki kom fram í rannsókninni, enda ekki fyrirséð, var sú mikla eyðilegging á merkilegu minjasvæði er varð í algleymi álversframkvæmdanna á sjöunda áratug síðustu aldar. Ef bara einhver svolítil hugsun hefði kviknað í kolli þeirra er vit hefðu átt að hafa á slíku þá værum við öllu menningarsögulega ríkari nú.
Í örnefnalýsingu fyrir Þorbjarnarstaði segir m.a.: „Sagnir voru um, að einn sveina Kristjáns skrifara, sem drepinn var á Kirkjubóli á Miðnesi, hafi verið dysjaður við Kapelluna. Var því þarna stundum kölluð Dysin eða Kapelludys.“ Kapellan, þ.e. húsið, sem þarna var, gæti þess vegna hafa verið hlaðin til minningar um atvikið. Líklegt má telja að aftakan hafði verið framkvæmd þarna skammt frá, en líkamspartarnir síðan skildir eftir við Alfaraleiðina er lá framhjá kapellunni, öðrum til varnaðar. Fyrrum lá gata af leiðinni niður í Lambhagavík, sem mun hafa verið aðallendingastaður verslunarinnar í Straumsvík fyrrum. Gísli Sigurðsson nefndi hana Ólafsstíg, sbr.: „Uppi á Brunabrúninni er líka Fiskabyrgið, þar sem fiskur var kasaður hér í eina tíð og síðan hertur. Þarna uppi voru einnig tvö til þrjú fjárhús. Sunnan við þau lá stígur austur eftir hraunhrygg allháum. Var hann lagður hellum langt austur. Gísli Sigurðsson segir, að hann hafi heitið Ólafsstígur, en það mun vera rangt.
Ólafsstígur lá upp á hraunið hjá kálgörðunum í Litla-Lambhaga.“ Þá segir að „Austurtúngarðurinn [á Þorbjarnarstöðum var rétt norðan Alfaraleiðarinnar] lá úr Beinaviki upp á klettastall og suður eftir honum suður á Brunann.“ Örnefnið „Beinavik“ er hér ekki skýrt nánar, en það mun hafa verið í krikanum þar sem þjóðleiðin lá upp á Brunann. Það gæti gefið til kynna aftökustaðinn, enda jafnan notaður sem áningastaður. Ferskt vatn kemur þarna undan hrauninu og skjólgott er þar fyrir norðanáttinni. 

Kapella

Kapellan.

1551 – Bóndinn þar á Kirkjubóli á Miðnesi og hans maður, Hallur að nafni, hann bjó í Sand(hóla)koti, var ráðsmaður bóndans, þeir voru báðir teknir um sumarið eftir og áttu að flytjast til alþingis. En þeir voru þverbrotnir og bágir viðureignar, fluttu þá að straumi, og voru þeir þar báðir hálshöggnir. Þar var þá kaupstefna [eitt af herskipum Dana kvað þá hafa legið þar, en venjulega kaupstefnan var öll í Hafnarfirði].  Höfuðin voru fest á stengur, en bolirnir á hjóli sundur slitnir, og sá til merkis meir en 20 eður 30 ár. Margur galt þá, bæði sakaður og saklaus, fyrir norðan og sunnan, en Danir tóku sér mestar eignir þeirra feðga. Böðullinn, sem þá feðga hjó í Skálholti, hét Jón Ólafsson. En þegar norðlenzkir riðu frá Kirkjubóli eftir hefnd þeirra, fundu þeir þennan Jón á Álftanesi. Tóku þeir hann og héldu á honum túlanum og helltu ofan í hann heitu biki [blýi, segja aðrir]. Með það lét hann sitt líf, en þeir riðu norður.“

Heimild:
-Björn Sigfússon – Neistar, úr þúsund ára lífsbaráttu íslenskrar alþýðu, 1044, bls. 161 (Grímsstaðaannáll).
-Örnefnalýsingar fyrir Straum og Þorbjarnarstaði.
-Árbók Hif 1954.

Kapellan í Kapelluhrauni 1950