Tag Archive for: Hafnarfjörður

Moshellar

Stórhöfðastígur greinist í tvær leiðir.
Ætlunin var að skoða nyrðri leið Stórhöfðastígs frá Hraunhólum, Storhofdastigur-7yfir Mosana áleiðis að Hrúthólma. Í leiðinni var ætlunin og að reyna að staðsetja Moshella og Sauðahelli er Gísli Sigurðsson nefnir í örnefnalýsingunni sinni fyrir Krýsuvík. Í lýsingunni segir hann m.a. að „[Stórhöfðastígur] nyrðri liggur norðan Hraunhólanna og Fjallsins eina, vestur um Mosana, sem er mosagróið hraun og þar eru Moshellarnir. Síðan liggur slóðin með frá Hrútagjárhrauni allt vestur að Hrúthólma“. Einnig að „[V]egurinn liggur allt innundir Sandfellsklofa, en beygir þar til norðurs og þar fyrir múla nafnlausan og þétt með hlíðinni vestur á sandflæmi, sem þar er og nefnist Norðlingasandur. Uppi hér á hálsinum er eldvarp. Þar rétt hjá er hellir, nefnist Sauðahellir. Þangað leituðu oft sauðir Hraunamanna“.
HraunhólarÍ nefndri örnefnalýsing Gísla segir m.a. um leiðir vestan við Vatnsskarð: „L.M. línan liggur úr Markrakagili yfir Nýjahraun og um Hraunhóla gíga á Fjallstagli Fjallsins eina, þaðan út á svonefnd Slitur, sem nefnd eru í gömlum skjölum, þar sem minnst er á landamerki Krýsuvíkur. Hjá hraunhólum þessum skiftist Stórhöfðastígur. Liggur sá nyrðri norðan Hraunhólanna og Fjallsins eina, vestur um Mosana, sem er mosagróið hraun og þar eru Moshellarnir. Síðan liggur slóðin með frá Hrútagjárhrauni allt vestur að Hrúthólma. Syðri stígurinn lá sunnan Fjallsins eina og í Grænklofa milli Sandfells og Hrútagjárhorns um Grenklofa sem Grænklofi er einnig kallaður og undir Hrútagjárhraunbarmi) síðan frá Hrútagjárhorninu syðra upp á Krýsuvíkur- eða Ketilstíg. Hrútagjárhraun eða Hrútahraun hefur runnið úr gígum áður nefndum í Sveifluhálsi. Norðurbarmurinn er allur sprunginn og brattur. 

Hraunhólar-2

Þar er Hrútagjá stórgrýtt í botninn og ill umferðar. Syðst liggur stígur af gjánni yfir í Hrúthaga, Hrútagjárstígur. Stígurinn heldur síðan áfram vestur um Dalinn, Móhálsadalinn um sléttar og mosavaxnar klappir allt að Hrútafelli og sunnan þess í Ketilstíg.
Af Slitrum liggur L.M. línan í Markhelluhól.“
Um Undirhlíðaveg og Vatnsskarðsskarðsstíg segir Gísli m.a.: „
L.M. línan af Undirhlíðum liggur um Markrakagil, sem einnig ber ýms önnur nöfn, svo sem: Mar-krakagil, Marrakagil, Melrakkagil, Markrakkagil. Gil þetta á að vera fjórða gil í Undirhlíðum frá Vatnsskarði að telja, en öll eru þau nafnlaus. Niður undan Undirhlíðum liggur Undirhlíðavegur eða Krýsuvíkurvegur gamli, sem lá frá Hafnarfirði upp í Námur og Krýsuvík.
MosarUndan öðru gili er lítil flöt, nefnist Ráðherraflöt. Svo segir að eitt sinn á búskaparárum Jóns Magnússonar í Krýsuvík 1900–1912 þá hittust þeir þarna á flötinni Jón bóndi og Hannes Hafstein ráðherra. Þar af kom nafnið. Hér spölkorn vestar var komið að miklum gíg, sem nú er horfinn. Nefndist hann Hálsgígur. Vegurinn lá sunnan undir honum að Vatnsskarðshálsi hrygg lágum, sem lá út úr Undirhlíðum eða Undirhlíðarhorni. Vegurinn lá upp á hálsinn og niður af honum og sveigir þá inn undir Vatnsskarð. Hér á hrauninu rétt við voru tveir gígar, gjallhaugar miklir, er nefndust Rauðhólar, Rauðhóll eystri og Rauðhóll vestri. Milli þeirra lá Vatnsskarðsstígur út að Fjallinu eina. Við stíginn sagði Guðmundur Tjörvi bóndi í Straumi 1895–1925, að væri greni það sem við hefði átt að miða þegar landamerkin voru gerð 1890, því Vatnsskarð væri hið eiginlega Melrakkaskarð. Vatnsskarðsgreni er því þarna á hrauninu og Vatnsskarðsflöt neðanundir skarðinu.
Moshellar-2Frá Sandfellsklofagígum, Rauðhólum og Hálsgíg er runnið hraun það sem kallað er Nýjahraun og er nokkuð af því hér og heyrir því Krýsuvík til. Vegurinn liggur upp frá flötinni í norður og fyrir múla nafnlausan og síðan inn með honum. Hálsinn á aðra hönd, vinstri en á hægri hraunið. Í þessu hrauni er Sandklofahellir og Sandklofatraðir eða Hrauntraðir þaðan og langt niður á hraun, þar sem aðrar traðir koma inn á þessar. Vegurinn liggur allt innundir Sandfellsklofa, en beygir þar til norðurs og þar fyrir múla nafnlausan og þétt með hlíðinni vestur á sandflæmi, sem þar er og nefnist Norðlingasandur.
Storhofdastigur nyrdriUppi hér á hálsinum er eldvarp. Þar rétt hjá er hellir, nefnist Sauðahellir. Þangað leituðu oft sauðir Hraunamanna. Þá kemur Norðlingaháls liggur fram og norður út hálsinum. Vegurinn liggur upp hann og niður af honum á svo nefndar Stórusteinaflatir. Stóri steinar hafa hrunið hér niður ofan úr klettabelti í hálsinum. Hér eru Köldunámur. Löngu kulnaður jarðhiti eða hver. Upp frá Köldunámum er gengið í Folaldadali — miðdalinn. Nú er langur kafli, örnefnalaus. Þá er komið að Ketilstígssteini kletti allmiklum og liggur vegurinn frá honum upp á hálsinn og er þá komið að Katlinum og í hinn eiginlega Ketilstíg, sem liggur um austurhlíð og suðurhlíð Ketilsins og þar upp á brún, síðan áfram framhjá Arnarvatni niður með efsta hluta Seltúnsgils yfir á stall ofan Seltúns og niður Seltúnsbrekkuna í Seltúnshvamm. Stundum var öll leiðin frá Hafnarfirði í Seltún og að Krýsuvík kölluð Ketilstígur. Að fara Ketilstíg.“
Því miður er framangreind Ráherraflöt kominn undir Vatnsskarðsnámusvæðið.
Um Stórhöfðastíginn nyrðri segir Gísli: „
Landamerkjalínan milli Krýsuvíkurlands og upprekstrarlands Álftaneshrepps hins forna liggur um vestanverðar Undirhlíðar, rétt um Háuhnúka eða Rakka. Vatnsskarð skiptir nöfnum á þessum móbergshálsum og heitir Sveifluháls fyrir vestan. 

Storhofdastigur nyrdri - 2

Um skarðið lá Vatnsskarðsstígur og má enn sjá móta fyrir honum á melum vestan vert við Krýsuvíkurveginn. Eru nú engin örnefni fyrr en komið er nokkuð vestur á Hálsinn. Hellutindar eða Skriðutindar eru fyrstir fyrir. Þá Stapatindur eystri og þá Stapatindur vestri og milli þessara tinda eru svo Tindaskörðin. Þá er komið í Ólafsskarð, en um það liggur Ólafsstígur. Örnefnin eru kennd við Ólaf trésmið Magnússon, en hann fór hér oft um þegar hann heimsótti föður sinn Magnús Ólafsson í K-vík. Há rís upp hér á hálsinum hæsti hnúkurinn, Miðdegishnúkur. Mun heita svo af því hann er eyktamark úr Hraunum. Hér vestar nokkurn spöl er Arnarnýpa, og þar á Arnarhreiður. Sér nýpuna víða að. Til hliðar, norðan við tindana er hálsinn sprunginn að endilöngu. Austast er Sandfellsklofi. Þar eru eldvörp og eins upp á hálsinum. Vestar taka við Folaldadalir. Foladadalur eystri með Folaldadalstjörn. Þá er Mið-Folaldadalur og Folaldadalur vestri og er þar Folaldadalstjörn vestri. Tjarnir þessar þrjóta venjulega á sumrin. Þá er komið á Ketilstíg þar sem hann kemur upp úr Katlinum og liggur framhjá Arnarvatn.“
Storhofdastigur nyrdri - 3Í viðleitninni að rekja Stórhöfðastíginn nyrðri var lagt af stað við neðsta hraunhólinn í Hraunhólum og síðan gengið upp með þeim áleiðis að Fjallinu eina, þ.e. syðri leiðina, í von um að hún gæfi færi á kennileitum v/hinn fyrrnefnda. Þegar komið var upp undir fjallstöglin var stefnan tekin inn undir brúnum áleiðis að Mosum. Þeir voru síðan fetaðir upp í Moshella. Hellarnir eru greinileg fjárskjól. Gróin varða er á einum þeirra. Einhverra hluta vegna hefur þeirra verið getið sem „Sauðabrekkukjól“. Nefnt skjól er hins vegar í norðanverðum Sauðabrekkum. Það er skjól fyrir smala eða þann/þá er áttu leið um Hrauntungustíg.
Storhofdastigur-4Þegar komið var upp að gatnamótum Stórhöfðastígs og Hrauntungustígs austan Hrúthólma var auðvelt að fylgja fyrrnefnda stígnum yfir mjóa apalhraunstungu áleiðis að Hrútargjárdyngjubrúninni. Reykjavegurinn hefur af einhverjum ástæðum verið lagður þarna til hliðar við hina fornu götu og yfir aðalhraunið á miklu mun óaðgengilegri stað en gamli stígurinn.
Stígnum var fylgt að grónum rauðamelshól. Á honum var varða. Síðan var stígnum fylgt eðlilegustu leið niður annars greiðfært hraunið, niður að fallegri sprungureinagígaröð, miklu mun yngri en dyngjuhraunið, og niður að annarri slíkri þar sem hann beygði með neðstu brúninni áleiðis að Hraunhólum. Einungis ein varða var við ofanverða leiðina, sem verður að teljast svolítið sérstakt.
Tvi-DrangarÞegar komið var niður á Mosana var stígnum fylgt eðlilegustu leið milli gjáa. Leiðin liggur síðan með lágum hæðum á hægri hönd, í svo til beina stefnu á Stórhöfða. Þegar kemur fram á brúnirnar og séð verður niður á syðri Stórhöfðastíginn liggur leiðin með grónum hraunhólum niður í stóra lægð í hrauninu með svo til beina stefnu á Tví-Dranga, tvo samliggjandi klettadranga við Stórhöfðastíginn. Þar virðist hafa verið áningarstaður og þar við eru gatnamótin.
Nyrðri leið Stórhöfðastígar virðist gleymd og tröllum gefin, en hefur engu að síður bæði verið greiðfær og einna sú beinasta millum Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar (Stórhöfða) fyrrum.
Frábært veður. Gangan tók 6 klst og 6 mín.

Heimidlir m.a.:
-Örnefnalýsing Krýsuvíkur – Gísli Sigurðsson.

Stórhöfðastígur

Stórhöfðastígur.

 

Réttarklettar

Stefnan var tekin niður að Lónakoti með gamlar örnefnalýsingar í öðrum vasanum og nýmóðins gps-tæki í hinum. Veðrið var frábært; +19°C.
BæjarhóllinnFarið var nákvæmlega eftir örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar. Heimildarmenn hans voru m.a. Gústaf Sigurðsson frá Eyðikoti í Hraunum, nú í Reykjavík, og Ólafía Hallgrímsdóttir, f. í Lónakoti (nú dáin), svo og Guðjón Gunnlaugsson [Gaui Lóna], alinn upp í Lónakoti, f. í Hafnarfirði (nú dáinn). Ætlunin var m.a. að skoða Lónin suðaustanverð, svæðið nyrst á Austurtúninu og halda síðan út í Réttarkletta með áframhaldandi för yfir hraunið að upphafsstað. Við skoðun á því svæði kom ýmislegt skemmtilegt í ljós.

Í nefndri lýsingu segir m.a.: „Landamerki fyrir jörðina Lónakot í Garðahreppi. Lónakot, jörð í Álftaneshreppi hinum forna, síðar í Garðahreppi, fyrr og nú syðsta jörð þessara hreppa. Nú innan lögsagnarumdæmis Hafnarfjarðar. Er í eyði síðan um 1930. Lónakotsbærinn stóð á Bæjarhólnum, sem var sprunginn klettur, því sem næst í miðju Lónakotstúni, sem skiptist í Austurtún, Norðurtún og Vesturtún, öðru nafni Seltún.
LónakotTúnið lá innan Lónakotstúngarðs, en hann skiptist aftur á móti í suðurtúngarð með suðurtúngarðshliði, en þessi hluti túngarðsins lá um nyrztu hólma og granda Lónakotsvatnagarða, sem eru hólmar og lón í suðsuðaustur frá bænum, með fersku vatni jafnaðarlegast. Austurtúngarður lá á austurkanti túnsins frá einu lónanna um Krumfót, sem er klapparhóll, er einnig nefnist Vökhóll og Sönghóll. Á heimasta hluta hólsins var Vökhólsþúfa eða Sönghólsþúfa, sígræn hundaþúfa.“
KotagerðiÞegar svæðið í norðvesturhorni Lónakotstúnanna var skoðað var augljóst hvar nefndan Sönghól (Vökhól eða Krumfót) var að finna. Á honum er nefnd þúfa, stór og vel gróin. Neðan undir hólnum er ágætt skjól í gróinni kvos og enn neðar, á sjávarbakkanum, er Norðurfjárhúsið. Örnefnið Sönghóll er einnig til við Hvassahraun. Spurning er hvort heimafólk eitt sér eða í fagnaði með öðrum hafi safnast saman við þessa hóla og einhver þá tekið lagið.
SönghóllÞá var haldið yfir að bæjarhólnum. Í lýsingunni segir m.a. um það svæði: „Suðurtjörnin lá aftur á móti sunnan við Bæjarhólinn og þar í brunnurinn, en frá bænum lá Brunnstígurinn niður á Brunnstéttina, sem lá út í tjörnina að brunninum, sem var niðurgrafinn í mjúkan leirbotninn. Lónakotsvatnagarðar, hólmarnir og lónin suðsuðaustur frá Lónakoti, voru einnig nefndir Vatnagarðar eingöngu, Lónin Lónakotslón, Hólmarnir, Lónakotshólmar, og syðst í Vatnagörðunum er Vatnagarðahellir eða Vatnagarðafjárskjól, sem eiginlega liggur í landi Óttarsstaða, og nokkrar tjarnanna.“
Þá var haldið yfir að túngarðshliðinu suðvestan við bæinn. „Þegar haldið var suður úr suðurtúngarðshliði, var þar við Lónakotsselsstíginn, sem seinna varð Lónakotsvegur, alldjúp gjóta, sem nú er fyllt með grjóti, Yrðlingabyrgi.

GrjótÞar ól Hallgrímur Grímsson, bóndi í Lónakoti um aldamótin 1900, upp tófuyrðlinga. Byrgið er um 30 metra frá túngarðshliðinu. Suður frá því er svo Lónakotsréttin. Austur þar frá, á vinstri hönd við Lónakotsstíginn, er þúfnakargi með fjárhúskofa og kallast hér Kotið, einnig Dys í Koti. Austar þar var Kotagerði, fjárgerði. Allt lá þetta vestan hólma Vatnagarðanna. Sagnir voru um, að upphaflega hafi Lónakotsbærinn staðið þarna. Umhverfis þennan þúfnakarga var Kotagarðurinn, hlaðinn, einfaldur grjótgarður.“
Allar framangreindar tóftir eru enn vel greinilegar. Dys í Koti er stutt frá veginum og Kotagerðið austan hans. Kotagerðið er hringlaga, allstórt og vel gróið. Í því norðaustanverðu er tvískipt kofatóft. Annað gerði er undir hraunhól vestan við veginn, vestan við Dys. 

StekkurSkoðað var í Yrðlingabyrgið. Enn má sjá inn í byrgið. Í því er samansafn af alls kyns leifum, s.s. af vasafötum, netum o.fl. Það hefur verið notað sem ruslakista áður en urðað var yfir, en eftir að sigið hafði í gjótunni opnaðist það aftur.
Þá var haldið niður í Lónakotsfjörur og til vesturs með ströndinni. Gata liggur frá Seltúninu yfir í Réttarkletta, sem eru þar allnokkru vestar. „Gata þessi vestur með sjónum var gerð fær hestvagni eftir 1920 og eftir henni ekið með reka af fjörunum. Lónakotsvör var vestan og neðan vesturtúngarðsins, en mun sjaldan hafa verið notuð nema að sumri til. Hér nokkru vestar var Brimþúfa, þúfa uppi á kletti. Niðri í fjörunni var Mávahella, þar sátu mávarnir og skarfarnir [og] viðruðu sig.“
NípuskjólÍ fjörunni austan við vörina eru sérstakar grjótmyndanir, lábarið grjót sem brotnað hefur úr hrauni, sem streymt hefur fram og umvelkst í gjósku og ösku. Sjórinn hefður síðan séð um að hreinsa lausmélið utan af og skilað þessu sérkennilegu grjótmyndunum þarna á land. Brimþúfa sést enn. Einnig fallin varða, sundvarða, ofan við vörina með stefnu í Keili.
„Vestar var strýtumyndaður hóll, nefndist Nípa. Þar upp af í hrauninu var fjárskjól, Nípuskjól og Nípurétt, tóft réttar við hellisskúta syðst í lægðinni. Nokkru lengra vestur voru klettastrýtur, nefndust Réttarklettar. Milli þeirra voru allvel grónar flatir og réttartættur, garðar og skjól.“
GerðiRéttarklettar eru afmörkuð klettaborg, tilkomumikil á að líta. Allt umhverfis hana er hlaðinn garður og gras fyrir innan. Stekkur er norðaustan við klettana og grónar tóftir norðvestan undir þeim. Vestar er Grænhólsfjárskjólið.
Gata liggur frá Réttarklettum til suðurs. Þegar henni var fylgt var komið að hlöðnu fjárskjóli austur undir klapparhól, Brunnhól. Engin varða var við skjólið, sem virðist hafa verið ósnert alllengi. Að öllum líkindum er hér um að ræða svonefndan Hausthelli, „fjárskjól gott“, sem Gísli Sigurðsson lýsir í örnefnalýsingu sinni og átti að vera á þessu svæði. Skammt ofar er varða við götu, sem liggur frá austri til vesturs, sennilega á milli Óttarsstaða og Hvassahrauns, Jakobsvarða. Í örnefnalýsingu fyrir Óttarsstaði segir um þetta svæði: „Austur af Ingveldi er Jakobsvörðuhæð og á henni Jakobsvarða.

BrunnhóllNorðan undir hæðinni var eins og ævagamall stekkur eða rétt. Hæðin er við götuslóða, sem lá neðan frá Óttarsstöðum upp að fjárborg, sem er þarna miklu ofar.“
Ofan við hana eru sérkennilegar hleðslur í og ofan við klapparsprungu á hól. Sennilega er hér um nefndan Brunnhól að ræða. Hlaðið er í sprunguna í báða enda miðsvæðis og síðan eftir börmunum milli fyrirhleðslanna. Erfitt er að sjá til hverra nota þetta mannvirki hefur verið – nema þar hafi verið brunnur.
Eflaust eru fleiri minjar faldar þarna í tilkomumiklu hrauninu. Og gaman hefði verið að birta hér rmyndir af öllum örnefnum og minjum á framangreindri leið, en rýmið leyfir það ekki. Ætlunin er að skoða svæðið betur á næstunni.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsingar AG og GS fyrir Lónakot.
-Örnefnalýsing fyrir Óttarsstaði.
-Leifur Sörenssen.

Réttarklettar

Réttarklettar.

Setbergssel

Ætlunin var að skoða fjárhústóft í Húsatúni á Setbergshlíð sunnan Svínholts og koma við í Setbergsseli undir Þverhlíð.
Í örnefnalýsingu Svans Pálssonar af svæðinu segir m.a.: „Suður af Þverhlíð er talsverður halli á hrauninu og liggur SetbergsselSelvogsgatan yfir það þar. Í þessari hraunbrekku eru tveir hellar. Hægt er að ganga í gegnum nyrðri (neðri) hellinn og er hleðsla inni í honum. Sunnan við hellinn er varða, hlaðin úr hraungrýti og þétt með steypu. Umhverfis þann helli er meiri gróður en annars staðar í nágrenninu. Líklegast þykir mér, að þetta sé sá hellir, sem kallaður var Selhellir, og hann heiti einnig Kethellir. Gróðurfar gæti bent til þess, að þar hafi verið sel, en það mun hafa verið við Selhelli. Einnig benda girðingaleifar og það, hve vönduð varðan við neðri hellinn er, til þess, að hann sé talinn vera á landamörkum, en Kethellir á einmitt að vera á mörkum. Syðri hellirinn er í kvos eða keri og veit opið móti austri. Á vesturbarmi kersins yfir hellinum er stór og stæðileg varða. Sá hellir tel ég, að sé Kershellir, því að hann er í eins konar keri. Rétt er að geta þess, að mönnum ber ekki saman um hvernig þessi þrjú hellanöfn tengjast þessum tveimur hellum.
Við samantekt þessarar örnefnaskrár hef ég haft við höndina örnefnaskrár Ara Gíslasonar og Gísla Sigurðssonar. Inngangur í SelhelliMestar upplýsingar hef ég þó fengið hjá móður minni, Guðbjörgu Guðmundsdóttur, sem er fædd í Urriðakoti, næsta bæ við Setberg, 1906 og átti þar heima til 1939. Hún hefur komið með mér á flesta eða alla þá staði, sem nefndir eru í þessari örnefnaskrá, og suma þeirra oft á síðastliðnum 30 árum. Þess má geta, að móðir hennar, Sigurbjörg Jónsdóttir fædd 1865, ólst upp á Setbergi og átti þar heima til 1888.“ Sigurbjörg var dóttir Jóns Guðmundssonar, bónda á Setbergi.
Ruglingurinn hefur gjarnan falist í því að nöfnin á hellana hafa verið fleiri en hellarnir. Þeir eru hins vegar fleiri á svæðinu og ef vel er að gáð koma nöfnin heim og saman. Meira að segja eru tveir hellar í Setbergsseli; auk Selhellis er myndarlegur hellir vestan við gerðið (stekk) í selinu, Sunnan við hann sést enn móta fyrir kví.
Í SelhelliUppi í Setbergshlíðinni, ofan við stóra vörðu skammt austan við Gráhellu, má enn sjá háar hleðslur af gömlu fjárhúsi, sem byggt voru þar árið 1904 þegar Setbergsbóndi flutti fé sitt úr Setbergsseli, sem er þarna skammt ofar. Gott útsýni er til selsins frá fjárhúsinu. 

Góðir hagar eru bæði ofar í hlíðinni og niður undir fjárhúsinu. Í einni heimild eru þar nefndar Fjárhúsbrekkur. Húsið hefur verið nokkuð stórt á þeirra tíma mælikvarða. Í miðjunni er hlaðinn garður og minna hús hlaðið við endann.

ÍFjárhústóftin á Setbergshlíð örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar af svæðinu segir m.a.: „Vestan við Kershelli/Ketshelli sér niður á grassvæði. Selvogsgatan liggur niður að því og áfram í gegnum það uns hún sveigir að Þverhlíð. Á norðanverðu svæðinu er stekkur í kvos. Hleðslur eru til að hindra uppgöngu úr kvosinni. Op er til vesturs. Vestan opsins er hraunkantur. Handan og fast við kantinn er enn eitt op á helli. Hann er þó mun styttri en hinir. Frá opinu liggur hann til austurs, á móti hinum. Sunnan við opið sést móta fyrir kví í skjóli fyrir austanáttinni. [Þessi kví mun hafa tilheyrt Hamarsskotsselinu, sem var öndvert í hellinum (sunnanverðum].Sunnar, syðst á grassvæðinu eru tóttir Setbergssels. Bæði hefur jarðsig verið notað svo og tóttir, sem þarna eru. Fyrir framan hól eru bogadregnar hleðslur fyrir helli. Þar er Setbergsselsfjárhellir. þegar komið er inn í hann miðjan er hlaðinn garður þvert fyrir hellinn. Hinn hlutinn er Hamarskotsselsfjárhellir. Hægt er að ganga í gegnum hellinn og er þá komið út þar sem verið hefur tótt Hamarskotssels. Geitur voru hafðar í helli þessum á fyrri hluta 20. aldar.“

FjárhústóftinSvæði þetta er tilvalið fyrir þá sem vilja fara í síðdegisgöngu, en jafnframt skoða mikið á stuttum tíma. Að sögn Friðþófs Einarssonar, bónda á Setbergi, er Kershellir nafnið á fyrrum selshelli Setbergsmanna. Að sögn móður hans, Elísabetar Reykdal, notaði afi Friðþjófs, Jóhannes Reykdal, hellinn sem fjárhús eftir aldarmótin 1900 uns hann byggði hús undir féð uppi á Húsatúni þar skammt frá. Þegar hætt var að nota Húsatúnsfjárhúsið var féð fært í nýrra hús í Fjárhúsholti, skammt austan/sunnan við bæinn á Setbergi. Ofan við Kershelli er Hvatshellir í stóru jarðfalli. Hann opnaðist í jarðskjálfta á 19. öld. Nafnið Kershellir hefur í seinni tíð færst yfir á Hvatshelli. Kershellir, sem er á landamerkjum, er tvískiptur; nyrðri helmingur hans tilheyrði Setbergi og sá syðri Hamarskoti.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.
Útsýni að Setbergsseli

Magnúsardys

Áður hefur verið gerð leit að örnefninu „Magnúsardys“ í Lónakotslandi. Leitað hafði m.a. verið undir Hádegishæð, sem er eyktarmark frá Lónakoti, en miðað við lýsinguna virtist það svæði lítt sannfærandi.
KlettaborgÍ tilefni þess má vel koma fram að þótt hér hafi verið leitað að einstöku örnefni í heilum örnefnalýsingum getur slíkt orðið jafn tímasamt og ef leitað er eftir fleirum á stærri svæðum.
FERLIR ræddi við kunnuga á svæðinu áður en haldið var enn einu sinni á vettvang í Hraununum. Kom þeim saman um að Magnúsardys ætti að vera neðan við Hádegishæðina. Á hæðinni væri varða og ætti nefndur Magnús að hafa verið dysjaður í klapparsprungu, sem þar er. Ekki voru þeir fáanlegir til að vísa á staðinn. Að að sumra sögn átti Magnús að hafa verið sakamaður af Innnesjum, sem ferja átti að Bessastöðum. Á leiðinni átti hann að hafa sloppið frá gæslumönnum sínum ofan við Lónakot, en þeir náð honum, drepið og dysjað í hraunsprungu, sem þar var.
LónakotOg þá var að kanna örnefnalýsingar. Gísli Sigurðsson segir eftirfarandi um Magnúsardys í sinni ítarlegu lýsingu um Lónakot: „Í hrauninu niður frá Hádegishæð var sprungin klöpp, nefndist Magnúsardys. Maður að nafni Magnús varð þarna úti og var urðaður í sprungunni. Suður og upp frá Magnúsardys var Hraunsnesþúfa og Hausthellir, fjárskjól gott.“
Hér er maðurinn nafngreindur og Hádegishæð nefnd til sögunnar, sem og sprungin klöpp. Reyndar er hraunið allt klappasprungið, líka undir Hádegishæð. Á henni er varða, eyktarmark frá Lónakoti, sem undir það síðasta var tvíbýli þótt það komi ekki fram í lýsingunni. Síðari hluti lýsingarinnar verður að teljast „út og suður“ því Hraunsnesþúfa er nálægt vesturmörkum Lónakots, allfjarri (ofan við Hraunsnes á mörkum Hvassahrauns) og Hausthellir er í Hraunsnesinu, hvorutveggja í vestur frá Hádegishæð. Það var því úr vöndu að ráða.
LandamerkiÁður hafði verið reynt að staðsetja dysina og Hausthelli m.v. framangreinda lýsingu.
Ekki var um annað að ræða en að fá einhvern enn staðkunnugri á svæðinu til að álykta um staðháttu og líklega staðsetningu. Haft var samband við Leif Sörensen og varð hann gófúslega við beiðni FERLIRs um samfylgd um svæðið. Svo vel vildi til að þann daginn í maí skall á 19°C hiti með tilheyrandi blíðviðri. Róleg síðdegisgangan um Lónakot varpaði því ljósi á fjölmargt í örnefnalýsingunum, sem ekki verður rakið hér því markmiðið var jú að staðsetja Magnúsardys umfram annað. Hitt geymist því þangað til síðar.

Vatnagarðafjárskjól

Eftir að Hádegishæðin og nágrenni hennar neðanvert hafði verið gengið fram og til baka virtist staðsetningin á Magnúsardys lítt trúverðug.
Gengið var inn á Vesturtún (Seltún) Lónakots. Líklega hefur Seltúnsnafnið komið af því að fráfærur Lónakots voru um tíma við Réttarkletta, vestarlega í landareigninni.
Gengið var um Norðurtúnið ofan við Vörina (austast á því eru tóftir útihúsa) og yfir á Austurtúnið. Þar er tóft af hrútakofa. Sunnar eru Vökhóll og Sönghóll. Á þeim eru Vökhólsþúfa og Sönghólsþúfa.
Stefnan var hins vegar tekin að klapparhól á neðanverðum mörkum Lónakots og Óttarsstaða því skv. stuttri örnefnalýsiningu Ara Gíslasonar segir eftirfarandi um Magnúsardys: „Þar heita við sjóinn Vatnagarðar, og upp af þeim, á merkjum, er hóll, sem heitir Sjónarhóll. Niður og vestur af honum er dys í gjá. Dys þetta heitir Magnúsardys.“
KvosAð sögn Leifs eru Vatnagarðar austan og ofan við Lónakotslónin. Í stórstreymi fyllast garðarnir af vatni, sem líkt og annars staðar í Hraununum er ferskt yfirborðsvatn, en salt undir. Sagði hann það vera í fersku minni þegar Hraunamenn komu á aðra bæi og þar fengu kaffi að þeim fannst kaffið bragðvont. Í það vantaði saltbragðið.
Á  leiðinni má víða sjá jarðföll þar sem hlaðið hafði verið niður í svo fé gæti sjálfala komist upp ef svo illa færi. Bein í þeim gáfu til kynna hvernig til tókst.
Ofan við Vatnagarða er myndarlegt fjárskjól í stóru jarðfalli; Vatnagarðafjárskjól eða Vatnagarðahellir. Um Vatnagarðsfjárhellir segir Gísli Sigurðsson: „Lónakotsvatnagarðar, hólmarnir og lónin suðsuðaustur frá Lónakoti, voru einnig nefndir Vatnagarðar eingöngu, Lónin; Lónakotslón, Hólmarnir, Lónakotshólmar, og syðst í Vatnagörðunum er Vatnagarðahellir eða Vatnagarðafjárskjól, sem eiginlega liggur í landi Óttarsstaða, og nokkrar tjarnanna.“
SjónarhóllHér rataðist Gísla á réttan stað því fjárskjólið er augljóst þarna austan landamarkanna.
Áberandi kennileiti frá Vatnagarðafjárskjóli í suðaustri eru tvær háar vörður. Um þær segir Ari Gíslason í örnefnalýsingu fyrir Óttarsstaði: „Tvær ævafornar vörður eru neðan Sjónarhóls. Þær Varðaheita Ingveldar, og neðan þeirra eru hraunhólar, sem heita Tindhólar. Þeir eru ofan við Vatnagarðana, sem fyrr voru nefndir. Neðan þeirra er lægð með vatni í, sem heitir Leirlág.“
Leirlág er augljós. En stefnan hafði verið tekin á Sjónarhól. Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar af Óttarsstöðum um Sjónarhól segir: „Rétt norður af Sjónarhól eru tvær vörður, er hétu Ingveldur og stóðu á Ingveldarhæð. Ekki er vitað, hvernig á Ingveldarnafninu stendur. Vestur og niður af Ingveldi voru kallaðir Tindhólar.“
Örnefnalýsingarnar eru skráðar á sjöunda áratugi 20. aldar. Hafa ber í huga að á Þorbjarnarstöðum í Hraunum bjuggu um tíma um aldarmótin 1900, tvær Ingveldar; annars vegar Ingveldur Jónsdóttir, Guðmundssonar, hreppstjóra á Setbergi, og nafna hennar Þorkelsdóttir, Árnasonar frá Guðnabæ í Selvogi. Þær mæðgur, eða dugmiklir synir og bræður, gætu auðveldlega hafa hlaðið vörður þessar á hæðinni, enda bæði forfeður og afkomendur þeirra beggja þekkt fyrir hleðsluverk, sbr. Þorbjarnarfjárborgina á Brunanum (sjá meira HÉR). Vörðurnar vísa augljóslega á nálæg greni. Þriðja varðan, sem nefna mætti Grenvörðu, er skammt suðaustar og með sama hleðslulagi. Þar er líka greni. Auk þeirra er sambærileg varða við greni allnokkru norðvestar í hrauninu, suðvestan við Lónakot.
IngveldarNú var komið upp að nefndum Sjónarhól, háum klapparhól í hraunfletinu. Frá honum mátti auðveldlega sjá upp að Lónkotsseli og í Krossstapana er tilgreindir eru í landamerkjalínum. Neðan og vestan hólsins er varða við klapparsprungu. Þegar horft var yfir hraunlendið virtist augljóst að þarna gæti Magnúsardys verið. Við skoðun á vettvangi var að sjá mikið af smágrýti í sprungunni – og gróið yfir að hluta. Varðan virtist allgömul og ekki hafa verið hlaðin af engu tilefni. Telja mætti því líklegt að þarna sé tilnefnt örnefni (Magnúsardys), eða hvað?
SjónarhóllÍ örnefnalýsingunni segir um Sjónarhól: „Þaðan [frá Markhól] liggur landamerkjalínan milli, eða um, austustu lónanna og hólmanna, upp þaðan hraunið í Sjónarhól, sem er stór, sprunginn hraunhóll, sem víða sést að, bæði neðan frá sjó, vestan úr hrauni og austan og sunnan langt að.  Landamerkjalínan lá um Sjónarhólsvörðu, sem er efst á Sjónarhólshæð, og þaðan áfram suður og yfir Högnabrekkur. Þar kom Lónakotsvegurinn á suðurveginn. En Lónakotsselsstígurinn lá áfram suður á alfaraleiðina, gömlu hestaslóðina á Suðurnes.“
Framangeind lýsing skiptir nefnilega meginmáli þegar staðsetja átti Magnúsardys. Þegar staðið er á Lónakotsvegi og horft til austurs (m.v. lýsinguna) má vel sjá Sjónarhólshæðina, aflanga frá norðri til suðurs. Suðurendi hennar leggur nú rétt norðan við núverandi Reykjanesbrautar, en Högnabrekkur ofan hennar. Á landakortum hefur nyrsti hluti hæðarinnar jafnan veriði nefndur „Sjónarhóll“. Þar er gróið vörðubrot, Sjónarhólsvarða. Girðing á mörkum Lónakots og Óttarsstaða liggur um norðurenda hæðarinnar og síðan áfram til suðurs vestan hennar. Þessi hluti hæðarinnar sést vel neðan frá Lónakotsbænum og af sjó. Aftur á móti þegar staðið er á Sjónahólshæð og horft er til upplandsins, að Lónakotsseli, stendur önnur gróin varða hærra, þ.e. syðst á hæðinni. Hún er sérstaklega áberandi þegar komið er ofan frá, eftir selsstígnum eða gengið eftir alfaraleiðinni. Þaðan er líka ágætt útsýni heim að Lónkotsbænum.
MagnúsardysEf tekið er mið að því að síðastnefna varðan væri Sjónarhólsvarðan og horft til þess að Magnúsardys ætti að vera neðan og vestan við hana er þar stakur klofinn hóll, kjörinn gálgi sbr. söguna hér á eftir. Suður undir og fast við hann er gróin gjóta. Efst á hólnum er hlaðin skófvaxin varða. Þegar komið var á vettvang fór hundur, sem var með í för, hiklaust niður í gjótuna, krafsaði í svörðin og lagðist síðan þar hinn rólegasti. Varla væri hægt að finna betri stað til að husla dauðan mann eftir það sem á undan var gengið.

MagnúsardysÞegar FERLIR var að undirbúa þessa ferð um Lónakot var m.a. rætt við gamlan fjárbónda á svæðinu. Hann sagðist hafa heyrt eldri menn tala um sakamannadys á þessu svæði. Sagan hefði verið þessi: “ Fyrr á öldum, ekki er vitað nákvæmlega hvenær, átti að flytja mann, Magnús að nafni, sem sakaður var um að hafa stolið snærispotta á Vatnsleysuströnd, til Bessastaða. Fangarar höfðu reitt hann á taglhnýttum hesti í lest um gömlu götuna millum Nesja. Þegar undir hæð (Taglhæð) eina var komið hefði fanginn fallið af baki. Hann hefði þá náð að smeygja af sér höftunum og hlaupa hraðfóta niður hraunið, áleiðis að Lónakoti. Fylgdarmenn veittu manninum eftirför á hestum.
SjónarhóllÞrátt fyrir hraðfygli Magnúsar hefði verið um ójafnan leik að ræða. Hann hefgur náð að fela sig í klapparspurngu neðan og vestan við Sjónarhól, en eftirfylgdarmennirnir, spennuhlaðnir, móðir og másandi, náðu honum þar. Við eftirförina hafði þeim hlaupið svo mjög kapp í kinn svo þeir ákváðu að ljúka verkinu á staðnum; þar og þá, án dóms og frekari laga, þ.e. hengt hann við kjöraðstæður. Líkið hefðu þeir síðan urðað í klapparsprungu á vettvangi.
Að sögn hefur vitneskjan jafnan verið um staðinn því einn afkomenda Magnúsar hefði hlaðið litla vörðu ofan við dysið, eins og það hefur gjarnan verið nefnt.
Þegar vettvangurinn var skoðaður komu í ljós nokkur lítil en djúp jarðföll. Í sum þeirra hafði verið hlaðið svo fé, sem leitaði niður í þau, kæmist upp aftur. Í öðrum var grjót. Líklegt má telja að dysið sé eða hafi verið í einu jarðfallanna. Hafi einhver Magnús fallið niður í þau, líkt og fram kemur í lýsingu Gísla, t.d. á snjó að vetrarlagi, er ólíklegt að hann hafi komist upp aftur af sjálfsdáðum.
Sjá meira um Lónakot HÉR.
Frábært veður.

Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsingar AG og GS um Lónakot og Óttarsstaði.
-Leifur Sörensen, fæddur og uppaldinn á Óttarsstöðum vestri.
-NN.

Lónakot

Þorbjarnastaðir

Gengið var um land Þorbjarnarstaða í Hraunum. Bæjartóftirnar eru þær síðstu heillegu er minna á gamla torfbæinn í landi Hafnarfjarðar.

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnastaðir og nágrenni.

Álfélagið keypti uppland bæjarins af Skógrækt ríkisins á litlar 100 milljónir króna fyrir nokkrum árum. Til stóð að kaupa einnig Þorbjarnarstaðalandið, þ.e. heimalandið, og reyndar munaði litlu að bærinn seldi það frá sér, en sem betur fer varð ekkert úr því. Ekki það að landið færi ekki vel í höndum álfélagsins, heldur ber bæjarfélaginu skylda til að sjá svo um að minja svæði sem þetta varðveitist innan þess og verði gert öllum aðgengilegt er þess óska. Ákjósanlegast væri að gera Þorbjarnastaði upp og leyfa síðan fólki að skoða hann sem ímynd og fulltrúa þeirra bæja er fólk lifði og dó í á 19. og byrjun 20. aldar. Fátt mælir á móti því að álfélagið styrki þá framkvæmd, enda í áhugaverðu sjónarhorni frá Þorbjarnarstöðum þar sem gamli og nýi tíminn mætast.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – brunnur í Brunntjörn.

Sóknarmannatöl allt frá árinu 1801 varpa ljósi á búsetu á Þorbjarnarstöðum síðustu tvær aldir. Þau segja m.a. til um mannfjölda á bænum. Einnig gefa hreppsreikningar á Þjóðskjalasafni góða sýn á bátakost, búfénað, mannfjölda á bænum. Í reikningum Álftaneshrepps frá 1845 5 kýr á Óttarsstöðum, en bara 2 á Þorbjarnarstöðum og 40 ær á móti 60 á Óttarsstöðum. Einnig eru nefndir bátar, kálgarðar, mótekja, o.fl. Í Jarðabókinni frá 1703 segir margt um jörðina á síðustu öldum. Í Jarðabókinni segir t.d. um Straum varðandi fóðrun kúa: „Fóðrast kann iii kýr “bjarglega“ . En um Þorbjarnarstaði segir : „Fóðrast kann iii kýr, “naumlega“. Þetta segir að Straumur hafi verið betri jörð árið 1703 en Þorbjarnarstaðir. Sveiflur á milli jarðaverðmæta voru að sjálfsögðu háðar náttúru- sem og þjóðfélagsbreytingum hvers tíma. Margt fleira má lesa út úr Jarðabókinni varðandi jarðarverðmætin á viðkomandi tíma og samanburð á milli jarðanna.

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnastaðir – tilgáta (ÓSÁ).

Þorbjarnastaðir eru hið ákjósanlegasta dæmi um torfbæ þessa tímabils. Burstirnar snéru mót suðvestri (sólaráttinni), heimtröðin liggur milli bæjarins og matjurtargarðsins, sem er hlaðinn til að verja hann ágangi skepna. Útihúsin eru bæði fast við bæinn sem og í nálægt hans. Frá bænum til norðausturs liggur vatnsgatan, sem einnig þjónaði sem heimtröð að og frá Alfaraleiðinni, gömlu þjóðleiðinni minni Innnesja og Útnesja.

Þorbjarnastaðir

Þvottarbrú og brunnur við Þorbjarnastaði.

Til eru frásagnir af viðkomu fólks á þessum síðasta bæ í byggð áður en komið var að Hvassahrauni. Aðrir Hraunabæirnir voru mun neðar og norðar. Í vályndum veðrum gat stundum komið sér vel að finna skjól inna veggja bæjarins, þrátt fyrir mikla ómegð, sem þar var um tíma. Börnin voru 11 talsins undir það síðasta, en Þorkell bóndi Árnason var oft fjarri heimahögum, t.d. við sjósókn, til að afla lífsviðurværis. Á meðan annaðist Ingveldur Jónsdóttir, dóttir Jóns sýslumanns Guðmundssonar á Setbergi, barnahópinn. Auk þess sá hún um skepnurnar og um annað er þurfa þótti til heimilisins. Börnin urðu öll manndómsfólk.

Þorbjarnastaðir

Brunnstígurinn við Þorbjarnastaði.

Líklegt má telja að Ingveldur og börn hennar hafi löngum gengið brunngötuna niður að tjörnunum norðan við bæinn, bæði til þvotta og til að sækja þangað vatn í brunninn. Þau komu því einnig svo fyrir að hægt var að geyma lifandi fisk um nokkurn tíma í tjörnunum. Með fyrirhleðslum var komið á jafnvægi í hluta tjarnanna, sem annars gætti í fljóðs og fjöru. Ferskt vatn kemur undan hrauninu ofan við brunnstæðið, en með því að veita því í ákveðna rás, var hægt að viðhalda sjávarseltunni í einstaka tjörn. Það var lykillinn að „fiskgeymslunni“. Enn í dag sést brunnurinn vel sem og hvar ferskt vatnið kemur undan hrauninu ofan hans.
Enn má sjá móta fyrir öllu þessu, og raunar miklu fleiru. Það er alveg á sig leggjandi að ganga frá gamla Keflavíkurveginum, yfir á Alfaraleiðina ofan við Gerði og fylgja henni ofan við tjarnirnar, norðan Þorbjarnastaða. Á leiðinni sést allt það sem að framan er getið. Það sem eftir er birtist ljóslifandi er gengið er í hlað eftir brunngötunni að Þorbjarnastöðum.
Vonandi verður bærinn gerður upp þegar fram líða stundir – og skilningur á mikilvægi þess eykst. Það getur aldrei orðið til annars en bóta. Á og við Þorbjarnastaði er allt, sem prýtt gat dæimgerðan íslenskan bæ, s.s. bæjarhús, matjurtagarður, heimtröð, brunnur, fjárskjól, rétt, stekkur, selsstígur, sel og annað tilheyrandi.

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnastaðir.

Kolbeinshæðarskjól

Ætlunin var að ganga frá Gerði og fylgja Gerðisstíg upp á Kolbeinshæðarstíg. Hann liggur í Kolbeinshæðarskjól.
Í örnefnalýsingur fyrir Þorbjarnarstaði segir m.a.: „Í suðvestur uppi á hrauninu frá Efri-Hellrum er hraunhæð, nefnd Leifar KolbeinshæðarvörðuKolbeinshæð, og er vel gróið kringum hana. Sunnan í henni er vestanvert Kolbeinshæðarskjól, en austanvert er Kolbeinshæðarhellir. Uppi á hæðinni er Kolbeinshæðarvarða. Kolbeinshæðarstígur liggur hér um skarð í hæðinni suður og upp hraunið, og er þá komið að stórri, ferhyrndri laut þarna í hrauninu. Gísli Sigurðsson segir, að hún sé kölluð Kvíin. Milli Þorbjarnarstaða-Rauðamels og Kolbeinshæðar heitir Gráhelluhraun.“ Hér er talað um bæði skjól og helli í Kolbeinshæð, en jafnan hefur einungis verið getið um Kolbeinshæðarskjólið á þeim slóðum.
Þá var ætlunin að halda áfram upp í Gjásel, en nafngiftir á seljum þar efra virðast hafa ruglast. Í örnefnalýsingunni er selið nefnt „Fornasel“, en það er nokkru ofar, sunnan við Brunntorfur. Þá segir: „Rétt við selið er vatnsstæði, nokkuð niðurgrafið. Norðan undir hæðinni eru rústir eftir kvíar. Suður og upp frá selinu var Gránuskúti eða Gránuhellir.“
Þegar lagt var upp frá Gerði kom í ljós að „Gerðarstígur“ virðist ranglega merktur. Hann er svolítið vestar en raun ber Kolbeinshæðarhellirvitni, enda sú leið, sem merkt er, næsta torfær. Stígurinn liggur um suðurgarðhlið Gerðis, en bærinn dregur nafn sitt af gerðinu skammt austan (ef miðað er við útnorður) þess. Þaðan liggur stígurinn upp upp að jaðri hraunbungu. Myndarleg varða skammt austar (norðar) á ekki við stíginn þótt svo gæti virst við fyrstu sýn. Eftir að jaðrinum er komið er auðvelt að fylgja stígnum upp hraunið, gegnum Selhraunið og áfram upp í Klofa norðan Þorbjarnarstaða-Rauðamels.
Í örnefnalýsingu fyrir Þorbjarnastaði segir m.a.: „Halda skal nú hér fram með Brennu, allt þar til kemur í Hrauntungukjaft. Þar taka við Hrauntungur, sem liggja norðaustur eftir milli Brennu og Brunans. Þær eru nokkrar að víðáttu, og er skógurinn einna mestur þar, allt að 4 m há tré. Úr kjaftinum liggur Hrauntungustígur norðaustur og upp á Háabruna, út á helluhraunið og austur eftir því upp að Hamranesi vestan Hvaleyrarvatns. Er þetta skemmtileg gönguleið. Efrigóm Hrauntungukjafts gerir Hellishóll. Hér í hólnum eru Hrauntunguhellar (að sögn Gísla Guðjónssonar; Gísli Sigurðsson kallar þá hins vegar Hellishólshelli og Hellishólsskjól).

Varða ofan við fjáskjól í Kolbeinshæð

Í vætutíð má fá þar vatn. Uppi á hólnum er Hellishólsker. Hér nokkru sunnar er Fjárborgin á tungu út úr brunanum. Hún stendur enn, og er innanmál hennar um 7 m. Suður og upp frá brunanum eru Brundtorfur. Þar var hrútum hleypt til ánna forðum daga. Þar voru Brundtorfuvörður og Brundtorfuhellir. Einnig var þetta svæði kallað Brunntorfur, Brunntorfuvörður) og Brunntorfuhellir.“
Hér hefur mönnum eitthvað förlast því Hellishólsskjól (-hellir) er syðst í Brunntorfum, „í Brunntorfukjafti“, en nefndur hellir í Hrauntungum heitir Hrauntunguhellir og er norðarlega í tungunum.
„Hér vestnorðvestur var Gjásel, sel frá Þorbjarnarstöðum, stóð á Gjáselshæð. Rétt hjá selinu var vatnsstæði. Á hæð skammt suður og upp frá selinu var Gjáselsvarða. Norðaustur frá Gjáselsvörðu (G.G.) voru þversprungnir hólar, Vonduhólar. Frá selinu lá Gjáselsstígur, en hann er nú óglöggur mjög. Upp frá Hrauntungukjafti eru hólar, sem nefnast Skyggnirar. Þar um liggur Hrauntungustígurinn og er ekki vel greinilegur.
GerðisstígurÍ skrá Gísla Sigurðssonar segir: „Hér lengra og ofar er Þúfuhólshraun með Þúfuhól og þar á Þúfuhólsvörðu. Svæði þetta nefndist líka Hundaþúfuhólshraun, Hundaþúfuhóll og Hundaþúfuhólsvarða.“ En Gísli Guðjónsson og Jósef Guðjónsson segja, að þessi örnefni séu ekki til hér, heldur séu þau vestur af Tóhólum í Óttarsstaðalandi.
Í suðvestur uppi á hrauninu frá Efri-Hellum er hraunhæð, nefnd Kolbeinshæð, og er vel gróið kringum hana. Sunnan í henni er vestanvert Kolbeinshæðarskjól, en austanvert er Kolbeinshæðarhellir. Uppi á hæðinni er Kolbeinshæðarvarða. Kolbeinshæðarstígur liggur hér um skarð í hæðinni suður og upp hraunið, og er þá komið að stórri, ferhyrndri laut þarna í hrauninu. Gísli Sigurðsson segir, að hún sé kölluð Kvíin, en það kannast heimildarmenn sr. Bjarna ekki við, telja þó, að það geti staðizt. Hraunflákinn milli Rauðamels og Kolbeinshæðar heitir Gráhelluhraun.
Suður og upp frá lautinni, sem fyrr var nefnd, er Fornasel, sel frá Þorbjarnarstöðum. Má enn sjá, að þrjár hafa verið þarna vistarverur. Selið stendur á Fornaselshæð. Rétt við Selið er vatnsstæði, nokkuð niðurgrafið. Norðan undir hæðinni eru rústir eftir kvíar. Suður og upp frá selinu var Gránuskúti eða Gránuhellir.“
Hér virðist vera um einhvern rugling að ræða. Af vettvangsferðinni að dæma er Kolbeinshæðarskjól austan í hæðinni, með fallegri fyrirhleðslu, sbr. hér að ofan. Kolbeinshæðarhellir er svolítið vestar, svo til undir Kolbeinshæðarvörðu. Svert birkitré hefur vaxið fyrir munnann. Hellir þessi hefur ekki verið notaður sem fjárskjól, en gæti verið ein ástæðan fyrir að fjárskjól hafi orðið til á þessum stað. Skammt vestar er hins vegar annað skjól, ákjósanlegt fjárskjól. Varða er ofan við það. Líklega hafa fyrrnefnd örnefni færst til í örnefnalýsingunni og jafnvel ekki öll þekkt örnefni verið skráð, ef marka má framangreint.
Við leitina var gengið fram á vatnsstæði á klapparhæð, skammt frá fjárskjólinu. Við það var gömul varða.
Ekki vannst tími til að fara upp í Gjásel að þessu sinni, en um sambærilega ferð í selið þegar leitað var að Gránuskúta má lesa HÉR.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimild:
-Örnefnalýsing fyrir Þorbjarnarstaði.

Spóaegg við Kolbeinshæðarskjól

Höfðaskógur

Hörður Zóphaníasson tók viðtal við formann Skógræktarfélags Hafnarfjarðar er birtist í Alþýðublaði Hafnarfjarðar, jólablaðinu, árið 1964 undir fyrrisögninni „Plöntum, vökvum rein við rein, ræktin skapar framann„:

„Jólablað Alþýðublaðs Hafnarfjarðar hafði hug á að kynna fyrir lesendum sínum Skógræktarfélag Hafnarfjarðar og heimsótti því formann félagsins, séra Garðar Þorsteinsson, og lagði fyrir hann ýmsar spurningar um skógræktarstarfið. Séra Garðar leysti greiðlega úr öllum spurningum um skógræktina í Hafnarfirði, og gefum við honum hér með orðið.

Garðar Þorsteinsson

Garðar Þorsteinsson.

Skógræktarfélag Hafnarfjarðar var stofnað hinn 25. október 1946. Það ár var Skógræktarfélagi Íslands breytt í samband héraðsskógræktarfélaga og sérstakt skógræktarfélag stofnað hér. Fyrsta stjórn félagsins skipuðu þessir menn: Ingvar heitinn Gunnarsson kennari, sem var formaður, Jón Magnússon frá Skuld, Jón Gestur Vigfússon, sparisjóðsgjaldkeri, Gunnlaugur heitinn Kristinsson, kennari og sandgræðslustjóri, og Þorvaldur heitinn Árnason skattstjóri.
Fjórir menn hafa fram að þessu gegnt formannsstörfum í félaginu: Ingvar Gunnarsson 1946—’49, Þorvaldur Árnason 1949—’54, Jón Gestur Vigfússon 1954—’58 og sr. Garðar Þorsteinsson frá 1958 til þessa dags.
Árið 1935 var komið upp svonefndri Skólagirðingu í Undirhlíðum, um 12 ha. svæði innan hennar. Börn úr efsta bekk barnaskólans önnuðust þar gróðursetningu fyrir forgöngu þeirra Ingvars Gunnarssonar kennara, Hákonar Helgasonar kennara og Guðjóns Guðjónssonar skólastjóra.

Gráhelluhraun

Gráhelluhraun.

Aðalgróðursetningin fór þar fram á árunum 1937—1939. Árangurinn af þessu skógræktarstarfi hefur orðið mjög góður. Hæstu sitkagrenin eru nú 5 til 7 m há. Á þessum tíma hefur landið batnað stórlega og hefur þetta komið skýrt í ljós: Í fyrsta lagi, að víða þarf ekkert að gera til að hefta uppblástur annað en girða landið, og í öðru lagi hefur orðið þarna stórfelld gróðurfarsbreyting. Til dæmis er svæðið innan girðingar blátt af blágresi fyrri hluta sumars, en utan girðingar er ekki blágresi að sjá. Blágresið hefur djúpar rætur og hjálpar mjög til við að bæta jarðveginn. Þetta sama er einnig að koma í ljós í öðrum girðingum skógræktarinnar. Skólagirðingin gekk fljótt úr sér og var ekki gripheld í mörg ár. Þá fór þessi trjágróður ákaflega illa og furðulegt, að hann skyldi ná sér aftur svo sem raun ber vitni.

Sléttuhlíð

Sléttuhlíð.

Árið 1952 samdist svo milli bæjarstjórnarinnar og Skógræktarfélagsins, að félagið tæki við þessari girðingu og sæi um hana framvegis. Skógræktarfélag Hafnarfjarðar lét setja nýja girðingu þarna 1955. Þessi girðing segir bezt til þess, hvers vænta má. Bendir allt til, að trén þarna geti orðið allt að 20 m há. Skólabörnin unnu líka að gróðursetningu í Sléttuhlíð, en svæðið, sem þau gróðursettu í þar, var síðar úthlutað undir sumarbústaði.
Ári eftir stofnun Skógræktarfélags Hafnarfjarðar fær félagið land frá Hafnarfjarðarbæ í Gráhelluhrauni. Var það 8 ha. á stærð. Strax var hafizt handa, svæðið girt og gróðursetning hafin. Árið 1949 er svo Gráhelluhraunsgirðingin stækkuð um 30 ha og er hún því nú 38 ha. að stærð.

Hvaleyrarvatn

Hvaleyrarvatn.

Árið 1957 fær Skógræktarfélagið 35,2 ha. land við Hvaleyrarvatn og er það girt sama ár. Ári síðar, 1958, er stóra girðingin gerð í Stóraskógarhvammi í Undirhlíðum, en innan hennar er 67 ha. svæði. Í Stóraskógarhvammi eru síðustu leifarnar af hinum víðáttumikla birkiskógi, sem upphaflega klæddi allar Undirhlíðar. Þegar girt var, voru þar um 4 m háar birkihríslur á nokkrum stöðum og samfellt birkikjarr á stóru svæði. Nú er gert ráð fyrir því, að á þeim hluta landsins verði eingöngu ræktaður birkiskógur og gamli birkiskógurinn þannig endurnýjaður.

Undirhlíðar

Undirhlíðar – Stóriskógarhvammur.

Loks var árið 1961 þriðja svæðið girt í Undirhlíðum. Það svæði er 60 ha og nær frá Skólagirðingunni og norður undir Kaldá. Höfuðáhugamál félagsins hefur undanfarin ár beinzt að því að girða sem mest, til þess að bjarga landinu frá eyðileggingu ofbeitar. Afgirt land Skógræktarfélags Hafnarfjarðar nú er 212 ha. Samanlögð lengd girðinga félagsins er 14 1/2 km. Í dag mundi það kosta 700 þúsund krónur að koma þessum girðingum upp.
Búið er að gróðursetja í 43,8 ha. af þessu landi félagsins. Þegar Skólagirðingin er frátalin, hefur verið plantað í þetta rúmlega 200.000 trjáplöntum. Mestur hluti þessara plantna er barrviður, svo sem sitkagreni, blágreni, broddgreni, rauðgreni, sitkabastarður, hvítgreni, skógarfura, bergfura, stafafura og lerki. Þá hefur verið plantað allmiklu af birki og verður það gert hlutfallslega meira síðar. Einnig hefur verið plantað út lítið eitt af öðrum trjátegundum. Allmikið af þessu starfi hefur verið unnið í sjálfboðavinnu, einkum fyrstu árin. En síðustu átta árin hefur félagið haft einn fastan starfsmann sumarmánuðina, og sum árin tvo. Það starf hefur einkum verið fólgið í gróðursetningu, áburðargjöf, jarðabótum og viðhaldi á girðingum félagsins.

Stóriskógarhvammur

Piltar úr Vinnuskólanum í Krýsuvík í Stóraskógarhvammi ásamt Hauki Helgasyni.

Árið 1959 kemst sá háttur á, að vinnuflokkur frá vinnuskólanum í Krýsuvík hefur það verkefni meðal annars að vinna að gróðursetningu í Undirhlíðum. Á árunum 1959 til 1962 vinna unglingar og börn úr vinnuskólanum að gróðursetningu undir stjórn Hauks Helgasonar skólastjóra og Helga Jónassonar yfirkennara. En síðastliðin 2 sumur unnu nokkrir hafnfirzkir unglingar að gróðursetningunni undir stjórn kennaranna Guðmundar Þórarinssonar fyrra sumarið, en Björns Ólafssonar og Pálma Ágústssonar sl. sumar og kostaði Hafnarfjarðarbær vinnu unglinganna.

Skógrækt

Piltar úr Vinnuskólanum í Krýsuvík við gróðursetningu í Stóraskógarhvammi um 1962.

Allmikið af landi Skógræktarfélagsins er enn ekki hæft til gróðursetningar. Sums staðar eru melar og blásin börð, sem verður að græða. Þar verður að hjálpa náttúrunni til, og ætlum við Alaskalúpínunni þar mikið hlutverk. Hún er sannkölluð undrajurt, vinnur áburð úr loftinu og skilar honum í jarðveginn. Félagið hefur gert tilraunir með hana, sem lofa góðu. Nú þegar klæðir hún heila mela og undirbýr þá undir annan gróður.
Rotaryfélög í Noregi hafa í nokkur ár, eða frá 1959 til 1962, sent félaginu trjáplöntur að gjöf, aðallega bergfuru. Árið 1959 gróðursettu Rotaryfélagar þær trjáplöntur, sem þannig bárust. Alls hafa verið gefnar frá Noregi 42.500 bergfurur og 14.000 sitkagreni.
Góðtemplarar hafa í allmörg ár farið í gróðursetningarferð einu sinni á ári. Góðtemplarareglan í Hafnarfirði verður vafalaust fyrst til að fá ákveðið land innan girðinga Skógræktarfélagsins, sem hún hafi allan veg og vanda af. Vonandi mun svo verða Ingvar gunnarsson kennari um fleiri félög síðar.
Skógrækt
Árið 1958 voru höggvin tré úr elztu girðingunni og gefin í kirkjurnar í Hafnarfirði, í barnaskólann, á ráðhúsið, að Bessastöðum og víðar. Trén voru allt að 4 1/2 m á hæð. Þetta ár var líka höggvin bergfura og seld í verzlanir. Síðastliðið ár var enn grisjað, og bílhlass af greni og furu var selt í verzlanir fyrir jólin. Nú er búið að girða um helminginn af Undirhlíðunum frá Vatnsskarði norður að Kaldá. —
Hugmyndin er, að nytjaskógi verði komið upp í Undirhlíðum, enda er landið þar vel til þess fallið. Hvaleyrarvatnsgirðingin og Gráhelluhraunsgirðingin eru hins vegar fremur hugsaðar sem skemmtigarðar en skógur. Þær eiga að verða eins konar Heiðmörk Hafnfirðinga, griðland þeirra og hvíldarstaður.
Skógrækt
Árið 1953 barst félaginu dánargjöf frá systkinunum Gunnlaugi Kristmundssyni og Ingibjörgu Kristmundsdóttur, að upphæð 22 þúsund krónur. Gert er ráð fyrir, að gerður verði minningarreitur um þau systkinin í Hvaleyrargirðingunni. Frá því 1958 hafa verið gróðursettar 143.730 skógarplöntur hjá Skógræktarfélagi Hafnarfjarðar.
Stjórn félagsins skipa nú: séra Garðar Þorsteinsson formaður, Páll Daníelsson ritari, Haukur Helgason gjaldkeri. Aðrir í stjórn eru: Jón Magnússon, sem setið hefur í stjórn félagsins frá upphafi, Ólafur Vilhjálmsson, Guðmundur Þórarinsson og Helgi Jónasson.

Krýsuvík - vinnuskóli

Drengir úr Vinnuskólanum í Krýsuvík við skógrækt í Undirhlíðum.

Þú spyrð um framtíðarhorfur í skógræktarmálum. Eg get ekki betur séð, en sú reynsla, sem þegar er fengin, gefi góðar vonir. Því er ekki að neita, að eitt og annað hefur valdið vonbrigðum. Til dæmis var fyrstu árin gróðursett allmikið af skógarfuru. En mikið af henni er dautt, og eins fer um það, sem eftir er, vegna þess, að ekki hefur enn tekizt að gera þær bjöllur landlægar hér, sem halda í skefjum lúsinni, sem á hana sækir. Eins urðum við fyrir nokkrum skakkaföllum í hretinu vorið 1962, þótt það tjón væri minna en við var að búast. Þá hefur grenilúsin valdið nokkru tjóni, en að því eru áraskipti. Þannig olli hún miklu tjóni árið 1962 og aftur nú í haust, einkum í skrúðgörðum í bænum, en hennar gætir mikla minna í skógræktargirðingunum. Skógfræðingar telja að vetrarhlýindin undanfarin ár hafi skapað þessum meindýrum óvenjugóð lífsskilyrði í bili, en annars er við þetta sama vandamál að stríða í öllum löndum, þar sem greni vex. Með úðun er hægt að halda grenilúsinni í skefjum í skrúðgörðum og á litlum svæðum, en þess hefur ekki verið gætt í bæjunum sem skyldi. En við lærum af óhöppunum, og sá er til dæmis dómur norskra skógfræðinga, að árangurinn hér hjá okkur gefi í engu eftir árangri þeirra í Noregi. Aðaláhyggjum veldur ofbeitin á landinu utan girðinga. Það fer algerlega í auðn, ef ekki verður komið í veg fyrir hana.“ – H.Z.

Heimild:
-Alþýðublað Hafnarfjarðar, jólablað 1964 (18.12.1964), „Plöntum, vökvum rein við rein, ræktin skapar framann“ – Garðar Þorsteinsson, bls. 15-16.

Skógarmenn

Minningarskjöldur um fyrrum skógræktarmenn.

Lækjarbotnar

Þegar gengið er upp með læknum er kemur úr Lækjarbotnum má sjá hvar hann liðast með norðurjaðri Stekkjarhrauns og Gráhelluhrauns (Lækjarbotnahrauns). Við upptökin eru hleðslur undan timburhúsi, sem þar stóð um tíma á vatnsþró. Frá húsinu lá trépípa niður til bæjarins. Sjá má leifar hennar neðan við hleðslurnar. Skammt neðar er stíflumannvirki, steypt og hlaðið. Á skilti þarna stendur eftirfarandi:
Leifar vatnsstokksins frá Kaldá„Fram til 1904 var engin vatnsveita í Hafnarfirði en það ár stofnuðu nokkrir Hafnfirðingar „Vatnsveitufélag Hafnarfjarðar“. Félagið stóð meðal annars fyrir því að grafnir voru brunnar á Jófríðarstaðarholtinu og þaðan lagðar vatnspípur vestur eftir bænum. Nokkur hús voru þá tengd veitunni en auk þess voru settir upp vatnspóstar bíða um bæinn, þangað sem bæjarbúar sóttu sitt neysluvatn. Þessi vatnsveita varð þó snemma ófullnægjandi auk þess sem hún náði aldrei til alls þorpsins og því þurfti að grípa til frekari aðgerðar.
Eftir að ljóst var að Vatnsveitan annaði ekki sívaxandi bæ ákvað bæjarstjórn Hafnarfjarðar árið 1909 að kaupa eignir hennar og leggja nýja vatnsveitu héðan ofan úr Lækjarbotnum. Þessi ákvörðun var tekin eftir athugun Erlends Zakaríassonar og Th. Krabbe landfræðings en það þótti mjög hentugur kostur að leiða vatnið frá Lækjarbotnum vegna hæðarmismunar sem er héðan og niður að bænum. Byggð var vatnsþró í Lækjarbotnum og lögð þriggja tommu aðfærsluæð til bæjarins. Vatnsveita þessi dugði vel í nokkur ár en þó þurfti að víkka leiðslurnar til að auka flutningsgetuna oftar en einu sinni.
Árið 1916 var svo komið að uppsprettan í Lækjarbotnum var ekki nægilega vatnsmikil fyrir bæinn. Árið eftir var brugðið á það ráð, samkvæmt tillögu Jóhannesar Reykdals og Jóns Ísleifssonar verkfræðings, að veita vatni úr Kaldá yfir á aðrennslusvæði Lækjarbotna. Var þá byggður 1.600 metra langur stokkur þar sem vatni var veitt úr Kaldá og sleppt niður í hraunið við suðurenda Sléttuhlíðar, um þremur kílómetrum sunnan lindarinnar. Vonuðust menn til að vatnsheld jarðlög undir hrauninu skiluðu vatninu í Lækjarbotna og varð það úr.
Þessi lausn dugði um tíma en þó kom að því að betur þurfti að gera og hófust framkvæmdir á vatnsveitu frá Kaldárbotnum 1949 en vatnsmagnið þar er talið nægja bænum um ófyrirsjáanlega framtíð. Lauk því verki í júní 1951.“

Vatnspípan í Lækjarbotnum

Í Sögu Vatnsveitu Hafnarfjarðar segir m.a. um þessar framkvæmdir: „Fyrr á tímum þegar engin vatnsveita var í Hafnarfirði sótti fólk vatn í Hamarkotslæk. Þessu fylgdi mikil óhollusta vegna óþrifnaðar og sýkingarhættu.
Eftir að Vatnsveitufélag Hafnarfjarðar var stofnað árið 1904 var grafinn brunnur vestan í Jófríðarstaðaholtinu, þar sem svonefnt Kaldadý var. Frá honum voru lagðar pípur um bæinn. Þessi vatnsveita var ein af fyrstu vatnsveitum á landinu. Árið 1908 geisaði taugaveiki upp í Hafnarfirði og töldu menn að rekja mætti orsök hennar til vatnsveitunnar. Þá var hún orðin ófullnægjandi og ákveðið var að leggja vatnsveitu frá Lækjarbotnum þar sem hluti af vatni því sem myndar Hamarkotslæk er. Þar koma lindir framundan hrauninu. Stuttu eftir það komust menn að því að uppsprettan í Lækjarbotnum var ekki næg. Þá fóru menn að huga að því að leggja vatnsæð frá Kaldá til bæjarins. Svo var ákveðið að veita vatni úr Kaldá yfir á aðalrennslissvæði Lækjarbotna til að tryggja vatnsveitunni og rafstöð bæjarins nægilegt vatn.
Vatnið úr Kaldá var leitt mestan hluta leiðarinnar í opinni trérennu. Trérennan var lögð yfir Hjallamisgengið og hraunið en vatninu var síðan  sleppt við suðurenda Setbergshlíðar þar sem hraunið byrjar að falla að Lækjarbotnum í þeirri von um að jarðlög undir hrauninu skiluðu vatninu í Lækjarbotna sem það og gerði eftir nokkra daga. Þegar þetta var ekki fullnægjandi var lögð breiðari pípa. Við þá aukningu höfðu flestar götur bæjarins nægilegt vatn. Það dugði samt ekki lengi því að eftir nokkur ár fór svo aftur að bera á vatnsskorti. Ástæðan fyrir því var m.a. sú að rennan úr Kaldá gekk smá saman úr sér og úreltist og þá minnkaði stöðugt vatnsmagnið sem hún gat flutt. Einnig var þetta vegna þess að þrýstingurinn í vatnsleiðslunum í bænum var ófullnægjandi og náði vatnið þá ekki upp í þau hús sem hæst stóðu.
Þá  var ákveðið að leggja vatnsæð úr Kaldárbotnum. Nokkrar endurbætur voru svo gerðar á henni þegar húsum í bænum fór að fjölga. Þegar grunnvatnsyfirborðið fór að lækka ört vegna minnkunar á úrkomu, voru nokkrar holur boraðar við Kaldárbotna og þær tengdar við vantsveituna. Orsakir hinnar miklu vatnsnotkunar í Hafnarfirði voru taldar vera vegna mikils fjölda fiskvinnslustöðva, göllum í gatnakerfi bæjarins, óhóflegrar vatnsnotkunar og vegna skemmda og bilana á heimilislögnum. Árið 1967 rættist svo úr þessu. Vatnsmagnið í vatnsbólinu í Kaldárbotnum jókst vegna aukinnar úrkomu og ýmsar endurbætur voru gerðar á vatnsveitunni. Undanfarin ár hefur verið nægilegt neysluvatn að fá í Hafnarfirði og talið að endurbætur á bæjarveitukerfinu hafi átt mestan þátt í því.“
Vatnspípan í Lækjarbotnum

Omar

Fáir, ef nokkur núlifandi Grindvíkinga, þekkja sögu samfélagsins, þróun, landamerki og landsgæði bæjarins sem og umhverfi Reykjanesskagans betur en Ómar Smári Ármannsson, hvort sem um er að ræða örnefni, minjar og sögulega staði. Hann ólst upp, á sínum tíma, í gamla útvegsbændasamfélaginu, sem enn á sterkari rætur í grindvísku samfélagi, en marga grunar. Hann fékk þrátt fyrir það tækifæri til að upplifa samtíðina á eigin skinni, með öllum göllum þess og kostum.

-Ertu fæddur Grindvíkingur?

Ómar

Ómar Smári Ármannsson.

Já, ég fæddist í Grindavík, nánar tiltekið í Valhöll í Þórkötlustaðarhverfi og ólst þar upp fyrstu árin, en var síðan fluttur yfir í Járngerðarstaðahverfið. Í uppvextinum í Grindavík var sáð því fræi, sem náði að dafna til lífs.

-Ómar Smári hlýtur að hafa þótt sérstakt samsett nafn árið 1954. Hvernig er það til komið?
Móðir mín ákvað nafnið. Það fékk þó ekki samþykki fyrir því, enda óhefðbundið í þá daga. Það liðu þrjú ár þangað til hún ákvað að ganga með mig til prestsins í Prestshúsum í Grindavík til skírnar.
Presturinn, inni í dimmri stofunni, spurði móður mína hvað drengurinn ætti að heita. Hún svaraði; „Hvers vegna spyrðu hann sjálfan ekki af því.“
Presturinn leit á mig með lítilli tiltrú og spurði: „Hvað viltu heita drengur?“
Ég svaraði feiminn: „Ómar Smári“.
Presturinn virtist hikandi, fletti í skræðum sínum og sagði síðan: „Drengurinn getur ekki heitið Smári. Það er ættarnafn.“
Móðir mín svaraði: „Smári getur ekki verið ættarnafn.“
Presturinn: „Jú, Jakob Smári er með ættarnafn“.

Þórkötlustaðahverfi

Valhöll í Þórkötlustaðhverfi. Helgi Andersen fremst.

Móðir: „Maðurinn sá heitir kannski Jakob, en hann er sagður „í Smára“. Það getur varla talist ættarnafn. Afi og amma drengsins búa t.d. í Teigi og ekki er það ættarnafn“.
Presturinn: „Ég þarf að hringja suður. Getið þið hinkrað aðeins?“. Hann gekk síðan út úr dimmri stofunni og við sátum þarna eftir í sitt hvorum stólnum móti svörtum krossi yfir altarishillu með kertum á til hvorrar handar. Ég man að kertin voru án loga.
Eftir drjúga stund birtist prestur á ný í stofudyragættinni, leit á okkur mæðgin og upplýsti: „Þetta er í lagi. Smári er ekki ættarnafn.“
Alla tíð síðan hef ég heitið Ómar Smári. Engin athugasemd var gerð við fornafnið enda höfðu einn eða tveir áður verið skírðir því nafni. Í dag heita fjölmargir öðru nafninu eða jafnvel báðum án athugasemda. Maður þurfti snemma að takast á við þjóna hins opinbera.

-Þú lentir undir vörubíl fimm ára?

Tómas Þorvaldsson

Tómas Þorvaldsson.

Já, það er rétt. Ég lenti undir vörubíl og var varla hugað líf. Slysið var reyndar sjálfum mér að kenna. Eldri bróður mínum og mér datt í hug, í hádeginu einn hversdaginn, að laumast upp í vörubíl, sem faðir okkar ók, en hafði þá skilið eftir ofarlega í aflíðandi brekku á vegi fyrir framan húsið í Sætúni.
Eftir að hafa leikið okkur um stund í vörubílnum, þar sem bróðir minn var bílstjóri og ég farþegi, leit ég á hann og spurði: „Er þetta gírstöngin?“ Hann leit á mig um leið og ég snerti gírstöngina, sem hrökk úr gír. Þegar vörubíllinn byrjaði að renna undan hallanum varð ég verulega hræddur, opnaði farþegahurðina og stökk út. Ekki vildi betur til en svo að féll inn undir bílinn og varð undir hægra afturhjólinu. Bíllinn stöðvaðist sjálfkrafa í U-laga brekkunni skammt neðar.
Móðir mín kom hlaupandi út við óhljóðin, sem fylgdu í kjölfarið, og tók mig í fangið. Stuttu seinna bar þar að Tómas Þorvaldsson á drossíu, en hann var einn fárra, sem áttu slík farartæki í Grindavík á þeim tíma. Mér var skutlað í aftursætið og Tómas ók sem leið lá eftir holóttum Grindarvíkurveginum og bugðóttum Keflavíkurveginum til Reykjavíkur, allt þangað til komið var að Heilsuverndarstöðinni við Barónsstíg. Þar var ég borinn inn til hjúkrunar. Ég man eftir að hafa misst meðvitund a.m.k. nokkrum sinni á leiðinni.

-Hvernig gekk þér að ná þér eftir bílslysið?

Landsspítali

Landsspítalinn.

Á spítalanum var þetta erfitt. Þar sem ég lá í rúminu var annar fótleggurinn hengdur upp með línu. Í hinum enda hennar, við fótgaflinn, hékk lóð á krók. Þegar ég hreyfði mig féll lóðið af króknum, féll fótleggurinn niður og ég öskraði af kvölum. Hjúkrunarkonurnar brugðust jafnan vel við, hengdu fótlegginn upp á ný og lagfærðu lóðið. Þetta endurtók sig aftur og aftur, dag eftir dag, viku eftir viku, mánuð eftir mánuð. Loks kom að því að ég varð laus við fótakeflið og fékk tækifæri til að stíga fram úr rúminu. Eftir nokkrar sársaukafullar tilraunir gat ég stigið í fæturnar og jafnvel fetað mig út með rúmgaflinum og aftur til baka.
Eftir að hafa legið u.þ.b. hálft ár margbeinabrotinn á Landspítalanum og þegar heim var komið þurfti ég að læra að ganga upp á nýtt með aðstoð hækja. Eftir nokkra mánuði gat ég loks gengið óstuddur án þeirra stuðnings og fór fljótlega í framhaldi af því að ganga og hlaupa um holt og hæðir.

-Síðan flyst þú til Hafnarfjarðar.

Holtsgata

Holtsgatan.

Ég fluttist ekki til Hafnarfjarðar. Ég og við systkyninin, vorum flutt til Hafnarfjarðar. Foreldrarnir skyldu og ekki var um annað að ræða en við sex systkynin færum með henni til Hafnarfjarðar. Búslóðinni var komið fyrir á vörubíl. Inni í vörubílshúsinu voru móðir mín og tvö yngstu systkynin, eins og tveggja ára. Aftan á pallinum sátum við hin fjögur. Rykið var kæfandi.
Þegar við stöðvuðumst utan við framtíðarheimili okkar í kjallaranum við Holtsgötu var fólk þar saman komið, tilbúið til aðstoðar. Ég man eftir því ég gekk um þann mund eftir steyptum vegg á milli lóða okkar húss og nágrannanna, en féll og lenti illa á hausnum. Móðir mín kom hlaupandi, greip afkvæmið í fangið, enn einu sinni án þess að andvarpa, og bar það inn; setti kaldavermsl á stærðarinnar enniskúlu, lagði á dýnu. Þar sat hún svo klukkustundum saman og fylgdist með líðaninni, allt til þeirrar stundar að aðgátar væri ekki lengur þörf.

Grænakinn

Grænakinn.

Þótt húsnæðið væri lítið; eldhús, bað, stofa og svefnherbergi, auk geymslu, leið okkur, sjö manna fjölskyldunni vel þarna. Að vísu þurfti á stundum að hafa ráðdeild við útvegun matar, en ég man ekki eftir að hafa farið svangur að sofa. Á sumrin var kíkt í matjurtargarðana uppi í neðanverðu Ásfjalli þar sem hægt var að ná sér í rófu eða klifra yfir háan steinvegginn í kringum klaustrið, hlaupa að beðunum, kippa upp nokkrum gulrótum og síðan á harðahlaupum til baka til að komast yfir vegginn áður en nunnurnar náðu okkur. Það tókst jafnan.
Á öðrum tíma var hægt að nálgast skreið í hjöllunum, sem voru víðs vegar, betla ferskan fisk á höfninni og tína ber í Stekkjarhrauni á haustin. Umhverfið bauð upp á ýmsar bjargir í þá daga.

Búrfell

Hjallur.

Átta ára byrjaði ég að bera út Morgunblaðið í nágrenninu. Síðan bættust við Tíminn og Alþýðublaðið. Blaðburðarpokinn gat stundum verið þungur fyrir lítinn gutta, einkum um helgar. Ég man alltaf eftir fyrstu útburðarferðinni. Daginn áður hafi mér verið fylgt um hverfið og bent á húsin, sem áttu að fá blöðin og fékk jafnframt í hendurnar útprentaðan lista yfir áskrifendur, en þegar á hólminn var komið reyndist þrautin þyngri. Þegar heim var komið bjóst ég því við kvörtunum frá einhverjum, sem ekki höfðu fengið blaðið, en það gerðist ekki. Smám saman lærðist þetta og gekk snurðulaust fyrir sig. Þetta verkefni krafðist þess að ég þurfti að vakna eldsnemma á morgnana og vera búinn að bera út áður en skólinn byrjaði. Helgarblöðin var hægt að bera út á laugardagskvöldum. Tvö aukablöð fylgdu hverjum pakka. Þau gat ég selt áhugasömum sem bónus.
Með blaðaútburðinum náðum við að kaupa okkur lítið sjónvarpstæki, National, og sjónvarpsloftnet á skorsteininn. Í sjónvarpinu gátum við, þegar vel viðraði, horft á kanasjónvarpið, s.s. Bonanza, Combat, Rowhide, Felix the cat og fleiri áhugaverða framhaldsþætti, reyndar í svart/hvítu.
Síðar fluttum við í risíbúð í Kinnunum. Þar voru herbergin þrjú, auk stofu, eldhúss og baðs. Þar rýmkaðist verulega um fjölskylduna um tíma. Ég held að móðir mín hafi þarna verið hve ánægðust.

-Þú varst í Vinnuskólanum í Krýsuvík. Segðu mér frá þeirri vist.

Krýsuvík

Krýsuvík – Vinnuskólinn (HH).

Barnmörgum fjölskyldum, einstæðum mæðrum og foreldrum, sem voru að glíma við veikindi, bauðst á árunum 1957-1963 að senda sveinbörn sín í Vinnuskólann, sem starfaði í tveimur hollum yfir sumarið, fjórar vikur í senn foreldrunum að kostnaðarlausu.
Ég var í Vinnuskólanum fjögur sumur, frá 8 ára aldri til 11 ára aldurs, og líkaði vel. Mæting var við Lækjarskólann. Farangurinn; stígvél og aukaföt, var venjulega í pappakassa spyrðan saman með snærisspotta.
Í hverjum hópi voru um 60 piltar hverju sinni. Þeir gistu í fimm herbergjum, mismunandi stórum, á fyrstu hæðinni í starfsmannahúsinu í Krýsuvík. Þar voru sturtur og þvottaaðstaða. Drengirnir sáu sjálfir um að þvo af sér fötin og strauja með rúmfjölum, sem þeir náðu í undir dýnunum í herbergiskojunum. Á efri hæðinni að hluta var aðstaða fyrir starfsfólkið, eldhús og matsalur. Í hinum hlutanum var íbúð bústjórans, sem annaðist m.a. gróðurhús, sem þar voru.

Krýsuvík

Drengir í Krýsuvík við sundlaugagerð sunnan Bleikhóls.

Dagurinn hófts venjulega á morgunkaffi í matsalnum; mjólk og matarkexi. Þar var drengjunum skipað til verka fram að hádegi, nema þeim sem gert var að vinna í eldhúsinu; þeir þurftu að vera þar fram yfir kvöldmat. Yfir hvern hóp var settur verkstjóri. Hans hlutverk var m.a. að meta framlag hvers og eins til tekna. Fyrsta sumarið gat hámarks dagsverkið orðið allt að ein króna en síðasta sumarið allt að fimm krónur – slík hafði verðbólgan verið. Vinnan fólst t.d. í að snyrta umhverfið, aðstoða bústjórann í gróðurhúsunum, moka skít út úr fjósinu, sem hafði verið notað sem fjárhús um hríð, grafa fyrir sundlaug vestan við Bleikhól, grafa skurði, hreinsa út úr húsi, sem hafði verið ætlað bústjóranum ofan við Gestsstaðavatn (síðar þekkt sem hús Sveins Björnssonar, listmálara), en það hafði verið notað sem hænsnahús um tíma, fjarlægja gamla hænsnakofann ofan við húsið o.s.frv.

Krýsuvík

Krýsuvík – Vinnuskólinn 2020.

Eftir hádegismat; bjúgu og uppstúf, fiskbúðing úr Oradós og bakaðar baunir, fisk og kartöflur og svoleiðis, var annað hvort farið í skipulagða gönguferð um fjöll og fyrnindi í nágrenninu þar sem áhersla var lögð á að drengirnir lærðu að lesa landið, s.s. upp á Hettu, upp að Arnarvatni, út að Vegghömrum eða að Kleifarvatni til veiða. Unnið var að kofabyggingum við lækjarfarveg innan við gróðurhúsin eða farið í leiki, s.s. rat- eða stríðsleiki. Í ratleikjunum þurfi að finna vísbendingar til að geta leyst tilteknar þrautir og í stríðsleikjunum var hópnum skipt í tvennt; riddara hvítu og rauðu rósarinnar, sem endaði yfirleitt með slagsmálum þar sem markmiðið var að slíta teygju af handlegg andstæðingsins. Í göngurnar var hver og einn útbúin með nesti; mjólk í flösku og brauðsneið.

Krýsuvík

Drengir úr Vinnuskólanum á göngu – HH.

Eftir að heim var komið gafst drengjunum tími til leikja, s.s. í tindátaleik, við lestur eða í fótboltakeppni milli herbergja.
Kvöldmaturinn var yfirleitt kjarnríkur, sem eldhúshópurinn hafði tekið að sér að fullgera. Hann sá einnig um að skræla kartöflur, leggja á borð og vaska upp. Eftir matinn var kvöldvaka. Þá sátu drengirnir í tvöfaldri röð á löngum ganginum framan við herbergin og horfðu á kvikmynd, sem varpað var frá sýningarvel á hvítt tjald við enda hans. Að því búnu voru sungin nokkur lög, s.s. „Lóan er komin“, „Sá ég spóa“ o.s.frv. Hörður Zóphaníasson, skátahöfðingi og einn af tilsjónarmönnunum, hafði samið sérstakan „Krýsuvíkursöng“, sem varð að nokkurs konar þjóðsöng Krýsuvíkurdrengjanna:

Hörður Zíophaníasson

Hörður Zóphaníasson.

„Vasklega að verki göngum
vinir með gleðisöngvum
karlmennskan lokkar löngum
lífsglaðan hug.
Kempur í kampasveit
í Krýsuvík vinnum heitt,
að duga og treysta vort drenglyndi og heit
Ræktum og byggjum, bætum,
brosandi þrautum mætum,
vorinu þrátt við þrætum,
þeytum á bug…“.
Eftir kvöldvökuna var kvöldkaffi; mjólk og kex. Að því loknu var gengið til náða. Stjórnandi mætti í hvert herbergi út af fyrir sig og í sameiningu var farið með „Faðirvorið“. Eftir það varð þögn, enda flestir orðnir dauðþreyttir að dagsverki loknu.
Stjórnendur Vinnuskólans var valið fólk úr hópi skólastjórnenda, kennara og skáta. Sérhver og allir voru þeir framúrskarandi fyrirmyndir ungum uppvaxandi drengjum.
Starfi Vinnuskólans varð sjálfkrafa hætt eftir 1963. Stjórnvöld höfðu þá samþykkt skilyrði í nýrri heilbrigðisreglugerð, sem ómögulegt var að uppfylla miðað við þáverandi aðstæður.

-Hvernig gekk þér í skóla?

Lækjarskóli

Lækjarskóli.

Ég byrjaði í sjöárabekk í Lækjarskóla. Var þar fram til áramóta, en var þá selfluttur upp í Öldutúnsskóla nýbyggðan. Ég man nú lítið frá tímanum í Lækjarskólanum, en því meira frá Öldutúnsskóla. Fyrsti kennarinn minn fyrstu árin þar var frú Sigurlaug, einstaklega þolinmóður og góður kennari. Hún sá líka til þess að við fengjum lýsispillurar okkar reglulega og mættum í ljós í leikfimihúsi Lækjarskóla.
Haukur Helgason var skjólastjóri, en hann annaðist okkur drengina líka yfir sumartímann í Krýsuvík.
Í ellefuárabekk skipti til hins verra; fékk nýjan karlkennara. Okkur lynti ekki hvor við annan. Það leið varla sá dagur að ég var ekki rekinn út úr kennslustund, sem mér þótti bara ágætt; fór heim, út að leika og mætti ekki í skólann næstu daga, eða allt þangað til Haukur kom heim og ræddi við móður mína. Þannig gekk þetta ítrekað um veturinn. Í tólfárabekk fékk ég nýútskráðan kennaranema, Sigrúnu Gísladóttur, síðar skólastjóri í Flataskóla. Hún náði einstaklega vel til nemenda sinna. Eftir veturinn varð ég hæstur í bekknum. Segja má, af þeirri reynslu að dæma, að kennarar geta skipt sköpum fyrir nemendur hverju sinni.

-Áramótabrennur spiluðu stóran þátt í uppeldi barna á þessum tíma?

Áramótabrenna

Áramótabrenna.

Í þá daga var mikil vinna sett í að safna efni í áramótabrennur á milli jóla og nýárs. Segja má að bera þurfti sig eftir sérhverri spýtu og koma henni á brennuna. Við krakkarnir vorum með brennu á bersvæði ofan við klaustrið. Brennan sú var jafnan sú stærsta í Hafnarfirði. Til að selflytja efnið þurftum við ýmist að draga það á höndum okkar í snjónum eða, sem okkur datt í hug, að hnupla líkvagninum í kirkjugarðinum á Öldum að kvöldlagi. Þetta var handvagn, járngrind, á tveimur loftfylltum hjólum. Á hann var hægt að hlaða talsverðu efni. Við skiluðum vagninum seint á virkum dögum, en reyndum að nýta hann þess mun betur um helgar. Það kom fyrir að eitthvað bilaði, grindin gaf sig eða loft fór úr dekki. Eftir það var erfiðara að nálgast vagninn um stund.
Illkvitnir reyndu stundum að kveikja í brennunni fyrir áramót svo við hreiðruðum þannig um okkur inni í henni miðri og notuðum það sem vaktarskjól. Þetta þætti nú ekki boðlegt í dag.

-Og úr Öldutúnsskóla var förinni heitið í Flensborgarskóla?

Flensborgarskóli

Flensborgarskóli.

Já, það voru mikil viðbrigði. Bekkjakerfið held ég að hafi bjargað miklu. Kennararnir sem og skólastjórinn, Ólafur Þ. kristjánsson og síðar sonur hans, Kristján Bersi, voru í einu orði sagt frábærir. Að vísu voru þeir hverjum öðrum ólíkari, en skemmtilegir karakterar hver um sig. Húsvörðurinn, Páll Þorleifsson, var þó máttarstólpurinn í skólastarfinu þótt fáir væru meðvitaðir um það svona dags daglega. Við Páll kynntumst ágætlega – mikill gæðakarl.
Þarna voru gæðakennarar eins og t.d. Egill Strange, sem kenndi handiðn. Eftir skamman tíma í bókbandi bauð hann mér að mæta bara hvernær sem ég vildi og gera það sem ég vildi. Bjarni Jónsson, myndlistarkennari, hafði sama hátt á. Hann sagði við mig að ef ég væri ekki í stuði til að teikna í myndlistartíma mætti ég mæta þegar betur stæði á. Sama var upp á matreiðsluborðinu hjá Hönnu Kjeld. Einar Bollason þótti strangur dönskukennari, en gæðablóð inn við beinið. Ingvar Viktorsson sagði brandara í enskukennslustundum og svona mætti lengi telja um allt ágætið.

Flensborg

Flensborg – stjórn nemendafélagsins, formenn klúbba og fulltrúi skólastjórnar, Ingvar Viktorsson.

Erfiðust var „Pikkólína“ ritvélakennari. Hún gat verið verulega ströng, enda nákvæm fingrasetninginn alvörumál, en hún átti líka sínar góðu stundir.
Eftir að hafa verið í ritstjórn skólablaðsins Draupnis, auk nokkurra annara, s.s. Líkþorns, ásamt Halldóri Árna Sveinssyni og fleirum, var ég í lok þriðja árs valin Inspektor Scolae, formaður Nemendafélagsins, til næsta árs, annar í röðinni frá upphafi. Á því ári voru fjölmargir klúbbar starfandi, skólaskemmtanir haldnar sem og árshátíðin að venju. Þegar enginn vildi taka að sér að verða stjórnandi árshátíðarinnar tók ég það hlutverk að mér ásamt öðru. Í lok skólaársins notuðum við ágóðan af starfseminni til að kaupa nýtt hágæða hljókerfi fyrir sal skólans og afhentum það með hátíðlegri athöfn. Félagsstarfið virtist ekki hafa komið niður á náminu því námsárangurinn var með ágætum.

-Hvað tók við að menntaskólaárunum loknum?

Draupnir

Draupnir.

Á menntaskólaárunum fjármagnaði ég námið með ýmiss konar vinnu; uppskipun úr togurum, verkamannavinnu hjá bænum (vann á loftpressu tvö sumur) og í fiskverkun. Áður en ég útskrifaðist sá ég auglýsingu um sumarstörf í lögreglunni í Reyjavík – sótti um og fékk ráðningu. Um haustið innritaðist ég í lögfræði við Háskóla Íslands. Sumarhýran entist til áramóta. Lögfræðin höfðaði heldur ekki til mín svo ég sótti aftur um sumarstarf í lögreglunni – og fékk. Þar var ég svo við störf næstu 45 árin.

-Hvernig var að starfa í lögreglunni í Reykjavík allan þennan tíma?
Fjölbreytilegt og krefjandi, en skemmtilegt. Samstarfsfélagarnir voru, án undantekninga, alveg stórkostlegir. Fyrstu árin starfaði ég á vöktum í almennu deild, héldum uppi eftirliti og brugðumst við útköllum. Þá tók við starf á vöktum í slysarannsóknardeild, sem sinnti árekstrum og umferðarslysum, auk rannsóknum á hvorutveggja.

Flensborg

Ómar Smári, Inspector Scholae 1975-’76, og Páll Þorleifsson, húsvörður Flensborgarskóla, ásamt nokkrum skólafélögum.

Eftir að hafa lokið námi við Lögregluskólann var mér boðið að annast kennslu við skólann samhliða lögreglustarfinu. Þannig kynntist ég verðandi lögreglumönnum um allt land til tólf ára.
Árið 1985 var með boðið að verða fulltrúi embættisins í stjórnunarnámi í skóla FBI í Bandaríkjunum, sá fyrsti af nokkrum frá Íslandi sem á eftir fylgdu í áranna rás. Í framhaldinu fylgdu ótal prófgráður og námskeið víðs vegar um Evrópu.

Ómar

Ómar ásamt félögum við útskrift.

Í áratuga starfi mínu sem lögreglumaður, þar af sem stjórnandi til langs tíma, hefur mér lærst að takast á við hin margvíslegustu vandamál, leggja til lausnir og fylgja þeim eftir í framkvæmd – eins og lesa má ef nafnið er „googlað“, t.d. á timarit.is. Þar má væntanlega uppgötva áhugaverðar fréttir af afrekum umferðardeildar, stofnun forvarnadeildar, aðgerðir gegn óáran unglingagengja í Breiðholti, umfjöllun um stofnun nágrannavörslu í einstökum hverfum í samvinnu við íbúana, rökstuðningi fyrir skiptum skoðunum um „Ökuferilsskrá“ á landsvísu með tilheyrandi punktakerfi að því markmiði að fækka umferðarslysum, yfirtöku lögregluembætta landsins á starfssemi Rannsóknarlögreglu ríkisins, stofnun rannsóknardeilda einstakra embætta, sameiningu og samhæfingu lögregluembættanna á höfuðborgarsvæðinu o.m.fl.

Lögreglan

B-vaktin 1975.

 Síðustu árin var ég yfirmaður rannsóknardeildar, stöðvarstjóri á Hverfisgötu, síðar í Kópavogi og í Hafnarfirði og loks umferðardeildar. Í framangreindum störfum fólust m.a. samstarf við hlutaðeigandi stjórnvöld; Vegagerðina, Umferðarráð (síðar Samgöngustofu), einstök sveitarfélög, foreldrafélög, skóla, hverfasamtök o.fl. aðila. Ég var t.d. gerður að heiðursfélaga nr. 900 í Sniglunum, Mótorhjólasamtökum lýðveldisins, eftir átök um stund og í framhaldinu ánægjulegt samstarf þar sembáðir aðilar sameinuðust um gild markmið.

-Þú varst nú nokkuð áberandi í fjölmiðlum um tíma?

Ómar

Ómar á ráðstefnu.

Samskipti við fjölmiðla hafa í gegnum tíðina verið stór hluti af störfum undirritaðs, hvort sem var á vettvangi atburða eða eftiráskýringum. Á löngum starfsferli bar ekki skugga þar á – svo orð sé á gerandi.
Eftir að forvarnardeildin var stofnuð þótti öðrum stjórnendum þægilegt að geta vísað spurningum blaða- eða fréttamann til okkar. Mín innkoma á þann vettvang kom því ekki til af engu. Mér fannst bæði sjálfsagt og eðlilegt að einhver svaraði fyrirspurnum f.h. embættisins. Hafa ber í huga að fyrirspyrjendur einstakra fjölmiðla voru jú einungis að reyna að sinna vinnunni sinni, þ.e. að upplýsa almenning um málavexti hverju sinni. Þetta samstarf reyndi á stundum á traust og skilning af beggja hálfu.

Lögreglan

Útskrift úr skóla FBI 1985.

Þótt mörgum hafi, í miðri orrahríðinni, þótt ágengni fjölmiðlanna full ágeng og óþægileg, var ég jafnan á annarri skoðun. Þeirra hlutverk er mikilvægt.
Ég átti jafnan mjög gott samstarf við aðra og var, að eigin mati, almennt vel liðinn í gegnum tíðina, bæði af vinum og öðrum, sem síðar, eftir nokkrar þrætur, urðu vinir, enda jafnan haft að leiðarljósi að koma með sanngjörnum hætti fram við aðra er unnið hafa til þess – svo þeir fengju að njóta sín af eigin verðleikum.
Ráðandi dómsmálaráðherrar voru ekki alltaf par hrifnir af „skýringum lögreglu“ á einstökum viðfangsefnum því stundum skaraðist heilbrigð skynsemi og pólitík í daglegri umfjöllun álitamála.
Ég var um tíma ritstjóri Lögreglublaðsins og formaður Félags yfirlögregluþjóna – ekki má gleyma því.

-Þú tókst sjálfur þátt í pólitísku starfi – varst frambjóðandi og bæjarfulltrúi Alþýðuflokksins í Hafnarfirði?

Hafnarjörður

Hafnarfjörður – pólitík

Já, það er rétt. Frumkvæðið var reyndar ekki mitt. Til mín leituðu fyrrum skólafélagar og kennari úr menntaskólanum í Flensborg, Ingvar Viktorsson, Guðmundur Árni Stefánsson og Tryggvi Harðarsson. Guðmundur Árni var þá orðinn potturinn og pannan í starfi Alþýðuflokksins í Hafnarfirði. Áður hafði Árni Gunnlaugsson boðið mér að vera ofarlega á framboðslista Óháðra borgara í bænum. Flokkur hans náði ágætum árangri. Málið var að Árni hafði stutt móður mína á erfiðleikaárum hennar og ég taldi mig eiga honum gjöld að gjalda – án sérstakra útgjalda. Þá höfðu fulltrúar Alþýðuflokksins, bæði í bæjarstjórn og í nefndum og ráðum, lagt sig fram við að styðja við bakið á öllum þeim er minna máttu sín í bæjarfélaginu. Hvernig var hægt að hafna slíkum beiðnum fyrrum skólafélaga og velgjörðarfólks er höfðu slík gjöfug markmið?

Ómar

Sigurlisti Alþýðuflokksins.

Saman unnum við hreinan meirihlutasigur fyrsta kjörtímabilið, en þurftum að styðjast við fulltrúa tveggja ágætra sjálfstæðismanna, Jóhanns og Ellerts Borgars, það síðara, eftir að hafa fellt meirihluta sjálfstæðismanna og alþýðubandalagsins.
Það var mikill uppgangur í bænum á þessum tíma.
Mér var á þeim tíma falið að veita formennsku nokkrum nefndum og ráðum, s.s. vímuvarnarnefnd, umferðarnefnd, félagsmálaráði, menningarmálanefnd sem og afmælisnefnd bæjarins. Þetta var lærdómsríkur tími. Lærdómurinn fólst m.a. í því að virða skoðanir allra þeirra er voru öndverðum meiði til jafns við eigin skoðanir.

-Heimildir herma að þú hafir verið stofnandi gönguhópsins FERLIRs, sem í dag heldur úti öflugri vefsíðu um sögu, minjar og jarðfræði Reykjanesskagans. Hver var tilgangurinn í upphafi?

FERLIR

FERLIR – húfa, sem þaulsetnir þátttakendur fengu sem viðurkenningarvott.

FERLIR stóð upphaflega fyrir FErðahóp Rannsóknardeildar Lögreglunnar Í Reykjavík. Áhugasamt lögreglufólk um útivist og hreyfingu í tilbreytingu frá hversdagsins önn, krefjandi rannsóknum og jafnvel kyrrsetu þeirra á millum, tók sig saman árið 1999 og ákvað að líta í kringum sig utan starfans – víttka sjóndeildarhringinn og kynnast betur sínu nærtækasta umhverfi. Reykjanesskaginn varð fyrir valinu, bæði vegna nálægðarinnar og ekki síður vegna lítils áhuga fólks almennt á því svæði (þótt undarlega megi teljast) þrátt fyrir fjölbreytileikann.
Eftir að þátttakendur höfðu kynnt sér og rannsakað gaumgæfilega margvíslegar heimildir, bæði gamlar og nýjar, skráðar og óskráðar, kom í ljós að Skaginn hafði upp á ótrúlega mikla fjölbreytni að bjóða; allt frá fornum minjum um búsetu frá upphafi norræns landsnáms til áþreifanlegrar atvinnuþróunarsögu frá fornöld til vorra tíma, þjóðsagnakennda staði, fornar þjóðleiðir, stórkostlega og síbreytilega náttúrufegurð, tímasetta jarðsögu, fjölbreytta flóru og fánu, sendnar strandir jafnt sem rísandi björg, magnþrungið brim, langa fjallgarða, formfögur fjöll, gróna dali, tifandi læki, fjölskrúðug jarðhitasvæði og svo mætti lengi telja.

Arnarfell

FERLIRsfélagar í herbúðunum Eastwoods við Arnarfell.

Til að gera langa sögu stutta er rétt að nefna að frá upphafi hafa verið farnar rúmlega 3000 gönguferðir um Reykjanesskagann, sem markast af hinu forna landnámi Ingólfs, vestan línu milli Hvalfjarðarbotns og Ölfusárárósa. Hópurinn, breytilegur frá einum tíma til annars, hefur notið leiðsagnar frábærs fólks á einstökum afmörkuðum svæðum. Því fólki verður seint fullþakkað fyrir móttökurnar. Árangurinn má sjá á vefsíðunni. Auk texta má sjá fjölda mynda og uppdrætti af yfir 400 minjasvæðum. Margt mjög áhugasamt fólk hefur verið með í ferðum. Sumt af því hafði áður skoðað og skráð upplýsingar á einstökum svæðum. Þátttaka þess hefur gert hópnum kleift að auka víðsýnið og fræðast um ýmislegt það, sem áður virtist óþekkt. Við leitir hefur hópurinn fundið áður óþekktar minjar og staðsett aðrar, sem heimildir voru um en virtust týndar. Alls staðar, þar sem bankað hefur verið að dyrum, hefur hópnum verið mjög vel tekið. Þátttakendur hafa einnig átt frábært samstarf við ágæta fulltrúa Hellarannsóknarfélagsins (Björn Hróarsson), Ferðamálafélags Grindavíkur (Erling Einarsson), kirkjuverði, skólastjórnendur, staðkunnugt heimafólk, innfædda leiðsögumenn og marga fleiri á ferðum sínum.

Ferlir

Ólafur, bæjarstjóri í Grindavík, í ferð með FERLIR á Háleyjum.

Sem dæmi má nefna að bæjarstjórinn í Grindavík, Ólafur Ólafsson, hefur verið áhugasamur um sitt umdæmi og mætt í margar ferðir er farnar hafa verið innan umdæmisins. Verður það að teljast einkar virðingarvert því talsverður tími hefur farið í ferðir um það víðfeðma umdæmi. Safnað hefur verið miklum fróðleik um Skagann, skráðir GPS-punktar á minjar, hella, skúta, sel, sögulega staði, flugvélaflök, vörður, fornar þjóðleiðir og annað er merkilegt hefur þótt. Þá hafa einstök minjasvæði, s.s. Gömlu Hafnir, Básendar,Húshólmi, Selatangar, Krýsuvík, Selalda, Strandarhæð, Kaldársel o.fl. staðir verið dregnir upp skv. lýsingum eldra fólks, en fróðleiksmiðlun þess verður seint metin að verðleikum. Viðtöl hafa og verið tekin við fólk, sem enn man hvaða minjar voru hvar, af hvaða tilefni og hvað var gert á hverjum stað.

Omar

Ómar við leiðsögn á Selatöngum.

Við lögðum upp með það frá upphafi að við myndum ekki borga neitt fyrir okkar framlag og ætluðumst ekki til þess, að sama skapi, að aðrir, sem við þurftum að leita til, krefðust ekki greiðslu fyrir viðvikið. Það hefur gengið eftir hingað til.
Áhugasamt fólk um Reykjanesið var jafnan boðið velkomið í hópinn, en í seinni tíð hefur áherslan verið lögð á að vinna úr þeim gögnum, frásögnum og ljósmyndum, sem safnast hafa í þessum fjölmörgu gönguferðum, með það fyrir augum að gera hvorutveggja aðgengilegt á vefsíðunni www.ferlir.is – eins og sjá má þeim er áhuga hafa…

-Þú stundaðir nám fornleifafræði í Háskólanum, kominn á fimmtugsaldurinn?

Háskóli Íslands

Háskóli Íslands.

Já, og útskrifaðist sem fornleifafræðingur eftir fjögur ár, samhliða lögreglustarfinu. Áhuginn kom ekki af engu, eins og fram kemur í svari við spurningunni um stofnun FERLIRs. BA-ritgerðin fjallaði um „Sel og selstöður vestan Esju“. Þar eru taldar upp rúmlega eitt hundrað slíkar, þ.e. vestan Esjunnar, en í dag, 2022, höfum við fundið og skrá um 400 á Reykjanesskaganum öllum – fyrrum landnámi Ingólfs. Þannig heldur námið áfram þrátt fyrir útskriftina.

Omar

Ómar – við útskrift í Háskóla Íslands.

Ég lauk námi í svæðaleiðsögn á vegum Símenntunar Suðurnesja á sama tíma og hef nýtt mér hana, m.a. með því að bjóða öllum áhugasömum Grindvíkingum til göngu um Húshólmasvæðið, elstu meintu byggð á Íslandi, í tilefni af afmæli bæjarins fyrir nokkrum árum – með ágætis þátttöku þeirra sömu. Þá lauk ég námi í Hagnýtri menningarmiðlun í Háskólanum og hef nýtt mér hana, m.a. til þess að koma á framfæri fróðleik við áhugasama um svæðið á vefsíðunni www.ferlir.is.
Síðar útskrifaðist ég sem svæðaleiðsögumaður frá Símenntun Suðurnesja með ágætum árangri.

-Grindavíkuruppdrættirnir, sögu og minjakort yfir þéttbýlissvæðin í Grindavík, voru að þínu frumkvæði?

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi – uppdráttur ÓSÁ.

Við Óskar Sævarsson, þáverandi forstöðumaður Saltfiskseturs Grindavíkur, fengum menningarverðlaun bæjarins fyrir framtakið. Aðdragandinn var samstarf við Erling Einarsson, þáverandi formann Ferðamálafélags Grindavíkur. Í sameiningu gáfum við m.a. út fróðleiksrit um Selatanga og Húshólma við góðar undirtektir. Í framhaldinu ákvað ég að taka fyrir einstaka bæjarhluta, kalla til aldrað fólk, sem enn var lifandi og þekkti til hinnar deyjandi sögu minja og örnefna á svæðunum, og gera úr því uppdrætti er gætu nýst komandi kynslóðum. Gefnir voru út sjö updrættir og gerðir úr þeim jafnmörg söguskilti er enn standa uppi víðs vegar í Grindavík, áhugasömum til handa.
Ferðamálafélagið gaf síðan út rit með öllum uppdráttunum. Því miður hefur þessu samstarfi ekki verið fylgt eftir sem þyrfti – en uppdrættirnir tala enn þann í dag sínu máli um örnefni og minjar í Grindavík.

-Þú hefur skrifað texta inn í Ratleik Hafnarfjarðar undanfarin ár. Hvernig kom það til?

Ratleikur Hafnarfjarðar 2022

Ratleikur Hafnarfjarðar 2022.

Það var félagi minn, Guðni Gíslason, fyrrum ritstjóri Fjarðarpóstsins, nú ritstjóri Fjarðarfrétta, skátaforingi og forstöðumaður Hönnunarhússins, sem bað mig um texta við ratleikinn fyrir nokkrum árum. Leikur þessi er nú kominn á þrítugasta aldursskeiðið. Um er að ræða 27 tiltekna staði hverju sinni. Fjölmargir hafa bæði nýtt sér fróðleikinn sem og tilganginn með leiknum; að ganga um svæðið og leita uppi merkin, skrá þau á lausnarlista og skila síðan inn að leiðarlokum með von um verðlaun. Þetta er ókeypis lífsfullnægjandi leikur í hinu stórkostlega upplandi Hafnarfjarðar.

-Nú ert þú kominn á svokallaðan „eftirlaunaaldur“. Hvað finnst þér um það?

Lögregla

Lögregla – nokkur axlarmerki.

Ég var skyldaður, gildandi lögum samkvæmt, að fara á eftirlaun þegar 65 árunum var náð – eftir 45 ára starf að löggæslumálum. Í raun fylgdi þeirri skyldu engin réttindi önnur en þau að eiga rétt á takmörkuðum eftirlaunagreiðslum. Ef ég hefði verið í öðru starfi hefði komið til álita áframhaldandi starf, eða, hjá ríkinu, sjálfkrafa heimild til að mega starfa til sjötugs.
Það var svolítið sárt að þurfa að ganga út starfslokadaginn. Ég hafði hafnað kveðjusamkundu, þrátt fyrir mótbárur, með þeim orðum að engin hefði móttökuathöfnin verið er ég mætti á laugardagskvöldi til starfa fyrsta sinni.

Lögregan

Lögreglan – myndirn er tekin eftir handtöku þýsks bankaræningja, Lugmeyers, sem strokið hafði úr dómshúsi þar í landi og birst með fúlgur fjár á Íslandi.

Mitt mat er það eigi að afnema aldurstakmörk þegar kemur að starfslokum, sem og allar hömlur (skerðingar) er takmarka möguleika fólks á öllum aldri að sjá sér farborða. Mörkin má gjarnan nota til að meta áunnin réttindi, ef fólk vill nýta sér þau, en ef það óskar eftir áframhaldandi starfi, eða öðru sambærilegu, ætti það að verða samkomulag milli þess og vinnuveitandans. Í þessu starfsfólki felst mikil uppsöfnuð þekking og reynsla, sem nýtast mætti svo lengi sem umsættanlegt er – punktur og basta.

-Eitthvað að lokum?
Ég tel mig eiga Grindavík, þrátt fyrir allt, skuld að gjalda. Þar liggja jú ræturnar. Einstæð móðirin, með sex börnin sín, naut síðan aðstoðar hreppsins á miklum erfiðleikatímum í hennar lífi, sem nægði til þess að hún gat flutt þau í öruggara atvarf í Hafnarfirði og komið þeim öllum þar til manns. Þess vegna varð ég það sem ég er…

Grindavík

Grindavík – Þórkötlustaðir.

Hafurbjarnaholtsvarða

„Ofan Straumsselshellra syðri er Gamlaþúfa.
Vestur af henni liggja Bringurnar. Þar er Steinhús, Steinhusskjol-1klapparhóll mikill og áberandi. Rétt austan við það er fjárskjól eða skúti, sem mun ekki hafa neitt sérstakt nafn. Í skrá Gísla Sigurðssonar er skúti þessi nefndur Gústafsskjól. En þetta nafn hafði Gísli sjálfur gefið, þegar hann var í örnefnaleiðangri ásamt Gústaf Brynjólfssyni. Áður höfðu þeir Gústaf gefið þessu nafnið Steinhússkjól.
Austur frá Gömluþúfu er lægð, sem nær allt austur að Hafurbjarnarholti. Þar er að finna Stórholt og á því Stórhóll. Þar er einnig að finna Stórholtsgreni og þar skammt frá Skotbyrgið. Hér suður af er Fjárskjólsklettur með sitt Fjárskjól. Þá er Fjallgrenshæð og þar í kring Fjallgrensbalar og Fjallgrensgjá og Fjallgren. Fjallgrenið er í austur frá Gömluþúfu, á að gizka. Þá kemur nokkuð slétt helluhraun, en suður af því kemur svo Sauðabrekkugjá, sem heitir Fjallgrensgjá austar.“
Auðvelt var að ganga að Skotbyrginu við Fjarsskjolsklettur-1Stórholtsgrenið. Í rauninu eru grenin þar efra tvö; beggja vegna byrgisins. Þau eru bæði merkt með steinum.“
Í Landamerkjabréfi fyrir Straum var undirritað 31. maí 1890 og  
þinglýst 9. júní sama ár. Samkvæmt því eru landamerkin svohljóðandi: „Landamerki milli Straums og Óttarstaða, byrja við sjó á Vatnaskersklöpp, yfir miðjan Markhól og þaðan beint í Stóra – Nónhól; frá Nónhól, í Gvendarbrunn; frá Gvendarbrunni í Mjósundavörðu; frá Mjósundavörðu í Klofaklett, suður og upp af Steinhúsi. – Á Klofaklett er klappað: „Ótta.“, „Str.“ og varða hlaðin hjá. Frá Klofakletti í Markastein, suður og uppaf Eyólfshól; á þennan Markastein er klappað: „Ótta.“, „Str.“ Frá þessum Markasteini sömu stefnu upp að Krýsuvíkurlandi.
Fjarskjolid-1Á hina hliðina milli Straums og Þorbjarnarstaða, byrja landamerkin við sjó á Pjetursbyrgi á neðsta hólmanum, og þaðan beint í svonefnda Tóu; úr Tóu beint í Vestari – Tobbukletta yfir miðjan Jónshöfða, og í vörðu vestarlega á há – Hafurbjarnarholti(nu), og þaðan beina stefnu mitt á milli Stóra – Steins, og Fjárskjólskletts, í vörðu á há – Fremstahöfða og þaðan hina sömu beinu stefnu þar til að Krýsuvíkurland tekur við.“
FERLIR hafði áður staðsett Steinhússkjól neðan/ofan (eftir því hvaða lýsing er notuð) við Klofaklett. Um er að ræða lítið hússlaga skjól í kletti með grasi gróinni lægð frramanvert.
Nú var ætlunin að staðsetja Fjárskjólsklett og Fjárskjólið. Þegar tekið var mið af vörðunni vestarlega á há Hafurbjarnaholtinu í sjónhendingu að Fremstahöfða, milli Steinsins og Fjárskjólskletts mátti sjá að síðarnefnda kennileitið var rétt austan við línuna. Norðan við klettinn er Fjárskjólið (með stóru Effi); stórsprunginn hóll með miklum grasgróningum umleikis í lægðum og lágum brekkum skammt ofan (sunnan) við Hafurbjarnarholtið þar sem það er hæst.
Í leiðinni var vandfundið ónefnt og óskráð fjárskjól ofan við Brunntorfur skoðað.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Heimildir:
-Örnefnalýsing GS fyrir Straum.
-Landamerkjabréf Straums 31. maí 1890.

Gamlaþúfa

Gamlaþúfa.