Í Ægi 1986 er fjallað um „Skipasmíðar í Hafnarfirði – Iðngrein á gömlum merg drepin í dróma„. Hér verður tekinn út sá kafli er fjallar um fyrstu skipasmíðastöðina í Hafnarfirði, Skipasmíðastöð Hafnarfjarðar og Skipasmíðastöðina Dröfn neðan Jófríðarstaða.
„Fyrsta skipasmíðastöð sem sögur fara af hér á landi var reist árið 1805 af Bjarna Sívertssen riddara í Hafnarfirði. Eftir hans dag leið heil öld þar til stofnað var til smíða á þiljuðum bátum í Hafnarfirði á ný. Þá stofnaði Júlíus Nýborg og fleiri Skipasmíðastöð Hafnarfjarðar sem starfaði í þrjá áratugi. Upp úr 1940 voru tvær nýjar skipasmíðastöðvar stofnaðar í Firðinum. Skipasmíðastöðin Dröfn og Bátalón, og eru báðar starfræktar enn í dag. Þá eru starfandi minni fyrirtæki sem lagt hafa fyrir sig smíðar á minni bátum úr tré og trefjaplasti.
Skipasmíðar liggja niðri hér á landi um þessar mundir. Fiskiskipastóll landsmanna þykir nógu stór og ekki er gefin fyrirgreiðsla í opinberum sjóðum til smíði nýrra fiskiskipa. Kvótakerfi og veiðitakmarkanir útiloka að nýir aðilar geti hafið útgerð með því að láta smíða sér skip. Skipastóllinn gengur sífellt úr sér þrátt fyrir mikla endurnýjun á eldri skipum, sem oft eru það miklar að spurning er hvort ekki væri nær að byggja ný og hagkvæmari skip.
Allt stefnir í það að vertíðarflotinn verði innan fárra ára endurnýjaður að miklu leyti. Hvort íslenskur skipasmíðaiðnaður verður þá í stakk búinn til að sinna því verki er vafamál eftir þá stöðvun sem verið hefur á skipasmíðum síðan 1981. Verkþekkingu verður að halda við og hlúa að tækniþróun, svo útlitið er ekki bjart fyrir íslenska skipasmíði, er þessi mál hnýtast í sífellt harðari hnút sem erfitt verður að leysa nema méð því að höggva. Þá gæti svo farið, eins og áður hefur gerst hjá okkur, að meginhluti smíðanna verði keyptur erlendis frá.
Minni bátum sem ekki eru jafn bundnir kvótakerfi hefur fjölgað mjög upp á síðkastið. Þar ber mikið á plastbátum, sem framleiddir eru innanlands. Þessi nýi markaður skipabygginga þarf ekki að kvarta undan verkefnaleysi.
Hér á eftir verður litið til sögu skipasmíða í Hafnarfirði allt frá því Bjarni Sívertsen lét fyrst byggja þar þilskip og til þeirra verkefna sem hafnfirskir skipasmiðir fást nú við.
Fyrsta skipasmíðastöðin
Íslendingar hafa á öllum öldum smíðað sér fleytur og átt fjölmarga haga skipasmiði. Sú verkkunnátta féll aldrei niður, þrátt fyrir miklar þrengingar á efnahag þjóðarinnar á síðari öldum. Og einstaka höfðingi eða ofurhugi réðst í það að láta smíða stærri skip en yfirleitt voru notuð til fiskveiða. Meðal þeirra sem smíðuðu duggur voru Páll Björnsson í Selárdal um 1760 og Eyvindur Jónsson frá Upsaströnd í Eyjafirði árið 1715. Árið 1803 lét Bjarni Sívertsen kaupmaður í Hafnarfirði smíða þilskip. Yfirsmiður þess var Ólafur Árnason sem bjó á Hvaleyri. Hann mun hafa smíðað heil hundrað fiskiskipa fyrir sveitunga sína í Firðinum og á Álftanesi um sína daga. Árið 1804 festi Bjarni kaup á jörðinni Jófríðarstöðum fyrirbotni Hafnarfjarðar og lét þar árið eftir reisa skipasmíðastoð, þá fyrstu hér á landi. Stöðin mun hafa verið nærri þeim stað sem slippur Skipasmíðastöðvarinnar Drafnar er nú.
Fátt er vitað um skipasmíðastöðina, en þó þykjast menn hafa fundið fót fyrir því í gömlum skjölum að í það minnsta þrjú skip hafi þar verið smíðuð. Þá er og frá því sagt að póstskipið frá Kaupmannahöfn hafi eitt sinn verið tekið upp í stöðina til viðgerðar, er því hafði hlekkst á í siglingu til landsins.
Heil öld leið þar til Hafnfirðingar tóku að smíða þiljuð skip á ný.
Skipasmíðastöð Hafnarfjarðar
Árið 1918 kom ungur Hafnfirðingur Júlíus Nyborg heim frá þriggja ára námi í skipasmíðum í Danmörku. Skömmu seinna opnaði hann Skipasmíðastöð Hafnarfjarðar ásamt Ólafi V. Daníelssyni og Lofti Loftssyni.
Á þessum árum létu Íslendingar smíða mikið af dekkbátum 10-20 tonna í Danmörku, en einnig voru menn farnir að smíða þiljaða vélbáta hér heima. Fyrstu tvö árin starfaði Júlíus að viðgerðum og setti upp lausan sleða sunnan í firðinum til að draga skipin upp.
Tveir útgerðarmenn úr Vestannaeyjum sömdu við Júlíus árið 1919 um að smíða 12 tonna þilbát fyrir sig. Báturinn var fullgerður árið eftir og nefndist Sigurður. Þetta var fyrsta nýsmíði Skipasmíðastöðvarinnar. Næstu áratugina varð hlé á skipasmíði, en Júlíus sneri sér fyrst og fremst að viðhaldi báta og togara í Hafnarfirði og Reykjavík. Það var þá sem Júlíus tók að járnklæða efsta plankann á toghlerum, en áður þurfyi oftast að skipta um plankann eftir hverja veiðirferð.
Það var ekki fyrr en árið 1940 að Skipasmíðastöðin tók að smíða báta á ný. Bátafélag Hafnarfjarðar h.f. lét þá smíða hjá stöðinni tvo báta, Ásbjörgu og Auðbjörgu 26 rúmlestir að stærð. Á þeim tíma hófu stjórnvöld að styrkja menn til að smíða nýja báta, en hagur allrar útgerðar var bágborinn öll kreppuárin. Ekki voru þó smíðaðir fleiri þiljubátar næstu tvö ár, heldur sneri stöðin sér að smíði nótabáta.
Árin 1942-44 voru þrír bátar smíðaðir hjá stöðinni; Guðmundur Þórðarson 52 tonn, Skálafell 53 tonn og Morgunstjarnan 43 tonn. Og áfram hélt smíðin. Guðbjörg og Hafbjörg 58 rúmlesta vélbátar, runnu af stokkunum árið 1946 og loks var Smári afhentur þrem árum seinna. Hann var 65 rúmlestir að stærð og síðasta skipið sem Skipasmíðastöð Hafnarfjarðar lagði kjölinn að. Áður en fyrirtæki hætti starfsemi höfðu þaðan lokið námi í skipasmíðum fimm menn, og þannig lagt grunninn að áframhaldandi skipasmíðum í Firðinum.
Skipasmíðastöðin Dröfn
Skipasmíðastöðin Dröfn var stofnuð fyrsta vetrardag 1941 til að koma upp dráttarbraut fyrir smíði skipa í Hafnarfirði. Stofnendur voru tólf, flestir húsasmiðir eða skipasmiðir og höfðu margir þeirra unnið áður hjá Skipasmíðastöð Hafnarfjarðar. Kjölurinn að fyrsta bátnum sem Dröfn smíðaði var lagður í apríl 1942. Var það 29 rúmlesta vélbátur sem seldur var til Keflavíkur.
Dráttarbrautin var byggð upp á árunum 1944-1946, en stækkuð síðar og getur hún nú tekið upp skip allt að 400 þungatonn, en um 300 þungatonn út á garða. Alls er hægt að taka upp 9 skip í stöðina. Frá árinu 1946 hefur fyrirtækið byggt yfir sig trésmiðju, skrifstofu- og verslunarhús. Þá var reist stórt smíðahús þar sem hægt er að taka allt að 78 rúmlesta skip inn. Var það tekið í notkun árið 1970.
Allt frá upphafi hefur Dröfn tekið að sér viðgerðir og viðhald fyrir fjöldan allan af skipum og bátum á hverju ári, auk nýsmíðinnar sem oft hefur gengið í bylgjum. Fyrstu fimm árin voru sex skip smíðuð í Dröfn. Þar á meðal var Edda, 184 rúmlestir, sem smíðuð var fyrir Einar Þorgilsson og Co. Edda er eitt af stærstu tréskipum sem smíðuð hafa verið hér á landi.
Eftir 1944 drógust skipasmíðar saman og stofnuðu þá eigendur Drafnar Byggingafélagið Þór h.f. sem starfað hefur að húsbyggingum um langt árabil. Jafnframt var sett upp mjög fullkomið trésmíðaverkstæði í Dröfn, sem smíðað hefur innréttingar bæði í hús og skip.
Nýjasta nýsmíði stöðvarinnar var afhent árið 1976 og voru þá nýsmíðar, stórar og smáar orðnar 36 að tölu. Tvö síðustu verkefnin voru 38 rúmlesta stálbátar sem smíðaðir voru inni í stöðinni. Var ætlunin að halda áfram slíkri raðsmíði, en um þetta leyti var farið að skrúfa fyrir nýsmíði fiskibáta. Hefur ekki verið skrúfað frá opinberum fjármagnsjóðum í slík verkefni enn sem komið er. Síðan hefur Skipasmíðastöðin Dröfn nær eingöngu sinnt viðgerðum og breytingum á tré- og stálskipum. Þó afhenti stöðin skip árið 1979 en skrokkur þess hafði verið smíðaður annars staðar. Þá er einn starfsmaður Drafnar nú að smíða lO tonna bát.
Starfssemi fyrirtækisins má skipta í þrennt. Í fyrsta lagi er það dráttarbrautin og verkstæði henni tengd. Þar starfa á bilinu 25-30 menn að jafnaði. í öðru lagi er það trésmíðaverkstæði sem aðallega vinnur að innréttingum og annarri sérsmíði. Þar starfa 9 menn. Loks rekur Dröfn allstóra byggingavöruverslun og lager í tengslum við stöðina. Alls starfa því um 45 manns hjá fyrirtækinu. Auk eigin verkstæða í trésmíði og járnsmíði vinna undirverktakar að viðgerðum skipa í Dröfn. Það eru vélsmiðjur og rafverktakar, aðallega úr Hafnarfirði.
Undanfarin ár hafa verkefni stöðvarinnar verið næg við ýmiskonar viðgerðir og endurbætur flotans. Á þessu ári hefur staða útgerðarinnar batnað mjög og kemur það greinilega fram í stærri verkefnum. Þannig er nú tekið til við endurbætur sem beðið hefur verið með nokkur síðustu ár. Meirihluti verkefna eru tilboðsverk og hefur hlutfall þeirra aukist að undanförnu með aukinni samkeppni skipasmíðastöðva. Verkefnin eru af öllum stærðum: Vélaskipti, endurnýjun á lestum, skipt um stýrishús, skrokkviðgerðir, málningarvinna og skverun. Nú þegar skipasmíðar liggja í láginni, eru mikilsháttar endurbætur á eldri skipum að verða æ algengari. Ástandið í sjávarútveginum með kvótakerfinu og smíðastoppi heldur líka uppi óhóflegu verði á skipunum og ýtir þannig undir að lappað sé upp á þau, í stað þess að lagt sé í nýsmíði.
En áður en langt um líður hlýtur að koma að því að kerfið bresti og þá má búast við því að hlaupið verði upp til handa og fóta og keypt skip vítt um öll lönd, misjafnlega hentug til veiða hér við land, en víða munu fást ódýr skip, þar sem fiskveiðar eru á undanhaldi.
Önnur afleiðing þessa alls er sú að mikill hörgull er orðinn á járniðnaðarmönnum, svo að um landið allt vantar sennilega mörg hundruð fagmenn á sviði málmiðnaðar. Endurnýjun stéttarinnar hefur lítil sem engin verið að undanförnu. Þegar svo byggja á upp skipasmíðarnar á ný, eftir margra ára biðtíma, þá verða smíðastöðvarnar ekki í stakk búnar til þess nema að litlu leyti. Mönnum þykir örðugt að sjá leið sem leysir þennan hnút.“
Skipasmíðastöðin Dröfn brann til kaldra kola mánudaginn 1. maí 2023.
Heimild:
-Ægir, 10. tbl. 01.10.1986, Skipasmíðar í Hafnarfirði – Iðngrein á gömlum drepin í dróma, bls. 605-610.