Tag Archive for: Hafnarfjörður

Ás

Bærinn „Ás“ ofan við Hafnarfjörð hefur jafnan látið lítið fyrir sér fara þrátt fyrir að eiga sér langa og merka sögu.

Ás

Gamli bæjarhóllinn.

Í Örnefnaskrá segir að landamerki fyrir umboðsjörðina Ás í Garðahreppi séu: „Stefna á Fuglastapaþúfu fyrir vestan Skarð austast á Grímsnesi; þaðan í Bleikstein í Bleiksteinshálsi; þaðan í Þormóðshöfða og þaðan í Steinhús“
Í Örnefnaskrá segir enn fremur: „Ás í Garðahreppi, fyrrum Álftaneshreppi, en tilheyrir nú Hafnarfirði. Jörðin tilheyrði jörðum þeim er lágu við fjörðinn“.

Ás

Gamli bærinn.

Í Jarðabók frá 1703 segir m.a.:
„Jarðardýrleiki á kóngsins parti er óviss og veit enginn neitt til að segja.
Jóns Peturssonar part segja menn almennilega vera iii [symbol] lxxx álnir, er þetta þó nokkuð á óvissu, þar bóndaeignin engvum tíundast nje tíundast hefur það menn til vita. Er sögn manna að þessi bóndahlutans tíund niður falli fyrir örðugan hreppamanna flutning yfir Kapelluhraun að Þorbjarnarstöðum; sýnist líklegt að jörðin muni til samans öll xii [symbol] verið hafa, og væri þá kóngsparturinn viii [symbol] og xl álnir.
Eigandinn að meira hlut jarðarinnar er kóngleg Majestat, að minna hlut Jón Petursson á Hlíði lögrjettumaður. Ábúandinn Þórður Jónsson.
Landskuld af kóngsins parti er lx álnir, af bóndaeigninni xx álnir. Betalast með iiii vættum fiska í kaupstað. Við til húsabótar leggur ábúandinn af báðum pörtunum.
Leigukúgildi með kóngsins parti í, með bóndaeigninni i. Leigur betalast í smjöri heim til Bessastaða eftir kóngskúgildið. En eftir bóndans kúgildið ýmist í smjöri eður fiski heim til eigandans eður í kaupstað. Kóngskúgildið uppýngdi í fyrra umboðsmaðurinn Páll Beyer. So hafa og eignarmenn bóndahlutans eftir þörfum uppýngt sitt kúgildi.

Ás

Fjósið frá 1904.

Kvaðir af kóngspartinum eru mannslán um vertíð, sem leyst hefur verið stundum með einuri vætt fiska, stundum með því að ljá umboðsmanninum eitt tveggja manna far leigulaust um vertíð.

Ás - Stekkur

Ás – Stekkur í Hádegisskarði.

Item einn hrísshestur árlega heim til Bessastaða; þótti næst umliðið ár umboðsmannsins fólki sá hrísshestur ekki nógu gildur, er bóndinn færði; var hönum því tilsagt að bæta þar við, og færði hann annan hrísshest lakari í því nafni. Hjer að auki einn dagsláttur heim til Bessastaða, og fæðir bóndinn sig sjálfur. Stundum hafa skipaferðir kallaðar verið og jafnvel nokkrum sinnum fleiri en ein á ári, fæðir þá bóndinn sig sjálfur. Í fyrra og margoft áður var maður heimtur að þjóna að húsastörfum staðarins á Bessastöðum og fæðir bóndinn verkmanninn. Enn nú setti Jens Jurgensson tvö ár þau síðustu, sem manninn. Enn nú setti Jens Jurgensson tvö ár þau síðustu, sem hann var umboðsmaður, og so í fyrra umboðsmaðurinn Páll Beyer, eitt lamb í fóður hvört ár þessara þriggja með jörðinni. Hafði sú kvöð aldrei verið það menn til minnast, og hefur bóndinn ekkert fyrir það fóður þegið. Hjer á ofan voru í hittifyrra ár af Jens Jurgenssyni og nú í sumar af Páli Beyer útheimtur heyhestur til að fóðra kvikfjenað þann, er fálkanum var ætlaður til fæðis á útsiglingunni, og bóndanum sjálfum skikkað að flytja heyið inn í Hólmskaupstað. Þessi kvöð hafði og fyrr aldrei verið það menn muna. Áður þegar fálkarnir sigldu á Básendum og Keflavík var bóndanum skikkað að láta mann á tje til að bera fálkana ásamt öðrum frá Bessastöðum suður til áðurnefndra kaupstaða og kostaði bóndinn manninn að suður til áðurnefndra kaupstaða og kostaði bóndinn manninn að öllu. Þessi kvöð var og aldrei fyr en í Ás

Innviðir fjósflórsins.

Heidemanns tíð og þaðan í frá iun til þess er fálkarnir sigldu með Hólmsskipi. Bóndinn gaf manninum xx álnir, sem hans vegna fór í þessa för, og fæddi hann. Á bóndans parti eru kvaðir alls öngvar.
Kvikfjenaður er iiii kýr, viii ær, í sauður tvævetur, vii veturgamlir, viii lömb, i foli þrevetur. Fóðrast kann iii kýr og í úngneyti. Heimilissmenn iiii.

Ássel

Ássel við Hvaleyrarvatn.

Selstöðu á jörðin í heimalandi, eru þar hagar sæmilegir og vatnsból gott.
Hrísrif hefur jörðin í almenningum til kolgjörðar og eldiviðar.
Lýngrif er í heimalandi brúkað nokkurn part til eldiviðar og til að fæða pening í heyskorti.
Torfrista og stúnga lök og lítt gagnvænleg.
Heimræði brúkar jörðin frí og skipsuppsátur í Ófriðastaðarlandi að sumir halda, en sumir eigna skipsuppsátrið Ási so sem ítak á móti selstöðu, sem Ófriðarstaðir skuli eiga og síðar segir. Vita menn ekki glögt hvort þetta skipsuppsátur og búðarstæði sje með skyldurjetti eður fyrir liðunarsemi. Þó gánga þar skip ábúandans og hafa gengið um lángan aldur, en búð var þar ekki það menn minnast fyr en Margrét Þorsteinsdóttir bjó að Ási fyrir meir en tuttugu árum.

Ás

Norðurtúnsgarðurinn.

„Í lýsingu Selvogsþinga eftir síra Jón Vestmanns segir m.a. Kaupstaðavegur til hafnarfjarðar liggur úr Selvogi yfir Grindarskörð, stífgild þingmannaleið yfir fjallgarðinn nr. 1, brattur og grýttur mjög. Frá Krýsuvík liggur annar vegur til sama kaupstaðar nefndur Ketilsstígur, þrír partar úr þingmannaleið að lengd grýttur og brattur sem hinn. Hlíð í Selvogi er næsti bær við Grindarskarðsveg, en Litli-Nýibær í Krýsuvík næst við Ketilsstíg. Ás í Garðasókn á Álftanesi er næst[i] bær við Ketilsstíg að vestan er Hafnarfjörður í sömu sókn næstur Grindarskarðarveg að vestanverðu.
Lýsing Garðaprestakalls 1842 eftir síra Árna Helgason segir m.a.: Þar eru taldir upp bæir í sókninni og einn af þeim er Ás með tómthúsi. Einnig eru taldir upp alfaravegir, og er sá syðsti sem liggur upp í Krýsuvík, liggur hann frá Ási Garðasókn, og heitir Stórhöfðastígur.

Í Jarðatali Johnsens frá 1847, segir m.a.:
Álftaneshreppur. Ás, jarðarnúmer 169; jörðin er í kojungseign. Dýrleiki er 12 hundruð, landskuld er 0.80, kúgildi tvö, ábúandi einn.
Jörðin Ás var lögð undir lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar 1959 og bærinn eignaðist landið 1964.

Sjá eignarnámsskuldir Hafnarfjarðar gagnvart einstökum bæjum – https://ferlir.is/logsagnarumdaemi-hafnarfjardar-fra-1908/

Samkvæmt túnakorti frá 1918, er túnið á Ási 2.8 teigar og þar af helmingur sléttaður. Kálgarðar eru i, 670 m2.
Tún Stekks er talið 0.6 teigar, ýft að mestum hluta. Kálgarður 720 m2.

Ás

Ás-túnakort 1914.

Til er „Fornleifaskráning í landi Áss Hafnarfirði“ 2005, en skráning sú verður að teljast í besta falli mjög hæpin. Skráningin sem slík veltir óneitanlega upp spurningunni um hvar takmörkin eru og eigi að vera á heimildum um opinberar samþykktir á slíkum skráningum hér á landi.

Stekkur

Bæjarstæði Stekks fyrrum.

Fyrst Ari Gíslason: „Jörð í Garðahreppi, næst Hvaleyri, nær ekki að sjó, vegna þess að Hafnarfjarðarbær er þar á milli. Upplýsingar um örnefni eru frá Oddgeiri Þorkelssyni að Ási.
Upp og austur frá bænum Ási rís upp fjall, sem heitir Ásfjall. Það er raunverulega framhald af Hvaleyrarholti, (er fyrr getur). Á Ásfjalli er varða, sem heitir Ásvarða. Bærinn Ás stendur í brekku vestan undir fjallinu. Vestur frá bænum er tjörn í lægð, sem heitir Ástjörn. Norður frá henni er býli, sem heitir Stekkur. Þar mun hinn gamli stekkur frá Ási hafa verið. Neðan við Stekksbæinn er lægð, grasi vaxin, sem heitir Leirdalur, og ve[stur] af Ásfjalli er Grísanes, hæð í Hvaleyrarlandi.
Norðan við bæinn að Ási er holtið nafnlaust, og brekkurnar þar næstar, sem tilheyra Ási, utan í fjallinu eru einnig nafnlausar. Slakki er í fjallinu, sem nefndur er Skarð. Þegar hallar svo niður af fjallinu sunnanverðu, koma þar börð og lægðir á milli. Þetta svæði er nefnt Grófir, og neðan þess tekur svo við svæði, sem heitir Lækir. Þá fer að nálgast jafnsléttuna, og taka þar við Ásflatir. Þær eru fyrir botni dals þess, er myndast milli Grísaness og Hamraness, Svo er hár hnúkur syðst á fjalli, sem heitir Vatnshlíðarhnúkur. Vestur af honum hallar fjallinu niður og myndar þar háls, sem nær niður á Hamranesið fyrrnefnda og heitir Bliksteinaháls eða Bleiksteinaháls. Á honum eru tveir steinar ljósir að lit, sem heita Bliksteinar. Þeir eru í hálsinum norðanverðum og eru á merkjum móti Hvaleyri.

Ásvarða

Útsýni af Ásfjalli.

Sunnan við Vatnshlíðarhnúkinn fyrrnefnda er hlíð með giljum og skógarbörðum, sem hallar niður að Hvaleyrarvatni, og heitir hlíð þessi Vatnshlíð. Að norðan eru merki Jófríðarstaða svo nærri vatninu, að þegar hátt er í vatninu, getur Jófríðarstaðabóndinn vatnað hesti sínum í því. Norðurendinn á Ásfjalli er nefndur Ásfjallsöxl, og þar er merkjavarða; svo í landsuður þaðan er varða á Bláberjahrygg, sem er á merkjum móti Jófríðarstöðum; svo eins og fyrr segir rétt við vatnsendann.
Sunnan við vestri endann á vatninu er gríðarstór höfði eða hóll, sem heitir Selhöfði. Á honum er merki móti Hvaleyri. Sunnan við vatnið er dálitill hryggur, sem nefndur er Kjóadalsháls. Svo er landið mjótt, því nú ná nöfnin þvert yfir land jarðarinnar. Svo er gríðarstór dalur, helmingur grasflöt, hitt moldarflag; heitir hann Miðhöfði. Þar upp af er svo Efstihöfði, og svo skerst landið í odda við svonefnt Steinhús, neðst í gjánni, rétt fyrir neðan túnið í Kaldárseli. Þar myndar það tungu.“

Ás

Stríðsminjar á Ásfjalli.

Og í framhaldinu Gísi Sigurðsson: „Landamerki fyrir umboðsjörðinni Ás í Garðahreppi eru: Stefna úr Fuglstapaþúfu í þúfu fyrir vestan svokallað Skarð austast á Grísanesi; þaðan í Bleikstein í Bleiksteinshálsi; þaðan í Þormóðshöfða og þaðan í Steinhús.

Fuglastapaþúfa

Fuglastapaþúfa.

Úr Fuglstapaþúfu fyrir vestan Guðbrandsbæ bein lína í austur í vörðu milli Áss og Jófríðarstaða; þaðan í vörðu norðan til við Ásfjallsöxl. Þaðan til suðausturs í vörðu á Bláberjahrygg; sama lína í Vatnsenda efri; svo í vörðu á Kjóadalshálsi; þaðan beint í vörðu á Miðhöfða; þaðan í Fremstahöfða; þaðan upp í Steinhús.
(Úr landamerkjabók Gullbringu- og Kjósarsýslu).
Ás í Garðahreppi, fyrrum Álftaneshreppi, en tilheyrir nú Hafnarfirði. Jörðin tilheyrði jörðum þeim, er lágu við fjörðinn. Ás, bærinn, stóð á Bæjarhólnum, sem var um það bil í miðju Ástúni. Allt var túnið umgirt Ástúngörðum. Norðurtúngarður lá að ofan og vesturtúngarður að vestan, suðurtúngarður sunnan og neðan og austurtúngarður austan upp með fjallinu.
Heiman frá bæ niður Brekkuna lágu Suðurtraðirnar niður í suðurtraðarhlið. Um Austurtúnið rann Lækurinn. Túnlækurinn rann varla nema í rigningartíð og í leysingum. Neðan við Hólinn vestan bæjarins var Ásbrunnur, og að honum lá Brunngatan. Austan lækjarins var Lambhústún og þar lambhúsið. Í Norðurtúni var Hjallabrekka, og þar sem saman komu Austurtún og Norðurtún, Hjallabyrgi. Þar eru nú sumarbústaðir. Heiman frá bæ lágu Norðurtraðir og þar á mótum garðanna, norður- og vesturgarðs, var norðurtraðarhlið. Ofanvert við traðirnar nyrzt var flöt, nefndist Dansflöt, en neðan traðanna var Fjarðarflöt, en þar niður af þýfður hluti, nefndist Harðhaus.
Utan suðurhliðs var Stöðullinn, þar fyrir neðan var kargþýfður mói, nefndist Ásmói, sem sumir nefndu Ásumói. Þá var þar neðar Ásmýri eða Mómýrin. Þar var mótak, og suður af var Móholtið. Þangað var mórinn borinn frá mógröf og þurrkaður. Út frá vesturtúngarði neðarlega var uppspretta, nefndist Áslindin. Þar var vatnsból fyrir Ás, ef brunninn þraut.

Ás

Bæjarlækurinn.

Vestur í holtinu var önnur uppspretta, sem var kölluð Lindin. Þar var vatnsból frá Stekknum.

Ás

Ás – fjárhústóft.

Ofar hér í holtinu voru Börðin, þau hafa nú verið jöfnuð út, og er þar komið allgott tún. Hér ofar taka svo við Ásmelar. Þeir liggja austan og ofan frá Ásholti, en norðan landamerkja eru garðlönd Hafnfirðinga. Ásvegur liggur frá Norðurtröðum norður um Ásleiti og yfir á Háaleiti , síðan áfram norður að Ófriðarstaðatúngarði.
Vestur á melunum var hringlaga gerði nefnt Kringla. Hér enn vestar var svo býli, þurrabúð, nefndist það Stekkurinn, Ásstekkur, Vindás og Vindásstekkur. Honum fylgdi Stekkstúnið umgirt Stekkstúngörðum, vesturtúngarður, suðurtúngarður, austurtúngarður og norðurtúngarður. Þar sem saman komu norður- og vesturtúngarður, var norðurhlið. Þaðan lá Stekksgata niður að Brandsbæ og áfram niður til Fjarðar. Suðurhlið var neðarlega á mótum vestur- og suðurtúngarðs. En Lindargatan lá heiman frá Stekksbæ austur um austurgarðshlið austur að Lindinni. Brunngatan var löng frá Stekk og austur.
Norðvestur frá Stekk, neðan vestasta hluta melanna, var Leirdalur, og tilheyrði nokkur hluti hans Ási, en í Fuglstapaþúfu syðri voru hornmörk jarðanna Áss, Ófriðarstaða og Hvaleyrar. Þaðan lá landamerkjalínan í Axlarvörðu á Ásfjallsöxl eystri, en neðan og vestan undir Öxlinni var svokallaður Dagmálahvammur. Suðvestur og upp frá Öxlinni var Ásfjall og þar á Ásfjallsvarða.

Ás

Upplýsingaskilti nálægt Ási.

Suður eða suðsuðaustur frá háfjallinu var klettastallur, nefndist Mógrafarhæð. Ekki er nú hægt að sjá, að mótak hafi verið hér í fjallinu. Landamerkjalínan liggur úr vörðunni suður á svonefndan Bláberjahrygg, sem er misgengisbrún og þaðan um Vatnshlíðargil austast í Vatnshlíðinni.

Bleiksteinsháls

Landamerkjavarða á Bleiksteinshálsi.

Hæst á Vatnshlíðinni er svonefndur Vatnshlíðarhnúkur. En vestan á Bláberjahrygg er Bláberjahnúkur.
Landamerkjalína liggur úr gilinu um Vatnsendann og þaðan upp Kjóadalaháls í Kjóadalahálsvörðu. Frá Markavörðunni liggur lína um Kjóadali upp í Miðhöfðavörðu á Miðhöfða, þaðan í Fremsthöfðavörðu á Fremsthöfða og þaðan í Steinhús, sem í gömlum skjölum nefnist Steinhes, og er þar hornmark margra landa. Landamerkjalínan á vesturmörkum mun svo liggja úr Steinhúsi norður eftir Langholti um Þormóðshöfða og Selhöfða, en efst á höfðanum er Borgin, fjárborg allstór um sig. Héðan liggur línan niður á Selhraun eða Seljahraun. Það liggur alveg að Hvaleyrarvatni. Við suðurhlið vatnsins er Hvaleyrarsel og innar Ássel. Þar má enn vel sjá móta fyrir seljarústum. Úr Seljahrauni liggur línan upp á Bleikisteinsháls. Bleikisteinsstígur liggur rétt við klöpp, sem nefnd er Bleikisteinn, en austur og upp frá hálsinum er Bleikisteinshnúkur. Bliksteinshnúkur, Bliksteinn, Bliksteinsháls og Bliksteinsstígur eru einnig nöfn, sem hér eru viðhöfð. Línan liggur af hálsinum yfir svonefnt Hellisdalshraun, sem liggur í Hellisdal, en austast, innst í hrauntungunni, er Hellirinn eða Hellishraunsskjól. Hann var í eina tíð vel upp hlaðinn, en er nú saman hruninn.

Ás

Steinn af æsi við Ás.

Neðan frá hrauntungunni eru svo Ásflatir. En fram á þær syðst rennur Grófarlækur ofan úr Grófunum. Þær liggja norðan við Bláberjahrygg. En stígur liggur um Ásflatir vestur á Grísanesháls, en þar er Hrauntungustígur, sem þarna er að byrja. Síðan liggur landamerkjalínan norður af hálsinum norður yfir Ástjörn, upp fyrir vestan Stekkinn í Fuglstapaþúfu. En Grísanesstígur liggur niður af hálsinum heim að suðurtraðarhliði. Þaðan liggur aftur á móti Skarðsstígurinn upp í svonefnt Skarð á Ásfjallsöxl vestari. Skarðsvarðan var þarna, sem einnig nefndist Hádegisvarða og Hádegisskarð skarðið. Hér um rann féð til beitar suður á Grófirnar, Bláberjahrygg og Vatnshlíðina. Hellishraun, svo var hraunið í Hellisdal einnig nefnt.“
Sjá einnig Ás og Ástjörn – friðlýsing Áss og Ástjarnar.

Til mun vera „Fornleifaskráning vegna samkeppni um skipulag í Áslandi og Grísanesi, Birna Gunnarsd. og Ragnheiður Traustad, 1996“, en sú skráning mun vera öllum öðrum hulin nema skráningaraðilunum sjálfum.

Heimildir:
-Örnefnalýsing Ara Gíslasonar um Ás.
-Örnefnalýsing Gísla Siguðssonar um Ás.
-Jarðabókin 1703.
-„Fornleifaskráning í landi Áss Hafnarfirði“ 2005.

Ás

Ástjörn og nágrenni.

Rauðhóll

Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson skrifuðu um „Hraun í nágrenni Straumsvíkur“ í Náttúrufræðinginn árið 1998.

Hraun í nágrenni Straumsvíkur
HraunÞegar fjallað er um hraunstrauma þá sem á síðustu árþúsundum hafa runnið í átt til sjávar í Straumsvík og næsta nágrenni er óhjákvæmilegt að sú umfjöllun teygi sig til upptakanna, eldgíganna sjálfra. Af þeim sökum nær umfjöllunin yfir um 200 ferkílómetra svæði, þ.e. ströndina frá Hvaleyrarholti til vesturs að Vatnsleysuvik (Kúagerði) og frá ströndinni suður í Reykjanesfjallgarð milli Grindarskarða og Trölladyngju. Á þessu svæði er fjöldi hrauna og sum sjást ekki á yfirborði, því yngri hraun þekja þau alveg. Þeirra verður aftur á móti vart í borholum, m.a. á athafnasvæði álversins í Straumsvík. Leitast er við að draga upp einfalda mynd af því hvaða leið hraunin hafa runnið og hvernig þau hafa, eitt af öðru, lagt sitt af mörkum til að færa ströndina til núverandi horfs. Örnefni á þessu svæði eru fjölmörg og þau eru ekki bundin við einstaka hraunstrauma heldur ákveðin svæði. Þannig getur sama hraunið heitið mörgum nöfnum og nöfn geta einnig náð yfir hluta úr mörgum hraunum. Þau nöfn sem hér eru notuð á einstökum hraunum ber ekki að taka sem örnefni heldur sem sérheiti á jarðmyndunum.

Hraun frá fyrri hluta nútíma
Hraun
Það tímaskeið jarðsögunnar sem tók við er ísöld lauk, fyrir 10.000 árum, nefnist nútími og varir hann enn. Á þeim tíma runnu hraunstraumar þeir sem almennt kallast hraun f dag (2. mynd). Elst þeirra hrauna sem sjást á yfirborði á þessu svæði er Búrfellshraun en það rann fyrir um 7.300 árum (Guðmundur Kjartansson 1973).

Búrfellshraun

Hraunið rann frá stórum gíg ofan við Hafnarfjörð sem Búrfell heitir og er hann nyrsti gígurinn í Krýsuvíkurrein. Frá Búrfelli rann hraunið til norðvesturs í tveimur meginkvíslum og fór önnur niður í Hafnarfjörð (Hafnarfjarðarhraun) en hin í Arnarnesvog (Gálgahraun). Að líkindum hefur á sama tíma runnið hraun til norðurs frá öðrum gíg, Hraunhól, sem er skammt norðan við Vatnsskarð.

Hraunhóll

Hraunhóll undir Vatnsskarði.

Hraunhóll er nú rústir einar eftir efnisnám. Hraunið frá honum kemur fram í Selhrauni, um einn og hálfan kílómetra suður af Straumsvík, og hefur sannanlega runnið þar í sjó fram. Neðst í Almenningum og Selhrauni koma fram þrjú hraun sem eru yngri en Búrfellshraun. Upptök þeirra eru ekki þekkt og hafa gígarnir líklega horfið undir yngri hraun. Eitt þessara hrauna er sýnu mest og hefur það runnið fram í a.m.k. fjögurra kílómetra breiðri tungu og fært þáverandi strönd allnokkuð út. Skáhallt norðaustur yfir Almenninga neðarlega hefur runnið þunnt hraun sem hverfur inn undir Kapelluhraun skammt suður af Straumsvfk. Upptök þessa hrauns eru lfklega norðan við Grænudyngju. Aldur hraunsins er óþekktur nema af afstöðunni til annarra hrauna, og er það yngra en Hrútagjárdyngja og eldra en Kapelluhraun.

Hrútargjárdyngja

Hrútagjárdyngja

Hrútagjárdyngja.

Langmesta hraunið á þessum slóðum er Hrútagjárdyngja. Upptök þess eru nyrst í Móhálsadal, milli Sveifluháls og Núpshlíðarháls. Á gígsvæðinu er allmikil gjá sem Hrútagjá heitir og við hana er dyngjan kennd.

Hrútagjá

Hrútagjárdyngja ofan Hafnarfjarðar.

Hraunið hefur að mestu runnið til norðurs og til sjávar og myndar það ströndina milli Vatnsleysuvíkur og Straumsvíkur. Stærsti hluti hraunsins gengur í daglegu tali undir nafninu Almenningar. Að vestan hefur hraunið runnið upp að eða út á hraundyngju frá ísaldarlokum, Þráinsskjaldarhraun. Þegar Hrútagjárdyngja rann var sjávarstaða nokkru lægri en nú er og hefur hraunið fært ströndina mikið fram. Bungulögun Hrútagjárdyngju og Þráinsskjaldar veldur því að slakki er á milli dyngnanna og eins er slakki austan Hrútagjárdyngju, milli hennar og Undirhlíða. Yngri hraun hafa haft tilhneigingu til að renna í átt til sjávar eftir þessum slökkum. Ekki hefur enn tekist að aldurssetja Hrútagjárdyngju, en öskulög í jarðvegi ofan á hrauninu benda til að hún hafi myndast fyrir um 5.000 árum.

Skúlatúnshraun – Hellnahraunið eldra

Skúlatún

Skúlatún – Helgafell fjær.

Fyrir um 2.000 árum varð mikil goshrina á Reykjanesskaga og gaus þá m.a. í Brennisteinsfjallareininni.

Stóri-Bolli

Stóri-Bolli, Kóngsfellsgígur, í Kóngsfelli.

Frá einum gígnum, Stórabolla í Grindarskörðum, rann mikið hraun niður í átt að Straumsvík. Það breiddist út yfir stórt svæði ofan við Helgafell og Húsfell. Ein kvísl hraunsins rann sunnan og vestan við Helgafell og þaðan niður á milli Helgafells og Gvendarselshæðar og síðan vestur fyrir Stórhöfða, allt tíl sjávar og myndaði núverandi strönd milli Straumsvíkur og Hvaleyrarholts. Þetta hraun stíflaði uppi Hvaleyrarvatn. Suður af Helgafelli heitir hraunið Skúlatúnshraun en við Hvaleyrarholt myndar það meginhluta Hellnahrauns.

Óbrinnishólabruni

Óbrinnishólabruni

Óbrinnishólabruni.

Fyrir um 1800 árum varð gos í Krýsuvíkurrein og voru nyrstu gosstöðvarnar í Óbrinnishólum við Bláfjallaveg (Jón Jónsson 1974). Hraunið frá þeim, sem að hluta heitir Óbrinnishólabruni, rann í mjóum taumi langleiðina niður undir Straumsvík. Gígarnir í Óbrinnishólum eru nú aðeins svipur hjá sjón því þeir hafa verið grafnir út.

Hellnahraunið yngra

Hraun

Hraun ofan Straumsvíkur.

Fyrir um eitt þúsund árum hófst goshrina á Reykjanesskaga (Sigmundur Einarsson o.fl. 1991). Hrinan hófst með gosum í Brennisteinsfjallarein á tíundu öld. Þá runnu m.a. Svínahraunsbruni frá Eldborgum við Lambafell (Kristnitökuhraun), stórir hraunflákar í Húsfellsbruna komu frá Kóngsfellsgígum og Eldborg í Bláfjöllum og mikil hraun runnu frá gígaröðum í Brennisteinsfjöllum; runnu þau m.a til sjávar í Herdísarvík. Þá gaus í Tvíbollum í Grindarskörðum og rann einn hrauntaumurinn nánast sömu leið og Skúlatúnshraun í átt til Straumsvíkur. Hrauntaumurinn endaði skammt frá Sædýrasafninu sáluga og átti þá ófarna um 300 m til sjávar.

Kapelluhraun

Kapeluhraun

Kapelluhraun – jarðfræðikort.

Yngsta hraunið á svæðinu er oftast nefnt einu nafni Kapelluhraun, þó svo að það heiti eigi í raun aðeins við nyrsta hluta þess.
Syðri hluti hraunsins hefur gengið undir heitinu Nýibruni. Kapelluhraun er hluti af hraunum sem runnu í Krýsuvíkurrein árið 1151 (Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson 1989). Þá opnaðist gossprunga sem er alls um 25 km löng en þó slitin í miðjunni.

Hraunkarl

Hraunkarl í Kapelluhrauni.

Sunnan á skaganum rann Ögmundarhraun í sjó fram og tók það af gamla Krýsuvíkurbæinn. Norðan á skaganum rann Kapelluhraun, aðallega frá gígum við Vatnsskarð sem nú heyra sögunni til vegna gjallvinnslu. Hraunið rann til sjávar í Straumsvík. í sama gosi rann hraun frá röð minni gíga sem liggur meðfram Undirhlíðum og norður um Gvendarselshæð. Rann það m.a. niður í Kaldárbotna. Kapelluhraun er úfið apalhraun og hefur verið hinn versti farartálmi nýrunnið. Því hafa menn tekið það ráð að ryðja braut í gegnum það. Brautin hefur nú verið eyðilögð með öllu, að undanskildum um tuttugu metra kafla við svonefnda Kapellu sem er lítil rúst í hrauninu. Kristján Eldjárn rannsakaði kapellu þessa 1950 (Kristján Eldjárn 1956) og fannst þar m.a. lítið líkneski af heilagri Barböru sem er verndardýrlingur ferðamanna. Heilög Barbara var góð til áheita gegn eldsgangi hvers konar. Hún var einnig verndardýrlingur stórskotaliðsmanna, slökkviliðsmannna og námumanna og raunar einnig verkfræðinga og jarðfræðinga. Kapellutóftin er á fornminjaskrá. Kapelluhraunið var ákaflega fallegt, úfið og mosagróið, en nú hefur karganum verið flett af yfirborði þess á stórum svæðum svo hörmung er á að líta. Álverið í Straumsvík stendur á hrauninu.

Gervigígar

Þorbjarnastaðarauðamelur

Í Þorbjarnastaðarauðamel.

Á svæðinu eru nokkrir gervigígar sem stinga kollinum upp úr yngri hraunum. Gervigígarnir hafa myndast við það að hraun runnu í sjó og sýna þeir því legu strandarinnar á myndunartímanum. Gervigígunum í nágrenni Straumsvíkur má skipta í þrjá hópa eftir útbreiðslu.

Rauðhóll

Rauðhóll 2020.

Austast var Rauðhóll við Hvaleyrarholt, sem stóð upp úr Hellnahrauninu eldra, en langt er síðan hóllinn hvarf vegna efnisnáms og þar er nú geil í hraunið. Nokkru sunnar og vestar standa tveir gervigíar upp úrsamahrauni.
Í Selhrauni, skammt suður af kvartmílubrautinni, hefur verið numið töluvert magn af gjalli úr gervigígum sem standa þar upp úr einu af elstu hraununum á svæðinu (Selhraun 4, Helgi Torfason o.fl. 1993).
Skammt suður og vestur af Straumsvík er mikil rauðamalargryfja í Hrútagjárdyngju. Þar var upphaflega rauðamalarbunga upp úr hrauninu, Rauðimelur sem svo var nefndur. Nokkru vestar má sjá í kollinn á allmiklum gjallhól og enn vestar hefur hinn þriðji verið numinn brott.
Í flestum þessara gervigíga hafa fundist skeljar sem þeyst hafa upp úr þeim er hraun rann út yfir setlög við þáverandi strönd. Ekkert er vitað um aldur gíganna annað en að þeir eru örugglega myndaðir eftir ísöld og eru eldri en hraunin sem upp að þeim hafa runnið.

Niðurlag

Hraun

Hraun ofan Straumsvíkur.

Núverandi strönd við Straumsvík er mynduð af þremur hraunum. Elst og vestast eru hraun Hrútagjárdyngju, sem runnu frá stórum dyngjugíg nyrst í Móhálsadal fyrir um 5.000 árum. Vestast er Hellnahraunið eldra, sem er langt að komið, upprunnið í Grindarskörðum í Brennisteinsfjallareininni fyrir um 2.000 árum. Bæði þessi hraun eru helluhraun og fremur auðveld yfirferðar.

Jarðfræðikort

Reykjanesskagi – jarðfræðikort ISOR.

Yngsta hraunið er Kapelluhraun, úfið apalhraun, sem rann árið 1151 frá gígum suður undir Vatnsskarði. Það rann til sjávar um lægð sem myndast hafði á mótum Hrútagjárdyngju og Hellnahraunsins eldra. Á síðustu 10.000 árum hafa hraunstraumar smám saman fært ströndina fram sem nemur allt að 2 km.

Eldgos á Reykjanesskaganum virðast koma í hrinum og á milli er minni virkni. Hrinurnar verða á um þúsund ára fresti og hver hrina stendur yfir í nokkur hundruð ár.

Kapelluhraun

Kapelluhraun – jarðfræðikort ISOR.

Síðasta hrinan hófst upp úr miðri tíundu öld og endaði um 1240.1 hverri hrinu verða umbrot í öllum eldstöðvareinunum á skaganum og í síðustu hrinu færðist virknin frá austri til vesturs. Einnig er nokkuð víst að verði eldgos í Brennisteinsfjöllum og í norðanverðum Móhálsadal munu hraun þaðan renna niður til strandar milli Hrútagjárdyngjunnar og Hvaleyrarholts, sömu leið og Hellnahraun eldra og yngra og Kapelluhraun.
Af ofansögðu er ljóst að hraun geta runnið til Straumsvíkur bæði frá Brennisteinsfjallarein, en þar gaus síðast á 10. öld, og frá Krýsuvíkurrein þar sem síðast gaus um miðja tólftu öld. Síðast urðu með vissu eldsumbrot á Reykjanesskaga á fyrri hluta 13. aldar í Reykjanesrein. Nær útilokað er að hraun frá gosum í þeirri rein geti runnið til Straumsvíkur en hinsvegar gæti þar hugsanlega orðið vart landsigs vegna meðfylgjandi gliðnunar í reininni.

Helstu heimildir höfunda:
-Guðmundur Kjartansson 1973. Aldur Búrfellshrauns við Hafnarfjörð. Náttúrufræðingurinn 42. 159-183. Haukur Jóhannesson & Sigmundur Einarsson 1989.
-Krýsuvíkureldar I. Aldur Ögmundarhrauns og Miðaldalagsins. Jökull 38. 71-87. Helgi Torfason, Árni Hjartarson, Haukur Jóhannesson, Jón Jónsson & Kristján Sæmundsson 1993.
-Berggrunnskort: Elliðavatn 1613 III-SV-B 1:25.000. Landmælingar Íslands, Orkustofnun, Hafnarfjarðarbær, Garðabær, Kópavogsbær, Seltjarnarnesbær og Reykjavíkurborg.
-Jón Jónsson 1978. Jarðfræðikort af Reykjanesskaga. Orkustofnun OS-JHD 7831. 303 bls. kortamappa.
-Jón Jónsson 1974. Óbrinnishólar. Náttúrufræðingurinn 44. 109-119.
-Kristján Eldjárn 1956. Kapelluhraun og Kapellulág. Árbók Fornaleifafélagsins 1955-56. 5-8.
-Sigmundur Einarsson, Haukur Jóhannesson & Árný Erla Sveinbjörnsdóttir 1991. Krýsuvíkureldar ll. Kapelluhraun og gátan um aldur Hellnahrauns yngra. Jökull 41. 61-80.

Heimild:
-Náttúrufræðingurinn, 67. árg., 3.-4. tbl., 01.05.1998, Hraun í nágrenni Straumsvíkur, Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson, 1960-1961, bls. 171-177.

Hraun

Hraunin ofan Straumsvíkur.

Siggubær

Á tveimur  upplýsingaskiltum framan við Siggubæ gegnt Hellisgerði í Hafnarfirði er annars vegar fjallað um „Siggu í Siggubæ“ og hins vegar „Siggubæ„:

Sigga í Siggubæ

Siggubær

Siggubær – skilti.

Sigríður eða Sigga eins og hnún var ávallt kölluð var fædd að Merkinesi í Höfnum sunnudaginn 17. júlí 1892 og var hún einkabarn foreldra sinna. Hún var atorkusöm kona sem lét fátt fram hjá sér fara. Snemma hóf hún að starfa á fiskreitum bæjarsins veið breiðslu og síðar við vask, jafnframt því sem hún sá um dreifingu Alþýðublaðsins að föður sínum látnum.

Siggubær

Sigríður Erlendsdóttir.

Henni var jafnaðarmennska í blóð borin og fann hún skoðunum sínum farveg innan Alþýðuflokksins og verkalýðshreyfingarinnar. Á fiskreitunum kynntist Sigga baráttu verkafólks fyrir bættum kjörum og upplifði það að vinna sömu vinnu og karlarnir en fyrir lægri laun en þeir. Sigríður var ein af stofnendum Verkakvennafélagsins Framtíðarinnar árið 1925. Hún átti sæti í samninganefnd félagsins árið eftir stofnun þess, var fjármálaritari frá 1929 til 1932 og ritari félagsins í 14 ár. Henni var fátt óviðkomandi hvort sem halda þurfti ræðu eða vinna fyrir félagið á einn eða annan hátt. Meðal annars tók hún að sér að sauma félagsfána verkakvennafélagsins sem afhentur var við hátíðlega athöfn í febrúar árið 1930.

Framsýn, föst en höfðingleg

Siggubær

Sigríður, næst lengst til hægri, í hópi starfsfélaga á Fiskakletti þar sem vitinn stóð fyrrum.

Eitt af helstu baráttumálum og hugðarefnum Sigríðar innan verkakvennafélagsins var stofnun dagheimilis fyrir börn útivinnandi kvenna en sjálf var Sigga barnlaus og ógift. Það var árið 1932 að hún léði máls á stofnun dagheimilis á félagsfundi hjá verkakvennafélaginu. Kvað hún brýna þörf á slíku heimili og taldi æskilegt að konurnar hefðu forgöngu um að hrinda því í framkvæmd.

Hörðuvellir

Á Hörðuvöllum.

Ári seinna varð hugmynd hennar að veruleika er dagheimili var stofnað. Fyrst um sinn var það til húsa í gamla barnaskólanum við Suðurgötu, í bæjarþingsalnum og var það einungis opið yfir sumartímann. Ári eftir stofnun dagheimilisins lagði Sigríður fram þá tillögu að verkakvennafélagið reisti sitt eigið hús fyrir starfsemina. Hlaut tillaga hennar brautargengi og byggði félagið hús að Hörðuvöllum. Fljótlega varð það þó of lítið en vegna hvatningarorða Siggur var brátt ráðist í stækkun.
Málefni dagheimilisins átti hug og hjarta Sigríðar, hún átti sæti í dagheimilisnefndinni frá árinu 1935 og var formaður nefndarinnar í alls 24 ár. Árið 1970 sýndi Sigga starfsemi dagheimilisins sérstakan hlýhug er hún stofnaði minningarsjóð um foreldra sína og afhenti svo dagheimilinu sjóðinn, að upphæð krónur 50.000, til eignar og ráðstöfunar.

Sigga og pólitíkin

Siggubær

Sigríður.

Þrátt fyrir miklar annir hjá Siggu við félagsstörf innan verkalýsðhreyfingarinnar tók hún einnig virkan þátt í stjórnmálastarfi Alþýðuflokksins í bænum. Allt frá stofnun flokksins hafði hún fylgt honum að málum og þegar kom að því að stofna kvenfélag innan hans í nóvember 1937 var hún ein af forkólfum þess og gjaldkeri til tuga ára. Kvenfélagið var eitt það fyrsta sinnar tegundar á landinu og stofnun þess því dæmi um brautryðjandastarf í póitískum málefnum kvenna. Allt frá stofnun félagsins var Sigríður óþreytandi við að koma með hugmyndir og áskoranir um það sem betur mátti fara, bæði í bæjarmálum og á landsvísu. Hún var síðan kosin fyrsti heiðursfélagi félagsins og var jafnframt heiðursfélagi í verkakvennafélaginu.

Siggubær

Siggubær

Siggubær.

Siggubær er dæmigerður timburbær klæddur með bárujárni, en bæirnir svonefndu voru veggjalágir, svo til allir undir súð og höfðu einungis glugga á göflunum. Bæirnir voru ekki stóri í fermetrum talið, Siggubær er t.d. aðeins um 6.2 m á lengd og 3.8 , á breidd sem var algeng stærð á þessum húsum.
Bæjum eins og Siggubæ var gjarnan skipt upp í skilrúm. Styttri hlutinn var stundum hólfaður í tvennt, í eldhús og lítið herbergi en til þess að fá meira pláss var oftar en ekki byggður áfastur inngönguskúr.

Allir þurfa þak yfir höfuðið

Siggubær

Erlendur Marteinsson.

Um aldamótin síðustu urðu miklar breytingar á atvinnuháttum þjóðarinnar, fólk fluttist úr sveitum á mölina í leit að betri tækifærum fyrir sig og sína. Erlendur Marteinsson, fæddur árið 1864, frá Merkinesi í Höfnum og kona hans Sigurveig Einarsdóttir, fædd árið 1968, voru ein af þeim sem tóku sig upp og settust að hér í Hafnarfirði, enda mikill uppgangur í bænum vegna nýrra útgerðarhátta.
Ekki var auðvelt að verða sér úti um húsnæði og eini möguleiki fólks var að leigja inni á öðrum eða byggja sér eigið húsnæði. Það kostaði mikla peninga að reisa hús og lánsfé lá ekki á lausu. Erlendur hafði ráðið sig í vinnu hjá August Flygering sem þá var að hefja þilskipaútgerð sína í Hafnarfirði. August lánaði Erlendi 494 kr. og 10 aura og samkvæmt samningi þeirra átti að greiða lánið upp á fjórum árum. Árið 1902 réðst Erlendur í það verk að reisa hús fyrir sig, konu sína og einkadóttur, Sigríði, sem þá var á tíunda ári. Bærinn þeirra skiptist í tvö hólf og var styttri endinn hólfaður í tvennt en til að byrja með var ekki um neitt eiginlegt eldhús að ræða. Annað herbergið var eins konar forstofa, því inngönguskúrinn var byggður seinna.

Siggubær

Siggubær.

Þegar Erlendur hafði gert upp skuld sína við August, að fjórum árum liðnum eins og samningurinn sagði til um, var lagt í að klæða þakið og veggina með járni. Inngönguskúrinn var byggður og eldhúsið tekið í notkun. Árið 1915 var skúrinn stækkaður og um það leyti var útihúsið byggt.
Siggubær er ekki stór en þrátt fyrir það bjó hér eins og áður sagði þriggja manna fjölskylda og um tíma var herbergið í norðurendanum leigt út il Valgerðar Ólafsdóttur frá Hliðsnesi. Erlendur lést árið 1935 eftir margra ára vanheilsu og sjúkralegu á heimili sínu. Eftir það bjuggu þær mæðgur saman í húsinu sem fjölskyldan hafði af dugnaði komið sér upp.“

Siggubær

Siggubær 2020.

Straumur

Í bókinni „Á förnum vegi – rætt við samferðafólk“ eftir Loft Guðmundsson er rætt við „Einbúann að Óttarstöðum“ – Guðmund bónda Ingvarsson.

Óttarstaðir

Guðmundur Ingvarsson á Óttarstöðum efri.

„Við ökum fyrir Straumsvíkina út á Vatnsleysuströnd, lognværan sólskinsdag seint í júní. Sjór er ládauður úti fyrir, varla að sjáist kvika við fjörugrjótið og ekkert lífsmark við víkina. Undarlegt til þess að hugsa að þar eigi á næstunni að rísa nýtísku stóriðjuver og voldug hafnarmannvirki. En svo hefur manni verið fortalið, og ekki farið dult með það.
Þó virðist það jafnvel öllu ótrúlegra, þegar manni verður litið út eftir ströndinni, að ekki skuli vera mannsaldur síðan þar var blómlegt athafnalíf og annríki mikið til sjós og lands – hörkuútræði, enda skammt á fengsæl mið, og arðvænlegur sauðfjárbúskapur, því að fé gekk að kalla sjálfala í hrauninu, jafnvel í snjóa- og frostavetrum. Þess sér að vísu merki enn, að þarna hefur verið þéttbýlt, því það er ekki lengra en það síðan þetta var, að bæjarhús standa enn, en yfirleitt auð; þó mun enn einhverskonar búskaður á nokkrum af hinum gömlu stórbýlum. Og kynlegt er það, að sjá hvergi mann við störf úti við á virkum degi; aftur á móti má líta gljáandi lúxusbíla sumstaðar á bæjarhlaði eyðibýlanna, og er örðugt að ímynda sér erindi þeirra í þessa kyrrlífsmynd sofandi túngarða og lágreistra íbúðarhúsa, sem móka undir ryðbrunnu bárujárni og dreymir liðna tíð.

Óttarsstaðir

Óttarstaðir efri.

Veginn þrýtur og við taka þröngir troðningar inn á milli túngarðanna, svo við yfirgefum jeppann og höldum fótgangandi þann spöl, sem eftir er heim til Guðmundar bónda Ingvarssonar að Óttarstöðum efri.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir vestri – útsýni úr baðstofuglugga.

Ekki höfum við lengi gengið, þegar okkur býður í grun að ekki muni þessi sólbjarta og lognværa kyrrlífsmynd öll þar sem hún sýnist, og um leið förum við að skilja, hvernig þar muni standa á lúxusbílunum. Nýtískuleg tjöldin fyrir litlum og rúðusmáum gluggum á gömlu bæjunum gefa til kynna nýtt landnám innan hárra, mosagróinna grjótgarðanna, er skipta túnskákunum. Við reynum eftir bestu getu að horfa beint fram troðninganna og gjalda þannig líku líkt af riddarlegri hæversku þeim íturvöxnu kvenfulltrúum þeirrar nýju landnámskynslóðar, sem liggja í sólbaði í mjúku grasinu í skjóli túngarðanna og látast ekki vera varir ferða okkar. Og ósjálfrátt hvarflar það að okkur, að einbúanum á Óttarstöðum efri kunni að vera það nokkurt happ að vera kominn yfir á níunda aldurstuginn, annars yrði honum ef til vill tafsamara við túnsláttinn og eiga slíka nágranna. Að minnsta kosti er ekki ólíklegt að einhverntíma hefði það vafist fyrir vermönnunum, sem hlóðu alla þessa grjótgarða í landlegum, að velja þar steini stað, ef þeir hefðu mátt líta það í sýn, sem nú freistar augna okkar í skjóli handverka þeirra.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir vestari.

En hvað um það; okkur tekst að þræða götuslóðana heim á hlað á Óttarstöðum efri án þess að sú augnafreisting verði okkur að falli. Guðmundur bóndi stendur fyrir dyrum ásamt tveim dóttursonum sínum ungum, og fagnar okkur vel. Ekki ber hann þá utan á sér, þessa rúmlega átta áratugi, og áreiðanlega ekki hið innra með sér heldur, þá mundi ekki eins létt yfir honum og raun ber vitni. Hann er meðalmaður á hæð, tággranur, hreyfingarnar svo mjúkar og stæltar, að margur fertugur skrifstofumaðurinn mættu sannarlega öfunda hann af. Græskulaust kímnisbrosið er honum eiginlegt og glettnisglampinn í daökkgráum augunum, sem eru snör og vökul undir loðnum, hærugráum brúnum.

Óttarsstaðir vestari

Óttarsstaðir efri (vestari).

Fyrir framan bæjarhúsin er allstór kálgarður, vel hirtur og sér hvergi í mold fyrir hávöxnu kartöflugrasi, en í einu horninu er skák vaxin leggdigrum og safamiklum rabbabara. Túnið er allstórt, eftir því sem þarna gerist, og vel sprottið; sléttir harðvellisbalar og víðast hvar grunnt á hraungrjótinu. Guðmundur kveðst nota gamla lagið við þetta; stinga garðinn upp með skóflu og slá túnið með orfi og ljá, – jú það held ég, segir hann og hlær við.
-Hvað er túnið stórt?

Ég fæ venjulega af því hundrað og tuttugu hesta.
-Og slærð það einn?
-Já, það held ég nú. En nú eru drengirnir farnir að hjálpa mér við uppvinnuna og snúninga, en tengdasonur minn ekur töðunni á jeppa heim í hlöðu. Dætur mínar eru hérna viðloðandi á sumrin, önnur hér heima en hin í húsi hérna viðloðandi neðan. Jú, ég hef slegið þetta tún einn í meira en fjörutíu ár.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir.

-Ertu ekki farinn að finna til þreytu eða gigtar?
-Nei, blessaður vertu. Ég kann ráð við því. Fæ mér göngu, hleyp út í hraun að eltast við rollurnar, eða gríp í orfið. Hreyfingin – hún er óbrigðul. Og Guðmundur hlær við enn.
-Hefurðu verið svona heilsuhraustur alla ævi?
-Það held ég. Fékk einhverntíma mislinga, sennilega krakki því mig rekur ekki minni til þess. Síðan ekki söguna meir, ekki legið rúmfastur einn dag. Fékk ekki svo mikið sem snert af spænsku veikinni, þegar hún gekk hérna, og kom þó víða daglega hér í kring.
-Og þú hefur alltaf verið lífsglaður og léttur í skapi?

Óttarsstaðir vestari

Óttarsstaðir efri.

-Já, maður lifandi. Ekki dugar annað, enda ekki ástæða til annars; ekki finnst mér það. Og svo er maður alltaf eitthvað að dudda.
-Þú býrð einn hér í húsum allan veturinn, eftir að dæturnar eru farnar til síns heima?
-Já, mér verður nú ekki mikið fyrir því. Leiðis aldrei. Ég huga að kindunum, elda í mig matinn, soðningu og kartöflur og mjólkurgraut; saltkjöt endum og eins, en annars er ég orðinn ónýtari við kjötið síðustu árin. Og svo drekk ég kaffi og þykir það gott; les bækur og blöð, því að nóg er næðið – en á sumrin má það heita undantekninh, að líta í blað. Og aldrei hef ég verið myrkfælinn um ævina, og aldrei heldur orðið veitt var við þessháttar, hvorki hér né annars staðar, ekki nokkurn hræranlegan hlut…
-Ertu kannski borinn og barnfæddur hérna á Vatnsleysuströndinni, Guðmundur?

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir vestri fyrrum.

-Nei, nei. Hingað kom ég fyrst tæplega þrítugur, sem vertíðarmaður til Bjarna ríka á Stóru-Vatnsleysu, Stefánssonar og reri hjá honum sex vertíðir. Giftist svo skömmu eftir að ég fór að vera hérna, konu af Vatnsleysuströndinni. Fyrsta árið bjuggum við í tómthúsi að Stóru-Vatnsleysu, en svo keypti ég hálfa Óttarsstaðina og hef verið hér síðan. Keypti jörðina á hálft sjötta þúsund krónur með þeim bæjarhúsum, sem enn standa og þú getur séð, en öll útihús hef ég byggt upp. Nú er konan áttatíu og fjögurra ára og hefur legið í sjúkrahúsi í Hafnarfirði og elliheimilinu þar í full tíu ár. En ég held mig hérna…

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir efri og neðri.

-Eru nokkur sérstök hlunnindi hérna – æðarvarp eða hrognkelsaveiði?
-Hér hefur aldrei verið æðarvarp, að því er ég best veit; ein og ein kolla, sem gerir sér hreiður úti í hrauninu, þar sem enginn fer um. Selur hefur aldrei veiðst hér heldur og sést hér sjaldan neitt að ráði. Fjörubeit hefur alltaf verið góð, en aldrei hefur borið neitt á skjögri, að minnsta kosti ekki á meðan gamla féð var hérna. Og hérna er mikil hrognkelsaveiði á vorin, en nú er hún þorrin, sést hvorki rauðmagi né grásleppa frekar en annar fiskur.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðavör.

Áður gekk þorskurinn hér inn fyrir hólma; við fengum oft stærðaraula í hronkelsanetin. Og einu sinni var ég einn á kænu úti á víkinni og dró sextíu á handfæri á svipstundu að kalla. Hann tók beran öngulinn og var svo óður, að ég hafði ekki við að draga hann. Eftir að ég hætti að róa á áttæringnum hjá Bjarna á Stóru-Vatnsleysu, reri ég margar vertíðir á fjögurra mann afari hérna úr vörinni með bóndanum á Óttarstöðun neðri, og við fiskuðum ágætlega. Ég fékk ellefu hundruð krónur, bara fyrir bolinn, inni í Hafnarfirði eftir eina vertíðina, og þar var drjúgur skildingur þá. Það var þegar þeir Booklesbræður voru með togaraútgerðina í Hafnarfirði. Þeir vildu kaupa Straumsvíkina, gera þar höfn, og vitanlega ætluðu þeir að gera út togara þaðan. Buðu í hana 500.000 krónur, sem þá þótti gífurlegt fé, en eigendunum, Bjarna, sem síðar varð skólastjóri á Laugarvatni, og þórði lækni Edilonssyni, fannst það of lágt boðið og vildu ekki selja. Að minnsta kosti var sagt, að það hefði verið þess vegna…

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir – staðfastur girðingarstaur.

-Þú hefur komist í sæmileg efni hér á Óttarstöðum, eftir því sem um var að gera, þegar þú varst og hést?
-Já, það væri vanþakklæti að segja annað.
-Vildirðu vera kominn á manndómsaldurinn aftur, Guðmundur? Um borð í áttæringinn hjá Bjarna á Stóru-Vatnsleysu?
-Ég hefði ekkert á móti því. Og ætli ég kynni ekki áralagið.
-Hvenær á ævinni heldurðu að þér hafi liðið best?
Guðmundur á Óttarstöðum tekur tappann ú bauknum og fær sér í nefið.
-Það veit ég hreint ekki, svarar hann og hlær glaðlega. Mér hefur alltaf liðið vel…“.

Heimild:
-„Á förnum vegi – rætt við samferðafólk“ eftir Loftur Guðmundsson, Ægisútgáfan, Reykjavík 1966. Einbúinn að Óttarstöðum – Guðmundur bóndi Ingvarsson sóttur heim, bls. 113-122.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir – örnefni (ÓSÁ).

Hafnarfjörður

Í Alþýðublaði Hafnarfjarðar, jólablaðinu árið 1957, fjallar Friðfinnur V. Stefánsson um „Guðlaugs þátt Gjáhúsa„.

Símtal
Friðfinnur V. Stefánsson„Það var kvöld eitt, ekki alls fyrir löngu, að til mín hringir blaðamaður og spyr, hvort ég sé fáanlegur til þess að skrifa smáþátt um minn gamla vin og kunningja, Guðlaug heitinn Gjáhúsa.
Ég tók þessu mjög illa. Taldi ég öll vandkvæði á því. Benti ég á, að frá því ég lauk prófi frá Flensborgarskóla 1911 hefði ég naumast snert penna. Hlutskipti mitt í lífinu hefði verið að handleika handbörukjálka, fisk, kola- og saltpoka, skóflur, hamra, múrskeiðar, beizlistauma og m. fl. Nei, það var svo fráleitt, að ætlast til þess að ég færi að skrifa minningaþátt. Það var jafn fráleitt og farið væri fram á það við mig, að ég reyndi að ná tíkinni margumtöluðu niður úr tunglinu. En blaðamaðurinn var ýtinn. Ég kvaddi hann samt snögglega og lagði símatólið á.

Vindás

Vindás í Hvolhreppi.

Síðar um kvöldið, þegar ég var háttaður, tókst mér ekki að sofna, hvernig sem ég reyndi. Ég var í huganum aftur og aftur kominn út í gamlan ævintýraheim. Við Guðlaugur vorum komnir á hestbak og þeystum um grænar grundir, fjöll og hálsa. Og þegar við áðum, sagði hann mér sögu eftir sögu af sinni alkunnu snilld. Þetta gekk langt fram á nótt. Loksins sofnaði ég. Daginn eftir, er hlé varð á störfum mínum, leitaði ég uppi blað og penna og byrjaði.

Inngangur

Guðlaugur

Guðlaugur Guðlaugsson (1874-1951).

Það er orðin næsta algeng venja að tala um, að hún eða hann hafi sett svip sinn á bæinn. Ég ætla nú að fylgja þessari venju og segja, að hafi nokkur maður sett svip sinn á Vesturbæinn í Hafnarfirði, þá var það Guðlaugur heitinn Gjáhúsa.
Guðlaugur var að mörgu leyti merkilegur maður og á ýmsan hátt dálítið sérstæður persónuleiki, sem allir hlutu að taka eftir, sem einhver kynni höfðu af honum. Hann var bæði greindur og minnugur.
En það í fari hans, sem sérstaklega heillaði mann, var hve snarráður, úrræðagóður, ósérhlífinn og fylginn sér hann var. Þó er einn ótalinn eðlisþáttur hans. Hann verður ógleymanlegur öllum þeim, sem kynntust honum. Hann bjó yfír alveg óvenjulega frjórri frásagnargáfu – og gleði. Mun ég nú reyna að lofa lesendum að kynnast henni ofurlítið, með því að endursegja nokkrar sögur og minni atburði, er hann sagði mér.

Uppvaxtarár
Eggert PálssonGuðlaugur var fæddur 26. ágúst 1874 að Vindási í Hvolhreppi í Rangárvallasýslu. Ólst hann þar upp við kröpp kjör, eins og hlutskipti margra var í þá daga. Rétt fyrir fermingu, að mig minnir fastlega, missir hann föður sinn úr lungnabólgu og systkini sín þrjú úr barnaveiki, öll í sömu vikunni.
Ekki var þetta nú uppörvandi fyrir umkomulausan fermingardreng að leggja með þetta veganesi út í lífið. Þá var ekki margra kosta völ fyrir þá, sem enga áttu að. Einn og óstuddur varð hann að sjá sér farborða.
Fyrst var hann á bæjum í Fljótshlíðinni t. d. jarðskjálftaárið mikla 1896, þá rúmlega tvítugur að aldri. Hrundu þá bæjardyrnar á bæ þeim, er hann dvaldi á, svo að hann og annað heimilisfólk varð að skríða út um stafngluggann á baðstofunni. Aldrei gat Guðlaugur gleymt þessum atburði. — Þá var Guðlaugur einnig vinnumaður hjá síra Eggerti á Breiðabólsstað. Þann mann dáði Guðlaugur mikið.

Herdísarvík
HerdísarvíkBrátt tók Guðlaugur, eins og fleiri í þá daga, að fara suður til sjóróðra. Reri hann margar vertíðir, oftast í Grindavík. Kem ég betur að því síðar. Þá var alltaf farið um Selvog og Herdísarvík. í einni vertíðarferð kynntist Guðlaugur bóndanum í Herdísarvík, Þórarni Árnasyni, sýslumanns í Krýsuvík. Réðist Guðlaugur til hans og gerðist fjármaður hans, við mikinn og góðan orðstír. Hjá honum var hann í fimm ár. Þroskaðist hann þá mikið. Reyndi þarna oft á þrek hans í vondum veðrum við fjárgæzluna. í Herdísarvík var að mestu byggt á beit, bæði til fjöru og fjalls. Margan, kaldan vetrardaginn, þegar jarðbönn voru, stóð hann myrkranna á milli við ofanafmokstur til þess að féð næði að seðja mesta hungur sitt.
Síðar í þættinum mun ég víkja frekar að veru Guðlaugs, í Herdísarvík.

Ástin vaknar

Gjáarrétt

Gjáarrétt.

Guðlaugur varð, eins og aðrir fjármenn, að fara í útréttir. Haust nokkurt sendi Þórarinn bóndi hann í Gjáarrétt við Hafnarfjörð.

Herdísarvík

Herdísarvík.

Sá Þórarinn mikið eftir því, að hafa sent Guðlaug í þessa ferð. Hann vildi fyrir hvern mun halda í Guðlaug. En í þessari ferð gisti Guðlaugur á Setbergi. Þar sá hann mjög gjörvulega og myndarlega stúlku, Sigurbjörgu Sigvaldadóttur, sem síðar varð ævilangur förunautur hans. Þegar Guðlaugur kom heim úr réttarferðinni, leið ekki á löngu áður en hann sagði upp vistinni. Hvarf hann frá Herdísarvík, þegar ráðningartími hans var á enda.
Flutti hann þá að Setbergi við Hafnarfjörð og gerðist vinnumaður um skeið hjá Halldóri Halldórssyni, sem síðar var kenndur við Bergen í Hafnarfirði.

Til Hafnarfjarðar

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður 1905.

Flestum lífverum er frelsisþráin meðfædd. Svo er um okkur mennina. Brátt tóku þau Guðlaugur og Sigurbjörg að búa sig undir að verða sjálfstæð. Árið 1905 eða 1906 fluttu þau hjón til Hafnarfjarðar.

Víðistaðir

Víðistaðir – stakkstæðið.

Bjuggu þau fyrst á svonefndu Stakkstœði, þar sem Guðmundur á Hól, Eyjólfur frá Dröngum o. fl. bjuggu. Það lýsir Guðlaugi vel að undir eins á fyrsta ári byrjar hann á því að byggja hús þar við Vesturbraut, er hann síðar nefndi Gjáhús. Stendur það enn, sem kunnugt er. Þarna bjuggu þau hjónin alla tíð síðan, með mikilli prýði og myndarskap. Brátt fékk Guðlaugur gott orð á sig sem smiður.
Stundaði hann smíðar um margra ára skeið.

Djöflafélagið

Hafnarfjörður 1912

Hafnarfjörður 1912.

Um þessar mundir var lítið um félagssamtök í Hafnarfirði. Góðtemplarareglan var helzti félagsskapurinn. En um þetta leyti reyndu verkamenn í Hafnarfirði að stofna með sér félag. Guðlaugur tók þátt í því. Mig langar að segja frá smáatviki, sem henti Guðlaug. Lýsir það vel aldarandanum í þá daga.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður fyrrum.

Það var kvöld eitt, að Guðlaugur var á leið heim. Hann hafði verið á verkamannafélagsfundi. Hittist svo á, að atvinnurekandi nokkur og einn af betri borgurum bæjarins stóð á tröppum húss síns. Ávarpaði hann Guðlaug heldur hvatskeytislega með þessum orðum: „Ert þú genginn í þetta Djöflafélag, Guðlaugur?“
„Ef þú átt við verkamannafélagið, þá er ég genginn í það,“ svaraði Guðlaugur jafn snúðugt og hinn spurði. Hélt hann síðan áfram ferð sinni. — Guðlaugur vann hjá þessum manni.

Gjáhús

Gjáhús. Guðlaugur byggði lágreist hús að Merkurgötu 18 árið 1906 er síðar varð Vesturgata 16.

Næstu fjóra daga var hann ekki kvaddur til vinnu. En á fimmta degi var sent eftir honum og vinna tekin upp eins og ekkert hefði í skorizt. Svona var nú aldarandinn þá. Stingur þar mjög í stúf við öll elskulegheitin, sem atvinnurekendablöðin sýna launastéttunum nú og jafnvel hálaunastéttunum. En skylt finnst mér að taka fram, að fyrrnefndur atvinnurekandi og hans líkar voru ýmsum kostum búnir líka, þótt þeir væri kaldir og hrjúfir á stundum. Þeir áttu það til að lána fátækum mönnum bæði timbur og járn o. fl. til þess að þeir gætu byggt sér skýli yfir höfuðið, — og ábyrgðar- og rentulaust. Væntanleg vinna, ef heilsa og kraftar leyfðu, var eina tryggingin.

Vindmyllan

Vindmylla

Vindmylla.

Guðlaugur stundaði smíðar, eins og fyrr var sagt, í nokkur ár. Síðan breytti hann til og gerðist verkstjóri hjá Bookless Bros. Í þá daga var notuð vindmylla til þess að dæla sjó í þvottakerin. Skal nú sagt frá atburði, seni sýnir, að Guðlaugur var gæddur óvenjulegu hugrekki, snarræði og þreki, er í þessu tilfelli gekk ofdirfsku næst.
Guðlaugur var hvorki stór maður vexti né kraftalegur, en hann leyndi á sér. Þrekið og áræðið fór þó langt fram úr því, sem útlitið benti til. Það vissu þeir, sem með honum unnu. Andlitsdrættir Guðlaugs voru sterkir og fastmótaðir. Stundum fannst mér gæta nokkurs kulda í svipnum. Má vera, að harðrétti og óblíða unglingsáranna ætti þar nokkurn hlut að.
Það var einhverju sinni, að verið var að dæla sjó með vindmyllunni. Þá rauk hann skyndilega upp á norðan. Hvassviðrið jókst og myllan ærðist, ef svo mætti segja.

Hafnarfjörður

Athafnasvæði Bookless-bræðra í Hafnarfirði í kríngum 1913. Vindmyllan sést á myndinni.

Stórhætta var á að vængir myllunnar brotnuðu í spón, ef ekki tækist að stöðva hana. Nú voru góð róð dýr. Þarna voru margir karlmenn til staðar, en enginn treysti sér til þess að fara upp og freista þess að stöðva mylluna. Þá bar Guðlaug þarna að. Hann réðst þegar í stað til uppgöngu, en myllan stóð í turni á húsþakinu. Guðlaugur lét þrjá menn fylgja sér. Hann skipaði þeim að taka traustataki um taug, er bundin var í stél myllunnar. Áttu þeir að beina vængjum hennar undan vindi, ef ske kynni að hún hægði nokkuð á sér. Meðan þessu fór fram, tók Guðlaugur sér stöðu, hélt sér föstum með annarri hendi, en hina hafði hann lausa. Hugðist hann grípa með henni um einn vænginn, ef færi gæfist. Allt í einu rak fólkið, sem á horfði, upp skelfingaróp. Guðlaugur hafði gripið um vænginn. Við þetta missti hann fótanna, sveiflaðist nokkra stund í lausu lofti, en hvorugri hendinni sleppti hann. Það gerði gæfumuninn, — og vindmyllan stöðvaðist. Létti mjög yfir áhorfendum, þegar Guðlaugur hafði leyst þessa þrekraun af hendi.

Hlauparinn

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll 1907.

Áður en bílar komu til sögunnar notaði yngra fólkið helzt reiðhjól til þess að ferðast á milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar.
Dag nokkurn lagði einn snjall og kappsamur hjólreiðamaður, Ásgeir G. Stefánsson að nafni, á stað til Reykjavíkur. Er hann var kominn rétt upp fyrir bæinn, sér hann gangandi mann á undan sér. Hann þekkti manninn, sem var á leið til Reykjavíkur, kastar á hann kveðju, um leið og hann hjólar fram hjá honum. Heldur Ásgeir síðan áfram með sígandi hraða og horfir fram á veginn. Skömmu síðar verður hann þess var, að maðurinn, sem hann var nýbúinn að kveðja, er kominn á hæla honum og hleypur mjög léttilega. Ásgeir hjólaði alltaf greitt, og fylgdust þessir kappar að alla leið, til Reykjavíkur, þótt ótrúlegt megi virðast. Ekki var hlauparinn mæðnari en það, að þeir héldu uppi eðlilegum samræðum mikið af leiðinni.
HafnarfjörðurNú skyldi margur ætla, að hér væri á ferðinni Olympíufari eða hlaupasnillingur, sem þjálfaður er eftir kerfisbundnum reglum. Nei, þarna var á ferðinni sonur dalanna og íslenzku heiðanna, þjálfaður af nauðsyn í sjálfu lífsstarfinu, smali, nýfluttur til Hafnarfjarðar, Guðlaugur frá Gjáhúsum.
Mér þykir rétt að skjóta því hérna inn í, úr því að ég fór að minnast á hjólreiðamenn, að fleiri voru snjallir og kappsfullir en Ásgeir, t. d. Guðmundur Hróbjartsson, Ólafur Davíðsson, Gunnlaugur Stefánsson og Þorbjörn Klemensson. Einu sinni lenti þeim Gunnlaugi og Þorbirni saman í geysiharðri keppni, og mátti varla milli sjá, hvor þeirra var á undan, þegar hetjurnar, móðar og másandi, náðu Hraunsholtsbeygjunni.
Guðmundur Hró og Ásgeir áttu það stundum til að skreppa austur yfir fjall á hjólum sínum seinni part laugardags, borða lax á Kolviðarhóli (þá voru allar rúður þar vel heilar) á austurleið, koma svo aftur heim til Hafnarfjarðar að sunnudagskveldi. Brást þó aldrei, að þeir voru mættir til vinnu í bítið á mánudagsmorgni. En þetta var nú útúrdúr. —

Nautið
Vindás
Nú bregðum við okkur, lesandi góður, austur á æskustöðvar Guðlaugs.
Það var einn dag um hásumarið í góðu veðri, að Guðlaugur fór fram á heiði til þess að huga að hestum. Þarna var vel grösugt en allstórir steinar á víð og dreif. Allt í einu tekur Guðlaugur eftir því, að heljarmikið naut stendur fyrir framan hann. Hefur það sennilega legið á bak við einn stóra steininn. Nautið rekur upp öskur mikið, tekur undir sig stökk og stefnir beint á Guðlaug.

Setberg

Setberg um 1986 – fjósið.

Drengurinn tekur til fótanna, stekkur að stærsta steininum þarna og kemst með naumindum upp á hann. Nautið skellir framfótunum upp á steininn og öskrar ógurlega. Drengurinn getur þó varizt og er hólpinn í bili. Nú var Guðlaugur staddur í ærnum vanda. Aleinn, svangur, hræddur og langt frá mannabyggðum. Við fætur hans stóð dauðinn í nautslíki. Nautið hafði nóg gras að bíta. Það gat því beðið endalaust eftir bráð sinni. En lesandi góður: Eftir nokkra stund var ungi drengurinn búinn að leysa þessa heljarþraut, sloppinn úr allri lífshættu og kominn heim á leið.
Hann hafði stungið hendi í vasa sinn, opnað vasahnífinn, stóð þarna allvígalegur á steininum og engdi nautið óspart, en það teygði fram hausinn og reyndi öskrandi að ná til drengsins. Leiftursnöggt brá litli drengurinn hnífi sínum og rak hann á kaf í annað auga dýrsins. Nautið rak upp feiknarlegt öskur, hentist af stað út í buskann, eins langt og augu drengsins eygðu.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – Setberg 1983.

Guðlaugur rölti heim á leið, glaður og hryggur. Góður drengur kennir í brjósti um sært dýr. En þetta var nauðvörn hans. Ekki þorði hann að segja neinum frá þessu, þegar heim kom.
Sumarið leið. í vetrarbyrjun var Guðlaugur sendur á bæ fram í sveit. Það var byrjað að skyggja, þegar hann kom að bænum. Hann sá glitta í ljóstýru í fjósinu. Gengur hann þá inn í fjósið og býður hressilega gott kvöld. Um leið tekur að hrikta í öllu og fjósið að skjálfa. Stórt naut, sem bundið var á utasta bás, slítur sig laust og ryðst út og er horfið á svipstundu.
Heimamaður kvað naut þetta hafa komið eineygt af fjalli um haustið. „Þetta er ekki einleikið. Það er engu líkara en það hafi brjálazt.“ — Guðlaugur mælti fátt, en hugsaði: „Nautgreyið hefur þekkt rödd mína og ekki viljað eiga það á hættu að missa hitt augað líka.“

Blóðblettir

Heykuml

Heykuml – h.m.

Einn vetur, þegar Guðlaugur var á 14. ári, var honum falið að hirða fé á eigin ábyrgð, að öðru leyti en því, að móðir hans kom vikulega til þess að fylgjast með verkum sonar síns. Við fjárhúsið var heykuml. Stóð fjárhúsið nokkuð frá bænum. Svo bar við, að móðirin finnur að því við son sinn, að hann gangi ekki nógu vel um heyið. Segir hún töluverðan slæðing vera á gólfinu og heyið vera illa leyst.
HafnarfjörðurGuðlaugi sárnar þetta nokkuð og lofar að gera betur. Gefur hann enga skýringu á þessu og reynir ekki að afsaka sig.
Þegar móðir hans er farin, verður Guðlaugur sér úti um fjóra ljái, brýnir þá allvel. Stingur hann þeim síðan í stálið hér og hvar.
Guðlaugi gengur hálfilla að sofna um kveldið. Næsta morgun er hann snemma á fótum. Hann röltir til fjárhúsanna. Hann opnaði síðan heykumlið, dálítið óstyrkur. Nú var engan slæðing að finna. En þarna á gólfinu mátti sjá annað, sem vissulega kom honum ekki á óvart. Hér og hvar gat að líta blóðbletti.
Þennan sama dag og næstu daga, sást maður nokkur í sveitinni með reifaðar hendur. Ekki þurfti móðir Guðlaugs að vanda um við son sinn vegna slæmrar umgengni í hlöðunni eftir þetta.

Seilin
GrindavíkVið erum stödd um síðustu aldamót niður í fjöru í Grindavík.
Mikið er um að vera. Vel hefur fiskazt þennan dag. Mörg skip hafa orðið að seila. En um aldamótin síðustu var, sem kunnugt er, róið á opnum bátum. Þurfti þá að gæta ýtrustu varfærni við að ofhlaða ekki þessi litlu, opnu skip. Var þá það ráð tekið að seila, sem kallað var. Það var gert á eftirfarandi hátt: Nál úr hvalbeini, með flötum, þunnum oddi og víðu auga var stungið undir kjálkabarð fiskjarins og út um kjaftinn. Bandi var brugðið í augað og fiskarnir þræddir upp á bandið, einn af öðrum. Fiskurinn á bandinu var síðan látinn fljóta aftur með skipinu og dreginn til lands. Þessu má líkja við, þegar kringlur voru dregnar upp á band í gamla daga eða. perlur nú til dags. Þegar komið var með seilar að landi, var þeim stundum fest við steina í fjörunni. Stundum var líka haldið í þær.
SeilaðVíkjum nú aftur að því, þar sem við stöndum í fjörunni. Guðlaugur er þar að vinna. Hann verður þess var, að ein seilin er að renna út með útsoginu og hverfa. Töluvert hafði brimað. Guðlaugur bregður eldsnöggt við, hleypur á eftir útsoginu, sækir seilina, — en verður of seinn. Kolblá holskeflan skellur yfir hann og han n hverfur um stund. En með einhverjum óskiljanlegum hraða tekst honum að komast í var við stóran, þangivaxinn stein. Greip hann traustataki í þangið. Hélt hann sér þar rígföstum.
Drykklanga stund var Guðlaugur í kafi, en aftur kom útsog, og upp stóð piltur, að vísu dálítið dasaður. Hélt hann um seilina og skilaði henni til lands. Jafnaði hann sig furðufljótt. Varð honum ekki meint af volkinu, en fékk dálítil aukalaun, og aðdáun allra hlaut hann að sjálfsögðu fyrir þetta einstæða afrek sitt.

Vaka við tafl á jólanótt

Fjárskjólshraun

Í Fjárskjólshrauni.

Þetta gerðist á aðfangadag jóla, dimmt var í lofti, frost nokkurt og herti það, er á daginn leið. Guðlaugur hafði farið, að venju, í birtingu til fjárins. Hann hafði með sér skóflu, því að snjó hafði hlaðið niður. Hugðist hann létta fénu krafsturinn, með því að moka ofan af. Upp úr hádeginu tók að hvessa og hríða að nýju. Enn herti frostið og loks tók að skafa líka.
Lagði nú Guðlaugur alla áherzlu á að ná fénu saman í skjól. Ekki var það áhlaupaverk.

Fjárskjólshraun

Fjárhellir í Fjárskjólshrauni vestan Herdísarvíkur.

Guðlaugur hafði þann háttinn á við fjárgeymsluna, að halda fénu í smáhópum, dreift um allt beitilandð. Í illviðrum reyndi hann að halda hverjum hópi í sínu skjóli. Vann hann nú dyggilega að því ásamt hundi sínum að koma fénu í afdrep, og gekk það vonum framar. Dagur tók að styttast og alltaf snjóaði meir og meir. Skall nú á iðulaus stórhríð og hörkugaddur. Þá var Guðlaugur staddur í svonefndu Fjárskjólshrauni, langt vestur af Herdísarvík. Þarna barðist Guðlaugur nú upp á líf og dauða í grenjandi stórhríðinni og hafði ekkert nema vindstöðuna að styðjast við. Hinn nístandi sviði í fótunum kvaldi hann mikið. Brátt dró úr sviðanum aftur, en ekki vissi það á gott, eins og síðar kom fram.

Herdísarvík

Herdísarvíkurbærinn yngri.

Verður nú fljótt farið yfir sögu. Guðlaugur náði heim með guðshjálp. Gaddfreðinn, fannbarinn og kalinn á fótum komst hann heim til bæjar að lokum. Var honum vel fagnað, hresstur á volgri nýmjólk, og ekki var seppa heldur gleymt, sem líka var illa á sig kominn. Fötin voru rist utan af Guðlaugi, bali með vatni í settur við rúm hans og ísmolar settir í vatnið. Síðan var Guðlaugi hjálpað við að koma fótunum ofan í balann.
Þannig sat Guðlaugur alla jólalóttina — og langt fram á næsta morgun. — En húsbóndinn, Þórarinn Árnason, vakti með fjármanni sínum og stytti honum stundir með því að tefla við hann allan tímann. En vegna þessarar hörkumeðferðar hélt fjármaðurinn heilum fótum sínum.

Sókrates

Hlín Johnson

Guðlaugur var mikill og góður hestamaður. Sat hann hest sinn vel og bar áseta hans af. Margar ferðir fórum við Guðlaugur saman á hestum austur í Selvog. Fórum við þá oftast um Krýsuvík og Herdísarvík. Eitt sinn sem oftar gistum við í Herdísarvík hjá frú Hlín Johnson. Fengum við frábærar móttökur eins og alltaf áður. Það var á sunnudagsmorgni. Við vorum búin að drekka kaffi og vorum að rabba saman. Um þetta leyti var frú Hlín að koma sér upp fjárstofni í Herdísarvík. Talið barst því að fjárgeymslu. Sneri Hlín sér að Guðlaugi og sagði: „Það ber sannarlega vel í veiði, að þú ert hér staddur, Guðlaugur minn. Þú hefur mann a bezta og mesta þekkingu á öllu því, sem lýtur að sauðfjárækt á jörð eins og Herdísarvík. Blessaður, miðlaðu mér nú af þekkingu þinni og reynslu. Láttu mig nú heyra með nokkrum vel völdum orðum um allt hið mikilvægasta í sambandi við fjárbúskap, miðað við þær sérstöku aðstæður, sem hér eru fyrir hendi í Herdísarvík.“ Guðlaugur brosti lítið eitt, dró alldjúpt andann, reisti höfuðið svolítið og hóf síðan mál sitt. Hann talaði í fullar 20 mínútur samfleytt. Kom hann víða við, en ekki ætla ég mér þá dul að endursegja efni ræðunnar.
Einar BenediktssonÉg mun heldur ekki gera tilraun til þess að lýsa því, hvernig Guðlaugi tókst. Þess í stað þykir mér rétt að lofa ykkur að heyra álit dómbærari manns. Held ég, að hann verði vart fundinn. Maður þessi hlustaði ásamt okkur Hlín á ræðu Guðlaugs. Þetta var skáldið og spekingurinn Einar Benediktsson.
Þegar Guðlaugur hafði lokið ræðu sinni, vorum við öll þögul nokkra stund, eins og oft vill verða, þegar men n upplifa eitthvað, sem sker sig úr um það venjulega. En allt í einu lyftir skáldið hendi sinni, leggur hana þéttingsfast á öxl Guðlaugs og segir hægt og skýrt: „Ég þakka þér, Sókrates.“
Hér lýkur svo Guðlaugs þætti Gjáhúsa.
Óska ég svo öllum gleðilegra jóla og góðs nýárs.“ – Friðfinnur V. Stefánsson.

Heimild:
-Alþýðublað Hafnarfjarðar, Friðfinnur V. Stefánsson; Guðlaugs þáttur Gjáhúsa, jólablað 1957, bls. 17-19.

Herdísarvík

Herdísarvík.

Bíll

Vegir og vegagerð á Íslandi hafa þróast í gegnum tíðina. Þorvaldur Thoroddsen skrifaði t.d. um vegi á Íslandi í „Landfræðilýsingu Íslands“ árið 1898:

Hellugata

Forn gata um hraunhellu Reykjanesskaga.

„Vagnvegir eru engir á Íslandi og engir vagnar; vegirnir eru mjög vondir, og eru þeir til mikils trafala fyrir ferðamenn, og ekki síður hitt, að þar eru engin gistihús eða veitingahús. Af því vegirnir eru svo vondir, er ekkert hægt að fara gangandi, menn ferðast alltaf ríðandi, um fjöll og klungur, dali og mýrar, hestarnir eru svo fótvissir, þó þeir séu faltjárnaðir, að þeir komast yfir verstu ófærur, og aldrei fara Íslendingar af baki hvað vondur sem vegurinn er.

Skreiðarlest

Skreiðarlest í Ögmundarhrauni.

Sumstaðar eru brunahraun, sem mjög er hættulegt að fara yfir, þau eru að ofan þakin smágrjóti og sumstaðar eru undir því djúpir katlar, sem hestar og menn geta orðið fastir í; þegar menn ríða um slíka staði, bylur jörðin undir eins og trumba, svo það heyrist langar leiðir. Sumstaðar upp til fjalla eru hyldýpis gjár, sem eru svo djúpar, að ekki sést í botninn, í sumum þeirra er snjór, í sumum vatn, er andir synda á. Sumstaðar er jarðvegurinn hreifanlegur og vaggandi, en þó fagurlega grasi vaxinn, svo það sýnist alveg hættulaust að fara um hann, en þegar hesturinn kemur út á þennan jarðveg, dillar hann allur undir fæti, en ef hesturinn liggur í á slíkum stað, er mjög illt að bjarga honum.

Kjalarnes

Kjalarnes – brú frá u.þ.b. 1927.

Sumstaðar ganga langir firðir inn í landið, sem menn um fjöru riða yfir, eins fljótt og menn geta, svo flóðið ekki nái þeim. Hættulegastar eru þó árnar, og þegar farið er yfir þær, er áríðandi að hafa góðan hest, sem syndir vel; Íslendingar hughreysta ferðamenn, sem smeikir eru, og segja þeir þurfi ekkert að óttast, ef þeir haldi sér vel, klárinn muni koma þeim yfir. Brýr eru hvergi á Íslandi, enda er ekki gott að byggja þær, því þó grjót sé nóg, þá er þó alveg kalklaust.“

Í Reykvíkingi 2. apríl árið 1894 er fjallað um hugmyndir manna um vagnveg milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar:

Skólavarðan

Skólavarðan á Skólavörðuholti.

„Nú eru menn farnir að hugsa um það, hvar bezt mundi að leggja veg hjeðan úr bænum og suður í Hafnarfjörð, og munu margir hafa vagnveg í huganum.

Hafnarfjarðarvegur

Hafnarfjarðarvegur, lengst t.v., skv. herforngjakorti 1919.

Menn hafa eigi orðið á eitt sáttir um það, hvernig ætti að leggja hann; sumir hafa viljað leggja hann suður Skildinganesmela, og þaðan fram hjá Nauthól, sunnanvert við Öskjuhlíðina; aptur hefur öðrum komið til hugar að leggja hann úr Laugaveginum fyrir vestan Rauðará, suður og upp Rauðarárholt, suður yfir Norðurmýrina, beina stefnu austanvert við hlíðina á Fossvogsveginn; nú síðast mun Sigurður Þórðarson hafa stungið upp á því, að byrja þenna veg út af Laugaveginum, kippkorn fyrir vestan erfðafestuland Guðlaugs sýslumanns, suður með Skólavörðuholtinu að austan, suður á móts við Steinkudys, þaðan beina stefnu suður og upp Norðurmýrina, eptir Sigurlaugarstíg, eða í námunda við hann, skáhallt yflr Mjóumýri, austanvert við hlíðina og að Fossvogsveginum. — Flestir munu vera á því, að þegar í Fossvog kæmi, þyrfti stefna hins nýja vegar að verða á brúna á Fossvogslæk. Í tillögum sínum hafa menn sagt, að þyrfti að líta á ýmislegt, bæði stuttleika vegarins, hægðina að gjöra hann og kostnaðinn, sem hann hefði í för með sjer, og svo einnig gagnið, sem yrði af veginum fyrir alda og óborna.
Steinkudys
Þegar er að ræða um vagnveg suður í Hafnarfjörð, þá getum vjer alls ekki skilið, að hans sje svo brýn þörf, því að vjer getum eigi sjeð, hvaða umferð er eða muni verða í bráð milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar, svo að þyrfti að kosta upp á vagnveg.

Hafnarfjarðarvegur

Hafnarfjarðarvegur 1928 – Ásgrímur Jónsson.

Vjer getum hugsað oss, að það gæti komið fyrir, að menn úr Reykjavík þyrftu og vildu sækja síld suður í Hafnarfjörð, en að kosta upp á vagnveg í því skyni, sjáum vjer eigi að sje svo brýn þörf á; vjer getum einnig hugsað oss, að mönnum kynni að þykja gott að geta keyrt sjer til skemmtunar á vögnum milli umræddra staða, t. d. með tveimur gæðingum fyrir; en ættu nú tveir vagnar, með tveimur hestum fyrir hvor, að geta mætzt, án þess að viðstaða þyrfti að verða, þá þyrfti vagnvegurinn að vera breiður, breiðari en vegir gjörast almennt, og þó mönnum þætti nú girnilegt að fá slíkan veg, og vildu því sneiða hjá gamla Öskjuhlíðarveginum, þá eru svipaðir þröskuldar eins og Öskjuhlíðin eptir af veginum, t.d. upp úr Fossvogi og á Kópavogshálsi, þar sem ekki mundi síður þurfa sneiðinga við en á Öskjuhlíð. En svo er nú Hafnarfjarðarhraun; skyldi veita auðvelt að koma þar upp vagnvegi nægilega breiðum, eða skyldi vegurinn á hrauninu sjálfu vera svo breiður, að tveir stórir vagnar, með tveim hestum fyrir hvor, ættu þar gott með að mætast, án allrar tafar?
En eins og vjer áður höfum sagt, getum vjer eigi sjeð, að sem stendur þurfi að hugsa um vagnveg suður í Hafnarfjörð; en setjum nú svo, að Reykvíkingar vildu hafa hann í huga, og eigi láta sitt eptir liggja, í tilliti til undirbúnings undir hann, en hugsuðu þó eigi að fara lengra að sinni en svo, að það jafnframt og þegar í stað gæti orðið til mikils hagnaðar fyrir bæjarbúa, þá er nú vandinn að skera úr því, hvernig og hvar ætti að leggja þennan veg, svo gagnið af honum, auk annars, sem á þyrfti að líta, gæti orðið sem almennast, eða sem flestir gætu haft gagn af honum.“

Háaklif

Horft upp eftir Háaklifi, nú Reykjavíkurvegi – að Sjónarhóli.

Í Ísafold 26. apríl árið 1899 er skrifað um þegar áunna uppbyggingu vagnvegar milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar:

Hafnarfjarðarvegur

Hafnarfjarðarvegur 1947 – Arnarneshæð.

„Sumrin 1897 og 1898 lét sýslunefnd Kjósar- og Gullbringusýslu leggja mikið laglegan vagnveg milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur, frá Fossvogi, en þangað hafði bæjarstjórn Reykjavíkur lagt áður og hefir þessa ekki enn verið getið í blöðum vorum.
Vegur sá er sýslan lét byggja af nýju, er rúmar 5 rastir á lengd, einnig var borið ofan í og endurbættur gamall vegur (Hafnarfjarðarhraun) rúml. 1 ½ röst á lengd. Hver röst er 531 faðmur. Brýr voru gerðar yfir fjóra læki, og er ein þeirra þrjátíu áln. Lengd, með 50 álna löngum stöplum (þeir eru þrír) og 5 áln. Háum á fullum helmingi. Hinar eru 5-8 álna langar.
Til vinnu þessarar var varið 9.600 kr.
Brýrnar allar kostuðu 1.800 krónur. Aðgerð við gamla veginn um 800 kr. Kostar þá her um bil kr. 2,80 faðmurinn í hinum nýja vegi. Í gegnum veginn eru 16 rennur gerðar úr grjóti 50×100 cm., utan ein úr timbri 3×2½ alin. Mold og möl höfð undir í öllum veginum með torf og grjót á hliðunum, nema um 150 faðmar eru eingöngu úr grjóti (púkkvegur). Ofaníburður allstaðar frá 8-12 þuml. á þykkt. Við vinnuna voru 12 menn fyrra sumarið með 4 hestum, en 15 til 18 hið síðara með 6 og 8 hestum. Verkstjóri var bæði sumrin Sigurgeir Gíslason í Hafnarfirði.
Það var myndarlega til ráðist af sýslunefnd Kjósar- og Gullbringusýslu að leggja veg þennan, og væri óskandi að hún fengi styrk til þess að geta gert meira í líka átt sem þetta. Hefir talsverð vagnaferð verið eftir vegi þessum síðan hann var fullger, en talsverð óþægindi eru að því, að ógert er enn við hallann ofan í Hafnarfjörð [um Háklif], því þar er vegurinn mikils til of brattur fyrir vagna, og er vonandi að ekki bíði mjög lengi svo búið.“

Fyrsti bíllinn

Fyrsti bíllinn á Íslandi, sem kenndur er við Ditlev Thomsen, kaupmann og konsúl, var fransk-þýskur af svonefndri Cudell-gerð. Alþingi samþykkti árið 1903 að veita 2.000 kr. styrk til að flytja inn bifreið og taldi ráðlegast að einkaaðili stæði fyrir því. Thomsen kaupmaður varð fyrir valinu og sá hann um rekstur bifreiðarinnar. Thomsensbíllinn var smíðaður árið 1900 eða 1901 og var eiginlega orðinn úreltur þegar hann kom til landsins, í raun aðeins hestakerra með vél aftur í.

Árið 1918 var víða hægt að komast leiðar sinnar akandi á Íslandi, annaðhvort í hestvögnum eða bifreiðum. Bílaöld hófst hér árið 1913 í Hafnarfirði og Reykjavík en hestvagnar til farþegaflutninga voru eldri í hettunni.

Grindavíkurvegur

Gamli Grindavíkurvagnvegurinn.

Vegagerð á Íslandi var í bernsku á þessum árum og vegir víðast hvar vondir. Það tók lungann úr tuttugustu öldinni að teygja þá um landið og gera þá sæmilega greiðfæra. Árið 1918 var þó víða langt komið að leggja akfæra vagnvegi frá helstu verslunarstöðum eins og kveðið var á um í vegalögum frá 1894 eða „flutningabrautir“, eins og þeir voru kallaðir. Í upphafi var gert ráð fyrir að þessir vegir yrðu alls 375 km á lengd og „vel“ færir hlöðnum hestvögnum og kerrum. Við lagabreytingar varð lengdin 397 km. Áætlað var að lokið yrði að leggja þessa vegi 1923. Vegbreiddin var að jafnaði 3,75 m sem dugði til að hestvagnar gætu mæst. Bifreiðir þurftu fimm til sex metra breiða akbraut til að geta mæst.
Árið 1918 voru einnig komnar brýr á margar ár sem höfðu verið farartálmar um aldir. Sunnanlands var til dæmis búið að brúa Sogið, Ölfusá og Þjórsá, Ytri-Rangá og Eystri-Rangá, vestanlands Hvítá, Örnólfsdalsá, Gljúfurá og Norðurá, á Norðurlandi Miðfjarðará, Blöndu við Blönduós, Héraðsvötn eystri, Hörgá í Hörgárdal og Skjálfandafljót og á Austurlandi Eyvindará og Lagarfljót. Markarfljót og jökulár í Skaftafellssýslum voru enn óbrúaðar og sama átti við um Eyjafjarðará.

Gamli Þingvallavegur

Gamli Þingvallavegurinn.

Þjóðvegir voru nýr flokkur vega sem kveðið var á um í vegalögunum 1894 en samkvæmt nýjum vegalögum, sem staðfest voru 1907, skyldu þjóðvegir, sem tengdust kauptúnum eða flutningabrautum, einnig vera akfærir ef þess þótti þurfa. Þeir áttu að vera að jafnaði 3,15 m á breidd og voru orðnir 130 km 1915. Sýsluvegir voru þeir vegir sem lágu milli sýslna og um hverja sýslu þar sem var „mest þjóðbraut“, til dæmis í kauptún og fiskiver. Um þá gilti hið sama og um þjóðvegi. Þar sem þeir lágu út frá flutningabrautum eða akfærum þjóðvegum eða voru framhald þeirra skyldu þeir vera akfærir ef unnt var að koma því við.

Keflavíkurvegur

Hleðslur við gamla Suðurnesjaveginn gegnt Gerði ofan Péturskots, skammt vestan kapellunnar.

Vegurinn til Keflavíkur, sem tók tíu ár að leggja, var til dæmis sýsluvegur, 38 km langur og akfær árið 1918. Hreppsvegir voru þeir vegir milli hreppa og um þá sem voru hvorki flutningabrautir, þjóðvegir né sýsluvegir. Fjallvegir voru þeir vegir yfir fjöll og heiðar sem ekki töldust til neins annars vegaflokks. Þá átti einungis að varða og gera reiðfæra.
Flutningabrautin frá Reykjavík, Suðurlandsbraut, var lengst, teygði sig frá Laugavegi yfir Elliðaár allar götur austur í Rangárvallasýslu árið 1918 eða þangað sem nú er Hvolsvöllur. Við Geitháls hafði verið lögð út frá henni ný flutningabraut til Þingvalla eftir holtum og melum austan við Seljadal þar sem Þingvallavegur lá áður. Frá Eyrarbakka var flutningabraut lögð upp Flóann að Ölfusárbrú og önnur frá Ingólfsfjalli um Grímsnes að Geysi. Borgarfjarðarbraut lá frá Borgarnesi um Stafholtstungur og tengdist þjóðveginum norðan við brúna á Hvíta við Kljáfoss, Húnavatnssýslubraut frá Blönduósi vestur fyrir Víðidalsá, Skagafjarðarbraut frá Sauðárkróki fram Skagafjörð að þjóðveginum fyrir neðan Víðimýri, Eyjafjarðarbraut frá Akureyri að Saurbæ í Eyjafirði, Þingeyjasýslubraut frá Húsavík að Einarsstöðum í Reykjadal og Fagradalsbraut frá Búðareyri við Reyðarfjörð um Fagradal að Lagarfljóti hjá Egilsstöðum. Árið 1914 bættist vegurinn milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur við flokk flutningabrauta.

Suðurlandsvegur

Fyrsti Suðurlandsvegurinn 1887.

Þegar bílaöld hófst 1913 var lokið við að leggja 287 km af flutningabrautunum. Í árslok 1916 höfðu samkvæmt verslunarskýrslum verið fluttir til landsins 30 bílar. Engin bifreið var flutt inn árið eftir enda lögðu Þjóðverjar hafnbann á Bretland í byrjun þess árs og hófu jafnframt stórfelldan kafbátahernað á höfum úti til að fylgja banninu eftir. Hér varð því brátt skortur á ýmsum nauðsynjum, meðal annars eldsneyti. Árið 1918 voru hins vegar fluttar til landsins 27 bílar. Þeir voru allflestar suðvestanlands, í Reykjavík, Hafnarfirði og Árnessýslu. Akureyringar eignuðust fyrstu bifreið sína árið 1914 og Húsvíkingar sína ári síðar. Enn fremur höfðu Austfirðingar hafið tilraunir með rekstur bifreiðar.
Í höfuðstaðnum var ástand gatna bágborið í byrjun tuttugustu aldar. Árið 1912 var gerð sú bragarbót á gatnakerfinu að Austurstræti var „makademiserað“, með öðrum orðum malbikað enda hafði bærinn þá eignast gufuvaltara. Sumarið 1908 hafði portið við barnaskólann við Fríkirkjuveg, Miðbæjarskólann eins og hann hét síðar, verið „tjörusteypt“. Sú aðferð var einnig notuð við gatnagerð í Reykjavík.

Reykjavík

Mynd frá haustinu 1917 sem sýnir verkamenn tjörusteypa Pósthússtræti. Gufuvaltarinn „Bríet Knútsdóttir“ var notuð til að þjappa jarðefninu saman. Valtarinn dró nafn sitt af tveimur kröftugum bæjarbúum, Bríeti Bjarnhéðinsdóttur og Knut Zimsen.

Árið 1918 var lokið við að makademisera eða tjörusteypa þessar götur í höfuðstaðnum: Suðurgötu alla leið að sálarhliðinu á kirkjugarðshorninu sunnanverðu, Kirkjustræti frá Aðalstræti að Pósthússtræti og Pósthússtræti frá Kirkjustræti að Austurstræti, Lækjartorg að Stjórnarráðsblettinum, Lækjargötu frá Bankastræti að barnaskólanum við Fríkirkjuveg, Bankastræti og Laugaveg frá Skólavörðustíg að Frakkastíg. Sama átti við um gangstéttir á þessum stöðum. Sums staðar voru þær þó hellulagðar.

Björn Eiríksson

Bifreið með númerinu HF-1 og karlmaður í jakkafötum með kaskeiti.
„Maðurinn á myndinni er Björn Eiríksson, Björn á Sjónarhóli í Hafnarfirði. Kannski er þetta fyrsti bíllinn hans“. (Thorarinn Gudnason)

En bílferð var ekki ókeypis og því var haldið fram að það hafi einungis verið á færi hinna efnameiri að nota þá. Allur almenningur hefði naumast fé handa á milli til að eyða í skemmtanir eins og að ferðast í bifreiðum, allra síst fátæklingar. En þær stundir koma að nauðsyn brýtur lög. Margir áttu erindi til Vífilsstaða þar sem þeir lágu sem hvíti dauðinn, berklaveikin, hafði tekið heljartökum. Í laugardagsblöðum sumarið 1918 voru jafnan auglýstar ferðir þriggja bifreiða til Vífilsstaða á sunnudögum og kostaði sætið tvo þriðju af daglaunum verkamanns, eða 5 krónur báðar leiðir með klukkustundar ókeypis viðstöðu, 3 krónur aðra leiðina sem fyrir marga var kannski fyrsta og einasta bílferðin.
Prestar, læknar og sýslumenn nýttu bíla í embættiserindum og einnig til ferðalaga eins og þeir sem betur máttu sín. Sambandslaganefndin, sem kom saman hér á landi í lok júní 1918, gerði til dæmis hlé á störfum sínum sunnudaginn 7. júlí og brunaði sér til upplyftingar í mörgum bifreiðum sem leið lá eftir Suðurlandsbrautinni upp að Geithálsi og þaðan eftir flutningabrautinni til Þingvalla. Með í för voru meðal annars ráðherrarnir íslensku. Um viku síðar var farin önnur bílferð enda hafði nefndin þá lokið störfum og frumvarp til sambandslaga tilbúið á pappírnum. En nú var farið austur yfir Hellisheiði. Áð var á Kolviðarhóli þar sem hægt var að kaupa veitingar, snætt í Sigtúnum við Ölfusárbrú og síðan haldið austur að Sogi og á hestum upp með því og Sogsfossarnir skoðaðir. Þangað var ekki bílfær vegur þegar hér var komið. Flestir gistu um nóttina á Eyrarbakka, örfáir í Grímsnesi. Um nónbil á sunnudeginum var haldið af stað til Reykjavíkur og boðið upp á kaffi og pönnukökur á Kolviðarhóli. Um kvöldið var boð hjá forsætisráðherra.

Heimildir:
-Þorvaldur Thoroddsen – Landfræðilýsing Íslands, Hið íslenska bókmenntafélagr 1898, bls. 202-203.
-Reykvíkingur, Hafnarfjarðarvegurinn, 2. apríl 1894, bls. 1.
-Ísafold, Vagnvegur, 26. apríl 1899, 26. árg., 26. tbl., bls. 103.
-Alþingistíðindi 1893 A, 1914 B, 1907 A.
-Dagsbrún 23. september 1918.
-Framsókn 6. ár 1900.
-Guðlaugur Jónsson: Bifreiðir á Íslandi I-II.
-Ísafold 9. ágúst 1890, 3. ágúst 1912.
-Lögrétta 10. júlí, 17. júlí 1918, 123.
-Morgunblaðið 11. júlí 1917, 1. júní, 22. júní, 29. júní, 6. júlí og 13. júlí 1918.
-Óðinn 14. ár 1918.
-Stjórnartíðindi 1907 A-deild.
-Tímarit VFÍ 1917, 1918, 1919.
-Tíminn 20. júlí 1918.
-Verslunarskýrslur 1913–1918.
-Þjóðólfur 19. júlí 1918.
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=75182

Geitháls

Fjölskylda í bílferð við Geitháls.

Hvaleyri

Ofan við Hvaleyri í Hafnarfirði er varða. Ofan hennar er skilti. Á því eru upplýsingar um tilvist vörðunnar sem og söguna að baki henni:

Flókavarða

Hvaleyri – Flókavarða; minnismerki.

„Um Flóka Vilgerðarson má lesa í Landámsbók. Samkvæmt henni var Flóki norskur víkingur sem ætlaði sér fyrstur mann að setjast á Íslandi um 870. Hann lagði af stað snemma sumars frá mörkum Hörðalands og Rogalands í Noregi, stað sem var kallaður Flókavarði, síðar Ryvarden, til að leita óbyggðs lands vestur í hafi sem sæfarendur vissu af en höfðu lítið kannað. Flóki hafði með sér þrjá hrafna til að vísa sér leið, en áttavitar þekktust þá ekki á Norðurlöndum. Honum tókst með aðstoð hrafnanna að finna landið og fékk þannig nafnið Hrafna-Flóki. Hann kom fyrst að Suðausturlandi, sigldi vestur með ströndinni, fyrir Reykjanes, þvert yfir Faxaflóa, fyrir Snæfellsnes og nam loks staðar norðan Breiðafjarðar í Vatnsfirði á sunnanverðum Vestfjörðum.

Flókavarða

Flókavarða – skilti.

Vatnsfjörður var mikið gósenland fyrir veiðimenn. Þar var mikið af fugli, fiski og sel sem reyndist Flóka og förunautum hans auðtekin bráð. En Flóki hafði líka með sér búpening sem dó úr hungri næsta vetur, því að komumennirnir höfðu ekki áttað sig á því að á þessum sumarfagra stað þurfti að afla heyja til að halda búpeningi lifandi yfir veturinn. Vonsvikinn ákvað Flóki því um vorið að snúa aftur heim. Áður en hann lagði af stað gekk hann upp á hátt fjall fyrir norðan Vatnsfjörð, sá þar fjörð fullan af hafísum og gaf landinu nafnið Ísland sem það hefur borið síðan.

Flókavarða

Flókavarða – texti á skilti.

Á heimleiðinni varð Flóki fyrir óhappi. Á sunnanverðum Faxaflóa slitnaði bátur aftan úr skipinu en í honum var einn af förunautum Flóka sem hét Herjólfur. Flóki vildi ekki skilja hann eftir og hélt til lands. Hann kom í Hafnarfjörð og fann þar hval rekinn á eyri út frá firðinum og gaf eyrinni nafnið Hvaleyri. Þar fann hann Herjólf sem hafði tekið land annars staðar, á stað sem var síðan kallaður Herjólfshöfn. Ekki er núna ljóst hvar sá staður hefur verið.

Hér á Hvaleyri hafa íbúar í Sveio í Noregi nú reist vörðu (varða) til minningar um Flóka og komu hans í Hafnarfjörð og fært Hafnfirðingum að gjöf. Varðan er nákvæm eftirmynd af samskonar minnismerki sem þeir hafa áður reist í Ryvarden í Noregi, staðnum þar sem Flóki lagði af stað í landnámsleiðangur sinn. Þótt sá leiðangur mistækist varð hann þó til að gefa Íslandi það nafn sem það hefur borðið síðan.“

Hvaleyri

Hvaleyri – gamli bærinn ofan Hvaleyri frá 1772. Settur inn í nútímamynd. Flókavarðan fremst.

Brúsastaðir

Í skráningarskýrslu um „Fornleifar milli Skerseyrar og Langeyrar“ árið 1998 segir m.a.:

„Skráningin afmarkast af Flókagötu og Hjallabraut, Skjólvangi að norðan, bæjarmótum við Garðabæ að vestan og sjó að sunnan.

Fornleifar í Hafnarfirði milli Skerseyrar og Langeyrar

Langeyri

Langeyri og nágrenni.

Svæði það sem hér er birt skýrsla um er í útjaðri Hafnarfjarðarkaupstaðar, á mörkum landbúnaðarhverfisins í kringum Garða og kaupstaðarins sem breiddist út frá botni fjarðarins frá því seint á 17. öld. Stærsti hluti svæðisins er úfið en þó víða gróið hraun og eru mannvistarleifar fyrst og fremst meðfram sjónum. Landið tilheyrði upphaflega Görðum en ekki er vitað um búsetu á því fyrr en undir lok 17. aldar að býli var reist á Skerseyri. 1703 er auk þess getið um einar sjö þurrabúðir á svæðinu sem virðast hafa verið í óstöðugri byggð og virðist sem þær hafi alla verið byggðar eftir 1650 (JÁM X, 178). Vitað er að1670 voru allar þurrabúðir norðan við Hafnarfjarðarkaupstað í eyði (SS Saga Hafnarfjarðar, 192). Vera má að útræði frá þessum stað með tilheyrandi kotbúskap hafi ekki hafist að marki fyrr en kaupstaðurinn var fluttur frá Hvaleyri inn í fjörðinn eftir 1667.

Hafnarfjörður

Herforningjaráðskort; Hafnarfjörður og Álftanes 1903.

Frá þeim tíma virðist þó sennilegt að búskapur hafi verið af og til á stöðum eins og Brúsastöðum, Eyrarhrauni og Langeyri. Þessi bæjarstæði gætu því verið allfornar þurrabúðir þó ekki hafi ritheimildir varðveist um það. Þurrabúð hafði verið á Langeyri um langt skeið er verslunarhús voru reist þar 1776. Föst verslun mun þó ekki hafa verið rekin þar eftir 1793 en á 19. öld risu kotbýli á svæðinu auk Skerseyrar og Langeyrar: Gönguhóll, Eyrarhraun og Brúsastaðir. Hvalstöð virðist hafa verið reist á Rauðsnefí um 1860 en starfaði ekki lengi.

Langeyri

Langeyri og nágrenni – Loftmynd 1954.

Um aldamótin 1900 voru risin fiskverkunarhús á Fiskakletti og í kjölfarið byggðist upp fiskverkunarðastaða á Langeyrarmölum og allmargir fískreitir voru gerði í hrauninu ofanvið á fyrstu árum 20. aldar. Þetta svæði hefur þó lengstaf verið á jaðri bæjarins og fyrir utan Langeyrarmalir hafa helstu umsvif þar á 20. öld tengst búskap í smáum stíl, en langt fram eftir þessari öld áttu margir bæjarbúar nokkrar kindur í kofum í útjöðrum bæjarins. Íbúðabyggð hefur ekki orðið á skráningarsvæðinu nema á hrauninu norðaustantil (við Sævang) en þar hefur verið lítið um eldri mannvirkjaleifar.

Skerseyri

Skerseyri – túnakort 1903. Hér má bæði sjá sjávargötuna upp með Bala og gamla Garðaveginn (kirkjugötuna frá Hafnarfirði).

Engu að síður hefur verið töluvert rask á svæðinu, tengt ýmisskonar framkvæmdum síðustu áratugi og er sáralítið eftir af fornum mannvirkjum þar. Einkenni fyrir svæði eru gtjóthleðslur frá ýmsum tímum, sem finna má mjög víða, og er oft ógerlegt að segja hvort þær eru fornar eða aðeins nokkurra ára gamlar.
Upplýsingar um minjastaði eru fengnar úr rituðum heimildum, einkum gömlum kortum, örnefnaskrám og skjölum prentuðum í Sögu Hafnarfjarðar.

Garðar

Garðar

Garðar og nágrenni.

Hafnarfjörður á 16 ha þríhyrning úr landi Garða, frá gömlu marklínunni í átt að Álftanesvegi, þar sem nú er hluti ad Norðurbænum í Hafnarfirði. Görðum tilheyrir landið sjávarmegin við Hafnarfjarðarveg inn að Arnarneslæk sem ræður til sjávar. Ö-Garðahverfi, 2.

Bali

Balavarða (landamerkjavarða).

Er Hafnarfjarðarkaupstaður var stofnaður 1907 voru honum ákveðin norðurmörk: “Úr sjó utanvert við Balatún, sjónhending eftir takmörkum Hafnarfjarðarhrauns og Dysjamýrar, þar til kemur á hinn forna veg frá Görðum til Reykjavíkur. Eftir þeim vegi í Engidal. Þaðan eftir nyrðri brún Hafnarfjarðarhrauns, þar til kemur á móts við austurhorn Hraunholtstúns …“ (ÁG Saga Hafnarfjarðar 1, 101).
Land þetta tilheyrði þó Garðastað eftir sem áður en 1912 keypti Hafnarfjarðarkaupstaður það mestallt og heimilaði Alþingi það með lögum nr. 12, 22.10.1912 með þessum merkjum: “Bein lína úr Balaklöpp við vesturenda Skerseyrarmalar í veginn frá Hafnarfirði til Reykjavíkur, þar sem hann fer að fara lækkandi frá norðurbrún hraunsins. Þaðan bein lína í Hádegishól, hádegismark frá Hraunsholti, nálægt í hásuður frá bænum, spölkorn frá hraunjaðrinum. ..“ Hamarskotstún var eftir sem áður eign Garðastaðar (ÁG Saga Hafnarfjarðar 1, 102-104).
1703: “Úthagar nálægt heimastaðnum eru bæði þröngvir og snögglendir.“ JÁM IT, 181.

Skerseyri

Skerseyri

Tóftir Skerseyrar.

1703 segir um Skerseyri: “Hjáleiga í Garðastaðarlandi hjer um XX ára gömul“ og hefur þetta býli samkvæmt því fyrst byggst eftir 1680 — JÁM X,178-179. 2 heimili með 6 og 2 mönnum voru á Skerseyri 1801 en 1816 var þar aðeins eitt heimili með 4 mönnum. Skerseyri er talin meðal býla í sóknarlýsingu frá 1842.
Samkvæmt manntali 1845 voru enn 4 til heimilis á Skerseyri. Samkvæmt manntali 1901 bjuggu 5 heimilismenn þar. Haustið 1902 var Skerseyri í eyði en byggðist þó aftur skömmu síðar. “Skerseyrartún: Næsta býli við Litlu|-Langeyri. Þar var kýrgras eitt sinn og býlið hjáleiga frá Görðum. Skerseyrartúngarður. Hann lá um túnið. En við sjó horfinn í Mölina.“ segir í örnefnalýsingu.

Langeyri

Langeyri

Síðasta íbúðarhúsið á Langeyri.

Hjáleiga frá Görðum. Garðakirkjueign. “Langeyri var fyrrum þurrabúð, en á síðara hluta 18. aldar og fyrri hluta 19. aldar var rekin þar verslun …“ SS: Saga Hafnarfjarðar, 408. Í jaraðbókum 1760 og 1802 er getið um smábýlin Langeyri, Bala og Skerseyri en 1842 er í skýrslu sóknarprests aðeins getið um Langeyri. Það er hinsvegar ekki nefnt í skýrslu sýslumanns frá sama tíma – JJ, 92. Langeyri hefur verið í hvað stöðugastri byggð af býlum á þessu svæði frá 18. öld og fram á þá 20. 1802 voru þar 2 ábúendur sem báðir hlutu fátækrastyrk úr konungssjóð — SS Saga Hafnarfjarðar, 248. 1816 var aðeins ein fjölskylda á Langeyri en 1845 var þar aftur komið tvíbýli. “Langeyri var stundum nefnd Skóbót, en það gæti verið afbökun eða stytting úr nafninu Skómakarahús, sem rekur lestina t.d. í bæjatali í Hafnarfirði |frá um 1805, en þar kemur Skómakarahús á eftir Gönguhóli.“ – MS: Bær í byrjun aldar, 114.

Langeyri

Langeyri um 1920.

Í manntali frá 1845 er Skóbót þó talin næst á eftir Langeyri (sunnan við) þannig að ekki virðist það geta staðist að um sama býli hafi verið að ræða. Eftir aldamótin 1900 óx athafnasvæði í kringum Fiskaklett í átt að Langeyri og lét Ágúst Flygenring reisa fiskverkunarstöð á Langeyrarmölum árið 1902. Hún var keypt af hlutafélaginu Höfrungi 1920 og stækkuð og þá voru einnig gerðir þar fiskreitir – SS Saga Hafnarfjarðar, 515. Seinna átti Lýsi og Mjöl þessi hús. Þessi mannvirki eru horfin nú en þau hafa skemmt eldri mannvirki að meira eða minna leyti.

Langeyri

Langeyri um 1970.

Býlið var innan lögsagnarumdæmis Hafnarfjarðar frá því að kaupstaðurinn var stofnaður 1907 en bærinn keypti landið af Garðastað með heimild Alþingis, lögum nr. 13, 22.10.1912.
Á bæjarstæðinu stendur steinhús merkt “Langeyri 1904″ og er það númer 30 við Herjólfsgötu. Húsið stendur í lægð í hrauninu. Ekki er að sjá neinar leifar eldri mannvirkja. Umhverfis húsið er grasi gróin garður. Framan við húsið hefur garðurinn verið niðurgrafin að hluta til, og þar hefur verið plantað trjám.

Litla Langeyri/Brúsastaðir (býli)

Brúsastaðir

Brúsastaðir.

Í manntali frá 1801 er Litla Langeyri talin milli Skerseyrar og Stóru-Langeyrar og vor þar þá tvö heimili með 4 og 2 mönnum. Í sóknarlýsingu frá 1842 er Litla-Langeyri talin meðal býla á svæðinu milli Fiskakletts og Skerseyrar.
“Litla-Langeyratún: Tún býlis er þarna stóð. Síðar Brúsastaðir. Litlu-Langeyrartúngarður: Garður af grjóti kringum býlið.

7 þurrabúðir

Brúastaðir

Brúsastaðir (Litla-Langeyri) um 1975.

Í jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín sem tekin var saman fyrir Garðahrepp árið 1703 er sagt að eftiralin tómthús standi út með Hafnarfirði í Garðastaðarlandi: “Eysteinshús eður Geirahús. Þingvallnabúð. Stigshús eður Jodísar hús. Illugabúð eður Langeyrarbúð. Ofanmannabúð. Laugardælabúð. Þessar búðir eru sumar 50 ára gamlar, sumar ýngri, sumar fárra ára. Hefur staðarhaldarinn þær í þeim góðu fiskiárum burt leigt, sumar aðkomandi mönnum með skipsuppsátri fyrir v aura undirgift og sumar tómthúsmönnum fyrir x álna leigu og mannslán.

Brúsastaðir

Brúsastaðir um 1975.

Í sumar lögðust inn skipshafnir, sem reru á staðarhaldarans bátum, er þar við búðirnar uppsátur höfðu, og fjekk þá tómthúsmaðurinn soðningarkaupið. Þessar grasleysubúðir eru nú síðan fiskirfið minkaði sumpart öldúngiss niðurfallnar, sumar hánga uppi enn nú íbúðar og leigulausar á fallanda fæti, ef fiskiríið ei aftur að legst.“ JÁM X, 178
Ekki er vitað hvar þessar þurrabúðir hafa verið að öðru leyti en því að þær hafa verið milli kaupstaðarlóðarinnar (þ.e. norðan við Fiskaklett) og Skerseyrar sem næst er talin af hjáleigum Garða. Langeyrarbúð hlýtur að hafa verið nálægt Langeyri eða jafnvel á því bæjarstæði því býlisins er ekki getið í jarðabókinni. Líklegt er að einhverjar hinna hafi verið á bæjarstæðum sem seinna eru þekkt undir öðrum nöfnum, s.s. Gönguhóll, Flatir og Brúsastaðir en ekkert verður þó um það fullyrt.

Verslunarhús

Langeyri

Langeyri (lengst til vinstri) um 1950.

Á árabilinu 1774-1787 var tekin hér við land konungleg þilskipaútgerð, m.a. í því augnamiði að kenna Íslendingum fiskveiðar. Bækistöðvar þessarar útgerðar voru í Hafnarfirði og þar “var fiskurinn verkaður, og þar voru reist geymsluhús og íbúðarhús handa verkafólki. Bauð Thodal stiftamtmaður Guðmundi sýslumanni Runólfssyni með bréfi, dagsettu í júní 1776, að út sjá hentuga staði til þessara húsbygginga og tjáði honum í því sambandi, að hin konunglega tollstofa hefði tilkynnt sér, að vegna húkkorta og jaktfiskveiða í Hafnarfirði þyrfti að reisa þar tvö ný hús, annað á Hvaleyri til vetrarbústaðar stýrimönnum og hásetum á jöktunum, en hitt á Langeyri handa eftirlegumönnum. Óskaði stiftamtmaður eftir því, að sýslumaður veldi hentugar lóðir undir þessi hús …

Langeyri

Langeyri um 1920.

Á uppdrætti af firðinum, sem gerður var um þessar mundir, sjást … verzlunarhúsið á Langeyri … aðalsaltfiskverkunin fór fram á Langeyri, norðan fjarðarins.
Þetta hús er merkt sem verslunarhús á uppdrætti af Hafnarfirði frá um 1778. Það var reist á kostnað konungs en selt ásamt öðrum eignum hans í Hafnarfirði á uppboði 31.7.1792 og keyti það Dyrkjær skipstjóri fyrir 17 rd. og 4 sk. (SS Saga Hafnarfjarðar, 249) en hann hafði áður verið leigjandi í húsinu. Þann 28.5.1793 skipaði danska rentukammerið Jochum Brinck Lund að hætta verslun á Langeyri frá næsta hausti og 8.6.1793 var Kyhn kaupmanni, sem rekið hafði lausaverslun og fiskverkunarstöð á Langeyri bannað að halda þeirri starfsemi áfram (SS Saga Hafnarfjarðar, 252). Þessar aðgerðir voru til stuðnings fastakaupmanni í Hafnarfirði og virðist ekki hafa verið verslað á Langeyri eftir þette. Þó leyfði stiftamtmaður O.P. Möller kaupmanni í reykjavík að reka útibú á Langeyri sumarið 1832. Rentukammerið hafnaði þessu hins vegar og varð Möller að hætta verslun sinni 1833 (SS Saga Hafnarfjarðar, 244).
Ekki er vitað nákvæmlega hvar þetta hús stóð nema að það mun hafa staðið í grennd við þurrabúðina Langeyri. Ekki er að sjá neinar húsaleifar á því svæði enda hefur þar verið ýmiskonar rask undanliðnar tvær aldir. Fiskverkunin hefur verið á sama svæði skammt frá fjörunni.

Langeyrarbyrgi (fiskbyrgi)

Langeyri

Garðar og hús í hrauninu vestan Langeyrar.

“Fyrrum voru allmikil fiskibyrgi á hraunhólum þarna.“ segir í örnefnalýsingu.
Tvö fiskbyrgi sjást enn. Þau eru í halla í N hrauninu. Ofar er lítil tóft (3x2m) með tveim rekaviðar-drumbum þvert yfir tóftina og netaleifum. Neðan við hana er stærri og ógreinilegri tóft (1 1×1 lm), skipt í hólf. Allt hlaðið úr hraungrýti, neðri tóftin að miklu leyti grasigróin.

Langeyrarbrunnur (brunnur)
“Var neðst í túninu. Aðeins vatn á fjöru“, segir í örnefnalýsingu.
Brunnur þessi er nú horfinn. Hann hefur annaðhvort lent undir Herjólfsgötu eða er horfinn fyrir raski neðan við hana.

Langeyrarstígur (leið)

Langeyrarstígur

Langeyrarstígur.

“Langeyrarstígur lá úr Langeyrartúni, austur og upp hraunið eftir lægð í því upp á bala vestan við Víðastaði á Garðaveginn. Verslunarvegur er verslun var á Langeyri“, segir í örnefnalýsingu.
Þessi gata sést enn að hluta frá enda Drangagötu og til austurs. Þar tvískiptist hún, liggur annarsvegar til norðurs og endar þar við enda Klettagötu, og hinsvegar til norðurs og endar þar aftan við Herjólfsgötu 18. Gatan liggur yfir hraunið og er að hluta til upphlaðinn vegur. Ef það er rétt að gata þessi séð frá þeim tíma er verslað var á Langeyri þá er hún frá 18. öld.

Draugaklif (örnefni)

Langeyri

Eyrarhraunsgata ofan Langeyrar.

„Vestur af Melunum er Gatklettur. Nú hruninn að mestu, var allhár áður fyrr, og vestan við hann er bás, sem nefndur er Bás. Þetta er djúpt malarvik, Þar aðeins vestar var einstigi með sjónum, sem var nokkuð tæpt, og var það nefnt Draugaklif.“ segir í örnefnalýsingu Hafnarfjarðar eftir Ara Gíslason en í örnefnaskrá fyrir Álftaneshrepp segir að Gatklettur hafi verið fallinn saman 1929 og hafi verið fram frá Sundhöllinni vestanverðri“.
Dregaklif. Sigurgeir Gíslason segir að þetta nafn muni hafa verið réttara. Þarna strandaði skip og kjölurinn – dregarinn – lá þarna lengi eftir í fjörunni.“
Einstigið er horfið enda liggur Herjólfsgata tæpt með sjónum á þessum stað og hlaðinn kantur sjávarmegin við hana. Ekki er vitað við hvaða draugagang klifið var kennt.

Gönguhóll (bústaður)

Gönguhóll

Gönguhóll (Sönghóll).

Gönguhóll eða Sönghóll var klapparrani kallaður sem gekk fram í sjó framan við Langeyrarbæ. “Bær stóð þarna vestan undir, lóðin kölluð svo“ segir í örnefnalýsingu. Þar er einnig bætt við að Lifrarbræðslustöð hafi verið sett á bæjarrústunum 1903 en byggð mun hafa lagst af í Gönguhóli skömmu fyrir 1902. Þá var einnig bryggja byggð niður frá þessum stað og stóð neðsti hluti hennar enn 1964. Litlar heimildir eru um byggð við Gönguhól en býlið er nefnt í bæjatali úr Hafnarfirði frá 1805 milli Fiskakletts og Skómakarahúss, sem mun vera sama og Langeyri.

Langeyri

Lifrabræðslan við Hvaleyri, byggð af August Flyrening um 1910.

Ekki er óhugsandi að Gönguhóll sé sama býli og Hraunbrekka sem getið er um í sóknarlýsingu frá 1842, sem næsta býlis austan við Langeyri – SSGK, 206. Gönguhóls er ekki getið í manntölum frá 19. öld en í manntali frá 1845 er Skóbót með tveimur fjögurra manna fjölskyldum talin næst á eftir Langeyri og má vera að um sama býli sé að ræða.
Gönguhóll var nálægt því sem nú er Herjólfsgata 24. Allar minjar eru horfnar á þessum stað. Þarna standa nú hús á öllum lóðum og sker Drangapata það svæði þar sem líklegt er að túnið hafi verið.

Flatir/Eyrarhraun (býli)

Langeyri

Varða við fyrrverandi Eyrarhraun.

Í sóknarlýsingu frá 1842 er getið um býlið Flatir milli Langeyrar og Litlu-Langeyrar. “Flatirnar: Sléttar flatir innan við Malarkambinn fyrir Mölunum miðjum. Þarna var býli, þurrabúð, hér óx brenninetla. Eyrarhraunstún: Svo voru Flatirnar kallaðar eftir nafnbreytinguna á þessari þurrabúð. Eyrarhraunstúngarður: Garður er lá innan við Malarkampinn og var á hlið og stétt heim að Flötunum og Mýrarhrauni.

Langeyri

Eyrarhraunstúngarður.

Flata eða Eyrarhrauns er ekki getið í manntölum 1801, 1816 eða 1845.
Nú stendur steinhúsið Eyrarhraun, sem að hluta til er grafið inn í hólinn, á hæð í hrauninu, um 200m frá sjó, SOm norðaustur af Eyrartjörn. Þar er einnig grunnur úr bragga. Ekki er að sjá neinar leifar eldri mannvirkja.

Tjarnarbryggja (bryggja)

Langeyri

Leifar lifrabræðslunnar vestan Gönguhóls.

“Tjarnarbryggjan: Bryggja að Steinboga yfir Eyrarhraunstjörn.“ segir í örnefnalýsingu.
Vestan við Eyrartjörn eru leifar af sementsstöpli með járna- og grjóthrúgu „sem gætu verið leifar Tjarnarbryggju.
Fiskreitir; Dísureitur og Ingveldarreitur, voru ofan Eyrarhraunstjarnar. Þeir eru nú horfnir.

Vegur

Langeyrarstígur

Langeyrarstígur.

Vegur sem að hluta til er hlaðinn upp sitthvoru megin með hraungrýti, með smásteinum og mold á milli, er sunnan við Sævang 33 og liggur yfir hraunið að Eyrarhrauni.

Brúsastaðir
Í laut sunnan við Bæinn. Aðeins á Fjöru. … Brúsastaðatún: 1890 var grafið í gömlu bæjarústirnar og kom upp brot af leirbrúsa. Þar af kom nafnið.“ segir í örnefnlýsingu Álftaneshrepps. 1901 voru 5 heimilismenn á Brúsastöðum en fyrir aldamótin hafði þurrabúðin verið í eyði um skeið.
Tvö hús standa í bæjarstæðinu og er mikið af grjóthlöðnum görðum umhverfis, flestir nýlegir en hugsanlegt er að sumir séu leifar af túngörðum frá 19. öld.

Draugur (Stifnishólar)

Brúsastaðir

Brúsastaðir og Stifnishólar (t.v.).

“Fram af Brúsastöðum (012), fram í sjó, eru háir hraundrangar, sem heita Stifnishólar. Þar var kveðinn niður draugur um aldamótin 1800″.
Stifnishólar eru rétt sunnan við Brúsastaði.

Skerseyrarvör (lending)

Skerseyri

Sjávargata Skerseyrar að Skerseyrarvör.

“Þegar kemur vestur fyrir Stifnishóla, er Skerseyrarmöl, og í henni er Skerseyrarvör.“ — “Skerseyrarvör. Hún var þarna í fjörunni á sinni tíð. Niðurlögð (1964).“
Þar sem vörin hefur verið er hlaðin og steypt varða.

Hvíluhóll (áfangastaður)
“Þaðan er bein lína í Hvíluhól, en sá hóll er fast norðaustan við Garðaveginn til Hafnarfjarðar. Á Hvíluhól lögðu menn af sér byrgði á leið til og frá Hafnarfirði.“
Mikið rask hefur verið á þessu svæði og er hóllinn horfinn.

Landamerkjavarða

Langeyri

Landamerkjavarða við Hvíluhól.

“Þaðan er bein lína í Hvíluhól, en sá hóll er fast norðaustan við Garðaveginn til Hafnarfjarðar. Á Hvíluhól lögðu menn af sér byrgðir á leið til og frá Hafnarfirði. Úr vörðu á Hvíluhól er svo línan í vörðu á hraunbrún sunnan við Engidal.“
Mikið rask hefur verið á þessu svæði og er hóllinn með vörðunni horfinn.

Markvarða (landamerkjavarða)
“Stóð ofanvert við Árnagerði.“ “Svo var svæðið nefnt frá Garðaveginum allt upp að Hellisgerði. Árni Hildibrandsson ræktaði það um 1866.“
Mikill hluti af þessu svæði er byggt upp. Ekkert sést og því ekki hægt að staðsetja nákvæmlega, en líklegast er að varðan hafi staðið á svæðinu frá Sævangi 18 að
enda Klettagötu.

Hvalstöð

Langeyri

Kofatóft ofan Langeyrar.

“Þegar komið er yfir Gönguklif, taka við Langeyrarmalir, og þar vestar er Rauðsnefstangi. Þar var eitt sinn hvalstöð, en lagðist niður vegna þess, að þar kom fyrir slys“, segir í örnefnalýsingu.
Rauðsnefstangi er mjög óslétt hraungrýtt svæði. Þar eru tvær litlar tjarnir, um 20 m frá sjó. A.m.k 7 litlar (3×5 m) grjóthlaðnar tóftir eru á þessum stað, og grjóthlaðnir garðar á milli. Ein tóft stendur enn með þaki og timburstoðum.

Hammershús (bæjarstæði)
“Hammershússlóð: Hún lá sunnan við Rauðsnef undir húsi sem Hvalfangarinn norski Hammer reisti þarna um 1860. Hér átti að verða Hvalstöð, en hætt var við það.“
Enginn húsgrunnur er þó þar.

Litla-Langeyrarvör/Brúsastaðavör (lending)
“L-Langeyrarvör. … vestan við Stifnishóla“, segir í örnefnalýsingu.

Allans-reitur (fiskreitur)

Allians

Allans-fiskreitur við Hrafnistu. Var eyðilagður er viðbygging var gerð.

“Langstærsti fiskreiturinn, sem Hellyer bræður létu gera eftir að þeir keyptu Svendborg 1924 og hófu útgerð frá Hafnarfirði varAllans-reiturinn, sem svo var nefndur, en hann var kenndur við Allen majór, framkvæmdastjóra Hellyers-bræðra í Hafnarfirði. Allans-reiturinn var þar, sem nú er Hrafnista, dvalarheimili aldraðra sjómanna í Hafnarfirði.“
Um 100 m austur af suð-austur horni Hrafnistu eru leifar af fiskreit (60 m langur, liggur norður-suður) og hefur nyðri hluti hans lent undir aðkeyrslu að Hrafnistu.
Reiturinn liggur ofan á lágum hraunhólum, en sunnan við hann og um 2 m neðar ganga tveir garðar (eða leifar af görðum) til suðurs og er grunn dokk á milli ca. 50×20 m.

Heimild:
-Fornleifar milli Skerseyrar og Langeyrar, Fornleifaskráning í Hafnarfirði ll – Hildur Gestsdóttir og Sædís Gunnarsdóttir; Fornleifastofnun Íslands 1998.
-https://www.google.is/url?sa=t&rct=j&q=&esrc=s&source=web&cd=&ved=2ahUKEwjNurDJrNnrAhVB66QKHSSeDVwQFjARegQICBAB&url=https%3A%2F%2Ffornleif.is%2Fwp-content%2Fuploads%2F2018%2F01%2FFS063-98131-Skerseyri-og-Langeyri.pdf&usg=AOvVaw3vonlzqTOr5qFbmLymG6pw

Langeyri

Langeyri og nágrenni – örnefni.

Seltún

Á fjórum upplýsingaskiltum við „Seltún í Krýsuvík“ má lesa eftirfarandi fróðleik:

Reykjanesskaginn – myndun og mótun – jarðfræði

Seltún

Kort af eldstöðvakerfum á Reykjanesskaga, háhitasvæðum og rekbelti á upplýsingaskilti við Seltún.

Reykjanesskagi hefur verið í sífelldri myndun og mótun síðustu 6 milljónir ára, allt frá að rekbelti Atlantshafshryggjarins fluttist af Snæfellsnesgosbeltinu og Reykjanes-Langjökulsgosbeltið tók að myndast.
Á Reykjanesi má sjá hvernig rekbelti (flekaskil) Atlantshafshryggjarins gengur á land og fer þvert yfir landið til norðausturs. Það markar virk gosbelti landsins ásamt heita reitnum sem liggur undir miðju landsins. Á gosbeltið raðast virk eldstöðvakerfi ásamt háhitasvæðum landsins.
Fyrir sex til sjö milljónum ára lá rekbeltið um Snæfellsnes og fór eftir það að flytjast til austurs og við það myndaðist Reykjanes-Langjökulsgosbeltið. Síðan þá hefur Reykjanesskagi verið í sífelldri myndun og mótun með eldgosum neðansjávar, undir jöklum ísaldar og á þurru landi, auk þess sem landið hefur mótast af rofi sjávar, vatns og vinda.

Grindavík

Grindavík – eldgos við Sundhnúk 2024.

Á Reykjanesskaga eru fimm eldstöðvakerfi: Reykjanes, Svartsengi, Krýsuvík, Brennisteinsfjöll og Hengill. Í hverju kerfi eru sprungusveimar með stefnu norðaustur-suðvestur og háhitasvæði sem raða sér eftir flekaskilum Atlantshafshryggjarins. Að Hengli undanskildum eiga kerfi það sameiginlegt að eingöngu kemur upp basaltkvika í eldgosum.
Goshrinur á Reykjanesskaga virðast að jafnaði verða á um 1000 ára fresti og geta þær staðið yfir í nokkur hundruð ár. Í goshrinum einkennist eldbvirkni af sprungugosum en í goshléum eru jarðskjálftar algengir í eldstöðvakerfunum. Eftir að ísöld lauk, eða síðustu 10.000 ár, hafa hátt í 200 gossprungur myndast á Reykjanesskaga og eru gjall- og klepragígaraðir algengastar. Auk þess hafa myndast níu dyngjur eftir ísöld en talið er líklegt að flest dyngjugosin hafi byrjað sem sprungugos.

Eldstöðvakerfið Krýsuvík

Jarðfræði

Jarðfræði Reykjaness.

Krýsuvíkurkerfið er um 8 km á breidd og um 50 km á lengd. Innan þess eru tvö gos- og sprungukerfi sem eru kennd við Trölladyngju og krýsuvík. Jarðfræði svæðisins einkennist af lágum móbergshryggjum, gígum og gígaröðum, hraunflákum og jarðhita.
Móbergshryggirnir Sveifluháls og Vesturháls mynduðust við eldvirkni undir jökli á ísöld og sýna glöggt ríkjandi sprungustefnu eldstöðvakerfisins norðaustur-suðuvestur. Á hryggjunum má greina sprungur, misgengi og sigdali.

Móhálsadalur

Móhálsadalur.

Síðast gaus í Krýsuvíkurkerfinu á 12. öld og er sú goshrina nefnd Krýsuvíkureldar. Í goshrinunni opnuðust gossprungur frá syðsta hluta Núpshlíðarháls [Vesturháls], eftir endilöngum Móhálsadal og norðausturenda Undirhlíða. Gossprungurnar eru ekki samfelldar og sums staðar tvöfaldar, en fjarlægðin frá upphafi til enda þeirra er um 25 km. Í þessum eldum árið 1151 runnu Kapelluhraun og Ögmundarhraun. Kapelluhraun rann úr gosgígum í nyrsta hluta sprungunnar við Undirhlíðar og þaðan til sjávar á norðanverðum Reykjanesskaga. Ögmundarhraun kom upp í syðsta hluta gossprungunnar, fyllti Móhálsadal af hraunum og rann til sjávar á sunnanverðum Reykjanesskaga þar sem það fór yfir hina fornu Krýsuvík.

Seltún

Upplýsingaskilti við Seltún.

Í Krýsuvíkurkerfinu er háhitasvæði með gufuhverum og ummyndun á yfirborði. Ummerki jarðhita eru mest og samfelldust við Seltún í Krýsuvík. Jarðhitasvæðið við Austurengjar markar austurhluta háhitasvæðisins og teygir jarðhitasvæðið sig norður í Kleifarvatn.

Trölladyngja

Trölladyngja og Sogaselsgígur nær.

Jarðhitasvæðið við Trölladyngju nær frá Djúpavatni að Oddafelli og markar vesturhluta háhitasvæðisins. Við Sandfell eru smávægileg jarðhitaummerki á yfirborði.
Hverasvæðin eru síbreytileg og sjá má kaldar jarðhitaskellur á yfirborði sem bendir til þess að þar hafi áður verið virk hverasvæði. Hveravirkni svæðisins hefur oft breyst í kjölfar jarðskjálfta á svæðinu.
Nálægt hverasvæðunum má víða sjá sprengigíga.
[Á upplýsingaskiltið vantar kort af svæðinu með hlutaðeigandi nöfnum svo lesandinn geti áttað sig á umhverfinu, staðháttum og því sem um er fjallað.]

Háhitasvæði – almennt

Seltún

Háhitasvæðið við Seltún.

Háhitasvæði eru oft staðsett í miðju eldstöðvakerfi þar sem eldvirkni er mest. Þau verða til vegna heitra innskota djúpt í jörðu sem geta verið allt að 1000-1200 °C heit í upphafi. Innskotin hita upp nálægt grunnvatn sem verður eðlisléttara og stígur upp til yfirborðsins sem djúpvatn eða gufa.

Sogin

Sogin – hátitasvæði.

Hluti grunnvatnsins kólnar á leið sinni upp og leita þá aftur niður. Við þetta myndast hringrásakerfi sem er eitt af einkennum háhitasvæða.
Kvikugös sem losna úr heitu innskotinu, eins og til dæmis brennisteinsveti (H25) sem veldur hverafýlu, brennisteinstvíoxíð (SO2) og koltvísýringur (CO2), blandast við grunnvatnið og berast með því til yfirborðs. Hitinn og súr efnasambönd valda því að berg grotnar, ummyndast og útfellingar myndast. Þetta kallast efnaveðrun. Háhitasvæði einkennast af fjölbreytilegum jarðhitafyrirbærum og mikilli litadýrð á yfirborði, sérstaklega þar sem berggrunnurinn er úr móbergi en þar er ummyndun meiri og hraðari en t.d. í hraunum.

Jarðhiti við Seltún og Baðstofu.

Seltún

Leirhver við Seltún. Leirhverir myndast þar sem gufa streymir upp gegnum grunnvatn og súr vökvinn leysir upp berg og myndar leir sem oft sýður og vellur.

Jarðhitinn í Krýsuvík dreifist að langmestu leyti á aflangt svæði sem erum um 1500 m langt og um 500 m breitt með stefnu u.þ.b. ANA-VSV. Í austurhlíðum Sveifluháls, við Seltún og Baðstofu (Hveragil), er mest um jarðhita á yfirborði og ummyndanir.

Krýsuvík

Baðstofa – hverasvæði í Krýsuvík.

Gufa er ríkjandi á svæðinu en hún hitar upp yfirborðsvatn þannig að bæði leirhverir og gufuhverir eru algengir. Einnig finnast gufuaugu, brennisteinsþúfur og soðpönnur.
Í Krýsuvík er ummyndun mikil og litskrúðug sem sést best á fjölda leirhvera og mislitum leirflögum sem eru rauð, bleik, dökkgrá, blágrá, gulbrún, gul og hvít á lit. Algengustu útfellingar eru hverasölt, brennisteinn [mynd] og gifs. Dálítið hefur fundist af hverajárni.

Seltún

Seltún – borhola.

Eggert Ólafsson náttúrufræðingur og Bjarni Pálsson landlæknir voru fyrstir til að bora í jarðhitasvæði á Íslandi og líkast til í heiminum öllum. Handsnúinn jarðbor var fenginn að láni hjá Konungslega danska vísindafélaginu. Tilgangur borunar var að leita að brennisteini í jarðlögum á hverasvæðum, en brennisteinn var verðmæt útflutningsvara á ófriðartímum í Evrópu. Fyrst var borað við Laugarnesið haustið 1755 og sumarið 1756 í Krýsuvík. Í Krýsuvík voru boraðar tvær holur og náði sú dýpri 10 metrum. Borholan gaus og var þá bortilraunum hætt.

Brennisteinsnám var í Krýsuvík á árunum 1754-1763 og síðan 1858-1880, en eftir það var lítil eða engin námuvinnsla í Krýsuvík. Samvæmt samtímaheimildum voru flutt út 72,5 tonn af brennisteini frá Krýsuvík á 18. öld.

Brennisteinsnám

Brennisteinsvinnslan í Seltúni 1882.

Ekki var reynt að bora aftur á svæðinu fyrr en 1941 þegar tilraunaboranir hófust í því skyni að nýta jarðhitann í Krýsuvík til húshitunar og raforkuframleiðslu.

Krýsuvík

Drengir í Vinnuskólanum við Seltún. Drottningarholan í bakgrunni – HH.

Árið 1947 lét Rafveita Hafnarfjarðar bora svokallaða Drottningarholu í Seltúni Þegar komið var niður á um 230 metra dýpi gaus holan og var þá borun hætt, holunni lokað, en henni leyft að blása vegna mikils gufuþrýstings. Í október 1999 hætti Drottningarholan að blása en nokkru seinn varð sprenging á borholusvæðinu og myndaðist gígur sem mældist 43 metrar í þvermál. Grjót og grá leirdrulla dreifðist í allt að 700 metra fjarlægð til norðurs frá gígnum. Talið er að Drottningarholan hafi stíflast eða hrunið saman sem olli því að sprenging varð.

Nálægt hverasvæðunum má víða sjá sprengigíga og eru Grænavatn, Gestsstaðavatn og Augun við Krýsuvík gott dæmi um slíka gíga.

Krýsuvík

Grænavatn (t.h.) og Stampar.

Sprengigígar (stærri en 50 metrar í þvermál) myndast viðs nögga suðyr grunnvatns, oft í tengslum við eldgos eða kvikuhreyfingar. Minni sprengigígar eru algengir á háhitasvæðum og myndast við að vatn hvellsýður á litlu dýpi, venjulega í tengslum við jarðskjálfta. Nær engin hraun myndast í sprengigosum en dálítið getur komið upp af gjalli og kleprum. Oftast er þó eingöngu að finna grjót og bergmylsnu úr gígveggnum sem getur dreifst hundruð metra frá gígnum.

Grænavatn

Grænavatn.

Í Krýsuvík hófust rannsóknarboranir að nýju fyrir nokkrum árum og hefur komið í ljós að mestur jarðhiti er á um 300 m dýpi. Nú er til skoðunar að nýta háhita á fjórum svæðum í Krýsuvík en það er á Austurengjum, Sveifluhálsi, Trölladyngju og Sandfelli.
[Á upplýsingaskiltið vantar kort af svæðinu þar sem m.a. má sjá hvar Drottningarholan var, nálægir sprengugígar sem og brennusteinsvinnslusvæðin.]

[Brennisteinn myndast við oxun á brennisteinsvetni (H25) þar sem vatn er ekki til staðar. Hann er gulgrænn á litinn.]

Almennt um gróður

Krýsuvík

Gróðureyðing á Krýsuvíkurheiði.

Gróðurfar í Krýsuvík og nágrenni er mótað af langvarandi beit. Afleiðingar gróðureyðingar og jarðvegsrofs sjást víða sem lítið grónir melar, moldarflög og rofabörð. Þar má þó finna allmikið votlendi, grasgefna velli og algróin hraun.

Krýsuvík

Krýsuvík – dyngja við Nýjaland.

Suðvestan Kleifarvatns er mikið votlendi í sléttum dalbotninum og hallamýrar í hlíðum. Á Reykjanesskaga er lítið um stór og samfelld votlendissvæði og því hefur þetta svæði mikið gildi. Vestan Sveifluháls eru grösugir vellir sem eru sérstæðir á landsvísu. Hraun sem hafa runnið yfir vellina á sögulegum tíma eru nú vaxin gamburmosa. Í hraungjótum má finna burknategundir sem hafa takmarkaða útbreiðslu hér á landi.

Austurengjar

Krýsuvík – Austurengjalækur.

Jarðhiti mótar sérstæðar vistgerðir á afmörkuðum svæðum við hveri og laugar. Austan Sveifluháls er jarðvatnsstaða víða há, þar spretta fram heitir lækir og uppsprettur og finna má mýrahveravist. Laugasef vex víða í rakanum, ásamt öðrum tegundum af sefi og störum, og mosinn laugaslyðra vex í breiðum við hveri. Í þurrara landi má finna móahveravist þar sem mosar eru jafnan ríkjandi. Þar sem jarðhiti hefur ummyndað jarðveg og berg má finna ljósleitt eða rauðleitt yfirborð hveraleirsvistar.

Jarðtegundir og aðrar sjaldgæfar tegundir

Njaðurtunga

Njaðurtunga.

Laugadepla (Veronica anagallis-aquatica) vex einungis á örfáum jarðhitasvæðum hér á landi. Hún þrífst aðeins við laugar og í vogum lækjum. Plantan getur myndað þéttar breiður, stönglarnir eru uppréttir eða fljóta á vatni, laufblöðin fagurgræn og gagnstæð en blómin smá og ljósfjólublá. Laugadepla hefur takmarkað vaxtasvæði og á válista flokkast hún sem tegund í nokkurri hættu.

Naðurtunga (Ophioglossum azoricum) er sjaldgæf jurt sem vex einungs við jarðhita. Hún þrífst í þurrum, mosavöxnum hraunum en líka rökum, mosagefnum hveramýrum. Plantan er lágvaxin með lanfan og mjóan stöngul sem vex upp af einu til þremur fagurgrænum blöðum.

Soppmosar

Soppmosar.

Heiti plöntunnar, naðurtunga, vísar til einhliða gróax sem líkist tungu efst á plöntunni. Á válista flokkast tegundin í nokkurri hættu þar sem vaxtarsvæði hennar er takmarkað. Hún finnst þó á mörgum jarðhitasvæðum landsins.

Laugaslyðra (Gymnocolia inflata) er mosategund sem má finna víða á jarðhitasvæðum hér á landi, líkt og aðra soppmosa. Mosinn getur myndað þéttar breiður. Hann er breytilegur að lit, jafnan brúnn eða brúnleitur, stundum grænn eða gulleitur og getur jafnvel verið svartleitur eða rauðbrúnn. Hann vex í leirflögum við hveri og laugar en einnig í rökum jarðvegi við tjarnir og læki eða á kafi í vatni.
Vatnalaukur (Isoetes lacustris) er sjaldgæf vatnajurt að mestu bundin við Suðvesturland. Plantan hefur dökkgræn, upprétt og striklaga blöð. Hún er ekki tengd jarðhita og lætur lítið yfir sér þar sem hún vex á botni stöðuvatna og djúpra tjarna. Hún finnst við Krýsuvík og telst sem tegund í yfirvofandi hættu.

Lifandi náttúra

Austurengjahver

Austurengjahver.

Kyngikraftur náttúrunnar blasir við augum í Krýsuvík. Höfuðskepnurnar eldur, vatn, loft og jörð hafa mótað umhverfið í aldanna rás.

Austurengjahver

Austurengjahver (Stórihver) í Krýsuvík.

Gufustrókar stíga til himins, sjóðandi leirhverir leika taktfasta sinfóníu, hverahvammar skarta grænum, gulum og rauðleitum litum sem skipta um svipmót eftir veðrinu. Náttúröflin eira engu í glímunni við gróðurinn, vatnsrof leikur stórt hlutverk þegar það rignir og ísa leysir. Vindurinn flettir þekjunni í burtu og feykir jarðvegi á haf út þar sem öldur ólmast við klettaströnd og mola strandbergið hvíldarlaust. Þetta er náttúran í öllu sínu veldi.

Krýs og Herdís deila um landamerki

Kerlingadalur

Dysjar Herdísar og Krýsu í Kerlingardal.

Þjóðsagan hermir að Krýsuvík sé nefnd eftir krýs sem bjó í Krýsuvík. Hún átti í deilum um landamerki við grannkonu sína, Herdísi í herdísarvík. Báðar töldu sig órétti beittar og ákváðu að skera úr deilumáli sínu í eitt skipti fyrir öll.

Dysjar

Dysjar Krýsu, Herdísar og smalans neðst.

Sammæltust þær um að leggja af stað frá bæjum sínum við sólarupprás og ákveða mörk landa sinna þar sem þær mættust. Þegar þær hittast á Deildarhálsi taldi Krýs að Herdís hefði lagt fyrr af stað en um var samið. Tóku þær að biðja hvor annarri óbæna ásamt jörðum þeirra. Herdís lagði það á Krýsuvík að allur silungur í Kleifarvatni skyldi verða að loðsilungi en Krýs mælti svo fyrir um að ein eða fleiri skipshafnir skyldu drukkna í Herdísarvíkurtjörn. Sagan um þessa landaþrætu kerlinganna hefur lifað meðal Krýsvíkinga í ýmsum myndum og sýnir kyngimagn Krýsuvíkur.
[Hér gleymist að geta um hvernig samskiptum kvennanna lauk, en þær slógust og barst leikurinn til austurs niður í Kerlingardal þar sem þær drápu hvora aðra. Með í för voru smalar hvorrar um sig og laug viðureigninni með því að smali Krýsu drap smala Herdísar og dysjaði bæði þær og hann við gömlu þjóðleiðina milli bæjanna. Þar má enn sjá dysjarnar.]

Fornminjar

Gestsstaðir

Tóftir Gestsstaða.

Í landi Krýsuvíkur eru víða merkar fornleifar og búsetuminjar. Elstar eru Gestsstaðarústirnar, senilega frá fyrri hluta miðalda. Mestar eru fornleifarnar í Krýsuvíkurhverfi undir Bæjarfelli þar sem höfuðbólið og flestar hjáleigurnar voru. Nútímavæðing hefur lítið komið við sögu og jörðin haldist nánast óbreytt frá fyrri tíð, en snemma á sjöunda áratugnum varð sögulegt slys á bæjarhólnum. Krýsuvíkurbærinn, sem stóð vestan kirkjunnar, var þá kominn að falli og voru stórvirkar vinnuvélar notaðar til að ryðja hólinn og slétta út minjar um þennan merka bæ. Neðan hólsins og allt í kringum hann eru gömlu túnin með túngörðum sínum ósnertum að mestu, tóftir gömlu kotanna og fleiri merkar fornminjar.
[Hér vantar nauðsynlega kort af staðsetningu þess, sem um er rætt.]

Dulúð regnsins

Austurengjar

Austurengjar.

Það getur verið mjög votviðrasamt í Krýsuvík því þar gætir fyrst áhrifa frá lægðum sem nálgast landið úr suðvestri. Umhleypingar eru algengir með tilheyrandi úrkomu en í norð-austlægum áttum má gera ráð fyrir þurrviðri í Krýsuvík. Þá skartar staðurinn sínu fegursta, en einnig getur dulúðin sem fylgir þokulofti og skýjuðu veðurfari búið yfir ólýsanlegri fegurð.

Einföld bændakirkja

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja endurgerð.

Krýsuvíkurkirkju er fysrt getið í kirkjuskrá Páls Jónssonar Skálholtsbiskups um 1200. Margt bendir til að kirkja hafi risið í Krýsuvík á fyrstu áratugum kristni, en [tré]kirkjuna byggði Beinteinn Stefánsson á Arnarfelli 1875. Þetta var lítið guðshús einfaldrar gerðar, án turns. kirkjan var aflögð sem helgidómur og rúin öllum verðmætum 1929. Eftir það notaði einbúinn Magnús Ólafsson, síðasti íbúi Krýsuvíkur, hana sem íbúðarhús til 1945. Endurbygging kirkjunnar hófst 1957 og var hún endurvígð 1964 og færð Þjóðminjasafninu til eignar.

Krýsuvík

Krýsuvík og Krýsuvíkurkirkja 1950.

Árið 1997 var Sveinn Björnsson listmálari [og lögreglumaður] jarðsettur í kirkjugarðinum en þá voru liðin 80 ár frá síðsutu greftrun þar. Á vorin var haldin messa í kirkjunni og altaristafla eftir Svein hengd upp, en tekin niður við messu á haustin og færð til vetrarvistar í Hafnarfjarðarkirkju.
Krýsuvíkurkirkja brann til kaldra kola aðfaranótt 2. janúar 2020.
[Kennarar og nemendur Iðnskólan í Hafnarfirði, nú Tækniskólans, hafa lokið endurbyggingu Krýsuvíkurkirkju, eins og hún leit út í upphafi (1875). Hún er væntanleg á upprunanlegan stað fljótlega.] Ný kirkja var flutt á grunn hinnar gömlu tíu árum síðar.

Land í mótun

Seltún

Hveraútfellingar við Seltún.

Virka gosbeltið sem liggur eftir Reykjanesskaga er á milli landsreksflekanna sem kendnir eru við Evrópu og Ameríku. Elsti hlutinn eru Lönguhlíðarfjöll norðaustan Kleifarvatns sem sýna merki tveggja kuldaskeiða og tveggja hlýskeiða, Sveifluháls er móbergshryggur sem myndast hefur við gos undir íshellu á kuldaskeiði.

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg – Skriða.

Sunnan Krýsuvíkurhverfis milli Geitahlíðar og Sveifluháls eru nokkur lög af grágrýtsihraunum, sum þakin jökulbergi, en efst ner mest á mó- og mýrlendi. Jarðlögin sjást vel í Krýsuvíkurbergi. Rauðskriða á Krýsuvíkurheiði og Trygghólar eru leifar gamalla eldgíga sem hraun hefur runnið frá. Krýsuvíkurhraun og Ögmundarhraun (eiga) eiga upptök sín í Brennisteinsfjöllum, gígum við Eldborgir sunna Geitahlíðar og í gossprungum í Móhálsadal.
[Hér vantar loftmynd af svæðinu þar sem sjá má m.a. hraunflæðin.]

Sprengigígar kallast á

Krýsuvík

Grænavatn og Stampar – sprengugígar í Krýsuvík.

Landslag í Krýsuvík er mótað af umbrotum og jarðeldum. Grænavatn, Gestsstaðavatn og Augun eru sprengigígar sem myndast hafa við sprengigos á ýsmum tímum.

Augun

Krýsuvík – eitt Augað af þremur. Bæjarfell fjær.

Grænavatn er stærst um 46 m djúpt. Vatnið fær lit sinn af hveraþörungum og kristöllum sem draga grænan lit frá sólu í sig. Gestsstaðavatn heitir eftir fornu býli sem fór í eyði á miðöldum.
[Stamparnir; Stóri-Stampur og Litli-Stampur eru vatnslausir sprengigígar sunnan Grænavatns væru vel umfjöllunarinnar virði – að ekki sé talað um minjar Gömlu-Krýsuvíkur í Húshólma.]

Fuglalíf og eggjataka

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg (Heiðnaberg).

Um 57.000 sjófuglapör verpa í krýsuvíkurbergi, aðallega rita og svartfugl, sem skiptist í álkur, langvíur og stuttnefjur. Einnig verpir þar nokkuð af fýl, toppskarfi og silfurmáfi.

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg – Eystri-lækur og fossinn á góðum degi.

Fyrrum var ekkjataka mikil og máttu kotamenn taka tiltekið magn af fugli og eggjum úr berginu. Svo mikið fékkst af svartfuglseggjum á vorin að þau voru flutt á mörgum hestum heim til bæjanna. Sömu sögu var að segja af bergfuglinum sem gaf af sér kjöt og fiður. Á Krýsuvíkurheiði og nágrenni Bæjarfells verpir mófugl, spói, heiðlóma, snjótittlingur og fleiri tegundir. Arnarfell og Arnarfellstjörn eru kunn kennileiti á Krýsuvíkurheiði og á miðjum Sveifluhálsi eru Arnarvatn og Arnarnípa. Þessi nöfn vísa til þess að ernir hafi orpið á þessum stöðum í eina tíð.
[Enn og aftur; á skiltið vantar kort af svæðinu þar sen nefndra örnefna er getið.]

Mannrækt við Krýsuvíkurskóla

Krýsuvík

Krýsuvík.

Um miðjan áttunda áratuginn hófust miklar byggingaframkvæmdir á mel sunnan Gestsstaðavatns, en þar var ætluninn að reisa skóla fyrir unglinga sem þurftu á sérúrræðum að halda.

Krýsuvík

Krýsuvík – skólinn.

Áður en byggingunni var lokið var fallið frá hugmyndinni og stóð húsið autt um margra ára skeið þar til Krýsuvíkursamtökin fengu það til afnota. Var þar rekið meðferðarheimili fyrir fíkniefnaneytendur um langt skeið.
[Hér er nálægra sýnilegra mannvirkja ógetið, s.s. fjóssins, starfsmannahússins, ráðsmannshússins, gróðurhúsanna o.fl., en við þau voru bundnar miklar framtíðarvæntingar við uppbyggingu Krýsuvíkursvæðisins. Þá var Vinnuskólinn í Krýsuvík sérstaklega merkileg viðeytni í lok sjötta og byrjun sjöunda áratuga síðustu aldar og er vel þess virði að vera getið á upplýsingaskilti þar sem fjallað er um Krýsuvík.]

-ÓSÁ dró saman.

Seltún

Seltún – hverasvæði.

Hafnarfjörður

Ásgeir Guðmundsson fjallar um „Lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar“ í Sögu Hafnarfjarðar 1908-1983, en mörk bæjarfélagsins hafa vaxið ört frá því að það fékk kaupstaðaréttindi 1. júní 1908:

„Í 1. grein laga um bæjarstjórn í Hafnarfirði 22. nóv. 1907 voru takmörk kaupstaðarins ákveðin þannig:

Hafnarfjörður

„Úr sjó utanvert við Balatún, sjónhending eftir takmörkum Hafnarfjarðarhrauns og Dysjamýrar, þar til kemur á hinn forna veg frá Görðum til Reykjavíkur. Eftir þeim vegi í Engidal. Þaðan eftir nyrðri brún Hafnarfjarðarhrauns, þar til kemur móts við austurhorn Hraunholtstúns, Þaðan beina stefnu yfir neðanverðan Kaplakrika í vörðu á háholtinu fyrir ofan Jófríðarstaði, þaðan í Fuglastapaþúfu efri beina leið í sjó fram. Kaupstaðurinn skal skyldur til að setja nægilega mörg varanleg merki, er sýni greinilega takmörk landsins, og viðhalda þeim.“

Jófríðarstaðir

Jófríðarstaðir fyrrum – tilgáta.

Mikið skorti á, að Hafnarfjarðarbær ætti árið 1908 það land, sem var innan bæjarmarkanna.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – herforingjaráðsuppdráttur 1909.

Í árslok 1908 var að frumkvæði Jóns Hermannssonar þáverandi bæjarstjóra rætt um það á bæjarstjórnarfundi utan dagskrár, hvort eða að hve miklu leyti kaupstaðurinn ætti að gera ráðstafanir í þá átt að eignast eitthvað af því landi, sem hann var byggður á og að honum lá. Síðla árs 1910 stóð Hafnarfjarðarbæ til boða að kaupa allar fasteignir Brydeverslunar í bænum ásamt fleira á 37.500 kr., þ.e. Akurgerðislóð ásamt öllum húsum og mannvirkjum, sem voru á lóðinni. M.a. var um að ræða fyrsta fiskþurrkunarreitinn, sem gerður var í hrauninu fyrir norðan Hafnarfjörð. Verslunarhús og önnur mannvirki á Akurgerðislóð voru ekki lengi í eigu Hafnarfjarðarbæjar, því að bæjarstjórn seldi Magnúsi Th. S. Blöndahl kaupmanni þau árið 1911.
Hafnarfjörður
Ári seinna gaf prófasturinn á Görðum, Jens Pálsson, Hafnarfjarðarbæ kost á að kaupa nokkuð af því landi, sem bærinn stóð á og Garðar áttu, og einnig nokkurt beitiland fyrir samtals 52.000 kr. Við það voru landamörkin miðuð við „beina línu úr Balaklöpp við vesturenda Skerseyrarmalar í veginn frá Hafnarfirði til Reykjavíkur, þar sem hann fer að fara lækkandi ofan af norðurbrún hraunsins, þaðan bein lína í Hádegishól, hádegismark frá Hraunsholti, nálægt í hásuður frá bænum, spölkorn frá hraunjaðrinum, úr Hádegishól bein lína í Miðaftanshól, sem er gamalt miðaftansmark, miðað frá Vífilsstöðum; – þá tekur við Urriðakotsland; þá Setbergsland, allt til Lækjarbotna; og loks Selvogsmanna- eða Grindarskarðsvegur.“
Innifalið í þessum kaupum var Hamarskot, en undanskilið var Hamarkotstún innan girðingar og Undirhamarstúnblettur.
Hafnarfjörður
Í desember 1912 keypti Hafnarfjarðarbær hálfa jörðina Hvaleyri, þ.e. Hjörtskot, Halldórskot, Sveinskot, Tjarnarkot, Vesturkot og Egilsonsgerði. Kaupverðið var 7.000 kr.

Hafnarfjörður

Merki á „landamerkjastöpli“ millum Hafnarfjarðar og Garðabæjar 1977.

Árið 1915 keypu bærin Hamarsland á kr. 10.500 kr. Undanskyldar voru nokkrar lóðir, s.s. lóð Íshúss Hafnarfjarðar. Hamar var upphaflega í landi Jófríðarstaða, og þar eða eigendur Jófríðarstaða töldu sig eiga tilkall til ítaka í Hamarslandi, mótaks og skipsuppsátur, ákvað bæjarstjórn árið 1919 að greiða þeim í eitt skipti fyrir öll 600 kr. gegn því, að þeir slepptu öllu tilkalli til þessara ítaka.
Eins og áður hefur komið fram, voru Hamarskots- og Umdirhamarstún undanskilin, þegar aðrar eignir Garðakirkju í Hafnarfirði voru seldar bæjarfélaginu 1912. Þá var gert ráð fyrir að presturinn hefði þar grasnytjar, ef hann flyttist til Hafnarfjarðar. Í desember 1927 var byrjað að sverma fyrir landinu og árið 1930 keypti bærinn það fyrir 12.000 kr. Sú kvöð hvíldi á Hamarkotstúni, að einungis mátti reisa þar byggingar til almenningsþarfa, en að öðru leyti átti túnið að vera skemmtistaður handa Hafnfirðingum, og var það notað til þeirra hluta um skeið. Undirhamarstún mátti kaupstaðurinn ekki selja, heldur aðeins leigja það út til byggingarlóða.
Hafnarfjörður
Árið 1924 reis ágreiningur milli Hafnarfjarðarkaupstaðar og Jóhannesar J. Reykdals um landamerki Hafnarfjarðar og Setbergs. Hæstiréttur kvað upp dóm í málinu 1925, og féll hann Jóhannesi Reykdal í vil.
Árið 1932 keypti Hafnarsjóður Hafnarfjarðar jörðina Óseyri ásamt húsum af Böðvari Böðvarssyni bakara fyrir 39.000 kr. Óseyri var elsta nýbýlið í hinu forna Jófríðarstaðalandi.
Sumarið 1935 keypti Hafnarfjarðarbær af kaþólska trúboðinu (Compagnie de marie) hluta úr landi Jófríðarstaða.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – Óseyri árið 1900.

Að loknum landakaupum þeim, sem hér hefur verið gerð grein fyrir, átti Hafnarfjarðarbær mestan hluta þess lands, sem hann náði yfir. Að undanskildum hluta af landi Jófríðarstaða, sem bar í eigu Campagnie de Marie, og heimajörðinni á Hvaleyri, sem var í eigu Gjafasjóðs séra Þórarins Böðvarssonar, voru aðeins tvær lóðir inni í sjálfum kaupstaðnum í einkaeign. Önnur var lóðin Vesturgata 2, þar sem Hótel Björninn stóð, og var hún í eigu erfingja Augusts Flygenrings, en hin var lóð Íshúss Hafnarfjarðar.
Árið 1936 fékk ríkið f.h. Hafnarfjarðarbæjar heimild til að taka eignarnámi lönd til að stækka lögsagnarumdæmið. Tilgangurinn var að bæta úr þeim mikla skorti á ræktunarlandi, sem var í Hafnarfirði um þessar mundir.

Nýibær

Stóri-Nýibær í Krýsuvík.

Samkvæmt því var ríkinu heimilt að taka eignarnámi afnotarétt af öllu óræktuðu landi jarðarinnar Áss í Garðahreppi, þann hluta af óræktuðu landi jarðarinnar Hvaleyri í Hafnarfirði, sem ekki var þegar eign Hafnarfjarðarbæjar, afnotarétt þess landssvæðis, sem takmarkaðist þannig: Að austan af veginum milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur, að norðan af Arnarneslæk og Arnarnesvogi, að vestan af beinni línu úr suðvesturhorni Arnarnesvogar að vesturhorni Engildals, þaðan með fram Álftanesveginu að aðalveginum milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur. Undanskilið var þó land nýbýlisins Langholts og land milli Arnarnes- og Hraunsholtslækja, sem þegar hafði verið skipt á milli bænda í Garðahreppi, og jarðarinnar Krýsuvík og Stóra-Nýjabæ í Grindavíkurhreppi.
Árið 1941 var gengið endanlega frá kaupum Hafnarfjarðarbæjar á Krýsuvík og Stóra-Nýjabæ, og var afsal fyrir þessum jörðum gefið út 20. febr. 1941.
Hafnarfjörður

Árið 1947 gafst Hafnarfjarðarbæ kostur á að kaupa landsvæði úr landi Straums, sem var í eigu Bjarna Bjarnasonar skólastjóra á Laugarvatni og Skógræktar ríkisins.

Hafnarfjörður

Merki á landamerkjastöplin á Norðingaholti.

Ári síðar samþykkti bæjarstjórn að kaupa eftirfarandi landsvæði; landsvæði úr Straumslandi, sem var austan Krýsuvíkurvegar, þ.e. á vinstri hönd, þegar farið er til Krýsuvíkur, þar með taldir vikurhólarnir neðan Vatnskarðs, sem vafi lék á, hvort tilheyrðu Hafnarfirði eða Straumi, landsvæðið frá mörkum Hafnarfjarðar (Hvaleyrar), sem lá milli Keflavíkurvegar og sjávarins, þ.e. á hægri hönd þegar farið var til Keflavíkur. Þetta svæði var norðvestanendinn á Kapelluhrauni, Ofaníburðarhóll, sem var u.þ.b. 2 km. suður frá Straumi. Ofangreind landsvæði fengust keypt fyrir 50.000 kr., að viðbættum helmingi af sjóði þeim, sem myndast hafði vegna sölu á vikri úr Vatnsskarði að upphæð 18.000 kr. Auk þess var landsvæði sunnan Keflavíkurvegar og vestan Krýsuvíkurvegar um 2 km á hvern veg, sem Skógrækt ríkisins seldi Hafnarfjarðarbæ gegn því, að bærinn reisti á sinn kostnað girðingu á mörkum landsvæðisins, sem yrði um leið varnargirðing fyrir land það, sem Skógræktin hafði eignast úr Straumslandi. Kostnaður við kaup á landsvæði Skógræktarinnar nam um 30.000 kr.

Hamarskot

Hamarskot fyrrum – tilgáta.

Haustið 1955 hafði Hafnarfjarðarbær makaskipti á landsvæðum við Skógrækt ríkisins, og voru þau fólgin í því, að Hafnarfjarðarbær lét af hendi hluta af undirhlíðum frá skógræktargirðingu, sem þar var, suður að vikurhólunum við Vatnsskarð. Bærinn fékk á móti frá Skógræktinni landsvæði úr Straumslandi milli krýsuvíkruvegar og Óttarsstaða og fylgdu því ofaníburðarhólar þeir, sem voru á svæðinu, ásamt öðrum landgæðum.
Hafnarfjörður
Árið 1956 tók Hafnarfjarðarbær eignarnámi eign Gjafasjóðs Þórarins Böðvarssonar á Hvaleyri, auk Flensborgartúns, og greiddi fyrir það 1.380.000 kr.
Sumarið 1956 féllst hreppsnefnd Garðahrepps á að verða við beiðni bæjarstjórnar Hafnarfjarðar um innlimun landspildu úr landi Setbergs í lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar. Landsvæði þetta var í Kinnunum vestan Hamarkotslækjar og norðan við nýja Suðurnesjaveginn.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir í Hraunum.

Árið 1959 var með lögum frá Alþingi ákveðin ný umdæmismörk fyrir Hafnarfjörð, enda hafði bærinn þá þegar þanist úr fyrir núverandi mörk.
Árið 1964 höfðu Hafnarfjarðarbær og Garðahreppur makaskipti á löndum. Í hlut Hafnarfjarðar kom sá hluti Garðahrepps, sem lá sunnan við Hafnarfjörð. Þar var um að ræða svokallaðar hraunjarðir. Nánara tiltekið var þetta landsvæði vestan Krýsuvíkurvegar, og náði það suður að Vatnsleysustrandarhreppi. Á móti féll Hafnarfjarðarbær frá leigurétti sínum á ræktunarspildum úr landi jarðeignadeildar ríkisins á Hraunsholti og við Arnarnes samkvæmt leigusamningi dags. 14. nóv. 1940, með þeirri undantekningu, að leigusamningar við einstaklinga, sem áttu stoð í greindum samningi Hafnarfjarðarbæjar við jarðeignadeildina, skyldu áfram vera í gildi.

Hvaleyri

Hvaleyri fyrrum – tilgáta.

Vorið 1964 samþykkti Alþingi frumvarp til laga um sölu jarðarinnar Áss í Hafnarfirði (hún var lögð undir lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar 1959), sem bærinn nýtti sér í framhaldinu. Sama ár voru lögð fram lög á Alþingi um útfærð umdæmismörk Hafnarfjarðar. Í framhaldi nýtti Hafnarfjarðarbær sér forkaupsrétt að öllum lóðum og fasteigum vestan Krýsuvíkurvegar, þ.e. Lónakot, Óttarsstaði, þar með talið gamla býlið Óttarsstaði II, Óttarsstaðagerði, Blikalón I, Glaumbæ, Straum og Straumsbúið, Jónsbúð, Þýskubúð, sumarbústaði, Litla-Lambhaga, Stóra-Lambhaga og einstakar aðrar landspildur.

Setberg

Setbergsbærinn – tilgáta.

Enn voru gerðar breytingar á lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar vorið 1971. Við féll hluti af landi Dysja undir Hafnarfjörð, en þá var fyrirhugað að byggja í Norðurbænum.

Hafnarfjörður

Landamerkjastöpull í Fjárhúsholti.

Í nóvember 1977 gerðu Hafnarfjarðarbær og Garðbær með sér samning um breytingu á lögsagnarumdæmum sveitarfélaganna. Samkomulagið var í aðalatriðum fólgið í því, að spilda úr landi Þórsbergs og Setbergs, aðlallega landið ofan Reykjanesbrautar frá FH-svæðinu suður á móts við Flóttamannaveg, var lögð undir lögsagnarumbæmi Hafnarfjarðar, en Garðabær fékk á móti land Hafnarfjarðar ofan við Reykjanesbraut. Breytingarnar tóku gildi árið 1978.
Nú á Hafnarfjarðarbær mestallt landið innan kaupstaðamarkanna. Helstu landspildurnar, sem bærinn á ekki, eru hluti Jófríðarstaðalands, hluti Straumslands, Óttarsstaði og Lónakot. Þá eru nokkrar byggingarlóðir í einkaeign. Lönd jarðanna Þórsbergs, Setbergs og Hlébergs, sem eru innan lögsagnaumdæmis Hafnarfjarðarkaupstaðar, mun Hafnarfjarðarbær eignast innan tíu ára, sbr. samning við landeigendur, dagsettan í júlí 1980.“

Heimild:
-Saga Hafnarfjarðar 1908-1983, Ásgeir Guðmundsson – Bújarðir í Hafnarfirði, I. bindi, bls. 101-122.

Hafnarfjörður

Lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar 2020.