Tag Archive for: Hafnir

Prestastígur

Lagt var af stað inn á Prestastíg ofan við Hundadal vestan Kalmanstjarnar.

Prestastígur

Prestastígur í Eldvörpum.

Pestastígur er vel vörðuð forn gönguleið úr Höfnum yfir Hafnasand og Eldvörp yfir í Staðarhverfi í Grindavíkurhreppi, Stígurinn er gömul þjóðleið. Skýringin á nafngiftinni er sögð vera sú að með prestakallalögum frá árinu 1907 var Kirkjuvogssókn í Höfnum lögð til Staðarprestakalls í Grindavík og hefur því Staðarprestur oft átt erindi um þessa fornu leið. Þessi áfangi var farinn frá Kalmanstjörn um Hafnarsand fyrir norðan Presthól og um Kinn, þar sem farið er ofan í sigdalinn upp af Stóru Sandvík, þaðan hjá Haug og yfir Haugvörðugjá og síðan með rótum Sandfellshæðar. Þar fylgir gatan hraunjaðri Eldvarpahrauns. Þegar kemur á móts við Rauðhól er farið yfir hraunhaft að hólnum og síðan hjá Eldvörpum og yfir Hrafnagjá og þaðan að Húsatóftum í Staðarhverfi. Leiðin er um 16 km.

Tyrkjabyrgi

Byrgin í Sundvörðuhrauni – uppdráttur ÓSÁ.

Fyrsti hluti leiðarinnar, yfir og ofan við Hafnasand, er sendinn og lítið um gróður. Sandurinn mun vera kominn að mestu neðan úr Stóru-Sandvík. Þar var melgresi sáð um 1950 til að hefta sandfokið upp á heiðina, en þaðan rauk síðan sandurinn yfir Hafnabæina þar norður af. Afleiðingar hrikalegra náttúruhamfara blasa við í Stampahrauni í suðvestri og Eldvörpum í austri. Ævagamlar heimildir segja að árið 1000 hafi mest allt Reykjanes sokkið í sjó og Geirfuglasker komið upp. Þá átti landið að hafa legið langt út fyrir Eldey í norðvestur en Eldey og drangar við hana hafi áður verið fjöll á Reykjanesskaganum.

Eldvörp

Mannvistarleifar í helli.

Annálar greina frá eldsumbrotum með stuttum hléum, á og úti fyrir Reykjanesi á 12. og 13. öld. Samkvæmt þeim hefur gosið á Reykjanesi árið 1118, og a.m.k. 13 sinnum á 13. öld. Sagt er að sumum eldgosum hafi fylgt miklir landskjálftar og þess getið að svartamyrkur hafi verið um annars hábjartan dag (1226) og að Reykjanesið hafi brunnið (1210 og 1211). Í hamförum á fyrri hluta 13. aldar er talið að byggð hafi eyðst á Reykjanesi en merki um hana sjást m.a. við Skjótastaði norðan Stóru-Sandvíkur. Í annál er þess getið að 18 manns hafi farist á Reykjanesi í landskjálfta og eldi árið 1118.

Prestastígur

Prestastígur.

Næsta lítið er vitað um sögu Hafna á 14. og fram á síðari hluta 16. aldar eins og margra annarra staða á landinu, m.a. vegna þess að kirkjubækur, sem geymdar voru í Viðey, eyðilögðust í bruna. Þó munu vera til heimildir um mikinn landsskjálfta 1389 og að 1390 hafi hálft Reykjanesið brunnið. Til mun vera heimild um að eldur hafi komið upp í hafi fyrir Reykjannesi 1420 og að þá hafi skotið upp landi. Einnig er getið um eld fyrir Reykjanesi 1422 og aftur 1584. Í annál er greint frá eldi í ,,Grindavíkurfjöllum“ árið 1661 og hafi sést oft, fyrir og eftir jól, á Norðurlandi.

Prestastígur

Gengið um Prestastíg.

Til er heimild um að árið 1706 hafi komið upp eldur í sjó fyrir Reykjanesi og einnig 1783 fyrir sunnan Geirfuglasker: Kom þá upp land sem sökk aftur (Nýey). Síðasta gos sem minnst er á í annálum, á eða fyrir Reykjanesi, á að hafa verið árið 1830 en þá sigu Geirfuglasker í sjó. Síðustu eldsumbrot sem heyrst hefur um, fyrir Reykjanesi, eiga að hafa átt sér stað í kringum 1930. Á þá að hafa gosið á sjávarbotni nálægt Eldey.

Skammt áður en komið er upp á sandinn má sjá eina vörðu, sem sker sig frá hinum. Hún er hlaðinn “klofin”, líkt og sumar aðrar vörður á Reykjanesi. Eru þær oft nefndar “stúlkur” eða “bræður”.

Prestastígur

Lagt af stað.

Sjá má eina á hól austan við gömlu Hafnabæina. Systir hennar þar skammt norðar er hins vegar fallin. Láta má sér í hugarlund koma að annað hvort hafi hleðslumaðurinn viljað breyta til og hlaða öðruvísi vörðu en hinar voru, eða hann hafi viljað líkja eftir lagi vörðunnar ofan við Hafnir, sem þá voru. A.m.k. nær hugmyndin og framkvæmdin athygli vegfarenda um stíginn.
Þegar komið var yfir Haugsvörðugjá liggur Reykjavegurinn út af Prestastígnum þar sem hann kemur eftir honumað austan, í áttina að Stóru Sandvík. Þarna gerbreyttist gróðufarið. Nú tóku við mosar, lyng og jafnvel lítil grassvæði í skjóli undir hæðum. Stígurinn er vel greinilegur þar sem hann liggur utan í Sandfellshæðinni og inn á nýlegan bílsslóða frá Svartsengi áleiðis út á Reykjanes. Slóðanum var fylgt uns stígurinn lá samhliða honum hægra megin, með hraunbrún.

Prestastígur

Varða við Prestastíg.

Nokkru ofar beygir hann inn á hraunið, áleiðis að Eldvörpum. Þar liggur hann yfir hæð á milli tveggja gíga, áfram niður slétt mosahraun og síðan niður holt og móa áleiðis niður að Húsatóftum og Stað. Norðan í Eldvörpum var vent út af stígnum til að berja “útilegumannahelli” þar augum. Hann er örstutt vestan við borholuna í hrauninu. Þegar Hitaveita Suðurnesja lét bora eftir gufu þarna sumarið 1982 brotnaði hraunið undan jarðýtu sem vann við frágang í kringum holuna. Í ljós kom hellir með geinilegum mannvistarleifum, beinum og hleðslum. Ekki er vitað hver eða hverjir höfðust þarna við. Hellirinn er alllangur eða 25-30 m en hvergi hærri en 1,5 m og víðast hvar mun lægri eða 40-50 sentímetrar.

Prestastígur

Varða við Presthól.

“Tyrkjabyrgin” svonefndu er þarna nokkru (u.þ.b. einn km) austar, í hraunkrika sunnan undir Sundvörðuhrauni. Þetta eru 10 tóftir, en tvær þeirra eru uppi á henni. Þetta eru allmikil mannvirki, misstórar en sú stærsta þeirra er um það bil 4 x 1,5 m á stærð. Engar heimildir hafa fundist um þessar rústir og hafa því verið uppi getgátur um tilvist þeirra. Þær fundust fyrir tilviljun veturinn 1872 og elstu lýsingu á þeim er að finna í Ferðabók Þorvaldar Thoroddsen en hann skoðaði þær árið 1883.
Á toppi Sandfellshæðar (sem er dyngja) er gríðarlega stór gígur sem er um 450 m í þvermál og að minnsta kosti 20 m djúpur og vel þess virði að ganga upp á hæðina. Þótt Sandfellshæð sé ekki nema um 90 m y.s. er gríðarlega víðsýnt af henni. Í norðri blasa við fellin Sandfell, Lágafell, Þórðarfell, Súlur og Stapafell sem reyndar er að mestu horfið vegna efnistöku. Í austri blasa Eldvörpin við og lengra Þorbjarnarfell. Eldvörp eru um 10 km löng gígaröð í stefnu suðvestur – norðaustur. Talið er að síðast hafi gosið þar fyrir meira en 2000 árum. Jarðhiti er í Eldvörpum og voru þar fyrrum stundum bökuð brauð sem vafalítið hefur komið sér vel í eldiviðarskorti.

Prestastígur

Prestastígur – brú yfir Hrafnagjá.

Í matsskýrslu Línuhönnunar fyrir Hitaveitu Suðurnesja (2003) um mat á umhverfisáhrifum vegna háspennulínu á milli Svartsengis og Fitja segir m.a. í áliti Bjarna Einarssonar, fornleifafræðings, að “fornleiðirnar fjórar; Skipsstígur, Prestastígur, Árnastígur og ónefnd leið, eru taldar hafa talsvert minjagildi í heild sinni, ein einstakar vörður á leiðunum eru taldar hafa lítið minjagildi. Fornleiðirnar, og er þá átt við götunar sjálfar, en ekki vörðurnar, eru taldar vera í mikilli hættu vegna mannvirkjagerðarinnar. Hættan felst einkum í slóðagerð sem fylgir línubyggingunni.

Prestastígur

Við enda Prestastígs.

Skipsstígur er talinn hafa að geyma fornleifar sem eru eldri en frá 1550. Aldur götunnar er dreginn af því að hún hefur markað djúpa rás í hraunhelluna á köflum, en slíkt gerist ekki nema eftir mjög langa notkun. Sambærilega rás var ekki að finna á öðrum fornleiðum, sem kannaðar voru.”
Rétt er að geta þess að af nefndum stígum er Árnastígur hvað dýpst markaður í klöppina, þá Skipsstígur og loks Prestastígur. Gæti það engu síður sagt til um umferð um stígana en aldur.

Frábært veður – sól og stilla. Gangan tók 4 klst og 51 mín.

Lýsing á aðstæðum er fengin frá Leó M. Jónssyni í Höfnum. Einnig af lýsingu Gunnars H. Hjálmarssonar af Reykjaveginum.

Prestastígur

Varða (prestur) við Prestastíg.

Keflavík

Sveitarfélögin Keflavík, Njarðvík og Hafnir runnu saman í eitt sveitarfélag og nefnast nú einu nafni Reykjanesbær. Byggð í Keflavík og Njarðvík hefur lengi legið saman og voru bæjarmörk ekki ljós, nema tekið væri eftir skiltum við vegarbrúnir, sem gáfu þau til kynna.

Keflavík

Keflavíkurberg

Brunnur á Keflavíkurbergi.

Mikil verslun var stunduð í Keflavík sem gerði hana að stærsta þorpinu á Suðurnesjum. Má rekja verslunarsögu Keflavíkur allt til upphafs 16. aldar og er vitað um þýska kaupmenn þar árið 1518. Undir lok 16. aldar komu Hamborgarkaupmenn til Keflavíkur en þegar Danir settu einokunarverslunina á 1602 féll Keflavík í hendur Kaupmannahafnar. Þessi dönsku áhrif í verslun í bænum héldust svo alveg fram á 20. öld, þó svo að Einokunarverslunin hafi um síðir liðið undir lok.

Duus

Duus-hús.

Þekktasti kaupmaðurinn á árum áður var H. P. Duus og stendur enn hluti af húsum hans, svokölluð Duushús. Þar er nú mjög góður veitingastaður við smábátahöfnina með bergið andstpænis upplýst, þegar dimma tekur á kvöldin. Mikil útgerð og öflug fiskvinnsla var í Keflavík um áraraðir en nú er þjónusta og iðnaður burðarás atvinnulífs staðarins. Keflavík er nú hluti af sameinuðu sveitarfélagi, Reykjanesbæ. Ekki er vitað hvenær byggð hófst í Keflavík en fyrstu vitneskju um að byggð sé þar er að finna í annálum, þar sem segir frá Grími Bergssyni, sem vað þar bráðkvaddur árið 1649, en hann bjó þá í Ytri-Njarðvík. Talið er að verzlun hafi verið í Keflavík frá því um 1500, en árið 1518 er talað um þýzka kaupmenn þar. Hansarkaupmenn settust þar að 1579 og sama ár gaf Danakonungur út fyrsta verzlunarleyfið fyrir staðinn.

Keflavík

Frá Keflavík fyrrum.

Við upphaf einokunarverslunar á Íslandi árið 1602 var kaupmönnum í Kaupmannahöfn afhent Keflavík og mynduðu þeir samlög um verzlunina. Fyrsti togarinn var keyptur til Keflavíkur árið 1944. Hét hann Hafsteinn. Hann var gerður út frá Hafnarfirði, vegna slæmra hafnarskilyrða í Keflavík.
Fyrsta íshúsið var byggt árið 1897 og fyrsta frystihúsið 1929.
Hröð aukning hefur verið í ferðaþjónustu og eru þar nú hótel í háum gæðaflokki og úrvals veitingastaðir sem og önnur gisting og tjaldsvæði. Keflavík hefur löngum verið nefndur bítlabærinn en þar má segja að sé vagga rokksins og bítlaæðisins hérlendis. Ein fyrsta, og vinsælasta, rokkhljómsveit landsins, Hljómar, var stofnuð í Keflavík og er ávallt kennd við staðinn. Hin árlega Ljósanótt í Reykjanesbæ nýtur sívaxandi vinsælda.
Keflavíkurhreppur var stofnaður 1908 og þann 22. mars 1949 fékk Keflavík kaupstaðaréttindi.

Keflavík

Gamli Keflavíkurbærinn.

Í Keflavík má m.a. sjá minnismerki um Stjána blá, eftir Erling Jónsson. Við Vatnsnes er samnefnt hús í eigu Byggðasafnsins. Bjarnfríður Sigurðardóttir gaf húseigina til eflingar safns á svæðinu og þar innan dyra er nú nokkuð hefðbundið byggðasafn með margvíslegum gripum. Gamli skólinn hýsir nú Miðstöð símenntunarr á Suðurnesjum. Við bygginguna er listaverkið Laxnesfjöðurin eftir Erling Jónsson. Í skrúðgarðinum er sérstakur skúlptúr er kallast “Hvorki fugl né fiskur”, eftir Erling Jónsson, þar sem greipt eru nöfn þeirra sem hafa hlotið menningarverðlaun Reykjanesbæjar.

Keflavík

Listaverk í Keflavík.

Við Hafnargötuna er minnismerki íslenskra sjómanna eftir Ásmund Seinsson. Beint upp af minnismerkinu er Keflavíkurkirkja, vígð árið 1915. Rögnvaldur Ólafsson teiknaði hana. Við enda Hafnargötunnar er Grófin og jafnframt elsti hluti Keflavíkur. Hér má sjá nokkur merkileg hús. Fysrt er að telja hús byggt 1971, sem hlotið hefur nafnið Svarta Pakkhúsið. Það er skýrt í höfuðið á enn eldra húsi, sem var á þessum slóðum og minnir á þá tíð þegar pakkhús og bryggjur kaupmannanna í Keflavík einkenndu víkina auk stakkstæða til saltfiskþurrkunnar. Leifar síðsutu bryggjunnar má enn sjá beint framundan, og heitir sú bryggja Miðbryggja. Næst er svokallað Fischerhús, sem reist var árið 1881, sem verslunar- og íbúðarhús Fischers kaupmanns. Á hluta fyrstu hæðar hefur hópur handverksfólks hreiðrað um sig og rekur þar Galerý Björg.

Duus

Gamla búð.

Handan götunnar er lítið hús sem kallast Gamla búð, sem byggð var árið 1871 af Duus kaupmanni. Þar beint á móti er síðan Duushúsalengjan. Bryggjuhúsið var fysr reist 1877 af sama manni, Bíósalurinn er byggður við og reistur 1890, en sagnir erum að þat hafi verið bíósýningar þegar um aldamót. Síðan er byggt við þessi hús upp úr 1950 þrjár einingar sem fiskverkunarhús. Búið er að gera upp tvær þeirra og eru þetta nú sýningarsalir.

Keflavík

Gamli Keflavíkurbærinn.

Ofan við Duushúsin eru tóftir gamla Keflavíkurbæjarins. Jörðin Keflavík var konungseign, en var rýr bújörð og búskapur á jörðinni var alltaf smár. Upphaflega mun jörð þessi eða kot hafa verið í eigu Skálholtsstóls. Við siðaskiptin um 1550 verður hún eign konungsins eins og aðrar jarðir biskupsstóls. Ekki er vitað hvenær búskapur hefst í Keflavík, en hann er örugglega hafinn á 16. öld því árið 1587 greiðir bóndinn landsskuld sína til Bessastaða. Kvaðir á bóndann áttu að vera mannslán til Bessastaðavaldins, en féll niður, vegna bónar kaupmannsins í Keflavík, fyrir vöktun búðanna. Búskapur á jörðinni leggst niður fyrir 1780. Bæjarhúsin voru jöfnuð út rétt fyrir aldamótin 1900.

Keflavík

Upplýsingaskilti við gamla Keflavíkurbæinn.

Í landi jarðarinnar eru eftirtaldar minjar friðlýstar ákvörðun þjóðminjavarðar árið 1987: Hið gamla bæjarstæði jarðarinnar Kefalavík, sem afmarkast af Grófinni að norðan, af Duusgötu og lóð Duusgötu 5 að austan, af Vesturbraut að sunnan og lóðunum Vesturbraut 6 og Grófinni 5 að vestan. Ber eigendum að sjá til þess að ábúanda sé jafnan kunnugt um friðlýsinguna.
Keflavík byggðist upp við Grófina. Upp frá henni liggja gamlar leiðir til nágrannabyggðalaganna vestan og norðan á Nesinu. Ofan við Grófina er Keflavíkurborgin og Rósasel við Rósaselsvötn.
Sorphirðustöð Reykjanesbæjar heitir Kalka eftir kalkaðri vörðu, sem stóð utan í stórum fallegum eldgíg efst á Háaleiti. Þegar Keflavíkurflugvöllur var lagður var gígurinn flattur út, líkt og svo margt annað á þeim tíma.

Njarðvík

Stekkjarkkot

Upplýsingaskilti við Stekkjarkot.

Njarðvík var fyrrum hluti af Vatnsleysustrandarhreppi en fékk sjálfstæði sem sveitarfélag 1889. 1908 rann Keflavík saman við Njarðvík undir merkjum Keflavíkurhrepps en Njarðvíkingar klufu sig frá á ný 1942 og tóku á ný að starfa sem sjálfstætt sveitarfélag og fékk Njarðvík kaupstaðarréttindi 1. jan 1976.

Sveitarfélögin Njarðvík, Keflavík og Hafnir runnu saman í eitt sveitarfélag og nefnast nú einu nafni Reykjanesbær. Njarðvík var áður skipt í Innri- og Ytri Njarðvík, sem seinna mynduðu eitt sveitarfélag. Byggðin í Njarðvík og Keflavík hefur lengi legið saman og voru bæjarmörk ekki sjáanleg nema tekið væri eftir skiltum við vegarbrúnir, sem gáfu það til kynna.

Keflavík

Hákotsvör.

Aðalatvinnuvegur Njarðvíkinga hefur löngum verið sjósókn og fiskvinnsla en iðnaður hefur vaxið mjög sem og þjónusta við Keflavíkurflugvöll, stærsta flugvöll á landinu. Njarðvík er breið vík sem gengur til suðurs úr Stakksfirði. Byggðin í Njarðvík skiptist í Ytri – og Innri-Njarðvík. Ekki er ljóst hvenær sú skipting varð en það var snemma á öldum. Talið er að kirkja hafi verið reist í Njarðvík á 11. öld. Eftir það var víkin kölluð Kirkju-Njarðvík.

Fram til 1515 var Njarðvík í bændaeign en eftir það í eigu konungs að minnsta kosti til loka 18. aldar. Sveinbjörn Egilsson rektor bjó í Innri-Njarðvík. Fram til 1889 var Njarðvík hluti Vatnsleysustrandahrepps, en varð þá sjálfstætt sveitarfélag.

Njarðvíkursel

Njarðvíkursel við Seltjörn.

Árið 1908 var Njarðvíkurhreppur sameinaður Keflavíkurkauptúni, enda var þar hluti verzlunarlóðar Keflavíkur innan Njarðvíkurhrepps. Njarðvíkurnar fengu þá sjálfkrafa verzlunarréttindi og hreppurinn fékk nafnið Keflavíkurhreppur. Árið 1942 var hreppunum skipt og Njarðvík varð aftur sjálfstætt sveitarfélag. Í Njarðvík er byggðasafn staðarins og þar hefur þurrabúðin Stekkjarkot verið endurbyggð. Hallgrímur Pétursson, prestur í Hvalsnesi, bjó um tíma á Bolafæti þar sem nú er skipasmíðastöðin. Öllum minjum þar hefur verið spillt. Í Reykjanesbæ er mikil körfuboltaiðkun og lið Njarðvíkinga er talið eitt hið bezta á landinu og keppir nær alltaf um Íslandsmeitaratitilinn, oftast við sveitunga sína frá Keflavík og Grindavík. Ferðaþjónusta er mjög vaxandi og stærsta verzlun á Suðurnesjum er í Njarðvík. Vegalengdin frá Reykjavík er 47 km.
Stekkjarkot er tilgátuhús, byggt eftir tilsögn konu, sem bjó þar í kringum 1920. En kotið er að stofninum til frá 19. Öld. Þetta er eitt af hinum fjölmörgu smákotum, sjávarbýlum, sem einkenndu byggðina hér áður fyrr. Kotbúar lifðu aðallega á sjósókn sinni, en flestir stunduðu einhvern búskap samhliða þótt eflaust hafi einnig verið svokallaðar þurrabúðir þar sem eingöngu var lifað af því sem sjórinn gaf.
Fitjarnar eru að ganga í gegnum umbreytingu þar sem stefnt er að gera þær aðlaðandi til útivistar og í framtíðinni mun Naust Íslendings rísa á þessum slóðum. En það er stefna bæjryfirvalda að þessi staður verði fyrsti og síðasti viðkomustaður ferðamanna sem fara um leifsstöð.

Hafnir

Hafnir

Hafnir.

Hafnir byggðust upp í kringum mikið útræði. Hefur byggðin nafn sitt af tveimur fyrrum stórbýlum, Sandhöfn og Kirkjuhöfn, sem nú eru í eyði. Var fjölmenn byggð í Höfnum og útræði mikið á stórum bátum allt fram til aldamótanna 1900.

Hafnir, Keflavík og Njarðvík runnu saman í eitt sveitarfélag og nefnast nú einu nafni Reykjanesbær. Hafnir eru annað landstærsta sveitarfélagið á Reykjanesi en byggð þar er fámenn nú miðað við það sem áður var. Árið 1881 (26. júní) rak timburskip, Jamestown, upp við við Hvalsnes á milli Hestakletts og Þórshafnar í Ósunum gegnt Kotvogi (sjá nánar). Það var mannlaust og virtist hafa verið lengi á reki, því að reiði og seglbúnaður var horfinn.
Hafnir
Fjölmargir húsbyggjendur á Suðvesturlandi nutu góðs af timburfarmi skipsins (sjá Sandgerði) og akkeri skipsins er nú varðveitt framan við fyrrum sæfiskasafn í Höfnum við Nesveg.
Hafnaberg er suður af Höfnum og er þar skemmtileg og vel vörðuð gönguleið en þar eru nokkrir af beztu stöðum til fuglaskoðunar á landinu. Frá Hafnabergi má einnig oft sjá smáhveli í ætisleit rétt við landsteina.

Kirkjuvogshverfið nefnist Hafnir í daglegu tali en þar hafa búið 80-120 manns sl. 2 áratugi. Fyrr á öldum voru Hafnir ein af stærstu verstöðvum landsins en þær eru samheiti fyrir 3 hverfi (lendingar), þ.e. Kalmanstjörn, Merkines og Kirkjuvog. Nú er byggðin öll í gamla Kirkjuvogshverfinu auk íbúðarhúss í Merkinesi ogí Junkaragerði.

Kotvogur

Kotvogur.

Á 19. öld var Kotvogur í Höfnum eitt stærsta býli landsins. Þar bjuggu m.a. 3 forríkir útvegsbændur mann fram af manni, þeir hétu allir Ketill og eru oftast nefndir Katlarnir þrír. Annað stórbýli var Kirkjuvogur í Höfnum þar sem búið hafa margir höfðingjar. Á 19. öldinni bjó í Kirkjuvogi dannebrogsmaðurinn Wilhjálmur (Christinn) Hákonarson (1812-1871), en þannig er nafn hans stafað á leiði hans í Kirkjuvogskirkjugarði. Vilhjálmur átti 2 dætur. Önnur þeirra hét Anna. Heimiliskennari í Kirkjuvogi var þá ungurmenntamaður, Oddur V. Gíslason, og felldu þau Anna hugi saman. Þegar ungi maðurinn bað um hönd dótturinnar brást faðir hennar hinn versti við og þvertók fyrir ráðahaginn. Afleiðingin varð eitt frægasta og æsilegasta brúðarrán Íslandssögunnar. Sættir tókust þó síðar.

Jamestown

Annað ankeri Jamestown í Höfnum.

Oddur varð prestur í Grindavík við mikinn orðstír og var m.a. upphafsmaður að sjóslysavörnum á Íslandi. Af honum er mikil saga sem endar í Bandaríkjunum.Vilhjálmur Kr. Hákonarson reisti þá kirkju sem nú stendur í Höfnum. Hún er úr timbri og var vígð árið 1861. Vilhjálmur lést 10 árum seinna 59 ára að aldri. Ekkert er eftir af Kirkjuvogsbænum en kirkjan stendur nánast á bæjarhlaðinu enda nefnist hún Kirkjuvogskirkja og sóknin Kirkjuvogssókn. Ketill Ketilsson (1823-1902) dannebrogsmaður og útvegsbóndi í Kotvogi, stundum nefndur Mið-Ketill vegna þess að hann tók við búi af föður sínum og Ketill sonur hans tók svo við búi af honum, hefur ekki viljað vera minni maður en Vilhjálmur í Kirkjuvogi og byggði kirkju úr timbri á Hvalsnesi í Miðneshreppi, en þá jörð átti hann. Kirkjuna lét hann síðar rífa og byggja aðra stærri og íburðarmeiri úr tilhöggnu grjóti. Sú kirkja var vígð 1887 og stendur enn.

Kotvogur

Kotvogur og Kirkjuvogur.

Sem dæmi um stærð Kotvogs á dögum Mið-Ketils á 19. öld má nefna að þá var bærinn alls 16 hús og mörg þeirra stór, 38 hurðir á lömum og 72 í heimili á vertíðinni. Bærinn í Kotvogi var enn reisulegur og stór um aldamótin 1899/1900. Hinn 5. apríl 1939 brann íbúðarhúsið og fórst þrennt í brunanum. Pakkhús úr timbri var austast og fjærst eldinum og skemmdist því ekki . Því var breytt í íbúðarhús og notað sem slíkt til 1984. Það stendur enn ásamt nokkrum útihúsum en allt er það illa farið og ekki svipur hjá sjón (stendur á kampinum strax vestan við Sæfiskasafnið). Stór grasi vaxinn hóll rétt hjá Kotvogi hægra megin götunnar þegar horft er í vestur nefnist Virkishóll.

Gömlu Hafnir

Vörslugarðurinn ofan við Gömlu Hafnir.

Gamli Hafnahreppur var stærsta sveitarfélagið á Suðurnesjum mælt í ferkílómetrum – víðáttumikil hraunúfin flatneskja og sandflæmi að stórum hluta. Nyrðri hluti landsins er nokkuð gróið hraun en syðri hlutinn eldbrunnið, uppblásið og hrikalegt svæði. Strandlengjan er einn stærsti skipalegstaður landsins, hrikalegir klettar, sker og boðar þar sem þung úthafsaldan myndar oft tilkomumikið og rosalegt brim.
Á sl. 25 árum hefur hraunið ofan við Hafnir tekið stakkaskiptum vegna aukins grasvaxtar sem er árangur landgræðslu sem stunduð hefur verið með flugvélum á Reykjanesskaganum auk þess sem sáð hefur verið í vegkanta af starfsmönnum Vegagerðar ríkisins. Í hrauninu upp af Ósum má enn sjá leifar landgræðslugirðingar sem mun hafa verið lokið við um 1939 en hún skipti Reykjanesskaganum í 2 svæði. Girðingin lá eftir hrauninu og niður í Merkinesvör og hefur verið mikið mannvirki á sínum tíma. Sunnan hennar var sauðfé bannað. Síðar var svæðið stækkað með því að sett var horn á girðinguna uppi í hrauninu og girt norður að Ósum og sá hluti girðingarinnar sem lá fram í sjó að vestanverðu var lagður niður.

Hafnir

Hafnir – uppgröftur.

Mikið og fjölbreytt fuglalíf er í hrauninu, m.a. talsvert af rjúpu í góðum árum, talsvert af kjóa og einstaka smyrill. Nokkuð er um æðarfugl við Ósa en æðarvarp er ekki svipur hjá sjón eftir að minnkurinn kom á svæðið. Mikið er um sjófugl og mest byggð í Hafnabergi og Eldey. Hafnir eru eitt af mestu veðravítum landsins og þar er sjaldan logn. Hvöss austanátt með rigningu getur staðið svo dögum og vikum skiptir, einkum á haustin og eirir engu sökum vindálags. Oft bresta stórviðri á fyrirvaralaust eins og hendi sé veifað. Mest og hættulegust veður nefna Hafnamenn ,,aftakastórveltu af suðvestri“ (í einni slíkri eyðulögðust tún að vestanverðu í Kirkjuvogshverfi og í Merkinesi). Hríðarbyljir og skafrenningur eru algengir að vetri – snjói á annað borð. Og þótt ekki séu nema 9 km frá Höfnum til Njarðvíkna er veðurfar gjörólíkt.

Kirkjuvogskirkja

Kirkjuvogskirkja í Höfnum.

Kirkjuvogskirkja í Höfnum var vígð 1861. Á túninu fyrir aftan kirkjuna hafa nú fyrir skömmu fundist elstu mannvistarleifar bæjarfélagsins. Það er skáli (íbúðarhús). Við aldursgreiningu kom í ljós að skálinn er ekki yngri en frá árinu 900.
Nýr uppbyggður vegur var lagður frá Höfnum út á Reykjanes um miðjan 9. áratug nýliðinnar aldar. Það tekur einungis um 10 mínútur að ganga yfir holtið frá bílastæðinu ofan Laxeldisstöðvarinnar og niður á gamla veginn skammt sunnan Kalmanstjarnartúns. Af gamla veginum þar sjást 5 áberandi stórir grasi vaxnir hólar. Þessir hólar koma við sögu í bókum Sr. Jóns Thorarensens, (Litla skinnið, Rauðskinna, Marína ofl.) en sögusvið þeirra er Hafnir (Jón var ættaður og ólst upp í Kotvogi). Nyrstur og næst Kalmanstjörn er Stekkhóll hægra megin vegarins. Annar stærri hóll er sunnar, einnig hægra megin vegarins. Sá heitir Kirkjuhafnarhóll. Vinstra megin vegarins er lægri hóll og sést garðhleðsla í jöðrum hans að norðan- og austanverðu. Þetta er talinn vera gamall kirkjugarður Kirkjuhafnar og mun hann hafa lagst af um miðja 14. öld.

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir – uppdráttur ÓSÁ.

Suðvestan Kirkjuhafnarhóls, nær sjó, eru 2 graxi vaxnir hólar og eru sýnilegar rústir í syðri hólnum. Hólarnir nefnast Sandhafnarhólar. Sandhöfn og Kirkjuhöfn voru fyrr á öldum þekkt stórbýli og helsta útræði í Höfnum. Talið er að býlin hafi farið í eyði á 17. öld. Til eru heimildir um stærð Kirkjuhafnar sem segja að þar hafi verið miklar byggingar, m.a. 50 hurðir á hjörum, en sá mælikvarði var algengur áður. Umhverfis Sandhafnarhóla, en þar munu hús einnig hafa verið mörg og stór, eru bæði hleðslur og rústir.
Mikill útvegur var frá Höfnum. Fjöldi vermanna kom víðs vegar að af landinu á vetrarvertíð, sem hófst snemma árs á hverju ári um aldir. Verstöðvarnar voru fjölmargar á svæðinu öllu, en þar skipti mestu máli nálægðin við hin gjöfulu fiskimið.

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir.

Hafnahreppi er að venju skipt í þrjú svæði; Kirkjuvogshverfið, Merkineshverfið og Kalmannstjarnarhverfið. Sú skiptin markast af gömlu lögbýlunum. Þeim fylgdi síðan fjöldi hjáleiga, sem sumar hverjar áttu stutta lífdaga, en aðrar uxu höfuðbýlinu yfir höfuð, eins og t.d. Kotvogur. Það var talið fullvíst að lögbýlin hafi verið fleiri, enda mörg örnefni sem benda til þess að svo hafi verið. En með Reykjaneseldum á 13. öld eyddist byggðin sunnan Kalmannstjarnar.

-www.nat.is
-www.leoemm.com
-Sigrún Ásta Jónsdóttir, Byggðasafni Reykjanesbæjar

ÓSÁ tók saman.

Reykjanesbær

Reykjanesbær – kort.

Gömlu Hafnir

Gengið var frá bifreiðastæðinu sunnan Hundadals (þar sem laxeldisstöðin er sunnan Junkaragerðis) að Systrum, séstæðum vörðum á hólum norðaustan við gömlu Hafnarbæina. Sunnan í öðrum hólnum virðist vera fjárborg, sú 75. er FERLIR hefur skoðað á Reykjanesi fram að þessu.

Gömlu Hafnir

Gömlu-Hafnir – kirkjugarður?

Af hólnum sést vel yfir gömlu Hafnarbæina. Nokkrir hólar er með sjónum og hylja þeir tóttir gömlu bæjanna, Kirkjuhafnar, Sandhafnar og Eyrar(hafnar) eða Hafnaeyri. Þegar gengið er vestur eftir veginum, eins og nú var gert, sjást fyrst hlaðnir garðar á hægri hönd. Því næst sést grashóll, einnig á hægri hönd. Skv. upplýsingum Leós Jónssonar, sem mikið hefur gengið um þetta svæði og kynnt sér það af kostgæfni, heitir hóllinn Stekkhóll.

Gömlu Hafnir

Gömlu-Hafnir – vörslugarðar.

Leó ritaði góða lýsingu á svæðinu í 3. tbl. Áfanga árið 1991. Vinstra megin við veginn er klapparhóll. Á honum er hlaðið byrgi og varða trjónir hærra. Þá taka við hlaðnir garðar á hægri hönd og grashóll svo til alveg fram við fjörukampinn. Vestan hans er stór grashóll, Kirkjuhafnarhóll. Vestan hans er minni hóll, greinileg tótt. Handan vegarins er hóll og utan í honum garðhleðslur á tvo vegu. Að sögn Leós er þetta talinn vera gamall kirkjugarður Kirkjuhafnar, sem mun hafa lagst af um miðja 14. öld. Á norðanverðum hólnum er hringlaga tótt. Þarna gæti verið um gamla kapellu eða guðshús að ræða. Einnig myndarlega gröf, en tóttin norðan vegarins, sem minnst var á, gæti einnig verið tótt kirkju. Heimild er einnig um bæ á þessum stað, nefndur Bæli.

Gömlu-Hafnir - fiskbyrgi.

Gömlu-Hafnir, fiskbyrgi.

Vikið var út af þjóðveginum og gengið eftir stíg, sem nostrað hefur verið við. Stígurinn liggur út að öðrum stórum grashól, Sandhafnarhólnum. Í honum eru hleðslur og suðvestan undir honum eru garðhleðslur. Þar gæti hafa verið heimatúngarður. Vestan við hólinn er enn annar grashóll. Norðaustan í honum er hlaðinn garður og á honum sjálfum eru hleðslur. Þessi hóll mun hafa tilheyrt Sandhöfn.

Gömlu-Hafnir

Tóftir í Gömlu-Höfnum.

Sandhöfn og Kirkjuhöfn voru fyrr á öldum stórbýli og helsta útræði í Höfnum að sögn Leós. Talið er að býlin hafi farið í eyði á 17. öld. Gífurleg landeyðing hefur orðið á svæðinu. Gróður hefur eyðst og sandur lagst í lægðir. Munu Sandhafnabæirnir hafa verið tveir; Stóra- og Litla-Sandhöfn.
Umhverfis alla byggðina liggur vörslugarður, sem hefur verið mikið mannvirki á sínum tíma. Sést enn móta fyrir honum svo til alla leiðina. Samskonar garður umlykur einnig bæina austan Hundadals. Þegar staðið er á Sandhafnarhól og horft er til suðvesturs má sjá hleðslur austan við klapparhól. Þar er um að ræða gamla rétt. Hleðslur hennar eru nokkuð heillegar.

 

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir – uppdráttur ÓSÁ.

Norðvestar eru tóttir bæjarins Eyri, sem mun hafa verið í byggð fram á 4. áratug 19. aldra. Heillegasti hluti þessa gamla bæjar er hlaðin kálgarður á tanganum. Ofan og utan við tangann eru tóttir gamla bæjarins. Sá má hleðslur í þeim. Frá Eyri liggur stígur til vesturs upp á Hafnaberg. Efst á berginu eru vörður í Siginu og Berghóll (Bjarghóll). Í berginu vestan við vörðurnar er hellirinn Dimma.
Ofan við Eyri eru klapparhóll. Á honum eru þrjú hákarlabyrgi er nefnast einu nafni Hákarlabyrgi. Miðbyrgið stendur heilt að hálfu. Á milli þess og vestasta byrgisins er hlaðinn refagildra.
Svæði þetta er sennilega eitt það afskiptasta á landinu, en þó svo nálægt. Þegar laxeldisstöðin var reist í Hundadal var klippt á gamla Reykjanesveginn, sem liggur þarna meðfram gömlu byggðinni. Staðurinn hefur upp á allt að bjóða fólki, sem vill ganga um og skoða sögulega minjar og fallega náttúru. Þarna þarf að tengja gamla þjóðveginn þeim nýja og lagfæra hann svolítið. Upplýsingatafla á staðnum með skýringarmyndum myndi enn auka áhuga fólks á að koma þarna við, skoða sig um og njóta svæðisins. Veðurblíðan er og jafnan með eindæmum.
Frábært veður. (Sjá meira HÉRog HÉR.)

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir – uppdráttur ÓSÁ.

 

Kirkjuvogssel

Gengið var upp í Hafnaheiðina. Ætlunin var að skoða svæðið betur í kringum Kirkjuvogssel ofan.

Kirkjuvogssel

Tóftir í Kirkjuvogsseli.

Frést hefur af gömlum hleðslum norðvestan við selið. Þar gætu verið leifarnar af Gamla Kaupstað, sem var gamall áningastaður á milli Grindavíkur og Hafna. Þar á og að vera Hestavegurinn svonefndi.
Selssvæðið er vel varið varúðarskiltum frá verndurum vorum, en þarna mun hafa verið æfingasvæði hersins um tíma. Klæðst var sprengiheldum skóm og stikklað af stað. Selið sást framundan, vel gróið undir hraunhól, mót norðvestri. Talsverar tóftir eru í selinu, m.a. stór stekkur vestan við þær, kví og önnur mannvirki. Ekki var brunn eða vatnsstæði að sjá, enda búið að vera mjög þurrt, en norðan við tóftirnar mótar fyrir reglulegu hringlaga gerði. Talsvert jarðvegsrof er þarna, en svo virðist sem hringurinn hafi verið grunnmynd af torfhlöðnu gerði eða fjárborg.

Kirkjuvogssel

Kirkjuvogssel.

Ofan við hraunhólinn er tóftir sem og mannvirki eftir verndarana þar sem þeir hafa verið við æfingar. Varða er á klapparhrygg í norðvestri, í línu að „nýja“ Kirkjuvogi og Kotvogi.
Ekki gafst tími til að leita þarna að hugsanlegum ummerkjum eftir Gamla Kaupstað eða Hestaveginn að þessu sinni, en það verður gert við tækifæri.
Ágætisveður var á svæðinu. Gangan tók 59 mínútur.

Kirkjuvogssel

Kirkjuvogssel – uppdráttur ÓSÁ 2012.

Gömlu-Hafnir - fiskbyrgi.

Gengið var með Leó M. Jónssyni um Kirkjuhöfn, Sandhöfn og Hafnaeyri (Eyri – Eyrarhöfn) vestan Hafna. Um er að ræða eitt áhrifamesta minjasvæði á landinu er lagðist í auðn vegna sandfoks um aldarmótin 1700.

Gömlu Hafnir

Gömlu Hafnir – Systursvarða.

Þarna eru tóftir í sandorpnum hólum, gerði og garðar, vörslugarðar, byrgi, refagildra, rétt, grafreitur o.fl. o.fl.
Haldið var um Merarholt sunnan Hundadals. Eftir um 10 mínútna gang um Merarholt var komið niður á gamla Hafnaveginn. Á hólum við veginn eru tvær vörður, Systur. Sú eystri er heil, en sú nyrðri fallin. Sunnan við heilu vörðuna er hringlaga gerði, sennilega gömul fjárborg. Margir gígahraukar sjást í hrauninu. Á hægri hönd sést langt nes sem gengur út í sjó til norðvesturs. Það nefnist Eyri. Nokkru sunnan við Eyri, við þríhyrningslaga klapparstrýtu, sem nefnist Klauf, þar hefst Hafnaberg sem Lágaberg og smáhækkar til suðurs og er hæst 80 metrar, þverhnípt í sjó fram.

Gömlu Hafnir

Gömlu Hafnir – Uppdráttur ÓSÁ.

Gamli vegurinn er lítið annað en slóð. Af honum við vörðurnar sjást 5 áberandi stórir grasi vaxnir hólar. Þessir hólar koma við sögu í bókum Sr. Jóns Thorarensens, (Litla skinnið, Rauðskinna, Marína ofl.) en sögusvið þeirra er Hafnir (Jón var ættaður og ólst upp í Kotvogi). Nyrstur og næst Kalmanstjörn er Stekkhóll hægra megin vegarins. Uppi á honum að sunnanverðu er lægð og grjót utan í kantinum. Þar gæti hafa verið stekkur fyrrum. Vestan hans, í fjörunni er klapparhóll, Hvarfklöpp. (Í henni býr álfkona segir í sögunni Marína eftir Jón Thorarensen). Ofan vegarins er annar klapparhóll og uppi á og utan í hinum hlaðið byrgi. Frá honum til suðurs og síðan ti vesturs liggur vörslugarður ofan við bæina og þau mannvirki er hafa tilheyrt þeim. Garðurinn er sennilega um 2 km langur. Annar stærri hóll er sunnar, einnig hægra megin vegarins. Sá heitir Kirkjuhafnarhóll. Ofan hans, ofan vörslugarðsins, má sjá móta fyrir götu. Leó sagði að sagnir væru til um gamla götu milli Kirkjuhafnar og Kalmannstjarnar, auk þess em gata væri milli Hafnabæjanna og Presthóls inn á Prestastíginn til Grindavíkur.Stígurinn dregur sennilega nafn sitt af Presthól þessum, skammt ofan við Mönguselsgjá.

Gömlu Hafnir

Gömlu Hafnir – bæjarhóll.

Vinstra megin vegarins er lægri hóll og sést garðhleðsla í jöðrum hans að norðan- og austanverðu. Þetta er talinn vera gamall kirkjugarður Kirkjuhafnar og mun hann hafa lagst af um miðja 14. öld. Bein voru tekin úr kirkjugarðinum á 18. öld og færð út í kirkjugarðinn við Kotvog, þar sem núverandi Hafnir eru. Hverfin á milli þessara staða voru Merkines (og Merkisteinn) og Kalmannstunga (og Junkaragerði), en þau voru við lendingarnar líkt og Hafnabæirnir.

Gömlu Hafnir

Gömlu Hafnir – bæjarhóll.

Suðvestan Kirkjuhafnarhóls, nær sjó, eru 2 graxi vaxnir hólar og eru sýnilegar rústir í syðri hólnum. Hólarnir nefnast Sandhafnarhólar. Sandhöfn og Kirkjuhöfn voru fyrr á öldum þekkt stórbýli og helsta útræði í Höfnum. Talið er að býlin hafi farið í eyði á 17. öld. Til eru heimildir um stærð Kirkjuhafnar sem segja að þar hafi verið miklar byggingar, m.a. 50 hurðir á hjörum, en sá mælikvarði var algengur áður. Þegar best lét hefur verið mikið mannlíf á þessu svæði. Það á sér merkilega þjóðfélagssögu þar sem lífið er samofið fiskgengdinni, sem var ýmist alger ládeyða eða vaðandi þegar best lét. Umhverfis Sandhafnarhóla, en þar munu hús einnig hafa verið mörg og stór, eru bæði hleðslur og rústir.

Gömlu Hafnir

Gömlu Hafnir – Hafnaeyri (Eyri).

Skammt utar, nær sjó, eru rústir tvíbýlis sem nefnist Hafnaeyri og talið hafa farið í eyði um 1830. Nokkuð heillegur hlaðinn garður er yst á Eyri um 15 m á kant. Þessi hleðsla varði kálgarð fyrir sandfoki. Í gerðinu voru einnig bátar geymdir, enda er það skammt ofan við lendinguna. Óhætt er að segja að ströndin fyrrum hafi litið öðruvísu út en nú gerist, bæði vegna ágangs sjávar og landssigs.

Gömlu Hafnir

Gömlu Hafnir – refagildra.

Ofar og gegnt lendingunni má sjá tvær vörður, hvora upp af hinni. Þær eru holar að innan líkt og vörðurnar ofan við Kirkjuhöfn. Líklega hefur verið um gónvörður að ræða. Þá gætu þær hafa verið notaðar til að kynda í bál eftir að dimma tók til að leiðbeina síðbúnum bátum rétta lið inn lendingarnar. Þegar gengið er um þessa hóla nú er erfitt að gera sér í hugarlund að þar hafi áður fyrr verið stórbýli – svo vandlega hefur foksandurinn unnið sitt eyðingarstarf. Þegar horft er yfir svæðið, einkum á berar klappirnar þar sem sandurinn hefur með tímanum þurrkað út hraunreipin, má gera sér í hugarlund hvernig hann hefur einnig eitt gróðrinum, sem þar var fyrir.

Gömlu Hafnir

Vörslugarðurinn ofan við Gömlu Hafnir.

Leó sagði svæðið hafa gróið mikið upp eftir tilkomu sandgræðslugirðingarinnar og uppgræðslunnar í Stóru-Sandvík. Þá hefði gróðurinn tekið mikið við sér á síðustu árum.
Í bakaleiðinni var kíkt á refagildruna ofan við Eyri, byrgi skammt austar, garða og síðan var vörslugarðinum fylgt að ysta klapparhólnum ofan við Hvarfklöpp, þar sem eitt byrgið trjónir ofan á. Annar vörslugarður (sennilega sandvarnargargarður) nær frá norðanverðu Hafnabergi yfir að rótum Hundadals.
Þá var haldið upp á Hafnaberg (sjá meira HÉR og HÉR).
Svæðið í og kringum Gömlu Hafnir er vanmetið minjasvæði. Þegar vel er að gáð er þar að finna flestar þær minjar er prýtt geta slík búsetusvæði frá því um og eftir miðaldir. Ekki er vitað til þess að fornleifarannsókn hafi farið fram á minjunum.
Frábært veður.

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir – uppdráttur ÓSÁ.

Kirkjuvogskirkja

Eftirfarandi „Lýsing á Höfnum“ eftir Brand Guðmundsson birtist öðru hefti Blöndu (um er að ræða útdrátt):
„Eptir Brand hreppstjóra Guðmundsson í Kirkjuvogi. -Prentað eptir eiginhandarriti höf. í safni, Bókmentafélagsins 72 fol. í Lbs. Hefur hann sent skýrslu þessa sóknarpresti sínum síra Sigurði B. Sivertsen á Útskálum og samið hana eptir beiðni hans, sem sóknarlýsingu Kirkjuvogssóknar um 1840. En skýrslu þessa mun svo síra Sigurður hafa gefið Magnúsi stúdent Grímssyni, þá er hann ferðaðist um Reykjanesskaga 1847, og reit lýsingu af honum, því að handrit þetta er nú meðal plagga Magnúsar í Bókmentafélagssafninu. Brandur var fæddur á Brekkum á Rangarvöllum í september 1771. Hann flutti síðan suður að Kirkjuvogi. Brandur andaðist í Kirkjuvogi 16. júní 1845, nálega 74 ára gamall. – (H. Þ.)

kirkjuvogskirkja-901Kirkjan í Höfnum er annexía frá Útskálum nú, áður lá hún til Hvalsnessprestakalls; hún er í Kirkjuvogi, er timburhús; það er stór bær, sæmilega húsaður að nokkru leyti; 3 eru ábúendur heima á jörðinni, kallast Austur- Mið- og Vesturbær; sá austasti, sem lengi hefir verið ábúenda eign er bezt húsaður; hinn næstnefndi, sem er Thorkelii barnaskóla stiptunar eign er miklu miður, en sá vestasti í meðallagi.— Kotvogur er bær í sama túni, og 1 utangarðs, byggt fyrir 10 árum liðnum. Byggð þessi er við sjóinn, hvar Kirkjuvogsósar byrja; er sjór fyrir vestan og norðan, en ósarnir liggja til austurs landnorðurs, eru um hálfa viku sjávar að lengd með skerjum víða, sandi líka í botni, marhálmi, skeljum nokkuð og ýmislegu. Selveiði á vorin var í þeim nokkur fyrrum og eptir fardagaleyti af kópum, sem nú er ekkert orðið vegna ósvífinna skota á öllum árstímum; hrognkelsaveiði er í þeim nokkur kringum miðsumarsskeið. Jörðin gengur af sér vegna sandfoks á túnið og sjávar landbrots. Stutta bæjarleið þaðan sunnar er Merkines; þar eru 2 ábúendur.
Kirkjuvogur var áður fyrir norðan Ósa, sem nú er Stafnessland, meina menn fluttan fyrir hér um 300 árum síðan liðnum (í Jarðabók AM. segir, að Gamli Kirkjuvogur hafi legið í auðn lengur en 120 ár 1703, en það bæjarstæði var í Kirkjuvogslandi) og voru hér þá tvær jarðir: Haugsendar (svo hdr., ef til vill réttara: Haugssandar.
Jarðabók AM. 1703 nefnir Haugsendakot, þá fyrir löngu komið í eyði, en hafnarberg-901Árnagerði (eða Arnagerði) hafi farið í auðn þá ekki fyrir löngu, sökum vatnsleysis og átroðnings kvikfénuðar frá Kirkjuvogi) og Arnagerði; sú fyrri lagðist í eyði hér um fyrir 200 árum vegna sandfoks; var á milli Kirkjuvogs og Merkiness; hin, sem er fyrir innan spölkorn mun hafa lagzt í eyði fyrir nálægt 100 árum af ágangi af mönnum og skepnum, eins og á Kirkjuvogstún og líka vegna sandfoks frá sjó og uppbrots þar. Túngarðar, hvar verður, fylgja byggðinni, og kálgarðar eru yrktir og ræktaðir eptir mætti. Hvað Kirkjuvogstún muni hafa af sér gengið má meðal annars af því ráða, að Ingigerður heitins (þ. e. Ingigerður Tómasdóttir (d: 1804) kona Vilhjálms Hákonarsonar hins eldra í Kirkjuvogi (d: 1803, 79 ára) móðir sál. Hákonar (Hákon Vilhjálmsson dó 1821) sagði Gróu minni (2) Gróa Hafliðadóttir kona Brands var mesta yfirsetukona og merkiskona (d: 1855) að kerling gömul, móðir Sesselju í Garðhúsum, er eg man til, hefði sagt eptir annari kerlingu, að full sáta heys hefði í hennar tíð verið slegin á Kirkjuskeri, sem nú fer í kaf í hverjum stórstraumi, og þá hefði varla verið klyfjafært milli Þvottakletta og búðarbakkans, sem nú er að 30 faðma rúm í millum, en sandur skemmir þó enn meira, því að í þau 50 ár, er eg veit til, hefur blásið af norðurtúninu til vissu kýrfóðuravallarstærð auk skemmda, sem garðafærslur sýna.

gomlu hafnir-uppdrattur-2

Gömlu Hafnir – uppdráttur ÓSÁ.

Heyrt hef eg, að þær 3 jarðir Stóra- og Litla Sandhöfn og Kirkjuhöfn hafi allar verið 60 hndr. að dýrleika og Kirkjuhöfn þeirra fyrst lagzt í eyði, að kirkja hafi þar staðið, eptir að jörðin lagðist í eyði, en ofnaumt mun tilnefnt tímatalið á annað hundrað ár síðan (hefur lagzt í eyði um 1660 (sjá síðar)) því nefnd Ingigerður sál. vissi að eins til, að uppblásin mannabein í hennar minni hefðu verið flutt til Kirkjuvogskirkju og lögð þar í kirkjugarð og eru þó síðan full 100 ár. Það er nokkurn veginn víst, að Litla Sandhöfn lagðist seinast í eyði; sagt er mér, að ekkja hafi átt, hún verið 8 hndr., gefin af henni Viðeyjarklaustri og hún með því móti síðar orðið kóngseign (frá b.v. eptir aukablaði með hendi höf. Þar getur hann og þess, að hann hafi á „landcommissiþingi á Járngerðarstöðum 1801 séð í bók hjá commissariis Kirkjuvog nefndan fyrir norðan Ósa ár 1516, sem mig minnir og þar í getið eyðijarða Haugsenda hér og Arnagerðis“ [Þetta bréf ekki kunnugt nú, en ártalið gæti verið skakkt t, d. 1616]).
Bæjarleið sunnar með ströndinni en Merkines er Kalmanstjörn (Kalimanstjörn, hdr.) 20 hndr. jörð með Junkarageri, sem 1/3 partur úr nefndri jörðu, og er skammt bil milli túna. Tún eru þar stórskemmdum undirorpin af sandfoki og sjávarbroti á Gerðið; þó hafa menn þar optast haft í kýr, því melaslægjur eru þar, en tún mikið þverbrestasamt. Spölkorn sunnar er eyðijörðin Kirkjuhöfn („Hefur óbygð legið um 40 ár“ (Jarðab. AM. 1703)). Hún mun hafa lagzt í eyði vegna sandfoks; þar var kirkja áður en í Kirkjuvogi. Á milli þessa og Kalmanstjarnar eru girðingar nokkrar líkast til sem eptirstöðvar af húsagrundvelli, hver í orði er, að þýzkir, þá höndluðu hér við land, er á tali, að hafi átt, en höfnin þá verið Kirkjuhöfn. Þar er gott sund í öllum sunnanáttum, en lending verri. Sunnar er Sandhöfn, eyðijörð, aflögð vegna sandfoks („hefur óbygð legið hér um 50 ár,“ segir í Jarðab. AM. 1703)  því ekkert sést eptir, utan lítið af hól, hvar bærinn skyldi hafa staðið.
kistuberg-901Sunnar er Eyrin innan Hafnabergs. Þar var bær og útræði seinast fyrir rúmum 50 árum; er þetta í vik nokkru (fyrir) sunnan Kalmanstjöra. Skammt sunnar byrjar Hafnabergs nyrðri endi, og er þar fyrnefnd Klauf, klettar með gjá í millum; bergið er um hálfa viku sjávar á lengd, rúmir 20 faðmar þar hæst er, ógengt, en sigið í það og stöku sinnum lent við það að neðan; þar er svartfugl, lítið af súlu, eggvarp og fuglatekja nokkur, sem heyrir til Kalmanstjörn. Fyrir sunnan bergið eru sandar og hraungrýti; kallast það Lendingarmalir (líklega réttara: melar, sbr. skýrslu Þorkels hér a undan) og er þar lent þá verður brims vegna í norðan- og austanátt, þ& menn sökum storma ekki geta dregið inn fyrir bergið. Sunnar eru Skjótastaðir, sem meint er forn eyðijörð, enda er í tali, að allt Reykjanes hafi fyrrum byggt verið.
Sunnar er Stóra Sandvík og er í mæli, að Kaldá skyldi hafa fallið þar í sjóinn, og liggur þar gjá uppundan og inn til fjalla, sem myndar líka vatnsfarvegs  afarstórs, en það getur líka svo hafa myndazt af eldrennsli, því allt Reykjanes er af eldi einhverntíma gersamlega brunnið (á aukablaði getur höf. nánar um gjá þessa, er hann kallar Haugsvörðugjá, er sé þar stærst gjáa að lengd og breidd, og sumstaðar með hömrum beggja vegna; muni viða vera um 100 faðma breið og sumstaðar miklu meir; sé sagt, að Kaldá, er þar eigi að hafa runnið, hafi hlaupið í jörð í jarðeldum, en vatn sé ofarlega í Sandvík, þar sem Kaldá hafi eitt að renna í sjó fram, en hvort það vatn síist frá sjónum gegnum sandkampinn, segist höf. ekki vita).
Sunnar er Litla-Sandvík, þá klettabelti með litlum grasteigingum og blöðkuhnubbum, þá Kistuberg, lítið berg, nytjalaust; síðan Kinnin, berg nokkurt gróðurlaust, síðan Aunglabrjótur, nef syðst á nesinu það vestur veit, beygist það svo til suður landsuðurs. Stendur þar Karl, klettur mikill í sjó fyrir nesinu um 50—60 faðma hár, er var þó hærri fyr, því í jarðskjálfta féll ofan af honum hetta mikil í þeirra manna minni, er nú lifa; upp undan honum á landi berbergsnös, kallast Kerling, og eru þau brúkuð fyrir mið í Reykjanessröst og víðar m.fl. Sunnar eru: Valahnúkar, bergsnös há, Valahnúkamöl og Skarfasetur syðst; beygist þá nesið til austur landnorðurs, því stór vik skerst þar inn í og má því kallast hálfeyja. Framundan Skarfasetri á sjó eru 2 klettar. Á nesinu eru jarðhitar og hverir, stórir hólar eða lítil fjöll, sandöldur, ægisandur og hraun; sumstaðar sjást grasteigingar, blöðkuhnubbar, lyng, einiangar hér og hvar og grófasta brunahraun.
Frá Kirkjuvogi til syðsta tanga þess mun vera um 2 1/2 míla vegar, en frá  Kalmanstjörn til Grindavíkur 2 mílur og er það þjóðvegur, liggur til landsuðurs. Annar vegur liggur frá Höfnum til kauptúnsins Keflavíkur í norður nær 1 1/2 míla langur.“

Heimild:
-Blanda, 2. bindi 1921-1923, 4.-6. hefti, bls. 51-60.

Gömlu-Hafnir

Í Gömlu-Höfnum.

Við leit í og við Hafnir skammt utan Reykjaness kom í ljós áður óþekktur skáli, sem líklegt má telja að geti verið allt frá fyrstu tíð landnáms hér á landi.
Hafnir - brunnurSkálatóftin er að mestu orðin jarðlæg og því mjög erfitt að koma auga á hana. Skammt frá henni eru leifar af hlöðnum brunni sem og garðar og gerði, sem nú er komið í sjó fram. Ekki alllangt frá er gróinn hóll úti á ysta tanga; að öllum líkindum kuml fornmanns (sjá mynd hér að ofan).
Meira verður fjallað um svæðið á vefsíðunni síðar.

Ósar

Skálatóft við Ósa.

 

Við skoðun á áður þekktu minjasvæði frá því fyrir miðja 15. öld kom í ljós meint kuml.
Um er að ræða Hafnir-kuml-IIIgróinn manngerður hóll á ysta tanga byggðarinnar. Hóllinn er nú óðum að fjúka burt, auk þess sem sjórinn er smám saman að taka leifar hans til sín.
Á Reykjanesskaganum eru allnokkrar fornmannagrafir; kuml, dysjar eða hvað menn vilja nefna þær. Skamms er að minnast afrakstur fornmannagrafanna við Hafurbjarnastaði, sem nú eru til sýnis í Þjóðminjasafninu.
Þótt ólíklegt megi telja að starfsfólk Fornleifaverndar ríkisins lesi efni vefsíðunnar er því samt sem áður boðið að fara í „kumlferð“ um Reykjanesið til frekari upplýsinga því til handa þá og þegar því hentar.

Gömlu Hafnir

Gömlu Hafnir.

 

Gömlu-Hafnir

Haldið var að Sandhöfn, Kirkjuhöfn og Eyrarhöfn (Eyri) og gengið þaðan vestur götuna áleiðis upp á Hafnaberg. Lýsing hafði fengist af gamalli rétt þar í slakka hægra megin götunnar.

Gömlu Hafnir

Gömlu Hafnir – vörslugarður.

Þrátt fyrir nokkra leit fannst réttin ekki að þessu sinni, enda getur reynst erfitt að greina eitt frá öðru þarna í flæminu. Svæðið virðist eyðilegt, en það leynir á sér. Víða má sjá landnámsplöntur, fjölskúðugt fuglalíf og auk þess ber ýmislegt fyrir augu þegar betur er að gáð. Skúmurinn verpir t.d. þarna í sandinum og getur látið ólíkindalega.
Hlaðið gerði fannst skammt vestan og norðan Sandhafnar. Það er hlaðið nokkrun veginn sporöskjulaga með hringlaga hliðargerði við það norðanvert. Til norðurs út frá því er stuttur leiðigarður. Líklega hefur þarna verið rétt fyrrum. Skammt norðvestan er vörslugarður er liggur til suðvesturs upp að meginvörslugarðinum ofan Hafnabæjanna.

Gömlu Hafnir

Gömlu Hafnir – bæjarhóll.

Gerðinu var bætt inn á uppdrátt, sem gerður hafði verið af svæðinu. Mikið af mannvistarleifum er þarna með ströndinni og ofan hennar, s.s. hákarlabyrgi refagildra o.fl. T.a.m. er þarna sögn um grafreit. Tóft er í honum, auk annarrar utar.
Sigurjón Hinriksson frá Merkinesi sagðist muna vel eftir leifum bæjanna, einkum Kirkjuhafnar, ofan við garðana. Bæjarleifarnar hefðu síðan smám saman fokið í burtu. Lengst af hefðu leifar bæjarins Eyri verið þarna á tanganum. Sandhólarnir væru sandumorpnir klapparhólar, en bein hefðu verið flutt úr kirkjugarðinum yfir í garðinn við Kirkjuvog.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst. og 11 mín. (Sjá meira HÉR og HÉR).

Hafnaberg

Hafnaberg.

Gunnuhver

Fyrrum bjó maður einn á Kirkjubóli á Suðurnesjum, er Vilhjálmur hét. Á dögum hans skyldi hafa verið þar í koti hjá kona sú er Guðrún hét og var Önundardóttir. Hún átti að gjalda Vilhjálmi skuld að Kirkjubóli, en hafði það ekki, er gjalda skyldi. Er þá sagt, að Vilhjálmur hafi tekið pottinn hennar í skuldina.

Gunnuhver

Gunnuhver.

Litlu síðar kom Gunna heim að Kirkjubóli og bað um að drekka. Fólk sá, að henni var brugðið, og var henni fært helgað messuvín. Hún spyr, hvern þremilinn hún eigi að gjöra við þetta. Dembdi hún því niður, en greip vatnsfötu og s svo mikið, að fólk undraðist stórum. Gekk hún síðan heim. Maður sá, er hjá henni var, hafði róið þennan dag. En er hann kom heim, var Gunna dauð í bæli sínu. Var þá smíðað utan um hana og líkið fært til Útskálakirkju. En er þeir, sem báru líkið, komu miðja leið, þótti þeim kistan furðulétt. Þó var ekki athugað um það meira.

Gunnuhver

Við Gunnuhver á Reykjanesi.

En þegar verið var að taka gröfina, er sagt, að Gunna hafi sést á milli þangkastanna á Útskálum og sagt: „Ekki þarf djúpt að grafa, ekki á lengi að liggja.“
Eftir þetta lagðist sá orðrómur á, að mjög reimt væri á Skaganum.
Nokkru síðar var Vilhjálmur við samkvæmi á Útskálum. Var hann þar fram eftir kvöldinu og vildi þá heim. En þar eð þessi orðrómur lá á, var honum boðin fylgd. En hann var hugmaður og þá kenndur nokkuð og þá því ekki fylgdina, en kom ekki heim um kvöldið. Daginn eftir fannst hann í Hrossalág, illa útleikinn.
Var hann fluttur í bænahús á Kirkjubóli og fengnir tveir menn til að vaka yfir honum. Nær miðri nóttu komu þeir inn og fengust ekki til að fara út aftur.

Gunnuhver

Gunnuhver.

Aðra nótt voru aðrir tveir fengnir. Þeir vöktu að vísu þá nótt út, en fengust ekki til þess lengur. Var þá fenginn til þess presturinn frá Útskálum, og hafi hann sagt það þá örðugustu nótt, sem hann hefði lifað. Síðan var líkið Vilhjálms jarðað, og bar þá ekki á neinu.

En reimleikinn ágerðist eftir það, og sáu allir Gunnu bersýnilega. Reið hún húsum og fældi fénað. Síðan voru fengnir tveir menn hinir ötulustu og sendir til síra Eiríks í Vogsósum og hann beðinn hjálpar. Hann tók þeim stutt og veitti afsvör, unz þeir fengu honum átta potta kút af brennivíni, er þeir höfðu með sér. Hýrnaði hann þá í svari og fékk þeim síðan hnýti og seðil með tveimur hnútum og bað fá Gunnu. Þeir gerðu sem fyrir þá var lagt, og tók Gunna við og leysti af hnútana og leit á.

Gunnuhver

Gunnuhver. Hverinn færist fram og aftur um hverasvæðið.

Er sagt, að henni hafi orðið þetta að orði: „Á andskotanum átti ég von, en ekki á Vogsósakarlinum. En ekki tjáir við að standa.“
Hafi hún látið hnýtið renna fyrir, en elt það, þar til hún kom að hver, sem er á Reykjanesi. Hafi hún hlaupið þar sífellt í kring, uns hnýtið var endað, og þá stungist ofan í hverinn, og heitir þar síðan Gunnuhver.

Jón Árnason I 563

Gunnuhver

Gunnuhver.